Í Morgunblaðiðinu 1967 er grein, sem segir frá „Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni„, Eyjólfi J. Eyfells og Jóhannesi Kolbeinssyni af ferð þeirra á Seltanga.
„Við vorum á leið suður á Reykjanesskaga, ætluðum að koma við hjá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni, þeirri kempu. Ferðinni var heitið að Selatöngum, þar sem gamlar búðatóttir standa enn og vitna um lífsbaráttu fólks með seltu í blóði. Nú hafa þeir safnazt til feðra sinna, sem fundu kröftum sínum viðnám í Tangasundi. Magnús er þaulkunnugur á þessum slóðum. Það eru þeir reyndar einnig félagar mínir í bílnum, Eyjólfur J. Eyfells listmálari og Jóhannes Kolbeinsson smiður, sá vinsæli leiðsögumaður Ferðafélagsins.
Við höfðum áður komið saman að Selatöngum. Það var í fyrravor. Þá var bjart yfir sjó og landi og sæmilegt veður, en hann hryggjaði við ströndina.
Þegar við komum að Selatöngum rýndum við í búðartóttirnar og horfðum yfir sundið. Á meðan dró hann saman í vestrinu. „Hann er fljótur að drífa í“, sagði Jóhannes, og átti við að hann værl fljótur að hvessa. Jóhannes og Eyjólfur eru gamlir sjómenn.
Það má stundum heyra á tungutaki þeirra.
Þegar við ókum heim úr þessari ferð, fórum við fram hjá Hrauni og ákváðum þá að skreppa aftur suður eftir og taka Magnús með.
Nú vorum við aftur á leið að Selatöngum til að uppfylla gamalt loforð, sem við höfðum gefið sjálfum okkur.
Í upphafi ferðar spurði ég Jóhannes um Selatanga.
„Það er bezt að þú spyrjir Magnús á Hrauni um þá“, sagði Jóhannes“. „Ég gæti ímyndað mér að hann kunni skil á sögu þeirra.
Á Seiatöngum var verstöð frá því á 14. öld“, bætti hann þó við. „Þá rann Ögmundarhraun og eyðilagði lendinguna í gömlu Krýsuvík, sem nú heitir Húshólmi og er nokkru fyrir austan Selatanga. Þar má enn sjá gróðurbletti og bæjartóttir“.
Úti var nepjukaldi og það hafði snjóað. Eyjólfur, sem sat í framsætinu, pírði augun og sagði:
„Hann er daufur yfir Reykjanesfjallgarði“.
„Ætli snjói í Grindavík“, spurði ég.
„Ónei“, svöruðu þeir einum rómi.
„Kannski hefði ég átt að koma með koníakspela til að ylja ykkur“, spurði ég.
„Nei“, sagði Eyjólfur, „ég drekk ekki koníak nema í heitu.
„Hann vill ekkert kuldaskólp“, sagði Jóhannes. Eyjólfur sagði: „Þegar Helgi lóðs kom eitt sinn fullur heim — hafið þið heyrt það — þá segir konan „Æ“, segir hún, „farðu nú að hátta, Helgi minn, og biddu guð fyrir þér“.
„Ha“, segir karlinn, „guð?
Nei. ég vil engan guð“. „Hann vill ekki einu sinni guð“, segir þá konan“.
Þar með var koníakið úr sögunni.
Jóhannes skimaði í allar áttir eins og gömlum sjómanni sómdi.
„Hann verður líklega hægur í dag“, sagði hann. „Hægur útsynningur, en kular í élinu.
Gæti orðið svolítið brim“.
„Þó það nú væri, þetta opna haf, sagði Eyjólfur.
„En hvað um Selatanga“, skaut ég inn í.
„Þar var útræði fram um 1880″, sagði Jóhannes. „Þá þótti staðurinn útúr og farið að brydda á nýjum tíma í Grindavík og víðar“.
„Ætli þar hafi orðið mikil slys?“ spurði ég.
„Óljósar sagnir eru um slys“, sagði Jóhannes. „En ekki áreiðanlegar“.
„Hefurðu séð nokkuð þar, sem bendir til slysa“, spurði ég Eyjólf.
„Nei, ég heyrði bara délítinn söng úr einni tóttinni, þegar við vorum þar í fyrravor.
Já, reyndar hef ég alltaf heyrt söng úr einni tóttinni, þegar ég hef komið að búðunum. Þeir hafa sungið mikið í gamla daga.
En ég heyrði engan söng, þegar við Jóhannes fórum þangað í vor. Þá var eitthvað bölvað rifrildi í einni tóttinni“.
„Já, þú varst að tala um það“, sagði Jóhanrnes. „Ekki heyrði ég það“.
„Nei, þú heyrðir það ekki“, sagði Eyjólfur. „Ég heyrði það aðeins fyrst þegar við komum að tóttarbrotunum, en svo var eins og það dæi út. Ég kom fyrir mörgum árum í herbergi í húsinu Nýlendugötu 19. Húsráðendur, sem voru kunningjar mínir og vissu að ég só stundum ýmislegt, sögðu: „Sérðu ekki eitthvað?“
„Ojú, ekki get ég neitað því.
Ég sé einhvern slæðing“, segi ég. „Það er gömul kerling úti í horni, hún er að bogra yfir einhverju og öll í keng“.
Ég lýsti henni fyrir fólkinu, sem sagði að lýsingin stæði heima. „Þetta er hún Guðrún gamla í Stafnesi, hún átti heima hér og hafði prjónavélina sína í horninu því arna“. Það hefur orðið eitthvað eftir af henni þarna“.
„Orðið eftir“, endurtók ég.
„Já, tilveran er undarleg.
Hún skilar öllu. Þetta voru eftirstöðvar af Guðrúnu. Hún var þarna auðvitað ekki sjálf. Ég skynjaði engan persónuleika í mynd bennar. Hér sitjum við og tölum saman, og það geymist. En einhvern þeirra sér eða heyrir einhver til okkar. Þá verðum við kannski komnir langleiðina inn á astralplanið.“
Við hlustuðum á Eyjólf, þögðum. Nú talaði sá, sem hafði sjón og heyrn til tveggja heima. Bílstjórinn dró jafnvel úr ferðinni, og var farinn að leggja við hlustirnar. Eyjólfur átti leikinn.
„Það hefur verið mikill söngur í gamla Kleppsbænum“,
sagði hann. „Þegar ég kom fyrst að bænum, var hann yfirgefinn, en uppistandandi.
Þá heyrði ég sálmasöng. Þeir hafa líklega samvizkusamlega lasið húslestrana sína og sungið sálma, gæti ég trúað, kannski ekki veitt af“.
Það varð þögn.
„Hefurðu séð nokkuð“, gaukaði ég að Jóhannesi.
„Nei, ekkert“.
„Jú, hann hefur séð margt“, sagði Eyjólfur. „Hann hefur séð margt fallegt. Hann befur séð há og tignarleg fjöll í öllum veðrum. Hann hefur horft yfir öræfin og þekkir ótal örnefni. Hann hefur séð það sem er eftirsóknarverðast, landið okkar í allri sinni dýrð“.
„Já“, sagði Jóhannes, „það hef ég. En maður þarf ekki að vera skyggn til þess“. „Þú varst að lýsa fyrir mér dularfullri reynslu, þegar við fórum suður eftir í fyrravor“, fullyrti ég.
„Ekki man ég það“.
„Þú varðst var við eitthvað í skálanum á Jökulhálsi“ sagði Eyjólfur.
„Það var óvera“, sagði Jóhannes. „Ég sá eitthvað, en aðrir sáu það ekki síður. Það var atfarsterk fylgja. Maður, sem var dáinn fyrir 16 árum.
Hann hefur líklega verið að fylgjast með þessu ferðalagi okkar“.
„Kannski hann hafi ekki verið þarna sjálfur, ætli það hafi ekki bara verið hugur hans, sem fylgdist svona sterklega með ykkur“, sagði Eyjólfur.
„Jú, ætli það hafi ekki verið“, sagði Jóhannes. „Og hugur hans hefur þá umbreytzt í persónu hans“.
„Sá sem sézt annars staðar en hann er“, sagði Eyjólfur, „birtist venjulega í réttri mynd sinni. Við skiljum svo lítið brot af tilverunni, skynjum aðeins yfirborð hennar og misskiljum flest. Við erum, þrátt fyrir góðan þroska á veraldarvísu, mjög ófullkomin“.
Jóhannes stóðst ekki freistinguna, en sagði: „Ég er fæddur og uppalinn að Úlfljótsvatni. Einhverju sinni um haust, eða um líkt leyti og nú — já, það var áreiðanlega í byrjun nóvember — var ég bak við hesthúsið að leysa hey handa beljunum. Það var kvöld og svartarnyrkur. Þá beyri ég að hundarnir gelta. Traðirnar lágu hein að hesthúsinu. Það hafði verið frost, en klökknaði þennan dag og holklakinn farinn að slakna.
Ég heyri að einhver ríður traðirnar heim að besthúsinu, stansar og fer af baki. Ég heyri hringlið í beizlisstöngunum, þegar taumarnir eru teknir fram af hestinum. Einhver gengur að dyrunum, ég legg víð hlustirnar —, maðurinn staðnæmist og kastar af sér vatni. Svo heyrist ekki meir og hundarnir hætta að gelta. Ég geng að hesthúsdyrunum og huga að því, hver geti verið þanna á ferð, en sé engan. Það var meiri ákoman“.
Þetta er nú meiri guðfræðin, hugsaði ég. Svo spurði ég Eyjólf:
„Er ekki sjaldgæft að menn séu að kasta af sér vatni hinu megin?“
Hann hristi sitt silfurgráa höfuð.
„Þú misskilur þetta allt“, sagði hann. „Það sem Jóhannes varð vitni að var ekki annað en gamalt bergmál. Hann upplifir af einhverjum ástæðum, að einhverjum hefur orðið mál fyrir mörgum öldum. Annað er það nú ekki. Ekkert í tilverunni er svo ómerkilegt að það týnist í glatkistuna. En hvernig eigum við, þessir líka maurar í mannsmynd, að skilja að það er ekkert til sem heitir fortíð, nútíð eða framtíð. Það er hægt að sýna kvikmynd eins oft og hver vill, þannig er einnig hægt að upplifa svipmynd þess sem var. Líf okkar geymist á dularfullan hátt“.
Ég sneri mér að Jóhannesi og spurði um dvöl hans á Úlfljótsvatni?
„Faðir minn var bóndi þar í 26 ár“, sagði hann. „Hann dó 25. marz sl. 94 ára gamall.
Hann hét Kolbeinn Guðmundsson. Hann lá ekki rúmfastur nema 3 vikur. Annað hvort voru menn í gamla daga ódrepandi eða ekki“, sagði Jóhannes og brosti.
„Heldurðu að Jóhannes eigi eftir að verða 94 ára“, spurði ég Eyjólf.
„Nei-i“, svaraði Eyjólfur dræmt.
„Heldurðu að hann eigi eftir að verða jafngamall og þú?“
„Það efast ég um:“
„Hvað ertu gamall“.
„Karlinn er orðinn 81 árs“.
„En ég, verð ég 94 ára?“
„Nei, þú verður ekki eins gamall og ég“, sagði hann ákveðið. Ég fór að reikna.
„En verð ég ekki sjötugur?“ sárbændi ég hann.
„Maður skyldi ekki forsvara neitt“, sagði hann.
Ég sá að ekki dugði að freista Eyjólfs, svo að ég sneri mér að Jóhannesi.
„Þú manst auðvitað vel eftir Tómasi Guðmundssyni hinum megin við Sogið“, sagði ég.
Jóhannes hrökk við. Hann hefur líklega einnig verið að reikna, hugsaði ég. „Tómasi“, sagði hann, „jú—ojú, en við þekktumst ekki mikið. Hann var eldri en ég. Það bar við að ég kom heim til hans. Hann var ákaflega feiminn við ókunnuga og faldi sig, ef einhver kom. Ég vissi ekki þá, að hann ætti eftir að varpa svo miklum ljóma á Sogið og sveitina; að hann ætti eftir að verða stórskáld“.
Og Jóhannes varð hugsi.
„Tómas var talfár“, sagði hann. „Foreldrar hans voru gott fólk og höfðingjar. Ég fylgdist með því sem unglingur, þegar hann birti ljóð eftir sig i Heimilisblaði Jóns Helgasonar, þá var hann innan við fermingu. Hann orti um æskustöðvarnar, og þar eru Sundin blá“.
„Heldurðu að hann eigi við þau — sundin við Sogið“, spurði Eyjólfur undrandi.
„Já, það hefði ég haldið“, svaraði Jóhannes viss í sinni sök. „Hvergi eru blárri sund en við Brúarey í Sogi. Þau blasa við æskuslóðum skáldsins“.
Nú vorum við komnir að kapellunni, hraunhleðslu norðan við húsaþyrpinguna, þar sem álfélagið hefur reist timburþorp til bráðabrigða.
„Hraunið heitir eftir kapellunni“, sagði Jóhannes og benti.
„Þeir grófu einhvern tíma í þetta og fundu líkneski, ég held frá kalþólskri tíð. Hér hefur verið eins konar sæluhús í miðju hrauninu, enda hraunið hættulegt yfirferðar ekki sízt fyrir hesta. Ósjaldan kom fyrir að þeir fótbrotnuðu og stundum hröktust ferðamenn út að ströndinni.
„Það var önnur kapella í hrauninu“, sagði Eyjólfur.
„Hún hefur farið forgörðum“, sagði Jóhannes.
Eitt sinn komum við Gísli Jónsson bílasmiður að henni og sá ég þá munkinn, en það var ekkert merkilegt. Hitt var merkilegt að Gísli sá hann líka.
„Þetta er furðulegt“, sagði hann, „Þetta hef ég aldrei séð áður. Hann taldi slíkt hégóma og hirti ekki um framhaldslífið. Hann sagðist ekki trúa því, að hægt væri að skyggnast inn í fortíðina og ekki beldur, að unnt væri að sjá framliðið fólk.
Seinna vorum við í veiðiferð saman austur á Baugsstöðum, það var um vor. Við sváfum í dálitilum heystabba, sem var eftir í hlöðunni. Um morgunin var Gísli eitthvað fálátur. Ég innti hann eftir því, hvort honum liði illa. „Í nótt sá ég draug í fyrsta skipti“, sagði hamn. „Hvernig atvikaðist það“, spurði ég. „Jú, ég vaknaði við það, að einhver gekk yfir stabbann og svo áfram í lausu lofti. Þá varð mér ekki um sel“.
Mér er nær að halda að Gísli hafi verið látinn sjá þetta til þess að lina hann í vantrúnni, enda var hann ekki eins stífur á meiningunni upp frá því.“
„Var munkurinn draugur“, spurði ég eins og barn.
„Nei, ég sagði Gísla sem var, að munkurinn væri bara gömul spegilmynd, eftirstöðvar frá liðnum tíma. Þannig skiljum við eftir mynd okkar einhversstaðar í tíma og rúmi, og kannski rekast einhverjir á hana, þegar við erum farnir. Ég fór einhvern tíma á fund hjá Hafsteini, þá kom Gísli upp að vanganum á mér og segir: „Heyrðu, Eyjólfur, heldurðu ekki að þú farir að koma?“
„Ég. Ó, ég veit ekki“, svaraði ég.
Hann var alinn upp í Hróarsholti í Flóa. Þar hefur hann alltaf verið með okkur Jóhannesi nema í sumar, þá varð ég hans í fyrsta skipti ekki var. Þó fannst mér eins og hann hugsaði til okkar. En það var allt og sumt. Hróarsholt er með fallegri bæjarstæðum. Sagt er, að þaðan hafi sézt nítján kirkjur.“
„Nú eru nokkrar þeirra úr sögunni“, minnti Jóhannes hann á. Og eitthvað þurftu þeir að bera saman bækur sínar um kirkjufjöldann.
Og nú vorum við komnir á Grindavíkurveginn.
„Þarna er Þorbjörn“, sagði Eyjólfur, „fjall þeirra Grindvíkinga“.
„Þá er nú Esjan tilkomumeiri“, sagði ég.
„Ég reri eina vertíð í Grindavík“, hélt Eyjólfur áfram, „þú varst þar líka, Jóhannes“.
„Já, ég reri þaðan eina vertíð. Það gekk ágætlega. Ég reri frá Nesi — það hefur verið 1927. Við höfðum útræði um Járngerðarstaðasund. Það gat verið varasamt á opnum árabátum“.
„Hvenær rerir þú frá Grindavík Eyjólfur?“
„Ég man það nú ekki, jú, það hefur líklega verið 1904.
Ég reri úr Þórkötlustaðahverfinu“.
„Það var aldrei stórbrim þessa vertíð“, sagði Jóhannes.
„Ekki man ég heldur eftir því“, sagði Eyjólfur.
„Við sýndum ekki af okkur nein þrekvirki“, sagði Jóhannes. „Engin karlmennska eins og þegar Gunnlaugur sýslumaður á Barðaströnd stóð undir mæniás fjóssins og kom í veg fyrir að þekjan hryndi yfir beljuna: „Allþungt þetta hér“, sagði hann. Það var ekki verið að fjasa út af smámunum í þá daga“.
Eyjólfur sagði: „Ég þekkti vel Gísla, bróður Magnúsar á Hrauni, og Margréti konu hans Jónsdóttur frá Einlandi. Þetta var ágætisfólk.
Ég var heimilisvinur á Einlandi. Við strákarnir vorum allir skotnir í Möggu“.
„Þau eru bæði dáin“, sagði Jóhannes.
„Já, þau Gísli eru bæði farin“, sagði Eyjólfur og bætti við: „Hún var glæsileg stúlka. Ég hélt að Margrímur Gíslason ætlaði að ná í hana. Hann varð seinna lögregluþjónn í Reykjavík, mesti myndarmaður. Þá datt engum í hug að keppa við hann. En hún giftist Gísla“.
Jóhannes sagði: „Þeir bjuggu báðir á Hrauni, bræðurnir Gísli og Magnús. Hafliði, faðir þeirra, var lengi formaður“.
„Hann var eftirminnilegur karl“, sagði Eyjólfur. „Eitt sinn þegar gefin voru saman hjón, bæði ósköp lítil fyrir mann að sjá, var Hafliði svaramaður.
Þegar prestur snýr sér að konunni og spyr, hvort hún vilji manninn, svarar hún ekki. Þá er sagt að Hafliði hafi hnippt í hana og sagt: „Segðu já — segðu já — segðu bara já“.
Og hún álpaðist til að segja já.
„Ætli þetta hafi verið Hákon í Bakka“, sagði Jóhannes: „Það var kot í túnjaðrinum á Hrauni. Ég held að rústirnar standi ennþá. Hákon reri hjá Hafliða og síðan hjá Magnúsi.
Ég held þeir hafi naumast róið nema Hákon væri með“.
Við vorum komnir að Hrauni.
Ég snaraðist út úr bílnum, gekk upp tröppurnar og bankaði. Magnús kom til dyra. Hann var ekki eins hress og oft áður. Þegar ég hafði hitt hann, var hann alltaf nýr eins og Passíusálmarnir.
„Nú erum við komnir“, sagði ég.
„Komnir, hverjir?“
„Ég er með tvo gamla sjómenn úr Grindavik, Eyjólf Eyfells og Jóhannes Kolbeinsson“.
„Jæja“, sagði Magnús.
„Við erum að fara að Selatöngum. Þú ferð með“.
„Það efast ég um. Það er víst einhver illska hlaupin í mig.
Læknirinn segir að það sé eitthvað í öðru nýranu“.
„Nú, finnurðu til“, spurði ég.
„Onei, ég hef aldrei fundið til“.
„Þetta eru skemmtilegir karlar“, sagði ég.
„Ha, já er það“, sagði Magnús og klóraði sér á hvirflinum.
Svo strauk hann yfirskeggið og fór í gúmmískóna.
Eyjólfur kom í gættina. Þeir heilsuðust. Magnús virti hann fyrir sér. Þeir tóku tal saman.
Það var selta í Eyjólfi, hann var ekkert blávatn. Það hefur Magnús fundið. Einu sinni munaði mjóu að Eyjólfur drukknaði í Loftsstaðasundi.
Karlarnir gengu út í bílinn. Ég á eftir. Svo héldum við af stað.
„Ég var hrifinn af Margréti mágkonu þinni á Einlandi, þegar ég var á vertíð hér strákur“, sagði Eyjólfur.
„Hún hefur verið ung þá“, sagði Magnús.
„Já, um fermingu“, sagði Eyjólfur.
„Og varstu skotinn í henni strax“, sagði Magnús og hló.
Við ókum sem leið lá að Selatöngum.
„Ég sé ekki betur en þú sért sæmilegur til heilsunnar, Magnús“, sagði ég. Því að nú kjaftaði á honum hver tuska, ekki síður en okkur hinum.
„Ég er alveg stálhraustur“, fullvissaði hann okkur og sjálfan sig, „mér hefur aldrei orðið misdægurt. En ég á að fara í rannsókn til Snorra Hallgrímssonar. Það er gott að eiga góða menn að. Við höfum farið í rjúpu saman“.
„Þú varst oft á sjó með Hákoni á Bakka, sagði ég.
„Ojá“, sagði Magnús. „En af hverju dettur þér hann í hug?“
„Þeir muna eftir því, þegar hann var giftur“.
„Ha? Hann giftist aldrei“.
„Hvað segirðu?“
Og nú sperrtu Jóhannes og Eyjólfur eyrun.
„Nei, hann bjó með konu, en þau voru aldrei gefin saman í hjónaband“.
Eyjólfur segir honum nú söguna um giftingu litlu hjónanna. Magnús slær á lær sér:
„En þetta er ekki rétt. Það voru gift þarna hjón, en þau sögðu bæði nei“.
„Ha“.
„Ég sagði að þau hefðu bæði sagt nei“.
„Nú, og hver voru þau“, spurði Eyjólfur.
„Það voru Einar Árnason póstur og Katrín Þorkelsdóttir“.
„Var sú gifting ekki ólögleg?“
„Nei, nei. Þetta var látið duga í þá daga. Menn voru ekki að gera veður út af öllum hlutum. Það þótti skrítið. En Hákon bjó með konu sem hét Guðmunda Gísladóttir, þau komust vel af“.
Fagradalsfjall blasti við okkur. Þangað höfðum við Magnús eitt sinn farið, gengið upp á fjallið, litazt um eins og landnámsmenn. Ég benti í áttina þangað.
„Það dregur undir sig“, sagði Magnús. „Þetta er lengri leið en maður heldur“.
Mig rak minni til þess.
„Einar póstur og Katrín, voru þau lítil“, spurði Eyjólfur hugsi.
„Já“, sagði Magnús.
„En Hákon og Guðmunda?“
„Guðmunda var há kona og snör. Hún var köttur þrifinn, og prýðilega útlítandi var baðstofan, þó hún væri lítil. En þau Einar bjuggu í moldarkofa“.
„Það hefur þá ekki verið Hákon“, sagði Eyjólfur. „Það hafa verið Einar og Katrín“.
„Það hafa verið þau“, sagði Magnús.
„Er Einland uppistandandi?“ spurði Eyjólfur.
„Já, þekkirðu ekki Ísleif Jónsson, verkfræðing í Reykjavík?“
„Við erum skyldir“, sagði Eyjólfur.
„Jæja“, sagði Magnús og virti Eyjólf fyrir sér. „Nú sé ég, að það er sami bjarti svipurinn.
Hann er að skinna Einlandið upp“, bætti hann við.
„Já, einmitt“, sagði Eyjólfur.
Við ókum fram hjá Ísólfsskála, Selatangar skammt þar fyrir austan. Á leiðinni töluðu þeir um sitthvað, og það var engu líkara en maður væri kominn hálfa öld aftur í tímann. Þeir töluðu um karl einn, sem „þótti gott að smakka það“, um fólk, sem „hafði orðið bráðkvatt“. Og margt fleira skröfuðu þeir, sem ómögulegt var fyrir ókunnugan að henda reiður á. Magnús minntist á konu, sem hafði átt hálfsystur, „og hún varð sama sem bráðkvödd líka“. Og síðan barst talið að Jóni heitnum á Einlandi, föður Margrétar, og hann varð einnig bráðkvaddur.
„Hann var dugandi sjósóknari“, sagði Magnús, „— áður en hann varð bráðkvaddur“.
„Já, og myndarmaður“, sagði Eyjólfur.
„Og aðsækinn við sjó“, bætti Magnús við. „En viljið þið ekki sjá leiðið hans Ögmundar, sem hraunið er kennt við. Það stendur norðan við veginn“.
„Förum fyrst niður að Selatöngum“.
„Heyrðu Eyjólfur, lenturðu nokkurn tíma í Stokkseyrardraugnum“, spurði Magnús.
„Nei, ég var svo ungur. Þegar við strákarnir heyrðum fyrst af honum, treystum við á, að hann kæmist ekki yfir mýrarnar, því að þær voru á ís og flughálar“.
„Hvað ætli þetta hafi verið?“ spurði Magnús.
„Þetta voru engir aumingjar, sem uðru fyrir barðinu á draugnum“, skaut Jóhannes inn í samtalið.
„Fólk var með margvíslegar skýringar“, sagði Eyjólfur.
„Sumir töluðu um kolsýrueitrun í andrúmsloftinu, en það veit enginn“.
„Það flýðu allir úr einni verbúðinni“, sagði Jóhannes, um leið og bíllinn stöðvaðist við Selatanga.
Við lituðumst um.
„Hvar er Magnús?“
„Hann skrapp niður á kampinn að tala við veiðibjölluna“, sagði Jóhannes. „Þeir þekkjast, mávurinn og Magnús. Hann er búinn að skjóta þá svo marga um dagana“.
„Honum er ekki fiskað saman“, sagði Eyjólfur. „Hann er líkur föður sínum, kempukarl“.
Við skoðuðum tóttirnar af verbúðunum og fiskhjöllunum.
Í fyrravor var jörðin algræn, þar sem fiskurinn hafði legið við byrgin. Tólf til fimmtán menn hafa verið við hvern bát, hafði ég lesið mér til. Bragur er til um alla útróðrarmenn, sem eitt sinn voru á Selatöngum, og eru þeir taldir með nafni og hafa þá verið yfir 60.
Tóttirnar eru litlar og ég gizkaði á, að þrír til fjórir hefðu verið í hverri verbúð. Þeir sögðu það hefðu minnsta kosti verið sjö, ef ekki fleiri. Af tóttarbrotunum að dæma er hver búð um fimm metrar á lengd og tveir á breidd. Sumar búðirnar hafa jafnvel verið minni. Kannski þeir hafi haft verbúðirnar svona litlar til að halda á sér hita, datt mér i hug. Þarna sáum við einnig hellisskúta. Jóhannes sagði, að hellarnir væru reyndar tveir og hefði annar verið kallaður sögunarkór, þar sem var smíðað, en hinn mölunarkór, þar var malað korn.
Selatangar eru skarð eða afdrep í Ögmundarhrauni. Þar fundu Krýsuvíkurmenn hentugt athafnasvæði eftir hraunflóðið mikla.
Dákon var hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum. Í honum voru landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Næst austan við Dákon er Vestrihlein, en þá Eystrihlein.
Sundið hefur líklega verið vestan undir Eystrihlein og uppsátrið þar beint upp af. Þar upp með hleininni voru bátarnir settir undan sjó. Vega lengdin fré Krýsuvík á Selatanga er um 6—7 km. og um þriðjungur þess vegar apalhraun, svo það hefur ekki verið skipsganga, sem kallað var, að fara þó leið kvöldið og morgnar. Þess vegna hafa verbúðirnar verið reistar þar. Og enn tala þær sínu máli.
Magnús var kominn í leitirnar. Við horfðum yfir kampinn og sundið. Ólög riðu yfir hleinarnar, en ekki á sundið. Það var hreint.
„Þeir þekktu sjóina, karlarnir“, sagði Magnús.
„Ungt fólk nú á dögum mundi líklega deyja af einni saman tilhugsuninni að eiga að sofa í svona hreysum“, sagði ég og virti fyrir mér tóttarbrotin.
„Manneskjan gerir það, sem hún verður að gera“, sögðu þeir.
„Verbúðirnar hafa verið vindþéttar“, sagði Eyjólfur.
Ég hryllti mig ósjálfrátt í herðunum.
„Þeir hafa sótt í þetta hey og mosa“, sagði Magnús.
Svo benti hann út á sundið. „Þeir hafa lent eitthvað eftir áttum“, sagði hann. „Í útsynningi hafa þeir lent vestar, en austar í landnyrðingum, Það er ekki milkil ló við hleinina núna. Þeir hefðu lent í svona sjó. Þarna er eystri hleinin og þarna sú vestri. Þeir lentu á milli hleinanna, í Tangasundi.
Og nú er Dákon horfinn.“
„Það er talvert brim núna“, sagði ég. „Þú segir að þeir hefðu lent í þessu.
„Ætli ekki það, þetta er svaði“, sagði Magnús. „Þeir kunnu svo sem að biða eftir lagi. En hafið þið ekki heyrt að hér átti að vera draugur“, og hann sneri sér að Eyjólfi.
„Jú“, sögðu þeir.
„Hann var kallaður Tanga Tómas,“ sagði Magnús.
„Hefurðu séð hann Eyjólfur? “ spurði ég.
„Nei“, sagði Eyjólfur, „séð hann — nei, nei.“
„Þú ættir að spyrja hann Þórarin Einarsson um hann“, sagði Magnús. „Hann býr í Höfða á Vatnsleysuströnd. Hann er sonur seinasta formannsins hér á Seljatöngum. Þórarinn er faðir Þorvalds Þórarinssonar, lögfræðings í Reykjavík, svo hann á ekki langt að sækja það, að vera þéttur fyrir. Einar, faðir Þórarins, var óbágur að segja frá Tanga Tómasi. Einu sinni var Einar að smíða ausur úr rótarkylfum hjá okkur á Hrauni, þá sagði hann okkur þessa sögu: Guðmundur, bróðir hans, svaf fyrir framan hann og lá með höfuðið útaf koddanum, en sneri sér við í svefnrofunum og færðist upp á koddann, en í sömu andránni kom vatnskúturinn, sem þeir höfðu með sér á sjóinn, en geymdur var í verbúðinni, aflagður þar sem Guðmundur hafði legið með höfuðið.
Þetta bjargaði auðvitað lífi hans.“
„Það var gott að draugurinn drap ekki Guðmund“, sagði Jóhannes. „Hann, átti eftir að eignast 18 börn.“
„Nei, það var ekki hann, þú átt við Guðmund í Nýja Bæ“, sagði Magnús.
„Já“, sagði Jóhannes, og áttaði sig. „Guðmundur í Nýja Bæ var Jónsson, hann reri 1917 úr Húshólma, en þeir urðu að lenda hér á Töngunum“.
„Guðmundur í Nýja Bæ var skírleikskarl“, sagði Magnús, „það var gaman að vera með honum einum. En þegar fleiri voru, varð hann öfgafullur. Lífsbaráttan varð honum þung í skauti, hann varð að treysta á útigang. Tvö barna hans dóu í vetur.“
Við vorum komnir upp á þjóðveginn aftur, og ætluðum sem snöggvast að skreppa að gröf Ögmundar. Á leiðinni þangað segir Magnús allt í einu: „Þessi klettur þarna í hrauninu heitir Latur.“
„Hvers vegna“, spurði ég.
„Það gekk erfiðlega að miða hann — hann gekk illa fyrir, eins og sagt var. Hann bar lengi í sama stað.“
Og nú blasti við Ögmundarhraun milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og fyllir hálfan dalinn. Niður við sjó stóð bærinn Krýsuvík, en uppi í dalnum Vigdísarvellir, fjallajörð í hvammi með hlíðinni norð-vestan við Mælifell. Þar sjást tóttir.
„Ég man vel eftir byggð þar“, sagði Magnús. „Gömul sögn segir, að smali hafi, þegar hraunið brann, bjargazt upp á Óbrennishólma, sunnarlega í hrauninu, vestan við Húshólma“.
Jóhannes sagði að þjóðsagan um Ögmund væri á þá leið, að hann hafi átt að vinna sér það til kvonfangs að ryðja veg yfir hraunið, en var drepinn að verki loknu. Aðstandendur konunnar treystu sér víst ekki til að vinna á honum fyrr en hann var orðinn örmagna af þreytu. Þá hertu þeir upp hugann og drápu hann.
„Ögmundur sofnaði við hraunbrún, þar sem leiðið er og þar drápu þeir hann“, bætti Magnús um frásögn Jóhannesar. „Nú er hrunið úr leiðinu. Þeir ættu að varðveita það betur. Ég er að vísu ekki fylgjandi því að raska ró þeirra dauðu, en það mætti vel ganga betur um leiðið.“
Ég ætlaði eitthvað að fara að minnast frekar á Ögmund, en þeir fóru þá að tala um sjómennsku í gamla daga og ég komst ekki upp með moðreyk. Það var eins og bíllinn breyttist skyndilega í gamlar verbúðir. Það er munur að róa nú eða áður, sögðu þeir.
„Þá var alltaf andæft á árunum“, sagði Magnús til að uppfræða mig. „Þá var línan tvö til þrjú pund og geysisterk og vont að draga hana. Einhverjum hefði minnsta kosti þótt það sárt í dag. Sumir fengu blöðrur.
„Betur á bak og báðum áfram“, var sagt þegar austanátt var og vesturfall, og þegar línan festist sló alltaf á bakborðið. Það þurfti alltaf manni meira á bakborða í andófi. Þess vegna var sagt; Betur á bak. Þá þurfti að nota árarnar til að róa að línunni.“
Og svona héldu þeir áfram að tala saman um löngu liðna daga. Ögmundur var gleymdur. Ég var að hugsa um að koma við hjá Þórarni gamla í Höfða.
Eyjólfur hafði, okkur öllum á óvart, komið með flösku af líkjör. Hann var farinn að hvessa, eða setja í, eins og karlarnir hefðu sagt. Ég sá verbúðirnar gömlu fyrir mér, og skinnklædda karlana. Ég hugsaði um það sem Magnús hafði sagt: „Það er ekki mikil lá við hleinina; það heitir öðru nafni: sogadráttur og þar er lending stórháskaleg. Ég mundi vel eftir lýsingum Magnúsar Þórarinssonar, sem oft kom niður á Morgunblað, á meðan hann var og hét. Hann var einbeittur og ákveðinn, með auga á hverjum fingri Hann var fyrsti mótorbátsformaður í Sandgerði. Það var eins og sjór og reynsla hefðu lagzt á eitt um að tálga persónu hans inn að hörðum kjarnanum.
Magnús tók saman bók, sem heitir „Frá Suðurnesjum“. Merkisrit.
Þar segir, að ef skip tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu. Sogaði þá óðara undan, svo að skipið varð á þurru og lagðist á hliðina. Næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífeilt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo að ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó að sjór væri undir hendur eða í axlir, en ekkert bundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu.
Þetta hugsaði ég um og myndin skýrðist í huga mínum. Ég sá karlana standa í kampinum á Selatöngum í brók og skinnstakk, hvorttveggja heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Mátti vel svalka í sjó þannig búinn án þess að verða brókarfullur, eins og kallað var ef ofan í brókina rann.
Stundum kom fyrir að láin var svo mikil að ólendandi var á venjulegan hátt. Þá var fiskurinn seilaður úti á lóninu, seilarnar bundnar saman og færi hnýtt við, en einum manni falið að gefa út færið og annast seilarnar að öllu leyti.
Og svo var beðið eftir lagi til að lenda skipinu tómu, tóku þá allir til ára eftir skipun formanns, á þriðju stóröldunni, sem var jafnan hin síðasta í ólaginu, eftir hana kom délítið hlé á stórbrotum; var það kallað lag. Þá var róið með fullum krafti, árar lagðar inn í skipið í fljótheitum. Þegar krakaði niður, hlupu allir útbyrðis og brýndu skipinu upp úr sjó, áður en næsta ólag kæmi. Stundum komu aðrir, sem tækifæri höfðu og hjálpuðu til.
Þannig stóðu Selatangar mér fyrir sjónum. Hver myndin tók við af annarri, reis og hneig í huga mínum eins úthafsaldan við ströndina.
„Ég var oftast aðeins með eitt skinn“, sagði Magnús upp úr þurru.
„Jæja“, sagði Eyjólfur.
„Ég var oft holdivotur“, sagði Magnús.
„Það vorum við aldrei fyrir austan“, sagði Eyjólfur.
„Ojú, maður var oft þvalur. Þetta var helvítis vosbúð“, sagði Magnús.
Aftur hljóp í mig hrollur.
Ég var farinn að hlakka til að koma heim og leggjast eins og hundur við sjónvarpið.
Við höfðum ekið fram hjá Ísólfsskála á heimleið. Körlunum hafði ekki orðið orðs vant. Nú töluðu þeir um Guðmund á Háeyri.
Magnús sagði: „Rólegir drengir, ekki liggur mér á“ sagði hann þegar var að verða ófært, hann vissi hvað það gilti.“
Eyjólfur sagði: „Guðmundur var kominn að Eyrarabakkasundi og búið að flagga frá, talið ófært. Þá sagði hann: „Við skulum stöðva snöggvast hér rétt utan við sundið“, og stendur upp og horfir þegjandi fram á brimgarðinn og segir svo enn: „Nei, sko andskotans brimið“ — og rétt í sömu svifum: „Takið brimróðurinn“, og þeir höfðu lífið. Hann umgekkst ólögin eins og leikföng. En þau voru það ekki fyrir óvana“, bætti Eyjólfur við og vissi af eigin reynslu, hvað hann söng.
Magnús sagði að Guðmundur hefði stundum hikað við að fara inn af ótta við að önnur skip kæmu kannski á eftir og mundu ekki hafa það. Þá segir Eyjólfur: „Jón Sturlaugsson á Stokkseyri hikaði stundusm líka, vegna þess að hann bjóst við að aðrir mundu fylgja sér eftir. Hann var einnig afbragðs sjómaður. Og honum var ekki heldur fisjað saman, honum Hafliða föður þínum. „Ó, þetta er bara þurraslydda, þurraslydda“, sagði hann . . .
„Þetta hefur þú heyrt“, sagði Magnús og glaðnaði við.
Svona göntuðust karlarnir, meðan myrkrið datt á. Þeir töluðu um Berg í Kálfhaga og sögðu, að Guðmundur á Háeyri hefði haft hann handa körlunum sínum til að grínast með. Einhvern tíma segir Bergur, „það er óhætt upp á lífið að róa hjá Guðmundi á Háeyri, en aðköllin ósköpin.“
„Róðu nú Bergur, róðu nú Bergur, og róðu nú helvítið þitt Bergur“, sagði Guðmundur víst eitt sinn í róðri.
Og í annað skipti bar það til tíðinda, eins og oft var, að bóndi ofan úr sveit fékk að róa hjá Guðmundi til að fá í soðið fyrir heimili sitt. Þegar þeir höfðu ýtt á flot var venja að taka ofan sjóhattinn og lesa sjóferðabæn. Bóndinn hafði bundið á sig hattinn og átti erfitt með að ná honum af sér. Þá kallar Guðmundur formaður og segir: „Ég held þú getir lesið Andrarímur eða einhvern andskotann, þó þú sért með helvítís kúfinn á hausnum“.
Og nú blasir við Hraun.
Þarna á ströndinni hafa orðið Skipstapar. Magnús hefur áður sagt mér af þeim: Franska togaranum Cap Fagnet, sem strandaði sunnan undir Skarfatöngum aðfaranótt 24. marz. 1931, og St. Louis, enskum togara, sem strandaði snemma í janúar 1940 í Vondu fjóru. Öll skipshöfnin var dregin í land í björgunarstól nema skipstjórinn. Hann kom ekki út úr brúnni nærri strax. Björgunarmenn biðu eftir honum í allt að 10 mínútur áður en hann sást á brúarvængnum. Hann fetaði sig niður á dekkið og fram að vantinum. En þegar hann var kominn að björgunarstólnum, féll hann allt í einu aftur yfir sig og ofan í ólgandi brimlöðrið. Þar varð hann til.
Magnús á Hrauni hefur margt séð og margt lifað. Hann hefur marga fjöruna sopið.“ – M.
Heimild:
-Morgunblaðið, 264, árg. 19.11.1967, Var munnkurinn draugur?, bls. 1-5.