Tag Archive for: Ölfus

Strandarkirkja

„Strandarkirkja í Selvogi stendur við skerjótta Suðurströndina, leiðarljós þeirra er um sjávarslóð fara. Kirkjan er eins og kunnugt er vinsæl til áheita og um tilurð kirkjunnar hafa myndast helgisagnir sem vitna um þann lífsháska sem sjómönnum var búinn úti fyrir þessari klettóttu, hafnlausu úthafsströnd.

Strandarkirkja

Fyrsta helgisögnin er að Gissur hvíti á 10. og 11. öld hafi fyrst gert kirkju á Strönd og þá úr kirkjuviðnum sem Ólafur Noregskonungur sendi hann hingað með. Gissur ásamt Hjalta Skeggjasyni tengdasyni sínum átti ríkan hlut að kristnitökunni árið 1000. Þessi skoðun byggir eingöngu á kvæði Gríms Thomsens um kirkjuna þar sem segir m.a.:
,,Gissur hvíti gjörði heit
guði hús að vanda
hvar sem lífs af laxareit
lands hann kenndi stranda.“
Önnur sögn er að kirkjuna hafi reist Árni nokkur formaður þegar hann var að koma með timburfarm frá Noregi. Um þennan Árna yrkir séra Jón Vestmann er hann orti um Strandarkirkju árið 1843. Í kvæðinu er Árni Þorláksson biskup í Skáholti nefndur og sagður gefa honum heimild til kirkjubyggingar á Strönd. Árni var biskup 1269 til 1298 og ætti því Strandarkirkja samkvæmt þessari sögn að hafa verið reist í fyrsta skipti á síðari helmingi 13. aldar. Í kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti (1195-1211) sem að stofni til er frá árinu 1200 er kirkjan á Strönd hins vegar nefnd.
Þriðja helgisögnin er á þessa leið: ,,Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu eigin skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar. Segir nú ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi á hafi úti á leið sinni til Íslands. Lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir. Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að þessu heiti unnu birtist honum sýn í líki ljósengils framundan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið er hann stýrir eftir.
Eldri klukkanSegir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa. Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Þar skammt fyrir ofan var hin fyrsta Strandarkirkja reist úr fórnarviðnum.“
Sameiginlegt þessum frásögnum er að menn hafi verið á leið til Íslands og lent í hafvillum og sjávarháska uti fyrir þessari hafnlausu strönd og unnið Guði sínum það heit að reisa kirkju þar sem þeir næðu landi.
Sennilega hefur lendingin verið um Strandarsund sem er suður og austur af kirkjunni. Kunnugir segja að oft sé kyrrt í Standarsundi þó að haugasjór sé allt um kring.
Núverandi kirkja er frá 1888. Hún var endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og enn endurbætt og endurvígð 13. okt. 1996.
Vorið 1950 var rest var reistur minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík norðvestan við kirkjuna. Er það standmynd á stalli eftir Gunnfríði Jónsdóttur myndhögvara og nefnist Landsýn. Sýnir hún hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki og bendir sjómönnum í lífsháska inn í Engilsvík.
Þjónustuhús var reist nálægt kirkjunni 1988. Í jarðhýsi er snyrtiaðstaða fyrir gesti og gangandi. Umhverfi kirkjunnar er allt til mikillar fyrirmyndar. (Byggt í meginatriðum á riti Magnúsar Guðjónssonar biskupsritara um Strandarkirkju).
Kirkjan og garðurinn er í mjög góðri hirðu og góðu ásigkomulagi. 1986 var land Kirkjunnar girt af og hafin ræktun. Gróðursettar hafa verið 4000 plöntur og sáldrað um 30 kílóum af lúpínufræi. Árlega er áburður borinn á landið. Áður var sandfok illvígt þarna og ógnaði tíðum kirkjunni.

Yngri klukkan

Árið 1996 var kirkjan endurbætt að innan, skipt um glugga, einangrað og hvelfing sett yfir kirkjuskipið. 1998 var lokið við byggingu nýs turns á kirkjuna. 1987 var kirkjugarðurinn stækkaður og unnið hefur verið að endurbótum, merkingum og lagfæringum leiða. 1994 var vígt minnismerki um látna sjómenn. Settur hefur verið upp minningarsteinn um presta er þjónuðu og bjuggu í Selvogi. Sumarhúsið Strönd var keypt og sett upp 1988 en það er m.a.a afdrep þeirra er gæta kirkjunnar á sumrin. Gömul bæjarstæði í landi kirkjunnar hafa verið merkt. Útbúið var bílaplan 1988 og aðgengi fatlaðra þaðan og að kirkju tryggt. Steyptar nýjar tröppur.
Kirkjuhúsið er upphaflega byggt 1887-88 og mun hafa að mestu haldið formi sínu óbreyttu síðan. Árið 1968 var kirkjan að mestu endurbyggð. Þó eru máttarviðir hennar hinir sömu svo og gólf. Við þessa endurbyggingu var kirkjan lengd um „eitt gluggabil“ eða rúml. 2 metra. Henni var breytt að því leyti að söngloft var sett í hana og hvelfing fjarlægð úr henni og var hún með súð og sýnilegum sperrum. Breytingum er lýst í Biskupsvísitasíu frá 1982 og 1968. Þetta var fært í fyrra horf 1996.
Kirkjan er mjög hlýleg að innan. Dregill er á kirkjugangi. Norðanmegin dyra er skrúðhús vel búið. Þar er eldtraustur skápur sem varðveitir dýrgripi kirkjunnar.
Kerti á altari eru máluð af Sigurbjörgu Eyjólfsdóttur frá Þorkelsgerði. Pípuorgel kirkjunnar 6 radda af Walker gerð er frá 1969. Gamla orgelið frá 1898 var gefið kirkjunni 1997. Altaristafla (Upprisan eftir Sigurð Guðmundsson frá 1865) stærð 175 x 118 cm. Númeratafla er frá 1865 ásamt kassa með númerum. Altari og prédikunarstóll eru frá 1888.
AltaristaflanEnn önnu sögn um Strandarkirkju er þessi: „Á elleftu öld var stórbóndi úr Fljótshlíðinni á leið til Íslands með skipið sitt fullt af timbri frá Noregi sem hann ætlaði til að byggja sér nýjan bæ. Þegar bóndinn og skipshöfn hans tóku að nálgast suðurströnd Íslands, skall á aftaka veður. Allir héldu að skipið mundi farast og krupu þeir allir í bæn til Heilagrar Maríu. Eigandi skipsins hét á Maríu Guðsmóður að ef þeir kæmust lífs af mundi hann nota farminn til kirkjubyggingar hvar sem þeir kæmust að landi. – Skyndilega kom þá ljós af himni sem lýsti upp þungbúinn nætur himininn og mennina og himneskt ljós lýsti upp sjóinn fyrir stefni skipsins og frammi fyrir þeim myndaðist líkt og vegur með lygnum sjó þótt á sitt hvora hlið við lygnan sjávarveginn ólmaðist sjórinn með mannhæðar háum hvítfyssandi öldum. Skipið sigldi eftir þessum lygna vegi í átt til strandar og þegar ströndin birtist sjómönnunum stóð hin heilaga María þar með ljósker í hendi (Þegar sagan er sögð á 15 öld hefur hin “Helga Jómfrú” breyst í Engil, því Lútherstrúarmenn vilja að sem minnst sé minnst á Heilaga Guðsmóður en eldri heimildir eigna henni þetta kraftaverk) Um leið og skipið lagði að landi hvarf veran með ljóskerið en eigandi skipsins hélt heit sitt og byggði kirkju þar á ströndinni, svo eina og sér svo fjarri manna byggðum. Og þar stendur hún enn þann dag í dag.
Tvisvar í gegnum aldirnar, hefur átt að flytja kirkjuna nær prestsetri þá þjónandi prests. Í seinna skiptið sem var á 18 öld, hafði presturinn meira segja fengið leyfi biskupsins í Skálholti til kirkjuflutningsins. En daginn áður dó presturinn með sviplegum hætti. Í fyrra skipti var það einn flutningsmanna sem hneig örendur niður, rétt áður en rífa skyldi kirkjuna.
ÚtsaumurÁ 13 öld byrjaði fólk að heita á Strandarkirkju og í 7 aldir hefur fólk hvaðanæfa úr heiminum heitið á kirkjuna. Og hafa áheit farið þannig fram að fólk biður til Guðs, fyrir lækningu sinni eða annarra og heitir vissri fjárupphæð og bænheyri Guð biðjandann, þá fyrst er borguð sú peningaupphæð sem lofað var áður en bænin var beðin. Strandarkirkja er vinsælasta áheitakirkja í Evrópu. Og með áheitapeningum sem koma til Strandarkirkju er ekki aðeins séð um viðhald á Strandarkirkju sem er afskaplega vel við haldin og ótrúlega falleg lítil kirkja, heldur hafa áheitarpeningar til kirkjunnar verið notaðir til að halda við ótal kirkjum á Íslandi.
Mörg tákn og stórmerki hafa gerst í tengslum við þetta fallega Guðshús sem stendur hátt á sjávarkambinum. Svo þegar setið er þar í Kirkjunni við Guðsþjónustur sér maður langt út á Atlanshafið. Eitt sinn var fundur hjá safnaðarnefnd og prestinum þar í Selvoginum inni í kirkjunni. Var fundinum að ljúka nema meðhjálparinn og presturinn urðu einir eftir til að undirbúa messu næsta sunnudag. Þegar þeir höfðu lokið sínum umræðum og ætluðu út úr kirkjunni, gátu þeir ekki með nokkru móti lokað útihurð kirkjunnar. Hvað sem þeir gerðu, þeir reyndu allt, enda stórir og sterklegir menn. Ekki gátu þeir farið heim og skilið kirkjuna eftir opna. Þeir ákváðu að fara aftur inn í kirkjuna til að ráða ráðum sínum um hvað þeir ættu til bragðs að taka til að loka kirkjuhurðinni. En þegar þeir komu aftur inn í helgidóminn, sáu þeir að þeir höfðu gleymt að slökkva á kertunum á altarinu. Þeir litu hvor á annan fóru svo upp að altarinu og slökktu á kertunum. Gengu síðan út og kirkjuhurðin lokaðist ljúflega á eftir þeim.

Silfurkross

Áheitin eru auðvitað ótrúlegt fyrirbæri út af fyrir sig, eitthvað sem stendur tímans tönn og fólk hættir ekki að heita á kirkjuna þrátt fyrir efasemdaraddir nútímans. Það er líka afar einstakt að áheitin sem fremur eru kaþólskur siður en lútherskur skuli lifa svo vel af í íslensku samfélagi. Vegna áheitanna og gjafa er Strandarkirkja einhver ríkasta kirkja landsins, það streyma til hennar áheit bæði frá Íslendingum og erlendis frá. En hvers vegna heita svona margir á kirkjuna? Það er ekki annað hægt en að vera sannfærður um það að áheitin rætast og kirkjan borgi fyrir sig vegna þess að fólk borgar einungis til hennar ef það telur áheitið hafa gengið eftir.
Árið 1964 segir Árni Óla, í ritgerð sinni Áheitatrú á Íslandi, eftirfarandi um áheitin: ,,Áheitatrúin er trú á góð máttarvöld. Í trúnni á Strandarkirkju birtist vissan um, að til sé hulinn verndarkraftur. Er sú trú engu óvísindalegri heldur en trúin á að í geimnum leiki óteljandi geislar og orkustraumar sem nú hefur verið sannað”.
Strandarkirkja er lítil kirkja og afskekkt, það eru ekki margir sem sækja þangað guðsþjónustur, í sókninni eru innan við 20 manns. En þó svo að áheitin og sögurnar í kringum þau séu hið dularfyllsta mál eru þau um leið dæmi um sanna og einlæga guðstrú. Þau eru einnig sönnun þess að kraftaverkin gerast í heiminum eða að minnsta kosti trúir sá stóri hópur fólks því innilega sem heitir á Strandarkirkju á ári hverju.
BrúðarstólarStundum er talað um að það að heita á kirkjur sé sprottið af þörf fólks fyrir samband við verndandi mátt og það tengi hann þannig kirkjunni þótt trúin sem þeim fylgir sé einkamál. Stundum tekur fólk t.d. fram að það vilji ekki láta nafn síns getið þegar kirkjunni eru færðar gjafir. Í könnun sem Guðfræðistofnun gerði árið 1986, þar sem spurt var um áheit á kirkjur, kom í ljós að u.þ.b. þriðji hver Íslendingur hefur einhvertíma heitið á kirkju. Það er ekki ólíklegt að langflestir þeirra hafi heitið á Strandarkirkju.
Það má segja að hægt sé að skipta þeim sem heita á kirkjuna upp í tvo hópa. Annars vegar eru það þeir sem heita á kirkjuna ef eitthvað bjátar á og finnst þeir þurfa á kraftaverki, stóru eða smáu, að halda. Hins vegar eru það þeir sem t.d. borga alltaf einhverja vissa upphæð til kirkjunnar á ári hverju og trúa því að hún veiti þeim vernd sína í staðinn. Þannig heita sumir kannski bara einu sinni á ævinni á Strandarkirkju meðan aðrir gera það jafnt og þétt allt lífið.

Minningarsteinn

Eins og áður segir eru áheit fremur kaþólskur siður en lútherskur og siðbreytingin hefur eflaust haft sitt að segja um trú manna á Strandarkirkju. Biskupar og prestar hafa vafalaust reynt að mæla gegn áheitunum eftir siðbreytingu og fundist fé fólksins betur varið í eitthvað annað. En áheitin héldu áfram og ekkert gat stöðvað þau.
Fyrir siðbreytingu voru Skálholt og Kallaðarnes mestu áheitastaðir Íslendinga og er stundum talið að Strandarkirkja hafi leyst þessa tvo staði við siðbreytingu, hvað áheitin varðar.
,,Árnessýsla átti um aldir tvo mestu áheitastaði landsins, Skálholt og Kallaðarnes. Og enn á hún mesta áheitastaðinn, þar sem er Strandarkirkja. Hún er líkt og arftaki beggja hinna kirknanna. Það er ekki fyrr en eftir að siðbótamenn hafa afnumið og bannað áheit á Þorláksskrín og krossinn helga í Kallaðarnesi, að áheit manna taka að berast til Strandarkirkju.”
Áheitin lifðu tímans tönn og lifa enn sem hluti af trúarlífi okkar Íslendinga. Árni Óla segir í ritgerð sinni að það sé rangt að halda því fram að áheitin hafi borist hingað til lands með pápiskum sið. Hann segir að áheitatrúin sé miklu eldri og eigi líklega rætur sínar að rekja til þess að maðurinn fór fyrst að huga að og gera sér grein fyrir því að til væru æðri máttarvöld. Maðurinn hefur svo leitað ráða til að komast í samband við þessi æðri máttarvöld og fá þau þannig til að hjálpa sér. Slíka trú má finna í öllum löndum og hefur gefist fólki vel, annars mundi hún ekki halda velli. Svona trú er ekki hægt að banna því menn standa vörð um það sem þeim er heilagt. Við kristintökuna blönduðust saman kristnar og heiðnar hugmyndir.

Landsýn

Með siðbótinni var blandað saman pápískum og lúterskum hugmyndum, allt hafði þetta glundroða og öfgar í för með sér. En þegar upp er staðið er það eina sem hélst óbreytt trúin á góð og ill öfl.
Styttan Landsýn, sem stendur framan við Strandarkirkju er eftir listakonuna Gunnfríði Jónsdóttur (f: 26. desember árið 1889 að Sæunnarstöðum í Hallárdal í Austur-Húnavatnssýslu). Gunnfríður var við nám í Kaupmannahöfn þegar hún kynntist tilvonandi manni sínum Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara og þau felldu hugi saman. Styttan var vígð sumarið 1953. Styttuna vígði þáverandi biskup Íslands Sigurgeir Sigurðsson. Styttan er af englinum sem birtist sæförunum sem lentu í sjávarháska fyrir langa löngu og er minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík.
Höggmyndin er úr ljósu graníti og var höggvin í Noregi. Hún sýnir okkur hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki og bendir sjómönnum í lífsháska inn í Engilsvík.
Gunnfríður lést árið 1968 og á sér legstað í kirkjugarði Strandarkirkju.

 

Heimild:
-www.kirkjan.is/strandarkirkja
-www.olfus.is

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Herdísarvíkurbjarg

Gengið var um Herdísarvíkurberg frá Herdísarvík, eftir Háabergi og yfir á Eystri-Bergsenda þar sem það mætir Krýsuvíkurbergi.

Keflavík

Herdísarvíkurbjarg við Keflavík.

Á leiðinni voru skoðaðar hina fjölbreyttustu bergmyndanir, magnþrungið afl sjávar, sérstakur gróður og fuglalíf. Komið var við í Keflavík. Frá henni vestanverðri liggur rekagata til Krýsuvíkur. Þá var komið við í fjárskjólunum í Fjárskjólshrauni og í Krýsuvíkurhrauni (Arngrímshelli/-Gvendarhelli). Hvorutveggja eru merkirlegir fulltrúar slíkra á Reykjanesskaganum.
Austanvert bergið við Rauðhól er um 5 m.y.s., Háaberg er hæstum 35 m.y.s. og austanvert Krýsuvíkurbergið er um 46 m.y.s.
Frábært veður. Gengnir voru 15 km og tók gangan 4 klst og 4 mín.

Herdísarvíkurbjarg

Í Herdísarvíkurbjargi.

 

 

Grindaskörð

Haldið var upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindaskörðum. Ætlunin var að skoða tótt skiptistöðvar brennisteinsmanna þar undir skörðunum. Á leiðinni var komið við í helli, sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða tiltölulega lítið jarðfall. Reipi þarf til að komast niður. Hins vegar einfaldaði hár snjóskafl neðan við opið niðurgönguna að þessu sinni.

Selvogsgötuhellar

Í Rósaloftshelli.

Rás liggur um 30 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr veggnum hægra megin kemur steinn, sem lítur út eins og elgshaus. Til suðurs er hellirinn um 70 metrar. Fremst er fallega brúnt gólfið og fallegar myndanir í lofti.
Ofar í hlíðinni er mikið og djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður í það nema á reipi. Inngangur virðist vera í norðanverðu jarðfallinu. Það var hins vegar ekki skoðað að þessu sinni.
Farið var í Rósaloftshellir. Hann er fremur stuttur, en rás liggur upp hann vinstra megin. Ef loftið er skoðað með góðu ljósi sést hversu stórbrotið rósamynstrið þar er. Þátttakendur hafa ekki séð slíkt í öðrum helli.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Skammt ofar er Spenastofuhellir. Í honum innanverðum er litadýrð með fallegum sléttum jarðmyndunum.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Tótt af skiptistöð brennisteinsmanna er austan við Selvogsgötuna undir hlíðum Grindaskarða. Gengið var austur og niður með hlíðunum. Ofan frá þeim mátti sjá móta fyrir gamalli þvergötu úr austri inn á Selvogsgötuna neðar.
Í Kristjánsdölum er ein tótt af húsi og einnig sést móta fyrir öðru. Það hefur líklega verið timburhús og nokkuð stórt. Hitt er hlaðið úr torfi og grjóti.
Á leiðinni til baka var gengið á ská yfir Tvíbollahraunið og þar rakin gömul leið spölkorn í hrauninu. Sést vel móta fyrir henni á klapparhæð þar sem hún er mörkuð í bergið. Leiðin er frá Selvogsgötunni þar sem hún mætir Bláfjallavegi og í ská upp að vatnsstæðunum vestan Kristjánsdala. Þar virðist vera gömul leið upp með fjallsöxlinni, sem er nokkuð gróin, og beygir hún síðan upp með Tvíbolla.
Frábært veður – 8°C hiti og nánast logn.

Grindaskörð

Tóft undir Grindaskörðum.

Bjargarhellir

Haldið var að Bjargarhelli á Strandarheiði. Svart sólskinið lék um heiðina, logn og 5 °C hiti. Í myrkrinu var mið tekið af Nesvita í suðaustri og upplýstri Strandarkirkju í suðvestri. Og með FERLIRshúfuna var tiltölulega auðvelt að finna hellinn, sem er í 410 metra fjarlægð frá veginum.

Bjargarhellir

Innan við op Bjargarhellis.

Gömul sögn er um langa hraunrás inn úr Strandarhelli, sem um 400 metrum ofar, en bent hefur verið á þar geti hafa verið átt við Bjargarhelli. Hellar þessir eru nokkuð líkir og því auðvelt fyrir þá, sem ekki voru vel kunnugir á heiðinni, að villast á þeim. Búið var að kanna með hugsanlega rás úr Strandahelli en engin fannst í það sinnið.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Bjargarhellir er nokkuð rúmgóður fjárhellir. Umhverfis gróið jarðfallið, sem hann er í, er gamall jarðlægur garður. Fyrst var hugað að fyrirhleðslu norðaustan til undir vegg hellisins. Ekkert op var þar að finna. Þá var skoðað á bak við langa fyrirhleðslu sunnan og inn í honum. Þar var heldur ekkert op að sjá. Ekki var þörf á að hreyfa við hleðslunum til að ganga úr skugga um þetta. Þá var staldrað við, íhugað og hugsað, eins og svo algengt er í betri FERLIRsferðum.

Bjargarhellir

Gasuppstreymisop í Bjargarhelli.

Bjargarhellir hafði greinilega myndast í miklu gasuppstreymi. Tvö útstreymisop eru greinileg upp undir lofti í vestanverðum hellinum svo augljóst var að gasið hefur komið einhvers staðar inn að neðan og myndað hvelfinguna áður en það fór út aftur.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Þagað var um stund, hugsað og gaumgæft – og sjá. Athugul augu komu auga á að gólfið á einum stað neðan við uppstreymisopið var ekki eins og annars staðar í hellinum. Var því byrjað á að færa til grjót í moldargólfinu.

Bjargarhellir

Grjót í opi neðri hluta Bjargarhellis.

Fljótlega kom í ljós rás, sem greinilega hafði verið fyllt upp í undir veggnum – undir gólfinu. Náðist að hreinsa nokkuð upp frá opinu, en eftir stóðu 3-4 steinar, sem verkfæri þurfti til að ná upp. Sást ofan í rásina þar sem hún liggur undir vegginn til norðnorðvesturs.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Eftir nokkurt erfiði í blautu moldardrullumalli virtist opið inn vera orðið nógu vítt til þess að hægt væri að skríða þar inn þegar búið var að hreinsa upp frá því. Þegar verið var að hreyfa til stóra grjótið, og það hrundi niður, glumdi í eins og í tómri tunnu uns bergmálið dó einhvers inn undir hrauninu – niðri í iðrum jarðar.
Síðar kom í ljós að ályktunin og allt erfiðið reyndist rétt, sbr. meðfylgjandi myndir….
Bjargarhellir

Opið niður í neðri hluta Bjargarhellis er óárennilegt.

Herdísarvíkurfjara

„Herdísarvíkurhraun eru mikil og ná ofan frá fjalli allt niður að sjó, og er rétt að deila þeim nokkuð. Herdísarvíkurhraunið eldra er klapparhraun og er fornt mjög. Herdísarvíkurhraunið yngra er það hraun, sem runnið hefur fram vestan Lyngskjaldar, og Herdísarvíkurbruni, sem liggur austan bæjarins og hefur runnið ofan um Mosaskarð í sjó fram.“

Herdísarvík

Framangreint kemur fram í örnefnalýsingu sem hér verður stuðst við.
Gengið var niður með vestanverðum bæjarleifum Herdísarvíkur og áfram til suðurs vestan Brunna. Ætlunin var að ganga niður að Hádegisvörðu, um Alnboga og Háaberg að Herdísarvíkurseli.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Herdísarvík segir m.a. um svæðið suður og vestur af bænum:
„Haldið er nú vestur ofan túngarða, þar er Kátsgjóta, út frá Jöfurshliði. Upp frá Bæjarhliðinu var Kúavegur fram hjá Kúavörðu og lá allt upp undir fjallið.

Hádegisvarða

Upp frá vesturtúngarði er í hrauninu Hvolpatjörnin. Sjávarkampurinn forni er þarna í hrauninu, því vestur frá túninu má sjá mikið af lábörðum steinum, eins og í Urðinni, og áfram liggur kampur þessi austur um Gerðin. Vestan túngarðins var Nýigarður, maturtagarður. En úr Skarðinu lá Brunnastígur, og þar suður af eru tjarnir, sem nefnast Brunnar. Milli tjarnanna voru stiklur nefndar Steinbogi.  Þar vestur af er hrauntangi kallaður Langitangi.
Sunnan við Brunna voru á hrauninu tvær fjárborgir, sem nefndust Borgin efri og Borgin neðri. Matjurtagarðar voru í báðum Borgunum, kallaðir Borgararðar. Þarna á klöppunum er Sundvarða vestari, sem einnig er kölluð Hádegisvarða. Nú taka við gjögur mikil og klappir, en ofan við eru Flatirnar allt út á Alboga, þar um liggja fjárgötur. Á Alboga beygir ströndin til Háabergs.

Hnyðja

Ofanvert við það er djúp gjóta, Háabergsgjóta. Eftir berginu eru Háabergsflatir allt vestur í Seljabót. Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er staður þessi nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar, og þarna rétt hjá er hellir, Seljabótarhellir. Þá er þess að geta, að í máldaga Strandarkirkju má finna nafnið Selstaður, og hygg ég þar sé átt við þennan stað.
Norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar; Langhóll fremri og Langhóll efri. Þá er Hvíthóll upp af Háabergi. Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp frá Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar. Milli Kolhrauns og Seljabótarbruna, en yfir suðurenda þess, liggur landamerkjalínan.
Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu. Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.

Varða

Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“ 

Varða er við fyrrnefnda Háabergsgjótu. Einnig voru fleiri vörður á leiðinni ofan við Háabergið, einkum um Gjögrin. Í fyrstu mátti ætla, vegna stopulleika, að þarna væru hlaðin kennileiti fyrir rekastaði eða jafnvel greni/refagildrur, en svarið felst í annarri örnefnalýsingu þar sem m.a. er getið um selstíg á þessum slóðum: „Áður er frá því skýrt, að leiðin til selja lá eftir Gjögrunum og um Háaberg. En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna.“
Þessi leið milli bæjar og sels Seljabóthefur verið mjög greiðfær, auk þess sem ferðin hefur þá gjarnan verið notuð til að athuga með nýlegan reka, sem gnægð er af á köflum. Hér eftir, til aðgreiningar frá efri selstígnum, verður þessi leið nefnd Neðri-Selstígur. Ætlunin er að ganga hinar Herdísarvíkurgöturnar fljótlega, þ.e. Herdísarvíkurgötu frá Geitahlíð svo og efri-selstíginn að selinu og Seljaveginn um Gamlaveg til baka að upphafsstað. 

Í annarri örnefnalýsingu GS um þetta svæði segir:
„Rétt sunnan við Brunna eru fjárborgirnar tvær, nefnast Borgin efri og Borgin neðri. Kartöflugarðar voru í Borgunum og nefndust Borgagarðar. Á klöppum rétt utar var svo varða, eyktamark, Hádegisvarða, einnig nefnd Sundvarða. Þá var rétt tekin stefna í Vörina, þegar skutur skips sneri í vörðu þessa, en stafn í Sundvörðuna á kampinum upp af Vörinni.
TófusporVið Herdísarvík voru berar klappir allt innan frá Brunnrásinni út á Alboga. Gjögur var strandlengjan kölluð. Út af Alboga var klettur í fjörunni, er nefndist Svartbaksklettur. Ofan Gjögranna var nafnlaust sandflæmi allt út á Alboga, en ofan við sandinn tóku við Flatirnar, og eftir þeim lágu fjárgöturnar, sem líka voru Selsgötur til Herdísarvíkursels í Seljabót. Frá Alboga beygir ströndin til vesturs, og nefnist þar Háaberg. Spölkorn vestan Alboga er Háabergsgjóta, mikið gjögur, þar sem sjórinn spýtist upp í stórbrimi, líkt og gos úr hver. Háaberg er eggslétt hraunklöpp, en uppi á klöppinni liggja víða gríðarstórir steinar, sem brimið hefur brotið úr berginu og velt upp á klappirnar.  Í norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar, Langhóll fremri og Langhóll efri.
Upp frá Háabergi eru Háabergsflatir. Hér ofar á hrauninu er Hvíthóll. Áður er frá því skýrt, að leiðin til selja lá eftir Gjögrunum og um Háaberg. En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni. Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif.
Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir.Herdísarvíkursel Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krísuvíkurhrauns eða Krísuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.“
Fyrrnefndar fjárborgir eru nú uppgrónar þótt enn megi sjá móta fyrir svonefndum Borgargörðum.

Á leiðinni bar fjölmargt fyrir augu, s.s. margslungnar hnyðjur, sæbarin björgin og ýmsar grjótmyndanir. Mávager setti svip sinn á bjargsýnina og refur reyndi að komast undan á flótta ofan við Seljabót. Þegar staðið var á bjargbrúninni austan víkurinnar neðan Seljabótar mátti vera augljóst að hún heitir því nafni, enda bótanefnan jafnan notað fyrir víkur og smávoga.
Frábært veður. Gangan, sem var 9.3 km, tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing I GS fyrir Herdísarvík.
-Örnefnalýsing II GS fyrir Herdísarvík

Mávager

Miðvogsstekkur

Í heimsókn til Þórarins Snorrasonar á Vogsósum komu upp við undirleik slátursuðunnar vangaveltur um staðsetningu Bjarnastaðastekks í Selvogi.
Þórarinn sagðist hafa skoðað örnefnalýsingar Götu og Bjarnastaða og skv. hans bestu vitund, með hliðsjón af nálægum örnefnum, gæti stekkurinn varla Þórarinnverið annars staðar en milli Snældhóla og Stóraklifs austan núverandi vegar niður að Selvogi. Ákveðið var í framhaldi af því að slá til og fara á vettvang, enda var veður hið ákjósanlegasta í kvöldhúminu, logn og haustangan.
Í örnefnalýsingu fyrir Götu segir m.a.: „Örnefnaskrá þessi er samin með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir með Eyþóri Þórðarsyni, Hraunbæ 56, Reykjavík. Eyþór er fæddur í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Skráð var að heimili Eyþórs 15. og 21. okt. 1980.
Gata er næst fyrir vestan Bjarnastaði. Landamerki Götu og Bjarnastaða eru: Mörk Götu og Þorkelsgerðis eru: Markhella, sem er klöpp í fjöru, þaðan í Markklett við túngarð, þ.e. jarðfastur klettur við Litlu-Götuhlið (M er bæði í hellunni og klettinum), þaðan í Markhól austan Stóra-Klifs, þaðan í miðjan Gjáardal, sem er dalverpi ofan vegar, þaðan í Svarthól og loks í Kálfahvamm í Geitafelli (ekki Kálfahvammsöxl). Tveir bæir voru í Götu, Stóra-Gata og Litla-Gata. Stóra-Gata stóð neðarlega í túni, u. þ. b. mitt á milli landamerkja, en Litla-Gata ofar og vestar, skammt frá landamerkjum Þorkelsgerðis, rétt við Markklett. Tún bæjanna eru kennd við hvorn um sig.
StóraklifVestast í fjöru er Markhella  á mörkum móti Þorkelsgerði. Upp frá fjörunni er Kampurinn, sjávarkampur, sem hér er kallaður Götukampur. Fyrir ofan hann er Grásteinn á merkjum móti Bjarnastöðum. Upp frá Kampinum liggur Götubryggja, garður, sem nær upp undir Stóru-Götu. Hann var gerður til að ganga á vetrum, en þá var oft tjörn fyrir ofan Kampinn.  U.þ.b. beint upp frá Stóru-Götu var brunnur bæjanna. Ofan við tún er túngarður, kenndur við Götu. Traðir liggja niður með merkjunum að austan. Göturás rann niður mitt tún, kom innan að. Vatn var í henni í leysingum, en var annars þurr.
Ofan túngarða tekur Selvogsheiði við, og er nefnd Miðheiði upp af Bjarnastöðum og Götu  og vestur um Torfabæjaland, en Útheiði eða Vesturheiði þar fyrir vestan. Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v.  í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúns-flatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“
ÞórarinnÞegar á vettvang var komið sagði Þórarinn hólana fyrir ofan stekkinn heita Snældhóla. Á þeim austasta er varða. Um þriggja mínútna gangur er að stekknum frá veginum. Þegar að var komið var augljóst að þarna voru stekkjarleifar. Þær virðast í fjarlægð vera lágur, gróinn, hóll, en í nærsýn má vel sjá efstu lög veggja. Gott útsýni er frá stekknum heim að Bjarnastöðum. Neðar má sjá gömlu leiðina sem og vörðuna á Stóraklifi suðvestar. Neðar (sunnar) eru Bjarnastaðahólar.
Í fyrrnefndri örnefnalýsingu segir auk þessa: „Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi. Mörkin milli Útvogs og Götu eru úr Markhól austan Stóraklifs í Þorkelsgerðislandi í miðjan Gjáardal, sem er kringlótt ker ofan við ferðamannaveginn út að Vogsósum, austur af Bjargarhelli. Milli Gjáardals og Torfdals er mjótt haft, líklega tíu metrar. Þar er Miðvogsstekkur í Götulandi. Línan liggur úr Gjáardal um þúfu á Götugjá.“
FERLIR skoðaði Miðvogsstekkinn s.l. vetur ásamt fleiri minjum á svæðinu.
ÞórarinnÍ örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir um þetta sama svæði m.a.: „Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan. Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum, kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund.  Átti hana að bera í austustu Hnúkana. Við túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina. Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi. Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað. Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu. Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.“
Allt framangreint má sjá enn.
Til að nota ferðina var stefnan tekin á Strandarkirkju. Í viðtali við Þórarinn fyrir nokkrum árum (sjá HÉR) hafði komið fram að hann hafði fyrrum farið sinna ferða á sauðskinnsskóm. Kirkjugatan millum Vogsósa og Strandarkirkju hefði verið u.þ.b. 1/2 klst löng. Rétt áður en komið var að kirkjunni hefðu gestir farið úr hversdagsskónum og sett spariskó á fætur sér. Það hefði verið gert við svonefndan „Skóstein“. Þrátt fyrir aðgát þá hafði skósteinninn sá ekki opinberast svo augljóslega. Skammt frá eru t.d. Fornigarður og Sveinagerði.

Þórarinn

Þórarinn gekk óhikað frá Strandarkirkju eftir sandorpinni götunni fyrrum, nú ósýnilegri, áleiðis að vörðu og áfram í gegnum seinni tíma tilkomna lúpínubreiðu. Þar staðnæmdist hann á klapparhrygg og sagðir: „Hér er það – þetta er skósteinninn. Hann er reyndar bara sléttbökuð klöpp, en hér skiptum við um skó á leiðinni. Kirkjan er þarna“, bætti hann við og benti í átt að henni. „Segja má að ég tilheyri þeirri kynslóð er brúar bilið millum gamla bændasamfélagsins hér á landi og þess nútíma, sem flestir þekkja nú til dags.“
Í viðræðum við Þórarinn kom m.a. fram mikilvægi örnefna fyrrum – þegar fé gekk sjálfala allt árið. Mikilvægt var að huga vel að því og þurfti þá oft að fara um lönd og heiðar til eftirlits. Sérhver hóll og sérhvert kennileiti hafði þá nefnu svo auðvelda mætti eftirlitið eða bregðast við ef þurfa þótti. Benti hann sem dæmi á „ómerkilegan“ hól efst í Vogsósalandi að austanverðu, svonefndan Hatthól. „Hvers vegna Hatthóll?“, var spurt. „Af því hann er eins og hattur í laginu“, var svarið, enda það augljósasta þegar betur var að gáð. „Svona var um mörg örnefnin, þau komu til af sjálfu sér, líkt og Snældhólar, þ.e. snældulaga hólar.“
Seinna verður rakið áhugavert viðtal við Þórarinn um tilurð og gildi örnefna fyrr á öldum.
Hnit voru tekin á „Skósteininum“ líkt og á Bjarnastaðastekknum.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þórarinn Snorrason á Vogsósum.
-Örnefnalýsing fyrir Götu.
-Örnefnalýsing fyrir Bjarnastaði.

Þórarinn

Kistufellsgígur

Ætlunin var að berja augum hina sjaldgæfu hákolla Brennisteinsfjalla snævislausa, jarðfastar eldborgir, mannvistarleifar (sem fáir vita af) og helstu undirheima þessa ómetanlega og jafnframt ósnortna náttúrundurs við fótskör höfðuborgarsvæðisins, s.s. dropsteins-, litabrigða- og jökulhella. Líklegt má telja að svæðinu verði fórnað innan fárra missera á altari sjóndaprar stóriðjustefnu vegna áhugaleysis meirihluta „hinna 63. bekkjarsystkina“, sem ættu þó skv. ákvæðum stjórnarskráar landsins og allra annarra skynsemissjónarmiða að standa einarða vörð um varðveislu þess. Brennisteinsfjallasvæðið er ómetanlegt, jafnvel á heimsvísu, ekki síst út frá náttúru- og jarðfræði þess. Einhverjir hafa tjáð sig um svæðið, en sumir þeirra hafa ekki komið þangað.

Leiðin

Gengið var upp frá Sýslusteini við Herdísarvíkurveg og stefnan tekin á Jafndægur suðvestan við Sandfell. Þaðan átti að ganga um Vörðufellsgíg, Vörðufellsborgir, Eldborg, Kistu, Kistufell, niður í Námuhvamm að brennisteinsnámunum og síðan um Kerlingahnúka og Kerlingarskarð niður að Bláfjallavegi. Í leiðinni átti og að skoða nokkra hella og önnur sjaldséð náttúrufyrirbæri.
Spáð hafði verið sól á svæðinu, en auk þess hafði að semja um sérstaklega áhrifarík áttaskil þar (meðan á göngunni stóð), lygnu og 16° hita.
Nafnið Brennisteinsfjöll er tiltölulega ungt eða frá því á 18. öld. Áður var hryggurinn, sem mynda þau, nefndur Fjallaháls og jafnvel fleiri nöfnum. Hann er myndaður á sprungurein (oft talað um Brennisteinsfjallareinina) líkt og Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) undir jökli að hluta, en síðan gosið víða eftir honum á nútíma eins og sjá má hinum mörgu eldborgum og gígum. Kistufellsgígurinn er sá stærsti. Miklar hrauntraðir liggja frá gígunum og víða eru langar rásir undir hraunhellunni. Vitað er að gos varð í Kistu árið 1000, en síðast er talið að hafi gosið í Brennisteinsfjöllum um 1340 (Draugahlíðagígshraunið/Stakkavíkurhraunið). Í Kistu má sjá gíga frá öllum tímabilum nútímans, grónar hrauntraðir og berar, mosavaxin hraun og hraun án mosa.

Aðkoman að Brennisteinsfjöllum fer eftir því hvað á að skoða hverju sinni. Nú var haldið inn Fagradal til austurs með suðurjaðri Breiðdalshrauns, sem rann úr Kistu á sínum tíma (árið 1000), og síðan fetaður stígur upp hlíðina innanverða. Þegar komið var upp á brún var vent til vinstri eftir stíg rjúpnaveiðimanna inn á úfið apalhraun. Eftir stutta göngu var komið inn á slétt helluhraun. Þaðan var leiðin greið upp í Brennisteinsfjöll.
Í leiðinni upp var m.a. kíkt á hraunskjól í Fagradal. Hleðsla er við opið. Frá skjólinu er ágætt útsýni yfir dalinn. Ekki er ólíklegt að þarna hafi refaskytta átt athvarf. Slitrur úr dráttartógi, mosavaxið, lá innan við munnann.
Þegar staðnæmst var á hraunbrún á miðri sléttu Kistuhraun sást vel til Brennisteinsfjallanna; eldborgirnar í suðaustri, Kistu í austri og Kistufells í norðaustri, var ekki hjá því komist að rifja upp ásókn virkjunarverktaka í þessa dásemd.
Hjá iðnaðarráðuneytinu liggja fyrir umsóknir frá orkufyrirtækjum um rannsóknarleyfi á þremur svæðum á suðvesturhorninu sem ekki hafa verið virkjuð. Eitt þeirra eru Brennisteinsfjöllin. Um þessar mundir virðast þau eftirsóttasti virkjunarkosturinn.
Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja hefur m.a. gagnrýnt seinagang í umsóknarferli vegna rannsóknarleyfa og undraði sig á því að staðið skildi á umsögn umhverfisráðuneytisins. „Í lögum sé kveðið á um skjóta afgreiðslu en ráðuneytið virðist ekki hafa nokkrar áhyggjur af því að brjóta lög með því að draga að klára sína umsögn, mun hann hafa látið út úr sér vegna þessa.“
Á svæðinu eru merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar. Í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Á svæðinu má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið.
Víðáttumikil dyngjuhraun eru á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Gos á sögulegum tíma. Í Herdísarvíkurhrauni er kjarrlendi fyrir opnu Atlantshafi og er það eitt heilsteyptasta kjarrið sem eftir er á Reykjanesskaga. Meðal menningarminja á svæðinu er hluti Selvogsgötu, sem liggur frá Hafnarfirði í Selvog og brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum.
Verndartillögur ná yfir austasta hluta þess háhitakerfis sem kennt er við Krýsuvík en ákvörðum um nýtingu liggur ekki fyrir.
Brennisteinsfjöll eru sunnan Lönguhlíðar á Reykjanesi. Þau eru mjög eldbrunnin og hraunfossar frá þeim liggja niður fjallahlíðar í átt að Herdísarvík. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.
Englendingar hófu brennisteinsnám austanverðum Brennisteinsfjöllum í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði (sjá umfjöllun á annarri FERLIRssíðu). Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin var um Grindaskörð til Hafnarfjarðar. Enn má sjá brennisteinskjarnana, göturnar og afkastið í námunum, auk ofnsins, sem notaður var til að móta afurðirnar áður en þær voru fluttar til hafnar.
Umhverfisstofnun vakti athygli á að í bréfi, dagsettu 26. nóvember 2003, fór rektor Háskóla Íslands þess á leit við umhverfisráðherra að auglýsingu um friðland í Herdísarvík verði breytt á þann veg að mögulegt verði að rannsaka og nýta jarðhita sem er að finna í Brennisteinsfjöllum.
Umhverfisráðuneytið óskaði eftir afstöðu Umhverfisstofnunar til málsins með bréfi dagsettu 20. janúar sl. Fram kom að „í Brennisteinsfjöllum er jarðfræðileg fjölbreytni mikil, þar er að finna merkar og nánast ósnortnar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur, misgengi og háhita. Brennisteinsfjöll, og raunar allt Herdísarvíkurfriðland, eru hluti af stærra svæði sem fjallað er um í tillögu Umhverfisstofnunar um náttúruverndaráætlun, þ.e. Brennisteinsfjöll-Herdísarvík, en lagt er til að svæðið allt verði friðlýst sem náttúruvætti eða friðland.“
Í þingsályktunartillögu var svæðum meðal annars forgangsraðað með tilliti til jarðfræðilegra minja með einkunnagjöf. Þar fékk svæðið Brennisteinsfjöll-Herdísarvík næsthæstu einkunn og á eftir Geysi, en Reykjanes-Eldvörp-Hafnarberg og Grændalur fengu þriðju hæstu einkunnina. Þegar vinnuhópur umhverfisráðuneytis var að störfum lág fyrir að umhverfisráðuneyti hafði með bréfi dags 13. júní 2003, til iðnaðarráðuneytis, lagst gegn því að veitt yrði rannsókna- og nýtingarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Í þingsályktunartillögunni var einungis fjallað um Geysi og Reykjanes- Eldvörp-Hafnarberg en ekki þótti ástæða til að fjalla um Brennisteinsfjöll-Herdísarvík að sinni, þar sem ekki voru áform uppi um nýtingu þessa svæðis.

Í ljósi framangreindrar beiðni um breytingu á auglýsingu um friðland í Herdísarvík, telur Umhverfisstofnun æskilegt að fjallað verði um Brennisteinsfjöll-Herdísarvík í náttúruverndaráætlun 2004-2008.
Umhverfissamtökin Landvernd hafa sett fram sýn til framtíðar um verndun Reykjanesskagans og að frá Þingvallavatni út á Reykjanestá verði stofnaður „Eldfjallagarður og fólkvangur“. Framtíðarsýnin grundvallast á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri nýtingu á auðlindum skagans. Hvatt er til nýtingar jarðvarma til orkuframleiðslu þar sem þegar hefur verið virkjað en ósnortin jarðhitasvæði verði vernduð. Þar er horft til tilrauna sem sýna að með djúpborunum sé jafnvel hægt að tífalda þá orku sem fæst úr hverri borholu í dag.
Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að í framtíðarsýn samtakanna sé rými fyrir allt og alla, en bara ekki á sama stað. „Menn verða að taka frá svæði fyrir ólíkar nýtingarleiðir. Það hafa þegar verið tekin frá svæði til orkuvinnslu en það hafa hins vegar ekki verið tekin frá svæði til náttúruverndar með fullnægjandi hætti.“ Bergur segir að Brennisteinsfjöll séu ósnortið víðerni sem þurfi að taka frá fyrir náttúruvernd og koma þurfi í veg fyrir rannsóknaboranir þar. „Á Reykjanesi eru fjögur eldstöðvakerfi. Tvö af þessum kerfum hafa þegar verið virkjuð að talsverðu leyti og það eru komnar af stað rannsóknaboranir á þriðja svæðinu sem er Trölladyngjusvæðið.
Brennisteinsfjöllin eru síðasta kerfið sem er ósnortið. Við leggjum áherslu á rannsóknir og djúpboranir á þeim svæðum sem þegar eru nýtt til orkuvinnslu með jarðvarma því hver virkjun; Hellisheiðarvirkjun, Reykjanesvirkjun og Svartsengi, getur orðið ígildi Kárahnjúkavirkjunar.“
Ólafur G. Flóvenz, forstjóri Íslenskra orkurannsókna, segir að hafa beri í huga að djúpboranir muni ekki leysa einhvern bráðavanda en staðfestir að yfirgnæfandi líkur séu á að mögulegt sé að margfalda orkuframleiðslu úr borholum sem fyrir eru með nýrri tækni í framtíðinni.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur lagt til að gera Brennisteinsfjöll að friðlandi en Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagðist í viðtali við Fréttablaðið nýlega ekki geta tjáð sig um þær hugmyndir á meðan umsóknir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um rannsóknaboranir í Brennisteinsfjöllum eru til afgreiðslu hjá iðnaðarráðuneytinu??? Það ætti a.m.k. að gefa ákveðna vísbendingu um það sem ætlað er.
Þegar horft er til Brennisteinsfjalla (sem sjást vel víðasthvar af Reykjanesskaganum) má með sanni segja að sjaldan hafi jafn merkilegu svæði verið jafn lítill gaumur gefinn. Á svæðinu er að finna merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar. Í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Náttúrustofa Íslands telur að á svæðinu megi “rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Víðáttumikil dyngjuhraun eru á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Gos hafa orðið þarna á sögulegum tíma, sbr. Kistuhraunið og Draugahlíðagígshraunið, sem neðst hefur fengið nafnið Stakkavíkurhraun. Stærð þessa svæðis er um 198,7 km.” Drög hafa verið lögð að því að friðlýsa hluta Brennisteinsfjallasvæðisins.
Á Brennisteinsfjallasvæðinu eru nánast ósnortnar og merkar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur og misgengi. Þar er og háhitasvæði. Það mun hafa alþjóðlegt náttúruverndargildi. Fjölbreyttur gróður er og á svæðinu. Eldgosaminjar eru og miklar í Brennisteinsfjöllum, s.s. opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirki hlutinn nær frá sjó og norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Oft hefur gosið á þessari sprungurein og hafa hraunin runnið niður í Heiðmörk í vestri, á Sandskeið í norðri og suður til Herdísarvíkur. Austurhlutinn er markaður af Bláfjöllum og Vífilsfelli sem mynduðustu við gos á ísöld. Á heildarsvæðinu eru ummerki um 3-4 eldgos á sögulegum tíma. Mikið er um hrauntraðir, hrauntjarnir, hraunæðar, niðurföll, hraunfossa, hraunhella og aðrar jarðminjar í eldstöðvakerfinu.
Kistufellsgígurinn er sérkennilegur, girtur háum hömrum og liggja nokkrar hrauntraðir frá honum til vesturs. Eldborg á Brennisteinsfjöllum er hæsti gígurinn í gígaröð sem kemur í beinu framhaldi af Kistufelli til suðvesturs. [Hér er reyndar um misvísun að ræða. Augað blekkir. Elborgargígurinn svonefndi stendur hæst eldborganna í Brennisteinsfjöllum, en Eldborgin (drottningin) sjálf er skammt vestan hennar, rislítil en með drjúgum stærri gígskál. Úr henni hefur meginhraunið runnið til vesturs].

Háhitasvæði í Brennisteinsfjöllum er nánast ósnortið. Merki um háhitann sjást ekki mikið á yfirborði. Umhverfið er þó stórbrotið, með ósnortnum gígum, eldhraunum og opnum sprungum. Leifar námuvinnslu eru enn til staðar, ef vel er að gáð. Ofninn í brennisteinsnámunum er falinn undir moldarbakka. Einungis þarf að skafa ofan af ofninum og þá kemur hann í ljós.
Búðir námumanna voru skammt ofar og sjást tóftir þeirra enn.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fjallað um Brennisteinsfjöll í tengslum við Herdísarvíkurfriðland. Þar segir m.a. “Á svæðinu eru háhitasvæði í Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli. Innan þeirra er mikil eldvirkni og háhitasvæði tilheyrir hverri rein. Brennisteinsfjöll eru eina sprungureinin og háhitasvæðið sem enn er að mestu er ósnortið – öllum hinum hefur verið raskað að meira eða minna leyti vegna jarðhitanýtingar. Í Brennisteinsfjöllum og nærliggjandi svæði eru einstakar gos- og jarðminjar, þar á meðal stakir eldgígar (t.d. gígurinn í Þríhnjúkum), gígaraðir, dyngjugígar, eldborgir og a.m.k. níu nútímahraun oft með fallegum hrauntröðum og einstökum hraunfossum þar sem hraunin hafa flætt fram af fjöllunum til suðurs.

Vörðufellsborgir

Brennisteinsfjöll og svæðið þar í kring eru síðasta ósnortna víðernið á Reykjanesi þangað sem þéttbýlisbúar á SV-horninu o.fl. geta sótt afdrep, innblástur og menntun – verðmæti ósnortinna útivistarsvæða sem þessa munu vafalítið aukast á næstu árum og áratugum. Umrætt svæði er nú þegar friðað að stærstum hluta innan Herdísarvíkurfriðlands. Í tillögum Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun 2004-2008 er lagt til að Herdísarvíkurfriðland verði stækkað verulega til vesturs og austurs til að tryggja vernd mikilvægra jarðminja og landslags.”
Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki lítið úr gildi rannsókna en bendir á að fyrirhugaðar jarðhitarannsóknir í Brennisteinsfjöllum, eins og þeim er lýst í greinargerð, munu skaða náttúruminjar og ímynd hins ósnortna svæðis verulega. Við fyrirhugaðar rannsóknir, sem byggja á borunum, þarf að leggja vegi og slóða um úfin nútímahraun inn á svæðið, byggja 2–3 borplön (hvert um sig u.þ.b. 1 ha), bora eftir grunnvatni til skolunar því ekkert yfirborðsvatn er á svæðinu, farga skolvatni, flytja inn eða taka efni úr gígum og hraunum á svæðinu til ofaníburðar og byggingar borpalla. Ef virkjanlegur jarðhiti finnst er stefnt að því að fjölnýta svæðið svipað og gert er í Svartsengi og á Nesjavöllum til framleiðslu á rafmagni, hitaveituvatni, grunnvatni, iðnaðargufu og til útivistar. Slík fjölnýting kallar á enn meiri mannvirki svo sem varanlega vegi og byggingar, hitaveituleiðslur og raflínur.

Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa Brennisteinsfjöll og nærliggjandi svæði mikið verndargildi og eru til langs tíma mun verðmætari þjóðinni og þéttbýlinu á SV-landi ósnortin en sem fjölnýtt orkuvinnslusvæði. Í því sambandi má benda á að innan seilingar verða a.m.k. þrjú fjölnýtt orkuvinnslusvæði, þ.e. Svartsengi, Nesjavellir og Hengilssvæðið.
Eftir jarðhitarannsóknir, eins og fyrirhugaðar eru í Brennisteinsfjöllum, verður svæðið ekki lengur ósnortið og forsendur fyrir frekari vernd þess breyttar að sama skapi.
Rannsóknaleyfi jafngildir því stefnumörkun um framtíðarnýtingu. Þess vegna er brýnt, áður en farið er í að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands, að umhverfisyfirvöld marki stefnu um framtíð svæðisins m.a. hvort ástæða sé til að taka frá og friða a.m.k. eina sprungurein og háhitasvæði í vestra gosbeltinu.
TóftÍ samtölum Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfisráðuneytis haustið 2003 í aðdraganda að gerð þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun 2004–2008 var spurt um forsendur fyrir vali á jarðfræðisvæðum á Reykjanesi – m.a. hvers vegna ákveðið hefði verið að velja Reykjanes fremur en Brennisteinsfjöll. Í svari ráðuneytisins kom m.a. fram að orkuvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri framtíðarmál og nægur tími til ákvarðanatöku varðandi landnýtingu þar. Í ljósi þessa telur Náttúrufræðistofnun Íslands ekki tímabært að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands í þá veru að leyfa
umræddar jarðhitarannsóknir.”
Í ritgerð fyrir meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, Háskóla Íslands, er fjallað um Reykjanesskagann og Brenisteinsfjöll. “Reykjanesskagi er eldbrunninn og hrjóstrugur með fjölbreyttu landslagi sem minnir um margt á miðhálendið. Þar eru hraun, sandar, vötn, hverasvæði, móbergshryggir og stök fjöll en fuglabjörg við sjóinn.
Landið er lítt til ræktunar fallið og byggð að mestu bundin við sjávarsíðuna. Stór hluti skagans er án mannvirkja s.s. uppbyggðra vega, bygginga eða háspennulína. Á skaganum eru tvö friðlýst útivistarsvæði, Bláfjallafólkvangur (84 km²) sem fyrst og fremst þjónar sem skíðaland höfuðborgarsvæðisins, og Reykjanesfólkvangur (300 km²). Reykjanesfólkvangur tekur m.a. yfir Kleifarvatn, Brennisteinsfjöll, Ögmundarhraun, Krýsuvík og Krýsuvíkurberg. Þrátt fyrir nálægð við mesta þéttbýli landsins eru víðáttumikil lítt snortin svæði innan fólkvangsins en Brennisteinsfjöll og nágrenni eru stærsta óbyggða víðernið á suðvesturhorni landsins.
Aðdráttarafl Reykjanesfólkvangs liggur ekki síst í fjölbreyttu og sérstæðu landslagi en lega fólkvangsins í útjaðri höfuðborgarsvæðisins eykur útivistargildi hans. Hvort tveggja gerir svæðið að áhugaverðum efnivið til rannsókna á landslagi. Landslag hefur á undanförnum áratugum fengið síaukið vægi í þjóðmálaumræðu og sem viðfangsefni rannsókna. Fimmtán þjóðir, þar á meðal allar Norðurlandaþjóðirnar nema Íslendingar, hafa undirritað evrópska landslagssáttmálann (frá árinu 2000) og þannig viðurkennt mikilvægi landslags sem þjóðararfleifðar og sem uppsprettu lífsgæða fyrir almenning. Kannanir sýna að sérstök og óspillt náttúra landsins, einkum í óbyggðum, er það sem dregur langflesta erlenda ferðamenn til landsins. Ákaflega litlar rannsóknir hafa þó enn farið fram á íslensku landslagi, einkennum þess og verðmætum.

Spenar

Rannsóknum á landslagi má skipta í þær sem taka til náttúrufars (eðlisrænna þátta) annars vegar og upplifunar hins vegar. Kerfi til flokkunar á landslagi byggja fyrst og fremst á eðlisrænum þáttum en matskerfi þurfa að taka tillit til samspils eðlisrænna og huglægra þátta. Mörg flokkunarkerfi fyrir landslag eru til erlendis en fæst þeirra henta fyrir íslenskt landslag vegna þess hve óvenjulegt það er. Lítið hefur verið reynt að aðlaga þessi kerfi að íslensku landslagi eða vinna fræðilegan grunn að íslensku matskerfi. Slík vinna er þó brýn, m.a. til að meta verndargildi svæða, fyrir skipulagsvinnu tengda stórframkvæmdum, og vegna hagsmuna útivistar. Markmið þessarar rannsóknar er að greina og flokka helstu drætti og breytileika í landslagi innan Reykjanesfólkvangs. Byrjað verður á því að skilgreina helstu landslagsgerðir út frá kortum en sérkennum hverrar gerðar verða síðan lýst að loknum rannsóknum á vettvangi. Að lokum verður beitt mismunandi flokkunarkerfum (áströlsku, ensku, norsku, svo og matskerfi Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma) til að flokka helstu landslagsgerðir en slík vinna gæti nýst sem grunnur að almennu kerfi sem hentar íslensku landslagi.”

Kistufellsgígur

Á 126. löggjafarþingi (2000–2001) er m.a. fjallað um Brennisteinsfjöll (Þskj. 816 — 520. mál). Þar segir m.a: að markmið Hitaveitu Suðurnesja er að: „– að stuðla að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga, þar með talið í Krýsuvík, við Trölladyngju, Brennisteinsfjöll og eftir atvikum víðar á landinu.“
Varabæjarfulltrúi í Reykjavík, Dofri Hermannsson, fjallar einn fárra meðvitaðra um Brennisteinsfjöll á vefsíðunni http://www.samfylking.is/.
Yfirskriftin er „Einkavædd stóriðjustefna“. „Inni á borði nýja ráðherrans bíða umsóknir um rannsóknarleyfi á 13 stöðum á landinu [m.a. í Brennisteinsfjöllum]. Þessir staðir bíða þess að ráðherra gefi leyfi til orkurannsókna.“
Í BrennisteinsfjöllumÞað er ljóst að margir bíða spenntir eftir að láta greipar sópa. Stóriðjustefnan hefur skotið rótum fyrir utan veggi ráðuneytisins og lifir nú sjálfstæðu lífi á hinum frjálsa markaði. Lagaramminn sem vernda á náttúruperlur Íslands er hins vegar engan veginn tilbúinn fyrir frelsið. Hann er líka ófær um að segja stopp vegna skuldbindinga Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki heldur kominn lagarammi sem kveður á um afnotagjald þeirra sem vinna orkuauðlindabingó ríkisstjórnarinnar.“ Orkuveitan reiknað með því að orka fáist í fyrsta lagi úr Brennisteinsfjöllum árið 2010, sbr. árskýrslu hennar árið 2002.
TröllabarnHelgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson gerðu eftirfarandi grein fyrir svæðinu árið 2001: „Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 40–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart.  Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti.
Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.“

Í Brennisteinsfjöllum

Ljóst er að Brennisteinsfjöllin búa yfir miklum verðmætum, ekki síst náttúruverðmætum. En reynslan hefur sýnt að þegar ásókn í jarðvarma og von um arðsemi fjármagns er annars vegar mega gildi náttúruverðmætanna sín lítils – og sérfræðingar slá feilnótur.
Í þessari ferð var m.a. gengið fram á stórt op á þykkri hraunhellu Kistufellshrauns. Af ummerkjum að dæma virðist jörðin þarna hafa opnast nýlega. Um 10 metrar eru niður á gólf. Rásin þar undir er um 6 m breið og virðist heilleg. Til að komast niður þar u.þ.b. 6 m langan stiga eða kaðal til að komast niður á hrunið. Þarna er um að ræða eitt af verkefnum nánustu framtíðar.
Frábært veður. Gangan tók 9 klst og 51 mín. (þar af 7.07 á göngu). Gengnir voru 23.3 km.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Herrdísarvík

Sje farið frá Krýsuvík, austur í Herdísarvík, liggur vegurinn ofan við Arnarfell og yfir sand að Geitahlíð. Hún er 386 metra há og efst á henni er þríhyrningamælinga varða herforingjaráðsins.
herdisarvik-222Svo liggur leiðin meðfram hlíðinni Og yfir Deildarháls, milli hennar Og Eldborgar (180 m.), sem er gamall eldgígur. Framan við er hraun, allt út á Krýsuvíkurberg og nokkuð úti í hrauninu er annar gamall eldgígur (122 m.). Síðan liggur vegurinn milli hrauna og hlíðar, austur að Sýslusteini, en þar mætast Árnessýsla og Gullbringusýsla og þar eru einnig landamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Er þarna víða fallegt, hraunið talsvert gróið og smákjarr víða og hunangsilmur úr jörð, eins og Grelöð sagði, enda bregður manni við eftir gróðurleysið umhverfis Krýsuvík. Frá Sýslusteini liggur vegurinn yfir hraunið. Eru þar víða sljettar hraunhellur á löngum köflum, en það er merkilegt við þær, að eftir þeim eru djúpar, troðnar hestagötur, sem sýna að þarna hefir verið meiri umferð áður. „Ennþá sjást í hellum hófaförin, harðir fætur ruddu braut í grjóti“. Hið sama sjer maður einnig í hellum víða hjá Undirhlíðum á leiðinni frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Mun skáldið hatfa haft þær einkennilegu götur í huga, er það kvað „Skúlaskeið“? Sá, sem einu sinni hefur sjeð þær, gleymir þeim trauðla aftur. Og þegar bílar og önnur nýtísku farartæki hafa gert hesta óþarfa til flutninga og ferðalaga, og allar aðrar hestagötur eru löngu grónar, þá eru þessar götur í hörðum klöppunum enn til minja um þá daga, þegar hesturinn var þarfasti þjónninn og á hontum var alt flutt, sem flytja þurfti bæja, bygða og landshorna á milli.
Fyrir austan Sýslustein taka við báar hamrahlíðarar á vinstri hönd og ná þær óslitið alla leið austur að Hlíðarvatni. Klettarnir eru háir, svartir og ógrónir, og þótt þeir sjeu skammt frá sjó, verpir bjargfugl þar ekki. Mun því valda gróðurleysið, að hann kann þar ekki við sig. Hamrabrúnirnar eru 210—250 metra yfir sjó og sýnast gnæfandi háar vegna þess, hvað hraunið er lágt fyrir framan. Undir þeim eru skiður miklar, því að mikið hrynur úr þeim. Í jarðskjálftanum, sem varð þegar hverinn mikli í Krýsuvík braust út, haustið 1924, varð svo geysilegt hrunn í þessum björgum, að undir tók í fjöllunum víðs vegar í grend og laust upp svo miklum rykmekki, að ekki glórði í hamrana lengi dags. — Daginn eftir var mökkurinn enn sýnilegur, en hafði þá borist út yfir Herdísarvíkina.
hedisarvik-223Má enn sjá stórar ljósleitar skellur í björgunum hingað og þangað. Er það sárin eftir bjarghrunið. Til marks um, hvað það var mikið, segja kunnugir menn, að hefði það borið að í náttmyrkri, myndi allir hamrarnir hafa verið til að s.á sem eitt eldhaf, vegna neistaflugsins. Það er sömu söguna að segja um leiðina milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og flestar aðrar leiðir um Reykjanes, að þar er ekkert vatn, hvorki pollur nje lind frá sleppir bæjarlæknum í Krýsuvík og þangað til kemur að Herdísarvíkurtjörn, sem bærinn stendur við.
Tjörnin er ekki stór, en ljómandi falleg. Hún hefir ekkert afrensli, en í henni er fljóð og fjara vegna þess að sjór síast í gegn um kampinn, sem er fyrir framan hana. Þó fylgist ekki að flóð og fjara í tjörninni og sjónum, heldur er þar alt seinna. Með hálfútföllnum sjó er t. d. háflóð í tjörninni. og mun það stafa af því, hvað sjórinn or lengi að síast í gegnum sævarkampinn. Fyrir 70— 75 árum var flutt bleikja í tjörnina og hefir hún þrifist þar vel og er þar tiltölulega mikil veiði, þegar tekið er tillit til þess, hvað tjörnin er lítil. Silungurinn, sem nú veiðist er vænn, 5—6 pund hver. Veiðina tók þó undan einu sinni, og lá við sjálft að hún mindi alveg fara forgörðum, og skal þess getið bráðum. Í tjörninni er líka mikið af ál. Er hann vænn, en hefir ekki verið veiddur til þessa. Andir og æðarfugl sækja í tjörnina og munu eyða miklu af hrognum og silungsseiðuni. Áður voru ernir og tíðir gestir, en nú sjást þeir ekki fremur þar en annars staðar.
hedisarvik-224Herdísarvíkurbær er snotur þótt ekki sje hann stór. Þar er baðstofa, bygð forkunnar vel og úr völdum viðum að mestu. Er það unninu rekaviður þar úr fjörunni. Tvöföld súð er í baðstofunni og tróð á milli. Bærinn stendur á ofurlítilli flöt rjett á tjarnarbakkanum og stendur lágt. Hefir það oft hefnt sín að hann stendur ekki hærra, því að þegar stormflóð koma af hafi, gengur sjór yfir malarkambinn, inn í tjörnina og fyllir hana svo, að hún flóir yfir alla bakka og inn í bæ. Stórfenglegasta flóðið kom veturinn 1925. Þá gerði hafstorm í stórstraum og belgdi sjóinn inn á víkina, svo að hann gekk yfir allan kambinn og langt út í hraun í allar áttir. Flóðið kom þegar inn í bæinn óg varð fólkið að flýja þaðan. Bóndi tók eitthvað af sængurfötum og batt þau upp í sperrukverk. Hafðist fólkið svo við, meðan mesta flóðið var, í hlöðu úti á túninu, og stendur hún miklu hærra en bærinn. En þó komst flóðið þangað. Þegar fjaraði og fólkið leitaði til bæjarins, voru sængurfötin uppi í sperrukverkinni rennblaut og sýndi það að baðstofan hafði fylst af sjó upp í mæni. Og þungi vatnsins inni í bænum hafði orðið svo mikill þegar fjaraði frá úti, að hann sprengdi gaflinn úr baðstofunni fram á hlað, og skolaði vatnið þar út með sjer körfustól og ýmsum öðrum húsgögnum, sem var í baðstofunni. Austan við bæinn stóð stór timburskemma á háum grunni og var í henni geymt mikið af þungavöru. Þó var flóðið svo aflmikið, að það velti skemmunni um koll og setti hana rjett fyrir framan fjósdyrnar, svo að ekki varð komist í fjósið í í nokkra daga. Eftir þetta mikla flóð hvarf silungur úr tjörninni um nokkur ár. Ætla menn að ýmist hafði flóðið skolað honum alt sjávar, eða þá víðsvegar upp um hraun.

herdisarvik-225

Eitthvað hefir þó orðið eftir af hrognum og seiðum, því að nú er veiðin orðin álíka mikil og hún var áður.
Herdísarvík er gæðajörð til lands og sjávar. Þar gengur sauðfje sjálfala allan ársins hring, ef ekki koma þeim mun harðari klakavetur. Fjörubeit er góð og varla tekur fyrir beit í hrauninu, enda kem ur það sjer vel, því að ekki er hægt að slá eitt einasta högg utan túngarðs. En fjárgeymsla er mjög erfið. Ólafur Þorvaldsson, sem þar býr nú, hefir rausnarbúi og er fyrirmyndarbragur á öllu hjá honum. Hann setur um 500 fjár á, vetur hvern. En hann segir, að ekki veiti af tveimur fullorðnum mönnum til þess að fylgja fjenu allan veturinn, myrkranna á milli, bæði í fjöru og hrauni, að koma því í hús á kvöldin og til beitar snemma á morgnana. Haun kveðst þó oftast taka lömb á gjöf, og í vetur öll lömbin nema 20, sem gengu algerlega úti, en þau bera af öllum hinum, enda munu þau hafa verið tápmest. En hjer er sama sagan nú og annars staðar, að sauðfjárræktin er dýr, en veitir lítið í aðra hönd. Það er af sú tíðin er menn gátu fætt og klætt sig og sína með afurðum 50—60 fjár. Í haust varð Ólafur að borga 150 dilka upp í landskuld og kaup eins manns. Hugsið ykkur það, 150 dilka fyrir utan alt, sem þurfti til bús að leggja!
Túnin í Herdísarvík eru tvö og fást af þeim í meðalári um 170 hestar. Ekki kemur til mála að tvíslá, því að kúnum þarf að beita á túnin undir eins og þau eru hirt, því að kúahagar eru þar engir, og hestahagar ekki heldur. Veitti ekki að að gefa kúm og hestum allan ársins hring. Hestar eru því verstu ómagar þarna, en ekki verður komist hjá því að hafa þá, vegna þess hvað bærinn er afskektur og langt til aðdrátta. Nú seinustu árin hefir Óafur þó fengið vörur“ sínar með bíl til Grindavíkur og þaðan með „trillubáti“ til Herdísarvíkur. Er það kostnaðarsamt, en verður þó ódýrara heldur en að flytja alt á hestum þessa löngu leið, og verða fyrir vikið að hafa marga hesta á fóðrum.
Í Herdísarvík eru miklar og merkilegar fornleifar frá þeim tímum, er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar standa enn fornar sjóbúðatættur frá þeim tíma er allur fiskur var hertur, og í brunahrauni austan við bæinn og alla leið upp undir fjall má líta óteljandi hraungarða hvern við annan, hlaðna af manna höndum. Þetta er þurkreiturinn, þar sem fiskurinn var hertur. Fiskverkunaraðferðin í þá daga var þannig, að fiskurinn var fyrst slægður og flattur og síðan „kasaður“. Þótti það mikill vandi að kasa vel og öll verkun komin undir því. Ekkert vatn mátti komast í fiskinn og hann varð að kasast þannig, að hann yrði ekki „maltur“ við þurkinn, en til þess þurfti allur safi að síga úr honum áður en hann var breiddur til þerris. Fiskurinn var kasaður þannig, að eftir að hann var flattur, var hann lagður saman aftur og stungið niður á hnakkakúluna, hver fiskur utan á annan og skaraðir þannig, að vatn gæti ekki komist á milli þeirra. Í þessum kösum stóðu þeir svo allan veturinn, eða þangað til vorþurrkar komu. Þá voru þeir bornir á bakinu upp um alt hraun og breiddir á garðana. Var þetta oft langur burður, en sá var kostur við það að hafa þerrigarðana úti í brunanum, að minni hætta var á, að fje færi í fiskinn, en það er sólgið í hann, ef það kemst á bragðið.
Herdisarvik-226Af hinum fornu sjóbúðum er nú fátt eftir, en þær nafa verið rambyggilega hlaðnar úr brimsorfnu hnullungagjóti og standa þykkir veggirnir lítt hrundir enn í dag. Eru sumar búðirnar 30 fet á lengd að innanmáli og má á því sjá, að þar hafa verið stórar skipshafnir. Svo lagðist útgerð að mestu niður í Herdísarvík um alllangt skeið, svo að þar var oft ekki nema eitt skip. En fyrir aldamótin hófst útgerð þar aftur með nýjum krafti. Veturinn 1896 gengu þaðan t. d. 8 skip. En þá var fiskverkunar-aðferðin hreytt, og var þá farið að salta allan fisk. Nú risu þarna upp nýjar sjóbúðir og standa tvær þeirra enn, en annari hefir verið breytt í hlöðu, hinni í fjárhús og verður því ekki lengur sjeð hvernig umhorfs hefir verið þar inni, meðan þetta voru mannabústaðir.
Allir sjóbúðaveggir eru hlaðnir út hnullungagrjóti og þykkir mjög. Búðirnar eru 30—40 fet að innanmáli og munu oft hafa verið 15—16 manns í hverri, því að þá var róið þarna á tíæringum og auk þess voru landmenn við söltun og aðgerð og svo þjónusta. Búðirnar snúa frá norðri til suðurs Og á suðurstafni eru dyr og reft þar yfir með þrælsterkum viðum. Stafnar eru hlaðnir úr gróti, eins og veggir og mænisás lagður á milli þeirra og nokkrar stoðir undir, sem standa auðvitað á miðju gólfi. Í sumum sjóbúðum voru sperrur og skarsúð, en flestar munu hafa verið þannig, að síreft hefir verið báðum megin á mænisás úr klofnum rekaviði. Hafa raftarnir verið nokkuð mislangir og sköguðu því sumir út úr þekjunni, sitt á hvað. Heldur munu sjóbúðir þessar hafa verið óvistlegar, en sjálfsagt hefir verið hlýtt í þeim.
Fram á sjávarkamhinn er þyrping af húsarústum. Nokkuð af þeim hefir sjórinn brotið, en sumar tætturnar standa óhaggaðar. Þarna var salt- og beitugeymsla, lýsisgeymsla o. s. frv., en beitt munu menn hafa úti, engu síður en inni. Er þar til marks um það, sem sagt er um áleitni sauðfjár við útróðramenn. að þeir máttu ekki víkja sjer frá beitutrogunum inn í sjóbúðirnar. Gerði þeir það, þá var ,,kind á hverjum öngli“ þegar þeir konm út aftur.
herdisarvik-227Herdísarvík var löngum happasælt fiskver. Oftast nær var ekki róið lengra en út á víkina og fékst þó góður afli. Á seinni árum voru menn farnir að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þar oftast beint úr hafi, og voru þær taldar bestar þegar ekki fylgdi síli. Eftir sumarmál var fiskur vanur að draga sig frá landi út í svonefndar „Forir“ og aflaðist þá oft vel þar í vertíðarlok.
Nú hefir engin útgerð verið í Herdísarvík um mörg ár, en fiskur gengur þar að ekki síður en áður. Er þar til marks um, að í vetur reru þar tveir menn um tíma á svolitlu bátkríli. Fóru þeir rjett fram fyrir landsteinana með handfæri og drógu þar bandóðan rígaþorsk. Voru þeir fljótir að hlaða, því að báturinn lá með horðstokknum þegar komnir voru í hann 100 fiskar. En alls fengu þeir um 1500 til hlutar — og alt fast upp við landsteinana.
Þegar maður heyrir slíkt, verður manni á að hugsa hvort ekki mundi það borga sig betur að taka upp á slíkum stöðum gömlu veiðiaðferðina á opnum skipum og gömlu fiskverkunaraðferðina, að herða fiskinn, heldur en að láta verstöðvarnar ónotaðar og helga sig hinni rándýru vélbátaútgerð og hinni enn þá dýrari saltfiskverkun.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 10. júlí 1932, bls. 205-207.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Brennisteinsfjöll

Árni Óla fjallaði m.a. um „Brennisteinsfjöll“ í skrifum sínum í Lesbók Morgunblaðsins 1946:
„Frá Kaldárseli er hæfileg gönguför upp í Brennisteinsfjöil. Er það aflangur fjallahryggur uppi á BrennisteinsfjollLönguhlíð. Í austurhlíð þeirra eru óteljandi gígar og standa mjög þjett, og frá þeim hafa hraunfossar steypst niður hlíðina. Breiða hraunin síðan úr sjer yfir mikla sljettu, sem er þar á milli og Bláfjalla og Heiðarinnar há, en sljettu þessari hallar suður að brúnum fyrir ofan Stakkavík í Selvogi og Herdísarvík, og halda menn að hraaufossarnir sem steypst hafa þar fram af hengifluginu, sje komnir úr gígunum í Brennisteinsfjöllum. Mundi það hafa verið hrikaleg sjón, ef einhver hefði verið til að horfa á, er glóandi hraunið kastaðist í stórum fossum fram af bjargabrún.
BrennisteinsnamurUpp úr hrauninu í austurhlíð Brennisteinsfjalla, koma gufur sums staðar og litlir brennisteinsblettir eru utan í rönd þess. Á því hafa menn þóst vita að þarna væri brennisteinsnámur og hafa svo gefið fjöllunum nafn af því. Sumarið 1851 ferðaðist Jón Hjaltalín landlæknir nokkuð hjer um land til að rannsaka brennisteinsnámur, þar á meðal námurnar í Krýsuvík. Frjetti hann þá um þessar námur uppi í Brennisteinsfjöllum, og fór að spyrjast fyrir um það hvar þau væri, en svörin voru mjög sitt á hvað, sagði einn þetta annar hitt. Var það ekki fyr en að áliðnu sumri, að hann fann mann úr Selvogi, sem kvaðst þekkja fjöll þessi. Bauðst hann til að fylgja Jóni þangað, og lögðu þeir á stað í það ferðalag skömmu fyrir veturnætur. Fann Jón þarna fjórar námur og leist mjög vel á 3 þeirra. Þær eru í Krýsuvíkurlandi. Sjö árum seinna (1858) keypti Englendingur nokkur, J. W. Busbhy að nafni þessar námur og Krýsuvíkurnámurnar fyrir milligöngu dr. Jóns Hjaltalíns.

Brennisteinsnamur

Eftir kaupbrjefinu máttu Englendingar taka allan brennistein í Herdísarvíkur og Krýsuvíkur landareignum svo og allar málmtegundir, er þar kynni að finnast, og ýmis önnur rjettindi voru þeim áskilin. Seljendur voru þeir síra Sig. B Sivertsen á Útskálum og Sveinn Eiríksson í Krýsuvík og var söluverðið 1400 dalir. Var nú stofnað námuhlutafjelag í Englandi og hafið brennisteinsnám. En fjelagið tapaði og gengu hlutabrjefin kaupum og sölum, og óvíst hvar þau eru nú niður komin. En í Brennisteinsfjöllum má enn sjá verksummerki eftir brennisteinsnámið. Á dálítilli grasflöt við læk eru rústir húsanna, sem Englendingar reistu og skamt þar fyrir sunnan eru námurnar.

Kerlingarskard

Hefir ekki verið neinn hægðarleikur að vinna þær, því að þær eru undir hrauninu. Hafa Englendingar brotið þar stórar skvompur í hraunið, urðu að brjóta um tveggja mannhæða þykkt blágrýtishraunið til þess að komast að brennisteininum, því að hann hefir sest í glufur og hraunholur niður undir jörð. Hitinn í gufuholunum þarna er talinn vera 26—78 gráður. Hefir gufan soðið og etið hraunið í sundur allavega og umbreytt því, svo að þar hafa myndast krystallar og marglitir steinar, sem gaman er að eiga.
Leiðin frá Kaldárseli upp í Brennisteinsfjöll liggur um Kerlingarskarð, sem er rjett fyrir sunnan Grindaskarðaveginn. Eru þar á brúninni margir gígar og úr þeim hafa komið hraunin fyrir neðan Langahlíð. Einn af stærstu gígunum á þessum slóðum er Kistufell. Er af því víð og mikil útsýn. Gígurinn er mikill um sig og um 70 metra á dýpt. Vestan við Kistufell er viðsjált hraun. Eru þar sums staðar hringlaga gígop, þverhnýpt niður og svo djúp, að jökull er í botni þeirra.“

Heimild:
-Árni Óla, Lesbók Morgunblaðsins, 28. tbl. 1946, Á næstu grösum III, Um hraun og hálsa, bls. 351-352

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – ofn.

Dísurétt

Haldið var að Kleifarvöllum og haldið á Kleifarvallarskarð. Þar nokkuð ofan við brúnina eru þrír skútar, Pínir, Sveltir og Músarhellir. Frábært útsýni var þarna yfir Vogsósa og Selvog. Sjá mátti t.d. Fornagarð (Strandargarð) mjög greinilega þar sem hann liðaðist um sandinn sunnan Vogsósa, en garðurinn er talinn eitt elsta uppistandandi mannvirki landsins.

Áni

Áni.

Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Upp af Strandardal er Kálfsgil þar sem Eiríkur prestur á Vogsósum er sagður hafa grafið mestu galdrabók allra tíma, Gullskinnu. Haldið var að Eiríksvörðu efst á Svörtubjörgum, en hana er Eiríkur sagður hafa látið hlaða og mælt síðan svo fyrir um að á meðan varðan stæði væri Selvogur hólpinn fyrir Tyrkjanum. Hugað var að Sælubúnu, lind á milli Svörtubjarga og Urðarfells og síðan gengin refaslóð niður fyrir björgin og staldrað við í Staðarseli, fallegu fráfæruseli efst undir björgunum. Þaðan er fallegt útsýni niður með Svörtubjörgum, Katlahlíðum og Herdísarvíkurfjalli.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Eftir að hafa skoðað selið vel og vandlega var gengið niður með björgunum í rjómalogni og hita. Klifrað var upp í Stígshella vestast og efst í Svörtubjörgum, en framundan (neðan) þeim eru brattar grasbrekkur og síðan einstigi vestur með hellunum og áfram upp á vesturbrún fjallsins. Þaðan var haldið að Hlíðarborg og hún skoðuð. Um er að ræða mjög fallega fjárborg á fallegum stað, vestur undir háum klofnum hraunhól. Byggt hefur verið hús í borginni, en allt er þetta upp gróið.

Valgarðsborg

Valgeirsborg í Hlíðarseli.

Valgeirsborg er skammt sunnar, en vestan hennar eru tóftir, sennilega selstöðu. Ekki er vitað til þess að þessar minjar hafi verið færðar á fornleifaskrá. Frá Hlíðarborg var gengið að Ána og skoðaðar hleðslurnar fyrir hellismunnanum og síðan hellirinn sjálfur.
Litið var til með Vogsósaseli ofan við Vatnsdal. Að því búnu var gengið að Vogsósaborgum, þremur mjög heillegum fjárborgum á hól austan Hlíðarvatns.
Þetta er skemtileg gönguleið og margt að skoða.
Frábært veður – sól, hlýtt og lygnt.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.