Tag Archive for: Hafnarfjörður

Langeyri

Eftirfarandi grein Stefáns Júlíussonar undir fyrirsögninni „Gengið vestur með sjó“ birtist í Fjarðarfréttum árið 1984:

Stefán Júlíusson

Stefán Júlíusson (1915 – 2002).

„Fyrir nokkru komu ritstjórar Fjarðarfrétta að máli við mig og spurðu hvort ég vildi ekki taka saman fyrir blaðið pistil sem kallast gæti „Byggðin í hrauninu“. Vísuðu þeir til þess að á námskeiði sem haldið var á síðasta vori um Hafnarfjörð, og raunar var kallað Byggðin í hrauninu, sagði ég frá ýmsum atvikum og staðháttum á bernsku- og æskudögum mínum í vesturbænum og út með sjónum.
Fyrir 12 árum kom út eftir mig bók sem ber heitið Byggðin í hrauninu og eru í henni minningaþættir frá uppvaxtarárum mínum í hraunkotabyggðinni fyrir vestan bæinn. Varð það að samkomulagi milli mín og ritstjóranna að við færum vestur meö sjónum, tækjum nokkrar myndir og síðan tvinnuðum við saman kafla úr bókinni og frásagnir út frá myndunum.

Fjarðarpósturinn

Fjarðarpósturinn – forssíða í des 1984.

Laugardaginn 10. nóvember fórum við svo í myndatökureisu og hér birtist afraksturinn af þessari samvinnu. Við vorum sammála um að styðjast að mestu leyti við lokakaflann í Byggðinni í hrauninu en í honum lýsi ég göngu um fornar slóðir vestur með sjónum.
Á fyrstu tveimur myndunum erum við stödd á Krosseyrarmölum eða rétt vestan við Svendborg. Um þessi örnefni segir svo í Byggðinni: „Margar ferðir átti ég hérna gegnum Svendborg á bernskuárum minum. Þegar ég man fyrst eftir var þetta athafnasvæði Booklessbræðra, hinna bresku togaraeigenda sem höfðu umfangsmikla útgerðarstarfsemi í Hafnarfirði í meira en áratug en urðu gjaldþrotaárið 1922. Sá atvinnurekstur átti ekki hvað minnstan þátt í því að auka aðstreymi fólks til bæjarins á þessum árum. — Enn taka Hafnfirðingar sér í munn nafnið Svendborg þótt fæstir viti nú orðið hvernig nafnið er til komið. En nafngiftin lýsir kímni Hafnfirðinga á þeirri tíð, ef til vill blandaðri ofurlítilli meinfýsi eins og stundum verður vart hjá Íslendingum.

Hafnarfjörður

Svendborg 1912.

Árið 1903 fluttist kaupmaður austan frá Norðfirði til Hafnarfjarðar. Hann hét Sveinn Sigfússon. Hóf hann þegar að reisa verslunar- og útgerðarstöð hjá Fiskakletti við Krosseyrarmalir og var stórhuga í fyrirætlunum. En örendið entist ekki sem hugur og á sama ári selur Sveinn Augusti Flygenring lóðaréttindi og byggingarog flyst til Reykjavíkur. En nafngiftarmennirnir eru komnir til skjalanna: Svendborg skyldi staðurinn heita og auðvitað upp á dönsku! Það er oft furðulegt hvað uppnefni geta orðið að lífseigum örnefnum.
HafnarfjörðurEn Svendborg er stærsta útgerðarstöðin í, Hafnarfirði í hartnær þrjá áratugi og á mikinn þátt í vexti bæjarins. Hún gengur að vísu allmjög kaupum og sölum fram til ársins 1910 en næstu tvo áratugina eru eigendur aðeins tveir, og þeir engir aukvisar, Booklessbræður til ársins 1923 en síðan Hellyersbræður. En árið 1929 líður þessi mikla útgerðarstöð undir lok og síðan hefur tímans tönn verið að naga hin margvíslegu mannvirki á eigninni.

Hafnarfjörður

Sundhöllin og nágrenni.

Nú eru Krosseyrarmalir að mestu horfnar undir Vesturgötu og Herjólfsgötu svo að naumast sést eftir af þeim tangur eða tetur nema í bláfjörunni. Áður var hér annasamt athafnasvæði og á sólrikum sumardögum var jörð öll hvít af saltfiski. Útgerðarstöðvar í Hafnarfirði voru yfirleitt reistar á fjörumölunum en nú eru þær allar horfnar undir götur og byggingar nema Langeyrarmalir að nokkru.

Hafnarfjörður

Bungalwið.

Fátt vitnar nú um athafnasemi hinna ensku útgerðarmanna en þó stendur bungaló Bookless hér ennþá, hábreskt hús sem enn er búið í og sker sig úr öðrum byggingum að stíl og útliti. Lítið eitt ofan við það stendur annað enskbyggt íbúðarhús. Þar bjó Hellyer þegar ég var innan við fermingu. Í því húsi var ráðskona á þeirri tíð ung og glæsileg stúlka, Matthildur Sigurðardóttir að nafni. Um hríð bar ég þangað daglega mjólk utan úr Víðistöðum.

Hafnarfjörður

Skarð í kletta.

Ráðskonan vék þá stundum mjólkurpóstinum unga ávöxtum og öðru fáséðu munngæti og var það vel þegið. Þá gafst tækifæri að gægjast inn fyrir dyrastafinn, inn ( stofur búnar ævintýralegum húsgögnum. Húsgögn sem nú eru nefnd því nafni voru í fáum húsum í Hafnarfirði á bernskudögum mínum. Auðvitað voru þau kölluð mublur, og vafalaust mætti telja á fingrum sér þau hús í Hafnarfirði í þá tíð þar sem eiginlegar mublur voru í stofum. Ein stórkostlegasta breytingin sem orðið hefur á Íslandi á síðustu áratugum er án efa húsgagnaeign landsmanna.

Hafnarfjörður

Járnbrautir voru algengar á fiskreitum Hafnarfjarðar.

Hér er skarð í klettarana sem skar Krosseyrarmalir í sundur og teygir sig langt í sjó fram. Nú er hér breið og slétt gata en þegar ég átti oftast leið hér um var hér lengsta járnbraut bæjarins. Þá voru járnbrautir á öllum fiskverkunarstöðvum og sömuleiðis á hafskipabryggjunni. En járnbrautin í Svendborg var langlengst, áreiðanlega hartnær kílómetri. Hún lá milli fiskhúsanna við höfnina og svokallaðs Verkamannareits á móts við Víðistaði. Þessi fiskreitur fékk nafn sitt af því að VMF Hlíf beitti sér fyrir reitarlagningunni í atvinnubótaskyni á öðrum áratugnum en síðan seldu verkamennirnir útgerðinni reitinn fullbúinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Vegur var lagður undir járnbrautarteinana milli malar og reits. Var hann að sjálfsögðu örmjór því að ekki var nema 70-80 sentimetrar milli teinanna á þessum brautum en allhár á köflum og halli var talsverður. Reiturinn lá miklu hærra en mölin. Fiskkerrurnar sem gengu á þessum brautum voru ekki ýkjastórar, pallurinn svona einn til tveir metrar á breidd og tveir til þrír metrar á lengd. En þegar þær komu brunandi niður brautina á fleygiferð, hvort sem þær voru hlaðnar þurrfiski eða tómar, var mikil hætta á ferðum og eins gott fyrir vegfarendur að forða sér.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – saltfiskverkun.

Mikill hvinur heyrðist langar leiðir þegar hraði var kominn á kerrurnar hvort sem þær voru fullar eða tómar, svo mjög söng í teinum og hjólum. Hrópað var hástöfum viðvörunarkall uppi á reitnum áður en kerrunum var sleppt. Allmjög dró úr hraðanum þegar kerrurnar komu niður á jafnsléttu en þó entist brunið alla leið inn í hús. Var þetta ódýr kraftur. Hesti var beitt fyrir kerrurnar fullar af blautfiski upp á reitinn og eins fyrir langa lest af tómum kerrum við innkeyrslu.
Gamla Svendborgarjárnbrautin var endurreist á stríðsárunum síðari, þegar hafnargarðurinn vestari var reistur. Þá var brautin notuð til grjótflutninga í garðinn. Nú er hún löngu horfin og breið gata, Flókagata, komin í staðinn.

Hafnarfjörður

Klettar við Krosseyrarmalir.

Þegar ég átti leið hér um á árunum innan við fermingu var á sumrin krökkt af fáklæddum börnum á þessum slóðum. Þá var sund kennt í sjónum við Krosseyrarmalir og klettana fyrir vestan þær. Fyrstu sundkennarar sem ég man eftir voru þeir Jakob Sigurðsson kaupmaður og Grímur Andrésson bílstjóri. Og hérna við klettótta ströndina og í malarvikinu sunnan við Gatklettinn sem þá var byrjaði Hallsteinn Hinriksson að kenna sund eftir að hann fluttist til Hafnarfjarðar árið 1929.

Hafnarfjörður

Sundkennsla neðan við gatklettinn.

Þá skiptu sundnemendur hundruðum og var oft farið í sjóinn tvisvar á dag. Nú er hrunið ofan af Gatkletti, eitt mesta holræsi bæjarins liggur hér út í sjóinn, breið Herjólfsgatan hefur lagt undir sig möl og hraun, og við hana stendur sundhöllin þar sem nú er kennt og synt í upphituðu vatni. — Þróun og sögu má lesa hér við sérhvert fótmál.“
Á þriðju og fjórðu mynd erum við stödd við ströndina í nánd við Sundhöllina og vitnum í bókina: ,,Á þessum slóðum þar sem sundhöllin stendur nú við breiða og slétta Herjólfsgötuna var hraunströndin einna úfnust og stórhrikalegust á bernskudögum mínum.

Hafnarfjörður

Hallsteinn Hinriksson leiðbeinir við sundiðkun.

Hér var Draugaklifið svokallaða. Há strandberg stóðu hér í sjó frammi, þung og staðfestuleg björg, en á milli þeirra skárust dökk og brimhefluð vík inn í hraunstorkuna. Þar súgaði sjór og gnauðaði við minnstu kviku og þegar stórstreymt var gekk hvítt löður yfir kletta og klif og kastaðist upp á gangstíginn. Þá var brautin harla mjó og ógreiðfær, malir, gjótur og klif. Í snjóum á veturna þegar svellalög voru og vestanáhlaup var þetta ekki greiðfarin leið. En í kyrrum og blíðu sumarsins bauð hún fólki heim.
Ekki grunaði okkur hraunbúana á þeirri tíð að svo skammt yrði hér í breiða götu og húsaröð meðfram henni alla leið út á Malir. Nú er ekkert svipað því sem áður var þegar ég geng hér eftir götunni.

Æðakollur

Æðakollur á svamli.

Þarna syndir þó æðarkolla með fjölskyldu sína úti fyrir gamla Gatklettinum og hátignarlegur blikinn setur svip á umhverfið sem fyrr. Fuglalíf var hér fjölskrúðugra áður en ég gleðst þó af að sjá þessa heimakæru fjölskyldu; hún tengir horfna tíð við göngu mína hér í dag.“
Þá erum við komin að Langeyri. Á Langeyri versluðu danir áður fyrr eins og sést á gömlum kortum af Hafnarfirði. Þar mun hafa verið þurrkaður fiskur á eyrinni eða mölinni um aldir.

Hafnarfjörður

Langeyri.

Eins og alkunnugt er voru þessar eyrar eða malir snemma athafnasvæði fiskverkunar, fyrst erlendra kaupmanna og útgerðarmanna og síðan hinna innlendu. Þar risu útgerðarstöðvar enda voru þessar malir kjörnar til að þurrka á saltfiskinn: Hamarskotsmöl, Krosseyrarmalirog Langeyrarmalir.

Hafnarfjörður

Lifrabræðslan á Langeyri.

Byggðin í hrauninu hefur þetta að segja um staðhætti á fimmtu og sjöttu mynd: ,,Ég staðnæmist neðan við Langeyri sem enn stingur í stúf við húsaröðina meðfram götunni, byggingar eru frá fyrri tíð, lóðin miklu stærri, grasblettir, kálgarðar og gróðurreitir, og girðingin umhverfis minnir á handtök fyrir daga skipulags, reglugerða og samþykkta. Á uppvaxtarárum mínum var Langeyri það hraunkotið sem næst var bænum og þótti allnokkur leið hingað út eftir.

Hafnarfjörður

Lifrabræðslan.

Neðan við götuna eru leifar af steyptri þlötu á sjávarbakkanum. Þetta eru menjar lifrarbræðslustöðvar sem hér var reist af Augusti Flygenring um síðustu aldamót þegar hann nam land undir fyrstu fiskverkun sína á Langeyrarmölum. Hér voru talsverðar rústir þegar ég man fyrst eftir þótt lifrarþræðslan væri liðin undir lok, steinsteyptar tóttir og þrær. Sérstaklega er mér þó minnisstæður heljarmikill þottur eða þottker sem trónaði hér í rústunum. Þetta var kjörinn leikstaður, ekki síst í feluleik og ámóta athöfnum og áttum við krakkarnir hér mörg spor, ærsli og óp.“

Hafnarfjörður

Varða við Eyrarhraun.

Um sjöundu mynd mætti margt segja. Herjólfsgatan liggur hér að Mölunum. Brunarústir eru þar sem gamla vaskhúsið stóð. En á öllum fiskverkunarstöðvum fyrr á tímum, þegar lífið var saltfiskur, þurfti vaskhús eða vaskahús þar sem fiskurinn var þveginn, þurrkhús ef sumarveðrið brást og geymsluhús undirsalt, blautfisk og þurran fisk. Oft voru þó blautfiskstaflar úti áður en fiskurinn var þveginn. T.h. á 7. mynd voru þurrkhús og fiskgeymsluhús, þar sem frystihús var seinna reist. T.v. teygir Rauðhúsnef sig út í sjóinn en upp af því var sagt að verið hefði rautt verslunarhús danskra kaupmanna. Þar átti eitthvað voveiflegt að hafa gerst því þar var talið reimt þótt hvergi væri þó annar eins draugagangur og í Svendborg á sinni tíð.

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun.

En vitnum nú í Byggðina út frá 7. mynd: ..Langeyrarmalir voru lengstar malanna og þar reisti August Flygenring fiskverkunarstöð um síðustu aldamót þegar hann hafði hætt skipstjórn og gerðist aðsópsmikill athafnamaður í Hafnarfirði. Áður á öldum höfðu danskir kaupmenn haft aðsetur á Langeyri en það var löngu liðin saga þegar hér var komið. August Flygenring átti ekki Malirnar mjög lengi og þegar við fluttumst að Eyrarhrauni voru þær komnar í eigu hlutafélagsins Höfrungs sem gerði út lítinn happatogara, Rán að nafni, og fékk auk aflans að honum dálítið af fiski til verkunar annars staðar að. Malirnar voru ekki stór fiskverkunarstöð á uppvaxtarárum mínum en þó veittu þær töluverða atvinnu. Lá í hlutarins eðli að fólkið í hraunkotunum þarna í kring ynni á Mölunum eftir því sem ástæður leyfðu.

Hafnarfjörður

Eyrarhraun um 1940.

Og við saltfiskþurrkunina á sumrin fengu krakkarnir sína fyrstu atvinnu. Segja má að þau börn og unglingar í Hafnarfirði sem ekki voru svo gæfusöm að komast í sveit á sumrin væru alin upp á fiskreitunum. Við breiðslu og samantekningu saltfisksins fengu allir vinnu sem vettlingi gátu valdið, svo mörg voru handtökin við þessa atvinnugrein. Var algengt að börn frá sjö ára aldri kæmust í breiðslu og fengju kaup fyrir. Þannig komst ég átta ára kettlingur í vinnu á Mölunum þegar þurrkur var og fékk að mig minir 25 aura um tímann. Þóttumst við rollingarnir þá heldur menn með mönnum þegar við vorum teknir í vinnu fyrir kaup.

Hafnarfjörður

Stefán við vörðu Eyrarhrauns.

Starfsræksla mun aldrei hafa stöðvast hér alveg síðan stöðin var reist um aldamótin. Steypta planið milli fiskhúsanna er líkt því sem áður var og hér áttum við kotakrakkarnir mörg spor í skemmtilegum leikjum. Þetta plan var forréttindi okkar og friðland; fáir áttu sér svo kjörinn og afmarkaðan leikvöll á þeirri tíð, sléttan og steyptan, hvort sem var í risaleik, boltaleikjum allskonar, hlaupum eða parís, sem við kölluðum hoppuleik. Oft voru plankar og búkkarskildir eftir einhvers staðar utan dyra við fiskhúsin og þá var auðvelt að bera þá inn á planið til að rambelta á þeim.

Hafnarfjörður

Braggar ofan Langeyrar um 1940.

Þá þekktu Hafnfirðingar ekki annað orð yfir að vega salt en að rambelta. Að vega salt lærðist seinna af bókum. Enn kalla börn í Hafnarfirði leikinn að rambelta og það gleður mig alltaf þegar ég heyri orðið. — Einu sinni ætlaði ég að kalla eina skáldsöguna mína Rambeltu, — mér fannst nafn hæfa efni, — en útgefandi vildi ekki hætta á þetta hafnfirska heiti.
Við hraunkotabörnin sem lékum okkur hérna á planinu á Mölunum vorum oft fram undir tuttugu, auk aðkomu krakka, en aldrei man ég til að neitt væri skemmt hér af ásettu ráði.

Hafnarfjörður

Langeyri.

Fyrir kom að vísu að rúða brotnaði en þá sögðum við ævinlega til þess og Guðmundur verkstjóri Jónasson lét það þá gott heita. Hann var mikill vinur okkar hraunbúanna og amaðist aldrei við leikjum okkar.“
Á áttundu og níundu mynd erum við stödd hjá bernskuheimili mínu Eyrarhrauni sem í raun varð hvati þess að ég skrifaði Byggðina í hrauninu.
Þetta var sérstakt umhverfi og um margt voru þetta heillandi heimkynni á þeirri tíð. Burstin á gamla bænum á Eyrarbraut sést enn t.h. á 8. mynd en annars er allt breytt. Á 9. mynd stend ég fyrir neðan tignarlega vörðu sem steypt var á háum kletti rétt neðan við bæinn á Eyrarhrauni. Fyrir neðan vörðuna var mikill kálgarður sem verkstjórinn á Mölunum nytjaði.

Hafnarfjörður

August Flyering (1865 – 1932).

Önnur álíka varða var steypt á kletti ofan við Rauðhúsnef, við skýli Slysavarnafélagsins. Á þeirri vörðu er stórt A greypt í steypuna en á þeirri á myndinni stendur stórt F. Þannig markaði August Flygenring sitt land af þegar hann settist að á Mölunum með starfrækslu sína upp úr aldamótunum.
Grasskvompurnar milli klettanna á þessum myndum voru allar slegnar á minni tíð þarna enda ræktaðar með ærinni fyrirhöfn af frumbyggjunum á hraunkotunum. Skemmurnar t.v. á 9. mynd voru reistar þegar skreiðarverkunin kom til sögunnar en þær standa á gömlum, lögðum reit frá Mölunum.
En vitnum nú til bókarinnar: „Eyrarhraun stendur í úfnu hrauni, þar sem kraumandi eldkvika og kaldur sjór hafa endur fyrir löngu farið hamförum í tröllslegum leik uns eldur og brim sættust á hina hrikalegu storku. Vatn og veðrun öld fram af öld milduðu svip storkunnar smátt og smátt en þó hefur þetta verið tröllaskeið uns gróðurinn tók að næla sig í sprungur og lesa sig eftir grunnum moldargeirum í lautum og klettum. Þá tók landslagið að mildast og hýrnaði síðan meira og meira við hvert hlýindaskeið. Þetta hraun rann árþúsundum fyrir Íslandsbyggð.
EyrarhraunEins og áður getur, stendur Eyrarhraun rétt ofan við fiskverkunarstöðina Malirnar sem dregur nafn sitt af gerð fjöruborðsins á þessum slóðum eða Langeyrarmölum. Fjaran er þarna á löngum kafla allhár malarkambur, gerður af hnefastórum og þaðan af minni fínsorfnum steinvölum sem vestanbrimið hefur malað, fægt og fágað um aldaraðir. Fjaran á austurströnd Hafnarfjarðar var víðast hvar svona fínsorfin, ljósleit möl, völurnar misstórar og margvíslegar að gerð en yfirborð þeirra slétt og fægt.
Bernskuheimili mitt, Eyrarhraun, stendur enn á sínum gamla stað ofan við Malirnar. En þar er nú allt breytt frá því sem áður var, bæði húsakynni og umhverfi.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Tjörnin fyrir neðan kotið sem áður setti mikinn svip á landslagið er nú uppfyllt að mestu, aðeins smápollur eftir og bílvegur er kominn heim að dyrum. Mörg íbúðarhús, skúrar og skemmur og kumbaldar hafa nú verið reist í nágrenni Eyrarhrauns. Heimahagarnir breytast með hverju ári.
Ég held áfram vestur fjöruna. Mig furðar, hvað hún er orðin óhrein, spýtnabrak og úrgangsreki um alla möl. Áður á tíð var tjáviðurinn kirfilega hirtur í eldinn. Þá þótti dýrt að kaupa eldivið og því var allt notað sem tiltækt varð, hver rekaspýta og jafnvel stundum þangið úr fjörunni. Þangið var einnig notað til áburðar.

Hafnarfjörður

Stefán við garða.

Af þessum sökum voru fjörurnar hreinar á bernskudögum mínum enda mikill ævintýraheimur okkar barnanna. Fjaran er ungum börnum mikið rannsóknarefni. Þar er aldrei kyrrstaða, heldur sífelld breyting og umskipti. Í aðfalli nemur aldan sér æ meira land en í útfallinu stækkar fjöruborðið með hverju sogi. Allt vekur þetta undrun og íhugun. Og í hrauninu ofan við malarkambinn eru tjarnir sem einnig taka sífelldum breytingum. Sumar tæmast alveg við fjöru og þá minna þær á stóra, hola skemmd í jaxli. Brúnn þaragróðurinn og dökkt grjótið stinga í stúf við gras, mosaog fléttur í grónu hrauninu. En þegar að fellur,og vatnið teygir sig upp á grasgeira og blómskreytta kletta, eru þessar tjarnir eins og vökul augu og auka á fegurð hrauns og strandar.

Hafnarfjörður

Við Brúsastaði.

Þegar flóð er í tjörnunum er hér kyrrð og ró og samstilling, eins og land og sjór hafi samið frið um eilífð. En einstaka tjörn er svo djúp að úr henni fellur aldrei. Þar búa kynjaskepnur og furðufiskar að sögn. Því er oft stansað og dokað við á bakkanum ef vera kynni að þessi kynjadýr sýndu sig.“
Víða voru stórar lóðir eða landareignir hraunkotanna afgirtar með hlöðnum grjótgörðum. Þessir löngu og miklu garðar voru talandi tákn um aml og erfiði þess fólks sem fyrst reisti kotin og hafði nógan tíma til að rífa upp grjótið og hlaða garðana á löngum vinnuleysistímabilum árlega.

Hafnarfjörður

Brúsastaðir.

Hér stend ég við eitt garðbrotið á 10. mynd, rétt til að minna á hvað þetta fólk lagði á sig við að koma sér upp sjálfstæðum býlum þarna úti í úfnu hrauninu. Á 11. mynd sést hvernig klettanefin teygja sig út í sjóinn, eins og Rauðhúsnefið, en á milli þeirra voru malir og friðsælar fjörur.
Og á fjórtándu myndinni erum við komin vestur að bæjarmörkum. Myndin er tekin milli Brúsastaða og Skerseyrar og sér vestur til Garðahverfis en Balaklettur skagar í sjó fram. Bæjarmörkin eru nálægt miðri mynd.

Langeyri

Langeyri – vestari varðan, merkt A (Ágústi Flygering).

Þessi fjara fyrir neðan Skerseyri er sem næst því að vera ósnortin og líkist því að mestu þeim fjörum sem voru leikvöllur okkar krakkanna fyrr á tíð. Ofan við þessa fjöru þar sem Skerseyrin stóð áður á Sjóminjasafnið að fá aðsetur í framtíðinni. En gefum nú Byggðinni í hrauninu orðið að lokum og ljúkum þannig þessari gönguferð okkar vestur með sjónum: „Ég held áfram út með sjónum. Byggð er orðin meiri á Brúsastöðum en ströndin fyrir neðan bæinn er sú sama, sæbarin klettabákn og grófgerð fjörumöl til beggja handa. En Skerseyri er löngu komin í eyði, — það hraunkotið sem fjærst var kaupstaðnum, alveg út undir mörkum bæjarlandsins og Garðahverfis.

Hafnarfjörður

Malarbæir vestanverðir.

Fimm voru kotin í byggð í bernsku minni: Langeyri, Eyrarhraun, Litlibær (seinna Fagrihvammur), Brúsastaðir og Skerseyri. Afskekktast var á Skerseyri en útsýni er þar mikið og fagurt, út til hafs og inn til bæjar og vítt til allra átta. Kotið stóð á háum, allstórum bala, en tröllaukið hraun á þrjá vegu og brimsorfinn, stórgrýttur fjörukambur fyrir neðan. Þetta var frumstætt og tignarlegt bæjarstæði. Nú er komið húsakraðak fyrir ofan Skerseyrarland og eykur ekki á fegurð hraunsins. Þessa stórkostlegu hraunspildu þyrfti sannariega að friða.

Hafnarfjörður

Fjaran vestan Skerseyrar.

Rétt ofan og utan við Skerseyri er Hraunhvammur. Hann taldist í rauninni ekki til hinna eiginlegu hraunkota á uppvaxtarárum mínum þótt umhverfið væri hið sama og ástæður landnemans þar væru þær sömu og annarra frumbyggja í hraunbyggðinni. Um tíma var talið álitamál hvort kotið væri innan landamerkja Hafnarfjarðarkaupstaðar eða utan. Sá sem reisti bæinn mun hafa staðið í þeirri meiningu að hann væri að byggja í landi bæjarins. Að minnsta kosti taldi fjölskylda mín sig ekki flytja úr Hafnarfirði þann vetur sem hún átti heima í Hraunhvammi.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða) millum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

En þegar landamerki voru betur könnuð og gengið til botns í málinu kom í ljós að Hraunhvammur reyndist vera Garðahreppsmegin við mörkin. Kotið var því hálfgerður bastarður í hraunbyggðinni og litum við krakkarnir naumast á það sem ekta hraunkot eftir að það var úrskurðað í Garðahreppi. Hraunkotin skyldu vera skrifuð við Hafnarfjörð á bréfum en við töldum okkkur hreinræktaða Hafnfirðinga. Tókum við það óstinnt upp þegar fólk af ókunnleika vildi koma okkur í bland við Garðhverfinga lengra út með sjónum. Við vildum engir hálfrefir vera í þeim efnum.“

Hraunhvammur

Hraunhvammur.

Brúsastaðir voru næstvestasta hraunkotið. Á tólftu og þrettándu mynd sést hvernig þar er umhorfs núna. Á þrettándu mynd stöndum við Guðmundur Sveinsson ritstjóri hjá gömlum fiskhjalli og garðbroti, talandi táknum gamla tímans. Að baki sér i Hrafnistu þar sem margir gamlir Hafnfirðingar dveljast síðustu æviárin. Mér finnst þeir vart geta kosið sértignarlegra og stórbrotnara umhverfi.
Þegar Ágúst Guðmundsson var að undirbúa gerð kvikmyndar eftir handriti mínu Saga úr stríðinu völdu þeir Snorri Sveinn Friðriksson leiksviðshönnuður Brúsastaði sem heimili drengsins sem söguna segir.“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 2. tbl. 01.12.1984, Stefán Júlíuson, Gengið vestur með sjó, bls. 40-43.

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Urriðakot

Sólveg Eyjólfsdóttir sagði í grein í Fjarðarfréttum frá „Fjölskyldunni í Urriðakoti“ árið 1984:
„Þegar farið er um svokallaðan Flóttamannaveg sér vel heim að Urriðakoti við Urriðakotsvatn. Bæjarstæðið er uppi í hlíð og fyrir vestan er vatnið spegilslétt. Þarna fléttast saman fegurð landslags og vatns.

Jórunn Guðmundsdóttir

Jórunn Guðmundsdóttir (1917-1995).

Útsýni er frjálst og fagurt mjög, — þaðan sér um allt Garðahverfið, Álftanesið, Bessastaði og alla leið á Snæfellsjökul. Einn fagran dag á liðnu hausti var ég stödd á þessum slóðum og rölti heim að gamla bæjarstæðinu í Urriðakoti. Ég minnist löngu liðinna daga er ég fékk að fara með móður minni í heimsókn til Sigurbjargar frænku, en hún var afasystir mín.
Á leiðinni heim urðu á vegi mínum tveir úr ritstjórn þessa blaðs og barst talið að Urriðakoti og því mannlífi sem þar var fyrr á árum. Niðurstaðan varð sú að gaman væri að fræðast nánar um Urriðakot og fjölskylduna er þar bjó.
Það varð því úr að ég gekk á fund systranna Guðbjargar og Jórunnar Guðmundsdætra frá Urriðakoti, sem fúslega lýstu ýmsu er varðaði daglegt líf þeirra á uppvaxtarárunum.
Í þessum bæ bjuggu hjónin Guðmundur Jónson, fæddur 26. jan. 1866 og Sigurbjörg Jónsdóttir, fædd 26. febrúar 1865. Foreldrar Guðmundar voru Jón Þórðarson og kona hans Jórunn Magnúsdóttir er bjuggu í Urriðakoti og var Guðmundur fæddur þar og uppalinn.
Guðmundur JónssonForeldrar Sigurbjargar voru Jón Guðmundsson og seinni kona hans Vilborg Jónsdóttir, sem búsett voru á Hvaleyri við Hafnarfjörð, en þar fæddist Sigurbjörg. Þegar hún var á öðru ári fluttist fjölskyldan að Setbergi við Hafnarfjörð og þar sleit Sigurbjörg barnsskónum í hópi margra systkina.
Jón og Vilborg á Setbergi sátu jörð sína um allmörg ár með miklum myndarbrag á þeirra tíma mælikvarða. Jón á Setbergi var tvígiftur. Hann missti sína fyrri konu sem hét Guðrún Egilsdóttir. Jón á Setbergi átti 19 börn og eru niðjar hans fjölmargir. Er „Setbergsætt“ þekkt víða um land.
Sigurbjörg og Guðmundur byrjuðu sinn búskap í félagi við foreldra hans. Bústofninn var hálf kýr og 13 ær, sem þætti víst heldur lítið í dag. En þau voru hagsýn og búnaðist vel. Þar kom að kýrnar urðu fjórar og stundum fimm og sauðfé á annað hundraðið auk nokkurra hesta.
Sigurbjörg JónsdóttirUrriðakot var ekki stór jörð, en því betur nýtt. T.d. var fergi, grastegund sem slegin var í vatninu, gefin kúnum, en ekki mátti gefa það hestum. „Það fer í fæturna á þeim,“ var sagt. Við sláttinn í vatninu höfðu menn eins konar þrúgur á fótunum. Svo var einnig heyjað í Dýjamýri, fyrir neðan túnið, en það er eina dýjamýrin á Reykjanesskaga.
Mjólkin var seld til Hafnarfjarðar og flutt á hestvagni. Þegar því varð ekki við komið þá á hestum og alltaf farið heim til hvers kaupanda með mjólkina.
Oft var erfitt með færðina á vetrinum og tók oft langan tíma að komast niður í Fjörð. Leiðin lá suður með Hádegisholti og vestur fyrir Setbergshamar en kom svo á Setbergsveg rétt hjá Baggalá. 1930 kemur svo vegur fyrir vestan vatnið. Þá styttist leiðin um helming. Þá var farið yfir Hrauntangann og yfir Setbergstúnið og fram hjá „Galdraprestaþúfunni.“

Urriðakot

Urriðakotsvegur um Vesturmýri að Setbergi.

Gefum nú Jórunni orðið: „Ég var alltaf myrkfælin hjá „þúfunni“ þegar ég var ein á ferð. Faðir okkar fékk leyfi hjá Jóhannesi Reykdal, bónda á Setbergi, til að leggja veg yfir túnið og lagði faðir okkar veginn sjálfur. Meðal daglegra starfa okkar var að fara upp í Sauðahelli hjá Kol í Víðistaðahlíð. Þar áttum við kindur. Heyið bárum við í pokum á bakinu og gáfum fénu á gaddinn.
Svo var það vatnsburðurinn. Vatnsbólið var fyrir neðan túnið. Allt vatn til heimilisins og einnig handa kúnum bárum við í þar til gerðum fötum og mátti aldrei nota þær til annars. Þetta var oft erfitt verk því allbrött er brekkan frá vatnsbólinu upp að bænum.

Urriðakot

Urriðakot – brunnur.

En 1926 var sett upp dæla og byggður geymir uppi á bænum svo vatnið var sjálfrennandi inn í bæinn og einnig í fjósið. Þetta var mikill Iéttir þrátt fyrir að dælan væri mjög þung, svo helst þurfti tvo til að „drífa“ hana“.
„Jú það var margt sem þurfti að sinna, m.a. um fráfærurnar“ heldur Guðbjörg áfram. „Kvíarnar voru á Hrauntanganum — seinast var fært frá 1918.
Hér fyrrum var allgóð silungsveiði í vatninu, en veiðin hvarf er Jóhannes Reykdal byggði rafstöð (hina fyrstu á landinu) og kom upp stíflu sem varnaði því að silungur kæmist í vatnið.

Urriðavatn

Urriðavatn 2024.

Við hlökkuðum alltaf til berjaferðanna. Aðal berjalandið var í Vífilsstaðahlíð, sem alltaf var mjög berjarík. Á vetrum vorum við systkinin mikið á skíðum og skautum. Skautasvell var og er oft mjög gott á Urriðakotsvatni. Fyrstu skautarnir okkar voru hrossaleggir og fyrstu skíðin tunnustafir og við þetta skemmtum við okkur alveg konunglega. Um alllangt skeið hafði Skautafélag Hafnarfjarðar skautaæfingar á Urriðakotsvatni, þar sem félagsmenn lýstu upp skautasvellið með gaslugtum.

Urriðakot

Urriðakot.

Oft var ferðagrammófónn hafður meðferðis og spilaðir marsar og göngulög og skautað í takt við músíkina. Þetta var ákaflega vinsælt og fjöldinn allur af fólki á öllum aldri lagði leið sína til Urriðakotsvatns kvöld eftir kvöld til að njóta þessarar hollu íþróttar.“
Og við gefum systrunum orðið áfram: „Við minnumst skólaáranna alltaf með mikilli gleði. Eldri systkinin sóttu skóla út á Garðaholt en yngri systkinin í Hafnarfjörð. Alltaf var gengið til og frá skóla. Guðlaugur, bróðir okkar, var síðastur systkinanna fermdur í Görðum. Katrín var fermd í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 1913 og öll yngri systkinin voru einnig fermd í Fríkirkjunni.“

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn. Guðmundur faðir Jórunnar hóf búskap í Urriðakoti árið 1887 á móti föður sínum, Jóni Þorvarðssyni, sem hafði búið á jörðinni frá 1846. Guðmundur lét af búskap árið 1942 og skorti því ekki nema fjögur ár í heila öld að jörðin væri setin af þeim feðgum. Áletrunin Jth 1846 vísar væntanlega til Jóns.

Sigurbjörg og Guðmundur eignuðust 12 börn. Misstu þau tvö í frumbernsku en 10 komust upp. Auk sinna eigin barna ólu þau upp að nokkru dótturson sinn Guðmund Björnsson augnlœkni, nú prófessor við Háskóla Íslands. Guðrún dóttir þeirra ólst upp hjá föðursystur sinni, Guðrúnu Jónsdóttur og manni hennar, Þorsteini Guðmundssyni, er seinast bjuggu að Strandgötu 27 í Hafnarfirði. Það mun ekki ofsagt að Sigurbjörg og Guðmundur voru njótendur gæfu og gleði með sinn stóra barnahóp sem öll hlutu farsælar gáfur í vöggugjöf — komust vel til manns og urðu dugandi og velmetnir borgarar.
Það var vinalegt að líta til þessa býlis meðan allt var þar í blóma, allt iðandi af lífi og athafnasemi. Nú má segja að allt sofi þar Þyrnirósasvefni.
Og í dag segi ég: Vakna þú mín Þyrnirós og hvíslaðu í eyra þess er vill heyra: Væri þessi staður ekki ákjósanlegur Fólkvangur fyrir Hafnarfirðinga þeirra?“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 2. tbl. 01.12.1984, Sólveig Eyjólfsdóttir: Fjölskyldan frá Urriðakoti, bls. 24-25.
Urriðakot

Straumur

Í Náttúrufræðingnum 1998 fjallar jarðfræðingurinn Freysteinn Sigurðsson um „Grunnvatnið í Straumsvík„. Þar segir m.a.:

Freysteinn Sigurðsson

Freysteinn Sigurðsson (f. 1941), lauk Diplomprófi í jarðfræði frá Háskólanum í Kiel í Þýskalandi árið 1974. Fresyteinn hefur starfað hjá Orkustofnun æ síðan, einkum við grunnvatnsrannsóknir, neysluvatnsrannsóknir og jarðfræðikortagerð. Hann hefur verið formaður Hins íslenska náttúrufræðfélags frá 1990.

„Gríðarmikil fjöruvötn falla til Straumsvíkur, vestan við álverið og norðan við Keflavíkurveginn. Mikið ber á fjöruvötnum þessum á lágfiri því sjávarföll eru mikil þarna innst í Faxaflóa, eða allt að 4-5 m munur flóðs og fjöru. Hraun eru við víkurbotninn, með rásum og röstum, og eru fjöruvötnin í stœrstu rásunum ár að vexti, upp í nokkra m3/s á stórstraumsútfalli. Svo lek eru hraunin að fjöruvötnin falla sum sem gerðarlegir lœkir í polla bak við hraunkamba og hraunrastir, en útrennsli sést ekki úrpollunum því vatnið rennur skemmstu leið í gegnum hriplek hraunin. Af þessum vatnagangi hefur staðurinn fengið nafnið Straumur og víkin Straumsvík.
Sunnan við þjóðveginn standa nokkrar tjarnir uppi í hraununum og gætir sjávarfalla í þeim, svo verulegan mun sér flóðs og fjöru.
Syðst í tjörnum þessum er Gvendarbrunnur úti í tjörn, hlaðinn í hring úr grjóti, og göngugarður út að honum því brunnurinn fer á kaf þegar sjávarfallaflóð eru mikil. Þarna í Straumsvík er líklega næstmesta útrennsli á einum stað úr grunnvatni til sjávar á landinu, á eftir Lóni í Kelduhverfi.
Þetta mikla útrennsli er afleiðing af jarðfræðilegum og vatnafræðilegum aðstæðum, eins og lög gera ráð fyrir. Menn kunna nokkur deili á þeim aðstæðum því þó nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á grunnvatnsfari á aðrennslissvæði Straumsvíkur og aðliggjandi svæðum.

Gerðistjörn

Gerðistjörn ofan Straums.

Allvíðtæk könnun var gerð á grunnvatni á vatnasviði Straumsvíkur 1975, og var það raunar einhver fyrsta meiriháttar könnun af slíkum toga sem gerð var hérlendis og þar sem beitt var jarðfræði, jarðeðlisfræði, vatnafræði og efnafræði í samþættri rannsókn. Niðurstöður hennar eru enn uppistaðan í þekkingu okkar á grunnvatnsfari svæðisins. Vatnafarskort í mælikvarða 1:25.000 hafa verið gerð af stórum hluta vatnasviðsins á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Á kortum þessum eru jarðlög túlkuð og fiokkuð með tilliti til lektar og annarra vatnafarslegra eiginleika.
StraumurSamkvæmt þessum rannsóknum eru orsakir hins mikla útrennslis í Straumsvík einkum þrjár (2. mynd):
1. Jarðlög á aðrennslissvæðinu (vatnasviðinu) eru mjög lek, svo úrkoman sígur nánast öll í jörðu niður og nær ekkert afrennsli er á yfirborði.
2. Úrkoma á vatnasviðinu er mikil, einkum á fjöllunum þar sem hún fer líklega víða yfir 2.000 mm á ári.
3. Jarðgerð svæðisins beinir grunnvatnsstraumum af stóru svæði til Straumsvíkur.

Vatnshagur vatnasviðsins

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Úrkoman við Straumsvík losar 1.000 mm á ári, eykst upp eftir hraununum og gæti verið komin í um 1.500 mm á ári á Undirhlíðum og nálægt Kaldárbotnum. Þessari úrkomu samsvarar afrennsli sem nemur 30-1001/s á km2 að ársmeðaltali, líklega 55-70 1/s á km2 að meðaltali fyrir svæðið. Ætla má að vatnasviðið sé 150-200 krn2 þegar ráðið er í líkleg mörk þess eftir jarðgerð og vatnafari, líklega þó nær neðri mörkunum. Miðað við það nemur heildarafrennsli til Straumsvíkur 8-14 m3/s. Reynt hefur verið að meta útrennslið við Straumsvík, eða öllu heldur í Hraunavík alla, milli Hvaleyrarhöfða og nessins vestan Straumsvíkur.

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Útrennsli á fjöru fer vaxandi frá Hvaleyrarhöfða til álversins, úr 0,1-1/s í um 1/s á hvern metra fjöru. Á þessu bili falla líklega um eða yfir 2 m3/s til sjávar. Mikið vatn vellur undan álverinu, líklega m3/s eða jafnvel mun meira. Reynt hefur verið að meta vatnsmegin fjöruánna í Straumsvík, en það er torvelt með nákvæmni því fjöruvötnin breyta sér í sífellu, eftir því sem á útfallið líður, og eru að auki stundum ofan jarðar og stundum neðan. Með þeim fyrirvörum var giskað á að útrennsli næmi 3-10 m3/s að meðaltali. Útrennsli til Hraunavíkur er þá 6-15 m3/s, eða svipað og samkvæmt afrennslismati. Meðaltalsgildi væri nærri 10 m3/s. Þetta er í góðu samræmi við niðurstöður líkanreikninga (10-11 m3/s) (Vatnaskil 1991). Má því hafa þetta gildi fyrir satt, þar til annað reynist sannara. Af þessu vatni falla væntanlega um eða yfir 5 m3/s til Straumsvíkur sjálfrar.

Vatnajarðfræðileg gerð svæðisins

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Megindrættir í vatnajarðfræðigerð svæðisins eru þessir:
1. Virka gosbeltið, sem liggur eftir endilöngum Reykjanesskaga, stefnir nærri VSV-ANA. Á því hafa hlaðist upp móbergsfjöll á jökulskeiðum en hraun hafa runnið út frá því í átt til strandar. Jón Jónsson (1978) taldi um 200 þekktar gosstöðvar á skaganum sem virkar höfðu verið eftir ísöld. Sýnir það fjörið í eldvirkninni. Gosberg það sem nú er á yfirborði og nokkuð í jörð niður er lekt og veitir vel vatni.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur í Hrauntungum.

2. Hrauntungur hafa fallið frá gosbeltinu á nútíma, einkum um lægðir og slakka. Ofan Straumsvíkur hefur að öllum líkindum verið dalur nokkur, eða jafnvel fjörður, og ná þykk hraun þaðan til sjávar og veita vatni þangað mjög greiðlega.
3. Sprungusveimar skarast yfir gosbeltið og stefna nærri SV-NA. Á mörgum þeirra eru opnar gjár og sprungur og veita þeir þá vatni greiðlega, þar á meðal ofan í hraunfyllta dalinn ofan Straumsvíkur.
Einkum má nefna sprungusveiminn um Heiðmörk, Hjalla og Kaldársel, en hann er svo opinn og lekur að grunnvatnið rennur frekar eftir honum en skemmstu leið til sjávar og þvert á jafnhæðarlínur grunnvatnsborðsins.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Annar sprungusveimur liggur norður með Sveifluhálsi, en vel má vera að þeir séu báðir hluti af sama sprungukerfi eða sprungurein. Þessir sprungusveimar valda misleitni (anisotropi) í lekt á svæðinu, þannig að hún er miklu meiri í stefnu sprungusveimanna en þvert á þá. Niður í eystri skarann rennur grunnvatn frá Bláfjöllum og vestur til Grindaskarða. Sprungumar beina því suðvestur, en norðvestan við sprungusveiminn tekur við grágrýti og annað enn eldra berg, sem veitir vatni treglega í gegnum sig samanborið við hraunin og sprungurnar. Þarna verður því mikill grunnvatnsstraumur vestur í „Straumsvíkurdalinn“.

Sveifluháls

Sveifluháls – móberg.

Sveifluháls er úr móbergi, víða holufylltu af jarðhitaummyndun, og mun tregara á vatnsrennsli en hraunin. Norðan hans er hæðarbunga og er þar líklega einnig eldra og þéttara berg undir hraununum.
Skammt er þar að líkindum suður til vatnaskila og verður grunnvatnsstraumur þessi því sýnu minni en sá sem kemur austan að.
Báðir flæða þeir út úr sprungusveimunum og ofan eftir hraununum í fyllta dalnum suður frá Straumsvík.
Suðaustur af Straumsvík verður lægð í landið upp undir Undirhlíðar, milli lítt lekra grágrýtisholtanna suður af Hafnarfirði og hraunum þakinnar bungunnar í Almenningum. (3. mynd).
StraumsvíkLægð þessi er þakin hraunum sem fara jafnt og þétt hækkandi upp undir Undirhlíðar, en þó í óljósum þrepum. Hér skína í gegn drættir jarðgerðar og landslags undir hraunþekjunni. Á sínum tíma var reynt að greina hæð grunnvatnsborðs á svæðinu með jarðviðnámsmælingum og virðist það hafa tekist þokkalega, miðað við síðari boranir og líkanreikninga á svæðinu. Við þær mælingar komu líka fram ábendingar um dal, forðum fjörð, upp frá Straumsvík, sem síðar hefur fyllst hraunum. Botn þessa dals nær niður á 30-40 m dýpi undir sjávarmáli, samkvæmt mælingunum, en hraunin á stæði álversins ná 20-25 m niður fyrir sjávarmál. Dalur þessi var fundinn með óbeinum aðferðum og mælingum með tækjum, sem þættu ærið ófullkomin núna. Því var traustið á þessari túlkun ekki meira en svo að vesturhlið dalsins var ekki sýnd sem miður lek jarðlög á vatnafarskorti af svæðinu. Við boranir síðar á svæðinu kom þessi hlíð samt í ljós, og verður því að telja líklegt að túlkunin á tilvist dals þessa sé ekki fjarri sanni (4. mynd).

Ástand grunnvatnsins
StraumsvíkGrunnvatnið rennur ákaflega greitt frarmí þessum hraunfyllta dal. Fyrir vikið er halli grunnvatnsborðs þar lítill, en hæð þess er um 2 m y.s. sunnan vegar hjá álverinu og er komin upp undir 10 m y.s. hjá Hrauntungu. Þaðan af hækkar það hraðar, enda eru hraunin þar að meira eða minna leyti ofan grunnvatnsborðs. Í Undirhlíðum og við Kaldársel er grunnvatnsborðið kontið upp í 70-80 m y.s. Úti undir ströndinni flýtur grunnvatnið ofan á jarðsjó í berginu. Saltsvatns er farið að gæta á 100 m dýpi hjá álverinu, en svo snardýpkar á það inn til landsins. Í sprungusveiminum hjá Kaldárseli er talið að öflugt ferskvatnsrennsli sé a.m.k. niður á 800 m dýpi. Ferskvatnið á svæðinu er efnaríkara (einkum auðugra að steinefnum) undan móbergsfjöllunum en af grágrýtinu og hraununum, þ.e. skammt að runnið vatn. Efnaríkast er vatn í Kleifarvatni og umhverfi þess.
StraumsvíkVatnið í Straumsvík er blanda af öllu svæðinu og sést það vel í efnainnihaldi þess. Reynt hefur verið að meta útrennsli úr Kleifarvatni eftir jarðgerð, vatnafari og líkanreikningum en vatnið er afrennslislaust á yfirborði. Áætlað hefur verið að um m3/s renni norður úr en um 1 m3/s suðaustur úr. Hlutfallið gæti þó verið enn lægra fyrir rennslið norður úr, en einnig gæti útrennslið í heild verið talsvert meira, samkvæmt síðari skoðunum.
Grunnvatn það sem rennur vestan að til Straumsvíkur virðist vera bæði heitara og efnaríkara en meginstraumurinn suðaustan að. Þetta staðfesta hitamælingar úti í Hraunum; þar hækkar vatnshiti í fjörulindum úr 5-5’/2°C við Lónakot upp í 8-8’/2°C vestur undir Hraunsnesi en lækkar svo aftur inn til Vatnsleysuvíkur. Þetta, ásamt fleiri ábendingum, hefur verið túlkað svo að grunnvatnsstraumur komi þarna til sjávar ofan frá jarðhitasvæðinu við Trölladyngju. Vatnshitinn við Straumsvík mældist um og innan við 4°C en um 3°C uppi í Kaldárseli. Má af þessu ráða nokkuð um hlutdeild fjallavatnsins í útrennslinu í Straumsvík (5. mynd).

Grunnvatnsauðlind
Straumsvíik.Á flóði stíflast útrennslið uppi og getur þá sjóblandað vatn þrengt sér inn í jarðlögin við ströndina. Þetta veldur saltblöndun í grunnvatninu og fjörulindunum, yfirleitt því meiri sem útrennslið er minna. Kemur það glöggt fram í fjörulindum austarlega í Hraunavík og út við Lónakot, en svo mikill er flaumurinn í Straumsvík að það finnst ekki á bragði vatnsins, þó að blöndunin komi glöggt fram í efnagreiningum. Saltmengun í vatnsbólum var mikið vandamál víða á Reykjanesskaga áður en farið var að afla neysluvatns inni á skaganum. Ferskt grunnvatnið í Straumsvík er gríðarmikil auðlind, enda er þar vatnsmesta grunnvatnssvæði í nánd við meiriháttar þéttbýli á landinu. Á vatnasviði Straumsvíkur eru vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum (7. mynd).
StraumsvíkÞaðan fellur Kaldá skamman spöl, uns hún hverfur í hraunið, en skilar sér svo aftur í útrennslinu í Straumsvík. Vatnsmegin Kaldár er ærið mismikið, enda er hún eins konar yfirfall úr grunnvatninu og rennsli hennar því háð hæð grunnvatnsborðs. Svæði þetta er tengt vatnasviði grunnvatns þess sem fellur til Elliðavatns og býr ekkert þéttbýlissvæði á landinu við slíka auðgi grunnvatns sem höfuðborgarsvæðið, nema Þorlákshöfn, hinum megin á Reykjanesskaganum. (6. mynd).
Full ástæða er til að hugsa vel um auðlind þessa því í henni geta verið fólgin gífurleg verðmæti, ekki síst vegna landslegu Straumsvíkur, hafnaraðstöðu þar og fleiri þátta. Ýmsum þykir pottur brotinn í umhyggjunni um auðlindina, því alls konar mengunarbær starfsemi hefur verið sett niður á vatnasviði Straumsvíkur. Ofar í straumnum spillist allt neðan mengunarstaðar, þ.e.a.s. meira vatn og á mun stærra svæði.

Straumsvík

Álverið í Straumsvík.

Staðsetning álversins og annarra fyrirtækja úti við ströndina veldur lágmarksspjöllum á vatnasviðinu. Meira orkar tvímælis með stálbræðsluna, sem eitt sinn var sett niður á svæðinu, loðdýrabú, sem þar voru eða áttu að vera, en þó ekki síst kappakstursbraut í Kapelluhrauni og ökuþórakappvöll þann sem valinn hefur verið staður lengst uppi í hrauni. Enn má geta gjalltöku á hraununum og efnistöku víða við Undirhlíðar, en mikilli vélavinnu getur fylgt olíuleki, rétt eins og bílaböðulshættinum.
Skynsamlegra, vatnsvænna, fyrirhyggjumeira og gróðavænlegra, til lengri tíma litið, hefði verið að setja svona starfsemi niður sem næst ströndinni, eða þá alls ekki á þessu auðugusta grunnvatnssvæði við meiriháttar þéttbýli á landinu. Enn eru ekki öll sund lokuð fyrir verndun vatnasviðs Straumsvíkur, en þó verður æ brýnna að koma þar á viðunandi lagi meðan enn er tími til. Grunnvatnið í Straumsvík er einstæð auðlind og raunar ómetanleg.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 67 (3-4), Grunnvatnið í Straumsvík, Freysteinn Sigurðsson, bls. 179-188, 1998.

Straumsvík

Straumsvík.

Hvaleyri

Í „Fornleifaskráningu vegna framkvæmdaleyfis á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði“ árið 2019 segir m.a.:

Saga
HvaleyriElstu heimildir um Hvaleyri er í Hauksbók Landnámu er Hrafna-Flóki Vilgerðarson fann hval rekinn á eyrinni og nefndi hana því Hvaleyri. Í Landnámu er þess einnig getið að Ásbjörn Össurarson bróðursonur Ingólfs Arnarssonar hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi.
Árið 1395 var Hvaleyri í eigu Viðeyjarklausturs og leigan til klaustursins var 4 hndr. Árið 1448 var getið um kirkju á Hvaleyri svo er lítið um heimildir um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum. Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.
Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.
Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1776.

Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Guðmundur Guðmundsson smiður sem bjó í Vesturkoti á Hvaleyri fann heila mannsbeinagrind með föður sínum er hann var unglingspiltur. Þar fannst einnig krítarpípa, greiðugarður, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Um 1925 fundust aftur mannabein á Hvaleyri af Magnúsi Benjamínssyni bónda í Hjörtskoti á Hvaleyri.

HvaleyriMatthías Þórðarson þjóðminjavörður rannsakaði beinin og taldi sennilegt að þetta væru bein sjórekinna manna sem fundist hefðu á Hvaleyri. Matthías taldi ekki þurft að varðveita beinin á Þjóðminjasafninu, en þau voru grafin í kirkjugarð Hafnarfjarðar.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West End. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.

Hvaleyri

Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði fagnaði þorranum í nýju félagsheimili í árslok 1992. Á meðan brann gamla félagsheimilið, Vesturkot. Hafnfirskir kylfarar kveiktu sjálfir í húsinu.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.

Vesturkot
Vesturkot var vestasta hjáleigan á Hvaleyri fyrir norðan Hvaleyrarbæinn. Kotið hefur staðið við endann á Kotagötunni.

Hvaleyri

Hvaleyri – hér sést Vesturkot ofan við Flókastein.

Ekkert er eftir af byggingunum sem þarna stóðu og svæðið hefur verið sléttað. Þegar golfvöllurinn var stofnaður á Hvaleyri árið 1967 var húsinu í Vesturkoti breytt í klúbbhús fyrir Golfklúbbinn Keili. Árið 1992 þegar búið var að reisa nýtt klúbbhús var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.
Hvaleyrarhöfðinn var nefndur Drundur og Vesturkot bar einnig nafnið Drundur. Á árunum 1781-1800 var Vesturkot nefnt Lásastaðir eftir hjáleigubóndanum, Nikulási Bárðarsyni en eftir 1810 var það nefnt Vesturkot og hefur það haldist síðan.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókasteinn.

Síðasti ábúandi kotsins var Sigurður Gíslason, en faðir hans Gísli Jónsson tók við jörðinni árið 1915 og byggði upp.

Þegar Gísli fluttist að Vesturkoti árið 1915 var bærinn í mikilli niðurníðslu, hann hóf þegar ræktun á túnunum, byggði gripahús og heyhlöðu.
Guðmundur Guðmundsson sem bjó í Vesturkoti og faðir hans fundu hauskúpu og heila beinagrind einnig fannst krítarpípa, greiðugarmur, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Líklega hefur þetta verið rétt fyrir 1900.

Flókasteinn

Hvaleyri

Hvaleyri-Flókaklöpp.

Vestarlega á Hvaleyrinni, rétt vestur af þeim stað er hjáleigan Vesturkot stóð.
Flókasteinn og tveir aðrir flúraðir steinar. Flókasteinn er grágrýtissteinn, hann er um 2,5 m að lengd og breiddin er um 1-2m, hæðin um 0,70 m. Vestan við steininn er upphlaðinn hálfhringlaga grasivaxinn garður sem er um 0,3 m á hæð en lækkar þar sem hann er næst steininum veggjaþykkt garðsins er um 0.3 m.
Rúnaklappir eru grágrýtisklappir. Sérstaklega var einn steinninn mikið markaður. Hann nefndist Flókasteinn. Töldu sumir að Hrafna-Flóki hefði skilið þarna eftir sig nafn sitt.

Flókaklöpp

Flókaklöppin í dag.

Í Árbók fornleifafræðifélagsins er grein sem heitir „Bergristur á Hvaleyri“ eftir Sveinbjörn Rafnsson. Segir þar m.a.: Á Hvaleyrarhöfða sér í jökulsorfnar grágrýtisklappir. Í þessar klappir hafa menn höggvið ýmis teikn og skráði greinarhöfundur og mældi bergristur þessar í júlí 1970. Risturnar hafa verið gerðar í fjórar afmarkaðar klappir eða steina, en klappir eru þarna fleiri þó ekki séu á þeim ristur. Risturnar verða þó ekki greindar til gagns nema á þremur af þessum steinum.
Syðsta klöppin er nú ólæsileg og hrakalega útötuð í steinsteypu eftir stríðsumsvif Breta í heimsstyrjöldinni síðustu. Allt í kringum steinana eru steinsteypt byrgi og byssustæði frá þeim tíma. Steypan í þessi mannvirki hefur verið blönduð og hrærð á syðstu klöppinni, þó má enn greina einstöku höggna rák út undan steypuhúðinni. Elstu ártöl á steinunum eru frá 1653. Jónas Hallgrímsson mun hafa verið sá fyrsti sem rannsakaði steinana fornfræðilega í júní 1841.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Árni Helgason í Görðum er sá næsti sem getur um Hvaleyrarristurnar í Sóknarlýsingu fyrir Garðaprestakall 1842. Árið 1854 fær Magnús Gíslason styrk til fornfræðiferða um Ísland og skoðar þá steinana. Kristian Kålund getur Hvaleyrar í drögum að staðarlýsingu Íslands, og segir að þar séu á nokkrum klöppum latneskir bókstafir og ártölin 1628 og 1777. Sigurður Skúlason á greinagóða og sígilda lýsingu Hvaleyrar steina í riti sínu Sögu Hafnarfjarðar (frá 1933, bls. 27-28) en hann er sá fyrsti sem segir steina með ristunum vera fjóra talsins.

Minorsteinn
Steininn er grágrýtissteinn rúmlega 2 m langur og breiddin 1- 2 m, og hæðin að sunnan um 0.30 m, en að norðan í sömu hæð og landið í kring.

Hvaleyri

Hvaleyri – áletrun á Minorsteininum.

Þarna er Flókasteinn og annar steinn Minorsteinn, rétt hjá með stöfum og tölum, á honum er ártalið 1777. En það ár var hér Minor sjóliðsforingi norskur og því er steinninn nefndur Minorsteinn.

Þórðarkot
Sunnan við Vesturkotstúngarð var Þórðarkot í Þórðarkotstúni.
Bæjarstæði Þórðarkots hefur verið sléttað. Þórðarkot hefur haft ýmis nöfn í gengum tíðina, eftir því hver hefur búið þar hverju sinni. Á árunum 1805-1835, hét það Einarskot eftir Einari Andréssyni. Þórðarkot frá því að Þórður Jónsson lóðs flutti þangað árið 1832 og hélst nafnið til 1870. Beinteinskot þegar Beinteinn Stefánsson frá Krýsuvík bjó þar 1870-1880, hann var síðastur ábúenda til að búa í kotinu sem fór í eyði eftir hans dag og túnið lagðist fljótlega eftir það undir Halldórskot.

Þórðargerði/ Beinteinsgerði / Zimsensgerði

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Þórðargerði var túnblettur við Þórðarkot.
Þórðarkotstún takmarkaðist af túngörðum sem hlaðnir voru á þrjá vegu, en að norðan náði það niður að Bakkanum og fjörunni. Í Þórðargerði bjó eitt sinn maður að nafni Beinteinn Stefánsson, þá nefndist kotið Beinteinskot og túnbletturinn Beinteinsgerði. Síðar hafði Christian Zimsen verslunarstjóri afnot af gerðinu, á síðasta fjórðung 19. aldar, þá nefndist það Zimsensgerði. Svæðið hefur verið sléttað og ekkert sést af gerðinu lengur.

Halldórskot

Hafnarfjörður

Hvaleyri um 1950.

Í austur frá Þórðarkot, tekur við Halldórskot í Halldórskotstúni.
Þarna hefur verið sléttað, en sést þó fyrir L-laga garði, túngarði sem hefur verið utanum bæjarstæði Halldórskots.
Bindindi var kot á Hvaleyri með Bindindistúni. Nefndist þessu nafni frá 1778-1821, síðan hét það Jónskot, frá 1810-1843 en síðast Halldórskot frá 1847-1944 eftir Halldóri Jónssyni.
Tengdasonur Halldórs, Eyjólfur Eyjólfsson seldi Þorsteini Egilssyni kotið 1883. Síðustu bændur sem byggðu kotið frá 1906-1944 voru Aðalbjörn Bjarnason stýrimaður og Þorgerður Kristín Jónsdóttir kennari, eftir þeirra dag var kotið þurrabúð um tíma þar til það fór í eyði. Aðalbjörn bætti jörðina með ræktun og byggði íbúðarhús úr timbri og steypti fjós og hlöðu.

Skotbyrgi

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Norðvestast á Hvaleyri rétt hjá friðuðum fornleifum. Skotbyrgin eru þrjú eins, þetta er vestasta skotbyrgið.
Veggir skýlisins eru upphlaðnir og steyptir, yfir er braggaþak að hluta, sá hluti er um 3 m x 2 m, að honum er smá gangur sem er um 1m breiður og 3 m langur, og veggjahæð um 1.20 m, þar er inngangur í skýlið. Það er að mestu niðurgrafið, sést aðeins í braggaþakið sem stendur uppúr jörðinni ásamt efsta hluta veggjanna. Á þessu svæði eru þrjú næstum eins skotbyrgi. Skotbyrgin voru reist mjög nálægt friðuðum fornminjum á Hvaleyrarhöfðanum.

Heimild:
-Hafnarfjörður – Hvaleyrarvöllur Hafnarfirði; Fornleifaskráning vegna framkvæmdaleyfis. Heiðrún Eva Konráðsdóttir sagnfræðingur – Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019.

Hvaleyri

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Helgafell

Guðmundur Kjartansson fjallar um Búrfellshraun og tilurð Gjánna norðan Kaldársels í Náttúrufræðingnum árið 1973:
Búrfellshraun„Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“.
Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun.
BúrfellshraunAllt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 71/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.
Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka.

Lambagjá

Lambagjá – hleðsla undir vatnsleiðslu.

En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. Í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum.

Kaldársel

Borgarstandur – fjárborg.

Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess.

Lambagjá

Lambagjá – hleðsla undir vatnsleiðslu.

En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.

Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel.

Kaldársel

Borgarstandur – misgengi.

Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hún hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá“, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli.

Kaldársel

Fjárskjól.

Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin“ að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá“ heppilegast.

Um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar. Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað.

Gjár

Gjár.

Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, hverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg.

Gjárnar eru fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.

Gjár

Gjár.

Einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af þessum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg.

Gjár

Gjár.

Meðan enn hélst allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins tif Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann af afli burt undan hallanum, uns „gjáin“ tæmdist smám saman að meira eða minna leyti.

Gjár

Gjár – garður.

Mikið misgengi liggur um austanverðar Gjár. Jón Jónsson (1965) nefnir hana Hjallamisgengið, og er það réttnefni, því að Hjallarnir sunnan og austan við Vífilsstaðahlíð eru sjálfur misgengisstallurinn þar sem hann er hæstur.

Frá suðurenda Vífilsstaðahlíðar heldur Hjallamisgengið áfram með lítið eitt suðlægri stefnu þvert yfir Búrfellshraun og kemur að Kaldá laust vestan við Kaldársel.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Misgengið er glöggt alla þessa leið, en stallurinn er miklu lægri í Búrfellshrauni en í Hjallagrágrýtinu. Í ungu hraununum sunnan við Kaldá vottar ekkert fyrir misgenginu, allt þangað til kemur að Sauðabrekkugjá í Hrútargjárdyngjuhrauni í vestri.

Búrfellshraun rann um tíma í tveimur kvíslum norðvestur yfir misgengisbrúnina, annarri hjá Gjáarrétt og hinni vestur af Kaldárseli. Það er einsætt, að syðri kvíslin, sem hér verður til bráðabirgða kölluð „Kaldárhraun“, rann fyrr í gosinu.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá – hrauntjörn.

Í henni er Lambagjá, leifar hrauntraðar, sem fylltist að mestu er á leið gosið. Ætla má, að sú kvísl hafi lagt leið sína um lægsta skarð, sem þá var í misgengisbrúninni. Þessi hraunálma stefnir litlu vestar en norður á leið sinni milli Fremstahöfða og Miðhöfða að vestan og Sléttuhlíðar að austan, en hverfur þar undir Gráhelluhraun, sem er kvísl úr nyrðri hraunálmunni, runninni síðar í gosinu.“

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Sennilega hefur Kaldá, fyrir Búrfellshraunagosið, fyrrum runnið til norðurs og vesturs millum grágrýtishlíðanna vestan Vífilsstaða, í sjó nálægt Langeyri, en um stutt skeið vegna hraunskriðsins úr austri á gostímabilinu hefur hún runnið þá leið, sem „Kaldárhraun“ rann síðar, og hefur áin þá átt sér farveg ofanjarðar um hraunlausan dal, þar sem nú liggja „Kaldárhraun“ og Gráhelluhraun, eitt affalla Gjánna, alla leið í botn Hafnarfjarðar.
Eftir að gosinu lauk leitaði Kaldá sér nýjan farveg, líkt og ár gera, niður með vesturkanti Búrfellshraunsins (Kaldárshrauns), alla leið til sjávar austan Hvaleyrarhöfða. Seinni tíma hraungos, s.s. í Óbrinnishólum, í Bollum og í Undirhlíðum þrýstu að ánni úr vestri svo hún neyddist til að hörfa af yfirborðinu og leita leiða neðanjarðar milli hraunlaganna, alla leið til sjávar á svæðinu millum Hvaleyrar og Straumsvíkur.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðahellir.

Árni Hjartarson fjallar um Búrfellshraun og Maríuhella í Náttúrufræðingnum 2009. Hann leggur reyndar of mikla áherslu á hellamyndunina og heiti einstakra hella, sem reyndar er villandi í ljósi sögunnar. En hvað um það; vel má una við hluta umfjöllunarinnar: „Búrfellsgígur og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju á Reykjanes[skaga]i. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.

I. Straumsvíkurlota. Í upphafi goss rann hraunið niður í sigdalinn og eftir honum til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum. Þar hefur það sveigt til vesturs og síðan til norðvesturs hjá Stórhöfða og runnið til sjávar í Straumsvík og þar í grennd. Nær allur sá hraunstraumur er nú hulinn yngri hraunum, en komið hefur í ljós að Búrfellshraun leynist þar undir. Við boranir hjá nýrri skolphreinsistöð við ströndina austur af Álverinu í Straumsvík sást að hraunið er þar að finna. Yfirborð þess er á 15,5 m dýpi í borholunni, eða 8 m undir sjávarmáli.

Lambagjá

Lambagjá.

II. Lambagjárlota. Næsti kafli í gossögunni hófst þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði.
Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá, sem er hrauntröð við Kaldárbotna.

III. Urriðavatnslota. Þegar enn lengra leið á gosið fyllti hraunið sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá hætti það að flæða niður með Ásfjalli en rann þess í stað niður með Vífilsstaðahlíð, stíflaði uppi Urriðavatn og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Þessa leið hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.

IV. Goslok. Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá.
Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið stóð. Ekkert bendir þó til mikils gosofsa. Það er því líklegt að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.“

Búrfellshraun

1. Hleinar – Voru friðlýstir 2009. Fjöldi fornra búsetuminja. 2. Gálgahraun – Í friðlýsingarferli vegna jarðmyndana og lífríkis. 3. Stekkjarhraun – Friðlýst til að vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi. Athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. 4. Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár – Verndað vegna jarðmyndana sem hafa vísinda, fræðslu og útivistargildi. Fornminjar má finna á svæðinu. 5. Garðahraun neðra – Í friðlýsingarferli til að stofna fólkvang og útivistarsvæði í þéttbýli þar sem jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningar minjar eru verndaðar. 6. Maríuhellar – Fyrrum fjárhellar og stærstu þekktu hellar innan höfuðborgarsvæðisins. 7. Garðahraun efra, Vífilsstaðahraun – Í friðlýsingarferli til að stofna fólkvang og útivistarsvæði í þéttbýli þar sem gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar eru verndaðar. 8. Kaldárhraun og Gjárnar – Verndaðar vegna helluhraunsmyndana og fagurra klettamyndana í vestari hrauntröðinni frá Búrfelli.

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarandi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárnar, þ.m.t. Lambagjá: „Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar.

Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.
Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.“

Í auglýsingu um „náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar“ – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir: „Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar.

Kaldársel

Borgarstandur – nátthagi.

Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.

Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.“

Kaldársel

Borgarstandur – fjárskjól.

Gjárnar eru stórbrotin hrauntjörn, afurð Búrfellshrauns að sunnanverðu um Lambagjá, rúmlega 5000 ára gamalt. Þrátt fyrir að sá hluti hraunsins hafi runnið um forn misgengissvæði með tilheyrandi dölum og lægðum náði það, þrátt fyrir allt, smám saman allt til strandar.
Frá þeim tíma sem hraunið rann fyrir meira en fimm þúsund árum hefur orðið framhald á misgenginu, er gerir heildarsvip þess nær óþekkjanlega miðað við það hvernig það leit út í lok gossins. Bara misgengið í gegnum Búrfellsgjá, sem sker hana í sundur og aðskilur frá Selgjá, útskýrir vel breytingarnar.

Í Gjánum eru minjar. Í fornleifaskráningu fyrir svæðið er meint aðhald norðan undir Nyrstastapa skráð sem stekkur, en við skoðun á vettvangi var augljóslega um náttúrmyndun að ræða. Þarna eru tvær vörður og virðist önnur vísa á þokkalegt hraunskjól, væntanlega fyrir smala.

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Í gjánum norðvestanverðum eru leifar sumarbústaðar og hlaðinn garður honum tengdum þvert yfir djúpan hraunbollar.
Skammt norðaustan við Gjárnar eru Kaldárselsfjárhellar með heykumli og suðaustan þeirra er leiðigarður vestan Borgarstands, skráður stekkur sem reyndar hefur verið notaður sem nátthagi, leifar fjárskjóls og fjárborg efra. Borgirnar voru reyndar tvær fyrrum, en við gerð vatnsleiðslunnar um Lambagjá var grjóið úr eystri borginni notað í hleðsluna.
Um norðanverðar Gjárnar lá hinn forni Kaldárstígur. Enn má sjá hann klappaðan í hraunhelluna á kafla og áfram yfir hraunsprungu suðvestan Borgarstand áleiðis að Kaldárseli.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 1973, Guðmundur Kjartansson, Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð, bls. 159-183.
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 2009, Búrfellshraun og Maríuhellar, Árni Hjartarson, bls. 93-100.
-Fjarðarpósturinn, 40. tbl. 311.10.2013, Skilti um Búrfellshraun, bls. 4.

Kaldársel

Gjár – minjar.

Hafnarfjörður

Friðþór Eydal hefur tekið saman ritsmíð um „Herbúðir í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi í síðari heimsstyrjöld„. Hér verður gripið niður í umfjöllun hans um herbúðirnar í Hafnarfirði með leyfi höfundar; „Þér er sjálfsagt að nota efnið eins og þú vilt…“.

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal er fæddur 23. september 1952.
Hann hefur starfað sem upplýsingafulltrúi
varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í á þriðja
áratug. Friðþór mun lét af störfum þegar
varnarliðið var að fullu farið á brott en
Friðþór hefur unnið mikið og gott starf sem
upplýsingafulltrúi í gegnum árin. Friðþór er
mikill áhugamaður um sagnfræði og hefur
skrifað um hina ýmsu atburði
hernámsssögunnar.

Fyrstu bresku hermennirnir tóku sér bólfestu í Hafnarfirði og nágrenni 17. maí 1940 þegar vika var liðin frá hernámsdeginum. Voru það liðsmenn 1/7. herfylkis (Battalion) Duke of Wellington fótgönguliðssveitarinnar (Regiment), alls um 700–800 að tölu, sem kom til landsins sama dag ásamt öðrum liðsveitum 147. stórfylkisins (147 Infantry Brigade) sem hóf varnarviðbúnað á Suðvesturlandi. Aðalstöðvar herliðsins sem verja skyldi þýskum hersveitum landtöku á Álftanesi og í Hafnarfirði voru fyrst um sinn í Flensborgarskóla en fluttu brátt í klaustur Karmelsystra sem nýreist var Kvíholti á svonefndum Öldum í landi Jófríðarstaða ofan við Hafnarfjörð. Tók breska herstjórnin klaustrið á leigu í þessu skyni og reisti herbúðir á lóðinni. Herliðið hafðist í fyrstu að mestu við í tjöldum en reisti síðan allmargar herbúðir auk varðstöðva víða með ströndinni og á hæðum þar sem vel sást yfir, t.d. á Ásfjalli.
Kanadískar hersveitir komu einnig til landsins sumarið 1940 og stöldruðu við til hausts á leið sinni til Bretlands. Var einu vélbyssufylki hersveitarinnar The Queen‘s Own Cameron Highlanders of Ottawa falið að vera breska fótgönguliðinu í Hafnarfirði og nágrenni til stuðnings þar til það hélt einnig af landi brott í aprílmánuði árið eftir.
HernámÍ marsbyrjun árið 1941 tók 11. fylki hersveitarinnar The Durham Light Infantry, sem tilheyrði 70. stórfylki breska hersins, við vörnum svæðisins en í stað kanadíska vélbyssufylkisins kom eitt undirfylki 1/9. herfylkis The Manchester Regiment. Tók samskonar undirfylki úr 2. herfylki The Kensington Regiment við í september sama ár.
Skipti urðu aftur á breska fótgönguliðinu í síðari hluta október 1941 þegar herfylkið 1st Battalion Tyneside Scottish, The Black Watch (Royal Highland Regiment), tók við vörnum svæðisins. Liðsmenn voru flestir frá Norðaustur-Englandi líkt og aðrir félagar þeirra í 70. stórfylkinu, en herfylkið tengdist skosku hersveitinni í heiðursskyni og bar einkennisbúning þess.

Hernám

Hafnarfjörður – uppdráttur 1941.

Dvöl „Skotanna“ var þó ekki langvinn því bandaríska herfylkið, 1st Battalion, 10th Infantry Regiment, sem kom til landsins í september 1941, tók við vörnum Hafnarfjarðar og nágrennis 18. desember sama ár. Gegndi bandaríska fótgönguliðsfylkið starfinu þar til í ágústmánuði árið 1943 þegar það hélt af landi brott og flestar hersveitir yfirgáfu Hafnarfjörð. Ólíkt breska og kanadíska hernum tilheyrðu vélbyssuskyttur Bandaríkjahers fótgönguliðsfylkjunum sjálfum en ekki sérhæfðum herfylkjum sem deilt var milli fótgönguliðssveita.
Bretar reistu strandvarnabyssuvígi á Hvaleyrarhöfða sumarið 1940 til varnar innsiglingunni í Hafnarfjörð, og stórskotaliðsveit búin fallbyssum sem dregnar voru af torfærubifreiðum tók sér stöðu ofan við bæinn. Stórar loftvarnabyssur voru ekki settar upp í Hafnarfirði en tveimur slíkum var komið fyrir á Garðaholti í júlí 1940 og fjórum til viðbótar við Breiðabólsstaði á norðaustanverðu Álftanesi sumarið 1941.
HvaleyriAuk fyrrgreindra liðsveita voru stuðningssveitir sem önnuðust verklegar framkvæmdir, viðgerðir, uppskipun, flutninga, birgðahald og aðra þjónustu við fótgöngulið og stórskotalið.
Bandaríkjamenn tóku við allri starfsemi Breta í Hafnarfirði og nágrenni vorið 1942 þegar hernámi þeirra lauk formlega þótt liðsveitir breska flughersins og flotans störfuðu áfram í landinu við varnir skipalesta á siglingaleiðum á Norður-Atlantshafi fram yfir stríðslok.
Bandaríkjaher hóf sjálfur að tygja sig á brott sumarið 1943 þegar meginliðsaflinn sigldi til þjálfunar í Bretlandi fyrir innrásina á meginland Evrópu líkt og herafli Breta árið áður. Yfirgaf meginþorri herliðsins í Hafnarfirði og nágrenni bækistöðvar sínar þá um sumarið en við tóku tvö undirfylki 29. fótgönguliðssveitar, 29th Infantry Regiment, þar til sú hersveit hélt einnig af landi brott í apríl 1944.
ÁlftanesÖndvert við það sem oft hefur verið haldið fram voru gerðir leigusamningar við eigendur fyrir hvaðeina sem herinn fékk til afnota í landinu og greitt fyrir eins og íslensk og bresk lög kváðu á um. Bandaríkjaher tók síðar við flestum leigumálum Breta. Landeigendur komu e.t.v. í sumum tilvikum litlum vörnum við þegar herstjórnin taldi brýna þörf fyrir afnot en greiðslur voru í samræmi við það sem tíðkaðist í landinu, t.d. fyrir afnot af ræktuðu eða óræktuðu landi og húseignum. Verðgildi leigugreiðsla þvarr þó almennt með síaukinni dýrtíð þegar leið á styrjöldina og fékkst seint og illa uppfært, en skaðabótanefnd á vegum herstjórnarinnar og íslenskra stjórnvalda skar úr ágreiningsmálum.
ÁsbúðMikil húsnæðisekla varð í þéttbýli á stríðsárunum vegna gríðarlegs atvinnuframboðs og fólksflutninga úr sveitum. Þegar meginþorri herliðsins var horfinn af landi brott haustið 1943 leituðu bæjaryfirvöld í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri liðsinnis ríkisstjórnarinnar til þess að fá yfirgefnar herbúðir til afnota fyrir fólk í húsnæðisleit og samdist svo um við bandarísku herstjórnina. Í kjölfarið samþykkti Alþingi lög í apríl 1944 sem heimiluðu ríkisstjórninni að kaupa mannvirki hersins og taka að sér að bæta spjöll sem orðið hefðu á landi sem herinn hefði notað samkvæmt leigusamningum við landeigendur og ekki höfðu fengist bætt af leiguskimálum. Samdist svo við ríkisstjórn Bandaríkjanna að íslenska ríkið annaðist kaup og endursölu á öllum fasteignum og búnaði sem Bandaríkjaher vildi selja til þess að tryggja innheimtu lögboðinna aðflutningsgjalda.
HafnarfjörðurSkipaði ríkisstjórnin Nefnd setuliðsviðskipta til þess að annast viðskiptin. Ríkissjóður fékk eignirnar á vægu verði en yfirtók skuldbindingar Bandaríkjahers gagnvart landeigendum. Önnur nefnd, Sölunefnd setuliðseigna, fékk það hlutverk að annast sölu á fasteignum hersins og standa straum af kostnaði við að bæta skemmdir á landeignum. Í fyrirmælum Björns Ólafssonar fjármálaráðherra til nefndarinnar var lögð sérstök áhersla á að vel væri gengið frá og afmáð eftir því sem best væri unnt öll ummerki um herstöðvar og landinu komið í sómasamlegt horf.

Hafnarfjörður

Ásfjall – herminjar ofan camp Cloister – uppdráttur ÓSÁ.

Óhægt þótti fyrir nefndina sjálfa að annast framkvæmdir og bæta skemmdir vítt og breitt um landið. Var því ákveði að semja við kaupendur, t.d. á landsbyggðinni, sem aðallega voru sýslufélög og sveitarstjórnir, um að þeir önnuðust landbætur og tækju að sér aðrar skuldbindingar vegna landeigna sem nefndinni báru. Þó var einnig nokkuð um að einstakir landeigendur fengju peningagreiðslur eða mannvirki á landi sínu til eignar gegn því að standa sjálfir að niðurrifi og frágangi fyrir eigin reikning. Er það einkum á slíkum stöðum sem minjar um hernaðarumsvifin er enn að finna, enda tóku sumir landeigendur mannvirki í eigin þjónustu eftir atvikum og/eða hirtu ekki um að afmá ummerkin líkt og um var samið.

Hvaleyri Ridge, síðar Hvaleyri
HvaleyriBúðirnar voru reistar árið 1940 fyrir breskt fótgönguliðsundirfylki (infantry company) úr herdeildinni The Duke of Wellington Regiment. Sumarið 1941 tóku við liðsmenn Durham Light Infantry og síðar sama ár Company B úr 10. fótgönguliðssveit (regiment) Bandaríkjahers og dvaldi þar fram í júlímánuð 1943 þegar Company F, úr 29. fótgönguliðssveit tók við og hafði þar aðsetur uns hersveitin hélt af landi brott í apríl 1944. Í búðunum voru 27 braggar og 3 aðrar byggingar samkvæmt heimildum Sölunefndar setuliðseigna (27+6 eftir samkvæmt skýrslu Óskars Jónssonar til bæjarstjórnar um bragga í bænum og nágrenni 31. júlí 1944).

Hvaleyri Farm, síðar West End

Hvaleyri

Hvaleyri – herbúðir.

Í Hvaleyrartúninu þar sem var afleggjari heim að bænum og nú er austasti hluti golfvallarins, næst Hvaleyrarbraut.
Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir bresku stórskotaliðssveitina 201 Heavy Battery, Royal Artillery sem starfrækti tvær strandvarnabyssur með 4,7 þumlunga hlaupvídd á Hvaleyrarhöfða til varnar innsiglingunni í Hafnarfjarðarhöfn. Nafni sveitarinnar var breytt í október sama ár og nefndist hún þá D Coast Battery en 186 Coast Battery tók við rekstri virkisins í júlí 1941. Vorið 1942 tók bandaríska stórskotaliðssveitin Battery B úr 25th Coast Artillery Battalion við af Bretum og breytti nafni herbúðanna í Camp West End þegar Camp Hvaleyri Ridge varð Camp Hvaleyri.
HvaleyriBandríkjaher starfrækti strandvarnavígið þar til í júlí 1943 þegar byssurnar voru teknar úr notkun. Liðsmenn ofangreindra stórskotaliðssveita voru jafnan um 100 og í búðunum voru 24 braggar og nokkrar fleiri byggingar, þ. á m. steinsteypt og hlaðið baðhús sem enn stendur.
Strandvarnabyssuvígði á Hvaleyrarhöfða 11. júní 1942. Yst á sjávarbakkanum standa tvö skýli fyrir öfluga ljóskastara sem lýstu upp skotmarkið. Vígið samanstóð af tveimur fallbyssum með 4,7 þuml. hlaupvídd.

Cloisters

Hafnarfjörður

Camp Cloister.

Klaustrið og búðirnar ofan við það voru aðalstöðvar herliðsins sem var til varnar Hafnarfirði og nágrenni, fyrst 1/7 Duke of Wellington Regiment frá sumrinu 1940 þar til í júní 1941 þegar 11 Durham Light Infantry tók við, síðan 1st Tyneside Scottish „The Black Watch“ frá október sama ár og loks 1st Battalion, 10th Infantry Regiment Bandaríkjahers frá desember 1941 til ágúst 1943. Hluti fyrrnefndra kanadískra og breskra vélbyssufylkja hafði einnig aðsetur í Camp Cloisters. 21 braggi var í búðunum og í tíð Bandaríkjahers höfðu að jafnaði um 170 hermenn þar aðsetur.

Green (áður Quarry og Liphook)
HafnarfjörðurBandaríkjamenn sameinuðu þessar tvær búðir undir nafninu Green árið 1942.
Liphook stóð vestanvert við horn Vesturgötu og Vesturbrautar ofan við ytri bryggjuna í Hafnarfirði, nánar til tekið í svonefndu Ölduporti við húsið Öldu þar sem Vélsmiðjan Klettur var síðar til húsa (Óskar 1944: Hellyersport). Búðirnar voru reistar síðari hluta ársins 1940 og þar hafði aðsetur uppskipunarflokkur breska hersins úr 1007 Docks Operations Company. Í júlímánuði 1942 var þar komin slökkviliðssveit Bandaríkjahers, 10th Fire Brigade, sem dvaldi þar til ársins 1943 (Gamla slökkvistöðin í Hafnarfirði stóð þar skammt frá).

Hafnarfjörður

Vesturbærinn.

Quarry stóð vestanvert við horn Vesturgötu og Merkurgötu ofan við innri bryggjuna, Nýubryggju. Kampurinn reis einnig síðla árs 1940 og hýsti fótgönguliðsflokk (Platoon) um 30 manna úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í júní 1941 tók við samskonar sveit úr 11 Durham Light Infantry Regiment og í desember kom þangað um 40 manna bandarískur fótgönguliðsflokkur úr Company C, 10th Infantry Regiment og dvaldi fram eftir ári 1942 eða til vors 1943 þegar hann sameinaðist Company C í Camp Gardar á Álftanesi.
Hafnarfjarðarbær fékk búðirnar leigðar af hernum árið 1943 og endurleigði til íbúðar vegna húsnæðiseklu í bænum ásamt Camp Milnsbridge við Strandgötu. 11 braggar voru í búðunum og 6 lítil hús af öðrum gerðum.

Camp Milnsbridge
HafnarfjörðurNorðan við húsið Bristol við Strandgötu (nú Suðurgata 24) þar sem síðar var Vélsmiðja Hafnarfjarðar og Ásmundarbakarí og enn síðar Listaportið og náði einnig yfir svæðið þar sem íþróttahús Hafnarfjarðar stendur nú.
Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (company) úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Duram Light Infantry Regiment við og undirfylki úr 1st Tyneside Scottish herfylkinu í október. Í desember 1941 tók undirfylki D (Company D) úr 10. fótgönguliðssveit Bandaríkjahers (10th Infantry Regiment) og dvaldi þar fram í ágúst 1943 þegar hersveitin hélt til Bretlands. Í tíð Bandaríkjahers höfðu frá 140 til 270 hermenn aðsetur í búðunum sem töldu 21 bragga og 7 aðrar byggingar.
HafnarfjörðurHafnarfjarðarbær fékk búðirnar leigðar af hernum árið 1943 og endurleigði til íbúðar vegna húsnæðiseklu í bænum ásamt Camp Green við Vesturgötu.
Liðsmenn áttunda liðsflokks 1/6 fótgönguliðsfylkis bresku hersveitarinnar The Duke of Wellington Regiment sumarið 1940 við Ljósmyndastofu Önnu Jónsdóttur sem hún starfrækti í bakhúsi við Strandgötu. Liðsflokkur (platoon) samanstóð af 30–35 mönnum og mynduðu þrír slíkir undirfylki (company).
Braggabyggingin var stundum nefnt Tunnan eða Áman af heimamönnum.
HafnarfjörðurBæjarráð samþykkti í ágústlok 1942 að leyfa bandaríska Rauðakrossinum að reisa braggann sem samkomuhús hermanna til bráðabirgða. Heimildir herma að Kristinn Torfason hafi keypt braggann af Sölunefnd setuliðseigna árið 1944 og einnig að landeigandinn, Sviði hf., eignaðist hann en víst er að verkalýðsfélögin í Hafnarfirði höfðu þar aðstöðu fyrir funda- og skemmtanahald til ársins 1945 þegar þar var sett upp netaverkstæði. Skuldbatt Sviði hf. sig þá til þess að bragginn yrði rifinn sumarið 1946.
Þýsk/bandaríska söng- og leikkonan Marelene Dietrich er sögð hafa kom fram á skemmtun fyrir hermenn í bragganum í september 1943 samkvæmt viðtali við Gunnar Ásgeirsson í ótilgreindu jólablaði Hamars, blaðs sjálfstæðismanna í Hafnarfirði. Það getur ekki passað því hún kom ekki til landsins fyrr en í september 1944 þegar starfseminni var löngu lokið enda allir hermenn farnir úr Hafnafirði og nágrenni.

Camp Babcock

Hafnarfjörður

Camp Babcock.

Tjaldbúðir í núverandi Mosahlíðarhverfi. Babcock var áður Packway í túni Finnboga Ingólfssonar „upp með læk“ upp af vestanverðu Stekkjahrauni þar sem gatan Berjahlíð liggur í Mosahlíðarhverfi.
Herbúðirnar voru reistar haustið 1940 yfir breska stórskotaliðsflokkinn 1 Troop, 273 Field Artillery Battalion sem var vopnaður var 25 punda (88 mm) fallbyssum á hjólum og nefndi búðirnar Packway Camp. Í júní 1941 tók 1 Troop, úr 507. stórskotaliðssveitinni við og síðan liðsmenn bandaríska stórskotaliðsflokksins A Battery, 46th Field Artillery Battalion sem tóku við byssum Breta í febrúar 1942. Gáfu þeir búðunum nafnið Camp Babcock og í júlí árið eftir tók Battery A úr 70. stórskotaliðssveit Bandaríkjahers (70th Field Artillery Battalion) við en sú sveit hafði bandarískar fallbyssur með 105mm hlaupvídd og dvaldi í búðunum til vorsins 1944. Eftir það voru húsin m.a. notuð fyrir búfé og fiðurfénað. Í búðunum voru 18 braggar og þar dvöldu að jafnaði tæplega 100 Bandaríkjamenn. Má enn sjá útlínur nokkurra bragga í hraunjaðrinum.

Hafnar Depot
HafnarfjörðurVið svonefndan Einarsreit (fiskbreiðslureit Einars Þorgilssonar) austan Reykjavíkurvegar og norðan Álfaskeiðs þar sem lengi stóðu birgðaskemmur sem voru hluti af búðunum ásamt minni húsum úr hleðslusteini.
Búðirnar voru reistar árið 1940 og notaðar sem birgðageymsla breska hersins og síðar þess bandaríska (1942–1943), alls 14 vöruskemmur og smærri braggar, 6 skemmur, 8 braggar og 8 steinkofar) sem m.a. geymdu fatnað, matvæli og verslunarvöru. Nokkrir stórir skemmubraggar stóðu við Einarsreit fram á tíunda áratuginn þegar hann var tekinn undir íbúðabyggð. Skemmubraggar sem lengi stóðu vestanvert við Reykjavíkurveg voru ekki reistir þar á stríðasárunum.

Gardar Road

Hafnarfjörður

Langeyri – leifar bragga við Gardar Road.

Við Garðaveg þar sem hann lá vestan við Víðistaðatún og nú mætast Hjallabraut og Sævangur. Garðavegur lá frá Vesturbraut og yfir Víðistaðatún áður en Herjólfsgata og Herjólfsbraut voru lagðar.
Búðirnar hýstu jafnan einn fótgönguliðsflokk úr hersveitum Breta og síðar Bandaríkjamanna sem gætti að umferð um Garðaveg. Síðasti flokkurinn sem hafðist þar við var 30 manna flokkur úr undirfylki C (Company C), 10th Infantry sem hafði aðsetur að Görðum en hætt var að nota Camp Gardar Road til íbúðar sumarið 1942 og varðstöðin við Garðaveg þá mönnuð frá Camp Gardar.

Hafnarfjörður

Camp Gardar  Road.

Stórar braggaskemmur sem reistar voru á háum steinsteyptum grunnum „úti á Mölum“ þar sem Herjólfsgata liggur upp að mótum Garðavegar og Herjólfsbrautar, og enn sjást merki um, voru ekki reistar á vegum hersins á stríðsárunum heldur fluttar þangað af heimamönnum eftir stríð og notaðar sem fiskhús, m.a. af Óskari Jónssyni. Í landi Bala voru varnarmannvirki niðri við sjó sem skaðabætur fengust fyrir vegna landspjalla í stríðslok. Þessar varðstöðvar hafa líklegast verið mannaðar frá Camp Gardar Road og síðar Camp Gardar.

Amotherby
HafnarfjörðurAustan við horn Flatahrauns og Sléttahrauns þar sem Haukaskáli stóð síðar.
Búðirnar voru reistar sumarið 1940 yfir stuðningsundirfylki (Headquarters Company) 1/7 Battalion, Duke of Wellington Regiment sem starfrækti brynvagna, sprengjuvörpur og léttar loftvarnabyssur og annaðist fjarskipti, verklegar framkvæmdir og skrifstofuhald herfylkisins. Tvær flokksdeildir (platoons) úr stuðningsundirfylki 11 Battalion, Duram Light Infantry Regiment tók við í marsmánuði 1941 en voru leystar af hólmi af samskonar liðsveitum Tyneside Scottish-herfylkisins í október. Í desember sama ár tóku 120 liðsmenn þjónustuundirfylkis (service company) bandarísku hersveitarinnar 10th Infantry Regiment við herbúðunum og höfðu þar aðsetur þar til þær voru yfirgefnar í ágúst 1943.

Carleton
HafnarfjörðurVið Hellisgötu og Vesturbraut sem þá hét Kirkjuvegur. Breski herinn tók húsið Kóngsgerði að Kirkjuvegi 19 á leigu og reisti herbúðirnar á lóðinni í kring.
Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir 1. flokksdeild (Platoon) úr undirfylki (No. 1 Company) úr kanadísku hersveitinni Queen‘s Own Cameron Highlanders of Ottawa sem vopnuð var vélbyssum til stuðnings fótgönguliðssveitum. Hermennirnir höfðu einnig aðsetur í Kóngsgerði. Hinn 19. mars 1941 leystu liðsmenn 4. undirfylkis sömu hersveitar félaga sína af hólmi í Hafnarfirði og störfuðu þar uns þeir héldu til Bretlands 27. apríl
sama ár. Í stað Kanadísku vélbyssusveitarinnar í Hafnarfirði komu þá liðsmenn 1/9 Battalion, Manchester Regiment og loks samskonar undirfylki úr 2 Battalion, Kensington Regiment í september sama ár. Kensington-vélbyssufylkið hélt af landi brott 6. apríl 1942 og virðist Carleton Camp ekki hafa verið notaður af Bandaríkjamönnum sem þá voru teknir við vörnum Hafnarfjarðar.

Spithouse
HafnarfjörðurVarnarvígi með skotgröfum í túninu vestan við bæinn Óseyri þar sem nú standa húsin nr. 3–13 við Óseyrarbraut, milli Fornubúða og Stapagötu.
Varðstöð kanadísku Hálendinganna sem höfðu aðsetur í Carleton Camp, undirfylki (No. 1 Company) úr kanadísku hersveitinni Cameron Highlanders of Ottawa sem vopnuð var vélbyssum til stuðnings fótgönguliðssveitum. Nafnið kemur fram á einu korti og sem varnarvígi í sögu hersveitarinnar en aldrei í liðsafla- eða staðsetningarskrám herbúða, enda sjást þar einungis skotgrafir á loftmyndum.

Heimild:
-Friðþór Eydal, „Herbúðir í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi í síðari heimsstyrjöld“, 2025.
Hafnarfjörður

Lækjarskóli

Braggar og herminjar
U.þ.b. 12.000 braggar voru byggðir af Bretum og Bandaríkjamönnum á stríðsárunum og um 1000 hús úr timbri og steinsteypu fyrir eldhús og böð.

Hafnarfjörður

Langeyri – leifar bragga.

Átta mánuðum eftir að herir Hitlers gerðu innrás í Pólland 1939 urðu Íslendingar varir stríðsins með beinum hætt. 10 maí 1940 fylltist landið Breskum hermönnum og hófu að koma sér fyrir í einföldu húsnæði sem við þekkjum sem bragga. Hafnarfjörður fór ekki varhluta af þessari innreið hermannanna frekar en önnur bæjarfélög landsins og voru þessir braggar niðursettir hér og hvar í bænum þó höfundi því miður sé ekki kunnugt hvar né heldur hafi undir höndum haldgóðar heimildir um staðsetningu bragganna í bænum. Sem gaman væri. Það í sjálfu sér breytir ekki staðreyndinni að í bænum voru herbraggar svipaðrar gerðar og annarstaðar þekktist. Breska og bandaríska herliðið reisti alls um 12.000 bragga af öllum stærðum og gerðum í landinu auk um 1.000 smærri bygginga úr timbri og steini sem einkum þjónuðu sem eldhús og böð.

Urriðaholt

Langeyri – herminjar.

Þó vissulega megi víða sjá ummerki veru Breskra og síðar Bandarískra hermanna á Íslandi er flest samt horfið og mönnum hulið. Bestu vaðveitu braggaminjarnar á Íslandi eru í Hvalfirði í eigu Hvals hf sem hann lengi hefur notað fyrir starfsfólk sitt á hvalvertíðum.
Til að mynda var því alltaf haldið fram að á lóðinni bak við húsið Kóngsgerði, Hellisgata 15, áður Kirkjuvegur 19, hafi verið herbraggi, eða braggar, sem hermenn bjuggu í á stríðsárunum á Íslandi þó engin ummerki væru um þá í tíð höfundar á þessum stað.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Á svokölluðum Einarsreit við Strandgötu voru nokkrir svona herbraggar. Einnig var við Vesturkot á Hvaleyri niðurgrafið manngengt byrgi sem hægt var að komast niður í á einum stað. Byrgið vísaði til vesturs og gátu hermennirnir sem þar voru fylgst náið með skipa- og bátaumferð og byrgið reist í þeim tilgangi. Byrgi þetta varð síðar eitt af leiksvæðum hvaleyskra krakka sem bjuggu þar á sjötta áratugnum. Og þá vitaskuld umbreyst í árvökula hermenn og herkonur sem létu ekkert markvert fara framhjá sér sem á sjónum í kring gerðist og flaut. Byrgið vísaði til vesturs og var ágætlega staðsett til að fylgjast með báta- og skipaferðum. Hvort byrgi þetta sé enn þarna veit höfundur ekki en dregur stórlega í efa að svo sé. Herbröggunum var “ dritað niður “ hvar sem slíku var við komið og að minnsta kosti í Reykjavík risu sérstök braggahverfi þó ekki hafi höfundur heyrt á þau minnst um Hafnarfjörð.

Vífilsstaðir

Flóttamannavegur við Camp Russel á Urriðaholti.

Flóttamannavegur ofan við Hafnarfjörð er ein herframkvæmdin og kostuð af hernámsliðinu til að koma því undan innrás Þjóverja, ef af yrði, sem menn auðvitað vissu ekki hvort gerðist. Við veglagninguna vann líklega fólk frá Hafnarfirði. Flóttamannavegur er enn ekin og nú búið að leggja bundnu slitlagi og bæta hér og þar. Frá fyrstu tíð hefur vegurinn verið talsvert notaður. Flóttamannavegur er einn minnisvarði merkilegs tímabils í merkilegri sögu Hafnarfjarðar.

Kolakynding

Kol

Kolakynding.

Reikna má með að allir sem eitthvað þekkja til Hafnarfjarðar hafi heyrt getið Gúttós Suðurgötu 7. 17 desember 1886, er hús Góðtemplara í Hafnarfirði var vígt, var haft eftir, líklega Hafnfirðingi, að byggingin gæti rúmað alla Hafnfirðinga í einu. Salur hússins tók 300 manns og yfirlýsing manneskjunnar ekki út í bláinn. Íbúatala Hafnfirðinga árið 1886 er 400 manneskjur.

Góðtemplarahús

Góðtemplarahúsið við Suðurgötu.

Gúttó er vegleg bygging og ekkert undarlegt þó vakið hafi umtal. Ekki svo að skilja að önnur hús hafi ekki líka verið vegleg en talsvert minni og sum smá með mörgum manneskjum í. Þess skal þó getið að hús Hafnfirðinga voru í engu öðruvísi húsum annarra landsmanna á þessum tíma.
Gúttó var til að byrja með klætt viðarborðum á hliðum og asfaltsteinpappa á þaki sem síðar var skipt út fyrir bárujárnsplötur á bæði þak og hliðar. Gúttó er fyrsta hús Góðtemplara sem félagið reisti undir starfsemi sína í landinu.

Jóhannes Reykdal

Í heimildum um húsið segir að einn ofn hafi verið til upphitunar og staðsettur í salnum. Vísað er á kolaofns og ekki annað að sjá að en að hafi verið eina upphitun þessa mikla húss. Jóhannesi Reykdal reisti árið 1904 rafstöð eftir að hafa virkjað lækinn í Hafnarfirði. 12 desember sama ár lagði Jóhannes við annan mann rafstreng inn í 15 hús sem eftirleiðis nutu góðs af raflýsingu frá rafstöðinni á Hörðuvöllum. (Var þessi rafstöð Reykdals kannski staðsett neðan við brúnna við Austurgötu? Minnir að hafa heyrt það, án þess að fullyrða neitt um.)  Tvö þessara fimmtán húsa sem nutu rafljósanna var Gúttó og Barnaskólinn, ekki Lækjarskóli, ásamt fjórum götuljósum. Þeim fyrstu í Hafnarfirði.
Á þessum tíma er hitun húsnæðis fengin með kolum og þurfti að tendra eld í sérstakri kolamaskínu. Einkennismerki kolatímabilsins voru allir þessir skorsteinar á þökum húsa spúandi upp kolsvörtum kolareyk. Seinna komu skorsteinarnir sér vel er sjónvarpsvæðingin hélt innreið inn í bæinn með öllum sínum sjónvarpsgreiðum sem allar þurftu trausta festingu. Þá hafði kolaupphitun sumpart vikið fyrir olíukyndingu sem höfundur veit ekki hvenær hófst en veit þó að árið 1970 eru enn allmörg hús í bænum kynnt upp með þessum kolum, ef marka má frétt sem greinir frá að eftir að „Kol og Salt“ lagði upp laupanna, skyndilega að því er virðist, hafi visst ófremdarástand skapast. Þá nefnilega hættu Hafnfirðingar, þeir sem enn notuðu kol, að fá þau send heim til sín og þurftu eftirleiðis sjálfir að sækja sér til Reykjavíkur. Og sumir bíllausir. Eina sem bíllaus gat gert, oft gamalt fólk, var að kaupa akstur sendibíls og láta sækja fyrir sig kolin. Í fréttinni kemur fram að líklega sé hitunarkostnaður íbúðarhúsa orðin sá dýrasti sem í boði sé ef kynnt er með kolum.
Þó ekki muni höfundur hvenær Hellisgata 15, Kóngsgerði, heimili höfundar frá 1959-1976, fékk sína olíukyndingu mann hann samt vel eftir kolakyndingunni í kjallaranum þar, fullum kolapokum, kolamokstri og hreinsun kynditækis sem fylltist sóti og þurfti að losa til að stíflast ekki. Og væntanlega muna margir hafnfirðingar eftir Inga blessuðum sótara sem öðru hvoru kleif stiga upp á þök hafnfirskra húsa og renndi kústi niður strompa og sást aldrei öðruvísi en sótsvartur frá hvirfli til ylja?

Lækjarskóli

Lækjarskóli

Lækjarskóli.

Bygging Lækjarskóla var talin fullkomnasta barnaskólabygging í öllu landinu. Hafði smíði hússins þá kostað 200,921 krónu og 49 aura og samanstóð af þrem kennslustofum og rúmgóðum göngum. Strax í upphafi var gert ráð fyrir stækkun hússins og ráðist í hana 1945 og 1946 og henni lokið haustið 1947 á 20 ára afmæli skólans. Með viðbyggingunni bættust fimm nýjar kennslustofur við. 1959 var byggt við fimmleikahús skólans. Við sjáum að Hafnfirðingar hafa á ýmsum stöðum fyrstir riðið á vaðið og ekki bara um útgerð togara heldur á ýmsum öðrum sviðum líka.

Lækjarskóli

Lækjarskóli.

Frá upphafi hafði Lækjarskóli einvörðungu verið barnaskóli en frá árinu 197o voru einnig 1. og 2. bekkir unglingadeildar þar, og var fyrsta unglingaprófið tekið 1971.

Þorgeir Ibsen

Þorgeir Ibsen.

Í frétt um atburð þennan í október 1977 kemur fram að formaður fræðsluráðs Hafnafjarðar hafi afhent Þorgeiri Ibsen skólastjóra leyfi sem heimilaði viðbótarstækkun við skólann og að skóflustunga hafi verið tekin “ Vegna brýnnar þarfar, “ eins og sagt var, sem höfundur minnist ekki að hafi orðið af og veltir því fyrir sér hvort hætt hafi verið við framkvæmdina og hvar sú viðbygging þá sé? Þekkir reyndar ekki hvenær ákvörðun var tekin af bæjaryfirvöldum um byggingu nýja Lækjarskóla. En markmiðið með viðbótinni á sínum tíma var að færa 9. bekk sem á þessum tíma var í Flensborg niður í Lækjarskóla. Og fylgdi með í fréttinni: „Verður Lækjarskóli þá fullkominn grunnskóli.“

Þorgeir Íbsen sem lengi var skólastjóri í þessum skóla og nemendur eiga margar góðar minningar um rakti sögu skólans á þessum merku tímamótum.
En allt hefur sinn tíma og er gamli Lækjarskóli í dag ekki notaður sem barnaskóli heldur fræðasetur og annað skólahús, með sama nafni, risið við Hörðuvelli. Ennþá er „Sá gamli“ eins útlítandi eins og við flest munum hann og rennur lækurinn fyrir framan með sínum öndum líkt áður gerðist. Líka er ánægjulegt til þess að vita að starfsemi sé í húsinu. Allavega öðru hvoru, eftir því sem höfundur best veit.

Sundhöll Hafnarfjarðar vígð 1943

Sundlaug

Sundlaug Hafnarfjarðar fyrrum – Hallsteinn Hinriksson kennir sund í fjörunni neðan núverandi Sundhallar Hafnarfjarðar.

Hið mikla mannvirki Sundlaug Hafnarfjarðar var vígð 1943. Laugin var útilaug sem sjór var notaður í sem áður hafði verið hitaður upp í þar til gerðum upphitunarbúnaði. Athöfnin fór fram við hátíðlega athöfn og fjölmenni sem kom saman í hrauninu bak við húsið. Stundin hefur áreiðanlega vakið verðskuldaða athygli í þessum fyrrum stórtæka útgerðarbæ Hafnarfirði sem um margt reið á vaðið í framkvæmdum.
Lengi hefur heitt vatn runnið úr iðrum jarðar. Um 13 laugar er vitað að voru til og að minnsta kosti ein enn við lýði. Snorralaug í Reykholti og sú fyrsta sem getið er um.
Að vísu urðu hafnfirðingar ekki fyrstir til að reisa alvöru sundlaug fyrir sitt fólk. Reykvíkingar voru nokkrum árum á undan með Sundhöll Reykjavíkur. (Fyrsta steypta sundlaugin reis í Laugardal “ við Reykjavík „, eins og stendur í heimildum, 1908.) Sundhöll Reykjavíkur er vígð 23 mars 1937 og kostaði 650 þúsund krónur.

Sundhöll Hafnarfjarðar

Sundhöll Hafnarfjarðar.

Sex árum síðar, 1943, er í Hafnarfirði vígð 25 metra útilaug sem upphitaður sjór er notaður í sem mikill og fullkominn tækjabúnaður inn í húsinu sjálfu sá um að velgja og gera laugargestum sundsprett sinn þægilegri. Sundlaug þessi var fyrsta sundlaugin sem reis í Hafnarfirði og stendur enn á sama stað, Krosseyrarmölum. Verkið gerist á miðjum stríðsárunum með alla þá óvissu í lofti sem þeim fylgdi. Byggingin, held ég, tafðist vegna stríðsins en samt haldið áfram þó hægar gengi uns verkslokin blöstu við 1943, eins og áður segir. Þetta fær sagt okkur allmikið um hug manna sem gerðu sér grein fyrir mikilvægi byggingarinnar að hún þyrfti að tilheyra bæjarfélaginu og nýtast því Undir sundkennslu, að dæmi sé tekið. Margt bendir til að menn hafnfirskir hafi horft töluvert fram á veginn með sumt og verið tilbúnir fyrir margt á sviði framkvæmda.
Hafnarfjörður1953 var sundlaug Hafnarfjarðar umbylt og stórlega endurbætt er byggt var yfir hana.
Hvenær menn hættu að notast við sjó veit höfundur ekki en veit þó að í áratugi var notast við heitt vatn sem í fyrstu var, eins og sjórinn, hitað upp í tönkum og veitt þaðan út í laugina.
Hvort vatnstankarnir voru kyntir upp með kolum, olíu eða rafmagni veit höfundur ekki heldur um en getur sér þess til að jafnvel öll þessi efni hafi þjónað tilgangi á undan hitaveitunni sem lögð var í húsið eftir 1970, er það ekki rétt?, og önnur hús í bænum sem leysti olíukyndinguna og olíubílanna af hólmi sem og leystu kolinn af og er saga út af fyrir sig sem gaman væri að skoða.
Og hver mann ekki eftir skiltinu í sturtuklefa Sundhallar Hafnarfjarðar sem minnti laugargesti á að fara sparlega með heita vatnið og sápa sig með skrúfað fyrir krananna?

Togarinn Maí árið 1960

Maí

Togarinn Maí GK 346, fánum prýddur á Hafnarfirði. Lítill vélbátur [dráttarbátur] við hlið hans. Suður-kaupstaðurinn í baksýn.

18 maí 1960. Togarinn Maí GK 346 kemur í fyrsta sinn inn til Hafnarfjarðar. Sjá má mikinn mannfjölda taka á móti skipinu.
Engum blöðum er um það að fletta að mikil breyting hafi átt sér stað um alla umræðu þegar menn voru betur tengdir uppruna sínum og vart til sá maður íslenskur sem ekki vissi hvaðan peningurinn kom að var beintengdur sjónum, sókn báta og togara og mikilvægi sjómannastéttarinnar í landinu. Og auðvitað líka útgerðar og útgerðarmannanna.
Þetta má vel sjá með því að glugga í gömul blöð og lesa skrif blaðamanna sem þá voru við störf á dagblöðunum hve þeir voru vel með á nótunum og fjölluðu um þessu mál með greinilegum áhuga á verkefninu.
Og af hverju skrifa þeir eins og þeir skrifa. Svarið er augljóst. Þeir vildu það sjálfir og þjóðinni fýsta að heyra um málið og fá fréttir af skipum, aflabrögðum, gangi veiðanna, sölum togaranna á erlendri grund á haustin, sem var svona tími siglinganna, og ýmsu því sem tengdist sjó- og sjósókn.

Maí

Togarinn Maí.

Engan þarf í skjóli svona upplýsinga að undra móttökurnar sem sjá má af komu nýsköpunartogaranna og svo stóru 1000 tonna síðutogaranna Þýskbyggðu er þeir fánum prýddir sigldu til sinna heimahafna 1960.
Sjálfur var höfundur, þá sex ára gamall, viðstaddur komu togarans Maí GK 346 ásamt foreldrum sínum og mann vel eftir því er reisulegt skipið sigldi milli gamla hafnagarðsins og þess nýja og tók stefnuna á bryggjuna sem kölluð var “ Gamla bryggja “ í bænum og lagðist þar. Á bryggjunni var grúi manna, kvenna og barna að vart rúmaðist þar fleira fólk.
Hvort allir viðstaddir fóru í siglinguna sem boðið var upp á út á flóann veit höfundur ekki en mann vel eftir talsvert stórum hópi fólks um borð.
Viðbrögð hafnfirðinga við komu togarans er ágætt merki til okkar um þennan áhuga bæjarbúa og hve menn almennt voru vel með á nótunum í þann tíð.
Í dag er þetta ekki svona. Án þess að lagt sé neitt mat á það hvort sé gott eða slæmt. Aðeins bent á staðreyndina um að hugsunin sé orðin önnur.
Skoðum tvær umfjallanir úr gömlu dagblaði tengd komu togarans Maí GK 346.
„Alþýðublaðið 13 maí 1960: Maí GK gekk 16, 2 m. í reynsluferð.
„Maí, nýi togarinn Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og jafnframt stærsti togarinn, sem byggður hefur verið fyrir íslendinga, kemur væntanlega til heimahafnar næstkomandi miðvikudag.

Maí

B/V MAÍ GK 346, stálskip, 982 brt., smíðað í Bremerhaven í Þýskalandi 1960, eigandi Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, Hafnarfirði. Seldur til Noregs. Strikaður út af skipaskrá 16.5. 1977. (Skrá yfir íslenzkt skip 1965, bls. 28-29, sama rit 1978, bls. 253).

Í gærmorgun barst Bæjarútgerðinni skeyti frá Bremerhaven, sem í segir meðal annars: Reynsluferð lauk kl. 18 í dag (miðvikudag). Allt í óaðfinnanlegu lagi. Ganghraði í reynsluferð 16,2 mílur.“
Kristinn Gunnarsson forstjóri er nú í Bremerhaven og mun taka formlega við Maí í dag.
Togarinn leggur af stað til Hafnarfjarðar á morgun, laugardag.
Alþýðublaðið 18 maí 1960. – Maí kemur í dag.
Í dag kemur stærsti togari Íslendinga til landsins. Það er togarinn Maí, sem smíðaður hefur verið í vestur Þýskalandi fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Togarinn Maí er 1000 lestir að stærð. Nafnið er það sama og á fyrsta togara Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar,sem hét Maí, og sem var fyrsti togarinn sem gerður var út frá Íslandi, sem ekki var í einstaklingseigu.“
Maí mun leggjast upp að bryggju í dag klukkan 6 síðdegis.“

Skipasmíðastöðin Bátalón

Bátalón

Bátalón neðst t.v..

1961. Skipasmíðastöðin Bátalón stóð við Hvaleyralón og var vinnuveitandi allmargra hafnfirðinga á meðan þar var enn starfsemi.
Bátalón sem lengi var starfrækt í Hafnarfirði og fjölmargir menn störfuðu hjá, skipasmiðir, tæknimenn, verkamenn og fleiri. Bátalón var sem kunnugt er staðsett við merkilegt Lónið við Hvaleyri sem fyllist sjó á flóði en þurrkast alveg upp á fjöru. Og gerir víst ennþá.
Áratugum saman voru bátar smíðaðir í Bátalón og voru sumir bátanna frá stöðinni þekktir um landið. Margir muna eftir 12 tonna Bátalónsbátunum sem gerðir voru út frá mörgum íslenskum höfnum og þóttu ágætis sjóbátar, muni höfundur þetta rétt.
Bátalón

Bátar við Bátalón.

Sé myndin betur skoðuð kemur hluti Herjólfsgötu í ljós handan fjarðarins og sést að þessi gata er bara nokkur hús í beinni línu fast meðfram götunni og hraunið upp af henni „hreint“ af húsum, öðrum en kofabyggingum sem dritað var niður í þetta hraun hirst og her og geymdi fjölda kartöflugarða í eigu bæjarbúa. Svæðið upp af húsunum á myndinni er í dag að mestu komið undir hús sem fólk býr í og biki sem götur eru þaktar með.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörur – loftmynd 1954.

Bæjarmyndin hélst óbreitt má segja áratugum saman og þekkja hana allir Hafnfirðingar sem komnir eru yfir miðjan aldur. Flestir af þeim muna hana alltént eins og hún blasir hér við. Sannleikurinn er að fátt breyttist í bænum okkar og má segja að hver þúfa og hver hóll hafi haldist kyrr á sínum stað. Já, mann fram af manni, liggur mér við að segja.
1961 voru íbúar Hafnarfjarðar innan við 10, 000 manneskjur og langt frá tölunni sem gildir í dag, sem er um 28,000 manns. Bærinn hefur stækkað talsvert frá árinu 1961.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

1961 voru nú ekki margar götur lagðar biki eða steinsteypu heldur voru þær að stærstum hluta þaktar möl með sínum aur og pollum sem bifreiðar skvettu úr er þar óku um þessar götur í rigningartíð og gerðu skófatnað íbúa skítuga og, stundum að minnsta kosti, úr hófi fram sem teygði sig uppeftir buxnaskálmunum Efnalaug Hafnarfjarðar máski til gleði sem við það fékk flíkinni meira til að hreinsa og örlítið meira af aur í kassann. “ Safnast þegar saman kemur “ – segir enda spakmælið.
Margt hefur breyst í bænum okkar fagra sem hlær svo glaðlega í logni sumarkvöldanna. Í honum heyrist ekki lengur vélarskellir fiskibáta að koma og eða fara sem suma af þeim mátti þekkja af vélarhljóðinu einu saman. Allt svona er bara minningin ein og Bátlón hætt starfsemi og fjölda annarra burðarstoða bæjarins einnig og annarskonar atvinnustarfsemi tekin við í stækkandi bæjarfélagi.
Gaman að sjá þessar gömlu myndir og skoða breytingarnar sem orðnar eru. Ljósmyndin segir okkur stöðuna á hverjum tíma og er oft ágætis heimild um margt sem var. Sagan er skemmtilegt umhugsunarefni. Víst er um það. Sett hér inn til gamans og vonandi líka smá fróðleiks.

Rafha í Hafnarfirði

Rafha

Rafha.

Rafhaeldavélarnar þóttu miklir kostagripir og voru líklega til á flestum íslenskum heimilum á sinni tíð.
Alltaf hafa verið til menn sem sjá möguleika. Fljótlega eftir virkjun Sogsins í Grímsnesi fóru menn, kannski hafnfirðingar, að hugleiða hvort ekki væri rétt að nýta orkuna sem þarna var og framleiða íslensk raftæki.
Hér er kominn grunnur að því sem síðar varð og hafnfirðingar þekkja sem Rafha og varð að veruleika árið 1936 með stofnun hlutafélagsins Raftækjaverksmiðjan h/f í Hafnarfirði en nafnið stytt í Rafha og það notað í vörumerki. Stofnendur voru 22 talsins, auk ríkissjóðs.

Rafha

Rafha.

Um lóð var sótt og reis 702, 5 fermetra bygging á Lækjargötu 22 – 30, á bökkum Hamarskotslækjar í Hafnarfirði og mest á einni hæð. Lokið var við byggingu Rafha- hússins 1937. 20 verkamenn unnu hjá fyrirtækinu, auk nokkurra sérfróðra manna. Vélar voru keyptar í Noregi.
Um mánaðarmótin ágúst september 1937 lauk smíði fyrstu íslensku eldavélarinnar með framleiðslunúmerið 1. Það sem eftir lifði árs 1937 voru framleiddar hjá Rafha aðeins 187 eldavélar. Menn vildu fara varlega.
Árin á eftir voru Rafha erfið og gekk firmanu illa að útvega sér hráefni til framleiðslunnar.

Rafha

Rafha-eldavélar.

Með hernámi Danmerkur og Noregs í apríl 1940, var ljóst að leita þyrfti nýrra leiða til að útvega hráefni og halda starfseminni gangandi. Þá var hönnuð ný eldavél með amerískum rafbúnaði og samsetningarhlutum og svokölluðum gorma- eða spíralhellum, sem sumir muna eftir. Eftir stríðið vænkast aftur hagur Rafha með söluaukningu sem gerir húsnæðið fljótt of lítið.
1945 var það stækkað verulega og tækifærið notað til að endurnýja vélakost. Tíu árum eftir gangsetningu (1946) hefur Rafha framleitt 22,730 rafmagnstæki af 30 tegundum og er komið með 46 manns í vinnu.
1952 og aftur 1957 er húnsæðið enn stækkað og fer í yfir 5000 fermetra. 1952 hóf Rafha að framleiða ryksugur og í samstarfi við Vélsmiðjuna Héðinn þvottavélina Mjöll.
Uppúr 1960 fór að halla undan rekstrinum. Útflutningur hjá Rafha gekk ekki sem skildi 1986, á 50 ára afmælinu, var tímamótum fagnað með opnun glæsilegrar verslunar í húsakynnum fyrirtækisins við Lækinn í Hafnarfirði.
1990 var ákveðið að hætta rekstri þessarar merkilegu verksmiðju og selja reksturinn. Síðan 1996 hefur Rafha rekið 1000 fermetra verslun við Suðurlandsbraut 16 í Reykjavík. Líklegt er að Rafha hafi átt drjúgan þátt í að eldavélavæða íslensk eldhús.

Hluti fréttar í Morgunblaðinu 17. júní 1965
„STJÓRN H.f. Raftækjaverksmiðjan í Hafnarfirði, RAFHA, ákvað hinn 8. mars 1964 á 75 ára afmæli Bjarna Snæbjörnssonar læknis, er verið hefur í stjórn verksmiðjunnar frá upphafi, að minnast þess með 25 þúsund kr. gjöf, er hann ráðstafaði á einhvern þann hátt, er hann kynni að óska. Nokkru síðar tilkynnti Bjarni stjórninni, að hann hefði ákveðið að stofna sjóð af gjöf þessari og skyldi hann heita Afmælisgjafasjóður Hafnfirðinga.
Stjórn sjóðsins er þannig skipuð: Prestur þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði; lögreglustjóri og bæjarstjóri Hafnarfjarðar séu fastir stjórnarmenn. Þeir skipta með sér verkum og kjósa síðan tvo meðstjórnendur, karl og konu, til tveggja ára í senn úr hópi þeirra Hafnfirðinga, sem fengið hafa skeyti.“

Heimild:
-http://www.sporisandi.is/old_hafnarf/old_hafnarfjordur/hafnarfjordur_i_den.pdf

Rafha

Myndin er tekin á Tjarnarbraut yfir lækinn að Lækjargötu, Öldugötu og Hamarinn. Lágreista húsið bak við trén er hluti af Rafha, fyrir miðri mynd er lágreist timburbygging svokölluð „bæjarbyggingin“ áföst steinhúsi, Gömlu Gróf. Lengst til vinstri er svo Mjólkurstöðin. Allar þessar byggingar eru horfnar.

Kaldársel

Farið var með Þórarni Björnssyni um Kaldársel, en hann er að vinna að bók um sögu staðarins.

 Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.

Þórarinn sýndi þátttakendum það sem hann hafði grafið upp um  staðinn og FERLIRsfólk sýndi honum annað, s.s. Gvendarsel undir Gvendarselshæð, fjárhellana norðan við Borgarstand, Nátthagann í Nátthaga, Þorsteinshelli vestan Selgjár o.fl. Þórarinn benti m.a. á letursteinana við Kaldá, en á nokkra þeirra eru klappaðar sálmatilvitnanir. Á einu er vísað í Davíðssálma þar sem segir að það tré, sem gróðursett er við lind og fær næga næringu, dafnar vel. Þetta mun hafa verið sett á steinana á 5. áratug 20. aldar af aðstandendum KFUMogK í Kaldárseli með vísan til megintilgangs sumarbúðanna á sínum tíma.
Kaðalhellir er þarna skammt norðvestar sem og Hreiðrið. Gamla gatan frá Kaldárseli til Hafnarfjarðar er mörkuð í klöppina á kafla sem og gamla gatan frá Kaldárseli til Krýsuvíkur.
Þetta var róleg ferð, en fróðleg. Nokkrir áhugasamir slógust í hópinn.
Veður var frábært.

Áletrun

Áletrun í Kaldárseli.

Kershellir

 Að sögn Friðþófs Einarssonar, bónda á Setbergi, er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna. Að sögn móður hans, Elísabetar Reykdal, notaði afi Friðþjófs, Jóhannes Reykdal, hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði hús undir féð uppi á Húsatúni þar skammt frá.

Kershellir

Kershellir – varðan ofan við opið.

Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli.
Kershellir, sem er á landamerkjum, er tvískiptur; nyrðri helmingur hans tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti.
Hvatshellir gengur suður úr niðurfalli sunnan Suðurhlíðar milli Setbergshlíðar og Slétturhlíðar og er stór varða á vesturbrún þess. Um töluverða hvelfingur er að ræða, um 40 metra langa, 10 metra breiða og um tveggja metra háa. Eftir að komið er niður í hellinn sjást göng upp með niðurfallinu. Þar er afhellir álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri.

Heildarleng hellisins er um 100 metrar. Hellirinn fannst sumarið 1906 og varð forsíðufrétt í blaðinu Þjóðhvelli (1906), en þar segir:

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

„Fjórir piltar, ungir og röskir: Helgi Jónasson, Matthías Ólafsson, Sigurbjörn Þorkelsson (allir þrír starfsmenn Edinborgarverslunar hér í bænum) og Skafti Davíðsson trésmiður, höfðu myndað með sér félag í vor, er heitir Hvatur, í því augnamiði, að temja sér göngulag og styrkja með því líkamann. Hafa þeir því á sunnudögum gengið upp í landið til að njóta fríska loftsins og fegurðar náttúrunnar. Í einum slíkum leiðangri fyrir skömmu, fundu þeir hellir einn uppi í Hafnarfjarðarhrauni, stóran og fallegan – miklu stærri en helli þann í Þingvallahrauni, er kenndur er við enska manninn, Hall Caine, af því að hann fann hann ekki.-

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Þennan nýfundna hellir hafa piltarnir skírt Hvatshelli, eftir félagi sínu, og var vel til fundið. – Lengd hellis þessa, frá enda í enda, kvað vera 300 fet; afhellar eru margir út úr aðalhellinum, hver inn af öðrum, og kvað innsti hellirinn vera þeirra lang-fallegastur. Hvelfing hans er t.d. snilldarvel löguð. Merki þess þykjast menn sjá, að menn hafi komið í hellir þennan áður fyrir löngu.
Árangur af þessari ferð piltanna hefur orðið merkilegur mjög, og hlýtur að vera þeim og öðrum til gleði, – eiga þeir þökk skilið fyrir fundinn. – Að minnsta kosti hefði slíkur fundur sem þessi þótt matur hér í Víkinni, hefði finnandinn verið einhver nafnkenndur útlendingur eða Lord eða eitthvað því um líkt og verið innundir hjá ritstjóranum.“

Fjárhús

Fjárhúsið í Húsatúni.

Eldborgargreni

Hér á eftir verður fjallað um „Afréttarnot í Grindavík og Vatnsleysustrandarhreppi“ fyrrum. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar um sveitarfélögin frá árinu 2004.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 segir um Krýsuvík: „Afrjett fyrir jarðarinnar peníng nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð. En Jarðabókin getur ekki annars staðar um afrétt í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum“.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Um afrétt í Krýsuvík segir séra Jón Austmann í sóknarlýsingu sinni frá 1840: „Afréttarlönd í Selvogi er Heiðin háa, en í Krýsuvík fjöllin þar umhverfis.
Í lýsingu Staðarsóknar í Grindavík frá 1840-1841 segir Geir Bachmann prestur á Stað:
„Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.
Áður hefur verið nefnd kvörtun Geirs undan ágengni nágranna sinna í sellandinu sem kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur „Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi” sem birtist í afmælisriti Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979.

Selsvellir

Selsvellir.

Hér verður tekinn upp að nýju dálítill kafli.: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760. …

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …
Pétur Jónsson prestur á Kálfatjörn minnist ekki á afréttarnot í lýsingu sinni á Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknum árið 1840.

Hraunssel

Hraunssel.

Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: „Sumarbeit góð í seli upp til fjalla“ …
Til er upphaf fjallskilaseðils af Vatnsleysuströnd sem ekki verður tímasettur en er væntanlega í sambandi við fjárkláðaskoðun á síðari hluta 19. aldar þar sem fjáreigendum á Vatnsleysum og Flekkuvík er falið að smala Dyngjur og Fíflavallafjall og koma fénu á Selsvelli á fimmtudagskvöldi, þar sem fjáreigendur eiga að mæta það kvöld og smala næsta dag ofan fjallið og heiðina. Ekki er víst að af þessum seðli megi draga nokkrar ályktanir um smalanir á þessu svæði af því tilefnið mun líklega hafa verið sérstakt eins og áður var nefnt, þ.e. fjárkláðaskoðun.

Knarrranessel

Knarrarnessel.

Samkvæmt lýsingum á fáeinum jörðum á Vatnsleysuströnd í fasteignamati 1932 mætti ætla að sveitin hafi þá orðið sér úti um afrétt. Segir um Stóra – Knarrarnes II að það eigi rétt til upprekstrar í afrétt og Stóra – og Minni – Vatnsleysa eiga rétt til upprekstrar í afrétt sem er sveitareign. Hins vegar átti Traðarkot í Brunnastaðalandi ekki afréttarland.
Sveitarbækur Vatnsleysustrandarhrepps frá því um 1930 eru ekki tiltækar á Þjóðskjalasafni svo að ekki hefur verið hægt að ganga úr skugga um hvaða afréttarland geti verið um að ræða og raunar verður ekki séð af afsals- og veðmálabókum að þinglesinn hafi verið nokkur leigusamningur um afrétt á þessu svæði.
Árið 1941 keypti sýslunefnd Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar sem sumarbeitiland að undanskildu landi Hafnarfjarðarbæjar, sem bærinn hafði keypt fyrr á árinu 1941, öðrum afnotum landsins, ítökum, hlunnindum og náma- og hitaréttindum.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Elsta fjallskilareglugerð fyrir Kjósar- og Gullbringusýslu er frá árinu 1891. Þar segir í 1. grein: „Hreppsnefnd hvers þess hrepps, er afrjett á, skal annast um, að geldur fjenaður (hross, naut og sauðfje sje rekinn til afrjetta á þeim tíma, sem hentast er, eptir árferði og öðrum kringumstæðum. Hreppsnefnd hvers þess hrepps, sem engan afrjett á, skal ef unnt er, og hún álítur þess þörf, útvega hreppsbúum sumarhaglendi fyrir geldfjenað þeirra móti hæfilegu endurgjaldi úr hreppssjóði. Skulu þeir fjáreigendur skyldir til að reka fjenað sinn á hið fengna haglendi, sem að áliti hreppsnefndar ekki hafa nægilegt haglendi fyrir fjenaðinn heima“.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Í 6. grein eru ákvæði um að högun gangna skuli boðin með fjallgangnaseðli 3 vikum fyrir fyrstu fjallgöngur.
Næsta fjallskilareglugerð, 1896, kveður svo á í 1. grein: „Að svo miklu leyti sem heimalönd að áliti hreppsnefndar eru eigi nægileg til sumarbeitar, ber öllum, sem geldfjenað eiga, að reka hann til afréttar þar sem hann er, að öðrum kosti koma fjenaði sínum til göngu yfir sumartímann hjá öðrum, sem land hafa. Verði hlutaðeigandi óánægður með ráðstöfum hreppsnefndar, skal hlíta ítölu í landið. Sama gildir um þá, sem fjenað taka, ef þeir ofsetja í land sitt. Hreppsnefndin sjer um, að þetta sje ekki vanrækt“.

Selsvellir

Selsvellir.

Óbreytt ákvæði voru í fjallskilareglugerð frá árinu 1902 en Gullbringusýsla og Hafnarfjörður fengu eigin fjallskilareglugerð árið 1914. Þar segir í 2. grein: „Enginn má heimildarlaust reka sauðfjenað eða hross í land annars manns, nje heldur án leyfis hlutaðeigandi landráðanda eða hreppsnefndar ónáða fje á fjalli eða í annars manns landi“.
Hér virðist ekki gert ráð fyrir afréttum á viðkomandi svæði. Sama má segja um fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar frá árinu 1939, 4. grein: „Skylt er öllum grasbýlismönnum og fjáreigendum að smala sjálfir heimalönd sín og koma fénaði þaðan til allra lögrétta. Fjallskyldur er hver sá, sem fénað á eða hefir til umráða, hvort sem jörð hefir til afnota eða eigi. Hann er og skyldur að sækja fé til rétta innan sýslugirðingar eftir fyrirlagi hreppsnefndar eða bæjarstjórnar“. …

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Allnokkrar breytingar urðu í næstu fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðar árið 1965. Þá var fyrst tekið tillit til afréttarlands sýslunnar í Krýsuvík:
„1. gr. Sýslunefnd hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála í Gullbringusýslu og Hafnarfirði. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og framkvæmd mála þessara hver í sínum hreppi eða í samvinnu tvær eða fleiri saman, þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála að einhverju eða öllu leyti.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Afréttarnefnd, skipuð einum manni úr hverjum hreppi, hefur með höndum niðurröðun á fjallskilum á afréttarlandi sýslunnar í Krýsuvík. Nefnd þessi skal, eigi síðar en í 20. viku sumars hafa lokið störfum og sent hverju sveitarfélagi eða eftir atvikum fjallskilanefnd tilkynningu um hvað hverju sveitarfélagi (upprekstarfélagi) beri að leggja til fjallskila á þessu svæði. … Árið 1988 voru afréttar- og fjallskilamálefni Hafnarfjarðar aðskilin frá Gullbringusýslu með staðfestingu fjallskilasamþykktar fyrir Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Þar eru eftirfarandi ákvæði:

Kringlumýri

Kringlumýri undir Sveifluhálsi.

1. gr. Sýslunefnd Kjósarsýslu hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar og fjallskilamála í Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og alla framkvæmd fjallskilamála í sveitarfélögum og í samvinnu þegar fleiri sveitarfélög hafa upprekstur og réttarhald sameiginlega. Verði ágreiningur milli sveitarstjórna út af fjallskilamálum sker sýslunefnd úr. Heimilt er sveitarstjórn að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Öllum þeim sem jörð hafa til ábúðar eða umráða ber skylda til að smala land sitt á vorin eftir fyrirmælum sveitarstjórnar …
4. gr. Hreppsnefndum er heimilt að greina allt land í hreppum í heimaland og upprekstrarland, ef ástæður þykja til. Telst þá upprekstrarland, þar sem búpeningur gengur á sumrin en notast lítt eða ekkert á vetrum sökum fjarlægðar frá byggð.
5. gr. Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstrarland án leyfis
sveitarstjórnar.

Klofningar

Í Klofningum.

Nú er í gildi fjallskilasamþykkt fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar frá árinu 1996:
1. gr. Samþykkt þessi tekur til allra afréttar- og fjallskilamála í Árnessýslu vestan vatna, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og öllum kaupstöðum í Kjalarnesþingi, þ.e. allra sveitarfélaga eða hluta sveitarfélaga vestan Ölfusár, 2. gr. Hver sýsla er fjallskilaumdæmi sem skiptist í fjallskiladeildir eftir sveitarfélögum. Kaupstaður telst til fjallskilaumdæmis þeirrar sýslu sem kaupstaðarlandið hefur áður legið undir.

Vigdísarvallarétt

Vigdisarvallarétt – uppdráttur ÓSÁ.

Héraðsnefndir hafa á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála, hver á sínu svæði. Sveitarstjórnir annast stjórn og framkvæmd þessara mála, hver í sínu sveitarfélagi, eða í samvinnu tvær eða fleiri saman þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum, svo sem félögum sauðfjáreigenda, framkvæmd fjallskilamála, að einhverju eða öllu leyti.
3. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða upprekstarlönd þar sem fé þeirra gengur saman, skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða fulltrúar þeirra kjósa fjallskilanefnd til að sjá um lögboðin fjallskil …
5. gr. Upprekstarlönd eru afréttir og þau heimalönd sem leituð eru félagslega samkvæmt ákvæðum um fjallskil, sbr. 11. og 12. gr. V. kafla þessarar samþykktar. Skulu þau eingöngu nýtt til sumarbeitar. … Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstarland án leyfis sveitarstjórnar. …
Engin umfjöllun er um afréttarmálefni í Gullbringusýslu í bókinni Göngur og réttir.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir – horft af Trölladyngju.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004): „Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990″.

Markhella

Markhelluhóll.

Lögð hefur verið fram lýsing Sæmundar Þórðarsonar á Stóru – Vatnsleysu á smalamennskum á Vatnsleysuströnd og Vogum sem stjórnað var af hreppsnefnd. Lýsingin er dagsett 27. október en án ártals. Segir hann bændur hafa smalað sjálfir heimalönd í Vatnsleysustrandarhreppi í sex einingum:
1. Hvassahraun (Hvassahraunsmenn smöluðu að Markhellu).
2. Vatnsleysubæir og Flekkuvík (í fyrstu rétt smalaðir Höskuldarvellir, farið upp Sog og vestur með Spákonuvatni og sigin norðan í Grænavatnseggjum og niður austan við Driffell og niður með Hrafnafelli, um Kolhól, Einiberjahól og Austari-Hrafnhól. Senda varð tvo menn til að smala tór sem liggja upp eftir Afstapahrauni, allt til Sóleyjarkrika. Með Flekkuvíkurmönnum var farið upp í Flekkuvíkursel og smalaður þríhyrningur, sem myndaðist milli Vatnsleysumanna og Kálfatjarnar- og Þórustaðamanna, milli Hafnhóla og Prestsborgar (Staðarborgar) og Keilisness. Þess hafi verið gætt að vera samsíða Kálfatjarnar-, Þórustaða-, Landakots og Auðnamönnum við smölun).
Kálfatjörn
3. Kálfatjörn, Þórustaðir, Landakot og Auðnar (Sæmundur nefnir það Þórustaðaleit en ekki hve langt þeir hafi smalað).
4. Knarrarnes.
5. Hlöðunes og Brunnastaðahverfi.
6. Vogar. (Sæmundur nefnir ekki hvert menn á svæðum 4 – 6 hafi smalað). Eftir að bílfært varð á Höskuldarvelli og upp í Eldborg og Sog hafi smalar verið fluttir á bílum upp eftir, og hafi allir nýtt sér það nema Brunnastaða- og Vogamenn. Á síðari árum hafi Brunnastaðamenn farið á bílum frá Ísólfsskála að Litla-Hrút og smalað þaðan til Brunnastaðaréttar. Smalamennskur í Krýsuvík hafi verið samstarfsverkefni Vatnsleysustrandarmanna og Grindvíkinga, réttað á Vigdísarvöllum á sumrum en rekið til Grindavíkur á haustum. Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki hafi verið lífæð beitar yfir sumartímann, jafnvel þótt stór hluti hafi verið í rækt og þar heyjað. Þar hafi alltaf verið rennandi vatn.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – grenið.

Margrét Guðnadóttir frá Landakoti á Vatnsleysuströnd lýsir nýtingu heiðalandins í æsku sinni (8. maí 2004): „Fé hafi verið sleppt í heiðina löngu fyrir sauðburð og gengið þar afskiptalaust fram í júlíbyrjun þegar smalað var til þess að marka lömb og rýja ær. Smalar á Þórustöðum, Kálfatjörn og Landakoti hafi gengið Þórustaðastíg og heiðina langt upp fyrir Keili að hæð sem nefnist Melhól, þaðan sé ekki langt í Grænavatnseggjar á mörkum Þórustaða og Krýsuvíkur. Smöluð hafi verið heiðin frá og með Kálfatjarnarlandi að Breiðagerðis- og Knarrarnesslöndum“.
Enginn fjárbóndi var á Auðnum en bændur á innströndinni máttu nýta þeirra hluta af heiðarlandinu. Margrét segir Krýsuvík hafa verið komna í eyði þegar hún fór að muna eftir sér. Segir hún innstrandarbændur hafa á uppvaxtarárum sínum farið „í fjallið” á hverju hausti og verið viku í þeirri ferð, smalað allt Krýsuvíkurland og komist austur að Herdísarvík.

Klofningar

Klofningar – greni.

Lagt hefur verið fram skjal varðandi tófugreni sem Grindvíkingar hafa legið á um langan aldur eða unnið. Er þar sagt að Grindvíkingar hafi frá alda öðli legið á grenjum í Hraunsseli, Selsvöllum, vestur af Grænavatnseggjum og sunnan við Driffell. Gera má ráð fyrir að grenjavinnsla í Krýsuvíkurlandi hafi færst meir á hendur Grindvíkingum þegar byggð eyddist í Krýsuvík og minni fyrirstaða varð af fé úr Krýsuvík enda landið innan marka Grindavíkurhrepps fram yfir 1940. Hreppurinn hefur væntanlega borið ábyrgð á grenjavinnslu á svæðinu á meðan. Einnig má nefna að samkvæmt framkomnum upplýsingum nýttu Grindvíkingar Vigdísarvallaland til sumarbeitar og því meiri ástæða til þess að þeir legðu til menn til þess að liggja þar á grenjum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki.