Tag Archive for: Garðabær

Jónshellar

Gengið var norður með Vífilstaðahlíð að Ljóskollulág. Ofan lágina liggur Selstígur frá Vífilstaðaseli, sem er þarna uppi í hlíðinni. Ekki er vitað hvaðan nafngiftin er komin, en ekki er ósennilegt að hún heiti eftir fyrstu ljóskunni, þ.e. ljóskollóttri á.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

Þegar komið var að Kolanefi var vent til vinstri og litið á Sauðahelli, sem þar er utan í hraunkantinum. Skeifulaga hleðsla er fyrir munnanum. Inni er rúmgóður fjárhellir, fyrir ca. 10-15 væna sauði. Í skjóli þessu voru hafðir sauðir frá Urriðakoti og þeim gefið þar á gaddinn (á jörðina). Heyið var borið í þá frá bænum.
Haldið var vestur yfir Flatahraun að hlaðinni Sauðahústótt vestast í Urriðakotshrauni. Húsið er nokkuð heillegt, en hleðslurnar bera með sér að það hafi líklega verið hlaðið eftir 1900. Gengið var áfram vestur yfir hraunið og var þá komi á Kúadalastíg. Stígnum var fylgt til norðurs að Stekkjartúnsrétt (Gamla rétt), fallega hlaðinni rétt í krika við vesturjaðar hraunsins. Norðan við réttina liggur stígur inn í hraunið, Grásteinsstígur. Grásteinn er þarna inn í hrauninu, alveg við stíginn.

Dyngjuhóll

Landamerkjavarða á Dyngjuhól.

Gengið var áfram norður með hraunkantinum og á Dyngjuhól. Um hólinn liggja landamerki Urriðakots og Vífilstaða. Dyngjuhólsvarða er á hólnum, en auk hennar hafa verið hlaðnar þar nokkrar aðrar vörður. Hóllinn var nefndur Dyngjuhóll af Urriðakotsfólkinu, en hann sést ekki frá bænum. Í hólnum er lítil dyngja. Þessi hóll heitir einnig Hádegishóll frá Vífilstöðum.
Frá Dyngjuhól blasa Maríuhellar við í norðri. Landamerkjalínan liggur um hellana að Miðaftanshóli inni í Svínahrauni (Vífilstaðahrauni).

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Maríuhellar.

Maríuhellar eru nýnefni á hellunum. Urriðakot átti um aldir fjárskjól í hellunum sem oft voru einungis nefndir Fjárhellar. Syðsti hellirinn heyrði til Urriðakoti og var nefndur Urriðakotshellir en hinn Vífilsstöðum og var því nefndur Vífilsstaðahellir. Sagnir eru þó til um að Vífilsstaðir hafi notað syðri hellinn, þ.e. þann sem er gegnumgengur, enda getur það vel verið svo um tíma. Auk þeirra var talað um þriðja hellinn, Draugahellir, en hann átti að vera þröngur niðurgöngu og ósléttur.

Maríhellar

Maríuhellar.

Gengið var um svæðið. Nyrsti hellirinn er í stóru jarðfalli. Í norður úr því er stórt op og þar fyrir innan rúmgóður hellir, ca. 30 metra langur. Mold er á gólfi. Hellirinn hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Líklegast er þarna um Vífilsstaðahelli að ræða. Sunnan af honum er enn stærra og mun grónara jarðfall. Í því er mjög rúmgóður hellir til vesturs. Hægt er að ganga í gegnum þann hluta. Þessi hellir hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Frosin grýlukerti héngu niður úr loftinu í hundraðatali og gáfu þau hellinum dulúðlegt yfirbragð. Í austanverðu jarðfallinu er einnig víður hellir. Inni í hvelfingunni er op á loftinu. Þarna er líklegast um Urriðakotshelli að ræða því sjá má hleðslur undir girðingu austan hans, á milli þessarra tveggja hella. Skammt vestan við vestara opið á hellinum, sem hægt er að ganga í gegnum, er hraunsprunga. Niður í hana liggur op. Þegar niður er komið tekur við rúmgóður hellir. Sver hraunsúla er á vinstri hönd, en rúmgóður hellir framundan.

Jónshellar

Jónshellar.

Liggur hann um 50 metra niður hraunið. Á leiðinni er gat til hægri og innan þess nokkuð rúmgóður hellir. Ekki er óvarlegt að álykta að þarna sé um svonefndan Draugahelli að ræða. Áður fyrr voru engir vegir á þessu svæði og fullorðnir ekki viljað að börn væru mikið að fara ofan í þennan helli því með slæm ljós gæti verið erfitt að finna leiðina út þar sem gatið er bæði lítið og liggur upp á við. Af því tilefni hafi verið búin til sagan af veru draugs í hellinum – til að fæla fólk frá.
Gengið var norðvestur eftir Moldargötum með vesturjarðri Svínahrauns, niður að vestasta hraunnefinu áður en beygt til með hlíðinni áleiðis að Urriðakoti. Þar var haldið beint inn á hraunið til austurs. Eftir stutta göngu var komið að Jónshellum. Þeir eru undir klettavegg er snýr að Vífilsstöðum. Mikið kjarr og hár trjágróður er allt um kring. Jónshellar eru þrír skútar. Einn er sýnum stærstur og einn hefur greinilega verið notaður sem fjárskjól. Hleðsla er fremst í skútanum, en fyrir innan er slétt moldargólf. Þessi skúti gæti auðveldlega hýst 40-50 rollur.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Í kverkinni þar sem hellarnir eru, er gamall timburpallur. Sennilega hefur fólk af Vífilstaðahælinu gengið þangað á góðum dögum til að njóta veðurblíðunnar á þessum fallega stað.
Gengið var eftir Jónshellustíg austur yfir hraunið. Á köflum hefur stígurinn verið lagaður til og hlaðið í lægðir. Staðnæmst var við hlaðinn fjárhús Vífilstaða vestan við Vatnsmýrina og þau skoðuð áður en haldið var að upphafsreit.
Veður var með ágætum – stillt og bjart. Gangan tók 2 klst og 3 mín.

Urriðakotshraun

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Valaból

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli.
Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður.

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin leyndi sér enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar. Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal. Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu sjaldnast lengi á sama stað.

Valaból

Valaból.

Þá var haldið áfram norður Mosana yfir að Smyrlabúðum. Þar var staldrað við og skoðuð gömul vegghleðsla utan í Smyrlabúðahrauni þar sem ætla mætti að gæti hafa verið hinn gamli áningastaður Selvogsmanna eða viðstaldur brennisteinslestarmanna á leið þeirra úr Grindarskörðum.
Kíkt var inn í Ketshelli og hann skoðaður að hluta. Þá var Setbergsselið skoðað, litið á stekkinn og gengið í gegnum Kershelli, fjárskjól í selinu þar sem einnig er fyrir aðstaða Hamarskotssels og litið í skjól norðan selsins. Haldið var áfram niður með Setbergshlíð og litið eftir gömlu hlöðnu fjárhúsi frá Setbergi er byggt var 1906 er féð var flutt úr fjárhellinum í selinu upp í hlíðina. Staldrað var við fjárskjól undir Gráhellu í Gráhelluhrauni og síðan skoðuð vatnsvirkjunin og stíflurnar í Lækjarbotnum áður en ferðinni lauk við kirkjugarðinn.
Veður var frábært – sól og blanka logn. Gangan tók um 5 og ½ klst því áningartíminn í Músarhelli var óvenjulangur að þessu sinni.

Valaból

Valaból.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldárseli, fyrir vatnsverndargirðinguna, yfir austari Kaldárhnúk og niður í Helgadal. Ætlunin var að leita að útilegumannahelli þeim er getið er um í Setbergsannál á 15. öld, en þar segir m.a. að “12 þjófar [voru] í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell”.

Helgadalur

Í Helgadalshellum.

Með í huga hvar annállinn var skrifaður og hvenær var ákveðið að miða við Helgadal, en hann mun hafa verið vel þekktur á þeim tíma, enda talið að áður hafi verið í eða við dalinn. Gamla þjóðleiðin frá Hafnarfirði í Selvog lá um dalinn og má sjá tótt við götuna í dalnum sunnanverðum. Haldið var suður og austur fyrir hæðina, yfir í hraunið austan Mygludala á milli Húsfells og Búrfells. Beygt var til suðurs að Víghól og staðan metin. Norðan og austan við hólinn er eldra hraun, en að austan er Húsfellsbruni og að norðan er Búrfellshraun. Þar er Kringlóttagjá sunnan við fellið. Meginstofn þeirra hrauna sem Hafnarfjöður og Garðabær standa á runnu frá þessari eldstöð fyrir um 7300 árum. Á þessu svæði eru allnokkur jarðföll og op. Sunnan Víghóls sér vel í “Gálgakletta”.

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Ekki er vitað hvaðan nafnið Víghóll er komið, en ef menn vilja leika sér svolítið með nafngiftir á svæðinu gætu sumar þeirra hafa tengst veru útilegumanna og sakamanna í hraununum. Þeir hafa áreiðanlega gætt þess vel að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Hafi það hins vegar gerst gætu þeir hafa flúið á Víghól og einhverjir þeirra verið vegnir þar. Hafi einhverjir yfirvaldsins menn einnig verið drepnir við þá atlögu gæti hefndarþorsti hafa blossað upp í sigurvegurunum og þeir ákveðið að hengja hina handteknu þegar í stað í hæsta gálga á svæðinu. En þetta eru nú einungis hugrenningar, ekki tilvitnun í fyrri lýsingar.

Rauðhellir

Í Rauðshelli.

Hvað sem þessum hugrenningum líður á eftir að fara eina ferð á svæðið til að sannreyna hvar útilegumannahellirinn er. Nú er einn staður líklegri en aðrir, þ.e. Rauðshellir norðaustan Helgadals. Þar við sést móta fyrir hleðslum, nokkurs konar aðhaldi, en auðvelt ætti þaðan að hafa verið fyrir þjófana að ná sér í fé á fæti, bæði í Búrfellsgjá og Selgjá og einnig í Kaldársel. Inni í helli, sem er um 60 metra langur, er hleðsla. Ætlunin er að aka næst að sauðfjárveikigirðingunni sunnan Helgadals og ganga þaðan frá Fosshelli um austurjaðar Mygludala, um hraunið þar austan við og nálgast síðan Helgadal úr austri. Ef ekkert nýtt finnst á þeirri leið má telja líklegt að framangreindur staður sé sá sem líklegast kemur til greina að hafa hýst útilegumennina forðum. Hins vegar verður sennilega aldrei hægt að ákvarða það með neinni vissu, fremur en svo margt annað.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Rauðshellir er ekki langt frá Selvogsgötunni, en auðvelt er að dyljast í honum. Einnig er hægt að komast út úr honum á fleiri en einum stað svo undankomuleiðir hafa verið fyrir hendi. Inni í eystri hluta hellisins er ráshluti er veitir gott skjól. Þar er nokkuð þurrt og erfitt að koma auga á þann eða þá, sem þar væru, séð frá opinu.
Veður var frábært – sól og stilla. Gangan tók um 2 og ½ klst.

Rauðshellir

Hleðslur í helli í Helgadal.

Húsfell
Í Þjóðviljanum sunndaginn 15. júlí 1973 fjallar Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Minjasafns Hafnarfjarðar, um Selvogsgötuna.
Leiðinni frá Helgadal upp fyrir Hellur lýsir hann svo: “Leiðin úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897”.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

[Innskot: Samkvæmt þessu virðist rústin í sunnanverðum Helgadal, við götuna upp úr dalnum, sú sem FERLIR leitaði að og skoðaði á sínum tíma og taldi gamla, vera einmitt þessi rúst].
Gísli heldur áfram: “En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1474: “Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Voru þeir allir hengdir um sumarið”. [Í annarri heimild er sagt að þjófarnir hafi verið handteknir 1633]. Í hraunrima þessum er hellir og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra….. Þegar kemur suður fyrir [Strandartorfur] taka við Hellurnar….

Gálgaklettar

Gálgaklettar við Selvogsgötu.

Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar, sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðfall mikið. Þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna um nætur…”.

Gengið var suður Selvogsgötu frá línuveginum ofan við Helgafell. Farið var eftir ruddri götunni í gegnum mjótt hraunhaft og henni fylgt áfram upp fyrir Strandartorfur á hægri hönd.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Helgafells.

Þegar komið var að Hellunum var gengið upp þær þangað til komið var upp fyrir “aðalbrekkuna”. Þar eru að vísu klettar, en þeir hafa varla dugað til að hengja þar mann, nema hann hafi verið þess styttri í annan endann. Jarðfallið, sem nefnt er að framan var ekki skoðað að þessu sinni, en ætlunin er að fara fljótlega aftur þessa leið. Hins vegar var gengið til norðausturs frá stígnum að grágrýtisklettum, sem þar eru. Ekkert forvitnilegt sást þar.

Hins vegar, eftir um 500 metra göngu frá stígnum, í stefnu til austurs frá klettunum, blasti forvitnilegur staður við. Þar eru klettar, eftirlíking af Gálgaklettunum í Gálgahrauni og álíka háir. Góð aðkoma er að klettunum úr norðri og sjást þeir mjög vel frá Húsfelli. Klofið í klettunum er svo til alveg eins, þó ekki jafnvel gróið og í þeim nyrðra. Roðagylltur himininn skapaði fallega umgjörð um dökka klettana. Hafa ber í huga að þjófarnir þurfa ekki endilega hafa verið hengdir eftir handtökuna. Hins vegar gætu þessir klettar hafa fengið nafngiftina Gálgaklettar vegna þess hversu líkir þeir eru nöfnum sínum í Gálgahrauni, nánast eftirlíking.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hraunið þarna, Húsfellsbruni er hrikalegt á köflum, en hvylftir eru inni í því á stangli. Þær virðast vera eldra hraun. Gengið var í átt að Húsfelli, en enginn hellir fannst að þessu sinni. Þarna eru þó víða op og gjár. Ef 12 menn hafa hafst við í helli þar sem nefnt er Húsfell má telja líklegt að hellirinn sé í eða nálægt fellinu. Í honum ættu að sjást ummerki og í honum eða við hann gætu verið hleðslur eftir fjárhald. Slík ummerki eru reyndar í og við Rauðshelli norðaustan við Helgadal. Ekki er vitað hvert nafnið er á fellinu sunnan hans.
Svæðið við Húsfell er mjög lítið gengið og hefur lítt verið skoðað. Ákveðið hefur verið að ganga næst um sunnanvert Húsfellið og síðan frá því að “Gálgaklettum”, upp á Hellurnar og skoða betur jarðfallið, sem Gísli skrifar um. Það gæti leynt á sér.
Veður var með miklum ágætum – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 14 mín.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Gálgaklettar

Gengið var vestur eftir Fógetastíg (Álftanesgötu) og þvert yfir Garðahraun.

Garðar

Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.

Gatan er greinileg í gegnum hraunið. Við hana eru gömul vörðubrot á nokkrum stöðum. Á a.m.k. tveimur stöðum eru grashólar er gætu þess vegna verið gamlar dysjar eða önnur ummerki. Þegar stígnum er fylgt er komið út úr hrauninu við Hrauntunguflöt. Hrauntunga er sá tangi, sem skagar lengst til vesturs út úr hrauninu að vestanverðu. Þó, skammt áður en komið er komið út úr hrauninu, rétt sunnan vörðubrots, liggur stígur til vinstri. Það er Garðagata. Hún liggur síðan áfram til vesturs upp norðanvert Garðaholt þar sem hún fer m.a. í gegnum skotgrafir og skotbyrgi áður en komið er upp á háholtið.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin lengst til vinstri, og Garðarrétt.

Beygt var út af Fógetastíg sunnan Garðagötu. Þaðan liggur stígur að Garðastekk. Áður en komið var að stekknum var staldrað við og skoðuð, að því er virðist, allstór fjárborg uppi á hraunkantinum ofan við stekkinn. Borgin er greinilega mjög gömul. Þarna gætu einnig verið um að ræða leifar af húsi eða byrgi ofan við stekkinn. Stekkurinn undir vesturhraunbrúninni er allstór og gæti þess vegna hafa verið breytt í rétt undir það síðasta. Norðan stekksins, inni í stekkjargerðinu, er greinilega gömul tótt og vinkillaga garður norðan hennar. Ekki er vitað hvað sú tótt gæti hafa verið því hvorki er minnst á hana né fjárborgina í örnafnaskrám.

Garðahverfi

Presthóll.

Gengið var áfram til vesturs áleiðis upp á Garðaholt. Við gatnamót Álftanesvegar og Garðaholtsvegar er stór hóll – Presthóll eða Prestahóll. Utan í honum er miklar skotgrafir og hlaðið smáhús.

Haldið var áfram til suðurs og upp á hæð, sem í seinni tíð hefur verið nefnd Völvuleiði. Á henni er Mæðgnadys skv. örnafnalýsingu. Utan í henni er skotgröf, sem og víðar í holtinu.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Áfram var haldið til vesturs og þá komið að hinu eiginlega Völvuleiði skv. lýsingu Ágústar frá Miðengi. Það er við hinn gamla Kirkjustíg, sem lá þarna frá Engidal að Garðakirkju. Gömul sögn segir að valva hafi orðið þar úti og verið dysjuð við stíginn.
Eftir stutt staldur við Garðaholt var guðað á glugga á Króki, gömlu uppgerðu húsi skammt neðan við veginn. Það mun nú vera í eigu Garðabæjar og er látið halda sér að innan eins og það var yfirgefið á sínum tíma. Gengið var niður með Austurtúnsgarði Garða og niður fyrir kirkjugarðinn, eftir Lindargötu og að Garðalind. Lindin er undir stórum steini og liggur hlaðinn stokkur niður frá henni. Yfir stokkinn er brú upp við lindina og önnur aðeins neðar. Neðan og vestan við lindina var Garðhúsabrunnur, en hann var fylltur upp eftir að dauð rolla fannst í honum. Þarna skammt frá voru Garðhús (gæti verið áberandi tótt sunnan við Garðalind, fast upp við kirkjugarðsgirðinguna.

Fógetagata

Fógetagata.

Gengið var til norðurs að bæjarhóls þurrabúðarinnar Hóls við norðvesturhorn kirkjugarðsins, upp túnið norðan hans, framhjá Ráðagerði og upp á Garðaholt. Þaðan sést vel Hallargerðið, þar sem bærinn Höll stóð, í suður. Staðnæmst var við þann stað, sem Garðaviti stóð. Þar á stórri vörðu var höfð lukt á 19. öld að skipan Garðapresta. Framhjá henni til austurs liggur Garðagata niður holtið – þvert í gegnum hlaðnar skotgarfir og tvö steypt skotbyrgi. Litið var á þau og síðan haldið áfram niður eftir Garðagötu. Miðja vegu í holtinu, vinstra megin og alveg við götuna, er gömul ferköntuð hleðsla. Gömul hringlaga hleðsla er utan um hana. Þarna er eitthvað, sem skoða þarf nánar. Í örnafnalýsingu segir m.a. að “frá Garðatúnshliði lá Garðagata (Stekkjargatan) vestan Götuhóls, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól við vegamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar”.

Garðahverfi

Hallargerði.

Í örnefnaskránni segir að Presthóll sé við fyrrnefnd gatnamót. Það segja og Ágúst á Miðengi og Guðjón á Dysjum.

Um Mæðgnadys segir einnig í örnefnalýsingunni að hún sé “í norðanverðu Garðaholti sunnan við Presthól”. Hér gætir ónákvæmni. Ekki er ólílegra að Mæðgnadysin kunni að vera þessi því hún er við götu eins og flestar dysjar, sbr. Völvuleiðið, sem er við Kirkjustíg. Því eru hér uppgefnir GPS-punktar af báðum stöðunum.

Gálgahraun

Fiskbyrgi í Gálgahrauni við Sakamannastíg.

Síðan var haldið áfram að Sakamannagötu eða Gálgastíg, eins og hann hefur stundum verið nefndur. Þarna lá gatan, nyrst í vesturjarði Gálgahrauns, austur með sjónum að Gálgaklettum. Á leiðinni eru m.a. hleðslur við stíginn og garðar á stangli. Þeir voru fyrst og fremst notaðir sem þurrkgarðar fyrir þang, sem skorið var þarna í fjörunni. Gengið var framhjá Hrauntanga, en ofan þeirra er fallegt útsýni að klettunum.
Gálgaklettar voru skoðaðir í krók og kima. Þeir eru gamall aftökustaður frá Bessastaðavaldinu. Í lýsingum er talað um Gálgaflöt þar sem hengdir voru grafnir, en óljóst er hvar hún er nákvæmlega. Þó má sjá á einu korti af svæðinu að flötin sé nokkru norðaustan við klettana, svo til alveg niður við sjó, á milli Hrauntanga og Vatnagarða. Skoðað síðar. Tækifærið var notað og skimað eftir skútum við Gálgakletta, en engir fundust að þessu sinni.

Gálgahraun

Gálgahraun – Garðahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í fornleifakönnun FÍ 1999 segir m.a. um Gálgakletta: „Við Lamhústjörn [í Garðahrauni] eru Gálgaklettar, og dregur nokkur hluti hraunsins nafn af þeim…. Skammt austur frá Hraundröngunum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirravar lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessi klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun.“
Um Garðastekk segir jafnframt: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana… Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930“, segir í örnefnalýsingu.
„Fógetastígur er mjög sérstæð og óvenjuleg fornleif. Hún getur engan vegin talist greiðfær fyrir hesta, en engu að síður ber hún vitni um mikla umferð á þessari leið um aldir. Gatan er enn þann í dag skemmtileg gönguleið og hefur ótvírætt varðveislugildi…. [Fógetastígur] greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.“
Ástæða er til að hvetja áhugasamt fólk að skoða stígana í Garðahrauni, skoða Garðastekk og kíkja á Gálgaklettana í Gálgahrauni. Aðkoman að þeim eftir Sakamannagötunni úr vestri er áhrifarík.
Frábært veður. Gangan, fram og til baka, tók 3 klst og 3 mín.

Garðavegur

Garðagata ofan Garðakirkju.

 

Rauðshellir

Farið var í Rauðshelli norðan Helgadals. Á leiðinni þangað, rétt eftir að komið var niður af misgenginu norðan við hellinn, var gengið fram á greinilega mjög gamlan tvískiptan stekk. Mjög líklega hefur stekkurinn verið í tengslum við hellinn því sagnir eru um að Rauðshellir hafi verið notaður sem fjárhellir, enda vart til ákjósanlegri hellir til slíkra nota. Hvergi hefur verið minnst á þennan stekk svo vitað sé.

Rauðhellir

Í Rauðshelli.

Leitað var að ummerkjum, letri eða rúnum í og við Rauðshelli, en án árangurs. Á einum stað, ofan og norðan við miðopið, gat þó verið áletrun því svo virtist sem stafurinn C eða G hafi verið klappaður þar, á stærð við undirskál. Gengið var í gegnum hellinn, sem er um 80 – 100 metra langur í heild. Hægt er að ganga í gegnum nyrsta hlutann. Þá er komið í jarðfall þar sem fyrirhleðslur eru fyrir opum í báðar áttir, stærri og meiri þó að sunnanverðu. Þar er aðalskjólið og lengsti hluti hellisins innan við breiða hraunsúlu. Hann lokast í hinn endann. Á milli opa í forsal eru sléttar grasi vaxnar syllur, sem gæti mögulega hafa verið bæli. Þar hefur birtu notið hvað lengst. Sunnar er enn eitt opið og þar eru tvískiptar rásir lengra til suðurs.

Smyrlabúð

Smyrlabúð.

Þar sem enn naut birtu þennan daginn var ákveðið að skoða betur garðhleðsluna undir Smyrlabúðahrauni. Hún liggur þar í hálfboga og virðist vera hlaðin utan í hraunkant. Innan garðsins eru sléttur skjólgóður bali. Þegar staðurinn er skoðaður er ekki með öllu útilokað að þarna kunni að hafa verið Smyrlabúð. Garðurinn hefur sigið allnokkuð, en hann sést enn vel. Hann gæti hafa verið aðhald fyrir hesta og jafnvel fé á leið Selvogsmanna að og frá Hafnarfirði. Bollinn er skjólgóður og þar hefur auðveldlega verið hægt að slá upp búðum því ekki var alltaf gistingu að fá í bænum. Góð beit er þarna ofan og út með með hraunkantinum. Varða er á holti sunnar. Þarna gætu menn hafa gist nóttina áður en þeir héldu í kaupstað og jafnvel á bakaleiðinni ef svo bar undir. Giskað er á að staðurinn hafi gleymst í seinni tíð og nafnið þá færst yfir á fjallshólinn þar austur af, við suðurjaðar Smyrlabúðahrauns. Þarna eru allavega ummerki um mannvirki á ákjósanlegum áningastað um Selvogsgötu.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Um Smyrlabúð segir Gísli Sigurðsson, fyrrv. lögreglumaður, í leiðarlýsingu sinni um Selvogsgötu: „Þegar brunann þrýtur, til vinstri, er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri, að austan eru brattar skriður en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð. Nokkuð hefur verið um þetta nafn deilt, eða réttara sagt nafn á þessari hæð, og hafa þar ýmsir haldið fram nafninu Smillibúð. Út úr því nafni hef ég aldrei getað fundið og hef eindregið haldið á lofti nafninu Smyrlabúð. Ekki skal ég fullyrða hvað liggur þessu nafni til grundvallar…..“.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Þess skal og getið að í sögnum um Garða á Garðaflötum er talað um Smyrlabúð svo áningastaðurinn, ef rétt er, gæti verið mjög gamall. Ef haldið er áfram með umleitun Gísla gæti búðin hafa heitið Millibúð og hraunið dregið nafn sitt af henni – Millibúðahraun. Síðar, þegar staðurinn gleymdist, og nafnið færðist á hæðina hefur þótt betur viðeigandi að nefna hana Smyrlabúð. Dæmi er um að nöfn hafi breyst í gegnum tíðina, s.s. Nærvík varð að Njarðvík, Arnstapi varð Afstapi og þannig mætti lengi telja.
En þetta eru nú bara vangaveltur. Hins vegar er garðlagið þarna og slétt kvosin innan þesss. Þar gætu leynst fleiri minjar.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 2 mín.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Garðar

Gengið var um Ráðagerði og nágrenni í fylgd Ágústar, bónda í Miðengi.

Garðalind

Garðalind.

Gengið var til austurs frá bænum og þá komið að hárri tótt með nokkrum hleðslum fyrir. Ágúst sagði að þarna hafi áður staðið þurrabúðin Hóll. Hún er gott dæmi um hinar mörgu hjáleigur frá Görðum, sem þarna voru víða. Hóllinn er svo til einu ummerkin eftir þær á svæðinu. Hver hjáleigubóndi átti að slá eina dagsláttur til að létt af leigu. Neðan við búðina og austan við hana má enn sjá móta fyrir Lindargötu. Gatan lá að Garðalind, aðalvatnsbóli Garðhverfinga. Ofan við lindina stendur stórt bjarg, Grettistak. Lindin er í raun undir steininum. Hlaðinn stokkur er niður frá henni og á honum hlaðin brú. Lindargatan heldur síðan áfram að Austurbæjunum. Sauðkind drapst í Garðalind og var brunnurinn þá fylltur með grjóti og möl. Það sést þó enn móta vel fyrir lindinni sjálfri og hlaðni stokkurinn er enn vel greinanlegur. Ofan og austan við hana er tótt, Garðhús.

Völvuleiði

Völvuleiði.

Gengið var til norðurs og austurs um Garðaholt. Á holtinu var höfð lukt á tímum Séra Þórarins Böðvarssonar og séra Jens Pálssonar (19. öldin). Nefndist luktin Garðaviti. Frá túnhliðinu liggur stígur í austur um Garðaholt, framhjá Torfavörðu og á Völvuleiði að Flatahrauni. Í dag er hæðin öll sögð heita Völvuleiði. Á og utan í því eru skotgrafir frá því á stríðsárunum. Ágúst fylgdi okkur suður með girðingunni neðan við rétt, sem þarna er og tilheyrir Ráðagerði, að þúfnahólum skammt ofan við skurð í mýri. Sagði hann hólinn líklega hafa verið hið svonefnda Völvuleiði, en nafnið síðan færst á holtið er fólk hafi ekki lengur vitað hvar leiðið var að finna.

Garðahverfi

Hallargerði.

Gengið var upp á holtið að skotbyrgjum, sem þar eru og snúa til norðurs. Um og í kringum þær eru ýmist grafnar eða hlaðnar skotgrafir. Sunnan þeirra, þegar fer að halla að Garðakirkju, eru hleðslur. Þar var þurrabúðin Höll í Hallargerði. Sést gerðið enn. Þegar gengið er frá túnhliðinu á Görðum, Garðatúnshliði, lá Garðagata vestan við svonefndan Götuhól, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól, sem enn er þar nokkuð áberandi við gatnamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar.

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ÓSÁ.

Gengið var spölkorn eftir veginum til vesturs og síðan beygt vestur götuna að Miðengi. Þar við veginn voru bæirnir Gata, Háteigur og Ráðagerði. Ágúst sagðist ekki treysta sér til að benda á hvaða bær hafi verið hvar. Þarna eru allnokkrar hleðslur, sem skoða þarf nánar. Þá eru gamlar sagnir um dómhring við Ráðagerði, en ætlunin er að fara síðar á vettvang og reyna að staðsetja hringinn. Ágúst sagðist sjálfur ekki hafa heyrt af dómhring þarna, en svæðið næst og ofan við Ráðagerði hefur verið látið óhreyft að mestu.
Garðahverfi er minjasvæði. Við hvert fótmál birtist saga fyrri tíma. Óvíða annars staðar er að finna jafn ósnert heildarlandslag minja en umhverfis Garðakirkju.
Veður var frábært – lygnt og sól. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Setbergsbærinn

Í FERLIRsferð nr. 505 var gengið undir leiðsögn Friðþjófs Einarssonar, bónda, um land Setbergs í Hafnarfirði, fyrrum Garðahreppi. Ferðin var ekki síst áhugaverð vegna þess að einn þátttakendanna var afkomandi Jóns Guðmundssonar, fyrrum bónda á Setbergi og hreppsstjóra í Garðahreppi.

Setbergsbærinn 1771Jón var frá Haukadal í Biskupstungum, sonur Guðmundar frá Álfsstöðum, hins fjárglögga. Guðmundur auðgaðist af fé og fluttist að Haukadal þar sem afkomendur hans bjuggu m.a. í Tortu og Bryggju, þeim einu kotum í sveitinni er Skálholtsbiskup auðnaðist ekki að söðla undir sig, þrátt fyrir gjaflyndi fólks á dánardægri með prestinn einan nálægan að vitundarvotti. „Hefðir“ og „lög“ samfélagsins voru ákvörðuð af yfirvaldinu og því erfitt fyrir almúgann að andmæla –  líkt og nú. Þetta var því enn staðfastara fólk en nú þekkist og það stóð á sínu þótt á móti hvessti.

Setberg

Setbergsbærinn – tilgáta.

Jón fluttist að Hvaleyri við Hafnarfjörð fyrir aldarmótin 1900, bjó þar í þrjú ár, og fluttist síðan að Setbergi. Þar gerðist hann mikill fjárbóndi uns hann hafði, á gamals aldri, skipti við Jóhannes Reykdal, á jörðinni og húsi „niður í bænum“. Skiptin voru reyndar báðum til góðs þvi þau auðvelduðu hinum aldna Jóni síðustu æviárin og hinum frumkvæðna Jóhannesi drifkraftinn og áræðnina er leiddi síðar til rafvæðingar bæjarins. Börn Jóns og Ingveldar, konu hans, urðu ellefu. Ein dóttir þeirra, Sigurbjörg, bjó síðar að Urriðakoti, og önnur, Ingveldur, að Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Þau hjónin, hún og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi, eignuðust einnig 11 mannvænleg börn er öll komust til manns. Nú standa tóftir Þorbjarnarstaða, líkt og Setbergsbæjarins, eftir sem ómeðvitaður bautarsteinn þess sem var – handan við hornið.

Setberg

Skilti Byggðasafns hafnarfjarðar við gamla Setbergsbæinn.

Fyrst var gengið að stæði gamla Setbergbæjarins í hlíðinni ofan við Háabergið, við vesturjaðar golfvallarins. Þar var bærinn fram á miðja 19. öld. Af þeim bæ er teikning Collingwoods af bænum frá árinu 1771, sem birtist í bók hans, sömu og teikningin er af Hvaleyrarbænum. Gaflar hafa staðið mót vestri. Friðþjófur benti á eina tóftina og sagði að inni í henni væri heill lýsisbræðslupottur. Þar reyndist hann vera, sennilega á sínum upprunalega tilveru- og notkunarstað, í tóftinni. Við suðurhornið er steinn og í hann reknir margir járnnaglar. Nýrri bærinn stóð vestar og neðar í hlíðinni, en öll ummerki eftir hann eru nú horfin.

Setberg

Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.

Gengið var spölkorn til norðurs og var þá komið að litlum hól við norðurbrún gamla vegarins upp að Urriðakotsvatni. Friðþjófur sagði hólinn heita Galdraprestshóll. Í honum væri grafinn nafngreindur prestur, Einar, og væri til þjóðsaga um hann. Sá hefði komið undir eftir að sýn birtist föður hans, sem jafnframt var prestur úti á landi, í draumi og gat hann í framhaldi af því barn með ungri konu á altari kirkjunnar. Hertrukki var ekið utan í hólinn á stríðsárunum og valt hann við það sama. Ekki er getið um kirkju þarna, en gamall grafreitur er norðan við hólinn. Það hafi komið í ljós þegar verið var að slétta túnið snemma á 20. öldinni. Einar þessi mun hafa verið rammgöldróttur. Í örnefnalýsingu GS segir um hól þennan: „Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Á þúfu þessari sat löngum Þorsteinn Björnsson prestur, og hér orti hann „Noctes Setbergenses“. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari.“
Forn tóft norðan gamla bæjarinsÁfram var gengið til norðvesturs upp á Setbergshamar (Þórsbergshamar) og skoðaðar mjög gamlar tóftir, sem þar eru. Sú eystri er enn heilleg. Ástæðan mun vera sú að óvenju stórt grjót hefur verið notað í hleðsluna. Sést enn móta fyrir burstalaginu.
Nokkru norðan við húsið, ofar í hæðinni, er hleðsla og umhverfis það rúmgóður hringlaga garður, greinilega mjög gamall. Hann er mótaður af stórgrýti. Augljóst er að þarna hafa engi aukvisar verið að verki.

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.

Friðþjófur sagðist hafa rekið augun í þetta, spurt nokkra um hugsanlegar skýringar, en enginn kunnað svör við því hvað þarna kynni að vera. Ekki er með öllu útilokað að um væri að ræða gamlan dómhring líkt og sjá má víðar á Reykjanesskaganum (t.a.m. á Stafnesi og Þingnesi) sem og annars staðar á landinu. Vestan við hringinn er gömul hlaðin tóft. Vel mótar fyrir hleðslum. Snýr framhliðin til norðvestur í átt að miðbænum. Augljóst er að þilgafl hefur verið á henni mót vestri. Lega tóftarinnar bendir til þess að þarna kynni að hafa verið fyrrum bænhús. Fróðlegt væri að fá sérfræðing til að skoða þessar tóftir, en það gæti þó reynst erfitt því ekki var að sjá neina yfirbyggða skrifborðsaðstöðu á svæðinu.

Setberg

Setbergsbærinn gamli í dag á miðri loftmyndinni.

Hlaðinn vörslugarður er skammt norðar. Hann liggur af hamrinum til austurs, en er rofinn á kafla. Friðþjófur sagði afa sinn hafa látið ýta hluta garðsins í haug við enda vestari hluta garðsins þegar holtið var slétt og túnið gert á þeim stað – á grafreitnum og norðan hans.
Þá var gengið austur yfir Fjárhúsholtið og að Svínholti. Norðan undir því, syðst á túni, sem þar er, eru tóftir og hringlaga gerði framan við. Friðþjófur sagði afa sinn hafa byggt þarna fjárhús er þau voru flutt úr Setbergshlíðinni, þ.e. fjárhúsin, sem byggð voru þar 1904 eða 1906 eftir að aðstaðan hafði verið færð þangað úr Setbergsseli. Aftan við húsið hafi verið lítil hlaða, en sjálft hafði það verið byggt úr holsteini. Hins vegar hafi alltaf verið haft á orði að þarna hafi áður verið gamalt mannvirki, sem ekki væru kunn skil á. Það skýrði m.a. hringlaga gerðið við húsin.
Veður var frábært – logn og sólkinsbjart. Gangan tók 43 mín.

Setberg

Tóftir Setbergsbæjarins.

 

Selvogsgata

Gengin var gamla Selvogsgatan frá Lækjarbotnum upp með austurbrún Gráhelluhrauns að Gráhellu milli Svínholts og hraunbrúnarinnar, í Kershelli, þaðan að vörðunni í Smyrlabúðahrauni og síðan Setbergshlíðin og Vatnshlíðin til baka.

Gráhella

Gráhella.

Skoðuð var hlaðin stífla og hleðslur undir vatnsveituhúsið í Lækjarbotnum. Vegna þess hve vatnið var slétt mátti vel greina síðasta bútinn af gömlu tréleiðslunni neðan við upptökin.
Norðan undir Gráhellu í Gráhelluhrauni er hlaðið fjárskjól. Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vörðu skammt austan við Gráhellu, má enn sjá háar hleðslur af gömlum fjárhúsum, sem byggð voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsseli, sem er þarna skammt ofar. Gott útsýni er til selsins frá fjárhúsinu. Góðir hagar eru ofar í hlíðinni. Húsið hefur verið nokkuð stórt á þeirra tíma mælikvarða. Í miðjunni er hlaðinn garður og minna hús hlaðið við endann.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

Eftir að hafa farið í gegnum Setbergsselið var beygt til austurs og gengin gömul leið í gegnum gjá norðvestast í Smyrlabúðahrauni og stefnan tekin á stóru vörðuna inni í hrauninu. Farið var yfir gamla landamerkjagirðingu Setbergs. Ekki er ólíklegt að varðan geti verið leiðarmerki að helli, sem var á í hrauninu. Leitað var vel og vandlega á leiðinni, en án árangurs í þetta sinnið. Þá var stefnan tekin á Markastein, en í hann liggur landamerkjagirðingin úr vörðunni ofan við op Kershellis. Steinninn stendur syðst í Fremstahöfða með smágrasstúf á toppi. Að sögn mun Urriðakotsbóndi fyrrum hafa heyrt úr honum rokkhljóð og dregið þá ályktun að í honum byggju huldufólk. Fylgdi sögunni að allt þrek eigi að þverra þeim er nálgast steininn.

Refagildra

Refagildra á Tjarnholti.

Ákveðið var að láta huldufólkið í friði að þessu sinni í tilefni hátíðarinnar. Af ummerkjum að dæma hefur steinninn einhvern tímann verið girtur af, enda lá markagirðingin við hann.
Gengið var eftir Seljahlíðinni og upp á Tjarnholtið með útsýni til allra átta. Sást vel yfir að Trölladyngju og allt yfir að Þorbjarnarfelli ofan við Grindavík. Sólin hafði teygt sig yfir Lönguhlíðar og roðagyllti Esjuna.
Neðar, í norðvestri, sást vel til leifa herbragganna í Camp Russel á Urriðakotshæð (sjá HÉR). Hú hefur hæðinni verið umturnað vegna nýrrar byggðar á hæðinni.

Flóðahjalli

Virki á Fjóðahjalla.

Nikulás Jónsson bóndi á Norðurkoti í Vogum lýsti svæðinu 1834 hér á millum með eftirfarandi hætti: „Milli dala lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir, Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir [þar sem nú er golfvöllur] og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjárréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn, Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar. Urriðakot hefur verið í eyði nú um árabil. Þá var tekið upp á því að kalla jörðina Urriðavatn.

Flóðahjalli

Letur á Flóðahjalla.

Svanur Pálsson lýsti svæðinu á eftirfarandi hátt, en heimildarmaður hans var móðir hans, Guðbjörg Guðmundsdóttir sama stað. Hún er fædd í Urriðakoti 1906 og átti þar heima til 1939. Örnefnin nam hún af föður sínum, Guðmundi Jónssyni bónda í Urriðakoti, en á uppvaxtarárum sínum vann hún mikið með honum við útistörf. Guðmundur var fæddur í Urriðakoti 1866 og átti þar heima til 1941, en foreldrar hans bjuggu þar á undan honum og mun faðir hans hafa flust þangað 1846, en móðir hans nokkru síðar.

Hádegisholt

Varða á Hádegisholti.

„Til suðurs frá traðahliði lá svonefndur Urriðakotsvegur eldri ofan við mýrina. Hann beygði síðan vestur með Hádegisholti, öðru nafni Flóðahjalla, sem er stórt holt suður af Urriðakotsvatni. Síðan lá vegurinn norðvestur eftir Setbergsholti norðaustanverðu, meðfram túngarði á Setbergi, norðvestur fyrir Setbergshamar og síðan til suðurs niður á Setbergsveg, sem lá til Hafnarfjarðar.“
Á hæstu bungu Hádegisholts (Flóðahjalla) var komið við í stóru hlöðnu virkisskjól frá stríðsárunum. Á einn steininn þar er klappað ártalið 1940 auk nokkurra upphafsstafa. Ef vel er að gáð má sjá að virkið gæti áður hafa verið hluti af gamalli fjárborg eða gerði, vandlega hlaðinni, en grjótið hefur síðan verið tekið úr henni í virkishleðslur.

Oddsnýjardalur

Oddnýjardalur – gata.

Niðri í dalnum til suðurs, Oddnýjardal, mátti sjá gerði og líklega tóft, sem þarf að skoðast betur síðar. Að sögn Friðþjófs bónda á Setbergi mun þarna upphaflega hafa verið hús frá hernum, en síðar verið notað sem skjól fyrir skepnur frá Setbergi. Gengið var niður á Flóttamannaveg og hringnum lokað.
Veður var frábært – logn og bjart. Gangan tók nákvæmlega 3 klst.
Þess skal getið að á leiðinni þóttust einhverjir þátttakenda sjá litskrúðuga álfa á ferð nálægt Markasteini, en enginn sagðist vera tilbúinn að staðfesta það ef spurt væri.

Setbergssel

Setbergssel og Hamarkotssel.

 

Valaból

Gengið var um gömlu Selvogsgötuna frá Helgadal, upp með Valahnjúkum án viðkomu í Valabóli og Músarhelli, en þess í stað haldið áfram upp Mygludali (sem sumir segja að heiti eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, en aðrir að þeir dragi nafn sitt af myglunni, sem þarna legst yfir sem grá slæða á ákv. árstímum), inn með Kaplatór, öðru nafni Strandartorfum og áfram upp hraunið. Gatan er þarna mjög skemmtileg á köflum. Markað er ofan í klappirnar eftir hófa, klaufir og fætur margra alda.

Selvogsgata

Selvogsgatan.

Um þennan veg (nefndur Suðurfararvegur af Selvogsbúum) fór meginumferðin til og frá Selvogi, Hlíð og Herdísarvík, auk þess sem lestarferðirnar ofan úr Brennisteinsfjöllum á seinni hluta 19. aldar fóru um götuna. Gatan er vel vörðuð og greinileg alveg upp í Kerlingarskarð.
Þegar komið var á Bláfjallaveginn var vent til suðausturs, upp í Tvíbollahraunið í átt að Stórabolla. Þar hefur gömul leið legið upp hraunið og má sjá markað þar í klappirnar á nokkrum stöðum. (Síðar kom í ljós að þar gæti verið um gömlu leiðina áleiðis upp í Grindarskörð að ræða). Gatan liggur að Vatnsstæði vestast í Kristjánsdölum, undir Lönguhlíðinni. Þaðan liggur svo gata til suðvesturs í átt að Kerlingaskarði. Birtan var slík að mosinn var grænni en ella og ýmsar fallegar myndanir birtust í hlíðunum. Vegna hitans frá sólinni liðuðust gufur upp frá honum í logninu.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Nokkru frá vatnsstæðinu var gengið fram á sást greinilegt uppstreymi úr gati í mosanum. Þegar stungið var þar niður höfði sást að þar undir er djúpur gígur, annað hvort hraungígur eða gasuppstreymisgígur. Hann virtist ósnertur með öllu og ekki var að sjá að þarna hafi verið gengið um áður. Dýpið í holunni er a.m.k. 6-7 metrar, en ljós, sem notað var til að lýsa niður í það, náði ekki botninum. Veggirnir voru sléttir að sjá. Nánari skoðun mun verða verkefni fyrir Hellarannsóknarfélagið. Mun sérstök ferð verða farin þangað á allra næstu dögum.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Norðaustar með hlíðum Kristjánsdala, í átt að Krisjánsdalahorni, í dalverpi, sem þar er, var gengið fram á gamla tótt. Þarna eru leifar húss, sem refa- og rjúpnaskyttur höfðust við í á sínum tíma. Þarna skammt frá eru nokkur greini, sem gaman er að sjá. Norðar er gamalt hlaðið skotbyrgi refaskyttu, en um mosana liggja víða slóðir refsins og sjást margar þeirra ennþá. Svo var að sjá að grenin í Kristjánsdölum væru flest yfirgefin, en í bakaleiðinni sást grár skolli skjótast yfir Bláfjallaveginn – með hertan fiskhaus í kjaftinum. Hann virðist því hafa farið um langan veg eftir æti, eða alla leið niður í trönurnar niður við Krýsuvíkurveg.
Gangan tók 4 klst og 2 mín. Frábært veður.

Mygludalir

Mygludalir.