Tag Archive for: Reykjavík

Ártún.

Í „Fornleifaskráningu Margrétar Bjarkar Magnúsdóttur á jörðinni Ártún á Kjalarnesi“ segir m.a.:

Ártún

Ártún – túnakort frá 1916.

„Sem fyrr liggur land Ártúns að jörðinni Bakka að sunnan og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni. Að norðan liggur land Ártúns að jörðinni Dalsmynni, sem varð til árið 1930 þegar jörðinni Saurbæ var skipt, og að Melagerði og Melavöllum.

Blikdalur

Blikdalur.

Að sögn Ásthildar Skjaldardóttur bónda á Bakka voru Melagerði og Melavellir byggðir út úr Ártúni en bræðurnir Bjarni og Gunnar Þorvarðarsynir, sem voru bændur á Bakka frá árinu 1950 til 1997, seldu landspildur fyrir Melagerði árið 1975 og Melavelli árið 1979. Efrimörk jarðarinnar eru við mynni Blikdals sem er stór grösugur dalur í vestanverðri Esju. Dalurinn er nú allur í eigu Reykjavíkurborgar en skiptist áður á milli kirkjujarðanna í Saurbæ og Brautarholts. Blikdalur skiptist eftir ánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en Brautarholt að sunnanverðu. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um.

Saga Ártúns

Ártún

Ártún 1950.

Ártún var talin lítil og kostarýr jörð. Hún var lengst af kirkjujörð frá Saurbæ, afbýli úr þeirri jörð og jafnframt ysti bær í Saurbæjarsókn. Jörðin fór í eyði á fardögum árið 1956 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt. Ártúns er getið í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar, en þá átti Saurbæjarkirkja þrjátíu hundruð í heimalandinu ásamt tveimur kotum „…enn thad eru ij kot. Artun og Hiardarnes. X. Aura Landskylld af huorre.“

Ártún

Ártún 1935.

Árið 1695 er Ártún kirkjujörð í bændaeign með fjögur og hálft kúgildi, 90 álnir í landleigu og skattálagningu 15 hundruð. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1705 þá er Ártún kirkjujörð sem liggur til Saurbæjarkirkju, og þar til proprietarius, eða eiganda sem var hr. lögmaður Sigurður Björnsson og bjó í Saurbæ. Einn ábúandi, Þórarinn Hallsson, er þá í Ártúni og galt hann í landskuld níutíu álnir með landaurum í fríðu eða dauðu, fóðri eða öðru. Áður galst hún í fiski að hluta þegar fiskgengd var góð í Hvalfirði og galst heim til eiganda.

Saurbær

Saurbær.

Leigukúgildi jarðarinnar eru þrjú og hálft og átti kirkjan í Saurbæ þau, en kúgildin höfðu áður verið fimm. Kvikfénaður var fimm kýr, tvær kvígur veturgamlar, tveir kálfar, tólf ær með lömbum, ein geld, tíu sauðir veturgamlir og tveir hestar. Jörðin hafði selstöðu og beit fría í Blikdal um sumar og vetur í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var talin bjargleg en reiðingsrista lítt nýtandi. Móskurð hafði jörðin eftir nauðsyn í Saurbæjarlandi. Hvorki var hvannatekja eða rótargröftur teljandi. Sölvafjöru og fjörugrös nýtti jörðin fyrir Saurbæjarlandi og þang til eldiviðar var talið nægilegt auk þess sem talin var nokkur rekavon fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending, vatnsból erfitt um vetur og búpeningi var flæðihætt. Í Jarðamati J. Johnsens frá 1847 var Ártún enn kirkjujörð og metin til fimmtán hundruða. Árið 1861 er Ártún metið á 15 forn hundruð og 8,7 ný hundruð.

Ártún

Ártún 1967.

Í landamerkjabréfi frá 1890 fyrir Saurbæ, með Hjarðarneskoti og Ártúni, kemur fram að á Bleikdal eigi Ártún óskipta beit en slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk. Árið 1896 búa í Ártúni Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólafsdóttir og búa þar til ársins 1898, en eftir það og til ársins 1913 búa þar Þorkell Ásmundsson og Guðrún Jónsdóttir. Frá 1914 til 1955 búa þar Gunnlaugur Sigurðsson og Guðrún Bjarnadóttir. Árið 1921 er heildarmat á Ártúni 31 hundrað. Árið 1932 er heildarverðmat 38 hundruð, bæjarhús úr torfi og grjóti og miðstöð sögð komin í bæinn. Túnið er 2,2 hektarar og girt í kring og bústofninn er þrjár kýr, fimmtíu kindur og þrjú hross.

Ártún

Ártúnsrétt.

Árið 1942 er fasteignamat Ártúns 42 hundruð, bústofn er þrjár kýr, þrjátíu kindur og fjórir hestar, og jörðin í einkaeign en leigð til ábúðar.
Síðustu ábúendur í Ártúni voru þau Böðvar Eyjólfsson og Anna Margrét Sigurðardóttir sem bjuggu þar í eitt ár, frá 1955 til 1956, en fóstri Önnu, Ólafur Eyjólfsson í Saurbæ, var eigandi Ártúns. Vorið 1956 var Ártún selt Lárusi Lúðvíkssyni í Reykjavík sem fékkst við fiskeldi í ánni.
Sjá má minjar um framkvæmdir hans á bökkum Ártúnsár, austur af Kringlumýri. Nú er mestur hluti jarðarinnar eign bændanna á Bakka. Í Fasteignabók frá 1956-70 er jörðin Ártún sögð auð en heildarmat er 15.500 krónur.

Ártún

Ártún – þrívíddarmynd af tóftum bæjarins.

Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni eru vel greinanlegar á bæjarhólnum þar sem röð bæjarhúsa snýr fram á hlað í suðvestur með tveimur húsum að baki. Framan við bæinn sér enn í kálgarð með greinilegri garðhleðslu austanmegin. Heimatúnið er líka vel greinanlegt í muni á gróðurfari og hafa útlínur lítið breyst frá því sem sjá má á túnakorti frá 1916. Þó hefur Vesturlandsvegurinn verið lagður í gegnum túnið í tvígang og á spildu á milli gamla og nýja vegarins hefur nú verið plantað trjám.

Ártún

Ártún – örnefni.

Töluvert er einnig af stríðsminjum á melunum fyrir norðan bæjarhólinn en á stríðsárunum var setuliðið með aðstöðu víðsvegar á Kjalarnesinu og var með aðstöðu öll stríðsárin í Dalsmynni sem er næsti bær við Ártún. Þar voru byggð braggahverfi sem og í landi Stekkjarkots og í Tíðarskarði.

Kristrún Ósk Kalmansdóttir er fædd 23. mars í Ártúni. Þar ólst hún upp hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur en móðir hennar var uppeldisdóttir þeirra hjóna. Gunnlaugur, Guðrún og Kristrún voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum á bæjarhólnum í Ártúni. Leitað var til Kristrúnar um upplýsingar varðandi Ártún og greindi hún frá ýmsu sem varðaði búskap í Ártúni í hennar tíð og til hvers húsakynni voru síðast notuð.

Ártún

Ártún – örnefni.

Bærinn samanstóð af nokkrum samhliða húsum á bæjarhólnum. Að sögn Kristrúnar var skemma vestast í bæjarröðinni, þá baðstofa, bæjargöng og búr. Austast voru fjós og hænsnahús. Í bæinn var aldrei leitt vatn, rafmagn eða sími en sími var á næsta bæ, Dalsmynni, ef á þurfti að halda.

Ártún

Ártún 1983.

Í skemmunni voru geymd matvæli og reiðtygi. Baðstofan var tveggja stafgólfa og voru tvö rúm hvorumegin, en þriðja stafgólfið í húsinu var inngangur og eldhús. Á þaki baðstofunnar var að sögn Kristrúnar bárujárn sem tyrft var yfir. Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hitaði húsið og eldað var á. Í Fasteignabók frá 1932 kemur fram að miðstöð sé komin í bæinn og er þá trúlega átt við kolaeldavélina. Kristrún sagði að áður en kolaeldavélin kom til hefði verið notað hlóðaeldhús sem var bakatil inn af bæjargöngum, eins og sjá má á túnakorti frá 1916, en lítil ummerki eru eftir hlóðaeldhúsið nema inngangurinn.
Um 1940 var hlóðaeldhúsið fyllt upp og jafnað út til að bæta aðgengi heyvagna að hlöðunni.

Ártún

Ártún – Kristrún Ósk Kalmansdóttir málaði þessa mynd af síðasta bænum í Ártúni.

Kristrún minnist þess ekki að eldaður hafi verið matur í hlóðaeldhúsinu en man að þar var stöku sinnum soðinn þvottur í stórum potti sem einnig var notaður til að þvo í ull niður við á. Næst komu bæjargöng en úr þeim var einnig gengið inní búrið sem var til vinstri handar. Þar var geymdur matur í trétunnum, korn og fleira. Þar var einnig geymdur vatnsforði en allt vatn þurfti að sækja niður í á. Næsta hús var sex bása fjós og austast var svo hænsnahús sem hafði áður verið notað sem lambhús. Á milli fjóssins og hænsnahússins var settur niður kamar í tíð Kristrúnar. Bakatil austan megin á bæjarhólnum var niðurgrafin hlaða og vestan megin að baki skemmunni var hesthús.

Ártún

Ártún – tóftir 2020.

Tóftir þessara húsa eru nú grasigrónar og vel greinanlegar. Efst og norðaustan í heimatúninu er fjárhústóft með hlöðnum grjótgarði eftir miðju og sagði Kristrún að húsið hefði tekið fimmtíu kindur. Á túnakort frá 1916 er teiknað hús við traðirnar nyrst í heimatúninu sem ekki sér til í dag og hefur tóft þess sennilega farið undir núverandi Vesturlandsveg. Að sögn Kristrúnar var það lítið hesthús sem tók fjóra hesta og var það helst notað til að hýsa hesta ferðalanga. Traðirnar austur af bænum sem liggja niður að Ártúnsá sagði Kristrún að hefðu í hennar tíð eingöngu verið notaðar til að sækja vatn í ána. Aðkoma að bænum hefði verið norðvestan megin, hlaðvarpi við skemmuna og traðir sem lágu í norður framhjá litla hesthúsinu. Við traðirnar sagði hún að hefði verið lítill hóll sem kallaður var Traðarhóll og sumir notuðu til að komast á bak. Þessi slóði lagðist af þegar Vesturlandsvegurinn kom og myndaðist þá nýr slóði.

Ártún

Ártún – Úr kvikmyndinni „Síðasti bærinn í dalnum“.

Í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar var Ártún mikið notað sem kvikmyndaver eða eins og segir í grein í Morgunblaðsins frá 1970: „Þetta var einskonar Hollywood Íslands um tíma og má muna fífil sinn fegri.“

Ártún

Ártún – úr kvikmyndinni „Milli fjalls og fjöru“ við bæinn.

Kvikmyndin Milli fjalls og fjöru er fyrsta íslenska kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd og jafnframt fyrsta íslenska talmyndin. Loftur Guðmundsson gerði myndina árið 1949 og frumsýndi það sama ár. Myndin er trúlega elsta myndin sem er kvikmynduð í Ártúni en bærinn í myndinni er Ártún. Bærinn kom einnig við sögu í tökum á kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1950. Þá bjuggu Bakkabræður í Ártúni í kvikmyndinni Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra en það var gamanmynd eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1951. Ártún kom einnig lítillega við sögu í kvikmyndinni Sölku Völku sem Edda-film gerði og frumsýnd var árið 1954.
Kvikmyndin Gilitrutt var frumsýnd árið 1957 en í myndinni eldar tröllskessan Gilitrutt matinn í Ártúni.

Ártún

Ártún 1972.

Skýringu á því hvers vegna Ártún kom svo mikið við sögu við upptöku á kvikmyndum um miðja síðustu öld má kannski finna í því að Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað í Ártúni árið 1945 eða 1946. Loftur var fæddur í Hvammsvík í Kjós árið 1892 og þekkti vel til á Kjalarnesinu. Sumarbústaðinn reisti Loftur rétt fyrir ofan heimatúnið og klettinn Hæring þar sem bústaðurinn stóð til ársins 1955 en Loftur lést árið 1952. Þegar hjónin Anna Margrét Sigurðardóttir og Böðvar Eyjólfsson fengu jörðina til ábúðar árið 1955, fluttu þau bústaðinn niður fyrir bæinn og bjuggu þar í honum í eitt ár. Bústaðin seldu þau seinna í Bergvík á Kjalarnesi.

Flestar stríðsminjarnar á jörðinni eru holur sem rutt hefur verið upp úr í kringum þær. Að sögn Kristrúnar voru stærri holurnar notaðar fyrir loftvarnarbyssur en þær minni notuðu hermenn til að fela sig í og strengdu yfir þær græn net.

Ártún

Ártún – bæjarhóllinn 2018.

Hlutverk Ártúns sem kvikmyndaver við upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi er athyglisvert. Það hefur trúlega haft áhrif á staðarval við upptökur á kvikmyndum að einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað rétt ofan við bæinn.

Ártún

Ártún – bærinn var jafnaður við jörðu 1992 (MWL).

Í Ártúni er um að ræða minjaheild búsetuminja sem samanstendur af bæjarhól með híbýlum og skepnuhúsum. Aðgengi að minjunum er gott svo ef vilji væri fyrir hendi mætti gera það enn betra og einnig mætti setja fram upplýsingar með sögu staðarins í máli og myndum. Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni sýna einstakt búsetulandslag í næsta nágrenni Reykjavíkur.
Búsetuminjar sem er að finna á jörðinni eru gott dæmi um búsetu á svæðinu. Minjarnar hafa ekki orðið fyrir raski eftir að búskapur lagðist af á jörðinni og eru einstakar vegna þess að þær eru vel varðveitt minjaheild innan vébanda höfuðborgarinnar.“

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Reykjavík 2010 – Minjasafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún.

Reykjavík

„Svo segja heimildir, að vorið 874 hafi fyrsta skip svo vitað sé siglt inn á Reykjavík.
Þarna var Ingólfur Arnarson frá Dalsfirði í Firðafylki í Noregi á ferð með fjölskyldu sína, húsdýr og húsbúnað. grofin-22Sagan segir, að áður hafi þrælar Ingólfs, þeir Vífill og Karli, fundið öndvegissúlur hans reknar á þessum slóðum. Ingólfur hefur svo valið vik eitt inn af víkinni, sem síðar var nefnt Grófin, sem besta lendingarstaðinn vegna aðstæðna eða nálægðar við ákjósanlegt bæjarstæði. Þar hafa þau Hallveig og Ingólfur svo gengið á land ásamt föruneyti sínu, kannað betur staðinn, gengið suður með klapparholtinu (Grjótaþorpi) upp af vikinu, komið þar að allstórri tjörn (Tjörnin) og valið sér bæjarstæði skammt frá norðurenda hennar. Bærinn fékk síðar nafnið Vík (Tjarnarg. 4, Suðurgata 3—5, Aðalstræti 14—16—18) í Reykjavík. Við leiðina sem Ingólfur fór úr vikinu (Aðalstræti í dag) stóð Ingólfsnaust (versl. Geysir) fram á 18. öld og Ingólfsbrunnur, Aðalstræti 9 fram á 20. öld.

Reykjavík

Reykjavík – merki í gangstétt við gatnamót Aðalstrætis, Hafnarstrætis og Vesturgötu.

Fyrstur ættmenna sinna í Noregi og annarra norrænna manna settist Ingólfur að á Íslandi. Trúlega hefur hann flutt búslóð sína á land í Grófinni vestur af Vesturgötu 2 (Álafossbúðin) í dag. Það má því með sanni segja að íslenskt þjóðfélag hefji feril sinn í Grófinni. En hafa skal það sem sannara reynist. Setlög Tjarnarinnar bíða eftir því að þau verði rannsökuð og saga mannvistar í gömlu Reykjavík verði lesin úr þeim betur og betur eftir því sem vísindunum fleygir fram.“
Miðja Reykjavíkur er við húsið Vesturgötu 2, sem var byggt árið 1863. Það hefur verið kallað Bryggjuhúsið og hýst margvíslega starfsemi í tímans rás. Út frá miðju Reykjavíkur eru öll götunúmer miðuð. Sá endi gatna sem er nær Bryggjuhúsinu er upphafið og þá eru oddatölurnar vinstra megin við götuna og sléttar til hægri. Þannig hefur þetta verið í 161 ár – og verður væntanlega ekki breytt í bráð.

Heimild:
-Morgunblaðið – Það gerðist í Grófinni, 23. nóv. 1984, bls. 19.

Reykjavík

Reykjavík 1876.

Laugarnes

 Laugarness var fyrst getið í Njálu og á þeirri frásögn má sjá að þegar á 10. öld hefur landi þess verið skipt úr landnámsjörðinni Reykjavík og verið sjálfstæð jörð. Laugarnesjörðin var ein sú stærsta á Reykjavíkursvæðinu, breið landspilda sem náði allt suður í Fossvog.
Laugarnes- loftmyndTalið er að Hallgerður [Höskuldsdóttir] langbrók hafi sest að í Laugarnesi eftir víg Gunnars að Hlíðarenda í Fljótshlíð en jörðina hafði hún fengið eftir Glúm, fyrri mann sinn. Glúmi þessum hafði orðið það á að „drepa til hennar hendi sinni“ en eins og kunnugt er launaði Hallgerður ekki barsmíðar með góðu. ,,Broeður þrír eru nefndir til sögunnar; hét einn Þórarinn, annar Ragi, þriði Glúmr. Þeir váru synir Óleifs hjalta ok váru virðingamenn miklir ok vel auðigir at fé. Þórarinn átti þat kenningarnafn, at hann var kallaðr Ragabróðir. Hann hafði lögsögu eptir Hrafn Hoengsson; hann var stórvitr maðr. Hann bjó at Varmaloek, ok áttu þeir Glúmr bú saman. … Þeir broeðr áttu suðr Engey ok Laugarnes …”. Eftir að Glúmur hafði gengið að eiga Hallgerði langbrók gaf Þórarinn Ragabróðir upp búið á Varmalæk fyrir þeim Glúmi og Hallgerði. Á Þórarinn að hafa mælt ,,…en ek mun fara suðr í Laugarnes ok búa þar. En Engey skulu vit eiga báðir saman.”

Laugarnes

Laugarnes – minnismerki um kirkju.

Eftir víg Glúms fluttust Hallgerður langbrók í Laugarnes. Í sögunni segir: ,,Þau Hallgerður skiptu um bústaði um várit, ok fór hon suðr á Laugarnes, en hann til Varmaloekjar. Ok er Þórarinn ór sögunni.” Samkvæmt munnmælum var þúst suðaustur af bænum nefnd eftir henni og kölluð Hallgerðarleiði og um hana sagt að hún væri græn jafnt vetur sem sumur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er þó aðeins dregið úr þeirri trú og segir þar: „ekki er það satt að leiði hennar sé jafngrænt vetur og sumar, þó sögur segi svo, en seinna fölnar þar gras á haustin, en annarstaðar á Laugarnestúnum …“
Þessi merkisþúfa er nú horfin undir Sæbrautina en þegar grafið var í hana fundust hleðslur og gjall svo líklegra er að þar hafi verið smiðja en að Hallgerður sé grafin í kirkjugarðinum í Laugarnesi sem var fyrsti kirkjugarðurinn í Reykjavík. Laugarnes var forn kirkjustaður og samkvæmt kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 hefur kirkja þá þegar verið í Laugarnesi.
Laugarnes - stasetning holdveikraspítalansEkki er vitað hvenær fyrst var jarðað í kirkjugarðinum en síðast var það gert árið 1871. Þá voru grafnir þar 6 franskir sjómenn, sem létust úr bólusótt og ekki var talið fært að jarða þá „inni í borginni“ vegna hættu á smiti. Þeir lágu í einangrun í gömlu biskupsstofunni í Laugarnesi. Kirkjan í Laugarbesi var rifin 1794 og sameinuð Reykjavíkurkirkju en glögglega sést enn móta fyrir veggjum kirkjugarðsins sem er friðlýstur samkvæmt þjóðminjalögum.
Um 1234, eða á ofanverðum dögum Þorvalds Gissurarsonar, áttu Laugnesingar laxveiði í Elliðaám að helmingi við Viðeyjarklaustur.
Fáum sögum fer af ábúendum í Laugarnesi eftir söguöldina en á 15. öld kemst jörðin í eigu Hólmsættarinnar og vitað er að Margrét dóttir Vigfúsar Hólm hirðstjóra gaf Þorvarði Einarssyni dóttursyni sínum jörðina 1486. Margrét slapp lifandi úr Kirkjubólsbrennu þegar menn Jóns Gerrekssonar biskups brenndu inni bróður hennar Ívar 1433. Það illvirki varð til þess að varið var að Jóni biskupi, hann settur í poka og drekkt í Brúará. Ögmundur Pálsson síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti átti jörðina um tíma og eftir hans daga var mikið deilt um eignarrétt hennar. Anna  Vigfúsdóttir frá Stóru-Borg átti jörðina um skeið og síðar Gísli Hákonarson lögmaður.
Laugarnes - kort frá 1927-'35Þegar máldagi Laugarneskirkju var gerður 1491-1518 þá átti kirkjan heimalands hálft tíu kúgildi og fimm hross, auk þess að hún átti fimmta hvern lax af veiði þeirri er Viðeyingar átti í Elliðaám, fyrir utan þann hluta er Hallotta Þorsteinsdóttir hafði gefið Viðeyjarklaustri en það var metið á fimm hundruð. Kirkjan átti tíu hundruð í metfé, þrettán bækur með tólf mánaða tíðum, tvenn messuklæði, einn kaleik og tvær stórar klukkur. Árið 1521 er Laugarnesi gefið peningar Vigfúsar Erlendssonar, kvikir og dauðir, voru virtir að honum látnum. Þann 26. nóvember 1535 var í Laugarnesi útnefndur sex manna dómur um kæru Alexíusar ábóta í Viðey á hendur Jóns Bergþórssonar um að hafa ,,farið í Elliðaá og haft klaustursins net og eignað Bústöðum fors í ánni eðr streing. Kirkjan í Laugarnesi átti um miðja 15. öld; „… litinn skog … vid landsýdri j hvaleýrar hofda“.
Á 16. öld markast saga Laugarness aðallega af deilum á milli fyrirmanna á Íslandi um eignarhald jarðarinnar. Þar voru í fararbroddi annars vegar Ögmundur Skálholtsbiskup og skyldmenni hans og hins vegar Páll lögmaður Vigfússon og fjölskylda hans.
Holdsveikraspítalinn í LaugarnesiSamkvæmt Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Elín Hákonardóttir þá eigandi Laugarness. Elín bjó ekki í Laugarnesi heldur að Látrum við Mjóafjörð.. Fjórar hjáleigur voru á Laugarnesi, Norðurkot, Suðurkot og Barnhóll, en fjórða hjáleigan er nafnlaus í bókinni. Tólf manns bjuggu í Laugarnesi 1703.
Árið 1824 var veitt álitleg fjárhæð til að reisa embættisbústað handa biskupi í Laugarnesi. Múrarameistari og verkamenn voru fengnir frá Danmörku til þess að byggja Stofuna eins og hún var alltaf nefnd. Húsið var hriplekt og hin mesta hrákasmíð á alla vegu. Vera má að sá hluti byggingasamningsins sem kvað á um nægt öl handa verkamönnunum og einn pela af brennivíni á dag hafi átt sinn hlut í að svona tókst til með bygginguna. Steingrímur biskup Jónsson bjó í Laugarnesstofu til æviloka 1845. Með tíð og tíma grotnaði Stofan niður og var að lokum rifin þegar að því koma að reisa skyldi Laugarnesspítala.
LaugarnesstofaÁrið 1857 keyptu ellefu Reykvíkingar jörðina á uppboði. Árið 1894 var Laugarnes, ásamt Kleppi, lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, en hafði fram að því tilheyrt Seltjarnarneshreppi. Danska IOGT-reglan lét byggja holdsveikraspítala í Laugarnesi árið 1898. Spítalinn var rekinn til 1940 en þá lagði breska seturliðið hann undir sig og brenndi hann síðan ofan af sér 1943. Byggð fór að myndast í Laugarnesi um 1930 og á stríðsárunum var þar stór herskálabyggð sem var kölluð Laugarneskampur. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fékk inni í einum herskálanum eftir stríðið og var það fyrsti vísirinn að listasafni hans á nesinu.
LaugarnesspítaliLaugarnes var í ábúð nokkuð fram á nítjándu öld. Síðasti ábúandi þar var Þorgrímur Jónsson. Snemma á 20. öld hafði jörðinni verið skipt í fjölda ræktunarlanda og var á mörgum þeirra stundaður nokkur búskapur en þó lengst í Laugardal. Torfbærinn í Laugarnesi stóð til 1885, en þá var hann rifinn. Þegar nýjir ábúendur komu þangað 1885, voru þar engin nýleg hús nema bæjarhúsin, þriggja stafgólfa torfhús með tveimur rúmstæðum, búri og eldhúsi.
Laugarnesinu er ýmislegt að skoða og það er góður staður til útivistar. Þar er að finna nokkurn fjölda fornleifa, tvær af þeim eru friðlýstar, bæjarhóllinn og kirkjugarðurinn sem eru þar sem Laugarnesbærinn stóð á horninu á Héðinsgötu og Sæbraut að norðanverðu.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Á horninu er kort þar sem sýnt er hvar gamli bærinn og hjáleigurnar á nesinu stóðu.
Árið 1993 voru gerðar jarðsjármælingar á fornleifum í Laugarnesi á vegum Árbæjarsafns og Borgaskipulags. Verkfræðistofan Línuhönnun sá um verkið og niðurstöður þessara mælinga má finna í skýrslunni ,,Jarðsjármælingar í Laugarnesi”. Í þeirri rannsókn voru jarðlög mæld á rústasvæðum. Helstu niðurstöður voru að hægt var að áætla þykkt jarðlaga (mannvistarminja) og staðsetja einstaka mannvirki í bæjarhól Laugarness: „Greina má allmikið rústasvæði sunnan til í bæjarhólnum í Laugarnesi og hugsanlega kirkjurústina í miðjum kirkjugarðinum“.
Laugarnesstofa stóð nálægt Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og einnig holdsveikraspítalinn en tilhöggnir steinar úr grunni hans marka nú bílastæði listasafnsins. Ennfremur má sjá merki um fornar leiðir og ýmsar stríðsminjar á nesinu. Í heild er litið á allt nesið sem menningarlandslag, sem segir söguna frá landnámi til dagsins í dag. Þar er líka falleg náttúra, sérkennilegar klettamyndanir og ósnert fjara sem er líklega sú eina sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur.

Heimild:
-Laugardalur, nóvember 2007, bls. 17.
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning Laugarness vegna mats á umhverfisáhrifum Sæbrautar – Byggðasafn Reykjavíkur 2003.
-Njálssaga.

Laugarnesstofa 1836

Blikdalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin átta í Blikdal:

Selstöður á Blikdal
Blikdalur

Yfirlit um sel í Blikdal.

Blikdalur er stór og grösugur dalur í vesturhluta Esju. Hann liggur frá Gunnlaugsskarði í austri og hallar í vestur að klettabelti við Tíðarskarð en dalsmynnið er skammt austan við það. Blikdalur var áður nefndur Bleikdalur sem gæti verið vegna þess að háhitavirkni náði norður yfir dalinn og gaf berginu ljósan lit en innar í dalnum er ljósleitt og grænsoðið móberg. Eftir dalnum rennur á sem nefnist Blikdalsá, en frá dalsmynni að sjó nefnist hún Ártúnsá eftir samnefndum bæ við mynni dalsins.

Blikdalur

Saubæjarsel í Blikdal.

Blikdalur hefur löngum verið nytjaður af bæjum á Kjalarnesi fyrir lausagöngu hesta til fjáruppreksturs, og selstöðu. Suðurhluti Blikdals lá undir kirkjustaðnum Brautarholti, en sá nyrðri undir kirkjustaðinn Saurbæ og skiptist hann um Blikdalsá.

Blikdalur

Blikdalur – herforingjaráðskort.

Blikdals er ekki getið beint í skriflegum heimildum fyrr en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
Hinsvegar er Blikdalsár getið í máldaga Saurbæjarkirkju 1220, þar sem fram kemur kvöð um að halda skuli brú yfir ánna: „… bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fjoru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“ Þessi kvöð er áréttuð í Vilchinsmáldaga frá 1397 og í vísitasíum 1642, 1678, 1703 og 1724. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er Blikdals getið við nokkra bæi varðandi fjárupprekstur og selstöðu. Blikdals er getið í landamerkjabréfi fyrir Saurbæ árið 1890. Þar segir: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils en Ártún fyrir neðan götu frá Seljagilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Sel í sunnanverðum Blikdal.

Nokkur örnefni í dalnum vísa til selja og þar eru sýnilegar sex selstöður neðan við Selfjall. Tvær selstöður eru í norðan Blikdalsár, Saurbæjarsel sem stendur við læk ofan um 120 m ofan við ána og Holusel sem er um 370 m innar einnig staðsett við læk rétt ofan við ána.

Guðrún Runólfsdóttir

Guðrún Runólfsdóttir – Matthías og Guðrún Runólfsdóttir, kona hans, höfðu verið í hjónabandi í 45 ár er hann lést. Guðrún lifði mann sinn í 3 ár, dó 6. nóvember 1923.

Saurbæjarsel hefur verið í notkun framundir árið 1874 en heimildir geta þess að Guðrún Runólfsdóttir frá Saurbæ hafi verið þar selráðskona. Hún varð árið 1875 þriðja kona skáldsins Matthíasar Jochumssonar sem bjó á Móum á Kjalarnesi. Á eyri sem liggur sunnan við ána eru fjórar selstöður sem voru í landi Brautarholts. Efsta og innsta selstaðan er væntanlega sú sem síðast hefur verið í notkun og gæti verið frá svipuðum tíma og Saurbæjarsel. Saurbær er kirkjustaður en kirkju er þar fyrst getið um 1200. Þegar Jarðabókin var gerð er Saurbær orðin annexía frá Brautarholtskirkju. Saurbær er á ofanverðu Kjalarnesi, á sjávarbakka niður af Tíðarskarði. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“ Þar er segir einnig; „Selvegur lángur og erfiður.“ Á þeim tíma var jörðin í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún var kirkjujörð frá Saurbæ og stendur við mynni Blikdals við Ártúnsá. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Blikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“ Þáverandi eigandi Ártúns var Saurbæjarkirkja sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún

Ártún 1967.

Hjarðarnes var byggt út úr Saurbæ og kirkjujörð þaðan. Bærinn er á sjávarbakka um 1,5 km í norðaustur frá Saurbæ rétt innan við Tíðarskarð. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“ Þáverandi eigandi Saurbæjarkirkja, sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Brautarholt

Brautarholtskirkja.

Brautarholt stendur á hæð sem kallast Kirkjuhóll á vestanverðu nesinu og vestur af bænum er lítið og mjótt nes, Músarnes við mynni Hvalfjarðar. Brautarholts er fyrst getið í Landnámabók og kirkja var komin þar árið 1200. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal á móti Þerneyjarkirkju. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi.“ Þá var eigandi jarðarinnar prófastsekkjan Sigríður Hákonardóttir að Rauðamel eða sonur hennar Oddur Sigurðsson.

Blikdalur

Blikdalur – sel.

Borg var kirkjujörð frá Brautarholti og var um 175 m í norðaustur af klettinum Borg og 335 m suðaustur frá botni Borgvíkur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.“

Mýrarholt var einnig kirkjujörð frá Brautarholti. Var í neðri túnum Brautarholts um 100 m suðaustur af Krosshól og 350 m vestur af svínabúinu í Brautarholti. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi Blikdal.“

Hof var landnámsjörð sem er austur af Brautarholti og skammt vestan við Grundahverfi. Þar er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Hofs; „Menn töldu að Hof hafi haft í seljum í Blikdal þar sem heita Hofssel gömlu en ekki vissu menn hvort þar hefði verið haft frítt eða nokkuð greitt til Brautarholts.“ Þá voru eigendur jarðarinnar nokkrir Sr. Vigfús Ísleifsson prestur í Skaftafellssýslu og bróðir hans Magnús Ísleifsson lögréttumaður á Höfðabrekku í Skaftafellsþingi, Hallfríður Snorradóttir ekkja, Kolbeinn Snorrason Seljatungu í Flóa.

Lykkja var tíundi partur úr jörðinni Hofi, en á Hofi er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Um Lykkju segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“

Blikdalur

Sel í Blikdal.

Við vettvangskönnun sumarið 2010 fundust að því er virðist fjórar selstöður á eyri sem er um sunnan Blikdalsár um miðjan Blikdal í Brautarholtslandi. Efsta selið er greinilega það sem síðast hefur verið notað en hin eru fornleg að sjá. Handan árinnar norðan megin eru tvær sýnilegar selstöður og fylgir örnefnið Saurbæjarsel þeirri fremri sem síðast var notað frá Saurbæ. Selið er við læk uppí miðri hlíð undir Selfjalli en hin Holusel er aðeins innar í dalnum og niður við Blikdalsá, einnig við læk. Beggja vegna í dalnum eru greinilegar götur að selstöðunum.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna í heild HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 11-14.

Blikdalsselin

Selin í Blikdal  þjappað saman – uppdráttur ÓSÁ.

Elliðaárdalur

Í skýrslu um „Sjálfbæran Elliðaárdal – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016„, er m.a. fjallað um sögu og minjar í dalnum.

Á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar 26. mars 2015 var skipaður starfshópur um sjálfbæran Elliðaárdal. Starfshópurinn fékk það hlutverk að gera tillögur að framtíðarfyrirkomulagi og fjármögnun á umhirðu og rekstri dalsins. Við gerð skýrslunnar var rætt við fulltrúa hagsmunaaðila, hverfisráð og hollvinasamtök sem einnig skiluðu athugasemdum við skýrsluna.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Helstu niðurstöður starfshópsins eru að dalurinn verði áfram eitt af aðalútivistarsvæðum borgarinnar, að fjölbreytilegt lífríki dalsins njóti verndar og að þess verði gætt að Elliðaárnar verði áfram frjósöm laxveiðiá.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – Kermóafoss.

Starfshópurinn telur að jafnvægi þurfi að ríkja á milli útivistarsvæða í dalnum og íbúabyggðar. Þá séu tækifæri til að styrkja vistvænar samgöngur í dalnum.
Starfshópurinn telur að kanna þurfi  vægi og fjölda vegfarenda um svæðið til að sjá hvar áherslum þurfi að breyta eða hvar bæta þurfi aðstöðu fyrir hjólreiðamenn, gangandi vegfarendur eða hestamenn.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Elliðaárdalurinn gegnir veigamiklu hlutverki í markmiðum borgarinnar í loftslagsmálum því dalurinn er með stærri grænum svæðum í borginni. Hlúa þarf að því lífríki sem er finna í dalnum og vakta það.  Fylgjast þarf með fjölda minka og kanína og viðhalda fjölbreyttu fuglalífi.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Fjöldi tækifæra eru í Elliðaárdalurinn fyrir umhverfismennt, rannsóknir á vistkerfinu og fræðslu og skoða þarf ólíkar leiðir til þess en staðsetning dalsins í miðri borg eykur notkunarmöguleika hans til muna.
Starfshópurinn telur að vernda þurfi mannvirki sem tengjast raforkuframleiðslu og sögu hennar í dalnum en henni hefur verið hætt. Stærsta mannvirkið sem tengist raforkuframleiðslunni er Toppstöðin og leggur starfshópurinn til að annars vegar verði framkvæmd húsakönnun á byggingunni og hins vegar að unnin verði drög að fyrirkomulagi hugmyndasamkeppni um mögulega starfsemi í húsinu. Undanfarin ár hefur verið frumkvöðlasetur í húsinu en ljóst er að ráðast þarf í umfangsmiklar endurbætur á húsinu.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Það er niðurstaða hópsins að ekki sé þörf á aukinni skógrækt í dalnum og grisjunarþörf sé umtalsverð til að bæta útivistarsvæðið.
Þegar starfshópurinn horfir á aukningu meðal ferðamanna er það mat hans að þó að margir þeirra leggi ferð sína í dalinn sé hlutverk hans fyrst og fremst að vera athvarf og útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Aðgerðir sem farið verður í til að bæta innviði dalsins miði að þörfum allra sem dalinn sækja heim.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Borgarbúum er flestum annt um Elliðaárdalinn og því telur starfshópurinn þörf fyrir  lifandi vettvang fyrir samræður og samstarf. Hópurinn leggur því til að borgin haldi utan um reglulega/árlega samráðsfundi um dalinn þar sem allir sem áhuga hafa geta hist og rætt brýn mál.
Elliðaárdalurinn er ein af útivistarperlum Reykjavíkur. Hann nýtur borgarverndar vegna sérstaks náttúrufars og möguleika til útivistar. Þar eru merkilegir sögustaðir og friðlýstar minjar. Lengd hans á milli Elliðavatns og ósa Elliðaánna er u.þ.b. 6 km og breiddin milli hálfur til einn kílómetri.
ElliðaárdalurReykvíkingar fóru gjarnan í lautarferðir þangað á 19. öld, en eftir að bílar komu til sögunnar fór fólk að sækja lengra. Nú er fólk farið að gefa dalnum gaum á ný og nýtur umhverfisins þar sem aldrei fyrr. Jarðfræði dalsins er hægt að lesa í Háubökkum við Elliðavog, þar sem er að finna skýringar á skilti. Meðalrennsli Elliðaánna er 5,5 m³/sek. Áætlað er, að flóðið mikla árið 1968 hafi náð 220 m³/sek. Orkuveita Reykjavíkir (Vatnsveita) sækir vatn sitt að mestu leyti af vatnasviði Elliðaánna, u.þ.b. 0,6 m³/sek. og verður því vatnsmagn Elliðaánna að sama skapi minna.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Gróður í dalnum er víða mikill, bæði náttúrulegur og ræktaður, a.m.k. 160 tegundir blómplantna. Skógrækt hófst líklega í dalnum upp úr 1920 með gróðursetningu reynitrjáa. Þegar hús og sumarbústaðir fóru að rísa í dalnum, kom til garðrækt. Orkuveita Reykjavíkur (Rafmagnsveita) hóf skógrækt í Árhólmanum upp úr 1950. Helztu varpfuglar í dalnum eru álftir, grágæsir, stokkendur, rauðhöfðaendur, urtendur, straumendur, duggendur, æðarfugl, toppönd, grafönd, hrossagaukar, skógarþrestir, starrar, auðnutittlingar, þúfutittlingar, steindeplar, maríuerlur, hrafnar, himbrimar, o.fl. Alls má telja 59 fuglategundir, en 31 þeirra eru fastir varpfuglar og 18 tegundir eru árvissir gestir.
ElliðaárstöðinElliðaárnar hafa löngum verið meðal beztu laxveiðiáa landsins en þar eru einnig urriði, bleikja, hornsíli og áll. Rústir þófaramyllu og litunarhúsi Innréttinganna má finna á takmörkuðu svæði í Árhólmanum undan bæjarhólnum að Ártúni. Elliðaárvirkjun var tekin í notkun árið 1921.
Rafmagnsveita Reykjavíkur hóf söfnun muna, sem tengjast sögu hennar, árið 1971. Skráning munanna hófst 1988 og þar með skipuleg söfnun.
Rafveitusafnið var formlega stofnað árið 1990 og það er skemmtilegt að heimsækja það í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur (Hitaveita) á átta borholur í dalnum.
Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru fjórir kampar í landi Ártúns, Camp Alabaster (Camp Pershing), Camp Battle, Camp Hickham, Camp Fenton Street og Camp Ártún á Ártúnshöfða. Víðivellir, athafnasvæði hestamanna, er aðallega á tveimur aðskildum svæðum ofarlega í dalnum og þriðja og elzta svæðið er við enda Bústaðavegar. Árbæjarsafnið, sem var opnað árið 1957, er hluti af Elliðaárdalnum.

Búskapur og landbúnaður

Árbær

Árbær.

Elliðaárdalur hefur verið landbúnaðarsvæði um langt skeið en getið er búskapar á bænum Ártúni á 14. öld og Árbæ á 15. öld. Á Árbæ var búskapur í minnst 500 ár. Ummerki um þennan landbúnað eru mjög áberandi enn í dag því tún eru kringum bæjarstæðin sem reyndar gáfu ekki mikið af sér og þótti harðbýlt á báðum bæjum.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur 1880 – Ben. Gröndal.

Dalurinn var lengi vel notaður sem úthagi þar til hann var friðaður fyrir sauðfjár- og hrossabeit á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Í Ártúni var gisti- og veitingaþjónusta fyrir ferðafólk um langt skeið, allt fram á 19. öld. Áður en byggðin reis í Árbæjar- og Breiðholtshverfum var mikið um að leigð væru erfðafestulönd í dalnum, einkum norðan Elliðaáa undir Ártúnsholti austur að Selás. Þar reisti fólk sér sumarbústaði og önnur smáhús og eigendur stunduðu garð- og trjáyrkju.
Sumarbústaðabyggðin lagðist niður að mestu á tímabilinu frá 1960-1990 en enn standa nokkur stærri hús sem eru heilsárshús, flest á Ártúnsblettum við Rafstöðvarveg en einnig nokkur í Árbæjar- og Seláshverfum. Eru það elstu húsin á þessum slóðum. Smáhýsi eru einnig í Löngugróf sunnan Árbæjarstíflu nálægt Stekkjarbakka (Árni Hjartarson o.fl., 1998).

Aðrar söguminjar

Elliðaárbrú

Elliðaárbrú 1927.

Elliðaárdalur var í lykilhlutverki í ullarvefnaðariðnaði í Reykjavík 18. öld sem var hluti af starfsemi Innréttinga Skúla Magnússonar landfógeta. Í árhólmanum má sjá ummerki um mannvirkin er þessu tengdust en þar stóðu þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði. Var vatnskraftur Elliðaánna nýttur við að þæfa og lita ullina.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur 1946.

Þjóðleiðin frá Reykjavík lá einnig yfir Elliðaárnar neðarlega í dalnum og má finna ummerki um gömul vegstæði og vöð og var Ártúnsvað fjölfarnasta vaðið (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Fyrstu brýr yfir Elliðaárnar voru byggðar 1883 en hafa þær verið endurnýjaðar alloft síðan þá, stækkaðar og styrktar. Í dag eru tvær brýr fyrir bílaumferð, Höfðabakkabrú frá 1981 og Breiðholtsbrautarbrú frá 1993 auk brúar fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi til móts við Árbæjarlaug.
Stríðsminjar finnast einnig í dalnum en fimm herkampar voru á túni Ártúns á heimsstyrjaldarárunum síðari og má sjá ummerki um þá í túninu við bæinn. Einn stór kampur, Camp Baldurshagi, var á Víðidalssvæðinu en lítil ummerki eru þar eftir í dag.
Ekkert er minnst á veru Arnesar útilegumanns, veru hans í dalnum og fylgsni hans í Árhólmum.

Raforkuframleiðsla

Elliðaárdalur

Elliðaárrafstöðin.

Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Var raforkan fyrst og fremst notuð fyrir lýsingu í Reykjavík.

Elliðaárdalur

Árbæjarstífla.

Helstu mannvirki er tengjast raforkuframleiðslunni eru stíflurnar tvær, Árbæjarstífla sem var fullgerð árið 1929 og Elliðavatnsstífla sem var reist á árunum 1924-8 og endurgerð 1978, rafstöðvarhúsið sjálft ásamt fallstokknum sem liggur frá Árbæjarstíflu niður í rafstöðina auk nálægra húsa er tengjast starfseminni. Stærsta byggingin er þó Toppstöðin sem var
vara- og álagsstöð fyrir meginrafstöðina og tók til starfa 1948. Hlutverki hennar lauk á áttunda áratugnum og hýsir húsið nú frumkvöðlasetur. Eftir að pípan í fallstokknum rofnaði árið 2013 hefur
ekki verið virk raforkuframleiðsla í Elliðaárvirkjun (www.or.is)

Skógrækt

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Skógrækt hefur sett mikinn svip á Elliðaárdalssvæðið. Á 30 ára afmæli Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 var hafin skógrækt í Elliðaárhólma og var gróðursett þar árlega til um 1970. Í Sveinbjarnarlundi í Ártúnsholti eru enn eldri grenitré eða frá 1937 sem í dag eru talin hæstu grenitré á Íslandi eða um 20 metra há. Skógræktarfélag Reykjavíkur stundaði einnig skógrækt í Elliðaárdalnum um alllangt skeið í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur, t.d. í Breiðholtshvarfi (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Mikill vöxtur hefur verið á plöntuðum trjágróðri þar síðustu misseri og víða finnst þéttur skógur og há tré.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar sinna nú grisjun í skóginum.

Ísaldaminjar

Elliðaárdalur

Blesaþúfa framundan. Meðfylgjandi texti á á skiltinu vinstra megin á myndinni.

Í Elliðaárdal er nokkuð mikið af setmyndunum jökla frá lokum ísaldar, en henni lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þá hófu jöklar að hörfa af Bláfjallahálendinu og Hengilssvæðinu þar sem skriðjökullinn, sem lá yfir Elliðaárdal, átti upptök sín.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Á þessum tíma hafði þykkur jökulísinn myndað mikið farg sem olli því að land þrýstist niður um tugi metra. Þegar jökullinn hörfaði varð sjávarstaða til skamms tíma mun hærri en þekkt er í dag. Við árósa og annars staðar, þar sem mikill framburður lausra efna frá bráðnandi jöklinum hlóðst upp, mynduðust malarhjallar og setfyllur.

Í Elliðaárdal má finna minjar um hærri sjávarstöðu frá ísaldarlokum, sem myndanir tengdar henni og frárennsli bránandi jökuls. Á þessum tíma mynduðust sandfjörur og sandeyrar sem teygðu sig út með Blesugróf og Árbæjarhverfi.
Þessar myndanir sem nefndar eru strandhjallar og óseyrar, benda til að sjávarmál hafi verið um 40 m hærra en nú er. Glöggt dæmi um fornar strandlínur má t.d. finna innan við Ártún. Á þessum tíma voru Elliðaár beljandi jökulfljót, en ekki kyrrlátar kindár eins og nú er.
Blesaþúfa er dæmigerðar leifar af fornri óseyri.

Heimildir:
-https://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ellidaardalur.htm
-Sjálfbær Elliðaárdalur – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.

Örfirisey

Garðar Svavarsson skrifar um örnefnið „Reykjanes“ í Morgunblaðið 16. apríl 2006 undir fyrirsögninni „Nafngjafi Reykjavíkur„:

„Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið. Hér verður fjallað um uppruna og sögu örnefnisins.
Á norðurenda Örfiriseyjar handan olíustöðvar er örnefnið Reykjanes. Fleiri staðir á landinu bera þetta nafn og má þar nefna Reykjanes á Suðurnesjum, í Reykhólasveit og við Ísafjarðardjúp. Á þessum þremur síðasttöldu stöðum er jarðhiti, laugar eða hverir, og myndarleg nes svo augljóst er af hverju staðirnir draga nafn sitt. Hvorugu er til að dreifa í Örfirisey, þar er enginn jarðhiti og varla er hægt að kalla lítið klapparnef nes.

Örfirisey„Norðvestur í Effersey er nes, er kallað hefur verið Reykjanes, og er það gamalla manna sögn að þar hafi verið laug, sem sjór er nú genginn yfir. Ekkert kannast samt elztu núlifandi Reykvíkingar við þá sögn.“ (Örfirisey var alla jafnan kölluð Effersey fram undir miðja síðustu öld). Þótt Klemensi tækist ekki að finna neinn sem gæti staðfest sögnina um jarðhita í eyjunni hafnaði hann ekki þeim möguleika að þar hefðu verið heitar laugar við landnám. Hins vegar átti eftir að kom í ljós að einn úr flokki aldraðra Reykvíkinga vissi af eigin reynd hvar jarðhita var að finna í Örfirisey.

Örfirisey

Örfirisey – letur á klöppum.

Í bók Þórbergs Þórbergssonar, rithöfundar, Frásagnir, sem kom út árið 1972, fjallar hann m.a. um Örfirisey, Grandann og Hólmann. Helsti viðmælandi hans í Reykjavíkurhluta bókarinnar var Ólafur Jónsson fiskimatsmaður. Ólafur var fæddur 1856 í Hlíðarhúsum, en það var húsaþyrping neðarlega við Vesturgötuna, og ól hann allan sinn aldur í Reykjavík. Hann var lengstum sjómaður eins og faðir hans og stundaði sjóinn frá Reykjavík og víðar. Þórbergur getur þess sérstaklega að þeir Ólafur hafi farið út í Örfirisey 30. mars 1935 til að skoða þá staði, sem Ólafur hafði nefnt í viðtölunum. Um Reykjanes farast honum svo orð í frásögn Þórbergs: „Í norðnorðvestur frá norðvesturhorni Örfiriseyjar eru tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Út í þau má ganga um stórstraumsfjöru. Þau voru í mínu ungdæmi kölluð Reykjarnes. Nokkurn spöl fyrir austan sker þessi, hér um bil mitt á milli þeirra og Hásteina og þar úti sem þarinn er þykkastur, var dálítil flöt flúð, sem var upp úr sjó um stórstraumsfjöru. Í flúðinni var glufa um hálf fingurhæð að breidd. Upp úr þessari glufu rauk um stórstraumsfjörur framan af ævi minni.“ (bls. 151).

Reykjanes

Reykjanes við Reykjavík.

Þetta er óneitanlega skilmerkileg frásögn og engin ástæða er til að draga hana í efa enda Ólafur margoft búinn að sýna í viðtölum um önnur efni að hann hafði traust og gott minni. Það er athyglisvert að hann kallar fjöruna á þessum stað með skerjunum tveim Reykjarnes, en á öðrum stað í frásögninni um Örfirisey og Hólmann segir: „Það er engum efa bundið, að land allt hefur sigið hér mjög í sjó á síðari öldum. Einhvern tíma hefur Hólminn verið allstór eyja grasi vaxin, og þar sem Vesturgrandi og Örfiriseyjargrandi stóðu aðeins upp úr sjó um fjöru sem nakin malarrif, þar hafi fyrr á tímum verið grasi gróin eiði, sem hafi verið ofansjávar jafnvel í mestu stórstrauma.“ (bls.150).
Þessi lýsing hér að ofan um landsig og meðfylgjandi landbrot á að sjálfsögðu við um Örfirisey alla og þar með talið fjöruna sem nefnd var Reykjanes. Nú er vitað að land hefur sigið hér á Reykjavíkursvæðinu í mörg þúsund ár og telja fræðimenn á þessu sviði að land sé nú að minnsta kosti 2 m lægra en við upphaf landnáms. Þetta mikla landsig hefur valdið gríðarlegum breytingum á landi við sjávarsíðuna. Klemens Jónsson ýjar að þessu í Sögu Reykjavíkur þegar hann segir að líklega hafi Effersey verið landföst við landnám.

Örfirisey

Örfirisey- letur á klöppum.

Nú er eyjan land umflotið vatni og því er landföst eyja ekki til frá náttúrunnar hendi. Hafi Örfirisey verið landföst við landnám hefur því verið um að ræða tanga eða nes, en ekki eyju.

Í Landnámu segir að Ingólfur Arnarson hafi komið hingað til lands tveimur til þremur árum áður en hann settist hér að. Vafalaust hefur hann verið að kanna hvort landið væri gott til búsetu og finna heppilegan stað til landnáms. Skip landnámsmanna, knerrirnir, voru ekki stór og því ljóst að ekki var hægt að flytja búpening til landsins nema í mjög smáum stíl. Því varð að treysta á veiðar fyrstu árin eða jafnvel í áratugi meðan bústofninn var að eflast. Ingólfur finnur staðinn sem hann leitaði að í Reykjavík og er nú best að vitna í orð Björns Þorsteinssonar í Íslenskri miðaldasögu: „– því að þar var allt að hafa sem hugur hans girntist: höfn, eyjagagn, veiðivötn og laxá, landrými og jarðhiti. Í rauninni jafnaðist hér enginn staður á við Reykjavík að fjölþættum náttúrugæðum.“ (bls. 27).

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes.

Þegar Ingólfur og áhöfn hans sigla skipi sínu inn í mynni Kollafjarðar, væntanlega fyrstir manna, blasa við þeim eyjar, sund og vogar og er ekki ósennilegt að þetta land hafi minnt þá á heimahagana í Vestur-Noregi. En eitt hefur þó ugglaust vakið sérstaka athygli þeirra og furðu. Upp af litlu nesi, sem teygði sig til norðurs frá meginlandinu, steig hvítur reykur til lofts, náttúrufyrirbæri sem þeir hafa tæpast séð áður. Nafnið á staðnum var sjálfgefið, Reykjanes. Víkin innan við nesið, sem er vel afmörkuð milli Reykjaness og Arnarhólstanga, hlaut einnig að draga nafn af hvernum á nesinu og kallast síðan Reykjavík.
Með fullri virðingu fyrir Þvottalaugunum er vægast sagt hæpið að Reykjavík dragi nafn sitt af þeim. Bæði er að Þvottalaugarnar eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá víkinni og leiti ber í milli svo að reykurinn frá þeim sást tæpast af hafi eða í víkinni nema við sérstök veðurskilyrði.

Örfirisey

Mynd SE tekin frá Skólavörðuholti um 1900.

En mótun landsins hélt áfram eins og hún hafði gert frá örófi alda. Á hverju ári nagaði sjórinn smáspildu af nesinu og þar kom að útsynningsbrimið braut sér leið gegnum nesið þar sem það var mjóst og Reykjanesið varð að eyju. Hvenær þetta átti sér stað veit enginn, en vafalaust var það nokkrum öldum eftir landnám.

Örfirisey

Áletrun í Örfirisey.

Vera má að þetta hafi átt sér stað í stórflóði sambærilegu við Básendaflóðið 1799, en þá gekk sjór yfir alla Örfirisey og lagðist þar af búseta um tíma. Þessar breytingar voru löngu um garð gengnar í upphafi átjándu aldar en í Jarðabókinni frá 1703 er eftirfarandi umsögn um býlið Erfersey: „Vatnsból í lakasta máta, þrýtur bæði sumar og vetur og þarf þá til lands á skipum að sækja eður sæta sjáfarfalli að þurt megi gánga um fjörurif það, sem kallað er Grandi.“ (Þriðja bindi, bls. 255).
Í þessari lýsingu er komin til sögunar eyja og grandi, en nes er ekki nefnt. Á þessum tíma er Geldinganes í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey, þ.e. eyja tengd við land með eiði sem sjór féll yfir á flóði, en þrátt fyrir það breytist nes ekki í eyju. Hvað veldur því að nafnið Reykjanes þokar til hliðar, en nafnið Örfirisey kemur í staðinn. Gæti verið að lausnar gátunnar væri að leita í nafni annarrar eyjar lítið eitt vestar?

Örfirisey

Örfirisey – loftmynd.

Akurey er yst eyja á Kollafirði og nafnið er vafalítið dregið af akuryrkju í eyjunni. Það er augljóst að þetta nafn fær eyjan löngu eftir landnám því að þó að akuryrkja hafi verið stunduð af landnámsmönnum frá upphafi hafa akrar verið nærri bæjum meðan þar var nægilegt landrými, en ekki í úteyjum. Einnig hefur Reykjanes verið góður kostur því að auðvelt var að girða nesið af og hindra þannig ágang búfjár. Var þá eyjan nafnlaus, jafnvel um aldir? Það er ákaflega ólíklegt því að eyjan er á þeim stað þar sem skip og bátar voru mikið á ferðinni eða við fiskveiðar og því brýn nauðsyn að kennileitum væri gefin nöfn. Leitum nú enn á ný í bókina Frásagnir. Steingrímur Steingrímsson frá Klöpp var einn af viðmælendum Þórbergs. Honum segist svo frá: „að Níels á Klöpp hafi sagt sér, að í hans ungdæmi hafði verið hægt að vaða úr Hólmanum og út í Akurey um stórstreymsfjörur, og hefði sjór þar ekki verið dýpri en svo, að komast hefði mátt þurrt í skinnbrók. En nú er þar óvætt dýpi um stærstu fjörur.“ (bls. 150).
Örfirisey
Það er til önnur heimild um þetta eiði eða granda milli Hólmans og Akureyjar. Í Sögu Reykjavíkur 870–1870, fyrra bindi, er birt mynd á blaðsíðu 62 af elsta korti sem til er af Reykjavík. Þetta kort er frá 1715 og nær yfir ytri hluta Kollafjarðar, suðurströnd Kjalarness og Seltjarnarnes vestan Laugarness. Örfirisey með verslunarhúsunum er á kortinu miðju og landtengingin, þ.e. Grandinn, sést greinilega. Sama má segja um grandann út í Hólmann, hann kemur skýrt fram, en það athyglisverða er að hann endar ekki í Hólmanum heldur liggur áfram út í Akurey.

Reykjavík

Reykjavík – kort 1787.

Mjög líklegt er að í upphafi átjándu aldar, þ.e á þeim tíma sem kortið er teiknað, hafi aðeins verið hægt að ganga þurrum fótum út í Akurey á stærstu fjörum. Við landnám hefur Akurey hins vegar verið í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey var mörg hundruð árum síðar, þ.e. eyja tengd við land með granda sem var ávallt á þurru um fjöru. Það fólk sem hér settist að við upphaf byggðar hefur líklega þekkt áþekk náttúrufyrirbæri frá fyrri heimkynnum sínum og gefur eyjunni því nafn við hæfi. Það nafn var sennilega Örfirisey.
Þegar Reykjanes breytist í eyju við landbrot eru eyjarnar orðnar tvær með áþekk náttúruleg einkenni, nánast hlið við hlið. Smám saman fer fólk að kenna ytri eyjuna við þá starfsemi sem þar er stunduð, þ.e. akuryrkju.
Örfiriseyjarnafnið flyst hins vegar yfir á Reykjanesið og ryður gamla nafninu út á norðurenda eyjarinnar þar sem það situr enn án staðfestu í landslagi. Þessi nafnasaga er að sjálfsögðu getgátur, en vert er að benda á að örnefnaflakk er ekki óþekkt hér á landi.

Örfirisey

Örfirisey 1958.

Nú eru liðnir rúmir sjö áratugir síðan Þórbergur og Ólafur gengu um Örfirisey og rifjuðu upp örnefni á og í nágrenni eyjunnar. Á þeim tíma var eyjan að mestu eins og náttúran hafði mótað hana, en nú er fátt sem minnir á Örfirisey þess tíma. Þó má enn finna staði sem Þórbergur fjallar um, svo sem klappirnar á norðurenda eyjunnar með gömlum áletrunum. Vestasti hluti klappanna er í raun norðvesturhorn hinnar eiginlegu Örfiriseyjar og sé horft þaðan í norðnorðvestur má á fjöru greina tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Þessi sker kallaði Ólafur frá Hlíðarhúsum, Reykjanes. Lítið eitt austar í fjörunni, þar sem þarinn er þykkastur, leynist lítil flöt flúð með glufu sem er um hálf fingurhæð að breidd. Þetta eru síðustu leifar hversins sem gaf tveim stöðum nafn.

Reykjavík

Reykjavík – kort Björns Gunnlaugssonar 1834.

Annað nafnið, Reykjanes, er nú að mestu gleymt, en hitt nafnið, Reykjavík, hefur farið víðar en nokkurt annað staðarnafn íslenskt.
Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið.“

Emil Hannes Valgeirsson bloggaði um örnefnið „Reykjarvík“:

„Það er dálítið sérstakt að lögheimili fyrsta landnámsmannsins hafi verið akkúrat á þeim stað þar sem höfuðborg landsins stendur í dag. En hvar var hún þessi Reykjarvík sem sá merki maður á að hafa byggt sér ból? Og þá meina ég Reykjarvík með erri eins og staðurinn er nefndur í Íslendingabók. Ýmist er talið að um sé að ræða víkina sem afmarkast af Örfirisey og Laugarnestanga eða víkina þar sem gamla höfnin er. En kannski er þriðji möguleikinn til staðar?

Örfirisey

Örfirisey 1960.

Á þeim rúmu 1100 árum sem liðin eru síðan Ingólfur Arnarson var og hét hafa orðið miklar breytingar á landsháttum á strandlengjunni hér við sundin blá vegna ágangs sjávar en ekki síður vegna þess að hér suðvestanlands er landið stöðugt að síga vegna nálægðarinnar við gosbelti Reykjanesskagans. Talið er að þetta landsig gæti hafa verið allt að tveimur metrum frá landnámi og strandlengjan því á stórum svæðum allt önnur en hún er í dag, eyjar og sker hafa sokkið í sæ og nes hafa orðið af eyjum.

Skólavörðuholt

Skólavörðuholt – mynd Sigfúsar Eymundssonar 1877.

Á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin er frá Skólavörðuholtinu árið 1877, sést hvernig aðstæður voru þarna fyrir 132 árum. Örfirisey er tengd landi með mjóum granda og annar grandi liggur frá honum í sveigju að skerjum sem ná langleiðina að Akurey en í sameiningu má sjá út úr þessu vísi að stórri skeifu. Í dag eru skerin við Akurey ekki nema svipur hjá sjón, eru oftar en ekki í kafi og tengjast ekki landi nema kannski í mestu stórstraumsfjörum. Uppfyllingar hafa svo að sjálfsögðu gerbreytt stöðu Örfiriseyjar sem er í dag ekkert annað en nes, eins og það hefur væntanlega verið fyrr á tímum.

Örfirisey

Örfirisey 1970.

Ef landshættir hafa verið einhvern vegin svona á tímum Ingólfs Arnarsonar, sést að þarna hefur verið allstórt nes eða tangi sem hefur náð alla leið út í Akurey. Þarna hef ég merkt inn bláan punkt sem merkir hverasvæði en nokkuð víst þykir að þarna hafi verið heit laug eða hverasvæði sem í dag er sokkið í sæ. Ysti hluti Örfiriseyjar er reyndar enn í dag kallaður Reykjarnes. Sennilega hefur allt þetta nes sem Örfirisey tilheyrir í dag, verið kallað Reykjarnes og miðað við sjávarstöðu nú, er líklegt að lítil vík hafi gengið inn í landið þarna rétt vestur af hverasvæðinu og ef einhver hefur viljað kalla þá vík eitthvað hlýtur nafnið Reykjarvík óneitanlega að koma upp í hugann.

Skólavörðuholt

Skólavörðuholt 2022.

Sú hugmynd að nafnið á höfuðborg landsins, Reykjavík, sé dregið af lítilli vík sem fyrir löngu er sokkin í sæ er ekki endilega minn eigin hugarburður. Mig rámar nefnilega í að hafa lesið um þetta í Lesbókinni fyrir einhverjum árum en hef þó ekki fundið þá grein aftur. Örnefnið eða bæjarnafnið Reykjavík virðist ekki hafa verið verið notað öldum saman því landnámsjörðin var lengst af kölluð „Vík“ á Seltjarnarnesi en það heiti er dregið af Seltjörn við Gróttu sem hefur staðið fyrir opnu hafi frá því Básendaflóðið gekk þar yfir 1799. Það var ekki fyrr en þéttbýli fór að myndast í kvosinni að staðurinn fékk nafnið Reykjavík. Þar hafa fundist elstu mannvistarleifar hér á landi og því kemur einnig vel til greina að Reykjarvík sé einfaldlega bara víkin þar sem gamla höfnin er nú, eins og gjarnan er talað um.

Örfirisey

Örfirisey 1985.

Hugmyndin sem ég minntist á hér fyrr um að Reykjavíkin afmarkist af Örfirisey og Laugarnestanga hefur sennilega orðið til vegna heitu lauganna í Laugardal enda inniheldur sú stóra vík tvö reykjasvæði. Mér finnst þó sú vík vera full víðáttumikil, þar að auki er Laugardalur hvergi sjáanlegur frá kvosinni og í nokkurra kílómetra fjarlægð. Hverasvæðið á Reykjarnesi hefur örugglega þótt alveg nógu merkilegt eitt og sér til að nota í örnefni og ef Reykjarvík hefur verið skrifað með erri hlýtur það að vísa í einn ákveðinn reyk, en ekki fleiri.

Að lokum má svo benda á að þótt örnefnið Örfirisey hafi verið til frá fyrstu tíð, er ekki víst að það nafn hafi alltaf átt við sama stað og í dag. Það er nefnilega vel þekkt að þar sem landshættir eru stöðugt að breytast geta örnefni farið á flakk og aðlagast nýju landslagi eins og gæti verið raunin með Reykjarvíkina“.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. apríl 2006; Garðar Svavarsson, Nafngjafi Reykjavíkur, bls. 22.
-https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/883564/

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes framar.

Lækjargata

Grjóthleðsla og torf, sem fannst við framkvæmdir nýs hótels á lóð Íslandsbanka við Lækjargötu, er talið vera ummerki eftir torfbæinn Lækjarkot sem byggður var árið 1799 og var fyrsta íbúðar­húsið sem reist var á þessum slóðum.

Lækjarkot

Uppgraftarsvæðið við Lækjargötu.

Bærinn á sér merka sögu, af honum eru til teikningar og málverk frá fyrri árum og Kristján konungur IX. kom þar inn í Íslandsheimsókn sinni 1874, að því er fram kemur í umfjöllun um uppgröft þennan í Morgunblaðinu.
Sýni voru tekin á svæðinu og eru þau nú til rannsóknar hjá Fornleifastofnun. Sé um bæinn að ræða, er líklegt að svæðið verði rannsakað og grafið upp, að mati Lísabetar Guðmundsdóttur, fornleifafræðings hjá Fornleifastofnun Íslands.

Fornleifagröftur við hornið á Lækjargötu og Vonarstræti, sem hófst í maí síðastliðnum vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar, hefur leitt í ljós það sem virðist vera skálabygging frá tímum landnáms. Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur, sem stýrir uppgreftrinum, segir þennan fund breyta miklu um það sem við töldum okkur vita um byggðasögu Reykjavíkur.

Aðalstræti

Skálar í Aðalstræti.

„Við höfum náttúrulega vitað um þessa elstu byggð í Reykjavík þar sem Aðalstrætið er,“ segir Lísabet, en þær bæjarrústir komu í ljós við uppgröft á áttunda áratugnum. „Við töldum okkur vita að aðalbyggðakjarninn hafi verið á því svæði, en okkur bara datt ekki í hug að það væri eitthvað þarna við Lækjargötuna. Og það var eiginlega það sem var svolítið skemmtilegt.“

Áfram var grafið í sólinni í dag.Vísir/Andri MarinóUppgröfturinn átti upphaflega að taka um fjórar vikur en sú áætlun breyttist skiljanlega þegar skálinn fannst í síðasta mánuði. Fyrir var vitað að bærinn Lækjarkot, sem byggður var árið 1799, hafði staðið á lóðinni, sem og timburhús sem reist var árið 1887.

„Þegar við vorum búin að klára að grafa þær byggingar upp, þá var náttúrulega slatti eftir,“ segir Lísabet.
Lækjarkot.„Það var með svona ofsalega flottu landnámstorfi í veggjum, þannig að það virtist vera frekar gamalt. Við erum náttúrulega ekki komin með aldurinn á hreint ennþá,en það kemur bara þegar við förum í úrvinnsluna.“

Lísabet segist búast við því að uppgröfturinn muni standa yfir í um tvær til þrjár vikur til viðbótar. Hún telur ekki líkur á að áform um hótelbyggingu raskist nokkuð vegna fundarins en segir viðræður þegar hafnar við framkvæmdaraðila um varðveislu grjóts, hellna og varðeldar úr skálanum.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/06/merkur_baer_ur_felum_vid_laekjargotu/
-https://www.visir.is/g/2015314513d
-http://www.torfbaeir.com/Tomthus/T-Laekjarkot.html

Lækjarkot

Mynd Jóns Helgarsonar af Reykjavík árið 1836, trúlega máluð nálægt 1890. Lækjarkot sést lengst til vinstri á myndinni suðaustan við Dómkirkjuna. Efst á myndinni má sjá Hlíðarhús og torfbæi i Grjótaþorpi og við Vesturgötu. Lækjarkot var reist árið 1799 austast á Austuvelli. Runólfur forstjóri Innréttinganna bjó þar en drukknaði í Tjörninni 1811 „aðeins mjög lítið drukkinn“ samkvæmt annálum. Meðal seinni ábúenda má nefna Þórð malakoff, sem var um margt sérkennilegur og bjó þar um 1870. Bærinn var rifinn árið 1887. Bærinn stóð þar sem nú er Lækjargata 10a sem er óbyggð lóð í dag. Fornleifauppgröftur árið 2015 sýndi ekki aðeins merki um bæinn Lækjarkot heldur einnig áður ókunnan landsnámsbæ.

Heidmörk

Sigurður málari Guðmundsson kom fyrstur fram með hugmyndina um friðun Heiðmerkur árið 1870. Hann taldi nauðsynlegt að Reykvíkingar gætu notið útivistar í geðfelldu umhverfi í nágrenni bæjarins. En góðir hlutir gerast hægt – nú sem fyrrum.

Heiðmörk

Heiðmörk – skilti.

Það var þó ekki fyrr en 1936 að Hákon Bjarnason skógræktarstjóri kynnti hugmyndina opinberlega, en hann taldi svæðið ákjósanlegt til útivistar fyrir almenning. Árið 1946 var Skógræktarfélag Reykjavíkur stofnað og fékk þá svæðið í vöggugjöf. Heiðmörk var friðuð í nokkrum áföngum á árunum 1950-1958 frá Elliðavatni að Vífilsstaðahlíð. Nú er Heiðmerkursvæðið rúmir 3000 ha. að stærð, að Rauðhólum, en þeir voru friðlýstir árið 1961. Þann 25. júní 1950 var Heiðmörk vígð, en þá gróðursetti Gunnar Thoroddsen borgarstjóri, greniplöntu á Vígsluflöt.

Heiiðmörk

Heiðmörk.

Fyrsta gróðursetningin fór þó fram vorið 1949 þegar starfsmenn Skógræktarfélagsins gróðursettu 5000 greniplöntur í svæði sem nú heitir Undanfari. Árangur skógræktarstarfsins er greinilegur og vex nú upp á 800 ha. Svæði með yfir 60 tegundum trjá og runna. Nokkur trjánna hafa náð 20 m hæð. Mikil tilraunastarfsemi með mismunandi trjátegundum og ræktunaraðferðum hefur farið fram undanfarna áratugi en nú er aðallega gróðursett sitkagreni, stafafura og birki. Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur, landnemafélög og vinnuhópar Vinnuskóla Reykjavíkur og Landsvikjunar hafa séð um gróðursetninguna. Nú hafa verið gróðursetta yfir 5 milljón plöntur í svæðið.

Heiðmörk

Heiðmörk – kort.

En aðdragandinn var kannski ekki eins auðveldur og virðist skv. framangreindu. Náttúruvernd og markviss nýting umhverfisins hefur jafnan verið að frumkvæði fárra er séð hafa tilganginn umfram aðra. Þegar skilningurinn verður öðrum augljós skapast þó jafnan grundvöllur fyrir jákvæðari þróun þessa til lengri framtíðar.
Sigurður Nordal skrifaði grein í Lesbók MBL 11. maí 1941 sem hafði fyrirsögnina „HEIÐMÖRK. Um var að ræða erindi sem hann hafði flutt á útvarpskvöldi Skógræktarfjelagsins 2. maí s.á.

Heiðmörk

Heiðmörk.

Erindið var síðar gefið út í safnriti Sigurðar, List og lífsskoðun, 3. bindi, bls. 317-323. Af þessu tilefni sagði Sigurður m.a.: “Til ills fórum vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta” – er í Landnámu haft eftir Karla, þræli Ingólfs Arnarssonar, þegar fyrst var numið hér land. Mörgum manni, sem fer um aðalþjóðveginn til Reykjavíkur, austan yfir Fjall, mun koma eitthvað svipað til hugar. Það eru mikil umskipti að láta að baki sér hið grösuga víðlendi þar eystra og fara um Svínahraun og Sandskeið. Og svo má heita, að því nær sem dregur höfuðstaðnum, þegar komið er niður á Árbæjarmela og yfir Elliðaár, því óyndislegri verði þessi leið frá náttúrunnar hendi, mýrar og hrjóstug holt á víxl. Að vísu er margvíslega fegurð að sjá úr Reykjavík og í nánd við hana… Raun ber því líka vitni, að næsta nágrennið laðar ekki bæjarbúa til sín.
Nýlegar framkvæmdir í Heiðmörk - ólíkt því er áður hafst var aðÞað getur vakið hreinustu furðu að ganga á fögrum sunnudegi, hvort sem er um vetur eða sumar, út á Seltjarnarnes, inn með Viðeyjarsundum eða suður í Fossvog. Á þessum leiðum er oftast örfátt fólk á gangi, líkt og í grennd við ofurlítið þorp. Hvar eru tugir þúsundanna, sem kúldrazt hafa sex daga vikunnar við vinnu sína í bænum, innan húss og utan, og nú ættu að leita frá göturykinu, kolareyknum og húsaþvögunni, draga að sjer hreint loft, liðka sig, styrkja og hressa með eðlilegri hreyfingu, njóta fegurðar lofts, láðs og lagar? Hvar er allt fólkið?
Nú skulum við hugsa okkur, að göngumaðurinn leggi leið sína dálítið lengra frá bænum, upp á Vatnsendahæð, suður með Hjöllum, upp á Búrfell, Helgafell, upp í Grindaskörð.

Þar er hægt að vera á ferð heila sunnudaga, í dásamlegasta veðri, án þess að sjá nokkura tvífætta skepnu á sveimi.

Heiðmörk

Heiðmörk.

Eg hef einstöku sinnum tekið með mér kunningja mína, sem bornir og barnfæddir eru í Reykjavík, um þessar slóðir… – alveg gagntekinn af því að horfa yfir þetta land, eyðilegt að vísu, en með svo undarlega heiðan og sterkan svip í einfaldleika sínum. Það var ekkert annað en mjúkar, boðamyndaðara línur langra ása, einstöku lítil vötn, fáein fell, sem tóðu upp úr, og fjallasveigurinn frá Vífilsfelli til Keilis eins og skjólgarður um þessa friðarsýn. Mér fannst þá í svip, að þeta væri fegursta útsýni, sem eg ef séð. Það hafði áhrif á mig með einhvers konar persónulegum mætti, tilhaldslaust, alvarlegt, sefandi og styrkjandi í senn. Eg hafði ekkert af því skoðað, nema það sem séð varð frá þjóðveginum.

Heiðmörk

Heiðmörk – haust.

Nokkrum árum síðar, þegar eg kom heim til langdvalar í Reykjavík, byrjaði eg að kynnast því. Það voru ekki ferðalög, sem í frásögur eru færandi; sunnudagsgöngur með nestispoka á baki upp að Gvendarbrunnum, suður í Kaldársel, smám saman til nýrra og nýrra staða, sem náð varð til með því að ganga alla leið, fram og aftur, á einum degi. Þær kostuðu ekkert annað en skóslitið, og þær heimtuðu ekki önnur afrek en að taka hvorn fótinn fram fyrir annan. Eg er enginn göngugarpur, liðónýtur að klífa fjöll, hef aldrei lagt í að ganga upp á Esju, kann ekkert til þess að fara í öræfaferðir né útilegur. Mér dettur ekki í hug að efast um, að þeir menn, sem hafa dug og tækifæri til þess að ferðast um hálendi Íslands og liggja þar við, finni þar enn meiri hressingu, eflingu og æfintýri.
Þjóðhátíðarlundurinn frá 1974 illa farinn - afkomendur virðast bera takmarkaða virðingu fyrir frumkvöðlastarfinuVið skulum ganga fyrir vesturenda Elliðavatns, fram hjá beitarhúsunum og suðaustur yfir ásana. Allt í einu komum við niður í langan og mjóan dal, sem liggur til suðurs. Vestan megin er klettabelti með dálitlu skógarkjarri. Það eru Hjallarnir. Dalbotninn er víðast eggléttar grundir, aflíðandi móaflesjur að austan. Þarna er fjallaloft og fjallró, svo að ótrúlegt má þykja, að við séum ekki nema rúma 10 kílómetra frá borginni. Við göngum með Hjöllunum, beina leið að Gjáarrétt. Þar er einkennilegt um að litast, stór hellir, djúpar hraunsprungur, ein þeirra með vatnsbóli í botni og þrep gerð niður að því.

Gjáarrétt

Gjáarrétt í Búrfellsgjá.

Við höldum upp eftir Gjánni, sem hefur myndazt við að hraunstraumur hefur runnið þar fram, jaðrarnir storknað, en bráðin hraunleðjan í miðjunni skilið eftir auðan farveg. Gjáin er undrasmíð, með íhvolfum skjöldum beggja vegna, sem væru þing að að hafa bak við ræðupall í samkomuhúsi. Þegar hærra dregur, þrengist hún  og grynnist. Hraunsteinarnir verða rauðir, víða með víravirki af steinþráðum, eins og þeir væru nýstorkanðir. Og allt í einu sjáum við niður í stóran eldgíg, sem tæmt hefur allt hraunið úr sér niður Gjána. Hann heitir Búrfell.”
Þá fjallar Sigurður um næsta nágrenni, s.s. Kaldársel, Vatnsenda, Gvendarbrunna, Vífilsstaðahlíð, Húsfell, Helgafell og svæðið ofan Hafnarfjarðar.
Upplýsingar um Þjóðhátíðarlundinn - 1974“Ástæðan til þess, að eg hef gert þessar stöðvar að umtalsefni, er fyrirætlun Skógræktarfjelagsins að fá þær girtar og friðaðar. Það er tvennt, sem fyrir forystumönnum félagsins vakir; að klæða þetta landssvæði smám saman fjölbreyttum skógargróðri, ferga það og prýða, að laða fólkið af mölinni til þess að leita þar athvarfs og hressingar. Maggi Magnús yfirlæknir skrifaði hugvekju í Morgunblaðið, er hann nefndi Sumarland Reykvíkinga. Og Hákon Bjarnason skógræktarstjóri mun síðar í kvöld gera nánari grein fyrir málinu. Þetta er fyrirætlun sem á skilið óskiptan stuðning Reykvíkinga, bæði bæjarfélags og einstaklinga, og æskilegast væri, að nágrannabæirnir tveir, [Kópavogur] og Hafnarfjörður, tækju höndum saman að framkvæma hana af stórhug og myndarskap.

Heiðmörk

Heiðmörk.

Þessum þjóðgarði þarf að velja nafn, sem honum í senn sæmir vel og minnir á takmark hans og tilgang. Eg vil stinga upp á því, að hann verði kallaður Heiðmörk. Heiðmörk er fornt heiti á einu fylkinu á Upplöndum í Noregi. Mörk er skógur. Allir finna, hversu vel það fer í nöfnum eins og Þórsmörk og Þelamörk. Í því er fólginn draumur voru um að klæða landið aftur íturvöxnum trjágróðri. Heiður er bjartur, og Heimörk; hið bjarta skóglendi. – er heiti, sem vel mun fara þessu friðsæla landi með tæru lofti og litum.
Heiðmörk á að verða okkar sólskinsblettur í heiði í réttri merkinu; þar eigum við að njóta heiðríku lands og lofts betur en unnt er að gera á götum bæjanna, heiðríkju hugans, heiðríkju einverunnar.”

(Sjá Heiðmörk – kort).

Heimildir m.a.:
-Sigurður Nordal, safnritið List og lífsskoðun, 3. bindi, bls. 317-323.
-Lesbók MBL. 11. maí 1941, bls. 161-163.
-Skilti við Helluvatn í Heiðmörk – Saga Heiðmerkur.

Heiðmörk

Fjárborg í Heiðmörk.

Álfsnes

Bærinn Víðines er á Kjalarnesi, á sunnanverðu Álfsnesi. Vestan hans er Gunnunes, vestast á Álfsnesi. Fátt er um örnefnalýsingar fyrir jörðina Víðines, en þó er ein þeirra ítarlegust. Þar segir:

Álfsnes

Álfsnes – herforingjaráðskort 1903.

„Jörð í Kjalarneshreppi næst vestan við Fitjakot. Upplýsingar um örnefni gaf Þorlákur Kristjánsson frá Álfsnesi.
Móti Fitjakoti er lækur sá, sem Selalækur heitir. Hann rennur í Leiruvog. Norðan bæjar er holt það, sem heitir Glóruholt. Austast á því er Markaþúfa, en úr henni austur er línan í Markastein. Uppi á há-Glóruholti einnig á merkjum er Fálkavarða. Merki móti Sundakoti eru úr Klofasteini, sem er utanhallt við sker.

Álfsnes

Álfsnes – örnefnakort.

Selalækur er í jarðfalli í mýrinni. Þar utar eru holt,sem nefnd eru Stóru-Smáholt. Þau eru þar utar fyrir ofan Voga, en Vogar er býli, sem Gísli Pálsson reisti niður við Leiruvoginn aðeins vestar Selalækjar, Litlu-Smáholt eru þar utar og ofar. Þetta er stórt samfellt mýrlendi og fátt um nafntilefni. Þar er næst Svartibakki, sem er bakki alveg niður við Leiruvog, mitt á milli holtanna, sem fyrr var getið.

Álfsnes

Vogar.

Vestur af Svartabakka er svæði, holt, sem nefnt er Svörður. Ekki mun það vera gamalt nafn, heldur síðan hlutafélag var stofnað í Reykjavík til mótekju. Þar utar er eyri fram við sjó, sem heitir Slétteyri, og er þá komið rétt heim undir bæ. Bærinn stendur rétt upp frá vognum sunnan í Glóruholtinu.
Vestan við bæ er vík, sem heitir Nesvík. Þar utar tekur við nes, sem heitir Gunnunes, bungumyndað, gróðurlítið og afmarkast af Nesvík. Norðan þess er lægð þvert yfir. Í henni eru rústir eftir Sundakot, öðru nafni Niðurkot; þar var býli fram undir aldamót.

Álfsnes

Álfsnes – stekkur.

Rétt vestur af oddanum á Gunnunesi og norðan í nesinu er Stekkur. Hann er hlaðinn, og túnblettur er þar í kring. Merkin móti Álfsnesi eru að vestan í svonefndar Fornugrafir. Milli Gunnuness og Þerneyjar er Þerneyjarsund.“

Þórður Kristjánsson, Drápuhlíð 15, kom í Örnefnastofnun 3. júní 1980, las örnefnalýsingu Víðiness og gerði við hana athugasemdir. Þórður er fæddur í Álfsnesi 1. nóv. 1917 og ólst þar upp til 1925, en þá fluttist faðir hans að Víðinesi og bjó þar til 1932.

Fitjakot

Fitjakot – túnakort 1916.

„Leiruvogur var nefndur svo í máli gamals fólks, en sjálfur kallar Þórður hann Leirvog. Klofastein hafði Þórður aldrei heyrt nefndan, ekki heldur Stóru- og Litlu-Smáholt. En Þorlákur bróðir Þórðar var miklu eldri en hann og hefur því vel getað þekkt þessi nöfn.
Nafnið Svörður er frá stríðsárunum fyrri. Þá var þurrkaður þarna mór og síðan fluttur á bátum til Reykjavíkur. Nesvík heyrði Þórður aldrei nefnda.
Sundakot eða Niðurkot er nú friðlýst.

Víðines

Víðines – túnakort 1916.

Stekkur var notaður til innrekstrar, þegar Þórður var barn. Upp af Svartabakka mun áður hafa heitið Lágamýri. Nafnið hefur Þórður eftir Vigfúsi Kristjánssyni (úr bókinni Í lífsins ólgusjó), en Vigfús hafði eftir foreldrum sínum, sem bjuggu í Víðinesi um 1870.
Rétt fyrir sunnan Nesvíkina er Selvík. Þar sátu selir oft uppi á klettunum, þegar gott var veður.“

Hið merkilega er að hér er nefndur bærinn Vogar undir Stóru-Smáholtum. Tóftir bæjarins (kotsins) sjást enn sem og hringlaga mannvirki ofan við vörina. Auk þess ákveður skrásetjari að kynna Víðines sem „jörð í Kjalarneshreppi næstan vestan Fitjakots“. Fitjakot var hins vegar austast við norðanverðan Leiruvog. Engin örnefnalýsing er hins vegar til um kotið þrátt fyrir að túnakort hafi verið gert þar 1912.

Heimild:
-Önefnalýsing fyrir Víðines. Ókunn. skrán.
-Örnefnastofnun. Athugas. Þórðar Kristjánssonar um Víðines.

Víðines

Víðines – túnakort 1916 sett inn á loftmynd.

Álfsnes

Bærinn Álfsnes er á Álfsnesi á Kjalarnesi. Í örnefnaskrám er m.a getið um gamlan bæjarhól, svonefndan Hulduhól (Hólinn) neðan við bæjarhúsin og laug (vatnsstæði) ofan þeirra.

Álfsnes

Álfsnes – Hulduhóll.

„Hulduhóll var 20 – 30 m frá bænum í suðaustur. Hann var stór um sig, stórþýfður og ávalur á alla kanta. Í honum var talið huldufólk, og sá B.[irgir] K.[ristjánsson] eitt sinn huldukonu þar í grennd.“ (Ö.Ál.3). „Hulduhóll var kallaður Hóllinn í daglegu tali. Þetta var aflangur hóll, og hallaði aðeins af honum niður á túnið.“ (Ö.Ál.2).
Hulduhóll er stór hóll suðaustur af bænum, gæti verið gamall bæjarhóll. Munnmæli herma að „Í Hólnum í Álfsneslandi var talið að huldufólk byggi“.

Álfsnes

Álfsnes – laug/brunnur/vatnssstæði.

Í „Fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi“ frá árinu 2008 segir um Hulduhól: „Í túni Álfsness í aflíðandi grasi grónni brekku um 20
m SA af íbúðarhúsunum er álfhóll, um 2 m á hæð, mjög vel grasi gróinn“.

Í óútgefinni „Fornleifaskráningu á Álfsnesi og Glóru“ árið 2006 segir: „„Staðhættir og lýsing: Ferhyrnd laug sem er með þrjár hliðar steyptar en eina hlaðna. Norðvesturhliðin er með stórgrýti með steinhleðslum neðst og er 3 m löng.

Álfsnes

Álfsnes – tóft við „laugina“.

Aðrar hliðar laugarinnar eru 2 m langar. Laugin er ca. 1 m að dýpt, hún er full af vatni ásamt svolitlum gróðri. Ástand: Hleðslur standa. Hættumat: Hætta vegna nærliggjandi iðnaðar. Aldur: 1900+ þó að hlaðni hluti laugarinnar gæti verið eldri“.
Skammt norðaustan „laugarinnar“ er ferhyrnd tóft. Á túnakorti frá 1916 er hún í jaðri norðurtúngarðs Álfsness.
Með því að bera tóftina á túnakortinu, auk hliðastæðrar tóftar við vesturtúngarðinn, má augljóslega bera kortið saman við nýlega loftmynd af bæjarstæðinu.

Heimildir:
-Athugasemdir Þórðar S. Kristjánssonar við örnefnaskrá. (Ö.Ál.2).
-Athugasemdir Birgis Kristjánssonar við örnefnaskrá. (Ö.Ál.3).
-Fornleifaskráning á Álfsnesi og Glóru, 2006. Óútgefin skýrsla. Gögn Minjasafns Reykjavíkur.
-Fornleifaskráning vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi í Reykjavík, 2008.

Álfsnes

Álfsnes