Tag Archive for: Reykjavík

Reykjavík

„Norrænt landnám á Íslandi hefst með Ingólfi Arnarsyni og telst frá því, er hann reisti byggð í Reykjavík sumarið 874.
ondvegissulur-2Hin fáorða saga hans sýnir vel, að hann 
hefir ekki hrapað að því að nema land á afskekktu eylandi lengst vestur í Atlantshafi. Nokkrum árum áður fór hann þangað til þess að kynnast landinu. Þá tók hann land í Álftafirði hinum syðra í Austfjörðum. Þar dvaldist hann eitt ár og kannaði landið. Segir sagan, að honum hafi litist landið betra suður en norður. Þessi stutta setning sýnir að hann muni hafa látið kanna allvíða og má vel vera að þeir hafi þá komist alla leið suður í Hornafjörð.
Næsta vetur sat hann í Noregi og gekk þá til véfréttar um forlög sín, en véfréttin vísaði honum til Íslands. Hefir Ingólfur verið trúmaður mikill og treyst á handleiðslu guðanna. Sést það einnig á því, að þá er hann sigldi að Íslandi næsta sumar, þá varpaði hann öndvegissúlum sínum fyrir borð og hét á guðina að láta þær koma þar að landi er hann skyldi byggja. Þetta var helgiathöfn og um leið afsalaði hann sér ákvörðunarrétti um hvar hann skyldi nema land. Ákvörðunin var falin guðunum. Ekki er þess getið hvar þetta gerðist, en ekki er ólíklegt að það hafi verið í nánd við Vestrahorn, og hafi Ingólfur vænst þess, að öndvegissúlurnar ræki beint til lands. Það hefir aðeins verið fróm og mannleg ósk, ef hann hefir litið Hornafjörð áður um sumar í sólskini, því að sú sjón mundi vekja löngun hjá öllum að eiga þar heima. En nú voru það guðirnir sem réðu, og austanfallið hreif öndvegissúlurnar þegar og bar þær allhratt vestur með landi. Vera má, að Ingólfur hafi ekki viljað missa sjónar á þeim og hafi þess vegna tafist við að fylgja þeim eftir. Fram að þessu höfðu þeir fóstbræður haft samflot, en nú bar Hjörleif undan og sigldi hann rakleitt vestur með landi. Hann treysti ekki á forsjá guðanna, enda varð honum að því. Ingólfur hefir farið mjög hægt yfir og þegar komið var vestur að Öræfum, mun hann sennilega hafa misst sjónar á öndvegissúlunum, enda hafa þá verið komnar dimmar nætur. Þá tekur hann sér vetursetu hjá Ingólfshöfða; þar var þá höfn og gat hann haldið skipi sínu óskemmdu um veturinn. En það var lífsspursmál fyrir hina fyrstu landnámsmenn, að gæta vel skipa sinna, svo að þeir gæti komist aftur af landi burt, ef þeim litist ekki á sig hér. Um vorið sendir hann svo tvo af mönnum sínum vestur með sjó, 
 til þess að leita öndvegissúlnanna. Þessi leit mun hafa staðið í tvö ár, en þá fundust súlurnar í Reykjavík.

Öndvegissúlur

Öndvegissúlur.

Ýmsir hafa haldið því fram, að þetta muni vera skröksaga öndvegissúlurnar hafi ekki getað hrakið meðfram allri suðurströnd Íslands, síðan fyrir Reykjanes og inn Faxaflóa, og alla leið inn í Sund. En nú vill svo til, að þetta er ekki einsdæmi. Nokkrum árum seinna varpaði Þórður skeggi öndvegissúlum sínum í hafið á svipuðum slóðum og Ingólfur. Má marka þetta á því, að hann veitti súlunum ekki eftirför, heldur tók land í Lóni og hugðist bíða þar frétta af því hvar þær hefði borið á land. Sú bið varð nokkuð löng, því að 15 ár bjó hann að Bæ í Lóni, áður en hann frétti til súlnanna. Þær hafði ekki borið á land í námunda við hann, heldur höfðu þær borist vestur með öllu landi, fyrir Reykjanes, inn Faxaflóa og seinast komið á land í Leirvogi í Mosfellssveit. Þessu höfðu guðirnir ráðið, og Þórður fór að vilja þeirra. Hann lagi þegar á stað, er honum barst fréttin, fékk landskika hjá Ingólfi og reisti bú að Skeggjastöðum í Mosfellssveit, og er sá bær enn við hann kenndur. Þessir tveir menn voru sanntrúaðir og treystu guðunum í blindni, eins og sjá má á því, að annar var þrjú ár á hrakningi áður en hann fann hinn útvalda stað, en hinn hljóp frá vildisjörð eftir 15 ára búsetu, til þess að setjast að á stað, sem í engu virtist komast til jafns við hinn upphaflega bústað, — aðeins vegna þess, að guðirnir bentu honum á, að þar ætti hann að vera. En sögurnar af öndvegissúlunum eru merkar að öðru leyti, því að þær eru elsta vitneskja um hafstrauma við Ísland.“

Heimild:
-Árni Óla – Sjómannablaðið, Forsjónin valdi Reykjavík, 37. árg. 1974, bls. 1-2.

Reykjavík

Reykjavík 1801.

Þingnes
Skoðaðar voru minjarnar á Þingnesi og svæðið gaumgæft. Meginminjarnar eru landmegin við austanvert Elliðavatn, en einnig eru minjar á landfastum tanga. Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, hefur haldið utan um nýjustu rannsóknir á svæðinu, en áður höfðu m.a. Jónas Hallgrímsson, sem fyrstur kom með þá kenningu að þarna hafi verið hið eiginlega Kjalarnesþing um tíma, og Daniel Bruun grafið í tóftirnar.

Þingnes

Skiptar skoðanir hafa verið um hvað minjarnar hafa að geyma, en ljóst er að sumar þeirra a.m.k. eru frá upphafi norræns landnáms. Að öllum líkindum hefur auk þess verið þarna um ýmis not að ræða og tóftirnar gætu verið frá mismunandi tímum. Ekki er óraunhæfta að álykta, ef þarna er um hinn forna þingstað að ræða, sem stofnaður var af Þorsteini, syni Ingólfs Arnarssonar, og að þar hafi verið ákveðið að stofna til Alþingis á Þingvöllum árið 930.
Grafið hefur verið í 3 rústir og kom í ljós að þær voru frá því um 900. Einnig komu í ljós hringir, sá stærri um 18 metrar í þvermál.

Þingnes

Þingnes – uppgraftarsvæði.

Upplýsingatafla er við aðkomuna á svæðið, en hún þyrfti að vera nær minjunum því á henni eru miklar fróðlegar upplýsingar, uppdrættur og mynd, sem erfitt er fyrir venjulegt fólk að leggja á minnið með hliðsjón af umhverfinu. Minjarnar mættu vera aðgengilegri, en eru í raun í skjóli utan stíga. Staðurinn er mjög fallegur, við tanga úti í Elliðavatn, og auðvelt að setja sig í spor þeirra, sem ákváðu þingstaðinn á sínum tíma. Hins vegar eru aðstæður aðrar en þá voru því yfirborð Elliðavatns hækkaði við stíflugerðina.
Þingnes

Nyrsta húsið er sýnilega stærst. Um miðju þess liggur hlaðinn garður. Garðurinn er þvert á húsið því opið vísar á mót suðri, en húsið er á lengdina frá vestri til austurs. Vestan utan í húsinu er hringurinn, eða öllu heldur hringirnir, því annar minni er inni í þeim stærri. Hann er að hluta til flóraður. Inni í honum er svo aftur enn eldri tótt. Sunnan við hringinn eru fimm tóttir og er sú, sem stendur næst, yfir enn eldri tótt, nokkuð stórri. Austan við tóttirnar eru þrjár tóttir, þ.a. ein nokkuð stór. Norðan við þær er ein tótt.

Þingnes

Á tanganum vestan við þær eru fjórar tóttir, tvær liggja nálægt hvorri annarri, ein er vestan við þær og sú fjórða norðar og efst á tanganum.
Nýjasti uppgröfturinn á Þingnesi var vikuna 17.-21. maí 2004. Það voru fornleifafræðinemar, sem það gerðu, undir stjórn Guðmundar Ólafssonar. Grafið var í rústir 9 og 12. Útlínur húsanna komu fram og dyragat í tóft 12, auk viðarkols- og beinaleifa. Landnámsöskulagið var greinilegt í torfinu og í jarðlögunum, sem og Katla~500. Þegar FERLIR leit þarna við voru nemarnir hinir áhugasömustu og unnu af kappi, en jafnframt með þeirri varfærni sem fræðigreininni er svo nauðsynleg. Vinna við fornleifarannsóknir eru tímafrekar – líkt og leifarnar, sem rannsaka þarf, gefa til kynna.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Þingnesið er áhugavert svæði til stuttrar gönguferðar í fallegu og sagnaríku umhverfi. Þótt ekki hafi hingað til verið hægt að fullyrða að þarna geti verið um fornan þingstað að ræða benda þó meiri líkur til þess en minni.
Gangan um Þingnesið tók 19 mín. Veður var frábært, lygnt og hlýtt.

Þingnes

Minjasvæðið á Þingnesi. Uppdráttur GÓ.

Blikdalur

FERLIR fær jafnan ábendingar um ýmislegt áhugavert. Sumt er birt, annað geymt til betri tíma. Hér kemur ein ábendingin.

Blikdalur

Blikdalur.

Í Blikdal í Esju eru leifar a.m.k. selja frá Brautarholti, Saurbæ, Hjarðarnesi og Ártúni. Dalurinn er lengstur Esjudala. Hann er milli sex og sjö km langur og ku vera stífur tveggja tíma gangur inn í Fossurðir, innst í dalnum. Dalurinn er um 2 km. breiður milli fjallsbrúna um miðjan dal, en þrengist nokkuð þegar innar dregur og dýpkar þar sem hann klýfur Há-Esjuna milli Dýjadalshnjúks og Kerhólakambs. Svo virðist sem fjöllin á báðar hendur hækki, en í raun og veru hækkar dalurinn jafnt og þétt inn í dalbotn. Blikdalur er nokkuð grösugur, einkum norðurhlíðarnar, sem vita á mót suðri, neðst er mýrlendi, ætið forblautt og illt yfirferðar, en hærra taka við valllendisbrekkur og grónar skriður en þar fyrir ofan mosaþembur og hálendisgróður sem nær á stöku stað upp á fjallsbrúnir.
Fremst er Ártúnsá (Blikdalsá), við kletta sem heita Sneiðingaklettar. Innst eru Fossurðir. Blikdalur er hömrum girtur að sunnan og suðaustanverðu og steypist Blikdalsá í mörgum sprænum niður úr hömrunum. Í kringum 1970 féll stór skriða úr hömrunum innarlega í dalnum þar sem heita Skollabrekkur. Hún byrjaði sem lítil aurskriða en endaði 400 metra breið neðst í dalnum.
Einn FERLIRsfélaganna var að lesa bók um jólin, eins og gengur. Hann sendi eftirfarandi fróðleik um efnið: „Í gær var ég að lesa eina af jólabókunum þ.e. Upp á Sigurhæðir, saga Matthíasar Jochumsonar eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur og rakst þá á eftirfarandi texta á bls 259: „Matthías segir frá því þegar Guðrún (dóttir Runólfs óðalsbónda í Saurbæ [viðbót sendandi]) sendi honum úr selinu í Blikdal ber í skjólu og fáeinar línur með. Matthías nefnir ekki hvað Guðrún skrifaði, en bregst svo glaður við að hann ríður fram á dal til að þakka henni sendinguna. Sól skein „hlæjanda í heiði“ og Blikdalurinn var hinn hýrasti. Í fyrri útgáfunni að Söguköflum Matthíasar hefur allt er varðar þetta tildragelsi verið fellt niður. Þessi stund í dalnum leið í algleymi svo auðvelt er að ímynda sér hvað þau Guðrún gerðu. Eftir þetta fór samdráttur þeirra að „verða hljóðbær““.
Á bls. 260 segir ennfremur: „Annað ástarkvæði, „Daladrósin„, er skrifað í sömu stílabók og því greinilega um Guðrúnu uppi í selinu:

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

Hátt í dalnum, sólarsalnum,
situr stillt og þýð,
snotur, hýr og hnellin,
há og grönn og smellin
dala-drósin blíð.

Hún er þar innan um lömbin; ástin rís með yndisþrá í ungu brjósti hennar, en rósin hnígur og hún er ein eftir í dalnum þegar sá sem hún elskar fer frá henni…., en hann kemur loks aftur úr austri. Lok þessa kvæðis er bara í stílabókinni en ekki í Ljóðmælum Matthíasar. Þar er sá sem hún elskar úti á hafi, ann henni heitt og biður fjallavindinn að færa sér koss „eldheitrar meyjar“ við „úrsvalan foss“.

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Raunveruleikinn var nokkurn veginn eins og í kvæðinu nema hvað hann varð mun svartari þegar samdráttur þeirra Matthíasar og Guðrúnar varð lýðum ljós. Dagurinn sæli í Blikdalnum er á berjatíma haustið 1872 en barn þeirra fæðist í janúar 1874. Samband þeirra virðist því hafa staðið í marga mánuði. Það er ekki fyrr en Guðrún verður þykkari sem skelfingin vaknar.“
Það hefur ýmislegt gerst í seljunum fyrrum þó ekki séu til margar frásagnir af lífinu þar. Það verður þó að geta þess að Matthías og Guðrún giftust sumarið 1875 eftir að Matthías hafði stungið af úr hempu og sókn frá henni óléttri haustið 1873.
Áhugavert verður að rifja framangreint upp viðð seljarústirnar í Blikdal, en ganga er fyrirhuguð þangað með hækkandi sól.
Matthías fæddist 13. nóvember árið 1835 að Skógum í Þorskafirði. Hann varð stúdent í Reykjavík 1863 og lauk prestaskólanámi tveimur árum síðar. Hann var eitt af ástsælustu ljóðskáldum Íslendinga, auk þess að vera mikilvirkur þýðandi erlendra bókmennta á íslenska tungu. Í dag er hann sennilega þekktastur fyrir þjóðsönginn ,,Ó Guð, vors lands”, sem hann orti úti í Skotlandi og Sveinbjörn Sveinbjörnsson gerði lag við. Honum var veitt ýmiskonar viðurkenning á langri ævi. Hann varð t.a.m. riddari af Dannebrog 30. nóvember 1899, dannebrogsmaður 1. maí 1906, heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands 1920 og heiðursborgari á Akureyri 11. nóvember 1920. Matthías var þríkvæntur. Hann lést 18. nóvember árið 1920, nýorðinn 85 ára. Þá hefur Blikdalurinn, tæpri hálfri öld fyrr, verið honum gleymdur – að mestu – líkt og selin okkur.

Blikdalur

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.

Strompahellar

Stefnan var tekin á Bláfjöll, nánar tilekið Strompasvæðið. Strompahraunið er auðugt af hellum, s.s. Langahelli, Djúpahelli, Tanngarðshelli, Krókudílahelli, Rótahelli, Ranghala, Rósahelli, Bátahelli, Goðahelli og fleirum, sem munu koma við sögu síðar í FERLIRslýsingum af þessu svæði. Nú var ætlunin hins vegar einungis að skoða svæðið kíkja í Langahelli.

Langihellir

Í Langahelli.

Á leiðinni um Bláfjallaveginn var ákveðið að kíkja í Dauðadalahellana undir Markraka. Þar er Flóki einna lengstur og margflóknastur, eins og nafnið ber með sér. Ekki er ráðlegt að fara niður og inn í hann nema með öðrum og þá eftir að hafa gert ákveðnar ráðstafanir áður því auðvelt er fyrir ókunnuga að villast í hellinum. Aðrir smáhellar eru þarna í hrauninu, sem vert að að skoða.

Stromparnir í Strompahrauni eru fallegir smágígar, mosavaxnir. Neðan þeirra er hraunið holuga. Langihellir er um 700 metra langur í heildina. Hann er vestan við Djúpahelli.

Strompahellar

Í Strompahellum.

Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru einnig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Nyrsti hluti Langahellis nefnist Goðahellir. Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.
Vegna þess hve botninn er sléttur og engu hruni fyrir að dreifa í hellnum, sem telst kostur, er auðvelt að fara um hann með krakka.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi eftir Björn Hróarsson

Bláfjallahellar

Bláfjallahellar – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjavík

„UPPHAFLEGA var Reykjavík stærsta jörð, sem nokkru sinni hefir verið á Íslandi. Land hennar náði yfir Kjósarsýslu, Gullbringusýslu og fjóra hreppa. Árnessýslu, Þingvallasveit, Grafning, Ölfus og Selvogshrepp.
landnam-401En brátt saxast á land þetta, því að Ingólfur var óspar á að miðla öðrum af landnámi sínu. Eru taldir 18 landnámsmenn, er hann fékk lönd, og er þá svo komið að land Reykjavíkur nær ekki yfir meira en Seltjarnarneshrepp og vestasta hluta Mosfellssveitar. Og enn skerðist þetta land, því að sjálfstæðar jarðir rísa þar upp snemma, svo sem Nes við Seltjörn og Laugarnes. Örlyndi Ingólfs, sem kemur fram í því hvernig hann brytjar niður landnám sitt, verður trauðlega skýrt á annan veg en þann, að hann hafi ætlað sjer og afkomendum sínum að vera höfðingjar í þessu landi. En höfðingi gat enginn orðið nema sá, er hafði mannaforráð. Og að þeir feðgar hafi haft mannaforráð um alt landnámið, sjest á því er Þorsteinn Ingólfsson stofnar Kjalarnesþing.
Reykjavík var enn góð jörð, þrátt fyrir alt, og höfuðból hefir hún verið fyrstu aldirnar. Hafa þar um ráðið hin miklu hlunnindi hennar, svo sem selalátur í Örfirisey, trjáreki, æðarvarp í eyunum, laxveiði i Elliðaánum. Þá hafa og verið hjer ágæt fiskimið og fiskur oft gengið inn í Sundin.
Þess vegna hefir jörðin getað framfleytt fjölda Austurvollur-401fólks og þess vegna rísa stöðugt upp nýjar jarðir í landi hennar, þangað til svo er komið, að þetta höfuðból er orðið að kotjörð, hlunnindin hafa lent hjá öðrum eða farið forgörðum, og svo verður Danakonungur eigandi jarðarinnar. Niðurlægingarsagan er löng og ömurleg.
Og þegar konungur gefur svo verksmiðjunum heimajörðina, þá er það ekki annað en kvosin, þar sem Miðbærinn stendur nú. REYKJAVÍK var þá jörð í Seltjarnarneshreppi. En árið 1803 er hún gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi og fær sjerstakan bæarfógeta. Lögsagnarumdæmið var miklu stærra en verslunarlóðin, því að innan þess voru Þingholt, Stöðlakot, Skálholtskot, Melshús. Melkot, Götuhús og Grjótaþorpið, og brátt bættist Landakot við.
Þrátt fyrir þetta helst enn sambandið við Seltjarnarnes að nokkru ]eyti, því að fátækramálin voru sameiginleg og voru til þess alveg sjerstakar ástæður.
Reykjavik-402Þegar eftir að verksmiðjurnar voru reistar hjer, og þó einkum eftir að verslunin var gefin frjáls og Reykjavík fekk kaupstaðar rjettindi, fór fólk að flykkjast þangað í atvinnuleit og margir settust þar að og komu sjer upp tómthúsbýlum, eða hinum svonefndu kotum.“
„SVO segir í Landnámabók: „Þá er Ingolfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land. Ingolfur tók þar land er nú heitir Ingolfshöfði . . . Vífill og Karli hjetu þrælar Ingolfs; þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna . . . Fundu þeir öndvegissúlur hans við Arnarhvál fyrir neðan heiði . . . Ingolfur tók sjer bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið. Hann bjó í Reykjarvík“.
Arnarhóll hjet seinna bær hjer og stóð þar sem nú er líkneski Ingólfs Arnarsonar. Hefur nafnið fest við hólinn, þar sem líkneskið stendur og er hReykjavik-405ann nú í daglegu tali nefndur Arnarhóll. En eigi er alveg víst að það sje sá Arnarhóll, sem Landnáma talar um. Norðan við þennan hól var áður annar hóll, sem skagaði eins og höfði út í sjóinn, og var mýrarslakki á milli þeirra. Þessi hóll eða höfði var einnig nefndur Arnarhóll, og höfum vjer fyrir satt að það hafi verið sá Arnarhóll er Landnáma nefnir og þar hafi öndvegissúlur Ingolfs borið að landi. En þegar bærinn, sem við hann var kendur, var byggður á hólnum fyrir sunnan, þá hafi nöfnin ruglast og að minnsta kosti hefur höfðinn stundum verið nefndur Arnarhólsklettur. Það eru líkur til þess að Arnarhóll hafi nokkuð snemma orðið sjálfstæð jörð. Er hennar fyrst getið 1534 og er það ár gefin Viðeyjarklaustri (af Hrafni Guðmundssyni). Kemst hún svo undir konung ásamt öðrum eignum klaustursins. Árið 1764 var bygt tukthús í Arnarhólslandi (nú Stjórnarráðshúsið) og var afgjald jarðarinnar í fyrstu lagt til þess. Seinna fekk ráðsmaður tukthússins leigulausa ábúð á jörðinni og enn seinna var jörðin fengin stiptamtmanni til, afnota og síðar landshöfðingja.
ÞegArnarholl-401ar fyrsta útmæling kaupstaðarlóðar Reykjavíkur fór fram (1787) er þar með talin „spilda af Arnarhólslandi fyrir norðan og norðaustan Arnarhólstraðir“. En með nýrri útmælingu, sem fór fram 1792, er þessari spildu sleppt og var hún því ekki lögð undir kaupstaðinn, eins og fyrst var til ætlast. Um þær mundir er Reykjavík fekk kaupstaðarrjettindi var bærinn Arnarhóll orðinn mesta hreysi og hrörnaði stöðugt þangað til Hoppe stiptamtmaður ljet rífa húsin árið 1828 og sljetta yfir rústirnar.
Lækurinn skifti löndum Arnarhóls og Víkur frá sjó og sennilega þar suður undir sem Mentaskólinn er nú. Var lækurinn þá stundum nefndur Arnarhólslækur neðst. Frá læknum lágu svo landamerkin skáhalt norðaustur að Rauðarárvík.“
„Fyrri hluta ársins 2001 var gerður uppgröftur á hluta af hinu gamla bæjarstæði Reykjavíkur, nánar tiltekið á lóðunum 14, 16 og 18 við Aðalstræti.

Reykjavik-406

Til uppgraftarins var stofnað vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda. Vitað var að á þessum stað væri að vænta fornra mannvistarleifa og því þótti nauðsynlegt að rannsaka staðinn fyrst með uppgrefti. Minjarnar sem fundust voru aðallega frá tveimur tímabilum. Annars vegar voru þar töluverðar minjar bygginga frá tímum Innréttinganna á 18. öld og hins vegar óvenjulega heilleg tóft af skála frá 10. öld.
Ýmisleg vitneskja hefur smátt og smátt verið dregin saman um hið forna bæjarstæði Reykjavíkur. Sigurður Guðmundsson málari taldi líklegast að elsti bærinn hefði staðið á lóðinni Grjótagötu 4. Þar hafði staðið torflhús kallað „Skálinn“ og voru sagnir um að hann hefði verið þar lengi. Soffia Fischer þekkti sögn um að bærinn hefði verið á Arnarhóli, en Guðbjörg Jóhannsdóttir að „bærinn gamli hefði verið þar, sem gamli klúbbur stóð“4 eða við suðurenda Aðalstrætis. Kristian Kálund ályktaði að hinn gamli Reykjavíkurbær hefði verið annað hvort norðan eða sunnan við kirkjugarðinn, en Eiríkur Briem taldi að bærinn hefði verið „vestan við Aðalstræti sunnanvert milli Túngötu og Bröttugötu“. Ólafur Lárusson taldi ólíklegt að sagnir þær er sögðu bæjarstæðið á Arnarhóli fengju staðist. Klemens Jónsson taldi líklegast að bærinn hefði frá upphafi staðið sunnan Grjótagötu, „rjett vestan við Aðalstræti, þar sem nú eru húsin 14 og 16″.

Adalstraeti-450

Þegar grafið var fyrir húsinu Tjarnargötu 3A 1904 var komið niður á mannvistarminjar, sem lýst er sem öskuhaug og rennu úr grjóti. Við gröft fyrir hitaveitustokk vestanmegin í Tjarnargötu nyrst, einhvern tíma milli 1940 og 1950, sáust einnig ummerki fornra mannaverka á um 1 m dýpi, hellustétt og svört moldarlög. Ekki er að sjá að menn hafi veitt fornum mannvistarleifum athygli þegar grafið var fyrir húsi Hjálpræðishersins í Kirkjustræti 2, 1916, og ekki heldur þegar steinhúsið í Suðurgötu 3 var reist 1923. En árið 1943 var gerður kjallari að húsabaki við Suðurgötu 3 og var þá komið niður á ræsi úr steinum, sem lá frá austri til vesturs á meira en 2 m dýpi. Þegar grafið var fyrir stóru steinhúsi á lóðinni Tjarnargötu 4 árið 1944 reyndust vera þar miklar leifar eftir eldri byggð. Ekki fór fram regluleg fornleifarannsókn á þeim tíma, en þó eru til töluverðar upplýsingar um það sem sjá mátti í grunninum. Sunnarlega í grunninum mátti sjá „allmikið af hleðslugrjóti djúpt í jörðu“, og virtust leifar af vegg. Þarna var líka ferhyrndur hellukassi, líklega eldstæði, grafinn niður í malarlag það sem er undir miðbænum. Þar fyrir norðan mátti sjá gólfleifar.
Árið 1962 voru mannvistarleifar á þessum slóðum kannaðar með því að bora könnunarholur og taka upp jarðvegskjarna. Hér um bil allsstaðar þar sem borað var fundust einhverjar leifar eftir mannvist. Grjót fannst víða, en lítið er um það á þessum slóðum af náttúrunnar völdum. Í fleiri en einni af könnunarholunum mátti sjá gjóskulag það sem kallað hefur verið landnámslagið á töluverðu dýpi. Nokkru norðan við húsið Aðalstræti 16 varð í einni holunni vart við lag sem talið var gólfskán á u.þ.b. 2 m dýpi undir yfirborði.
Árið 1971 var ráðist í viðamiklar fornleifarannsóknir í miðbæ Reykjavíkur. Verkið stóð yfir sumurin 1971-1975. Grafið var á fjórum auðum lóðum í miðbænum, Aðalstræti 14 og 18 og hluta lóðanna Suðurgötu 3-5. Í ljós kom að á öllum þessum lóðum voru byggingaleifar frá ýmsum tímum. Á lóðinni Aðalstræti 18 voru leifar byggingar úr torfi nánast beint ofan á mölinni. Í þeirri byggingu var eldstæði í gólfi og var því talið að það væri íveruhús.

Adalstraeti-407

Veggir hússins voru mjög sundurskornir af undirstöðum yngri bygginga, en nyrsti hluti þess var ekki grafinn upp enda lá hann undir húsið Aðalstræti 16. Ekki var hægt að tímasetja torfbyggingu þessa nákvæmlega. Þegar uppgröfturinn fór fram lá ekki fyrir nákvæm tímasetning á gjóskunni, en talið að hún hefði fallið nálægt 900. Gjóskulagið hefur nú verið tímasett til 871+/-2.
Elstu mannvistarleifarnar sem vart varð á lóðinni Aðalstræti 14 þegar uppgröftur þessi fór fram var veggbútur sem sjá mátti í sniði við Grjótagötu. Þessi veggur var úr torfi sem ekki innihélt landnámslagið svonefnda. Aftur á móti sást landnámslagið liggja að veggnum, og taldi Else Nordahl það sýna að veggur þessi væri eldri en landnámslagið og því eldri en allar aðrar minjar sem kannaðar voru við þessa rannsókn.
Árið 1983 var gerð rannsókn á lóðinni Suðurgötu 7. Komið niður á gólflag.Viðarkol úr gólfi hússins voru aldursgreind til 10. aldar.
Elstu byggingarleifar sem fundust við rannsókn 2001 voru nyrst á lóðinni Aðalstræti 14, næst Grjótagötu. Þar mátti sjá leifar torfveggjar, og var þetta sami veggstúfur og sést hafði við fyrri rannsókn á þessum stað. Mátti álykta að þessi veggur hafi verið reistur áður en landnámslagið féll og öskulagið lagðist yfir.
Á lóðunum Aðalstræti 14-16 voru grafnar upp rústir af skála frá víkingaöld. Skáli þessi var töluvert vel varðveittur. Skáli þessi er best varðveitta byggingin frá víkingaöld sem fundist hefur í Reykjavík. Í skálanum miðjum er stórt eldstæði úr grjóti. Á skálanum eru tvennar dyr, sem virðast hafa verið á honum frá upphafi.
landnamsbaerinnVitað er um aðrar víkingaaldarbyggingar á þessum slóðum í miðbæ Reykjavíkur. Þó ekki séu öll kurl komin til grafar er greinilegt að þær byggingar sem við vitum um á bæjarstæði Reykjavíkur á víkingaöld hafa staðið í röð frá norðri til suðurs, frekar en í þyrpingu. Líklegt er að landslag ráði miklu um þetta og byggingarnar hafi verið reistar undir brekkunni, en fleira getur hafa komið til. Fyrstu kynslóðir Reykvíkinga hafa til dæmis haft þeim mun frjálsari hendur um val á byggingarstað að engin eldri byggð var fyrir sem taka þurfti tillit til, ólíkt því sem gerðist í öðrum löndum norrænna manna.“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, Árni Óla – Skilnaðir Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps, 28. janúar 1951, bls. 45-48.
-Lesbók Morgunblaðsins, Árni Óla – Víggirðingar Reykjavíkur, 8. febrúar 1948, bls. 61-64.
-Árbók Hins íslenska forleifafélags, Howell M. Roberts, Mjöll Snæsdóttir, Natascha Mehler og Orri Vésteinsson – Skáli frá víkingaöld í Reykjavík, 96. árg. 2000-2001, bls. 219-232.

Arnarhóll

Arnarhóll – býli 1787.

Laugarás

Í klapparholti vestanvið Laugarásbíó er álfasteinn. Þrátt fyrir hús allt um kring og snyrtar lóðir umleikis, göngustíg, bifreiðaplan og umsvif hernámsliðsins hefur steinninn fengið að vera óhreyfður í samneyti Álfhóll í Laugarásivið aðra slíka í holtinu.
Halldóra Aðalsteinsdóttir man vel eftir þessum steini þótt sé komin yfir áttrætt. Hún fæddist 16. júní 1927 á Lindargötu 7 (í dag nr. 23) og fluttist 10 ára gömul í verkamannabústað á Hofsvallagötu 15. Þegar hún giftist Magnúsi Þorbjörnssyni bjuggu þau að Fálkagötu 22. Síðar fluttust þau í fjölbýlishús við Kleppsveg, en frá stofuglugganum hennar er ágætt útsýni til suðurs yfir holtið í Laugarási. Hún sagði svo frá:
„Er ég stend við stofugluggann minn, sem snýr í suður, blasir við mér stór steinn. Undir honum er bekkur. Eitt fallegt vetrarkvöld, árið 1996, sennilega í febrúar/mars, jörð var auð, verður mér litið út um gluggann og þá fannst mér eins og þessi steinn (klettur) opnaðist og mikil birta þar fyrir innan. Mér fannst eins og dyr eða gluggi væri opnaður, og fannst mér veggirnir í kringum gatið mjög þykkir. Þar fyrir innan í ljósinu fannst mér ég sjá fólk eða einhvers konar verur á hreyfingu og fannst mér það vera þó nokkuð margir. Ekki man ég eftir neinum sérstökum litum á þessum verum, mikil birta, en þó voru einhvers konar skuggar í kringum þær.

Álfasteinn

Ég horfði á þetta um stund, og fullvissaði mig um að enginn væri þarna í kring að lýsa upp steininn eða eitthvað því um líkt.
Síðan kallaði ég á manninn minn, sem kom, en með semingi þó, sagðist ekki trúa á svona, enda sá hann ekki neitt, en smám saman dofnaði þessi birta og allt varð eins og áður.
Ég horfði oft á þennan stein, nánast daglega, en hef ekki orðið vör við neitt þessu líkt aftur.
Rétt er þó að geta þess að reglulega kemur gömul kona að steininum, staldrar við stutta stund, leggur hönd á hann, segir einhver orð og fer síðan. Þetta hefur hún gert um langan tíma.“
Halldóra sagði einnig frá álfasteini við Hjarðarhaga 13.

Heimild:
Halldóra Aðalsteinsdóttir, f. 16. júní 1927. Viðtal við FERLIR í des. 2008.

Sæfinnur

Reykjavík um 1900.

Hjarðarhagi

Á bak við húsið nr. 13 við Hjarðarhaga í Reykjavík er stakur álfasteinn. Þrátt fyrir hús allt um kring og snyrtar lóðir umleikis hefur steinninn fengið að vera óhreyfður.
ÁlfasteinninnHalldóra Aðalsteinsdóttir man vel eftir þessum steini þótt sé komin yfir áttrætt. Hún fæddist 16. júní 1927 á Lindargötu 7 (í dag nr. 23) og fluttist 10 ára gömul í verkamannabústað á Hofsvallagötu 15. Þegar hún giftist Magnúsi Þorbjörnssyni fluttist hún á heimili hans að Fálkagötu 22. Þar var Magnús fæddur og uppalinn og bjó í 71 ár.
Halldóra býr nú í fjölbýlishúsi við Kleppsveg, gegnt Hrafnistu. Hún er enn vel ern. Í viðtali við Halldóru sagði hún frá álfasteini í holtinu sunnan við húsið og vestan við Laugarásbíó. Þá sagði hún einnig frá álfasteini nálægt Fálkagötu 22, sem hér verður getið:
„Áður en ég flutti á Kleppsveginn átti ég heima á Fálkagötu 22, þar sem eiginmaðurinn minn var alinn upp. Bakgarðar hjá okkur og hjá íbúum á Hjarðarhaga 13 lágu saman. Reyndar voru kálgarðar og smá búskapur þar þá, fyrst eftir að ég flutti á ÁlfasteinnFálkagötuna árið 1949. Ég tók strax eftir steini sem var þarna, og var hann ekki fjarlægður þó að fjölbýlishús væri byggt þarna síðar. Á þeim tíma var girðingin töluvert lægri en hún er í dag. Ég sá því þennan stein mjög greinilega.
Eitt sinn þegar ég horfði út um eldhúsgluggann á 2. hæðinni, sennilega í kringum 1960-1965, þá fannst mér ég sjá inn í þennan stein, skært kringlótt ljós, og fannst mér vera einhver hreyfing þar fyrir innan. Ég man þó nú óljóst eftir þessu, þar sem svo langt er síðan, en ekki ósvipað og þegar ég sá ljósið í klettunum við Laugarásbíó.
Afi mannsins mín, Magnús Magnússon, bjó í sama húsi og við og talaði hann oft um að þessi steinn væri „bústaður“, en þar sem ég hafði ekki mikinn áhuga á þessum steini á þessum árum, hlustaði ég ekki mikið  á gamla manninn. Við fyrrnefnda upplifun varð ég þó sannfærð um að hann hefði haft rétt fyrir sér.“
Þegar FERLIR skoðaði vettvang tók ekki langan tíma að hafa uppi á nefndum steini á bak við húsið að Hjarðarhaga 13. Þetta er jarðfast bjarg – dæmigerður álfabústaður.

Heimild:
Halldóra Aðalsteinsdóttir, f. 16. júní 1927 – í viðtali við FERLIR des. 2008.

Reykjavík

Reykjavík.

Örfirisey

Í Fornleifaskráningu fyrir Örfirisey og Grandinn er m.a. getið um tvo letursteina, sem fluttir voru frá Örfirisey í Árbæjarsafn; Apótekarasteinninn og Álnasteinninn. Auk þess má enn sjá áletranir á klöppum á svonefndu Reykjanesi nyrst á Grandanum.
Orfirisey-222„Örfirisey var ein af sex eyjum Kollafjarðar, grösug og frjósöm. Hinar eru Akurey, Engey,
Viðey, Þerney og Lundey. Búið var í þeim öllum nema Akurey og Lundey. Það sem gerir Örfirisey sérstæða er grandinn út í hana, en gæta þurfti sjávarfalla til að komast út í hana. Við byggingu Grandagarðs árið 1913 varð breyting á og aðgengi út í eyju varð betra. Örfirisey og Grandinn afmarka vestur hluta Reykjavíkur en Lauganestanginn austurhluta hennar. Talið er að Örfirisey hafi verið stærri áður, en minkaði vegna ágangs sjávar. Áður en Grandagarður var gerður, lá malarif eða grandi út undan Brunnstíg til norðnorðausturs, þar til komið var mitt á milli lands og eyjar. Þar sveigði hann til austurs og lá í norðaustur út í suðurenda Örfiriseyjar. Þessi grandi hét Örfiriseyjargrandi.
Orfirisey-223Reykjanes er nyrst á eyjunni. Árni Magnússon hefur þær sögusagnir eftir Seltirningum að súlur Ingólfs hafi rekið þar á land, en Ingólfi hafi aftur á móti ekki litist á staðinn, brennt súlunnar og numið land á þeim stað þangað sem reykinn lagði eða í Reykjavík. Trúlegra er að nafnið á Reykjanesi sé tilkomið vegna heitrar gufu sem steig upp um glufu í klettunum á stórstraumsfjöru.
Nyrst á Örfirisey er Reykjanes, einn af fáum stöðum sem enn eru óraskaðir. Þar er að sjá
lítið rústarbrot sem ekki er vitað hvað var. Talið var að álfar ættu sér þar bústað í klöppunum. Á klöppunum fyrir neðan rústina er að finna mikið af áletrunum, þær elstu frá síðari hluta 18. aldar. Þar er helst að nefna mjög merkilegar áletranir eftir Henrik Hansen kaupmann og syni hans. Henrik Hansen var verslunarmaður í Hólmi meðan verslunarhús voru í Örfirisey. 

Orfirisey-225

Á Reykjarnesi má sjá eiginhandaáritun hans slegna í klöpp. Hann var kaupmaður á Básendum, er verslunarstaðinn tók af þar í flóðinu mikla 9. janúar 1799. Synir hans voru kallaðir Básendabræður. Þeir voru Hans Símon Hansen og Símon Hansen sem átti Hansenhús/Smiðshús sem nú er á Árbæjarsafni. Bræðurnir settu fangamörk sín á klappirnar á Reykjanesi ekki langt frá áletrun föður síns árið 1828. Aðra áletranir eru flestar yngri. Þar má nefna fjölmargar frá árunum 1945 – 1948, tengdar veru bandaríska hersins auk fangamarka nokkurra Íslendinga frá árunum 1958 – 62.
Tveir áletraðir steinar voru fluttir á sínum tíma frá Örfirisey á Árbæjarsafn þegar ljóst þótti að þeir myndu lenda undir uppfyllingum. Annar steinninn er kallaður Apótekarasteinn. Á hann er rist einföld mynd af keri 60 x 63 cm að ummáli, og á því miðju er fangamarkið HCB og ártalið 1747. Ekki er vitað af hverju steinninn dregur nafn sitt. Hinn steinninn er kallaður Álnarsteinn. Á hann er rist lína, um 53 cm að lengd. Sýnir hún lengdareiningu þess tíma, sem var alin. Fyrir neðan álnarlínuna er latneskt máltæki rist í steininn: „memento mori“, sem útleggst á íslensku „Minnstu dauðans“. Talið er að báðar þessar áletranir hafi komið til á tíma verslunarstaðarins í Örfirisey.
Apotekarasteinn-22Nokkru eftir að verslunin var flutt úr eynni urðu þarna miklar hamfarir þegar ofsaveður gekk yfir eyna árið 1799 í svokölluðu Básendaveðri. Eyddist þar öll byggð um sinn en búseta hófst þar aftur nokkru síðar. Sú byggð var þó aðeins svipur hjá sjón og lagðist síðan niður með öllu 1861. Síðustu ábúendur í Örfirisey munu hafa heitið Jón og Kristín, en þau fluttust þaðan 1861.“
Þrátt fyrir að byggð hafi lagst af í Örfirisey er þar nú fjölbreytt athafnalíf, auk þess sem Grandinn hefur verið gerður landfastur með miklum uppfyllingum. Einungs nyrsti hluti hans, Reykjanesið, er að mestu ósnert, sem fyrr sagði.
Í Alþýðublaðinu 1963 segir m.a. um Apótekarasteininn: „
Fyrrnefndur apótekarasteinn er úr Örfirisey. Á honum stendur ártalið 1747 og áletrunin HBC. 

Alnasteinn-2

Utan um þetta er mótuð apótekarakrukka, sem gefur steininum nafn sitt. Hann er einn af merkilegustu steinunum í Örfirisey og er frá dögum verzlunarinnar þar. Danskir verzlunarstjórar hjuggu oft nöfn í steinana á eyjunni. Apótekarasteinninn lá við sjávarmálið og á góðri leið með að eyðileggjast er hann var fluttur til safnsins.“
Í Alþýðublaðinu 1963 var rætt við Lárus Sigurbjörnsson, forstöðumann Skjala- og minjasafns Reykjavíkurborgar. Í viðtalinu segir hann m.a.: „Hann sagði annan stein hvað merkilegastan. Í steininn er klöppuð sjálenzk alin, en þetta mál finnst nú hvergi nema í kirkju einni á Sjálandi. Hún hefur verið höggvin í steininn 1660. Neðar á stendur orðið „memento“, sem útleggst „mundu“. Undir þessu hafa svo upphaflega staðið tveir stafir O.P., en síðar hefur einhver bætt M fyrir framan þá, gert P að R og höggvið í aftast. Kemur þá út orðið „mori“, sem þýðir dauði. Hefur einhver gert þetta af skömmum sínum. „Memento mori“ þýðir þá „Mundu að þú átt að deyja“.
Apótekarasteinn stendur við húsið Þingholtsstræti 9 á Árbæjarsafni, en Álnasteinninn við Kornhúsið.

Heimild:
-Anna Lísa Guðmundsdóttir – Fornleifaskráning fyrir Örfirisey og Grandinn, Reykjavík 2009.
-Alþýðublaðið 3. sept. 1963, forsíða.
-Alþýðublaðið 30. júní 1963, bls. 16.

Apótekarasteinn

Apótekarasteinninn – áletrun.

Öskjuhlíð

Þrír letursteinar með áletruninni „Landamerki 1839“ afmörkuðu jörðina Skildingarnes frá Víkurbænum í Reykjavík.
Öskjuhlid-223Í grein í Morgunblaðinu 17. apríl 2005 er umfjöllun um byggðina undir yfirskriftinni „Skildinganes-kauptún“. Þar segir m.a.: „Sunnan í Skildinganeshólum stóð veglegt steinhús, þar átti heima frú sem hét Margrét. Börnum stóð stuggur af frúnni og kölluðu krakkarnir hana Hóla-Möngu. Þegar Margrét, sem alltaf var prúðbúinn utandyra, sást fara með strætó niður í bæ, áræddu krakkarnir að leika sér sunnanmegin í hólunum. Þar efst var steinn sem í var grafið LANDAMERKI 1839.“
Í Morgunblaðinu 9. ágúst 1994 sagði Magnús Sigurðsson í umfjöllun um Skerjafjörð – sjálfstæða byggð með sérstæðu yfirbragði: „Um Skildinganeshóla lágu áður mörk milli jarðarinnar Skildinganess og Reykjavíkur og þar var m. a. landamerkjasteinn frá 1839, sem nú er varðveittur í Árbæjarsafni.“
Í Fornleifaskráningu fyrir vestanvert Öskjuhlíðarsvæðið frá árinu 2006 segir m.a.: „Nokkur saga er tengd landamerkja-steininum. Skildinganes var um miðbik 16. aldar orðin sjálfstæð jörð, engu að síður voru landamerki hennar og Reykjavíkur ekki skýrt afmörkuð fyrr en árið 1787. Þá hafði Reykjavík fengið kaupstaðarréttindi og var land jarðarinnar ákvarðað í tengslum við það. Voru þá mörk Skildinganess og Reykjavíkur dregin frá Lambhól við Skerjafjörð, upp í Skildinganeshóla við Suðurgötu (Hjónagarða), þaðan austur í vörðu við Öskjuhlíð og að lokum í Fossvog við Hangahamar að austan, við Nauthólsvík. Fljótlega var reynt að hnekkja þessari niðurstöðu og spannst af því mikil deila sem leystist ekki fyrr en með sáttagerð árið 1839. Var hún í flestu samhljóða útmælingunni frá 1787. Til að taka af öll tvímæli var landamerkjalínan vörðuð þremur steinum, einum við Lambhól, öðrum í Skildinganesi og þeim þriðja í Öskjuhlíð. Á alla steinanna var höggvið orðið „Landmerke“ og ártalið 1839.
Oskjuhlið-223Lýsing: Steinninn er jarðföst klöpp með áletruninni “Landamerke 1839”, klappaðri á eina hliðina. Ofan á hann er merkt X. Hann er um 1,5 m á lengd og 1 m á hæð.
Á vísindavef HÍ er fjallað um örnefnið Ökjuhlíð: „Öskjuhlíð getur verið gamalt nafn. Hún hefur vafalaust tilheyrt landnámsbænum Vík (Reykjarvík) frá upphafi. Nafnið Víkurholt, sem nefnt er í máldaga Víkur frá 1379 gæti átt við Skólavörðuholt en þó fremur Öskjuhlíð, þar sem segir: „Víkurholt með skóg og selstöðu“.
Elín Þórðardóttir hét síðasta selráðskonan í Víkurseli. Árið 1828 gaf hún vitnisburð um landamerki Reykjavíkur og Skildinganess, meðal annars með þessum orðum: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð“. Nafnið hefur stundum verið stytt því að í áreiðargerð vegna landamerkja, þar sem farið er eftir landamerkjum jarða til upprifjunar eða staðfestingar, frá 1787 er talað um „Trevarder paa Hlidin“. Jónas Hallgrímsson nefnir Öskjuhlíð í dagbók sinni frá 1840.

Landamerkjasteinn 1839

Að minnsta kosti frá því um miðja 19. öld bar hæðin einnig nafnið Eskihlíð. Á korti frá 1850 er nafnið Öskjuhlíð aðalnafnið en Eskihlíð smáletrað. Býlið Eskihlíð (síðar við Miklatorg) var þó ekki stofnað fyrr en 1891.
Eski (eskigras) hefur fundist í hlíðinni en líklegra er að nöfnin Öskjuhlíð/Eskihlíð séu dregin af líkingu við öskjur, sem höfðu kúpt lok og voru notaðar meðal annars til að geyma í lín (einkum höfuðbúnað kvenna). Orðin askja, eski og eskja merkja hið sama, oft notað í fleirtölu, trafaöskjur = trafeskjur. Eski er upphaflega trjátegundin askur, en síðan haft um ílát úr þeim viði. Tvímyndir nafnsins kunna því að hafa þekkst frá fornu fari: Eskihlíð og Öskjuhlíð, samanber Eskiholt (Eskjuholt) og Öskjuholt á Mýrum.

letursteinn-222

Í Alþýðublaðinu 1963 var rætt við Lárus Sigurbjörnsson, forstöðumann Skjala- og minjasafns Reykjavíkurborgar. Í viðtalinu kom eftirfarandi m.a. fram:  „Þá sagði hann okkur frá öðrum merkilegum steini, sem nú stendur í heygarðinum fyrir norðan Árbæ. Er það landamerkjasteinn Reykjavíkur og Skildinganess. Var þessi steinn settur 1839 eftir miklar landamerkjadeilur. Voru tveir aðrir settir, annar í Eskihlíð og hinn á Lambholt. Sá sem er í Árbæ var á Skildinganesshólnum. Lárus hefur leitað að hinum steinunum, en ekki fundið. Sá, sem var á Skildinganesshólnum hafði verið bylt, líklega á stríðsárunum. Á honum stendur „Landamerki 1839″.“
Skv. nýjustu upplýsingum (2011) mun landamerkjasteinninn frá Skildinganesi hafa verið fluttur aftur á Skildingarneshóla fyrir 1994 sbr. Fornleifaskrá Bjarna F. Einarssonar. Þegar FERLIR kíkti á staðinn nýlega (2012) lá steinninn þar efst á hólnum, ekki á hvolfi sem fyrrum, en hallaði þó letrinu „undir flatt“.

Heimildir:
-http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1012796/
-Bjarni F. Einarsson, Fornleifaskrá Reykjavíkur, 1995.
-http://www.arbaejarsafn.is/Portaldata/12/Resources/skjol/skyrslur/skyrsla_130.pdf
-http://www.mbl.is/greinasafn/grein/149422/
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning lóðar Háskóla Reykjavíkur, Öskjuhlíð – Nauthóll, 2006.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=5169
-http://skerjafjordur.blog.is/blog/skerjafjordur/entry/101846/
-Alþýðublaðið 30. júní 1963, bls. 16.
-Helgi M. Sigurðsson og Yngvi Þór Loftsson, Öskjuhlíð, náttúra og saga. Reykjavík 1993, bls. 7-24.
-Íslenskt fornbréfasafn III, bls 340.
-Íslenskt fornbréfasafn XV, bls. 258.
-Ólafur Lárusson, Byggð og saga. Reykjavík 1946, bls. 106.
-Jónas Hallgrímsson, Ritverk II (1989), bls. 364.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – landamerki.

Grásteinn

„Grásteinn nefnist klofinn steinn við Vesturlandsveg austan Grafargils og hafa álfar verið sagðir búa í honum.
Grásteinn 1989Vegna vegaframkvæmda á árunum 1970-1971 var hann fluttur þangað sem hann stendur nú, en óhöpp voru sett í samband við þann flutning og álfasögur kviknuðu og fengu byr undir báða vængi.
Af þessum sökum var Grásteinn tekinn með við fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands á svæðinu árið 1983. Af því leiddi að steinninn var talinn njóta verndar þjóðminjalaga. Var Vegagerð ríkisins bannað að færa steininn aftur nema hún fengi samþykki fornleifanefndar fyrir því. Vegna áforma um að breikka Vesturlandsveg óskaði vegagerðin eftir slíkri heimild árið 1998, og fékk hana, en með því skilyrði, að áður skyldi leita allra leiða til að komast hjá því að hrófla við steininum.
Grásteinn 1989Álitamál er hvort steinninn eigi að vera verndaður, en kastljósi fjölmiðla hefur fremur verið beint að deilunni um tilvist álfa í honum. Tilgangurinn með þeirri athugun, sem hér verður greint frá, var að grafast fyrir um hvort Grásteinn tengdist þjóðtrú að því leyti, að hann heyrði með réttu og lögum samkvæmt undir þjóðminjavörsluna.
Segja má að hér kristallist ýmis vandamál sem minjavarslan í landinu stendur andspænis vegna síaukins eftirlits með skipulags- og umhverfismálum.
Elsta heimild um Grástein mun vera ítarleg örnefnalýsing sem Björn Bjarnason í Gröf (síðar Grafarholti) ritaði fyrir jörð sína og gaf Landsbókasafninu 2. maí 1918. Ekki er annað sagt um steininn í þeirri lýsingu en hvar hann stóð.
Grásteins virðist svo hvergi vera getið síðan fyrr en í sambandi við vegaframkvæmdirnar við Vesturlandsveg árið 1971 – og þá í fyrsta sinn í tengslum við huldufólk.

Grásteinn 2008

Greindi frá því á forsíðu Vísis hinn 29. júlí það ár hvernig álfatrú tengd steininum hafði áhrif á vegavinnuna. Hafði hann þá verið fluttur af þeim stað sem hann stóð frá fyrstu tíð:
„Vegavinnumennirnir fullyrða nú, að þeir sem áttu þátt í að flytja steininn um áramótin hafi allir orðið fyrir einhverjum óhöppum og slysum. – Sá kvittur kom upp fyrir skömmu að nú ætti að flytja steinana á nýjan leik, en vegavinnumennirnir eru ekki hrifnir af þeirri hugmynd, og þeir, sem Vísir talaði við, sögðu afdráttarlaust, að þeir myndu neita að koma nálægt því verki.“
Í grein á innsíðum blaðsins segir m.a. að steinarnir séu þrír að tölu: „Klettarnir voru fluttir úr stað um síðustu áramót, en þá voru þeir í vegi fyrir framkvæmdunum. Þrjár kröftugar jarðýtur sáu um um að róta þeim til, en ekki nógu langt, því að nú eru klettarnir fyrir enn einu sinni.“
Fram kemur í vitaði með umfjölluninni að þrír menn hafi slasast eftir að þeir áttu við steinana, þar af einn alvarlega á fæti. Stærsti steinninn hafi heitið Grásteinn 2008Grásteinn en sá minnsti Litli bróðir. Kristín Bæringsdóttir, húsfreyja í Grafarholti í 29 ár kannaðist ekki við að huldufólk tengdist steinunum að öðru leyti en því að fólk hefði sagt að í svona stórum steinum hlyti að vera huldufólk. Í endurminningum Skúla Pálssonar í Laxalóni kemur fram að 90 þúsund laxaseiði hefðu brepist þegar jarðýtustjóri tók í sundur vatnsinntak fiskeldis hans í nóvember árið 1970, daginn eftir að Grásteinn hafði verið færður til. Sumir töldu ástæðuna fyrst og fremst hafa verið að ræða fljótræði ýtustjórans. Ágúst Ólafur Georgsson, þjóðháttafræðingur, hafði sumarið 1980 efir Jóel Jóelssyni, bónda í Reykjahlíð II, að Halldór Laxnes, skál í Gljúfrasteini, teldi að umræddur steinn væri álagasteinn. Â Fornleifadeild Þjóðminjasafnsins setti steininn í svokallaðan A-flokk fornleifa í fornminjaskrá, þ.e. með þeim minjum sem hafa mest minja- og varðveislugildi.
Grásteinn 2008Grásteinn var aftur í fréttum í júní 1994 vegna þess að hann var fyrir áformuðum vegaframkvæmdum, er breikka átti Vesturlandsveginn. Í fréttþættinum 19.19 á Stöð 2 sagði frá því hinn 20. júní það ár að færa þyrfti steininn um 25 m leið, en Erla Stefánsdóttir, sem þjóðkunn sé fyrir tengsl sín við huldufólk, sæi hús í báðum steinunum og í þeim litlar verur glaðlegar. Var haft eftir Erlu að þessar verur hefðu flutt í steininn eftir að hann var síðast færður.
Var nú kyrrt um þetta mál til ársins 1998 að vegagerðin vildi ráaðst í framkvæmdir við Vesturlandsveg. Við mat á umhverfisáhrifum vegna breikkunar vegarins benti Árbæjarsafn á að veglínan færi nærri Grásteini, en taka yrði tillit til hans með því að hann væri á Fornleifaskrá Reykjavíkur.
Verkfræðistofa komst að raun um að færa þyrfti Grástein. Borgarminjavörður féllst á þá niðurstöðu.
Grásteinn varð enn á ný fréttaefni í janúar 1999, þegar leyfi til að flytja hann var fengið. Helgi Hallgrímsson, vegamálstjóri, sagði í Morgunblaðinu að steinninn væri fluttur til af tveimur meginástæðum, annarsvegar þar sem um skemmtilegt og nokkuð áberandi kennileiti væri að ræða, en hins vegar vegna sögusagna um álfabyggð í steininum.
Í sömu grein er haft eftir Sigurði Sigurðssyni, dýralækni, sem býr í grennd við steininn, að þegar hann var færður fyrra sinnið hefði hann klofnað og snúist, þannig að það sem áður sneri upp snúi nú niður.
Grásteinn 2008Málið snýst ekki um hvort álfar búi í Grásteini í Grafarholti, heldur hvort álagatrú á hann eigi rætur sínar að rekja svo langt aftur í tíma að hann skuli telja með fornleifum í skilningi 16. greinar þjóðminjalaga og þar með heyra undir þjóðminjavörsluna. Heimildakönnun bendir eindregið til þess að álfasögur hafi ekki verið tengdar Grásteini fyrr en í lok árs 1970. Af því leiðir að Grásteinn getur hvorki talist til fornleifa fyrr en í fyrsta lagi árið 2070. – þegar álagtrú á steininn á sér að minnsta kosti aldarlanga sögu – , né heyrt undir þjóðminjavörsluna í landinu, nema hann verði friðlýstur skv. 16. og 18. gr. þjóðminjalaga.
Grásteinn er og hefur fyrst og fremst verið áberandi kennileiti í landslaginu frá ómunatíð. Ekkert bendir til að hann hafi tengst trú álfa fyrr en í seinni tíð. Engar sagnir eru þekktar um hann eldri en 30 ára. Steinninn stendur ekki á upphaflegum stað, en hefur verið færður, a.m.k. tvisvar, við lagningu Vesturlandsvegar árin 1970 og 1971. Bjargið er talið vera um 50 tonn að þyngd, en þegar því var bylt klofnaði það.
Grásteinn var fluttur mánudaginn 18. október 1999 um 37 m til norðurs og vesturs. Flutningurinn tók um fjórar klukkustundir. Allt gekk vel utan hvað ein tréskófla brotnaði. Stærra bjargið vóg 35 tonn og hið minna 15 tonn. Álfanna vegna var þeim komið fyrir á sama hátt og þau stóðu síðast, – á hvolfi.“

Heimild:
-Ragnheiður Traustadóttir, Grásteinn í Grafarholti, um minjagildi ætlaðs álfasteins – Árbók fornleifafélagsins 1998, bls. 151-164.

Grásteinn 2008