Tag Archive for: Reykjavík

Skólavarðan

Í Þjóðólfi 1868 má lesa eftirfarandi um „Skólavörðuna og hinn nýja aðalveg upp úr Reykjavík„:

Skólavarðan

Skólavarðan.

„Ferðamenn, er komu austan og norðan yfir heiðarnar síðan um mánaðamótin, furðaði á því, er þeir misstu af hæðunum suður af Grímmansfelli, (niðr af Seljadalnum) og af hæðunum ofaneptir Fóelluvötnunum, að allir sáu þeir hvítan dýl bera við vestrloptið hér fremst suðr á nesjunum, og engi sem ekki er áttaviltr, en veit góða grein á því að Álptanes er sunnar, en Seltjarnarnes norðar, og þekkir nokkuð afstöðu og kennileiti beggja nesjanna, gat verið í neinum vafa um það, að þessi hinn hvíti og bjarti dýll væri framarlega á Seltjarnarnesi. »En hvað er það, hvenær og hvernig er þetta komið þarna er ber svona skært við vestr-sjóndeildarhringinn á sama stað«?

Skólavarðan

Skólavarðan 1868.

Ekki er mann lengi að bera hvort heldr eptir alfaravegunum ofan Mosfellssveitina eða ofan úr Vötnunum, þó að fátt þyki gott eða greitt af þeim veginum að segja nú sem stendr, niðr á móts við Árbæ, og sér maðr þá, að þetta, er sýnist í fjarska sem að ljós dýll einn lítill beri við sjóndeildarhringinn,— að þetta er hin ný uppbygða skólavarða á Arnarhólsholtinu hér fyrir austan Reykjavíkr-bæinn.
Skólavarðan þó þó», sagði annar af 2 mönnum lausríðandi, á skinnsokkum og með keðjubeizli og króksvipu í hendi er hann stefndi út frá nára sér, er þeir komu ofan eptir hæðunum milli Rauðavatns og Árbæjar 29. þ. mán., — »Skólavarðan, laxi góðr, ekki vel; sú gamla, sem var vel stæðileg, var rifin í grunn niðr fyrir fám árum og það fyrir ekki neitt; var bygð upp aptr fyrir 200 —300 rd. samskot, og hrundi svo sjálf öldúngis órifin; það hrun var ekki af manna höndum gjört og kostaði ekki neitt, eins og þú og hver maðr hefir getað lesið í «Norðanfara, til mikils sóma fyrir hann og fyrir höfuðstað landsins« — svo eg held þú vaðir reyk; hver hefði kannske átt að slá þeim Mósis-sprota á helluna, að þaðan skyldi spretta upp slíkr almúraðr og fágaðr kastali er gnæfir við skýin? eða hvaða Jovis-almætti skyldi hafa megnað því, að þessi altýgjaða Minerva stendr þarna áðr en nokkurn varði og þar sem ekki var annað fyrir en sorgleg grjólhrúga ofaná grjóturð».

Skólavarðan

Skólavarðan.

Vér yfirgefum nú þetta «tveggja manna tal», og hverfum til sjálfrar hinnar nýu skólavörðu þar sem hún nú stendr albúin einsog nýbygðr nýuppmúraðr kastali, einsog fuglinn Fönix risinn úr öskunni. — það er ekki að undra, þóað detti ofanyfir ferðamenn að sjá þetta sannarlega vandaða og snotra steinsmíði svona allt í einu albúið áðr en nokkurn varði, og hafi ekki getað átt þess neina von, því Reykvíkínga sjálfa rekr þar í ramma stanz. Vér staðarbúar höfum að vísu séð menn standa þar að vinnu öðru hverju í sumar, séð þángað ekið kalki, séð verið að leggja þar stein og stein í veggina, en þetta virtist svo áhugalítið og sem í hjáverkum gjört, einkum fram eptir slættinum, að menn sögðu hér alment að þetta væri fremr gjört til dundrs sér, og til þess það skyldi sýnast sem hér stæði til að byggja eitthvað upp aptr svona til málamyndar, heldren hitt, að mönnum væri eðr gæti verið nokkur alvara með, að koma skólavörðunni upp að nýu; — því hvaðan ætti nú að taka fé til þess? — sögðu menn; ~ 2-300 rd. samskotin fyrri hefði gengið öll til að byggja upp hrundu vörðuna og hefði enda eigi hrokkið til; engin nefndi ný samskot, enda mundi það hafa lítið upp á sig, þegar svona hefði tekizt slysalega til fyrir hin; og hvaða Crösus mundi svo vekjast upp er vildi og gæti lagt í sölurnar jafnmikið fé og þyrfti til vandaðrar kalkmúraðrar vörðu? Þess vegna hugðu allir, að hér yrði ekkert úr; engi vissi heldr til að neinn væri forgaungumaðr verksins fremr einn en annar. Svona gekk fram yfir Ágúst-lok; að vísu smáhækkuðu múrveggirnir og fór að draga undir dyrahvelfinguna, og þá fóru menn þó smám saman, einkum eptir það verkamönnum var fjölgað þegar kom fram í f. mán. og farið var að leggjast fast á verkið, að gánga úr skugga um það, að hér hlyti að vera einhver hulin hönd og eigi févana, er bæði stjórnaði verkinu og hratt því svo áfram að stórum fór nú að muna með hverjum degi, og jafnan voru borguð tregðuð fyrirstöðulaust hin umsömdu verkalaun.

Skólavarðan


Fólk á gangi á Skólavörðuholti ca.árið 1926. Fyrir miðri mynd má sjá húsið að Njarðargötu 61.

Skólavarðan er nú albúin um þessa daga. Hún er ferstrend að utan og jafnbol, hátt á 9. alin utanmáls hver hlið, og stendr á stöpli; hún er hol eðr húsbygð innan, og eru portdyr á að vestan, bogadregnar eðr með hvelfingu að ofan, með traustri og vandaðri hurð fyrir; tvennir eru vænir gluggar á, annar á norðr hlið hinn á austr hlið. Innan er hver hlið að eins nökkuð á 5. alin, því veggirnir eru fullra fimm feta þykkir neðst og smá þynnast þegar ofar dregr, en þó hvergi þynnri en um 4 fet. Traust lopt er við efstu veggjabrúnir uppi yfir innra rúminu ; upp þángað liggja að innan þægir hliðarstigar, uppí uppgángsop á miðju lopti og er hetta yfir er upp undan má gánga og upp á loptið eðr »sjónarpallinn«, — því þaðan er næsta víðsýnt yfir allt, — og er hún til varnar því að niðr í húsið rigni eðr framan í þá er upp á pallinn gánga, en um hverfis hann allan efst á veggjunum og utan á ytri brún þeirra eru traust tréverks-handrið, til varnar því, að menn geti hrotið ofan fyrir. Varðan er 15 álnir á hæð frá stöpli, að meðtöldum handriðunum; til hennar kvað nú vera búið að kosta hátt á lOOO rd.

Skólavarðan

Skólavarðan.

Það er nú eigi orðið neitt launúngarmál, að bæjarfógeti vor herra A. Thorsteinson kanselíráð hefir einn gengizt fyrir byggingu þessari og lagt fyrir um alla tilhögun og fyrirkomulag, og lagt út allt fé til efnis og verkalauna; en hvort það er af hans ramleik sjálfs að nokkru eðr öllu, það er enn öllum hulið, en mun von bráðar opinbert verða.

Skólavörðurstígur

Skólavörðustígur.

Hinn nýi alfara vegr upp úr bænum eðr réttara sagt ofan í bæinn, af Öskjuhlíðarveginum ofan að bakarastígnum, er bæjarstjórnin hefir gjöra látið á þessu sumri, og búið er að vísu að fullgjöra svo, að hann er miklu færari og betri en hinn gamli vegrinn ofan hjá Vegamótum, er í öllu tilliti verðr þess að á hann sé minst, eigi sízt í sambandi með skólavörðunni, þar sem hvorttveggja er bæði nýsmíði og má segja fremr stórvirki eptir fámenni og fátækdóm þessa staðar, og af því að þessi hinn nýi vegr er nú lagðr upp holtið skamt eitt fyrir norðan troðningabrúna (hérna megin Öskjuhlíðar) í útnorðr til skólavörðunnar, og fast fram hjá sjálfri henni og þaðan ofan eptir öllu holtinu að bakarastígnum, rétt fyrir norðaustan vindmylnuna. Að þessu leyti má nú segja, að hvort vegsami annað: þessi hinn nýi, mikilfengi og breiði upphækkaði vegr skólavörðuna, og hún aptr veginn.

Skólavarðan

Skólavarðan 1902.

Engir ferðamenn, er fara þenna nýja veg, og það gjöra allir síðan hann varð vel fær með hesta, telja né geta talið nein tvímæli á því, að þetta sé nauðsynja-vegabót, eigi sízt í samanburði við gamla veginn, eins og hann var orðinn í rigninga sumrum. Nýi vegrinn er allr upphækkaðr með steinlögðum brúnum, vönduðum að verki og völdu grjóti, en vantar enn yfir-ofaníburðinn yfir allt frá skólavörðunni og ofaneptir; er hann samt þegar orðinn góðr vegr og verðr bezti vegr, þegar fullgyggðr er, til yfiferðar með hesta, en vagnvegr verðr hann aldrei nema erfiðr og óþægr bæði frá bæ og að, sakir brekkunnar bæði vestan og sannanvert í holtinn, eins og líka sýnir sig nú þegar.

Skólavarðan

Skólavarðan 1931-1932, – Skólavörðuholt. Menn við vinnu, verið að rífa Skólavörðuna og reisa stall undir styttu Leifs Eiríkssonar.

Þar sem varla nokkrn af hinum mörgu er þessi vegrinn liggr óneitanlega miklu beinna og betr við til mókeyrslu, heldren hinn gamli gjördii, hefir þókt annað fært en að reiða mó sinn á hestum austan úr mýrinni og af þerriholtunum, uppundir skólavörðuna, en hugsa sjálfsagt til að keyra hann þaðan á vagni ofaneptir öllum hallandanum í bæinn, en reynist brattan að austanverðu lítt fær eða ófær fyrir vagn, þó verður hún það þó margfalt fremr uppeptir héðan að neðan uppá móts við skólavörðuna; og virðist þetta hafa verið fremr vanhugað hjá bæjarstjórninni, við að ákveða þessa nýju vegarstefnu, svo framt menn vildi heldr styðja að því en nýða það úr, að þægir vagnvegir kæmist hér smám saman á sem víðast og þar með brúkun og afnot vagna til ómetanlegs léttis við alla flutninga, en til þess er þó og verðr einkaleiðin sú, að leggja vegina sem hagfeldast og sem kostr er á, með því að kasta af sér brekkunni eða draga úr henni sem mest hvar sem því verðr við komið; hér er gjört þvertímóti með þenna veg, það sjá allir; menn hafa stefnt honum uppá holtið, þar sem það einmitt er hæst og brettan er lengst og erfiðust uppá hæðina.

Skólavörðustígur

Skólavörðustígur.

Undanfarnar bæarstjórnir hafa allajafna verið samdóma þessari um það, að gamli vegrinn væri óbrúkandi, lægi illa og yrði aldrei endrbættr til hlítar, og að nýjan alfaraveg, upphækkaðan, þyrfti að leggja nokkuð við sunnar austr úr holtinu, frá sporði vegabótabrúarinnar (þess vegna einmitt var ný brú lögð þarna, þar sem hún er, með ærnum kostnaði þegar (1843—45) þar yfir norðrtaglið á holtinu, sem alls engi bratti er til, heldr allt sem næst lárétt norðrfyrir Steinkudys; þar suðrmeð hæðinni kemr nokkurra faðma slakki, sem auðgjört er að hlaða af sér með upphækkun vegarins; það er auðsætt, að þarna má leggja hinn hægasta og þægasta vagnveg og þar til svo, að miklu fleiri af bæjarmönnum gæti notað veginn þar heldren þarsem hann er nú lagðr. Og sú mun reyndin á verða, að aldrei mun sá vegrinn þurfa meira að kosta heldr að mun minna en þessi nýi, er þegar mun vera búið að kosta til um 1300 rd. Sú mun reyndin á verða, segjum vér, og það innan 20 ára hér frá, því hagsmunirnir af góðum og greiðum vagnvegum hér og almenn nauðsyn mun opna augu komandi bæjarstjórnar og knýa til, að kosta þar til alfara vagnvegar sem góðr vagnvegr getr orðið og sem flestum til gagns.“

Heimild:
-Þjóðólfur 08.10.1868, Skólavarðan og hinn nýi aðalvegr upp úr Reykjavík, bls. 178-180.

Skólavarðan

Skólavarðan 1926.

Hjólreiðar

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1993 fjallar Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, um „Hjólmannafélag Reykjavíkur„.

Reiðhjól„Um 1890 voru að sögn Knuds Zimsens borgarstjóra aðeins tvö reiðhjól í Reykjavík. Annað átti Guðbrandur Finnbogason, faktor Fishcersverslunar (Aðalstræti 2), en hitt Guðmundur Sveinbjörnsson, síðar skrifstofustjóri í Stjórnarráðinu. Hafa þau líklega verið einu reiðhjólin á landinu og voru merki um vaknandi borgarmenningu í höfuðstaðnum. Enda var það eins og við manninn mælt. Eftir því sem bærinn stækkaði eignuðust fleiri slík tæki og árið 1897 var stofnað Hjólmannafélag Reykjavíkur.
Ýmsar gerðir reiðhjóla voru prófaðar í heiminum á 19. öld, en það var ekki fyrr en keðjan, kúlulegan og loftdekkið voru fundin upp um 1880 að hjólið varð hagnýtt farartæki. Síðan liðu nokkur ár. Verð á þessum undratækjum fór lækkandi. Þegar kom undir aldamót sló reiðhjólið verulega í gegn í Bretlandi („the bicycle boom“) og víðar um lönd. Hjólið kom til móts við auknar þarfir borgarbúa um hreyfingu og frískt loft. Voru það ekki síður konur en karlar sem tileinkuðu sér reiðhjólið og var það m.a. merki um aukið kvenfrelsi. Fætur kvenna fóru nú að sjást undan dragsíðum pilsunum, er þær sátu á þessum nýju farkostum, og þær djörfustu .fóru meira að segja að klæðast pokabuxum. Það má segja að Reykvíkingar hafi verið furðu fljótir að tileinka sér hjólreiðar og þar komu konur líka við sögu.
Hjólmannafélag
Knud Zimsen segir frá fyrstu reiðhjólunum í bókinni „Við fjörð og vík“ á eftirfarandi hátt: „… var ein dægrastytting sem ég undi mér löngum við, enda fágæt í Reykjavík í þann tíma, en það var að fara á reiðhjóli. Hjól það sem ég hafði til afnota átti Guðbrandur Finnbogason. Hjólgrindin var úr járni, en hjólin úr tré með járngjörðum. Ekkert drif var á því og var aðeins hægt að stíga framhjólið. Það var því ekki auðvelt að fara hratt á því og ókleift mátti heita að hjóla á því upp nokkurn verulegan bratta. Ég gerði heldur ekki víðreist á því, hjólaði aftur og fram um Aðalstræti og renndi mér á því niður Fischersund.“ Þarna voru sem sagt keðjan, kúlulegan og loftdekkið ekki komin til sögu. Þá segir Knud að síðasta ár sitt í Latínuskólanum (1892-1893) hafi bæst við tvö önnur hjól { Reykjavík. Éignaðist Teitur Ingimundarson, úrsmiður í Suðurgötu 13, annað og var það hálfgerður garmur. Hitt fékk Elías Olsen, bókhaldari hjá Fischersverslun. Var framhjólið á því mjög stórt, en það aftara sáralítið. Segir Knud að hjól Olsens hefði tekið hinum mjög fram, enda hefði fólk safnast saman til að horfa á hann aka á því kringum Austurvöll. Þessi hjól voru ávallt nefnd „velociped“.
Reiðhjól
Árið 1894 birtust fyrstu reiðhjólaauglýsingarnar í íslenskum blöðum. H.J. Jörgensen á Hótel Íslandi auglýsir í febrúar þetta ár að hann vilji selja hjólhest sinn sem hann hafði keypt á 150 krónur með 50 króna afslætti. Sumarið 1894 birtist svo auglýsing frá Hans Andersen, skraddara og kaupmanni í Aðalstræti 16, þar sem hann býður reiðhjól til sölu frá Sylvester Hvids Cyklefabrik í Kaupmannahöfn. Er tekið fram í auglýsingunni, sem er á dönsku, að hver og einn geti lært á reiðhjól á þremur tímum og þeir sem vilji panta sér reiðhjól með næstu ferð Laura skuli hið snarasta snúa sér til Andersens.
Sumarið 1896 birti Ísafold þá frétt að franskur sjóliðsforingi, Maxime Delahet, hefði nýlega hjólað á hjólhesti, tvíhjólung, frá Reykjavík og austur að.Þingvöllum og hefði sú ferð gengið mjög greiðlega. Þarna er komin fram á Íslandi hin nýja gerð reiðhjóls sem enn er í grundvallaratriðum sú sama. Þannig var sagt frá för Frakkans: „Hann lagði af stað frá Reykjavík … kl. hálf tvö eftir hádegi og var kominn kl. hálf sjö þangað sem nýja veginn þrýtur, mjög austarlega á heiðinni. Þaðan varð hann að halda áfram fótgangandi, það sem eftir var, og bera reiðskjótann. … Það er leitt segir hann að vegurinn er ekki til gerður alla leið að Þingvöllum; þegar hann er fullgerður er lafhægt að fara á hjólhesti milli Reykjavíkur og Þingvalla á 5 klukkutímum. … HjólreiðarÞess má geta að sú slysni hafði viljað til þessum vaska manni daginn áður að hann villtist í meira lagi: ætlaði þá austur að Þingvöllum, en lenti austur í Ölfusi… En ótrúlega var hann fljótur í þeirri ferð; fór héðan kl. 2 og var kominn aftur kl. 11. Áður í sumar gerði annar frakkneskur liðsforingi tilraun að komast á hjólhesti austur að Þingvöllum, en reiðskjótinn bilaði sunnarlega á heiðinni, kom gat á hjólhringinn, lofthringinn, en ekki hægt að fá gert við það hér.“
Þá bætti Ísafold við: „Hjólreiðar eru, eins og menn vita“; mjög tíðkaðar í öðrum löndum og er alllíklegt að fleiri verði til að reyna sig á Þingvallaskeiðhlaupi þegar þeir frétta þetta ferðalag Delahets og vita að vegurinn þangað er fullgerður. Þeir spara sér íslenskan reiðhest eða reiðHjólreiðar.

ReiðhjólÞeir, sem vilja læra að fara á hjólum, snúi sjer til formanns »Hjólmannafjelags Reykjavíkur« konsúl G-Finnbogason. Hann vísar mönnum á kennslu og veitir áheyrn, þeim sem vilja ganga í hjólmannafjelagið. Cyclar (hjólhestar), nýir og brákaðir, nýkomnir til W. Fischer’s verzlunar.
Auglýsing úr Ísafold vorið 1897; „Hestar sem hleypa mjög fram ferðakostnaðinum og vinna sér ef til vill til frægðar í hóp vaskra hjólreiðamanna víðs vegar um lönd.“
Í desember 1896 tilkynnti Sigfús Eymundsson, ljósmyndari og bóksali, með auglýsingu að hann hefði fengið einkaumboð fyrir eina stærstu reiðhjólaverksmiðju á Englandi. Hann sagði í auglýsingunni að þeir sem vanir væru hjólreiðum gætu þreytulaust riðið danska mílu á 20 til 30 mínútum ef hjólin væru létt og liðug og vegurinn sléttur. Og ennfremur: „Hjólreiðin er ofur-auðlærð. Æfi menn sig eina stund á dág hafa þeir full not af hjólunum eftir vikutíma.“
Mánudaginn 24. maí 1897 komu fimm menn saman á Hótel íslandi samkvæmt fundarboði í ísafold. Stofnuðu þeir Hjólmannafélag Reykjavíkur og samþykktu lög fyrir það.
Í annarri grein laganna stóð að félagið væri stofnað til að auka og efla hjólreiðar með því að gefa mönnum hvort tveggja kost á að nema þessa list og með því að styrkja menn til að eignast reiðhjól með hægu móti. Stjórn félagsins skipuðu Guðbrandur Finnbogason konsúll, formaður, Pálmi Pálsson adjunkt, skrifari, og H. Andersen skraddari, féhirðir. Endurskoðendur voru kjörnir Guðmundur Björnsson héraðslæknir og Sigfús Eymundsson bóksali. Þess skal getið að Guðmundur notaði hjólið sem atvinnutæki, m.a. er hann fór í læknisvitjanir til Hafnarfjarðar.
Reiðhjól

Reiðhjóladeild Fálkans 1948.

Að ári liðnu var aðalfundur félagsins haldinn. Formaður þess skýrði þá frá því að kennari hefði verið útvegaður á síðastliðnu ári og mönnum gefinn kostur á að læra hjólreiðar gegn vægri þóknun. Þá tók hann fram að reiðhjól hefðu verið á boðstólum, bæði við námið og til kaups, ný og gömul. Nokkrir hefðu numið hjólreiðar árið sem leið, að nokkru teyti fyrir tilstuðlan félagsins. ReiðhjólÁkveðið var að félagið héldi áfram sams konar starfsemi næstu ár og talið æskilegt að félagsmenn gætu farið í kappreið á væntanlegri þjóðminningarhátíð næsta sumar. Þá segir í fundargerð félagsins að einn maður hefði beiðst inngöngu í félagið og væri það Gísli Finnsson járnsmiður, sem fyrir tilstilli þess hefði kynnt sér aðgerðir á reiðhjólum meðan hann var erlendis um veturinn.
Guðmundur Björnsson landlæknir sagði um þetta félag að það hefði starfað í nokkur ár en síðan hefði verið samþykkt að leggja það niður og éta upp félagssjóðinn á Hótel Íslandi.
Þegar kom fram um aldamót voru reiðhjól orðin nokkuð algeng í Reykjavík. Ísafold greindi svo frá sumarið 1904: „Þau eru orðin furðualgeng hér í bæ. Það fullyrða sumir að þau skipti hundruðum. Ungir og gamlir, karlar og konur, fara hér á hjólum nú orðið, alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk’þó að tiltölu en þar gerist að svo komnu. Og færri rosknir menn sjálfsagt líka. Mest eru það unglingspiltar. Einnig nokkrir smásveinar. Það eru bæði lærðir menn og leikir, stúdentar og kandidatar, þar með einnig stöku embættismenn og búðarmenn, iðnaðarmenn o.fl. Hálf tylft kvenna er mælt að eigi sér reiðhjól hér í bæ og að dálítið fleiri kunni þær á þau. Það eru allt ungar stúlkur, heldri stúlkur sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér að kvenfólk fari á hjólum.“
Á fyrsta áratugi 20. aldar sjást æ oftar auglýsingar um reiðhjól í íslenskum blöðum og vorið 1905 krafðist blaðið Ingólfur að settar yrðu reglur um hjólreiðar á götum bæjarins. Þá var öngþveitið orðið slíkt af hestvögnum, reiðhjólum og gangandi fólki. Reiðhjólið var orðið fastur liður í bæjarmynd Reykjavíkur.“ – Guðjón Friðriksson, höfundur er sagnfræðingur.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Hjólamannafélag Reykjavíkur, 1. tbl. 09.01.1993, bls. 2.
Hjólreiðar

Bíll

Vegir og vegagerð á Íslandi hafa þróast í gegnum tíðina. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði t.d. um vegi á Íslandi í „Landfræðilýsingu Íslands“ árið 1898:

Hellugata

Forn gata um hraunhellu Reykjanesskaga.

„Vagnvegir eru engir á Íslandi og engir vagnar; vegirnir eru mjög vondir, og eru þeir til mikils trafala fyrir ferðamenn, og ekki síður hitt, að þar eru engin gistihús eða veitingahús. Af því vegirnir eru svo vondir, er ekkert hægt að fara gangandi, menn ferðast alltaf ríðandi, um fjöll og klungur, dali og mýrar, hestarnir eru svo fótvissir, þó þeir séu faltjárnaðir, að þeir komast yfir verstu ófærur, og aldrei fara Íslendingar af baki hvað vondur sem vegurinn er.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.

Sumstaðar eru brunahraun, sem mjög er hættulegt að fara yfir, þau eru að ofan þakin smágrjóti og sumstaðar eru undir því djúpir katlar, sem hestar og menn geta orðið fastir í; þegar menn ríða um slíka staði, bylur jörðin undir eins og trumba, svo það heyrist langar leiðir. Sumstaðar upp til fjalla eru hyldýpis gjár, sem eru svo djúpar, að ekki sést í botninn, í sumum þeirra er snjór, í sumum vatn, er andir synda á. Sumstaðar er jarðvegurinn hreifanlegur og vaggandi, en þó fagurlega grasi vaxinn, svo það sýnist alveg hættulaust að fara um hann, en þegar hesturinn kemur út á þennan jarðveg, dillar hann allur undir fæti, en ef hesturinn liggur í á slíkum stað, er mjög illt að bjarga honum.

Kjalarnes

Kjalarnes – brú frá u.þ.b. 1927.

Sumstaðar ganga langir firðir inn í landið, sem menn um fjöru riða yfir, eins fljótt og menn geta, svo flóðið ekki nái þeim. Hættulegastar eru þó árnar, og þegar farið er yfir þær, er áríðandi að hafa góðan hest, sem syndir vel; Íslendingar hughreysta ferðamenn, sem smeikir eru, og segja þeir þurfi ekkert að óttast, ef þeir haldi sér vel, klárinn muni koma þeim yfir. Brýr eru hvergi á Íslandi, enda er ekki gott að byggja þær, því þó grjót sé nóg, þá er þó alveg kalklaust.“

Í Reykvíkingi 2. apríl árið 1894 er fjallað um hugmyndir manna um vagnveg milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Skólavarðan

Skólavarðan á Skólavörðuholti.

„Nú eru menn farnir að hugsa um það, hvar bezt mundi að leggja veg hjeðan úr bænum og suður í Hafnarfjörð, og munu margir hafa vagnveg í huganum.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforngjakorti 1919.

Menn hafa eigi orðið á eitt sáttir um það, hvernig ætti að leggja hann; sumir hafa viljað leggja hann suður Skildinganesmela, og þaðan fram hjá Nauthól, sunnanvert við Öskjuhlíðina; aptur hefur öðrum komið til hugar að leggja hann úr Laugaveginum fyrir vestan Rauðará, suður og upp Rauðarárholt, suður yfir Norðurmýrina, beina stefnu austanvert við hlíðina á Fossvogsveginn; nú síðast mun Sigurður Þórðarson hafa stungið upp á því, að byrja þenna veg út af Laugaveginum, kippkorn fyrir vestan erfðafestuland Guðlaugs sýslumanns, suður með Skólavörðuholtinu að austan, suður á móts við Steinkudys, þaðan beina stefnu suður og upp Norðurmýrina, eptir Sigurlaugarstíg, eða í námunda við hann, skáhallt yflr Mjóumýri, austanvert við hlíðina og að Fossvogsveginum. — Flestir munu vera á því, að þegar í Fossvog kæmi, þyrfti stefna hins nýja vegar að verða á brúna á Fossvogslæk. Í tillögum sínum hafa menn sagt, að þyrfti að líta á ýmislegt, bæði stuttleika vegarins, hægðina að gjöra hann og kostnaðinn, sem hann hefði í för með sjer, og svo einnig gagnið, sem yrði af veginum fyrir alda og óborna.
Steinkudys
Þegar er að ræða um vagnveg suður í Hafnarfjörð, þá getum vjer alls ekki skilið, að hans sje svo brýn þörf, því að vjer getum eigi sjeð, hvaða umferð er eða muni verða í bráð milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, svo að þyrfti að kosta upp á vagnveg.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1928 – Ásgrímur Jónsson.

Vjer getum hugsað oss, að það gæti komið fyrir, að menn úr Reykjavík þyrftu og vildu sækja síld suður í Hafnarfjörð, en að kosta upp á vagnveg í því skyni, sjáum vjer eigi að sje svo brýn þörf á; vjer getum einnig hugsað oss, að mönnum kynni að þykja gott að geta keyrt sjer til skemmtunar á vögnum milli umræddra staða, t. d. með tveimur gæðingum fyrir; en ættu nú tveir vagnar, með tveimur hestum fyrir hvor, að geta mætzt, án þess að viðstaða þyrfti að verða, þá þyrfti vagnvegurinn að vera breiður, breiðari en vegir gjörast almennt, og þó mönnum þætti nú girnilegt að fá slíkan veg, og vildu því sneiða hjá gamla Öskjuhlíðarveginum, þá eru svipaðir þröskuldar eins og Öskjuhlíðin eptir af veginum, t.d. upp úr Fossvogi og á Kópavogshálsi, þar sem ekki mundi síður þurfa sneiðinga við en á Öskjuhlíð. En svo er nú Hafnarfjarðarhraun; skyldi veita auðvelt að koma þar upp vagnvegi nægilega breiðum, eða skyldi vegurinn á hrauninu sjálfu vera svo breiður, að tveir stórir vagnar, með tveim hestum fyrir hvor, ættu þar gott með að mætast, án allrar tafar?
En eins og vjer áður höfum sagt, getum vjer eigi sjeð, að sem stendur þurfi að hugsa um vagnveg suður í Hafnarfjörð; en setjum nú svo, að Reykvíkingar vildu hafa hann í huga, og eigi láta sitt eptir liggja, í tilliti til undirbúnings undir hann, en hugsuðu þó eigi að fara lengra að sinni en svo, að það jafnframt og þegar í stað gæti orðið til mikils hagnaðar fyrir bæjarbúa, þá er nú vandinn að skera úr því, hvernig og hvar ætti að leggja þennan veg, svo gagnið af honum, auk annars, sem á þyrfti að líta, gæti orðið sem almennast, eða sem flestir gætu haft gagn af honum.“

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Í Ísafold 26. apríl árið 1899 er skrifað um þegar áunna uppbyggingu vagnvegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

„Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð [um Háklif], því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.“

Fyrsti bíllinn

Fyrsti bíllinn á Íslandi, sem kenndur er við Ditlev Thomsen, kaupmann og konsúl, var fransk-þýskur af svonefndri Cudell-gerð. Alþingi samþykkti árið 1903 að veita 2.000 kr. styrk til að flytja inn bifreið og taldi ráðlegast að einkaaðili stæði fyrir því. Thomsen kaupmaður varð fyrir valinu og sá hann um rekstur bifreiðarinnar. Thomsensbíllinn var smíðaður árið 1900 eða 1901 og var eiginlega orðinn úreltur þegar hann kom til landsins, í raun aðeins hestakerra með vél aftur í.

Árið 1918 var víða hægt að komast leiðar sinnar akandi á Íslandi, annaðhvort í hestvögnum eða bifreiðum. Bílaöld hófst hér árið 1913 í Hafnarfirði og Reykjavík en hestvagnar til farþegaflutninga voru eldri í hettunni.

Grindavíkurvegur

Gamli Grindavíkurvagnvegurinn.

Vegagerð á Íslandi var í bernsku á þessum árum og vegir víðast hvar vondir. Það tók lungann úr tuttugustu öldinni að teygja þá um landið og gera þá sæmilega greiðfæra. Árið 1918 var þó víða langt komið að leggja akfæra vagnvegi frá helstu verslunarstöðum eins og kveðið var á um í vegalögum frá 1894 eða „flutningabrautir“, eins og þeir voru kallaðir. Í upphafi var gert ráð fyrir að þessir vegir yrðu alls 375 km á lengd og „vel“ færir hlöðnum hestvögnum og kerrum. Við lagabreytingar varð lengdin 397 km. Áætlað var að lokið yrði að leggja þessa vegi 1923. Vegbreiddin var að jafnaði 3,75 m sem dugði til að hestvagnar gætu mæst. Bifreiðir þurftu fimm til sex metra breiða akbraut til að geta mæst.
Árið 1918 voru einnig komnar brýr á margar ár sem höfðu verið farartálmar um aldir. Sunnanlands var til dæmis búið að brúa Sogið, Ölfusá og Þjórsá, Ytri-Rangá og Eystri-Rangá, vestanlands Hvítá, Örnólfsdalsá, Gljúfurá og Norðurá, á Norðurlandi Miðfjarðará, Blöndu við Blönduós, Héraðsvötn eystri, Hörgá í Hörgárdal og Skjálfandafljót og á Austurlandi Eyvindará og Lagarfljót. Markarfljót og jökulár í Skaftafellssýslum voru enn óbrúaðar og sama átti við um Eyjafjarðará.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þjóðvegir voru nýr flokkur vega sem kveðið var á um í vegalögunum 1894 en samkvæmt nýjum vegalögum, sem staðfest voru 1907, skyldu þjóðvegir, sem tengdust kauptúnum eða flutningabrautum, einnig vera akfærir ef þess þótti þurfa. Þeir áttu að vera að jafnaði 3,15 m á breidd og voru orðnir 130 km 1915. Sýsluvegir voru þeir vegir sem lágu milli sýslna og um hverja sýslu þar sem var „mest þjóðbraut“, til dæmis í kauptún og fiskiver. Um þá gilti hið sama og um þjóðvegi. Þar sem þeir lágu út frá flutningabrautum eða akfærum þjóðvegum eða voru framhald þeirra skyldu þeir vera akfærir ef unnt var að koma því við.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Vegurinn til Keflavíkur, sem tók tíu ár að leggja, var til dæmis sýsluvegur, 38 km langur og akfær árið 1918. Hreppsvegir voru þeir vegir milli hreppa og um þá sem voru hvorki flutningabrautir, þjóðvegir né sýsluvegir. Fjallvegir voru þeir vegir yfir fjöll og heiðar sem ekki töldust til neins annars vegaflokks. Þá átti einungis að varða og gera reiðfæra.
Flutningabrautin frá Reykjavík, Suðurlandsbraut, var lengst, teygði sig frá Laugavegi yfir Elliðaár allar götur austur í Rangárvallasýslu árið 1918 eða þangað sem nú er Hvolsvöllur. Við Geitháls hafði verið lögð út frá henni ný flutningabraut til Þingvalla eftir holtum og melum austan við Seljadal þar sem Þingvallavegur lá áður. Frá Eyrarbakka var flutningabraut lögð upp Flóann að Ölfusárbrú og önnur frá Ingólfsfjalli um Grímsnes að Geysi. Borgarfjarðarbraut lá frá Borgarnesi um Stafholtstungur og tengdist þjóðveginum norðan við brúna á Hvíta við Kljáfoss, Húnavatnssýslubraut frá Blönduósi vestur fyrir Víðidalsá, Skagafjarðarbraut frá Sauðárkróki fram Skagafjörð að þjóðveginum fyrir neðan Víðimýri, Eyjafjarðarbraut frá Akureyri að Saurbæ í Eyjafirði, Þingeyjasýslubraut frá Húsavík að Einarsstöðum í Reykjadal og Fagradalsbraut frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal að Lagarfljóti hjá Egilsstöðum. Árið 1914 bættist vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur við flokk flutningabrauta.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

Þegar bílaöld hófst 1913 var lokið við að leggja 287 km af flutningabrautunum. Í árslok 1916 höfðu samkvæmt verslunarskýrslum verið fluttir til landsins 30 bílar. Engin bifreið var flutt inn árið eftir enda lögðu Þjóðverjar hafnbann á Bretland í byrjun þess árs og hófu jafnframt stórfelldan kafbátahernað á höfum úti til að fylgja banninu eftir. Hér varð því brátt skortur á ýmsum nauðsynjum, meðal annars eldsneyti. Árið 1918 voru hins vegar fluttar til landsins 27 bílar. Þeir voru allflestar suðvestanlands, í Reykjavík, Hafnarfirði og Árnessýslu. Akureyringar eignuðust fyrstu bifreið sína árið 1914 og Húsvíkingar sína ári síðar. Enn fremur höfðu Austfirðingar hafið tilraunir með rekstur bifreiðar.
Í höfuðstaðnum var ástand gatna bágborið í byrjun tuttugustu aldar. Árið 1912 var gerð sú bragarbót á gatnakerfinu að Austurstræti var „makademiserað“, með öðrum orðum malbikað enda hafði bærinn þá eignast gufuvaltara. Sumarið 1908 hafði portið við barnaskólann við Fríkirkjuveg, Miðbæjarskólann eins og hann hét síðar, verið „tjörusteypt“. Sú aðferð var einnig notuð við gatnagerð í Reykjavík.

Reykjavík

Mynd frá haustinu 1917 sem sýnir verkamenn tjörusteypa Pósthússtræti. Gufuvaltarinn „Bríet Knútsdóttir“ var notuð til að þjappa jarðefninu saman. Valtarinn dró nafn sitt af tveimur kröftugum bæjarbúum, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Knut Zimsen.

Árið 1918 var lokið við að makademisera eða tjörusteypa þessar götur í höfuðstaðnum: Suðurgötu alla leið að sálarhliðinu á kirkjugarðshorninu sunnanverðu, Kirkjustræti frá Aðalstræti að Pósthússtræti og Pósthússtræti frá Kirkjustræti að Austurstræti, Lækjartorg að Stjórnarráðsblettinum, Lækjargötu frá Bankastræti að barnaskólanum við Fríkirkjuveg, Bankastræti og Laugaveg frá Skólavörðustíg að Frakkastíg. Sama átti við um gangstéttir á þessum stöðum. Sums staðar voru þær þó hellulagðar.

Björn Eiríksson

Bifreið með númerinu HF-1 og karlmaður í jakkafötum með kaskeiti.
„Maðurinn á myndinni er Björn Eiríksson, Björn á Sjónarhóli í Hafnarfirði. Kannski er þetta fyrsti bíllinn hans“. (Thorarinn Gudnason)

En bílferð var ekki ókeypis og því var haldið fram að það hafi einungis verið á færi hinna efnameiri að nota þá. Allur almenningur hefði naumast fé handa á milli til að eyða í skemmtanir eins og að ferðast í bifreiðum, allra síst fátæklingar. En þær stundir koma að nauðsyn brýtur lög. Margir áttu erindi til Vífilsstaða þar sem þeir lágu sem hvíti dauðinn, berklaveikin, hafði tekið heljartökum. Í laugardagsblöðum sumarið 1918 voru jafnan auglýstar ferðir þriggja bifreiða til Vífilsstaða á sunnudögum og kostaði sætið tvo þriðju af daglaunum verkamanns, eða 5 krónur báðar leiðir með klukkustundar ókeypis viðstöðu, 3 krónur aðra leiðina sem fyrir marga var kannski fyrsta og einasta bílferðin.
Prestar, læknar og sýslumenn nýttu bíla í embættiserindum og einnig til ferðalaga eins og þeir sem betur máttu sín. Sambandslaganefndin, sem kom saman hér á landi í lok júní 1918, gerði til dæmis hlé á störfum sínum sunnudaginn 7. júlí og brunaði sér til upplyftingar í mörgum bifreiðum sem leið lá eftir Suðurlandsbrautinni upp að Geithálsi og þaðan eftir flutningabrautinni til Þingvalla. Með í för voru meðal annars ráðherrarnir íslensku. Um viku síðar var farin önnur bílferð enda hafði nefndin þá lokið störfum og frumvarp til sambandslaga tilbúið á pappírnum. En nú var farið austur yfir Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli þar sem hægt var að kaupa veitingar, snætt í Sigtúnum við Ölfusárbrú og síðan haldið austur að Sogi og á hestum upp með því og Sogsfossarnir skoðaðir. Þangað var ekki bílfær vegur þegar hér var komið. Flestir gistu um nóttina á Eyrarbakka, örfáir í Grímsnesi. Um nónbil á sunnudeginum var haldið af stað til Reykjavíkur og boðið upp á kaffi og pönnukökur á Kolviðarhóli. Um kvöldið var boð hjá forsætisráðherra.

Heimildir:
-Þorvaldur Thoroddsen – Landfræðilýsing Íslands, Hið íslenska bókmenntafélagr 1898, bls. 202-203.
-Reykvíkingur, Hafnarfjarðarvegurinn, 2. apríl 1894, bls. 1.
-Ísafold, Vagnvegur, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.
-Alþingistíðindi 1893 A, 1914 B, 1907 A.
-Dagsbrún 23. september 1918.
-Framsókn 6. ár 1900.
-Guðlaugur Jónsson: Bifreiðir á Íslandi I-II.
-Ísafold 9. ágúst 1890, 3. ágúst 1912.
-Lögrétta 10. júlí, 17. júlí 1918, 123.
-Morgunblaðið 11. júlí 1917, 1. júní, 22. júní, 29. júní, 6. júlí og 13. júlí 1918.
-Óðinn 14. ár 1918.
-Stjórnartíðindi 1907 A-deild.
-Tímarit VFÍ 1917, 1918, 1919.
-Tíminn 20. júlí 1918.
-Verslunarskýrslur 1913–1918.
-Þjóðólfur 19. júlí 1918.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75182

Geitháls

Fjölskylda í bílferð við Geitháls.

Suðurlandsvegur

Hólmsá er í og ofan við Reykjavík. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur og áin rennur í Elliðavatn og heitir þá Bugða. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá á þjóðveginum austur fyrir fjall. Sú brú sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin er mörkuð í hraunhelluna.

Hólmsá rennur fyrir norðan við bæinnn Gunnarshólma undir Hólmsábrú suður um Heiðartagl. Þar fellur kvíslin Ármótakvísl úr Hólmsá í Suðurá en Hólmsá norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá þangað til hún er til móts við Baldurshaga en þá heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða. Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá árið 1926 og lagði veg frá Suðurlandsvegi í Rauðhóla. Fyrrum lá leiðin upp frá Árbæ, með Selási og sunnan Hólms þar sem hún greindist í tvennt skammt austar; annars vegar í Austurleiðir upp frá Elliðakoti að Lyklafelli norðan og sunnan þess og áfram um Hellisskarð og hins vegar um Lækjarbotna upp í Öldur þar sem sú leið greindist annars vegar inn með Svínahraunsbruna að Hellisskarði þar sem hún sameinaðist Austurleiðunum og hins vegar inn á Ólafsskarðsveg. Þessar götur sjást enn greinilega, einkum sporið á hellunni suðaustan Hólms.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin.

Vagnvegur var lagður frá Öldum um Klifheiði og suður fyrir Rauðavatn árið 1887. Þá var brú sett á vað yfir Hólmsá, en hún entist stutt. Vestan og ofan við vaðið er klappað í klöpp ártal (18?7) og nafn (Ágúst), líklega frá þeim tíma er vagnvegurinn var lagður þar árið 1887.

Brúin yfir Hólmsá var byggð samhliða veglagningu 1887. Hún var strax nefnd Rauða brúin vegna litarins. Árið 1888 tók brúna af í miklum vetrarflóðum. Hún var síðan endurnýjuð 1926. Gamla brúin var 18 álnir á lengd og voru 4 álnir upp í hana venjulega. Stöplarnir voru steinhlaðnir og skemmdust þegar brúna tók af í flóðunum. Brúin var brotin niður en hluta af stöplum hennar er að finna um 45 m vestan ár.
Suðurlandsvegur var lagður að grunni til (vagnvegurinn) árið 1886, í landi Geitháls. Grunnur gamla vegarins er enn sjáanlegur, þ.e.a.s. frá bæjarstæði Geitháls að Hólmsá. Vegurinn var upphaflega lagður 10 fet á breidd (3,13 m). Snemma á 20. öld var vegurinn breikkaður og aðlagaður að bílaumferð.

Suðurlandsvegur

Vaðið á Hólmsá. Letrið neðst.

Í Ísafold 1888 er fjallað um „Veginn nýja“, sem Norðmennirnir hafa verið við 2 sumur undanfarin, frá Fóelluvötnum niður í Reykjavík, og kominð var í haust nærri niður undir Hólm, með 18 álna brú yfir Hólmsá, hefir skemmzt stórkostlega í leysingunum vikuna sem leið, og brúna tekið af ánni aðfaranótt hins ll. Skemmdirnar eru mestar á hólmunum upp frá brúarstæðinu, og sömuleiðis mjög miklar upp á Sandskeiði : stórt haf brotið í brúna yfir það og klofinn frá annar jaðarinn vegarins þar á löngu bili. Nánari skýrsla um þetta ljóta áfall, sem líklega nemur 7—8000 kr. skaða, verður að bíða næsta blaðs.

Suðurlandsvegur

Áletrið við Hólmsá; 18?7 – Ágúst.

Þá segir undir fyrirsögninni „Skemmdir af vatnavöxtum“: Skemmdirnar á norska veginum*, milli Svínahrauns og Hólmsár, hafa þó ekki orðið eins miklar og fyrst var látið, þótt ærnar sjeu. Fyrst eru nokkrar skemmdir á Öldunum fyrir ofan Sandskeiðið. Svo er á Sandskeiðinu grafið skarð í veginn við efstu brúna og austurkampurinn undir henni fallinn, en brúin á því miðju öll á burt og vegurinn þar horfinn á 18 föðmum; enn fremur grafið djúpt ker ofan í gegnum hann neðst á skeiðinu, og loks jetin skörð inn í hann hingað og þangað að ofanverðu, til þriðjunga eða helminga inn í hann. Þá eru litlar skemmdir þaðan ofan að Lækjarbotnum. Hjá Lækjarbotnum hefir áin meðal annars numið burta vegiun á 20 faðma bili og brotið vesturkampinn undir brúnni þar.

Suðurlandsvegur

Letrið.

Fyrir neðan brúna er vegurinn gjörsamlega sópaður burtu ofan í klappir á löngu færi; við Hraunsnefið efra 3 faðma skarð í veginn; brotinn annar kampurinn af brúnni þar, en hinn hangir; og að öðru leyti talsverðar skemmdir á veginn um allt niður að aðalbrúarstæðinu á Hólmsá, en brúin yfir hana, 18 álna löng og 4 álna hátt yfir vatnið venjulega, öll á burtu, og kamparnir (rammgjörvir) skemmdir til muna: efsta lagið raskað á vesturstöplinum og hornsteinar í öðru, en 2 steinalögin efstu í þeim eystri mjög skemmd, og nokkuð neðar. Brúin sjálf í tvennu lagi: þriðjungur af henni rjett fyrir neðan brúarstæðið, en hitt langar leiðir niðar betur. Guðm. bóndi Magnússon í Elliðakoti, er þetta er haft mest eptir, samkvæmt skýrslu hans til amtmanns, með hliðsjón á skýrslu annara skoðunarmanna, fullyrðir, að 1871 hafi komið fullt eins mikið flóð í á þessa, og 1885 annað nokkuð minna.
— Í Ölvesá kom líka feiknaflóð í sömu leysingunni; hún flóði yfir mikið af Kaldaðarneshverfi í Flóa, bæði fjenaðarbús og bæi; allt fjeð á einum bænum, Lambastöðum, drukknaði í fjárhúsinu (30 kindur).

Heimildir:
Morgunblaðið, 143. tölublað (29.06.1967), bls. 4.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson. „Elliðavatnsheiði og Hólmar“, 208.
-Ísafold 18. og 23. janúar 1888, 11, 15 og 16.
-Ísafold 24. ágúst 1926.
-Magnús Grímsson. „Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi“, 93.

Reykjavík

Austurvegir – herforingjaráðskort 1903.

Höfði

Höfði á sér merkilega sögu sem tengist samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir.

hofdi-2

Höfði 1919.

Húsið var reist á Félagstúni fyrir franska konsúlinn, Jean Paul Brillouin. Það var hannað í Austur-Noregi og flutt tilsniðið til Íslands. Í byggingunni má sjá áhrif frá júgendstíl, klassísku nýbarrokki og norskri þjóðernisrómantík. Í viðhafnarstofu er nafn Brillouins ritað gullnu letri yfir dyrum ásamt byggingarári hússins, 1909.
Mikill virðuleikablær ríkti yfir Höfða fyrstu áratugina. Eftir Brillouin hafði Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, aðsetur hér ásamt fjölskyldu sinni. Lengstu búsetu átti fjölskylda Matthíasar Einarssonar, læknis. Heimasætan, Louisa Matthíasdóttir, átti eftir að gera garðinn frægan með málaralist sinni.

hofdi-1

Höfði 1923.

Frá árinu 1938 og fram yfir stríð var Höfði aðsetur ræðismanns og síðar sendiherra Bretlands.
Hingað komu meðal annarra í heimsókn á stríðsárunum Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og söng- og leikkonan Marlene Dietrich. Frá miðri 20. öld bjó fjöldi manna í Höfða um lengri eða skemmri tíma og þar var einnig atvinnurekstur.

Höfði

Höfði – upplýsingaskilti.

Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1958 og var það endurbætt og fært til fyrri glæsileika. Frá árinu 1967 hefur Höfði verið vettvangur fyrir gestamóttökur á vegum borgarinnar.
HöfðiFrægur er leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs í Höfða í október 1986, sem talinn er marka upphafið að endalokum kalda stríðsins. Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða endurheimt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og var yfirlýsing þess efnis undirrituð í Höfða í ágúst 1991. Erlendir þjóðhöfðingjar sem sækja Ísland heim koma flestir í Höfða.
„Þetta er nú sennilega það hús í Reykjavík sem er frægast allra húsa,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.

Höfði

Höfði.

 

 

Ártún.

Í „Fornleifaskráningu Margrétar Bjarkar Magnúsdóttur á jörðinni Ártún á Kjalarnesi“ segir m.a.:

Ártún

Ártún – túnakort frá 1916.

„Sem fyrr liggur land Ártúns að jörðinni Bakka að sunnan og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni. Að norðan liggur land Ártúns að jörðinni Dalsmynni, sem varð til árið 1930 þegar jörðinni Saurbæ var skipt, og að Melagerði og Melavöllum.

Blikdalur

Blikdalur.

Að sögn Ásthildar Skjaldardóttur bónda á Bakka voru Melagerði og Melavellir byggðir út úr Ártúni en bræðurnir Bjarni og Gunnar Þorvarðarsynir, sem voru bændur á Bakka frá árinu 1950 til 1997, seldu landspildur fyrir Melagerði árið 1975 og Melavelli árið 1979. Efrimörk jarðarinnar eru við mynni Blikdals sem er stór grösugur dalur í vestanverðri Esju. Dalurinn er nú allur í eigu Reykjavíkurborgar en skiptist áður á milli kirkjujarðanna í Saurbæ og Brautarholts. Blikdalur skiptist eftir ánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en Brautarholt að sunnanverðu. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um.

Saga Ártúns

Ártún

Ártún 1950.

Ártún var talin lítil og kostarýr jörð. Hún var lengst af kirkjujörð frá Saurbæ, afbýli úr þeirri jörð og jafnframt ysti bær í Saurbæjarsókn. Jörðin fór í eyði á fardögum árið 1956 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt. Ártúns er getið í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar, en þá átti Saurbæjarkirkja þrjátíu hundruð í heimalandinu ásamt tveimur kotum „…enn thad eru ij kot. Artun og Hiardarnes. X. Aura Landskylld af huorre.“

Ártún

Ártún 1935.

Árið 1695 er Ártún kirkjujörð í bændaeign með fjögur og hálft kúgildi, 90 álnir í landleigu og skattálagningu 15 hundruð. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1705 þá er Ártún kirkjujörð sem liggur til Saurbæjarkirkju, og þar til proprietarius, eða eiganda sem var hr. lögmaður Sigurður Björnsson og bjó í Saurbæ. Einn ábúandi, Þórarinn Hallsson, er þá í Ártúni og galt hann í landskuld níutíu álnir með landaurum í fríðu eða dauðu, fóðri eða öðru. Áður galst hún í fiski að hluta þegar fiskgengd var góð í Hvalfirði og galst heim til eiganda.

Saurbær

Saurbær.

Leigukúgildi jarðarinnar eru þrjú og hálft og átti kirkjan í Saurbæ þau, en kúgildin höfðu áður verið fimm. Kvikfénaður var fimm kýr, tvær kvígur veturgamlar, tveir kálfar, tólf ær með lömbum, ein geld, tíu sauðir veturgamlir og tveir hestar. Jörðin hafði selstöðu og beit fría í Blikdal um sumar og vetur í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var talin bjargleg en reiðingsrista lítt nýtandi. Móskurð hafði jörðin eftir nauðsyn í Saurbæjarlandi. Hvorki var hvannatekja eða rótargröftur teljandi. Sölvafjöru og fjörugrös nýtti jörðin fyrir Saurbæjarlandi og þang til eldiviðar var talið nægilegt auk þess sem talin var nokkur rekavon fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending, vatnsból erfitt um vetur og búpeningi var flæðihætt. Í Jarðamati J. Johnsens frá 1847 var Ártún enn kirkjujörð og metin til fimmtán hundruða. Árið 1861 er Ártún metið á 15 forn hundruð og 8,7 ný hundruð.

Ártún

Ártún 1967.

Í landamerkjabréfi frá 1890 fyrir Saurbæ, með Hjarðarneskoti og Ártúni, kemur fram að á Bleikdal eigi Ártún óskipta beit en slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk. Árið 1896 búa í Ártúni Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólafsdóttir og búa þar til ársins 1898, en eftir það og til ársins 1913 búa þar Þorkell Ásmundsson og Guðrún Jónsdóttir. Frá 1914 til 1955 búa þar Gunnlaugur Sigurðsson og Guðrún Bjarnadóttir. Árið 1921 er heildarmat á Ártúni 31 hundrað. Árið 1932 er heildarverðmat 38 hundruð, bæjarhús úr torfi og grjóti og miðstöð sögð komin í bæinn. Túnið er 2,2 hektarar og girt í kring og bústofninn er þrjár kýr, fimmtíu kindur og þrjú hross.

Ártún

Ártúnsrétt.

Árið 1942 er fasteignamat Ártúns 42 hundruð, bústofn er þrjár kýr, þrjátíu kindur og fjórir hestar, og jörðin í einkaeign en leigð til ábúðar.
Síðustu ábúendur í Ártúni voru þau Böðvar Eyjólfsson og Anna Margrét Sigurðardóttir sem bjuggu þar í eitt ár, frá 1955 til 1956, en fóstri Önnu, Ólafur Eyjólfsson í Saurbæ, var eigandi Ártúns. Vorið 1956 var Ártún selt Lárusi Lúðvíkssyni í Reykjavík sem fékkst við fiskeldi í ánni.
Sjá má minjar um framkvæmdir hans á bökkum Ártúnsár, austur af Kringlumýri. Nú er mestur hluti jarðarinnar eign bændanna á Bakka. Í Fasteignabók frá 1956-70 er jörðin Ártún sögð auð en heildarmat er 15.500 krónur.

Ártún

Ártún – þrívíddarmynd af tóftum bæjarins.

Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni eru vel greinanlegar á bæjarhólnum þar sem röð bæjarhúsa snýr fram á hlað í suðvestur með tveimur húsum að baki. Framan við bæinn sér enn í kálgarð með greinilegri garðhleðslu austanmegin. Heimatúnið er líka vel greinanlegt í muni á gróðurfari og hafa útlínur lítið breyst frá því sem sjá má á túnakorti frá 1916. Þó hefur Vesturlandsvegurinn verið lagður í gegnum túnið í tvígang og á spildu á milli gamla og nýja vegarins hefur nú verið plantað trjám.

Ártún

Ártún – örnefni.

Töluvert er einnig af stríðsminjum á melunum fyrir norðan bæjarhólinn en á stríðsárunum var setuliðið með aðstöðu víðsvegar á Kjalarnesinu og var með aðstöðu öll stríðsárin í Dalsmynni sem er næsti bær við Ártún. Þar voru byggð braggahverfi sem og í landi Stekkjarkots og í Tíðarskarði.

Kristrún Ósk Kalmansdóttir er fædd 23. mars í Ártúni. Þar ólst hún upp hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur en móðir hennar var uppeldisdóttir þeirra hjóna. Gunnlaugur, Guðrún og Kristrún voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum á bæjarhólnum í Ártúni. Leitað var til Kristrúnar um upplýsingar varðandi Ártún og greindi hún frá ýmsu sem varðaði búskap í Ártúni í hennar tíð og til hvers húsakynni voru síðast notuð.

Ártún

Ártún – örnefni.

Bærinn samanstóð af nokkrum samhliða húsum á bæjarhólnum. Að sögn Kristrúnar var skemma vestast í bæjarröðinni, þá baðstofa, bæjargöng og búr. Austast voru fjós og hænsnahús. Í bæinn var aldrei leitt vatn, rafmagn eða sími en sími var á næsta bæ, Dalsmynni, ef á þurfti að halda.

Ártún

Ártún 1983.

Í skemmunni voru geymd matvæli og reiðtygi. Baðstofan var tveggja stafgólfa og voru tvö rúm hvorumegin, en þriðja stafgólfið í húsinu var inngangur og eldhús. Á þaki baðstofunnar var að sögn Kristrúnar bárujárn sem tyrft var yfir. Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hitaði húsið og eldað var á. Í Fasteignabók frá 1932 kemur fram að miðstöð sé komin í bæinn og er þá trúlega átt við kolaeldavélina. Kristrún sagði að áður en kolaeldavélin kom til hefði verið notað hlóðaeldhús sem var bakatil inn af bæjargöngum, eins og sjá má á túnakorti frá 1916, en lítil ummerki eru eftir hlóðaeldhúsið nema inngangurinn.
Um 1940 var hlóðaeldhúsið fyllt upp og jafnað út til að bæta aðgengi heyvagna að hlöðunni.

Ártún

Ártún – Kristrún Ósk Kalmansdóttir málaði þessa mynd af síðasta bænum í Ártúni.

Kristrún minnist þess ekki að eldaður hafi verið matur í hlóðaeldhúsinu en man að þar var stöku sinnum soðinn þvottur í stórum potti sem einnig var notaður til að þvo í ull niður við á. Næst komu bæjargöng en úr þeim var einnig gengið inní búrið sem var til vinstri handar. Þar var geymdur matur í trétunnum, korn og fleira. Þar var einnig geymdur vatnsforði en allt vatn þurfti að sækja niður í á. Næsta hús var sex bása fjós og austast var svo hænsnahús sem hafði áður verið notað sem lambhús. Á milli fjóssins og hænsnahússins var settur niður kamar í tíð Kristrúnar. Bakatil austan megin á bæjarhólnum var niðurgrafin hlaða og vestan megin að baki skemmunni var hesthús.

Ártún

Ártún – tóftir 2020.

Tóftir þessara húsa eru nú grasigrónar og vel greinanlegar. Efst og norðaustan í heimatúninu er fjárhústóft með hlöðnum grjótgarði eftir miðju og sagði Kristrún að húsið hefði tekið fimmtíu kindur. Á túnakort frá 1916 er teiknað hús við traðirnar nyrst í heimatúninu sem ekki sér til í dag og hefur tóft þess sennilega farið undir núverandi Vesturlandsveg. Að sögn Kristrúnar var það lítið hesthús sem tók fjóra hesta og var það helst notað til að hýsa hesta ferðalanga. Traðirnar austur af bænum sem liggja niður að Ártúnsá sagði Kristrún að hefðu í hennar tíð eingöngu verið notaðar til að sækja vatn í ána. Aðkoma að bænum hefði verið norðvestan megin, hlaðvarpi við skemmuna og traðir sem lágu í norður framhjá litla hesthúsinu. Við traðirnar sagði hún að hefði verið lítill hóll sem kallaður var Traðarhóll og sumir notuðu til að komast á bak. Þessi slóði lagðist af þegar Vesturlandsvegurinn kom og myndaðist þá nýr slóði.

Ártún

Ártún – Úr kvikmyndinni „Síðasti bærinn í dalnum“.

Í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar var Ártún mikið notað sem kvikmyndaver eða eins og segir í grein í Morgunblaðsins frá 1970: „Þetta var einskonar Hollywood Íslands um tíma og má muna fífil sinn fegri.“

Ártún

Ártún – úr kvikmyndinni „Milli fjalls og fjöru“ við bæinn.

Kvikmyndin Milli fjalls og fjöru er fyrsta íslenska kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd og jafnframt fyrsta íslenska talmyndin. Loftur Guðmundsson gerði myndina árið 1949 og frumsýndi það sama ár. Myndin er trúlega elsta myndin sem er kvikmynduð í Ártúni en bærinn í myndinni er Ártún. Bærinn kom einnig við sögu í tökum á kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1950. Þá bjuggu Bakkabræður í Ártúni í kvikmyndinni Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra en það var gamanmynd eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1951. Ártún kom einnig lítillega við sögu í kvikmyndinni Sölku Völku sem Edda-film gerði og frumsýnd var árið 1954.
Kvikmyndin Gilitrutt var frumsýnd árið 1957 en í myndinni eldar tröllskessan Gilitrutt matinn í Ártúni.

Ártún

Ártún 1972.

Skýringu á því hvers vegna Ártún kom svo mikið við sögu við upptöku á kvikmyndum um miðja síðustu öld má kannski finna í því að Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað í Ártúni árið 1945 eða 1946. Loftur var fæddur í Hvammsvík í Kjós árið 1892 og þekkti vel til á Kjalarnesinu. Sumarbústaðinn reisti Loftur rétt fyrir ofan heimatúnið og klettinn Hæring þar sem bústaðurinn stóð til ársins 1955 en Loftur lést árið 1952. Þegar hjónin Anna Margrét Sigurðardóttir og Böðvar Eyjólfsson fengu jörðina til ábúðar árið 1955, fluttu þau bústaðinn niður fyrir bæinn og bjuggu þar í honum í eitt ár. Bústaðin seldu þau seinna í Bergvík á Kjalarnesi.

Flestar stríðsminjarnar á jörðinni eru holur sem rutt hefur verið upp úr í kringum þær. Að sögn Kristrúnar voru stærri holurnar notaðar fyrir loftvarnarbyssur en þær minni notuðu hermenn til að fela sig í og strengdu yfir þær græn net.

Ártún

Ártún – bæjarhóllinn 2018.

Hlutverk Ártúns sem kvikmyndaver við upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi er athyglisvert. Það hefur trúlega haft áhrif á staðarval við upptökur á kvikmyndum að einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað rétt ofan við bæinn.

Ártún

Ártún – bærinn var jafnaður við jörðu 1992 (MWL).

Í Ártúni er um að ræða minjaheild búsetuminja sem samanstendur af bæjarhól með híbýlum og skepnuhúsum. Aðgengi að minjunum er gott svo ef vilji væri fyrir hendi mætti gera það enn betra og einnig mætti setja fram upplýsingar með sögu staðarins í máli og myndum. Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni sýna einstakt búsetulandslag í næsta nágrenni Reykjavíkur.
Búsetuminjar sem er að finna á jörðinni eru gott dæmi um búsetu á svæðinu. Minjarnar hafa ekki orðið fyrir raski eftir að búskapur lagðist af á jörðinni og eru einstakar vegna þess að þær eru vel varðveitt minjaheild innan vébanda höfuðborgarinnar.“

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Reykjavík 2010 – Minjasafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún.

Reykjavík

„Svo segja heimildir, að vorið 874 hafi fyrsta skip svo vitað sé siglt inn á Reykjavík.
Þarna var Ingólfur Arnarson frá Dalsfirði í Firðafylki í Noregi á ferð með fjölskyldu sína, húsdýr og húsbúnað. grofin-22Sagan segir, að áður hafi þrælar Ingólfs, þeir Vífill og Karli, fundið öndvegissúlur hans reknar á þessum slóðum. Ingólfur hefur svo valið vik eitt inn af víkinni, sem síðar var nefnt Grófin, sem besta lendingarstaðinn vegna aðstæðna eða nálægðar við ákjósanlegt bæjarstæði. Þar hafa þau Hallveig og Ingólfur svo gengið á land ásamt föruneyti sínu, kannað betur staðinn, gengið suður með klapparholtinu (Grjótaþorpi) upp af vikinu, komið þar að allstórri tjörn (Tjörnin) og valið sér bæjarstæði skammt frá norðurenda hennar. Bærinn fékk síðar nafnið Vík (Tjarnarg. 4, Suðurgata 3—5, Aðalstræti 14—16—18) í Reykjavík. Við leiðina sem Ingólfur fór úr vikinu (Aðalstræti í dag) stóð Ingólfsnaust (versl. Geysir) fram á 18. öld og Ingólfsbrunnur, Aðalstræti 9 fram á 20. öld.

Reykjavík

Reykjavík – merki í gangstétt við gatnamót Aðalstrætis, Hafnarstrætis og Vesturgötu.

Fyrstur ættmenna sinna í Noregi og annarra norrænna manna settist Ingólfur að á Íslandi. Trúlega hefur hann flutt búslóð sína á land í Grófinni vestur af Vesturgötu 2 (Álafossbúðin) í dag. Það má því með sanni segja að íslenskt þjóðfélag hefji feril sinn í Grófinni. En hafa skal það sem sannara reynist. Setlög Tjarnarinnar bíða eftir því að þau verði rannsökuð og saga mannvistar í gömlu Reykjavík verði lesin úr þeim betur og betur eftir því sem vísindunum fleygir fram.“
Miðja Reykjavíkur er við húsið Vesturgötu 2, sem var byggt árið 1863. Það hefur verið kallað Bryggjuhúsið og hýst margvíslega starfsemi í tímans rás. Út frá miðju Reykjavíkur eru öll götunúmer miðuð. Sá endi gatna sem er nær Bryggjuhúsinu er upphafið og þá eru oddatölurnar vinstra megin við götuna og sléttar til hægri. Þannig hefur þetta verið í 161 ár – og verður væntanlega ekki breytt í bráð.

Heimild:
-Morgunblaðið – Það gerðist í Grófinni, 23. nóv. 1984, bls. 19.

Reykjavík

Reykjavík 1876.

Laugarnes

 Laugarness var fyrst getið í Njálu og á þeirri frásögn má sjá að þegar á 10. öld hefur landi þess verið skipt úr landnámsjörðinni Reykjavík og verið sjálfstæð jörð. Laugarnesjörðin var ein sú stærsta á Reykjavíkursvæðinu, breið landspilda sem náði allt suður í Fossvog.
Laugarnes- loftmyndTalið er að Hallgerður [Höskuldsdóttir] langbrók hafi sest að í Laugarnesi eftir víg Gunnars að Hlíðarenda í Fljótshlíð en jörðina hafði hún fengið eftir Glúm, fyrri mann sinn. Glúmi þessum hafði orðið það á að „drepa til hennar hendi sinni“ en eins og kunnugt er launaði Hallgerður ekki barsmíðar með góðu. ,,Broeður þrír eru nefndir til sögunnar; hét einn Þórarinn, annar Ragi, þriði Glúmr. Þeir váru synir Óleifs hjalta ok váru virðingamenn miklir ok vel auðigir at fé. Þórarinn átti þat kenningarnafn, at hann var kallaðr Ragabróðir. Hann hafði lögsögu eptir Hrafn Hoengsson; hann var stórvitr maðr. Hann bjó at Varmaloek, ok áttu þeir Glúmr bú saman. … Þeir broeðr áttu suðr Engey ok Laugarnes …”. Eftir að Glúmur hafði gengið að eiga Hallgerði langbrók gaf Þórarinn Ragabróðir upp búið á Varmalæk fyrir þeim Glúmi og Hallgerði. Á Þórarinn að hafa mælt ,,…en ek mun fara suðr í Laugarnes ok búa þar. En Engey skulu vit eiga báðir saman.”

Laugarnes

Laugarnes – minnismerki um kirkju.

Eftir víg Glúms fluttust Hallgerður langbrók í Laugarnes. Í sögunni segir: ,,Þau Hallgerður skiptu um bústaði um várit, ok fór hon suðr á Laugarnes, en hann til Varmaloekjar. Ok er Þórarinn ór sögunni.” Samkvæmt munnmælum var þúst suðaustur af bænum nefnd eftir henni og kölluð Hallgerðarleiði og um hana sagt að hún væri græn jafnt vetur sem sumur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er þó aðeins dregið úr þeirri trú og segir þar: „ekki er það satt að leiði hennar sé jafngrænt vetur og sumar, þó sögur segi svo, en seinna fölnar þar gras á haustin, en annarstaðar á Laugarnestúnum …“
Þessi merkisþúfa er nú horfin undir Sæbrautina en þegar grafið var í hana fundust hleðslur og gjall svo líklegra er að þar hafi verið smiðja en að Hallgerður sé grafin í kirkjugarðinum í Laugarnesi sem var fyrsti kirkjugarðurinn í Reykjavík. Laugarnes var forn kirkjustaður og samkvæmt kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 hefur kirkja þá þegar verið í Laugarnesi.
Laugarnes - stasetning holdveikraspítalansEkki er vitað hvenær fyrst var jarðað í kirkjugarðinum en síðast var það gert árið 1871. Þá voru grafnir þar 6 franskir sjómenn, sem létust úr bólusótt og ekki var talið fært að jarða þá „inni í borginni“ vegna hættu á smiti. Þeir lágu í einangrun í gömlu biskupsstofunni í Laugarnesi. Kirkjan í Laugarbesi var rifin 1794 og sameinuð Reykjavíkurkirkju en glögglega sést enn móta fyrir veggjum kirkjugarðsins sem er friðlýstur samkvæmt þjóðminjalögum.
Um 1234, eða á ofanverðum dögum Þorvalds Gissurarsonar, áttu Laugnesingar laxveiði í Elliðaám að helmingi við Viðeyjarklaustur.
Fáum sögum fer af ábúendum í Laugarnesi eftir söguöldina en á 15. öld kemst jörðin í eigu Hólmsættarinnar og vitað er að Margrét dóttir Vigfúsar Hólm hirðstjóra gaf Þorvarði Einarssyni dóttursyni sínum jörðina 1486. Margrét slapp lifandi úr Kirkjubólsbrennu þegar menn Jóns Gerrekssonar biskups brenndu inni bróður hennar Ívar 1433. Það illvirki varð til þess að varið var að Jóni biskupi, hann settur í poka og drekkt í Brúará. Ögmundur Pálsson síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti átti jörðina um tíma og eftir hans daga var mikið deilt um eignarrétt hennar. Anna  Vigfúsdóttir frá Stóru-Borg átti jörðina um skeið og síðar Gísli Hákonarson lögmaður.
Laugarnes - kort frá 1927-'35Þegar máldagi Laugarneskirkju var gerður 1491-1518 þá átti kirkjan heimalands hálft tíu kúgildi og fimm hross, auk þess að hún átti fimmta hvern lax af veiði þeirri er Viðeyingar átti í Elliðaám, fyrir utan þann hluta er Hallotta Þorsteinsdóttir hafði gefið Viðeyjarklaustri en það var metið á fimm hundruð. Kirkjan átti tíu hundruð í metfé, þrettán bækur með tólf mánaða tíðum, tvenn messuklæði, einn kaleik og tvær stórar klukkur. Árið 1521 er Laugarnesi gefið peningar Vigfúsar Erlendssonar, kvikir og dauðir, voru virtir að honum látnum. Þann 26. nóvember 1535 var í Laugarnesi útnefndur sex manna dómur um kæru Alexíusar ábóta í Viðey á hendur Jóns Bergþórssonar um að hafa ,,farið í Elliðaá og haft klaustursins net og eignað Bústöðum fors í ánni eðr streing. Kirkjan í Laugarnesi átti um miðja 15. öld; „… litinn skog … vid landsýdri j hvaleýrar hofda“.
Á 16. öld markast saga Laugarness aðallega af deilum á milli fyrirmanna á Íslandi um eignarhald jarðarinnar. Þar voru í fararbroddi annars vegar Ögmundur Skálholtsbiskup og skyldmenni hans og hins vegar Páll lögmaður Vigfússon og fjölskylda hans.
Holdsveikraspítalinn í LaugarnesiSamkvæmt Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Elín Hákonardóttir þá eigandi Laugarness. Elín bjó ekki í Laugarnesi heldur að Látrum við Mjóafjörð.. Fjórar hjáleigur voru á Laugarnesi, Norðurkot, Suðurkot og Barnhóll, en fjórða hjáleigan er nafnlaus í bókinni. Tólf manns bjuggu í Laugarnesi 1703.
Árið 1824 var veitt álitleg fjárhæð til að reisa embættisbústað handa biskupi í Laugarnesi. Múrarameistari og verkamenn voru fengnir frá Danmörku til þess að byggja Stofuna eins og hún var alltaf nefnd. Húsið var hriplekt og hin mesta hrákasmíð á alla vegu. Vera má að sá hluti byggingasamningsins sem kvað á um nægt öl handa verkamönnunum og einn pela af brennivíni á dag hafi átt sinn hlut í að svona tókst til með bygginguna. Steingrímur biskup Jónsson bjó í Laugarnesstofu til æviloka 1845. Með tíð og tíma grotnaði Stofan niður og var að lokum rifin þegar að því koma að reisa skyldi Laugarnesspítala.
LaugarnesstofaÁrið 1857 keyptu ellefu Reykvíkingar jörðina á uppboði. Árið 1894 var Laugarnes, ásamt Kleppi, lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, en hafði fram að því tilheyrt Seltjarnarneshreppi. Danska IOGT-reglan lét byggja holdsveikraspítala í Laugarnesi árið 1898. Spítalinn var rekinn til 1940 en þá lagði breska seturliðið hann undir sig og brenndi hann síðan ofan af sér 1943. Byggð fór að myndast í Laugarnesi um 1930 og á stríðsárunum var þar stór herskálabyggð sem var kölluð Laugarneskampur. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fékk inni í einum herskálanum eftir stríðið og var það fyrsti vísirinn að listasafni hans á nesinu.
LaugarnesspítaliLaugarnes var í ábúð nokkuð fram á nítjándu öld. Síðasti ábúandi þar var Þorgrímur Jónsson. Snemma á 20. öld hafði jörðinni verið skipt í fjölda ræktunarlanda og var á mörgum þeirra stundaður nokkur búskapur en þó lengst í Laugardal. Torfbærinn í Laugarnesi stóð til 1885, en þá var hann rifinn. Þegar nýjir ábúendur komu þangað 1885, voru þar engin nýleg hús nema bæjarhúsin, þriggja stafgólfa torfhús með tveimur rúmstæðum, búri og eldhúsi.
Laugarnesinu er ýmislegt að skoða og það er góður staður til útivistar. Þar er að finna nokkurn fjölda fornleifa, tvær af þeim eru friðlýstar, bæjarhóllinn og kirkjugarðurinn sem eru þar sem Laugarnesbærinn stóð á horninu á Héðinsgötu og Sæbraut að norðanverðu.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Á horninu er kort þar sem sýnt er hvar gamli bærinn og hjáleigurnar á nesinu stóðu.
Árið 1993 voru gerðar jarðsjármælingar á fornleifum í Laugarnesi á vegum Árbæjarsafns og Borgaskipulags. Verkfræðistofan Línuhönnun sá um verkið og niðurstöður þessara mælinga má finna í skýrslunni ,,Jarðsjármælingar í Laugarnesi”. Í þeirri rannsókn voru jarðlög mæld á rústasvæðum. Helstu niðurstöður voru að hægt var að áætla þykkt jarðlaga (mannvistarminja) og staðsetja einstaka mannvirki í bæjarhól Laugarness: „Greina má allmikið rústasvæði sunnan til í bæjarhólnum í Laugarnesi og hugsanlega kirkjurústina í miðjum kirkjugarðinum“.
Laugarnesstofa stóð nálægt Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og einnig holdsveikraspítalinn en tilhöggnir steinar úr grunni hans marka nú bílastæði listasafnsins. Ennfremur má sjá merki um fornar leiðir og ýmsar stríðsminjar á nesinu. Í heild er litið á allt nesið sem menningarlandslag, sem segir söguna frá landnámi til dagsins í dag. Þar er líka falleg náttúra, sérkennilegar klettamyndanir og ósnert fjara sem er líklega sú eina sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur.

Heimild:
-Laugardalur, nóvember 2007, bls. 17.
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning Laugarness vegna mats á umhverfisáhrifum Sæbrautar – Byggðasafn Reykjavíkur 2003.
-Njálssaga.

Laugarnes

Laugarnes – skýringar.

Blikdalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin átta í Blikdal:

Selstöður á Blikdal
Blikdalur

Yfirlit um sel í Blikdal.

Blikdalur er stór og grösugur dalur í vesturhluta Esju. Hann liggur frá Gunnlaugsskarði í austri og hallar í vestur að klettabelti við Tíðarskarð en dalsmynnið er skammt austan við það. Blikdalur var áður nefndur Bleikdalur sem gæti verið vegna þess að háhitavirkni náði norður yfir dalinn og gaf berginu ljósan lit en innar í dalnum er ljósleitt og grænsoðið móberg. Eftir dalnum rennur á sem nefnist Blikdalsá, en frá dalsmynni að sjó nefnist hún Ártúnsá eftir samnefndum bæ við mynni dalsins.

Blikdalur

Saubæjarsel í Blikdal.

Blikdalur hefur löngum verið nytjaður af bæjum á Kjalarnesi fyrir lausagöngu hesta til fjáruppreksturs, og selstöðu. Suðurhluti Blikdals lá undir kirkjustaðnum Brautarholti, en sá nyrðri undir kirkjustaðinn Saurbæ og skiptist hann um Blikdalsá.

Blikdalur

Blikdalur – herforingjaráðskort.

Blikdals er ekki getið beint í skriflegum heimildum fyrr en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
Hinsvegar er Blikdalsár getið í máldaga Saurbæjarkirkju 1220, þar sem fram kemur kvöð um að halda skuli brú yfir ánna: „… bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fjoru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“ Þessi kvöð er áréttuð í Vilchinsmáldaga frá 1397 og í vísitasíum 1642, 1678, 1703 og 1724. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er Blikdals getið við nokkra bæi varðandi fjárupprekstur og selstöðu. Blikdals er getið í landamerkjabréfi fyrir Saurbæ árið 1890. Þar segir: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils en Ártún fyrir neðan götu frá Seljagilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Sel í sunnanverðum Blikdal.

Nokkur örnefni í dalnum vísa til selja og þar eru sýnilegar sex selstöður neðan við Selfjall. Tvær selstöður eru í norðan Blikdalsár, Saurbæjarsel sem stendur við læk ofan um 120 m ofan við ána og Holusel sem er um 370 m innar einnig staðsett við læk rétt ofan við ána.

Guðrún Runólfsdóttir

Guðrún Runólfsdóttir – Matthías og Guðrún Runólfsdóttir, kona hans, höfðu verið í hjónabandi í 45 ár er hann lést. Guðrún lifði mann sinn í 3 ár, dó 6. nóvember 1923.

Saurbæjarsel hefur verið í notkun framundir árið 1874 en heimildir geta þess að Guðrún Runólfsdóttir frá Saurbæ hafi verið þar selráðskona. Hún varð árið 1875 þriðja kona skáldsins Matthíasar Jochumssonar sem bjó á Móum á Kjalarnesi. Á eyri sem liggur sunnan við ána eru fjórar selstöður sem voru í landi Brautarholts. Efsta og innsta selstaðan er væntanlega sú sem síðast hefur verið í notkun og gæti verið frá svipuðum tíma og Saurbæjarsel. Saurbær er kirkjustaður en kirkju er þar fyrst getið um 1200. Þegar Jarðabókin var gerð er Saurbær orðin annexía frá Brautarholtskirkju. Saurbær er á ofanverðu Kjalarnesi, á sjávarbakka niður af Tíðarskarði. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“ Þar er segir einnig; „Selvegur lángur og erfiður.“ Á þeim tíma var jörðin í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún var kirkjujörð frá Saurbæ og stendur við mynni Blikdals við Ártúnsá. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Blikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“ Þáverandi eigandi Ártúns var Saurbæjarkirkja sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún

Ártún 1967.

Hjarðarnes var byggt út úr Saurbæ og kirkjujörð þaðan. Bærinn er á sjávarbakka um 1,5 km í norðaustur frá Saurbæ rétt innan við Tíðarskarð. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“ Þáverandi eigandi Saurbæjarkirkja, sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Brautarholt

Brautarholtskirkja.

Brautarholt stendur á hæð sem kallast Kirkjuhóll á vestanverðu nesinu og vestur af bænum er lítið og mjótt nes, Músarnes við mynni Hvalfjarðar. Brautarholts er fyrst getið í Landnámabók og kirkja var komin þar árið 1200. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal á móti Þerneyjarkirkju. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi.“ Þá var eigandi jarðarinnar prófastsekkjan Sigríður Hákonardóttir að Rauðamel eða sonur hennar Oddur Sigurðsson.

Blikdalur

Blikdalur – sel.

Borg var kirkjujörð frá Brautarholti og var um 175 m í norðaustur af klettinum Borg og 335 m suðaustur frá botni Borgvíkur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.“

Mýrarholt var einnig kirkjujörð frá Brautarholti. Var í neðri túnum Brautarholts um 100 m suðaustur af Krosshól og 350 m vestur af svínabúinu í Brautarholti. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi Blikdal.“

Hof var landnámsjörð sem er austur af Brautarholti og skammt vestan við Grundahverfi. Þar er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Hofs; „Menn töldu að Hof hafi haft í seljum í Blikdal þar sem heita Hofssel gömlu en ekki vissu menn hvort þar hefði verið haft frítt eða nokkuð greitt til Brautarholts.“ Þá voru eigendur jarðarinnar nokkrir Sr. Vigfús Ísleifsson prestur í Skaftafellssýslu og bróðir hans Magnús Ísleifsson lögréttumaður á Höfðabrekku í Skaftafellsþingi, Hallfríður Snorradóttir ekkja, Kolbeinn Snorrason Seljatungu í Flóa.

Lykkja var tíundi partur úr jörðinni Hofi, en á Hofi er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Um Lykkju segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“

Blikdalur

Sel í Blikdal.

Við vettvangskönnun sumarið 2010 fundust að því er virðist fjórar selstöður á eyri sem er um sunnan Blikdalsár um miðjan Blikdal í Brautarholtslandi. Efsta selið er greinilega það sem síðast hefur verið notað en hin eru fornleg að sjá. Handan árinnar norðan megin eru tvær sýnilegar selstöður og fylgir örnefnið Saurbæjarsel þeirri fremri sem síðast var notað frá Saurbæ. Selið er við læk uppí miðri hlíð undir Selfjalli en hin Holusel er aðeins innar í dalnum og niður við Blikdalsá, einnig við læk. Beggja vegna í dalnum eru greinilegar götur að selstöðunum.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna í heild HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 11-14.

Blikdalsselin

Selin í Blikdal  þjappað saman – uppdráttur ÓSÁ.

Elliðaárdalur

Í skýrslu um „Sjálfbæran Elliðaárdal – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016„, er m.a. fjallað um sögu og minjar í dalnum.

Á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar 26. mars 2015 var skipaður starfshópur um sjálfbæran Elliðaárdal. Starfshópurinn fékk það hlutverk að gera tillögur að framtíðarfyrirkomulagi og fjármögnun á umhirðu og rekstri dalsins. Við gerð skýrslunnar var rætt við fulltrúa hagsmunaaðila, hverfisráð og hollvinasamtök sem einnig skiluðu athugasemdum við skýrsluna.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Helstu niðurstöður starfshópsins eru að dalurinn verði áfram eitt af aðalútivistarsvæðum borgarinnar, að fjölbreytilegt lífríki dalsins njóti verndar og að þess verði gætt að Elliðaárnar verði áfram frjósöm laxveiðiá.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – Kermóafoss.

Starfshópurinn telur að jafnvægi þurfi að ríkja á milli útivistarsvæða í dalnum og íbúabyggðar. Þá séu tækifæri til að styrkja vistvænar samgöngur í dalnum.
Starfshópurinn telur að kanna þurfi  vægi og fjölda vegfarenda um svæðið til að sjá hvar áherslum þurfi að breyta eða hvar bæta þurfi aðstöðu fyrir hjólreiðamenn, gangandi vegfarendur eða hestamenn.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Elliðaárdalurinn gegnir veigamiklu hlutverki í markmiðum borgarinnar í loftslagsmálum því dalurinn er með stærri grænum svæðum í borginni. Hlúa þarf að því lífríki sem er finna í dalnum og vakta það.  Fylgjast þarf með fjölda minka og kanína og viðhalda fjölbreyttu fuglalífi.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Fjöldi tækifæra eru í Elliðaárdalurinn fyrir umhverfismennt, rannsóknir á vistkerfinu og fræðslu og skoða þarf ólíkar leiðir til þess en staðsetning dalsins í miðri borg eykur notkunarmöguleika hans til muna.
Starfshópurinn telur að vernda þurfi mannvirki sem tengjast raforkuframleiðslu og sögu hennar í dalnum en henni hefur verið hætt. Stærsta mannvirkið sem tengist raforkuframleiðslunni er Toppstöðin og leggur starfshópurinn til að annars vegar verði framkvæmd húsakönnun á byggingunni og hins vegar að unnin verði drög að fyrirkomulagi hugmyndasamkeppni um mögulega starfsemi í húsinu. Undanfarin ár hefur verið frumkvöðlasetur í húsinu en ljóst er að ráðast þarf í umfangsmiklar endurbætur á húsinu.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Það er niðurstaða hópsins að ekki sé þörf á aukinni skógrækt í dalnum og grisjunarþörf sé umtalsverð til að bæta útivistarsvæðið.
Þegar starfshópurinn horfir á aukningu meðal ferðamanna er það mat hans að þó að margir þeirra leggi ferð sína í dalinn sé hlutverk hans fyrst og fremst að vera athvarf og útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Aðgerðir sem farið verður í til að bæta innviði dalsins miði að þörfum allra sem dalinn sækja heim.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Borgarbúum er flestum annt um Elliðaárdalinn og því telur starfshópurinn þörf fyrir  lifandi vettvang fyrir samræður og samstarf. Hópurinn leggur því til að borgin haldi utan um reglulega/árlega samráðsfundi um dalinn þar sem allir sem áhuga hafa geta hist og rætt brýn mál.
Elliðaárdalurinn er ein af útivistarperlum Reykjavíkur. Hann nýtur borgarverndar vegna sérstaks náttúrufars og möguleika til útivistar. Þar eru merkilegir sögustaðir og friðlýstar minjar. Lengd hans á milli Elliðavatns og ósa Elliðaánna er u.þ.b. 6 km og breiddin milli hálfur til einn kílómetri.
ElliðaárdalurReykvíkingar fóru gjarnan í lautarferðir þangað á 19. öld, en eftir að bílar komu til sögunnar fór fólk að sækja lengra. Nú er fólk farið að gefa dalnum gaum á ný og nýtur umhverfisins þar sem aldrei fyrr. Jarðfræði dalsins er hægt að lesa í Háubökkum við Elliðavog, þar sem er að finna skýringar á skilti. Meðalrennsli Elliðaánna er 5,5 m³/sek. Áætlað er, að flóðið mikla árið 1968 hafi náð 220 m³/sek. Orkuveita Reykjavíkir (Vatnsveita) sækir vatn sitt að mestu leyti af vatnasviði Elliðaánna, u.þ.b. 0,6 m³/sek. og verður því vatnsmagn Elliðaánna að sama skapi minna.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Gróður í dalnum er víða mikill, bæði náttúrulegur og ræktaður, a.m.k. 160 tegundir blómplantna. Skógrækt hófst líklega í dalnum upp úr 1920 með gróðursetningu reynitrjáa. Þegar hús og sumarbústaðir fóru að rísa í dalnum, kom til garðrækt. Orkuveita Reykjavíkur (Rafmagnsveita) hóf skógrækt í Árhólmanum upp úr 1950. Helztu varpfuglar í dalnum eru álftir, grágæsir, stokkendur, rauðhöfðaendur, urtendur, straumendur, duggendur, æðarfugl, toppönd, grafönd, hrossagaukar, skógarþrestir, starrar, auðnutittlingar, þúfutittlingar, steindeplar, maríuerlur, hrafnar, himbrimar, o.fl. Alls má telja 59 fuglategundir, en 31 þeirra eru fastir varpfuglar og 18 tegundir eru árvissir gestir.
ElliðaárstöðinElliðaárnar hafa löngum verið meðal beztu laxveiðiáa landsins en þar eru einnig urriði, bleikja, hornsíli og áll. Rústir þófaramyllu og litunarhúsi Innréttinganna má finna á takmörkuðu svæði í Árhólmanum undan bæjarhólnum að Ártúni. Elliðaárvirkjun var tekin í notkun árið 1921.
Rafmagnsveita Reykjavíkur hóf söfnun muna, sem tengjast sögu hennar, árið 1971. Skráning munanna hófst 1988 og þar með skipuleg söfnun.
Rafveitusafnið var formlega stofnað árið 1990 og það er skemmtilegt að heimsækja það í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur (Hitaveita) á átta borholur í dalnum.
Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru fjórir kampar í landi Ártúns, Camp Alabaster (Camp Pershing), Camp Battle, Camp Hickham, Camp Fenton Street og Camp Ártún á Ártúnshöfða. Víðivellir, athafnasvæði hestamanna, er aðallega á tveimur aðskildum svæðum ofarlega í dalnum og þriðja og elzta svæðið er við enda Bústaðavegar. Árbæjarsafnið, sem var opnað árið 1957, er hluti af Elliðaárdalnum.

Búskapur og landbúnaður

Árbær

Árbær.

Elliðaárdalur hefur verið landbúnaðarsvæði um langt skeið en getið er búskapar á bænum Ártúni á 14. öld og Árbæ á 15. öld. Á Árbæ var búskapur í minnst 500 ár. Ummerki um þennan landbúnað eru mjög áberandi enn í dag því tún eru kringum bæjarstæðin sem reyndar gáfu ekki mikið af sér og þótti harðbýlt á báðum bæjum.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur 1880 – Ben. Gröndal.

Dalurinn var lengi vel notaður sem úthagi þar til hann var friðaður fyrir sauðfjár- og hrossabeit á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Í Ártúni var gisti- og veitingaþjónusta fyrir ferðafólk um langt skeið, allt fram á 19. öld. Áður en byggðin reis í Árbæjar- og Breiðholtshverfum var mikið um að leigð væru erfðafestulönd í dalnum, einkum norðan Elliðaáa undir Ártúnsholti austur að Selás. Þar reisti fólk sér sumarbústaði og önnur smáhús og eigendur stunduðu garð- og trjáyrkju.
Sumarbústaðabyggðin lagðist niður að mestu á tímabilinu frá 1960-1990 en enn standa nokkur stærri hús sem eru heilsárshús, flest á Ártúnsblettum við Rafstöðvarveg en einnig nokkur í Árbæjar- og Seláshverfum. Eru það elstu húsin á þessum slóðum. Smáhýsi eru einnig í Löngugróf sunnan Árbæjarstíflu nálægt Stekkjarbakka (Árni Hjartarson o.fl., 1998).

Aðrar söguminjar

Elliðaárbrú

Elliðaárbrú 1927.

Elliðaárdalur var í lykilhlutverki í ullarvefnaðariðnaði í Reykjavík 18. öld sem var hluti af starfsemi Innréttinga Skúla Magnússonar landfógeta. Í árhólmanum má sjá ummerki um mannvirkin er þessu tengdust en þar stóðu þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði. Var vatnskraftur Elliðaánna nýttur við að þæfa og lita ullina.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur 1946.

Þjóðleiðin frá Reykjavík lá einnig yfir Elliðaárnar neðarlega í dalnum og má finna ummerki um gömul vegstæði og vöð og var Ártúnsvað fjölfarnasta vaðið (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Fyrstu brýr yfir Elliðaárnar voru byggðar 1883 en hafa þær verið endurnýjaðar alloft síðan þá, stækkaðar og styrktar. Í dag eru tvær brýr fyrir bílaumferð, Höfðabakkabrú frá 1981 og Breiðholtsbrautarbrú frá 1993 auk brúar fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi til móts við Árbæjarlaug.
Stríðsminjar finnast einnig í dalnum en fimm herkampar voru á túni Ártúns á heimsstyrjaldarárunum síðari og má sjá ummerki um þá í túninu við bæinn. Einn stór kampur, Camp Baldurshagi, var á Víðidalssvæðinu en lítil ummerki eru þar eftir í dag.
Ekkert er minnst á veru Arnesar útilegumanns, veru hans í dalnum og fylgsni hans í Árhólmum.

Raforkuframleiðsla

Elliðaárdalur

Elliðaárrafstöðin.

Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Var raforkan fyrst og fremst notuð fyrir lýsingu í Reykjavík.

Elliðaárdalur

Árbæjarstífla.

Helstu mannvirki er tengjast raforkuframleiðslunni eru stíflurnar tvær, Árbæjarstífla sem var fullgerð árið 1929 og Elliðavatnsstífla sem var reist á árunum 1924-8 og endurgerð 1978, rafstöðvarhúsið sjálft ásamt fallstokknum sem liggur frá Árbæjarstíflu niður í rafstöðina auk nálægra húsa er tengjast starfseminni. Stærsta byggingin er þó Toppstöðin sem var
vara- og álagsstöð fyrir meginrafstöðina og tók til starfa 1948. Hlutverki hennar lauk á áttunda áratugnum og hýsir húsið nú frumkvöðlasetur. Eftir að pípan í fallstokknum rofnaði árið 2013 hefur
ekki verið virk raforkuframleiðsla í Elliðaárvirkjun (www.or.is)

Skógrækt

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Skógrækt hefur sett mikinn svip á Elliðaárdalssvæðið. Á 30 ára afmæli Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 var hafin skógrækt í Elliðaárhólma og var gróðursett þar árlega til um 1970. Í Sveinbjarnarlundi í Ártúnsholti eru enn eldri grenitré eða frá 1937 sem í dag eru talin hæstu grenitré á Íslandi eða um 20 metra há. Skógræktarfélag Reykjavíkur stundaði einnig skógrækt í Elliðaárdalnum um alllangt skeið í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur, t.d. í Breiðholtshvarfi (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Mikill vöxtur hefur verið á plöntuðum trjágróðri þar síðustu misseri og víða finnst þéttur skógur og há tré.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar sinna nú grisjun í skóginum.

Ísaldaminjar

Elliðaárdalur

Blesaþúfa framundan. Meðfylgjandi texti á á skiltinu vinstra megin á myndinni.

Í Elliðaárdal er nokkuð mikið af setmyndunum jökla frá lokum ísaldar, en henni lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þá hófu jöklar að hörfa af Bláfjallahálendinu og Hengilssvæðinu þar sem skriðjökullinn, sem lá yfir Elliðaárdal, átti upptök sín.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Á þessum tíma hafði þykkur jökulísinn myndað mikið farg sem olli því að land þrýstist niður um tugi metra. Þegar jökullinn hörfaði varð sjávarstaða til skamms tíma mun hærri en þekkt er í dag. Við árósa og annars staðar, þar sem mikill framburður lausra efna frá bráðnandi jöklinum hlóðst upp, mynduðust malarhjallar og setfyllur.

Í Elliðaárdal má finna minjar um hærri sjávarstöðu frá ísaldarlokum, sem myndanir tengdar henni og frárennsli bránandi jökuls. Á þessum tíma mynduðust sandfjörur og sandeyrar sem teygðu sig út með Blesugróf og Árbæjarhverfi.
Þessar myndanir sem nefndar eru strandhjallar og óseyrar, benda til að sjávarmál hafi verið um 40 m hærra en nú er. Glöggt dæmi um fornar strandlínur má t.d. finna innan við Ártún. Á þessum tíma voru Elliðaár beljandi jökulfljót, en ekki kyrrlátar kindár eins og nú er.
Blesaþúfa er dæmigerðar leifar af fornri óseyri.

Heimildir:
-https://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ellidaardalur.htm
-Sjálfbær Elliðaárdalur – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.