Tag Archive for: Garðabær

Garðahverfi

Eftirfarandi fróðleik um sögu og minjar Garða á Álftanesi (Garðahreppi) má lesa í skýrslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003:
„Í Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst.  Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar. Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum.
gardar-201Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka „at boði j Görðvm“  og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: „var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr“. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn „í kirkjugarðinum þar í Görðum“. Um tveimur áratugum síðar var þetta ein þeirra jarða sem Árni Þorláksson Skálholtsbiskup deildi um við veraldlega höfðingja og er greint frá því í sögu hans.

gardar-233

Staða-Árni eins og hann var nefndur réri að því öllum árum að kirkjan öðlaðist sjálfstæði í eigin málum og að allir kirkjustaðir kæmust undir hennar forsjá. Fékk hann m.a. þáverandi eiganda Garða, Sturlu Sæmundarson, til að sverja sér af hendi staðinn og lofa að „taka alldri síðan af kirkjufjám né hennar eign utan með biskups ráði“. Árni setti síðan systurson sinn Bjarna Helgason prest niður í Görðum. Leikmenn mótmæltu staðartökunni og fleiru í bréfi til biskups árið 1286 en þegar það bar ekki árangur kom goðorðsmaðurinn Hrafn Oddsson með herlið, stökkti séra Bjarna á brott og fékk Sturlu aftur „í hönd alla kirkjunnar eign“.
Næst eru Garðar nefndir í Alþingissamþykkt frá 1307 og er þá séra Jón Þórðarson kominn þangað til starfa.  Einhverjar heimildir eru svo um alla þá Garðapresta sem gegndu kallinu næstu aldir en þeir verða ekki taldir upp hér. Í máldögum árin 1397  og 1477  kemur fram að Garðakirkja var helguð Pétri postula og vel búin munum.
Meðal merkra kennimanna sem sátu á þessum kirkjustað má nefna Þorkel Arngrímsson (1629-77) sem tók við embætti árið 1658 og fékkst m.a. við skáldskap, þýðingar, útgáfur guðsorðabóka og lækningar. Séra Þorkell var í Görðum til 1677 og þar fæddist sonur hans, Jón Vídalín (1666-1720), sem gegndi prestsembætti á staðnum 1695-7. Eins og frægt er hófst hann síðar til biskups en þekktastur er hann líklega af hinni vinsælu húspostillu sinni sem við hann er kennd.  Séra Markús Magnússon (1748-1825) kom til starfa árið 1780 og stóð að stofnun Landsuppfræðingarfélagsins, Hins íslenska biblíufélags og fleiri menningarfélaga. Að beiðni nefndar til varðveislu fornminja, „Commision for Oldsagers Opbevaring“, sem stofnuð var árið 1807, skrifaði hann einnig merka Fornleifaskýrslu um Garðajarðir árið 1820.

gardar-230

Markús hafði forgöngu um mannvirkjagerð á staðnum og lét hlaða langan garð meðfram túnum bæjanna sem heyrðu undir Garða. Skv. manntölum voru hjá þessum prófasti 30 heimilismenn árið 1801  og 23 fimmtán árum síðar, um helmingi fleiri en öld áður hjá séra Ólafi Péturssyni en Manntal var líka gert í hans tíð.  Nefna má konu Markúsar, Þuríði Ásmundsdóttur, séra Sigurð Hallgrímsson „capellan“, hinn unga Jón Steingrímsson sem um skeið gegndi starfi skrifara, Guðmund Ormsson ráðsmann, Guðfinnu Bergsdóttur, unga frænku prófastins sem varð ráðskona hjá honum, Gísla Guðmundsson smið og Þórarinn Þorsteinsson smala. Auk þessa fólks voru á prestssetrinu tvö gamalmenni og fjögur börn, þrír vinnumenn og átta vinnukonur en bændasynir og dætur úr bæjahverfinu gegndu ýmsum störfum í Görðum. Markús hélt embættinu til æviloka. Skv. Manntali árið 1845 voru 25 í heimili hjá eftirmanni hans, séra Árna Helgasyni (1826-1894) sem skrifaði Lýsingu Garðaprestakalls árið 1843. Hann var prófastur 1825-58, mikilhæfur maður, stofnaði ýmis félög og gegndi biskupsembætti á tímabili. Frúin hans hét Sigríður Hannesdóttir en auk Óla Peter Finsens lærisveins, Ólafs Símonssonar gustukamanns og vinnuhjúa höfðu hjá þeim í húsnæði hjónin Magnús Brynjólfsson húsmaður og Þorbjörg Jónsdóttir.  Kirkja er enn í Görðum og jörðin í byggð.
Árið 1397 er getið um búfjáreign Garða: 30 sauðir, 6 hross og 33 nautgripir, þeirra á meðal tveir gamlir plóguxar eða „arduryxn“. Jafnframt kemur fram að tíu kornsáld voru færð í jörðina. Af þessu má ráða að jafnhliða kvikfjárrækt hafi á fyrri tímum verið stunduð kornrækt í Görðum. Reyndar eiga gömul akurgerði að hafa verið um ofanverð túnin a.m.k. fram á daga séra Markúsar og nefna má bæinn Akurgerði sem að vísu var þar sem nú er Hafnarfjörður en lá að fornu undir Garðakirkju. Forvitnileg í þessu sambandi eru einnig hin fjölmörgu gerði í hverfinu sjálfu en í sumum þeirra fór fram einhvers konar ræktun. Loks má minnast öldrykkju mikillar sem séra Þórður Ólafsson efndi til og greint er frá í Biskupsannálum árið 1530 en hann hefur kannski notað bygg af ökrunum til maltgerðar fyrir mjöðinn.  Í skrá frá árinu 1565 segir frá „bygging“ eða leigu á jörðum Garðkirkju, tekjum af þeim, kvikfénaði og ábúendum en ekkert er um prestsjörðina sjálfa.  Skráin var sett saman um það leyti sem séra Jón Loftsson var í Görðum, sá sem Presthóll í holtinu fyrir ofan er talinn kenndur við en þar áttu að vera álfar. Einnig er minnst á Garða í Gíslamáldaga árið 1570.
Þegar Árni Magnússon og Páll gardar-231Vídalín tóku saman Jarðabók sína árið 1703 var Ólafur Pétursson prófastur, fyrst 1695-6 og síðan aftur 1697-1719. Þá áttu Garðar 20 kúgildi, sum í leiguburði á eignajörðum og hjáleigum en heima fjórar kýr og ein leigukýr, ein þrevetra mjólkandi kvíga og önnur tvevetra geld. Auk þeirra voru 32 ær, 19 sauðir, 20 lömb, hestur, þrjú hross og tveir tvevetra folar.  Fóðrast kunnu ríflega 5 kýr og hestur og kemur á óvart að í Jarðatali Johnsens árið 1847 er aðeins tilgreint eitt kúgildi.  Jarðardýrleiki var lengst af óviss en taldist 40 hundruð frá 1697 og fram um miðja 19. öld og 48,8 ný hundruð í Jarðabók árið 1861. Í Fasteignabókum 1932 var jörðin með húsakosti metin á 207 hundruð kr.  en 154 hundruð kr. Á þessum tíma voru 8-8,5 kúgildi, 60 sauðir og tvö hross en undir lokin engir sauðir og aðeins eitt hross. Um 3200 m² garðar gáfu í fyrstu 40 tunnur matjurta en síðast aðeins 18 tunnur. Þegar Örnefnaskrá var gerð árið 1964 var Garðatún stórt en grýtt og skiptist í velli. Frá Garðatúngarði niður að hlaði nefndist Vesturgerði vestan heimatraðanna og Austurgerði austan þeirra. Skikinn vestan bæjarhúsa og kirkjugarðs hét Vesturflatir en austan megin voru Austurflatir. Lindarflöt kallaðist loks völlurinn frá kirkjugarðinum að Garðamýri eða Garðatjörn, kennd við Garðalind í túnjaðrinum.

Gardar-299

Í mýrinni sem náði að sjó voru útheysslægjur og torfrista og slógu hjáleigubændur þar dagslætti fyrir kúabeit. Hún tilheyrði að fornu jörðinni Bakka sem lá upp að henni sunnan megin en séra Þorkell lagði hana til Garðastaðar vegna skorts á slægjum og torfi.  Nytjaland Garðastaðar var annars að miklu leyti ofan og austan við hverfið, handan hins mikla Garðatúngarðs. Næst honum var Garðaholt og austur af því Garðahraun. Í nyrsta hluta þess, Gálgahrauni, var beitiland frá Görðum en úthagar í næsta nágrenni voru þröngir og snögglendir. Selstaða var við Kaldá og í Kirkjulandi ofan byggðarinnar frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi. Sjórinn var stundaður allt árið frá Görðum og jörðum í kring. Heimræði var og mikil hrognkelsaveiði en miðin skammt frá landi. Einnig var þó róið á fjarlægari mið. Lendingar voru góðar en öll stærri býlin höfðu uppsátur í sérstökum vörum sem fylgdu þeim og voru við þær kenndar. Auk þess voru náttúrulegar bryggjur við syðstu jarðirnar og við þá nyrstu, Hausastaði. Frá henni lá Hausastaðakambur meðfram sjánum ofan vara allt að Miðengi og á honum var skiptivöllur með búðum og hjöllum frá bæjunum. Við suðaustari jarðirnar nefndist hins vegar Garðagrandi. Þar framan við voru sker og grynningar sem mynduðu nokkurs konar hring eða kví um fjöru með mörgum þröngum sundum á milli og kallaðist það Garðatjörn.  Skelfiskafjara var en fór til þurrðar þegar um 1700. Gengt var í fjörunni en lítil rekavon. Hins vegar átti Garðakirkja á 14. öld og e.t.v. lengur allan viðreka og hvalreka frá Rangagjögri og Leitukvennabásum að Kálftjörningafjöru. Fram eftir öldum var nóg af nýtanlegum fjörugrösum. Aðalsölvatekjusvæðið var á Hausastaðagranda sem lá út á sjó frá Hausastöðum og fór í kaf á flóði.

gardar-234

Marhálmur óx við sjávarlón á norðurmörkum hverfisins, Skógtjörn norðan Hausastaða og Lambhúsatjörn norðan hins sameiginlega nytjalands. Í Örnefnalýsingu frá árunum 1976-7 er lýst mikilli þang- og marhálmstekju á Hrauntanga við Lambhúsatjörn. Var þangið þar skorið í fjörunni og látið reka upp í flóðfar með aðfalli en síðan borið á þerrivöll og þótti best ef rigndi fyrst því þá losnaði það við saltið og þornaði fyrr. Suðaustur úr Skógtjörn gékk svolítil tota sem nefnd var ýmist, Litlatjörn, Aukatjörn, Hausastaðatjörn eða Álatjörn. Síðasta nafnið tengdist Álamýri norðaustur af tjörninni en þar veiddu Garðhverfingar ála og seldu til Reykjavíkur. „Þeir veiddust helst í ljósaskiptum.“ Á þessum slóðum fóru einnig fram annars konar veiðar: „Mýrarhóll er austast í Álamýri og Skothóll austur af honum. Við Skothól eru klettar. Þar lágu menn fyrir fugli, er flaug fyrir, einkum álft, sem sótti í marhálminn við Skógtjörn. Þegar hækkaði í tjörninni og marhálmurinn fór í kaf, flaug álftin upp á Urriðakotsvatn og Vífilstaðavatn. Fóru menn þá á Skothól, þegar tók að flæða. Nú er allur marhálmur horfinn úr Skógtjörn.“ Skammt undan var líka mikið æðarvarp og tóftir á Eskinesi sem skilur milli Lambhústjarnar og Arnarnesvogs bera enn vitni um tilraun til æðarræktar á dögum Þórarins Böðvarssonar (1825-95) Garðaprests  1868-95. Mór var skorinn í Hraunholtsmýri við Arnarnesvog og í Dysjamýri við syðstu jörðina Dysjar en norðan í henni hefur kannski einnig verið torfrista. Auk þess var skógur Garða nýttur til kolagerðar en bæði mór og viður voru farin að eyðast um 1700. Mosi var tekinn í Gálgahrauni og lyng rifið til eldiviðar en „hvergi er nú skógarhrísla eða lyng í hrauninu nema næst Hraunsholtinu“ austan megin.
Bæjahverfi það sem með tímanum myndaðist kringum kirkjustaðinn lá meðfram sjávarsíðunni á leiðinni út á Álftanes og nefndist Garðahverfi. Með vísun til bæjatúnanna innan garðs var einnig stundum talað um Garðatorfuna. Garðar sjálfir eru rétt suðaustan við miðju hverfisins, næst þeim norðan megin hjáleigan Ráðagerði og niðri við sjó Miðengi en sunnan megin Nýibær og Pálshús. Handan Garðamýri hjá sjónum var auk þess Bakki, eitt af lögbýlunum og suður af því Dysjar sem líka var lögbýli. Norðvestan megin í hverfinu voru svo Hlíð, lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr því, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir.

gardar - midengi

Allar þessar jarðir lágu undir Görðum og á sumum voru á tímabilum minni hjáleigur og þurrabúðir. Mýrarhús , Sjávargata, Hóll og Garðabúð voru við mýrina neðan Garða, Krókur, Garðhús, Háteigur og Höll við nytjalandið ofan þeirra. Þar í landi Hlíðar voru einnig Gata, Holt og Sólheimar en Hlíðarkot var í miðju túni og Dysjakot á Dysjum. Á mörkum Hlíðar og Hausastaðakots var Grjóti og í landi Hausastaða þrjú ef ekki fleiri býli, Kaldakinn, Katrínarkot og Arndísarkot á tanganum Skreflu, vestasta hluta hverfisins. Hvar Óskarbúð var er ekki vitað með vissu og sum býli eru nafnlaus. Í Manntölum er t.d. oft greint frá tómthúsfólki og húsfólki á aðaljörðunum án þess að getið sé um bústaði en tómthúsmenn bjuggu venjulega í sjálfstæðu húsnæði og húsmenn oft líka þótt sumir fengju inni á bæjum. Býlin í Garðahverfi hafa þó verið a.m.k. þau 34 sem hér á eftir eru skráð, á stundum trúlega færri eða fleiri. Skammt var á milli heimila og kominn vísir að smáþorpi enda virðast menn sums staðar hafa verið farnir að sérhæfa sig í ákveðnum störfum. Á prestssetrinu hefur verið miðstöð mannlífs en einnig var um skeið skóli á Hausastöðum og þingstaður en hann var fluttur í Garða. Bændur hverfisins skiptust á að gegna embætti hreppstjóra. Ljósmóðir var á Dysjum og hafnsögumaður á Bakka og Ósk í Óskarbúð rak svolitla verslun. Sumir eins og Guðmundur Einarsson vefari lifðu af handiðn sinni, handverkskonur og trésmiðir voru víða en gull- og silfursmiðir höfðu aðsetur í Ráðagerði. Mikið flakk var á fólkinu, a.m.k. þegar kom fram á 19. öld og þegar gömlu ábúendurnir fluttu tóku oftast við óskyldir menn. Nokkuð var þó um að fólk færi búferlum innan hverfisins og óvenjuleg nöfn eins og Ormur, Illugi og Nikulás sem skjóta aftur og aftur upp kolli í hverfinu gegnum aldirnar benda til innbyrðis skyldleika íbúanna. Ætla má að grjóthlöðnu gerðin sem eru sérkennandi fyrir Garðahverfi hafi tengst þéttbýlinu. Innan þeirra hefur verið sú litla lóð eða grasnyt sem hvert býli hafði. Flest eru kennd við búðirnar sem þau tilheyrðu: Hallargerði, Sjávargötugerði, Holtsgerði o.s.frv. Nokkur eru nöfnin tóm og hafa komið upp ýmsar getgátur um þau, Pálshúsagerði í Pálshúsatúni t.d. verið bendlað við akuryrkju og Hausastaðatúngerði á Hausastöðum talið landamerkjagarður en orðið gerði getur bæði vísað til ræktarlands og hlaðins garðs.
Hausastadir-221Í hverju bæjatúni var svolítill brunnur og sérstakar brunngötur til þeirra. Mikilvægasta vatnsbólið var þó Garðalind sem aldrei þraut og í hana sóttu öll heimilin vatn þegar þurfti. Til þessa hjarta Garðahverfis lágu að lokum allar leiðir en býlin tengdust með innbyrðis vegakerfi. Frá Hausastöðum og býlum þar lá gata yfir í Hausastaðakot og áfram í Grjóta, þaðan niður í Móakot eða yfir í Hlíð. Frá Hlíðabæjum lágu leiðir vestur í Götu og Háteig og Hlíðarbrunngata suður í Miðengi og síðan líklega áfram eftir jaðri túns og mýrar að Garðalind. Traðir tengdu saman Götu og Holt, Háteig og Ráðagerði en þaðan lá gata til kjarnans  í Görðum. Frá hinum búðunum við Garðatúngarð var farið um Garðatraðir niður að kirkju og prestssetri og þangað var sérstakur stígur, Króksbrunngata, úr Króki. Þá lágu traðir milli suðaustustu býlanna Dysja, Pálshúsa og Nýjabæjar og frá þeim síðastnefnda í Garða en þaðan mátti loks ganga um Garðabrunngötu að Garðalind. Hins vegar lá Bakkabrunngata beint frá Bakka upp kringum mýrina og að lindinni.
Þurrabúðarfólkið við Garðamýri hefur trúlega notað dysjar-224Sjávargötu sem lá milli þeirra og sjávarins annars vegar, Garða hins vegar, og síðan Hlíðarbrunngötu til að komast alla leið. Sérstakar sjávargötur lágu frá bæjum niður að sjávarhliðum í varnargarðinum ofan vara og neðan syðri jarðanna lá Bakkastígur eftir sjávarbökkum. Víðar hefur verið gengið við sjóinn en frá sjávarhliði Hausastaða lá svo nefnd Hliðsnesgata, framhjá Katrínarkoti og Arndísarkoti út á Skreflu og að Oddakotsósi. Þar varð svo að fara á bát yfir í Hliðsnes á móti. Í hina áttina lá gatan meðfram Skógtjörn, framhjá Köldukinn, og yfir grjóthlöðnu brúna Stíflisgarð. Þar var áður aðalleið úr hverfinu út á Álftanes. Í vestur lágu einnig Hausastaðatraðir frá Hausastöðum en slíkar traðir við bæina kenndar lágu frá þeim mörgum að hliðum á Garðatúngarði. Þaðan lágu leiðir svo út í nytjalandið og til næstu byggðalaga. Þannig lágu Garðatraðir frá Görðum um Garðahlið þar sem við tók Garðagata og hlykkjaðist þvert yfir Garðaholt að Garðastekk í jaðri Garðahrauns. Framhald stekkjargötunnar lá svo upp í hraunið nokkru norðar þar sem hún sameinaðist að lokum hinni fornu þjóðleið milli Álftaness og Reykjavíkur, Gálgahraunsstíg nyrðri, Fógetastíg eða Álftanesgötu. Sú gata lá á kafla meðfram Lambhústjörn og Arnarnesvogi. Þar í Hraunviki greindist annar stígur frá henni,
Móslóði og lá í suðvestur um dysjar-225Garðahraun og Flatahraun í Garðahverfi. Um hann var farið með hesta klyfjaða mó úr Hraunholtsmýri en þessi vegur var sá austasti þeirra sem lágu yfir Garðahraun. Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét leiðin yfir hitt mósvæðið sem náði milli Garða og Flatahrauns en var kirkjugata því hana fóru Hafnfirðingar þegar þeir ætluðu í Garðakirkju. Dysjabrú var þá lokakaflinn á leið þeirra, frá svo kölluðu Mónefi sem skagaði vestur úr hrauninu. Vegurinn yfir hraunið að nefinu hét hins vegar Gálgahraunsstígur syðri og náði alveg frá Hafnarfirði. Dysjabrú var þó ófær í miklum leysingum og varð þá frá Gatnamótum vestast við Garðaholtsenda að fara Kirkjustíg yfir holtið og að Görðum. Hann lá vestur frá Urriðakoti og Setbergi um Gatnamót þar sem göturnar mættust.

Garðar

Garðar – túnakort 1918.

Girt var milli túna einstakra jarða Garðahverfis og kringum það í heild. Varnargarður lá eftir sjávarkambinum að vestan og norður við Skógtjörn og Garðatúngarður skildi milli Garðatorfunnar og nytjalandsins austan megin. Mörk alls þessa svæðis náðu frá Balakletti við sjóinn suðaustan Dysja að Oddakotsósi á Hliðsnesi gegnt Skreflu og yfir Skógtjörn þvera, um Markatanga við Núpslækjarós, áfram um Lambhúsatjörn og austur í Eskines, þaðan lengst suður í Engidalsnef og svo aftur vestur í Balakletta. Innan þessara marka voru að fornu einnig jarðirnar Bali í suðurendanum og Selskarð milli Skógtjarnar og Lambhústjarnar. Þegar í máldögum 14. og 15. aldar kemur fram að Garðakirkja átti allt heimaland, Dysjar, Bakka, Hlíð, Hausastaði, Selskarð, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. Á 16. öld bættust við Nýibær og Pálshús, Vífilstaðir, Akurgerði og Hamarskot og ítök staðarins lágu miklu víðar. Í Örnefnaskrá segir: „Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaðar kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. […] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi.“.  Í Landamerkjaskrá frá 1890 eru tilgreind víðari „merki á landi Garðakirkju á Álptanesi, samkvæmt máldögum og fornum skjölum:
1. Í móti Oddakoti í miðjan ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarð í Oddakoti. […]
2. Úr ósnum norður í hóla hjá Skógtjörn, er þar hlaðin merkjavarða; þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólum hjá Núpsstíflum, þar er og hlaðin merkjavarða. […]
3. Útí miðja tjörn þá, sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns og í miðjan tjarnarósinn og í mírina Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum uppí Stóra Krók á sama læk og úr því keldudragi, fjallid eina-21sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina uppí Dýjakrók […] þaðan í midt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýri beina línu til austur landsuðurs í miðja Kjóavelli, þaðan beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan í austur landsuður uppí Hnífsós, þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Standartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil í Undirhlíðum), sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna, þaðan móts við Jófríðarstaðaland í norður vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðvesturs í vörðu  á Heiðarþúfum, þá sömu línu í norðuröxl á Mosahlíð, enn sömu línu í vörðu norðanhallt á Kvíholti, loks sömu línu miðt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu fremst á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn.
Þaðan land allt með Hafnarfirði norðaverðum vestur í ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti. […] Innan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar, þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Lan[g]moakot-21eyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir, sem allar hafa afmörkuð tún og rjett til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns, til allra leiguliða nota, en ekkert inskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar, með kálgörðum og túnblettum, og timburhús sömuleiðis.“ Innan merkjanna eru einnig Vífilstaðir, Setberg, Urriðakot, Hofsstaðir, Hagakot og Akurgerði.
Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928: „Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir: „Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“ Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“ Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó jarðbundnari: „Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
gardar-230Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for. Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu „byggingar staðarins […] á Bæjarhólnum austan kirkju […]  ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu“. Örnefnalýsing 1976 hefur þetta: „Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]“. Í grein frá árinu 1904 (bls. 34) segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn „þar sem Garðastaðarkirkja stóð“ kallaður „Kirkjuhóll“. Í Örnefnalýsingu 1976 segir hins vegar: „Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið.
Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.“ Núverandi kirkja var reist árið 1966 (Þ.J. og S.S.: 226).
gardastekkur-21Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: „Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðaholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.“ Árið 1918 voru „um 40 minnisvarðar“ í Garðakirkjugarði“.
Á Túnakorti 1918 sést hús úr torfi nokkru vestan Sjávargötugerðis, við Sjávargötuslóðann skammt frá sjónum og landamerkjum við Miðengi. Þetta gæti verið „verbúð frá Görðum“ sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Búðin, og „stóð ofanvert við vörina“, þ.e. Garðavör, „ofan við Garðasjó“. Kringum hana og aðallega ofan hennar var Búðarflötin og fyrir „framan hana var skiftivöllur“. Í Örnefnalýsingu segir: „Grasi gróinn hóll, sléttur að ofan, er á kampinum á milli Miðengis og Garða. Hér áður mun hafa verið sjóbúð á þessum hól, en þess sjást nú engin merki.“ Líklega er þetta hóllinn sem við Fornleifaskráningu 1984 er kallaður Garðabúð eða Búð og er suður „frá bænum í Miðengi, alveg niður við flæðarmálið“, túnið ofan við en sjórinn að framan. Núna er þarna áberandi grænn hóll. Lengd hans meðfram sjávarmálinu er 8,5-9 m og breiddin um 5 m. Í honum er  hleðslugrjót en lögun tóftarinnar sést ekki. Á a.m.k. einum stað utan í honum sér í mikið af skeljum.
gardastekkur-22Garðabúð var skv. Jarðabók og Manntali árið 1703 (bls.18) nýbyggð hjáleiga frá Görðum og tók í raun við af hjáleigunni Skemmu. Ábúendur voru hjónin Jón Þórðarson og Ingunn Ingimundardóttir, heimilismenn þrír talsins. Jarðardýrleiki var óviss en séra Ólafi Péturssyni greidd 40 álna landskuld með tveimur fiskavættum eða peningum upp á fiskatal. Leigukúgildi, venjulega eitt, var ekkert hjá Jóni þetta ár en hann átti kýr sem fóðraðist naumlega, ær með lambi, þrjá veturgamla sauði, tvo hesta og hross með fyli. Kvaðir allt árið voru mannslán sem leyst var með hálfum skipshlut af tveggja manna fari ábúanda og einn dagsláttur. Hætt var að heimta hrísshest sem áður hafði fylgt afgjaldi af Skemmu. Garðabúð hafði „grasnautn hina sömu“ og Skemma áður. Staðarhaldari lagði við til húsabótar en bóndi hafði móskurð í landi Garða. Garðabúð er ekki nefnd í síðari Manntölum og Jarðabókum.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands 2004, fornleifaskráing fyrir Garðahverfi 2003, bls. 24-60.

Garðar

Garðar.

Fosshellir

Gengið var um Lambagjá frá Kaldárseli með viðkomu í Níutíumetrahellir ofan við enda gjárinnar.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Síðan var haldið yfir í Vatnshelli, sem er við gömlu Selvogsgötuna þar sem hún liggur niður í Helgadal. Á leiðinni var gegnið fram á þrastarungakríli, sem fallið hafði úr hreiðri sínu, en móðirin fylgdist gaumgæfilega með öllu. Fornar tóftir í Helgadal voru bornar augum. Rauðshellir var skoðaður, en hans er getið í kirkjuannálum allt frá því á 17. öld, auk þess sem litið var inn í Hundraðmetrahellinn. Rauðshellir er stundum nefndir Pólverjahellir. Nafnið er tilkomið frá drengjum úr Pólunum í Reykjavík er voru við dvöl í Kaldárseli. Friðrik Friðriksson stofnaði knattspyrnufélagið Val þar sem þessir drengir voru aðaluppistaðan. Þá stofnaði hann ungmennafélagið Hvöt, sem hafði viðkomu í Hvatshelli í Þverhlíð.

Helgadalur

Helgadalur – Vatnshellir.

Þá var gengið í gegnum Fosshelli þar sem hinn fallegi flór var skoðaður, upp í Valaból og áð í Músarhelli. Maríustakkur vex þar utan við sem og einstaka holurt á stangli. Annars er svæðið orðið mjög vel gróið og trén hafa dafnað vel í sumar.
Haldið var upp á Valahnúka (201 m.y.s.), heilsað upp á tröllinn og og hrafninn, sem á sér laup í austanverðum vestasta hnúknum. Hann sést vel þar sem gengið er yfir í Valabók um hálsinn frá Helgafelli. Frá tröllunum var gengið yfir malarslétt helluhraunið niður í Gvendarselsgíga, upp á Kaldárbotna syðri og með vatnsverndargirðingunni niður að Kaldá.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Hausastaðaskóli

Gengið var um Langeyri og Malir, skoðaðir gamlir fiskreitir og síðan haldið út með ströndinni með Bala, Dysjum og Görðum. Gengin var Lindargata að Garðalind og síðan út á Hliðsnes og að Hausastaðaskóla.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Langeyri var upphaflega tómt hús í landi Garðakirkju sem stóð autt árið 1703 vegna aflabrests. Þegar fríhöndlunin gekk í garð 1787 lögðu danskir lausakaupmenn Langeyri undir sig og reistu sér íbúðarhús og vöruskemmur. Örnefnið Rauðhúsnef er frá þeim tíma er rauðlituð dönsk hús stóðu við tangann er kallast í dag Rauðsnef. Þar var í eina tíð hvalstöð sem lagðist niður þegar alvarlegt slys varð í stöðinni. Núverandi Langeyrarbær var byggður árið 1904 og telst vera dæmigerður hafnfirskur hraunbær af stærri gerðinni.

Fagrihvammur

Fagrihvammur.

Nokkru vestar eru fleiri gömul hús Eyrarhraun, Fagrihvammur og steinbærinn Brúsastaðir. Utar taka við Brúsastaðamalir eða Litlu-Langeyrarmalir og Skereyrarmalir. Hér voru fyrirtaks malir fyrir smábáta sem þurftu ekki að fara djúpt til að afla vel.
Finna mátti samskonar malarkamba inn eftir öllum Hafnarfirði í aldarbyrjun. Langeyrarmalir voru lengstar malanna og hér reisti August Flygenring fiskvinnsluhús 1904. Malirnar voru mikið athafnasvæði og var saltfiskur breiddur til þurrkunar á góðviðrisdögum á fiskreitum í hrauninu sem enn sést móta fyrir, t.d. utan við beygjuna neðan við Eyrarhraun.

Allians

AllianZ-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Fiskverkunarhúsin voru rifin á níunda tug 20. aldar. Líklegt er að þessir fiskreitir verði eyðilagðir innan skamms vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda á svæðinu. Allians-reiturinn, sem var þarna skammt ofar, var t.d. rifinn uppá einum degi þegar síðast var byggt við Hrafnistu. Í rauninni virðist það hafa verið óþarfa eyðilegging ef tekið er mið af byggingunni, sem reist var á svæðinu. Í rauninni hefði verið táknrænt að vernda þennan gamla fiskreit svo til við gaflinn á þessu dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954. Fiskreitir víða.

Þegar saltfiskverkun var sem mest í bænum á fyrrri hluta 20. aldar var fjöldi fiskreita og stakkstæða um allan bæ þar sem fiskurinn var breiddur og þurrkaður. Það er enn hægt að skoða fagurlega hlaðna fiskreiti á nokkrum stöðum í bænum þó mjög hafi verið þrengt að þeim. Alliansreitur (stundum nefndur Allanzreitur) er sunnan Hrafnistu. Hann er kenndur við Allen Major, framkvæmdastjóra hinna ensku Hellyers bræðra sem stunduðu útgerð frá Hafnarfirði 1924 – 1929. Annar þekktur fiskreitur var Einarsreitur, sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður og kaupmaður lét útbúa, er á svæðinu milli Arnarhrauns, Smyrlahrauns, Álfaskeiðs og Reykjavíkurvegar.

Einarsreitur

Einarsreitur.

Byggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð og er talið að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og bjó á Skúlastöðum. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Minnismerki stendur nú þar sem Hausastaðaskóli var. Enn má sjá tóftir hans. Skólinn var annar fyrstu skóla á Íslandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-17 ára. Skólinn starfaði á árunum 1792-1812. Skólinn var stofnaður handa fátækum börnum sem fengu ekki tækifæri til að læra. Það voru bæði strákar og stelpur í skólanum sem þótti merkilegt því stelpur gengu ekki í skóla þá. Fyrst í stað voru 6 stelpur og 6 strákar en þeim fjölgaði fljótlega. Eftir 1804 fækkaði þeim aftur. Markmið Hausastaðaskóla var ekki bara að lesa, skrifa og reikna, heldur líka að ala upp fátæk börn. Minnisvarði um Hausastaðaskóla var reistur árið 1979.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá meira um Hausastaðaskóla HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.gardabaer.is/default.asp?cat_id=69
-http://www2.hafnarfj.is/hafnarfj.nsf/pages/merkir_stadir
-Jón Skálholtsrektir – minning um Jón Þorkelsson Thorkillius, Rvík 1959.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli.

Járnbrautarvegur

Á vefsíðu Hraunavina má lesa eftirfarandi um „Veginn sem aldrei varð„:

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Garðahrauni / Hafnarfjarðarhrauni.

„Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðuvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni. Þessar hleðslur vitna um vegasögu 0kkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrir hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.

Járnbraut

Járnbrautavegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti í lok nóvember 1917 að taka lán til að vinna grjót í námunum í Öskjuhlíð til margvíslegra nota. Fyrsta lánið var veitt í nóvemberlok en í ársbyrjun 1918 var lánum úthlutað til sveitastjórna víðar á landinu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengu sameiginlega 65.000 kr. til að leggja nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Að auki var 25.000 kr. lán veitt til kaupa á mulningsvélum og mótor til að brjóta niður stórgrýti.

Járnbraut

Járnbraut.

Nýskipaður landsverkfræðingur Geir G. Zoega sem tók við af Jóni Þorlákssyni í febrúar 1917 kynnti sér hvar best væri að leggja veginn og mældi út fyrir honum. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn átti að sveigja út af Suðurlandsveginum í Sogamýri, skammt frá Elliðavogi og liggja líkt og Breiðholtsbrautin er nú, vestan Blesugrófar upp að austurenda Digraneshálsins, skammt austan við bæinn Digranes. Þar átti hann að fylgja gömlum götum að Kópavogslæk á móts við Fífuhvamm.

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll framundan.

Síðan átti hann að liggja um mýrina að Nónskarði syðst í Arnarneshálsi á milli Nónhæðar og Hnoðraholts nánast á milli núverandi Búða- og Byggðahverfa í Garðabæ, ekki langt frá Karlabraut. Vegurinn átti þessu næst að fara yfir Arnarsneslæk og um Dýjakróka sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði kallaði Kringlumýri. Þaðan var honum ætlað að fara um Bjarnarkrika í suðvesturhorni Vetrarmýrar undir Hofstaðaholti sunnanverðu að Vífilsstaðalæk. Handan hans var vegurinn lagður suðaustan við Miðaftanshól í stefnu á melinn norðan Setbergshamars. Þar átti hann að liggja yfir Kaplakrikalæk í áttina að Sjávarhrauni framhjá þeim stað þar sem Sólvangur er nú og þaðan niður á Hörðuvelli. Þar átti vegurinn að tengjast Lækjargötu en síðan var ætlunin að leggja veg um Almenning á milli Móhálsa og suður með ströndinni um Selvog í Árnessýslu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.

Vinna Hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun. Sigurgeir Gíslason vegavinnuverkstjóri stjórnaði veglagningunni yfir hraunið í áttina til Hafnarfjarðar, en vinnuflokkur sem Jón Einarsson stjórnaði hélt í austurátt og hófst handa á þeim stað þar sem Reykvíkingarnir ætluðu að enda á mörkum Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Báðir verkstjórarnir sem komu að málum Hafnarfjarðarmegin voru vanir vegavinnu, hvort heldur var í nágrenni Hafnarfjarðar eða úti á landi. Sigurgeir hafði stjórnað vinnu við flesta vegi í Hafnarfirði og næsta nágrenni, þ.á.m. þegar Hafnarfjarðarvegurinn var gerður vagnfær sumrin 1887 og 1888 og þegar Suðurnesjavegurinn (Keflavíkurvegurinn) var lagður 1900-1905. Þeir menn sem hann valdi í vinnuflokk sinn kunnu flestir til verka og voru vanir að hlaða grjótbrýr yfir hraungjótur og brjóta niður hraunkletta. Hann réð einnig unga og hrausta pilta til að bera grjótið og mulning á handbörum svo að hleðslumennirnir hefðu ætíð nægan efnivið til að moða úr.

Hafnarfjörður

Vinnuflokkur Sigurgeirs við Norðurbraut í Hafnarfirði.

Verkstjórarnir fengu 1 krónu á tímann í laun, en þeir sem voru næstir þeim fengu 90 aura á tímann. Venjulegir verkamenn voru með 75 aura á tímann.
Kaupið var sæmilegt en vinnan var mjög slítandi og tók verulega á, sérstaklega í þessum mikla kulda. Það sem mestu máli skipti var að þetta var örugg vinna á meðan fjármagnið entist. Þar sem vinnustaðurinn var lengst uppi í hrauni langt frá allri mannabyggð varð mannskapurinn að vera vel mettur þegar lagt var af stað snemma að morgni. Vinnuflokkurinn hittist fyrir framan hús Jóns Einarssonar að Strandgötu 19 í bítið og síðan þræddi hópurinn sig eftir hraunstígum sem verkstjórarnir gjörþekktu upp eftir hrauninu að Miðdegishólnum.

Járnbraut

Járnbrautarvegur – skjól verkamanna.

Unnið var án áfláts til klukkan tólf en þá var gert hálftíma matarhlé. Vinnan hófst aftur að því loknu og stóð til klukkan fimm síðdegis. Þegar aðeins var liðið á verkefnið var Sveinn Sigurðsson járnsmiður ráðinn til að skerpa og herða áhöld eins og járnkarla og fleyga. Hann flutti með sér einfalda smiðju til að sinna þessum starfa og var hún fyrst í stað undir berum himni. Ekki leið á löngu áður en vinnuskúr var fluttur upp í hraunið svo að Sveinn gæti sinnt sínu starfi í sæmilegu skjóli, þar sem það gat gustað hressilega og slyddað eða jafnvel snjóað enda var allra veðra von svo snemma árs. Þar kom að annað skýli flutt upp í hraunið og þar gátu vinnuflokkarnir matast til skiptis, en skúrinn var ekki stærri en svo að aðeins annar hópurinn komst þar fyrir í senn.

Miðaftansvarða

Miðaftansvarða / Miðdegisvarða.

Vinnuflokkur Jóns Einarssonar náði að Miðaftanshól áður en verkinu var lokið og tók þá til við að aðstoða Sigurgeir og hans menn við vinnuna í hrauninu sem var erfiðari og seinfarnari en vinnan á holtunum og í mýrunum. Þegar fjármagnið var uppurið var þessari vinnu hætt og vegurinn var eins og sérkennileg lína fjarri allri mannabyggð og umferð, þar sem honum var aldrei lokið.

Er glæðast fór aftur um atvinnu gleymdist þetta verkefni og þegar í ljós kom að íslenska þjóðin hafði misst af járnbrautaröldinni féll þetta merka verkefni í gleymsku. Sáralítið er eftir af veginum, eingöngu sá hluti sem er sitthvoru megin við Miðaftanshól. Öðrum hlutum hans hefur því miður verið spillt svo gjörsamlega að það er engu líkara en þessi vegaframkvæmd hafi aldrei átt sér stað.

Miðaftansvarða

Ártal á Miðaftansvörðu. Ártalið er frá því að bæjarverkfræðingur Hafnarfjarða, Björn Árnason, lét steypa með landamerkjavörðunni.

Þegar farið var að moka burt hrauninu þar sem nú er iðnaðarhverfið í Molduhrauni hafði enginn rænu á að vernda þennan vegaspotta, þrátt fyrir að Ómar Ragnarsson hefði farið þarna um í einum af Stiklu þáttum sínum. Nú eru aðeins fáein ár þar til það litla sem eftir er af veginum verður 100 ára og þá njóta minjarnar sjálfkrafa verndar samkvæmt fornminjalögum. Það breytir ekki því að þessi merki kafli í vegasögu okkar verður áfram í hættu þar sem sveitastjórnir hér á landi eru þekktar fyrir allt annað en fara eftir lögum um fornminjar, náttúrvernd, hvað þá um hverfisvernd sem þær setja sjálfar.“ – (JG tók saman)

Heimildir:
-https://www.hraunavinir.net/vegurinn-sem-aldrei-var%C3%B0/
-Blaðagreinar frá 1898-1918.
-Frásögn Gísla Sigurðsson.

Atvinnubótavegur

Skilti við Atvinnubótaveginn.

Búrfellsgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt: „Hvaðan kemur hraunið sem liggur yfir Hafnarfirði og að hluta til Garðabæ, og kom það allt úr sama gosi?“
Svarið var:

Búrfell

Búrfell.

„Fyrir um 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir sunnan Hafnarfjörð og þaðan runnu í því gosi hraunin sem sýnd eru á meðfylgjandi korti. Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en eins og sést á kortinu bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973), en síðan hafa ýmsir fjallað um það, nú síðast Árni Hjartarson 2009, og úr grein hans er kortið. Þar er Búrfell í suðausturhorninu, og frá því sýndir fjórir hraunstraumar sem Árni telur hafa runnið í gosinu í eftirfarandi aldursröð: •Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Kapelluhraun) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Áætlaðar útlínur þessa hrauntaums eru sýndar með tökkuðum línum á kortinu.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

•Næst rann taumurinn sem merktur er Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði.
•Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun).
•Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli.
Á kortinu eru taumarnir fjórir sýndir með misdökkum bleikum lit, Selhraun hið elsta dekkst en yngsti skækillinn ljósastur.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Samkvæmt aldursgreiningunni rann Búrfellshraun snemma á nútíma (eftir að ísöld lauk), en háan aldur styður það einnig hve haggað hraunið er, skorið misgengjum.“

Heimildir og kort:
-Árni Hjartarson (2009). Búrfellshraun og Maríuhellar. Náttúrufræðingurinn 77 (3-4), bls. 93-100.
-Guðmundur Kjartansson (1954). Hraunin kring um Hafnarfjörð. Þjóðviljinn, jólablað, bls. 10-12.
-Guðmundur Kjartansson (1973). Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42, bls. 159-183.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Helgadalur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1908 skrifar Brynjúlfur Jónsson m.a. um Skúlatún og tóftir í Helgadal undir fyrirsögninni „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907„:

Skúlatún
skulatun-221Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Skúlastaðatún; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið. Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þenna stað, og fór eg þangað í sumar.

Skúlatún

Skúlatún og Skúlatúnshraun. Helgafell fjær.

Landslagi er svo háttað, að hraunfláki mikill fyllir víðlenda dæld sunnan frá Lönguhlíð norður að ásahrygg þeim, er gengur frá Námahálsinum vestan við Kleyfarvatn (inn frá Krýsuvík) alt inn á milli Kaldársels og Helgafells. Allur er hraunflákinn sléttur ofan, vaxinn grámosa og eigi gamallegur útlits. Hann er hallalítill, og mun dældin, sem hann hefir fylt, hafa verið nokkuð djup með mishæðóttu láglendi, sem nú er ekki hægt að gera sér ákveðna hugmynd um. Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einkennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti eg trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleifum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannaverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin.

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmegin þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvestan-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upprunalega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðast hvar vex töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var i þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum. Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér heflr verið bær og tún. Og þá virðist nafnið »Skúlatún«, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.

Helgadalur
helgadalur-221Helgadalur er skamt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhóll norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér að eins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Eg dró upp mynd af rústinni.
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafl verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nu eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.- fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskamt þaðan til Hafnarfjarðar.“

Garðaflatir
gardaflatir-223Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður 
nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma”.
Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.
Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenka forleifafélags, 23. árg. 1908, bls. 9-11.
-Gráskinna hin meiri.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal (lengst til hægri).

Vífilsstaðasel

Í ritinu Heima er best árið 2012 ritar Þorkell Jóhannesson, „Þankabrot um Vífilsstaðasel, sel og selbúskapur á Íslandi„. Þar segir hann m.a.:

Vifilsstadasel-302

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Örugglega má telja, að landnámsmenn hafi í árdaga flutt með sér þekkingu á seljum og selbúskap til nýrra heimkynna á Íslandi og þá væntanlega mest frá vestanverðum Noregi. Um þetta vitna frásagnir í gömlum lögum, elstu máldögum kirkna, Landnámsbók og Íslendingasögum svo sem Njáls sögu og Grettis sögu. Veigamesta heimild um sel og selbúskap á fyrri tíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá byrjun 18. aldar. Fyllstu upplýsingar um sel og selbúskap á Íslandi er hins vegar að finna í viðamikilli úttekt eftir þýskan mann, Egon Hitzler, sem birtist árið 1979. Frekari rannsókn á seljum og selbúskap er þó án efa þörf.
Vífilsstaðasel í landi Vífilsstaða í Garðabæ (áður Garðahreppi í Gullbringusýslu) hefur verið allstórt sel. Rúst þess er og stæðilegri en rústir margra annarra selja í Gullbringu- og Kjósarsýslu, en einmitt á því svæði voru  mörg sel. Það vekur því athygli, að Vífilsstaðasel er í námunda við þekkta gönguleið og reiðleið eftir línuvegi meðfran háspennulínum til Straumsvíkur og þar er stundum áð. Meðan annars af þeim sökum er freistandi að gera Vífilsstaðaseli í nokkur sérstök skil.
Vifilsstadasel-303Nýlega hefur verið gerð úttekt á rúst Vífilsstaðasels af hálfu Minjasafns Reykjavíkur. Er stuðst við þau gögn hér á eftir, þegar fjallað er um selsrústina. Þá er stuðst við örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar og Svans Pálssonar og leiðalýsingu um svæðið. Rent er að huga að legu selgötunnar til heimabæjar svo og að sérstakri rúst í næsta nágrnni viðs elið. Með stoð í Íslenskum þjóðháttum Jónasar Jónasonar frá Hrafnagili, frásögnum frá tveimur meðal síðstu seljanna, sem starfrækt voru hér á landi, og öðrum heimildum er fjallað um búskap í seljum, en hann snerist umfram allt um mjaltir og mjólkurvinnslu. Í því efni var enn fremur leitað fanga í þremur heimildaritum frá fyrri tíð. Þá eru hugleiðingar um langt hnignunuarskeið selsbúskaparins á Íslandi og lok hans. Í lokaorðum er reynt að meta hve lengi Vífilsstaðasel hafi verið notað og vísbendingar um brunn við selið og álykta enn frekar um efnið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – stekkur.

Vífilsstaðasel er einn af mörgum stöðum í nágrenni þéttbýlis Stór-Reykjavíkur, sem minnir á horna búskaparhætti í seljum. Mörg þessara selja hafa verið utan heimajarðar og seljavegir því oft verið langir eða fremur langir. Vífilsstaðasel var dæmigert heimasel og því ekki óhæfilega langt til heimahúsa eða veturhúsa og stundum var nefnt.
Að vestan og norðan takmarkast hvilft af Selási og Selholti austan og sunnan Vífilsstaðasels.

Vifilsstadasel-305

Við mastur nr. 29 í syðri háspennulínunni, sem ekki er fjarri hábrún Vífilsstaðahlíðar að austan, opnast til suðurs víður, grasigróinn hvammur, sem nefna má Selhvamm. Selás er á austurbrún hvammsins og Selholt lokar honum til suðurs og afmarka hvamminn frá suðurhvilftinni með Grunnavatni syðra. Vestanvert hvamminum er Selhóll og framan í honum allmikill grágrýtishamar, sem nefndur hefur verið Selhamar. Gísli Sigurðsson nefnir í örnefnalýsingu sinni Selkvíar við Selhólinn. Ekki hefur það verið rannsakað til hlítar, hvort þar leynist rúst af kvíum. Þða hlýtur að teljast líklegt.
Suðaustanhallt í hvamminum undir Selásunum eru greinilegar rústir Vífilsstaðasels. Sjáanlegar eru rústir þriggja húsa, sem liggja nokkurn veginn frá norðvestri til suðausturs…
Í lýsingu Garðaprestakalls frá 1842 segir síra Árni Helgason (1777-1869), sem var prestur í Görðum á Álftanesi 1825-1858, að síðast hafi verið haft í seli í G
örðum 1832, en selbúskapurinn hafi yfirleitt lagst af í hreppnum á árunum 1780-1790. Heimildum síra Árna og Egon Hitzler ber því ekki fyllilega saman og verður nú ekki skorið úr því hvort þeirra hefur rétt fyrir sér.“

Þess má geta að í framangreindi athugun á selsrústunum yfirsést Þorkeli t.d. stekkur ofan við Vífilsstaðasel, fyrrnefnda kvíin í Selkvíum, tvær eldri selsamstæður sunnan meginselsins sem og stekkur suðvestan þeirra.

Heimild:
-Þorkell Jóhannesson, „Þankabrot um Vífilsstaðasel, sel og selbúskapur á Íslandi“ – Heima er bezt, 1. tbl. 62. árg. 2012, bls. 29-39.

Vifilsstadasel-301

Vífilsstaðasel – tilgáta ÓSÁ.

Garðar

Gísli Sigurðsson skrifar um „Garða á Álftanesi“ í Alþýðublað Hafnarfjarðar 1972:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

„Lengi hefur það verið rnér undrunarefni, hve fáskrúðugar eru sagnir úr landnámi Ingólfs Arnarsonar hér við Faxaflóa. Segja þó bækur, að Ingólfur hafi verið frægastur allra landnámsmanna. Verður og ekki annað sagt um þá frændur, en þeir hafi frægir orðið: Þorsteinn sonur hans stofnar fyrstur til þinghalds og hurfu margir að því ráði með honum, Þorkell máni sonur Þorsteins var lögsögumaður og um hann hafa myndast næstum því helgisögur, og niðjar þeirra í karllegg voru allsherjargoðar og helguðu alþing á hverju ári. Séu nú sagnirnar héðan úr umhverfinu athugaðar, sjáum við, að mikið tóm blasir við okkur.
Hrafna-Flóki og þeir félagar koma við hér í Hafnarfirði, þegar þeir halda brott eftir misheppnaða tilraun til landnáms.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Þá kemur Ingólfur Arnarson og nemur hér land og setur bústað sinn í Reykjavík. Gaf hann síðan land frændum sínum og vinum, er síðar komu. Um landnám næsta nágranna segir Landnámabók: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. — Líklega hefur Ásbjörn komið hingað á árunum 890 til 900, en þá var hingað mest sigling.
Síðan líða um 300 ár, að því nær ekki er minnzt á þetta landssvæði. Þá segir svo í kirknatali Páls biskups, en það er tekið saman nálægt 1200: Þá er Hafnarfjörður og þá er Álftanes. Kirkja í Görðum og á Bessastöðum.

Garðar

Garðar og nágrenni.

Viðfangsefni mitt nú er að ræða lítilsháttar um annan þessara staða; Garða á Álftanesi.
Áður en lengra er haldið, skulum við staldra við frásögn Landnámuum Ásbjörn Össurarson. Landnám hans nær milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, það er yfir Álftaneshrepp hinn forna, það svæði, sem nú skiptist í Álftaneshrepp, Garðakauptún, Hafnarfjörð og Hraunin.
Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, er sagt. En hvar voru Skúlastaðir? Af þeim fáu nöfnum, sem kunnug eru héðan úr nágrenninu frá fornri tíð, eru nokkur, sem enginn veit nú hvar eiga við. En það verður að teljast með einsdæmum, að nafnið á bústað landnámsmanns sé glatað.

Garðar

Garðar árið 1900.

En eru, þá nokkur líkindi til, að þann stað megi finna, sem Ásbjörn bjó á, Skúlastaði? Nokkuð sérstætt er nafnið. En það kemur á óvænt, því að hvergi verður Skúla-nafnið fundið meðal frænda Ingólfs eða afkomenda þeirra. Engum blöðum er um það að fletta, að býlið hefur verið einhvers staðar á svæðinu milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns.

Garðar

Garðar. Nýibær framar.

Nokkuð öruggt er, að bústaðir landnámsmanna verða er fram líða stundir höfðingjasetur og flestir kirkjustaðir. Til þess að verða höfðingjasetur og kirkjustaður þurfti jörðin að vera allstór, ekki minni en 40 hundruð, segja mér fróðir menn. Hvar er þá þessa lands, þessa stóra staðar að leita hér í umhverfi okkar? Sunnan fjarðar er slíkan stað varla að finna. Ofanbæirnir koma naumast til greina, og þótt búsældarlegt hafi oft verið um Álftanes sjálft, þá stöldrum við varla við þar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Til dæmis eru Bessastaðir ekki nema 8 hundruð að fornu mati. Þá er ekki nema einn staður, sem nefna mætti stóran stað og þar sem síðar verður kirkjustaður með höfuðkirkju. Staður sá, sem mér finnst líklegastur til að hafa verið Skúlastaður og bústaður Ásbjarnar, er því Garðastaður. Héðan er fagurt að sjá til allra átta. Hér er gróðursæld og hér er gjöfull sjór fram undan. Í upphafi kristniboðs á Íslandi var þeim höfðingjum, er kirkjur reistu, lofað, að þeir skyldu hafa svo mikil mannaforráð á himnum sem menn rúmuðust í kirkju þeirra. Varð því margur höfðinginn til þess að reisa kirkju á bæ sínum. Til þess að reisa slík hús sem kirkjur voru þurfti og nokkur efni. Þá þurfti kirkjueigandinn að halda prest, en slíkir prestar voru oft eins konar vinnumenn höfðingja.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

En hafi nú nafnið Skúlastaðir horfið fyrir nafninu Garðar, hver var þá orsökin? Fróðir menn segja mér, að margt bendi til, að allmikil akuryrkja hafi verið stunduð hér um slóðir, um allt Álftanes, allt fram undir siðaskiptin um miðja 16. öld. Benda þar til nokkur örnefni, svo sem Akurgerði í Hafnarfirði, Akrar við Breiðabólstaði og Akurgerði þar í túni, Tröð, sem er bær á nesinu, og Sviðholt, en því er það nafn, að jörð var þar brennd eða sviðin undan sáningu. Þá er hér einnig víða að finna örnefni eins og Gerði og Garða. Þannig voru akrar varðir til forna, að kringum þá voru hlaðnir garðar, bæði til skjóls og til varnar ágangi fénaðar. Geta má þess til, að Ásbjörn og afkomendur hans hafi látið gera akra og haft akuryrkju ekki litla, garðar miklir hafi verið hlaðnir, og þannig hafi Skúlastaðanafnið grafizt undir görðum og hafi þá orðið til Garðar á Álftanesi. Og staðreynd er, að hér var um aldir stór staður og prestssetur.
Næst eftir að getið er um Garða i kirknatali Páls biskups, er þeirra minnzt í Sturlungu, þar sem segir, að 1264 hafi Gissur jarl riðið á Kjalarnes og gist að Einars bónda Ormssonar í Görðum. Var honum þar vel tekið og var hann þar nokkrar nætur.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Leitukvennabásar.

Þá er þess getið næst, að þrír menn í Grindavík bera vitni um reka Garðastaðar 1307: Garðastaður á reka bæði rekaviðar og hvalreka á fjörum austan við Ísólfsskála milli Rangjögurs og í Leitukvennabása. Þegar þetta gerðist, er hér þjónandi prestur séra Jón Þórðarson, en herra Haukur hafði þá sýslu.

Garðakirkja

Garðakirkja 1925.

Enn líður nokkur tími eða fram undir aldamótin 1400. Þá tekur nokkuð að rofa til. 1395 lætur Vilchin biskup í Skálholti gera máldaga flestra kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi. Ég held að segja megi, að þá sé staðurinn i Görðum og kirkjan nokkuð vel sett að andlegum hlutum og veraldlegum.

Garðar

Garðakirkja 2022.

Er ekki úr vegi að taka hér upp þetta ágæta plagg, máldaga Garðakirkju. „Péturskirkja í Görðum á Álftanesi á heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland, afrétt í Múlatúni. 18 kýr, 30 ásauða, 7 naut tvævetur, 6 naut veturgömul, 2 arðuryxn. 6 hross roskin, 16 hundruð í metfé. 10 sáld niður færð. 6 manna messuklæði, utan einn corporale brestur, og að auki 2 höklar lausir, annar með skínandi klæði, en annar með hvítt fustan. 3 kantarakápur, 2 altarisdúkar búnir. 6 altarisklæði og eitt skínandi af þeim. 2 dúkar stangaðir. 2 fordúkar. Skrínklæði lítið. 3 sloppar. Smelltan kross og annan steindan fornan. Koparskrín gyllt. Huslker af silfri. Gylltan kross lítinn. Paxspjald steint. Brík yfir altari. Kertastikur 3 úr kopar. Járnstikur 2. Bakstursjárn vont. Item sæmiiegt Ampli. Klukkur 5. Kaleikar 3, 2 lestir og hinn þriðji forgylltur. Maríuskrift. Pétursskrift. Merki eitt. Sakrarium mundlaug. 1 stóll. 2 pallkoddar. Fornt klæði og skírnarsár. Tjöld vond um kór og dúklaus. 2 reflar vondir um framkjrkju. Glóðarker. Graduale per anni circulum. Lesbækur út 12 mánuði þar til pistlar og guðspjöll, per anni circulum með collectario. Liber Evangeliorum. Omilie Gregorii Actis Apostolorum. Apocalipsis. Passionarius Apostolorum et eliorum santcorum. Altarisbók, Psaltari. Söngbók de tempore frá páskum til adventu. Forn sequentiubók. Messufatakista ólæst. Eins og vænta mátti er hér um eitt bezta heimildargagn að ræða“.

Garðar

Garðar fyrrum.

Hér er í fyrsta skipti getið þeirra býla, er heyra staðnum til: Hausastaðir, Selskarð, Hlið, Bakki, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og upprekstur í Múlatún. Til skýringar á Hjallalandi vil ég geta þess, að hér mun átt við svæði sunnan Grunnuvatna milli Sneiðinga innst á Vífilstaðahlíð og landamerkja Vatnsenda, skammt vestan til við fjárborgina góðu, Vatnsendaborg.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Þá er vert að veita því athygli, að getið er um 2 arðuryxn gömul. Arðuryxn geta ekki verið annað en yxn, sem draga arð, plóg við akuryrkju. 10 sáld niður færð! Getur hér varla verið um annað að ræða en að sáð hafi verið korni úr 10 sáldum. Hér hefur þá verið nokkur akuryrkja á staðnum.
Og hvað um kirkjubúnaðinn? Er hann ekki sæmilegur? Myndum við ekki verða hýrir á svip, ef fyrir framan okkur lægju gripir þessir. En látum okkur nægja að sjá þá aðeins með innri sjónum.
Frá árinu 1477 er til ágrip af máldaga. Ber honum það sem hann nær algerlega saman við Wilchinsmáldaga. Þó er kirkjan orðin einu messuklæði fátækari.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Næst verður fyrir okkur fróðlegt bréf frá 1558 um viðskipti staðarins við hans Majestet konunginn og umboðsmann hans. Er það all-fróðlegt: Eg Knut Stensen, kongleg Majestetz Byfalingsmaður yfir allt Ísland, kennist með þessu mínu bréfi, að ég hef gjört svoddan jarðaskipti upp á konglig Majestetz vegna við síra Loft Narfason, kirkjunnar vegna í Görðum á Kongsnesi, að ég hef undir kongsins eign til Bessastaða tekið jörðina Hlið er liggur á Kóngsnesi, er þar í landskyld í málnytukúgildi og ein mjöltunna.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gamli bærinn.

En þar hefur hann fengið til kirkjunnar í Görðum Viðeyjarklaustursjörð, er heitir Vífilsstaðir í Bessastaðasókn. Tekst þar af landskylda og málnytukúgildi. Og fyrir mismun landskyldanna hefi ég lofað og tilskikkað fyrrnefndum síra Lofti eður Garðakirkju umboðsmanni eina tunnu mjöls á Bessastöðum, að hún takist þar árlega af kóngsins mjöli.
Skal það fylgja hvorri jörð, sem fylgt hefur að fornu og nýju. Skulu þessi jarðaskipti óbryggðanlega standa og vera hér á báðar síður, utan konglig Majestet þar öðruvísi umskipti á gjörir eða skykkan. Samþykkti þessi jarðaskipti herra Gísli Jónsson Superindentent yfir Skálholts stikti. Og til staðfestu og auðsýningar hér um, að svo í sannleika er sem hér fyrir skrifað stendur, þrykki ég mitt signet á þetta jarðaskiptabréf. Skrifað á Bessastöðum 4. dag júlí-mánaðar, Anno Domini 1558. Þá kemur neðan máls ekki ófróðleg klausa um viðskipti við Konglega Majestet og hans Byfalingsmenn. Þessa mjöltunnu hafa prestar í Görðum misst síðan í tíð höfuðsmanns Einvold Krus af óvild, inn féll milli hans og síra Jóns Krákssonar í Görðum.

Steinhes

Steinhes.

Að þetta ofanritað sé rigtug og orðrétt Copia eftir originalnum og höfuðsmannsins bréf vottum vér sem saman lásum og originalinn sjálfan með undirsettu innsigli höfuðsmannsins Knutz Steinssonar sáum og yfirskoðuðum að Görðum á Kóngsnesi 19. júní anno 1675.

Garðabær

Garðabær – mörk.

Það næsta, sem fyrir okkur verður varðandi Garðakirkju og Garðastað, er að finna í Visitasíubók hans herradóms Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 19. sept. 1661 og fjallar um lögfesti á landamerkjum Garðastaðar: Landamerki Garðastaðar eftir lögfesti síra Þorkels eru þessi: Syðri Hraunbrún hjá Norðurhellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri í miðjan Kethelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi, svo beint úr Steinhesinu og upp í Syðri-Kaldárbotna og allt Helgafell og í Strandartorfur og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól og úr Hnífhól og heim í Arnarbæli. Datum Bessastöðum 1661 Jónsmessudag sjálfan.

Jón Halldórsson og Jón Jónsson

Item lagði nú síra Þorkell Arngrímsson fram vitnisburðarbréf síra Einars Ólafssonar og Egils Ólafssonar og Egils Einarssonar með þeirra áþrykktum innsiglum, datum Snorrastöðum í Laugardal næstan eftir Maríu-messu á jólaföstu anno 1579, að Garðastaður ætti land að læknum fyrir sunnan Setberg, sem er sá lækur sem rennur milli Stekkatúns og Setbergs og allt land að þeim læk, er menn kalla Kaplalæk.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Og það Stekkatún, sem er sunnan við greindan læk, byggði síra Einar ætíð með Hamarskoti, og með sama hætti þeir sem enn fyrr bjuggu í Görðum en hann, og aldrei heyrði hann þar orðtak á að Setberg ætti nokkurt ítak í Hamarskotslandi eður neinstaðar í Garðalandi.
Þessu næst koma svo útdrættir gerðir af síra Árna Helgasyni.

Um Garðastað

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Kirkjan á einnig Hjallaland og afrétt í Múlatúni, bæði eftir vísitazíu og máldögum. Plagg þetta er frá 25.8.1780. Þá er vitnað til bréfs undirskrifaðs 1701, og er svo hljóðandi: Nú koma nokkrar afskriftir af máldögum Garðakirkju og þar á meðal eitt er kallast: Nýtt Registur 1583. Svo hljóðandi: Kirkjan í Görðum á Álftanesi á 20 kúgildi, einn hest. Þessar jarðir: Ás, Setberg, Vífilsstaði, Dysjar, Nýjabæ, Selskarð, Akurgerði, Hlið, Hamarskot, Bakka, Hausastaði, Pálshús, Oddshús, Hraunsholt.

Ás

Ás – gamli bærinn.

Hvernig Ás og Setberg er undan gengið veit ég ekki, né heldur hvar Oddshús hafa verið. Síðan koma skriftir um skóga og skógaítök og svo undirskriftir. Það fer eins fyrir mér og séra Árna. Ekkert veit ég um Ás utan það, að 1703 á konungur hluta jarðarinnar. En það held ég að ég viti um Setberg, að það sé ein sú jörð, sem slapp í gegnum netið, að hvorki lenti í eigu nokkurrar kirkju né í eigu Viðeyjarklausturs. Hún var alltaf bændaeign. Oddshús tel ég aftur á móti að hafi verið þar sem síðar var Oddakot. Oddakot var austast á eyju þeirri, sem nefnzt hefur Hliðsnes. Má þar enn sjá marka fyrir rústum kotsins. Til skamms tíma lifði hér í Hafnarfirði fólk, sem borið var og barnfætt Í Oddakoti.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Eftir að Árni biskup Helgason gerir á margvíslegan hátt hreint fyrir sínum dyrum og kirkjunnar í Görðum með upprifjunum og afskriftum af bréfum og máldögum staðarins, er hljótt um stund, eða allt þar til hingað kemur sá mæti klerkur Þórarinn Böðvarsson.

Akurgerði

Akurgerði fyrrum.

Hann hafði ekki lengi setið staðinn, er hann hóf að grannskoða, hvernig háttað væri um eignir Garðastaðar. 1871 fær hann settan rétt til að rannsaka, hve mikið land tilheyrði verzlunarlóðinni, lóð Akurgerðis, sem upphaflega var hjáleiga frá Görðum. En 1677 höfðu farið fram með vilja konungs makaskipti á hjáleigunni og jörð vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Bjarni riddari Sivertsen hafði keypt jörðina af konungi, en Knudtzon stórkaupmaður keypti af dánarbúi Bjarna. Munu engin mörk hafa þar verið sett í milli. Vitnisburðir þeir, sem fengust við þessa athugun, eru gagnmerkir, en verða ekki upp teknir hér nú. Eftir að rannsókn hafði farið fram, var málið lagt í dóm — eða til sáttar. Sú sáttargjörð var svo birt árið 1880. Voru þá landamerki samin milli fyrrum hjáleigunnar Akurgerðis og Garðakirkjulands. Voru þau þessi: Fyrst: Klöpp undir brúnni yfir lækinn niðri í fjöru. Varða á svonefndum Ragnheiðarhól. Varða hjá bænum Hábæ í Hrauni. Varða ofanvert við Hólsbæina á Stakkstæði. Varða hjá Félagshúsinu, rétt við Fjarðarhelli. Varða hjá Veðurási. Varða á hól vestan Kristjánsbæjar, og þaðan beina línu í Fiskaklett.
HafnarfjörðurNokkra skýringu munu þessir staðir þurfa. Klöppin undir brúnni: Klöpp þessi liggur nú undir austurvegg Pósthússins í Hafnarfirði.
Ragnheiðarhóll: Þar er nú risið hús Olivers Steins. Hábær: Hann stóð þar sem nú eru Rafveituskrifstofur.

Hafnarfjörður

Varða við Vörðustíg.

Varða ofan Hólsbæjar var við húsið nr. 2 við Urðarstíg. Félagshúsið er nr. 7 við Hellisgötu. Veðurás eru húsin nr. 9 og 11 við Kirkjuveg. Varðan vestan Kristjánsbæjar: Við hana er Vörðustígurinn kenndur, og er hún eina merkið, sem enn stendur. Og Fiskaklettur stendur enn snoðinn nokkuð rétt við Vöruskemmu Eimskipafélags Íslands. Sú trú er nú kominn á þann klett, að ógæfumerki sé að hrófla við honum.
Eftir þetta verða litlar breytingar á högum Garðakirkjulands, eða allt þar til að Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. En þá og nokkru síðar verða miklar breytingar, sem er mjög langt mál og allflókið.
Að síðustu verður hér litið yfir landamerki þau, sem gerð voru á árunum kringum 1890.

Landamerki

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi, samkv. máldögum og fornum skjölum.
1. Á móti Oddakoti í miðjan Ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarðinn.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

2. Úr Ósnum norður í Hól hjá Skógtjörn, og er þar hlaðin merkjavarða, þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólnum hjá Núpsstíflum, þar er hlaðin merkjavarða.
3. Þaðan út í miðja Tjörn, Lambhúsatjörn, þá sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns, og í miðjan tjarnarósinn í mynni Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum upp í Stóra-Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina upp í Dýjakrók (3. sept. 1870) og þaðan í mitt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýrina, beina línu suður í Arnarbæli, þaðan í austur-landsuður upp í Hnífhól, þaðan í austur-landsuður í mitt Húsfell. Úr miðju Húsfelli beint til suðurs í Efri-Strandartorfur, þaðan beint í suður í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Melrakkagil) í Undirhlíðum, þaðan til norðurs við lönd Hvaleyrar og Áss í Steinhús (Steinhes), sem er við Neðri-Kaldárbotna, þaðan móts við Ófriðarstaðaland vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðurs í Vörðu á Hlíðarþúfum, þá sömu línu norður í Öxl á Mosahlíð, enn sömu línu í Vörðu á Kvíholti, loks sömu línu mitt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn, þaðan allt með Hafnarfirði norðanvert í Ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

lnnan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Langeyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðendi, Hlíð, Móakot, Hausastaðir og Hausastaðakot, sem allar hafa afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns til allra leiguliðanota, en ekkert útskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar með kálgörðum og túnblettum og timburhúsum sömuleiðis.

Dyngjuhóll

Landamerkjavarða á Dyngjuhól sunnan Vífilsstaða.

Innan merkja er kirkjujörðin Vífilsstaðir, áður konungseign, á hún sérstaklega: tún og engi fyrir neðan Vífilsstaðavatn, hálfan Leirdal, allan Rjúpnadal, alla Vetrarmýri og mótak niður undan við Arnarneslæk, Maríuhelli og Svínahlíð fram í Sneiðinga.
Ennfremur eru innan merkjanna þessar jarðir:
1. Setberg: Eru merki þeirrar jarðar sem segir í landamerkjaskjali hennar.
2. Urriðakot: Eru merki þeirrar jarðar, sem segir í landamerkjaskjali hennar.
3. Hofstaðir: Sú jörð á sitt eigið tún, en ekkert land utantúns. Með hagbeit í kirkjulandinu fyrir fénað, sem túnið ber.
4. Hagakot: Þjóðeign, á sitt eigið tún, mýrarkorn neðan túns og mótak í barði og beit fyrir fénað þann, sem túnið og mýrin framfleytir.
5. Akurgerði: Túnlaus verzlunarlóð, merki ákveðin með samningi dags. 27. marz 1880 og þinglýst 17. júní sama ár. Þessi landamerki samþykkt af öllum hlutaðeigendum og síðan þinglýst á manntalsþingi í júní 1890.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 1. tbl. 10.01.1972, Garðar á Álftanesi, Gísli Sigurðsson, bls. 7, 13 og 14.

Garðar

Garðar.

 

Þorgautsdys

Í uppgraftarskýrslu um „Dysjar hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi„, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Útdráttur

Dysjar hinn adæmdu

Forsíða „Dysja hinna dæmdu II“.

Grafið var í meinta dys, Þorgautsdys/Þorgarðsdys, á Arnarnesi í Garðabæ í júlí 2019. Uppgröfturinn var hluti af rannsóknarverkefninu „Dysjar hinna dæmdu“. Markmið uppgraftarins var að ganga úr skugga um hvort um dys væri að ræða. Eftir að grjóthrúgan var afhjúpuð og grafnar í hana fjórar könnunarholur sem náðu niður á jökulruðning var ljóst að í henni voru engar mannsvistarleifar. Því var ályktað að ekki væri um dys að ræða heldur geti grjóthrúgan hafa verið landamerki eða orðið til við túnhreinsun og að þjóðsaga hafi spunnist út frá henni.

Forsaga rannsóknar
„Markmið verkefnisins er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi frá 1550–1830 hérlendis. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Með því að grafa upp suma þeirra má varpa frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Loks verða aftökurnar settar í sögulegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta. Dysin sem hér er fjallað um hefur ýmist verið kölluð Þorgarðsdys og Þorgautsdys en talið var að þar væri dysjaður afbrotamaður sem tekinn var af lífi á Kópavogsþingi.

Þorgautsdys

Þorgautsdys – loftmynd.

Dysin er nefnd í Landamerkjalýsingu fyrir þjóðjörðinni Arnarnesi í Garðahreppi sem Gísli Sigurðsson skráði. Þar er einnig vitnað í Landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar segir: „Inn með Nesinu að norðan liggur að því Kópavogur. Inn með nesinu eru nokkrir stórir steinar í fjörunni, nefnast Bæjarsteinar, af hverju sem það nú er. Nokkru þar fyrir innan, spöl uppi í holtinu, er Gvendarbrunnur, lind sem Guðmundur biskup góði á að hafa vígt. Frá brunninum rennur Brunnlækurinn til sjávar. Þar enn innar með fjöru er svo Arnarneskot, Arnarnes gamla eða Arnarnes litla. Ofan til við það er dys, nefnist Þorgautsdys. Þar var réttaður þjófur, og gekk hann mjög aftur og var lengi á ferli í Seltjarnar- og Álftaneshreppum.“

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

Gísli telur að Þorgautur, sá sem dysin hefur gjarnan verið kennd við, hafi verið þjófur sem var réttaður. Nafnið Þorgautur kemur þó hvorki fram í Alþingisbókum né Annálum Íslands 1400-1800 í tengslum við aftökur. Hins vegar er vitað að fjölda dauðadóma, fyrir hin ýmsu brot, var framfylgt á Kópavogsþingi og því ekki ólíklegt að dysjar sakamanna sé að finna á þessu svæði. Ekki langt frá dysinni sem hér um ræðir gróf Guðmundur Ólafsson upp svokallaða Hjónadys árið 1988 og fann þar beinagrindur karls og konu sem greinilega höfðu verið tekin af lífi (Guðmundur Ólafsson 1996). Raunar eru fleiri meintar dysjar afbrotamanna í Kópavogi og nefnir Gísli Sigurðsson tvær dysjar auk Þorgautsdysjar, þ.e. Kulhesdys og Þormóðsdys: „Þarna liggur um holtið Hafnarfjarðarvegurinn. Á háholtinu vestan hans er stór þúfa, og liggur alfaraleiðin rétt hjá. Hér er Þormóðsleiði eða Þormóðsdys. Enn vestar er svo Kulhesleiði eða Kulhesdys. Þormóður var dæmdur á Kópavogsþingi til lífláts fyrir þjófnað, en Kulhes, þýzkur maður, dæmdur þar fyrir mannvíg. Vó mann, íslenzkan, á Bessastöðum.“
Þorgautsdys
Í grein sinni „Nokkrar Kópavogsminjar“, sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1929, tekur Matthías Þórðarson Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen tali árið 1926 en hún var fædd árið 1855 í Kópavogi og uppalin þar til 19 ára aldurs (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 29).

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Þuríður nefnir áðurnefnda dys og kennir hana við mann að nafni Þorgarður sem getið er um í þjóðsögum. Matthías veltir fleiri tilgátum fyrir sér en telur í öllu falli líklegast að hún sé dys afbrotamanns: „Neðar [en Kulhesdys], á norðanverðum hálsinum. Kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388-91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá að sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaksmál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita.“ (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 30).
Þorgautsdys/Þorgarðsdys er auk þess skráð í skýrslunni Fornleifaskráning Arnarnes í Garðabæ frá árinu 2018 eftir Ragnheiði Traustadóttur. Þar er oft vitnað í báðar fyrrnefndar ummfjallanir. Í skráningarskýrslunni eftir Ragnheiði segir einnig að Guðmundur Ólafsson hafi skráð staðinn árið 1983 fyrir Þjóðminjasafn Íslands og talið að um Þorgarðsdys væri að ræða. Skýrsla um skráningu Guðmundar var aldrei gefin út en gögnin nýttust við skráninguna árið 2018. Ragnheiður skráði Þorgautsdys/Þorgarðsdys sem dys eða legstað og sagði hana líklegri til að vera dys en hinar tvær, Þormóðsdys og Kulhesdys, vegna þess að staðsetning þeirra í fyrri skráningu virðist vera tóft og fuglaþúfa.“

Niðurstaða
Þorgautsdys
„Eftir að komist var niður á jökulruðning í öllum fjórum holunum sem grafnar voru í grjóthrúguna, án þess að leifar dysjaðrar manneskju hefðu fundist, var áætlað að hér væri ekki um dys að ræða. Þrátt fyrir að það hafi verið örlítil vonbrigði er það áhugaverð útkoma.

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v.

Þessi grjóthrúga hefur verið talin vera dys síðan vel fyrir aldamótin 1900, ef marka má frásögn Þuríðar Guðmundsdóttur Matthíansen: „Vert er að nefna það að fyrir nokkrum árum síðan var lagður hjólastígur yfir Arnarneshæðina og niður í Kópavog en hann var sveigður fram hjá dysinni. Ef til vill getur þessi grjóthrúga hafa myndast eftir túnhreinsun og út frá henni spunnist þjóðsaga um Þorgaut/Þorgarð. Venjan var að landamerki eins og vörður væru nálægt þjóðleiðum og að ferðalangar bættu við grjóti í þær á leið sinni fram hjá. Það sama átti við um dysjar sem hafðar voru nálægt alfaraleið til áminningar og viðvörunar. Því getur verið að upphaflega hafi hrúgan verið landamerki eða myndast eftir túnhreinsun og síðan hafi steinum verið bætt á af ferðalöngum árum saman og þannig orðið til þessi stóra sennilega hrúga.“
[Framangreind niðurstaða þarf ekki að koma svo mikið á óvart; nánast engin kum eða dysjar, sem getið er í lýsingum Íslandsbyggðar hvað fyrrum landnámsmenn varðar, hafa átt við rök að styðjast hingað til].

Heimild:
-Dysjar Hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi, Reykjavík 2019.

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

 

 

 

 

 

 

 

Flóðahjalli

Í Morgunblaðinu, blaði B, 2002, fjalla Þorkell Jóhannsson og Óttar Kjartansson um „Tóftina á Flóðahjalla og horfna tíð í Urriðakoti„:

Þorkell Jóhannson

Þorkell Jóhannsson.

„Ný tegund tófta hér á landi eru leifar mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu.
Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson kynntu sér tóft þessarar gerðar sem er í Setbergslandi, á Flóðahjalla, sunna eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftir á Íslandi hafa verið flokkaðar í tvo meginflokka; húsatóftir (tóftir íveruhúsa og peningshúsa af ýmsu tagi) og tóftir margvíslegra skýla (tóftir sæluhúsam skothúsam brunnhúsa, myllukofa eða fjárborga og fjárrétta svo að dæmi séu tekin). Ný tegund tófta hér á landi er að kalla tóftir mannvrkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu. Ein tóft þessarar gerðar er í Setbergslandi á Flóðahjalla sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftin hefur vakið athygli okkar á reiðferðum um landið í kring og þá ekki síst vegna stærðar sinnar. Segja má, að tóftin „hafi ekki látið okkur í friði“ og því hafi skrif þessi orðið til.

Flóðahjalli

Hluti af tóftinni á Flóðahjalla.

Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Í Urriðakoti var áður sveit, en þar er nú útivistarsvæði borgarbúa – og í vændum er mikil byggð og þar á meðal bygging tæknigarða, ef trúa má fréttum (Morgunblaðið 27.6.2001). Segja má að sú gerbreyting á landnýtingu og lífsháttum, sem hér hefur orðið á síðustu áratugum, hafi fylgt í kjölfar hernáms Breta 1940. Við höfum þess vegna einnig freistast til þess að hyggja lítillega að horfinni tíð á þessum slóðum.

Flóðahjalli

Flóðahjalli

Flóðahjalli er grágrýtisrani (sjá yfirlitskort), sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Allbreitt skarð skilur Flóðahjalla til suðausturs frá Sandahlíð, sem er hæsti hluti Setbergshlíðar. Flóðahjalli er hæst um 125 m yfir sjávarmáli og Sandahlíð er svipuð á hæð. Skarðið á milli er í um það bil 100 m hæð. Þar liggur nú háspennulína til Straumsvíkur og línuvegur meðfram. Skarðið nefnist Klif, en var þó aldrei ferðaleið. Vel mætti því vera að skarðið hefði upphaflega kallast „klyft“ (þ.e.a.s. klauf í hæðarhrygginn).

Flóðahjalli

Flóðahjalli – mannvirki.

Norðaustanvert á Flóðahjalla er markagirðing milli Urriðakots og Setbergs. Þar hefur land greinilega blásið, en í verið sáð lúpínu. Sækir hún nú ört upp hjallann og að tóftinni. Norðan við heitir Urriðakotsdalur og Hraunflatir næst Búrfellshrauni. Þar hafa Oddfellowar eftir 1990 gert stóra og vel búna golfvelli á sínu landi (sjá á eftir), og var þar golfskáli risinn þegar 1992.

Oddsmýrardalur

Oddsmýrardalur.

Suðvestan undir Flóðahjalla, milli hans og Svínholts og Setbergsholts, er Oddsmýri, en Oddsmýrardalur er til suðurs. Oddsmýri hefur verið ræst fram og þar verið ræktuð tún frá Setbergi. Mýrin hefur án efa verið mjög blaut og gæti einhvern tíma hafa verið verið kölluð „flóð“ og af því sé nafngiftin Flóðahjalli dregin. Eldri og væntanlega réttari nafngift er Flóðháls.

Frá mýrinni rennur Oddsmýrarlækur í Urriðakotsvatn (Urriðavatn). Í Oddsmýrardal,  skammt innan við Oddsmýri, er beitarhúsatóft frá Setbergi. Þaðan er þægilegt að ríða eða ganga inn í botn Oddsmýrardals og svo áfram línuveginn til norðurs upp Klifið og síðan út eftir hjallanum að fornri og nokkuð hruninni vörðu fremst á Flóðahjalla (vafalaust hádegiseyktarmark frá Urriðakoti).

Setberg

Setberg – fjárhús í Oddsmýrardal.

Tóftin er nokkru framan við háhjallann, um það bil miðja vegu milli hans og vörðunnar. Þaðan er víðsýnt, ekki síst yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Flóðahjalli er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu og þar má einnig ganga eða ríða upp hálsinn beina leið að tóftinni.

Norðaustan undir Flóðahjalla þar, sem heitir Flóðahjallatá, liggur svokallaður Flóttamannavegur, öðru nafni Elliðavatnsvegur eða Vatnsendavegur. Milli vegarins undir Flóðahjallatá og Urriðakotsvatns heitir Dýjamýri austar, en Þurramýri vestar. Dýjakrókar heita fjær undir Urriðakotshálsi (ranglega nefndur Urriðaháls í Mbl. 27.6.2001). Þar eru uppsprettur og úr þeim rennur Dýjakrókalækur vestur Dýjamýri í Þurramýrarlæk, á mótum Urriðakots og Setbergs, og svo í vatnið. Eru lækir þessir ásamt Oddsmýrarlæk helsta aðrennsli í vatnið ofan jarðar.

Urriðavatn

Urriðavatn í nútíma.

Ef vernda á lífríki Urriðakotsvatns, ekki síst eftir að byggð færist nær beggja megin vatnsins, er því nauðsynlegt að friða bæði Dýjakróka og mýrlendið að sunnanverðu við vatnið.
Frárennsli úr vatninu er í norðvesturhorni þess í landi Setbergs. Rennur þaðan lækur, Stórakrókslækur, nú að mestu í rásum og stokkum, sem sameinast Hamarskotslæk (Hafnarfjarðarlæk) neðan og vestan við Setberg. Gekk áður sjóbirtingur í lækinn, en hann hvarf eftir virkjunarframkvæmdir Jóhannesar Reykdals, síðar á Setbergi (föður Elísabetar Reykdals, sjá síðar) árið 1904. Jóhannes Reykdal var frumkvöðull um rafvæðingu hér á landi sem kunnugt er.

Urriðakot

Álfhóll við Urriðakotsvatn.

Austan Urriðakotsvatns stóð bærinn í Urriðakoti í grónu túni. Túnið er enn grænt, en bæjarins sér nú lítinn stað. Hádegisholt og varðan á því hefur vissulegs blasað vel við frá bænum og útsýni er sömuleiðis gott af holtinu í átt að bæjarstæðinu).
Á Urriðakotshálsi voru á stríðsárunum nokkuð stórar herbúðir Bandaríkjamanna. Þær sjást allvel á loftmynd frá l954 og enn má sjá þar húsgrunna og steinsteypuleifar frá þeim tíma. Það er víst einmitt hér, sem hinir nýju tæknigarðar skulu rísa.

Tóftin

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Tóftin er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla eins og áður segir. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans.
Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þeir hafa því riðlast umtalsvert í áranna rás. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin furðustór að flatarmáli eða nærri 800 m².

Elísabet Reykdal

Elísabet Reykdal.

Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Verða þannig til tvö lítil ferhyrnd rými (ca. 2,5x 4 m og ca. 3×1,8 m að innanmáli; og eitt hringlaga (ca. 4 m að innanmáli;). Í öðru ferhyrnda rýminu fundum við leifar af timburfjölum og utan við hringlaga rýmið fundum við ryðgaða járnplötu, 1×1 m, með ca. 8 cm háum hnúð eða pinna á í miðju, en alls ekkert annað, sem bent gæti til mannvistar.
Á klöppinni syðst eru nokkrar stafristur. Þar teljum við ótvírætt að höggvið hafi verið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J. E. Bolan. Þessi stafagerð er öll með sama breiða lagi. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940.

Elísabet Reykdal (f. 1912), sem alla tíð hefur búið á Setbergi, man vel eftir komu Breta í Hafnarfjörð sumarið 1940, og hún var í nábýli við þá og síðar Bandaríkjamenn.

Setberg

Setbergshamar – skotbyrgi.

Hún minnist þess, að Bretar voru með gervifallbyssur (símastaura?) á Setbergshamrinum. Hún man einnig vel eftir Bretunum á ferð í einhvers konar beltabílum („einhvers konar smáskriðdrekar“) á vegaspottunum milli Setbergs og Urriðakots (þetta hafa verið svokallaðir Bren Gun Carriers). Telur hún líklegast, að Bretarnir hafi farið á bílunum upp á Flóðahjalla. Hún þvertekur fyrir, að Íslendingar hafi komið þar að verki.
Af bók prófessors Þórs Whiteheads, Bretarnir koma, má ráða, að meðal þeirra staða, sem Bretar óttuðust mest, að Þjóðverjar myndu nota til landtöku hér, voru lendingarstaðir flugvéla á Sandskeiði og í Kaldaðarnesi og höfnin í Hafnarfirði. Strax hernámsdaginn (10. maí) voru hermenn sendir upp á Sandskeið og austur yfir Fjall í svo ólíkindalegum herflutningatækjum og hvítar Steindórsrútur voru.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Til Hafnarfjarðar voru hermenn fyrst sendir fáum dögum síðar og svo að marki 18. maí, þegar liðsauki hafði borist til landsins með tveimur stórum herflutningaskipum. Þá voru fluttir 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sjóleiðis til Hafnarfjarðar.

Setbergshamar

Setbergshamar – skotbyrgi.

Þessir hermenn höfðu þó ekki strax yfir að ráða Brynvögnum, þar eð slík farartæki komu fyrst til landins í júlí um sumarið (9; bls. 132 og 212). Þór Whitehead telur því einsýnt, að hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga hafi gert mannvirkið á Flóðahjalla. Hafi tilgangurinn verið sá að efla varðhöld og vígstöðu við Hafnarfjörð til þess að mæta hugsanlegri innrás Þjóðverja. Ótvírætt er, að Bretar óttuðust mjög landgöngu Þjóðverja í Hafnarfirði, ef svo bæri við. Í bók Þórs er þannig mynd, sem sýnir menn úr herfylki Wellingtons hertoga á æfingu á holti við Hafnarfjörð. Í texta við myndina segir m.a.: „Bærinn var talinn einn líklegasti landgöngustaður þýsks innrásarliðs og Bretar gerðu ráðstafanir til að sprengja Hafnarfjarðarhöfn í loft upp“.

Öðrum okkar (Þ.J.) hefur nú borist svar við fyrirspurn til aðalstöðva herfylkis Wellingtons hertoga þess efnis, að tóftin („the stone defence work mentioned“) hafi verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons og tilgangurinn hafi verið svipaður og Þór Whitehead telur („…to cover open ground, which might have been used by enemy parachutists, road approaches to the town and, possibly, likely landing places on the coast“).

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Þessar upplýsingar eru byggðar á ritaðri frásögn eins þeirra hermanna, sem þarna komu við sögu og er enn á lífi. Í ljósi þessara upplýsinga þykir okkur líklegt, að byssustæði hafi verið í hringlaga rýminu (járnplatan leifar af því?) og einhvers konar vistarverur hefðu getað verið í ferhyrndu rýmunum (fjalaleifarnar leifar af timburgólfi?).

FlóðahjalliUrriðakot var áður konungseign og síðar ríkiseign, en komst í einkaeign 1890. Alþingishátíðarárið 1930 bjuggu þar og höfðu búið í áratugi hjónin Guðmundur Jónsson (1866–1941), frá Urriðakoti, og Sigurbjörg Jónsdóttir (1865–1951), frá nágrannabænum Setbergi og áttu þau jörðina. Þau eignuðust 12 börn og er frá þeim mikill ættbogi kominn.
Samkvæmt Fasteignabók 1932 var bústofn þeirra 140 sauðkindur og 5 kýr og auk þess 2 hross. Voru þá einungis fjórir bændur í Garðahreppi og aðliggjandi hreppum (Seltjarnarneshreppur, Bessastaðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur), sem voru fjárríkari en þau hjón og þar af einungis tveir, sem áttu að marki fleira fé en þau. Fimm kýr þótti og álitleg nautgripaeign í þá daga. Er því nokkuð ljóst, að Urriðakotshjón hafa orðið að halda vel á spöðunum til þess að sjá bæði bústofni sínum og sér og sínum börnum farborða.

Urriðakot

Urriðakot.

Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824–1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: „Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.“

Urriðakotshraun

Fjárhústóft Guðmundar í Urriðakotshrauni.

Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði sína við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.

Urriðakot

Urriðakot.

Ef Guðmundur í Urriðakoti mætti nú rísa úr gröf sinni og skunda um Urriðakotsland, myndi honum án efa finnast púttarar í námunda við beitarhús sín og grillarar í námunda við sauðaskúta sinn framandlegir menn og óvelkomnir á sínu landi. Ef þeir hinir sömu skyldu hins vegar sjá mann koma hlaupandi við fót (Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur), er eins víst, að þeim yrði líkt við. Og þó! Þeim myndi án efa falla allur ketill í eld, þótt ekki væri nema vegna klæðaburðar mannsins. („Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði.“) Mjólkin úr kúnum var mjög spöruð heima fyrir og var hún vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Var mjólkin seld til Hafnarfjarðar og flutt á reiðingi allt fram undir 1930, að ökufær vegur var lagður milli Urriðakots og Setbergs. Um líkt leyti var tekið að nota heygrind til heyflutninga, en sláttuvél eignaðist Guðmundur aldrei.

Urriðakot

Urriðakot – örnefni.

Eitt var sérlega athyglisvert í tengslum við heyskap í Urriðakoti, en það var nýting fergins (tjarnarelftingar), sem óx í vatninu. Fergin er nú horfið í vatninu og því miður er engin mynd til af því sérstaka verklagi, sem tengdist nýtingu þess. Um þetta farast Guðmundi Björnssyni svo orð: „Ferginið stóð ca. 30 cm upp úr vatninu og glitti í það á köflum. Við sláttinn voru menn á þrúgum úr tunnustöfum eða klofháum stígvélum og höfðu nót á milli sín. Með gaffli var því skóflað í land og síðan þurrkað á svokallaðri Ferginisflöt. Það var svo gefið kúm sem fóðurbætir.“

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn. Fornleifauppgröftur á Hofstaðaseli neðst t.h.

Svo mikill var þessi ferginsheyskapur í vatninu, að hann nam 40–50 hestburðum (ekki tíundað sérstaklega í Fasteignabók 1932). Voru kýrnar sólgnar í þennan „fóðurbæti“ og hafa án efa verið vel haldnar og í góðri nyt.
Ferginið í Urriðakotsvatni var með vissu slegið 1952. Engin bein skýring er hinsvegar á því hvers vegna fergin er nú horfið úr vatninu. Talið er, að það hafi horfið eftir 1973–1974 og orsökin hafi verið breytingar á frárennsli vatnsins. Önnur skýring kann þó að liggja beinna við, sem sé að vöxtur og viðgangur fergins í vatninu hafi verið háður því að það væri slegið reglulega.

Lok búskapar í Urriðakoti

Urriðakot

Urriðakot – Dagmálavarða.

Þau Guðmundur og Sigurbjörg hættu búskap í Urriðakoti 1935. Þau voru þó áfram í Urriðakoti með 20–30 kindur. Jörðina leigðu þau dóttur sinni og tengdasyni. Um mitt ár 1939 seldu þau tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin frá Urriðakoti 1941. Að heimsstyrjöldinni lokinni komst jörðin í eigu Oddfellowa.
Eftir það bjuggu ýmsir á jörðinni fram undir 1960. Þá fór jörðin endanlega í eyði og skömmu síðar brann bærinn þar.

Camp Russel

Camp Russel – Bíóbraggi hermanna 1943.

Sú verðbólga, er hófst í landinu í kjölfar hernáms Breta, gleypti andvirði jarðarinnar og urðu Guðmundur og Sigurbjörg þá eignalaus. Auður þeirra fólst því í börnum þeirra og öðrum afkomendum líkt og hefur orðið hlutskipti fjölmargra annarra, sem hafa séð eignir sínar fuðra upp í verðbólgubáli.
Sonarsynir Urriðakotshjóna, sem jörðina keyptu, fengu í desember 1944 nafni jarðarinnar breytt í Urriðavatn. Það var óþarfaverk að breyta fornu nafni jarðarinnar. Nafninu Urriðakoti er því haldið hér í samræmi við örnefnalýsingu Svans Pálssonar frá 1978.“

Heimild:
-Morgunblaðið, blað B, 13.01.2002, „Tóftin á Flóðahjalla og horfin tíð í Urriðakoti“, Þorkell Jóhannson og Óttar Kjartansson, bls. 10-11.

Urriðakot

Urriðakot – upplýsingaskilti.