Tag Archive for: Hafnarfjörður

Slysadalur

„Af hæðinni innan Blesaflatar liggur gatan inn á Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur harðvellisgróður og sem tún yfir að líta.
Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar Gvendarsel - stekkurnorður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið — Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krísuvík, sem var á leið til Hafnarfjarðar, missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust. Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. Hér hefur áreiðanlega einstök slysni hent þennan umrædda ferðamann, þar eð hann var klaklaust kominn yfir Kleifarvatn (Saga þessi er í Þjóðs. Jóns Árnasonar I, bls. 636—37. Í nafnaskrá er gert ráð fyrir, að bærinn sé Kaldrani á Skaga, enda er Kleifarvatn ekki nefnt á nafn í sögunni. Sbr. þó Árbók fornl.fél. 1903, bls. 50.) og syðri dalina. En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndazt þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin. JarðfÖll þessi eru að vísu ekki djúp, 2—4 m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öliu, er í þeim meira vatn en svo, að hestar nái niðri, ef ofan í lenda. Af þessu má ráða, að ferðamaðurinn hafi verið svo óheppinn, að leið hans hafi legið yfir eitthvert jarðfallið, þar eð þau flest eru nærri götu, vatn verið hlaupið undan ísnum og hol komið milli íss og vatns, og ísinn þar með misst viðhald að neðan, sem svo leiddi til þess, að ísinn brast undan þunga hestanna. Hafi þetta slys þannig að borið, var vonlaust fyrir einn mann að bjarga hestunum, enda tókst það ekki.

Gvendarsel-231Þegar Slysadal sleppir, er komið á Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið hafi uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu.
Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadal, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldársels. Þótt þessi leið væri heldur fáfarin sökum annmarka, fannst mér hún þess verð, að hennar væri að nokkru getið.
Hér skal ekki fjölyrt um Krýsuvík, þetta forna stórbýli með 10 hjáleigum sínum, — þótt nú séu bæirnir hrundir og löndin auð —, sem áður var sérstök kirkjusókn og allar þessar leiðir lágu til. Þó er hún á svo margan hátt stórbrotin og merkileg jörð, að vel væri til fallið, að saga hennar væri skráð.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg., 1943-1948, FORNAR SLÓÐIR MILLI KRÝSUVÍKUR OG HAFNARFJARÐAR eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 93-94.

Gvendarsel

Gvendarsel.

 

Straumssel

„Í ritgerð þessari vil ég minnast Guðmundar Tjörva Guðmundssonar. Hann bjó að Straumi í Hraunum. Hraunabæir nefndist syðsta byggðin í Garðahreppi, nema allra syðsti bærinn, Hvassahraun, en það er í Vatnsleysustrandarhreppi. Sú jörð liggur syðst í Setbergsbaerinn-231hraunjaðrinum að norðanverðri Vatnsleysuvík.
Þó bóndi þessi bæri tvö nöfn var hann ævinlega bara nefndur Tjörvi. Í mínum stráksaldri kynntist ég honum vel en var nærri fulltíða maður er ég varð þess áskynja að hann hefði heitið tveim nöfnum.

Guðmundur Tjörvi fæddist 16. ágúst 1850 að Setbergi í Garðahreppi. Þar búa þá foreldrar hans, Guðmundur Guðmundsson og Katrín Guðmundsdóttir. Guðmundur faðir Tjörva var sonur Guðmundar Bjönssonar, hann bjó í Hafnarfirði, Krýsuvík og víðar. Föðurmóðir Tjörva var, Dagbjört Tjörvadóttir. Þess má geta til gamans að Tjörvanafnið hefir loðað þar við ætt frá því fyrir 1700 og er þá komið úr Skagafirði, því Guðrún Tjörvadóttir sem var úr Skagafirði var langa-langamma Tjörva bónda í Straumi. Katrín móðir Tjörva var talin farsæl ljósmóðir. Þessi Katrín Tjörva móðir var þrígift, átti fyrst Halldór Halldórsson frá Hrauntúni. Aðeins er getið eins sonar þeirra, það var Halldór Halldórsson bóndi að Nýjabæ á Arnarnesi. Annar maður Katrínar var Guðmundur Guðmundsson bóndi á Setbergi. Sá var faðir Tjörva. Hann deyr 1855, þannig verður Tjörvi föðurlaus aðeins fimm ára gamall. Þriðji maður Katrínar Tjörvamóður var Guðmundur Símonarson, bóndi og hreppstjóri á Setbergi og síðar í Straumi, en þessar jarðir voru báðar í Garðahreppi. Katrín átti tvær dætur með þessum þriðja manni sínum, þær hétu Valgerður og María. Þær þóttu allfjarri því að erfa skörungsskap móður sinnar, auk þess dóu þær báðar um þrítugsaldur.

Setbergssel-231

Eins og fyrr greinir dó Guðmundur faðir Tjörva þegar drengurinn var aðeins fimm ára. Fljótlega kemur annar Guðmundur til sögunnar, sá var Símonarson. Hann varð stjúpfaðir Tjörva. Mér skilst að með þeim hafi verið knappir dáleikar, en Katrínu móður sína mat hann mikils og ræddi oft og vel um hana á sínum efri árum. Eins talaði hann oft um föðurmóður sína Dagbjörtu Tjörvadóttur. Mér þykir sennilegt að hann hafi munað vel eftir þessari ömmu sinni frá uppvaxtarárum sínum á Setbergi enda má það vel vera ef hún hefir verið enn á dögum eftir að hann fer vel að muna eftir sér.
Ekki veit ég hvenær Tjörvi flytur frá Setbergi að Straumi ásamt móður sinni og stjúpföður þó hefir það ekki verið síðar en á vordögum 1867. Eg marka það af því, að þetta tilgreinda vor sest að á Setbergi, Jón Guðmundsson. Hann var fæddur að Fossi í Hrunamannahreppi 23. desember 1824 og ólst þar upp hjá foreldrum sínum fram á tólfta aldursár. Jón þessi var langafi minn. Jafnan nefndur Jón á Setbergi og er svo raunar enn þegar hans er minnst. Út frá þessu veit ég með vissu að Tjörvi hefir ekki verið eldri en á sautjánda ári þegar hann flyst að Straumi. Hvenær hann tók þar við búsforráðum er mér ekki ljóst, þó býr mér í grun að hann hafi ungur búið þar í skjóli móður sinnar löngu áður en hann tók þar við að fullu og öllu sem eigandi jarðarinnar. Eg marka þetta af munnmælasögum sem gengu þar syðra um stjúpföður hans Guðmund Símonarson.

Straumur-231

Þær herma að hann hafi búið að nokkur leyti sér, m.a. haft selstöðu við norðanverðar Undirhlíðar sem er í afréttarlöndum Garðahrepps. Þar er enn þekkt örnefnið Gvendarsel og Gvendarselshæð, einnig var talað um Gvendarselshellir. Þessi örnefni áttu að vera kennd við þennan sama Guðmund sem var Tjörva fóstri.
Tveir eldri bræður mínir, Guðmundur sem bjó á Kluftum og Diðrik sem bjó á Kanastöðum þekktu vel hellisskútann og töldu hann bera með sér glögg mannvistareinkenni.
Útilokað er að þarna sé málum blandið varðandi Straumssel, sem var og er þekkt örnefni miklu vestar og sunnar í hraunbreiðunni. Þetta er sunnarlega í heimalöndum Straumsjarðarinnar. Mér þykir líklegt að Tjörvi hafi tiltölulega ungur verið farinn að búa í Straumi nokkuð sjálfstætt áður en hann hlaut þar fullt forræði yfir jörðinni. Kona Tjörva var Arnleif Stefánsdóttir frá Sviðholti af efnuðu og velmetnu fólki komin. Þau Arnleif og Tjörvi bjuggu að Straumi meðan þeirra samvistir entust. Einkadóttir þeirra hlaut að nafngjöf Stefanía Guðlaug, hún fæddist 2. september 1883. Henni varð ekki auðið langra lífdaga, því hún lést úr bráðaberklum sextán ára gömul laust fyrir aldamótin 1900.
Ég veit ekki hvaða ár Tjörvi missti Arnleifi konu sína. Eftir að hann varð ekkjumaður bjó hann lengi með ráðskonu, fyrst að Straumi Gvendarsel-231og svo í svonefndum Tjörvabæ í Hafnarfirði.

Fyrr á tíð þótti Straumur góð bújörð. Áður fylgdi jörðinni allmargar hjáleigur sem áttu þar að mestu óskipt land með heimajörðinni en voru a.m.k. sumar í séreign ábúenda seinni árin sem þær voru í byggð. Þær hétu: Litli-Lambhagi, Stóri-Lambhagi, Gerði, Þorbjarnarstaðir, Þýskabúð og Péturskot.
Tjörvi þótti góður bóndi. Sauðfjárbúskapur mun hafa verið traustasta undirstaða búskapar í Hraununum. Vetrarbeit reyndist þar farsæl og örugg í flestum árum, bæði til fjalls og fjöru. Sölvareki á hausti og í vetrarbyrjun var árviss við Þórðarvík skammt frá Lambhagabæjum. Kvist- og lyngbeit ágæt upp um hraunlandið.
Á Reykjanesskaganum er oft æði úrkomusamt þá komu sauðkindinni oft til góða öll þau skútaskjól sem hraunlandið býður þar upp á. Áður hafa Hraunamenn efalítið stólað talsvert á sjávarafla sér til búdrýginda, þó trúi ég að Innnesjamenn hafi verið þeim aðsætnari á því sviði. Þetta má teljast fullkomlega eðlilegt þegar til þess er litið að Hraunabyggðin bauð upp á tiltölulega trausta afkomu af sauðfjárbúskap. Straumsvík var lygn vogur sunnan við bæinn í Straumi, farsæll og öruggur lendingarstaður.
Gudjon Gudmundsson-231Áður en Tjörvi gekk í hjónaband eignaðist hann son sem Guðjón var nefndur. Móðir þessa drengs hét Oddbjörg. Ekki veit ég með hve miklum dáleikum þessum Tjörvasyni var tekið þegar hann kom í þennan heim. Oftar en ekki reynist sú ánægja eitthvað blendin þegar „holubörn“ eiga í hlut. Hitt veit ég með vissu að enga lifandi afkomendur ætti Tjörvi ef Guðjón þessi hefði ekki komið til sögu í þessu efni.
Mér er ekki kunnugt um hver afskipti Tjörva hefur haft af syni sínum á þeim árum sem drengur þessi óx úr grasi. En ljóst er af framvindu mála að Straumsbóndinn byggir syni sínum hluta af eignarjörð sinni í þann mund að Guðjón staðfestir ráð sitt. Kona Guðjóns hét Þorbjörg Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum í Hraunum. Ég veit engin deili á Guðmundi þessum önnur en þau að hann var seinni maður Ragnheiðar húsfreyju á Óttarsstöðum og Þorbjörg var einkabarn þeirra. Ragnheiður var Hannesdóttir frá Tungu í Gaulverjabæjarhreppi. Hennar ættir víðar um Flóa og ofanvert Árnesþing. Styttra varð í búskap þessara ungu hjóna en til stóð, því konan deyr skyndilega, þá ný stigin upp af sæng eftir sinn fyrsta barnsburð. Þannig tvístraðist þessi fjölskylda. Litla stúlkan sem þessi ungu hjón eignuðust var látin heita Þorbjörg Stefanía, bar því nafn móður sinnar og hálfsystur föður síns, sem var Stefanía Guðlaug Tjörvadóttir, en hennar er getið hér að framan. Guðjón kemur Þorbjörgu litlu dóttur sinni í fóstur hjá ömmu hennar Ragnheiði Hannesdóttur á Óttarsstöðum. Hann hrökklast fljótlega frá búskap sínum í Straumi. Enn stóðu opnar dauðans dyr gagnvart afkomendum Tjörva, því Guðjón sonur hans er allur sex árum síðar, þá var Þorbjörg dóttir hans á sjöunda ári.
Þegar hér er komið sögu var þessi litla stúlka Þorbjörg Stefanía eini þálifandi afkomandi Tjörva í Straumi. Þegar Þorbjörg þessi er uppkomin giftist hún Vilmundi Gíslasyni frá Kjarnholtum í Biskupstungum, þar hófu þau búskap á vordögum 1924. Þau bjuggu í Kjarnholtum til vors 1934, en þá flytjast þau að Króki, sem er smábýli í Garðahverfi. Þessi dapurlegu bústaðaskipti komu ekki til af góðu.

Bjarni Bjarnason-231

Vilmundur frændi minn lenti í alvarlegum og langvarandi veikindum, fyrir þær sakir neyddust þessi ungu hjón til að hverfa frá blómlegu búi og afburða góðri bújörð, sem þar að auki var föðurleifð Vilmundar. Þau Þorbjörg og Vilmundur eignuðust fjögur börn, þau systkini og þeirra niðjar eru eina fólkið, sem eru afkomendur Tjörva fyrrum bónda í Straumi.
Þegar Tjörvi brá búi seldi hann Bjarna Bjarnasyni, skólastjóra jörðina og áhöfn að stærstum hluta. Ekki veit ég með vissu hvenær þau kaup gerðust. Ég tel víst að það hafi verið um 1925 eða jafnvel fyrr.
Bjarni var kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar 1912 -1915 og skólastjóri við sömu stofnun 1915 – 1929. Jafnframt stundakennari öll árin 1912 – 1929 við Flensborgarskólann. Hann keypti Straum í Hafnarfirði og rak þar búskap 1918—1930. Þegar Bjarni fer frá Straumi tekur hann við skólastjórastarfi að Laugarvatni og var löngum kenndur við þann stað frá þeim tímamótum.
Tjörvi andaðist 6. febrúar 1934. Eftir fráfall Tjörva bjó Gerða gamla í bænum sem
alltaf var við hann kenndur eftir að þau settust þar að. Þarna átti hún samastað allt til síns endadægurs. – Jón í Skollagróf.“

Heimild:
-Litli Bergþór, 20. árg. 1999, bls. 26-30.

Gamli Setbergsbaerinn-2331

Gamli Setbergsbærinn.

 

 

Krossstapi

„Fyrir ofan Skorás taka við slétt mosa- og hraunsvæði allt upp að Krossstöpum. Krossstapar eru tveir sérkennilegir og klofnir klettastapar, hvor upp af öðrum með stuttu millibili. Um neðri og stærri stapann endilangan liggur í bókstaflegri Mid-krossstapi-221merkingu gömul sauðfjárveikivarnagirðing.
Samkvæmt heimildum eiga Krossstaparnir að vera þrír, Neðsti-Krossstapi, Mið-Krossstapi og Hraun-Krossstapi en erfitt er að henda reiður á hver ber hvaða nafn. Mið-Krossstapi er sagður hornmark jarðanna Lónakots, Hvassahrauns og Óttarsstaða í landamerkjabréfum en í raun er enginn Mið-Krossstapi sjáanlegur því staparnir eru aðeins tveir að því er virðist. Rétt sunnan við þann neðri er þó smá klettahóll en ólíklega er hann talinn með stöpunum. Í örnefnalýsingu er sagt frá þremur í eftirfarandi röð ofan frá: Hraunkrossstapi, Miðkrossstapi og loks Krossstapi eða Neðstikrossstapi. Upplýsingarnar eru ekki eldri en frá árinu 1980 og einkennilegt að einn stapinn skuli hreinlega týnast á þessum stutta tíma! Örnefnið er sérkennilegt og ekki gott að segja af hverju það er dregið nema þá helst því að staparnir eru krosssprungnir. Einhverjir telja að týndi Krossstapinn sé fyrir ofan þann „efri“ en aðrir telja hann neðan við þann „neðri“.

Efsti-Krossstapi-221Frá Krossstapa þeim sem gamla girðingin liggur um sjáum við vörðuna á Selásnum við Hvassahraunssel í vestri og er líklega tæpur kílómetri að henni. Rétt neðan við stapann eru fjögur tófugreni sem kölluð eru Krossstapagrenin. Fjárgirðingin liggur austan við efri Krossstapann en á honum er varða sem virðist vera nýleg. Markalínan liggur líklega á svipuðum slóðum og girðingin þannig að við höldum okkur í námunda við hana. Tæpan kílómeter fyrir ofan stapann er Sléttuhraunsgreni en það er líklega á landamerkjalínunni. Suður af efri stapanum er mjög stórt jarðfall sem snýr í suðurnorður. Jarðfallið er umlukið björgum en ofan í því er töluverður gróður. Ein heimild segir kerið heita Urðarás og er það örnefni lýsandi fyrir staðinn. Vestan í jarðfallinu er Urðarásgreni og reyndar fleiri greni á næsta leiti.
Urdaras-221Ofan og sunnan við Krossstapana göngum við um kjarri vaxnar hæðir sem heita Skógarnef (et.) og þar eru Skógarnefsskúti og Skógarnefsgren. Grenið er neðan við brekkurnar um kílómetra norðvestur af Búðarvatnsstæði sem við skoðum hér rétt á eftir. Skógarnefsskúti hefur ekki fundist óyggjandi að því að best er vitað en þar var fjárskjól. Um Skógarnef liggur Rauðamelsstígur úr Hraunum sem fyrr er nefndur.
Austan Skógarnefs er mikil hæð sem talin er til Hafnarfjarðar og heitir hún Sauðabrekkur. Á landamörkunum fyrir ofan Skógarnefið er Sauðabrekkugreni og Klofningsklettur en hans er getið í gömlum merkjabréfum.“
Við framangreint má bæta að vissulega eru Krossstaparnir þrír og allir vel greinilegir, þó efri bræðurnir tveir standi Ottarsstadir-Lonakot-landamerkihærra í landinu en sá neðsti. Nánast jafnlangt er á milli Mið- og Efsta-Krossstapa og Mið- og Neðsta Krosstapa. Neðan við hann eru Krossstapagrenin merkt. Skógarnefsskútinn er á mörkum Óttarsstaða og Hvassahrauns, ofar en landamerki Lónakots liggja með Óttarsstaðalandi, sbr. landamerkjavörðuna skammt austan Lónakotssels.
Þá segir ennfremur í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun: „Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren.“
Hér er Skógarnefsskúti sagður á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots/Óttarsstaða, en merki Lónakots ná skammt upp fyrir Lónakotssel. Skútans er ekki getið í örnefnalýsingum þeirra jarða, svo leiða má líkur að því að hann sé inni í Hvassahraunslandi.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdótir, 2007, bls. 119-120.

Krossstapi

Krossstapi.

Setbergssel

Um Oddsmýrardal lá gömul leið frá Setbergi, bæði upp í Setbergssel undir Þverhlíð, að beitarhúsum er stóðu á Setbergshlíð, fjárhúsi í Húsatúni og eldri beitarhúsum undir Gráhellu í Gráhelluhrauni.
Önnur varðaLíklegt má og telja að þar hafi þeir einnig farið er áttu leið um gömlu Selvogsgötuna. Sú gata liggur beint við er komið er að sunnan. Þá hefur verið farið um Klifið svonefnda neðan og á milli Sandahlíðar og Flóðahjalla annars vegar og Svínholts hins vegar. Gatan er áberandi um Klifið og mjög eðlilegur hluti af Selvogsgötunni. Þeir, sem fóru þá leiðina, hafa þá farið um Oddsmýrardal, aflíðandi upp Skarðið er skilur Setbergsholt frá Svínholti, á ská niður holtið og áfram inn á syðri Setbergsstíginn til Hafnarfjarðar.
Uppi á Sandahlíð eru fornar grónar markavörður í línu við Markastein og háa myndarlega vörðu í Smyrlabúðarhrauni. Skv. kortum eru suðurmörk LitbrigðiSetbergs sýnd sunnan í Setbergsholti, Svínholti og Setbergshlíð svo ekki geta þær passað við þau mörk. Þær gætu því gefið til kynna norðurmörk Setbergslands, þ.e. við mörk Urriðakots.
Í örnefnalýsingu fyrir Setberg segir m.a. um þetta svæði: „En landamerkjalínan milli Setbergslands og upplands Garðakirkju lá úr hellunum norðaustur eftir Smyrlabúðarhraunsbarmi, norður í Markasteininn á Tjarnholtinu syðsta. Frá þessu hornmarki liggur línan um Efridal. Síðan um Seljahlíð [norðan Sandahlíðar] og þaðan í Flóðahjallavörðu. Þegar komið er fyrir  Háanef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi. Austan og ofan við Húsatún er Þverhlíð, en yfir hana liggur Kúadalastígur upp á Kúadalahæð og þar niður af eru Kúadalir. Þá er hér norðvestur af Sandahlíð; norðan í henni klapparhóll, nefndur Virkið.“
Gamla gatanOddsmýrardalur er nú að gróa upp eftir eyðingu undanfarinna ára. Búið er að planta mikið af trjám í dalnum og þar blómstrar beitilyngið fyrst í júlí. Þó má enn sjá hina gömlu götu liggja á ská í aflíðandi hlíðinni að sunnanverðu, niður í dalinn og eftir honum að Klifinu. Þegar á það er komið blasir Gráhellan við og minjarnar undir henni. Líklegt má telja að gatan hafi og verið leiðin þangað, en undir hellunni höfðu Setbergsbændur beitarhús, líklega áður en beitarhúsin á Setbergshlíðinni voru hlaðin skömmu eftir aldarmótin 1900.
Um Oddsmýrardal liggur bílslóði. Vestast liggur hann ofan í gömlu götuna.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Vörðubrot

Straumur

Eftirfarandi skrif, „Staldrað við í Straumsvík“, birtust í Fálkanum árið 1966:
Straum-771„Ísland á óhemju 
mikla náttúru á öllum sviðum og á sumum sviðum svo skrítna, að hún hefur komizt í alfræðibækur og sandala-Þjóðverjar koma árlega til að sjóða sér kartöflur í Geysi. Við eigum samt enga fossa, sem renna upp í móti, en því meira af þeim sem falla niður og það er ennþá betra. Og það er ekki nema klukkutíma gangur að sumum þeirra. Kaldá hefur lengi verið mönnum ráðgáta. Hún kemur upp í Kaldárbotnum fyrir ofan Hafnarfjörð, rennur smáspöl uppi á yfirborði jarðar, en stingur sér undir hraunið, svo snögglega að líkast er að hendi sé veifað og síðan veit enginn neitt með neinni vissu. Auðvitað fer ekki hjá því að afbrigðilegt háttalag Kaldár, hafi vakið margfalda athygli kynslóða síðan sögur hófust. Þannig á Kaldá t. d. að vera ábyrg fyrir Reykjaröstinni og aðrir setja hana í eitthvert óljóst samband við Kleifarvatn og enn aðrir eru á þeirri skoðun að hún velli fram undan hrauninu í Straumsvík skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð. Svo mikið er þó allavega vist, að í Straumsvík kemur ferskt vatn undan hrauninu og myndar þar straumiður margar og stendur uppi í mörgum bollum. Einnig hefur þar gróið upp meira en annars staðar, nema þá að hraunið hafi aldrei runnið þar yfir, sem er alveg eins sennilegt.
Straumsvík er ein af örfáum vinjum í bleksvart hrjóstrið þar syðra. Frá því Straumi sleppir og þangað til komið er í Kúagerði sést ekki stingandi strá við hvíta og ópersónulega steinbrautina, aðeins helluhraun og apalhraun, sem riðlast hvort á öðru og apalhraunið þó heldur ofan á. Þar er til að mynda Hvassahraun, sem talið er að hafi runnið eftir landnám, enda er þess nokkrum sinnum getið í annálum að Reykjanesskagi hafi brunnið.

straum-772

Þetta hraun hefur strax orðið illur farartálmi, enda er taliS að yfir það hafi verið gerður vegur og þá væntanlega númer tvö í röðinni hérlendis af manna höndum. Hinn er Berserkjagata á Snæfellsnesi. sem berserkir Víga-Styrs unnu að án þess að fá launaumslagið sitt að verki loknu. Heldur voru þeir kæfðir í baðstofu, enda var þá engin verðbólga til að kæfa menn í að verkslokum. Fróðir menn telja (þetta er orðalag, sem menn nota þegar þeir hafa ekki heimildir fyrir skrifum sínum, eða veigra sér við að nefna þær), að vermenn hafi unnið að vegagerðinni yfir Hvassahraun og hefðu þeir trauðla komizt í verið suður með sjó að öðrum kosti, a. m. k. ekki á landi. Það eitt að missa ekki af vertíðinni í Kirkjuvogi eða Grindavík, hefur orðið þessum mönnum sumum hverjum, á við feitt launaumslag, en aðrir hafa með vegagerðinni trúlega brúað mjótt bilið milli sjálfra sín og sjódauðans síðar á vertíðinni. Hvernig sem á því stendur, er ekki vitað til að Íslendingar hafi gert vegi þaðan í frá og allar götur fram á síðustu öld, heldur látið sauðkindina troða götur að sumrinu og slátrað henni svo að haustinu.

straum-773

Vegabætur allar eru sárlega vanþakkaðar allt fram á okkar dag. Þar sem Straumur er ekki ein af landnámsjörðunum, er með öllu ómögulegt að beita Ara fróða fyrir sig og segja til um upphaf byggðar þar. Trúlega hefur einhver staðfesta orðið þar allsnemma, því að þarna er þó hægt að ná sér í vatn, sem verður því sjaldgæfara, sem utar dregur á skagann, sem er hriplekur af umbrotum undirdjúpanna. Að því slepptu er trúlegt að þar hafi verið áningarstaður lestamanna fram eftir öldum, en allt um það er farið að búa þar á þessari öld og býlið Straumur við Hafnarfjörð stendur enn, utan- og neðanvert við sumarhúsaþyrpingu og má engu muna að borga þurfi vegatoll áður en snúið er niður að bænum af Keflavíkurveginum hinum mikla.

straum-774

Þarna stendur stórt og traustlegt steinhús, þó komið allvel til ára sinna. Gæsir margar heilsa aðkomumanni með blaðri sínu og ef illa stendur í bólið þeirra, teygja þær hálsana framan að honum og blása. Þetta eru stórar akfeitar aligæsir, tilvaldar á jóiaborð einhvers staðar þar í heiminum, sem ekki er etið hangikjöt. Annar fénaður er ekki sýnilegur, nema ef vera skyldu a. m. k. þrír kettir. Fleiri voru ekki heima við í þetta sinn. Hvít læða lætur eins og hún vilji bæta fyrir ókurteisi gæsanna með því að nudda sér upp við okkur í sífellu og elta okkur um alla landareignina. Hún var sýnilega rétt ógotin og hafði ekki á móti því að henni væri strokið.

straum-775

Úr tanga skammt innan við víkina gengur brot alllangt út í sjóinn og rétt þar sunnan við og í víkurkjaftinum vaggar fleki. Við sjáum ekki hvort hann er mannaður, en hahn er þarna sennilega í sambandi við mælingar á dýpi, þarna á að rísa alúmínverksmiðja áður en öldin er öll. Það er bullandi útfall og norðankul beint ofan í fallið, auk þess renna margir strengir í sjó fram undan hrauninu og það er hvítfyssandi ólga úti á víkinni. Af ummerkjum á landi má ráða að grasnytjar séu þarna hæpnar. Sjór hlýtur að ganga langleiðina heim á hlað um stórstraum. Þarna hefur heldur ekki verið slegið í fyrrasumar að því er bezt verður séð, því hólar eru vafðir löngum sinuflókum. Rétt sunnan við bæinn þræðir stórvandaður grjótgarður sig eftir mishæðunum og alla leið í sjó fram. Þar hefur hann brotnað niður allur af sjógangi og ekki verið reistur við. Það sem stendur af honum er fallegt mannvirki þótt ekki glampi þar á gler og stál, en fyrir þessu hvort tveggja verður hann að víkja um síðir. Af reka ber mest á plastbrúsum alls konar. Meðan blaðrið í gæsunum blandast skvaldrinu í fjörunni og garginu í mávunum, skulum við hverfa aftur í tímann til haustsins 1550, þegar þeir feðgar Jón biskup Arason á Hólum, Björn og Ari synir hans, sitja í myrkrastofu austur í Biskupstungum á stað þeim er Skálaholt nefndist, en Skálholt nú. En í stofu sitja þeir að árbít siðaskiptahetjurnar Marteinn biskup Einarsson, Kristján skrifari. Daði í Snóksdal og séra Jón Bjarnason.

straum-782

Skyldu nú ráðast örlög þeirra feðga og þótti mikið við liggja að vel tækist til um að geyma þá. Dálítið var samt hjartað neðarlega í stríðsmönnum Lúthers þennan morgun, því enginn þeirra treystist til að gæta feðganna fyrir Norðlendingum, sem voru svo tregir til að skipta um sið, að jafnvel enn þann dag í dag er ekki örgranni um að Þeir setji meira traust á hrossið en almættið. Kom því þar umræðum að allir sigldu í strand, nema séra Jón Bjarnason. Hann kvaðst ef til vill vera heimskastur þeirra allra, en þó kynni hann ráð er duga myndi. Þeir báðu hann láta heyra.
Séra Jón mælti þá þessi fleygu orð: „Öxin og jörðin geyma þá bezt!“ Þetta fannst þeim þjóðráð Kristjáni og Marteini, en sagan segir að Daði hafi verið tregur til sastraum-777mþykkta. Þó lét hann undan að lokum og því fór sem fór. Þegar öxin hafði unnið sitt á þeim feðgum, voru^ þeir fengnir jörðinni til vörzlu. Þeir voru dysjaðir eins og afsláttarklárar „út undir vegg, kistulaust og með engum sóma. Heldur voru Norðlendingar lítið hrifnir af aðförum þessum öllum. Þeir gerðu reið mikla til Skálholts að heimta líkin og voru óárennilegir. Flokkurinn var allur hálfgrímuklæddur, því hver maður var með svarta lambhúshettu svo rétt grillti í augu og nef. Aldeilis seig Marteini biskupi larður við þessa sýn og gaf umsvifalaust leyfi til að líkin yrðu tekin og flutt norður um heiðar. Norðlendingar veittu líkunum umbúnað í Laugardal. í kistu Ara lögmanns settu þeir eina klukku, tvær í kistu séra Björns og þrjár í kistu herra Jóns Arasonar. Hringdu klukkur í sífellu á norðurleið, en Líkaböng á Hólum sprakk af harmi.
Því er þessi saga rakin hér að eftirmál urðu meiri og stærri í sniðum síðar og víkur nú sögunni suður á nes. Norðlenzkir vermenn höfðu spurnir af Kristjáni skrifara og sveinum hans, þar sem þeir sátu fagnað að Kirkjubóli í Garði.

straum-783

Að fengnu leyfi bóndans, Jóns Kennekssonar, tóku þeir hús á Kristjáni og drápu hann þar og sveinana. Þetta var mikið hervirki og er ekki annars getið en það hafi mælzt vel fyrir af allri alþýðu, þó að kóngurinn hafi sjálfsagt ekki verið kátur, þegar hann frétti það til Kaupmannahafnar. Trúlega hefur líka sett hroll að Marteini og fylgjurum hans við tiltektir vermanna. En u m sumarið er sagt að „orlogsskip“ danskt kæmi af hafi og á því 600 hermenn með alvæpni. Skipinu stýrði „orlogskafteinn“. Þeir hinir  dönsku menn létu hendur standa fram úr ermum og tóku Jón karlinn Kenneksson og hjáleigumann hans Sennilega hefur átt að flytja þá annað hvort austur í Skálholt, eða að Bessastöðum, en svo mikið er víst að í Straumsvík þraut gæzlumennina þolinmæði og þar hjuggu þeir fangana. Síðan voru höfuð þeirra sett á steglur, en búkarnir á hjól. Sá þess merki í tuttugu eða þrjátíu ár, að því er annálar herma.
Þannig hófust erlendar framkvæmdir í Sstraum-779traumsvík árið 1551 eða 1552, en ekki 1966 eins og sumir telja. Til gamans skal hér að lokum tilfært úr kafla þeim úr Biskupsannálum Jóns Egilssonar, þar sem greint er frá drápi Kristjáns skrifara og sveina hans: ,.. .. Þeir báðu bóndann leyfis að rjúfa bæinn; hann sagði þeir mætti brjóta ef þeir bætti aftur og fyrir það var hann af tekinn, að hann bannaði þeim ekki. Síðan veittu þeir þeim að göngu og drápu þá; sumir segja að þeir hafi verið VII en sumir IX — Christján komst út lifandi, utan höggvinn nokkur, því hann var í treyju, sem járnin bitu ekki á. Þá kom að maður átján vetra, stór sveinn Þórunnar á Grund, og hafði lenzu í hendi. „Ég skal skjótt finna á honum lagið“, og lagði fyrir neðan treyjuna og upp í smáþarmana á honum, svo hinn rak þá upp hrjóð og lýsti hann sinn banamann. Hann sá síðan hvar grár hestur stóð, er Ari heitinn (sonur Jóns biskups) hafði átt, hann tók hann strax og reið norður í Eyjafjörð á iii dögum, að sagt er. Engra þeirra nöfn man ég er þar voru að. – Þaðan fóru þeir til Mársbúða og drápu þar annan er þar lá, en annar slarjD, því hann skaut einn af þeim til dauða meður einni baun, er hann lét fyrir straum-780byssuna og svo komst hann í Skálholt.
— Þeir fóru þá um öll Nes og drápu hvern og einn eptirlegumann og tóku allt það þeir áttu og líka það þeir Dönsku höfðu með sér og einn Danskur átti bú inn á Bústöðum; þar tóku þeir allt það þar var, en vildu drepa börnin, en þó varð ekki af því. Þá Danska á Kirkjubóli dysjuðu þeir fyrir norðan garð; tveir af þeim hétu Sefrínar: Sefrín Kock og Sefrín Ama; en strax þegar húmaði gengu báðir aptur; þeir tóku það ráð, sem þá höfðu slegið, að þeir hjuggu af þeim öllum höfuðin og stungu nefi þeirra (með leyfi að segja) til Saurbæjar, en sú svívirðing gramdist kóngsvaldinu mest, að vori, þá Danskir komu út.“

Heimild:
-Fálkinn, 39. árg., Staldrað við í Straumi, 20. tbl., 1966, bls. 10-11.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga.

Straumur/Óttarrsstaðir

„Fjárborgir eru víða að finna á Reykjanesskaganum og víðar og vitna um gott verklag og hyggjuvit þeirra sem hlóðu þær.
Flestar borgirnar eru kenndar við þá bæi sem þær tilheyrðu en ein fjárborg er Ottarsstadir-536kennd við konu og nefnd Kristrúnarfjárborg. Þessi fjárborg stendur á nokkuð sléttum hraunhrygg skammt vestan við Smalaskála í Hraunum sunnan við Straumsvík. Fjárborgin er allt eins nefnd Óttarstaðafjárborg, en Kristrúnarborg er það nafn sem staðkunnugir notast jafnan við. Konan sem fjárborgin er nefnd eftir hét Kristrún og var Sveinsdóttir en hún kom upphaflega sem vinnukona að Óttarstöðum frá Miðfelli í Þingvallasveit og varð húsmóðir á bænum. Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði og örnefnasafnari sagði frá því í örnefnaskrá sinni að Kristrún hefði hlaðið borgina ásamt vinnumanni sínum.

Ottarsstadir-537

Það er rétt að huga aðeins nánar að því hver þessi kona var og hvernig stóð á því að hún settist að á Óttarstöðum. En fyrst þarf að greina frá því hvernig málum á þessum slóðum var háttað áður en Kristrún kom til sögunnar.
Þannig var að Jón Hjörtsson var leiguliði á Óttarstöðum árið 1835, þá orðinn 59 ára gamall. Hann stundaði talsverða útgerð enda fiskveiðar góðar á þessum slóðum. Eiginkona Jóns var Guðrún Jónsdóttir sem var 68 ára og því nærri áratug eldri en eiginmaðurinn eins og algengt var á þessum tíma. Rannveig dóttir þeirra hjóna var þrítug og bjó hjá þeim ásamt syni sínum Steindóri Sveinssyni sem var tíu ára gamall. Vinnumaður á bænum var Guðlaugur Erlendsson 39 ára gamall og Sigvaldi Árnason 43 ára tómthúsmaður bjó einnig á Óttarstöðum ásamt Katrínu Þórðardóttur 53 ára eiginkonu sinni.
Jón Hjörtsson keypti hálfa Óttarstaðajörðina af konungssjóði 28. ágúst 1839 en hinn hlutann ásamt Óttarstaðakoti keypti Guðmundur Guðmundsson í Straumsseli. Guðmundur var umsvifamikill á þessum tíma og eignaðist smám saman jarðirnar Stóra Lambhaga, Straum og Þorbjarnarstaði. Jón og Guðrún stofnuðu til nýrrar hjáleigu í landi sínum fyrir 1850 sem fékk nafnið Kolbeinskot.  Nafnið tengdist ábúandanum Kolbeini Jónssyni, sem var 33 ára árið 1850 eins og eiginkonan Halldóra Hildibrandsdóttir.

Ottarsstadir-538

Þau áttu börnin Oddbjörgu 6 ára, Jón 2 ára og Hildibrand sem var eins árs. Fyrstu árin reyndu þau venjubundinn með búskap en túnin sem Kolbeinskot hafði til umráða voru ekki mikil, jafnvel þó þau gætu slegið Kotabótina og beitt skepnum sínum á fjöru á vetrum og úthagann á sumrin. Veturinn 1859-60 reri Sighvatur Jónsson sem kallaður var Borgfirðingur á skipi Kolbeins og hafði fjölskyldan viðurværi sitt einvörðungu af fiskveiðum húsbóndans. Um þessar mundir bættist dóttirin Guðbjörg í barnahópinn og vegnaði fjölskyldunni ágætlega enda nóg að bíta og brenna. Árið 1890 þegar Kolbeinn var á 79. aldursári en Halldóra nýlega orðin 80 ára bjuggu þau í Óttarstaðakoti ásamt Jóni Bergsteinssyni 14 ára dóttursyni sínum.
Ottarsstadir-539Árið 1855 lést Guðrún Jónsdóttir húsmóðir á Óttarstöðum 88 ára gömul en Jón Hjörtsson lifði konu sína, orðinn 79 ára gamall. Hann bjó á Óttarstöðum í sambýli við Rannveigu dóttur sína og Steindór son hennar sem var 31 árs og einhleypur. Hann var í raun réttri húsráðandi og bóndi á bænum á þessum tíma. Steindór festi ekki ráð sitt fyrr en fimm árum seinna en þá hafði vinnukonan Kristrún Sveinsdóttir verið á bænum um skeið. Kristrún fæddist 24. apríl 1832 að Miðfelli í Þingvallasveit. Hún var dóttir Sveins bónda Guðmundssonar og konu hans Þórunnar Eyleifsdóttur sem bjuggu að Miðfelli. Kristrún hafði orð á sér fyrir að hafa verið tápmikil kona og eftirtektarverð. Kristrún kom að Óttarstöðum ásamt Bergsteini bróður sínum sem var einu ári eldri en hún og var vinnumaður á bænum. Systkinin voru annálaðir dugnaðarforkar. Nokkru áður en þau komu að Óttarstöðum hafði allt sauðfé verið skorið niður á suðvesturhorni landsins vegna fjárkláða. Bændur þurftu að koma sér upp nýjum fjárstofni og fengu sauðfé frá Norðurlandi sem var ekki hagvant í hraunlandslagi.

Ottarsstadir-540

Venja þurfti féð við nýju heimkynnin og þessvegna þótti skynsamlegt að breyta aðeins um búskaparhætti og hafa féð nær bæjum en áður hafði tíðkast. Um þessar mundir hættu margir bændur að færa frá í sama mæli og áður og selfarir lögðust af að miklu leyti og smám saman fóru selin í eyði.
Þegar fjárskiptin stóðu fyrir dyrum hófu menn víðsvegar á Suðurnesjum að hlaða upp hringlaga fjárborgir og var ein slík gerð í landi Óttarstaða. Á þessum tíma hófu menn víðsvegar á Suðurnesjum að hlaða upp hringlaga fjárborgir og var ein slík gerð í landi Óttarstaða. Borginni var fundinn staður skammt vestur af Smalaskálahæð á sléttum hraunhól. Kristrún stjórnaði hleðslu fjárborgarinnar og tók virkan þátt í að koma henni upp eða vann þetta að mestu ein ásamt vinnumanni sínum samkvæmt því sem Gísli Sigurðsson komst næst er hann safnaði upplýsingum um örnefni í landi Óttarstaða. Allavega fór það svo að fjárborgin var ætíð eftir það við hana nefnd og kölluð Kristrúnarborg. Fjárborgin hefur jafnframt gengið undir heitinu Óttarstaðafjárborg. Kristrún vann ekki ein að þessu því Bergsteinn bróðir hennar lagði drjúga hönd að verkinu, en þau voru vön að hlaða garða úr hraungrjóti sem nóg er af í Þingvallasveit.
Hvort það var þessi atorka og verkkunnátta sem varð til þess að Steindór bóndi á Óttarstöðum heillaðist Ottarsstadir-541af Kristrúnu er ekki gott að fullyrða, en allavega fór það svo að þau gengu í hjónaband 9. október 1860. Hann var 36 ára en hún var 28 ára gömul þegar stofnað var til hjónabandsins.
Steindór var dugmikill bóndi og formaður sem aflaði vel og var ágætlega efnum búinn. Hjónabandið virðist hafa verið farsælt, en Steindórs naut ekki lengi við því hann fékk holdsveiki og lést af völdum veikinnar árið 1870. Sveinn sonur Steindórs og Kristrúnar var á barnsaldri þegar faðir hans andaðist og átti  Kristrún allt eins von á að þurfa að bregða búi. Bergsteinn bróðir hennar byggði upp Eyðikotið árið 1864 og nefndi það Óttarstaðagerði. Hann hafði nokkur áður gengið að eiga Guðrúnu Hannesdóttur og árið 1870 áttu þau börnin Svein sem var 9 ára, Þórönnu sem var 6 ára, Guðmund sem var 3 ára og Steinunni sem var 1 árs. Hjá þeim var ennfremur Þorgerður Jónsdóttir móður Guðrúnar og amma barnanna.
Ottarsstadir-542Kristrún sýndi einstakt þrek í því mótlæti sem á hana var lagt og tók á sig heimilisbyrðina alla óskipta og rekstur búskaparins út á við. Hún naut þess að Bergsteinn bróðir hennar bjó í Óttarstaðakoti og settist sjálf að í litlu timburhúsi sem Vernharður Ófeigsson rokkasmiður byggði á Óttarstöðum árið 1842 en hann andaðist tveimur árum seinna. Þá keypti Jón Hjörtsson húsið á 16 ríkisdali og frá þeirri stundu var það þurrabúð og leigt út sem slíkt um árabil. Kristrún samdi við Ólaf Magnússon sem fæddist í Eyðikoti 1844 um að taka við búinu um hríð. Hann var sonur Magnúsar Jónssonar og Guðríðar Gunnlaugsdóttur og ólst upp í Hraunum. Eiginkona hans var Guðný systir Guðjóns Jónssonar á Þorbjarnarstöðum sem var þar leiguliði Árna Hildibrandssonar í Ási við Hafnarfjörð. Ólafur og Guðný höfðu ekki búið lengi á Óttarstöðum þegar þau eignuðust soninn Magnús, sem fæddist 9. september 1872. Ólafur varð fyrir slysaskoti úr eigin byssu síðla árs 1875 sem dró hann til dauða á fáum árum. Fluttu þau að Lónakoti þar sem Magnús lést 1878 og voru öll efni þeirra nánast gengin til þurrðar.
Guðmundur Halldórsson sem átti bát með Guðjóni á Þorbjarnarstöðum kvæntist Guðnýju systur Guðjóns eftir að Ólafur eiginmaður hennar andaðist.

lonakot-441

Bjuggu þau fyrst í Lónakoti, síðan í Eyðikoti áður en þau fluttu að Vesturkoti á Hvaleyri árið 1883 og bjuggu þar til ársins 1904. Þau eignuðust tvo syni en Magnús sonur Guðnýjar og Ólafs fór 15 ára gamall í vinnumennsku til Krýsuvíkur til Árna Gíslasonar og tók svo miklu ástfóstri við staðinn að hann gat ekki farið þaðan. Hann var síðasti ábúandinn í Krýsuvík og bjó undir það síðasta í Krýsuvíkurkirkju. Gott orð fór af Guðmundi fósturföður Magnúsar. Hann var sagður dverghagur smiður á tré, járn og kopar, lagfærði klukkur og þótti aukinheldur góður vefari og stundaði vefnað sinn á vetrum
Kristrún bjó í þurrabúðinni ásamt Sveini syni sínum sem var aðeins 8 ára gamall en hann átti seinna eftir að verða dugandi bóndi og formaður. Kristrún var kjarkmikil og áræðin og tók formannsæti bónda síns á fiskifari heimilisins. Sótti hún sjóinn ásamt vinnumönnum sínum með atorku og heppni og samkvæmt manntalinu 1870 var hún sögð lifa á fiskveiðum, sem var ekki algengt starfsheiti kvenna á þessum árum. Var hún órög við að sækja á djúpmið og stjórnaði hásetum sínum af myndugleik.
Jón Jónsson 29 ára sjómaður var hjá henni Ottarsstadir-543ásamt Björgu Magnúsdóttur 23 ára eiginkonu sinni og vinnumanninum Bergsteini Lárussyni sem var einnig í skipsrúmi hjá Kristrúnu. Kristrún sá jafnframt um að versla til heimilisins og annaðist aðra aðdrætti sem var óvenjulegt á þessum tíma.
Kristrún giftist aftur 16. nóvember 1871 Kristjáni Jónssyni sem var 12 árum yngri en hún. Kristján fæddist 12. september 1844 og var sonur Jóns Kristjánssonar bónda í Skógarkoti í Þingvallasveit og miðkonu hans Kristínar Eyvindsdóttur frá Syðri Brú í Grímsnesi, Hjörtssonar. Bróðir Kristján var Pétur Jónsson blikksmiður í Reykjavík. Kristján var dugandi efnismaður og tóku þau hjónin við búskap á Óttarstöðum eftir að Ólafur særðist af voðaskotinu 1875. Þeim farnaðist vel og höfðu ágætar tekjur af fiskveiðum til að byrja með. Til marks um hversu vel þeim farnaðist má nefna að Kristján var sagður hafa 650 ríkisdali í tekjur 1873-74, sem segja má að Kristrún hafi aflað að mestu með formennsku sinni. Þau bjuggu saman á Óttarstöðum til ársins 1883 er þau fluttu að Hliðsnesi á Álftanesi.

Ottarsstadir-544

Þar bjuggu þau í 20 ár og eignuðust þrjú börn: Kristinn stýrimann og seglmakara sem sem bjó í Hafnarfirði og var kvæntur Rannveigu Jónsdóttur frá Setbergi; Þórunni húsfreyju sem giftist Ísaki Bjarnasyni bónda á Bakka í Garðahverfi og Jónu húsfreyju sem giftist Steingrími Jónssyni húseiganda í Hafnarfirði. Kristrún lést 13. desember 1903 og fékk þau eftirmæli að hún hefði verið gædd mikilli atgervi til sálar og líkama, verið kona tígurleg yfirlitum og mjög einarðleg, hreinlunduð, trygg og staðföst.  Hún var ráðdeildarsöm, ástrík og umhyggjusöm móðir og eiginkona. Síðustu æviárin var heilsu hennar farið að hnigna og fékk hún slag að kvöldi 4. desember og lá síðan í dái þar til hún lést. Var hún jarðsett að Görðum 22. desember við hlið fyrri eiginmanns síns og nokkurra barnabarna.
Kristján flutti stuttu eftir andlát Kristrúnar frá Hliðsnesi til Hafnarfjarðar og hóf verslunarrekstur þar. Heppnaðist það miðlungi vel og gengu efni hans til þurrðar á skömmum tíma.

gardar-221

Seldi hann verslun sína sumarið 1906 og bakaði féþurðurinn honum þungum áhyggjum. Var hann ekki með sjálfu sér eftir það og gekk í sjóinn 2. september 1906 milli Hafnarfjarðar og Garðahverfis og réð sér bana. Var hann tæpra 62 ára þegar þessi atburður átti sér stað. Svo aðgrunnt var á þessum slóðum að líkið var ekki alveg á kafi er það fannst. Var þessi atburður afar sorglegur og orti Friðrik Friðriksson eftirfarandi: Ljúfur með líkn og dáð; lengi var sveitarstoð, grandvar með góðri lund, gætinn í orði’ og hug.
Sveinn sonur Kristrúnar og Steindórs kvæntist Þórunni Guðmundsdóttur frá Nýjabæ í Garðahreppi. Þau eignuðust dótturina Bertu Ágústu 31. ágúst 1896 er þau bjuggu í Hafnarfirði. Þegar dóttirin var tveggja ára fluttu þau að Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd og bjuggu þar í tíu ár, þar til þau fluttu að Stapakoti í Njarðvík. Árið 1917 keypti Sveinn Lækjarhvamm í Laugarnesi en hann andaðist stuttu eftir það. Þórunn bjó áfram að Lækjarhvammi ásamt Bertu dóttur sinni til 1925. Berta stundaði hannyrðanám í Askov í Danmörku og Kaupmannahöfn 1919 til 1921. Hún stundaði kennslu heima í Lækjarhvammi og bjó þar myndarbúi til ársins 1965 ásamt eiginmanni sínum Einari Ólafssyni, en þá var landið tekið undir byggingar.
oskjuhlid-221Á meðal þeirra sem réðust sem vinnumenn að Óttarstöðum var Brynjólfur Magnússon úr Holtum í Rangárþingi sem varð seinna kennari. Hann kom til Kristrúnar og Kristjáns á Óttarstöðum árið 1877 þegar hann var 16 ára. Taldi Brynjólfur sig eiga þeim og börnum þeirra mikið að þakka. Tókust góð kynni með honum og þeim ekki síst Þórunni sem var ekki nema fjögurra ára gömul þegar hann kom á heimilið. Kristrún gerði sér grein fyrir gáfum Brynjólfs og studdi hann til náms í Flensborgarskóla. Þaðan útskrifaðist hann 1891 og varð eftir það umferðakennari, eins og það nefndist, á heimaslóðunum fyrir austan sem og í Gullbringusýslu. Var hann með fyrstu mönnum eystra til að læra að leika á orgel. Síðustu sex ár ævi sinnar var Brynjólfur búsettur í Fífuhvammi í Seltjarnarneshreppi sem var heimili Þórunnar Kristjánsdóttur frá Óttarstöðum sem var honum eins og litla systir. Brynjólfur lést 74 ára gamall 8. október 1935 þegar bifreið ók á hann í suðurhlíðum Öskjuhlíðar er hann var á leiðinni til Reykjavíkur til að sinna erindi fyrir Þórunni í Fífuhvammi.
Þessi frásögn gæti verið mun lengri en ástæðulaust að tíunda fleira að sinni. Kristrún Sveinsdóttir var merkileg kona og það er full ástæða til að halda nafni hennar og ættmenna hennar á lofti. Fjárborgin ein og sér sýnir svo ekki verður um villst að hún kunni vel til verka og lét ekki sitt eftir liggja þegar til framfara horfi í einhverjum málum.“

Heimild:
-Jónatan Garðarsson tók saman í júní 2012

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar.

Straumur

Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina.
Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, straum-792bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það. Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkiklega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrenslan  fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka.
straum-793Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma.
Þegar Bjarni ákvað að selja jarðir sínar við Straumsvík rétt eftir seinni heimsstyrjöldina keypti Björn landspilduna umhverfis sumarkofa þeirra félaga, með landamerkjum nokkru austan Stróka. Höfðu þeir stækkað húsið það mikið að hægt var með sanni að tala um sumarhús enda dvöldu þeir oft ásamt vinum og ættingjum á þessum slóðum sumarlangt og lengur ef aðstæður leyfðu. 

straum-794

Ástæðan fyrir staðarvalinu var sú að við Stróka fannst þeim ríkja fágæt náttúrufegurð. Spilaði þar inn í  hversu merkilegt náttúrufarið er við hina lygnu og friðsælu Straumsvík þar sem ferskt vatn rennur framundan hrauninu og veldur því að sjórinn er afar tær á þessum slóðum. Grashólmar og sker innst í Straumsvík skipta stöðugt um svipmót þar sem sjórinn á það til að hylja landið á flóði og svo birtist það aftur þegar fellur út og fjarar. Fallaskiptin og mismunandi sjávarstaða eftir því hvernig stendur á flóði og fjöru hafa veruleg áhrif á umhverfi Stróka og valda síbreytilegu náttúruspili. Þarna var líka fjölskrúðugt fuglalíf, stundum sáust selir á sundi eða þeir sóluðu sig á skerjum rétt hjá Stróka alveg óhræddir. Sólarlagið var líka töfrandi og myndaði Snæfellsjökul og Snæfellsfjallgarðurinn handan Faxaflóans einskonar ramma sem sólin settist á bak við. Litbrigði náttúrunnar breyttust árið um kring og stundum var hafið ólgandi og skolaði þara og fiski upp á hólmana en á öðrum tímum var þetta kyrrðarinnar staður þar sem tíminn stóð nánast í stað. Refur átti það til að sjást á vappi í fjörunni og minkar gerðu sér greni framarlega á tanganum þar sem fiskur lónaði stutt frá landi.

straum-795

Landspildan var tekin eignarnámi þegar undirbúningur að álverinu hófst um miðjan sjöunda áratuginn en þá höfðu Björn og félagar stundað tilraunir með laxeldi í Straumsvík um nokkurt skeið. Þessar tilraunir grundvölluðust á einstæðum vatnabúskap svæðisins. Stuttu eftir að félagarnir byggðu sumarhúsið fóru þeir að mæla og efnagreina ferskt grunnvatnið sem fellur út í Straumsvík undan hrauninu við botn víkurinnar. Reiknuðu þeir út að talsverður hluti Kaldár, sem hverfur ofan í hraunið rúmlega kílómetra neðan upptaka sinna, félli til sjávar rétt vestan við Stróka. Allavega töldu þeir sig geta greint það á fjöru að allstraumhörð ferskvatnskvísl félli í þröngum stokki meðfram nyrsta hluta tangans. Þeir mældu hitastig grunnvatnsins sem streymdi undan hrauninu margsinnis og reyndist það vera nákvæmlega 4 gráður á Celsíus árið um kring. Stóðu mælingarnar árum saman og alltaf voru niðurstöðurnar þær sömu. Björn var sannfærður um að vatnið hefði hagstæða efnaeiginleika fyrir laxaklak og sökkti hann vírkörfum í lón við hraunjaðarinn til að sannreyna þetta. 

straum-796

Niðurstaðan var sú að laxaklakið skilað góðum árangri en ekki var alveg ljóst hvernig nýta mætti aðstöðuna við Straumsvík til laxaframleiðslu.
Þeir prófuðu sig áfram og fljótlega gerðu þeir tilraunapoll í litlu lóni sunnanvert við Stróka nálægt Keflavíkurveginum sem hlaut nafnið Pollurinn. Hann var dýpkaður með jarðýtu en þannig háttaði til að lónið tæmdist ekki þó að fjaraði út vegna þess hversu mikill vatnsstraumurinn var undan hraunjaðrinum. Steyptu þeir félagar einskonar hlið eða dyraumbúnað við mynni Pollsins þar sem hægt var að koma fyrir gildru. Laxar gátu þar með gengið í Pollinn en áttu þaðan ekki undankomu nema þeim væri hreinlega sleppt lausum í sjóinn. Pollurinn var hreinn og moldarlaus til að byrja með, en þegar vegur var lagður að álverinu rétt við hliðina á Pollinum barst talsvert magn af fokefnum í hann. Þar með varð botninn þakinn þykku leðjulagi sem hefði þurft að moka í burtu eða reyna að skola út með útfallinu. Þetta var hinsvegar ekki gert þannig að aðstæður í Pollinum breyttust með tíð og tíma.
Félagarnir eyddu mikilli vinnu, tíma og fjármunum í að flytja bleiklax frá Alaska til Íslands 1965 til 1966. Árangurinn varð neikvæður að öðru leyti en því að flutningur á 120.000 aughrognum frá Kódakeyju til Íslands tókst vel. Samvinna við Veiðimálastofnun tókst ekki um framkvæmd þessarar tilraunar, en vorið 1966 sýndu þeir fram á að laxaseiði silfrast við 4 gráðu hita á 6 vikum. Þegar Marinó og Kristinn féllu frá hélt Björn áfram að nýta aðstöðuna á Stróka og stunda þarna tilraunir sínar.
straum-797Sumarið 1980 var sjógönguseiðum sleppt úr Pollinum eftir 56 daga dvöl í körfu og sneri ein 4,5 punda hrygna aftur í Pollinn sumarið eftir. Gerð var hafbeitartilraun í Pollinum 1981 til 1982 og kom í ljós að eftir 84 daga svelti sjógönguseiða í körfu lifðu næstum því öll sumarið 1982. Sumarið áður var sjógönguseiðum haldið í körfu í Pollinum með sáralítilli fóðrun í 56 daga áður en þeim var sleppt til sjávar. Aðeins eitt af þessum seiðum rataði aftur heim í Pollinn árið eftir. Þá var búið að koma fyrir nokkrum laxaseiðum í körfu í Pollinum, en norðmaðurinn Nordeng varpaði þeirri tilgátu fram að lax gangi ekki í vatn nema þar séu fyrir laxaseiði eða lax. Taldi Björn að hrygnan sem skilaði sér í Pollinn um sumarið hefði sennilega ekki gert það ef þar hefðu ekki verið fyrir laxaseiði.
Laxeldisfyrirtækið Pólarlax var um árabil með aðstöðu Hafnarfjaðrarmegin við álverið og notaði meðal annars hvalalaug Sædýrasafnsins í eldisstarfinu. Sumarið 1981, sem var sama sumar og hrygnan skilaði sér í Pollinn, sleppti Pólarlax þó nokkrum stórum laxaseiðum úr kví sem var í Straumsvík. Sumarið eftir komu miklar laxagöngur inn í Straumsvík og stökk laxinn í víkinni svo að ekki fór á milli mála að þarna var eitthvað um að vera. Kom það fyrir þegar mest gekk á að hálfgert umferðaröngþveiti skapaðist á Reykjanesbrautinni því vegfarendur snarhemluðu og hlupu út úr bílum sínum til að fylgjast með þessari óvenjulegu sjón. Laxinn var að koma heim eftir vetrardvöl í hafinu og þetta sjónarspil var alveg einstakt.
straum-798Vonir manna um að laxinn gengi upp í ferskvatnslónin í Straumsvík gengu ekki eftir þar til Björn lagði til að komið yrði fyrir körfu með laxaseiðum í Pollinum. Þetta virkaði eins og segull og 5. ágúst 1982 höfðu 170 laxar gengið í Pollinn. Endurheimtur sjógönguseiðanna sem sleppt var 1981 og komu sem sjógengnir laxar sumarið eftir voru um 20% til 30% en stórar torfur gengu í ystu lónin í lok veiðitímans án þess að hægt væri að handsama þær. Heimtur reyndust ekki eins vel og reiknað var með en menn voru sannfærðir um að þær gætu gengið betur þar sem laxinn skilaði sér aftur á heimaslóðir þó hann gengi ekki allur inn Pollinn. Niðurstaðan var því sú að heimtur gætu vaxið með árunum ef réttum aðferðum væri beitt. Prófað var að sleppa seiðum næstu árin úr kvíunum utan við hvalalaugina en heimtur voru ekkert sérstakar.

straum-799

Næsta skipti sem sjógönguseiðum var slepp úr kvíum í Straumsvík var sumarið 1985. Sami háttur var hafður og fyrr. Seiðum komið fyrir í körfu í Pollinum sumarið 1986 sem hafði þau áhrif að laxar gengu í Pollinn og tilraunin sannaði sig í raun og veru. Eftir þetta gerðist ýmislegt sem varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Pólarlax var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 1989 og lauk skiptunum 20. desember 1991 án þess að nokkuð hefði fengist greitt af lýstum kröfum. Þar með var botninn farinn úr þessum merku tilraunum með laxfiska í Straumsvík. Sumarhúsið á innanverðum Stróka grotnaði smám saman niður þar til það var ekki talið forsvaranlegt að láta það standa og var það rifið og efniviðurinn fjarlægður. Nú er ekkert annað eftir en steinsteyptar gólfplötur og gamla eldhúsið sem hlaðið var fyrir rúmlega einni öld. Þetta hús er nákvæmlega eins í lögun og að allri gerð og samsvarandi hús við Óttarstaði eystir og vestri, bara örlítið minna umfangs. Löngu var búið að breyta steinhlaðna húsinu í svefnhýsi með tilheyrandi veggklæðningum úr viði og innanstokksmunum. Húsið stendur nú opið fyrir veðrum, vindum og spellvirkjum og bíður þess sem koma skal, en það væri gustukaverk að halda því við og sjá til þess að síðasta heillega steinhlaðna húsið í Hraunum fengi að standa áfram um ókomna tíð.


Heimildir:
-Laxaseiði ganga til sjávar úr fjögurra stiga jafnheitu vatni eftir að hafa klæðst sjógöngubúningi. Veiðimaðurinn, 1966.
-Tilraunir með flutning á bleiklaxi frá Alaska til Íslands. Árbók áhugamanna um fiskirækt, 1968.
-Lax leitar á bernskustöðvarnar þótt kaldar séu. Veiðimaðurinn, 1982.
-Um laxalykt. Veiðimaðurinn, 1986.
-Straumsvík og leyndardómar laxins. Ægir, 1988.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Kapellan

Uppgerð kapellutóft er nú á hraunhól sunnan núverandi Reykjanesbrautar á móts við álverið. Í rauninni er fátt „fornt“ við þessa kapellu nema staðsetningin. Þótt jafnan hafi verið litið til kapellunnar (fornleifarinnar) af sögulegum og trúarlegum ástæðum má segja að núverandi „kapella“ hafi takmarkað gildi í því samhengi.
Um er að ræða kapellan-232uppgert nútímamannvirki (frá því í byrjun sjöunda áratugar 20. aldar), hlaðið með öðru lagi en upphaflega og á í rauninni takmarkaðan skyldleika við þá fornleif, sem þar var.

Hraunið, sem kapellan, var í hefur verið nefnt Kapelluhraun. Áður var það nefnt Bruninn og þar áður Nýjahraun, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann. Við „kapelluna“ er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Við flestar aðrar friðlýstar fornminjar á Reykjanesskaganum eru hins vegar engin slík skilti – einungis fúnir staurar.
Við kapelluna eru og tvö upplýsingarskilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar, en ber þó ekki saman. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151, þ.e. á 12. öld.
Stækkuð eftirlíking af líkneski heilagrar Barböru, sem fannst við fornleifauppgröft í tóftinni um 1950, er í „kapellunni“. Hvers vegna ættu kristnir að dýrka skurðgoð?
Friðlýsingarmerkið við innganginn á vísa til sérstakrar verndunar, sbr.: „Lambhagi. Kapellutóft forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.“ Merkið hefur hins vegar einungis táknræna þýðingu því fornleifin sem friðlýst var hvarf við endurgerðina eftir 1960. Hins vegar er öllu merkilegri fornleif þarna skammt frá, ca. 10 m óraskaðar leifar hinnar fornu Alfaraleiðar í gegnum hraunið, sem var hlíft fyrir tilviljun – en engum hafði dottið í hug að láta friðlýsa hana.

Kappella

Kapellan.

 

Kleifarvatn

„Þrír íslenskir kafarar hafa birt á Youtube magnað myndband af hverasvæði á botni Kleifarvatns. Er þarna um einstakt náttúrufyrirbrigði að ræða sem þeir félagar hafa náð góðum myndum af.
KleifarvatnÍ gegnum tíðina hefur Kleifarvatn verið vinsæll köfunarstaður. Í vatninu þykja aðstæður góðar fyrir þá sem eru að læra eða hafa lokið námskeiði og vilja æfa sig. Vatnið er frekar tært og skyggnið prýðilegt eins og myndir þessar bera með sér.

Kleifarvatn er stærsta stöðuvatnið á Reykjanesskaga og þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 ferkílómetrar. Það er jafnframt eitt af dýpstu vötnum landsins, eða um 97 m þar sem það er dýpst. Vatnið hefur ávallt verið sveipað ákveðinni dulúð þar sem sögur hafa gengið um undarlegar skepnur sem komu stundum upp úr því. Um 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni, þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum, vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

KleifarvatnKrýsuvík er eitt merkilegasta og fjölbreyttasta útivistarsvæði landsins sem margir Suðurnesjamenn nýta sér. Þar er að finna mörg merkileg og skoðunarverð náttúrufyrirbrigði, hvort sem er ofan eða neðan yfirborðs Kleifarvatns af þessum myndum að dæma.“

Varla þarf að taka fram að Kleifarvatn er í umdæmi Grindavíkur.

Myndabandið má sjá hér:
http://www.youtube.com/watch?v=SgFXG5kjO0Q

Heimild:
-www.vf.is

Kleifarvatn

Kaldá

„Hitt er fullvíst, að það sem hér er kallað Hafnarfjarðarhraun, hefur runnið allt í einu lagi.
Reynum nú Kalda-502að gera okkur í hugarlund, hvernig það land leit út, sem Hafnarfjarðarhraun breiddist yfir. Vitaskuld renna hraunflóð æfinlega undan halla og ekki skáhallt, heldur í þá átt sem hallinn er mestur. Það má því t. d. gera ráð fyrir, að hraun, sem lent hefur í árfarvegi, yfirgefi hann ekki úr því, heldur fylgi honum svo langt sem magn þess endist til. Nú liggur meginstraumur Hafnarfjarðarhrauns — sá sem lengstan veg hefur runnið frá upptökum — norðvestur á milli Setbergshlíðar og Vífilstaðahlíðar. Þá er varla heldur að efa, að vatn, sem komið hefði upp á sama stað og hraunið, hefði einnig runnið sömu leið. Með þetta í huga er fróðlegt að athuga hinar miklu vatnsuppsprettur skammt frá Búrfelli, þar sem heita Kaldárbotnar. Þar eru upptök Kaldár, eins og nafnið bendir til, og þar er ennfremur hið nýja vatnsból Hafnfirðinga.
kalda-503Kaldá er ólík flestum ám í því, að hún er vatnsmest í upptökunum, en minnkar stöðugt á leið sinni. Hún kemst ekki nema röskan kílómetra frá upptökunum; þá er hún öll sigin í jörð Þessa skömmu leið rennur hún eftir hrauni, sem er ættað úr Búrfelli og virðist helzt jafnt gamalt Hafnarfjarðarhraun eða með öðrum orðum hluti af því. En einnig í miðri höfuðkvísl Hafnarfjarðarhrauns, hjá Gjáarrétt norðvestur frá Búrfelli, sér í vatn niðri í djúpum gjám, og í því vatni er mjög greinilegur straumur til suðvesturs. Áður en Hafnarfjarðarhraun rann, hlýtur allt þetta vatn, sem nú rennur um upptakasvæði þess — bæði ofanjarðar (í Kaldá) og neðanjarðar (í gjám) — að hafa runnið ofanjarðar — sem vatnafall — þá leið, sem hrauni rann síðan.
Við getum kallað þetta vatnsfall Kalda-505„Fornu-Kaldá“. Að líkindum hefur hún verið drjúgum meira vatn en sú Kaldá, sem við þekkjum nú, því að botn hinnar fornu Kaldár lak ekki vatninu. Hún rann eftir hraunlausum dal undir Vífilstaðahlíð norður að Vífilsstaðatúni. En hvar rann hún í sjóinn? Hraunið gefur okkur einnig ákveðna bendingu um það: Meginhluti þess féll út í Hafnarfjörð. Og þar sem hraunið er þykkast, þar liggur árfarvegurinn enn undir því. Forna-Kaldá hlýtur að hafa runnið í Hafnarfjörð. En þá var fjörðurinn lengri en nú, ekki af því að sjórinn stæði hærra — hann var lækkaður niður að núverandi sjávarmáli, áður en hraunið, rann — heldur styttist fjörðurinn við það, að hraunið fyllti upp í innstu voga hans.
Ekki verður vitað með vissu, hvar fjörðurinn endaði. Ef til vill hefur hann náð langleiðina upp að Vífilsstöðum, ef til vill skemmra. Vitaskuld mætti kanna þetta með því að bora gegnum hraunið kalda-506og finna hvar undirlag þess kemst upp fyrir sjávarmál. Að sjálfsögðu hefur innsti hluti fjarðarins verið grunnur. Hann hefur smám saman verið að fyllast af framburði Fornu-Kaldár. Trúlegt er, að þar hafi verið leirur og mikið útfiri, og ef til vill voru grösugir óshólmar milli árkvíslanna. En nú er þetta allt innsiglað af hrauninu, nema sá leirinn, sem lengst barst út eftir firðinum. Hann stendur út undan hraunbrúninni og þekur þar fjarðarbotninn í þykku lagi. Það leirlag hefur reynzt heldur ótraust undirstaða undir hina nýju hafnargarða. Þeir hafa hvað eftir annað sigið og sprungið. Af því, sem ég hef nú sagt frá Búrfelli og Hafnarfjarðarhrauni, mætti ætla, að Hafnarfjarðarbæ stafaði nokkur hætta af eldgosum og hraunflóðum: Þá leið, sem hraun hefur áður runnið, gæti hraun runnið aftur! En þessi hætta er miklu minni en ég hef til þessa gefið í skyn: Búrfell, þar sem hraunið kom upp, og stór landspilda hið næsta því öllum megin hefur sigið, eftir að hraunið rann. Hin signa spilda hefur brotnað sundur í rima milli sprungna, sem stefna allar frá norðaustri til suðvesturs. Barmarnir hafa sigið mismikið, svo að stallur er um sumar sprungurnar, eystri barmurinn þá jafnan lægri en hinn vestri, rétt eins og á Almannagjá. Sums staðar eru sprungurnar gínandi gjár, en annars staðar saman klemmdar og koma aðeins fram sem bergveggur.
Einn slíkur sigstallur brýtur Hafnarfjarðarhraun um þvert við suðurenda Vífilsstaðahlíðar. Sá er 5—10 m hár og rmmdi Kalda-507einn sér veita verulegt viðnám nýju hraunflóði. En raunar er sigið meira en nemur hæð þessa stalls. Önnur misgengissprunga liggur vestan við Helgadal, sem er sigdalur, og sú klýfur sjálft Búrfell í miðju. Misgengið veldur því, að eystri gígbarmurinn er nú lægri en hinn vestri. En þetta var öfugt, meðan Hafnarfjarðarhraun var að flæða upp úr gígnum. Það rann vestur úr honum, og eru þar mjög fagrar og lærdómsríkar hrauntraðir eftir rennsli þess. Þær nefnast Búrfellsgjá (þótt þær séu raunar engin gjá í venjulegri merkingu) og eru óslitnar um nokkurra kílómmetra veg vestur og norður frá fjallinu. Hraun, sem nú flæddi upp úr Búrfellsgíg, tæki ekki þessa stefnu, heldur rynni austur eða suður af. Hrakningasögu Kaldár lýkur ekki með uppkomu Hafnarfjarðarhrauns. Það lokaði leið hennar til Hafnarfjarðar, eins og þegar er getið. En það er engan veginn óhugsandi, að hún hafi samt um þúsundir ára eftir allar þær ófarir komizt ofanjarðar alla leið til sjávar — og þá fyrir sunnan Hafnarfjörð, litlu innar á ströndinni en þar, sem Straumsbæirnir eru nú. En hvort sem hún hefur nú komizt til sjávar eða ekki, þá er fullvíst, að hún hefur um langt skeið náð miklu lengra áleiðis en nú.

Kalda-508

Þá kemur enn upp eldgos, hið síðasta, sem orðið hefur í nágrenni Hafnarfjarðar. Að þessu sinni gaus úr sprungu, sem nú markast af gígaröð meðfram Undirhlíðum, langleiðina frá Vatnsskarði til Kaldárbotna. Í syðsta og stærsta gíghólnum skammt frá Krýsuvíkurveginum eru nú stórar malargryfjur. Frá þessari sprungu rann hraun það, sem nú er kallað Bruninn í heild, en efri hlutinn Óbrinnishólabruni og fremsta totan, sem komst alla leið niður í sjó, Kapelluhraun. Þetta hraun nær alla leið norður að Kaldá og hefur bersýnilega ýtt henni eitthvað norður á bóginn. Hún fylgir nú jaðri þess ofan á Búrfells- (eða Hafnarfjarðar-) hrauninu, sem fyrr getur. Vatnið úr Kaldá virðist allt hverfa inn undir þenna hraunjaðár. Ekki er nú annað sennilegra en hinn forni farvegur Kaldár liggi undir Brunanum þar, sem hann er þykkastur, og áfram í átt til sjávar undir hinni tiltölulega mjóu álmu Brunans, sem endar í Kapelluhrauni. Bruninn (að meðtöldu Kapelluhrauni) er unglegastur að sjá og vafalaust einnig yngstur allra hrauna, sem runnið hafa út í Faxaflóa sunnanverðan. Hann breiddist yfir allan suður- og vesturhluta Hvaleyrarhraunsins, sem fyrr var getið, og féll út í sjó fram af lágu sjávarbergi vestan við Gjögrin og myndaði þar dálítinn tanga út í sjóinn. Ekki hefur sjórinn enn brotið þann tanga að neinu ráði.“

Kaldá

Kaldá.

Heimild:
-Þjóðviljinn, 24. desember 1954, Hraunin í kringum Hafnarfjörð, Guðmundur Kjartansson, bls. 10-12.