Tag Archive for: Reykjanes

Reykjanes

Í grein í Faxa árið 2008 skrifar Leó M. Jónsson um „Ökuferð um Hafnahrepp“ og getur þar um skilgreininguna á „Hinu raunverulega Reykjanesi„, sem er að öllu leyti rétt, bæði skv. örnefnalýsingum og kortum fyrri tíðar:

Hið raunverulega Reykjanes

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginn er kenndur við. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnahrepp, Leó M. Jónsson, bls. 9.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

Eldgos

Í Dagblaðið Vísir árið 2001 er haft eftir Ara Trausta Guðmundssyni, jarðeðlisfræðingi, að „Það muni verða eldgos á Reykjanesskaganum„:

Þéttbýlasta svæði landsins óþægilega nálægt virkum eldstöðvum

Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson.

Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – segir Ari Trausti Guðmundsson en vill engu spá um hvar eða hvenær.

„Ljóst er að sumar byggðir á þéttbýlasta svæði landsins eru óþægilega nálægt virkum skjálftasprungnum eldstöðvakerfum gosbeltanna fjögurra á Reykjanesskaga, eða nálægt misgömlum gossprungum í þeim.“ Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur m.a. í nýrri bók sinni „íslenskar eldstöðvar“ sem kemur út í þessari viku. Þar er m.a. fjallað ítarlega um eldstöðvakerfi Reykjanesskagans sem talið er líklegt að láti á sér bæra, jafnvel í náinni framtíð.
Í niðurlagi kaflans um Reykjanes segir:
„Enn fremur er vitað að rek- og goshrinur ganga yfir í kerfunum á 700-1000 ára fresti. Nú er langt liðið á kyrrðartímabil hvað jarðeldinn varðar. Þess vegna verður t.d. að gera ráð fyrir að eldar, svipaðir Reykjanes-, Bláfjalla- og Nesjavallaeldum, geti valdið tjóni og óþægindum á Reykjanesskaga á næstu öldum.

Sprungusveimar

Sprungusveimar á Reykjanesskaga.

Áhrif hvers eldgoss ræðst m.a. af legu gossprungna, magni gosefna, aðstæðum á nálægu landsvæði og gosháttum. Hraungos í kerfunum virðast flest vera fremur lítil en skaginn er ekki breiður og ávallt er hætta á að hraun nái af hálendi hans út á láglendið og jafnvel til sjávar. Lítil gjóska fylgir slíkum gosum. Gjóskugos verða helst í sjó undan Reykjanesi eða lengra úti á hryggnum. Gjóskumagnið er þó venjulega fremur takmarkað en gæti samt valdið óþægindum og jafnvel tjóni. Ástæða er til að vinna áætlanir um viðbrögð, meta vel hættur og goslíkur og vakta eldstöðvakerfin á skaganum. Allt þetta hefur verið gert og unnið er áfram að því að draga úr áhættunni við að búa á „landlægum“ hluta plötuskilanna í Norður-Atlantshafinu.“

Líkurnar aukast
Eldstöðvakerfi
Jarðfræðingar hafa á síðustu árum og misserum ítrekað gefið í skyn að gos í einhverju hinna fjögurra eldstöðvakerfa Reykjanesskagans séu ekki mjög langt undan. Þannig sagði Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur í samtali við DV fyrir skömmu að menn velti því fyrir sér núna hvort við séum hugsanlega að sigla inn í nýtt gostímabil.

Ölfus

Jarðskjálftasprungur eftir Suðurlandsskjálftana 17. og 21. júní árið 2000.

Við stóru jarðskjálftana á Suðurlandi á og eftir 17. júní varð keðjuverkun jarðskjálfta vestur eftir Reykjanesskaga. Áhrif þeirra urðu m.a. mjög sýnileg er Kleifarvatn fór að leka ört niður um sprungur sem þá opnuðust. Jarðskjálftar á Hengilssvæðinu undanfarin ár hafa líka vakið athygli. Hvort það séu vísbendingar um að stórir atburðir séu í aðsigi virðist þó erfitt að henda reiður á. Það lá því beinast við að spyrja bókahöfundinn sjálfan, Ara Trausta Guðmundsson, hvernig hann mæti möguleikana á eldgosi á svæðinu í náinni framtíð.

Það mun verða eldgos
„Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum, það er alveg á hreinu. Það sem bæði jarðfræðingar og leikmenn hafa síðan áhuga á að vita er hvar og hvenær slíkt gos verður. Þegar jarðvísindamenn eru að fjalla um svona mál eru þeir ekki endilega að velta upp öllum hugsanlegum möguleikum.
Eldstöðvakerfi
Það er sjaldan hægt að útiloka nokkurn hlut í náttúrunni en menn velta helst fyrir sér því sem líklegast er að gerist. Menn notast við mæligögn, söguna og það sem almennt er vitað um eldvirkni til að leggja upp möguleika í stöðunni. Þá er helst til að taka að við vitum um þessi fjögur eldstöðvakerfi sem liggja skáhalt vestur eftir Reykjanesskaganum.

Ekki allur Reykjanesskaginn undir

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Við þorum nánast að fullyrða að eldgos verði ekki utan þessara kerfa, heldur einungis innan þeirra.
Þar með erum við að segja að á nánast helmingi flatarmáls skagans verða ekki eldgos. Það verður sjaldan eða aldrei eldgos á milli þessara reina sem greinilega má sjá á korti.

Eldgos

Eldur undir hrauni í Geldingadölum 2023.

Í öðru lagi er hægt að sjá nokkuð ákveðna tíðni í eldgosahrinum. Þetta eru yfirleitt rek- og goshrinur eins og Kröflueldar voru. Það verður jarðgliðnun og það koma og fara eldgos á kannski nokkurra áratuga tímabili. Það virðist vera að það séu um 700 til 1000 ár á milli slíkra lotuhrina í einhverjum af þessum fjórum kerfum á skaganum.“
Ari Trausti segir að á sögulegum tíma hefur eldvirknin þó ekki byrjað í austasta svæðinu sem er Hengilskerfið. Það hefur ekki látið á sér bæra í 2000 ár. Gosvirkni byrjaði hins vegar í næstaustasta kerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll. Síðan fór virknin í næsta kerfi sem er Trölladyngukerfið og síðast gaus í vestasta kerfinu sem er Reykjaneskerfið. Þegar slík eldvirknitímabil fara af stað virðast þau standa yfir í nokkra áratugi eða aldir í fleiri en einu kerfi. Á sögulegum tíma stóð það siðast seint á tíundu öld og fram yfir miðja þrettándu öld.

Líkt og Kröflueldar
Stampahraun
„Það sem er þó nokkur huggun harmi gegn er að þessi eldgos sýnast ekki vera mikil hvert um sig. Þetta eru sprungugos með hraunflæði og lítilli gjóskumyndun, ekki ólík síðustu Kröflugosum. Það er útilokað á þessari stunda að segja til um hvort svona hrinur byrji eftir ár, einn eða fleiri áratugi eða jafnvel ekki fyrr en eftir eina öld.
Við erum að tala um að 700 til 1000 ár líði á milli hrina og nú eru um 750 ár síðan síðasta hrina gekk yfir.“

Hengill

Hengill.

Líkindi á gosi á Hengilssvæðinu – Nú hefur ekki gosið á Hengilssvæðinu í um 2000 ár. Er þá ekki kominn tími á það, ekki síst ef menn líta til kvikusöfnunar sem vitað er af undir eldstöðinni fram á mitt ár 1999?
„Jú, ef maður hugsar í líkindum þá er auðvitað rétt að meiri líkindi eru á að Hengilskerfið taki við sér næst frekar en önnur þar sem það hefur verið sofandi dálítið lengi. Við vitum að þar hafa gengið yfir að minnsta kosti þrjár goshrinur á síðustu nokkur þúsund árum, síðast fyrir um 2000 árum. Það er því nokkuð líklegt að það geti tekið við sér.
Landris og kvikusöfnun sem var undir Henglinum í lok tíunda áratugarins sýnir svart á hvítu að þarna er heilmikið líf. Þau áhrif sem Suðurlandsskjálftar valda hafa síðan mest áhrif á Hengilskerfið af öllum þessum eldstöðvakerfum. Sem betur fer stoppaði þetta landris 1999. Menn reiknuðu þá út að þetta hafi verið um 100 milljón rúmmetrar af kviku sem hafi risið upp undir Grafarholtshverfinu. Í því er hætta á mun minni skjálftum.

Grindavík, Hveragerði og Hafnarfjörður

Eldgos

Eldgos í Geldingadölum ofan Grindavíkur 2021.

-Hver er hættan á þétfbýlissvæðum Reykjanesskagans?

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

„Ég tel ekki að um yrði að ræða umtalsvert tjón af völdum jarðskjálfta á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Varðandi eldgos er matið öðruvísi. Við getum þó afskrifað gjósku sem alvarlegan tjónvald. Hraunin geta hins vegar runnið langt út frá gossprungum.
Hættan á gosum á Hengilssvæðinu er fyrst og fremst fyrir sumarbústaðasvæði allra syðst við Þingvallavatn. Fyrir Nesjavallavirkjun, mannvirki á Hellisheiðinni og síðan Hveragerði. Ég tel ekki nokkrar líkur á að hraun úr slíku gosi næði fram til Reykjavíkur.
Í Bláfjalla- og Brennisteinsfjallakerfinu er hættan ekki mikil á suðurhluta svæðisins. Hins vegar er viss hætta með skíðamannvirki í Bláfjöllunum. Ekki er mikil hætta á að hraun úr þessu kerfi næðu til þéttbýlissvæða.

Trölladyngjukerfið er einna hættulegast

Trölladyngja

Horft til Trölladyngju og Grænadyngju frá Helgadal. Mökkur frá gösstöðinni í Geldingadal t.h.

Trölladyngjukerfið er hins vegar einna hættulegast af þessum kerfum, vegna legunnar. Innan þess er t.d. Grindavík, ný mannvirki í Trölladyngju og Svartsengi er í námunda við þetta svæði. Þá er möguleiki á því að hraun úr nyrðri hluta svæðisins nái til sjávar nálægt Hafnarfirði. Þar yrði álverið í Straumsvík í hættu og Keflavíkurvegurinn á kaflanum frá Kúagerði að Hafnarfirði. Þarna hafa runnið hraun á sögulegum tíma.

Trölladygja

Trölladyngja og nágrenni.

Reykjaneskerfi er hins vegar fjær allri byggð. Hættan væri hugsanlega varðandi mannvirki á Reykjanesi og í Eldvörpum. Síðan er Svartsengi nálægt þessu kerfi líka eins og Trölladyngjukerfinu. Hins vegar er möguleiki á sprengigosi líku Surtseyjargosi í sjó við Reykjanes. Þar gaus t.d. á þrettándu öld. Sú gjóska getur fallið á allan Reykjanesskagann og víða á Suðvesturlandi. Ekki eru þó líkur á miklu tjóni af þess völdum.“
Í bók Ara Trausta er einmitt lýst þegar Snorri Sturluson missti naut sín í Svignaskarði af völdum öskufalls úr gosi við Reykjanes árið 1226. Þetta öskulag er kallað miðaldarlagið og er notað sem viðmiðun við fornleifarannsóknir. Drangurinn Karl undan vitanum á Reykjanesi er það sem enn má sjá af gígnum.
Ari Trausti Guðmundsson vill engu spá, frekar en aðrir jarðfræðingar, um hvar og hvenær næsta gos verður. Möguleikar til að spá fyrir slíku eru þó alltaf að batna. Fyrirvarinn sem menn hafa er hins vegar æði misjafn og fer algjörlega eftir eðli hvers eldgosasvæðis fyrir sig – kannski hálftími, jafnvel einhverjir klukkutímar eða dagar. – HKr.

Heimild:
-Dagblaðið Vísir 275. tbl. 28.11.2001, Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – Ari Trausti Guðmundsson, bls. 8-9.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaganum 2021.

Reykjanes

Í Faxa árið 2020 er fjallað um „Skáldin í vitanum„:

Reykjanesviti
„Á Reykjanesi má finna þrettán vita. Þeir eru ekki einungis sögulegt kennileiti heldur leiðarminni í sögu þjóðar sem allt fram á þennan dag hefur átt afkomu sína undir því að draga fisk úr sjó. Vitarnir voru logandi líflína til lands, ljósberar sem leiddu menn heim af hafi.
Með tilkomu vita varð til starf vitavarðar sem gat verið einmanalegt. Svo hagaði til að tvö skáld gegndu starfi aðstoðarvitavarðar þessum elsta vita landsins en það eru atómskáldið Steinn Steinar og Hannes Sigfússon.

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti, byggður 1908 – nýrri vitavarðarhúsin nær.

Reykjanesviti var reistur árið 1878 og var þá fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum. Vitinn laskaðist í jarðskjálfta en sá viti sem nú stendur var tekinn í notkun 1908. Vitinn stendur á Bæjarfelli upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.
Reykjanesviti var eini viti landsins um nærri tveggja áratuga skeið og hafði vitavörður aðsetur á Reykjanesi sem var víðs fjarri mannabyggð þar sem enginn vegur lá yfir auðnina. Það var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum og þurfti hetjudug til starfsins.

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld.

Starf vitavarðarins gat verið einmanalegt en hann hafði þó með sér aðstoðarvitavörð og skiptu þeir með sér verkum. Það var héraðslæknir Keflvíkinga, Sigvaldi Kaldalóns, sem útvegaði ungum vini sínum Steini Steinari starf aðstoðarvitavarðar á Reykjanesi en þá var vitavörður Jón Ágúst Guðmundsson.

Reykjanes - viti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli.

Steinn hafði oft dvalist í Grindavík hjá tónskáldinu ásamt helstu listamönnum þess tíma. Steinn var þá aðeins 22 ára gamall og ekki gerður fyrir erfiðsvinnu vegna vöðvarýrnunar í handlegg. Framtíðarhorfur hans virtust því ekki glæsilegar enda hafði skólaganga hans verði stutt. Í misjöfnum vetrarveðrum þurfti oft að hafa mann næturlangt uppi í vitanum til að hreinsa af snjó sem vildi festast á rúðurnar í ljósaklefanum, Kom það gjarnan í hlut Steins. Má gera sér í hugarlund að þar hafi orðið til ljóð þegar leiðindi sóttu að honum á þessum löngu og köldu vetrarnóttum og hann þurfti að halda á sér hita. Steinn starfaði í vitanum einn vetur frá 1930 til 1931 en hans fyrsta ljóðabók Rauður loginn brann kom út þremur árum síðar eða 1934. Þar mátti finna róttæk ljóð um hlutskipti lítilmagnans og bar mikið á vonleysi og trega enda þjóðin í kreppu og atvinnuleysi mikið.

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon skáld fæddist í Reykjavík 2. mars 1922. Foreldrar hans voru Sigfús Sveinbjarnarson, f. 11.3. 1866, d. 11.9. 1931, prentari og fasteignasali í Reykjavík, og Kristín Jónsdóttir, f. 22.4. 1887, d. 19.3. 1970, húsfreyja.

Rithöfundurinn Hannes Sigfússon var aðstoðarmaður vitavarðarins, Sigurjóns Ólafssonar, þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes þann 28. febrúar árið 1950. Starfið hafði hann fengið í gegnum gott orð frá vini sínum og læriföður, Steini Steinarr.
Hannes var þá 28 ára gamall og hafði gefið út sína fyrstu bók, Dymbilvöku, árinu áður sem er eitt hans þekktasta verk. Skipið var það stærsta til þess að stranda við Íslandsstrendur og voru 50 menn í áhöfn þess þegar það strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Hluti áhafnarinnar sem var að mestum hluta Kínverjar fór í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdu í briminu. Af þeim fórust 27 manns en fjórum mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði fljótlega í spón á staðnum. Hannes bjargaði sjálfur tveimur mönnum úr flæðarmálinu og skrifaði síðar um atburðinn í skáldsögu sinni Strandið 1955. Þar segir frá olíuskipinu Atlantis sem rekur stjórnlaust undan veðri og straumum að hrikalegri klettaströnd. Við kynnumst áhöfn skipsins, Kínverjum, Evrópubúum og Bandaríkjamanni og við kynnumst vitaverðinum á Reykjanesi sem rækir einmanaleg skyldustörf í vetrarmyrkri og bíður þess sem verða vill. Bókin fékk ekki góða dóma en Hannes var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar og brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.
Ekki er vitað hvaða áhrif myrkrið og víðáttan á Reykjanesi hafði á skáldin og vinina Stein og Hannes en báðir voru þeir byltingarmenn og ortu um manninn í óræðri og dularfullri veröld þar sem vitundin ein er gegn alheiminum. Í miðju svartnætti ljóðanna leiftra óræðar blikur um mannlega reisn og jafnvel hina innstu vitund.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 2020, Skáldin í vitanum. bls. 29.

Clam

Mynd frá vettvangi er [..] olíuskipið Clam strandaði við Reykjanes árið 1950. Af 50 manna áhöfn fórust 27 en 23 tókst að bjarga.

Ferlir

Þegar fjallað er um Reykjanesskagann á vefmiðlum, s.s. á vefsíðu Reykjaness á https://www.visitreykjanes.is er verulegur skortur á raunhæfri umfjöllun um Skagann. Einungis lögð áhersla á fallegar myndir, sem segja fátt um allar dásemdirnar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Þá er verulega hallað á umfjöllun um svæðið á https://reykjanesgeopark.is/. Báðar síðurnar er dæmigerðar fyrir sjálfstýringar til friðþægingar hagsmunaaðila, en segja lítið um allt hið merkilegasta er svæðið í heild býður upp á – allt það ósagða, sem mestu máli skiptir.
Og þegar fjallað er um Reykjanesskagann í fjölmiðlum er jafnan getið um Reykjanes en ekki Skagann, sem rétt er – https://ferlir.is/reykjanes-og-reykjanesskagi/
Einu áreiðanlegu heimildirnar um yfirlit sögu og minjar á Reykjanesskaganum er að finna á www.ferlir.is.

Rauðshellir

Í Rauðshelli í Helgadal.

Reykjanesviti

Ritblindu slær oft í augu blaðamanna og fleirri er fjallað er um „Reykjanesskagann„.

Reykjanes

Reykjanes.

Í umfjöllun þeirra er skaginn í heild jafnan nefndur „Reykjanes„. Reykjanes er hins vegar einungis ysta táin á Reykjanesskaganum. Nesið er eldbrunnið, þar eru lág fjöll og hnúkar úr móbergi, jarðhiti, klettótt strönd og hraun runnið í sjó fram.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Á Reykjanesi ber mest á Skálafelli, sem er hæsta fellið, og Valahnúk eða Valahnúkum, sem er(u) yst. Mikið brotnar úr Valahnúk á hverju ári, enda brýtur hafaldan úr honum nánast í hverju roki. Yst á tánni eru svokallaðar Skemmur. Þar hefur sjór brotið hella undir efsta hraunlagið og hafa hellisþökin sums staðar brotnað niður. Þetta veldur því að þegar hvasst er og álandsvindur (suðvestan) þá brotnar hafaldan með miklum dyn inn í hellana og standa svo gosstrókar upp um götin. Er þetta oft mikið sjónarspil.

Sunnan og austan við Valahnúk er gjá nokkur, sem nefnd er Valborgargjá. Í henni er hraungjóta nokkur eða sprunga með vatni, sem áður var volgt.

Reykjanes-sundlaug

Reykjanes – sundlaug.

Yfir hana var byggt hús eða skúr snemma á 20. öld og þar kennt sund áður en sundlaugar komu til sögu í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaga og man enn margt eldra fólk eftir því er það var að læra að synda þar. Á ströndinni utan við Valbjargargjá er Valahnúkamöl, stórgrýtt fjara þar sem allir steinarnir eru lábarðir og núnir. Margir telja að nafnið Valbjargargjá sé afbökun, því að Valahnúkur heitir líka Valabjörg, og gæti gjáin þá augljóslega heitið Valabjargagjá, sem hefði afbakast í Valbjargargjá og Valborgargjá.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúkum.

Á Reykjanesi var fyrsti viti á Íslandi reistur árið 1878. Hann var uppi á Valahnúk. Árið 1896 urðu jarðskjálftar sem röskuðu undirstöðu vitans og varð þá ljóst að byggja varð nýjan vita. Hann var reistur á Bæjarfelli um 400 m frá Valahnúk. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti (Litliviti) úti á Skemmum og kalla sumir hann hálfvitann. Frá Reykjanesi er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins.

Jón Baldvinsson

Togarinn Jón Baldvinsson RE 208 á strandsstað undir Krossavíkurbergi.

Reykjanes hefur löngum verið slysasamt fyrir sæfarendur. Eitt mesta strand þar varð árið 1950 er olíuskipið Clam strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Um 50 manns voru í áhöfn, helmingur Kínverjar og helmingur Englendingar. Hluti áhafnarinnar fór í björgunarbáta, en hluti var um kyrrt í skipinu. Allir sem fóru í björgunarbáta fórust, en hinum var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni Strandið eftir Hannes Sigfússon, en hann var einmitt á Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga.

Gróft séð er skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraunum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Skaginn er frekar gróðursnauður en þó má finna þar ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð. Jarðfræðilega er svæðið mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.

Helstu fjöll á Reykjanesskaga vestanverðum eru Langahlíð (sem blasir við frá Reykjavík), Vatnshlíð (austan við Kleifarvatn), Sveifluháls og Núpshlíðarháls (sem einnig heita Austurháls og Vesturháls) og er norðurendi þess síðarnefnda Trölladyngja og Grænadyngja, Keilir, Fagradalsfjall, Þorbjörn (Þorbjarnarfell) og Festarfjall. Mörg fleiri mætti nefna, en þau eru smærri.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Á Reykjanesskaga eru mörg byggðarlög. Að slepptu höfuðborgarsvæðinu öllu (sem fræðilega tilheyrir skaganum) eru þar Vatnsleysuströnd og Vogar, Reykjanesbær (Keflavík, Ytri- og Innri Njarðvík og Hafnir), Garður, Sandgerði og Grindavík auk Keflavíkurflugvallar, en þar er allstórt byggðarlag á íslenskan mælikvarða. Einu nafni eru þessi byggðarlög oft nefnd Suðurnes og er heildaríbúafjöldi um 16000 manns og fer vaxandi og þar að auki bandarískir hermenn og skyldulið þeirra á Keflavíkurflugvelli. Atvinnulífið byggist mest á sjósókn og fiskvinnslu í smærri byggðunum, en á iðnaði, þjónustu og verslun í Reykjanesbæ, sem er eins konar höfuðstaður svæðisins.

Svartsengi

Svartsengisvirkjun.

Öll þessi byggðarlög eru kynnt með heitu vatni frá Hitaveitu Suðurnesja í Illahrauni. Hún er reyndar oft kennd við Svartsengi, þar sem fyrstu tilraunaholur voru boraðar áður en vinnsla hófst, en á endanum var orkuverið reist í Illahrauni, sem ber nafn með rentu. Affallsvatn frá Hitaveitunni myndar Bláa lónið, sem nú er einhver fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum. Lónið þykir vera heilsulind og er meðal annars notað við lækningu á sjúkdómnum psoriasis og ýmsum húðútbrotum og exemum.

Að lokum má geta þess, að gefnu tilefni, að Grindavík er og hefur aldrei verið á Suðurnesjum.

Heimild m.a.:
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn – fyrrum landnám Ingólfs.

Eldgos

Í Bæjarblaðinu, útgefnu af Stapaprenti, árið 1991 er fjallað um mögulegan „Suðurlandsskjálfta árið 2020“ sem og „Drauma og fyrirboða um náttúruhamfarir á Reykjanesi„:

Sprunga

Sprunga á Reykjanesi.

„Eigum við á suðvesturhorninu yfir höfði okkar það gífurlegar náttúruhamfarir, að Reykjanesskaginn klofni frá landinu? Allir hafa einhvern tímann heyrt minnst á hinn svokallaða Suðurlandsskjálfta; stóra jarðskálftann, sem talið er að snarpur og öflugur, að af hljótist þær gífurlegu hamfarir sem að ofan greinir. Og það sem meira er; stóri skjálftinn gæti venð á næsta leiti.
Við skulum til fróðleiks líta örlítið á jarðfræðilega gerð Reykjanesskagans annars vegar og hins vegar á drauma og fyrirboða um stóra skjálftann.

Glöggt samband á milll sprungureina og jarðskjálfta

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Sagt er að hugsanlegur stórskjálfti muni kljúfa Reykjanesskagann austan frá Grindavík að Hafnarfirði en þar liggur stór sprungurein. Eins er líklegt að skaginn klofni frá Önglabrjótsnefi, skammt norður af Reykjanestánni, en þar liggur sprungurein í Norðaustur til Suðvesturs, og glöggt samband er á milli þessara sprungureina og jarðskjálfta á Reykjanesi. Þegar skoðað er jarðfræðikort af svæðinu kemur þetta betur í ljós. Telja má líklegt að þessi gliðnun muni frekar gerast á löngum tíma en í einu vettfangi.

Sprungur

Hraunsprungur millum Vatnsleysustrandar og Grindavíkur.

Draumspakt fólk segir hins vegar að þetta gerist í einu vettvangi, fyrirvaralaust, eins og fram kemur á eftir.
Á Reykjanesi eru sex aðskildar sprungureinar, en ein þeirra er hin svokallaða Eldeyjarrein. Hún liggur norðan Sandvíkur og nær norðaustur undir Vogaheiði. Þetta er norðurendi reinar sem teygir sig suðvestur fyrir Eldey. Miðja hennar er að líkindum á Eldeyjarsvæðinu. Engar gosmyndarnir hafa fylgt þessari rein uppi á landi, en oft hefur gosið á henni neðansjávar undir Reykjanesi, nú síðast í haust. Í lok októbermánaðar mældist gífurleg jarðskjálftahrina u.þ.b. 150 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Stóð hrinan yfir í sólarhring og mældust skjálftarnir allt að 4,8 stig á Richterskvarða.

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

„Þetta er það mesta sem við höfum sé í áratugi“, sagði Ragnar Stefánsson, jarðeðlisfræðingur, í samtali við DV þann 2. nóvember 1990. Önnur óvenjulega kröftug jarðskjálftahrina á Reykjaneshryggnum stóð yfir dagana 8. – 9. september síðastliðinn.

Grindavík

Sprunga í íþróttahúsinu í Grindavík 2023.

Þeir skjálftar áttu upptök sín um 100 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Sterkustu kippirnir mældust 5,5 – 6 stig. Svipað gerðist í maí 1989 á stað milli hinna tveggja framangreindra eða á 900 – 1000 metra dýpi um 500 kílómetra frá Íslandi Þeir kippir mældust 5 stig á Richter. Þessar þrjár óvenjukröftugu jarðskjálftahrinur hafa því mældst í beinni línu suðvestur af landinu á rúmlega 800 kílómetra belti út frá Reykjanesskaga, og þessi virkni færist nær og nær landi.
Fjórða og síðasta hrinan mældist síðan um miðjan nóvember í aðeins 50 kílómetra fjarlægð frá landi. Sterkustu kippirnir í þeirri hrinu mældust 4,5 á Richter.

Samfelld sprungubelti

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

Lítum aðeins á sprungukerfin á Reykianesskaganum. Þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós sem styður kenninguna um gliðnunina. Í skýrslu eftir Hauk Jóhannesson jarðfræðing segir: NA-SV sprungureinarnar eru mest áberandi á skaganum og ráða mestu um jarðfræðilega gerð hans. Þegar betur er að gáð, koma í ljós aðrar sprungur sem einnig gegna þýðingarmiklu hlutverki í sama tilliti.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Þetta eru sprungur sem stefna norður – suður og eru yfirleitt lítið áberandi. Þær raða sér saman í stuttar reinar sem ekki eru skýrt afmarkaðar en skera sig þó nokkuð úr NA-SV-sprungunum. Þær eru tiltölulega stuttar eins og áður er nefnt, um 5-10 km. Þessar N-S reinar virðast vera framhald af þeim sprungum sem Suðurlandsskjálftarnir eiga upptök sín í og má e.t.v. líta svo á að þessar sprungur myndi nær samrellt belti frá Suðurlandsundirlendi og út á Reykjanes, þótt ekki sjáist sprungur á því öllu.
Þegar dreifíng N-S sprunganna er borin saman við dreifingu jarðskjálfta á Reykjanesi, kemur mjög glöggt samband í íjós. N-S sprungurnar falla nær alveg saman við skjálfta á Reykjanesi á árabilinu 1971-75. Skjálftarnir raða sér á mjótt belti sem liggur nær austur-vestur þvert á NA-SV reinarnar. Af þessu má draga þá ályktun að N-S brotabeltið sé í orsakasambandi við skjálftana.

Sprungur

Hraunsprunga Við Kaldársel.

Á Suðurlandsundirlendi er einkar glöggt samband milli „-Sprungureinanna og jarðskjálfta. Slíkt samband er einnig hægt að sjá á Reykjanesi. Í skjálftahrinu sem varð á tímabilinu 3. ágúst til 13. september 1972 yst á Reykjanesi, urðu flestir skjálftanna á Reykianesrein en þar sem NS-sprungurein sker hana austan á Reykjanestánni leiddu skálftarnir út í N-S sprungurnar.
Reykjanesskaginn er hluti af sprungukerfi, sem liggur um Atlandshaf endilangt og tengir saman svonefndan Reykjaneshrygg, þar sem áðurnefndir skálftar voru í haust, og gosbelti Íslands. Sprungureinarnar einkennast af opnum sprungum og gjám. Þær eru mislangar, 25 – 50 km og yfirleitt 5-7 km. breiðar. Svæðið er því allt „sundurskorið“ og sprungubeltin eru stærst þar sem talið er að Reykjanesskaginn muni klofna frá meginlandinu.
Þá er ónefnd ein sprungurein, sem veita ber athygli með hliðsjón af draumafrásögnunum hér til hliðar. Það er hin svonefnda Krýsuvíkur – Trölladyngjurein. Reinin er mjög löng, eða a.m.k. 60 km og nær allt upp í Mosfellssveit.

Draumar og fyrirboðar -um náttúruhamfarir á Reykjanesi

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Fjölmargt fólk með dulskyggnigáfu hefur fengið vitranir eða draumfarir um stórbrotnar náttúruhamfarir á Reykjanesi og benda draumarnir allir í sömu átt.

Í bókinni Framtíðarsýnir sjáenda, sem kom út árið l987, er sérstakur kafli um þetta. Þar skýra sjáendur frá upplýsingum sem þeim hefur vitrast í draumi, og það er einkar athyglisvert hvað draumum fólksins ber saman.

Náttúruhamfarir árið 2020

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – hraun.

Draumspakur maður og dulskyggn með forspárgáfu, segir frá draumi sínum, sem er á þá leið að farið var með hann í flugferð “ um svæðið næst höfuðborginni“. Honum var sagt að þáverandi tímatal væri 2020 og honum voru sýndar breytingarnar sem orðnar voru. Hið helsta úr lýsingunni var það, að Hafnarfjörður var kominn undir hraun að miklu leyti.

Sprunga

Hraunsprunga á Reykjanesskaga.

Byggðin á Seltjarnarnesinu öllu var eydd og gamli miðbær Reykjavíkur sokkinn í sæ. Þéttasta byggðin átti hins vegar að vera kominn í Mosfellsdalinn.
Reykjanesið klofnar frá meginhluta landsins. Annar maður varð fyrir svipaðri reynslu í draumsvefni. Hann segir svo frá:
„Draumurinn var á þá lund, að ég þóttist sjá landabréf af Íslandi, sem var svarthvítt og flatt að öðru leyti en því, að Reykjanesið var marglitt og upphleypt eins og plastkortin líta út.
Þetta var reyndar í fyrsta sinn að ég sá upphleypt kort, þ.e. í draumnum. Mörkin milli litaða svæðisins og þess svarthvíta á kortinu voru lína sem lá í suðvestur-norðaustur og lá nokkurn veginn með Kleifarvatni endilöngu og síðan í norður í átt til Straumsvíkur. Eftir því sem ég heyrði fleiri frásagnir af draumum varðandi þetta mál allt, þýddi ég drauminn á þann veg að Reykjanesið muni klofna frá meginhluta landsins í stórbrotnum náttúruhamförum“. Sami aðili segir að atburðarrásin verði þannig: „Eftir Vestmannaeyjagosið verður gos í Kröflu. Þar á eftir verður svo Suðurlandsskjálfti og Kötlugos. Nokkru síðar verður gos í Bláfjöllum“.

Grindavík horfið með öllu

Grindavík

Grindavík – loftmynd.

Kona sem er skyggn sá Reykjavík og nágrenni í framtíðarsýn. Henni virtist Reykjanesið hafa orðið fyrir stórfelldri jarðfræðilegri röskun.

Reykjavík

Reykjavík og Seltjanarnes.

Hún segist ekki geta fullyrt hvenær þetta verði, né hvort breytingarnar gerist með snökkum hætt eða smám saman. Frásögn hennar er á þessa leið: „Stór hluti Reykjavíkur er kominn undir sjó. Öskjuhlíðin og Langholtið eru óbyggðar eyjar.
Valhúsarhæðin og ýmsir aðrir staðir standa líkt og sker upp úr sjónum. Það er byggð í útjaðri Breiðholts, en þó fyrst og fremst við Úlfarsfell, upp Mosfellsdalinn og meðfram Kjalarnesinu. Égsé að það hafa orðið miklar jarðhræringar og eldsumbrot á Bláfjallasvæðinu. Það leggur hraunstraum niður Elliðaárdalinn. Hafnarfjörður er í eyði og Grindavík hefur horfið með öll. Það er engu líkara en að Reykjanesið hafi færst til í gífurlegum náttúruhamförum“.

Gerist fyrirvaralaust – stutt í atburðinn

Reykjavíkursvæðið

Reykjavíkursvæðið – Viðeyjargígur.

Ung kona sem er berdreyminn og hefur margsinnis orðið fyrir sálrænum viðburðum, segir frá reynslu sinni á þennan veg:
„Áður en Vestmannaeyjagosið varð dreymdi mig það í þrjár nætur samfellt. Síðustu nóttina sá ég hvernig fólkið flúði í átt að bryggjunni og þegar ég vaknaði um morguninn leið mér vel því ég vissi að enginn hafði farist.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur.

Skömmu síðar var ég á ferð um landið og var þá bent á þá staði þar sem yrðu eldsumbrot. Ég vissi að eftir Vestmannaeyjagosið yrði gos í Kröflu og því næst í Heklu. Þá verður einnig mikið eldgos nálægt Reykjavík.
Rúmlega tvítug bjó ég í Efra-Breiðholti og dreymdi á þennan draum: Mér rannst ég rísa úr rúmi mínu og ganga fram í stofu, að stofuglugganum. Þá sá ég sjón sem ég gleymi ekki á meðan ég lifi. Ég sá fólk flýja skelfingu lostið í átt að Mosfellssveit. Í áttina að Hafnarfirði var eldur og óhugnanlegur reykjamökkur, sem færðist nær með braki og brestum. Vegna þess að flest af því sem mig hefur dreymt um framtíðina hefur komið fram, varð ég mjög óttaslegin vegna þessa draums. Í margar vikur á eftir hafði ég alltaf til taks það allra nauðsynlegasta, ef til þess kæmi að ég þyrfti að flýja.
Í nóvember árið 1987 dreymdi mig aftur Reykjavíkurgosið. Í Elliðaám sá ég glóandi hraunstraum. Þetta gerist að nóttu til án nokkurs fyrirvara. Rafmagnið fer og og ég skynjaði hvernig undarleg og óþægileg lykt mengaði andrúmsloftið. Margir verða að flýja heimili sín. Mér finnst vera stutt í þennan atburð“.

Suðurlandsskjálftinn 2000

Afleiðingar Suðurlandsskjálftans 17. júní árið 2000.

Í Árbók VFÍ/TFÍ árið 2001 er sagt frá Suðurlandskjálftunum 17. júní og 21. júní 2000:
„Suðurlandsskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000.

Jarðskjálfti

Suðurlandsskjálftinn árið 2000.

Í júní 2000 urðu tveir stórir jarðskjálftar á Suðurlandi með upptök nálægt Þjórsárbrú. Fyrri skjálftinn var 17. júní, kl. 15:40. Hann var af stærðinni 6,6 (Mw) með upptök nálægt Skammbeinsstöðum í Holtum (63,97°N og 20,36°V) um 16 km norðaustur af brúarstæðinu. Upptakadýpi var um 6,3 km. Jarðskjálftinn var svokallaður hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 20 km löngum kafla.“

Ekki er minnst á svipuðan jarðskjálfta undir Sveifluhálsi við Kleifarvatn nokkrum mínútum á eftir framangreindum skjálfta.

„Seinni jarðskjálftinn var 21. júní, kl. 00:51. Þessi skjálfti var af stærðinni 6,5 (Mw) og með upptök rétt sunnan við Hestfjall á Skeiðum (63,97° N og 20,71° V) um 5 km norðvestur af brúarstæðinu. Upptakadýpi skjálftans var 5,1 km. Jarðskjálftinn var eins og sá fyrri hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 23 km löngum kafla.“

Heimildir:
-Bæjarblaðið. 4. tbl. 30.01.1991, Suðurlandsskjálfti árið 2020? og Draumar og fyrirboðar um náttúruhamfarir á Reykjanesi, bls. 10-11.
-Árbók VFÍ/TFÍ, 1. tbl. 01.06.2001, Suðurlandskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000, bls. 302.

Viðeyjareldstöðin

Viðeyjareldstöðin.

eldgos

Eftirfarandi frétt, viðtal við Pál Einarsson, jarðfræðing, birtist í Morgunblaðinu 20. október 2012 undir fyrirsögninni: „Engin teikn um eldsumbrot á Reykjanesi“.

Páll Einarsson

Páll Einarsson.

„Komi upp jarðeldar á Reykjanesi er ekki ólíklegt að þeim muni svipa til Kröfluelda 1975-1984. Þar yrðu gangainnskot með sprunguhreyfingum og hraunflæði aðallega þegar færi að líða á umbrotin. Hraungos af því tagi myndi eiga sér nokkurn aðdraganda. Engin óyggjandi teikn eru um að slíkir atburðir séu í aðsigi.
Þetta kom fram í erindi Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings í gær á ráðstefnunni Björgun 2012 sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur nú um helgina. Yfirskrift erindis Páls var „Jarðskjálfta- og eldfjallavá í nágrenni Reykjavíkur.“
Páll EinarssonPáll sagði að höfuðborgarsvæðið væri nálægt mjög sérkennilegum jarðskjálfta- og eldgosasvæðum. Þar með væri ekki sagt að bráð hætta steðjaði að fólki þeirra vegna.
Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesi og tengjast þau gangainnskotum. Páll sagði að þegar svona kerfi yrði virkt streymdi hraunkvika upp í rætur þess og gæti síðan leitað eftir sprungunum og upp á yfirborðið. Það fer eftir spennuástandi á hverjum tíma hve langt kvikan getur farið og hvað gliðnunin verður mikil sem fylgir hverju gangainnskoti.
Vestasta kerfið liggur um Reykjanesið utanvert, norðan við Grindavík og út í Vogaheiði. Næsta kerfi austan við er Krýsuvíkurkerfið sem innifelur allar eldstöðvar í Krýsuvík og eldstöðvar sem hraun runnu úr niður í Hafnarfjörð. Þetta kerfi liggur m.a. um úthverfi Reykjavíkur. Sprungurnar í Heiðmörk tilheyra þessu eldstöðvakerfi og er eldstöðin í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð sú nyrsta í kerfinu. Það liggur áfram norður um Elliðavatn og Rauðavatn og deyr út í Úlfarsfelli. „Þetta er það kerfi sem getur kannski valdið mestum usla í sambandi við eldvirkni og eldvirknivá á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Páll.
EldgosÞriðja kerfið liggur um Brennisteinsfjöll og sagði Páll að það væri ef til vill virkasta kerfið og úr því hefði runnið mesta hraunið. Kerfið liggur um Bláfjöll og Sandskeið og upp í Mosfellsheiði. Lengra til austurs er Hengilskerfið. Það nær alveg frá Selvogi og upp á Þingvelli. Páll sagði að þar til fyrir skömmu hefðu ekki sést nein merki um að kvika væri að streyma inn í eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga. Fyrir 2-3 árum fór þó að örla á því að eitthvað gæti verið að gerast.

Páll vildi þó ekki gera mikið úr því og sagði menn enn vera að reyna að átta sig á því hvað hefði gerst. Hann sagði að Krýsuvíkursvæðið væri undir smásjánni að þessu leyti. Þar varð landris 2009 og svo aftur landsig.
EldgosEldstöðvakerfin á Reykjanesi virðast hafa orðið virk á um þúsund ára fresti og hver hviða hafa staðið í 300-500 ár. Öll eldstöðvakerfin virðast vera virk í hverri hviðu en hvert kerfi tímabundið.
Páll taldi að hraungos á Reykjanesskaga á okkar tímum myndi tæplega ógna mannslífum. Líklegra væri að það myndi valda eignatjóni, aðallega á innviðum eins og vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og vegum. Öskufall gæti orðið staðbundið og myndi nágrennið við Keflavíkurflugvöll líklega valda mönnum mestum áhyggjum, að mati Páls. Grunnvatn gæti hitnað og vatnsból mengast. Skjálftavirkni gæti orðið nokkur. Hraun gæti hugsanlega runnið nálægt byggð án þess þó að ógna beinlínis mannslífum.

eldgos

Eldgos á Reykjanesi frá landnámi – Ekkert gos eftir 1240
Nokkur hraun hafa runnið á Reykjanesi frá því að sögur hófust. Það gaus við Reykjanestá, í Eldvörpum norðan við Grindavík, Arnarseturshraun við Grindavíkurveg rann einnig.
Goshrina varð í Krýsuvíkurkerfinu í kringum árið 1150 e.Kr. Ögmundarhraun er syðst og rann út í sjó. Síðan rann Kapelluhraunið niður í Straumsvík. Þetta gerðist sennilega allt í þeirri hrinu.
Nokkur hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjallakerfinu frá því að land byggðist. Kristnitökuhraunið er á milli Brennisteinsfjallakerfisins og Hengilskerfisins.
Nánast öll þessi eldgos urðu á tímabilinu 900-1240 e.Kr. Ekkert eldgos er þekkt á Reykjanesskaga eftir árið 1240.“ [Þrátt fyrir ótölulegan fjölda jarðskjálfta í gegnum tíðina hefur ekki orðið eldgos á Reykjanesskagnum – a.m.k. ekki hingað til].

Heimild:
-Morgunblaðið 20. október 2012, bls. 28.
Eldgos

Náttúruminjasvæði

Í Víkurfréttum árið 1988 má lesa eftirfarandi um „Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá“. Hafa ber þó í huga að í raun nær hugtakið „Suðurnes“ einungis yfir byggðirnar norðan Stapa.

Náttúruminjaskrá 1988

Forsíða Náttúruminjarskrár 1988.

„Út er komin á vegum Náttúruverndarráðs náttúruminjaskrá 1988. Bókin er með öðru sniði en fyrri útgáfur og fylgir litprentað kort af Íslandi, þar sem merktir eru staðir sem eru á náttúruminjaskrá eða eru friðlýstir.
Ellefu staðir hér á Suðurnesjum heyra undir náttúruminjaskrána en þeir eru:
(Skýringar við texta: Þar sem talan (1) stendur framan við texta er átt við hvar mörk svæðis eru skilgreind en þar sem talan (2) stendur er talað um náttúruverndargildi, t.d. sérkenni eða sérstöðu svæðis og gildi þess almennt og fræðilega séð.)

Keilir

Keilir.

1. Keilir – Höskuldarvellir – Eldborg við Trölladyngju, Grindavík, Vatnsleysustrandarhr., Gull. (1) Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólksvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffei! í Keili. (2) Mikið gígasvæði vestan í Vesturhálsi, liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólksvangs. Norðan undir Trölladyngju er einstakur gígur, Eldborg, myndaður á sögulegum tíma. Á vesturmörkum svæðisins gnæfir móbergsfjallið Keilir.

Katlahraun

Katlahraun.

2. Katlahraun við Selatanga, Grindavík. (1) Austurmörk fylgja mörkum Reykjanesfólksvangs að þjóðvegi, eftir honum að hlíðum Höfða, þaðan suður í Mölvík. (2) Stórbrotið landslag, hrauntjarnir og hellar. Friðaðar söguminjar við Selatanga.

Festisfjall

Festisfjall.

3. Hraunsvík og Festarfjall, Grindavík. (1) Fjaran í Hraunsvík frá Hrauni að Lambastapa, ásamt kríuvarpi á Hraunssandi vestan Hrólfsvíkur. Suðurhluti Festarfjalls. (2) Snotrir sjávarhamrar og brimrofin eldstöð, Festarfjall. Fjölbreytt sjávarlíf. Fjölsóttur náttúruskoðunarstaður.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

4. Sundhnúksröðin – Fagridalur, Grindavík. (1) Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól, um Hagafell, Sundhnúk, hluta StóraSkógfells, 3,5 km norðaustur í átt að Kálffelli, ásamt 400 m breiðu svæði beggja vegna gígaraðarinnar og Fagradal sem gengur austur af enda gígaraðarinnar. (2) Tæplega 9 km lóng gígaröð sem kennd er við Sundhnúk. Snotrar hrauntraðir í suðvesturhlíð Hagafells. Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni. Fagridalur er grösugt dalverpi við norðvesturhorn Fagradalsfjalls. Söguminjar.
5. Strandsvæði vestan Grindavíkur, Grindavík. (1) Strandlengjan frá Litlubót, ásamt Gerðavallabrunnum, vestur að Vörðunesi. (2) Fjölbreyttur strandgróður, fjölskrúðugt fuglalíf. Djúpar vatnsfylltar gjár, snotur hraunkantur með sjávartjörnum.

Eldvörp

Eldvörp.

6. Eldvörp – Reykjanes – Hafnaberg, Grindavík, Hafnahr., Gull. (1) Mörk liggja úr Mölvík, nokkru austan Vatnsstæðis, 500 m austan Eldvarpagígaraðarinnar, norðaustur fyrirgíginn Lat, að borholu Hitaveitu Suðurnesja, HSK-10 við Lágar, í Þórðarfell, þaðan bein lína í veg fyrir botni Stóru-Sandvíkur, norðvestur með honum niður að Lendingamel, eftir Hafnabergi að eyðibýlinu Eyrarbæ. (2) Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi,sem er gliðnunarbelt á mótum tveggja platna. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna.
Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn.
Hafnarberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar.
7. Ósar, Hafnahr., Miðneshr., Gull. (1) Vogurinn með strandlengju, fjörum og grunnsævi austan línu sem dregin er á milli Hafna og Þórshafnar. (2) Mikið og sérstætt botndýralíf, fjölbreyttar fjórur, vetrarstöðvar ýmissa fuglategunda.
8. Fjörur og tjarnir á Rosmhvalanesi, Miðneshr., Gerðahr., Gull. (1) Fjörur og sjávarfitjar frá Stafnesi að Rafnkelsstaðabergi, m.a. Sandgerðistjörn, Gerðasíki, Miðhúsasíki og Útskálasíki. (2) Fjölbreyttur strandgróður og ýmsar fjórugerðir. Lífauðugar sjávartjarnir og mikið fuglalíf.

Snorrastaðatjarnir

Við Snorrastaðatjarnir.

9. Seltjörn, Snorrastaðatjarnir og hluti Hrafnagjár, Njarðvík, Vatnsleysustrandarhr., Gull., Grindavík. (1) Svæði frá Seltjörn til Snorrastaðatjarna, ásamt skógarreitum. Einnig syðsti hluti Hrafnagjár. (2) Gróskumikill gróður í Snorrastaðatjörnum. Gróðursælir skógarreitir undir Háabjalla og í Sólbrekkum. Mikilvægur áningarstaður farfugla vor og haust. Kjörið útivistarsvæði. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri.
10. Tjarnir á Vatnsleysuströnd, Vatnsleysustrandarhr., Gull. (1) Síkistjórn, Vogatjörn, Mýrarhústjörn, Gráhella, tjarnir við Hlöðunes, Ásláksstaðatjörn, Sjónarhólstjörn, Knarrarnestjörn, Landakotstjörn, Kálfatjarnartjörn og Bakkatjörn, ásamt nánasta umhverfi. (2) Lífríkar tjarnir með fjölbreyttu fuglalífi.

Fagravík

Fagravík.

11. Látrar við Hvassahraun, Vatnsleysustrandarhr., Gull. (1) Fjaran ogstrandlengjan frá Fögruvík að Stekkjarnesi suðuraðþjóðvegi ásamt ísöltum tjörnum og Hvassahraunskötlum sunnan vegar. (2) Sérstætt umhverfi með miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Sjávartjarnir með mismikilli seltu. Katlarnir eru regluIegar hraunkúpur, e.k. gervigígar, á sléttri klöpp í Hvassahrauni. Útivistarsvæði með mikið rannsókna- og fræðslugildi í nánd við þéttbýli.
Þá er einn staður hér á Suðurnesjum, Eldborgir undir Geitahlíð við Grindavík, sem lýstur hefur verið náttúruvætti. Þá er Eldey friðlýst með lögum 1940, en friðlýst land 1960.“

Heimild:
-Víkurfréttir, Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá, fimtudaginn 29. september 1988, bls. 15.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Grindavík
Hér á eftir eru upplýsingar um ýmislegt það er fyrir augu ber þegar farið er í u.þ.b. 5 klst hringökuferð um Reykjanesið. Leiðarhlutunum er skipt í 19 kafla (1-19). Í þessu tilviki er byrjað í Keflavík, en í rauninni má hefja ferðina hvar sem er. Þótt hér séu tekin saman ýmis atriði til fróðleiks, eru þau engan vegin tæmandi. Góður leiðsögumaður gæti t.d. bætt ýmsu við ef hann væri með í för.
Ljóst er að náttúrufegurð og menningarsaga Reykjanessins hefur verið vanmetin í gegnum tíðina. Nú er komið að því að breyta um betur og auðvelda áhugasömu fóki að tileinka sér svæðið með lítilli fyrirhöfn, en til mikillar ánægju.
Áður en lagt er af stað skal a.m.k. hafa tvennt í huga:

A. Jarðfræði
Reykjanesið er stórmerkilegur staður frá jarðfræðilegu sjónarmiði, myndað á skilum Evrópu og Ameríku þar sem hafsbotnsplöturnar tvær reka sitt í hvora áttina. Þannig stækkar Ísland því meir sem Evrópa og Ameríka fjarlægjast.
Elsti hluti Reykjaness, Rosmhvalanes, er um 200 þúsund ára gamalt. Við lok síðustu ísladar var hér mikil eldgosahrina sem, stóð lengi og má segja að hún sé megin uppistaða landslagsins eins og það er í dag. Þetta eru gos í Sandfellshæð og Þráinsskildi fyrir um 12-13 þúsund árum og í Hrútagjá fyrir um 5-6 þúsund árum. Öll eru þessi hraun vel sýnileg í dag og ná frá Reykjanestá að Hafnarfirði, en eru þó að hluta til hulin hraunum sem runnið hafa í aldanna rás. Eldri hraunin eru mjög sprungin vegna jarðskjálfta og landreks.
Frá landnámi hafa runnið 13 apal- og helluhraun á Reykjanesi og eru þau m.a.: Illahraun við Bláa lónið frá 1226, Arnarseturshraun frá 1226, Eldvarpahraun við Árnastíg frá 1211, Yngra-Stampahraun við Öngulbrjótsnef frá 1211, Ögmundarhraun frá 1151 í Krýsuvíkureldum, Kapelluhraun rann til sjávar við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði árið 1150.
Gígar sem sjá má á Reykjanesi eru dyngjur eins og t.d. Þráinsskjöldur á Strandarheiði, klepra- og/eða gjallgígar eins og við Búrfell við Hafnarfjörð, gjóskugígar eins og Eldvörpin yst á Reykjanesinu og sprengigígar eins og Grænavatn við Krýsuvík.
Miðaldalagið 1226/1227 kom úr eldgosi sem hófst í sjó út af Reykjanestá og spúði það gos mikilli ösku og vikri yfir landið. Askan úr því hefur verið nefnd “Miðaldalagið” en hún var það mikil að vart sást til sólar í heilt ár og var það kallað sandasumar og sandavetur. Það ár drápust 100 naut frá Snora Sturlusyni í Reykholti sem hann hafði í Svignaskarði.
Á Reykjanesi eru fjölmargar gjár og sprungur. Í sumum þeirra vex fallegur gróður, s.s. burknar. Einnig eru hrauntraðir, þar sem hraun hefur runnið í rásum eins og í Brúfellsgjá og Gígnum við Lágafell. Þá ber skaginn ummerki jarpskorpuhreyfinganna þar sem misgegi finnast, t.d. á Haábjalla og Hrafnagjá.

B. Jarðhiti
Reykjanesið er í virku gosbelti og því eru mörg háhitasvæði þar, en þau helstu eru á Reykjanestá, Svartsengi, Trölladyyngju og í Krýsuvík. Helstu einkenni háhitasvæða er fjölbreytni í litum. Leirinn gefur brúnan lit og hvítan, glópagillið virðist dökkblátt, breinnisteinninn fagurgulur og kopasamböndin eru blágræn. Þar eru einnig gufuhverir þars em gufan kemur stundum upp undir þrýsingi í vellandi blágráum leirhverum sem skvetta úr sér leirslettum er gufubórunar springa. Á Reykjanesskaganum hefur sjór síast inn í jarðlögin og hitnað. Heita vatnið í Svartsengi er t.d. 2/3 sjór en yst á Reykjanesi er það eingöngu sjór. Niðri í um 5 km dýpi á þessum slóðum má ætla að fáist um 500°C yfirþrýst gufa í stað 240-340°C sem algengt er í 2 km djúpum holum. Á meira dýpi eykst þannig gufuafl úr 3-4 MW í 40-50 MW.
Ef tilraunadjúpboranir á Reykjanesi fara að óskum gæti það gerbreytt allri orkuvinnlsu hér á landi – og jafnvel víðar í heiminum.

Sjá leiðsagnir um Reykjanes: 1234567891011121314 1516171819.

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn – fyrrum landnám Ingólfs.

Tag Archive for: Reykjanes