Fagridalur

Orðrómurinn átti við rök að styðjast – það eru tóftir í Fagradal eftir allt saman.

Fagridalur

Tóft í Fagradal.

Haldið var á skyrtunni inn Fagradal, yfir ás vestan hans og síðan niður í dalinn þar sem var vel gróinn botninn var grandskoðaður. Gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur liggur þvert yfir ofanverðan botninn, skammt neðan við neðstu hraunbrúnina er fyllir ofan- og vestanverðan dalinn og síðan upp með henni austanverðri og upp úr dalnum austan við Vatnshlíðarhornið.
Dalurinn er það gróinn að ótrúlegt væri ef hann hefði ekki verið nýttur fyrr á öldum. Misgamlar og umfangsmiklar skriður hafa hlaupið niður brattar hlíðarnar, en gróðurtorfurnar standa að mestu óraskaðar þrátt fyrir mikla landeyðingu framan við dalinn og í dölunum í kring, s.s. í Breiðdal, Slysadal og Leirdal. Stórt vatn er framan við Fagradalsmúla, en það þornar í þurrkatíð á sumrum. Annað stórt vatn er sunnan við Leirdalshnúk, en norðan við það, sunnan undir hnúknum, vottar fyrir fornri tótt, sennilega garði. Ekkert vatn var í Breiðdalnum svo vel mátti sjá gróðurtorfurnar í honum innan um leirflögin. Í norðanverðum Breiðdalnum eru hleðslur sem virðast hafa verið hlaðnir garðar, en eru nú að mestu jarðlægir. Hvorugir staðirnir hafa verið skráðir sem slíkir og tóftirnar því enn á fárra vitorði.

Fagridalur

Hrútur í Fagradal.

Gömlu þjóðleiðinni var fylgt yfir Fagradalinn. Í stað þess að fylgja jeppaslóða um dalinn var gömlu leiðinni fylgt norður með honum austanverðum. Löngu liðinn hrútur liggur utan leiðar, sbr. meðfylgjandi mynd. Framundan virtist vera tóft á hól. Þegar betur var að gáð kom í ljós að tóftirnar gætu verið tvær. Í raun er þetta eðlilegasti staðurinn til að byggja t.d. sel ef dalurinn hefur verið nýttur til slíkra nota. Meðfærilegt grjót hafði greinilega verið fært úr nálægri skriðu. Mótar fyrir húsi, eða húsum á hólnum. Þrátt fyrir leit var ekki önnur mannvirki að sjá þarna lálægt. Vatnið er þó í seilingarfjarlægð. Ofan við það er vel gróið. Stígnum var fylgt áfram austur með hlíðinni ofan vatnsins uns sást niður í Tvíbollahraun. Þaðan er gott útsýni yfir í Breiðdal, Leirdal og allt að Helgafelli. Þrátt fyrir landeyðinguna, sem nú er orðin, var þarna fagurt yfir að líta.
Gengið var niður að vatninu og síðan áfram niður í Breiðdal, vestur með Breiðdalshöfða og að upphafsstað.
Gangan tók u.þ.b. 1 og ½ klst. Veður var frábært – bjart, hiti og lygna.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

 

FERLIR fær margar póstsendingar; ábendingar og fyrirspurnir, bæði frá áhugafólki um minjar og sögu sem og öðrum er einfaldlega vilja njóta alls fróðleiksins (texta og ljósmynda) á vefsíðunni.

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

Hér er ein ágæt ábending er lítur að tæknihliðinni: „Reynir heiti ég og hef nú nokkrum sinnum sent þér póst í leit að upplýsingum. Ég les nú flest allar færslurnar og langar að koma með smá innskot. Myndirnar sem að fylgja textunum eru oft ansi áhugaverðar og langar manni að skoða þær nánar. Það væri gaman að geta smellt á myndirnar til að geta stækkað þær svolítið til að geta séð þær nánar. Bara svona smá vinsamleg ábending….“
FERLIR sendi vefþjónustufulltrúanum ábendinguna með eftirfarandi fyrirspurn: „Spurning hvort þetta er eitthvað, sem hægt er að framkvæma?“
Svar kom um hæl: „Þetta er ekkert mál, tekur okkur um 1 tíma í vinnu að gera þetta.“
Niðurstaðan: Ef smellt er á myndina hér að ofan má sjá árangurinn. Einnig eru myndasíður (Myndir) búnar þessum möguleika.

Rebbi

Myndanir í Rebba.

Arnarfell

Kvikmyndataka „Flags of our fathers“ hófst við Arnarfell föstudaginn 25. ágúst (2005). Þá var búið að svíða gróður í norðausturlíð fellsins með samþykki Hafnarfjarðarbæjar og Landgræðslu ríkisins.

Stóra-Eldborg

FERLIRsfélgar – Stóra-Eldborg að baki.

Ætlunin var m.a. að ganga um svæðið, en auk þess að skoða vörðurnar við Ræningjastíginn, Arnarfellsréttina, Trygghólana, Bleiksmýrartjörnina, Vegghamra, Stórahver, Lambafellin og vestanvert Kleifarvatn að Syðristapa.
Þegar leggja átti af stað við Vestari-Læk sunnan við Ræningjahól kom að maður á bíl, sem kvaðst vera að vakta svæðið vegna kvikmyndatökunnar. Engum væri heimilt að fara um svæðið meðan á tökum stæði. Maðurinn virtist meina það sem hann sagði.
FERLIR kynnti sig til sögunnar. Vörðurinn varð skrítinn í framan og sagði: „Þið megið alls ekki ganga um svæðið“.
„En við munum ganga um svæðið. Hvað ætlar þú að gera í því?“, var svarið.
„Ha, ekkert, held ég,“ svaraði vörðurinn. Honum leyst greinilega ekkert á að hindra göngu hópsins.“ Hann tók upp síma og hringdi. Félagi hans birtist von bráðar. Saman stóðu þeir og horfðu á eftir hópnum liðast suður heiðina.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Staðnæmst var við vörðu suðaustan við Bæjarfell. Önnur varða var skammt sunnar. Enn önnur varða var allnokkru sunnar. Milli þeirra er Arnarfellsréttin, heilleg að mestu. Réttin var aðalskilaréttin á svæðinu fyrir 1950. Fram að þeim tíma réttuðu t.d. Grindvíkingar þar, en eftirleiðis í Þórkötlustaðarétt. Síðan færðist skilaréttin yfir í Eldborgarrétt skammt austar.
Gengið var niður að Trygghólum og þar vent til austurs og síðan til norðurs. Upp í gegnum heiðina ganga a.m.k. tveir grónir dalir, að hluta. Annar er þó betur gróinn. Hann kemur að sunnanverðri Bleiksmýrartjörn (Arnarfellsvatni). Þarna var fyrrum áningarstaður skreiðarlestarmanna á leið að og úr verum. Enn markar fyrir götum í námunda við vatnið. Þá markar fyrir tóftum vestan við vatnið.

Arnarfell

Varða við þjóðleið skammt frá Arnarfelli.

Þá var gengið til norðurs um austurenda Arnarfells. Þar var greinilega mikið í gangi. Dátar með alvæpni stóðu í litlum hópum, tökulið, aðstoðarlið, þjónustulið og liðamótalið gekk fram og til baka um svæðið. Smíðuð höfðu verið byrgi í fjallið og kaðall stengdur á brúnum. Suðausturhlíð fjallsins hafði verið klaufalega sviðin með gaslampa. Fyrir göngufólkinu virtist fólkið þarna vera sem lítil börn í tilbúnum ímyndunarleik. En mikið virtist til haft og mörgu til tjaldað. Skammt norðar, við þjóðvegsbrúnina, voru ótal hjólhýsi, tjöld og annar búnaður; þ.e. mikið umleikis fyrir lítið og margt af því ómerkilegt í annars merkilegu umhverfinu.
Enginn virtist gefa göngufólkinu gaum, þrátt fyrir yfirlýsta gæslu. Bæði innendir og erlendir urðu á vegi hópsins. (Myndir bíða birtingar). Nýjum bugðóttum vegslóða var fylgt til norðurs, haldið yfir þjóðveginn og áfram áleiðis upp í Vegghamra.
Fallegur rauðamölsgúlpur er ofan vegarins. Rauðamölshólar eru vstan við Vegghamrana. Þegar komið var yfir þá blasti við leikmynd. Þarna var tekin ein af fyrstu íslensku leiknu kvikmyndunum er gerðist á Tunglinu. Umhverfið er einstakt og vonandi verður það aldrei selt til eyðileggingar líkt og hluti Arnarfellsins.

Gullbringa

Gullbringa.

Ofar taka við sanddalir. Vestan þeirra eru Austurengar og Austurnegjahver, stundum nefndur Stórihver. Hann er einn stærsti vatnshver landsins. Stíg var fylgt frá honum áleiðis að Hverahlíð austan Lambafellanna. Frá Hverahlíð, þar sem fyrir er skáli Hraunbúa, var gengið vestur með sunnanverðu Kleifarvatni og síðan norður með því vestanverðu, yfir svonefnt Nýjaland. Áðru hefur verið sagt frá skrímsli við vatnið nálægt Lambatanga. Vestan hans má sjá tóftir Kaldrana, eins elsta bæjar í Krýsuvík. Þar eru nú friðlýstar tóftir.
Strönd vatnsins var fylgt yfir á Syðristapa, þar sem göngunni lauk.
Aðrennsli í vatnið á yfirborði er nokkrir smá lækir að sunnanverðu. Auk þess rennur úr hlíðunum í kring í rigningu og er snjó leysir á vorin. Kleifarvatn er afrennslislaust á yfirborði og gert hefur verið ráð fyrir að vatnsborðið falli saman við grunnvatnsflötinn í umhverfinu og sé háð sömu sveiflum og hann. Kleifarvatn hefur verið notað sem úrkomumælir á Suðvesturlandi.
Kleifarvatn er þekkt fyrir að vaxa og minnka til skiptis og er munur hæsta flóðfars og lægstu vatnshæðar um 4 metrar. Vatnsborðið sveiflast með úrkomu- og þurrkatímabilum en þó hafa orðið sneggri breytingar samhliða jarðskjálftum t.d. 1663 og 2000.

Gullbringa

Gullbringa.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja í sprungustefnu landsins NA-SV Við vatnsborðshæð 140 m y.s. er meðaldýpi þess 29,1 m, flatarmál Kleifarvatns 10 km2 og rúmmál þess er 290 Gl. Nú er vatnsborðshæðin 136,3 m y.s., flatarmálið er um 8 km2 og rúmmál þess hefur minnkað niður í um 255 Gl.
Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi,um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins 97m. Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn ágætlega í því.
Vatnsbotn Kleifarvatns hefur þéttst í áranna rás með leir og öðru seti. Lekt vatnsbotnsins var því minni en jarðlaganna í kring og því stóð vatnsborðið hærra en grunnvatnið. Þegar sprungur opnast í botni Kleifarvatns þá breytist lekt þ.e. viðnám jarðlaganna og vatnið hripar niður um sprungurnar. Smám saman nær Kleifarvatn á ný jafnvægi við grunnvatnið í kring. Hversu lengi og hversu mikið mun það halda áfram að lækka áður en jafnvægi næst á ný?
Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga. Það hefur ekkert frárennsli. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, sem fyrr sagði.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

Gullbringusýsla er fyrst nefnd í skjali frá árinu 1535 og náði hún yfir hluta hins forna Kjalarnesþings. Gullbringa er sýnd á herforingjaráðskortum sem hæðarbunga við suðaustanvert Kleifarvatn (308 m). Stefán Stefánsson sem kallaður var „gæd“ (af „guide“) taldi það þó hæpið, þar sem kunnugir menn á þessum slóðum hefðu jafnan kallað lyngbrekku þá sem er vestan í Vatnshlíðinni Gullbringu og nær hún niður undir austurströnd vatnsins.
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi sagði að grasbrekkur frá Hlíðarhorni vestra og austur að Hvannahrauni væru nefndar Gullbringur (Örnefnaskrá í Örnefnastofnun).
Jón Ólafsson úr Grunnavík taldi að nafnið Gullbringa nærri Geitahlíð væri frá Dönum komið sem hafi talið það fallegt og viðeigandi þar sem staðurinn lá nærri sýslumörkum við Árnessýslu. (Kristian Kålund: Íslenzkir sögustaðir I:51).

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Álitið er að staðurinn hafi fyrrum verið blómlegri en síðar hefur orðið vegna uppblásturs.
Ekki virðast beinar heimildir um þinghald í eða við Gullbringu og er því margt á huldu um þessa nafngift. Gullbringur eru í Mosfellsheiði, en sýslunafnið getur ekki átt við þær þar sem þær eru ekki í sýslunni. Örnefnið Gullbringa eða -bringur er til víðar á landinu og virðist merkingin vera ‘gróðursælt land’.
Ævintýranleg ferð. Veður var frábært, lygna og sól. (4:04)

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.os.is/vatnam/kleifarvatn/kleifjfi/frame.htm

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.

Maístjarnan
Ætlunin var að ganga inn á hellasvæðið norðvestan í Hrútagjárdyngju og skoða Steinbogahelli (Hellinn eina), Húshelli og Maístjörnuna. Skv. upplýsingum Björns Hróarssonar, hellafræðings, eru a.m.k. þrjú op á síðastnefnda hellinum. Innviðir þess hluta, sem ekki hefur verið skoðaður fyrr, ku gefa hinum lítt eftir – og er þá mikið sagt.
Í HúshelliÍ stórvirkinu „Íslenskir hellar“ fjallar Björn Hróarsson m.a. um Maístjörnuna sem og aðra hella á Hrútagjárdyngjusvæðinu: „Hrútagjárdyngja (215 m.y.s.) er mikil dyngja með hvirfil sunnan Sandfells, sunnan við Fjallið eina. Umhverfis hið eiginlega gígsvæði er mikil gjá sem nefnist Hrútagjá og eftir henni var dyngjan nefnd Hrútagjárdyngja. Hraunið er um 80 ferkílómetrar og umfangið er 2-3 rúmkílómetrar. Hraun frá dyngjunni hafa runnið að Hvaleyrarholti, vestur að Vatnsleysuvík, austur að Undirhlíðum og niður í Sandfellsklofa (Jón Jónsson, 1978). Til suðurs hafa einnig runnið hraun frá dyngjunni, nú að mestu þakin yngri hraunum.
Eldvarpið er sérstakt og hafa margir velt vöngum yfir myndunarsögunni.“
Nokkrir hellar eru við norðanverða dyngjuna. Má þar t.d. nefna Hellirinn eina (Steinbogahelli), Litla-Rauð, Ranann, Húshelli, Maístjörnuna, Neyðarútgöngudyrahelli og Híðið. Í Híðunu er að finna stjórfenglegustu dropsteina landsins. Auk þessa er þarna á hellasvæðinu t.d. ónefndur u.þ.b. 500 metra langur „stórskemmtilegur“ hraunhellir.
Augað í MaístjörnunniUm Hellinn eina segir Björn m.a.: „Hellirinn gengur inn frá stóru niðurfalli eða hrauntröð og er  steinbogi yfir niðurfalið. Hellirinn sem er um 170 metra langur er manngengur lengst af en verulega lækkar til lofts innst. Sérkennilegir spenar eru við hellsimunnann og þar skammt innan við eru dropsteinar og hraunstrá. Í hellinum eru þó hvergi margir né stórir dropsteinar en töluvert um hraunstrá. Nokkrar miklar sprungur skerast þvert á hellinn og þær stærstu um 30 cm á breidd og mynda jafnvel litla afhella. Aðeins hefur hrunið við sprungurnar sem annars hafa skemmt hellinn furðu lítið. ekki er vitað um annan hraunrásarhelli hér á landi sem er skorinn af jafn mörgum og stórum sprungum. Hraunspýja hefur flætt inn í hellinn eftir myndun hans og storknun hins upprunalega gólfs. Nálægt miðjum hellinum endar þessi pýja í hraunkanti eða tungu. Slík fyrirbæri eru sjáldgæf í hraunhellum. Innarlega í Hellinum eina eru falleg bogadreginn göng. Þau eru skrýdd mikilli litadýrð.“
Dropsteinar í MaístjörnunniUm Maístjörnuna segir Björn: „Maístjörnuna fundur þeir Júlíus Guðmundsson og Einar Júlíusson 1. maí 1991. Hellirinn sem er um 480 metra langur er mjög margskiptur og teygir arma sína víða. Nokkuð er um dropsteina og hraunstrá. Skraut þetta er ekki stórvaxið ern er á víð og dreif um hellinn. Illa er innangengt í efri hluta hellisins en þangað liggja þröng göng inn úr hrauntröð. Þar er nokkuð um skraut en hellirinn margskiptur og þar kvíslast fjölmargar minni rásir sem ævintýranlegt er að fara um. Erfitt er að lýsa Maístjörnunni með orðum… Um er að ræða einn af skemmtilegri hellum á Íslandi.“
Þegar gengið var um Hrútagjárdyngjuna og hrauntröðinni miklu fylgt inn á hellasvæðið mátti lesa úr landslaginu þá ógnarkrafta er þarna hafa ráðið ríkjum fyrir u.þ.b. 4500 árum, þ.e. alllöngu fyrir okkar daga. Gígopið er nokkru sunnar. Svo er að sjá sem upphleypt dyngjuskálin hafi geymt kvikufóðrið um skeið, en síðan hafi það náð að bræða sér leið úr úr henni til norðurs. Gífurlegt kvikumagn hefur runnið úr skálinni og þá m.a. myndað hraunrásir er geyma fyrrnefnda hella – neðanjarðarár hraunkvikunnar. Hluti þunnfljótandi kvikunnar hefur síðan runnið til baka að gígopinu þegar gosinu létti og fyllt það að mestu. Þó má vel sjá móta fyrir því ef vel er að gáð.
Byrjað var á því að skoða Steinbogahelli. Inngangurinn er tilkomumikill og myndrænn. Þar sem steinboginn liggur yfir rásina eru gróningar undir. Auðvelt var að fylgja rásinni niður og síða inn undir yfirborðið. Við tók klöngur yfir hrun og fimurfærin fótabrögð. Innferðin var þó vel þess virði því alltaf bar eitthvað áhugavert fyrir augu.

Maístjarnan

Í Húshelli var gengið að „húsinu“ og það ljósmyndað á bak og fyrir. Hraunbólan og tengdar rásir höfðu svo oft verið skoðaðar og metnar að ekki var á bætandi. Fyrir nýinnkomna er „bólan“ þó alltaf jafn áhugaverð, ekki síst „forsöguleg“ beinin, sem hún hefur að geyma.
Áður en haldið var niður í meginop Maístjörnunnar var skoðað niður í tvö önnur nálæg op, suðaustan og norðaustan við það. Fyrrnefnda opið er í jarðfalli. Þegar komið var niður gafst einungis lítið svigrúm til athafna. Síðarnefnda opið er í gróinni hraunrás. Þar inni bíður góðgæti þeim er vilja og nenna að leita. Eftir að hafa fetað rásina inn var komið að þverrás. Þar fyrir innan lá rás til beggja handa. Hún greinist svo í aðrar fleiri. Rásirnar eru þröngar og erfitt að ljósmynda þar nema við kjöraðstæður (þurrt og afslappað).
Þá var haldið inn í meginhluta Maístjörnunnar. Þegar komið var niður í torfundið jarðfallið og Augað barið augum var um tvær leiðir að velja (reyndar þrjár því hægt var að fara til baka).
Þegar inn í rásina innan við Augað var komið var stefnan tekin til vinstri, í gegnum dropsteinabreiðu. Feta þurfti rásina varlega því þarna var allt að mestu óskemmt. Um var að ræða eina myndrænustu dropsteinabreiðu er um getur (ef frá eru taldar slíkar í Híðinu þarna skammt frá og í Árnahelli í Ölfusi).

Náttúruhraunmyndun í Maístjörnu

Þegar inn í þverrás var komið tók við silfurleit ásýnd á veggjum. Um er að ræða útfellingar liðinna árþúsunda, sem ástæðulaust var að fara höndum um. Á gólfi var rauðleit hraunspýja. Þessi hluti hellisins greinist í nokkrar stuttar fallegar rásir. Fyrir ókunnuga mætti ætla að þarna væri völundarhús, en kunnugir feta þær af ákveðni. Ef skoðað er í gólf og veggi má víða sjá fallegar gosnýmyndanir með miklu litskrúði.
Haldið var til baka um dropsteinabreiðuna og framhjá Auganu. Þá greindist rásin í tvennt. Sú vinstri virtist áhugaverðari, en hún þrengdist fljótlega og varð ófær. Sú hægri leiddi leitendur áfram niður í rauðleitan hraunsal. Miðja vegu var farið yfir lægri þverrás. Þegar komið var til baka var þverrásin fetuð til vinstri. Rásin lækkaði smám saman og loks kom að því að leggjast varð á fjóra fætur og skríða þurfti áfram á hvössum harðsteinsnibbum.
Erfiðið og áþjánin skilaði þóÂ tilætluðum árangri því loks var komist að upphafsreit – í jarðfallinu utan við Augað.
Frábært veður. Ferðin tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Björn Hróarsson – Íslenskir hellar I – 2006.

Maístjarnan

Saltfisksetrið

Saltfisksetur Íslands er staðsett í Grindavík, í einungis 32 mín.akstri frá höfuðborgarsvæðinu (21 mín frá alþjóðaflugvellinum í Sandgerði) – rétt bakhandan Bláa lónsins.

SaltfisksetriðÞegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngu verið drjúgir við að saltfiskinn og sýningum sögu verkunar og sölu á salfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.

Sýningin ætti að geta orðið forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr (eða bara frídagabíltúr) með fjölskylduna. Hún ætti einnig að geta orðið liður í að draga upp og efla sjálfsmynd bæjarins og fólksins sem þar býr.

Aðstæður hafa hagað því þannig að ekkert byggðasafn er staðsett í Grindavík. Saltfisksetrið kemur því stað safns og mun án efa verða miðpunktur margvíslegrar menningarstarfsemi heimamanna og að auki aðdráttarafl og upplýsingarmiðstöð fyrir ferðamenn sem sækja staðinn heim.

Í SaltfisketrinuGerður var verksamningur milli Ístaks h/f og Saltfisksetursins um byggingu sýningarskála. Sýningarskálinn er 650 m2 að grunnfleti og sýningarsvæði á tveimur gólfum alls 510 m2. Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið í September 2002 og kostnaðarverð samkvæmt verksamningi er um 106,5 milljónir króna. Grindavíkurbær mun verða leiðandi aðili við framkvæmd verkefnisins í samstarfi við stofnendur Saltfisksetursins og aðra styrktaraðila. Hönnuðir sýningarskálans eru Yrki s/f arkitektar Ásdís H. Ágústdóttir og Sólveig Berg Björnsdóttir.

Í framhaldi að þessu var gerður samningur við Björn G. Björnsson sýningarhönnuð um hönnun og uppsetningu sýningarinnar. Saga saltfisksins verður sögð með stórum myndum, hnitmiðuðum texta og fáum en lýsandi munum. Gínur koma í staðinn fyrir fólk í leikmyndinni. Tæknin kemur við sögu þar sem notast er við sjónvörp á gólfum, sýningartjald á vegg, 32” sjónvarp og DVD spilarar tengdir við. Mörkuð er ákveðin leið í gegnum sýninguna og sagan þannig rakin í tímaröð.

Í dag má segja að Saltfisksetur Íslands sé einn áhugaverðasti áfangastaður ferðamanna hér á landi, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda. Ljúflega er tekið á móti hverjum og einum, en auk þess að leiða hann um söguslóðir saltfiskjarins er sá hinn sami og fræddur um nálægar sögu- og minjaslóðir sem og aðra áhugaverða staði í nágrenni Grindavíkur – og þeir eru margir.

Heimild m.a.:
-http://www.saltfisksetur.is/

 Keflavík

Saltfiskvinnsla í Keflavík.

Staður

Eftirfarandi er skráð í tilefni af aldarafmæli gömlu Grindavíkurkirkjunnar í Járngerðarstöðum 26. september 2009.

StaðurÍ Chorographica Islandica tilgreinir Árni Magnússon (1663 – 1730) sjö bæi vestan Staðar, áður en nesið brann (1210-1240). Þeirra á meðal var kirkjustaðurinn á Skarfasetri, þar sem Árni segir kirkju Reyknesinga hafa staðið fyrir eldana, en þá hafi hún verið færð að Stað.

Elsta örugga heimildin, sem nefnir kirkju í Grindavík, er kirknaskrá Páls biskups (1195-1211) Jónssonar frá því um 1200. Þar er sagt  að prestskyld kirkja sé á Stað. Í máldaga Staðarkikrju, sem talinn er gerður árið 1397, segir m.a.: „Kirkja að Stað í Grindavík er vígð með Guði sælli Maríu og Jóni postula…“

AltaristaflaÞar sem kirkjan á Stað var helguð Blasíusi biskupu mætti halda að hann væri verndari fiskimanna og sæfara. en svo var þó ekki, heldur var á hann heitið af þeim, sem stunduðu landbúnað. Við biskup þennan er kenndur Blasíuboði í Reykjanesröst, „hættulegur jafnvel stærri skipum í þoku og brimi, þar á honumer yfrið grunnt um fjöru. Samt munu þar fáir hafa farist, segir í sóknarlýsingu Grindavíkur.

Í máldaga 1477 er allt Staðarland orðið kirkjueign. Biskup fékk allt forræði jarðarinnar og þeir, sem hana sátu, urðu landsetar Skálholtsdómkirkju, staðarhaldarar. Á miðöldum (í kaþólskri tíð) er lítt getið um kirkjuna, eða þangað til 1. maí 1519. Þá er Guðmundur Ingjaldsson, landseti, ásakaður um ólögmætan hvaldrátt er tilheyra átti Viðeyjarklaustri.
PredikunarstóllÁ dögum Stefáns biskups (1491-1518) var Staðarkirkju settur máldagi. Árið 1657 voru hjáleigur Staðar orðnar sjö; Krókur, Beinróa og Vestur-Hjáleiga, Krukka og þrjár aðrar kenndar við ábúendur.

Meðal merkisklerka á stað var síra Gísli Bjarnason (prestur á Stað 1618-1656). Hann var ósigldur, en þýddi m.a. Veðurfarsbók, sem er að stofni til Díarium eftir Jens Lauritzen, en aukin af sr. Gísla eftir „reynslu hans og þekkingu“. Þar kemur t.d. fram að þegar brimlaus sjór í logni gefur hljóð af sér, merkir það regn og storm í vændum. Ef bylgjur og brim vaxa í logni yfir eðli, boðar það storm og kulda. Ef sjór sýnist gruggugur og mórauður að lit með moski og ögnum í, boðar það storm. Óvenjulegt stórflóð í brimlausu fögru veðri boðar hafviðri. Sjái maður sjóinn óstilltan, gjálfmikinn og úfinn í góðu veðri og logni, er það víst erki til rosa og óstilltrar veðráttu. Ef þang frýs mjög í fjöru, eða frostgufa sést inni á fjörðum, boðar það mikinn kulda.

 

Staðarkirkja

Síra Rafn Ólafsson tók við af Gísla 1656. Kom fljótlega í ljós að hann virtist ekki með réttu ráði. Eftir stríð við söfnuð og fulltrúa kirkjunnar dröslaði hann prédrikunarstólnum norður í hraun og gróf kirkjuklukkurnar niður í kirkjugólfið fyrir framan altarið. Rafn var í framhaldinu sviptur öllum kennimannlegum réttindum og afhentur hinu veraldlega valdi og því treyst til þess að koma honum brott frá Grindavík. Í framhaldinu, vorið 1688, skipaði biskup hinn nafnkunna galdraklerk, sr. Eirík í Vogsóum, til að gera úttekt á Staðarkirkju.
Við brauðinu tók síra Stefán Hallkelsson. Í tíð hans hrakaði Stað og kirkjunni verulega.

Hraun

Ekki er vitað, hve margar kirkjur hafa verið á Stað í aldanna rás, en af vísitasíugerð frá árinu 1642 má sjá, að þá hafði síra Gísli Bjarnason nýlega látið reisa þar kirkju 1640. Hún er elsta Staðarkirkjan, sem eitthvað er vitað um að gagni, og var lýst í vísitasíugerðinni. Kirkjan hefur skv. lýsingu greinilega verið veglegt guðshús að þeirrar tíðar hætti. Hún hefur sýnilega verið torfkirkja líkt og fyrirrennarar hennar, en þiljuð innan, sem að öllum líkindum hefur verið hluti af reka staðarins. Í lýsingu kirkjunnar segir m.a.: „Hún á tvær klukkur og þriðju sem kom frá Hrauni“. Kirkjan á Hrauni var aflögð um aldamótin 1600 og hefur klukkan þá sýnilega verið flutt að Stað.

Enginn vafi leikur á því að kirkja var á Hrauni á miðöldum og allt fram yfir 1600, og virðist hún hafa gegnt mikilvægu hlutverki. Ekki er vitað með óyggjandi hætti hvenær kirkjan var reist, en líklegt má telja að hún hafi verið risin 1397 og vafalaust allnokkru fyrr. Engar heimildir eru um kirkjuna á Hrauni frá 15. og 16. öld. Árið 1602 skýtur henni skyndilega upp í annálum, en við það ár segir í Fitjaannál: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík.. og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“

Signing

Í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: „Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn nú til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er úr fallin fyrir 100 árum.“ Þannig virðist kirkja (bænhús) hafa verið á Hrauni í u.þ.b. þrjár aldir.
Um 300 árum eftir sjóslysið, eða skömmu eftir aldamótin 1900, var skóflu stungið niður að Hrauni. Vertíðarfiskur hafði verið saltaður í sjóhúsi suðaustan við bæinn. Um vorið fór pækillinn að renna úr stíunni út á túnið. Á Hrauni, eins og allsstaðar, var hvert strá dýrmætt í þá daga, og til þess að saltvatnið brenndi ekki grasið var tekið á það ráð að garfa holu utan við húsvegginn. átti að veita pæklinum í hana. En þegar búið var að stinga fyrstu skóflustunguna komu upp mannabein. Var þá fljótt hætt við gröftinn. Sýnt þótti, að hér var grafreitur hins forna kirkju eða bænhúss, þar sem útróðrarmenn Skálholtsstaðar höfðu hlotið leg eftir sjóslysið mikla á þorranum 1602.
Á Hrauni má enn sjá signingarfont frá kaþólskri tíð. Sigurður Gíslason fann gripinn er hann var að grafa við framangreinda „skemmu“. Kom fonturinn þá upp og gætti Sigurður þess að halda honum til haga. Skammt þar frá er tóft er talin er hafa verið fyrrnefnd kirkja.
Í vísitasíugjörðum frá 1646 og 1652 kemur fram, að síra Gísli Bjarnason hefur haldið áfram að bæta kirkjuna og búnað hennar. Árið 1652 er þess getið að höfuðsmaðurinn Henrik Bjelke hafi gefið kirkjunni „málað spjald með olíufarfa, sem er crucifix. Var sá gripur í kirkjunni um 1800.
Gamla GrindavíkurkirkjanKirkjan hans síra Gísla virðist hafa staðið í tæpar tvær aldir, eða allt til ársins 1836, er timburkirkja var reist á Stað. Er kirkjan var vísiteruð árið 1769, var hún mikið farin að láta á sjá, og var ástandi hennar lýst svo að hún hafi nánast verið komin að falli. Kirkjan virðist hafa verið endurgjörð því biskupar gerðu aldrei umtalsverðar athugasemdir við hana á þrem síðustu áratugum 18. aldar.
Við vísitasíu 2. júlí árið 1800 virðist kirkjan á Stað hafa verið farin að ganga úr sér, enda kirkjan orðin gömul. Þegar prestaskipti urðu árið 1822 vísiteraði Árni Helgason, prófastur, Stað og tók þá út kirkjuna. Í hana vantaði þá glugga og dyr.
KirkjanRáðagerðir urðu til um nýja kirkju á Stað. Sumarið 1836 munu sóknarmenn í Grindavík hafa gefið umtalsvert af borðvið til kirkjunnar og fengið smiðinn Jörund Illugason til að  byggja nýja kirkju. Nam kostnaðurinn 716 ríkisdölum.

Í timburkirkjunni á Stað, sem reist var 1836 var m.a. 200 ára gamall prédikunarstóll með fögrum myndum, kirkunni gefinn af konungshöndlaninni. Altaristaflan átti sér all-merkilega sögu. Hún kom frá Laugarneskirkju, sem aflögð var 1794. Tafla þessi hafi kirkjunni verið gefin af Eggerti Ólafssyni og Bjarna Pálssyni sem þakklætisvott fyrir gistingu á rannsóknarferðum þeirra á árunum 1752-54. Gistu þeir þá jafnan á kirkjuloftinu.

Sálmaskjöldur

Fyrsta timburkirkjan á Stað varð ekki gömul. Þegar síra Geir Backmann lét af störfum í Staðarprestakalli árið 1850, var hin nýja kirkja þegar farin að láta á sjá. Hún stóð einungis í 22 ár því söfnuðurinn virtist ekki hafa áttað sig á að að nýja timurkirkjan þyrfti viðhald líkt og gömlu torfkirkjurnar.
Fyrir milligöngu síra Þorvalds Böðvarssonar var byggð ný kirkja sumarið 1858. Var hún svipuð þeirri fyrri, en nokkuð stærri, og „altimburhús“ skv. lýsingu 25. júlí 1859. Þótti sérlega vandlega gengið frá þessari kirkju, þrátt fyrir að vera bláfátæk því skuldir hennar voru 586 ríkisdalir og 75 skildingar. Kirkjan stóð allt til ársins 1910. Árið 1979 segir svo um hana: „Litur innan á kirkjunni er farinn að skemmast og þiljur að gisna. listar að ytra börðum eru á stöku stað farnir að fúna eða gisna. Í loptglug 
ga vatnar 2 rúður og niðri í kirkjunni er ein brotin“.
AltaristaflanÁ safnaðarfundi í júni 1888 var rætt um, hvernig stuðla mætti að betri kirkjusókn. Töldu menn nauðsynlegt, að kirkjan yrði flutt í miðja sveit, og var fimm manna nefnd kosin til að athuga málið. Vorið 1900 voru allir nefndarmenn sammála um að láta gera við gömlu kirkjuna á Stað. Á almennum safnarfundi þremur árum síðar var hins vegar samþykkt með öllum atkvæðum að fá kirkjuna flutta sem allra fyrst. Í formlegri atkvæðagreiðslu safnaðarins árið 1906 var samþykktur flutningur Staðarkirkju í Járngerðarstaðahverfi.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð til Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. ok
tóber 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík.

Kirkjan

Í júní 1909 samþykkti sóknarnefndin að láta rífa gömlu kirkjuna á Stað þá um haustið og selja timbrið úr henni. Árið áður hafði verið samþykt að ný kirkja yrði reist á flötunni fyrir norðan barnaskólann (Templarann).  Lagt var til að vegur yrði gerður frá sjónum að skólahúsinu til að hægara yrði að flyta efniðvið að kirkjustæðinu. Hönnuðurinn var Rögnvaldur Ólafsson. Tryggvi Árnason, trésmiður úr Reykjavík, bauðst til að reisa kirkjuna og útvega allt efni til hennar að frádregnum ofni, málningu og málverki. Kostnaður yrði 44475 krónur. Verkið hófst um vorið 1909 og um haustið var kirkjuhúsið við Kirkjustíg tilbúið. Var kirkjan vígð af þáverandi biskupi, Þórhalli Bjarnasyni, þann 26. september 1909. Sonur hans, Tryggvi Þórhallsson, lék á orgel og stjórnaði kirkjusöng, og mun það eitt með öðru hafa sett eftirminnilegan svip á kirkjuvígsluna. Kirkjan þótti „einkar snotur“ og bæði rismikil og björt. Var hún byggð úr timbri og klædd að utan með járni. Altaristafla úr Staðarkirkju, sem áætlað hafði verið að setja í nýju kirkjuna, var hins vegar flutt á „fornmenjasafnið“.  Einar Jónsson í Garðhúsum gaf t.a.m. 200 krónur til kaupa á nýrri altaristöflu. Fyrir valinu varð mynd eftir Ásgrím Jónsson er sýnir Krist stilla vind og sjó. Einar  G. Einarsson, kaupmaður í Garðshúsum, hét því og að gefa kirkjunni orgel. Hann stóð við orð sín og eignaðist hún orgelið árið 1912.
Grindavíkurkirkja„Þann 17. júlí 1910 urðu prófastur, prestur og sóknarnefnd ásátt um, að hin nýja kirkja sóknarinnar, er kom frá Staðarkirkju hinnar fornu og byggð hefur verið austur í Járngerðarstaðahverfi (1909), skuli heita Grindavíkurkirkja og sóknin þá Grindavíkursókn.“
Þegar Grindavíkurkirkja var vísteruð af prófasti vorið 1950, höfðu miklar viðgerðir farið fram á húsinu, og þótti prófasti kirkjan „í alla staði hið fegursta og vandaðsta guðshús vel hirt og vel um gengið“. Um 1960 var skipt um járnklæðningu á kirkjunni og hún máluð að utan og innan, settir í hana nýir gluggar og mátarviðir endurnýjaðir. En kirkjan var þá þegar orðin of lítil fyrir söfnuðinn.
Nú hefur ný kirkja úr steinsteypu verið vígð  í Grindavík horni Austurvegar og Ránargötu, vígð þann 26. september 1982. Undirbúningur að smíði nýju kirkjunnar hófst 1966 og var Ragnar Emilsson, arkitekt, fenginn til þess að teikna kirkjuna.

Grindavíkurkirkja

Fyrsta skóflustungan var tekin 1972. Byggingameistari var Guðmundur Ívarsson. Kirkjan er að grunnfleti 538 fermetrar og að auki er 49 fermetra kjallari. Kirkjuskipið sjálft er 255 fermetrar. Í kirkjuskipi eru þrjátíu bekkir úr oregonfuru og rúmast þar 240 manns. Í norðausturhorni kirkjunnar er skrúðhús. Safnaðarheimilið, 112 fermetrar að grunnfleti, kemur hornrétt á kirkjuna út úr suðurhlið hennar, þar geta kirkjugestir setið við fjölmennar athafnir.
Gamla kirkjan í Járngerðarstaðahverfi fékk um skeið hlutverk leikskóla og má sjá handbragð barnanna á inngarðsveggnum umhverfis hana. Nú, árið 2009, eru haldnir AA og FFO fundir í kirkjunni. Um þessar mundir stendur yfir viðhald á henni í tilefni að væntanlegu aldarafmælinu 26. september n.k.; hún verður m.a. máluð að utan og umhverfið fegrað.

Heimildir m.a.:
-Árni Magnússon: Chorographica Islandica. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2. Reykjavík 1955.
-Geir Backmann; Lýsing Grindavíkursóknar 1840-41.
-Þ.Í. Kirknas. D 2 Gb. sóknarnefndar 1808-1926.
-Stjt. 1929 B. 305.
-Lesbók Mbl 11.02.1968, bls. 10-14 – Staðarkirkja og Staðarklerkar, sr. Gísli Brynjólfsson
-Jón Þ. Þór – Saga Grindavíkur, 1994.
-Staðhverfingabók, Mannfólk mikilla sæva, 1975.

Kirkjugatan

Eldvörp

Á háhitasvæðum Reykjanesskagans má víða sjá ummerki jarðhita.
Í Eldvörpum eru ummerkin þó ekki alveg augljós í mosagrónu hrauninu umleikis. Yngsta hraunið er frá árinu 1226. Þá opnaðist Hahitasvaediliðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir. Gígaröðin er ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Goshrinan varð á árunum 1210 til 1240 hefur verið nefnd Reykjaneseldar. Í Eldvörpum má einnig sjá leifar af eldri gígaröð, um 5000 ára gamalli.
Eftirfarandi upplýsingar um jarðminjar á vestanverðum Reykjanesskaga er að finna í skýrslu um „Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita“ eftir Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson frá árinu 2009:

Eldvorp-102

Jarðhitasvæði á Íslandi skiptast í háhitasvæði og lághitasvæði. Lághitasvæði finnast víða um landið og tengjast oftast sprungum í eldri berggrunni. Háhitasvæði eru bundin við gosbeltin og flest þeirra eru í rekbeltunum. Gosbeltin skiptast í eldstöðvakerfi sem eru samsett úr gosreinum og megineldstöðvum. Í gosreinunum verða eldgos í löngum sprungukerfum. Í megineldstöðvum gýs ítrekað á miðlægum svæðum. Þar eru innskot tíð og bergtegundir aðrar en basalt geta þróast, svo sem líparít. Þar geta einnig myndast öskjur. Almennt má segja að öflugustu háhitasvæðin fylgi megineldstöðvum. Orka háhitakerfa stafar af heitum kvikuinnskotum í jarðskorpunni. Hún flyst til yfirborðs með hringrás vatns. Þetta vatn getur komið til yfirborðs sem gufa annars vegar og hins vegar sem vatn. Samspil þess við aðstæður á yfirborði, svo sem landslag og yfirborðsvatn ræður miklu um það hvaða gerðir hvera myndast á yfirborði.
Eldvorp-24Almennt er litið svo á að varmi háhitasvæðanna komi frá heitum innskotum í rótum eldstöðvakerfanna. Þaðan flyst varminn til yfirborðs með vatni eða gufu. Reiknað er með að þetta eigi sér stað þannig að vatn sem seytlar niður eftir sprungum í skorpunni nái að komast í návígi við heit innskot. Vatnið hitnar og flytur með sér varma úr innskotinu til yfirborðs og þar verður til jarðhitasvæði. Varmaflutningur til yfirborðs veldur því að með tímanum kólnar innskotið og virkni dvínar á jarðhitasvæðinu nema til komi meiri varmi frá nýjum innskotum.
Alþekkt er að á mörgum af jarðhitasvæðum landsins er jarðhitavirkni á yfirborði breytileg þar sem hverir ýmist koma eða fara og virkni í einum og sama hvernum á það til að breytast með tímanum, jafnvel frá ári til árs.
Hverasvæði geta þannig dvínað um lengri eða skemmri tíma og að sama skapi eykst virkni þeirra á milli. Til að viðhalda jarðhitakerfum þarf varmagjafinn annars vegar að endurnýjast reglulega og hins vegar þarf berggrunnurinn að brotna upp reglulega til að mynda nýjar sprungur í stað þeirra sem þéttast af útfellingum. Þegar nýjar sprungur myndast í berggrunni fylgja því iðulega jarðskjálftar. Frá öndverðu hafa menn séð samband á milli hveravirkni og jarðskjálfta á hverasvæðum enda alþekkt að virkni svæðanna aukist eða minnki við jarðskjálftakippi. Því hafa jarðskjálftar á slíkum svæðum löngum verið nefndir hverakippir. Gott dæmi um hver með breytilega virkni er hverinn Pínir í Sveifluhálsi við Seltún í Krýsuvík. Síðustu áratugina hefur hann átt það til að liggja að mestu niðri um nokkurra ára skeið en þess á milli eru gufustrókarnir frá honum þeir öflugustu á svæðinu.

Eldvorp-25

Á háhitasvæðum eru víða flákar af ljósleitum leir umhverfis hverasvæðin. Við jarðhitasvæði er algengt að sjá slíkar leirskellur sem virðast hafa kólnað og eðlilegt er að líta á sem kulnaðan jarðhita. Leirskellurnar verða til við ferli sem nefnt er ummyndun.
Ummyndun bergs við yfirborð verður fyrst og fremst við suðu bergsins í brennisteinssúru umhverfi. Við ummyndunina leysast frumsteindir og gler í bergi upp í frumeindir eða jónir. Sumar skolast burt með vatni eða rjúka með gufu en aðrar verða eftir og endurraðast í svonefndar ummyndunarsteindir, þ.e. steindir sem eru í jafnvægi við ríkjandi hita- og sýrustig. Við yfirborð háhitasvæðanna verða þannig til nýjar steindir, aðallega svonefndar leirsteindir sem birtast sem hvítur, grár, gulur eða rauður leir en einnig sem hluti af upprunalegu bergi sem ekki hefur ummyndast að fullu. Slíkt berg er nefnt ummyndað berg.

Eldvorp-26

Við fyrstu sýn er Reykjanes lágreistur, eldbrunninn og hrjóstrugur útkjálki við ysta haf. Basalthraun frá nútíma þekja mestan hluta svæðisins en lágar móbergshæðir eru við jaðra þess. Jarðhitasvæðið er á miðju Reykjanesi, milli lágra fella, og það er eitt minnsta háhitasvæði landsins. Hveravirkni á yfirborði einkennist af leirhverum, gufuhverum og heitri jörð. Á síðustu öld urðu oftar en einu sinni verulegar breytingar á hveravirkni í kjölfar jarðskjálfta. Vegna nálægðar við strönd og gropins berggrunns á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Vatnshverir á svæðinu hafa því verið mjög saltir. Myndarlegir goshverir voru virkir á svæðinu á síðustu öld.

Eldvorp-27

Um Reykjanes liggur sprungukerfi með opnum gjám og misgengjum með norðaustlæga stefnu. Hér rís Mið-Atlantshafshryggurinn upp fyrir sjávarmál og eru sprungurnar hluti af eldstöðvakerfi sem er að hálfu í sjó og að hálfu á landi. Það er kennt við Reykjanes og teygir sig til norðausturs í átt að Vatnsleysuströnd. Sprungur eru lítt sýnilegar á sjálfu jarðhitasvæðinu en sjást glögglega skammt suðvestan og vestan við það, m.a. í Valbjargagjá. Vestan til á Reykjanesi liggur gossprunga frá 13. öld og önnur um 2000 ára gömul. Skammt austan við hitasvæðið er kerfi af sprungum sem hafa töluvert norðlægari stefnu en ofangreindar sprungur. Þær eru taldar tilheyra framhaldi jarðskjálftabeltisins á Suðurlandi sem teygir sig vestur allan Reykjanesskaga en jarðskjálftabeltið einkennist af skástígum sprungum með heildarstefnu nálægt N-S.

Eldvorp-28

Reykjanes hefur lengi verið á náttúruminjaskrá, m.a. vegna stórbrotinnar jarðfræði og allmikils hverasvæðis. Í náttúruverndaráætlun 2004–2008, sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2004, var lagt til að svæðið yrði verndað sem náttúruvætti vegna jarðfræðilegs mikilvægis (Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2004–2008) en af því hefur ekki enn orðið. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Eldvorp-29

Reykjanesvirkjun hóf starfsemi á svæðinu árið 2006 auk þess sem önnur og eldri verksmiðjustarfssemi er í grenndinni. Aðgengi var til skamms tíma auðvelt að hverasvæðinu en það er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Í kjölfar starfsemi Reykjanesvirkjunar hefur hveravirkni aukist mikið á svæðinu og hverir hafa breyst. Allmikið rask hefur orðið á jarðhitasvæðinu en það hófst með rannsóknarborunum eftir 1950. Leifar sjóefnaverksmiðju eru við jarðhitasvæðið og fiskiðjuver. Verulegt rask er vegna efnistöku á svæðinu, nýtt og gamalt. Auk breytinga á jarðhitasvæðinu hefur Reykjanesvirkjun valdið miklu raski á svæðinu auk þess sem hún er staðsett u.þ.b. í línu Stampagígaraðarinnar.
Eldvorp-30Austan við eldstöðvakerfi Reykjaness tekur við sprungu- og eldstöðvakerfi sem kennt hefur verið við háhitasvæðin í Eldvörpum og Svartsengi eða jafnvel eingöngu við Svartsengi. Mörk milli eldstöðvakerfanna eru ekki skýr og stundum eru þau talin eitt og hið sama. Allmikil eldgos urðu í kerfinu á 13. öld líkt og á Reykjanesi. Allmikið sprungukerfi teygir sig frá sjó við Mölvík til norðausturs í átt að Vatnsleysuvík og Straumsvík.
Norðan og vestan við Þorbjarnarfell við Grindavík taka við miklar og lítt grónar hraunbreiður í um 20 m hæð. Í apalhrauninu norðan við fellið stigu áður fyrr upp heitar gufur sem nú eru líklega að mestu horfnar. Í móberginu í Svartsengisfelli og Þorbjarnarfelli er nokkur ummyndun sem og í Selhálsi sem tengir fellin.

Eldvorp-31

Áður fyrr hefur útbreiðsla jarðhitans því verið önnur og hugsanlega meiri en síðar varð. Vegna gropins berggrunns og nálægðar við sjó á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Flatlendið er að stórum hluta þakið hraunum frá 13. öld en sprungur og misgengi eru áberandi í eldri hraunum og móbergi. Austasti hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá undir merkjum Sundhnúksraðarinnar og Fagradals. Stór hluti svæðisins nýtur auk þess sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Boranir hófust á svæðinu 1976 og varmaorkuver tók til starfa 1976. Þar er nú varma- og raforkuver með tilheyrandi búnaði. Kaldavatnsleiðsla liggur að orkuverinu úr norðri og heitavatnsleiðslur liggja frá verinu til norðurs og suðurs. Þá liggur háspennulína frá orkuverinu að spennistöð við Rauðamel. Affallsvatn frá orkuverinu myndar Bláa lónið í hrauninu. Svæðið er mikið raskað eftir mannvirkjagerð.
Í hraunflákanum vestur af Þorbjarnarfelli liggur gígaröðin Eldvörp frá 13. öld. Hún samanstendur af fjölmörgum lágum gjallgígum sem umluktir eru hrauni frá gosinu. Í og við tvo af gígunum er lítið jarðhitasvæði í um 60 m hæð. Gufur stíga upp úr hrauni og gjalli á svæði sem er um 100 m í þvermál. Hraunið og gígaröðin eru að mestu ósnortin sem er fátítt á Reykjanesskaga.
Eldvörp eru innan þess svæðis sem afmarkað er í náttúruminjaskrá undir merkjum Reykjaness. Svæðið í heild nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Borhola er á jarðhitasvæðinu ásamt tilheyrandi vegi. Þá hefur efni til vegagerðar verið tekið úr gígum norðaustan við jarðhitasvæðið.“

Heimild:
-Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita, Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson. Unnið fyrir Orkustofnun 2009.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði. ISOR

Roðskór
Roðskór voru þeir skór kallaðir, er búnir voru til úr Steinbítsroði. Bezt þótti roð af stórum Steinbít til skógerðar. Gerður var greinamunur á Steinbít, eftir stærð og útliti, t.d. Dílasteinbítur, Hárasteinbítur, Úlfasteinbítur, Messudagsteinbítur, svo nokkur nöfn séu nefnd á steinbít, er voru daglega á vörum vermannanna og húsmæðra.
RoðskórÚlfsteinbítur gaf skæði í tvenna skó. Bezt þótti roð af Úlfsteinbít, en svo kallast mjög stór steinbítur. Þessi steinbítur var eftirsóttur af vermönnum, og mun þar mezt um hafa ráðið, að af þessum steinbít fékkst skæði í tvenna skó. Fremri hlutinn í fullstóra skó, aftari hlutinn í minni ská, þá venjulegu á krakka og unglinga. Þessir skór voru kallaðir Dilluskór, vegna þess að afturhlutinn á roðinu var kölluð dilla. Venjulega fékkst skæði í tvenna skó af meðal stórum steinbít, afgangurinn var notaður í bætur á roðskó.
Þegar steinbítur var hertur, varð að hafa það í huga, að ekki mátti skemma roðið, t.d. mátti ekki gogga í roðið, er steinbítur var innbyrtur í bátinn. Var hann þveginn upp úr vatni, og var nú tilbúinn til verkunar á steinbítsgörðum, en svo voru kallaðir sérstakir grjótgarðar er hlaðnir höfðu verið í verstöðvum til þess að herða á steinbít. Garðar þessir voru úr einfaldri grjóthleðslu um 80 cm. á hæð. Víða má sjá þessa grjótgarða í gömlu verstöðvum, og skipta þar oftast tugum jafnvel hundruðum.
Er steinbíturinn var orðinn það harður að hann lautaði ekki undir fingri með þéttu átaki, var hann tekinn af steinbítsgörðunum og látin í aðra garða, er hlaðnir voru úr grjóti. Þessir garðar voru frábrugðnir steinbítsgörðum að því leiti, að þeir voru breiðari að neðan. Tvöföld steinhleðsla fyrstu tvö steinlögin í garðinum, síðan mjókkaði garðurinn í eina steinröð efst, heldur lægri en steinbítsgarðarnir. Þessir garðar voru kallaðir hrýjugarðar. Á þessa garða var steinbíturin látinn, var þetta kallað að hrýja steinbít. Úr hrýjunum var hann svo tekinn, fullverkaður sem skreið.
Farnar voru skreiðarferðir langa vegu. Til voru sérstök skreiðaskip, er aðallega voru notuð til skreiðarfluttninga að vori og sumarlagi, en sem hárkarlaskip að vetri. Farnar voru lestarferðir langavegu til að sækja skreið, jafnvel úr fjarlægum landshlutum.

Roðskór

Roðskór.

Það var verk húsmæðrana að sjá um að hafa roð í skó tiltækt, er þess þurfti. Venjulega voru það vinnukonurnar, er sniðu og saumuðu roðskóna. Það tók ekki langan tíma að gera hverja roðskóna, hjá þeim konum sem voru vanar að gera roðskó. Ástæðan var sú, að roðskór entust illa, þurfti því að búa til mörg pör af roðskóm, daglega, á sumum heimilum, sérstaklega á þeim heimilium er höfðu lítið annað efni í skó en roð.
Það mun hafa þótt nauðsynlegt að vita, hvað roðskór entust vissar vegalengdir, því skólaus maður er vegalaus, þetta mun hafa verið ástæðan fyrir því, að vegalengdir voru mældar í roðskóaleiðum, talað var um tveggja, þriggja, fjögra, fimm og sex roðskóleiðir, var þá átt við þá leið er farin var fram og til baka. Látraheiði V.-Barð. er sex roðskóaleið, það er fjallvegurinn frá Hvallátrum bakatil við Látrabjarg að Keflavík. Alltaf voru hafðar með roðbætur til að leggja inn í skóna, ef þurfti.
Heyrst hefur að þegar roðskórnir voru orðnir gatslittnir, ónýtir sem skór, voru þeir kallaðir umvörp. Umvörp voru lögð í bleyti, síðan voru þau þvegin og skafin upp úr mörgum vötnum og svo soðin upp úr soði af hangikjöti og borðuð með hangifloti. Þannig var það, er harðæri og hungur steðja að okkur elskulega landi elds og ísa. Ekki voru aðrar tegundir af skóm hafðar til matar.

Heimildir:

-Frásagnir gamals fólks, er tók þátt í þeirri lífsbaráttu, sem að nokkur er horfin í móðu liðins tíma.

Heimildarmenn:
-Ólafía Egilsdóttir, Hnjóti,
-Ólafur Magnússon, Hnjóti,
-Daníel Ó Eggertsson, Hvallátrum,
-Guðmunda Ólafsdóttir, Hvallátrum

Roðskór

Roðskór.

Hrævareldar

Hrævareldar virðast vera flöktandi ljós sem sjást að næturlagi. Engin ástæða er til að ætla annað en að fyrirbærið hafi verið þekkt frá alda öðli. Það er nefnt í gömlum íslenskum textum og til að mynda eru ensku orðin um fyrirbærið gömul í ensku ritmáli. 
skruggur„Í orðasafni með útgáfu Svarts á hvítu á Sturlunga sögu frá 1988 er að finna orðin hræljós og hrælog í þessari merkingu. Þetta þýðir væntanlega að orðin er að finna í Sturlungu sjálfri en við höfum ekki haft tök á að leita þau uppi þar. Kannski vilja lesendur hjálpa okkur við það? Samkvæmt Orðstöðulykli er þessi orð hins vegar ekki að finna í Íslendingasögunum og þau eru ekki heldur í orðasafni með Heimskringlu.
 
Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans tekur sem kunnugt er yfir íslenskt ritmál frá siðaskiptum. Elsta dæmið um þetta orð í þeirri skrá er úr frumútgáfunni af Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá Sorø í Danmörku árið 1772. Í lýsingu Kjósarsýslu segir svo í þýðingu frá 1978:
„Þrumur, eldingar og önnur óvenjuleg loftfyrirbæri eru sjaldgæf hér. Helzt verður þeirra vart á vetrum. Þegar dimmviðri er með stormi og hríð á vetrum, verður vart leiftra í neðstu loftlögunum. Þau kalla menn snæljós. Eins konar Ignis fatuus, sem á íslenzku kallast hrævareldur og líkt og hangir utan á mönnum, er sjaldgæfur á þessum slóðum (sbr. N. Horrebow: Efterr. gr. 76).“

Fyrirbærið hefur einnig verið nefnt mýrarljós á íslensku og kallast ignis fatuus í latínu eins og áður er getið, og þá jafnframt í ýmsum erlendum málum. Í ensku nefnist fyrirbærið ýmist því nafni eða ‘jack-o’-lantern’ eða ‘will-o’-the-wisp’ og þessi orð eru gömul í ensku ritmáli.

Hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum en færast undan mönnum ef reynt er að nálgast þau. Talið er að þau stafi af því að metangas sé að brenna en það myndast einmitt við sundrun jurtaleifa í mýrum.

Ef íslenska orðið mýragas er skilið sem ‘gas sem myndast í mýrum’ þá er það að miklu leyti metan, en samsvarandi enskt orð, ‘marsh gas,’ er einnig haft sem samheiti við ‘methane.’ Efnatáknið fyrir metan er CH4 og það er því eitt af einföldustu efnasamböndum kolefnis. Það tilheyrir efnaflokki sem nefnist vetniskol (hydrocarbons) og má ekki rugla saman við kolvetni (carbohydrates).

Við sjáum ekki ástæðu til að ætla annað en að fyrirbærið hrævareldar hafi verið þekkt frá alda öðli svo sem latneska heitið bendir til. Því er ekki þess að vænta að unnt sé að tilgreina hvar þess er fyrst getið í erlendum heimildum.“

„Eins og fyrr greinir fylgir öflugt rafsvið þrumuveðrum. Eldingahætta var því tvímælalaust nokkur á Eiríksjökli. Viðbrögð gönguhópsins voru hárrétt því full ástæða er að reyna að koma sér úr aðstæðum þar sem rafsvið er öflugt. Í því tilviki ætti fólk í hópi að forðast að vera nálægt hvert öðru, því ef eldingu slær niður í hóp eru mestar líkur á að allir rotist og/eða fari í hjartastopp. Ef einhver í hópnum er með rænu eftir slíkt óhapp, er mikilvægt að hringja í 112 og hefja hjartahnoð á þeim sem eru meðvitundarlausir án tafar, því lífslíkur eru þá ótrúlega góðar.

Stundum er hrævareldum ruglað saman við mýraljós („will-o’-the-wisp“ á ensku), en þau gefa dauf ljós við bruna mýragass (metans). Áður gerðu menn sér stundum ekki grein fyrir að um ólík náttúrufyrirbæri væri að ræða, en mýraljós eru bruna-fyrirbæri á meðan hrævareldar eru raf-fyrirbæri.“

Heimild:
-http://www.visindavefur.is/svar.php?id=846
http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/2287

Geldingadalir

Geldingadalur – gígur.

 

Fiskaklettur

Fiskaklettur hefu skipað mikilvægan sess í sögu Hafnarfjarðar frá upphafi byggðar. Áður var hann útvörður hraunsins í Hafnarfirði, skagaði út í sjó, en nú er hann upp úr landfyllingu og því á þurru landi.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022.

Fiskaklettur var lengi eins konar útvörður Hafnarfjarðar, á meðan bærinn var lítill kaupmannsbær. Mjög aðdjúpt var við klettinn og fiskigöngur áttu það til að lóna við hann og því var hann kjörinn veiðistaður. Þaðan er nafnið dregið.
Fiskaklettur er merktur inn í uppdrátt, sem gerður var eftir mælingum sjóliðsforningjans H.E. Minor frá árunum 1776-78. Á uppdrættinum eru merkt inn þau fáu hús, sem stóðu við Hafnarfjörð ásamt þeim kennileitum, sem markverðust þóttu. Fiskaklettur er þar sýndur rétt vestan við verslunarhúsin í Akurgerði.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2024.

Þegar stjórnvöld ákváðu að reisa tvo vita í Hafnarfirði árið 1900 var annar þeirra byggður hátt uppi á hraunbrúninni, þar sem Vitastígur er nú, en hinn vitinn var settur niður vestur með sjó. Síðar, þegar Fríkirkjan var risin, skyggði hún á vitann á hraunbrúninni. Þess vegna var ákveðið að stækka efri vitann og færa þann neðri innar í fjörðinn. Var vitinn endurreistur á Fiskakletti eftir 1913, en þar stóð hann til ársins 1931 þegar hann var rifinn.
Á árunum eftir 1960 var gamla hafskipsbryggjan, sem var sú fyrsta á landinu (tekin í notkun árið 1913), endurbætt og stækkuð. Hún var rétt innan við Fiskaklett. Gerð var landfylling í áttina að Norðurgarði og komst þá Fiskklettur smám saman á þurrt. En þrátt fyrir hafnargerð og byggingu fiskverkunarhúsa var Fiskakletti jafnan hlíft, enda talinn náttúrulegur minnisvarði, sem bæri að vernda.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess – samsett mynd.

Í rauninni var Fiskaklettur friðaður óvart. Hafnfirðingar báru virðingu fyrir klettinum. Fyrir einhverjum árum fór Fiskaklettur svo inn á deiliskipulag sem friðaður staður og því líklegt að hann fái að standa enn um sinn. Hann mun verða inni á milli húsa í nýju íbúðarhverfi, sem þarna á að rísa.
Fegrunarnefnd Hafnarfjarðar merkti Fiskaklett árið 1981 og lét setja á hann koparskjöld, sem á stendur: „Þetta er Fiskaklettur, einn af framvörðum hafnfirska hraunsins, sem mikil fiskimið voru við hér fyrr á árum“.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2005.