Tag Archive for: Hafnarfjörður

Kleifarvatn

Orðið „Kaldrani“ virðist hafa verið til í ýmsum myndum; sem nafnorð, þ.e. bæjarnafn, tröllsnafn og nafn á fjalli eða vík, eða sem lýsingarorð á veðurfyrirbæri eða karllægri hegðan. Hér á eftir er nokkurra þeirra getið í ljósi örnefnisins við Kleifarvatn í Krýsuvík.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Eina orðmyndina má finna í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 þar sem Brynjúlfur Jónsson lýsir rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902: „Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt hún hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleifarvatn. Og líka er sagt að þar hafi alt fólkið dáið af loðsilungsáti. Örnefnið: Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fðm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma.“
Vissulega má sjá garðleifar á nefndum stað, en þar hefur væntanlega aldrei verið bær undir hraunkatli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatnið hefur um aldana rás hlaupið fram og aftur um umhverfi sitt. Í manna minnum myndaðist t.d. svonefnt Nýjaland sunnan þess. Það er nú grasi gróin mýrardrög og nýtt af hestamannafélaginu Sörla á sumrum. Áður voru þarna Vesturengjar Krýsuvíkurbæjanna. Ef Kaldrani hefur verið bær í Krýsuvík fyrrum hefur hann verið í Hvömmum. „Kaldranaminjarnar“ munu líklega hafa verið útstöð frá honum. Í Hvömmum eru nú „Hnakkageymslur“ hestafólks. Það hefur fært verulega út kvíarnar og komið sér upp sumarafdrepum í óþökk sveitarfélagsins.

Hvammur

Hnakkageymslur í Hvammi sunnan Kleifarvatns. Húsið með gæna þakinu er ofan á tóftum.

Eitt afdrepið hefur, illu heilli, verið fyrirkomið ofan á merkilegum minjum í hvamminum. Þar gæti mögulega hafa verið bærinn Kaldrani fyrrum, og síðar selstaða frá Stóra-Nýjabæ (Austurbæ). Sellækur liðast um hvamminn, auk þess að þarna hefur fyrrum verið ákjósanlegt bæjarstæði með Hvammahlíðarnar og Austurengjarnar sem ákjósanleg slægjulönd. Nyrst á Austurengjum eru fornar minjar um gerði og önnur mannvirki.

Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943 skrifar Ólafur Þorvaldsson um „Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“. Þar getur hann um „bæinn“ Kaldrana:
„Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Kaldrani – veggur.

Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á.
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt.“
Hér etur Ólafur upp, gagnrýnislaust, upp þjóðsöguna af Kaldrana og bendir á enn „geti menn bent á“ bæinn á þeim stað. Þarna virðist hanna fara villu vega, líkt og svo margir aðrir, sem eftir upp átu.

Í Degi 1996 má lesa upprifjun úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar um Krýsu og Herdís: „Fleiri sagnir eru til um landnám Krýsuvíkur og hvernig örnefnið er til komið. Hér fer á eftir útgáfa Brynjúlfs Jónssonar: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á landnámstíð, því að fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögu, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það, sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs. Þó hefur það verið sagt.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein, er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefur spúið eldi, því í honum er gígur ekki alllítill og úr honum hefur runnið hraun það, er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust (höfðu í heitingum), og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir híðinni skammt fyrir austan hálsinn.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata.

Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður, þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið veiði mikil í Kleifarvatni í Krýsuvfkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni. Herdís mælti svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á, að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum.
Það skyldi og fylgja, að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn í Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn, svo hann varð að flytja úr stað, og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís. Þá komu sjómenn með skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana, þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi, og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.

Dysjar

Dysjar Herdísar og Krýsu við götuna um Kerlingadal.

Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar, sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“
Dysjar eru vissulega neðst í Kerlingardal við gömlu þjóðleiðina millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, sem og lítil dys smalans í hlíðinni. Staðreyndin er hins vegar sú að í hvert sinn sem fornleifafræðingar grafa í svonefndar sögulegar dysjar og grafir gerist fátt annað en ekkert. Líklega mun sú raunin verða ef framangreindar dysjar yrðu afhjúpaðar – því miður.

Kaldrani

Kaldrani – veggur.

Í Griplu 2013 er grein er nefnist; „Er Þat illt, at þú vilt elska tröll Þat“ og er þar vísa til sögulegs samhengis jöðrunar ú Hrafnistumannasögum. Þar segir m.a.: „Í Ketils sögu hængs er getið um Kaldrana. Í þessari sögu er ómögulegt að vita, en þó er Kaldrani alltaf kallaður jötunn en vinir hans tröll.“

Í Ægi 1916 er frásaga „Ferðar um Norðurland“: „Austasta víkin í Hafnalandi [á Skaga norðan] er Kaldranavík. Stendur bærinn Hafnir fyrir botni víkurinnar og þó nokkurn kipp frá sjó. Austan megin vikurinnar er bær sá er Kaldrani nefnist og á hann land austan megin víkurinnar og alt að miðjum botni hennar.“

Í Islandske Maaneds-Tidende 1773, Nyheder, segir af bæjartali Reykhóla kirkjusóknar. Þar kemur bæjarnafnið Kaldrani fyrir, nr. 15.
Beretning om ode-Gaarder.
Med mindre man havde tydelige Beviisligheder at grunde fine Tanker paa ikulde man fortære at Landet havde faa meget aftaget i nogle ioo Aar, fom det virkelig har: Til Exempel er dette at udi Stade og Reykhole Kirke-Sogn findes 25 ode-Gaarder nu omftunder fom alle forher have været beboede.

Í Breiðfirðingi 1992 er mynd af fjallahring, m.a. af Kaldrana.

KaldraniÍ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1049 er fjallar Hans Kuhn um „Vestfirsk örnefni“.
„Svo sem nöfnin Hreggnasi—Hreggnes og Arnarstapi fann eg og flest önnur nöfn af þessari gerð, sem dreifð eru um stóra hluta lands eða allt landið, Arnarbæli, Brimnes, Kaldbakur og Svalbaroð“—Svalbarði, í nyrzta hrepp Strandasýslu (Árnessveit), en hvergi í öllum hinum hreppum hennar. Helzta undantekningin, sem eg þekki, er Kaldrani. Svo heitir holtahryggur í Arnkötludal í Steingrímsfirði. Stærsti bærinn í Bjarnarfirði heitir Kaldrananes, en hann hét í upphafi Kallaðarnes og seinna Kaldaðarnes.“

Í Iðunni; nýr flokkur, 1918, er birt ljóðið „Konan í Hvannadalabjörgum – íslensk þjóðsaga í ljóðum eftir Guðmund Magnússon“;
Nú vaknar bergið —
það bifast og stynur,
það beljar og dynur
sem hefji tröllin
bamrafargið
og hristi fjöllin. —
Himinkljúfandi
hark og sköll,
gegnumsmjúgandi
gnístran og köll.
»Vaknaðu Víðgrani!
Vaknaðu Kaldrani!
Alsvartur, Öskruður,
Ámur, Rangbeinn!
Rís upp, Þrúðgelmir,
Þrívaldur, Hraunbarði,
Bölþorni, Brokkur,
Blakkur, Dumbur.
Skyndið ykkur, Skellinefja,
Skjaldvör, Gláma, Brana, Fála,
Henginkjaíta, Hrottintanna,
Hágríður, Blágríður!
Gerið sköll og skelli,
skark og hark í felli,
hjá oss er í helli
Hálfdán á Felli,
Hálfdán á Felli«.

Í Póstmannablaðinu 1944 er grein; „Póstmannafélag Íslands 25 ára“:
„Ný skipan – Frá ársbyrjun 1920 varð sú breyting á stjórn póstmálanna, að aðalpóstmeistaraembættið var stofnað og tók Sigurður Briem við því, en Þorleifur Jónsson varð póstmeistari í Reykjavík. Póstmálaskrifstofan varð nú til, með sérstöku starfsliði og sérstökum yfirmanni — póstritara —, er gengi næst aðalpóstmeistara að völdum. Um þetta nýja embætti kepptu tveir gamlir og gegnir póstmenn og varð annar hlutskarpari, eins og venjulegt er. Upp úr þessu myndaðist á Póststofunni einhvers konar kaldrani til skrifstofunnar og var fátt fært til betri vegar, ef önnur leið var tiltæk. Hefur þetta haldist æ síðan, á mismunandi stigum, en mætti nú vera úr sögunni og saknaði þess sennilega enginn.“

Í Skírni 1929 eru „Ritfregnir“:
„Einkennilega eru þau orð samsett, er málfræðingar kalla einu nafni »Bahuvrihi«. Þessar samsetningar voru að upphafi nafnorð, segir höf., en urðu síðar lýsingarorð, eða voru notuð í stað lýsingarorða. Hefir þessum samsettu orðum fjölgað mjög í germönskum málum á síðari tímum og nefnir höfundur fjölda dæma, eins og t. d.: hrokkinskinna, litilhugaður, mjóeygur, Kaldgrani ( = Kaldrani) o. s. frv.“

Í Morgunblaðið 1983 fjallar Hildur Einarsdóttir um „Áhrif veðursfars á fólk“.
„Fyrir rúmri viku var ég stödd i París í stórri verslunarmiðstöð, þar sem áður var gamli matvörumarkaðurlnn í París, les Halles. Þar er myndband á einni hæðinni, sem flytur fréttir hvaðanæva úr heiminum. Ég fór að góna á skerminn og allt í einu var komin þar frétt frá Íslandi. Það voru tíðindin um að sl. júlímánuður heföi veriö sá kaldasti hér á landi frá því árið 1874 og bætt var við, að nú stæði Ísland svo sannarlega undir nafni. — Skyldi nokkurn undra þótt við séum orðin svolítið fúl yfir veðrinu, þegar við rigninguna bætist svo þessi kaldrani.“

Kaldrani

Kaldrani við Kleifarvatn.

Í Fálkanum 1943 er jólahugvekja eftir sjera Jakob Jónsson; „Ljós skal skína fram úr myrkri“.
„Hinn kristni heimur heldur jól. Ljósinu bregður fyrir í myrkrinu. Sjerhver sá, sem enn ú nokkurn veginn óspiltar tilfinningar, finnur á hinni helgu nótt, að ljósið skín í hjarta hans. Og jafnvel þó að kaldrani hversdagslífsins leggisi aflur yfir borg og byggð, er enginn samur maður, sem fundið hefir ljósið skína fram úr myrkrinu. Hann hefir, þótt ekki sje nema stundarkorn lifað í heimi jólanna.“

Niðurstaðan er sú að orðið „kaldrani“ í íslenskri málhefð er flóknara en svo að hægt verði að skýrskota það til nákvæmlega eins staðar á Reykjanesskaganum….

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Brynjúlfur Jónsson, bls. 50.
-Dagur, 19.10.1996, Krýsa og Herdís, bls. 5.
-Gripla, 24. árg. 20.12.2013, Er Þat illt, at þú vilt elska tröll Þat – Hið sögulega samhengi jöðrunar ú Hrafnistumannasögum, bls. 193.
-Ægir, 11.-12. tbl. 01.12.1916, Ferð um Norðurland, bls. 137.
-Islandske Maaneds-Tidende, 2. tbl. 01.11.1773, Nyheder, bls. 29.
-Breiðfirðingur, 1. tbl. 01.04.1992, Á tildi Vallahnúks, bls. 171.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags, 01.01.1943, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 92-93.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1049, Vestfirsk örnefni eftir Hans Kuhn, bls. 17.
-Iðunn; nýr flokkur, 3. tbl. 01.01.1918, Konan í Hvannadalabjörgum, íslensk þjóðsaga í ljóðum eftir Guðmund Magnússon, bls. 170-171.
-Póstmannablaðið, 1. bbl. 01.07.1944, Póstmannafélag Íslands 25 ára, bls. 4.
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1029, Ritfregnir, bls. 240.
-Morgunblaðið 26.08.1983, Áhrif veðursfars á fólk, Hildur Einarsdóttir, bls. 34.
-Fálkinn, 17.12.1943, Ljós skal sklina fram úr myrkri, jólahugleiðing eftir sjera Jakob Jónsson, bls. 1.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Kringlumýri

Í „Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði“ árið 1998 segir m.a. um Gestsstaði í Krýsuvík:

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa.

„Gestsstaðir skal hafa verið jörð heitið nálægt Krýsuvík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenningsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsuvíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsuvíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tíma í eyði legið, en engi veit til nær hún hafi bygð verið.“ „Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. …Fram undan Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað.“

Gestsstaðir

Gestsstaðir – minjar.

„Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Bæjartóftin er 10 ft löng frá austri til vesturs, hefur engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dys sjást ógjörla, en á suðurhlið hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum nér norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 5 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir verið umgirt, er það víða komið í sand af frárennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið í eign Krýsuvíkurkirkju. Hefur bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið að nýta hjáleigur í nytum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.“ Framangreind lýsing er höfð eftir Brynjúlfi Jónssyni frá árinu 1902.

Gestsstaðir

Gestsstaðir, austan hálsa – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls (1703) segir frá jörðinni Gestsstöðum nálægt Krýsuvík. Þá voru greinilegar bæði tóftir og túngarður þó mikið væri uppblásið. Bærinn hafði þá verið svo lengi í eyði að enginn vissi hvenær hann var byggður síðast.

Gestsstaðir

Tóft vestan við Gestsstaði.

Matthías Þórðarson, Þjóðminjavörður, friðlýsti eyðibýlið Gestsstaði við Krýsuvík árið 1930 á grundvelli lýsingar Brynjúlfs Jónssonar er birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903, bls. 50, undir yfirskriftinni „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm. löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Ges[s]tstaðir og staðið vestur við hálsinn.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – eystri tóftin og gerði.

Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Geststaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Geststaðaland eftir eldinn. En við það hafa Geststaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.“
Í örnefnaskrá segir að á Gestsstöðum sjái fyrir miklum tóftum og að þar muni hafa verið stórbýli sem munnmæli séu um að hafi fyrrum heitið Krýsuvík. Rústirnar eru undir blásnum hól, ca. 150 m suðvestur af Krýsuvíkurskóla, á um það bil 30×50 metra stóru svæði. Í fornleifaskráningu Bjarna F. Einarssonar eru skráðar þarna 3 tóftir, bæjarrúst, garður/gerði og ógreinileg rúst.
Heimildir eru einnig um aðra rúst uppi á hálsinum ekki langt frá, hún stendur stök og greinilegt grjót í hleðslum.

Kringlumýri

Gestsstaðir „vestan hálsa“. Líklegra er þó að þarna sé um að ræða seltóft og þá væntanlega frá Húshólmabæjunum (Gömlu Krýsuvík).

Málið er að þeir Gestsstaðir, sem „hefðu í fyrstu heitið Gestsstaðir vestur við hálsinn“, hafa hingað til aldrei ratað inn í fornleifaskráningar, hingað til a.m.k., þrátt fyrir eftirlit Fornleifastofnunar með gildi slíkra skráninga. Tilvist minja um slíka heimild er þó til á vettvangi. Og telja má víst, að fornleifafræðingar, sem á eftir koma, munu ekki vísa í þessa heimild. Slík er smánin.

Kringlumýri

Kringlumýri vestan Sveifluhálss.

Vestan Móhálsa [eldra nafn á Sveifluhálsi] er að finna mjög fornar minjar, mjög líklega eldri en elstu minjar, sem hingað til hafa fundist hér á landi. Um er að ræða minjasvæði á þurrsvæði ofan mikillar mýri. Bæjarhóllinn er nú orðinn fordjarfaður; lítt mótar fyrir veggjum, nema kannski miðsvæðis. Þar virðist hafa verið meginbygging, en allt umhverfis virðast hafa verið ýmskonar húsakostir. Ekki sést móta fyrir girðingum eða gerðum umleikis.
Lækir renna beggja vegna minjasvæðisins. Líklegt má þykja að hæð þeirra í landslaginu og afurð þeirra hafi breyst í gegnum aldirnar. Neðar er umfangsmikil mýri og neðst í henni er forn skjólgóður gígur með vatnssvarmi.
Svæðið í heild er einstaklega skjólgott fyrir nánast öllum veðráttum.

Hettustígur

Hettuvegur – gatan er vel mörkuð í móbergið.

Hettusvegur, millum Krýsuvíkurbæjanna og Vigdísarvalla, liggur með vestanverðri Hettu ofan Kringlumýrar.  Vegurinn er vel markaður í hlíðina á köflum. Vegurinn sá virðist hafa týnst, eftir því sem hann varð fáfranari á millum svæðanna, en fannst síðan aftur eftir leit áhugamanna.

Krýsuvík

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – eystri bæjarhúsin (útihús).

Í fyrstu töldu FERLIRsfinnendur minjasvæðisins að þarna hefði verið um að ræða selstöðu frá „Húshólmabæjunum“, einum elstu mannvistarleifum í Krýsuvík sem og landinu öllu – sjá HÉR.

Kringlumýri

Kringlumýri – líklega ein elsta selstaðan á Reykjanesskaganum.

Tiltölulega auðvelt var að rekja augljósa forna götu niður og upp með mýrinni – allt þar til lækirnir koma saman neðan hennar, allt niður að Krýsuvíkur-Mælifelli. Þar hverfur gatan í hraunið er rann 1151 – áleiðis niður í Húshólma. Sjá HÉR.

Minsjasvæðið í Kringlumýri hefur aldrei notið verðskuldaðrar athygli hingað til, hvorki í umfjöllun né í fornleifaskráningum af svæðinu – hvað þá að það hafi verið rannsakað að verðleikum. Ekki er ólíklegt að minjarnar þar kunni að vera frá sama tíma og minjarnar í Húshólma – eða jafnvel enn eldri.

Til er frásögn af pöpum í Hettu ofan Kringlumýrar – sjá HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, 1998.
-JÁM III, 7; Ö-Krýsuvík, 8 15; Árbók 1903, 50.
-Krýsuvík – Trölladyngja, Fornleifaskráning, Fornleifavernd ríkisins 2008.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 50.
-Árni Magnússon og Páll Vídalin: Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 7.

Kringlumýri

Kringlumýri.

Selvogsgata

Í „Svæðisskráningu fyrir Hafnarfjörð 1989“ er m.a. fjallað um Kerlingarskarðsveg, Grindaskarðsveg, tóftina í Helgadal og hellana í Setbergs- og Hamarskotsseli. (Hafa ber í huga að um tvo aðskilda vegi er um að ræða, að hluta a.m.k. Selvogsgata (Suðurferðavegur) lá um Grindarskörð, millum Hafnarfjarðar og Selvogs, en Kerlingaskarðsvegur lá af Selvogsgötu ofan hellunnar um Kerlingarskarð að Hlíð við Hlíðarvatn. Út frá honum lá Stakkavíkurvegur að Selskarði.)

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur.

„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindarskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. …Frá Hafnarfirði, upp á móts við Lækjarbotna, er aðalleið Krýsuvíkur farin. Þegar í Lækjarbotna kemur, er farið yfir mjótt hraunhaft, norðvesturtagl Gráhelluhrans. Að því slepptu er komið á moldargötur, með Gráhelluhrauni að norðan, en til vinstri handar fyrst allstórt melholt, sem Svínholt heitir. Milli þess og Setbergshlíðar liggur dalur til norðurs og heitir Oddsmýrardalur.

Setbergssel

Op Ketshellis (Selhellis).

Þegar Setbergshlíðar þrýtur, er farið yfir þar, sem hraunið hefur hellst fram, norðan Klifaholta, og heitir þá Smyrlahraun þar efra. Hraun þessi munu mest úr Búrfelli runnin. Ofarlega í hraunbelti því, sem áður getur og yfir er farið, áður en upp á móts við Klifholt kemur, er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárból frá Setbergi, meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð. Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt og vildi gólfið blotna, þegar fé kom brynjað inn. Skal nú haldið áfram ferðinni. Þegar upp á hraunbeltið kemur, sem umgetnir hellar eru í, er aftur komið á moldargötur, og er þá Smyrlarbúðarhraun til vinstri, en Klifsholtin, nokkrir smáásar, sem hraunið hefur runnið kringum, á hægri hönd. Fyrst er Sléttuhlíð, þá Smalaskáli ofar og austar.

Smyrlabúð

Smyrlabúð.

Þegar Brunann þrýtur, til vinstri, er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri; að austan eru brattar skriður en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð. …Við suðurenda Smyrlabúðar þrýtur Klifsholt og tekur við allgreiðfært klapparhraun, þar til í Helgadal kemur, en það er smádalur með uppssprettuvatni, enda skammt frá upptökum Kaldár. [Þar er Helgadalsrúst.] …

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum. Helgafell fjær.

Þegar upp úr Helgadal kemur, taka við sléttar melgötur að Valahnjúkum, sem eru tindóttir móbergshnjúkar norðan af Helgafelli. …Þegar Valahnjúkum sleppir, er skammt í Mygludali, Liggja þeir undir suðvesturbrún Húsfellsbruna. Þaðan er skammt til Búrfells, sem fyrr er getið. …Þegar haldið er upp frá Myngludölum, er lagt á hraun, sem nær óslitið upp að fjalli. Eftir um þriggja stundarfjórðunga lestargang, er farið er yfir norðurtögl á tveimur melöldum, sem standa upp úr braunanum, og eru þar Kaplatór.

Selvogsgata

Grindarskarðsgata á Hellum.

…Frá efri Kaplató upp að fjalli liggur vegurinn mestmegnis um sléttar hraunhellur, og er sá kafli hraunsins nefndur Hellur. Má þar víða sjá djúpar götur sorfnar ofan í helluna af aldarumferð. …Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, uns upp er komið á Kerlingarskarð. Allbratt er upp að fara, einkum neðst og efst.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði,

Þegar komið er undir efstu brekkuna er dalverpi lítið í fjallið norðan götu. Þar sést enn kofarúst, leifar af skýli, sem byggt var í tíð brennisteinsvinnslunnar í Brennisteinsfjöllum, og var „sæluhús“ þeirra, sem fluttu brennisteininn á hestum til Hafnarfjarðar. Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðsvegur.

Mygludalir

Mygludalir.

Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helst lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingaskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

…Hæsti hryggur fjallsins er mjór, og fer rétt strax að halla austur af, en ekki er það unfanhald langt, svo sem hálfrar stundar gangur, þar til landið liggur jafnhátt, og nær það að Hvalhnjúk og Ásum. Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá. Er það harungjá mikil, sem hraun hefur runnið efir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er [Kóngsfell]. Þar komu saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu. Þegar komið er austur að fjallshryggnum er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriða, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. …“

Grindaskarðsvegur

Grindarskörð

Grindarskarðsvegur.

„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafni Grindarskarðs- eða Kerlingarskarðsvegur.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Frá Hafnarfirfði, upp á móts við Lækjarbotna, er aðalleið Krýsuvíkur farin. Þegar í Lækjarbotna kemur, er farið yfir mjótt hraunhaft, norðvesturtagl Gráhelluhrauns. Að því slepptu er komið á mordargötur, með Gráhelluhrauni að norðan, en til vinstri handar fyrst allstórt melholt, sem Svínholt heitir. Milli þess og Setbergshlíðar liggur dalur til norðurs og heitir Oddsmýrardalur. Þegar Setbergshlíðar þrýtur, er farið yfir þar, sem hraunið hefur hellst fram, norðan Klifholta, og heitir þá Smyrlahraun þar efra. Hraun þessi munu mest úr Búrfelli runnin. Ofarlega í hraunbelti því, sem áður getur og yfir er farið, áður en upp á móts við Klifholt kemur, er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárbólk frá Setbergi, meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð. Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt og vildi gólfið blotna, þegar féð kom brynjað niður. Skal nú haldið áfram ferðinni. þegar upp á hraunbeltið kemur, sem umgetnir hellar eru í, er aftur komið á moldargötur, og er þá Smyrlarbúðarhraun til vinstri, en Klifsholtin, nokkrir smáásar, sem hraunið hefur runnið í kringum, á hægri hönd. Fyrst er [Sléttahlíð], þá Smalaskáli ofar og austar. Þegar brunann þrýtur, til vinstri er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri; að austan eru brattar skriður, en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð.

Setbergsselshellir

Í Setbergshelli.

…Við suðurenda Smyrlabúðar þrýtur Klifsholt og tekur við allgreiðfært klappahraun, þar til í Helgadal kemur, en það er smádalur með uppsprettuvatni, enda skammt frá upptökum Kaldár.

Selvogsgata

Selvogsgata – Helgafell fjær t.v. og Valahnúkar t.h.

…Þegar upp úr Helgadal kemur, taka við sléttar melgötur að Valahnjúkum, sem eru tindóttir móbergshnjúkar norður af Helgafelli. …Þegar Valahnjúkum sleppir, er skammt í Mygludali. Liggja þeir undir suðvesturbrún Húsfellsbruna. Þaðan er skammt til Búrfells, sem fyrr er getið. …Þegar haldið er upp úr Mygludölum, er lagt á hraun, sem nær óslitið upp að fjalli. Eftir um þriggja stundarfjórðunga lestargang, er farið yfir norðurtögl á tveimur melöldum, sem standa upp úr brunanum, og eru það Kaplatór. …Frá Efri-Kaplató upp að fjalli liggur vegurinn mestmegnis um sléttar hraunhellur, og er sá kafli hraunsins nefndur Hellur. Má þar víða sjá djúpar götur sorfnar ofan í helluna af aldarumferð. …Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, uns upp er komið [norðan Konungsfells. Þaðan er vegurinn varðaður niður að Litla-Kóngsfelli og áfram niður í Strandardal]…

Helgadalur – tóft

Helgadalur

Helgadalstóftin – uppdráttur ÓSÁ.

„Tóft eru í dal sem heitir Helgadalur og er skammt frá Skúlatúni, sjá garð, og liggur Grindarskarðsvegur um dalinn hjá rústinni.

Helgadalur

Helgadalur – tóftin t.h.

Ekki [er] ljóst í landi hvaða jarðar þessi dalur er en þetta er ekki langt frá Hafnarfirði. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. En hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál. 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhlið suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni [má] sjá ógjörla dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverju frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið.“

Hamarkotssel – Setbergssel – Ketshellir/Kershellir/Kjötshellir

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

„Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi ar nærri sem heitir Sléttahlíð hjá helli nokkrum og skulu þar kallast enn í dag Hamarskotssel.“ „Í Sléttuhlíð var Hamarskotssel hjá helli skammt upp í hrauni, nefnt á hellum.“

Setbergssel

Setbergssel. Helgafell fjær.

„Selstöðu á jörðin [Setberg] þar sem heitir Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema í gjá, sem sólhiti bræðir.“ „Úr Gráhellur liggur línan í Setbergssel. …Landamerkjalínan liggur í Markavörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Ketshellirinn liggur örlítið hærra, og er [þar] líka að finna seljarústir og selgerði, og meira er hér um rústir. Ketshellirinn er jarðfall, 20 metra að ummáli, nær hringlaga. Hann er stór og rúmgóður, hátt undir loft. Austur og upp úr honum er afhellir, nefnist hann síðan um 1910 Hvatshellir.“ „Ofarlega í hraunbelti því, sem áður getur og yfir er farið, áður en upp á móts við Klifsholt kemur, er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárskjól frá Setbergi, meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeist mest stunduð…“ „Upp í grasivöxnu holti við jaðar Gráhelluhrauns.“ …þar til kemur að Hánefi, innst í hlíðinni og héðan liggur gatan í selið. Þessi staður er reyndar einnig kallaður Ketshellir, Kershellir og Kjötshellir.“ „Um 20 m langur og 3-4m breiður hellir með bogadregnu þaki. Lofthæð í miðjum helli/göngunum 1.6-2.2m. Í miðjum hellinum hefur verið hlaðið skilrúm. Op er í báðum endum og hefur verið hlaðið upp í þau til að þrengja þau.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Op vesturenda er um 2m breitt að neðan en mjókkar upp í 1.1m að ofan. Hæð er um 2.1-2.2m. Aðdragandinn að inngani er nokkuð brattur. Og austurenda er um 1.3 að neðan en 80cm að ofan. Hæð er 195. Aðdragandi að inngangi er nokkuð brattur. Mikil sauðaskán er á gólfi þó mun meira austan skilrúmsins þar sem hæðarmismunur er um 30cm. Heðsla í A enda er S laga og myndar e.k. göng eða skjólgarð utan við sjálft opið. Hleðslan er um 7m löng. Þar sem nú er hæst er hún 180cm en lækkar í 70cm. Ofan á þessa hleðslu hafa verið lagðar nokkrar stórar hellur sem mynda þak milli hleðslu og hellis. Hleðsla í V enda myndaði um 90° horn, þ.e. að hluta til göng eins í hellinn og að hluta til að loka hellismunnanum. Hæð nú 120[cm] en hæð hellismunnans er 180[cm]. Breidd 290-300cm, lengd (í inngangi) 240 cm. Skilrúm er 370[cm] breitt. Hæð eins og hún er nú austan megin 120cm og niður í 73cm. Grunnur hellisins er örlítið bogadreginn til suðurs. Elísabet Reykdal segir að þessi hellir hafi alltaf verið kallaður Kjetshellir, en Gísli Sigurðsson kallar han Selhelli, en segir Kjetshelli vera helli skammt frá sem Elísabet kveður heita Hvatshelli. Hellinum var skipt milli Setbergs og Hamarskots.“

Sjá meira um hellana HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, bls. 274-276.
-Árbók 1993-48, 96-99.
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, bls. 276-277.
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, bls. 278.
-Árbók 1908, 10-11.
-JÁM III, 174-175; Ö-Garðakirkjuland, 5.
-Þjóðminjaskráning í Hafnarfirði, 72.
-Árbók 1943-48, 96.

Grindaskarðsvegur

Grindarskarðs- og Kerlingaskarðsvegir.

Gvendarsel

Í „Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði“ 1998 er m.a. fjallað um gamlar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur; Vatns- eða Dalaleið, sem voru í raun sitthvor leiðin vestan og austan Kleifarvatns millum Krýsuvíkur og Kaldárssels.

Vatns- eða Dalaleið

Breiðdalur

Breiðdalur.

„Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki farið áður. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið.

Slysadalur

Slysadalur.

Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara [þessa] leið en áður var. …Það er þá fyrst, að þessi leið er stysta og beinasta lestarleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðastaða og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún er nokkrum annmörkum háð, – og hún gat verið hættuleg. Þessi leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar verið tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrfyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávalt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vega á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

…Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun vikið að. …Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrri suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðarbunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypst hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvammahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær er hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í henni við landið. Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar ufir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tildóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur upp á stöpunum, em milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjara. – eða lítið vaxið ef í vexti var. Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamrar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella.

Nýjaland

Nýjaland.

Þegar hátt er í vatninu, náði það upp í Helluna, er stórgrýtt er í botnin undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10-20 , ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir:

Svunta

Svunta.

Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. …Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn á Blesaflöt…. Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn í Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur, harðvellisgróður og sem tún yfir að líta.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Upp úr norðurbotni Breiðadals er farið yfir allbratt malhaft, og þegar norður af því kemur, er komuð í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og svo má heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið. – Slysadal. …Þegar Slysadal sleppur, er komið í Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu. Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadali, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldárssels.“

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 271-272.
-Ólafur Þorvaldsson; Ábók 1943-48, bls. 91-94.

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Hrauntungustígur

Í „Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði“ 1998 segir um Stórhöfða- og Hrauntungustíg:

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

„Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum (Ófriðarstöðum), um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t.d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðuastur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klapparhraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið. Gegnum nýja brunann, liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum. Í nýja braunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir litlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir.
Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóði liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. …Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur ofan Fremstahöfða..

Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðarveginn, skammt suður af Sandfellsklofa. Stórhöfðastíginn fóru stunum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það fell [er] mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemmt komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.“

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

„Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði (Ófriðarstaði) að Ási, þaðan um Skarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan sem er þar stakur á jafnsléttu.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur sunnan Stórhöfða.

Frá honum er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og um Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrst vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur. Þó kann að vera, að stígurinn gegnum Ögmundarhraun, sé eldri, …og þá sennilega þær fyrstu.

Gegnum Hábrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær hrauntungur, sem stígurinn liggur greiður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú sauðfjárhagar Hraunjarðanna, en hefur fyr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til nýtingar fleiri en Hraunabænda, t.d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi fengið nafn, Hrauntungustígur. Eftir að suður úr Hrauntungunum kemur, er óglöggt, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarrið vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur upp á Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn. …Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðursm sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir síða og djúpa gjá, á jarðabrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt mosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd, og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosunum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin á þessari brunaeyðimörk. Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell; Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs. Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var [að] heita má eingöngu farin af gangandi mönnum og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þess leið.“

Báðar framangreindar leiðir eru bæði vel greini- og aðgengilegar í dag.

Heimild:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 267-268.
-Ólafur Þorvaldsson; Árbók 1943-48, bls. 98-88.
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 268-269.
-Ólafur Þorvaldsson; Árbók 1943-48, bls. 89-90.

Stórhöfðastígur - Hrauntungustígur

Stórhöfða- og Hrauntungustígur.

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir/Þorláksstaðir“ var fyrrum bær ofan Hafnarfjarðar, milli Hvaleyrar og Áss.

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir – útihús.

Í dag er fátt, sem minnir á bæinn því bæði hefur verið byggt á gamla bæjarstæðinu og hraðbraut; Reykjanesbrautin, verið lögð í gegnum jörðina. Sorglegt dæmi um hvernig fornleifar hverfa undir framkvæmdir vegna vanskráningar og áhugaleysis hlutaðeigandi aðila. Þó má enn sjá leifar tveggja útihúsa suðaustan mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Strandgötu; austan Ástorgs.

Í Morgunblaðinu sunnud. 7. júlí 1918, má sjá eftirfarandi auglýsingu:
Þorgeirsstaðir„Jarpur hestur , 6 vetra gamall, hefir tapast frá Þorgeirsstöðum við Hafnarfjörð. Mark: blaðstýft aftan hægra, biti fratnan, og blaðstýft framan vinstra. Finnandi beðinn að skila honum til Þorgeirs Þórðarsonar, Þorgeirsstöðum, Hafnarfirði.“

Í Morgunblaðinu föstud. 16. jan. 1920 er jörðin auglýst til sölu:
„Til sölu er býlið »Þorgeirsstaðir« við Hafnarfjörð ásamt meðfylgjandi erfðafestulandi, sem er 13,5 dagsláttur, þar af eru 7 dagsl. ræktaðar í túni sem gefur af sér ca. 100 hesta af töðu.
ÞorgeirsstaðirBýlinu fylgir íveruhús 10×10 1/2 alin, heyhús 10×10 1/1 al. og peningshús með safnþró undir. alt bygt úr hlöðnum grásteini, og áfast hvað öðru. Beitiréttur getur fylgt.
Semja ber við eiganda og ábúanda Þorgeir Þórðarson, Þorgeirsstöðum.“

Í Morgunblaðinu fimmtud. 9. des. 1926 er jörðin enn auglýst til sölu:
„Jörðin Þorgeirsstaðir, við Hafnarfjörð, fæst til kaups og ábúðar í næstu fardögum. — Túnið gefur af sjer um 100 hesta. Jörðinni fylgir íbúðarhús, hlaðið, fjós og safnþró, alt úr steini.
Þorgeirsstaðir—Lysthafendur snúi sjer til eigandans Brynjólfs Pálssonar, Þorgeirsstöðum eða Sigurðar Kristjánssonar, kaupfjelagsstjóra í Hafnarfirði.“

Og í Morgunblaðinu miðvikud. 27. nóv. 1929, birtist enn ein sölutilkynningin:
„Jörð til sölu.
Býlið Þorgeirsstaðir við Hafnarfjörð er til sölu og laust til ábúðar frá næsta vori. Túnið gefur af sjer 100 hesta. — Allar byggingar eru úr steini. Þar á meðal fjós fyrir 5 kýr, haughús og hlaða sem tekur 200 hesta.
ÞorgeirsstaðirAllar nánari upplýsingar viðvikjandi sölunni gefur Björn Jóhanneson.
Vesturbrú 9. Hafnarfirði. Sími 87.“

Í Morgunblaðinu laugard. 12. nóv. 1962, er auglýsing:
„Jörð til sölu.
Jörðin Þorgeirsstaðir við Hafnarfjörð, ásamt íbúðar og peningshúsum úr steini, er til sölu. Túnið gefur af sjer ca. 120 hesta af töðu.
Upplýsingar gefur Sigurður Kristjánsson, Hótel Hafnarfjörður, sími 24.“

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, Jólablaðinu 1965, segir:

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir – kort frá 1908.

„Jófríðarstaðir eru býli á Jófríðarstaðahæð næst fyrir utan Kvíholt.

Þogeirsstaðir

Þorgeirsstaðir 1954.

Jörðin hét að fornu Ófriðarstaðir (nafninu breytt 1875), og mun það nafn eiga rætur að rekja til einhvers ófriðar, sem hér geisaði fyrr á öldum, en hér var róstusamt á 15. og 16. öld.
Þá liggur bílabrautin sunnan undir Hvaleyrarholti, en þangað hefur kaupstaðurinn teygt byggð sína á síðustu árum. Sunnan vegar er Ásfjall með mælingavörðu á kolli. Undir því stendur bærinn Ás ofan við Ástjörn. Brautin liggur um tún Þorgeirsstaða sunnan við Hvaleyrarholt. Bærinn hét áður Þorláksstaðir, og fylgir því nafni sú sögn, að þar á holtinu hafi að fornu staðið kapella helguð heilögum Þorláki.“

Í Fornleifakönnun fyrir Reykjanesbraut árið 2001 segir:

Þorgeirsstaðir

Staðsetning Þorgeirsstaða skv. fornleifaskráningu um staðsetninu Reykjanesbrautar.

„Á há-Hvaleyrarholti, austan vegarins, er býlið Þorgeirsstaðir. Í gamla daga var þar nefnt Þorlákstún, gömul móabörð með þýfi og garðlögum.“

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir 1958.

„Framan í því var staður nefndur fyrrum Þorláksstaðir. Þar eru sagnir um, að verið hafi kapella. Seinna nefndist hér Þorlákstún og þá Þorgeirstún og nú Þorgeirsstaðir.“ segir í örnefnalýsingu. Þorlákstún er nú klofið af Reykjanesbraut. Þorlákstún var sunnan við vestustu íbúðarhúsin sunnan Reykjanesbrautar. Sjálft býlið hefur horfið vegna íbúðarhúsabyggðar norðan Reykjanesbrautar. Grasi vaxið hraun og enn sjást leifar girðingarinnar sem girti túnið af. Íbúðarhús eru norðan túnsins.“

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Hvaleyri segir:

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

„Á há-Hvaleyrarholti, austan vegarins, er býlið Þorgeirsstaðir. Í gamla daga var það nefnt Þorlákstún, gömul móabörð með þýfi og garðlögum. Síðan tekur fjallið til og hækkar unz við tekur Ásfjall, er síðar getur (sjá Ás).“

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri segir:

Stekkur

Þorgeirsstaðir – útihús.

„Suður og upp frá Hvaleyrartúnum liggur Hvaleyrarholt. Skammt sunnan við traðarhliðið, uppi í holtinu, var uppspretta, nefnd Heiðarbrunnur. Þar var gott vatn, en þraut í þurrkum og frostum. Hér hærra var komið að garðlaginu forna, sem lá ofan úr Hvaleyrarholtsklettum vestur og niður af á sandinn og suður í Gjögur. Í klettunum, undir brúninni, var Hvaleyrarréttin, en uppi voru hjallarnir. Þangað var í fyrri daga borinn fiskur, kasaður og síðan þurrkaður. Hér nefndist einnig Hjallarétt, og var fé rekið að hér, þegar hin réttin hafði verið lögð niður. Syðst í þessum hluta Hvaleyrarholts var skógarítak Gufuneskirkju. Lægð var hér í holtinu, nefndist Skarðið. Þá tók við háholtið. Framan í því var staður nefndum fyrrum Þorláksstaðir. Þar eru sagnir um, að verið hafi kapella. Seinna nefndist hér Þorlákstún og þá Þorgeirstún og nú Þorgeirsstaðir.“

Heimildir:
-Morgunblaðið sunnud 7. júlí 1918, bls. 4.
-Morgunblaðið föstud. 16. jan. 1920, bls. 3.
-Morgunblaðið fimmtud. 9. des. 1926, bls. 2.
-Morgunblaðið miðvikud. 27. nóv. 1929, bls. 1.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar. Jólablað 1965 (24.12.1965), bls. 16-18.
-Reykjanesbraut 2 – Fornleifakönnun; Reykjanesbraut, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-Örnefnalýsingi Ara Gíslasonar fyrir Hvaleyri.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri.

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir – loftmynd 2022. Tóftir útihúsa.

Hvaleyri

Í „Fornleifaskráningu vegna framkvæmdaleyfis á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði“ árið 2019 segir m.a.:

Saga
HvaleyriElstu heimildir um Hvaleyri er í Hauksbók Landnámu er Hrafna-Flóki Vilgerðarson fann hval rekinn á eyrinni og nefndi hana því Hvaleyri. Í Landnámu er þess einnig getið að Ásbjörn Össurarson bróðursonur Ingólfs Arnarssonar hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi.
Árið 1395 var Hvaleyri í eigu Viðeyjarklausturs og leigan til klaustursins var 4 hndr. Árið 1448 var getið um kirkju á Hvaleyri svo er lítið um heimildir um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum. Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.
Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.
Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1776.

Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Guðmundur Guðmundsson smiður sem bjó í Vesturkoti á Hvaleyri fann heila mannsbeinagrind með föður sínum er hann var unglingspiltur. Þar fannst einnig krítarpípa, greiðugarður, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Um 1925 fundust aftur mannabein á Hvaleyri af Magnúsi Benjamínssyni bónda í Hjörtskoti á Hvaleyri.

HvaleyriMatthías Þórðarson þjóðminjavörður rannsakaði beinin og taldi sennilegt að þetta væru bein sjórekinna manna sem fundist hefðu á Hvaleyri. Matthías taldi ekki þurft að varðveita beinin á Þjóðminjasafninu, en þau voru grafin í kirkjugarð Hafnarfjarðar.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West End. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.

Hvaleyri

Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði fagnaði þorranum í nýju félagsheimili í árslok 1992. Á meðan brann gamla félagsheimilið, Vesturkot. Hafnfirskir kylfarar kveiktu sjálfir í húsinu.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.

Vesturkot
Vesturkot var vestasta hjáleigan á Hvaleyri fyrir norðan Hvaleyrarbæinn. Kotið hefur staðið við endann á Kotagötunni.

Hvaleyri

Hvaleyri – hér sést Vesturkot ofan við Flókastein.

Ekkert er eftir af byggingunum sem þarna stóðu og svæðið hefur verið sléttað. Þegar golfvöllurinn var stofnaður á Hvaleyri árið 1967 var húsinu í Vesturkoti breytt í klúbbhús fyrir Golfklúbbinn Keili. Árið 1992 þegar búið var að reisa nýtt klúbbhús var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.
Hvaleyrarhöfðinn var nefndur Drundur og Vesturkot bar einnig nafnið Drundur. Á árunum 1781-1800 var Vesturkot nefnt Lásastaðir eftir hjáleigubóndanum, Nikulási Bárðarsyni en eftir 1810 var það nefnt Vesturkot og hefur það haldist síðan.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókasteinn.

Síðasti ábúandi kotsins var Sigurður Gíslason, en faðir hans Gísli Jónsson tók við jörðinni árið 1915 og byggði upp.

Þegar Gísli fluttist að Vesturkoti árið 1915 var bærinn í mikilli niðurníðslu, hann hóf þegar ræktun á túnunum, byggði gripahús og heyhlöðu.
Guðmundur Guðmundsson sem bjó í Vesturkoti og faðir hans fundu hauskúpu og heila beinagrind einnig fannst krítarpípa, greiðugarmur, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Líklega hefur þetta verið rétt fyrir 1900.

Flókasteinn

Hvaleyri

Hvaleyri-Flókaklöpp.

Vestarlega á Hvaleyrinni, rétt vestur af þeim stað er hjáleigan Vesturkot stóð.
Flókasteinn og tveir aðrir flúraðir steinar. Flókasteinn er grágrýtissteinn, hann er um 2,5 m að lengd og breiddin er um 1-2m, hæðin um 0,70 m. Vestan við steininn er upphlaðinn hálfhringlaga grasivaxinn garður sem er um 0,3 m á hæð en lækkar þar sem hann er næst steininum veggjaþykkt garðsins er um 0.3 m.
Rúnaklappir eru grágrýtisklappir. Sérstaklega var einn steinninn mikið markaður. Hann nefndist Flókasteinn. Töldu sumir að Hrafna-Flóki hefði skilið þarna eftir sig nafn sitt.

Flókaklöpp

Flókaklöppin í dag.

Í Árbók fornleifafræðifélagsins er grein sem heitir „Bergristur á Hvaleyri“ eftir Sveinbjörn Rafnsson. Segir þar m.a.: Á Hvaleyrarhöfða sér í jökulsorfnar grágrýtisklappir. Í þessar klappir hafa menn höggvið ýmis teikn og skráði greinarhöfundur og mældi bergristur þessar í júlí 1970. Risturnar hafa verið gerðar í fjórar afmarkaðar klappir eða steina, en klappir eru þarna fleiri þó ekki séu á þeim ristur. Risturnar verða þó ekki greindar til gagns nema á þremur af þessum steinum.
Syðsta klöppin er nú ólæsileg og hrakalega útötuð í steinsteypu eftir stríðsumsvif Breta í heimsstyrjöldinni síðustu. Allt í kringum steinana eru steinsteypt byrgi og byssustæði frá þeim tíma. Steypan í þessi mannvirki hefur verið blönduð og hrærð á syðstu klöppinni, þó má enn greina einstöku höggna rák út undan steypuhúðinni. Elstu ártöl á steinunum eru frá 1653. Jónas Hallgrímsson mun hafa verið sá fyrsti sem rannsakaði steinana fornfræðilega í júní 1841.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Árni Helgason í Görðum er sá næsti sem getur um Hvaleyrarristurnar í Sóknarlýsingu fyrir Garðaprestakall 1842. Árið 1854 fær Magnús Gíslason styrk til fornfræðiferða um Ísland og skoðar þá steinana. Kristian Kålund getur Hvaleyrar í drögum að staðarlýsingu Íslands, og segir að þar séu á nokkrum klöppum latneskir bókstafir og ártölin 1628 og 1777. Sigurður Skúlason á greinagóða og sígilda lýsingu Hvaleyrar steina í riti sínu Sögu Hafnarfjarðar (frá 1933, bls. 27-28) en hann er sá fyrsti sem segir steina með ristunum vera fjóra talsins.

Minorsteinn
Steininn er grágrýtissteinn rúmlega 2 m langur og breiddin 1- 2 m, og hæðin að sunnan um 0.30 m, en að norðan í sömu hæð og landið í kring.

Hvaleyri

Hvaleyri – áletrun á Minorsteininum.

Þarna er Flókasteinn og annar steinn Minorsteinn, rétt hjá með stöfum og tölum, á honum er ártalið 1777. En það ár var hér Minor sjóliðsforingi norskur og því er steinninn nefndur Minorsteinn.

Þórðarkot
Sunnan við Vesturkotstúngarð var Þórðarkot í Þórðarkotstúni.
Bæjarstæði Þórðarkots hefur verið sléttað. Þórðarkot hefur haft ýmis nöfn í gengum tíðina, eftir því hver hefur búið þar hverju sinni. Á árunum 1805-1835, hét það Einarskot eftir Einari Andréssyni. Þórðarkot frá því að Þórður Jónsson lóðs flutti þangað árið 1832 og hélst nafnið til 1870. Beinteinskot þegar Beinteinn Stefánsson frá Krýsuvík bjó þar 1870-1880, hann var síðastur ábúenda til að búa í kotinu sem fór í eyði eftir hans dag og túnið lagðist fljótlega eftir það undir Halldórskot.

Þórðargerði/ Beinteinsgerði / Zimsensgerði

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Þórðargerði var túnblettur við Þórðarkot.
Þórðarkotstún takmarkaðist af túngörðum sem hlaðnir voru á þrjá vegu, en að norðan náði það niður að Bakkanum og fjörunni. Í Þórðargerði bjó eitt sinn maður að nafni Beinteinn Stefánsson, þá nefndist kotið Beinteinskot og túnbletturinn Beinteinsgerði. Síðar hafði Christian Zimsen verslunarstjóri afnot af gerðinu, á síðasta fjórðung 19. aldar, þá nefndist það Zimsensgerði. Svæðið hefur verið sléttað og ekkert sést af gerðinu lengur.

Halldórskot

Hafnarfjörður

Hvaleyri um 1950.

Í austur frá Þórðarkot, tekur við Halldórskot í Halldórskotstúni.
Þarna hefur verið sléttað, en sést þó fyrir L-laga garði, túngarði sem hefur verið utanum bæjarstæði Halldórskots.
Bindindi var kot á Hvaleyri með Bindindistúni. Nefndist þessu nafni frá 1778-1821, síðan hét það Jónskot, frá 1810-1843 en síðast Halldórskot frá 1847-1944 eftir Halldóri Jónssyni.
Tengdasonur Halldórs, Eyjólfur Eyjólfsson seldi Þorsteini Egilssyni kotið 1883. Síðustu bændur sem byggðu kotið frá 1906-1944 voru Aðalbjörn Bjarnason stýrimaður og Þorgerður Kristín Jónsdóttir kennari, eftir þeirra dag var kotið þurrabúð um tíma þar til það fór í eyði. Aðalbjörn bætti jörðina með ræktun og byggði íbúðarhús úr timbri og steypti fjós og hlöðu.

Skotbyrgi

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Norðvestast á Hvaleyri rétt hjá friðuðum fornleifum. Skotbyrgin eru þrjú eins, þetta er vestasta skotbyrgið.
Veggir skýlisins eru upphlaðnir og steyptir, yfir er braggaþak að hluta, sá hluti er um 3 m x 2 m, að honum er smá gangur sem er um 1m breiður og 3 m langur, og veggjahæð um 1.20 m, þar er inngangur í skýlið. Það er að mestu niðurgrafið, sést aðeins í braggaþakið sem stendur uppúr jörðinni ásamt efsta hluta veggjanna. Á þessu svæði eru þrjú næstum eins skotbyrgi. Skotbyrgin voru reist mjög nálægt friðuðum fornminjum á Hvaleyrarhöfðanum.

Heimild:
-Hafnarfjörður – Hvaleyrarvöllur Hafnarfirði; Fornleifaskráning vegna framkvæmdaleyfis. Heiðrún Eva Konráðsdóttir sagnfræðingur – Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019.

Hvaleyri

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Flókaklöpp

Í „Svæðisskráningu Hafnarfjarðar 1998“ er m.a. fjallað um „Flókaklöpp“ og „Minorstein“ á Hvaleyri.

Rúnaklappir
Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.„Heiman frá bæ og niður að sjó lá sjávargatan, sem einnig nefndist Kotgata. Í norður frá bænum var vestasta hjáleigan, Vesturkot, og kringum það Vesturkotstún. Rúnaklappir voru grágrýtisklappir vestan kotsins.“ Sjá meðfylgjandi grein Sveinbjörns Rafnssonar.
„Bandrúnir og flúr var þarna. Sérstaklega var einn steinn mikið markaður. Hann nefndist Flókasteinn. Töldu sumir, að Hrafna-Flóki hefði skilið þarna eftir sig nafnspjaldið sitt…“

Áður en lengra er rakið, er rétt að minnast á svonefnda „rúnasteina“, á Hvaleyrarhöfða. „Steinarnir“ eru í raun jökulsorfnar grágrýtisklappir, sem hafa staðið eftir á tanganum eftir að jökullinn hörfaði fyrir u.þ.b. 11 þúsund árum.

Hvaleyri

Hvaleyri – steinarnir; loftmynd.

Þessir steinar hafa orðið mönnum furðumikið umhugsunarefni. Þeir eru úr grágrýti, fjórir talsins, og standa upp úr nýræktinni á höfðanum (í Vesturkotslandi). Á hæsta steininum, sem flest táknin eru höggin í, má lesa þessi ártöl á fletinum, sem upp snýr; 1657 (á þrem stöðum), 1673, 1681, 1697 og 1781; auk þess er þar 87, sem á annað hvort að vera 1687 eða 1787. Á norðurhlið sama steins eru þessi ártöl, sem lesin verða með vissu; 1678, 1681, 1707 og 1723, en auk þess er það höggið A 81 (=Anno 1681?), A 91 (=Anno 1691?) og 17? (=1700).

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Á allstórum bungumynduðum grásteini norðvestur af fyrrnefndum steini má á fjórum stöðum lesa ártalið 1777 (risturnar eru þar alls fjórar).

Hvaleyri

Minorsteinninn – áletrun.

Á flötum kletti suður af þeim síðastnefnda eru tvær ristur, en ekkert ártal. En á flötum steini skömmu austar stendur ártalið 1657 og An 57 (=Anno 1657?). Mest af ristum þessum eru fangamörk, en auk þeirra eru bandrúnir. Sums staðar eru upphafsstafirnir inn í hringjum eða ferhyrndum reitum, og á einum stað vottar fyrir rós eða útflúri undir þrem upphafsstöfum, og neðan undir rósinni er áfastur ferhyndur reitur með áratli innan í. Jónas Hallgrímsson skál athugaði þessa steina gaumgæfilega sumarið 1841. … Síra Árni Helgason getur um „rúnasteinana“ á Hvaleyri í sóknarlýsingu sinni. Segist hann hafa skoðað þá og hafa getað lesið þar mörg nöfn. Þetta er því einkennilegar til orða tekið, sem engin nöfn eru þarna, rituð bókstöfum, heldur aðeins upphafsstafir.“

Minorsteinn

Flókasteinn

Flókasteinn og aðrir á Hvaleyri.

„Annar steinn var þarna rétt hjá með stöfum og tölum. Þar var ártalið 1777. En það ár var hér Minor sjóliðsforingi, norskur, og því er steinnin nefndur Minorsteinn“ segir í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar.
HvaleyriJónas skrifar: “ Áður en lengra er rakið, þykir mér rétt að minnast á svo nefnda „rúnasteina“ á Hvaleyrarhöfða. Þessir steinar hafa orðið mönnum furðumikið umhusgunarefni. Þeir eru úr grágrýti, fjórir talsins, og standa upp úr nýræktinni á höfðanum (í Vesturkotslandi), Á hæsta steininum, sem flest táknin eru höggin í, má lesa þessi ártöl á fletinum, sem upp snýr; 1657 (á þremur stöum), 1673, 1681, 1697 og 1781; auk þess er þar 87, sem annað hvort á að vera 1687 eða 1787. Á norðurhlið sama steins eru þessi ártöl, sem lesin verða með vissu; 1678, °1681, 1707 og 1723, en auk þess er það höggið A 81 (=Anno 1681?), A 91 (=Anni 1691?) og 17C (=1700).
HvaleyriÁ allstórum bungumynduðum grásteini norðvestur af fyrrnefndum steini má á fjórum stöðum lesa ártalið 1777 (risturnar eru þar alls fjórar). Á flötum kletti suður af þeim síðastnefnda eru tvær ristur, en ekkert ártal. En á flötum steini skömmu austar stendur ártalið 1657 og An 57 (=1657?). Mest af ristum þessum eru fangamörk, en auk þeirra eru bandrúnir. Sums staðar eru upphafsstafirnir inn í hringjum eða ferhyrndum reitum, og á einum stað vottar fyrir rós eða útflúri undir þrem upphafsstöfum, og neðan undir rósinni er áfastur ferhyrndu reitur með ártali innan í. Jónas Hallgrímsson skáld athugaði þessa steina gaumgæfilega sumarið 1841. …Síra Árni Helgason getur um „rúnasteinana“ á Hvaleyri í sóknarlýsingu sinni. Segist hann hafa skoðað þá og hafa getað lesið þar mörg nöfn. Þetta er því einkennilega til orða tekið, sem engin nöfn er þarna, rituð bókstöfum, heldur aðeins upphafsstafirnir.“

Sjá meira HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning Hafnarfjarðar 1998.
-Ö-Hvaleyri B, 2; SS.

-Saga Hafnarfjarðar, 27-28.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Straumssel

Gengið var frá Straumi áleiðis upp í Straumssel eftir Straumsgötu. Straumstíg var síðan fylgt upp hraunið til suðurs vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnastaða.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur og Straumsselsstígur eystri.

Í lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan liggur frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshrauni, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt sunnar.

Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem síðan liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Lambhaga, hafi fyrrum verið forn gata þaðan, enda greinilega mikið genginn, bæði af mönnum og skepnum. Þessi sel lögðust af fyrr en Straumsselið. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem selsstígurinn mætir túninu. Eystri selstígurinn er merktur að hluta.
Þessi selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Nokkuð neðan við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur.

Á leiðinni sást vel yfir að Tobbuklettum og vörðu við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum.
Fyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.

Straumsselsstígur vestari

Skotbyrgi við vestari Straumsselsstíg.

Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.
Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn. Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru innangarðs. Selsgarðurinn um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta t.a.m. til vöruflutninga.
Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi sennilegast verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Björn Bjarnason frá Grafarholti fjallar um gamlar götur í Árbók fornl.fél. 1914. “Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.“

Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.

Straumssel

Straumssel – selið.

Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].

Neðri-straumsselshellar

Neðri-Straumselshellar.

Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.
Vestari selsstígnum var fylgt úr hlaði. Hann liggur til suðurs út frá bænum og beygir síðan til vesturs og loks til norðurs. Stígurinn til vesturs yfir að Óttarsstaðarseli þverar hann vestan við selið. Stígurinnn er vel markaður í landið og er augljós uns hann mætir eystri stígnum norðan við selið.
Straumsselsstígnum var fylgt til norðurs vestan Straumsselshöfða og yfir á Straumsselsstíginn, sem síðan var rakin niður að Þorbjarnastöðum.

Verklag í seli.

Straumssel

Vatnsból skammt sunn-an Straumssels.

Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum. Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.

Straumssel

Straumssel – brunnur.

Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.
Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann.

Straumssel

Straumssel – selstaðan.

Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.

Straumssel

Straumssel – garður.

Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.
Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.
Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði.
Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til fimm vikur. Var oft glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði, sem betur fer, en áður þekktist”.

Seljabúskapur.

Straumssel

Í Straumsseli – varða.

Um selsbúskap (úr bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson):
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skala strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í stokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).

Straumssel

Straumssel – Neðri-Straumsselshellar.

Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meora en þeim var treystamdi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.

Straumssel

Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.

Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.
Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumsselhellar.

En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.

Straumssel

Í helli vipð Efri-Straumsselhella.

Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.

Straumsselsstígur vestari

Vestari Straumsselsstígur.

Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.
Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.

Fornaselsstígur

Fornaselsstígur.

Einkenni seljannna á Reykjanesskaganum.

Sel á Reykjanesi eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum. Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér.

Straumssel

Straumssel – gerði.

Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð . Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.
Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.

Straumssel

Hellir við Efri-Straumsselshella.

Geirs Bachmanns segir í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.
Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn.

Straumssel

Eystri-Straumsselsstígur (Fornaselsstígur).

En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð. Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.
Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Straumssel

Straumssel – stekkur.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var. Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli.

Straumssel

Eitt opanna við Neðri-Straumselshella.

Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið í Brunntorfum, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.
Enn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus.

Straumssel

Hleðslur í Efri-Straumsselshellum .

Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.
Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur.

Straumssel

Í Neðri-Straumselshellum.

Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa. Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og  Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum. Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Straumsgata

Straumsgatan.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins.

Straumssel

Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.

Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans. Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni.

Straumssel

Straumssel.

Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.
Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðastekkur.

Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.
Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Einir

Einir við Straumssel.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar.

Straumssel

Straumsselið.

Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans . Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu .
Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.

Flugmynd

Straumssel – flugmynd.

Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldramótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu. Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar . Um tíma hafi Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma.

Straumssel

Varða við Eystr-Straumsselsstíg.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaðafjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Straumssel

Varða við Eystri-Straumsselsstíg.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshellana, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.
Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Straumssel

Rétt við Eystri-Straumsselsstíg – Tobburétt austari.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.
Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimidlir frá miðöldum og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.
Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapr á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.
Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður um hugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Heildarfjöldi selja árið 1703.

Straumssel

Fyrirhlesðlur í Efri-Straumsselshellum.

Á vefsíðunni má sjá heildaryfirlit yfir sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á Reykjanesi. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selaðstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).
Yfirlitið segir til um 139 sel á 102 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn. Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg.

Hraunin

Gengið um Hraunin.

Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu. Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir.
Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt.

Straumssel

Hreiður við Straumssel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma). Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar.

Straumssel

Í Straumsseli.

Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Straumssel

Straumssel.

Niðurlag.
Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár.

Straumssel

Straumssel.

Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.
Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.
Sjá Myndir.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun.
-Gísli Sigurðsson.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Krýsuvíkurkirkja

Þórður Jónsson frá Eyrarbakka skrifaði um „Ferð til Krýsuvíkur“ í Heimilisblaðið árið 1945:
„Kæri lesandi,

krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 2020.

Ég get hugsað mér, að þú segir við sjálfan þig — kannski líka upphátt — að nóg sé komið af skrifum um Krýsuvík, að óþarft sé þar við að bæta. En ég er nú á annarri skoðun. Þess vegna tek ég mér nú penna í hönd, en lofa því um leið að vera ósköp fáorður, líka vegna þess að langar blaða- og tímaritsgreinar eru mínir verstu óvinir.

Krýsuvíkurvegur

Gamli Krýsuvíkurvegurinn við Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

Fyrir stuttu síðan komu til mín tveir vinir mínir, þeir bræðurnir Baldur og Sigurður prentarar, synir Jóns Helgasonar prentsmiðjueiganda. Þeir voru að leggja upp í skemmtiferð til Krýsuvíkur og buðu mér að koma með. Fyrir mig var vissulega vandi velboðnu að neita. Ég var hálf lasinn og lítt fær til ferðalaga. Ég hafði margheitið því að fara til Krýsuvíkur undir eins og þangað væri komin bílfær vegur, og nú er því langþráðu marki náð, marki allra sannra framfaramanna, en jafnframt hræðilegur þyrnir í augum allra afturhaldsafla Suðurlands. Hafi þeir allir þökk fyrir, sem unnið hafa að því þjóðþrifamáli.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli í Hafnarfirði, framan við nýja Reykjanesbrautina.

Eftir lítilsháttar athugun á heilsu minni stóðst ég ekki freistinguna og settist upp í bílinn hjá þeim bræðrum og sá um leið og ég settist í dúnmjúkt sæti bílsins, að ég hreinlega var dauðans matur, ef ég gæti ekki setið þar þenna stutta spöl til Krýsuvíkur.
Eftir að hafa gengið vel frá öllu, er tilheyrði þessu ferðalagi, var ekið sem leið liggur suður Hafnarfjarðarveg, og suður á hinn nýja Krýsuvíkurveg.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli (t.v.) við hlið nýs göngustígs í Hafnarfirði.

Leiðinlegt að geta ekki komið við í hinu fagra Hellisgerði. En tíminn leyfði ekki slíkan „lúxus“, því að áliðið var dags. En fyrirheitna landið, Krýsuvík, varð að meta mest af öllu.
Hinn nýji Krýsuvíkurvegur er einhver fallegasti og bezt gerði vegur, sem ég hef séð. Að þeirri vegabyggingu hafa áreiðanlega unnið þeir menn, sem verkinu voru vaxnir.
Vegkantar og uppfylling á jafn ósléttu landi eru snilldarverk. Það er ekki sök þeirra, sem hlaðið hafa þennan fallega veg, þótt hann sé með sama miðaldalaginu og aðrir vegir sem lagðir hafa verið á landi hér síðustu áratugina, að engin leið er nútíma flutningatækjum að mætast á þeim nema á vissum stöðum — útskotunum svonefndum — þar sem hve verður að bíða eftir öðrum. Sjá allir, hvers ramgallað slíkt fyrirkomulag er.

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna…

Það er skiljanlegt, að allt á þetta að vera til sparnaðar. En það vita þeir, sem við veglagningar hafa unnið, að vegkantarnir eru víðast hvar langdýrasti hluti vegarins, og minnstu munar, ef efni til uppfyllingar til staðarins, hvort vegurinn er nokkrum sentimetrum breiðari. Þetta fyrirkomulag á hinum nýju vegum, sem hér er drepið á, er áreiðanlega mjög vafasöm búhyggindi. Næstu kynslóðir munu ekki sætta sig við svona vegi með sífellt stækkandi flutningatæki, og endirinn verður að óhjákvæmilegt verður að endurbyggja alla þessa vegi, og það jafnvel áður en langt um líður.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um Syðri-Stapa 1961.

Eins og tekið var fram í upphafi, hefur töluvert verið skrifað nú á seinni árum Krýsuvík. Um nytsemi Krýsuvíkurvegar sem samgöngubót til austurhéraðanna skrifaði bezt og rækilegast Árni Eylands í hitteðfyrra í Alþýðublaðið. Einnig skrifaði Árni Óla blaðamaður um staðinn Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum, sömuleiðis birtist í blaðinu „Reykjanes í fyrra mjög fróðleg grein um Krýsuvík og nágrenni, en því miður hef ég gleymt nafni höfundar. Og síðast en ekki sízt má nefna rit Geirs Gígja um rannsóknir hans á Kleifarvatni.
Það er ekkert undarlegt, þótt mönnum verði tíðrætt um Krýsuvík. Mönnum er ljóst, að Krýsuvík á sína sögu engu síður en aðrir landshlutar þessa lands. Hvert hérað velur til sína fræðimenn að skrifa sína sögu allt frá landnámstíð. Þessar héraðssögur verða ómetanlegur fróðleikur komandi kynslóðum.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík var heil sveit — hreppur — og heil kirkjusókn allt frá landnámstíð. Þar hafa áreiðanlega lifað og starfað mætir dugnaðarmennn, engu síður en í öðrum landshlutum. En nú er þar ekkert, sem minnir á fornar hetjudáðir. Þessi sveit, sem er svo að segja nefið á höfuðstað þessa lands og fjölennum sjávarþorpum, allt um kring, er látm leggjast í eyði. Fólkið sættir sig ekki við omaldarbúskaparlagið, þegar það kynnist netra á næstu grösum, og flýr sveitina sína fögru, og hún leggst í algjöra auðn. Afturhaldssamir valdhafar spyrna við af öllum og sálarkröftum að nokkuð sé gert í samgöngumálum eða öðru til þess að Krýsuvík geti haldið áfram að framfleyta íbúum sínum og ekki er langt síðan, að einn höfuðpaur Reykjavíkur kallaði í einu dagblaðinu vegalagninguna til Krýsuvíkur, Krýsuvíkurvitleysu með stórum stöfum gæsalappalaust, og kinnroðalaust, ef til vill hefur hann ekki að hægt er að rækta í Krýsuvík þúsnundir hesta af töðu, ásamt fjölda annara nytjajurta, sem hér yrði of langt upp að telja.

Krýsuvík

Krýsuvík – áveituskurðir. Arnarfell fjær.

Þegar miðað er við það að Krýsuvík var heill hreppur og heil kirkjusókn, verður ekki annað sagt en þar sé ömurlegt yfir að líta. Þar sjást engin fögur mannvirki, engin fegurð ema fegurð náttúrunnar, sem ávallt mun verða hin sama, hvernig sem er mennirnir fara með landið.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir Norðurkots.

En eigi að síður er þetta Krýsuvíkurland búsældarlegt og albúið að veita börnum sínum fæði og klæði. Kafloðin gömlu túnin bera þess ljósan vott, að þau séu þess albúin að veita ríkulega uppskeru, þótt engin mannleg hönd hafi sýnt þeim minnstu rækt árum saman. Mýrar og móar, sem þarna eru, gefa fyrirheit um að ekki skuli þeirra hlutur eftir liggja með afraksturinn, ef mennirnir vilja leggja til ofurlítið af orku sinni til hjálpar sér og óefað mætti minnast jarðhitans þarna, en hve mikils virði hann er í Krýsuvík brestur þekkingu um að dæma.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Það má því heita, að í augum vegfarandans. séu útþurrkaðar allar menjar þess, að þarna hafi verið mannabyggð. Þar sem bæirnir hafa staðið, sjást tóftarbrot hálf- og alfallin, og eru nú grasi vaxin. Aðeins kirkjan er eftir og sætir furðu, að hún skuli hafa staðið af sér alla storma eyðileggingarinnar. Að kirkjunni vík ég síðar.

Eins og kunnugt er, hefur einn maður af síðustu kynslóð Krýsuvíkurbyggðar aldrei yfirgefið þetta byggðarlag. Hann virðist hafa verið bundinn þessu byggðarlagi órjúfandi böndum tryggðar og vináttu.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Þessi aldraði merkismaður heitir Magnús Ólafsson. Hann er nú — að mig minnir — 73 ára að aldri og hefur átt heima í Krýsuvík óslitið í 55 ár að undanteknum nokkrum vikum úr sumum þessum árum. Eftir að öll hús byggðarinnar voru fallin og rifin flutti hann sig í gömlu kirkjuna og hefur búið þar síðan, og má vel vera að sú sé orsökin, að kirkjan hefur ekki hlotið sömu örlög og önnur hús á þessum stað.

Þarna vorum við félagar þá komnir heim á hið forna höfðingjasetur Krýsuvík eftir röskan klukkustundar akstur frá Reykjavík, það sem áður var margra klukkustunda ferð.
Nei, það var engin lygi, að það væri búið að færa þessa sveit nær menningunni.

Úti fyrir kirkjudyrum sat hinn aldraði húsbóndi og tók, mjög vingjarnlega kveðju okkar ferðalanganna.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1945.

Ég fór að telja á fingrum mér hve mörg ár væru nú liðin síðan ég kom þarna síðast, síðan í febrúar 1896 (ég var þá á sextánda ári). Vildi þá útkoman verða nálægt fjörutíu og níu og hálft ár. Jú, það skeður nú margt á skemmri tíma. Mér varð hugsað til þessarar fyrri komu minnar samanborið við þessa komu mína á þennan stað. Nú var sólbjartur sumardagur, en þá hörku norðanbylur og snjór í hné eða meir. Ég strákhnokki með allan minn veraldarauð í strigapoka á bakinu og að auki rúma krónu í buddunni sem farareyri og gat naumast staðið uppréttur undir þeim ofurþunga. En hvernig voru nú aðstæðurnar? Bezt að koma öllum þessum reikningum á hreint. Nú var ég þó létt klæddur með hendur í vösum, en annað setzt á bak mér engu léttara en pokinn í fyrri daga.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Gamla konan Elli var nú farin að gerast áleitin en frábitin öllum ástaratlotum og lagaskilnaði, og þó ekki um annað að gera en lúta valdi hennar — gömlu konunnar. Þegar öllu var á botninn hvolft var þá líklega pokinn með tilheyrandi öllu viðkunnanlegri en slíkt konuríki. Að öllu þessu fljótlega athuguðu settist ég hjá gamla manninum við kirkjudyrnar og tók að spyrja hann spjörunum úr. Mér varð fljótt ljóst, að þarna var maður, sem vert var að kynnast og tala við, bráðgreindur maður og alúðlegur, sem þekkti sögu þessarar sveitar langt aftur í tímann eins og fingur sína. Það hefði vissulega verið gaman og gagnlegt að mega tala við Magnús í ró og næði og jafnvel ferðast með honum þarna um nágrennið. En tími okkar félaga var naumur og nokkuð áliðið dags.

Krýsuvíkurkirkja

Legsteinn Árna Gíslasonar – eftir brunann.

Ég labbaði um kirkjugarðinn með Magnúsi. Hann benti mér á leiði, sem hann sagði, að síðast hefði verið jarðað í. Austan undir kirkjugaflinum varð mér starsýnt á eitt leiði sökum þess að það var eina leiðið í kirkjugarðinum, sem á var lítilsháttar minnismerki.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar.

Er það þó ekki annað en trégirðing komin að falli. Magnús sagði mér, að þarna væri jarðaður Árni sýslumaður Gíslason, en hann bjó í Krýsuvík um nokkurra ára skeið, sem kunnugt er, og var hann þar húsbóndi, er mig bar að garði, sem fyrr segir. Og nutum við, ég og félagar mínir, hinnar mestu gestrisni óg höfðingsskapar, sem Árni sýslumaður var kunnur fyrir á sinni tíð. Svona eru örlögin. Nú var ég allt í einu staddur við legstað míns forna gestgjafa og ég hörfaði skref aftur á bak. Þarna mátti ég ekki stíga með skó á fótum á jafn helgan stað og bæla græna grasið umhverfis leiðið hans, ef til vill raskaði ég með því grafarró hins mæta manns.
Ég bað Magnús að lofa okkur að sjá kirkjuna, sem nú er íbúðarhús hans, og var það auðsótt. Þarna var þá rúm hans við austurgafl framan verðan. Það var þá ekki annað en húsgaflinn, sem aðskildi höfðalagið og leiði hans forna húsbónda, Árna sýslumanns.

Krýsuvíkurkirkja

Uppbygging Krýsuvíkurkirkju 2020.

Það er ekkert ýkja langt frá veruleikanum, að þar hvíli húsbóndinn og þjónninn við sama höfðalagið, þótt annar sé lífs en hinn liðinn. Sjaldgæft er þetta, en Magnús hefur tekið ástfóstri við kirkju og kirkjugarðinn og allt annað í Krýsuvík.

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

Mér er í barnsminni, að ég heyrði talað um hinn stórbrotna búferlaflutning Árna sýslumanns austan frá Kirkjubæjarklaustri og til Krýsuvíkur. Hann var sýslumaður Skaftfellinga og bjó stórbúi á Kirkjubæjarklaustri. Það má nærri geta að slíkir búferlaflutningur á þeirri tíð var engum heiglum hent öll þessi vegalengd og allar þær stórár, og allt varð að flýtja á hestum (á klökkum) sundleggja hestana og ferja á smábát allan farangur yfir stórvötnin. Hvernig mundi nútímakynslóðinni geðjast að slíkum vinnubrögðum? Ég heyrði talað um, að sauðfé Árna sýslumanns hefði verið um 1200 talsins, er hann fluttist að Krýsuvík. Ef það væri satt, hafa eflaust ekki margir bændur á Íslandi verið fjárfleiri en hann á þeirri tíð. Árni sýslumaður var faðir hins vinssæla læknis Skúla, sem lengi var héraðslæknir í efri hluta Árnessýslu. En synir Skúla eru þeir Sigurður magister og ritstjóri og Árni húsgagnasmíðameistari í Reykjavík.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir við Krýsuvíkurkirkju.

Mér er sagt, að nú sé Hafnarjarðarbær eigandi Krýsuvíkur. Er það vel farið, að það land lenti hjá því bæjarfélagi, úr því að íslenzka ríkið var ekki svo framtakssamt að eignast það. Það er sagt að Hafnfirðingar hafi í huga stór áform í Krýsuvík, enda eru þar margbrotnir ræktunarmöguleikar. Hafnfirðingar eru líka allra manna líklegastir til þess að bæta þessum eyðijörðum í Krýsuvík upp giftuleysi liðinna ára.
Ég get ekki lokið svo við þessar hugleiðingar mínar um Krýsuvík, að ég minnist ekki ofurlítið frekar á kirkjuna og kirkjugarðinn þar. Kirkjan þar og kirkjugarðurinn eru í mínum augum helgir dómar, og þessa helgudóma má með engu móti eyðileggja. Kirkjugarðinn verður að girða og breyta í fagran trjá- og skrúðgarð og vanda þar allt til
sem bezt. Kirkjuna verður að byggja að nýju í sama formi og hún er, og á sama stað. Kirkjan á sjálf víst ekki grænan eyri sér til endurbyggingar, en hvað munar íslenska ríkið um slíka smámuni.

Krýsuvíkurkirkja

Endurnýjuð Krýsuvíkurkirkja við Iðnskólann í Hafnarfirði.

Það er verið að reisa úr rústum gamlar kofarústir inn um alla afrétti og við skömmum liðnar kynslóðir fyrir trassaskap og vanrækslu í meðferð verðmæta – sem við köllum svo – hví skildum við þá á þessari mennta- og menningaröld fara að eyðileggja allar menjar um forna frægð Krýsuvíkur? Ég á vont með að trúa því, að noklkur Íslendingur nú á tímum væri svo auðvirðulega nískur að telja eftir nokkrar krónur til endurbyggingar á kirkjunni í Krýsuvík, þótt sú kirkja yrði aldrei notuð til messugjörða. Það er heldur vissulega ekki meining mín.

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja komin á sinn stað.

Að endingu þetta: Það verður líka að byggja sómasamlegt hús í Krýsuvík handa hinum aldraða Magnúsi Ólafssyni, ef hann æskir þess að fá að vera þar það sem eftir er lífdaganna, gamla manninum, sem sýnt hefur þessu plássi hina frábæru tryggð.
Ég þakka svo Magnúsi Ólafssyni fyrir vinarþel og kurteisi og ef til vill á ég eftir að hitta hann aftur í Krýsuvík, mér til ánægju og fróðleiks.“

Heimild:
-Heimilisblaðið, 25. árg. Reykjavík, okt.-nóv. 1945, Þórður Jónsson frá Eyrarbakka – Ferð til Krýsuvíkur, 10.-11. tbls, bls. 172-174 og 193.

Heimilsblaðið 1945

Heimilisblaðið 1945.