Tag Archive for: Reykjavík

Viðey

Í Tímanum 1986 er umfjöllun Ingólfs Davíðssonar; „Hugsað til Viðeyjar„:

„“Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur, víða eg trúi hann svamli sá gamli“. Svo kvað Jón biskup Arason árið 1550.
Langt er síðan munkar gengu þar um garða, en um skeið var Viðeyjarklaustur eitt hið auðugasta á Íslandi og átti jarðeignir miklar.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Skúli Magnússon landfógeti, sem nefndur hefur verið faðir iðnaðar og þar með kaupstaðar í Reykjavík, bjó lengi í Viðey. Mætti segja að hann hafi þar reist sér minnisvarða með byggingu Viðeyjarkirkju og stofu. Mun Viðeyjarstofa elsta hús í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Þrír frægir menntamenn þ.e. Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson dvöldu oft á vetrum í Viðey hjá Skúla og unnu að hinum stórmerkilegu ferðabókum sínum.
Eftir Skúla tók við veldi Stefánsunga.

Löngum hefur verið rekið stórbú

Viðey

Viðey.

Í Viðey og um skeið var þar mikil útgerðarstöð. Þorsteinn Erlingsson kvað: „Í logninu fuglinn um fjörurnar þaut og flaug upp um engjar og tún. Hann veitti þar eggjunum unað og skraut og Ólafi Stephensen dún“.
Í jarðabók 1703 segir: „Engi yfirfljótanlega mikið og gott ef nýtt og ræktað er. Hagbeit um sumar og vetur hin allra besta.“ Og í sýslulýsingum 1852 stendur: „Viðey sögð öll grasivaxin, en mjög þýfð, einkar grasgefin. Æðarvarp mikið og afbragðsmikill heyskapur og einhver hinn besti heykostur.“
Nokkur tilraunastarfsemi var í Viðey á fyrr öldum. Voru nokkrar trjátegundir gróðursettar þar 1752, en allar dóu þær út á næsta ári. Grenifræi var sáð í óræktað land hingað og þangað, einkum í klettunum við sjóinn, en allar plönturnar dóu á þriðja ári. Telur Skúli tilraunirnar ekki hafa verið gerðar af nægilegri þekkingu.

Reynihríslur í Viðey

Viðey

Viðey.

Arthur Dillon lávarður, sem dvaldi í Reykjavík 1834-1835, getur um hríslur í Viðey. Hann ritar á þessa leið um för sína og franskra manna út í Viðey: „Við lentum við brattar steintröppur. Milli þeirra og hússins var grasflötur og þar voru gróðursett um 50 tré. Þó þau væru mjög ung voru þau orðin meira en 12 fet á hæð og munu sennilega dafna betur en flest önnur, þar sem þau vaxa í skjóli hússins og hæða til beggja handa. Húsið var á stærð við stiftamtmannshúsið og lítil kirkja við annan endann.“ Dillon nefnir ekki trjátegundina, en líklega hafa þetta verið reyniviðir eins og hjá stiftamtmanninum í landi á sama tíma.
Skyldi Magnús Stephensen hafa gróðursett þessi tré, eða Ólafur Stephensen? Sennilega hafa tré ekki haldist lengi við í Viðey.

Kornrækt í Viðey og Reykjavík

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Getið er kornræktar í Viðey á 12. öld og einu sinni kvað hafa þurft Þorlák helga til að setja niður músagang, sem át kornið! Í Sturlungu er sögð kornyrkja í Gufunesi árið 1220. Víkurkirkja átti akurlendi í Örfirisey 1397. Örnefnið Akurey er sennilega gamalt og segir sína sögu. Sennilega hefur einhver kornyrkja haldist allt frá landnámsöld og fram á síðari hluta 16. aldar. Kornyrkjan lagðist niður bæði vegna kólnandi veðurfars og innflutnings á ódýru korni.

Viðey

Nafnið Viðey bendir til þess að þar hafi verið skógur eða kjarr þegar eyjan fékk nafn. Fornleifarannsóknir á eyjunni hafa einmitt sýnt að þar hafi verið gróskumikið á landnámsöld og skógur eða kjarr hafi einkennt hana allt fram á 12. öld.

Upp úr miðri 18. öld var farið að reyna kornrækt aftur. Fyrir áeggjan Skúla Magnússonar o.fl. sendi Friðrik Danakonungur fimmti 15 jóskar og norskar bændafjölskyldur til landsins, einkum til að gera akuryrkjutilraunir á ýmsum stöðum, aðallega á árunum 1752-1757. Einn bóndinn var settur niður í Reykjavík, annar var í Viðey. Á báðum stöðum var brotið land til kornyrkju árið 1752 og stóðu tilraunir í 5 ár. Reyndar var vetrarrúgur og vorrúgur, bygg, hafrar og blendingskorn og óx það best, en þar næst bygg. Lítið af korninu náði fullum þroska og voru flestir kjarnar linir að hausti. Kornið var því ekki þreskt, en gefið skepnum eins og hvert annað hey. Þótti kornið þrífast heldur skár í Viðey en í Reykjavík.
Næst reyndi Schierbeck landlæknir kornrækt í Reykjavík og fékk m.a. sáðkorn frá nyrstu héruðum Noregs. Þroskaðist bygg sæmilega hjá honum sum árin (1884-1893). Síðan varð hlé uns Klemenz Kristjánsson hóf tilraunir í kornrækt í Gróðrarstöðinni í Reykjavík 1923-1927, og síðar lengi á Sámstöðum í Fljótshlíð. Prentsmiðja var í Viðey á vegum Magnúsar Stephensen 1819-1844. Sjaldgæfar eru Viðeyjarbækur nú og í fárra höndum.

Stórbúskapur í Viðey

Viðey

Austanverð Viðey á tímum Milljónafélagsins.

og mikil útgerð í byrjun þessarar aldar varð Viðey eign þeirra feðga séra Eiríks Briem og Eggerts sonar hans. Var þá umfangsmikill búskapur og búið í Viðeyjarstofu. Á árunum 1907-1914 voru mikil umsvif „Milljónafélagsins“ í Viðey, gerð hafnarmannvirki, rekin mikil útgerð og fiskvinnsla. Síðan tók við Kárafélagið fram að kreppuárunum; þá fjaraði atvinnulífið út og þorpið sem hafði myndast fór í eyði 1943. Þar höfðu búið um 100 manns og helmingi fleiri á vertíðinni þegar best lét.
Margir merkismenn hafa átt heima í Viðey Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Styrmir samdi Ólafs sögu helga, og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson, síðar biskup í Skálholti, var ábóti í Viðey um skeið. Á síðari hluta 18. aldar bjó Skúli Magnússon í Viðey, áhrifamikill höfðingi. Hann stofnaði mikið iðnaðarfyrirtæki (Innréttingarnar) í Reykjavík og átti í stríði við einokunarverslunina og barðist fyrir bættri verslun.
Viðey
Við af honum tók í Viðey mikill rausnarmaður, Ólafur Stephensen. Er hans og lífsins í Viðey á þeim tíma, getið í ýmsum útlendum ferðabókum. Útlendum ferðamönnum var oft vísað til Viðeyjar og róma gestirnir höfðingsskap Ólafs og stórkostlegar veislur. Sonur Ólafs, Magnús Stephensen gerði og garðinn frægan í Viðey. Hann var valdamesti maður á Íslandi bæði í veraldlegum efnum og menningarmálum um sína daga.
Saga Viðeyjar er sannarlega viðburðarík. Byggð mun hafa lagst af í Viðey um 1970. Búsældarlegt og gróskumikið hefur jafnan verið í Viðey. Þar fann undirritaður 126 jurtategundir við lauslega athugun 1938. Sjá Náttúrufræðinginn 1939. Sennilega finnast fleiri tegundir við nákvæma leit. Nú er Viðey nýorðin eign Reykjavíkurborgar.“

Í Tímanum 1988 fjallar Ingólfur Davíðsson um „Viðey á dagskrá„:

Viðey
„Nú er Viðey eign Reykjavíkurborgar. Kirkja og stofa hafa verið lagfærð með myndarskap, o.fl. mun vera á prjónunum. Talsverðar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar í Viðey hin síðustu ár og margt merkilegt komið í ljós, einkum frá klausturtímabilinu 1226-1550. Viðeyjarklaustur var lengi menntasetur og hafa margir merkismenn gengið þar um garða. Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Hann samdi Ólafs sögu helga og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson hinn voldugi Skálholtsbiskup, samtíðarmaður Jóns biskups Arasonar, var ábóti í Viðey á yngri árum.
Í framtíðinni verður Viðey eflaust fjölsóttur ferðamannastaður, bæði vegna sögu sinnar og legu.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1996 fjallar Sigurlaugur Brynleifsson um „Viðeyjarklaustrið„:

Viðey„Þáttaskil í sögu Viðeyjar verða 1750, þegar Skúli Magnússon er skipaður landfógeti. Ætlunin var að stiptamtmaður og landfógeti sætu báðir í Viðey, en svo fór að. landfógeti sat þar. Efnt var til stórbyggingar sem ætluð var báðum, en byggingin var minnkuð nokkuð eftir að stiptamtmaður hvarf frá búsetu. Hafist var handa við byggingu Viðeyjarstofu 1753 og henni lokið 1755. Nefnt Slotið í Viðey – þá stærsta hús á Íslandi. Með þessum framkvæmdum og stórbúskap ásamt búnaðartilraunum, hefst Viðey til helstu stórbúa landsins á þeirra tíma mælikvarða. Samfara þessu var hafinn undirbúningur að viðreisn landsins með „Innréttingunum“ og margvíslegustu tilraunum til aukins afraksturs í landbúnaði og sjávarútvegi.
Með þessum áætlunum og framkvæmdum hófst nýr þáttur í atvinnusögu landsmanna. Og Viðey var höfuðstöð þessara umbreytinga hér á landi og önnur höfuðstöðin var Kaupmannahöfn, en þaðan barst meginhluti þess fjár sem varið var til viðreisnarinnar, úr sjóðum stjórnarinnar. Valdamiklir menn innan dönsku stjórnarinnar studdu Skúla í Viðreisnartilraunum hans, Thott greifi, Molkte og Rantzau stiptamtmaður voru stuðningsmenn hans.
Margt varð til þess að áætlanirnar um viðreisn landsins náðu ekki þeim árangri sem stefnt var að. Harðindi, Skaftáreldar 1783-84 og andúð úrtölumanna og fjandmanna Skúla meðal kaupmanna. En þrátt fyrir það urðu þessar tilraunir til þess að sanna landsmönnum að gjörlegt var að framkvæma það, sem áður var talið vonlaust.
Skúli Magnússon bjó í Viðey í um 40 ár.
Viðey
Ólafur Stephensen stiptamtmaður tók við Viðey og bjó þar við mikla rausn. Mikill munur var að litast um í Viðey í tíð Skúla og Ólafs eða árið 1703, þegar eyjan var í eyði, niðurnídd.
Magnús Stephensen keypti Viðey 1817 og flutti þangað Leirárgarða – og síðar Beitistaðaprentsmiðju 1819. Þar með hefst aftur bókagerð í Viðey. Magnús rak prentsmiðjuna til dánardags 1833 og sonur hans Ólafur sekreteri til 1844. Þeir ættmenn bjuggu í Viðey þar til 1901 og seldu þá eyna.“

Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju:

Viðeyjarstofa

Viðey

Viðeyjarstofa frá tíma Skúla Magnússonar.

„Skúli Magnússon landfógeti fékk eyna til aðseturs árið 1751. Skúli var merkisberi nýrra tíma á Íslandi. hann setti á stofn Innréttingarnar í Reykjavík og hugðist þannig koma á fót iðnaði á Íslandi. Hann hefur oft verið nefndur faðir Reykjavíkur en í kringum Innréttingarnar óx fyrst upp þéttbýli í Reykjavík

Viðeyjarstofa

Upprunaleg teikning að Viðeyjarstofu upp á tvær hæðir.

Skúli reisti Viðeyjarstofu sem embættisbústað landfógeta en stofan er fyrsta steinhúsið sem byggt var á Íslandi. Hún er að mestu úr grágrýti en einnig úr íslenskum sandsteini og var smíði hennar lokið árið 1755. Arkitekt stofunnar var Nicolai Eigtved en hann teiknaði margar sögufrægar byggingar í kaupmannahöfn og er Amalienborg þeirra þekktust.
ViðeyNæsti ábúandi Viðeyjar á eftir Skúla var Ólafur Sthephensen, fyrsti íslenski stiftamtmaðurinn. Ólafur bjó í Viðey frá 1794 til dauðadags 1812. Hann var merkur framfarasinni og með búsetu hans úi í eynni varð hún æðsta embættissetur landsins um níu ára skeið. hann hélt ófáar veislur í Viðey og eru til margar frásagnir af þeim.
Arftaki Ólafs í Viðey var sonur hans, Magnús Stephensen konferensráð og dómstjóri. Magnús var, eins og Skúli Magnússon, maður upplýsingar og framfara. Hann réð yfir prentsmiðju, hinni einu á landinu á þeim tíma. Hún var starfrækt í Viðey á árunum 1819-1844. Magnús bjó í Viðey til dauðadags 1833. Hann keypti eyjuna af Danakonungi árið 1817 fyrir stórfé og var hún í eigu ættarinnar út nítjándu öld“.

Viðeyjarkirkja
Viðey
„Viðeyjarkirkja var reist að frumkvæði Skúla Magnússonar landfógeta. Hún er byggð úr grágrýti úr Viðey og var vígð árið 1774 af sr. Árna Þórarinssyni, þá sóknarpresti í Reykjavík en síðar biskupi á Hólum. Arkitekt kirkjunnar er ókunnur en gæti hafa verið Georg David Anton, eftirmaður N. Eigtveds, höfunar Viðeyjarstofu. Viðeyjarkirkja er næst elsta kirkja landsins og geymir elstu upprunalegu kirkjuinnréttingu, sem hér er til. Hóladómkirkja er elst, vígð 1763, en þar er endirgerð innrétting.
Það er einkum þrennt, sem atgygli vekur í þessari gömlu innréttingu. Fyrst má nefna að prédikunarstóllinn stendur fyrir ofan altarið. Slíkt er sjaldgæft hérlendis, en var ekki óalgengt á Norðurlöndunum á þessum tíma. Þetta hefur þá táknrænu merkingu, að boðun Guðs skuli skipa hærri sess í guðsþjónustunni en altarissakramentið.

Viðey

Stóllinn í Viðeyjarkirkju.

Annað sem vekur athygli er stóllinn sem stendur hægra megin við altarið. Hann er einstæður gripur í lúterskri kirkju á Íslandi, eini skrifastóllinn frá gamalli tíð. Fram á miðja 19. öld fengu menn ekki að fara til altaris hér á landi nema þeir hefðu skriftað fyrst, Þeir, sem ætluðu til altaris, fóru út í kirkju með prestinum nokkru áður en messa skyldi hefjast. Presturinn settist í stólinn. En skriftabörnin krupu eitt í einu á knébeð, sem var fyrir framan stólinn og fóru þar með utanbókarlærða almenna syndajátningu og fengu þá aflausn hjá prestinum.
Þriðja atriðið varðar kirkjubekkina. Konur sátu fyrr vinstra megin í kirkju, þegar inn er horft, en karlar hægra megin, svo sem enn tíðkast við brúðkaup. Í Viðeyjarkirkju er bekkirnir kvennamegin 7 sendtimetrum lægri en bekkir karlanna“.

Fornleifarannsóknir á bæjarhól Viðeyjar
Viðey
„Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 fékk borgin að gjöf Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju frá ríkinu. Við endurgerð Viðeyjarstofu var byggt stórt jarðhýsi við húsið norðanvert. Vegna þeirra framkvæmda hófst fornleifarannsókn á bæjarhólnum árið 1986. Í fyrstu var um björgunaruppgröft að ræða á um 400 fermetra svæði, en árið 1989 var rannsóknarsvæðið stækkað til norðurs um 600 fermetra og rannsóknaruppgröftur hafinn. Fornleifauppgröfturinn var á vegum Árbæjarsafns og stóð til ársins 1995.

Viðey

Dansleikir voru haldnir í Viðey líkt og annars staðar þar sem er byggð. Eitt sinn var haldið dansiball í þurrkhúsinu þegar danskt herskip lá við bryggju á þriðja áratug síðustu aldar. Á þessu skipi var Knútur prins, sonur Kristjáns X, sjóliðsforingi. Hann og aðrir áhafnarmenn tóku þátt í skemmtuninni en sagan segir að Knútur prins hafi dansað við einu og sömu stelpuna alla nóttina. Hann var svo hrifinn af henni að daginn eftir þegar hún hélt til vinnu að vaska fisk, þá stóð hann yfir henni og hélt henni félagsskap. Ólíklegt er að í þeim samkomutakmörkunum sem eru nú í gildi að einhver hitti sinn draumaprins, en það er þó aldrei að vita!

Fyrstu ritheimildir um byggð í Viðey eru frá 12. öld, þegar Þorlákur helgi Þórhallsson (1133-1193) var fenginn til að bregðast við músagangi í einni. „Hann vígði vatn og stökkti yfir eyna – uatn um eitt nes“. Á þeim tíma var komin kirkja í Viðey. Árið 1225 stofnaði Þorvaldur Gissurason, með stuðningi Snorra Sturlusonar, klaustur í Viðey af reglu heilags Ágústínusar. Viðeyjarklaustur var starfrækt til ársins 1539, en þá var það rænt af mönnum Danakonungs, munkarnir reknir á brott og Viðey lýst eign konungs.
Eftir að klaustrið var lagt niður var í Viðey rekið bú og „hospital“ sem var einskonar vistheimili fyrir farlama fólk, Hospitalið var síðan flutt til Gufuness, þegar Skúli Magnússon landfógeti settist að í Viðey árið 1751.
Uppgröfturinn í Viðey var einn sá viðarmesti sem farið hefur fram á Íslandi á sínum tíma og sá fyrsti sem gerður var á klaustursstað. Hluti af kirkju, kirkjugarði og klausturhúsunum voru rannsökuð. Jarðsjármælingar hafa sýnt að framan við Viðeyjarstofu og -kirkju hafa verið byggingar, sem trúlega voru hluti af klausturhúsunum. Í elstu jarðlögunum komu í ljós leifar bæjar frá 10. öld. Í honum var langeldur, um þriggja metra langur.
Við fornleifarannsóknina fundust um 20.000 gripir, margir athyglisverðir. Mannvistarlög í bæjarhól Viðeyjar eru 2-3 metra þykk og sýna að þar hefur verið byggð allt frá 10. öld fram til 20. aldar. Stór svæði á bæjarhólnum eru ókönnuð og munu rannsóknir í framtíðinni skýra enn betur uppbyggingu húsakosts og lifnaðarhætti Viðeyinga“.

Kúabúið í Viðey
Viðey
„Hér stóð það sem var á sínum tíma eitthvert stærsta og glæsilegasta fjós á Íslandi. Það var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, þegar hjónin Eggert Briem og Katrín Thorsteinsson Briem reistu stórbú í Viðey. Fjósið rúmaði 48 kýr og var sambyggt hlöðu sem tók um 3000 hestburði af heyi. Húsið var úr timbri og bárujárni, með steyptum og hlöðnum undirstöðum. Á hverjum degi var mjólkin flutt til Reykjavíkur og seld í mjólkurbúð Viðeyjarbændanna í húsinu Uppsölum á horni Túngötu og Aðalstrætis, en hún hefur verið nefnd fyrsta mjólkurbúðin í Reykjavík.
Viðey
Á Viðeyjarbúinu störfuðu aldrei færri en 20 manns yfir veturinn og enn fleiri þegar heyjað var á sumrin. Fjósverkin hófust klukkan sex á morgnanna. Fimm stúlkur sáu um mjaltirnar og mjólkuðu 10-12 kýr hver. Strax að loknum mjöltum var siglu með mjólkurbrúsana yfir sundið inn í Laugarnes og þeim ekið þaðan til Reykjavíkur.

Viðey

Fjósið sem sést hér til hægri á myndinni var eitt stærsta og nýtískulegasta fjós og heyhlaða landsins þegar það var byggt af Eggerti Briem stórbónda í byrjun 20. aldarinnar. Fjósið tók 48 kýr og var hægt að geyma gífurlegt magn af heyi í hlöðunni. Mjólkina frá kúnum flutti hann á hverjum degi á bátum yfir sundið til Reykjavíkur og svo á hestvögnum niður í Aðalstræti, þar sem hann var með mjólkurbú.

Mjólkin þurfti helst að vera komin í mjólkurbúðina fyrir klukkan tíu. Þar var einnig unnið úr henni smjör, rjómi og skyr. Viðeyjarmjólkin þótti góð, enda voru kýrnar vel hirtar og fyllsta hreinlætis gætt við alla mjólkurvinnsluna. Heimilisfólkið í Viðey var stolt af búskapnum og þegar frúr úr Reykjavík eða vestan af fjörðum heimsóttu húsmóðurina fór hún gjarnan með þær í skoðunarfeð út í fjós.
Mjólkurneysla var mun minni í Reykjavík í upphai 20. aldar en síðar varð. Mjólkin var dýr, kýr voru tiltölulegar fáar í bænum og samgöngur við nágrannasveitirnar torveldar. Mjólkurflutningarnir úr Viðey voru líka erfiðir, sérstaklega yfir háveturinn. Á öðrum áratug 20 aldar reisti Eggert Briem annað fjós í Reykjavík, þar sem nú mætast Njarðargata og Smáragata, hafði kýrnar í Viðey á sumrin en í Briemfjósi í Reykjavík á veturna.
Eggert Briem lést árið 1939, skömmu eftir að hann seldi Viðey nýjum eigendum. Seinni kona hans. Halla Briem, lifði hann, en Katrín Thorsteinsson Briem lést 1919. Fjósið og hlaðan í Viðey stóðu lengi enn, en byggingin var rifin um 1900 í kjölfar endurbóta á Viðeyjarstofu“.

Garðrækt Skúla Magnússonar
Viðey
„Á síðari hluta 18. aldar var Skúli Magnússon húsráðandi í Viðey. Hann fékk eina til aðseturs þegar hann var skipaður landfógeti á Íslandi árið 1750 og hér bjó hann til dauðadags árið 1794.
Skúli Magnússon var einn af frumkvöðlunum að stofnun Innréttinganna svokölluðu árið 1751, en það var félag um viðreisn landshaga á Íslandi. Innréttingarnar stóðu fyrir margvíslegri nýsköpun í íslensku atvinnulífi með stuðningi Danakonungs. Þar á meðal beindu forsvarsmenn þeirra augum sínum að möguleikum til aukinnar jarðræktar á Íslandi.
Almenningur var hvattur til þess að koma sér upp kálgörðum og stjórnvöld vildu líka stuðla að trjárækt í landinu. Embættismenn skyndu ganga á undan með góðu fordæmi. Þar lét Skúli Magnússon ekki sitt eftir liggja og ræktaði bæði tré og fjölbreyttar matjurtir við heimili sitt í Viðey.

Viðey

Heyskapur í Viðey 1906.

Árið 1753 pantaði Skúli ólíkar frætegundir til ræktunar. Þar voru til dæmis kastaníurunnar, átján askar, níu rifsberjarunnar, níu stikilsberjarunnar (fjórir að vísu dauðir, en fimm í góðu ástandi) og nokkur ávaxtatré, þar á meðal tvö perutré. Næstu ár voru hins vegar köld og þá er talið að flest trén hafi drepist.
Skúli gerði tilraunir með ræktun á hör og hampi, rúgi og höfrum. Hann freistaði þess að rækta baunir og tóbaksrækt reyndi nann í svokallaðri Tóbakslaut, en hvort tveggja bar lítinn árangur. Betur gekk honum að rækta kartöflur og kúmen. Kúmenið vex enn um alla Viðey og er tínt seint á hverju sumri, þegar það er orðið þroskað“.

Heimildir:
-Tíminn, 222. tbl. 30.09.1986, Hugsað til Viðeyjar, Ingólfur Davíðsson, bls. 12.
-Tíminn, 195. og 196. tbl. 27.08.1988, Viðey á dagskrá, Ingólfur Davíðsson, bls. 27.
-Lesbók Morgunblaðsins 28.09.1996, Viðeyjarklaustrið – Siglaugur Brynleifsson, bls. 5.
-Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu.

Viðey

Viðey

Í Morgunblaðinu árið 1990 er grein um Viðey. Í henni er kafli undir fyrirsögninni „Ástarsaga afhjúpuð?“ Fjallað er um þrjá letursteina  vestan í eynni sunnan við svonefndan Hulduhól. Ein áletrunin á svonefndum Dvergasteini og önnur á klöpp við Nautahúsin.

„Fundist hafa áletranir frá fyrrihluta síðustu aldar á jarðföstum steinum á vesturhluta Viðeyjar og voru nokkrar þeirra áður óþekktar.

Viðey

Mögulegt er að á einum steininum séu ristir upphafsstafir ungra frændsystkina af Stephensens-ættinni sem bjó í eynni á þessum árum, líklega merki um stutt ástarævintýri. Á öðrum steini er aðeins ártalið 1810 í rómverskum tölum og á þriðja steininum, sem kunnugir hafa reyndar lengi vitað um, eru nöfn tveggja manna ásamt krossmarki og ártali.

Forgengileg ást klöppuð í stein?

Magnús Sædal Svavarsson, byggingastjóri í Viðey, kom fyrir skömmu auga á áletranir sem klappaðar höfðu verið í jarðfasta steina í Viðey. Ein þeirra gæti verið þögult vitni um ástarævintýri ungra frændsystkina í eynni á fyrrihluta síðustu aldar. Séra Þórir Stephensen staðarhaldari skoðaði nýlega steinana með blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins.
„Þegar ég sá þessa áletrun fyrst bjóst ég náttúrulega við að hér hefði einhver vinnumaðurinn verið á ferð, hefði verið við gegningar í húsunum,“ segir séra Þórir þegar við skoðum stein í nánd við Nautahúsin svonefndu, norðaustan til á Vestureynni. Þar sést stafurinn M og síðan TH sem stundum var notaður í stað íslenska bókstafsins Þ. „Hann gæti hafa verið að dunda við þetta í tómstundum sínum. Svo fór ég í manntalið 1821; það er enn til. Þar er ekkert mannsnafn sem þetta fangamark á við. Ég fór að velta því fyrir mér hvort tveir vinnumenn hefðu verið að verki.
ViðeyÞegar ég ræddi þetta við aðra var mér bent á að ég væri ekki nærri nógu rómantískur! Þegar einhver eða einhverjir séu að krota svona í stein geti það ekkert síður verið elskendur. Ég íhugaði þetta og fór aftur í manntalið.

Vorið 1821 kemur Magnús Stephensen, sonur Stefáns amtmanns og bróðursonur Magnúsar Stephensens konferensráðs, heim frá Kaupmannahöfn, þá nýútskrifaður kandídat í lögfræði. Hann hafði alist upp hjá Magnúsi konferensráði frá því hann var á fyrsta ári. Hann elst upp með Þórunni, dóttur Magnúsar, en þau hafa ekki sést í nokkur ár er Magnús kemur heim. Kannski, og ég ítreka kannski, er þessi áletrun merki um það að með þeim hafi kviknað einhver ástarhugur, hún skrifað stafinn hans, Magnús skrifað fangamark hennar og ártalið.

Viðey

Letursteinn í Viðey frá árinu 1824.

Hann fer aftur að heiman 1823, fær sýslumannsembætti í Skaftafellssýslum 2. september. Magnús er þá svo fátækur að ekki kemur til greina fyrir hann að kvænast; fyrst þurfti hann að koma undir sig fótunum. Næsta ár kemur Hannes bróðir hans heim frá Höfn með guðfræðipróf; hann varð seinna einn af forystumönnum sjálfstæðisbaráttunnar við Dani. Segir sagan að hann hafi verið einn af þrem þingmönnum sem dönsku dátarnir, er voru sendir hingað vegna þjóðfundarins 1851, hafi átt að drepa ef nauðsyn krefði. Á Jónsmessunni 1825 giftist Þórunn Hannesi.
Magnús sýslumaður kvæntist ekki fyrr en 1828, þá prófastsdóttur úr Mýrdalnum.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 112. tbl. 19.05.1990, Forgengileg ást klöppuð í stein?, bls. 18-19.
Viðey

Eyrað

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Hólmshraunin fimm„, hraun í nágrenni Reykjavíkur, í Náttúrufræðinginn 1972:

Inngangur

Jón Jónsson

„Þegar farið er sem leið liggur frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði, eða austur yfir Fjall, eins og oft er komist að orði, blasir við manni á hægri hönd grámosagróinn hraunfláki, sem nær frá Jaðri austur að Selfjalli og hverfur til suðurs milli efstu brúna. Nyrzt, eða nánar tiltekið milli Selfjalls og Heiðmerkur, gengur þessi hraunbreiða undir nafninu Hólmshraun.
Við athugun kemur í ljós, að um a. m. k. fimm mismunandi og misgamla hraunstrauma er að ræða, sem auðveldlega má greina að norðantil á svæðinu. Er sunnar dregur verður það illgerlegt eða ómögulegt með öllu, enda koma þar fyrir enn fleiri hraun, sem hlaðizt hafa hvert yfir annað. Þau eru öll komin úr Þríhnúkum og svæðum milli þeirra og Hákolls í sunnanverðum Bláfjöllum.
Eldstöðvar á þessu svæði eru a.m.k. átta vel sýnilegar. Ekki er ólíklegt að einhverjar séu nú huldar yngri hraunum, og engan veginn er útilokað að neðst í þessum hraunlagastafla séu hraun frá Heiðinni há, sem runnið hafi til norðurs vestan Bláfjalla.
Ég hef valið að halda því nafni, sem notað er á kortinu (1:50000), en gefa síðan hverju hrauni númer eftir aldursröð á meðan ekki er hægt að tengja hvert og eitt þeirra við ákveðna eldstöð sem hlotið hefur nafn.

Hólmshraun I

Hólmshraun

Hólmshraun – upptök.

Hólmshraun I er elzt þessara hrauna. Það kemur fram austan við Gvendarbrunna og hefur þar runnið út á og nærri þvert yfir Leitahraun (Jónsson 1971, bls. 52), og er því a. m. k. eitthvað yngra. Rekja má það til austurs báðum megin Suðurár um 1,5 km austur frá Gvendarbrunnum, en nyrzta tunga þess endar rétt sunnan við Hólm. Hefur það því næstum náð að renna þvert yfir Leitahraun á þessum stað.
Lítið ber á þessu hrauni þarna, en bergið í því er þó svo frábrugðið Leitahrauni, að mögulegt er að rekja það á þeim grundvelli. Þetta hraun kemur einnig fram efst í Heiðmörk. Hús „Nordmannslaget“ stendur einmitt á þessu hrauni. Hraunið er fínkornótt feldspatpyroxen hraun með ofurlitlu ólívíni.
Með því að mæla hlutfall steintegunda í tveim þunnsneiðum úr þessu hrauni fékkst eftirfarandi útkoma: Um aldur hraunsins er ekki vitað annað en það sem þegar er sagt, að það er yngra en Leitahraun og elzt Hólmshraunanna.

Hólmshraun II

Hólmsborg

Hólmsborg er í Hólmshrauni.

Þetta hraun kemur fram á 11 stöðum á því svæði sem kortið nær yfir, en lítið fer fyrir því á þeim flestum. Mesta samfellda spildan er kvísl sú sem fallið hefur um skarðið milli Self jalls og Sandfells, niður með Selfjalli að austan og niður í Lækjabotna. Nyrzti tangi þess myndaði háa og mjög áberandi brún rétt austan við gamla gististaðinn Lögberg, en nú hefur sú brún verið rifin niður og jöfnuð út fyrir hinn nýja veg. Þó má ennþá auðveldlega sjá það á brekkubrúninni aðeins nokkra metra norðan við veginn. Þarna hefur það runnið út á Leitahraun. Nokkur hluti af þessari hraunkvísl hefur fallið vestur með Selfjalli að norðan og myndar þar tvo tanga. Stendur skátaskálinn gamli á þeim syðri og nær hann lengst þeirra vestur.
Hólmshraun kemur víða fyrir á Heiðmerkursvæðinu, bæði syðst, suðvestur af Silungapolli, og rétt austan við Jaðar.
Vestasta hraunröndin þar er þó ekki þetta hraun, heldur yngra hraun, Hólmshraun III. Hólmshraun II myndar því hólma við rönd yngra hraunsins rétt vestan við Gvendarbrunna. Auk þess kemur Hólmshraun II fram nyrzt í kverkinni suður af Selfjalli. Í borholu austan við Gvendarbrunna varð og vart við það undir yngra hrauni.
Hraunið er tiltölulega grófkornótt feldspat-ólívín-dílótt hraun og mjög auðþekkt á því, en annað er þó, sem ekki síður er einkennandi fyrir það, en það er að í því er mesti aragrúi hnyðlinga. Er sums staðar, t.d. í áðurnefndri hraunkvísl austan við Selfjall, svo mikið af þeim, að naumast er hægt að brjóta úr því mola svo að ekki sé í honum hnyðlingur (Jónsson 1963). Þetta eru gabbro-hnyðlingar líkir þeim, sem fundizt hafa á fjölmörgum stöðum á Reykjanesi og víðar hin síðari ár.

Hólmshraun III

Rjúpnadyngjuhraun

Rjúpnadyngjuhraun.

Þetta hraun tekur yfir mun stærra svæði en nokkurt hinna hraunanna. Mestri útbreiðslu nær það í austanverðri Heiðmörk og nær þar óslitið frá Silungapolli og vestur fyrir Jaðar. Nyrzti tanginn á þeim hluta hraunsins nær langleiðina norður að Hólmsá skammt suðvestan við brúna. Brúnin á Hólmshrauni III er mest áberandi hraunbrúnin austan við Gvendarbrunna og allt austur að veginum inn í Heiðmörk, enda liggur það á þessu svæði næst ofan á Hólmshrauni I eða þá ofan á Leitahrauni. Tanginn suðaustan við Gunnarshólma sem Suðurlandsvegur liggur um er Hólmshraun III.

Drottning

Drottning í Bláfjöllum – gígur.

Vegurinn sker þar yfir nyrzta tanga þess. Það þekur svo allstóra spildu þar suður af og fyrir austan og sunnan Silungapoll, en er næst Selfjalli hulið yngra hrauni, Hólmshrauni V, en til vesturs hverfur það undir Hólmshraun IV, sem myndar mjótt belti ofan á því suðvestur af Silungapolli og nær út í tjörnina sem þar er. Þegar sunnar kemur hverfur Hólmshraun III algerlega undir yngra hraun, og það syðsta sem sést af því er nærri beint vestur af Selfjalli ofan og austan við Heiðmörk.

Eyrað

Eyrað – gígur vestan Kónsgfells.

Þar fyrir sunnan er mjög erfitt eða ómögulegt að greina milli einstakra hraunstrauma, en geta má þess þó hér, að á svæðinu frá Húsafelli og austur að Heiðmörk hef ég talið mig geta greint a.m.k. 3 mismunandi hraun. Eru þá Hólmshraunin, sem hér er um rætt, ekki meðtalin. Sé nú Búrfellshraun ásamt Leitahrauni og hraununum næst vestan við Vífilsfell talin með kemur í ljós, að gosið hefur yfir tuttugu sinnum á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla frá því að jöklar hurfu af þessu svæði. Nokkrar líkur benda til þess að flest þessara hrauna séu yngri en Búrfellshraun, en samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar er það um 7200 ára gamalt. Sýnir þetta, að eldvirkni hefur verið mikil á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla eftir að Heiðin há hætti gosum og eftir að Búrfellshraun rann.
Hólmshraun III er ekki ósvipað Hólmshrauni I fljótt á litið, en inniheldur miklu meira ólívín, og er á því auðvelt að greina þessi hraun að. Hnyðlingar finnast í þessu hrauni en ekki er mikið um þá. Einstaka stórir feldspatdílar koma fyrir í hrauninu.

Hólmshraun IV

Silungapollur

Silungapollur.

Þetta hraun hefur fallið í samfelldum straumi yfir Hólmshraun III frá vesturhorni Selfjalls, og endar í mjóum tanga við tjörnina vestur af Silungapolli. Það nær óvíða 500 m breidd og er norðan til aðeins um 200 m og þaðan af minna. Það er áberandi meira dílótt en Hólmshraun I og Hólmshraun III. Nokkuð er um ólívíndíla í því og má vel greina þá með berum augum. Á því svæði sem hér um ræðir kemur Hólmshraun IV ekki fyrir nema á ofannefndu svæði.

Hólmshraun V

Þríhnúkar

Í gíg Þríhnúka.

Síðast í röð þessara hrauna er Hólmshraun V. Það liggur ofan á Hólmshrauni IV vestur a£ Selfjalli, en klofnar þar á því, og fellur svo í tveim kvíslum báðum megin við það. Vestri kvíslin endar rétt sunnan og austan við skála þann, sem „Nordmannslaget“ hefur í Heiðmörk, og áður er minnst á. Önnur kvísl úr sama hrauni er svo nokkru vestar, en sú kvísl nær aðeins á einum stað fast að girðingunni sunnan við Heiðmörk.

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

Austasta kvíslin hefur svo fallið norður með Selfjalli að vestan og alla leið niður í Lækjabotna. Þetta er mjór hraunstraumur, sem fallið hefur upp að fjallinu eftir lægð, sem myndazt hefur milli þess og eldri hraunstrauma. Svo virðist, sem þetta sé yngst allra hraunanna á svæðinu milli Þríhnúka og Hákolls í Bláfjöllum, þó ekki verði það fullyrt að svo stöddu. Sé það hins vegar rétt sýnist og líklegt, að það sé komið úr stuttri gígaröð vestan undir Kóngsfelli. Aðalgígirnir eru tveir, en röð af smágígum liggur upp í fellið að norðvestan. Hrauntraðir stórar liggja frá þessum gígum suður fyrir Kóngsfell og austur með því að sunnan.

Rjúpnadyngjuhraun

Í Rjúpnadyngjuhrauni.

Þá hefur hraunið fallið norður milli Kóngsfells og Rjúpnadalshnúka, en önnur kvísl austur að Bláfjöllum, og er það yngsta hraunið sem endar í allhárri brún vestur af Vífilsfelli og á kortinu er nefnt Vífilsfellshraun. Greinilegt er, að hraunið úr gígunum við Kóngsfell er yngra en hraunin úr Eldborg við Drottningu, en mjög líklega er eitthvað af Hólmshraunum komið úr þeim gíg. Hólmshraun V er gráleitt, fremur fínkornótt basalthraun.
Hólmshraun
Eins og áður hefur lauslega verið drepið á eru margar eldstöðvar milli Bláfjalla og Lönguhlíðar. Hafa hraun frá þeim flestum runnið norður af og mynda þá mikla hraunbreiðu, sem á kortinu er nefnd Húsfellsbruni, en hraun þau, sem nefnd eru Hólmshraun og Skúlatúnshraun eru raunar hluti af þessum mikla hraunfláka. Nokkrar þessara eldstöðva eru stórkostlegar myndanir eins og t.d. Eldborg austan við Drottningu. Tæpum 3 km sunnar eru eldvörp, sem á kortinu hafa ekkert nafn. Þar eru 8 gígir á nær hringlaga svæði, og er einn þeirra mestur. Einn gígur er svo nokkuð utan við þessa þyrpingu.

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell við Bláfjöll.

Ég held, að líta verði á þessa gígaþyrpingu sem eina eldstöð, því hraunrennsli virðist a. m. k. á tímabili hafa verið úr öllum þessum gígum, en óvíst er að það hafi verið samtímis. Hraunin frá þessum eldvörpum hafa runnið norður af vestan Bláfjalla og lítið eitt vestur ávið yfir hraun frá Heiðinni há, en þau hverfa brátt undir yngri hraun og er ekki vitað að til þeirra sjáist eftir það. Líklegt er, að eitthvað af hrauni frá Heiðinni há hafi líka runnið norður af vestan við Bláfjöll, en óvíst er með öllu hversu langt þau hafa náð. Geta má þess hér, að hraun það í Heiðmörk, sem á kortinu er nefnt Strípshraun, hygg ég vera úr Þríhnúkum komið.
Þess skal hér með þakklæti getið, að kort það, er grein þessari fylgir, hefur Jón Eiríksson jarðfræðinemi teiknað fyrir mig með frábærri nákvæmni.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3. tbl. 01.11.1972, Hraun í nágrenni Reykjavíkur II – Hólmshraunin fimm, Jón Jónsson, bls. 131-139.

Hólmshraun

Hólmshraunin – og önnur nærliggjandi (Ísor.is).

Kjalarnes

FERLIR skoðaði Esjuberg og nágrenni m.t.t. mögulegra sögulegra minja, s.s. fyrrum fyrstu kirkju á Íslandi árið 910 og þingstað Kjalnesinga:

Esjuberg – sagan

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Í Íslensku fornbréfasafni má finna dóm sem var kveðin upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu. Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem er á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Þá var fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi á Esjubergi, sennilega 1912.

Esjuberg

Esjuberg.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnasonar bunu. Landnámabóksegir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, og að Patrekur hafi sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð Kolumba en Örlygur og frændur hans trúðu á hann. Kirkja Örlygs er talin vera sú fyrsta á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.

Esjuberg

Margt er á huldu á og við Esjuberg.

Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið niðurlögð vegna skriðufalla?
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, aftur um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg er í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Nafnið kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.
Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni. Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla-Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknast jarðardýrleiki beggja í heimajörðinni.

Esjuberg

Esjuberg – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerir lýsingu Kjósarsýslu 1746 þingstaður á Esjubergi 1746. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum var 2100 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1816. Þegar Jarðartal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Sú hjáleiga var nefnd Litla-Esjuberg 1704. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.

Esjuberg

Esja – skriða ofan Leiðhamra.

Umhverfi við Esjuberg ber með sér merki um skriðuföll sem valdið hafa nokkrum búsifjum. Fitjaannáll 1662 segir frá því að í kjölfar mikils regns hafi miklar skriður hlaupið fram víða, bæði á tún, engjar og úthaga. Þrjár jarðir fóru sérstaklega illa út úr þessu vatnsveðri: Esjuberg, þar sem mikið tók af túninu og Vellir og Mógilsá, þar sem tók af þriðjung túna. Haustið 1668 greinir Fitjaannáll frá því að haustið hafi verið venju fremur rigningarsamt. Þá féllu víða skriður á tún og haga, sérstaklega á Esjubergi, svo bóndinn Sigurður Núpsson flutti sig þaðan í burtu. Jarðabók Árna og Páls segir frá skriðum 1704 sem „fordjarfa, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði.“

Esja

Esja ofan Leiðvalla.

Blaðið Norðanfari sagði frá skriðu sem hljóp úr Esju 4. júlí 1871 og tók af mestan part af túninu á Esjubergi og gerði usla á engi.

Esjuberg

Esjuberg – meintur kirkjugarður.

Þann 2. september 1886 gerði aftakarigningu sem olli miklum skriðuföllum. Þá urðu níu jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum og ein jörð í Mosfellssveit. Á Esjubergi fór skriða yfir hluta túnsins og 60-70 hesta af heyi. Einnig fór sandur og leir yfir mestanpart og besta part engjanna og restin varð óslæg vegna leirs í rót. Þá féll skriða á bæjarhús hjáleigunnar Grundar sem fór í eyði eftir þetta.
Litla Esjuberg var afbýli heima við bæinn þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704, er ekki getið í öðrum heimildum. Dýrleikin reiknaðist með heimajörðinni. Kvaðir voru um skipsáróður allt árið utan sláttar. Hægt var að fóðra eina kú og fimm lömb. Afbýlið hafði torfskurð og eldiviðartak í heimalandinu.

Esjuberg
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Esjuberg segir m.a.: „Jörð í Kjalarneshreppi, næst vestan við Mógilsá. Merkin móti Mógilsá eru frá Leiðvelli beint við vesturhorn á sléttri flöt upp í Markagil, (Stangargil eða Festargil. Vestan við Fálkaklett eftir miðju gilinu um Skarðsdali efri og Skarðsdali neðri, eins og lækurinn ræður, upp í Þverfell.

Esjuberg

Esjuberg – túnakort 1916.

Móti Móum er varða á landsuðurhorni Varmhóla, síðan vestur þá og í vörðu hæst á þeim, beina sjónhendingu í Brautarholtsborg eða beint í Villingavað á Móalæk. Þetta voru gömlu merkin. En nú ræður vegurinn milli Saltvíkur og Esjubergs. Melur er norður af Varmhólum, milli þeirra og Dyngjuholts, sem heitir Varmhólamelur.
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi,en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.“

Í Wikipedia.org segir um Kjalarnesþing:

Esja

Mögulegur þingstaður fyrrum Kjalarnesþings ofan Leiðvalla.

„Kjalarnesþing var staðbundið þing sem starfaði fyrir stofnun Alþingis og var að einhverju leyti undanfari þess. Það hefur sennilega upphaflega verið á Kjalarnesi en var lengst af haldið á Þingnesi við Elliðavatn.

Þingnes

Þingnes.

Þinghald tíðkaðist meðal germanskra þjóða löngu fyrir landnám Íslands, þar á meðal í Noregi, og landnámsmenn hafa því þekkt það úr heimalöndum sínum og fljótlega séð nauðsyn þess að hafa einhvers konar sameiginlegar reglur og dómstóla. Heimildir geta um tvö staðbundin þing fyrir stofnun Alþingis, Kjalarnesþing og Þórsnesþing, en þau kunna að hafa verið fleiri. Ari fróði segir í Íslendingabók að Þorsteinn, sonur Ingólfs Arnarsonar, hafi stofnað þingið: „áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.“

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Ekki er ljóst hve stórt þingsvæði Kjalarnessþings var en það kann að hafa náð austur að Ölfusá. Sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Þorsteinn Ingólfsson helgaði hið fyrsta Alþingi og var útnefndur allsherjargoði og þann titil báru afkomendur hans síðan.

Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur gróf í búðarústirnar á Þingnesi 1841 og aðrir rannsökuðu þær síðar en 1981 hófst þar uppgröftur á vegum Þjóðminjasafnsins og var þá grafinn upp fjöldi búðarústa, dómhringur (lögrétta) og fleira. Elstu rústirnar voru frá því um 900 en þær yngstu líklega frá því um 1200, enda hefur Kjalarnesþing áfram verið héraðsþing þrátt fyrir stofnun Alþingis.“

Í Vinnuskýrslu fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003):
Leiðvöllur
„Á Þingnesi við Elliðavatn er dálítil þyrping fornra rústa sem lætur ekki mikið yfir sér þegar gengið er um staðinn. Til skamms tíma var staðurinn einnig ómerktur og áttu margir jafnvel erfitt að átta sig á hvar minjarnar væru, þó að þeir gengju um svæðið.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Margt bendir til þess að þessar minjar séu hins vegar með merkustu minjum landsins, og að þarna séu hugsanlega leifar Kjalarnessþingstaðar, sem var fyrsti þingstaður landsins og líklega settur á fót rétt fyrir eða um 900.
Þrátt fyrir mikilvægi Kjalarnessþings féll staðurinn algerlega í gleymsku, eins og flestir hinna fornu héraðsþingstaða og í dag er ekki vitað með vissu hvar þingið var haldið.
Með vaknandi þjóðerniskennd á 18. og 19. öld fóru ýmsir að svipast um eftir frægum stöðum sem nefndir voru í Fornsögum, þar á meðal Kjalarnesþingi. Nafnið „Kjalarnesþing” bendir óneitanlega til þess að það hafi staðið á Kjalarnesi, og þar hófu menn fyrst leit að staðnum.
Þingnes
Á 18. öld getur Árni Magnússon um örnefnið „Þingeyri” í Kollafirði. Um 1880 virðist Þingeyri týnd en í staðinn talar Sigurður Vigfússon um „Leiðvöll” á Kjalarnesi. Af lýsingunni að dæma virðist um sama stað að ræða. E.t.v. eru þessi örnefni (Þingeyri og Leiðvöllur) aðeins tilraunir viðkomandi fræðimanna á 18. og 19. öld til þess að finna Kjalarnesþingi líklegan stað og varasamt að byggja of mikið á þeim.
Spyrja má hvernig mönnum datt í hug að tengja Kjalarnesþing við stað eins og Þingnes sem er augljóslega ekki á Kjalarnesi. Meginástæðan fyrir því að farið var að leita að öðrum stöðum sem bent gætu til þinghalds á svæðinu kring um Faxaflóa er væntanlega sú að á Kjalarnesi hafa ekki fundist eða varðveist minjar sem bent gætu til þingstaðar.
Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, vakti fyrstur athygli manna á búðarústum í Þingnesi við Elliðavatn, og getur sér til að þar sé fundinn hinn forni Kjalarnesþingstaður, sem svo lengi hafði verið týndur.

Þingnes
Í kjölfar þessa spunnust næstu áratugina miklar umræður um staðsetningu Kjalarnessþings meðal fræðimanna og stóð sú umræða meir og minna yfir fram yfir aldamótin 1900. Þá höfðu margir innlendir og erlendir fornfræðingar þess tíma heimsótt staðinn, mælt hann upp og lýst honum og sumir jafnvel grafið í rústirnar í rannsóknarskyni, eins og greint verður nánar frá hér á eftir. Rannsóknarsaga Þingness er því lengri og fjölbreyttari en en flestra annara minjastaða á Íslandi.
Allir sem könnuðu staðinn voru sammála um að þar væru um 15 – 20 rústir í þyrpingu, hringlaga mannvirki á miðju svæðinu, og að staðurinn væri líklega þingstaður. Árið 2003 hófust á nýjan leik rannsóknir á Þingnesi á vegum Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, sem liður í verklegri kennslu í fornleifafræði.

Þingnes
Í þessari ritgerð er safnað saman á einn stað helstu ritheimildum um Kjalarnesþing og Þingnes og hin merkilega rannsóknarsaga staðarins rakin frá upphafi. Til þess að gefa sem besta innsýn í umræðuna og leifa röksemdum sem notaðar voru í umræðunni að njóta sín, eru hér endurbirtar helstu greinar þeirra fræðimanna sem mest létu sig þetta mál varða. Gerð er grein fyrir hverju mannvirki fyrir sig sem rannsakað var á árunum 1981 – 2003. Rætt er um niðurstöður rannsókna í ljósi núverandi vitneskju, aldur og hugsanlegt hlutverk minjanna á Þingnesi.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Í þeirri umræðu sem átti sér stað á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar um Kjalarnessþing og Þingnes komu fram flest þau rök sem halda að mestu enn í dag. Umræðurnar eru bæði skemmtilegar og áhugaverðar og mikilvægt innlegg í rannsóknarsögu staðarins. Ástæðan fyrir því að þetta mál komst yfirleitt á dagskrá á sínum tíma er sú að Kjalarnessþings er getið í Íslenskum fornritum sem hins fyrsta þingstaðar á Íslandi.

Samkvæmt frásögn Landnámu og Íslendingabókar á Þorsteinn Ingólfsson, sonur Ingólfs Arnarsonar, að hafa stofnað til þings áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930. Stofnun Kjalarnessþings er sennilega einn af merkustu atburðum landnámsaldar. Þá er mönnum greinilega orðið ljóst að ekki verði búið í landinu án þess að sett séu almenn lög og samskiptareglur og helstu höfðingjar virðast taka höndum saman um að koma á fót þessum fyrstu drögum að þinghaldi í landinu.

Leiðvöllur

Leiðvöllur á Kjalarnesi.

Um þennan atburð segir svo í þriðja kafla Íslendingabókar: ,,Alþingi var sett að ráði Úlfljóts og allra landsmanna þar sem nú er, en áður var þing á Kjalarnesi, það sem Þorsteinn Ingólfssonur landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar og höfðingjar þeir er að því hurfu.”
Í neðanmálsgrein um þessa frásögn segir Jakob Benediktsson að ágreiningur hafi verið meðal fræðimanna hvort að Kjalarnesþing hafi verið héraðsþing eða vísir að allsherjarþingi. Hann tekur ekki afstöðu til þess, hvort sé rétt, en telur líklegt að á Kjalarnesþingi hafi farið fram undirbúningur að stofnun Alþingis.

Þingnes
Í Landnámabók er frásögnin með svipuðum hætti: „Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lopts ins gamla. Þeirra sonur var Þorstein, er lét setja þing á Kjalarnesi, áður Alþingi var sett”. Í Þórðarbók stendur ekki á Kjalarnesi, heldur „á Krossnesi”, sem talið er að Þórður hafi bætt inn í handritið. Í neðanmálsgrein greinir Jakob Benediktsson frá því að í viðbæti Þórðarbókar standi eftirfarandi klausa úr Melabók: ,,Þorsteinn Ingólfsson lét setja fyrstur manna þing á Kjalarnesi, áður alþingi var sett, við ráð Helga bjólu og Örlygs að Esjubergi og annarra viturra manna, og fylgir þar enn sökum (þess) því goðorði alþingishelgun”.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Kjalnesinga sögu, sem er reyndar ekki talin með áreiðanlegustu sögum, ber ekki saman við þessar frásagnir um stofnun Kjalarnesþings. Þar segir: „Þorgrímr (sonur Helga Bjólu landnámsmanns) lét setja várþing á Kjalarnesi suðr við sjóinn; enn sér stað búðanna; þar skyldi öll mál sækja og þau ein til alþingis leggja, er þar yrði eigi sótt eða stærst væri”.
Litlum sögum fer af þessu merka þingi. Aðeins eru tvær frásagnir varðveittar um mál sem borin voru upp á Kjalarnesþingi. Annars vegar er frásögn í Kjalnesinga sögu um að Þorsteinn Þorgrímsson á Hofi á Kjalarnesi, stefndi Búa Andríðssyni um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða skóggang. Sótti hann málið og varð Búi sekur skógarmaður. Segir sagan, að hann hafi þá verið 12 vetra. Hins vegar er um að ræða vígamál sem spunnust út af deilum Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa, sem lauk með því að Þorbjörn felldi Ófeig í Grettisgeil hjá Hæli.
Leitað var til Önundar tréfóts til þess að reifa málið. Hann fékk til liðs við sig Ólaf feilan, sonarson Auðar djúpúðgu. Í Grettissögu er frásögnin af málinu á þessa leið „og reið Ólafur suður með honum, og er Önundur hitti vini sína og mága, þá buðu þeir honum til sín. Var þá talað um málin og lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gjörð, og komu miklar bætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gjörr”. Þessir atburðir munu líklega hafa átt sér stað um 906 – 908.

Þingnes

Þingnes – Uppdráttur G.Ó.

Þegar fornritum sleppir er elstu vísbendingu fyrir því að þingstaður hafi getað verið á Kjalarnesi, líklega að finna hjá Árna Magnússyni, handritasafnara. Í riti sínu Chorographica Islandica sem er tekið er saman á löngu árabili í upphafi 18. aldar birtir hann lauslega afstöðumynd af nokkrum örnefnum í Kollafirði. Þar er örnefnið Þingeyri merkt við nes á kortinu sem gengur út í miðjan Kollafjörð að norðanveru. Í athugasemd nefnir Árni m.a. að í landi Esjubergs sé enn sýndur fyrsti þingstaður á Sandeyri í Kollafirði.

LandnámKort Árna Magnússonar af Kollafirði þar sem skráð eru örnefnin: Helguskier, ÞingEyre, Kollafiörður, og áttavísanirnar suður og austur. Engar minjar hafa fundist á þessu svæði sem bent gætu til þingstaðar.

Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur fékk áhuga á að finna Kjalarnesþing hið forna. Þegar hann hefur rannsóknir sínar virðist almennt hafa verið talið að þingstaðinn væri að finna á Kjalarnesi sjálfu, en að enginn vissi nákvæmlega hvar. Honum var sagt að vestan við bæinn Móa á Kjalarnesi væru leifar þingstaðar niður við sjó, en að þar væru engar sýnilegar minjar. Það eina sem þar minni á þingstað sé örnefnið Leiðvöllur. Hann fékk síðan upplýsingar um minjasvæðið við Elliðavatn og gerði út leiðangur til þess að rannsaka staðinn árið 1841 og fann þá 18 – 20 búðir og dómhring. Rannsókn hans er afar merkileg og með nokkrum sanni má segja að þessi rannsókn marki upphaf fræðilegra rannsókna á Íslandi, þó að frumstæð sé. Mér er ekki kunnugt um aðrar eldri rannsóknir á fornleifum sem gerðar hafa verið á Íslandi af fræðimönnum.

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar birtust í Rit eftir Jónas Hallgrímsson III. Dagbækur, yfirlitsgreinar og fleira. Annars vegar undir fyrirsögninni: ,,Tvær litlar rannsóknarferðir: 1. Þingnes í Elliðavatni”, og hins vegar ,,Uddrag af dagböger fra en rejse i Island Sommaren 1841, for saa vidt angaar Antikvariske iagttagelser”.
ÞingnesFrásagnirnar eru mjög svipaðar en til þess að halda saman öllu sem Jónas skrifaði um rannsóknina eru þær báðar birtar hér eins og þær birtust á dönsku í dagbókum hans: „Da jeg i næstafvigte Vinter for Alvor begyndte at forespørge mig om Stedet, hvor det gamle Kjalarnesþing havde staaet, saa var der ingen, som kunde give mig nogen Oplysning derom. Vel sagde man, at etsteds paa Kjalarnæsset, vesten for Gaarden Moar, ved Stranden, nok var Levninger af et Tingsted, men at man ikke saa der nogen Budetomter. Stedet kaldes desuden, vel at mærke, Leiðvöllur. Dette førte mig naturligvis til den Tanke, at Kjalnæsingerne vel i sin Tid havde holdt det aarlige »leiðarþing« paa dette Sted, men at det derfor ikke var afgjort, at Herredstinget nogen Sinde havde været der. Omtrent til samme Tid fik jeg at vide, at ved Elliðavatn, – en fiskerig Indsø, der ligger oven for Seltjarnarneset, paa de gamle Grænser af Kjosar- og Guldbringe-Sysseler og midt i Herredet Kjalarnessþing —, skulde der findes mange og anselige Tomter i et Næs, der gaar ud i bemeldte Indsø, midt i mellem Gaardene Vatns-endi og Vatn. Efter en foreløbig Undersøgelse tog jeg fra Reikevig til dette Sted om Aftenen den 20. Juni, da jeg næste Dag agtede at foretage der en Del Eftergravninger, i Haab om paa denne Maade at komme til et Resultat med Hensyn til bemeldte Tomters tidligere Bestemmelse.

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar hleyptu af stað miklum vangaveltum og nokkrum deilum um staðsetningu Kjalarnessþings sem stóðu fram yfir aldamótin 1900, en lognuðust svo útaf vegna skorts á frekari sönnunargögnum. Það kann að þykja einkennilegt að ekki hafi fundist nein ný sönnunargögn sem skorið gætu úr þessari deilu þegar þess er gætt að enginn staður á Íslandi hefur verið rannsakaður jafn oft og rústirnar í Þingnesi.
ÞingnesÞarna grófu nefnilega bæði íslenskir og erlendir fornfræðingar þess tíma hver á fætur öðrum án þess að takast að ráða gátu staðarins. Ástæða þess er sú að hann er óvenju erfitt viðfangsefni, eins og vikið verður að síðar. Af helstu fræðimönnum sem þarna grófu auk Jónasar má nefna Angus Smith, skoskan fornfræðing sem rannsakaði staðinn árið 1872; Sigurð Vigfússon árið 1889; Daniel Bruun og Björn M. Olsen árin 1896 – 1897.
Að auki könnuðu allir helstu fornfræðingar landsins staðinn og gerðu athuganir á honum. Þar á meðal Kristian Kaalund, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur frá Minna Núpi.
Sú umræða um Kjalarnesþing sem spratt af rannsóknum Jónasar er mjög skemmtileg og er afar áhugavert að kynnast hugmyndum og sjónarmiðum þesarra fræðimanna sem um hann fjölluðu fyrir rúmum hundrað árum.
Þrátt fyrir að ályktanir og niðurstöður taki gjarnan mið af því að verið er að reyna að útskýra hvernig Kjalarnesþing sé upp við Þingnes en ekki á Kjalarnesi, er engin ástæða til að rengja glöggskyggni rannsóknarmanna í lýsingum sínum á sjálfum minjunum.“

Esja

Minjakort Minjasafns Reykjavíkur. Hér er Kirkjuflöt ranglega staðsett.

Af framangreindu mætti ætla, í fljótu bragði, að kirkja Örlygs gamla hafi verið á Esjubergi. Ef betur er lesið er ljóst að hún var á flöt; Kirkjuflöt „ofan við Leiðvöll“ í Kollafirði.
Á örnefnamynd Minjasafns Reykjavíkur er Kirkjuflöt staðsett beint ofan við Leiðvöll, þar sem nú eru malargryfjur. Ljóst má þó vera að þar hafi aldrei verið flöt sú, sem fjallað er um. „Ofan við Leiðvöll“ hefur miklu líklegra verið á reiðleiðinni þaðan áleiðis að Esjubergi. Þar ofan við er sléttur gróinn melur, skammt ofan Leiðhamra. Á flötum melnum er aflangur gróinn hóll, sem snýr frá austri til vesturs. Ekki mótar fyrir veggjum í hólnum. Skammt norðan við hann eru tóftir fjárhúss (heykuml, hús og gerði).

Esjuberg

Forn gata ofan Leiðvalla að Esjubergi.

Telja má ólíklegt að Örlygur gamli hafi ráðið að reisa fyrstu kristnu kirkjuna heima við bæ sinn á Esjubergi þrátt fyrir almenna stundarsátt millum trúarbragða á þeim tíma. Slík framkvæmd gat boðið hættunni heim. Hafa ber í huga að Ísland var heiðið á þessum tíma og þótt kristið fólk hafi sest hér að, ekki síst á Kjalarnesi, verður að teljast hæpið að hann hafi viljað storka örlögunum með svo augljósum hætti, en afráðið þess í stað að láta reyna á þolgæði samlandanna og reist hið táknræna trúboð við alfaraleið á ystu mörkum landnámsins þar sem ólíkar hefðir blönduðust sameiginlegum hagsmunum, þ.e. mikilvægum siglingum millum anda. Örlygur hefur ólíklega afráðið að reisa kirkjuna á meintum stað Kjalarnesþings ofan Leiðvalla, sem stofnað hafði verið nokkrum árum fyrr. Minjastaður meintar kirkju er í skjóli fyrir erfiðum vindáttum ofan af Esjunni. Skammt sunnan við meintan minjastað er orpinn hóll, mögulega dys. Kjalnesingasaga segir að Búi hafi verið grafinn sunnan við kirkjuna, sem þá hafði verið aflögð.
Í Esjunni ofan við meint kirkjustæði er örnefnið „Kirkjunýpa“, sem hingað til hefur ekki ratað í nútíma örnefnalýsingar einhverra hluta vegna.

Telja má sennilegt að kirkjan á Kirkjuflöt ofan Leiðvalla hafi síðar verið flutt að bænum Esjubergi, líkt og lesa má í síðari heimildum.  Þar fór fram fornleifauppgröftur fyrir nokkrum árum, en skilaði ekki tilhlíðanlegum árangri. Sú, eða þær kirkjur, sem nálægt bænum kunna að finnast, geta því varla talist til elstu kirkju landsins.
EsjubergVitað er að hvorki timburkirkjur né torfkirkjur hafi varað til eillífðar, heldur þvert á móti; þær hefur þurft að endurbyggja með reglulegu millibili, mögulega á 20-50 ára fresti.
Skammt sunnar í hlíðinni, allnokkuð ofan Leiðvallar, er óglöggt minjasvæði. Sést þar móta fyrir veggjum.

Heimildir:
-Bæir á Kjalarnesi – ritgerð.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kjalarnes%C3%BEing
-Vinnuskýrsla fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003).
-Gamli Kjalarnesvegur – Minjasafn Reykjavíkur.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Esjuberg.

Esja

Esjan ofan Leiðvallar. Svæðinu neðanverðu hefur verið mikið raskað í gegnum tíðina.

Esjuberg

Á vefsíðu kirkjunnar 18. júní 2021 má lesa eftirfarandi um „útialtari“ á Esjubergi:

„Sunnudaginn 20. júní verður útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi, vígt af biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Með henni þjóna sóknarpresturinn sr. Arna Grétarsdóttir og sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Kór Reynivallaprestakalls syngur og organisti er Guðmundur Ómar Óskarsson. Athöfnin hefst kl. 14.00.

Esjuberg

Esjuberg – Biskup Íslands vígir útialtarið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft veg og vanda af útialtarinu og mun formaður félagsins, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, flytja ávarp við vígsluna.

Útialtari

Útialtarið.

Hátt í fjórir áratugir eru liðnir frá því að fyrst var hreyft þeirri hugmynd að koma upp á Esjubergi minnismerki í tilefni þess að sagnir herma að þar hafi verið reist fyrsta kirkjan á Íslandi og þá þegar fyrir kristnitöku árið 1000. Það var svo árið 2014 að var flutt tillaga á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar af tveimur Kjalnesingum um að reist yrði útialtari að Esjubergi. Tillögunni var vel tekið á þinginu en henni var vísað heim í hérað. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi tók svo málið í sínar hendur og hefur haft yfirumsjón með verkinu. Allar götur síðan hefur Sögufélagið Steini unnið jafnt og þétt að uppbyggingu útialtarisins. Þjóðkirkjan, ýmis félagasamtök, sjóðir og fjöldi einstaklinga hafa lagt fram fé til þess að þetta minnismerki yrði að veruleika. Stjórnarmenn í Sögufélaginu og velunnarar þess hafa lagt fram mikla vinnu við útialtarið. Fyrsta skóflustungan að útialtarinu var tekin 8. maí 2016.

Esjuberg

Biskup Íslands og sr. Arna Grétarsdóttir sóknarprestur Reynivallarprestakalls.

Nú er útialtarið tilbúið og er mannvirkið hið glæsilegasta. Útialtarið er hringur, með fjórum inngöngum sem snúa til höfuðátta, veggir eru hlaðnir af hleðslumeisturum sem og sæti. Upp úr níu tonna altarissteininum rís tveggja metra keltneskur kross sem steyptur var af hagleiksmanninum Guðna Ársæl Indriðasyni. Krossinn ber ýmis keltnesk tákn og á ytra borði hans eru steinvölur sem börn úr Klébergsskóla tíndu úr fjörunni á Kjalarnesi sem og steinar frá skosku (keltnesku) eyjunum Lindisfarne og Iona.

Útialtarið á Esjubergi er einstakur kristinn helgistaður og þar verða eflaust ýmsar athafnir hafðar um hönd, eins og skírnir, hjónavígslur og helgistundir.

Hvar er útialtarið?

Esjuberg

Esjuberg – skilti til leiðbeiningar að útialtarinu.

Þegar komið er upp úr Kollafirði blasir við skilti sem á stendur Kerhólakambur og einnig Útialtarið – og slaufumerkið um að þar sé að finna athyglisverðan stað til að skoða. Á vígsludaginn verður fánaborg við innkeyrsluna og ætti hún ekki að fara fram hjá neinum. Mælt er með því að fólk leggi bílum sínum til hliðar við innkeyrsluna og gangi að altarinu, en það eru 0.7 km. Spáð er ágætisveðri.“ – hsh

Á MBL.is 19. júní 2021 var eftirfarandi umfjöllun um útialtarið á vefmiðlinum:

Biskup vígir keltneskt útialtari á Esjubergi
Talið er að fyrsta kristna kirkja Íslands hafi staðið við Esjuberg og á hún að hafa verið reist um árið 900 en hennar er getið í íslenskum ritheimildum. Þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkjuna og nú á sunnudag mun biskup Íslands vígja útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi.

Esjuberg

Sr. Hans Guðberg Alfreðsson prófastur Kjalarnesprófastdæmis.

„Þjóðkirkjan hefur talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar, en ekkert bólaði á framkvæmdum,“ segir Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins. „Þá fékk okkar litla sögufélag þá fáránlegu hugmynd að þetta væri verðugt verkefni fyrir félagið að halda á lofti nöfnum Kelta í íslenskri sögu,“ segir Bjarni í léttum tón í Morgunblaðinu í dag.

Og þann 21. júní s.á. mátti lesa:

Kjalarnes

Kjalarnes – útialtari; minnismerki.

„Biskup Íslands vígði á sunnudag útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkju sem talin er hafa verið fyrsta kristna kirkja Íslands, reist árið 900 og stóð við Esjuberg.

Kirkjunnar var getið í íslenskum ritheimildum en þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins sagði Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins, að „þjóðkirkjan hafði talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar en ekkert hafði bólað á framkvæmdum“.“

Heimildir:
-https://kirkjan.is/frettir/frett/2021/06/18/Vigt-a-sunnudaginn/
-Mbl.is Innlent | Morgunblaðið | 19.6.2021 og
Innlent | mbl | 21.6.2021 | 21:02

Esjuberg

Esjuberg – útialtarli.

 

Úlfarsfell

Á skilti við gamla bílastæðið þar sem göngustígurinn liggur upp á „Úlfarsfell“ er eftirfarandi texti:

Úlfarsfell

Úlfarsfell – skilti.

„Úlfarsfell er vinsælt og aðgengilegt útivistarsvæði.
Höldum okkur á gönguleiðum og hlífum gróðri við óþarfa ágangi. Megin gönguleiðir að sunnanverðu eru frá bílastæðum við Úlfarsfellsveg.
Uppruni örnefnisins Úlfarsfell er ekki ljós en líkum hefur verið leitt að því að fellið og Úlfarsá séu kennd við Korpúlf sem bjó á Korpúlfsstöðum. Berggrunnur fellsins er frá miðbiki ísaldar, um tveggja milljóna ára gamalt berg og skiptast á hraunsyrpur sem myndast hafa á hlýskeiðum og móbergs- og jökulbergslög frá jökulskeiðum. Ekki er mikill gróður á efri hluta fellsins en í Hamrahlíð er gróskumikið skógræktarsvæði, graslendi og allstórar breiður af lúpínu.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – gönguhópur á fellinu.

Úlfarsfell mælist á Stórahnúki 295 metra hátt. Vestan í Úlfarsfelli er Hamrahlíð, þverhnípt klettabelti, sem er eitt af kennileitum þess svæðis. Þar fyrir ofan er Hákonn, útsýnisstaður í 280 metra hæð yfir sjávarmáli með útsýni til norðurs, vesturs og suðurs.
Fisfélag Reykjavíkur nýtir sér aðstæður á Úlfarsfelli til flugs sem eru góðar þrátt fyrir litla hæð.
Vegslóði liggur að Hákinn og er hann einungis fær fjórhjóladrifnum bílum. Að gefnu tilefni er vakin athygli á að akstur utan vega er með öllu bannaður á Úlfarsfelli og gildir bannið um öll vélknúin ökutæki einnig í snjó og á frosinni jörð“.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – kort.

Úlfarsfell er fjall sem staðsett er í Mosfellssveit og er það 296 metra hátt. Skógrækt hefur verið í hlíðum fjallsins og hefur Skógræktarfélag Mosfellsbæjar umsjón með ræktuninni,

Úlfarsfell í Mosfellssveit kemur hvorki fyrir í Landnámabók né fornsögum eða annálum, en Úlfarsá er nefnd í Landnámabók. Úlfarsfell er nefnt í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 (Íslenskt fornbréfasafn II, 220), og í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 (III, 310). Nafnið er vafalítið dregið af mannsnafninu Úlfar, samanber Úlfarsá, en fjórir eru nefndir með því nafni í Landnámu.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58078

Úlfarsfell

Úlfarsfell – útsýni.

Keilir

Í Fjarðarpósturinum 1998 segir m.a.: „Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu„:

Keilir

Keilir.

„Ákvörðun Reykjavíkurborgar að kaupa hluta úr landi Þórustaða virðist hafa farið mjög leynt og kom ráðamönnum í Hafnarfirði verulega á óvart. Einn viðmælanda Fjarðarpóstsins orðaði það svo að menn hefðu komið af fjöllum eða Keili, sem mun fylgja í kaupunum.

Magnús Gunnarsson

Magnús Gunnarsson.

Bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson, var nýkomin til landsins á þriðjudagskvöld þegar vinnslu blaðsins var að ljúka og hafði því ekki heyrt fréttirnar. Magnúsi komu þessi landakaup á óvart, þar sem hann hefði nýlega átt fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra um málefni Jarðgufufélagsins. Magnús sagði að á þeim fundi hefði ekki verið minnst á þessi landakaup sem óneitanlega snertu málefni Jarðgufufélagsins þar sem umrædd spilda nær inn á háhitasvæðið í Trölladyngju.
Landeigendur hefðu sér vitanlega ekki boðið Hafnarfjarðabæ landið til sölu. Magnús sagði þessi landakaup snerti ekki beint hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar þar sem Þórustaðir væru utan lögsögu bæjarins. Hins vegar mætti líta svo á að vilji ráðamanna Reykjavíkurborgar til samstarfs við þá sem land eiga að háhitasvæðinu þ.m.t. Hafnarfjarðabæjar sé undirstrikuð með þessum kaupum.

Spákonuvatn

Spákonuvatn ofan Soga – Keilir fjær.

„Það er því ljóst að viðræður um nýtingu á þessu sameiginlega háhitasvæði hljóta að vera í augsýn“ sagði Magnús.

Eyjólfur

Eyjólfur Sæmundsson.

Blaðið hafði einnig samband við Eyjólf Sæmundsson sem hefur áður lagt til bærinn keypti lönd sunnan Hafnarfjarðar til þess að tryggja sér þau jarðhitasvæði sem tengjast Trölladyngjusvæðinu, til að byrja með Hvassahraun og Vatnsleysujarðirnar. Eyjólfur hefur verið formaður viðræðunefndar Jarðgufufélagsins um landakaup. „Þetta kemur mér óvart“, sagði Eyjólfur „þar sem ekkert hefur verið um þetta fjallað á þeim vetvangi sem Hafnarfjörður og Reykjavík hafa skapað til samstarfs um nýtingu á jarðhita á þessu svæði.
Ég sé þó ekki að þessi landakaup spilli neitt fyrir því samstarfi, þó vissulega hefði mér fundist eðlilegt að samráð hefði verið milli sveitarfélaganna um þessi mál.“

Í Morgunblaðinu 1998 er grein; „Keili heim“:
„Nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurnesja efna til mótmælagöngu í dag, fimmtudag, við fjallið Keili á Reykjanesi. Nemendur og kennarar vi]ja með göngunni vekja athygli á því að þeir vilja fá Keili heim!

Keilir

Keilir.

„Það er í umræðunni að selja Keili til Reykjavíkur og því viljum við mótmæla. Keilir er Suðurnesjabúi og við viljum alls ekki að hann fari. Keilir er aðalfjallið okkar hér á Suðurnesjum og við viljum ekki að hann verði ein af blokkunum í Reykjavík. Hvert eitt og einasta Suðurnesjabarn hefur alltaf álitið að hinir einu sönnu jólasveinar búi í Keili. Hver í ósköpunum ætlar að vera svo vondur að eyðileggja jólastemmningu Suðurnesjabarna og flytja jólasveinana til Reykjavíkur?“ segir Viktoría Ósk Almarsdóttir, ritari nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Keilir

Keilir.

Farið verður með langferðabíl frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja að Keili um klukkan 10 í dag og stendur gangan til klukkan 14. Við Keili munu þátttakendur mótmælagöngunnar sýna tilfinningar sínar í garð Keilis, og þeir sem vilja geta gengið á hann. „Sumir munu klappa og kyssa Keili en aðrir munu flytja ræður og ýmsan áróður,“ segir Viktoría, sem er um þessar mundir að vekja athygli á málstað Suðurnesjabúa í Keilismálinu.“

Í Fréttablaðinu 2020 segir af Keili; „Fagurt fjall sem er fella“, grein eftir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson:

Oddafell

Oddafell – Keilir fjær. Þorvaldur Thoroddsen nefnir fellið „Fjallið eina“.

„Í þýskumælandi löndum og þá sérstaklega í Ölpunum er gjarnan talað um bæjar- eða borgarfjall (Hausberg), sem flestir í Reykjavík myndu telja vera Esjuna. Annað fjall sem ekki er síður í uppáhaldi borgarbúa er Keilir á Reykjanesskaga. Hann blasir við suður af Reykjavík og sést til dæmis vel þegar keyrt er eftir Suðurgötu út í Skerjafjörð. Eins og nafnið gefur til kynna er Keilir formfagur og 379 m hátt fjallið gnæfir upp úr umhverfi sínu á miðju Reykjanesi.

Orðið keila kemur víða fyrir í íslensku máli. Þannig eru keilulaga eldfjöll sem gjósa endurtekið eins og til dæmis Eyjafjallajökull og Snæfellsjökull, kölluð eldkeilur. Keilir er ekki slík eldkeila, heldur myndaðist hann við stakt gos undir ísaldarjökli og er gerður úr móbergi. Í stærðfræði er keila notað yfir þrívítt form og rúmmál hennar táknað með R=1/3*?*h*r^2. Í augnbotni kallast taugafrumur sem skynja liti í miðgróf sjónhimnu keilur og fisktegundin keila hefur löngum verið veidd við Ísland og þykir herramannsmatur. Loks er keila vinsæl íþrótt, ekki síst í Bandaríkjunum en einnig hér á landi. Þá er reynt að skjóta niður 10 keilur með kúlu og eru tvö skot í hverri umferð. Ef tekst að fella allar keilurnar í fyrsta skoti kallast það fella en feykja ef það næst í tveimur skotum.

Keilir

Keilir – handan FERLIRsfélaga.

Allir sem gengið hafa á Keili geta vottað að hann er sannkölluð fjallafella og umhverfi hans sömuleiðis. Þetta er auðveld ganga en að vetri til er skynsamlegt að taka með mannbrodda og ísöxi. Aðeins tekur hálftíma að aka að gönguleiðinni við Höskuldsvelli og er fylgt ójöfnum malarslóða frá Vatns[leysu]strandarvegi. Frá bílastæðinu tekur um það bil 45 mínútur að ganga að fjallinu og hálftíma upp fjallið.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Efst eru brekkur lausar í sér en útsýnið af hátindinum er frábært, til dæmis yfir höfuðborgarsvæðið, eldbrunninn Reykjanesskaga, Esju, Móskarðshnjúka og Hengilssvæðið. Þegar haldið er heim er hægt að stefna beint í austur yfir falleg mosagróin hraun og komast eftir kindagötum aftur að bílastæðinu. Skammt frá eru spennandi fjöll eins og Trölladyngja en einnig Spákonuvatn og litríkt hverasvæði Soganna, og auðvelt að kíkja nánar á þær perlur í sömu ferð.“

Heimildir:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.1966, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 16-17.
-Fjarðarpósturinn, 29. tbl. 07.09.1998, Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu, bls. 1.
-Morgunblaðið, 216. tbl. 24.09.1998, Keili heim, bls. 14.
-Fréttablaðið, 261. tbl. 10.12.2020, Fagurt fjall sem er fella, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.

Keilir

Vatnsendahæð

Sigurður Harðarson, rafeindavirki, sendi FERLIR eftirfarandi stórmerkilega samantekt um „Íslensku útvörpin“ í framhaldi af heimsókn á Langbylgjustöðina á Vatnsenda, sem nú stendur til að rífa – sjá HÉR.
FERLIR þakkar Sigurði fyrir þennan mikilsverða fróðleik….

Íslensku útvörpin

LW sendir 1965

LW sendir 1965 á Vatnsendahæð.

„Íslendingar framleiddu útvarpstæki á árunum 1933 til 1949 þegar erfitt var að flytja inn vörur vegna kreppunnar og seinni heimsstyrjaldarinnar. Þessi merkilega saga verður rakin hér í stuttu máli. Ekki hafa fundist haldbærar heimildir um þessa framleiðslu nema nokkur viðtöl við menn sem unnu við þetta á þessum árum, auglýsingar og verðlistar yfir lampa og íhluti. Skoðuð hafa verið tæki sem enn eru til og þau borin saman við innflutt til að gera sér grein fyrir smíðinni. Hvergi hefur fundist verðlisti yfir íslensku tækin, aðeins þau innfluttu.

Jónas Þorbergsson

Jónas Þorbergsson (1885-1968).
Fyrsti útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins 1930–1953.

Saga útvarpsins er heillandi því útvarpið rauf einangrun og færði mönnum strax í upphafi fréttir og fróðleik. Við vitum kannski ekki með vissu hver setti saman fyrsta útvarpstækið, en vitum þó að árið 1893 sýndi uppfinningamaðurinn Nikolai Tesla þráðlaust útvarp í St. Louis, Missouri.
Þrátt fyrir þessa sýningu er Guglielmo Marconi sá aðili sem oftast er álitinn faðir og uppfinningamaður þráðlausra útvarpssendinga.
Fyrstu útvarpssendingar í heiminum eru taldar vera þegar Bandaríski uppfinningamaðurinn Lee De Forest útvarpaði tveim óperum í tilraunaskyni 1910. Þá notuðu menn kristaltæki sem þurftu aðeins loftnet og gott jarðsamband ásamt heyrnatóli. Aðeins einn gat hlustað í einu.
Daglangar útsendingar nokkurra útvarpstöðva í Bandaríkjunum hófust 1916 og stóðu allt upp í sex tíma samfleytt í tilraunaskini. Frakkar gerðu fyrstu opinberar tilraunir með útsendingar útvarps 24. des. 1921. Frá París hófust síðan reglulegar fréttasendingar 1925. Effelturninn var notaður sem loftnet útvarpsstöðvarinnar.
Í Bretlandi hófust útvarpsútsendingar árið 1922 með stofnun breska ríkisútvarpsins BBC í London. Útsendingarnar dreifðust fljótt um Bretland.
29. október 1923 var fyrst sent út útvarpsdagskrá í Þýskalandi frá Vox-Haus í Berlín.

Loftnetsstaugin á Seyðisfirði

Útvarp

LW Vatnsendir 1965 – stjórnborð.

Fyrstir Íslendinga til að hafa þráðlaus fjarskipti eru félagarnir Þorsteinn Gíslason og Friðbjörn Aðalsteinsson á Seyðisfirði á heimasmíðuð sendi og viðtæki árið 1913.
Þorsteinn varð síðan fyrstur Íslendinga til að ná útvarpssendingum frá Þýskalandi, London og París. Árið 1919 reisir Þorsteinn 25 m hátt mastur við íbúðarhús sitt á Seyðisfirði og náði þá tilraunasendingum útvarpsstöðva í Evrópu og sendingum loftskeytastöðvarinnar í Reykjavík á sín heimasmíðuðu viðtæki. Tæki þessi eru ennþá til á Tækniminjasafninu á Seyðisfirði.

Útvarp

Marconi sendirinn frá 1951 á Vatnsendahæð.

Veturinn 1920 gerir Otto B. Arnar loftskeytafræðingur fyrstur manna tilraun með útvarpssendingar á Íslandi, þá nýkominn frá námi hjá uppfinningamanninum Lee De Foster í Bandaríkjunum. Fyrst er vitað til þess að hér á landi hafi verið seld útvarpstæki 1924.

Útvarp

Fyrstu útvarpssendingar í heiminum eru taldar vera þegar Bandaríski uppfinningamaðurinn Lee De Forest útvarpaði tveim óperum í tilraunaskyni 1910. Þá notuðu menn kristaltæki sem þurftu aðeins loftnet og gott jarðsamband ásamt heyrnatóli. Aðeins einn gat hlustað í einu.

1926 tekur til starfa fyrsta útvarpsstöð Íslendinga. Otto B. Arnar stofnaði félagið HF útvarp og útvarpaði í tvö ár, en varð að hætta vegna fjárskorts.
Útsendingar náðust langt út á haf og allt austur í Rangárvallasýslu.
Sendirinn var staðsettur í húsi Loftskeytastöðvarinnar á Melunum í Reykjavík. Ekki er vitað hvað varð um þennan sendi eftir að stöðin hætti starfssemi.
1927 setur breski trúboðinn Arthur Gook upp útvarpsstöð á Akureyri með styrk frá breskri ekkju. Stöðin var það aflmikil að sendingar náðust í Kanada, Kaliforníu og í Ástralíu þegar skilyrði voru hagstæð.

Útvarp

Mynd frá 1930- fyrsti sendirinn á Vatnsendahæð.

Gook flutti inn talsvert af útvarpstækjum fyrir Akureyringa, bæði kristaltæki og lampatæki. Stöðin hætti útsendingum eftir tvö ár þar sem leyfi fyrir útsendingum hennar fékkst ekki framlengt. Loftnetsstangir Cook. Þá var búið að samþykkja lög á Alþingi um stofnun RUV.

Vatnsendi

Vatnsendahæð – loftskeytastöðin.

Innflutningur á viðtækjum var ekki mikill enda kostaði útvarp á bilinu 260 til 550 krónur á meðan verkamannalaun voru aðeins 1 kr. á tímann og bændur fengu 40 til 80 aura fyrir eitt kíló af nautakjöti. Það hefði því tekið verkamanninn tvo til þrjá mánuði að vinna fyrir einu útvarpstæki og bóndinn þurft að selja rúmlega hálft tonn af kjöti.
Ríkisútvarpið er stofnað 1930 og hóf útsendingu 20. desember sama ár. Upphaflega átti að senda út dagskrá frá Alþingishátíðinni en vegna tafa á afhendingu búnaðar var það ekki hægt.
Fyrsti langbylgjusendirinn á Vatnsendahæð við Reykjavík var 16 Kw en stækkaður í 100 Kw 1938.
RUV fékk sama ár einkarétt á innflutningi og sölu viðtækja og stofnuð var Viðtækjaverslun Ríkisins 1931. Árið eftir er sett á laggirnar Viðtækjavinnustofa Ríkisins til að sjá um viðhald útvarpstækja og tók hún til starfa 1. október það ár. Tveim árum síðar, eða 1933 bætist við Viðtækjasmiðja.
Þar voru hönnuð og smíðuð ódýr útvarpstæki til að mæta Langbylgjustöðin Vatnsenda þörfum landsmanna svo ná mætti sendingum RUV.
Fyrst voru framleidd mjög einföld tæki sem náðu aðeins endingum RUV í Reykjavík og nágrenni. Tækin voru eingöngu drifin af rafhlöðum sem hægt var að hlaða. Flestir sveitabæir voru án rafmagns. Á örfáum bæjum voru þó komnar lágspenntar vindmyllur á þessum tíma. Menn fóru því jafnvel fótgangandi dagleið með rafgeymi á bakinu til að fá hann hlaðinn.

Útvarp á hvert heimili
Útvarp.Viðtækjastofa Ríkisútvarpsins var með sérstaka þjónustu í mörg ár til að hlaða rafgeyma fyrir útvarpsnotendur. Þetta ár 1933 er mikið auglýst slagorðið “Útvarp á hvert heimili“. Í blöðum og bæklingum.
Algengasta gerð tvöfaldrar rafhlöðu voru 1,5 v. og 90 volt.Í Árbók Félags útvarpsnotenda í janúar 1932 er kynnt að Viðtækjaverslun Ríkisins ætli að gefa mönnum kost á að kaupa útvarpstæki með afborgunum. „Sömu leiðis verði rafgeymar og þurrafhlöður á kostnaðarverði“. Í sömu grein segir „Þá mun Viðtækjaverslunin taka upp þá nýbreytni að flytja inn tæki óuppsett. Geta menn þá sjálfir ráðið gerð skápanna. Geta þá með þessum hætti tækin orðið notendum ódýrari og jafnframt skapast vinna í landinu sem óþarft er að borga útlendingum fyrir“.
ÚtvarpÁrið eftir er rifist um hátt afnotagjald sem var kr. 30 á ári. Skrifað er um í blöðum að nær væri að hafa þetta lágan nefskatt. Almennasta verð ódýrra tækja sé 140 til 170 kr. Rekstrakostnaður slíkra tækja sé á ári með afnotagjaldi 75 til 90 kr. „Þá upphæð geti fátækur fjölskyldufaðir með mikla ómegð ekki greitt. Útvarp geti því ekki orðið það menningartæki sem því sé ætlað“.
Þar sem útvarpstæki kostuðu mikið var oft lagður strengur milli húsa frá útvarpstæki í hátalara næsta húss. Eigi að síður þurfti að greiða fullt afnotagjald eins og af útvarpstækinu.
Þegar fyrsta útvarpstækið kom til Húsavíkur var lögð lína milli fimm húsa frá tækinu.
Fyrstu útvörpin sem smíðuð voru hjá Viðtækjasmiðjunni höfðu tvo lampa og voru aðeins fyrir heyrnartól.

Tveggja lampa tæki fyrir heyrnatól

Útvarp

Þessi fyrsta útgáfa náði ekki sendingum RUV til dæmis á Vestfjörðum. Þá var bætt við einum lampa í viðbót sem gerði tækið næmara og um leið komu þau með innbyggðum hátalara. Til að auðkenna tækin var fyrsta gerðin skýrð Suðri og næsta gerð fékk nafnið Vestri. Mest var framleitt af þeirri gerð. Árið 1938 var búið að framleiða 550 tæki og 200 fyrir skip, en þau tæki voru í málmkassa á meðan hin voru í trékössum. Eftirspurnin var mikil en erfitt var að fá íhluti frá Evrópu í smíðina þegar nær dró stríðsbyrjun sem hamlaði framleiðslunni. Þá var brugðið á það ráð að fá íhluti frá Ameríku og því eru tækin eftir 1940 blönduð evrópskum og amerískum íhlutum. Að jafnaði unnu 3–5 menn að þessari smíði. Viðtækjasmiðjan hætti störfum 1949 og þá var búið að framleiða nálægt 2000 viðtækjum eftir því sem næst verður komist.
Á Austfjörðum var erfitt að nota Vestra því þar voru sendingar erlendra útvarpsstöðva mjög sterkar og því var brugðið á það ráð að smíða vandaðri tæki sem gátu frekar einangrað sendingar RUV frá erlendu stöðvunum. Sú útgáfa fékk nafnið Austri. Þau tæki voru framleidd að mestu eftir pöntunum. Áfram var smíðin þróuð eftir því sem á leið. Smíðuð voru sérstök lítil tæki sem fengu heitið Sumri og var ætluð fyrir sumarhús í nágrenni Austri Reykjavíkur, enda fjölgaði þeim mikið upp úr 1940. Ástæða þess í mörgum tilfellum var að menn byggðu sér þessa bústaði til að eiga athvarf ef loftárás yrði gerð á Reykjavík.

Útvarp

Tvö tæki eru til í dag sem keypt voru eingöngu í slíka bústaði sem voru rétt ofan við Reykjavík. Allt voru þetta tæki sem gengu fyrir tvískiptum rafhlöðum, annar hlutinn var fyrir glóð og hinn fyrir háspennuna á lampanna. Með því að skoða öll þau tæki sem vitað er um kemur í ljós að hönnun Vestra var seinna notuð við smíði Suðra og Sumra sem fyrst voru aðeins tveggja lampa tæki. Sumarbústaður ofan við Rauðhóla Síðustu árin sem þessi framleiðsla var í gangi kom þriggja lampatæki sem heitir Sindri. Það var svipað uppbyggt og Vestri, en með vibrator spennugjafa sem gekk fyrir rafgeymi 6 – 12 eða 32 volta eftir auglýsingum að dæma frá þessum tíma. Þurfti þá ekki lengur tvískiptar rafhlöður. Nú dugði einn rafgeymir. Á þessum tíma var eingöngu farið að notast við efni frá USA vegna stríðsins, þétta, viðnám og lampa.

Sumri, tveggja lampa
Útvarp

Auglýsing í blaðinu „Útvarps tíðindi“ í ferbrúar 1947 er svohljóðandi: „Viðtækjasmiðja Ríkisútvarpsins smíðar eftir pöntun eftirfarandi gerðir af viðtækjum: Þriggja lampa tækið „Sindri“, fyrir 6, 12 og 32 volta rafgeyma, sparneytið og traust viðtæki sem gefur góð tóngæði. Þriggja lampa tækið „Suðri“ fyrir þurrrafhlöður með spari stilli sem gefur 30% möguleika á sparnaði rafhlöðunnar. Fjögra lampa super viðtækið „Austri“ fyrir 6, 12 og 32 volta rafgeyma spennu“. Eitt tæki hefur fundist af Sindra og er það fyrir 12 volta spennu.

Vatnsendi

Útvarpslampar í langbylgjustöðinni á Vatnsendahæð.

Sama ár og smíði íslensku tækjanna hófst veitti Alþingi Blindrafélagi Íslands styrk til að eignast 10 útvarpstæki til að lána eða leigja blindum gegn vægu verði svo þeir gætu notið dagskrár RUV. Styrkurinn var kr.1500 sem gefur okkur vísbendingu um að hvert tæki hafi kostað kr.150.- Þetta er það eina sem hefur fundist um verð þessara íslensku tækja, ef rétt er. Á aðalfundi Blindrafélagsins 1935 er kynnt ákvörðun Alþingis að afhenda félaginu önnur 10 viðtæki og blindir fái undanþágu frá greiðslu afnotagjalda.
Eftir að innflutningur hófst frá Bandaríkjunum og Kanada komu tilbúnar einingar sem flýtt hafa fyrir samsetningu tækjanna. Vibrator spennugjafinn er ein af þeim, en hann framleiddi háspennu fyrir lampana. Við það losnuðu menn við tvískiptar rafhlöður. Ekki hafa fundist heimildir né tæki frá þessari íslensku framleiðslu sem hafa haft spennugjafa fyrir 220 volta rafmagn þéttbýlisins. Vibrator eining í útvarpi Á fyrstu árunum var sérstaklega tekið fram þegar innflutt tæki voru auglýst að lampar fylgdu með ásamt hátalara, sem hét „GELLIR“ í þá daga. Sendistöðin á Vatnsenda var stækkuð 1938 úr 16 kw. í 100 kw. Það breytti miklu fyrir afskekkta sveitabæi á landinu. Þrátt fyrir að erlendum útvarpsstöðvum fjölgaði eftir stríð með auknum sendistyrk nýttust þessi einföldu útvarpstæki ágætlega, sérstaklega inn til sveita. Ég veit dæmi þess að svona tæki var í notkun til ársins 1955 á sveitabæ í Húnavatnssýslu. Öll þessi tæki, hvort sem þau voru innflutt eða heimasmíðuð, þurftu loftnet sem var langur vír, 30 – 50 m ýmist milli húsa eða frá húsi í staur. Sumir notuðu efsta vír í nærliggjandi girðingu og fl. Í einstaka tilfellum stálust menn til að nota aðra símalínuna sem lá að bænum fyrir loftnet.

Útvarp

Vestri.

Ein gerðin af Vestra er einmitt með þéttum í seríu við loftnetsinntakið sem hefur verið bætt við, hugsanlega til að deyfa ekki sambandið á símalínunni. Það er þó ágiskun undirritaðs.

Vatnsendi

Í langbylgjustöðinni á Vatnsendahæð.

Einnig seldi Viðtækjaverslunin lausa þétta sem hægt var að tengja milli loftnets og útvarpsins, kannski í þessum tilgangi. Seldir voru einnig svokallaðir „Ljósnetsþéttar“ sem ætlaðir voru til að nota mætti rafleiðslur hússins sem loftnet. Þetta var ekki hættulegt því tækin voru eingöngu tengd við rafhlöður, ekki rafstraum hússins. Í blöðum og bæklingum eru víða góðar leiðbeiningar hvernig best er að ganga frá loftneti fyrir útvörpin. Hjá Viðtækjavinnustofunni starfaði maður að nafni Gunnar Sörensen í mörg ár, eingöngu við uppsetningu loftneta.
Margar sögur eru til af því hvernig menn björguðu sér í þeim málum. Jóhann Örn símaverkstjóri sagði undirrituðum frá að á bæ innarlega í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu var útvarpið tengt inn á símalínuna og truflaði sambandið, sérstaklega þegar spiluð var tónlist. Þá heyrðist jafnvel betur í sendingum RUV en á milli símtækja. Skúli Pálson símaverkstjóri á Blönduós var oft búinn að reyna að standa bóndann að verki en tókst ekki því hann var ávalt búinn að aftengja tækið þegar Skúli kom á staðinn. Á endanum fékk Skúli þessi Jóhann Örn til að fara á ómerktum bíl og þá sást hvað var í gangi. Ekki fylgdi sögunni hvort bóndinn setti upp sérstakt loftnet eftir þetta.

Þéttir fyrir afturverkun
Útvarp
Tæknilega ástæðan fyrir þessu er að tækin eru mjög einföld og merkið var látið fara tvisvar í gegnum sama stigið. Þetta er kallað „Afturverkun“.
Þegar styrkur útsendingar og skilyrði voru góð gat í útvarpstækinu magnast upp styrkur sem lak svo til baka út í loftnetsrás tækisins sem heyrðist þá vel í símtækjum nærliggjandi bæja.
Þar sem ekki var útvarpað allan sólahringinn var slökkt á tækjunum milli dagskráliða og loftnetin oftast aftengd með sérstökum rofa sem Viðtækjaverslunin seldi og hétu „Grunntengisnari“.
(Í dag köllum við þetta hnífrofa). Því var útvarpið ekki að trufla símasambandið nema einstaka sinnum. Önnur ástæða rofans var til að verja tækin skemmdum í eldingaveðri.

Vatnsendi

Í langbylgjustöðinni á Vatnsendahæð.

Þó svo Langbylgjusendirinn á Vatnsenda hafi verið stækkaður 1938 úr 16 Kw í 100 Kw dugði það ekki fyrir norður og austurland þar sem útvarpstöðvum fjölgaði ört í Evrópu og styrkur sendanna jókst. Því var gripið til þess ráðs að setja upp á Eiðum útvarpssendi á miðbylgju, 488 metra tíðni. Byggt var hús útbúið vönduðu viðtæki og sérstöku loftneti fyrir viðtöku frá Reykjavík um 700 metra frá sendinum á Eiðum. Sendirinn var tekinn í notkun 27. sept.1938 og breytti miklu fyrir austfirðina, sérstaklega á Djúpavogi og Þórshöfn. Þá hafði Viðtækjasmiðjan framleitt Vestra með bæði lang og miðbylgju. Þannig Vestrar hafa fundist og eru til á söfnum. Vestrarnir heita því, Vestri L3 og Vestri ML. Vestrinn, ML er með aukarofa umfram hinn til að skipta milli bylgjusviða. Austrarnir sem smíðaðir voru fyrir Austfirðinga eru bæði með lang- og miðbylgjum. Á framhlið þeirra er stilliskífa sem er ekki á neinum af hinum gerðunum.
Í blaðinu Útvarpstíðindi í mars 1940 er viðtal við Jón Alexandersson yfirmann Viðtækjasmiðjunnar. Hann segir frá því að sérstakur Vestri sé nú framleiddur fyrir Austfirði. Einnig kemur fram í viðtalinu að tilbúinn sé hönnun á Austra, en framleiðsla sé ekki hafin vegna skorts á íhlutum til smíðinnar.
Undirritaður á Austra sem framleiddur er í lok sama árs, eingöngu með íhlutum frá USA.
Það virðist því hafa ræst úr þessum skorti þegar leið á árið.

Útvarp

Sindri.

Í auglýsingu frá árinu 1942 kemur fram að Austri sé framleiddur eftir pöntunum. Hægt sé að fá hann bæði í eikar eða mahóní kössum Sennilega hefur dregið úr framleiðslu íslensku tækjanna fljótlega eftir að stríðinu lauk. Nokkur þeirra tækja sem undirritaður hefur skoðað eru stimpluð eða skrifuð dagsetning og ártal þegar tækin eru prófuð. Það eru viðgerðamiðar á botni tækjanna sem sýna hvenær þau voru í viðgerð hjá V.R. Síðasta ártalið sem fundist hefur er frá desember 1946.
Útvarp

Undirritaður og útvarpsvirkinn Helgi Jóhannesson sem býr á Akureyri hafa gert könnun og skoðað flest öll tæki sem vitað er um, bæði á söfnum og í einkaeigu. Helgi hefur einnig verið duglegur við að safna og gera upp gömul tæki sem hafa orðið eins og ný á eftir. Hann hefur því gott vit á þessum hlutum. Það hefur verið hægt að aldursgreina tækin að einhverju leyti eftir smíðinni og hvaða lampar ásamt íhlutum sem eru notaðir, þar sem við vitum að efniviður í smíðina fékkst ekki frá Evrópu eftir árið 1939. Viðtækjasmiðja Ríkisútvarpsins smíðaði fleira en útvarpstæki.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – fornleifar…

Ári áður en smiðjan er stofnuð formlega 1933 var Viðtækjaverkstæðið beðið að framleiða litlar talstöðvar fyrir fiskibáta. Tveimur árum síðar, 1934 er búið að smíða 45 talstöðvar með 4 w sendiorku í loftnet. Þessar talstöðvar reyndust mjög vel og breyttu miklu fyrir sjómenn. Þegar hér var komið er hafin smíði útvarpstækjanna og því var ákveðið að Radioverkstæði Landsímans tæki við þessari framleiðslu. Til er viðtæki frá þessum tíma sem er merkt viðtækjasmiðjunni og bætt svo við merki Landsímans sem segir okkur að Landsíminn hafi fengið hálfkláruð tæki og klárað þau. Ástæðan fyrir þessu öllu var að ekki voru framleiddar erlendis hentugar litlar talstöðvar fyrir fiskibáta. Landsíminn framleiddi talstöðvar til ársins 1980, aðallega fyrir báta og fiskiskip.
Árið 1958 var einnig hafin framleiðsla talstöðva til að nota í bílum. Landsíminn leigði út tækin sem smíðuð voru hjá þeim og er því ekki til verðskrá yfir þeirra framleiðslu frekar en íslensku útvarpstækin. Vitað er að leiga á talstöð var kr. 40 á ári 1945 en var kominn í 3 til 6 þúsund árið 1960, eftir hverslags tæki var um að ræða.

Útvarp

Austri.

Smíðasaga þessara íslensku viðtækja, Suðra, Vestra L3 og ML, Austra, Sumra og Sindra er stórmerkileg að því leyti að erfitt var að fá tæki erlendis frá og gjaldeyrir lítill í landinu. Þetta hefur því flýtt verulega fyrir að almenningur gæti notið dagskrár RUV svona snemma eftir stofnun þess.
Tækin voru framleidd í smá skömmtum eftir því sem komið hefur fram í viðtölum við starfsmenn Viðtækjavinnustofunnar. Þegar mikið var að gera við viðgerðir voru menn teknir úr smíðinni og öfugt þegar lítið var að gera var þeim fjölgað við smíðina.
Viðtækjasmiðjan og Viðtækjavinnustofan voru í raun eitt og sama fyrirtækið. Það var kannski efnað niður í 15 til 20 tæki og þau smíðuð í áföngum, útgangshlutinn fyrst og loftnetshlutinn síðar. Í lokin voru tækin sett í kassana og prófuð.
ÚtvarpHúsgagnasmiður sem vann hjá RUV á þeim tíma smíðaði alla kassana utan um þessi tæki. Kassarnir breyttust með tímanum og eru til dæmis fyrri gerðir Vestra í stærri kassa en seinni gerðirnar. Sama er með Sumra og Austra. Þar eru kassarnir ekki alltaf eins.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – viðtæki.

Eins og áður hefur komið fram virðist sem frumgerðin af Suðra sem var tveggja lampa tæki í upphafi hafi verið notuð óbreytt en endurbætt með þriðja lampanum og þá var kominn Vestri. Sú hönnun er síðan notuð áfram við smíði yngri tækjanna af Suðra, Sumra og Sindra.
Fyrst eru þessi tæki eingöngu fyrir langbylgju, enda smíðuð aðeins til að ná sendingum RUV. Seinna kemur svo Vestri með miðbylgju. Við sem erum að skoða þetta teljum að Vestri L3 þýði, „eingöngu langbylgja“ og Vestri ML sé auðkennið þar sem hann er með bæði mið og langbylgju. Hjá Helga á Akureyri er til kassi utan af Sumra með fjórum tökkum og er merktur Sumri ML 123. Það þýðir sennilega mið og langbylgja en við vitum ekki hvað 123 stendur fyrir. Einnig höfum við fundið Sumra með tveimur lömpum og annan með þremur lömpum. Þessi tveggja lampa Sumri er með raðnúmerinu 3002 sem þýðir að hann er nr. tvö í framleiðslunni og framleiddur 1943. Sama ár var hann keyptur til að hafa í sumarbústað við Rauðhólana ofan Reykjavíkur. Hinn Sumrinn er þriggja lampa og hefur raðnúmerið 3041og framleiddur í maí 1945. Það tæki var einnig í sumarbústað rétt ofan Reykjavíkur alla tíð. Íhlutir og lampar þeirra beggja er upphaflega efni frá USA. Skipt hefur verið um lampa í þeim yngri og settir Evrópulampar sem framleiddir voru eftir stríðsárin.
Útvarp
Í mörgum af þessum gömlu tækjum er sambland af Evrópu og USA lömpum eftir því hvenær þau biluðu og hvað til var á lager hérlendis.
Í flestum tilfellum er merkt við sökkla lampanna á tækjunum nöfn þeirra lampa sem notaðir voru í upphafi. Það eitt staðfestir svolítið hvenær tækið var smíðað ef ekki er stimpill eða skrifað framleiðsluárið. Sami lampi getur heitið mismunandi nöfnum eftir því frá hvaða framleiðanda.
Útvarp
Menn björguðu sér á aðdáanlegan hátt í kreppunni. Þegar lampi bilaði og ekki var til lampi með samskonar sökkli, en var að öðru leyti eins, mixuðu þeir einfaldlega nýjan lampa ofan í sökkul þess gamla til að þurfa ekki að skipta um sökkul í tækinu og umvíra það. Austri er Superheterodyne , mjög frábrugðinn öllum hinum. Hin tækin öll kallast Straight. Munurinn í stuttu máli er að Straight tækin eru nokkurs konar magnarar. Í inngangi þeirra er loftnetsaðlögunin stillt inn á tíðni sendistöðvarinnar og merkið síðan magnað í endastigið sem drífur hátalarann.
Rétt áður en það fer síðasta spölinn er merkið sent til baka inn í fyrstu rás og fer þá í gegnum sömu lampana aftur og endar með meiri styrk til hátalarans. Þetta kallast „Afturverkun“. Með þessari einföldu útfærslu er tækið ekki eins varið fyrir truflunum frá stöðvum nálægt tíðni t.d. RUV. Sem sagt, bandbreiðari en hin útfærslan. Þetta gerði ekkert til fyrstu ár útvarpsins þar sem erlendar stöðvar voru fáar.
Útvarp
Austri er með einum lampa í viðbót sem kallast ocillator (sveifluvaki). Fremsti hluti tækisins er samskonar og í hinum. Þessi ocillator býr til sína eigin tíðni sem blandast síðan tíðni sendistöðvarinnar í næsta lampa. Þar fyrir aftan eru mjög þröngar rásir sem magna mismunatíðni innkomumerkisins og ocillator merkisins sem fer áfram til hátalarans. Þar af leiðandi er tækið ekki að magna sendingar annarra stöðva til hátalarans, en bara hljóðið frá stöðinni sem stillt er á hverju sinni. Engin afturverkun er í þessari gerð. Í smíði Austra fara því talsvert fleiri íhlutir en í hin tækin. Sindri er þriggja lampa Straight tæki eins og Vestrinn, nema hann var ekki fyrir tvískiptar rafhlöður eins og komið hefur fram.
útvarpÍ honum er vibrator spennugjafi. Erlendir framleiðendur komu fyrst fram með Superheterodyne tækin árið 1933 og eftir 1934 finnast ekki Straight tæki auglýst, enda hefur það ekki gengið erlendis að nota slík tæki þó það hafi verið í lagi hér inn til sveita mikið lengur.
Í þeim hremmingum sem landinn bjó við í upphafi stríðsáranna er yfirmaður Viðtækjaverslunar Ríkisins sendur til Bandaríkjanna 1942 til að gera innkaup á amerískum útvarpstækjum þar sem ekkert fékkst frá Evrópu. Hann telur sig hafa náð samningum um kaup á 2700 tækum en ekki er vitað hvort þau skiluðu sér öll. Hörgull var á tækjum fyrir almenning vegna stríðsins við Japani og í Evrópu. Lítill hluti þeirra tækja sem til eru í dag hér á söfnum og í einkaeign eru frá USA. Flest eru Evrópu tæki framleidd fyrir og eftir stríð. Tækjunum sem komu frá USA þurfti að breyta til að ná RUV því eingöngu var notuð miðbylgja þar í landi.
Á hernámsárunum var mikið eftirlit með tæknimönnum sem höfðu eitthvað vit á sendi og viðtækjum. Til dæmis gerði herinn kröfu um að viðgerðamenn tækju mið og stuttbylgjur úr sambandi ef tæki kæmi til viðgerðar á stríðsárunum.
útvarpÞegar undirritaður hóf nám 1961 voru að koma í viðgerð tæki sem þannig var ástatt með. Það fór því smá tími í að lagfæra og breyta til baka tækinu ásamt því að gera við þau. Við þessa eftirgrennslan um hvernig framleiðslu íslensku tækjanna var háttað hefur margt fróðlegt komið í ljós.
Í Lesbók Morgunblaðsins 18. apríl 1926 er talað um að Víðvarp, (Útvarp) geti verið mikill friðarspillir þar sem fólk komi sér ekki saman um sömu dagskrá. Í sömu grein er vitnað er í viðtal við yfirmann lögreglunnar í Gautaborg sem heldur því fram að glæpum unglinga hafi fækkað mikið eftir að útvarp hóf starfsemi þar í landi. Menn hafa því ekki verið sammála um ágæti útvarps frekar en árið 2021.

Útvarp

Lampi.

Snorri B.P. Arnar auglýsir Philips B-Spennutæki með nýjum lömpum 26. jan. 1928. Lamparnir eiga að vera miklu betri en eldri lampar og fleira er minnst á. Ekki er gefið upp verð.
Auglýsing 19. mars 1929 byrjar eftirfarandi: „Hvers vegna MENDE? Vegna þess að það eru sterkustu, ódýrustu, hljómfegurstu og bestu radioviðtækin. Þau eru samt 270 kr. ódýrari en önnur sambærileg tæki“. Áfram hélt lofið og auglýsingin endar síðan á að leita skuli upplýsinga hjá Jóni Gunnarsyni hjá Eggerti Kristjánssyni og Co. 1930 koma fyrst á markað í Bandaríkjunum bílútvörp. Tveggja daga verk var að setja tækið í bíl, Taka þurfti mælaborðið í sundur til að koma fyrir tækinu og hátalara. Klippa þurfti gat á þakið fyrir loftnetið og þar sem tækin gengu fyrir eigin rafhlöðum varð að saga gat í gólfið fyrir auka rafgeyma. Handbókin sem fylgdi til leiðsagnar var 28 síður.
Fyrstu tveir bílarnir með útvarpstæki komu til landsins sama ár, 1930.
Bifreiðastöð Reykjavíkur auglýsir 30. nóv.1930. „B.S.R hefur fengið sér tvær bifreiðar með 5 lampa útvarpsviðtæki. Heyrist ágætlega á viðtækin þó bifreiðin sé á ferð. Bifreiðarnar eru báðar af gerðinni Studebaker“. Seinna var flutt mikið inn af útvarpstækjum sem smíðuð voru fyrir Buick bíla og ávallt kölluð hér „Buick tækin“. Þessi tæki voru þægileg að því leyti, allt tækið er í einu boxi og því auðveldara að setja í hvaða bíltegund sem var.
1931 er talið að til séu um 3000 útvarpstæki á landinu. Þar af 1360 í Reykjavík. 1932 eru skráðir um 5000 notendur.
Útvarp
Viðtækjaverslun Ríkisins auglýsir 21. sept. 1933. „Margar nýjar gerðir viðtækja fyrir bæjarspennuna eru nú komnar. Snúið ykkur til umboðsmanna“.
(Á sama ári hófst smíði Íslenskra útvarpstækja hjá sama aðila, eingöngu fyrir rafhlöður).
Árið 1933 voru aðeins þrír útvarpsvirkjar með réttindi. Það voru þeir Otto B. Arnar, bróðir hans Snorri P.B.Arnar og Jón Alexandersson.
ÚtvarpHjá Viðtækjaverkstæði Ríkisútvarpsins voru haldin námskeið og margir fengu réttindi þaðan.
1938 er síðan stofnað Félag Útvarpsvirkja í Reykjavík. Stofnfélagar voru 19.
20. des.1934 auglýsir Viðtækjaverslun Ríkisins í blaðinu Degi. „Nýjar tegundir útvarpstækja. Verðið er lægra en nokkru sinni áður. Fyrirliggjandi 3-4-5-6-7 lampa tæki“. (Geta má þess að þá kostuðu innflutt tæki frá 175 upp í 820 krónur. Verkamaður var með 1 krónu á tímann á þessum árum.)
Viðtækjaverslun Ríkisins auglýsir í Fálkanum 19. des. 1936. „Viðtæki á lægra verði hér á landi en í öðrum löndum álfunnar“. Myndin í auglýsingunni er af erlendu tæki.
Það kemur fram í texta auglýsingarinnar að Viðtækjaverslunin sé ekki rekin með hagnað í huga og takmarkið sé „ Viðtæki inn á hvert heimili“.
Undirrituðum dettur í hug hvort ekki sé verið að vitna í íslensku framleiðsluna án þess að þess sé getið sérstaklega þar sem áður hafði komið fram að þau væru 60% ódýrari en innflutt tæki. Hvergi hefur enn fundist verðlisti yfir þessi íslensku tæki.
Fyrstu árin er ekki viðgerðarþjónusta á landinu fyrir útvörp nema í Reykjavík. Komið var upp viðgerðarverkstæði á Akureyri 1934 og sá Grímur Sigurðsson um það verkstæði lengst af. Hann hafði starfað við útvarpsstöð Cook og var því vanur. Ísfirðingar kvarta mikið í dagblöðum um mitt árið 1940 að ekki sé þjónusta á staðnum þar sem þeir greiði 100 þúsund í afnotagjöld og 40 þúsund til Landsímans fyrir leigu á talstöðum.
„Hve lengi eigum við Vestfirðingar að vera afskiptir í þessum málum“, skrifa þeir.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Útvarpið kom sér fljótlega upp umboðsmönnum víða á landinu og gátu sumir þeirra gert við einfaldar bilanir, ráðlagt meðferð tækjanna og sett upp loftnet.Í útvarpstíðindum 2. tölublaði 1946 er verið að afsaka að fyrstu útvarpstæki sem eru á leið til landsins frá Evrópu eftir stríð séu í raun úrelt hönnun. Það sé 10 mánaða bið í að nýrri útgáfur verði á markaði hérlendis. Framleiðsla viðtækja til afnota fyrir almenning hafi ekki verið leyfð á Englandi og í Ameríku fyrr en eftir uppgjöf Japana á síðastliðnu sumri, en þó með miklum takmörkunum.

Vatnsendi

Búnaður í geymslu á Vatnsendahæð.

Í Útvarpstíðindum 1948 er sagt frá þeim nýungum að útvarpsframleiðendur á Englandi hafi fengið húsgagnasmiði í lið með sér við að hanna kassa utan um tækin. Þessi samvinna leiddi til fjörbreyttara útlits tækja árin á eftir.
Á fyrstu árum útsendingar útvarpsins þurfti nokkrum sinnum að skipta um senditíðni vegna truflana frá erlendum stöðvum. Einkum voru það rússneskar stöðvar og þegar stöðin í Luxemburg var stækkuð. Þetta olli sérstaklega gömlu fólki erfiðleikum sem ekki kunni að breyta stillingum tækja sinna. Fyrst var sent út á 1100 metrum, síðar á 1400,1638, 1639 og 1648 metrum. Viðtækjasmiðjan var lögð niður 1949 og framleiðslu útvarpstækja þar með hætt. Viðgerðavinnustofu Ríkisins var lögð niður 1960.
1967 er einkasala ríkisins á innflutningi og sölu útvarpstækja afnumin og Viðtækjaverslun Ríkisins þar með lögð niður á sama tíma, eftir 37 ára starfssemi.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið á Vatnsendahæð – teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Haldin var útsala á þeim lager sem til var og sagt er að valdir vinir hafi fengið tæki fyrir lítið.
Hugmyndin af þessari samantekt varð til þegar nokkrir eldri rafeindavirkjar stofnuðu „Hollvinafélag um sögu útvarpstækni á Íslandi“ í þeim tilgangi að bjarga útvarpstækjum og öðrum búnaði sem notaður hefur verið við útvarpssendingar frá því RUV var stofnað 1930, finna þeim varanlegan stað til varðveislu og sýningar fyrir almenning um ókomna framtíð.

Vatnsendi

Stjórnborð í langbylgjustöðinni á Vatnsendahæð.

Svar Sigurðar við viðleitni FERLIRs til birtingar efnisins var eftirfarandi: „Þú mátt nota þetta efni að vild því ég er bara ánægður að hafa getað náð þessum upplýsingum saman. Hvergi hefur verið skrifað um þessa merkilegu smíði svo ég viti og ég ekki fundið neitt nema smá brot sem ég tíndi saman ásamt því að vera  búinn að ræða við nokkra gamla menn sem unnu við þessi tæki en eru nú eru látnir. Ég og vinur minn höfum gert upp tæki sem við höfum komist yfir og þannig getað lýst þeim. Ég hef hjá mér nú allar gerðirnar og ætla að hafa tækin til sýnis á Skógarsafni í sumar. Útvarpið hefur ekki sýnt þessu neinn áhuga og kannski vita þeir sem ráða ekki af þessu þó ég hafi gefið safnstjóra RUV eintak.
Ef þig vantar fleiri myndir á ég mikið safn. – Kv. SH.

Apríl 2021.
F.h. Hollvinafélagsins,
Sigurður Harðarson, rafeindavirki

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð 2000.

Vatnsendahæð

Sendistöðin á Vatnsendahæð“ hefur verið aflögð og rekstri Útvarpsins hætt. Stöðin var upphaflega byggð árið 1929 og tók til starfa 20. desember 1930.

Guðjón Samúelsson

Guðjón Samúelsson.

Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsið, sem nú er áætlað að rífa til að rýma til fyrir nýrri byggð á hæðinni.
FERLIRsfélagi tók vettvangshús á Sigurði Harðasyni, rafeindavirkja. Hann sýndi þann búnað, sem þar er enn til staðar og lýsti því sem fyrir augu bar, enda þrælkunnugur öllum tækjabúnaði og staðháttum sem og rekstri hússins. Húsið sjálft er margbrotið. Þar var íbúð stöðvarstjórans og kjallari þar sem m.a. annað starfsfólk bjó í kojum í neyðartilvikum. Gert var ráð fyrir öllum mögulegum skakkaföllum; varatækjalampar t.d. tilbúnir upphitaðir til notkunar í sérstökum gerðum ef út af myndi bregða svo sem minnsta röskun yrði á útsendingum o.s.frv.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið á Vatnsendahæð – teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Hér á eftir verður fjallað svolítið um þetta merkilega hús og margþætta starfsemina þar í gegnum tíðina. Ljósmyndarnar voru margar hverjar teknar í framangreindri húsvitjun.

Í Morgunblaðinu 15. sept. 2020 segir í fyrirsögn; Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins:

„Húsið verður rifið, það er ekkert flóknara en það. Húsið er enda ónýtt, það lekur og þetta er asbestbygging,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, um fornfrægt hús sem kennt er við Ríkisútvarpið og stendur á Vatnsendahæð.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Neyðarlínan tók nýverið við mannvirkjum á Vatnsendahæð eftir að sendibúnaður RÚV þar var fluttur á Úlfarsfell. Húsið er nú í eigu ríkisins en óvissa hefur skapast um framtíð þess eftir að hlutverki þess lauk. Þórhallur segir aðspurður í samtali við Morgunblaðið að GSM-sendir verði áfram á svæðinu en stefnt sé að því að stóru fjarskiptamöstrin verði tekin niður á næsta ári. Ekki séu áform um nýtingu hússins. Kópavogsbær áformar íbúabyggð á svæðinu á næstu árum.

Vatnsendahæð

Langbylgjustöðin á Vatnsendahæð – inngangur.

Útvarpsstöð Íslands var reist á árunum 1929-1930 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins og hefur alla tíð hýst tæknibúnað útvarpsins, að því er fram kemur í fundargerð húsafriðunarnefndar um stöðu mála þar sem áhyggjum af stöðu mála er lýst.

„Húsið tengist stofnun og sögu Ríkisútvarpsins auk þess að vera áberandi kennileiti á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar fyrirspurnar til Neyðarlínunnar um framtíðarnot hússins fóru fulltrúar Minjastofnunar í vettvangsskoðun þann 11. ágúst sl. Unnið er að því að fjarlægja úr húsinu tæki og muni sem eru í eigu RÚV og hafa verið geymdir þar undanfarin ár. Er sú vinna gerð í samráði við Þjóðminjasafnið. Viðræður eru hafnar milli ríkisins og Kópavogsbæjar um framtíðarnýtingu Vatnsendahæðar undir íbúðarbyggð. Húsafriðunarnefnd tekur undir sjónarmið Minjastofnunar um sögulegt gildi útvarpshússins á Vatnsendahæð og mikilvægi þess að varðveita það og ætla því verðugan stað í nýju skipulagi,“ segir í fundargerð húsafriðunarnefndar.

Í Verslunartíðindum 1935 er fjallað um „Talsamband við útlönd„:

Vatnsendahæð„Þann 1. ágúst s. 1. var opnað talsímasamband það við útlönd, sem hefur verið í undirbúningi all-lengi undanfarið. Hófst sú athöfn á því, að fyrst var opnað sambandið við Danmörku og síðan við England, en samband við önnur lönd verður fyrst um sinn aðeins hægt að fá gegnum þessar dönsku og ensku stöðvar.
Talsímaopnunin fór fram með talsvert hátíðlegum blæ og var allmörgum gæstum boðið að vera viðstöddum við þetta tækifæri.
Þessi nýja talsímastöð, sem vandað hefur verið til eftir föngum, er tvískift. Er sendistöðin á Vatnsendahæðinni, en móttökustöðin í Gufunesi, en þaðan liggja jarðsímar til landsímastöðvarinnar hjer í bænum.
Eftir því, sem ráða mátti af þeim opinberu samtölum, er áttu sjer stað, er stöðin var opnuð, er sambandið í besta lagi og voru samtölin svo skýr og greinileg, sem best varð á kosið.“

Í Útvarpstíðindum árið 1938 fjallar Gunnlaugur Briem, verkfræðingur um „Stækkun útvarpsstöðvarinnar„:

Vatnsendahæð„Útvarpsstöðin á Vatnsendahæð tók til starfa 21. des. 1930. Afl hennar var þá 16 kílówött í loftneti og öldulengdin 1200 metrar. Alþjóðaráðstefna í Prag 1929 hafði úthlutað þeirri öldulengd til Íslands. Útvarpið heyrðist þá um allt landið.
Í fjárlögum 1935 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til þess að láta auka og endurbæta senditæki útvarpsins svo, að þau fullnægðu þörfum landsmanna. Þessi heimild var svo endurtekin í fjárlögum, síðari ára.
Fyrri hluta árs 1937 ákvað ríkisstjórnin að leysa málið þannig, að afl útvarpsstöðvarinnar skyldi aukið upp í 100 kv.“

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – viðtæki.

Í fyrstu voru útvarpsviðtæki mjög dýr hér á landi og ekki á allra færi að eignast slík tæki. Venjulegt viðtæki kostaði ca. kr. 150, en þá voru daglaun verkamanns u.þ.b. 1 króna. Brugðið var á það ráð að framleiða einfaldari tæki hérlendis undir ýmsum nöfnum eftir styrkleika, s.s. Suðri, Austri o.fl.

Í Fálkanum 1938 segir af „Vígslu útvarpsstöðvarinnar„:

Vatnsendahæð
„Fyrir alla útvarpsunnendur er það mikið gleðiefni að íslenska útvarpsstöðin hefir verið stækkuð úr 16 kilówöttum í 100 kw. Með þessari stækkun er hún komin í tölu sterkustu útvarpsstöðva á Norðuröndum. Stærstar eru Motala í Svíþjóð og Lahti í Finnlandi en svo kemur útvarpsstöðin íslenska sem þriðja i röðinni ásamt tveim stöðvum í Suður-Svíþjóð, sem eru að verða fullgerðar. — Sterkasta útvarpsstöð í heimi er í Moskva (500 kw.)
Vígsla hinnar nýju stöðvar fór fram með allmikilli viðhöfn síðastliðinn mánudag að viðstöddum krónprinshjónunum, ráðherrum, sendiherrum erlendra ríkja og fleiri virðingamönnum. Sjáf vígsluathöfnin fór fram í hinum stóra útvarpssal og voru þar um eitt hundrað gestir. — Útvarpsstjóri og kona hans tóku á móti krónprinshjónunum og afhenti kona útvarpsstjóra Ingrid krónprinsessu blómvönd.
Þegar klukkuna vantaði tvær mínútur í tvö stóð krónprinsessan upp úr sæti sínu í salnum og veitti raforkunni á hinar nýju vjelar með því að þrýsta á hnapp einn. Gestirnir sem staddir voru í útvarpssalnum heyrðu stöðina fara í gang, því að gjallarhorn í salnum höfðu verið sett i samband við hljóðnema í sjálfri sendistöðinni á Vatnsendahæð. Nú kviknaði á rauðu ljósi, en það var merki þess að stöðin var í fullkomnu lagi.
VatnsendahæðFriðrik krónprins gekk nú að hljóðnemanum er var komið fyrir i stúku út frá útvarpssalnum og lýsti yfir því að hin nýja sendistöð væri opnuð. Hann notaði tækifærið að þakka Íslendingum hinar ágætu viðtökur, sem krónprinshjónin hefðu fengið á ferð sinni um landið.
Talaði krónprinsinn á íslensku og þótti honum vel takast, Er krónprinsinn hafði lokið máli sínu hjeldu þeir stuttar ræður Hermann Jónasson forsætisráðherra og Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri. En að lokum söng útvarpskórinn undir stjórn Páls Ísólfssonar þjóðsöng Íslendinga. Þar með var dagskrá lokið. Á eftir fóru fram veitingar í útvarpssal, en því næst var ekið með gestina upp að útvarpsstöð á Vatnsendahæð.
Sjerstök útsending á stuttbylgjum fyrir danska hlustendur átti sjer stað af allri athöfninni. Var henni endurvarpað frá danskri útvarpsstöð. Var athöfnin tekin upp á plötur og endurtekin í danska útvarpinu um kvöldið. —
Hin nýja stöð kemur til með að hafa geysimikla þýðingu fyrir allar útsendingar til annara landa, þar eð hún er svo sterk að minni vandkvæði verða framvegis á því að heyra Ísland í nálægum löndum. Auk þess veitir hún íslenskum hlustendum er fjærst búa tryggingu fyrir því að þeir þurfa ekki að fara á mis við dagskrá sakir þess hve útvarpsstöðin sje veik.
Og þegar endurvarpsstöðin, sem nú er verið að byggja á Eiðum á Austurlandi er komin upp, þá ætti Austfirðingum að vera borgið, en þeir hafa ekki notið útvarpsins sem skyldi enn sem komið er.
Sendistöðin nýja mun hafa kostað um 700 þúsund krónur og endurvarpsstöðin á Eiðum 100—200 þúsund krónur væntanlega, svo að ekki verður annað sagt en hin litla íslenska þjóð fórni miklu fje til endurbóta á útvarpsstöð sinni. Mr. Thomas verkfræðingur frá Marconi-fjelaginu sá um uppsetningu stöðvarinnar og hófst verkið um miðjan síðastl. vetur.“

Í Útvarpstíðindum 1939 fjallar Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, „Um veðurfregnir„:

Vatnsendahæð„Útvarpið flytur veðurfregnir þrisvar á hverjum degi, sem virkur er, en tvisvar á helgum dögum. Fluttningurinn tekur 20—25 mín. á, dag, en til samans yfir árið verða þetta hart nær 150 útvarpsklst.
Af þessu er auðsætt, að veðurfregnir eru talsverður liður í dagskrá útvarpsins, enda þótt útvarpið beri enga ábyrgð á þeim efnislega.
Við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til þess að senda héðan veðurfregnir frá 5 stöðum 3—4 sinnum á dag. Þær eru sendar frá stuttbylgjustöðinni á Vatnsendahæð og síðan endursendar frá aflmiklum loftskeytastöðvum í Englandi, Þýzkalandi og víðar.“

Í Sjómannadagsblaðinu 1941 fjallar Friðk Halldórsson um „Drauminn sem rættist„:

„Útvarp&starfsemi hófst hér á landi árið 1926 er h.f. Útvarp undir forustu Ottó B. Arnars loftskeytafræðings, reisti útvarpsstöð sína í Reykjavík. Stöð þessi, sem að vísu var ófullkomin og orkulítil, aðeins 0,5 KW í loftnet, varð þó ástsæl meðal landsmanna þann tíma, sem hún starfaði, en vegna fjárskorts og annara örðugleika lagðist starfsemi hennar niður eftir tveggja ára tímabil.
Á Akureyri var reist um svipað leyti 5 KW útvarpsstöð fyrir atbeina Arthur Gook trúboða.
Höfðu áhugamenn í Bretlandi aflað samskota til stöðvarkaupanna og annazt að öllu leyti uppsetningu hennar. Raunveruleg útvarpsstarfsemi hófst aldrei frá þeirri stöð.

Eiðar

Eiðar – langbygljumastur.

Árið 1930 byrjaði Ríkisútvarpið starfsemi sína, með nýrri og fullkominni stöð, er var reist á Vatnsendahæð við Reykjavík. Afl stöðvarinnar var upphaflega aðeins 17 KW., en var aukið árið 1938 upp í 100 KW, Samtímis var reist að Eiðum endurvarpsstöð fyrir Austfirðinga, vegna truflana, er gætt hafði hjá þeim frá erlendum útvarpsstöðvum.
Með starfsemi Ríkisútvarpsins hefst nýr þáttur í menningarsögu okkar Íslendinga og hefur útvarpsstarfsemin síðan tekið hröðum framförum hér á landi. Útvarpshlustendur eru nú orðnir rúml. 18.200 á landinu og er Ísland í þeim efnum 9. landið í heiminum, í hlutfalli við fólksfjölda, miðað við árslok 1939.
Árið 1935 var að lokum stigið úrslitaskrefið í sambandsmálum okkar við umheiminn, er talsambandið var opnað við útlönd yfir stuttbylgjustöðina að Vatnsenda.
Með þeim atburði má segja, að ræst hafi fullkomlega þær vonir, sem litli fregnmiðinn frá Rauðarárstöðinni hafði vakið hjá þjóðinni fyrir 30 árum síðan.“

Jónas Þorbergsson

Jónas Þorbergsson (1885-1968).
Fyrsti útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins 1930–1953.

Í Útvarpstíðindum 1948 er birt úrdráttur úr ræðu útvarpsstjóra, „Íslendingar að verða fremstir meðal þjóðanna um útvarpsafnot„:

„Í upphafi máls síns gaf útvarpsstjóri stutta lýsingu á vexti stofnunarinnar. Gat hann þess, að haustið 1930, þegar fyrstu dagskrár útvarpsins voru færðar, hefðu talizt vera 450 útvarpsnotendur í landinu. En talan hækkaði fljótt og ört fyrstu árin, og er 1935 orðin rösk 12 þúsundir. Árið 1940 voru útvarpsnotendur orðnir rösklega 1-8 þúsund, 1943 voru þeir orðnir 26 þúsund og við árslok 1946 er tala útvarpsnotenda komin upp í 32 þúsund.
Á styrjaldarárunum seldi Ríkisútvarpið setuliðsherjum Bandaríkjanna nokkur afnot stöðvartækjanna á þeim tíma dags, sem þau voru ekki notuð vegna íslenzkrar dagskrár. Af þessu áskotnaðist nokkurt fé, og var þeim tekjum varið til stofnunar hins svonefnda framkvæmdasjóðs útvarpsins, sem stofnaður var 1944.“

Í Útvarpstíðindum 1949 eru upplýsingar frá skrifstofu útvarpsstjóra, „Endurbætur og aukningar á sendistöðvum Ríkisútvarpsins„:

Vatnsendahð

Vatnsendahæð – hluti tækjabúnaðrins.

„Vegna kaupa á varasendi til Vatnsendastöðvarinnar verður ekki hjá því komist að stækka stöðvarhúsið og umbæta það að öðru leyti. Hefir fjárhagsráð þegar veitt fjárfestingarleyfi til þessara framkvæmda, og standa vonir til að þær geti hafist í sumar, ef aðrar ástæður leyfa.“

Magnús Jóhannsson skrifaði í Iðnaðarmál 1956 um „Fræðslumyndir og segulhljóðritun“. Magnús var útvarpsvirkjameistari og stöðvarvörður við Útvarpsstöðina á Vatnsendahæð á árunum 1933—43.

Í Íslendingaþáttum Tímans 09.03.1974 er minningargrein um Dagfinn Sveinbjörnsson:

Dagfinnur

Dagfinnur Sveinbjörnsson.

„Dagfinnur vann ásamt Englendingum að uppsetningu útvarpsstöðvarinnar á Vatnsendahæð, og var við það þar til því verki lauk. Síðan gegndi hann yfirmagnarastarfinu við útvarpsstöðina í 3 1/2 áratug, þar til hann lét af því starfi fyrir aldurs sakir.“

Í Fálkanum 1951 segir; „Nýr útvarpssendir tekin í notkun„.

„Meðal ýmissa stórtíðinda, sem gerðust á þjóðhátiðardaginn, síðastl. sunnudag, er sérstaklega vert að geta þess, að þann dag var tekinn í notkun nýr sendir á ríkisútvarpsstöðinni á Vatnsendahœð. Með því er stórlega aukið öryggið á tryggum rekstri stöðvarinnar. Því að gamli sendirinn, sem notaður hefir verið alla tíð síðan Vatnsendastöðin tók til starfa, var orðinn úr sér genginn og bilanir ekki fátíðar.
Á föstudaginn var bauð yfirverkfræðingur Ríkisútvarpsins, Gunnlaugur Briem, blaðamönnum og útvarpsráði upp að Vatnsendahæð til þess að skoða hinn nýja sendi. Hann er frá Marconifélaginu, eins og sá gamli, sem notaður hefir verið síðan 21. des. 1930. Miklar framfarir hafa orðið í útvarpstækninni síðan þá, og nýi sendirinn er bókstaflega „allra nýjasta nýtt“ í þessari grein, því að hann er sá fyrsti af sinni gerð, sem Marconifélagið setur upp.
Sendirinn er 4 kw. sterkari en sá gamli, en þó svo miku fyrirferðarminni, að hann tekur ekki nema tæpan helming af rúmi gamla sendirsins. Meginmunurinn er sá, að hinn nýi er loftkældur en sá gamli var vatnskældur. Er mikið rekstursörggi og sparnaður að henni.En auk þess eru margar endurbætur á þessum sendi, ekki síst í þá átt að bæta tóngæðin.
Vatnsendahæð
Tveir menn frá Marconifélaginu hafa annast uppsetningu og prófun hins nýja sendis. Fyrst var hann prófaður í verksmiðjunni í tvo mánuði og siðan hafa prófanir farið fram á honum á Vatnsenda álíka langan tíma. Meðal annars var hann látinn starfa samfleytt i 24 tíma fyrir nokkru, einkum til þess að ganga úr skugga um hvort loftkælikerfið stæðist slíkt „Maraþonhlaup“. Hafa verkfræðingarnir A. T. Dunk og Stuart S. Spraggs annast allar þessar prófanir einkum sá síðarnefndi, sem hefir „fylkt“ sendinum síðan fyrstu prófanirnar byrjuðu í Chelmsford.
Árið 1930 kostaði útvarpsstöðin á Vatnsenda — hús og vélar — um 750.000 krónur. Það er til dæmis um „tæringu“ krónunnar, að nýi sendirinn kostar um 1,4 milljón krónur, en í þeim eru að vísu innifaldar um 300.000 krónur í tolla! Nú verður gagnger viðgerð og endurnýjun látin fara fram á gamla sendinum. Hún mun taka nokkra mánuði og síðan verður hann notaður til vara, ef eitthvað kynni að bjáta á með hinn. Öryggið fyrir útvarpsrekstrinum er þannig orðið hið besta, og Vatnsendastöðin mun framvegis jafnan getað skilað öllu því, sem í hana er látið.“

Í Degi 1960 er rætt við elsta starfsmann Útvarpsins, Davíð Árnason:

DavíðHvenær tók svo Ríkisútvarpið til starfa?
Í október 1930 byrjuðu tilraunaútsendingar frá stöðinni á Vatnsendahæð, en 20. desember um kvöldið, var stöðin hátíðlega opnuð og lýst yfir að Ríkisútvarpið væri tekið til starfa.
Manstu fyrstu dagskrána?
Já, hún er nú hérna, segir stöðvarstjórinn og réttir mér blað með fyrstu dagskránni. Hún var á þessa leið sunnudaginn 21. desember 1930.
Kl. 11,00: Messa í Dómkirkjunni (séra Friðrik Hallgrímsson).
Kl. 14,00: Messa í Fríkirkjunni (séra Árni Sigurðsson).
Kl. 16,10:  Barnasögur (frú Martha Kalman).
Kl. 19,25:  Grammofónn.
KI. 19,30: Veðurfregnir.
Kl.  19,40: Upplestur (Jón Pálsson).
Kl.  20,00: Tímamerki. Orgelleikur (Páll Ísólfsson).
Kl.  20,30: Erindi: Útvarpið og bækurnar (Sig. Nordal).
Kl.  20,50: Ýmislegt.
Kl.  21,00: Fréttir.
Kl.  21,10: Hfjóðfærasláttur (Þórarinn Guðmundsson fiðla, Emil Thoroddsen slagharpa). Leikin verða íslenzk þjóðlög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

En nú í vetur var sunnudagur, 20. desember. Hófst útvarp kl. 9,10 og var samfellt til kl. 23,30.
En þú varst á Eiðum. Hvenær fluttirðu þangað?
Árið 1938. Þá voru miklar framkvæmdir hjá Útvarpinu. — Stöðin á Vatnsendahæð, sem byggð var með 16 kw. orku í loftneti, var stækkuð í 100 kw.“

Á Mbl.is 09.03.2001 segir frá gömlum draug; „Nýting var í samræmi við eignarnámsheimild“:

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – loftmynd.

„Hæstiréttur hefur sýknað Landssíma Íslands hf. af kröfum um að fellt yrði út gildi eignarnám á spildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, sem fram fór árið 1947.

Erfingjar þáverandi jarðareiganda töldu að fullnægjandi lagaheimild hefði skort fyrir eignarnáminu, en jafnvel þótt hún hefði verið fyrir hendi bæri að ógilda eignarnámið þar sem fyrirhuguð nýting á jörðinni hefði ekki gengið eftir.
Ríkissjóður keypti land af bóndanum á Vatnsenda, fyrst árið 1929 og síðar stærri hlut, og var þar reist langbylgjustöð útvarpsins. Árið 1947 var stærri spilda úr jörðinni tekin eignarnámi og á sama tíma voru einnig teknar eignarnámi spildur úr Fífuhvammslandi og landi Vífilsstaða, sem báðar lágu að Rjúpnahæð. Alls var land Landssímans innan lögsagnarumdæmis Kópavogs þá tæpir 160 hektarar.

Vatnsendi

Vatnsendi.

Árið 1997 falaðist Kópavogskaupstaður eftir samningum við Landssímann um kaup á landi hans á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð. Landssíminn hafnaði kauptilboði í landareignina, en í framhaldi af því voru teknar upp viðræður, að frumkvæði Kópavogskaupstaðar, um að hluti landsins yrði tekinn undir skipulagt íbúðarsvæði og voru tilnefndir þrír mats­menn til að gefa álit á verðmæti landsins, ef til skipulagðrar byggðar kæmi. Tók matið til um það bil 100 hektara lands, en eingöngu að hluta til þess lands úr jörð Vatnsenda sem tekið var eignarnámi árið 1947. Samkvæmt matsgerðinni frá 1998 var verðmæti landsvæðisins alls metið 315 milljónir króna miðað við staðgreiðslu.

Vatnsendi

Vatnsendahæð – loftskeytastöðin.

Núverandi eigandi Vatnsenda hélt því fram að ef yrði af sölu á spildunni til Kópavogsbæjar undir íbúðarbyggð væru brostnar forsendur fyrir eignarnáminu, því það hefði verið framkvæmt á þeirri forsendu og með þeim skilyrðum að nota skyldi landið eingöngu í sambandi við lagningu og rekstur fjarskiptavirkja ríkisins. Sala landsins með margföldum hagnaði miðað við eignarnámsbætur fæli í sér grófa misnotkun á eignarnámsheimildinni.

Fyrir héraðsdómi kom fram, að Landssíminn hefði ekki áhuga á að selja landið til Kópavogsbæjar. Hins vegar gerði fyrirtækið sér grein fyrir að heimildir skipulagslaga geti leitt til þess að landið kunni að verða tekið eignarnámi án samþykkis fyrirtækisins, enda óhjákvæmilegt um síðir að þrengt verði að starfsemi þess á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð með einhvers konar íbúðarbyggð.

Skilyrðislaus eignayfirfærsla

Vatnsendi

Vatnsendahæð – loftskeytastöðin.

Hæstiréttur bendir á í dómi sínum að í afsalinu frá 1947 komi fram að umræddri landspildu sé afsalað eignarnema, að eignarnámsbætur hafi verið greiddar og að eignarnemi sé þar með lýstur fullkominn eigandi spildunnar. „Með eignarnáminu, eftirfarandi afsali og greiðslu eignarnámsbóta fór fram skilyrðislaus eignayfirfærsla á því landi sem hér um ræðir. Telja verður að sýnt hafi verið nægilega fram á að landið hafi eftir það verið tekið til notkunar í eðlilegu samræmi við tilgang eignarnámsins undir fjarskiptamannvirki eða sem verndar- og öryggissvæði þeim tengt. Verður því ekki fallist á með áfrýjanda að landið hafi ekki verið nýtt til þeirra þarfa, sem ákvörðun um eignarnám var réttlætt með. Eignarnámsþola verður ekki veittur réttur til að endurheimta eignarnumið land nema á grundvelli lagaheimildar eða vegna sérstakra aðstæðna,“ segir Hæstiréttur og bætir við að þar sem hvorugs njóti við í þessu máli séu ekki efni til að verða við kröfu um að Landssímanum verði gert að afhenda og afsala landeigendanum spildunni.“

Í Vísi 1965 segir af aðdraganda að komu Sjónvarps Útvarpsins; „Sjónvarpið sendir út„:

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – dyrahúnn frá fyrstu tíð.

„Í dag verður ef til vill gerð fyrsta tilraun með útsendingu kyrrstæðrar myndar frá lánssendi íslenzka sjónvarpsins á Vatnsendahæð. Er þessi kyrrstæða mynd, sem er misbreiðar línur og misdökkir fletir, til þess ætluð að sjá hvort útsending þessi næst á þau tæki sem í notkun eru í landinu.
Sent verður út á rás númer 11 samkv. Evrópukerfi en reglulegur útsendingartími hefur enn ekki verið ákveðinn.“

Í Dagblaðinu Vísi 1982 er umfjöllun um Vatnsendahæðarstöðina eftir rúmlega hálfrar aldar notkun; „Ný Langbylgjustöð kostar 100 milljónir„.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð.

„Ný langbylgjustöð fyrir Ríkisútvarpið kostar 100 milljónir króna. Menntamálaráðherra mun beita sér fyrir því að framkvæmdir við hana hefjist á næsta ári. Ætíar hann að leita fulltings Alþingis og fjárstuðnings úr ríkissjóði.

Gufuskálar

Gufuskálar – langbylgjumastur.

Gamla langbylgjustöðin á Vatnsendahæð er orðin 50 ára gömul og tæknimönnum þykja það mestu undur, að möstur hennar skuli enn hanga uppi.
Þetta kom fram i svari menntamálaráðherra, Ingvars Gíslasonar, á Alþingi. Í gær, þegar hann svaraði fyrirspurn Þorvaldar Garðars Kristjánssonar um málið. Í máli beggja, svo og Eiðs Guðnasonar, bar á miklum ugg vegna hins hrörlega ástands mastranna á Vatnsendahæð. Var vitnað i skýrslur sérfræðinga frá 1978, þar sem talið var furðulegt að möstrin stæðu og því lýst að þau gætu hvenær sem væri fallið í snörpum vindi.
Fyrirspyrjandi og Eiður Guðnason lögðu áherzlu á að ef möstur gömlu stöðvarinnar féllu, myndi taka ófyrirsjáanlegan tíma að koma aftur á langbylgjusendingum. En það myndi svipta marga landsmenn og sjómenn útvarpsnotum á meðan.
Ráðherrann kvað það sína skoðun, að enda þótt FM stöðvar þjónuðu æ stærri hluta landsins, dygði það ekki og langbylgjustöð yrði ómissandi til öryggis í útsendingum útvarps, ekki sízt til sjómanna. Þess vegna teidi hann að ríkissjóður ætti að koma til skjalanna og létta Ríkisútvarpinu byggingu nýrrar langbylgjustöðvar. Tók Eiður undir það, en Þorvaldur Garðar kvað litlu skipta hvaðan fé kæmi, það kæmi að lokum úr vösum skattborgaranna.
Aðalatriðið væri að koma nýju stöðinni upp áður en áföll dyndu yfir.“ – HERB

Í Tímanum 1983 er umfjöllun; „Vatnsendastöðin sífellt hrörlegri„:

Langbylgjustödin áfram fjarlægur draumur – Vatnsendastöðin sífellt hrörlegri

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – ljósdarofar.

„Þetta er eitt af þeim þarfaverkum sem bíða síns tíma,“ sagði Hörður Vilhjálmsson fjármálastjóri Ríkisútvarpsins þegar Tíminn spurði hann hvað miðaði með byggingu nýrrar langbylgjustöðvar fyrir útvarpið austan fjalls, sem hugmyndir hafa lengi verið uppi um.

Útvarp

Marconi sendirinn frá 1951 á Vatnsendahæð.

„Til að koma á fót þessari stöð þarf gífurlegt fjármagn og við höfum ekki séð hana sem viðráðanlegt verkefni ennþá.
Það hafa farið fram nokkrar undirbúningsrannsóknir, en meira hefur ekki gerst í málinu. Hins vegar er þetta ákaflega brýnt verkefni og sameiginleg þörf sem á það kallar frá mörgu tilliti.
Fyrst er að nefna að þetta myndi opna útsendingarleið ef FM kerfið brygðist, en það byggir eins og kunnugt er á nokkurs konar þrepaflutningi frá einum sendi til annars um landið. Langbylgjustöð yrði hins vegar svo langdræg að hún myndi nýtast öllum landsmönnum ef FM og örbylgjukerfið færi út. Þannig er hún mjög mikilvæg vegna öryggismála þjóðarinnar og eins vegna miðanna í kringum landið.“
Hvernig er ástandið á langbylgjustöðinni á Vatnsenda?
„Stöðin þar var reist árið 1929 og nú hefur ekkert verið gert fyrir hana í mörg ár. Möstrin halda áfram að ryðga og eru orðin mjög illa farin af ryði. Þetta felur í sér vissa áhættu. En ein ástæðan fyrir því að viðhald á möstrunum er í algeru lágmarki er kannske sú að menn eru alltaf að gæla við hugmyndir um nýja langbylgjustöð“. – -JGK

Í Dagblaðinu Vísi 1991 er fyrirsögnin; „Sá mastrið liggja lárétt í loftinu„:

Annað stórmastrið á Vatnsenda féll til jarðar – dæmt til falls fyrir 20 árum

Vatnesndahæð
„Mér var litið upp á Vatnsendahæðina skömmu eftir hádegi og skyndilega sá ég annað stórmastrið feykjast af undirstöðunni og liggja eins og lárétt í loftinu. Síðan endastakkst það með miklum látum er það féll til jarðar. Þetta var ansi tilkomumikil sjón,“ sgði Guðjón Hilmar Jónsson, íbúi við Yrsufell; í samtali við DV. Annað stórmastrið, langbylgjumastrið á Vatnsenda, féll til jarðar í verstu rokunum eftir hádegi í gær. Féll mastrið klukkan 13.20. Stóð aðeins neðsti hluti þess eftir og stögin í hann.

Vatnsendi

Vatnsendahæð 1967.

Mastrið var reist fyrir 1930 og því orðið rúmlega 60 ára gamalt. Að sögn Eyjólfs Valdimarssonar, framkvæmdastjóra tæknideildar Ríkisútvarpsins, voru menn í mörg ár búnir að búast við falli Vatnsendamastranna. Fyrir 20 árum varaði verkfræðiskrifstofa alvarlega við ástandi þeirra og lagði til að þau yrðu tekin niöur. Uppfylltu möstrin engan veginn kröfur um styrkleika og burðarþol. Með mastrinu er langbylgjustöð Ríkisútvarpsins óvirk þannig að á afskekktum stöðum og úti á sjó, þar sem eingöngu er notuð langbylgja, heyrist Ríkisútvarpið ekki lengur.
„Við munum kanna uppsetningu bráðabirgðasendis strax í dag en hann mun ekki senda út með sama styrkleika. Þá munum við senda út á stuttbylgju, þeirri sömu og fréttasendingar til útlanda hafa farið um. Langbylgjusendirinn á Eiðum er enn virkur og sinnir Austurlandi áfram.“
Eyjólfur sagði að bygging nýrrar langbylgjustöðvar tæki 2-3 ár og yrði hún sennilega reist austur í Flóa. Hann sagði Vatnsenda löngu úreltan stað fyrir langbylgjustöð og hefði aldrei staðið til að byggja þar nýja stöð.“ -hlh

Í Morgunblaðinu 1991 er fjallað um „Langbylgjustöðina á Vatnsendahæð„:

Vatnsendahæð„Talið er að það muni kosta um fimm til fimmtán milljónir að gera við langbylgjustöð Ríkisútvarpsins á Vatnsendahæð til bráðabirgða. Ákveðið hefur verið að byggja nýja langbylgjustöð á næstu árum.
Svavar Gestsson menntamálaráðherra lagði í gær fyrir ríkisstjórnina hugmyndir um hvað gera þurfi til að koma langbylgjusendinum í samt lag.

Undirbúa þarf kostnaðaráætlun
vegna byggingar nýrrar langbylgjustöðvar. Fara þarf yfir forsendur lánsfjárlaga fyrir árið 1991, en þar er gert ráð fyrir því að fella niður fastan tekjustofn sem Ríkisútvarpið hafði til 1986, og sjá til þess að þessar tekjur gangi aftur til Ríkisútvarpsins í stað ríkissjóðs. Einnig er áætlað að grípa til ákveðinna bráðabirgðaráðstafana á Vatnsendahæð á meðan beðið er eftir að endanleg úrlausn fáist, en það er talið taka nokkur ár.
Svavar sagði að ekki hefði verið kannað hvort hagkvæmara væri að leigja rás í gervihnetti og útvarpa þannig á langbylgju. „Ég held að þjóðir sem eru mjög gervihnattavæddar séu allar með langbylgjumöstur af þessu tagi þannig að ég hygg að það verði ekki hjá því komist að reisa nýja langbylgjustöð,“ sagði menntamálaráðherra.

Býður hættunni heim“ – segir starfsmaður „Skyldunnar
Hrun langbylgjustöðvarinnar hefur skapað erfiðleika enda ná örbylgjusendingar útvarpsins (FM) ekki út á miðin. Að sögn Arna Sigurbjðrnssonar, starfsmanns Tilkynningaskyldunnar, er ástandið slæmt, þótt sjómenn geti nálgast veðurfregnir með öðrum hætti. Erfitt væri að lýsa eftir bátum sem ekki gefa upplýsingar til Tilkynningaskyldunnar.
„Ástandið er ekki alvarlegt núna enda meirihluti flotans í landi,“ sagði Árni. Hann sagði að ástandið gæti orðið alvarlegt ef skyndilega gerði óveður. „Þetta býður hættunni heim og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að koma upp langbylgjustöð,“ sagði Árni.

Gunnlaugar H. Jónsson skrifar grein í Morgunblaðið 1991 undir fyrirsögninni „Langbylgjusendir, fortíð eða framtíð„:

Vatnsendahæð

Hús langbylgjunnar á Vatnsendahæð.

„Rúm sextíu ár eru liðin síðan íslenska þjóðin réðst í það stórvirki að reisa langbylgjustöð á Vatnsendahæð austan Reykjavíkur. Það var upþhafið að þeirri fjölmiðlabyltingu sem við nú upplifum.
Í áratugi var „Útvarp Reykjavík“ (nú rás 1) eini ljósvakafjölmiðill Íslendinga og mörg kvöld sátu landsmenn sem límdir við viðtækin og hlustuðu á upplestur á sögum eins og „Bör Börson“ eða á spennandi framhaldsleikrit, svo sem „Með kveðju frá Gregory“.
En nú er öldin önnur. Landsmenn geta flestir valið úr einni eða fleiri FM-steríó-rásum, einni eða tveim sjónvarpsrásum og sumir hafa gervihnattamóttakara, sem tekur á móti tugum sjónvarpsrása. Fæstir hafa þeir hlustað á langbylgju á viðtækinu sínu svo árum skiptir. Raunar er vafamál að þeir eigi viðtæki með langbylgju. Síðustu tíu árin hef ég keypt stereó-viðtæki í bílinn, útvarpsvekjara í svefnherbergið, stereó-græjur í stofuna og lítið útvarp í eldhúsið, auk þeirra viðtækja sem börnin hafa eignast. Öll eiga þessi viðtæki það samgeiginlegt að það er engin langbylgja á þeim.
VatnsendahæðÉg vaknaði því upp við vondan draum þegar ég uppgötvaði að helsta öryggistæki landsmanna, langbylgjusendirinn á Vatnsendahæð, sem hafði verið helsta skemmtun mín í æsku, var hrunið. Þá skildi ég að ég hafði stofnað mér og mínum í verulega hættu árum saman með því að kaupa ávallt viðtæki án langbylgju. Eina huggun mín er sú að í gamla bílnum er enn viðtæki með langbylgju. Sá bíll er hins vegar ávallt skilinn eftir heima því einu stöðvarnar sem hægt er að hlusta á í þeim bíl eru „gamla gufan“ og „kaninn“.
Þegar Íslendingar reistu langlínusendinn á sínum tíma voru þeir að fjárfesta í framtíðinni, sendirinn hefur dugað í rúm sextíu ár, enda þótt mikilvægi hans fari ört minnkandi. Spurning dagsins er hvort 700-1.000 milljóna fjárfesting í nýjum landbylgjusendi er fjárfest

Öryggistækni fortíðarinnar eða framtíðarinnar
Á þeimn 20 árum sem rætt hefur verið um að endurnýja langlínusendinn hefur fjarskiptatækni breyst ótrúlega mikið hér á landi. Í stað koparvíra á staurum og langbylgjusenda, sem fluttu lágtíðni rafsegulbylgjur, hafa komið ljósleiðarar í jörðu og gervihnattasendar. Þessi nýja tækni bíður upp á margfalda flutningsgetu, sem öll nýrri viðtæki eru gerð til að nýta með steró-hljómi og/eða sjónvarpi. Það er skoðun mín að enda þótt enn megi finna framleiðendur sem geta framleitt langbylgjusenda þá sé þess ekki langt að bíða að almenningur í landinu geti ekki hlustað á langbylgjuna vegna þess að viðtækin sem seld eru í heiminum í dag eru almennt ekki gerð fyrir langbylgju. Hvers virði er almannavarnakerfi sem almenningur hlustar ekki á?

VatnsendahæðÍ Dagblaðinu Vísi 6. febrúar var birt viðtal við skipstjóra á millilandaskipi þar sem fram kom að eftir að langbylgjan datt út hafi stórbatnað skilyrði til þess að hlusta á veðurfregnir, sem sé nú útvarpað á stuttbylgju. Bandaríkjamenn eru mjög áhugasamir um öryggi og almannavarnir og búa í landi sem er nær 100 sinnum stærra en Ísland. Þeir hafa valið að nota svo til eingöngu miðbylgju og FM-bylgju til útvarpssendinga, enda er vandfundið viðtæki í því landi sem hefur langbylgju.
Áður en íslenska þjóðin leggur fram 1.000 milljónir, eða sem samsvarar milljón á hvert skip í flotanum, ættu Íslendingar að staldra við og íhuga hvernig öryggi í fjarskiptum verður best tryggt næstu 60 árin. (Þetta samsvarar 16.000 kr. á hverja vísitölufjölskyldu og má fá fyrir þann pening vandað stereó-viðtæki með FM-bylgju, miðbylgju og stuttbylgju, sem blaðamenn nota á ferðalögum til að hlusta á stuttbylgjusendingar úr öllum heimshornum.) Á næstunni verður lokið við að hringtengja ljósleiðara um landið.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – fornleifar…

Þróun á sjálfvirku tilkynningakerfi fyrir skip er að ljúka. Næsta skref er að koma því upp hringinn í kringum landið ef það er tæknilega og fjárhagslega hagkvæmt. Mörg skip hafa aðstöðu til að taka á móti upplýsingum, þar á meðal veðurkortum og GPS-staðsetningum frá gervihnöttum.

Útvarp

LW Vatnsendi 1965 – stjórnborð.

Fyrir 1.000 milljónir má gera mikið í öryggismálum þjóðarinnar bæði til sjós og lands og til að styrkja ljósleiðara- og FM- og sjónvarpsdreifikerfið. Hægt væri að koma upp stuttbylgju- eða miðbylgjusendi á hverju landshorni (kannski í tengslum við radarstöðvarnar.)
Í guðana bænum landar, ekki taka ákvörðun daginn eftir fall langlínumasturs, sem enginn hefur nennt að halda við í 20 ár með þeim afleiðingum að ein festing ryðgar í sundur niðri við jörð. Það má vera að alþingismenn hafi móral yfir því að hafa á undanförnum árum haft fé af ríkisútvarpinu, og vilji nú bæta úr fyrir kosningar. Hafi Alþingi nú úr digrum sjóðum að spila, skulum við nýta þá peninga í þágu framtíðarinnar, þannig að þeir komi að sem bestum notum, að bestu manna yfirsýn, næstu 60 árin. Leggjumst undir feld í þrjá daga að minnsta kosti og tökum ákvörðun að íhuguðu máli.“ – Höfundur er eðlisfræðingur og rekstrarhagfræðingur, starfar hjá Háskóla Íslands.

Nokkur atriði úr sögu Útvarpsins:

1928 Lög um heimild handa ríkisstjórninni til einkarekstrar á útvarpi.
1929 Fyrsta útvarpsráð skipað.
1930 Jónas Þorbergsson skipaður útvarpsstjóri. Ný lög um útvarp ríkisins.
Settur upp langbylgjusendir á Vatnsendahæð við reykjavík (16 kW), og dagskrársending Ríkisútvarpsins hafin.
1931 Ríkisutvarpið flytur úr Hafnarstræti 10 í Reykjavík í hús Landssímans við Austurvöll.
1934 Ný útvarpslög.
1938 Tekinn í notkun nýr sendir á Vatnsendahæð (langbylgja – 100 kW).

Vatnsendahæð

Stálþráðsupptæki útvarpsins á Vatnsendahæð.

1947 Ríkisútvarpið eignast stálþráðatæki, sem breytti mjög aðstöðu til upptöku útvarpsefnis.
1950 Enn gagngerðari varð þó breytingin þegar segulbandstækin komu til sögunnar 1950.
1952 Hafði endurvarp frá sendi á Hornarfirði (miðb. 1 kW).
1953 Vilhjálmur Þ. Gíslason skipaður útvarpsstjóri.
1958 FM-útsendingar hafnar frá Vatnsendahæð.

Vatnsendahæð

Landssímahúsið við Austurvöll.

1959 Ríkisútvarpið flytur úr húsi Landssímans í hús Rannsóknarstofnunnar sjávarútvegsins að Skúlagötu 4 í Reykjavík.
1964 Ríkisútvarpinu falið að hefja undirbúning að íslensku sjónvarpi.
1965 Nýr langbylgjusendir (100 kW) settur upp á Vatnsendahæð.
1966 Ríkisútvarpið kaupir meginhluta húseignarinnar Laugavegur 176 í Reykjavík fyrir sjónvarpsrekstur. Hafin útsending sjónvarpsdagskrár (30.09.).
1970 Stofnaður Framkvæmdarsjórður Ríkisútvarpsins.
1971 Ný útvarpslög.
1974 Birt ný almenn reglugerð um Ríkisútvarpið.
1975 Útvarpslögunum breytt.
1977 Hafnar útsendingar í lit.
1978 Gengið frá samningum um lóð fyrir útvarpshús við Efstaleiti.
1980 Hafnar víðómsútsendingar í útvarpi.
1981 Fyrsta fréttasending Sjónvarpsins um gervitungl.
1982 Fyrsta móttaka knattspyrnuleiks í gegnum gerfitungl.
1985 Markús Örn Antonsson skipaður útvarpsstjóri.
1986 Ný reglugerð sett um Ríkisútvarpið.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið við Efstaleiti.

1987 Útvarpið flytur í eigið húsnæði í Efstaleiti 1.
1991 Heimir Steinsson skiðapur útvarpsstjóri.
1994 FM-sendum Útvarps og Sjónvarps fjölgað til muna.

Nánast allt framangreint, utan skipan útvarpstjóra, hefði sennilega aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstuðlan langbylgjustöðvarinnar á Vatnsendahæð?

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – loftmynd.

Rekstri langbylgjustöðvarinnar á Vatnsendahæð hefur nú verið hætt. Hluti starfseminnar hefur verið flutt í aðra senda, s.s. á Úlfarsfelli, en meginstarfsemin verður áfram rekin á Gufuskálum. Um afdrif fyrirliggjandi uppsafnaðs tækjabúnaðar er óljós. Ýmis söfn munu þó njóta góðs af, s.s. Herminjasafnið í Hvalfirði, Minjasafnið á Skógum, Þjóðminjasafnið og safn Rafniðnaðarsambandsins. Þá mun leik- og kvikmyndageirinn njóta góðs af ýmsum heimilistækjabúnaði, sem safnað hefur verið í gegnum tíðina.
Húsnæðið á Vatnsendahæð er ekki eins illa farið og Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar, vill vera láta. Vandað var til byggingarinnar í upphafi og hún er alls ekki asbestbygging. Hliðarbyggingar; geymslur og skúrar, voru reyndar byggðar af vanefnum.
Húsnæðið geymir ekki einungis sögulegar minjar, sem ástæða er til að varðveita. Það er í raun vitnisburður um þróun samfélagsins frá nýlegri fortíð til nútíðar. Vonandi verður byggingunni fundið nýtt og viðeigandi hlutverk í framtíðinni er endurspeglar merkilega sögu þess í íslensku samhengi.

Heimildir:
-Mbl.is 09.03. 2001 – https://www.mbl.is/frettir/innlent/2001/03/09/nyting_var_i_samraemi_vid_eignarnamsheimild/
-Dagblaðið Vísir, 81. tbl. 07.04.1982, Ný Langbylgjustöð kostar 100 milljónir, bls. 3.
-Morgunblaðið, 30. tbl. 06.02.1991, Langbylgjustöðin á Vatnsendahæð, bls. 18.
-Dagblaðið Vísir, 29. tbl. 04.02.1991, Sá mastrið liggja lárétt í loftinu, bls. 33.
-Morgunblaðið, 42. tbl. 20.02.1991, Langbylgjusendir, fortíð eða framtíð. Gunnlaugur H. Jónsson, bls. 34.
-Tíminn, 119. tbl. 27.05.1983, Vatnsendastöðin sílefflt hrörlegri, bls. 2.
-Vísir, 293. tbl 22.12.1965, Sjónvarpið sendir út, bls. 16.
-Fálkinn, 31. tbl. 06.08.1938, Vígsla útvarpsstöðvarinnar, bls. 14
-Fálkinn, 24. tbl. 22.06.1951, Nýr útvarpssendir tekin í notkun, bls. 2.
-Íslendingaþærrir Tímans, 9. tbl. 09.03.1974, Dagfinnur Sveinbjörnsson, bls. 10.
-Útvarpstíðindi, 4. tbl. 07.11.1938, Stækkun útvarpsstöðvarinnar, Gunnlaugur Briem, verkfræðingur, bls. 56-57.
-Verslunartíðindi, 7. tbl. 01.07.1935, Talsamband við útlönd, bls. 76-77.
-Útvarpstíðindi, 21. tbl. 06.03.1939, Um veðurfregnir, Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, bls. 320-321.
-Útvarpstíðindi, 1. tbl. 12.01.1948, Íslendingar að verða fremstir meðal þjóðanna um útvarpsafnot, Úrdráttur úr ræðu útvarpsstjóra, bls. 5-6.
-Útvarpstíðindi, 10. tbl. 13.06.1949, Endurbætur og aukningar á sendistöðvum Ríkisútvarpsins, Frá skrifstofu útvarpsstjóra, bls. 220.
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 08.06.1941, Draumurinn sem rættist, Friðrik Halldórsson, bls. 30.
-Iðnaðarmál, 1. tbl. 01.01.1956, Fræðslumyndir og segulhljóðritun, Magnús Jóhannsson, bls. 6.
-Dagur, 14. tbl. 23.03.1960, Rætt við elsta starfsmann Útvarpsins, Davíð Árnason, bls. 2.
-Morgunblaðið 15.09.2020, Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – einn af sendunum…

Árbæjarsafn

Eftirfarandi ábending barst FERLIR um tiltekna „steinhellu“ við kirkjuna í Árbæjarsafni:

Árbæjarsafn - steinhella

Árbæjarsafn – steinhella.

„Við kirkjuna í Árbæjarsafni er leturhella. Hún fannst á Túngötu 4 og var þar yfir þró. Gæti mögulega hafa verið við landnámsbæinn fyrrum. Síðan var hún flutt í Árbæjarsafn og hefur legið þar óbætt hjá garði.
Getið þið frætt mig meira um helluna þá arna, t.d. hvað stendur á henni og hvaðan hún er upprunnin?“

Fyrirspurn var send Árbæjarsafninu.  Anna Lísa Guðmundsdóttir, fornleifafræðingur svaraði bæði fljótt og vel:
„Þetta er ekki leturhella svo ég viti. Hún fannst upphaflega við Tjarngötu 4. Í Sapur.is er m.a. getið um steinhelluna“; „Steinhella við kirkjugarðsvegginn, sunnan við kirkjuna á Árbæjarsafni. Þegar grafinn var grunnur fyrir húsinu Tjarnagötu 4, Steindórsprent árið 1944, var við uppgröftinn komið niður á fornleifar, þar á meðal þessa stóru hellu. Hellan lá yfir þró eða ræsi, hellan var fjarlægð og flutt að húsi Steindórs, Suðurgötu 8 B. Síðan árið 1966 á Árbæjarsafn. Þorkell Grímsson, fornleifafræðingur, rannsakað helluna, og taldi að líkindum væri um stéttarhellu eða gólfhellu að ræða úr fornaldarhúsi því, sem leifar fundust af, þegar grafið var fyrir grunni Steindórsprents vorið 1944. Bjarni F. Einarsson telur helluna ekki vera gangahellu.“

Steinhellan
Í Tímanum 1963 er fyrirsögn yfir frétt um „Helluna, sem kom af tilviljun í leitirnar eftir 19 ár„:
„Nýlega komst upp um tilvist fornaldarhellu, sem legið hefur að húsabaki að Suðurgötu 86 í ein nítján ár. Bílstjóri nokkur, sem keyrt hafði helluna að Suðurgötunni fyrir nítján árum, minntist á hana nýlegia af tilviljun við Helga Hjörvar, og varð það til þess að farið var að rannska, hvernig á henni stæði.

Tjarnargata

Málverk Jóns Helgasonar sem sýnir Reykjavík um aldamótin 1800. Örin bendir á torfbæi sem voru þar sem nú er Tjarnargata 4-6. Þarna stóðu á þessum tíma bæirnir Brúnsbær, Teitsbær auk þess stóð Zuggersbær á sömu slóðum, rétt austan við Brúnsbæ. Óljóst er hvenær fyrst var búið á þeim stað sem Brúnsbær stóð en getið er um bæinn sem hluta af Reykjavíkurbæjunum 1759, en bærinn var rifinn 1834. Teitsbær var reistur árið 1797 og stóð til 1850. Zuggerbær var upphaflega smiðja Innréttinganna, en var síðar búið í. Var þar sem nú er Kirkjustræti 4. Um 1845 stóð til að byggja upp bæinn en yfirvöld bönnuðu það, vildu ekki torfbæi í hjarta bæjarins. Eftir það var bygging torfbæja í miðbænum bönnuð en torfbæir risu áfram umhverfis bæinn. Timburhús reis á sama stað og Zuggerbær var árið 1847 og stóð til 1897 þegar nýtt hús var byggt þar í stað.

Þorkell Grímsson, fornleifafræðingur, sem rannsakað hefur helluna, sagði blaðinu í dag, að hér væri að líkindum um stéttarhellu eða gólfhellu að ræða úr fornaldarhúsi því, sem leifar fundust af, þegar grafið var fyrir grunni Steindórsprents vorið 1944. Þá fengu náttúrufræðingar að fylgjast með greftrinum og kanna þær fornminjar, sem upp komu. Matthías Þórðarson, sem þá var þjóðminjavörður, skrifaði um þann fund, og taldi hann sterkar líkur á, að þetta væru leifar frá því í fornöld. Ýmsir hafa jafnvel haldið því fram, að þarna væri um bæ Ingólfs Arnarsonar að ræða Nú fyrir nokkrum dögum vildi svo til, að Ólafur Einarsson, bílstjóri, sagði Helga Hjörvar frá því, að hann hefði keyrt stóra hellu úr grunninum að húsi Steindórs við Suðurgötu þetta sama ár.
Við nánari eftirgrennslan kom í ljós, að hellan hafði fundizt innan um aðrar fornar byggingarleifar mjög djúpt sunnarlega í grunninum, skammt frá eldstó, sem þar var. Ólafur hafði ekið henni heim á Lóð Steindórs fyrir hann og kom ið henni fyrir á bak við hús, þar sem húh hefur legið síðan, án þess að vitað væri um hana Hellan er mjög stór, 1,77 m á lengd og talsvert breið, vel flöt, með grastó á röndinni. Sagðist Þorkell búast við, að hellan mundi hafna í Þjóðminjasafninu, og hún yrði rannsökuð nánar. en ekki bjóst hann við, að rannsóknin mundi leiða frekara í ljós en þegar hefur komið fram.“

Í Morgunblaðiðinu  11. febr. 1964 er grein með fyrirsögninni „Hlóðahella eða gangnahella“ eftir Helgi Hjörvar:

Er fundin dyrahellan úr fyrsta vetrarskála Ingólfs í Reykjavík?

Tjarnargata 4
„Helgi Hjörvar flutti erindi í útvarpið s.l. sunnudag um það sem hann kallar „Hlóðahella Hallveigar“, í erindinu faerði hann eftirtektarverð rök að þvi, að þessi stóra hella, sem menn héldu að væri týnd, en kom í leitirnar s.l. sumar, mundi vera gangahella, innan þröskulds, úr ævafornum skála, sem allt bendi til að hafi verið fyrsti vetrarskáli Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík.

Tjarnargata

Hluti af korti Lottins frá 1836, því sama og á myndinni fyrir ofan. Þarna má sjá Teitsbæ og Suðurbæ. Athygli vekur að önnur hús á myndinni eru númeruð, ekki hefur þótt þörf á að skrá torfbæina þar sem alþýðan bjó.

Það er kunnugt af fyrri skrifum Helga um þetta mál, að afstaða hellunnar og dýpt hennar í jörðu er áður kunn, því að rétt við helluna fundust fornar hlóðir eða „seyðir“, en mælingamaður ákvarðaði legu hlóðanna; botn þeirra 2,30 metra undir Tjarnargötu á þéttri og hreinni sjávarmöl. Stóra hellan mun hafa verið svo sem þverhönd hærra.
Helgi Hjörvar hefur kannað vandlega þær heimildir, sem um þetta er að hafa, þar með einkum merkilegan vitnisburð verkstjórans við kjallaragröftinn fyrir Steindórsprenti, Jóns Jónssonar á Meistaravöllum.
Helgi hafði skrifað um það í Morgunblaðinu 1961 með mikilli hneykslan, að slíkum fornmenjum sem hellan er og einkum hlóðin hefði verið tortímt í óðagoti. Nú bar svo til í júní s.l. vor, að Ólafur Einarsson, gamalkunnur Reykvíkingur og bílstjóri, veik sér að Helga á Hverfisgötunni og sagði við hann, að það hefði dregizt fyrir sér að tala við hann um „helluna hans Ingólfs“. „Hún var ekki brotin“, sagði hann, „og það var ég sem ók henni burt er grunnurinn var grafinn fyrir Steindór. Ég ók henni fyrir Steindór upp úr grunninum og upp á lóðina bak við húsið hans í Suðurgötu 8A. Ég held að hún sé þar enn.“
Og svo reyndist.

Tjarnargata

Málverk Jóns Helgasonar af Suðurgötu árið 1839, málað 60 árum síðar. Sjá má torfbæina Teitsbæ og Suðurbæ. Óvíst er hvenær Suðurbær, eða Suðurbæir, voru reistir en getið er um bæinn í manntali árið 1845 og þá tvíbýlt. Þóttu örgustu óþrifabæli og voru rifnir 1868. Ólafur Jónsson sem fyrstur var settur í gapastokk í Reykjavík 1804 bjó þar, einnig Guðmundur bæjarböðull og fleira skrautlegt fólk.

„Stóra hellan var þar og er þar enn, óbrotin,“ sagði Helgi er blaðið ræddi við hann í gær.
„Það hefur verið mikið tekið eftir erindi minu í gær, það leynir sér ekki. En ég var búinn að skrifa um þetta og segja meira en að hálfu leyti frá þessu í útvarpi, en það er eins og enginn hafi lesið þetta eða heyrt það, allra sízt viljað skilja það fyrr en nú. Vera má, að einhverjir vakni nú, sem vildu mega sofa.
Kjarni þessa máls er nú svo einfaldur sem verða má. Alþingi er enn háð í túni Þorsteins Ingólfssonar, sem stofnaði þetta þing og grundvallaði þjóðfélag á Íslandi fyrir meira en 1030 árum; þinghúsið sjálft stendur rúma húslengd frá bæjartóftum Ingólfs og Þorsteins. En nú hefur verið sagt harla berum orðum á Alþingi sjálfu, að tveir þingmenn (fleiri gáfu sig ekki fram) muni mælast til þess við elskulega þingbræður sína, að þeir vildu nú hagræða þessu fornfálega Alþingi upp á kviktré og lyfta hræi þess út í forarmýri, burt af þessu gróna og gamla túni. Efni málsins er það eitt, hversu margir af útvöldum fulltrúum íslenzkrar þjóðar vilji nú lostugir lána eiðsvarnar hendur sínar undir svo skörnuga og blóðuga börukjálka.“

Í Þjóðviljanum 2. júlí 1966 er grein um „Hlóðastein og hestastein úr Lækjargötu„:

Tjarnargata 4
„Árbæjarsafnið hefur nú verið opnað almenningi og veitingar hafnar í Dillonshúsi og er þetta tíunda sumarið sem safnið er opið. Safnið var opnað 21. júní og nú um helgina verður fyrsta glímusýningin en ætlunin er að sýna um helgar glímu og þjóðdansa á palli utanhúss þegar veður leyfir, eins og verið hefur undanfarin sumur.“

Í Vikunni 1944, segir um „Fundnar fornleifar í Reykjavík“ í frásögn Matthíasar Þórðasonar:

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn.

„Það varð sögulegra en flesta Reykvíkinga mun hafa grunað, þegar Steindór Gunnarsson prentsmiðjueigandi lét fara að grafa í grunninn undir og hjá gamla husinu Tjarnargötu nr. 4 í Reykjavík fyrir nýju stórhýsi, sem hann ætlar að fara að reisa þar fyrir prentsmiju sína. Staðurinn var að sönnu merkisstaður, og húsið, sem nú var rifið, var orðið um 110 ára gamalt. Þar hafði Stefán Gunnlögsson búið 1834—37, þegar hann var sýslumaður, þar dó Einar snikkari Helgason fyrir réttum 100 árum, og hafði þá átt húsið og búið í því í 3 ár; þar ólzt Helgi, sonur hans, upp, sem varð hér síðar barnaskólastjóri og þjóðkunnur maður, og bjó móðir hans, madama Margrét, í húsinu til dauðadags, 1856. Þá var það kallað Helgesenshús.

Tjarnargata

Kort Lottins frá 1836 lagt ofan á núverandi borgarkort. Torfbæirnir Teitsbæ og Suðurbær stóðu þar sem í dag er Tjarnargata 6 og 8 sem er í dag bílastæði. Þarna er nýlega búið að rífa torfbæinn Brúnsbæ og byggja timburhús á sama stað sem stóð næstu 110 árin. Húsið er merkt sýslumannshús en Stefán Gunnlaugsson sýslumaður bjó þar frá 1834—1837.

Er þetta eftir frásögn Jóns byskups Helgasonar í riti hans um Reykjavík 14 vetra. Enn síðar bjuggu í þessu húsi ýmsir aðrir merkir menn og konur, skamman tíma hver. Þótti húsið lengi snotur bústaður, enda var þá vel um það gengið jafnan. Hér eru nú ekki við höndina húsvitjanabækur prestanna, nema frá tímabilinu 1868—89, um 20 ár. Á árunum 1869—76 bjó þar frú Anna Tærgesen, ekkja P. R. Tærgesens kaupmanns, með börnum þeirra, og 1877—78 frk. Christiane Thomsen, er lengi hafði verið hjá þeim. Árin 1879—80 bjó þar Edv. Siemsen, fyrrv. kaupmaður, og næsta ár ekkja hans, frú Sigríður Siemsen, cn 1882 tengdasonur hennar, Sveinn kaupmaður Guðmundsson frá Búðum, með fjölskyldu sinni. Árið 1884 bió frú Ragnheiður Christjánsson, – ekkja Kristjáns amtmanns, í þessu húsi, og 1886 séra Stcfán Thorarensen, en 1887 —88 frú Kristíana Jónassen, ekkja Jónasar E. Jónassens verzlunarstióra. Og árið 1889 bjó þar ekkjan Solveig Guðlaugsdóttir, og voru hjá henni móðir hennar, háöldruð, og fósturdóttir, Stefanía Guðmundsdóttir, þá 13 ára.
En staðurinn átti sér langa sögu áður en þetta litla timburhús var reist, því að á þessum sama stað hafði þegar skömmu eftir miðja 18. öld verið reist eitt af húsum iðnaðarstofnananna, sem Skúli landfógeti Magnússon gekkst fyrir, að komið yrði á fót hér, og jörðin Reykjavík hafði verið gefin í ársbyrjun 1752. Það hús var reist handa beyki stofnananna, var hlaðið úr torfi, og grjóti, svo sem flest hús þeirra, dálítill torfbær, og var þar bústaður og vinnustofa beykisins. Þegar hús stofnananna voru seld, keypti dönsk kona, madama Christine Bruun, ekkja Sigvardts Bruuns fangavarðar, bæinn, árið 1791. Nokkru eftir aldamótin varð hann aftur aðsetursstaður beykis; bjó þar, þá sænskur beykir, er hét Peter Malmquist, og kona hans sem var hér ljósmóðir. Þegar Jörgen Jörgensen kom hingað í fyrra skiptið, í ársbyrjun 1809, sem túlkur James Savignacs verzlunarstjóra, fengu þeir inni hjá Malmquist, og átti Jörgen Jörgensen þar heima, unz hann fór utan aftur í marz sama ár. Kom Malmquist mikið við stjórnarbylting Jörgensens, er hann stóð fyrir, þegar hann kom hingað aftur um sumarið, svo sem kunnugt er af sögu hans. Malmquist fór utan 1812 og kom ekki aftur, en Brúnsbær mun hafa staðið um 20 ár eftir það, og þó varla án mikilla endurbóta, eða jafnvel endurbygginga að einhverju leyti.

— Við grunngröftinn nú kom fram mikið að hleðslusteinum, sem sennilega eru úr honum, grjóti ofan úr holtum og neðan úr fjöru, en ekki sýndu neinar veggjaleifar eða annað, að verið hefði á síðari tímum neitt hús nákvæmlega á þessum sama stað, sem Brúnsbær mun hafa staðið á, en í vesturhorninu í grunninum komu fram allmiklar grjóthleðslur 1—2 m. í jörðu.
Hleðslugrjótið, sem ætla má, að verið hafi úr Brúnsbæ, var að sönnu einnig um 1—l l/2 m. í jörðu nú, en það kom í ljós við gröftinn, að þykkt lag af mold, ösku o. fl. hafði hlaðizt ofan á óhreifða jörð á öllu svæðinu, ofaná lag það af fremur smágerðri sjávarmöl, er grafið var niður á og nokkuð niður í. Mun það malarleg vera um allan miðbæinn, milli hafnarinnar og Tjarnarinnar.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – hestasteinn fremst.

Nokkrir fremur gamlir gripir fundust við uppgröftinn ofarlega í jörðu, sennilega frá síðustu öld, brot af eldtöng, fiskhnífur, sjálfskeiðungur og brot af 2 glerstaupum. Miklu neðar, um l-l/2—2 m. í jörðu, fundust eldri munir úr steini, vaðsteinn, draglóð af skellihurð, að því er virðist, kola, telgd til úr smágerðu móbergi eða sandsteini og lítil hein með gröfnu hnappmóti á öðrum enda, en ekki eydd af brýnslu.
Nokkru neðar fannst bollsteinn norðarlega í grunninum; hafði bollinn verið gerður fyrir ljósmeti, en að öðru leyti var steinninn alveg óunninn af mannahöndum. Annar bollasteinn fannst á nær sama stað, en allmiklu neðar í jörðu; hann er lábarin, þykk hella, um 30 cm. að þverm., með víðri og grunnri skál annars vegar, og munu báðir þessir bollasteinar hafa verið lýsisteinar, eins konar ljósáhöld (lampar).

Tjarnargata

Kort Ohlsen og Anaumus frá 1801 lagt ofan á núverandi borgarkort. Torfbæirnir Brúnsbær og Teitsbær sem stóðu þar sem í dag er Tjarnargata 4 og 6.

Enn dýpra, alveg niður við malarlagið, og suðaustarlega í grunninum miðjum, fannst lítill, flatkúlumyndaður lýsisteinn með gróp kringum bollann og járnblað af páli eða grefi með fornri gerð, sams konar og 2 önnur, sem fundizt hafa áður hér á landi, annað við rannsóknina á Bólstað, bæjarrústum Arnkels goða. Ámóta neðarlega fannst vaðsteinn, hnöttóttur og nokkuð ílangur. Nálægt suðurhorninu í grunninum var allmikið af hleðslugrjóti djúpt í jörðu, og virðist þar hafa verið hlaðinn veggur, nær því niðri við malarlagið. Þar fundust, mismunandi djúpt í jörðu, nokkrir munir úr steini, 3 vaðsteinar, brýni, fornlegur lýsisteinn, sem er mjög lítill og flatkúlumyndaður, og snældusnúður úr steini, allstór, um 9 cm. að þverm., og neðst kom í ljós eldstó, grafin ofan í malarlagið. Hefir hún sennilega verið gerð af því að þar hefir þá verið hús, sem eldstæði hefir verið í, líklega seyðir með fornri gerð. Hafa samskonar eldstór og þessi fundizt í fornum bæjarrústum hér áður, bæði í Þjórsárdal og víðar. Munu þær hafa verið, gerðar og notaðar til að fela í þeim eld, einkum að næturlagi.  Bæjarverkfræðingurinn, Bolli Thoroddsen, lét mæla, hve djúpt í jörðu þessi eldstó var, og reyndist hún, botn hennar, að vera 111 cm. neðar en t. a. m. Austurstræti milli gangstétta, en það er í sömu hæð og yfirborðsjávar í höfninni um stórstraumsflóð. Bendir þetta á, að mikið landsig hafi orðið hér síðan þessi eldstó var gerð, en hún virðist munu vera frá landnámstíð eða söguöld vorri. Enda er fleira hér á Seltjarnarnesi og umhverfis það, sem einnig bendir á allmikið landsig hér um slóðir, svo sem sýnt hefir verið fram á áður.
Norðan við stóna varð vart við gólfskán og nokkrar flatar hellur, er að líkindum hafa verið gólfhellur.
1 vesturbarminum varð fyrir mjög stór hella neðst. Er hún var tekin upp, kom í ljós undir henni allmikil þró eða gryfja, sem gerð hafði verið þar ofan í malarlagið. Varð vart við skolpræsi í mölinni að þrónni, og virtist það hafa verið út frá húsinu, sem eldstóin hefir verið í.
Í norðurhorninu var malarlagið djúpt í jörðu, um 2% m. frá yfirborði, svæðinu, sem þar var milli húsa. Hafði jarðvegur hækkað þar mest af sorpi og ösku. Um 4m. ofan við malarlagið var þar á allmiklu svæði um 1/4 m. þykkt, mjög dökkleitt, fornt sorplag. Var mikið í því af matbeinum og slíku; fundust þar kjálkar af gelti með miklum vígtönnum og yfirleitt eldra svip en er á þeirri tegund svína, sem er nú hér og í nálægum löndum. Hafa slíkar vígtennur úr göltum fundizt hér áður, m. a. undir Hánni á Heimaey í Vestmannaeyjum. Nokkur bein úr geirfugli fundust einnig í þessu sorplagi, enda hefir geirfugl vafalaust verið veiddur mjög til matar fyrr á tímum, er hann var hér að líkindum víða, en hann varð, að því er menn vita bezt og alkunnugt er, aldauður fyrir 100 árum. — Sorplag þetta er svo djúpt í jörðu, niðri við óhreifða jörð, að því er virðist; að ætla má, að það stafi frá fornöld. Hinn gamli Reykjavíkurbær stóð 30—40 m. norðar, vestan við Aðalstræti. Er ekki ólíklegt, að um nokkurn tíma hafi sorpi frá bænum verið fleygt á þessar slóðir.“

Í Þjóðviljanum 1966 segir og; Hlóðasteinninn úr Tjarnargötu í Árbæ:

Árbæjarsafn - steinhella

Árbæjarsafn – steinhellan.

„Hlóðarsteinninn mikli, sem fannst 1944 í bæjarstæðinu við Tjarnargötu, kominn til safnsins.
Úr því minnzt er á hlóðarsteininn má vel vekja athygli á öðrum merkilegum steinum, sem safnið hefur eignazt: hestasteininum frá smiðju Þorsteins Tómassonar í Lækjargötu, landamerkjasteininum úr Skildinganeshólum áklappaður 1839, mylnusteinn úr myllunni í Bakarabrekku og apótekarasteinn frá 1747 úr Örfirisey.“

Ein spurningin er, þrátt fyrir allt framangreint; hefur verið hugað að mögulegu letri á hellunni þeirri arna?“
Önnur spurningin er, hvers vegna er slíkur forngripur í Árbæjarsafni látinn liggja jarðlægur, án nokkurra vísbendinga gestkomendum til handa?

Heimildir:
-https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1755833
-Tíminn 19.07.1963 – Tjarnargata 4, bls. 15.
-Morgunblaðið 11. febr. 1964, Hlóðahella eða gangnahella, Helgi Hjörvar, bls. 9.
-Þjóðviljinn 2. júlí 1966, Hlóðasteinn og hestasteinn úr Lækjargötu, bls. 7.
-Þjóðviljinn, 144. tbl. 02.07.1966, Hlóðasteinninn úr Tjarnargötu í Árbæ, bls. 6.
-Vikan nr. 23-24, 1944, Fundnar fornleifar í Reykjavík, Matthías Þórðason, bls. 22 og 28.

Árbæjarsafn

Á Árbæjarsafni.