Í “Huldufólkssögum – úrvali úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar“, segir m.a. um “Marbendil,
Mjer er í minni stundin,
þá marbendill hló;
blíð var baugahrundin,
[er bóndinn kom af sjó];
kysti hún laufalundinn,
lymskan undir bjó.
Sinn saklausan hundinn
sverðabaldur sló.
Á Suðurnesjum er bæjaþorp nokkurt, sem heitir í Vogum, en raunar heitir þorpið Kvíguvogar, og svo er það nefnt í Landnámu.
Snemma bjó bóndi einn í Vogum, er sótti mjög sjó, enda er þar enn í dag eitthvert besta útræði á Suðurlandi. Einhvern dag reri bóndi, sem oftar, og er ekki í það sinn neitt sjerlegt að segja af fiskifangi hans. En frá því er sagt, að hann kom í drátt þungan, og er hann hafði dregið hann undir borð, sá hann þar manns-líki, og innbyrti það. Það fann bóndi, að maður þessi var með lífi, og spurði hann, hvernig á honum stæði; en hann kvaðst vera marbendill af sjávarbotni. Bóndi spurði, hvað hann hefði verið að gera, þegar hann hefði ágoggast. Marbendill svaraði : »Jeg var að laga andskjólin fyrir eldhússtrompnum hennar móður minnar. En hleyptu mjer nú niður aftur«. Bóndi kvað þess engan kost að sinni, »og skaltu með mjer vera«. Ekki töluðust þeir fleira við; enda varðist marbendill viðtals.
Þegar bónda þótti tími til, fór hann til lands og hafði marbendil með sjer, og segir ekki af ferðum þeirra, fyr en bóndi hafði búið um skip sitt, að hundur hans kom í móti honum og flaðraði upp á hann.
Bóndi brást illa við því, og sló hundinn. Þá hló marbendill hið fyrsta sinn. Hjelt bóndi þá áfram lengra og upp á túnið, og rasaði þar um þúfu eina, og blótaði henni; þá hló marbendill í annað sinn.
Bóndi hjelt svo heim að bænum; kom þá kona hans út í móti honum, og fagnaði bónda blíðlega, og tók bóndinn vel blíðskap hennar. Þá hló marbendill hið þriðja sinn. Bóndi sagði þá við marbendil: »Nú hefir þú hlegið þrisvar sinnum, og er mjet forvitni á að vita, af hverju þú hlóst«. »Ekki geri jeg þess nokkurn kost«, sagði marbendill, »nemi þú lofir að flytja mig aftur á sama mið og þú dróst mig á«. Bóndi hjet honum því. Marbendill sagði: »Þá hló jeg fyrst, er þú slóst hund(inn) þinn, er kom og fagnaði þjer af einlægni. En þá hló jeg hið annað sinn, er þú rasaðir um þúfuna og bölvaðir henni; því þúfa sú er fjeþúfa, full af gullpeningum. Og enn hló jeg hið þriðja sinn, er þú tókst blíðlega fagurgala konu þinnar; því hún er þjer fláráð og ótrú; muntu nú efna öll orð þín við mig, og flytja mig á mið það, er þú dróst mig á«. Bóndi mælti: »Tvo af þeim hlutum, er þú sagðir mjer, má jeg að vísu ekki reyna að sinni, hvort sannir eru, trygð hundsins og trúleik konu minnar; en gera skal jeg raun á sannsögli þinni, hvort fje er fólgið í þúfunni, og ef svo reynist, er meiri von, að hitt sje satt hvorttveggja, enda mun jeg þá efna loforð mitt«.
Bóndi fór síðan til, og gróf upp þúfuna, og fann þar fje mikið, eins og marbendill hafði sagt. Að því búnu setti hann skip til sjávar, og flutti marbendil á sama mið, sem hann hafði dregið hann á; en áður en bóndi ljet hann fyrir borð síga, mælti marbendill: »Vel hefir þú nú gert, bóndi, er þú skilar mjer móður minni heim aftur, og skal jeg að vísu endurgjalda það, ef þú kant til að gæta og nýta þjer. Vertu nú heill og sæll, bóndi«. Síðan ljet bóndi hann niður síga, og er marbendiil nú úr sögunni.
Það bar til litlu eftir þetta, að bónda var sagt, að 7 kýr sægráar að lit væru komnar þar í túnjaðarinn við fjöruna. Bóndi brá við skjótt, og þreif spýtukorn í hönd sjer, gekk svo þangað, sem kýrnar voru; en þær rásuðu mjög og voru óværar. —
Eftir því tók hann, að þær höfðu allar blöðru fyrir grönum. Það þóttist hann og skilja, að hann mundi af kúnum missa, nema hann fengi sprengt blöðrur þessar. Slær hann þá með kefli því, er hann hafði í hendi sjer, framan á granirnar á einni kúnni, og gat náð henni síðan. En hinna misti hann, og stukku þær þegar í sjóinn. Þóttist hann þá skilja, að kýr þessar hefði marbendill sent sjer í þakkar skyni fyrir lausn sína. Þessi kýr hefir verið hinn mesti dánumannsgripur, sem á Ísland hefir komið; æxlaðist af henni mikið kúakyn, sem víða hefir dreifst um land, og er alt grátt að lit, og kallað sækúakyn. En það er frá bónda að segja, að hann varð mesti auðnumaður alla æfi. Hann lengdi og nafn bygðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga, er áður voru kallaðir Vogar.
Heimild:
-Huldufólkssögur – úrval úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar, Ísafoldarprentsmiðja 1920, bls. 162-165.
-https://ferlir.is/grindavik-alagablettir-og-thjodsogur-3/
https://ferlir.is/tudra/https://ferlir.is/arnarfellslabbi/