Tag Archive for: gróður

Sveppur

Sveppir (fræðiheiti: fungi, eintala: fungus) eru um margt sérstæðar lífverur og því flokkaðir í sitt eigið ríki, svepparíkið. Lengi vel voru þeir samt flokkaðir með plöntum enda við fyrstu sýn líkari þeim en dýrum.
BerserkjasveppurTil að leggja áherslu á sérstöðu sveppa eru sveppafræðingar farnir að nota orðið funga á sama hátt og flóra eða fána.
Grundvallarmunur er þó á sveppum og plöntum: Plöntur eru frumbjarga og með blaðgrænu en sveppir ekki.
Lífverur eru sagðar frumbjarga búi þær til lífræn efni úr koltvíoxíð með því að nota ljós eða ólífræn efni, eins og vetnissúlfíð, sem orkugjafa. Allar grænar plöntur eru frumbjarga þar sem þær fá orku sína frá sólinni, af þessum sökum eru þær oftast undirstaða næringar í vistkerfum. Einstaka aðrar lífverur eru þó frumbjarga, til dæmis vinna nokkrar bakteríur orku úr ólífrænum efnum og eru undirstaða næringar í vistkerfum á stöðum eins og djúpt í hafi eða hellum þar sem sólarljós nær ekki til lífveranna.
MohneflaSveppir passa heldur ekki í hóp með dýrum vegna þess að þeir draga í sig næringu í stað þess að melta hana og þeir hafa frumuvegg. Tiltölulega stutt er síðan sveppir voru færðir úr plönturíkinu og í sitt eigið ríki. Sveppir geta tekið yfir mjög stór svæði; það sem étið er af sveppnum, hatturinn (aldinið), eru einungis kynfæri sveppþráðakerfis sem er ofan í jörðinni, stundum á margra hektara svæði. Sveppir eru margir fjölfruma og vaxa þræðirnir í endann, en ger er ágætt dæmi um einfruma svepp. Sumir sveppir lifa í samlífi með bakteríum og þörungum (sjá fléttur), aðrir tengjast rótarendum plantna og mynda með þeim svepprót. Á Íslandi eru til um 550 tegundir kólfsveppa sem geta orðið það stórir að vel má sjá þá með berum augum. Suma þeirra má borða en aðrir eru eitraðir.
MyrahneflaÆtisveppir eru sveppir sem algengt er að nota í matargerð. Í flestum tilvikum er það diskhirslan sem étin er af sveppnum. Þegar sveppir eru tíndir verður alltaf að ganga vel úr skugga um að um óeitraðar sveppategundir sé að ræða, að þeir séu bragðgóðir og óskemmdir. Í heiminum öllum eru um 1.000 sveppategundir ætar en það er aðeins lítill hluti þeirra 30.000 tegunda kólfsveppa og 33.000 tegunda asksveppa sem þekktar eru. Alls eru þekktar nálægt 80.000 tegundir sveppa í heiminum en talið er líklegt að tegundir sveppa séu um 1.5 milljónir talsins.

Heimild m.a:
-wikipedia.com

Sveppir

Sveppir.

Vigdísarvellir

Árið 1993 gerði Guðrún Gísladóttir skýrslu fyrir stjórn Reykjanssfólkvangs um „Gróður, jarðveg og mannvistarminjar í Reykjanesfólkvangi“ og jafnframt gerði hún tillögur um úrbætur.

Krýsuvík

Krýsuvík – teikning.

Í niðurstöðum og tillögum skýrslunnar segir m.a.:
„Ástand gróðurs er víða afar bágborið í Reykjanesfólkvangi og er brýnt að lagfæra ástandið á þeim svæðum sem eru illa farin. Fjölbreyttar búsetuminjar eru á fólkvangnum allt frá landnámi til 20. aldar. Rústirnar þarf að gera upp annars er hætta á að þær hverfi áður en langt um líður því grjót og torf samlagast umhverfinu, ekki síst ef svæðið grær upp. Þarna eru dýrmæt menniningarverðmæti sem verður að bjarga með endurbyggingu. Eina húsið sem er uppistandandi frá gamalli tíð er Krýsuvíkurkirkja frá 1857.
Mikilvægt er að gróður verði í framtíðinni í samræmi við íslenskt náttúrfar. Við uppgræðslu lands skal því einungis nota íslenskar jurtir og fræ en varast að nota lúpínu og barrvið. Beina skal aðgerðum að þeim svæðum sem verst eru farin, þ.e. svæðinu frá Kleifarvatni suður að sjó, Sveifluhálsi og Vesturhálsi, Breiðdal og Undirhlíðum. Mikilvægt er að náttúran sjálf fái að sjá um gróðurframvindu í hraunum og því ber að varast að planta þar trjám.
Búsetuminjar eru fjölbreyttar, t.d. bæjarhverfi, verstöð og seljarústir. Á milli þessara minja eru órjúfanleg tengsl. Bændur höfðu í seli og stunduðu sjó á vertíð. Sökum hagleysis var búfé rekið í sel og vegna hafnleysis héldu bændur til í verstöð á vertíðum. Það er því mikilvægt að þessum tegundum minja verði sinnt þegar rústir verða gerðar upp. Beina skal agerðum fyrst að verstöðinni á Selatöngum, síðan Krýsuvíkurbænum með útihúsum og þá Selsvöllum. Það ætti í framtíðinni að gera upp allar rústir fólkvangsins og hafa nokkrar skepnur t.d. í Krýsuvík, en þess verður að gæta að gróður hljóti ekki skaða af.“

Í skýrslunni er fjallað ítarlega um gróður og jarðveg í Reykjanesfólkvangi, markmið með endurheimt landgæða, tillögur um leiðir til varðveislu gróðurlenda og uppgræðslu lands, aðferðir í uppgræðslumálum, ástand og aðgerðir á mismunandi svæðum fólkvangsins, forgangsröðun svæða, búsetu áður fyrr í Reykjanesfólkvangi, ástand rústa og umfang, forgangsröðun verkefna og tillögur um lagfæringar og upphleðslu mannvistarminja og auk þess hugleiðingar um nýtingu Reykjanesfólkvangs.

Selalda

Selalda – teikning.

Um búsetu áður fyrr í Krýsuvíkursókn segir m.a.: „Rústir í Reykjanesfólkvangi bera fyrri búsetu ótvírætt vitni. Elstu minjar búsetu er að finna í Húshólma og Óbernnishólma í Ögmundarhrauni. Byggðin sem þar fór í eyði þegar Ögmundarhraun rann um 1151. Um búsetuna þarna eru ekki skráðar heimildir og eru því rústirnar eina vísbendingin um hina fornu byggð Krýsuvíkur og má ljóst vera að byggðin hefur verið umfangsmeiri en rústirnar segja til um. Elsta ritaða heimildin um búsetu í Krýsuvíkursókn er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þá voru íbúar í Krýsuvíkursókn 34 og var þá búið í Krýsuvík og 7 hjáleigum. Býlin voru í þyrpingu undir Bæjarfelli og rétt norðar þar sem Stóri og Litli Nýibær stóðu. Fram undir 1825 var fjöldi íbúa og býla stöðugur en eftir það fór ásókn í nýbýli að aukast í sókninni. Til að byrja með voru stofnuð nýbýli undir Bæjarfelli, þ.e. Garðshorn og Lækur. Landrými var hins vegar takmarkað og voru þrjú nýbýli stofnuð fjarri Bæjarfelli á árunum 1830-1850. Vigdísarvellir og Bali á svokölluðum Vigdísarvöllum og Fitjar undir fellinu Strákum suður undir sjó. Fólksfjöldinn í sókninni jókst stöðugt og varð mestur á 6. áratug 19. aldar þegar rúmlega 70 manns byggðu sóknina. Á þeim árum byggðust kotin Arnarfell, Snorrakot og Hnaus, sem voru í byggð einujngis í skamman tíma.

Selsvellir

Selsvellir – teikning.

Eftir 1865 fór svo að halla undan fæti fyrir byggðinni. Fólkinu fækkaði um leið og býlin lögðust í eyði hvert á fætur öðru. Eftir aldarmótin voru íbúarnir orðnir færri en í byrjun 18. aldar og einungis 3 bæir í byggð. Litli Nýibær og Vigdísarvellir lögðust í eyði eftir jarðskjálfta 1905. Eftir það hélst byggð í Krýsuvík og Stóra Nýjabæ um skamma hríð og í byrjun 4. áratugarins var Krýsuvíkurhverfið allt. Þar með lauk sögu sjálfþurftarbúskapar og nýir tímar komu til sögunnar. Rústir sem verður lýst hér á eftir eru leifar gamla sveitasamfélagsins og eru minjar um líf og afstöðu fólks fyrir ekki svo löngu síðan. Aðstöðu fólks og lifnaðarhætti eiga börn nú á tímum engin tök á að gera sér í hugarlund. Ef hins vegar býlin yrðu gerð upp og unglingar fengju að vinna að því með eldra fólki myndi sjálfsagt nýr heimur opnast fyrir þeim. Hið sama gildir um þá sem kynnast uppgerðum húsunum.“
Guðrún lýsir síðan ástandi mannvistaleifanna eins og þær voru árið 1993. Tíu árum síðar, eða árið 2003, má segja að ýmislegt hafi breyst, bæði hvað varðar aukna vitneskju og eflda vitund fólks um minjar þær er hún fjallar um í ritgerð sinni. Ennþá stafar þó sama hættan að þeim, ekki síst vegna skilningsleysis þeirra aðila er ákvarðanir þurfa að taka um framkvæmdir á einstökum svæðum.
„Allar rústirnar þarf að merkaj vel og hafa upplýsingar um sögu þeirra á staðnum. Það ætti að vera framtíðarmarkmið að hlaða upp rústirnar… Ég sé þetta svæði fyrir mér sem eitt verðmætasta útivistarsvæði á suðvesturhorni landsins þar sem hægt verður að sameina náttúru- og söguskoðun.
Í Svíþjóð hefur sænska ferðafélagið gert upp marga bóndabæi, iðnaðarhverfi frá 19. öld og reyndar líka herragarða og fangelsi. Þessi hús eru nú notuð sem farfuglaheimili og njóta óhemju vinsælda ekki síst vegna sögulegs gildis. Í Danmörku njóta víkingaaldabæirnir mikilla vinsælda. Í Lejre utan við Hróarskeldu er stórt svæði lagt undir þessa starfsemi… Með því að gera upp býli og hafa starfsfólk á staðnum sem vinnur með gamla laginu er enginn vafi á því að fólk mun sækja staðinn hvort sem er til að fá sér kaffisopa eða dvelja lengur. Á hverju svæði fyrir sig þarf að vera til staðar saga svæðisins, s.s. Krýsuvíkurhverfisins og lýsing á náttúruverðmætum í nágrenninu.“

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – teikning.

Minna má á að ekki er nema ár síðan að bæjarstjórn Hafnarfjarðar léði landsvæði undir Arnarfelli, í hjarta Krýsuvíkurhverfisins – hinna gömlu búsetuminja og heilstæða sögusvæðis, undir kvikmyndatöku erlendrar stríðsmyndar með tilheyrandi eyðileggingu á gróðri og mengun minjanna. Slíkt getur tæpast talist mikil virðing fyrir þeim verðmætum og hinni miklu arfleifð, sem þarna er að finna. Flokka verður slíka ákvörðun undir stundarafglöp að óathuguðu máli.
Staðreyndin er sú að taka þarf framkomnar ábendingar Guðrúnar til alvarlegar skoðunnar, ekki síst nú þegar kröfur almennings um varðveislu menningarverðmæta verða æ háværari og mikilvægra áhrifa ferðamennskunnar er farið að gæta í miklu mun ríkari mæli en áður var. Reykjanesfólkvangur býr yfir miklum tækifærum, sem óþarfi er að glopra niður vegna vanþekkingar eða áhugaleysis þeirra er gæta eiga hagsmuna þeirra svæða er hann tilheyrir. Auk náttúruminja má nefna ótrúlega aðgengilega sýn á jarðfræðifyrirbæri, hvort sem um er að ræða frá ísaldarskeiðum eða nútíma. Telja má að a.mk. 15 hraun hafi runnið á Reykjanesskaganum frá því að land byggðist og hefur það óneitanlega sett mark sitt á búsetu fólks og þróun byggðar frá upphafi vega. Ef vel er að gáð má bæði sjá og þreifa á sannindum um búsetu- og atvinnusögu svæðisins frá því að fyrstu íbúarnir stigu á land til dagsins í dag – rúmlega 1100 árum síðar. Er ekki kominn tími til að nútímafólkið reyni a.m.k. að varðveita hluta þeirrar sögu til handa komandi kynslóðum þessa lands?

Heimild:
-Skýrsla Guðrúnar Gísladóttur um „Gróður, jarðveg og mannvistarminjar í Reykjanesfólkvangi“ – 1993.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Blómgunartími jurta er ótrúlega misjafn. Það á ekki bara við hvenær sumars þær blómgast, heldur líka hversu lengi þær bera blóm.

Hjartablom-1Hjartablómið byrjar t.d. að blómstra í júníbyrjun og er að út ágúst. Þetta er ættingi af reykjurtaætt. Plönturnar eru safamiklar og stönglarnir stökkir og veikbyggðir.
Hjartablómið er af ættkvísl, sem heitir Dicentra. Þetta er lítil ættkvísl, u.þ.b. 20 tegundir og náttúruleg heimkynni eru í N-Ameríku og A-Asíu. Tvær af þessum tegundum eru þó nokkuð algengar í okkar görðum; dverghjarta eða Dicentra formosa, sem er frá N-Ameríku, og hjartablóm, D. spectabilis frá A-Asíu.
Dverghjartað er fremur lágvaxið eins og nafnið bendir til. Laufið er fínlegt og margskipt og blómstöngullinn með mörgum, hangandi blómhjörtum. Algengast er að blómin séu bleikleit, en til eru afbrigði með hvítum og jafnvel dökkrauðum blómum. Hjartablom-2Dverghjartað er harðgert og þolir bæði sól og hálfskugga, en blómstrar minna í skugganum.
Hjartablómið er bæði stórt og glæsilegt, eiginlega ógleymanlegt í allri sinni dýrð. Það verður 50-100 cm á hæð og vill helst töluvert skjól, því plantan verður há og fyrirferðarmikil og stönglarnir eru stökkir. Blómstönglarnir eru langir og blómin fjölmörg á hverjum stöngli, líkt og einhver hafi dundað sér við að þræða lítil, blóðrauð postulínshjörtu upp á perluband. Blómin eru með tvö rósrauð bikarblöð, sem eru uppblásin og líkt og hjarta í laginu en krónublöðin, sem koma niður úr hjartanu, eru hvít.
Erfitt er að lýsa innihaldi hjartans nákvæmlega, því krónublöðin og fræflarnir fléttast saman á furðulegan hátt inni í því. Danir kalla blómið Leutenantshjarta, eða hermannshjarta og útskýra nafnið með smásögu, eins og þeirra er von og vísa. Hvað býr í hjarta hermannsins? Jú, það er dansmeyjan, í sínum hvíta og fallega ballkjól.

Heimild:
-Morgunblaðið (Fasteignablað), þriðjudaginn 3. ágúst, 2004.

Jarðaber

Jarðarber (fragaria vesca) eru af rósaætt eins og hrútaber enda eru blöðin áþekk, a.m.k. fyrir blómgunartíma. Þau finnast villt hér á landi, einkum sunnan- og suðvestanlands. Blóm jarðarberja eru hvít þótt aldinið sé auðvitað rautt eins og alkunna er.
JarðaberJarðarber eru eiginlega ekki ber í grasafræðilegum skilningi heldur verða þau til í sjálfum blómbotninum á þann hátt að hann þrútnar út og verður að gómsætu aldini. (Ágúst H. Bjarnason 1983: 72)
Jarðarber hafa vaxið villt í Evrópu svo lengi sem menn muna en þau eru smá. (Novak 1972: 103) Amerísk villt jarðaber eru einnig smá en aftur á móti mun frjósamari. Kynbætur og ræktun er aldagömul og hófst með fundi Suður amerískrar tegundar sem bar mikilu stærri ber en áður þekktist.
Berin þóttu góð við slæmum maga, matarólist, þvagstemmu, brjóstveiki, liðaverkjum og steinum í nýrum og blöðru. Tennur verða hvítar og fallegar, sé jarðarberjasafi látinn verka á þæri í 5-10 mín. og þær síðan þvegnar úr volgu vatni, sem lítið eitt af matarsóda var bætt í. (Ágúst H. Bjarnason 1983: 72)
Á Reykjanesskaganum má t.d. sjá villt jarðaber í Herdísarvíkurfjalli (Fálkageirsskarði), í Núpshlíðarhorni og undir Háabjalla.

Jarðaber

Jarðaber.

 

 

Gullkollur
Gróður á Reykjanesskaganum er að mörgu leyti líkur gróðri annars staðar á landinu. Af öllum plöntum á landinu má finna á honum rúmlega 60% af þeim. Gamburmosinn er einkennisplantan, enda víða nýlega hraun. Ferskvatnstjarnir í bland við saltan sjóinn er og meðal einkenna svæðisins.
Valllendi er víða. Allir þekkja grundir, þurra bala, brekkur og ræktuð tún, sem er að finna hvarvetna á skaganum. Á þessum stöðum eru grastegundir mest áberandi og setja sterkan svip á landið.
Fjara nefnist svæðið þar sem láð og lögur mætast. Breidd fjörunnar er mjög mismunandi og fer eftir staðháttum, aðallega þó halla lands. Við klettótta strönd er breiddin nær engin en við árósa og í grunnum víkum getur hún orðið nokkuð löng. Neðri mörk fjörunnar eru oft miðuð við mestu stórstraumsfjöru og efri mörkin við hæsta stórstraumsflóð, en einnig er hægt að fara eftir útbreiðslu ákveðinna lífvera. Fjara er mjög sérstætt búsvæði. Það stafar einkum af því að flestar lífverur eru ýmist á kafi í sjó eða á þurru eftir því hvernig sjávarföllum er háttað. Í annan stað hefur öldurót mikil áhrif á lífverurnar. Þar sem er mjög brimasamt og undirlagið óstöðugt ná engar lífverur fótfestu, eins og víða við suðurströnd landsins.
Þær plöntur sem eru einskorðaðar við fjöru eru aðallega þörungar en efst í henni eru líka nokkrar eiginlegar fjörutegundir eins og hin svarta fjöruskóf, sem er fléttutegund, og grastegundin sjávarfitjungur. Þá er að geta þess að allmargar landplöntur vaxa eingöngu við efstu fjörumörk og ná oft talsvert niður í fjöru. Af þeim má nefna blálilju, hrímblöðku, skarfakál, fjöruarfa og fjörukál, sem allar hafa tiltölulega þykk og safamikil, blágræn blöð. Þessar tegundir þola háan saltstyrk og á stundum stirnir á saltkrystalla í blöðum þeirra.
Því ofar sem dregur við strönd bætast sífellt fleiri tegundir í hóp strandplantna. Oft ber þar mikið á baldursbrá, tágamuru, kattartungu, holurt og geldingahnappi auk ýmissa grastegunda, einkum melgresi, ef sandur er laus í sér.
Víða flæðir sjór yfir annað votlendi og þá myndast mjög sérstakt gróðurlendi, svo kallaðar sjávarfitjar. Langmest ber á grasleitum tegundum á þessum svæðum, grösum og hálfgrösum (einkum störum), en þó leynast smáar og fagrar jurtir inni á milli, eins og stjörnuarfi, strandsauðlaukur, kattartunga og sandlæðingur.
Til eru ýmsar gerðir af valllendi. Séu grastegundir nær einvörðungu drottnandi í svip landsins kallast það graslendi. Aðrar blómplöntur, eins og fíflar, brennisóley, hvítsmári og gulmaðra, vaxa jafnan inni á milli grasanna, ef vel er að gáð, einkum ef örlítil rekja er í rót eða landið smáþýft.
Stundum eru aðrar blómplöntur miklu meira áberandi í valllendinu til að sjá en grösin og þá kallast það blómlendi eða jurtastóð. Blómlendið er sjaldnast mjög víðáttumikið en er einkum neðst í brekkum, meðfram ám og lækjum eða í lautadrögum. Víða þar sem valllendi er hefur það orðið til úr mólendi við það að vera beitt. Hinar ýmsu gerðir af valllendi voru oft nýttar til slægna fyrr á öldum og síðar var farið að rækta þar tún.
Ekki er til neinn algildur mælikvarði á hvað kalla skal votlendi. Flestum er þó tamt að nota það orð um gróður, þar sem jarðvegur er blautur nær árið um kring, en sumir nota það einnig um tjarnir, læki og vötn. Oft er erfitt að draga þarna skýr mörk á milli.
Algengustu gerðir votlendis eru flói og mýri. Vatnsstaða í votlendi er ærið breytileg en í megindráttum eru skilin á milli flóa og mýrar þessi: Í flóanum flýtur vatn oftast yfir grassverðinum, hann er nær hallalaus og rennsli á vatni er lítið sem ekkert. Í mýrinni stendur vatn sjaldnast yfir grassverðinum, henni hallar oftast nær og vatnið er jafnan á hægri hreyfingu; að jafnaði ber talsvert á þéttum mosa í rót. Af þessu sést að oft getur verið skammt á milli tjarnar og flóa annars vegar og mýrar og þurrlendis hins vegar.
Flóar eru víðáttumiklir, bæði á láglendi og í hálendinu. Brokflói er afar útbreiddur og einkennistegund hans er klófífa en blöð hennar nefnast brok. Síðla sumars er brokflói hvítur yfir að líta, þegar fífan er í algleymingi, en á haustin setur rauðbrúnt brokið sterkan svip á hann. Ýmsar starir eru einnig mjög algengar í flóum. Ljósustararflói kemur næst brokflóa að víðáttu og er allalgengur víða um land og er hann blágrænn til að sjá. Einnig má nefna gulstararflóa, er sker sig úr sem gulgrænar rákir, sem er víða algengur á láglendi. Þessar þrjár af gerðir flóum er mjög auðvelt að greina úr fjarlægð á litnum einum saman.
Mýrar er hvarvetna að finna, frá ystu annesjum til hæstu hæða, þar sem samfelldur gróður nær. Einkennistegundir mýrarinnar eru ýmsar starir, eins og mýrarstör, stinnastör og hengistör. Mýrar eru oft þýfðar og vaxa ýmsar lyngtegundir á þúfnakollum.
Fyrr á árum var víða heyjað í votlendi.
Á eftirstríðsárum heimsstyrjaldarinnar síðari hófst verulegt átak í því að ræsa fram votlendi til að auðvelda ræktun túna. Það leiddi til þess að víðlend votlendi voru eyðilögð. Því hefur nú verið hætt og jafnvel hefur verið reynt að endurheimta það votlendi sem tapaðist með því að fylla upp í skurði.
Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.
Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis.
Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.
Ein algengasta planta landsins er af hálfgrasaætt og nefnist þursaskegg. Hver planta lætur mjög lítið yfir sér og fáir þekkja hana en samfelldar breiður þursaskeggs varpa sérstökum móleitum blæ á óræktarmóa vítt um land.
Auk þursaskeggsmós eru lyngmóar allalgengir. Flestar einkennistegundir mólendisins eru mjög auðþekktar og dregur mólendið oftast nafn sitt af þeim. Algengustu lyngmóarnir eru krækilyngs-, bláberjalyngs-, sortulyngs- og beitilyngsmór. Oft vaxa þessar tegundir saman að meira eða minna leyti.
Af öðrum gerðum mólendis má nefna fjalldrapamó, hrísmó öðru nafni, og sauðamergsmó.
Vel gróið mólendi þykir með fegurstu gróðurlendum landins og sérstaklega síðla sumars og fram eftir hausti skartar mórinn sínum fallegustu litum.
Mólendi er jafnan mjög ríkt af tegundum en á stundum hleypur svo mikill mosi í svörðinn að blómplöntur láta undan síga. Þá nefnist gróðurlendið mosamór og líkist hann þá mosaþembu sem algeng er í hraunum. Mosaþemba er þó sjaldnast talin til mólendis heldur litið á hana sem sérstakt gróðurlendi.
Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.
Á bersvæði mynda plöntur sjaldnast samfellda gróðurþekju heldur vaxa þær jafnan strjált. Á melum ræðst þéttleiki plantna einkum af hversu rakaheldnir melarnir eru og hvernig yfirborðsgerð þeirra er háttað. Á vorin eru miklar hreyfingar í yfirborði melanna, þegar klaki fer úr jörð, og þá er hætta á að plöntur missi rótfestuna.
Af algengum melaplöntum má nefna geldingahnapp, lambagras og holurt eða fálkapung öðru nafni. Á síðari árum hefur innflutt plöntutegund, alaskalúpína, náð að breiðast verulega út á melum, einkum á Reykjanesskaganum.
Lítinn vind þarf til þess að hreyfa við yfirborði sanda. Plöntum reynist því talsvert erfitt að festa þar rætur. Sumar tegundir eiga þó auðveldara en aðrar með að vaxa þar. Dæmi um slíka tegund er melgresi eða melur. Nokkurt skjól myndast í vari af stórvöxnum blöðum melgresis og því safnast sandur þar fyrir og háir hólar myndast. Ávallt er þó nokkur hreyfing á sandinum svo að melgresishólarnir flytjast úr stað með tímanum.
Nokkuð hefur verið gert af því að rækta upp mela og sanda á undanförnum áratugum. Sums staðar hefur sú uppgræðsla lánast allvel en ekki gengið sem skyldi annars staðar.
Ekki eru skörp mörk á milli gróðurs á láglendi og í hálendi landsins. Samfelldur gróður nær vart hærra en í tæpa 500 metra.
Þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori þekur snjómosi svörð og myndar harða skorpu.
Fjallað er um gróðureyðingu á öðrum stað á vefsíðunni.

Heimildir m.a.:
-http://www1.nams.is/

Sóley

Sóley við Miðsel.

Burkni

Sá/þeir/þau er ganga um hraunin utan og ofan Hafnarfjarðar að sumarlagi komast vart hjá því að sjá stóra og fallega burkna í hraungjótum og sprungum.
Burkni-2Tófugrasið, eitt afbrigðið, má einnig sjá í sérhverju fjárskjóli.
Á Íslandi vaxa um 37 tegundir af byrkningum. Til byrkninga teljast burknar, elftingar og jafnar, ásamt tungljurtum og álftalaukum. Byrkningar mynda engin fræ eins og blómplöntur, og bera engin blóm. Í stað þess bera þeir gróhirzlur sem framleiða mikið magn af gróum. Burknar bera gróhirzlurnar í gróblettum neðan á blöðunum, elftingar bera gróhirzlur í gróaxi efst á toppi stöngulendanna, en jafnar bera þær í blaðöxlunum. Álftalaukar sem vaxa á kafi í vatni bera gróhirzlurnar í slíðrum við blaðfótinn.
Þegar gró byrkninganna spíra, myndast í fyrstu forkím (kynliður) sem tekur mismunandi langan tíma að þroskast. Forkímið er ætíð smávaxið, stundum grænt og blaðlaga, en er í sumum tilfellum blaðgrænulaust og þroskast neðanjarðar. Á forkíminu myndast kynfrumur, og á því verður frjóvgun. Af okfrumunni sem myndast við samruna kynfrumanna vex síðan upp byrkningurinn sjálfur, elftingin, burkninn, tungljurtin eftir því hvaða flokki forkímið tilheyrir. Þroskun forkímsins getur tekið frá fáum vikum (burknar og elftingar) upp í nokkur ár (tungljurtir).
Burkni-3Burknar eru skuggþolnar plöntur sem ræktaðar eru vegna blaðanna. Þeir hafa fínleg blöð og mynda skemmtilega brúska. Burknar þurfa gott skjól eigi þeir að þrífast vel, svo og næringarríkan og hæfilega rakan jarðveg.
Stóriburkni er stærstur íslenskra burkna, allt að 1 m á hæð. Hann myndar breiða brúska af stórum blöðum, allgrófum. Mjög harðgerður og gróskumikill.
„Margir garðar búa yfir ákaflega skuggsælum stöðum þar sem erfitt er að fá plöntur til að lifa og dafna. Ekki þýðir að gróðursetja blómstrandi plöntur á slíka staði því þær þurfa á beinni sól að halda, að minnsta kosti hluta úr degi, svo þær nái að blómstra og skila sínu hlutverki með sóma. Á skuggsæla staði verður maður því að velja plöntur með falleg laufblöð því ekki er hægt að treysta á að blómin lífgi upp á umhverfið. Margir skuggaþolnir runnar verða auðvitað fyrir valinu en það er nú einu sinni svo að þeir verða feitir og pattaralegir með tímanum og þá þarf að fara að klippa þá og snyrta til og ekki eru nú allir garðeigendur til í það að leggja allt of mikla vinnu í skuggalegu beðin, það fer svo mikið betur um mann í sólinni…
Burkni-4Þá er bara að finna plöntu sem er falleg í skugga, verður ekki allt of stór og þarf lítið sem ekkert viðhald. Burknar eru fyrstu plönturnar sem koma upp í hugann sem uppfylla þessi skilyrði.

Burknar eru skuggaþolnar plöntur, þetta eru yfirleitt skógarbotnsplöntur eða plöntur sem þrífast vel í klettaskorum og gjótum þar sem sólar nýtur ekki við nema að örlitlu leyti. Burknarnir eru blaðfallegir, með stór, fínleg blöð sem mynda þéttar og fallegar hvirfingar. Þeir þurfa fremur léttan, loftríkan og næringarríkan jarðveg sem þarf að vera rakaheldinn. Fæstir burknar þola mikinn þurrk þannig að gæta verður að því að gróðursetja þá ekki of nálægt húsveggjum þar sem þeir geta lent í regnskugga. Mjög auðvelt er að fjölga burknum með skiptingu og eru þeir yfirleitt fljótir að taka við sér eftir gróðursetningu. Í náttúrunni fjölga burknar sér með gróum sem myndast í gróblettum á neðra borði blaðanna eða á sérstökum gróbærum blöðum sem vaxa upp úr blaðþyrpingunni.
Hér á landi er hægt að rækta margar tegundir burkna með ágætis árangri. Sumar tegundir hafa náð meiri vinsældum en aðrar og er það eflaust vegna þess að þær eru til í meira framboði í garðplöntustöðvum.

Burkni-5Stóriburkni verður, sem fyrr sagði, 80-100 cm hár og breiður brúskur með tvífjaðurskipt blöð sem virka svolítið gróf á mann. Blöð stóraburkna raða sér í óreglulega hvirfingu og á neðra borði margra blaða er hægt að sjá nýrnalaga gróbletti (eru eins og nýru í laginu). Þetta er í raun greiningaratriði því það getur verið ákaflega erfitt að þekkja mismunandi tegundir burkna í sundur.
Burkni-6Annar algengur burkni er fjöllaufungur, Athyrium filix-femina. Fjöllaufungurinn er yfirleitt mun fínlegri yfirlitum en stóriburkni þótt hann geti auðveldlega náð svipaðri hæð og stóriburkninn. Gróblettir fjöllaufungs eru aflangir en ekki nýrnalaga eins og á stóraburkna og er þannig mögulegt að þekkja þessar tegundir frá hver annarri. Til eru ótal yrki af fjöllaufungi og eru mörg yrkjanna með blöð sem eru undarleg í laginu. Einnig eru yrkin mishávaxin.
Körfuburkni er enn einn algengur burkni. Hann er sérstakur fyrir þær sakir að blöð hans raðast í nokkurs konar körfu. Upp úr miðri körfunni kemur svo undarlegt blað, gróblað og eru gróblettir einungis á þessu blaði. Körfuburkni getur orðið rúmlega 80 cm á hæð. Hann fjölgar sér með rótarskotum þannig að nýjar blaðhvirfingar skjóta upp kollinum í svolítilli fjarlægð frá móðurplöntunni.
Nokkrar mismunandi tegundir burkna í einu skuggabeði geta skapað mjög skemmtileg áhrif en einnig getur komið vel út að brjóta upp fínlega blaðbreiðu burknanna með plöntum með annars konar blöð, til dæmis Hosta-tegundum (brúskum) sem eru með stór, heil blöð í ýmsum blaðlitum frá gulu yfir í blágrátt.
Þessum fróðleik um burkna er sérstaklega ætlað að efla vitund og áhuga hraungangandi um efnið.

Heimild m.a.:
-Morgunblaðið – Mánudaginn 27. september, 2004 – Fasteignablað.

Burkni

Burkni.

 

Gullkollur

Þegar líður á júnímánuð skartar Reykjanesskaginn beggja vegna gulleitu blómaskrúði. Þetta er sérstaklega áberandi í Kollafirði og austan Grindavíkur, ekki síst undir Slögu. Gullkollur er þarna mjög algeng jurt en talið er að hann hafi verið fluttur hingað inn sem fóðurjurt og komið fyrst í Selvog. Þar er jurtin nefnd kattarkló af einhverjum ástæðum.

Gullkollur-1

Gullkollurinn er af ertublómaættinni og þar með frændi gullregnsins, lúpínunnar og fleiri merkisplanta.
Gullkollur er af ertublómaætt og vex á tveim aðskildum svæðum á landinu. Annað svæðið nær um Reykjanesskagann beggja megin og norður á Kjalarnes, en hitt svæðið er við Loðmundarfjörð og Borgarfjörð fyrir austan.  Hann hefur fjöðruð blöð og er endasmáblaðið langstærst. Gullkollur hefur aðeins verið skráður á láglendi, hæst um 180 m í Stakkahlíð í Loðmundarfirði.
Blóm gullkollsins eru mörg saman í loðnum kolli sem er með aflöngum, grænum reifablöðum neðst. Gullkollur-3Krónublöðin eru gul í endann, 12-15 mm á lengd. Bikarinn er nokkru styttri, samblaða, kafloðinn, hvítleitur en fjólublár eða rauðbrúnn í endann, fimmtenntur. Fræflarnir eru 10, samgrónir í pípu utan um frævuna neðan til. Ein löng fræva. Stofnstæðu blöðin eru stakfjöðruð, stilkuð. Endasmáblaðið er langstærst, öfugegglaga; hin smáblöðin lensulaga eða striklaga, vantar stundum alveg. Stöngulblöðin eru stilklaus, smáblöðin jafnari að stærð.
Úbreiðsla gullkolls bendir til þess, að hann sé ekki mjög gamall í landinu.  Hann virðist hafa numið land einkum á tveim svæðum, á Reykjanesskaga og nyrzt á Austfjörðum við Loðmundarfjörð, Njarðvík og fleiri víkum þar á milli. Á báðum þessum svæðum hefur hann náð töluverðri útbreiðslu meðfram ströndinni, einkum þó á Reykjanesskaganum, sem fyrr sagði.

Heimildir m.a.:
-floraislands.is/anthyvul.htmlGullkollur-4

Blóðberg

Blóðberg (fræðiheiti: Thymus praecox) er lítil sígræn fjölær þófaplanta, af sömu ættkvísl og timian, sem vex í þurru mólendi, holtum og sandi um alla Evrópu. Blóðberg er nýtt sem sígræn þekja í garða og í matargerð sem kryddjurt.
Blodberg-3Á Íslandi er blóðberg (ssp. arcticus) mjög algengt um allt land og finnst bæði á láglendi og í fjöllum allt upp í þúsund metra hæð.
Blóðberg er lágvaxinn smárunni með litlum bleikbláum blómum. Blóðberg er mest áberandi í júní og júlí þegar plantan er í blóma og má þá stundum sjá blóðbergsbreiður. Plantan hefur öldum saman verið notuð bæði til heilsubóta og sem krydd. Blóðbergste er til dæmis sagt vera gott við flensu, kvefi og ýmsum meltingarsjúkdómum. Það er gott krydd, til dæmis á grillað lambakjöt og minnir bragðið á tímían sem kallast einnig garðablóðberg á íslensku og er af náskyldri plöntu.
Blodberg-2Björn Halldórsson, prestur í Sauðlauksdal sem var frumkvöðull í garðrækt og jarðyrkju á Íslandi, segir um blóðbergið: „Þessi urt hefur ágætan kraft til að styrkja sinar. Hverslags vín, sem á þessari urt hefur staðið nokkra stund og síðan drukkið, læknar sinadrátt, það sama læknar kvef, hreinsar og styrkir höfuð, þynnir blóð, læknar upp þembing þeirra manna, sem etið hafa mikið af hörðum mati. Það vermir kaldan maga og styrkir hann. Dúkur í þessu vín vættur og við lagður höfuð manns, bætir öngvit og svima, höfuðverk og hettusótt. Seyði af þessari urt, sem te drukkið, er gott við hósta, læknar ölsýki þeirra manna, að morgni drukkið, sem ofdrukkið höfðu vín að kvöldi. Sé þessari urt stráð á gólf, eða reykt með henni í húsum, ellegar hún seydd í vatni og sama vatni dreift um húsið, flýja þaðan flær.“
Blóðbergið er mest notað gegn flensu og kvefi, sérstaklega lungnakvefi og öðrum lungnasjúkdómum þar sem þarf að losa um slím. Blóðberg er einnig talið einstaklega gott við flestum meltingarvandamálum s.s maga- og garnabólgu. Blóðberg linar krampa í meltingarfærum og er þá oft notað með öðrum jurtum. Bakstrar með jurtinni þykja góðir við bólgum í liðum og vöðvum.

Heimildir m.a.:
-heilsubot.is/page/blodberg

Gullkollur

Gullkollur og blóðberg.

-Wikipedia.org

Brunntorfur

Helga Jónsson skrifar um „Gróðrasögu hraunanna“ í Skírnir árið 19906:
„Gróðurinn á sína sögu, og gróðursaga hinna ýmsu landa og hafa er með ýmsum hætti, og mjög svo komin undir lífsskilyrðum þeim, sem fyrir hendi eru. Gróðrarsagan segir frá »landnámi« plantnanna og skýrir oss frá, hverjar tegundir ber fyrst að hinum beru landflákum, hvernig þær þróast og greiða götu þeirra tegunda, er síðar koma. Hún er í fám orðum: þróunarsaga hinna fjölbreyttu plöntufélaga, er byggja jörðina nú á dögum. Eitt af þessum atriðum er gróðrarsaga hraunanna, er nú má kalla nægilega kunna í öllum aðalatriðum. Hraunin verða til á þann hátt, að glóandi hraunstraumur rennur úr gígnum og yfir yfir landið umhverfis. Þá kólnar hraunið og storknar, og er lögunin á yfirborði hraunsins mest undir því komin, hvernig og hve fljótt það storknar. Eftir lögun yfirborðsins greina menn á Íslandi milli tvenns konar hrauna, er nefnd eru apalhraun og helluhraun. Apalhraunin líta út sem óskipulegar urðaröldur, en helluhraunin eru miklu sléttari og í þeim eru víða á allstórum spildum sléttar klappir eins og nafnið bendir á, en á milli óskipulegar dældir og geilar. Eru helluhraunin miklu gróðursælli en apalhraunin, meðfram af þeirri ástæðu, að vatnið á örðugra með að síga gegn um þau.
Nýrunnið hraun er með öllu eyðimörk og enginn gróður byrjar fyr en yfirborðið er storknað og kalt. Er hraunið þá mjög svo óvistlegur bústaður fyrir plöntur, því að þar er alls enginn jarðvegur. Háplöntum er því með öllu ómögulegt að nema þar land að svo stöddu. En bót er það í máli, þótt hraunið sé jarðvegslaust, að yfirborð steinanna er hrufótt. Er það alsett skörpum broddum, en á milli þeirra eru smáholur og skorur. Stormarnir á Íslandi þyrla venjulega upp ryki, staðnæmist það miklu fremur í hinu hrufótta yfirborði hraunklettanna en á sléttum blágrýtisklettum. Um síðir kemur og jarðvegur í hraunin; verður það með ýmsu móti, en tíðast er, að plöntugróðurinn sjálfur gerir jarðveginn og lágplönturnar greiða götu háplantnanna. Skal nú farið um það nokkrum orðum.
Fyrstu landnemar hraunanna verða að vera þannig gerðir, að þeir geti lifað á beru berginu, af því að enginn jarðvegur er þar fyrir. Ýmsar lágplöntur eru þannig gerðar, svo sem þörungar (algæ), fléttur eða skófir (lichenes) og sumar mosategundir. Þörungar eru þó fremur sjaldgæfir í hraunum og látum vér því nægja að nefna þá. Fléttur og mosar eru alstaðar í klettum, en venjulegast eru flétturnar þó frumbyggjar þar.
Ýmsar fléttutegundir eru alkunnar alþýðu á Íslandi, svo sem litunarmosi, geitaskóf, fjallagrös, hreindýramosi, tröllagrös o.s.frv. Fjallagrösin og hreindýramosinn vaxa þó ekki á klettum, en eru algeng í mosaþembum, einkum til fjalla. Litunarmosinn og geitaskófir eru algengar á steinum, en teljast þó ekki til frumbyggja hraunanna.

Mosi

Fléttur þær, er fyrstar nema land í hraunum, eru að nokkru leyti svipaðar litunarmosa og er því líkast sem hvítar, gráar, gular, svartar eða grænleitar skorpur séu á klettunum á víð og dreif. Flétturnar (skófirnar) teljast til sveppanna, en eru þeim þó frábrugðnar að því leyti, að þær geta sjálfar unnið fæðu sína úr kolsýru loftsins. Þó er léttusveppurinn að því leyti líkur öðrum sveppum, að hann er ekki grænn, og getur því ekki, fremur en þeir, af sjálfsdáðum fætt sig af kolsýru loftsins. Til þess þarf hann hjálpar við og hana fær hann hjá örsmáum grænleitum þörungum, er hann þéttar sig utan um og innilykur þannig í sínum eigin líkama. Svo má að orði kveða, að fléttusveppurinn hafi þörungana í æfilöngu haldi eða þrælkun og hann lifir af þeirri fæðu er þær vinna úr kolsýru loftsins. Sjálfur þörungslíkaminn fær enga meinsemd af þrælkuninni, en þó geta þörungarnir ekki æxlast meðan þeir eru í haldinu. Þess konar viðbúð, sem hér ræðir um, köllum vér því þrælkun. Líkami fléttnanna er því samsettur af tveim tegundum, sem meira að segja teljast til mjög svo ólíkra plöntuflokka, það er að segja svepp og þörungi. Ef fléttusvepparnir hefðu ekki hina grænu þræla til að vinna fyrir sér, mundu klettar þeir, er þaktir eru hinum marglita fléttugróðri, vera svo að segja gróðurlausir, því að svepparnir gætu ekki búið þar hjálparlaust. Líkami flétta þeirra, er algengastar eru á steinum, er, eins og drepið hefir verið á, líkastur þunnri skorpu eða skóf á klettinum. Er sú líkamslögun hin hagkvæmasta fyrir plöntur á skjóllausum klettum.

Fyrir því er auðsætt, að fléttur eru mætavel til þess fallnar, að nema land í hraunum. En hvernig flytjast þær inn í hraunið? Um bert og nýstorknað hraun er auðvitað engin umferð, og svo mætti að orði kveða, að þar kæmi aðeins fuglinn fljúgandi; þó er mjög svo ólíklegt, að fuglar flytji frumbyggjana inn í hraunið, en það er eflaust vindurinn. Stormarnir þyrla upp jarðryki, sópa fræi og grói af plöntum, er vaxa umhverfls hraunið, og þeyta öllu saman yfir hraunflákana. Sérstaklega ber þess að gæta, að gró lágplantnanna eru svo lítil og létt, að ekki þarf hvassan vind til að feykja þeim í hraunið. Gró þeirra plantna, er geta búið á bergi, dafna og verða að fullorðnum plöntum, en gró eða fræ þeirra plantna, er þurfa jarðveg, deyja auðvitað á klettinum. Af þeim plöntum, sem vindurinn flytur í nýstorknað hraun, dafna því aðeins fléttur, mosar og ölgur, en allar háplöntur deyja, því að hraunið er jarðvegslaust. Þá höfum vér að nokkru lýst fléttunum, hversu þær eru fallnar til landnáms, og getið um, hvernig þær flytjast í hraunið; og skal nú drepið á gróðrarsöguna.
1. gróðrarstig. Fléttur og mosar á við og dreif. Á fyrsta gróðrarstiginu er hraunið tilsýndar. eins og það væri alveg nakið, en þegar komið er í sjálft hraunið, verðum vér þess fljótt varir, að marglitar smáskorpur eru á stangli hingað og þangað um nibburnar. Skorpur þessar eru fyrstu landnemarnir og teljast allar til fléttnanna. Auk þeirra vaxa þar og órfáar mosategundir, en þær finnast að eins í örsmáum holum á fleti hraunsteinanna. Meðal hinna fyrstu mosategunda er grámosinn, er síðar nær mjög mikilli útbreiðslu í hraununum; en á þessu stigi er að eins að sjá einstaka smátór milli hraunbáranna. Niðri í hraungjótunum finnast og nokkrar mosategundir, og teljast til skuggamosa, það er að segja mosategunda, sem ekki þrífast í skarpri birtu.
2. gróðrarstig. Mosapembur. Eftir því sem árin líða verða flétturnar tíðari og tíðari og þekja hraunnibburnar að meira eða minna leyti, og mosatórnar, er voru örlitlar í upphafi, og að eins milli hraunbáranna, breiðast út meir og meir og verða smáþúfur víðs vegar á klettunum; víða renna þær saman og þekja þá allstórar spildur. Að grámosanum kveður langmest allra mosa í hramnum og er hans fyr getið. Er hann einn meðal hinna allra algengustu mosa á íslandi og vex því nær alstaðar á steinum, í móum og jafnvel þýfðum mýrum. Mjög fljótt kemur það í ljós í hraununum, að grámosinn breiðist út miklu fljótara en aðrar mosategundir. Fyrst koma upp örsmáar tór milli hraunbáranna, eins og getið var, en því næst vaxa tórnar og verða að mosaþúfum, er breiðast út í allar áttir. Að síðustu renna þúfurnar saman, og verður þá samloðandi mosaþak yfir stór svæði. Það köllum vér mosaþembur.
Það er auðvitað fólgið í skapnaðarlagi grámosans, hve vel hann þrifst á þurrum klettum. Allflestir munu hafa tekið eftir því, að mosaþemburnar eru grænleitar í rigningatíð, en gráleitar þegar þurviðri ganga. Orsökin til litbrigðanna er sú, að loft kemst inn í plöntuna, er vatnið gufar upp. Hið innilukta loft hylur grænkornin og veldur þannig gráa litnum, en um leið er það einnig vörn fyrir mosann gegn of miklum þurki. En er votviðri ganga, sýgur mosinn í sig svo mikið vatn, að loftið hverfur, og er hann því grænleitur á að sjá. Þar við bætist og, að grámosanum (og mörgum öðrum mosategundum) er þannig háttað, að hann getur unnið fæðu sína úr kolsýru loftsins við lægra hitastig en háplönturnar. Fyrir því er auðsætt, að grámosinn er allra plantna bezt fallinn til að gera jarðveg í hraunum. Við aldurinn verður sú breyting á mosaþembunni, að neðsta mosalagið deyr smámsaman og fer að rotna, það er að segja: að breytast í jarðveg. Í þessum mosajarðvegi er ávalt nokkur raki, jafnvel þó langvinnir þurkar hafi gengið, því að efsta mosalagið, eða hin lifandi mosaþemba, ver hann gegn þurki. Þannig er mosaþemban farin að breytast í jarðveg. Mosinn á erfiðara uppdráttar eftir því sem jarðvegurinn eykst, og stenzt að lokunum ekki samkepnina við háplönturnar, er koma hópunum saman til að taka sér bústað í hinum nýja jarðvegi. Svo mætti að orði komast, að grámosinn gerir jarðveg í hraununum og útrýmir sjálfum sér um leið. Stór svæði í hinum gömlu hraunum hafa ennþá ekki náð lengra en á þetta stig.
3. gróðrarstig. Lyngheiði. Þegar er neðsta mosalagið fer að rotna og jarðvegur sezt í hraunið, fer það að verða byggilegt fyrir háplönturnar, enda fara þær þá að flytjast þangað. En áður en farið er frekara út í það efni, skal örlítið drepið á, hvernig háplönturnar komast í hraunið. Vér gátum þese áður, að það væri eflaust vindurinn, sem flytti lágplöntur í hraunið, og hiklaust má fullyrða, að vindurinn vinni einna mest að flutningi háplantnanna; en þó munu margar þeirra berast í hraunið með dýrum, og þar eru fuglarnir eflaust fremstir í flokki. Þess ber nefnilega að gæta, að þegar er mosaþemban er komin, er hraunið fært yfirferðar ýmsum dýrum, er á margan hátt geta flutt fræ háplantnanna með sér. Þess ber og að gæta, að hraunið gengur miklu meira í augu fuglanna eftir að mosagróðurinn er kominn, því þá hyggja þeir að þar sé björg að finna. Fuglar bera ýms fræ með sér og það einkum í maganum, en mörg fræ hafa fræskurn svo sterka, að ekki sakar að fara, um meltingarfæri dýranna. Sum fræ spíra jafnvel fljótar eftir slíkt ferðalag en ef þau hefðu setið kyr heima. Til dæmis má nefna að hrafnarnir éta krækiberin og flytja þannig fræin oft langar leiðir. Þótt hinn nýi jarðvegur sé rakur, er ekki svo að skilja, að þar sé lífvænt öðrum háplöntum en þeim, er eigi eru sérlega sólgnar i vatn, eða þeim, er hafa slíkan skapnað blaða, að þær geta temprað uppgufan vatnsins úr plöntulíkamanum. Meðal hinna fyrstu plantna, er koma í hinn nýja mosajarðveg hraunsins, eru því t. a. m. krækiberjalyng, móasef, axhæra, blásveifgras, sauðvingull, lógresi, bugðupuntur, geldingalauf, heiðastör o.fl. o.fl. Í fyrstu eru innflytjendur þessir fáir og dreifðir víðs vegar um mosaþembuna, einn og einn á stangli; en með tímanum fjölga einstaklingarnir og fleiri plöntutegundir setjast að. Brátt skipa plönturnar sér og í félög eftir þeim kröfum, sem þær gera til lífsins, og félög þessi taka þau svæði í hrauninu, er þeim henta bezt. Þannig eru t a. m. allstórar spildur þaktar venjulegum lynggróðri, er samsettur er af krækilyngi, bláberja- og aðalbláberjalyngi, sortulyngi, beitilyngi, fjallhrapa, grávíði o. þ. h., en á öðrum stöðum finnum vér grasgróður og vaxa þar hinar algengustu grastegundir, er jarðvegurinn þar og nokkru rakari en í lyngheiðinni. Þessi grastegundafélög eru vísir til grasgróðurs þess, er síðar skal getið. Sumstaðar má og sjá vísi til jurtastóðs.
4. gróðrarstig. A. Kjarrskógur. Smám saman fara að koma í ljós birkiplöntur hingað og þangað í lyngheiðinni, og eftir því sem árin líða og jarðvegurinn eykst, dafnar birkið betur og betur og verður að lokum kjarrskógur. Sé birkið ekki skemt með fjárbeit eða skógarhöggi, má óhætt fullyrða, að víða kemur fram reglulegur skógur samsettur af trjám með beinum, óklofnum stofni. Innan um birkið vex reynir, grávíðir og gulvíðir, og eru þá tegundir þessar venjulega svipaðar birkinu að þroska. Hafa hraun þessi eflaust verið skógi vaxin í landnámstíð, þó þess sé ekki beinlínis getið í sögunum, að því er mér er kunnugt. Skóginn ber að skoða sem endatakmark að því er snertir gróðrarþróun á stórum svæðum í hraununum, því að öðrum plöntufélögum veitir mjög svo örðugt samkepni við skóginn. Rætur trjáa og runna liggja svo djúpt í jörðu, að aðrar plöntur geta öldungis ekki kept við skóginn að því er næringarefni jarðvegsins snertir, og eigi skaðar það skóginn hið minsta, þótt skógarjarðvegurinn sé alvaxinn lyngi eða grasi, því að þessar plöntur taka næringarefni úr hinum efstu lögum iarðvegarins. Annað mál er það, að þéttur undirgróður í skógi getur verið skaðlegur fyrir kímplöntur bjarkarinnar og fyrir ungt birki yfirleitt. Þá gnæfir skógurinn og hátt yfir önnur plöntufélög og er því miklu betur settur að því er sólarbirtu snertir, en án sólarljóssins geta grænar plöntur ekki lifað. Það er því augljóst að skógurinn er einvaldur um langan aldur þar, sem hann einu sinni er kominn, ef loftslag breytist ekki honum til skaða og ef engin óhöpp vilja til. En óhöpp teljum vér, skoðað frá sjónarmiði skógarins, skógarhögg, beit og yfirleitt allar árásir, er skógurinn verður fyrir af óðrum eða öðru en keppinautunum.
B. Jurtastóð, graslendi. Þar sem nægilegt vatn er og hagkvæmt skjól kemur sérstakur gróður, er vér köllum jurtastóð; í því plöntufélagi eru blómjurtir (þ. e. jurtir með stórum litfögrum blómum) og burknar yfirgnæfandi, en auk þeirra vaxa þar ýmsar grastegundir. Á endanum mun oftast svo fara, að blómjurtunum fækkar meir og meir, en grastegundum fjölgar að því skapi, og að lokunum breytist jurtastóðið í graslendi. Meðan jurtastóðið er upp á sitt hið bezta, eru blómjurtirnar venjulega mjög þroskamiklar, en eftir því sem grösin ná meiri og meiri yfirráðum, verða þær þroskaminni. Baráttan milli grastegundanna og blómjurtanna getur verið langvinn, en óefað má fullyrða, að grastegundirnar sigra að lokum, enda standa grastegundir betur að vígi en margar aðrar jurtir, sökum hinnar kynlausu æxlunar.
Graslendið er fremur sjaldgæft í hraunum, og það er oss einkum kunnugt frá helluhraununum t. a. m. Búðahrauni, Kapelluhrauni og Afstapahrauni. Til þess að grasgróður geti þrifist er nauðsynlegt að regnvatnið hripi ekki niður úr hrauninu, og er því ofur eðlilegt, að helluhraun hafi helzt graslendi. Í Búðahrauni var grasgróðurinn yfirleitt samsettur af þessum fjórum tegundum: snarrótarpunti, túnvingli, hálíngresi og bugðupunti, en auk þeirra voru ýmsar aðrar tegundir strjálar hingað og þangað í graslendinu. Auðvitað hittum vér og graslendi í apalhraunum, en þó ekki fyr en þau eru alþakin jarðvegi.
Þetta voru aðalatriðin í gróðrarsögu hraunanna, en þó á ekki hvert hraun þessa gróðrarsögu, því að hraun til fjalla komast ekki lengra en á annað gróðrarstigið, það er með öðrum orðum: mosaþemban heldur áfram að ríkja yfir fjallhraunum, meðan loftslag ekki breytist. Það sem vér höfum sagt um gróðrarþróun hraunanna á því sérstaklega við hraunin á láglendinu, en þó skal þess getið, að hraun á yztu annesjum komast ekki lengra en á þriðja gróðrarstigið, það er að segja, þau verða ekki skógivaxin.
Þá verður og fyrir oss sú spurning: hve langan tíma þarf hraunið til að verða skógi vaxið? Þeirri spurningu getum vér ekki svarað að svo komnu, en þó er það kunnugt, að hraun á láglendi verða fyr þakin gróðri en hraun til fjalla, og orsakast það mest af því, að heitara er á láglendi en í fjöllum. Það er augljóst, að það er ekki komið undir aldri hraunsins, hve fljótt það grær upp, heldur undir þeim lífsskilyrðum, sem fyrir hendi eru. Það eitt getum vér þó sagt, að hraunin þurfa margar, margar aldir til að gróa upp.
Vér gátum þess þegar í byrjun, að jarðvegurinn kæmi með ýmsu móti í hraunin, en tíðast væri að plöntugróðurinn hefði mest að segja í því efni. Nú höfum vér skýrt frá, hvernig plönturnar gera jarðveginn og vér gátum þess og, að þær þyrftu margar aldir til þess starfa, en stundum getur jarðvegur komið í hraunin á tiltölulega stuttum tíma; á það sér einkum stað þar sem sandfok er eða öskufok. Vindurinn feykir sandi, jarðryki og ösku í hraunið, smám saman fara glufur, gjótur og hraunbollar að fyllast og að lokunum hverfa jafnvel hæstu hraunstrýturnar í sandinn. Þá fara plöntur smámsaman að taka sér bústað í sandinum, og víða grær hann upp að lokum. Á þann hátt geta meðal annars komið upp rýrar graslendur eða lynggróður. Sandfyltu hraunin eiga í aðalatriðunum sömu gróðrarsögu og venjuleg sandjörð og skal því ekki farið frekara út í hana hér. Sandfylt hraun má finna á Reykjanesskaganum.“

Heimild:
-Skírnir, 80. árg. 1906, bls. 150-160.

Lönguhlíðahorn

Mosi undir Lönguhlíðahorni.

Lúpína

Lúpínan hefur á seinni árum sett bæði „lú“ og „pínu“ yfir mela og berar hlíðar Reykjanesskagans. Tilkoma þessarar bláleitu og áberandi landnámsplöntu hefur sett mikinn svip á landsvæðið, einkum fyrri hluta sumars.
Blóm þetta, alaskalúpínan, var flutt inn frá Alaska haustið 1945 af Hákoni Bjarnasyni. Talið er að hún hafi þó áður borist til landsins seint á 19. öld og verið notuð sem Lúpína í Vatnshlíðskrautjurt í görðum. Eins og aðrar belgjurtir myndar lúpínan sambýli með niturbindandi örverum og getur því vaxið vel á rýru landi án áburðargjafar. Lúpínan hefur allmikið verið notuð í uppgræðslu á undanförnum árum og er notuð til að mynda gróðurþekju og byggja upp frjósaman jarðveg. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að lúpínan getur myndað þéttar breiður þar sem lágvaxnari gróður á erfitt uppdráttar. Lúpínan dreifist með fræi og getur breiðst nokkuð hratt út þar sem skilyrði eru fyrir hendi og jafnvel farið yfir gróið land. Dæmi eru um að lúpínan taki að hörfa fyrir öðrum gróðri eftir 15-20 ár en sums staðar hefur hún viðhaldist mun lengur án þess að láta undan síga.
Alaskalúpína á, sem fyrr segir, uppruna sinn að rekja til Alaska og tilheyrir ætt belgjurta. Belgjurtir hafa þá sérstöðu meðal plantna að lifa í sambýli við bakteríur. Bakteríurnar mynda hnýði á rótum belgjurtanna og vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu sem plantan notar sér til framdráttar. Belgjurtir eru því ekki háðar köfnunarefnisáburðargjöf eins og aðrar plöntur en algjörlega háðar samlífinu við bakteríurnar. Köfnunarefnisbindingin gerir það að verkum að við rotnun plöntuleifa verður köfnunarefnið eftir í jarðveginum sem nýtist öðrum plöntum líka og verður til þess að byggja um frjósaman jarðveg.
Alaskalúpína er harðgerð, fljótvaxin og þrífst vel í sendnum og malarkenndum jarðvegi. Hún þrífst hins Lúpína í Vatnshlíðvegar illa á foksöndum og ofan 300-400m hæðar. Alaskalúpína hefur reynst vel sem landgræðsluplanta hér á landi og bindur mikið kolefni. Sjá nánar um aðra eiginleika lúpínunnar í ýmsum ritum hér að neðan.
Náttúruverndarsjónarmið hafa þó komið fram gagnvart plöntunni, einkum í seinni tíð. Alaskalúpína er ágeng að eðlisfari og getur náð fótfestu í margs konar gróðurlendi. Eftir að lúpínan hefur numið land getur reynst erfitt að hemja útbreiðslu hennar. Fara skal með gát við notkun hennar í nálægð gróins lands, þar sem hún gæti hæglega numið land og orðið ríkjandi. Óþarft er að sá henni í land þar sem náttúrulegur gróður er í framför. Lúpína getur breiðst út með miklum hraða og dreifir sér hratt niður gil og skorninga þar sem leysingavatn getur borið fræin með sér. Lögum samkvæmt má ekki sá lúpínu í friðlýst svæði eða svæði sem eru á náttúruminjaskrá, þar sem tilgangur þeirra er að varðveita sérstæð náttúrufyrirbæri – jarðmyndanir og gróður. Huga þarf vel að staðarvali sáninga í námunda við þessi svæði. Lúpína getur verið áberandi sökum stærðar sinnar og litar og skal einnig hafa það í huga við staðarval sáninga, t.d. skal forðast að sá lúpínu í fjallshlíðar.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður og Lúpína í Selhöfðafjarskyldur Reykjanesskaganum, segir lúpínuna að verða „þjóðarblóm”. „Á árinu 2004 beitti landbúnaðarráðherra sér fyrir því að valið skyldi svonefnt „þjóðarblóm” og tóku Landvernd og Morgunblaðið að sér að efna til spurningakeppni um hvaða planta verðskuldi þetta heiti. Sjö tegundir voru í framboði og varð holtasóley hlutskörpust rétt á undan kattarauga sem kynnt var í keppninni sem „gleym-mér-ei”. Meðal skilyrða í forvali var að blómið væri „sýnilegt víða um land og einkennandi fyrir gróðurfar þess”. Úrslit voru kynnt með pomp og pragt að viðstöddum ráðherrum og forseta Íslands. Til að reka smiðshögg á þetta tiltæki flutti landbúnaðarráðherra á síðasta vetri f.h. ríkisstjórnarinnar sérstaka þingsályktun um málið þar sem segir m.a.: „Ríkisstjórnin hefur síðan fjallað um málið og til að staðfesta enn frekar að holtasóley sé þjóðarblóm Íslendinga er lagt til að Alþingi álykti þar um og því er þessi tillaga lögð fram.
Nú skyldum við ætla að yfirlýst þjóðarblóm blasi við hverjum manni víða um land og víst er að það á frekar við um holtasóley en kattarauga. Hins vegar var frá keppninni útilokuð fyrirfram sú planta sem landbúnaðarráðuneytinu er kærust og orðin er mest áberandi allra blómplantna þegar ekið er um þjóðvegi hérlendis en það er alaskalúpína. Hún breiðist þessi árin út með ógnarhraða og mun í tíð núlifandi kynslóða ná að þekja drjúgan hluta landsins. Í samkeppni við þessa stórvöxnu og ágengu plöntu sem opinberar stofnanir eins og Landgræðslan og Skógrækt ríkisins innleiddu og sjá um að útbreiða sem víðast fer lítið fyrir holtasóley, að ekki sé minnst á kattarauga, blóðberg og lambagras sem í besta falli fá að tóra á útnárum.“
Svo mörg voru þau orð um lúpínuna ásóknu – bláklæddu.
Lúpína á Bláberjarima