Tag Archive for: Vogar

Hlöðunesrétt

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ fjallar hann m.a. um Hlöðunesrétt, lögrétt Vatnsleysustrandarhrepps; öðru nafni Vogarétt eða Strandarrétt:

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt vígð árið 1956.

„Fyrir ofan Hlöðversneshverfi er samkomuhúsið Kirkjuhvoll (sjá U.M.F.Þróttur). Nokkuð fyrir ofan Kirkjuhvol er fjárrétt. Það er hin gamla Vogarétt sem áður var staðsett á milli Vogabyggðar og Vogastapa. Þessi nýja rétt er reyndar enn kölluð Vogarétt þó hún sé á ströndinni. Gamla Vogaréttin var lögrétt eins og sú nýja sem byggð var árið 1956. Réttin hefur einnig verið nefnd „Hlöðunesrétt“ og „Strandarrétt“.

Vogarétt

Garður við Vogarétt – hlaðið úr holsteini.

Skammt neðan við  Hlöðunesréttina stendur opið hlaðið lítið hús úr holsteini (sandsteini) er bar nafnið Garður, sem lítt hefur verið getið í heimildum.
Lögrétt þýðir aðalskilarétt fjár (sbr. orðabók Árna Björnssonar frá 1979).

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.

Í lögrétt skal fara fram löglegt uppboð óskilafénaðar sem kemur í hana frá hinum ýmsu aukaréttum í sýslunni. Hefur opinber embættismaður á vegum viðkomandi sýslumanns það starf að bjóða upp féð.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt 1982.

Árið 1956 var samþykkt af sveitastjórn að byggð skyldi ný lögrétt á nýjum stað og voru kosnir þrír menn til að kanna hvernig staðið skyldi að framkvæmdinni. Þeir voru; Guðmundur í. Ágústsson, þáverandi hreppsnefndarmaður, Sigurjón Sigurðsson, Traðarkoti og Þórður Jónasson á Stóru-Vatnsleysu. Þessir menn fóru um sveitir suðvestanlands og könnuðu kosti og galla margra rétta, til að sameina það besta í eina nýja lögrétt fyrir Vatnsleysustrandarhrepp.

Vogarétt

Hlöðunesrétt árið 2022.

Réttin var hlaðin úr sandsteini (holsteini) og við hana er mjög góð aðstaða fyrir fjárflutningabíla.
Þórður Jónasson bóndi á Stóru-Vatnsleysu sá um byggingaframkvæmdir ásamt aðstoðarmönnum. Gekk verkið vel og var réttin vígð árið 1956 með mikilli viðhöfn.“

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 247-248.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.

Grænuborgarrétt

Þegar FERLIR reyndi að leita upplýsinga um fjárrétt undir Stapanum kom upp „Brekkurétt„. Ljóst er að réttin var þarna, neðan við Stapabúð og að sú búð lagðist í eyði á undan Brekkubænum þar skammt austar. Réttarinnar er hvorki getið í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga né í umfjöllun Sunnudagsblaðs Tímans 1964 um helstu minjastaði vestan Voga. Þar segir: „Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930, en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin” sem rís þar í hverfinu á þessari öld. Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru til skamms tíma. Kerlingabúðir voru nokkru utar.“

Stapabúð

Stapabúð. Þarna sést „Brekkurétt“ á sjávarkampinum neðan við matjurtargarðinn norðan við húsin.

Það liðu því 34 ár á millum ábúnaðar Stapabúðar og Brekku, þ.e. eftir að Stapabúð fór í eyði. Í hugum Vogabúa þess tíma var Brekkuréttinn undir Stapanum neðan við fyrrum Stapabúð. Réttin sú gæti upphaflega heitið „Stapabúðarétt“, en hennar er hvergi getið í heimildum. Þó má sjá hana á ljósmynd frá Stapabúð fyrir árið 1896. „Brekkuréttar“ er ekki getið í „Aðalfornleifaskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands 2006.“

Brekkurétt

Í „Brekkurétt“.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga er, sem fyrr sagði, ekki getið um „Brekkuréttir, en hann getur þar um Vogaréttir: „Upp af Heljarstíg, vestanvert við Kvennagönguskarð, eru Háhólar. Vestast undir Kvíguvogabjörgum er Mölvík og Hólanef þar litlu austar og þar enn austar er svo Skollanef, út þangað teygir sig gróðurlendisræma. Þar innan við eru svo ystu verbúðirnar og nefndust Kerlingarbúðir. Heita þær svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri. Þannig hefndi kerling þessa verknaðar. Framundan eru svo Kerlingarbúðarvarir, voru þær allgóðar lendingar. Næst þar fyrir innan var svo Stapabúð, stóð í Stapabúðartúni og er lítið eftir af því en Stapabúðarvarir voru þar framundan. Þá er Sandvík og Sandvíksvör, var þar allgóð lending.

Brekka

Brekka undir Stapa 1928. Stapabúð, innar, í eyði.

Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir. Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör. Langasker innan við Brekkulóð, en svo var Brekkutúnið kallað, var svo Kristjánstangi. Fremst á honum var Brimarhólmur og þar fram af Brimarhólmstangi og fram í tanganum Tangavör eða Brimhólmstangavör.

Vogaréttin

Vogarétt – loftmynd 1954.

Tvö vik voru þarna, nefndust Moldir og greindust í Stóru-Moldu og Litlu-Moldu. Stakksfjörður heitir fjörðurinn milli Brunnastaðatanga og Hólmsbergs. Inn úr honum liggja Vogarnir milli Eyrartanga að utan og Kvíguvogastapa að sunnan. Aðalbýli Voganna eru Stóru-Vogar en upprunalegasta nafnið mun vera Kvíguvogar. Úr Stóru-Voga landi byggjast síðan Minni-Vogar. Síðar byggðust svo hjáleigur og báru ýmiskonar nöfn. Vestast voru Stapakot, Brekka og Hólmur sem áður eru nefndar. Þessar hjáleigur eru víða nefndar… Þá munu Snorrastaðir hafa verið ein hjáleigan en talið er að þeir hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld en þá voru uppi miklir eldar á Reykjanesi.

Upp af Moldu voru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurfjárbændur. Innan við, þar nokkru sunnar, eru vegamót Almenningsvegarins, Gamla- og Skógfellavegar eða Grindavíkurvegar. Hvergi er þarna getið um Brekkurétt.

Voagrétt

Vogarétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Deiliskráningu fornleifa í Vogavík, Vogum á Vatnsleysuströnd (Fornleifastofnun Íslands 2014) segir m.a. um Vogaréttina: „Vogaréttir heimild um rétt 63°58.369N 22°23.552V. Upp af Moldu eru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar- Rosmhvalanes- Hafnar- og Grindavíkurfjárbændur,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju G. Guðmundsdóttur sést ekki til réttarinnar þar sem grjót úr henni var tekið og sett í sjóvarnargarð. Viktor Guðmundsson telur að réttin hafi staðið við austurhorn stórs bragga í norðvesturhorni afgirtrar lóðar fiskeldisins. Skátamót voru haldin þarna um 1974-1975, var þá hægt að sjá neðstu steinanna í hleðslunni, annars hafði grjótið verið tekið til hafnargerðarinnar.
Réttin stóð þar sem nú er lóð fiskeldisstöðvar á flatlendi skammt suðvestur af ströndinni.

Vogarétt

Vogaréttin – mynd Sigurðar Inga Jónssonar, sem staðsetur réttina fyrrverandi af nákvæmni á núverandi lóð Stofnfisks.

Upplýsingar um rétta staðsetningu réttarinnar bárust eftir að vettvangsvinnu lauk og var staðurinn því ekki skoðaður á vettvangi en líkur eru til þess að lítið sem ekkert sjáist til minja um réttina. Farið var aftur á vettvang veturinn 2014 þegar unnin var deiliskráning á lóð Stofnfisks og umhverfis hana vegna breytinga á aðalskipulagi og þá var staðurinn skoðaður þar sem réttin var. Engin ummerki sjást um réttina vegna bygginga og annarra mannvirkja í tengslum við starfsemi Stofnfisks.“

Vogarétt

Kristjánstangi – uppdráttur (úr fornleifaskráningu fyrir Vogavík).  Fyrrum rétt eða fjárborg?

Enn ein réttin á þessu svæði var á Kristjánstanga. Hennar er getið í Fornleifaskráningu fornleifa í Vogavík á Vatnsleysuströnd, Fornleifastofnun Íslands 2014. Þar segir m.a.: „Eftir að vettvangsvinnu við aðalskráningu lauk árið 2008 benti Viktor Guðmundsson, heimildamaður, skráningarmönnum á hringlaga hleðslu í fjörunni á Kristjánstanga auk fleiri hleðslna sem eru að koma undan sjávarbakkanum. Hleðslurnar eru um 785 m suðvestan við Stóru-Voga. 2014: Farið var aftur á vettvang þegar unnin var deiliskráning á lóð Stofnfisks og umhverfis hana vegna breytinga á aðalskipulagi og þá voru þessar minjar skoðaðar á vettvangi.
Minjarnar eru á grýttu svæði í fjörunni sunnan við flatar og sléttar klappir. Sjór gengur yfir svæðið og brýtur stöðugt af sjávarbakkanum.
Viktor Guðmundsson gaf eftirfarandi upplýsingar um minjarnar: Hringlaga hleðslan er um 11 m í þvermál, grjóthlaðin. Veggir hennar eru um 1,4 m á þykkt. Rétt austan við þessa hleðslu eru aðrar hleðslur að koma undan bakkanum og fast við þær hleðslur hefur hugsanlega verið vör. Landbrot hefur verið þarna undanfarin ár og gætu þessar hleðslur eyðilagst á skömmum tíma.

Kristjánstangi

Hleðslur í fjöruborðinu á Kristjánstanga.

Ekki er ljóst hvers konar mannvirki/mannvirkjum þessar hleðslur hafa tilheyrt en líklegt er að þau hafi tengst útgerð og fiskverkun. Hlutverk hringhleðslunnar er einnig óútskýrt. Ef til vill hefur hún líka verið í tengslum við útgerð en það kann að vera að þetta séu leifar af stæðilegri fjárborg. Ekki er þá ólíklegt að eftir að hún féll úr notkun hafi grjótið úr henni sem ekki var gróið við svörðinn verið endurnýtt í hleðslur. Það grjót sem skilið var eftir hefur nú komið í ljós þegar sjórinn hefur hreinsað allan jarðveg ofan af því. Stórhætta er vegna landsbrots.

Og þá að Grænuborgarréttinni. Í Örnefnalýsingu GS fyrir Stóru-Voga segir m.a.: „Austur af Búðarvör taka við Minni-Vogafjörur, Ytri- sem ná að Grænuborgartöngum. Frá Búðinni lá einnig Grænuborgarkampur alla leið að Vesturtúngarði og bak við kampinn, Grænuborgarstígur, allt heim í Vesturhlið á Grænuborgartúngarði sem er grjótgarður vestan og sunnan túnsins. Grænaborg stendur á bæjarhólnum en í suðurtúninu er klapparhóll sem heitir Latur. Austan Grænuborgarhúss í Grænuborgartúni er Grænuborgarbrunnur og Brunngatan þaðan og heim til húss. Sjávargatan liggur heiman að niður á kampinn en þar er Grænuborgarnaust og Grænuborgarvör. Á kampinum er Sjávarbyrgið eða Grænuborgarbyrgi. Grænuborgarós liggur vestan Grænuborgartanga og fram af ósnum eru Ósskerin. Í tanganum er Grænuborgarlón. Hnallsker er hérna fram af og Manndrápssker, er líklegt að þar hafi orðið mannskaði þó þar um sé engin sögn.

Grænuborgarrétt

Grænuborgarrétt.

Frá Grænuborgarvör liggja Austurkotsfjörur allt út undir Djúpaós. Þar taka við Minni-Vogafjörur, Eystri- allt að Syðrirás. Yst í Djúpaós er Dýpstiós. Nokkru innar er Vatnasker, þar upp af eru Vatnsskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör. Einnig Djúpavogsvör. Austan við hólmana sem Vatnsskersbúðir eru á er svo Innrirás og skerst hún nokkru lengra inn í landið en Syðrirás. Frá Grænuborgarvör og allt inn að Syðrirás var á sjávarkampinum sjóvarnargarður. Var hans oft ærin þörf því í háflæðum rann sjórinn inn yfir Austurtúnið og var þá ekki lítið verk að hreinsa allt grjót og þara af túninu. Þar sem sjóvarnargarðurinn og suðurtúngarðurinn komu saman var Grænuborgartúngarðshliðið, eystra. Ofan eða sunnan suðurtúngarðs var Grænuborgarrétt. Var hún vorrétt þeirra Vogamanna. Spölkorn sunnar lá Almannavegurinn, Gamli- og þó hann sé nú ekki farinn sést hans glögg merki. Vestasti hluti Vatnsleysustrandarheiðar sem er í Stóru-Voga landi nefnist Vogaheiði“.
Ólíklegt er að „Grænaborgarréttin“ hafi verið vorrétt Vogamanna, líkt og að framan segir. „Réttin“ ber þess öll merki að hafa verið heimastekkur þar sem fært var frá eftir að selstöður í heiðinni lögðust af.

Grænuborgarrétt

Grænuborgarrétt.

Í Fornleifaskráningu í landi Minni-Voga og Austurkots (Fornleifastofnun Íslands 2006, bls. 11) segir: „Grænuborgarrétt hleðsla rétt 63°59.401N 22°23.077V – Ofan eða sunnan Suðurtúngarðs var Grænuborgarrétt. Var hún Vorrétt þeirra Vogamanna.“ segir í örnefnaskrá. Réttin er um 70 m norðvestur af vörðu. Réttin sem er hlaðin utan í nokkuð háan hól, stendur í gróinni kvos umkringd grýttum hólkollum.
Réttin er 15 x 11 m að stærð og er grjóthlaðin. Hún er aflöng, snýr norður-suður og skipist í þrjú hólf. Um miðjan vesturvegg hleðslunnar er lítið hólf, um 2×2 mað utanmáli. Út frá því er hleðsla sem skiptir réttinni í tvennt. op er í norðvesturhorni réttarinnar. Frá opinu liggur um 10 m hlaðinn grjótgarður sem sveigir fyrst til VNV en síðan til vestur og hefur líklega verið byggður til að auðvelda innrekstur í réttina. Hleðsluhæð réttarinnar er mest um 0,6 m og í veggjum sjást 4-5 umför af grjóti.
Hættumat: hætta, vegna framkvæmda.“

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt 2022.

Brunnastaðarétt á Vatnsleysuströnd er hvergi getið í heimildum. Hún sést þó vel á loftmynd frá árinu 1954. Í „Aðalfornleifaskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrslu III (Fornleifastofnun Íslands 2006)“ er getið um fornleifar í Brunnastaðahverfi, en réttin sú kemur þar hvergi við sögu. Út frá loftmyndinni frá 1954 ná staðsetja réttina og við athugun Ferlirs á vettvangi mátti glögglega slá leifar hennar, sbr. meðfylgjandi drónamynd.

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Af framangreindu má sjá að hvorki er hægt að treysta á Örnefnalýsingar né fornleifaskráningar þegar fornleifar eru annars vegar. Jafnan eru þær síðarnefndu byggðar á þeim fyrrnefndu, en þess minni áhersla jafnan lögð á að leita uppi minjar að fenginni reynslu á fæti hverju sinni…

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga.
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 883.
-Fornleifaskráning í landi Minni-Voga og Austurkots, Fornleifastofnun Íslands 2006, bls. 11.
-Deiliskráning fornleifa í Vogavík, Vogum á Vatnsleysuströnd, Fornleifastofnun Íslands 2014.
-Aðalfornleifaskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands 2006.

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt – fyrr og nú.

Bieringstangi

Árni Óla fjallar um „Tanga-Hvíting“ í bók sinni „Strönd og Vogar„:

Strönd og Vogar„Sú er sögn, að eitt sinn hafi komið erlent skip til Voga, seint á vetri eða að vorlagi. Var þá harðindatíð og frost mikil, svo allar fjörur voru sem klakabólstur og lagís víða með ströndum fram. Þrír menn af skipi þessu ætluðu að fara inn á Bieringstanga. Gengu þeir á skipsbátinn og reru inn eftir. En fram undan tanganum lentu þeir í lagíshröngli. Munu þeir ekki hafa verið ís vanir, enda fór svo, að bátnum hvolfdi og drukknaði einn þeirra.
Þessi maður gekk þegar aftur og gerði af sér ýmsan óskunda á tanganum og voru menn hræddir við hann. Var hann kallaður Tanga-Hvítingur, vegna þess að hann var með hvíta húfu á kolli. Mun og ekki hafa verið trútt um, að menn héldi að hann drægi að sér fleiri sjódauða menn, og að draugarnir yrði margir um skeið.
Símon Dalaskáld reri margar vertíðir syðra og mun það hafa verið veturinn 1865, eða þar um bil, að hann reri á Bieringstanga, og mun þá hafa verið á útgerð Bjama á Esjubergi. Þótti þá draugagangur þar með meira móti. Út af því orkti Símon „Rímur af Bieringsborgar-bardaga“. Þær sem til í Landsbókasafni, en þó eigi heilar, því að 14 vísur vantar framan af fyrstu rímu, en alls voru rímurnar átta. Símon gerir þar draugana að Tyrkjum, er komið hafi á flota miklum til að herja á „Bieringsborg“. En kempurnar, sem fyrir voru, lögðu til orustu við þá.
Fyrir þeim voru tveir konungar, Magnús á Lykkju á Kjalarnesi og Bjarni á Esjubergi, en hinn þriðji var hersir, Þórður Þórðarson frá Kistufelli. Þar sem og nefndir synir Magnúsar, Tómas og Eyjólfur.

Þessir höfðu mikla makt,
málma tamir sköllum.
Borgin stóð með býsna prakt
blómlegum á völlum.
Um þann tíma ekki rór
— eyddist friður blíður —
upp á ríki Strandar stór
stríddi Tyrkjalýður.

BieringstangiOrustan varð hin grimmasta og er getið margra manna, er vel gengu fram, svo sem Erlings hreppstjóra á Geitabergi, afa Ásmundar Gestssonar kennara, Halldórs frá Kollafirði, Þorsteins frá Þúfnalandi, Þórðar frá Snartarstöðum. Símon kemur þar og sjálfur við sögu. Taldi hann fyrst úr að barizt væri, en er orustan var sem mannskæðust, varð hann hræddur:

„Ekkert stendur illum fjendum mót,
föllum vér í banabað,
bölvað er að vita það.“
Síðan kastar sverði hastarlega,
og af klökkum öldujó
ofan sökk í djúpan sjó.

Bieringstangi

Bieringstangi – tóft.

Gat hann þó svamlað til lands, en vermenn unnu frægan sigur á illþýðinu.
Eigi lauk þó draugaganginum á Bieringstanga með þessu. Tanga-Hvítingur var þar enn á sveimi og gerði mönnum glettur. Vildu menn þó fegnir losna við hann. Eitt sinn skaut Gunnar bóndi í Halakoti silfurhnapp á hann, og var það talið óyggjandi, ef um venjulega drauga var að ræða. Hvíting mun og hafa brugðið illilega er hann fékk í sig silfurhnappinn, því að hann sundraðist við það í tómar eldglæringar. En svo skreið hann saman aftur og hélt uppteknum hætti allt fram um 1890. En þá hvarf hann.“

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Tanga-Hvítingur, 1961, bls. 266.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Eiríksvegur

Gengið var að Staðarstekk uppi á Strandarheiði, yfir að Vatnsleysustekk og síðan upp að Vatnaborg. Eftir að hafa skoðað borgina og vatnsstæðið, sem hún dregur nafn sitt af, var haldið niður að Stóru-Vatnsleysu og letursteinninn þar í túninu barinn augum.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.

Staðarstekkur er norðan við Staðarborgina á Strandarheiði. Væntanlega hefur þarna verið um heimastekk að ræða. Talsverðar vangaveltur hafa verið um og rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu löng stekkjargatan hafi verið. Hvað sem öllum niðurstöðum líður í metrum talið er og verður líklegasta svarið alltaf það að vegalengdin hefur ávallt verið fjarlægðin milli bæjar og stekks á hverjum stað. Í þessu tilviki hefur vegalengdin verið u.þ.b. 1000 metrar.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa – letursteinn.

Vatnsleysustekkur er rétt vestan Hrafnagjár til norðurs. Hann er í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar. Hann liggur frá þráðbeinn frá Akursgerðisbökkum og þaðan yfir holt og hæðir. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóra vegagerðamannanna, sem hét Eiríkur Ásmundsson frá Gróta í Reykjavík (1840-1893), en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrstu akvegagerð um Kamba.

Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir aldamótin 1900. Almenningsvegur liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum ýmist ofan eða neðan hans.

Sraðarstekkur

Staðarstekkur.

Stefnan var tekin austur og upp heiðina, yfir Reykjanesbrautina. Skammt ofan við brautina er Vatnaborgin, neðst í hæðinni sem liggur suðvestur af Kúagerði. Vatnsstæði er þar í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið fjárborg fyrrum, Vatnaborgin. Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.

Vatnaborg

Vatnaborg – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var haldið á til baka niður heiðina, áleiðis að Stóru-Vatnsleysu. Þar var litið að letursteinn þann er Sæmundur bóndi hafði bent á og beðið FERLIR að ráða í.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Á steininum eru hástafirnir GI er bindast saman með krossmarki. Þar til hliðar er ártal. Sæmundur taldi að steinninn gæti tengst kapellu eða kirkju, sem verið hafði á Vatnsleysu fyrr á öldum, en hún var einmitt sögð hafa staðið þar skammt frá, sem steinninn er nú.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja. G. Guðmundsdóttir – 1995.

Sraðarstekkur

Staðarstekkur.

Suðurkot

Í „Strönd og Vogar“ getur Árni Óla um „Álagablett“ við Suðurkot í Brunnastaðahverfi á vatnsleysuströnd:

Brunnastaðahverfi

„Í túni eystri hálflendunnar í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi er stór hóll, sem kallaður er Þerrir. Honum fylgdi sú sögn, að þar ætti álfar heima, og þess vegna mætti aldrei slá hólkollinn. Ef það var gert, átti bóndinn að verða fyrir einhverju óhappi. Munu flestir bændur hafa virt þessi álög, því að engin dæmi vissu menn þess að hólkollurinn hefði verið sleginn.
Um 1890 flytur á þennan part maður, sem Hannes Hannesson hét, og tók hann þar við einu kúgildi. Fyrsta sumarið, sem hann var þama, mun grasspretta hafa verið lítil. Þóttist hann því nauðbeygður til þess að slá hólinn og gerði það.

Þerrir

Þerrir.

Á þessum árum var það venja að kýmar af mörgum bæjum voru reknar í einum hóp á haga, langt uppi í heiði, og skiptust bændur á um að láta reka þær. Seint um sumarið var að venju verið að reka kýmar, en sá, sem rak þær, tekur þá eftir því, að kýr Hannesar í Suðurkoti er eitthvað undarleg. Og allt í einu tekur hún sig bölvandi út úr hópnum og ræðst á þúfu nokkra, eins og hún væri blótneyti. Reif hún og tætti alla þúfuna sundur með hornunum, en féll því næst niður steindauð.
Ýmsir settu þetta í samband við það, að álögin á Þerri höfðu verið lítilsvirt, og aldrei sló Hannes hólinn upp frá því.“ — (B. H.)

Brunnastaðir

Brunnastaðahverfi.

Í Örnefnalýsingur Gísla Sigurðssonar fyrir Brunnastaði segir: „Í Suðurkotstúni eru nokkrir hólar, svo sem: Langhóll og Þerrar, tveir hólar, Stóri-Þerrir og Minni-Þerrir og svo er Pelaflöt. Nafnið er tilkomið vegna þessa að maður nokkur seldi flötina fyrir einn pela af brennivíni“.

Í Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði segir: „Upp frá því er Suðurkot og þar fyrir neðan garðinn er hóll sem heitir Þerrir. Langur og stór hóll hér austur af bæ heitir Langhóll“.

 Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði Örnefnalýsingu fyrir Suðurkot: „Á honum stóð gamli Suðurkotsbærinn. Norðan við hann var Norðurkálgarðurinn, nú uppgróinn. Alveg við hann að norðanverðu er hár hóll“, Þerrishóllinn.

Heimildir:
-Strönd og vogar – Árni Óla, Álagablettur, 1961, bls. 262.
-Örnefnalýsing Gísa Sigurðssonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Sigurjóns Sigurðssonar fyrir Suðurkot.

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi.

Vogar

Gengið var að Gvendarstekk ofan við Voga og síðan haldið til vesturs um holtið að Gvendarbrunni. Þá lá leiðin niður í bæinn og götur þræddar að Suðurkoti. Skammt norðvestan við húsið er Suðurkotsbrunnur. Hann var skoðaður.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Gvendarstekkur er skammt vestan við þjóðveginn niður í Voga, skammt ofan hólinn Skyggni, en hann stendur rétt norðan við svokallað þurrkhús Jóns heitins Benediktssonar frá Suðurkoti (1904-1984). Ofan þurrkhússins og hólsins er trjárækt Ungmennafélgsins Þróttar frá árinu 1951. Standa lágvaxin grenitré sunnan undir fallegum, grónum, en nafnlausum hól. Ofan við hann er annar ámóta hóll og utan í honum sunnanverðum er stór tóft, sem heitir Gvendarstekkur. Þarna virðst hafa verið fjárborg, en enginn veit lengur frá hvaða bæ hún var.
Gvendarbrunnur er milli Leirdals og efstu húsanna í Vogunum. Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1160-1237) er sagður hafa vígt brunninn. Hann er lítil hola við klappir og er oftast eitthvert vatn í henni.

Suðurkot

Suðurkot í Vogum.

Suðurkot er eitt af gömlu húsunum í Vogum. Eftir nokkra leit og eftirgrennslan hafðist upp á gamalli konu skammt frá húsinu. Aðspurð um brunninn við Suðurkot gekk hún án hiks að þúst við götukantinn norðvestan við húsið, benti á hana og sagði: “Þarna er hann, brunnurinn, sem var.” Lok hafði verið sett á hann svo enginn færi sér að voða og með tímanum hefur hlaðist utan í og ofan á hann grús frá veginum. Í dag er þessum merkilega brunni lítill sómi sýndur, en tilvalið væri að gera hann upp og hafa hann sýnilegan fyrir áhugasama vegfarendur sem dæmigerðan brunn við hús eða bæ á Ströndinni fyrrum daga.
Frábært veður. Gangan tók 59 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

Bieringstangi

Árni Óla skrifaði bókina „Strönd og Vogar“ 1961. Í bókinni fjallar Árni m.a. um „Bieringstanga“ og nágrenni hans á Vatnsleysuströnd:

„Hann [Bieringstangi] er fyrir sunnan Brunnastaðahverfið, og mun þar hafa verið útræði afar lengi. Vörin þar var hin stærsta á Ströndinni og hlaðnir kampar beggja vegna við hana fram í sjó. Var norðurkampurinn meiri og mátti lenda við hann bátum til uppskipunar.

Bieringstangi

Eldhús á Bieringstanga.

Sumarið 1844 giftust þau Þórunn Hallgrímsdóttir, systir Egils í Minni-Vogum, og Andrés Gottfred Pétursson, og voru gefin saman af séra Sveinbimi Hallgrímssyni, er þá var aðstoðarprestur að Kálfatjörn. Segir hann í kirkjubókinni um brúðguðmann, að hann sé „fisktökumaður á Tangabúðum hjá Brunnastöðum“.
Þá hafa verið komin þar salthús og fisktökuhús. Seinna fékk þessi útgerðarstöð nafnið Bieringstangi og var kennd við Móritz W. Biering, er seinast var kaupmaður í Reykjavík og drukknaði á skipi sínu undan Mýrum í nóvember 1857. Hann var fyrst verzlunarstjóri Flensborgarverzlunar í Keflavík 1837—1842. Er því líklegast, að sú verzlun hafi látið reisa salthúsin tvö, sem á Tanganum voru. Þau voru smíðuð úr 1 3/4 þml. borðum með síum milli samskeyta, og var það gamalt byggingarlag. Á loftum þeirra voru verbúðir. Nú var það málvenja að kenna verzlanir við verzlunarstjórana, og hefir Flensborgarverzlunin í Keflavík sennilega verið kölluð „Bieringsverzlun“, meðan hann stýrði henni, og þá eðlilegt að búðirnar drægi nafn af honum.

Bieringstangi

Bieringstangi – áletrun á sjávarklöpp.

Annars var þessi verzlun lögð niður 1842, og varð Biering þá forstjóri Flensborgarverzlunar í Reykjavík og keypti hana 1850. Mun hann þá enn hafa rekið útgerðarstöðina á Tanganum, og má því vera, að hann hafi ekki verið kallaður Bieringstangi fyrr en Biering eignaðist verzlunina. Umhverfis þessa stöð risu svo upp tómthúsmannabýlin Vorhús, Hausthús, Töðugerði og Grund. Þarna var gert út fram um seinustu aldamót. Seinasti útgerðarmaður á þessum stað var Magnús Torfason, kallaður „dent“, ættaður frá Naustakoti. Hann svaf sjálfur uppi á lofti í annarri búðinni, en sjómenn hans á lofti hinnar búðarinnar. Magnús var snyrtimenni mikið og kunnur framreiðslumaður í veizlum í Reykjavík. Hann reri aldrei sjálfur. Seinasti formaður hans var Hallgrímur, sonur Andrésar Gottfreds Péturssonar. Þarna var og önnur útgerðarstöð, sem nefnd var Klapparholt. Var vör hennar skammt fyrir vestan Tangavörina. Þar gengu jafnan 4-5 skip. Þar gerði Þórður Guðmundsson á Hálsi út og hafði umsjón með salthúsi, er þar var.
Ég lét nú í ljós, að mig langaði til þess að skoða Bieringstanga. Þeir bræður, Árni hreppstjóri og Egill kennari, kváðu velkomið að fylgja mér þangað.
Bieringstangi
Við gengum svo fyrst niður að vörinni, sem Egill gamli Hallgrímsson, afi þeirra, hafði látið ryðja, og hlaðið öfluga grjótgarða beggja vegna langt út í sjó til að skýla henni. Þarna í vörinni höfðu þeir haft uppsátur báta sinna feðgarnir, hann og Klemens, og síðar þeir Klemens og Hallgrímur mágur hans. Fyrir ofan á sjávarkambinum áttu þeir sína sjóbúðina hvor og var nokkurt bil á milli þeirra. En þar höfðu þeir gert öflugan skjólvegg, svo að milli búðanna mynduðust skjólkvíar, sem voru ágætt athafnasvæði. Á sjávarkambinum höfðu þeir gert fiskreita, og þar var einnig lifrarbræðsluhús. Nú er þetta allt horfið, nema vörin og grunnar húsanna.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Við höldum svo inn með sjónum, fram hjá Grænuborg og inn á Bieringstanga. Er það alllöng leið, enda er þá komið inn í Brunnastaðahverfi. Landslag er þama breytilegt, hraunhólar og klappir með grónum dældum á milli og mýrarsundum sums staðar. Að vestanverðu á tanganum hefir stöðin verið. Sér þar enn steyptan botn úr salthúsi og móta fyrir grunni annars húss, og sums staðar eru leifar af grjótbyrgjum, þar sem fiskur var saltaður. Byrgi þessi voru ekki stór, hlaðin tóft úr tómu grjóti allhá, og síðan flatreft yfir. Niðri á sjávarkambinum voru fiskreitarnir, en þeirra sér nú ekki stað, nema hvað grjótið er þar, og hefir sjórinn brotið það upp og hlaðið því allavega.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt frá stöðinni eru rústir býlanna Vorhúsa, Hvamms, Hausthúsa og Klapparholts, og umhverfis þau ræktaðir túnblettir. Þarna var byggð nokkuð fram á þessa öld, en nú er allt komið í eyði. Einhver einkennileg kennd grípur mann, þegar reikað er um þennan grýtta sjávartanga, þar sem einu sinni var fjörugt athafnalíf, en nú ekki annað en vesalar rústir. Þessi staður er eitt af talandi táknum breyttra atvinnuhátta og að nú er komin ný öld.
Við fórum aðra leið til baka, gengum upp á gamla veginn, sem var þjóðbraut frá landnámstíð og fram til 1912, þegar akvegurinn kom í stað hennar. Frost og regn, snjór og leysingar hafa farið ómjúkum höndum um gamla veginn, svo að varla sést móta fyrir honum. Og þó eru enn uppi menn, sem muna það, þegar stórar skreiðarlestir þræddu þennan veg dag eftir dag. Svo skammt er milli gamla tímans og nýja tímans, — og gamli vegurinn hvarf með gamla tímanum.

Bieringstangi

Magnús Ágústsson og Haukur Aðalsteinsson við skipsflak á Bieringstanga.

Fleiri útróðrastöðvar voru þarna, svo sem Kristjánstangi. Þar var saltgeymsla, en ekki fisktaka. Í Eyrarkoti, sem var niðri við sjóinn fram af Vogum, voru einnig viðleguskip. Í Minni-Vogum hóf Geir Zoega farsælan útgerðarferil sinn.
Mælt er, að bændum þar syðra hafi þótt orðið nokkuð þröngt fyrir dyrum hjá sér um 1876, er svo margir „útlendingar“ höfðust þar við á vertíðinni. Segir sagan, að bændur á Strönd, Vogum og Njarðvíkum hafi þá tekið sig saman um að leigja ekki uppsátur og upp úr því hefði svo Reykvíkingar og Seltirningar flutt sig suður í Leiru og Garð. Þessu ber vel saman við skrárnar um spítalafiskinn, því að þá fækkar aðkomubátum þarna óðfluga. Árið 1879 eru þar ekki taldir nema 10 „útlendingar“ og árið 1880 eru þeir aðeins sex.“

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Hólmabúðir og Bieringstangi, 1961, bls. 168-173.

Vorhúsbrunnur

Vorhúsabrunnur.

Hlöðunesleiði

Hlöðversneshverfi eða Hlöðuneshverfi er austan Brunnastaðahverfis og vestan Knarrarnessbæjanna á Vatnsleysuströnd. Á herforingjaráðskorti frá 1908 er bærinn nefndur Hlöðversnes, en á slíku korti frá 1950 er þar komið nafnið Hlöðunes í staðinn. Í viðtali í Morgunblaðinu 1971 segir Ólafur Kr. Teitsson, þá áttærður: „Það heitir Hlöðversnes. Þessi Hlöðver nam land þar sem hverfið er og er greftraður í því miðju.“
Hlodunes-202Í „Gönguleiðir og örnefni í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir m.a. um Hlöðunes: „Af Einiberjahólum sjáum við til Gjásels, sem kúrir undir næstu gjá ofan Klifgjár. Óvíst er frá hvaða bæ var haft í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðalands. Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu.
Tóftir af átta húsum standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli eins og reyndar annars staðar. Skipulag húsa á þessu selstæði er gjörólíkt því sem er á öllum hinum stöðunum í heiðinni en þar eru tveggja húsa samstæður á víð og dreif á grasblettum en í Gjáseli er eins konar raðhúsalengja.

Gjasel-501

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Skipanin hér minnir um margt á Nýrra-Merkinessel í Hafnaheiði. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu en jarðskjálftar á fyrri hluta 20. aldar hafi eytt þessum eina „fossi“ í hreppnum. Ein heimild telur líklegt að selin umhverfis Gjásel hafi haft afnot af vatnsbólinu þar en áður fyrr hefur líklega verið vatnsstæði við hvert sel eða tiltölulega stutt frá þeim þó svo þau séu vatnslaus nú.“
Um Hlöðuneshverfið segir m.a. í fyrrnefndu riti: „Árið 1930 var nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá búenda í Áslákstaða, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamli-vegur notaður sem reiðvegur. [Geta má þess til fróðleiks að „Gamli-vegur“ var hluti af fyrsta vagnveginum milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Vegurinn á milli byggðalaganna var lagður á árunum 1908-1913].
Atviks er getið er hermir upp á íbúa í Hlöðuneshverfi, Ólaf Þorleifsson: „Nokkrun veg norðaustur af Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Olafsvarda-301

Gjáin er í raun sprunga úr úr vestasta hluta Klifgjár en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir gjárveggirnir jafnháir landinu í kring. Um síðustu aldamót hrapaði í sprunguna Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að gá að fé rétt fyrir jól [á aðfangadag] árið 1900. Mikil leit var gerð en allt kom fyrir ekki. Árið 1931 eða um 30 árum seinna fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að ná í kind sem fallið hafði niður á sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókina „Hrakningar og heiðarvegir“, 3. bindi eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson [sem og frásögn í Morgunblaðinu frá beinafundinum.“
Þegar gengið er um Hlöðuneshverfið (Hlöðversneshverfið) má vel sjá minjar húsa og útihúsa, túngarða og gerða Hlöðuness, Narfakots og Halldórsstaða, auk eftirmyndar nautgripagirðingar líkri þeirri er sjá má í Borgarkoti austan Kálfatjarnar og vestan Minni-Vatnsleysu.
Hlöðversnes, eða Hlöðunes, er nú afskekkt minjasvæði á Vatnsleysuströnd, þótt nærtækt sé.
Hlodunes-203Einungis þarf að stoppa við hlaðna heimreiðina austan fuglabús Ísfugls, ganga að bæjarstæðinu – og síðan áfram yfir túnið að útihúsaminjunum nær sjónum. Þar má m.a. sjá leifar sjóhúss, gerða og gerðis og friðlýstra náttúruminja þar sem Hlöðunestjarnirnar eru.
Hlöðunes fór í eyði um miðja 20. öldina. Enn má sjá þar uppistandandi steinsteypt útihús og þær síðustu heyvinnuvélar er notaðar voru við búskapinn á þeim tíma. Ljóst er að jörðin sem og hverfið allt, þótt tiltölulega lítið sé, felur í minjum sínum mikla búskaparsögu, jafnvel allt frá 10. eða 11. öld, ef vel er að gáð.

Hlodunessel-201

Hlöðunessel – uppdráttur ÓSÁ.

Fram hefur komið að bændur í Hlöðuneshverfinu hafi fyrrum haft selstöðu í Gjáseli og áður í Hlöðunesseli í Strandarheiði. Selstöðurnar voru hluti búskaparháttanna frá upphafi fram til loka 19. aldar. Hlöðunesselið er nú að blása upp vegna jarðvegseyðingar, en Gjáselið mun kúra enn um sinn í skjóli undir gjárveggnum. Af minjunum þar að dæma virðist hafa verið góð samstaða með bændunum í Hlöðuneshverfi, svo góð að líkja mætti henni við samyrkjubúskap seinni tíma. Átta rými í einni röð frá suðri til norðurs og einn stekkur skammt sunnan þeirra bendir til góðs samkomulags a.m.k. þriggja bæja. Venjulega má sjá þrjú rými í einni selstöðu, þ.e. baðstofu, búr og stakt eldhús, en þarna vantar eitt rými til þess að allir hafi haft þar sjálfstæða aðstöðu.
Þess má geta að enn er búið í Narfakoti þótt ekki sé stundaður þar hefðbundinn búskapur.
Kuml Hlöðvers, þess er fyrstur bjó að Hlöðversnesi, er í túninu skammt sunnan Narfakots. Um er að ræða tiltölulega lága bungumyndaða upplyftingu á annars sléttu túninu.


Heimild:
-Morgunblaðið, Ólafur Kr. Teitsson, 15. ágúst 1971, bls. 12.
-Gönguleiðir og örnefni í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 80 og 82.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppu, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 248.
Hlöðversnes

Stóru-Vogar

„Þegar Jón Daníelsson kom að Stóru-Vogum var þar mjög reimt og stóð svo á því að bóndi sá sem þar hafði búið á undan honum hafði einu sinni úthýst manni í misjöfnu veðri, köldum og að líkindum svöngum líka.
Vogar-21Þessi maður ætlaði þá, þegar hann fékk ekki inni í Vogum að fara út í Njarðvíkur yfir Vogastapa og leita þar fyrir sér. En um morguninn eftir fannst hann dauður á Stapa nærri Grímshól; var hann borinn heim að bæ þeim sem honum var úthýst frá kvöldinu áður. Þegar komið var með hann í hlaðið brá bónda svo við að það leið yfir hann; sumir segja að hann hafi orðið á sömu stund bráðkvaddur, en hinir að hann hafi raknað við aftur úr öngvitinu, en aldrei orðið jafngóður og þetta hafi dregið hann til dauða.
Þegar búið var að grafa þann sem úti varð fór þegar að bera á reimleika í Vogum hjá bónda og batnaði ekki hót við það að hann dó. Menn eignuðu það því að sá sem úti hafði orðið vildi hefna sín fyrir það að honum hefði verið vísað á bug úr Vogum og orðið svo úti. þegar Jón kom að Vogum hélzt reimleikinn enn við þó allt fólk væri þaðan farið sem þar hafði verið þegar manninum var úthýst. Varð Sigríði konu Jóns einna mest mein að því og ásótti þetta hana með svefnóværð mikilli því ekki hafði hún fyrri fest blund á kvöldin í rúminu fyrir ofan mann sinn en hún fór að láta illa í svefninum.

Vogar-23

Fyrst í stað vakti Jón hana, en jafnskjótt sem hún blundaði aftur kom að henni sama óværðin. Aldrei kom þetta fram við Jón sjálfan, en ekki var lengi áður honum leiddist þessi áleitni. Eitt kvöld þegar Jón heyrir að fer að korra í konu sinni rýkur hann á fætur aftur og fer ofan og tekur sax í hönd sér og segir ef djöfull sá láti sig ekki í náðum og alla sína skuli hann reka í hann sveðjuna og vísar honum til fjandans.
Eftir það hætti reimleikum hjá Jóni. En þegar reimleikinn hvarf frá Vogum fór hann að gjöra vart við sig í Tjarnarkoti í Vogahverfinu og var það þó ekki af því að þar væru heldur neinir niðjar þess er hafði úthýst manninum.
Vogar-24Sótti draugurinn einkum á bóndann þar og það svo að hann varð gjörsamlega óður eina nótt. Var þá sent heim að Vogum eftir Jóni því Vogamenn leituðu jafnan liðs hjá honum í flestu sem þeir við þurftu og kom hann vonum bráðar.
En þegar bóndinn í Tjarnarkoti sá hann var hann svo óður að hann sagðist ekki hræðast neinn nema andskotann hann Jón Daníelsson. Gekk þá Jón að manninum og segist þá munu neyta þess að hann sé hræddur við sig og skipar hinum óhreina anda út úr manninum með mikilli alvörugefni. En svo brá við það að maðurinn fékk þá værð og datt í dá.
En Jón fór þegar út; fylgdi hann hinum óhreina anda burt frá bænum í Tjarnarkoti og þangað sem nú er búð sú í Vogum sem heitir Tuðra. Þar kom hann honum fyrir og bað hann sökkva þar niður til hins neðsta og versta helvítis þaðan sem hann væri kominn og gjöra aldrei framar mein af sér í Vogum. Við þessi ummæli Jóns hvarf reimleikinn þegar svo hvorki bóndanum í Tjarnarkoti né neinum öðrum varð eftir það meint við hann. En þó hefur þótt örla á því oft að ekki væri allt hreint í Tuðru.“
Í dag er óljóst hvar framangreind Tuðra var í Vogum, en orðið hefur jöfnum höndum verið notað um fisktegund, tösku, lélegan sparkbolta eða kvensnift. 

Heimild:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 378.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Vogavík

„Um og eftir aldamótin 1900 var útgerð í Vatnsleysustrandarhreppi vart svipur hjá sjón miðað við það umfang sem verið hafði á meginhluta síðari helmings liðinnar aldar.
Róðrabátaútgerð var þó stunduð á Haukurvetravertíð frá flestum bæjum meðfram ströndinni frá Hvassahrauni að Vogastapa. Segja má að útvegsmenn í hreppnum hafi verið nokkuð fljótir að tileinka sér vélbáta sé miðað við framvindu vélvæðingar á Suðurnesjum. Besti möguleiki til að halda bát á legu var í Vogavík sem jafnframt var talin ein besta höfnin á Suðurnesjum frá náttúrunnar hendi. Einnig var hægt að láta báta liggja við festar á Vatnsleysuvík. Frá þessum stöðum hófst vélbátaútgerðin í hreppnum.

Fyrsti vélbáturinn

Höfrungur

Höfrungur.

Fyrsti vélbáturinn í eigu heimamanna kom haustið 1908, var það Vonin GK. 352. rúmlega 7. tonn að stærð í eigu Ásmundar Árnasonar og fl. í Vogum. Vonin var fyrst gerð út á vetrarvertíð 1909, en þá vertíð hófu einnig tveir aðrir vélbátar róðra frá Vogavík. Voru báðir bátarnir frá Akranesi, Höfrungur um 7. tonn í eigu Haraldar Böðvarssonar og fl . og Fram um 12. tonn í eigu Bjarna Ólafssonar og fl. Var útgerð Akranesbátanna með aðstöðu á hólma undir Vogastapa þar sem verstöðin Hólmabúð hafði áður haft aðsetur.

Sjö vélbátar á vetrarvertíð

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Á vetrarvertíð 1913 voru gerðir út sjö vélbátar af heimamönnum, fimm frá Vogavík og tveir frá Vatnsleysuvík. Frá Vogavík voru auk Vonarinnar. Sörli um 10. tonna bátur í eigu Sigurjóns J. Waage og Klemensar Egilssonar. Björgvin tæplega 5 tonn. eigendur voru bræðurnir Þórður og Bjarni Skúlasynir. Báturinn var síðan umbyggður og stækkaður og hét eftir það Skúli. Hafalda tæplega 11 tonn, eigendur voru bræðurnir Eyjólfur, Andrés og Ólafur Péturssynir. Auk þess var leigubátur Víkingur tæplega 8 tonn, sem Benedikt Pétursson gerði út. Frá Vatnsleysuvík voru Hermann um 6,5 tonn. í eigu Sæmundar Jónssonar og fl. af Vatnsleysubæjum, og Barðinn, tæplega 9 tonn, leigubátur gerður út af Auðunni Sæmundssyni og fleirum.

Aflinn breytilegur
VatnsleysuvíkUm þetta leyti var vélbátaeignin í hreppnum í hámarki, tveir bátar bættust að vísu við og fylltu upp í skörð annara. Voru báðir með kútterlagi, nýrri gerð vélbáta sem þá voru að verða allsráðandi. Annar báturinn Haukur, um 11 tonn, var fyrst í eigu Hallgríms Sc. Árnasonar og fl. Vogum en síðar sameign manna frá Vatnsleysum, Hvassahrauni og Þorbjarnarstöðum. Hinn var Sæbjörg, um 11 tonn að stærð, í eigu Auðuns Sæmundssonar og fl. af Vatnsleysubæjum. Úthaldstíminn var að mestu bundinn við vetrarvertíðina en lítið var um útgerð vélbáta á öðrum tíma ársins. Afli var breytilegur frá ári til árs og þegar skoðað er afl abrögð vertíðanna 1913-1917 þá hefur aflinn verið að jafnaði um 50 tonn á bát. En sá afli hefur vart dugað til endurnýjunar báta.

Sjóslys
VogavíkSlysfarir settu svip sinn á tímabilið. Tveir vélbátar fórust með allri áhöfn með fi mm ára millibili, og voru báðir frá sömu útgerðinni. Vélbáturinn Hermann frá Vatnsleysu fórst þann 24. mars 1916 í illviðri sem þá gekk yfir. Báturinn réri frá Sandgerði og var í fiskiróðri suður í Miðnessjó en fékk á sig brotsjó og sást ekki til bátsins eftir það. Með bátnum fórst öll áhöfnin sjö menn. Þá fórst vélbáturinn Haukur frá Vatnsleysu þann 9. febrúar 1921 með allri áhöfn fi mm mönnum. Báturinn hafði stundað róðra frá Sandgerði og farið til veiða þá um morguninn. Af einhverjum ástæðum hefur hann farið inn á Vatnsleysuströnd og síðan farist við Keilisnes, en þar fannst báturinn og var svo grunnt að siglutrén stóðu upp úr sjónum. Ef litið er til þessa tímabils má segja að á sama hátt og útvegsmenn hafi verið fl jótir að tileinka sér vélbáta þá sé eins og þessi útgerð hafi ekki staðist væntingar og að hún hafi staðnað. Lítil endurnýjun varð á bátum og með tímanum fór svo að það dró úr útgerðinni og þegar leið á þriðja áratuginn var þessi kynslóð vélbátaútgerðar nær liðin undir lok.“

 

Heimild:
-Haukur Aðalsteinsson – Faxi 2008, bls. 20-21.

Sæbjörg