Litli Ratleikur Hafnarfjarðar 2020

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er nýr ratleikur sem fór af stað í miðjum kórónafaraldri árið 2020 og er ætlaður til að hvetja fólk til að njóta útivistar um leið og það lærir um fróðlega staði í útjaðri bæjarins og í bænum sjálfum. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn.
Litli Ratleikur er frábrugðinn stóra Ratleik Hafnarfjarðar, engin ratleiksmerki eru á staðnum eða ratleikskort. Hann er einungis á vefnum og hægt er að stunda hann hvenær sem er.
Í Litla Ratleik 2020 eru 15 áhugaverðir staðir. Að þessu sinni:

1 – Útihús við Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn – útihús.

S-A Ástjarnar, neðan við klapparhól sem vel sést frá göngustígnum eru rústir útihúss. Svona rústir og ummerki mannvistar er víða að finna í landi Hafnarfjarðar en opinber skráning þeirra er af skornum skammti og nær engar þeirra merktar. Flestar rústir sem enn er að finna eru ummerki um búskaparhætti fyrri alda. Líklegt er að þetta séu rústir útihúss sem tilheyrði bænum Ási sem stóð þarna skammt frá og var rifinn síðla á síðustu öld.

Greinilega má sjá hleðslurnar skammt frá göngustígnum. Hleðslurnar eru neðan við stóran klett við stíginn.

Ástjörn

Útihús við Ástjörn.

Markmiðið er að ganga í kringum Ástjörnina sem er rúmlega 3 km hringur frá bílastæðunum. Til viðbótar má ganga upp að útsýnisskífunni á Ásfjalli að norðanverðu, og ganga eftir öxlinni og koma niður á Skarð, þar sem finna má grjóthlaðinn stekk, og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Allt eru þetta ágætir stígar, misgóðir þó.

Ástjörn

Ástjörn.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má þar enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ástjörnin er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun rann fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Í tjörnina renna nokkrir smálækir og er yfirborðsrennslið breytilegt sem hefur þó lítil áhrif á vatnsborðið.

Lífríki tjarnarinnar er fjölbreytilegt og hér er kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni er mikið. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina.

Tjörnin og nánasta umhverfi nýtur friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður er nú trjáreitur frá því þar var skógræktarstöð og liggur göngustígurinn umhverfis vatnið þar í gegn.

Skammt vestan bæjarstæðisins milli Ásfjallsaxlar og Grísaness er Hádegiskarðið sem ferðalangar gengu um fyrrum er þeir fóru Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg til Krýsuvíkur eða Grindavíkur.

Fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997.

2 – Útsýnisskífa á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – útsýnisskífa.

Lengi var talið að Ásfjall væri lægsta fjall á Íslandi. Reyndar er lægra fjall á Austurlandi svo Ásfjall er þá a.m.k. næst lægsta fjall Íslands.

Á Ásfjalli er gott útsýni yfir fallegan fjörðinn og nágrenni og það nýttu sér hermenn á stríðsárunum. Enn má sjá merki eftir byrgi þeirra á fjallinu.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna sem þar er. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Markmiðið er að ganga upp á Ásfjallið til að upplifa fallegt útsýnið yfir Hafnarfjörð. Frá útsýnisskífunni má ganga eftir öxlinni til suðurs og koma niður á Skarð og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Slóðinn á fjallinu er greinilegur en grófur.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ásfjall

Ásfjallavarða árið 2007.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð snemma á öldinni en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

Ásfjallavarða

Ásfjallavarða árið 2020 og ummerkin umleikis.

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Þegar hún var komin á sinn stað voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en árið 1987 að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson, Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987 og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!

3 – Ósinn

Ósinn

Bekkur við Ósinn.

Ósinn er heiti á mannvirki sem tengist fráveitu Hafnarfjarðar. Í gegnum þetta mannvirki er skolpi dælt frá stórum hluta bæjarins út í pípu sem liggur undir Hvaleyrina og út í hreinsi- og dælustöð í Hraunavík en þaðan er öllu skolpi dælt langt á haf út eftir að það hefur verið grófhreinsað. Skolpdælistöðvar bæjarins hafa gjörbreytt áhrifum skolpsins við strendurnar frá því sem áður var.

Horft að miðlunartankinum sem hægt er að fara upp á.

Gott að leggja
Leggja má við enda Óseyrarbrautar þar sem hún sveigir til hægri við tanka Atlantsolíu.

Markmið
Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Við enda stígsins er Ósinn og upp á mannvirkið eru tröppur sem leiðir gesti að útsýnisstað með bekkjum.

Bekkir leynast uppi á miðlunartankinum.

Fróðleikur
Lang stærstur hluti hafnarsvæðisins er á uppfyllingu og er svæðið sem Ósinn er á það nýjasta og stærsta.

Í 2. kafla Landnámu segir að þar hafi Flóki Vilgerðarson og Herjólfur, bóndi er honum fylgdi, komið að landi fyrir árið 870 og dvalið um stund. „Flókaklöppin“ efst á Hvaleyrarholti er með ýmsum áletrunum, sem sumir telja vera eftir áhöfnina.

4 – Minnisvarði um Hrafna-Flóka
Í Landnámu segir frá því er Hrafna Flóki, Flóki Vilgerðarson, kom til Hafnarfjarðar þar sem hann fann félaga sinn Herjólf, sem hafði orðið viðskila við hann á eftirbát í mynni Faxaflóa. Fann Flóki þar og rekinn hval við eyri og nefndi Hvaleyri.

Var Hrafna-Flóka reistur minnisvarði í vörðuformi hæst uppi á Hvaleyri og var hann vígður í lok Víkingahátíðar 13. júlí 1997. Varðan er úr norsku grjóti og er gjöf frá Norðmönnum til minnis um atburðinn.

Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Einnig að kynnast sögunni um Hrafna-Flóka og jafnvel um þá fornu byggð sem var á Hvaleyrinni, Hvaleyri, Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyrarkot, Vesturkot og Halldórskot.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Í Landnámu segir frá því að Flóki hafi upphaflega haldið af stað frá Noregi vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann ætlaði að setjast þar að og þess vegna voru með í för fjölskylda hans og frændlið, auk búfénaðar. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur, Þórólfur og Faxi. Flóki hafði með sér þrjá hrafna sem hann hafði blótað í Noregi og lét þá vísa sér leið til Íslands. Hann sleppti fyrst einum og flaug sá aftur um stafn í átt til Færeyja, sá næsti flaug í loft upp og aftur til skips en sá þriðji flaug fram um stafn í þá átt sem Flóki og félagar fundu landið. Þeir komu að Horni eystra, síðan sigldu þeir suður og vestur fyrir land og námu land í Vatnsfirði á Barðaströnd. Vatnsfjörður mun hafa verið fullur af fiski og nýbúarnir stunduðu veiðar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenskan vetur. Þess vegna drapst allt kvikféð um veturinn. Vorið var heldur kalt og þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá fyrir norðan fjöllin fjörð, líklega Arnarfjörð, fullan af hafís. Því kölluðu þeir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.

Flóki og fylgdarlið hans ákváðu að fara burt og héldu úr Vatnsfirði þegar langt var liðið á sumar. Þeir náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes og urðu Flóki og Herjólfur viðskila í mynni Faxaflóa.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri..

Ýmsar minjar er að finna á Hvaleyrinni. Herjólfur kom að landi í Herjólfshöfn en Flóki hafði vetursetu í Borgarfirði. Næsta sumar kom Flóki í Hafnarfjörð og þar fundust þeir Herjólfur.

Menn hafa leitt að því getum að Herjólfshöfn sé Hvaleyrartjörn en hún var höfnin í Hafnarfirði sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.

Í Landnámu segir enn fremur: Flóki Vilgerðarson hét víkingur mikill; hann bjóst af Rógalandi að leita Snjólands; þeir lágu í Smjörsundi. Hann fékk að blóti miklu og blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið vísa, því að þá höfðu hafsiglingarmenn engir leiðarstein í þann tíma í Norðurlöndum. Þeir hlóðu þar varða, er blótið hafði verið og kölluðu Flókavarða; það er þar er mætist Hörðaland og Rogaland.

Samskonar varða er í Sveio sem liggur á mótum Hörðalands og Rogaland á vesturströnd Noregs. Varðan sem talin er að hafa verið upprunalega Flókavarðan, var rifin af ókunnum ástæðum á 19. öld. Ný varða var reist þar sem hin stóð og samskonar varða á Hvaleyri sem fyrr er nefnd.

5 – Útsýnisskífan á Hamrinum

Hamarinn

Litlu Ratleiksfrumkvöðlar við útsýnisskífuna á Hamrinum.

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar, er eitt af staðareinkennum Hafnarfjarðar. Hann hefur fengið nafnið Austurhamar þar sem hann er hæstur og Vesturhamar, þar sem hann gekk í sjó fram.

Áður fyrr var þessi mikli klettur sem stendur fyrir miðjum fjarðarbotninum nefndur Hamarskotshamar eftir koti sem stóð þar sem Flensborgarskólinn er nú.

Sprengt var úr Vesturhamrinum 1941-1948 og var efnið úr honum notað við gerð Norðurgarðsins í Hafnarfjarðarhöfn. Eru enn ljót ummerki eftir þetta og sést vel frá Flensborgarskóla.

Á austurhamrinum er útsýnisskífa og í góðu skyggni má sjá allan fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Ath. að hádegi á skífunni er sýnt þegar sól er í hásuðri en þar sem við erum bæði um hálfum tíma vestan við tímabeltið auk þess að vera með sumartíma allt árið, er hádegi sýnt um einum og hálfum tíma of snemma á skífunni.

Hamarinn á sér bróður; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn.

Hamarinn

Hamarinn.

Ofan Hamarsins eru Öldurnar og niður af Austurhamri er Brekkan með Brekkugötu og Suðurgötu. Svæðið neðan Vesturhamars kallaðist fyrrum einu nafni Undirhamar.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum. Ætla má að bergið geti verið yngra en 800 þúsund ára. Grágrýtið myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið.

Hamarinn er góður staður til að setjast niður og horfa yfir bæinn.

Í klöppunum ofan á Hamrinum sjást jökulrispur, menjar ísaldarjökulsins.

Finna má ummerki á Vesturhamrinum eftir veru hersins í Hafnarfirði í síðari heimsstyrjöldinni.

Í Hamrinum eru sagðar búa álfaverur af „konungakyni”. Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984.

Austurgatan en samt er aldrei talað um austur í Hafnarfirði!

Markmiðið er að ganga á Hamarinn og upplifa hann og útsýnið þaðan. Útsýnisskífan gefur möguleika á að þekkja fjöllin og umhverfið í kring.

6 – Arnarklettur

Arnarklettur

Arnarklettur.

Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Arnarklettarnir voru tveir; Arnarklettur syðri og Arnarklettur nyrðri. Hlaðin gerði og aðrar mannvistarminjar eru í kringum klettana. Á öðrum Arnarklettanna sem stendur á óbyggðu svæði á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs er merki með nafni klettsins.

Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: „Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað“.

Á síðustu tugum nítjándu aldar voru í Gullbringusýslu nokkrir þekktir varpstaðir arnarins, enda bera örnefnin þess merki, s.s. Arnarklettar utanvert við Balatún, Arnarnýpa á Sveifluhálsi, Arnarfell í Krýsuvík og Arnarþúfa í Ögmundarhrauni, auk tveggja Arnarkletta sunnan Stórhöfða og Helgafell í Garðakirkjulandi.

Markmiðið er að upplifa friðuðu hraunin, göngustígana austan og vestan Arnarhrauns. Stígarnir eru ekki merktir sérstaklega en ganga má m.a. inn á þá út úr endum Mánastígs, Þrastahrauns og víðar.

7 – Vindspil

Vindspil

Listaverkið Vindspil.

Listaverkið Vindspil frá árinu 2000 eftir Einar Má Guðvarðarson stendur á malarkambi við bílastæði við enda Langeyrarmala. Verkið heitir ekki aðeins Vindspil heldur er það vindspil og í vindi hljóma úr því fagrir bjölluhljómar. Einar Már bjó og hafði vinnustofu sína í bænum Ljósaklifi en það er bærinn sem er næst Herjólfsgötu. Hann var fæddur í Hafnarfirði 9. febrúar 1954. Hann lést 25. júní 2003.

Í Skerseyrarhrauni, á svæði sem er norð-vestasti hluti Hafnarfjarðar, og markast af Herjólfsgötu, Garðavegi og landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Bala, eru fimm gömul bæjarstæði þar sem enn standa hús. Auk Ljósaklifs eru bæirnir Fagrihvammur (Litli bær), Brúsastaðir I og nýbýlið Brúsastaðir II og Sæból sem stendur nyrst. Á milli bæjanna liðast steinhlaðnar götur í hrauninu.

Stifnishólar

Stifnishólar við Brúsastaði.

Hraundranginn utan við bílastæðið nefnist Rauðsnef og hraundrangarnir framan við Brúsastaði nefnast Stifnishólar þar sem sagt er að draugur hafi verið kveðinn niður um aldamótin 1800. Þar sem Brúsastaðir standa stóð áður bærinn Litla-Langeyri.

Langeyri var ævaforn hjáleiga frá Görðum og stóð þar sem Herjólfsgata 30 var en stutt er síðan það hús var rifið og ný fjölbýlishús byggð á lóðinni.

Meðal örnefna við sjóinn eru Brúsastaðavör, Skerseyrarvör og Balavör sem segja okkur að útræði hafi verið þarna áður.

Vindurinn skellir skálunum saman og myndar fallega bjölluhljóma.

Ganga Strandstíginn og Langeyrarmalirnar út með ströndinni að Bala.

8 – Hlaðnar götur

Hlaðnar götur

Gömul hlaðin gata.

Lengst af voru í raun engir afmarkaðir vegir í Hafnarfirði, einungis götur og slóðar. Hús voru byggð þar sem hagkvæmt þótti í hrauninu og milli hraunklettanna mynduðust götur eða troðningar áður en eiginleg gatnagerð hófst. Víða má enn finna leyfar af fyrstu gatnagerðinni, þar sem götur voru einfaldlega hlaðnar upp af hraungrjóti og fylltar með grús og hraunbrotum.

Best er að finna dæmi um slíkar götur við Hjallabrautina, gegnt skátaheimilinu Hraunbyrgi, og að Klettagötu. Þar má sjá hversu hagalega menn hafa hlaðið mjóar götur til að aka fiski á vögnum á stakkstæðin.

Fyrsta eiginlega gatnagerðin var þegar vegur var lagður frá Sjónarhóli, yfir Flatahraun og inn í Engidal.

„Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa. Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinum. Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal,” skrifaði Björn Guðmundsson sagnfræðingur 1962.

Markmiðið er að kynnast Hafnarfirði fyrri ára og láta sig dreyma um fólkið á ferðinni með fiskinn á vögnum efir hlöðnum götunum.

Allt umleikis eru grjóthlaðnir garðar og gerði er nýtt voru til heimilisbrúks fyrrum.

Víðistaðir

Víðistaðatún.

Tilvalið er að ganga til baka um Víðistaðatúnið þar sem bærinn Víðistaðir stóð og sláturhús sem margir muna eftir og stóð neðan við þar sem Víðistaðakirkja stendur núna.

Víðistaðatún er stórt opið svæði við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Þar er starfrækt tjaldsvæði frá miðjum maí fram í enda ágúst. Svæðið státar af fjölmörgum listaverkum sem tilvalið er að skoða og börn hafa gaman af að leika sér í. Einnig er þar aparóla, ærslabelgur og kastali sem staðsettur er í nálægð við grillhús. Hann hentar fyrir bæði leik- og grunnskólaaldur. Einnig er þar skógarlundur sem börn hafa gaman af að leika sér í sem og eini tennisvöllur Hafnfirðinga.

9 – Lækjarbotnar

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá svo trépípa niður til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909. Sjá má vanræktar leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið.

Stuttu ofar, í skógarjaðrinum má sjá hvar vatnið kemur undan hrauninu. Rennslið dugði þó ekki á sínum tíma til að anna vatnsþörf bæjarbúa og það varð til þess að árið 1916 fengu þeir Jóhannes Reykdal og Jón Ísleifsson verkfræðingur brjálæðislega hugmynd. Þar sem nægt vatn var í Kaldárbotnum, uppruna Kaldárinnar, var það áhugavert að koma því vatni til bæjarins. En það var löng leið og ekki á færi manna þá að leggja rör eða stokk alla þá leið auk þess sem það var yfir gjá og misgengi að fara. En hvað gera menn þá? Jú, hlaða úr grjóti og smíða tréstokk sem hleypti vatninu um 1,6 km leið yfir hraun og djúpa Lambagjána. Var vatninu sleppt inn á vatnasvæði Lækjarbotna og það var mikil spenna í bænum þegar beðið var eftir því hvort vatnið yfirleitt kæmi fram neðar í hrauninu. Voru margir efins um þessa aðferð, en vatnið kom í ljós um síðir og dugði vatnsveitan úr Kaldárbotnum allt til 1951 þegar ný vatnsleiðsla var lögð úr Kaldárbotnum í Hafnarfjörð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Hluta af vatnsleiðslunni má enn sjá en mest af henni hefur nú verið eyðilögð.

Því miður grotna minjar um þessa vatnsveitu niður og lítið er gert til að varðveita þessa sögu úti í náttúrunni t.d. með endurgerð hluta stokksins og uppsetningu á fleiri fræðsluskiltum.

Austan við lækinn má finna götu sem liggur alla leið í Selvog en það er hin margkunna Selvogsgata.

Látið ekki hjá liggja að ganga inn í Gráhelluhraunið, þar er góður göngustígur og margt að sjá, ekki síst ef vikið er svolítið frá stígnum.

10 – Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Á odda sunnan við Hvaleyrarvatn, þar sem stígurinn skiptist í tvennt, eru tóftir Hvaleyrarsels. Má þar sjá þrjár tóftir og er ein þeirra stærst, eldhús vestast, búr og baðstofa austast. Stekkurinn er skammt vestan við eldhúsið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Þarna átti að hafa gerst hryllilegur atburður um 1880 er smali fann seljastúlku rifna á hol niður við vatnið. Var talið að nykurinn í vatninu hafi leikið stúlkuna svo illa. Um nykur þennan sagði sagan að hann væri annað hvert ár í Hvaleyrarvatni, en hitt árið í Urriðakotsvatni. Sást til hans oftar en einu sinni.

Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn og um hríð í Kaldárseli.

Önnur selstaða er við Hvaleyrarvatn; Ássel. Það er skammt austan við Hvaleyrarsel, en landamerki Hvaleyrar og Áss lágu um vatnið. Jófríðarstaðir hafði um tíma selstöðu þar sem nú er Húshöfði. Þar við má sjá leifar beitarhúss og stekk selsins skammt norðar.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og um skemmtilega stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa raunverulega skógarstemmingu.

11 – Riddaralundur

Riddaralundur

Riddaralundur – setstaður gamalla Hafnarfjarðarskáta.

Frá upphafi skátastarfs á Íslandi var gjarnan farið í skátaútilegur í uppland Hafnarfjarðar og var Kaldársel mjög vinsælt og Helgadalur fyrir 1960. En síðar varð Hvaleyrarvatn áhugavert en þess ber að geta að um 1960 sást þar í umhverfinu varla nokkurt tré. St. Georgsgildið í Hafnarfirði, félag eldri skáta, var stofnað 22. maí 1963 og nýttu félagar þess umhverfi Hvaleyrarvatn til útivistar og útilegu. Fljótt kom áhugi á að byggja skála við vatnið og fékk félagið úthlutað lóð og var skálinn Skátalundur vígður 25. júní 1968.

Um svipað leyti kom skátasveitin Riddarar í Skátafélaginu Hraunbúum sér upp varðeldalaut sunnan við vatnið, á milli Ássels og Hvaleyrarsels. Settu þeir upp bekki í hring úr rafmagnsstaurum og útbjuggu eldstæði í miðjunni en sveitarforingjar þá voru þeir Ólafur Sigurðsson (Óli Sill) og Hermann Sigurðsson. Þarna var þetta undir brekku er hvergi neitt tré var að sjá en fallegur staður og skjólgóður til að sitja í kvöldsólinni.

Á Selfjalli ofan seljanna eru leifar stekks og fjárborgar. Sunnan þess, í norðanverðum Seldal, eru leifar sels.

Riddaralundur

Eldri skátar rifja upp gamla tíma í Riddaralautinni.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum tekur u.þ.b. 20-30 mínútur. Stígar í skóginum eru fjölmargir og mislangir en vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemmingu á hinum ólíku árstíðum.

12 – Ássel

Ássel

Ássel.

Flestir ganga greiðfæra stíginn í kringum Hvaleyrarvatn án þess að átta sig á því að þarna leynast minjar mannvistar frá fyrri öldum.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, skammt frá skátaskálanum Skátalundi, undir Selhöfða, eru tóftir tveggja selja, Ássels og Hvaleyrarsels.

Niður undir landi skátanna, á grónum hól eru tóftir sels sem talið er að hafa verið frá bænum Ási sem stóð við Ástjörnina, undir Ásfjallinu. Þetta er sel frá því um 1900 er Jófríðarstaðir og Ás skiptu með sér aðstöðunni við norðaustanvert vatnið

Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi ofanvert á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap voru mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina, frá 6. til 16. viku sumars. Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og eldhús. Utandyra voru yfirleitt stekkir eða kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar.

Selstöðurnar voru jafnan við vötn, ár, læki eða náttúrleg vatnsstæði.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemminguna.

13 – Beitarhús

Beitarhús

Beitarhús í Húshöfða.

Aðsetur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er á Húshöfða og skógurinn sem þar hefur verið myndaður nú kallaður Höfðaskógur.

Næst Kaldárselsvegi er þjónustubygging en suðvestar á svæðinu, á Beitarhúsahálsi, er skáli félagsins, skammt frá trjásýnilundi sem vígður var á 50 ára afmæli félagsins.

Sunnan skálans er nokkuð stór tóft (tótt) í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum en Jófríðarstaðasel varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Sjá má tóftir selsins skammt norðan við beitarhúsið.

Er talið að selið hafi síðast verið notað árið 1922 frá Ási.

Skammt fá tóftinni er útikennslustofa félagsins. Þetta er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan hjónanna Harðar Zóphaníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.

Allt umleikis eru fræðslustígar um hin ólíklegustu trjádæmi og plöntur.

Fleiri tóftir, m.a. af seli frá Jófríðarstöðum, eru á svæðinu, en þessi er þeirra stærst.

Ganga um skógarstíga og umhverfi Hvaleyrarvatns. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá, skoða trjásýnisafnið, rósagarðinn og bara upplifa alvöru skógarstemmingu.

14 – Fuglstapaþúfa

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Fuglstapaþúfa er við Þúfubarð á Hvaleyrarholti en gatan er kennd við þúfuna.

Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að byggjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka.

Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar.

„Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.

Fuglstapaþúfa er landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda.

Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir:

„Úr sjó Arnarklettar utanvert við Balatún [varða], sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur [varða]. Eftir þeim vegi í Engidal [varða]. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“

Víða um bæinn eru óröskuð svæði eða svæði sem eiga sér sögu sem vert er að minnast og er Fuglstapaþúfa og ÓlaRunstúnið gott dæmi um slík svæði. Auða lóðin þar sem Fuglstapaþúfan er, var á sjöunda áratugnum vinsælt leiksvæði barna í hverfinu og þarna voru byggðir kofar og var þarna mikið líf. ÓlaRunstúnið var einnig gríðarlega vinsælt meðal barna í svæðinu sem léku þar fótbolta á sumrin og renndu sér á sleðum og skíðum á vetrum. Var vera barna á túninu ekki alltaf vinsæl því Ólafur Runólfsson heyjaði túnið og það jók ekki á sprettuna að strákar væru þar að hamast í fótbolta.

15 – Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni. Víðsýnt er frá Jófríðarstaðaholtinu.

Markmiðið er að njóta fallegra staða, útsýnisins yfir Hafnarfjörðin fyrrum, kynnast sögunni og hreyfa sig svolítið í leiðinni. Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á góða heilsu bæjarbúa og gesta þeirra.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2020/

Skólpstöðin

Óseyri – Skólpstöðin.

Írafell

Í Alþýðublaðinu, helgarblaði, segir m.a. um Kjós; „Talir þú gott, þá lýgur þú„.

„Kjósin lætur ekki mikið yfir sér, þegar maður virðir hana fyrir sér af þjóðvegjnum. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Hún leynir á sér. Og þetta er falleg sveit og búsældarleg, þótt hér verði hvorki tíunduð fegurð hennar né gæði.

Írafell

Írafell.

Lengi vel vissi ég ekki annað um þessa sveit eða íbúa hennar en ýmsar sögur af Írafells-Móra, einum atkvæðamesta draug Íslandssögunnar, sem kenndur var við Írafell í Kjós. Írafells-Móri var vakinn upp af galdramanni nyrðra og sendur Kort Þorvarðarsyni, gildum bónda, sem lengi bjó á Möðruvöllum í Kjós, en fluttist síðast að Flekkudal og dó þar 1821.

Möðruvellir

Möðruvellir í Kjós 1913.

Kort var tvíkvæntur; hét fyrri kona hans Ingibjörg. Margir höfðu orðið til að biðja hennar áður en Kort, en hún synjaði þeim öllum. Biðlarnir þóttust sárt leiknir og keyptu af galdramanninum að senda Kort og konu hans sendingu. Valdi hann til þess drenghnokka, sem orðið hafði úti milli bæja. Vakti galdramaðurinn hann upp volgan eða ekki með öllu dauðan og sendi hann þeim Kort á Möðruvöllum og mælti svo um, að draugurinn skyldi fylgja þeim hjónum og niðjum þeirra í níunda lið og vinna þeim margt til meins. Móri sveikst ekki um þetta. Gerði hann þeim hjónum og afkomendum þeirra margar skráveifur, drap fyrir þeim fénað, skemmdi mat og sótti að fólki í svefni og vöku. Skammta varð honum fullan mat ekki síður en hverjum öðrum heimilismanni á Möðruvöllum og á Írafelli, eftir að hann fluttist þangað með Magnúsi Kortssyni. Sömuleiðis þurfti að ætla honum rúmflet til að liggja í, bæði af bæ og á.
Hér er ekki ætlunin að rekja frekar lífshlaup Írafells-Móra, sem þó var ærið sögulegt og viðburðaríkt. Hins vegar hefði kannski einhver gaman af að kynnast lítillega Kjósverjum þeirrar tíðar, samtíðarfólki Írafells-Móra, eins og það kom sálusorgara þess á Reynivöllum fyrir sjónir, og hvernig hann lýsir því, daglegu lífi þess og áhugaefnum, atvinnuháttum og menningu.

Reynivellir

Reynivellir.

Um þessar mundir, eða nánar tiltekið 30. apríl 1839, sendi nefnd manna í umboði Hins íslenzka bókmenntafélags í Kaupmannahöfn boðsbréf heim til Íslands „sérílagi öllum prestum og próföstum á landinu“ með þar til heyrandi spurningum um náttúru og byggð landsins, menningu og atvinnuhætti.

Kjós

Kjós – kort.

Séra Sigurður Sigurðsson á Reynivöllum í Kjós fékk þetta bréf eins og aðrir kirkjunnar menn í landinu. Svaraði hann spurningum nefndarinnar vel og skilmerkilega. Um Kjósverja hefur hann m.a. þetta að segja: „Flestir bændur í Kjósinni hafa sauðfá fátt, en fer mikið fleiri að tiltölu, sem þeir ala margir á útheyi, arðlitlar, fram eftir vetri. Tún sín rækta þeir sæmilega; láta margrf kýr liggja inni á sumrum. Til eru þeir, sem brúka færikvíar, og margir beitarhús á vetrum. Þeir stunda heyafla vel og fara lestir í útver tll fiskifanga vetur, vor og haust, þegar afli er. Fiskur er meiri partur þeirra höndlunarvara, þar landvara svo lítil til. Kálgarða rækta þeir margir, er ekki kartöflur eður önnur jarðepli. Sölva- og rótatekju hafa þeir ekki og lítið af fjallagrösum, sem ekki fást í Kjósarfjöllum. Nokkrir fara samt eftir þeim austi: á fjöll, í Skjaldbreið, langan veg. Sumir veiða rjúpur á vetrum.

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

Þeir lifa margir fátæklega á kornvöru, fiski og mjólk. Þeir vinna ullu á vetrum til fatnaðar, en ekki til útgjalda, því ull er víða lítil. Karlmenn spinna sumir hamp á vetrum í þorskanet og til veiðarfæra. Sumir elta skinn og sauma skinnföt, nokkrir vefa vaðmál og hafa á hendi útiverk við fé og hross. Kvenfólk fæst við ullarvinnu, þó minna en víða er siður í Norðurlandi. Þegar vetrarvertíð byrjar, fara karlmenn flestir í ver, en kvenfólk tekur þá við útiverkum. Þeir smíða ekki til gróða, hvorki tré eður járn; margir eru þeir vel búhagir og smíða húsgögn sín af tré og járni. Trjáreki er hér enginn, ekki heldur skógarviður til húsabygginga. Ekki iðka menn skotfimi, — fáeinir að sönnu skjóta refa við gren og slysa rjúpur, — ekki glímur, ekki skíða- eður skautaferðir, — ekki sund, — vaða heldur —; enginn þeirra þekkir nótnasöng, ekki heldur kunna þeir á hljóðfæri.

Reynivellir

Reynivellir 1884 – Sigfús Eymundsson.

Þeir skrifa fáeinir, og þó lítið, og eru ekki gefnir mjög fyrir bókmenntir, svo ekki hafa þeir þetta til skemmtunar. Ég nefni ekki fleira. Sumir lesa dálítið í alþekktum fornsögum, en vita lítið í veraldarsögunni. Ekki skilja þeir danska tungu. Enginn hefir hér vit á lækningum eður þekkir lækrringajurtir; engin er hér yfirheyrð yfirsetukona. Ekki tíðkast hér í sveit nokkrir sérlegir sjúkdómar, nema þeir, sem almennt ganga yfir landið, landfarsóttir, og ekki mjög sóttnæmt, enda þekkja menn hér lítið til uppruna sjúkdóma eður vita að ráða bót á þeim. Bráðdauði eður fjárpest sú, sem víða gengur um landið, hefur nú upp í nokkur ár undanfarið stungið sér niður á einstöku stað, einkum fyrri part vetrar, og drepið fénað. Dýralæknir vor í Reykjavík hefir enn ekkert ráð við henni gefið til hlítar.

Reynivellir

Reynivellir.

Um trúrækni manna og trúarbragðaþekkingu talar maður með varygð, helzt um einn söfnuð út af fyrir sig. Er lítið mun því hafa miðað síðan um aldamótin síðast.“
Þann 1. marz 1840 sezt svo séra Sigurður á Reynivöllum við skrifborð sitt, eftir að hafa svarað samvizkusamlega öllum spurningum þeim, sem til hans var beint, og ritar nefndarmönnum eftirfarandi bréf til frekari skýringar og áréttingar:

Reynivellir

Reynivellir – MWL.

-Háttvirtu herrar! Meðtekið hefi ég á síðastl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á. áhrærandi það efni að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði lasleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, sízt í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fávizka, aldurdómur og ókunnugleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálun gefið en þessa.
Nú, þó seinna sé en ég vildi, legg ég í þetta umslag útmálun um Reynivallasókn, hvar í lýst mun vera öllum örnefnum, er ég vissi eður heyrt hefi, að hér séu, sömuleiðis sveitarinnar ástandi og afstöðu yfir höfuð.

Reynivellir

Reynivellir 1884 – útihús.

Spursmálunum hefi ég svarað [á] þann veg, ekki hverju út af fyrir sig eftir röðinni, heldur í söguformi, þó með tiliti því, að þeim yrði öllum svarað nokkurn veginn. Um siðferðið og trúrækni í þeirri sveit, hvar maður býr, og á að skipta við aðra, mundi bezt að vera nokkuð fáorður, ekki óþægilega. Nógu margir skrifa eður varpa á það efun yfir höfuð. Síðari tíð sýnir ávöxtinn, hver hann verður. Hertugans sannyrði mættu mér í minni vera: Talir þú illt um þá, verður þú barinn, talir þú gott, þá lýgur þú. Yfir höfuð ætti landkort að gjörast eftir sveitanna útmálun; þó eru fáir færir fyrir þeirri útmálun, sem þyrfti. Forlátið, háttvirtu herrar, þessa ófullkomnu tilreynslu mína.
Reynivöllum, þann 1. marz 1840, – S. Sigurðsson.“

Írafell

Írafell

Írafell er næstum því inni á gafli í Kjósinni, svo að notuð sé samlíking, sem á upprunalega annars staðar heima en í landslaginu. Jörðin og sveitin öll hefur tekið miklum stakkaskiptum síðan á dögum séra Sigurðar á Reynivöllum og Írafells-Móra er ekki lengur skammtað í askinn sinn eins og hverjum öðrum heimilismanni eða ætlað rúmflet til að liggja í, enda lætur hann nú ekki á sér kræla.
En þeir, sem aka um Kjósina á góðviðrisdegi ættu þó að renna augum til bæjarins undir fellinu, sem uppvakningurinn var kenndur við, og hafa jafnframt í huga sóknarlýsingu sálusorgarans á Reynivöllum til skilningsauka á Írafells-Móra og samtíð hans. Kjósin er ekki öll þar sem hún er séð. Hún leynir á sér.“ —6G

Heimild:
-Alþýðublaðið, helgarblað; „Talir þú gott, þá lýgur þú“, 25.05.1969, bls. 9-10.

Meðalfellsvatn

Við Meðalfellsvatn í Kjós.

Huldufólkssögur

Í „Huldufólkssögum – úrvali úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar„, segir m.a. um „Marbendil,

Mjer er í minni stundin,
þá marbendill hló;
blíð var baugahrundin,
[er bóndinn kom af sjó];
kysti hún laufalundinn,
lymskan undir bjó.
Sinn saklausan hundinn
sverðabaldur sló.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar – fornleifar.

Á Suðurnesjum er bæjaþorp nokkurt, sem heitir í Vogum, en raunar heitir þorpið Kvíguvogar, og svo er það nefnt í Landnámu.

Vogar

Vogar – loftmynd 1954.

Snemma bjó bóndi einn í Vogum, er sótti mjög sjó, enda er þar enn í dag eitthvert besta útræði á Suðurlandi. Einhvern dag reri bóndi, sem oftar, og er ekki í það sinn neitt sjerlegt að segja af fiskifangi hans. En frá því er sagt, að hann kom í drátt þungan, og er hann hafði dregið hann undir borð, sá hann þar manns-líki, og innbyrti það. Það fann bóndi, að maður þessi var með lífi, og spurði hann, hvernig á honum stæði; en hann kvaðst vera marbendill af sjávarbotni. Bóndi spurði, hvað hann hefði verið að gera, þegar hann hefði ágoggast. Marbendill svaraði : »Jeg var að laga andskjólin fyrir eldhússtrompnum hennar móður minnar. En hleyptu mjer nú niður aftur«. Bóndi kvað þess engan kost að sinni, »og skaltu með mjer vera«. Ekki töluðust þeir fleira við; enda varðist marbendill viðtals.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins Voga (Kvígurvoga). Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).

Þegar bónda þótti tími til, fór hann til lands og hafði marbendil með sjer, og segir ekki af ferðum þeirra, fyr en bóndi hafði búið um skip sitt, að hundur hans kom í móti honum og flaðraði upp á hann.

Vogar 1950

Vogar um 1950.

Bóndi brást illa við því, og sló hundinn. Þá hló marbendill hið fyrsta sinn. Hjelt bóndi þá áfram lengra og upp á túnið, og rasaði þar um þúfu eina, og blótaði henni; þá hló marbendill í annað sinn.
Bóndi hjelt svo heim að bænum; kom þá kona hans út í móti honum, og fagnaði bónda blíðlega, og tók bóndinn vel blíðskap hennar. Þá hló marbendill hið þriðja sinn. Bóndi sagði þá við marbendil: »Nú hefir þú hlegið þrisvar sinnum, og er mjet forvitni á að vita, af hverju þú hlóst«. »Ekki geri jeg þess nokkurn kost«, sagði marbendill, »nemi þú lofir að flytja mig aftur á sama mið og þú dróst mig á«. Bóndi hjet honum því. Marbendill sagði: »Þá hló jeg fyrst, er þú slóst hund(inn) þinn, er kom og fagnaði þjer af einlægni. En þá hló jeg hið annað sinn, er þú rasaðir um þúfuna og bölvaðir henni; því þúfa sú er fjeþúfa, full af gullpeningum. Og enn hló jeg hið þriðja sinn, er þú tókst blíðlega fagurgala konu þinnar; því hún er þjer fláráð og ótrú; muntu nú efna öll orð þín við mig, og flytja mig á mið það, er þú dróst mig á«. Bóndi mælti: »Tvo af þeim hlutum, er þú sagðir mjer, má jeg að vísu ekki reyna að sinni, hvort sannir eru, trygð hundsins og trúleik konu minnar; en gera skal jeg raun á sannsögli þinni, hvort fje er fólgið í þúfunni, og ef svo reynist, er meiri von, að hitt sje satt hvorttveggja, enda mun jeg þá efna loforð mitt«.

Vogar

Vogar.

Bóndi fór síðan til, og gróf upp þúfuna, og fann þar fje mikið, eins og marbendill hafði sagt. Að því búnu setti hann skip til sjávar, og flutti marbendil á sama mið, sem hann hafði dregið hann á; en áður en bóndi ljet hann fyrir borð síga, mælti marbendill: »Vel hefir þú nú gert, bóndi, er þú skilar mjer móður minni heim aftur, og skal jeg að vísu endurgjalda það, ef þú kant til að gæta og nýta þjer. Vertu nú heill og sæll, bóndi«. Síðan ljet bóndi hann niður síga, og er marbendiil nú úr sögunni.

Vogar

Vogar um 1950.

Það bar til litlu eftir þetta, að bónda var sagt, að 7 kýr sægráar að lit væru komnar þar í túnjaðarinn við fjöruna. Bóndi brá við skjótt, og þreif spýtukorn í hönd sjer, gekk svo þangað, sem kýrnar voru; en þær rásuðu mjög og voru óværar. —
Eftir því tók hann, að þær höfðu allar blöðru fyrir grönum. Það þóttist hann og skilja, að hann mundi af kúnum missa, nema hann fengi sprengt blöðrur þessar. Slær hann þá með kefli því, er hann hafði í hendi sjer, framan á granirnar á einni kúnni, og gat náð henni síðan. En hinna misti hann, og stukku þær þegar í sjóinn. Þóttist hann þá skilja, að kýr þessar hefði marbendill sent sjer í þakkar skyni fyrir lausn sína. Þessi kýr hefir verið hinn mesti dánumannsgripur, sem á Ísland hefir komið; æxlaðist af henni mikið kúakyn, sem víða hefir dreifst um land, og er alt grátt að lit, og kallað sækúakyn. En það er frá bónda að segja, að hann varð mesti auðnumaður alla æfi. Hann lengdi og nafn bygðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga, er áður voru kallaðir Vogar.

Vogar

Vogar.

Heimild:
-Huldufólkssögur – úrval úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar, Ísafoldarprentsmiðja 1920, bls. 162-165.
-https://ferlir.is/grindavik-alagablettir-og-thjodsogur-3/

https://ferlir.is/tudra/https://ferlir.is/arnarfellslabbi/

eldgos

Eftirfarandi frétt, viðtal við Pál Einarsson, jarðfræðing, birtist í Morgunblaðinu 20. október 2012 undir fyrirsögninni: „Engin teikn um eldsumbrot á Reykjanesi“.

Páll Einarsson

Páll Einarsson.

„Komi upp jarðeldar á Reykjanesi er ekki ólíklegt að þeim muni svipa til Kröfluelda 1975-1984. Þar yrðu gangainnskot með sprunguhreyfingum og hraunflæði aðallega þegar færi að líða á umbrotin. Hraungos af því tagi myndi eiga sér nokkurn aðdraganda. Engin óyggjandi teikn eru um að slíkir atburðir séu í aðsigi.
Þetta kom fram í erindi Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings í gær á ráðstefnunni Björgun 2012 sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur nú um helgina. Yfirskrift erindis Páls var „Jarðskjálfta- og eldfjallavá í nágrenni Reykjavíkur.“
Páll EinarssonPáll sagði að höfuðborgarsvæðið væri nálægt mjög sérkennilegum jarðskjálfta- og eldgosasvæðum. Þar með væri ekki sagt að bráð hætta steðjaði að fólki þeirra vegna.
Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesi og tengjast þau gangainnskotum. Páll sagði að þegar svona kerfi yrði virkt streymdi hraunkvika upp í rætur þess og gæti síðan leitað eftir sprungunum og upp á yfirborðið. Það fer eftir spennuástandi á hverjum tíma hve langt kvikan getur farið og hvað gliðnunin verður mikil sem fylgir hverju gangainnskoti.
Vestasta kerfið liggur um Reykjanesið utanvert, norðan við Grindavík og út í Vogaheiði. Næsta kerfi austan við er Krýsuvíkurkerfið sem innifelur allar eldstöðvar í Krýsuvík og eldstöðvar sem hraun runnu úr niður í Hafnarfjörð. Þetta kerfi liggur m.a. um úthverfi Reykjavíkur. Sprungurnar í Heiðmörk tilheyra þessu eldstöðvakerfi og er eldstöðin í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð sú nyrsta í kerfinu. Það liggur áfram norður um Elliðavatn og Rauðavatn og deyr út í Úlfarsfelli. „Þetta er það kerfi sem getur kannski valdið mestum usla í sambandi við eldvirkni og eldvirknivá á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Páll.
EldgosÞriðja kerfið liggur um Brennisteinsfjöll og sagði Páll að það væri ef til vill virkasta kerfið og úr því hefði runnið mesta hraunið. Kerfið liggur um Bláfjöll og Sandskeið og upp í Mosfellsheiði. Lengra til austurs er Hengilskerfið. Það nær alveg frá Selvogi og upp á Þingvelli. Páll sagði að þar til fyrir skömmu hefðu ekki sést nein merki um að kvika væri að streyma inn í eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga. Fyrir 2-3 árum fór þó að örla á því að eitthvað gæti verið að gerast.

Páll vildi þó ekki gera mikið úr því og sagði menn enn vera að reyna að átta sig á því hvað hefði gerst. Hann sagði að Krýsuvíkursvæðið væri undir smásjánni að þessu leyti. Þar varð landris 2009 og svo aftur landsig.
EldgosEldstöðvakerfin á Reykjanesi virðast hafa orðið virk á um þúsund ára fresti og hver hviða hafa staðið í 300-500 ár. Öll eldstöðvakerfin virðast vera virk í hverri hviðu en hvert kerfi tímabundið.
Páll taldi að hraungos á Reykjanesskaga á okkar tímum myndi tæplega ógna mannslífum. Líklegra væri að það myndi valda eignatjóni, aðallega á innviðum eins og vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og vegum. Öskufall gæti orðið staðbundið og myndi nágrennið við Keflavíkurflugvöll líklega valda mönnum mestum áhyggjum, að mati Páls. Grunnvatn gæti hitnað og vatnsból mengast. Skjálftavirkni gæti orðið nokkur. Hraun gæti hugsanlega runnið nálægt byggð án þess þó að ógna beinlínis mannslífum.

eldgos

Eldgos á Reykjanesi frá landnámi – Ekkert gos eftir 1240
Nokkur hraun hafa runnið á Reykjanesi frá því að sögur hófust. Það gaus við Reykjanestá, í Eldvörpum norðan við Grindavík, Arnarseturshraun við Grindavíkurveg rann einnig.
Goshrina varð í Krýsuvíkurkerfinu í kringum árið 1150 e.Kr. Ögmundarhraun er syðst og rann út í sjó. Síðan rann Kapelluhraunið niður í Straumsvík. Þetta gerðist sennilega allt í þeirri hrinu.
Nokkur hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjallakerfinu frá því að land byggðist. Kristnitökuhraunið er á milli Brennisteinsfjallakerfisins og Hengilskerfisins.
Nánast öll þessi eldgos urðu á tímabilinu 900-1240 e.Kr. Ekkert eldgos er þekkt á Reykjanesskaga eftir árið 1240.“ [Þrátt fyrir ótölulegan fjölda jarðskjálfta í gegnum tíðina hefur ekki orðið eldgos á Reykjanesskagnum – a.m.k. ekki hingað til].

Heimild:
-Morgunblaðið 20. október 2012, bls. 28.
Eldgos

eldgos

Í Fréttablaðið.is 5. mars 2021 mátti lesa eftirfarandi „frétt“; „Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli“. Þar segir m.a.:

EldgisYfirlitskort Minjastofnunar er unnið út frá þeim minjum sem eru þekktar og eru á skrá hjá stofnuninni en fleiri minjar er að finna á svæðinu þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram.
Fornleifafræðingar Minjastofnunar eru í kapphlaupi við tímann að skrá minjar sem eru í hættu miðað við hraunrennslisspá. Enn á eftir skrá margar minjar sem gætu glatast að eilífu komi til eldgoss.

„Fjölmargar friðaðar og friðlýstar minjar eru á óróasvæðinu og enn á eftir að skrá margar minjar með fullnægjandi hætti að sögn Sólrúnar Ingu Traustadóttur fornleifafræðings. Hætta er á að þær glatist að eilífu komi til eldgoss.

Eldgos
„Fjöldi þekktra friðaðra minja er á svæðinu. Minjarnar tilheyra ýmsum minjaflokkum en helst er að nefna fjölmörg sel, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum,“ útskýrir Sólrún. Hún segir helstu selin í hættu vera Dalssel við Fagradalsfjall, Knarrarnessel, Auðnasel, Fornasel, Rauðhólasel, Seltó, Kolhólasel, Oddafellssel nyrðra og syðra sem eru sunnan Reykjanesbrautar.

Ekki er talið líklegt að gos hefjist á næstu klukkustundum og lauk gosóróanum sem hófst um klukkan 14:20 á miðvikudag um miðnætti þann sama dag.

„Nú er viðvarandi skjálftavirkni á svæðinu en óróinn var bara á miðvikudag,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur, í samtali við Fréttablaðið.“

Staðreyndirnar eru hins vegar þessar:

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi.

Í fyrsta lagi; Minjastofnun hefur sýnt minjum á svæðinu takmarkaðan áhuga í gegnum tíðina, jafnvel svo jaðrar við vanrækslu, þrátt fyrir þrálátar ábendingar. Eitt svarið við einni slíkri ábendingu var t.d.: „Það eru engar merkilegar minjar á svæðinu“.

Í öðru lagi; Minjastofnun hefur hingað til ekki haft einn sérstakan minjavörð er gætt hefur hagsmuni svæðisins sérstaklega, líkt og um aðra landshluta.

Seltó

Kort Sesseljar af Seltó og nágrenni.

Í þriðja lagi; Minjastofnun á að vita að áhugasamir einstaklingar, umfram starfsfólk hennar, hefur bæði skoðað, skráð, ljósmyndað, teiknað upp og fjallað opinberlega um allar mikilvægar minjar á svæðinu. Má þar t.d. nefna Sesselju Guðmundsdóttur o.fl. Þessir aðilar hafa haldið skrár, þ.á.m. hnitaskrár, af öllum fornminjunum. Stofnunin hefur hins vegar haft lítinn áhuga á samvinnu við þetta fólk, a.m.k. hingað til.

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í fjórða lagi; Minjastofnun má vita að allar selstöðurnar á svæðinu hafa þegar verið skráðar, hnitsettar, ljósmyndaðar og teiknaðar upp. Heimildir um það liggja fyrir í opinberum skrám, öðrum en hennar.

Í fimmta lagi; Seltó var ekki selstaða í eiginlegum skilningi, líkt og þekktist í heiðinni. Staðurinn var að vísu nytjastaður til hrístöku fyrrum, líkt og nafnið bendir til, þótt þar finnast engar minjar þess í dag.

Í sjötta lagi; Ef Minjastofnun vildi leggja áherslu á minjasvæði á mögulegu gossvæði ætti starfsfólkið að beina athygli sinni  fyrst og fremst að Selsvöllum, en mér að vitandi hefur starfsmaður stofnunarinnar varla stigið þar niður fæti þrátt fyrir aldarlýsingar ferðalanga og sagnir þeirra fyrrum af minjunum þar sem og handavinnu áhugasamra einstaklinga um mikilvægi þeirra í hinu sögulega samhengi svæðisins.

Hraun

Refagildra við Hraun.

Í áttunda lagi; Fáir vita t.d. að fjárborgir á Reykjanesskagnum eru 134 talsins, fornar refagildrur 91 og sels og selstöður 402, réttir 122 o.s.frv.  Efast er um að Minjastofnun hafi yfirlit um allar þær minjar, hvað þá allar mannvistaðleifarnar er finna má í hellum á svæðinu.

Í níunda lagi mætti Minjastofnun gjarnan líta sér nær þegar kemur að umræðu um minjar á Reykjanesskaga.

Fyrir áhugasama vil ég vekja athygli á vefsíðunni www.ferlir.is sem hefur fjallað um örnefni, leitir að mannvistarleifum, hversu ómerkilegar sem þar kynnu að virðast, á Reykjanesskaga um áratuga skeið…

Heimild:
-Fréttablaðið.is 5. mars 2021, Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Sandgerðistjörn

Ætlunin var að fara um dulheima Sandgerðis og m.a. leita uppi og skoða Álfhól (á hólnum eru rústir), tóftir Uppsala (þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum), Oddstóft, Gulllág, Kríuvörðu, Efra-SandgerðiSigurðarvörðu, Kumblhól (gæti verið haugur). Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska. Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé. Á Kumlhól hefur lengi hvílt sterk helgi. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Lagt var af stað Frá Efra-Sandgerði, elsta húsinu í bænum, byggt 1883. Viðirnir eru m.a. úr Jamestownstrandinu.
Reynir Sveinsson fylgdi FERLIR um svæðið. Hann er fæddur og uppalinn í Sandgerði, skammt frá Álfhól, og þekkir hvern krók og kima – og alla sem í hvorutveggja hafa dvalið.
Álfhóll„Okkur krökkunum var sagt að hrófla ekki við neinu í og við hólinn“, sagði Reynir er komið var á vettvang. „Þess var gætt að raska engu hér. Þó ætlaði fólk, tengt frystihúsarekstri hér neðar, að byggja hús á hólnum. Byrjað var að grafa fyrir húsinu, en þá urðu fjölskyldumeðlimir hver á fætur öðrum fyrir lasleika. Þá var hætt við að byggja á hólnum.“
Álfhóll er skammt sunnan við Brekkustíg. Sú gata heitir einnig Tjarnargata. Mætast þær niðri í brekku, sem var, en Sandgerðistjörnin lá þar inn í landið. Brött brekka var Brekkustígsmegin. Gatan var síðan hækkuð upp og brekkunni eitt. Tvínafnskipt gatan hefur þó haldist enn þann dag í dag.

Landakot

Í Sandgerðistjörninni er Veitan. Hún er stararengi. Það var slegið fyrrum. Austan við tjörnina var Sandgerðisskólinn, en hann var rifinn. Eftir að skólinn hætti að þjóna hlutverki sínu sem slíkur var þarna lítið býli, nefnt Tjörn. Sandgerðistjörnin var fyrrum einnig nefnd Skólatjörn. Eitt elsta húsið í Sandgerði, Efra-Sandgerði, stendur nú suðvestan við Sandgerðistjörnina. Vestan við húsið er Kettlingatjörn. Nafnið taldi Reynir vera komið af því að þar hafi kettlingum verið drekkt.
Kumblhóll

En fyrst svolítið almennt um Sandgerði – Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.
UppsalirUm 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 20. aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum, sem fyrr er getið. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.
Mikið kargaþýfi er á Álfhól. Erfitt var að sannreyna hvort þar kynni að vera tóft. Hins vegar mótaði fyrir tóft eða tóftum á næsta hól, suðvestanvert. Líklegt má telja að þar kunni að vera fyrrnefndur Kumblhóll.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar eftir Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni, segir m.a.: „
Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll.

Oddnýjartóft

Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.“
GvendartóftHalldóra Ingibjörnsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Berent Magnússon í Krókskoti og Árna Jónsson á Flankastöðum. Skráði hún eftir þeim athugasemdir, sem hér fara á eftir, lítt breyttar: „Sigurðarvörðu hlóð Sigurður Magnússon frá Krókskoti, er hann var að smala fé (segir Berent bróðir hans).
Ekki er líklegt, að neinn hafi verið heygður í Kumblhól.
Ekki er vitað, hvenær hætt var að nota Stekki. Nú sjást engin merki þeirra.
Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska.
Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé.
Gulllág sagðist Berent ekki muna eftir í sínu ungdæmi og taldi þetta nýlegt nafn. En Halldóra man aldrei eftir, að þessi grunni dalur væri kallaður annað en Gulllág. Þar voru fiskreitir, þegar hún var að alast upp.
Kría verpir nálægt Kríuvörðu.“
Loftur Altice Þorsteinsson ritaði örnefnalýsingu Fiskreiturárið 1996: „Kumlhól getur hæglega verið kuml. Á hólnum hefur lengi hvílt sterk helgi. Stekki var hætt að nota fyrir 1900, Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.“
Að sögn Reynis mun þrællinn Uppsali hafa verið fyrsti ábúandinn í Sandgerði og hefur hann búið að Uppsölum. Á bak við hús Reynis við Bjarmaland má sjá leifar Uppsala; litla tóft og aðra jarðlæga norðar, auk garða.
Skammt ofar má sjá leifar af Oddnýjartóft í garði eins hússins efst við Bjarmaland. Suðaustar eru tóftir; Gvendartóft. Um er að ræða tvö hús og ferkantað gerði að norðaustanverðu. Líklegt er að þarna hafi verið lítið kot um tíma. Myndarlegt vatnsstæði er suðvestan við tóftirnar. Ofar er varða, líklega landamerki. Hún gæti þess vegna hafa heitið Kríuvarða.
Í Gullág eru heillegir fiskreitir; stakkstæði, frá Miðnesi. Segja má með nokkrum sanni að of lítið hefur verið gert úr áþreifanlegum minjum í og við Sandgerði með hliðjón af sögu byggðalagsins um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Að henni lokinni bauð Reynir þátttakendum til stofu, bauð upp á kaffi og meðlæti, og fræddi þá um staðhætti og fólkið í Sandgerði fyrr á tímum.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.
-Reynir Sveinsson.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Gálgahraun

Halldór H. Halldórsson skrifaði um „Fornar reiðleiðir“ á vefinn lhhestar.is“

„Hvenær er reiðleið skilgreind sem forn reiðleið, ég hef velt þessu nokkuð fyrir mér, en ekki komist að neinni áþreifanlegri niðurstöðu. En líklegt þætti mér að miða við komu bílsins til landsins, akvegir almennt lagðir um landið og bíllinn orðin almenningseign.
Fornar reiðleiðir og þjóðleiðir eru sem sagt þær leiðir sem voru almennt farnar á milli staða og landshluta fótgangandi eða ríðandi fyrir tilkomu bílsins sem almenningsfarartækis.

Hvaða lög eða hefðir ná yfir þessar leiðir til almennra nota í dag, oft liggja þessar leiðir um eignarlönd manna. Þá er oft um að ræða þéttbýlisbúa, eða aðra sem hafa eignast þau lönd þar sem þessar leiðir liggja um. Fyrir kemur að girt er fyrir þær og ekki hirt um að setja hlið á girðinguna þar sem viðkomandi leið liggur um, sá sem ferðast eftir þessum leiðum lendir þá í ógöngum. Hvað segja lögin um þetta?

Langastígur

Langastígur á Þingvöllum.

Lög um náttúruvernd 1999 nr. 44 22. mars, þar segir:
23. gr. Óheimilt er að setja niður girðingu á vatns-, ár eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna. Þegar girða á yfir forna þjóðleið eða skipulagðan göngu-, hjólreiða- eða reiðstíg skal sá sem girðir hafa hlið á girðingunni eða göngustíga.

Vegalög 2007 nr. 80 29. mars, styðja þetta ákæði í þeim segir (tóku gildi 1. janúar 2008):
53. gr. Girðingar og hlið yfir vegi.
Enginn má gera girðingu yfir veg með hliði á veginum án leyfis Vegagerðarinnar nema um einkaveg sé að ræða. Sama bann gildir þar sem mælt og markað hefur verið fyrir vegi enda hafi Vegagerðin tilkynnt jarðarábúanda hvar mælt hefur verið.

55. gr. Vegir sem ekki tilheyra vegflokki.
Nú liggur vegur, stígur eða götutroðningur yfir land manns og telst eigi til neins vegflokks samkvæmt lögum þessum og er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi. Ákvörðun sveitarstjórnar skv.1. mgr. má leggja undir úrskurð ráðherra.

Vitnum í viðtal við Sigurð Líndal lagaprófessor sem birtist í Eiðfaxa 2003 þar sem hann vitnar í Jónsbók frá árinu 1281, landsleigubálk 24. Þar segir að mönnum sé heimilt að ríða um annara manna land og almenning og æja þar. Þessi túlkun Jónsbókar er svo staðfest í náttúruverndarlögum þar sem í þriðja kafla laganna er nánar fjallað um einstök atriði og takmarkanir þessa almannaréttar, einkum í 12. – 16. grein þeirra.

Vífilsstaðahlíð

Vífilsstaðahlíð – reiðstígur.

Meginreglan er sem sé sú að mönnum er heimil för um landið, þar á meðal um eignarlönd og heimil dvöl á landi í lögmætum tilgangi. Ekki er þörf á að fá sérstakt leyfi til að fara um óræktað land og heimilt er að hafa lausa hesta með í för. Ferðamenn, þ.m.t. hestaferðamenn, skulu sýna landeiganda eða rétthafa lands fulla tillitssemi einkum er varðar búpening, hlunnindi eða ræktun. Á eignarlöndum má að fengnu leyfi slá upp aðhaldi eða næturhólfi, enda valdi hrossin ekki landspjöllum. Á hálendinu er heimilt að æja á ógrónu landi og hafa skal fóður í næturstað. Þegar farið er um náttúruverndarsvæði ber mönnum að hafa samráð við landverði og fylgja leiðbeiningum þeirra.

Landeigandi getur unnið eignarhefð á tilfæringum bundnum við fornar þjóðleiðir og þeir sem hafa farið um slíkar þjóðleiðir geta unnið afnotahefð og þannig helgað sér rétt til umferðar. Þar kæmi til 20 ára hefðartími, hugsanlega 40 ára, ef slíkur réttur teldist til ósýnilegra ítaka.
Mikilvægasta heimildin fyrir hefðbundnum og fornum reiðleiðum eru dönsku herforingjaráðskortin (atlaskortin ) frá fyrsta áratug síðustu aldar. Hafi leiðum á þeim ekki verið mótmælt í orði eða verki, má líta svo á að þær séu verndaðar af hefðarrétti, en undantekningar geta þó verið á því. Ef einhver vill véfengja reiðleiðirnar á herforingjaráðskortunum, sem kortlagðar voru í góðri trú, þá hvílir á honum sönnunarbyrði um að hún sé ekki hefðbundin þjóðleið, ekki á þeim sem vilja fara þessa leið ríðandi eða gangandi.

Hér meðfylgjandi má sjá tvær myndir, annars vegar frá Langastíg í Þingvallaþjóðgarði, þar hefur verið borið í stíginn og honum viðhaldið sem reið- og göngustíg af Þingvallanefnd. Hins vegar er mynd frá vígslu nýs reiðvegar inn með Vífilsstaðahlíð 2004. Um Vífilsstaðahlíð liggur gömul þjóðleið sem liðar sig áfram um Búrfellsgjá á Selvogsgötu. Hestamenn notuðu þessa leið fram eftir síðustu öld, en fyrir 1990 var henni breytt í göngustíg og hestamönnum bannaður aðgangur. Það var ekki fyrr en 2004 sem tókst, eftir harða baráttu, að fá reiðveg samþykktan á skipulag á þessu svæði. Þar er nú einn besti reiðvegur á höfuðborgarsvæðinu í óviðjafnanlegu umhverfi.“

Hafa ber í huga að allt tal um „fornar reiðleiðir“ fyrir hestamenn í gegnum aldirnar eru ofmetnar. Leiðirnar voru jafnt fyrir þá sem og gangandi fólk.

Samantekt,
Halldór H. Halldórsson – www.lhhestar.is › Fornar_reidleidir

Reykjanes - fornar leiðir

Reykjanes – fornar leiðir.

Mosfell

Í Mosfellingi árið 2006 er fjallað um „Kirkjuna á Hrísbrú“. Ekki er úr vegi, að því tilefni, að fjalla svolítið um einn þekktasta íbúann þar sem og spurninguni hvað varð um silfursjóð hans á gamals aldri.

Kirkjan á Hrísbrú

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

„Undanfarin ár hefur staðið yfir fornleifauppgröftur að Hrísbrú í Mosfellsdal. Rannsóknin hefur leitt margt merkilegt í ljós m.a. um kirkju á Hrísbrú. Hrísbrú er ein af fimm jörðum í Mosfellsbæ þar sem heimildir eru fyrir að kirkja hafi staðið. Á tveimur jörðum stendur kirkja enn þann dag í dag, á Lágafelli og á Mosfelli. Hinar jarðirnar eru Suður-Reykir og Varmá.
Í Egilssögu segir að kirkja sem reist var á Hrísbrú er kristni var lögtekin hafi verið flutt að Mosfelli.
Í gegnum tíðina hafa verið nokkrar vangaveltur um hvar fyrsti bærinn á Mosfelli stóð. Kristian Kålund segir í verki sínu Bidrag til en historisktopografi sk Beskrivelse af Island, sem gefin var út 1877 að hann álíti að bærinn hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkja á eftir. Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1884-1885, en kemst að annarri niðurstöðu en Kålund. Álítur hann, frásögn Egilssögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta.
Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Í útgáfu sinni að Egils sögu (Rvk. 1933) telur Sigurður Nordal líklegast, að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli, en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum.
Menn hafa leitt að því líkur að kirkja hafi staðið á Hrísbrú í um 150 ár. Hún var reist er kristni var lögtekin, þ.e. í kringum árið 1000.
Hrísbrú
Kirkja var hins vegar risin á Mosfelli í tíð Skapta prests Þórarinssonar sem uppi var um miðja 12. öld og því hafa menn ályktað sem svo að þá hafi verið búið að flytja kirkjuna frá Hrísbrú. Talsvert hefur verið skrifað um staðsetningu hinnar fornu Hrísbrúarkirkju. Um þetta segir Magnús Grímsson í Safni til sögu Íslands og íslenzkra bók mennta að fornu og nýju, sem gefin var út í Kaupmannahöfn og Reykjavík árið 1886: „Það er varla von, að nein viss merki sjáist nú Hrísbrúarkirkju, eptir hérumbil 700 ára tíma. En þó eru þar nokkur vegsummerki enn, sem styðja söguna. Skammt útnorðr frá bænum á Hrísbrú, norðan til við götu þá, er vestr liggur um túnið, er hólvera ein, hvorki há né mikil um sig. Það er nú kallaðr Kirkjuhóll. Stendur nú fjárhús við götuna, landsunnan megin í hóljaðri þessum. Þegar menn athuga hól þenna lítr svo út, sem umhverfis hann að vestan, norðan og austan, sé þúfnakerfi nokkuð, frábrugðið öðrum þúfum þar í nánd. Þetta þúfnakerfi á að vera leifar kirkjugarðsins (því kirkjan á að hafa staðið á hólnum) og er það alllíkt fornum garðarústum. Innan í miðju þúfnakerfi þessu á kirkjan sjálf að hafa staðið, og þar er varla efunarmál, að þar hafi til forna eitthvert hús verið. Eigi er hægt að ætla neitt á um stærð rústar þessarar …
Tveir steinar sáust uppi á hólnum, sokknir í jörð að mestu; voru þeir teknir upp haustið 1857, og líta út fyrir að hafa verið undirstöðusteinar, óvandaðir og óhöggnir, en ekki alllitlir; má vera að þeir hafi verið í kirkjunni. Við upptekníng steina þessara sýndist svo, sem moldin í hólnum væri lausari og mýkri,(?) en í túninu fyrir utan hólinn. Það mun því efalaust, að kirkja Gríms Svertíngssonar hafi hér staðið. Annarsstaðar getr hún varla hafa verið á Hrísbrú, enda bendir og nafnið, Kirkjuhóll, á að svo hafi verið. Hefir þar og verið kirkjustæði allfagrt, en ekki mjög hátt.“
Á árunum upp úr 1980 fór fram fornleifaskráning í Mosfellsbæ á vegum Þjóðminjasafns Íslands. Þar er sagt frá einni sporöskjulaga rúst og tveimur ferhyrningslaga tóftum á Kirkjuhóli. Allar eru tóftirnar þó ógreinilegar. Um það segir skrásetjari: „Almennt má segja um Kirkjuhól, að hann er mjög rústalegur að sjá. Mjög erfitt er samt að koma öllu heim og saman. Er hólkollurinn allþýfður og eflaust má sjá það út úr þessu, sem menn langar helst til.“
Nú er sem sagt fengin niðurstaða í málinu. Þær fornleifarannsóknir sem stundaðar hafa verið á Hrísbrú undir stjórn Jesse Byock á undanförnum árum hafa leitt í ljós að kirkja var reist á Hrísbrú í frumkristni og að hún stóð á Kirkjuhóli.“ – Kristinn Magnússon, fornleifafræðingur.

Í Mosfellingi árið 2005 er fjallað um fornleifauppgröftinn að Hrísbrú:
Hrísbrú
„Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils.
Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Eins og flestir vita hefur staðið yfir á Hrísbrú í Mosfellsdal stórmerkur fornleifauppgröftur undanfarin sumur. Uppgreftrinum hefur verið stjórnað af fornleifafræðingnum Jesse Byock. Jesse er prófessor í norrænum fræðum við Kaliforníuháskóla og kom til íslands í fyrsta skipti fyrir um það bil 30 árum. Þess má geta að á síðasta ári veitti Alþingi honum íslenskan ríkisborgararétt.
Mosfellingur náði tali af Jesse á Brúarlandi þar sem fornleifafræðingarnir hafa haft aðsetur undanfarin sumur.

Hvenær hófst þú störf við uppgröftin á Hrísbrú?
Hrísbrú
„Árið 1995 gerði ég forkönnun að Mosfelli og á fleiri stöðum í Dalnum. Það var svo árið 2001 sem starfið hófst að fullum krafti á Hrísbrú með aðkomu og stuðningi Mosfellsbæjar að verkefninu“.
Ert þú ánægður með þann árangur sem hefur náðst fram að þessu?
„Það er óhætt að segja að hann sé framar björtustu vonum. Síðastliðiðið sumar fannst kirkja sem að öllu líkindum er reist skömmu eftir Kristnitöku árið 1000. Um er að ræða stafkirkju, einstaka að því leyti að varðveist hafa betur en áður hefur sést stólpar og grunntré hússins, ásamt hleðslum. Þessi fundur er verulegur hvalreki fyrir byggingarsögu íslands, enda kemur í ljós að frágangur og vinnubrögð við byggingu benda til séríslenskra úrlausna við bygginguna sem ekki þekkjast á Norðurlöndum frá sama tímabili. Það er því Ijóst að fundur stafkirkjunnar er stórmerkur. Þá er ljóst að kirkjan hefur verið staðsett á stað sem fyrir kristnitöku hefur verið notaður við greftranir eða brennu látinna, því þar hefur fundist eina brunagröfin sem fundist hefur á Íslandi. Niðurstöður rannsókna sýna með óyggjandi hætti að maður hefur verið brendur á Hulduhól, skipslöguðum hóli sem liggur skammt frá kirkjugarðinum. Það er ekki ólíklegt að einn af fyrstu höfðingjum Mosfellsbæjar hafi verið brendur þarna.
Í garðinum kringum kirkjuna hefur fundist fjöldi beinagrinda. Frá því uppgröftur hófst höfum við fundið 22 beinagrindur sem m.a. hafa gefið okkur margvíslegar vísbendingar um lifnaðarhætti fólksins, það er t.d. um: næringu, sjúkdóma, ofbeldi og hvar fólkið er fætt, enda beinist rannsóknin ekki síst að lífsskilyrðum og siðum fyrir og eftir Kristnitöku.
Með því að beita hátæknilegum mælingum á ísótópum, sem er ný greiningartækni í fornleifafræði, er hægt að mæla í beinum og tönnum hlutfall næringar á fyrstu æviárum einstaklinga. Niðurstaða hefur leitt í ljós að sjávarnitjar voru greinilega mikil uppistaða í fæðu á þessum tíma í kringum 1000. Við höfum einnig getað rakið sjúkdóma eins og berkla og krabbamein frá þessum tíma og við höfum séð merki mikils ofbeldis. Þar vegur þyngst fundur okkar í fyrrasumar af hauskúpu sem bar greinileg einkenni þess að hafa orðið fyrir þungu höggi eggvopns. Enn fremur hefur verið rannsakað hvort einstaklingar eru fæddir hérlendis eða erlendis. Niðurstaðan er sú að að svo virðist sem að allir þeir sem bera bein sín í kirkjugarðinum á Hrísbrú hafi verið fæddir hérlendis.
Með samvinnu fjölda vísindamanna úr margvíslegum fræðigreinum, svo sem almennri líffræði, frjókornafræði, réttarlæknisfræði, sagnfræði, fornleifafræði, jarð- og landafræði hefur verið leitað eftir upplýsingum svo hægt sé að draga heildarmynd af búsetuskilyrðum frá þessum tíma, en það er meginmarkmið rannsóknarinnar.
Rannsóknir síðastliðinna fimm ára eru líka farnar að skila verulegum árangri, sem styrkir þekkingu manna á smáatriðum og heildarmynd af lífi á íslandi á landnámsöld. í sumum tilfellum er um að ræða þekkingu sem ekki hefur komið fram áður.“

Eigum við eftir að finna silfur Egils?
Hrísbrú„Það er eðlilegt að spurningar sem tengjast Agli Skallagrímssyni og Egilssögu komi upp. Vísindamenn vilja gjarnan víkja sér undan óyggjandi svörum um slíkt, en samsvörun fundar á kirkju og kirkjugarði við stóra kafla í Egilssögu eru sláandi, því er ekki að neita. Nú í sumar var farið undir kirkjugólfið og þar finnst gröf, en kistan hafði verið fjarlægð, enda finnast leifar hennar. Sá sem í gröfinni hefur legið hefur greinilega verið stór og mikill eins og fram kemur í öllum lýsingum, enda gröfin sú stærsta af þeim sem við höfum fundið á Hrísbrú.“

Fundur skálans hefur vafalaust verið skemmtilegur endir á vinnu sumarsins?
„Það var ánægjulegt að finna þetta og án vafa er þessi viðbótarfundur til að styrkja þá skoðun mína að hér sé um einn merkasta fornleifafund seinni tíma að ræða, þegar horft er til þessa tímabils, ekki bara eftir íslenskum mælikvarða heldur einnig þegar horft er til heiminum. Það dæmi ég alla vega af viðbrögðum kollega minna víða úr heiminum. Þetta gerðist þannig að við vorum að fara að ganga frá eftir vinnu sumarsins þegar þessi bygging kom í Ijós. Ljóst er að hún hefur varðveist svo vel vegna skriðunnar sem féll á hana. Það hefur verið ótrúlegt að finna þetta allt og sjá á einum stað og ég tel það einstakt.“

Koma fleiri en fornleifafræðingar að þessum rannsóknum?
„Að þessum rannsóknum hefur hópur vísindamanna komið frá fjölda landa og má til gamans geta þess að nú eru þegar fjórir af þeim að gera doktorsritgerð vegna þessa verkefnis við Háskólann í Kaliforníu. Þessi hópur hefur verið afar samstilltur og frábært að vinna með. Af þessu leiðir að um er að ræða margþættar rannsóknir svo hægt sé að ná þeim árangri að varpa ljósi á líf og lifnaðarhætti á landnámsöld, á mörkum kristni og heiðni og rannsóknin skipar sér þar með í hóp með stærri fornleifauppgröftum.“

Í Ólafíu, riti Fornleifafræðingafélags Íslands árið 2007, er fjallað um „Valdamiðstöðina í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli“:

Niðurstöður:

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Landslag frá heiðni til kristni Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal hafa leitt í ljós verulegar sannanir á því að umtalsverð byggð hefur verið þar frá landnámsöld fram yfir kristnitöku, og áfram allt fram á 12. öld. Með rannsóknarniðurstöðunum er að myndast vel skrásett mynd af flókinni sambúð og samskiptum heiðinna manna og kristinna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Á Hrísbrú hafa fornleifafræði og fornar ritheimildir hjálpast að við að sýna fram á mikilvægi staðbundinna minja, sem og rannsóknir á áþreifanlegum minjum í nánum tengslum við ritaðar miðaldaheimildir.
Mikilvægur þáttur í rannsóknunum á Hrísbrú hefur falist í því að skoða og skilja hvernig greftrunarsiðir og trúarbrögð hafa blandast við kristnitöku.

Uppi hafa verið margar tilgátur í víkingaaldarfræðum um hætti, menningarleg gildi og trúarhegðun Norðurlandabúa á þeim tíma þegar skipt var frá heiðnum sið til kristni. Margt bendir til þess að breyting hafi átt sér stað frá heiðni til kristni á sérstökum helgistöðum en lítið er um skýrar fornleifafræðilegar sannanir þessu til staðfestingar. Niðurstöður okkar á Mosfelli gætu skipt máli í tengslum við þessa alþjóðlegu umræðu.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Nálægð heiðinnar líkbrennslu á Hulduhól við kristna kirkju og kirkjugarð á Kirkjuhól sýnir einstaklega heillega mynd af trúarlegum greftrunarstað og veitir okkur tækifæri til að skoða hvernig eitt ákveðið samfélag á víkingaöld kristnaðist. Sú staðreynd að kirkjan á Kirkjuhóli hafi verið byggð svo nálægt hinni heiðnu hæð á Hulduhóli segir okkur margt um félagslega og menningarlega hætti á þessum tíma og það er afar sjaldgæft í dag að finna minjastað með tveimur jafnvel varðveittum grafhaugum. Rannsóknarniðurstöðurnar benda til þess að heiðið og kristið samfélag hafi búið hlið við hlið á tímum kristnitökunnar.
Fornleifarnar á Mosfelli/Hrísbrú eru sérstaklega mikilvægar í sambandi við túlkun á Íslandssögunni vegna þess að fyrir rannsóknina höfðu aðeins verið til ritaðar heimildir um fólkið sem þar bjó.
Grímur Svertingsson er gott dæmi um þetta. Hann bjó þar við kristnitöku og var lögsögumaður á árunum strax eftir hana. Grímur var giftur Þórdísi, dóttur voldugs höfðingja frá Borg í Borgarfirði, og var einn af áhrifamestu mönnum á Íslandi á þeim tíma. Margir sagnfræðingar hafa lengi haldið því fram, og byggt það á rituðum heimildum, að margir voldugir höfðingjar á Íslandi, og þar á meðal Grímur, hafi tekið kristni til þess að halda völdum. Vegna þessa hafi margir höfðingjar reist kirkjur á jörðum sínum um árið 1000 til þess að fá vígða jörð á landareign sinni. En eru einhverjar sannanir fyrir þessu?
HrísbrúNiðurstöður fornleifarannsókna á Hrísbrú benda til þess að á landnámsöld hafi staðurinn verið bústaður höfðingja og staðsetning hans áhrifamikil í samfélagi og menningu íbúa Mosfellsdals.
Egils saga segir frá því að Grímur Svertingsson hafi reist sér eigin kirkju og kirkjugarð að Hrísbrú í kjölfar kristnitökunnar. Áþreifanlegar fornleifar sem fundist hafa í rannsóknunum styðja þetta. Með byggingu kirkjunnar eftir kristnitöku staðfestu Mosfellingar, sú fjölskylda sem mestu réði á þeim tíma í dalnum, eignarhald sitt á landinu, sjálfsmynd sína og stöðu. Steinar og grafir að Hrísbrú sýna fram á miðpunkt í menningarlegu og raunverulegu landslagi á meðan áþreifanlegar minjar úr gröfunum veita okkur upplýsingar um heilsu og lifnaðarhætti, auk þess að staðfesta ofbeldi í samfélagi íbúanna á Mosfelli/Hrísbrú. Þessar áþreifanlegu minjar eru vitnisburður um tilraun voldugrar höfðingjaættar til þess að koma sér vel fyrir í breyttu trúarlegu og félagslegu umhverfi fyrstu tvö hundruð ár landnáms á Íslandi. Rannsóknir okkar benda til þess að landsvæðið hafi verið notað í trúarlegum tilgangi og til greftrunar bæði fyrir og eftir kristnitöku; bæði heiðnir og kristnir hafi viljað hafa forfeður sína nálægt sér.“

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1884 skrifar Sigurður Vigfússon um „Rannsókn í Borgarfirði 1884“. Þar fjallar hann m.a. um Mosfell:

Hrísbrú„Þriðjudaginn, 2. sept., fór eg af stað úr Reykjavík, síðara hluta dags, og upp að Mosfelli, var þar um nóttina. Hér kemr stax til Egils s. Skallagrímssonar, og síðan til landnáms pórðar Skeggja. Þetta þurfti eg að athuga betr. Grímr Svertingsson bjó að Mosfelli víst mestallan siðara hluta 10. aldar, og fram yfir 1000. Hann var ættstór maðr og göfugr og lögsögumaðr um hríð ; hann átti Þórdísi Þórólfsdóttur Skallagrímssonar; þegar Egill seldi af höndum bú að borg, fór hann suðr til Mosfells til pórdisar bróðurdóttur sinnar og var þar i elli sinni og andaðist þar, og hér fal Egill fé og koma hér fram í sögunni ýmsar staðlegar lýsingar.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Síra Magnús heitinn Grímsson, sem var prestr á Mosfelli, hefir skrifað ritgerð um þetta efni, „Athugasemdir við Egils sögu“ í Safni til sögu Íslands, Kaupmh. 1861, II. bl. 251—76. Ritgerð þessi er mikið fróðleg og skemmtilega skrifuð, og vel lýst mörgu landslagi á Mosfelli og þar í kring; þarf eg því ekki svo mjög að tala um það. Síra Magnús heldr, að bœrinn Mosfell hafi í fyrstu staðið þar sem Hrísbrú nú er, sem er lítilfjörlegt kot, skamt fyrir utan túnið á Mosfelli, og að Grímr Svertingsson hafi búið þar; hann ímyndar sér, að bœrinn hafi verið fluttr — líklega einhvern tíma fyrir miðja 12. öld — frá Hrísbrú og þangað sem hann nú stendr, og hafi þá nafnið flutzt á þenna nýja bœ, enn nafnið Hrísbrú verið gefið þeim stað, þar sem hið forna Mosfell stóð; meðal annars um þetta bls. 255 og 260—261. Allar þessar getgátur byggir höfundurinn einkannlega á því, sem stendr í Egils s. Reykjavíkr útg. um flutning á kirkju þeirri, er Grímr Svertingsson lét byggja að Mosfelli, eða sem stóð þar sem síðar hét á Hrísbrú, og flutt var síðar heim að bœnum. Eg get nú ekki vel fallizt á alt þetta.
Mosfell hefir snemma bygzt, sem eðlilegt er, því að uppi í Mosfellsdalnum hefir verið mjög byggilegt. Landn. segir, bls. 53 : „Fiðr enn auðgi Halldórsson, Högnasonar, fór úr Stafangri til Íslands; hann átti Þórvöru dóttur Þorbjarnar frá Mosfelli Hraðasonar; hann nam land“ o.s.frv. Það má ætla, að bœrinn Mosfell hafi verið bygðr ekki miklu eftir 1000, þar sem landnámsmaðr átti dóttur Þorbjarnar, sem þar er fyrst getið, enn ekki sést það, hvort hann hefir fyrst bygt þar, svo að Mosfell getr verið enn eldra. Grímr Svertingsson að Mosfelli er oft nefndr, fyrst í Íslendingabók, og oft í Landnámu og Egils s. og ávalt er hann kallaðr „Grímr at Mosfelli“, þegar nefnt er, hvar hann hafi búið; Landn. mundi vissulega geta um það, hefði Mosfellsbœrinn fyrst staðið úti á Hrísbrú og það í hálfa þriðju öld, og síðan verið fluttr þangað, sem hann nú er.

Mosfell

Mosfell – Kýrgil fjær.

Öllum handritum ber saman um, að við þenna kirkjuflutning á Mosfelli hafi verið staddr Skafti prestr Þórarinsson, og öllum ber þeim líka saman um, að kirkjan, sem var ofan tekin, hafi verið sú kirkja, er Grímr Svertingsson lét byggja; þar af er þá ljóst, að kirkja Gríms hefir þá enn staðið, og hefir hún þá orðið um 150 ára gömul. Það má finna mörg dæmi þess, hvað hús stóðu ákaflega lengi bæði í fornöld og á miðöldunum. Þetta er og eðlilegt, þvíað annaðhvort bygðu menn af rekaviði, sem endist svo lengi, eins og kunnugt er, eða menn gátu valið viðinn í Noregi, þ.e. sóttu hann þangað ; þá voru ekki mjög sparaðir skógarnir ; menn bygðu og sterkt, þegar menn vildu vanda eitthvert hús. Það sýna þær leifar, sem bæði eg og aðrir hafa séð, og eins má sýna viðargœðin.

Kýrgil

Tóft ofan við Kýrgil.

Eg hefi verið nokkuð langorðr um þetta efni, því að mér þótti þess þurfa sögunnar vegna, og mætti þó fleira tilfœra; enn eg skal vera því stuttorðari um, hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og lofa einum sem öðrum að hafa sínar ímyndanir, getgátur og munnmælasögur. Þær geta verið mikið góðar, þar sem þær eiga heima, enn eg er þeirrar meiningar, að ekki verði á þeim bygt, þegar um rannsókn er að rœða. Höfundar Egils s. vita sjálfir einu sinni ekki, hvar Egill muni hafa fólgið féð, og vóru þeir þó nær því enn vér; enn þess er ekki von, því að Egill sagði það engum manni.
Sá, sem ritað hefir það handrit, sem liggr til grundvallar fyrir Kh.útg.=Rv.útg., getr til á þremr stöðum bls. 228. Eg skal geta þess hér, að hvorki Hrappseyjarútg. né handr. geta neitt um það, þegar Egill ætlaði að sá silfrinu að lögbergi; þau sleppa alveg þeim kafla ; eg verð að taka hér þenna stað einungis til þess að sýna, hvað öllu er hér rétt lýst, og sem sýnir hvað ritari sðgunnar hefir verið kunnugr, bls. 227—8: „Þat var eitt kveld, er menn bjuggust til rekkna at Mosfelli, at Egill kallaði til sín þræla tvá, er Grímr átti. Hann bað þá taka sér hest. „Vil ek fara til laugar, ok skulu þér fara með mér“, segir hann. Ok er Egill var búinn, gekk hann út ok hafði með sér silfrkistur sínar. Hann steig á hest.
Fóru þeir síðan ofan eptir túninu, ok fyrir brekku þá, er þar verðr,er menn sá síðast. En um morguninn, er menn risu upp, þá sjá þeir, at Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð, ok leiddi eptir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim. En hvártki komu aptr síðan þrælarnir né kisturnar, ok eru þar margar getur at, hvar Egill hafi fólgið fé sitt.“

Skv. framansögðu hafa margir ætlað, með allskyns margflóknum ályktunum að Egill hafi falið silfur sitt í nágrenninu og drepið þrælana tvo, en fáir virðast hins vegar gera ráð fyrir þeim möguleika, sem eðlilegri má telja; að þrælarnir (yngri og betur á sig komnir) hafi áttað sig á aðstæðum, stolið silfrinu, hrakið gamla manninn frá með svo niðurlægjandi hætti að hann hafi ekki viljað viðurkenna mistök sín, og þeir síðan látið sig hverfa með allt heila klabbið, bæði fjársjóðinn og farskjótana. A.m.k. virðist enginn hafa haft rænu á að leita, hvorki farskjótana þriggja og þrælanna í framhaldinu. Nýlega teknar grafir eða önnur ummerki í og með Mosfelli hefðu án efa vakið alveg sérstaka athygli á þeim tíma – ekki síst í ljósi þessa merka atburðar; (ályktun ritstjóra FERLIRs). Hvers vegna fór ekki fram rannsókn í framhaldinu, eða a.m.k. athugun, á atburðinum. Gallinn við frásagnar“sérfræðinga“ seinni tíma er að þeir voru svo meðvirkir sagnaskýringunum fyrrum að þeir sáu ekki til sólar. Meðaumkunin var öll Egils. Hér virðist vera um eitt merkilegasta óleysta sakamál Íslandssögunnar að ræða.

Hrísbrú

Ólafur Magnússon, bóndi á Hrísbrú.

Merkisbóndinn Ólafur Magnússon og Finnbjörg, eiginkona hans, bjuggu á Hrísbrú. Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli, eins og fyrr er getið, en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.“
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.

Heimild:
-Mosfellingur, Kirkjan á Hrísbrú, 12. tbl. 08.09.2006, Kristinn Magnússon, bls. 10.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröfturinn að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands, 2. árg. 01.05.2007, Valdamiðstöð í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli, bls. 84-105.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1884, Rannsókn í Borgarfirði 1884, Sigurður Vigfússon, Mosfell, bls. 62-74.
-http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Íslandskort

Á vefsíðu Landsbókasafns Íslands er að finna nokkra áhugaverða tengla inn á gagnmargt efni. Einn þeirra er kortavefurinn. Hér eru tekin nokkur dæmi um Íslandskort frá 18. og 19. öld er finna má á vefsíðunni.

Delineatio Gronlandiæ Jonæ Gudmundi Islandi

Íslandskot

Íslandskort 1706.

Höfundur: Jón Guðmundsson
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1706
Undir lok 16. aldar og á þeirri 17. gerðu nokkrir Íslendingar kort af norðanverðu Atlantshafi og löndunum í kring. Þeir freistuðu þess að samræma fornar íslenskar frásagnir um landaskipan á þessum slóðum við kort þau er þá voru í mestu gengi eða menn höfðu við höndina. Kortin voru í það smáum mælikvarða að erfitt var að gera Íslandi viðhlítandi skil enda var gerð þess í rauninni aukaatriði. Fyrir kortagerðarmönnunum vakti að gera grein fyrir siglingum Íslendinga vestur um haf til Grænlands og Ameríku. Gerð þeirra flestra stóð sennilega í sambandi við fyrirætlanir Danakonunga um að ná að nýju tangarhaldi á Grænlandi. Kort þessi eru í rauninni frekar hluti af kortasögu Grænlands en Íslands.
Af öllum kortunum eru til nokkrar mismunandi eftirmyndir en tvö þeirra eru ekki lengur til í frumgerð. Kort Jóns Guðmundssonar lærða er glatað en nokkrar töluvert mismunandi eftirmyndir eru varðveittar, þessi er úr Gronlandia antiqva eftir Þormóð Torfason. Ekki er vitað hvenær Jón gerði kort sitt en giskað hefur verið á árin í kringum 1650. Það nær yfir svipað svæði og kort þeirra Sigurðar Stefánssonar og Guðbrands Þorlákssonar og eins og á þeim skipar Grænland stærstan sess. Á þessari eftirmynd er Ísland af gerð Guðbrands biskups en ekki er vitað hvort það var þannig á frumkortinu. Landaskipan Jóns er mjög óskipuleg og ekki bætir úr skák að hann hrúgar saman ýmsum bábiljum og hindurvitnum sem hann hefur úr ýmsum fornum heimildum og lygisögum.

Islande

Íslandskort

Íslandskort 1710.

Höfundur: Pieter van der Aa
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1710 (um það bil)
Útgefandi kortsins var bókaútgefandinn Pieter van der Aa en frá hans hendi er mikill fjöldi kortasafna, einkum frá fyrstu tveim áratugum 18. aldar. Flest eru kortasöfn þessi ártalslaus og því illt að átta sig á þeim auk þess sem þau eru mjög mismunandi að kortafjölda og sum þeirra prentuð hvað eftir annað eftir sömu myndamótum. Kortið kemur sennilega fyrst fyrir í kortasafni á frönsku, L’Atlas, Soulange de son gros & pesant fardeau: ou Nouvelles cartes geographiques, ártalslaust en einhvern tíma frá árunum kringum 1710.
Kortið er prentað eftir sama eða svipuðu myndamóti og kort Johannesar Janssoniusar frá 1628.

Groenland

íslandskort

Íslandskort 1715.

Höfundur: Isaac de la Peyrére
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1715
Kortið er úr útgáfu á bók Isaac de la Peyrère um Grænland. Ekki ber það höfundi sínum gott vitni þegar til Íslands kemur enda hefur hann sennilega aldrei ætlað að gera því viðhlítandi skil. Landið er ósköp sérkennalaust og snautlegt.

Het Eyland Ysland in t’Groot

Íslandskort

Íslandskort 1720.

Höfundur: Gerard van Keulen
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1720 (um það bil)
Van Keulen fyrirtækið var það afkastamesta í sögu hollenskrar sjókortagerðar. Það var sett á stofn af Johannesi van Keulen undir lok 17. aldar og hélst í höndum ættarinnar til ársins 1823. Talið er að það hafi gefið út ekki færri en 135 bindi sjókorta með nálægt 600 mismunandi kortum og kemur Ísland fyrir á nokkrum þeirra.
Kortið er ártalslaust eins og flest kort Van Keulens en er líklega frá árunum í kringum 1720. Á því er ort upp á nýjan stofn, í stað Íslandsgerðar sjókortanna er undirstaðan greinilega Íslandskort Jorisar Carolusar. Enda líkist kortið fremur almennu landabréfi en sjókorti þrátt fyrir ýmsar tilfæringar eins og kompáslínur, rósir og strandamyndir.
Kortinu fylgja tvö lítil sérkort, annað af sunnanverðum Faxaflóa en hitt af suðurströndinni frá Ölfusá austur fyrir Vestmannaeyjar.

Nieuwe Wassende Graeden Kaert van de Noord Occiaen van Hitland tot inde Straet Davids
Höfundur: Gerard van Keulen
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1727 (um það bil)
Van Keulen fyrirtækið var það afkastamesta í sögu hollenskrar sjókortagerðar. Það var sett á stofn af Johannesi van Keulen undir lok 17. aldar og hélst í höndum ættarinnar til ársins 1823. Talið er að það hafi gefið út ekki færri en 135 bindi sjókorta með nálægt 600 mismunandi kortum og kemur Ísland fyrir á nokkrum þeirra.
Kortið er úr De Groote Nieuwe Vermeerderde Zee Atlas ofte Water-werelt. Ísland á því er af almennri gerð sjókorta um þessar mundir. Suður af Reykjanesi er markað fyrir eyju, sennilega hinni sömu og talið var að Baskar hefðu fundið á þeim slóðum. En eitthvað er kortagerðarmaðurinn í vafa um tilvist eyjarinnar í lesmáli fyrir neðan hana. Á sama hátt er hann vantrúaður á Enckhuysen-eyjar Jorisar Carolusar fyrir Austfjörðum.

Facies Poli Arctici adiacentiumque ei regionum ex recentissimis itinerariis delineata

Íslandskort

Íslandskort 1730.

Höfundur: Christoph Weigel
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfuár: 1730 (um það bil)

Islande

Íslandskort

Íslandskort 1734.

Höfundur: Henri du Sauzet
Útgáfuár: 1734 (um það bil)
Eftirmynd af Íslandskorti Gerhards Mercators, líklega eftir frumkortinu frá 1595 frekar en kortinu úr Atlas minor. Hjá Sauzet er kortið dregið þunglamalegri línum heldur en hjá Mercator en titilfeldurinn er viðhafnarmikill með myndum af dýrum allt í kring. Skip sjást á siglingu norðan lands og sunnan en fyrir norðausturlandi svamlar skrímsli eitt sem er sennilega fengið að láni af Íslandskorti Abrahams Orteliusar.
Þetta kort er einhver eftirprentun á Íslandskorti Henri du Sauzet.

Svezia Danimarca e Norvegia / Svecia Dinamarca y Norvega

Íslandskort

Íslandskort 1740.

Útgáfuár: 1740 (um það bil)
Aðeins eystri helmingur Íslands nær inn á kortið en það er nóg til þess að það sjáist að gerð þess er ættuð frá Guðbrandi Þorlákssyni.

Nova Gronlandiae Islandiae et Freti Davis Tabula

Íslandskort

Íslandskort 1746.

Höfundur: Johann Anderson
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfutímabil: 1746 – 1748
Kortið fylgir bók Andersons, Nachrichten von Island, Grönland und der Strasse Davis, sem kom út í Hamborg 1746 og var svo endurprentuð og þýdd á ýmis mál. Höfundurinn var þá látinn og líklega á hann engan þátt í gerð kortsins sem er af venjulegri gerð hollenskra sjókorta frá síðustu árum 17. aldar. Kortið fylgir öllum útgáfum bókarinnar með breyttum titilfeldum.

A Map of Spitzbergen or Greenland, Iceland, and some Part of Groenland &c
Höfundur:Emanuel Bowen
Útgáfuland: England
Útgáfuár: 1747
Emanuel Bowen sótti hugmyndir sínar um Ísland til Hermans Molls. Kortið er af stofni Jorisar Carolusar og Guðbrands biskups Þorlákssonar. Vestfirðir eru eins og þríhyrningur í laginu og suður- og austurstrendurnar eru of beinar. Kortið er íauki á korti af Skandinavíu.

A Correct Map of Europe divided into its Empires, Kingdoms & c.

Íslandskort

Íslandskort 1750.

Höfundur: Thomas Kitchen
Útgáfuland: England
Útgáfuár: 1750 (um það bil)
Kortið er ekki fært til árs en giskað hefur verið á að það sé frá árunum kringum 1750. Það var hluti af fjölblaðakorti sem spannaði norðvesturhluta Evrópu. Kitchen var afkastamikill kortagerðarmaður og eftir hann liggur fjöldi uppdrátta sem birtust í hinum ýmsu landfræðiritum. Þetta landabréf er eftirmynd af Íslandskorti Jorisar Carolusar, eða einhverri útgáfu þess, en allt minna og ágripskenndara.

Land-Kort over Island

Íslandskort

Íslandskort 1752.

Höfundur: Niels Horrebow
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1752
Árið 1728 lést Magnús Arason sem konungur hafði falið að stunda mælingar á Íslandi svo að hægt yrði að gera nákvæmt kort af landinu. Magnús hafði lokið við að búa til kort af svæðinu frá Reykjanesi til Arnarfjarðar. Mikill hluti verksins var því eftir og hafði danska stjórnin fullan hug á að ljúka því. Í því skyni var árið 1730 sendur til landsins norskur leiðangur undir stjórn liðsforingjans Thomas Hans Henrik Knoff. Hann hófst þegar handa og eftir fimm sumur hafði hann klárað það sem Magnús skildi eftir. Hann leiðrétti líka kort Magnúsar þar sem þess þurfti við. Hér var þess freistað í fyrsta sinn að kanna landið mest allt en þeir sem áður höfðu gert kort af landinu höfðu aðallega stuðst við örfáa hnattstöðupunkta, frásagnir kunnugra manna og ýmsan landfræðilegan samtíning.
Knoff bjó til sjö héraðakort af landinu og heildarkort sem hann lauk við að mestu árið 1734. Knoff hafði sent eintak af sumum kortunum til yfirboðara síns í Noregi og var það illa séð af hinum danska stiftamtmanni og lentu mælingarnar því í embættis- og valdatogstreitu. Hún endaði með því að konungur gaf út tilskipun um að Knoff skyldi skila skjalasafni hersins öllum eftirmyndum og uppköstum Íslandskortanna. Kort Knoffs enduðu því í skjalageymslu og komu engum að gagni næstu áratugina.
Það var ekki fyrr en í byrjun sjötta áratugarins að rykið var dustað af Íslandskorti Knoffs en 1752 kom út bók Niels Horrebow, Tilforladelige Efterretninger om Island. Með henni fylgdi kort af Íslandi byggt á Knoff en Horrebow hafði fengið leyfi konungs til að nota uppdrátt hans. Kortið er talsvert minnkuð útgáfa af frumgerðinni og fremur óvandað og fátæklegt að gerð en Danir kunnu á þessum tíma illa til eirstungu og kortagerðar. Helstu annmarkar þess eru hin allt of norðlæga breidd Vestfjarða og að lengd landsins frá austri til vesturs er meiri en skyldi. En þrátt fyrir ýmsa vankanta kortsins var birting þess einn merkasti áfanginn í kortasögu Íslands frá því að fyrsta útgáfan af korti Guðbrands biskups Þorlákssonar kom fyrir sjónir manna nærri 150 árum fyrr. Hér gaf í fyrsta sinn að líta kort sem að verulegu leyti hafði þríhyrningamælingar og könnun landsins að undirstöðu.
Bók Horrebows kom út á þýsku (1753), ensku (1758) og frönsku (1764). Auk þess birtust lengri eða skemmri kaflar úr henni í ýmsum landfræðiritum næstu áratugina, þ. á m. í hinu fræga ferðasögusafni A. F. Prévost Histoire générale des voyages (1779). Þessar útgáfur höfðu flestar að geyma eftirgerð kortsins.

L’Isle d’Island[e]
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1755
Fyrirmynd kortsins er Íslandsgerð Gerhards Mercators. Úr Discours sur l’Histoire Universelle.

Carte de l’Islande
Höfundur: Charles Lenormand
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1759
Charles Lenormand finnst ekki í neinum uppsláttarritum. Kortið er handdregið og er á sama blaði og uppdráttur eftir sama höfund af Azoreyjum. Neðst á blaðinu til hægri stendur talan 226 og bendir hún til þess að það hafi tilheyrt stærra kortasafni.
Öll gerð Íslands á kortinu er af miklum vanefnum, skagar og firðir lauslega afmarkaðir og af talsverðu handahófi. Um flest einkenni önnur er fylgt korti Jorisar Carolusar og þaðan eru komin öll örnefni, 37 að tölu.

Insvlae Islandiae delineatio

Íslandskort

Íslandskort 1761.

Höfundur: Homanns-erfingjar
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfuár: 1761
Árið 1728 lést Magnús Arason sem konungur hafði falið að stunda mælingar á Íslandi svo að hægt yrði að gera nákvæmt kort af landinu. Magnús hafði lokið við að búa til kort af svæðinu frá Reykjanesi til Arnarfjarðar. Mikill hluti verksins var því eftir og hafði danska stjórnin fullan hug á að ljúka því. Í því skyni var árið 1730 sendur til landsins norskur leiðangur undir stjórn Thomas Hans Henrik Knoff. Hann hófst þegar handa og eftir fimm sumur hafði hann klárað það sem Magnús skyldi eftir. Hann leiðrétti líka kort Magnúsar þar sem þess þurfti við. Hér var þess freistað í fyrsta sinn að kanna landið mest allt en þeir sem áður höfðu gert kort af landinu höfðu aðallega stuðst við örfáa hnattstöðupunkta, frásagnir kunnugra manna og ýmsan landfræðilegan samtíning.
Knoff bjó til sjö héraðakort af landinu og heildarkort sem hann lauk við að mestu árið 1734. Knoff hafði sent eintak af sumum kortunum til yfirboðara síns í Noregi og var það illa séð af hinum danska stiftamtmanni og lentu mælingarnar því í embættis- og valdatogstreitu. Hún endaði með því að konungur gaf út tilskipun um að Knoff skyldi skila skjalasafni hersins öllum eftirmyndum og uppköstum Íslandskortanna. Kort Knoffs enduðu því í skjalageymslu og komu engum að gagni næstu áratugina.
Það er ekki fyrr en í byrjun sjötta áratugarins að rykið var dustað af Íslandskorti Knoffs en 1752 kom út bók Niels Horrebow um Ísland. Með henni fylgdi kort af Íslandi byggt á Knoff. Það er minnkuð útgáfa af kortinu og fremur óvandað og fátæklegt að gerð en Danir kunnu á þessum tíma illa til eirstungu og kortagerðar. Stiftamtmanninum á Íslandi, Otto Manderup Rantzau greifa, virðist hafa runnið þetta til rifja því hann ákvað að gangast fyrir því að kort Knoffs yrði birt í nákvæmari og betri gerð. Í því skyni leitaði hann til kortagerðarstofnunar þeirrar sem einna mest orð fór af í Evrópu um þessar mundir, Homanns-erfingja (Homanns Erben) í Nürnberg. Kortið birtist árið 1761 með firna löngu nafni á latínu þar sem gerð er grein fyrir uppruna þess.
Neðst í hægra horninu er sagt nánar frá tilurð kortsins. Frá frumgerð Knoffs er það minnkað um meira en helming en efnislega er það að mestu leyti óbreytt og flest tekið með sem skiptir máli. Lesmálsgreinum er snúið á latínu eða þýsku og jafnvel bæði málin. Örnefnum hefur fækkað og fá mörg þeirra slæma meðferð. Enginn landfræðitexti fylgir kortinu en í textanum hægra megin er mönnum vísað um slíkt til nýútkominnar bókar eftir Anton Friedrich Büsching. Athygli vekur að Hekla fær ekki jafn veglegan sess og á öðrum kortum.
Íslandskort Homanns-erfingja var prentað sem lausblaðakort og virðist aldrei hafa verið birt í kortasöfnum. Aðeins er kunn ein útgáfa þess, frá 1761. En aðrir tóku það til fyrirmyndar og höfðu að undirstöðu nýrra, aukinna og lagfærðra korta sem juku útbreiðslu þess og komu fyrir sjónir kortagerðarmanna, landfræðinga og annarra er fjölluðu um Ísland og íslensk málefni.

Carte du Groenland

Íslandskort

Íslandskort 1770.

Höfundur: J. Laurent
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1770
Kortið er úr frönsku ferðasögusafni sem Jean François de la Harpe gaf út en það var úrval úr safni A. F. Prévost, Histoire générale des voyages. Kortið er af Grænlandi en Ísland sést einnig. Landið er af þeirri gerð sem algeng var á sjókortum gerðum í Hollandi á 17. og 18. öld.

Nyt Carte over Island

Íslandsskort

Íslandskort 1772.

Höfundur: Jón Eiríksson/Gerhard Schøning
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1772
Þegar Niels Horrebow hafði lokið athugunum sínum á Íslandi árið 1751 var ákveðið að senda þá Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson í rannsóknarleiðangur til Íslands. Þeir dvöldust á landinu í sex sumur eða til hausts 1757 en þá sigldu þeir til Kaupmannahafnar til þess að vinna úr efnivið þeim sem safnast hafði. Bjarni var skipaður landlæknir og hvarf frá verkinu. Eggert drukknaði árið 1768 og því varð ljóst að aðrir urðu að sjá um útgáfu ferðabókarinnar sem þeir höfðu áætlað. Til verksins völdust Jón Eiríksson og Gerhard Schøning og árið 1772 kom Ferðabók Eggerts og Bjarna út. Henni fylgdi uppdráttur af Íslandi sem Schøning tekur fram í formála að sé byggður á Homanns-kortinu frá 1761 sem aftur á móti var útgáfa af korti Knoffs frá árinu 1734. Schøning segir að Jón hafi unnið einn að gerð kortsins fyrsta sprettinn en hann síðan tekið við og lokið verkinu. Fundist hafa tveir handdregnir uppdrættir að kortinu og er líklegt að Schøning sé höfundur þeirra þó að íslenskir menn hafi rétt honum hjálparhönd.
Þegar litið er á kortið í Ferðabókinni vekur það ef til vill athygli hve höfundar þess hafa litlu við að bæta. Virðist sem þeir hafi lítið notfært sér þann land- og staðfræðilega fróðleik sem Eggert og Bjarni höfðu safnað saman. Það eru helst örnefni Ferðabókarinnar sem komast til skila. Á kortinu kemur í fyrsta skipti fyrir heildarheiti á Vatnajökli og er hann kallaður Klofajökull. Kortið birtist lítið breytt í þýskri (1774-1775) og franskri (1802) útgáfu bókarinnar en talsvert afbakað í enskum útdrætti hennar (1805).
Næstu 50-70 árin sóttu flest vandaðri kort, sem gerð voru af Íslandi, undirstöðu sína að meira eða minna leyti til Ferðabókarkortsins. Stundum er erfitt að skera úr því hvort fyrirmyndin er Ferðabókarkortið eða hinar eldri gerðir Knoff-kortsins, Horrebows- og Homannskortið.

Zusammengezogene Karte des Nordmeeres = Carte reduite de la mer du nord
Höfundur: Jacques Nicolas Bellin
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfuár: 1774
Bellin vann mestan hluta ævi sinnar að sjókortagerð á vegum frönsku flotamálastjórnarinnar. Hann gerði einnig uppdrætti fyrir ýmis landfræðirit.
Á kortinu gætir töluverðra áhrifa frá Knoffs-gerð þótt í heildinni verði það fremur rakið til eldri hátta. Það birtist fyrst í frásögn Kerguélen-Trémarecs af leiðangrum hans um norðanvert Atlantshaf 1767 og 1768. Eftirmyndir kortsins birtust víða, m. a. árið 1774 í safni ferðasagna, Allgemeine Historie der Reisen zu Wasser und zu Lande, sem átti upphaf sitt af rekja til Prévosts.

Royaume de Danemarck: Premiere carte, Danemarck, Norwege et Islande
Höfundur: Edme Mentelle
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1782
Mentelle var land- og sagnfræðingur. Ísland á þessu korti eftir hann er af Knoff-gerð en það sýnir að auki Noreg og Danmörku.

Prospect af Reykevig paa Island

Íslandskort

Íslandskort 1785.

Höfundur: Sæmundur Magnússon Hólm
Útgáfuár: 1785 (um það bil)
Sæmundur gerði tvo samskonar Reykjavíkuruppdrætti með þessu sniði. Líklegt er að hér sé um skipulagsuppdrætti af Reykjavík að ræða og annar þeirra sé þá grunnteikning. Ástæðan fyrir gerð þeirra gæti verið flutningur biskupsstóls og skóla frá Skálholti til bæjarins enda gefur nafngift Sæmundar (Prospect) vísbendingu í þá átt. Því getur verið að hann hafi teiknað uppdrættina fyrir landsnefndina síðari með tilliti til væntanlegra nýbygginga yfir stól og skóla en nefndin starfaði á árunum 1785-1786. Nafn Carls Pontoppidans, framkvæmdastjóra hinnar konunglegu einokunarverslunar, er ritað á annan uppdráttinn en hann átti sæti í landsnefndinni. Á þeim má líka finna í einu horninu ártalið 1783.
Sæmundur Magnússon Hólm (1749-1821) var prestur og skáld og fræðimaður. Hann skrifaði mikið um náttúru Íslands, m.a. um Skaftárelda, og var drátthagur maður, gerði kort af landi og myndir af samtíðarmönnum. Myndir eftir hann eru m. a. í ferðabókum Eggerts og Bjarna og Ólafs Olaviusar.

General Karte von den Königreichen Schweden, Dænemark u. Norwegen mit Grönland und den Inseln Island und Færöer

Íslandskort

Íslandskort 1789.

Höfundur: Franz Johann Joseph von Reilly
Útgáfuland: Austurríki
Útgáfuár: 1789
Minnkuð gerð korts Homanns-erfingja frá 1761. Mörgum örnefnum og öðrum efnisþáttum er sleppt. Úr Schauplatz der fünf Theile der Welt, miklu safni landabréfa sem gefin voru út í Vínarborg á árunum 1789-91.

Carta da navegar de Nicolo et Antonio Zeni. Furono in Tramontana l’Anno MCCCLXXX

Íslandskort

Íslandskort 1793.

Höfundur: Nicolo Zeno
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1793
Zeno-kortið, eins og það er oftast nefnt, kom fyrst fyrir sjónir manna í Feneyjum árið 1558 sem hluti höfundarlausrar ferðasögu. Bókin var síðar eignuð Nicolo Zeno (1515-1565) enda var hann í beinan legg afkomandi Antonio Zeno þess er bókin segir frá og greinilegt er á frásögninni allri að höfundur og farmenn eru sömu ættar. Sagan segir m. a. frá för bræðra, Antonio og Nicolo Zeni, um norðanvert Atlantshaf og af viðkomu þeirra á Frislanda, Íslandi og Grænlandi og á hún að vera byggð á bréfum úr fórum þeirra. Samkvæmt frásögn Zenos er kortið eftirmynd af fornu sjókorti úr eigu fjölskyldunnar. Nú þykir hins vegar sannað að bæði bók og kort séu falsrit og sýni því á engan hátt landfræðiþekkingu 14. aldar. Aðalheimild Zenos að kortinu er ekki ein heldur margar og eru þær helstu Norðurlandakort Olaus Magnus, Caerte van Oostlant eftir Cornelis Anthoniszoon og gömul kort af Norðurlöndum af stofni Claudiusar Clavusar með talsverðu ívafi frá suðrænum sjókortum 15. og 16. aldar. Fyrir Nicolo Zeno hefur sennilega vakað að auka hróður ættmenna sinna með því að láta að því liggja að þeir hefðu fundið Ameríku fyrstir manna en neðst í vinstra horni kortsins sést móta fyrir tveimur löndum (Estotiland og Drogeo) sem gætu átt að tákna austurströnd Norður-Ameríku. Þegar litið er á Íslandshluta kortsins kemur bersýnilega í ljós að fyrirmyndin hefur verið sótt til Olaus Magnus. Hvergi er þó markað fyrir fjöllum, fljótum né öðrum landsháttum og allar myndir eru horfnar. Hafísflotar Olausar eru orðnir að sjö eyjum og meira en helmingurinn af örnefnunum er sóttur til Norðurlandakorts Claudiusar Clavusar frá 15. öld en afgangurinn til Carta marina.
Þrátt fyrir vafasaman uppruna Zeno-kortsins gætti áhrifa þess lengi og næstu 40 árin átti það eftir að koma við sögu flestra landabréfa sem gerð voru af Íslandi.
Hér er sýnd eftirmynd af kortinu frá 1793 úr riti Henrich Peter von Eggers, Priisskrift om Grønlands Østerbygde sande Beliggenhed.

An accurate & correct map of Iceland

Íslandskort

Íslandkort 1780.

Höfundur: Jón Eiríksson/Gerhard Schøning
Útgáfuland: England
Útgáfuár: 1780
Fylgdi ferðabréfum Uno von Troil, síðar erkibiskups í Uppsölum, en hann var í för með Joseph Banks í Íslandsferð hans árið 1772. Kort Jóns Eiríkssonar og Gerhards Schønings í Ferðabók Eggerts og Bjarna er undirstaðan. Efnisbreytingar eru fáar en kortið er talsvert minna en frumgerðin og nöfn þar af leiðandi færri.
Bókin varð vinsæl og var gefin út á fjölmörgum tungumálum þ. á m. þýsku (1779), ensku (1780-83), frönsku (1781) og hollensku (1784). Eftirmynd kortsins fylgdi flestum útgáfunum.

Prospect af Reykevig paa Island

Íslandskort

Íslandskort 1785.

Höfundur: Sæmundur Magnússon Hólm
Útgáfuár: 1785 (um það bil)
Sæmundur gerði tvo samskonar Reykjavíkuruppdrætti með þessu sniði. Líklegt er að hér sé um skipulagsuppdrætti af Reykjavík að ræða og annar þeirra sé þá grunnteikning. Ástæðan fyrir gerð þeirra gæti verið flutningur biskupsstóls og skóla frá Skálholti til bæjarins enda gefur nafngift Sæmundar (Prospect) vísbendingu í þá átt. Því getur verið að hann hafi teiknað uppdrættina fyrir landsnefndina síðari með tilliti til væntanlegra nýbygginga yfir stól og skóla en nefndin starfaði á árunum 1785-1786. Nafn Carls Pontoppidans, framkvæmdastjóra hinnar konunglegu einokunarverslunar, er ritað á annan uppdráttinn en hann átti sæti í landsnefndinni. Á þeim má líka finna í einu horninu ártalið 1783.
Sæmundur Magnússon Hólm (1749-1821) var prestur og skáld og fræðimaður. Hann skrifaði mikið um náttúru Íslands, m.a. um Skaftárelda, og var drátthagur maður, gerði kort af landi og myndir af samtíðarmönnum. Myndir eftir hann eru m. a. í ferðabókum Eggerts og Bjarna og Ólafs Olaviusar.

Die Insel Island

Íslandskort

Íslandskort 1789.

Höfundur: Franz Johann Joseph von Reilly
Útgáfuland: Austurríki
Útgáfuár: 1789
Minnkuð gerð korts Homanns-erfingja frá 1761. Mörgum örnefnum og öðrum efnisþáttum er sleppt. Úr Schauplatz der fünf Theile der Welt, miklu safni landabréfa sem gefin voru út í Vínarborg á árunum 1789-91.

Charte von Island und den Färöer Inseln

Íslandskort

Íslandskort 1807.

Höfundur: J. C. M. Reinecke
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfuár: 1807
Árið 1776 kom til sögunnar ný Íslandsgerð byggð á mælingum fransks vísindaleiðangurs undir stjórn Verdun de la Crennes. Leiðangursmenn höfðu dvalist um hríð á Vatneyri á Vestfjörðum og mælt bæði á sjó og landi. Vestustu odda landsins færðu þeir til austurs um nálægt hálfa fjórðu gráðu án þess að hrófla að ráði við austurströndinni. Útkoman var mjög bjagað kort af landinu, m. a. varð breidd landsins svipuð og lengdin.
Margir kortagerðarmenn tóku það sér til fyrirmyndar, þ. á m. Johann Christoph Matthias Reinecke. Árið 1800 gaf hann út Íslandskort með strandlengju að hætti Verdun de la Crenne. Örnefni og landslag eru hins vegar fengin að láni af korti þeirra Jóns Eiríkssonar og Ólafs Olaviusar. Það er greinilegt að Reinecke hefur lent í hálfgerðum vandræðum við að koma efni sínu fyrir á kortinu því landið er nú talsvert styttra frá austri til vesturs en verið hafði. Skagar norðanlands verða mjög rýrir auk þess sem hlutföll á suðurströndinni raskast. Árið 1807 birtist minnkuð gerð korts Reineckes. Bæði hafa Færeyjar sem íauka í einu horninu. Síðar komu fleiri útgáfur af kortinu.
Kort af stofni Verdun de la Crennes og Knoffs toguðust löngum á og veitti hinum fyrrnefndu betur um hríð.

Iceland

Íslandskort

Íslandskort 1813.

Höfundur: William Jackson Hooker
Útgáfuland: England
Útgáfuár: 1813
William Jackson Hooker var breskur náttúrufræðingur. Hann kom til Íslands 1809 og meðal samferðamanna hans á leiðinni var Jörundur hundadagakonungur. Eftir heimkomuna ritaði Hooker bók um ferð sína og athuganir og var hún gefin út tvisvar. Síðari útgáfu bókarinnar fylgir dálítill uppdráttur af Íslandi. Kortið mun ekki vera eftir Hooker sjálfan heldur Aaron Arrowsmith. Eins og á öðrum kortum Arrowsmiths er strandlengja landsins í samræmi við kort Verdun de la Crennes. Örnefni og meðferð annarra efnisþátta benda til þess að kortagerðarmaðurinn hafi farið eftir korti því sem fylgdi Ferðabók Eggerts og Bjarna fremur en endurskoðaðri gerð þess í Ferðabók Olaviusar.

Charte von Island

Íslandskort

Íslandskort 1824.

Höfundur: Theodor Gliemann
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfuár: 1824
Gliemann hefur haft uppdrátt Moritz L. Borns að undirstöðu við gerð kort síns. Það sést á strandlínum og orðmyndum nokkurra örnefna. Þó að kort Gliemanns sé aðeins minna en kort Borns er það samt talsvert rækilegra og örnefni fleiri. Það er greinilegt að Gliemann hefur gert sér far um að auka við efni þeirra hluta landsins sem hvað fátæklegastir eru hjá Born. Hann sækir nokkuð til korta af stofni Knoffs, þ. á m. til korts Jóns Eiríkssonar og Ólafs Olaviusar og kortsins sem birtist í bók Ebenezer Hendersons.
Uppdráttur Gliemanns birtist fyrst í Geographische Beschreibung von Island.
Árið 1827 kom út frásögn F. A. L. Thienemanns af ferð hans og G. B. Günthers til Íslands. Henni fylgdi vönduð eftirmynd kortsins.

Island

Íslandskort

Íslandskort 1890.

Höfundur: Stieler
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfuár: 1890 (um það bil)

Geological Map of Iceland

Islandskort

Íslandskort 1901.

Höfundur: Þorvaldur Thoroddsen
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1901
Mælikvarði:1:600 000
Árið 1882 hóf ungur náttúrufræðingur, Þorvaldur Thoroddsen, að rannsaka landið. Hann ferðaðist um það hér um bil allt á árunum 1882-1898. Verkefni hans var þó aðallega að kanna jarðfræði landsins og ekki síst eldgosaminjar. Brátt urðu honum ljósar skekkjurnar á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, ekki síst á hálendinu. En landmælingar áttu ekki samleið með rannsóknum Þorvalds og urðu aldrei annað en hliðargrein. Hann varð fyrstur til þess að kanna og kortleggja öræfin vestan Vatnajökuls, þar sem Björn kom aldrei og fór eftir óljósum frásögnum lítt fróðra manna. Engir höfðu átt þar leið um stór svæði, enda sá hluti landsins er síðast var kannaður. Auk þess gerði Þorvaldur fjölmargar minni háttar breytingar og lagfæringar, einkum á hálendinu, en annars er kort Björns Gunnlaugssonar alls staðar undirstaðan.
Árið 1900 birti Þorvaldur nýtt heildarkort af landinu á tveimur blöðum: Uppdráttur Íslands (Kort over Island). Þar dregur hann saman lagfæringar sínar og viðauka og fellir að korti Björns. Ári síðar kom út jarðfræðiuppdráttur hans: Geological Map of Iceland. Kortið er í rauninni hið sama og uppdrátturinn frá árinu áður, aukið jarðfræðilitum. Árið 1906 birtist endurskoðuð gerð kortsins í Þýskalandi, en í minni mælikvarða: Geologische Karte von Island. Því fylgir lýsing landsins á þýsku, og hefur hún að geyma meginniðurstöðurnar af rannsóknum Þorvalds.

Heimild:
-https://landsbokasafn.is/

Íslandskort

Íslandskort frá því um 1900.

Árni Guðmundsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1993 skrifar Ólafur Rúnar Þorvarðarson frásögn Árna Guðmundssonar frá Teigi um komu hans í franska fiskiskútu á þriðja áratug síðustu aldar utan við Þórkötlustaðahverfi undir fyrirsögninni „Um borð hjá Frönsurum“.

Ólafur Rúnar

Árni hafði frá mörgu að segja eftir áratuga langa sjómennsku og fer frásögn hans hér á eftir.

„Það mun hafa verið nálægt sumarmálum, að við héldum út á Fasæli síðla dags að leggja línu. Línan var venjulega látin liggja yfir nóttina og dregin næsta dag, ef veður leyfði. Við vorum fjórir á bátnum, sem var opinn vélbátur. Veður var gott, og er við höfðum lagt, héldum við áleiðis til lands. Engir bátar eða skip voru á miðunum í nánd við okkur utan ein skúta sem var á færum og hélt sig nærri þeims lóðum, er við höfðum byrjað að leggja línuna.
Nálguðumst við nú skútuna og sáum að þar var mannskapur uppi. Voru uppi getgátur háseta minna um það hverrar þjóðar þeir menn kynnu að vera, uns við veittum því athygli að frakkaklæddur maður með hatt á höfði byrjaði að veifa og kalla til okkar. Ég hafði á orði að líklega vildi hann okkur eitthvað þessi og rétt væri að athuga það nánar. Ekki leist mínum mönnum meira en svo á það tiltæki, en ég bað þá að bíða rólega á meðan ég færi um borð og lögðum við svo að skútunni.

Árni Guðmundsson

Farsæll GK 56, sem Árni í teigi og bræður hans gerðu út frá Þórkötlustaðahverfi. Um borð er talið frá v: Vilmundur Daníelsson frá Garbæ, Þorkell Árnason frá Teigi og Guðmundur Guðmundsson bróðir Árna formanns.

Sá frakkaklæddi tók á móti mér þegar ég kom upp á þiðjur, tók undir hönd mér og leiddi mig niður í káetu. Þóttist ég vitað að það færi skipstjórinn. Býður hann mér að setjast, og hellir í tvö staup. Gerum við vegunum góð skil og af málfari hans og bendingum ræð ég að þeir séu franskir sjómenn. Ekki var frönskukunnáttu minni mikið fyrir að fara en eftir eitt eða tvö staup til viðbótar vorum við þó farnir að skilja hvor annan nóg til þess að ég þóttir vita erindi hans. Var það í því fólgið að biðja mig um að koma fyrir sig skeyti til franska konsúlatsins á Íslandi. Sem við sitjum í káetunni, kemur þar niður hávaxinn maður, sem ég áleit vera stýrimann skútunnar. Taka þeir skipstjóri tal saman og fer sá fyrrnefndi upp að því loknu. Settist skipstjóri nú við skriftir. Fékk hann mér síðan bréf í hendur og héldum við svo upp á þilfar.

Árni Guðmundsson

Frönsk skúta líkri þeirri er fram kemur í viðtalinu.

Skúta þessi var frekar lítil en tvímastra. Heldur fannst mér aðbúnaður bágborinn um borð. Ég tók eftir því að hásetarnir voru berhentir við færin. Höfðu þeir aðeins skinnpjötlur í lófunum og voru hendur þeirra bólgnar og kaunum hlaðanar eftir langa útivist. En þeir höfðu aldeilis ekki setið auðum höndum á meðan ég var niðri í káetu hjá skipstjóranum. Kom nú í ljós hvert erindi stýrimaður hafði átt niður því þegar ég var að stíga af skipsfjöl, sá ég að búið var að koma um borð í bátinn okkar tveim pokum af kartöflum ásamt talsverðu af kexi og rauðvíni.
Árni GuðmundssonMér þótti nú leitt að geta ekki launað þeim þetta með einhverjum hætti og eftir að hafa rætt málið við drengina mína var ákveðið að gefa þeim sjóvettlingana sem við höfðum meðferðis. Voru það fimm pör, sem þeir þáðu með þökkum. Ég vildi nú bæta þeim þetta upp enn frekar og varð því að samkomulagi með okkur að hittast aftur á svipuðum slóðum næsta dag. Yfirgáfum við síðan skútumenn og héldum til lands. Hafði ég í huga að færa þeim fleiri pör af vettlingum eða einhvern annan ullarfatanð. Færði ég þetta í tal við konu mína þegar heim kom og var það auðsótt mál.
Með birtingu morguninn eftir vaknaði ég við það, að farið var að hvessa af austri. Beið ég þá ekki boðanna, en kallaði á hásetana mína saman í hvelli. Þegar við komum út á miðin fórum við strax að darga. Vindur fór vaxandi og við höfðum ekki verið lengi við línudráttinn er við sáum skútuna koma siglandi austan að fyrir fullum seglum. Stefndi hún í átt til okkar, en sveigði af leið er nokkrar bátslengdir voru á milli og hélt til hafs. Veifuðu þeir frönsku í kveðjuskyni enda ekki tiltök að komast um borð vegna veðursins. Skildi þar með okkur og höfðum við ekki meira af þeim að segja. En skeytinu komum við áleiðis og vonandi hefur það ratað rétta boðleið.
Lýkur hér frásögn Árna Guðmundssonar.
Frösnku skúturnar, er stunduðu víðar á Íslandsmiðum fra á þessa öld, voru einkum frá bæjunum Paimpol og Dunkerque. Þyngst var sókn þeirra hingað á ofanverðri 19. öld og fram að árum fyrri heimstyrjaldar. Voru á því tímabili oftast 150-350 skútur árlega á Íslandsmiðum. Eftir það fór þeim ört fækkandi og samkvæmt heimildum er síðast getið franskrar fiskiskútu að veiðum hér á landi árið 1938.“ – ÓRÞ

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1993, Um borð hjá Frönsurum, Ólafur Rúnar Þorvarðarson, bls. 32-33.