Þegar FERLIR reyndi að leita upplýsinga um fjárrétt undir Stapanum kom upp „Brekkurétt„. Ljóst er að réttin var þarna, neðan við Stapabúð og að sú búð lagðist í eyði á undan Brekkubænum þar skammt austar. Réttarinnar er hvorki getið í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga né í umfjöllun Sunnudagsblaðs Tímans 1964 um helstu minjastaði vestan Voga. Þar segir: „Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930, en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin” sem rís þar í hverfinu á þessari öld. Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru til skamms tíma. Kerlingabúðir voru nokkru utar.“
Stapabúð. Þarna sést „Brekkurétt“ á sjávarkampinum neðan við matjurtargarðinn norðan við húsin.
Það liðu því 34 ár á millum ábúnaðar Stapabúðar og Brekku, þ.e. eftir að Stapabúð fór í eyði. Í hugum Vogabúa þess tíma var Brekkuréttinn undir Stapanum neðan við fyrrum Stapabúð. Réttin sú gæti upphaflega heitið „Stapabúðarétt“, en hennar er hvergi getið í heimildum. Þó má sjá hana á ljósmynd frá Stapabúð fyrir árið 1896. „Brekkuréttar“ er ekki getið í „Aðalfornleifaskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands 2006.“
Í „Brekkurétt“.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga er, sem fyrr sagði, ekki getið um „Brekkuréttir, en hann getur þar um Vogaréttir: „Upp af Heljarstíg, vestanvert við Kvennagönguskarð, eru Háhólar. Vestast undir Kvíguvogabjörgum er Mölvík og Hólanef þar litlu austar og þar enn austar er svo Skollanef, út þangað teygir sig gróðurlendisræma. Þar innan við eru svo ystu verbúðirnar og nefndust Kerlingarbúðir. Heita þær svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri. Þannig hefndi kerling þessa verknaðar. Framundan eru svo Kerlingarbúðarvarir, voru þær allgóðar lendingar. Næst þar fyrir innan var svo Stapabúð, stóð í Stapabúðartúni og er lítið eftir af því en Stapabúðarvarir voru þar framundan. Þá er Sandvík og Sandvíksvör, var þar allgóð lending.
Brekka undir Stapa 1928. Stapabúð, innar, í eyði.
Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir. Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör. Langasker innan við Brekkulóð, en svo var Brekkutúnið kallað, var svo Kristjánstangi. Fremst á honum var Brimarhólmur og þar fram af Brimarhólmstangi og fram í tanganum Tangavör eða Brimhólmstangavör.
Vogarétt – loftmynd 1954.
Tvö vik voru þarna, nefndust Moldir og greindust í Stóru-Moldu og Litlu-Moldu. Stakksfjörður heitir fjörðurinn milli Brunnastaðatanga og Hólmsbergs. Inn úr honum liggja Vogarnir milli Eyrartanga að utan og Kvíguvogastapa að sunnan. Aðalbýli Voganna eru Stóru-Vogar en upprunalegasta nafnið mun vera Kvíguvogar. Úr Stóru-Voga landi byggjast síðan Minni-Vogar. Síðar byggðust svo hjáleigur og báru ýmiskonar nöfn. Vestast voru Stapakot, Brekka og Hólmur sem áður eru nefndar. Þessar hjáleigur eru víða nefndar… Þá munu Snorrastaðir hafa verið ein hjáleigan en talið er að þeir hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld en þá voru uppi miklir eldar á Reykjanesi.
Upp af Moldu voru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurfjárbændur. Innan við, þar nokkru sunnar, eru vegamót Almenningsvegarins, Gamla- og Skógfellavegar eða Grindavíkurvegar. Hvergi er þarna getið um Brekkurétt.
Vogarétt – uppdráttur ÓSÁ.
Í „Deiliskráningu fornleifa í Vogavík, Vogum á Vatnsleysuströnd (Fornleifastofnun Íslands 2014) segir m.a. um Vogaréttina: „Vogaréttir heimild um rétt 63°58.369N 22°23.552V. Upp af Moldu eru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar- Rosmhvalanes- Hafnar- og Grindavíkurfjárbændur,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju G. Guðmundsdóttur sést ekki til réttarinnar þar sem grjót úr henni var tekið og sett í sjóvarnargarð. Viktor Guðmundsson telur að réttin hafi staðið við austurhorn stórs bragga í norðvesturhorni afgirtrar lóðar fiskeldisins. Skátamót voru haldin þarna um 1974-1975, var þá hægt að sjá neðstu steinanna í hleðslunni, annars hafði grjótið verið tekið til hafnargerðarinnar.
Réttin stóð þar sem nú er lóð fiskeldisstöðvar á flatlendi skammt suðvestur af ströndinni.
Vogaréttin – mynd Sigurðar Inga Jónssonar, sem staðsetur réttina fyrrverandi af nákvæmni á núverandi lóð Stofnfisks.
Upplýsingar um rétta staðsetningu réttarinnar bárust eftir að vettvangsvinnu lauk og var staðurinn því ekki skoðaður á vettvangi en líkur eru til þess að lítið sem ekkert sjáist til minja um réttina. Farið var aftur á vettvang veturinn 2014 þegar unnin var deiliskráning á lóð Stofnfisks og umhverfis hana vegna breytinga á aðalskipulagi og þá var staðurinn skoðaður þar sem réttin var. Engin ummerki sjást um réttina vegna bygginga og annarra mannvirkja í tengslum við starfsemi Stofnfisks.“
Kristjánstangi – uppdráttur (úr fornleifaskráningu fyrir Vogavík). Fyrrum rétt eða fjárborg?
Enn ein réttin á þessu svæði var á Kristjánstanga. Hennar er getið í Fornleifaskráningu fornleifa í Vogavík á Vatnsleysuströnd, Fornleifastofnun Íslands 2014. Þar segir m.a.: „Eftir að vettvangsvinnu við aðalskráningu lauk árið 2008 benti Viktor Guðmundsson, heimildamaður, skráningarmönnum á hringlaga hleðslu í fjörunni á Kristjánstanga auk fleiri hleðslna sem eru að koma undan sjávarbakkanum. Hleðslurnar eru um 785 m suðvestan við Stóru-Voga. 2014: Farið var aftur á vettvang þegar unnin var deiliskráning á lóð Stofnfisks og umhverfis hana vegna breytinga á aðalskipulagi og þá voru þessar minjar skoðaðar á vettvangi.
Minjarnar eru á grýttu svæði í fjörunni sunnan við flatar og sléttar klappir. Sjór gengur yfir svæðið og brýtur stöðugt af sjávarbakkanum.
Viktor Guðmundsson gaf eftirfarandi upplýsingar um minjarnar: Hringlaga hleðslan er um 11 m í þvermál, grjóthlaðin. Veggir hennar eru um 1,4 m á þykkt. Rétt austan við þessa hleðslu eru aðrar hleðslur að koma undan bakkanum og fast við þær hleðslur hefur hugsanlega verið vör. Landbrot hefur verið þarna undanfarin ár og gætu þessar hleðslur eyðilagst á skömmum tíma.
Hleðslur í fjöruborðinu á Kristjánstanga.
Ekki er ljóst hvers konar mannvirki/mannvirkjum þessar hleðslur hafa tilheyrt en líklegt er að þau hafi tengst útgerð og fiskverkun. Hlutverk hringhleðslunnar er einnig óútskýrt. Ef til vill hefur hún líka verið í tengslum við útgerð en það kann að vera að þetta séu leifar af stæðilegri fjárborg. Ekki er þá ólíklegt að eftir að hún féll úr notkun hafi grjótið úr henni sem ekki var gróið við svörðinn verið endurnýtt í hleðslur. Það grjót sem skilið var eftir hefur nú komið í ljós þegar sjórinn hefur hreinsað allan jarðveg ofan af því. Stórhætta er vegna landsbrots.
Og þá að Grænuborgarréttinni. Í Örnefnalýsingu GS fyrir Stóru-Voga segir m.a.: „Austur af Búðarvör taka við Minni-Vogafjörur, Ytri- sem ná að Grænuborgartöngum. Frá Búðinni lá einnig Grænuborgarkampur alla leið að Vesturtúngarði og bak við kampinn, Grænuborgarstígur, allt heim í Vesturhlið á Grænuborgartúngarði sem er grjótgarður vestan og sunnan túnsins. Grænaborg stendur á bæjarhólnum en í suðurtúninu er klapparhóll sem heitir Latur. Austan Grænuborgarhúss í Grænuborgartúni er Grænuborgarbrunnur og Brunngatan þaðan og heim til húss. Sjávargatan liggur heiman að niður á kampinn en þar er Grænuborgarnaust og Grænuborgarvör. Á kampinum er Sjávarbyrgið eða Grænuborgarbyrgi. Grænuborgarós liggur vestan Grænuborgartanga og fram af ósnum eru Ósskerin. Í tanganum er Grænuborgarlón. Hnallsker er hérna fram af og Manndrápssker, er líklegt að þar hafi orðið mannskaði þó þar um sé engin sögn.
Grænuborgarrétt.
Frá Grænuborgarvör liggja Austurkotsfjörur allt út undir Djúpaós. Þar taka við Minni-Vogafjörur, Eystri- allt að Syðrirás. Yst í Djúpaós er Dýpstiós. Nokkru innar er Vatnasker, þar upp af eru Vatnsskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör. Einnig Djúpavogsvör. Austan við hólmana sem Vatnsskersbúðir eru á er svo Innrirás og skerst hún nokkru lengra inn í landið en Syðrirás. Frá Grænuborgarvör og allt inn að Syðrirás var á sjávarkampinum sjóvarnargarður. Var hans oft ærin þörf því í háflæðum rann sjórinn inn yfir Austurtúnið og var þá ekki lítið verk að hreinsa allt grjót og þara af túninu. Þar sem sjóvarnargarðurinn og suðurtúngarðurinn komu saman var Grænuborgartúngarðshliðið, eystra. Ofan eða sunnan suðurtúngarðs var Grænuborgarrétt. Var hún vorrétt þeirra Vogamanna. Spölkorn sunnar lá Almannavegurinn, Gamli- og þó hann sé nú ekki farinn sést hans glögg merki. Vestasti hluti Vatnsleysustrandarheiðar sem er í Stóru-Voga landi nefnist Vogaheiði“.
Ólíklegt er að „Grænaborgarréttin“ hafi verið vorrétt Vogamanna, líkt og að framan segir. „Réttin“ ber þess öll merki að hafa verið heimastekkur þar sem fært var frá eftir að selstöður í heiðinni lögðust af.
Grænuborgarrétt.
Í Fornleifaskráningu í landi Minni-Voga og Austurkots (Fornleifastofnun Íslands 2006, bls. 11) segir: „Grænuborgarrétt hleðsla rétt 63°59.401N 22°23.077V – Ofan eða sunnan Suðurtúngarðs var Grænuborgarrétt. Var hún Vorrétt þeirra Vogamanna.“ segir í örnefnaskrá. Réttin er um 70 m norðvestur af vörðu. Réttin sem er hlaðin utan í nokkuð háan hól, stendur í gróinni kvos umkringd grýttum hólkollum.
Réttin er 15 x 11 m að stærð og er grjóthlaðin. Hún er aflöng, snýr norður-suður og skipist í þrjú hólf. Um miðjan vesturvegg hleðslunnar er lítið hólf, um 2×2 mað utanmáli. Út frá því er hleðsla sem skiptir réttinni í tvennt. op er í norðvesturhorni réttarinnar. Frá opinu liggur um 10 m hlaðinn grjótgarður sem sveigir fyrst til VNV en síðan til vestur og hefur líklega verið byggður til að auðvelda innrekstur í réttina. Hleðsluhæð réttarinnar er mest um 0,6 m og í veggjum sjást 4-5 umför af grjóti.
Hættumat: hætta, vegna framkvæmda.“
Brunnastaðarétt 2022.
Brunnastaðarétt á Vatnsleysuströnd er hvergi getið í heimildum. Hún sést þó vel á loftmynd frá árinu 1954. Í „Aðalfornleifaskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrslu III (Fornleifastofnun Íslands 2006)“ er getið um fornleifar í Brunnastaðahverfi, en réttin sú kemur þar hvergi við sögu. Út frá loftmyndinni frá 1954 ná staðsetja réttina og við athugun Ferlirs á vettvangi mátti glögglega slá leifar hennar, sbr. meðfylgjandi drónamynd.
Brunnastaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.
Af framangreindu má sjá að hvorki er hægt að treysta á Örnefnalýsingar né fornleifaskráningar þegar fornleifar eru annars vegar. Jafnan eru þær síðarnefndu byggðar á þeim fyrrnefndu, en þess minni áhersla jafnan lögð á að leita uppi minjar að fenginni reynslu á fæti hverju sinni…
Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga.
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 883.
-Fornleifaskráning í landi Minni-Voga og Austurkots, Fornleifastofnun Íslands 2006, bls. 11.
-Deiliskráning fornleifa í Vogavík, Vogum á Vatnsleysuströnd, Fornleifastofnun Íslands 2014.
-Aðalfornleifaskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands 2006.
Brunnastaðarétt – fyrr og nú.