FERLIR grennslaðist fyrir um nýlegt niðurif gamla íbúðarhússins að Hrauni í Grindavík og sendi því byggingarfulltrúa bæjarins eftirfarandi fyrirspurn:
„Sæll, áttu afrit af nýlegu bréfi Minjastofnunar um íbúðarhúsið (1929) að Hrauni, sem nú hefur verið rifið. Kannski leynist þar gagnlegur fróðleikur um byggingarsögu hússins? sbr.
„Fundur 74.
Hraun 129179 – Umsókn um byggingarheimild Niðurrif – Flokkur 1, – 2304054.
Tekið er fyrir mál Harðar Sigurðssonar vegna einbýlishúss (N2092758) á jörðinni Hraun (L129179) meðumsækjendur eru Gísli Grétar Sigurðsson og Margrét Sigurðardóttir.
Máli var frestað á síðasta fundi þar til niðurstaða minjastofnunar lægi fyrir.
Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verði rifið.
Niðurrifsheimild er því veitt.“
Hverjir voru skráðir eigendur hússins (sem var tvískipt) áður en það var rifið?“
Svar barst um hæl;
„Sæll.
Sjálfsagt mál (sjá meðfylgjandi viðhengi).
Í bréfi Minjastofnunar má lesa eftirfarandi (leitt er þess að vita að ekki er hægt að nálgast bréf og erindi í opinberum fundargerðum bæjarfélagsins án þess að biðja um það sérstaklega. Það ætti það þykja sjálfsögð kurteisi að birta meðfylgjandi fylgiskjöl við tilfallandi erindum.
Svar: „Eigendur voru Hörður Sigurðsson, Gísli Grétar Sigurðsson, Margrét Sigurðardóttir“.
Innihald bréfs Minjastofnunar:
„Í tölvupósti dags 11. maí 2023 leitar Hörður Sigurðsson eftir áliti Minjastofnunar Íslands vegna íbúarhúss á Hrauni í Grindavík. Húsið hefur orðið fyrir vatnstjóni og nú er sótt um leyfi til að rífa húsið.
Gamla íbúðarhúsið á Hrauni er tvílyft bárujárnsklætt timburhús, kjallari og ris. Skv. Fasteignaskrá er það byggt árið 1929. Í lögum um menningarminjar nr. 80/2012 er eigendum húsa sem byggð voru 1940 eða fyrr skylt að leita álits Minjastofnunar ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja eða rífa.
Áfast húsinu er svonefnt Sigurðarhús, reist 1956. Eigendur búa í því og það mun standa áfram.
Húsið Hraun er stórt og reisulegt, greinilega byggt af metnaði. Það var reist af bræðrum og samanstendur af tveimur sambyggðum íbúðum undir einu þaki, austur- og vesturhluta. Húsið hefur varðveislugildi og ánægjulegt hefði verið að sjá það gert upp með vönduðum hætti.
Undirrituð skoðuðu húsið ásamt eigendum þann 13. júní s.l. Ljóst er að það er illa farið eftir að hafa staðið autt í nokkur ár og ekki síst eftir vatnstjórn þegar hitaveituofnar á fyrstu hæð þess sprungu árið 2021 en það uppgötvaðist ekki fyrr en eftir nokkurn tíma. Víða eru augljósar rakaskemmdir, stórir myglublettir og sterk saggalykt í húsinu.
Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verið rifið. Til fyrirmyndar væri að endurnýta húshluti, innréttingar, glugga, hurðir, snerla, ljósrofa o.fl. og styðja þannig við hringrásarkerfið. Ef ekki reynist unnt að nýta hlutina á staðnum mætti auglýsa þá á samfélagsmiðlum eða koma þeim til Efnismiðlunar Sorpu eða Húsverndarstofu.“
Undir bréfið skrifa Þór Hjaltalín og María Gísladóttir.
Efnisinnihald bréfs Minjastofnunar verður að teljast rýrt, svo ekki sé meira sagt. Hvorki er getið um byggingasögu hússins, fyrrum eigenda þess, hönnuðar eða skýrskotun til byggingahefðar þess tíma.
Hraun er skammt austan við meginbyggðina í Grindavík. Alls eru eigendur Hraunsjarðanna, og þar með gamla íbúðarhússins að Hrauni, sem eru í svonefndu Þórkötlustaðahverfi, um 20 talsins. Lönd þeirra ná talsvert til norðurs inn á hásléttuna og þeim tilheyrir meðal annars Fagradalsfjall og Geldingadalir, þar sem eldgos hefur gert sig heimankomið undanfarin ár.
Í Fasteignaskrá ríkisins eru engir eigendur tilgreindir að fasteigninni Hrauni. Þar er einungis getið um svonefnt „Sigurðarhús“, sem byggt var vestan við gamla íbúðarhúsið frá 1929 árið 1956. Gamla húsið var tvískipt og tilheyrði a.m.k. tveimur fjölskyldum, sem á síðustu árum töluðust ekki við vegna álitamála.
Skv. upplýsingum Þinglýsingardeildar Sýslumannsins á Suðurnesjum voru Hörður Sigurðsson og Valgerður Söring Valmundsdóttir skráðir eigendur að íbúðarhúsinu að Hrauni í júní 2023.
Árni Jón Konráðsson var fæddur 16. september 1926 að Móum Grindavík. Hann lést á Hrafnistu 7. mars 2017. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir, f. 1 september 1895 að Hrauni Grindavík, d. 27. júní 1957, og Konráð Árnason, f. 22. Árni átti austurhluta íbúðarhússins að Hrauni, þegar síðast var vitað, og afkomendur hans eftir hans dag.
Skv. Lögbýlaskrá 2018 voru 15 skráðir eigendur að landareigninni Hrauni. Þeir hafa þá án efa verið fleiri því eiginkvenna eigenda er þar ekki getið.
Kirkja var á Hrauni frá 1226. Að sögn Sigurðar Gíslasonar var hún á hólnum austan við íbúðarhúsið þar sem síðar var byggt fjós. Vestan við kirkjuna var kirkjugarður. Bein fundust við umrótið. Sigurður fann þarna handunninn signingarstein þegar grafið var í hólinn og færði hann vestur fyrir íbúðarhúsið þar sem hann er enn. Sigurði var umhugað um að steinninn færi ekki á flakk vegna tengsla hans við kirkjusöguna að Hrauni fyrrum.
Heimild m.a.:
-Bréf Minjastofnunar 19. júni 2023 (MÍ202306-0021/ 6.06/ 6673.