Tag Archive for: Reykjanes

Jarðfræði

Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar af Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu:

Forsöguleg gos;
-fyrir um 16 000 000 árum – elsta berg sem þekkt er á Íslandi myndaðist í hraungosi.
-200.000 ára – elsta berg á Reykjanesi – Rosmhvalanes og Stapi.
-um 1000 f.Kr. – Katla. Tvö öskulög á Suðurlandi og Reykjanesskaga.
-um 250 e.Kr. – Snæfellsjökull

Gos á sögulegum tíma;

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

-um 900 – Afstapahraun.

-934 – Katla og Eldgjá. Mikið hraunflóð úr Eldgjá rann yfir Álftaver, Meðalland og Landbrot. Sennilega sá jarðeldur, sem Molda-Gnúpur og hans fólk hrökklaðist undan skv. Landnámu. Landnáma segir einnig frá myndun Sólheimasands í miklu hlaupi Jökulsár.

-999 eða 1000 – Svínahraun.

-1151 – Krýsuvíkureldar. Gos í Trölladyngju; Ögmundarhraun og Kapelluhraun renna.

-1188 – ? Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun runnu.

-1210-11 – undan Reykjanesi. Eldey myndaðist.

-1223 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1225 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

-1226-27 – nokkur gos á Reykjanesi. Þeim eru eignuð Yngra Stampahraun, Tjaldstaðagjárhraun, Klofningahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Sandvetur af völdum mikils öskugoss við Reykjanestá og féll svokallað Miðaldalag. Harðindi og mikið mannfall í kjölfarið.

-1231 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1238 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1240 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1340 – Brennisteinsfjöll.

-1422 – undan Reykjanesi. Eyja myndast og stendur í nokkur ár.

-1582 – við Eldey.

-1783 – á Reykjaneshrygg suðvestur af Eldey. Nýey reis úr sjó en hvarf fljótt aftur.

-1879 – Geirfuglasker .

-1884 – nálægt Eldey. Óljósar heimildir.

-1926 – við Eldey. Ólga í sjónum í nokkrar klst.

Sjá meira undir „Eldgosaannáll Íslands“ á vefslóðinni:
-//is.wikipedia.org/wiki/Eldgosaann%C3%A1ll_%C3%8Dslands“

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Heilaheill

Heilaheill er félag fyrir fólk sem hefur lent í heilablóðfalli, eða sambærilegum sjúkdómi, og aðstandendur þeirra.
Við Duus-húsFélagsmenn fóru í sína árlegu sumarferð að þessu um Reykjanesið. „Við reynum að fara eina dagsferð á hverju sumri og þátttakan hefur yfirleitt verið góð,“ sagði Kristján Eiríksson, meðlimur í ferðahópi Heilaheilla. Reykjanesið varð fyrir valinu vegna þess að þar eru margar söguslóðir tengdar landnámi Íslands, auk þess sem jarðsaga þess er afar merkileg. Gert var ráð fyrir góðu aðgengi fyrir alla. Vel var gætt að því að allir sem vildu kæmust með í ferðina. „Við vorum í rútu sem var með lyftum fyrir hjólastóla. Þannig gátu þeir sem það vildu komið á hjólastólum,“ sagði Kristján.
Lagt var af stað frá höfuðstöðvum Heilaheilla að Hátúni 12 klukkan 10:00 að morgni og stefnt var að því að koma til baka klukkan 18:00. Farið var sem leið lá frá Hátúni suður á Vatnsleysuströnd, í Voga og til Keflavíkur þar sem snæddur var hádegisverður.

Við Saltfisksetur Íslands

Því næst var haldið áfram suður í Garð, Sandgerði, Stafnes, Ósbotnaveg, Hafnir (Kirkjuvogskirkju), Reykjanesvita og til Grindavíkur. Þar var drukkið kaffi en svo haldið til Krýsuvíkur og loks í Hafnarfjörð. Reynt var að haga leiðsögninni þannig að góð lýsing fengist af upphafi, þróun og merklegheitum á hverjum stað – og allt þar á millum. Komið var á endastað kl. 18:08.
Þessi káti hópur Heilaheilla var greinilega mjög áhugasamur um sögu og náttúru Reykjanesskagans. Þegar á leiðarenda var komið var augljóst að félagar höfðu bæði betri yfirsýn um vorutveggja og voru staðráðnir að leggja fljótlega land undir fót að nýju með það að markmiði að skoða meira, enda hefur svæðið upp á óteljandi möguleika í þeim efnum að bjóða.

Duushús

Duushús.

Garðsskagaviti

18. Keflavík – Garður

Í Garðinum var m.a. fylgst með Prestsvörðunni ofan við Leiru, sagð frá mannlífinu þar, Gufuskálar kynntir til sögunnar sem og Ellustekkur, komið við í Kisturgerði, bent á hinar 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, kíkt inn í keramikfabrikuna, fornmannleiðið barið augum og letursteinninn þar, staldrað við Skagagarðinn og minjasafnið á Garðskaga skoðað.
Í Sandgerði var m.a. saga Skagagarðsins rakin, atburðirnir að Kirkjubóli, bæði er varðaði Jón Gerekkson og Kristján skrifara í framhaldi af aftöku Jóns Arnasonar, biskups, kumlin á Hafurbjarnarstöðum kynnt, Vikivakakvöld á Flankastöðum, Efra-Sandgerði (elsta uppistandandi hús í bænum – 1883), komið við í Fræðasetrinu, einstök hús einblínd, fjallað um uppbyggingu miðbæjarins, Sandgerðisvita 1908 og viðbót ofan á hann 1944, komið við í kertagerð og keramikgalleríum, Sandgerðishverfin sjö tíunduð (Kirkjubólshverfið, Flankastaðahverfið, Sandgerðishverfið, Býjaskerjahverfið, Fuglavíkurhverfið, sagt frá skipssköðum og mannfórnum til sjós, Hvalsneshverfið og Stafneshverfið), komið við í Hvalsneskirkju og saga kirkjunnar rakin, haldið að Stafnesi og saga þess sögð ásamt lýsingum á umhverfi Básenda, Gálga, Þórshafnar og Ósabotna. Þá var sagt frá Hvalsnesgötunni til Keflavíkur, villum fólks á Miðnesheiðinni og helstu mannvirkjum á henni, svo eittvað sé nefnt.

Saga Garðs
Byggðarlag á nyrsta odda Reykjanesskagans, þó aðeins með austurströndinni sem veit inn að Faxaflóa. Garðurinn nær frá Rafnkelsstaðabergi að innanverðu og út á Skagatá þar sem vitinn stendur. Í daglegu tali er honum skipt í inn- og út-Garð en milli þeirra er Gerðahverfið. Þar er allstór þéttbýliskjarni er tók að myndast skömmu eftir síðustu aldarmót. T.d. má telja 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðaskaga, s.s. Kópu og Vararós.

Garðurinn er í Sveitarfélaginu Garði. Mörkin liggja frá Garðskagatá um Skálareykjar að flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli. Eystri mörk liggja frá flugstöðvarbyggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Garðurinn dregur nafn af Skagagarði.
Það var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.
Gegnum aldirnar hefur óefað verið mikið útræði í Garði enda stutt á fengsæl fiskimið. Þaðan munu venjulega hafa gengið 50-60 skip á vetrartíð en yfir 100 skip úr allri Útskálasókn þegar best lét. Margt aðkomumanna stundaði sjó úr Garðinum og komu þeir úr öllum landshlutum. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 manns heimilisfastir í Útskálasókn. Á vertíðinni þetta ár voru gerðir út í skókninni 9 sexæringar, 25 fjögurra manna för og 21 tveggja manna far, alls 55 skip auk þess tveir aðkomubátar.
Hafnarskilyrði voru slæm rétt eins og í dag. Það fórust 76 manns úr Garðinum á árunum 1664-1695 í sjólslysum.
Á fyrri hluta þessarar aldar tóku opnir vélbátar að ryðja áraskipunum úr vegi. Fyrsti trillubáturinn kom í Garðinn 1922. Þegar þilfarsbátarnir komu til sögunnar minnkaði atvinnan í Garðinum því Garðmenn áttu ekki nógu stóra og góða bryggju fyrir slíka báta. Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélgið á Suðurnesjum með 647 íbúa en minnkaði niður í 396 á fjórum áratugum.

Með bættum samgöngum tóku Garðmenn að flytja fisk af bátum sínum, sem gerðir voru út í öðrum byggðarlögum, til verkunar heima fyrir. Á kreppuárunum eftir 1930 jukust fiskflutningar í Garðinn og var hann verkaður þar til útflutnings. Alls var þurrkað á um 30 reitum þegar best lét og á árunum 1938-1939 var þurrkuð um 9 þúsund skippund af fiski í hreppum.
Þrátt fyrir þetta fækkaði fólki í Garðinum á þessu tímabili, en það var ekki fyrr en árið 1943 að fólksflóttinn stöðvaðist þegar Hraðfrystihús Gerðabátanna tók til starfa og eftir það kom hvert frystihúsið af öðru til starfa og á árunum 1950-1960 voru yfir 20 fiskverkunarstöðvar.
Rafvæðing hófs í Garðinum 1933 og var orka fyrst frá ljósavélum. Vindstöðvar urðu mjög algengar um tíma en rafmagn frá Sogsvirkjunum var leitt um Garðinn 1946. Holræsi var leitt um byggðina á árunum 1950-1960.

Gerðaskóli er einn elsti skóli á landinu en hann var stofnaður 1872 af séra Sigurði Sívertsen.
Stúkan framför var stofnuð1889 og reistu félagar hennar samkomuhúsið í Garði. Kvenfélag var stofnað í Garðinum 1917. Ungmennafélagið Garðar var stofnað 1932 en það hefur ekki verið starfandi um langa hríð. Íþróttafélagið Víðir var stofnað 1936. Verkalýðsfélagið í Garðinum var stofnað 1937. Tónlistafélag Gerðahrepps var stofnað 1979.

Garðskagaviti
Ysti hluti skagans sem gengur til norðurs af vestanverðu Reykjanesi. Viti var fyrst reistur á Garðskagatá 1897 en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884. Nýr viti var byggður 1944. Gamli vitinn var notaður sem flugathugunarstöð á vegum Náttúrufræðarstofnunar Íslands á árunum 1962-1978.

Sunnudaginn 17. ágúst sl. var haldið upp á 100 ára afmæli Garðskagavita. Siglingastofnun og Gerðahreppur stóðu sameiginlega að því að bjóða almenningi að koma og skoða vitana og Byggðasafn Gerðahrepps. Gefinn var út bæklingur af þessu tilefni um vitana og í honum er einnig umfjöllun um byggðasafnið. Talið er að um 600-700 manns hafi komið þennan dag út á Garðskaga í ágætu veðri. Slysavarnarfélagskonur buðu gestum upp á kaffi og meðlæti í vitavarðarhúsinu. Aðsókn var fram úr björtustu vonum aðstandenda.

Starfsmenn Siglingastofnunar eru nýlega búnir að gera upp eldri vitann. Einnig er búið að helluleggja göngustíga á svæðinu. Svæðið er því allt til fyrirmyndar og Garðskagavita sómi sýndur á aldarafmælinu.

Útskálakirkja
Kirkjan að Útskálum var reist árið 1861 að frumkvæði sóknarprestsins síra Sigurðar B. Sívertsen (1808-1887). Árið 1907 heyrðu Hvalsnes-, Njarðvíkur- og Kirkjuvogssóknir til Útskálaprestakalls og hélst sú skipan fram til ársins 1952.
Útskálakirkja er byggð úr timbri og járnvarin. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.

Aðrir staðir áhugaverðir staðir:
-Kistugerði
-Draughóll
-Fornmannaleiði
-Gufuskálar
-Vatnagarður
-Leiran
-Prestsvarða
-Skagagarðurinn

-http://www.gerdahreppur.is

Sandgerði

19. Garður – Sandgerði

Staðhættir
Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða

Bærinn Sandgerði
Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör
Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar. Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri. Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin NáttúrustofanÍ Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.
Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins
Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.
Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.
Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.
Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.
Eldri borgarar
Í Miðhúsum eru íbúðir eldri borgara. Þar er einnig blómlegt félagslíf við hæfi. Íbúðirnar sem eru nýjar og glæsilega voru byggðar af byggingafyrirtækinu Búmönnum. Má segja að þar sé bæði hátt til lofts og vítt til veggja og hafa íbúar þar sannarlega kunnað að búa híbýli sín á smekklegan hátt.

Bókasafn
Sandgerðisbær á myndarlegt bókasafn sem er til húsa í grunnskólanum. Þar sameinast skólabókasafnið og bæjarbókasafnið og nýtast bæði söfnin íbúum á öllum aldri.
Höfnin
Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög
Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella
Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn
Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar
Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður.
Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes
Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.Â

Hvalsnes
Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins. Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg
Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar. Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt. Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi
Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík
Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum. Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði
Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker
Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Flankastaðir
Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból
Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir
Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

-www.sandgerdi.is

Hvalsnes

Hvalsneskirkja.

Gunnuhver

„Ekki er það ný bóla, að eldur komi upp í sjé úti í grennd við Ísland, og telur Þorvaldur Thoroddsen, að það hafi komið níu sinnum fyrir, sem sögur fari af, fyrst árið 1211 og síðast 1879, þangað til nú Sögulegast var það gosið, er eyja reis úr sjó undan Reykjanesi, en hvarf áður en langt leið. Þegar átti að fara að kanna eyna var hún horfin.
Reykjanes-991Langoftast urðu neðansjávareld gosin út af Reykjanesi, flest á svipuðum slóðum. Í eldgosatali Þorvalds Thoroddsens er nokkrum sinnum aðeins sögð þessi orð: Eldur fyrir Reykjanesi. En fyrst 1226 segir þó fleira: Eldur í sjó fyrir Reykjanesi. Myrkur um miðjan dag. Sandfellsvetur á Íslandi. — Árið 1422 kom upp eldur útsuður undan Reykjanesi og skaut upp landi, sem nú er horfið. Árið 1830: Eldur fyrir Reykjanesi. Hann sást fyrst hinn 6. og 7. marz (aðrir segja 13.), og var uppi þangað til í maímánuði, þá rak mikið af vikri að næstu ströndum. Uppvarpið var nærri Eldeyjarboðum. Árið 1879: Gos fyrir Reykjanesi. Hinn 30. maí sáu menn frá Kirkjuvogi í Höfnum eldsuppkomu nálægt Geirfuglaskerjum hér um bil 8 mílur undan landi og eins sást til hennar næsta dag, en fjórtán daga framan af júlí var svört þoku bræla yfir sjónum út af Reykjanesi, en þokulaust alls staðar fyrir innan. Rétt áður en þokan hvarf, Kom öskufall, sem sá vel á grasi, en ekki urðu menn eldsins varir eftir það. Vikur sást heldur ekki, og engir jarðskjálftar fundust.
Vorið 1733 gerðist það, sem þóttu teikn mikil, að alldjúpt út af Reykjanesi reis rjúkandi eyja úr sænum, og gizkuðu menn ýmist á, að hún hafi verið ein míla eða míluþriðjungur ummáls. Annars beið hún ekki eftir því að vera mæld eða rannsökuð nánar, sem áður segir, heldur hvarf aftur í hafið. Skipverjar á húkkortunni Boesand komu fyrstir auga á eyjuna, og gerði skipstjórinn, Jörgen Mindelberg, teikningu af henni. Eftir honum eru höfð þessi orð í sambandi við gos þetta: „Það var guðs undur, sem við höfðum ekki fyrr séð, að sjór logaði!“
Ey - JorgenÍ Öldinni átjándu stendur eftirfarandi um gosið 1783, dagsett í maímánuði: „Um síðustu mánaða mót urðu menn þess áskynja, að eldur er uppi í hafi djúpt út af Reykjanesi. Stigu þar reykjarmekkir úr sjó og nú hafa áhafnir þriggja kaupskipa séð þar rjúkandi eyju rísa úr sæ, en stórt svæði umhverfis hana er þakið vikri og ösku. Mönnum ber saman uim það, að þarna sé komið upp allhátt hraunhrúgald, með úfnum klettum, en þá greinir á um stærð hínnar nýju eyjar. Telja sumir, að hún sé míla ummáls, en aðrir hafa orpið á, að svo sem þriðjungur mílu muni umhverfis hana. Sævardýpi hefur breytzt til muna umhverfis eyna, og nýr boði, sem mjög brýtur á, er kominn upp alllangt frá henni í norðvesturátt. Það voru skipverjar á húkkortunni Boesand, sem fyrst sáu eyna.
Klukkan þrjú að morgni hins fyrsta dags maímánaðar bar fyrir augu þeirra sjón, sem fyllti þá undrun og skelfingu: Reykjarmekkir miklir stigu upp af sjónum. „Það var guðs undur, sem við höfðum ekki fyrr séð, að sjór logaði“, segir reykjanes-kort-IIskipstjórinn, Jörgen Mindelberg.
Klukkan sjö var skútan komin svo nærri gosstöðvunum, að skipverjar sáu rjúkandi eyju í hafinu hálfa níundu mílu suðvestur af Geirfuglaskeri. Lét skipstjóri sigla í námunda við hana, en sneri frá, er hann átti ófarna hálfa mílu að henni, því að gosfýlan var orðin svo megn, að hann sveðsí hafa óttazt að áhöfnin félli í öngvit. Var þá og sjór allur þakinn vikri.

Nú síðar í maímánuði komu Hans Petersen á Hvíta svaninum og Peder Pedersen á Þorskinum, til hafnar við Faxaflóa, og höfðu þeir báðir séð þessa nýju eyju, er hlaðizt hefur upp úr rjúkandi eimyrkju og gjallstorku út af Reykjanesi“.
Sex vikum síðar hófust Skaftáreldar. Í júlí segir: „Konungurinn hefur mælt svo fyrir að eyjan út af Reykianesi skuli Nýey heita og falið stiftamtmanni að fara hið fyrsta út í hana á einhverju af skipum konungsverzlunarinnar, draga danskan fána að húni á henni og helga hana veldi Dana. Til frekara öryggis skal reisa þar stein og höggva á hann nafn konungs og ártal, og verður steinn sá, sem til þessa er ætlaður, sendur hingað með póstskipinu“.
Í ágúst 1784 segir: „Það fórst fyrir, að stiftamtmaður helgaði Danakonungi Nýey í fyrra og voru boð stjórnvalda um þetta ítrekuð í vetur. Var svo fyrir mælt, að Hafnarfjarðarskip sem flytja átti Levetzov kammerherra og Magnús stúdent Stephensen til Kaupmannahafnar, kæmi við á eynni, ef þess væri nokkur kostur, eða sigla að minnsta kosti svo nærri henni, að viðhlítandi athugun gæti farið fram á henni. En mönuum brá nokkuð í brún, þegar átti að fara að kanna Nýey. Hún var nefnilega hvergi sýnileg, þegar gera átti gangskör að því að helga hana konungi“.

Heimild:
-Tíminn 15. nóvember 1963, bls. 8-9.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Hellugata

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall á Reykjanesi blasir við vegfarendum sem um Reykjanesbrautina fara ef horft er til suðurs og er þá vestan við Keili að sjá. Ef ekið er til Fagradalsfjalls frá Grindavík er beygt til vinstri af aðalveginum inn í bæinn við vegvísi sem á stendur Krýsuvík. Síðan er beygt aftur til vinstri og ekið eftir Ísólfsskálavegi í átt að Festarfjalli.

Grindavík

Festarfjall.

Vestan við Festarfjall er gaman að staldra við og horfa á fjallið. Festin er ljós berggangur sem liggur upp klettavegginn. Undir fjallinu er falleg fjara og þar hafa verið tekin atriði í kvikmyndum. Héðan ökum við inn fyrir Festarfjall yfir Siglubergsháls. Þegar yfir hann er komið sjáum við tún og haga sem tilheyra bænum Ísólfsskála, þar sem búskapur er nú aflagður, en bærinn notaður sem sumarhús.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall.

Fagradalsfjall að vestanverðu: Inn með hálsinum til vinstri liggur slóð (GPS N63 51 065 W22 19 507) til norðurs, fyrst yfir gróið land og síðan í hrauni (Beinavörðuhraun) að suð-vesturhorni Fagradalsfjalls sem heitir Kast. Í vesturbrún Kastsins fórst bandarísk herflugvél að gerðini B-24D í maí 1943 og með henni fjórtán menn. Þeirra á meðal var Andrews, yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu í síðari heimstyrjöldinni. Einn maður komst af lítt slasaður. Þegar komið er að fjallinu er komið á slóðamótum (GPS N63 52 852 W22 19 434).

Sé ekið til hægri liggur leiðin með fjallinu til suðurs að Selskál. Úr Selskál er ágæt gönguleið í Görn, dal austan við Kastið.
Við ökum til vinstri því við ætlum norður fyrir Fagradalsfjall. Ökum fyrst fyrir háls sem kemur suð-vestur úr fjallinu og svo á milli hrauns og hlíðar með fjallið á hægri hönd og Skógarfellshraunið á þá vinstri. Síðan höfum við Sandhól á vinstri hönd og Stóra Skógarfell sjáum við lengra út í hrauninu. Hér og þar nær hraunið alveg upp að fjallinu en yfirleitt er dálítið vik á milli hrauns og hlíðar. Hér er dálítill gróður, aðallega þó lyng og mosi. Þegar komið er undir norðurenda fjallsins er komið í grösugan slakka og heitir þar Fagridalur. Er líklegt að héðan dragi fjallið nafn sitt.
Fagridalur er slakki milli tveggja hrauna. Skógarfellshraun er að vestanverðu en Þráinsskjaldarhraun (Kálfellsheiði) að norðan og austan. Hefur það hraun næstum kaffært Fagradals-Vatnsfell og Fagradals-Hagafell norðaustan við Fagradalsfjall. Hér eru slóðamót. Annar liggur þvert yfir gróðurlendið með fjallinu, en hinn stefnir niður Fagradal eftir grastorfunni og er þá komið á leirsléttur. Hér er gömul göngu- og reiðleið til Voga og heitir hún

Sandakravegur.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Lengra úti í hrauninu var skotæfingasvæði stórskotaliðs Varnarliðsins. Slóð liggur áleiðis norður eftir Sandakravegi. Ef haldið er áfram slóðina með fjallinu eru slóðamót strax og komið er yfir fyrstu grastorfuna. Í stað þess að aka slóðina áfram yfir mosa og síðan grastorfuna með fjallinu er beygt niður melinn og síðan neðan við hóla (Nauthóla ?) að austurhlíð Fagradals, og síðan upp í átt að skarðinu sem er á milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Hér er mikið úrrennsli og jarðvegsrof. Þegar slóðin sveigir upp með Nauthólunum að austaverðu sjást ummerki Dalsels á hægri hönd í grastorfunni. Þar rétt fyrir ofan liggja leifar Short-Sunderland flugbáts sem fórst í fjallinu á stríðsárunum. (Í Langhól sem er hæsti tindur Fagradalsfjalls). Einn maður lést í slysinu, tveir á sjúkrahúsi og tíu slösuðust. Leið í Fagradal er um sex kílómetrar.
Fagradalsfjall að austanverðu. Á móts við bæinn á Ísólfsskála er beygt (GPS N63 51 175 W22 18 313) af Ísólfsskálavegi til vinstri, í norður upp með vesturhlíðum fjallsins Slaga. Þegar innfyrir Slaga er komið opnast útsýni til norðurs að fjöllum sem ganga suður úr Fagradalsfjalli, Borgarfjalli og Langahrygg austar. Á milli þeirra er dalur sem heitir Nátthagi, en þar er varla nokkur hagi lengur vegna gróðureyðingar. Nú komum við að slóðamótum. Leiðin til vinstri liggur í Nátthaga eða norður með Borgarfjalli. Sú slóð verður mjög ógreinileg þegar komið er norður fyrir Borgarfjall í Nátthagakrika, og þaðan að slóðinni yfir Beinavörðuhraunið.
Við höldum áfram í austur um Stóra og Litla Leirdal. Vörðubrot eru við veginn því hér er um gamla þjóðleið að ræða, alfaraleið þar til að bílvegurinn var lagður í hraununum. Síðar komum við að Drykkjarsteini sunnan við veginn, sem vestan frá séður er eins og móbergsklöpp. Austanmegin er hann tæp mannhæð, með holum sem í safnast regnvatn.
Síðan er ekið yfir lágan háls og er þá tún framundan í dalverpi. Skála-Mælifell er á hægri hönd en Langihryggur á þá vinstri. Þar fórst bandarískur flugbátur af Marinergerð á stríðsárunum og með honum ellefu menn. Leifar bátsins er þar enn að finna, svo sem hreyfill í gili austan við Langahrygg (var fjarlægður árið 2021).

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Nú liggur vegurinn skáhalt upp klif. Þegar upp er komið opnast útsýni um hraun sem þekur svæðið milli Fagradalsfjalls og Núpshlíðarháls (Vesturháls) í austri. Lág fjöll standa upp úr hrauninu í dalnum milli Fagradalsfjalls og Núpshlíðarháls. Syðst er Höfði en norðar Sandfell og Hraunsels-Vatnsfell. Hér skilja leiðir. Gamli vegurinn stefnir í austur í Méltunnuklif en slóðin sem við fylgjum stefnir meira í norðurátt. Þegar ekinn hefur verið skammur spölur sjáum við hvar ljósleiðaralögn liggur þvert yfir okkar leið og skömmu síðar (GPS N63 51 624 W22 15 453) komum við að ógreinilegri slóð sem liggur upp á fjallið á vinstri hönd.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur.

Við höldum áfram í norður milli hrauns og hlíðar með Höfða á hægri hönd en Einihlíðar á þá vinstri. Svo sjáum við keilulagað fjall á vinstri hönd og er þar Stóri-Hrútur. Á þá hægri er Sandfell. Stóri-Hrútur sést frá höfuðborgarsvæðinu og ber hann þá við himin austan við Keili. Þegar komið er norður fyrir Stóra-Hrút komum við að slóð á vinstri hönd og liggur hún í Meradali, nokkuð djúpan hringlaga dal með gróðurtorfum og leirsléttum í botni. Nokkru norðar er önnur slóð, sem einnig liggur í sömu átt og nær hann til útsýnisstaðar á brún dalsins. Þaðan sést í norðurátt annað af tveimum Hraunsels-Vatnsfellum (hitt er í hvarfi norðan við það). Vestan við það eru Meradalahlíðar, þar næst Kistufell og loks sjálft Fagradaldalsfjallið og þar ber hæst Langhól sem er toppur fjallsins, 391 metra hár gígur. Í suðurátt er Stóri-Hrútur og í austri Sandfell. Við höldum áfram í norður, förum á milli Hraunsels-Vatnsfells og Sandfells. Við norðurenda Sandfells eru slóðamót (GPS N63 53 386 W22 12 944) á hraunkambi.

Litli-Hrútur

Litli-Hrútur og nágrenni.

Slóðin til hægri liggur yfir hraunið að Núpshlíðarhálsi. Við ökum til vinstri yfir hraun að hlíðum Hraunsels-Vatnsfells, með hlíðum þess og höfum nyrðra Hraunsels -Vatnsfellið á hægri hönd. Vegur verður hér góður um stund þar til við komum innundir Meradalahlíðarnar. Þá er farið upp á háls og eftir honum og hverfur slóðin þá nánast. Næst er farið niður brekku, ofan í dalkvos með vatnsstæði í botni, áfram upp ógreinilega slóð að norðanverðu, með strítulagað fjall á vinstri hönd sem heitir Litli-Hrútur. Slóðin endar austan við Litla-Hrút á kambi milli tveggja jarðfalla. Framundan í hraunbreiðunni sést til Keilis, austan við hann er Driffell og svo Núpshlíðarháls. Hér verðum við að snúa við og aka til baka eftir um 12 kílómetra akstur frá Ísólfskálavegi.

Norður fyrir Fagradalsfjall (aðeins fyrir breytta jeppa).

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Fyrir sunnan Litla Hrút er skarð milli hans og Merahlíða. Hægt er að aka upp í skarðið úr dalkvosinni sem áður er getið, en engin slóð er sjáanleg vegna úrrennslis úr Litla-Hrúti. Þegar í skarðið er komið blasir hraunslétta við. Lág brekka er niður úr skarðinu að vestanverðu. Slóð liggur út á sléttuna (hjólför eru í stefnu beint yfir sléttuna en enda fljótt í hrauni) en sveigist svo suður með hlíðunum í átt að Kistufelli (GPS N63 54 958 W22 13 308), ýmist milli hrauns og hlíðar eða í hrauni. Síðan er stefnan tekin í vestur í átt að Langhóli, upp lága öldu og verður slóðin þá mjög ógreinileg. Undir Langhóli verður slóðin greinilegri og er hlíðunum fylgt norður fyrir hann í skarðið milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Varast skal að fara slóðina í átt að Fagradals-Vatnsfelli því hún endar þar. Mikið úrrennsli er í skarðinu og er mikilvægt að athuga slóðina vel þar sem leiðin liggur niður stutta brekku. Þegar niður hana er komið (GPS N63 55 025 W22 17 129) er ekið á rauðamöl og sandi niður á leirslétturnar í Fagradal og komið þar á slóðina sem liggur vestur og suður með fjallinu. Hringurinn er um 25 kílómetrar.

Fagradals-Vatnsfell

Fagradals-Vatnsfell.

Fagradalsfjall frá Bratthálsi á Langhóli: Ekið er af slóðinni fyrir austan Fagradalsfjall, sem áður er lýst (GPS N63 51 624 W22 15 453). Ekið er upp brekkur um ógreinilegan og grýtta slóð austan Langahryggs og farið milli hans og Stóra-Hrúts. Þrætt er um skorninga og dalskvompur, skemmtilega og fjölbreytta leið. Þegar komið er norður fyrir Stóra-Hrút sést dalur á vinstri hönd sem heitir sá Geldingadalur með stefnu sunnan frá Borgarfjalli og norður í átt að Langhóli. Í botni hans eru gróðurtorfur og leirsléttur. Þegar kemur inn undir Langhól er komið að slóðamótum. Slóð liggur til hægri fram á brúnir Meradala. Slóðin sem við erum á stefnir upp grýtta brekku og er líklega ekki rétt að reyna við þá leið nema á breyttum jeppum. Síðan liggur slóðin vestur fyrir Langhól og endar þar. Þá tekur skamma stund að ganga upp að útsýnisskífunni á toppnum og er vel þess virði að skoða sig um þar . Langhóll er gígur og er grágrýtisþekja fjallsins þaðan komin. Frá Ísólfsskálavegi að Langhóli eru um tíu kílómetrar.

Langhóll – Meradalir.

Langhóll

Á slysstað á Langhól.

Frá Langhóli er ekið til baka sömu leið nema áhugi sé á að fara í Meradali. Þegar komið er að slóðamótunum sem fyrr var getið er ekin slóð fram á brúnirnar og borgar sig að ganga fram á þær og skoða leiðina áður því hún er ógreinileg í brúninni og ekki til fyrirmyndar að búa til margar slóðir. Næst er ekið yfir lítinn stall fram á næstu brún og blasa þá Meradalir við og fjöllin sem að liggja. Niður í dalina er mjög löng og brött brekka. Síðan liggur slóðin þvert yfir dalbotninn á sandi og leirsléttum upp og yfir hálsinn fyrir austan og komum við þá fljótlega á slóð sem liggur austan Fagradalsfjalls. Þaðan er greið leið niður á Ísólfsskálaveg eða að Núpshlíðarhálsi.
Sandfell – Núpshlíðarháls – Reykjanesbraut: (Breyttir bílar) Frá slóðamótum norðan við Sandfell (GPS N63 53 386 W22 12 944) liggur slóð þvert yfir hraunið að Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi) um talsvert seinekinn veg í mosavöxnu hrauni. Því miður hafa ekki allir vegfarendur farið eftir þeirri reglu að aka ekki utan slóðar og eru þarna því víða hjólför utan eiginlegrar slóðar. Þegar komið er austur að Núpshlíðarhálsinum sést að hraunið liggur sums staðar alveg að hálsinum er þar kallað Þrengsli. Slóð liggur með hálsinum, ýmist milli hrauns og hlíðar eða úti í hrauninu, og er hægt að aka í suðurátt með hálsinum (og skoða rústir Hraunsels sem er skammt fyrir sunnar hálsinn), mjög stirðan veg, niður á gamla veginn austan við Méltunnuklif. Þegar þar er komið er hægt að aka hvort heldur sem er í vestur yfir Leggjabrjótshraun að Méltunnuklifi og þaðan niður á Ísólfsskálaveg (GPS N63 51 424 W22 14 840) eða beygja til vinstri og aka eftir gamla veginum yfir suðurenda Núpshlíðarháls og á Djúpavatnsleið, skammt fyrir sunnan Stóra Hamradal (GPS N63 51 581 W22 12 184).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Frá slóðamótum Sandfells – Núpshlíðarháls er einnig hægt að aka stirðan veg, norður um Selsvelli. Selsvellir er líklega stærsta samfellda graslendi Reykjanesskaga. Á hól vestur á völlunum eru töluvert margar rústir selja. Þar norðan við í átt að Oddafelli er Hverinn eini, sem nú er kulnaður. Því miður er hér skemmdur grassvörður eftir bíla sem ekið hefur verið um svæðið í bleytutíð. Þegar komið er norður fyrir Selsvelli er komið að slóðamótum. Til vinstri liggur slóð þvert yfir hraunið að suðurenda Oddafells. Ekið er upp á fellið og eftir því endilöngu. Brekkan sunnan í fellinu er erfið og má lítið útaf bera svo að bílar komist þar upp. Er því betra að aka Oddafellið frá norðri og er þá ekið á fellið af veginum við Höskuldarvelli, þar sem hann beygir þvert yfir vellina. Eknar eru aflíðandi brekkur upp á fellið. Þar er sums staðar ummerki eftir jarðhita. Gaman er að virða Keili fyrir sér vestan við Oddafellið og er stutt að ganga þangað á götu sem sést vel í hrauninu. Oddafell hækkar og rís upp í kamb og liggur slóðin eftir kambinum suður um fellið og er þar ekki mögulegt fyrir bíla að mætast á löngum kafla. Víðsýnt er af Oddafelli þó ekki sé það nema 220 metrar yfir sjávarmáli enda ekki margt sem skyggir á útsýnið.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

En snúum aftur að slóðamótunum. Slóðin liggur áfram um litla hálsa undir Grænavatnseggjum. Brátt komum við að slóðamótum þar sem slóð liggur til hægri upp brekkur að Spákonuvatni og Grænavatni. Aka verður þaðan sömu leið til baka.
Við höldum áfram slóðina sem stefnir norður og sjáum þá Sogselsgíginn framundan á hægri hönd. Þar eru ummerki eftir þrjú sel. Í austurátt eru Sogin, einstök fyrir litadýrð sína. Þaðan er skemtileg gönguleið yfir að Djúpavatni. Nú ökum við niður að Höskuldarvöllum og norður með hlíðum Trölladyngju þar til að við komum að vegamótum.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Til hægri er vegur að Eldborg. Þar eru miklar efnisnámur og sést þar vel þversnið gígsins. Slóð liggur norður fyrir Eldborg og sést þaðan lágt fell sem heitir Lambafell. Þangað er stutt að ganga. Sé gengið með því er komið að náttúrufyrirbæri sem kallað er Lamafellsklof (Lambafellsgjá) sem er þröng gjá þvert í gegnum fellið.
Aka verður til baka að vegamótunum, síðan þvert yfir Höskuldarvellina að norðurenda Oddafells. Þaðan liggur rudd leið meðfram Sóleyjakrika sem er nyrsti hluti gróðurlendisins. Þaðan er ekið norður Afstapahraunið, í gegnum miklar malarnámur og síðan út á Reykjanesbrautina rétt vestan við Kúagerði (Vegvísir Höskuldarvellir). Raflína liggur þvert á leiðina í námunum og er línuvegur með henni, sem oft er lokað. Vegalengd Sandfell – Reykjanesbraut er 25-26 kílómetrar.

Sprungan í Kleifarvatni.

Hellan

Hellan.

Þegar komið er að Kleifarvatni frá höfuðborgarsvæðinu er ekið af Krýsuvíkurvegi til austurs að norðurenda vatnsins við skilti sem á stendur Kleifarvatn. Ekið er með vatninu eftir eiði milli vatns og Lambhagatjarnar og síðan í fjörunni með hlíðum Lambhaga. Til að komast hjá hliðarhalla meðfram vatninu (GPS N63 56 432 W21 57 500) er ekið yfir nes, sem skagar suður í vatnið og síðan áfram í fjörunni að austanverðu og fram á enda tangans. Þar sést sprunga sem liggur frá vatninu upp á tangann og fossar vatnið ofan í sprunguna (GPS N63 56 237 W21 57 229).
Á leið til baka væri hægt að aka austur fyrir Lambhaga og síðan norðan við Lambhagatjörn, með Vatnshlíðinni út á Krýsuvíkurveg. Eftir að minnka tók í Kleifarvatni varð í fyrsta sinn unnt að aka hringinn í kringum vatnið. Við suðurenda þess hafa tvö hverasvæði komið í ljós. Þessar leiðir eru einungis færar jeppum. JSv.

Krýsuvíkurberg.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg.

Ekið er af Ísólfsskálavegi rétt vestan við kirkjuna í Krýsuvík við vegvísi sem á stendur Krísuvíkurberg. Ágætur vegur liggur hér niður með Vestari læk, framhjá tóftum af eyðbýlinu Fitjum vestan við Selöldu, og þaðan fram á bergið við Hælisvík. Frá Hælisvík er ekið upp brekku upp á malarkamb sem gengur niður frá Krísuvíkurheiði og fram á bjargbrún. Staður þessi heitir Skriða. Hér í bjarginu er Ræningjastígur, eini staðurinn í bjarginu þaðan sem hægt er að ganga niður í fjöru. Slóðin liggur austur bjargbrúnina framhjá vita og er bjargið hér hæst um 36 metrar. Slóðin versnar eftir því sem austar dregur. Bjargbrúnin er allvel gróin en mikil jarvegseyðing er ofar í Krýsuvíkurheiðinni. Þegar komið er austur í Keflavík er Krýsuvíkurhraun framundan. Hægt er að aka ógreinilegan slóða og torfarinn, upp með hrauninu og í gegnum hlið hjá fjárrétt og þaðan uppá Krýsuvíkurveg neðan við Stóru Eldborg, sem blasir hér við undir fjallinu Geitahlíð.

Slóð austan Eldborgar.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ekið er frá Krísuvík í austur er farið Stóru Eldborg heitir Geitahlíð. Ekið er fram á brekkubrún á Deildarhálsi. Skammt fyrir ofan veginn, undir hlíðinni, eru dysjar Krýsu og Herdísar og er gulur hæll sem merkir ljósleiðaralögn framhjá Litlu Eldborg á hægri hönd og Stóru Eldborg á þá vinstri. Fjallið fyrir ofan í hlíðinni fyrir ofan dysjarnar (Þjóðsaga segir frá landamerkjadeilu og bardaga þeirra). Ekið er um sex til sjöhundruð metra austur veginn frá brekkubrúninni er komið að slóð sem liggur hjá Bálkahelli. Ekið er af Krýsuvíkurvegi til suðurs (GPS N63 51 327 W21 58 196). Slóðin er ógreinileg og frekar erfið yfirferðar og því varla nema fyrir breytta bíla. Þegar ekinn hefur verið um 1,1 kílómetri (GPS N63 50 919 W21 57 479) er Bálkahellir á hægri hönd. Gengið er að hrauntotu sem teygir sig í suður og er hægt að ganga þvert yfir hraunið um lægð sem í því er og koma þá að efsta opi hellisins (GPS N63 50 841 W21 58 133) um fjögur hundruð metra frá slóðinni. Einnig er hægt að ganga niður fyrir hraunið og koma þar að hellinum. Bálkahellir, sem er falleg hraunrás, fannst fyrir tilviljun í júní 2001.
Annar hellir, Ásgrímshellir er aðeins vestar. Það þarf að hafa mjög góð ljós sé áhugi á að skoða hellinn. Hann skiptist í nokkra hluta. Sums staðar hefur hrunið úr lofti en annars staðar er gengið á nokkuð sléttu gólfi. Hraunstrá hanga úr lofti og er afar mikilvægt að brjóta þau ekki né annað sem í hellinum kann að vera. Það tekur náttúruna óratíma að forma stutt hraunstrá. Slóðin liggur fram að sjó og eru þar fallegar hraunmyndanir. Slóðin endar í GPS N 63 50 350 W21 57 240. Leiðin frá vegi að þeim punkti er um 2,2 kílómetrar.

Suðurstrandarvegur – Herdísarvíkurhraun – Háberg.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg.

Ekið er af Suðurstrandarvegi í suður (GPS N63 51 943 W21 52 795) til móts við Lyngskjöld. Fáum metrum austar er vegur í átt að Lyngskyldi. Vegalengd frá Suðurstrandarvegivegi að Háabergi er um það bil tveir kílómetrar.

Suðurstrandarvegur –  Selvogsrétt – Slysavarnarskýli.

Hnúkar

Hnúkar.

Ekið er af Suðurstrandarvegi á Selvogsheiði í norður (GPS N63 52 202 W21 33 874) í átt að Hnjúkum. Þegar komið er að Hjúkunum er sveigt vestur fyrir þá og ekið niður brekkur að norðanverðu og komið að Selvogsrétt (GPS N63 53 021 W21 36 253), sem nú er aflögð. Eldri rétt er í suðvestur uppi á Vörðufelli. Skammt hér vestan við eru nokkuð fjölbreyttar mannvistarleifar, seljarústir, fjárhellar, réttir, kvíar, gerði og vörður sem áttu að villa sjóræningjum sýn. Það átti að líta svo út að her manna væri á Vörðufelli. Frá réttinni liggur slóðin stuttan spöl að girðingu og hliði, sem mikilvægt er að loka á eftir sér.
Önnur slóð liggur í austur með girðingunni að fjárhúsum frá Hlíðarenda. Sé farið um hliðið liggur slóðin að og yfir Strandagjá og síðan að slysavarnarskýli undir Heiðinni Há (GPS N63 53950 W21 36 327). Skammt vestan við skýlið er Kjallarahellir. Fara verður sömu leið til baka. Vegalengd frá vegi að skýli er um 4,5 km.

Ísólfsskáli.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Ef ekið er með túngirðingu í átt til sjávar, austan við Ísólfsskála, er komið að slóð sem ýtt hefur verið í gegnum hraunið í austurátt. Við enda slóðarinnar eru mjög sérkennilegar hraunmyndanir. Hér heitir Veiðibjöllunef. Slóðin er um 1,1 kílómetri að lengd.

Vegur frá Svartsengi að Reykjanesi.
Ekið er um hlað á milli bygginga Hitaveitu Suðurnesja og áfram vestur með hitaveitupípu sem kemur úr vestri. Hlið er á veginum og skilti hjá sem á stendur, Eldvörp 5,5 kílómetrar. Hliðið er stundum lokað en hægt mun vera að fá lykil lánaðan á skrifstofu Hitaveitunnar. Skömmu eftir að ekið er í gegnum hliðið er komið að vegi sem verið er að leggja frá Bláa lóninu vestur fyrir Þorbjarnarfell, og niður á Reykjanesveg við Grindavík (GPS N63 51 034 W22 26 404). Þarf þá ekki að fara um hjá Hitaveitunni frekar en maður vill.
Við ökum nú um Skipastígshraun og komum fljótlega að vörðum sem marka Skipastíg, eina af mörgum fornum leiðum yfir Reykjanesskaga. Nú komum við að þar sem heitavatnspípan þverbeygir í suður að borholu (GPS N63 52 172 W22 28 688). Áfram liggur leiðin um Bræðrahraun þar til komið er að róti í hrauninu þvert á veginn (GPS N63 52 051 W22 29 249), líklega ljósleiðaralögn. Næst komum við að margföldum vegamótum.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Fyrst er gömul slóð þvert yfir veginn (eftir Varnarliðið), sem liggur frá Stapafelli að fjarskiptastöð Varnarliðsins fyrir ofan Grindavík. Þessi slóð liggur samsíða gömlum vörðuðum vegi, Árnastíg, frá Stapafelli suður að veginum sem við erum á, en þar skiljast þeir að. Árnastígur stefnir meira í suður, niður með Sundvörðuhrauni og endar við eyðibýlið að Húsatóftum (Golfvöllur). Nálægt Sundvörðu eru minjar um verustaði manna. Enn ein gatnamót eru hér (GPS N63 51 996 W22 30 804), vegur liggur í suðvestur frá veginum um 1,2 km í Eldvörp þar sem Hitaveitan er búin að bora sína öflugustu holu. Eldvörp er gígaröð, sem stefnir frá Rauðhóli, frá suðvestri í norðaustur.

Sandfellshæð

Sandfellshæð, sandfell, Lágafell og Þórðafell.

Við höldum áfram veginn, förum í gegnum gígaröðina og tökum stefnu á fjall framundan sem heitir Sandfell. Norðan við það er Lágafell og enn norðar Þórðarfell en þar norðvestan við eru Súlur og Stapafell. Þar eru miklar malarnámur.
Þegar gegnum Eldvörpin er komið er sveigt úr vestlægri stefnu í suðvestlæga og ekið niður með hrauninu sem hefur runnið úr Eldvörpum (Eldvarpahraun). Þegar við höfum ekið 2-3 km frá beygjunni höfum við Rauðhól á vinstri hönd og hæð á þá hægri sem heitir Sandfellshæð og er þar mikill gígur sem heitir Sandfellsgígur. Svo þverum við eina af hinum fornu leiðum.

Sýrfell

Sýrfell.

Þessi stígur er úr Junkaragerði og stefnir héðan norður fyrir Rauðhól og þaðan niður að Húsatóftum. Nú erum við farin að sjá stikur, bláar í toppinn en þær marka gönguleið frá Reykjanesi að Þingvallavatni. Næst komum við að þar sem hlið hefur verið sett á veginn (GPS N6350 767 W22 38 303), annað af tveimur í suðurenda vegarins. Alla leiðina hefur vegurinn legið á mosagrónum hraunum, oftast á helluhrauni, en nú hverfur mosinn og við tekur sandur og hraungarðar og erum við nú í Sýrfellshrauni, en sunnar förum við um Stampahraun. Fellið Sýrfell blasir við framundan og við norðurendan þess er hlið. Slóð liggur norður fyrir Sýrfell og suður með því að vestanverðu, en við förum að austanverðu. Komum við þá að dæluskúr og vegamótum (GPS N63 50 200 W22 39 329). Önnur slóðin liggur áfram austan við Rauðhóla inn á veginn til Grindavíkur (GPS N63 49 575 W22 40 431), en hin fer suðurfyrir Sýrfell og niður með Rauðhólum að vestan og endar hún á veginum til Grindavíkur, skammt austan við afleggjarann að Reykjanesvita og Saltverksmiðjunni, sem blasir hér við (GPS N63 49 659 W22 40 487).
Rétt er að ítreka að aka ekki utan slóða og ganga vel um gróður og mannvirki.. Vegalengd: 16-17 km.

Kaldársel – Helgafell – Valahnjúkar – Bláfjallavegur.

Kaldársel

Gengið um Kaldárselssvæðið.

Við kirkjugarðinn í Hafnarfirði er beygt af Reykjanesbraut inn á Kaldárselsveg. Ekið er framhjá húsinu í Kaldárseli í átt að girðingu sem umlykur vatnsból Hafnfirðinga. Við girðinguna er beygt til hægri út á hraunklöpp og ekið yfir Kaldá. Þaðan liggur seinfarinn vegur í hrauni. Farið er um grindarhlið á girðingu (GPS N64 01 257 W 21 52 074) uns komið er að slóð á hægri hönd (GPS N64 01 142 W21 51 691) sem liggur uppá Undirhlíðar.
Undirhlíðar: Slóðin er nokkuð niðurgrafin í brekkunni upp á Undirhlíðarnar og kann að reynast erfið. Betra og skemmtilegra er að koma að eftir línuveginum sem liggur sunnan við Helgafellið (GPS N64 00 240 W21 52 648) og aka þar niður því úsýnið er skemmtilegra þegar ekið er frá suðri til norðurs. En víkjum aftur á slóðina frá Kaldárseli. Þegar ekinn hefur verið skammur spölur er komið að slóð til hægri (GPS N64 01 110 W 21 51 385) sem liggur suður með Helgafelli og í kringum það.

Skúlatún

Skúlatún. Helgafell að handan.

Í kringum Helgafell: Ekin er greiðfær slóð í suður með vesturhlíð Helgafells. Sunnan við Helgafell er komið í hraun og verður leiðin seinfarin um sinn. Síðan liggur slóðin alveg að hlíðinni og verður betri yfirferðar. Komið er að línuvegi (GPS N64 00 231 W 21 51 140) eftir um 2,8 km akstur frá slóðamótum. Með línuveginum til suðurs liggur leið meðal annars vestur á Undirhlíðar (GPS N64 00 240 W21 52 648), en einnig suður á Bláfjallaveg (GPS N63 59 649 W21 53 427). Þangað er um 2,6 km. Sé línuvegurinn á hinn bóginn ekinn til norðurs er komið að keðju (GPS N64 00 812 W21 49 394) sem lokar veginum inn á vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar.
Við ökum ágætan jeppaslóða með fjallinu. Sums staðar þarf að þræða milli stórra steina sem hrunið hafa úr fjallinu. Á móts við skarðið milli Helgafells og Valahnjúka eru slóðamót. Hægt er að loka hringnum í kringum Helgafell með því að fara slóðina upp í skarðið og þaðan vestur á slóðamótin sunnan við fellið. Einnig er hægt að beygja til hægri inn á slóð sem liggur norður fyrir Valahnjúka.

Norður fyrir Valahnjúka.

Valaból

Valaból.

(GPS N64 00 937 W21 50 115). Ekin er slóð til hægri norður fyrir Valahnjúka, þar til komið er að slóðamótum (GPS N64 01 272 W21 49 694). Til hægri liggur leið að grindarhliði (GPS N64 01 351 W21 49 404) á girðingu, sem umlykur höfuðborgarsvæðið, og áfram upp á hæðir í átt að Húsfelli. Komið er að vörðu innundir Húsfelli (GPS N64 01 745 W21 48 391) og er þar staðar numið. Þaðan er ágætt útsýni yfir nánasta umhverfi. Slóð sést liggja norður af hnjúknum að norðrenda Húsfells. Sé hún ekin er fljótlega komið að lyngbrekku. Þar verður slóðin ófær vegna vatnsrofs.
Nú snúum við til baka að slóðamótunum og í leiðinni skoðum við ummerki eftir gömlu þjóðleiðina frá Hafnarfirði í Selvog. Leið þessi var einnig farin í Brennisteinsfjöll, en þangað var sóttur brennisteinn til útflutnings. Fóru þá langar lestir burðarhesta hér um. Frá slóðamótunum höldum við niður með Valahnjúkum uns komið er að afgirtum trjáreit. Valabóli. Í honum er Músahellir. Bandalag íslenskra Farfugla settu á hann hurð og glugga og innréttuðu að einhverju leyti,og notuðu til gistingar. Þeir ræktuðu einnig trjáreitinn Nú er Músahellir því miður í niðurnýðslu. Frá Valabóli er ekið yfir lágan háls vestan í Valahnjúkum og er þá komið á slóð frá Kaldárseli (GPS N64 01 112 2151 360). Vegalengdir eru hér ekki miklar.

Bláfjallavegur – Undirlíðar – Slysadalir – Breiðdalur – Vatnsskarð.

Breiðdalur

Breiðdalur.

Ekið er af Reykjanesbraut við Hafnarfjörð inná Strandgötu og síðan framhjá íþróttamannvirkjunum við Ásvelli og suður Krísuvíkurveg, sem ekinn er þar til komið er að gatnamótum og er þá beygt til vinstri. Á vegvísi stendur Bláfjöll. Ekið er að Undirhlíðum og uppá þær. Hér er mikið malarnám, en utan við það kjarr og jafnvel skógrækt með hlíðunum. Þegar upp er komið liggur slóð af Bláfjallavegi til hægri (suðurs), fyrir ofan Undirhlíðar (GPS N63 59 641 W21 53 434) og liggur hún í Slysadali. Síðan liggur leiðin yfir lágan háls og ofan í Breiðdal sem er svipaður Slysadölum; flatbotna, með grastorfum og leirsléttum og án frárennslis. Ekið er með hlíðum dalanna en ekki á grastorfunum.

Slysadalur

Slysadalur.

Úr Breiðdal er ekið upp hjá Breiðdalshnjúki og er þá komið að slóðamótum og grindarhliði við girðingu höfuðborgarsvæðisins. Leiðin yfir grindarhliðið liggur m.a. í Fagradal, sem skerst inn í Lönguhlíð, sem hér er skammt austan við okkur. Slóð liggur af Fagradalsleiðinni til vinstri norður með girðingunni og síðan með hlíðum Lönguhlíðar. Endar hún á Bláfjallavegi (GPS N63 58 923 W21 50 140). Stuttur spölur er frá girðingarhliðinu að Krísuvíkurvegi innan við Vatnsskarð (GPS N63 57 829 W21 56 425). Vegvísir er á gatnamótunum sem vísar á Breiðdal.
Héðan er hægt að aka hvort sem vill til vinstri til Kleifarvatns eða hægri yfir Vatnsskarð, til baka í átt að Hafnarfirði. Gróðureyðing er hér nokkur, en nú er verið að græða svæðið upp (Gróður í landnámi Ingólfs). Vegalengd frá Bláfjallavegi að Krýsuvíkurvegi er rúmir 4 kílómetrar.

Vesturlandsvegur – Úlfarsfell.

Esja

Esja.

Ef ekið er frá Reykjavík er beygt af Vesturlandsvegi til hægri þegar komið er yfir brúna á Úlfarsá, (Korpu) og ekinn vegur upp hjá Lambhaga (Úlfarfellsvegur). Eftir að ekinn hefur verið dálítill spölur, liggur vegurinn undir raflínu og er þá slóð á vinstri hönd (GPS N64 08201 W21 43 756), sem liggur hjá Leirtjörn og uppundir eggjar Úlfarsfells. Við höldum áfram Úlfarfellsveginn þar til að við höfum trjáreit á hægri hönd, og er þá slóðinn upp á Úlfarsfellið vinstra meginn vegar (GPS N64 08 217 W21 43 299), og stefnir skáhallt frá vegi upp lágan háls. Fljótlega versnar slóðinn, og verður grýttur. Leiðin liggur inn dal og sveigir svo upp brekkur í mörgum sveigum, þar til komið er efst í dalinn.

Úlfarsfell

Úlfarsfell.

Hér eru slóðamót, til vinstri er farið upp nokkuð bratta brekku, fram á vesturbrún fellsins í 291 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er mjög skemmtilegt útsýni yfir Reykjavíkursvæðið, og sundin. Hér er varða með vindpoka, og smá grastorfa, sem tyrfð hefur verið. Á grasinu setja flugdrekamenn saman flugdreka sína, og hlaupa síðan fram af fellinu til að svífa niður. Við skulum því ekki aka út á torfuna. Við förum aftur á slóðamótin, og ökum beint áfram upp aflíðandi brekku og komum svo á önnur slóðamót. Til hægri er farið upp á hæsta tind Úlfarfells, 295 metra yfir sjávarmáli Hér uppi er grjótbyrgi síðan hermenn stóðu hér vörð á stríðsárunum (einnig eru slík ummerki í vesturbrún fellsins). Héðan er mikið útsýni og sést héðan betur í austur, og norður, en af vesturbrúninni. Síðan er farið aftur á slóðamótin og nú geta þeir sem eru á breyttum bílum farið slóða austur fyrir hákollinn og niður fellið að austanverðu grýtta og erfiða slóð, sem getur verið blaut neðst, og komið niður hjá Skyggni (Stóra disknum), fjarskiptastöð Símans,og síðan út á Úlfarsfellsveg. Munið að loka hliðum.

Hafravatnsvegur-Hafrahlíð.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Ekið er af Hafravatnsvegi við Hafravatn, ómerktan veg skamt austan við Hafravatnsrétt (GPS N64 07 680 W21 38 871). Ekið er upp stutta brekku framhjá sumarbústöðum. Þegar uppá brekkubrúnina er komið er beygt til vinstri inn á slóða sem liggur upp í fellinn (GPS N64 07 692 W21 38 871). Eftir stuttan spöl er komið að slóðamótum (GPS N64 08 028 W21 38 295). Slóðinn sem á vinstri hönd liggur niður í dalkvos, og síða upp brekkur að endurvarpa á brún Hafrahlíðar. Er þar skemmtilegt úsýni. Hinn slóðinn liggur upp að Borgarvatni, sunnan við Reykjaborg. Hjólför liggja útí blauta mýri og hafa hjólin skorið sig niður og myndað ljót sár. Óþarft er að aka þarna, og er stutt að ganga að vatninu. Aka verður sömu leið til baka.

Vesturlandsvegur-Blikdalur.
Slóðar liggja beggja vegna Árskarðsár upp í Blikdal, sem er í vesturenda Esjunnar. Slóðin sunnan ár er þurrari, og er ekið á hann af Vesturlandsvegi af melunum skammt sunnan ár. (GPS N64 15 029 W21 50 045). Fljótlega komum við á slóðamót. Við förum slóðann sem liggur til hægri og komum fljótlega að girðingu, og förum þar í gegnum hlið (GPS N64 16 032 W21 49 776). Við lokum hliðinu á eftir okkur. Slóðinn liggur að hlíðum Esjunnar og sveigist síðan upp brekku og inn yfir Sneiðingakletta og inn á háls, sem gengur norður í dalinn og þar rennur Árskarðsá í gljúfrum og fossum fram úr dalnum. Ekið er inn dalinn eftir grónum skriðum, nálægt árgljúfrunum, og sumstaðar liggur slóðinn nokkuð tæpt fyrir enda gilja sem ganga upp frá gljúfrum Blikdalsár, eins og áin heitir hér inni í dalnum. Svo fer að sjást inn í dalbotninn og er hér líklega besti útsýnisstaðurinn (GPS N64 16 074 W021 48 380).

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Blikdalur er fallegur fjallasalur, hömrum girtur. Að norðanverðu er Lokufjall vestast, með Hestabrekkur niður að á. Svo kemur Selfjall og Leynidalur. Fyrir botni dalsins eru Fossurðir. Þar vestan við að sunnanverðu, eru Skollabrekkur sem eru bakhliðin á Þverfellinu sem við sjáum úr Reykjavík. Síðan er Hrútadalur sem nær upp að Kerhólakambi sem einnig blasir við frá höfuðborgarsvæðinu. Þar vesturaf er fjallið kallað Lág-Esja og lækkar það svo í aflíðandi kambi niður í dalsmynnið. Slóðinn er í grónu landi og er blautur og staksteinóttur. Slóðir geta batnað, ef ferðalangar kasta steinum úr götu sinni, sérstaklega þeim sem geta verið dekkjum og undirvagni bílanna hættulegir. Aka verður sömu leið til baka.

Vesturlandsvegur – Svínaskarð.

Svínaskarð

Svínaskarðsvegur.


Ekið er af vesturlandsvegi (GPS N64 11 690 W21 41 845) af Esjumelum í austur, veg sem liggur hjá skemmum sem meðal annars eru notaðar af Fornbílaklúbbnum, og áfram austur melana, þar til komið er að gatnamótum. Annar vegurinn liggur nánast beint áfram, en hinn beygir til vinstri, og eru vegstikur með honum. Við ökum þann veg framhjá afleggjara að Völlum, og síðan framhjá afleggjara að Norður-Gröf. Næst höfum við veiðihús við Leirvogsá á hægri hönd. Við erum nú í nafnlausum dal á milli Esjunnar og Mosfells og ökum upp með Leirvogsá. að norðanverðu. Svo er ekið yfir Grafará á vaði, og svo liggur leiðinn hjá Þverárkotshálsi. Þegar fyrir hann er komið sést Þverárkot á vinstri hönd.Við ökum þvert yfir eyrar Þverár, yfir hana og komum svo að hliði á girðingu á vinstri hönd. Við förum í gegnum hliðið (GPS N64 12 623 W21 34 819) og ökum slóða sem liggur að nokkrum sumarbústöðum, sem eru dreifðir upp dalinn að austanverðu. Svo komum við að Skarðsá sem kemur úr Svínaskarði, förum yfir hana og framhjá efsta bústaðnum. Versnar nú vegurinn til muna. Leiðin um Svínaskarð var mikið farin áður en bílar komu til sögunar, enda mun styttra að fara Svínaskarð og Reynivallaháls en að fara út fyrir Esju.
Nú á tímum eru það aðallega hestamenn sem fara skarðið á hestum sínum, sér til skemmtunar. Hér er mjög fallegt. Þverárdalurinn hömrum girtur, en austan við hann eru Móskörð, og Móskarðshnjúkar, sem sjást vel frá höfuðborgarsvæðinu, og virðast alltaf vera baðaðir sól. Austan við þá er Svínaskarðið og þar fyrir austan gnæfir Skálafell. Sunnan við það er Stardalshnjúkur. Okkur á hægri hönd eru síðan Haukafjöll. Ekið er yfir nokkur lækjargil, og getur þurft að fara úr bílnum til að laga veg og leggja grjót í verstu skvompurnar.

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði.

Þegar upp í skarðið er komið, í 481 metra hæð yfir sjávarmáli, blasir við mikið útsýni til suðurs, og vesturs. Þegar komið er norður á brún skarðsins, sést yfir Svínadalinn, norður um Kjós og Hvalfjörð. Þegar horft er niður í Svínadalinn, sést hvernig slóðinn fer í mörgum hlykkjum niður með giljunum, í snarbratta. Þetta er ekki fýsilegur slóði til að aka bílum eftir, en þó hefur það verið gert, en ekki er mælt með því. Ef menn reyna, og sleppa óskaddaðir niður í Svínadal, er þrautin ekki unnin, því þar taka við mýrar með tilheyrandi bleytum. Betra er að aka sömu leið til baka niður Þverárdal. Hægt er að aka til baka hjá hlaði á Hrafnhólum, yfir brú á Leirvogsá, og síðan hjá Skeggjastöðum í átt að Þingvallavegi. Vegur merktur Tröllafoss liggur til vinstri, og er hægt að aka hann í átt að Tröllafossi og ganga síðan síðasta spölinn að fossinum. Vegalengd um 6 kílómetrar frá hliði og upp í skarð.

Suðurlandsvegur – Selfjall.
Ekið er af Suðurlandsvegi til suðurs við Lækjarbotna við vegvísi sem á stendur Sumarhús (GPS N64 04 847 W21 40 069). Síðan er ekið áfram veginn um Lækjarbotna, þar til komið er að efnisnámum. Þar er beygt til vinstri, og farið á grindahliði í gegnum girðingu (GPS N64 04385 W21 40 771). Síðan er ekið upp með girðingunni að hlíð Selfjalls, og beygt þar til hægri eftir slóða á Selfjall. Þegar upp er komið, taka við dalskvompur með litlum gróðurtorfum og rofabörðum. Slóðir liggja upp á alla toppa fjallsins, og austur í skarð á milli Selfjalls og Sandafells. Úr því skarði má aka eftir línuvegi, til norðurs, á Suðurlandsveg. Ekki er hægt að aka suður á Bláfjallaveg ofan við Undirhlíðar. Er vegurinn lokaður með læstri slá.

Suðurlandsvegur-Bláfjallavegur við Undirhlíðar.

Lækjarbotnar

Vegur ofan Lækjarbotna.

Ekið er af Suðurlandsvegi fyrir ofan Lækjarbotnabrekkuna (Fossvallaklif), afleggjara til suðurs merkur Waldorfskólinn (GPS N64 04 534 W21 38 779) og er þá komið á gamla Suðurlandsveginn. Hann er síðan ekinn í austur Fossvellina, framhjá Fossvallaréttinni, uns komið er að raflínu sem kemur úr norðri og stefnir í skarð á milli Selfjalls og Sandafells. Línuvegur er með raflínunni, og er hann ekinn í suð-vestur í skarðið. Þegar í skarðið er komið, sést slóði sem kemur frá hægri niður brekku í Selfjallinu. Hér er búið að loka línuveginum með slá. Áfram er hægt að ganga línuveginn um hrikalega úfið Hólmshraun. Fjall er á hægri hönd sem heitir Húsfell. Hér hefur veginum verið lokað með slá yfir veginn. Síðan förum við yfir gamla, varðaða leið sem lá úr Hafnarfirði til Selvogs, og er kölluð Selvogsgata. Næst höfum við Valahnjúka á hægri hönd, og síðan Helgafell. Á vinstri hönd eru Strandatorfur og Kaplatóur. Þegar komið er suður fyrir Helgafell, er komið fram á Undirhlíðar. Hér eru slóðamót. Annar slóðinn liggur til suðurs á veg sem liggur af Krísuvíkurvegi til Bláfjalla (GPS N63 59 641 W21 53 434), en hinn slóðinn liggur til norðurs um brúnir Undirhlíða, stirðan veg, og niður að Kaldárseli. Skemmtilegt útsýni er af leiðinni þó ekki liggi hún hátt.

Suðurlandsvegur – Lyklafell – Línuvegur.

Lyklafell

Vegur við Lyklafell.

Ekið er af Suðurlandsvegi til norðurs (GPS N64 04 973 W21 37 785), ómerktan afleggjara austan við Gunnarshólma. Ekið er yfir brú á Hólmsá (Norðurá), framhjá sumarhúsum. Þegar innar dregur versnar vegurinn og verður að jeppaslóða sem leiðir okkur að eyðibýlinu Elliðakoti, sem er hér undir heiðarbrúninni. Áður var þessi bær í alfaraleið, því leiðir lágu hér niður af heiðunum, og sést enn varða á brúninni skammt austan bæjarins. Slóðinn liggur vestur fyrir bæjarrústirnar en sveigist þar upp á heiðarbrúnina. Þegar slóðinn hefur verið ekinn stuttan spöl, komum við að slóðamótum (GPS N64 05 434 W21 37 785). Liggur slóði til vinstri, norður að Selvatni, og á sumarbústaðaveg austan við vatnið. Þessi slóði er erfiður vegna úrrennslis. Við höldum áfram slóðann í austur sem er hér orðin að línuvegi. Slóðinn liggur um gróið land, og er hér blautt í rigningatíð. Síðan hækkar landið og verður slóðinn þá grýttari.

Elliðakot

Elliðakot.

Næst komum við að girðingu og er á henni grindarhlið (GPS N64 05 196 W21 36 380). Hér sjáum við vörður á hinum forna Dyravegi sem lá um Elliðakot til Dyrfjalla, og þaðan í Grafning. Við erum nú líklega á Fossvallaheiði, en Miðdalsheiði er norðan við okkur. Eftir að hafa ekið tæpa fjóra kílómetra frá Suðurlandsveginum, komum við að spennistöð (GPS N64 04 861 W21 34 471), og eru hér þrjár raflínur sem koma úr austri. Ein raflínan sveigir hér í suður,og er góður vegur með henni á Suðurlandsveg (GPS N64 04 241 W21 36 560). Héðan er líka góður línuvegur með raflínunum austur um öxl Lyklafells, og þaðan austur að Húsmúla. Þessi vegur væri fólksbílafær, ef ekki væru árfarvegir Fossvallakvíslar og Lyklafellsár (Engidalsár) á leiðinni. Einnig eru úrrennsli þvert á veginn á nokkrum stöðum. Svo liggur vegurinn inn í hraun, og um það þar til komið er austur undir Húsmúla. Hér er vegur til hægri út á gamla Suðurlandsveginn. (GPS N64 03 777 W21 27 963).

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Nokkrir afleggjarar eru af línuveginum á gamla Suðurlandsveginn austar. Svo liggur línuvegurinn framaf hrauninu og erum við þá komin á enda hans (GPS N64 02 957 W21 24 535). Á vinstri hönd er Húsmúlinn, en nær sést tóft sæluhússins sem Húsmúlinn á að draga nafn sitt af. Vestan við tætturnar er Draugatjörn. Grjótgarðar hafa verið hlaðnir í kring um tjörnina, en lítil rétt er í hraunjaðrinum. Þar vestur af eru vörður sem vísa veg um Bolavelli á Dyraveg, og á Mosfellsheiði. Í austur sést Hengillinn ofan við Húsmúlann. Þar austur af er Sleggjubeinsdalur, Skarðsmýrarfjall, og síðan Hellisskarð á milli Skarðsmýrarfjalls og Stóra Reykjafells. Vestanundir Hellisskarði stóð gistihúsið Kolviðarhóll. Gamla þjóðleiðin um Hellisheiði lá um skarðið, og þar upp sjáum við raflínurnar hverfa. Vegalengd um 16 kílómetrar frá Suðurlandsvegi.

Suðurlandsvegur – Jósefsdalur.

Ólafsskarð

Vegur um Ólafsskarð.

Ekið er af Suðurlandsvegi á móti Litlu Kaffistofunni (GPS N64 03 467 W 21 30 882), eftir gamla Suðurlandsveginum þar til komið er að afleggjara til vinstri (GPS N64 03 391 W21 30 886). Leiðin liggur nú í átt að Blákolli og Sauðadalahnjúkum, en sveigir síðan upp í skarð á milli Sauðadalahnjúka og Vífilsfells. Úr skarðin er oft gengið á Vífilsfell. Svo opnast útsýni inn í dalinn og fjöllin sem umliggja hann, Sauðdalahnjúkar til austurs, síðan Ólafsskarðshnjúkar, en Vífilsfell að vestan. Í Jósefsdal er oft mikill snjór að vetrum. Var þar byggður skíðaskáli árið 1936 af skíðadeild Ármanns. Skálinn var svo rifinn upp úr 1970 eftir að Ármenningar færðu sig í Bláfjöllin. Þjóðsaga er um nafn dalsins, og er hún um Jósef sem bjó í dalnum. Bær hans á að hafa sokið í jörð vegna þess hve hann blótaði óskaplega. Aka verður sömu leið til baka.

Suðurlandsvegur – Leiti.
Ekið er eftir Suðurlandsvegi framhjá Litlu Kaffistofunni, áfram upp Draugahlíðabrekkuna (sem er brekkan fyrir ofan Litlu Kaffistofuna), uns komið er á móts við nokkuð háan hnjúk á hægri hönd sem heitir Blákollur.. (GPS N64 02 655 W21 27 874) Ekið er frá þjóðveginum í suður að norðausturhorni Blákolls og austan með hlíðum hans í suður. Í austur sjáum við Lambafellshnjúk og Lambafell. Sunnar og nær í hrauninu er gígur, Nyrðri Eldborg.(GPS N64 01 468 W21 29 825) Þaðan er Kristnitökuhraun talið hafa runnið árið 1000. Það hefur verið tekið efni úr henni og er svöðusár eftir. Slóði liggur héðan að Eldborg (GPS N64 02 020 W21 29 100), en austan við hann er hrauntröð. Við höldum okkur við hlíðina og eftir að Blákoll sleppir, höfum við Sauðadalahnjúka okkur á hægri hönd.

Ólafsskarð

Ólafsskarð.

Þegar þeim sleppir erum við komin að Ólafsskarði, kennt við Ólaf bryta í Skálholti sem sögur eru til um. Hér liggur gömul þjóðleið upp úr Jósefsdal, nefnd Ólafsskarðsvegur og við fylgjum honum nokkurn veginn fyrst um sinn. Hér er skáli (kallaður Skæruliðaskálinn). Áfram höldum við og höfum nú Ólafsskarðshnjúka á hægri hönd. Þegar þeim sleppir, förum við með austurhlíðum Bláfjalla, og komum að þar sem er eins og svolítið horn út frá fjöllunum. Þetta er eldgígur sem heitir Leiti og er Leitahraun þaðan runnið. Það er talið hafa runnið niður í Elliðavog í Reykjavík. Skammt austar í hrauninu er annar gígur, Syðri Eldborg, óspjölluð og fögur. Í suðri er stakt fell nærri Bláfjöllum, sem heitir Fjallið Eina. Svolítið austar er Rauðhóll og þar suðuraf er stórt fjall sem heitir Geitafell en austar er Sandfell út við Þrengslaveg. Hér endar slóðinn og verður að fara sömu leið til baka.

Suðurlandsvegur – Milli Hrauns og Hlíða.

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni.

Ekið er af Suðurlandsvegi, veg til norðurs skammt fyrir ofan Skíðaskálann í Hveradölum (GPS N64 01 128 W21 22 866). Einnig er hægt að fara inn afleggjaran á Skíðaskálanum í Hveradölum og áfram inná gamla veginn upp með Stóra Reykjafelli í austur að fyrnefndum vegi. Síðan er ekið á gamla Hellisheiðarveginum austur með ás sem gengur austur frá Stóra Reykjafelli. Hér er svokölluð Flengingarbrekka. Þegar komið er austur fyrir ásinn er beygt inn á slóða í norður og farið upp brekkur. Þegar upp er komið er sveigt í vestur inn fyrir gíghóla sem mikið efni hefur verið tekið úr. Síðan er sveigt til norðurs og farið þvert fyrir Hellisskarð að Skarðsmýrarfjalli. Síðan er ekið með hlíðum Skarðsmýrarfjalls í austurátt. Ekið er framhjá nokkrum skíðaskálum. Leið þessi er kölluð vegurinn milli hrauns og hlíða. Brátt er komið að hálsi sem gengur austur úr hlíðinni og skiptast þar leiðir.
Innstidalur: Til vinstri er farið ef fara á í Innstadal. Er þá farið inn með hlíðinni fyrir ofan svokölluð Þrengsli í Miðdal. Tveir skálar eru hér, báðir læstir og í einkaeigu. Jarðhiti er í dalnum og fyrir ofan innri skálann er einn öflugasti gufuhver landsins. Við hann hafa menn baðað sig í volgum læk. Varasamt er að ferðast um hverasvæði þegar snjór er yfir, því hitinn hefur brætt stórar hvelfingar í snjóinn, þó ekki sjáist það á yfirborðinu og skænið ber jafnvel ekki gangandi mann. Dalurinn er alveg afluktur nema þar sem við ókum inn í hann, en þó er annað skarð suðvestur ur honum sem heitir Sleggjubeinsskarð. Hægt er að aka fram í skarðið og er þaðan mikið útsýni á björtum degi. Mjög bratt er niður úr skarðinu og ekki fært nema gangandi manni. Aka verður sömu leið úr dalnum til baka.
Að Hengladalsá: Ef haldið er áfram frá þeim stað sem leiðir skiptust er ekin slóði á milli Hengilsins og Litla Skarðsmýrarfjalls, um Fremstadal að Hengladalsá. Hægt er að fara niður með ánni að slóða sem hefur verið ruddur í gegnum hraun sem Orustuhólshraun nefnist. Áður en komið er að slóðanum í hrauninu er farið undir rafmagnslínu. Þegar út úr hrauninu er komið, er komið að Suðurlandsvegi skammt fyrir ofan Kamba.

Reykjadalur

Reykjadalur – Klambragil.

Að Klömbrugili og Ölkelduhálsi: Ef farið er beint yfir Hengladalsá er ekinn ógreinilegur og grýttur slóði upp nokkkuð bratta en stutta brekku,sem heitir Svínahlíð. Er upp er komið erum við á lágri heiði sem heitir Bitra. Framundan er rafmagnslínan sem áður er getið. Ef farið er beint áfram undir línuna er komið að efstu drögum Reykjadals. Gil gengur þar í norðvesturátt sem heitir Klömbrugil. Greinileg gata er á einstigi niður í gilið. Mikill jarðhiti er í gilinu og Reykjadalnum. Reykjadalsá er hér volg og baðar fólk sig stundum í henni. Skáli er efst í Reykjadal ætlaður göngufólki, og eru hér merktar gönguleiðir um Grafningsfjöll. Ef farið er norður veg með rafmagnslínunni í átt að Ölkelduhálsi er komið að lokunum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur sett á veginn sem er með línunni. Mikill jarðhiti er í Ölkelduhálsi, og þar um kring er hættulegt svæði þegar snjór er á jörðu. Til baka er hægt að aka línuveginn og stefna síðan yfir Hengladalsá á móts við slóðann í hrauninu.

Suðurlandsvegur – Grafningsháls.

Grafningsháls

Grafningsháls.

Ekið er af Suðurlandsvegi við bæinn Gljúfurholt í Ölfusi í norður. Þegar komið er innundir fjöllin er Sogn á vinstri hönd, síðan er farið yfir Gljúfurá framhjá bænum Gljúfri. Svo liggur vegurinn uppá mel innundir krikanum við Ingólfsfjall. Hér er beygt til norðurs upp melinn í gegnum hlið á girðingu hjá raflínu sem kemur norðan af Grafningshálsi. Slóðin liggur upp melinn á milli tveggja áa Hvammsá austan við og Æðargil að vestan. Slóðin svegir síðan niður að Æðargilinu og eftir því um Djúpgrafning á Grafningsháls (Einnig er hægt að fara með raflínunni um Kallbak)og erum við þá á vatnaskilum. Síðan liggur leiðin niður að norðan verðu á veg við bæinn Stóra-Háls í Grafningi. Vegalengd 7-8 kílómetrar frá vegi við hliðið og á veg í Grafningi.

Þorlákshöfn – Nes í Selvogi.

Nessel

Nessel.

Ekið er í gegnum þorpið í Þorlákshöfn, eftir aðalgötunni Óseyrarbraut til enda. Síðan beygt til vinstri inn á Egilsbraut og til vinstri eftir Hafnarbergi, framhjá sundlauginni að fiskeldisstöð sem stendur niður við sjóinn. Ekið er þar um hlað inn á slóða sem liggur vestur með ströndinni. (Skammt ofan við fiskeldið er upphleyptur vegur sem ætla mætti að væri upphaf að slóðanum en svo er ekki). Slóðinn verður ógreinilegri eftir því sem vestar er haldið og sumstaðar er rétt að stoppa og skoða framhaldið til að gera ekki marga slóða. Slóðinn liggur mjög nálægt sjónum á nokkuð grónu landi. Örnefni eru nokkur. Keflavík austast, Háaleiti, Viðarhellir við Bjarnarvík, Strákahæðir. Slóðinn verður greinilegri eftir að vestar dregur að Nesvita. Síðan liggur leiðin um land Ness og þaðan upp á Krísuvíkurveg. Veglengd um 20 kílómetrar.

Þrengslavegur – inn með Litla-Meitli að Eldborg.

Eldborg

Eldborg í Þrengslum.

Ekið er af Þrengslavegi í austur við suðurhorn Litla-Meitils (GPS N63 57 721 W21 27 046) í gegn um dálítitlar malarnámur, og síðan milli hrauns og hlíða. Eftir að hafa ekið dálítinn spotta komum við að trjáreit. Hér girti og plantaði Einar Ólafsson sem lengi vann í Rafgeymaþjónustunni Pólum, barrtrjám og Birki. Girðingaefni og plöntur bar hann á sjálfum sér frá þjóðveginum því engan bíl átti hann. Við ökum nú í norð-austur inn með hlíðinni og komum á töluvert víðáttumiklar grassléttur. Síðan liggur slóðinn austur fyrir Litla-Meitil og við blasir Eldborg og ástæða slóðans. Hér eru efnisnámur en langt virðist vera síðan þær voru í notkun. Menn hafa verið að aka á Eldborgina og er slóði þar upp. Æskilegra væri að menn gengju þar upp og virtu fyrir sér útsýnið. Í vestur sést Litli-Meitill þar norðanvið er Stóri-Meitill síðan er Lágskarð. Austan við Lágskarðið er Stóra-Sandfell. Sunnan við það er Sanddalur og Sanddalahlíðar og loks Langahlíð. Forn þjóðleið, Lágskarðsleið, var upp með Lönguhlíð norður um Lágskarð í átt að Kolviðarhól og fer Suðurlandsvegur yfir götuna neðst í Hveradalabrekkunni. Aka verður sömu leið til baka. Vegalengd 3-4 kílómetrar.

Gamli vegurinn yfir Hellisheiði – Núpafjall.

Þrengsli

Í Þrengslum.

Ekið er af veginum yfir Hellisheiði til suðurs skömmu eftir að komið er upp fyrir Hveradalabrekkuna (Skíðaskálabrekkuna) (GPS N64 01 113 W21 21 603) inná gamla veginn yfir Hellsheiði við Smiðjulaut. Síðan er ekið eftir honum rúma 5 kílómetra þar til komið er að vegamótum. Er þá tekinn vegurinn til hægri stuttan spöl. Það er líklega eldri vegur, yfir Hellisheiði sem lá suður fyrir Urðarás (Hurðarás?).Síðan er beygt inn á veg frá stríðsárunum. Sem liggur til hægri upp á lágt fjall sem heitir Núpafjall (GPS N64 00 385 W21 15 150). Núpafjall stendur á hálendisbrúninni fyrir ofan Ölfusið 313 metra yfir sjávarmáli, en rís einungis um 50 metra yfir heiðina og er því mun myndarlegra austan frá séð og mikill útsýnisstaður. Fljótlega er komið að vegamótum. Liggur vegur til hægri en rofnar fljótlega og er þar alveg ófært. Vegur þessi lá vestur af fjallinu, niður í dalkvos. Sjást þar leifar af mörgum byggingum. Þarna var herkampur á stríðsárunum. Hermennirnir höfðu eftirlit með veginum yfir Hellisheiði en á fjallinu voru loftvarnabyssur til að verja flugvöllinn í Kaldaðarnesi. Ef haldið er áfram veginn suður fjallið, endar hann í grösugri kvos sunnan undir því, en hjólför liggja fram á brúnir í grónu hrauni. Aka verður sömu leið til baka af Núpafjalli, en síðan er hægt að aka gamla veginn um Kamba. Ef menn kæra sig ekki um það, er hægt að fara inn á veginn sem liggur um Urðarhálsinn og er þá afleggjari í norður (GPS N64 00 461 W21 15 304) sem endar hann á malbikaða veginum um Hellisheiði (GPS N64 00 774 W21 15 377).

Gamli Þingvallavegurinn á Mosfellsheiði 1890 – 1930.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Ekið er austur Suðurlandsveg frá Reykjavík og beygt til norðurs hjá Geithálsi og sem leið liggur áfram hjá vegvísi Hafravatnsvegar á vinstri hönd og upp brekkur með Krókatjörn á vinstri hönd. Þegar komið er uppá heiðarbrúnina er afleggjari á vinstri hönd og skilti þar sem á stendur Reiðvegur og annað skilti sem sýnir að vegurinn er botnlangi (GPS N64 06 460 W21 37 016). Svo er þó ekki því hér er um gamla Þingvallaveginn að ræða, skemmtilega leið en grýtta og torfarna.
Vegurinn var lagður á árunum 1890 – 1896, í upphafi sem reið- og hestvagnavegur en síðar sem bílvegur, eða allt frá 1913 til 1930. Þá var nýr Þingvallavegur lagður upp úr Mosfellsdal. Þá var hætt að halda gamla veginum við, sem er mikil synd, því þetta er mjög víðsýn og falleg leið. Þessi gamla leið til Þingvalla er greiðfær til að byrja með enda allnokkuð ekinn af sumarbústaðaeigendum og liggja afleggjarar því víða af honum.
Við ökum með brúnum Seljadals og sjáum hinum megin dalsins, þ.e. norðan við hann, fellabálk mikinn sem heitir ýmsum nöfnum Austasti hluti hans og sá hæsti heitir Grímannsfell. Svo komum við að hliði (GPS N64 06 976 W21 34 694) á girðingu. Þetta er girðing í kringum höfuðborgarsvæðið og verður að passa vel að loka því á eftir sér. Nú fer vegurinn að versna, verður grýttur og varla fær nema breyttum jeppum. Fallegar vörður hafa verið hlaðnar með veginum og vatnsræsi hlaðin úr hellugrjóti og þarf að krækja fyrir þau. Steinar með kílómetratölum standa við veginn með fimm kílómetra millibili. Við veginn stóð veitingahús í eina tíð og sæluhús nokkru norðar á heiðinni. Þegar norðar dregur komum við að raflínu. Nú batnar vegurinn á ný enda þjónar hann hér eftir sem línuvegur.

Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Svo komum við að árfarvegi og er brú (GPS N64 08 963 W21 34 694) á honum með steinstólpum á öllum hornum. Brúargólfið hefur verið endurnýjað því brúin er hluti línuvegarins.
Þar sem vegurinn liggur hæst um heiðina, um 300 metra hæð yfir sjávarmáli, er Grímannsfell vestan við okkur og Borgarhólar austan vegar og liggur þangað ógreinileg slóð frá veginum. Borgarhólar er leifar gíga, sem Mosfellsheiðin er upprunnin úr og eru þeir hæsti hluti heiðarinnar. Hæst er Borg, 410 metra yfir sjávarmáli. Sjálfsagt er að ganga á Borgarhóla og njóta útsýnisins og er gott að hafa landakort meðferðis. Við snúum til baka út á veginn og erum stödd á Háamel. Nú fer heiðinni að halla norður af og er hér gott úsýni. Athygli vekur hve vegurinn er beinn, varla hlykkur á nema þar sem nauðsyn ber til.

Þingvallavegurinn gamli

Sæluhúsatóft við gamla Þingvallaveginn.

Reykjanesviti

Gengið var frá vitanum á Vatnsfelli á Reykjanesi, með ströndinni og yfir að Litlavita á Skarfasetri, austar á bjarginu, nokkru austan Valahnúks. Vitinn á Vatnsfelli, sem margir telja að heiti Bæjarfell, var tekinn í notkun árið 1908. Nafnið á fellinu er tilkomið vegna lítilla tjarna norðan við hæðina. Vitavarðahúsið stóð hins vegar upp af Bæjarfelli, utan í Vatnsfellinu, þar sem það stendur enn.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – gata að gamla Reykjanesvita á Valahnúk.

Genginn var gamall flóraður stígur, sem er nokkuð greinilegur og liggur frá Bæjarfelli að Valahnúk. Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans. Gamli vitinn á Valahnúk var fyrsti ljósvitinn á Íslandi og reistur árið 1878. Hann var ekki mjög lengi í notkun því árið 1887 urðu miklir jarðskjálftar á þessu svæði og hrundi þá mikið úr fjallinu og óttaðist fólk að vitinn hyrfi í hafið. Því var hætt að nota hann og vitinn á Vatnsfelli byggður.

Uppi á Valahnúk má enn sjá hleðslu úr grunninum af gamla vitanum (undir fjallinu liggja brotin úr gamla vitanum og bíða þess að verða raðað upp á ný). Fara þarf varlega þegar upp er komið, því brúnirnar eru mjög sprungnar og lausar undir fæti. Þaðan er víðsýnt til allra átta.
Í fjarska trjónir Eldey, 77 metra hár þverhníptur klettastapi. Þar er ein stærsta súlubyggð sem þekkist í heiminum (talning 1949) og þar er talið að geirfuglar hafi verpt fyrrum. Eldey var friðlýst árið 1974. Nú er hún sennilega önnur eða þriðja stærsta súlubyggð í heimi.
Karlinn, virðulegur klettadrangur, stendur rétt utan við ströndina, hann er hluti af gömlum gígbarmi, líkt og Eldey, en Kerlingin, sem var þarna skammt vestar, er nú komin undir sjó. Bæði Karlinn og Kerlingin eru leifar gíga úr sitt hvorri Stampagosgígaröðinni, en þær eru fjórar talsins frá mismunandi tímum. Raðirnar eru dæmigerðar fyrir gígaraðirnar á Reykjaneshryggnum (blunda í 1000 ár en eru jafnan virkar í Önnur 300).
Þegar gengið er niður af Valahnúk er gengið með ströndinni til suðurs meðfram Valahnúkamöl sem er mjög sérstakur sjávarkambur með stóru sæbörðu grjóti. Árið 1950 strandaði breska olíuskipið Clam við Reykjanes og rak upp í Valahnúkamöl, þá drukknuðu 27 menn en 23 var bjargað með fluglínu.

Draugshellir

Draugshellir í Valahnúk.

Uppi á austanverðum Valahnúk er Draugsskúti, en tvennar frásagnir eru til af draugagangi þar er menn ætluðu að gista í honum. Kvað svo rammt af draugagangnum að lá við sturlun þeim er hlut áttu að máli. Um þetta eru skráðar sagnir í Rauðskinnu.
Nafnið má ætla að sé dregið af valabjörgum, en það var áður haft um Valahnúka. Valahnúkamöl lokar dalnum að vestan en Valabjargargjá að austan. Stórgrýttur sjávarkamburinn hindrar að úthafsaldan nái inn í dalinn, en sjór egngur þó langt á land eftri sprungum í hraununum. Þar kemur hann inn á jarðhitasvæði og hitnar. Það gerði möguleika laugarinnar, sem síðar verður minnst á, að veruleika.
Frá Valahnúkamöl er gengið með ströndinni til suðurs, á þeirri leið er gaman að virða fyrir sér þær hraunmyndanir sem ber fyrir augu og gera sér í hugarlund hvers konar ógnaröfl hafa verið þar að verki. Gengið er fram hjá fjölbreyttum básum þar sem brimið ólgar og svellur, sérstaklega er það tilkomumikið í þröngum bás, Blásíðubás, rétt áður en komið er að vitanum. Inn í hann eru nokkur dæmi um að sjófarendur hafi ratað lífsróður í sjávarháska.
Stefnan er tekin á litla vitann á Skarfasetri, hann var byggður sem aukaviti árið 1909 og endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Ástæðan fyrir byggingu hans var að nýji vitinn á Bæjarfelli hvarf á bak við Skálafell þegar siglt var frá suðaustri. Hann kom því ekki að notum fyrir skip sem komu að austan. Einnig liggur oft þoka yfir Bæjarfelli þannig að Reykjanesviti sést ekki. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

ReykjanesvitiUndir berginu skammt austan við vitann er fallegur gatklettur.
Þegar gengið er til baka er gott að ganga upp með Skálafelli og líta ofan í Skálabarnshelli eða bara ganga sömu leið til baka.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaug.

Þegar komið er að Valahnúkamöl er gott að taka stefnuna yfir túnið að Bæjarfelli. Á þeirri leið má finna litla tjörn/gjá, sem er að mestu náttúrusmíð, og er örlítið hlýrri en sjórinn. Sést móta fyrir hleðslum bæði við gjána og einnig ofan í henni líkt og hlaðnir hafi verið veggir og tröppur niður í hana. Í þessari tjörn fengu börn úr Grindavík tilsögn í sundi um og eftir 1930. Þaðan er stutt upp á veg og þar með hringnum lokað.
Undir Bæjarfelli eru tóftir útihúsa frá bæ gamla vitavarðarins sem og hlaðinn brunnur, er gerður var á sama tíma og vitinn á Valahnúk 1878. Umhverfis eru hlaðnir garðar frá búskap vitavarða, en vestan við Valahnúk má enn sjá hlaðinn veg upp úr fjörunni, en eftir honum var grjóti í elsta vitann og íbúðarhúsið ekið úr hraunhellunni, sem þar er.
Meira um nágrenni Reykjanesvita HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.

Reykjanes

Reykjanesviti – hliðarstólpar.

 

Reykjanes

Í Ægi árið 1926 er fjallað um Reykjanes.
„Ferðir fara nú að verða tíðar til Reykjaness og þegar farnar að birtast skemtilegar ferðasögur um leiðina og landslag. Reykjanes-221Vænta má, að framvegis verði ferðir þangað tíðar, að sumarlagi og þeir sem vilja taka eftir ýmsu, sem þar er að sjá, gefst kostur á að bera saman hvernig umhorfs er nú og fyrir 66 árum og geta þar af dregið hvort rétt sé ályktað, að Suðurland sé að sökkva í sjó.. Þegar farið er framhjá Vatnsleysu liggur vegurinn yfir jarðsprungu, sem nær þar ofan að sjó og yfir þveran Reykjanesskagann; er það Hrafnagjá sem víðkar eftir því, sem suðureftir dregur og er agaleg á köflum t. d. upp af Vogum.
Í ritinu „Blanda“ (2. árg. 1. h.) er lýsing á Höfnum samin af Brandi hreppstjóra Guðmundssyni, eftir beiðni sóknarprestsins Sigurðar B. Sívertsens á Útskálum, er það sóknarlýsing Kirkjuvogssóknar árið 1840. Brandur var fæddur árið 1771 og andaðist í Kirkjuvogi 16. júní 1845. Hann var talinn einn hinn besti skipasmiður í sinni tíð og fljótvirkur. Á 40 árum smíðaði hann 40 stór skip og 100 smærri. Hann var lengi hreppstjóri í Hafnahreppi og mjög vel látinn.

Reykjanes-222

Lýsingin byrjar á Höfnum og er of löng til að taka hana upp í „Ægir“; verður því byrjað á Kalmannstjörn óg þaðan farið vestur eftir, og tekið upp úr „Blöndu“ eins og lýsing Brands heitins hreppstjóra er framsett þar, skulu menn muna, að hún er frá árinu 1840: „Bæjarleið sunnar með ströndinni [en Merkines] er Kalmanstjörn (Kalimanstjörn, hdr.) 20 hndr. jörð með Junkaragerði, sem 1/2 partur úr nefndri jörðu, og er skammt bil milli túna. Tún eru þar stórskemdum undirorpin af sandfoki og sjávarbroti á Gerðið; þó hafa menn þar optast haft 4 kýr, því melaslægjur eru þar, en tún mikið þverbrestasamt. Spölkorn sunnar er eyðijörðin Kirkjuhöfn („Hefur óbygð legið um 40 ár“. Jarðab. AM. 1703). Hún mun hafa lagzt í eyði vegna sandfoks; þar var kirkja áður en í Kirkjuvogi. Á milli þessa og Kalmanstjarnar eru girðingar nokkrar líkast til sem eptirstöðvar af húsagrundvelli, hver í orði er, að þýzkir, þá höndluðu hér við land, er á tali, að hafi átt, en höfnin þá verið Kirkjuhöfn. Þar er gott sund í öllum sunnanáttum, en lending verri.
Sunnar er Sandhöfn, eyðijörð, aflögð vegna sandfoks („Hefur óbygð legið hér um 50 ár“, segir í Jarðab. AM. 1703.) því ekkert sést eptir, utan lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið.
Reykjanes-223Sunnar er Eyrin innan Hafnabergs. Þar var bær og útræði seinast fyrir rúmum 50 árum; er þetta í vík nokkru (fyrir) sunnan Kalmanstjörn. Skammt sunnar byrjar Hafnabergs nyrðri endi, og er þar fyrnefnd Klauf, klettar með gjá í millum; bergið er um hálfa viku sjávar á lengd, rúmir 20 faðmar þar hæst er, ógengt, en sigið í það og stöku sinnum lent við það að neðan; þar er svartfugl, lítið af súlu, eggvarp og fuglatekja nokkur, sem heyrir til Kalmanstjörn. Fyrir sunnan bergið eru sandar og hraungrýti; kallast það Lendingarmalir (líklega réttara: melar, sbr. skýrslu Þorkels hér á undan.), og er þar lent þá verður brims vegna i norðan- og austanátt, þá menn sökum storma ekki geta dregið inn fyrir bergið.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint er forn eyðijörð, enda er í tali, að allt Reykjanes hafi fyrrum byggt verið. Sunnar er Stóra Sandvík og er í mæli, að Kaldá skyldi hafa fallið þar í sjóinn, og liggur þar gjá líka vatnsfarvegs afarstórs, en það getur upp undan og inn til fjalla, sem myndar líka svo hafa myndazt af eldrennsli, því allt Reykjanes er af eldi einhverntíma gersamlega brunnið (á aukablaði getur höf. nánar um gjá þessa, er hannn kallar Haugsvörðugjá, er sé þar stærst gjáa að lengd og breidd, og sumstaðar með hömrum beggja vegna; muni víða vera um 100 faðma breidd og sumstaðar miklu meiri; sé sagt, að Kaldá, er þar eigi að hafa runnið, hafi hlaupið í jörð í jarðeldum, en vatn sé ofarlega í Sandvík, þar sem Kaldá hafi átt að renna í sjó fram, en hvort það vatn síist frá sjónum gegnum sandkampinn, segist höf. ekki vita.). Sunnar er Litla-Sandvík, þá klettabelti með litlum grasteigingum og blöðkuhnubbum, þá Kistuberg, lítið berg, nytjalaust; síðan Kinnin, berg nokkurt gróðurlaust, síðan Aunglabrjótur, nef syðst á nesinu það vestur veit, beygist það svo til suður landsuðurs. Stendur þar Karl, klettur mikill í sjó fyrir nesinu um 50—60 faðma hár, er var þó hærri fyr, því í jarðskjálfta féll ofan af honum hetta mikil í þeirra manna minni, er nú lifa; upp undan honum á landi er bergsnös, kallast Kerling, og eru þau brúkuð fyrir mið í Reykjanessröst og víðar m. fl. Sunnar eru: Valahnúkar, bergsnös há, Valahnúkamöl og Skarfasetur syðst; beygist þá nesið til austur landnorðurs, því stór vik skerst þar inn í og má því kallast hálfeyja.
Framundan Skarfasetri á sjó eru 2 klettar, sem varast þarf, þá fyrir það er lagt, og boði einn; er þar sem optast iðukast og óhreinn sjór. Á nesinu eru Reykjanes-224jarðhitar og hverir, stórir hólar eða lítil fjöll, sandöldur, ægisandur og hraun; sumstaðar sjást grasteigingar, blöðkuhnubbar, lyng, einiangar hér og hvar og grófasta brunahraun. Frá Kirkjuvogi til syðsta tanga þess mun vera um 2 1/2 míla vegar, en frá Kalmanstjörn til Grindavíkur 2 mílur og er það þjóðvegur, liggur til landssuðurs. Annar vegur liggur frá Höfnum til kauptúnsins Keflavíkur í norður nær 1 1/2 míla langur.

Fiskafli er þar helzti bjargræðisstofn manna; sjómenn eru þar í betra meðallagi og sjósókn, langræði mikið, en optast með landi suður. Fiskur gengur á öllum árstímum, helzt með stórstraum; menn hafa tekið eptir, að austangöngur með sílhlaupum koma helzt með góu og þeim straumnum, líka stundum síðar; vestangöngur, sem eru sjaldgæfar fyrri, lenda einkum í röst; þorskur ýsa keila, þyrslingur, skata, karfi, langa eru þær fiskitegundir, er veiðast á færi og öngla, líka hákarl nokkuð við andþóf og stundum stjóra. — Sundið i Kirkjuvogi er þrautgott, en langt og ógurlegt í brimum, snúningar eru á því lakari og lending háskasöm; eru þar blindsker fyrir sunnan sundið spottakorn.
Reykjanes-225Í Merkinesi er lakara sund, en lending um flóð betri. Bæði liggja sund þessi til austurs í land til þess við er snúið og haldið í suður. Sundið á Kalmanstjörn liggur í sömu átt, er stutt, þröngt og slæmt í brimum, en beint. Útsker er fyrir innan nyrðri enda bergsins og skammt frá landi, sést á það með hálfföllnum sjó; það heitir Eyrarsker. Önnur útsker eru ekki með Reykjanesi Hafnamegin.
En Eldey er klettur stór í hafinu í vestur frá Reykjanesi um 3 vikur sjávar; það er mestpartinn hengiberg með fáum hillum; að austan má lenda við klöpp í ládeyðu, og er þvert niður með henni 9 faðma djúp. Skerjahryggur með 2 ósum inn í liggur hálfhring til útnorðurs og vesturs frá nefndri klöpp; tvö sker eru í boga þessum, hann kemur upp með hálfföllum sjó. Klöppin er um 3 eða 4 ljábrýnur að stærð eða 80 ferskeytta faðma. Klettur þessi, það til lands veit, mun vera að ágizkan vel svo 100 faðma langur, um 40 að norðan, en á sjósíðuna (nefnil. vestan) 80—90 faðma og suðurhornið 15—20 faðmar, hæðin eptir ágizkun 90—100 faðma mest, móberg með blágrýti neðst, öllum mönnum ógengt. Slý er mikið á klöppinni og því hættulegt upp að komast, sem er um 2 faðma hæð um fjöru, og er þá skárst að lenda. Súgur er þar mikill og iðukast. Fugl er mikill á nefndri klöpp og á einni hillu stórri uppundan, sem ekki verður upp á komizt, súla mest uppá eynni.

Reykjanes-226

Maður, sem þangað hefur farið nokkur vor, segist hafa náð þar mest 10 í hlut af svartfugli, 2 og 3 súlu, — 24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést — og 100 í hlut af eggjum. Litið er þar af sel, en afarstyggur. Skammt frá Eldey er klettur í útsuður, kallaður Eyjadrangi (mun vera það sem nú ka]last Eldeyjardrangur), sem hvergi verður upp á komizt, enda er hann gæðalaus. Geirfuglasker er í vestur í hafinu undan Eldey. Sagt er, að menn hafi gert þangað ferðir fyrir og eptir slátt á sumri, sem þá lukkaðist, hafi mannshlutur orðið fullt svo mikill sem fullkomins manns sumarkaup úr Norðurlandi. Skrifað finnst, að skip hafi farizt þar (Sumarið 1639 fórust með allri áhöfn 2 skip af 4, er til Geirfuglaskers fóru til aflafanga af Suðurnesjum (sbr. Skarðsárannál) í suður frá skerinu er klettur, sem kallast Skerdrangi, en í vestur frá því eða til útnorðurs hefur brunnið í hafinu fyrir fáum árum. Í mæli er, að 12 vikur sjávar séu úr Höfnum í skerið, en 6 til Eldeyjar.
Reykjanes-227Í Höfnum er rigninga- og snjóasamt frá austurs— landssuðurs og sunnanáttum og stormasamast, líka bitur kuldi; norðanveður eru vægari að tiltölu, útnyrðingar hættusamastir sjófarendum, útsynningar ganga miklir um jólaaðventu og á útmánuðum, skruggur stundum, en ekki orðið skaði af, hrævareldar og ýmsar loptsjónir orðið vart við. Flestar grasategundir munu þar á heiðinni og hraununum, líka nærri sjó. Engin eru þar rennandi vötn og ekki fjöll það heifa megi. Trjáreki á Kalmanstjarna rekaplássi, sem er stórtré opt, allarðsamur til húsabóta, engir skógar. Ekki hefur hval rekið i Höfnum yfir 60 ár; engir skógar, engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.

Athugagrein.
Af 60 ára reynslu er aðgætt, að flóð hafi orðið mest um og eptir veturnætur, veður mest um jól fram eftir miðjan vetur af land og hafsuðri til útsuðurs, en vestan- og útnorðanáttir hafa verið skæðastar sjófarendum í Höfnum.
Klettur er framan Hafnaberg, laus við land, má fara milli hans og þess, stendur optast upp úr um flóð, og því ekki sérlega hættulegur. Víða eru boðar með landi, en ekki sérleg rif eða útgrynni. Röstin fyrir Reykjanesi liggur til vesturs frá nesinu til Eldeyjar; hálfa viku sjávar frá því er svo mikið misdýpi, að á skipslengd er 14 og líka 40 faðma djúp, og er það hraunhryggur þverhníptur að norðan, en flatur suður af.

Reykjanes-228

Viku sjávar frá landi verður sandalda um 50 faðma djúp, en botnast ekki þá norður eða suður af ber; sandalda þessi breikkar því meira sem fram eptir dregur og ætla menn hún nái framt að Eldey. Skammt frá henni, hér um bil 80 faðma, er 40 faðma djúp landsmegin, en grynnra að vestan. Opt er straumur svo mikill í röstinni, þó veður sé gott, að ekki gengur á fallið, þótt siglt sé og róið af mesta kappi. Aðfall er þar venjulega meira en útfall; stundum ber til, að þar [er] ekki skiplægur sjór, þó annarsstaðar sé ládeyða. Vestan- og sunnanáttir eru þar beztar, þá hægar eru, en austanáttir hættulegastar, því að sækja er á einn landsodda í austur, en haf á allar síður, en straumar opt óviðráðanlegir. Ekki hefur þar skip farizt svo menn viti (þ. e. í Reykjanesröst), en erfitt er að sækja þangað; mörg hefur þaðan máltíð fengizt; það er um 4 vikna sjóarlengd þangað frá Kirkjuvogi.
Þetta er þá sú upplýsing, er er get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega vel að virða, en skyldi þar þurfa nokkru við að bæta, vildi eg að því leyti geta sýnt viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.“

Heimild:
-Ægir, 19. árg. 1926, bls. 182-187.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Ferlir

Í Morgunblaðið árið 2008 er fróðleg grein undir fyrirsögninni „Í fótspor fjár og feðra„.

Lögreglumennirnir og -konurnar eru ekki á slóðum afbrotamanna, heldur forfeðranna þegar þau ganga á Reykjanesinu. Þar njóta þau líka útiverunnar, lesa í minjar lífs- og atvinnuhátta og kynnast kostum landsins frá nýju sjónarhorni.
Hallgrímur Helgi Helgason fór um Reykjanesskagann með göngugarpnum Ómari Smára Ármannssyni og Gönguhópnum Ferli.

Ferlir

Hraun, mosi og kargaþýfi Þegar gengið er utan troðninga liggur leiðin yfir hraun, mosa og kargaþýfi. Í hópnum voru að þessu sinni Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson, Jón Svanþórsson, Jóhanna Sveinsdóttir, Birgir Bjarnason og Eyþór Borgþórsson, auk blaðamanns. (Ljósm. Júlíus)

Gönguhópurinn Ferlir var stofnaður 1999 fyrir ferðahóp rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík, en síðan hafa margir slegist í hópinn. Reykjanesskaginn varð snemma fyrir valinu, bæði vegna nálægðar og þess að þorri fólks er þar ókunnugur. Þótt mörgum finnist svæðið bert og ófýsilegt, er reynsla hópsins sú að Reykjanesið sé einkar gjöfult og fjölbreytilegt til útivistar. Hópurinn hefur farið rúmlega 1.200 gönguferðir um skagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Selvogsgata

Selvogsgatan á Hellunum. Helgafell fjær.

Göngufólk hefur safnað þar kynstrum af efni, ekki síst um fornar götur sem liggja þar þvers og kruss og vitna um lífshætti og kjör fyrr á öldum, fornar byggðir og umferð sem þeim fylgdi. Slóðirnar sjást þó misvel í úfnu landslaginu; sumar eru löngu grónar en aðrar hafa lent undir hrauni eða síðari tíma framkvæmdum og raski.
Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, hefur verið í gönguhópnum Ferli frá upphafi. Hann segir að þeim sem gangi um fornar götur Reykjaness opnist einkar rík saga allt aftur til landnáms – og jafnvel lengur.

Listin að lesa veg

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

„Götur hafa myndast hér frá fyrstu tíð manna og búfénaðar og er oft erfitt að greina á milli, hvaða götur voru notaðar af hverjum, hvenær og í hvaða tilgangi. Sumar göturnar eru nú horfnar, en aðrar hafa verið endurheimtar. Á seinni tímum hefur gróður náð að hylja slóðirnar eða gróðureyðing hefur afmáð þær, jarðvegur hefur færst til, skriður og snjóflóð hlaupið, ár og lækir breytt farvegi sínum, vatn runnið í þeim og breytt, eldgosaaska hulið þær og hraun runnið yfir þær. Dæmi eru líka um að gamlar leiðir hafi færst til.“

Sandakravegur

Sandakravegur.

Allur gangur er á því hver lagði göturnar í upphafi: „Þegar við endurrekjum gamla leið setjum við okkur iðulega í spor þeirra sem fóru hana áður,“ segir Ómar Smári. „Það má greina götur eftir fólk frá götum eftir búfénað þótt stundum hafi leiðirnar legið saman. Kindurnar leita bithaga og skjóls og því liggja kindagötur eða fjárgötur oft utan í hlíðum, hæðum og hólum eða í lægðum. Þar sem féð hefur unað hag sínum vel er jafnan vel gróið. Fólk fór hins vegar greiðfærustu leiðina og hugsaði um að „halda hæð“. Þá var ekki farið upp og niður hæðir og dali að óþörfu. Þótt fólk þyrfti að taka á sig krók var það gert, því „betri var krókur en kelda“.
Um allt land má finna mikilvægar þjóðleiðir frá liðnum öldum, sem sumum hefur verið haldið við. Þá hafa verið búnar til nýjar gönguleiðir um fallega náttúrustaði. Nokkrar slíkar má finna á Reykjanesskaganum. Mikilvægustu leiðirnar áður fyrr eru ekki endilega vinsælustu gönguleiðirnar í dag. Sumar eru nýlegar, eins og Reykjavegurinn svonefndi milli Reykjaness og Nesjavalla.“

Til ýmiss brúks

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Ómar Smári segir að reyna megi að flokka leiðirnar eftir sennilegu notagildi þeirra áður fyrr. „Þjóðleiðir lágu milli byggðalaga, eins og Alfaraleiðin eða Almenningsleiðin milli Innnesja, nú Hafnarfjarðar, og Útnesja, þar sem nú er Reykjanesbær. Hún sést að mestu ennþá frá jaðri Brunans (Kapelluhrauns) til Innri-Njarðvíkur. Selvogsvegur eða Suðurfararvegur lá milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Hann sést vel frá Lækjarbotnum í Hafnarfirði að Strönd í Selvogi.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Þessar leiðir voru fjölfarnar allt til þess að vegagerðin fór að miðast við bifreiðar. Verleiðir má sjá við verin á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Leiðirnar ofan við Selatanga, verstöð, sem notuð var allt til byrjunar 20. aldar eru þrjár, hvort sem var heim til bæja, Skála og Krýsuvíkur, eða inn á þjóðleiðirnar. Byggðakjarnar á landsvæðinu, svo sem Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströndin, voru mikilvægar verstöðvar.
Lengri aðalleiðirnar lágu milli stjórnsýslustofnana, höfuðbóla og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, náttúrustaða, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása eða úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mjög mislangar. Segja má að fyrrum hafi allar leiðir um tíma legið til og frá Þingvöllum. Við þessar leiðir finnast víða misgamlar minjar, svo sem hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum og skútum eftir menn og hreindýr, og vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti, eða sögulega atburði. Dauðsmannsvörðurnar og dánarstaðir eru ófáir við og hjá götunum, en sem betur fer sluppu margir lifandi þrátt fyrir miklar raunir, eins og Prestsvarðan ofan við Leiru er til vitnis um.

Árnastígur

Árnastígur.

Leiðir á milli bæja eru jafnmargar og bæirnir voru margir – og þeir voru miklu fleiri en fólk gerir sér í hugarlund, t.d. voru 28 bæir í Staðarhverfi, sem er vestast Grindarvíkurhverfanna, en nú standa þar tóftir einar. Í Staðarhverfi var millilandaverslun um tíma, kirkjustaður og hreppstjórasetur. Frá hverfinu lágu samskiptagötur til Hafna, Njarðvíka og hinna byggðarkjarnanna í Grindavík. Þær sjást enn vel.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Selstígar lágu upp í selstöðurnar, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. T.a.m. má sjá leifar af um 250 slíkum á svæðinu.
Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og er Hvalsnesleiðin milli Ytri-Njarðvíkur og Hvalsness ágætt dæmi, en gatan var jafnframt notuð sem þjóðleið milli byggðakjarna og sem verslunarleið. Líklega er hluti leiðarinnar sá best varðveitti hér á landi því varnargirðing Varnarliðsins umlukti hana.“
Sumar slóðir frá því fyrir landnám Ómar Smári segir að sumar leiðirnar séu áfangaleiðir og tengist öðrum eða greinist út frá þeim. Dæmi um vinsæla gönguleið hópsins er leið í Ögmundarhrauni á suðurströnd nessins austur af Grindavík, en hraunið hefur runnið yfir bæ, garða og umlukið önnur mannvirki, s.s. fjárborg og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
„Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í harða hraunhelluna, svo sem sjá má á Sandakra- og Skógfellaveginum eða á Hellunum vestan Hlíðarvatns. Þar hefur yngra hraun runnið yfir eldra hraun, sem gatan er í. Gatan er ágætt dæmi um hversu mikil umferð hefur verið hér allt frá fyrstu tíð, sem reyndar gæti þess vegna hafa verið eldri en norrænt landnám segir til um.“
Hefurðu sjálfur mótað þér skoðanir á lífi í landinu fyrir landnám?

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

„Vísbendingar gefa til kynna að hér kunni að hafa verið önnur byggð en rannsóknir hafa enn ekki staðfest það með óyggjandi hætti. T.d. á eftir að rannsaka mannvistarleifar í og við Húshólma og Óbrennishólma í Ögmundarhrauni.“
En auðvitað hefur þróun byggðar og lífshátta í landinu leikið hina fornu vegi með ýmsum hætti. „Leiðakerfið hefur þróast og götur hafa verið lagfærðar eða færst til,“ segir Ómar Smári. „Þegar ferðast var á fótum, eigin eða hestsins, mótuðust göturnar af sjálfu sér. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Um tíma varð það hluti af þegnskylduvinnu eða atvinnubótavinnu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur – vagnvegurinn.

Með tilkomu vagnsins voru gerðar vegabætur á mikilvægustu leiðunum og með bílnum mótuðust nýjar leiðir yfir holt og mela, og eldri leiðirnar voru lagfærðar. Þegar leiðin milli Grindavíkur og Krýsuvíkur var gerð ökufær 1932 var hin forna þjóðleið yfir Ögmundar-hraun, þar með talinn Ögmundarstígur, bæði breikkuð og lögð ofaníburði. Í dag er gjarnan farið beint af augum, ekki bara yfir fjöll og hálsa, heldur í gegnum hvort tveggja. “

Varðveisla mikilvæg
fótsporÓmar Smári segir mikilvægt að varðveita gömlu leiðirnar, en með því að ganga þær eru minni líkur á að þær falli í gleymsku. En hvaða hætta steðjar þá einkum að þeim?
„Það er áhugaleysi sveitarstjórnarfólks, skipulagsaðila og verktaka. Við nýtt hverfi í Sandgerði var ekkert tillit tekið til þess að Sandgerðisvegurinn gamli liggur um svæðið og er enn mjög greinilegur. Grindvíkingar ákváðu hins vegar að hafa göngustíg í gegnum Hópshverfið nýja og leyfðu Skógfellaleiðinni þannig að halda sér um bæjarhlutann. Í Reykjavík og víða eru dæmi um að hús hafi verið byggð á gömlum þjóðleiðum, en fólki ekki orðið svefnsamt í þeim vegna mikillar umferðar fólks að næturlagi.“
Í ljósi þess að saga Reykjanessins er átakamikil, fá frásagnir af slysum, mannsköðum og afturgöngum nýtt líf í ferðum ykkar?
„Sérhver saga og sérhvert atvik tengist óhjákvæmilega ákveðnum leiðum og stöðum. Merking þeirra verður önnur fyrir vikið líkt og leiðin og/eða staðurinn. Helsti skaðvaldur þessara gömlu leiða er virðingarleysið sem birtist m.a. í vegagerð og utanvegaakstri. Nýrri vegir hafa af misgáningi verið lagðir yfir þær og stórvirkum vinnutækjum ekið eftir og yfir leiðirnar, rusli hent á þær, námur settar þvert á leiðirnar og trjám plantað í þær. Með svolítilli hugsun mætti koma í veg fyrir þessa eyðileggingu.“

Að aka minna en ganga meira

Ferlir

FERLIRsganga að vetrarlagi.

Farið þið annars á Reykjanesið á öllum árstímum og í öllum veðrum?
„Veðrið hefur aldrei stöðvað för. Hægt er að undirbúa og velja göngustað á Reykjanesskaganum eftir áttum og veðri. Hálsarnir skipta oft veðrum. Þótt það sé rigning og rok hér þá getur verið sól og jafnvel logn handan við hæðina.“
Eru hraunsprungurnar ekki varasamar ef snjór er yfir jörðu?
„Við förum ekki um sprungusvæði þar sem snjór þekur jörð og ekki er augljóst hvernig landið liggur. Enda óþarfi þar sem nægir aðrir kostir eru í boði. Svæðið býður upp á ótrúlega útivistarmöguleika. Fólk getur gengið hinar gömlu leiðir, skoðað landmótun á flekaskilunum og jarðmótunina frá upphafi með a.m.k. 15 hraun frá sögulegum tíma, gengið um hraunhellana, virt fyrir sér litaskrúð hverasvæðanna og notið ómótstæðilegrar náttúrufegurðar. Fótspor
Fána og flóra eru fjölbreyttari en ætla mætti.
Það er mjög gott fyrir byrjendur að ganga með öðrum sem geta leiðbeint þeim til að glöggva sig á umhverfinu og lesa það. Síðan fer fólk að rekast á minjar við hvert fótmál.
Á þessum síðustu tímum aðhalds og ráðdeildar ættu áhugasamir borgarbúar að spyrja sig: Hvers vegna ekki að aka í 15 mínútur og nýta svo 1-5 tíma til göngu í þessu margbreytilega og stórkostlega umhverfi í stað þess að aka í 1-5 klukkustundir og hafa síðan einungis tíma til að ganga í 15 mínútur?“
Gönguhópurinn heldur úti vefsíðunni ferlir.is.

Heimild:
-Morgunblaðið, 162. árg. 15.06.2008, Í fótspor fjár og feðra, bls. 24-25.

FERLIR

FERLIRsfélagar í Bálkahelli. (Ljósm. Júlíus)

Nýey

Rvík 17. ágúst [1884].
„Ný ey við Reykjanes.
gjoska-25Vitavörðurinn á Reykjanesi, herra Jón Gunnlaugsson skipstjóri, hefir skrifað Ísafold 1. þ. m.: „Hinn 26. f. m. (júlí) gékk ég hér upp á svo kallað Bæjarfell með kíki og var að skoða sjóinn, mér til skemtunar, og sýndist mér ég sjá skip norðvestur af Eldey (Melsækken), en sýndist það furðu stórt; dró ég sundur kíki minn, og sá fljótt, að þetta er eyja, stærri en Eldey, á að gizka hér um bil 3 mílur norðvestur af Eldey. Hefi ég skoðað hana á hverjum degi og er hún alt af með sömu ummerkjum og þegar ég sá hana fyrst. Þetta hafa einnig séð kunnugir menn í Höfnum hjá mér í kíki“. Það hefir borið oft við áður, að landi hefir skotið upp fyrir Reykjanesi í eldgosum, sem hafa
verið þar alltíð.“

Heimild:
-Þjóðólfur, 36. árg. 1884, 32. tbl., bls. 128.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.