Tag Archive for: jarðfræði

Kálffell

Í riti Orkustofnunar „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga“ ritar Jón Jónsson, jarðfræðingur, skýringar við efnið. Hér fjallar hann um Kálffellshraun ofan Voga.

Kálffell

Kálffell – loftmynd.

„Þessari eldstöð lýsti Guðmundur G. Bárðarson (192)) fyrstur manna. Það er gígaröð neðst í hlíðum Þráinsskjaldar í suðaustur frá Litla-Skógfelli. Gígaröð þessi er í fjórum köflum, en mest hraunrennsli sýnist hafa verið úr allstórum hraungíg í næstaustasta kafla gígaraðarinnar.

Kálffell

Kálffell og nágrenni – loftmynd.

Vestustu gígirnir eru fast við röndina á Sundhnúkahrauni, en tangi úr því hefur runnið norður á við austan við Litla-Skógfell. Meginstraumur Kálffellshrauns hefur svo runnið norður á við og sennilega upp að Litla-Skógfelli, en þar er það hulið af áður nefndum tanga úr Sundhnúkhrauni. Þetta hraun er allfornlegt og brotið af misgengissprungum á mörgum stöðum. Er það bæði um að ræða gapandi gjár með litlu eða engu misgengi og sprungur með margra metra misgengi. þetta bendir til þess að hraunið sé tiltölulega gamalt, því ekki sjást sprungur í Sundhnúkahrauni né heldur í Arnarsetushrauni, en þau hraun takmarka Kálffellshraun að vestan. Bergið í hrauninu einkennist af allstórum plagoklasdílum á strjálingi og ólinvíndílum með smáum spinell kristöllum innan í.“
Í sunnanverðu Kálffelli er Oddshellir (hraunbóla) og fjárhellar með fyrirhleðslum; tengdir veru Odds frá Grænuborg þar um aldarmótin 1900 – sjá HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 146-147.

Kálffell

Kálffell.

Sundhnúkahraun

Orkustofnun gaf út ritið „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort“ á sínum tíma eftir Jón Jónsson, jarðfræðing. Þar fjallar Jón m.a. um Sundhnúkahraun ofan Grindavíkur:

Sundhnúkar

Sundhnúkahraun – loftmynd.

„Nafn þetta er tilbúningur minn að nokkru leyti. Því víkur þannig við að í heild hefur hraun þetta ekki nafn og gígaröðin, sem það er komið úr, ekki heldur að ég veit.
Ýmsir hlutar hraunsins hafa því ýms nöfn og oft ná þau örnefni til margra hraunstrauma frá mismunandi tímum.

Sundhnúkur

Sundhnúkur fyrir miðri mynd. Grindavík fjær.

Norðaustur af Hagafelli ofan við Grindavík er hár gígur, sem nefndur er Sundhnúkur (Jónsson 1973). Hef ég látið hann gefa nafn gígaröðinni allri og hrauninu, sem frá henni er komið. Gígaröðin sjálf byrjar suðvestan undir Hagafelli og virðist stærsti gígurinn þar heita Melhóll, en mikið er nú ekki eftir af honum, því efnistaka hefur þar verið um árabil.
Ég mun nota nafnið hér sem jarðfræðilegt hugtak og láta það gilda fyrir allt það hraun, sem komið hefur úr þessari gígaröð í því síðasta gosi, sem í henni varð, en hraunið nær yfir stórt svæði og ýms örnefni fyrir í því og hefur þessi nafngift að sjálfsögðu ekki áhrif á þau.

Sundhnúkur

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð og er eða öllu heldur var einn þeirra mestur og heitir Melhóll eins og áður er sagt.

Hagafell

Hrauntröð við Hagafell.

Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofannefndum gígum er meginhluti þess hrauns komið, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítt eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndast hefur kringum þá á sléttunni norðan Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn nú liggur, en numið staðar þar. Hefur hraunið þar runnið út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður að því vikið síðar. Svo hefur allbreiður hraunfoss fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar verða fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrsta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.

Grindavík

Grindavík ofanverð.

Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur megin hraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra-Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um stuttan tíma. Virðist þetta vera mjög venjulegt um sprungugos yfirleitt (Jónsson 1970).

Sundhnúkahraun

Karlinn í Sundhúkahrauni.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar, kanski væri réttara að kalla það gígaraðir, hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígum.

Sundhnúkur

Hraunssvæðið norðan Grindavíkur. Stóra-Skógfell næst.

Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan og þekur allstórt svæði vestur af því og norður að Eldvarpahrauni. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum gíg suðvestur af Þórðarfelli, er að því er séð verður samtíma myndun. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra-Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt enda er sýnilegt að hver straumurinn hefur þar hlaðist ofan á annan. Geta má þess að þrjár gossprungur eru í Stóra-Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft er fellið úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunflái er milli ofannefndrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hinsvegar ljóst að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun – velkomnum boðið að skoða djásnið innandyra.

Það er greinilegt að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna en virðast kann við fyrstu sýn. Við suðurhornið á Stóra-Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – Jón Jónsson.

Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra-Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra-Skógfell og Litla-Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra-Skógfelli sjálfu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er og víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess því víða hulin.

Sundhnúkahraun

Gíggjár í Sundhnúkahrauni.

Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að austur fyrir Stóra-Skógfell kemur. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smá hraunspýja hefur runnið norður eftir austanhalt við Litla-Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla-Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af Þráinsskjaldarhrauni. Í heild er gígaröðin um 8.5 km á lengd.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Sundhnúkahraun hefur runnið tæpum 400 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til að fremur hægfara hreyfingar séu þar eða þá, og það virðist full svo trúlegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Mætti telja líklegt að hreyfingar þessar fari aðallega fram þegar jarðskjálftar ganga.“
Skógfellastígurinn millum Grindavíkur og Voga liggur um Sundvörðuhraunin – sjá HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 135-140.

Skógfellavegur

Skógfellastígur milli Skógfellanna.

Bláa lónið

Lagt var af stað frá bílastæði Bláa Lónsins – þar sem gestum Lónsins er þakkað fyrir komuna og boðnir velkomnir aftur.

Bláa lónið

Bláa lónið – upphaf göngu.

Á leiðinni var m.a. gengið um þau óteljandi hraunafbrigði er Illahraun hefur að geyma, en Bláa Lónið er einmitt í því hrauni, sem rann árið 1226 (að því er talið er). Auk þess var kynnt til sögunnar annað það, sem fyrir augu bar á leiðinni; gígar, fjöll og tröll. Loks var farið yfir sögu Hitaveitu Suðurnesja og saga Bláa Lónsins rakin í grófum dráttum. Ljóst er að svæðið býður upp á óteljandi útivistarmöguleika og er hér einungis lýst einum þeirra.

Kenningin sem Alfred Wegener setti fram var að meginlöndin hefðu fyrir um 200 milljónum ár legið saman í einu stóru meginlandi sem nefnd var Pangea er óvíða áþreifanlegri en á Reykjanesskaganum.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Kenningunni var reyndar hafnað á þeim tíma en ný rök komu fram á 7. áratug 20. aldar sem vöktu kenninguna til lífsins og er hún megin kenning jarðfræðinnar í dag.
Talið er að jarðskorpan skiptist í nokkra fleka eða plötur sem rekur afar hægt. Fyrir um 60 milljónum ára voru flekarnir í Norður-Atlandshafi einn fleki, en hann brotnaði síðan. Skilin milli flekanna eru af tveimur gerðum, annars vegar úthafshryggir þar sem bráðið berg streymir upp úr iðrum jarðar og myndar nýja skorpu og aðliggjandi fleka rekur frá. Þetta á einmitt við um Ísland. Á öðrum stöðum rekast tveir flekar hins vegar saman. Þá er úthafsflekinn þyngri og gengur innundir meginlandsflekann sem er léttari. Dæmi um slík skil eru Klettafjöllin í Norður-Ameríku.
Jörðin er gerð úr kjarna, möttli og skorpu. Talið er að hringstreymi sé í möttlinum þar sem heitt möttulefni stígur upp frá kjarnanum í átt að skorpunni, kólnar og sígur síðan aftur niður. Þar sem er uppstreymi togast plöturnar frá hvor annarri. Þær togast sundur í rykkjum sem kallast jarðskjálftar. Við það myndast sprungur sem fyllast af kviku að neðan. Ef kvikan nær til yfirborðs verður eldgos. Plötuskil eru allstaðar staðsett á hafsbotni nema í Eþíópíu og á Íslandi.

Bláa lónið

Bláa lónið – ganga.

Land myndast þegar eldvirkni er mun meiri en á venjulegu hryggjarstykki. Talið er að þessi landmyndun orsakist af möttulstróknum, en það er strokklaga uppstreymi af heitu efni djúpt í iðrum jarðar. Tveir þekktustu möttulstrókarnir eru undir Íslandi og Hawaii. Ef ekki væri möttulstrókur undir Íslandi væri hér ekki land heldur um 3000 m sjávardýpi. Möttulstrókurinn er staðsettur undir norðvestanverðum Vatnajökli.
Ísland hefur myndast á mið-Atlandshafshryggnum sem liggur á milli tveggja fleka. Þá rekur í gagnstæða átt (plötuskil), um 2 cm á ári. Úthafshrygghakerfið er í heild um 80.000 km langt og sést ekki á landi nema á Íslandi og austur-Afríku.

Bláa lónið

Bláa lónið – hraunsprunga.

Hraun, sem eru svo áberandi umhverfis Bláa Lónið, er glóandi kvika er rennur frá eldstöð eftir yfirborði jarðar og storknar þar nefnist hraun. Þau hlaðast hvert yfir annað þannig að yngsta hraunið er ávallt efst. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun flokkuð í apalhraun og helluhraun.
Apalhraun [aa] kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður. Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.

Apalhraun

Apalhraun.

Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Laugahraun í Landmannalaugum og Hekluhraunin. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum.
Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. við Lakagíga, Þrengslaborgir og Búrfell ofan Hafnarfjarðar.
Helluhraun [pahoehoe] eru slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða.

Helluhraun

Helluhraun.

Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins.

Bláa lónið

Illahraun – gígur (Rauðhóll).

Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun, einkum ættuð frá dyngjum, mjög lagskipt og er ekki að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Þekktastir slíkra hella eru Surtshellir í Hallmundarhrauni og Raufarhólshellir í Þrengslum. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum.

Illahraun

Illahraun – gígur (Rauðhóll).

Í nágrenni við Bláa Lónið má víða sjá hella og skúta. Sumir þeirra tengjast sögum af útilegumönnum og ekki síst komu sjóræningja (Tyrkja) til Grindavíkur í júní 1627. Sagt var frá því að Grindvíkingar hafi þá falið sig um tíma í skjólunum og síðan haft þau til að flýja í ef ræningjarnir skyldu koma aftur. Í hraununum ofan Grindavíkur má einnig finna hlaðin (nú mosavaxin) skjól, sem talið er að íbúarnir ætluðu að leita skjóls í af sömu ástæðu.
Rauðhóll er áberandi gjallgígur suðvestan Bláa Lónsins. Sunnan hans er tveir aðrir myndarlegir klepragígar. Þarna var uppkoma hinnar glóandi hraunkviku á fyrri hluta 13. aldar og myndaði Illahraun. Í suðvestri sést vel til Eldvarpagígaraðarinnar, sem einmitt er dæmigerð sprungurein á Reykjanesskagagnum.

Bláa lónið

Bláa lónið – skreið í skúta.

Algengustu gos á Reykjanesskaganum eru gos á sprungureinum, allt a- 10-15 km löngum. Þær eru jafnan virkar í u.þ.b. 300 ár en hvíla sig síðan á milli á u.þ.b. 1000 ár. Sprungureinarnar færasr til sem nemur landrekinu (2 cm að jafnaði á ári).
Gjall- og klepragígaraðir eru víða þar sem gosið hefur apalhrauni á sprungum. Sprungugos af þessari gerð eru mjög algeng hér á landi og einkennandi fyrir eldvirkni landsins og virðist svo hafa verið frá upphafi jarðsögu Íslands.
U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Á Reykjanesi eru jarðskjálftar tíðir.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – eldgos á nútíma.

Fjögur til fimm söguleg gos á Reykjanesi á tímabilinu 875 – 1340 og hraun u.þ.b. 16 talsins. Hraun við Hlíðarvatn frá 1340. Ögmundarhraun frá 1150. Hraun efst í Heiðmörk og Í Bláfjöllum u.þ.b. 1000 ára. Svínahraun gæti verið kristintökuhraunið frá 1000. Svartahraun við Bláa lónið frá 1226. Kapelluhraun frá 1150. Afstapahraun frá sögulegum tíma. Stampahraun og Arnarseturshraun eru einnig frá árinu 1226.
Blandgos nefnast gos sem bæði mynda hraun og gjósku. Kvikan er þá seigari en í hraungosunum. Þegar gasið brýtur sér leið úr kvikunni veldur það kvikustrókavirkni og smásprengingum.

Eldvörp

Eldvörp – gjallgígaröð.

Gjall- og klepragígar geta ýmist verið á sívalri eða aflangri eldrás. Þeir myndast einkum í byrjun goss þegar kvikustrókar þeytast upp úr gígnum. Nái kvikusletturnar, sem þeytast upp úr gígnum, ekki að storkna áður en þær lenda á gígbarminum hleðst upp klepragígur úr seigfljótandi kvikuslettum. Storkni sletturnar hins vegar á flugi sínu úr gígskálinni lenda þær þyngstu sem gjall á gígbarminum og mynda gjallgíg umhverfis gosrásina. Kvikan frá blandgígum myndar yfirleitt apalhraun.

Bláa lónið

Bláa lónið – ganga.

Þegar staðið er við Rauðhól má vel virða fyrir sér fjallahringinn; Þorbjarnarfell næst (sólarganginn) með Þorbjörn Gamla vestast í hlíð þess – Lágafell – Eldvörp – Sandfellshæð – Sandfell – Lágafell – Gígur – Súlur – Þórðarfell – Stapafell (horfið að mestu) – Litla-Skófell – Fagradalsfjall – Stóra-Skógfell – Svartsengisfell (Sýlingarfell) – og loks Hagafell (Gálgaklettar).
Í Þorbjarnarfelli er m.a. Þjófagjá og undir því að norðanverðu eru Baðsvellir.
Þorbjörn eins og fjallið er oftast kallað er um 243m hátt og að mestu úr bólstrabergi og bólstrabrotabergi, hefur orðið til við gos undir jökli.

Grindavík

Bólstraberg Í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

Slíkt berg er myndað úr bólstrabrotum eins og nafnið gefur til kynna. Það einkennist af kubbum sem á einn kant hafa svarta glerhúð en eru að öðru leyti ekki frábrugðnir basaltmolum sem koma fyrir í þursabergi. Það er smáholótt og brotnar auðveldlega í eins konar stuðla sem mynda, sem næst rétt horn við glerkennt og þétt yfirborðið. Innan um eru reglulegir, heilir bólstrar. Það sem er sérstakt við þetta fjall er að það er klofið að endilöngu af sprungum og í því er sigdalur.
Þjóðsaga er til af þjófunum er héldu til í Þjófagjá og á Baðsvöllum. Til að gera langa sögu stutta voru þeir handteknir eftir brellur í laug á Baðsvöllum og síðan hengdir skýrslulaust í Gálgaklettum í Hagafelli – þarna skammt austar. Einar Bárðar (Idol-formaður) hefði nú einhvern tímann talið það lögreglumál, en hreppstjórinn í Grindavík var á öðru máli – á þeim tíma. Enda mætti stundum halda að önnur lög giltu á því svæði en á öðrum svæðum landsins.

Baðsvallasel

Baðsvallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Grindvíkingar höfðu um alllangan tíma selstöður á Baðsvöllum. Vel má sjá tóftir seljanna þar enn. Þegar beit varð að skornum skammti á Baðsvöllum færðu þeir sig inn á Selsvelli undir Núpshlíðarhálsi (Selsvallafjalli). Þar eru einnig greinilegar minjar eftir veru þeirra, s.s. sel, stekkir, vatnsstæði og grópmarkaðar selsgötur.
Efst í vestanverðu Þorbjarnarfelli er tröll. Sagt er að það hafi verið á leið að finna frænku sína í Festarfjalli. Eins og vitað er fóru tröll ávallt beint að augum. Tröllið var heldur seint fyrir. Þegar það kom upp á brún Þorbjarnarfells kom sólin við það sama upp við sjóndeildarhringinn í austri. Tröllið varð samstundis að steini – og er þar enn.

Ef vel er að gáð má sjá andlit Þorbjörns Gamla í vesturhlíð fellsins. Hakan og skeggið er neðst, en ofar nef og enni. Handans hans að sunnanverðu er Gyltustígur (fjallað er um hann á annarri FERLIRssíðu), auðveldasta gönguleiðin á fellið.

Blá lónið

Bláa lónið – ganga.

Þá var komið að hinu eiginlega athafnasvæði „fornvirkjunar“ Hitaveitu Suðurnesja. Það var reyndar aðstoðarforstjóri Hitaveitunar er nefndi hana þessu nafni í erindi er hann hélt fyrir verðandi svæðaðleiðsögumenn á Reykjanesi, enda virkjunun þegar orðin u.þ.b. 30 ára gömul – sem þykir gamalt aldur af virkjun að vera. Á athafnasvæðinu er Gjáin þar sem kynnast má jarðfræði svæðisins með mynd- og textarfræðilegum hætti – jafnvel áþreifanlegum.

Bláa lónið

Svartsengi.

Saga Hitaveitu Suðurnesja mun, af þeim sem þekkja til, vera þessi:
„Eftir fund hjá Lionsmönnum í Grindavik 1969 var ákveðið að athuga meira með þennan hita sem var í hrauninu fyrir norðan Grindavík. Grindvíkingar voru búnir að velta þessu fyrir sér gegnum árin því þarna í hrauninu var alltaf auður blettur þegar snjór var yfir öllu og rauk of úr.
Talað var við Ísleif nokkurn Jónsson frá Einlandi sem sem gerði meira en aðrir Grindavíkingar hann lærði verkfræði, og fór að vinna hjá jarðborun ríkisins.
Ísleifur tók vel í þetta og pældi mikið með þessum áhugasömu Grindvíkingum, sagði hann að annað hvort væri þetta há eða lág hitasvæði. Lághita svæði væri 100 gráður eða minna en há hita svæði 200-300 gr, eða meira.

Bláa lónið

Bláa lónið – aðfall.

Ákvað þáverandi hreppsnefnd að leggja í þetta mál eina milljón, sem sagt að bora. Var tekin jarðbor á leigu frá jarðborun ríkisinns og beið hann næstu tvö árin. Svo var það í janúar 1973 að hreppsnefnd fór í þær framkvæmdir að bora og þeim til mikillar skelfingar kom upp allt of heitt vatn og mikil gufa vatnið var stór mengað af allskonar efnum sem menn höfðu ekki séð fyrr og með 1/3 af seltu sjávar.
Hugmyndafræðin var að fá upp lághitavatn og senda það beint í húsin eins og gert hafði verið í Reykjavík og víðar.
Fór þá Grindavíkurhreppur og orkustofnun í tveggja ára tilraunastarfsemi við að finna lausn á þessu máli, og lausnin sem fékkst var að bora eftir fersku vatni sem nóg var af og hita það upp með gufu sem upp kom, var þetta dýrt vegna þeirrar tækni, þekkingu, tækja og tóla sem til voru á þeim tíma.

Bláa lónið

Bláa lónið – aðfall.

Bauð þá Grindavík hinum sveitarfélögunum á Suðurnesjum að vera með í þessu verkefni, var það svo í des 1974 að ríkið kom inn í dæmið m.a. fyrir hönd flugvallarinns og áttu þeir 40%. Á móti sveitarfélugunum.
Úr varð að ferskvatn var hitað upp í 70-80 gráður en mengaða vatnið var látið renna út í hraun , átti síðar að búa læk þar sem vatn þetta átti að renna út í sjó niður í Bótina í Grindavík.
Fyllti þessi mengun eða kísill upp í allar holur í hrauninu og í framhaldi af því varð Bláa lónið til, umhverfisslys, eða algjör Paradís sem það er í dag.

Bláa lónið

Bláa lónið – gamla.

En það má í raun segja að Keflvíkingur, hann Valur Margeirsson, hafi fundið upp áhrif og og átt upphaf að vinsældum Bláalónsinns því hann fór fljótlega þess á leit við stjórn hitaveitunnar að fá að baða sig í þessu en hann var með phoriassis, var það fúslega veitt og settu þeir upp smá skúr fyrir hann til að skipta um föt í, en fljótlega var hann ekki nógu stór því vinsældirnar spunnust hratt út, var þá settur upp annar skúr og svo annar og á endanum var stofnað annað fyrirtæki utan um Bláa lónið eins og það er í dag.

Má einnig geta þess að árið 1942 hafði hreppsnefnd Grindavíkur með Guðstein Einarsson í fararbroddi látið bora annarsstaðar eða við Selhálsinn sem gaf ekki góða raun. Líka að milljónin sem hreppurinn lagði í tilraunaborun 1971 var engvan veginn nóg og þurfti að bæta annarri við og meira en það.

Bláa lónið

Bláa lónið – gamla.

Fyrstu tvær holurnar sem boraðar voru, voru á bilinu 200-500 m djúpar og er löngu búið að loka þeim. En 1974 voru boraðar tvær holur í viðbót og voru þær 1713 m og 1519 m djúpar.
1978-81 voru 7 holur til viðbótar boraðar allt frá 425 m til 1998 m djúpar.
Árið 1985, þegar rafveiturnar sameinast, breytist hlutur ríkisins úr 40% í 20 %.á móti sveitarfélögum á Suðurnesjum.
Við þetta má bæta að 9-11 borholur hafa verið gerðar á svæðinu. Starfsemin hófst árið 1975 eftir að lög um Hitaveitu Suðurnesja voru samþykkt á Alþingi árið áður. Í dag framleiðir Hitaveitan hitaorku og raforku, auk þess sem hún er hluthafi í Bláa Lóninu og hefur unnið með ýmiskonar nýbreyttni í jarðgufurannsóknum.“

Bláa lónið

Bláa lónið – ganga.

Keflvíkingar í Hitaveitunni vilja hafa söguna öðruvísi þar sem byrjað er á áhuga Keflavíkurbæjar og síðan Njarðvíkinga að leita að heitu vatni á svæðinu, en hvernig sem menn reyna, verða ártölin ávallt yngri í þeirri sögu en að framan greinir.
Fræðslusetrið Gjáin er á svæði Hitaveitunnar. Í henni má fræðast um jarfræði svæðisins, eldgosin, hraunin, jarðskjálftana, jarðvarðmann og annað það er merkilegast getur talist. M.a. er líkt þar eftir jarðskjálfta.
Ekki, og reyndar aldrei, má gleymast að fara þarf varlega um verðmæti sem hraunsvæðin á Reykjanesskaganum eru. Hitaveitan hefur haft það að opinberu kenniorði að „búa í sátt við umhverfið“, en nauðsynlegt er jafnan að samhæfa orð, vilja og verk.

Bláa lónið

Bláa lónið nýja – opnað 1999.

Bláa Lónið er í Illahrauni er stundum sagt vera komið úr Eldvörpum. Það er reyndar að hluta til rétt því undirhraunið, eins og víðast annars staðar á Reykjanesskaganum, er nokkru eldra, eða um 2000 ára gamalt.

Bláa Lónið myndast af afrennsli orkuverinu í Svartsengi og er nú einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Hundruð þúsunda gesta heimsækja lónið árlega og vegna sérstöðu sinnar nýtur það mikillar hylli fjölmiðlafólks um allan heim. Fljótlega eftir að fólk fór að sækja í Bláa Lónið kom í ljós að vatnið í því virkar mjög vel til að lina þjáningar psoriasis sjúklinga og þar er nú sérstök, fjölsótt aðstaða fyrir þá og sjúklingarnir koma víða að úr heiminum til að njóta lækningarmáttar lónsins.

Bláa lónið

Grindavík ofanverð – kort.

Bláa Lónið hf var stofnað árið 1992 og er meginmarkmið félagsins að vera í forystu um uppbyggingu heilsu- og ferðaþjónustu á Íslandi. Á vefsíðu Bláa Lónsins kemur m.a. fram að öll starfsemi félagsins byggi á einstakleika og eiginleikum BLUE LAGOON jarðsjávarins sem inniheldur steinefni, sölt, kísil og þörunga eða nálægð við jarðsjóinn og einstakt umhverfi hans.
Starfsemi félagsins er á þremur sviðum: rekstur Bláa Lónsins – heilsulindar, þróun og markaðssetning á BLUE LAGOON húðvörum byggðum á virkum efnum BLUE LAGOON jarðsjávarins og rekstur lækningalindar þar sem veitt er meðferð við húðsjúkdómnum psoriasis. Hjá fyrirtækinu starfa 90 manns.
Bláa Lónið – heilsulind er fullkomið dekur fyrir líkama og sál. Heilsulindin er vel þekkt víðsvegar um heiminn og hefur meðal annars fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi.

Bláa lónið

Bláa lónið – Þorbjarnarfell fjær.

Það er einstök upplifun að slaka á í hlýju lóninu (37 – 39°C) á meðan virku efni BLUE LAGOON jarðsjávarins, steinefni, kísill og þörungar leika um húðina. Steinefnin veita slökun og koma jafnvægi á húðina, þörungarnir næra hana og mýkja og kísillinn hreinsar og gefur húðinni slétta og fallega áferð.
Í heilsulindinni er einnig að finna veitingastað sem býður upp á spennandi a la carte matseðil. Gestir njóta þess að snæða góðan mat í einstöku umhverfi og háir glerveggir veita stórkostlegt útsýni yfir blátt lónið.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Í Bláa Lóninu – lækningalind – er veitt náttúruleg meðferð við húðsjúkdómnum psoriasis. Lækningalindin er starfrækt í samvinnu við íslensk heilbrigðisyfirvöld og greiðir Tryggingastofnun Ríkisins hlut innlendra sjúklinga.
Bláa Lónið tók nýlega í notkun þessa nýju og glæsilegu lækningalind, sem er staðsett á miðri hraunbreiðunni, þar sem „kraftmikið náttúrulegt umhverfi hefur endurnærandi áhrif á líkama og hug. Böðun í „Bláa Lóninu jarðsjó“ sem þekktur er fyrir lækningamátt og einstök virk efni: steinefni, kísil og þörungar er mikilvægasti þáttur meðferðarinnar og er lón lækningalindarinnar sérhannað með þarfir meðferðargesta í huga.

Bláa lónið

Bláa lónið – lækningalind.

Rúmgóð innilaug fyllt „Bláa Lóninu jarðsjó“ er einnig í lækningalindinni. Lækningalindin er eina húðlækningastöðin í heiminum, sem einbeitir sér eingöngu að rannsóknum og meðferð á psoriasis.“
Frá lækningalindinni norðaustan við Bláa Lónið er fallegur göngustígur í gegnum hraunið, yfir að Bláa Lóninu – heilsulind.
Kunnugir vita að umhverfi Bláa Lónsins býður upp á óteljandi möguleika til útivista, hvort sem um er að ræða styttri eða lengri göngu- eða skoðunarferðir, þar sem hægt er að skoða einstakt umhverfi sem á sér fáa sína líka á jarðkringlunni – líkt og Bláa Lónið sjálft.

Bláa lónið

Bláa lónið – þátttakendur að göngu lokinni.

Nú starfa yfir 90 manns við Bláa Lónið og þegar er byrjað á enn frekari framkvæmdum – hóteli.
Gangan tók 1 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-www.ismennt.is
-www.hs.is
-www.blaalonid.is
-Dagbjört Óskarsdóttir.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Svartsengi

Í upphafi ferðar var Gjáin, fræðslumiðstöð Hitaveitu Suðurnesja í Eldborg við Svartsengi, skoðuð. Um er að ræða sýningu Hitaveitu Suðurnesja um jarðfræði, jarðhita og vinnslu orku úr iðrum jarðar við orkuverið í Svartsengi.

Eldvörp

Eldvörp – gígop.

Ísland býður einstök skilyrði til að sjá og rannsaka flest, sem varðar jarðfræði, eldvirkni og jarðhita, því að landið er jarðfræðilega ungt og enn þá í mótun. Landið er eins og gluggi inn í fortíð og framtíð þessarar þróunar, þannig að með lestri jarðlaga má leiða líkur að því, sem koma skal. Hérlendis eru stærstu jöklar og mestu jökulsár Evrópu, mestu há- og lághitasvæðin, óvenjulega mikil eld- og jarðskjálftavirkni auk stórbrotinnar náttúru.

Eldvörp

Eldvörp – gígop.

Leikir sem lærðir njóta sýningarinnar í Gjánni, sem leiðir gesti um almenna jarðfræði jarðarinnar, jarðfræði landsins, Reykjaness og Svartsengis og skýrir tengsl skyldra fræðigreina með forrannsóknum og eftirliti á háhitasvæðum. Jarðboranir á slíkum svæðum eru einnig skýrðar og farið í gegnum framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns í orkuverinu í Svartsengi.

Eldborg

Eldborg í Svartsengi.

Tæknibúnaður sýningarinnar er mjög fullkominn. Unnt er að sýna margar myndir í einu og tengja þær ýmsum hljóðum samtímis. Myndir er m.a. sýndar á 42” plasmaskjám og geymdar á stafrænum MPEG mynd- og hljóðgrunnum. Allar myndir eru með víðómi. Í enda Gjárinnar er stærra sýningartjald í hvelfingu. Það er tengt kvikmyndahljóðkerfi fyrir Dolby-umhverfishljóð, sem eru geymd á stafrænum hljóðkerfum, og ljósum, sem er stýrt í samræmi við viðburðina.

Bláa lónið

Bláa lónið – þátttakendur.

Ár hvert koma þúsundir gesta í Svartsengi til að kynna sér starfsemi Hitaveitu Suðurnesja. Þarna eru á ferðinni ferðamenn, skólafólk, fjölskyldur og sérfræðingar á ýmsum sviðum jarðvísinda.

Hitaveitunni þótti tímabært að skapa aðstöðu til gestamóttöku og veita nokkra innsýn í undur íslenzkrar náttúru og aðferðirnar, sem er beitt við breytingu náttúruaflanna í birtu og yl fyrir byggðirnar á Suðurnesjum.

Illahraun

Gígur í Illahrauni ofan Svartsengis – Rauðhóll.

Þá var gengið til vesturs um Illahraun og Bræðrahraun, yfir Skipsstíg og að Árnastíg þar sem hann sem hann liggur um Eldvörp. Arnarseturshraunið (apal), sem er þarna skammt norðar, rann á sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Annars eru hraunin við Svartsengi og Grindavík ca 2400 ára. Víðast hvar eru þau greiðfær yfirferðar.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Á gömlu þjóðleiðunum má víða sjá djúpt markaðar götur í bergið eftir umferðina í gegnum tíðina.
Illahraun er víða illt yfirferðar, en auðvelt er að þræða það um greiðfærar mosasléttur ef vel er að gáð. Og ekki er varra að vera vel kunnugur í hrauninu og þekkja staðhætti. Þrætt var greiðfær leið að þessu sinni og gengið að tveimur einstaklega fallegum gígum í hrauninu. Annar er reglulegur hraungígur en hinn, sá syðri er opinn mót austri. Í honum eru einstaklega fallegir kleprar. Nyrðri gígurinn er opinn mót vestri, en sá syðri mót austri.

Gíslhellir

Við Gíslhelli við Skipsstíg.

Gengið var til vesturs frá gígunum, yfir vestanvert Illahraun og var þá skömmu síðar komið inn á Skipsstíginn þar sem hann liggur um Blettahraun, hina gömlu þjóðleið, er liggur þarna milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Stígurinn er vel varðaður og sum staðar klappaður í slétt bergið. Hann liðast síðan áfram suður Skipsstígshraun og Blettahraun. Stígnum var fylgt spölkorn til suðurs uns komið var inn á Eldvarpaveginn. Sá vegur var síðan eltur út í Eldvörp.

Þaðan var haldið norður eftir Eldvörpum, um 9 km langri gígaröð er kom upp úr jarðskorpunni 1226.

Árnastígur

Árnastígur.

Árnastígur liggur þarna yfir Eldvörpin. Áður var haldlagður endilangur stigi frá Slökkviliði Grindavíkur, nógu langur til að ná til hæstu hæða í þeim bæ. Fjóra menn þurfti til að bera hann upp í gíga, sem nú var stefnt á norðan við mið-Eldvörpin. Þar eru tveir djúpir gígar, annar um 8 metrar á dýpt og hinn (sá nyrðri) a.m.k. 10-11 metrar. Hægt er að komast inn í syðri gíginn um op vestan hans og feta sig síðan niður á við neðan við gígopið. Þar sést niður í hyldjúpar gjár, sem liggja þarna eftir gígaröðinni að sunnanverðu. Tveir tréplankar voru þar við lítið op.

Eldvörp

Eldvörpin könnuð.

Eftir að gígbotninn hafði verið fullkannaður var langur brunastiginn látinn síga niður í nyrðra opið. Þegar niður var komið blasti við stórbrotið útsýni upp um gígopið. Niðri var rúmgott og nokkrar stuttar rásir með fallegum hraunmyndunum í. Á einum stað var sem hraunkúlur hafi verið smurðar brúnlitu hrauni. Rásinar voru að mestu hvítar að innan, sennilega vegna kísilútfellinga. Litla opið, þar sem tréplankarnir voru innan við syðra opið, liggur að rás yfir í nyrðri gíginn. Ef gatið yrði rýmkað nokkuð, sem ætti að vera tiltölulega auðvelt, væri hægt að komast úr syðri gígnum yfir í þann nyrðri.
Ástæða er til að þakka Slökkviliði Grindavíkur stigaframlag þess til landkönnunar á svæðinu.
Norðar heldur falleg gígaröð Eldvarpanna áfram og eru gígarnir hver öðrum fallegri. Um er að ræða reglulega klepra- og gjallgíga, svo til óraskaða. Gígarir voru þræddir og skoðaðir.

Eldvörp

Eldvörpin könnuð.

Skammt norðaustar er stutt gígaröð til hliðar við enda Eldvarpanna. Henni var fylgt til norðurs. Við enda þeirra er eitt fallegasta hraundríli Reykjanessins. Þegar klifrað var upp á drílið, sem er um fimm metra á hæð, sást ílangt opið. Dýpið niður er um 6-7 metrar. Svo var að sjá sem þar undir væri brúnleit rás. Þangað þarf að fara með stiga við tækifæri og kíkja niður í drílið. Slóði liggurinn þarna um hraunið frá Eldvarpavegi að og inn fyrir Lat.
Framundan var nokkuð stór gígur. Utan í honum er úbrunnið hverasvæði, ljóst að lit í annars rauðlitum gíghlíðinni. Þarna má finna hveraúfellingar og gufusoðið grágrýti. Skammt norðar er Latur, fagurlega formaður eldgígur. Hann stendur nokkuð hátt og af honum er víðáttumikið útsýni yfir fjöllin og hraunin í nágrenninu. Vestan við er Sandfellshæðin, Sandfellið, Lágafell, Gígurinn og Þórðarfell. Suðaustar er Þorbjarnarfell og Sýlingafell, austar Stóra-Skógfell og gígurinn Arnarsetur.

Latur

Latur við Skipsstíg.

Hraunrásin frá Gígnum sést vel í hauninu. Austan við er slétt helluhraunslægð. Annars eru hraunskilin vel greinileg þaðan frá séð. Norðaustan við Lat er enn ein gígaröðin, nokkrir smáir en fallegir gígar. Svo er að sjá að gosið hafi þarna á a.m.k. þremur samhliða reinum á mismunandi tíma með mismiklum hraungosum. Hraunin frá Eldvörpum liggja að Gígshrauninu. Að því kemur Illahraun, en á milli liggur Bræðrahraun úr gígunum umhverfis Lat. Latur hefur sjálfur rutt úr sér miklu hrauni, en hluti þess er greinilega undir öðrum hraunum. Austar kemur Arnarseturshraun að þeim, sem vestar eru. Allt myndar þetta umkomumikið hraunspil.

Skipsstígur

Skipsstígur – gígurinn Latur.

Loks var stefnan tekin til austurs yfir tiltölulega slétt mosahraun, að Bláa lóninu, þar sem veitingar voru þegnar í boði þátttakenda.
Hitaveita Suðurnesja rekur orkuverið í Svartsengi þar sem jarðsjó er dælt upp úr 2000 metra djúpum borholum. Jarðsjóinn er ekki hægt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu og mikils steinefnainnihalds. Því er jarðsjórinn notaður til upphitunar á ferskvatni og til framleiðslu á rafmagni. Jarðvökvi sem ekki er nýttur til beinnar upphitunar er 80°C heitur þegar honum er hleypt út á hraunbreiðuna. Vökvinn ásamt þéttiefni jarðgufu myndar Bláa lónið.

Eldvörp

Eldvörp – Gígurinn.

Einstakt lífríki ásamt miklu magni af náttúrulegum steinefnum, kísil og sérstökum blágrænþörungi mynda mjúkan hvítan leirinn í lóninu og gefa því sinn sérstaka bláa lit. Bláa lónið er líka kjörinn viðkomustaður fyrir göngufólk um hið litríka jarfræðisvæði í nágrenninu og ofan við Grindavík.
FERLIRsfélagar fengu leyfi til að ganga í gegnu athafnasvæði Bláa lónsins – yfir að Gjánni, þar sem hringferðinni lauk.

Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Eldvörp

Gígar í Eldvörpum.

Krýsuvík

Í Krýsuvík eru alsnægtir jarðfræðiáhugafólks – jarðhiti, ísaldarmyndun fjalla, jökulsorf og bergmyndanir í ólíklegasta formi, Má þar nefna bólstraberg, móberg og hnyðlinga, að ónefndum einsökum bergmyndunum í norðanverðu Bæjarfelli.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Einhverju sinni skrifaði spakmælt dóttir föður sínum, eftir að hún hafði farið til framhaldsmenntunar í fjarlægðri heimsálfu, eftirfarandi: „Sæll pabbi minn, fór í heimsókn og bar úr bítum lús. Tók eftir því er ég lagðist í rúmið mitt um kvöldið. Segja má því að nú sé ég loksins komin í skóla lífins“. Það má sama hæti segja að enginn jarfræðingur eða áhugamaður/-kona um jarðfræði hafi numið í skóla lífsins fyrr en hann/hún hafi skoðað og gaumgæft Krýsuvíkursvæðið.
Jarðfræðiskóli lífsins er því í Krýsuvík. Þar má sjá með eigin augum ferðalög efnis og áfangastaði þess um allnokkurn tíma, afleiðingar jarðskjálfta og eldsumbrota og þar má auðveldlega geta sér til um hvert framhaldið kann að verða.

Krýsuvík

Grænavatn í Krýsuvík.

Í Krýsuvík er ágætt dæmi um ker, þ.e. sprengigíg með lágum gígrima og þar sem nær eingöngu koma upp gosgufur. Oft er og stöðuvatn í slíkum gígum. Ker þetta er Grænavatn.
Ker, sem á vísindamáli kallast maar, verða til við gufusprengingar á sívalri gosrás þegar eingöngu gýs gosgufum og bergmylsnu sem rifnað hefur úr gosrásinni. Oft er sprengikrafturinn svo mikill að upphleðslan verður lítil sem engin á börmunum. Kerin eru yfirleitt svo djúp að þau ná niður fyrir grunnvatnsborð og vatn safnast því fyrir í gígnum að gosi loknu.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Strangt tiltekið fellur líklega enginn íslenskur sprengigígur undir þessa skilgreiningu því þeir hafa flestir gosið gjósku eða hraunspýjum úr ferskri kviku. Grænavatn í Krýsuvík kemst því líklega næst því að kallast ker. Í þennan flokk er einnig venja að flokka gígvötnin í Veiðivötnum, Ljótapoll og Hnausahyl. Heiti sitt dregur þessi gerð eldfjalla af Kerinu í Tjarnarhólum í Grímsnesi sem lengi vel var líka talið til þeirra þó síðar hafi komið í ljós að það er venjulegur gjall- og klepragígur sem hraun hefur runnið frá.
Grænavatn er einnig ágætt dæmi um svonefnd gígvötn.

Hnyðlingur

Hnyðlingur.

Hnyðlingar eru brot úr framandbergi sem berst upp með kvikunni og því ekki eiginleg gosefni. Brotin eru líklegast úr gígrásinni eða úr þaki kvikuþróarinnar. Oft eru slík brot úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassa hraunsins eins og til dæmis í hrauninu í Hrólfsvík austan Grindavíkur. Hnyðlingarnir þeytast oft hátt upp úr gígnum og lenda síðan hjúpaðir storku kvikunnar. Slíkir hnyðlingar eru algengir umhverfis sprengigíginn Grænavatn við sunnanvert Kleifarvatn í Krýsuvík.
Þekktur fundarstaður gabbróhnyðlinga á Íslandi eru t.d. við Grænavatn í Krýsuvík og Miðfell og Mælifell við Þingvallavatn. Greina má ólivín (grænt) og plagíoklas (grár) í hnyðlingnum á myndinni auk þess sem greinilega má sjá næstum hvítan hvarfarima á milli hnyðlings og grannbergs. Riminn er svo til eingöngu úr plagíóklas sem hefur vaxið hornrétt á hyðlingana.

Krýsuvík

Hraunmyndun.

Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Seltún

Seltún.

Hverasvæðin í Krýsuvík hafa um aldir haft mikið aðdráttarafl. Stærsti leirhver landsins er í Krýsuvík og þar má reyndar finna flest allt er prýtt getur slík svæði. Fjölbreytnin er ótrúlega mikil. Brennisteinn var m.a. unninn á svæðinu á 19 öld. Hverasvæðunum er gerð skil í annarri umfjöllun á vefsíðunni.
Helstu skjálftasvæðin á Íslandi eru tvö. Á Suðurlandi er jarðskjálftasvæði sem nær eftir Reykjanesskaga um Ölfus og

Krýsuvík

Krýsuvík – Hetta og Hattur.

Suðurlandsundirlendið austur að Heklu. Úti fyrir Norðurlandi er annað skjálftasvæði. Það nær frá mynni Skagafjarðar og austur að Melrakkasléttu. Á báðum þessum svæðum eru þverbrotabelti með þvergengjum á Atlantshafshryggnum. Á Suðurlandi er vinstra sniðgengi en hægra sniðgengi úti fyrir Norðurlandi.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð..

Vegna ármilljóna langrar sögu af jarðskjálftum og jarðummyndunum á svæðum sem Reykjanesinu þarf enginn í raun að hafa áhyggjur. Ef eithvað áhugavet gerist verður að án efa einhverjum, og jafnvel fleirum, til framdráttar. Eldgos hér á landi hafa ávallt orðið til að auka við landið, sem náttúruöflin hafa reynt að brjóta niður með einum eða öðum hætti. Sjórinn nagar strandirnar, jöklar, vindur og vatn sverfa fjöll og hlíðar og ár og lækir reyna að fletja út bakka og fjallshlíðar.
Lúsin kemur og hverfur. Það gera fjöllin einnig – jafnvel þótt þau virðist tilkomumikil um stund.

Austurengjar

Austurengjalækur.

Grindavík

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallaði í Náttúrufræðingnum 1974 um „Sundhnúkahraun við Grindavík„:

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – Jón Jónsson.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka. Hraunin hafa orðið til á alllöngum tíma. Elst eru dyngjurnar, s.s. Sandfellshæð, Lágafell, Vatnsheiði, Lyngfell og Fagradalsfjall. Yngri eru úr stökum gígum, s.s. sunnan Þórðafells og Kálffell og loks eru þau yngstu úr gígaröðunum, s.s. Eldvarparhraunin, Illahraun og Sundhnúkahraun, sem margar hafa kaffært þau eldri. Hraunmyndanir þessar hafa orðið til í áralöngum goshrinatímabilum í gegnum aldirnar. T.d. er saga Grindavíkur gloppótt á 12. og 13. öld þegar ein goshrinan réð þar ríkjum.
Enn, nú á 21. öld, er ummyndun hraunanna í gangi ofan Grindavíkur, í og við Fagradalsfjall, sbr. rangnefnið Fagradalshraun.

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkahraun

Grindavík ofanverð.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunfióð það, er til suðurs rann, komið.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra-Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

Sundhnúkur

Skúti við Sundhnúk.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra-Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra-Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð.

Kálffell

Í Kálffelli.

Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun.

Eldri gígaröð

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan.

Rauðhóll

Rauðhóll í Sundhnúkahrauni.

Gígur [Rauðhóll] þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er
getið.

Hvenœr rann hraunið?

Melhóll

Hrauntröð suðvestan Hagafells.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti

Svartsengi

Svartsengi.

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 01.02.1974, Sundhnúkahraun við Grindavík, Jón Jónsson, bls. 145-153.

Grindavík

Gengið um Grindavík og nágrenni – í Sundvörðuhrauni.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárbotnum áleiðis að Valabóli.

Valahnúkar

Gengið á Valhnúka.

Tröllin á austanverðum Valahnúkum teygðu sig upp í loftið svona til að gefa til kynna að ekki mætti ganga framhjá þeim í þetta skiptið. Þegar komið var á milli Valahnúkanna að vestanverðu mátti sjá hrafnslaup austan í vestanverðum hnúkunum. Laupurinn er á fallegum stað og aðgengilegum til skoðunar. Horft var yfir Valabólasvæðið og yfir að Búrfelli áður en gengið var uppá austanverða hnúkana, til móts við tröllin. Þau eru þarna ýmist þrjú eða fjögur, eftir hvernig á þau er litið. Um er að ræða berggang í gegnum hnúkana og mynda tröllinn efsta hluta þeirra, þ.e. þann er vindar, veður og regn hefur ekki tekist að vinna á, enn a.m.k.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Þegar komið var niður af hnúkunum að suðaustanverðu mátti sjá þar hluta misgengisins, sem liggur í gegnum sunnanverð Helgafellið. Haldið var suður fyrir fjallið og stefnan tekin á hraunsvæði Tvíbollahrauns þar sem fyrir eru nokkurs konar Minni-Dimmuborgir, hraunsúlur og þak yfir. Margir skútar og kytrur standa á súlum í hrauninu. Tveir hellar eru þarna, annar sæmilegur með fallegum hraunsúlum inni í, en auk þess fannst op á öðrum. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi komið þangað inn.
Eftir að hafa fjarlægt nokkra steina frá opinu sást hvar göng lágu niður á við og inn undir hraunið. Þar sem ekki var ljós meðferðist að þessu sinni bíða þessi göng nánari skoðunnar síðar. Gæti orðið áhugavert að kíkja þar inn. Opið er í jarðri svæðisins.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Þessar fallegu hraunmyndanir virðast hafa orðið til er hraunið rann þarna niður eftir og í vatns, sem þá hefur verið þarna aflokað sunnan Helgafells. Sömu myndanir má sjá í hrauninu skammt norðaustar, en bara í minna mæli. Þá eru þarna nokkrir gervigígar, sem einmitt hafa myndast við sömu aðstæður. Þetta er mjög fallegt hraunsvæði, sem ástæða er til að ganga varfærnislega um því mosinn þarna þolir varla mikinn umgang. Hann er órjúfanlegur hluti af heildarmynd svæðisins.

Burnirót

Burnirót.

Nokkrar blómtegundir eru að reyna að festa rætur nálægt opunum, s.s. burnirót, steinbrjótur, blágresi og fleiri tegundir. Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru t.d. í Katlahrauni við Selatanga og Hraunsnesi austan Ísólfsskála. Þar hefur hraunið runnið í sjó fram og þá myndast hraunstöplar og holrúm á milli uns þakið féll niður og lægðir og hraunbollar mynduðust.
Á svæðinu eru nokkur hraun og er þetta hluti af eldra helluhrauni, því sama og liggur að Helgafelli. Gæti verið Tvíbollahraun, sem fyrr er nefnt eða hluti af Hellnahrauninu. Skammt ofan við svæðið er úfið aðpalhraun, Húsfellsbruni.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Gengið var vestur með Helgafelli, hlustað á smyril smella í hlíðum þess, sjá steinbogann efst í fjallinu og síðan gegnið áleiðis yfir Riddarann. Þá var þar fyrir fallegur gráleitur spörfugl á stærð við skógarþröst með gula bringu. Varðaði hann nálæga fugla við af ákafa. Ágætt útsýni er af Riddaranum yfir að Gvendarselsgígum undir Gvendarselshæðum.
Gengið var eftir sléttu helluhrauninu neðan Helgafells að austustu gígunum í gígaröðinni og þeir skoðaðir.
Fallegt veður – stilla og hlýindi. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárseli upp með Kaldárhnjúkum vestari og inn með gígaröðinni sunnan Gvendarselshæða og stefnan síðan tekin á Skúlatún, gróðurvin í hrauninu vestan Dauðadala. Engin sýnileg ummerki eru eftir minjar á Skúlatúni. Þaðan var gengið til baka að Gullkistugjá og gjánni fylgt til austurs að suðurhorni Helgafells.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Komið var við í “Minni Dimmuborgum” (stundum nefnt Hraungerði eða Litluborgir) í hrauninu sunnan vegarins og gengið þaðan í vesturenda Neðri-Strandartorfa. Borgirnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og erfitt að finna þær. Hraunið virðist hafa storknað þarna í vatni eða vatnskenndum jarðvegi með þeim áhrifum að hellar og hraunsúlur hafa myndast hingað og þangað. Hægt er að þræða hellana, sem eru opnir og með mjög fallegum hraunmyndunum. Mosinn þarna er mjög viðkvæmur fyrir átroðningi, en hingað til hefur svæðið fengið að vera að mestu í friði fyrir forvitningum og því fengið að vera ósnortið. Hins vegar munaði litlu að línuvegurinn væri lagður yfir svæðið á sínum tíma, en góðum mönnum tókst að afstýra því í tíma, þökk sé þeim Magnúsi og Ingvari.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru í Dimmuborgum í Mývatnssveit, Katlahrauni við Selatanga og víðar.
Gengið var upp klapparhæðina og síðan austur yfir að Efri-Strandartorfum. Leitað var fjárhelli í Kaplatór þar norður af, en hann fannst ekki. Eftir að hafa gengið yfir hraunið í norður var komið við í Mygludölum og síðan gengið áfram niður að Valabóli þar sem komið var við í Músarhelli.
Veður var frábært, sól og hiti. Haldið var yfir skarðið á Valahnjúkum og síðan veginn niður að Kaldárseli.
Gangan tók um 2 og ½ klst.
Frábært veður.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Hverasvæði

Farið var í ferð um Reykjanesið frá Njarðvíkum til Grindavíkur undir leiðsögn Þorvaldar Arnar Árnasonar og Ægis Sigurðssonar. Ferðin var liður í námi leiðsögumannsefna um Reykjanesið.

Keflavík

Grófin – Skessuhellir.

Byrjað var í Grófinni í Keflavík. Undir berginu að norðanverðu útskýrði Ægir bergið og myndun þess. Það er að mestu blágrýti og grágrýti. Þétt setlög liggja ofan á berginu. Þarna er myndarlegur fyrrum sjávarskúti til skjóls. Þorvaldur útskýrði og kynnti m.a. fjörukál, þúfusteinbrjót og geldingarhnapp til sögunnar. Sú litadýrð virðist meiri en ella á annars gróðursnauðum sæbörðum bergveggjum Reykjanessins en víðast hvar annars staðar á landinu.
Haldið var yfir í Helguvík. Þar má sjá í útsprengdum hömrum þykk hraun- og berglögin og sumsstaðar rauðleitan bruna á milli þeirra, eingum að norðanverðu.
Ægir útskýrði þunn jarðlögin undir jarðveginum á svæðinu, t.d. í kringum Rósarselsvötn. Þau eru lek, en hafa þéttst með tímanum þannig að vatnið helst þar á yfirborðinu, a.m.k. á vatnasvæðinu.

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Á Pattersonsvæðinu var leitað að “lífstöðugrjóti”. Í því eru skeljar er gos undir jökli fyrir u.þ.b. 2500 árum hafði tekið með sér af sjávarbotni og má finna þær í hörðum setlögunum, sem þarna eru. Nokkur falleg sýni fundust.
Þorvaldur benti á að víða væri víðir að koma upp á skaganum, en það bendir til þess að hann hafi verið þar allvíða áður en gróðureyðingin varð.
Í Höfnum var farið niður á gamla hafnargarðinn og fuglalífið skoðað. Mátti m.a. berja augum fargestina tildru og rauðbristing, kríu, skarf, æðarfugl, auk fagurlitaða gula fléttu (fuglaglæðu) á steinum, að ekki sé talað um þang og þara.
Reykjanesið sjálft utan Hafna er sandorpið dyngjuhraun. Hraunreipi, sem einhvern tímann hefur einkennt yfirborðið er nú afsorfið. Annars gefur gróðurleysið svæðinu hið fallegasta yfirbragð.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Stóra-Sandvíkin er melgresisparadís. Melgresið hefur bundið sandinn og myndað háa skjólgóða sandhóla næst sjónum og ofan hans. Þarna munu hafa verið upptök þess sands, sem kom af sjó og fyrrum fauk um Hafnaheiðina og lagðist síðan yfir Hafnir. Það var því góð hugmynd að byrja á því að hefta sandfokið í “uppsprettunni” að mati Þorvaldar. Í Sandvíkurfjörunni mátti m.a. sjá hornsvamp, fjöruarfa, blálilju, klóþang (með einni bólu), bóluþang (með tveimur samhliða bólum og svolítið þynnra), söl og þangskegg, auk skelja og kuðunga. “Dýnamatiskt umhverfi” að mati Þorvaldar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Í Stömpum var gengið upp í einn þeirra. Skoðað var hvaða gróðurtegundir gígurinn hafði að bjóða upp á. Reyndust þar vera um 20 talsins, svona fljótt á litið. Í jaðri gígsins er lítið op og má finna uppstreymið út úr því. Innan við opið er fallegur dropasteinn. Með skóflu væri eflaust hægt, þó ekki væri annað, að kíkja innfyrir og sjá hvar þar kann að leynast. Stamparnir eru taldir hafa myndast um 1211 sem uppkoma á hrauni, sem síðan rann frá gígunum eftir hrauntröðum og loks um “víðan völl”. (Norðan undir Stömpum er skráðar heimildir um sel, sem á eftir að staðsetja, en það getur reynst erfitt sökum sandfoksins. Selsins er getið í fornleifaskráningu svæðisins). Stamparanir eru gjall- og klepragígar og því háir, brattir og lausir í sér, sem er einkennandi fyrir slíka gíga. Eldra-Stampahraunið er um 1500 ára gamalt, en Yngra-Stampahraunið er talið vera frá 1211.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Haldið var framhjá Forsetahól á leið út að Reykjanesvita. Ægir sagði frá tilvist nafnsins (til í tveimur útgáfum), sagði frá myndun Bæjarfells og Vatnsfells (vatnið, sem fellið dregur nafn sitt af er hægra megin við veginn áður en beygt er áleiðis að fellunum), en þau munu vera úr bólstrabergi eins og Forsetahóll (Litlafell).
Niður við sjávarkambinn norðan Valahnjúka útskýrði Ægir bergmyndanirnar. Undir kambinum mátti sjá lögin “ljóslifandi”. Undir er sandlag. Efsta lag þess hefur hitnað er nýtt hraun lagðist yfir og soðnað þannig að það varð hart. Ofan á hraunlaginu er síðan nýrra hraunlag.

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Þessa skiptingu mátti ljóslega sjá í Valahnjúkum og Börnunum beint framundan kambinum. Neðst (þ.e. það sem sjáanlegt er) er hart setlag, þá grágrýti og loks sundurlausari hraunlög, sem sjórinn á tiltöllega auðvelt með að mala niður. Karlinn er utar, harður eins og steinn, en Kerlingin er horfin í hafið. Valhnúkur er úr móbergi, en allráðandi er brotaberg, bólstraverg og grágrýtisinnskot.
Fyrsti viti landsins var byggður á honum árið 1878, en sjórinn er nú búinn að brjóta hnúkinn þar sem vitastæðið var. Undir kambinum að austanverðu má sjá fallega hlaðna aðdráttargötuna.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Við Gunnuhver voru jarðhitaeinkennin útskýrð. Tíminn var einnig notaður til að skoða grunninn undan húsi Höyers, sem þar bjó um tíma, tóftir útihúsa hans og garðhleðslur. Við Gunnuhver vex m.a. Njaðurtunga.
Þegar haldið var frá Gunnuhver mátti sjá Sýrfell á vinstri hönd. Vestan þess er fallegur hraungígur á öxl. Nefnist hann Hreiður. Yngra Sýrfellshraunið (1500 ára gamalt) er talið hafa komið úr gígnum. Löng hrauntröð er út frá því til suðurs, vnstra megin þjóðvegarins. Skálafell og Háleyjabunga eru á hægri hönd. Í hinu fyrrnefnda er gígur og gosrás til hliðar við hann (Skálabarmshellir) og í hinu síðarnefnda er fallegur og stór sprengigígur.

Reykjanesviti

Gata að grjótnámunni við Reykjanesvita.

Á leiðinni til Grindavíkur er ekið yfir Skálafellshraunið á “smábleðli”. Þá tekur Klofningshraunið við, en það mun hafa komið úr Eldvörpum (Eldvarparhraun – H15). Það er helluhraun, tiltölulega slétt, en margbrotið.
Brimketillinn er þarna á leiðinni, á sjávarbakkanum, öðru nafni Oddnýjarlaug. Um er að ræða fallegt náttúrfyrirbæri.
Sandgellshæðin er um 13000-14000 ára. Ú þeirri dyngju er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum.
Staðnæmst var við Grænubergsgjá og lýsti Ægir tilkomu hennar (vesturausturstefnan) á sprungusvæðinu. Í gjánni er ferskvatn og hefur hann séð ála í henni, sem hann taldi hafa verið “handfærða” þangað. Álar “stofnuðu” ekki heimili á Íslandi, heldur langt suður í höfum.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er talinn hafa myndast seint á síðasta ísaldarskeiði, en hann er sennilega eldri að stofni til, eða frá næst síðasta ísaldarskeiði. Í honum eru tvö misgengi eða gjár og hefur toppur hans sigið á milli þeirra. Sprungurnar liggja til norðurs eða þvert á brotabeltið (rekabeltið). Fjallið er hlðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Utan á fajallinu er kápa úr jökulbergi.
Norðan Lágafells (vestan Þorbjörns) er Illahraun og Illahraunsgíga. Talið er að hraunið hafi runnið á tímabilinu frá 1211 til 1226. Hraunið hefur runnið úr a.m.k. 5 gígum. Nyrsti gígurinn er sýnum stærstur.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Bent var á “undirlendi” Svartsengisfjalls sem ágætt dæmi um vallendismyndun. Vatn og lækir bera jarðveg úr hlíðum fjallsins niður á láglendið þar sem það myndar flatir er gróa síðan upp, sbr. einnig Höskuldarvelli, Sóleyjarkrika, Selsvelli og Baðsvelli.

Ekið var um Sundhnúkahraun og um Arnarseturshraun. Hið síðarnefnda er hellaríkt. Þar hafa fundist allnokkrir hellar, s.s. Dollan, Hnappurinn (Geirdalur) og Kubbur) og fleiri eiga eflaust eftir að finnast. Hellar myndast yfirleitt í þunnfljótandi hraunum.

Hnappur

Í Hnappnum.

Arnarseturshraun er talið vera frá 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 metra langri gígröð um 500 m austan við Grindavíkurveginn.
Þegar komið er að sigdalnum við Seltjörn eftir að Arnarseturshrauni sleppir er farið yfir tvö hraunlög; fyrst smábleðil af Sandfellshæðarhrauni og síðan grágrýtissvæði frá Grímsholti. Misgengisstapar eru beggja vegna; á aðra hönd bjallarnir (Háibjalli, Kálfgarðsbjalli o.fl.) og á hina misgengin í heiðinni (Nýjaselsbjalli, Huldugjá, Aragjá o.fl.).
Þegar nálgast tók Njarðvík lýsti Þorvaldur uppgræðslutilraunum norðan Reykjanesbrautar og einkennum mólendissvæðisins þar. Lauk lýsingum þeirra svo með vangaveltum um hið vanþróaða umræðustig um vægi náttúruverndar á svæðinu.
Frábært veður.

Reykjanes

Sjávarhellir á Reykjanesi.

Litluborgir

Hér á eftir eru nokkur atriði varðandi jarðmyndanir, hraun og jarðsyrpur á Reykjanesi.

-Jarðmyndanir:

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræði

Eldstöðvarkerfin á Reykjanesi eru fimm talsins og liggja frá norðaustri til suðvesturs. Á þeim hafa myndast gossprungur og gos hraun komið upp á nútíma (frá því fyrir 12-13 þús. árum). Áður var til grágrýtismyndunin úr fornum dyngjum, sem Rosmhvalanesið, Njarðvík, Stapinn, Löngubrekkur og Fagradalsfjall hvíla á.

-Jarðsyrpur:
Rosmhvalanesið er dæmi um fornar dyngjur á Reykjanesinu (eldri en 120 þús ára). Jökullinn hefur hefur sorfið klappir og mótað landið. Hann hopaði fyrir 12-13 þús. árum á Reykjanesi. Sjá má merki þess einnig á Lönguhlíðum, á Krýsurvíkurheiði í Fagradalsfjalli og ofan við Húsatóftir.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Helstu fjöll og fjallgarðar verða til á síðasta jökulskeiði, áður en jökullinn hopaði, s.s. Austurháls (Sveifluháls), Vesturháls (Núpshlíðarháls), Keilir, Trölladyngja, hluti Fagradalsfjalls, Þorbjörn, Lágafell, Þórðarfell, Stapafell og Súlur.
Nútímahraun renna eftir að ís leysti. Verða þá sprungugos (apal- og helluhraun) þar sem má þekkja eldri og grónari hraunin, s.s. Katlahraun, Skógfelllahraun, Sundhnúkahraun, Hvassahraun, Helluhraunið eldra, Dyngnahraun, Stampahraunið eldra, Eldvarpahraunin eldri o.fl.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum er runnu eftir að jökul leysti (12-13 þúsund ára).
Nokkrar litlar dyngjur hafa gosið eftir síðasta kuldaskeið, s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðagígar, Lágafell og Hraunsfell-Vatnsfell (pikrít).
Þrjár til fjórar stórar dyngjur hafa einnig gosið á nútíma, s.s. Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja. Þá má nefna heiðina há og Strandarheiði. Mikil gos er skilað hafa miklu hraunmagni. Þessi hraun, auk sprunguhraunanna, hafa fyllt duglega inn á milli móbergssfjallanna og myndað skagann smám saman.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort.

Sprunguhraun héldu áfram að renna á sögulegum tíma (um og í kringum 1000 (Kristnitökuhraun), 1151 (Ögmundarhraun), 1188 (Afstapahraun) og 1226 (Stampahraun yngra). Þetta voru aðallega apalhraun, en þó einnig helluhraun (Arnarseturshraun).
Gjár og sprungur (NA-SV) einkenna Reykjanesskaga. Misgengi má sjá víða, s.s. við Snorrastaðatjarnir. Einnig þversprungur og misgengi (NS), s.s. í Þorbirni.
Víða má sjá einstakar og fallegar hraunmyndanir, s.s. gjall- og klepragíga, dyngjur og móbergs- og bólstramyndanir.

Jarðfræði, jarðasaga, jarðlagagerð og nokkur örnefni:

Jarðfræði

Jarðfræðikort.

Reykjanes-Langjökulssvæðið varð virkt fyrir um 7 milljónum ára þegar suðurhluti rekhryggjarins er lá um Snæfellsnesið dó út. Eldvirknin byrjaði nyrst en færði sig smám saman til suðurs og hlóð upp skagann.
Yfirborðbergið er grágrýti (dyngjuhraun), móberg og bólstraberg (Stapafell, Keilir) og nútímahraun, bæði frá því er ísa leysti fyrir 12-14 þús. árum (dyngjuhraun og sprunguhraun) og hraun frá sögulegum tíma. Forsögulegu hraunin eru runninn á nútíma, áður en landnáms hefst, en sögulegu hraunin eftir landnám. Stóru dyngjurnar eru Sandfellshæðin, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja (og jafnvel Strandarhæð), en auk þeirra eru nokkrar minni og eldri (pikrít-dyngjur), s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðargígar, Hraunsfells-Vatnsfell og Lágafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Frá ísaldarlokum hafa komið upp um 42 km3 af hraunum að flatarmáli um 1100 km2 frá yfir 200 eldstöðvum í 4 (5 eða 6) eldstöðvakerfum. Megineldstöð er aðeins að finna í Henglinum.
Jarðskjálftarenna liggur eftir miðjum skaganum og markar líklega mót plantnanna. Þar sem hún sker eldstöðvakerfin eru háhitasvæðin.
Síðasta kuldaskeið (ísöld) hófst fyrir um 120.000 árum þegar um 20.000 ára hlýskeiði lauk. Móbergsstapar gefa þykkt jökulsins til kynna, þ.e.a.s. hæð hraunhettu þeirra yfir umhverfið.
Grindavíkurfjöllin hafa þau sérkenni að berg þeirra hefur öfuga segulstefnu miðað við þá sem er í dag. Aldur þeirra er um 40.000 ár (sjá Siglubergsháls hér á eftir).

Hraunakort

Útbreiðsla hrauna frá 8. og 9. öld á Reykjanesskaga. Einnig eru sýnd hraun frá sögulegum
tíma (heimild: Kristján Sæmundsson o. fl. 2010).

Gosbeltin, sem marka skilin á milli skorpuflekanna eru 24-50 km breið. Eldvirknin innan þeirra er ekki jafn dreifð heldur raðast gosstöðvar og sprungur á nokkrar vel afmarkaðar reinar með mestri virkni um miðbikið. Eldstöðvakerfi skagans hliðrast til austurs. Stefna þeirra er NA-SV, en gosbeltið stefnir lítið eitt norðan við austur.
Margt bendir til að eldgos á Reykjanesskaga verði í hrinum eða lotum á um það vil 1000 ára fresti. Gos á sögulegum tíma urðu t.d. árið 1000 (Hellnahraun), 1151 (Ögmundarhraun, Astapahraun), 1188 (Mávahlíðarhraun), 1211 (Yngra Stampahraun) og 1226 (gígar utan við Reykjanesið).

-Einstök fjöll, fjallshryggir, gígar og hraun:

Valahnúkur

Valahnúkur.

Grágrýtismyndunin á Rosmhvalanesi og Stapanum svo og upp af Krýsuvíkurbjargi er 120-220 þúsund ára.
Valahnjúkur er úr móbergi, en alláberandi er brotaberg, bólstraberg og grágrýtisinnskot.
Bæjarfell/Vatnsfell eru úr bólstrabergi eins og Litlafell. Mynduð á svipuðum tíma og Valahnúkur.
Sýrfell er ú móbergstúffi og móbergsbrotabergi.
Miðaldarlagið (aska frá 1126) er leiðarlag á Reykjanesskaga upp í Hvalfjörð, Þingvallasveit og Ölfus. Kom líklega úr tveimur gígum, 2-3 km SV af Reykjanesi, sem náða hafa upp úr sjó og gosið surtseysku gosi. Nú eru þar 40-60 m háir hólar á um 20 m dýpi á sjávarhrygg.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Eldra Stampahraunið er rúmlega 1500 ára. Gígaröðin er um 5 km að lengd og samanstendur af nokkrum allstórum gjallgígum og ótalsmáum kleprahrúgöldum. Einn gíganna ber þess glögg merki að hafa gosið í fjöruborði og þá hlaðist upp öskukeila en gosið breyst í hraungos líkt og með með mörg sprunguhraunanna á Reykjanesi.
Yngra Stampahraunið er frá 1211 og fyrsta gosið í Reykjaneseldum. Gígaröðin er um 4 km að lengd og endar í tveimur klepra- og gjallgígum, sem rísa um 20 m upp úr hrauninu. Gígar þessir nefnast Stampar og tekur hraunið nafn af þeim.
Haugshraun er kennt við gíginn Haug, sem stendur á vesturbarmi sigdals, sem nefnist Haugsvörðugjá. Prestastígurinn liggur m.a. um dalverpið.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Skálafell og Háleyjabunga eru gamlar dyngjur (pikrít), eð aum 14.000 ára. Háleyjabungan er eldri en Skálafellið. Í toppi hennar er hringlaga, skjólgóður og snotur gígur.
Sandfellshæðin er dyngja. Úr henni er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum. Yngri hraunin hafa runnið yfir stóra hluta hennar. Gígurinn er um 450 m að þvermáli og rúmlega 20 m djúpur.
Klofningshraun og Berghraun eru frá um 1211. Komin að mestu leyti úr Rauðhól, sem er nyrst í hrauninu.

Eldvarpahraun

Eldvarpahraun – Blettahraun.

Eldvarpahraun er hluti Reykjaneseldanna. Aðal gígaröðin er um 8,5 km að lengd, en þó ekki samfelld. Í henni eru allstórir gjall- og klepragígir, oftast nokkrir saman, sem tengjast næstu fylkingu með röð smágíga. Sundvörðuhraun nefnist austasti hluti þess, eftir hraunstrýtu sem notuð var sem siglingamerki.

Eldvörp

Eldvarpahraun.

Lambagjárhraun er smá hraunbleðlar í Eldvarpahrauni. Í því eru allmörg misgengi.
Eldvarpahraun eldra er um 2200 ára. Upptökin eru ókunn, en þó líklega í grennd við Eldvörpin.
Sundhnúkahraun er um 2400 ára. Norðaustur af Hagafelli er áberandi hnúkur, sem heitir Sundhnúkur (innsiglingamerki) og þaðan er nafnið komið af reyndar röð lítilla gíga. Skógfellavegurinn liggur meðfram hluta eldvarpanna. Hraunin eru dreifð víða um Grindavíkursvæðið og m.a. byggt upp Þórkötlustaðanesið og myndað þannig brimbrjót fyrir Grindavík.

Skipsstígur

Gengið um Rauðamel. Varða við Skipsstíg.

Hrólfsvíkurhraun er pikrít-hraun og líklega frá Vatnsheiði.
Húsafell og Fiskidalsfjall eru móbergsstapar, sem líklegast eru frá síðari hluta síðasta jökulsskeiðs. Undir þeim að sunnan eru miklar öskjudyngjur, sem gosið hafa á grunnsævi.
Rauðimelur er setmyndun, úr sandi og möl, sem teygir sig 2.5 km norðaustur frá Stapafelli. Setmyndun þessi er víða vel lagskipt og er 6-7 m þykk. Myndunin hvílir á jökulbergslagi,sem liggur ofan á grágrýti en um miðbik melsins kemur um 2 m þykkt jökulbergslag. Myndunin er að öllum líkindum sjávargrandi sem myndast hefur við rof á Stapafelli og Súlum. Grandinn er eldri en 40.000 ára og eftir því hvernig myndun jökulbergsins er túlkuð, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði. Stapafellið er mun eldri en grandinn, senniega frá næstsíðasta eða snemma á síðasta jökulskeiði.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Stapafellið og Súlur eru að mestu byggt upp úr bólstrabergi og öskulögum, en berglag, stuðlað og án bólstramyndana, finnst líka. Lag þetta má túlka sem innskot eða jafnvel hraunlag.
Þórðarfell er úr bólstrabergi, en gæti verið yngra en Stapafellið.
Lágafell er hæðarbunga úr móbergi. Gígurinn bendir til þess að jökull hafi gengið yfir það.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er hlaðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Í toppi fjallsins er mikill sigdalur og er vestari stallurinn (Þjófagjá) tugir metra á hæð. Utan á fjallinu er kápa úr jökulbergi og bendir hún ásamt misgengjunum til nokkurs aldurs, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði.
Selháls, Hagafell og Svartengisfjall eru aðallega úr bólstrabergi, sem sést vel í Gálgaklettum. Þar er misgengisstallur sem klýfur fellið.
Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi sf svipaðri gerð og Sandfell.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Lágafell er eldra en Sandfellshæð. Það er lítil og nett pikrít dyngja. Klifgjá, 6-8 m hátt misgengi, sem gengur upp í Þórðarfell, sker dyngjuna um þvert og þar sjást hraunlög hennar ágætlega og hversu ólívínríkt bergið er.
Vatnsheiði myndaðist snemma á nútíma. Þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli.
Illahraun rann um 1226. Það hefur runnið úr fimm gígum á um 200 m gígaröð. Nyrsti gígurinn er stærstur og í rauninni tvöfaldur. Fyrst hefur myndast allstór gígur, en þegar virknin minnkaði hefur myndast nýr gígur á vesturbarmi þess eldri.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Arnarseturshraun rann um 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 m langri gígaröð um 500 m austan við grindavíkurveginn. Nyrstu og syðstu gígarnir hafa aðallega gosið hrauni, en á milli þeirra hlóðust upp gjallgígar, sem risið hafa um 25 m yfir hraunið, en nú hafa þeir verið að mestu brottnumdir. Hraunið er helluhraun næst gígunum, en frauðkennt og blöðrótt og brotnar gjarnan undan fæti. Í hrauninu er nokkrir allstóri hellar, s.s. Kubbur, Hnappur og Hestshellir.

Skála-Mælifell

Skála-Mælifell.

Dalhraun er allgamallt og hugsanlega úr gíg er stendur upp úr Sundhnúkahrauni.
Hrafnshlíð/Siglubergsháls er móbergsstapi, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti, sem komið er úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu. Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skála-Mælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Festarfjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.
Fagradalsfjall er dæmi um móbergsstapa á utanverðum skaganum. Neðst er bólstraberg, síðan túff og brotaberg og efst er myndarleg hraunhetta, sem komin er frá dyngjugíg nyrst í fjallinu.

Slaga

Slaga – berggangur.

Slaga er mynduð úr bólstrum og bólstrabrotum svo og hraunklessum og upp í þessar myndanir liggur gangur. Neðar við þær tekur við jökulriðið grágrýtislag, sem einnig nær undur Langahrygg og Fagradalsfjall.
Skála-Mælifell er móbergsfjall með rauðu gjalllagi undir hraunhettu á toppi fellsins.
Núpshlíðarháls er úr móbergi sem hefur myndast undir jökli í mörgum gosum, sem ekki hafa náð upp úr jöklinum. Meginþorri hans er frá síaðsta jökulskeiði, en í grunni hans geta verið eldri myndanir.
Latur, Latstögl og Latfjall eru röð móbergshnúka, aðallega móbergsbrotaberg.

Bólstri

Stærsti bólstri í heimi í Stapafelli.

Méltunnuklif er misgengisstallur rétt austan við Skála-Mælifell. Í klettanefi yst á því lesa upphleðslusögu svæðisins. Neðst er jökulrákað grágrýti, en ofan á það kemur þunnt jökulbergslag, því næst allþykk grágrýtislög (efra lagið er rispað af jökli) og ofan á þau nokkuð þykkt jökulbergslag sem hulið er móbergi.
Borgarhraun gæti hafa komið upp í gígum í sunnanverðu Fagradalsfjalli.
Höfðahraun er m.a. komið úr Höfðagígum og Moshólum, sem vegurinn liggur um. Hefur það runnið í sjó fram og myndað nokkra gervigíga og einnig er forn malarkambur í því rétt austan við Ísólfsskála.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Misgengið Méltunnuklif nær út í hraunið.
Það nær að Ögmundarhrauni. Þunnfljótandi hraunið hefur runnið út í grunna vík. Í stað hefðbundinna gervigíga úr gjalli mynduðust niðurföll, hraunborgir, hraunrásir, hellar, sappar (hraunsveppir) og holar súlur þegar heitt hraunið snöggkólnaði og breytti vatninu í háþrýsta gufu. Litluborgir, austan Helgafells, og jafnvel Dimmuborgir eru taldar hafa myndast á svipaðan hátt.

Ögmundarhraun rann um 1151. Hraunið rann frá Krýsuvíkureldum (1151-1188). Það þekur botn Móhálsadals sunna Djúpavatns, allt til sjávar. Inni í hrauninu eru Húshólmi og Óbrennishólmi í eldra hrauni, báðir með fornum minjum í frá upphafi landsnáms.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.
Sveifluháls líkist Núpshlíðarhálsi, en er eldri og myndaður í fjölmörgum gosum, bæði á hlýskeiði- og kuldaskeiði. Upp úr honum ganga margir tindar, s.s. Hellutindar, sem er gosgangur. Sprengigígurinn Arnarvatn er upp á hálsinum þvert upp af Seltúninu, en þar er öflugt háhitasvæði.

Litluborgir

Í Litluborgum.