Bieringstangi

Árni Óla fjallar um „Tanga-Hvíting“ í bók sinni „Strönd og Vogar„:

Strönd og Vogar„Sú er sögn, að eitt sinn hafi komið erlent skip til Voga, seint á vetri eða að vorlagi. Var þá harðindatíð og frost mikil, svo allar fjörur voru sem klakabólstur og lagís víða með ströndum fram. Þrír menn af skipi þessu ætluðu að fara inn á Bieringstanga. Gengu þeir á skipsbátinn og reru inn eftir. En fram undan tanganum lentu þeir í lagíshröngli. Munu þeir ekki hafa verið ís vanir, enda fór svo, að bátnum hvolfdi og drukknaði einn þeirra.
Þessi maður gekk þegar aftur og gerði af sér ýmsan óskunda á tanganum og voru menn hræddir við hann. Var hann kallaður Tanga-Hvítingur, vegna þess að hann var með hvíta húfu á kolli. Mun og ekki hafa verið trútt um, að menn héldi að hann drægi að sér fleiri sjódauða menn, og að draugarnir yrði margir um skeið.
Símon Dalaskáld reri margar vertíðir syðra og mun það hafa verið veturinn 1865, eða þar um bil, að hann reri á Bieringstanga, og mun þá hafa verið á útgerð Bjama á Esjubergi. Þótti þá draugagangur þar með meira móti. Út af því orkti Símon „Rímur af Bieringsborgar-bardaga“. Þær sem til í Landsbókasafni, en þó eigi heilar, því að 14 vísur vantar framan af fyrstu rímu, en alls voru rímurnar átta. Símon gerir þar draugana að Tyrkjum, er komið hafi á flota miklum til að herja á „Bieringsborg“. En kempurnar, sem fyrir voru, lögðu til orustu við þá.
Fyrir þeim voru tveir konungar, Magnús á Lykkju á Kjalarnesi og Bjarni á Esjubergi, en hinn þriðji var hersir, Þórður Þórðarson frá Kistufelli. Þar sem og nefndir synir Magnúsar, Tómas og Eyjólfur.

Þessir höfðu mikla makt,
málma tamir sköllum.
Borgin stóð með býsna prakt
blómlegum á völlum.
Um þann tíma ekki rór
— eyddist friður blíður —
upp á ríki Strandar stór
stríddi Tyrkjalýður.

BieringstangiOrustan varð hin grimmasta og er getið margra manna, er vel gengu fram, svo sem Erlings hreppstjóra á Geitabergi, afa Ásmundar Gestssonar kennara, Halldórs frá Kollafirði, Þorsteins frá Þúfnalandi, Þórðar frá Snartarstöðum. Símon kemur þar og sjálfur við sögu. Taldi hann fyrst úr að barizt væri, en er orustan var sem mannskæðust, varð hann hræddur:

„Ekkert stendur illum fjendum mót,
föllum vér í banabað,
bölvað er að vita það.“
Síðan kastar sverði hastarlega,
og af klökkum öldujó
ofan sökk í djúpan sjó.

Bieringstangi

Bieringstangi – tóft.

Gat hann þó svamlað til lands, en vermenn unnu frægan sigur á illþýðinu.
Eigi lauk þó draugaganginum á Bieringstanga með þessu. Tanga-Hvítingur var þar enn á sveimi og gerði mönnum glettur. Vildu menn þó fegnir losna við hann. Eitt sinn skaut Gunnar bóndi í Halakoti silfurhnapp á hann, og var það talið óyggjandi, ef um venjulega drauga var að ræða. Hvíting mun og hafa brugðið illilega er hann fékk í sig silfurhnappinn, því að hann sundraðist við það í tómar eldglæringar. En svo skreið hann saman aftur og hélt uppteknum hætti allt fram um 1890. En þá hvarf hann.“

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Tanga-Hvítingur, 1961, bls. 266.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Sjómaður

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1955 er m.a. fjallað um „Kolaveiði í Dugguósi við Bessastaði“: „Í ósnum, sem er milli Bessastaðatjarnar og sjávar og nefndur er Dugguós, var ákaflega mikil kolaveiði og einnig fyrir utan hann. Var kolinn venjulega veiddur þar frá því hálfum mánuði fyrir fardaga og allt til Mikjálsmessu.
Bessastadatjorn-221Var kolinn veiddur í svokölluð kolanet. Var alltaf vitjað um net þessi einu sinni á dag. Aflinn var misjafn, þetta frá 60 og mest upp í 150 fiska. Þætti slíkt nú daglega góður fengur. — Var þetta spikfeitur skarkoli, til jafnaðar rúmlega pund að þyngd. Stundum kom fyrir að smálúða kæmi í netin, og voru þær frá fimm og allt að tólf pundum. Þótti kolaveiðin einhver indælustu hlunnindi sem fylgdu Bessastöðum og Breiðabólsstöðum. Ári eftir að fyrstu togararnir komu hér í Faxaflóa, hurfu þessi dýrmætu hlunnindi frá þessum tveimur jörðum og verður sá skaði alltaf ómetanlegur. – (Sjósókn).“
Í Lögbergi-Heimskringlu árið 1963 er jafnframt fjallað um Dugguós: „Þar sem áður flæddi sjór, eru nú ræktaðar karlöflur.
Við brugðum okkur í vikunni suður á Álftanes og litum þar á kartöflugarð, sem segja má, að unninn hafi verið úr greipum Ægis, því fyrir nokkrum árum lá þar allt undir sjó. Nú er á nesinu fimm hektara kartöfluakur, og er uppskeran ágæt, því jarðvegurinn virðist auðugur af öllum efnum, og heppilegur til kartöfluræktar.
Bessastadir - sjobudÁrið 1952 og ’53 var hlaðinn varnargarður í hinn svonefnda Dugguós, eða Bessastaðaós á Álftanesi, og fékkst við það mikið land, sem áður hafði allt verið undir sjó, en fyrir innan þennan garð myndaðist einnig tjörn sú, sem kölluð er Bessastaðatjörn og ræktaður er í lax.
Það var Sveinn Björnsson fyrrverandi forseti, sem lét hefjast handa um gerð garðsins, og hélt Ásgeir Ásgeirsson forseti áfram verki hins látna forseta. Þar sem nú er kartöflugarðar voru einu sinni mógrafir norðurbæjanna á Álftanesi aðallega Landakots og Breiðabólstaðar, en í stórstreymi gekk sjórinn alla leið þangað upp. Svo var einnig gerður varnargarður fyrir vestanáttinni fyrir nokkrum árum, og á enn eftir að framlengja hann nokkuð svo hann nái að garðinum, sem er fyrir Dugguósi, en við það fæst enn nokkurt land til ræktunar.
Sett var niður í garðinn, sem er eign Erlends Sveinssonar lögregluþjóns, 6. júní og hefur verið unnið við upptöku undanfarna viku. Jarðvegur er þarna auðugur af öllum efnum og hefur uppskeran verið góð. — Í fyrra, en þá var fyrst sett niður í þennan garð, varð uppskeran sumsstaðar í honum 16 til 17 föld, og þykir víst ekki ónýtt að fá svo góða uppskeru. Auk kartaflanna eru þarna ræktaðar rófur og hafa þær sprottið mjög vel í sumar. – Tíminn 5. okt.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 27. febrúar 1955, bls. 124.
-Lögberg-Heimskringla 31. okt. 1963, bls. 8.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – örnefni.

Grænaflöt

Eftirfarandi er úr viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurlandi.
Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að GrænaflötBrunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.

Rót

Það var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða  Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólrahringa, illa farin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð hjá henni, en hún var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
Opið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þóttu hann rúmgóður.“

MosatáknÍ örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: „Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.“
Í annarri lýsingu eftir Gísla segir: „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“

Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson 1. febr. 2006.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

Krýsuvík

Í „Rauðskinna hin nýrri“ skrifar Jón Thorarensen um Ræningjahól í Krýsuvík.
Krýsuvíkurbærinn 1898„Þegar ég var 18 vetra gamall, átti ég heima í Krýsuvík. Ég var þar vinnumaður ásamt fjórum öðrum. Tuttugu manns voru á heimilinu, kátt fólk og skemmtilegt. Vorið 1898 stundaði ég þar veiðar í berginu, náði fugli og eggjum. Ég fór á morgnana niður á berg og var þar allan daginn fram á kvöld.
Krýsuvík var stórbýli, túnið afar stórt og hæðótt, svo ekki sást yfir það allt frá bænum. Í túninu er hæð, sem heitir Ræningjahóll. Þegar komið er sunnan í hól þennan, sét ekki heim að bænum. Hæð þessi er slétt tún og skammt fyrir innan túngarðinn.
Það var, að mig  minnir, í níundu viku sumars 1898, að ég svaf hjá einum vinnumanninum, sem heitir Jón Ívarsson. Rúmið okkar var inni við gluggann, og svaf ég fyrir ofan Jón. Þá dreymdi mig draum þann, sem nú skal greina: Mér þótti maður koma inn gólfið, inn að rúmi mínu. Mann þennan hafði ég ekki séð áður; var hann á að gizka um þrítugt. Hann var meðalmaður á hæð. Hann var í stuttbuxum og skóm úr íslensku skinni, sem voru svo djúpir, að þeir náðu upp á ökla, dregnir saman með skinnþvengum. Ég hafði aldrei séð mann með þannig fótbragð. Hann var í svartri prjónapeysu, með prjónahúfu á höfðinu, sem var eins og alpahúfur þær, sem nú eru notaðar. Mér þótti hann heilsa mér  og biðja mig um að koma með sér heim til sín.

Krýsuvíkurbærinn 1910

Föt mín lágu á kofforti, sem stóð við rúm mitt. Mér fannst ég fara fram fyrir Jón og klæða mig í flýti og ganga með manninum út og vestur bæjarhlað og suður að Ræningjahól, og þegar við vorum þangað komnir, erum við allt í einu komnir að bæ, sem ég hafði aldrei fyrr þar séð, því að ég bjóst við að sjá þar aðeins slétt tún. Þessi bær var með tveim húsum, hlið við hlið, og gengið þversum inn í bæinn um hleðsluna. Þegar við komum inn í fremra bæinn, voru gömul hjón þar fyrir, sem sátu á rúmum sínum og sitt barnið hjá hvoru. Voru þau að gefa börnunum að borða skyr eða graut úr tréskálum. Við héldum svo inn í innra bæinn. Þar inni var kona mannsins, sem ég var með. Mér virtist hún vanfær og að því kominn að veikjast og ala barn. Rúmstæði var á gólfinu, sem var brotið, og það bað maðurinn mig að gera við, um leið og hann fékk mér verkfæri, og fór ég að fást við þetta, eins og ég væri vanur smiður.

Ræningjahóll og túnbletturinn sunnan hans

Þegar ég hafði lokið viðgerðinni, lét konan f´öt í rúmið, en maðurinn hafði orð á því við mig, að hann gæti ekki borgað mér þetta, en hann skyldi minnast mín síðar. Ég hélt því næst heim, og fylgdi maðurinn mér alveg inn að rúmi mínu. Þar kvaddi hann mig og fór út, en mér fannst ég hátta aftur og sofna. Þannig var draumurinn.
Þennan morgun svaf ég fram að fótaferðatíma. Klæddist þá og hélt til veiða niður á berg. Þegar ég  var kominn suður með túngarðinum, þá verður mé rlitið upp að Ræningjahól, og þá mundi ég, hvað mig dreymdi um nóttina. Ég hugsaði sem svo, að þetta væri allt tóm vitleysa, þarna gæti enginn bær verið, og svo hvarf þessi draumur alveg úr minni mínu. Ég var allan daginn frammi á bergi, og veiddi ég með mesta móti þennan dag. Ég kom heim klukkan níu um kvöldið; þá var fólkoð að borða kvöldverðinn, margt við sama borð, og ég fór að borða líka.
Þá spyr Jón Ívarsson mig, hvað ég hafi verið að gera út í nótt. „Ég fór ekkert út“, var mér að orði. Þá svaraði hann: „Júm ég sá þig klæðast, og þú varst lengi úti“. „Það getur ekki verið“, svaraði ég. Rétt í þessu kom húsbóndinn inn, heyrði samtal okkar og segir: „Jú, ég  var úti og var að reka fé úr túninu um klukkan tvö, og sá þig koma sunnan frá Ræningjahól og fara inn í bæinn“.
Mér þótti þetta nokkuð skrítið og minntist þess þá aftur, er mig dreymdi um nóttina, og sagði fólkinu drauminn, en það varð alveg undrandi af frásögn minni. En aldrei hefir mig dreymt manninn í Ræningjahól aftur.  (Handrit Guðmundar Guðmundssonar trésmiðs í Reykjavík).“

Heimild:
-Jón Thorarensen – Rauðskinna hin nýrri, þjóðsögur, sagnaþættir, þjóðhættir og annálar, II. bindi, 1971, bls. 54-56.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Virki

Eftirfarandi er úr erindi Ómars Smára Ármannssonar um „Tyrkjaránið“ á Sagnakvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Í byrjun sumars 1627, eða fyrir 380 árum síðan, gekk allt sinn vanagang hjá Grindavíkurbændum. Vorverkunum var lokið og fé hafði verið fært til selja. Fólkið var að dytta að húsum og görðum á milli róðra, spjalls og sagna. Útvegsbændurnir voru vanir báts- og skipaferðum enda Grindavík þá einn helsti útgerðar- og verslunarstaður landsins. Þess vegna er kannski ekki svo víst að sigling skips (sumir segja tveggja skipa), sem nálgaðist snemmmorguns þann 20. júní, hafi vakið svo mikla athygli, venju fremur. Grindvíkingar áttu ekki von á neinu nema góðu úr þeirri áttinni, a.m.k. ekki síðustu 95 árin.
Viðburðurinn mikli ofan við Bótina aðfaranótt 11. júni 1532 er Bessastaðavaldið leiddi heimamenn ásamt Njarðvíkingum, Hafnfirðingum og þýskum frá Básendum mót Engendingum og drápu á þriðja tug þeirra hefur eflaust verið flestum gleymdur. Og ekki má telja líklegt að Grindvíkingar hafi reiknað með óvinum í þeim tilgangi, sem raunin varð á, eftir svo langa friðsemd.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir fyrrum.

Hansakaupmenn höfðu haft aðstöðu við þorpið og Grindavík hafði haldið stöðu sinni sem einn helsti verslunarstaður landsins. Hansakaupmenn keyptu hér fjölbreyttari vörur en Englendingar, til dæmis vaðmál, refaskinn, fjaðrir, rafabelti og skötubörð auk skreiðar og mun þetta hafa mælst vel fyrir. Þeir voru fyrst og fremst kaupmenn og má því ætla að þeir hafi kunnað betur að umgangast viðskiptavini en fiskimennirnir ensku. Tilskipun Danakonungs vegna Íslandsverslunarinnar 1602 hafði líka gefið ákveðin fyrirheit um friðsemd: „Svo og skulu þeir halda sig vingjarnliga, saktmóðugliga með góðri umgengni við landsins innbyggjara, bæði andliga og veraldliga, að enginn hafi með réttu yfir þeim að klaga.“
Framangreint er úr íslenskri þýðingu tilskipunar konungs frá 20. apríl 1602 um upphaf einokunarverslunar á Íslandi. Greinin fjallar um erlenda kaupmenn.
Með einokunarversluninni er átt við sérstaka gerð af verslunartilhögun sem var komið á fót á Íslandi árið 1602 og stóð í tæpar tvær aldir, fram til ársins 1787. Á árunum 1620-1662 hafði „Elsta íslenska verslunarfélagið“ Íslandsverslunina undir höndum í umboði Dankonungs. Að vísu varð hagnaður af vöruskiptaversluninni mikill, eða um 60%, en inni í þeirri tölu má telja flutningskostnað og mannahald. Þegar upp er staðið má segja að verslunin fyrir 400 árum hafi verið með svipuðum hætti og nú, að vöruúrvaldinu undanskyldu.
Það var sem sagt þann 20. júní 1627 að skip kom að Grindavíkurströndum. Annað skip gæti hafa haldið sig utar á meðan hitt leið að höfninni. Segir sagan að þá hafi skipverjar áður komið við í Krýsuvík, haldið upp Ræningjastíg í Heiðnabergi, hitt fyrir selsstúlkur í seli ofan við bjargið og síðan fylgt smala eftir upp að kirkju þar sem síra Eiríkur á Vogsósum var við messu. Það var á sunnudegi.
Íbúafjöldinn í Grindavík hefur verið nálægt 180 manns. Búðir kaupmannsins danska stóð þá í Járngerðarstaðalandi, eða fram til 1639 er hann flutti að Básendum eftir að hafís hafði skemmt hafnaraðstöðuna. Áður hafði kaupmaðurinn haldið verslun við Húsatóftir þar sem hann síðan endurreisti búðir sínar ofan Búðarsands að nýju eftir 1664. Verslunarhús var reist á Búðarsandi 1731.
Flestir voru uppteknir við morgunverkin þennan júnímorgun árið 1627. Á Járngerðarstaðasundinu, sennilega utan við Suðurvör (Fornuvör) og Norðurvör frekar en í Stóru-Bót, lá danskt kaupskip. Aðkomumenn sendu þangað bát til að meta aðstæður. Á meðan sendi Lauritz Bentson, Grindavíkurkaupmaður, átta Íslendinga á báti að aðkomuskipinu. Þeir fóru um borð í skipið. Upplýst varð að fátt væri um varnir í landi. Foringi „Tyrkjanna“, Amorath Reis, fór með þrjátíu vopnaða menn í land. Þeir byrjuðu á því að hertaka danska skipstjórann og tvo menn með honum, rændu kaupmannsbúðina, en kaupmaður flúði og með honum aðrir Danir. Þá sneru „Tyrkir“ sér að Grindvíkingunum.

Tyrkjabyrgi

Svonefnd „Tyrkjabyrgi“ í Sundvörðuhrauni.

„Tyrkirnir“ skunduðu eftir sjávargötunni heim að Járngerðarstöðum. Þeim lá á því þeir gátu alveg eins átt von á að kaupmaðurinn snéri aftur með lið manns. Í bænum gripu þeir Guðrúnu Jónsdóttur, konu Jóns Guðlaugssonar. Hún var borin nauðug frá bænum. Í götunni kom þar að bróðir Guðrúnar, Filippus. Þegar hann reyndi að koma henni til hjálpar var hann barinn og skilinn eftir hálfdauður. Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar, bar þá þar að ríðandi. Tóku „Tyrkir“ hestinn af honum og stungu. Lá hann óvígur eftir.
„Tyrkir rændu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, tóku Halldór Jónsson, bróður Guðrúnar og þrjá sonu hennar, Jón, Helga og Héðinn, en bróðir hennar, Jón, hafði verið einn af þeim átta, sem fóru að finna skipið í upphafi. Jón Guðlaugsson, bónda á Járngerðarstöðum ráku „Tyrkir“ til strandar með sonum hans og Halldóri, en vegna þess að Jón var þá orðinn aldraður maður og veikur gáfu þeir hann lausann er hann féll við í fjörunni. Stúlku eina, Guðrúnu Rafnsdóttur, tóku þeir og með húsfrúnni á Járngerðarstöðum og færðu til skips.

TyrkirFólkið hafði ekki talið að ræningjarnir myndu sækja í fólkið heldur einungis að fjárstuldir myndu verða. Raunin varð hins vegar önnur.
Á útleið ginntu „Tyrkir“ hafskip á leið til vesturs til sín með fölsku flaggi. Þeir hertóku það skip, sem var kaupfar er sigla skyldi á Vestfjörðu. Kaupmaðurinn hét Hans Ólafsson. Fólkið var allt rekið ofan í skip, íslenskt og danskt, og sett í hálsjárn með hlekkjarfestum. Áður en „Tyrkir yfirgáfu Grindarvíkursjó gáfu þeir tveimur mönum, sem höfðu verið um borð í skipsbátnum, burtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og réru til lands. Eftir þetta fóru ræningjarnir burt frá Grindavík.
Þennan morgun var 12 Íslendingum, þarf af helmingur Grindvíkingar, og þremur Dönum rænt í Grindavík, auk áhafnarinnar á kaupfarinu utan við víkina. Af Íslendingunum hertóku ræningjanir húsfrúnna á Járngerðarstöðum, bróðir hennar og þrjá syni, auk stúlkubarnsins, allt heimilisfast fólk á Járngerðarstöðum. Afdrif Grindvíkinganna, sem rænt var, urðu með ýmsu móti. Þau Guðrún Jónsdóttir og Halldór bróðir hennar voru aðeins skamma hríð í þrældómi í Alsír. Komust þau til Danmerkur 1628 og heim til Íslands með vorskipunum sama ár.

Sögukort við Járngerðarstaði

Guðrún giftist nokkru síðar síra Gísla Bjarnasyni á Stað, en þá var maður hennar, Jón Guðlaugsson látinn. Halldór, bróðir hennar samdi rit um Tyrkjaránið. Um afdrif Guðrúnar Rafnsdóttur er ekki vitað. Árið 1630 skrifuðu þeir bræður Jón og Helgi foreldrum sínum bréf og vour þeir þá vegnir þrælar. Helgi varð frjáls eftir fjársöfnun 1936. Komst hann heim og kvæntist Guðbjörgu Gísladóttur. Settur þau saman bú á Járngerðarstöðum og bjuggu þar þangað til Helgi lést árið 1664.
Jón bróðir hans, Héðinn og Jón Jónsson, móðurbróðir þeirra, hvíla sennilega í afrískri mold. Sama gildir um bátsverjana fimm, sem reru út að ræningjaskipinu örlagamorguninn 20. júní 1627.
Eftir atburðina í Grindavík, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum urðu Íslendingar mjög óttaslegnir næstu aldir á eftir yfir mögulegri endurkomu ræningjanna.

Grindvíkingar hafa m.a. minnst þessa með því að setja upp söguskilti á vettvangi atburðanna 20. júní 1627. Á því má lesa um atburðarrásina og afdrif þess fólks, sem þar kom við sögu.

Sýnilegar minjar:

-Fornavör (Suðurvör)

Grindavík

Grindavík.

Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir Járngerðarstaðahöfninni. Var sendur frá því bátur að dönsku kaupskipi er þar lá og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.

-Skipsstígurinn
Ræningjarnir hófu að ræna búðirnar og síðan byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólkið, er féll í hendur þeim. Ræningjarnir drógu húsfrúna ásamt þremur börnumhennar og bróður stíginn niður að skipinu og særðu bræður hennar tvo á leiðinni. Eiginmaðurinn, aldraður og veikur, var skilinn eftir í fjörunni.

-Járngerðarleiði
Ræningjarnir hafa líklega gengið framhjá leiði Járngerðar við Sjávargötuna.

-Járngerðarstaðir
Dæmigerð bæjarhús frá byrjun 17. aldar. Útlendingar hafa varla borið mikla virðingu fyrir því sem fyrir augu bar þótt húsin hafi eflaust verið vegleg á íslenskan mælikvarða.

-Staður
„Tyrkirnir“ virðast hafa haft augastað á Stað og Húsatóftum, enda bæirnir sennilega vel greinilegir frá frá. Ræningjasker bendir til þess að þeir hafi a.m.k. reynt landgöngu, en engar heimildir erum um að þeir hafi komist alla leið, enda um drjúgan veg að fara fyrir þá sem reynt hafa.

-Ræningjasker

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Þar sem Staðarberg endar að austanverðu eru Bergsendasker. Litlu austan við þau eru Ræningjasker. Herma sagnir að þar hafi sjóræningjarnir frá Alsír gengið á land.

-Nónvörður
Upp af austanverðu Staðarbergi, ofan og vestan við Húsatóptir eru þrjár vörður, sem kallaðar hafa verið Nónvörður og voru eyktarmark frá bænum. Hermir sagan að þær hafi Staðarklerkur, sem þá var síra Gísli Bjarnason, hlaðið, er sást til ræningjanna. Á hann að hafa mælt svo um, að Staðarhverfi skyldi aldrei rænt á meðan vörðurnar stæðu, auk þess sem hann ku hafa gengið svo frá þeim, að „Tyrkjum“ sýndist þar vera her manns og sneru frá hið bráðasta. Er þarna vitnað í Guðstein Einarsson og Gísla Brynjólfsson.

-Gíslavarða

Gíslavarða

Gíslavarða utan við Stað.

Aðrir segja að varða sú, sem er á hraunhól vestan við Stað og gefur hið ágætasta útsýn, sé varða sú er síra Gísli lét hlaða til varnar „Tyrkjunum“. Mælti hann svo á um að meðan hún stæði óröskuð myndi Grindvíkingum óhætt. Svipuð álög munu hafa verið á Eiríksvörðu á Svörtubjörgum ofan við Selvog og sagan svipuð.
Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.
Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska. (Rauðskinna)

-Sundvörðuhraunsbyrgin

Hraun

Dys við Hraun.

Til eru gamlar sagnir af Staðhverfingum er nýttu Eldvörpin til brauðgerðar. Bæði er að þarna hefur verið miklu mun meiri hiti fyrrum auk þess sem stígurinn í gegnum hraunið að þessum hluta Eldvarpa heitir Brauðstígur. Ummerki inni í hellinum benda og til brauðgerðar.
Í krikanum og upp á hraunöxlinni að sunnanverðu eru um tugur hlaðinna byrgja. Þau fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Sumir segja að byrgi þessi hafi verið aðsetur útilegumanna, en aðrir segja að í þeim hafi fólk dulist um sinn eftir að Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627. Byrgin eru fremur lítil, aflöng og þröng. Eitt kringlótt byrgi er uppi á hraunbrúninni og önnur þar hjá. Hlaðin refagildra er framan við syðstu byrgin.
Ef einhver eða einhverjir hafa viljað dyljast þarna um sinn væri það tiltölulega auðvelt. Fyrir ókunnuga er mjög erfitt að finna staðinn, auk þess sem hann fellur vel inn í landslagið. Þótt mosinn hafi sest á byrgin og hraunið í kring er líklegt að þau hafi engu að síður fallið vel inn í landslagsmyndina þá og þegar þau voru gerð.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðurhrauni.

Eftir að hafa skoðað mörg byrgi á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. ofan við Húsatóttir, í Strýthólahrauni, í Slokahrauni, austan við Ísólfsskála, á Selatöngum, við Herdísarvík og við gömlu Hafnabæina er að sjá sem margt sé líkt með þeim. Svipað lag er á þessum byrgjum og t.d. í Slokahrauni og við Herdísarvík. Því er ekki útilokað að byrgin undir Sundvörðuhrauni hafi um tíma verið ætlað eða þjónað þeim tilgangi að varsla þurrkaðan fisk eða annan varning frá Húsatóttum. Á móti mælir að önnur þurrkbyrgi á Skaganum eru við sjávarsíðuna, en þessi talsvert langt uppi í landi. Hins vegar má geta þess að hreppsstjórinn hafði aðsetur á Húsatóptum og eitt helsta verkefni hans var fátækrahjálp og samtrygging ef eitthvað bar út af. Þarna gæti því hafa verið forðabúr hreppsins. Refagildran við byrgin, sem að öllum líkindum er jafngömul þeim, segir þó sína sögu.
Engin ástæða er til að draga úr tilgátum manna um aðra notkun og tilgang, sbr. framangreint, enda má telja líklegt að fólk hafi dvalið, eða hafi ætlað að dvelja þarna í skjóli hraunsins, ekki síst í ljósi þess að mannvistarleifar hafa fundist þar á öðrum stöðum í nágrenninu.

Hraun

Dys við Hraun.

-Útilegumannahellir Eldvörpum

Brauðhellir

Hleðslur í Brauðhelli í Eldvörpum.

Mannvistarleifar eru í svonefndum „útilegumannahelli“ í Eldvörpum. Þar eru nokkrar yfir 20 metra langar hraunrásir. Á einni þeirra er lítið gat, hleðsla, rásir upp og niður og inni greinilegar mannvistaleifar. Í efri rásinni er steinum raðað skipulega eins og þar hafi verið mynduð tvö fleti. Sjálf rásin er mjög aðgengileg og náði upp hraunið um 15 metra. Hliðarrás er í henni, falleg rás. Niðri er góð hraunbóla og inni í henni hleðslur. Hlaðið hefur verið fyrir op og framan við það er skeifulaga hleðsla. Bólan er um 6 metrar þannig að þessi rás er yfir 20 metrar. Ummerki í þessum helli er svipuð og í Brauðhellinum svonefnda. Hraunhellurnar eru ekki úr hellinum sjálfum. Þær hafa greinilegar verið færðar þangað og raðað upp í einhverjum tilgangi. Eflaust mætti finna fleiri mannvistarleifar á þessu svæði ef vel væri að gáð og hugsanlega komast að því til hvers og hvenær það var notað.

-Skipsstígur
Þjóðleiðin minni Grindavíkur og Njarðvíkur. Þá leið mun kaupmaðurinn danski í Grindavík sem og lið hans að öllum líkindum hafa flúið, enda ókunnugt staðháttum við ofanverða byggðina.

-Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Norðan og vestan við Lágafellið er Dýrfinnuhellir. Segir Tómas Þorvaldsson frá því í einni bóka sinna að sögn hafi verið um að samnefnd kona hafi flúið þangað með börn sín eftir að „Tyrkirnir“ komu að Grindavík og fóru ránshendi um byggðalagið. Á hún að hafa hafst við í hellinum um tíma. Þá er ekki ólíklegt að vegavinnumennirnir á Skipsstíg hafi nýtt hellinn sem skjól. Gegnumgeng braggalaga hraunbóla er þarna skammt norðar, vinstra megin við stíginn. Hleðsla er við annan endann. Ekki er ólíklegt að ferðalangar og vegagerðamenn hafi einnig nýtt sér það sem skjól um tíma.
Dýrfinnuhellir er hins vegar rúmgóður, en ekki mjög hár til lofts. Hann hefur hins vegar veitt ágætt skjól þeim, sem í honum dvöldu. Þykkt lag af sandi er í gólfinu. Skammt frá honum er annar hellir, ekki síður ákjósanlegt skjól. Innhellar hans eru víða lágir. Sandur er í botninum.
Handan við stíginn, skammt frá er hins vegar mjög fallegur hellir, eða m.ö.o. stór hraunbóla. Botninn er alveg sléttur og hlaðið hefur verið upp í kantana. Opið er fremur lítið og að mestu þakið mosa. Mjög góður felustaður. Niðurstigið hefur verið lagað til. Þarna er mjög gott skjól fyrir marga menn. Ef lýsingin hefði ekki verið svo nákvæm af staðsetningu Dýrfinnuhellis væri raunhæft að ætla að þarna hafi fólk getað hafst við um tíma og það með góðu móti.

-Gíslhellir

Gíslhellir

Gíslhellir.

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel.“
Gíslhellir er fundinn.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.
Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.

Grindavík

Bær í Grindavík.

Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir, en nafnið gæti þó hafa breyst, eins og mörg dæmi eru um. Hellirinn gæti heitir eftir prestinum á Stað, Gísla Bjarnasyni, er uppi var á tímunum um og eftir Tyrkjaránið. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins, s.s. væntanlegum felustað ef þurfa þætti. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell, sem er ekki langt frá.

-Efri-Hellir

Tyrkjahellir

Sigurður Gíslason sýnir op Tyrkjahellis á Efri-Hellu.

Segir sagan að í helli þennan hafi Grindvíkingar ætlað að flýja kæmi Tyrkir aftur. Var talið að hellirinn myndi rúma alla Grindvíkinga. Opið, eða öllu heldur opin, eru vandfundin suðvestan Húsafjalls.

-Hraunsdysin / kapellan

Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.

Kapella

Kapellan austan Hrauns.

Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.
Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík. Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Kristján Eldjárn gróf í “dysina” á Hraunssandi 1958. Þar reyndist vera kapella frá 14. eða 15. öld. Hann hafði mikinn áhuga á manngerðum hól vestan við Hraun, en gafst ekki tími til frekari rannsókna.

-Blóðþyrnir

Blóðþyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.
Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. um Tyrkina í Grindavík “En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”

-Heiðanberg
-Ræningjastígur
-Selið
-Selstígurinn – varða
-Ræningjahóll
-Ræningjadys
-Krýsuvíkurkirkja
-Eiríksvarða

Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurbergi og gengu upp, þar sem heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu, og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Þá var sunnudagur, og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir, að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara, að hann væri í ræðustól, er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti: “Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað”.
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar, góðir menn?” Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja kom á túninu. Hann mælti til þeirra: “Farið nú ekki lengra, drepið þarna hver annan. Væri annar dagur eða ég öðruvísi búinn, munduð þið éta hvern annan”. Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll, en Ræningjaþúfur, þar sem þeir eru dysjaðir. Eftir það hlóð Eiríkur vöðru á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni (á Svörtubjörgum), að meðan hún stæði, skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn (1859).

Heimildir:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-Öldin okkar – Öldin sautjánda; 1601-1800; 1966.
-Guðsteinn Einarsson – 1960.
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn“, Saga 1995, bls. 110-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Frásagnir Brynjúlfs frá Minna-Núpi.
-Rauðskinna.
-Rit Björns Jónssonar frá Skarðsá um Tyrkjaránið.
-Sagnir, munnmæli, frásagnir og leiðbeiningar elstu núlifandi manna í Grindavík.

Svörtubjörg

Við Eiríksvörðu á Svörtubjörgum.

Stakkavíkurhraun

Gengið var um Stakkavíkurhraun milli Herdísarvíkurvegar (þjóðvegarins) og strandar.
Áður höfðu Herdisarvikurvegurhinar fornu djúptklöppuðu götur verið skoðar þar sem þær liggja um Hellurnar vestur að Háahrauni. Í örnefnalýsingum er götunum lýst, bæði neðri leiðinni með sjónum og hinni efri. Í annarri lýsingunni er efri leiðin nefnd Herdísarvíkurvegur og sú neðri Stakkavíkurvegur.
Þegar neðri leiðin var skoðuð núna hafði sjórinn sópað stórgrýtinu af hraunhellunni ofan við ströndina svo sjá mátti hvar gamla gatan, ennþá mörkuð í helluna, hefur legið svo til á núverandi bjargbrún áleiðis að Mölvíkurvatni. Þeirri leið er lýst svo: „Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða. Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar. Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun.  Svo segja Selvogsingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.
Við götur þessar upp af Happasælaviki er Hundaþúfuhóll, sem allt eins er kallaður Hulduþúfuhóll.  Þaðan liggur gatan um klappirnar ofan við Bergdali. Alfaravegurinn efri liggur um Hellurnar upp á brunann allmiklu ofar.  Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand.“
MolvikurvatnEfri leiðinni, Herdísarvíkurvegi er lýst svo: „Frá bæjarhliðinu lá vegurinn heiman frá bæ og um hlið þetta, austur með Túngarði, framhjá Kátsgjótu, með Langagarði, um Herdísarvíkurbruna og áfram austur, milli Fiskigarðanna á Brunanum, um Mölvíkurklappir, yfir Háa-Hraun vestra og yfir brunann og niður á Hellurnar ofarlega og austur þær, upp Sandhlíð og upp á Háahraun eystra (sem er annað nafn á Stakkavíkurhrauni), um gróna sléttu litla í Hrauninu, Hvítubakka, um Borgartungur ofanvert við Fjárborgina og niður á Flötina og á Stakkavíkurveg.“

Herdísarvíkurgötur

Herdísarvíkurgötur. ÓSÁ

Báðar göturnar, sú neðri og sú eftir, eru mjög vel greinilegar enn þann dag í dag. Greinilegt er að báðar hafa í fyrstu þjónað fótgangandi vegfarendum, en síðar hafi efri leiðin verið gerð vagnfær. Enn má sjá sporrennuna í henni víðast hvar. Þá sést hvar Borgin hefur verið í Borgartungum. Slóði liggur að svæðinu þar sem Borgin var, notaður til að fjarlægja grjótið úr henni, væntanlega undir þjóðveginn.
Gengið var fram á greni austan við Háa-Hraun. Nýleg tófuspor voru allt umleikis.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Herdísarvíkurleið

Herdísarvíkurvegir. ÓSÁ

 

Hóp

Nú er svo komið að efri innsiglingarvarðan við Hóp þarfast aðhlynningar.
Varðan laskaðist í jarðskjálfta fyrr á árinu og æ síðan hefur grjót Neðri Sundavarðanverið að hrinja smám saman innan úr henni.
Innsiglingarvörðurnar inn í Hópið eru tvær, auk Hópsheiðarvörðu. Þær eru bæði miklar um sig og háar eftir því. Þegar Hópsrifið var grafið inn 1939 svo nota mætti Hópið sem lægi fyrir stærri skip (árabáta og vélbáta) voru vörðurnar hlaðnar. Þær hafa æ síðan verið eitt af meginkennileitum Grindavíkur – gulmálaðar í seinni tíð. Margir nafngreindir Gindvíkingar komu að hleðslunum. Þær er þó einungis ysta lagið, þ.e. það sýnilega, en að innanverðu eru vörðurnar kasthlaðnar. Það er ástæðan fyrir svo skjótri forfáun efri innsiglingarvörðunnar (skammt neðan við Austurveg). Í fyrstu hrundi ysta hleðslulagið og þá var ekki að sökum að spyrja – innvolsið fylgdi á eftir. Nú er svo komið að meir og meir hrinur innan úr vörðunni. Skammt er því að bíða að efri hluti hennar falli niður í heilu lagi – nema eitthvað verði að gert, t.d. með því að endurhlaða sárið og fylla að nýju.
Nokkru eftir að framangreint var skrifað hrundi úr neðri Hópsvörðunni, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.

Hópsvarða

Hópsvarðan neðri.

 

Jónsbásar

Eftirfarandi er úr erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín, sem hún hélt á Sagnakvöldi í Saltfisksetrinu 16. ferb. 2006 og nefndist „Sök bítur sekan„:

Staður

Klukknaportið í Staðarkirkjugarði.

Við strandlengjuna austast í landi Húsatótta skammt utan við Hvalvíkina eru Jónsbásaklettar en þar strandaði breski togarinn Anlaby 14. janúar 1902 og fórust allir sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl August Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899. Af þessum atburðum og af Carl Nilson spunnust margar sögur sem ég ætla að segja ykkur frá hér í kvöld og þá einkum þær sögur sem tengjast Grindavík og lítið hafa verið í sviðsljósinu fram til þessa. Við öflun heimilda styðst ég aðallega við kaflann frá Valahnúk til Seljabótar sem Guðsteinn Einarsson skrifaði í bókina Frá Suðurnesjum og kemur inn á þennan atburð og Staðhverfingabókina, Mannfólk mikilla sæva sem séra Gísli Brynjólfsson skrifaði. Feður beggja þessa höfunda koma við sögu. Faðir Guðsteins var Einar hreppstjóri á Húsatóftum og foreldrar séra Gísla voru séra Brynjólfur á Stað og frú Helga Ketilsdóttir.

Staður

Staðarströndin.

Árið 1999 þegar 100 ár voru liðin frá ódæðisverkinu á Dýrafirði var þess minnst þar og reistur minnisvarði um þá þrjá menn sem fórust í aðförinni. Eins var minnst á þetta ódæðisverk í fjölmiðlum 2004 þegar 100 ár voru liðin frá því að Íslendingar fengu heimastjórn og Hannes Hafsteinn varð fyrsti ráðherra Íslands. En fæstir þekkja söguna eftir að Carl Nilson kemur aftur til Íslands og ætlar að hefna sín á Íslendingum að talið var.Fyrir þá sem þekkja ekki fyrri söguna þá ætla ég í stuttu máli að rifja upp atburðinn á Dýrafirði. Carl Nilson var þá skipstjóri á breskum togara Royalist. Hann var við botnvörpuveiðar innan landhelgi, sem þá var 3 mílur, á miðjum Dýrafirði. Hannes sem þá var sýslumaður Norður-Ísfirðinga fór ásamt 5 öðrum til að ráðast til uppgöngu í togarann. Á þeim tíma voru varnir Íslendinga í landhelgismálum litlar og Englendingar notfærðu sér það. Nilson á að hafa komið til verslunarstjórans á Þingeyri nokkrum dögum áður og tekið út varning og ætlaði að borga síðar sem hann gerði ekki. Hann málaði yfir nafnið á togaranum Royalist svo aðeins sást oyalist til þess að blekkja menn. Skipsmenn á Royalist slepptu togvírnum að talið var þannig að báturinn sem Hannes var á hvolfdi og þeir lentu í sjónum og þrír drukknuðu en Hannesi ásamt tveimur öðrum var bjargað á síðustu stundu. Ekki samt að talið var fyrr en að menn í landi sem að sáu aðfarirnar með sjónauka réru að togaranum komu að. Sjónauki þessi er nú geymdur á Byggðasafninu á Ísafirði og kallaður lífgjafi Hannesar. Báturinn sem þeir Hannes voru á nefnist Ingjaldur og var síðast þegar ég vissi á sjóminjasafninu í Hafnarfirði. Um borð í Royalist var sjómaður frá Keflavík. Eftir atvikið sigldu þeir til Keflavíkur áður en þeir héldu til Englands og talið er að sjómaðurinn hafi tekið með sér fjölskyldu sína og flutt út. Nilson var síðan um haustið aftur tekinn við landhelgisbrot þá við Jótlandsskaga.
Hann var færður til Kaupmannahafnar. Fyrir tilviljun var póstbáturinn Laura sem var í ferðum milli Íslands og Danmerkur þar á ferð og Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri sem var um borð í áttaði sig á því að um sama skipstjóra var að ræða og í atvikinu á Dýrafirði. Nilson var dæmdur í fangelsisvist fyrir atburðinn á Dýrafirði en óljóst er hvort hann sat af sér dóminn eða ekki.

Jónsbásar

Jónsbásar.

Tveimur árum síðar var hann á leið til Íslands á nýjan leik er hann strandar við Jónsbáskletta við Grindavík. Svo sem oft vill vera í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta. Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax. Draumurinn var þannig að henni fannt að knúð væri dyra og 10 menn báðu um gistingu á Stað. Eitthvað leist henni illa á að hýsa svona stóran hóp og færðust undan því. En þeir sóttu fast á og svöruðu henni að Einar Jónsson hreppstjóri á Húsatóftum myndi sjá um þá. En þannig vildi til að Einar hreppstjóri sá um alla björgun og einnig um útför mannanna í Staðarkirkjugarði.

Enginn vissi þegar skipið fór upp. Sá sem fyrstur varð þess áskynja, var Björn, Sigurðsson vinnumaður í Garðhúsum. Hann var að ganga til kinda þegar hann sá rekald og dauðan mann. Talið var að han hafi verið með lífsmarki er í land kom, því hann lá ofan við flæðarmálið. Björn lét Einar hreppstjóra strax vita.

Staður

Jónsbás.

Helgi Gamalíelsson á Stað sagði að eftir ákveðna átt eins og var í þessu tilviki þá höfðu Staðhverfingar það til siðs að ganga á reka. Þennan dag var leiðindaveður og af einhverri ástæðu var það ekki gert en það hefði ef til vill geta orðið manninum til lífs. Höfðu Staðhverfingar það á samviskunni og fyrir vikið var ekki mikið talað um þennan atburð.

Úr skipinu rak 10 lík á rúmri viku en eitt líkið fannst ekki og var það talið vera af Nilson skipstjóra. Líkin voru flutt í Staðarkirkju og búið um þau þar og leitað eftir öllu til að bera kennsl á þau. Einn morguninn kom maður til Einars hreppstjóra, Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, og þótti honum maður koma til sín og biðja sig að fara til hreppstjóra og segja honum að hann vildi fá aftur það sem hafði verið tekið frá sér og hann sé norðast í kórnum. Einar tók drauminn bókstaflega þvi einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum í kirkjunni og var hann látinn á hann aftur.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Eitt fyrirbæri var sett í samband við strand þetta. Tveir ungir menn áttu þá heima á Húsatóftum. Þeir voru vanir að fara á kvöldin til fuglaveiða á báti út í Flæðikletta. Eitt skiptið heyra þeir undarlegt hljóð og þeir veltu því fyrir sér hvort að selir mundu geta hljóðað svona. En varla höfðu þeir sleppt orðinu er upphófst óskaplega langdregið og ámátlegt hljóð. Þeir flýttu sér í land og fóru aldrei út í Flæðikletta að kvöldlagi eftir þetta. Þetta fyrirbæri var sett í sambandi við Anlaby strandið og kallað ”náhljóð”.

Annað fyrirbæri var einnig sett í samband við strandið. Eitt kvöldið var Júlíus Einarsson frá Garðhúsum að fara að finna heitmey sína Vilborgu, dóttur presthjónanna síra Brynjólfs og frú Helgu Ketilsdóttur og var Júlíus ríðandi á þeirri leið. Þegar hann var kominn út fyrir síkið fyrir neðan og vestan túnið á Járngerðarstöðum nam hesturinn staðar, og var ekki unnt að koma honum úr sporunum, hvernig sem hann reyndi. Hesturinn gerði ekki annað en að prjóna og ganga aftur á bak. Hann stökk af baki og teymdi hestinn á eftir sér. Varð honum litið til hægri handar og sá þar gríðar stóran mann sem ógnaði honum eins og hann hygðist reka hann í sjóinn. Júlíus blótaði manninum og stóð honum mikill stuggur af honum. Maðurinn fylgdi honum mest alla leiðina en hvarf svo skammt austan við túnið á Stað. Júlíus var náfölur og brugðið við þennan atburð er hann kom á Stað. Flestum kom saman um að tengja þennan förumann við skipstrandið.

Staður

Klukka Anlaby í klukkuportinu.

Nilson gerði vart við sig á eftirminnilegan en jafnframt gleðilegri hátt. Þennan vetur 1902 eftir skipstrandið var vinnukona á Stað, sem ekki fór ein saman. Hana fór að dreyma Nilson, sem lét það ótvírætt í ljós að hann vildi vera hjá henni. Var ekki um að villast að hann var að vitja nafns. Vinnukonan ól son og hann var látinn heita Karl Nilson og fæddist á Stað 31. júlí 1902 og foreldrar hans voru Jón Tómasson og Guðbjörg Ásgrímsdóttir. Karl hinn íslenski var gæfumaður að því að ég best veit.

Flakið af Anlaby sást lengi út af Jónsbásklettum. Nú er það horfið með öllu nema ketillinn sem kemur upp úr við útsog á stórstraumsfjöru. Við útfarir í Staðarkirkjugarði er ennþá hringt úr skipsklukkunni úr Anlaby. Klukknaportið er nýuppgert og sómir sér vel í garðinum. Eins og þið hafið heyrt þá hafa ótrúlegar margar sögur spunnist út frá Nilson skipstjóra bæði við atburðinn á Dýrafirði og hér við Grindavík ég vona að þið hafið haft gagn og gaman af þessari samantekt.
Nilson átti ekki afturkvæmt til Íslands og má segja að hann hafi fengið makleg málagjöld er brimaldan við Jónsbáskletta söng honum sitt dánarlag og sannast þar máltækið sök bítur sekan í bókstaflegri merkingu.
Í ævisögu Hannesar Hafsteins (eldri útgáfu) vitnar höfundurinn, Kristján Albertsson. til skrifa í Lögréttu 1933 þar sem hann sgeir að „eitt lík rak höfuðlaust, og var talið vera Nilson; „hafði sennilega hákarl klippt af honum hausinn, en almenningur lagði út sem „æ´ðri stjórn“, og með réttu.“
Þessi saga Nilsons varð yrkisefni Jóns Trausta er hann orti kvæðiðVendetta en það þýðir blóðhefnd þ.e.a. vættirnir hefndu fyrir ódæðisverkið.
Að lokum flutti Áki Erlingsson ljóðið Vendetta er fjallar um atburðinn á Dýrafirði.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Sótaleiði

Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1981 um „Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi„. Þar getur hann m.a. um svonefnt „Sótaleiði“:

sotarleidi-1„Ath.: Ekki er nú vitað hvar Grímur Thomsen lét heygja hest sinn Sóta, framar en segir í Sjósókn, bls. 46, ,,í túninu fyrir norðaustan staðinn“. Í umtali er þetta stundum kallað Sótaleiði (47) [51], sem virðist mega telja með örnefnum.
Ókunnugt er mér, hvar Fálkahúsið stóð, eins og svo margt í fyrri tíðar húsaskipan á Bessastöðum.“

Í Sjósókn segir: „Árið 1663 skipaði konungur svo fyrir, að bjóða skyldi höfuðsmanninum á Bessastöðum alla hesta, sem ætlað væri að selja til útlanda. Nokkrum árum seinna (1574) bað konungur að senda sér til Hafnar 10 eða 12 graðfola og reiðhest góðan, og átti hann þá allmargt fyrir íslenska hesta. Kristján IV. fékk einnig íslenska hesta. Herluf Daa keypti fyrir hann á Bessastaðaárum sínum 10 hesta og greiddi 12 rd. fyrir hvern þeirra. Oft er endranær getið um hesta á Bessastöðum.
Sotaleidi-3Einn frægur gæðingur var þar löngu seinna, og er hann heygður með öllum reiðtygum í túninu á Bessastöðum. Það er Sóti Gríms Thomsen, einn frægasti góðhestur síns tíma, hornfirzkur að ætt. Hann var hár og langur, faxfagur og taglprúður, bar sig hátt að framan og greiddi sig vel, afburða skeiðhestur, fótviss og fótsterkur, ferðmikill og vakur, en styggur nokkuð og geðríkur og bráður, og þýddist ekki aðra en Grím sjálfan. Grímur hafði haft hann með sér til útlanda og síðan aftur heim til Bessastaða og hélt hann þar í 15 ár í miklu eftirlæti og ól hann á úrvalstöðu og nýmjólk.
Um Sóta orti Grímur þetta:
Sanda þylur, sverfir mél,
Sóti mylur grjótið vel,
fótaskilin fljót sem él,
fer sem bylur yfir mel.
Sjálfsagt er það einnig hugsunin um Sóta, sem kemur óbeinlínis fram í kvæðinu um Skúlaskeið. – Sóti var felldur 27 vetra, árið 1882, og kom Grímur þar hvergi nærri, en gekk síðan að opinni gröfinni og stóð þar agndofa um stund, og flóðu tár um vanga hans. Síðan gekk hann þögull inn í bæ aftur, en haugur var orpinn yfir Sóta.“
Bessastadanes-230Þegar loftmynd var skoðuð af Bessastöðum mátti sjá tvær greinilegar haugmyndanir í túninu norðaustan við Bessastaðastofu, hlið við hlið. Eftir að haft hafði verið samband við ráðsfólkið á Bessastöðum var ákveðið að skoða vettvanginn með hliðsjón af framangreindu. Myndanirnar reyndust vera þrær (þó sennilega sú vestari gamall byrgður brunnur). Norðaustar var hins vegar komið að manngerðum hól í túninu er líklegur megi telja „Sótaleiði“.
Dr. Gr. Th. minnist á ratvísi hesta, skýrir frá ýmsu og segir svo: „Hest hefi eg átt, sem var svo veg viss og ekki einasta vegvís, að hann tók sína vanaspretti, eins í dimmu sem björtu, og vissi eg á stundum ekki, hvar eg var, fyrr en hann tók sprettinn; eg var sem sé vanur að láta hann skeiða og stökkva til skiftis, og vissi eg þá hvað leið, eftir því sem hann gfeip stökk eða skeið. Aldrei varð eg þess var, að hann drægi neitt af sér skeiðið, þótt niðamyrkur væri, en hann stökk hægra. Einu sinni datt hann með mig í alla þá tíð, sem eg átti hann (25 ár). Svo stóð á, að eg lét eitt sumar heyja á Elliðavatnsengjum; reið eg upp eftir í bezta veðri, en um daginn gerði nokkrar skúrir, og urðu götur sleipar; á heimferðinni um daginn missti hann allra fjögra fóta utan í Vífilsstaðahálsi og skall með mig á hliðina. Reið eg sömu leið eftir það, en svo var klárinn minnugur, að nær sem hann kom á þann stað á hálsinum, sem hann fallið hafði, fór hann að frísa og skjálfa. Seinasta sumarið, sem hann hann lifði, lofaði eg honum að standa í túninu; var hann orðinn svo tannlaus, að hann náði ekki til grasa, nema loðið væri.
Fólk mitt reyndi stundum til að reka hannskolavardan-2 úr túninu; þótti því, eins og von var, ekki beysinn búskapur, að láta hest standa í túninu um hásláttinn. En klárinn hafði tekið eftir því, að eg amaðist ekki við honum, þótt hann leitaði sér bjargar, þar sem hana var að fá, því að eg kom stundum út í tún til hans og spjallaði við hann. Gaf hann því engan gaum að því, þótt sigað væri á hann hundum; hann hljóp að eins heim á hlað, eins og hann væri að skjóta máli sínu til æðra dóms, enda vann hann málið.“ Orð dr. Gr. Th. um Sóta í „Dýravininum“ ná eigi lengra en þetta. En hér er að líta frásögn merkismanns, byggða á orðum dr. Gr.: „Þessa sögu kann eg um Bessastaða-Sóta, og sagði Grímur Thomsen mér sjálfur. Þeir Grímur og Sóti áttu oft leið saman milli Bessastaða og Reykjavíkur. Það varð að fastri venju á þeirri leið, að Sóti skifti um gang á vissum stöðum, svo að í hverri ferð fór hann sama spölinn á sama gangi. Milli Eskihlíðar og Skólavörðu fór hann t. d. ávallt á stökki. Þetta var Sóta orðið svo tamt, að ekki þurfti á að minna. En annars hafði Grímur þann sið að gefa Sóta merki með því að skella tungu í góm, þegar hann vildi láta hann taka til stökksins.
Einu sinni reið Grímur með kunningja sínum frá Bessastöðum til Reykjavíkur. Ekki man eg nú, hver sá maður var, en hann var hestamaður og reiðmaður góður. Fannst honum til um Sóta, dáðist að skeiði hans, og mátti heyra, að hann fýsti að koma á bak honum. Ekki segir af ferðum þeirra, fyrr en þeir komu á þann stað, er Sóti var vanur að taka síðasta stökk-sprettinn á leið til Reykjavíkur. Eg man ekki hvort það var hæst í Eskihlíð eða vestan við hlíðina. Þar stigu þeir af baki, og bauð þá Grímur samferðamanni sínum að koma á bak Sóta, og ríða honum ofan að Skólavörðu. Því boði var tekið með þökkum. „En ekki mun Sóti skeiða undir þér,“ segir Grímur. Hinum þótti sú spá ekki trúleg, því að ekki hafði Sóti verið tregur til kostanna undir Grími, og það á verra vegi en nú var fram undan. „Eg heiti á þig,“ segir Grímur, „þú mátt eiga klárinn, ef þú nær skeiðspori úr honum áður en við komum niður hjá Skólavörðu.“
Bessastadanes-229Ekki ræddu þeir þetta lengur, en höfðu hestaskifti og stigu á bak. Grímur var á hlið við Sóta, þegar þeir lögðu af stað, og skellti í góm, svo að lítið bar á, en þó svo, að Sóti myndi heyra. Sóti tók sprettinn og linnti ekki stökkinu, fyrr en þeir námu staðar hjá Skólavörðunni, og ónýtti þannig áheit Gríms, eins og til var ætlað. (Hruna, 11. júlí 1929. – Kjartan Helgason.)“
Örkula vonar er eigi um að enn kunni að geymast meðal góðra manna sagnir um Sóta, þær sem byggðar eru á orðum dr. Gr. Th. Verða þær fluttar, eftir því sem við má komast, áður en raktar yrði aðrar sagnir um Sóta, svo sem á var vikið að framan. – E.Þ.“

Kristján minnist hins vegar í skráningu sinni ekki á hugsanlega selstöðu minjar undir lágum ísaldarhrygg sunnan við Litlumýri. Þar vottar fyrir tveimur þúfnagrónum þyrpingum. Ekki er hægt að greina veggi í þeim svo, ef þetta eru minjar, virðast þær mjög gamlar. Ofar, á hryggnum, eru greinilegar leifar vörðu. Á milli hennar og þyrpinganna efst í mýrinni, má merkja leifar af garðhleðslum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska forleifafélags, Kristján Eldjárn, Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi, 78. árg. 1981, bls. 139.
-Sjósókn, bls. 46.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Íslandskot

Í bókinni „Ísland – framandi land„, fjallar Sumarliði Ísleifsson m.a. um frásagnir um Ísland fram á síðari hluta 16. aldar,, umfjallanir um Ísland frá 16. öld til miðrar 18. aldar, s.s. landafræði og sögurit á 16. öld, ferðalýsingar á síðari hluta 16. aldar, ferðalýsingar á 17 öld og fyrri hluta 18. aldar, könnunarleiðangra á Íslandi á síðari hluta 18. aldar og Íslandslýsingar frá síðar hluta 19. aldar (túrisma á Íslandi, íslenska náttúru, fólkið og sögueyjuna). Hér verður samhengislega drepið niður á nokkra punkta er varðar Reykjanesskagann:

Hugmyndir um Ísland

„Rómverski sagnaritarinn og náttúrfræðingurinn Plinius (23-79 e.Kr.) tók saman mikið verk um náttúrusögu, Naturalis historia. Eitt þeirra fjarlægu svæða sem Gajus Plinius ræddi um í verkinu var eyjan Thule. Kvað hann þar vera albjart allan sólarhringinn um sumarsólstöður og almyrkt um vetrarsólhvörf ern sumir segi þó að þar sé stöðugur dagur í sex mánuði og stöðug nótt í aðra sex. Þá sé eins dags sigling frá landinu að frosnu hafi. Fróðleik sinn um Thule hafði Plinius að öllum líkindum eftir gríska sæfaranum Pyþeasi, þó sennilega með gríska landfræðinginn Strabo (1. öld f.Kr.) sem meðalgöngumann. Mun Pyþeas hafa ritað um ferðir sínar á fjórðu öld fyrir Krist og minnist þar meðal annars á þessa norðlægu eyju. Segir hann ís ekki fjarri landinu í norðri, bjart nánast allan sólarhringinn um hásumar og sé þangað sex daga sigling frá Bretlandi.
Á næstu árhundruðum urðu ýmsir fleiri til þess að minnast á Thule og höfðu flestir fróðleik sinn beint eða óbeint eftir Pyþeasi, oft fyrir meðalgöngu Strabos eða Pliniusar. Claudius Ptholemeus (á 2. öld e.Kr.) kvað til dæmis Thule vera norðan Orkneyja og væri lengstur dagur þar um 20 stundir. Á fyrri hluta sjöundu aldar staðsetti Isidorus frá Seville Thule norður og vestur í hafi, nyrst eyja handan Bretlandseyja, og segir hann meðal annars að handan við Thule sé engin dagsbirta og sjór af þeim sökum „hreyfingarlíftill og frosinn“. Í stuttu máli má segja að Thule hafi verið talið hið nyrsta land og fjarlægasta sem um gat, eyja í grennd við hið frosna haf. Íbúarnir virtust ólíkindalegir.
Hluti af korti Bertellis 1570 - HafnarfjörðurFlest var þokukennt í kringum eyna Thule á fyrri hluta miðalda. Ögn skýrðust málin þó á áttundu og níundu öld. Hinn írski Beda venerabilis (Beda prestur) greindi nokkuð frá Thule á fyrri hluta áttundu aldar, að flestu í anda eldri höfunda sem hafa verið nefndir hér að framan. En lýsingar hans eru þó nákvæmari en verið hafði fram til þessa, enda vitnar hann til samtímamanna sinna sem hafi dvalist þar og upplifað „nokkra daga sumar hvert“ að sól gangi ekki til viðar. Hvort Beda á þarna við Ísland er ekki hægt að fullyrða en margir hafa talið svo vera, til dæmis Sturla Þórðarson í formála sínum í Landnámu á síðari hluta 13. aldar. Eins líklegt er þó að ummæli hans eigi við önnur norræn lönd, til dæmis Norður-Noreg.
Hundrað árum síðar, um árið 127, fjallaði annar Íri, Dicuil að nafni, stuttlega um Thule í riti sínu De Mensura Orbis Terrae. Ducuil, sem var munkur og kennari við frönsku hirðina, greinir fyrst frá lýsingum þeirra Pliniusar, Isidorusar og fleiri fornra höfunda á þessu en síðan bætir hann við „að bjarmi sólar sjáist á hinn bóginn örskamma stund á Thile um vetrasólstöður og fáeina daga undan og eftir, þegar hún er í hádegisstað á miðri jörðunni, og því skjátlist skrökberendum, er þeir hafa ritað, að hafið sé þar ísi lagt og stöðugur nóttlaus dagur frá vorjafndægrum til haustjafndægra, en sífelld nótt á hinn bóginn frá haustjafndægrum til vorjafndægra… Þá bjuggu menn á Thile.

Merkir brunnar á Reykjanesskaga - kort Orteliusar 1570

Álitið hefur verið að frásögn Dicuils eigi við Ísland og hefur hún af mörgum verið talin fyrsta eiginlega Íslandslýsing sem um getur. Tvennt geta menn verið sammála um; Thule var langt í norðri og þar var mikill munur dags og nætur að sumri og vetri.
Adam frá Brimum (d 1085) ritaði sögu erkibiskupsstólsins í Hamborg á síðari hluta 11. aldar. Hann heldur því fram að Ísland og eyjan Thule séu eitt og hið sama. Fór svo að nafngiftin Thule festist við Ísland á síðari hluta miðalda og gekk landið ýmist undir Íslandsnafninu eða var nefnt Thule. Síðar var hart um það deild hvort nafngiftin Thule hefði átt við Ísland eða ekki. Á eynni býr fjöldi fólks sem hefur viðurværi sitt af húsdýrum að sögn höfundar, enda vex þar ekkert korn og lítið er um trjágróður. Segir hann að fólkið gangi um skinnklætt, búi neðanjarðar í holum sínum til þess að verjast kuldanum og deili með ánægju þaki og rekkju með með búfénaðinum. Lifi landsmenn erfiðu en einföldu og hamingjuríku lífi á því sem náttúran hafi upp á bjóða og óski einskis annars; uppsprettur hafi þeir sér til ánægju.
Furðudýr á Faxaflóa - kort Orteliusar 1570Adam frá Brimum hefur að öllum líkindum stuðst við heimildir frá íslendingum sem dvöldust á Engalndi eða mönnum sem höfðu kynnst þeim. Til dæmis var Þorlákur helgi við nám í París um svipað leyti og Garibaldus og systursonur Þorláks, Páll Jónsson biskup, var við nám á Englandi á dögum hans. Þar gæti Adam hafa fengið upplýsingar um „góða veiðifálka, ofsatorma, sem eyða öllu sem fyrir er með eldi sínum, eldgos o.fl.
Í norskum ritum frá 12. og 13. öld hafa varðveist nokkrar frásagnir af Íslandi. Þar á meðal er Histria de antiuitate regum Norwagiensium (Um konunga Norðmanna að fornu), rituð um 1180 af Þjóðreki munki (Theodricus monachus). Í verki sínu ræðir hann maðl annars um fund landsins, fyrstu norrænu landnámsmennina, svo og að á undan þeim hafi nokkrir Írar verið búnir að koma þangað.“
Í ljósi fyrirliggjandi heimilda, skráðra sagna og upplýsinga nútímans verður að teljast líklegt að Thule og Ísland hafi verið ein og sama eyjan. Norður Noregur gæti varla hafa verið eyja í augum reyndra sæfara, Orkneyjar og Færeyjar voru þekktar og ef um Grænland hefði verið að ræða hefi landlýsingin verið allt önnur en raunin var á. Ekki er heldur vitað til þess að önnur búsældarleg eyja hafi verið í Norður Atlantshafi – en horfið af yfirborði jarðar. Efasemdafólk hefur leyft sér að efast, en ekki getað bent á aðra sennilega staði er átt geta við þær mörgu samstiga lýsinga um eyjuna Thule í norðri. Færeyingar vissu, allt frá því að eyjan bygðist, að farfuglarnir staðnæmdust ekki á eyjunni heldur héldu för sinni áfram til norðurs. Land hlaut því að að vera fyrir handan – og þess var að sjálfsögðu leitað.
ThuleSamkvæmt framangreindum skráðum heimildum er bæði eðlilegt og sjálfsagt að viðurkenna það fúslega að landið/eyjan, sem í þeim er lýst; Thule/Thile – var landið/eyjan er síðar var nefnt Ísland. Af þeim sömu heimildum (sem einna erfiðast virðist fyrir suma að sætta sig við) má sjá að landið var jafnvel þegar numið á fyrstu öldum f.Kr. Harðyndi og/eða sjúkdómar gætu hafa eytt íbúnum á einhverju tímabili. Ef að líkum lætur hafa náttúruhamfarir leikið landið og landsmenn grátt, breytt tilvistarmöguleikum þeirra og eytt ummerkjum um búsetuna frá einum tíma til annars. Það var síðan ekki fyrr en á 7. öld að jafnvægi virðist hafa komist á og þáverandi íbúar, írskir menn, gátu leyft sér að þróa bústofn sinn. Þegar norrænir menn fengu áhuga á eyjunni var bústofninn orðin svo álitlegur að þeir töldu ávinning að því að ná honum undir sig. Það, auk fárra varnarlausra íbúanna, hvatti þá til dáða – svo mikilla að innan skammt urðu þeir allsráðandi á eyjunni Thule. Nafnnýbreytnin Ísland varð því óumflýjandleg í ljósi nýrrar söguskráningar. Segja má að meginágreiningurinn hefur (var) jafnan um nafngiftina en ekki tilvist eyjunnar.

Heimild:
Sumarliði Ísleifsson – Ísland – framandi land, 1996.