Færslur

Helgafell

Gengið var um Skammaskarð frá Norður-Reykjum í Reykjadal og inn í Skammadal milli Æsustaðafjalls og Reykjafells. Ætlunin var að skoða minjar, sem þar áttu að vera – og fundist höfðu á loftmynd.
kofarÍ Skammadal hafa sprottið kartöflugarðar og skúraþyrping á fyrrum ræktarsvæði. Stóri-hóll er hægra (vestan) megin þegar komið er upp, á norðurbrúninni. Litli-hóll er skammt sunnan hans. Þegar staðið er upp á þeim og horft yfir þyrpinguna má sjá þar sambærileg svæði og víða annars staðar í Evrópu; grænt og gróið með afmörkuðum reitum, tré og truntur á beit og ekki var hitastigið (í lok septembermánaðar) til að spilla stemmningunni – 18°C.
Norðan og undir Stóra-hól er Víghóll (Vígahóll), sem af sumum hefur verið nefndur Kvíahóll. Hann er neðan skarðs milli Stóra-hóls og Helgafells (Stóri-hóll er norðaustasti hluti Helgafells). Þegar skarðið er gengið til suðurs með austanverðu fellinu er komið að góðum gróningum í Helgafellslandi þrátt fyrir lág hamrabelti þar á millum. Í einni slíkri, mót suðri, er nokkuð stór gróin tóft, þrískipt að sjá. Suðvestan tóftarinnar er gróin mýrarlæna og handan hennar lítill lækur. Þá taka við þúfóttir gróningar og síðan melhlíðar að efstu húsunum austan Helgafells.

Tóft

Tóftin, sem er ca. 6.0×3.0 m að stærð, er í gróinni hlíð og ber með sér að hún hafi gegnt hlutverki beitarhúss. Það snýr suðvestur/norðaustur með framgafl mót suðvestri. Tvö önnur rými, minni, virðast hafa verið beggja vegna við hana ofanverða. Þá má sjá, líkt og lítið gerði, eða jafnvel stekk, norðaustan við hana. Af því mætti hæglega draga þá ályktun að þarna hefði verið selstaða fyrrum. En það passar hvorki við staðsetninguna né hlutfallslega stærð rýmanna ef tekið er mið af öðrum seljum á þessu landssvæði. Hæð á veggjum, sem eru standandi grónir, er um 0.6 m.
Þegar húsfreyjan að Helgafelli var spurð um tóft þessa eftir gönguna, kvaðst hún ekki kannast við hana. Afi hennar hafi búið að Helgafelli á undan henni, en hann hefði ekki minnst á hana.
Gömul gata virðist hafa legið að beitarhúsinu frá Helgafelli. Þegar hlíðinni er fylgt koma hleðslur við götuna í ljós á a.m.k. tveimur stöðum.
Daniel Bruun og Jón Jónasson frá Hrafnagili skilgreindu beitarhús á sínum tíma á eftirfarandi hátt: “Beitarhús eru fjárhús sem standa í úthögum fjarri bœjum, hugsuð til útbeitar á vetrum. Oft er erfitt að greina hvort um er að rœða beitarhús eða sel, en sel-byggingar voru oft notaðar sem beitarhús á vetrum. Beitarhús voru oft reist á gömlum bœjarstœðum og jafnvel stekkjarstœðum.”

Tóft

Í Orðasafni fornleifafræðinnar (sjá http://www.instarch.is) eru beitarhús (hk.) skýrð á eftirfarandi hátt: “Fjárhús utan túns, oft fjarri bæ, sem miðar að því að nýta útbeit eða fjörubeit. Hugtakið er oft notað í ft. og var talað um „að hafa fé á beitarhúsum“. Annað hugtak sem stundum er notað yfir beitarhús er „hagahús“. [enska] Sheephouse in the outfield.
Ef tekið er dæmi um fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeim beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjarnan komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og eina tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurskonar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið gagnvart hvor öðrum.
Þótt þetta flestum ómeðvitaða beitarhús undir suðurhlíðum Helgafells í Mosfellsbæ geti í hugum þeirra sem það hafa aldrei barið augum hvorki talist merkilegt né viðlitsins vert þá er það engu að síður verðugur fulltrúi þeirra fyrrum búskaparhátta er að því laut – og það í verðandi þéttbýli, ef byggingaáætlanir svæðisins verða að veruleika. Og þeir voru ekki svo litlir þegar á heildina er litið.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-www.instarch.i.

Skammaskarð

Skammaskarð.

Helgadalur

Gengið var um Helgadal og upp í Katlagil í norðvestanverðu Grímannsfelli. Ætlunin var að skoða minjar sem eiga að vera þar upp í gilinu.
HelgadalurKatlagil er suðaustan í Dalnum. Katlagilslækur rennur niður gilið. Hann lét lítið yfir sér að þessu sinni, en af ummerkjum ofar í gilinu að dæma má telja líklegt að hann geti vaxið verulega í leysingum. Gilið neðanvert er ófært gangandi fólki, en auðvelt er að fylgja brúnunum beggja vegna til að komast upp eftir því. Ofar eru sléttur og leiðin greið. Flatafell er norðan við gilið og Kolhóll að sunnan. Austan er Stórhóll á Grimmansfelli.
Tilefnið að þessu sinni var þó einungis að skoða gilið neðanvert því þar á norðanverðum bakkanum áttu að vera rétt og lambabyrgi.
Réttin er enn á sínum stað, trektlaga og fallega hlaðinn utan í brekku. Sunnan við hana er hlaðið lítið gerði. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið stekkur, en líklegt má telja að réttin hafi einnig verið notuð sem slík, eins algengt var fyrrum. Réttin hefur jafnan verið nefnd Helgadalsrétt.
Skammt ofar (suðaustar) og hærra á norðurbakkanum er grói byrgi, sem nefnt hefur verið lambabyrgi. Erfitt er að greina útlínur þess, en líklega hefur það verið ferkantað.
Þjóðminjasafnið hefur skráð fornleifar í Mosfellsbæ. Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar má sjá að um 604 fornleifar séu þekktar eða heimildir eru um.
Helgadalur Helstu fornleifar hafa verið merktar inn á þemakort aðalskipulagsins en allar fornleifarnar eru skráðar inn í skráningarkerfið „Sarp” hjá Þjóðminjasafni Íslands. “Þær fornleifar sem unnt hefur verið að staðsetja hafa einnig verið merktar inn á hnitsetta loftmynd af Mosfellsbæ sem varðveitt er hjá tæknideild Mosfellsbæjar. Við skipulagningu svæða og undirbúning framkvæmda skal tekið mið af fornleifaskráningu samkvæmt þessum gögnum. Athuga ber að ekki er víst að fornleifar séu horfnar þótt þær sjáist ekki á yfirborði.”
Í aðalskipulaginu er þess jafnframt getið að “um skógræktarsvæði gildir að öðru leyti eftirfarandi: a. Skógræktaráætlanir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og taka mið af þeim verndarákvæðum sem þar eru sett fram, s.s. vegna hverfisverndar, svæða á náttúruminjaskrá, friðlýstra svæða skv. náttúruverndarlögum og friðlýstra fornminja skv. þjóðminjalögum. b. Taka skal tillit til þekktra fornminja. Skógrækt skal ekki fara nær friðlýstum fornminjum og öðrum merkum minjum en 20 m.”
Skólasel Laugarnesskóla, Katlagil, er í Helgudal í Mosfellsbæ. Á vef skólans má sjá að þangað fari nemendur skólans og kennarar í dagsferðir að hausti og á vorin. Árlega gróðursetja nemendur um 500 – 1000 trjáplöntur þar. Auk þess tengjast allar ferðir í Katlagil kennslu í umhverfismennt í skólanum.
Sögu “selsins” er getið á vefnum. “Jón Sigurðsson, þáverandi skólastjóri, mun strax á öðru ári skólans 1936 – 37 hafa hreyft við þeirri hugmynd að koma upp skólaseli í nágrenni bæjarins fyrir börn og kennara við Laugarnesskóla.
Ekki verður séð að nokkuð hafi gerst í málinu fyrr en 1943. Þá var efnt til merkjasölu í skólanum og komu inn um 7000 krónur. Með þeirri upphæð var stofnaður Selsjóður Laugarnesskóla.
Helgadalur Skólahverfi Laugarnesskóla var afar víðlent á þessum árum. Það náði frá Höfðatúni að vestan og allt að Korúlfsstöðum og Lögbergi að austan. Af þessum sökum þurfti mikinn akstur skólabarna og sérstakan skólabíl. Sú hugmynd kom upp í Kennarafélagi Laugarnesskóla að það tæki að sér skólaaksturinn og hagnaður af þessu framtaki færi til þess að kaupa land og byggja skólasel.
Á fundi sem haldinn var í Kennarafélaginu 2. des 1944 var rætt um kaup á 24 sæta bíl fyrir félagið. Kosin var þriggja manna nefnd til að annast kaup á bíl sem menn höfðu augastað á, útvegun lánsfjár er Kennarafélagið ábyrgðist og sjá um rekstur bílsins á næsta ári. Ráðinn var vagnstjóri og honum veitt leyfi til að gerast meðeigandi bílsins gegn ákveðnu gjaldi, 5000 krónum.
Nefndin gekk frá kaupum á bílnum og var hann tekinn í notkun stuttu síðar sem skólabíll. Nokkrir kennarar við skólann lánuðu fé til viðbótar við það sem til var í Selsjóði. Rekstur bílsins gekk ágætlega svo að í árslok 1946 var hann að fullu greiddur.
Á fundi í Kennarafélaginu 13. maí 1946 var kosin 7 manna nefnd til að svipast um og velja stað fyrir væntanlegt sel. Leið svo fram til árins 1949, þ.s. leitin bar ekki árangur. Þá fékk stjórn Kennarafélagsins tilboð frá Hauki Jónssyni frá Helgadal í Mosfellssveit um kaup á hluta úr þeirri jörð. Stjórn félagsins brá strax við, skoðaði landdið og sýndist það mjög ákjósanlegt. Það var um 10 dagsláttu tún, allt rennislétt og mikið ræktanlegt land að auki. Lélegur sumarbústaður fylgdi.
Esja Stjórn félagsins bauð öllum félagsmönnum, sem hún náði í, til ferðar upp að Helgadal til að skoða landið. Eftir þá ferð var svo haldinn fundur í félaginu 3. júlí 1949. Þar bar stjórnin fram eftirfarandi tillögu: “Fundur í Kennarafélagi Laugarnesskóla samþykkir að ganga að ganga að tilboði Hauks Jónssonar um kaup á hlut úr jörðinni í Helgadal í Mosfellssveit. Fundurinn felur stjórn félagsins að ganga frá kaupunum.” Tillagan var samþykkt einróma. Næstu daga var gengið frá kaupunum og 8. ágúst sama ár fór lokagreiðsla fram. Kaupverð landsins var 45 þúsund krónur og að viðbættum öðrum kostnaði varð það alls 45.629 krónur.
Sumarið 1955 hófust byggingaframkvæmdir við skólaselið. Bjarni Jónsson kennari teiknaði húsið. Framkvæmdir gengu hægar en vonast var til. Tvennt tafði einkum verkið. Fyrst að gröftur fyrir söklum var mikill því jarðvegur var lausari en ráð var fyrir gert og hitt að tíðarfar var mjög úrfellasamt.
Verkamenn bjuggu í tjöldum og tveimur sumarbústöðum er voru þarna í túnjaðrinum. En þó að vistin væri stundum nokkuð hráslagaleg vegna rigninganna undu menn glaðir við starfið og létu oft fjúka í kviðlingum.
Næsta sumar var húsið múrað að innan og fleira smávegis gert. Sumarið 1957 var Magnús Einarsson kennari ráðinn til vinnu við húsið. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í rishæðinni um sumarið og voru það fyrstu íbúar Selsins. Lokafrágangur hússins fór svo fram 1958 og 20. september var húsið vígt.”
Nú er þarna mikill og víðfeðmur skógur umleikis, sem nær allt að Katlagilslæk. Umhverfið hefur greinilega verið gert með natni möguleika námsferða í huga. Glóbrystingur söng sitt fagra stef og rjúpan taldi sig örugga í jaðri skógarins.
Tekið hefur verið að nokkru tillit til framangreindra ákvæða um 20 metra “nálgunarbann” á skóg í nágrenni fornleifa því trén eru ekki alveg ofan í réttinni, en þau eru hins vegar komin fast að lambabyrginu.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024.
-http://nepal.vefurinn.is/Nepal_Skrar/Skra_0000558.PDF
-http://www.skolatorg.is/kerfi/laugarnesskoli

Katlagil

Lyklafell

Jón Svanþórsson hefur verið að leita að og í framhaldi af því rekja hinn gamla Laufdælingastíg, forn reiðleið milli Lyklafells (inn á Austurvegina frá Reykjavík um Hellisheiði í Ölfus) og Þingvalla.

Laufdaelingagata-3

“Ég er búinn að ganga Laufdælingastíg frá Lyklafelli að Gamla Þingvallavegi.
Laufdælingastígur er rakinn frá norðurenda Lyklafells við gatnamót Dyravegar, Hellisheiðarvegar að austan og Elliðakotsleiðar (Helliskots) og Alfaraveginn gamla í Miðdal  að vestan. Forn vörðuleif er þar neðan við grunnt gil þar sem hægt er að komast í vatn. Laufdælingastígur liggur uppfyrir gildragið og yfir á mel austanvið það framhjá svörtu plaströri er stendur þar uppúr  jörðinni(N6405218 W 21313859). Upphaf stígsins er dálitið sérkennilegt en líklega hefur hann verið lagður svona til að aðgreina  hann frá Dyravegi. Gatan er greinileg í fyrstu  en síðan liggur hún á mel  og skiptis þar gatan (N 6405267 W 21 30996)og þá á að slá sér til vinstri yfir moldarbarð og er þá  komið á gróna velli  milli árfars og hlíðar, næstu ca. 2 km. Á leiðinni er brak líkist helst afturgafli á bílstjórahúsi á pick-up bíl.
Laufdaelingagata-4Svo er hundaþúfa á vinstri hönd og önnur skömmu seinna og eru þar gatnamót og liggur gata til hægri upp í móann að dálitlu vatni og síðan er ógreinileg gata  áfram framhjá vörðu sem hlaðinn hefur verið ofan á stóran stein (N6406361 W 2129448). Sýslumót? Gatan liggur síðan sniðhallt niður í dalkvosina  sem stígurinn hefur legið í frá Lyklafelli.
Ef ekki er farið að vatninu en haldið áfram inn dalkvosina hér er mikið vatnsrof og sést því ekki til götu en farið er norður  yfir lágan háls og er þá komið á greinilega götu aftur. Gatan liggur nú í gróningum samsíða Nesjavallaleið. Vatnsrof er hér mikið bæði ofan vegar og neðan.
Ofan Nesjavallavegar rís landið í hólaþyrpingu (Gamall gígur ?) og liggur gatan upp í hólana og þvert í gegn um þá.
Laufdaelingagata-5Varða er á hól framundan rétt ofan við línuveginn (Frakkastíg) (N6407223 W 2126657) og er farið með hólnum og komið að lækjarfarvegi. Gatan er í lækjarfarveginum  eða lækurinn étið sig niður úr götunni. Síðan er farið upp farveginn (götuna)hjá hól með vörðu (N6407547 W 2126546)Varða er nokkru vestar og gæti hún verið á sýslumörkum. Gatan sveigir nú til austurs og svo aftur til norðurs og er þá farið hjá vörðu á hól. (N6407816 W 2126256) og nú er gatan mjög djúp, nánast eins og gil. Aftur beygir gatan til austurs með brúnum  og er þá varða á vinstri hönd (N6407967 W 2125966). Blasir nú við  bergstandur  á brún með stein á toppi. Hér eru gatnamót. Áframhald leiðarinnar liggur upp til vinstri um skarð en leið liggur niður til hægri með hól og er þar varða sem ekki sést héðan (Sést frá suðri),um gróninga niður á heiði.
Snúm okkur að skarðinu og förum þar í gegn og eru þá vörðubrot á brúnum á báðar hendur. Síðan liggur leiðin um gróninga í grunnum dal og eu hér vörður á báðar hendur.
Næst liggur gatan til hægri með lágum hlíðum Varða er hér og ógreinileg gata upp með henni að  tjörn og vörðu og norður fyrir vörðuna (N6408563 W 2124583) er leiðin hæst  360 m y s. Hallar nú austur af og er gatan í gróningum með lækjarfarvegi  niður að Nesjavallalínu (N 64 8846 W2122234).

Laufdaelingagata-6

Farið er yfir línuveginn og með lækjarfarveginum (árfarveginum) að stað (N 6409207 W 2121620). Hér þarf að hafa athyglina í lagi því gatan þverbeygir til vinstri og sést í endan á henni út úr rofabakka. Hér eru gatnamót. Til hægri (í suður ) sér fyrir götu sem liggur suður að brekkum (Dyravegi) og áfram að Húsmúla. Ef haldið er áfram í árfarveginum er komið að gjá sem virðist gleypa allt vatn úr farveginum. Hér eru tvær vörður á gatnamótum  leiðar úr Mosfellsdal um Bringur í Grafning(N6409404 W 2120878).
Nú förum við  aftur á þann stað sem Laufdælingastígur sést í rofabakkanum í norður. Gatan er greinileg í grónu landi og fljótlega þverum við leiðina Bringur –Grafningur (N 6409355 W 2121680). Næst er komið að slóð sem lá með Sogslínu 1 sem lá niður í Mosfellsdal um Bringur.
Búið er að fjarlægja línuna.(N6409967 W Laufdaelingagata-72121953). Nú sveigir gatan svolítið til austurs og er hér með lækjarfarvegi þar til komið er að tjörn og grónum völlum  og svo áfram með læk þar til komið er að Gamla Þingvallaveginum  (N6411050 W 2121484) og er þar ein glæsilegasta varðan við Gamla Þingvallaveginn. Stígurinn stefnir svo áfram í átt að Moldbrekkum. Þegar farnir hafa verið um 750 -60 m norður frá Gamla Þingvallaveginum er gata þar þvert á vestan úr Seljadal og austur í átt að Vilborgarkeldu. Varða er dálítið sunnan Gamla þingvallavegar, steinn ofan á öðrum stærri (N6410810 W2121063). Önnur varða er töluvert sunnar (N6410077 W2120834). Mynda þær línu norður-suður við vörðurnar við Bringna–Grafningsleiðina. Ekki eru greinilegar götur á þeirri leið.
Gangan tók marga daga og 4 mín.
Kveðja Jón Sv.”

Laufdaelingagata-8

Auk þess hafði Jón skráð leiðina sbr.: “Ég sendi hér kort af Laufdælingastíg norður að Gamla Þingvallavegi. Sendi áðan kort af syðri hlutanum.
Ég talaði við Ómar Gauk [Jónsson] og kannaðist hann við gjána og sagði hafa legið þar á greni. Gjáargreni. Hann vissi ekki um nafn á skarðnu í Sköflungi þar sem gatan fer yfir í Grafning.
Ég varð mér úti um örnefnalýsingu fyrir Nesjar og er þar haft eftir Guðmanni Ólafssyni að Sköflungaskarð sé sunnan Sköflungs líklega þá skarðið þar sem raflínurnar eru.
Einnig er nefndur Sköflungsháls en ekki vitað hvar hann er, en Guðmann talið líklegt að hann sé hálsinn, sem gengur norður úr Sköflungi og sé það þá á mörkum.
Mér finnst skrítið að skarðið þar sem gata liggur úr sveitinni hafi ekki nafn og ef það hafi haft nafn að nafnið hafi gleymst svona gjörsamlega.
Kv.Jón Sv.”

Heimild:
-Jón Svanþórsson.

Laufdælingastígur

Laufdælingastígur.

Búrfellskot

Tekið verður hús á Þormóðsdalsbóndanum Þorsteini Hraundal og frú. Af því tilefni var gengið að draumóranámum Einars Benediktssonar utan í Búrfelli, beggja vegna Seljadalsár, upp með hinum forna Seljadalsvegi er lá áleiðis til Þingvalla áður en Konungsvegurinn 1907 kom til, yfir steinhlaðnar brýr norðan Leirtjarnar og vestan Silungatjarnar, að Nærseli, fjárborg skoðuð sem og gömul fjárhústóft utan í Grímannsfjalli áður en kveðju var kastað á Þormóðsdalsbóndann (og frú) að lokinni gönguferð.

Tóftir Búrfells(kots) - Hafravatn fjær

Áður en lagt var af stað voru rifjaðar upp örnefnalýsingar fyrir Þormóðsdal og Miðdal yfir göngusvæðið. Heimildarmaður og skrásetjari þessara lýsinga var Tryggvi Einarsson í Miðdal, en hann þekkti einnig vel til í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi fæddist í Miðdal árið 1901 og átti þar heima alla sína tíð.
“Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita. Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita. Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt. Í túninu norðan við Þormóðsdalsbæinn er stór hóll, er Gapi heitir; vestan undir Gapa er Gapamýri.

Gamla þjóðleiðin ofan Búrfells(kots)

Norður af Þormóðsdalsbænum er fell, sem Þverfell heitir að gildragi nokkru austar. Þá tekur við Þormóðsdalsfjall að svonefndum Efri-Sukkum. Á austanverðu Þormóðsdalsfjalli er laus klettur, er Grettir heitir.
Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. Heitir sá lækur Árneslækur. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. Voru þar aðalútengjaslægjur Þormóðsdals. Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sést þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir.”
Og þá heim að Miðdal: “
Norðan við gamla Miðdalstúnið var mýri sem Mómýri hét (nú ræktað tún), mótak var þar gott, mórinn svartur og harður. Ruðningur 4 til 6 stungu mórinn 6 til 9 stungur niður. Ofan við Mómýri er Móholt. Norðan við Mómýri og upp með Seljadalsá er Búrfellsmýri. Austur af Búrfellsmýri eru Hringholtin, en austan við Hringholtin er mýri sem Hringur heitir. Sunnan við Hring er urðarhjalli sem Klif heitir. Norðan við Búrfellsmýri er Búrfell, sunnan við Búrfell er kargaþýfður mói, þar var Búrfellskot. Sést vel fyrir bæjarrústum þar. Búrfellskot var hjáleiga frá Miðdal. Sunnan í Búrfellstind er Búrfellsbrekka. 

Brúin norðaustan Leirtjarnar

Vestan í Búrfelli neðarlega eru grastorfur sem Búrfellstorfur heita. Norðan í Búrfelli eru grónir hjallar er Tjaldstaður heitir. Inn með Búrfelli að norðan er Búrfellsfoss  í Seljadalsá. Norð-austan við Búrfell er Fellsmýri. Austan við áðurnefndan Hring eru Leirtjarnarmelar, þar er jarðfastur bergdrangur sem Grettir heitir. Sunnan við Leirtjarnarmela er Leirtjörn. Sunnan við Leirtjörn er Leirtjarnarurð, þar er fjárrétt og Stekkur. Suð-austur af Leirtjörn er allstór mýri er Leirtjarnarmýri heitir. Austur af Leirtjarnarmýri eru hólar sem Leirtjarnarhólar heita. Norður úr Leirtjörn rennur Leirtjarnarlækur eftir mýri er Leirtjarnarlækjarmýri heitir. Frá Leirtjarnarlæk inn með Seljadalsá er mýrarkriki er Breiðiklofi heitir. Austan við Breiðaklofa er hóll sem Þúfhóll heitir. Austan við Þúfhól er mjótt mýrardrag niður að Seljadalsá sem Oddnýjarklofi heitir. Nokkru innar með Seljadalsá er mjótt gróðurdrag sem Mjóiklofi heitir, þar tekur við Silungatjarnarhæð. Fyrir sunnan Silungatjarnarhæð er Silungatjörn. Fyrir sunnan Silungatjörn er Silungatjarnarurð. Austan við Silungatjarnarhæð er Silungatjarnarlækur sem rennur  í Seljadalsá. Austan við Silungatjörn er Silungatjarnarmýri. Sunnan við Silungatjarnarmýri eru Silungatjarnarbrúnir. Austan við Silungatjarnarmýri er áverandi hóll er Moshóll, heitir. Nokkru innar með Seljadalsá þrengist verulega að Seljadalsá, þar heitir Þrengsli. Austan við Þrengslin er Seljadalur.”

Önnur brú á gömlu þjóðleiðinni til Þingvalla

Tryggvi minntist á Búrfellskot. Í Jarðabókinni 1703 er bærinn nefndur Búrfell. Tóftir bæjarins, sem verður að teljast kot, jafnvel á þeirra tíma mælikvarða, sjást enn vel utan í suðvesturhlíð Búrfells. Gamla þjóðleiðin frá Reykjavík og austur á Þingvöllu lá neðan við bæinn og áfram áleiði upp hlíðina að Búrfellshálsi. Gatan var rakin áfram um hálsinn. Ætlunin var að rekja hana allt upp að vaði á Seljadalsánni norðaustan við Silungatjörn.
Norðan Leirtjarnar sést gatan vel. Gott útsýni er suður yfir vatnið, að Gildruhálsi. 

Haldið var yfir hina hlöðnu brú yfir mýrardrag norðnorðaustan tjarnarinnar. Handan hennar lá gatan upp á örfoka melhæð, niður hana að handan og liðaðist síðan með lágum hæðum til norðausturs. Skammt vestan Silungatjarnar var komið að annarri hlaðinni brú yfir bleytufláka. Handan hans var komið inn á nýjan veg að sumarbústaðabyggð við vatnið, en með þrautseigju var hægt að rekja gömlu götuna áfram um lúpínusvæði og afgirta einstaka sumarbústaðareiti. Hún lá svo til alveg að tjörninni, mjög greinilega, en fjarlægðist hana síðan er nær dró Seljadalsánni. Þegar að ánni var komið lá gatan að vaði og síðan áfram áleiðis inn að Þrengslum.

Hluti hinnar gömlu þjóðleiðar um sumarhúsabyggð vestan Silungatjarnar

Reyndar er alveg ótrúlegt hversu einstaklingar hafa fengið frjálsar hendur að raska þessrai fornu þjóðleið. Verður bæði við Þjóðminjasafnið (áður fyrr) og Fornleifavernd ríkisins að sakast í þeim efnum – því einungis svolitla meðvitund (andstæða sofandaháttar) hefði þurft til að vernda þennan kafla leiðarinnar, sem annars er að mestu óraskaður.
Við vaðið var beitt til norðurs, að Nærseli, norðan Seljadalsár, ofarlega í Neðri-Seljadal. Á litlum grónum “bleðli” norðan árinnar mótar fyrir tóftum. Kargaþýfi er á svæðinu, en kvöldsólin opinberaði allan sannleikan um hinu horfnu húsaskipan. Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
NærselNeðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.
Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft “selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft “dagslættir í Viðey”. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða.

Seljadalur

Seljadalur (Nærsel) – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): ” Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….”
Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá ”fjærsel”? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu. 

Haldið var norðvestur með norðanverðum Seljadal, að tóftum fjárhúss og fjárborgar. Jarðýtu hafði verið ekið niður mýrlendið skammt vestan fjárhússtóftarinnar (sauðahússins) og má telja mildi að ekki hafi verið farið yfir hana. Greinilegt er að þarna standa til verulegar framkvæmdir því búið er að koma fyrir miklu magni svína- og hænsnaskíts innan nýrrar girðingar.

Fjárhústóft (sauðahús) frá þormóðsdal

Líklegt má telja að þarna eigi innan skamms að “lagfæra” hlíðina norðanverða og gera hana að bitvænni högum fyrir hross. Dalsbóndinn mun vera þarna að verki. Vonandi er hann vel meðvitaður um minjar að svæðinu, hvort sem um er að ræða Nærselið, fjárhúsið eða fjárborgina. Og auðvitað hlýtur Fornleifavernd ríkisins, sem jafnan vakir yfir framkvæmdum sem þessum, að hafa gert viðhlítandi fyrirbyggjandi ráðstafanir svo varðveita megi menningarminjarnar á svæðinu??!!
Aftur var tekið hús á Þormóðsdalsbónda. Hafði hann þá hitað kaffi fyrir þátttakendur og bar vel á beina. Þá gekk hann með þeim að námusvæðinu og benti á fyrrum námuop, sem nú hefur verið lokað með fyrirgjöf. Sagðist hann hafa fyrrum séð op á námugöngum, bæði norðan og sunnan Seljadalsár. Göngin norðan árinnar hefðu verið mun lengri. Leifar járnbrautarteina hefðu verið innan við opin. Göngin sjálf hefðu ekki verið stærri en svo að meðalmaður hafi þurft að ganga um þau hokinn. Rutt hefði verið fyrir opin til að koma í veg fyrir slysahættu. Auðvelt væri hins vegar að moka þau út að nýju, ef einhverjum sýndist svo.
Bóndinn benti FERLIR á leifar járnbrautarteina í ánni neðan við námusvæðið. Þá hefur fyrrum bónda hugkvæmst að nota þá í girðingarstaura því styttur úr þeim má sjá uppi í hlíð Búrfells þar sem núverandi girðing liggur nú. 

Lefar brautarteina við gömlu gullnámuna við ÞormóðsdalLítið hefur verið fjallað um gullvinnsluna við Þormóðsdal (Miðdal), en í Öldinni okkar (1905) er sagt frá því er gull fanst við rætur Öskjuhlíðar. Þar segir m.a.: “Það varð uppi fótur og fit í Reykjavík laugardagsmorguninn 1. apríl, þegar sú fregn barst um bæinn, að gull hefði fundizt í mýrarkrikanum vestan undir Öskjuhlíðinni rétt fyrir sunnan gamla Hafnarfjarðarveginn.” Gullfréttin flaug víða. Áhöfn á breskum togara, sem legið hafði í höfninni, sigldi til Englands með fréttina. Reiknað var með að erlendir gullgrafarar myndu senn streyma til Reykjavíkur. Bæjarstjórn hélt fund um málið. Skipuð var nefnd um rannsókn málsins. Gullsarf. reyndar í ofurlitlu magni, var lagt fram. Námasvæðið var afmarkað og hlutafélagið Málmur stofnað. Stofnendur voru níu menn, en mönnum var frjálst að kaupa sér hluti í félaginu. Stefnt var að því að kaupa bor og hefja frekari leit að gulli á svæðinu. Ekkert varð úr verki og framkvæmdin dagaði uppi. Ekki er vitað hvað varð um hlutaféð, 100-250 þús. kr. Árið 1908 birtist frétt um að hlutafélagið Málmur væri komið í fjárþröng. Fram kom að búið væri að verja 24 þús. kr. til vélakaupa og rannsókna og að félagið væri komið í 4500 kr. skuld. Hvað varð um mismuninn er enn ekki vitað, tæpri öld síðar.
Talið var að gullævintýrið í Öskjuhlíðinni hafi verið búið til til að afla hlutafjár í einhverju, sem ekki var til. Hið litla gull, sem sýna átti tilefnið, hafi í raun og veru komið úr gullnámu við Þormóðsdal.
Frábært veður. Gangan tók
2 klst og 2 mín. (Kvöldsólin sveipaði Seljadalinn og Nærselið dulúðlegri birtu).

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal.
-Öldin okkar.
-Þorsteinn Hraundal.

Silungatjörn og nágrenni í kvöldsólinni

Úlfarsá

Jörðin Úlfarsá norðan Úlfarsár var skoðuð. Á jörðinni eru minjar frá síðustu öldum, en heimildir eru um lengri búsetu á jörðinni. Fallega hlaðinn brunnur, væntanlega frá byrjun 20. aldar, er í túninu ásamt heillegum fjárhústóftum, auk nokkurra annarra jarðlægra útihúsa. Umhverfis norðan- og austanvert heimatúnið hefur verið hlaðinn garður, sem nú er nær jarðlægur. Nýbyggingasvæði Úlfarsfellshlíða er nú komið fast að jarðarmörkunum að vestanverðu.

Úlfarsá

Úlfarsá hét Kálfakot fram til ársins 1927 þegar núverandi nafn var tekið upp. Elsta heimild um Kálfakot er jarðabókin frá 1584 þar sem hún er nefnd Kálfastaðakot (Kalvestaedtkaedt). (Ólafur Lárusson, bls. 83-84). Í jarðabók frá 1590 er jörðin nefnd Kálfakot. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls III er hún í konungseign árið 1704 og ábúendur eru tveir (bls. 292-294). Þar segir m.a.: ”Ábúandinn Slbjörg Gunnlaugsdóttir, býr á hálfri, annar Einar Sveinbjörnsson búr á hálfri… Kúgildi iii, hálft annað hjá hverjum. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eður í Viðey, hvort heldur sem tilsagt verður. Kúgildin uppýngja ábúendur. Kvaðir allar sem um Reynisvatn greinir, nema hvað hestlán hafa ei af þessari jörðu kölluð verið jafnmikil síðan ábúendur voru so fátækir, að þeir áttu annaðhvort öngvan hest eður einn, og hann lítt eður ekki færan, og fóðrur minnast menn ei að verið hafi kýr að fullu. Engjar ærið litlar, útigangur lakur og landþröng mikil… Torfskurður til húsagjörðar og ediviðar nægilegur.”
Í jarðatali Johnsens frá 1847 er hún komin í bændaeign og ábúandi er einn leiguliði (bls. 96).
Fram til ársins 1927 hét jörðin Kálfakot er nafnið Úlfarsá var tekið upp (Ari Gíslason). Um þetta segir Ólafur Lárusson: ”… og það hefði eigi heldur verið neitt óeðlilegt, að jörðin Kálfakot eftir legu sinni hefði verið kennd við ána, enda hefir hún nýlega verið skýrð upp og nefnd Úlfarsá (bls. 83).
ÚlfarsáÚlfarsá hefur verð í ábúð fram á miðja 20. öld, en er nú í eigu ríkisins (Gæsluvistarsjóðs). Jón Guðnason og Jóna Þorbjarnardóttir bjuggu á Úlfarsá frá 1927-1944. Jörðin hefur verið án ábúðar frá árinu 1953. Þar var meðferðarheimili (drykkjumannahæli) frá Kleppsspítala (Jarðaskr. Landn. rík.) til ársins 1962. gestur Björnsson forráðamaður vistheimilisins var skráður fyrir nokkrum skepnum á jörðinni 1980.
Engin uppistandandi hús eru nú á jörðinni.

Í Sturlubók Landnámu segir m.a. (10. kafla): ”Þórður skeggi hét maður; hann var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur; Helga hét dóttir þeirra; hana átti Ketilbjörn hinn gamli.
Þórður fór til Íslands og nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár og Leiruvogs; hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komið á Íslandi.”
Einnig (kafli 34): ”Geirröður hét maður, er fór til Íslands, og með honum Finngeir son Þorsteins öndurs og Úlfar kappi: þeir fóru af Hálogalandi til Íslands. Geirröður nam land inn frá Þórsá til Langadalsár; hann bjó á Eyri. Geirröður gaf land Úlfari skipverja sínum tveim megin Úlfarsfells og fyrir innan fjall. Geirröður gaf Finngeiri lönd uppi um Álftafjörð; hann bjó þar, er nú heitir á Kársstöðum. Finngeir var faðir Þorfinns, föður Þorbrands í Álftafirði, er átti Þorbjörgu, dóttur Þorfinns Sel-Þórissonar.
Geirríður hét systir Geirröðar, er átt hafði Björn, son Bölverks blindingatrjónu; Þórólfur hét son þeirra.
Úlfarsá Þau Geirríður fóru til Íslands eftir andlát Bjarnar og voru hinn fyrsta vetur á Eyri. Um vorið gaf Geirröður systur sinni bústað í Borgardal, en Þórólfur fór utan og lagðist í víking. Geirríður sparði ekki mat við menn og lét gera skála sinn um þjóðbraut þvera; hún sat á stóli og laðaði úti gesti, en borð stóð inni jafnan og matur á.
Þórólfur kom til Íslands eftir andlát Geirríðar; hann skoraði á Úlfar til landa og bauð honum hólmgöngu. Úlfar var þá gamall og barnlaus. Hann féll á hólmi, en Þórólfur varð sár á fæti og gekk haltur ávallt síðan; því var hann bægifótur kallaður. Þórólfur tók land eftir Úlfar, en sum Þorfinnur í Álftafirði; hann setti á leysingja sína, Úlfar og Örlyg.”
Þótt nafnið Kálfakot sé hið gamla nafn á Úlfarsá hafa sumir vilja halda því fram að síðarnefnda nafnið hafi verið eldra nafn á jörðinni.
Svavar Sigmundsson, forstöðurmaður Örnefnastofnunar Íslands svarar fyrirspurn KI um Úlfarsfellsnafnið á eftirfarandi hátt á vefsíðu stofnunarinnar, www.ornefni.is: ”Úlfarsfell kemur hvorki fyrir í Landnámabók né fornsögum eða annálum, en Úlfarsá er nefnd í Landnámabók. Úlfarsfell er nefnt í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 (Íslenskt fornbréfasafn II, 220), og í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 (III, 310). Nafnið er vafalítið dregið af mannsnafninu Úlfar, sbr. Úlfarsá, en fjórir eru nefndir með því nafni í Landnámu.”
Um örnefni í Keldnalandi lýsir Halldór Vigfússon viðtali við Björn gamla Bjarnason (þá 93 ára) að Grafarholti þann 27. ágúst 1949: ”Slöðrið eða slakkinn milli holtanna Grafarholts og Keldnaholts heitir Klofningur. Þar niður vildi Einar skáld Benediktsson veita Úlfarsá1), svo að hún félli í Grafarvog og mætti verða að góðri laxveiðiá í líkingu við Elliðaárnar. Einar eða faðir hans hafði keypt lönd á þessu svæði (Gröf og Keldur) og fengu þeir feðgar Björn, sem var þá ekki enn farinn að búa í Gröf, til að mæla fyrir þessari vatnsveitingu.
Úlfarsá Birni mældist að skurðurinn þyrfti að vera 11 feta djúpur, þar sem þurfti að grafa dýpst. Var verkið hafið og nokkur dagsverk unnin, en aðrir, sem lönd áttu að Úlfarsá, munu hafa amast við þessari röskun og bannaði Benedikt þá frekari framkvæmdir.
Áður en sneiðin norðan af Keldnalandi var seld undir Korpólfsstaði (Thor Jensen), áttu Keldur slægjuland uppi við Úlfarsá, sem hét Tjarnengi.2)”
Meðfylgjandi eru eftirfarandi skýringar: ”1)Þetta er hið forna og upphaflega nafn árinnar (sbr. Landnámu) en hún er nú oftast nefnd Korpólfsstaðaá, Korpa, eða eftir öðrum bæjum sem eiga land að henni, einkum þar sem vöð voru á ánni. Björn segist hafa átt hlut að því að nafni Kálfakots var breytt í Úlfarsá til þess að festa hið forna nafn.
2) Samnefnt slæguland var einnig frá Grafarholti litlu ofar. Á þeim slóðum byggði tengdasonur Bjarnar (Hreiðar Gottskálksson) nýbýlið Engi.” Þar má einmitt sjá u.þ.b. 100 metra langan stíflugarð, gerðar úr torfi.
Nokkuð hefur verið ritað um nafnið Kálfakot. Um það segir Hannes Þorsteinsson árið 1923: ”Kálfakot. Matsbókin nefnir Kálfá og Kálfárkot, en hvorugt finnst annarsstaðar. Kálfastaðakot nefnist jörðin í JB. Jens Söffrenssonar 1639 og í Kálfa(r)sstaði (eða Kálfsstaði), en nafnið horfið fyrir ævalöngu og Kálfakot komið í staðinn, sem heiti jarðarinnar.” (Hanes Þorsteinsson, bls. 33). Um þetta atriði hefur Ólafur Lárusson einnig farið nokkurm orðu: ”Nafnið Kálfastaðakot er tilkomið fyrir nafnbreytingu þannig, að orðið hefir tengzt við eldra nafn Kálfastaðir, en Kálfastaðir er aftur afbökun úr eldra nafni Kálfarsstaðir, dregið af mannsnafninu Kálfarr… Mannsnafnið Kálfarr finnst nú eigi frá fornöld eða miðöldum hér á landi, en hefir hins vegar tíðkast lítilsháttar á síðarti öldum.” (Ólafur Lárusson, bls. 8?).
Mannsnafnið Kálfarr finnst ekki í Landnámu.
Úlfarsá Mörk jarðarinnar eru nokkuð ljós. ”Samkvæmt konunglegu lagaboði eru landamerki á jörðinni þann 17. marz 1882 eptir 1. gr. Skrásett og undirskrifaðar lýsingu landamerkja á jörðinni Kálfakoti í Mosfellssveit innan Kjósar- og Gullbringusýslu, á móts við jarðirnar: Lambhaga, Lágafell, Úlfmannsfell og Reynisvatn, eru merkin eptir skýrslum, sem fyr ábúendur hafa ljáð frá ómuna tíð, þau er hjer skal greina.
Vesturhlið landsins er þannig: Úr Tjörn í miðjum Þrætumóa; úr þeirri Tjörn í þúfu uppá holtinu þar beint upp af; úr nefndri þúfu vestan til í Leirtjörn; úr nefndri Leirtjörn í Djúpadalsbrún (eystri); úr nefndri brún í fjallsbrekku vestast í Hákinn; úr Hákinn í þúfu uppá fjallinu (norðan til við mýrarsund). Norðurhlið landsins er úr síðastnefndri þúfu, austur í Stórahnjúk; úr þeim hnjúk í Litlahnjúk.
Austurhlið landsins er úr Litlahnjúk og í Mýrdal, úr nefndum dal í fjárborgarbrot (stekk) niður við ána (skammt fyrir austan fossana). (Enn má greina stekkinn undir lágri brekku á austurmörkunum).
Suðurhlið landsins ræður Korpúlfstaðaá niður í fyrrnefnda Tjörn í Þrætumóa. Ennfremur hefur fylgt þessari ábýlisjörð minni frá ómunatíð ¼ hluti úr eiðijörðinnni Óskoti á móts við jarðirnar Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatn og hafa fyrri ábúendur á minni ábýlisjörð haft þar fjenaðarhús sín, óátalið af öllum samyrkingamönnum og hefur mjer verið leigt þetta nefnda ítak ásamt aðaljarðarlandinu, og lýsi jeg hjer einungis vesturhlið landsins (Óskots). Úr skógarvaði í stein beina leið í Litla-Skyggni fyrir sunnan Langavatn. Ritað í Kálfakoti 30. september 1886, Guðmundur Jónsson”. (Landamerkjabók).
Úlfarsá Staðhættir við Úlfarsá eru þeir að bærinn hefur verið í skjóli fyrir norðanáttinni, í hlíð “Fellsins”. Fellið er helsta einkenni bæjarstæðisins, brekkan vestan undir því þar sem bæjarstæðið er og Gilið norðan þess. Að austan er annað fell (hóll), en lægra.
Samkvæmt Túnakorti frá 1916 er bæjarstæðið ofarlega í miðju túninu. Túnið er í brekku sunnan og vestan undir ”Fellinu”. Kálgarður er teiknaður neðan við íbúðarhúsin. Gata liggur í sneiðing upp hlíðina til austurs. Fjárhús eru sýnd norðaustan við bæjarstæðið sem og hlaðinn garður, sem enn sést. Á uppdrættinum stendur og: ”Timburhús neðst í túninu var byggt til ábúðar (Margréti Zoega) árið 191?, rifið aftur (Jón ?) 1917 og selt til Reykjavíkur.” Kálgarðar eru þá 950 m2. Að sögn Guðjóns Norðdahls frá Úlfarsfelli var nýtt hús byggt að Úlfarsá um 1930. Þar mun drykkjumannahælið hafa verið síðar.
Hlaðinn garður umlykur heimatúnið að norðaustanverðu. Gil (Kálfakotsgil) afmarkar túnið að norðanverðu.
Ofan túns eru minjar á gróðurtorfum, en umhverfis þær eru nú melar. Holt eru að austanverðu sem og að norðvestanverðu. Að vestanverðu, neðanvert, eru uppþornaðar mýrar ofan bakka Úlfarsár.
Ameríski herinn hafði mikil umsvif á og við Skyggni á stríðsárunum síðari. Kampurinn var við Leirtjörnina. Í dag eru þar stríðsminjar á svæðinu og þá sérstaklega steyptir grunnar eftir braggahverfin South Belvoir og Tientsin.

Heimildarskrá:
-Ari Gíslason. Úlfarsá og Lambhagi. Örnefnastofnun Íslands.
-Bisk.skjs. II,33. Jarðabók.
-Hannes Þorsteinsson. ”Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjarnöfnum á Íslandi. Árbók Hins Íslenska Fornleifafjelags. Reykjavík 1923.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gefin úr af hinu íslenska fræðafélagi í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn 1923-1924.
-Jarðaskrár 1958-1979. Landnám ríkisins hefur tekið saman eftir forðagæsluskýsrlum og skýrslum hreppstjóra um jarðir í ábúð og eyði. Óprentuð. Skráin er einungis til á Landnámi ríkisins.
-Jens Söffrensson. Jarðabók 1939.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845. og skýrslum um sölu þjóðjarða í landinu. Kaupmannahöfn 1847.
-Landamerkjabók í afsals- og veðmálsbók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu 1890.
-M. Steph. 27,4 fo. Afskrift dr. Jóns Þorkelssonar í Þjóðskjalasafni.
-Ólafur Lárusson. ”Árland”. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess I. 2. Reykjavík 1939.
-Guðjón Norðfahl, f: 18.07.’52. (Munnleg heimild 07.09.’06).

Úlfarsá

Úlfarsá – tóftir gamla bæjarins nær.

Helgusel

Hér er Helgusel nefnt á undan Bringum til að geta staðsett selið á undan upprunanum – tölvulega séð. Bringum hefur áður verið lýst í annarri lýsingu. Til að dreifa upplýsingunum sem best um vefsíðuna er Helgusel því haft hér á undan Bringum.
Helgusel-2Bringur voru efsti bær í Mosfellsdal. Þekktastar eru þær fyrir mannskaðann á Mosfellsheiði í marsmánuði 1857. Þá urðu sex vermenn úti á heiðinni, en átta komust við illan leik niður í Bringur og fengu þar aðhlynningu.
Enn má sjá miklar mannvistarleifar í Bringum, á stórbrotnum stað. Bæjarhóllinn stendur hátt í hlíðinni, umlukinn hlöðnum túngarði að norðaustanverðu. Ofan hans er fjárhústóft (9×9 m með garði í miðju). Hún er hlaðin á hefðbundin hátt, úr torfi og grjóti, en hefur haft timburgafl mót norðri. Hlaðinn garður er í miðu tóftarinnar. Norðvestan hennar er fallega hlaðinn garður, væntanlega utan um “útivistarsvæði” ánna. Önnur myndarleg fjárhústóft er suðvestar.
Ætlunin var að mæla upp rústir í Bringum. Að þessu sinni var mælt upp sel og stekkur undir brekku neðan Bringna, ofan Köldukvíslar og Hrafnakletts (Helguhóls), fjárhústóft ofan brekkunnar, bæjarhóllinn sjálfur með öllum sínum dýrindum og loks fjárhústóft ofan bæjarhólsins. Við skoðun á svæðinu komu í ljós nokkrar tóftir, fremur litlar, sem gaumgæfa þarf betur. Þá má sjá brúarhleðslur á lækjum, en Bringnavegurinn lá upp hlíðin að vestanverðu, upp með bæjarhólnum að sunnanverðu og áfram upp með honum til austurs. Enn má sjá götuna vestan bæjarhólsins sem og austan hans, þar sem hún liðast lengra upp á heiðina, yfir gróninga og mýrar uns hún tengist þjóðleiðinni yfir Háamel til Þingvalla.
Seljarústanna er getið í heimildum neðan við Bringur, undir Grímarsfelli, á bökkum Köldukvíslar, svn. Helgusel, en þar er sérstaklega sumarfagurt (Helgufoss).
Á 3. áratugi síðustu aldar knúðu bændur í Mosfellshreppi á um að sveitarfélagið eignaðist Mosfellsheiðarlandið. Var hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir hreppsfélagið. Lagafrumvarp til sölu á Mosfellsheiði var lagt fyrir alþingi árið 1927 og var málið leitt til lykta árið 1933. Samkvæmt afsalinu var undanskilið: a) svonefnt Bringnaland. Þar var stofnað nýbýli úr laBringurndi Mosfells um miðja 19. öld en jörðin fór í eyði um 1970. b) veiðiréttindi í Leirvogsvatni. c) nýbýlið Svanastaðir við Leirvogsvatn.
Við norðanverðan túngarðarinn í Bringum er upplýsingaskilti. Á því stendur:
“Búseta hófst í Bringum árið 1856, bærinn var stundum nefndur Gullbringur á fyrri tíð og nafn hans komst á hvers manns varir þegar mannskaðinn á Mosfellsheiði varð í marsmánuði 1857. Þá urðu sex vermenn úti á heiðinni, en átta komust við illan leik niður í Bringur og fengu þar aðhlynningu.
Á æskuárum Halldórs Laxness voru Bringur efsti bærinn í Mosfellsdal og kom hann hér eitt sinn í heimsókn ásamt móður sinni, Sigríði Halldórsdóttur. Hann segir svo frá í endurminningabókinni “Í túninu heima”: Bringnakotið stóð hátt á bersvæði, berskjaldað fyrir vindum. Kálgarðurinn var steingerði utanum ekki neitt; hann hafði ekki einusinni verið stúnginn upp þegar við komum þangað í miðjum sólmánuði, en lá útafyrir sig, án tengsla við kotið. Smáfuglar bjuggu milli steina í garðhleðslunni, dilluðu stéli og súngu ákaft og fagurlega fyrir aungvu káli. Að því ég best vissi voru þá ekki kýr á bænum. Hér var enn eitt moldargólfið. Við sátum þarna óratíma og baðstofan fylltist af móreyk; kannski vorum við að bíða eftir kaffi? Ég er búinn að gleyma því; auk þess var ég of úngur til að drekka kaffi.”
Halldór og móðir hans hafa væntanlega farið svonefndan Bringnaveg í þessari ferð. Sú þjóðleið lá úr Mosfellsdal, framhjá Bringum og tengdist síðan svokölluðum Þingvallavegi hjá Borgarhólum á Mosfellsheiði. Bringnavegur var lagður að undirlagi Guðjóns Helgasonar, föður Halldórs Laxness, árið 1910 og má allvíða sjá leifar vegarins…
Bringur fóru í eyði á 7. áratugi 20. aldar og hét síðasti ábúandinn Hallur Jónsson (1891-1968). Enn mótar fyrir bæjarstæðinu ofarlega í túninu.”

HalldorLeið lá um Bringur þar sem heita Lestarófur, sléttar flesjur upp með Köldukvísl. Þær heita svo vegna þess að þar sást síðast til ferðamanna, er þeir fóru austur um Mosfellsheiði. Síðan lá leiðin fyrir norðan Geldingatjörn um Illaklif, sem er suðaustan við Leirvogsvatn og hjá Þrívörðum í Vilborgarkeldu, en Vilborgarkelda er austast á Mofellsheiði ekki langt frá þar sem nýi vegurinn sveigir í norðaustur.
Í örnefnalýsingu Jóns Halldórssonar um Bringur segir m.a.: “Bærinn stendur í suðvesturenda Bæjarholts. Suður og austur af bænum er hið upphaflega tún. Niður af því austanverðu eru pallar í jarðlagið, sem eru síblautir og nefnast Dýjapallar. Þar hjá er Helluhóll. Niður af honum er Mýrdalur. Í framhaldi af honum er grasflötin Fossvöllur við Helgufoss, er sést frá bænum. Áin heitir Kaldakvísl og er á landamerkjum Hraðastaða og Bringna. Vestan við Mýrdal er Melhryggur. Næst við hann er Lautin. Vestar eru Eystri- og Vestri-Hvammur. Upp í austanverðum Eystri-Hvammi er lítill hvammur, er kallast Sætið. Við ána í Eystri-Hvammi er Hrafnaklettur, sem er standberg ármegin. Milli hvammanna er mjór hryggur, Huldufólksrani. Vestri-Melhryggur er vestan beggja hvammanna. Norðvestur af honum er varða, Markavarða, er skilur lönd Laxness og Bringna. Stendur hún á litlu holti, en beggja megin þess eru mýrarteygingar, er kallast Lestarófur. Nefnast þær svo sökum þess, að þar áðu ferðamenn hestum sínum fyrrum. Upp á brún hvammanna er Fjárhúsmýri, sem nú er orðin að túni.

Bringur-2

Tóft – uppdráttur ÓSÁ.

Norðvestur af bænum er lág hæð, er nefnist Enni (flt.). Sunnanvert við þau er Ennamýri, sem er flöt og lágþýfð. Milli Enna og Bæjarholts er Sundið, mýrarsund. Norður af Sundinu er klettur drangalagaður, er nefnist Gægir. Norður af honum er mýrarslakki, Gægismýri. Úr henni rennur Gægismýrarlækur. Norðan mýrarinnar og læksins er Jónsselshæð. Norðan Bæjarholts og austan Gægismýrar er Norðurmýri. Norðvestan Norðurmýrar er mýrarlægð víðáttumikil, sem kallast Jónssel, og er syðsti hluti þess í Bringnalandi. Austur af Norðurmýri er Geldingatjarnarholt, en austan við það er Geldingatjörn. Norðan hennar er lág hæð, Blásteinsbringur, er ná vestur að Jónsseli. Aðeins lítill hluti þeirra eru í Bringnalandi, því að landamerkin eru yfir miðja Geldingatjörn.
Suðvestur úr henni rennur Geldingatjarnarlækur í Köldukvísl spölkorn fyrir austan Bringur. Sunnan við tjörnina beggja megin lækjar er flöt mýri, Geldingatjarnarmýri. Uppi á heiðinni er vestanvert við gamla veginn hóll, er nefnist Rauðkuhóll. Hafði rauð hryssa verið dysjuð þar. Talsverðan spöl sunnar á heiðinni eru Borgarhólar, og eru landamörk milli Bringna og Árnessýslu um hinn austasta og hæsta þeirra. Vestur af hólum þessum eru Borgarhólamelar, og liggur gamli Þingvallavegurinn yfir þá. Ég hefi dvalið 16 ár að Bringum,og mun enginn núlifandi betur vita.”
Ágúst Ólafur Georgsson kom með svohljóðandi ábendingar við örnefnaskrána: “Klettur sá, sem er neðan við Helgufoss Bringur-4í Köldukvís, á móts við Bringur, sem oft er kallaður Helguklettur (m.a. af Magnúsi Grímssyni), segir Halldór Laxness alltaf hafa verið kallaðan Hrafnaklett af Bringufólkinu. Í Hrafnakletti var álfabyggð. Sagt var, að þar byggi huldukona. Kveðst Halldór hafa þetta eftir Jórunni Halldórsdóttur frá Bringum. Jórunn ku hafa haft einhver samskipti við huldukonu, sem þar bjó, snemma á þessari öld [síðustu öld]. Kveðst HKL hafa heyrt þetta, er hann var krakki, en annars ekki lagt sig neitt eftir slíku, er „óinteressant“ að hans mati.”
Helgusel er niður undan Bringum, á bökkum Köldukvíslar, er rennur með Grímarsfelli. Tilgátur eru um það að örnefnið hafi breyst úr heilagt sel (var frá Mosfelli, kirkjustaðnum) í Helgusel. Gengið var að selinu að norðanverðu. Þá er komið beint niður að Hrafnakletti. Milli hans og hlíðarinnar eru líklegar rústir, þrjár að tölu, hlið við hlið. Sú nyrsta er lengst og virðast langveggir vera sveigðir. Syðri tóftirnar eru ógreinilegri og minni. Allar eru tóftir þessar orðnar nánast jarðlægar, en þó má sjá marka fyrir grjóti í veggjum. Stærsta tóftin virðst hafa verið stekkur.
Tóftir Helgusels, sem eru skammt austar, eru vel greinilegar, einkum fjárborg framan við selið. Norðaustur undir Helguhól (Hrafnakletti) sést móta fyrir hlaðinni kví. Austan hennar eru fyrrefndar þrjár tóftir. Sú nyrsta er lengst og stærst. Efst í henni er þvergarður er bendir til þess að þarna hafi verið stekkur. Hinar tvær virðast hafa verið kvíar og þá í tengslum við selið og stekkinn. Ef svo hefur verið þá styrkir það líkur á að um tvö selstæði hafi verið í Helguseli á sama tíma.
Við Helgusel er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.: “Hér í svonefndum Helguhvammi eru rústir Helgusels. Landssvæðið og selið tilheyrðu prestsetrinu á Mosfelli á fyrri tíð og var selið notað á sumrin til að mjólka lambær og framleiða mjólkurafurðir, t.d. smjör og skyr.
Bringur-6mul munnmæli herma að Helgusel sé kennt við Helgu Bárðardóttur, en frá henni segir í Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga yfirgaf mannlegt samfélag og eigraði um landið eins og segir í sögunni: “Litlu síðar hvarf Helga þaðan í burt og fór víða um Ísland og festi hvergi yndi. var hún og alls staðar með dul, en oftast fjarri mönnum.”
Fleiri örnefni tengjast Helgu á þessum slóðum, Helgufoss blasir við okkur og hér við ána er grjóthóll, sem heitir Helguhóll (einnig nefndur Hrafnaklettur). Þar á að vera Huldufólksbyggð og segir sagan að helga Bárðardóttir hafi horfið í hólinn í elli sinni og ekki komið út síðan. Aðrir hafa hafnað þessum nafnaskýringum og telja að Helgusel merki upphaflega hið helga sel. Er sú kenning studd þeim rökum að selið hafi verið í eigu Mosfelsstaðar”.
Ásta f: ´42, skyggn að sögn, hefur haldið því fram að Helga, eða huldukonan í Helgusteini (Hrafnakletti), sé nú horfin úr steininum og hafi tekið sér bólfestu í stuðlabergshamri í fellinu vestan Köldukvíslar ekki langt frá. Með henni væri væri nú hrekkjót stelpa, sem gerði sér að leik að hrinda fólki er ætti þarna leið um (VM).
Þá eru tvær myndir á skiltinu. Annars vegar af brúðhjónum. Þar segir: “Svæðið hér í grennd við Helgusel og Helgufoss er kjörið útivistarsvæði. Þau Helga Rós V. Hannam og Ragnar Bragason teyguðu að sér hið frjálsa fjallaloft um leið og þau voru gefin saman í hjónaband við Helgufoss þann 26. júlí 1997”. Hins vegar er teikning af fossinum. Undir henni stendur: “Helgufoss í Köldukvísl. teikningin er gerð af erlendum ferðamanni sem hér var á ferð seint á 18. öld:”
Við nákvæma skoðun á Helguseli komu í ljós, líkt og fyrr er lýst, þrjú hús og að því er virðist stekkur aftan við þau. Þetta mannvirki sést ekki á uppdrætti Georgs Ágústssonar svo telma má að þarna sé um hluta af selshúsunum að ræða. Eitt rýmið er stærst (íverustaður, en hliðarrýmin eru minni (eldhús og búr).
Sögn tengd Helgu Bárðardóttur er til í örnefnum við Keldur. Þar segir að “á hábungunni vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðadóttir Snæfellsáss og sótt í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi”.Helgusel-3
Hraðablettur er ofan og neðan við Helgufoss og Suðurmýrar þar ofan við. Hraðastaðir hafa verið eignarland allt frá landnámi. Jörðin er sérstök og afmörkuð eign og voru landamerki hennar skráð í tilefni landamerkjalaga nr. 5/1882, sbr. landamerkjalýsingar Hraðastaða 1890 (skrá Óbn).
Allar eignarheimildir, þ.á m. fjöldi lögskipta fyrr og síðar, styðja að Hraðastaðir séu og hafi alltaf verið eignarland. Nægir þar að nefna að öll skilyrði eignarhefðar eru fyrir hendi og enginn vafi leikur á því að um eign er að ræða í skilningi eignarréttarákvæðis Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Kröfulína fjármálaráðherra nær inn á austanverða jörðina og er ástæðan fyrir því sú að ráðherra leggur landamerkjabréf Stóra-Mosfells frá 1882 (skrá Óbn) til grundvallar kröfum sínum en landamerkjabréf Hraðastaða frá 1890 er ekki samhljóða eldra landamerkjabréfi fyrir Stóra-Mosfell frá 1882.
Allt land innan sveitarfélagsmarka Mosfellsbæjar er samkvæmt Landnámu í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Þórður skeggi hefur verið kallaður landnámsmaður Mosfellinga. Samkvæmt Landnámu bjó hann á Skeggjastöðum og nam hann land að ráði Ingólfs og náði það á milli Leirvogsár og Úlfarsár sem er ekki fjarri núverandi sveitarfélagsmörkum Mosfellsbæjar. Mosfellsdalur og Mosfellsheiði að hluta voru innan laHelgusel-6ndnáms Þórðar skeggja.
Fljótlega eftir að land byggðist kom hreppaskipanin til sögunnar á Íslandi. Þá hefur Mosfellshreppur orðið til en hann náði niður að Elliðaám allt fram á 20. öld. Hreppurinn lá að Kjalarneshreppi í norðri, Þingvallahreppi, Grafningshreppi og Ölfushreppi í austri og Seltjarnarneshreppi í suðri og vestri.
Snemma í kristnum sið var kirkja reist í Mosfellsdal og var hún í fyrstu í einkaeign (bændakirkja). Ekki hafa varðveist máldagar Mosfellskirkju frá miðöldum en ekki er útilokað að heiðarlandið hafi verið eign Mosfells frá fyrstu tíð eins og örnefnið Mosfellsheiði gefur til kynna.
Líkt og í öðrum sveitum landsins var kvikfjárrækt ríkjandi atvinnugrein í Mosfellssveit. Hér áttu fáar jarðir land að sjó og Mosfellingar höfðu því takmarkaðar nytjar af sjávarfangi. Jarðaskipan tók litlum breytingum í aldanna rás, stærri jarðir voru um 40 talsins og þar við bættust hjáleigur. Þegar líða tók á 20. öld tók að fjara undan landbúnaðinum og samfélagið gjörbreyttist.
Lagafrumvarp til sölu á Mosfellsheiði var lagt fyrir alþingi árið 1927 og var málið leitt til lykta árið 1933. Samkvæmt afsalinu var undanskilið: a) svonefnt Bringnaland. Þar var stofnað nýbýli úr landi Mosfells um miðja 19. öld en jörðin fór í eyði um 1970. b) veiKaldakvislðiréttindi í Leirvogsvatni. c) nýbýlið Svanastaðir við Leirvogsvatn. d) svonefnt Jónselssland ofan við Mosfellsdal. Um það leyti, sem heiðin var seld, var stofnað nýbýli á þessum slóðum og nefnt Seljabrekka. Hún er þó ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var. Jónsselið er t.a.m. alls ekki örugglega staðsett í nútímanum.
Og þá aftur að tilgangnum – uppmælingunni. Helgusel var mælt 22 m á lengdina). Um er að ræða magflóknar tóft(ir). Ágúst Georgsson teiknaði selið árið 1980 og skv. teikningunni virðist húsaskipan nokkuð ljós. Skv. uppdrættinum virðast hafa verið þrjú hús, ekki endilega samtímis. Þannig eru rýmin sunnan og norðan við miðtóftina nokkuð álíka varðandi skipan, en miðtóftin virðist af annarri og líkari eldri húsagerð. Regluleg skipan rýma eru að sjá í endahúsunum, en óreglulegri og einfaldari í miðið. Svo virðist sem seltóftirnar tvær til endanna hafi haft hvor um sig fullnægjandi selsmynd á þessu svæði, þ.e. trjú rými. Því gæti þarna hafa verið stvær selstöður um tíma, eða þá að annað húsið hafi verið byggt síðar, þá væntanlega sú syðri. Miðtóftin er torráðnari. Þarna gæti verið um að ræða nýtingarhús eftir að selið lagðist af og þá verið nýtt til annarra nota, s.s. sem brennisel til hrístöku eða sem skjól fyrir ferðalanga. Hún virðist byggð utan í hinar tóftirnar tvær og jafnvel úr þeim að hluta. Hin háabarma borg vestan þess gæti skýrt tilvist hennar. Hún er líklega, af ástandinu að dæma, nýjasta mannvirkið á svæðinu og hluta af efni hennar mögulega tekið úr selstóftunum. Þarna var jafnan töluverð umferð ferðamanna.
Bringur-9 Það hefur sennilega verið ferkantað, en rúnast af með tímanum og gróið upp. Ástand þess er ágætt enda ágangur orðinn lítill eftir að sauðféð varð lokað af í afmörkuðum beitarhólfum. Líklega hefur þarna verið um rétt að ræða í þessum grasvæna og skjólsæla stað með hinn fagurmyndaða foss sem útsýni. Þar gætu ferðalangar um Bringnaveg hafa áð um skamma hríð, enda skjóllendið hvergi betra við leiðir Mosfellsheiðarinnar.
Sá, sem kom að Bringum úr vestri, hafa varla getað gleymt “heimaálitinu”. Bæjarhúsið hefur staðið hátt í hlíðinni, ofan (austan) við kálgarðinn. Enn má sjá móta fyrir “fótstykkinu” að vestanverðu. Innan hennar er hola í bæjarhólinn (sem er um 25×29 m). Í henni má enn sjá stofuofninn í kjallaranum og leislu honum tengda. Norðvestan hennar er bein og regluleg hleðsla.
Í norðaustanverðum aflíðandi bæjarhólnum mótar fyrir húsi eða tóft. Þar gæti hafa verið skemma eða geymsla úr timbri. Norðaustan þess er hlaðið bogadregið gerði. Það liggur í reglulegan sveig til norðust og síðan áleiðis til norðurs. Við norðanverðan bæjarhólinn er hlið það sem garðurinn mætir hleðslum um kálgarðinn norðan bæjarhólsins. Þarna munu “smáfuglarnir búið milli steina í garðhleðslunni, dillað stéli og súngið ákaft og fagurlega fyrir aungvu káli”.
Vestan bæjarhólsins sést hvar kastað hefur verið úr götunni. Hún lá upp fyrir bæjarhúsið og þaðan áfram upp á heiðina.
Fjárhústóft er austan bæjarhúsanna. Hleðslur standa enn vel og sjá má útlínur hennar glögglega. Hleðslurnar eru um 12o cm á hæð. Hlaðinn garður er í miðjunni. Tóftin snýr til norðvesturs og hefur gafl verið á þeirri hlið. Grjóthleðslur eru í annars grónu veggjunum.
Helgufoss Í örnefnalýsingu Jóns Halldórssonar segir að: “bærinn stendur í suðvesturenda Bæjarholts. Suður og austur af bænum er hið upphaflega tún. Niður af því austanverðu eru pallar í jarðlagið, sem eru síblautir og nefnast Dýjapallar. Þar hjá er Helluhóll. Niður af honum er Mýrdalur. Í framhaldi af honum er grasflötin Fossvöllur við Helgufoss, er sést frá bænum. Áin heitir Kaldakvísl og er á landamerkjum Hraðastaða og Bringna. Vestan við Mýrdal er Melhryggur. Næst við hann er Lautin. Vestar eru Eystri- og Vestri-Hvammur. Upp í austanverðum Eystri-Hvammi er lítill hvammur, er kallast Sætið. Við ána í Eystri-Hvammi er Hrafnaklettur, sem er standberg ármegin. Milli hvammanna er mjór hryggur, Huldufólksrani. Vestri-Melhryggur er vestan beggja hvammanna. Norðvestur af honum er varða, Markavarða, er skilur lönd Laxness og Bringna.” Þegar staðið er efst í brekkunni ofan Við Helgusel má vel virða fyrir sér framangreind örnefni.

Bringur

Bringur – loftmynd 1954.

Suðvestan við fjárhústóftina er ferkantaður hlaðinn steingarður. Efsti hluti hans, næst tóftinni nær tveimur metrum austar. Hleðslur standa enn vel, en eru þó bæði orðnar signar og hafa fallið út frá uppruna sínum að hluta. Líklega hefur gerðið verið notað sem nátthagi og/eða rétt. Það er nú grasi gróið, líkt og umhverfið.
Brunnurinn er nokkuð sunnan við bæjarhólinn.
Önnur myndarleg fjárhústóft er nokkru vestar, ofan brekku þeirrar er umlykur Helguselið. Hún er dæmigerð fyrir 19. aldar fjárhús; hlaða innanvert og gripahúsið lengra utanvert. Hlaðinn garður er í miðju. Op er vestast á suðurhlið. Veggir eru heillegir og hafa haldið sér vel. Grjót má sjá í veggjum að innanverðu, en gróið á millum. Sést það best við op og í hlöðu. Að utanverðu er veggir grasi grónir. Þeir eru um 150 cm háir. Ástand þeirra er gott, enda lítið verið um átroðning í seinni tíð. Gras, óslegið, er allt um kring, líkt og á allri Bringnaheimajörðinni þar sem ekki eru lækir, dýjamosa eða mýrarvelpur.
Ef svæðið í heild væri gaumgæft með fránum augum mætti eflaust finna á því fleiri tóftir og minjar, s.s. smærri útihús, hlaðnar brýr yfir læki, úrkast úr túnum, garða og götur – allt minjar um athafnasemi fólks og fyrrum búsetu í Bringum.

Bringur

Bringur – bærinn; loftmynd 1954.

Í örnefnaskráningu Sigríðar Jóhannsdóttur frá 1974 vegna athugasemda kemur fram að “gamall maður sagði Jórunni fyrir nokkrum árum, að staðurinn, þar sem bærinn var fyrst reistur, hefði heitið Gullbringur, frá ómunatíð. Gullbringurnar eru vestan í hæð, sem er norðan undir Grímansfelli.
Það eru vinsamleg tilmæli Jórunnar, að jörðin sé nefnd sínu upphaflega nafni, þ.e. Gullbringur, eins og sr. Magnús Grímsson nefndi hana. Það er hið eina, sem hún getur gert fyrir jörðina, að stuðla að því, að hún sé nefnd fullu nafni.”
Frábært veður – útsýnið yfir Mosfellsdalinn…

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Jóns Halldórssonar – Örnefnastofnun Íslands.
-Ásta (VM).

Helgusel

Helgusel.

 

Þormóðsdalur

Gengið var að fyrrum gullvinnslusvæðinu í Þormóðsdal og kíkt á nýlegt svæði þar sem gerðar hafa verið tilraunaboranir í sama tilgangi og fyrrum. Það mun hafa verið Einar Benediktsson, skáld, sem beitti sér fyrir Útsýni frá námusvæðinu - í boði Landsvirkjunnarnámugreftrinum fyrrum (1905). Náman stóð lengi opin, en nú hefur verið rutt fyrir opið til að fyrirbyggja að einhver fari sér að voða í göngunum. En það er fleira merkilegt – og jafnvel merkilegra – í Þormóðsdal en gull, því ekki er allt gull sem glóir. Vitað er að gullvinnsla bæði mengar og raskar umhverfinu verulega og ekki síður varanlega. Meginútsýninu neðst í Seljadal hefur einnig verið verulega raskað (í boði Landsvirkjunnar), en vonandi ekki varanlega.
Seljadalsáin sjálf virðist líka luma á fleiru en tæru vatni…
Á vefsíðu þann 8. des. 2005 kom m.a. eftirfarandi fram um fyrirhugaða frekari gullvinnslu: “Gull í námu er hins vegar ekki endurnýjanlegt. Það er flutt burtu og kemur aldrei aftur. Gullvinnslu fylgja gríðarleg náttúruspjöll. Heilu hlíðunum, heilu fjöllunum er beinlínis skolað í burtu. Klettar sprengdir upp. Grónu landi breytt í ógeðslegt drullusvað. Þeir sem hafa komið á svona svæði skilja við hvað er átt. Reyndar getur náttúran sloppið vel ef ríkar gullæðar finnast. Því er ekki að heilsa hér. Gullmagnið er við Gamla námusvæðiðneðri mörk hins vinnanlega (og líklega rétt undir þeim). Það þýðir aðeins eitt; hámarks náttúruspjöll. Hvers vegna hafa náttúruverndarmenn okkar ekki látið í sér heyra um þetta mikilvæga mál?”
Í fréttum RÚV 10. des. 2005 sagði m.a.: “Mikið rask af gullgreftri – Nútímavinnsla á gulli er alltaf umhverfisvandamál, segir prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands. Vinnslunni fylgir mikið rask og blásýra er notuð til að greina gullið frá jarðveginum. Rannsóknarboranir til gulleitar eru í þann mund að hefjast í Þormóðsdal ofan Reykjavíkur. Jarðrask og eiturefnahætta fylgir nútímavinnslu á gulli. Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, segir gullvinnslu alltaf vera umhverfisvandamál, mismunandi þó eftir aðstæðum. Algengast sé að greina gullið úr jarðveginum með því að leysa það upp í blásýru í opnum tjörnum. Eftir helgina eiga að hefjast rannsóknarboranir í Þormóðsdal ofan Reykjavíkur til að kanna hvort nægilega mikið gull sé í jarðveginum og hversu stór hugsanleg náma yrði. Finnist nægilega hátt hlutfall gulls í berginu, gæti talist fýsilegt að hefja gullvinnslu.”
Jarðhitaútfelling í bergi í BúrfelliÍ annarri frétt RÚV um efnið þann 15. des. 2005 sagði: “Borað eftir gulli í Þormóðsdal – Borun er hafin á gullleitarsvæðinu í Þormóðsdal, rétt ofan við Reykjavík. Áætlað er að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í apríl og verður þá hugsanlega hægt að meta hvort gullmagnið í berginu sé nægilega mikið. Borun er hafin á gullleitarsvæðinu í Þormóðsdal, rétt ofan við Reykjavík. Áætlað er að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í apríl og verður þá hugsanlega hægt að meta hvort gullmagnið í berginu sé nægilega mikið. Eins og fréttastofa Sjónvarps greindi frá í síðustu viku hafa breskir áhættufjárfestar lagt um 100 miljónir króna í gullleitina en það er íslenska fyrirtækið Melmir sem sér um verkið. Fyrirtækið hefur áður borað eftir gulli á þessum sama stað. Notaður er kjarnabor frá Jarðborunum og þegar fréttastofu bar að garði um miðjan dag voru þar fjórir menn að störfum. Stefnt er að því að unnið verið á tveimur vöktum allan sólarhringinn næstu mánuði. Boraðar verða 30 holur niður á allt að 100 metra dýpi. Þetta er í þriðja sinn sem leitað er að gulli í Þormóðsdal en það var síðast gert fyrir tæpum áratug. Fyrri rannsóknir sýndu að bergið er afar gullríkt og eru menn því nokkuð bjartsýnir.”
Þá greindi RÚV enn þann 24. sept. 2006 frá gullleitinni: “Gullleit í Þormóðsdal lofar góðu – Meira gull hefur fundist í Þormóðsdal en menn þorðu að vona. Niðurstöður rannsóknarborana Melmis vegna gulleitar eru að koma í ljós. Gullleit hefur staðið yfir víða um land og lofa fleiri staðir góðu. Búið er að bora 32 holur, allar í landi Þormóðsdals og Búrfells rétt í grennd við Hafravatn í Mosfellsbæ. Niðurstöður eru alljákvæðar að því er virðist. Rannsóknarleyfi fyrir frekari gullrannsóknir hafa verið gefin út fyrir 14 svæði á landinu. Um tonn af grjóti þarf til að vinna 30-40 grömm af gulli.”
Svæðið - loftmyndLjóst er, þrátt fyrir framangreindar fréttir, að lítil von sé til þess að gullvinnsla verði hafin á svæðinu. Bæði er kostnaðarhlutfallið við vinnsluna mikið og ávinningsvonin lítil, auk þess sem umhverfismálin vega þyngra nú en þau gerðu einungis fyrir nokkrum misserum síðan.
Hér á landi finnast hvorki gimsteinar né dýrir málmar. Demantar finnast einkum í mjög fornu, basísku storkubergi og myndbreyttu bergi, svo og í sand- og malarlögum þar sem þeir sitja eftir þegar mýkra berg eyðist. Málmarnir gull (Au), silfur (Ag) og kopar (Cu) finnast einkum í fellingamyndunum, til dæmis Andes- og Klettafjöllum á vesturjaðri Ameríku, í Úralfjöllum, á Cornwall í Englandi og Harz-fjöllum í Þýskalandi (Harz-fellingin) og svo framvegis, auk fornra og rofinna fellingamyndana, til dæmis í Kanada og Ástralíu. Oftast tengjast þessar myndanir graníthleifum í jörðinni þannig að meðan hleifarnir voru að kólna og kristallast safnaðist vatn og ýmis efni, meðal annars þessir málmar, í síðustu bráðina og mynduðu loks æðar í granítinu og í grannberginu í kring. Að auki olli hið kólnandi granít hringstreymi grunnvatns um bergið sem leysti út málma úr berginu meðan vatnið var að hitna og felldi þá út annars staðar þegar það kólnaði. Á einum stað í Búrfelli má sjá þessar aðstæður.
Ýmislegt er núorðið vitað um þau ferli sem að verki eru við samsöfnun þessara tiltölulega sjaldgæfu efna í nemanlegt form, en um gullið var lengstum sagt að það “finnist þar sem það finnst,” nefnilega að ekkert nema heppni gæti leiðbeint gullleitarmönnum. Gull finnst eingöngu sem málmur, en hin efnin tvö, silfur og kopar, einkum í ýmsum samböndum, oftast sem súlfíð. Algengasta koparsteindin er eirkís (FeCuS2) en silfur myndar til dæmis argentít (Ag2S). Hlunkar af koparmálmi hafa fundist í basalti, til dæmis í Færeyjum og Kanada, og er talið að jarðhitalausnir hafi safnað málminum saman. Sömuleiðis finnst silfurmálmur stundum í jarðhitaæðum í bergi. Jarðhitaæðar eru víða í Búrfelli.
GÓþekkt steintegund í Seljadalsáerð hafa verið nokkur tilhlaup til málmleitar hér á landi – frægar eru fyrrnefndar tilraunir árið 1905 á vegum Einars Benediktssonar við Þormóðsdal í Mosfellssveit og annarra manna í Vatnsmýri í Reykjavík 1907. Sennilegt er að Vatnsmýrar-gullæðið hafi byggst á svikum eða misskilningi, en síðari tíma gullleitir benda til þess að Einar Benediktsson hafi verið furðulega heppinn með jarðfræðinga eða gulleitarmenn og þeir rambað á vænlegasta gullstaðinn á landinu. Kvarsæðin við Þormóðsdal er þó sennilega alltof lítil að rúmmáli til að gullvinnsla borgi sig, og sama á við um koparvinnslu í Svínhólanámu í Lóni þar sem nokkuð er af eirkís í æðum ásamt öðrum málmsteindum, og talið hafa myndast úr kvikuvessum.
Hreint gull (Au) er sjaldan notað í eitthvað annað en gullstangir og safngripi eins og gullpeninga. Ástæðan er sú að hreint gull er of mjúkt til smíða og því er það blandað með kopar eða öðrum málmum þegar smíða á skart og gripi úr gulli. Gull er því yfirleitt blandað öðrum málmum eins og silfri (Ag), platínu (Pt), sinki (Zn) eða kopar (Cu).
Jaspis er dulkornótt afbrigði af kísli, SiO2. Algengustu afbrigðin eru rauð-, gul- og móleit en sjaldnar græn. Litbrigðin eru hins vegar sennilega nær óendanlega mörg, stundum í sama steininum. Jaspis er ógagnsær, jafnvel á skelþunnum brúnum. Hann myndast einkum við lághita-ummyndun þar sem hann fellur út úr kísilmettuðu grunnvatni. Hér á landi finnst hann einkum sem holu- og sprungufylling í tertíeru bergi, og samkvæmt Íslensku steinabókinni eftir Kristján Sæmundsson og Einar Gunnlaugsson er þekktur fundarstaður í Hestfjalli í Borgarfirði.
Í ferðinni rak FERLIR augun í “grænleitt” í Seljadalsánni skammt frá gamla gullleitarsvæðinu. Það skyldi þó aldrei vera….
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín. (Sjá meira um nágrenni Þormóðsdals.

Heimildir m.a.:
-Britannica Online.
-h.i. visindavefur

Járnbrautarteinn

Leirtjörn

Gengið var eftir Seljadalsvegi til austurs undir sunnanverðu Búrfelli.

Búrfellskot

Búrfellskot – uppdráttur ÓSÁ.

Ætlunin var að fylgja veginum upp fyrir tóftir Búrfellskots og inn fyrir norðanverða Leirtjörn, ganga síðan suðurfyrir tjörnina, líta á Miðdalsstekk og halda síðan áfarm að upphafsstað. Vegurinn svonefndi er gömul gata er lá frá Reykjavík upp með Hafravatni og áleiðis til Þingvalla. Hann er vel greinilegur á köflum, t.a.m. í Seljadal. Þar liggur hann í gegnum gamla hlaðna rétt sunnan undir Kambhól, Kambsrétt. Slóðinn er flóraður á þessum kafla. Þessi gata var lögð á seinni hluta 19. aldar og var um tíma aðalvegurinn til Þingvalla eða þangað til gamli Þingvallavegurinn var lagður í tilefni af koungskomunni 1907. Í örnefnalýsingu fyrir Miðdal segir m.a.: “… norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás heitir. Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur, sá konunglegi dalur; árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan.”
Þegar lagt var af stað komu fram vangaveltur um örnefnið Búrfell.
Mörg fjöll á Íslandi bera sama nafn eins og Mælifell, Sandfell og Búrfell. Það er augljóst hvers vegna fjöll heita Sandfell og talið er að Mælifell heiti svo m.a. af því að þau helmingi ákveðna ferðamannaleið. En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar. Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla. Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu eða eins og segir á vef Örnefnasafns Stofnunar Árna Magnússonar (sjá http://www.ornefni.is/) „og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“ Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn. Talið er að það séu a.m.k. 47 fjöll hér á landi sem bera nafnið Búrfell. Á sama hátt mætti tíunda um örnefnið Leirtjörn því þær eru fjölmargar hér á landi. A.m.k. þrjár eru t.a.m. svo til nágrannar á umræddu svæði, ef einungis er tekið mið af landakortinu. 

Búrfellskot

Búrfellskot.

Tóftir Búrfellskots eru enn greinilega ofan við gamla veginn, sem hefur legið svo til í gegnum hlaðið á kotinu. Búrfellskot er merkt í eyði suðvestan undir Búrfelli. Þar er Leirtjörn suðaustur af og Hafravatn vestan. Ekki er minnst á kotið í Jarðabókinni 1703, en þar er hins vegar fjallað um Búrfell. Það var önnur hjáleiga af tveimur frá Miðdal. hin var Borgarkot. Undir það síðasta var Búrfell nafn á húsi, sem var rifið í kringum 1980. Grunnurinn sést enn neðan og suðvestan við Búrfellskotið, sem hér er fjallað um
Um Búrfell, sem þá er sennilega sama og Búrfellskot, segir m.a.: “Nú í eyði og hefur í eyði legið hjer um 8 ár. Fóðrast kunnu ii kýr og ekki meira. Torfskurður til húsa og eldiviðar var nægur. Þessi hjáleiga var fyrst það menn vita uppbyggð fyrir vel 20 árum, þar sem menn meina að fyrir lángri ævi muni býli hafa verið, og veit þó enginn til þess annað, en hvað fornar girðingar og húsabrotaleifar, sem þar voru fyrr en nú að nýju var uppbyggt, sýna fornrar byggðar merki. Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá ágángi ferðamann gæti af hrundið og þykir því ei aftur byggjandi.”
Samkvæmt framansögðu mun Búrfell eða Búrfellskot hafa byggst um 1680, upp úr fornum leifum. Kotið var, skv. örnefnaskrá, gháleiga frá Miðdal.
Á einni torfunni, sem rís nokkuð hátt í neðri hlíðum fellsins, eru tóftirnar, nú grónar og orðnar nokkuð jarðlægar. Neðan við þær liggur grannur gróinn vegur til austurs upp skáhlíðina, áleiðis inn að Leirtjörn. Hann er víða horfinn beggja vegna. Neðan hans er önnur gömul gata, eldri, sennilega aflögð reiðleið. Efri vegurinn virðist geta hafa verið vagnvegur, a.m.k. manngerður.
Þegar tóftirnar eru gaumgæfðar má sjá móta fyrir þremur rýmum í megintóftinni. Erfitt er að greina fleiri hús, en svæðið allt um kring er mjög grasloðið og stórþúfótt. Vottar fyrir rými vestan við tóftina. Ofan við rústina er greinilegur lítill garður, einnig gróinn. Austur og norðurveggurinn sjást greinilega, en engar hleðslur. Ofan við norðausturhornið er hvylft inn í brekku. Sunnan við hana og austan við garðinn gæti mótað fyrir lítilli tóft.
Megintóftin er með tveimur sæmilega góðum rýmum og þá virðist hafa verið rými framan við vestara rýmið, þar sem hafa verið dyr er vísað hafa til suðvesturs, niður hlíðina, að veginum.
Seljadalsvegur, brúin (t.h.) og Leirtjörn fjærAf koti að vera hefur það verið mjög lítið og einfalt að allri gerð, ólíkt kotum t.d. á Sléttunni og víða annars staðar, sem voru jafnan margflóknari. Hins vegar bera tóftirnar yfirbragð selshúsa, en garðurinn fyrir aftan þær tengir þær frekar kotbúskap. Slíkur garður, fast við hús, eru sjaldgæft í seljum á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). Þeir þekkjast þó, s.s. í Brunnastaðaseli og Helguseli, en þar er hann minni og er að öllum líkindum leifar af stekk. Ekki er með öllu útilokað að garðurinn hafi fyrrum verið hluti af stekk við selshús, en ýmislegt bendir til þess að þá hafi þau vaxið upp úr seli og garðurinn verið notaður til matjurtargerðar við lítið örreitiskot þarna í hlíðinni.
Fleiri mannvirki gætu verið falin þarna á þúfnablettum. Vatn er í Seljadalsánni, Leirtjörn og Hafravatni, en vatnsgangurinn hefur þá jafnan verið til drjúgur.
Frá þessum stað hefur varðveist eftirfarandi þjóðasaga: “Í Búrfellskoti undir sunnanverðu Búrfelli voru bræður tveir með móður sinni; hétu þeir Bikar og Bolli. Þar handan við Búrfellsháls undir Búrfellsbrekku, skammt frá bænum, var lítið vatn, og í því mikil silúngsveiði. Þegar móðir þeirra eltist og hætti bústjórn, skiptu þeir bræður landi með sér, og hlaut Bikar fremri hlutalandsins, þar sem Bikar-Hólar [eyðibýlið Hólar er þarna skammt vestar] eru nú, og dregur bærinn nafn af honum. En Bolli byggði upp kotið efri jaðrinum, þar sem nú er eyðibýlið Bollastaðir (Búrfellskot). 

Leirtjörn og Nykurtjörn neðst, en Seljadalsvegurinn ofar (rauður)

Móðir þeirra bræðra fylgdi Bolla syni sínum. Ekki leið á laungu, áður þeir bræður fóru að deila um veiðina í vatninu; vildi Bolli hafa hana hálfa, en Bikar spillti veiðinni fyrir bróður sínum, því hann vildi einn eiga veiðina alla, og fór Bolli halloka fyrir ofsa hans. Varð þá móðir þeirra bræðra svo reið, að hún lagði það á, að vatnið skyldið þaðan í frá verða fúlasta leirtjörn meðan þeir lifðu, sem ekkert kvikindi þrifist í, og svo varð síðan. Óx þar síðan lítið annað en stargresi. Aftur hefur úr ræst því tjörnin er nú hin myndarlegasta.” Líklegra er hér fremur um flökkusögu að ræða en þjóðsögu því sambærilegar sögur eru til víðar um land.
Áfram var gatan rakin inn með sunnanverðu Búrfelli uns komið var að mýrarhafti. Um það rann lækur úr Leirtjörn og er steinhlaðin brú yfir mýrina og lækinn (ein af fjölmörgum óþekktum fornleifum á Reykjanesskaganum). Handan brúarinnar liggur gatan í sneitðin til norðausturs með lágum hól. Ofan hans stefnir gatan að Kambshól í miðhafti Seljadals.
Næstu vötn við Leirtjörn eru Silungatjörn að austan og Krókatjörn að sunnan. Norðan við hina síðarnefndu er Nykurtjörn, minni en hin vötnin. Gengið var til suðvesturs með austanverðri Leirtjörn. Um er að ræða mýrarfen að mestu. Skoða þarf betur austurjaðar gróninganna því undir hæðarbrúnum gætu leynst fornar tóftir. 

Stekkur við sunnanverða Leirtjörn

Sunnan við tjörnina er hlaðinn tvískiptur stekkur með leiðigarði, sem einnig hefur verið notað sem fjárrétt. Stekkurinn er heillegur og því líklegt að hann hafi verið notaður við fráfærur frá Miðdal eftir að seljabúkapur lagðist niður skömmu fyrir aldarmótin 1900. Mannvirkið lætur lítið yfir sér, en er engu að síður fallegt þar sem það kúrir undir gróinni skriðu Gildrudalsáss. “Þar á sléttri klöpp voru refasteinsgildrur, en enskir hermenn stálu þeim í skotbyrgi”, eins og segir í örnefnalýsingu.
Sesselja Guðmundsdóttir gekk um þessar slóðir fyrir skemmstu sbr.: “S
krapp í bláber og gekk hluta gamla Seljadalsvegarins. Gaman að sjá aftur gömlu brúna yfir mýrina við Leirtjörn, ofan Búrfells. Tók nokkrar myndir. Nú er verið að hamast við að skemma hæðina fyrir ofan Miðdalshúsið, verðið að flytja þangað útmokstur í stórum stíl úr einhverjum gripahúsum þannig að heiðargróðurinn fer undir draslið sem og gamla þjóðleiðin að hluta, arfinn kominn í stað fjölbreytilegs lynggróðurs! Einnig búið að leggja jeppavegi þarna út og suður fyrir hrossaútgerð. Eitt hrossið var svo aðgangshart að það beit í bakpokann minn (sem ég var með á bakinu) og hékk þar lengi! Allt á fallanda fæti í heimi hér!”
Rétt er að geta þess að til að komast eftir vegarslóða upp með sunnanverðu Búrfelli þarf að fara í gegnum þrjú hlið. Fremsta hlið er læst með keðju (lykillinn er undir steini hægra megin við hægri hliðstólpann), en hin eru krækt aftur. Hliðin virðast vera þarna í tvennum tilgangi; annars vegar til að koma í veg fyrir akstur að nýlegum borunarsvæðum væntanlegra gullgrafara, en gamlar gullnámur eru í norðanverðu Búrfelli, og hins vegar til að koma í veg fyrir að fólk geti séð hvernig ofanvert landið hefur verið lítilsvirt, sbr. frásögn Sesselju. Miðað við umfang framkvæmdanna þar hafa þær eflaust verið háðar umhverfismati.
Framundan er gönguferð um gamla Seljadalsveginn framhjá Búrfellskoti, inn með Leirtjörn norðnverðri og upp í Seljadal að Nærseli. Þar verður vent til vesturs og stefnan tekin á Þormóðsdal og gömlu gullnámurnar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mínútu.
(Heimild m.a. örnefnalýsing fyrir Miðdal).

Miðdalsstekkur við sunnanverða Leirtjörn

Laufdælingastígur

Í bókinni “Mosfellsbær – saga í 1100 ár”, bls.177 stendur: “Fyrrum lá Laufdælingastígur  frá Vilborgarkeldu meðfram sýslumörkum við Árnessýslu suður að Lyklafelli”.
Laufdaelingagata-1Í “Reiðleiðir í Árnessýslu” segir: “Þarna eru sýslumót Kjalarnesþings og Árnessýslu, ræður svo Laufdælingastígur sem lá vestur eftir heiðinni allt að Lyklafelli”.

Laufdælingar, gæti það hafa verið “Laugdælingar”?
Hefur þú heyrt um að Stóra Reykjafell hafi verið  kallað Sandhalahjúkur?
Jón Pálsson Skrifar í “Austantórum” um Lágskarðsveginn „Þegar beygt er norður að Kolviðarhóli, við suðvesturhornið á Sandhalahnjúki“.

“Við Lucy gengum í dag frá Nesjavallavegi eftir sýslumótum upp á há Mosfellsheiði. Fundum fljótlega götur sem lágu um graslautir upp á heiðina sem ég held að sé Laufdælingastígur. Vörður voru við götuna og svo aðrar sem ég held að séu á sýslumótum. Snérum svo við sniðhallt við Borgarhóla.

Tók myndir af hleðslu við Helgutjörn. –Kveðja Jón Svanþórsson.”

Laufdaelingagata-2

Þegar FERLIR skoðaði Laufdælingastíg mátti sjá hvar hann liggur upp frá norðaustanverðu Lyklafelli og síðan um gróninga upp austanverða heiðarbrúnina þar sem hún lækkar til austurs og verður svo til að móaflatneskju milli hennar og Dyrfjalla (Sköflungs). Á leiðinni eru nokkrar vörður og vörðubrot. Stefnuvarða er á efsta hól þegar gengið er til norðausturs og önnur, síður veglegri, á lægri rana út úr suðaustanverðum hólnum. Eftir það liggur leiðin um móa og gróninga með stefnu á hæsta hólinn í austanverðri heiðinni. Frá honum hallar landið niður til norðurs. Þegar niður fyrir hólinn er komið sést varða eftst á honum. Hefur hún átt að vera mönnum vegvísir á suðvesturleiðinni. Önnur leið, mun sléttari, liggur litlu austar og á hún eflaust átt að spara fótinn á leiðinni suður. Eftir að halla tekur til norðurs liggur leiðin sem fyrr um gróninga svo til alla leið niður að Vilborgarkeldu.

Laufdælingastígur

Laufdælingastíkur – ÓSÁ.

Lyklafell

Einn FERLIRsfélaganna, Jón Svanþórsson, hafði verið að skoða “Austurleiðina” svonefndu (Hellisheiðargötuna), þ.e. hina fornu leið frá Reykjavík austur um Hellisskarð, Helluheiði og áfram austur um sveitir (og öfugt). Leiðirnar voru reyndar fimm, en athygli hans hefur sérstaklega beinst að leiðinni frá Elliðakoti (Helliskoti) yfir á Bolavelli (Hvannavelli) að Draugatjörn annars vegar og að Dyraveginum hins vegar.
GatanFyrrnefnd gata er vörðuð norðan við Nátthagavatn og ofan Lyklafells. Austar greinist gatan í annars vegar um Dyraveginn og hins vegar um hina fornu leið um Hellisskarð. Mikil umferð hefur verið um þessar leiðir fyrrum, en þrátt fyrir það virðast þær bæði gleymdar og tröllum gefnar. Ætlunin var að reyna að rekja Austurleiðina frá Nátthagavatni (Elliðakoti) að gatnamótum Dyravegar norðaustan við Lyklafellið. Þar eru gatnamót. Liggur önnur Austurgata þar til vesturs sunnan við Lyklafellið áleiðis niður að Lækjarbotnum. Ætlunin er að reyna að rekja hana fljótlega.
VarðaHaldið var upp frá Elliðakoti. Gamla gatan er ekki auðrakin í fyrstu. Í raun eru leiðirnar þarna tvær; sumargata og vetrargata. Sú síðarnefnda er vörðuð og liggur á hryggjum. Margar varðanna eru þó fallnar. Vetrarleiðin er ávallt sunnan við sumarleiðina, sem liggur, líkt og aðrar gamlar þjóðleiðir, aflíðandi og nánast hvergi yfir hæðir eða hryggi. Vörðurnar á vetrarleiðinni sjást vel af sumarleiðinni, en þó síst þar sem fjarlægðin er mest norðan Lyklafells.
Í fyrstu virtist gatan liggja austar en raunin varð á. Ástæðan var sú að vörðunum var fylgt í fyrstu, en það leiðréttist á bakaleiðinni. Þegar komið var inn á götuna við “pípuveginn nýja” mátti auðveldlega rekja hana upp að vatnsbóli í Miðdalsheiðinni (sem nú var þurrt).
AusturleiðinÞaðan lá hún áfram upp heiðina til austurs með norðan hallanda. Farið var yfir brú á mikili sprungu og götunni síðan fylgt upp fyrir Lyklafellið. Þar eyddist gatan, en fannst aftur. Ofar er hið ágætasta vatnsból með aðliggjandi götum. Varða (Lykilvarða) bendir á vatnsbólið, sem virðist afskekkt og úleiðis.
Þegar götunni var fylgt til baka áleiðis að Elliðakoti var auðveldara að sjá leguna. Ofan við brúna á gjánni er um 90° beygja sem og neðan við hana, í öfuga átt. Þaðan liggur gatan sem leið liggur niður hallandann. Hlið á girðingu er afvegaleiðandi því gatan liggur í sneiðing svolítið norðar og þaðan niður fyrir neðasta holtið ofan við brúnirnar ofan Elliðakots. Þar kemur gatan niður í sneiðinginn fyrrnefnda ofan við kotið.

Varða

Í Lesbók Morgunblaðsins 1973 segir Árni Óla m.a. um austurleiðirnar: “Hjá Fóelluvötnum og upp undir Lyklafell var um aldaraðir áningarstaður þeirra, sem fóru milli Innnesja og Suðurlands-undirlendisins og ferðuðust annaðhvort fótgangandi eða á hestum. Og þaðan lágu fjórar leiðir “austur fyrir Fjall”. Syðst var Ólafsskarðsleið, sem byrjaði í skarði milli Sauðadalshnúks vestri og Ólafsskarðahnúka, skammt fyrir ofan Vífilsfell. Þegar sú leið var farin austur, var komið niður að Litlalandi eða Hlíðarenda í Ölfusi. Næst var svo: Þrengslaleið og þar er nú kominn akvegur. Þriðja leiðin var um Lágaskarð úr Hveradölum og farið fyrir austan Stóra-Meitil og var þá komið niður að Hjalla eða Hrauni í Ölfusi. Fjórða leiðin var svo um Hellisskarð hjá Kolviðarhóli og var þá komið niður að Reykjum í Ölfusi.

Varða

En skammt fyrir norðan Lyklafell lá svo alfaraleið um Dyraveg og það var komið niður hjá Nesjavöllum í Grafningi. Sú leið taldist vera yfir Mosfellsheiði. Var þarna aðalvegur þeirra, sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu er þeir ferðuðust til byggðanna við Faxaflóa.”
Lyklafellið er áberandi kennileiti í heiðinni. Björn Bjarnason í Grafarholti taldi að Lyklafell hefði fyrrum heitið Litlafell, en afbakast í framburði. Í Lesbók Morgunblaðsins 1979 er fjallað um Lyklafellið og fleira á þessum slóðum. “Fyrrum lá leiðin milli Reykjavíkur og sveitanna fyrir austan fjall, yfir Hellisheiði, um Hellisskarð (Uxaskarð, Öxnaskarð), hjá Kolviðarhóli, meðfram Lyklafelli og niður hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þetta var áður en akvegurinn var lagður um Lækjarbotna, Fossvelli, Sandskeið og Svínahraun að Kolviðarhóli. Það gerðist á síðustu áratugum 19. aldar. Í þetta sinn göngum við eftir þessari gömlu leið, frá Lyklafelli að Elliðakoti.

Brúin

En hvernig standi á þessu nafni. Menn hafa greint á um það og þekki ég tvær sögur. Sú fyrri segir, að einhverju sinni hafi verið bryti í Skálholti er hét Ólafur. Bar hann alla lykla staðarins á sér, en þeir voru á einni kippu. Honum sinnaðist við ráðskonuna, en þar sem hún kunni nokkuð fyrir sér, tryllti hún Ólaf, svo hann tók á rás og hljóp vestur fyrir Hellisheiði að Lyklafelli með alla lykla staðarins á sér Þar týndi hann kippunni. Hún fannst þar löngu síðar og var fellið svo kennt við lyklana. Þaðan hljóp hann Austurleiðintil baka um Jósefsdal og suður úr dalnum um skarð, sem síðar heitir Ólafsskarð. Eftir það linnti hann ekki sprettinum fyrr en austur á Mælifellssandi. Þar kom hann að vatnsfalli, er hann ætlaði að stökkva yfir. Stökkið mistókst, hann féll í ána og drukknaði. Hún heitir síðan Brytalækir.
Hin sagan greinir frá því, að einhverju sinni áttu hungraðir förumenn leið um þennan veg að næturlagi og gengu þá fram á tjaldbúðir Skálholtsmanna, sem voru þar á ferð með marga hesta og mikinn farangur. Höfðu þeir valið sér þarna náttstað. Förumennirnir sáu, að bunga var á einni tjaldsúðinni og hugðu þeir að þar fyrir innan væri sekkur fullur af mat. Ákváðu þeir að ná honum. Tók einn þeirra upp hníf, og skar á tjaldið, þar sem bungan var. En um leið og hnífsblaðið skar á dúkinn, kvað við hátt og skerandi öskur innan úr tjaldinu. Í stað þess að stinga í matarsekkinn, var hnífnum stungið í sitjandann á ráðsmanni Skálholtsstóls, sem svaf þar fyrir innan. Í fátinu og írafárinu sem varð nú í tjaldbúðunum við þetta óhappaverk, týndist lyklakippa ráðsmannsins og fannst ekki fyrr en löngu síðar. Þannig skýra sagnir nafnið á Lyklafellinu.

Austurleiðin

Gengið var yfir farveg Lyklafellsár, sem fellur hér fram í leysingum á vorin, en síðla sumars er hann þurr að öllum jafnaði. Af Lyklafelli er gott útsýni yfir nágrennið þótt ekki sé það hátt yfir sjó (281 m).
Eftir góða hvíld uppi á fellinu leggjum við aftur af stað í áttina að Elliðakoti. Er gott að hafa raflínuna til viðmiðunar. Við sjáum nokkur vörðubrot, sem vísa leiðina og svo hér og þar gróna götuslóða, sem lítt hafa verið troðnir í hartnær öld. Eftir drjúga göngu stöndum við á brekkubrúninni fyrir ofan Elliðakot, sem hét fyrrum Helliskot.

Elliðakot

Bærinn stóð í skeifulöguðum hvammi móti vestri í skjóli fyrir austanáttinni. Nú er hann tóttir einar, því ekki hefur verið búið þar um árabil. Fyrrum var búið hér snotru búi, en mikil örtröð hefur örugglega verið af umferð ferðamanna árið um kring, ekki síst á vetrum þegar ofan af heiðinni komu lítt búnir, örþreyttir og hraktir ferðamenn og leituðu að húsaskjóli. Hér fæddist Páll Jónsson vegagerðarmaður, sem Jón Helgason rithöfundur hefur gert verðug skil í bók sinni: Orð skulu standa.
Við skulum skreppa heim að þessum gömlu rústum og skoða þær vel, minnug þess, að þeir hnútar, sem traustast eru bundnir láta ávallt undan er tímans tönn tekur að sverfa að þeim.”
Sá, sem skrifaði framangreint, virðist ekki hafa gengið gömlu götuna heldur línuveginn, sem liggur um heiðina.

Lyklafell

Gísli Sigurðsson skrifar um Kolviðarhól og nágrenni í Lesbókina árið 2001: “Þjóðleiðin forna úr Árnessýslu til Mosfellssveitar lá úr Ölfusi upp Kamba og þaðan vestur á Hellisheiði, austan við Hurðarás, en þaðan í sjónhendingu í Hellisskarð ofan við Kolviðarhól. Upp og niður úr skarðinu var hægt að komast með klyfjahesta, en alls ekki með hestvagna. Þegar komið var niður úr Hellisskarði lá leiðin um Bolavelli, vestur með Húsmúla og síðan um norðanvert Svínahraun, framhjá Lyklafelli og oft var komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Lykilvarða

Þessi leið milli byggða var talin rösk þingmannaleið, eða um 35 km. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er leiðinni lýst og segir þar að vestari partur Hellisheiðar sé “víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna sem (sem) hestanna járn gafa gjört, og auðsjáanlegt er…”
Þessar hestagötur sem markast hafa í hraunhelluna af umferð járnaðra hesta sjást mjög greinilega á þriggja km kafla, en eftirtektarvert er, að þær skuli hafa verið orðnar svo greinilegar fyrir 300 árum. Hurðarás var aftur á móti svo nefndur vegna þess, að þegar þangað kom á austurleið yfir heiðina var allt í einu eins og hurð væri opnuð og víðerni Suðurlands blöstu við, allt til Vestmannaeyja.

Gatan

Sveinn Pálsson náttúrufræðingur minnist á hestagötuna í hrauninu í lýsingu sinni frá 1703 og finnst gatan með ólíkindum regluleg og bein. Tilgáta hans, að öll Hellisheiði hafi gosið í einu er þó fjarri lagi; það vita menn nú. Eins er Sveinn á villigötum þegar hann segir þetta fyrst hafa gerst árið 1000 “og síðan margsinnis”. Kristnitökuhraunið frá árinu 1000 rann úr Eldborg, en var reyndar síðasta hraunið sem runnið hefur á þessum slóðum. Öll önnur hraun eru eldri.
Svínahraun hafði runnið úr Leitinni, eldstöð skammt frá hinni, fyrir um 4800 [5350 skv. nýjustu mælingum] árum; fyrst í norður í áttina að Kolviðarhóli, en síðan eftir mjóum farvegi í vestur, allar götur niður í Elliðaárvog. Þetta hraun náði ekki alveg norður að fjöllunum. Milli þeirra og hraunsins urðu með tímanum til grösugir vellir sem vel sjást frá Kolviðarhóli. Enda þótt þeir kunni að virðast búsældarlegir lagði enginn í að nema þar land.

Vatnsból

Við Bolaöldu, vestan hraunsins, eru sýslumörk; Kolviðarhóll var og er í Árnessýslu. Norðvestur frá Kolviðarhóli rís Húsmúlinn, Skarðsmýrarfjall er í norðaustur, en Reykjafell þegar litið er til suðurs. Útsýnið af hólnum þar sem gistihúsið stóð er opið vestur yfir Svínahraun og yfir Miðdalsheiði. Þegar frá eru skildar grasflatir, fyrrum tún á Kolviðarhóli, er útsýnið mestan part yfir hraun og fjöll, en grýtt brekkan í Hellisskarði að baki.
Öldum saman höfðu menn farið alfaraleiðina yfir Hellisheiði án þess að nokkur von væri um húsaskjól þar til 1830 að Þórður bóndi á Tannastöðum hlóð birgi uppi á heiðinni sem enn stendur. En elzta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo:

Sæluhúsið

“Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka við fyrir neðan skarðið, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynlegt á vetrartímum til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.”
Sveinn Pálsson náttúrufræðingur minnist á sama sæluhús hátt í öld síðar; segir að þar sé lítill kofi hlaðinn úr hraungrýti með torfþaki og að margir hafi dáið í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.
Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Hafði Magnús bóndi á Fossi í Grímsnesi heldur betur fengið að kenna á því, annálað hraustmenni og gerði grín að draugatrú og myrkfælni.
GatanGisti hann við annan mann í kofanum og brá sér út að tjörninni. Þar réðst að honum ófreskja og komst hann við illan leik, rifinn og tættur, inn í kofann. Sár á nefi greri aldrei, enda var það eðli sára sem draugar veittu, og Magnús varð aldrei samur maður eftir.
Eiríkur bóndi í Haga í Eystrihreppi komst mun betur frá viðskiptum við sæluhúsdrauginn. Hann var á ferð til skreiðarkaupa, hafði sezt að í myrkri í kofanum og tók til matar síns. Þá fór hann að sjá eldglæringar í hinum endan kofans og sagði bara sísona: “Kveikið þið, kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn.” Hættu þá glæringarnar og svaf Eiríkur þar rótt um nóttina. Svo skráði Brynjúlfur frá Minna-Núpi.
Sögur af þessu tagi urðu til þess að menn voru dauðsmeykir við að gista í kofanum, einkum ef þeir voru einir á ferð og einu sinni hafði sú hræðsla alvarlegar afleiðingar. Gömul sögn úr Ölfusinu greinir frá því, að eitt sinn hafi ferðamaður leitað skjóls í kofanum og lokað kirfilega að sér að innanverðu. Um nóttina heyrði hann traðk utandyra og rjálað við hurðina eins og reynt væri að opna hana. Hirti hann ekki um það; hefur ugglaust búizt þar við draugi og verið hræddur. Um morguninn brá þessum ferðalang ónotalega þegar hann opnaði og sá að utandyra lá dauður maður. Eftir það var gengið frá því að ekki væri hægt að loka kofanum að innanverðu með slagbrandi.
Vörður

Kofinn við Draugatjörn var ísköld og ömurleg vistarvera, en þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2,5 m og breiddin 1,5 m. Við annað gaflhlaðið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin sést enn ef vel er að gáð.
Fleira gat verið varasamt á þessari óbyggðaleið en illviðri og draugar. Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana.

Litskrúð

Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði boli sér yfir hann en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram.
Kolviðarhóll undir Hellisskarði var vinsæll og nauðsynlegur gististaður þeirra mörgu, sem fóru um Hellisheiði fyrrum. Aðalleiðin lá um Hellisskarð en þjóðvegurinn liggur um Hveradali, þar sem skíðaskálinn er nú.
KolviðarhóllSæluhús var byggt að Kolviðarhóli 1844 og síðar gistihúsið. Valgerður Þórðardóttir (1871-1957) og Sigurður Daníelsson (1868-1935) voru síðustu gestgjafarnir þar. Þau byggðu stórt og myndarlegt gistihús og voru þjóðkunn fyrir höfðingsskap. Þau voru grafin í heimagrafreit að Kolviðarhóli.

Árið 1938 keypti Íþróttafélag Reykjavíkur Kolviðarhól af Valgerði til að gera hann að miðstöð íþróttalífs, aðallega vetraríþrótta og reka samt áfram þjónustu við ferðamenn.

Kolviðarhóll

Þessi starfsemi gekk ekki upp, þannig að henni var hætt 1952. Húsin urðu spellvirkjum að bráð og þau brunnu. Árið 1977 voru þau jöfnuð við jörðu.

Þau tímamót urðu 1844 að þá reis í fyrsta sinn hús uppi á sjálfum Kolviðarhólnum. Þá hafði farið fram fjársöfnun austan heiðar og vestan, og þótti vænlegast að reisa húsið á hólnum neðan við Hellisskarð. Séra Páll Matthíasson í Arnarbæli valdi staðinn og hafði forgöngu um málið ásamt Jóni Jónssyni á Elliðavatni. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri og stóð á sökkli sem hlaðinn var úr grjóti. Grunnflöturinn var 16 fermetrar og loft yfir þar sem viðbótargistirými fékkst. Járnrimlar voru fyrir gluggum, líklega til að koma í veg fyrir rúðubrot skemmdarvarga. Hurðir var jafnt hægt að opna utan- og innanfrá; nú voru menn minnugir atviksins við kofann fyrrum. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri, tjörubikað, og þar gátu gist í einu 24 menn á loftinu og komið inn 16 hestum niðri. Í Reykjavíkurpóstinum frá þessum tíma má sjá að þetta hefur þótt merk framkvæmd.

Augnakonfekt

Enn urðu tímamót 1876 þegar ákveðið var að hefja vegarlagningu um Svínahraun. Þremur árum síðar var tekið annað skref og segir svo í Þjóðólfi: “Vegagjörðin yfir Kamba á Hellisheiði skal byrja í sumar.” Eiríkur í Grjóta fór með flokk manna sumarið 1880 og lagði veg vestur yfir Hellisheiði, nokkru norðar og nær hinni fornu þjóðleið en núverandi Suðurlandsvegur.
Í Mbl árið 1981 er fjallað um Dyraveginn: “Allt til þessa dags hefur þeim leiðum, sem forfeður okkar, mann fram af manni, fetuðu eftir í aldaraðir, verið lítill sómi sýndur.
DyravegurVið leggjum mikla áherslu á söfnun gamalla muna og varðveislu fornra bygginga og er það vel, en er það nokkur fjarstæða að viðhalda á sama hátt þessum gömlu götum, sem nú víða eru horfnar með öllu, en bera á sinn hátt þögult vitni um þá hörðu baráttu, sem þjóðin háði fyrir tilveru sinni? Í þeim flokki er Dyravegur. Frá fornu fari lá leiðin frá Þingvöllum sður með vatninu að vestan til Nesjavalla. Þeir sem bjuggu austan við Sogið komu einnig að Nesjavöllum, eftir að hafa sundlagt hestana og farið á ferju yfir fljótið fyrir neðan Dráttarhlíð, þar sem Steingrímsstöð er nú. Þessa leið fóru Skálholtsmenn fyrrum, þegar þeir fluttu vistir að og frá biskupsstólnum, en sá staður þurfti mikils við, þegar umsvifin þar voru sem mest. Enda hlaut þessi leið nafnið Skálholts-mannavegur.

Dyravegur

Þegar þessar tvær leiðir höfðu sameinast á Nesjavöllum, lá hún vestur yfir Dyrafjöllin, þvert yfir Sporhelludal og Dyradal. Við Húsmúla greindist leiðin aftur. Þeir sem ætluðu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tóku stefnuna á Lyklafellið, en þeir sem ætluðu í Selvog eða á sunnanvert Reykjanes héldu suður með Húsmúlanum og stefndu á Lágaskarð austan við Stórameitil. Í þessari ferð skulum við kynnast Dyraveginum nokkru nánar.
Við yfirgefum bílinn sunnan undir Húsmúlanum og göngum eftir Bolavöllum, sem eru að vestan við hann. Þar komum við fljótlega á grasivaxna götutroðninga, sýnileg merki þeirrar umferðar sem hér var fyrr á tímum. Troðningarnir eru skýrir og auðvelt að fylgja þeim, sem við gerum að sjálfsögðu. Brátt komum við inn í Engidal. Eftir honum fellur Engidalsáin, sem myndast úr smá lænum og uppsprettum er koma úr vesturhlíðum Hengilsins. Lengsta kvísl hennar kemur frá Marardal. Þangað liggur götuslóði, en annars er gamla gatan vestan við Marardalinn, en við tökum á okkur krók og heimsækjum dalinn. Það er þess virði.

Dyravegur

Marardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði. Við höldum inn eftir dalnum og fikrum okkur svo upp bratta brekkuna og upp á norðurbrún hans. Þar blasir við allbreitt vik eða dalskvompa sem gengur inn í fjallið. Þar komum við aftur á gömlu götuna og henni fylgjum við eftir það.
VatnsbólÚr þessu hækkar gatan og liggur upp brekkurnar til austurs og upp á vesturbrún Dyradalsins. Hann er ekki ósvipaður Marardal, hlíðabrattur og rensléttur í botninn. Hér er gatan skýr og glögg, sem einkum skal þakka sauðkindinni, sem ræður hér ríkjum í sumarhögunum. Gatan liggur þvert yfir dalinn og stefnir í skarð, milli tveggja kletta, í austurhlið hans. Þar komum við að hinum nafnkenndu dyrum, sem þessi leið er kennd við. Smálækur fellur um um Dyrnar, sem eru ekki nema ca. 2 m á breidd Líklega á hann einhvern þátt í myndun Dyranna, en annars eru öll fjöll Gatanhér um slóðir mynduð úr móbergi, sem vatn og vindar vinna á jafnt og þétt.
Tafsamt hefur verið að koma hestalestunum í gegn um dyrnar. Menn hafa orðið að taka klyfjarnar ofan, teyma hestana síðan í gegn um skarðið og láta svo aftur upp. En um það var ekki að fást, þetta var hluti af striti dagsins. Austan við Dyrnar eru einir þrír smádalir með bröttum hálsum á milli. Yfir þá liggur leiðin og hefur margur klyfjahesturinn trúlega svitnað ærlega á þeirri leið. En er þeir eru að baki opnast skyndilega nýtt útsýni. Þar blasa Nesjavellir við augum, Þingvallavatn og fjallahringurinn í norðri og austri. En sunnar bera hverareykir Hengilssvæðisins við loft.”
Þar sem staðið var við Lyklafell og horft til suðurs yfir hraunin þótti ástæða til að rifja upp aldur þeirra. Svínahraunsbruni rann árið 1000 og segir frá því í Landnámu. Svínahraunið er undir brunanum og því mun eldra, eða 5350 ára gamalt (KS).

Lækjarbotnar

Þessa leið þarf Orkuveitan og/eða hlutaðeigandi sveitarfélög að taka í fóstur og merkja milli Kolviðarhóls og Elliðakots. Líklegt má telja að hún kunni að verða ein sú vinsælasta í landnámi Ingólfs (Reykjanesskaganum) enda bæði auðveld yfirferðar og einstaklega falleg. Geta má þess að engin fornleifaskráning, hvorki um línur né leiðslur, getur framangreindra fornleifa er lýst hefur verið hér að framan (mögulega þó fáeinna varða á stangli.) Heilstætt mat á svæðinu m.t.t. fornleifa hefur opinberlega farið fram – þrátt fyrir yfirstandandi framkvæmdir.Leiðin
Frábært veður. Gangan (fram og til baka) tók 6 klst og 6 mín. Við leitina voru gengnir 17.8 km, en leiðin millum Elliðakots og Lyklafells er um 6 km.

Heimildir:
-Árni Óla – Lesbók Morgunblaðsins 14.19.1973, bls. 10-11 og 14
-Mbl. júlí-ágúst 1979
-Mbl. 25. júlí 1981
-Gísli Sigurðsson – Laugardaginn 31. mars, 2001 – Menningarblað/Lesbók Morgunblaðsins).

Rjúpuungar