Eftirfarandi fróðleik um sögu og minjar Garða á Álftanesi (Garðahreppi) má lesa í skýrslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003:
„Í Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst. Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar. Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum.
Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka „at boði j Görðvm“ og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: „var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr“. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn „í kirkjugarðinum þar í Görðum“. Um tveimur áratugum síðar var þetta ein þeirra jarða sem Árni Þorláksson Skálholtsbiskup deildi um við veraldlega höfðingja og er greint frá því í sögu hans.
Staða-Árni eins og hann var nefndur réri að því öllum árum að kirkjan öðlaðist sjálfstæði í eigin málum og að allir kirkjustaðir kæmust undir hennar forsjá. Fékk hann m.a. þáverandi eiganda Garða, Sturlu Sæmundarson, til að sverja sér af hendi staðinn og lofa að „taka alldri síðan af kirkjufjám né hennar eign utan með biskups ráði“. Árni setti síðan systurson sinn Bjarna Helgason prest niður í Görðum. Leikmenn mótmæltu staðartökunni og fleiru í bréfi til biskups árið 1286 en þegar það bar ekki árangur kom goðorðsmaðurinn Hrafn Oddsson með herlið, stökkti séra Bjarna á brott og fékk Sturlu aftur „í hönd alla kirkjunnar eign“.
Næst eru Garðar nefndir í Alþingissamþykkt frá 1307 og er þá séra Jón Þórðarson kominn þangað til starfa. Einhverjar heimildir eru svo um alla þá Garðapresta sem gegndu kallinu næstu aldir en þeir verða ekki taldir upp hér. Í máldögum árin 1397 og 1477 kemur fram að Garðakirkja var helguð Pétri postula og vel búin munum.
Meðal merkra kennimanna sem sátu á þessum kirkjustað má nefna Þorkel Arngrímsson (1629-77) sem tók við embætti árið 1658 og fékkst m.a. við skáldskap, þýðingar, útgáfur guðsorðabóka og lækningar. Séra Þorkell var í Görðum til 1677 og þar fæddist sonur hans, Jón Vídalín (1666-1720), sem gegndi prestsembætti á staðnum 1695-7. Eins og frægt er hófst hann síðar til biskups en þekktastur er hann líklega af hinni vinsælu húspostillu sinni sem við hann er kennd. Séra Markús Magnússon (1748-1825) kom til starfa árið 1780 og stóð að stofnun Landsuppfræðingarfélagsins, Hins íslenska biblíufélags og fleiri menningarfélaga. Að beiðni nefndar til varðveislu fornminja, „Commision for Oldsagers Opbevaring“, sem stofnuð var árið 1807, skrifaði hann einnig merka Fornleifaskýrslu um Garðajarðir árið 1820.
Markús hafði forgöngu um mannvirkjagerð á staðnum og lét hlaða langan garð meðfram túnum bæjanna sem heyrðu undir Garða. Skv. manntölum voru hjá þessum prófasti 30 heimilismenn árið 1801 og 23 fimmtán árum síðar, um helmingi fleiri en öld áður hjá séra Ólafi Péturssyni en Manntal var líka gert í hans tíð. Nefna má konu Markúsar, Þuríði Ásmundsdóttur, séra Sigurð Hallgrímsson „capellan“, hinn unga Jón Steingrímsson sem um skeið gegndi starfi skrifara, Guðmund Ormsson ráðsmann, Guðfinnu Bergsdóttur, unga frænku prófastins sem varð ráðskona hjá honum, Gísla Guðmundsson smið og Þórarinn Þorsteinsson smala. Auk þessa fólks voru á prestssetrinu tvö gamalmenni og fjögur börn, þrír vinnumenn og átta vinnukonur en bændasynir og dætur úr bæjahverfinu gegndu ýmsum störfum í Görðum. Markús hélt embættinu til æviloka. Skv. Manntali árið 1845 voru 25 í heimili hjá eftirmanni hans, séra Árna Helgasyni (1826-1894) sem skrifaði Lýsingu Garðaprestakalls árið 1843. Hann var prófastur 1825-58, mikilhæfur maður, stofnaði ýmis félög og gegndi biskupsembætti á tímabili. Frúin hans hét Sigríður Hannesdóttir en auk Óla Peter Finsens lærisveins, Ólafs Símonssonar gustukamanns og vinnuhjúa höfðu hjá þeim í húsnæði hjónin Magnús Brynjólfsson húsmaður og Þorbjörg Jónsdóttir. Kirkja er enn í Görðum og jörðin í byggð.
Árið 1397 er getið um búfjáreign Garða: 30 sauðir, 6 hross og 33 nautgripir, þeirra á meðal tveir gamlir plóguxar eða „arduryxn“. Jafnframt kemur fram að tíu kornsáld voru færð í jörðina. Af þessu má ráða að jafnhliða kvikfjárrækt hafi á fyrri tímum verið stunduð kornrækt í Görðum. Reyndar eiga gömul akurgerði að hafa verið um ofanverð túnin a.m.k. fram á daga séra Markúsar og nefna má bæinn Akurgerði sem að vísu var þar sem nú er Hafnarfjörður en lá að fornu undir Garðakirkju. Forvitnileg í þessu sambandi eru einnig hin fjölmörgu gerði í hverfinu sjálfu en í sumum þeirra fór fram einhvers konar ræktun. Loks má minnast öldrykkju mikillar sem séra Þórður Ólafsson efndi til og greint er frá í Biskupsannálum árið 1530 en hann hefur kannski notað bygg af ökrunum til maltgerðar fyrir mjöðinn. Í skrá frá árinu 1565 segir frá „bygging“ eða leigu á jörðum Garðkirkju, tekjum af þeim, kvikfénaði og ábúendum en ekkert er um prestsjörðina sjálfa. Skráin var sett saman um það leyti sem séra Jón Loftsson var í Görðum, sá sem Presthóll í holtinu fyrir ofan er talinn kenndur við en þar áttu að vera álfar. Einnig er minnst á Garða í Gíslamáldaga árið 1570.
Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku saman Jarðabók sína árið 1703 var Ólafur Pétursson prófastur, fyrst 1695-6 og síðan aftur 1697-1719. Þá áttu Garðar 20 kúgildi, sum í leiguburði á eignajörðum og hjáleigum en heima fjórar kýr og ein leigukýr, ein þrevetra mjólkandi kvíga og önnur tvevetra geld. Auk þeirra voru 32 ær, 19 sauðir, 20 lömb, hestur, þrjú hross og tveir tvevetra folar. Fóðrast kunnu ríflega 5 kýr og hestur og kemur á óvart að í Jarðatali Johnsens árið 1847 er aðeins tilgreint eitt kúgildi. Jarðardýrleiki var lengst af óviss en taldist 40 hundruð frá 1697 og fram um miðja 19. öld og 48,8 ný hundruð í Jarðabók árið 1861. Í Fasteignabókum 1932 var jörðin með húsakosti metin á 207 hundruð kr. en 154 hundruð kr. Á þessum tíma voru 8-8,5 kúgildi, 60 sauðir og tvö hross en undir lokin engir sauðir og aðeins eitt hross. Um 3200 m² garðar gáfu í fyrstu 40 tunnur matjurta en síðast aðeins 18 tunnur. Þegar Örnefnaskrá var gerð árið 1964 var Garðatún stórt en grýtt og skiptist í velli. Frá Garðatúngarði niður að hlaði nefndist Vesturgerði vestan heimatraðanna og Austurgerði austan þeirra. Skikinn vestan bæjarhúsa og kirkjugarðs hét Vesturflatir en austan megin voru Austurflatir. Lindarflöt kallaðist loks völlurinn frá kirkjugarðinum að Garðamýri eða Garðatjörn, kennd við Garðalind í túnjaðrinum.
Í mýrinni sem náði að sjó voru útheysslægjur og torfrista og slógu hjáleigubændur þar dagslætti fyrir kúabeit. Hún tilheyrði að fornu jörðinni Bakka sem lá upp að henni sunnan megin en séra Þorkell lagði hana til Garðastaðar vegna skorts á slægjum og torfi. Nytjaland Garðastaðar var annars að miklu leyti ofan og austan við hverfið, handan hins mikla Garðatúngarðs. Næst honum var Garðaholt og austur af því Garðahraun. Í nyrsta hluta þess, Gálgahrauni, var beitiland frá Görðum en úthagar í næsta nágrenni voru þröngir og snögglendir. Selstaða var við Kaldá og í Kirkjulandi ofan byggðarinnar frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi. Sjórinn var stundaður allt árið frá Görðum og jörðum í kring. Heimræði var og mikil hrognkelsaveiði en miðin skammt frá landi. Einnig var þó róið á fjarlægari mið. Lendingar voru góðar en öll stærri býlin höfðu uppsátur í sérstökum vörum sem fylgdu þeim og voru við þær kenndar. Auk þess voru náttúrulegar bryggjur við syðstu jarðirnar og við þá nyrstu, Hausastaði. Frá henni lá Hausastaðakambur meðfram sjánum ofan vara allt að Miðengi og á honum var skiptivöllur með búðum og hjöllum frá bæjunum. Við suðaustari jarðirnar nefndist hins vegar Garðagrandi. Þar framan við voru sker og grynningar sem mynduðu nokkurs konar hring eða kví um fjöru með mörgum þröngum sundum á milli og kallaðist það Garðatjörn. Skelfiskafjara var en fór til þurrðar þegar um 1700. Gengt var í fjörunni en lítil rekavon. Hins vegar átti Garðakirkja á 14. öld og e.t.v. lengur allan viðreka og hvalreka frá Rangagjögri og Leitukvennabásum að Kálftjörningafjöru. Fram eftir öldum var nóg af nýtanlegum fjörugrösum. Aðalsölvatekjusvæðið var á Hausastaðagranda sem lá út á sjó frá Hausastöðum og fór í kaf á flóði.
Marhálmur óx við sjávarlón á norðurmörkum hverfisins, Skógtjörn norðan Hausastaða og Lambhúsatjörn norðan hins sameiginlega nytjalands. Í Örnefnalýsingu frá árunum 1976-7 er lýst mikilli þang- og marhálmstekju á Hrauntanga við Lambhúsatjörn. Var þangið þar skorið í fjörunni og látið reka upp í flóðfar með aðfalli en síðan borið á þerrivöll og þótti best ef rigndi fyrst því þá losnaði það við saltið og þornaði fyrr. Suðaustur úr Skógtjörn gékk svolítil tota sem nefnd var ýmist, Litlatjörn, Aukatjörn, Hausastaðatjörn eða Álatjörn. Síðasta nafnið tengdist Álamýri norðaustur af tjörninni en þar veiddu Garðhverfingar ála og seldu til Reykjavíkur. „Þeir veiddust helst í ljósaskiptum.“ Á þessum slóðum fóru einnig fram annars konar veiðar: „Mýrarhóll er austast í Álamýri og Skothóll austur af honum. Við Skothól eru klettar. Þar lágu menn fyrir fugli, er flaug fyrir, einkum álft, sem sótti í marhálminn við Skógtjörn. Þegar hækkaði í tjörninni og marhálmurinn fór í kaf, flaug álftin upp á Urriðakotsvatn og Vífilstaðavatn. Fóru menn þá á Skothól, þegar tók að flæða. Nú er allur marhálmur horfinn úr Skógtjörn.“ Skammt undan var líka mikið æðarvarp og tóftir á Eskinesi sem skilur milli Lambhústjarnar og Arnarnesvogs bera enn vitni um tilraun til æðarræktar á dögum Þórarins Böðvarssonar (1825-95) Garðaprests 1868-95. Mór var skorinn í Hraunholtsmýri við Arnarnesvog og í Dysjamýri við syðstu jörðina Dysjar en norðan í henni hefur kannski einnig verið torfrista. Auk þess var skógur Garða nýttur til kolagerðar en bæði mór og viður voru farin að eyðast um 1700. Mosi var tekinn í Gálgahrauni og lyng rifið til eldiviðar en „hvergi er nú skógarhrísla eða lyng í hrauninu nema næst Hraunsholtinu“ austan megin.
Bæjahverfi það sem með tímanum myndaðist kringum kirkjustaðinn lá meðfram sjávarsíðunni á leiðinni út á Álftanes og nefndist Garðahverfi. Með vísun til bæjatúnanna innan garðs var einnig stundum talað um Garðatorfuna. Garðar sjálfir eru rétt suðaustan við miðju hverfisins, næst þeim norðan megin hjáleigan Ráðagerði og niðri við sjó Miðengi en sunnan megin Nýibær og Pálshús. Handan Garðamýri hjá sjónum var auk þess Bakki, eitt af lögbýlunum og suður af því Dysjar sem líka var lögbýli. Norðvestan megin í hverfinu voru svo Hlíð, lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr því, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir.
Allar þessar jarðir lágu undir Görðum og á sumum voru á tímabilum minni hjáleigur og þurrabúðir. Mýrarhús , Sjávargata, Hóll og Garðabúð voru við mýrina neðan Garða, Krókur, Garðhús, Háteigur og Höll við nytjalandið ofan þeirra. Þar í landi Hlíðar voru einnig Gata, Holt og Sólheimar en Hlíðarkot var í miðju túni og Dysjakot á Dysjum. Á mörkum Hlíðar og Hausastaðakots var Grjóti og í landi Hausastaða þrjú ef ekki fleiri býli, Kaldakinn, Katrínarkot og Arndísarkot á tanganum Skreflu, vestasta hluta hverfisins. Hvar Óskarbúð var er ekki vitað með vissu og sum býli eru nafnlaus. Í Manntölum er t.d. oft greint frá tómthúsfólki og húsfólki á aðaljörðunum án þess að getið sé um bústaði en tómthúsmenn bjuggu venjulega í sjálfstæðu húsnæði og húsmenn oft líka þótt sumir fengju inni á bæjum. Býlin í Garðahverfi hafa þó verið a.m.k. þau 34 sem hér á eftir eru skráð, á stundum trúlega færri eða fleiri. Skammt var á milli heimila og kominn vísir að smáþorpi enda virðast menn sums staðar hafa verið farnir að sérhæfa sig í ákveðnum störfum. Á prestssetrinu hefur verið miðstöð mannlífs en einnig var um skeið skóli á Hausastöðum og þingstaður en hann var fluttur í Garða. Bændur hverfisins skiptust á að gegna embætti hreppstjóra. Ljósmóðir var á Dysjum og hafnsögumaður á Bakka og Ósk í Óskarbúð rak svolitla verslun. Sumir eins og Guðmundur Einarsson vefari lifðu af handiðn sinni, handverkskonur og trésmiðir voru víða en gull- og silfursmiðir höfðu aðsetur í Ráðagerði. Mikið flakk var á fólkinu, a.m.k. þegar kom fram á 19. öld og þegar gömlu ábúendurnir fluttu tóku oftast við óskyldir menn. Nokkuð var þó um að fólk færi búferlum innan hverfisins og óvenjuleg nöfn eins og Ormur, Illugi og Nikulás sem skjóta aftur og aftur upp kolli í hverfinu gegnum aldirnar benda til innbyrðis skyldleika íbúanna. Ætla má að grjóthlöðnu gerðin sem eru sérkennandi fyrir Garðahverfi hafi tengst þéttbýlinu. Innan þeirra hefur verið sú litla lóð eða grasnyt sem hvert býli hafði. Flest eru kennd við búðirnar sem þau tilheyrðu: Hallargerði, Sjávargötugerði, Holtsgerði o.s.frv. Nokkur eru nöfnin tóm og hafa komið upp ýmsar getgátur um þau, Pálshúsagerði í Pálshúsatúni t.d. verið bendlað við akuryrkju og Hausastaðatúngerði á Hausastöðum talið landamerkjagarður en orðið gerði getur bæði vísað til ræktarlands og hlaðins garðs.
Í hverju bæjatúni var svolítill brunnur og sérstakar brunngötur til þeirra. Mikilvægasta vatnsbólið var þó Garðalind sem aldrei þraut og í hana sóttu öll heimilin vatn þegar þurfti. Til þessa hjarta Garðahverfis lágu að lokum allar leiðir en býlin tengdust með innbyrðis vegakerfi. Frá Hausastöðum og býlum þar lá gata yfir í Hausastaðakot og áfram í Grjóta, þaðan niður í Móakot eða yfir í Hlíð. Frá Hlíðabæjum lágu leiðir vestur í Götu og Háteig og Hlíðarbrunngata suður í Miðengi og síðan líklega áfram eftir jaðri túns og mýrar að Garðalind. Traðir tengdu saman Götu og Holt, Háteig og Ráðagerði en þaðan lá gata til kjarnans í Görðum. Frá hinum búðunum við Garðatúngarð var farið um Garðatraðir niður að kirkju og prestssetri og þangað var sérstakur stígur, Króksbrunngata, úr Króki. Þá lágu traðir milli suðaustustu býlanna Dysja, Pálshúsa og Nýjabæjar og frá þeim síðastnefnda í Garða en þaðan mátti loks ganga um Garðabrunngötu að Garðalind. Hins vegar lá Bakkabrunngata beint frá Bakka upp kringum mýrina og að lindinni.
Þurrabúðarfólkið við Garðamýri hefur trúlega notað Sjávargötu sem lá milli þeirra og sjávarins annars vegar, Garða hins vegar, og síðan Hlíðarbrunngötu til að komast alla leið. Sérstakar sjávargötur lágu frá bæjum niður að sjávarhliðum í varnargarðinum ofan vara og neðan syðri jarðanna lá Bakkastígur eftir sjávarbökkum. Víðar hefur verið gengið við sjóinn en frá sjávarhliði Hausastaða lá svo nefnd Hliðsnesgata, framhjá Katrínarkoti og Arndísarkoti út á Skreflu og að Oddakotsósi. Þar varð svo að fara á bát yfir í Hliðsnes á móti. Í hina áttina lá gatan meðfram Skógtjörn, framhjá Köldukinn, og yfir grjóthlöðnu brúna Stíflisgarð. Þar var áður aðalleið úr hverfinu út á Álftanes. Í vestur lágu einnig Hausastaðatraðir frá Hausastöðum en slíkar traðir við bæina kenndar lágu frá þeim mörgum að hliðum á Garðatúngarði. Þaðan lágu leiðir svo út í nytjalandið og til næstu byggðalaga. Þannig lágu Garðatraðir frá Görðum um Garðahlið þar sem við tók Garðagata og hlykkjaðist þvert yfir Garðaholt að Garðastekk í jaðri Garðahrauns. Framhald stekkjargötunnar lá svo upp í hraunið nokkru norðar þar sem hún sameinaðist að lokum hinni fornu þjóðleið milli Álftaness og Reykjavíkur, Gálgahraunsstíg nyrðri, Fógetastíg eða Álftanesgötu. Sú gata lá á kafla meðfram Lambhústjörn og Arnarnesvogi. Þar í Hraunviki greindist annar stígur frá henni,
Móslóði og lá í suðvestur um Garðahraun og Flatahraun í Garðahverfi. Um hann var farið með hesta klyfjaða mó úr Hraunholtsmýri en þessi vegur var sá austasti þeirra sem lágu yfir Garðahraun. Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét leiðin yfir hitt mósvæðið sem náði milli Garða og Flatahrauns en var kirkjugata því hana fóru Hafnfirðingar þegar þeir ætluðu í Garðakirkju. Dysjabrú var þá lokakaflinn á leið þeirra, frá svo kölluðu Mónefi sem skagaði vestur úr hrauninu. Vegurinn yfir hraunið að nefinu hét hins vegar Gálgahraunsstígur syðri og náði alveg frá Hafnarfirði. Dysjabrú var þó ófær í miklum leysingum og varð þá frá Gatnamótum vestast við Garðaholtsenda að fara Kirkjustíg yfir holtið og að Görðum. Hann lá vestur frá Urriðakoti og Setbergi um Gatnamót þar sem göturnar mættust.
Girt var milli túna einstakra jarða Garðahverfis og kringum það í heild. Varnargarður lá eftir sjávarkambinum að vestan og norður við Skógtjörn og Garðatúngarður skildi milli Garðatorfunnar og nytjalandsins austan megin. Mörk alls þessa svæðis náðu frá Balakletti við sjóinn suðaustan Dysja að Oddakotsósi á Hliðsnesi gegnt Skreflu og yfir Skógtjörn þvera, um Markatanga við Núpslækjarós, áfram um Lambhúsatjörn og austur í Eskines, þaðan lengst suður í Engidalsnef og svo aftur vestur í Balakletta. Innan þessara marka voru að fornu einnig jarðirnar Bali í suðurendanum og Selskarð milli Skógtjarnar og Lambhústjarnar. Þegar í máldögum 14. og 15. aldar kemur fram að Garðakirkja átti allt heimaland, Dysjar, Bakka, Hlíð, Hausastaði, Selskarð, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. Á 16. öld bættust við Nýibær og Pálshús, Vífilstaðir, Akurgerði og Hamarskot og ítök staðarins lágu miklu víðar. Í Örnefnaskrá segir: „Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaðar kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. […] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi.“. Í Landamerkjaskrá frá 1890 eru tilgreind víðari „merki á landi Garðakirkju á Álptanesi, samkvæmt máldögum og fornum skjölum:
1. Í móti Oddakoti í miðjan ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarð í Oddakoti. […]
2. Úr ósnum norður í hóla hjá Skógtjörn, er þar hlaðin merkjavarða; þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólum hjá Núpsstíflum, þar er og hlaðin merkjavarða. […]
3. Útí miðja tjörn þá, sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns og í miðjan tjarnarósinn og í mírina Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum uppí Stóra Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina uppí Dýjakrók […] þaðan í midt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýri beina línu til austur landsuðurs í miðja Kjóavelli, þaðan beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan í austur landsuður uppí Hnífsós, þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Standartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil í Undirhlíðum), sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna, þaðan móts við Jófríðarstaðaland í norður vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðvesturs í vörðu á Heiðarþúfum, þá sömu línu í norðuröxl á Mosahlíð, enn sömu línu í vörðu norðanhallt á Kvíholti, loks sömu línu miðt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu fremst á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn.
Þaðan land allt með Hafnarfirði norðaverðum vestur í ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti. […] Innan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar, þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Lan[g]eyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir, sem allar hafa afmörkuð tún og rjett til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns, til allra leiguliða nota, en ekkert inskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar, með kálgörðum og túnblettum, og timburhús sömuleiðis.“ Innan merkjanna eru einnig Vífilstaðir, Setberg, Urriðakot, Hofsstaðir, Hagakot og Akurgerði.
Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928: „Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir: „Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“ Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“ Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó jarðbundnari: „Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for. Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu „byggingar staðarins […] á Bæjarhólnum austan kirkju […] ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu“. Örnefnalýsing 1976 hefur þetta: „Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]“. Í grein frá árinu 1904 (bls. 34) segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn „þar sem Garðastaðarkirkja stóð“ kallaður „Kirkjuhóll“. Í Örnefnalýsingu 1976 segir hins vegar: „Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið.
Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.“ Núverandi kirkja var reist árið 1966 (Þ.J. og S.S.: 226).
Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: „Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðaholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.“ Árið 1918 voru „um 40 minnisvarðar“ í Garðakirkjugarði“.
Á Túnakorti 1918 sést hús úr torfi nokkru vestan Sjávargötugerðis, við Sjávargötuslóðann skammt frá sjónum og landamerkjum við Miðengi. Þetta gæti verið „verbúð frá Görðum“ sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Búðin, og „stóð ofanvert við vörina“, þ.e. Garðavör, „ofan við Garðasjó“. Kringum hana og aðallega ofan hennar var Búðarflötin og fyrir „framan hana var skiftivöllur“. Í Örnefnalýsingu segir: „Grasi gróinn hóll, sléttur að ofan, er á kampinum á milli Miðengis og Garða. Hér áður mun hafa verið sjóbúð á þessum hól, en þess sjást nú engin merki.“ Líklega er þetta hóllinn sem við Fornleifaskráningu 1984 er kallaður Garðabúð eða Búð og er suður „frá bænum í Miðengi, alveg niður við flæðarmálið“, túnið ofan við en sjórinn að framan. Núna er þarna áberandi grænn hóll. Lengd hans meðfram sjávarmálinu er 8,5-9 m og breiddin um 5 m. Í honum er hleðslugrjót en lögun tóftarinnar sést ekki. Á a.m.k. einum stað utan í honum sér í mikið af skeljum.
Garðabúð var skv. Jarðabók og Manntali árið 1703 (bls.18) nýbyggð hjáleiga frá Görðum og tók í raun við af hjáleigunni Skemmu. Ábúendur voru hjónin Jón Þórðarson og Ingunn Ingimundardóttir, heimilismenn þrír talsins. Jarðardýrleiki var óviss en séra Ólafi Péturssyni greidd 40 álna landskuld með tveimur fiskavættum eða peningum upp á fiskatal. Leigukúgildi, venjulega eitt, var ekkert hjá Jóni þetta ár en hann átti kýr sem fóðraðist naumlega, ær með lambi, þrjá veturgamla sauði, tvo hesta og hross með fyli. Kvaðir allt árið voru mannslán sem leyst var með hálfum skipshlut af tveggja manna fari ábúanda og einn dagsláttur. Hætt var að heimta hrísshest sem áður hafði fylgt afgjaldi af Skemmu. Garðabúð hafði „grasnautn hina sömu“ og Skemma áður. Staðarhaldari lagði við til húsabótar en bóndi hafði móskurð í landi Garða. Garðabúð er ekki nefnd í síðari Manntölum og Jarðabókum.
Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands 2004, fornleifaskráing fyrir Garðahverfi 2003, bls. 24-60.