Tag Archive for: Selvogur

Selvogur

Jökull Jakobsson ritaði eftirfarandi grein um Selvog í Fálkann árið 1964 undir yfirskriftinni „Sakna ég úr Selvogi“.
Selvogur 101„Dálítil þyrping húsa stendur þarna á yztu strönd, þar sem Atlantshafið beljar ár og síð. Hins vegar eru gróðurlitlir melar, holt og heiðaflákar, sandar og hraun unz landið að lokum rífur sig upp úr flatneskjunni og rís upp í fjallshlíð, þar eru útbrunnir gígar og fornar eldstöðvar, sumsstaðar hefur hraunelfurinn fossað niður hlíðina og storknað og minnir á vatnsfall, sem óvænt og skyndilega umbreytist i höggmynd. Þjóðvegurinn hlykkjast um sandflæmi og nakin holt, yfirlætislaus og mjósleginn að sjá ofan af hlíðarbrúninni eins og Drottinn allsherjar hafi fyrir vangá misst þráðarspotta ofan í steypuna, meðan hún var að kólna. Eldurinn hefur mótað þetta land og loftið ekki látið sitt eftir liggja, hér gnauða lotulangir vindar úr norðri. Fjórða höfuðskepnan hefur í fullu tré við hinar, sjálft Atlantshafið sverfur ströndina látlaust og eilíflega, oft getur að líta brimrótið líkast hækkandi brekkum svo langt sem augað eygir, brimgnýrinn öskrar í eyru svo ekki heyrist mannsins mál, oft rísa einstakir strókar upp með skerjunum eins og tröllaukinn geysir hafi gengið af göflunum. Og hér var þó útræði fram eftir öllum öldum.

Thorkelsgerdi

Það fer fjarska lítið fyrir þessum fáu húsum sem kúra þarna yzt á ströndinni í fullkomnu trássi við höfuðskepnurnar, einhvern veginn finnst aðkomumanninum, að hér sé þeirra leikvangur en ekki manna.
Við erum stödd í Selvogi. Hér hefur verið byggð allt frá því norskir skattsvikarar tyggðu þetta land ásamt írskum þrælum, og því fer fjarri, að hér í Selvogi hafi þeir orðið að láta sér nægja að hokra, sem sem ekki tókst að ryðja lönd í breiðum dölum.

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði í Selvogi 1985 – b.jóns.

Hér byggðu lögmenn og hirðstjórar fyrr á öldum og áttu þó völ á nafntoguðum höfuðbólum og kostaríkum héruðum sunnanlands og austan. Í Selvogi hafði alþýða manna einnig nóg að bíta og brenna, þótt harðnaði í ári og kotbændur flosnuðu upp annars staðar ellegar bjuggu við sult og seyru, þegar harðindi og drepsóttir steðjuðu að.
— Í Selvogi var alltaf hægt að lifa kóngalífi, sagði mér síðasti bóndinn í Herdísarvík, og þar er enn hægt að lifa kóngalífi, bætir hann við. Þó hefur Selvogur orðið að hlíta þeim örlögum, sem dunið hafa á öðrum breiðari byggðum þessa lands undanfarna áratugi; fólki hefur fækkað svo nemur við landauðn og að sama skapi er kreppt að þeim, sem eftir eru. Selvogur hefur löngum verið talinn afskekkt sveit, en þó er þess að gæta, að fyrrum lá hún í þjóðbraut.

Selvogur-222

Bændur af öllu Suðurlandi fóru skreiðarferðir í kaupstaðina suður með sjó, og þá lá leiðin um Selvog.
Á Hlíðarenda í Ölfusi var löggiltur áfangastaður, og þaðan var talin dagleið að næsta áfangastað, Bleiksmýri í Krýsuvík. Og eftir að hinn sögufrægi og umdeildi Krýsuvíkurvegur varð að veruleika, þarf ekki að kvarta undan einangrun í Selvogi, hvort sem farið er austur eða vestur, er ekki nema þriggja stundarfjórðunga akstur til höfuðstaðarins og eru þó ýmis kauptún nær: Hafnarfjörður, Selfoss, Þorlákshöfn, nú er jafnvel hægt að aka sem leið liggur í Grindavík meðfram ströndinni. Hér ættu því ekki að ríkja nein vandkvæði um aðdrætti. Þó hefur fólki fækað svo í hreppnum, að nú eru ekki eftir nema 40 manns og ungur þingmaður Árnessýslu hefur gert að tillögu sinni að sameina hreppinn Ölfushreppi.
Selvogur-223Ýmislegt er gert í því skyni að viðhalda jafnvægi í byggð landsins og stuðla að því að fólki þyki hag sínum betur borgið í heimasveit en á mölinni. Því þótti Selvogsbændum skjóta skökku við, þegar kaupfélagsstjórinn á Selfossi neitaði að sækja til þeirra mjólk, nema þeir hefðu minnst 70 kýr mjólkandi í fjósi. Taldi h
ann ekki borga sig að sækja mjólkina svo langan veg að öðrum kosti. Þó lét hann sækja mjólk á bæ, sem ekki er nema 14 kílómetra frá Selvogi, og fór því fjarri, að þar væru 70 kýr í fjósi. En Selvogsbændur neyddust til að bjarga sér sjálfir, þeir reyndu á tímabili að koma þar upp mjólkurbúi sjálfir, en reyndust of fáliðaðir. Nú byggist búskapur þeirra nær eingöngu á sauðfjárrækt, enda eru skilyrði til þess ákjósanleg og raunar óvíða á landinu betri.
Ólafur Þorvaldsson bjó síðastur bænda í Herdísarvík, sat jörðina frá 1927 til 1933, en varð þá að standa upp fyrir eigandanum.

Herdisarvik-gamli baerinn

Einari skáldi Benediktssyni. — í Herdísarvík var gott að búa, sagði Ólafur mér, það er frábær útbeitarjörð, ég hika ekki við að segja langbezta beitarjörðin á Suðurlandi. Það er ekki nóg með, að það sé allt þeirra land, heldur fjaran líka, og þarna er engin flæðihætta. Að öðrum kosti hefði jörðin verið óbyggjanleg. Þá hefði þurft að passa að raka féð. Þarna voru slægjur engar, nema túnið, raunar voru þau tvö, eystra túnið gróið upp af sjófangi.
Og útræði var í Herdísarvík allt frá fyrstu tíð og allar götur fram til 1922. Þar voru sjómenn í veri og þótti slíkt harðæði, að jafnvel Landeyingar sóttu þangað til sjóróðra. Árni sýslumaður Gíslason átti jafnan tvö skip í Herdísarvík, og var verstöð hans kölluð Krýsuvíkurbúð. En Árni sat í Krýsuvík, og þar er hann grafinn í framkirkju, raunar sá eini í kirkjugarðinum sem hvílir undir steini. Önnur leiði eru þar gróin og nafnlaus. í Herdísarvík er fremur veðursælt nema í norðanátt og þá getur orðið landbrim.
Einar BenNú er Herdísarvík í eyði og þögnin geymir gömlu bæjarrústirnar við veginn, enginn dyttar lengur að grjótgarðinum, enda er hann víða hruninn og túnið í órækt. Þar stendur enn uppi baðstofa í gömlum stíl og önnur hús úr torfi, fjós, hlaða og fjárhús. Athygli vegfarandans beinist þó fyrst að einlyftu timburhúsi, sem stendur þar í túninu og horfir til sjávar, nú er búið að negla hlera fyrir alla glugga og dyrnar eru harðlæstar. Viðirnir í húsinu eru sorfnir vindum og veðri.

Herdisarvik-nyja husid

Í þessu húsi bjó skáldið Einar Benediktsson síðustu æviár sín. Maðurinn, sem þeytzt hafði milli heimsborganna, ort suður í Afríku drápur á íslenzku, selt norðurljósin og fossana, efnt til stórvirkjana og gullgraftrar, búið í glæstum salakynnum og umgengizt höfðingja og baróna, látið að sér kveða í landsmálum og stórpólitík og tekið þátt í kóngsveizlum, þessi maður hreiðraði u m sig hér í litlu húsi fjarri mannabyggð, á aðra hönd var beljandi hafið og á hina eyðileg fjöll og firnindi. Þá var hann kominn að fótum fram þegar hann settist hér að, Elli kerling hafði komið honum á kné.

Selvogur-224

Hugur hans, sem forðum hafði flogið um ómælisgeim í ljóðum og ræðu, var n ú tekið svo að förla, að hann þekkti ekki lengur suma vini sína nema endrum og eins. Hlín Johnson tók að sér hið aldna skáld og hlúði að honum, þegar skáldið og heimurinn höfðu skilið að skiptum. Hér í Herdísarvík veitti hún gömlum manni aðhlynningu. Það sagði mér kunnugur maður, að stundum hefði mátt sjá Einar Benediktsson staulast út úr húsinu á góðviðrisdegi og ganga fram á tún. Þar settist hann niður og tók upp úr vasa sínum blað og blýant, páraði á blaðið örfá orð og tók sér svo langa hvíld. Síðan skrifaði hann kannski eitt orð í viðbót, og enn varð langt hlé: Úr þessu urðu aldrei annað en hálfkveðnar vísur, vísnabrot, ef til vill hálf hending. Síðan reis skáldið upp af túninu, hægt og seinlega og staulaðist til bæjar…  En hafið beljaði við ströndina eftir sem áður.

Selvogur-225

Einar Benediktsson dó árið 1940 og arfleiddi Háskólann að hinu mikla bókasafni sínu og svo jörðinni Herdísarvík. Ef til vill verður þar hressingarheimili fyrir prófessora, þegar fram líða stundir. Tæplega verður fitjað þar upp á búskap að nýju. Þótt byggð dragist saman í Selvogi, hækkar vegur Strandakirkju með hverju ári. Enginn veit með vissu, hvenær fyrst var tekið að heita á Strandakirkju en hitt er víst, að alla tíð hefur hún þótt bregðast vel við áheitum. Sagnir herma, að hún hafi upprunalega verið byggð fyrir áheit. íslenzkir farmenn á heimleið úr Noregi á skipi hlöðnu húsaviði villtust i hafi og fengu réttu stóra. Hrakti þá lengi og voru vistir þrotnar, en leki kominn að skipinu, og fengu þeir ekki lengur varizt áföllum.

Selvogur-226

Þá gerði formaðurinn það heit, að þeir skyldu byggja kirkju úr farviðnum, ef þeim auðnaðist að ná landi. Og leið nú ekki á löngu, áður en þeir fengu landkenning af Selvogi, en þar var foráttubrim með allri ströndinni. Þá sjá þeir veru alskínandi bera yfir brimgarðinn og sigldu þangað.
Þar var sund og sjólaust að kalla, og lentu þeir skipi sínu heilu og höldnu. Formaðurinn og hásetar hans létu ekki sitja við orðin tóm, heldur reistu kirkju á staðnum, en víkina kölluðu þeir Engilsvík, og heitir hún svo enn í dag. Rekamark Strandakirkju er A eða Á og hafa því ýmsir leitt að því getum, að formaðurinn hafi heitið Árni og sumir jafnvel haldið því fram, að hér hafi verið á ferð Árni biskup Selvogur-227Þorláksson, Staða-Árni.
En allt er á huldu um menn þessa og þjóðsagan ein til frásagnar. Hins vegar er heitið á Strandakirkju enn í dag, ef mikið liggur við, enda er þessi fátæklega kirkja á eyðilegri strönd orðin ein auðugasta kirkja landsins. Á hún nú á fjórðu milljón króna í sjóði, og er það fé notað til kirkjubygginga víðsvegar um land. Í Strandakirkju eru ýmsir góðir gripir, kaleikur úr pápísku og messuhökull ævaforn. Þar er altaristafla máluð af  Sigurði málara.
Strandakirkja var annexía frá Vogósum. Þar sátu nafnkunnir klerkar á öllum öldum, en þekktastur var þó séra Eiríkur, galdrameistarinn mikli og eru af honum miklar sögur. Séra Eiríkur beitti þó aldrei galdrakunnáttu sinni til illverka, en ýmsar glettur gerði hann þó pörupiltum og þjófum. Flestir munu kannast við söguna af piltunum, sem tóku hesta prestsins ófrjálsri hendi, en festust á baki þeirra, og tóku klárarnir sprettinn heim í hlað á Vogósum.

Vogsosar

Síðastur klerka í Vogósum var séri Eggert Sigfússon. Hann lifði alla ævi ókvæntur og barnlaus og þótti sérvitur og smáskrítinn. Til dæmis kom hann aldrei á hestbak í ein 40 ár. Á síðustu æviárum sínum flakkaði hann nokkuð um Árnessýslu… Séra Eggert fór jafnan fótgangandi, því ekki fékkst hann á hestbak eins og áður er getið. Nálægt Kiðabergi er lækur einn, og eru tvö skref yfir lækinn. Séra Eggert hafði einni skinnsokk sem hann braut saman og geymdi undir barði; við lækinn, fór hann í sokkinn þegar hann þurfti yfir, en skildi síðan sokkinn eftir þangað til næst hann þyrfti á að halda. Eins og áður er getið, þótti Selvogur kostahérað mikið, enda bjuggu þar hirðstjórar og lögmenn og efldust til fjár og valda.

Selvogur-228

Þar var gnótt sjávarfangs og annarra hlunninda eins og berlega kemur fram í vísu sem Vogsósaprestur einn orti fyrr á öldum þegar hann kvaddi héraðið sárum söknuði: Sakna ég úr Selvogi sauða minna og ánna, silungs bæði og selveiði, en sárast allra trjánna. En ægilegur skaðvaldur átti eftir að eyða byggð í Selvogi, svo nærri stappaði, að hún lognaðist út af. Það var sandfok og uppblástur, sem fylgdi í kjölfar þess. Víðáttumikil graslendi urðu uppblástrinum að bráð, svo að til landauðnar horfði. Höfuðbólið Strönd lagðist í eyði og býli flest í kringum það, sumar hjáleigur þess tórðu þó. Nú er að mestu búið að hefta þetta gífurlega sandfok, en aldir munu renna, áður en jörðin er gróin sára sinna.
Selvogur-229Annar óvinur var sífellt nálægur, sem þó um leið var lífgjafi byggðarinnar. Úr Selvogi var sjórinn sóttur af kappi, og til dæmis um það má nefna, að kringum 1770 gengu 50 skip úr Selvogi og Herdísarvík. Síðasta og mesta sjóslysið í Selvogi varð fyrir rúmri öld. Þá fórst Bjarni Pétursson bóndi í Nesi skammt undan lendingu ásamt hásetum sínum, þrettán að tölu.
Í Þjóðólfi segir frá þessu slysi. Þar segir, að róið hafi verið í bezta veðri þann 19. marz og hafði verið setið stutta stund. Þá sjá þeir, er næstir voru landi, að blæjur eru dregnar upp til að vara róendur við því, að nú væri tekið að brima. Héldu menn nú að landi sem óðast. Allir í Vesturvognum náðu landi slysalaust, en úr Austurvognum engir. Hreppstjórinn kom fyrstur að sundi Selvogur-230Austurvogsmanna, en sá sundið ófært og beið, ef hann sæi lag. í sömu andrá kom Bjarni frá Nesi og stefndi á sundið, hreppstjórinn varaði hann við og fleiri á skipi hans. Bregzt hverjum á banadegi, því Bjarni lagði óhikað á sundið, en allt í einu reis ógurlegur sjór, er braut allt skipið í spón og kastaðist marga faðma fram yfir það. Er aðrir á sjó sáu, hvernig komið var, sneru þeir frá og náðu landi í Þorlákshöfn, því veður var stillt og tóku þegar lendingu slysalaust, því engin mannleg hjálp var spörúð af þeim, er þar voru fyrir. Þá voru þar komin tólf skip af Stokkseyri og tvö af Eyrarbakka. Hér verður þetta látið nægja sem dæmi þess, að sjósókn úr Selvogi var engjnn barnaleikur, og varð þó minna u m slys í þeirri verstöð en víða annars staðar á landinu.
Hins vegar eru það ekki einvörðungu Selvogur-231Selvogsmenn, sem hafa átt undir högg ægis að sækja á þessum slóðum. Aðkomin fiskiskip hafa oft strandað þarna, útlend jafnt sem innlend, togarar og flutningaskip, því ströndin er hættuleg, og þarf ekki að spyrja um örlög þeirra skipa sem steyta á skeri undan Selvogi. Oftast hefur þó giftusamlega tekizt um björgun áhafna, en einnig hafa orðið þar raunasögur.
Hér verður staðar numið og ekki sagt fleira frá þessu litla, en söguríka héraði við yzta haf. Þar sem áður bjuggu hirðstjórar og lögmenn á nafnfrægum höfuðbólum, eru nú aðeins eftir örfáir bændur og þrátt fyrir síma, véltækni, vegasamband og styrkjakerfi þykir örvænt um, að byggð haldist þar lengi enn. Þó skal engu um það spáð hér, hver veit nema í náinni framtíð eflist Selvogur að nýju.“

Heimild:
-Jökull Jakobsson – Fálkinn, 37. árg. 1964, bls. 18-20 og 34-35.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Strandarkirkja

„Strandarkirkja í Selvogi stendur við skerjótta Suðurströndina, leiðarljós þeirra er um sjávarslóð fara. Kirkjan er eins og kunnugt er vinsæl til áheita og um tilurð kirkjunnar hafa myndast helgisagnir sem vitna um þann lífsháska sem sjómönnum var búinn úti fyrir þessari klettóttu, hafnlausu úthafsströnd.

Strandarkirkja

Fyrsta helgisögnin er að Gissur hvíti á 10. og 11. öld hafi fyrst gert kirkju á Strönd og þá úr kirkjuviðnum sem Ólafur Noregskonungur sendi hann hingað með. Gissur ásamt Hjalta Skeggjasyni tengdasyni sínum átti ríkan hlut að kristnitökunni árið 1000. Þessi skoðun byggir eingöngu á kvæði Gríms Thomsens um kirkjuna þar sem segir m.a.:
,,Gissur hvíti gjörði heit
guði hús að vanda
hvar sem lífs af laxareit
lands hann kenndi stranda.“
Önnur sögn er að kirkjuna hafi reist Árni nokkur formaður þegar hann var að koma með timburfarm frá Noregi. Um þennan Árna yrkir séra Jón Vestmann er hann orti um Strandarkirkju árið 1843. Í kvæðinu er Árni Þorláksson biskup í Skáholti nefndur og sagður gefa honum heimild til kirkjubyggingar á Strönd. Árni var biskup 1269 til 1298 og ætti því Strandarkirkja samkvæmt þessari sögn að hafa verið reist í fyrsta skipti á síðari helmingi 13. aldar. Í kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti (1195-1211) sem að stofni til er frá árinu 1200 er kirkjan á Strönd hins vegar nefnd.
Þriðja helgisögnin er á þessa leið: ,,Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu eigin skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar. Segir nú ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi á hafi úti á leið sinni til Íslands. Lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir. Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að þessu heiti unnu birtist honum sýn í líki ljósengils framundan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið er hann stýrir eftir.
Eldri klukkanSegir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa. Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Þar skammt fyrir ofan var hin fyrsta Strandarkirkja reist úr fórnarviðnum.“
Sameiginlegt þessum frásögnum er að menn hafi verið á leið til Íslands og lent í hafvillum og sjávarháska uti fyrir þessari hafnlausu strönd og unnið Guði sínum það heit að reisa kirkju þar sem þeir næðu landi.
Sennilega hefur lendingin verið um Strandarsund sem er suður og austur af kirkjunni. Kunnugir segja að oft sé kyrrt í Standarsundi þó að haugasjór sé allt um kring.
Núverandi kirkja er frá 1888. Hún var endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og enn endurbætt og endurvígð 13. okt. 1996.
Vorið 1950 var rest var reistur minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík norðvestan við kirkjuna. Er það standmynd á stalli eftir Gunnfríði Jónsdóttur myndhögvara og nefnist Landsýn. Sýnir hún hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki og bendir sjómönnum í lífsháska inn í Engilsvík.
Þjónustuhús var reist nálægt kirkjunni 1988. Í jarðhýsi er snyrtiaðstaða fyrir gesti og gangandi. Umhverfi kirkjunnar er allt til mikillar fyrirmyndar. (Byggt í meginatriðum á riti Magnúsar Guðjónssonar biskupsritara um Strandarkirkju).
Kirkjan og garðurinn er í mjög góðri hirðu og góðu ásigkomulagi. 1986 var land Kirkjunnar girt af og hafin ræktun. Gróðursettar hafa verið 4000 plöntur og sáldrað um 30 kílóum af lúpínufræi. Árlega er áburður borinn á landið. Áður var sandfok illvígt þarna og ógnaði tíðum kirkjunni.

Yngri klukkan

Árið 1996 var kirkjan endurbætt að innan, skipt um glugga, einangrað og hvelfing sett yfir kirkjuskipið. 1998 var lokið við byggingu nýs turns á kirkjuna. 1987 var kirkjugarðurinn stækkaður og unnið hefur verið að endurbótum, merkingum og lagfæringum leiða. 1994 var vígt minnismerki um látna sjómenn. Settur hefur verið upp minningarsteinn um presta er þjónuðu og bjuggu í Selvogi. Sumarhúsið Strönd var keypt og sett upp 1988 en það er m.a.a afdrep þeirra er gæta kirkjunnar á sumrin. Gömul bæjarstæði í landi kirkjunnar hafa verið merkt. Útbúið var bílaplan 1988 og aðgengi fatlaðra þaðan og að kirkju tryggt. Steyptar nýjar tröppur.
Kirkjuhúsið er upphaflega byggt 1887-88 og mun hafa að mestu haldið formi sínu óbreyttu síðan. Árið 1968 var kirkjan að mestu endurbyggð. Þó eru máttarviðir hennar hinir sömu svo og gólf. Við þessa endurbyggingu var kirkjan lengd um „eitt gluggabil“ eða rúml. 2 metra. Henni var breytt að því leyti að söngloft var sett í hana og hvelfing fjarlægð úr henni og var hún með súð og sýnilegum sperrum. Breytingum er lýst í Biskupsvísitasíu frá 1982 og 1968. Þetta var fært í fyrra horf 1996.
Kirkjan er mjög hlýleg að innan. Dregill er á kirkjugangi. Norðanmegin dyra er skrúðhús vel búið. Þar er eldtraustur skápur sem varðveitir dýrgripi kirkjunnar.
Kerti á altari eru máluð af Sigurbjörgu Eyjólfsdóttur frá Þorkelsgerði. Pípuorgel kirkjunnar 6 radda af Walker gerð er frá 1969. Gamla orgelið frá 1898 var gefið kirkjunni 1997. Altaristafla (Upprisan eftir Sigurð Guðmundsson frá 1865) stærð 175 x 118 cm. Númeratafla er frá 1865 ásamt kassa með númerum. Altari og prédikunarstóll eru frá 1888.
AltaristaflanEnn önnu sögn um Strandarkirkju er þessi: „Á elleftu öld var stórbóndi úr Fljótshlíðinni á leið til Íslands með skipið sitt fullt af timbri frá Noregi sem hann ætlaði til að byggja sér nýjan bæ. Þegar bóndinn og skipshöfn hans tóku að nálgast suðurströnd Íslands, skall á aftaka veður. Allir héldu að skipið mundi farast og krupu þeir allir í bæn til Heilagrar Maríu. Eigandi skipsins hét á Maríu Guðsmóður að ef þeir kæmust lífs af mundi hann nota farminn til kirkjubyggingar hvar sem þeir kæmust að landi. – Skyndilega kom þá ljós af himni sem lýsti upp þungbúinn nætur himininn og mennina og himneskt ljós lýsti upp sjóinn fyrir stefni skipsins og frammi fyrir þeim myndaðist líkt og vegur með lygnum sjó þótt á sitt hvora hlið við lygnan sjávarveginn ólmaðist sjórinn með mannhæðar háum hvítfyssandi öldum. Skipið sigldi eftir þessum lygna vegi í átt til strandar og þegar ströndin birtist sjómönnunum stóð hin heilaga María þar með ljósker í hendi (Þegar sagan er sögð á 15 öld hefur hin “Helga Jómfrú” breyst í Engil, því Lútherstrúarmenn vilja að sem minnst sé minnst á Heilaga Guðsmóður en eldri heimildir eigna henni þetta kraftaverk) Um leið og skipið lagði að landi hvarf veran með ljóskerið en eigandi skipsins hélt heit sitt og byggði kirkju þar á ströndinni, svo eina og sér svo fjarri manna byggðum. Og þar stendur hún enn þann dag í dag.
Tvisvar í gegnum aldirnar, hefur átt að flytja kirkjuna nær prestsetri þá þjónandi prests. Í seinna skiptið sem var á 18 öld, hafði presturinn meira segja fengið leyfi biskupsins í Skálholti til kirkjuflutningsins. En daginn áður dó presturinn með sviplegum hætti. Í fyrra skipti var það einn flutningsmanna sem hneig örendur niður, rétt áður en rífa skyldi kirkjuna.
ÚtsaumurÁ 13 öld byrjaði fólk að heita á Strandarkirkju og í 7 aldir hefur fólk hvaðanæfa úr heiminum heitið á kirkjuna. Og hafa áheit farið þannig fram að fólk biður til Guðs, fyrir lækningu sinni eða annarra og heitir vissri fjárupphæð og bænheyri Guð biðjandann, þá fyrst er borguð sú peningaupphæð sem lofað var áður en bænin var beðin. Strandarkirkja er vinsælasta áheitakirkja í Evrópu. Og með áheitapeningum sem koma til Strandarkirkju er ekki aðeins séð um viðhald á Strandarkirkju sem er afskaplega vel við haldin og ótrúlega falleg lítil kirkja, heldur hafa áheitarpeningar til kirkjunnar verið notaðir til að halda við ótal kirkjum á Íslandi.
Mörg tákn og stórmerki hafa gerst í tengslum við þetta fallega Guðshús sem stendur hátt á sjávarkambinum. Svo þegar setið er þar í Kirkjunni við Guðsþjónustur sér maður langt út á Atlanshafið. Eitt sinn var fundur hjá safnaðarnefnd og prestinum þar í Selvoginum inni í kirkjunni. Var fundinum að ljúka nema meðhjálparinn og presturinn urðu einir eftir til að undirbúa messu næsta sunnudag. Þegar þeir höfðu lokið sínum umræðum og ætluðu út úr kirkjunni, gátu þeir ekki með nokkru móti lokað útihurð kirkjunnar. Hvað sem þeir gerðu, þeir reyndu allt, enda stórir og sterklegir menn. Ekki gátu þeir farið heim og skilið kirkjuna eftir opna. Þeir ákváðu að fara aftur inn í kirkjuna til að ráða ráðum sínum um hvað þeir ættu til bragðs að taka til að loka kirkjuhurðinni. En þegar þeir komu aftur inn í helgidóminn, sáu þeir að þeir höfðu gleymt að slökkva á kertunum á altarinu. Þeir litu hvor á annan fóru svo upp að altarinu og slökktu á kertunum. Gengu síðan út og kirkjuhurðin lokaðist ljúflega á eftir þeim.

Silfurkross

Áheitin eru auðvitað ótrúlegt fyrirbæri út af fyrir sig, eitthvað sem stendur tímans tönn og fólk hættir ekki að heita á kirkjuna þrátt fyrir efasemdaraddir nútímans. Það er líka afar einstakt að áheitin sem fremur eru kaþólskur siður en lútherskur skuli lifa svo vel af í íslensku samfélagi. Vegna áheitanna og gjafa er Strandarkirkja einhver ríkasta kirkja landsins, það streyma til hennar áheit bæði frá Íslendingum og erlendis frá. En hvers vegna heita svona margir á kirkjuna? Það er ekki annað hægt en að vera sannfærður um það að áheitin rætast og kirkjan borgi fyrir sig vegna þess að fólk borgar einungis til hennar ef það telur áheitið hafa gengið eftir.
Árið 1964 segir Árni Óla, í ritgerð sinni Áheitatrú á Íslandi, eftirfarandi um áheitin: ,,Áheitatrúin er trú á góð máttarvöld. Í trúnni á Strandarkirkju birtist vissan um, að til sé hulinn verndarkraftur. Er sú trú engu óvísindalegri heldur en trúin á að í geimnum leiki óteljandi geislar og orkustraumar sem nú hefur verið sannað”.
Strandarkirkja er lítil kirkja og afskekkt, það eru ekki margir sem sækja þangað guðsþjónustur, í sókninni eru innan við 20 manns. En þó svo að áheitin og sögurnar í kringum þau séu hið dularfyllsta mál eru þau um leið dæmi um sanna og einlæga guðstrú. Þau eru einnig sönnun þess að kraftaverkin gerast í heiminum eða að minnsta kosti trúir sá stóri hópur fólks því innilega sem heitir á Strandarkirkju á ári hverju.
BrúðarstólarStundum er talað um að það að heita á kirkjur sé sprottið af þörf fólks fyrir samband við verndandi mátt og það tengi hann þannig kirkjunni þótt trúin sem þeim fylgir sé einkamál. Stundum tekur fólk t.d. fram að það vilji ekki láta nafn síns getið þegar kirkjunni eru færðar gjafir. Í könnun sem Guðfræðistofnun gerði árið 1986, þar sem spurt var um áheit á kirkjur, kom í ljós að u.þ.b. þriðji hver Íslendingur hefur einhvertíma heitið á kirkju. Það er ekki ólíklegt að langflestir þeirra hafi heitið á Strandarkirkju.
Það má segja að hægt sé að skipta þeim sem heita á kirkjuna upp í tvo hópa. Annars vegar eru það þeir sem heita á kirkjuna ef eitthvað bjátar á og finnst þeir þurfa á kraftaverki, stóru eða smáu, að halda. Hins vegar eru það þeir sem t.d. borga alltaf einhverja vissa upphæð til kirkjunnar á ári hverju og trúa því að hún veiti þeim vernd sína í staðinn. Þannig heita sumir kannski bara einu sinni á ævinni á Strandarkirkju meðan aðrir gera það jafnt og þétt allt lífið.

Minningarsteinn

Eins og áður segir eru áheit fremur kaþólskur siður en lútherskur og siðbreytingin hefur eflaust haft sitt að segja um trú manna á Strandarkirkju. Biskupar og prestar hafa vafalaust reynt að mæla gegn áheitunum eftir siðbreytingu og fundist fé fólksins betur varið í eitthvað annað. En áheitin héldu áfram og ekkert gat stöðvað þau.
Fyrir siðbreytingu voru Skálholt og Kallaðarnes mestu áheitastaðir Íslendinga og er stundum talið að Strandarkirkja hafi leyst þessa tvo staði við siðbreytingu, hvað áheitin varðar.
,,Árnessýsla átti um aldir tvo mestu áheitastaði landsins, Skálholt og Kallaðarnes. Og enn á hún mesta áheitastaðinn, þar sem er Strandarkirkja. Hún er líkt og arftaki beggja hinna kirknanna. Það er ekki fyrr en eftir að siðbótamenn hafa afnumið og bannað áheit á Þorláksskrín og krossinn helga í Kallaðarnesi, að áheit manna taka að berast til Strandarkirkju.”
Áheitin lifðu tímans tönn og lifa enn sem hluti af trúarlífi okkar Íslendinga. Árni Óla segir í ritgerð sinni að það sé rangt að halda því fram að áheitin hafi borist hingað til lands með pápiskum sið. Hann segir að áheitatrúin sé miklu eldri og eigi líklega rætur sínar að rekja til þess að maðurinn fór fyrst að huga að og gera sér grein fyrir því að til væru æðri máttarvöld. Maðurinn hefur svo leitað ráða til að komast í samband við þessi æðri máttarvöld og fá þau þannig til að hjálpa sér. Slíka trú má finna í öllum löndum og hefur gefist fólki vel, annars mundi hún ekki halda velli. Svona trú er ekki hægt að banna því menn standa vörð um það sem þeim er heilagt. Við kristintökuna blönduðust saman kristnar og heiðnar hugmyndir.

Landsýn

Með siðbótinni var blandað saman pápískum og lúterskum hugmyndum, allt hafði þetta glundroða og öfgar í för með sér. En þegar upp er staðið er það eina sem hélst óbreytt trúin á góð og ill öfl.
Styttan Landsýn, sem stendur framan við Strandarkirkju er eftir listakonuna Gunnfríði Jónsdóttur (f: 26. desember árið 1889 að Sæunnarstöðum í Hallárdal í Austur-Húnavatnssýslu). Gunnfríður var við nám í Kaupmannahöfn þegar hún kynntist tilvonandi manni sínum Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara og þau felldu hugi saman. Styttan var vígð sumarið 1953. Styttuna vígði þáverandi biskup Íslands Sigurgeir Sigurðsson. Styttan er af englinum sem birtist sæförunum sem lentu í sjávarháska fyrir langa löngu og er minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík.
Höggmyndin er úr ljósu graníti og var höggvin í Noregi. Hún sýnir okkur hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki og bendir sjómönnum í lífsháska inn í Engilsvík.
Gunnfríður lést árið 1968 og á sér legstað í kirkjugarði Strandarkirkju.

 

Heimild:
-www.kirkjan.is/strandarkirkja
-www.olfus.is

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Miðvogsstekkur

Í heimsókn til Þórarins Snorrasonar á Vogsósum komu upp við undirleik slátursuðunnar vangaveltur um staðsetningu Bjarnastaðastekks í Selvogi.
Þórarinn sagðist hafa skoðað örnefnalýsingar Götu og Bjarnastaða og skv. hans bestu vitund, með hliðsjón af nálægum örnefnum, gæti stekkurinn varla Þórarinnverið annars staðar en milli Snældhóla og Stóraklifs austan núverandi vegar niður að Selvogi. Ákveðið var í framhaldi af því að slá til og fara á vettvang, enda var veður hið ákjósanlegasta í kvöldhúminu, logn og haustangan.
Í örnefnalýsingu fyrir Götu segir m.a.: „Örnefnaskrá þessi er samin með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir með Eyþóri Þórðarsyni, Hraunbæ 56, Reykjavík. Eyþór er fæddur í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Skráð var að heimili Eyþórs 15. og 21. okt. 1980.
Gata er næst fyrir vestan Bjarnastaði. Landamerki Götu og Bjarnastaða eru: Mörk Götu og Þorkelsgerðis eru: Markhella, sem er klöpp í fjöru, þaðan í Markklett við túngarð, þ.e. jarðfastur klettur við Litlu-Götuhlið (M er bæði í hellunni og klettinum), þaðan í Markhól austan Stóra-Klifs, þaðan í miðjan Gjáardal, sem er dalverpi ofan vegar, þaðan í Svarthól og loks í Kálfahvamm í Geitafelli (ekki Kálfahvammsöxl). Tveir bæir voru í Götu, Stóra-Gata og Litla-Gata. Stóra-Gata stóð neðarlega í túni, u. þ. b. mitt á milli landamerkja, en Litla-Gata ofar og vestar, skammt frá landamerkjum Þorkelsgerðis, rétt við Markklett. Tún bæjanna eru kennd við hvorn um sig.
StóraklifVestast í fjöru er Markhella  á mörkum móti Þorkelsgerði. Upp frá fjörunni er Kampurinn, sjávarkampur, sem hér er kallaður Götukampur. Fyrir ofan hann er Grásteinn á merkjum móti Bjarnastöðum. Upp frá Kampinum liggur Götubryggja, garður, sem nær upp undir Stóru-Götu. Hann var gerður til að ganga á vetrum, en þá var oft tjörn fyrir ofan Kampinn.  U.þ.b. beint upp frá Stóru-Götu var brunnur bæjanna. Ofan við tún er túngarður, kenndur við Götu. Traðir liggja niður með merkjunum að austan. Göturás rann niður mitt tún, kom innan að. Vatn var í henni í leysingum, en var annars þurr.
Ofan túngarða tekur Selvogsheiði við, og er nefnd Miðheiði upp af Bjarnastöðum og Götu  og vestur um Torfabæjaland, en Útheiði eða Vesturheiði þar fyrir vestan. Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v.  í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúns-flatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“
ÞórarinnÞegar á vettvang var komið sagði Þórarinn hólana fyrir ofan stekkinn heita Snældhóla. Á þeim austasta er varða. Um þriggja mínútna gangur er að stekknum frá veginum. Þegar að var komið var augljóst að þarna voru stekkjarleifar. Þær virðast í fjarlægð vera lágur, gróinn, hóll, en í nærsýn má vel sjá efstu lög veggja. Gott útsýni er frá stekknum heim að Bjarnastöðum. Neðar má sjá gömlu leiðina sem og vörðuna á Stóraklifi suðvestar. Neðar (sunnar) eru Bjarnastaðahólar.
Í fyrrnefndri örnefnalýsingu segir auk þessa: „Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi. Mörkin milli Útvogs og Götu eru úr Markhól austan Stóraklifs í Þorkelsgerðislandi í miðjan Gjáardal, sem er kringlótt ker ofan við ferðamannaveginn út að Vogsósum, austur af Bjargarhelli. Milli Gjáardals og Torfdals er mjótt haft, líklega tíu metrar. Þar er Miðvogsstekkur í Götulandi. Línan liggur úr Gjáardal um þúfu á Götugjá.“
FERLIR skoðaði Miðvogsstekkinn s.l. vetur ásamt fleiri minjum á svæðinu.
ÞórarinnÍ örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir um þetta sama svæði m.a.: „Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan. Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum, kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund.  Átti hana að bera í austustu Hnúkana. Við túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina. Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi. Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað. Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu. Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.“
Allt framangreint má sjá enn.
Til að nota ferðina var stefnan tekin á Strandarkirkju. Í viðtali við Þórarinn fyrir nokkrum árum (sjá HÉR) hafði komið fram að hann hafði fyrrum farið sinna ferða á sauðskinnsskóm. Kirkjugatan millum Vogsósa og Strandarkirkju hefði verið u.þ.b. 1/2 klst löng. Rétt áður en komið var að kirkjunni hefðu gestir farið úr hversdagsskónum og sett spariskó á fætur sér. Það hefði verið gert við svonefndan „Skóstein“. Þrátt fyrir aðgát þá hafði skósteinninn sá ekki opinberast svo augljóslega. Skammt frá eru t.d. Fornigarður og Sveinagerði.

Þórarinn

Þórarinn gekk óhikað frá Strandarkirkju eftir sandorpinni götunni fyrrum, nú ósýnilegri, áleiðis að vörðu og áfram í gegnum seinni tíma tilkomna lúpínubreiðu. Þar staðnæmdist hann á klapparhrygg og sagðir: „Hér er það – þetta er skósteinninn. Hann er reyndar bara sléttbökuð klöpp, en hér skiptum við um skó á leiðinni. Kirkjan er þarna“, bætti hann við og benti í átt að henni. „Segja má að ég tilheyri þeirri kynslóð er brúar bilið millum gamla bændasamfélagsins hér á landi og þess nútíma, sem flestir þekkja nú til dags.“
Í viðræðum við Þórarinn kom m.a. fram mikilvægi örnefna fyrrum – þegar fé gekk sjálfala allt árið. Mikilvægt var að huga vel að því og þurfti þá oft að fara um lönd og heiðar til eftirlits. Sérhver hóll og sérhvert kennileiti hafði þá nefnu svo auðvelda mætti eftirlitið eða bregðast við ef þurfa þótti. Benti hann sem dæmi á „ómerkilegan“ hól efst í Vogsósalandi að austanverðu, svonefndan Hatthól. „Hvers vegna Hatthóll?“, var spurt. „Af því hann er eins og hattur í laginu“, var svarið, enda það augljósasta þegar betur var að gáð. „Svona var um mörg örnefnin, þau komu til af sjálfu sér, líkt og Snældhólar, þ.e. snældulaga hólar.“
Seinna verður rakið áhugavert viðtal við Þórarinn um tilurð og gildi örnefna fyrr á öldum.
Hnit voru tekin á „Skósteininum“ líkt og á Bjarnastaðastekknum.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þórarinn Snorrason á Vogsósum.
-Örnefnalýsing fyrir Götu.
-Örnefnalýsing fyrir Bjarnastaði.

Þórarinn

Þorlákshöfn

Ætlunin var að fylgja Kjartani Óskarssyni, þaulkunnugum, eftir um strandlengjuna frá Þorlákshöfn að Nesi í Selvogi. Kjartan, sem fæddur er 1946, er uppalinn í Nesi í Selvogi, auk þess sem hann hefur gegnt vitavarðastarfi í Selvogsvita frá árinu 1962. Víst var að ýmislegt myndi bera á góma – og ekki allt fyrirséð.
Ummerki eftir landgræðslunaSamhliða því að fylgja bergbrúninni var rakin gamla þjóðleiðin minni Þorlákshafnar og Selvogs. Hún er vörðuð svo til alla leiðina. Önnur gömul þjóðleið, Suðurleiðin, er allnokkru ofar í heiðinni, en ætlunin að ganga hana fljótlega frá Þorlákshöfn að Strandarhæð ofan við Selvog. Í Sögu Þorlákshafnar segir m.a.: „Gata lá frá Þorlákshöfn út í Selvog. Lá hún norðan undir klapparhól, sem ber við loft frá Þorlákshól séð. Á hól þeim stóðu Þrívörður. Þær eru nú fallnar. Nokkru norðar frá Þorlákshól í stefnu rétt sunnan við Selvogsheiði er stór varða, sem heitir Smalavarða, ekki við neina götu. Frá Þorlákshöfn í stefnu norðan við Hnúka á Selvogsheiði var götuslóði sem hét Lyngheiðarvegur. Við götuna upp að Hlíðarenda, en hún er litlu vestar en núverandi vegur, eru innan við Unubakka þrjú vörðubrot á klapparhól. Þær heita Hlíðarendavörður. Þær sjást greinilega frá veginum. Fleiri vörður eru meðfram götunni, samanber Hlíðarenda.“
Frá Þorlákshöfn út í Selvog voru áætlaðir 15 km, en þeir reyndust 16.7 þegar á leiðarenda var komið. Vilji menn göngutúr þótt regn sé á, þá má ætla að þessi leið sé heppilegust til þess arna af öllum kortsins leiðum, því að ströndin er vissulega stórfengleg í úðvaða brimi og slagveðri. En hættulaust er ekki þótt jafnlent sé, því að menn freistast til að skoða skúta og klettaskorur. Hvorugu var til að dreifa að þessu sinni, því hvorki rigndi né reyndu þátttakendur að stinga tám fram af bjargbrúninni – þótt oft hefði verið ærin tilefni til.

Í Keflavík

Þorlákshöfn á land að sjó, austan frá Miðöldu í Hraunsmörkum, vestur að Þrívörðum í Selvogsmörkum. Strandlengjan ofanverð austan við Þorlákshöfn er sendin. Elzta nafn á allri þessari sandströnd (austan Þorákshafnar) er Vikrarskeið, samanber Laxdælu, en heitir nú Skeið eða Skeiði, og Hraunsskeið enn austar.
Vestan Þorlákshafnar er ströndin í fyrstu grjótvarin, en utar tekur við standberg í sjó fram. Bergið er hæst ofan við Keflavík og Háaleiti, en þegar nær dregur Bjarnavík og Álum austan við Selvogsvita lækkar bergið til  muna.
Í örnefna
lýsingu fyrir Þorlákshöfn segir m.a. um þetta svæði: „Í nestánni fyrir sunnan Sporið er Hafnarvarða. Var hún hlaðin mjög stór, enda við hana miðaðar fiskileitir. Nú er hún hrunin að mestu, en viti, Þorlákshafnarviti, reistur við hlið vörðunnar. Frá Hafnarvörðu liggur ströndin í vestur, og hækkar smám saman. Vestan vörðunnar er vik nokkurt sem heitir Vörðukriki. Um fjöru verður þar dálítið lón. Það heitir Þanglón. Suðaustur frá Hafnarnesi, sem nefnt verður síðar, er blindsker eða grynning nokkuð frá landi, og heitir Kúla. Þar er um 12 faðma dýpi.
Vestur frá Hafnarvörðu, sem í daglegu tali var nefnd Varða, og oftast með greini, er mjög mikil stórgrýtisurð með sjónum vestur að Hafnarbergi. Stórgrýti þetta heitir Urðir. Klappabrún milli Urða og sjávar heitir Flesjar. Var það nafn einkum notað þegar við það voru miðuð fiskimið. Meðfram Urðum eru nokkur sker rétt upp við land. Aðeins eitt þeirra hefur nafn, það heitir Flesjasker. Það er rétt vestan við Vörðukrika.

Hraunreipi í Hafnarbergi

Austarlega á Urðum er mjög stór, flatur klettur, og hallast upp að minni klettum. Hann heitir Latur. Það fór mjög eftir veðri og sjó hve mörg áratog þurfti til að róa Lat fyrir Geitafell. Einstígur heitir þar sem ströndin hækkar, svo að verður hreint standberg, sem sjórinn hefur ekki náð að hlaða stórgrýti upp á, eins og hann hefur gert á Urðunum. Vestur frá Einstíg er Þorlákshafnarberg, eða Hafnarberg, en af heimamönnum oftast nefnt Berg. Það nær vestur að Keflavík. Austantil er Bergið með mörgum nefjum og básum, nafnlausum. En er vestar kemur, er langt á milli nefja og lítil[s]háttar fjara undir berginu. Þar heitir Langibás. Upp af miðjum Langabás er allstór varða um 200 til 300 metra frá sjó, á hól og er 18 m há. Hún heitir Langabásvarða. Vestan við Langabás er nef, sem í bókum og kortum er nefnt Hellrar og Hellranef, en ég hef ekki fengið það staðfest af kunnugum. Steindrangar tveir, um 1,5 m á lengd og um 0,5 m í þvermál, nefndir Bræður, lágu á Bergsbrúninni vestan við Hellranef. Annar þeirra reis upp á endann í ofsabrimi snemma á árinu 1918. Voru fiskileitir miðaðar við hann árum saman. En nú er hann aftur lagstur útaf. Nú verður allstór bás í bergið, og vestan hans nef sem heitir Þyrsklingsnef, en líka nefnt Tittlingsnef.  Það er sama nefið og Hálfdan Jónsson nefnir Mávagnýpu í lýsingu Ölfushrepps 1703. Þessi tvö nef standa bæði á löpp yst og gat gegn um þau. Þau eru mjög lík að stærð og útliti. [Sjórinn færir steinbörg auðveldlega til á berginu. Á göngunni mátti sjá mörg þeirra, og sum mjög stór, sem eiga eftir að ferðast talsverða vegarleng innan skamms tíma]. Vestan við Þyrsklingsnef verður stórt vik inn í ströndina, allt vestur að Þrívörðum, sem eru í mörkum Þorlákshafnar og Selvogs. Vik þetta heitir Keflavík, og þó aðallega miðbik þess. Vestantil við Þyrsklingsnef heita Sigfjörur. Þar er svolítil fjara undir berginu, og verður að síga eftir því sem þar berst á land.
Myndanir á HafnarbergiFyrir vestan Sigfjörur er krosssprunginn klapparhóll fram á bergsbrúninni. Hann heitir Hlein. Ofan við Hlein eru nokkrir klapparhólar, en annars er Sandurinn jafnlendur. Vestan við Hlein, í sjálfri Keflavík í þrengri merkingu, lækkar ströndin, berg er ekki, og fært niður í fjöruna. Þar er allmikill fjörugróður. Vestantil á Keflavík eru nokkur smávik inn í ströndina. Þau heita í heild Básar. Sumir þeirra hafa nöfn, Bakkabás, Bjarnastaðabás, Þorgrímsstaðabás.  Í Básunum höfðu ábúendur jarða þeirra sem nöfnin benda á, rétt til sölvatekju, segir Þórður J. Símonarson frá Bjarnastöðum, en rétt til að hirða smærri spýtur, fyrir að bjarga stærri reka undan sjó, segir Björn Sigurðsson, sem lengi var vinnumaður í Þorlákshöfn.“ Kjartan sagði ströndina, einkum bergið, gróft og harðgert. Þegar einstök svæði þess voru skoðuð í smærra samhengi virtist það töfrum hlaðið. Og það þrátt fyrir að bæði Þrívörðum og Hlein hefði nú verið raskað; þær fyrrnefndu af mönnum og þeirri síðarnefndu af sjávarguðinum og öldum hans.
Myndanir í HafnarbergiStrandlengjan frá Þorlákshöfn vestur á Selatanga er að mestu óröskuð og frábær gönguleið sem allt of fáir fara um. Í ljós koma að á þessari leið er fjölmargt að skoða, bæði falleg og merkileg náttúrufyrirbæri en einnig sögulegir staðir. Líklega má sjá á þessari leið allar útgáfur hraunreipa, sem til eru hér á landi, horfa á hvernig hvert litbreytilegt hraunlagið hefur hlaðist ofan á annað og sjórinn hefur náð að fletta ofan af þeim, hverju á fætur öðru, auk þess sem landnemaplöntur með öllum sínum litbrigðum setja skrúðugan svip á annars svarleitt basaltið. Þar er skarfakálið einkar áberandi, auk þess sem sáð hefur verið melgresi í sanflákana ofan bergsins. Það breytir litum líkt og annar gróður er hausta tekur.
Áður en lagt var stað var
gott að rifja upp stutta sögn úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á Landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögn, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík”. Þjósagan segir frá því að landnámsmaður í Selvogi hafi þurft að gera ráðstafanir til að verjast ágangi fólks, en seinni tíma ágangur – og öllu alvarlegri – átti eftir að herja á sveitina.
Sandurinn sem er á svæðinu ofan bergsins hefur að megninu til borist upp úr fjörunni austan byggðarinnar í Þorlákshöfn, en talið er að hluti áfoksefnanna sé komin frá Ölfusárós. Sandur hefur borist þaðan með austanvindi, vestur undir Selvogsheiðina og alla leið vestur í Selvog.
Hafnarberg - Bjarnavík framundanEftir 1950 var byrjað að sá melgresi og bera á kambinn sem liggur með sjónum austur frá þorpinu. Kamburinn var þá grýttur og nokkuð sléttur í sjó fram. Melgresið fangaði megnið af sandinum sem barst upp úr fjörunni og með því móti byggðist upp mikill sjóvarnargarður sem nú bindur milljónir rúmmetra af sandi og stöðvar hann megnið af sandinum sem berst upp úr fjörunni svo sandskriðið vestur eftir er hætt að mestu. Hinsvegar er gríðarlegt magn af sandi á vestanverðu svæðinu frá því að sandburðurinn upp úr fjörunni var óheftur og á hann eftir að valda erfiðleikum á uppgræðslusvæðinu. Af ummerkjum, svo sem stefnu sandskafla og lögun steina sem sandfokið hefur slípað til, má ráða að meginstefna sandskriðsins sé til suðvesturs og út í sjó.

Upphaflega var sandsvæðið umhverfis Þorlákshöfn girt árið 1935. Lengd girðingarinnar var 21,8 km og friðaði hún um 7.800 ha. Umsjónaraðili er garðyrkjustjóri Þorlákshafnar. Landgræðslugirðingin náði frá Ölfusá að Nesvita í Selvogi. Hún lá til austurs frá Hamraendum, sunnan við Hraun og fyrir ofan sandana, neðan við Hlíðardalsskóla, Breiðabólsstað, Litlaland og Hlíðarenda, yfir Selvogsheiði og til sjávar austanvert við Nes í Selvogi.
Fyrstu árin þar á eftir voru litlar sem engar aðgerðir. Árið 1952 var hafist handa við gerð skjólgarða á leirunum austan við þorpið, því mesta sandfokið kom þaðan. Skjólgarðarnir drógu úr sandskriði en yfirborð landsins milli garðanna lækkaði svo nú er þar oftast vatn. Undanfarin á hefur einkum verið sá í nágrenni við fyrirhugaðan Suðurstrandarveg vestab Þorlákshafnar.
Fyrstu árin eftir þetta átak var sáð melfræi í sjávarkambinn þar sem unnt var fyrir grjóti en hann var þá nokkuð sléttur í sjó fram. Ennfremur barst fræ frá varnargörðunum sem festi rætur í sjávarkambinum. Þarna hefur melgresið byggt upp einn merkasta sjó og sandvarnargarð hér á landi, margra metra háan, er bindur milljónir rúmmetra af foksandi.
Á HafnarbergiJafnframt því sem unnið hefur verið að því að stöðva fokið frá fjörukambinum og leirunum austan Þorlákshafnar, hefur verið lögð áhersla á sáningar næst þorpinu. Einnig hefur gróður verið styrktur við norðurjaðar áfoksgeirans, þ.e. á nyrsta hluta uppgræðslusvæðisins.
Árlegur kostnaður Landgræðslunnar við heftingu sandfoks umhverfis Þorlákshöfn hefur að meðaltali verið um tvær til fimm milljónir króna þar til 1996 og 1997 er kostnaður varð nærri 20 miljónir. Auk aðgerða Landgræðslu ríkisins hefur Ölfushreppur unnið að margháttuðum uppgræðsluaðgerðum í næsta nágrenni þorpsins.

Landgræðsla á sér langa sögu í Þorlákshöfn. Reyndar hafa verið ýmsar tegundir plantna og ólíkum aðferðum beitt við uppgræðsluna. Fyrir liggur því allgóð reynsla sem nú er unnið eftir. Hér verður aðeins drepið á nokkrar þeirra aðferða sem beitt hefur verið og árangur þeirra.
Án efa er melgresi sú tegund sem lang best dafnar á sand svæðinu. Engin planta heftir sandfok eins vel og melgresið, né stenst veðráttuna við suðurströndina betur. Melgresið safnar í sig foksandinum og myndar ýmist breiður eða melhóla. Sandlagið þykknar smásaman þar sem melgresið vex og verða hólarnir oft 3-5 m háir.

Eftirlegurennireið á Háaleiti

Yfirleitt kemur að því að hólarnir verða óstöðugir og vindur tekur að rífa sand úr hliðum þeirra og melgresið lætur undan síga.
Nauðsynlegt hefur reynst að bera áburð á melsáningar í nokkur ár eftir að sáð er. Einnig hefur þurft að bera árlega á þau svæði þar sem sandágangurinn er mestur, t.d. kambinn milli þorpsins og Ölfusárósar.
Árið 1989 var gerð tilraun með sáningu á 60 kg af lúpínufræi með TF-NPK. Fræinu var dreift á vestanverðu landgræðslusvæðinu. Flogið var með norðrurjaðri sandsvæðisins og síðan beygt til suðurs í átt að sjó. Fræið spíraði seint en lúpína er nú að breiðast út þar sem fræinu var dreift. Á síðustu árum hefur lúpínu verið plantað víða umhverfis Þorlákshöfn. Árangurinn af því er allgóður, en eftir á að koma í ljós hversu ört lúpínan breiðist út. Árið 2001 var gerð tilraun með að bera á 75 hektara, með dráttarvélum, út frá vegstæði Suðurstrandarvegar og skilaði sú dreifing góðum árangri þar sem áborið svæði var mun gróskumeira en óáborin svæði.
DuflKjartan upplýsti að fyrir tiltölulega fáum árum hefði ofanverð strandlengjan verið endalausir sandflákar, en eftir að svæðið var girt af og sáð hafði verið í það hefði orðið gerbreyting á.
Þegar leiðin er gengin eru framangreind þögul uppgræðslan annars vegar og hávaðasamt sæhljóðabergið hins vegar – hvorutveggja ágengir athyglisveiðarar. Ef báðir eru hunsaðir um stund má sjá ýmislegt, sem ella afmissist, s.s. hniðjur, rek og rekavið, einstaka fornfálegt leikfang, glerkúlur, plastkúlur, belgi, dufl og skótau frá ýmsum tímum.
Kjartan upplýsti að fyrir tiltölulega fáum árum hefði ofanverð strandlengjan verið endalausir sandflákar, en eftir að svæðið var girt af og sáð hafði verið í það hefði orðið gerbreyting á.
Vestan Þorlákshafnar eru allt of sýnilegar minjar þriggja tilrauna með laxeldi og hörrækt. Starfsstöðvarnar standa þar nú sem minnismerki, ein af mörgum, um misheppnaðar mótvægisaðgerðir í atvinnumálum þjóðarinnar. Önnur slík minnismerki um allt land eru refabúin. Líklega verða virkjanir og orkuveitur önnur slík þegar til lengri framtíðar litið – því augljóst virðist, er gengið er um svæði það sem að ofan greinir, að orkuöflun framtíðarinnar verður fyrst og fremst með nýtingu frumefnanna, þ.e. lofts, ljóss og vinds. Þegar einhverjum gáfumanninum dettur það í hug munu spretta upp liltar heimilsorkustöðvar er gera munu hápsennumöstur og -jarðstrengi óþarft með öllu.

Flak Varðar ofan við Ála

Jæja, við fyrrverandi Þrívörður var talið tilefni til að staldra við og skoða örnefnalýsingu austasta bæjarins í Selvogi, Ness. Þar segir m.a.: „Þá er komið að Þrívörðum, þar sem voru þrjár vörður á berginu á landamerkjum Selvogs og Þorlákshafnar. Þær eru nú horfnar. Um Þrívörður er bergið farið að lækka og hægt að ganga þar niður um skörð, en bunga er milli þeirra og Háaleitis. Fyrir austan Þrívörður tekur við Keflavík. Þar átti Hjallakirkja reka.
Vestar er Sigbás. Þar var eggja- og fuglatekja á bletti. Háaleiti er þar sem bergið er hæst. Á því var varða, sem lengi vel var haldið við af sjómönnum úr Þorlákshöfn. Varðan var höfð fyrir mið. Fyrir framan heita Forir eða Háaleitisforir. Þar var mikill fiskur og sótt þangað bæði úr Þorlákshöfn og Herdísarvik.“ Til gamans má geta þess að á Háaleiti trjónir nú háleitt markmið einhvers bílstjóra, sem (ekki) hefur náð lenga og skilið ökutækið þar eftir. Hlaðið hefur verið umhverfis það, væntanlega úr fyrrnefndu kennileiti.
Kjartan við Selvogsvita„Austan við Bjarnavík er Viðarhellir undir berginu. Þar var mikill reki. Gat er í bergið yfir  hellinum og hægt að síga niður í hann. Bjarnavík  er allbreitt vik í bergið, og er djúpt þar. Eyþór heyrði sagt, að Bjarni riddari hefði haft þar legu fyrir skip.“
Viðarhellir sést ekki ofan af bergbrúninni, einungis frá sjó. Kjartan sagði færeyskan kútter hafa strandað í vikinu 1930. Þrjátíu manns hefðu verið um borð og hefðu nokkrir þeirra farist. Þá hafi mb. Helgi Hjálmarsson úr Reykjavík rekið þar upp nokkru seinni. Þrír menn hefðu verið um borð. Tveir, skipsstjórinn og óbreyttur, komust að Viðarhelli, en sá þriðji hvarf í hafið. Lík hans fannst við Eyrarbakka nokkru síðar. Hinir tveir gátu klifrað upp á bjargbrúnina og lögðu berfættir af stað til Þorlákshafnar. Annar þeirra, skipstjórinn, hefði fest fót sinn í fjörunni, en félagi hans aðstoðaði hann upp á bjargbrúnina og áfram til bæjarins. Félagar í björgunarsveitinni hefðu klifrað niður og skoðað hellinn, en slíkt væri ekki á færi aukvisa.
„Nokkuð austur af Bótum [Austari bót og Vestari bót] heita Gren (ft.). Þar var tófugren við kampinn. Þar eru klappir og urð, grenjalegt land. Heita Álar þar fyrir austan. Það eru geirar á milli klappa í fjöru, þang og þari í. Þar er útgrynni farið að minnka. Tekur bergið að lækka úr því, og engin fjara er undir. Nokkru austar en Álar er klettur fram í sjó, sem kallast Nípa.“
Ofan Ála, allangt ofan strandar, er stórt járndufl. Kjartan sagði það hafa rekið upp í fjöruna 1970. Þá hafi verið gerður leiðangur að því og verðmæti hirt af því. Líklega hefði verið um eitthvert Faxaflóaduflanna að ræða, sem slitnað hefði frá festum. Í óveðrinu mikla, sem gekk yfir þetta landssvæði árið 1991, hefði það flotið spölkorn inn á heiðina.
Reglur um komur gesta í vita landsins 1910Ofan við Ála er Hvítisandur og Hvítasandshóll, að sögn Kjartans. Áður var þarna skeljasandur, en eftir að svæðið var ræktað upp hvarf hvíti liturinn að mestu. Ekki er að sjá skeljasandsfjöru í Álunum.
Ofan við Álana eru leifar af mb. Verði frá Reykjavík. Báturinn fór þar upp 1956, sennilega 18. febrúar. Fimm menn voru um borð. Þeir fórust allir. Lík tveggja bátsverja fundust, en leifar þriggja skipsverja hafa aldrei fundist, þrátt fyrir mikla leit dögum saman eftir slysið. Báturinn hafði verið í Þorlákshöfn, en farið þaðan í afleitu veðri, en líklega orðið fyrir vélarbilun og þá rekið upp á ströndina. Í óverðinu 1991 brotnaði hluti (skutur) bátsins og rak upp yfir kampinn. Kjölstykki má sjá þar skammt vestar.
Þegar komið var að Selvogsvita varð rödd Kjartans innilegri (honum þótti greinilega vænt um vitann). „Á Selvogstanga var reist 15 m há járngrind árið 1919. Á hana var látið 3,3 m hátt ljóshús og 200° díoptrísk 1000 mm linsa og gas-ljóstæki. Inn á milli hornstoða grindarinnar var komið fyrir steinsteyptri gashylkjageymslu en efst undir svölum var skýli utan um stiga upp í ljóshúsið. Vitinn var sömu gerðar og Stokksnesviti sem reistur var árið 1922. Eftir aðeins rúm 10 ár var vitinn orðinn svo ryðbrunninn að nauðsynlegt reyndist að byggja nýjan vita.
Árið 1930 var byggður 15,8 m hár vitaturn úr steinsteypu. Ári síðar voru sett á hann ljóshús, linsa og gasljóstæki járngrindarvitans og hinn nýi Selvogsviti tekinn í notkun. Árið 1987 voru veggir ljóshúss endurnýjaðir. Vitinn var raflýstur ári síðar og settur á hann radarsvari.“ Nú er ljós látið loga á vitanum af öryggisástæðum en radíósendir efst á honum er þó það sem mestu máli skiptir nú orðið.
Stóra-Leður - kotbýli frá Nesi - Nesbærinn fjærKjartan, sem er með lyklavöldin, opnaði hurð vitans. Innanvert birtust undraverkin. Eftir að hafa útskýrt hvernig þrívarin vörn hans virkaði var haldið upp grámálaða tréstiga, hvern af fætur öðrum. Fyrir fólk, sem gengið hafi 17 km, var það sumu þrekraun. Efst trjónaði „djásnið“, ljóskúpullinn, sem prýtt hafði gamla vitan utar á ströndinni. Sköpunarár hans varð 1917, komið á járngrind 1919 og síðan hífður upp í núverandi vitaturn 1930. Útsýnið úr turnkrónunni, yfir Hafnarberg annars vegar, og Selvog hins vegar er, er og verður eftirminnilegt.
Kjartan sýndi þátttakendum einkar áhugavert plagg – og sennilega einstakt núorðið. Á því stóð; „REGLUR um komur gesta í vita landsins: Vitaverðum er heimilt að veita gestum leyfi til að skoða vitann á tímabilinu frá því hálf stund er liðin frá sólaruppkomu þar til hálfri stundu fyrir sólarlag.
Tóftir Snóthúss - Selvogsviti fjærGestir skulu, áður en þeir fara inn í vitann, rita nöfn sín, og heimili í gestabók vitans. Eigi mega þar koma fleiri en 3 gestir í senn. Skulu þeir, áður en en þeir ganga upp í vitann, þurrka vandlega af fótum sér á gólfmottunni; bannað er að rita eða roispa nöfn eða annað á veggi og rúður. Gæta ber og þess, að enginn snerti við nokkru því, er til vitatækjanna heyrir. Gestirnir mega ekki vera í blautum utanyfirfatnaði né hafa með sér stafi, regnhlífar, svipur eða annað því um líkt inn í vitann: Bannað er að reykja tóbak, svo og að hrækja, nema í hrákadalla. Neftóbak má eigi hafa um hönd í ljóskerinu. Hundar og kettir mega ekki koma inn í vitann.
Ölvuðum mönnum og óhreinlega til fara er bannað að koma í vitann.
Einhver vitaþjónanna skal ávallt vera gestunum í vitanum og ber honum að koma kurteislega fram við þá og skýra þeim frá öllu, sem þeir óska um vitafærin, en um fram það er honum ekki heimilt að veita óviðkomandi mönnum neina vitneskju um rekstur vitans.
HVarðaða gatan milli Selvogs og Þorlákshafnarverjum gesti ber að greiða vitaþjóninum 25 aura fyrir ómak hans.
Í stjórnarráði Íslands 3 maí 1910 – Björn Jónsson (vitundarvottur; Jón Hermannsson).“
Ekki er vita til þess að reglurnar frá 1910 hafi verið numdar úr gildi, enda kannski eins gott því bæði var hundur (tík) með í för, þátttakendur með stafi og engin gólfmotta til staðar.
„Á kampinum við Nesvita var bær, sem hét Snjóhús. Þegar hann man eftir, voru öll hús fallin, en kálgarðar voru í tóftunum, kallaðir Halldórsgarðar. Þar sem vitinn stendur, ganga klappir fram í sjó, og heitir þar Snjóhúsavarða. (Í skrá G. S. eru ýmsar myndir nafnsins tilfærðar: Snjóthús-, Snóthús-, Snjóhús-, Snjóshús- og Snjólfshúsvarða.) Eyþór man eftir vörðunni þarna; á henni var sundmerki. Selvogsviti var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur.
Skammt austan við Snjóhúsavörðu taka við klappir, og þar austur af eru Bætur. Þær eru þrjár, Vestastabót, Miðbót og AFornigarður vestan Selvogsvitaustastabót. Var talað um að fara „austur á Bætur“. Á Bótunum var skorið þang til eldsneytis og beitt fé.“
Snóthúsavarða er horfin, en enn má leifar af Fornagarði liggja að henni, en varðan átti að vera austurmörk garðsins. Innan hans,nær ströndinni, vestan vitans, er gróinn hóll, leifar Snjóthúss, eins af 10 kotbýlum í Neslandi (1703).
Frá túngarði í Nesi liggur sjávarkampur austur að vita.  Hlaðinn garður er á honum, en hann nær ekki alla leið.
Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigunum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi. Af bæjarstæðinu í Nesi er eitthvert fegursta útsýni í Selvogi.  Bærinn stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes . Stundum voru þar fleiri bæir.
Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu.“
Á leiðinni var gengið um Nestúnið, framhjá fyrrum bæjarstæði Litla-Leðurs og Stóra-Leðurs. Minjar síðarnefnda kotbýlisins er verulegar á meðan þess fyrrnefnda hafa verið „túnsléttaðar“. Vestar má sjá leifar Bartakots og Þórðarkots. Kjartan sagðist muna enn eftir baðstofunni í Þórðarkoti. Vestar er tóftir Klappar í Bjarnarstaðarlandi:
Að ofanverðu við Nes má sjá vörðuröð. Þar kemur fyrrnefnd gata frá Þorlákshöfn niður í Selvog. Venjulega tók um 4 klst að ganga leiðina, sem virðist furðu bein af þjóðleið að vera.
Að lokinni göngu bauð frú Sigríður, eiginkona Kjartans, þátttakendum í íslenska kjötsúpu á veitingastað þeirra hjóna í Selvogi. Þar voru málin og enn og aftur reifuð (meira síðar).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorlákshöfn.
-Örnefnalýsing fyrir Nes.
-Vitar á Íslandi.
-Saga Þorlákshafnar.
-Kjartan Óskarsson.

Hafnarberg ofan Bjarnarvíkur

Selvogur

Gengið var um Selvog í sól og blíðu. Kristófer kirkjuvörður kom þar að akandi á sínum öndvegis jeppa með kerru við annan mann. Báðir bullsveitir. Vel lá á Fera og var hann að vonum glaður á sjá hópinn, sem að mestu var skipaður „orginal“ Hafnarbúum.

Selvogur

Selvogs-Jói með grafstein úr Neskirkjugarði.

Kristófer var spurður almæltra tíðinda og við hvað hann hafi verið að dunda í Voginum. „Ég var að gera kirkjugarð“, svaraði hann. Kristófer sagði að hann teldi að steinninn sem FERLIR fann eftir leit (sjá sögnina af legsteinunum þremur og hvarfi eins þeirra) s.l. sumar væri ekki sá sem hann hefði fundið um árið þegar framkvæmdirnar voru við útihúsin. Þennan stein hefði hann ekki séð áður. Steininn sem hann fann á sínum tíma og týndi aftur hefði verið rúmlega lófastór og þess vegna hafi hann talið að sá hefði verið á leiði barns er hafi líklega dáið í „svartadauða“.
Farið var að bátsflakinu (Vörður) austan við Nessvita (Selvogsvita) og vitinn síðan skoðaður sem og og gamla vitastæðið á klöppunum.

Selvogur

Selvogur – grafsteinn við nes.

Þegar komið var að Nesi sást að á sléttri flöt rétt vestan við rústirnar af hlöðunni hafði verið afgirt svæði með staurum og vírneti, nokkra metrar á hvorn veg. Garðurinn hafði verið borinn fínni möl og hlaðnir fjörusteinar í kring. Í suðvesturhorninu á garðinum lá á mölinni steinn með krossmarki. Þarna var kominn steininn sem FERLIR fann s.l. sumar (sjá mynd) og er hann eini legsteinninn sem þar er sýnilegur í dag. Enn vantar litla legsteininn, sem Kristófer fann um árið, en týndist aftur. Hinir tveir, er fundust, eru á minjasafninu á Selfossi.
Gengið var í 2 klst og 17 mín.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Herdísarvík
Haldið var í Herdísarvík. Ætlunin var m.a. að reyna að finna opið á Breiðabáshelli eftir ábendingu Þorkels Kristmundssonar. Fulltrúar HERFÍs voru mættir, en þrátt fyrir grjóttilfærslur og innlit, varð ekki komist að opinu. Sjávarkamburinn er orðinn allhár þarna, en undir honum er opið á Breiðabáshelli.
Hin aldna kepma Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður, kom á staðinn til að fylgjast með og heilsa upp á hópinn, en hann þekkir svæðið einna best núlifandi manna.

Herdísarvík

Hlínagarður í Austurtúninu.

Gengið var vestur yfir hraunið, staldrað við í fjárhelli og síðan gengið yfir í Gerðið, austasta hlutann innan vörslugarðs Herdísarvíkur. Þar, innan við Langagarð, eða Lönguvitleysu, eins hann var stundum nefndur, er vel gróið, enda uppgrætt með slori. Garðurinn var hlaðinn af Arnþóri nokkurm frá Ási í Ytri-Hrepp. Í Gerðinu eru tóttir fjárhúsanna Langsum og Þversum. Hlínargarður var skoðaður, en hnn var nefndur eftir Hlín Johnson, sem lét hlaða garðinn. Hann hefur varið landið vel, en hann náði að mörkum Langagarðs.
Þá var haldið að Herdísarvíkursjóbúðum og þær skoðaðar. Búðirnar eru fimm og allvel heillegar. Neðan þeirra var skiptivöllurinn og enn neðar Vörin (Herdísarvíkurvör). Skammt vestar og neðar var Hryggjarbúð, enn ein sjóbúðin, en hún er horfin. Sjá má móta fyrir Ólabúð við enda þvergarðs, Austurtúngarðs, skammt vestar. Neðar og austar er tótt af fjárhúsi.
Lindarvatn streymdi undan hrauninu í Herdísarvíkurtjörn. Gengið var að Varghólsbrunni, eða þar sem hann var því sjórinn er búinn að brjóta talsvert umhverfis Tjörnina. Þar streymdi vatnið upp á milli klappa. Staðnæmst var við gömlu útihúsin vestan við Einarshús, en þar var áður fjós, hlaða, lambús og hesthús. Einnig var Krýsuvíkurbúð, en hún var gerð upp úr hrútakofa, sem þar var. Norðurtúngarður liggur ofan Einarshúss og Vesturtúngarður vestan þess.

Herdísarvík

Brú og gerði í Herdísarvíkurtjörn.

Gengið var að hlaðinni rás í jörðinni norðan túngarðsins. Hún er hluti af reykofni Hlínar. Þorkell hafði einmitt haft á orði að kjötið þaðan hafi skammast vel því reykurinn hafi verið svo kaldur þegar hann kom loks í reykhýsið.
Gengið var niður að Tjörninni og eftir flóruðum stíg yfir eitt vikið. Við það er hlaðið gerði, sennilega hestagerði. Í hleðslunum mátti greina sjósteina, hluta myllusteina, sökkkusteina o.fl. Vestan stígsins er svo gamla Herdísarvík, en það hús var notað til 1934. Einar og Hlín voru fyrsta árið sitt í Herdísarvík í því húsi. Það er byggt utan í Skyggni, klettavegg. Vestan hússins er hlaðið gerði og tótt.
Gengið var yfir Vesturtúngarðinn til norðurs og var þá komið að grunni kofa, hlaðinni tótt og enn annarri stærri í gróinni lægð, sennilega fjárhús.
Eftir áningu við Einarshús þar sem einn samferðarmanna, bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Örn Ólafsson, afhenti einum FERLIRsforsprakkanum, Ómari Smára, bæði bindinn af Sögu Grindavíkur með þakklæti fyrir sýndan áhuga á minjum í og við Grindavík. Honum var þökkuð gjöfin, en bækur þessar munu nú vera ófáanlegar í bókabúðum.
Loks var gengið austur með Norðurtúngarði að Réttinni, eftir Kúastíg og áfram að upphafsreit.
Gangan tók um tvær klukkustundir. Veður var frábært, sól og hlýindi.

Meðfylgjandi eru myndir úr ferðinni. Einnig var svæðið teiknað upp.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Selvogur

Gengið var frá Nesi í fylgd fjölfróðs uppalings í Selvogi. Stóð á endum þegar ekið var af Strandarheiði að Selvogi að birti til og ekki laust við að birtugeislanir vildu nota tækifærið við komu FERLIRsfara og leika við nýkomna farfuglana því þarna mátti snemma vors bæði sjá og heyra í tjaldi, steindepli og einstaka lóu.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Skoðaður var gamli kirkjugarðurinn í Nesi, brunnhýsið, tóttir fjárhúsanna á sjávarabakkanum og “hinar týndu fjárborgir” á milli Ness og Bjarnastaða. Sagt var að borgirnar, sem sjá má teikningu af í bók Daniels Bruun, hefðu horfið í harótinu mikla árið 1925, en svo er nú ekki. Að vísu eru borginar hrundar sjávarmegin, en landmegin eru þær nokkuð heillegar. Vestan við borgirnar er tótt í varnargarðinu.

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði í Selvogi 1985 – b.jóns.

Skoðað var í Bjarnastaðabrunn, sem er hlaðinn og nokkuð djúpur. Gengið var með gömlu Bjarnastaðahúsunum, yfir kambinn og niður að Stokkasundi. Þar mátti vel sjá hversu sundið var náttúrulega hentugt til löndunar. Í klapparskoru mátti sjá einn festasteinanna, sem bátarnir voru bundnir við. Á hann hefur verið klappað gat og band þrætt þar í.

Ofar og vestan við sundið eru leifar af enn einni “týndu borginni”; Þorkelsgerðisborg.

Sveinagerði

Sveinagerði utan Strandar.

Gengið var upp að Torfabæjarbrunni og síðan skoðað í kjallara Torfabæjar þar sem skóli Selvogsbúa var um skeið. Uppalingurinn dró hópinn með sér í átt að Þorkelsgerði þar sem íbúarnir opnuðu og buðu FERLIRsförum innfyrir. Var þar boðið upp á kaffi og meðlæti. Kom fram að ferðir FERLIRs hefðu spurst út um bæi og grundir og væru þátttakendur hvarvetna auðfúsugestir.

Eftir að spurt hafði verið almæltra tíðinda og spáð í veðrið var haldið áfram til vesturs fram hjá Miðvogsréttinni og að Strandarkirkju. Þar var stefnan tekin á gömlu vörðuðu þjóðleiðina að ósum Hlíðarvatns.

Eftir stutta göngu var vent til norðurs og þá komið í Sveinagerði þar sem sveinar sýslumanns voru við leika á öldum áður.

Vogsósar

Kirjugatan milli Vogsósa og Strandar.

Sveinagerði fór í eyði 1696, en þarna má sjá gamla garða og gerðið sjálft. Skammt austan við það liggur Kirkjustígurinn á milli Strandarkirkju og Vogsósa. Þaðan mátti sjá í hæðina norðan Strandarkirkju þar sem Þórarinn á Vogsósum sagði að fólk á leið í kirkju hafi venjulega skipt um skó. Heitir þar skósteinn. Stígnum var fylgt í átt að Vogsósum. Farið var yfir þvergarða á nokkrum stöðum og sjá mátti í Strandargarð (Fornagarð) ofar í heiðinni.

Herdísarvík

Þórarinn Snorrason frá Vogsósum leiðbeinir FERLIRsfélögum.

Á Vogsósum var hús tekið á Þórarni og Snorra, sem voru við rúninga. Var Snorra sagt frá hvar nafni hans uppi í Hvannahrauni hefði að geyma og að þar væru þá stundina fulltrúar HERFÍs og FERLIRs við undirheimarannsóknir.
Eins og fyrr segir var veðrið sérstaklega hentugt til gönguferðar. Ofar var bleyta og þoka með fjöllunum, en Selvogurinn skartaði því besta sem gerist á þessum árstíma.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Grindarskörð

Eftirfarandi lýsing á Grindarskarðsvegi (Selvogsleið) eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943-1948:
Grindarskord-223„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Legg ég svo upp frá Hafnarfirði.
Þegar upp að fjalli er komið, eru til norðurs með fjallinu grasflatir allstórar, sem heita Kristjánsdalir. Norðan þeirra gengur hæðarskagi fram úr fjallinu: Kristjánsdalahorn.
Upp af kerlingarskard-221Kristjánsdölum rís landið sem í öldum, og heitir þar Kristjánsdalabrúnir. Norðaustur af þeim eru Þríhnjúkar. Til suðurs sér alllangt með Lönguhlíð og til Dauðadala. Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, unz upp er komið á Kerlingarskarð. Allbratt er upp að fara, einkum neðst og efst. Þegar komið er undir efstu brekkuna, er dalverpi litið í fjallið norðan götu. Þar sést enn kofarúst, leifar af skýli, sem byggt var í tíð brennisteins-vinnslunnar í Brennisteinsfjöllum, og var „sæluhús“ þeirra, sem fluttu brennisteininn á hestum til Hafnarfjarðar. Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðavegur. Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helzt lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingarskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni. Þegar upp á brún er komið, eru þrír hnjúkar til hægri handar, skammt frá vegi, kúlumyndaðir og allir svipaðir að stærð. Hnjúkar þessir eru á uppdrætti herforingjaráðsins nefndir Grindaskarðahnjúkar, aðrir nefna þá Bolla einu nafni, sennilega eftir lagi bolla á hvolfi. Nokkurn spöl norðan gamla Grindaskarðavegar er allstór hnjúkur, sem á korti frá 1908 er nefndur Kóngsfell, en á korti frá 1932 Bolli.

Selvogsgata-618

Alþekkt fiskimið frá tíð áraskipanna við Faxaflóa er Bollasvið eða Bollaslóð. Þá voru Bollarnir, syðsti, mið- og nyrzti, yfirmið, en Helgafell undirmið. Vitneskju hef ég reynt að afla mér frá gömlum sjó- og formönnum, sem sóttu mikið á þessar slóðir, en ekki ber þeim að öllu leyti saman um Bollana. Nokkrir þeirra telja þá alla sunnan Kerlingarskarðs, en aðrir beggja megin, og er ekki óhugsandi, að þessi sagnamunur stafi af því, að margir af þessum mönnum eru algjörlega ókunnugir á landi þar um slóðir. Allir þessir menn þekkja eflaust Bollana af sjó, en ef til vill gera þeir sér ekki grein fyrir þeim af landi eða þegar nær er komið, þar sem ýmis kennileiti taka breytingum í augum manna, eftir því hvaðan horft er og úr hvaða fjarlægð. Hæsti hryggur fjallsins er mjór, og fer rétt strax að halla austur af, en ekki er það undanhald langt, svo sem hálfrar stundar gangur, þar til landið liggur jafnhátt, og nær það að Hvalhnjúk og Ásum. Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá.
Er það Selvogsgata-616hraungjá mikil, sem hraun hefur runnið eftir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er Kóngsfell. Þar koma saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu. Þegar komið er austur af fjallshryggnum, er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriðja, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. Var það leið þeirra manna, sem brennisteinsnám stunduðu í Brennisteinsfjöllum, þegar þeir fóru um helgar til Hafnarfjarðar, því að flestir af þeim áttu þar heima, en mest var þessi leið farin af þeim, sem fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar, og var hann fluttur á klökkum. Hafnfirðingum, sem hesta áttu, svo og bændum þar í grennd, var að einhverju leyti gefinn kostur á þessum flutningum, og skyldu þeir fá eina krónu á hestburðinn í flutningsgjald. Ferðin mun hafa tekið 12-14 klst. Eitthvað mun þessu hafa verið sinnt, þrátt fyrir þetta lága gjald, sem að lokum reyndist samt félaginu ofvaxið. Þetta var á síðari hluta nítjándu aldar.
Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar. Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar heíur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð.
Það hefur líka hýrnað Selvogsgata-619yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú.

Selvogsgata-620

Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja. Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar. Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík.
Vestur að Herdísarvík er um Stakkavikurvegur-212þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík. Hefur nú verið lýst leið hinna svonefndu útbæja í Selvogi, og hverfum við nú aftur norður undir „Skarð“, að vörðunum tveim, og förum þaðan austustu leiðina, sem liggur til Vogsósa og Selvogshverfis.
Vegurinn til Selvogs liggur frá vörðunum austur milli hrauns og hlíða. Er lág heiði með giljum og skorningum á vinstri hönd, en braunið á hægri, og nær það alveg upp að þessum heiðadrögum, og er þessi kafli vegarins nefndur Grafningur. Þegar austur úr honum kemur, er komið í Stóra-Leirdal, það er allstór sléttur grasdalur. Í Stóra-Leirdal var ófrávíkjanleg regla að æja, taka ofan af hestum, ef undir áburði voru, hvort heldur var verið á austur- eða vesturleið.

Selvogsgata-621

Þarna tóku menn til nestis síns, bæði matar og drykkjar, ef eitthvað var fljótandi í ferðinni, og var þá ekki ósjaldan, ef verið var að koma úr kaupstað, stundum í misjöfnu veðri, þegar menn voru búnir að hressa sig á mat, hver við sinn farangur, að menn færðu sig þá saman, og einhver þá ef til vill með ábæti, aðallega af farangri fararstjórans, því að venjulega hafði einhver einn forystu í ferðinni. En oftast var þetta þegjandi samkomulag, og sungu menn nokkur lög, áður farið var að hafa saman hesta til áframhalds ferðinni. Söngurinn, ásamt yljandi hressingu, færði fjör og hita í menn, sem þeir svo bjuggu að næsta áfanga.
Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur.

Selvogsgata-622

Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið. Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum. Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 626 m hár.

Selvogsgata-623

Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t. d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt. Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll.

Eiriksvarda-23

Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell. Norðaustur af því eru grasbrekkur og lautir, Fornutorfur, var þar oft slegið frá Hlíð og Vogsósum allmikið af finnungi.
Nokkru austan Þorvaldsháls er komið í Litla-Leirdal. Þaðan er smáspölur þar til talið er, að komið sé ofan af fjallinu. Þá er komið ofan í Katlabrekkur, og er þá Hlíðarfjall til vesturs, en Svörtubjörg til austurs. Þar uppi er Eiríksvarða, og á Eiríkur á Vogsósum að hafa hlaðið hana til verndar Selvogi fyrir sjóránsmönnum, svo sem Tyrkjum. Kippkorn vestur með Hlíðarfjalli skagar smáháls fram úr fjallinu, Sjónarháls. Af honum er stutt heim að Hlíð, sem nú er í eyði og hefur verið um 40 ár. Hlíð er við austurenda Hlíðarvatns, og er þar dágóð silungsveiði.
Rið ágætt á svonefndri Bunu. Beljar þar vatn undan fjallinu, en hæfilega stór möl í botni sem hrygningarstaður.
Að Hlíð bjó Þórir haustmyrkur, sá er nam Vordufellsrett-21Selvog og Krýsuvík, sem fyrr segir. Vogsósar standa á sléttum völlum sunnar með vatninu. Úr Katlabrekkum sér til Selvogsbyggðar, nema útbæjanna, Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Liggur nú leiðin til suðurs eða suðausturs, niður vestur- og suðvesturdrög Selvogsheiðar. Þegar nokkuð niður í heiðina kemur, er farið í gegnum svonefnd Rof. Litlu neðar er farið vestan undir smáhraunhæð, sem Vörðufell heitir. Við Vörðufell stóð nokkuð fram yfir síðustu aldamót lögrétt Selvogsmanna, Vörðufellsrétt. Nú eru réttir þeirra norðaustur af Svörtubjörgum.
Ég get ekki gengið fram hjá án þess að drepa á eins konar helgisögn í sambandi við Vörðufell, og er átrúnaður þessi, eða hvað sem menn vilja kalla það, efalaust runninn frá Eiríki á Vogsósum, en sögnin er í fám orðum þessi: Selvogsheiði er, sem kallað er á smalamáli, mjög leitótt, og tefst því oft fyrir mönnum að finna gripi, sem að er leitað, þoka gerir leitina stundum erfiða.

vordufell-22

Ef leitarmann ber nú að Vörðufelli, þá skal hann ganga á fellið, leggja þar einn stein í vörðu eða undirstöðu að annarri, ef þær sem fyrir eru, eru nógu háar orðnar, og mun hann þá bráðlega finna það, sem eftir er leitað. Ekki get ég af eigin reynslu sagt neitt um áhrif þessara verka, en það get ég sagt, að Vörðufell er að ofan alþakið vörðum, stærri og smærri, og jafnvel er þessu eitthvað haldið við enn, eítir því sem greinagóður maður hefur tjáð mér nýlega. Ekki hefur mér tekizt að fá nógu áreiðanlegar sagnir um það, hvað liggi hér til grundvallar, hvaða fórn hér sé verið að færa fellinu eða hverjum; en talið er vafalaust, að ummæli Eiríks á Vogsósum, þess spaka manns, liggi hér á bak við og séu enn í góðu gildi.

Selvogsgata-617

Nokkru suðaustur frá Vörðufelli er Strandarhæð. Suðvestur í henni er stór hellir, Strandarhellir. Framan til er hann hár og falleg boghvelfing yfir, en sandur er í botni, og getur þar verið inni fé, svo að hundruðum skiptir, án þrengsla. Suður af hellinum eru sléttar grasdældir, Dalalágar. Þegar hér er komið, er steinsnar til bæja í Selvogi, og þá venjulega komið að túnhliði, ýmist frá Bjarnastöðum eða Nesi, eftir því sem hverjum hentar, eða þá að utustu bæjum í hverfinu, Þorkelsgerði eða Torfabæ.
Á vetrum, þegar Selvogsmenn fóru gangandi vestur yfir fjall, styttu þeir sér oft leið með því að fara Hlíðarskarð í Hlíðarfjalli, vestur með Langhólum í Austur-Ásum, á veginn sunnan undir Hvalhnjúk, Stakkavíkurveginn. Er nú lýst leiðum Selvogsmanna til Hafnarfjarðar.“

Suðurferðavegur

Suðurferðavegur næst Selvogi.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49, árg.1943-1948, Selvogsleiðir, Ólafur Þorvaldsson, bls. 96-104.

Selvogur

Minja- og örnefnaskilti var afhjúpað við Strandarkirkju í blíðskaparveðri í dag að viðstöddum sóknarbörnum og fróðleiksfúsum ferðamönnum.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Um var að ræða skilti þar er gefur að líta bæjarnöfn, örnefni og minjar í Selvogi. Kortið var gert með dyggri aðstoð heimamanna, þeirra Þórðar Sveinssonar, Þórarins Snorrasonar og Kristófers Bjarnasonar heitins og endurspeglar sögu þessa fjölmenna og merka útvegsbændasamfélags í gegnum aldirnar. Öll vinna var endurgjaldslaus, en Sveitarfélagið Ölfus greiddi fyrir prentun uppdráttarins og Biskupsstofa kostaði gerð skiltisins.

Selvogur - skilti-III

Strandarkirkja og skiltið góða – Askur, eins árs, virðist ánægður með árangurinn.

Á myndinni hér á ofan, sem tekin var við vígsluna, má sjá (frá vinstri) Ómar Smára Ármannsson, teiknara og utanumhaldsmann, Ask Emil Jónsson, sérlegan aðstoðarmann, Þórð Sveinsson frá Bjargi í Selvogi, Þórarinn Snorrason bónda á Vogsósum í Selvogi, Jóhann Davíðsson FERLIRsfélaga og sérlegan aðstoðarmann og Jón Ragnarsson, settan prest í Strandarkirkju, fulltrúa sóknarnefndar Selvogs og Biskupsstofu. Á myndina vantar Ólaf Örn Ólafsson, bæjarstjóra Sveitarfélagsins Ölfuss, sem veitti verkefninu ómetanlegt brautargengi. Þegar myndin var tekin var hann upptekinn í viðræðum við bæjarbúa og aðkomandi gesti.
Skiltastandurinn var hannaður og smíðaður hjá Martak h/f í Grindavík og skiltaplatan prentuð á plasthjúpaða álplötu hjá Stapaprent h/f í Reykjanesbæ. Það var síðan afhjúpað kl. 14:00 á laugardeginum, sem fyrr sagði. Í kjölfarið var boðið upp á leiðsögn um Selvoginn undir handleiðslu Þórarins Snorrasonar og Jóhanns Davíðssonar. Tilgangurinn með gerð uppdráttarins var að festa á blað tilvist og staðsetningar örnefna á þessum merkilega, en gleymda, útvegsbæ á meðan enn voru til menn er mundu hvorutveggja – komandi kynslóðum til ánægju og fróðleiks.
Frábært veður.

Ölfus

Selvogur – Minja- og örnefnaskilti (ÓSÁ).

 

Selvogsleiðin gamla

Eftirfarandi grein um „Selvog og umhverfi“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1938:
Selvogsvegir-551„Í góðviðriskaflanum í sept. 1.1.fór jeg til Selvogs, í erindum fyrir fjelag hjer. í Reykjavík. Jeg fór með bíl, sem leið liggur að Hveragerði í Ölfusi. Þaðan hafði jeg hugsað mjer að flytjast á hinum meðfæddu flutningatækjum. Heiðríkja og blíðskaparveður var þá, og alla dagana er jeg var í ferðinni. Frá Hveragerði fór jeg eftir hinum nýja vegi, sem verið er að leggja út Ölfushrepp, og er hann kominn út á móts við Þóroddsstaði. Þaðan er slarkfær bílvegur út að Hraunum. Þegar þangað kemur beygist vegurinn dálítið til norðurs, út með fjallinu, áleiðis til Selvogsheiðar, og liggur vegurinn þar um helluhraun og aurflög, og er ekki fær bílum í rigningartíð. Tveir bæir eru þar út með fjallinu, og liggja þeir allfjarri hvor öðrum, og er þangað nær tveggja tíma gangur frá næstu bæjum í Ölfusi. Sá þeirra, er liggur næst Selvogsheiði, og er ysti bær í Ölfushrepp, heitir Hlíðarendi, og gisti jeg þar um nóttina. Morguninn eftir, um kl. 9, lagði jeg á Selvogsheiði, áleiðis til Selvogs. Vegurinn liggur fyrst út með alllöngu hamrabelti, og verður hann víða að liggja í gegnum slæm aurflög, eða um helluhraun, eða laust hraungrjót. Heiðin smálækkar nokkuð vestur fyrir miðju, og liggur vegurinn á þeim kafla víða um mýrlendi og móa, og víðast mjög lágt, og er vegurinn ófær bílum á austanverðri heiðinni í rigningartíð, en hinsvegar myndi ekki þurfa að kosta mjög mikið fje að gera þar allgóðan sumarveg fyrir bíla. Þar á austurheiðinni er kjarngott beitiland, enda var þar allmargt sauðfje á víð og dreif.

Nes-551

Þegar komið er um 1/2 vegar innanfrá, eða hæst á heiðina — en hún er hvergi há — sjest Selvogsþorp, og ber þar mest á vitanum og hinni oftnefndu Strandarkirkju.
Leiðin lækkar fljótara og með jafnari halla að vestanverðu og er þar landslag fallegt, víða hallandi vegir, og því að miklu leyti sjálfgerður bílvegur, þar til fer að nálgast þorpið, þá fer að bera allmikið á foksandi og uppblæstri, og hefir foksandurinn gert Selvogsbúum mikið tjón, og sjást sandskaflar þar víða, t. d. er allhár grjótgarður um austanvert túnið í Nesi, og náðu þó sandskaflarnir upp fyrir miðju á honum, en samt sem áður hlífir garðurinn túninu mikið. Jeg kom í Selvog eftir 4 tíma gang yfir heiðina. Jeg var þar öllum ókunnur, og ákvað að finna fyrst vitavörðinn að máli, og bað hann um gistingu meðan jeg dveldi í þorpinu, og var það strax til reiðu.

Strandarkirkja-1928-2

Guðmundur Jónsson vitavörður er vel greindur maður, fróður og athugull um margt í fortíð og nútíð, og dugnaðarmaður í búskap og hvívetna. Þegar jeg hafði lokið erindi mínu, fór jeg að skoða hina nafnkendu Strandarkirkju, sem svo margra hugur virðist hvarfla til í andstreymi lífsins. Kirkjan er utanvert við þorpið, og nálægt sjó. Það er lagleg og vel hirt timburkirkja, og stendur hún, og grafreitur umhverfis, á sandhól. Stormarnir hafa um aldaraðir sorfið úr hólnum, en til þess að stöðva það hefir verið hlaðinn allhár grjótgarður, að miklu leyti umhverfis hólinn, en hann er nú farinn að hrörna, og ætti að sjálfsögðu, að steypa þarna varnargarð um kirkju og grafreit, enda hefir Strandarkirkja ærið fje til að hlúa að sjer og sóknarbörnum sínum, lífs og liðnum.

fornigardur-551

Talsvert hefir verið unnið að því að græða upp land kirkjunnar með góðum árangri. Mjer fanst eins og yfir þessari yfirlætislausu, snotru timburkirkju hvíla þögul, tignarleg ró. Má vera að það hafi verið af því, að jeg vissi, að samstiltur hugur margra Íslendinga hefir oft kvarflað til hennar til áheita í mótblæstri lífsins, og hinar miklu gjafir til hennar sýna, að oft hefir mönnum orðið að ósk sinni í því sambandi. Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa hlið málsins, en ,,ef þjer hafið trúna, megnið þjer fjöllin úr stað að færa“, og „harla margt er á himni og jörð, er heimspekina dreymir ei um“.
Strandarkirkja hvað eiga í sjóði um 150 þús. kr„ er gera verður ráð fyrir að sje í reiðu fje. Þetta er meira fje en kirkjan þarf sjer til viðhalds. Mjer finst, að kirkjan — eða forráðendur hennar, sem hvað vera hlutaðeigandi sóknarnefnd, ríkisstjórn og biskup — ættu að verja nokkru af fje hennar til andlegra og líkamlegra hagsbóta fyrir sóknarbörn kirkjunnar. Jeg vjek dálítið að þessu máli við Guðmund vitavörð. Hann sagði að sú hugsun hefði gert vart við sig þar, að gera Selvog að sjerstöku prestakalli. Kirkjan ætti að nokkru eða öllu leyti að leggja fram fje til þess að jafntímis yrði reist hæfilegt skólahús fyrir barna- og unglingakenslu, og íbúð fyrir prestinn, sem jafnframt væri aðalkennari.

Selvogur-551

Líklegt þykir mjer að Selvogsbúar myndu sjá um, að í þann starfa slysaðist ekki hempukommúnisti, heldur maður, sem hefði áhuga fyrir að þroska ungmenni andlega og líkamlega á þjóðræðisgrundvelli. Margt fleira mætti nefna, er ætti vel við að kirkjan legði fje fyrir sóknarbórusíu, svo sem til bókasafns o. fl.
Húsakynni í Selvogi eru yfirleitt góð, þar eru nokkur mjög snotur íbúðarhús úr timbri og steini. Garðrækt er þar töluverð, enda góð skilyrði fyrir henni. Tún eru furðanlega grasgefin, þrátt fyrir sandfok. Nautgriparækt getur ekki orðið þar mikil, en aftur á móti hafa Selvogsbúar allmargt sauðfjár, enda er þar snjóljett, og kjarngóð beit á heiðunum.

selvogur-552

Guðm. vitavörður í Nesi hefir, að sögn, um 800 sauðfjár, og mun það vera langflest hjá honum, enda er Nes aðaljörðin. Í jarðamatinu frá 1860 er Nes metið 55 hundruð.
Íbúar þorpsins virðast, að framkomu og yfirbragði, ekki standa að baki annara í kauptúnum og kaupstöðum. Menn skiftast, þar sem annarsstaðar, í pólitíska flokka. Þó heyrði jeg þess ekki getið, að einræðis- og kúgunarstefna kommúnista — og hinna dulbúnu fylgjenda þeirra — væri farin að gera vart við sig. Það ber vott um mikið andlegt þroskaleysi hjá þjóðinni, og andvaraleysi með frelsi sitt, ef hún uggir ekki að sjer fyr en hún hefir verið hnept í fjötra ófrelsis og kúgunar, ef til vill undir yfirstjórn erlendrar harðstjórnar. Blóðferill komiminismans — bæði beint og óbeint — er að verða drepsóttum verri í heiminum. 

Selvogsviti - gamli

Nú á þjóðin engan Einar Þveræing, og því síður nokkurn Jón Sigurðsson.
Þjóðin sjer, og horfir með kvíða á hættuna, en hefst ekki að. Sumir af sinnuleysi. Nokkrir trúa, ef til vill, ekki að hætta sje á ferðum. Aðrir ef til vill af því, að þeir vænta sjer hagnaðs af því að  viðhafa „hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu“.
Guðmundur vitavörður álítur, að ekki muni verða ábyggilegur bílvegur suðurleiðina sakir snjóþyngsla er oft komi bæði á svæðinu frá Krýsuvík að Selvogi, og engu síður á austanverðri Selvogsheiði, sem liggur víðast mjög lágt, og virðist mjer það mjög líklegt, en sumarveg fyrir bíla má gera um heiðina, til Selvogs, með fremur litlum kostnaði. Vetrarvegur frá Reykjavík, um Krýsuvíkurheiði og Selvogsheiði, mun ekki reynast ábyggilegri, sjerstaklega í suðvestan snjó komu, en Hellisheiði. Ef Hellisheiðarvegurinn væri endurbættur, þannig, að hækka hann mjög víða upp, og færa hann upp úr lautunum (t.d. skamt frá Kolviðarhóli), er ástæða til að ætla, að hann yrði engu síður ábyggilegur en hinn, en svo miklum mun styttri og því ódýrari til notkunar. En Íslendingar þurfa að muna það, og vera við því búnir, að oft hafa komið þau fannalög, að bílvegir myndu hafa farið í kaf allvíða, og til þess að rökstyðja það, þarf ekki lengra aftur í tímann, en um og eftir síðustu aldamót.
Selvogsgata-551Frá Selvogi ákvað eg að fara skemstu leið til Hafnarfjarðar, og er það rúmir 40 km., og liggur leiðin yfir háa heiði, og mun hún vera um 20 km., og endar að norðanverðu í Grindaskörðum.
Jeg lagði af stað frá Selvogi. Þegar maður er staddur á fjöllum uppi, verður maður best var við alvöru- og tignarsvip náttúrunnar, og þar „þagnar dagur þras og rígur“, og eins og Gestur Pálsson segir: „Rekur sig þar ekki á nein mannaverk“, og jeg vil bæta við: Þar blasa við stórvirki náttúrunnar, er Jónas Hallgrímsson minnist á í hinu lotningarfulla erindi: „Hver vann hjer svo að með orku“.
Vegurinn um heiðina er slæmur, lítið annað en margra alda hestatroðnigar, víða með lausu hraungrjóthröngli, og lítur út fyrir, að þar hafi ekki verið hreinsuð gata á þessari öld, og er vegurinn þó líklega í tölu fjallvega. Um eitt er ferð um þessa heiði varhugaverð að sumarlagi. Það er vatnsleysið. Jeg varð ekki var við nokkurt vatn frá því jeg lagði á heiðina, og þar til jeg kom niður undir Hafnarfjörð, að vatnslæk bæjarins, er kemur undan hrauninu. Jeg bjóst við vatnsleysi á þessari leið, þar sem þetta er alt brunnið land, er gleypir fljótlega alt yfirborðsvatn. Til þess að mig þyrsti síður, borðaði jeg einungis skyr og mjólk áður en jeg lagði á heiðina, og nesti þorði jeg ekki að smakka fyr en við Hafnarfjarðarlækinn, af sömu ástæðu, enda bar þetta hvorttveggja tilætlaðan árangur.
A norðurbrún heiðarinnar eru Grindaskörð. Um för Repps um Grindaskörð 1867 orti Kristján Jónsson skopkvæði, og þar meðal annars þetta: Yfir geigvænleg Grindaskörð geystist fárramur ofurhugi; með galdrakynpri og gneistaflugi dundi á jöklum hríðin hörð. Höfuðskepnurnar hömuðust, hamaðist Repp þó engru miður. Alteins og háreist bæjarbust er bugast ei neina storma viður.
Þegar komið er fram að Grindaskörðum, á norðurbrún heiðarinnar, opnast fljótlega fagurt útsýni. Fyrir neðan heiðina liggur víðáttumikið mosavaxið helluhraun.
Niður við sjóinn sjest Reykjavík, og sýnist hún liggja allnærri, af því að hæð fjallsins dregur eins og að sjer. Víðáttumikið útsýni er yfir Faxaflóann. Í þetta sinn lagði inneftir honum dálitla útrænu. Þá er fjallahálfhringurinn svipmikill, einkum Akrafjall, Hafnarfjall og Esjan, sem framverðir, og Snæfellsfjallgarðurinn með hinn tignarlega útvörð, Snæfellsjökul.

selvogur-554

Þegar komið er niður af heiðinni, liggur vegslóðinn um helluhraun, vaxið grámosa á alllöngu svæði, og er mosalagið víða um 30 sm. á þykt, og var mýkri en nokkur fjaðrasófi að leggjast á. Leiðin frá heiðinni til Hafnarfjarðar mun vera um 20 km., og er um helmingurinn flatneskja, og því mjög villugjarnt í dimmviðri. Vegarslóðinn hefir, fyrir löngu síðan, verið varðaður, en vörðurnar eru að mestu hrundar, og því ekki vegvísir þegar þeirra er þörf. Sumsstaðar sjest fyrir götunni á þann hátt, að laut er troðin í hraunhellurnar eftir hestafætur, og hefir það sína sögu að segja. Þegar komið er niður fyrir Hafnarfjarðargirðingu, liggur vegurinn eftir þröngum skorningum um hraunið, og er mjög vont yfirferðar, gatan mjög víða þakin af hraunmulning, og væri full þörf á, og kostnaðarlítið, að hreinsa götuna, þótt líklega sje þar ekki fjölfarið.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Selvogur og umhverfi hans eftir Ólaf Jóhannsson frá Ólafsey, 23. janúar 1938, bls. 17-19.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.