Krýsuvík

“Hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og bókum.

Húshólmi

Húshólmi og Gamla-Krýsuvík.

Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512).

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans í Kerlingadal.

Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og í víkina. Næsta vík austan við er nefnd Hælsvík en ekki er vitað hversu gamalt það nafn er eða hvort hún var hluti Krýsuvíkur.

Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna. Þjóðsöguna má lesa með því að smella HÉR.”
Við þetta má bæta að danska orðið “krys” merkir vík eða skora, sbr. skora í ask.

Heimildir:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6532
-Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

/https://ferlir.is/landid-og-framtidin-krysuvik/

Minna-Mosfell

Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.

Mosfell

Mosfellskirkja.

Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru “laugar” og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur.

Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; “Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar”, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að “jarðholnum” við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist; þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.

Sjá meira HÉR.

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason.

Vefsíðuritari FERLIRs sendi Bjarka Bjarnasyni, hinum mætasta vísi Mosfellinga, eftirfarandi fyrirspurn:

“Sæll Bjarki;
Getur þú bent mér á hvar örnefnið „Þrælapyttur“ er í landi Minna-Mosfells?”

Bjarki svaraði:
“Sæll og blessaður.
Já, ég kannast vel við örnefnið en heyrði það þó ekki í mínum uppvexti á Mosfelli. Kynntist því ekki fyrr en ég las það í heimildum eftir að ég komst til vits og ára.
Séra Magnús Grímsson, sem var prestur á Mosfelli 1855-1860 skrifaði: “Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „… býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna
fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eðr bein þeirra.”

Staðsetning Þrælapytts virðist hafa verið ljós á tímum séra Magnúsar en síðan virðist fjara undan því og það einfaldlega týnst. Ég hafði samband við Sigurð Skarphéðinsson (f. 1939) sem er alinn upp á Minna-Mosfelli. Hann kannaðist ekki við örnefnið þannig að það virðist ekki hafa verið lifandi í munni manna, amk. eftir miðja síðustu öld.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Tjörnin fyrrum, áður en hún var framræst.

Hinsvegar sagði Sigurður mér þá sögu að fyrir neðan bæinn á Minna-Mosfelli hafi verið hringlaga og nafnlaus tjörn, 5-8 metrar í þvermál. Var haft á orði að silfur Egils væri fólgið þar.
Þegar tjörnin var ræst fram var fylgst vel með því hvort einhver ummerki um silfrið kæmu í ljós.”

Vefsíðuritari fór í framhaldinu á vettvang og knúði dyra hjá Bjarka og þakkaði honum svarið. Hann hafði greinilega haft fyrir því að grúska bæði í minni og gömlum heimildum, auk þess sem hann hafi leitað til annarra er gerst þekkja til staðhátta. Í samræðum kom fram að landshagir væru verulega breyttir frá því sem áður var. Í stað mýra neðan bæjanna á Mosfelli væru nú gróin tún. Engin þekkt vilpa, sem ætti við lýsingu Magnúsar, sem var prestur á Mosfelli í fimm ár, væri nú á bökkum Kýrgils, enda væru þar nú engin mýrardrög. Benti Bjarki á fyrrnefndan Sigurð, sem væri einstök sagnarkista og byggi nú þar skammt austar við Minna-Mosfell, á bæ nefndum Sigtún.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Fyrrum tjarnarstæði “Þrælapytts”,

Ritari heimsótti Sigurð, vingjarnlegan eldri mann. Hann sagðist vel muna eftir pyttinum djúpa beint niður af Minna-Mosfelli þar sem hann var uppalinn. Líkt og Bjarki sagði hann umhverfið neðan Mosfells, sem börnin frá Hrísbrú vildu nefna Hrísbrúarfjall, væri mikið breytt frá því sem áður var. Í stað mýranna væru nú komin framræst tún. Einhvern tíma hafi hann minnst jarðfræðing segja frá því að neðanjarðará, aðra en Kaldá, rynni um dalinn. A.m.k. hafi hann fyrrum jafnan sótt rennandi vatn í vilpu neðst í honum. Vilpuna þá lagði aldrei, jafnvel í miklum frostum. Þegar miklir þurrkar urðu á níunda áratug síðustu aldar og flestir lækir þornuðu upp, var alltaf hægt að sækja vatn í vilpuna. En þetta er nú útúrdúr.
Sigurður sagði að beint niður af bænum Minna-Mosfelli hafi verið fyrrnefnd tjörn í mýrinni. Orð hafi verið haft á að þar hafi þrælarnir, er getið er um í Egils-sögu, fundist. Tjörnin hafi verið ræst fram fyrir mörgum árum og sést frárennslisskurðurinn vel. Nú hafi verið grafin rotþró frá bænum skammt austan við tjarnarstæðið. Í hans minni hafi þetta verið eina vilpan á þessu svæði, í hvarfi frá Hrísbrú, þar sem hóllinn, sem Mosfellskirkja stendur nú á – er getið um í Egils-sögu.
Sigurður vildi þó ekki bera ábyrgð á að um sömu vilpu væri að ræða og séra Magnús skrifaði um á sínum tíma.
Frábært veður.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

Hvaleyrartjörn

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er ætlaður sem hvatning til útiveru í og við byggðina í Hafnarfirði.
Litli Ratleikur 2021 hefur 15 nýja áhugaverða staði sem m.a. vekja athygli á sögunni. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn. Hann er á vefsíðu Fjarðarfrétta og er aðgengilegur hvenær sem er.
Þú ræður hvernig þú nýtir þér leikinn, textinn og myndirnar eiga að hjálpa þér að finna staðina og finna má fróðleikstexta um staðinn og jafnvel umhverfi hans.

1 – Hellisgerði, Bjarni riddari

hellisgerði

Hellisgerði.

Skrúðgarðurinn Hellisgerði var vígður á Jónsmessu 1923. Málfundafélagið Magni, sem stofnað hafði verið þremur árum áður, hafði frumkvæði að gerð hann og annaðist hann rekstur hans um langt skeið. Hafði einn félaganna, Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri í Dverg, hvatt til þess að sérkenni Hafnarfjarðarhrauns yrðu varðveitt og þótti Hellisgerði ákjósanlegur staður til að koma upp blóma- og skemmtigarði. Í skipulagsskrá segir að tilgangurinn væri þríþættur: 1. Að vera skemmtistaður, þar sem bæjarbúar eiga kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum. 2. að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt. 3. að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar, þegar mannvirki framtíðarinnar hafa máð þær út annars staðar í bænum.

Var skipað fimm manna garðráð sem stjórnaði starfseminni til 1977 er starfsemi Magna lagðist niður og hefur Hellisgerði síðan verið á ábyrgð garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.

Bjarni riddar.

Bjarni riddari í Hellisgerði.

Árið 1950 var afhjúpuð stytta af Bjarna riddara Sivertsen sem gerð var af hinum merka listamanni Ríkharði Jónssyni. Það voru útgerðarfélögin Hrafna-Flóki og Vífill sem gáfu 25 þúsund kr. í tilefni af 25 ára afmælis Magna. Stendur styttan vestarlega í garðinum, á stalli úr hraungrýti sem sótt í Selvog þar sem Bjarni hóf verslunarstörf sín.

Bjarni Sívertsen er talinn vera frumkvöðull í Hafnarfirði. Árið 1813 flutti hann um 500 plöntur frá Skotlandi og gróðursetti víðsvegar í Hafnarfirði.

Hellisgerði er um 1,4 ha af stærð og liggur milli Reykjavíkurvegar, Hellisgötu og Skúlaskeiðs.

Skammt frá styttunni eru tóftir lítils húss sem talið hafa upphaflega verið kamar en seinna notað sem verkfærageymsla Magna-manna.

Vert er að skoða tré ársins 2017 sem Skógræktarfélag Íslands útnefndi. Það er beyki, Fagus sylvatica.

2 – Einarsreitur

Einarsreitur

Einarsreitur,

Framan af í Hafnarfirði var saltfiskur einkum þurrkaður á mölunum við sjávarsíðuna eins og á Hamarskotsmöl og Langeyrarmölum en þegar útgerðin jókst og bærinn stækkaði þurfti að finna stærri og betri svæði fyrir fiskreitina.

Frá Einarsreit. Ljósm.: Óþekktur

Framan af 20. öldinni voru margir fiskreitir útbúnir í Hafnarfirði og þá einkum í hrauninu í útjaðri hans og urðu þeim hin mestu mannvirki. Það verk að brjóta Hafnarfjarðarhraunið undir fiskreiti var mikið og erfitt starf sem oftast var unnið í akkorðsvinnu. verkfærin voru járnkarl, haki, sleggja og fleygar auk hins svokallaða Hafnarfjarðarþrífótar sem var eins konar krani, píramídalagaður gálgi með blökk og handvindu sem fjórir menn gátu komist að samtímis og lyft þannig allþungu grjóti eða dregið á milli staða. Eins og sjá má á hleðslunum hér var grjótinu ekki hrúgað upp heldur lögðu menn metnað í hleðslurnar, jafnvel þótt um ákvæðisvinnu væri að ræða.

Einarsreitur

Einarsreitur – skilti…

Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét úbúa saltfiskreiti þennan árið 1913 og var hann stækkaður nokkuð árið 1929 en þá lét Einar jafnframt reisa hér þurrkhús sem var þá eitt það fullkomnasta hér á landi.

Nú hefur mikil íbúðabyggð risið á svæðinu en fiskreitirmir eru friðaðir og þar má finna upplýsingaskilti. Aðrar minjar um starfsemi á svæðinu eru horfnar, m.a. braggar og stríðsminjar frá síðari heimsstyrjöldinni en braggarnir voru síðar notaðir undir fjölbreytta starfsemi.

3 – Mánastígur
Fjölmörg opin svæði eru í Hafnarfirði sem eru ómerkt og gönguleiðir að þeim alveg ómerktar. Þar leynast margar náttúruperlur, ekki síst í hraununum við Álfaskeið og Arnarhraun. Aðgengi að þeim er í raun ágætt og stígar í gegnum þau, en þessir stígar eru heldur hvergi merktir.

Stígur gengur í gegnum hraunið á milli Mánastígs og Klettahrauns.

Eitt þessara svæða liggur á milli Arnarhrauns, Álfaskeiðs og Klettahrauns og er ágætt aðgengi að hrauninu um stíg sem liggur í beinu framhaldi af Mánastíg, en við hann eru aðeins þrjú hús. Hann liggur í gegnum svæðið og inn á Klettahraun.

Þaðan er tilvalið að ganga yfir Smyrlahraunið yfir á Einarsreitinn þar sem finna má minjar um fiskþurrkun.

Hraunið sem er um 1,5 ha að stærð, er að mestu ósnortið og til almenningsafnota þó einhverjir lóðarhafar hafi fikrað sig inn á bæjarlandið með sínar lóðir. Þarna má njóta fjölbreytileika hraunsins og gaman að sjá hvernig trjáplöntur ná að nýta sér sprungur í hrauninu til að dafna. Ef vel er gáð má finna þar hleðslur.

4 – Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvikjunin

Reykdalsvirkjunin.

Árið 2001 var stofnaður vinnuhópur til að undirbúa hvernig minnast mætti á eftirminnilegan hátt brautryðjandastarfs Jóhannesar J. Reykdals og 100 ára afmælis rafvæðingar í Hafnarfirði og á Íslandi.

Hópurinn tók sér vinnuheitið Reykdalsfélagið og að frumkvæði þess var ráðist í endurbyggingu Reykdalsvirkjunar, sem upphaflega var gangsett haustið 1906.

Endurbyggingin náði til endurgerðar miðlunarlóns, stíflu og aðveitustokks, auk þess sem byggt var nýtt glerhús sem hýsir hverfil og rafal undir brúnni á Lækjargötu.

Framkvæmdum við endurbygginguna lauk seint árið 2007 og var Reykdalsvirkjun formlega endurræst þann 18. janúar 2008.

Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi tók til starfa í Hafnarfirði árið 1904. Rafstöðin var við Austurgötu og í eigu Jóhannesar Reykdal. Vegna mikillar eftirspurnar eftir raforku í bænum árið eftir, var ákveðið að reisa nýja og mun stærri rafstöð við Hörðuvelli. Jóhannes leigði landið af staðarhaldaranum á Görðum en auk stíflunnar lét hann reisa langan vatnsstokk og stöðvarhús með íbúð fyrir stöðvarstjórann og fjölskyldu hans. Hörðuvallahúsið er fyrsta rafstöðvarhús sem reist var á Íslandi.

Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvirknunin.

Þessi nýja virkjun var tekin í notkun haustið 1906 og var gerð fyrir 37 kw en vegna vatnsleysis gat hún aldrei framleitt meira en 22 kw. Árið 1909 keypti Hafnarfjarðarbær báðar rafstöðvarnar af Jóhannesi og í kjölfarið var stofnuð Rafljósanefnd. Rafmagnssölunni var þannig háttað á þessum árum að einungis var hægt að fá rafmagn á svokölluðum ljósatíma en hann var frá því er skyggja tók og fram til miðnættis á tímabilinu 15. ágúst til 15. maí. Á öðrum tímum var ekkert rafmagn að fá.

Árið 1914 var vatnsstokkurinn frá stíflunni og niður að stöðvarhúsi orðinn svo lélegur að ákveðið var að stytta hann og rafljósastöðin færð úr íbúðarhúsinu í nýtt hús er stóð mun nær stíflunni.

Fljótlega var ljóst að þessar tvær rafstöðvar nægðu ekki til að veita þá raforku sem Hafnarfjarðarbær þurfti á að halda. Margar leiðir voru skoðaðar en að lokum var brugðið á það ráð að reisa dísilrafstöð við Strandgötu og var það fyrirtækið Nathan & Olsen sem átti og starfrækti þá stöð. Það var árið 1922 sem sú stöð tók til starfa og sá hún bænum vestan lækjar fyrir rafmagni en eldri stöðvarnar sáu um þann hluta bæjarsins sem var sunnan lækjar. Þetta fyrirkomulag stóð stutt því að árið 1923 var neðri rafstöðin lögð niður og þremur árum síðar var svo komið að Hörðuvallastöðin gat ekki lengur séð íbúum sunnan lækjar fyrir nægilegu rafmagni. Var hún þá einnig lögð niður og eftir það sá stöð Nathan Olsen öllum bænum fyrir raforku.

Stöðvarstjórar við Hörðuvallastöðina voru Jón Þórðarson (1906-1908), Þórður Einarsson (1908-1914) og Árni Sigurðsson (1914-1926).

Reykdalsstíflan

Afrakstur Reykdalsstíflunnar fyrrum.

Árið 1901 flutti ungur trésmiður til Hafnarfjarðar, Jóhannes J. Reykdal, en hann hafði þá nýlokið námi í iðn sinni í Danmörku. Til Hafnarfjarðar kom hann í þeim erindagjörðum að stofna hér trésmíðaverksmiðju en hann taldi að Hamarskotslækurinn væri ákjósanlegur aflgjafi fyrir vélar verksmiðjunnar. Í verksmiðju þessari, sem tók til starfa árið 1903, voru átta trésmíðavélar sem allar voru knúnar áfram af fallorku lækjarins. Það var þannig gert að 94 metra langur tréstokkur var reistur og í honum var vatninu veitt í vatnskassa sem áfastur var við húsið. Fallhæð vatnsins í kassanum var tæpir fjórir metrar og í honum var 11 kílóvatta hverfill. Frá hverflinum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu og þaðan lágu svo reimar upp í gegnum gólfið í tvær hreyfivélar sem aftur knúðu trésmíðavélaranar.

Reykdalsvirkjun

Reykdalsvirkjun endurgerð.

Í frétt Heimskringlu af stofnun verksmiðjunnar sagði meðal annars: „Lækurinn í Hafnarfirði er um aldir og áratugi búinn að renna út í fjarðarbotninn án þess að miðla nokkru af afli sínu mönnum til nytsemdar. Nú er mannshöfnin búin að beizla hann, og er það allrar virðingarvert. Vonandi, að ekki líði langar stundir þangað til hann vinnur fleiri þarfaverkin Hafnfirðingum til þarfa og sóma t.d. að lýsa upp hús og götur þar í bænum.“ Það var einmitt raunin, því árið 1904 keypti Jóhannes níu kílóvatta rafal frá Noregi og tengdi hann við ás nýs hverfils.
Í kjölfarið réð hann Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðing, sem þá var nýkominn heim úr námi í Þýzkalandi, til að annast lagningu raflagnanna til húsa í nágrenninu og Árna Sigurðsson, sem síðar varð fyrsti rafvirki landsins, til að sjá um tengingu raflagnanna innanhúss. Í desember 1904 voru svo fyrstu rafljósin kveikt en þá var búið að leggja rafmagn í 16 hús auk fjögurra ljóskera í bænum. Á þess­um tíma bjuggu 1.079 manns í Hafnar­f­irði.

Meðal húsanna sem tengd voru má nefna Góðtemplarahúsið, barnaskólann, trésmíðaverkstæðið og íbúðarhús Jóhannesar Reykdals við Brekkugöötu.

Fljótlega kom upp sú staða að rafstöð þessi náði ekki að sinna þeirri eftirspurn sem myndaðist og var ráðist í að reisa aðra, mun stærri, rafstöð við Hörðuvelli sem tekin var í notkun árið 1906. Trésmíðaverkstæðið seldi Jóhannes tólf Hafnfirðingum árið 19111 en þeir mynduðu sameignarfélag um reksturinn undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverzlun Hafnarfjarðar, Flygenring & Co. og starfaði hún um áratugaskeið í bænum.

5 – Reykdalsstíflan

Reykdal

Reykdal – minnisvarði.

Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi var reist í Hafnarfirði árið 1904. Var það athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal sem reisti hana og átti og stóð rafstöðin við Austurgötu.

Fljótlega dugði hún ekki til og reisti Jóhannes þá nýtt stöðvarhús á Hörðuvöllum og stíflu í Hamarskostslæk um 100 m ofar.

Stíflan hefur verið endurgerð á upprunalegum stað og stokkur byggður í stíl við upphaflega stokkinn.

Rafstöð til að minnst frumkvöðulsins var svo byggð undir Lækjargötubrúnni. Sú virkjun er í raun endurgerð Hörðuvalavirkjunar sem tekin var í notkun 1906.

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.

6 – Setbergsbærinn gamli
Um aldir hefur verið búið á jörðinni Setbergi við Hafnarfjörð en elstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1505. Bærinn stóð ofarlega í Setbergstúninu en túnið lá á móti suðvestri. Upp úr 1770 var bærinn teiknaður upp og var þá hinn reisulegasti enda sýslumannssetur. Minjar Setbergsbæjarins hafa verið friðlýstar.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er „Galdraprestaþúfa“ skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson (d. 1675) en eftir hann liggur kvæðasafnið „Noctes Setbergenes“ eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að „stytta sér hið leiða líf“ eins og hann orðaði það sjálfur. Þorsteinn þessi var, að talið er, rammgöldróttur og lagði hann svo á að ekki mætti hrófla við þessari þúfu án þess að illa færi.

Upplýsingaskilti hefur verið komið upp við rústina.

7 – Stekkjarhraun

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun – stekkur.

Stekkjahraun var friðlýst árið 2009 en það liggur á milli Setbergshverfisins og Mosahlíðarinnar. Hraunið þar kom úr Búrfelli fyrir um 8.000 árum eins og stór hluti hraunsins í Hafnarfirði og í Garðabæ sem þekur um 18 km² svæði. Meðfram því liggur Lækjarbotnalækur.

Stekkjarhraun dregur nafn sitt af stekk eða stekkjum frá Hamarskoti og Görðum og má enn sjá leifar þeirra. Í bréfi frá 1670-80 segir, að Hamarskot og Garðar hafi haft þarna stekk.

Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli.

Rétt hjá er vatnsból, nefnist Lambadrykkur. Vestan undir hrauninu eru hvammar tveir. Nefnast þeir Atkeldan nyrðri og Atkeldan syðri, en frá þeim rennur Atkeldnalækur. At til litunar var tekið á þessum stöðum.

8 – Skotbyrgi á Mógrafarhæð

Mógrafarhæð

Mógrafarhæð – skotbyrgi.

Mógrafarhæð nefnist öxlin sem gengur suðaustur frá hábungu Ásfjalls innan við byggðina í Áslandi 3, í áttina að Bláberjahrygg. Ekki er þó talið að mótekja hafi verið á þessu svæði.

Austarlega í hæðinni er skotbyrgi sem breskir hermenn hlóðu sumarið 1940. Þeir stóðu vaktina með riffla en þar var einnig gervifallbyssu úr gildum trjálurk sem leit út eins fallstykki úr lofti.

Einnig eru skotbyrgi undir Dagmálavörðunni. Þá eru leifar fimm annarra byrgja suðaustar í fjallinu.

Ógreinilegur troðningur er í gegnum lúpínuna frá Skógarási að skotbyrginu og frá skotbyrginu að vörðunni á Ásfjalli.

9 – Varðan á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – varðan og hleðslur umhverfis.

Ástjörn og Ásfjall var friðlýst sem fólkvangur árið 1996. Fólkvangurinn umlykur friðland Ástjarnar en Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978.

Ásfjallið var lengi sagt lægsta fjall á Íslandi. Það mun þó ekki vera alls kostar rétt því á Austurlandi mun þó finnast fjall sem mælist lægra.

Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins.

Á Ásfjalli eru minjar um hersetu fyrr á öldinni, m.a. eru minjar frá hersetu Breta neðan við vörðuna.

Ásfjall er hæst 127 m.y.s. Það er í raun grágrýtishæð. Ásfjall og Ástjörn bera nafn af bænum Ási, sem stóð undir fjallinu. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum, en allvel gróið mosa og lyngi. Efst á því er Dagmálavarðan, sem nú hefur verið endurhlaðin.

Dagmálavarðan var fyrst og fremst leiðarmerki á fiskimið, sbr.: „Með hvarfi vörðunnar á Ásfjalli hefði líka horfið eitt ágætt fiskimið. Í endurminningum Erlends Björnssonar á Breiðabólsstöðum kemur fram að Ásvörðuslóð er eitt að þeim miðum sem mest voru sótt fram á Sviði. Önnur mið á Sviðinu heita Sandhali, Marfló, Klettslóð, Bollaslóð og Riddararnir saman. Reyndar talar Erlendur um vörður í Ásfjalli og því virðast þær hafa verið fleiri um aldamótin 1900. En miðið Ásvörðuslóð er þegar Valahnjúkarnir eru um vörður á Ásfjalli.“ Til fróðleiks má nefna að nú er aðeins annar Riddarinn eftir og er hann á Helgafelli.

Ásfjall

Svona leit varðan út árið 2007 eftir að hún hafði verið skemmd.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð 2006 eða 2007 en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

10 – Bleikisteinn

Bleiksteinn

Bleiksteinn.

Á Bleikisteinshálsi, efst á Hamranesi, er Bleikisteinn sem var markavarða jarðanna Hvaleyrar og Áss. Á honum er gróin fuglaþúfa, sem einhverju sinni hefur verið lítil varða á jarðfastri klöppinni.

Hamranesið er í dag að mestu útgrafið en þar var sprengt grjót til að nota við nýjustu hafnargarðana í Hafnarfjarðarhöfn. Útjaðrarnir eru þó eftir sem mynda nesið, og sjá má mikil björg, fagurlega skreytt skófum norðan vert í hálsinum.

Landmælingastólpi er við Bleikstein.

Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: „Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.“

Ofar, á Bleikisteinshálsi, er markavarða í línu að Þormóðshöfða. Þessi varða er nokkrum metrum ofan við endimörk mikils jarðrasks utan í hálsinum.

12 – Krýsuvíkurvegurinn gamli

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

„Hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.“ Þetta mátti lesa í ítarlegri grein Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins 21. júlí 1940.

Finna má ummerki gamla Krýsuvíkurvegarinn vestan við göngustíginn að undirgöngunum undir Reykjanesbraut á móts við Bónus. Þar má sjá upphlaðinn veginn með vönduðum hleðslum.

Krýsuvíkurvegur

Hér má sjá hvar vegurinn tengdist yfir á Hvaleyrarholtið. Nútímalegri vegamannvirki á Reykjanesbraut fjær.

Það skal getið að Reykjanesbrautin kom langt á eftir Krýsuvíkurveginum og leiðin út úr Hafnarfirði var um Suðurgötu og það sem nú heitir Suðurbraut.

Fjölmargir ganga fram hjá gamla Krýsuvíkurveginum sem enn hefur ekki verið merktur.

13 – Ljónagryfjan

Ljónagryfjan

Ljónagryfjan.

„Ljónagryfjan” svonefnda myndaðist þegar tekið var stórgrýti vegna hafnarframkvæmda við Suðurgarðinn i Hafnarfirði um 1950.

Fyllt hefur verið upp í gryfjuna og skemmtilegum leikvelli komið fyrir. Aðkoman að gryfjunni var fremst á myndinni.

Á áttunda áratugnum notaði Fiskimjölsverksmiðjan Lýsi & mjöl gryfjuna fyrir loðnuþró, en undir lok áratugsins notaði Hafnarfjarðarbær hana sem geymslu fyrir bílhræ í nokkurn tíma.

Töluvert var um að fólk næði sér í varahluti úr bílhræjunum um leið og það losaði sig við rusl að heiman í gryfjuna. Fyrir rest var gryfjan hreinsuð og síðar fylltu upp að hluta en í dag er þarna leikvöllur og fallegt umhverfi.

14 – Verslunarstaðurinn Fornubúðir

Fornubúðir

Fornubúðir og Slippurinn.

Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá sextándu.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju.

Fornubúðir voru á tanga sem náði all frá Hvaleyrarlóni og að þar sem nú er smábátabryggja.

Gísli Sigurðsson skrifaði um Fornubúðir og Hvaleyrartjörn í tímaritið Sögu árið 1963: hann, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð á miðöldum. Hann er talinn hafa staðið á Hvaleyrargranda, sem líka er nefndur Hafnarfjarðargrandi eða Grandinn við Hafnarfjörð. Þarna er hann talinn hafa staðið, frá því sögur hófust um verzlun og siglingar til Hafnarfjarðar fram til ársins 1677, að verzlunarstaðurinn var fluttur norður yfir fjörðinn, í land Akurgerðis, hjáleigunnar hjá Görðum. Talið er, að færsla þessi hafi átt sér stað sérstaklega vegna þess, að þrengdist um hann af landbroti og sjávargangi.“

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum.

Þá segir hann einnig: „.. en það, sem tekur af öll tvímæli um legu verzlunarstaðarins, eru þó ummæli Skarðsár- og Setbergsannála um drukknun þeirra Bjarnastaðafeðga, Ásbjörns Jörinssonar og sona hans. Hann vildi ríða ósinn frá verzlunarstaðnum, e« ósinn var óreiður. Við þekkjum þetta Hafnfirðingar, sem munum ósinn milli Háagranda og óseyrar meðan hann var óheftur. Þá var hann hverjum hesti ófær, með an harðast var í honum útstreymið. Að öllu þessu athuguðu mun því mega f ullyrða, að Fornubúðir, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð, hafi staðið á Háagranda innst á Grandanum við Hafnarfjörð.“

Hansakaupmenn

Minnismerki um Hansakaupmenn við Hafnarfjarðarhöfn.

Kirkjan sem Hansakaupmenn reistu á Háagranda að talið er 1533 var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“. Var kirkjan notuð til 1603.

Þann 1. júlí 2003 afhjúpuðu forsetar Íslands og Þýskalands minnismerki á Óseyrarbryggju til minningar um fyrstu lúhersku kirkjuna sem reist var á Íslandi fyrir u.þ.b. 400 árum síðan. Það var þýski listamaðurinn Hartmut Wolf sem gerði listaverkið sem myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti.

15 – Dráttarbrautin

Dröfn

Dröfn- leifar dráttarbrautarinnar.

Skipasmíðastöðin Dröfn var stofnuð árið 1941 en árið 1944 var hafin bygging dráttarbrautarinnar sem tekin var í notkun 1946. Áður hafði helsta skipasmíði í Hafnarfirði verið í Skipasmíðastöð Haraldar Nyborg neðan við þar sem ráðhús bæjarins er núna. Hins vegar mun Bjarni riddari Sivertsen hafa haft sína merku skipasmíðastöð á þessum slóðum, í landi Ófriðarstaða, í upphafi 19. aldar.

Dröfn hf. var lýst gjaldþrota 1995 en síðar eignaðist Vélsmiðja Orms og Víglundar dráttarbrautina en hún hefur ekki verið notum um langt árabil.

Í húsi ofan við Strandgötuna, sem í daglegu tali nefnist Drafnarhúsið, var um langt skeið blómleg iðnaðarstarfsemi. á efri hæðinni rak Dröfn öflugt trésmíðaverkstæði en á neðri hæðinni var byggingarvöruverslun Drafnar. Í hliðarbyggingu, þar sem veitingastaðir eru í dag var járn- og vélaverkstæði sem þjónustaði að mestu skipasmíðina og viðgerðir á skipum. Vestan við dráttarbrautina standa enn smíðaverkstæði skipasmíðastöðvarinnar og nýrra hús sem hýsti minni báta og bátasmíði. Ofan við vélarhús dráttarbrautarinnar var gufuofn þar sem efniviður í trébáta var gufuhitað svo auðveldara væri að aðlaga það að formi bátanna.

Dráttarbrautin

Frá Dráttarbrautinni.

Í viðtali í Þjóðviljanum 1960 sagði hinn merki sögusafnari, Gísli Sigurðsson lögregluþjónn, að í Hafnarfirði væri aðallega hægt að fá mó á þremur stöðum í Hafnarfirði. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn var síðar en þar var mórinn 18 stungur að dýpt. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2021/

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar 2020

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er nýr ratleikur sem fór af stað í miðjum kórónafaraldri árið 2020 og er ætlaður til að hvetja fólk til að njóta útivistar um leið og það lærir um fróðlega staði í útjaðri bæjarins og í bænum sjálfum. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn.
Litli Ratleikur er frábrugðinn stóra Ratleik Hafnarfjarðar, engin ratleiksmerki eru á staðnum eða ratleikskort. Hann er einungis á vefnum og hægt er að stunda hann hvenær sem er.
Í Litla Ratleik 2020 eru 15 áhugaverðir staðir. Að þessu sinni:

1 – Útihús við Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn – útihús.

S-A Ástjarnar, neðan við klapparhól sem vel sést frá göngustígnum eru rústir útihúss. Svona rústir og ummerki mannvistar er víða að finna í landi Hafnarfjarðar en opinber skráning þeirra er af skornum skammti og nær engar þeirra merktar. Flestar rústir sem enn er að finna eru ummerki um búskaparhætti fyrri alda. Líklegt er að þetta séu rústir útihúss sem tilheyrði bænum Ási sem stóð þarna skammt frá og var rifinn síðla á síðustu öld.

Greinilega má sjá hleðslurnar skammt frá göngustígnum. Hleðslurnar eru neðan við stóran klett við stíginn.

Ástjörn

Útihús við Ástjörn.

Markmiðið er að ganga í kringum Ástjörnina sem er rúmlega 3 km hringur frá bílastæðunum. Til viðbótar má ganga upp að útsýnisskífunni á Ásfjalli að norðanverðu, og ganga eftir öxlinni og koma niður á Skarð, þar sem finna má grjóthlaðinn stekk, og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Allt eru þetta ágætir stígar, misgóðir þó.

Ástjörn

Ástjörn.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má þar enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ástjörnin er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun rann fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Í tjörnina renna nokkrir smálækir og er yfirborðsrennslið breytilegt sem hefur þó lítil áhrif á vatnsborðið.

Lífríki tjarnarinnar er fjölbreytilegt og hér er kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni er mikið. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina.

Tjörnin og nánasta umhverfi nýtur friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður er nú trjáreitur frá því þar var skógræktarstöð og liggur göngustígurinn umhverfis vatnið þar í gegn.

Skammt vestan bæjarstæðisins milli Ásfjallsaxlar og Grísaness er Hádegiskarðið sem ferðalangar gengu um fyrrum er þeir fóru Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg til Krýsuvíkur eða Grindavíkur.

Fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997.

2 – Útsýnisskífa á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – útsýnisskífa.

Lengi var talið að Ásfjall væri lægsta fjall á Íslandi. Reyndar er lægra fjall á Austurlandi svo Ásfjall er þá a.m.k. næst lægsta fjall Íslands.

Á Ásfjalli er gott útsýni yfir fallegan fjörðinn og nágrenni og það nýttu sér hermenn á stríðsárunum. Enn má sjá merki eftir byrgi þeirra á fjallinu.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna sem þar er. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Markmiðið er að ganga upp á Ásfjallið til að upplifa fallegt útsýnið yfir Hafnarfjörð. Frá útsýnisskífunni má ganga eftir öxlinni til suðurs og koma niður á Skarð og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Slóðinn á fjallinu er greinilegur en grófur.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ásfjall

Ásfjallavarða árið 2007.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð snemma á öldinni en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

Ásfjallavarða

Ásfjallavarða árið 2020 og ummerkin umleikis.

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Þegar hún var komin á sinn stað voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en árið 1987 að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson, Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987 og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!

3 – Ósinn

Ósinn

Bekkur við Ósinn.

Ósinn er heiti á mannvirki sem tengist fráveitu Hafnarfjarðar. Í gegnum þetta mannvirki er skolpi dælt frá stórum hluta bæjarins út í pípu sem liggur undir Hvaleyrina og út í hreinsi- og dælustöð í Hraunavík en þaðan er öllu skolpi dælt langt á haf út eftir að það hefur verið grófhreinsað. Skolpdælistöðvar bæjarins hafa gjörbreytt áhrifum skolpsins við strendurnar frá því sem áður var.

Horft að miðlunartankinum sem hægt er að fara upp á.

Gott að leggja
Leggja má við enda Óseyrarbrautar þar sem hún sveigir til hægri við tanka Atlantsolíu.

Markmið
Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Við enda stígsins er Ósinn og upp á mannvirkið eru tröppur sem leiðir gesti að útsýnisstað með bekkjum.

Bekkir leynast uppi á miðlunartankinum.

Fróðleikur
Lang stærstur hluti hafnarsvæðisins er á uppfyllingu og er svæðið sem Ósinn er á það nýjasta og stærsta.

Í 2. kafla Landnámu segir að þar hafi Flóki Vilgerðarson og Herjólfur, bóndi er honum fylgdi, komið að landi fyrir árið 870 og dvalið um stund. „Flókaklöppin“ efst á Hvaleyrarholti er með ýmsum áletrunum, sem sumir telja vera eftir áhöfnina.

4 – Minnisvarði um Hrafna-Flóka
Í Landnámu segir frá því er Hrafna Flóki, Flóki Vilgerðarson, kom til Hafnarfjarðar þar sem hann fann félaga sinn Herjólf, sem hafði orðið viðskila við hann á eftirbát í mynni Faxaflóa. Fann Flóki þar og rekinn hval við eyri og nefndi Hvaleyri.

Var Hrafna-Flóka reistur minnisvarði í vörðuformi hæst uppi á Hvaleyri og var hann vígður í lok Víkingahátíðar 13. júlí 1997. Varðan er úr norsku grjóti og er gjöf frá Norðmönnum til minnis um atburðinn.

Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Einnig að kynnast sögunni um Hrafna-Flóka og jafnvel um þá fornu byggð sem var á Hvaleyrinni, Hvaleyri, Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyrarkot, Vesturkot og Halldórskot.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Í Landnámu segir frá því að Flóki hafi upphaflega haldið af stað frá Noregi vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann ætlaði að setjast þar að og þess vegna voru með í för fjölskylda hans og frændlið, auk búfénaðar. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur, Þórólfur og Faxi. Flóki hafði með sér þrjá hrafna sem hann hafði blótað í Noregi og lét þá vísa sér leið til Íslands. Hann sleppti fyrst einum og flaug sá aftur um stafn í átt til Færeyja, sá næsti flaug í loft upp og aftur til skips en sá þriðji flaug fram um stafn í þá átt sem Flóki og félagar fundu landið. Þeir komu að Horni eystra, síðan sigldu þeir suður og vestur fyrir land og námu land í Vatnsfirði á Barðaströnd. Vatnsfjörður mun hafa verið fullur af fiski og nýbúarnir stunduðu veiðar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenskan vetur. Þess vegna drapst allt kvikféð um veturinn. Vorið var heldur kalt og þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá fyrir norðan fjöllin fjörð, líklega Arnarfjörð, fullan af hafís. Því kölluðu þeir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.

Flóki og fylgdarlið hans ákváðu að fara burt og héldu úr Vatnsfirði þegar langt var liðið á sumar. Þeir náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes og urðu Flóki og Herjólfur viðskila í mynni Faxaflóa.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri..

Ýmsar minjar er að finna á Hvaleyrinni. Herjólfur kom að landi í Herjólfshöfn en Flóki hafði vetursetu í Borgarfirði. Næsta sumar kom Flóki í Hafnarfjörð og þar fundust þeir Herjólfur.

Menn hafa leitt að því getum að Herjólfshöfn sé Hvaleyrartjörn en hún var höfnin í Hafnarfirði sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.

Í Landnámu segir enn fremur: Flóki Vilgerðarson hét víkingur mikill; hann bjóst af Rógalandi að leita Snjólands; þeir lágu í Smjörsundi. Hann fékk að blóti miklu og blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið vísa, því að þá höfðu hafsiglingarmenn engir leiðarstein í þann tíma í Norðurlöndum. Þeir hlóðu þar varða, er blótið hafði verið og kölluðu Flókavarða; það er þar er mætist Hörðaland og Rogaland.

Samskonar varða er í Sveio sem liggur á mótum Hörðalands og Rogaland á vesturströnd Noregs. Varðan sem talin er að hafa verið upprunalega Flókavarðan, var rifin af ókunnum ástæðum á 19. öld. Ný varða var reist þar sem hin stóð og samskonar varða á Hvaleyri sem fyrr er nefnd.

5 – Útsýnisskífan á Hamrinum

Hamarinn

Litlu Ratleiksfrumkvöðlar við útsýnisskífuna á Hamrinum.

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar, er eitt af staðareinkennum Hafnarfjarðar. Hann hefur fengið nafnið Austurhamar þar sem hann er hæstur og Vesturhamar, þar sem hann gekk í sjó fram.

Áður fyrr var þessi mikli klettur sem stendur fyrir miðjum fjarðarbotninum nefndur Hamarskotshamar eftir koti sem stóð þar sem Flensborgarskólinn er nú.

Sprengt var úr Vesturhamrinum 1941-1948 og var efnið úr honum notað við gerð Norðurgarðsins í Hafnarfjarðarhöfn. Eru enn ljót ummerki eftir þetta og sést vel frá Flensborgarskóla.

Á austurhamrinum er útsýnisskífa og í góðu skyggni má sjá allan fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Ath. að hádegi á skífunni er sýnt þegar sól er í hásuðri en þar sem við erum bæði um hálfum tíma vestan við tímabeltið auk þess að vera með sumartíma allt árið, er hádegi sýnt um einum og hálfum tíma of snemma á skífunni.

Hamarinn á sér bróður; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn.

Hamarinn

Hamarinn.

Ofan Hamarsins eru Öldurnar og niður af Austurhamri er Brekkan með Brekkugötu og Suðurgötu. Svæðið neðan Vesturhamars kallaðist fyrrum einu nafni Undirhamar.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum. Ætla má að bergið geti verið yngra en 800 þúsund ára. Grágrýtið myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið.

Hamarinn er góður staður til að setjast niður og horfa yfir bæinn.

Í klöppunum ofan á Hamrinum sjást jökulrispur, menjar ísaldarjökulsins.

Finna má ummerki á Vesturhamrinum eftir veru hersins í Hafnarfirði í síðari heimsstyrjöldinni.

Í Hamrinum eru sagðar búa álfaverur af „konungakyni”. Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984.

Austurgatan en samt er aldrei talað um austur í Hafnarfirði!

Markmiðið er að ganga á Hamarinn og upplifa hann og útsýnið þaðan. Útsýnisskífan gefur möguleika á að þekkja fjöllin og umhverfið í kring.

6 – Arnarklettur

Arnarklettur

Arnarklettur.

Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Arnarklettarnir voru tveir; Arnarklettur syðri og Arnarklettur nyrðri. Hlaðin gerði og aðrar mannvistarminjar eru í kringum klettana. Á öðrum Arnarklettanna sem stendur á óbyggðu svæði á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs er merki með nafni klettsins.

Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: „Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað“.

Á síðustu tugum nítjándu aldar voru í Gullbringusýslu nokkrir þekktir varpstaðir arnarins, enda bera örnefnin þess merki, s.s. Arnarklettar utanvert við Balatún, Arnarnýpa á Sveifluhálsi, Arnarfell í Krýsuvík og Arnarþúfa í Ögmundarhrauni, auk tveggja Arnarkletta sunnan Stórhöfða og Helgafell í Garðakirkjulandi.

Markmiðið er að upplifa friðuðu hraunin, göngustígana austan og vestan Arnarhrauns. Stígarnir eru ekki merktir sérstaklega en ganga má m.a. inn á þá út úr endum Mánastígs, Þrastahrauns og víðar.

7 – Vindspil

Vindspil

Listaverkið Vindspil.

Listaverkið Vindspil frá árinu 2000 eftir Einar Má Guðvarðarson stendur á malarkambi við bílastæði við enda Langeyrarmala. Verkið heitir ekki aðeins Vindspil heldur er það vindspil og í vindi hljóma úr því fagrir bjölluhljómar. Einar Már bjó og hafði vinnustofu sína í bænum Ljósaklifi en það er bærinn sem er næst Herjólfsgötu. Hann var fæddur í Hafnarfirði 9. febrúar 1954. Hann lést 25. júní 2003.

Í Skerseyrarhrauni, á svæði sem er norð-vestasti hluti Hafnarfjarðar, og markast af Herjólfsgötu, Garðavegi og landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Bala, eru fimm gömul bæjarstæði þar sem enn standa hús. Auk Ljósaklifs eru bæirnir Fagrihvammur (Litli bær), Brúsastaðir I og nýbýlið Brúsastaðir II og Sæból sem stendur nyrst. Á milli bæjanna liðast steinhlaðnar götur í hrauninu.

Stifnishólar

Stifnishólar við Brúsastaði.

Hraundranginn utan við bílastæðið nefnist Rauðsnef og hraundrangarnir framan við Brúsastaði nefnast Stifnishólar þar sem sagt er að draugur hafi verið kveðinn niður um aldamótin 1800. Þar sem Brúsastaðir standa stóð áður bærinn Litla-Langeyri.

Langeyri var ævaforn hjáleiga frá Görðum og stóð þar sem Herjólfsgata 30 var en stutt er síðan það hús var rifið og ný fjölbýlishús byggð á lóðinni.

Meðal örnefna við sjóinn eru Brúsastaðavör, Skerseyrarvör og Balavör sem segja okkur að útræði hafi verið þarna áður.

Vindurinn skellir skálunum saman og myndar fallega bjölluhljóma.

Ganga Strandstíginn og Langeyrarmalirnar út með ströndinni að Bala.

8 – Hlaðnar götur

Hlaðnar götur

Gömul hlaðin gata.

Lengst af voru í raun engir afmarkaðir vegir í Hafnarfirði, einungis götur og slóðar. Hús voru byggð þar sem hagkvæmt þótti í hrauninu og milli hraunklettanna mynduðust götur eða troðningar áður en eiginleg gatnagerð hófst. Víða má enn finna leyfar af fyrstu gatnagerðinni, þar sem götur voru einfaldlega hlaðnar upp af hraungrjóti og fylltar með grús og hraunbrotum.

Best er að finna dæmi um slíkar götur við Hjallabrautina, gegnt skátaheimilinu Hraunbyrgi, og að Klettagötu. Þar má sjá hversu hagalega menn hafa hlaðið mjóar götur til að aka fiski á vögnum á stakkstæðin.

Fyrsta eiginlega gatnagerðin var þegar vegur var lagður frá Sjónarhóli, yfir Flatahraun og inn í Engidal.

„Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa. Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinum. Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal,” skrifaði Björn Guðmundsson sagnfræðingur 1962.

Markmiðið er að kynnast Hafnarfirði fyrri ára og láta sig dreyma um fólkið á ferðinni með fiskinn á vögnum efir hlöðnum götunum.

Allt umleikis eru grjóthlaðnir garðar og gerði er nýtt voru til heimilisbrúks fyrrum.

Víðistaðir

Víðistaðatún.

Tilvalið er að ganga til baka um Víðistaðatúnið þar sem bærinn Víðistaðir stóð og sláturhús sem margir muna eftir og stóð neðan við þar sem Víðistaðakirkja stendur núna.

Víðistaðatún er stórt opið svæði við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Þar er starfrækt tjaldsvæði frá miðjum maí fram í enda ágúst. Svæðið státar af fjölmörgum listaverkum sem tilvalið er að skoða og börn hafa gaman af að leika sér í. Einnig er þar aparóla, ærslabelgur og kastali sem staðsettur er í nálægð við grillhús. Hann hentar fyrir bæði leik- og grunnskólaaldur. Einnig er þar skógarlundur sem börn hafa gaman af að leika sér í sem og eini tennisvöllur Hafnfirðinga.

9 – Lækjarbotnar

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá svo trépípa niður til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909. Sjá má vanræktar leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið.

Stuttu ofar, í skógarjaðrinum má sjá hvar vatnið kemur undan hrauninu. Rennslið dugði þó ekki á sínum tíma til að anna vatnsþörf bæjarbúa og það varð til þess að árið 1916 fengu þeir Jóhannes Reykdal og Jón Ísleifsson verkfræðingur brjálæðislega hugmynd. Þar sem nægt vatn var í Kaldárbotnum, uppruna Kaldárinnar, var það áhugavert að koma því vatni til bæjarins. En það var löng leið og ekki á færi manna þá að leggja rör eða stokk alla þá leið auk þess sem það var yfir gjá og misgengi að fara. En hvað gera menn þá? Jú, hlaða úr grjóti og smíða tréstokk sem hleypti vatninu um 1,6 km leið yfir hraun og djúpa Lambagjána. Var vatninu sleppt inn á vatnasvæði Lækjarbotna og það var mikil spenna í bænum þegar beðið var eftir því hvort vatnið yfirleitt kæmi fram neðar í hrauninu. Voru margir efins um þessa aðferð, en vatnið kom í ljós um síðir og dugði vatnsveitan úr Kaldárbotnum allt til 1951 þegar ný vatnsleiðsla var lögð úr Kaldárbotnum í Hafnarfjörð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Hluta af vatnsleiðslunni má enn sjá en mest af henni hefur nú verið eyðilögð.

Því miður grotna minjar um þessa vatnsveitu niður og lítið er gert til að varðveita þessa sögu úti í náttúrunni t.d. með endurgerð hluta stokksins og uppsetningu á fleiri fræðsluskiltum.

Austan við lækinn má finna götu sem liggur alla leið í Selvog en það er hin margkunna Selvogsgata.

Látið ekki hjá liggja að ganga inn í Gráhelluhraunið, þar er góður göngustígur og margt að sjá, ekki síst ef vikið er svolítið frá stígnum.

10 – Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Á odda sunnan við Hvaleyrarvatn, þar sem stígurinn skiptist í tvennt, eru tóftir Hvaleyrarsels. Má þar sjá þrjár tóftir og er ein þeirra stærst, eldhús vestast, búr og baðstofa austast. Stekkurinn er skammt vestan við eldhúsið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Þarna átti að hafa gerst hryllilegur atburður um 1880 er smali fann seljastúlku rifna á hol niður við vatnið. Var talið að nykurinn í vatninu hafi leikið stúlkuna svo illa. Um nykur þennan sagði sagan að hann væri annað hvert ár í Hvaleyrarvatni, en hitt árið í Urriðakotsvatni. Sást til hans oftar en einu sinni.

Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn og um hríð í Kaldárseli.

Önnur selstaða er við Hvaleyrarvatn; Ássel. Það er skammt austan við Hvaleyrarsel, en landamerki Hvaleyrar og Áss lágu um vatnið. Jófríðarstaðir hafði um tíma selstöðu þar sem nú er Húshöfði. Þar við má sjá leifar beitarhúss og stekk selsins skammt norðar.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og um skemmtilega stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa raunverulega skógarstemmingu.

11 – Riddaralundur

Riddaralundur

Riddaralundur – setstaður gamalla Hafnarfjarðarskáta.

Frá upphafi skátastarfs á Íslandi var gjarnan farið í skátaútilegur í uppland Hafnarfjarðar og var Kaldársel mjög vinsælt og Helgadalur fyrir 1960. En síðar varð Hvaleyrarvatn áhugavert en þess ber að geta að um 1960 sást þar í umhverfinu varla nokkurt tré. St. Georgsgildið í Hafnarfirði, félag eldri skáta, var stofnað 22. maí 1963 og nýttu félagar þess umhverfi Hvaleyrarvatn til útivistar og útilegu. Fljótt kom áhugi á að byggja skála við vatnið og fékk félagið úthlutað lóð og var skálinn Skátalundur vígður 25. júní 1968.

Um svipað leyti kom skátasveitin Riddarar í Skátafélaginu Hraunbúum sér upp varðeldalaut sunnan við vatnið, á milli Ássels og Hvaleyrarsels. Settu þeir upp bekki í hring úr rafmagnsstaurum og útbjuggu eldstæði í miðjunni en sveitarforingjar þá voru þeir Ólafur Sigurðsson (Óli Sill) og Hermann Sigurðsson. Þarna var þetta undir brekku er hvergi neitt tré var að sjá en fallegur staður og skjólgóður til að sitja í kvöldsólinni.

Á Selfjalli ofan seljanna eru leifar stekks og fjárborgar. Sunnan þess, í norðanverðum Seldal, eru leifar sels.

Riddaralundur

Eldri skátar rifja upp gamla tíma í Riddaralautinni.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum tekur u.þ.b. 20-30 mínútur. Stígar í skóginum eru fjölmargir og mislangir en vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemmingu á hinum ólíku árstíðum.

12 – Ássel

Ássel

Ássel.

Flestir ganga greiðfæra stíginn í kringum Hvaleyrarvatn án þess að átta sig á því að þarna leynast minjar mannvistar frá fyrri öldum.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, skammt frá skátaskálanum Skátalundi, undir Selhöfða, eru tóftir tveggja selja, Ássels og Hvaleyrarsels.

Niður undir landi skátanna, á grónum hól eru tóftir sels sem talið er að hafa verið frá bænum Ási sem stóð við Ástjörnina, undir Ásfjallinu. Þetta er sel frá því um 1900 er Jófríðarstaðir og Ás skiptu með sér aðstöðunni við norðaustanvert vatnið

Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi ofanvert á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap voru mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina, frá 6. til 16. viku sumars. Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og eldhús. Utandyra voru yfirleitt stekkir eða kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar.

Selstöðurnar voru jafnan við vötn, ár, læki eða náttúrleg vatnsstæði.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemminguna.

13 – Beitarhús

Beitarhús

Beitarhús í Húshöfða.

Aðsetur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er á Húshöfða og skógurinn sem þar hefur verið myndaður nú kallaður Höfðaskógur.

Næst Kaldárselsvegi er þjónustubygging en suðvestar á svæðinu, á Beitarhúsahálsi, er skáli félagsins, skammt frá trjásýnilundi sem vígður var á 50 ára afmæli félagsins.

Sunnan skálans er nokkuð stór tóft (tótt) í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum en Jófríðarstaðasel varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Sjá má tóftir selsins skammt norðan við beitarhúsið.

Er talið að selið hafi síðast verið notað árið 1922 frá Ási.

Skammt fá tóftinni er útikennslustofa félagsins. Þetta er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan hjónanna Harðar Zóphaníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.

Allt umleikis eru fræðslustígar um hin ólíklegustu trjádæmi og plöntur.

Fleiri tóftir, m.a. af seli frá Jófríðarstöðum, eru á svæðinu, en þessi er þeirra stærst.

Ganga um skógarstíga og umhverfi Hvaleyrarvatns. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá, skoða trjásýnisafnið, rósagarðinn og bara upplifa alvöru skógarstemmingu.

14 – Fuglstapaþúfa

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Fuglstapaþúfa er við Þúfubarð á Hvaleyrarholti en gatan er kennd við þúfuna.

Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að byggjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka.

Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar.

„Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.

Fuglstapaþúfa er landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda.

Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir:

„Úr sjó Arnarklettar utanvert við Balatún [varða], sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur [varða]. Eftir þeim vegi í Engidal [varða]. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“

Víða um bæinn eru óröskuð svæði eða svæði sem eiga sér sögu sem vert er að minnast og er Fuglstapaþúfa og ÓlaRunstúnið gott dæmi um slík svæði. Auða lóðin þar sem Fuglstapaþúfan er, var á sjöunda áratugnum vinsælt leiksvæði barna í hverfinu og þarna voru byggðir kofar og var þarna mikið líf. ÓlaRunstúnið var einnig gríðarlega vinsælt meðal barna í svæðinu sem léku þar fótbolta á sumrin og renndu sér á sleðum og skíðum á vetrum. Var vera barna á túninu ekki alltaf vinsæl því Ólafur Runólfsson heyjaði túnið og það jók ekki á sprettuna að strákar væru þar að hamast í fótbolta.

15 – Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni. Víðsýnt er frá Jófríðarstaðaholtinu.

Markmiðið er að njóta fallegra staða, útsýnisins yfir Hafnarfjörðin fyrrum, kynnast sögunni og hreyfa sig svolítið í leiðinni. Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á góða heilsu bæjarbúa og gesta þeirra.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2020/

Skólpstöðin

Óseyri – Skólpstöðin.

Geldingadalir

Á Vísindavefurinn er fjallað um “Eldvirkni á Reykjanesskaga”:

Eldstövakerfi“Gosbeltið á Reykjanesskaga er sniðreksbelti, það er að segja í senn þverbrota- og gliðnunarbelti. Stefna þess er 70-80 gráður austur, en það sveigir til norðaustlægari stefnu allra vestast. Þarna munar 25-35 gráðum frá rekstefnu. Þáttur þverbrotabeltisins kemur fram í norður-suður sniðgengjum með hægri hliðrun. Sniðgengin eru minni háttar skástígar gjár, oft samtengdar með sprunguhólum. Gliðnunarbeltin koma fram sem gígar og gígaraðir, gjár og misgengi í eldstöðvarkerfum skagans. Þau eru sex, að meðtöldu Hengilskerfinu, og liggja norðaustur-suðvestur, skáhallt á gosbeltið. Eldstöðvakerfin eru flest hver miklu lengri en gosmenjar á yfirborði gefa til kynna. Eldvirkni nær yfir stóran hluta þeirra, en á norðausturhlutanum eru svo til eingöngu gjár og misgengi. Þar hefur hraunkvika sjaldan náð til yfirborðs en setið eftir í berggöngum.
SprunguopEldstöðvakerfin mynda grunneiningar í jarðfræði Reykjanesskaga. Þau eru fimm til átta kílómetra breið og flest 30 til 50 kílómetra löng. Í hverju þeirra eru tvær eða fleiri gos- og sprungureinar. Fullmótuð kerfi með háhitasvæði og sprungusveim eru fimm. Þau eru kennd við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil (sjá mynd hér fyrir neðan). Sjötta eldstöðvakerfið, sem kenna má við Fagradalsfjall, er ólíkt hinum að gerð. Þar er hvorki jarðhiti né sprungusveimur. Skil milli kerfanna eru oftast skýr, en þau skarast þegar kemur norðaustur á gjásvæðin. Milli Reykjaness- og Svartsengiskerfanna er einföld röð dyngna og bólstrabergsfella úr ólivínríku basalti, Háleyjabunga yst og Stapafell innst. Mörk Fagradalsfjallskerfisins við þau næstu markast af löngum gossprungum beggja vegna. Skil Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfanna eru í Kleifarvatnslægðinni með stapana Lönguhlíð og Geitahlíð að austanverðu. Skil Brennisteinsfjalla- og Hengilskerfis eru hér sett við Þrengsli.

Fagradalsfjall

Eldgos í Fagradalsfjalli.

Á Reykjanesskaga skiptast á gos- og gliðnunartímabil á sprungusveimum með stefnu norðaustur-suðvestur og skjálftatímabil með virkni á norður-suður sprungum. Það er afleiðing af því að Reykjanesskagi liggur skáhallt á rekstefnuna og spennusviðið sveiflast á milli lóðréttrar mestu bergspennu og láréttrar með suðvestur-norðausturstefnu. Í báðum tilvikum er minnsti þrýstingur í stefnu reksins. Kvikuinnskot þarf til að gjárnar gliðni, en það getur gerst án þess að gjósi. Gos- og gliðnunartímabilin, hér nefnd gosskeið, standa yfir í nokkrar aldir hvert. Á síðasta gosskeiði fluttist gosvirknin milli eldstöðvakerfanna með 30-150 ára millibili. Gosvirknin einkennist af sprungugosum sem vara í nokkra áratugi, en með hléum á milli gosa. Goshrinur af þessu tagi eru kallaðar eldar. Á milli gosskeiðanna eru löng skjálftatímabil án kvikuvirkni og þá væntanlega eins og á síðustu áratugum með ótal snöggum hrinum sem standa daglangt eða í fáar vikur. Gosskeið síðustu 3500 ára eru þrjú, og vísbendingar eru um fleiri þar á undan. Í Fagradalsfjallskerfinu hefur ekki gosið á þessu tímabili og aðeins einu sinni í Hengilskerfinu.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

Á Reykjanesskaga hefur aðeins gosið basalti eftir að land varð jökullaust. Bergið í hraununum er pikrít, ólivínþóleiíti og þóleiít. Dyngjuhraun eru úr pikríti og ólivínþóleiíti en hraun frá gossprungum yfirleitt úr þóleiíti. Súrt berg er ekki að finna á skaganum nema í Hengilskerfinu. Þar spannar samsetning bergsins allt bilið frá pikríti í ríólít. Í hinum kerfunum nær það einungis yfir í þróað basalt.
Aldursdreifing sprungugosa sem vitað er um á Reykjanesskaga síðustu 3500 árin, er sýnd á næstu mynd hér að ofan. Tímasetning er byggð á sögulegum heimildum, aldursgreiningu með geislakoli (C-14) og öskulagsrannsóknum. Af myndinni má ráða að skipst hafi á gosskeið sem stóðu í 400-500 ár, og goshlé í 600-800 ár. Núverandi hlé er nálægt efri mörkum. Sé hins vegar litið á eldstöðvakerfin ein og sér, verða hléin mun lengri, að meðaltali nálægt 1000 árum. Í engu eldstöðvakerfanna er komið fram yfir lágmarkslengd fyrri hléa, nema ef til vill í Brennisteinsfjöllum. Allt að fjórar aldir þurfa að líða þar til lengstu hléunum er náð. Í Hengilskerfinu varð eina kvikuhlaupið án goss sem vitað er um. Þá er átt við Þingvallasigið árið 1789. Eldri hraun eru of fá tímasett til að rekja söguna lengra aftur. Segja má þó að grilli í fleiri gosskeið, svo sem fyrir 4000 og 8000 árum. Eins og sjá má á myndinni hefur eldvirkni á hverju gosskeiði oftast hafist í Brennisteinsfjallakerfinu og síðan færst vestur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Að frátöldum dyngjunum hefur upphleðsla gosefna í eldstöðvakerfum Reykjanesskaga, öðrum en Henglafjöllum, verið mest þar sem sprungusveimar liggja yfir flekaskilin. Þau markast af skjálftabelti skagans, og þar eru einnig háhitasvæðin. Segja má að þar séu vísar að megineldstöðvum. Ætla má að í rætur þeirra geti safnast kvika sem síðan leitar út í sprungusveimana, myndar ganga og kemur upp í sprungugosum. Hnyðlingar í gjalli og úrkasti sprengigíga í Krýsuvík eru vísbending um að grunnstæð gabbróinnskot, það er kvikuhólf sem voru eða eru þar undir, en greinast ekki í skjálftum.
Á Reykjanesskaga eru dyngjur í þyrpingum, ýmist í virknimiðjum eldstöðvakerfanna, svo sem í Hengils-, Brennisteinsfjalla- og Fagradalsfjallskerfunum, eða utan þeirra. Stærstu dyngjurnar ná yfir 200 ferkílómetra og áætlað rúmmál þeirra stærstu er fimm til sex rúmkílómetrar. Alls eru þekktar um tuttugu dyngjur á Reykjanesskaga. Af þeim eru 12 úr ólivínþóleiíti, hinar úr pikríti.”

Tilvísanir:
-Freysteinn Sigmundsson, 1985. Jarðvatn og vatnajarðfræði á utanverðum Reykjanesskaga II. hluti. Viðaukar um jarðfræði. Orkustofnun, skýrsla, OS-85075/VOD-06, 49 bls.
-Páll Einarsson, 1991a. Earthquakes and present-day tectonism in Iceland. Tectonophysics, 189, 261-279.
-Sigrún Hreinsdóttir og fleiri, 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW-Iceland: GPS measurements from 1993 to 1998. Journal of Geophysical Research, 106(B7), 13803-13816.
-Clifton, A. E. og S. Kattenhorn, 2006. Structural architecture of a highly oblique divergent plate boundary segment. Tectonophysics, 419, 27-40.
-Sigrún Hreinsdóttir og fleiri, 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW-Iceland: GPS measurements from 1993 to 1998. Journal of Geophysical Research, 106(B7), 13803-13816.
-Keiding og fleiri, 2009. Earthquakes, stress and strain along an oblique plate boundary: the Reykjanes Peninsula, southwest Iceland. Journal of Geophysical Research, 114, B09306, doi: 10.1029/2008JB006253. 16 bls.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65699
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Geldingadalir

Eldgos í Geldingadölum í Fagradalsfjalli.

Geldingadalir

Á vefnum Eldey.is má lesa eftirfarandi um eldstöðvar og jarðsögu Reykjanesskagans, auk annars:

Eldvörp

Eldvörp.

“Á Reykjanesskaga má finna allar tegundir eldstöðva sem gosið hafa á Íslandi. Talið er að um tólf hraun hafi runnið þar frá því að land byggðist eða að meðaltali eitt hraun á öld.
Á Reykjanesskaganum eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku. Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi þar sem jarðsjórinn er notaður til að hita upp kalt vatn fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Reykjanesskaginn er um 1.700 ferkílómetrar að flatarmáli og er þar að finna margvíslegar menjar um eldvirkni undanfarinna 200.000 ára. Reykjanes er til að mynda eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum.
Reykjanesskagi dregur nafn sitt af Reykjanesi á suðvesturhorni skagans. Mest af skaganum er innan gosbeltis Íslands og yst á skaganum skríður Mið-Atlantshafshryggurinn á land. Gosbeltið liggur eftir miðjum skaganum frá vestri til austurs þar sem það tengist svo aðalgosbeltum landsins.

Reykjanesskagi

Fjórar sprungureinar eru á skaganum: Reykjanes-, Krýsuvíkur-, Brennisteins-, fjalla og Hengilsreinar. Hver þeirra samanstendur af hundruðum opinna spungna. Þá er þar einnig fjöldi gíga og gígaraða. Önnur gerð af eldfjöllum á Reykjanesskaga eru dyngjur, skjaldarlaga bungur sem eru svipaðar og eldfjöllin á Hawaii nema mun minni.
Gosbergið er að mestu af tveimur gerðum. Annars vegar er móberg sem er samanþjöppuð gosaska sem myndaðist við eldgos þegar landið var að mestu hulið jöklum. Hins vegar eru hraun; apalhraun með úfnum karga á yfirborði og helluhraun sem eru slétt og oft með hraunreipum. Eldri hraun hafa verið slípuð af jöklum, og er yfirborð þeirra því jökulrákað.
Jarðskjálftar eru tíðir á svæðinu vegna eldvirkninnar og stöku sinnum valda þeir tjóni. Flestir eru þó minni háttar og finnast sem titringur.

Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Elsta bergið á skaganum er í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.
Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

Ísöld

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Loftslag hefur verið mjög sveiflukennt síðustu þrjár milljónir ára. Á því tímabili hafa komið um 30 jökulskeið. Meðalhiti var þá 8 gráðum lægri en nú. Hvert jökulskeið stóð í um 100 þúsund ár en hlýskeiðin á milli aðeins í um 10 þúsund ár. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Tímabilið sem síðan er liðið nefnist Nútími.
Jöklarnir skófu og hefluðu landið sem þeir skriðu yfir og mýktu það. Þeir mynduðu U-laga dali, rispuðu berggrunninn sem undir var og skildu eftir sig hvalbök og jökulrispur.
Á jökulskeiðunum var gríðarlegt vatnsmagn bundið í jöklum, og meðan þau stóðu yfir lækkaði yfirborð sjávar á jörðinni um allt að 130 m miðað við núverandi sjávarmál. Aftur á móti fergðu jöklarnir landið undir næst sér.
Jökulskeið enda snögglega og meðalhitastig hækkar undrahratt. Þá bráðna jöklar á tiltölulega stuttum tíma. Sjávarborð hækkar og sjór gengur á land. Fornar strandlínur eru því allhátt yfir núverandi sjávarmáli. Munar þar um 110 m á Suðurlandi. Skeljar og bein sávarspendýra finnast í gömlum sjávarsetlaögum. Einn slíkur staður er við Pattersonflugvöll á Njarðvíkurheiði.

Eldgos á Reykjanesskaga

Stampahraunið

Stampahraunið.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Eldgos á sögulegum tíma

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.”

Meira HÉR á Wikipedia.

Sogin

Sogin.

Reykjanesskaginn

Í Faxa árið 1998 fjalla nemendur FS á Suðurnesjum um “Áhugaverða staði í Reykjanesfólkvangi“. Frásögnin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að nemendurnir hafa að öllum líkindum lítið kynnt sér vettvangsaðstæður sem og hina fjölmörgu möguleika, sem Reykjanesskaginn hefur upp á bjóða innan fólkvangsins, en taka þarf viljan fyrir verkið því það er jú niðurstaðan hverju sinni er mestu máli skiptir þegar upp er staðið.

Faxi“Náttúran á Reykjanesi er frekar rýr ef bera á hana saman við náttúru annars staðar á landinu vegna þess að svæðinu hefur einfaldlega verið misboðið í svo langan tíma. Þó svo að ekki hafi alltaf verið farið vel með svæðið þá er ýmislegt að sjá ef áhuginn er fyrir hendi. Of margir Suðurnesjabúar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu leita oft langt yfir skammt þegar njóta á íslenskrar náttúru. Vill það gleymast að Reykjanesið er spennandi svæði að ferðast um og kynnast. Það er öðruvísi en margir staðir á landinu vegna þess að þar er hægt að sjá mjög greinilega hvernig Reykjaneshryggurin kemur inn í landið. Allt umhverfi okkar er mótað vegna Reykjaneshryggsins því þar hafa orðið mörg eldgos fyrr á tímum og enn í dag er þar mikil eldvirkni í jörðu þó svo ekki hafi gosið á þessu svæði í nokkurn tíma.

Gróður á Reykjanesi er í slæmu ásigkomulagi samanborið við það sem hann var fyrir landnám og þeir sem vilja sjá mikinn gróður fara því á aðra staði á landinu. Allir verða að kynnast auðninni til þess að geta gert sér það ljóst að ekki má halda áfram eins og fram horfir án þess að illa geti farið. Það vekur kannski ekki áhuga margra að ferðast um Reykjanesið en ef vel er að gáð má þó finna eitthvað fyrir alla. Skemmtilegar gönguleiðir eru víðsvegar um svæðið, hraunmyndanir og háhitasvæði eru víðsvegar og reyndar er hægt að finna þar mikinn gróður þó á takmörkuðum svæðum sé. Fuglabjörg eru einnig á svæðinu og einnig er hægt að komast í silungsveiði með alla fjölskylduna. Þegar fólk ætlar að njóta náttúrunnar er oftast farið á þá staði sem eru meira þekktir og þykja merkilegir s.s Þingvelli, Gullfoss og Geysi eða önnur þekkt svæði. Hér á eftir verður fjallað um þau svæði sem okkur þykja merkilegust í Reykjanesfólkvangi.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Þegar Reykjanesbrautin er ekin blasir Keilir við á hægri hönd ef komið er frá Keflavík. Ef beygt er til hægri og ekið sem leið liggur frá Kúagerði og upp að fjöllunum þá er þar komið að mikilli grassléttu. Þessi grasslétta heitir Höskuldarvellir og eru þeir stærsta samfellda graslendið í Gullbringusýslu eða um 100 ha. Í leysingum liggur lækur úr Sogunum fyrir sunnan Trölladyngju og er talið að lækurinn hafi smám saman borið jarðveg niður á sléttlendið. Frá Höskuldarvöllum eru margar skemmtilegar gönguleiðir t.d á frægasta fjall Suðurnesja, Keili. Einnig er hægt að ganga á Mávahlíðar en það er mjór hryggur sem er brattur á báða vegu og sést hann því vel í næsta umhverfi. Þegar komið er á staðinn er best að velja gönguleiðir um svæðið eftir áhuga og getu hvers og eins.
Mjög fallegt er í kringum Höskuldarvelli á sumrin þegar allt er í blóma en þó er ekki síðra þar á veturna þegar snjór liggur yfir öllu svæðinu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja er ekki langt frá Höskuldarvöllum og er því alveg tilvalið að ganga þangað og skilja bílinn eftir undir fjallshlíðinni við Höskuldavelli. Trölladyngja er móbergsfjall í Reykjanesfjallgarði norður af Núpshlíðum eða Vesturfjalli. Á Trölladyngju eru tveir móbergshnjúkar. Austan við Trölladyngju er annað móbergsfjall, Grænadyngja. Nefnast þær saman Dyngjunnar. Í dyngjunum eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Norðan og sunnan við dyngjurnar eru gígar og gígaraðir. Norður af Trölladyngju eru síðan gufuhverir sem vert er að skoða. Jarðhiti er mikill í Trölladyngju. Sunnan hennar er litskrúðugur skorningur, svokallað Sog. Gaman er að ganga um svæðið og virða fyrir sér þá sérkennilegu liti sem em í dyngjunum. Þar eru mörg litaafbrigði og eru þau breytileg eftir því hvernig veður- og birtuskilyrði eru. Lítill lækjarfarvegur liggur í gegnum dyngjurnar og hefur hann í tímans rás grafið sig sífellt neðar. Dýptin er sumstaðar komin yfir tvær mannhæðir.
Stórkostlegt er að litast þarna um og njóta þeirrar fjölbreytni sem náttúran hefur upp á að bjóða í litavali.
Slæmur vegur liggur áleiðis að Trölladyngju frá Höskuldarvöllum. Frá Trölladyngju er síðan hægt að aka að Grænavatni og Djúpavatni.
Víðsvegar á þessu svæði er jörðin illa farin eftir umferð og nýjar slóðir eru sífellt að myndast og jörðin er á mörgum stöðum uppspóluð. Þetta er til skammar fyrir Reykjanesið og þeir sem aka utanvega ættu að skammast sín fyrir að eyðileggja marga fallegustu staði á Suðurnesjum sem seinna meir gætu orðið ferðamannastaðir sem myndu skapa miklar tekjur fyrir Suðurnesjabúa. Best er að ferðast um svæðið gangandi þegar á það er komið því þannig fæst best yfirlit yfir svæðið, við það skemmist það ekki og einnig er ganga heilsusamleg og nauðsynleg.

Spákonuvatn

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Mjög skemmtileg gönguleið er eftir Vesturhálsi þegar gengið er til suðurs frá Sogunum. Þá er komið að vatni uppá fjallinu og heitir það Spákonuvatn. Vatnið hefur myndast við það að hraun hefur lokað dalverpi og það hefur orðið til þess að vatn safnaðist þar fyrir. Það er mjög sérkennilegt að sjá það með eigin augum hvernig hraunið hefur runnið þannig að dalurinn hefur lokast og vatnið myndast. Ekki er fiskur í Spákonuvatni.

Grænavatn

Grænavatn

Grænavatn.

Vegurinn sem liggur frá Trölladyngju að Grænavatni er aðeins fyrir jeppa því hann er erfiður yfirferðar. Grænavatn er í dalverpi sunnan við Trölladyngju. Það er frekar grunnt og lítið vatn en þó er einhver veiði í því. Umhverfið er allsérstætt og fallegt vegna þess hversu stórgrýttar hlíðarnar eru.

Djúpavatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Djúpavatn er sprengigígur sem hefur fyllst af vatni. Við Djúpavatn er skáli sem hægt er að gista í ef veiðileyfi er keypt. Þó nokkur veiði er í vatninu og hafa þar veiðst ágætlega vænir silungar. Það er því alveg þess virði að kaupa veiðileyfi í vatnið og fara með fjölskylduna og reyna að krækja í þann stóra. Ekki er síðra að dorga á veturna þegar ís er á vatninu. Vatnið er mjög djúpt og af því er nafnið dregið.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vigdísarvellir er dálítil grasslétta austan undir Núpshlíðarhálsi. Þar er oftast skjól af fjöllunum í nágrenninu. Á Vigdísarvöllum var byggður bær árið 1830 og búið þar fram til ársins 1905 en þá hrundu húsin í jarðskjálfta.
Bæjarrústirnar eru þó nokkuð stórar og þar sést einnig móta fyrir gömlum garði sem hefur verið hlaðinn til að halda skepnunum á sínum stað.
Það er athyglisvert að nokkur hafi lagt það á sig að búa svona langt frá byggð því að lífið hefur sjálfsagt verið erfitt þama eins og annarsstaðar á landinu á þessum tíma. Þó svo að þetta svæði sé langt upp í fjöllum þá er þar ótrúlega mikill gróður á þessu svæði og því er það kannski ástæðan fyrir því að menn vildu búa þarna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Hentugasta leiðin að Krísuvfkurbergi frá Vigdísarvöllum liggur meðfram Núpshlíðarhálsi. Þaðan er beygl til austurs eftir þjóðveginum og síðan er beygt til sjávar eftir auðsjáanlegum slóða. Krýsuvíkurberg er mesta fuglabjargið á svæðinu. Það er um 7 km langt og 40 – 50 metra hátt.
Áhugavert er að ganga um svæðið, einkum á vorin og snemma sumars þegar fuglalífið er áberandi mest. Hverjum manni væri það gagnlegt að sjá fuglana í sínu náttúrulega umhveifi og geta virt þá fyrir sér í ungauppeldinu og baráttunni við náttúrulega óvini. Tveir lækir falla til sjávar fram af berginu, Eystrilækur og Vesturlækur. Eystrilækur myndar háan foss sem steypist fram af berginu. Í berginu verpa um 57 þúsund sjófuglapör en það er um 65% allra bjargfugla á svæðinu.

Eldborgir

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Eftir að Krísuvíkurberg hefur verið skoðað liggur leiðin að Eldborgum. Eldborgir eru undir Geitahlíð austan Krýsuvfkur. Þær eru tvær og heita Stóra og Litla Eldborg. Þjóðvegurinn liggur á milli þeirra. Stóra Eldborg er einn allra fallegasti gígur á Suðvesturlandi, um 50 metra hár, hlaðinn úr hraunskánum og gjalli. Frá Stóru Eldborg liggur hrauntröð þar sem hraunið hefur runnið til sjávum 50 metra. Vesturlækur fellur til sjávar í Hælsvík og myndar einnig fallegan foss.
Gróðureyðing fyrir ofan Krýsuvíkurberg er óvíða ljótari á Skaganum. Þar skiptast á blásnir melar og rofabörð.
Gróðurfar á þessu svæði er mjög slæmt vegna ofbeitar. Litla Eldborg er austar en hin og öllu fyrirferðanninni, Hún er hluti af stuttri gígaröð eins og Stóra Eldborg. Hraunið frá Litlu Eldborg hefur lagst yfir hraunið frá Stóru Eldborg að hluta og er gaman að virða þetta fyrir sér á góðvirðisdegi. Jarðvegur á þessu svæði er frekar rýr og er mosaþemba aðal gróðurinn á svæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Hverasvæðin á Krísuvíkursvæðinu eru mjög fallegur ferðamannastaður en því miður eru það fáir sem leggja leið sína um svæðið en þangað er fólksbílafært og ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu. Krísuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufuhverum og leirhverum. Á svæðinu eru tvö gígvötn, Grænavatn og Geststaðavatn, sitt hvoru megin við veginn. Vötnin eru merkileg fyrir þær sakir að þau eru gamlar eldstöðvar sem hafa fyllst af vatni í tímans rás. Grænavatn hefur mjög sérkennilegan lit vegna þess hversu mikill þörungagróður er í vatninu.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Fyrir þá sem þora er gaman að fara í hellaskoðun. Þægilegasta leiðin að hellinum er frá þjóðvegi 42 sem er vegurinn sem við förum á leið okkar austur með Kleifarvatni og þarf að ganga síðasta spölinn að hellinum. Gullbringuhellir er eini hellirinn sem er þekktur í hrauninu við Kleifarvatn. Hann er norðaustan við fjallið Gullbringu. Hellirinn er um 170 metra langur en frá opinu liggur hann í tvær áttir. Mjög athyglisvert er að skoða hellinn því að í honum eru hraunstrá og þar er vítt til veggja og hátt til lofts og því þægilegt að ferðast um hann. Þessi hellir er aðgengilegur og því ætti fólk á öllum aldri að geta skoðað hann.

Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt dýpsta stöðuvatnið á Íslandi um 97 metrar að dýpt. Það er á miðjum skaganum inn í Reykjanesfólkvangi. Kleifarvatn hefur írennsli en ekkert sýnilegt frárennsli. Vatnsmagnið í Kleifarvatni er breytilegt og breytist mest vegna úrkomu. larðhiti er syðst í vatninu og er stundum hægt að sjá hverina ofan af Vatnshlíð, þeir eru öðruvísi á litinn og skera sig því út úr. Á veturna sér maður vakir vegna hitamismunar en annars staðar er vatnið ísi lagt. Silungsveiði er talsverð í vatninu og er gaman að fara með fjölskylduna að veiða í Kleifarvatni vegna þess hversu stutt er að fara úr amstri hófuðborgarinnar og einnig vegna þess að svæðið er öðruvísi en menn eiga að venjast. Það má kannski geta þess að einn af síðustu stórbændunum í Krýsuvík tók silung úr Elliðavatni og flutti yfir í Kleifarvatn svo að hann á heiðurinn af því að þarna er hægt að veiða silung. Við vatnið er fallegt útsýni en þar er mikið af sérkennilegum klettamyndunum.

Hellirinn eini

Maístjarnan

Í Hellinum eina.

Eftir að hafa skoðað Kleifarvatn höldum við áfram eftir þjóðveginum og stoppum hjá Fjallinu eina. Í næsta nágrenni við það eru tveir hellar, annar þeirra heitir Hellirinn eini og hinn heitir Híðið. Hellirinn eini er um 170 metra langur, hann er víða lágur til lofts en víðast hvar er hann þó manngengur. Það eru dropasteinar og hraunstrá í hellinum. Miklar sprungur skerast þvert á hellinn og mynda litla afhella. Jarðfræðilega séð telst þessi hraunrásarhellir merkilegur fyrir það að hann er skorinn af þessum mörgu og stóru sprungum. Mikil litadýrð er í hellinum sem gerir hann áhugaverðari fyrir vikið.

Híðið

Híðið

Í Híðinu.

Híðið er um 500 metra frá Hellinum eina og því getur verið gaman fyrir þá allra hörðustu að skoða hann líka. Híðið er um 155 metra langur hellir og þröngur, hæstur er hellirinn um 2 metrar að hæð en víðast hvar töluvert minni. Erfitt er að fara um hellinn því sums staðar þarf að leggjast niður og skríða. Mikið er um fallega dropasteina og hraunstrá í hellinum, dropasteinarnir eru nokkur hundruð og hraunstráin talsvert fleiri. Híðið er alveg ósnortið vegna þess að hingað til hafa aðallega hellaáhugamenn farið þangað. En það vill oft fara þannig að vinsælir ferðamannastaðir fara illa út úr mikilli umferð ferðafólks sem því miður gengur oft ekki nógu vel um fallega og athyglisverða staði.

Þetta er síðasti viðkomustaður okkar á þessu skemmtilega ferðalagi um Reykjanesfólkvang og héðan er ekki löng keyrsla upp á Reykjanesbrautina aftur en þaðan ættu allir að rata heim til sín á ný. Þessi upptalning er ekki tæmandi fyrir allt það sem hægt er að skoða á svæðinu en við vonum að við lestur þessarar ritgerðar geti lesandi gert sér það ljóst að á heimaslóðunum leynist ýmislegt skoðunarvert í náttúrunni.
Sá misskilningur virðist vera allsráðandi að það þurfi að aka mörg hundruð kílómetra út fyrir höfuðborgina til að komast í spennandi landslag og fallega náttúru. Þetta svæði hefur upp á allt að bjóða sem íslensk náttúra getur á annað borð boðið upp á. Ef fólk gefur sér tíma til að skoða sitt nánasta umhverfi verður það alveg örugglega hissa á því að sjá hversu margt er í boði. Þarna má sjá bæði spillta og óspillta náttúru, gróðumikil svæði og auðnir, háhitasvæði, fuglavarp, hraunhella og vötn. Til þess að skoða svæðið þarf að vera með opinn huga því að mörgum finnst það í rauninni ekki vera neitt ferðalag að fara svona stutt frá heimahögunum. En eins og áður sagði vill það gerast með Íslendinga að þeir leiti langt yfir skammt.
Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verður það þannig að landinn taki við sér og sjái alla fegurðina sem er við bæjardyr höfuðborgarbúa. Kannski verður það þannig að innan fárra ára verði Reykjanesið eitt mest sótta ferðamannasvæði landsins.”

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 1998, Áhugaverðir staðir í Reykjanesfólkvangi, bls. 28-30.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Járnbraut

Í Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998 mátti lesa; “Draumurinn um eimreið austur í sveitir” eftir Pálma Eyjólfsson.

“Á árunum eftir aldamótin var farið að tala um sjálfrennireiðar eða mótorvagna, en stóri draumurinn var járnbraut oq tvær eimreiðir til að draqa 20 opna 6 smálesta vagna, en þar að auki yrðu 10 lokaðir vagnar og 5 ferðamannavagnar. Dr. Valtýr Guðmundsson vildi veita ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar oq umræðurnar á þingi 1894 urðu svo miklar, að þær fylltu 345 dálka í þingtíðindum.

Eimreið
Á aukaþingi sem haldið var í ágústmánuði árið 1894 var lagt fyrir Alþingi frumvarp, sem nefndist: „Frumvarp til laga um löggildingu félags með takmarkaðri hluthafaábyrgð til að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og í kringum strendur Íslands og leggja járnbrautir á Íslandi m.fl.” Flutningsmenn voru þeir séra Jens Pálsson, sóknarprestur á Útskálum, alþingismaður Dalamanna og Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans og þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu. En það var einmitt á þessu sama ári 1894 sem fyrsta vélknúna millilandaskipið komst í eigu Íslendinga; Ásgeirsverslun á Ísafirði átti það. Potturinn og pannan í stóra málinu, sem kom á borð alþingismanna á þessu sumarþingi var Sigtryggur Jónasson, umboðsmaður Winnipeg. Sigtryggur var þá á fimmtugsaldri. Hann hafði verið skrifari Péturs Havsteens, amtmanns, og húskennari. Þegar Sigtryggur hafði starfað í átta ár hjá Pétri var amtmanni vikið úr embætti. Sigtryggur flutti þá vestur um haf og varð meðal fyrstu landnámsmanna í Kanada. Hann efnaðist á viðarhöggi við járnbrautarfélög og var duglegur að bjarga sér og hneykslaðist á framtaksleysi heimaþjóðarinnar. Hann reisti sér myndarlegt býli og nefndi það Möðruvelli eins og höfuðból amtmanns við Eyjafjörð. Hér er stuðst við bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, sem út kom árið 1971. Og hvert átti svo að verða hlutverk þessa mikla félags? Það var rakið í mörgum greinum frumvarpsins og verður hér aðeins drepið á það, sem varðar Suðurlandið.

Eimreið
„Félagið hefur fullt leyfi og vald til að ákveða legustað fyrir einsporðar eða tvísporðar stál- eða járnbrautar, sem liggi: a) frá Reykjavík suður og austur gegnum Kjósar- og Gullbringusýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Í frumvarpinu var einnig greint frá öðrum sýslum, sem njóta eiga samgöngubóta með járnbrautum, allt norður í Eyjafjörð. Þetta fyrirhugaða félag átti að eiga öll hús við enda; stöðvar á járnbrautunum svo og gistihús. Á járnbrautarstöðvunum átti að selja mat, tóbak, vín og ölföng. Hvað er nú stóriðjan á Íslandi í dag á móti því, sem framkvæma átti eftir frumvarpinu, sem lagt var á borð alþingismanna þjóðarinnar í lok nítjándu aldarinnar?

Vort ferðalag gengur svo grátlega seint
EimreiðinÍ tímariti dr. Valtýs Guðmundssonar, Eimreiðinni, var og farið að skrifa um bifreiðar, sem menn nefndu sjálfhreyfivagna, sjálfrennireiðar, eða mótorvagna þegar árið 1905. Þorsteinn Erlingsson orti “Brautina”, sem ávarpskvæði Eimreiðarinnar. Í ljóðinu eru þessi erindi: En ef við nú reyndum að brjótast það beint, þó brekkurnar verði ekki hærri? Vort ferðalag gengur svo grátlega seint, og gaufið og krókana höfum við reynt og framtíðarlandið er fjarri.

Hvatningarljóðið er tuttugu erindi. Sautjánda erindið er svohljóðandi: Og þó að ég komist ei hálfa leið heim, og hvað sem á veginum bíður, þá held ég nú samt á inn hrjóstuga geim og heilsa með fögnuði vagninum þeim, sem eitthvað í áttina líður. Það þarf átta milljónir króna á næstu tíu árum til að koma atvinnuvegum Íslands til góða og til að bæta samgöngur og verslun landsins.

Eimreið
Stærsti pósturinn í þessari nýsköpun var járnbrautin því með „telgrafþræði” var áætlun 6 milljónir króna. Þannig skrifaði áðurnefndur Sigtryggur í ársbyrjun árið 1889. Þetta var nefnt „Stóra málið”. Fimm árum síðar efndi Sigtryggur til fundar í Góðtemplarahúsinu gamla, sunnan við alþingishúsið, þar sem alþingismenn geyma nú farartæki sín. Enn er gripið í bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, og þar segir svo: „Til þess er ætlast, að hinni fyrirhuguðu járnbraut austur í Árnessýslu fylgi 20 opnir vagnar, er taki sex smálestir hver og 10 lokaðir vagnar, jafnstórir. Enn fremur eiga þar að vera sex ferðamannavagnar, III. flokks handa 32 farþegum hver, en tveir I. flokks handa 18 hver og tveir farþegavagnar. Til dráttar eru áætlaðar tvær eimreiðar. Getur hver eimreið dregið 20 vagna með 25 enskra mílna hraða á klukkustundinni, þar sem hallalaust er eða því nær 10 vagna upp halla 1:25.” Of langt mál er að greina frá umræðum og blaðaskrifum um járnbrautarmálið.

Einn af stóru fundunum í Þjórsártúni
Eimreið
Það var hinn 30. júlí árið 1905 sem einn af þessum stóru fundum var haldinn í Þjórsártúni. Bogi Th. Melsteð var fyrirlesarinn eins og ræðumenn voru þá kallaðir. Hann nefndi erindi sitt „Verslun Íslendinga og samvinnufélagsskapur”. Svona eins og í framhjáhlaupi segir hann í erindi sínu: „Ég heyri, menn nefna járbraut hingað úr Reykjavík. Ég minntist á járnbraut í bæklingi mínum. Framtíðarmálum, fyrir fjórtán árum en vil nú leiða athygli manna að sporbraut fyrir „elektriska” vagna. Slík braut er talin þrisvar sinnum ódýrari en járnbraut þótt báðar séu reknar með gufu. Tveir „elektriskir” „sporvagnar geta flutt 150 manns í einu eða áburð af 150 hestum. Þeir geta hæglega farið á dag fram og aftur jafnlanga leið og héðan til Reykjavíkur. Orkuna til að knýja vagnana mætti fá rétt hjá fundarstaðnum úr Búðafossi í Þjórsá.”

Ræðumaðurinn var nánast á heimaslóðum því hann var frá Klausturhólum í Grímsnesi. Bogi var einn af frumkvöðlum samvinnufélagsskapar og sláturhúsa. Þó að hann hafi á sínum tíma verið þekktastur fyrir sagnfræðirit sitt, hafði hann áhuga á samgöngum með járnbrautum, síma og hitaveitu. En ekki tókst málafylgjumanninum að hrífa þingheim með sér í járnbrautarmálinu. Daufu eyrun voru of mörg. Um aldamótin var talað um járnbrautarferðir frá Reykjavík austur að Þjórsá og var þá höfð í huga samvinna við breska aðila. Dr. Valtýr Guðmundsson var kosinn á þing í Vestmannaeyjum í júnímánuði 1894, en þá um sumarið var aukaþing. Var hann þá helsti forystumaður þess að veita fyrirhuguðu ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar á íslandi og til að halda uppi beinum gufuskipaferðum milli Reykjavíkur og Englands, ásamt strandferðum umhverfis landið. Innan sjö ára skyldi félagið hafa lagt mjóspora járnbraut frá Reykjavík austur að Þjórsá.

Eimreið

Um 1925. Eimreiðin Minör. Við hlið hennar standa eimreiðarstjórarnir f.v. Guðmundur Guðmundsson og Páll Ásmundsson

Aðalforgöngumaður málsins var áðurnefndur Sigtryggur Jónasson, sem staddur var í Reykjavík um þingtímann og taldi sig hafa 900 þúsund króna loforð frá væntanlegum félagsmönnum, ef alþingi samþykkti það tillag úr landssjóði, sem farið var fram á. Þetta var mesta nýmæli um verklegar framkvæmdir, sem nokkurn tíma hafði komið fyrir alþingi. Umræðurnar á þingi fylltu 345 dálka í þingtíðindum 1894. Um járnbrautina var mest deilt, en flestir voru samþykkir gufuskipaferðum enda voru þær miklu betri eftir frumvarpi dr. Valtýs, en þær sem Sameinaða gufuskipafélagið hélt uppi. Frumvarpið um járnbrauta- og siglingafélagið var samþykkt í neðri deild, en til efri deildar kom það svo seint, að ekki var tími til að ljúka málinu og féll það þar með úr sögunni.

Heimsborgarhljóð stundvísinnar

Eimreið

Eimreiðin Minör – nú minnisvarði við Reykjavíkurhöfn.

Það var hinn 17. apríl árið 1913 að fyrsta og eina járnbrautin á Íslandi var tekin í notkun. Járnbrautarteinar lágu frá Öskjuhlíðinni í Reykjavík, sem þá var enn óbyggð, og niður að Reykjavíkurhöfn, sem nú er hin eldri Reykjavíkurhöfn. Grjótflutningarnir voru miklir í þetta stóra mannvirki. Sagt er frá því í blöðum að hinn 10. nóvember 1913 hafi farþegar verið fluttir í fyrsta og eina skipið með járnbrautarlest. Verktakar við Reykjavíkurhöfn breyttu vöruflutningavögnum til að geta flutt blaðamenn og fleiri frá höfninni upp í Öskjuhlíð þar sem grjótnáman var þá. Það mun hafa komið fyrir að Reykvíkingar fengju sér sunnudagsskemmtiferð með Pioneer-eimreiðinni upp í Skólavörðuholt og Öskjuhlíð. Meðan á hafnargerðinni stóð var járnbrautin talsvert notuð til vöruflutninga. Olíubirgðastöð var þá komin í Örfirisey og þangað flutti járnbrautin olíu á tunnum, en á þeim árum var steinolía enn mikið notuð í Reykjavík. Saltað kindakjöt í tunnum, sem þá var góð útflutningsvara, var flutt frá húsi Sláturfélags Suðurlands við Skúlagötu, en skammt þaðan var hið virta fyrirtæki, Völundur og þangað flutti járnbrautin timbur frá skipshlið. Þá var og steypumöl í Landspítalann flutt með járnbrautinni.

Margir muna enn í dag eftir þungum slögum frá eimreiðinni, járnbrautarteinum og hinum reglubundna hvini. Eimreiðarstgórinn flautaði svo undir tók þegar farið var yfir Hverfisgötuna og Laugaveginn, vestan við gömlu gasstöðina og á þeim slóðum þar sem lögreglustöðin var síðar reist. Einnig var flautað hátt og hressilega þegar farið var yfir Hafharfjarðarveginn gamla. Heimsborgarhljóðin glumdu yfir höfuðborginni, hljóð stundvísinnar, sem einkennir járnbrautarferðir út í hinum stóra heimi. Hafnarsmiðjur, rauðmáluð lágreist hús með svörtu þaki, voru á þeim slóðum þar sem síðar kom Miklatorg, austan við Landspítalann. Hafnarsmiðjan var birgðastöð og skýli yfir eimreiðarnar. Ekki var hægt að snúa eimreiðunum við eða breyta stefnu þeirra að Öskjuhhíðinni þannig að þær drógu ýmist farmvagnana eða ýttu þeim á undan sér. Þann 9. mars árið 1913 varpaði gufuskipið Edvard Grieg akkeram þar sem síðar varð hafnarmynni Reykjavíkurhafnar, en þetta skip kom með verkfæri til hafnargerðarinnar og N.P. Kirk yfirverkfræðing. Hálfum mánuði síðar höfðu hundrað manns hafið vinnu við að leggja járnbrautarteina úr Öskjuhlíðinni yfir Melana og vestur á Granda og var því verki lokið um miðjan apríl. Síðan var önnur braut lögð úr Öskjuhlíð yfir Skólavörðuholt og Arnarhólstún og niður á Batterí, á þeim slóðum, sem Seðlabankinn er í dag. Með áðurnefhdu skipi kom ein eimreið, nefnd Minör, og sama sumar kom svo önnur eimreið, nefnd Pioneer. Í árbók Verkfræðingafélags Íslands árið 1914 skrifar Jón Þorláksson, landverkfræðingur, síðar forsætisráðherra, borgarstjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, grein sem hann nefndi: „Áætlunarferðir með eimreið austur í sveitir”. Hér skal gerð stuttlega grein fyrir aðalatriðum úr áætlun um þessa járnbraut, sem minnst er á í riti þessu á öðrum stað: Lega brautarinnar er ráðgerð frá Reykjavík um Þingvelli og Selfoss til Þjórsár, að lengd alls 112 km. Einnig er gert ráð fyrir hliðarálmu frá Selfossi til Eyrarbakka, að lengd 11 km. Hæð yfir sjávarmál mest 275 m. á þessari leið. Gerð brautarinnar: Breidd undirbyggingar er áætluð 4 m. og fylgt þeirri reglu, að gera brautina allstaðar upphækkaða, en hvergi niðurgrafna, til þess að koma í veg fyrir hindranir af snjóalögum.” Þar lét Guðjón í Laxnesi, sem þá var vegaverkstjóri mæla snjóþykktina árin 1912-1918 og aftur 1924-1926, af þessum snjómælingum var ályktað að járnbrautarlest gæti komist yfir Mosfellsheiði alla daga ársins. Guðjón var eins og kunnugt er faðir Halldórs nóbelsskálds.

Eimreið

Eimreiðin við gerð hafnargarða Reykjavíkurhafnar.

Stöðvar eru áætlaðar í Reykjavík, við Selfoss og við Þjórsá og auk þess 16 smástöðvar, sem mjög litlu sé til kostað. Fullkomin rannsókn á brautarstæðinu liggur ekki fyrir ennþá, segir í greininni, heldur aðeins bráðabirgðarannsókn, sem þó er byggð á hallamælingum á mestum hluta leiðarinnar. Eftir áætluninni er jarðrask 7.400 tenm. á hverjum km. aðallínunnar.

Eimreið

Eimreiðin í Vatnsmýri.

Kostnaður til bráðabirgða er áætlaður þannig: Aðalbrautin 112 km, krónur 3,5 milljónir. Álma niður á Eyrarbakka 11 km, kr. 300 þúsund. I þessum kostnaði er borgun fyrir landspjöll ekki meðtalin. Fólksfjöldi á brautarsvæðinu er nú sem stendur full 25.000 manns. Þórarinn Kristjánsson, byggingaverkfræðingur vann á skrifstofu landverkfræðings árið 1912, þá nýútskrifaður frá Kaupmannahöfn, og mældi hann fyrir járnbrautarstæðinu frá Reykjavík um Þingvöll að Selfossi. Þórarinn varð síðar hafnarstjóri í Reykjavík. Árið 1920 skrifar svo Jón Ísleifsson verkfræðingur í Tímarit Verkfræðingafélags Íslands og bendir á aðrar leiðir, sem hann nefnir Reykjanesleiðir. Þær leiðir áttu að liggja frá Reykjavík inn að Elliðaám suður í Hafnarfjörð um Vífilsstaði.

Fyrir sunnan Hafnarfjörð á móts við Hvaleyri áttu leiðirnar að skiptast og átti önnur að stefna í hásuður, milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, um Vigdísarvelli og ofan á Krýsuvíkurbjarg vestanvert. Þaðan meðfram sjó yfir Vogsós og Ölfusárós að Eyrarbakka. Frá Eyrarbakka átti leiðin að liggja upp Flóa að Ölfursárbrú og þaðan að Þjórsárbrú. Hin leiðin átti að liggja frá Hvaleyri í vestur, meðfram sjó suður í Voga og beygja þar til hásuðurs meðfram Sandakravegi, yfir Dalahraun niður að Hraunsvík hjá Ísólfsskála, og þaðan meðfram sjó að Krýsuvíkurbjargi, þar átti þessi vestri Reykjanesleið að mæta hinni fyrrnefndu leið. Eystri-Reykjanesleiðin var talin 126 km löng, en hin vestri 146 km. Þessar leiðir áttu að komu öllum íbúum Reykjanesskagans að notum og vera snjóléttar. Við Reykjanesleiðina voru þá 2872, íbúar en við Þingvallaleiðina 827 íbúar.

“Járnbrautarmálið og samgöngumál suðurlandsundirlendisins”

Eimreið

Eimreiðin í Öskjuhlíð.

Þannig hljóðaði yfirskriftin á tveimur erindum, sem Geir G. Zoéga, vegamálastjóri flutti í mars og aprfl árið 1924. Fyrra erindið byrjar þannig: „Járnbrautarmálið er óefað langstærsta samgöngumálið, sem hjá oss hefur verið á dagskrá. Öllum hlýtur að vera það ljóst, að Suðurlandsundirlendið verður að fá samgöngubót, er veitir því greiða og örugga leið til Reykjavíkur jafnt vetur sem sumar ef þess á að vera nokkur von, að fé það allt, sem þar hefur verið lagt í ræktun beri tilætlaðan ávöxt. Þessi samgöngubót hlýtur að verða annað tveggja járnbraut eða fullkominn akvegur til bifreiðaflutninga.”

Eimreið

Eimreiðin Pioneer og gufuvaltarinn Bríet við Árbæjarsafn.

Í greinargerð vegamálastjóra kemur fram að Stóra málið hafði um árabil legið í þagnargildi, en á alþingi 1921 voru samþykkt lög sem heimiluðu landstjórninni að láta framkvæma fullnaðarrannsóknir járnbrautarstæðis frá Reykjavík og austur um Suðurlandsundirlendi. Snéri landstjórnin sér til stjórnar norsku ríkisbrautanna með beiðni um að fá vel hæfan starfsmann þeirra til rannsókna. Var málinu vel tekið og bent á Sv. Möller, járnbrautarverkfræðing. Í janúarmánuði árið 1924 sendir þessi „baneinspektör” landsstjórninni langa og nákvæma skýrslu með áætlun um stofnkostnað upp á kr. 6.925.000 og er þá miðað við að verkamannakaup sé kr. 1.00-1.10 á klst. Með Sverre Möller vann Valgeir Björnsson verkfræðingur, sem þá starfaði á skrifstofu vegamálastjóra, við mælingarnar og áætlunargerðina. Valgeir varð síðar bæjarverkfræðingur og hafnarstjóri í Reykjavík.

Um járnbrautarstöð í Reykjavík segir norski verkfræðingurinn: „Þar sem hér er aðalstöð og endastöð verður að áætla tiltölulega mikil húsakynni, enda eru stöðvarhúsin, vöruskáli, eimreiðarskáli og smiðja áætluð að kosti um 200 þúsund krónur. Stöðvarstæðið austan við Tjörnina neðst í Laufástúni, neðan við Fjólugötuna, þótti áhugavert en dýrt. Lítum á legu járnbrautarinnar: Járnbrautarstöðin er staðsett austan við Tjörnina og liggur leiðin þaðan til suðurs, en því næst í suðaustur yfir Vatnsmýri, vestan við Eskihlíð yfir Hafnarfjarðarveginn í Fossvogi.

Eimreið
Á þessari leið er hallinn lítill og bugður vel greiðar. Öll leiðin norðan í Fossvogi er mjög hagkvæm, mestur halli 12% vestan við Bústaði, en þar er stuttur láréttur kafli, þar sem stétt verði sett síðar. Því næst er brautin lögð norðan í Breiðholtshálsi að efri Veiðimannahúsum og er þar farið yfir Elliðaárnar. Þá er beygt suður fyrir hálsinn milli Elliðaáanna og Rauðavatns, því næst farið yfir Hólmsá nálægt Baldurshaga, síðan með fram Rauðhólum um túnið á Hólmi og er þar ráðgerð fyrsta stöðin.”

Önnur áætlun var og gerð um stöð í Arnarhólstúni austan við Ingólfsstræti, niður undir sjó en það stöðvarsvæði er af ýmsum ástæðum ekki eins heppilegt, sérstaklega kostar miklu meira að jafna svæðið og enn meira tiltölulega, þegar kemur að því að stækka stöðina. Jafnvel þó stöðin verði sett svo austarlega, að gatan með fram sjónum (meðfram Nýborg og Völundi) verði tekin af, mun kosta 165. þúsund krónum meira að jafna þetta stöðvarsvæði og gera nothæft en stöðvarsvæðið austan við Tjörnina, og enn meiri verður munurinn er kemur að því að færa úr kvíarnar. Leiðin frá hafnarstöðinni inn að Elliðaám er heldur ekki eins heppileg og frá Tjarnarstöðinni.”

Nokkru síðar í skýrslu norska járnbrautarverkfræðingsins er þess getið að Hólmsstöð liggi haganlega með tilliti til Þingvallaumferðar. Eimreiðin verður að staðnæmast hér, segir í skýrslunni, og bæta vatni á ketilinn. Við Kolviðarhólsstöð áttu eimreiðarnar að mætast og enn þarf þar að bæta vatni á ketilinn. Vatnsveitan að Kolviðarhóli er nokkuð dýr eftir áætluninni og eru nefndar 50 þúsund krónur. Kolviðarhóll var á þessum árum þýðingarmikill og vinsæll áfangastaður og rausnargarður. Eftir þessari áætlun átti Ölfusárbrúarstöð að vera fyrst um sinn endastöð austanfjalls. Þar þarf að vera eimreiðarskáli, segir í skýrslunni, – fjölskyldubústaður stöðvarstjóra og herbergi fyrir annað starfsfólk. Verkfræðingurinn telur að 40 km. hraði á klukkustund sé vel fullnægjandi á ekki lengri leið. Í Þrengslunum er brautin hæst yfir sjávarmál, 283 metrar.

Framhaldsskýrsla um járnbrautarmálið var lögð fyrir alþingi 1926. Við þá endurskoðun lækkaði stofnkostnaður verulega. Eftir nýju skýrslunni átti að byggja Reykjavíkurstöðina á svonefnt „Skell” tún austan við Hringbraut, en sunnan við Laugaveg. Þótti sá staður hagkvæmari en neðst í Laufástúninu fyrir neðan Fjólugötu. Í hinni nýju áætlun var gert ráð fyrir sérstöku spori frá Reykjavíkurstöðinni eins og hún er nefnd og niður að höfn og mætti koma fyrir stétt þar, til dæmis við Ingólfsstræti, og nota sem endastöð lesta, ef aðalstöðin þætti vera nokkuð langt frá miðbænum. Í þessari endurskoðuðu áætlun var gert ráð fyrir að Ölfusárstöðin, sem fyrirhuguð var undir brekkunni vestan árinnar gegnt Selfossi, yrði austan Ölfusár og gerir nú járnbrautarverkfræðingurinn ráð fyrir eimreiðarbrú, sem kosta myndi 200 þúsund krónur. Verkfræðingarnir telja að mótorvagnar geti sparað talsverða upphæð með því að nota slík farartæki að einhverju leyti, en segja að sér hafi ekki tekist að gera áætlun þar um. Telur skýrsluhöfundur, að aðalókostur mótorvagna sé, að dráttarafl þeirra upp brekkur sé frekar lítið. Þá kemur greinargerð um rafmagn til rekstrar brautarinnar, en það telur skýrsluhöfundur ekki koma til greina nema að það fáist á mjög vægu verði, enda sé raforkuveitan meðfram brautinni mjög kostnaðarsöm.

Eimreið

Eimreiðin við gerð varnagarða Reykjavíkurhafnar.

Reynsla Norðmanna benti þó í þá átt, að litlar horfur væru á, að rafvirkjun með svo lítilli umferð mundi gerleg. Rekstrarkostnaður bifreiðanna er áætlaður meiri en járnbrautar og munar þar mestu um eldneytiseyðsluna, sem óhætt er að telja að minnsta kosti tvöfalt meiri. Annar liður sem um munar er gúmmí. Þegar hér er komið í skýrslunni er hætt að tala um mótorvagna eins og algengt var í upphafi bílaaldar. Árið 1918 var mikill mjólkurskortur í Reykjavík. Blöðin fjölluðu um mjólkurskortinn og Guðmundur Björnsson landlæknir og alþingismaður, sem hafði setið í bæjarstjórn Reykjavíkur, taldi að mjólkurskorturinn stafaði af því að hér vantaði járnbrautir. Hermann Jónasson búfræðikandidat, sem verið hafði ritstjóri Búnaðarritsins, taldi og að veigamesta lausnin á mjólkurskortinum væri að flytja hey austan úr sveitum að sumarlagi með járnbraut til Reykjavíkur. Geir G. Zoéga varð vegamálastjóri árið 1917 og 1922 varð hann ráðunautur ríkistjórna í málum er snertu notkun bifreiða og í járnbrauta. Í skýrslu hans, sem hann flutti á fundi Verkfræðingafélags Íslands í febrúarmánuði árið 1926, má lesa: „Hvernig sem á málið er litið verður rekstrarafkoma bifreiðanna miklu lakari en Járnbrautarinnar. En mest gætir þó hins, að þær jafnast alls eigi á við járnbraut um að fullnægja þörfum vaxandi umferðar. Nú verður að gera ráð fyrir því, að ræktun Suðurlandsundirlendisins vaxi til muna jafnvel í náinni framtíð”. Í samanburði á járnbrautinni og bifreiðunum er talið að járnbrautin verði tvær og hálfa klukkustund milli Reykjavíkur og Ölfusár en fólksbifreið yrði þrjár og hálfa klukkustund á leiðinni. Endastöð brautarinnar var eins og það er orðað, fyrst um sinn áætluð við Ölfusá. „Jafnframt verður til frekari tryggingar að banna reglubundnar bifreiðarferðir til almennra vöru- og fólksflutninga á þeirri leið. Flutningsgjöldin fyrir vörur með járnbrautinni eru að vísu áætluð svo lág (20 kr. fyrir 1000 kg. milli Reykjavíkur og Ölfusár, sem nú kostar minnst 60 kr.)” Eftir áætluninni átti fargjald með járnbrautinni að kosta kr. 6.50, en kostaði 10 krónur með bílum árið 1926. Hér hefur verið stiklað á fóru og aðeins gripið ofaní skýrslur Geirs Zoéga, vegamálastjóra frá árunum 1924 og 1926.

Eimreið

Pioneer við Árbæjarsafn.

En víkjum nú sögunni austur í Rangárvallasýslu: Það var á útmánuðum árið 1922, að sýslunefndarmenn í Rangárvallasýslu voru búnir að koma sér fyrir í kringum stóra fundarborðið á Efra-Hvoli í Hvolhreppi, að oddviti sýslunefhdarinnar, Björgvin Vigfússon, las nefndarmönnum bréf frá stjórnarráði Íslands þar sem það tjáir sig bresta heimild til að veita kaupgjaldsrétt á landsspildu þeirri úr Kálfholtslandi í Asahreppi sem sýslunefndin hefur tekið á leigu í 100 ár. Jafnframt tjáir stjórnarráð Íslands sýslunefndinni í Rangárvallasýslu, að það finni ekki næga ástæðu til að útvega heimild til sölunnar með sérstökum lögum. Kálfholt var prestssetursjörð um hundrað ára skeið. Þetta er víðlend kirkjujörð, með land að Þjórsá. Þjórsártún og Lækjartún, sem áður hét Kálfholtshjáleiga, eru byggð úr Kálfholtslandi. Árið 1926 bjó í Kálfholtshjáleigu Jón Jónsson, og kona hans Rósa Runólfsdóttir síðar búandi að Herríðarhóli í sömu sveit. 1. mars árið 1926 skrifar Jón sýslunefndinni í Rangárvallasýslu bréf og óskar eftir meðmælum með því, að hann fái keypta jörðina Kálfholtshjáleigu sem var eign Kirkjujarðasjóðs eins og fjölmargar jarðir í Rangárþingi eru. Eftir sýslufundinn sendi sýslumaður Jóni bónda svarbréf þar sem í meginmáli er skráð: „Meirihluti sýslunefndarinnar telur varhugaverða sölu á Kálfholtshjáleigu, vegna væntanlegrar vatnsvirkjunar Urriðafoss og járnbrautarlagningar austur yfir Þjórsá.” Urriðafoss er skammt fyrir neðan Þjórsárbrú. Það var mikið talað og skrifað um járnbrautarmálið á öðrum og þriðja áratug þessar aldar. Hinn 20. mars 1919 sótti fossafélagið Títan um sérleyfi til virkjunar Þjórsár allrar. Hafði norskur verkfræðingur, G. Sætersmoen, athugað rennsli hennar um tveggja ára skeið á árunum 1915-1917. Títanfélagið dró umsókn sína síðar til baka. Ekkert skeði svo í virkjunarmálunum við Þjórsá fyrr en en Búrfellsstöðin var byggð eftir lögum um Landsvirkjun árið 1964.

Eimreið

Eimreiðin Pioneer á Árbæjarsafni.

Enn er málið vakið upp á Alþingi eftir að hljótt hafði verið um það í áratugi. Árið 1980 er borin fram tillaga til þingsályktunar um rafknúna járnbraut. Flutningsmenn eru: Þórarinn Sigurjónsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Jóhann Einvarðsson. Upphaf tillögurnar er þannig: “Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram könnun á hagnýtu gildi þeirra hugmynda, sem upp hafa komið um rafknúna járnbraut til notkunar á mestu þéttbýlisstöð; um Suðvesturlands og austur yfir fjall.” Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er rætt um orkukreppu, gjaldeyrissparnað með meiru. Svo og telja flutningsmenn að járnbraut auki öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar. Flutningsmenn tillögunar telja eðlilegt að gaumgæfilega verði athugað hvort ekki sé hagkvæmt að koma upp rafknúnum farartækjum og rafknúinni járnbraut um þau svæði sunnanog suðvesturlands þar sem flutningar eru mestir.

Í þingskjölum kemur fram, að Þórarinn Sigurjónsson bóndi og alþingismaður í Laugardælum hefur leitað til Hinriks Guðmundssonar, verkfræðings, sem svo aftur leitaði til ráðgjafaverka í járnbrautarmálum í Þýskalandi. Einnig leitar verkfræðingurinn til Almennu verkfræðistofunnar hf. í Reykjavík. Bæði þessi fyrirtæki lýsa sig fús til að vinna saman að þessu verkefni. Þýska fyrirtækið telur að athugun muni taka 6 mánuði og kosta um 450 þús. D.M., um 18,1 milljón krónur. Þórarinn Sigurjónsson segir m.a. í þingræðu 27. janúar 1981: „Með flutningi þessarar tillögu viljum við flutningsmenn fá úr því skorið, hvort ekki sé tímabært að koma upp rafknúinni járnbraut um þéttbýlustu svæði landsins til vöruflutninga og e.t.v. mannflutninga. Meðal annara þjóða er járnbraut talin ódýrasta og afkastamesta flutningatæki á landi sem hægt er að fá, þar sem hún hentar. Og með það í huga, að stöðugt hækkar verð á erlendum orkugjöfum. „Við eigum að nota okkar innlendu orkugjafa og spara þannig erlendan gjaldeyri,” sagði Þórarinn í þingræðu, þegar hann lagði áherslu á að rækileg athugun færi fram á hagkvæmni á rekstri járnbrautar um Suðurland og Suðurnes.

Eimreið

Eimreið í Öskjuhlíðinni.

Í um það bil heila öld hafa umræður um járnbrautarlagnir á Íslandi skotið upp kollinum annað kastið þó með hléum allt til Alþingishátíðarársins 1930, en það ár eru 800 bílar í eigu Reykvíkinga og þörfin á betri vegum á allri landsbyggðinni orðin brýn, en hægt miðaði með hestvögnum á vegum sem ruddir voru með hökum og skóflum. Draumurinn um eimreiðina rættist ekki þó að erlendu sérfræðingarnir, sem hingað komu og athuguðu aðstæður sæju engin vandkvæði á því að leggja járnbraut fyrir eimreið austur í sveit. Í dag eigum við raforkuna og virkjunarmöguleikana, en fátt bendir til þess að innlend orka eigi eftir að knýja hraðlestir um Suðurlandsundirlendið í á nýrri öld.

Ný verkmenning við vegagerð hófst hér á landi með tilkomu þungavinnuvéla í seinni heimsstyrjöldinni og bifreiðar og flugvélar hafa í áratugi sannað ágæti sitt sem góð og örugg samgöngutæki.”

Sjá meira um fyrirhugaða járnbrautarlagningu milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar HÉR.

Heimildir:
-Vaskir menn. Þorsteinn Thorarensen, útg. 1971.
-Tímarit verkfræðingafélagsins 1920, 1924 og 1926.
-Alþingistíðindi: 1980 og 1981.
-Sýslufundargerðir Rangárvallasýslu.
-Eimreiðin. Dr. Valtýr Guðmundsson.
-Járnbrautin í Reykjavík: Árbæjarsafn 1982.
-Íslenskir búfræðikandidatar, Guðm. Jónsson, skólastj.
-Þyrnar: Þorsteinn Erlingsson.
-Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998, Draumurinn um eimreið austur í sveitir, Pálmi Eyjólfsson, bls. 4-6.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Selatangar

Í Morgunblaðiðinu 1967 er grein, sem segir frá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni, Eyjólfi J. Eyfells og Jóhannesi Kolbeinssyni af ferð þeirra á Seltanga.

Selatangar

“Við vorum á leið suður á Reykjanesskaga, ætluðum að koma við hjá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni, þeirri kempu. Ferðinni var heitið að Selatöngum, þar sem gamlar búðatóttir standa enn og vitna um lífsbaráttu fólks með seltu í blóði. Nú hafa þeir safnazt til feðra sinna, sem fundu kröftum sínum viðnám í Tangasundi. Magnús er þaulkunnugur á þessum slóðum. Það eru þeir reyndar einnig félagar mínir í bílnum, Eyjólfur J. Eyfells listmálari og Jóhannes Kolbeinsson smiður, sá vinsæli leiðsögumaður Ferðafélagsins.
Við höfðum áður komið saman að Selatöngum. Það var í fyrravor. Þá var bjart yfir sjó og landi og sæmilegt veður, en hann hryggjaði við ströndina.
Þegar við komum að Selatöngum rýndum við í búðartóttirnar og horfðum yfir sundið. Á meðan dró hann saman í vestrinu. „Hann er fljótur að drífa í”, sagði Jóhannes, og átti við að hann værl fljótur að hvessa. Jóhannes og Eyjólfur eru gamlir sjómenn.
Það má stundum heyra á tungutaki þeirra.
Þegar við ókum heim úr þessari ferð, fórum við fram hjá Hrauni og ákváðum þá að skreppa aftur suður eftir og taka Magnús með.
Nú vorum við aftur á leið að Selatöngum til að uppfylla gamalt loforð, sem við höfðum gefið sjálfum okkur.
SelatangarÍ upphafi ferðar spurði ég Jóhannes um Selatanga.
„Það er bezt að þú spyrjir Magnús á Hrauni um þá”, sagði Jóhannes”. „Ég gæti ímyndað mér að hann kunni skil á sögu þeirra.
Á Seiatöngum var verstöð frá því á 14. öld”, bætti hann þó við. „Þá rann Ögmundarhraun og eyðilagði lendinguna í gömlu Krýsuvík, sem nú heitir Húshólmi og er nokkru fyrir austan Selatanga. Þar má enn sjá gróðurbletti og bæjartóttir”.
Úti var nepjukaldi og það hafði snjóað. Eyjólfur, sem sat í framsætinu, pírði augun og sagði:
„Hann er daufur yfir Reykjanesfjallgarði”.
„Ætli snjói í Grindavík”, spurði ég.
„Ónei”, svöruðu þeir einum rómi.
„Kannski hefði ég átt að koma með koníakspela til að ylja ykkur”, spurði ég.
„Nei”, sagði Eyjólfur, „ég drekk ekki koníak nema í heitu.
Selatangar„Hann vill ekkert kuldaskólp”, sagði Jóhannes. Eyjólfur sagði: „Þegar Helgi lóðs kom eitt sinn fullur heim — hafið þið heyrt það — þá segir konan „Æ”, segir hún, „farðu nú að hátta, Helgi minn, og biddu guð fyrir þér”.
„Ha”, segir karlinn, „guð?
Nei. ég vil engan guð”. „Hann vill ekki einu sinni guð”, segir þá konan”.
Þar með var koníakið úr sögunni.
Jóhannes skimaði í allar áttir eins og gömlum sjómanni sómdi.
„Hann verður líklega hægur í dag”, sagði hann. „Hægur útsynningur, en kular í élinu.
Gæti orðið svolítið brim”.
„Þó það nú væri, þetta opna haf, sagði Eyjólfur.
„En hvað um Selatanga”, skaut ég inn í.
„Þar var útræði fram um 1880″, sagði Jóhannes. „Þá þótti staðurinn útúr og farið að brydda á nýjum tíma í Grindavík og víðar”.
„Ætli þar hafi orðið mikil slys?” spurði ég.
„Óljósar sagnir eru um slys”, sagði Jóhannes. „En ekki áreiðanlegar”.
„Hefurðu séð nokkuð þar, sem bendir til slysa”, spurði ég Eyjólf.
„Nei, ég heyrði bara délítinn söng úr einni tóttinni, þegar við vorum þar í fyrravor.
Já, reyndar hef ég alltaf heyrt söng úr einni tóttinni, þegar ég hef komið að búðunum. Þeir hafa sungið mikið í gamla daga.
En ég heyrði engan söng, þegar við Jóhannes fórum þangað í vor. Þá var eitthvað bölvað rifrildi í einni tóttinni”.
„Já, þú varst að tala um það”, sagði Jóhanrnes. „Ekki heyrði ég það”.
„Nei, þú heyrðir það ekki”, sagði Eyjólfur. „Ég heyrði það aðeins fyrst þegar við komum að tóttarbrotunum, en svo var eins og það dæi út. Ég kom fyrir mörgum árum í herbergi í húsinu Nýlendugötu 19. Húsráðendur, sem voru kunningjar mínir og vissu að ég só stundum ýmislegt, sögðu: „Sérðu ekki eitthvað?”
„Ojú, ekki get ég neitað því.
Selatangar
Ég sé einhvern slæðing”, segi ég. „Það er gömul kerling úti í horni, hún er að bogra yfir einhverju og öll í keng”.
Ég lýsti henni fyrir fólkinu, sem sagði að lýsingin stæði heima. „Þetta er hún Guðrún gamla í Stafnesi, hún átti heima hér og hafði prjónavélina sína í horninu því arna”. Það hefur orðið eitthvað eftir af henni þarna”.
„Orðið eftir”, endurtók ég.
„Já, tilveran er undarleg.
Hún skilar öllu. Þetta voru eftirstöðvar af Guðninu. Hún var þarna auðvitað ekki sjálf. Ég skynjaði engan persónuleika í mynd bennar. Hér sitjum við og tölum saman, og það geymist. En einhvern þeirra sér eða heyrir einhver til okkar. Þá verðum við kannski komnir langleiðina inn á astralplanið.”
Við hlustuðum á Eyjólf, þögðum. Nú talaði sá, sem hafði sjón og heyrn til tveggja heima. Bílstjórinn dró jafnvel úr ferðinni, og var farinn að leggja við hlustirnar. Eyjólfur átti leikinn.
„Það hefur verið mikill söngur í gamla Kleppsbænum”,
sagði hann. „Þegar ég kom fyrst að bænum, var hann yfirgefinn, en uppistandandi.
Þá heyrði ég sálmasöng. Þeir hafa líklega samvizkusamlega lasið húslestrana sína og sungið sálma, gæti ég trúað, kannski ekki veitt af”.
Það varð þögn.
“Hefurðu séð nokkuð”, gaukaði ég að Jóhannesi.
„Nei, ekkert”.
„Jú, hann hefur séð margt”, sagði Eyjólfur. „Hann hefur séð margt fallegt. Hann befur séð há ög tignarleg fjöll í öllum veðrum. Hann hefur hortft yfir öræfin og þekkir ótal örnefni. Hamn hefur séð það sem er etftirsóknarverðast, landið okkar í allri sinni dýrð”.
„Já”, sagði Jóhannes, „það hef ég. En maður þarf ekki að vera skyggn til þess”. „Þú varst að lýsa fyrir mér dularfullri reynslu, þegar við fórum suður eftir í fyrravor”, fullyrti ég.
„Ekki man ég það”.
Ögmundadys
„Þú varðst var við eitthvað í skálanum á Jökulhálsi” sagði Eyjólfur.
„Það var óvera”, sagði Jóhannes. „Ég sá eitthvað, en aðrir sáu það ekki síður. Það var atfarsterk fylgja. Maður, sem var dáinn fyrir 16 árum.
Hann hefur líklega verið að fylgjast með þessu ferðalagi okkar”.
„Kannski hann hafi ekki verið þarna sjálfur, ætli það hafi ekki bara verið hugur hans, sem fylgdist svona sterklega með ykkur”, sagði Eyjólfur.
„Jú, ætli það hafi ekki verið”, sagði Jóhannes. „Og hugur hans hefur þá umbreytzt í persónu hans”.
„Sá sem sézt annars staðar en hann er”, sagði Eyjólfur, „birtist venjulega í réttri mynd sinni. Við skiljuan svo lítið brot af tilverunni, skynjum aðeins yfirborð hennar og misskiljum flest. Við erum, þrátt fyrir góðan þroska á veraldarvísu, mjög ófullkomin”.
Jóhannes stóðst ekki freistinguna, en sagði: „Ég er fæddur og uppalinn að Úlfljótsvatni. Einhverju sinni um haust, eða um líkt leyti og nú — já, það var áreiðanlega í byrjun nóvember — var ég bak við hesthúsið að leysa hey handa beljunum. Það var kvöld og svartarnyrkur. Þá beyri ég að hundarnir gelta. Traðirnar lágu hein að hesthúsinu. Það hafði verið frost, en klökknaði þennan dag og holklakinn farinn að slakna.
Ég heyri að einhver ríður traðirnar heim að besthúsinu, stansar og fer af baki. Ég heyri hringlið í beizlisstöngunum, þegar taumarnir eru teknir fram af hestinum. Einhver gengur að dyrunum, ég legg víð hlustirnar —, maðurinn staðnæmist og kastar af sér vatni. Svo heyrist ekki meir og hundarnir hætta að gelta. Ég geng að hesthúsdyrunum og huga að því, hver geti verið þanna á ferð, en sé engan. Það var meiri ákoman”.
Þetta er nú meiri guðfræðin, hugsaði ég. Svo spurði ég Eyjólf:
„Er ekki sjaldgæft að menn séu að kasta af sér vatni hinu megin?”
Hann hristi sitt silfurgráa höfuð.
„Þú misskilur þetta allt”, sagði hann. „Það sem Jóhannes varð vitni að var ekki annað en gamalt bergmál. Hann upplifir af einhverjum ástæðum, að einhverjum hefur orðið mál fyrir mörgum öldum. Annað er það nú ekki. Ekkert í tilverunni er svo ómerkilegt að það týnist í glatkistuna. En hvernig eigum við, þessir líka maurar í mannsmynd, að skilja að það er ekkert til sem heitir fortíð, nútíð eða framtíð. Það er hægt að sýna kvikmynd eins oft og hver vill, þannig er einnig hægt að upplifa svipmynd þess sem var. Líf okkar geymist á dularfullan hátt”.
Ég sneri mér að Jóhannesi og spurði um dvöl hans á Úlfljótsvatni?
„Faðir minn var bóndi þar í 26 ár”, sagði hann. „Hann dó 25. marz sl. 94 ára gamall.
Hann hét Kolbeinn Guðmundsson. Hann lá ekki rúmfastur nema 3 vikur. Annað hvort voru menn í gamla daga ódrepandi eða ekki”, sagði Jóhannes og brosti.
„Heldurðu að Jóhannes eigi eftir að verða 94 ára”, spurði ég Eyjólf.
„Nei-i”, svaraði Eyjólfur dræmt.

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.

„Heldurðu að hann eigi eftir að verða jafngamall og þú?”
„Það efast ég um:”
„Hvað ertu gamall”.
„Karlinn er orðinn 81 árs”.
„En ég, verð ég 94 ára?”
„Nei, þú verður ekki eins gamall og ég”, sagði hann ákveðið. Ég fór að reikna.
„En verð ég ekki sjötugur?” sárbændi ég hann.
„Maður skyldi ekki forsvara neitt”, sagði hann.
Ég sá að ekki dugði að freista Eyjólfs, svo að ég sneri mér að Jóhannesi.
„Þú manst auðvitað vel eftir Tómasi Guðmundssyni hinum megin við Sogið”, sagði ég.
Jóhannes hrökk við. Hann hefur líklega einnig verið að reikna, hugsaði ég. „Tómasi”, sagði hann, „jú—ojú, en við þekktumst ekki mikið. Hann var eldri en ég. Það bar við að ég kom heim til hans. Hann var ákaflega feiminn við ókunnuga og faldi sig, ef einhver kom. Ég vissi ekki þá, að hann ætti eftir að varpa svo miklum ljóma á Sogið og sveitina; að hann ætti eftir að verða stórskáld”.
Og Jóhannes varð hugsi.
„Tómas var talfár”, sagði hann. „Foreldrar hans voru gott fólk og höfðingjar. Ég fylgdist með því sem unglingur, þegar hann birti ljóð eftir sig i Heimilisblaði Jóns Helgasonar, þá var hann innan við fermingu. Hann orti um æskustöðvarnar, og þar eru Sundin blá”.

Selatangar

Selatangar – tóft.

„Heldurðu að hann eigi við þau — sundin við Sogið”, spurði Eyjólfur undrandi.
„Já, það hefði ég haldið”, svaraði Jóhannes viss í sinni sök. „Hvergi eru blárri sund en við Brúarey í Sogi. Þau blasa við æskuslóðum skáldsins”.
Nú vorum við komnir að kapellunni, hraunhleðslu norðan við húsaþyrpinguna, þar sem álfélagið hefur reist timburþorp til bráðabrigða.
„Hraunið heitir eftir kapellunni”, sagði Jóhannes og benti.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

„Þeir grófu einhvern tíma í þetta og fundu líkneski, ég held frá kalþólskri tíð. Hér hefur verið eins konar sæluhús í miðju hrauninu, enda hraunið hættulegt yfirferðar ekki sízt fyrir hesta. Ósjaldan kom fyrir að þeir fótbrotnuðu og stundum hröktust ferðamenn út að ströndinni.
„Það var önnur kapella í hrauninu”, sagði Eyjólfur.
„Hún hefur farið forgörðum”, sagði Jóhannes.
Eitt sinn komum við Gísli Jónsson bílasmiður að henni og sá ég þá munkinn, en það var ekkert merkilegt. Hitt var merkilegt að Gísli sá hann líka.
„Þetta er furðulegt”, sagði hann, „Þetta hef ég aldrei séð áður. Hann taldi slíkt hégóma og hirti ekki um framhaldslífið. Hann sagðist ekki trúa því, að hægt væri að skyggnast inn í fortíðina og ekki beldur, að unnt væri að sjá framliðið fólk.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Seinna vorum við í veiðiferð saman austur á Baugsstöðum, það var um vor. Við sváfum í dálitilum heystabba, sem var eftir í hlöðunni. Um morgunin var Gísli eitthvað fálátur. Ég innti hann eftir því, hvort honum liði illa. „Í nótt sá ég draug í fyrsta skipti”, sagði hamn. „Hvernig atvikaðist það”, spurði ég. „Jú, ég vaknaði við það, að einhver gekk yfir stabbann og svo áfram í lausu lofti. Þá varð mér ekki um sel”.
Mér er nær að halda að Gísli hafi verið látinn sjá þetta til þess að lina hann í vantrúnni, enda var hann ekki eins stífur á meiningunni upp frá því.”
„Var munkurinn draugur”, spurði ég eins og barn.
„Nei, ég sagði Gísla sem var, að munkurinn væri bara gömul spegilmynd, eftirstöðvar frá liðnum tíma. Þannig skiljum við eftir mynd okkar einhversstaðar í tíma og rúmi, og kannski rekast einhverjir á hana, þegar við erum farnir. Ég fór einhvern tíma á fund hjá Hafsteini, þá kom Gísli upp að vanganum á mér og segir: „Heyrðu, Eyjólfur, heldurðu ekki að þú farir að koma?”
„Ég. Ó, ég veit ekki”, svaraði ég.
Hann var alinn upp í Hróarsholti í Flóa. Þar hefur hann alltaf verið með okkur Jóhannesi nema í sumar, þá varð ég hans í fyrsta skipti ekki var. Þó fannst mér eins og hann hugsaði til okkar. En það var allt og sumt. Hróarsholt er með fallegri bæjarstæðum. Sagt er, að þaðan hafi sézt nítján kirkjur.”

Þorbjörn

Þorbjörn – Klifhólahraun.

„Nú eru nokkrar þeirra úr sögunni”, minnti Jóhannes hann á. Og eitthvað þurftu þeir að bera saman bækur sínar um kirkjufjöldann.
Og nú vorum við komnir á Grindavíkurveginn.
„Þarna er Þorbjörn”, sagði Eyjólfur, „fjall þeirra Grindvíkinga”.
„Þá er nú Esjan tilkomumeiri”, sagði ég.
„Ég reri eina vertíð í Grindavík”, hélt Eyjólfur áfram, „þú varst þar líka, Jóhannes”.
„Já, ég reri þaðan eina vertíð. Það gekk ágætlega. Ég reri frá Nesi — það hefur verið 1927. Við höfðum útræði um Járngerðarstaðasund. Það gat verið varasamt á opnum árabátum”.
„Hvenær rerir þú frá Grindavík Eyjólfur?”
„Ég man það nú ekki, jú, það hefur líklega verið 1904.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Ég reri úr Þórkötlustaðahverfinu”.
„Það var aldrei stórbrim þessa vertíð”, sagði Jóhannes.
„Ekki man ég heldur eftir því”, sagði Eyjólfur.
„Við sýndum ekki af okkur nein þrekvirki”, sagði Jóhannes. „Engin karlmennska eins og þegar Gunnlaugur sýslumaður á Barðaströnd stóð undir mæniás fjóssins og kom í veg fyrir að þekjan hryndi yfir beljuna: „Allþungt þetta hér”, sagði hann. Það var ekki verið að fjasa út af smámunum í þá daga”.
Eyjólfur sagði: „Ég þekkti vel Gísla, bróður Magnúsar á Hrauni, og Margréti konu hans Jónsdóttur frá Einlandi. Þetta var ágætisfólk.
Ég var heimilisvinur á Einlandi. Við strákarnir vorum allir skotnir í Möggu”.
„Þau eru bæði dáin”, sagði Jóhannes.

Einland

Í Einlandi.

„Já, þau Gísli eru bæði farin”, sagði Eyjólfur og bætti við: „Hún var glæsileg stúlka. Ég hélt að Margrímur Gíslason ætlaði að ná í hana. Hann varð seinna lögregluþjónn í Reykjavík, mesti myndarmaður. Þá datt engum í hug að keppa við hann. En hún giftist Gísla”.
Jóhannes sagði: „Þeir bjuggu báðir á Hrauni, bræðurnir Gísli og Magnús. Hafliði, faðir þeirra, var lengi formaður”.
„Hann var eftirminnilegur karl”, sagði Eyjólfur. „Eitt sinn þegar gefin voru saman hjón, bæði ósköp lítil fyrir mann að sjá, var Hafliði svaramaður.
Þegar prestur snýr sér að konunni og spyr, hvort hún vilji manninn, svarar hún ekki. Þá er sagt að Hafliði hafi hnippt í hana og sagt: „Segðu já — segðu já — segðu bara já”.
Og hún álpaðist til að segja já.
„Ætli þetta hafi verið Hákon í Bakka”, sagði Jóhannes: „Það var kot í túnjaðrinum á Hrauni. Ég held að rústirnar standi ennþá. Hákon reri hjá Hafliða og síðan hjá Magnúsi.
Ég held þeir hafi naumast róið nema Hákon væri með”.
Við vorum komnir að Hrauni.
Ég snaraðist út úr bílnum, gekk upp tröppurnar og bankaði. Magnús kom til dyra. Hann var ekki eins hress og oft áður. Þegar ég hafði hitt hann, var hann alltaf nýr eins og Passíusálmarnir.
„Nú erum við komnir”, sagði ég.
„Komnir, hverjir?”

Selatngar

Selatangar – fiskbyrgi.

“Ég er með tvo gamla sjómenn úr Grindavik, Eyjólf Eyfells og Jóhannes Kolbeinsson”.
„Jæja”, sagði Magnús.
„Við erum að fara að Selatöngum. Þú ferð með”.
„Það efast ég um. Það er víst einhver illska hlaupin í mig.
Læknirinn segir að það sé eitthvað í öðru nýranu”.
„Nú, finnurðu til”, spurði ég.
„Onei, ég hef aldrei fundið til”.
„Þetta eru skemmtilegir karlar”, sagði ég.
„Ha, já er það”, sagði Magnús og klóraði sér á hvirflinum.
Svo strauk hann yfirskeggið og fór í gúmmískóna.
Eyjólfur kom í gættina. Þeir heilsuðust. Magnús virti hann fyrir sér. Þeir tóku tal saman.
Það var selta í Eyjólfi, hann var ekkert blávatn. Það hefur Magnús fundið. Einu sinni munaði mjóu að Eyjólfur drukknaði í Loftsstaðasundi.

Grindavík

Grindavík – Magnús á Hrauni í vörinni.

Karlarnir gengu út í bílinn. Ég á eftir. Svo héldum við af stað.
„Ég var hrifinn af Margréti mágkonu þinni á Einlandi, þegar ég var á vertíð hér strákur”, sagði Eyjólfur.
„Hún hefur verið ung þá”, sagði Magnús.
„Já, um fermingu”, sagði Eyjólfur.
„Og varstu skotinn í henni strax”, sagði Magnús og hló.
Við ókum sem leið lá að Selatöngum.
„Ég sé ekki betur en þú sért sæmilegur til heilsunnar, Magnús”, sagði ég. Því að nú kjaftaði á honum hver tuska, ekki síður en okkur hinum.
„Ég er alveg stálhraustur”, fullvissaði hann okkur og sjálfan sig, „mér hefur aldrei orðið misdægurt. En ég á að fara í rannsókn til Snorra Hallgrímssonar. Það er gott að eiga góða menn að. Við höfum farið í rjúpu saman”.
„Þú varst oft á sjó með Hákoni á Bakka, sagði ég.
„Ojá”, sagði Magnús. „En af hverju dettur þér hann í hug?”
„Þeir muna eftir því, þegar hann var giftur”.
„Ha? Hann giftist aldrei”.
„Hvað segirðu?”
Og nú sperrtu Jóhannes og Eyjólfur eyrun.
„Nei, hann bjó með konu, en þau voru aldrei gefin saman í hjónaband”.
Eyjólfur segir honum nú söguna um giftingu litlu hjónanna. Magnús slær á lær sér:
„En þetta er ekki rétt. Það voru gift þarna hjón, en þau sögðu bæði nei”.
“Ha”.

Selatangar

Selatangar – minjar.

„Ég sagði að þau hefðu bæði sagt nei”.
„Nú, og hver voru þau”, spurði Eyjólfur.
„Það voru Einar Árnason póstur og Katrín Þorkelsdóttir”.
„Var sú gifting ekki ólögleg?”
„Nei, nei. Þetta var látið duga í þá daga. Menn voru ekki að gera veður út af öllum hlutum. Það þótti skrítið. En Hákon bjó með konu sem hét Guðmunda Gísladóttir, þau komust vel af”.
Fagradalsfjall blasti við okkur. Þangað höfðum við Magnús eitt sinn farið, gengið upp á fjallið, litazt um eins og landnámsmenn. Ég benti í áttina þangað.
„Það dregur undir sig”, sagði Magnús. „Þetta er lengri leið en maður heldur”.
Mig rak minni til þess.
„Einar póstur og Katrín, voru þau lítil”, spurði Eyjólfur hugsi.
„Já”, sagði Magnús.
„En Hákon og Guðmunda?”
„Guðmunda var há kona og snör. Hún var köttur þrifinn, og prýðilega útlítandi var baðstofan, þó hún væri lítil. En þau Einar bjuggu í moldarkofa”.
„Það hefur þá ekki verið Hákon”, sagði Eyjólfur. „Það hafa verið Einar og Katrín”.
„Það hafa verið þau”, sagði Magnús.

Selatangar

Selatangar – minjar.

„Er Einland uppistandandi?” spurði Eyjólfur.
„Já, þekkirðu ekki Ísleif Jónsson, verkfræðing í Reykjavík?”
„Við erum skyldir”, sagði Eyjólfur.
„Jæja”, sagði Magnús og virti Eyjólf fyrir sér. „Nú sé ég, að það er sami bjarti svipurinn.
Hann er að skinna Einlandið upp”, bætti hann við.
„Já, einmitt”, sagði Eyjólfur.
Við ókum fram hjá Ísólfsskála, Selatangar skammt þar fyrir austan. Á leiðinni töluðu þeir um sitthvað, og það var engu líkara en maður væri kominn hálfa öld aftur í tímann. Þeir töluðu um karl einn, sem „þótti gott að smakka það”, um fólk, sem „hafði orðið bráðkvatt”. Og margt fleira skröfuðu þeir, sem ómögulegt var fyrir ókunnugan að henda reiður á. Magnús minntist á konu, sem hafði átt hálfsystur, „og hún varð sama sem bráðkvödd líka”. Og síðan barst talið að Jóni heitnum á Einlandi, föður Margrétar, og hann varð einnig bráðkvaddur.
„Hann var dugandi sjósóknari”, sagði Magnús, „— áður en hann varð bráðkvaddur”.
„Já, og myndarmaður”, sagði Eyjólfur.

Selatangar

Seltangar – sjóbúðir.

„Og aðsækinn við sjó”, bætti Magnús við. „En viljið þið ekki sjá leiðið hans Ögmundar, sem hraunið er kennt við. Það stendur norðan við veginn”.
„Förum fyrst niður að Selatöngum”.
„Heyrðu Eyjólfur, lenturðu nokkurn tíma í Stokkseyrardraugnum”, spurði Magnús.
„Nei, ég var svo ungur. Þegar við strákarnir heyrðum fyrst af honum, treystum við á, að hann kæmist ekki yfir mýrarnar, því að þær voru á ís og flughálar”.
„Hvað ætli þetta hafi verið?” spurði Magnús.
„Þetta voru engir aumingjar, sem uðru fyrir barðinu á draugnum”, skaut Jóhannes inn í samtalið.
„Fólk var með margvíslegar skýringar”, sagði Eyjólfur.
„Sumir töluðu um kolsýrueitrun í andrúmsloftinu, en það veit enginn”.
„Það flýðu allir úr einni verbúðinni”, sagði Jóhannes, um leið og bíllinn stöðvaðist við Selatanga.
Við lituðumst um.
„Hvar er Magnús?”
„Hann skrapp niður á kampinn að tala við veiðibjölluna”, sagði Jóhannes. „Þeir þekkjast, mávurinn og Magnús. Hann er búinn að skjóta þá svo marga um dagana”.
„Honum er ekki fiskað saman”, sagði Eyjólfur. „Hann er líkur föður sínum, kempukarl”.

Selatangar

Seltangar – sjóbúðir.

Við skoðuðum tóttirnar af verbúðunum og fiskhjöllunum.
Í fyrravor var jörðin algræn, þar sem fiskurinn hafði legið við byrgin. Tólf til fimmtán menn hafa verið við hvern bát, hafði ég lesið mér til. Bragur er til um alla útróðrarmenn, sem eitt sinn voru á Selatöngum, og eru þeir taldir með nafni og hafa þá verið yfir 60. Tóttirnar eru litlar og ég gizkaði á, að þrír til fjórir hefðu verið í hverri verbúð. Þeir sögðu það hefðu minnsta kosti verið sjö, ef ekki fleiri. Af tóttarbrotunum að dæma er hver búð um fimm metrar á lengd og tveir á breidd. Sumar búðirnar hafa jafnvel verið minni. Kannski þeir hafi haft verbúðirnar svona litlar til að halda á sér hita, datt mér i hug. Þarna sáum við einnig hellisskúta. Jóhannes sagði, að hellarnir væru reyndar tveir og hefði annar verið kallaður sögunarkór, þar sem var smíðað, en hinn mölunarkór, þar var malað korn.
Selatangar eru skarð eða afdrep í Ögmundarhrauni. Þar fundu Krýsuvíkurmenn hentugt athafnasvæði eftir hraunflóðið mikla.
Dákon var hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum. Í honum voru landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Næst austan við Dákon er Vestrihlein, en þá Eystrihlein.
Sundið hefur líklega verið vestan undir Eystrihlein og uppsátrið þar beint upp af. Þar upp með hleininni voru bátarnir settir undan sjó. Vega lengdin fré Krýsuvík á Selatanga er um 6—7 km. og um þriðjungur þess vegar apalhraun, svo það hefur ekki verið skipsganga, sem kallað var, að fara þó leið kvöldið og morgnar. Þess vegna hafa verbúðirnar verið reistar þar. Og enn tala þær sínu máli.

Dágon

Dágon á Selatöngum.

Magnús var kominn í leitirnar. Við horfðum yfir kampinn og sundið. Ólög riðu yfir hleinarnar, en ekki á sundið. Það var hreint.
„Þeir þekktu sjóina, karlarnir”, sagði Magnús.
„Ungt fólk nú á dögum mundi líklega deyja af einni saman tilhugsuninni að eiga að sofa í svona hreysum”, sagði ég og virti fyrir mér tóttarbrotin.
„Manneskjan gerir það, sem hún verður að gera”, sögðu þeir.
„Verbúðirnar hafa verið vindþéttar”, sagði Eyjólfur.
Ég hryllti mig ósjálfrátt í herðunum.
„Þeir hafa sótt í þetta hey og mosa”, sagði Magnús.
Svo benti hann út á sundið. „Þeir hafa lent eitthvað eftir áttum”, sagði hann. „Í útsynningi hafa þeir lent vestar, en austar í landnyrðingum, Það er ekki milkil ló við hleinina núna. Þeir hefðu lent í svona sjó. Þarna er eystri hleinin og þarna sú vestri. Þeir lentu á milli hleinanna, í Tangasundi.
Og nú er Dákon horfinn.”
„Það er talvert brim núna”, sagði ég. „Þú segir að þeir hefðu lent í þessu.
„Ætli ekki það, þetta er svaði”, sagði Magnús. „Þeir kunnu svo sem að biða eftir lagi. En hafið þið ekki heyrt að hér átti að vera draugur”, og hann sneri sér að Eyjólfi.
„Jú”, sögðu þeir.

Selatangar

Selatangar.

„Hann var kallaður Tanga Tómas,” sagði Magnús.
„Hefurðu séð hann Eyjólfur? ” spurði ég.
„Nei”, sagði Eyjólfur, „séð hann — nei, nei.”
„Þú ættir að spyrja hann Þórarin Einarsson um hann”, sagði Magnús. „Hann býr í Höfða á Vatnsleysuströnd. Hann er sonur seinasta formannsins hér á Seljatöngum. Þórarinn er faðir Þorvalds Þórarinssonar, lögfræðings í Reykjavík, svo hann á ekki langt að sækja það, að vera þéttur fyrir. Einar, faðir Þórarins, var óbágur að segja frá Tanga Tómasi. Einu sinni var Einar að smíða ausur úr rótarkylfum hjá okkur á Hrauni, þá sagði hann okkur þessa sögu: Guðmundur, bróðir hans, svaf fyrir framan hann og lá með höfuðið útaf koddanum, en sneri sér við í svefnrofunum og færðist upp á koddann, en í sömu andránni kom vatnskúturinn, sem þeir höfðu með sér á sjóinn, en geymdur var í verbúðinni, aflagður þar sem Guðmundur hafði legið með höfuðið.
Þetta bjargaði auðvitað lífi hans.”
„Það var gott að draugurinn drap ekki Guðmund”, sagði Jóhannes. „Hann, átti eftir að eignast 18 börn.”
„Nei, það var ekki hann, þú átt við Guðmund í Nýja Bæ”, sagði Magnús.

Húshólmi

Húshólmi – sjóbúðartóft frá 1917.

„Já”, sagði Jóhannes, og áttaði sig. „Guðmundur í Nýja Bæ var Jónsson, hann reri 1917 úr Húshólma, en þeir urðu að lenda hér á Töngunum”.
„Guðmundur í Nýja Bæ var skírleikskarl”, sagði Magnús, „það var gaman að vera með honum einum. En þegar fleiri voru, varð hann öfgafullur. Lífsbaráttan varð honum þung í skauti, hann varð að treysta á útigang. Tvö barna hans dóu í vetur.”
Við vorum komnir upp á þjóðveginn aftur, og ætluðum sem snöggvast að skreppa að gröf Ögmundar. Á leiðinni þangað segir Magnús allt í einu: „Þessi klettur þarna í hrauninu heitir Latur.”
„Hvers vegna”, spurði ég.
„Það gekk erfiðlega að miða hann — hann gekk illa fyrir, eins og sagt var. Hann bar lengi í sama stað.”
Og nú blasti við Ögmundarhraun milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og fyllir hálfan dalinn. Niður við sjó stóð bærinn Krýsuvík, en uppi í dalnum Vigdísarvellir, fjallajörð í hvammi með hlíðinni norð-vestan við Mælifell. Þar sjást tóttir.
„Ég man vel eftir byggð þar”, sagði Magnús. „Gömul sögn segir, að smali hafi, þegar hraunið brann, bjargazt upp á Óbrennishólma, sunnarlega í hrauninu, vestan við Húshólma”.
Jóhannes sagði að þjóðsagan um Ögmund væri á þá leið, að hann hafi átt að vinna sér það til kvonfangs að ryðja veg yfir hraunið, en var drepinn að verki loknu. Aðstandendur konunnar treystu sér víst ekki til að vinna á honum fyrr en hann var orðinn örmagna af þreytu. Þá hertu þeir upp hugann og drápu hann.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

„Ögmundur sofnaði við hraunbrún, þar sem leiðið er og þar drápu þeir hann”, bætti Magnús um frásögn Jóhannesar. „Nú er hrunið úr leiðinu. Þeir ættu að varðveita það betur. Ég er að vísu ekki fylgjandi því að raska ró þeirra dauðu, en það mætti vel ganga betur um leiðið.”
Ég ætlaði eitthvað að fara að minnast frekar á Ögmund, en þeir fóru þá að tala um sjómennsku í gamla daga og ég komst ekki upp með moðreyk. Það var eins og bíllinn breyttist skyndilega í gamlar verbúðir. Það er munur að róa nú eða áður, sögðu þeir.
„Þá var alltaf andæft á árunum”, sagði Magnús til að uppfræða mig. „Þá var línan tvö til þrjú pund og geysisterk og vont að draga hana. Einhverjum hefði minnsta kosti þótt það sárt í dag. Sumir fengu blöðrur.
„Betur á bak og báðum áfram”, var sagt þegar austanátt var og vesturfall, og þegar línan festist sló alltaf á bakborðið. Það þurfti alltaf manni meira á bakborða í andófi. Þess vegna var sagt; Betur á bak. Þá þurfti að nota árarnar til að róa að línunni.”
Og svona héldu þeir áfram að tala saman um löngu liðna daga. Ögmundur var gleymdur. Ég var að hugsa um að koma við hjá Þórarni gamla í Höfða.
Eyjólfur hafði, okkur öllum á óvart, komið með flösku af líkjör. Hann var farinn að hvessa, eða setja í, eins og karlarnir hefðu sagt. Ég sá verbúðirnar gömlu fyrir mér, og skinnklædda karlana. Ég hugsaði um það sem Magnús hafði sagt: „Það er ekki mikil lá við hleinina; það heitir öðru nafni: sogadráttur og þar er lending stórháskaleg. Ég mundi vel eftir lýsingum Magnúsar Þórarinssonar, sem oft kom niður á Morgunblað, á meðan hann var og hét. Hann var einbeittur og ákveðinn, með auga á hverjum fingri Hann var fyrsti mótorbátsformaður í Sandgerði. Það var eins og sjór og reynsla hefðu lagzt á eitt um að tálga persónu hans inn að hörðum kjarnanum.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Magnús tók saman bók, sem heitir „Frá Suðurnesjum”. Merkisrit. Þar segir, að ef skip tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu. Sogaði þá óðara undan, svo að skipið varð á þurru og lagðist á hliðina. Næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífeilt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo að ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó að sjór væri undir hendur eða í axlir, en ekkert bundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu.
Þetta hugsaði ég um og myndin skýrðist í huga mínum. Ég sá karlana standa í kampinum á Selatöngum í brók og skinnstakk, hvorttveggja heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Mátti vel svalka í sjó þannig búinn án þess að verða brókarfullur, eins og kallað var ef ofan í brókina rann.

Grindavík

Magnús á Hrauni í vör.

Stundum kom fyrir að láin var svo mikil að ólendandi var á venjulegan hátt. Þá var fiskurinn seilaður úti á lóninu, seilarnar bundnar saman og færi hnýtt við, en einum manni falið að gefa út færið og annast seilarnar að öllu leyti. Og svo var beðið eftir lagi til að lenda skipinu tómu, tóku þá allir til ára eftir skipun formanns, á þriðju stóröldunni, sem var jafnan hin síðasta í ólaginu, eftir hana kom délítið hlé á stórbrotum; var það kallað lag. Þá var róið með fullum krafti, árar lagðar inn í skipið í fljótheitum. Þegar krakaði niður, hlupu allir útbyrðis og brýndu skipinu upp úr sjó, áður en næsta ólag kæmi. Stundum komu aðrir, sem tækifæri höfðu og hjálpuðu til.
Þannig stóðu Selatangar mér fyrir sjónum. Hver myndin tók við af annarri, reis og hneig í huga mínum eins úthafsaldan við ströndina.
„Ég var oftast aðeins með eitt skinn”, sagði Magnús upp úr þurru.
„Jæja”, sagði Eyjólfur.
“Ég var oft holdivotur”, sagði Magnús.
„Það vorum við aldrei fyrir austan”, sagði Eyjólfur.
“Ojú, maður var oft þvalur. Þetta var helvítis vosbúð”, sagði Magnús.
Aftur hljóp í mig hrollur.
Ég var farinn að hlakka til að koma heim og leggjast eins og hundur við sjónvarpið.
Við höfðum ekið fram hjá Ísólfsskála á heimleið. Körlunum hafði ekki orðið orðs vant. Nú töluðu þeir um Guðmund á Háeyri.
Magnús sagði: „Róiegir drengir, ekki liggur mér á” sagði hann þegar var að verða ófært, hann vissi hvað það gilti.”
Eyjólfur sagði: „Guðmundur var kominn að Eyrarabakkasundi og búið að flagga frá, talið ófært. Þá sagði hann: „Við skulum stöðva snöggvast hér rétt utan við sundið”, og stendur upp og horfir þegjandi fram á brimgarðinn og segir svo enn: „Nei, sko andskotans brimið” — og rétt í sömu svifum: „Takið brimróður inn”, og þeir höfðu lífið. Hann umgekkst ólögin eins og leikföng. En þau voru það ekki fyrir óvana”, bætti Eyjólfur við og vissi af eigin reynslu, hvað hann söng.
Magnús sagði að Guðmundur hefði stundum hikað við að fara inn af ótta við að önnur skip kæmu kannski á eftir og mundu ekki hafa það. Þá segir Eyjólfur: „Jón Sturlaugsson á Stokkseyri hikaði stundusm líka, vegna þess að hann bjóst við að aðrir mundu fylgja sér eftir. Hann var einnig afbragðs sjómaður. Og honum var ekki heldur fisjað saman, honum Hafliða föður þínum. „Ó, þetta er bara þurraslydda, þurraslydda”, sagði hann . . .

Selatangar

Selatangar – Katlahraun.

„Þetta hefur þú heyrt”, sagði Magnús og glaðnaði við.
Svona göntuðust karlarnir, meðan myrkrið datt á. Þeir töluðu vm Berg í Kálfhaga og sögðu, að Guðmundur á Háeyri hefði haft hann handa körlunum sínum til að grínast með. Einhvern tíma segir Bergur, „það er óhætt upp á lífið að róa hjó Guðmundi é Háeyri, en aðköllin ósköpin.”
„Róðu nú Bergur, róðu nú Bergur, og róðu nú helvítið þitt Bergur”, sagði Guðmundur víst eitt sinn í róðri.
Og í annað skipti bar það til tíðinda, eins og oft var, að bóndi ofan úr sveit fékk að róa hjá Guðmundi til að fá í soðið fyrir heimili sirtt. Þegar þeir höfðu ýtt á flot var venja að taka ofan sjóhattinn og lesa sjóferðabæn. Bóndinn hafði bundið á sig hattinn og átti erfitt með að ná honum af sér. Þá kallar Guðmundur formaður og segir: „Ég held þú getir lesið Andrarímur eða einhvern andskotann, þó þú sért með helvítís kúfinn á hausnum”.

Hraun

Hraun.

Og nú blasir við Hraun.
Þarna á ströndinni hafa orðið Skipstapar. Magnús hefur áður sagt mér af þeim: Franska togaranum Cap Fagnet, sem strandaði sunnan undir Skarfatöngum aðfaranótt 24. marz. 1931, og St. Louis, enskum togara, sem strandaði snemma í janúar 1940 í Vondu fjóru. Öll skipshöfnin var dregin í land í björgunarstól nema skipstjórinn. Hann kom ekki út úr brúnni nærri strax. Björgunarmenn biðu eftir honum í allt að 10 mínútur áður en hann sást á brúarvængnum. Hann fetaði sig niður á dekkið og fram að vantinum. En þegar hann var kominn að björgunarstólnum, féll hann allt í einu aftur yfir sig og ofan í ólgandi brimlöðrið. Þar varð hann til.
Magnús á Hrauni hefur margt séð og margt lifað. Hann hefur marga fjöruna sopið.” – M.

Heimild:
-Morgunblaðið, 264, árg. 19.11.1967, Var munnkurinn draugur?, bls. 1-5.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Eldgos

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi, sbr. nýjasta eldgosið í Geldingadal í Fagradalsfjalli.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða” . Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld” og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað. Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999. Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar. Þannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 . Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Vafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs .
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér.  Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900.

Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan aldur.

Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta.

Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar.

Þegar Krýsuvíkureldar loguðu var aðalgosið árið 1151. Í því gosi opnaðist 25 km löng gossprunga, og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan er það Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður við sjávarbakkann.
Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan í Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurberg.

Hér á eftir má sjá nokkrar umfjallanir um afmörkuð hraun:

Svínahraun — Kristnitökuhraunið
Kristnitökuhraun
Sýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna. Hins vegar er landnámslagið
ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan . Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlulagið frá um 1495 ofan á því (. Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði) og teljast um 0,24 km Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun

Rjúpnadyngjuhraun

Rjúpnadyngjuhraun.

Í nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og [Húsfells] er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir
landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp. Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf. Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur.
Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á.
Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Vestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Breiðdalur

Breiðdalur.

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun. Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið. Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C” ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Gráfeldur á Draugahlíðum

Gráfeldur

Gráfeldsgígur í Draugahlíðum.

Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 . Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun

Tvíbolli

Tvíbollar.

Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins . Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C'4 ár, en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Norðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk. Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli
Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann. Annar straumur hefur fallið vestur um skarðíð milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur
Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells. Gvendarselshraun er því yngra undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhraun – loftmynd.

Eins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á
sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við
þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Ekki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km. Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið . Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið
fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt. Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því.
Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Hraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt því 0,44 km en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.
Út frá þeím skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár.

Eldborg við Trölladyngju

Eldborg

Eldborg við Trölladyngju.

Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann.
Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Í jarðfræði Reykjanesskaga (eftir Jón Jónsson 1978,) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að
grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg. Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast. Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

Nöfn á hraunum á Reykjanesskaga.
1. Rjúpnadyngjuhraun
2. Húsfellsbruni
3. Tvíbollahraun (Hellnahraun eldra)
4. Grindaskarðahraun (Hellnahraun yngra)
5. Þríhnúkahraun
6. Þjófakrikahraun (Eyrahraun)
7. Kristjánsdalahraun
8. Hellur
9. Markrakahraun (Hellnahraun yngra)
10. Dauðadalahraun (Hellnahraun eldra)
11. Skúlatúnshraun (Hellnahraun eldra)
12. Búrfellshraun
13. Flatahraun (Búrfellshraun)
14. Selgjárhraun (Búrfellshraun)
15. Svínahraun
16. Urriðakotshraun (Búrfellshraun)
17. Vífilsstaðahraun (Búrfellshraun)
18. Stórakrókshraun (Búrfellshraun)
19. Garðahraun (Búrfellshraun)
20. Gálgahraun (Búrfellshraun)
21. Klettahraun (Klettar)
22. Mosar (Eldborgarhraun)
23. Smyrlabúðahraun (Búrfellshraun)
24. Gjárnar (Búrfellshraun)
25. Norðurgjár (Búrfellshraun)
26. Seljahraun
27. Gráhelluhraun (Búrfellshraun)
28. Lækjarbotnahraun (Búrfellshraun)
29. Stekkjahraun (Búrfellshraun)
30. Sjávarhraun
31. Hörðuvallahraun (Búrfellshraun)
32. Hafnarfjarðarhraun (Búrfellshraun)
33. Helgafellshraun (Stórabollahraun)
34. Kaldárhraun (Búrfellshraun)
35. Brunahryggur
36. Óbrinnishólabruni
37. Arnarklettabruni
38. Stórhöfðahraun (Hellnahraun yngra)
39. Kornstangarhraun
40. Selhraun (Eldra Afstapahraun)
41. Hellisdalshraun
42. Hellnahraun
43. Leynidalahraun
44. Hvaleyrarhraun (Hellnahraun eldra)
45. Hraunhólshraun
46. Nýjahraun
47. Háibruni
48. Bruni (Kapelluhraun/Nýjahraun)
49. Hrauntungur (Hrútagjárdyngjuhraun)
50. Brenna
51. Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn)
52. Snókalönd (Hrútagjárdyngjuhraun)
53. Hrútadyngjuhraun
54. Almenningur (Hrútagjárdyngjuhraun)
55. Hólahraun
56. Sauðabrekkuhraun (Sauðabrekkugígar)
57. Fjallgrenshraun (Sauðabrekkugígar)
58. Brundtorfuhraun (Brunntorfuhraun)
59. Hafurbjarnarholtshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
60. Stórhólshraun
61. Eyjólfsbalahraun
62. Bringur (Hvammahraun)
63. Einihólshraun
64. Merarhólahraun
65. Rauðhólshraun (Kapelluhraun)
66. Tóhólahraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
67. Þúfuhólshraun
68. Sléttahraun (Búrfellshraun)
69. Laufhólshraun (Hrútargjárdyngjuhraun)
71. Meitlahraun (Eldborgarhraun)
72. Bekkjahraun (Hrútargjárdynguhraun)
73. Brenniselshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
74. Katlar (Hrútagjárdyngjuhraun)
75. Draughólshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
76. Flár (Hrútagjárdyngjuhraun)
77. Rauðamelshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
78. Ögmundarhraun
79. Katlahraun (Moshólshraun)
80. Leggjabrjótshraun (Höfðagígahraun)
81. Beinavörðuhraun (Sunhnúkahraun)
82. Illahraun
83. Bræðrahraun og Blettahraun (Eldvarparhraun)
84. Eldvarparhraun
85. Stampahraun
86. Eldvörp
87. Þríhnúkahraun
88. Hellisheiðarhraun
89. Eldborgarhraun
90. Eldborgahraun
91. Hnúkahraun
92. Dauðadalahraun (Hnúkahraun)
93. Kistufellshraun
94. Draugahlíðahraun
95. Heiðin há
96. Leitarhraun
97. Þurárhraun
98. Astapahraun
99. Kálffellshraun

Heimild:
-https://redlion.blog.is/blog/redlion/

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga – Geldingadalur mars 2021.