Tag Archive for: Suðurnesjabær

Ranglát

Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði vildi vekja athygli á eftirfarandi eftir ferð um Sveitarfélagið Garð fyrir stuttu:

Ranglát

Ranglát.

„Takk fyrir síðast.

Þegar við fórum ferðina um Garðinn var ég spurður um vörðu sem er syðst á Langholtinu í Leirunni, og vissi ég það ekki þá.
Nú hef ég komist að því.
Varðan heitir Ranglát og var reist af opinberum aðilum en ekki er vitað hvenær það var [skv. örnefnalýsingu Hólms var varðan hlaðin 1793].
Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði, sem ekki er vitað hvað var. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna.

Ranglát

Ranglát.

Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát. Kanski er hægt að fá betri upplýsingar um vörðuna einhverstaðar.
Tengdafaðir minn Guðni Ingimundarsson sagði mér þetta, en það var Halldór Þorsteinsson útgerðamaður frá Vörum sem sagði honum þetta fyrir mörgum árum. Halldór er látinn.“

Kveðja,
Ásgeir Hjálmarsson

Ranglát

Ranglát – upplýsingaskilti við vörðuna.

Gufuskálar
Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
„Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Gufuskálar

Gufuskálar – Kóngsgarður.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.“

-Skúli Magnússon – Faxi, október 1999.

Ellustekkur

Ellustekkur 2023.

Skagagarður
Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.

Garður

Skagagarðurinn.

Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.

-Stefán Pálsson – sagnfræðingur v/HÍ.

Garður

Garður.

Garðsskagaviti

Farin var kynnisferð um Sveitarfélagið Garð og Sandgerði. Ásgeir Hjálmarsson leiðsagði um Garðinn og Reynir Sveinsson um Sandgerði.

Skagarður

Skagagarðurinn – loftmynd.

Í Garðinum var m.a. fylgst með Prestsvörðunni ofan við Leiru, sagt frá mannlífinu þar, Gufuskálar kynntir til sögunnar sem og Ellustekkur, komið við í Kisturgerði, bent á hinar 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, kíkt inn í keramikfabrikuna, fornmannleiðið barið augum og letursteinninn þar, staldrað við Skagagarðinn og minjasafnið á Garðskaga skoðað.
Í Sandgerði var m.a. saga Skagagarðsins rakin, atburðirnir að Kirkjubóli, bæði er varðaði Jón Gerekkson og Kristján skrifara í framhaldi af aftöku Jóns Arnasonar, biskups, kumlin á Hafurbjarnarstöðum kynnt og Vikivakakvöld á Flankastöðum.

Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Efra-Sandgerði  er elsta uppistandandi hús í bænum – 1883, komið við í Fræðasetrinu, einstök hús einblínd, fjallað um uppbyggingu miðbæjarins, Sandgerðisvita 1908 og viðbót ofan á hann 1944, komið við í kertagerð og keramikgalleríum, Sandgerðishverfin sjö tíunduð (Kirkjubólshverfið, Flankastaðahverfið, Sandgerðishverfið, Býjaskerjahverfið, Fuglavíkurhverfið, sagt frá skipssköðum og mannfórnum til sjós, Hvalsneshverfið og Stafneshverfið), komið við í Hvalsneskirkju og saga kirkjunnar rakin, haldið að Stafnesi og saga þess sögð ásamt lýsingum á umhverfi Básenda, Gálga, Þórshafnar og Ósabotna. Þá var sagt frá Hvalsnesgötunni til Keflavíkur, villum fólks á Miðnesheiðinni og helstu mannvirkjum á henni, svo eittvað sé nefnt.

Saga Garðs

Sandgerði

Geirfugl við Sandgerði.

Byggðarlag á nyrsta odda Reykjanesskagans, þó aðeins með austurströndinni sem veit inn að Faxaflóa. Garðurinn nær frá Rafnkelsstaðabergi að innanverðu og út á Skagatá þar sem vitinn stendur. Í daglegu tali er honum skipt í inn- og út-Garð en milli þeirra er Gerðahverfið. Þar er allstór þéttbýliskjarni er tók að myndast skömmu eftir síðustu aldarmót. T.d. má telja 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, s.s. Kópu og Vararós.

Garðurinn er í Sveitarfélaginu Garði. Mörkin liggja frá Garðskagatá um Skálareykjar að flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli.

Garður

Garður.

Eystri mörk liggja frá flugstöðvarbyggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Garðurinn dregur nafn af Skagagarði.

Það var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.
Gegnum aldirnar hefur óefað verið mikið útræði í Garði enda stutt á fengsæl fiskimið. Þaðan munu venjulega hafa gengið 50-60 skip á vetrartíð en yfir 100 skip úr allri Útskálasókn þegar best lét. Margt aðkomumanna stundaði sjó úr Garðinum og komu þeir úr öllum landshlutum.

Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 manns heimilisfastir í Útskálasókn. Á vertíðinni þetta ár voru gerðir út í sókninni 9 sexæringar, 25 fjögurra manna för og 21 tveggja manna far, alls 55 skip auk þess tveir aðkomubátar.

Garður

Garður.

Hafnarskilyrði voru slæm rétt eins og í dag. Það fórust 76 manns úr Garðinum á árunum 1664-1695 í sjólslysum.
Á fyrri hluta þessarar aldar tóku opnir vélbátar að ryðja áraskipunum úr vegi. Fyrsti trillubáturinn kom í Garðinn 1922. Þegar þilfarsbátarnir komu til sögunnar minnkaði atvinnan í Garðinum því Garðmenn áttu ekki nógu stóra og góða bryggju fyrir slíka báta. Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélgið á Suðurnesjum með 647 íbúa en minnkaði niður í 396 á fjórum áratugum.

Hjarta

Hjarta landsins utan Sandgerðis.

Með bættum samgöngum tóku Garðmenn að flytja fisk af bátum sínum, sem gerðir voru út í öðrum byggðarlögum, til verkunar heima fyrir. Á kreppuárunum eftir 1930 jukust fiskflutningar í Garðinn og var hann verkaður þar til útflutnings. Alls var þurrkað á um 30 reitum þegar best lét og á árunum 1938-1939 var þurrkuð um 9 þúsund skippund af fiski í hreppum.

Þrátt fyrir þetta fækkaði fólki í Garðinum á þessu tímabili, en það var ekki fyrr en árið 1943 að fólksflóttinn stöðvaðist þegar Hraðfrystihús Gerðabátanna tók til starfa og eftir það kom hvert frystihúsið af öðru til starfa og á árunum 1950-1960 voru yfir 20 fiskverkunarstöðvar.

Garður

Garður – vindmyllustandur.

Rafvæðing hófs í Garðinum 1933 og var orka fyrst frá ljósavélum. Vindstöðvar urðu mjög algengar um tíma en rafmagn frá Sogsvirkjunum var leitt um Garðinn 1946. Holræsi var leitt um byggðina á árunum 1950-1960.

Gerðaskóli er einn elsti skóli á landinu en hann var stofnaður 1872 af séra Sigurði Sívertsen.
Stúkan framför var stofnuð1889 og reistu félagar hennar samkomuhúsið í Garði. Kvenfélag var stofnað í Garðinum 1917.

Garður

Gerðaskóli.

Ungmennafélagið Garðar var stofnað 1932 en það hefur ekki verið starfandi um langa hríð. Íþróttafélagið Víðir var stofnað 1936. Verkalýðsfélagið í Garðinum var stofnað 1937. Tónlistafélag Gerðahrepps var stofnað 1979.

Garðskagaviti
Ysti hluti skagans sem gengur til norðurs af vestanverðu Reykjanesi. Viti var fyrst reistur á Garðskagatá 1897 en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884. Nýr viti var byggður 1944. Gamli vitinn var notaður sem flugathugunarstöð á vegum Náttúrufræðarstofnunar Íslands á árunum 1962-1978.

Garðskagaviti

Garðaskagaviti.

Sunnudaginn 17. ágúst sl. var haldið upp á 100 ára afmæli Garðskagavita. Siglingastofnun og Gerðahreppur stóðu sameiginlega að því að bjóða almenningi að koma og skoða vitana og Byggðasafn Gerðahrepps. Gefinn var út bæklingur af þessu tilefni um vitana og í honum er einnig umfjöllun um byggðasafnið. Talið er að um 600-700 manns hafi komið þennan dag út á Garðskaga í ágætu veðri. Slysavarnarfélagskonur buðu gestum upp á kaffi og meðlæti í vitavarðarhúsinu. Aðsókn var fram úr björtustu vonum aðstandenda.
Starfsmenn Siglingastofnunar eru nýlega búnir að gera upp eldri vitann. Einnig er búið að helluleggja göngustíga á svæðinu. Svæðið er því allt til fyrirmyndar og Garðskagavita sómi sýndur á aldarafmælinu.

Útskálakirkja

Árnaborg

Árnaborg.

Kirkjan að Útskálum var reist árið 1861 að frumkvæði sóknarprestsins síra Sigurðar B. Sívertsen (1808-1887). Árið 1907 heyrðu Hvalsnes-, Njarðvíkur- og Kirkjuvogssóknir til Útskálaprestakalls og hélst sú skipan fram til ársins 1952.
Útskálakirkja er byggð úr timbri og járnvarin. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.

Aðrir staðir áhugaverðir staðir:
-Kistugerði
-Draughóll
-Fornmannaleiði
-Gufuskálar
-Vatnagarður
-Leiran
-Prestsvarða
-Skagagarðurinn

Saga Sandgerðis

Kistugerði

Kistugerði.

Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða

Bærinn Sandgerði

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis.
Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör

Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri. Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin Náttúrustofan

Sandgerði

Fræðasetrið í Sandgerði.

Í Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.

Bæjarskersrétt

Sandgerði – Bæjarskersrétt.

Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum.

Sandgerði

Sandgerðishöfn.

Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins
Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.

Skagagarður

Skagagarður.

Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.
Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.

Garður

Garður – Vatnagarður.

Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.
Í Miðhúsum eru íbúðir eldri borgara. Þar er einnig blómlegt félagslíf við hæfi. Íbúðirnar sem eru nýjar og glæsilega voru byggðar af byggingafyrirtækinu Búmönnum. Má segja að þar sé bæði hátt til lofts og vítt til veggja og hafa íbúar þar sannarlega kunnað að búa híbýli sín á smekklegan hátt.

Bókasafn

Litla-Hólmsvör

Litla-Hólmsvör.

Sandgerðisbær á myndarlegt bókasafn sem er til húsa í grunnskólanum. Þar sameinast skólabókasafnið og bæjarbókasafnið og nýtast bæði söfnin íbúum á öllum aldri.
Höfnin
Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög

Sandgerði

Listaverkið Álög.

Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella

Hunangshella

Hunangshella.


Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar

Básendar

Básendar.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar

Gálgar.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.

Hvalsnes
Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson.
Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins.
Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg

Lindarsandur

Lindarsandur.

Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar.

Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt. Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi.

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík

Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum.

Hvalsnesgata

Hvalsnegata.

Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði
Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker

Bæjarsker

Bæjarsker 1940.

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Flankastaðir

Flankastaðir

Flankastaðir.

Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból

Kirkjuból

Tóftir Kirkjubóls.

Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn
Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir

Brunnur við Hafurbjarnastaði.

Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

ÓSÁ tók saman.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Garðskagi

Fyrstu heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti.

Garðskagi

Garðskagi – Gamli Garðskagavitinn.

Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu.

Garðskagi

Garðskagi – Nýi Garðskagaviti.

Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari.

Garðskagi

Garðskagi – nýi vitinn.

Í BS-ritgerð Sigurlaugar Herdísar Friðriksdóttur í Lanbúnaðarháskóla Íslands, „Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu“ frá árinu 2022 má lesa eftirfarandi um minjar á Garðskaga:

Fyrsti viti
Árið 1847 var elsti vitinn á Garðskaga hlaðinn en það var hlaðin grjótvarða. Grjótvarðan var 7 m á hæð og upp úr henni stóð 3,7 m hár járnkarl. Árið 1884 var síðan sett lítið timburskýli á vörðuna og inn í það var sett ljósker. Talið er að grjótvarðan hafi verið um 100 m norðvestan við gamla Garðskagavita.

Gamli viti

Garðskagi

Garðskagi – Gamli vitinn.

Árið 1897 var síðan byggður viti á Garðskagatá. Vitinn var byggður eftir teikningu frá danskri vitamálastjórn. Gamli vitinn er ferstrendur og byggður úr steinsteypu. Vitinn er um 11,4 m á hæð en með ljóshúsi var hæð hans um 15 m. Byggð var varðstofa við vitann og árið 1933 var gert anddyri við varðstofuna.
Þegar vitinn var fyrst byggður var gras fyrir framan hann og náði það líklega fram á Garðskagarif. Í dag er land alveg gróðurlaust í kringum vitann. Skömmu eftir að vitinn var byggður sáust merki um að tanginn sem vitinn er á væri að verða fyrir rofi vegna sjávargangs. Erfitt var orðið að komast að vitanum í slæmu veðri skömmu eftir að hann var byggður og var því byggð göngubrú yfir í vitann árið 1912. Vegna sjávarrofs við vitann var steyptur pallur við hann árið 1925.

Garðskagaviti

Garðskagaviti vígður – Svanhildur Ólafía Guðjónsdóttir (Lóa) frá Réttarholti í Garði.

Gamla vitanum var lokað þegar nýr viti var byggður en vitinn hefur þó gegnt ýmiss konar tilgangi síðan þá. Á árunum 1962-1978 notaði Náttúrufræðistofnun Íslands vitann sem fuglaathugunarstöð. Í dag er hægt að leigja vitann við ýmis tilefni, til að mynda fundi eða í skemmtanir. Árið 2003 var vitinn friðaður.

Nýi viti

Nýi vitinn á Garðskaga var byggður árið 1944 og var hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Vitinn er sívalur og er um 28,6 m hár frá undirstöðu að ljóshúsi. Neðst er þvermál vitans 7,5 m en 5 m efst. Garðskagaviti er hæsti sérbyggði vitinn á Íslandi. Vitinn er steinsteyptur og var húðaður með ljósu kvarsi en árið 1986 var hann kústaður með hvítu þéttiefni.
Vitavörður hafði fasta búsetu á svæðinu og starfaði við vitavörslu til ársins 1979. Haldnar hafa verið ýmsar listasýningar í nýja vitanum. Til að mynda hefur meðal annars verið haldin hvalasýning með teikningum, Norðurljósasýning RAX og vitasýning af vitum á Suðurnesjum.

Vitavarðarhús

Garðskagi

Garðskagi – Vitavarðahúsið.

Byggt var vitavarðahús árið 1933, húsið er steinsteypt og var notað sem íbúðarhús fyrir vitavörð. Árið 1951 var byggð viðbygging við vitavarðarhúsið en það var ferkantaður turn sem notaður var fyrir miðunarstöð og nokkur útihús tilheyrðu einnig búi vitavarðar. Húsið hefur nú verið notað undir ýmsar listasýningar ásamt því sem húsið hefur verið nýtt sem aðstaða fyrir sölu á handverkum.

Mikið er um minjar í Garðskaga. Svæðið hefur langa sögu af akuryrkju og hefur breski herinn einnig verið með viðveru á svæðinu á sínum tíma.

Garðskagi

Breskir dátar í viðbragðsstöðu við Garðskagavöll.

Gamli Garðskagaviti er einnig talinn til minja á svæðinu.
Steypt gangstétt lá frá gamla vita að bæjarstæði og var hún 170m á lengd og 1m á breidd. Í dag er enn steypt göngubrú sem liggur frá gamla vita að bílastæðinu. Göngubrúin er um 40 m á lengd og hefur henni verið haldið við með hlöðnu stórgrýti meðfram henni til þess að forðast rof.

Bær

Á árum áður var bær suðaustan við gamla vitann, fyrir framan vitavarðarhúsið, en ekki er hægt að sjá greinilegt byggingarlag fyrir bænum í dag.

Útihús
Nokkur útihús voru við bæinn en talið er að þau hafi verið þrjú í heildina.

Garðskagi

Garðskagi – túnakort 1919.

Fyrsta útihúsið var norðvestan á Garðskaga, nálægt nýjum vita, og tengdist bænum sem var þar áður. Í dag má sjá steyptan sökkul þar sem útihúsið stóð en sökkullinn er 3,2×3,2 m að stærð og er um 0,2 m á hæð. Annað útihús var norðan við vitavarðarhúsið en ekki sjást nein ummerki um útihúsið. Þriðja útihúsið var við vitavarðahúsið en engin ummerki eru um útihúsið.

Kálgarður

Garðskagi

Garðskagi – túnakortið frá 1919 sett ofan á loftmynd 2020.

Kálgarður var við bæjarstað og útihús 1. Ummerki um kálgarðinn sjást ekki en hins vegar var gerði við kálgarðinn sem er enn varðveitt í dag. Kálgarðurinn var 35x23m að stærð og myndaði 90 gráðu horn. Á norðurhluta kálgarðsins var kantur sem afmarkaði garðinn. Veggirnir á kantinum sjást enn og er hann frá 0,4m – 0,8m á hæð.

Akurreinar
Á Garðskaga voru akurreinar girtar af en þeim var skipt í fernt. Sumar akurreinarnar voru aflangar. Garðarnir voru hlaðnir upp úr klömbrum eða sverði. Lítið var um að hlaða þessa garða upp úr grjóti. Leifar eru af þessum görðum en um 18 akurreinar er um að ræða.

Túngarðar

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Á svæðinu voru þrír túngarðar en má finna ummerki um tvo af þeim. Fyrsti túngarðurinn var í kringum tún bæjarins á Garðskaga en ekki eru ummerki um túngarðinn í dag. Annar túngarðurinn var við tún á suðvesturhorni Garðskaga, við núverandi veg. Garðurinn var um 100m langur og sjást leifar af honum í dag. Garðurinn er um 0,5m breiður og hæsti puntur er um 0,6m hár. Þriðji túngarðurinn og einn elsti garður á svæðinu er túngarður sem er staðsettur rúmum 160m frá strönd. Garðurinn er talin vera partur af rúmum 230m kafla af garði en tengsl á milli hafa rofnað á nokkrum stöðum. Túngarðurinn er um 4-6 m á breidd og er á milli 0,2m – 0,3m á hæð.

Skagavöllur

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Þann 10. maí 1940 hernam Breski herinn Ísland. Á þessum tíma voru ekki til flugvellir á Íslandi en flugvélar voru mikilvæg hernaðartól og þurfti herinn því flugvelli. Mikilvægt var að finna staði sem voru nálægt siglingarleiðum. Herinn hafði ekki tæki og stórar vinnuvélar og því var einnig þörf fyrir að finna svæði þar sem hægt væri að gera flugbrautir á skömmum tíma með litlum kostnaði. Fundu þeir slíkt svæði á Garðskaga þar sem landið þar er óvenju slétt og jarðvegur þéttur og sendinn þannig að vatn settist hvergi að í langan tíma í senn. Samið var við landeigendur á svæðinu og hófust framkvæmdir á flugvellinum haustið 1940. Menn úr Garðinum, Sandgerði og annars staðar af Suðurnesjunum unnu við verkið.

Garðskagi

Garðskagaflatir – loftmynd 1954.

Stærsta verkið var að jafna völlinn þar sem torfið var fært til og síðan tyrft aftur yfir. Bifreiðar, hjólbörur og hestvagnar voru notaðir við að færa sand og túnþökur. Flugvöllurinn var síðan tilbúinn vorið 1941 og fyrsta flugvél lenti á vellinum einn sumardaginn síðar það árið. Flugbrautin var um 90 m breið og 1050 m löng en hún náði frá Garðskagavegi að Hafurbjarnastöðum. Flugvöllurinn var hins vegar ekki notaður mikið þar sem Bandaríkamenn byggðu stærri flugvöll á Miðnesheiði. Skagavöllurinn var því helst notaður sem neyðar- eða æfingavöllur.“

Heimild:
-Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu, Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir, 2022.
-https://www.visitreykjanes.is/is/stadur/vitarnir-a-gardskaga

Garðskagi

Garðskagi – minjastaðir.

Hvalsnesgata

Kunnur Suðurnesjamaður frá fyrri tíð var Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsneskirkju.

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson.

Á síðari hluta sextándu aldar og fram á þá sautjándu sat á Hólum einn merkasti biskup Íslendinga eftir siðskiptin, Guðbrandur Þorláksson, mjög afkastamikill bókaútgefandi, en í hans tíð var prentaður á Hólum fjöldinn allur af sálmum, kvæðum og guðsorðaritum, bæði þýddum og frumsömdum og hann sá um fyrstu heildarútgáfu Biblíunnar á íslensku 1584. Mjög mikilvægt var fyrir Íslendinga að fá Biblíuna svo snemma á móðurmálinu, það átti eflaust þátt í að íslenskan varðveittist sem tungumál á þeim tíma þegar Ísland var hluti af danska konungsríkinu.
Hallgrímur Pétursson var skyldur Guðbrandi Þorlákssyni biskupi á Hólum og faðir hans var hringjari þar á staðnum. Á Hólum ólst Hallgrímur að nokkru leyti upp og þar hefði honum verið auðvelt að feta menntaveginn en að loknu námi við skólana á Hólum og í Skálholti héldu ungir efnilegir menn oftast til náms við háskólann í Kaupmannahöfn og áttu síðan von um góð embætti heima á Íslandi.

Glückstadt

Glückstadt.

Af einhverjum ástæðum sem ekki eru fyllilega kunnar hraktist Hallgrímur frá Hólum og hélt til útlanda. Sagt er að hann hafi orðið óvinsæll á staðnum vegna gamansamra og jafnvel dónalegra vísna sem hann orti um þá sem þar voru hátt settir og verið rekinn, en aðrar sögur segja að hann hafi farið að eigin ósk. Hann virðist hafa tekið sér far með erlendum sjómönnum og næst fréttist af honum í Norður-Þýskalandi, í Glückstadt, þar sem hann er kominn í þjónustu hjá járnsmið sem fór heldur illa með hann. Sagt er að hann hafi einhverju sinni gengið út bálreiður og hallmælt húsbóndanum á ófagurri íslensku en þá hafi þar átt leið hjá fyrir tilviljun íslenskur maður að nafni Brynjólfur Sveinsson sem heyrði að pilturinn var íslenskur og þótti hann „heldur orðhittinn, þó ei væri orðfagur í það sinn, ávítaði hann og sagði, að ei ætti hann so sárlega að formæla sínum samkristnum.

Brynjólfur Sveinsson

Brynjólfur Sveinsson.

Hallgrímur tók því að sönnu vel en spurði hvort hann vildi ekki vorkenna sér nokkuð þar hann ætti allt illt og þar á ofan fyrir sakleysi barinn og laminn. Brynjólfur fann að nokkuð mundi þó neytt með þessum pilti, réði honum að skilja við þessa þjónustu og leggja annað fyrir sig, svo af hans áeggjan og tilstilli komst hann í vorfrúeskóla í Kaupinhafn.“ Brynjólfur þessi Sveinsson varð síðar biskup í Skálholti og kom aftur við sögu Hallgríms síðar.

Í Kaupmannahöfn hefst nýr kafli í lífi Hallgríms Péturssonar. Hann var góðum gáfum gæddur og skáldhneigður og víst er að námið í vorfrúarskóla hefur haft góð og hvetjandi áhrif á hann. Vitað er að hann náði skjótt góðum árangri og var brátt kominn í hóp bestu nemenda.

Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn.

Hann er um þetta leyti 22 ára gamall og þá verða örlagaríkir atburðir í lífi hans. Til Kaupmannahafnar kemur hópur af Íslendingum sem sjóræningjar frá Alsír – sem Íslendingar kölluðu Tyrki – höfðu rænt og hneppt í ánauð fyrir tæpum tíu árum síðan en höfðu nú verið keyptir lausir af Danakonungi. Hallgrímur er fenginn til þess að kenna þessu fólki kristin fræði. Í hópnum er kona sem heitir Guðríður Símonardóttir og hafði verið gift kona og móðir en orðið viðskila við mann sinn og barn. Þessi kona og Hallgrímur fella hugi saman og ekki líður á löngu þar til hún er orðin barnshafandi af hans völdum. Guðríður var þá 38 ára gömul þannig að með þeim var 16 ára aldursmunur. Þetta verður til þess að Hallgrímur hættir námi í annað sinn og þau Guðríður halda heim til Íslands.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík.

Um þetta leyti munu þau hafa frétt að eiginmaður Guðríðar var látinn. Hallgrímur gekk að eiga hana „fyrst hann varð ekki af því talinn“ eins og segir í gamalli heimild og vann fyrir sér og fjölskyldu sinni með erfiðisvinnu. Það er ljóst að þetta hafa verið erfið ár, þau hjónin voru fátæk og einnig er vitað að þau misstu nokkur börn ung að árum.
En það verður aftur róttæk breyting á lífi og högum Hallgríms og í annað sinn er það Brynjólfur Sveinsson sem breytir gangi máli, nú orðinn biskup í Skálholti; hann veitir Hallgrími prestsembætti og lætur vígja hann. Fyrstu árin í prestsembætti hafa þó ekki verið Hallgrími beinlínis auðveld; sumir áttu erfitt með að gleyma því að hann hafði verið fátækur vinnumaður.

Sauðbæjarkirkja

Sauðbæjarkirkja.

Til er gömul heimild þess efnis að fólki hafi þótt biskupinn haga sér undarlega að vígja þennan fátækling til prests en það hafi skipt um skoðun þegar það heyrði hann predika fyrir vígsluna. Aðeins ein predikun Hallgríms, líkræða, hefur varðveist en vitað er að hann þótti frábær predikari. Það sýnir einnig glöggt að Hallgrímur hefur ekki valdið vonbrigðum í starfi heldur þvert á móti vaxið í áliti að þegar Saurbær á Hvalfjarðarströnd, sem var miklu betra prestakall, losnaði var það Hallgrímur sem hlaut það 1651.

Fyrsti áratugurinn á eftir var honum frjór tími til ritstarfa. Öll mestu verk hans munu vera frá þessum árum og öll trúarleg: tveir sálmaflokkar, Samúelssálmar ortir út af Samúelsbókum Gamla testamentisins og Passíusálmarnir; og tvö guðræknisrit í lausu máli sem heita Dagleg iðkun af öllum drottins verkum og Sjö guðrækilegar umþenkingar. Efnahagsleg afkoma var þá vel viðunandi og heilsan góð.

Saurbær

Saurbæjarkirkja.

Árið 1662 brann bærinn í Saurbæ og var það skiljanlega mikið áfall þótt strax væri hafist handa að byggja bæinn upp að nýju. Eftir þetta fór heilsu Hallgríms hrakandi, í ljós kom að hann var haldinn holdsveiki, úr þeim sjúkdómi lést hann sextugur að aldri árið 1674.
Eina barn þeirra Hallgríms og Guðríðar sem upp komst var Eyjólfur sonur þeirra. Dótturina Steinunni misstu þau þegar hún var aðeins þriggja og hálfs árs. Legsteinn með nafni hennar sem Hallgrímur hjó sjálfur út hefur varðveist og er í kirkjunni í Hvalsnesi þar sem Hallgrímur þjónaði fyrst sem prestur.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsneskirkja var reist á árunum 1886-87 og sóknarpresturinn vígði hana á jóladag 1887. Ketill Ketilsson, hreppsstjóri í Kotvogi og eigandi Hvalsnessjarðarinnar, lét reisa kirkjuna. Hún er hlaðin úr tilhöggnum steini. Magnús Magnússon, múrari frá Gauksstöðum í Garði, hafði umsjón með því verki, en hann drukknaði veturinn 1887. Þá tók við verkinu Stefán Egilsson, múrari úr Reykjavík. Magnús Ólafsson, trésmíðameistari úr Reykjavík, sá um tréverk. Kirkjan var tekin til gagngerra endurbóta 1945 undir umsjón Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Mesti dýrgripur kirkjunnar er vafalaust legsteinninn, sem séra Hallgrímur Pétursson hjó og setti á leiði Steinunnar, dóttur sinnar. Steinninn fannst, þegar grafið var fyrir stétt, sem steypa átti fyrir framan kirkjudyr 1964. Hann mun hafa legið þar alllengi, jafnvel verið fluttur á þann stað úr kirkjugarði þegar kirkjan var reist. Steinninn hefur einhvern tíma brotnað og vantar því stafi aftan á nafnið svo og síðasta staf ártalsins, en það mun eiga að vera 1649.
Tréverkið í kirkjuna vann Magnús Ólafsson snikkari úr Reykjavík. Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.
Hvalsneskirkja var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Nokkrar minjar eru á Suðurnesjum tengdar Hallgrími, en aðrar eru horfnar, s.s. Bolafótur, bær sá er hann bjó í þar sem nú er skipasmíðastöðin í Njarðvíkum. Letursteinn norðan við Þórshöfn norðan Ósa er sagður hafa fangamarkið HP og letur í klöpp ofan við Þórshöfn ber stafina HP, en séra Hallgrímur er sagður hafa gengið þá leið að heiman til messu í Hvalsnesi.

M.a. af:
http://servefir.ruv.is/passiusalmar/hhallgrim.htm

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Vörðuhólmi

Í Vísi 1925 er sagt frá landamerkjadeilu Stafnesinga og eigenda Kirkjuvogs.

„Frá Hæstarétti í gær.

Vísir

Vísir 1925.

Þar var sótt og varið málið: „Eigendur Stafnness eigendum Kirkjuvogs. Mál þetta er risið út af ágreiningi um landamerki milli jarðanna Stafnness og Kirkjuvogs á Miðnesi, og er svo vaxið, sem nú skal greina“.
Árið 1884 var landamerkjaskrá Stafnness rituð og staðfest, lögum samkvæmt, og virðist þá enginn ágreiningur hafa orðið um landamerki jarðarinnar; þau eru sögð „hin sömu, sem verið hafa frá ómunatíð“, og síðan lýst í skránni.
Árið 1922 var svo komið, að ágreiningur var orðinn um landamerki milli Stafnness og Kirkjuvogs. Málsaðiljar áttu þá sáttafund með sér (10. apríl), og gerðu svolátandi sætt: „Landamerki á milli Stafnneshverfis og Kirkjuvogsjarða séu eins og þau eru ákveðin í landamerkjaskrá fyrir Stafnnes, frá 4. desbr. 1884, að viðbættri línu úr svonefndri „Gömlu þúfu“ á Háaleiti í Beinhól, og verða þá landamerkin þannig: „Úr svonefndri „Gömlu þúfu“ á Háaleiti í „Beinhól“, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr „Beinhól“ í Djúpavog, þaðan beina línu í ós austanundir „Vörðuhólma“, þaðan sunnanundir „Selskeri“ og „Hestakletti“ og þaðan á sjó út.“

Hestaskjól

Hestaskjól (Hestaklettur).

Ekki höfðu aðiljar sjálfir gengið á merkin, þá er þeir gerðu sætt þessa, en munu hafa treyst því, að þar væri um ekkert að villast. En brátt kom það í ljós, að eigendur jarðanna urðu ekki á eitt sáttir um, hvar þeir staðir væri sumir, sem getið er í merkjaskránni. Eigandi Stafnness leitaði þess vegna til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og beiddist þess, að kvatt yrði til annars sáttafundar með eigendum jarðanna, og var hann haldinn 10. desember 1922.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Sáttatilraun varð árangurslaus og málinu síðan vísað til landamerkjadóms, og sátu hann þeir Sigurgeir Guðmundsson hreppstjóri í Narfakoti og Þorsteinn Þorsteinsson, kaupm. í Keflavík, ásamt formanni dómsins, sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Beinhóll

Beinhóll – LM-merking.

Dómur þeirra var á þessa leið: „Landamerki á milli Stafnnesjarða í Miðneshreppi annars vegar og Kirkjuvogsjarða í Hafnahreppi hins vegar skulu vera þau, er hér greinir: Úr Gömlu þúfu á Háaleiti í „Beinhól“, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr Beinhól í miðjan Djúpavogsbotn við stórstraumsflóðmál, hvar varanlegt merki skal sett, auðkennt L.M. Þaðan bein lína um ósinn í vörðu þá, er stendur á suðurenda Vörðuhólma, er skal rauðkennd L.M. með varanlegu millimerki, er sett skal á Illaklif, einnig auðkennt L.M. – Frá Vörðuhólma sunnan um Selsker og; Hestaklett á sjó út.
Málskostnaður, samtals kr. 253.00, greiðist að helmingi af eigendum Stafnnestorfunnar, en að helmingi af eigendum Kirkjuvogstorfunnar.
Dóminum, að því er dæmdan málskostnað og setning landamerkja snertir, ber að fullnægja innan 15 daga frá lögbirtingu hans, undir aðför að lögum.“

Beinhóll

Beinhóll – merki.

Eigendur Stafnness skulu dómi þessum til Hæstaréttar og sótti Jón Ásbjörnsson málið. Krafðist hann þess a hinn áfrýjaði dómur yrði feldur úr gildi og merkjadómurinn skyldaður til þess að taka málið upp að nýju. Einkanlega lagði hann áherslu á það, að samkvæmt dómi þessum hefði landspilda nokkur, norðan Djúpavogs, gengið undan Stafnnesi. Segja munnmæli, að þar hafi áður staðið bærinn Kirkjuvogur (sem sjá má á uppdrætti herforingjaráðsins), en J.A. færði fram vottorð fyrir því, að land þetta hefði um langan aldur legið undir Stafnnes.
Verjandi var Sveinn Björnsson og krafðist hann þess, að dómurinn yrði staðfestur, og áfrýjandi dæmdur til að greiða allan málskostnað. Taldi hann Stafnnesinga enga heimild hafa til þessa áðurnefnda lands, samkvæmt sjálfu landamerkjabréfinu.

Ósar

Ósar – herforingjaráðskort 1903.

— En að öðru leyti er ekki kostur að skýra frá deilum þeirra hæstaréttarmálaflutningsmannanna, svo að ókunnugir hafi þess full not, nema birta jafnframt uppdrátt af þrætulandinu, en Vísir hefir hann ekki á takteinum, og lýkur hér frá þessu máli að segja.“

Heimild:
-Vísir, 6. tbl. 08.01.1925, Frá Hæstarétti – landamerki Kirkjuvogs og Stafness, dómur, bls. 2.

Vörðuhólmi

Vörðuhólmi – LM-merki.

Kappella
Í Öldinni okkar, 7. nóv. 1550, segir að Jón biskup Arason og synir hans, sem með honum voru gripnir á Sauðfelli í haust, séra Björn á Melstað og Ari sýslumaður í Möðrufelli, voru hálshöggnir í Skálholti í morgun, þvert ofan í lögmannsdóminn, sem kveðinn var upp í Snóksdal fyrir hálfum mánuði.
Skálholt

Skálholt.

Talið er, að fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, hafi verið frumkvöðull aftökunnar, en aðrir fyrirmenn í Skálholti samþykkt hana.
Kristján skrifari ætlaði að hverfa frá Skálholti vegna ágreinings um hvað skyldi verða um þá feðga. Lét fógetinn söðla hesta sína og bjóst til brottfarar. Þeir Marteinn biskup og Daði í Snóksdal gengu þá til hans og drukku honum til af silfurkerjum, sem þeir gáfu honum síðan til þess að sefa reiði hans. Við það frestaði hann brottför sinni, og mun þá hafa samist, að þeir feðgar þrír skyldu hálshöggnir.

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.
Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel.

Skálholt

Skálholt – minnismerki um Jón Arason og syni hans.

Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.

Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: “In manus tuas, domine, commendo spiritum meum” – herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið.

Eftirmáli – janúar 1551

Kirkjuból

Tóftir Kirkjubóls.

Norðlenskir vermenn drápu alla danska vetursetumenn á Suðurnesjum til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans nú rétt fyrir Pálsmessu svo að ekki lifir utan einn, sem slapp frá þeim og komst í Skálholt. Meðal þeirra, sem að velli voru lagðir, var fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, er stóð fyrir aftöku Hólafeðga.

Þremur nóttum fyrir Pálsmessu komu sextíu norðlenskir vermenn suður á Reykjanes, og er það almannarómur, að Þórunn á Grund, dóttir Jóns biskups, hafi búið þá til ferðar og lagt svo fyrir, að þeir skyldu drepa alla Dani, sem þeir fengju færi á, hvar sem til þeirra næðist.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Fógetinn, Kristján skrifari, tók sér gistingu að Kirkjubóli á Miðnesi með förunauta sína hjá Jóni bónda Kenrikssyni. Norðlendingar héldu uppi njósnum umferð hans, og um kvöldið eða nóttina dreif að flokka manna, sem slógu hring um bæinn. Voru þar komnir Norðlendingar þeir, sem talið er að Þórunn á Grund hafi gert út til hefnd. Voru þeir allir með hettur og hökustalla, svo að ekki yrðu borin á þá kennsl.
Norðlendingum varð það fyrst fyrir, er þeir sáu, að til bardaga myndi koma, að þeir létu kalla séra Jón Bárðason út, svo að hann fengi ekki mein af vopnum manna, og þekktist hann þegar boð þeirra um undankomu. Síðan rufu þeir húsin og veittu Dönunum atgöngu er þeir þóttust hafa brotið sér nógu greiða leið. Féllu allir þar inni, sjö eða níu, nema fógetinn, sem komst út, nokkuð sár. Var hann í hringatreyju, sem járn bitu ekki á, og fékk varist enn umhríð, uns til koma einn sveina Þórunnar á Grund. Hann var með lensu í hendi og kvaðst skjótt skyldu finna lagið á fógeta. Lagði hann lensuna neðan við treyjuna upp í smáþarmana. Rak fógeti þá upp hljóð, er hann kenndi lagsins, og lýsti piltinn banamann sinn. Meðal þeirra, sem drepnir voru á Kirkjubóli, var ungur sonur fógetans, Baldvin að nafni.

Kirkjuból

Kirkjuból – loftmynd 1954.

Þegar lokið var vígum, drógu Norðlendingar líkin norður fyrir garð á Kirkjubóli, þar sem þeir urðuðu þau í einni kös.
Á Bústöðum á Seltjarnarnesi bjó danskur maður og var honum gerð aðför ásamt fleirum, s.s. að Másbúðum. Alls voru það fjórtán menn, sem Norðlendingar vágu í einni lotu til hefnda eftir Jón biskup og syni hans.

Lík Jóns biskups Arasonar og sona hans, Björns og Ara, voru í apríl 1551 grafin upp að kórbaki í Skálholti og færð heim til Hóla. Hlutu þau leg í kirkjunni.

Laugarvatn

Vígðalaug á Laugarvatni.

Á leiðinni norður var komið við á Laugarvatni, þar sem tjaldað var yfir líkin, þau þvegin og búið sem best um þau. Kisturnar voru reiddar á kviktrjám og við hverja kistu voru hengdar litlar bjöllur eða klukkur, sem hringdu látlaust við hverja hreyfingu hestanna. Hvar sem þeir fóru um sveitir, flykktist fólk að þeim, einkum vanheilt og sjóndapurt, til þess að snetra kisturnar, ef það mætti verða því til bötunar, og fannst mörgum þeim verða að hyggju sinni.

Dönsk herskip voru send til Íslands í júlí 1551. Og tóku höfn í Eyjafirði. Flotaforingjarnir riðu til Hóla með sveit manna. Lögðu þeir hald á það, er þeim þótti fémætt og séra Björn Gíslanson hafði ekki áður komið undan í gröft eða geymslu. Helstu klerkar, sýslumenn, lögréttumenn og bændur voru kvaddir á Oddeyri og látnir sverja konungi hollustueiða.

Laugarvatn

Upplýsingaskilti á Laugarvatni.

Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns biskups Arasonar, leyndist í úthaga um sumarið. Bjóst hún fyrst um í Vindáshlíð í mosalituðu tjaldi, samlitu jörðinni, en var síðar flutt á Glóðafeyki upp á Ökrum í Blönduhlíð, þar sem hún þótti óhultari.
Otti Stígsson lét taka Jón Kenriksson, bónda á Kirkjubóli á Miðsnesi, af lífi, ásamt einum hjáleigubændanna þar syðra. Var Jóni fundið það til saka, að hann hefði ekki bannað Norðlingum að rjúfa bæinn að Kirkjubóli, er þeir fóru að Kristjáni skrifara og fylgismönnum hans. Menn þessa lét Otti færa inn í Straum og reisa þar höggstokk, hjól og stengur. Voru þeir Jón Kenriksson leiddir þar ti höggs, höfuð þeirra sett á stengurnar og bolirnir hjólbrotnir í viðurvist, er þangað var stefnt. Síðan var allt látið standa sem komið var, öllum þeim til viðvörunar, er þar fóru um.

Hörð hríð var gjörð að banamönnum Kristjáns skrifara og annarra Dana, sem norðlenskir vermenn vágu á Suðurnesjum. Voru þeir allir dæmdir óbótamenn á Öxarárþingi. Sextán Norðlendinganna flúðu land með enskum kaupförum og fiskiskipum. Konungur féllst síðan á að þeim yrði leyft að kaupa sér frelsi, þar eð ekki var unnt að ná til margra þeirra, sem fremstir voru í flokki.

Skálholt

Skálholt á miðöldum.

Þórunn á Grund var fjórgift og loks svipt sjálfræði. Hún andaðist í desember 1593. Með henni var fallin einn helsti skörungur meðal kvenna á landinu. Hún var komin nokkuð á níræðisaldur. Var séra Sigurður á Grenjaðastað einn á lífi barna Jóns biskups Arasonar.
Hálfri öld eftir víg Jóns biskups Arasonar og sona hans var kyn hans þó orðið næsta fjölmennt, einkum þó kynkvísl séra Björns Jónssonar á Melstað.
Sjá meira um eftirmálana.

Heimild m.a.:
-Öldin okkar.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Kaupstaðagatan

Ljóst er að hjarta landsins slær á Reykjanesi.

Hjartasteinn

Hjartasteinn við Ósa.

Í ferð FERLIRs um norðanverða Ósabotna var gengið fram á meirt, en mjúkt hjarta, þar sem það var grópað litskrúðugt í grjóthart grágrýtið – skammt frá þeim stað þar sem hella með fangamarki Hallgríms Péturssonar, prests í Hvalsnesi, átti að hafa verið til langs tíma, en er nú varðveitt í geymslum Þjóminjasafnsins (engum til ánægjuauka). Umhverfið er sandauðn og berar klappir, óspillt land, en inni á milli þeirra vaxa harðgerar landnámsplöntur. Líkja má aðstæðum við frumbýlið forðum.
Hjartað gæti, einhvern tímann, hafa slegið í suðvestrænum landvættarskrokki griðungsins, en síðan fengið að slá áfram er griðingurinn varð að þjóðsagnakenndum steini. Þannig er hjartað og bein skírskotun til sögunnar, þjóðsagnanna sem og jafnvel allrar tilveru lífsins. Einnig er táknrænt að hjartað skuli vera þarna, inni á Varnarsvæði hersins, á íslensku landi undir erlendum yfiráðum [2003].

Þórshöfn

Þórshöfn.

Annars bjóða norðanverðir Ósar upp á fjölbreytilega möguleika. Þar má sjá gömlu Kaupastaðagötuna; fallega götu er liggur svo til bein á kafla um heiðina, tóftir Gamla Kirkjuvogs, sem taldar eru vera frá fyrstu byggð á svæðinu, tóftir við Djúpavog og gamlan brunn, tóftir Stafnessels, tóftir á Selhellu, garða út í sjó vestan Djúpavogs, verslunina við Þórshöfn og áletranir á klöppum, Gálga (sem engar eru þó heimildir til að hafi verið notaðir sem aftökustaður, en uppi á einum þeirra er manngerð tóft) og Básenda, hinn gamla verslunarstað svo eitthvað sé nefnt. Verndarnir skiptu sér áður fyrr af ferðum fólks um þetta svæði (ofar ströndum), en voru sem betur fer hættir því nokkru áður en þeir hurfu af landi brott.
FERLIR fékk þó margsinnis að ganga óáreittur um þetta svæði meðan á hersetunni stóð – og njóta alls þess, sem það hefur upp á að bjóða, en auk minjanna og sagnanna er dýra- og náttúrufegurð þarna veruleg.

Kaupstaðagata

Kaupstaðagatan ofan við Gamla-Kirkjuvog.

Nýlega (skömmu fyrir brottför verndarana) var gengið fram á þá tvo slíka saman, alvopnaða, en reykspúandi, skammt vestan við Gálga. Þrátt fyrir meint hlutverk sitt gáfu þeir sér góðan tíma til að spjalla við göngufólkið um umhverfið og söguna, sem þeir sýndu verulegan áhuga. Þótt hugur þeirra væri á reiki víðsfjarri var áhuginn þó nærri. Og hann óx í réttu hlutfalli við umræðuna. Við Gálga innanverða er t.d. upplýsingaskilti fyrir göngufólk um aftökusiði og upp á íslenskan máta. Þaðan er ágæt útsýn milli klettastapanna og ímyndaðs aftökustaðar með tré á millum.
Sunnan Ósabotna er Hunangshellan, en henni tengist þjóðsagan af viðureign Hafnarbúa við finngálknið. Þar er einnig gamla gatan (eða réttara sagt göturnar) milli Njarðvíkur og Hafna.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Sunnar er staður er nefndur hefur verið Gamli kaupstaður, sem sumir álíta að hafi verið verslunarstaður eða verslunarsvæði fyrrum. Framhjá honum á Kaupstaðagata að hafa legið áleiðis yfir heiðina til Grindavíkur. FERLIR skoðaði þann stað fyrir nokkru og má vel gera sér í hugalund að þar hafi verið sammerkur áningarstaður á leiðum fyrrum. Þessi leið er a.m.k. bein og greið.
Kirkjuvogssel er sunnan þjóðvegarins og skammt norðvestan Gamla kaupstaðar. Þar eru verulega tóftir húsa og fallega hlaðinn stekkur, auk gerðis og fleiri mannvirkja er tilheyrðu selstöðunni fyrr á öldum. Enn ofar eru Möngusel og Merkinesselin.

Ósar

Ósar.

Af veginum á Þrívörðuhæð sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397.
Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs.
Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Hvalsnesleið

Stefnan var tekin á Keflavíkurflugvallarsvæðið upp á von og óvon. Svæðið innan Vallargirðingarinnar hefur verið landanum lítt aðgengilegt í u.þ.b. sex áratugi og lítið verið gert að því að skoða það m.t.t. hugsanlegra minja.

Hvalsnesgata

Hvalsnesvegur.

Eins og flestum er kunnugt um hefur flugvallarsvæðinu sjálfu verið mikið raskað vegna mannvirkjanna og flugbrautanna, sem þar eru. M.a. var heill gígur, sem stóð efst á heiðinni, jafnaður undir brautina á sínum tíma.
Á dögunum fór FERLIR með staðkunnugum frá Norðurkoti og Fuglavík (sjá aðra lýsingu) upp frá bæjunum í svarta þoku, inn um gat á varnargirðingunni í von um að finna þar einhverjar minjar. Í þeirri ferð fannst m.a. fallega gróin fjárborg og tóft utan í henni. Vatnsstæði var skammt sunnan við borgina.
FERLIR fékk góðar móttökur (sem reynar ávallt fyrrum) hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli til að komast inn á verndarsvæðið. Fulltrúi Flugmálastjórnar tók einnig vel í málaleitan FERLRs og fékkst leyfi til að fara inn fyrir það allar heilagasta. Eftir að hafa fengið fylgd um svæðið, hlið opnuð og síðan lokað á eftir göngufólkinu með loforð um að það fengi að fara út aftur að göngu lokinni, var gengið af stað.

Hvalsnesleið

Gengið um Hvalsnesleið.

Fljótlega var gengið fram á djúpt markaða götu er liðaðist um heiðina, með stefnu áleiðis að Básendum eða Stafnesi til Keflavíkur. Gatan beygir hins vegar til norðurs þarna nokkru vestar. Að sögn Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti er þarna hins vegar um að ræða hina gömlu Hvalsnesleið. Fallnar vörður voru við götuna og hefur verið nokkuð lagt í þær á sínum tíma. Ein var þó svo til alveg heil. Stóð hún á klapparhól sunnan götunnar. Leiðarsteinn vísaði til norðurs, að götunni. Önnur varða var á hól austar, svo til alveg við girðinguna. Þessi gata hefur greinilega verið mikið farin á sínum tíma, en ekkert í seinni tíð. Líklega má telja, miðað við hversu miklu hefur verið kastað upp úr götunni á kafla, að hún hafi verið notuð um nokkurn tíma. Vörðubrotin hafa greinilega verið látin óhreyfð. Fá kennileiti eru þarna utan nokkurra hóla.

Hvalsnesleið

Varða við Hvalsnesleið.

Frá heilu vörðunni lá röð stórra, mjög heillegra, varða til vesturs. Leiðarsteinn stóð út úr þeim öllum og benti hann til suðurs. Vörðunum var fylgt að þeirri síðustu, en frá henni sást í turninn á Hvalsneskirkju. Svo virðist sem hætt hafi verið að varða leiðina áfram niður að Hvalsnesi. Ekki var að sjá stíg í móanum á milli varðanna, sem lágu svo til í beina stefnu. Að sögn Sigurðar er þarna um að ræða svonefnda vetrarleið að Hvalsnesi og skýrir það hversu lítt gatan sést í móanum. Leiðin yfir heiðina var mjög villandi í vpondum veðrum. Skráð var t.d. á sínum tíma að fjöldi manns hafi orðið úti á heiðinni á tiltölulega skömmum tíma. Flestir voru þeir að vísu á leið frá kaupmanninum í Keflavík eftir að hafa fengið sér þar svolítið of mikið í tána.

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel.

Melabergsgatan er þarna skammt norðar, að mestu utan girðingarinnar. Gatan, sem skoðuð var innan vallarsvæðisins kemur inn á hana við Melabergsvötnin, að sögn Sigurðar.
Þá var gengið að fjárborginni, sem minnst er á hér að framan. Þetta er nokkuð stór gróin borg. Tóft er austan í tóftinni og einnig virðist hafa verið mannvirki sunnan undir henni. Að sögn Sigurðar er hér um að ræða selstöðu frá Fuglavík. Hólarnir ofan (austan) selstöðunnar heita Selhólar. Á þeim er varða. Vestar er vatnsstæðið.
Ljóst er að leita þarf þetta svæði mun betur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgata – vörðukort.