Tag Archive for: Garðabær

Skansinn

Við Skansinn á Bessastaðanesi má lesa eftirfarandi texta á upplýsingaskilti við tóftirnar:

„Skansinn er hvort tveggja til marks um ófriðartíma fyrri alda og aðsetur æðsta valds landsins á Bessastöðum. Hér eru jafnframt minjar um kotbýli frá 19. öld þar sem Óli skans bjó.

Varnir gegn útlenskum hervíkingum

Skansinn

Skansinn.

Vígvirkið Skansinn á uppruna sinn að rekja til Tyrkjaránsins árið 1627. Annálar greina frá því að höfuðsmaðurinn danski, Holgeir Rosenkranz, hafi spurt rán í Grindavík og látið „tilbúa í Seylunni virki eður skans, (sumir sögðu af fiskiböggum), og setja á byssur þær fáu, til voru“. Þar vörðust landsmenn alsírskum sjóræningjum sem sigldu inn á höfnina á tveimur skipum. Meðal þeirra sem voru skikkaðir í skansinn var Jón Indíafari, reynd fallbyssuskytta. „Fýruðu þeir nokkrum stykkjum þeim á móti og ránsmenn í sama máta af sínum skipum á land upp.“
SkansinnÞegar annað ránsskipið festist á grynningum fullt af herteknum Íslendingum vildu varnarliðar skjóta án afláts og frelsa fangana um borð en Danir héldu aftur af þeim. Ruddu sjóræningjarnir ýmsu ránsgóssi frá borði, reru með fanga í hitt skipið og sigldu brott með aðfallinu til Vestmannaeyja.
Fjórum áratugum eftir þetta barst Friðriki Danakonungi sú flugufregn til eyrna að fjandvinir hans Englendingar hygðust hertaka Ísland. Gerði hann út Ottó Bjelke með stórt stríðsskip til að bæta varnirnar hér á landi.

Skansinn

Upplýsingaskiltið – Skansinn í baksýn.

Svokallaður skanstollur var lagður á til að fjármagna gerð virkis „til varnar fyrir útlenzkum hervíkingum“. Árið 1668 var skans reistur í nesinu norðan við Bessastaðatún, ferkantaður, tuttugu málfaðmar á hvern veg, tveggja mannhæða hár og „með fallbyssu besettur“. Ottaskans, eins og hann var kallaður, þótti lítilsverðar með hliðsjón af þeim fjármunum sem til hans runnu, „einn lítill skansvottur í afsökunarnafni ásýndar“.
Árið 1809 lét Jörundur hundadagakonungur reisa vígi við Arnarhól til varnar Reykjavík. Voru fallbyssurnar í Bessastaðaskansi fluttar þangað þótt hálfsokknar væru og ryðgaðar, sex að tölu fyrir sex punda skot, og dyttað að þeim svo hægt yrði að hleypa af þeim skotum. Eftir að skammvinnum valdatíma Jörundar lauk var lítt hirt um virkið og segir í árbókum Espólíns að flestum fallbyssunum hafi verið sökkt í sjó.
Leifar af fallbyssum frá Bessastöðum voru fluttar í Þjóðminjasafn Íslands. Í fornleifakjallaranum á Bessastöðum getur að líta fallbyssu og kúlur sem taldar eru vera úr Bessastaðaskansi.

Bessastaðaland

Bessastaðir

Bessastaðir.

Flóðs og fjöru gætir í Bessastaðatjörn síðan ósinn var stíflaður árið 1953. meðan enn fjaraði í tjörninni kom upp með fjöru brík frá Prentsmiðjuflöt, þar sem var prentsmiðja Skúla Thoroddsen snemma á 20. öld og liggur hún að Stekkjarmýrarhól. Var sú leið oft farin, ekki síst ríðandi og nefndist Steinboginn.
Hjá Sjóbúðaflöt er tóft sem kallaðist Sjóbúð og enn fremur mun þarna hafa verið uppsátur, Bessastaðavör.
Í Bessastaðatjörn eru hólmar þar sem æður verpir. Bessi, bóndi á Bessastöðum, er sagður heygður í þeim stærsta, Bessahólma, hinir tveir eru manngerðir í tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Kóri fékk nafn eftir fæðingarstað Ásgeirs í Kóranesi á Mýrum.
Austan við Skansinn eru veggjarústir, trúlega úr Skólanausti þar sem skólapiltar geymdu bát sinn.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Á Sauðatanga eru leifar af sauðaborgum og ef til vill hrossaskjóli.
Skothúsið, hóll með sýnilegum tóftum á, þar sem hæst ber á Bessastaðanesi, hefur verið fyrirtaks byrgi til gæsaveiða. Grjóthlaðnir veggir skammt vestan við byrgið kunna að hafa verið rétt eða hrossaskjól.
Tóftarbrot eru á Ranatá og Vestaritanga en hlutverk þeirra er ekki þekkt.
Í Kringlumýri er ríkt fuglalíf og þar eru víða niður við sjó fornar hringlaga grjóthleðslur fyrir æðarvarp.

Tóftir af bænum hans Óla skans

Skansinn

Skansinn og bær Óla skans.

Á 19. öld var reist lítið býli við Seyluna, hjáleiga frá Bessastöðum, sem nefnt var eftir Skansinum. Þar var búið til ársins 1927. þekktastur ábúenda er án efa Ólafur Eyjólfsson, Óli skans kallaður, sem bjó þar á ofanverðri 18. öld. Gamanvísa um hann er sungin enn í dag, en afbökuð.
Rétt er hún svona:

Óli Skans, Óli Skans,
er hér á róli.
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjóli.
Óla er kalt á kinnunum,
Fía vill ei orna honum.
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.

Gísli Jónsson listmálari bjó síðast í Skansinum með seinni konu sinni Björgu Böðvarsdóttur við bjargneyð og einangrun.
Málverk Gísla prýddu veggi og meðal þeirra fegurstu er myndin sem hér fylgir af Skansinum og hann gaf konu sinni með rósamáluðum ramma utan um.“

Óla skans er lýst svo

Skansinn

Ljóðið um Óla skans.

Salvör Kristjana Gissurardóttir bloggar um Óla Skans árið 2018. Þar segir hún m.a.: „Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, en allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt og sítt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans, og er við hann kennt hið alkunna danslag, sem allir þekkja.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – Skansinn.

Ólafur þessi var vinnumaður nokkur ár hjá móður minni, og var hann einn fyrsti háseti hjá mér, er ég byrjaði formennsku. Hann var liðlegur sjómaður, og féll mér ágætlega við hann. Ólafur varð síðar holdsveikur og dó á spítalanum í Laugarnesi.“

Átti Óli skans sem sagt enga konu sem hét Vala og var hann ekkert tengdur skansi nema að því leyti að hann ólst upp á litlum bæ í lendingunni á Bessastöðum?

Óli skans virðist hafa vakið upp sköpunarkraft skálda og Stefán Jónsson yrkir um Óla og í kvæðum Stefáns hefur Fífa breyst í Völu. Svo hefur Loftur Guðmundsson líka vísun í Óla skans oftar en einu sinni í kvæðinu Réttarsamba.

Bessastaðanes

Skólanaust við Skansinn.

Ég giska á að fyrsta vísan um Óla skans þar sem hann vildi láta Fíu orna sér hafi verið sungin við ákveðið danslag og svo hafi það fylgt Óla eftir, dansarnir breytast með tímanum og ég man ekki hvað dansinn hét sem maður lærði í danstímum bernskunnar og undir var spilað og sungið lagið um Óla skans, hét dansinn skottís eða eitthvað annað? En þessi danstaktur tíðarfarsins sem fylgir Óla skans með nafn sem minnir á dans kveikir líka upp fylgikonur, Fía og Vala og Gunna. Fía hlýjar Óla, en Vala ráðskast með hann.

Lagið „ÓLI skans“

Óli skans, Óli skans,
ógnar vesalingur,
Vala hans, Vala hans
veit nú hvað hún syngur.
Óli, Óli, Óli skans.
Vissulega vildu fáir
vera í sporum hans.

Óli er mjór, Óli er mjór.
Óli er líkur fisi.
Vala er stór, Vala er stór.
Vala er eins og risi.
Óli, Óli, Óli skans.
Sjá hve þú ert sauðarlegur,
segir konan hans.

Þú ert naut, þú ert naut.
Þannig hóf hún tölu.
Óli gaut, Óli gaut
augunum til Völu.
Óli, Óli, Óli skans.
Ákaflega önuglynd
er eiginkonan hans.

Óli hlaut, Óli hlaut
auman reynsluskóla.
Vala braut, Vala braut
viðbeinið í Óla.
Óli, Óli, Óli skans.
Voðalegur vargur er hún
Vala, konan hans.

Skansinn

Upplýsingaskiltið um Skansinn og Bessastaðanes – bær Óla skans í baksýn við Skansinn.

Heimildir:
-Upplýsingaskilti við Skansinn á Bessastaðanesi.
-https://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/2214985/
-Kristinn Jóhannesson, Þættir úr landvarnasögu Íslendinga – Saga, 1. tölublað (01.01.1968), bls. 122-138.
-Kvæði Stefáns Jónssonar Harpan, 9-12. tölublað (01.12.1937), bls 186.
-Skansinn og Bessastaðastofa (ferlir.is).

Skansinn

Frá vígslu upplýsingaskiltisins við Skansinn.

Garðar

Fjallað er m.a. um „Séra Markús Magnússon í Görðum á Álftanesi“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1992 og Alþýðublaðinu árið 1958. Í síðarnefndu skrifunum er getið um tengsl Markúar og mannvirkja í og við Kaldársel.

Í Lesbókinni segir:

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

„Næstan merkisklerka sem setið hafa í Görðum má telja Markús Magnússon (1748-1825) sem þjónaði Álftnesingum frá 1780 til æviloka. Hann hafnaði biskupsembætti á Hólum, en gegndi um skamma hríð biskupsdómi í Skálholti 1796-1797. Markús lét málefni er vörðuðu bættan þjóðarhag nokkuð til sín taka. Hann var m.a. einn af stofnendum Landsuppfræðingarfélagsins 1779 og hvatti samsveitunga sína mjög til jarðabóta og garðyrkju (Páll Eggert Olason, 1948-1952. HI-.47).
Nálægt hálfri annarri mílu frá Hafnarfirði beygðum við upp frá sjónum að litlu bæjarþorpi, sem heitir Garðar. Þar er prestsetur og kirkja en fáein kot umhverfis aðalbýlið.
Presturinn heitir Markús Magnússon. Hann er prófastur eða umsjónarmaður kirknanna í Gullbringusýslu. Auk heimakirkjunnar í Görðum þjónar nann einnig Bessastaðakirkju… . [P]restsetrinu [fylgir] stórt, grösugt land.
Við heilsuðum upp á síra Markús og sátum stundarkorn inni hjá honum. Hýbýlum hans verður ekki hrósað fyrir mikil þægindi, en hann hefir nærri lokið við að láta byggja sér nýjan bæ í grennd við hinn gamla, og þar fær hann miklu betri húsakynni. Hann á dálítið bókasafn, 100-150 bindi. (Henry Holland, 1960:71.)“

Kaldársel

Fjárborg á Borgarstandi við Kaldársel. Myndin er tekin af Daniel Bruun 1898.

Í Alþýðublaðinu segir:
„Enn segir í Ferðabók Sveins: Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta eru eins konar fjárhús, mönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.“ Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðirin að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum.
Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst af þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar i kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.“

Að ofan má sjá að nefndur Markús hafi látið byggja bæði fjárborgirnar á Borgarstandi sem og hlaðið um fjárskjólin norðan hans, væntanlega í kringum aldarmótin 1800.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. desember 1992, Gísli Ragnarsson; Kirkjustaðurinn á Görðum, bls. 40.
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, Stefán Júlíusson; Garðar á Álftanesi, bls, 7.

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

Helgadalur

Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;

Helgadalur

Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.

•Smyrlabúðarhraun
•Gráhelluhraun
•Lækjarbotnahraun
•Urriðakotshraun
•Hafnarfjarðarhraun
•Garðahraun
•Gálgahraun

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.
1. Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
2. Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði.
3. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.

Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.

Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.

Helgadalur

Í Helgadalshellum.

Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.

Hrauntjarnir og -traðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið. Hrauntjarnir mynduðust t.d. í Kringlótturgjá og í Gjánum við Kaldársel, en hraunið, Helgadalshraun / Kaldárhraun, rann úr þeim, bæði neðanjarðar er mynduðu hraunrásir er síðan urðu að hellum líkt og sjá má í Helgadal. Stærstu hrauntraðirnar, auk Búrfellsgjár og Selgjár, eru Lambagjá og Vesturgjá.

Margir hraunhellar, auk hellanna í Helgadal, eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir (Skátahellir) yfir 200 m langur, en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.

Hér má sjá MYNDIR úr Helgadalshellunum.

Helgadalur

Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.

Vífilsstaðasel

Hér verður lýst fjórum leiðum í Gjáarrétt, sem er neðst í Búrfellsgjá. Leiðirnar eru: Selsleið, Hlíðarleið, Hjallaleið og Kolhólaleið. Upplýsingarnar eru úr bókinni Áfangar, ferðabók hestamannsins (1986).

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Hafa ber í huga að framangreindar götur hafa og verið nefndar öðrum nöfnum, bæði að hluta og í heild. Áður en farið er í tilvitnaða frásögn má hér sjá aðrar lýsingar, sem skýrast síðar.
„Austan [Reykjanes]brautarinnar var stígnum fylgt til suðurs upp með Svínahrauni, en síðan vikið af honum og Jónshellnastíg fylgt að Jónshellum. Gróið er yfir hann að mestu, en þó má á stöku stað sjá móta fyrir henni og fallegar hleðslur á köflum. Skammt ofan við hellana liggja Moldargötur. Haldið var upp með vestanverðum hraunkantinum að Urriðakotshrauni, framhjá Maríuhellum og Dyngjuhól (var svo nefndur af Urriðakotsbúum, en Hádegishóll af Vífilsstaðafólki – eyktamark þaðan) með Dyngjuhólsvörðum og götunni fylgt langleiðina upp að Stekkjartúnsrétt (efri), en áður en komið var alveg að henni beygir gatan inn í hraunið, við Hraunholtsflöt. Þar tekur Grásteinsstígur við og liggur síðan til austurs með norðanverðum hraunkantinum, framhjá heillega hlöðnu fjárhúsi (Gráhellufjárhúsi) við Gráhellu, áfram inn á Flatir.

Jónshellar

Jónshellar.

Úr þeim liggur gatan upp á hraunhrygg, framhjá fjárskjóli utan í hraunklettum og áfram framhjá Sauðahellunum nyrðri undir Kolanefi. Þaðan liggur gata upp (suður) með Vífilsstaðahlíðinni og niður í Selgjá að norðanverðu. Grásteinsstígur nær að Kolanefninu. Ekki vannst að þessu sinni tími til að skoða fjárborgina norðan götunnar sem og fjárhústóftirnar við hana. Selgjá og minjarnar í henni eru hins vegar sérstakur kapítuli og verður hvorutveggja lýst í annarri FERLIRslýsingu.“
Í enn annarri lýsingu segir um þessar götur við Gjáarrétt: „Í Búrfellsgjá, við mannvirkin, má sjá a.m.k. þrjár fornar götur. Ein liggur upp úr gjánni að norðanverðu gegnt réttinni, önnur upp úr gjánni sunnanverðri skammt austan við Gerðið og sú þriðja til vesturs við mörk Selgjár. Sú síðastnefnda mun hafa heitið Gjáarréttargata (Gjáarrréttarstígur) og lá áleiðis niður að Urriðakoti annars vegar og Vífilsstöðum hins vegar. Hinar göturnar hafa verið leiðir annars vegar heim að Vatnsenda og Elliðavatni og hins vegar niður að Setbergi og í Hafnarfjörð. Fjórða gatan hefur legið upp Búrfellsgjá og síðan upp úr henni yfir á Selvogsgötu ofan Helgadalsmisgengisins því þær útréttir, sem Selvogsbændur urðu að fara í voru, auk Eldborgarréttar Grindvíkinga, Lögbergsréttar við Reykjavík og Ölfusréttar, Gjáarréttin í Búrfellsgjá…“

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Selsleiðinni er lýst á eftirfarandi hátt (úrdráttur): „Við hefjum ferð okkar í hesthúsahverfi Gusts í landi Smárahvamms í Kópavogi. Leið okkar liggur um Hnoðraholt. Holtið dregur nafn af Hnoðranum, en það er talsvert áberandi fuglaþúfa á holtinu norðvestanverðu þar sem það er einna hæst. Hnoðrann ber við loft og sést vel, þegar horft er til austurs úr hesthúsahverfinu sunnanverðu. Alveg við Hnoðrann eru fallegar, jökulnúnar grágrýtisklappir.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Þegar gatan er riðin upp úr hverfinu, verður fyrst fyrir á hægri hönd landspilda í brekku. Þar fyrir sunnan er Vífilsstaðaland. Landamerkjalínan milli Fífuhvamms (Smárahvamms) og Vífilsstaða var dregin frá Hnoðranum í svonefnt Norðlingavað í Arnarneslæk. Ofan við húsaþyrpinguna og sunnanvert í holtinu er steinsteypt vélbyssuvígi frá árum síðari heimstyrjaldar.

Finnsstaðir

Finnsstaðir /Finnsstekkur.

Reiðgatan (Selsleið) sveigir nú til austurs eftir holtinu. Á hægri hönd fyrir neðan okkur eru mikil tún frá Vífilsstöðum. Þetta er svokölluð Vetrarmýri. Áður en berklahælið (hvítmálaður spítalinn blasir við augum) var reist á Vífilsstöðum var þar í raun og veru aðeins kotbýli. Hornsteinninn að Vífilsstaðahæli var lagður 31. maí 1909 og fyrsti sjúklingurinn flutti þangað inn 5. september 1910. Bygging hælisins gekk með ólíkindum vel, þótt unnið væri að þeirrar tíðar hætti. Möl og annað byggingarefni var til dæmis flutt á hestvögnum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Vetrarmýri var ótrúlega blaut. Þar var ekki fært með hesta og illa fært gangandi manni. Ef til vill tekur mýrin nafn sitt af því að hún nýttist skepnum fyrst þegar fraus á vetrum. Arnarneslækur á upptök sín í mýrinni vestast.  Upp úr 1920 var byrjað að handgrafa skurði í mýrinni og þurrka hana. Árið 1922 var landið svo tætt og sléttað með svokölluðum þúfnabana. Voru Vífilsstaðir einn af fyrstu stöðunum þar sem þessi forveri nútíma dráttarvéla var notaður. 

 

Ræktunarframkvæmdir heima við Vífilsstaðahælið hófust fyrr, strax árið 1916 þegar ríkissjóður tók við rekstri hælisins úr höndum áhugamannafélags þess, er hælið reisti.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Þegar mest var voru um eitt hundrað gripir í fjósi á Vífilsstöðum og heyfengur mikið á fjórða þúsund hestburði.
Þar sem reiðgatan milli Vetrarmýrar og Leirdals er lægst heitir Leirdalsop. Framundan er Smalaholt og Vífilsstaðavatn. Þar rétt við bílveginn, neðan undir Smalaholtinu, eru rústir af gömlu býli eða peningshúsum, nema hvort tveggja sé. Á korti heita þetta Finnsstaðir, en engar heimildir þekkjum við um að hér hafi byggð verið. Í Jarðabókinni frá 1703 er Finnsstaða ekki getið. Hugsanlega er að þarna hafi verið stekkur frá Vífilsstöðum.
Þá er komið upp á Vífilsstaðaháls. Þaðan er fagurt að horfa yfir Vífilsstaðavatn. Við það fá Garðbæingar neysluvatn sitt úr borholu. Nefna sumir það Vatnsbotna, en aðrir Dýjakróka.

Selgjá

Selgjá – stekkur.

Við ríðum með Kjóavöllum vestanverðum og stefnum þaðan til suðausturs. Þarna í brekkunni, utan í Sandahlíð og suðvestan Kjóavalla,  verður fyrir okkur steinsteypt mannvirki, greinilega nokkuð gamalt. Þótt mannvirki þetta sé ekki ýkja stórt sjáum við strax að ekki hefur verið spöruð í það steypan. Þegar betur er að gáð má sjá innan við þykka veggim sem skýla innganginum, ofn úr járni, rammbyggilegan eins og aðra hluta þessa mannvirkis. Raunar er þetta mannvirki leifar frá stríðsárunum síðari. Var þetta „prengjuofn“ þar sem var eytt gömlum skotfærum og sprengjum, sem Bandaríkjamenn þurftu að losa sig við.
Þá er haldið upp Básaskarð. Innar er hæðardrag. Á því eru fjárhúsarústir og eru þær frá Vatnsenda. Rústirnar vera þess merki að húsin hafi verið

Vatnsendi

Vatnsendi – fjárhús.

nokkuð stór og myndarleg. Húsunum hefur verið valinn staður nærri mörkum Vífilsstaðalands, en þó tæplega svo að bryti í bága við ákvæði Jónsbókar og yrði fellt undir ágang.
Framundan er allhá hæð með vörðu efst. Hún heitir Arnarbæli. Um hana liggur landamerkjalína Vatnsenda og Vífilsstaða. Grunnavans syðra er neðar. Á Hjallabrún stendur Vatnsendaborg. Sést hún vel af Vatnsásnum, listilega hlaðin. Mjög stórt grjót er í hleðslunni neðst, en borgin er nú því miður að hluta fallin. Dyrnar á borginni vita í norðvestur. Borgin er hringlaga og sem næst sex metrar í þvermál að innan. Meira verður rætt um fjárborg þess í lýsingunni um Hjallaleið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Línuvegur liggur þarna skammt frá. Austan við háspennumastur nr. 29 er grösugur hvammur. Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, sem nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum, líklega svefnhúsi, eldhúsi og mjólkurhúsi. Sunnanvert við aðalrústina eru tvær aðrar rústir, ef til vill kvíar og stöðull. Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er einir fimmtíu fermetrar að utanmáli. Víðistaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703, þótt undarlegt megi virðast.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Að þessu seli eins og öðrum hefur legið gata, selgata. Okkur sýnist að með góðum vilja megi fylgja selgötunni í austanverðri Vífilsstaðahlíð, ofan Grunnavatns nyrðra og niður Grunnavatnsskarð vestanvert.
Til suðurs sést grunn  en breið gjá í hrauninu fyrir neðan. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barna gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.

Selgjá

Selgjá.

Athyglisvert er að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.

Við norðurenda Selgjár er reisuleg varða. Við skulum leggja hana á minnið, því að þar hjá eru gömul og að okkar mati mjög merkileg fjárbyrgi, sem við eigum eftir að huga að síðar, sjá lýsingu á Hlíðarleið.
Framundan er Búrfellsgjá og Gjáarrétt. Við höldum í gerðið og hvílum þar, sjá Kolhólsleið.“

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Heidmörk

Sigurður málari Guðmundsson kom fyrstur fram með hugmyndina um friðun Heiðmerkur árið 1870. Hann taldi nauðsynlegt að Reykvíkingar gætu notið útivistar í geðfelldu umhverfi í nágrenni bæjarins. En góðir hlutir gerast hægt – nú sem fyrrum.

Heiðmörk

Heiðmörk – skilti.

Það var þó ekki fyrr en 1936 að Hákon Bjarnason skógræktarstjóri kynnti hugmyndina opinberlega, en hann taldi svæðið ákjósanlegt til útivistar fyrir almenning. Árið 1946 var Skógræktarfélag Reykjavíkur stofnað og fékk þá svæðið í vöggugjöf. Heiðmörk var friðuð í nokkrum áföngum á árunum 1950-1958 frá Elliðavatni að Vífilsstaðahlíð. Nú er Heiðmerkursvæðið rúmir 3000 ha. að stærð, að Rauðhólum, en þeir voru friðlýstir árið 1961. Þann 25. júní 1950 var Heiðmörk vígð, en þá gróðursetti Gunnar Thoroddsen borgarstjóri, greniplöntu á Vígsluflöt.

Heiiðmörk

Heiðmörk.

Fyrsta gróðursetningin fór þó fram vorið 1949 þegar starfsmenn Skógræktarfélagsins gróðursettu 5000 greniplöntur í svæði sem nú heitir Undanfari. Árangur skógræktarstarfsins er greinilegur og vex nú upp á 800 ha. Svæði með yfir 60 tegundum trjá og runna. Nokkur trjánna hafa náð 20 m hæð. Mikil tilraunastarfsemi með mismunandi trjátegundum og ræktunaraðferðum hefur farið fram undanfarna áratugi en nú er aðallega gróðursett sitkagreni, stafafura og birki. Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur, landnemafélög og vinnuhópar Vinnuskóla Reykjavíkur og Landsvikjunar hafa séð um gróðursetninguna. Nú hafa verið gróðursetta yfir 5 milljón plöntur í svæðið.

Heiðmörk

Heiðmörk – kort.

En aðdragandinn var kannski ekki eins auðveldur og virðist skv. framangreindu. Náttúruvernd og markviss nýting umhverfisins hefur jafnan verið að frumkvæði fárra er séð hafa tilganginn umfram aðra. Þegar skilningurinn verður öðrum augljós skapast þó jafnan grundvöllur fyrir jákvæðari þróun þessa til lengri framtíðar.
Sigurður Nordal skrifaði grein í Lesbók MBL 11. maí 1941 sem hafði fyrirsögnina „HEIÐMÖRK. Um var að ræða erindi sem hann hafði flutt á útvarpskvöldi Skógræktarfjelagsins 2. maí s.á.

Heiðmörk

Heiðmörk.

Erindið var síðar gefið út í safnriti Sigurðar, List og lífsskoðun, 3. bindi, bls. 317-323. Af þessu tilefni sagði Sigurður m.a.: “Til ills fórum vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta” – er í Landnámu haft eftir Karla, þræli Ingólfs Arnarssonar, þegar fyrst var numið hér land. Mörgum manni, sem fer um aðalþjóðveginn til Reykjavíkur, austan yfir Fjall, mun koma eitthvað svipað til hugar. Það eru mikil umskipti að láta að baki sér hið grösuga víðlendi þar eystra og fara um Svínahraun og Sandskeið. Og svo má heita, að því nær sem dregur höfuðstaðnum, þegar komið er niður á Árbæjarmela og yfir Elliðaár, því óyndislegri verði þessi leið frá náttúrunnar hendi, mýrar og hrjóstug holt á víxl. Að vísu er margvíslega fegurð að sjá úr Reykjavík og í nánd við hana… Raun ber því líka vitni, að næsta nágrennið laðar ekki bæjarbúa til sín.
Nýlegar framkvæmdir í Heiðmörk - ólíkt því er áður hafst var aðÞað getur vakið hreinustu furðu að ganga á fögrum sunnudegi, hvort sem er um vetur eða sumar, út á Seltjarnarnes, inn með Viðeyjarsundum eða suður í Fossvog. Á þessum leiðum er oftast örfátt fólk á gangi, líkt og í grennd við ofurlítið þorp. Hvar eru tugir þúsundanna, sem kúldrazt hafa sex daga vikunnar við vinnu sína í bænum, innan húss og utan, og nú ættu að leita frá göturykinu, kolareyknum og húsaþvögunni, draga að sjer hreint loft, liðka sig, styrkja og hressa með eðlilegri hreyfingu, njóta fegurðar lofts, láðs og lagar? Hvar er allt fólkið?
Nú skulum við hugsa okkur, að göngumaðurinn leggi leið sína dálítið lengra frá bænum, upp á Vatnsendahæð, suður með Hjöllum, upp á Búrfell, Helgafell, upp í Grindaskörð.

Þar er hægt að vera á ferð heila sunnudaga, í dásamlegasta veðri, án þess að sjá nokkura tvífætta skepnu á sveimi.

Heiðmörk

Heiðmörk.

Eg hef einstöku sinnum tekið með mér kunningja mína, sem bornir og barnfæddir eru í Reykjavík, um þessar slóðir… – alveg gagntekinn af því að horfa yfir þetta land, eyðilegt að vísu, en með svo undarlega heiðan og sterkan svip í einfaldleika sínum. Það var ekkert annað en mjúkar, boðamyndaðara línur langra ása, einstöku lítil vötn, fáein fell, sem tóðu upp úr, og fjallasveigurinn frá Vífilsfelli til Keilis eins og skjólgarður um þessa friðarsýn. Mér fannst þá í svip, að þeta væri fegursta útsýni, sem eg ef séð. Það hafði áhrif á mig með einhvers konar persónulegum mætti, tilhaldslaust, alvarlegt, sefandi og styrkjandi í senn. Eg hafði ekkert af því skoðað, nema það sem séð varð frá þjóðveginum.

Heiðmörk

Heiðmörk – haust.

Nokkrum árum síðar, þegar eg kom heim til langdvalar í Reykjavík, byrjaði eg að kynnast því. Það voru ekki ferðalög, sem í frásögur eru færandi; sunnudagsgöngur með nestispoka á baki upp að Gvendarbrunnum, suður í Kaldársel, smám saman til nýrra og nýrra staða, sem náð varð til með því að ganga alla leið, fram og aftur, á einum degi. Þær kostuðu ekkert annað en skóslitið, og þær heimtuðu ekki önnur afrek en að taka hvorn fótinn fram fyrir annan. Eg er enginn göngugarpur, liðónýtur að klífa fjöll, hef aldrei lagt í að ganga upp á Esju, kann ekkert til þess að fara í öræfaferðir né útilegur. Mér dettur ekki í hug að efast um, að þeir menn, sem hafa dug og tækifæri til þess að ferðast um hálendi Íslands og liggja þar við, finni þar enn meiri hressingu, eflingu og æfintýri.
Þjóðhátíðarlundurinn frá 1974 illa farinn - afkomendur virðast bera takmarkaða virðingu fyrir frumkvöðlastarfinuVið skulum ganga fyrir vesturenda Elliðavatns, fram hjá beitarhúsunum og suðaustur yfir ásana. Allt í einu komum við niður í langan og mjóan dal, sem liggur til suðurs. Vestan megin er klettabelti með dálitlu skógarkjarri. Það eru Hjallarnir. Dalbotninn er víðast eggléttar grundir, aflíðandi móaflesjur að austan. Þarna er fjallaloft og fjallró, svo að ótrúlegt má þykja, að við séum ekki nema rúma 10 kílómetra frá borginni. Við göngum með Hjöllunum, beina leið að Gjáarrétt. Þar er einkennilegt um að litast, stór hellir, djúpar hraunsprungur, ein þeirra með vatnsbóli í botni og þrep gerð niður að því.

Gjáarrétt

Gjáarrétt í Búrfellsgjá.

Við höldum upp eftir Gjánni, sem hefur myndazt við að hraunstraumur hefur runnið þar fram, jaðrarnir storknað, en bráðin hraunleðjan í miðjunni skilið eftir auðan farveg. Gjáin er undrasmíð, með íhvolfum skjöldum beggja vegna, sem væru þing að að hafa bak við ræðupall í samkomuhúsi. Þegar hærra dregur, þrengist hún  og grynnist. Hraunsteinarnir verða rauðir, víða með víravirki af steinþráðum, eins og þeir væru nýstorkanðir. Og allt í einu sjáum við niður í stóran eldgíg, sem tæmt hefur allt hraunið úr sér niður Gjána. Hann heitir Búrfell.”
Þá fjallar Sigurður um næsta nágrenni, s.s. Kaldársel, Vatnsenda, Gvendarbrunna, Vífilsstaðahlíð, Húsfell, Helgafell og svæðið ofan Hafnarfjarðar.
Upplýsingar um Þjóðhátíðarlundinn - 1974“Ástæðan til þess, að eg hef gert þessar stöðvar að umtalsefni, er fyrirætlun Skógræktarfjelagsins að fá þær girtar og friðaðar. Það er tvennt, sem fyrir forystumönnum félagsins vakir; að klæða þetta landssvæði smám saman fjölbreyttum skógargróðri, ferga það og prýða, að laða fólkið af mölinni til þess að leita þar athvarfs og hressingar. Maggi Magnús yfirlæknir skrifaði hugvekju í Morgunblaðið, er hann nefndi Sumarland Reykvíkinga. Og Hákon Bjarnason skógræktarstjóri mun síðar í kvöld gera nánari grein fyrir málinu. Þetta er fyrirætlun sem á skilið óskiptan stuðning Reykvíkinga, bæði bæjarfélags og einstaklinga, og æskilegast væri, að nágrannabæirnir tveir, [Kópavogur] og Hafnarfjörður, tækju höndum saman að framkvæma hana af stórhug og myndarskap.

Heiðmörk

Heiðmörk.

Þessum þjóðgarði þarf að velja nafn, sem honum í senn sæmir vel og minnir á takmark hans og tilgang. Eg vil stinga upp á því, að hann verði kallaður Heiðmörk. Heiðmörk er fornt heiti á einu fylkinu á Upplöndum í Noregi. Mörk er skógur. Allir finna, hversu vel það fer í nöfnum eins og Þórsmörk og Þelamörk. Í því er fólginn draumur voru um að klæða landið aftur íturvöxnum trjágróðri. Heiður er bjartur, og Heimörk; hið bjarta skóglendi. – er heiti, sem vel mun fara þessu friðsæla landi með tæru lofti og litum.
Heiðmörk á að verða okkar sólskinsblettur í heiði í réttri merkinu; þar eigum við að njóta heiðríku lands og lofts betur en unnt er að gera á götum bæjanna, heiðríkju hugans, heiðríkju einverunnar.”

(Sjá Heiðmörk – kort).

Heimildir m.a.:
-Sigurður Nordal, safnritið List og lífsskoðun, 3. bindi, bls. 317-323.
-Lesbók MBL. 11. maí 1941, bls. 161-163.
-Skilti við Helluvatn í Heiðmörk – Saga Heiðmerkur.

Heiðmörk

Fjárborg í Heiðmörk.

Garðakirkja

Í Jarðabókinni 1703 eru Garðar á Álftanesi sagðir eiga selstöðu við Kaldá, væntanlega í Kaldárseli. Nú er að mestu búið að eyðileggja minjar hennar, en líklegt má telja að selstaðan geti verið allt frá því á 16. eða 17. öld. Minjar annarrar selstöðu í Garðalandi eru í Helgadal. Þar hefur verið kúasel af tóftunum að dæma, líklega frá miðöldum. Leifar þriðju selstöðuna, og þá elstu, sennilega allt frá landnámi, er að finna á Garðaflötum. Þar má einng sjá, að því er virðist fjós, skála og eldhús.

gardaflatir - minjakortÍ Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst. Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar.  Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum.

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka „at boði j Görðvm“  og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: „var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr“. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn „í kirkjugarðinum þar í Görðum“.

Gardakirkja-1Í Morgunblaðinu árið 1955 fjallar Árni Óla um sögu Garða: „Garðar á Álftanesi eru ekki taldir með landnámsjörðum, en þó mun hafa verið sett byggð þar þegar á landnámsöld.
Jörðin er í landnámi Ásbjarnar Özzurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og eftir því sem næst verður komizt, hét sá Þjóstarr, er þar bjó fyrstur. Hann var kvæntur Iðunni dóttur Molda-Gnúps, landnámsmanns í Grindavík, og er talið að þau hafi átt þrjá sonu. Einn þeirra var Þorkell, er fór einhver fyrstur manna hér á landi alla leið suður til Miklagarðs, dvaldist þar nokkur ár og var „handgenginn Garðskonunginum.“

Garðar

Garðar og nágrenni – örnefni. ÓSÁ.

Annar sonur Þjóstars var Þormóður, er bjó að Görðum eftir föður sinn. Hann var kvæntur Þuríði dóttur Avangurs ins írska, er fyrstur byggði að Botni í Hvalfirði, og smíðaði sér haffært skip úr skógi þeim er þar var þá. Getið er tveggja barna þeirra Þormóðar, Barkar er átti Hallvöru dóttur Odda Ýrarsonar, og Jórunnar. —
Landnáma segir frá því, að þeir Illugi rauði og Hólm-Starri hafi haft skifti á jörðum, konum og lausafé. Sigríður kona Illuga hengdi sig þá í hofinu á Hofstöðum í Reykholtsdal, „því að hún vildi ekki mannakaupið“. Ekki er getið um konu Starra, en líklega hefur hann tekið hana aftur þegar þannig fór um Sigríði, því að upp úr þessu fekk Illugi Jórunnar frá Görðum.
Um þessar mundir bjó í Vælugerði í Flóa sá maður er Öra hét. Svo er sagt að eftir ráðum Marðar gígju hafi hann orðið sekur þannig að hann skyldi falla óheilagur fyrir sonum Önundar bílds, nema í Vælugerði og örskotshelgi við landeign sína. Einu sinni rak Örn naut úr landi sínu og var þá veginn, og heldu allir að hann hefði fallið óheilagur. En ÞorJeifur neisti bróðir hans, keypti að Þormóði Þjóstarssyni í Görðum, er þá var nýkominn út á Eyrarbakka, að hann helgaði Örn. „Þormóður skaut þá skot svo langt af handboga, að fall Arnar varð í örskotshelgi hans“. Má á þessu sjá. að Þormóður hefur verið íþróttamaður og nafnkunnur bogmaður. Synir Þjóstars hafa því þegar gert garðinn frægan, þótt ekki fari af þeim neinar sögur. Og allt frá þeim tíma hafa Garðar verið merkur staður.

gardakirkja-3

Kirkja hefur sennilega verið reist þar skömmu eftir kristnitöku. Var hún helguð Pétri postula og er til skrá um presta þar síðan 1284. Þar var í gamla kirkjugarðinum svonefndur „vökumaður“. Var það trú hér á landi um eitt skeið, að sá, sem fyrstur væri grafinn í kirkjugarði, rotnaði ekki, heldur heldi stöðugt vörð um garðinn. Segir sagan, að eitt sinn er verið var að taka gröf í útnorðurhorni kirkjugarðsins, áður en hann væri færður inn“, þá var komið niður á rauðklæddan mann, órotinn, og skipaði prestur að byrgja gröfina þegar. Þetta hefur átt að vera einhver fornmaður í litklæðum, og hann vakir enn yfir kirkjunni, sem nú er líka utangarðs.

Garðar

Garðakot.

Torfkirkja var í Görðum öld fram af öld. En um miðja fyrri öld er komin þar timburkirkia. Hún entist illa og var orðin óhæf til messugerðar 1878. Þá var Þórarinn Böðvarsson prestur að Görðum. Hann vildi að söfnuðurinn tæki að sér kirkjuna og flytti hana til Hafnarfjarðar, en þar var þá meginhluti safnaðarins. Sóknarnefndin mun ekki hafa treyst sér til þessa, og varð það því úr, að ný kirkja var reist að Görðum og var hún hlaðin úr steini. Þvkir mér líklegt að notað hafi verið kalk úr Esjunni til þess að líma griótið saman. Var kalkbrennslan í Reykjavík þá í fullum gangi, og þeir munu hafa verið vel kunnugir Egill Egilsen forstjóri kalkbrennslunnar og séra Þórarinn Böðvarsson. Kirkja þessi var reist árið 1879. Þótti hún merkilegt hús.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Þegar kom fram yfir aldamótin var farið að tala um það í fullri alvöru að reisa nýa kirkju í Hafnarfirði, og var séra Jens Pálsson því mjög fylgjandi. Hann átti þá 2500 kr hjá kirkjunni, en bauðst til þess að láta þá skuld falla niður, ef söfnuðurinn vildi taka kirkjuna að sér og reisa nýtt guðshús í Hafnarfirði. Varð það svo úr, að með samningi gerðum 6. marz 1910, afhenti hann sóknarnefnd Garðakirkju til umsjónar og fjárhalds, og með þessum samningi gaf hann eftir skuld kirkjunnar við sig. Eigi varð þó úr því þá þegar að farið væri að reisa kirkju í Hafnarfirði. En það sem reið baggamuninn í því efni var stofnun fríkirkiusafnaðar í Hafnarfirði veturinn 1913, og að hafin var bygging fríkirkju bar þegar á sama ári. Þá vildi þjóðkirkjusöfnuðurinn ekki láta sitt eftir liggja og reisti þar kirkju árið eftir. Var þá ákveðið að leggia Garðakirkju niður og flytja gripi hennar í nýu kirkjuna.
gardakirkja-7Seinasta guðsþjónusta var haldin í Garðakirkju 23. sunnudag eftir trinitatis 1914 (15. nóvember), en þjóðkirkjuna nýju í Hafnarfirði vígði Þórhallur Bjarnarson biskup 20. desember sama ár.
Kom nú til orða að selja Garðakirkju til þess að afla fjár vegna kirkjubyggingarinnar, en það fórst þó fyrir. Stóð nú Garðakirkja auð og hrörnaði óðum, svo að blöskraði öllum þeim, sem báru hlýjan hug til hennar. Og árið 1916 bundust 10 menn samtökum um að bjarga kirkjunni. Það voru þeir: Ágúst Flygenring kaupmaður, Carl Proopé kaupmaður, Chr. Zimsen umboðsmaður, Einar Þorgilsson kaupmaður, Gunnar Egilsson skipamiðlari, Jes Zimsen kaupmaður, Jón Einarsson verkstjóri, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason verkstjóri og Þórarinn Egilsson útgerðarmaður. Eru þeir nú allir látnir, nema inn síðast nefndi. Einhver viðgerð fór nú fram á gömlu kirkjunni, en dugði lítt. Tímans tönn nagaði viði kirkjunnar jafnt og þétt, þótt lítið bæri á.
GarðakirkjaSeinast var svo komið, að menn óttuðust að turninn mundi hrynja. Þá var hann rifinn, þakið tekið af og allt rifið úr kirkjunni innan veggja. Síðan hefur steintóttin staðið þarna gnapandi um langa hríð, en hún hefur látið furðu lítið á siá. Vindar hafa gnauðað á henni, regnið hefur lamið hana, frost og snjór hafa kreist hana köldum greipum, en hún stóðst allt þetta. Má á því sjá hve vel hefur verið gengið frá veggjunum. Eru þeir og snilldar vel hlaðnir, og skyldi steinninn hafa verið límd ur með kalki úr Esjunni, þá þarf engan að undra þótt kirkjurústin hafi staðið af sér öll veðraáhlaup um mörg ár, því að það kalk hefur reynzt óbilandi. Sama sumarið og Garðakirkja var reist, var reist steinhús í Reykjavík og límt með Esjukalki. Það stendur enn í Lækjargötu og sér ekki nein ellimörk á því, enda þótt það sé 75 ára gamalt. Eins hefði kirkjan getað staðið enn hnarreist og tíguleg, ef henni hefði verið sómi sýndur.

Stifnishólar

Stifnishólar.

Þótt marga tæki það sárt hvernig fór um Garðakirkju, þá var eins og örlög hennar væri orpin þögn og hyldist í einhverri móðu. Það var engu líkara en að Hverfisdraugarnir sem séra Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum, setti niður í Stíflishólum á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Garða fyrir tvö hundruð árum, hefði losnað og villtu nú mönnum sýn hálfu meir en þeir höfðu áður gert. Það var eins og aðalsöfnuðurinn, sem nú átti heima í Hafnarfirði, gæti ekki séð út að Görðum. En öldruðu fólki úr Garðahverfinu, sem fór til kirkju inn í Hafnarfjörð, vöknaði jafnan um augu er það gekk fram hjá rústum Garðakirkju. Nú er niðurlægingar tímabil gömlu Garðakirkjunnar senn á enda. Hún verður bráðum færð í sinn fyrra búning. Árið 1053 var Kvenfélag Garðahrepps stofnað, og á stofnfundi þess var þegar rætt um, að eitt af því sem félagið ætti að beitast fyrir, væri að reisa Garðakirkju úr rústum.

gardar-229

Síðan hafa 60 samhuga konur unnið að þessu í kyrrþey. Og þar sem konurnar leggjast á sveif, á við gamla vísan: Fram skal ganga haukur núna hvort hann vill eður ei. Hér mun og svo fara. Það er eins og sérstök blessun hafi fylgt þessu máli. Fjöldi manna, sem ber hlýjan hug til Garðakirkju, en hafði gleymt henni, hefur nú vaknað við, er konurnar voru komnar á stað, og ýmist lagt fram fé, eða lofað fé til viðreisnar kirkjunni. Aðrir munu á eftir koma. Og sóknarnefndin hefur þegar afhent félaginu kirkjurústina til eignar. Konurnar hafa fengið sérfróða menn til þess að athuga veggina til þess að ganga úr skugga um, að þeir sé enn svo sterkir að forsvaranlegt sé að byggja ofan á þá. Og veggirnir hafa staðizt prófið. Verður nú brátt hafizt handa um að gera við veggina og koma þaki á kirkjuna. Er það ætlan Kvenfélagsins að gera kirkjuna aftur sem allra líkasta því er hún var áður, meðan hún var ein af snotrustu og merkilegustu kirkjum landsins. En þegar því er lokið er það annarra en Kvenfélagsins að ákveða hvort hún skuli gerð að sóknarkirkju aftur.

Garðahverfi

Garðahverfi – horft frá Hvaleyri 2024.

Margar minningar eru bundnar við Garða, og sú ekki sízt, að þar fæddist Jón biskup Vídalín árið 1666. Finnst mönnum ekki eðlilegt að kirkja ætti að vera einmitt á þeim stað, þar sem áhrifamesti kennimaður íslands fæddist? Garðakirkja var upphaflega helguð Pétri postula, þeim mikla kennimanni frumkristninnar. Nú þegar hún rís af grunni aftur, þá mætti hún vel heita Vídalínskirkja. – Á. Ó.“

Heimild:
-Ísl. fornr. XI: 112.
-Ísl. fornr. I: 58-9, 78, 332.
-Ísl. fbrs. XII: 9.
-Ísl. fbrs. I: 498.
-Ísl. Fbrs. I:41-2, 313.
-Lesbók Morgunblaðsins 25. sept. 1955, bls. 519-521.
Garðakirkja

Hafnarfjörður

Í Morgunblaðinu 1964 er m.a. fjallað um makaskipti á jörðum í Hafnarfirði og Garðahreppi undir fyrirsögninni „Garðahreppur og Hafnarfjörður skipta á jörðum“: „Matthías Á. Mathiesen hafði framsögu á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til laga um lögsagnar umdæmi Hafnarfjarðar-kaupstaðar. Þar er lagt til, að kaupstaðurinn og Garðahreppur skipti á löndum. Flutningsmenn frumvarpsins eru Matthías Á. Mathiesen, Geir Gunnarsson, Jón Skaftason og Birgir Finnsson. Frv. hljóðar svo ásamt greinargerð:

Balavarða

Landamerkjavarða við Bala.

1. gr. Hafnarfjörður skal vera lögsagnarumdæmi út af fyrir sig með kaupstaðarréttindum. Takmörk kaupstaðarsvæðisins eru þessi:
A. 1. Bein lína úr „Balaklöpp: við vesturenda Skerseyrarmalar í vörðu við veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, sem er gamalt hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum.
3. Þaðan bein lína í Miðaftanshól, sem er gamalt miðaftansmark frá Vífilsstöðum.
4. Þaðan í vörðu í Stórakrók.
5. Þaðan í vörðu í neðstu jarðbrú í Kaplakrika.

Engidalsvarða

Engidalsvarðan.

6. Eftir Kaplalæk í vörðu við hraun jaðarinn, beint vestur af stað þeim, þar sem Kaplalæk er veitt úr eldri farvegi sínum, rétt norðan við Baggalár, vestur af Setbergslandi.
7. Þaðan bein lína í stíflugarð rafstöðvarinnar.
8. Eftir stíflugarðinum, yfir tjörnina.
9. Upp með rafstöðvartjörninni að sunnan, þar til kemur að nýju Reykjanesbrautinni.
10. Meðfram norðurbrún nýju Reykjanesbrautarinnar, þar til hún sker eignar markalínu Setbergs og Hafnarfjarðar, sem er úr stíflugarðinum í markaþúfu við gömlu sand gryfjurnar, þ.e. um miðja lóðina nr. 3 við Stekkjarkinn.
11. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar.
12. Þaðan í Lækjarbotna.
13. Þá í Gráhellu.
14. Þaðan í miðjan Ketshelli.

Hádegishóll

Varða á Hádegishól.

15. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegi í Kaplatór (Strandartorfur).
16. Þaðan bein lína í Markraka.
17. Þaðan bein lína um Melrakka gil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi.
18. Þaðan bein lína í Markhelluhól.
19. Þaðan í Hraunkrossstapa.
20. Þá í Miðkrossstapa.
21. Þá í Hólbrunnshæð.
22. Þá í Stóra-Grænhól.
23. Þá í Skógarhól.
24. Og í Markaklett við Hraunsnes.

Langeyri

Landamerkjavarða við Hvíluhól v/Hrafnistu.

B. Sá hluti jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar, sem Hafnarfjarðar-kaupstaður á. Allt land innan ofangreindra takmarka telst til lögsagnar-umdæmisins. Kaupstaðurinn skal setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og halda þeim við.
Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu skal jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins.
2. gr. Með lögum þessum eru úr gildi felld lög nr. 33/1929, ásamt breytingu á þeim lögum, nr. 31/1959, um bæjarstjórn í Hafnarfirði, s
vo og 3. tl. 1. gr. laga nr. 11/1936.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

 

Middegisholl-varda

Varða á Miðdegishól.

Bæjarstjórnin í Hafnarfirði og sveitarstjórnin í Garðahreppi hafa með bréfi, dags. 27/4 1964, sem prentað er sem fylgiskjal hér á eftir óskað eftir því, að frumvarp til laga um breytingu á lögsagnarumdæmi þessara sveitarfélaga verði flutt og samþykkt á yfirstandandi þingi.
Eins og fram kemur í bréfinu, er hér náð endanlegu samkomulagi um þessi mál, en á undanförnum árum hefur mál þetta verið á dagskrá þessara sveitarfélaga.

Fylgiskjal.
Hafnarfirði, 27. apríl 1964.
Hr. alþingismaður,
Matthías Á. Mathiesen,
Hafnarfirði.
Að undanförnu hafa farið fram viðræður á milli fulltrúa frá Hafnarfjarðarkaupstað og Garðahreppi um breytingu á lög sagnarumdæmismörkum milli sveitarfélaganna, svo og eftirgjöf á réttindum þeim yfir landi úr fornu Garðatorfunni í Garðahreppi, Gullbringusýslu, er Hafnarfjarðarkaupstaður öðlaðist með leigusamningi við landbúnaðarráðherra f.h. jarðeignadeildar ríkisins, dags. 14. nóv. 1940.

Markhella-222

Markhella.

Niðurstöður þessara viðræðna hafa orðið þær, að samkomulag hefur náðst, sem staðfest hefur verið af hreppsnefnd Garðahrepps á fundi hennar þann 1. apríl sl. með eftirfarandi samþykkt: „Hreppsnefnd Garðahrepps samþykkir fyrir sitt leyti, að lögagnar-umdæmismörkum Hafnarfjarðar-kaupstaðar verði breytt þannig, að það land, sem nú er sunnan Hafnarfjarðar og innan lögsagnarumdæmis Garðahrepps, þ.e. svokallaðar hraunajarðir, verði framvegis innan lögsagnar umdæmis Hafnarfjarðar.
Samþykkt þessi er bundin því skilyrði, að Hafnarfjarðarbær afsali til Garðahrepps þeim landsspildum, sem bærinn hefur á leigu frá jarðeignadeild ríkisins og eru innan lögsagnarumdæmis Garðahrepps. Jafnframt verði tryggt, að Garðahreppur fái fullan umráða rétt yfir þessum landsspildum, með leigusamningi við jarðeignadeild ríkisins, enda verði þau ákvæði laga nr. 11/1936, sem varða umræddar landsspildur felld úr gildi“.

hafnarfjardarkirkja-222

Hafnarfjarðarkirkja.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar gerði á fundi sínum þann 21. þ. m. um málið svo hljóðandi ályktun: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir fyrir sitt leyti, að lögsagnar-umdæmismörkum milli Hafnarfjarðar-kaupstaðar og Garðahrepps verði breytt á þá lund, að hluti Garðahrepps, sem liggur sunnan við Hafnarfjörð, verði framvegis innan lögsagnar umdæmis Hafnarfjarðar. Jafnframt lýsir bæjarstjórn því yfir, að hún er reiðubúin til þess að falla frá leigurétti sínum að ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnesveg skv. leigusamningi, dags. 14. — 11. — 1840, þegar er framangreind breyting á lögsagnarumdæmismörkunum hefur átt sér stað. Leigusamningar við einstaka aðila, sem stað eiga í greindum samningi, skulu þó áfram vera í gildi.
Samþykkt þessi er gerð með því skilyrði, að Garðahreppur falli frá öllum kröfum, er hann kann að eiga til bóta fyrir lögsagnarumdæmis-breytinguna“. Með hliðsjón af ofangreindu samkomulagi leyfum vér oss að fara þess á leit við yður, herra alþingismaður, að þér hlutizt til um, að flutt verði á Alþingi því, er nú situr, frumvarp til laga um breytingu lögsagnarumdæmis þessara sveitarfélaga, er samrýmist ofangreindum samþykktum sveitarfélaganna.

Virðingarfyllst, Ólafur G. Einarsson.
Sveitarstjórinn í Garðahreppi.
Hafsteinn Baldvinsson.“

Heimild:
-Morgunblaðið 6. maí 1964, bls. 8.

Setbergssel

Markavarðan í Setbergsseli.

Hvatshellir

„Kershellir er rétt norðan við Sléttuhlíðarhorn í jarðfalli sem er stutt frá hinni fornu þjóðleið Selvogsgötu, eða Selvogsvegi eins og leiðin var kölluð í upphafi 20. aldar [Selvogsbúar nefndu hana jafnan Suðurferðaveg].

Kershellir

Kershellir – loftmynd.

Hellirinn er í hrauntröð frá þeim tíma er gaus í Búrfells eldstöðinni fyrir um 7000 árum. Þak hrauntraðarinnar hefur hrunið á nokkrum stöðum og opnað leið inn í hellakerfi sem auðvelt er að skoða. Austast er Kershellir og norður af honum er Hvatshellir, en það er ekki auðvelt að komast að honum. Nokkrum tugum metrum neðar, þar sem hraunrausin er fallin saman að hluta, er skjólsæll slakki og niður af honum er Selhellir. Hann er opinn í báða enda og nefnist syðri hlutinn Selhellir en nyrðri hlutinn var nefndur Kethellir í Jarðarbók Árna Magnússonar og Bjarna Vídalín.

Setbergssel

Hleðsla í Selshelli/Ketshelli.

Hleðsla í miðjum hellinum náði áður fyrr upp í loft, en er núna fallin að stórum hluta. Neðstur og nyrstur er svonefndur Sauðahellir, sem var notaður um tíma fyrir sauðfé, en þótti ekki alveg nógu góður til slíkra nota. Skammt frá honum er vallgróinn stekkur og austan hans er nátthaginn í jarðfalli. Þessir hellar voru í eina tíð nefndir einu nafni Kershellar, en einnig sundurgreindir með mismunandi nöfnum eftir því hverskonar not voru höfð af þeim í gegnum tíðina.

Hellarnir voru hluti af búskaparsamfélaginu um aldir og m.a. nýttir sem fjárskjól og áningastaðir ferðalanga sem áttu leið um Selvogsgötuna.

Setbergssel

Selsvarðan á mörkum.

Selhellirinn, sem er á landamerkjum Setbergs og Garðakirkjulands, var eins og nafnið gefur til kynna hluti af seljum Setbergs og Hamarskots um aldir. Enginn veit nákvæmlega hvernig Kershellir var notaður en ekki er ólíklegt að hann hafi verið einhverskonar mannabústaður í skamman tíma þó líklegra sé að hann hafi nýst sem geymsluhellir. Í honum er hlaðinn garður sem myndar hálfboga en það er með öllu óljóst til hvers þessi grjótveggur var gerður á sínum tíma.

Hvatspiltar vekja athygli á hellunum

Kershellir

Kershellir á herforingjaráðskorti frá 1903.

Sumarið 1906 komu fjórir ungir piltar úr Reykjavík suður að Sléttuhlíðarhorni eftir þriggja tíma göngu og glöddust mjög þegar þeir fundu helli í jarðfalli, sem reyndist ágætlega stór. Þetta voru Sigurjón Þorkelsson, seinna kaupmaður í versluninni Vísi, Helgi Jónasson frá Brennu og Matthías Þorsteinsson, en þeir unnu allir saman í Edinborgarverslun. Fjórði pilturinn var Skafti Davíðsson trésmiður. Þeir höfðu stofnað fótgöngufélagið Hvat, en nafnið gaf til kynna að þeir einsettu sér að ganga hvatlega og skoða sitt nánasta umhverfi um helgar þegar þeir áttu frí frá vinnu.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir höfðu áður skunað á Þingvöll og skoðað þar hella í hrauninu og töldu sig hafa fundið nýjan og áður óþekktan helli við Selvogsveginn og létu þá fregn berast um bæinn. Þann 1. júlí 1906 birtist stutt grein í Æskunni þar sem sagt var frá því að Hvatsfélagar hefðu fundið stóran helli suður af Hafnarfirði einn sunnudag er þeir voru þar á göngu fyrr um sumarið. Hvatspiltar fóru aftur suður í Sléttuhlíð sunnudaginn 2. september með ljós og mælivað til að mæla og rannsaka hellinn gaumgæfilega. Komust þeir að því að út frá honum voru afhellar mismunandi stórir.

Þessi fundur hleypti mörgum kappi í kinn og héldu ýmsir áhugamenn um hella af stað til að rannsaka þetta fyrirbæri. Hvatsfélagareignuðu sér hellinn og máluðu meira að segja nafn hellisins með bronsmálningu á einn hraunvegginn í stóra afhellinum. Meðal þeirra sem slógust í för með Hvatspiltum var séra Friðrik Friðriksson, upphafsmaður Kristilegs félags ungra manna í Reykjavík. Ritaði hann tvær greinar um hellinn og birtist önnur þeirra í Fjallkonunni 7. september 1906. Þar lýsti Friðrik hellinum og byggði á frásögn piltanna:

Skrif séra Friðriks Friðrikssonar

Friðrik Friðriksson

Sr. Friðrik Friðriksson er þekktastur fyrir að stofna annars vegar knattspyrnufélagið Val og KFUM og K, þar sem honum er eðlilega gert hátt undir höfði. 
Sögu Friðriks þekkja margir en hann fæddist vorið 1868 í Svarfaðardalnum fyrir norðan, hann missti föður sinn ungur og lifði í fátækt framan af en náði að brjótast til mennta og gekk í Latínuskólann í Reykjavík. Eftir nám fór hann til Danmerkur þar sem hann kynntist starfi KFUM (Kristilegu félagi ungra manna) og í ársbyrjun 1899 stofnaði hann svo KFUM deild heima á Íslandi, fáeinum mánuðum síðar stofnaði hann einnig kvennadeild – KFUK, og gegndi forstöðu félagsins. Innan starfsins stofnaði hann svo knattspyrnufélögin Val í Reykjavík og Hauka í Hafnarfirði auk þess að koma á fót bókasafni, kvöldskóla, bindindisfélagi, skátafélagi, sumarbúðum í Vatnaskógi og fleira. 
Sr. Friðrik helgaði sig starfi KFUM og K alla tíð og var hann heiðraður með ýmsum hætti fyrir starf sitt meðan hann lifði og minningu hans og starfi hefur einnig verið haldið á lofti eftir að hann lést vorið 1961 rétta tæplega níutíu og þriggja ára gamall.

„Hann er 152 fet á lengd, 40 fet á breidd, þar sem hún er mest, og á að giska 6-7 álnir á hæð, þar sem hæst er, allsstaðar má ganga uppréttur. Grjótgarður er hlaðinn 59 fet inn af munnanum, sá garður liggur þvert yfir hellinn og á parti í boga fyrir munna á afhelli nokkru vinstra megin; er hann eins og bás, höggvinn út í bergið, og er 27 fet að lengd og 1 ½ alin á hæð, þar sem hann er hæstur. Ekki var unnt að sjá, að fé hefði verið geymt þar inni.

Hinir ungu menn könnuðu nú vandlega hellisveggina, og urðu þeir þá varir við smugu mjóa, er lá inn í vegginn hægramegin, nálægt hellismunnanum. Er þeir lýstu inn í hana, þótti þeim sem rúm mundi vera þar fyrir innan og skriðu því inn gegnum glufuna og komu þá inn í lítinn afhelli, vel mannhæðar háan, og var heldur stórgrýtt gólfið. Inn úr honum lá svo önnur glufa, er skríða þurfti í gegn á fjórum fótum. Fyrir innan hana varð fyrir þeim hellir, nær kringlóttur að lögun eða sporöskjulagaður. Hann er 10 fet á hæð þar sem mest er, og breiddin 20 fet, en lengdin nokkru meiri. Eftir gólfinu er hraunbálkur all mikill og lægðir báðu megin.

Hægra megin varð enn fyrir þeim lítil glufa niður við gólfið, og fóru tveir þar inn og fundu þá, að þeir voru komnir í stóran helli og langan, en eigi gátu þeir vel glöggvað sig á honum, því ljósfæri þeirra brást. Leituðu þeir nú síðan til útgöngu og þótti þeim skemmtiferð sín góð orðin.“

Séra Friðrik rannsakaði hellinn sjálfur
Séra Friðrik fór ásamt Hvatspiltum suður að Sléttuhlíðarhorni til að kanna innsta hellinn nokkru seinna . Höfðu þeir meðferðis ljósker ásamt stuttum og digrum 8 aura kertum frá Zimsen. Þeir voru ennfremur með mælivað og 60 faðma snæri. Mældu þeir innsta hellinn sem reyndist vera 61 fet á lengd og allur nokkuð jafnbreiður 8-10 fet. Síðan kemur lýsing séra Friðriks:

„Hæðin var um 4 fet minnst og liðugt 5 fet mest. Innst inni er hann íhvolfur og er hvelfing yfir honum öllum, skreytt dropasteins útflúri. Hellirinn er ekki ósvipaður hvelfdum gangi í kjallarakirkju, gólfið er slétt og fast og lítð sem ekkert þar lausagrjót inni. Svo er hann fallegur, að erfiðleikarnir við inngönguna í gegnum 3 glufurnar og stórgrýtið í framhellunum gleymist þegar inn er komið. Lengd alls hellisins frá botni þess innsta og aftast í þann fremsta er rétt að segja 300 fet. Í innri hellunum eru engin merki þess að menn hafi þar fyrr inn komið.

Hvatshellir

Hvatshellir.

Við vorum hálfan annan tíma að skoða hellana og var sá tími helst of stuttur til þess að geta séð allt til hlítar. Hellinn kallaði ég Hvatshelli eftir félaginu, er fann hann, og þykir mér félagið eiga þá sæmd skilið fyrir göngudugnað sinn og eftirtekt.

Séra Friðrik nefndi innsta afhellinn Hvatshelli, þann sem honum fannst líkjast kjallarakirkju, enda segir munnmælasaga að hann hafi stundum haldið látlausa helgistund í hellinum næstu árin. Allavega fór það svo að ungu mennirnir sem töldu sig hafa fundið afhellana máluðu nafnið Hvatshellir í innstu hvelfingunni. Vel má vera að þeir hafi fyrstir manna komið inn í þessa afhella, en Kershellirinn sem er fremstur var fyrir löngu þekktur eins og hleðslurnar sem þeir fundu í honum gefa glögglega til kynna.

Hvatshellir

Hvatshellir.

Þessi fundur þótti allmerkilegur í ljósi þess að erlendir menn höfðu farið um landið og leitað að hellum sem þeir töldu sig síðan finna, þó svo að heimamenn á hverjum stað hefði greinilega vísað þeim á þá. Séra Friðrik hvatti ungt fólk til að gera sér ferð til að skoða hellana og lýsti leiðinni suður í Sléttuhlíðina með eftirfarandi hætti: Hvatshellir liggur nálægt Selvogsvegi, upp með Setbergshlíðinni skammt frá vörðu þeirri sem er mælingamenn Herforingjaráðsins hafa hlaðið og merkt er tölunni 27. Sú varða er á vinstri hönd, er upp eftir veginum dregur, og spölkorn þar fyrir ofan er til hægri handar fallegur grasgróinn hvammur. Í honum er hellismunninn.

Mjög falleg og greiðfær leið þangað er að ganga upp frá Kópavogi, og framhjá Vífilsstöðum, þar upp með hinni fögru hlíð, er meðfram hrauninu liggur, síðan yfir hraunið og Setbergsásinn, þar til er komið á Selvogsveg. Mundi það vera 3 tíma gangur frá Reykjavík.“

Aðrir fara af stað til að skoða fundinn

Setbergssel

Setbergssel – varða nr. 27 ofan við selið.

Leiðalýsing séra Friðriks kom Reykvíkingum sérkennilega fyrir sjónir eins og greint var frá í blaðinu Reykjavík. Göngumaður sem skrifaði undir leyninafninu Gangleri gerði sér ferð suðureftir til að skoða hellinn ásamt félögum sínum. Þeir villtust á leiðinni og fóru allmarga aukakróka áður en þeir komust á Selvogsveginn. Seint og um síðir komu þeir að hellunum norðan Sléttuhlíðarhorns og hittu þar þrjá sveitamenn, eins og Gangleri kallaði þá í grein sinni. Þeir spurðu sveitamennina um nýja hellinn og sögðu þremenningarnir að þarna væri ekki nýr hellir heldur þrír hellar þétt við gömlu götuna og hver framundan öðrum.

Kershellir

Kershellir.

Þeir hefðu, áður en þessir landkönnunarmenn úr Reykjavík komu til sögunnar, verið kallaðir einu nafni Kershellar. Þeir hétu svo af því að það var engu líka en að ker eða skálar væru niður í jarðveginn, sem hellismunnarnir lægju úr og það væri einna gleggst á þessum nýskírða helli. Því til sönnunar að þessir hellar væru fullkunnir áður, væri það að þeir væru taldir ráða landamerkjum milli Setbergslands og Garðakirkju.

Nafngiftin gagnrýnd, enda hellirinn löngu þekktur

Kershellir

Í Kershelli.

Margir fundu sig knúna til að leggja orð í belg eftir að séra Friðrik gaf innhellinum nafnið Hvatshellir, en svo virðist sem fæstir þeirra sem gerðu sér ferð að hellunum hafi fundið afhellana. Nokkur brögð voru að því að fólk skoðaði einvörðungu Selhellinn og fannst lítið til hans koma enda hafði hann verið notaður sem fjárhellir eftir að hætt var að hafa þar í seli seint á 19. öld og fullur af sauðataði. Botn hellisins er núna þakinn leirkenndri mold sem verður leðjukennd þegar hún blotnar. Jón Þorkelsson var einn þeirra sem ritaði greinarkorn í Fjallkonuna um hellafundinn og taldi hann augljóslega að um Selhellinn væri að ræða.

Kershellir

Í Kershelli.

„Hellir sá í Garðahrauni [hellirinn er í efsta hluta Gráhelluhrauns], er félagar úr göngumannafélagsins „Hvats“ komu í hér í sumar, hefur orðið að blaðamáli. Kölluðust félagar þessir hafa fundið hér nýjan helli og skírðu hann „Hvatshelli“. Síðan hefur „Reykjavíkin“ skýrt frá því eftir kunngum manni, að hellir þessi hafi verið kunnur nú í manna minni, hafi verið haldinn landamerki milli Garða og Setbergs og verið kallaður Kershellir. Þar við bætir og ritstjóri „Reykjavíkur“ því að hann hafi þekkt þennan helli fram undir mannsaldur. En hér mun vera óhætt að bæta því við að hellir þessi hefur verið þekktur um frá ómuna tíð og hefur að vísu um 350 árin síðustu verið haldinn landamerki milli Setbergs og Garða.

Setbergssel

Setbergssel – landamerkjavarðan.

Er til enn vitnisburður um landamerki þessi frá 2. janúar 1625, úgefinn af Þorvaldi Jónssyni og samþykktur og staðfestur af Magnúsi Þórarinssyni og Sveini Ögmundssyni. Segir Þorvaldur þar svo frá: „að minn faðir Jón Jónsson bjó 15 ár á þráttnefndri jörðu (Setbergi); byggði þá mínum föður jörðina Setberg þann sálugi mann Ormur bóndi Jónsson, hvar eð sat í Reykjavík og tilgreindi bóndinn Ormur þessi takmörk úr miðjum Flóðum, og upp miðjan Flóðhálsinn; sjóndeiling úr miðjum fyrirsögðum hálsi og í hvíta steininn, sá er stendur í Tjarnholtunum og þaðan sjóndeiling í miðjan Ketshellir.

Setbergssel

Op Ketshellis.

Úr Ketshellir og í mitt hraunið og þaðan úr miðju hrauni og ofan í Gráhellu og ofan í Lækjarbotna. Innan þessara takmarka bauð og bífalaði bóndinn Ormur mínum föður allt að yrkja og sér í nyt að færa og aldrei hefi ég þar nokkra efan á heyrt. Og var ég á fyrrsagðir jörðu minni ómagavist hjá mínum föður í 15 ár hann þar bjó; en ég hefi nú áttatíu vetur og einn, er þessi vitnisburður var útgefinn ‚, eftir hverjum ég má sverja með góðri samvisku.

Af þessu mætti það verða augljóst, að þessi nýfundni „Hvatshellir“ hefur verið mönnum kunnur í mörg hundruð ár, og heitir réttu nafni Ketshellir.

Lýsing Ólafs Þorvaldssonar

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

Við þetta má síðan bæta því að Ólafur Þorvaldsson, sem fæddist á Ási við Hafnarfjörð og var bóndi í Herdísarvík um tíma þar til Einar Benediktsson tók við jörðinni, ritaði ágætar leiðalýsingar um þjóðleiðir í námunda Hafnarfjarðar, sem birtust í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1943-48, sem kom út 1949. Í leiðarlýsingu hans á Grindarskarðavegi (Selvogsleið) ritar hann: „Ofarlega í hraunbelti því sem áður getur og yfir er farið áður en upp á móts við Klifsholt kemur er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð. Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt, og vildi gólfið blotna þegar fé kom brynjað inn. Laust eftir síðustu aldamót [1900] fundu menn úr félagi, sem nefndi sig „Hvat“ og í voru nokkrir ungir fjallgöngu- og landkönnunarmenn í Reykjavík, helli skammt ofar og norðar [hann er austar, en einnig máf inna lítinn hellir norðan við fjárhellinn]en Kershelli.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Op þessa hellis er mjög lítið en drjúgur spölur, þröngur og krókóttur, þar til í aðalhellinn kemur og er ekki farandi ljóslaust. Aðalhellirinn er hvelfing, bogmynduð, nokkru meira en manngengt í miðju, en gólfið slétt hellugólf. Þeir, sem námu helli þennan, svo að sögur fari af, nefndu hann eftir félagi þeirra og kölluðu Hvatshelli. Nafnið máluðu þeir svo með gullnum stöfum á innanverða hvelfingu eða gólf (ég man ekki hvort heldur).“

Hellaskoðun

Hamarkotshellir

Hamarskotshellir – op.

Kershellir er augljóslega sá hinn sami og er nú merktur með myndarlegri vörðu sem stendur skammt vestan við jarðfall við gömlu Selvogsgötuna. Kerið er allmyndarlegt og virðist eingöngu um litla skúta að ræða til sitthvorrar handar. Annar skútin, sem er frekar lítill er í austurbarmi kersins, en í vesturbarminum er op sem er öllu áhugaverðara. Þegar komið er innfyrir hellismunnann opnast stór hellir og í honum er hleðslan sem fyrr er getið. Vinstra megin við hana er einskonar bás eða útskot.

Kershellir

Kershellir – varðan ofan við opið.

Hellirinn er nokkuð langur og flestir láta sér nægja að skoða þennan hluta og halda síðan út í birtuna. Um leið og komið er inn í hellinn er hægt að greina þrönga rás hægra megin niður við gólf hellisins og þarf að skríða á maganum inneftir henni til aðkomast í fyrsta afhellinn. Hann er frekar lítill og gólfið er frekar grýtt. Úr þessum helli liggur önnur rás þar sem skríða þarf á fjórum fótum eða jafnvel á maganum. Opnast þá nokkuð stór hellishvelfing. Þar með er ekki allt upp talið því enn má finna þrönga rás og innan við hana er stærsti hellirinn, sá hinn sami og fékk nafnið Hvatshellir fyrir rúmlega 100 árum síðan.

Þeir sem hyggjast skoða Kershelli og afhellana þurfa að hafa mjög gott ljós meðferðis. “ – Jónatan Garðarsson

Sjá meira um Kers- og Hvatshelli HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

 

Urriðakotshraun

Spor Jóhannesar Sveinssonar Kjarval liggja víða í hraununum umhverfis Garðabæ og Hafnarfjörð, en hann átti sér nokkra uppáhalds staði og þangað kom hann oftar en einu sinni.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun-beitarhús.

Sumarið 1966 fékk Kjarval leigubílstjóra til að aka sér í áttina að Vífilsstöðum en hann málaði stundum myndir í Vífilsstaðahrauni, en í þetta sinn lá leiðin aðeins lengra. Bílstjórinn ók svokallaðan Flóttamannaveg, eða Elliðavatnsveg eins og hann heitir réttu nafni. Þegar komið var á móts við Urriðakotsholt beygði bílstjórinn út af veginum. Hann ók eftir vallgrónum vegslóða sem lá að löngu yfirgefinni herstöð [Camp Russel] sem Bretar komu sér upp í jaðri Urriðakotshrauns á stríðsárunum. Á þessum slóðum er núna golfvöllur sem félagar í Oddfellow reglunni á Íslandi létu útbúa á sínum tíma og ruddu í leiðinni herstöðva tóftunum í burtu.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – fjárrétt Kjarvals; beitahús frá Urriðakoti.

Kjarval fór út úr leigubifreiðinni og gekk af stað með trönur sínar, liti og striga upp í hraunið, sem nefnist á þessum slóðum Bruni, en heildarnafn þessa hluta Búrfellshrauns er Svínahraun, þó svo að Urriðakotshrauns nafnið sé oftast notað í dag.

Urriðakotshraun

Kjarval – Urriðakotshraun.

Kjarval fann sér stað á þægilega sléttum bala og horfði norður í áttina að Vífilsstöðum, sem sjást ekki frá þessu sjónarhorni þar sem norðvesturendi Vífilsstaðahlíðar skyggir á húsið. Þarna málaði hann sprungna hraunkletta og virðist hafa komið nokkrum sinnum frá vori og frameftir sumri á þennan sama stað því það eru til nokkur málverk sem hann málaði frá þessu sama sjónarhorni.

Einhverju sinni hefur hann ákveðið að snúa málartrönum sínum í hina áttina og horft til suðurs í átt til Reykjanesfjalla.

Urriðakot

Fjárhús frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Beint fyrir framan hann blasti við reglulega löguð hleðsla, þrír veggir úr hraungrjóti, lítil og vel hlaðin rétt sem var opin í norðurátt. Hleðslan er þannig löguð að vel má hugsa sér að þarna hafi verið ætlunin að útbúa lítið fjárhús eða smalaskjól. Þessa fjárrétt sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi og í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd hér að ofan. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega Fjárrétt.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun.

Gísli Sigurðsson og Svanur Pálsson tóku saman örnefnalýsingu sem fjallar um land Urriðakots og er lýsing Svans dagsett 30. mars 1988. Móðir hans, Guðbjörgu Guðmundsdóttur, fæddist í Urriðakoti árið 1906 og bjó þar til 1939. Guðmundur Jónsson, bónda í Urriðakoti, fæddist þar 1866 og bjó í Urriðakoti til 1941. Foreldrar hans settust að í Urriðakoti árið 1846, þannig að þessi fjölskylda bjó á jörðinni í allt að eina öld. Hluti upplands Urriðakots er nú gjörbreyttur frá fyrri tíð.

Heimild m.a.:
-http://www.hraunavinir.net/fjarrett-kjarvals-i-svinahrauni/#more-1739

Urriðakotshraun

Fjárréttin í Urriðakotshrauni.

Sogin

„Reykjanesfólkvangur“ hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; „Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang„.
Þar segir m.a. að „Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.“

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er „Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.

Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. „Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi„:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhella

Markhella.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.

Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: „Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins“. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.

Sog

Í Sogum.

Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

„Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.“

Valahnúkar

Valahnúkar og Helgafell.

Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Sveifluháls

Sveifluháls.

„Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.

Helgadalur

Helgadalur – Rauðshellir.

• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.

Seltún

Seltún.

• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.

2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.

3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.

Vetrarblóm

Vetrarblóm við Kleifarvatn.

• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.

Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.“

Í „Lögum um náttúruvernd“ segir m.a. um landverði: „Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.“

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: „Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.“

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur „Reykjanesskagafólkvangs“ skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.

Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.