Tag Archive for: Vogar

Norðurkot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssoar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ má lesa eftirfarandi um gamla skólahúsið í Norðurkoti, sem síðar var híft af stalli og síðan staðsett og endurreist vestan við Kálfatjarnarkirkju í sama hverfi.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Það var árið 2003 þegar skólahúsið í Norðurkoti stóð enn þar sem það upprunalega var, að Rafn Sigurðsson fór til þess að skrásetja það með myndum áður en “húsið” myndi grotna niður og verða að ónýtum kofahjalli. Það mátti ekki tæpara standa því 2005 var húsið flutt í heilu lagi að Kálfatjörn.

„Norðurkot er hjáleiga úr landi kirkjujarðarinnar Kálfatjarnar.
NorðurkotFyrir aldamótin bjuggu í Norðurkoti hjónin Erlendur Jónsson og kona hans, Oddný Magnúsdóttir. Erlendur var hálfbróðir Helga Sigvaldasonar í Litlabæ. Hjónin í Norðurkoti áttu Ólaf fyrir son, trésmið, er síðar fór til Ameríku og týndist þar fyrir fullt og allt.

Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga”. Húsið var úr timbri, ein hæð og portris.

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið.

Kennslunni var ætluð neðri hæðin, en risið var hugsað til leigu og í þá íbúð fluttu hjónin Björn Jónsson og kona hans, Halla Matthíasdóttir. Höfðu þau dvalið í gamla bænum í nokkur ár, en Erlendur og Oddný voru farin þegar nýja húsið var byggt. Björn og Halla voru hin skemmtilegustu heim að sækja og var oft komið við í Norðurkoti eftir kirkjuathafnir. Norðurkot var grasbýli, auk þess sem Björn gerði út bát sem ég man að hét Eining. Var sú útgerð smá í sniðum, en bjargaði með öðru. Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti árið 1910 og snemma á árinu 1911 keypti Guðmundur í Landakoti Norðurkotið af hreppnum og leigði Birni þá allt húsið.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Snæbjörn Reynisson, skólastjóri Stóruvogaskóla, segir að fyrsta árið hafi verið nítján börn í skólanum, á aldrinum átta til fjórtán ára, úr Kálfatjarnarhverfi og nágrenni.

Síðasta ári sem kennt var í Norðurkoti voru þrír skólar í Vatnsleysustrandarhreppi. Eftir að skólahald lagðist af var búið í Norðurkoti um tíma, fram á fjórða áratuginn. Síðan hefur það staðið autt eða verið notað sem geymsla. Það voru afkomendur Erlendar Magnússonar, bónda á Kálfatjörn, sem gáfu Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps Norðurkotshúsið á síðasta ári og stóð félagið fyrir flutningi þess (24. mars 2005) að Kálfatjörn með styrk frá Alþingi og stuðningi verktaka.

Norðurkot

Norðurkot skömmu fyrir flutninginn.

Talsvert átak var að flytja húsið. Þannig þurfti að leggja veg að því svo dráttarbíll og krani kæmust að.

Húsið var sett niður til bráðabirgða við gömlu hlöðuna á Kálfatjörn en það verður sett á grunn á bak við hlöðuna. Birgir Þórarinsson, hjá Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps, segir að vegna þess hversu langt er síðan búið var í húsinu hafi því lítið verið breytt að innan. Ætlunin sé að koma þar upp safni þar sem saga hússins verði sögð. Þangað verði til dæmis hægt að fara með börn úr grunnskólum og sýna þeim hvernig skólahald fór fram í upphafi síðustu aldar. Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn gaf félaginu ýmsa muni sem tengjast skólahaldi og verða þeir notaðir við uppsetningu sýningar í húsinu.“

Sjá meira um Norðurkot HÉR og HÉR.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 312-315.
-https://icelandphotogallery.com/project/gamla-skolahusid-i-nordurkoti-fyrir-flutning/

 

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Móakot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, segir m.a. frá bæjunum í Ásláksstaðahverfi.

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið, sem nú stendur, var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum árið 1881.

Lúðvík og Friðrik Davíðssynir eru eigendur að jörðinni og er Atlagerði, Móakot og Nýjibær í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Útihús við eyðibýlið Ásláksstaði á Vatnsleysuströnd brunnu til grunna í eldsvoða þann 16. október 2017 kl. 17:09.

Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Atlagerði

Atlagerði

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða, móðurjörð hvrefisins. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti.

Fagurhóll
Fagurhóll var í suðausturhorni Áslákstaðajarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus.

Nýibær

Nýibær

Nýibær (Hallandi).

Nýibær hét áður Hallandi. Tóftir bæjarins sjást enn. hann var byggður 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.

Móakot
Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðuhluta Ásláksstaðarjarðarinnar og er nú sameinuð aðaljörðinni.

Sjónarhóll

Sjónarhóll

Sjónarhóll. Innri-Ásláksstaðir að baki.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „homapati“ Sjónarhól. Árið 1885 hafði Lárus keypt hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi hálflendunnar Innri-Ásláksstöðum.

Garðbær

Garðbær. Bær vinnukonu á Sjónarhól, sennilega byggður á tóftum Fagurhóls.

Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott. Núverandi steinhús var byggt 1929. Vilmundur Jónsson, fyrrv. landlæknir, keypti Sjónarhól og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir. Sjónarhóll t.h.

Um aldamótin 1900 bjuggu á Innri Ásláksstöðum Magnús Magnússon og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir. Eftir að Magnús brá búi og fluttist til Hafnarfjarðar lagðist jörðin undir Sjónarhól og hús Innri-Ásláksstaða voru eftirleiðis notuð sem útihús.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 261-272.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi.

Camp Dailey

Í Youtube miðlinum „Vogar TV“ má sjá þann 7. okt. 2018 myndband af gönguferð Vogamanna undir leiðsögn Viktors Guðmundssonar að fyrrum herspítalanum Camp Dailey á innanverðanum Stapanum, við gamla Suðurnesjaveginn, er reyndar var upphaflega lagður sem vagnvegur þar á árinu 1912.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum 1921.

Vegagerðinni frá höfuðborginni lauk loks í Njarðvíkum árið eftir. Með tilkomu bílsins var vegurinn lagaður að þörfum hans, breikkaður og undirlagið bætt til muna. Síðan hafa framfarirnar jafnan mótast að kröfum nútímans…
Viktor Guðmundsson, svæðaleiðsögumaður á Reykjanesskaga og fyrrum FERLIRsfélagi leiddi gönguna. Hér á eftir má lesa fróðleik og myndir frá henni:

Herdeildin, 22 og eitthvað svoleiðis, kom til landsins í ágúst 1942. Hún staðsetti sig fyrst á Reykjum í Hrútafirði.
Í júnímánuðu árið eftir færði sveitin sig suður yfir heiðar. Eftir skamma viðdvöl í Mosfellssveit var ákveðið að reisa ætlað sjúkrahús nálægt Meeks-flugvelli á Miðnesheiði.

Camp Dailey

Viktor Guðmundsson leiðsegir.

Á árunum 1942-’43 voru um 50.000 erlendir hermenn hér á landi.

Camp Dailey

Camp Dailey – uppdráttur.

Gert var ráð fyrir veikindum og slysum af 5% af heildarfjölda eða um 2500 manns. Þann 21. ágúst 1943 sama ár hófst bygging sjúkrahússins á Camp Dailey á Vogastapa. Verkið tók 9 mánuði. Spítalinn samanstóð af 32 braggabyggingum. Auk þess bjó starfsfólk spítalans í 42 bröggum er stóðu á víð og dreif umhverfis – auk áberandi frárennslislagnar í sjó fram niður í Vogavík.

Sem betur fer var þurfti herinn lítið á spítalaþjónustinni að halda. Þegar þjónustu hans lauk eftir stríðslok 1945 brann miðkjarni spítalans í óveðri í apríl árið 1946. Í framhaldinu hirtu landsmenn aðrar leifar hans líkt og maurar úr þúfu. Öllu, sem hægt var að stela var stolið.

Camp Dailey

Camp Dailey.

Í dag er minjasvæði Camp Dailey takmarkað því nokkuð af því fór undir núverandi Reykjanesbraut, auk þess sem öðrum hlutum þess hefur lítill sómi verið sýndur.
Afliggjarinn til Grindavíkur á sínum tíma lá í gegnum búðirnar.
Enn má sjá a.m.k. tvær fóðraðar vatnsborholur hersins á svæðinu. Flestar jarðlægar minjar eru huldar lúpínu.

Daily Camp

Daily Camp – minjar.

Menn hafa oft verið að rugla Camp Dailey við stóra húsið ofan vegarins, en það var fjarskiptastöð hersins.
Olíutankur var við hvern einasta bragga, líkt og sjá má á vettvangi.
Sýnilegustu minjarnar í dag eru steyptir stöplar undir frárennslislögn frá spítalanum er lá í sjó í Vogavík, eins og áður sagði.
Á árunum 1978-1982 var plantað grenitrjám utan í lágina þar sem spítalabraggahverfið var.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ eftir Sesselja Guðmundsdóttur segir á bls, 57-58 um svæðið;

Reiðskarð

Stapagata um Reiðskarð.

„Næst förum við um Stapann eða Vogastapa (Njarðvíkur-stapa segir Skúli Magnússon, 1785) en eldra nafn á Stapanum er Kvíguvogabjörg eða -bjarg. Vogastapi er um 5 km langur og liggur allt vestur undir Innri-Njarðvík. Sjávarmegin eru klettabelti að mestu með stórgrýtisurðum við sjávarmál en að ofanverðu eru aflíðandi hjallar mót suðri og austri. Gamla þjóð leiðin Almenningsvegur sem liggur um hreppinn endilangan og við höfum fylgt endrum og sinnum heitir nú Stapagata. Hún liggur um Stapann endilangan og er lýst aftast í ritinu.

Camp Dailey

Fyrr á öldum lá þjóðleiðin til Suðurnesja ofar (sunnar) á Stapanum og í heimild frá árinu 1840 er hún kölluð Gamli-Stapavegur. Sú gata er nú horfin að mestu leyti á eystri hluta Stapans en vestar sást hún býsna glöggt fyrir fáum árum allt til Innri-Njarðvíkur. Nú er gamla þjóðleiðin á þeim kafla eyðilögð af vinnuvélum. Mjög villugjarnt var á Gamla-Stapavegi segja heimildir og þess vegna var gerð ný þjóðleið og lá sú nær sjónum.

Camp Daily

Úr skýrslu um „Reykjanesbraut – Fornleifakönnun. Fornleifastofnun Íslands 2001.“

Við Stapahornið milli Gamla-Keflavíkurvegar og Reykjanesbrautar er slétt svæði en á því var reist herskálahverfi árið 1942 sem kallað var Dailey camp. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina starfandi hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. Dailey camp brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946. Eldri hreppsbúar nota enn þetta örnefni yfir umrætt svæði. Frá herskálunum lá skolplögn niður Stapabrekkuna og síðan í sveig allt til sjávar. Á lögninni eru opnir steyptir brunnar, sumir nokkuð háir, með stuttu millibili og hafa þeir ótrúlega lengi staðist tímans tönn.

Stapinn

Kálgarðsbjalli – kálgarður ofan Camp Daily.

Við Dailey camp að austanverðu plöntuðu systur úr Soroptimistaklúbbi Keflavíkur trjám árið 1990 og kölluðu svæðið Bjartsýnisreitinn. En það er til önnur skýring: Soror þýðir systir á latínu og optimist þýðir bjartsýnismanneskja þannig að soroptimisti þýðir bjartsýnissystir og þá er örnefnaskýringin ljós.
Bjallar heita hjallarnir eða misgengin sem ganga suðvestur úr Vogastapa og eru þeir fimm í hreppslandinu en sá efsti og syðsti fylgir B-svæði. Eitthvað eru sérnöfn Bjallanna óljós, svo virðist sem tvö nöfn geti átt við einn og sama Bjallann og erfitt er að staðsetja Mýrabjalla, Sandbjalla og Miðbjalla. Næsta víst er þó að sá bjalli sem er fyrir vestan Dailey camp heitir Lyngbjalli og sá vestan hans heitir Kálgarðsbjalli. Bjallinn sá dregur nafn sitt af kartöflugarði (hreppsgarði), norðan Gamla-Keflavíkurvegarins, sem þar var um aldamótin.“

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls, 57-58, Lionsklúbburinn Keilir 2007.
-Vogar TV 7, leiðsögn Viktors Guðmundssonar, okt. 2018.
-Reykjanesbraut – Fornleifakönnun. Fornleifastofnun Íslands 2001.

Camp Dailey

Camp Dailey.

Hólmsbúð

Í bók Árna Óla „Strönd og Vogar„,- úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, er fjallað um „Gömlu veiðistöðina“ Hólmabúð undir Stapanum vestan Voga.

Strönd og vogar

Strönd og vogar – Árni Óla.

„Ég fór að skoða Hólmabúðir, hina gömlu veiðistöð undir Vogastapa. Með mér var Egill kennari Hallgrímsson, sem fæddur er og upp alinn í Minni-Vogum og þekkir hvern stein og hverja þúfu þar í grenndinni. Hann man og þá tíma, er aldahvörf urðu í útgerðarháttum hér.
Stóru-VogarVið gengum inn fyrir Vogavíkina, þar sem nefnist Vogasandur. Austan megin víkurinnar blasir þá við hin nýja byggð, þorpið, sem er samvaxið gamla bæjahverfinu. En sá er enn munur á þorpinu og gamla hverfinu, að í hverfinu eru stór tún umhverfis hin nýju hús, er reist hafa verið á jörðunum. Yst á tanganum er svo frystihúsið og sjóbúðir, en fram af þeim hafnargarður og bryggja, sem hreppurinn á. Við bryggjuna eru bundnir nokkrir vélbátar. Hér er nýi tíminn að ryðja sér til rúms.
Hér voru áður tvær jarðir, Stóru-Vogar og Minni-Vogar, og fylgdu þeim nokkrar hjáleigur, og em orðnar að sérstökum býlum sumar, en aðrar hafa lagst niður. Hér er Suðurkot og Nýibær, Hábær (er áður hét Tuðra) og Tumakot, Austurkot og Norðurkot. Þessi „kota“-nöfn eru löngu orðin úrelt, því að hér eru engin kot. En sjálft höfuðbólið Stóru-Vogar, sem mun vera landnámsjörðin Kvíguvogar, hefir lengi staðið í eyði og er nú að hruni komið. Þarna var þó einu sinni hæsta timburhúsið í Vogunum.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með merkilegri minjum. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). 

En grunnur þess er óbifanlegur. Það eru útveggir steinhúss, sem Jón Magnússon Waage reisti árið 1871 og mun hafa verið fyrsta steinhús, sem íslenskur bóndi lét reisa. Smiðurinn var Sverrir Runólfsson steinhöggvari, og segir í Iðnsögu íslands, að þetta hafi verið eitthvert helsta verk Sverris, og smíðaði hann þó bæði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju. (Í Iðnsögunni er sú villa, að húsið hafi verið reist í Minni-Vogum). Veggir hússins voru tvíhlaðnir úr hraungrýti, sem lagt var í kalk og er veggjaþykktin 1 al. 6”—1 al. 9”. Loft, gólf og þaksúð var úr plægðum borðum og helluþak á húsinu. Sjórinn er alltaf að brjóta bakkann hjá Stóru-Vogum og er kominn alveg heim að húsinu. Nú seinast hefir hann brotið skarð í sjóvarnargarð, sem þar var gerður, svo að undirstaða hússins er í hættu.
Fram af Austurkoti er tjörn á sjávarbakkanum og grandi fyrir framan.
HómabúðÁ þessum granda stóð áður ein af hjáleigunum og hét Eyrarkot, en grandinn Eyrarkotsbakki. Þar var útræði fyrrum. í tjörninni er stór og grasgefinn hólmi og þar verpur fjöldi af kríum. í miðri byggðinni er hár hóll, sem Arahóll nefnist, og stendur á honum varða mikil, sem heitir Aravarða. Undir hólnum er fagur hvammur, og þar á með tímanum að koma skrúðgarður og skemmtigarður þorpsins. Fram undan er svo Vogavíkin, lygn og svipfríð, og í henni speglast Stapinn með grænum geirum, skriðum og klettabeltum. Hann setur og sinn svip á allt umhverfið. Það er fagurt í Vogum, og hvergi hefi ég séð fegurra sólarlag en þar.

Vogar

Brekkuvörin. Hólmabúð h.m.

Þegar staðið er innan við Vogavíkina, er auðséð, að hér hefir sjórinn brotið mikið land. Er ekki ósennilegt, að í fornöld hafi verið graslendi fyrir botni víkurinnar og út með Stapanum að vestan. En það er þá allt horfið og eftir standa svört sker og tangar. Mestur er Kristjánstangi fyrir miðjum víkurbotninum. Þar stóð einu sinni salthús, og ef til vill hefir verið þar útræði einhvern tíma, en þess sjást nú ekki merki og enginn veit neitt um það að segja. Saltgeymslan hefir ef til vill aðeins verið fyrir Stóru-Voga.
HólmabúðVið höldum nú vestur að Stapa. Á þeirri leið eru réttir þeirra Vogamanna, hlaðnar úr grjóti undir klapparholti nokkru. Þetta eru gömlu réttirnar á Suðurnesjum, og þangað kom fé úr öllum nálægum hreppum og margt fólk, meðan réttadagurinn var einn af hátíðardögum ársins. Skammt fyrir ofan er Suðurnesjavegurinn og liggur upp á Stapann sunnanverðan. Við höldum gamla veginn, sem lá út með Stapanum, og verður þá brátt fyrir okkur dæld eða skarð í Stapann. Þetta er hið alkunna Reiðskarð, þar sem alfaravegurinn lá öldum saman, brattur nokkuð og stundum ófær á vetrum vegna fannkyngi í skarðinu.

Stapinn

Stapabúð.

Utan við skarðið hækkar Stapinn mjög, og með flóði fellur sjór þar upp að honum, svo ekki verður komist nema klöngrast hátt í skriðum. Nú var fjara og leiðin greið. Utan við þessa forvaða er svo komið að Hólmabúðum, sem eru gegnt Vogabæjunum. Hér er enn nokkur undirlendisskák með fram Stapanum. Þar eru háar og grýttar skriður á aðra hönd, með nokkrum grasgeirum á milli, en klettabelti efst í brúnum. Á hina höndina skagar nes út í víkina. Þetta er Hólminn, og hér hefir eflaust verið veiðistöð um margar aldir. Saga þeirrar útgerðar er nú glötuð, nema hvað nokkuð er vitað um sögu Hólmans síðan um 1830—40, að hið svonefnda „anlegg“ rís þar upp. En svo nefndu menn í daglegu tali hús þau, er Knudtzon lét reisa þarna, salthús og fisktökuhús. Knudtzon var aldrei kallaður annað en „gróssérinn“.
HólmabúðMjór tangi tengir Hólminn við land. Þar standa skrokkar af tveimur gömlum vélbátum og hallast hvor upp að öðrum í sameiginlegu umkomuleysi. Þetta voru einu sinni glæsilegar fleytur, sem drógu björg í þjóðarbú, en eru nú ekki annað en tvö útslitin hró, sem lokið hafa ætlunarverki sínu. Og á skeri þar rétt fyrir innan er ferlíki nokkurt, hálft í sjó og hálft uppi á skerinu. Þetta er einn af innrásarprjámum þeim, er bandamenn smíðuðu til þess að flytja á herlið sitt til Frakklands 1944.
En hvernig stendur á því, að slíkt fartæki er komið hér inn á Vogavík? Sú er saga til þess, að Óskar heitinn Halldórsson keypti nokkra af þessum stóru prjámum eftir stríðið og lét draga þá hingað.

Stapi

Stapi – strandaður innrásarprammi.

Síðan hafa þeir allir, nema þessi eini, verið notaðir til hafnargerðar á þann hátt, að þeir hafa verið fylltir með steinsteypu og síðan sökkt sem steinkerjum, þar sem hafnargarðar hafa verið gerðir.
Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefir verið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefir verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt.

Hólmabúð

Hólmabúð séð af Stapanum.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verður eigi séð, hve mörg þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru og leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína þegar mjög hvasst var, svo að þá tæki ekki upp. Þessi rétt eða skýli hefir verið rétt við lendinguna innan á Hólmi, en svo var önnur lending utan á honum. Seinustu útgerðarmenn þarna, meðan „anleggið“ var, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík. Er talið, að þeir hafi haft þar 18 báta.

Stapabúð

Stapabúð.

Seinasti „útlendingurinn“, sem gerði þarna út, var Haraldur Böðvarsson kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn, „Höfrung“, árið 1908 og gerði hann út í Vestmannaeyjum á vertíð 1909. Þetta var ekki nema 8 tonna bátur, og Haraldi leist ekki á að hafa hann þar. Og eftir að hafa athugað alla staði hér nærlendis, taldi hann Hólmabúðir á Vogavík heppilegasta útgerðarstaðinn fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn, og þar mátti draga þá á land, ef þurfa þótti.

Stapinn

Hólmabúð 2022.

Að vísu var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en hann reisti þarna dálítið hús í félagi við annan útgerðarmann, og gerði síðan út þar í þrjú ár, eða þar til hann fluttist til Sandgerðis með útveg sinn. Tveir af kunnustu útvegsmönnum við Faxaflóa, Geir Zoega og Haraldur Böðvarsson, byrjuðu því báðir útgerð sína í Vogunum.
Þurrabúð rís fyrst í Hólmi 1830. Bjarni Hannesson hét sá, er þar bjó fyrstur. Hann mun hafa dáið um 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni, er verið hafði vinnumaður hjá þeim, og voru þau í Hólmabúðum fram til 1848.
Það er á þessu tímabili, að Knudtzon byrjar „anleggið“ þarna. Mun hann hafa haft þar sérstaka afgreiðslumenn, sem ekki hafa dvalist þar nema tíma og tíma. Hólmabúðir munu þá hafa verið orðnar grasbýli. Leggur Knudtzon það undir sig, þegar Guðmundur fór þaðan, og fylgir það síðan stöðinni.

Hólmabúð

Hólmabúð.

Árið 1850 kemur að Hólmabúðum Jón Snorrason dbrm. á Sölvahóli í Reykjavík, og er hann fyrst nefndur verslunarþjónn, en síðar verslunarstjóri. Fær Jón þann vitnisburð, að hann sé „prýðilega að sér og gáfaður dánumaður“. Hann var þarna í sex ár. Næstur honum er Kristján Jónsson, og er hann þar í þrjú ár. Síðan er Guðmundur Magnússon þarna eitt ár.

Stapinn

Hólmabúð.

Árið 1860 koma þau þangað Jón Jónsson prentari, sem kenndur var við Stafn í Reykjavík, og kona hans Sólveig Ottadóttir, Guðmundssonar sýslumanns. Þau eru þar í þrjú ár. Þá tekur við Egill Ásmundsson, en næsta vetur hrapaði hann í Vogastapa og beið bana.
Árið 1864 koma svo Jón Breiðafjörð og Arndís Sigurðardóttir að Hólmabúðum, og var Jón forstjóri stöðvarinnar um 12 ára skeið. Á sama tíma rak hann einnig útgerð fyrir sjálfan sig, og var þarna oft 14 manns í heimili hjá þeim. Vorið 1876 fluttust þau svo að Brunnastöðum, eins og fyrr er getið.

Stapinn

Brekka 2022.

Næsti forstjóri Hólmabúða var Stefán Valdimarsson Ottesen, og gegndi hann því starfi fram til 1882. Þá er mjög farið að draga úr útgerð þarna. Eftir það kom þangað Björn nokkur Guðnason og var þar til ársins 1898. Hann hefir sennilega verið seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður, sem þar bjó, hét Elís Pétursson, og var hann þar aðeins árið. Síðan fara engar sögur af stöðinni, og munu húsin hafa verið rifin um aldamót.
[FERLIR barst síðar eftirfarandi tölvupóstur frá Ferne Gudnason, Mirror, Alberta, Canada: „Thank you for the Information on FERLIR about Hólmabúð which mentions my great grandfather, Bjorn Gudnason who was born in 1834 and moved to Canada in August of 1900 and then returned to Iceland in 1916 and died at Narfakot in December 1916. He is buried at Kalfatjornkirkja.
I have been to  Hólmabúð   twice with Viktor Gudmundson from Vogar as a guide.  It is very emotional to stand on the land where one’s ancestors worked and lived. – Thank you.„]

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Á undirlendinu með fram Stapanum eru rústir af tveimur býlum, sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka. Þetta býli reisti Guðmundur Eysteinsson, er hann fór frá Hólmabúðum 1848, og bjó hann þar fram til 1861. Síðan eru þar nokkrir ábúendur skamma hríð, en 1869 flyst þangað Guðmundur Jónsson og bjó þar í full 30 ár og hafði oft húsmennskufólk á vegum sínum. Árið 1899 koma þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex uppkomnum börnum sínum. Pétur bjó þarna til dauðadags 1916, og var þar þá oft mannmargt. Síðan bjó ekkja hans þar eitt ár, en þá tók við búinu tengdasonur hennar, Magnús Eyjólfsson, og bjó þar fram um 1930, en hafði þó býlið undir miklu lengur. Á Brekku stendur enn stofuveggurinn, hlaðinn forkunnarvel úr grjóti.

Stapakot

Stapabúð.

Kippkomi utar eru rústir hins býlisins, en það hét Stapabúð. Það reisti fyrst Jóhannes nokkur Guðmundsson 1872 og bjó þar tvö ár. Næsti ábúandi, Pétur Andrésson, bjó þar þrjú ár. Þá fluttist þangað ekkja, Herdís Hannesdóttir, ásamt 4 börnum sínum og bjó þar til 1885. Seinustu árin bjó þar á móti henni tengdasonur hennar, Eiríkur Eiríksson, sem var kvæntur Guðlaugu Helgadóttur.

Stapinn

Stapabúð 2022.

Eftir það koma þangað hjón, er bjuggu þar aðeins árið. En síðan flytjast þangað Jón Jónsson og Kristín Illugadóttir og búa þar til ársins 1896. Þegar þau fluttust þaðan, lagðist Stapabúð í eyði, en bóndinn á Brekku mun hafa nytjað tún það, sem þar hafði verið ræktað og mun hafa verið um kýrfóðursvöllur. Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera, að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því að útræði var hér og á Brekku áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farið var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1820—1840. Enn utar með Stapanum eru hinar svonefndu Kerlingabúðir. Þar hefir aldrei verið neitt býli, heldur aðeins sjóbúðir og sést nú lítið af þeim, því að sjór hefir brotið þær að mestu leyti.

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Hérna undir Vogastapa, þar sem nú eru aðeins gamlar rústir, hefir sjálfsagt verið mikil verstöð fyrrum, jafnvel allt frá Hrolleifs dögum, því að hér hefir hagað enn betur til um sjósókn heldur en á Gufuskálum, þar sem Steinunn gamla ákvað að vera skyldi vermannastöð frá Hólmi í Leiru.

Kerlingarbúðir

Leifar Kerlingarbúðar undir Stapa.

Vermenn hafa átt hér búðir öldum saman, þó að þeirra sjáist nú engar minjar. Sumar hefir sjórinn tekið, en aðrar hafa breyst með tímanum og grjótið úr þeim notað í nýjar byggingar. Hér hafa verið góðir lendingarstaðir, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, og sjaldan brást afli undir Stapanum. Eftir að fyrstu, litlu vélbátarnir komu, var gott vetrarlægi fyrir þá innan við Hólminn. En þegar stóru vélbátarnir komu, þá var þar ekki lengur griðastaður, og þá varð að gera höfn og hafnargarð.
Útgerðarhættir breytast og veiðiskapur breytist. Eitt er víst, að róðrarbátaútgerð hefst ekki aftur, og þess vegna eru nú gömlu varirnar og lendingamar til einskis nýtar. En staðhættir breytast ekki að sama skapi, og enn liggur Vogavík vel við útgerð. Sú útgerð verður mjög breytt frá því sem áður var, og jafnvel frá því sem nú er.

Stapinn

Upplýsingaskilti við Stapann.

Og þá minnist ég fyrsta mannsins, sem hafði hug á því að veiða síld í Faxaflóa til söltunar. Hann átti heima hér í Vogunum og var þarna langt á undan sínum tíma. Það er ekki fyrr en nú á seinni árum, að augu manna hafa opnast fyrir því, að hægt muni að stunda síldveiðar með góðum árangri hér í flóanum. Þar hefir Haraldur Böðvarsson verið brautryðjandi, og get ég ekki stillt mig um að taka hér upp það, sem eftir honum var haft á sjötugsafmæli hans: „Faxasíldin er gullnáma, sem enn hefir ekki verið unnin, nema að nokkru leyti, en enginn vafi er á því, að hún verður drjúg tekjulind fyrir þjóðarbúskapinn í náinni framtíð. Síldina er líklega hægt að veiða flesta mánuði ársins.“
Ég held, að útgerðin í Vogunum eigi eftir að breytast bráðlega, að þar sé ný aldahvörf í aðsigi. Ég held, að Voganir eigi eftir að verða að síldarbæ — stórum síldarbæ.“

Heimild:
-Árni Óla – Strönd og Vogar, úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, Gömul veiðistöð, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1961, bls. 152-159.

Hólmabúð

Pramminn innan við Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Eiríksvegur

Þorvaldur Örn Árnason skrifaði árið 2024 um „Náttúru- og söguperluna Vatnsleysuströnd„.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þeir sem hafa uppgötvað Vatnsleysuströnd vita að hún er perla, bæði hvað náttúru og sögu varðar. Svo er hún aðeins um 20 km frá hvort heldur höfuðborgarsvæðinu eða Keflavíkurflugvelli. Þar eru gömul tún, tjarnir og falleg fjara, ýmist með svörtum klettum, hvítum skeljasandi eða brúnu þangi, og mikið fuglalíf allt árið um kring.

Í þúsund ár var róið til fiskjar úr hverri vör og stutt að sækja. Vegna góðrar bjargar var þéttbýlt á Ströndinni á þess tíma mælikvarða. Lengi vel bjuggu þar fleiri en t.d. í Reykjavík eða Keflavík. Því er þar gríðarmikið af leifum fornra mannvirkja sem unnið er að skráningu á. Þegar gengið er eða hjólað með ströndinni er saga við hvert fótmál og fuglakvak í eyrum. Blómaskeiðið var 19. öldin þegar bændur höfðu sjálfir eignast jarðirnar og fiskaðist oft vel. Þá reis þarna einn elsti barnaskóli landsins sem enn starfar og byggð var vegleg kirkja á Kálfatjörn sem enn þjónar byggðinni.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Undir aldamótin 1900 brást fiskurinn með ströndinni og svo lagðist árabátaútgerð af. Þá fækkaði mikið á Vatnsleysuströnd og enn búa þar fáir. Við tók vélbátaútgerð og var höfnin byggð í Vogum og myndaðist þéttbýlið þar. Nú búa rúmlega 1000 manns í Vogum en innan við hundrað á Vatnsleysuströnd.

Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga (sem áður hét Vatnsleysustrandarhreppur) er mörkuð stefna um þróun byggðar 2008 – 2028, m.a. á Vatnsleysuströnd. Ströndin skal áfram hafa á sér yfirbragð dreifbýlis en þéttast þó.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Með sjónum skal vera óbyggt belti sem allir geta notið. Heimilt er að byggja 3 ný hús á hverri jörð til viðbótar þeim sem fyrir eru, ef fyrir liggur deiliskipulag, og skulu þau vera í samræmi við þá byggð sem fyrir er. Um árabil var erfitt að fá leyfi til húsbygginga á Vatnsleysuströnd en er nú auðsótt innan ramma skipulags. Nú geta fleiri sest að í þessu fagra, sögulega umhverfi, byggt ný hús eða gert upp þau eldri eins og sumir hafa þegar gert. Þarna eru tækifæri fyrir aukinn tómstundabúskap, svo sem hesta, kindur og hænsni. Þarna er kominn vísir að gistiþjónustu sem á örugglega framtíð fyrir sér og kunna erlendir gestir vel að meta þetta umhverfi.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd. Sveinn Björnsson, forseti, í heimsókn.

Með þéttari byggð verður auðsóttara að fá lagða hitaveitu og vatnsveitu um alla ströndina. Innan fárra ára mun hjólreiðaleiðin milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins liggja um Voga og Vatnsleysuströnd sem mun veita nýju blóði í byggðina og ferðaþjónustu þar.

Á Vatnsleysuströnd er Brunnastaðahverfið lítill þéttbýliskjarni og í Breiðagerði sumarhúsahverfi sem munu þróast áfram og þéttast sem slík. Heimilt er að byggja sérstaka golfbyggð að erlendri fyrirmynd í námunda við golfvöllinn á Kálfatjörn. Á að mestu óbyggðu svæði við Keilisnes og Flekkuvík er á skipulagi stór iðnaðarlóð og góð hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Á Vatnsleysuströnd eru 3 stór matvælafyrirtæki: hænsnabú með eggjaframleiðslu, svínabú og bleikjueldi. Það verður því mikið til að eggjum og beikoni á Ströndinni og bleikjan frá Vatnsleysu smakkast ákaflega vel.

Vatnsleysuströnd er strönd tækifæranna. Prófaðu næst þegar þú ekur Reykjanesbrautina að taka smá lykkju á leið þína og aka Vatnsleysuströnd. Það lengir leiðina örlítið en er vel þess virði, ekki síst að kvöldlagi um þetta leyti árs þegar sólin er að setjast á Snæfellsjökul.

-Þorvaldur Örn Árnason
íbúi í Sveitarfélaginu Vogum.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll var steinsteypt samkomuhús á Vatnsleysuströnd. Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar hefur nú fest kaup á húsinu og landareign sem því tilheyrir.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll árið 2018.

Kirkjuhvoll var byggður af Ungmennafélaginu Þrótti og Kvenfélaginu Fjólu árið 1933. Skortur var á húsnæði fyrir starfsemi félaganna og almennt samkomuhald í hreppnum. Haldnar voru ýmsar samkomur í húsinu í þá tvo áratugi sem það var starfrækt.

Kirkjuhvoll hefur verið í einkaeign undanfarin ár og látið mjög á sjá. Búið er að hreinsa út úr húsinu og rífa viðbyggingu, anddyri, á norðurhlið þess. Endurbætur hafa verið skipulagðar hafist handa um uppbyggingu.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll 2020.

Það er með tilhlökkun sem Minjafélagið ræðst í þessa framkvæmd, segir á vef bæjarins. „Samfélagið allt nýtur góðs af varðveislu sögunnar,“ segir að lokum.

Innan við glugga á vesturhlið, við sviðsinnganginn, má lesa eftirfarandi:

„Búið var að fá kvenfélagið „Fjóla“ í samband við ungmennafélagið um bygginguna, sem átti að vera timburhús 18×12 álnir að stærð með leiksviði. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir nokkra ungmennafélaga sem voru að byrja að keyra grjót í húsgrunninn þann 23. nóv. að nú væri Jakob búinn að ákveða að húsið skildi vera úr steinsteypu.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll 2020.

Það var næstum orðið verkfall og óánægjan með þessa einræðisráðstöfun framkvæmdastjóra bygginganefndarinnar, eins og Jakob var titlaður, breiddist um allan hreppinn. Álitið var að steinhús yrði dýrara, að það kæmist aldrei upp o.s.frv. en framkvæmdastjórinn sat við sinn keip. Hann þaggaði alla óánægju niður með ýmsum röksemdum, sem hann hafi á reiðum höfnum og vinnan hélt áfram. En Jakob gekk lengi á eftir undir nafninu Hitler. Það var snjólítið og frostlaust fram eftir öllum vetri svo að steypan gekk vel. Húsið komst undir þak og var innréttað, og á aðfangadag jóla var meðal annars unnið að því að reka saman bekki svo hægt yrði að vígja húsið um jólin. Á annan í jólum var svo haldin vígsluskemmtun fyrir innansveitarfólk. Húsið átti að heita fullgert og hafði öll vinna við það verið gefin af meðlimum félaganna nema vinna yfirsmiðsins.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll 2024. Kirkjuhvoll var byggður af Ungmennafélaginu Þrótti og Kvenfélaginu Fjólu árið 1933.

Mikið hefur unnist síðan Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar eignaðist Samkomuhúsið Kirkjuhvol 2019. Fyrsta og ef til vill stærsta verkefnið var að tæma húsið og komu margar hendur að því verki.

Svona verkefni verður aldrei að veruleika ef ekki kemur til fjármagns. Félagið hefur fengi styrki víðs vegar að. Segja má að þetta hafi mesta tilfinningalega gildi allra verkefna sem félagið hefur ráðist í. Ýmsir einstaklingar hafa styrkt það með peningagjöfum og vinnuframlagi. Sveitarfélagið hefur einnig stutt verkefnið með styrkjum og velvild ásamt Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og Húsfriðunarsjóði.

Mörgum þykir mikið verk eftir svo vel megi vera. Við segjum; mikið hefur verið unnið og frábært að vera komin svona langt.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll 2024.

Markmið sumarsins er að ljúka sem mestu utanhúss. Nú þegar hafa gluggar verið smíðaðir og settir í, bíslag rifið, bíslagið teiknað, leitað tilboða, fleygað fyrir lögnum, steypt vatnsbretti, spáð í múrprufur, rifið innanhúss og farnar margar ruslaferðir.

Von er á smiðum vegna vinnu við bíslag á allra næstu dögum. Og svo er alltaf eitthvað sem tínist til í dagsins önn.

Gerð hefur verið spjallsíða þar sem framgangur verksins er tíundaður og boðað til vinnustunda. Félagið tekur fagnandi við öllu vinnuframlagi, það eru alltaf verk fyrir alla og ómetanlegt líka að finna fyrir stuðningi almennings við verkið.“

Kirkjuhvoll

Eggert Kristmundsson

Matthías Eggertsson tók eftirfarandi viðtal við Ekkert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum er birtist í Frey árið 1994:

Eggert kristmundsson

Eggert með systkinum sínum.

„Búskapur hefur verið að dragast saman á Suðurnesjum undanfarin ár og áratugi og er nú vart svipur hjá sjón miðað við sem áður var. Enn er þó til fólk sem rak
stór bú fram á þennan áratug en hefur nú verulega dregið saman seglin.

Einn af þeim er Eggert Kristmundsson, sem býr á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd með systkinum sínum, Elínu, Lárusi og Þorkeli. Fréttamaður Freys sótti þau heim ásamt Val Þorvaldssyni, héraðsráðunaut Bsb. Kjalanesþings, til að heyra búskaparsögu þeirra.

Hvar ert þú fœddur og uppalinn?
Ég er fæddur í Stakkavík í Selvogi árið 1919. Foreldrar mínir voru Kristmundur Þorláksson, fæddur í Hamarskoti í Hafnarfirði, en móðir mín hét Lára Scheving, fædd á Ertu í Selvogi. Foreldrar hennar flutt svo að Stakkavík og þar giftist hún Kristmundi, sem kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust 10 börn og þar af eru 8 á lífi. Þar búa þau svo til ársins 1943 að þau flytja hingað að Efri-Brunnastöðum.

Hvernig búi bjuggu foreldrar ykkar á uppvaxtarárum ykkar?

Stakkavík

Stakkavík – loftmynd.

Þau voru fyrst og fremst með fé og svo kýr til heimilis. Það var erfitt með heyskap þarna svo að féð gekk mest úti. Það varð að fylgja því eftir og reka það til sjávar á fjörubeit, tvo tíma hvora leið. Það var staðið þar yfir því í tvo tíma og síðan rekið á haga upp í brekkurnar, þar sem skógurinn var. Þar voru beitarhús fyrir féð, sem hét Höfði. Þannig var þetta upp á hvern dag á veturna þegar harðindi voru, en svo þegar það kom góð tíð þá fór féð upp um öll fjöll og fimindi og þá varð maður að elta það alla leið austur í Geitafell. Við lentum einu sinni í því við Gísli bróðir minn að sækja féð þangað og við fórum af stað kl. 9:00 um morguninn og komum ekki heim fyrr en kl. eitt um nóttina. Þá komum við til baka með 50 fjár. Í þessum leiðangri skall hann á með blindhríð og útsynningsél. Svo snerist áttin og þá hefðum við villst ef við hefðum ekki haft með okkur tvær golsóttar ær, forystukindur, og þær björguðu okkur. Snjórinn var í hné mestalla leiðina, nema þar sem rindar voru og hæst bar og forystuærnar reyndu að þræða rindana. Við vorum ekki með nokkum matarbita með okkur, því að við ætluðum ekki þetta langt og urðum alveg úrvinda af þreytu. Ég var þá 14 ára en Gísli 15.
Auk kúa og kinda, sem voru um 300, vorum við með fjóra hesta, en það varð að koma tveimur fyrir yfir veturinn.
Efri-Brunnastaðir

Hvert fóruð þið með sláturfé?

Við rákum það til Hafnarfjarðar og það var um átta tíma rekstur en stundum til Reykjavíkur. Ef maður fór hjá Eldborginni yfir Brennisteinsfjöllin gangandi á veturna þá gat maður farið þetta á sex tímum og komið niður hjá Múlanum, rétt fyrir ofan Vatnsskarðið, þar sem er lægst ofan af Lönguhlíðinni. Það er mikið brunahraun þarna sunnan í móti með mosa og þegar gaddað var þá var gott að labba þarna, en aftur þegar mosinn var mjúkur þá var þyngra að fara þarna um.

Stakkavík

Stakkavík – Stakkavíkurborg.

Ég man sérstaklega eftir fjárrekstri eitt haustið. Guðmundur í Nesi í Selvogi hafði lagt af stað daginn áður með sinn rekstur, en við fórum þennan dag út í Krýsuvík og ætluðum að nátta okkur þar. Ég hafði þá aldrei áður farið þessa Krýsuvíkurleið. En það var dálítill snjór á fjallinu enda komið fram að veturnáttum, eftir hrútarétt. Við vorum með 30 sauði og 20 lömb.
Á þessum tíma bjó Magnús Ólafsson í Krýsuvík í koti rétt hjá kirkjunni. En hann var ekki heima, svo að við tókum bara úr glugga og skriðum inn til að sofa um nóttina, en við vorum með mat með okkur og prímus. Klukkan sjö um morguninn leggjum við af stað og þá er hann kominn á norðaustan og fok og einn hesturinn strokinn. Það tafði okkur á annan klukkutíma að elta hann uppi. Þegar við komum að Nýjabæ, þá hittum við Magnús Ólafsson og játuðum upp á okkur húsbrotið, en hann fyrirgaf okkur það strax.
Við héldum svo áfram en þá skall á bandvitlaust veður, stormur og snjókoma og óstætt og við villtumst og vorum að hrekjast þetta allan daginn og komumst svo loks aftur í Nýjabæ klukkan eitt um nóttina hundblautir og hraktir. Magnús hafði nóg að gera alla nóttina að kynda og þurrka fötin okkar.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Svo morguninn eftir var kominn útsynnings éljagangur og ég gleymi aldrei hvað mér var kalt þegar ég var að fara í leppana um morguninn, og að koma svo út í kuldann, svona ruddagarra.
Svo rekum við af stað og vorum sjö tíma frá Krýsuvík og niður í Hafnarfjörð. Þriðja daginn rákum við svo féð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og þegar við komum niður á Lækjartorg á leið að Tjörninni en þar var Nordal með sitt sláturhús, þá tryllist einn sauðurinn algjörlega. Hann fer yfir einn bílinn sem þar stóð og Sigurður Gíslason, yfirlögregluþjónn, hann keyrir á eftir honum á mótorhjóli og annar á lögreglubíl og þeir ná sauðnum uppi í Öskjuhlíð og koma með hann í lögreglubílnum niður í sláturhús. Þessi kraftur var í sauðnum eftir þriggja daga rekstur og á pörtum í umbrotafærð. En þegar bílarnir komu og fóru að pípa þá varð hann albrjálaður. Þetta gerðist rétt fyrir 1940. Þetta er túr sem ég gleymi aldrei, það var ljóti túrinn. Þeir sem yngri eru mættu vita af því að þetta máttu menn leggja á sig töluvert fram á þessa öld í lífsbaráttunni. En það trúir þessu ekki, þetta er bara karlagrobb í augum unga fólksins og það er svo sem ósköp eðlilegt.
Stakkavík

Heyskapurinn í Stakkavík?
Við heyjuðum á eyðijörð sem heitir Hlíð og var hinum megin við Hlíðarvatnið. Þar fengum við um 90 hestburði sem varð að binda og flytja á bát yfir vatnið og bera síðan heim í hlöðu. Svo vorum við uppi um öll fjöll að heyja hvar sem nokkra tuggu var að hafa. Maður lá þá við í tjaldi. Það þótti góður sláttumaður sem sló einn kapal á dag. Svo varð maður að reiða þetta heim, allt upp í þriggja tíma lestaferð. Það voru ágætis slægjur sums staðar, t.d. inni í Stóra-Leirdal, inni í Grindaskörðum. Þar mátti heyja 50 hesta á einum stað. Það var á margra ára sinu. Og féð gekk auðvitað á þessu. Þetta var töluvert beitilyng og grávíðir og það var mjög góð lykt af þessu, þegar búið var að þurrka það, en þetta var létt fóður.

Stunduðu þið ekki sjóróðra frá Stakkavík?
Nei, en Gísli, bróðir móður minnar, Myndin er tekin árið 1968. gerði út frá Herdísarvík. Þar voru þá gerð út sjö skip, opin. Það sjást þar enn tættur af verbúðunum. Hann átti þar eina búðina og var þá með menn austan úr Árnessýslu og víðar að á vertíð. Svo reri faðir minn í mörg ár í Selvogi hjá Sveini Halldórssyni. Hann var á opinni trillu.

Þið bjugguð þarna samtíða Einari Benediktssyni, skáldi, og Hlín Johnson?
Hlín JohnsonÉg hef ekki haldið meira upp á neina konu en hana Hlín. Hún var hetja. Þau flytja í Herdísarvík um 1934. Einar deyr svo snemma árs 1940, en hún var þarna lengi eftir það. Við hjálpuðum henni á vorin að smala til að rýja og marka og svo aftur á haustin, þegar hún var að farga. Á sumrin hjálpuðum við henni með heyskapinn. Ég var þá að vinna í Hafnarfirði en fór um helgar að hjálpa henni, sló með orfi og ljá. Það var gerði austast í Herdísarvík og aðalheyskapurinn var þar. Þetta hafði verið grætt upp með slori þegar útgerðin var þarna, bara borið á hraunið. Það er grunnur jarðvegur þarna. Þarna mátti heyja um 80 hesta.

En á veturna var hún í gegningunum sjálf?
Já, hún var með þrjár kýr og ól upp kálfana. Féð var aldrei meira en svona rúmlega 200. Það gekk allt sjálfala. Þetta er einstök jörð til beitar. Það gátu ekki komið þeir vetur að það félli fé úr hor í Herdísarvík. Það gerir fjaran. Það er svo mikið þang og þari þarna í Bótinni. En þetta er að breytast. Sjávarkamburinn er allur að fara og sjórinn að brjótast upp í tjörn. Úr þeirri tjörn hefi ég fengið þann besta silung sem ég hef borðað um dagana. Hann var tekinn úr Hlíðarvatni og þurfti að vera þarna í fjögur ár. Þá var hann orðinn fimm pund. Hann er eldrauður og mjög bragðmikill.

Hafði Hlín ekki eitthvað af börnum sínum til að hjálpa sér þarna?

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Það var ósköp lítið sem þau voru þarna, en Jón Eldon sonur hennar færði henni vistir. Hún gaf honum Dodge Weapon bíl, mjög sterkan og hann gat farið þangað suður þó að það væri mikill snjór og ófærð. Ég fór mörg kvöld með honum og við komum ekki til baka til Hafnarfjarðar fyrr en þetta klukkan eitt og tvö á næturnar. Við fórum þá Krýsuvíkurleiðina frá Hafnarfirði.

Hvað bjó hún þarna lengi?

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

Hún fer upp úr 1950 og flytur þá í Fossvoginn og var þar með einar tvær kýr, heyrði ég. Ég held að hún hafi þó viljað vera áfram í Herdísarvík, en það var sjálfsagt erfitt.
Ég vorkenndi henni oft þegar ég var að fara frá Herdísarvík að skilja hana eftir í blindbyl og myrkri, háaldraða konuna. En hún var ekki bangin við það.

Hvað réð því að þið flytjið?
Mæðiveikin var þá komin upp og það var búið að girða fyrir Árnessýslu þarna, niður í sjó í Selvogi og yfir að Vatnsenda. Svo bara kom veikin upp vestan við. Auk þess sáum við að það var engin framtíð í því að vera þarna fyrir okkur börnin sem vorum þarna að vaxa upp, engin atvinna nema þessi búskapur sem var afar torsóttur og erfiður.

Hvernig var byggð hérna þegar þið flytjið hingað árið 1943?
Það var búið á hverri jörð eða grasbýli hér á Vatnsleysuströndinni, en í Vogunum var lítið þéttbýli farið að myndast. Það var róið frá hverjum bæ á trillum alveg inn að Vatnsleysu. Þær voru aldrei teknar á land alla vertíðina en þetta voru allt upp í fimm tonna trillur. Bændur keyptu grimmt trillur úr Grindavík, þegar flotinn var stækkaður þar. Þessi útgerð gekk vel, það varð aldrei skipsskaði hér eftir að við fluttum hingað. Menn söltuðu allan fiskinn sjálfir og þurrkuðu og seldu hann síðan kaupmönnum.

Tókuð þið svo upp þráðinn með fjárbúskapinn hér á Brunnastöðum?
Efri-BrunnastaðirNei, ekki nema að litlu leyti. Við keyptum hér 50 kindur af manni en um haustið voru 17 af þeim skornar vegna mæðiveiki. Maður fór bara að stunda sjó, ég fór hérna á trillu strax, héðan frá Halakoti á Ströndinni og síðan fór ég á Gulltopp, 20 tonna bát sem Þórður Jónasson bóndi og útvegsmaður gerði út ásamt sonum sínum, Sæmundi sem var skipstjóri og Jónasi. Þórður rak bú að Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur var landskunnur aflakóngur og var alltaf með hæstu bátum. Með Sæmundi reri ég tvær vertíðar úr Vogum og í eina vertíð á Haferninum sem þótti geysilega stórt og fullkomið skip, 250 tonn. Það var gert út frá Hafnarfirði og var í eigu Jóns Gunnarssonar.
Eg var svo 23 vertíðir með Guðmundi Ágústssyni á vélbátnum Ágústi, sem var um 55 tonn og síðar á öðrum báti með sama nafni, yfir 90 tonna. Guðmundur er albesti maður sem ég hef verið með. Svo var ég í vinnu í Hafnarfirði og fór heim um helgar og sló, allt með orfi og ljá, því að við vorum alltaf með búskap með. Seinna keypti ég traktor með Símoni á Neðri-Brunnastöðum og hann plægði hér upp öll túnin, því að þau voru ekki véltæk og hann sló töluvert fyrir mig eftir það.

Hvaða vinnu stundaðir þú í Hafnarfirði?
Ég var þar í byggingarvinnu á sumrin og svo beitti ég þar tvær vertíðir á báti, á þeim árum fiskaðist mikið hérna, bátarnir komu leikandi með þetta 600 tonn yfir vertíðina, sem stóð svona í þrjá mánuði.

Hvar var fiskur af bátunum hérna á Vatnsleysuströndinni lagður upp?
Allur inni í Vogum en þar ráku Halakotsbræður fiskverkun sem heitir Valdimar hf. Þeir reka það fyrirtæki enn af miklum myndarskap. Hafnaraðstaðan hafði batnað með árunum og var sæmileg þegar ég var á Ágústi. En það kom fyrir að við þurftum að flýja í vonskuveðrum til Njarðvíkur. Þar var góð aðstaða í landshöfninni.
Á Gulltoppi notuðum við tímann á stíminu í land til að byrja að fleygja fiskinum úr lestinni upp á dekk. Síðan var landað með háfnum sem hékk í bómu í mastrinu. Bryggjan var svo lítil að það komst ekki nema einn bátur að í einu. Jón Gunnarsson fiskverkandi í Hafnarfirði keypti fiskinn af okkur og honum var ekið þangað á bílum. Fiskurinn var keyrður inn eftir á næturnar af Jónasi Þórðarsyni og svo var farið á róður strax kl. 5 um morguninn. Hann svaf oft ekki nema þetta tvo tíma. Fiskurinn af Ágústi var hins vegar verkaður hér.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Þú hefur þá verið öllu meira á sjónum heldur en í búskapnum, eftir að þú kemst á fullorðinsár?
Já, ég var um 30 ár á sjó, var á haustvertíð frá því í ágúst og fram til jóla og svo vetrarvertíð frá því í endaðan janúar og fram á vor.

Hvað voruð þið með flest fé eftir að þið komuð hingað?
Það komst upp í 530 síðast áður en því fór að fækka á síðasta áratug. Við heyjuðum úti um allt, úti í Vogum og hér inn um alla Strönd. Féð gekk svo hérna uppi í afrétti, það er óhemju land hérna. Eftir að aðrir voru hættir með fé þá leitaði okkar fé enn lengra.

Hvað er lengi verið að smala þetta á haustin?

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Við smöluðum venjulega þrjár smalamennskur hérna uppi í Hálsum og niður í Grindavík. Við ókum upp á Höskuldarvelli og upp í Dyngju og smöluðum þaðan niður í Grindavík, það var níu tíma leit. Þeir voru á hestum milli Hálsa en ekki eftir Hálsunum, við héðan vorum alltaf gangandi.

Það hefur verið talað um að þetta land sé illa gróið, hvernig var féð á sig komið úr þessum afrétti?
Illa gróið, þetta er orðið gjörbreytt frá því sem var þegar ég man fyrst eftir mér, það sér ekki á högum, grasið er í legum. Það er ekki til ofbeit á öllu þessu flæmi. Það er auðvitað margt af þessu sem verður aldrei haglendi, hvort sem það er friðað eða ekki. Það er búið að friða hérna innan girðingar sem girðir af Reykjanesið hérna að sunnanverðu alla leið yfir í Grindavík. Það grær náttúrlega upp þar sem gras er og svo verður það bara sina og hún fer svo illa með jörðina, annað hvort verður að brenna hana eða beita hana í hófi.

En er fok úr þessu landi?
Það eru auðvitað til hér á svæðinu moldarflög sem getur fokið úr í þurrkum, en það er enginn uppblástur til hérna. Það er verið að tala um þetta á Krýsuvíkurheiðinni, en þetta eru einhver gömul rofabörð sem Ómar Ragnarsson, fréttamaður, er að leita að.

Efri-Brunnastaðir

Efri-Brunnastaðir (h.m.) – flugmynd.

Nú hefur verið lagt kapp á það af hálfu hins opinbera að friða Reykjanesskagann og það hefur verið gert í því augnamiði að bœta þar gróðurinn.
Þeir bæta hann ekkert, nema þeir aki mold á klappirnar og sái svo í. Og ef þeir ætla að fara að rækta skóg hérna þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar. í geilunum milli klappanna sprettur alltaf, því að þar er djúpur jarðvegur. Það er bara svo mikið af þessu klappir og apalhraun, allt hraunið sem liggur hérna frá Stapanum og suður í Grindavík, það grær aldrei hvort sem það er girt eða ógirt og það er aldrei nein skepna á þessu.

Er ekki víða djúpt á vatn hérna?
Það er nóg vatn í afréttinum, uppi á Höskuldarvöllum og þar í kring, þar eru lækir. Og í Snorrastaðartjörnum, beint upp af Stapaholtinu, þar er nóg vatn. Aftur þar sem gjár eru í hrauninu, þá er djúpt niður á vatn. Ef þú hendir steini þar þá heyrir þú þytinn lengi áður en hann lendir í vatni, en það er líka vatn neðst í þeim öllum. Rétt fyrir ofan Íslandslax, vestan við Grindavík, er t.d. gjá með beljandi vatni í. Það sést líka hér niður við sjó á stórstraumsfjöru að það rennur þar óhemju vatn til sjávar á köflum. Þetta er kallað fjöruvatn og er ósalt.

Þið ákveðið svo að stórfœkka fénu.
Eggert KristmundssonJá, við erum að fullorðnast og svo er ekki góð aðstaða að vera með fé hérna. Þetta eru erfiðar smalamennskur, en það er vænt fé hérna núorðið, en áður var féð rýrt, því að það var of margt í högum, það skipti þá þúsundum. Og svo voru hrossin líka. Það voru yfir 100 hross hér í hreppnum sem gekk inni í Hálsum og Völlum. Nú eru hér örfá hross. Nú er engin kind á Vatnsleysu og engin í Hvassahrauni. Það er aðallega hérna það sem eftir er á Ströndinni. Hins vegar er dálítið af fé í Grindavík, þó að það sé mikið minna en það var. En þetta eru rosknir menn sem eiga það og eftir 5-7 ár verður ekki nokkur kind hér á Skaganum. Þá verða þeir gömlu hættir og það byrjar enginn ungur maður með kindur hérna. Við megum vera með 70 fjár og erum með það í hólfi hérna og svo eru tveir aðrir fjáreigendur hérna með þetta 15 til 20 kindur hvor.

Þið eruð þá sátt við að búskapur sé að leggjast af hér um slóðir?
Það er náttúrulega sjálfgert þegar menn eru hættir að geta smalað og það eru engir nýir menn sem taka við. Svo er annað hitt að það er litið óvinsamlega á það að vera með landbúnað hérna. Hins vegar höfum við stundað dálítið kartöflurækt, en hún gengur misjafnlega, eftir árferði. Svo vorum við á tímabili með svínarækt. Það gekk nokkuð vel en við vorum ekki með nógu góða aðstöðu fyrir svínin.
Ef þeir œtla að fara að rœkta skóg þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar.

Hvaða búskapur er annars stundaður í Vatnsleysustrandarhreppi?
Það er náttúrulega Nesbúið, sem er eitt stærsta hænsnabú á landinu. Það eru dugnaðarmenn sem reka það. Svo er Þorvaldur í Síld og fisk aðalmaðurinn, með langstærsta svínabú hér á landi, hann hefur oft verið stærsti skattgreiðandi á Íslandi og er líklega bara stoltur af því. Svo er hér eitt loðdýrabú sem Jakob Árnason á og rekur. Fyrir nokkrum árum var farið í gang með fiskeldi hérna, Vogalax, en það varð gjaldþrota.“ -M.F.

Heimild:
-Freyr, 01.08.1994, Matthías Eggertsson – Viðtal við Eggert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, bls. 512-517.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Flekkuleiði

Árni Óla skrifaði um „Rúnastein í Flekkuvík“ í Strönd og Voga:

Rúnasteinn í Flekkuvík

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði.

„Utan við Hvassahraun á Reykjanesskaga gengur inn Vatnsleysuvík og inn úr henni utarlega skerst önnur lítil vík, sem Flekkuvík nefnist. Stendur bær samnefndur fyrir botni víkurinnar. Þar í túninu er lítill hóll eða stór þúfa, sem kallast Flekku-leiði, og þar ofan á liggur hraunhella með rúnaletri. Stendur þar skráð: „Hér hvílir Flekka“.

Hver var Flekka?
Sagnir herma að hún hafi verið landnámskona, komin frá Flekkufirði í Fjörðum, og eitthvað vensluð Ingólfi Arnarsyni, enda frá sama byggðarlagi og hann. Ingólfur fékk henni fyrst bústað í Kjós. Reisti hún þar bæ og heitir hann enn Flekkudalur, við hana kenndur. Hún var vitur kona og framsýn, en eigi mjög við alþýðuskap. Hún undi sér ekki í Kjósinni, vegna þess að hún sá ekki til sævar frá bæ sínum. Fluttist hún svo vestur á Vatnsleysuströnd og reisti sér þar bæ við eyðivík nokkra.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Hefir víkin síðan verið við hana kennd og kölluð Flekkuvík og hlaut bærinn sama nafn. Þarna var þá afskekktur staður, víkin umgirt apalhrauni á þrjá vegu, en á hrauntöngum beggja vegna víkurinnar svarraði brimið og voru átök þess ekki mjúk. En í víkinni sjálfri var góð lending og mikill veiðiskapur var þar jafnan skammt undan landi. Þó var innsigling á víkina viðsjál og gat verið hættuleg, ef ekki var rétt farið. Þess vegna mælti Flekka svo fyrir, áður en hún andaðist, að sig skyldi heygja þar efst í túni, fyrir opinni innsiglingarleiðinni. Lét hún svo um mælt, að aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan nokkuð sæist af kumli sínu. Hafa menn haft trú á þessu síðan.

Jónas Hallgrímsson rannsakar leiðið

Flekkuleliði

Letur á rúnasteininum.

Sumarið 1841 fór Jónas skáld Hallgrímsson til Flekkuvíkur til þess að athuga rúnasteininn og rannsaka, hvort hér gæti verið um font kuml að ræða. Mönnum bar ekki saman um, hvernig lesa skyldi úr rúnunum. Að vísu gátu allir lesið nafnið
Flekka, en yfir því stóðu skammstafanir, sem menn greindi á um hvernig skilja bæri. Töldu sumir, að lesa ætti „hér hýsir“, en aðrir „hér hvílir“. Finnur Magnússon las: „hér hýsir“ og taldi áletrunina frá heiðni. Þótti Jónasi því fýsilegt að fá úr því skorið, hvort hér væri um að ræða grafreit frá fornöld, því væri rétt lesið, þá átti svo að vera.

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði.

En Jónas rak sig á óvænta erfiðleika. Mönnum þar syðra stóð hinn mesti stuggur af komu hans, er þeir vissu erindið. Þeir vildu ekki láta hrófla við Flekkuleiði, því að þá væri hætt við að falla myndi úr gildi hin góðu ákvæði hennar um innsiglinguna á Flekkuvík.
Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, sem kallaðist landsdrottinn, vegna þess að kirkjan á jörðina. En Páll bóndi Vigfússon í Flekkuvík mun lengi hafa verið tregur, því að Jónas segir: „Ég hét þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn.“ Lét Páll þá til leiðast og samþykkti, að rannsókn færi fram „móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla í óslegnu túni“.
Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 álna langt og 2/2 álnar breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt að ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri:

Flekkuleiði

Hæðin er nú öll grasi gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla.
… Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd 15—16/2 þuml., breidd 12 þuml., þykkt 4—5 þuml. Hann er því, sem sjá má, lítil og heldur ólöguleg hraunhella. … Af því hingað og þangað var að sjá steinsniddur út úr brúnum hæðarinnar, þótti líklegt, að vera mundi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur af skorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. — Þá kom það í ljós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið. Það er því ljóst, að annaðhvort hefir Finnur Magnússon rétt að mæla, eða þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hér steininn til þess að blekkja menn trúgjarna.“

Flekkuleiði

Flekkuvíkursteinninn.

Sjálfsagt hefir Páll bóndi í Flekkuvík krafist þess fyrir fram, að gengið yrði frá leiði Flekku að lokinni rannsókn eins og það hafði áður verið. Og þótt Jónas geti ekki um það, hefir hann orðið að gera upp leiðið að nýju, enda þótt hann væri sannfærður um, að þetta væri enginn merkisstaður. Hann hefir ekki mátt ganga í berhögg við þá tröllatrú, sem menn höfðu á Flekkuleiði.
Matthías próf. Þórðarson hefir sagt, að skammstafanirnar á rúnahellunni eigi áreiðanlega að þýða „hér hvílir“, og hann álítur að áletrunin muni vera frá 17. eða 18. öld, gerð vegna munnmælanna um það, að þama væri Flekka heygð.

Sumarið 1959 kom ég að Flekkuvík og skoðaði Flekkuleiði, rúmum hundrað árum eftir að Jónas var þar. Leiðið er mjög svipað og hann lýsir því, bæði að stærð og lögun, og bendir það til þess, að það hafi verið hlaðið upp þegar að rannsókn lokinni.

Flekkuleiði

Flekkuleiði (Á.Ó.)

En umhverfið er orðið breytt, þúfnareiturinn, sem Jónas talar um, er horfinn og er leiðið nú í sléttu túni. Ofan á leiðiskollinum liggur hraunhellan litla með áletruninni, og er sokkin í jörð, eins og þegar Jónas kom að henni. Af stærð hellunnar, eins og hér er að framan greint, geta menn dregið, að stafirnir sé ekki stórir. Og nú eru þeir ekki lengur „greinilegir“, eins og Jónas kallar þá. Á þessari rúmu öld hafa þeir eflaust máðst og slitnað. Kveður svo ramt að þessu, að sums staðar sér aðeins móta fyrir leggjum þeirra. Mosi og skófir hafa einnig sest í risturnar, en yfirborð hellunnar hrufótt, svo að varla má greina á milli hvað eru holur í steininum og hvað er klappað. Þess verður naumast langt að bíða, að áletrunin máist af með öllu, ef stafirnir verða ekki skýrðir.
Ég reyndi að hreinsa mosa og skófir úr ristunum, eftir því sem unnt var, bar síðan krít í þær, svo að þær yrði gleggri. Því næst tók ég af þeim meðfylgjandi mynd.

Kaalund

Kaalund.

Ef mynd þessi er borin saman við uppdrátt Jónasar, sést nokkur munur á 4. rúninni og seinustu rúninni í nafninu. Um 4. rúnina er það að segja, að Kaalund sagði að hún gæti ekki verið rétt hjá Jónasi, þar ætti ekki að standa [ heldur J, eins og kemur líka fram á ljósmyndinni. Þessi rún er nokkum veginn glögg enn, en Jónasi hefir annaðhvort sézt yfir annan skálegginn, eða þá að hann hefir ritað hana skakkt í minnisbók sína.
Seinasta rúnin er nú einna máðust, og vottar aðeins fyrir striki út úr aðalleggnum, en fráleitt held ég að þar hafi nokkurn tíma verið höggvinn bogi í líkingu við það, sem sýnt er á teikningu Jónasar.
Þess má geta hér, að á árunum 1937—39 ferðaðist Anders Bæksted hér um landið til að athuga rúnir og hefir skrifað bók um þær. Hann kom til Flekkuvíkur í júlí 1938 og tók mynd af Flekku-steininum og skýrði síðan upp rúnastafina. Eru þeir allir eins og hér á myndinni, nema seinasta rúnin. Hann segir, að rúnirnar sé „greinilegar“, en telur þær ungar, máske frá 18. öld, og miðar þá við gerð þeirra. Hann segir, að annar bóndinn í Flekkuvík hafi kunnað sögurnar um, að Flekka væri grafin þarna og vekti yfir innsiglingunni, en menn leggi nú ekki lengur trúnað á þá sögu.

Hvaðan er Flekkunafnið?

Flekkuvík

Flekkuvík.

Mér finnst það augljóst á öllu, að nafnið Flekkuvík hafi komið með landnemum frá Noregi eins og fjölmörg önnur nöfn.
Hér em bæirnir Flekkudalur og Flekkuvík, og þeir em báðir í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Það er þegar athyglisvert, þegar þess er gætt, að suður úr Dalsfirði í Noregi, litlu utar en þar sem Ingólfur átti heima, skerst fjörður, sem heitir Flekkufjörður. Hann er kenndur við bæinn Flekku, sem þar er. Nafnið er skrifað á ýmsan hátt í gömlum skjölum, svo sem Fleke, Flocke, Flecke og Fleche, en nú er það skrifað Flekke. Sagt er, að það sé alveg einstætt meðal gamalla bæjarnafna, og vita menn ekki hvað það þýðir. Sumir giska á, að það sé dregið af „flek“ = blettur, en verði þó ekki skýrt. Getgáta hefir og komið um, að það sé dregið af dílagrjóti (flekkóttu grjóti), sem þar er, en þó þykir það ekki sennilegt, því að grjót hefði þá átt að vera í nafninu.

Flekkuvík

Utan við Hvassahraun á Reykjanesskaga gengur inn Vatnsleysuvík og inn úr henni utarlega skerst önnur lítil vík, sem Flekkuvík nefnist. Stendur bær samnefndur fyrir botni víkurinnar. Þar í túninu er lítill hóll eða stór þúfa, sem kallast Flekkuleiði, og þar ofan á liggur hraunhella með rúnaletri. Stendur þar skráð: „Hér hvílir Flekka“.
Sagnir herma að hún hafi verið landnámskona, komin frá Flekkufirði í Fjörðum, og eitthvað vensluð Ingólfi Arnarsyni, enda frá sama byggðarlagi og hann. Ingólfur fékk henni fyrst bústað í Kjós. Reisti hún þar bæ og heitir hann enn Flekkudalur, við hana kenndur. Hún var vitur kona og framsýn, en eigi mjög við alþýðuskap. Hún undi sér ekki í Kjósinni, vegna þess að hún sá ekki til sævar frá bæ sínum. Fluttist hún svo vestur á Vatnsleysuströnd og reisti sér þar bæ við eyðivík nokkra.
Hefir víkin síðan verið við hana kennd og kölluð Flekkuvík og hlaut bærinn sama nafn. Þarna var þá afskekktur staður, víkin umgirt apalhrauni á þrjá vegu, en á hrauntöngum beggja vegna víkurinnar svarraði brimið og voru átök þess ekki mjúk. En í víkinni sjálfri var góð lending og mikill veiðiskapur var þar jafnan skammt undan landi. Þó var innsigling á víkina viðsjál og gat verið hættuleg, ef ekki var rétt farið. Þess vegna mælti Flekka svo fyrir, áður en hún andaðist, að sig skyldi heygja þar efst í túni, fyrir opinni innsiglingarleiðinni. Lét hún svo um mælt, að aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan nokkuð sæist af kumli sínu. Hafa menn haft trú á þessu síðan.

Annars úir og grúir af „Flekku“-nöfnum í Noregi. Þar er Flekkuvík, Flekkuós, Flekkuey, Flekkustaðir (og ýmis önnur, sem virðast dregin af karlkynsnafninu Flekkur: Flekkstveit, Flekshaug, Flekstad, Fleksvik). Ennfremur eru þar nöfn eins og Flikka, Flikke, Flikeid, Flikkerud, Flikkeshaug, FHkki, Flikkin, Flikkurud, Flikstade. Menn segja, að ekki megi blanda þessum nöfnum saman við Flekkunöfnin, en þó verði þau ekki skýrð. Samt dregur bærinn Flekkefjord á Ögðum nafn sitt af bóndabænum Flikke.
Hér skal ekkert fullyrt um, hvort hér sé um einn nafngiftaflokk að ræða, en þótt Flikk-nöfnin sé undanskilin, þá eru Flekkunöfnin svo mörg, að eitthvað sérstakt mun hafa ráðið þeim. Er þá nokkur goðgá að hugsa sér, að til hafi verið í forneskju einhver vættur, sem Flekka hét, og við hana sé þessi staðanöfn kennd? Jafnvel að hún hafi átt sér bónda, sem Flekkur hét (sbr. nafnið Álaflekkur). í Snorra-Eddu er jötunsnafnið Fleggur, en það gæti alveg eins verið Flekkur, því að greinarmunur var ekki gerður á g og k í rúnum.

Flekkuleiði ætti að varðveita

Þótt Flekkuleiði sé ekki kuml, er það skemmtilegt og mætti helst ekki glatast. Það segir sína sögu um það, hvernig þjóðtrú myndast. Flekka vakir yfir útræðinu í Flekkuvík, eins og Þuríður sundafyllir vakir yfir byggðinni og miðum þeirra í Bolungavík.
Það er eflaust alþýðuskýring, að Flekkuvík dragi nafn af konu, sem hét Flekka, alveg eins og menn sögðu að Krýsuvík drægi nafn af fjölkunnugri konu, er þar bjó og hét Krýs. Þó er ekki loku fyrir það skotið, að í Flekkuvík hafi einhvern tíma búið kvenskörungur, sem menn hafi kennt við bæ sinn og kallað Flekku. Menn hafa haft ýmsar sveiflur á því, allt fram á þessa öld, að kenna fólk þannig við bæi.

Flekkuleiði

Flekkuleiðið.

Við skulum ekki missa sjónar á þessum ímyndaða kvenskörung í Flekkuvík. Hún hefir búið þar rausnarbúi, haft margt fólk í heimili og rekið mikla útgerð. Flekkuvík hefir þá verið betri jörð og blómlegri en nú er. Þá hefir verið mikið og grösugt undirlendi fyrir botni víkurinnar og út með henni beggja vegna. Þetta land hefir sjórinn verið að brjóta um margar aldir, og í tíð þeirra manna, sem enn lifa, hefir sjórinn gert þarna mikil landspjöll. Þar sem háir heybólstrar stóðu á dögum Flekku húsfreyju, lemur nú brimið berar klappir. En útgerðin hefir þá, eins og síðar, verið helsti bjargræðisvegurinn.

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði – uppdráttur ÓSÁ.

Húsfreyjan í Flekkuvík hefir borið umhyggju fyrir starfsfólki sínu. Ef til vill hefir einhver bátur farist þar á víkinni, vegna þess að hann þræddi ekki rétta leið, og lenti upp á sker. Þá hefir húsfreyjan látið setja upp sundmerki, svo að slíkt slys henti þar ekki aftur. Sundmerkin hafa verið tvær vörður, önnur fram við sjó, en hin uppi í túni. Þá var rétt innsigling, ef þessar tvær vörður bar saman. Og þá hefir húsfreyjan látið svo um mælt, að aldrei mundi farast bátur á Flekkuvík, ef stýrt væri eftir sundmerkjunum.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Svo líða árin. Húsfreyjan í Flekkuvík hverfur til feðra sinna, en minning hennar lifir vegna ummæla hennar. Aldrei ferst bátur á réttri leið inn Flekkuvík. Menn skilja ekki, að það er sundmerkjunum að þakka, en halda að það sé að þakka ummælum húsfreyjunnar. Ákvæði hennar haldi hlífiskildi yfir bátunum, og þau verði alltaf í gildi. Þess vegna vanrækja þeir að halda sundmerkjunum við. Neðri vörðuna tekur brimið, en efri varðan, uppi í túninu, molnar niður, af því að hún var úr torfi. Þar verður eftir dálítill hóll. Við hann er tengd minningin um Flekku húsfreyju, og þá er þess skammt að bíða, að menn fari að trúa því, að þessi rúst sé haugur Flekku, þarna hafi hún varð sér hvílustað til þess að geta alltaf vakað yfir innsiglingunni á víkina.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Og þá hlýtur að draga að því, að menn fari að trúa, að ekki farist skip á víkinni meðan nokkur merki legstaðar Flekku sjást. Og svo kemur einhver framtakssamur maður, sem er Flekku hjartanlega þakklátur fyrir vernd hennar, höggvið rúnir á litla hraunhellu og leggur helluna á leiði Flekku, til þess að það gleymist aldrei.
Einhvern tíma löngu seinna eru hlaðnar nýjar sundvörður. Önnur er nú niðri á sjávarbakkanum, en hin hátt uppi í hrauni. En þegar sigld er rétt leið inn á víkina og vörðurnar ber saman, þá er Flekkuleiði í beinni línu á milli þeirra.“

Rannsókn Jónasar Hallgrímssonar

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

Jónas Hallgrímsson skrifaði um rannsókn sína á Flekkuleiðinu 1841 eins og fram kemur hér að framan:
„Flekku-leiði í Flekkuvík“
Í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan tún-garðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 álna langt og 2’/4 al. breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri, eins og kunnugt er:

Hæðin er nú öll grasi gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því, sem það væri hleðsla. Ég álít því nauðsynlegt, þar sem ágreiningur er um merkingu letursins, að rannsaka staðinn; því á einn bóginn er merkis-álit F. Magnussens, en hinu megin útlit hólsins, er ber öll merki þess að vera kuml, þótt lítið sje, og jafnframt nafnið sjálft, Flekku-leiði, og almenn sögusögn, og svo rík, að þar eru tengdar við bábiljur, svo sem til að mynda, að Flekka hefði sagt, þar myndi ekki farast skip á réttu sundi, meðan hún lægi fyrir opinni leiðinni. þessu trúa Strandarmenn svo ríkt, að þeim stóð hinn mesti stuggur af komu minni, og hét ég þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gjöra þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gjört við helga menn. –
FlekkuleiðiLeyfi til rannsóknarinnar hefi ég nú loksins fengið hjá landsdrottni séra Pétri á Kálfatjörn, og samþykki ábúanda Páls bónda, móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla, þar hóll þessi stendur í óslegnu túni.
Letursteinninn er nú upptekinn og mældur:
lengd hans er 15″ – 16 1/2″.
Breidd 12″.
Þykkt 4″ – 5″.

Flekkuvík

Flekkuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Hann er því, sem sjá má, lítill og heldur ólöguleg hraunhella. Nú er rannsókninni lokið! Af því hingað og þangað var að sjá steinnibbur út úr brúnum hæðarinnar, ótti líklegt, að vera myndi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur afskorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. – Þá kom það í ljós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið.
Það er því ljóst, að annaðhvort hefir F.M. rétt að mæla, eður þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hjer steininn til að blekkja menn trúgjarna.“
Í viðauka bætir Jónas við um Flekku-liðið: „“Flekku-leiði“; um það og skrif um það sjá Kr. Kå., Isl. Beskr., I., 31.-8. I., „hvorlades“ o.s.frv.; að sjálfsögðu hefir þessi skammstöfun átt að merkja „hér hvílir“. Áletrunin er sennilega frá 17.-18. öld, gerð vegna munnmælanna um að þarna væri „Flekka heygð. – „Flekka“ virðist vera ærnafn eða tíkur og ekki konu., „Dagbog“, vasahverið frá 1840; þar er frumrit af þessari skýrslu, ritað með blýanti á 3 bls. – Bls. 171, 14. l., „séra Pétri“, Jónssyni. – 15. l., „Páls bónda“ Vigfússonar. – 3. l.a.n.“

Um rúnasteininn í Flekkuvík – Þórgunnur Snædal

Flekkuleiði

Myndin af Flekkuleiðinu fylgir umfjöllun Þórgunnar.

Þórgunnur Snædal skrifaði um „Rúnaristur á Íslandi“ árið 2003, þ.á.m. rúnasteininn á Flekkuleiðinu:
„5. Flekkuvík, Gullbringusýslu. Hraunsteinn á grasgróinni hraunhæð, svonefndu Flekkuleiði, suðaustur frá bænum, um 90 metra vestan við (gamla) afleggjarann og um þrjá metra inna við túngarðinn. hraunhellan er um 42×33 cm. Steinninn er nokkuð sokkinn í jörð svo þykktin varð ekki mæld, rh. 7,5-9 cm:
hh flecka
H(ér) h(vílir) Flekka.
Rúnirnar eru djúpar og vel varðveittar. Ekki er auðvelt að tímasetja þessa ristu en hún er varla eldri en frá 17. öld. Flekkuleiðis og rúnasteinsins er fyrst getið 1817 í skýrslu séra Guðmundar Böðvarssonar um fornaldarleifar í Kálfatjarnarsókn.“

Gömul sögn – Helgi Þorláksson

Flekkuvík

Flekkusteinninn.

Helgi Þorláksson skrifaði um Flekku í Skírnir árið 1978:
„Frá um 1840 eru sagnir um hollvætti sjómanna, Flekku við Flekkuvík á Vatnsleysuströnd. Hafði hún átt að segja að ekkert skip missti lands svo lengi sem hún lægi óhreyfð í leiði sínu, Flekkuleiði. Íbúar á staðnum ömuðust við raski á leiðinu (Kál I, 13).“

Rúnaletur

Rúnaletur

Eldra rúnaletrið.

Rúnir eru elsta form skrifleturs meðal germanskra þjóða. Orðið rún getur merkt leyndarmál, einkamál eða vísdómur. Til eru tvær gerðir af rúnakerfum. Eldra kerfið hefur 24 rúnir og var notað frá 2. öld e. Kr. fram til þeirrar áttundu. Þá var tekið upp nýtt rúnakerfi með 16 rúnum. Yngri rúnirnar hafa aðeins fundist á Norðurlöndum og á Bretlandi.

Á Víkingaöld notuðu menn rúnaletur og var letrið rist á horn, tré og steina. Íslenskar rúnaristur hafa fundist á legsteinum frá 1300-1700. Textar í rúnaletri voru ekki mjög langir enda gat verið seinlegt að rista þá. Rúnaletrið var einfalt og sumir stafir gátu táknað meira en eitt hljóð. Rúnastafrófið er nefnt fúþark eftir fyrstu sex stöfunum.

Rúnaletur

Yngra rúnaletrið.

Rúnir hafa verið notaðar allt frá landnámi Íslands. Þegar fyrstu landnemarnir settust að hérna var nýlega búið að taka í notkun yngra rúnaletrið með 16 stöfum í staðinn fyrir 24 stafa rúnaletur.
Íslensku rúnirnar fylgdu þeim norsku fast eftir allt til loka þjóðveldisins með nokkrum undantekningum þó. Eftir lok þjóðveldisins verður munurinn þó smám saman meiri og séríslenskar rúnamyndir verða algengari.

Rúnaletur var notað á Íslandi eiginlega alveg fram á 20. öldina en við lok 19. aldar var farið að birta greinar um rúnir á íslensku, meðal annars skrifaði Björn M. Ólsen, prófessor í íslenskri tungu og menningarsögu, greinar í Árbók Fornleifafélagsins og Finnur Jónsson ritaði einnig um íslenskar rúnaristur og þá hvarf íslenska rúnahefðin og vitneskja um rúnir var sótt í þessi rit.

Heimild:
-Strönd og Vogar, Árni Óla, Rúnasteinn í Flekkuvík, bls. 206-215.
-Jónas Hallgrímsson, III. Dagbækur, Yfirlitsgreinar o.fl., Flekkuleiði í Flekkuvík, bls. 170-171.
-Þórgunnur Snædal. 2003. „Rúnaristur á Íslandi.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, bls. 5-68. Hið íslenzka fornleifafélag, Reykjavík.
-Skírnir, Helgi Þorláksson, 1. jan. 1978, bls. 137-138.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=70101
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3887

Flekkuvík

Flekkuvík.

Arnarseturshraun

Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson skrifuðu árið 1989 greinargerð um „Aldur Arnarseturshrauns“ á Reykjanesskaga. Útgefandi var Náttúrufræðistofnin Íslands.

Í greinargerðinni er lýst niðurstöðum rannsókna á Arnarseturshrauni á Reykjanesskaga. Hrauninu er lýst og mæld stærð þess og rúmmál. Aldur hraunsins var fundinn með könnum öskulaga undir og ofan á því.

INNGANGUR

Sigmundur Einarsson

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur.

Milli Vogastapa og Svartsengisfells liggur Grindavíkurvegur að mestu í unglegu hrauni. Jón Jónsson (1978) hefur lýst hrauninu og kallar það Arnarseturshraun en einn hólanna við stærstu gígana sem mynduðu hraunið heitir Árnarsetur. Jón telur að hraunið hafi runnið á sögulegum tíma. Einnig birtir hann meðaltal af þremur efnagreiningum. Sveinn P. Jakobsson o.fl. (1978) birta efnagreiningu af hrauninu sem reynist vera basalt af gerðinni þóleiít. Arnarseturshraun er að mestum hluta komið úr um 400 m langri gígaröð sem liggur um 500 m austan Grindavíkurvegar á móts við Stóra Skógfell. Í upphafi gossins hefur gígaröðin verið mun lengri eða a.m.k. um tveir km. Um einn km norðaustur af aðalgígunum sést hluti af gígaröðinni sem virk var í gosbyrjun. Hún er um 500 m löng en slitrótt. Gígarnir eru litlir, 4-6 m háir, Virknin þar hefur dvínað fljótlega og gosið dregist saman á um 400 m langa gossprungu. Frá henni er allt meginhraunið runnið en aðrir hlutar gígaraðarinnar hafa færst í kaf nema áðurnefndir gígkoppar. Ekkert er vitað um framhald gossprungunnar til suðurs en þar er hraunið mjög þykkt og gígar horfnir ef einhverjir hafa verið.

Haukur Jóhannesson

Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur.

Í lok gossins var gosvirkni einkum í þremur eða fjórum gígum. Nyrst og syðst var einkum hraunrennsli en á miðju gígaraðarínnar hlóðust upp gjallgígar. Nyrsti hluti gígaraðarinnar stefnir um N50A en aðalgígarnir stefna N40A. Upphaflega gossprungan hefur ekki verið á einni línu, heldur hefur hún verið skástíg og hliðrast til hægri, sem sést af því að nyrðri gígarnir eru ekki í beinu framhaldi af aðalgígunum.
Aðalgígarnir eru nálægt suðausturjaðri hraunsins. Þeir eru nú rústir einar eftir gjallnám en virðast hafa risið allt að 25 m yfir hraunið. Fyrst hefur hraunið frá gígunum einkum runnið til norðurs en síðar aðallega til vesturs og suðvesturs. Hraunið er að miklu leyti helluhraun en í því eru apalhraunsflákar og sumstaðar hefur helluhraunið brotnað upp og þar er hraunið mjög úfið. Eins og títt er um sprunguhraun á Reykjanesskaga er hraunið að jafnaði þeim mun úfnara og verra yfirferðar er fjær dregur gígunum, en nærri þeim er það afar blöðrótt og frauðkennt og brotnar undan fæti.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Arnarseturshraun er yngsta hraunið á þessu svæði og liggja jaðrar þess alls staðar út yfir aðliggjandi hraunfláka. Suður- og suðausturjaðrar þess liggja út yfir hraun sem að mestu eru runnin frá unglegri gígaröð skammt austan við Stóra Skógfell og hefur hún verið kennd við Sundhnúk (Jón Jónsson 1973). Norðan til hefur Arnarseturshraun runnið út yfir fornlegt og mikið sprungið dyngjuhraun ættað frá stórri dyngju norðan undir Fagradalsfjalli og hefur hún af jarðfræðingum verið kölluð Þráinsskjöldur. Norðvesturjaðarinn liggur út yfir annað dyngjuhraun, ámóta fornlegt og sprungið. Það er komið frá dyngju sem kölluð hefur verið Sandfellshæð eftir dyngjuhvirflinum sem er um tvo km vestur af jarðhitasvæðinu í Eldvörpum. Hraun sem komin eru úr Eldvörpum og stórum stökum gíg skammt suður af Þórðarfelli hverfa inn undir suðvesturjaðar Arnarseturshrauns, en suðurjaðarinn liggur eins og austurjaðarinn út á Sundhnúkshraun.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Ekki hafa neinar sprungur fundist í Arnarseturshrauni svo vitað sé en augljóst er að berggrunnurinn undir því er mjög sprunginn. Gliðnun eða umbrot virðast því ekki hafa átt sér stað á svæðinu eftir að hraunið rann. Illahraun, sem komið er úr gígum um fjóra km suðvestur af Arnarsetursgígunum, er einnig ósprungið (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a) og því hugsanlega frá svipuðum tíma, Rétt er að benda á að ekki er ljóst hvernig gosbeltið hegðar sér á svæðinu frá Reykjanesi að Fagradalsfjalli, þ.e. hvort líta beri á það sem eina sprungurein eða fleiri. Af þessum sökum er aðeins hægt að draga ályktanir af Arnarseturs- og Illahraunsgosum um næsta nágrenni en ekki sprungureinina í heild.
Arnarseturshraun er fínkornótt í brotsári og að mestu dílalaust en stundum með stökum, litlum plagíóklasdílum og ógreinanlegt frá Illahrauni í handsýni.

Arnarsetur

Arnarsetur og nágrenni – örnefni.

Jón Jónsson (1978, 1983) telur flatarmál Arnarseturhrauns vera um 21.84 km2. Jón gerði ráð fyrir að norðurhluti gígaraðarinnar og hraunið frá henni væri sérstök gosmyndun og er það því ekki meðtalið. Rúmmál hraunsins telur Jón vera 0.44 km3 en tekur fram að sennilega sé sú tala talsvert of lág. Flatarmál Arnarseturhrauns reiknast okkur vera 22.02 km2, Erfitt er að meta meðalþykkt hraunsins þar sem landslag fyrir gos er ekki þekkt en út frá mælingum á þykkt hraunjaðra var meðalþykkt áætluð um 15 m og er þá gert ráð fyrir að landið hafi verið tiltölulega flatt. Heildarrúmmál hraunsins er þá um 0.33 km3.

ALDUR ARNARSETURSHRAUNS

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – Jón Jónsson.

Aldur Arnarseturshrauns var ákvarðaður út frá afstöðu þess til þekktra öskulaga í jarðvegi, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson (1988a,b) hafa fjallað um öskulög frá sögulegum tíma á Reykjanesskaga og verður það ekki endurtekið hér. Grafin voru og mæld 5 jarðvegssnið (R-31, R-46, R-47, R-48 og R-52) sem náðu inn undir jaðra hraunsins og er staðsetning þeirra sýnd á 1. mynd. Sniðin eru sýnd á 2.-6. mynd.
Landnámslagið fannst með vissu í tveimur sniðum, R-31 og R-52 og ef til vill í sniði R-47. Það liggur skammt undir hrauninu. Miðaldalagið liggur beint undir hrauninu í öllum sniðunum og er 5-15 cm þykkt og hefur fallið skömmu áður en hraunið rann. Enginn jarðvegur er milli Miðaldalagsins og hraunsins nema í sniði R-47 þar sem mold hefur greinilega hripað niður í gegnum þunnan hraunjaðar og fyllt upp í glufur neðst í hrauninu.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Miðaldalagið hefur fokið upp að hraunjaðrinum svipað og lýst er í skýrslunni um Illahraun.
Snið R-47 var grafið við hraunjaðarinn vestan undir Litla Skógfelli og er einkar fróðlegt. Neðst í því er ljós leikenndur jarðvegur og í honum gráleit rönd sem gæti verið Landnámslagið. Þá tekur við um 40 cm þykkt lag, sem að mestu er svört, lagskipt basaltaska sem vafalaust er Miðaldalagið. Neðst er um 15 cm af hreinni, svartri ösku, en efri hlutinn er lagskiptur. Þar skiptast á lög af svartri eilítið moldarblandinni ösku og Ijósri, leirkenndri mold. Í þessum lagskipta hluta sniðsins er greinilega vatnsflutt efni. Þá tekur Arnarseturshraun við og neðst í því er leirkennd, ljós mold sem fyllir upp í allar glufur í neðraborði hraunsins. Utan við hraunjaðarinn er um 20-30 cm þykkt lag af dökkri fokmold ofan á Miðaldalaginu. Á þessum slóðum er ekkert yfirborðsvatn að sumrinu og því verður að ætla að lagskipti kaflinn hafi myndast að vetri eða vori til er frost var í jörðu. Því hefur liðið a.m.k. einn vetur frá því að Miðaldalagið féll uns Arnarseturshraun rann.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – snið.

Ljóst er að Arnarseturshraunið hefur runnið skömmu eftir að Miðaldalagið féll sem að líkindum var árið 1226 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988b). Þetta er raunar sama niðurstaða og fékkst fyrir Illahraun (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a). Ekki er hægt að segja til um aldursafstöðu þessara tveggja hrauna þar sem jaðrar þeirra liggja hvergi saman.
Áður hefur komið fram að engar sprungur hafa fundist í þessum hraunum og því sennilegt að þau hafi runnið í sömu goshrinu eða jafnvel samtímis. Ef Miðaldalagið hefur fallið árið 1226 þá hefur Arnarseturshraun runnið í fyrsta lagi árið 1227 því einn vetur a.m.k. hefur liðið frá því að öskulagið féll uns hraunið rann.
Jón Jónsson (1978) giskaði á að Arnarseturshraun hafi runnið 1661 en það ár getur Vallholtsannáll (Gunnlaugur Þorsteinsson 1922-27) um gos í Grindavíkurfjöllum, Jón hvarf síðar frá þessari hugmynd (Jón Jónsson 1983) og taldi það runnið um 1300 og byggði þá skoðun sína á því að hann fann

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Landnámslagið undir hrauninu en ofan á því öskulag sem hann taldi frá Kötlugosinu 1485. Þetta snið Jóns Jónssonar er tekið á sömu slóðum og snið R-46 en þar fannst Kötlulagið frá 1485 ekki þrátt fyrir nokkra leit. Aftur á móti virðist Jóni hafa sést yfir Miðaldalagið.
Sem fyrr segir taldi Jón Jónsson (1978) að nyrsti hluti gígaraðarinnar í Arnarseturshrauni væri sérstök gosmyndun og auðkennir hann hana með H-37, Ekki fjallar Jón um aldur hraunsins, en samkvæmt jarðfræðikorti hans telur hann hraunið eldra en Sundhnúkshraun. Jarðlagasnið R-52 sýnir hinsvegar ótvírætt að þessu er öfugt farið. Austurjaðar H-37 liggur að mestu út á fremur unglegt hraun sem Jón auðkennir H-38 (Sundhnúkshraun) og liggur jarðlagasniðið með Miðaldalaginu og Landnámslaginu á milli hraunanna. Með hliðsjón af þessu og legu gígaraðarinnar er eðlilegast að álykta að H-37 sé hluti Arnarseturshrauns.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Afar ólíklegt verður að teljast að gosið hafi í Grindavíkurfjöllum 1661 eins og segir í Vallholtsannál því ekki er getið um það gos í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1923-24). Þeir söfnuðu upplýsingum í Jarðabókina árið 1703 og þá hefði átt að vera fjöldi manna á Suðurnesjum sem mundu gosið og tíundað hefðu skaða þann er það hefði valdið. Líklegast er að annálshöfundurinn hafi í raun verið að lýsa Kötlugosinu er varð 1660 enda á lýsingin að mörgu leyti vel við það.

Heimildir:
-Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-24. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. bindi. Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn. 468 bls.
-Gunnlaugur Þorsteinsson 1922-27. Vallholtsannáll. Í Annálar 1400-1800, 1. bindi, bls. 317-367. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7. 11 bls.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988b. Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38: 71-87.
-Jón Jónsson 1973. Sundhnúkahraun við Grindavík, Náttúrufræðingurinn 43: 145-153.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, Orkustofnun OS JHD7831. 303 bls. og kortamappa.
-Jón Jónsson 1983. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn 52: 127-139.
-Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson og F. Shido 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journ. Petrol. 19: 669-705.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – hrauntjörn.

Álfsnes

Bærinn Víðines er á Kjalarnesi, á sunnanverðu Álfsnesi. Vestan hans er Gunnunes, vestast á Álfsnesi. Fátt er um örnefnalýsingar fyrir jörðina Víðines, en þó er ein þeirra ítarlegust. Þar segir:

Álfsnes

Álfsnes – herforingjaráðskort 1903.

„Jörð í Kjalarneshreppi næst vestan við Fitjakot. Upplýsingar um örnefni gaf Þorlákur Kristjánsson frá Álfsnesi.
Móti Fitjakoti er lækur sá, sem Selalækur heitir. Hann rennur í Leiruvog. Norðan bæjar er holt það, sem heitir Glóruholt. Austast á því er Markaþúfa, en úr henni austur er línan í Markastein. Uppi á há-Glóruholti einnig á merkjum er Fálkavarða. Merki móti Sundakoti eru úr Klofasteini, sem er utanhallt við sker.

Álfsnes

Álfsnes – örnefnakort.

Selalækur er í jarðfalli í mýrinni. Þar utar eru holt,sem nefnd eru Stóru-Smáholt. Þau eru þar utar fyrir ofan Voga, en Vogar er býli, sem Gísli Pálsson reisti niður við Leiruvoginn aðeins vestar Selalækjar, Litlu-Smáholt eru þar utar og ofar. Þetta er stórt samfellt mýrlendi og fátt um nafntilefni. Þar er næst Svartibakki, sem er bakki alveg niður við Leiruvog, mitt á milli holtanna, sem fyrr var getið.

Álfsnes

Vogar.

Vestur af Svartabakka er svæði, holt, sem nefnt er Svörður. Ekki mun það vera gamalt nafn, heldur síðan hlutafélag var stofnað í Reykjavík til mótekju. Þar utar er eyri fram við sjó, sem heitir Slétteyri, og er þá komið rétt heim undir bæ. Bærinn stendur rétt upp frá vognum sunnan í Glóruholtinu.
Vestan við bæ er vík, sem heitir Nesvík. Þar utar tekur við nes, sem heitir Gunnunes, bungumyndað, gróðurlítið og afmarkast af Nesvík. Norðan þess er lægð þvert yfir. Í henni eru rústir eftir Sundakot, öðru nafni Niðurkot; þar var býli fram undir aldamót.

Álfsnes

Álfsnes – stekkur.

Rétt vestur af oddanum á Gunnunesi og norðan í nesinu er Stekkur. Hann er hlaðinn, og túnblettur er þar í kring. Merkin móti Álfsnesi eru að vestan í svonefndar Fornugrafir. Milli Gunnuness og Þerneyjar er Þerneyjarsund.“

Þórður Kristjánsson, Drápuhlíð 15, kom í Örnefnastofnun 3. júní 1980, las örnefnalýsingu Víðiness og gerði við hana athugasemdir. Þórður er fæddur í Álfsnesi 1. nóv. 1917 og ólst þar upp til 1925, en þá fluttist faðir hans að Víðinesi og bjó þar til 1932.

Fitjakot

Fitjakot – túnakort 1916.

„Leiruvogur var nefndur svo í máli gamals fólks, en sjálfur kallar Þórður hann Leirvog. Klofastein hafði Þórður aldrei heyrt nefndan, ekki heldur Stóru- og Litlu-Smáholt. En Þorlákur bróðir Þórðar var miklu eldri en hann og hefur því vel getað þekkt þessi nöfn.
Nafnið Svörður er frá stríðsárunum fyrri. Þá var þurrkaður þarna mór og síðan fluttur á bátum til Reykjavíkur. Nesvík heyrði Þórður aldrei nefnda.
Sundakot eða Niðurkot er nú friðlýst.

Víðines

Víðines – túnakort 1916.

Stekkur var notaður til innrekstrar, þegar Þórður var barn. Upp af Svartabakka mun áður hafa heitið Lágamýri. Nafnið hefur Þórður eftir Vigfúsi Kristjánssyni (úr bókinni Í lífsins ólgusjó), en Vigfús hafði eftir foreldrum sínum, sem bjuggu í Víðinesi um 1870.
Rétt fyrir sunnan Nesvíkina er Selvík. Þar sátu selir oft uppi á klettunum, þegar gott var veður.“

Hið merkilega er að hér er nefndur bærinn Vogar undir Stóru-Smáholtum. Tóftir bæjarins (kotsins) sjást enn sem og hringlaga mannvirki ofan við vörina. Auk þess ákveður skrásetjari að kynna Víðines sem „jörð í Kjalarneshreppi næstan vestan Fitjakots“. Fitjakot var hins vegar austast við norðanverðan Leiruvog. Engin örnefnalýsing er hins vegar til um kotið þrátt fyrir að túnakort hafi verið gert þar 1912.

Heimild:
-Önefnalýsing fyrir Víðines. Ókunn. skrán.
-Örnefnastofnun. Athugas. Þórðar Kristjánssonar um Víðines.

Víðines

Víðines – túnakort 1916 sett inn á loftmynd.