Tag Archive for: Hellar

Þjófadalir

Ákveðið hafði verið að líta á helli í brún Þríhnúkahrauns ofan við Þjófadali, en gengið hafði verið fram á opið á sínum tíma á leið ofan af Þríhnúkum (FERLIR-398). Opið er utan í mikilli hraunrás talsvert norðan við hnúkana. Rásin sjálf er fallin og liggur til norðurs frá stóra gígnum. Í henni er mikið og líklega um 12 metra ókannað djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður nema á bandi. Snjór er á botninum. Fallna rásin lokast síðan með hafti uns hún beygir til norðvesturs. Mikill geymur hefur verið í beygjunni áður en þakið féll niður.
Haldið var því á ská upp hlíðina þangað til komið var í nýrra hraun ofan við hana. Í því eru miklir hraunhólar fremst á brúninni. Skjól var á milli hólanna og svo til alveg að hellisgatinu. Það er uppi og utan í norðurbrún föllnu hraunrásarinnar. Opið er u.þ.b. mannhæðar hátt og snýr á móti suðri. Grófur brúnleitur hraunlækur hefur runnið niður rásina og myndar hann gólfið. Frauðkennt hraunið lét undan þegar stigið var í það svo ljóst er að þarna hefur ekki verið mikil umferð.

Þjófadalir

Þjófadalahellar.

Rásin sjálf er nokkuð slétt. Hún hallar niður á við og beygir aflíðandi til vinstri. Fallegar bergmyndanir eru í henni. Eftir u.þ.b. 100 metra lækkar rásin en hækkar síðan á ný.

Ekki var farið lengra að þessu sinni, enda þyrfti góðan galla til að koma í veg fyrir að koma ekki allur rifinn og tættur út aftur. Á leiðinni var komið við í fallegri hraunrás undir nýja hraunkantinum í Þjófadölum. Rásin er greinilega endinn á hraunrás, sem komið hefur niður hlíðina því nokkur jarðföll eru á henni á leiðinni niður. Veggirnir eru rauðleitir og fallegir. Rásinni var fylgt u.þ.b. 60 metra, en þá var snúið við. Hún virðist beygja áfram til norðvesturs undan hallanum. Þetta er falleg rás, sem vert væri að skoða nánar.
Gangan tók 2 klst og 21 mín. Frábært veður.

Þjófadalir

Í einum Þjófadalahellanna.

Arnarseturshraun
Vísbending hafði borist um helli austan Arnarseturs í Arnarseturshrauni. FERLIR þangað.
Byrjað var á því að ganga eftir stígum til suðausturs í átt að Stóra-Skógfelli, en enginn hellir fannst á eða við þær leiðir.

Hnappur

Hnappur – opið.

Þá var gengið í boga til norðurs austan við Arnarsetursgíg. Gígurinn sjálfur austan við Arnarsetrið er stórbrotinn. Einnig annar stærri skammt austar. Hellirinn fannst norðan við gíginn. Frá honum liggur stígur til vesturs norðan við Arnarsetrið.

Op hellisins er stórt. Botninn er sléttur og gott rými inni í honum. Hann er opinn til beggja enda, kannski um 30 metra langur. Í heildina er hann sennilega um 100 metra langur, ef jarðföll og rásir sunnan við hann eru taldar með. Þetta er hið ágætasta afdrep. Um 5 mínútur tekur að ganga stíginn frá hellinum yfir á Arnarsetursveginn.
Bent skal á að þegar staðið er norðvestan við sjálft Arnarsetrið og horft til suðausturs er stór klettur utan í setrinu eins og mannsandlit.

Arnarsetur

Arnarsetursrásir.

Norðar og vestar í Arnarseturshrauni eru nokkrir fallegir hellar þótt þeir geti hvorki talist langir né stórir. Vestast er Kubburinn (falleg hraunsrás á tveimur hæðum), en nyrstur er Hestshellir (með fyrirhleðslu skammt austan við Grindavíkurveginn).

Arnarsetur

Hellir í Arnarsetri.

Milli hans og Arnarseturshellis er Hnappurinn (Geirdalur – ber nafn af þeim er fyrstur kíkti niður í hann). Fara þarf niður þröngt uppstreymisop, fylgja lágri brúnleitri fallegri rás, halda niður í víðan og háan geymi (lítið loftop efst) og út úr honum liggja nokkrir angar. Hægt er að komast upp úr a.m.k. tveimur þeirra.
Gangan milli hellanna tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.

Gíghæð

Gíghæð vestan Arnarseturs.

Grindaskörð

Haldið var upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindaskörðum. Ætlunin var að skoða tótt skiptistöðvar brennisteinsmanna þar undir skörðunum. Á leiðinni var komið við í helli, sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða tiltölulega lítið jarðfall. Reipi þarf til að komast niður. Hins vegar einfaldaði hár snjóskafl neðan við opið niðurgönguna að þessu sinni.

Selvogsgötuhellar

Í Rósaloftshelli.

Rás liggur um 30 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr veggnum hægra megin kemur steinn, sem lítur út eins og elgshaus. Til suðurs er hellirinn um 70 metrar. Fremst er fallega brúnt gólfið og fallegar myndanir í lofti.
Ofar í hlíðinni er mikið og djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður í það nema á reipi. Inngangur virðist vera í norðanverðu jarðfallinu. Það var hins vegar ekki skoðað að þessu sinni.
Farið var í Rósaloftshellir. Hann er fremur stuttur, en rás liggur upp hann vinstra megin. Ef loftið er skoðað með góðu ljósi sést hversu stórbrotið rósamynstrið þar er. Þátttakendur hafa ekki séð slíkt í öðrum helli.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Skammt ofar er Spenastofuhellir. Í honum innanverðum er litadýrð með fallegum sléttum jarðmyndunum.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Tótt af skiptistöð brennisteinsmanna er austan við Selvogsgötuna undir hlíðum Grindaskarða. Gengið var austur og niður með hlíðunum. Ofan frá þeim mátti sjá móta fyrir gamalli þvergötu úr austri inn á Selvogsgötuna neðar.
Í Kristjánsdölum er ein tótt af húsi og einnig sést móta fyrir öðru. Það hefur líklega verið timburhús og nokkuð stórt. Hitt er hlaðið úr torfi og grjóti.
Á leiðinni til baka var gengið á ská yfir Tvíbollahraunið og þar rakin gömul leið spölkorn í hrauninu. Sést vel móta fyrir henni á klapparhæð þar sem hún er mörkuð í bergið. Leiðin er frá Selvogsgötunni þar sem hún mætir Bláfjallavegi og í ská upp að vatnsstæðunum vestan Kristjánsdala. Þar virðist vera gömul leið upp með fjallsöxlinni, sem er nokkuð gróin, og beygir hún síðan upp með Tvíbolla.
Frábært veður – 8°C hiti og nánast logn.

Grindaskörð

Tóft undir Grindaskörðum.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldárseli að hellunum austan Kaldársels, s.s. 90 metra helli, Vatnshelli, Gjáhelli, Rauðshelli, 100 m helli, Fosshelli o.fl. Á leiðinni var gamla vatssleiðsluhleðslan skoðuð. Frá hellunum var gengið yfir að Rjúpnadalahrauni og refagildran undir norðurhorni Húsfells skoðuð. Þá var leitað að gömlu fjárskjóli í Húsfelli, sem sagnir eru til um. Það fannst eftir nokkra leit. Framan við það eru gamlar hleðslur. Frá fjárskjólinu var gengið um gjárnar norðvestan Húsfells, um Mygludali og í Valaból.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið var niður í Helgadal var ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, skoðað í dalnum. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.

Kaldá

Kaldá.

Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Gengið var á Kaldárhnjúka og Kaldárbotnar skoðaðir áður en ferðin endaði við Kaldá.
Ferðin tók nákvæmlega 2 klst í ágætu veðri.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Trölli var sigraður í morgun (25. sept. 2011) eftir tveggja klst. göngu í svartaþoku í Brennisteinsfjöllum.
Trolli-21

Þokan var svo þykk á köflum að það var líkt og gengið væri á vegg. Hellirinn er í afurð Vörðufellsdyngjunnar. Með aðstoð vírstiga HERFÍS var loksins komist niður á botn (24 m dýpi). Niðri voru… a.m.k. þrjú rými, (hjarta, lungu og magi) misstór. Þetta er ekki eiginleg hraunrás heldur nokkurs konar svarthol. Það andar, en erfitt var að sjá hvernig… Gýmaldið hefur a.m.k. loksins verið sigrað (en snjór fyllir opið nánast allt árið).
Tilbakagangan gekk vel fyrir sig (1 og 1/2 klst).

Trölli

Í Trölla.

 

 

Björn Hróarsson hellafræðingur, stofnandi Hellarannsóknafélags Íslands og FERLIRshúfuhafi fékk árið 2007 erlend rannsóknaverðlaun fyrir verk sitt, Íslenskir hellar.
Björn við gerð bókarinnar Enska hellafélagið The Shepton Mallet Caving Club velur og verðlaunar árlega mesta stórvirki félagsmanna í hellarannsóknum. Verðlaunin eru kennd við hellarannsóknarmanninn Bryan Ellis en hann teiknaði einmitt kortið af Raufarhólshelli árið 1970. Það kort er í bókinni Íslenskir hellar.
Verðlaunin eru bæði peningaverðlaun og farandstytta af hellakönnuði. Fyrir nokkrum árum fékk Hayley Clark þessi verðlaun fyrir kort af hellinum Flóka sem birt er í bókinni Íslenskir hellar ásamt upplýsingum um verðlaunin. Á aðalfundi félagsins nýverið fékk Björn Hróarsson þessi verðlaun fyrir bókina Íslenskir hellar. Er það í fyrsta sinn sem einstaklingur sem ekki er Breti fær þessi verðlaun. Á heiðursskjali sem verðlaunum fylgdu segir: „The SMCC Bryan Ellis Award – 2007 – Presented to Björn Hróarsson for the outstanding Íslenskir hellar“.
Á verðlaunaskjalinu er einnig ljósmynd af verðlaunastyttunni.
Björn er vel að verðlaununum kominn, enda bók hans bæði stórvirki á íslenskan mælikvarða og einstök í sinni röð í veraldarsögunni.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

 

Gvendarbrunnur

Í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði er getið um þrjá hella eða skúta á tiltölulega afmörkuðu svæði í Óttarsstaðalandi. Fyrst segir frá Sjónarhólshelli sunnan undir Sjónarhól þeim er áheldur Sjónarhólsvörðu; „fjárhellir í stórum krika. Hann hefur verið yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður“. Rétt norður af hólnum eru tvær vörður; Ingveldarvörður. Ekki er vitað hvernig stendur á nafngiftinni. Jakobsvarða er austar, á Jakobshæð. Norðan undir hæðinni er ævargamall stekkur eða rétt. Enn mótar vel fyrir hleðslunum.

Sjónarhólsskúti

Sjónarhólshellir.

Vestan við Rauðamel, sem nú er horfinn, en í staðinn komin djúp malargryfja, er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi eða leifar eftir smalahús. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, „hellir, sem fé lá í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnanum“: Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla; Borgin, fráþví fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Skógargata (seljagata Óttarsstaða) lá suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra (gryfjan), en Suðurnesjavegurinn liggur á milli Rauðamelanna. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elsta veginn (Alfaraleiðina) milli Innnesja og Útnesja. „Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir“.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnsskjól.

Í annarri örnefnalýsingu segir að Smalaskálahellir sé ofan við Jakobsvörðu, „upp undir vegi, neðan Smalaskála. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel“. Í þessari lýsingu er hvorki minnst á Sjónarhólshelli né Gvendarbrunnshelli, en getið bæði um Sjónahól og Sjónarhólshæðir „upp af Vatnagörðum“, sem eru á vesturmörkum Óttarsstaða að Lónakotsmörkum. Við þau, Óttarsstaðamegin er Vatnagarðahellir (Vatnagarðafjárskjól/-skúti). Hellisins er getið bæði í lýsingum fyrir Óttarsstaði og Lónakot. Lónakotsfólkið mun þó hafa nýtt hann fyrir fé og stundum jafnvel til annars. Í örnefnalýsingu fyrir Straum er bæði getið um Gvendarbrunnshæð og Gvendarbrunn, en ekki um Gvendarbrunnshelli. Hann er rétt utan við austurmörk Straums, en mörkin liggja bæði um hæðina og brunninn.

Smalaskálaskjól

Smalaskálaskjól.

Gengið var fyrst frá Reykjanesbraut niður að Sjónarhólshelli. Hann er reyndar suðaustan við Sjónarhól, a.m.k. miðað við nútímaáttir. Hlaðið er fyrir skúta sunnan í stóru ílöngu jarðfalli. Um er að ræða mikla hleðslu. Skútinn hefur verið allgott skjól og rúmar fjölda fjár.
Þá var gengið til suðausturs, áleiðis að Smalaskála. Ofan við Reykjanesbrautina, samhliða henni, liggja bæði gamli Keflavíkurvegurinn sem og gamli Suðurnesjavegurinn. Keflavíkurvegurinn hefur að vísu verið lagður ofan í Suðurnesjaveginn, en sumsstaðar má sjá þann síðarnefnda hlyggjast út undan þeim fyrrnefnda.

Gvendarbrunnshellir

Gvendarbrunnshellir.

Upp undir Suðurnesjaveginum eru hleðslur fyrir skúta í grónu jarðfalli. Varða er skammt frá því. Gróið er fyrir opið og birkihríslur loka honum að hluta. Skúti þessi er norðvestan við Smalaskála, „upp undir (gamla) vegi“. Hér gæti verið um svonefndan Smalaskálaskúta að ræða.
Þá var haldið áfram til suðausturs vestan Rauðamels, í áttina að Gvendarbrunnshæð. Gengið var yfir á Alfaraleiðina og henni síðan fylgt til vesturs uns komið var að Gvendarbrunni. Austar eru Draugadalir og vestar eru Löngubrekkur. Brunnurinn er, eins og fyrr var lýst, „stór hola í klöpp“. Umhverfis holuna er gróið gras og einhver tíma hefur verið þar varða, sem nú er fallin. Hleðsla undir girðinguna á mörkum Óttarsstaða og Straums liggur þarna upp hraunið. Norðvestan við brunninn, undir hæðinni, er vel gróið. Þar er Gvendarbrunnshellir. Nokkrar hleðslur eru fyrir skúta og þar hefur verið þokkalegt fjárskjól þótt það hafi verið mót suðri.
Hraunið þarna er stórbrotið, en tiltölulega auðvelt yfirverðar. Ekki er ólíklegt að á svæðinu kunni að leynast ýmislegt forvitnilegt. T.d. var gengið fram á rýmilegan skúta í hrauninu skammt norðvestan Smalaskála (Smalaskálahæðar). Hann er niðri í litlu jarðfalli. Í því vex myndarleg birkihrísla. Þegar farið var niður í jarðfallið og undir hrísluna kom opið í ljós. Fyrir innan er hið ágætasta skjól.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Eldvörp

Gengið var um norðurhluta Eldvarpa. Þessi hluti er allstórbrotinn, fallegir gígar og hyldjúpir svelgir. Teknir voru GPS-punktar á fjórum þeirra, en ekki reyndist unnt að komast niður í tvo til viðbótar vegna þess hver djúpir þeir voru. Í einum þeirra (sjá myndina) er falleg rás, en band þarf til að komast niður.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Sá fyrsti var 15 metra langur. Á honum voru þrjú op og reyndist hægt að komast niður í hann um nyrsta opið. Annar var um 15 metrar, bogadreginn. Þriðji var litskrúðug hola niður á við er endaði í sal. Litskrúðugir kleprar voru í lofti. Fjórði var með inngang í fallegu gígopi.

Eldvörp

Eldvörp.

Svæðið er eins og ostur. Ekki er að sjá að margir hafi stigið þar niður fæti. Þunnt hraunið brotnar auðveldlega undan fótum og hætta er á að stíga niður úr mosaþakinni skelinni. Landið er stórbrotið og býður upp á óvænta sýn við hvern gíg, hæð eða bugðu.
Í einum gíganna er víð rás. Hún lokaðist að hluta, en með lagni var hægt að komast úr henni inn í ókleifan gíg. Rásin var nefnd Tvígígahellir.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Gengið var yfir slétt mosahraun, eftir gamalli götu, sem farið er að gróa yfir og inn í stóra og breiða hrauntröð austan við gíg milli Lágafells og Þórðarfells. Tröðin virðist enda í krika eftir 90° beygju, en mjó tröð er þaðan inn í tröð nær gígnum, hærri og fallegri. Í tröðinni er m.a. stórt fallegt skjól. Gengið var um gíginn og upp á hann að norðanverðu. Milli hans og Þórðarfells var op, sem leitað var að eftir lýsingu BH. Gekk vel að finna það. Innan þess reyndist vera um 90 metra langur hellir, um 10-15 metra breiður á köflum, en ganga varð hálfboginn um hann að mestu. Sandur var í botni.
Á bakaleiðinni var gengið inn á gamla götu austan Árnastígs og kom hún inn á hann norðan Eldvarpa. Við gatnamótin er varða.
Árnastígurinn var síðan genginn að upphafsstað.
Í Örnefnaskrám Grindavíkur er gefin eftirfarandi skýring á örnefninu Árnastígur: “ Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.“
Veður var frábært – sól, lygnt og hiti. Gangan tók 4 klst og 11 mínútur.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Í síðustu ferð fulltrúa HERFÍS (Hellarannsóknarfélags Íslands) inn í Brennisteinsfjöll uppgötvaðist nýtt áður óþekkt niðurfall í Kistuhrauni.
Brennisteinsfjoll-101Vegna þoku á svæðinu var reyndar erfitt að staðsetja niðurfallið er var ca. 6 m djúpt. Það gæti því vel verið í Eldborgarhrauni, en það á eftir að koma í ljós. Þrátt fyrir að sérbúinn kaðalstigi hafi verið með í för var ekki talið ráðlegt af öryggisástæðum að sækjast niður eftir honum að svo búnu. Ákveðið var að stefna fljótlega aftur á svæðið með betri búnað.
Ljóst er að Brennisteinsfjallasvæðið bíður enn upp á ótalda ófundna hella…

Brennisteinsfjöll

Gengið í Brennisteinsfjöll.

 

Haldið var með nokkrum HERFÍS-félögum í hellinn Trölla í sunnanverðum Brennisteinsfjöllum. Opið er í u.þ.b. 8 metra djúpu niðurfalli dyngjuhrauns Vörðufellsgígsins og er að jafnaði lokað vegna snjóa a.m.k. 10-11 mánuði ársins.

Trolli-500

Frá því og niður í hvelfingu eru um 6 hallandi metrar. Þegar í hana var komið og hún hafði verið skoðuð kom niðurstaðan: „Eins og loftið er nú flott er hér ekkert meira að sjá!“
Að fenginni langri reynslu (þar sem þessi setning hefur hljómað margsinnis að undangengnum merkustu hellafundum síðustu ára) var athyglinni beint að gólfinu. Það „andaði“ köldu. Ekki gat það komið af engu.

Bra-500

Steinar voru fjarlægðir, síðan forfærðir og áfram var rótað með höndunum. Skyndilega opnaðist leið niður á slétt gólf „andans“ meginrásina. Um var að ræða op á þaki hennar. Dýptin niður á gólfið virtist um 6 m.
Næsta verkefni verður að fara með stiga upp í Trölla með það fyrir augum að komast niður í meginrásina, sem að vonum gæti verið í stærra lagi! Hellirinn vonumglaði er í Grindavíkurlandi.

Trölli

Trölli – op.