Tag Archive for: Reykjavík

Skálafell

 Landnám Íslands – Ingólfur og Karli

Í Sturlubók Landnámu má lesa eftirfarandi um fyrstu landnám hér á landi:

Formáli

Skálafell

Skálafell austan Esju.

„Í aldarfarsbók þeirri, er Beda prestur heilagur gerði, er getið eylands þess er Thile heitir og á bókum er sagt, að liggi sex dægra sigling í norður frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetur og eigi nótt á sumar, þá er dagur er sem lengstur. Til þess ætla vitrir menn það haft, að Ísland sé Thile kallað, að það er víða á landinu, er sól skínum nætur, þá er dagur er sem lengstur, en það er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa/Kelta, á Suðurlandi.

En Bedaprestur andaðist sjö hundruð þrjátigi og fimm árum eftirholdgan dróttins vors, að því er ritað er, og meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Norðmönnum.

En áður Ísland byggðist af Noregi, voru þar þeir menn, er Norðmenn kalla papa; þeir voru menn kristnir, og hyggja menn, að þeir hafi verið vestan um haf, því að fundust eftir þeim bækur írskar, bjöllur og baglar og enn fleiri hlutir, þeir er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn. Enn er og þess getið á bókum enskum, að í þann tíma var farið milli landanna.

4. kafli

Skáli

Skáli undir Skálafelli 2014.

Um vorið eftir bjuggust þeir fóstbræður að fara í hernað og ætluðu til móts við sonu Atla jarls. Þeir fundust við Hísargafl, og lögðu þeir Hólmsteinn bræður þegar til orustu við þá Leif. En er þeir höfðu barist um hríð, kom að þeim Ölmóður hinn gamli, son Hörða-Kára, frændi Leifs, og veitti þeim Ingólfi. Í þeirri orustu féll Hólmsteinn, en Hersteinn flýði.

Þá fóru þeir Leifur í hernað. En um veturinn eftir fór Hersteinn að þeim Leifi og vildi drepa þá, en þeir fengu njósn af för hans og gerðu mót honum. Varð þá enn orusta mikil, og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeim virðist landið betra suður en norður. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.

5. kafli

Skálafell

Skáli Ingólfs 2002?

Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking.

Skáli

Skáli í Skálafelli 1999.

Hann herjaði á Írland og fann þar jarðhús mikið. Þar gekk hann í, og var myrkt, þar til er lýsti af sverði því, er maður hélt á. Leifur drap þann mann og tók sverðið og mikið fé af honum; síðan var hann kallaður Hjörleifur.

Hjörleifur herjaði víða um Írland og fékk þar mikið fé; þar tók hann þræla tíu, er svo hétu: Dufþakur og Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór og Drafdittur; eigi eru nefndir fleiri.En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.

Ingólfur

Ingólfur Arnarsson – styttá á Arnarhóli í Reykjavík.

Þenna vetur fékk Ingólfur að blóti miklu og leitaði sér heilla um forlög sín, en Hjörleifur vildi aldri blóta. Fréttin vísaði Ingólfi til Íslands.

Eftir það bjó sitt skip hvor þeirra mága til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra, og lögðu til hafs, er þeir voru búnir.

6. kafli

Skálafell

Skáli Ingólfs 2001?

Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá varliðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár.

Þeir höfðu samflot, þar til er þeir sá Ísland; þá skildi með þeim.

Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Þá tóku þrælarnir írsku það ráð að knoða saman mjöl og smjör og kölluðu það óþorstlátt; þeir nefndu það minnþak. En er það var tilbúið, kom regn mikið, og tóku þeir þá vatn á tjöldum. En er minnþakið tók að mygla, köstuðu þeir því fyrir borð, og rak það á land, þar sem nú heitir Minnþakseyr.

Skálafell

Skálafell – skáli o.fl. Uppdráttur ÓSÁ.

Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum. Hjörleifur lét þar gera skála tvo, og er önnur tóftin átján faðma, en önnur nítján. Hjörleifur sat þar um veturinn.

En um vorið vildi hann sá; hann átti einn uxa, og lét hann þrælana draga arðurinn.

Skálafell

Skálinn 2002.

En er þeir Hjörleifur voru að skála, þá gerði Dufþakur það ráð, að þeir skyldu drepa uxann og segja, að skógarbjörn hefði drepið, en síðan skyldu þeir ráða á þá Hjörleif, ef þeir leituðu bjarnarins.

Eftir það sögðu þeir Hjörleifi þetta. Og er þeir fóru að leita bjarnarins og dreifðust í skóginn, þá settu þrælarnir að sérhverjum þeirra og myrtu þá alla jafnmarga sér. Þeir hljópu á brutt með konur þeirra og lausafé og bátinn. Þrælarnir fóru í eyjar þær, er þeir sáu í haf til útsuðurs, og bjuggust þar fyrir um hríð.

Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs.

7. kafli

Skálafell

Skálafell.

Eftir það fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan, mælti hann: „Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða, og sé eg svo hverjum verða, ef eigi vill blóta.“ Ingólfur lét búa gröf þeirra Hjörleifs og sjá fyrir skipi þeirra og fjárhlut.

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leitaþrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er hann lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjarheita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Skálafell

Skáli Ingólfs 2010?

Þeir Ingólfur höfðu með sér konur þeirra, er myrtir höfðu verið; fóru þeir þá aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.

Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.

8. kafli

Skálafell

Við Skálafell 2020.

Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.

Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“

Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.

Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.

Skálafell

Á ferð um Skálafell 2023.

Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.

9. kafli

Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.

Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.“

Spurningin er; er nefndan skála enn að finna í Skálafelli, líkt og Landnáma getur um?!

Heimildir:
-Landnáma (Sturlubók), kaflar 6-9.
-https://www.snerpa.is/net/snorri/landnama.htm.

Skálafell

Skáli Ingólfs í Skálafelli?

Sel í Bleikdal

Í Blikdal (Bleikdal) eiga að vera leifar selja frá Brautarholti, Saurbæ, Borg, Hjarðarnesi, Nesi, Mýrarholti, Ártúni og Hofi, s.s. Hofselin gömlu. Ætlunin var að reyna að finna og skoða selleifarnar í Blikdal. Blikdalur er um 7 km langur svo gangan var a.m.k. 14 km.

 Blikdalur

Selin í Blikdal eru í landnámi Ingólfs – þess fyrsta norræna manns er nam land hér á landi til lífsframbúðar. Í 8. kafla Sturlubókar afskriftar Landnámu segir að „Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.“

Jarðabók Árna og Páls segir að Brautarholt (kirkjustaður) hafi haft „selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi. Haglaust er að mestu á jörðunni bæði sumar og vetur.“
Um Ártún (kirkjujörð frá Saurbæ) segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Bleikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“
 BlikdalurOg um Saurbæ (kirkjustaður): „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“
Hjarðarnes (kirkjujörð frá Saurbæ) er nefnt: „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er einnig vikið að beitilandi og
selstöðum fleiri jarða á Blikdal.
Um Hof segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal, þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“
Borg (kirkjujörð frá Brautarholti): „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.
 BlikdalurUm Nes, eina af hjáleigum Brautarholts segir Jarðabókin: „Selstöðu hefur jörðin brúkað frí í Blikdal þar sem er Brautarholtskirkjuland.“
Mýrarholt, kirkjujörð frá Brautarholti, hefur samkvæmt Jarðabókinni eftirfarandi selstöðu: „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi í Blikdal.“
Samkvæmt framangreindum  heimildum eiga að hafa verið allt að átta selstöður í Blikdal. Hvort þær hafi allar verið í sama selinu eða víðar í dalnum átti eftir að koma í ljós.

Blikdalur

Seltóft í Blikdal.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns segir að til íhugunar sé varðandi jarðir í Kjalarneshreppi að samkvæmt Jarðabók Árna og Páls átti konungur eða hafði átt allar jarðir í hreppnum innanverðum, þ.e. Þerney, Álfsnes, Fitjakot, Varmadal, Stardal, Hrafnhóla, Þverárkot, Gröf (Norðurgröf), Velli, Kollafjörð, Mógilsá, Esjuberg, Móa, Saltvík og Skrauthóla. Einn einstaklingur var eigandi að Brautarholti og Bakka og hafði þá yfirráð yfir jörðum Brautarholtskirkju, Borg og Mýrarholti, og átti einnig hluta úr Hofi og Lykkju.
Í landamerkjabréfi jarðanna frá 1922 er merkjum í Blikdal lýst þannig að þau liggi eftir beinni stefna í Strítu á fjallsbrún og „þaðan sem vötnum hallar suður fram í Bleikdalsbotn, og síðan þaðan eins og Bleikdalsá ræður í sjó niður.“

Blikdalur

Blikdalur.

Blikdalur [Bleikdalur] er nefndur í máldaga Saurbæjarkirkju frá því um 1220. Þar segir: „Bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fioru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“ Sömu upplýsingar koma fram í Vilchinsmáldaga frá 1397. Fjallað er um eignarrétt Brautarholtskirkju á Blikdal samkvæmt máldögum og visitasíum undir Brautarholti hér að framan.
Skúli Magnússon segir í Lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem samin var á
árunum 1782 – 1784 um Blikdal: „Undir síðast greindar jarðir [þ.e. Brautarholt og Saurbæ] liggur dalur einn, Bleikdalur að nafni. Skerst hann inn milli Esju og Esjuháls. Eru þar sel og góðir hagar.“
 Blikdals er ekki getið sérstaklega í biskupsvisitasíum í Saurbæ. Kirkja þar átti 30 hndr. í heimalandi en samkvæmt máldögum voru það jarðirnar Ártún og
Hjarðarnes.
Árið 1812 var lögð fyrir sáttanefnd ákæra Saurbæjarbónda á hendur bóndans í Arnarholti fyrir ágang hrossa á óðals- og kirkjulandi Saurbæjarkirkju. Ekki er ólíklegt
að þar hafi verið um Blikdal að ræða. Í byrjun 5. áratugar 19. aldar hafði Runólfur Þórðarson í Saurbæ kirkjulönd Saurbæjar og Brautarholts til umráða. Þessi svæði lágu í Bleikdal [Blikdal]. Þann 17. maí 1842 gaf Runólfur út viðvörun til íbúa Kjalarneshrepps þess efnis að þeir mættu ekki reka stóðhross, lömb eða annan geldan fénað þangað án hans leyfis. Í tilkynningunni, sem var þinglesin þann 1. júní 1842, minnist hann á Ártúnsrétt og nauðsyn þess að reisa nýja rétt.

Blikdalur

Blikdalur innanverður.

Í tilkynningu sem ábúandinn á Saurbæ undirritaði 26. maí 1850 lýsir hann því yfir að hann hafi ákveðið að banna „innan og utansveitarmönnum“ að stunda stóðhestarekstur í Blikadal. Ábúandinn telur sig hafa rétt til þessa því hann hafi Blikadal á leigu. Í tilkynningunni kemur einnig fram að gamlar stóðhryssur sem „hvergi annars staðar tolla” séu undanþegnar banninu. Tilkynningin var þinglýst 31. maí 1850.
Á manntalsþingi, sem haldið var á Esjubergi þann 8. júní árið 1860, var lesin upp tilkynning frá A. Björnssyni [í Brautarholti], Ásbirni Ásbjörnssyni [í Mýrarholti] og Runólfi Þórðarsyni [Saurbæ], sem dagsett var 31. maí sama ár, en í henni banna
þeir notkun á Bleikdal.

Þann 17. maí 1873 skrifaði umráðamaður Brautarholtskirkju undir tilkynningu þess efnis að enginn mætti reka fé á Bleikdal [Blikdal] án þess að hafa til þess leyfi frá bændunum á býlunum tveimur Mýrarholti og Brautarholti, sem höfðu einhvers konar byggingarleyfi fyrir dalnum. Yfirlýsingin var þinglesin þann 20. maí 1873.
Þann 29. maí 1890 var landamerkjabréf jarðarinnar Bakka undirritað. Það var þinglesið 3. júní sama ár. Þar er að finna upplýsingar um Blikdal: Að norðanverðu ræður Ártúnsá að Bleikdalsmynni, þaðan eru landamerki í Urðargeira, þaðan í Pollalæk en úr Pollalæk ræður garðlag sem ber í þúfu
sunnanvert við Grænhól, úr þeirri þúfu beina stefnu í Fjósgróf við sjó fram. Hér er minnst á garðlag í dalnum.
 Landamerkjabréf Saurbæjar var undirritað í maí 1890 og þinglesið 3. júní
1890. Í því er að finna upplýsingar um Blikdal: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig: að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils, en Ártún fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.“ Hér er getið um Selgilslæk.
Í fasteignamatinu 1916-1918 eru með Brautarholti taldar allar hjáleigur, Andríðsey og kirkjujarðirnar Brekka, Arnarholt, Mýrarholt, Prestshús og 2.2 hundruð í Bakkaholti. Landið er talið allmikið, láglent og því fylgir hálfur Blikdalur en þar uppfrá er afrétt.

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Landamerkjabréf fyrir Brautarholt ásamt jörðunum Bakkaholti, Brekku, Arnarholti, Mýrarholti og Presthúsum var undirritað 31. maí 1921. Því var þinglýst 22. júní 1922. Í lok landamerkjabréfsins er að finna upplýsingar um Blikdal: „Ennfremur fylgir Brautarholti Bleikdalur allur sunnan Bleikdalsár, suður og austur á fjallsbrún eins og vötnum hallar, ennfremur Andriðsey á Hvalfirði.“
Árið 1922 var samið nýtt landamerkjabréf fyrir Saurbæ. Það var undirritað 8. maí það ár og þann 22. júní var það þinglesið. Þar er líka að finna upplýsingar um Blikdal: „Gagnvart Melalandi eru mörk frá jarðföstum steini með þúfu á við sjó, fyrir sunnan svokallaðan Markalæk, fyrir norðan Hjarðarneskot og svo þaðan beina stefnu í tvo steina báða merkta með M.K. og stendur annar þeirra í stórasandhól fyrir norðan veginn en hinn sem er stærri stendur að sunnan verðu við veginn.
 BlikdalurFrá merkjasteinum þeim er við veginn standa er bein stefna í Strítu á fjallsbrún og þaðan sem vötnum hallar suður fram í Bleikdalsbotn, og síðan þaðan eins og Bleikdalsá ræður í sjó niður. Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskifta beit en slæjur þannig að Hjarðarnes og Hjarðarneskot hafa slæjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils, en Ártún fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Blikdalur – Saurbæjarsel.

Rétt aðeins er minnst á Blikdal [Bleikdal] á nokkrum stöðum í fasteignamati árins 1932. Í umfjölluninni um afréttarland Saurbæjar er sagt að hálfur Blikdalur sé afréttarland hennar en að nyrðri hluti sé kirkjujarðarinnar. Þar kemur einnig fram að: „6 + 8 [þ.e. Hjarðarnes og Ártún] nota líka. Í kaflanum um Arnarholt kemur fram að
hálfur syðri hluti Blikdals sé upprekstrarland jarðarinnar og í umfjölluninni um
jörðina Brautarholt er nefnt að afréttarland jarðarinnar sé hálfur syðri hluti Blikdals.
Við sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar, 3. apríl árið 1998, eignaðist borgin þann hluta Blikdals sem Kjalarneshreppur hafði keypt árið 1960.
Þann 13. september árið 2000 keypti Reykjavíkurborg hluta Saurbæjar í óskiptri sameign í Blikdal norðan Blikdalsár.

 

Margir þverlækir eru í Blikdal

Í bókinni „Upp á sigurhæðir –  Saga Matthíasar Jochumsonar“ eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur er að finna eftirfarandi texta á bls 259: „Matthías segir frá því þegar Guðrún (dóttir Runólfs óðalsbónda í Saurbæ – viðbót HÓ) sendi honum úr selinu í Blikdal ber í skjólu og fáeinar línur með. Matthías nefnir ekki hvað Guðrún skrifaði, en bregst svo glaður við að hann ríður fram á dal til að þakka henni sendinguna.Sól skein „hlæjanda í heiði“ og Blikdalurinn var hinn hýrasti. Í fyrri útgáfunni að Söguköflum Matthíasar hefur allt er varðar þetta tildragelsi verið fellt niður. Þessi stund í dalnum leið í algleymi svo auðvelt er að ímynda sér hvað þau Guðrún gerðu. Eftir þetta fór samdráttur þeirra að „verða hljóðbær“.
Á bls. 260 segir ennfremur: „Annað ástarkvæði, „Daladrósin“, er skrifað í sömu stílabók og því greinilega um Guðrúnu uppi í selinu:

Hátt í dalnum, sólarsalnum,
Situr stillt og þýð,
Snotur, hýr og hnellin,
Há og grönn og smellin,
dala-drósin blíð.

Saurbæjarsel

Saurbæjarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Hún er þar innan um lömbin; ástin rís með yndisþrá í ungu brjósti hennar, en rósin hnígur og hún er ein eftir í dalnum þegar sá sem hún elskar fer frá henni….en hann kemur loks aftur úr austri. Lok þessa kvæðis er bara í stílabókinni en ekki í Ljóðmælum Matthíasar. Þar er sá sem hún elskar úti á hafi, ann henni heitt og biður fjallavindinn að færa sér koss „eldheitrar meyjar“ við „úrsvalan foss“.
Raunveruleikinn var nokkurn veginn eins og í kvæðinu nema hvað hann varð mun svartari þegar samdráttur þeirra Matthíasar og Guðrúnar varð lýðum ljós. Dagurinn sæli í Blikdalnum er á berjatíma haustið 1872 en barn þeirra fæðist í janúar 1874. Samband þeirra virðist því hafa staðið í marga mánuði. Það er ekki fyrr en Guðrún verður þykkari sem skelfingin vaknar.“
ÁrtúnAð sjá gerðist ýmislegt í seljum landsins þó ekki séu til margar frásagnir af lífinu þar. Það verður þó að geta þess að Matthías og Guðrún giftust sumarið 1875 eftir að Matthías hafði stungið af úr hempu og sókn frá henni óléttri haustið 1873.
Það var vel við hæfi  að rifja þetta upp við seljarústirnar í Blikdal. Efsta myndin er af seli Guðrúnar. Það er greinilega yngst af þeim 8 seljarústum, sem sjá má í dalnum. Selið er fremst fjögurra selja norðan árinnar. Fjögur sel eru sunnan hennar. Öll selin eru á tiltilölulega afmörkuðu svæði. Fremsta selið stendur efst. Það er tvískipt tóft með dyr mót vestri. Þaðan hefur verið auðvelt að fylgjast með aðkomufólki. Selsstígurinn liggur beint að tóftinni. Austan hennar er tóft, sennilega af eldra seli, sem hefur verið nokkurn tíma í notkun. Norðar er tvískiptur stekkur. Sjá má grjót í honum líkt og í nýrri seltóftinni.
Efsta tóftin að norðanverðu er einnig tvískipt og stakt hús við hliðina. Dæmigert sel á Reykjanesskaganum. Vestar eru Ártúnfleiri tóftir og vestan við beygju á ánni eru jarðlægar tóftir, greinilega mjög gamlar. Handan árinnar er tóftir austast í grónum hól. Á sléttlendi við ánna eru ógreinilegar tóftir ca. 25 m vestar. Skammt vestan þeirra eru tóftir tveggja selja, líkum þeim sem sjá má austast að norðanverðu, tvískipt hús með öðru við hliðina. Tóftirnar eru allar grónar en vel mótar fyrir veggjum. Selin að norðanverðu eru öll við lækjasitrur, en suðurselin eru á árbakkanum.
Það eru sem sagt leifar átta selja í Blikdal. Tækifærið var notað til að rissa nokkur seljanna upp. Dalurinn er gróinn að norðanverðu og auðvelt að greina svæðin þar sem selin voru. Staðsetningin er heppileg því þar sem selin eru má heita logn þegar blæs annars staðar í dalnum. 

Hofssel

Hofssel í Blikdal.

Að sögn Páls Ólafssonar, bónda í Brautarholti, var Blikdalurinn tvískiptur; Brautarholt átti suðurdalinn og Saurbær norðurdalinn. Nes, Borg og Hof tilheyrðu Brautarholtsstorfunni og Ártún, Hjarðarnes og Mýrarholt (Mýrarhús) tilheyrðu Saurbæjartorfunni. Á handrituðu örnefnakorti af norðanverðum Blikdal er getið um Selfjall, Selgil, Selgilsbolla, Sel og Ha[?]ssel.
Blikdalsáin var í leysingum líkt og að vorlagi, snjór þakti læki, en á einstaka stað mátti sjá lífsneista að vori.
Rústir Ártúns eru rétt austan við Vesturlandsveginn. Ofan þeirra má enn sjá grónar rústir hinnar gömlu Ártúnsréttar, sem nefnd er hér að ofan. Kjalnesingaréttin nýrri (Arnarhamarsréttin) er nokkru sunnar, undir lítilli klettarhæð, Arnarhamri.
Stefnt er að annarri ferð í Blikdal (Bleikdal) fljótlega. Til fróðleiks má geta þess að orðið „bleik“ þýðir „mjólk“ á gelísku.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Máldagar Saurbæjarkirkju frá 1220 og 1315.
-Landnám Ingólfs. I. bindi. Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Verðlaunaritgerð eftir Skúla Magnússon, landfógeta. Reykjavík 1935-1936, bl. 136.
-Upp í Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, bls. 259.
-Jarðabók JÁM og PV 1703. III. bindi.
-Landamerkjabréf
-www.obyggðanefnd.is

Blikdalur

Blikdalur.

 

Rjúpnahæð

FERLIR var boðið í skoðunarferð um loftskeytastöðina á Rjúpnahæð. Stöðin, þakin möstrum, línum og lögnum, var reist af Bretum á hæðinni ofan og utan við höfuðborgina snemma í Seinni heimsstyrjöldinni.
Sjálf bækistöðin var hýst í Aðkoman að loftskeytastöðinnitveimur bröggum efst á hæðinni, milli tveggja mastra er enn standa. Bandaríkjamenn yfirtóku síðan bækistöðina. Þeir voru rifnir og nýtt hús byggt undir vaxandi og ómissandi starfsemi árið 1952. Það hús stendur enn og hýsir um þessar mundir allar kynslóðir senda, allt frá örfáum vöttum til nokkurra þúsunda. Á næstu mánuðum (þetta er ritað í okt. 2007) verða möstrin felld og húsið jafnað við jörðu. Svæðið er komið á framkvæmd deiliskipulags Kópavogs og þá og þegar að því kemur verður engu þyrmt – ef af líkum lætur. Nú þegar er byrjað að grafa fyrir og leggja götur á svæðinu.

Rjúpnahæð

Í loftskeytastöðinni á Rjúpnahæð.

Umsjónarmaður loftskeytastöðvarinnar, greinilega eldklár á sínu sviði, en fannst greinilega miður, líkt og áheyrendum, að rífa þyrfti hið veglega hús á hæðinni. Skipulagið gerir þar ráð fyrir tvöföldum nútímavegi (sem eflaust verður orðinn úreltur eftir hálfa öld), en með ofurlítilli hugsun og broti af skynsemi hefði auðveldlega verið hægt að gera það að miðstöð svæðisins; annað hvort sem safnhúsi eða einhverju öðru ekki síður merkilegu. En  gróðarhyggjan spyr ekki að slíku – lóðin mun vera verðmætari en húsræksnið, sem þó virðist bara í ágætu ástandi, enda vel vandað til verksins í upphafi.

Loftskeytastöðin á Rjúpnahæð

Vangaveltur koma óneitanlega upp um hvers vegna íbúar Kópavogs hafi ekkert lagt til málanna í þessum efnum. Kannski hafa þeir bara ekki skoðað málið nægilega vel eða velt væntanlegum afleiðingum fyrir sér – sem og möguleikum á nýtingu hússins.
Ætla má að einhver hafi tekið skyndiákvörðun um brotthvarf þessara minja í reykfylltu herbergi án sérstakrar umhugsunar.
Loftnetin utandyra virtust fleiri en eyjarnar á Breiðafirði og hólarnir í Vatnsdal. Víravirkin eru sum að sjálfsögðu orðin úrelt, en þau þjónuðu þó sínum tilgangi á meðan var. Það eitt ætti að kalla á svolítið viðstaldur. Mannsævin er stutt, en ávallt minninga virði. Það finnst a.m.k. afkomendunum. Þeim finnst og mikilvægt að halda í minningu þeirra, öðrum eftirlifandi til áminningar og eftirbreytni. Ákvarðanatakar í bæjarstjórn Kópavogsbæjar virðast allir tröllum gefnir í þeim efnum.
Með elstu minjum stöðvarinnarÞegar inn í sendistöðina var komið birtist fyrst íslenskt karlkyns; Spói. Hann tók fagnandi á móti hálfkvenkynssammyndinni Brá – ætlaði reyndar aldrei að láta af fagnaðarlátununum. Greyið var reynar að koma úr eistaaðgerð og því ekki til stórræðna líklegur.
Inni í sendistöðinni var óendanlega mikið af sendum og öðrum tækjum. Aðallega stuttbylgju og langbylgjusendar fyrir flugfjarskipti. Í kjallaranum voru síðan fm sendar fyrir x-ið og einhverjar fleiri stöðvar. Ekki var þera neitt útvarpstæki, bara símtól sem hægt var að tengja við suma sendana. Í rauninni eru þarna minjar um upphaf fjarskipta hér á landi. Fyrsti sendirinn, „serial no 1“, brann að vísu yfir á sínum tíma, en þarna er enn „serial no 2“, sem verður að teljast allnokkur safngripur. Síðan tekur hver safngripurinn við af örðum – í þróunarröðinni. Sum nöfnin er alkunn, en önnur ekki. Í ljós kom að þekking og reynsla íslenskra sérfræðinga dugðu vel til að betrumbæta sum tækin þeannig að þau dugðu betur en áður þekktist. Það er jú varðveislunnar virði. Ekki er vitað til þess að saga loftskeytastöðvarinnar hafi verið skráð – líklegra er lengra í söguna en eyðileggingu hennar.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Fólk vill víst ekki hafa loftnetin þarna lengur, sem verður jú að teljast eðlilegt. Það verður víst að vera pláss fyrir fleiri blokkir eða einbýlishús í Kópavogi. Þó hefði ekki orðið fráfallssök þótt eitt ef elstu möstrunum hefði verið hlíft, sem minjamastri fyrir það sem var (hugsað fram í tímann).
Einkahlutafélag mun á næstunni hefja rekstur fjarskiptamastra á gamla varnarsvæðinu í nágrenni Grindavíkur samkvæmt upplýsingum blaðsins. „Í dag rekur félagið möstur við Rjúpnahæð í Kópavogi, en á því svæði stendur til að byggja og þurfa möstrin því að víkja. Þau möstur verða þó ekki flutt til Grindavíkur heldur munu Flugfjarskipti nota möstur sem bandaríski herinn skildi eftir við fjallið Þorbjörn. Möstrin á Rjúpnahæð verða tekin niður og gerður hefur verið samningur við Kópavogsbæ um frágang þess máls. Möstrin sem Flugfjarskipti hyggjast taka í notkun í námunda við Grindavík eru um 10-12 talsins, en þau verða notuð til fjarskipta við flugvélar á flugi í íslenska flugstjórnarsvæðinu yfir Norður-Atlantshafi.

Staðfesting á elsta "núlifandi" sendir stöðvarinnar

Í fyrra keypti Flugfjarskipti hluta jarðarinnar á Galtarstöðum í Flóahreppi og hugðust flytja möstrin sem standa á Rjúpnahæð þangað. Stjórn hreppsins hafnaði hins vegar beiðni Flugfjarskipta um að fá að reisa möstrin þar, en hæð þeirra átti að vara 18-36 metrar. Gert er ráð fyrir að flutningurinn frá Rjúpnahæð fari fram í áföngum á þessu ári og næsta, en möstrin á Rjúpnahæð verða í notkun þar til að fyrirtækið er endanlega flutt á nýjan stað. Kópavogsbær reiknar með að hægt verði að hefja byggingar af fullum krafti næsta sumar og að svæðið verði að mestu full byggt 2010-2011.“ Hið jákvæða í þessu öllu saman er að starfsemin færist til Grindavíkur, en hið neikvæða felst í niðurrifshugsjóninni.

Loftskeytastöðin

Loftskeytastöðin á Melunum.

Til frekari fróðleiks er rétt að rifja upp að loftskeytastöðin á Melunum tók til starfa 17. júní 1918. Þetta var neistasendistöð með krystalviðtækjum. Tvö 77 metra möstur voru reist fyrir loftnet. Loftskeytastöðin sendi út og tók á móti á morsi fyrsta áratuginn. Síðar annaðist hún einnig talskipti og veitti öllum skipum í námunda við Ísland ómetanlega þjónustu sem stórbætti öryggi sjófarenda.
Elsti sendirinn - sem væntanlega veðrur fargaðFrá örófi alda hafa menn reynt að finna aðferðir til að hafa samskipti við aðra. Sending reykmerkja og trumbusláttur eru meðal þeirra aðferða sem notaðar voru í upphafi en fjarskiptatækni nútímans byggist aftur á móti á eiginleikum rafmagns og rafsegulmagns. Gríðarlegar framfarir urðu í tæknimálum á 19. öld. Þá bjó t.d. Ampére til nálaritsíma og stuttu síðar smíðaði Morse nothæfan ritsímalykil og bjó til sérstakt stafróf. Árið 1876 talaði Bell í síma í fyrsta skipti og Marconi sendi fyrstu loftskeytin árið 1897.
Árið 1906 markar tímamót í fjarskiptasögu Íslendinga. Það ár var sæsímastrengur fyrir ritsíma lagður frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og kom hann á land á Seyðisfirði. Skeyta- og talsími var lagður frá Seyðisfirði um Akureyri og til Reykjavíkur og rauf hann einangrunina innanlands. Margir mótmæltu lagningu símans og töldu loftskeyti vænlegri kost en Hannesi Hafstein ráðherra tókst að sannfæra Alþingi um ágæti símans.

Pósthússtræti 3

Pósthússtræti 3 –
Barnaskóli, pósthús, símahús og lögreglutöð.
Í fyrstu hýsti húsið Barnaskóla Reykjavíkur (1883-1898) en þá var það tekið undir pósthús og stuttu síðar Landsíma Íslands. Árið 1931 var húsið tekið undir Lögreglustöð Reykjavíkur sem var hér til ársins 1965 þegar ný lögreglustöð var opnuð við Hlemm. Í kjallara hússins voru fangageymslur sem gengu undir nafninu „Steinninn“ eða „Grjótið.“

Það liðu þó mörg ár þar til allir landsmenn komust í símasamband en lagningu síma í sveitir lauk í kringum 1960 og voru þá enn margir símar á sömu línunni.

Landssími Íslands var stofnaður sama ár og símtæknin kom til landsins, árið 1906, og var hann til húsa í gamla barnaskólanum í Reykjavík á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Fyrsti yfirmaður Landssímans var Norðmaðurinn Olav Forberg sem hafði stjórnað lagningu símalína um landið. Fyrstu menntuðu íslensku símamennirnir voru símritarar sem höfðu verið í námi hjá Mikla norræna ritsímafélaginu í Kaupmannahöfn.
Eftirsóknarvert þótti að vinna við talsímann og sköpuðust með honum ný atvinnutækifæri fyrir karla og konur. Árið 1935 var síma- og póstþjónustan sett undir einn hatt en árið 1998 skildu leiðir á ný og Landssími Íslands hf. var stofnaður.
Fornfálegheit lofskeytastöðvarinnarLoftskeytastöð tók til starfa á Melunum í Reykjavík þann 17. júní 1918 í því húsi sem Fjarskiptasafnið er nú og kallaðist hún Reykjavík radíó. Sunnan- og norðanmegin hennar voru tvær 77 m háar loftnetsstangir. Fyrsta kallmerki stöðvarinnar var OXR en árið 1919 var Íslandi úthlutað kallmerkinu TF og bar stöðin síðan kallmerkið TFA. Upphaflega var loftskeytastöðin hugsuð sem varasamband til útlanda, viðbót við sæsímann, en aðalhlutverk hennar varð brátt þjónusta við skip og báta og var hún bylting fyrir öryggi þeirra.
Í fyrstu fóru öll fjarskipti við skip fram á morsi en talfjarskipti hófust árið 1930. Fyrsta íslenska fiskiskipið sem fékk loftskeytatæki var togarinn Egill Skallagrímsson, árið 1920.

Rjúpnahæð

Möstur loftskeytastöðvarinnar á Rjúpnahæð.

Tveimur árum síðar var fyrsti loftskeytamaðurinn ráðinn til starfa á íslenskt skip. Þegar skipum með loftskeytatæki fór að fjölga varð hörgull á mönnum sem gátu sinnt þessum störfum og var því efnt til námskeiðs fyrir unga menn sem vildu læra loftskeytafræði. Lauk fyrsti hópurinn námi árið 1923. Á hernámsárunum var Reykjavík radíó undir eftirliti hernámsliðsins. Þá voru loftskeytastöðvar reistar víða um land, t.a.m. á Rjúpnahæð og tvær við Grindavík.
Síminn hefur sinnt radíóþjónustu við flugvélar frá því í lok síðari heimsstyrjaldar. Þeirri þjónustu er sinnt í Gufunesi. Stöðinni á Rjúpnahæð hefur jafnan verið fjarstýrt þaðan.

Landsímahúsið við Austurvöll

Landsímahúsið við Austurvöll.

Árið 1963 fluttist öll starfsemi Reykjavík radíó í Gufunes sem er nú aðalstrandstöð fyrir skip auk þess að veita flugvélum fjarskiptaþjónustu.

Reykvíkingar voru fljótir að taka við sér og fá sér síma. Árið 1912 voru notendur í bænum alls 300 talsins, tíu árum síðar voru þeir nær 1100 og árið 1928 voru um 2400 símnotendur í Reykjavík. Þrátt fyrir að búið væri að byggja eina hæð ofan á gömlu símstöðina voru þrengslin orðin slík að ekkert pláss var fyrir fleiri skiptiborð og voru vinnuaðstæður mjög erfiðar. Ákveðið var að reisa nýtt hús fyrir starfsemi Símans og fékkst til þess lóð við Austurvöll.

Rjúpnahæð

Loftskeystastöðin á Rjúpnahæð – MWL.

Árið 1932 voru fyrstu sjálfvirku símstöðvarnar í Reykjavík og Hafnarfirði teknar í notkun. Þá gátu bæjarbúar hringt hver í annan án þess að fá samband í gegnum „miðstöð“ og hafa eflaust einhverjir saknað þess að þurfa ekki lengur að tala við stúlkurnar þar.
Sjálfvirkum stöðvum fjölgaði smám saman á landinu og árið 1976 voru allir þéttbýlisstaðir komnir með sjálfvirkan síma. Árið 1986 voru allir símar landsmanna tengdir sjálfvirkum stöðvum og fréttir sem menn heyrðu óvart í gegnum sveitasímana heyrðu sögunni til.
Símastaurar og línur sáust vart lengur í landslaginu þar sem farið var að plægja strengina í jörðu eða setja upp radíósambönd. (Vonandi mun slík þróun og verða v/jarðvarmavirkjanir hér á landi til lengri framtiðar litið).

Loftskeytamöstur á Rjúpnahæð

Lagning ljósleiðara um landið hófst árið 1985. Með honum jukust talgæði til muna en stafræn kerfi eru auk þess öruggari og hagkvæmari en fyrri kerfi. Flutningur annarra gagna en símtala varð mögulegur og var almenna gagnaflutningsnetið tekið í notkun ári síðar. Fyrstu stafrænu (digital) símstöðvarnar voru opnaðar árið 1984 og náði sú tækni til allra símstöðva ellefu árum síðar. Með stafrænu tækninni var unnt að bjóða upp á ýmsa sérþjónustu. Íslendingar eru fljótir að tileinka sér nýjungar og það átti svo sannarlega við um farsímana. NMT-kerfið hóf göngu sína árið 1986 og GSM-kerfið árið 1994. Árið 1998 var breiðbandið tekið í notkun og verður það notað fyrir margvíslegan gagnaflutning í framtíðinni, s.s. síma, sjónvarp, útvarp og tölvur. Það hefur verið kallað upplýsingahraðbraut framtíðarinnar.

Scotice

Fyrstadagsumslag frá árinu 1962.

Talsamband við útlönd á stuttbylgjum var opnað árið 1935 og voru um 250 samtöl afgreidd fyrsta mánuðinn. Gjaldið fyrir útlandasímtal þætti hátt í dag en það var þá 33 kr. fyrir þriggja mínútna símtal sem jafngilti því sem næst heilu ærverði. Til samanburðar má geta þess að áskrift að dagblaði kostaði á sama tíma 2-3 kr. á mánuði. Nýr sæsímastrengur, Scotice, milli Skotlands og Íslands var tekinn í notkun árið 1962 og olli hann enn einni byltingunni í samskiptum Íslendinga og annarra þjóða. Í tengslum við strenginn var komið upp telexþjónustu hér á landi og varð hún mjög vinsæl hjá fyrirtækjum og stofnunum. Ári síðar var Icecan-strengurinn, milli Íslands og Kanada, formlega tekinn í notkun.
Elsta braggahúsið var á millum mastrannaÁrið 1980 kom jarðstöðin Skyggnir til sögunnar og fóru þá samtöl til útlanda um gervihnött. Þá var fyrst hægt að hringja beint til annarra landa. Skyggnir sinnir enn hluta þjónustunnar og er einnig notaður sem varaleið en árið 1994 var nýr sæstrengur, Cantat-3, tekinn í notkun. Hann liggur þvert yfir Atlantshafið, frá Evrópu til Ameríku, en grein frá honum
tengist Íslandi. Um hann fer nú meirihluti símtala frá landinu til útlanda og mikill gagnaflutningur, s.s. Internetið.
Í deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð segir m.a.: „Í tillögunni er gert ráð fyrir nýju íbúðarsvæði vestast í Rjúpnahæð. Nánar tiltekið afmarkast deiliskipulagssvæðið af opnu svæði við fyrirhugaða Smalaholti til vesturs, skógræktarsvæði og golfvelli GKG til norðurs, fyrirhugaðri byggð við Austurkór, Auðnukór og Álmakór til austurs sveitarfélagsmörkum Kópavogs og Garðabæjar til suðurs. Áætlað er að á svæðinu rís 120 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Aðkoma er fyrirhugðu Ásakór um Austurkór.“
Svo mörg voru þau orð…
Beitarhústóft frá Fífuhvammi norðan í RjúpnahæðVið skoðun FERLIRs komu í ljós tóftir norðan við afmarkaða girðingu loftskeytastöðvarinnar. Í gögnum segir að „í norðurhlíðum Rjúpnahæðar ofan golfvallar eru menjar gamals sels. Selið var verndað með bæjarvernd í tengslum við framkvæmdir sem áætlaðar voru á svæðinu. Framkvæmdir þessar voru Landgræðsluskógrækt, lagning reiðstíga og gerð golfvallar.“
Ef grannt er skoðað er þarna um að ræða leifar beitarhúss, væntanlega frá Fífuhvammi. Fífuhvammslækur hefur áður runnið um dalverpið, sem nú hefur verið fylt upp. Ofan við bakka þess hefur nefnt sel að öllum líkindum verið. Erfitt verður að staðsetja það af nákvæmni úr því sem komið er, bæði vegna þess að trjám hefur verið plantað í neðanverða hlíðina auk þess sem verulegt rask hefur orðið neðan hennar vegna undangenginna framkvæmda.
Mannvirkin og söguleg tilvist þeirra mun að óbreyttu hverfa á næstu mánuðum. Reyndar er leitt til þess að vita því áhugafólk um söfnun minja frá stríðsárunum hefur lengi leitað eftir slíku húsnæði fyrir safn. Myndirnar hér að ofan voru teknar í okt 2007, en myndin að neðan ári síðar. Segja má að nú sé Snorrabúð stekkur.

Heimildir m.a.:
-http://siminn/saga_simans/+loftskeytast.is
-http://www.fjarskiptahandbokin.is/
-Kopavogur.is

Loftskeytastöðin haustið 2008

Brautarholt

Gengið var með ströndum hins eiginlega Kjalarness utan við Brautarholt. Ætlunin var m.a. að skoða Presthúsatanga, Nesvíkina, Kjalarnesið, Borgarvíkina, Músarnesið og Brautarholtsborgina, auk þess Björnsstekk og borgina á Borginni. Hér er um að ræða svæði, sem jafnan er utan alfaraleiðar, en hefur upp á ótrúlega margt að bjóða.

Brautarholtskirkja

Brautarholtskirkja.

Gangan hófst við Brautarholtskirkju á Kjalarnesi, en telja má hana afkomanda fyrstu kirkju á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlykur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu og víðar. Kirkjan, sem þarna er nú, var reist árið 1857 af Eyjólfi Þorvarðarsyni frá Bakka á Kjalarnesi. Áratug eftir vígslu kirkjunnar kom þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson til þjónustu í kirkjunni (1867-73). Hér má m.a. lesa um ferðir hans upp í Blikdal, selstöður Brautarholtsmanna fyrrum. Nýlega var kirkjan endurbyggð frá grunni og virðist kirkjunni hafa verið vel við haldið.
Til eru ágætar örnefnalýsingar frá Brautarholti og svæðinu öllu, sem Örnefnastofnun Íslands hefur haft forgöngu um að gera. Í einni þeirra segir m.a. um gömlu bæina: „
Litlu býlin og húsmanns býlin, sem ég tel upp eru nú horfin úr Jarðabókum. Borg, Skemma, Ketilstaðir, Kjalarnes, Hjallasandur, Lambhús, Flatbjörn, Langabúr austara, Langabúr vestara, Mýrarholt, Arnarholt er eign Reykjavíkurborgar ásamt Brekku og smábýlum eða húsm. býlum, Sigurðarhús, Hryggur, Berg, Nauðverja, Presthús, sem er eign lögfr. í Reykjavík.

Borgin

Borgarskarð upp af gamla Borgarbænum og Brautarholtsborg. Norðan undir henni var hið stóra býli, Borg, fyrr á tímum. 18 hurðir voru á hjörum í Borg.
Norður frá Borginni eru Kinnarhólar. Svo er mýri þar vestur af eða suðvestur af Kinnarhólum. Hún heitir Gullkistumýri. Vík þar vestur af heitir Gullkistuvík. Í kletti sunnan við Gullkistuvík er sagt, að sé falin gullkista, og heitir þar Gullkistuhöfði.“ Í annarri lýsingu segir: „Gullkista er drangur í sundi, sem liggur inn í Gullkistuvík.“
Þá; „Upp og austur af Gullkistuvík er holt, sem heitir Móholt; þar var breiddur mór. Það er upp af Nesvíkinni nyrzt, Vestast er þar smáhæð. Þar er vík, sem nefnd er Pálsbúð. Sunnan við Gullkistumýri er Nesvík. Syðst í mýrinni eru smáhólar, og þar suður af er Vestri-Nesbær og Eystri-Nesbær. Hreppstjórabúð heitir milli þeirra. Þá eru Borgarhólar, sem eru austur af Borginni. Tangar eru undan Eystri-Nesbæ. Milli Gullkistu og Nesvíkur er svæði. Þar undir strandaði Laxfoss, 10. jan. 1944.

Laxfoss á strandsstað

Í Mbl 11. janúar 1944 segir frá sjóslysinu undir fyrirsögninni „Laxfoss strandar nálægt Effersey – Mannbjörg með naumindum eftir langan tíma – um 100 manns voru með skipinu“. Í fréttinni segir að Laxfoss hafi strandað kl. 7 1/2. farþegar um 100 manns náðust í land um og eftir miðnætti. Mikill sjór kom ískipið strax eftir strandið. Óvíst væri um björgun þess. veður var mjög dimmt, hríð og hvassviðri mikið.
Dráttarbáturinn Magni var sendur á strandsstaðinn. Magni kom aftur og sögðu skipverjar ógerlegt, eins og þá stóð, að komast nálægt skipinu. Björgunarsveit frá slysavarnarfélaginu fór út í Effersey til að freista að koma björgunarlínu þaðan út í skipið. Það reyndist ómögulegt vegna veðurs. Ein lína lenti þó yfir skipið, en festist svo ofarlega í afturmastrinu, að henni varð ekki náð.
Borgarvík og Músarnes og Anriðarey fjærNokkrir menn komust í land í skipsbátnum vestan við Grandagarð. Þeir sögðu að strax hefði komið mikill leki að skipinu, en farþegar væru rólegir. Tókst að koma línu í skipið og síðan ferja fólkið til lands, smám saman, með aðstoð Magna og amrísk innrásarpramma. Tókst að bjarga öllum, 91 manni (78 farþegar og 13 skipverjar), sem um borð höfðu verið. Skipið hafði verið í strandsiglinum. Farþegarnir voru flestir Norðlendingar, þar á meðal 6 þingmenn og stjórn Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði.
Varðskipið Ægir reyndi að ná Laxfossi af skerinu skv. frétt Mbl daginn eftir. Þann 13. janúar segir svo frá því að „hæpið verði að ná Laxfossi út – botninn mikið brotinn“. Skipið hvarf síðan í sjóinn nokkru seinna.
Skammt vestan við Presthús er kjölur af bát, táknrænn fyrir svæðið. Augljóslega er þarna um að ræða leifar björgunarbáts. Það skyldi þó ekki hafa verið einn af björgunarbátunum frá Laxfossi?
BjörnsstekkurÞá er Músasund vel gert af guðs og góðra vætta hendi, er sjómenn, er leið eiga inn í Hvalfjörð í beitufjöru hafa hárviss leiðarmörk, 2 hlaðnar vörður vel gerðar (af snild) af bændum í Brautarholti, er þeir settu upp hræður til að verja æðarvarpið fyrir fuglavargi og jafnvel sportveiðiþjófum úr öllum stéttum mannfélagsins.
Í Andrisey er Andríðarhóll, sem fregnir herma, að Andriður gamli í Brautarholti væri í heygður, er hann var
veginn eftir hofsbrunann að Hofi. Síðan segir, að byrjað hafi verið að grafa í hólinn, en þá hafi öll bæjarhús í Brautarholti verið í ljósum loga. Merki sjást til þess, að grafið hafi verið í hólinn.
Hér á eftir þarf að koma fyrir lengri texta þótt ekki væri fyrir annað en að koma að myndum af nokkrum þeim minjum, sem sáust á leiðinni, s.s. Björnsstekk, öðrum stekk skammt vestar, tóft ofan við Messing og fjárborg á Borginni sjálfri.
Stekkur vestan NesvíkurÞegar gengið var framhjá Prestinum undan Presthúsatanga var m.a. rifjuð upp hluti af sögu nýlegs sakamáls er segir frá fullyrðingu manns, sem myrti konu og sagðist hafa kastað líki hennar þarna í sjóinn. Það fannst hins vegar þremur dögum síðar í Smalaskálahæð sunnan við Hafnarfjörð.
Nesvíkin er formfögur vík. Eignin tilheyrir fjölskyldu Jóns heitins Ólafssonar á Brautarholti. Þarna er hin ágætasta aðstaða með enn ágætara útsýni.
Uppi á Borginni (Brautarholtsborg) eru leifar af hringlaga fjárborg, sem standurinn ber að öllum llíkindum nafn sitt af. Lítið sést eftir af borginni, en þó greinir enn í neðstu hleðslurnar, auk þess sem borgin hefur gróið upp að innanverðu. Suðvestan undir borginni er fjárskjól. Sunnan þess er hár, myndarlegur, klettadrangur, sem án efa hefur haft nafn, enda hinir ákjósanlegustu huldufólksheimar.
Tóft ofan MessingsOfan Nesvíkina austanverða sést móta fyrir tóftum. Þar gæti hafa verið garður eða mannvirki tengd uppsátri. Ofan við miðja víkina, sunnan undir grónum hól, er Björnsstekkur. Hleðslurnar standa enn og vel má sjá lögun hans. Skammt vestar, einnig rétt ofan við víkina, er annar stekkur, heldur minni, en heillegur.
Vestar er Bryggjunes og Gullkistuvíkin. Gullkistan er greinileg úti í miðri víkinni. Hann er sérkennilegur að því leitinu að neðri hluti hans er bólstraberg, líkt og fjaran umhverfis, en hatturinn á henni er stuðlaberg.

Kjalarnes

Kjalarnes.

Skammt vestar er hið eiginlega Kjalarnes, ofan Messings. Þar er hin ákjósanlegasta lending með góðu vari. Greinilega er stutt á miðin því bátar voru á veiðum þarna skammt frá landi. Tóft er ofan víkurinnar, ferningslaga, en nánast fyllt af sandi. Grjót er í tóftinni. Sennilega eru þarna um að ræða leifar af sjóbúð. Ofar er hólaþyrping Kinnarinnar. Á þeim má sjá leifar eftir hernámsárin. Ofan af Kinnarhólum er fagurt útsýni yfir Borgarvíkina, Músarnesið og Andriðarey.
Strandssvæðið á Kjalarnesi er eitt hið fegursta, aðgengilegasta og fjölbreytilegasta slíkra á Reykjanesskaganum – og engin ástæða til að halda því lengur leyndu fyrir áhugasömu útivistarfólki.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar ÖÍ.

Gullkistuvík

Skötufoss

Árið 1704 bjó að hálfum Árbæ maður er Sæmundur hér, Þórarinsson, 41 árs gamall, grímsneskur að ætt. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir, 43 ára, og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Hjá þeim voru þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi.

Skötufoss

Skötufoss.

Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason, 26 ára gamall, ókvæntur, og móðir hans. Kærleikar munu hafa verið með þeim Sigurði og Steinunni og eggjaði hún hann til að fyrirkoma bónda sínum með einhverju móti.

Sunnudagskvöld eitt í septembermánuði fóru þeir Sæmundur og Sigurður til veiða í Elliðaánum. Er þeir voru staddir við Skötufoss, sem er skammt fyrirneðan Ártún, gekk Sigurður aftur að Sæmundi, sló hann með trébarefli, sem hann hafði meðferðis og hratt honum fram í hylinn.
Daginn eftir lét Sigurður þau boð út ganga til sveitunga sinn að Sæmundar væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir er drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var nú grafið og leið síðan nokkur stund.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.

Smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri annaðhvort valdur að dauða Sæmundar eða byggi yfir vitneskju um endalok hans. Var nú gengið á hann og er hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var nú einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Fengu þau bæði líflátsdóm og voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. “Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við” segir í Vallaannál.

-Elliðaárdalur – ÁH, HMS og RV – 1998.

Elliðaárdalur

Skötufoss.

Elliðavatn

Elliðavatn (Vatn) var löngum ein þekktasta jörðin í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Bújörðin Elliðavatn er ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.

Elliðavatn

Elliðavatn – stífla.

Á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatn.
Allt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum.

Rauðhólar

Svona lítur eystri hluti Rauðhólanna út í dag.

Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir. Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með „iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol).

Elliðavatn

Elliðavatn 1836.

Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“.

Elliðavatn

Elliðavatn á 19. öld.

Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.

Elliðaár

Elliðaár.

Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“.

En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.

Elliðavatn

Elliðavatn í leiðangi Gaimard.

Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn.
Kirkja var aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið.

Þingnes

Þingnes – uppgraftarsvæði.

Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk.

Uppdráttur af minjum í Þingnesi

Minjasvæði við Þingnes.

Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú nes, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.

Lesbók Mbl. – GÍSLI SIGURÐSSON

Elliðavatn

Elliðavatn.

Jón Svaþórsson
Í Rjúpnadölum að Rauðuhnúkum virðist liggja gömul gata, sem að mestu er gróið yfir. Þó vottar fyrir henni sums staðar í gróðurræmum og í hraunum.
Gengið var frá Bláfjallavegi í átt að Rauðuhnúkum. Fljótlega var komið að götu í gegnum hraunið að Rauðuhnúkum (GPS N64 01 525 W21 36 724). Stutt ganga var í gegnum hraunhaftið og síðan framaf hraunbrún við hnúkana. Stefnt var á áberandi dæld í hnúkunum. Gengið í vestur frá Bláfjallavegi (GPS N64 01 585 W21 36 764) á götu, stutt í gegnum hraunið. Þegar komið var út úr því kom fljótlega í ljós mjög greinileg gata sem stefnir að hlíðinni framundan. Síðan var komið að hrauntungu og liggur gata inn í hraunið (GPS N64 01 731 W21 37 013 h.y.s 330m). Gatan verður ógreinileg þegar inní hraunið er komið. Ef gengið er niður með hraunkantinum, er komið að mjög greinilegri götu inn í hraunið (GPS N64 01 810 W21 36 958 h.y.s. 316m). Hér virðist vera stytst yfir hraunið. Þegar yfir er komið (GPS N64 01 832 W21 37 080 h.y.s. 314m) sjást götur sniðhallt upp hlíðina framundan, vestan við lága klettaborg. (GPS N64 01 984 W21 37 325). Gatan liggur svo niður með lækjarfarvegi og niður á rinda með leiðarvörðu sem áður hefur verið mynnst á. Ef farið er niður til hægri þegar komið er yfir hraunið. Liggur leiðin um grasivaxna hvamma og síðan hallalítið upp með klettaborginni austanverðri (GPS N64 02 066 W21 37 116 h.y.s 321m), síðan fram á brúnir og sést þá leiðarvarðan greinilega framundan, niðri á rindanum.
Héðan var gengið að Bláfjallavegi örstutta leið, þar sem farskjóti beið tilbúinn við kröppu beygjuna. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið gata á milli gömlu leiðarinnar til höfðustaðarins vestan Fóelluvatna og Selvogsgötu og/eða Heiðarvegar vestan í Heiðinni há. Með því hafa vegfarendur getað sparað sér talsverðan krók ef ferðinni var heitið milli Selvogs og Reykjavíkur eða lengra. Mikið jarðrask hefur orðið í Bláfjöllum, en votta ætti fyrir leiðinni syðst og vestast í þeim, ofan við Strompa. Þar eru, skv. annarri lýsingu af þessu svæði, nokkur vörðubrot er gætu hafa tengst þessari leið. Skammt norðan við Litla-Kóngsfell eru gatnamót sem og vestan við það. Bæði mótin eru merkt með þremur vörðum. Við syðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg (sem jafnan er talinn vera Selvogsgata) og síðan til norðausturs inn á heiðina. Við nyrðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg og einnig af henni yfir á Heiðarveginn.

Selvogsgata

Litla-Kóngsfell.

Ekki er ólíklegt að þarna megi einnig finna áfanga af þessum götum til norðurs, niður með vestanverðum Bláfjöllum og niður með Draugahlíðum að austanverðu.
Ljóst er að fljótlega grær yfir götur, sem hætt er að nota. Gatan um Grindarskörð sést t.d. ógreinilega, nema þar sem hún skásker hlíðina að vestanverðu og hófar og fætur hafa markað för í klappir þar fyrir neðan. Vörðubrot geta einnig gefið ákveðnar vísbendingar um legu hinna gömlu gatna.
Skv. upplýsingum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, mun bæði Kóngsfellshraun (úr Bláfjalla-Kóngsfelli) og Rjúpnadalahraun (einnig úr Bláfjalla-Kóngsfelli) hafa runnið eftir landnám. Gamlar götur á þessu svæði gætu því einhverjar verið eldri en hraunin.

Frábært veður – gangan tók 2 klst og 2 mín.

-Jón Svanþórsson.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Elliðaárdalur

Eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins er Elliðaárdalurinn.

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, ekki til laxveiða heldur beislunar vatnsafls og rafstöðin var reist um 1920. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum en árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum, sem er eitt mesta aðdráttarafl dalsins.
Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.
Elliði sá sem Elliðaár eru nefndar eftir var skip Ketilbjörns gamla landnámsmanns.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur 1880 – Ben. Gröndal.

Í Landnámu segir: „Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar. Hann átti Helgu dóttur Þórðar skeggja. Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá [þ.e. sjó]. Hann hafði skip það er Elliði hét. Hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði“.
Ingólfur Arnarson, landnámsmaður í Reykjavík, er talinn fyrsti eigandi Elliðaánna. Eflaust hafa laxveiðar verið stundaðar í Elliðaánum allt frá upphafi byggðar í Reykjavík, þótt áður hafi það verið með öðrum hætti en nú. Fram eftir öldum áttu bændur og kirkjan veiðirétt í Elliðaánum, en við siðaskiptin lagði Danakonungur eignir kirkjunnar undir sig og eignaðist um leið veiðina í Elliðaánum. Í upphafi lét hann stunda veiðarnar fyrir sig en síðan voru þær leigðar út, fyrst árið 1757, að því er talið er.

Elliðaárdalur

Elliðaár.

Upp úr 1800 fór konungur að selja jarðir sem að Elliðaánum liggja. Átti hann laxveiðirétt í Elliðaánum í um 300 ár. Áður fyrr var laxinn veiddur ýmist með ádrætti í voginum við árósana, eða með stíflun árkvíslanna, annarrar í einu og var þá vatninu veitt í hina. Þannig var laxinn tíndur upp því sem næst á þurru. Reykvískur kaupmaður sem átti árnar um tíma gekk mjög nærri laxastofninum með því að veiða laxinn í kistur og voru báðar kvíslarnar þvergirtar með þeim búnaði. Laxinn fór ekki að rétta úr kútnum fyrr en Englendingur nokkur, Pyne að nafni, keypti árnar árið 1890. Þá hófust þar stangaveiðar með líkum hætti og nú eru stundaðar. Reykjavíkurborg keypti síðan Elliðaárnar árið 1906, sem fyrr sagði.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Elliðaárvirkjun var vígð árið 1921. Þremur árum síðar var hafizt handa við gerð miðlunarstíflu uppi við Elliðavatn. Henni var lokið 1926 og við þessar framkvæmdir fór Elliðavatnsengi ofan núverandi stíflu undir vatn. Fram að þeim tíma rann Bugða um engjarnar og sameinaðist Dimmu, sem var afrennsli Elliðavatns, sem var þá helmingi minna en það er nú. Neðan ármóta þessara þveggja áa fékk áin nafnið Elliðaár.
Líklegt er, að Ingólfur Arnarson hafi grafið fyrsta brunninn í Reykjavík. Um aldamótin 1900 voru 34 brunnar í Reykjavík og árið 1906 brauzt út taugaveikifaraldur vegna mengaðs vatns í mörgum þeirra. Árið 1909 var tekið neyzluvatn úr Elliðaánum til hausts en þá var vatnsveitan frá Gvendarbrunnum tilbúin.

Kristján X

Kristján X. sem var konungur Danmerkur frá 1912 til 1947 ásamt Alexandrínu af Mecklenburg-Schwerin drottningu.

Vesturfarinn Frímann B. Arngrímsson hvatti fyrstur manna til athugunar á möguleikum til virkjunar Elliðaánna til hitunar og lýsingar húsa í Reykjavík. Bæjarstjórn samþykkti þó ekki byggingu rafstöðvar þar fyrr en 26. september 1918. Steingrímur Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, var ráðinn rafmagnsstjóri í Reykjavík 1. júní. Kristján X og Alexandrína drottning hans vígðu stöðina 27. júní 1921.
Elliðaárnar falla úr Elliðavatni, þær kvíslast um miðbik dalsins og renna í tveimur kvíslum til sjávar. Er fleirtölumyndin Elliðaár dregin af kvíslum þessum..

Jarðfræði Elliðaárdals er stórkostleg vegna jarðfræðilegrar sundurgerðar. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi. Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla.

Viðeyjareldstöð

Viðeyjareldstöðin.

Í Elliðaárdal hafa fundist minjar sem tengjast nýsköpun í atvinnuháttum Íslendinga, en það eru leifar af byggingum sem reistar voru vegna ullarvinnslu Innréttinganna um miðja 18. öldina. Innréttingarnar, sem svo voru nefndar, höfðu það að markmiði að stuðla að framförum í atvinnulífi. Skúli Magnússon landfógeti hafði forgöngu um stofnun fyrirtækisins. Sögufrægasta byggingin frá tíð Innréttinganna er húsið við Aðalstræti 10.

Reykjavík

Þófaramylla við Elliðaár.

Minjar Innréttinganna, sem enn sjást og færri vita um, eru rústir sem standa í árhólmanum nokkru neðan við rafstöðvarbygginguna, á móts við veiðistað sem nefnist Teljarastrengur. Þarna voru þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði, en vefsmiðjan var í Aðalstræti. Ástæða þess að þófaramyllunni og litunarhúsinu var komið fyrir í Elliðaárdal var sú að starfsemin þarfnaðist rennandi vatns. Tilgangur þæfingarinnar var að þétta ullarvoðir og gaf straumur árinnar drifkraftinn. Sneri hann vatnshjóli sem tengt var drifhjóli sem aftur tengdist búnaði sem hamraði ullina. Þegar ullin hafði verið þæfð, sem var mismikið eftir því til hvers átti að nota hana, var hún gjarnan lituð. Talið er að litunarhúsið hafi staðið skammt frá þófaramyllunni, en óvíst nákvæmlega hvar. Þó er talið að húsið hafi staðið nokkru neðan við mylluna. Tvennar aðrar rústir eru á þessum slóðum. Er talið að önnur hvor geti verið leifar sútunarverkstæðis.

Elliðaárdalur

Camp Ártún.

Stríðsárin, 1939-1945, settu mark sitt á íslenskt þjóðlíf og ekki síst Elliðaárdalinn. Eftir hernám Íslands og tilkomu setuliðs, skiptu hermenn þúsundum hér á landi, fyrst Bretar, en síðan Bandaríkjamenn. Voru víða reistir braggar þar sem setuliðið dvaldist, svonefndir kampar, og voru nokkrir slíkir í Elliðaárdal. Sjást ummerki þeirra á nokkrum stöðum. Alls voru kamparnir fimm talsins. Sá efsti, nefndur Camp Baldurshagi, var ofarlega í Elliðaárdal, við nyrðri enda skeiðvallarins. Sjást þar rústir hans. Fjórar þyrpingar voru neðarlega við ána, Camp Phersing, skammt frá rafstöðinni, Camp Battle var aðeins neðar, Camp Hickham var í Ártúnsbrekkunni þar sem jarðhýsin eru nú og loks Camp Fenton Street, en hann var þar sem nú er athafnasvæði fyrirtækisins Ingvar Helgason.

Elliðaárdalur

Camp Baldurshagi.

Fleiri braggaþyrpingar voru í næsta nágrenni, bæði á Ártúnshöfða og vestan Elliðaáa. Einu ummerki um hernaðarmannvirki við Elliðaárnar neðanverðar eru í Ártúnsbrekku. Annars vegar eru það dæld eftir sandpokavígi sem fallin er saman að mestu og hins vegar ummerki undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, en munni þess er hulinn jarðvegi.

Elliðaárnar voru síðasti farartálminn á leiðinni til Reykjavíkur þegar komið var til bæjarins úr austri. Lá þjóðbrautin um Ártún og yfir árnar á vaði rétt neðan við rafstöðina núverandi, eftir Bústaðahálsi, Öskjuhlíð og niður í Kvos. Er ekki að undra að fljótlega hafi þótt nauðsynlegt að brúa árnar og voru fyrstu brýrnar byggðar árið 1883. Nú er svo komið að Elliðaárnar eru sú á landsins sem flestar brýr eru yfir. Hafa glöggir menn talið yfir 20 brýr á ánum.

Elliðaárdalur

Letursteinn í Elliðaárdal.

Á 30 ára afmælisári Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 hófu starfsmenn fyrirtækisins undir stjórn Steingríms Jónssonar, rafmagnsstjóra, skógræktar- og uppgræðslustarf í Ellidaárhólma og lögðu þar með grunn að þeirri skógrækt sem þar er. Fyrsta árið voru gróðursettar 3000 plöntur. Upp úr 1970 var dalurinn friðaður fyrir beit en nokkru áður var skógrækt hafin í afgirtu hólfi í árhólmanum. Við friðunina tók gróður við sér og hófst þá gróðurframvinda sem enn á sér stað.

Í Elliðaánum lifa fjórar tegundir fiska sem kalla mætti nytjafiska, aðallega lax, urrið og bleikja, en einnig má þar finna ál í litlum mæli. Í ánum er auk þess fjölskrúðugt botndýralíf sem er mikilvægur þáttur í uppvexti seiðanna.

Elsta

Viðeyjareldstöðin.

Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann. Elsta bergið þarna er þó frá meginselstöð mun utar er gaf af sér hraunmyndun fyrir 3-4 milljón árum (sjá HÉR).

Heimildir m.a.:
http://www.rafheimar.is

Við Elliðaárnar

Við Elliðaárnar.

Álftanes - kort 1870

Eftirfarandi er yfirlit yfir sögu einstakra byggðalaga á Reykjanesskaganum vestanverðum:

Saga Reykjavíkur

Saga Reykjavíkur.

 -Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesnesið okkar. Kaflar úr sögu Bessastaðahrepps. Bessastaðahreppur 1998. 48 bls.

Þetta er kennsluefni í samfélagsfræði fyrir nemendur Álftanesskóla og er að nokkru stuðst við efni bókarinnar Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Efnið nær frá landnámi til loka 20. aldar.

-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Reykjavík 1996. 311 bls.

Ritið skiptist í þrjá meginhluta. Sá fyrsti nefnist „Frá landnámi til 1800. Kotin og kóngsmennirnir“.

Álftanessaga

Álftanessaga.

Þar er m.a. lýsing Bessastaðahrepps, fjallað um landnám og fyrstu aldirnar, Lénharð fógeta, hvalreka, Bessastaðakirkju, skipskaða og ofviðri og hinstu ferð Appolloníu Swartzkopf. Auk þess eru fjórir undirkaflar sem skiptast á einstakar aldir, þá fimmtándu, sextándu, sautjándu og átjándu. Annar meginhluti kallast „Nítjánda öldin. Blómaskeið sjósóknar á Álftanesi“. Þar er m.a. fjallað um mannlíf á Álftanesi í upphafi aldarinnar, aldarfar og afkomu, skiptingu hreppsins, menntun og menningu, sjósókn og landbúnað. Þriðji meginhluti nefnist „Tuttugasta öldin. Búskapur og upphaf þéttbýlis“. Rætt er m.a um íbúaþróun, samgöngur, búskap, sjósókn og fiskvinnslu, landþurrkun og sjávarvarnir, veitumál, framfærslumál, skipulag, félagsstarfsemi og listir og atvinnulíf almennt.

Saga Hafnarfjarðar

Saga Hafnarfjarðar.

-Ásgeir Guðmundsson: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I-III. Hafnarfjörður 1983-1984. 446 bls., 446 bls., 557 bls.
Verkið er efnisskipt:

Í fyrsta bindi er einkum fjallað um stjórnmál, skipulagsmál, fjármál, höfnina og atvinnumál almennt.
Í öðru bindi er rætt um veitustofnanir, slökkvilið og löggæslu, skóla- og íþróttamál, heilbrigðismál og kirkjumál.
Í þriðja bindi er sjónum beint að stéttarfélögum, félagsstarfsemi, menningarmálum, félags- og æskulýðsstarfsemi, húsnæðismálum, verslun og viðskiptum, vegamálum og samgöngum og loks er hugað að fáeinum bæjarstofnunum. Í ritinu er einnig æviágrip bæjarfulltrúa og bæjarstjóra.

Álftanes

Álftanes – örnefni og bæir. (ÓSÁ)

Bessastaðahreppur í hundrað og tuttugu ár. Afmælisrit. Umsjón með útgáfu Soffía Sæmundsdóttir. [Bessastaðahreppur] 1998. 36 bls.
Í ritinu er einkum að finna stuttar frásagnir af skólamálum, kirkjustarfi, kórstarfi og félagslífi.
Einnig eru ávörp og viðtöl við yngri og eldri íbúa Bessastaðahrepps.

-Bjarni Guðmarsson: Saga Keflavíkur I-III. Keflavík 1992, 1997, 1999. 302 bls., 371 bls., 448 bls.
Fyrsta bindið tekur til tímabilsins 1766-1890. Greint er frá upphafi þéttbýlis en meginhluti ritsins fjallar um verslun og sjávarútveg á ýmsum tímum, en jafnframt er rætt um íbúa og atvinnuhópa, alþýðuhagi og lífið í þorpinu sem og bjargræði af landi.

Saga Keflavíkur

Saga Keflavíkur.

Annað bindið fjallar um tímann 1890-1920 og skiptist í sautján ólíka kafla. Rætt er um strandsiglingar og vegasamband, umhverfi og bæjarland, fólksfjölgun og húsbyggingar, heimilishald, kaup og kjör launafólks, útgerð og fiskiskip, verslun og viðskipti, heilbrigðismál, trú og kirkju, skólahald, bindindismál, félagslíf og menningarstarf, sveitarstjórn og lífið í Keflavík í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þriðja bindið nær yfir tímabilið 1920 til 1949 og skiptist í 23 meginkafla og hefur hver og einn að geyma nokkra undirkafla. Rætt er um íbúaþróun, rafmagnsmál, vatnsveitu, samgöngur og fólksflutninga, útgerð og fiskveiðar, áhrif kreppunnar í Keflavík, verkalýðsmál, bryggjur og hafnarmannvirki, iðnað, verslun, skipulag og húsbyggingar, vöxt þéttbýlisins, lög og reglu, símamál, samkomuhald, félags- og menningarlíf, íþróttir, félagsmál, heilbrigði og velferð, skólastarf, áhrif seinna stríðs og breytingar á sveitarfélaginu.

Seltirningabók

Seltirningabók.

-Heimir Þorleifsson: Seltirningabók. Seltjarnarnes 1991. 320 bls.
Bókin skiptist í sex meginhluta og spannar að mestu tímann frá því um 1800 til 1991. Hver meginhluti skiptist í fjölda undirkafla, en aðallega er fjallað um hreppinn og stjórnsýslu, jarðir og ábúendur á Framnesi, útgerð, Mýrarhúsaskóla, Framfarafélagið og annað félagsstarf og loks kirkjuna í Nesi.

-Jón Þ. Þór: Gerðahreppur 90 ára. 13. júní 1908-1998. Gerðahreppur 1998. 293 bls.

Ritið skiptist í níu meginhluta og er hver þeirra yfirleitt með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt. Síðan tekur við kafli þar sem er m.a. fjallað um landnám, mannfjölda í Garðinum fyrir 1908 og eignarhald á jörðum í Garði og Leiru. Því næst er rætt um Garðinn sem verstöð. Stofnun Gerðahrepps er því næst gerð að umtalsefni og þar næst fjallað um starfsemi í Gerðahreppi á árunum 1908 til 1939, mannfjölda þar og byggðaþróun, sjávarútveg, verslun, kirkju og skóla. Þá er kafli um málefni hreppsins á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Því næst er greint frá vaxtarskeiði og velmegun á árunum 1946 til 1998 og m.a. rætt um mannfjölda, sveitarstjórn, veitustofnanir, skipulag, hafnarmál, skólamál og samstarf við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Að því búnu er kafli um atvinnulíf og loks er kafli um félagslíf.

Saga Grindavíkur

Saga Grindavíkur.

-Jón Þ. Þór: Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800. Grindavík 1994. 282 bls.
Jón Þ. Þór og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir: Saga Grindavíkur. Frá 1800 til 1974. Grindavík 1996. 386 bls.
Fyrri bókin greinist í tíu meginhluta og eru flestir með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt og sagt frá örnefnum. Því næst er fjallað um landnám í Grindavík og upphaf byggðar. Þá eru kaflar um mannfjölda, bólstaði og búendur og búskapar- og lífshætti í Grindavík fyrir 1800. Næst er fjallað um sjávarútveg, síðan tengsl Grindavíkurjarða og Skálholtsstóls og þar á eftir um verslun. Loks eru kaflar um Tyrkjaránið 1627 og sölu stóls- og konungseigna.

Grindavík

Grindavík 2023.

Seinni bókin skiptist í níu meginhluta og eru flestir með fjölda undirkafla. Greint er frá Grindavík á öndverðri 19. öld og fólkinu þar árið 1801 í fyrsta hluta. Í öðrum hluta er fjallað um mannfjölda í Grindavíkurhreppi 1801-1974. Því næst er rætt um hverfabyggð og þorpsmyndun. Fjórði meginhluti tekur til sveitarstjórnar. Sá fimmti fjallar um atvinnuvegi almennt og sá sjötti hefur að geyma þætti úr verslunarsögu. Í sjöunda meginhluta er rætt um menningar- og félagsmál en í þeim áttunda um skólamál. Loks er fjallað um kirkju og trúmál.

Saga Njarðvíkur

Saga Njarðvíkur.

-Kristján Sveinsson: Saga Njarðvíkur. Reykjavík 1996. 504 bls.
Ritið skiptist í sautján meginhluta og hefur hver hluti nokkra undirkafla. Rætt er um umhverfi, staðfræði og náttúrufar; landnám og fyrstu þekkta byggð; búsetu og hagi á fyrri öldum, fram um 1700; íbúa Njarðvíkur og afkomu þeirra á 18. öld; atvinnuhætti og byggðarþróun á 19. öld; menntunar-, félags- og heilbrigðismál á 19. öld; ómagaframfæri, efnahag sveitarsjóðsins og þróun fólksfjölda í Vatnsleysustrandarhreppi á 19. öld; Njarðvíkurhrepp 1889-1908; Njarðvík í Keflavíkurhreppi 1908-1942; fólksfjöldaþróun og atvinnumál 1942-1994; uppbyggingu hafnarmannvirkja; uppbyggingu almenningsfyrirtækja og ýmis verkefni sveitarfélagsins 1942-1994; skipulagsmál, íbúðabyggingar og gatnagerð 1942-1994; skóla og bókasöfn frá 1942; stjórnmál, stjórnkerfi og fjárhag sveitarfélagsins 1942-1994, Njarðvíkurkirkjur á 20. öld; félagsstarf, skemmtanalíf og íþróttir 1942-1994.

Saga Garðabæjar

Saga Garðabæjar.

-[Ragnar Karlsson]: Garðabær. Byggð milli hrauns og hlíða. Safn til sögu Garðabæjar. Umsjón með útgáfu Erla Jónsdóttir. Garðabær 1992. 73 bls.
Farið er nokkrum orðum um þróun byggðar í landi Garðabæjar í aldanna rás, rætt um náttúrufar og umhverfi, fjallað um jarðfræði Garðabæjar, greint frá kirkjustaðnum Görðum, Bessatöðum, Vífilsstöðum, fjallað um byggð og búsetu í Álftaneshreppi, rætt um upphaf Garðahrepps og breytinguna í kauptún, sveitarstjórnarmál, bæjarbrag og félags- og menningarmál.

-Ragnar Karlsson: Keflavíkurbær 1949-1989. Fjörutíu ára kaupstaðarréttindi. Stiklur úr sögu og byggðarþróun. Keflavík 1989. 60 bls.
Ritlingurinn hefur að geyma upplýsingar um bæinn í máli og myndum frá ýmsum tímum í sögu byggðarlagsins.

Kópavogur

Kópavogur – jarðir.

Saga Kópavogs. Frumbyggð og hreppsár 1935-1955. Safn til sögu byggðarlagsins-1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J. E. Petersen. Kópavogur 1983. 247 bls. Bókin var endurútgefin árið 1990.
Í ritinu eru greinar og viðtöl sem tengjast sögu Kópavogs á umræddu tímabili. Ein grein er langlengst, „Kópavogur 1936-1955“ eftir Lýð Björnsson. Í henni er sagt frá því helsta sem snertir uppbyggingu Kópavogs á þessum árum.

Saga Kópavogs. Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Safn til sögu byggðarlagsins-1985. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjórar Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson. Kópavogur 1990. 271 bls.

Kópavogur

Kópavogur 1965.

Í ritinu er greint frá upphafi kaupstaðarsögu Kópavogs, sagt frá bæjarstjórum og bæjarriturum, fjallað er um kosningaúrslit og meirihlutasamstarf, kirkju og söfnuði, bókasafnið, skipulags- og byggingamál, heilbrigðismál, félagsmálastofnun, æskulýðs- og íþróttamál og skólamál. Einnig er greint frá listastarfi, almenningssamgöngum, hafnargerð, götuheitum og mannfjölda, löggæslu, tengslum við vinabæi, stórafmælum Kópavogs og kjörnum fulltrúum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Sigurður Skúlason: Saga Hafnarfjarðar. [Hafnarfjörður] 1933. 707 bls.
Bókin spannar tímabilið frá 874 til 1933. Langur kafli er um sögu verslunarstaðarins en síðan koma sjö efnisskiptir kaflar; upphaf Hafnarfjarðarkaupstaðar, landeign og skipulag, stjórnmál sem er að mestu bæjarfulltrúa- og bæjarstjóratal, atvinnumál, heilbrigðismál, kirkjumál, skóla- og menningarmál. Loks er yfirlitskafli. Í upphafi bókarinnar er fjallað um umhverfi Hafnarfjarðar og hinar fornu bújarðir í Firðinum.

http://www.hi.is/~eggthor/thettbyli.htm#9

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1913.

Reykjavík - Grasagarðut

Á vefsíðu Grasagarðsins í Laugardal segir m.a.:

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn í Laugardal.

„Grasagarðurinn í Laugardal var stofnaður 1961 þegar Reykjavíkurborg fékk að gjöf 200 íslenskar plöntur frá þeim hjónum Jóni Sigurðssyni og Katrínu Viðar. Plöntunum var komið fyrir við Ræktunarstöð borgarinnar í Laugardal.
Sigurður Albert Jónsson var fyrsti forstöðumaður garðsins frá 1961 allt til 1999 og byggði garðinn upp frá grunni. Hann hóf einnig strax skráningu og merkingu plantna, fræskipti við útlönd og ýmsar ræktunartilraunir.“
Bærinn Laugatunga féll garðinum í skaut árið 1970.

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn í Laugardal – kort.

Garðurinn hefur stækkað í áföngum, hægt og rólega frá upphafi fram til 1990, þegar trjásafnið opnaði, og aftur 2011 þegar garðurinn stækkaði um 2,4 ha og er nú um 5,5 ha.
Lystihús var flutt í garðinn árið 1980 og gróðurhúsið reis nokkrum árum síðar en þar er kaffihúsið Café Flóra til húsa.“Upplýsingarnar stemma ekki við aðrar heimildir.
Jafnframt segir: „Grasagarðurinn er lifandi safn undir berum himni. Hlutverk garðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Hann stendur fyrir fjölbreyttri fræðslu fyrir almenning og skólahópa.

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn – skilti.

Markmið fræðslunnar er að nýta hin margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf, garðmenningu og grasnytjar sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu.“
Í garðinum sumarið 2023 hafa verið sett upp nokkur áhugaverð fræðsluskilti, án þess, að því er virðist, að nokkur tilraun hafi verið gerð til að vekja sérstaka athygli á þeim merkilegheitum.
FERLIR fór á vettvang og birtir hér með myndir af skiltunum og meðfylgjandi fróðleik: