Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Borgarkot

Gengið var frá Stefánsvörðu, um Borgarkotsstekk, að hlaðinni refagildru ofan við Borgarkotstúnið. Þaðan var gengið að Hermannavörðunni, fallinni og raskaðri á hól við austurlandamerki Borgarkots, stórgripagirðingunni gömlu er liggur við hann áleiðis upp frá ströndinni og síðan þaðan til veturs í átt að Kálfatjörn. Henni var fylgt niður að Þjófabyrgi og síðan vestur með ströndinni að Borgarkotstóttunum. Láfjöróttur sjórinn var spegilsléttur. Krían var mætt á svæðið og fór mikinn.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Við skoðun á tóttum Borgarkots bættust þrjár tóttir við þær fjórar, sem áður höfðu verið skoðaðar. Ljóst er að þarna hafa verið mun meiri umsvif en álitið hefur verið. Sjórinn hefur brotið smám saman af ströndinni, en túnið hefur náð mun lengra fram á klappirnar líkt og annars staðar með ströndinni. Framan við þær er myndarleg vör, sem líkast til hefur verið notuð fyrr á öldum, en kotið fór í eyði á 18. öld þegar bóndinn var ranglega sakaður um að hafa skorið sauð Flekkuvíkurbónda á aðfangadag. Síðar mun hafa komið í ljós að sauðurinn var prestsins á Kálfatjörn. Vont að þurfa að missa allt sitt fyrir sauðsmisskilning. Lokið var við uppdráttargjörð af svæðinu.
Borgarkot var um tíma nýtt frá Viðeyjarklaustri (sjá fyrri umfjöllun um Borgarkotssvæðið). Klaustrið átti margar jarðir með norðanverðum skaganum, umhverfis Reykjavík og á sunnanverðu vesturlandi (sjá meðfylgjandi kort).
Vatnssteinar (Vaðsteinar) voru litnir augum, en á milli þeirra er fallegt vatnsstæði. Vestan þess er hlaðið gerði eða rétt. Vestan réttarinnar má sjá hleðslur er að öllum líkindum tengjast refaveiðum. Ein hrúgan ber þess ummerki að hafa verið refagildra. Sjá má hlaðinn „ganginn“ í henni ef vel er að gáð.

Borgarkot

Jarðeignir Viðeyjarklausturs á Reykjanesskaga.

Að þessari gaumgæfingu lokinni var strikið tekið suður heiðina í leit að svonefndum Bakkastekk. Hann fannst eftir stutta leit, greinilega mjög forn. Hann er á hraunhól allnokkuð suðsuðaustur af Bakka. Búið var að umbreyta austurhluta hans og hlaða úr honum refagildru. Þarna virðist því víða hafa verið átt við refaveiðar. FERLIR hefur skoðað um 70 hlaðnar refagildrur á Reykjanesi en ótaldar eru tvær mjög gamlar gildrur skammt ofan við gildruna ofan Borgarkots, gildra ofan við Húsatóftir, sem og tvær gildrur í Hraunsleyni ofan við Hraun og jafnvel gildra á Stóruflöt við Grindavík. Gildrurnar þarna virðast allar hafa sömu lögun og líklega gerðar af sama manninum. „Fellan“ virðist hafa verið hentugur steinn, en ekki slétt þunn hella, eins og t.d. í gildrunum á Selatöngum, við Húsfell, í Básum og undir Sundvörðuhrauni. Sumar heimildir segja gildruveiðar þessar vera komnar frá landnámsmönnum, en aðrir vilja meina þær yngri. Þær virðast þó að mestu hverfa eftir að byssur urðu almenningseign hér á landi. Þó er ekki óraunhæft að álíta að menn hafi haldið við einstaka refagildrum, einkum þeim sem voru á reglulegri leið þeirra, s.s. í beitarhús eða á rekagöngum.
Tiltölulega auðvelt væri að endurgera refagildrur líka þeim, sem fyrr voru notaðar, svo heillegar eru þær sem eftir standa.
Veður var frábært – sól og blíðviðri.
Gerður var uppdráttur af svæðunu (sjá mynd).
Frábært veður.

Borgarkot

Refagildra ofan Borgarkots.

Flekkuleiði

Eftirfarandi umfjöllun Árna Óla um „Rúnasteininn í Flekkuvík“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1959:
„Utan við Hvassahraun á Reykjanesskaga gengur inn Vatnsleysuvík og inn úr henni utarlega skerst önnur lítil vík, sem Flekkuvík nefnist. Stendur bær samnefndur fyrir botni víkurinnar. Þar í túninu er lítill hóll, eða stór þúfa, sem kallast Flekkuleiði, og þar ofan á liggur hraunhella með rúnaletri. Stendur þar skráð: „Hér hvílir Flekka“.

Hver var Flekka?
flekka-22Sagnir herma að hún hafi verið landnámskona, komin frá Flekkufirði í Fjörðum, og eitthvað vensluð Ingólfi Arnarsyni, enda frá sama byggðarlagi og hann. Ingólfur fekk henni fyrst bústað í Kjós. Reisti hún þar bæ og heitir hann enn Flekkudalur, við hana kenndur. Hún var vitur kona og framsýn, en eigi mjög við alþýðuskap. Hún undi sér ekki í Kjósinni, vegna þess að hún sá ekki til sævar frá bæ sínum. Fluttist hún svo vestur á Vatnsleysuströnd og reisti sér þar bæ við eyðivík nokkra. Hefir víkin síðan verið við hana kennd og kölluð Flekkuvík og hlaut bærinn sama nafn. Þarna var þá afskekktur staður, víkin umgirt apalhrauni á þrjá vegu, en á hrauntöngum beggja megin víkurinn svarraði brimið og voru átök þess ekki mjúk. En í víkinni sjálfri var góð lending og mikill veiðiskapur var þar jafnan skammt undan landi. Þó var innsigling á víkina viðsjál og gat verið hættuleg, ef ekki var rétt farið. Þess vegna mælti Flekka svo fyrir, áður en hún andaðist, að sig skyjdi heygja þar efst í túni, fyrir opinni innsiglingarleiðinni. Lét hún svo um mælt, að aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan nokkuð sæist af kumli sínu. Hafa menn haft trú á þessu síðan.

Jónas Hallgrímsson rannsakar leiðið.

Sumarið 1841 fór Jónas skáld Hallgrímsson til Flekkuvíkur til þess að athuga rúnasteininn og rannsaka hvort hér gæti verið um fornt kuml að ræða. Mönnum kom ekki saman um hvernig lesa átti úr úr rúnunum. Að vísu gátu allir lesið nafnið Flekka, en yfir því voru skammstafanir, sem menn greindi á um hvernig skilja bæri.
sumir að lesa ætti „hér hýsi aðrir „hér hvílir“. Finnur Magnússon las: „hér hýsir“ og taldi áletrunina frá heiðni. Þótti Jónas að fýsilegt að fá úr því skorið hvort hér væri um að ræða grafreit frá fornöld, því væri rétt lesið „hvílir“, þá átti svo að vera. En Jónas rak sig á óvænta erfiðleika. Mönnum þar syðra stóð hinn mesti stuggur af komu hans þeir vissu erindið. Þeir vildu ekki láta hrófla við Flekkuleiði, því að þá væri hætt við að falla myndi úr gildi hin góðu ákvæði hennar um innsiglinguna á Flekkuvík. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, sem kallaðist landsdrottinn, vegna þess að kirkjan á jörðina. En Páll bóndi Vigfússon í Flekkuvík mun lengi hafa verið tregur, því að Jónas segir: „Eg hét þeim að láta Flekku kyrra, ef eg fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn“. Lét Páll þá til leiðast og samþykkti að rannsókn færi fram „móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla í óslegnu túni“.
Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 alna langt og lxk flekka-21al. breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri (sjá mynd). Öll grasi 
gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla . . . Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd 15—16% þuml, breidd 12 þuml, þykkt 4—5 þuml. Hann er því sem sjá má, lítil og heldur ólöguleg hraunhella . . Af því hingað og þangað var að sjá steinsnyddur út úr brúnum hæðarinnar, þótti líklegt, að vera mundi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur af skorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. — Þá kom það í Ijós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið. 

flekka-32

Það er því ljóst, að annaðhvort hefir Finnur Magnússon rétt að mæla, eða þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hér steininn til þess að blekkja menn trúgjarna“. Sjálfsagt hefir Páll bóndi í Flekkuvík krafizt þess fyrirfram, að gengið yrði frá leiði Flekku að lokinni rannsókn, eins og það hafði áður verið. Og þótt Jónas geti ekki um það, hefir hann orðið að gera upp leiðið að nýu, enda þótt hann væri sannfærður um, að þetta væri enginn merkisstaður. Hann hefir ekki mátt ganga í berhögg við þá tröllatrú, sem menn höfðu á Flekkuleiði.
Matthías próf. Þórðarson hefir sagt, að skammstafanirnar á rúnahellunni eigi áreiðanlega að þýða „hér hvílír“, og hann álítur að áletrunin muni vera frá 17. eða 18. öld, gerð vegna munnmælanna um það, að þarna væri Flekka heygð. Flekkuleiði eins og það er nú í sumar kom eg að Flekkuvík og skoðaði Flekkuleiði, rúmum hundrað árum eftir að Jónas var þar.
Leiðið er mjög svipað og hann lýsir því, bæði að stærð og lögun, og bendir það til þess, að það hafi verið hlaðið upp þegar að rannsókn lokinni. En umhverfið er orðið breytt, þúfnareiturinn, sem Jónas talar um, er horfinn og er leiðið nú í sléttu túni. Ofan á leiðiskollinum liggur hraunhellan litla með áletruninni, og er sokkin í jörð, eins og þegar Jónas kom að henni. Af stærð hellunnar, eins og hér er að framan greint, geta menn dregið, að stafirnir sé ekki stórir. Og nú eru þeir ekki lengur „greinilegir“, eins og Jónas kallar þá. Á þessari rúmu öld hafa þeir eflaust máðst og slitnað. Kveður svo ramt að þessu, að sums staðar sér aðeins móta fyrir leggjum þeirra. Mosi og skófir hafa einnig sezt í risturnar, en yfirborð hellunnar hrufótt, svo að varla má greina á milli hvað ; eru holur í steininum og hvað er klappað. Þess verður naumast langt að bíða, að áletrunin máist af með öllu, ef stafirnir verða ekki skírðir.
flekka-41Eg reyndi að hreinsa mosa og skófir úr ristunum, eftir því sem unnt var, bar síðan krít í þær, svo að þær yrði gleggri. Því næst tók eg af þeim meðfylgjandi mynd. Ef mynd þessi er borin saman við uppdrátt Jónasar, sést nokkur munur á 4. rúninni og seinustu rúninni í nafninu. Um 4. rúnina er það að segja að Kaaland sagði að hún gæti ekki verið rétt hjá Jónasi, þar ætti ekki að standa heldur J,, eins og kemur líka fram á Ijósmyndinni. Þessi rún er nokkurn veginn glögg enn, en Jónasi hefir annaðhvort sést yfir annan skálegginn, eða þá að hann hefir ritað hana skakkt í minnisbók sína. Seinasta rúnin er nú einna máðust, og vottar aðeins fyrir stryki út úr aðalleggnum, en fráleitt held eg að þar hafi nokkurn tíma verið höggvinn bogi í líkingu við það, sem sýnt er á teikningu Jónasar. Þess má geta hér að á árunum 1937—39 ferðaðist Anders Bæksted hér um landið til að athuga rúnir og hefir skrifað bók um þær. Hann kom til Flekkuvíkur í júlí 1938 og tók mynd af Flekku-steininum og skírði síðan upp rúnastafina. Eru þeir allir eins og hér á myndinni, nema seinasta rúnin. Hann segir að rúnirnar sé „greinilegar“, en telur þær ungar, máske frá 18. öld, og miðar þá við gerð þeirra. Hann segir að annar bóndinn í Flekkuvík hafi kunnað söguna um að Flekka væri grafin þarna og vekti yfir innsiglingunni, en menn leggi nú ekki lengur trúnað á þá sögu.

Hvaðan er Flekkunafnið.
Mér finnst það augljóst á öllu, að nafnið Flekkuvík hafi komið með landnemum frá Noregi eins og fjölmörg önnur nöfn. Hér eru bæirnir Flekkudalur og Flekkuvík, og þeir eru báðir í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Það er þegar athyglisvert, þegar þess er gætt, að suður úr Dalsfirði í Noregi. Litlu utar en þar sem Ingólfur átti heima, skerst fjörður, sem heitir Flekkufjörður. Hann er kenndur við bæinn Flekku, sem þar er. Nafnið er skrifað á ýmsan hátt í gömlum skjölum, svo sem Fleke, Flocke, Flecke og Fleche, en nú er það skrifað Flekke. Sagt er að það sé alveg einstætt meðal gamalla bæarnafna, og vita menn ekki hvað það þýðir. Sumir gizka á, að það sé dregið af „flek“ = blettur, en verði þó ekki skýrt. Getgáta hefir og komið um að það sé dregið af dílagrjóti (flekkóttu grjóti“) sem þar er, en þó þykir það ekki sennilegt, því að grjót hefði þá átt að vera í nafninu.
Annars úir og grúir af „Flekku“-nöfnum í Noregi. Þar er Flekkuvík, Flekkuós, Flekkuey, Flekkustaðir (og ýmis önnur, sem virðast dregin af karlkynsnafninu Flekkur: Flekkstveit, Flekshaug, Flekstad, Fleksvik). Ennfremur eru þar nöfn eins og Flikka, Flikke, Flikeid, Flikkerud, Flikkeshaug, Flikki, Flikkin, Flikkurud, Flikstade. Menn segja að ekki megi blanda þessum nöfnum saman við Flekkunöfnin, en bó verði þau ekki skýrð. Samt dregur bærinn Flekkefjord á Ögðum nafn sitt af bóndabænum Flikke.
flekka-45Hér skal ekkert fullyrt um hvort hér sé um einn nafngiftaflokk að ræða, en þótt Flikk-nöfnin sé undan skilin, þá eru Flekkunöfnin svo mörg, að eitthvað sérstakt mun hafa ráðið þeim. Er þá nokkur goðgá að hugsa sér að til hafi verið í forneskju einhver vættur sem Flekka hét, og við hana sé þessi staðanöfn kennd? Jafnvel að hún hafi átt sér bónda, sem Flekkur hét (sbr. nafnið Álaflekkur). Flekkuleiði ætti að varðveita Þótt Flekkuleiði sé ekki kuml, er það skemmtilegt og mætti helzt ekki glatast. Það segir sína sögu um það hvernig þjóðtrú myndast. Flekka vakir yfir útræðinu í Flekkuvík, eins og Þuríður sundafyllir vakir yfir byggðinni og miðum þeirra í Bolungavík.
Það er eflaust alþýðuskýring, að Flekkuvík dragi nafn af konu sem hét FJekka, alveg eins og menn sögðu að Krýsuvík dragi nafn af fjölkunnugri konu er þar bjó og hét Krýs. Þó er ekki loku fyrir það skotið að í Flekkuvík hafi einhvern tíma búið kvenskörungur, sem menn hafi kennt við bæ sinn og kallað Flekku. Menn hafa haft ýmsar sveiflur á því, allt fram á þessa öld, að kenna fólk þannig við bæi.
Við skulum ekki missa sjónar á þessum ímyndaða kvenskörung í Flekkuvík. Hún hefir búið þar rausnarbúi, haft margt fólk í heimili og rekið mikla útgerð. Flekkuvík hefir þá verið betri jörð og blómlegri en nú er. Þá hefir verið mikið og grösugt undirlendi fyrir botni víkurinnar og út með henni beggja vegna. Þetta land hefir sjórinn verið að brjóta um margar aldir, og í tíð þeirra manna. sem enn lifa, hefir sjórinn gert þarna mikil landspjöll. Þar sem háir heybólstrar stóðu á dögum Flekku húsfreyju, lemur nú brimið berar klappir. En útgerðin hefir þá, eins og síðar, verið helzti bjargræðisvegurinn.

Flekka-47

Húsfreyjan í Flekkuvík hefir borið umhyggju fyrir starfsfólki sínu. Ef til vill hefir einhver bátur farizt þar á víkinni, vegna þess að hann þræddi ekki rétta leið, og lenti upp á sker. Þá hefir húsfreyjan látið setja upp sundmerki, svo að slíkt slys henti þar ekki aftur. Sundmerkin hafa verið tvær vörður, önnur fram við sjó, en hin uppi í túni. Þá var rétt innsigling, ef þessar tvær vörður bar saman. Og þá hefir húsfreyjan látið svo um mælt, að aldrei mundi farast bátur á Flekkuvík, ef stýrt væri eftir sundmerkjunum.
Svo líða árin. Húsfreyjan í Flekkuvík hverfur til feðra sinna, en minning hennar lifir vegna ummæla hennar. Aldrei ferst bátur á réttri leið inn Flekkuvík. Menn skilja ekki, að það er sundmerkjunum að þakka, en halda að það sé að þakka ummælum húsfreyjunnar.
Ákvæði hennar Flekkusteinn-198haldi hlífiskildi yfir bátunum, og þau verði alltaf í gildi. Þess vegna vanrækja þeir að halda sundmerkjunum við. Neðri vörðuna tekur brimið, en efri varðan, uppi í túninu, molnar niður, af því að hún var úr torfi. Þar verður eftir dálítill hóll. Við hann er tengd minningin um Flekku húsfreyju, og þá er þess skammt að bíða að menn fari að trúa því að þessi rúst sé haugur Flekku, þarna hafi hún valið sér hvílustað til þess að geta alltaf vakað yfir innsiglingunni á víkina. Og þá hlýtur að draga að því, að menn fari að trúa, að ekki farist skip á víkinni meðan nokkur merki legstaðar Flekku sjást. Og svo kemur einhver framtakssamur maður, sem er Flekku hjartanlega þakklátur fyrir vernd hennar, höggur rúnir á litla hraunhellu og leggur helluna á leiði Flekku til þess að það gleymist aldrei.
Einhvern tíma löngu seinna eru hlaðnar nýar sundvörður. Önnur er nú niðri á sjávarbakkanum, en hin hátt uppi í hrauni. En þegar sigld er rétt leið inn á víkina og vörðurnar ber saman, þá er Flekkuleiði í beinni línu á milli þeirra.“

(Heimildir:
-O. Rygh: Norske gaardsnavne, Norsk alkunnabok (Fonna forlag).
-Jónas Hallgrímsson: Rit III, 1 og 2.
-Anders Bseksted: Islands Runeindíkriíter (Bibl Arna Magnaeana II) Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 20. september, 1959, Rúnasteinn í Flekkuvík, bls. 393-396.
Flekkuvík

Norðurkot

Gengið var um Kálfatjarnarsvæðið í fylgd staðþekkjaranna Sesselju Guðmundsdóttur og Sigrúnar Frjóns, en koma átti eftir í ljós að ekki var til sá blettur á landssvæðinu, sem þær ekki þekktu eða höfðu skoðað.

Litlibær

Litlibær – brunnur.

Byrjað var á því að ganga veginn niður að Liltabæ, Bjargi, Bakka og Gamla-Bakka austan Kálfatjarnar. Tekið var hús á Geir á Litlabæ, sem bauð þátttakendum til sólstofu. Þaðan var ágætt útsýni vestir að Bakka, norðvestur að Bjargi og norður að Gamla-Bjargi, eða öllu heldur tóttum þess bæjar, sem nú eru á sjávarkambinum. Eftir stutta dvöl var Geir kvaddur með fyrirheitum um að bera fljótt að garði aftur. Gengið var að tóttum Gamla-Bakka, en þar má vel sjá hleðslur garðs og tóttir bæjarins, sem sjórinn er nú smám saman að brjóta niður. Undir bakkanum mátti t.d. sjá gamlar ryðgaða hurðarlamir og bein úr haug.

Gengið var vestur tún Kálfatjarnar, að Móakoti. Í kringum tóttir kotsins eru allmiklar garðhleðslur og hlaðinn brunnur með steyptu loki vestan þeirra. Sjá mátti tóttir Fjósakots sunnar í túninu. Gengið var áfram að hól þeim, sem Hólkot stót eitt sinn á. Suðvestan undir hólnum er Víti, vatnsstæði, sem sjaldan þverr. Nú var það reyndar að mestu þurrt. Nafninu Víti var einhvern tímann komið á Hólkot með vísu er fjallaði um áfengi og munu menn hafa villst á vitum. Haldið var áfram til vesturs sunnan Kálfatjarnarinnar, að sjóbúð, sem þar er heilleg á hól, áfram til vesturs yfir Síkið og Rásina að hlaðinni bátarétt. Við enda heillegasta garðsins eru leifar gamla bátaspilsins, en Sigrún benti síðar á hvar afgangur þess var niður kominn. Litið vará hlaðin fjárhús á sjávarkampinum, ofan við Kálfatjarnarvörðina, en neðan þeirra hafði fjósið eitt sinn verið og skammt vestar Kálfatjarnabyrgið. Sjórinn hefur nú hirt hvorutveggja. Vestar er Hausaréttin gamla. Enn sér móta fyrir henni. Neðan hennar fannst Kálfatjarnarártalssteininn (A° 1674) fyrir nokkrum misserum síðan eftir að sjórinn hafði velgst með hann um 30 metra leið frá þeim stað, sem hann hafði síðast sést fyrir nokkrum áratugum síðan.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Gengið var til suðvesturs að sundvörðu á hól og fjárhústótt skammt vestar. Norðvestan hennar er Norðurkotsbyrgið og Tíðargerðisbyrgið norðan þess, alveg fram á sjávarkampinum.
KálfatjörnGoðhólstóttirnar voru skoðaðar, en hún er enn allheilleg. Norðaustan þeirra eru tveir hlaðnir garðar, gamlir matjurtargarðar. Gengið var yfir garða og þá komið að fallegum hringlaga hlöðnum brunni. Þar er Norðurkotsbrunnurinn, smart gerður, eins og Vala Matt myndi sagt hafa. Komið var að Tíðargerði. Gengið var að Norðurkoti, en þar mun fyrrum hafa verið barnaskóli. Inni er margt forvitnilegt að sjá.
Til baka var gengið yfir að Hliði, um garðana þar, að hlaðinni brú á kirkjugötu, sem í er ártalssteinn (A°1790) og að Landabrunni ofan Landa, fallegu vatnsstæði. Loks var komið við í Hestaréttinni. Þegar litið var yfir golfvöllinn á Kálfatjörn mátti sjá nokkra sjónumhrygga golfara leita kúlna. Eina (það einasta eina), sem þeir einblíndu á, voru litlar holur í sléttu grasinu – og allar eins.
Til ferðardrýginda var kíkt í gömlu hlöðuna á Kálfatjörn og þátttakendum sýnt þar fornt lóð er bar merki Kristjáns kóngs fimmta, sbr. meðfylgjandi mynd. Því mun hafa verið bjargar undan sjónumhryggum fyrr á árum. Skemmtileg leiðsögn um sagnaríkt og merkilegt svæði.
Veður var frábært – köflótt sól með vistvænum vindi. Gangan tók um 2 klst. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Stapagata

Gengið var um Stapagötu frá Reiðskarði við Vogavík og eftir Stapanum yfir að Stapakoti í Njarðvíkum.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur er framhald gömlu þjóðleiðarinnar (Almenningsvegarins, eða Menningsvegar, eins og gárungarnir kölluða hann eftir misritun). Alfaravegurinn (-leiðin) liggur frá Hafnarfirði og suður að Kúagerði þar sem Almenningsvegurinn tekur við. Hann liðast síðan um Vatnsleysustrandarhrepp að Vogastapa. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur. Árið eftir var hafist handa við gerð vegar frá Vogastapa til Grindavíkur. Þangað náði vegurinn fullgeðrur árið 1918. Við þann veg má sjá miklar minjar eftir vegagerðarmennina.

Stapinn

Stapadraugurinn.

Vogar eru bæði fallegt og snyrtilegt sjávarþorp. Þaðan var gengið suður að Stapanum. Þegar komið er að hlíð hans er gengið í átt að sjónum og þar má sjá merkið „Stapagata.”
Gatan liggur upp hlíðina um skarð sem heitir Reiðskarð en þar er hún hlaðin upp að hluta og er ytri vegkanturinn nokkuð hár og hleðslan þar bæði falleg og heilleg. Þegar gengið er upp gömlu götuna má sjá enn eldri götu á hægri hönd, sem kastað hefur verið duglega upp úr. Hæsti hluti Stapans austan Reiðskarðs heitir Fálkaþúfa en suður af þúfunni eru Lyngbrekkur. Þarna við gerðist m.a. saga sú, sem jafnan var sögð á Vatnsleysuströnd um fylgdarkonuna (huldukonuna þokumkenndu) í Skarðinu (sjá aðra FERLIRslýsingu).

Reiðskarð

Reiðskarð.

Reiðskarð er fyrsta skarðið af fjórum á austurhluta Stapans. Hin eru Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Urðarskarð í þessari röð til vesturs. Upp úr Reiðskarði er gatan djúp og sendin með miklum grjótruðningum til beggja handa. Í skarðinu vex töluvert af Gullkolli en það er sjaldgæf jurt á þessu svæði. Landið hækkar örlítið þegar komið er upp á Stapann. Þaðan lá gata til hægri, niður að bænum Brekku. Eftir stutta göngu sjást miklar grjóthleðslur á milli götunnar og Gamla-Keflavíkurvegarins. Þar var svonefndur „hreppsgarður,“ einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19.aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Sáralítill jarðvegur er nú innan hleðslanna. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan í löngum hjalla sem kallaður er Kálgarðsbjalli.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól sem er hæsti hluti Stapans (74m) og þar er útsýnisskífa. Af Grímshól er gott útsýni yfir Faxaflóa og fjöllin í kring. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef. Þjóðsaga er til um Grím nokkurn af Rangárvöllum sem réði sig í skipsrúm til huldumanns á þessum slóðum og varð að lokum bergnuminn í Grímshól. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.
Nú lækkar landið vestur af Grímshól og hér liggur gatan rétt sjávarmegin við Gamla-Keflavíkurveginn. Á móts við þar sem akvegurinn liggur yfir götuna eru landamörk Vatnsleysustrandahrepps og Reykjanesbæjar í viki sem gengur inn í Stapann og er ýmist nefnt Grynnri-Skor eða Innri-Skor.

Stapagata

Stapagata nær Njarðvík.

Þegar komið er nokkuð vestur fyrir Grynnri-Skor er landið aflíðandi til vesturs og gaman að skreppa út af götunni og ganga með bjargbrúninni en fara þarf varlega. Gróðurinn er mjög fjölbreytilegur á þessu svæði. Næst verður Dýpri-Skor eða Ytri-Skor á vegi okkar en þar var áður ruslahaugar Suðurnesja og sjást því miður enn skýr merki um þá. Rétt vestan við Ytri-Skor standa leifar af fiskihjöllum og liggur gatan um það svæði. Grænaborg heitir stór gömul og grasigróin fjárborg hér rétt við Gamla-Keflavíkurveginn og austan hesthúsahverfis Njarðvíkinga. Bærinn, sem stendur næst Stapanum af húsunum í Innri-Njarðvík, heitir Stapakot og þar við túnfótinn lýkur göngunni.
Ekki má gleyma Stapadraugnum, sem margar sagnir eru til um, enda mun hann oft hafa sést á gamla veginum um Stapann þars em hann stóð með höfuðið undir handleggnum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Byggt m.a. á frásögn Rannveigar L. Garðarsdóttur.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Stapagata

Stapagata.

Strandarheiði

Ofan Arnarvörðu í Strandarheiði (Flekkuvíkurheiði) eru Miðmundahólar og ofan þeirra Miðmundalágar. „Hólarnir eru ekki eyktarmark frá Flekkuvík sem mætti ætla við fyrstu sýn né heldur eyktarmark frá öðrum bæjum í grennd að því er virðist.
TóftÍ Orðabók Menningarsjóðs segir að í fornu og úreltu máli geti miðmunda (ao.) þýtt „mitt á milli es!, og á jafnt við um tíma og vegalengdir, þannig að hólarnir gætu staðið miðja vegu á milli einhverra staða“.
Þegar umhverfið var skoðað mátti ganga að Miðmundastekk vísum undir Þrívörðuhól. Ofar liggur Almenningsvegurinn. Skammt ofan hans, vestan (sunnan) Arnarvörðu er varða á klapparholti. Þarna hefur að öllum líkindum  verið um landamerkjavörðu að ræða. Vörðufóturinn hefur verið stór (er heillegur), en úr vörðunni hefur verið búin til refagildra, sem síðan hefur verið aflöguð. Gangurinn sést vel og fallhellan er við leifarnar. Líklegt er að þarna séu mörk Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Mitt á milli þessarar vörðu og annarrar austar  (norðar) er önnur eins. Vörðufóturinn er eins og hinn, en grjót hefur verið tekið úr vörðunni, væntanlega í Eiríksveginn, sem er skammt frá. Þarna eru líklega mörk Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Flekkuvíkurselsstígurinn liggur upp heiðina rétt sunnan við vörðuna. Miðmundahólar gætu því hafa tekið nafn af því að vera miðsvæðis í miðju Flekkuvíkurlandi.

Varða

Önnur gata liggur af Almenningsveginum skammt ofar, áleiðis niður í Flekkuvík. Henni var fylgt langleiðina niður að bæ. Ofanvert er gatan mjög greinileg, en verður óljósari er nær dregur bæjum. Varða, gróin, er á hól á miðri leið. Gatan liggur austan við hólinn og sameinast Flekkuvíkurselsstígnum skammt neðar.
Þegar Miðmundahólar voru skoðaðir sást falleg gróin tóft sunnan undir hólunum. Hún hefur verið ca. 120 x 480 cm með op mót suðri, að Miðmundalágum, sem væntanlega hefur verið nátthagi. Þessi tóft gæti verið smalaskáli og tengst Miðmundastekk skammt norðar í heiðinni.
Lágarnar eru grasi vaxnar og ljóst að þarna hefur verið allgóð beit fyrrum.
Spóinn lék fluglistir sem mest hann lét, rjúpan flaug á millum með allan ungaskarann og krækiberin sáust stækka.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Í Miðmundalágum

Kúagerði 1912

„Fyrir botni Vatnsleysuvíkur, þar sem hraðbrautin nálgast sjóinn á stuttum kafla er Kúagerði. Að vestan eru hraun Strandarheiðarinnar, en að austan er Afstapahraunið, úfið og illt yfirferðar, enda miklu yngra að árum. Þarna fyrir víkurbotni er ferskt vatn, sem kemur úr lindum undan hrauninu. Þessi staður var þreyttum og vegmóðum ferðamönnum Í Flekkuvíkkærkominn áningarstaður, því vatnið úr uppsprettunum var þeim svalandi og lífgandi, eftir að hafa klöngrast yfir óslétt og úfið hraunið á langri leið milli byggðanna við Flóann, því þá voru ekki önnur farartæki tiltæk en hesturinn eða “hestar postulanna”.
Við yfirgefum bílinn í Kúagerði, því ætlunin er í þetta sinn að ganga út Vatnsleysuströndina út á Keilisnes og enda við kirkjuna að Kálfatjörn. Fyrst göngum við fram hjá Vatnsleysubæjunum. Þar hefur alltaf verið búið stórt, margar hjáleigur lágu undir höfuðbólið og mikil umsvif. Nú er á Minni-Vatnsleysu eitt stærsta og myndarlegasta svínabú landsins í eigu Þorvaldar Guðmundssonar. Glæsilegar byggingar og öll umgengni þar heima ber eiganda glöggt vitni.
Nokkru fyrir vestan Vatnsleysubæina ber okkur að Flekkuvík, Þetta er landnámsjörð, kennd við konu að nafni Flekka. Sagan segir að hún hafi komið til Íslands í fylgdarliði Ingólfs Arnarsonar. Fyrst fékk hann henni land í Kjós og reisti hún þar bæ, sem hún nefndi Flekkudal. Flekka undi sér þar ekki, því hún sá ekki til hafs frá bænum og eftir að hafa rætt þetta við Ingólf gaf hann henni þessa jörð. Í Flekkuvík bjó svo kerla til elli. Sagan segir, að er hún fann dauðann nálgast hafi hún lagt svo fyrir að sig skyldi grafa syðst í túninu, þar sem sést vel yfir innsiglinguna. Hún mælti þá svo um, að engum skyldi þaðan í frá hlekkjast á í innsiglingunni, tæki hann rétt mið af leiði sínu og færi eftir settum reglum. Þótti mönnum vissara að fara eftir fyrirmælum kerlingar, enda segir sagan að fá slys hafi hent í lendingunni undan Flekkuvík. Steinn er á Flekkuleiði og hefur þessi setning verið letruð á hann með rúnaletri: Hér hvílir Flekka. Telja fróðir menn, að þessi áletrun sé frá 17. eða 18. öld. Jónas Hallgrímsson skáld rannsakaði leiðið sumarið 1841. Gróf hann í það.
Rúnasteinn á FlekkuleiðiReyndist jarðvegurinn vera um það bil hálft fet á þykkt. En “undir var einlæg, jarðföst klöpp, eða réttara sagt hraungarður, svo að þar hefur aldrei nokkur maður heygður verið” segir orðrétt i skýrslu Jónasar um þessa ferð. Þannig fór það.  Auk þeirra minja sem minna á fortíðina er margt annað forvitnilegt að skoða á þessari gönguleið. Unnt er að dunda sér langtímum saman í fjöruborðinu. Þar er ýmislegt skoðunarvert að sjá s.s. trjáreka, glerflöskur, þang, pöddur og skorkvikindi ýmiskonar og ekki má gleyma selunum, sem svamla í sjónum skammt undan landi og skjóta upp kolli yfir vatnsflötinn við og við til að fylgjast með þessum óvæntu gestum. Allt er þetta umhugsunarefni fyrir ungan og spurulan göngumann,sem ef til vill er að kynnast landi sínu á þennan hátt í fyrsta sinn.
Næst liggur leiðin út á Keilisnes, en þar skagar landið lengst í norður milli Vatnsleysuvíkur og Stakksfjarðar. Líklega er þetta örnefni kunnugra fleiri mönnum en nokkur önnur slík hér um slóðir. Ástæðan er sú, að það kemur fyrir í kvæði Arnar Arnarssonar um Stjána bláa, en þar segir m.a.:

KálfatjarnarkirkjaSöng í reipum, sauð á keipum,
sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.

Nú sést knörrinn ekki lengur, en efalaust leitar kvæðið á hugann, þegar gengið er um þessar slóðir, og hendingar úr því leita fram á varirnar. Nokkur spölur er frá Keilisnesi að Kálfatjörn. Kirkja hefur verið á Kálfatjörn frá öndverðu. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Þá var hún vel auðug, átti dýrgripi og lönd, en eftir siðaskiptin breyttist
hagur hennar eins og annarra eigna sem kirkjurnar áttu. Af því er mikil saga, sem ekki eru tök á að rekja hér. Þessi kirkja sem nú stendur var byggð rétt fyrir aldamótin 1900. Hún er hið fegursta guðshús og vel við haldið. Er því við hæfi að fá leyfi til að skoða hana nánar og enda þar með þessa fróðlegu gönguferð.“

Heimild:
-Mbl. 19. júlí 1981.

Bláfang

Almenningsvegur

„Vogar og Vatnsleysuströnd eiga sér merka sögu útvegsbúskapar og er hér fjársjóður minja um búsetu og horfna atvinnuhætti.
Skráning þessara minja er mjög skammt á veg komin og lítið um aðgengilegar upplýsingar. Nú er mikið byggt í Vogum og hætta á að merkar minjar fari forgörðum – og það hefur þegar gerst. Arkitektar og verktakar vita lítið Ásláksstaðastekkurum sögu þess lands sem þeir leggja undir mannvirki. Nú er vakning víða um land til að varðveita sýnilegar minjar um líf og störf forfeðranna, en sveitarstjórnin hér hefur sofið á verðinum. Í 9. grein fornleifalaga sem tóku gildi 2001 segir: Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar. Í sömu grein laganna er skilgreint hvað eru fornminjar. Þar segir m.a. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem: búsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum … leifar af verbúðum, naustum, leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, … gömul tún- og akurgerð … og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita; gamlir vegir …varir, hafnir og bátalægi … vörður og vitar … brunnar, uppsprettur, álagablettir… áletranir … skipsflök eða hlutar úr þeim. Það sem hér er talið upp er til staðar í okkar sveitarfélagi. Ef litið er í Fornleifaskrá mætti halda að okkar sveit sé afar fátæk af fornleifum því skráningu þeirra hefur ekki verið sinnt .
NorðurkotNýlega var stofnað minjafélag í sveitarfélaginu og hefur það gengist fyrir að bjarga hlöðunni Skjaldbreið á Kálfatjörn og skólahúsinu í Norðurkoti. Hlaðan er elsta uppistandandi húsið í sveitarfélaginu (frá 1850) og ber mörg sérkenni byggninga frá fyrri öldum. Norðurkotsskóli er með elstu skólahúsum á landinu sem er sérstaklega byggt sem slíkt um 1900. Kálfatjarnarkirkju þarf vart að tíunda, byggð 1893 og er vel viðhaldið, þökk sé meðal annars Húsafriðunarnefnd ríkisins og sóknarnefnd. Elsta uppistandandi íbúðarhúsið í sveitarfélaginu er Ytri-Ásláksstaðir, byggt úr við úr James Town sem strandaði við Hafnir árið 1874. Klæðning þess er ónýt og liggur húsið undir skemmdum. Tvö af elstu húsunum í Vogum voru rifin fyrirvaralaust, Mýrarhús (byggt 1885) og Grænaborg (elsti hlutinn frá 1881). Bæði meira en 100 ára gömul og því friðuð samkvæmt fornminjalögum. Kjallari Stóru-Voga stendur enn og nýtist vel sem hluti af leiksvæði grunnskólans, en liggur undir skemmdum. Það hús á sér merka byggingarsögu. Í Vogum er brýnt að varðveita heillega veggi Norðurkots (hlaðnir um 1860) og tóft Suðurkots (síðast byggt þar um 1900). Á Vatnsleysuströnd  er nokkuð um uppistandandi útihús og aragrúi af tóftum og hleðslum sem eru eldri en 100 ára, en allt óskráð. Nokkuð er af brunnum, minjum um útræði, fornum vegum milli byggðarlaga, á annan tug seltófta og ýmsir álagablettir sem allt eru gersemar fyrir komandi kynslóðir. Búsetulandslag Vatnsleysustrandar er í heild stórmerkileg heimild um horfna tíma og bæri jafnvel að varðveita í heild sinni…“

Heimild:
-Bergur Álfþórsson og Oktavía J. Ragnarsdóttir.

Tóft

Eiríksvegur

Eiríksvegur liggur frá Akurgerðisbökkum upp í Flekkuvíkurheiði, áleiðis að Þrívörðuhól. Um er að ræða sýnishorn af vegagerð fyrri tíma.
Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í EiríksvegurReykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba. Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér „samgöngubótina“ því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum, ýmist ofan eða neðan hans, og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegur neðstur, svo Almenninsgvegur og Eiríksvegur efstur.
Ofan við Strandarveg á móts við Stóru-Vatnsleysu er túnblettur og suðvestan hans er mikil varða um sig en að nokkru leyti hrunin sem heitir Bergþórsvarða eða Svartavarða. Varðan hefur líklega verið innsiglingarvarða fremur en mið. Suðaustur og upp af Bergþórsvörðu er svo Slakkinn, mosalægð sem gengur upp undir Reykjanesbraut og um hann liggur nýja tengibrautin frá hringtorginu til Strandarinnar.
VatnsleysustekkurDigravarða og Digravörðulágar eru örnefni á þessum slóðum og líklega er Digravarða spöl sunnan við Bergþórsvörðu, á hól sem er vel gróinn í toppinn. Varðan hefur verið mikil um sig fyrrum en er nú aðeins grjóthrúga. Fyrir ofan Digruvörðu eru Digruvörðulágar.
Nefnd Digravarða sést tæpast nú orðið. Við Bergþórsvörðu beygir Almenningsvegurinn um 90° til norðurs. Þar hefur og nýr vegur (hugsanlega ofan í gamlan) verið lagður. Sá vegur liggur norðlægar með beina stefnu á Hrafnagjá. Á henni, þar sem vegurinn liggur yfir gjána, er náttúruleg steinbrú. Þaðan í frá er vegurinn augljós að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg).
Eiríksvegurinn liggur hins vegar þarna áfram upp upp með hólnum norðanverðum – áðeiðis upp í Flekkuvíkurheiði, langleiðina að Þrívörðhól. Líklegt má telja að gamli Almenningsvegurinn hafi að hluta legið undir Eiríksvegi. Rétt vestan Hrafnagjár og norðan Eiríksvegar er Vatnsleysustekkur í lítilli kvos. 

Byrgi

Eiríksvegargerðarmenn hafa látið óhreyft grjótið í stekknum sem segir okkur að líklega hafi hann verið í notkun þegar vinnan stóð yfir. Ekki er þó með öllu útilokað að eitthvert heimilisfólk að Vatnsleysu hafi meinað vegagerðarmönnum að hrófla við stekknum, enda hafi það haft taugar til hans frá fyrri tíð. Dæmi eru um að öðrum mannvirkjum í Vatnsleysulandi hafi verið hlíft þrátt fyrir að notkun þeirra hafi þá verið hætt.
Á móts við Flekkuvíkurafleggjarann hefur lítið grjótbyrgi verið byggt ofan í Almenninsgvegi en á þessum slóðum er sá vegur u.þ.b. 50 m fyrir ofan Strandarveg.
Eiríksvegur og hluti Skipsstígs undir Lágafelli eru að mörgu leyti líkar framkvæmdir. Um er að ræða 3-4 m breiðar götur, nánast beinar. Undirlagið er grjót, en ofaníburðurinn, mold, hefur að mestu fokið úr vegastæðunum. Hvorugri framkvæmdinni lauk án þess að koma að gagni. Annað hvort hefur mjög afmörkuðu fé verið ráðstafað til verkanna, sem síðan hefur ekki fengist endurtekið, eða að tilefni framkvæmdanna hafa dagað uppi.
Hvað sem öllu líður þá eru þarna ágæt dæmi um vegagerð um og í kringum aldamótin 1900, um það leyti er bændur voru að taka hestakerrur í gagnið sem samgöngutæki um leið og sjálfrennireiðin var að gera þær óþarfar.

Heimild m.a.:
-S. Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi -2007.

Eiríksvegur

Bergþórsvarða

Þegar FERLIR barst eftirfarandi ábending var talin ástæða til að skoða hana nánar, þ.e. örnefnin Gálgaklettar. Við þá leit álpaðist hlutaðeigandi leitandi inn á Flekkuvígurstíginn svonefnda, öðru nafni Refshalastíg skv. örnefnaskrám, stíg sem ekki átti að vera lengur til skv. nýjustu heimildum.
Gálgaklettur nyrðriÁbendingin var svona: „Reynir heiti ég og er mikill aðdáandi Reykjanessins. Les ég síðuna nokkrum sinnum í viku og hef reglulega gaman að. Ég sá að það var færsla um Stóru-Vatnsleysu og nágrenni um örnefni og ýmsu því tengdu. Þess vegna ákvað ég nú í gamni mínu að senda þér lítið örnefnakort sem ég vann í skólanum og fékk hjálp hjá bóndanum á Stóru-Vatnsleysu. Er þetta unnið eftir örnefnalýsingum en ekki skal ég ábyrgjast hvort þetta er hárrétt unnið. Mig langaði bara til að sýna þér þetta ef þú hefðir áhuga á þessu.“ Meðfylgjandi var loftmynd með örnefnum fyrir Minni-Vatnsleysu (og reyndar líka Stóru-Vatnsleysu). Á því voru örnefnin Gálgaklettur-syðri og Gálgaklettur nyrðri staðsett. Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir um þetta: „Rétt utan túngarðs Minni-Vatnsleysu eru klettar tveir, sem kallast Gálgaklettar. Þó eru þeir nefndir til frekari glöggvunar Gálgaklettur nyrðri og Gálgaklettur syðri. Klettar þessir standa í fjörubakkanum, og er þröngt vik á milli þeirra.“
Gálgaklettur-syðriNyrðri kletturinn er svo til beint niður af suðurtúngarði Minni-Vatnsleysu og sá syðri skammt sunnar. Þegar staðurinn var skoðaður kom í ljós að vik er neðan Gálgakletts-nyrði, en engu slíku er fyrir að fara við þann syðri. Hins vegar eru aðstæður á báðum stöðunum mjög svipaðar; sléttir klapparstandar, svipaðir að stærð, alveg niður við strandbrúnina, nú grónir. Hafa ber í huga að gjarnan er tekið miða af klofnum háum klettum þegar getið er um Gálga eða Gálgakletta, en slík örnefni eru fleiri en 100 talsins hér á landi. Ekki eru heimildir um að aftökur hafi farið fram á þeim öllum, en ef taka ætti þau öll alvarlega mætti ætla að fleir hafi verið hengdir hér á landi en skráðar heimildir eru til um. Einhverjir hafa þá verið hengdir án dóms og laga. Hafa ber og í huga að henging var einungis ein tegund aftöku og nutu aðallega þjófar þeirrar náðar. Og þeir voru ekki svo margir er örnefnastaðirnir gefa tilefni til. Og til eru jafnvel nokkrir slíkir í hverri sveit. Öðrum sakamönnum voru ýmist drekkt, þeir brenndir eða hálshöggnir. Sýslumenn framfylgdu dauðarefsingum í fyrstu (og þá um skamman tíma), en síðar fóru þær flestar fram á Alþingi (alls 15 manns).

Flekkuvíkurstígur

Þessi örnefni gefa þó tilefni til svolítillar íhugunar – og jafnvel endurskoðunar á tilefni örnefnisins. Gjarnan fylgir eftirfarandi skýring á örnefninu: „Sú saga er um Gálgakletta, að þar hafi fyrr á öldum verið hengdir sakamenn„. Eflaust hefur yfirvaldið sumstaðar nýtt sér náttúrulegar aðstæður til framkvæmdarinnar, s.s. í Gálgaklettum í Gálgahrauni gegnt Bessastöðum. Þar eru til heimildir um að menn hafi verið hengdir. En hvers vegna ætti að hengja fólk í klettaskoru neðan við Vatnsleysu. Þótt fólk hafi verið lágvaxnara fyrrum má samt ætla að viðkomandi hafi getað tyllt niður tá eftir fallið og staðið af sér henginguna. Til langs tíma gæti viðkomandi þó hafa kafnað til ólífis líkt og þeir sem brenndir voru á báli. Nýtínt prekið, allt að 25 hestburðir sem þurfti í einn bálkost, brann ekki svo augljóslega og má því ætla að sakamaðurinn hafi látist úr reykeitrun löngu áður en eldurinn náði skrokknum.
FlekkuvígurstígurinnAftur að Gálgaklettum. Sléttir klapparstandarnir gefa tilefni til að ætla, ef einhverjir hafa verið hengdir þar, að þar hafi verið reistir gálgar og þá líklega úr rekaviði. Stallarnir eru kjörnir til slíks og ekki erfitt að gera sér í hugarlund þá mynd að áhorfendur hafi staðið ofar í brekkunni og þannig haft góða yfirsýn um svæðið neðanvert. Líkunum gæti síðan hafa verið kastað fyrir klettana og sjórinn séð um að skola þeim út í stað þess að dysja þá í einhverri klettaskorunni, sem engum er reyndar fyrir að fara á svæðinu. Ekki hefur þurft mikinn efnivið í sæmilegan gálga. Stallarnir hafa ekki verið skoðaðir m.t.t. þess hvort þar kunni að leynast göt fyrir kaga. Hafa ber þó fyrirvara á öllu þessu að ekki eru heimildir um sýslumannssetur á Vatnsleysu, einungis kirkjustað fram á 18. öld. Það eitt gæti þó gefið tilefni til að ætla a.m.k. einhver tengsl milli örnefnisins og staðarins.
Eftir að hafa skoðað strandsvæðið umhverfis Gálgakletta var ráfað til suðvesturs, áleiðis upp á Almenningsveg. Þá – og allt í einu, birtist áberandi gömul gata vestan túngarða Vatnsleysu. Götunni var fylgt til norðvesturs, áleiðis niður að Flekkuvík. Hún liðaðist um neðanverða Flekkuvíkurheiði áleiðis að bæjarstæðunum við ströndina. Í götuna virtist enginn hafa stigið fæti um langa tíð. Kastað hafði verið upp úr götunni á köflum, hún lagfærð og greinilega hafði verið borið í hana, en jarðvegurinn fokið burt. Þegar götunni var fylgt til baka lá ljóst fyrir að hún myndi annað hvort sameinast Almenninsveginum eða þvera hann ofan við Stóru-Vatnsleysu. Gatan lá áleiðis að vesturtúngarði Stóru-Vatnsleysu, en beygði síðan svo til austurs, beint að svonefndri Bergþórsvörðu í heiðinni. Skammt þar frá var gróin tóft á fallegum stað er lætur lítið yfir sér. Bergþórsvarðan er skammt ofan við túnblett suðvestan bæjarins. Hún er að nokkru leyti hrunin. Varðan hefur einnig verið nefnd Svartavarða. Sumir hafa talið að varðan hefi verið innsiglingarvarða fremur en mið. Líklegri skýring er þó sú skv. framangreindu að þarna hafi verið viðsnúningur því Almenningsvegurinn greinist þarna, annars vegar beygir hann í 90° hjá vörðunni með stefnu á steinbrú yfir Hrafnagjá, og hins vegar beygir hann til suðvesturs áleiðis að gatnamótum Vatnsleysu og Strandarvegar. Þar heldur fyrrnefndi vegurinn áfram uns hann beygir aftur um 90° við gatnamót Almenningsvegar og Flekkuvígurstígs (Refshalastígs). Við vörðuna er einnig Eiríksvegur. 

Tóft við Flekkuvíkurstíg

Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í Reykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba.
Ef skoðaðar eru örnefnalýsingar fyrir Flekkuvík segir m.a.: „Skammt utan gamla traðarhliðsins er grunnt vatnsstæði, kallað Vatnshellur, vatnsból ofan í klappir.  Þar til vesturs, um 200 m frá túngarði, eru þrír strýtuhólar, kallaðir Kirkjuhólar.  Þeir eru í stefnu rétt vestan við opna tröðina. Það var trú fólks, að í Kirkjuhólum væri álfabyggð og þar var betra að fara með gát.” Þá segir: Refshalastígur: “Frá býlinu [Refshala] lá í suður Refshalastígur á Flekkuvíkurstíg en hann lá suður í Heiðina og tengdist þar Almenningsgötum.” Hér er Almenningsvegurinn nefndur „Almenningsgötur“.
Í Fornleifaskrá fyrir Vatnsleysuströnd segir m.a.: „Flekkuvíkurselsstígur – heimild um leið 64°40.130-22°14.049: “Flekkuvíkurselsstígur lá úr Traðarhliði og upp Heiðarlandið, sem var óskipt milli Bæjanna.” segir í Eiríksvegurörnefnaskrá.
Ekki er til nánari lýsing á legu stígsins en vísast hefur hann legið um/við Flekkuvíkurheiði og svo áleiðis í átt að Flekkuvíkurseli. Líklegt er að stígurinn hafi þá legið við Reykjanesbraut í námunda við Stóra-Hrafnshól. Ekki sést neinn fornlegur slóði í námunda við Reykjanesbrautina á þessum stað
.“ Hér er verið að rugla saman Flekkuvíkurselstígnum annars vegar og Flekkuvíkurstígnum hins vegar. Hinn fyrrnefndi er þarna skammt vestar og má vel sjá hann í lágheiðinni ef vel er að gáð. Eftir að hafa fylgt Almenningsveginum frá Kúagerði upp Flekkuvíkurheiði má segja að hver sá einn verði ekki ósnortinn.
Almenningsgöturnar tvær er greinast við Bergþórsvörðu eru annars vegar gata, sem löguð hefur verið sem hestvagnavegur (vestari leiðin) og hins vegar gata, sem liggur upp heiðina framhjá Arnarvörðu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Flekkuvík og Vatnsleysu.

Hestar

Stefánsvarða

Þegar vegfarendur aka um Vatnsleysustrandarveg eða ganga um Almenningsveginn, hina fornu þjóðleið um Ströndina, er Stefánsvarðan eitt helsta kennileitið á leiðinni. Varðan er óvenjuheilleg og stendur skammt neðan þjóðvegarins á hæstu hæðinni norðan Kálfatjarnar, eða öllu heldur austan Litlabæjar.
StefánsvarðaVarðan er nánar tiltekið á há Hæðinni norðan Vatnsleysustrandarvegar. Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum.
Varða þessi er kennd við Stefán Pálsson útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838. Hann giftist 24. nóvember 1865 Guðrúnu Gísladóttur, þá 40 ára ekkju. Þau bjuggu á Minni-Vatnsleysu og síðan, að því er virðist, á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna eins og svo margar aðrar á þessum slóðum og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Í stein í vörðunni mót austri er klappað nafnið Stefánsvarða. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. „Byggð í byrjun aldar.“ Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.
Tveir hólar eru neðan við vörðuna; Stefánshólar. Norðan undir þeim nyrðri er Borgarkotsstekkur.
Keilir er einkennisfjall Reykjanesskagans og frægt mið af sjó. Eftirfarandi vísa um Keili er eftir fyrrnefndan Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysu-
strandarhreppi.

Keilir fríður kennast skal,
Knappt þó skríði runnur,
fagran prýðir fjallasal
Fyrr og síðar kunnur.

Þekkti ég siðinn þann af sjón
Þekktan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
Fiskimiðin tengja.

Sæfarendur reyna rétt
Rata’ að lending heilir;
Til að benda’ takmark sett
Tryggur stendur Keilir.

Letursteinninn í Stefánsvörðu