Hafnarfjörður

Við Strandstíginn í Hafnarfirði eru nokkur upplýsingaskilti. Skiltin eru í umsjá Byggðasafns Hafnarfjarðar. Um þessar mundir (2023) prýða skiltin ljósmyndir hjónanna í Kassahúsinu, þeirra Guðbjarts Ásgeirssonar og Herdísar Guðmundsdóttir. Myndinar eru frá Hafnarfirði.

Guðbjartur Ásgeirsson og Herdís Guðmundsdóttir

Guðbjartur Ásgeirsson og Herdís Guðmundsdóttir.

Ljósmyndirnar eru að stórum hluta frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur ásamt Byggðasafni Hafnarfjarðar. Myndirnar eru afrakstur hjónanna Herdísar Guðmundsdóttur og Guðbjarts Ásgeirssonar en þau komu nýgift til Hafnarfjarðar árið 1916 og settust hér að. Ljósmyndaáhugann hafði Guðbjartur haft frá því 1907 er hann fékk belgmyndavél í skiptum fyrir reiðhjól. Guðbjartur tók helst ljósmyndir á hafi og af skipum. Saman voru þau með ljósmynda- og framköllunaraðstöðu í húsi sínu að Lækjargötu 12b. Þegar Guðbjartur fór á sjóinn sá Herdís um ljósmyndun og framköllun á heimili þeirra, eftir að hafa aflað þeim leyfi til að starfa sem atvinnuljósmyndarar hjá Félagi atvinnuljósmyndara. Tók Herdís manna- og þjóðlífsmyndir í landi en Guðbjartur mest á sjó en einnig eitthvað í landi. Höfðu þau bæði næmt auga fyrir myndefninu og hafa margar ljósmyndir þeirra birst í bókum og tímaritum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hörðuvellir um 1940.

Yfirlitsmynd ofan við Hörðuvelli um 1940 yfir Hamarskotslæk og út að Hvaleyri. Húsið fremst á myndinni er Hörðuvellir II, reist 1922 af Edvard Morthens. Húsið stendur nú við Nyrðri-Lækjargötu 3. Á Hörðuvöllum var frjálsíþróttaleikvangur FH, hlaupabrautina má enn sjá á myndinni. Á vetrum var vatni úr læknum veitt inn á svæðið fyrir skautaæfingar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Setberg 1902.

Yfirlitsmynd af Setbergi frá því um 1940 og út yfir Hafnarfjörð. Fyrir miðri mynd er sumarhús, Setbergshúsið sem reist var árið 1902 og fjós er til hægri á myndinni. Tvö smáhýsi niður af Setbergi, annað þeirra hýsti heimarafstöð Jóhannesar Reykdals.

Hafnarfjörður

Flensborg 1927.

Ljósmynd frá 1927. Horft frá þeim stað þar sem Ásbúð stóð að Flensborg og yfir fjarðarbotninn. Í forgrunni má sjá garðahleðslur, hrundar hleðslur útihúss og svo þar sem Flensborgarlækur rann út í höfnina, þar voru áður uppsátur báta. Hinum megin við lækinn er Flensborgarskólinn og þá skólahúsið nýja sem reist var árið 1906, svo Íshús Hafnarfjarðar, stofnað 1908. Hamarinn ber við himininn, þar stóð lítið kot kennt við Hamarinn, „Hamarskot“.

Hafnarfjörður

„Óla Run“-tún 1947-1948.

Ljósmynd tekin 1947–1948. Horft yfir „Óla Run“-tún yfir suður- og miðbæinn. Til vinstri er risið á grunni Flensborgarskólans bifreiðaskýli „Áætlunarbíla Hafnarfjarðar“, reist árið 1935. Skólahúsið frá 1906 horfið og nýtt Íshús risið. Fyrir miðri mynd er bærinn Lækjarmót og þar örlítið ofar til hægri er bærinn Skuld.

Hafnarfjörður

Lækjargata um 1924.

Myndin er tekin um 1924 á moldarflötinni neðan við Lækjargötu. Til vinstri er lágreist bygging úr timbri, hún var reist á vegum bæjarins, byggð áföst við steinhús. Þessi íbúðarbygging var ætluð „húslausu“ verkafólki og var nefnd „Bæjarbyggingin“. Steinhúsið var reist um 1917 úr grágrýti úr hamrinum og nefnt eftir Jóni Jónssyni frá Gróf. Þessi hús voru rifin um 1970. Þá er húsaröð við Lækjargötu sem stendur mikið til óbreytt. Dökka húsið á móts við Gróf var byggt árið 1916, það var ýmist nefnt eftir útliti, s.s. „svarta húsið“, „rauða húsið“, en einnig kallað Bygggarður því þáverandi íbúi hafði komið frá Bygggarði á Seltjarnarnesi. Hann átti margar dætur og var húsið því einnig nefnt „Kvennabrekka“, það er nú Öldugata 2. Þá kemur Lækjargata 16, Busthús; fyrri eigandi þess átti ættir að rekja til Busthúss í Miðnesi. Húsið þar við hliðina er Lækjargata 14 sem var nefnt Geitháls eftir fæðingar- og uppeldistað fyrri eiganda. Svo er það hús með vatnshallaþaki, Lækjargata 12, nefnt „Kassahúsið“ af augljósri ástæðu. Fyrir miðri mynd er Brautarholt, byggt um 1907, það var stækkað, hækkað og síðan rifið; nú standa á lóðinni tvö nýleg hús. Þá sést Hafnarfjarðarkirkja og nokkur hús við Nyrðri-Lækjargötu og Austurgötu til hægri á myndinni.

Hafnarfjörður

Syðri-Lækjargata um 1924; Kassahúsið.

Mynd tekin um 1924 á móts við Syðri-Lækjargötu, lengst til vinstri sést í Gömlu-Gróf sem varð hluti af Bæjarbyggingunni og næst er hús sem nú telst til Öldugötu 2. Húsið gekk undir nokkrum nöfnum, s.s. Kvennabrekka, Bygggarður, Svarta húsið og Rauða húsið. Þá kemur Lækjargata 16, Busthús, svo Geitháls númer 14 og Kassahúsið Lækjargata 12. Þar bjuggu lengst af ljósmyndarahjónin Guðbjartur Ásgeirsson og Herdís Guðmundsdóttir en í kjallaranum höfðu þau aðstöðu fyrir amatörvinnustofu sína. Kassahúsið var það nefnt vegna útlitsins en hjónin létu hækka þakið í núverandi mynd árið 1925. Við hliðina á Kassahúsinu er Lækjargata 10. Það hús byggði Jóhann Jónsson skipstjóri, hann fór sem háseti á kútter „Kjartan“ sem var í eigu Brydeverslunarinnar á meðan verið var að gera við skip hans, kútter „Pollux“. Jóhann tók út ásamt skipstjóranum á kútter „Kjartani“ og drukknuðu báðir. Var Jóhanni skipstjóra lýst sem „lipurmenni og gæðasjómanni“.

Hafnarfjörður

Hamarskotsmölin.

Horft er af Vesturhamri frá „Illubrekku“ yfir á Hamarskotsmölina. Þrjú hús standa með framhlið að sjó. Það elsta er lengst til vinstri, það var reist árið 1841 af Matthíasi Jónssyni Mathiesen sem fékk fyrstur manna að reisa verslunarhús á „Mölinni“. Þá er hús sem oft var nefnt „fjósið“ en fjós og hlaða voru í þeim enda sem næst er tvílyfta húsinu. Það var upphaflega pakkhús og verslun en hækkað og gert að íbúðar- og verslunarhúsi um 1900. Þegar hús fengu númer við götur árið 1911 urðu þessi hús Strandgata 50 a, b og c.

Hafnarfjörður

Miðbærinn um 1920.

Yfirlitsmynd frá því um 1920 séð frá Brekkugötu yfir miðbæinn og út að vesturbæ Hafnarfjarðar. Saltfiskur á reitum Einars Þorgilssonar, Apótekið við Strandgötu í byggingu. Fiskþurrkunarhús og fiskreitur, þar eru nú verkamannabústaðir við Skúlaskeið. Bólvirki fyrir framan hús Augusts Flygenring við Vesturgötu og pakkhús sem reist var 1865 á grunni verslunarhúss Bjarna Sivertsen. Tvö pakkhús með gafli að sjó, þau gengu undir heitinu dönsku pakkhúsin og voru flutt á þennan stað um 1770. Byggðin í vesturbænum að rísa.

Hafnarfjörður

Hátíðarhöld 17. júní 1947.

Hátíðarhöld á Sýslumannstúninu 17. júní 1947. Handknattleikur kvenna á milli FH og Hauka. Lúðrasveitin Svanur og karlakórinn Þrestir sáu um tónlistaratriði. Nokkra bragga má sjá utan túnsins. Verslunin Álfafell í húsi sem áður hafði staðið sem íbúðarhús við Brekkugötu og Hressingarskáli Hafnarfjarðar sem fluttur var á þennan stað úr Krýsuvík árið 1941. Árið 1948 eignaðist Skátafélagið Hraunbúar skálann. Vinstra megin á myndinni má sjá fangahúsið í byggingu, áfast við Sýslumannshúsið.

Hafnarfjörður

Lækjargata, Hverfisgata og Tjarnarbraut um 1940.

Myndin er tekin af Hamrinum um 1940. Gatnamót Lækjargötu og Öldugötu, Skólabrautar, Hverfisgötu og Tjarnarbrautar. Hægra megin á myndinni er Mjólkurvinnslustöð Mjólkurbús Hafnarfjarðar sem stofnað var árið 1934. Byggingin sem tekin var í notkun árið 1947 þótti hin myndarlegasta. Var húsið byggt úr járnbentri steypu með korklögðum veggjum að innan. Það var tvílyft utan vélasalarins sem var í fullri hæð. Ketilshúsið var þar á bak við á neðri hæð og á efri hæðinni var skrifstofa og móttökusalur fyrir mjólk. Á bak við húsið var akvegur að húsinu og undir honum kolakjallari og sýrugeymsla. Á efri hæð í öðrum enda hússins var rannsóknarstofa, skyrgerð og geymsla. Mjólkurbú Hafnarfjarðar var lagt niður árið 1949 og var í húsinu ýmiss konar starfsemi þar til það var brotið niður árið 1981.

Hafnarfjörður

Brekkugata um 1925.

Ljósmynd tekin um 1925 af moldarflötinni við lækinn að Lækjargötu, Brekkugötu og Hamrinum. Fremst á myndinni er „katalog“-hús Jóhannesar J. Reykdal sem hann lét reisa árið 1904. Húsið var portbyggt timburhús, ein hæð og ris á grágrýtishlöðnum kjallara með veggsvölum og turni. Geymsluskúr handan götunnar nær hamrinum tilheyrði lóð Jóhannesar Reykdal. Húsið skemmdist það mikið í bruna árið 1930 að ekki þótti svara kostnaði að gera við það og var það því rifið. Á þessum stað reis síðar skrifstofu- og verslunarhús timburverksmiðjunnar Dvergs. Næst er einlyft hús með háu risþaki á hlöðnum kjallara byggt árið 1902, rifið um 1980, þar var síðar lengi bílastæði. Þá kemur tveggja hæða timburhús með mænisþaki á hlöðnum kjallara og bíslag með vatnshallaþaki, upphaflega byggt minna um 1910 en stækkað síðar. Þá eru tvö portbyggð timburhús með kvistum á hlöðnum kjallara. Í upphafi sneri framhlið húsanna að höfninni og götuslóði var þar fyrir framan. Í þennan götuslóða var vatnslögnin lögð árið 1917. Síðar var Brekkugatan lögð eins og hún liggur í dag.

Hafnarfjörður

Kona við þvotta um 1955.

Kona við þvotta í afar hrörlegri viðbyggingu á baklóð Vesturgötu 6 um 1955. Á timburhjólbörum er þvottabali með loki og pottur þar ofan á. Þvottabali yfirfullur af blautum þvotti stendur á gólfinu. Konan bograr yfir þvottabretti í timburbala sem hvílir á síldartunnum. Til vinstri rýkur úr suðupotti, mjólkurbrúsi stendur undir glugga en á syllu við gluggann er m.a. járnfat og flaska. Utanáliggjandi rafmagnssnúrur og bárujárnsplötur á víð og dreif.

Hafnarfjörður

Suðurgata séð frá Jófríðarstöðum.

Horft ofan af Jófríðarstaðahól yfir Suðurgötu, Vesturhamar yfir fjörðinn að miðbænum og vesturbæ. Fremst hægra megin við miðju er hús Bror Westerlund, byggt árið 1925. Fyrir framan það er einlyft hús með lágreistu þaki, það var Hringbraut 51 en er nú horfið. Hlið St. Jósefsspítala með kapellunni, svo líkhús og þá hænsna- og blómaskáli systranna sem nýlega var rifinn. Rétt fyrir miðri mynd trónir Fríkirkjan á Hraunprýðishól. Akrafjall í fjarska.

Hafnarfjörður

Holtsgata og Hlíðarbraut.

Horft af holtinu þar sem nú er Hringbraut. Hægra megin má sjá hús í byggingu við Holtsgötu og nokkur hús eru komin við Hlíðarbraut en gatan er nefnd eftir Hlíð sem var Hlíðarbraut 15. Húsið var áður Austurhamar 5, byggt árið 1905 af Jóni Guðmundssyni, fv. bónda á Setbergi, 1867–1902.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1925.

Horft ofan af Hamrinum út á höfnina um 1925. Fremst eru húsþök við Brekkugötuna, svo Góðtemplarahúsið sem stóð við Templarasund en sundið lá meðfram baklóðinni. Blöndals-hús til vinstri við „Gúttó“ og íþróttahúsið við gamla barnaskólann. Lítið verslunarhús við endann á íþróttahúsinu er Álfafell, það hús stóð áður þar sem nú er Brekkugata 14 en var flutt á mölina um 1900. Fiskreitur Einars Þorgilssonar og Hafnarfjarðarkirkja til hægri á myndinni. Bátar og skip af ýmsum stærðum og gerðum liggja við akkeri og við bryggju.

Hafnarfjörður

Strandgata.

Ljósmyndin er mögulega tekin úr nýbyggingu Sparisjóðs Hafnarfjarðar á horni Strandgötu og Linnetsstígs. Steypuvinna er í fullum gangi við Thorsplanið og meðfram Strandgötu. Til vinstri er lítil verslun með áletruninni „Sóley“. Það var Hendrik J. Hansen sem reisti bygginguna árið 1917. Þarna var Ólafur H. Jónsson með verslun sína áður en hann flutti hana á Strandgötu 1. Ólafur Runólfsson var einnig með verslun í þessari smáu byggingu en hann var tengdasonur Hendriks. Þá er tvílyft timburhús á steyptum kjallara. Það byggði Einar J. Hansen, bróðir Hendriks, árið 1908, þeir höfðu alist upp í húsinu sem stendur ofar í lóðinni með framhliðina að götunni. Þarna hefur hús Einars, Strandgata 19, verið lengt um tvær gluggaraðir og viðbygging að aftanverðu er risin eftir að kviknað hafði í húsinu. Þá er steinsteypt tveggja hæða hús byggt sem íbúðar- og verslunarhús árið 1942. Á þessum slóðum stóð bær Ara Jónssonar: „hann kom sér upp bæ í hjarta byggðarinnar töluvert stórum og reisulegum með holi og lofti“. Bærinn var kenndur við eigandann og þó að bærinn væri rifinn og nýtt hús byggt á sama stað var það einnig kallað „Arahús“. Hjá Ara vann Þuríður Einarsdóttir formaður við verslunarstörf. Þá sést hluti af Brúarhrauni sem áður náði fram í höfnina. Á Brúarhrauni stóðu bæði bæir og hús. Þá er innan girðingar við Strandgötu 25 hús með brotið/mansard-þak og framhlið að götunni. Þetta hús var byggt fyrir 1900 sem íbúðarhús en endaði sem þvotta-og gripahús við húseignina Strandgötu 25 sem reist var fyrir Þorstein Egilsson árið 1904.

Hafnarfjörður

Thorsplan um 1960.

Á Thorsplani um 1960. Piltur stendur upp við trönur, nokkrir árabátar á þurru. Einum bátnum hefur verið snúið á hvolf og netadræsur lagðar á botn hans. Suðurbærinn í fjarska og verið er að reisa íbúðarhús við Kelduhvamm 32 sem nú er Smárahvammur 1. Þar niður af er íbúðarhús Axels Kristjánssonar, forstjóra í Rafha, og niður af því er Íshúsið sem á sögu aftur til ársins 1908.

Hafnarfjörður

Myndin er tekin ofan af Mylluhólnum/Hraunprýðishólnum/Kirkjuhólnum um 1950.

Myndin er tekin ofan af um 1950 yfir á Hamarinn, Suðurbæinn og Jófríðarstaði. Fremst fyrir miðri mynd er „Herkastalinn“ Austurgata 26. Hjálpræðisherinn í Hafnarfirði var stofnaður árið 1908. Fyrir starfsemi sína keypti Hjálpræðisherinn hús í byggingu, að Suðurgötu 37, en eftir því sem þörfin varð meiri fyrir stærra húsnæði var nýtt og glæsilegt hús á Austurgötu byggt og vígt í árslok 1920. Árið eftir leigði Hafnarfjarðarbær tvö herbergi fyrir sjúkrastofur og árið 1927 var húsið allt tekið undir berklahæli. Starfsemi Hjálpræðishersins í Hafnarfirði var lögð niður árið 1940. Hvítur þvottur hangir til þerris. Skúrbygging með vatnshallaþaki við kartöflureit á baklóð við Gunnarssund 1 sem er timburhús, hæð og ris með viðbyggingu. Þarna stóð áður myndarlegur timburbær byggður um 1865. Bæinn og allt sem inni í honum var byggði Gunnar Gunnarsson en hann kom til Hafnarfjarðar árið 1859. Gunnar var sjómaður, og formaður fyrir eigin sex manna fari. Hann ruddi breiða braut frá bænum niður í höfnina, þar kom hann bátum sínum í var fyrir sjávargangi á veturna. Þessi braut var kölluð „Gunnarssund“ og þegar götur fengu nöfn var tilvalið að nefna götu þessa Gunnarssund.

Hafnarfjörður

Suðurgata 74, byggt 1920. Hægra megin sést í Flensborgarskóla, hlöðu og gripahús.

Suðurgata 74, portbyggt timburhús byggt eftir teikningu Vilhjálms Ingvarssonar fyrir Gísla Gunnarsson kaupmann árið 1920. Húsið er einlyft, með porti og risi á steyptum kjallara, veggsvalir og tröppur beggja vegna bíslags. Á lóðinni var hlaða og gripahús. Hægra megin má sjá suðurhluta gamla Flensborgarskólans, svo gripa- og geymsluhús skólans og við suðurenda hans er salerni/kamar „skipt í þrennt“. Svo er gamalt uppsátur við Óseyri, þar liggja vélbátar og tveggja mastra timburskip merkt „ISLAND“. Þá sést íbúðarhúsið að Óseyri og útihús sem fylgdi því.

Hafnarfjörður

Horft frá vitanum við Vitastíg yfir Hverfisgötu um 1925.

Yfirlitsmynd tekin um það bil þar sem vitinn stendur á milli Hverfisgötu og Vitastígs, um 1925. Horft er yfir Hverfisgötu og út yfir miðbæinn og vesturbæinn. Vinstra megin fyrir miðri mynd er L-laga einlyft hús á steyptum kjallara með lágu risi, það er nú Hverfisgata 33. Í anddyri hússins var lengi lítil verslun. Fékk húsið nafnið Skálholt af fyrrum eigendum þess. Fríkirkjan, elsta kirkja Hafnarfjarðar, trónir hátt á Hraunprýðishólnum. Fríkirkjan sem er timburkirkja var fyrsta kirkjan á Íslandi sem byggð var með raflýsingu og ein af þeim síðustu með svölum. Hægra megin við miðju er tvílyft hús með risi og tveimur reykháfum. Þetta er svonefnt „Siglfirðingahús“ þar sem eigendurnir voru báðir Siglfirðingar. Húsið var byggt árið 1921 en brann til kaldra kola árið 1931. Húsið stóð á horni Hverfisgötu og Smyrlahrauns. Lágreista timburhúsið fremst til hægri er Vitastígur 10, byggt árið 1926.

Hafnarfjörður

Sunnuvegur 7, byggt 1935.

Húsið á myndinni er Sunnuvegur 7, byggt árið 1935 eftir teikningu Ásgeirs G. Stefánssonar fyrir Sigrúnu Guðmundsdóttur og Kjartan Ólafsson bæjarfulltrúa. Húsið er steinsteypt, kjallari, hæð og ris, þakið er gaflsneitt með steinskífum. Steyptur veggur er umhverfis húsið.

Hafnarfjörður

„Núllið í Hafnarfirði“; fyrrum Kaupfélag Hafnfirðinga.

Maður stendur á gatnamótum Reykjavíkurvegar, Vesturgötu og Strandgötu um 1960. Það er út frá þessum gatnamótum sem húsnúmer byrja, mætti kalla þau „núllið“ í Hafnarfirði. Tveggja hæða húsið sem merkt er Kaupfélagi Hafnfirðinga var reist árið 1906 á rústum eldra húss sem brunnið hafði. Þarna hefur húsið tekið miklum breytingum frá upprunalegu útliti. Útbygging með veggsvölum, skrautþaki og ártalinu 1906 hefur verið fjarlægð og gluggum breytt samkvæmt nýjustu tísku. Þetta hús var fjarlægt árið 1970. Næsta hús stendur enn, það lét Knudtzon reisa árið 1880 á grunni eldra verslunar- og geymsluhúss Bjarna Sivertsen.

Hafnarfjörður

Innsiglingin í Hafnarfjörð um 1925.

Innsiglingin í Hafnarfjörð um 1925. Hér má sjá húsaraðir við Vesturgötu, Strandgötu og hvernig byggðin teygir sig upp Reykjavíkurveg og í götur út frá honum, Austurgötu og Hverfisgötu. Fremst t.v. er Pakkhúsið (1865) og hús Bjarna Sivertsens, Vesturgata 6 (1803-5);þar bjó Ólafur V. Davíðsson og fjölskylda. Vesturgata 4 (1880); þar bjó þar Ferdinand Hansen og fjölskylda. Vesturgata 2, hús Augusts Flygenring, byggt 1906. Þá Strandgata 5, verslunarhús Egils Jacobsen, byggt sem íbúðarhús árið 1906. Strandgata 7, upphaflega byggt árið 1904, portbyggt timburhús notað til íbúðar en síðar brauðbúð og verslun á hæðinni og íbúð í risi. Strandgata 9, steinsteypt hús Kaupfélags Hafnfirðinga, hæð, ris og niðurgrafinn kjallari, byggt árið 1912. Þá er lágreist pakkhús með tveimur hurðum á framhlið, aftan við það er „Hús Óla borgara“, byggt árið 1872 og stendur nú sem Austurgata 12. Tveggja hæða pakkhús með gafl að götu og lágreist bygging með framhlið að götu voru fiskverkunarhús Geirs Zöega. Nú er þar Strandgata 11 og bílastæði á horni Strandgötu og Linnetsstígs. Hús Hendriks J. Hansen, byggt 1893, með háu þaki og framhlið að götu.

Austurgata 1

Austurgata 1 – Hótel Hafnarfjörður.

Fyrir framan stendur lítið verslunarhús með vatnshallaþaki byggt 1916, þar var Ólafur H. Jónsson fyrst með verslun sína. Þá er það Strandgata 19, tvílyft timburhús á háum steinsteyptum kjallara. Íbúðir á hæðunum en verslun í kjallara og á jarðhæð. Jón Mathiesen stofnaði þar sína verslun árið 1922. „Það besta er aldrei of gott!“ voru hans einkunnarorð. Tveggja hæða hús með vatnshallaþaki er næst. Þetta hús var reist árið 1902 á grunni „Arahúss“ sem var veglegur timburbær. Húsið var rifið vegna breikkunar Strandgötunnar og nýtt verslunar- og íbúðarhús byggt árið 1942; það er nú Strandgata 21. Þá er lítið íbúðarhús með framhlið að götu, húsið var kennt við Brúarhraun, hraunrana sem náði fram í höfnina. Húsið stendur nú sem Öldugata 27. Þvottur hangir á snúru fyrir framan Strandgötu 25. Þetta hús var upphaflega reist um 1900 sem íbúðarhús en er þarna orðið að þvotta- og gripahúsi. Aðalhúsið er „katalog“-hús reist árið 1904 fyrir Þorstein Egilsson en það var Einar Þorgilsson sem bjó þar lengst af ásamt fjölskyldu. Þá er það Strandgata 27, reist um 1905. Húsið lengst til hægri er íbúðarhús Þórðar Edilonssonar læknis. Í kjallaranum þar byrjaði Sören R. Kampmann lyfjasölu árið 1918.

Hafnarfjörður

Tvílyft þurrk- og verslunarhús Einars Þorgilssonar um 1925.

Tvílyft þurrk- og verslunarhús Einars Þorgilssonar á horni Strandgötu og Lækjargötu um 1925. Húsið var byggt árið 1907. Á neðri hæðinni voru tvær sölubúðir og vörugeymsla en á efri hæðinni skrifstofa, tvær stofur og vörugeymsla. Tveir verkamenn, annar með þurrkaðan saltfisk í báðum höndum. Verið er að ferma eða afferma pall Fordbifreiðar með skráningarnúmerið HF 25, eign Ingimundar Guðmundssonar. Húsnúmer hangir ofan við dyr fyrir miðju húsi, á því stendur 49. Tveir útstillingargluggar, í öðrum glugganum er pappír en postulín og spegill í hinum. Piltur á sendlahjóli er í pokabuxum og köflóttum sokkum. Tveir karlmenn standa í dyragættinni, annar heldur dreng á lofti og báðir virðast hafa gaman af. Reiðhjól upp við húsvegg og maður með tréhjólbörur fullar af þurrkuðum saltfiski. Bensíndæla merkt STANDARD-BENSIN stendur lengst til hægri á myndinni.

Hafnarfjörður

Bæjarútgerð Hafnarfjarðar um 1950.

Myndin er tekin í sjávarkambinum á móts við fiskiðjuver Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar um 1950. „Verkamannaskýlið“ stendur þar fyrir framan en það var flutt á þennan stað um 1930, það stóð áður á móts við Vesturgötu 12. Höfðu verkamenn þurft að híma úti í alls kyns veðrum í matar- og kaffitímum en það breyttist með tilkomu skýlisins. Breska setuliðið tók það til sinna afnota í stríðsbyrjun en árið 1954 var skýlið endurbyggt að utan sem innan, og það þótti bæði glæsilegt og vistlegt eftir breytingarnar. Ungir drengir halla sér yfir steyptan vegg á gömlu hlöðnu bólvirki.

Hafnarfjörður

Vélbáti hleypt af stokkunum 1944.

Í júlí 1944 var nýjum vélbáti hleypt af stokkunum hjá Skipasmíðastöð Júlíusar Nyborg, hlaut báturinn nafnið „Morgunstjarnan“ og hafði einkennisstafina GK 532. Báturinn var smíðaður úr eik, hann var 34 rúmlestir og hafði 171 hestafls Buda-Lanova dísilvél. Hvílur og káetur voru 16 talsins og allar vistarverur fóðraðar að innan með lakksmurðum, vatnsþéttum krossviði. Mun þetta hafa verið fyrsti báturinn sem þannig var gengið frá. Júlíus Nyborg teiknaði bátinn ásamt því að sjá um smíði hans. Hafnfirsk fyrirtæki sáu um járnsmíði og niðursetningu vélar, rafmagn og miðstöðvarlagningu. Eigandi Morgunstjörnunnar var „Hafstjarnan“ sem þá var nýlega stofnuð. Ungir sem aldnir fylgjast með væntanlegri skírnarathöfn og sjósetningu á nýsmíðuðum báti.

Hafnarfjörður

Mynd tekin til norðurs frá Óseyri um 1945.

Myndin er tekin af Óseyri yfir á Flensborgar- og Íshúslóðina að suður- og miðbæ Hafnarfjarðar um 1945. Árabátar og trilla á gömlu uppsátri fremst á myndinni. Handan óssins stóð Flensborgarskóli en á grunni hans stendur bygging „Áætlunarbifreiða“ sem reist var árið 1935. Hægra megin stendur skúrbygging sem tilheyrði Flensborg. Þá kemur Íshúsið nýja (1944) og Íshúsið gamla (1908). Kross Hjálpræðishersins á þaki St. Jósefsspítala. Klaustur Karmelítareglunnar ber við himin og Jófríðarstaðir eru lengst til hægri.

Hafnarfjörður

Glaðbeittur bílstjóri við Vesturgötu 4.

Ferdinand Hansen situr glaðbeittur í bifreið sinni fyrir utan Vesturgötu 4. Ýmiss konar varningur í útstillingaglugga verslunar hans. F. Hansen hafði á boðstólum m.a. ávexti, kökur og kex, málningarvörur, búsáhöld og járnvörur. Drengur í matrósafötum stendur á tröppunum við innganginn í húsið. Vinstra megin er grindverk við Vesturgötu 6, þá skúrbygging sem tilheyrði Vesturgötu 4 en ofan við hana er Hafnarfjarðarbíó sem stóð þar sem Kirkjuvegurinn liggur frá Reykjavíkurvegi.

Hafnarfjörður

Í „Brydesgerði“.

Myndin er tekin í svokölluðu „Brydesgerði“ eða í kvosinni baka til við Vesturgötu 6. Málfundafélagið Magni hélt þar Jónsmessuhátíð árið 1925. Aðalsteinn Eiríksson söngstjóri stjórnar barnakór. Áheyrendur á öllum aldri fylgjast með í sínu fínasta pússi. Garðahleðslu með grindverki ber við himin.

Hafnarfjörður

Jónsmessuhátíð Málfundafélagsins Magna árið 1925, baka til við Vesturgötu 6, „Brydesgerði“.

Jónsmessuhátíð Málfundafélagsins Magna árið 1925, baka til við Vesturgötu 6, „Brydesgerði“. Vinstra megin eru konur með barnavagna og áhorfendur utan vírgirðingar fylgjast með fimleikastúlku leika listir sínar á slá. Veitingatjald fyrir miðri mynd og Lúðrasveit Hafnarfjarðar til hægri.

Hafnarfjörður

Myndin er tekin til norðurs um 1925 af Thorsplani.

Myndin er tekin um 1925 af Thorsplani. Lengst til vinstri er Pakkhúsið sem Knudtzon lét reisa árið 1864 á grunni eldra pakkhúss er Bjarni Sivertsen hafði reist. Þá er Vesturgata 4, verslunar- og íbúðarhús Ferdinands Hansen, byggt árið 1880. Vesturgata 2, íbúðarhús Augusts Flygenring, byggt árið 1902 eftir að eldra hús brann. Framan við húsið er bólvirki og afgirtur garður. Ofan við húsið er örlítill trjágarður sem tilheyrði Vesturgötu 2. Þá er portbyggt timburhús á steyptum kjallara, það er Reykjavíkurvegur 1. Þetta hús lét Þórarinn B. Egilsson byggja árið 1908. Í kjallara hússins var verslunarrými fyrir búsáhöld og leikföng, reiðhjólaviðgerðir, hannyrðir og að síðustu vídeóleigu. Því næst sést örlítið í Kvikmyndahús Hafnarfjarðar sem stóð þar sem Kirkjuvegurinn liggur frá Reykjavíkurvegi. Reykjavíkurvegur 3 er steinsteypt hús á tveimur hæðum með risi, byggt 1912–1913. Þar verslaði Steingrímur Torfason með matvörur. Á horni Austurgötu og Reykjavíkurvegar fyrir neðan Hótel Hafnarfjörð er verslun Ólafs H. Jónssonar með skófatnað, álnavörur, línóleumdúka og fatnað. Því næst er „Beggubúð“. Húsið var byggt sem íbúðarhús árið 1906 og var útibú Egils Jacobsen frá 1908 til 1936 þegar Bergþóra Nyborg keypti verslunina. Fremst á myndinni sjóþvær maður fisk á Linnetsbryggju, drengur með sixpensara hjálpar til. Árabátur liggur við festar.

Hafnarfjörður

Strandgata fyrrum.

Sjávarkampurinn og fremstu húsin við Strandgötu en gatan gekk áður undir nafninu Sjávargata og Sýslumannsvegur. Þegar hús fengu númer við götur árið 1911 stóð langa lágreista húsið lengst til vinstri við Austurgötu en húsin þrjú fremst á myndinni voru númer 1, 3 og 5, síðar númer 3, 5 og 7 og svo 5, 7 og 9. Í húsinu til vinstri, Austurgötu 2, verslaði lengst af Ólafur H. Jónsson en síðar var þar var stofnuð „Húsgagnaverzlun Hafnarfjarðar“ árið 1958. Því næst er „Beggubúð“ sem nú er verslunarminjasafn og stendur á baklóð við Pakkhúsið á Vesturgötu 6. Þá er einlyft hús með bröttu þaki, upphaflega reist sem íbúðarhús en neðri hæðinni síðar breytt í sölubúð. Steinsteypta húsið var reist árið 1912 af Kaupfélagi Hafnarfjarðar sem stofnað var árið 1909 en hætti rekstri 1944. Akkeri o.fl. á uppfyllingu handan götunnar. Steypt bólvirki og árabátur.

Hafnarfjörður

Strandgata til suðurs um 1930.

Horft suður eftir Strandgötunni að Hamrinum og Selvogsgötu um 1930. Vinstra megin á myndinni sést steyptur hafnarkantur, varningur undir seglum og steinhleðsla við uppfyllingu sem hlutafélagið Kveldúlfur lét reisa en eigendur þess voru Thor Jensen og synir hans. Lóðin gekk undir nafninu Thorsplan og gerir það enn. Litlu bygginguna handan Thorsplans lét Hendrik J. Hansen byggja árið 1917 sem verslun en íbúðarhús hans stendur ofan við verslunina. Tvílyft timburhús á steyptum kjallara lét Einar bróðir Hendriks reisa árið 1908. Þá er slóði upp að „Brúarhraunsbæjunum“ og tveggja hæða timburhús með flötu þaki. Þetta er Arahús, nefnt eftir bæ sem stóð á sama stað og Ari Jónsson borgari byggði um 1840. Hjá honum var Þuríður formaður „innanbúðar“ en Ari var verslunarstjóri hjá Nordborg-verslun sem stóð þar sem síðar var Vesturgata 2. Íbúðar- og verslunarhús S. Bergmann er handan götunnar, húsið var byggt árið 1908. Eftir að Þorbjörg Bergmann, ekkja S. Bergmann, var flutt úr húsinu keypti Árni Þorsteinsson það og lét breyta því í kvikmyndahús árið 1941.

Hafnarfjörður

Saltfiskverkun fyrrum.

Saltfiskverkun á vegum Bæjarútgerðarinnar sem stofnuð var snemma árs 1931. Fremst á myndinni eru nokkrir verkamenn að salta fisk úr handvögnum í stæðu. Á fyrstu árunum var allt unnið í höndunum, borið eða dregið með eigin handafli. Til að létta vinnuna fann einn af fyrstu verkstjórum Bæjarútgerðarinnar, Haraldur Kristjánsson, upp eitt og annað til hagræðingar. Í stað þess að kasta saltfiski upp úr lestum togaranna notaði Haraldur trétrog sem dregið var upp úr lestinni með vindu og upp á bryggju. Hann fann einnig upp fiskþvottavél og vél til að þvo stíuborð úr togurum. i

Hafnarfjörður

Hafskipabryggjan um 1935.

Myndin er tekin á „nýju“ hafskipabryggjunni um 1935. Hófst bryggjusmíðin í september árið 1930 og lauk í febrúar 1931. Til að reka niður tréstaura við smíði hennar var notaður prammi með fallhamri. Öll var bryggjan úr timbri en vegna tréátu voru allir staurar járnklæddir. Hafnarvigt ásamt vigtarhúsi og tveir kranar voru á bryggjunni sem þótti afar nýtískulegt.

Hafnarfjörður

Togarar við hafskipabryggjuna um 1920.

Togarar við „gömlu“ hafskipabryggjuna um 1920. Vinnan við að reisa bryggjuna hófst í byrjun árs 1912. Gufuskipið Sterling lagðist fyrst skipa að bryggjunni 28. desember sama ár en bryggjan var formlega tekin í notkun við hátíðlega athöfn í febrúar 1913. Stálskipið Menja GK 2 í eigu f/h Gróttu liggur við festar. Skipið fórst við veiðar í blíðskaparveðri á Halamiðum. Allri skipshöfninni var bjargað um borð í skipið Imperialist. Á bryggjunni má sjá brautarteina og kolavagna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1930.

Myndin er tekin þar sem nú er Herjólfsgata. Vesturbærinn er til vinstri, Vesturgata, höfnin og suðurbærinn um 1930.

Húsið lengst til vinstri er Krosseyrarvegur 7, byggt árið 1925, hönnuður var Geir Zöega en hann var þá fulltrúi Hellyer Bros sem lét byggja húsið. Því næst og örlítið neðar er lágreist hús með útskot og framhlið að höfninni, þetta er„Bungalowið“ Vesturgata 32, byggt af útgerðarfyrirtækinu „Bookless Bros“ árið 1920. Þá eru það „Svendborgarhúsin“ og hafnargarðurinn við norðurbakkann.

Hafnarfjörður

Garðavegur (framhald Kirkjuvegar) á Víðistöðum.

Fjölmenn skrúðganga marserar Kirkjuveginn á Víðistöðum. Lúðrasveit er í broddi fylkingar og fánaberi er Hallsteinn Hinriksson, kennari og þjálfari FH. Timburhúsið á vinstri hönd byggði Bjarni Erlendsson árið 1918. Bjarni hóf ræktun á Víðistöðum árið 1914 og var það fréttnæmt þegar hann fékk úr garði sínum óvenjustórt hvítkálshöfuð sem vó um 4,5 kíló. Bjarni hafði dvalið rúman áratug í Skotlandi og starfað þar við veðurathuganir, sjómennsku og við fiskverkun í Aberdeen. Í Hafnarfirði gerðist Bjarni verkstjóri hjá útgerðarfyrirtækinu Bookless Bros og hafði meðal annars umsjón með byggingu íbúðarhúss fyrirtækisins við Vesturgötu 32, „Bungalowsins“, ásamt fjölda annarra húsa og mannvirkja í Hafnarfirði. Hús í vesturbænum í bakgrunni.

Hafnarfjörður

Vesturgata um 1965.

Umferð við Vesturgötu og Strandgötu um 1965. Á vinstri hönd er Vélsmiðjan Klettur. Sögu Vélsmiðjunnar má rekja til ársins 1908 þegar Guðmundur Hróbjartsson stofnaði járnsmiðju í eigin nafni. Þegar Guðmundur hætti starfsemi stofnaði Jón sonur hans vélsmiðju og keypti megnið af verkfærum járnsmiðju föður síns ásamt húseign Vélsmiðjunnar Hamars sem þá var hætt starfsemi í Hafnarfirði. Smiðjan starfaði áfram undir nafninu Járnsmiðja Guðmundar Hróbjartssonar þar til hún var gerð að hlutafélagi árið 1942 og fékk þá nafnið Vélsmiðjan Klettur. Vélsmiðjan Klettur var þekkt fyrir framleiðslu á hreistrunarvélum, skreiðarpressum og löndunartogum sem notuð voru víða um land.

Norðurstjarnan

Niðursoðin síld í dós. Í efra, vinstri horni má sjá logo fyrirtækis: Iceland Waters. Allur annar texti á niðursuðudósinni er á rússnesku.
„Rússneska síldin“ var söluvara til Rússlands og Íslendingar fengum í skiptum fyrir bíla og annað samkvæmt samningum.
Sumarið 2019 færði Páll Gunnar Pálsson matvælafræðingur safninu aðföng tengd síldarframleiðslu frá Norðurstjörnunni h/f í Hafnarfirði. Páll Gunnar var starfsmaður hjá Norðurstjörnunni frá 1981-1987.

Handan götunnar er niðursuðuverksmiðja Norðurstjörnunnar sem stofnuð var í ágúst 1963 og hóf starfsemi sína árið 1965 í nýreistu húsnæði á uppfyllingu við hliðina á Fiskiðjuveri Bæjarútgerðarinnar. Norðurstjarnan var „stærsta og bezt útbúna niðursuðuverksmiðjan á þessu landi“i. Íslensk Suðurlandssíld var reykt og niðursoðin og framleidd undir vörumerkinu „King Oskar“II. Vesturgatan var steypt frá Merkurgötu að Vesturbraut árið 1961.

Heimild:
-https://byggdasafnid.is/hjonin-i-kassahusinu/

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum; póstkort.

Hafnarfjarðarhöfn

Á Norðurbakka Hafnarfjarðarhafnar er upplýsingaskilti með eftirfarandi fróðleik:

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarsjóður Hafnarfjarðar var stofnaður formlega 1. janúar 1909 sjö mánuðum eftir stofnun Hafnarfjarðarbæjar, sem sjálfstæðs bæjarfélags. Strax var mikill hugur í Hafnfirðingum í uppbyggingu hafnarinnar og var hafskipabryggja tekin í notkun árið 1913 og má geta þess að Gullfoss, flaggskip HF Eimskipafélags Íslands, lagðist í fyrsta sinn við bryggju á Íslandi, þegar hann lagðist við hafskipabryggjuna í Hafnarfirði árið 1915.
Næstu hafnarframkvæmdir voru bygging Nýju bryggjunnar, 190 m. langrar trébryggju árið 1930 og síðar var farið í að verja innri höfnina með byggingu tveggja stórra hafnargarða að norðan og sunnanverðu í Firðinum. Norðurgarðurinn var byggður á árunum 1941-48.
Fyrsti stálþilskanturinn í höfninni var Norðurbakkinn, 173 m. langur sem kom sunnan við gömlu hafskipabryggjuna árið 1960 og hann var síðan lengdur í um 250 metra árið 1969.

„Frá náttúrnnar hendi var Hafnarfjarðarhöfn ein besta höfn suðvesturlands og var hún ein aðalhöfn landsins um aldaraðir. Þar gátu skip legið örugg í flestum veðrum, auk þess sem innsiglingin var hrein, dýpi gott og haldbotn góður.

Upphaflega var varningur úr skipum ferjaður í land í litlum árabátum en upp úr aldamótunum 1900 óx bærinn hratt og jókst þá bæði útgerð til mikilla muna svo og vöruflutningar um höfnina. Var þá orðið aðkallandi að bæta úr vandanum með því að smíða hafskipabryggju. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908 var bæjarfélaginu skipaður grundvöllur til að hefja framkvæmdir við höfnina með hafnarreglugerð sem samþykkt var í desember sama ár.

Hin 10. ágúst 1909 var lögð fram tillaga í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um smíði hafskipabryggju og hófust framkvæmdir í nóvember 1911. Um veturinn var unnið að gerð vörupalls og undir vor var hafist við að steypa upp hús og bólverk við hina fyrirhugðuðu hafskipabryggju. Bryggjusmíðin sjálft hófst í maí 1912 og var það í febrúar árið eftir að hafskipabryggjan í Hafnarfirði var vígð við hátíðlega athöfn. Bryggjan var úr timbri en uppistöðustaurar allir járnklæddir til varnar sjávarmaðki. Landálman var 8.3 m á breidd og 53 m á lengd en bryggjuhausinn var 12.4 m á breidd og 50 m á lengd.

Hafnarfjarðarhöfn

Gullfoss, flaggskip HF Eimskipafélags Íslands, lagðist í fyrsta sinn við bryggju á Íslandi, þegar hann lagðist við hafskipabryggjuna í Hafnarfirði árið 1915.

Útgerðin í bænum óx jafnt og þétt og þegar líða tók á þriðja áratug 20. aldar varð ljóst að skortut á bryggjurými í höfninni var orðinn tilfinnanlegur. Við þessu var fyrst brugðist með því að lengja bryggjuna árið 1925 og í kjölfarið með byggingu nýrrar bryggju, innan við þá sem fyrir var. Sú bryggja var tekin í notkun árið 1931 og var hún um 190 m löng og 12 m breið.

Sumarið 1959 hófust framkvæmdir að nýju við höfnina þegar hafist var handa við að reka niður stálþil á milli gömlu og nýju bryggunnar og mynda þannig nýjan hafnarbakka en í kjölfarið var gamla bryggjan rifin.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – hafskipabryggjan; stálþilið komið.

Tíu áruð síðar var ákveðið að lengja viðlegurýmið um 90 metra og árið 1975 var „Nýja bryggjan“ rifin og var þá Norðurbakkinn kominn í endanlega mynd. Á fyrstu árum 21. aldarinnar urðu miklar breytingar á norðurbakka hafnarinnar þegar frystihús Bæjarútgerðarinnar var rifið og uppbygging íbúðabyggðar hófst á svæðinu.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Norðurbakki 2023.

Litluborgir

Ratleik Hafnarfjarðar barst í ágústmánuði (2023) skondin ábending frá Umhverfisstofun eftir athugasemdir hennar til Hafnarfjarðarbæjar varðandi staðsetningu merkis ratleiksins í gervigíg við Litluborgir ofan Helgafells:

Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun – merki.

„Sæll Guðni, okkur hefur borist ábending frá Umhverfisstofnun vegna ratleiks sem m.a. er í Litluborgum. Það er vinsamleg ábending að færa til stöð nr. 16, þar sem mosinn í kringum þann stað hefur látið á sjá. Jafnvel að færa stöðina þannig að menn þurfi ekki að ganga á mosa til þess að finna umrædda stöð. UST er að fara í gang með að stika þarna gönguleiðir til þess m.a. að vernda viðkvæman mosann. Það er nokkuð skemmtileg leið þarna norðan meginn á friðlýsta svæðinu, sem sést á kortinu, Réne kom með þá hugmynd að e.t.v. væri heppilegra að nota hana. Þaðan er fallegt útsýni yfir friðlýsta svæðið og Helgafellið.“

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Guðni svaraði: „Það hefur sýnt sig í leiknum að mosi hefur jafnað sig ótrúlega fljótt, þrátt fyrir það sem alltaf er haldið fram. Svo hefur gönguleiðir myndast í ratleiknum eins og gönguleiðin í Litluborgir. Áður var vaðið ómarkvisst yfir mosann, en nú eru allir að fara á sömu leið, ekki einungis þeir sem ekki eru í leiknum og koma þarna. Að auki eru það hraunmyndanirnar sem þarna er verið að vernda. Gott er að vita að loksins skuli einhver átta sig á að stika þurfi gönguleiðir um svæðið.“

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.

Litluborgi

Litluborgir – friðlýsing.

Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði. Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Í auglýsingu um náttúruvættið Litluborgir í Hafnarfirði frá 3. apríl 2009 segir m.a.: „Markmiðið með friðlýsingu Litluborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar.

Litluborgir

Litluborgir – göngustígurinn frá Helgafelli.

Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað.“
Slík verndaráætlun hefur ekki verið gerð.

Litluborgir

Í Litluborgum – hraunmyndanir.

Í auglýsingunni segir jafnframt: „Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni… Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan marka náttúruvættisins. Gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.“
Slík gönguleið hefur ekki verið gerð.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Umhverfisstofnun hefur engar forsendur til að gera athugasemdir við umferð fólks um Litluborgir því „almenningi er heimil för um náttúruvættið“ skv. auglýsingu þar að lútandi – og jafnvel þrátt fyrir auglýsinguna með vísan til gildandi ákvæða Jónsbókar.  Ljóst hefur þótt að fólk færi ekki fljúgandi um svæðið. Mosi umlykur Litluborgir svo ekki verður hjá því komist að fólk þurfi að ganga um hann á leið sinni. Þá ætti Umhverfisstofnun að fagna því að athygli fólks skuli vera vakin á svæðinu, en hún hefur síst allra sýnt því nokkurn áhuga í gegnum tíðina. Nefnd fyrirhuguð stígaleið er slóði bifreiða, sem ekið var upp hraunið frá Helgafelli áleiðis að Strandartorfum þegar veiðimenn sóttu þangað í rjúpur á haustin, auk þess sem hún var farin af mönnum þeim er önnuðust uppsetningu sauðfjárveikigirðingar i upplandi Hafnarfjarðar. Sú eyðilegging ætti að hafa verið stofnuninni meira áhyggjuefni en umferð gangandi fólks um svæðið.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Umhverfisstofnun fer villu vega þegar markmið hennar er að gera athugasemdir við umferð gangandi fólks um einstök friðlýst svæði í stað þess að sinna hlutverki sínu með þeim hætti að gera fyrirbyggjandi ráðstafnir varðandi undirbúning og framkvæmdir á þeim svo ekki þurfi að koma til slíkra athugasemda.

Í skýringum ratleiksins v/fróðleik um Litluborgir er sérstaklega tekið fram að þær eru friðlýst náttúruvætti – sjá HÉR.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Hraun

FERLIR grennslaðist fyrir um nýlegt niðurif gamla íbúðarhússins að Hrauni í Grindavík og sendi því byggingarfulltrúa bæjarins eftirfarandi fyrirspurn:

Hraun

Hraun í Grindavík. Gamla íbúðarhúsið handan „Sigurðarhúss“.

„Sæll, áttu afrit af nýlegu bréfi Minjastofnunar um íbúðarhúsið (1929) að Hrauni, sem nú hefur verið rifið. Kannski leynist þar gagnlegur fróðleikur um byggingarsögu hússins? sbr.

„Fundur 74.
Hraun 129179 – Umsókn um byggingarheimild Niðurrif – Flokkur 1, – 2304054.
Tekið er fyrir mál Harðar Sigurðssonar vegna einbýlishúss (N2092758) á jörðinni Hraun (L129179) meðumsækjendur eru Gísli Grétar Sigurðsson og Margrét Sigurðardóttir.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Máli var frestað á síðasta fundi þar til niðurstaða minjastofnunar lægi fyrir.
Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verði rifið.
Niðurrifsheimild er því veitt.“

Hverjir voru skráðir eigendur hússins (sem var tvískipt) áður en það var rifið?“
Svar barst um hæl;
„Sæll.
Sjálfsagt mál (sjá meðfylgjandi viðhengi).

Hraun

Hraun – svar Minjastofnunar v/ niðurrif íbúðarhússins að Hrauni.

Í bréfi Minjastofnunar má lesa eftirfarandi (leitt er þess að vita að ekki er hægt að nálgast bréf og erindi í opinberum fundargerðum bæjarfélagsins án þess að biðja um það sérstaklega. Það ætti það þykja sjálfsögð kurteisi að birta meðfylgjandi fylgiskjöl við tilfallandi erindum.

Svar: „Eigendur voru Hörður Sigurðsson, Gísli Grétar Sigurðsson, Margrét Sigurðardóttir“.

Innihald bréfs Minjastofnunar:

„Í tölvupósti dags 11. maí 2023 leitar Hörður Sigurðsson eftir áliti Minjastofnunar Íslands vegna íbúarhúss á Hrauni í Grindavík. Húsið hefur orðið fyrir vatnstjóni og nú er sótt um leyfi til að rífa húsið.
Gamla íbúðarhúsið á Hrauni er tvílyft bárujárnsklætt timburhús, kjallari og ris. Skv. Fasteignaskrá er það byggt árið 1929. Í lögum um menningarminjar nr. 80/2012 er eigendum húsa sem byggð voru 1940 eða fyrr skylt að leita álits Minjastofnunar ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja eða rífa.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun. Gamla húsið v.m. og „Sigurðarhús“ h.m.

Áfast húsinu er svonefnt Sigurðarhús, reist 1956. Eigendur búa í því og það mun standa áfram.
Húsið Hraun er stórt og reisulegt, greinilega byggt af metnaði. Það var reist af bræðrum og samanstendur af tveimur sambyggðum íbúðum undir einu þaki, austur- og vesturhluta. Húsið hefur varðveislugildi og ánægjulegt hefði verið að sjá það gert upp með vönduðum hætti.
Undirrituð skoðuðu húsið ásamt eigendum þann 13. júní s.l. Ljóst er að það er illa farið eftir að hafa staðið autt í nokkur ár og ekki síst eftir vatnstjórn þegar hitaveituofnar á fyrstu hæð þess sprungu árið 2021 en það uppgötvaðist ekki fyrr en eftir nokkurn tíma. Víða eru augljósar rakaskemmdir, stórir myglublettir og sterk saggalykt í húsinu.

Hraun

Hraun 2020.

Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verið rifið. Til fyrirmyndar væri að endurnýta húshluti, innréttingar, glugga, hurðir, snerla, ljósrofa o.fl. og styðja þannig við hringrásarkerfið. Ef ekki reynist unnt að nýta hlutina á staðnum mætti auglýsa þá á samfélagsmiðlum eða koma þeim til Efnismiðlunar Sorpu eða Húsverndarstofu.“

Undir bréfið skrifa Þór Hjaltalín og María Gísladóttir.

Hraun

Hraun í Grindavík 2019.

Efnisinnihald bréfs Minjastofnunar verður að teljast rýrt, svo ekki sé meira sagt. Hvorki er getið um byggingasögu hússins, fyrrum eigenda þess, hönnuðar eða skýrskotun til byggingahefðar þess tíma.

Hraun er skammt austan við meginbyggðina í Grindavík. Alls eru eigendur Hraunsjarðanna, og þar með gamla íbúðarhússins að Hrauni, sem eru í svonefndu Þórkötlustaðahverfi, um 20 talsins. Lönd þeirra ná talsvert til norðurs inn á hásléttuna og þeim tilheyrir meðal annars Fagradalsfjall og Geldingadalir, þar sem eldgos hefur gert sig heimankomið undanfarin ár.

Hraun

Hraun – eftir niðurrifið.

Í Fasteignaskrá ríkisins eru engir eigendur tilgreindir að fasteigninni Hrauni. Þar er einungis getið um svonefnt „Sigurðarhús“, sem byggt var vestan við gamla íbúðarhúsið frá 1929 árið 1956. Gamla húsið var tvískipt og tilheyrði a.m.k. tveimur fjölskyldum, sem á síðustu árum töluðust ekki við vegna álitamála.
Skv. upplýsingum Þinglýsingardeildar Sýslumannsins á Suðurnesjum voru Hörður Sigurðsson og Valgerður Söring Valmundsdóttir skráðir eigendur að íbúðarhúsinu að Hrauni í júní 2023.

Árni Konráð Jónsson

Árni Konráð Jónsson.

Árni Jón Konráðsson var fæddur 16. september 1926 að Móum Grindavík. Hann lést á Hrafnistu 7. mars 2017. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir, f. 1 september 1895 að Hrauni Grindavík, d. 27. júní 1957, og Konráð Árnason, f. 22. Árni átti austurhluta íbúðarhússins að Hrauni, þegar síðast var vitað, og afkomendur hans eftir hans dag.

Skv. Lögbýlaskrá 2018 voru 15 skráðir eigendur að landareigninni Hrauni. Þeir hafa þá án efa verið fleiri því eiginkvenna eigenda er þar ekki getið.

Hraun

Hraun – lögbýlaskrá 2018.

Kirkja var á Hrauni frá 1226. Að sögn Sigurðar Gíslasonar var hún á hólnum austan við íbúðarhúsið þar sem síðar var byggt fjós. Vestan við kirkjuna var kirkjugarður. Bein fundust við umrótið. Sigurður fann þarna handunninn signingarstein þegar grafið var í hólinn og færði hann vestur fyrir íbúðarhúsið þar sem hann er enn. Sigurði var umhugað um að steinninn færi ekki á flakk vegna tengsla hans við kirkjusöguna að Hrauni fyrrum.

Heimild m.a.:
-Bréf Minjastofnunar 19. júni 2023 (MÍ202306-0021/ 6.06/ 6673.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Skjaldarmerki

Landvættaskjaldarmerkið

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands, hið nýja, prentað sem fylgiblað við Stjórnartíðindi fyrir Ísland, 1919 A. 2. Blaðast. 25,5 x 18 cm. Prentað í Kaupmannahöfn eptir uppdrætti, sem Ríkharður Jónsson gjörði fyrir Jón Magnússon forsætisráðherra eptir tillögu gef. Komið hafði fram tillaga um að hafa skjaldarmerkið fjórskiptan skjöld, eða með 4 reitum, og sína landvættina í hverjum. Sú tillaga var studd af nokkrum stjórnmálamönnum og því tók gef. það tillit til hennar og landvættanna, að hafa þá fyrir skjaldbera, þegar skjaldberar yrðu sýndir með merkinu, sem hann lagði til að hafa með sömu gerð og þjóðfánann, ef skjaldarmerkið með fálkanum yrði af numið aptur og ekki að eins breytt í því fálkamyndinni, eins og hann hafði farið fram á í Árb. Fornleifafjel. 1915, 23, og ef ekki yrði tekið upp aptur í stað fálkamerkisins hið forna Þorskmerki, sem hann lagði til að fremur yrði tekið upp en þjóðfánamerkið eða nokkurt annað skjaldarmerki, ef fálkamerkið yrði afnumið. : Hafði hann fengið fjölda marga málsmetandi menn í Reykjavík til þess að senda stjórnarráðinu áskorun um þetta, en það ekki sinnt því. Eptirá viðurkendi þó Jón Magnússon ráðherra fyrir gef., að hann þá væri orðinn þeirrar skoðunar, að rjettast hefði verið að halda fálkamerkinu með breyttri mynd. Ríkarður Jónsson hafði mjög nauman tíma til að gera frummynd sína og lagði gef. til að hún yrði ekki prentuð þannig: einkum var hann mótfallinn lögun skjaldarins að neðan, fyrir komulaginu á skildi og skjaldberum, þessari gerð á griðungnum og bergrisanum. En prentuninni var hraðað og látið sitja við fyrirmyndina svo sem hún var. Blaðið fjekk gef. hjá stjórnarráðinu. Það er nú í gyltri umgerð með gleri í: st. að utanmáli 32,2 x 24,8 cm. Sbr. nr. 8210.

Hinn 12. febrúar 1919 var tekið upp merki, þar sem fáni Íslands er markaður á skjöld. Konungsúrskurðurinn um skjaldarmerkið hljóðar þannig: „Skjaldarmerki Íslands skal vera krýndur skjöldur og á hann markaður fáni Íslands. Skjaldberar eru hinar alkunnu fjórar landvættir, þannig: dreki, gammur, uxi og risi.“
Ríkarður Jónsson myndhöggvari gerði teikninguna af skjaldarmerkinu að undangenginni samkeppni, sem m.a. Jóhannes Sv. Kjarval tók þátt í. Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, sem um getur í Heimskringlu Snorra Sturlusonar, en þar segir svo:

Skjaldarmerki

Þegar leið að endurreisn lýðveldisins 1944, fól þáverandi forsætisráðherra dr. juris Björn Þórðarson þremur ráðuneytisstjórum (Vigfúsi Einarssyni, Agnari Kl. Jónssyni og Birgi Thorlacius) ásamt dr. Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði, sem hafði verið ráðunautur um gerð skjaldarmerkisins 1919, að athuga og gera tillögur um breytingu á ríkisskjaldarmerkinu. Breyting var í öllu falli nauðsynleg vegna þess að kóróna var yfir skildinum, en hún hlaut að hverfa við afnám konungdæmisins. Við, sem fengum þetta verkefni ræddum nokkuð um breytingar á sjálfu skjaldarmerkinu, og þá einkum, hvort taka bæri upp á ný fálka á bláum skildi. Niðurstaðan varð þó sú, að gera ekki tillögur um breytt skjaldarmerki og hverfa ekki frá landvættahugmyndinni að því er skjaldbera varðaði. Vorum við allir sammála um þetta og ræddum málið á fundi með forsætisráðherra og féllst hann á þessa skoðun. Var gerð ný teikning af skjaldarmerkinu, þar sem kórónan var felld burtu og lögun skjaldarins breytt. Skjaldberarnir voru teiknaðir með öðrum hætti en áður og einnig undirstaðan, sem skjöldurinn hvíldi á. Tryggvi Magnússon listmálari gerði teikninguna. Frummyndin er í Þjóðminjasafninu, nr. 15026.

„Haraldur (Gormsson Dana) konungr bauð kunnugum manni at fara í hamförum til Íslands og freista, hvat hann kynni segja honum.

Skjaldarmerki

Skjaldarmeri Einar Jónsson á 1000 ára afmæli Alþingis 1930.

Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, fór hann vestur fyrir norðan landit. Hann sá, at fjöll öll ok hólar váru fullir af landvéttum, sumt stórt, en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vápnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land at ganga. Þá fór ofan eptir dalnum dreki mikill, ok fylgdu honum margir ormar, pöddur ok eðlur ok blésu eitri á hann. En hann lagðisk í brot ok vestr fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eptir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svá mikil, at vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, ok fjöldi annarra fugla, bæði stórir ok smáir. Braut fór hann þaðan ok vestr um landit ok svá suðr á Breiðafjörð ok stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungr mikill ok óð á sæinn út ok tók at gella ógurliga. Fjöldi landvétta fylgdi honum. Brot fór hann þaðan ok suðr um Reykjanes ok vildi ganga upp á Vikarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi ok hafði járnstaf í hendi, ok bar höfuðit hærra en fjöllin ok margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austr með endlöngu landi – „var þá ekki nema sandar ok öræfi ok brim mikit fyrir útan, en haf svá mikit millim landanna,“ segir hann, „at ekki er þar fært langskipum.“

Skjaldarmerki

Ekki voru allir ánægðir með teikninguna. Kom til orða síðar að leita til skjaldarmerkjafræðinga í páfagarði í þessu sambandi, en þeir voru þá svo önnum kafnir við gerð skjaldamerkja fyrir nýútnefnda kardinála að þeir máttu ekki vera að því að sinna öðrum verkefnum. – Við gerð undirstöðunnar, sem skjöldurinn hvílir á, var haft í huga „kirkjugólfið” á Kirkjubæjarklaustri.
Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins og hljóðar hann þannig:
„Skjaldarmerki Íslands er silfurlitur kross í heiðbláum feldi, með eldrauðum krossi innan í silfurlita krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í rendur skjaldarins á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2/9 af breidd skjaldarins, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1/9 af breidd skjaldarins. Efri reitirnir skulu vera rétthyrndir, jafnhliða ferhyrningar og neðri reitirnir jafnbreiðir efri reitunum, en þriðjungi lengri.
Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, sem getur í Heimskringlu: Griðungur, vinstra megin skjaldarins, bergrisi, hægra megin, gammur, vinstra megin, ofan við griðunginn, og dreki, hægra megin, ofan við bergrisann. Skjöldurinn hvílir á stuðlabergshellu.”
Landvættirnar fjórar koma eins og áður sagði úr Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þar segir frá Haraldi konungi sem sendi mann til Íslands til að kanna aðstæður. Hann fór til Íslands í hvalslíki, synti í kringum landið og rakst á leið sinni á margar furðuverur. Við Vopnajörð blasti við honum dreki mikill, með orma, pöddur og eðlur í kringum sig, við Eyjafjörð tók á móti honum fugl svo stór og mikill að vængirnir náðu á milli tveggja fjalla. Á Breiðafirði rakst hann á griðung mikinn sem fór að gella ógurlega að honum en er hann kom suður fyrir Reykjanes tók á móti honum bergrisi sem bar höfuðið hærra en fjöllin öll. Sendimaðurinn komst því hvergi að landi og fór til baka og sagði konungi fréttirnar.Þessar fjórar yfirnáttúrulegu furðuverur standa vörð um hvern landsfjórðung fyrir sig og sem skjaldberar skjaldarmerkisins standa þær sem slíkar. Skjaldarmerkið sjálft sem er auðkenni stjórnvalda ríkisins er skjöldurinn með íslenska fánanum og hægt er að nota það með eða án skjaldberanna.

Það er hugmyndin um þessar hollvættir landsins, sem liggur að baki gerð skjaldbera skjaldarmerkisins eins og það varð árið 1919. Kom til athugunar að hafa sína landvættina í hverjum reit skjaldarins, en horfið var að því að taka landvættirnar ekki í sjálft skjaldarmerkið, heldur sem skjaldbera.

Lýðveldisskjaldarmerkið
Skjaldarmerki ÍslandsÞegar leið að endurreisn lýðveldisins 1944, fól þáverandi forsætisráðherra, Björn Þórðarson, þremur ráðuneytisstjórum ásamt dr. Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði, sem hafði verið ráðunautur um gerð skjaldarmerkisins 1919, að athuga og gera tillögur um breytingu á ríkisskjaldarmerkinu. Breyting var í öllu falli nauðsynleg vegna þess að kóróna var yfir skildinum, en hún hlaut að hverfa við afnám konungdæmisins. Niðurstaðan varð þó sú, að gera ekki tillögur um breytt skjaldarmerki og hverfa ekki frá landvættahugmyndinni að því er skjaldbera varðaði. Var gerð ný teikning af skjaldarmerkinu, þar sem kórónan var felld burtu og lögun skjaldarins breytt. Skjaldberarnir voru teiknaðir með öðrum hætti en áður og einnig undirstaðan, sem skjöldurinn hvíldi á. Tryggvi Magnússon listmálari gerði teikninguna.
Við gerð undirstöðunnar, sem skjöldurinn hvílir á, var haft í huga „kirkjugólfið“ á Kirkjubæjarklaustri.

Alþingi

Minnispeningur-Alþingi 1930.

Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins.
Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, sem getur í Heimskringlu: Griðungur, hægra megin skjaldarins, bergrisi, vinstra megin, gammur, hægra megin, ofan við griðunginn, og dreki, vinstra megin, ofan við bergrisann. Skjöldurinn hvílir á stuðlabergshellu.

-Af vefsíðu stjornarradid.is
-https://framsokn.is/nyjast/frettir/thingflokki-framsoknarmanna-afhent-falleg-gjof/

Skjaldarmerki

Ljósmynd á spjaldi, 23,7 x 19,2 cm að stærð, af skjaldarmerki Íslands eftir teikningu Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara.

Íslenski fáninn
Skjaldarmerki komu að góðum notum, þegar herklæði voru þannig að erfitt var að þekkja vin frá óvini í orrustu nema skjaldarmerki segðu til um hverjir þar færu.
Skjaldarmerki

Á fyrri öldum var skjaldarmerki Íslands lengi saltfiskur á rauðum skildi.

Sömu merki voru einnig löngum notuð í innsiglum, þótt engra lita gætti þar. Innsigli Hrafns Sveinbjarnarsonar er elsta innsigli Íslendings, sem vitað er um. Var það fingurgull með nafni hans og merktur á hrafn, gjöf frá Bjarna Kolbeinssyni, biskupi í Orkneyjum.
Við gerð skjaldamerkja tíðkast ákveðnar meginreglur, bæði að því er varðar skjaldarmerki einstaklinga, ætta, þjóðhöfðingja og ríkja. Skjaldarmerki er einungis það, sem markað er á sjálfan skjöldinn, en umhverfis eru skjaldberar svo sem landvættirnar umhverfis íslenska ríkisskjaldarmerkið. Tveir málmar og fjórir litir koma við sögu í gerð skjaldamerkja; gull eða gulu litur í þess stað, silfur eða hvítur litur, blátt, rautt, svart og grænt. Höfuðreglan er að láta ekki málm liggja að málmi (gull, silfur eða gult og hvítt) eða lit að liti, heldur eiga litur og málmur að skiptast á. Undantekningar og frávik eru þó frá þessu, einkum ef aukið er við fornt merki eða því breytt á annan hátt. Þá er þess að geta að þegar talað er um hægri og vinstri í skjaldamerkjafræði, þá er miðað við þann, sem er að baki skildinum, heldur á honum.

Skjaldarmerki

Árið 1903 var ákveðið að skjaldarmerki Íslands skyldi vera hvítur íslenskur fálki á bláum grunni. Þetta merki þótti veglegra en eldra merkið sem var flattur þorskur. Fálkamerkið var notað til 1919, þegar nýtt skjaldarmerki var tekið í notkun.

Þótt skjaldarmerki einstakra manna hafi ekki verið mörg á Íslandi, þá hafa þau þó tíðkast. Í fornum ritum er getið um skildi, sem dregnar voru á myndir, t.d. ljón, og í innsiglum voru ýmsar myndir. Á 14. og 15. öld voru nokkrir Íslendingar gerðir að riddurum og tóku sér þá skjaldarmerki. Loftur ríki Guttormsson er sagður hafa haft hvítan fálka á bláum feldi sem sitt skjaldarmerki, en aftur á móti höggorm í innsigli sínu. Torfi Arason hafði að skjaldarmerki hvítabjörn á bláum feldi og hálfan hvítabjörn upp af hjálminum. Björn ríki Þorleifsson hafi samskonar skjaldarmerki nema hvað hvítabjörninn upp af hjálminum var heill.
Þeir, sem sæmdir voru stórkrossi Dannebrogsorðunnar, áttu að láta gera sér skjaldarmerki, ef þeir höfðu ekki slík merki fyrir. Þegar farið var að veita Íslendingum þetta orðustig, létu ýmsir þeirra gera sér skjaldarmerki svo sem fyrsti Íslendingurinn, sem hlaut stórkross Dannebrogsorðunnar, dr. Pétur Pétursson biskup.

Á árunum 1950-1959 starfaði á vegum danska forsætisráðuneytisins nefnd, sem ráðuneytið hafði falið að gera athugun á og tillögur um notkun ríkisskjaldarmerkis Danmerkur.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands frá dögum Gissuarar jarls, skv. tilgátu P. Warmings.

Einn nefndarmanna, P. Warming, lögfræðingur, sem var ráðunautur danska ríkisins í skjaldamerkjamálum, hefur síðar látið í ljós álit sitt á því hvernig ríkisskjaldarmerki Íslands muni hafa verið fyrir 1262-1264, þ.e. áður en landið gekk Noregskonungi á hönd, og hvernig skjaldarmerki Noregskonungs hafi verið, þegar hann notaði merki sem konungur Íslands.
Til er frönsk bók um skjaldarmerki, talin skráð á árunum 1265-1285. Nefnist hún Wijnbergen-skjaldamerkjabókin og er varðveitt í Koninklijk Nederlandsch Gencotschap voor Geslachot en Wapenkunde í Haag. Efni hennar var birt í Archives Heraldiques Suisses á árunum 1951-1954.

Á bakhlíð eins blaðsins í bókinni (35.) er m.a. sýnt merki konungsins yfir Íslandi, þ.e. merki Noregskonungs sem konungs Íslands eftir atburðina 1262-1264.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Konungs Íslands samkvæmt franskri skjaldamerkjabók frá 13. öld geymd í Wijnbergen í Hollandi.

Skjaldarrendur eru dökkar, en þverrendur bláar og hvítar (silfraðar). Tveir þriðju hlutar skjaldarins neðan frá eru með þverröndum, silfruðum og bláum til skiptis. Efsti þriðjungur skjaldarins er gylltur flötur, án þverranda. Á skjöldinn er markað rautt ljón, sem stendur öðrum afturfæti niður við skjaldarsporð, en höfuð ljónsins nemur við efri skjaldarrönd. Í framlöppum ljónsins er öxi í bláum lit á efsta þriðjungi skjaldarins (hinum gyllta hluta), en skaftið, sem nær yfir sjö efstu silfruðu og bláu rendurnar, virðist vera gyllt, þegar kemur niður fyrir efstu silfurröndina. Ljónið í skjaldarmerki Noregs var ekki teiknað með öxi í klónum fyrr en á dögum Eiríks konungs Magnússonar eftir 1280.Þetta umrædda skjaldarmerki virðist eftir hinni frönsku bók að dæma hafa verið notað af Noregskonungi sem konungi Íslands eftir árið 1280. Þótt öxin bættist í skjaldarmerkið eftir árið 1280, er hugsanlegt að sama eða svipað skjaldarmerki, án axar, hafi verið notað af „Íslandskonungi“ áður, e.t.v. strax frá 1264.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Kristjáns 10. konungs Íslands 1918 til 1944 og Danmerkur 1912 til 1947. Tákn Íslands er silfurlitur fálki í vinstra horni neðst. Nýtt skjaldarmerki án fálka Íslands 1948.

Um þorskmerkið sem tákn Íslands eru ekki skráðar heimildir fyrr en svo löngu seinna að notkun þess þarf ekki að rekast á þetta merki eða önnur, sem kynnu að hafa verið notuð sem merki Íslands.
Skjaldarmerki „Íslandskonungs“, sem að framan getur, virðist þannig myndað, að norska skjaldarmerkið, gullið ljón á rauðum grunni, er lagt til grundvallar, en litum snúið við: rautt ljón á gullnum grunni. Þessi breyting ein er þó ekki látin nægja, heldur er tveimur þriðju hlutum skjaldarins að neðan breytt þannig, að þar skiptast á bláar og silfraðar þverrendur, neðst blá, síðan silfruð, þá blá aftur og svo koll af kolli, en efsta silfraða þverröndin liggur að þeim þriðjungi skjaldarins, sem er gullinn.
Það skjaldarmerki, sem þegar hefur verið til og menn hafa viljað virða og taka tillit til um leið og við það var bætt hluta af ríkisskjaldarmerki Noregs, hlýtur að hafa verið skjaldarmerki Íslands fyrir árið 1262. Það skjaldarmerki hefur samkvæmt framansögðu verið skjöldur með tólf silfruðum (hvítum) og bláum þverröndum, efst silfur og neðst blátt. Í einfaldleik sínum er þetta frá skjaldarmerkjafræðilegu sjónarmiði fallegt merki.

Skjaldarmerki

Kóróna í skjaldarmerki Íslands, hinu eldra af landvættaskjaldarmerkjunum og tók við af fálkamerkinu og þar áður því með útflatta þorskinum. Merkið var í gildi 1919-1944, þegar Ísland var enn í konungssambandi við Dani. Konungsúrskurður kvað á um að í merkinu skyldi vera krýndur skjöldur sem á væri fáni Íslands. Skjaldarmerkið teiknaði Ríkarður Jónsson, myndhöggvari og útskurðarmeistari. Þetta tiltekna merki er 70×70 cm stórt, gagnskorið í tré. Ekki er vitað hvort Ríkarður hafi sjálfur skorið það en það hefur vissulega verið gert af færum myndskera og það kom til Þjóðminjasafnsins frá Alþingi. Síðara landvættamerkið sem tekið var í notkun eftir lýðveldisstofnunina er að sjálfsögðu kórónulaust.

Ef þetta er rétt tilgáta, þá er elsta íslenska ríkisskjaldarmerkið álíka gamalt og það norska, en norska skjaldarmerkið (án axar) þekkist frá dögum Hákonar IV. Hákonarsonar. Fjöldi þverrandanna í Íslandsmerkinu þarf ekki að tákna neitt sérstakt, en gæti leitt hugann að því að Íslandi mun í upphafi hafa verið skipt í tólf þing, þótt því hafi að vísu verið breytt áður en sá siður barst til Norðurlanda á tímabilinu 1150-1200 að taka um skjaldarmerki.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands, hið nýja, prentað sem fylgiblað við Stjórnartíðindi fyrir Ísland, 1919 A. 2. Blaðast. 25,5 x 18 cm. Prentað í Kaupmannahöfn eptir uppdrætti, sem Ríkharður Jónsson gjörði fyrir Jón Magnússon forsætisráðherra eptir tillögu gef. Komið hafði fram tillaga um að hafa skjaldarmerkið fjórskiptan skjöld, eða með 4 reitum, og sína landvættina í hverjum. Sú tillaga var studd af nokkrum stjórnmálamönnum og því tók gef. það tillit til hennar og landvættanna, að hafa þá fyrir skjaldbera, þegar skjaldberar yrðu sýndir með merkinu, sem hann lagði til að hafa með sömu gerð og þjóðfánann, ef skjaldarmerkið með fálkanum yrði af numið aptur og ekki að eins breytt í því fálkamyndinni, eins og hann hafði farið fram á í Árb. Fornleifafjel. 1915, 23, og ef ekki yrði tekið upp aptur í stað fálkamerkisins hið forna Þorskmerki, sem hann lagði til að fremur yrði tekið upp en þjóðfánamerkið eða nokkurt annað skjaldarmerki, ef fálkamerkið yrði afnumið. : Hafði hann fengið fjölda marga málsmetandi menn í Reykjavík til þess að senda stjórnarráðinu áskorun um þetta, en það ekki sinnt því. Eptirá viðurkendi þó Jón Magnússon ráðherra fyrir gef., að hann þá væri orðinn þeirrar skoðunar, að rjettast hefði verið að halda fálkamerkinu með breyttri mynd. Ríkarður Jónsson hafði mjög nauman tíma til að gera frummynd sína og lagði gef. til að hún yrði ekki prentuð þannig: einkum var hann mótfallinn lögun skjaldarins að neðan, fyrir komulaginu á skildi og skjaldberum, þessari gerð á griðungnum og bergrisanum. En prentuninni var hraðað og látið sitja við fyrirmyndina svo sem hún var. Blaðið fjekk gef. hjá stjórnarráðinu. Það er nú í gyltri umgerð með gleri í: st. að utanmáli 32,2 x 24,8 cm. Sbr. nr. 8210.

Það, að ljónið í norska skjaldarmerkinu skuli á mynd í umræddri bók vera með öxi, sem einmitt var bætt í merkið í þann mund sem bókin hefur verið í smíðum, sýnir að sá, sem lét setja bókina saman, hefur haft glögga vitneskju um norræn skjaldarmerki.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands átti eftir að taka breytingum frá fyrstu útgáfu.

Það, sem hér að framan er sagt um merki Íslands fyrir og eftir 1262, er lausleg frásögn af áliti P. Warming, lögfræðings og skjaldarmerkjaráðunauts í Kaupmannahöfn.Merkið, sem getið er um, skjöldur með tólf þverröndum, hvítum (silfruðum) og heiðbláum til skiptis, er hugsanlega það merki (eða fáni) sem Hákon konungur fékk Gissuri Þorvaldssyni í Björgvin 1258, er hann gerði hann að jarli.
Tilgátu P. Warmings um merki Íslandskonungs hefur verið andmælt, t.d. af Hallvard Trætteberg, safnverði í Noregi, og telja sumir merkið í Wijnbergen-bókinni tilbúning og hugarflug teiknarans. Þeim andmælum hefur P. Warming svarað og bent á að skjaldarmerkjabókin sé yfirleitt nákvæm og áreiðanleg svo sem um skjaldarmerki Englands, Skotlands, Írlands, Manar og Orkneyja, og ekki sé undarlegt að Ísland hafi haft sérstakt merki, þegar þess sé gætt að lítil samfélög eins og Mön, Orkneyjar, Jamtaland og Færeyjar höfðu sín merki.
Hvað sem líður merki Íslandskonungs, þá telur P. Warming allt benda til þess að skjöldurinn með tólf hvítum og bláum þverröndum sé hið upprunalega (skjaldar)merki Íslands.

Skjaldarmerki

Tryggvi Magnússon var fyrsti auglýsingateiknari Rafskinnu árin 1935-1945 og árið 1944 var teikning hans af landvættunum viðurkennd sem opinbert skjaldarmerki lýðveldis Íslands.

Skjaldarmerki lýðveldisins Íslands, eftir 1944, er silfurlitaður kross á himinbláum skildi, með eldrauðum krossi varpað inn í silfurkrossinn. Skjaldarmerkið prýða hinir fjóru landvættir Íslands, einn fyrir hvern landsfjórðung: griðungur (Vesturland), gammur (Norðurland), dreki (Austurland) og bergrisi (Suðurland). Þeir standa á helluhrauni. Höfundur skjaldarmerkisins var Tryggvi Magnússon.

Hinn 12. febrúar 1919 var tekið upp merki, þar sem fáni Íslands er markaður á skjöld. Konungsúrskurðurinn um skjaldarmerkið hljóðar þannig: „Skjaldarmerki Íslands skal vera krýndur skjöldur og á hann markaður fáni Íslands. Skjaldberar eru hinar alkunnu fjórar landvættir, þannig: dreki, gammur, uxi og risi.“ Þetta var skjaldarmerki konungsríkisins Íslands, 1918–1944.

-Af vefsíðinni stjornarradid.is
-https://is.wikipedia.org/wiki/Skjaldarmerki_%C3%8Dslands

 

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands.

Fáni

Kálfatjörn

Ofan Kálfatjarnarvarar á Vatnsleysuströnd er upplýsingaskilti með eftirfarandi fróðleik:

Kálfatjörn„Í fjörunni hér að vestanverðu er Kálfatjarnarvör. Út af vörinni er legan en svo nefnist lónið innan stærsta kersins, Markkletts. Norðan klettsins er Kálfatjarnarsund, þröng og skerjótt innsigling inná Lónið. Miðið í Kálfatjarnarsund er Sundvarða í Keili. Varðan er á Klapparhól nyrst í Goðhólstúni. Hún er nú hrunin en leifar hennar má enn sjá á hólnum. Keilir var algengt fiskimið enda áberandi í landslagi. Vestur af Markkletti er lítið sker, Geitill. Í stillu má oft sjá og heyra í selum sem liggja þar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Strandlengja hreppsins var um aldir einhver mesta veiðistöð landsins, allt þar til enskir togarar lögðu undir sig fiskimiðin við sunnanverðan Faxaflóa í lok 19. aldar. Hver einasti bóndi á Ströndinni var þá útvegsmaður og áttu sumir marga báta. Á hverri vertíð voru þar álíka margir aðkomusjómenn og íbúar í sveitinni. Á vertíðum var fólksfjöldinn í hreppnum vel á annað þúsund.

Kálfatjörn

Kálfatjörn. Bakki fjær.

Fisk var að fá meðfram öllum Strandarbrúnum og á Strandarleir út af þeim, ýmist á handfæri eða í net. Einnig var fiskur sóttur á Sviðin og í Garðsjó. Strandarbrúnir eru hraunbrúnir nokkuð undan landi sem mynduðust á þurru í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum þegar sjávarstaða var lægri. Meðfram allri starndlengjunni má finna fjölda mannvistarleifa sem vitna um liðna búskapar- og atvinnuhætti.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð séra Stefáns.

Á klapparhól sunnan við Kálfatjörm stóð sjóbúð sem séra Stefán Thorarensem prestur á Kálfatjörn (1857-1886) lét reisa. Sjóbúðin rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Stefán hafði lengi útgerð á Kálfatjörn.“

Kálfatjörn

Kálfatjörn – upplýsingaskiltið ofan Kálfatjarnarvarar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857, en lögð af sem sóknarkirkja 1929, notuð til íbúðar, endurbyggð og síðan endurvígð 1964, brennd til grunna 2010 og endurgerð 2020. Kirkjan á sér þó engri sögu. Hún tilheyrir nú Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.

KrýsuvíkurkirkjaÞegar Krýsuvíkurbærinn, hið merka stórbýli um aldir, var orðinn svo hrörlegur á fyrri hluta 20. aldar að ekki var lengur hægt að hafast við í honum, flutti ábúandinn, Magnús Ólafsson, í kirkjuna. Hún var því afhelguð og notuð sem bústaður um tíma. Þangað komu margir á ferðum sínum um Krýsuvík og nutu skjólsins þótt stundum væri vistin köld á vetrum. Ofn var þá í kirkjunni og var hann kyntur duglega, en kulnaði á millum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Kirkjan er dæmi um einfalda sveitakirkju frá síðari hluta 19. aldar.
Krýsuvík fór endanlega í eyði eftir 1950. Stórbýlið Krýsuvík hafði um tíma 14 hjáleigur, enda jarðgæði mikil áður en uppblástur tók að herja. Víða í Krýsuvík má sjá búsetuminjar, allt frá Selöldu í suðri að Kleifarvatni í norðri, Seljabót í austri og Selatöngum í vestri. Sunnanverð Krýsuvík er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar.
Sveinn Björnsson, listamaður og lögreglumaður, hafði vinnustofu í Ráðsmannshúsinu í Krýsuvík. Þegar hann andaðist 28.04.1997, sjötíu og tveggja ára, var hann jarðaður í Krýsuvíkurkirkjugarði 9. maí. Þá hafði ekki verið jarðsett í garðinum síðan 1917.

Sjá meira um Krýsuvíkurkirkju HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, og HÉR.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2019.

Garðskagi

Fyrstu heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti.

Garðskagi

Garðskagi – Gamli Garðskagavitinn.

Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu.

Garðskagi

Garðskagi – Nýi Garðskagaviti.

Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari.

Garðskagi

Garðskagi – nýi vitinn.

Í BS-ritgerð Sigurlaugar Herdísar Friðriksdóttur í Lanbúnaðarháskóla Íslands, „Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu“ frá árinu 2022 má lesa eftirfarandi um minjar á Garðskaga:

Fyrsti viti
Árið 1847 var elsti vitinn á Garðskaga hlaðinn en það var hlaðin grjótvarða. Grjótvarðan var 7 m á hæð og upp úr henni stóð 3,7 m hár járnkarl. Árið 1884 var síðan sett lítið timburskýli á vörðuna og inn í það var sett ljósker. Talið er að grjótvarðan hafi verið um 100 m norðvestan við gamla Garðskagavita.

Gamli viti

Garðskagi

Garðskagi – Gamli vitinn.

Árið 1897 var síðan byggður viti á Garðskagatá. Vitinn var byggður eftir teikningu frá danskri vitamálastjórn. Gamli vitinn er ferstrendur og byggður úr steinsteypu. Vitinn er um 11,4 m á hæð en með ljóshúsi var hæð hans um 15 m. Byggð var varðstofa við vitann og árið 1933 var gert anddyri við varðstofuna.
Þegar vitinn var fyrst byggður var gras fyrir framan hann og náði það líklega fram á Garðskagarif. Í dag er land alveg gróðurlaust í kringum vitann. Skömmu eftir að vitinn var byggður sáust merki um að tanginn sem vitinn er á væri að verða fyrir rofi vegna sjávargangs. Erfitt var orðið að komast að vitanum í slæmu veðri skömmu eftir að hann var byggður og var því byggð göngubrú yfir í vitann árið 1912. Vegna sjávarrofs við vitann var steyptur pallur við hann árið 1925.

Garðskagaviti

Garðskagaviti vígður – Svanhildur Ólafía Guðjónsdóttir (Lóa) frá Réttarholti í Garði.

Gamla vitanum var lokað þegar nýr viti var byggður en vitinn hefur þó gegnt ýmiss konar tilgangi síðan þá. Á árunum 1962-1978 notaði Náttúrufræðistofnun Íslands vitann sem fuglaathugunarstöð. Í dag er hægt að leigja vitann við ýmis tilefni, til að mynda fundi eða í skemmtanir. Árið 2003 var vitinn friðaður.

Nýi viti

Nýi vitinn á Garðskaga var byggður árið 1944 og var hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Vitinn er sívalur og er um 28,6 m hár frá undirstöðu að ljóshúsi. Neðst er þvermál vitans 7,5 m en 5 m efst. Garðskagaviti er hæsti sérbyggði vitinn á Íslandi. Vitinn er steinsteyptur og var húðaður með ljósu kvarsi en árið 1986 var hann kústaður með hvítu þéttiefni.
Vitavörður hafði fasta búsetu á svæðinu og starfaði við vitavörslu til ársins 1979. Haldnar hafa verið ýmsar listasýningar í nýja vitanum. Til að mynda hefur meðal annars verið haldin hvalasýning með teikningum, Norðurljósasýning RAX og vitasýning af vitum á Suðurnesjum.

Vitavarðarhús

Garðskagi

Garðskagi – Vitavarðahúsið.

Byggt var vitavarðahús árið 1933, húsið er steinsteypt og var notað sem íbúðarhús fyrir vitavörð. Árið 1951 var byggð viðbygging við vitavarðarhúsið en það var ferkantaður turn sem notaður var fyrir miðunarstöð og nokkur útihús tilheyrðu einnig búi vitavarðar. Húsið hefur nú verið notað undir ýmsar listasýningar ásamt því sem húsið hefur verið nýtt sem aðstaða fyrir sölu á handverkum.

Mikið er um minjar í Garðskaga. Svæðið hefur langa sögu af akuryrkju og hefur breski herinn einnig verið með viðveru á svæðinu á sínum tíma.

Garðskagi

Breskir dátar í viðbragðsstöðu við Garðskagavöll.

Gamli Garðskagaviti er einnig talinn til minja á svæðinu.
Steypt gangstétt lá frá gamla vita að bæjarstæði og var hún 170m á lengd og 1m á breidd. Í dag er enn steypt göngubrú sem liggur frá gamla vita að bílastæðinu. Göngubrúin er um 40 m á lengd og hefur henni verið haldið við með hlöðnu stórgrýti meðfram henni til þess að forðast rof.

Bær

Á árum áður var bær suðaustan við gamla vitann, fyrir framan vitavarðarhúsið, en ekki er hægt að sjá greinilegt byggingarlag fyrir bænum í dag.

Útihús
Nokkur útihús voru við bæinn en talið er að þau hafi verið þrjú í heildina.

Garðskagi

Garðskagi – túnakort 1919.

Fyrsta útihúsið var norðvestan á Garðskaga, nálægt nýjum vita, og tengdist bænum sem var þar áður. Í dag má sjá steyptan sökkul þar sem útihúsið stóð en sökkullinn er 3,2×3,2 m að stærð og er um 0,2 m á hæð. Annað útihús var norðan við vitavarðarhúsið en ekki sjást nein ummerki um útihúsið. Þriðja útihúsið var við vitavarðahúsið en engin ummerki eru um útihúsið.

Kálgarður

Garðskagi

Garðskagi – túnakortið frá 1919 sett ofan á loftmynd 2020.

Kálgarður var við bæjarstað og útihús 1. Ummerki um kálgarðinn sjást ekki en hins vegar var gerði við kálgarðinn sem er enn varðveitt í dag. Kálgarðurinn var 35x23m að stærð og myndaði 90 gráðu horn. Á norðurhluta kálgarðsins var kantur sem afmarkaði garðinn. Veggirnir á kantinum sjást enn og er hann frá 0,4m – 0,8m á hæð.

Akurreinar
Á Garðskaga voru akurreinar girtar af en þeim var skipt í fernt. Sumar akurreinarnar voru aflangar. Garðarnir voru hlaðnir upp úr klömbrum eða sverði. Lítið var um að hlaða þessa garða upp úr grjóti. Leifar eru af þessum görðum en um 18 akurreinar er um að ræða.

Túngarðar

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Á svæðinu voru þrír túngarðar en má finna ummerki um tvo af þeim. Fyrsti túngarðurinn var í kringum tún bæjarins á Garðskaga en ekki eru ummerki um túngarðinn í dag. Annar túngarðurinn var við tún á suðvesturhorni Garðskaga, við núverandi veg. Garðurinn var um 100m langur og sjást leifar af honum í dag. Garðurinn er um 0,5m breiður og hæsti puntur er um 0,6m hár. Þriðji túngarðurinn og einn elsti garður á svæðinu er túngarður sem er staðsettur rúmum 160m frá strönd. Garðurinn er talin vera partur af rúmum 230m kafla af garði en tengsl á milli hafa rofnað á nokkrum stöðum. Túngarðurinn er um 4-6 m á breidd og er á milli 0,2m – 0,3m á hæð.

Skagavöllur

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Þann 10. maí 1940 hernam Breski herinn Ísland. Á þessum tíma voru ekki til flugvellir á Íslandi en flugvélar voru mikilvæg hernaðartól og þurfti herinn því flugvelli. Mikilvægt var að finna staði sem voru nálægt siglingarleiðum. Herinn hafði ekki tæki og stórar vinnuvélar og því var einnig þörf fyrir að finna svæði þar sem hægt væri að gera flugbrautir á skömmum tíma með litlum kostnaði. Fundu þeir slíkt svæði á Garðskaga þar sem landið þar er óvenju slétt og jarðvegur þéttur og sendinn þannig að vatn settist hvergi að í langan tíma í senn. Samið var við landeigendur á svæðinu og hófust framkvæmdir á flugvellinum haustið 1940. Menn úr Garðinum, Sandgerði og annars staðar af Suðurnesjunum unnu við verkið.

Garðskagi

Garðskagaflatir – loftmynd 1954.

Stærsta verkið var að jafna völlinn þar sem torfið var fært til og síðan tyrft aftur yfir. Bifreiðar, hjólbörur og hestvagnar voru notaðir við að færa sand og túnþökur. Flugvöllurinn var síðan tilbúinn vorið 1941 og fyrsta flugvél lenti á vellinum einn sumardaginn síðar það árið. Flugbrautin var um 90 m breið og 1050 m löng en hún náði frá Garðskagavegi að Hafurbjarnastöðum. Flugvöllurinn var hins vegar ekki notaður mikið þar sem Bandaríkamenn byggðu stærri flugvöll á Miðnesheiði. Skagavöllurinn var því helst notaður sem neyðar- eða æfingavöllur.“

Heimild:
-Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu, Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir, 2022.
-https://www.visitreykjanes.is/is/stadur/vitarnir-a-gardskaga

Garðskagi

Garðskagi – minjastaðir.

Þorbjarnarstaðir

Menningarlandslag eru svæði sem bera með sérstökum hætti vott um athafnir mannsins á ólíkum tímum við mismunandi aðstæður, og sem þar með bera í sér menningarsögulegt gildi.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Í menningarlandslagi birtist hin sögulega vídd í umhverfi okkar. Það er stöðugum breytingum háð, þar sem gamalt hverfur og nýtt tekur við. (Kulturmiljøet i landskabet, frjálsleg þýðing). Einnig svæði, þmt. menningarlegar og náttúrulegar auðlindir, sem tengjast sögulegum atburðum, aðgerðum eða einstaklingum eða fela í sér önnur menningarleg, þjóðfræðileg, málsöguleg eða fagurfræðileg gildi og öll sýnileg eða ósýnileg ummerki sambúðar manns og lands.
Fyrsta skrefið er að vita hvað er hægt að vernda. Til þess þarf skráningu. Skráning og geymsla upplýsinga þarf að vera vel skipulögð. Það kallar á kortlagningu. Þegar upplýsingarnar liggja fyrir á skipulögðu formi, svo sem á korti, er kominn grundvöllur til að nýta þær við ákvarðanatöku, t.d. við gerð skipulagsáætlana – ekki bara „spari“ heldur alltaf.

Hvað er hægt að skrá? (dæmi)

Miðmundarvarða

Miðmundarvarða við Þorbjarnastaði.

Álagablettir
Álfabyggðir
Beitarhús
Dysir
Draugasögur

Eyktamörk
Gamlar byggingar
Gamlar leiðir
Gangnamannakofar
Garðar
Grasamór
Hákarlshjallar
Hreiðurstæði Íslendingasöguslóðir
Jarðhýsi
Kirkjustaðir

Hólmur

Hólmur – eldhús.

Kvíar
Lendingar
Mið af sjó
Mógrafir
Naust

Sagnir
Selalagnir
Skáldaslóðir
Stafkirkjur
Stekkir Sölvafjörur
Tóftir
Tófugren
Vatnsból
Veðurteikn
Veiðistaðir
Verbúðir

Vorrétt

Vorréttin í Hraunum.

Vígðir blettir
Vörður
Þjóðsögur
Örnefnasögur
Örnefni
Öskuhaugar
(3 x 13 atriði)

Menningarlandslag og sjálfbær þróun
Sjálfbær þróun er þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum“ (Brundtlandskýrslan 1987) eða „Við fengum Jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar, við höfum hana að láni frá börnunum okkar“ (Máltæki frá Kenya).

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli / Arngrímshelli.

Til að þróunin sé sjálfbær, þarf hún að vera það jafnt í vistfræðilegu, efnahagslegu og félagslegu tilliti.
Hluti ábyrgðarinnar sem við berum gagnvart komandi kynslóðum felst í því að varðveita þann fjölbreytileika sem er til staðar og þá þekkingu sem honum fylgir. Fjölbreytnin er mikilvæg forsenda sjálfbærrar þróunar.

Líffræðileg fjölbreytni (biodiversity) (þar með talin erfðafræðileg fjölbreytni, fjölbreytni tegunda og fjölbreytni vistkerfa)

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Skipuleg skráning menningarlandslags er skammt á veg komin, en mikið af upplýsingum er til. Ísland er jaðarbyggð með sérstakt hlutverk. Sértækar staðbundnar aðgerðir geta reynst nauðsynlegar til að viðhalda fjölbreytileikanum. Stafræn kortlagning opnar nýja möguleika og auðveldar ákvarðanatöku.
Höfum í huga að: Gamalt fólk deyr; oftar en æskilegt er – og með því hverfur vitneskja, sem við, unga fólkið, gætum nýtt okkur.

-Stefán Gíslason MSc Umhverfisstjórnun. Úr erindi er flutt var á afmælisráðstefna Landverndar laugardaginn 30. október 1999.
-http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1080.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – dæmi um menningarminjar.