Krýsuvík

Gengið var um svæðið í kringum Krýsuvíkurkirkju og tóftir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Hnausa skoðaðar. Krýsuvíkurkirkja á sér langa sögu. Athyglinni var því einkum beint að kirkjunni að þessu sinni, sögu hennar að fornu og nýju. Til hliðsjónar var lýsing Ólafs Þorvaldssonar er hann ritaði í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961. Í henni segir hann m.a.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

“Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.
Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að “Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja um 1940.

Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.

Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.

Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. Sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.”
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Krýsuvíkurkirkja
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami “huldi verndarkraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um “hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur”, og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.
Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.
Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, – en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík. Síðasti bóndinn.

Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, – en “kirkja fyrirfinnst engin á staðnum”.
Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.
Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla “hverakippi”.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja 2010.

Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar.
Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810 – Holland.

Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd “timburhús”.

Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn.”
Staldrað var við hjá leiði Sveins Björnssonar, málara og yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, en hann var síðastur grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Vogar

Gengið var að Gvendarstekk ofan við Voga og síðan haldið til vesturs um holtið að Gvendarbrunni. Þá lá leiðin niður í bæinn og götur þræddar að Suðurkoti. Skammt norðvestan við húsið er Suðurkotsbrunnur. Hann var skoðaður.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Gvendarstekkur er skammt vestan við þjóðveginn niður í Voga, skammt ofan hólinn Skyggni, en hann stendur rétt norðan við svokallað þurrkhús Jóns heitins Benediktssonar frá Suðurkoti (1904-1984). Ofan þurrkhússins og hólsins er trjárækt Ungmennafélgsins Þróttar frá árinu 1951. Standa lágvaxin grenitré sunnan undir fallegum, grónum, en nafnlausum hól. Ofan við hann er annar ámóta hóll og utan í honum sunnanverðum er stór tóft, sem heitir Gvendarstekkur. Þarna virðst hafa verið fjárborg, en enginn veit lengur frá hvaða bæ hún var.
Gvendarbrunnur er milli Leirdals og efstu húsanna í Vogunum. Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1160-1237) er sagður hafa vígt brunninn. Hann er lítil hola við klappir og er oftast eitthvert vatn í henni.

Suðurkot

Suðurkot í Vogum.

Suðurkot er eitt af gömlu húsunum í Vogum. Eftir nokkra leit og eftirgrennslan hafðist upp á gamalli konu skammt frá húsinu. Aðspurð um brunninn við Suðurkot gekk hún án hiks að þúst við götukantinn norðvestan við húsið, benti á hana og sagði: “Þarna er hann, brunnurinn, sem var.” Lok hafði verið sett á hann svo enginn færi sér að voða og með tímanum hefur hlaðist utan í og ofan á hann grús frá veginum. Í dag er þessum merkilega brunni lítill sómi sýndur, en tilvalið væri að gera hann upp og hafa hann sýnilegan fyrir áhugasama vegfarendur sem dæmigerðan brunn við hús eða bæ á Ströndinni fyrrum daga.
Frábært veður. Gangan tók 59 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

Bieringstangi

Árni Óla skrifaði bókina „Strönd og Vogar“ 1961. Í bókinni fjallar Árni m.a. um „Bieringstanga“ og nágrenni hans á Vatnsleysuströnd:

„Hann [Bieringstangi] er fyrir sunnan Brunnastaðahverfið, og mun þar hafa verið útræði afar lengi. Vörin þar var hin stærsta á Ströndinni og hlaðnir kampar beggja vegna við hana fram í sjó. Var norðurkampurinn meiri og mátti lenda við hann bátum til uppskipunar.

Bieringstangi

Eldhús á Bieringstanga.

Sumarið 1844 giftust þau Þórunn Hallgrímsdóttir, systir Egils í Minni-Vogum, og Andrés Gottfred Pétursson, og voru gefin saman af séra Sveinbimi Hallgrímssyni, er þá var aðstoðarprestur að Kálfatjörn. Segir hann í kirkjubókinni um brúðguðmann, að hann sé „fisktökumaður á Tangabúðum hjá Brunnastöðum“.
Þá hafa verið komin þar salthús og fisktökuhús. Seinna fékk þessi útgerðarstöð nafnið Bieringstangi og var kennd við Móritz W. Biering, er seinast var kaupmaður í Reykjavík og drukknaði á skipi sínu undan Mýrum í nóvember 1857. Hann var fyrst verzlunarstjóri Flensborgarverzlunar í Keflavík 1837—1842. Er því líklegast, að sú verzlun hafi látið reisa salthúsin tvö, sem á Tanganum voru. Þau voru smíðuð úr 1 3/4 þml. borðum með síum milli samskeyta, og var það gamalt byggingarlag. Á loftum þeirra voru verbúðir. Nú var það málvenja að kenna verzlanir við verzlunarstjórana, og hefir Flensborgarverzlunin í Keflavík sennilega verið kölluð „Bieringsverzlun“, meðan hann stýrði henni, og þá eðlilegt að búðirnar drægi nafn af honum.

Bieringstangi

Bieringstangi – áletrun á sjávarklöpp.

Annars var þessi verzlun lögð niður 1842, og varð Biering þá forstjóri Flensborgarverzlunar í Reykjavík og keypti hana 1850. Mun hann þá enn hafa rekið útgerðarstöðina á Tanganum, og má því vera, að hann hafi ekki verið kallaður Bieringstangi fyrr en Biering eignaðist verzlunina. Umhverfis þessa stöð risu svo upp tómthúsmannabýlin Vorhús, Hausthús, Töðugerði og Grund. Þarna var gert út fram um seinustu aldamót. Seinasti útgerðarmaður á þessum stað var Magnús Torfason, kallaður „dent“, ættaður frá Naustakoti. Hann svaf sjálfur uppi á lofti í annarri búðinni, en sjómenn hans á lofti hinnar búðarinnar. Magnús var snyrtimenni mikið og kunnur framreiðslumaður í veizlum í Reykjavík. Hann reri aldrei sjálfur. Seinasti formaður hans var Hallgrímur, sonur Andrésar Gottfreds Péturssonar. Þarna var og önnur útgerðarstöð, sem nefnd var Klapparholt. Var vör hennar skammt fyrir vestan Tangavörina. Þar gengu jafnan 4-5 skip. Þar gerði Þórður Guðmundsson á Hálsi út og hafði umsjón með salthúsi, er þar var.
Ég lét nú í ljós, að mig langaði til þess að skoða Bieringstanga. Þeir bræður, Árni hreppstjóri og Egill kennari, kváðu velkomið að fylgja mér þangað.
Bieringstangi
Við gengum svo fyrst niður að vörinni, sem Egill gamli Hallgrímsson, afi þeirra, hafði látið ryðja, og hlaðið öfluga grjótgarða beggja vegna langt út í sjó til að skýla henni. Þarna í vörinni höfðu þeir haft uppsátur báta sinna feðgarnir, hann og Klemens, og síðar þeir Klemens og Hallgrímur mágur hans. Fyrir ofan á sjávarkambinum áttu þeir sína sjóbúðina hvor og var nokkurt bil á milli þeirra. En þar höfðu þeir gert öflugan skjólvegg, svo að milli búðanna mynduðust skjólkvíar, sem voru ágætt athafnasvæði. Á sjávarkambinum höfðu þeir gert fiskreita, og þar var einnig lifrarbræðsluhús. Nú er þetta allt horfið, nema vörin og grunnar húsanna.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Við höldum svo inn með sjónum, fram hjá Grænuborg og inn á Bieringstanga. Er það alllöng leið, enda er þá komið inn í Brunnastaðahverfi. Landslag er þama breytilegt, hraunhólar og klappir með grónum dældum á milli og mýrarsundum sums staðar. Að vestanverðu á tanganum hefir stöðin verið. Sér þar enn steyptan botn úr salthúsi og móta fyrir grunni annars húss, og sums staðar eru leifar af grjótbyrgjum, þar sem fiskur var saltaður. Byrgi þessi voru ekki stór, hlaðin tóft úr tómu grjóti allhá, og síðan flatreft yfir. Niðri á sjávarkambinum voru fiskreitarnir, en þeirra sér nú ekki stað, nema hvað grjótið er þar, og hefir sjórinn brotið það upp og hlaðið því allavega.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt frá stöðinni eru rústir býlanna Vorhúsa, Hvamms, Hausthúsa og Klapparholts, og umhverfis þau ræktaðir túnblettir. Þarna var byggð nokkuð fram á þessa öld, en nú er allt komið í eyði. Einhver einkennileg kennd grípur mann, þegar reikað er um þennan grýtta sjávartanga, þar sem einu sinni var fjörugt athafnalíf, en nú ekki annað en vesalar rústir. Þessi staður er eitt af talandi táknum breyttra atvinnuhátta og að nú er komin ný öld.
Við fórum aðra leið til baka, gengum upp á gamla veginn, sem var þjóðbraut frá landnámstíð og fram til 1912, þegar akvegurinn kom í stað hennar. Frost og regn, snjór og leysingar hafa farið ómjúkum höndum um gamla veginn, svo að varla sést móta fyrir honum. Og þó eru enn uppi menn, sem muna það, þegar stórar skreiðarlestir þræddu þennan veg dag eftir dag. Svo skammt er milli gamla tímans og nýja tímans, — og gamli vegurinn hvarf með gamla tímanum.

Bieringstangi

Magnús Ágústsson og Haukur Aðalsteinsson við skipsflak á Bieringstanga.

Fleiri útróðrastöðvar voru þarna, svo sem Kristjánstangi. Þar var saltgeymsla, en ekki fisktaka. Í Eyrarkoti, sem var niðri við sjóinn fram af Vogum, voru einnig viðleguskip. Í Minni-Vogum hóf Geir Zoega farsælan útgerðarferil sinn.
Mælt er, að bændum þar syðra hafi þótt orðið nokkuð þröngt fyrir dyrum hjá sér um 1876, er svo margir „útlendingar“ höfðust þar við á vertíðinni. Segir sagan, að bændur á Strönd, Vogum og Njarðvíkum hafi þá tekið sig saman um að leigja ekki uppsátur og upp úr því hefði svo Reykvíkingar og Seltirningar flutt sig suður í Leiru og Garð. Þessu ber vel saman við skrárnar um spítalafiskinn, því að þá fækkar aðkomubátum þarna óðfluga. Árið 1879 eru þar ekki taldir nema 10 „útlendingar“ og árið 1880 eru þeir aðeins sex.“

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Hólmabúðir og Bieringstangi, 1961, bls. 168-173.

Vorhúsbrunnur

Vorhúsabrunnur.

Grindavíkurhöfn

Fyrstu grindvísku árabátarnir voru litlir, jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra enda ekki ætlunin að veiða mjög mikið heldur aðeins í soðið.
Bátarnir stækkuðu smám saman. Talið er að um miðbik 14. aldar Grindavikurhofn-1hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Mikið var um að bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína í verið á Suður-og Vesturlandi á vetrarvertíð. Fiskur var allur þurrkaður og ef ekki viðraði til að þurrka var fiskurinn settur í kös og geymdur í hlöðnum fiskbyrgjum.
Árið 1780 gengu til veiða úr Grindavík á vetrarvertíð 27 heimabátar, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 feræringar. Aflinn hjá þessum bátum voru 105.280 fiskar. Upp úr 1860 fór bátum að fjölga verulega í Grindavík og sést það á að 1871 voru 18 bátar í Grindavík, en árið 1898 voru þeir orðnir 62. Eftir 1900 voru menn farnir að veiða í net og jókst aflinn til mikilla muna. Ekki eru netin aðalástæðan fyrir auknum afla, heldur er talið að óvenjumikill þorskur hafi verið á miðum Grindvíkinga á árunum 1912- 1927.
Vélbátaútgerð hófst í Grindavík á árunum 1924-1928, talsvert á eftir öðrum nálægum byggðalögum. Ástæðan fyrir því að Grindvíkingar tóku ekki vélbáta fram yfir árabátana fyrr, var sú að lendingarskilyrði voru mjög slæm. Fyrstu vélbátarnir voru áttæringar sem breytt var og vél sett í. Það hefur verið gífurleg bylting fyrir sjómenn að komast á vélbát og losna við þungan róðurinn.
Grindavikurhofn-2Árið 1928 var síðasta árið þar sem árabátar voru notaðir við veiðar í Grindavík og nú voru vélbátar eingöngu við líði og aflabrögð voru mjög góð. En eitt skyggði þó á og það var hafnleysið. Með framkvæmdum sem þá tóku við gjörbreyttust aðstæður til útgerðar í Grindavík og nú risu upp fyrirtæki sem keyptu og ráku stóra báta. Hafist var handa við að byggja Hraðfrystihús rindavíkur og var fyrsta  verkefni þess frysting beitusíldar. Nokkrum árum síðar var svo stofnað hraðfrystihús í Þórkötlustaðahverfi. En með auknum fiski að landi fylgdi meiri úrgangur og eitthvað varð að gera við hann. Þörfin jókst til muna þegar var farið að salta síld í Grindavík, en fyrsta síldin var söltuð þar hinn 19 september 1945. Úr varð að byggð var beinavinnslu og lýsisbræðsla sem hlaut nafnið Fiskimjöl og Lýsi og var það almenningshlutafélag.

Hafnargerð
Grindavikurhofn-3Á fyrri öldum, og allt undir síðari heimsstyrjöld, ýttu Grindvíkingar bátum sínum á sjó og lentu í vörum. Var þá oftast svo, að ein vör a.m.k. fylgdi hverju lögbýli. Þær voru flestar við vik eða víkur, sem gengu inn í ströndina. Í þeim var eilítið meira skjól en utar, brimaldan sumstaðar lítið eitt minni og setningurinn nokkru hægari. Í flestum þeirra var þó lending bæði bág og hættuleg.
Engum sögum fer af lendingabótum í Grindavík fyrir 1800. Bændur hafa vafalaust hreinsað varirnar eftir því sem þörf krafði og kostur var, en meira gátu þeir ekki. Gefur og auga leið, hve mikil og erfið vinna það hefur verið að halda vörunum sæmilega hreinum. Hafið er á sífelldri hreyfingu og skolar sandi og grjóti upp á ströndina, og þegar gerði stórbrim og flóð, bárust oft stórgrýtisbjörg upp í varirnar svo þær urðu ónothæfar.
Grindavikurhofn-4Þegar kom fram á síðari hluta 18. aldar var farið að huga að hafnarframkvæmdum. Guðmundur Runólfsson, sýslumaður, lét þá mæla Hópið og ósinn, en ekkert varð af framkvæmdum. Hefur verkfæraleysi og e.t.v. skortur á mannafla, að líkindum valdið mestu.
Á 20. öld hafa gríðarlegar breytingar orðið í hafnarmálum í Grindavík og mun vart ofsagt, að hvergi annarsstaðar á landinu hafi skipt svo mjög um til hins betra í þessum efnum. Árið 1902 fól hreppsnefnd þeim Einari Jónssyni, hreppsstjóra, og Erlendi Oddsyni, að mæla dýpi og stærð Járngerðarstaðavíkur og ef unnt er að gera uppdrátt af höfninni. Ári síðar ákvað hreppsnefndin að skoða Hópið og kanna hvað mundi kosta að gjöra innsiglingu fyrir haffær skip svo þar gæti orðið öruggt skipalægi. Ljúka átti því verki fyrir alþingi 1905.
Grindavikurhofn-5Fjórtán árum síðar (1917) komust hafnarmálin aftur á dagskrá í Grindavík. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðhúsum, tók sér penna í hönd og skrifaði Stjórnarráði Íslands. Í bréfinu óskaði hann eftir því, að varðskip yrði fengið til að gera frumkönnun á innsiglingu og höfn í Grindavík. Sumarið 1919 voru gerðar mælingar í Járngerðarstaðavík og lagt til að byggður yrði lítill steypugarður á rifið suðaustur af Akurhúsanefi til skjóls fyrir lendinguna. Þessari álitsgerð fylgdi uppdráttur, er sýndi legu garðsins. Dýrara var talið að dýpka Hópið og gera innsiglingu inn í það, og reyndar óvíst, hvort hugmyndin væri framkvæmanleg.
Árið 1925 gerði mikið sjávarflóð í Grindavík er eyðilagði allmikið af húsum og skemmdi stórkostlega uppsátrið. Einar G. Einarsson hélt áfram að ýta á Stjórnarráðið um úrbætur. Athuganir voru gerðar og tillögur lagðar fram. Einar lét gera teikningu af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi og sendi Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Benti hann m.a. á að allar vörur, sem fluttar voru til Grindavíkur sjóleiðis hafi orðið að bera á bakinu og klöngrast með langa leið yfir hált og óslétt fjörugrjót. Bryggjusmíði hófst á árunum 1931-1933, en þá voru gerðar þrjár bátabryggjur, ein í hverju hverfi. Þörf fyrir bryggju hafði vaxið mjög í víkinni með tilkomu vélbátaútgerðar.
Grindavikurhofn-6Bryggjan í Járngerðarstaða-hverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var með steyptum veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn metra út fyrir stórstraums-fjöruborð. Alþingi greiddi þriðjung kostnaðarins en heimamenn tvo þriðju hluta. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún helst til of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd.
Sem fyrr varð að setja bátana í naust að kvöldi. Næsta skref var að gera varanlega höfn, þar sem allur bátaflotinn ætti öruggt lægi í öllum veðrum. Enn tók Einar G. Einarsson sig til árið 1938 og ritaði vitamálsstjóra bréf. Bað hann um hæfan mann til að athuga hvort tiltækilegt væri að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif það, sem lokar Hópinu. Einnig lagði hann til endurbætur á bryggjunni.
Árið 1939 hófust framkvæmdir við að opna Rifósinn. Get var ráð fyrir að reisa bráðabirgða stíflugarð við efra mynni væntanlegrar rásar, þannig að vatnið héldist inni í Hópinu um fjöru svo hægt væri að vinna 4-5 tíma að dýpkun um hverja fjöru. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og handbörur til að flytja það til. Í september var búið að gera 10 m breiða rás í gegnum eiðið og svo djúpt niður, að fiskibátarnir flutu inn og út um hálffallinn sjó. Hinn erfiði setningur bátanna eftir hvern róður heyrði þá sögunni til. Eftir affermingu voru bátarnir færðir inn í Hópið og lágu þar til næsta róðurs.
Árið 1945 var “grafvél” Reykjavíkurhafnar notuð til að breikka og dýpka innsiglinguna og um leið grafin renna upp að bryggju í Hópinu, sem gerð var 1944. Árið 1947 var gerður skjólgarður frá svonefndum Svíra og fram á Rifið, auk þess sem byggð var ein bryggja af þremur, sem áætlun hafði verið gerð um í Hópinu. Fé til framkvæmdanna var tekið að láni og þótti sumum nóg um. Aðkomubátum fjölgaði hins vegar svo ört við úrbæturnar að krafa var gerð um enn frekari framkvæmdir í höfnini.
Grindavikurhofn-8Miklar framkvæmdir urðu í hafnargerð á næstu árum. Sumarið 1957 var byggð 80 metra bryggja. Var hún hugsuð sem viðlegukantur fyrir báta sem þegar hafði verið landað úr. Hafnargarðurinn var líka lengdur um fimmtíu metra árið 1958. Þetta hélt svo áfram smátt og smátt. Haldið var áfram við bryggjusmíði og eins við gerð skjólgarða. Árið 1969 var viðlegu bakkinn orðinn 276 metrar samtals og bryggjurými í höfninni 560 metrar. Í janúar 1973 þurfti að finna Eyjaflotanum höfn í kjölfar eldgoss á Heimaey og varð Grindavík fyrir valinu. Árið 1973 var gerð viðlegubryggja og árið 1974 var svo gerð bryggja við svonefndan Eyjabakka. Eftir allar þessar framkvæmdir á fimmta áratugnum var orðið mögulegt að koma stærri bátum inn í höfnina. Öll helstu útgerðarfyrirtæki á Grindavík ráku síldveiðar og söltun. Einnig lögðu aðkomubátar upp afla sinn í Grindavík. Þegar mest var lönduðu yfir hundrað bátar í Grindavík á degi hverjum. Á árunum 1975-1988 voru Grindvíkingar meðal umsvifamestu síldarsaltenda sunnanlands. En það var ekki bara síld sem barst til lands í Grindavík. Mikið var um loðnuveiði og þegar humarveiðar hófust voru Grindvíkingar fljótir að senda báta á vettvang. Allt þetta gerði það að verkum að Grindavík breyttist úr litlu svávarplássi í ört vaxandi útgerðarbæ.

Byggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar er ævintýri líkust. Árið 1939, þegar hafist var handa um dýpkun innsiglingarinnar, bjuggu grindvískir sjómenn enn við hafnleysi. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og þegar því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, áttu Grindvíkingar eina bestu og fullkomnustu fiskibátahöfn á suðurströnd landsins.

Grindavík

Grindavík.

 

Hafmey

„Það var nálægt 1705 er Sigurður prestur Eyjólfsson hélt Stað í Grindavík að skip það er prestur átti lét úr vörum til fiskifangs og renndi færum á svokölluðu Þórkötlumiði. Ormur hét stjórnbitamaður er réði næst formanni; hann var forsöngvari að Stað. Þeir draga þegar nægan fisk. En þá sjá þeir allt í einu hvar skýst upp úr sjónum kvenmaður með nýgreitt og slegið hár. Logn var og sléttur sjór sem thorkotlustadir-225rjómatrog. Sjá þeir að það er hafmey. Hún sest þegar á marflötinn og horfir að skipi.
„Sjáið piltar! Hún er að hagræða sér til söngs,“ segir formaður, „en illt er að fara strax frá góðum fiski í land. Hvað segið þið, piltar?“
Andþófsmaður svarar: „Öllu er óhætt meðan hún þegir.“
Drógu menn nú af kappi fiskinn. En þá hóf markvendi þetta sönginn og reri sér yndislega en söngur hennar hreif skipverja með því seiðandi töframagni að þeir urðu allir að hætta að draga. Doðnaði þegar yfir flestum smám saman uns allir voru fallnir í svefndvala nema Ormur forsöngvari.

hafmey-1

Hann tók það til ráðs að syngja líka og byrjaði á einu laginu eftir annað og söng hafmeyjan hvert lag til enda með honum. Þetta gekk lengi dags. Fór Ormi þá ekki að lítast á gamanið því nú var hann loks að þrotum kominn með lögin sem hann kunni. En þá hugkvæmdist honum að syngja Pater noster. Byrjaði hann þá á því. Þá þagnaði hafmeyjan loksins, brá upp annarri hendinni og seig loðbeint niður í sjóinn.
Ormur kallaði þá til skipverja og bað þá heim róa, sagði að nú væri hafmeyjan fagra loksins unnin og sigin í sæ. Höfðu þeir þá verið búnir að sofa lengi og allir þeir sem þá voru á sjó voru komnir í land fyrir löngu og búnir að setja skip sín í naust. Skipverjar tóku þá geystan róður í land. Þökkuðu þeir Ormi lífgjöf sína og lofuðu hann fyrir þrótt hans, kunnáttu og dirfsku. Varð hann frægur fyrir þennan söng. Klerkur hélt og til hans þakkarræðu fyrir mannbjörg þessa.
Ári síðar geisaði Stórabóla hér yfir land og felldi mikinn mannfjölda til moldar. Var talið víst að hafmeyjan hefði boðað hana fyrir því marbúar birtast helst á undan stórtíðindum. Þetta sama skip fórst í sjóhrakningi með allri áhöfn nokkrum árum síðar. Fórst Ormur á því og þótti að honum mannskaði mikill.“

Heimild:
-Sigfús IV 14 – huldufólks 136.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Raufarhólshellir

Í MBL 16. jan. 1955 lýsir prófessor Harold H. Munger ferð í „Raufarhólshelli við Þrengsli„: „Mætti útlendingi leyfast að lýsa einu af náttúruundrum Íslands, sem er ekki eins vel þekkt og það verðskuldar? Ég hef átt því láni að fagna að geta farið víða og líta augum fjölmargar af dásemdum Íslands, þau tæp 2 ár, sem ég hef dvalizt hér á landi. Á feralögum mínum, frá Siglufirði til Hornafjarðar, frá Keflavík til Neskaupstaðar, frá Mývatni til Vestmannaeyja, hef ég litið augum náttúrufegurð, sem ekki á sinn líka í nokkru öðru landi. Af öllu því, sem ég hef séð, er mér gleggst í minni furðuleg fjölbreytni og fegurð dökkglitrandi hraunstöngla og storkinna hraunflóða, sem fólgin eru í djúpum Raufarhólshellis.

Greinin 1954

Í ágúst 1953, var ég í hópi skemmtiferðamanna, sem heimsóttu þennan helli, og fannst mér þá þegar mikið til um einkennilega fegurð hans. Ég spurðist fyrir um uppdrátt af hellinum, en var sagt, að enginn uppdráttur væri til af honum. Síðar heimsótti ég aftur Raufarhólshelli í hópi ungra manna sem voru óðfúsir að hjálpa til við að mæla hann. Uppdrátturinn og myndirnar, sem með fylgja, gætu ef til vill orðið til fróðleiks mönnum, sem ekki hafa komið í hellinn. Vegalengdir voru mældar með fjarlægðarmæli og áttir voru teknar með vasaáttavita. Hvorugt tækið er sérlega nákvæmt, en uppdrátturinn, sem gerður var eftir þessum mælingum, ætti þó að geta gefið sæmilega góða hugmynd um lögun og stærð hellisins. Vegalengin frá hellismunna til innsta enda hans mældist vera 850 metrar, þó þeim, sem brotizt hafa alla þess leið, muni flestum virðast hún vera a.m.k. helmingi lengri.
Raufarhólshellir er hraunhellir um 15 km suðvestur frá Hveragerði í landareign Vindheima. Akvegur liggur að Vindheimum, sem einnig er skólasetur Adventista, og þaðan er gengið upp fjallshlíðina til norðurs. Bezt er að hafa leiðsögumann, því að fátt er um kennileiti. Leiðin er greiðfær og hallinn er ekki nema 150 metrar á 2 km.
Hraunfossinn í RaufarhólshelliHellirinn er 1-10 metra breiður og víðast um 10 m á hæð. Hellisgólfið er víðast þakið grjóti, sem fallið hefur úr þakinu, sennilega í jarðskjálftum. Sums staðar eru grjóthrúgurnar svo háar, að þær ber hærra en upprunalegt þak hellisins. Leiðin liggur þar um hvolf, sem myndazt hafa við hrunið.
Farið er inn í hellinn sunnanverðan um op, þar sem þakið hefur fallið niður. Sennilegt er að hraunstraumurinn, sem rann um þessi gömlu hraungöng, hafi komið fram á yfirborðið í fjallshlíðinni suður eða suðaustur frá opinu. Hraunið hlýtur að vera mörg þúsund ára gamalt, því að það er víða þakið allþykkum jarðvegi og vaxið lynggróðri. Þar sem hraunið er bert, er hvergi að sjá merki þess, að ís hafi gengið yfir það, svo að það hlýtur að hafa runnið eftir jökultímann, sem var á enda fyrir um það bil 10.000 árum.
Vott er í hellinum. Hellisþakið er óþétt og vatn drýpur úr þúsundum sprungna- og hola. Þegar við gengum í hellinn, 14. febr. 1954, var hellisgólfið þakið ís, 200 metra inn frá opinu. Sums staðar höfðu myndast þyrpingar af íssúlum, er sumar voru 40 cm langar. Erfitt er að klifra eftir ísuðum steinum og ekki alveg hættulaust. Hvergi er hægta ð drepa niður fæti nema á hálan ísinn, og hvergi er hægt að taka til hendi, nema á svellótta steinana. Slys gæti fljótlega viljað til, fótbrot eða annað, sem ekki væri auðgert að flytja slasaðan mann e ftir íshálum og ósléttum hellinum. Ísströnglar hanga frá þaki og sillum, sumir allt að 3 metrar á lengd. Á einum stað, meðfram hliðarveggnum, mynduðu þeir samfellt ístjald, 6-7 metra breitt.
Uppdrátturinn 1954Í ágúst 1953 bar lítill ís í hellinum. Ís var einungis næst opinu og víðast hægt að kærækja fram hjá honum. Jafnvel þótt ísinn sé horfinn er erfitt að fara um hellinn fyrri þá, sem ekki eru vanir fjallgöngum. Yfir eintómar grjóturðir er að fara, og víða er svo bratt, að erfitt er að klifra upp. Í hellinum eru yfir 20 stallar, 1-10 metra háir. Margir hafa komið í Raufarhólshelli. Aðeins fáir hafa gengið hann á enda.
Efst greinist hellirinn í þrennt. Auk þess eru á honum smá afkomar, sem viið ekki athuguðum nánar, vegna tímaskorts, Í botni austurgreinarinnar getur að líta óvenjulega sýn, hraunfoss, 2 metra háan og rúmelga 1 meters breiðan, sem virðist hafa storknað snögglega í fullu rennsli. Ekki er auðséð, hvenrig þetta furðuverk hefur myndazt. Ef til vill hefur hraunflóðið kólnað smám saman og ledleðjan orðið seigari og seigari, þangað til hún gat naumast hnigið. Að lokum hefur þunn slæða af seigfljótandi hrauni hangið fram af brúninni og storknað þannig, sums staðar aðeins 5 cm á þykkt. Hér er eins og máttugir töfrar hafi verið að verki, eins og voldug völva hafi galið sinn galdur og „fryst“ eldfljótið í einu vetfangi.
Miðgrein hellisins er ekki merkileg. Suðurgreinin er því undursamlegri. Þúsundir grannra hraunkerta hanga úr þakinu í beinum röðum, þar sem yfirborð eldleðjunanr hefur staðið umstund, þegar hraunflóðið minnkaði smám saman í hellinum. Hrífandi feguðr þessa töfrahellis veður ekki með orðum lýst. Straumar og bárur og iður eldflóðsins hafa bókstaflega steinrunnið og geymzt þannig um þúsundir ára til augnayndis þeim, sem hafa djörfung og dugnað til að koma og sjá.
Rauf-7Einhvern tíma verður hellirinn mældur nákvæmlega, en ekki verður það auðvelt verk. Það verður að gerast í a.m.k. 20 áföngum og víðast verður að ryðja burt grjóti uk að koma fyrir þrífótum undir mælingatæki. Sum staðar verður erfitt að verja tækin fyrir lekavatni. Þrír til fjórir menn gætu lokið þessu veki á viku. Þegar þetta hefur verið gert, mun koma í ljós, að meðfylgjandi uppdráttur er ekki alveg réttur, en hann mun þó gefa sæmilega hugmynd um lögun og stærð hellisins.“
Í stórvirki Björns Hróarssonar, „Íslenskir hellar“ frá árinu 2006, bls. 279-283, er m.a. fjallað um Raufarhólshelli. Við mælingu enskra hellarannsóknarmanna reyndist hann vera 1360 metrar. Leitarhraunið, sem hellirinn er í, rann fyrir u.þ.b. 5000 árum. Hellirinn dregur nafn sitt af hól skammt ofan hans, Raufarhól.

Heimild:
-Harold H. Munger, rófessor – Raufarhólshellir – Lesbók Mbl. 16. jan. 1955.Rauf-10

Arnarfell

Gengið var umhverfis Arnarfell í Krýsuvík. Skoðaðar voru tóftir Arnarfellsbæjarins sunnan undir fellinu, útihúsatóftir í fellinu miðju, litið á Arnarfellsvatnið suðaustan við fellið og síðan skúta og stekk norðan við það. Að Arnarfelli að vestanverðu liggja miklir garðar er tengast Suðurkoti og Læk. Frægastur ábúanda á Arnarfelli var Beinteinn Stefánsson, sá er byggði Krýsuvíkurkirkju þá er nú stendur, 1857.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – tóftir gamla bæjarins framar.

Þegar gengið er frá kirkjunni er fyrst fyrir Ræningjahóll sunnan henar, handan þjóðvegarins. Hóllinn, sem og gróinn hóll austan hans, Ræningjadys, tengjast sögnum af Tyrkjunum er komu upp Ræningjastíg á Krýsuvíkurbergi og áleiðis að kirkjunni þegar þeir mættu séra Eiríki á Vogsósum, sem hafði verið þar við messu. Ræningjunum var komið fyrir í dysinni eftir að þeir höfðu vegið hvorn annan að áhrínan séra Eiríks.
Syðri vörslugarðinum, sem nær milli Bæjarfells og Arnarfells, var fylgt áleiðis yfir að síðarnefnda fellinu. Sunnan undir fellinu eru tóftir bæjarins.
Beinteinn var maður nefndur suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Sagan segir að eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.

Selatangar

Tanga-Tómas á Selatöngum með FERLIRsfélögum.

Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Sagan af viðureign Beinteins og Tanga-Tómasar á Selatöngu er mörgum kunn. Í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929, var sagan eftirfarandi [með innskotum vegna mismunar í öðrum frásögnum af sama atburði]:
“Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og göðrum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu.

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni.

Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum. Á Selatöngum mun ort hafa verið margt um manninn, eins og ráða má af vísu þessari um sjómenn þar:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein,
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Vilhjálmur Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn;
sjálfur guð annist þá.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

[Hér er um að ræða stytt afbökun á vísunni. Hún mun vera til í nokkrum útgáfum]. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.

Arnarfell

Tóftir Arnarfellsbæjarins.

Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefnið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina.

Arnarfellsvatn

Arnarfellsvatn.

[Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig]. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.

[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum kemur fram að Beinteinn frá “Vigdísarvöllum” hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð].

Arnarfell

Tóft í Arnarfelli.

Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: “Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar”? Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna, en er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkanum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað, Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: “Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, einn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekar til sín heyra.

Arnarfell

Arnarfellsrétt.

Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan.”
Ofar í Arnarfelli eru tóftir útihúsa. Efst á því er Eiríksvarða, sögð hlaðin af séra Eiríki með þeim orðum að á meðan hún stendur munu Tyrkir ekki koma í Krýsuvík. Suðaustan við Arnarfell er Arnarfellsvatn. Vel gróið er við það sunnanvert. Þar munu hestalestarnar á leið austur yfir hafa áð fyrrum. Enn mótar fyrir tóftum við vestanvert vatnið. Nokkru suðvestar er Arnarfellsréttin.
Gengið var norður fyrir Arnarfell. Uppi í því norðaustanverðu er nafngreindur skúti, fremur lítill þó, kenndur við kvenmann frá bænum. Norðan fellsins er hlaðinn stekkur utan í grettistaki. Skammt vestar er hlaðinn garður er nær áleiðis að bænum Læk, austan á austanverðri Krýsuvíkurtorfunni. Honum var fylgt þangað og á leiðinni voru rifjaðar upp sagnir af Arngrími frá Læk og veru hans með fé sitt í fjárhellinum í Klofningum (sjá aðrar FERLIRslýsingar).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Leiran

Njáll Benediktsson skrifar um „Mannlíf í Leiru“ í Faxa árið 1991:

„Kæri lesandi Faxa, ég undirritaður hef verið beðinn um að rifja upp manntal í Leiru um aldamótin 1900 og hef ég tekið árið 1901 og byrja í Inn-Leiru eins og hún var kölluð.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Innsta húsið hét Bergvík, þar stóð tveggja hæða hús á steinhlöðnum kjallara sem var íbúðarhæfur. Í Bergvík bjuggu fjórar fjölskyldur. Í 1. býli bjó Pétur Pétursson húsbóndi og sjómaður 52 ára, Hallbera Sveinsdóttir kona hans 69 ára, Helga Guðmundsdóttir hjú þeirra 52 ára. f 2. býli Guðrún Guðmundsdóttir húsráðandi 48 ára, Pétur Pétursson sonur húsmóður 17 ára, Sveinsína Pétursdóttir dóttir húsmóður 21 árs, Guðmundur Pétursson sonur húsmóður 14 ára. Í býli 3 þar bjó Árni Sæmundsson húsbóndi og sjómaður 54 ára, Margrét Bjarnadóttir bústýra 59 ára, Hlaðgerður Bjarnadóttir tökubarn 8 ára. Í 4. býli bjó Ólafur Erlendsson húsbóndi og sjómaður 61 árs, Þuríður Eyjólfsdóttir kona hans 51 árs, Kristín Bjarnadóttir tökubam 14 ára.

Leiran

Bergvíkurbrunnur.

Nú höldum við í vestur og komum að Grænagarði, þar býr Jóhann Sigmundsson húsbóndi og sjómaður 37 ára, Þuríður Sigmundsdóttir kona hans 24 ára, Sigmundur Jóhannsson sonur þeirra 4 ára, Pétur Jóhannsson sonur þeirra á fyrsta ári, Kristín Brandsdóttir gestur 63 ára.
Við höldum áfram í vestur og komum í Melshús, þar býr Guðmundur Símonarson húsbóndi og sjómaður 42 ára, Margrét Símonardóttir húsmóðir bústýra 44 ára, Símon Guðmundsson sonur húsbænda 13 ára, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Brynjólfur Magnússon leigjandi bamaskólakennari 40 ára.

Leiran

Hrúðurnesbrunnur. Stóri-Hólmur að handan.

Við komum svo að Lindarbæ þar býr Björn Sturlaugsson húsbóndi og sjómaður 49 ára, Guðrún Erlendsdóttir húsmóðir og bústýra 53 ára, Kristinn Árnason tökudrengur 12 ára.
Nú förum við í austur niður í dalinn eins og hann var kallaður og komum að vatnsbrunni. Hann var hringhlaðinn úr tilhöggnu grjóti átján feta djúpur, mikið meistaraverk. Nú hafa félagar úr Golfklúbbi Suðurnesja byggt yfir þennan brunn, gott verk sem ber að þakka.
Við höldum áfram í norður meðfram sjónum og komum á Melbæjarbakka, þar býr Jóhann Jónsson húsbóndi og sjómaður 33 ára, Ragnhildur Pétursdóttir kona hans 23 ára, Guðrún Oktavía Jóhannsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jenný Dagbjört Jóhannsdóttir á fyrsta ári.

Leiran

Leiran – örnefni á loftmynd.

Við höldum áfram í norður og komum að Melbæ, þar var mikið mannlíf. Þar býr Jón Bjarnason húsbóndi og sjómaður 33 ára, Margrét Ingjaldsdóttir kona hans 29 ára, Sólmundur Jónsson sonur hjónanna 7 ára, Bjarni Pétur Jónsson sonur þeirra 5 ára, Guðrún Jónsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jónína Margrét Jónsdóttir dóttir þeirra á fyrsta ári, Þuríður Jónsdóttir 79 ára lifir af styrk frá ættingjum sínum, Þuríður Bjarnadóttir 41 árs hjú þeirra.
Við höldum áfram í suðvestur og komum að neðra Hrúðurnesi. Þar býr Helgi Árnason húsbóndi, sjómaður og trésmiður 40 ára, Þorbjörg Sigmundsdóttir kona hans 23 ára, Björg Einarsdóttir hjú þeirra 19 ára, Gísli Jónsson sjómaður 66 ára.

Leiran

Leiran 2005 – loftmynd.

Við komum að Efri Hrúðurnesi, þar býr Sigmundur Jónsson húsbóndi og sjómaður 53 ára, Guðríður Ólafsdóttir kona hans 55 ára, Sigurjón Jónsson skjólstæðingur þeirra 11 ára.
Við höldum áfram í norðverstur og komum í Garðhús, þar býr Guðni Jónsson húsbóndi og sjómaður 55 ára, Ástríður Gísladóttir kona hans 54 ára, Sigurður Sigurðsson skjólstæðingur þeirra 11 ára, Þorsteinn Bjarnason sjómaður 71 árs.
Fyrir neðan Garðhús stóð Ráðagerði, stórt timburhús með háu risi, þar býr Jón Jónsson húsbóndi 54 ára, Jóhanna Jónsdóttir kona hans 44 ára, Jóhannes Jónsson 12 ára sonur þeirra, Rannveig Jónsdóttir 10 ára dóttir þeirra, Jóhann Jónsson hjú þeirra 22 ára, Þuríður Jónsdóttir hjú þeirra 21 árs, Vilmundína Lárusdóttir tökubarn á fyrsta ári, Elsa Dórothea 61 árs húskona lifir á eigum sínum, Gísli Halldórsson sjómaður 61 árs.
Leiran
Nú höldum við vestur og komum að býlinu Kötluhól, þar býr Jóhann Vilhjálmsson húsbóndi og sjómaður 50 ára, Margrét Steinsdóttir kona hans 52 ára, Svandís Vigfúsdóttir 14 ára tökubarn, Hallmundur Eyjólfsson 8 ára uppeldissonur.
Fyrir norðan Kötluhól stóð Stór-Hólmsbaðstofan að falli komin, þar býr Sveinn Helgason húsbóndi og sjómaður 46 ára, Þórey Guðmundsdóttir kona hans 49 ára, Helgi Sveinsson sonur þeirra 16 ára, Anna Sveinsdóttir dóttir þeirra 14 ára, Jón Helgason Sveinsson sonur þeirra 10 ára, Guðrún Helga Sveinsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Þórunn Kristín Sigríður Antonsdóttir tökubarn 2 ára, Jón Oddsson húsbóndi 46 ára, Guðleif Oddsdóttir bústýra 28 ára, Jónína Guðleif Jónsdóttir dóttir þeirra 4 ára.
Leiran
Við höldum áfram og komum að bænum Nýlendu, þar býr Einar Eyjólfsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 49 ára, Valgerður Jónsdóttir kona hans 54 ára, Gústaf Gíslason uppeldissonur þeirra 9 ára.
Fyrir ofan Nýlendu stóð bærinn Rófa, þar býr Einar Jónsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 46 ára, Helga Jónsdóttir húsmóðir, bústýra 49 ára, Guðbjörg Einarsdóttir dóttir þeirra 23 ára, Jakobína Rögnvaldsdóttir tökubarn 5 ára. Næst eru það Steinar, þar býr Ólafur Bjarnason húsbóndi, formaður á opnum bát, 50 ára, Hallbera Helgadóttir húsmóðir, bústýra 55 ára, Bergsteinn Bergsteinsson tökudrengur 13 ára.
Nú förum við í austur niður að sjó, þar stóð Bakkakot, stórt timburhús á tveimur hæðum, þar býr Eiríkur Torfason húsbóndi og formaður á opnu skipi, tré- og járnsmiður 42 ára, Sigríður Stefánsdóttir kona hans 33 ára, Leifur Eiríksson sonur þeirra 3 ára, Guðrún Jónína Lilja Eiríksdóttir dóttir þeirra 1 árs, Helga Högnadóttir hjú þeirra 44 ára, Guðrún Einarsdóttir hjú þeirra 17 ára, Jón Högnason leigjandi, háseti á fiskiskipi 24 ára, Stefán Sigurfinnsson sonur húsfreyju 13 ára, Stefán Pálsson leigjandi lifir af eigum sínum 62 ára.
Litli-Hólmur
Þá höldum við í vestur og komum að Litla-Hólmi, þar var hlaðinn vararkampur úr stóru grjóti sem var einn og hálfur meter á hæð. Það var hægt að landa fiski við vararkampinn við hálffallinn sjó, það var mikil framför í gamla daga. Á Litla-Hólmi býr Geir Guðmundur Guðmundsson húsbóndi og vefari 57 ára, Ingunn Vigfúsdóttir kona hans 40 ára, Helga Geirsdóttir dóttir þeirra 10 ára.
Þá komum við að Litlahólmskoti, þar býr Halldóra Þorleifsdóttir húsmóðir, lifir á handavinnu 59 ára. Það má geta þess að árið 1890 eru skráðir heimilisfastir menn í Litla-Hólmskoti 14 menn.
Nú höldum við í norður og komum í Gufuskálaland, það var kallað Út-Leira.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Við komum í Gufuskála, þar býr Eyjólfur Eyjólfsson húsbóndi 51 árs, Sigrún Halldórsdóttir kona hans 47 ára, Halldóra Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 16 ára, Björn Eyjólfsson sonur þeirra 12 ára, Ingibjörg Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Sigrún Oddleif Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 3 ára, Guðjón Jónsson hjú þeirra 27 ára, Sigurður Guðmundsson hjú 65 ára, Elín Magnúsdóttir hjú þeirra 55 ára, Eyjólfur Eyjólfsson sonur hjónanna 13 ára.
Þá er haldið í norðvestur og komið að Vesturkoti, þar býr Eggert Einarsson húsbóndi og sjómaður 56 ára, Þóra Þorsteinsdóttir kona hans 63 ára, Þorsteinn Eggertsson sonur þeirra 33 ára, Björn Eggertsson sonur þeirra 30 ára, Þorgerður Eggertsdóttir dóttir hjónanna 22 ára, Jón Jónsson leigjandi, sjómaður 64 ára, Eiríkur Þorsteinsson sjómaður 59 ára, Guðmundur Guðmundsson sjómaður 39 ára.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Nú höldum við niður að sjó, þar stóð Hausthús, fallegur bær með blóm í haga. Þar býr Jósep Oddsson húsbóndi og sjómaður 46 ára, Gróa Jónsdóttir kona hans 33 ára, Jósepína Jósepsdóttir dóttir hans 11 ára, Jónína Halldóra Jósepsdóttir dóttir þeirra 7 ára, Ólafur Jósepsson sonur þeirra 3 ára, Oddný Jósepsdóttir dóttir þeirra 1 árs.
Fyrir vestan Hausthús er Kóngsgerði, þar býr Þórarinn Eyjólfsson húsbóndi 39 ára, Sigríður Arnadóttir kona hans 43 ára, Ingibjörg Þórarinsdóttir dóttir hans 11 ára, Guðrún Þórarinsdóttir dóttir hans 10 ára, Guðbjörn Þórarinsson sonur þeirra 8 ára, Katrín Árnea Þórarinsdóttir dóttir þeirra 6 ára, Eyjólfur Þórarinsson sonur þeirra 4 ára, Helgi Þórarinsson sonur þeirra 1 árs.
Þá höfum við gengið Leiruna á enda.“ – Heimildir eru kirkjubækur Útskála; Njáll Benediktsson, Garði, skráði.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.06.1991, Mannlíf í Leiru- Njáll Benediktsson, bls. 126-128.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Gunnuhver

Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.

Sólarupprás

Sólsetur við Kálfartjarnarkirkju.

Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.

Eldvörp

Kvöld í Eldvörpum.

Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.

Stapadraugurinn

Draugurinn.

Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.
b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustsvæðum þar sem markaðssvsæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.

Karl

Karlinn.

c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé „útsýni mikið og fagurt“, þar megi finna „áhugaverða staði“ og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti (Gunnuhver m.a.). Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Þingvellir

Í Lesbók Mbl 27. maí 1956 skrifar Tómas Tryggvason grein er nefndist „Jarðsaga Þingvalla„. Í henni er m.a. rakin myndun og mótun svæðisins frá upphafi:

Thingvella

„Þegar rannsaka skal og rekja jarðsögu einhvers svæðis, er hægt að líkja því við bitaþraut, þar sem nokkur hluti bitanna er glataður. Þrautin er sú, að koma þeim bitum, sem ennþá kunna að finnast, á réttan stað og fylla síðan í eyðurnar með hjálp hugmyndaflugsins eins og sennilegast má þykja.
Land okkar er einkum skapað og mótað fyrir tilverknað tveggja meginafla, eld og íss. Sem þriðja meginafla mætti nefna öfl í jarðskorpunni, sem valda misgengi og öðrum jarðskorpuhræringum, en þær koma mjög við jarðsögu Þingvallasvæðisins.
Talið er að Ísland hafi verið þakið jöklum um milljón ára skeið, og að ekki séu liðin nema 10.000 ár síðan ísöldinni létti. Ísöldin var ekki látlaus fimbulvetur, heldur skiftist hún í kaldari og hlýrri tímabil. Á kuldaskeiðunum huldi jökull landið, en á vortímabilunum mun landið hafa verið íslaust að mestu, svipað og nú er.

Uppdráttur með greininni

Á einu þesssara hlývirðisskeiða, líklega því síðasta, hófust áköf og mikil grágrýtisgos víða um land. Næstu blágrýtiseldfjöllin við Þingvelli munu hafa verið Ok, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Áður en gosin hófust virðist landslagið hafa verið fremur slétt, enda sorfið af jöklum hins nýafstaðna kuldaskeiðs. Af þeim afstöðnum voru allar minni háttar ójöfnur farnar í kaf, þar sem hraunflóðin náðu til. Þykk grágrýtishella þakti stór svæði í landinu, þar á meðal mestallt Suðvesturland. Grágrýtiseldfjöllin hafa verið fremur lágar en víðáttumiklar dyngjur.
Er líða tók á kuldaskeiðið hefjast móbergsgos á sprungu milli Lyngdalsheiðar og Úlfljótsvatnsfjalla. Dráttarhlíðin og Höfðinn bak við Kaldárhöfða hrúgast upp og stífla farveg skriðjökulsins. Þegar hér er komið sögunni er í raun og veru hægt að tala um dæld bak við þennan þröskuld, þar sem nú er Þingvallavatn, enda þótt ekki sé vitað, hvort jarðsigin, sem mestan þátt eiga í myndun hennar, séu ennþá byrjuð. Móbergsþröskuldinn við Dráttarhlið varð samt ekki hærri en svo, að skriðjökullinn flæddi yfir hann og hélt gamla farveginum niður um Grafning.
Landsigið, sem á þingvöllum blasir við augum í gjám og hamraveggjum, er eldra miklu og stórkostlegra en Almannagjá, sem liggur í fremur ungu hrauni, ber vitni. Almannagjá, Hrafnagjá, Heiðargjá og aðrar sprungur í hraununum, sem runnið hafa eftir íslöld, eru merki um seinasta þáttinn til þess í landsiginu. Þar sem nýju hraunin ná til, eru vegsummerki eldri tíma hulin, og við sjáum ekki nema yngstu misgengin. Við suðvesturhorn Þingvallavatns sést aftur á móti allt misgengið ofan vatnsborðs frá lokum ísaldar. Vesturveggur Almannagjár er vart meir en 2-20 m á hæð þar sem hann er hæstur, en hamraveggur Jórukleifar mun vera um 80-100 m hár. Við það bætist svo 

Þingvallasvæðið

Langahlíð og Símonarbrekka. Ef þess er gætt, að botn Þingvallavatns er um sjávarmál þar sem það er dýpst, en brúnir efstu stallanna um og yfir 300 m yfir sjó, fáum við dálitla hugmynd um hversu stórstígar jarðhræringarnar hafa verið, á ekki lengri tíma en frá lokum ísaldar. Þess ber samt að gæta, að ekki er allur sá hæðarmunur misgengi. Eins og áður er nefnt, mun Þingvallasvæðið upprunalega hafa verið dæld milli Lyngdalsheiðar og Mosfellsheiðar, sem auk þess er sorfin skriðjökli á seinustu ísöld. Ef við athugum sigstallana þrjá, Lönguhlíð, Jórukleif og Símonarbrekku, sjáum við að samanlagt misgengi yfir vatnsborði Þingvallavatns er þarna samt sem áður milli 150 og 200 m.
Seinasta landsigið á Þingvallasvæðinu átti sér stað 1789, en þá lækkaði hraunspildan milli Almanngjár og Hrafnagjár um 2/3 úr m. Að sama skapi gekk vatnið á land norðanmegin, en ströndin að sunnan hækkaði lítilsháttar að sögn.
Þingvallavatn og úrennsli þess um SogHraunin, sem setja svip á landslagið umhverfis Þingvallavatn, að norðan og austan, hafa sum runnið frá Skjaldbreið en önnur úr eldgjám austan udnir Tindaskaga og Hrafnabjörgum. Gígaröðin frá Þjófahrauni austan undir Tindaskaga nær ofan í hraunið skammt norðaustan undir Miðfelli. Það má telja víst, að hraunið, sem liggur á yfirborði jarðar á Þingvöllum, sé runnið frá Tindafjallaheiði bak við Hrafnabjörg. Vafalaust hafa fleira en eitt hraunflóð þurft til þess að fylla upp í allar ójöfnur í landslaginu og skapa þá víðlendu hraunsléttu, sem lá umhverfis Þingvallavatn norðanvert að seinustu gosunum afstöðnum, áður en jarðhræringarnar röskuðu landslaginu á nýjan leik.
Yfirborð Þingvallavatns hefir staðið allmiklu hærra í lok ísaldar en nú. Umhverfis Krók og Ölfusvatnsheiði í Grafningi eru miklir malarhjallar um það bil 25 m yfir núverandi vatnsborði Þingvallavatns. Malarhjallar þessir eru greinilegar strandmyndanir og vitnisburður þeirra verður ekki dreginn í efa. Erfiðara er að finna merki eftir afrennsli er samsvari þessum strandhjöllum.
Í Skinnhúfuhelli í BjörgunumEftir lok leysingaskeiðsins er Þingvallavatn jökulvatn enn um skeið. Afrennsli þess, gamla Efra Sog, hefir farveg gegnum þröskuldinn milli Dráttarhlíðar og Kaldárhöfða rétt við hliðina á núverandi farvegi sínum og grefur sér æ dýpra gil í móbergið. Enda þótt móbergið sjálft sé fremur mjúk bergtegund og auðgrafin, eru samt í því grágrýtiseitlar, sem eru seiagri undir tönn en sjálft móbergið. Leifarnar af slíkum eitli eða gangi sjást í gilinu nær miðjum þröskuldi, þar sem heitir Borgardalur eða Stekkjarhvammur. Norðan í Dráttarhlíðinni meðfram ósvíkinni vottar fyrir hjalla eða þrepi 9 m yfir vatnsborði. Þrep þetta gengur vestur í Björgin vestan við Ósvíkina, og er þar að finna allstóran helli, Skinnhúfuhelli. Hjalli þessi og hellirinn hafa orðið til eftir að útrennslið ruddi sér braut milli Dráttarhlíðar og Kaldárhöfða og stafar af því, að vatnsborðið hefir haldizt óbreytt um lengri tíma. Líklega hefur svörfunin í árgilinu tafizt á grágrýtishaftinu í Bogardal, og brimþrepið og hellirinn orðið til meðan áin var að vinna á því. Að þessari kyrrstöðu lokinni heldur svo svörfunin áfram jöfnum skrefum unz Miðfellshraun brennur, stíflar farveg Gamla Sogs og markar ný tímamót í þróunarsögu Þingvallavatns.
Það vill svo vel til,a ð hægt er að komast nærri um yfirborð Þingvallavatns áður en Miðfellshraun brann. Í burgðunni þar sem Efra Sog beygir ofan í skarðið milli Dráttarhlíðar og Kaldárhöfða koma fram lindir í gilinu rétt ofan við og í vatnsborði árinnar. Einmitt þarna mun ís Gamla Sogs hafa legið, og að líkindum koma lindirnar upp rétt ofan við þröskuldinn í botni óssins. Lindirnar, og þar með þröskuldurinn, liggja 6-7 m undir núverandi vatnsborði Þingvallavatns. Hafi nú ósinn verið tveggja m djúpur á þröskuldinum, er hægt að draga þá ályktun, að áður en Miðfellshraun brann hafi vanið staðið 4-5 m lægra en það gerir nú.
Nokkru eftir lok ísaldar tekur Skjaldbreiður að gjóra og jafnframt eða skömmu seinna sogsprungan mikla bak við Tindaskaga og Hrafnabjörg, Hraun frá Skjaldbreið renna í farveg jökulkvíslarinnar frá Langjökli og fylla áður en lýkur dalinn, sem hún rann eftir. Söm verða örlög annarra lækja og alls rigningarvatns, sem kemur síðan fram sem tært bergvatn í uppsprettum í botni Þingvallavatns. Yfirborðsrennsli í Þingvallavan er auk Öxarár, tvær smáár að sunnan, samtals á að gizka 5-10 tengingsmetrar á sekúndu hverri að jafnaði. Meðalrennsli Sogsins er aftur á móti rösklega 110 teningsmetrar á sekúndu. Þessar tölur gefa svolitla hugmynd um vatnsmagn í hraununum.

Þingvellir

Á Þingvöllum.

Þá kemur að síðasta þættinum í sögu Þingvallavatns. Þegar Miðfellshraun brann, fyllti það fyrrverandi ósvik, og lítil renna úr því féll eftir farvegi Gamla Sogs niður eftir skarðinu að Úlfljótsvatni. Ný hraunbylgja féll skömmu seinna á Kaldárhöfða og Dráttarhlíð og rann spottakorn niður eftir skarðinu á milli þeirra. Þegar hraun eru komin að því að storkna og orðin tregfljótandi, verða brúnir þeirra oft nokkuð háar. Svo fór og í þetta sinn, og myndaðist því allstór vik milli hraunsins og Dráttarhlíðar. Eftir gosið hækkaði í vatninu, og leitaði það sér útrásar um þetta vik, sem virðist hafa verið nógu stórt tiul þess að rúma messt allt Efra Sog, án þess að til muna flæddi yfir hraunið við Ósvíkina.
Hraunið var nú búið að fylla gamla farveginn í skarðinu, og Efra Sog tók til óspilltra málanna við að grafa sér nýtt gil við hliðina á því gamla. Fór enn á sömu leið og með Gamla Sog, að grágrýtiseitillinn í Borgardal var seigur fyrir og tafði gröftinn. Meðan á eitlinum stóð, mun vatnsborðið í Þingvallavatni hafa verið því sem næst 5 m hærra en nú. Undir Hrafnskletti vestan í Miðfelli liggur bárugarður ofan á hrauninu en annar nýr við vatnið. Hæðarmunurinn á þessum bárugörðum hefir mælzt 5 m með loftvog. Annar bárugarðurinn ofan á hrauninu neðan við bæinn í Meðfelli (Sandskeið) mældist 6 m yfir vatnsborði. Grafningsvegur yfir Ölfusvatnsheiði liggur á malarhjalla í svipaðri hæð.
Ekki hefir aldur Skjaldbreiðarhrauns né Miðfellshraun verið ákveðinn, en sennilega má gera ráð fyrir að hin yngstu hraun þeirra hafi brunnið nokkrum árþúsundum fyrir landnámsöld.“

Heimild:
-Tómas Tryggvason – Lesbók Mbl 27. maí 1956, 19. tbl, bls. 293-297.

Þingvellir

Á Þingvöllum.