Ætlunin var að ganga um Selvogsgötu frá Strandamannahliði neðan Strandardals, efst í Selvogsheiði, um Vörðufellsmóa og Stóraflag niður að gatnamótum Fornugötu og Útvogsgötu ofan Skálavörðu vestan Strandarhæðar. Ólafur Þorvaldsson lýsir leiðinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-1948, 49. árgangi.
„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Að vísu gat það hent, að Selvogsmenn færu um Krýsuvík, varla þó nema lausríðandi, og þá annaðhvort af því, að snjór var svo mikill á fjallinu, að ófært var talið, eða þeir áttu sérstakt erindi við Krýsvíkinga. Þessari aðalleið Selvogsmanna, Grindaskarðaleið, skal nú lýst hér, eftir því sem föng eru á, svo og getið þeirra örnefna, sem nálægt henni eru, og nokkurra fleiri, þótt fjær liggi. Legg ég svo upp frá Hafnarfirði.“
Hér er hlaupið yfir lýsingu leiðarinnar frá Hafnarfirði að Strandardal ofan Selvogsheiðar því einungis er ætlunin að feta götuna þaðan niður og áleiðis að Skálavörðu á Strandarhæð þar hún mætir Útvogsgötu. Þar eru suðurmörk Selvogsheiðar (Þórður Bjarnason frá Bjargi í Selvogi). Gatnamótin eru skammt norðan Skálavörðu, þar sem Fornugötur mæta fyrrnefndu götunum. Skal því drepið niður í lýsingu Ólafs þar sem hann er að koma niður í strandardal.
„Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell. Norðaustur af því eru grasbrekkur og lautir, Fornutorfur, var þar oft slegið frá Hlíð og Vogsósum allmikið af finnungi.
Nokkru austan Þorvaldsháls er komið í Litla-Leirdal. Þaðan er smáspölur þar til talið er, að komið sé ofan af fjallinu. Þá er komið ofan í Katlabrekkur, og er þá Hlíðarfjall til vesturs, en Svörtubjörg til austurs. Þar uppi er Eiríksvarða, og á Eiríkur á Vogsósum að hafa hlaðið hana til verndar Selvogi fyrir sjóránsmönnum, svo sem Tyrkjum.“
Hér er Ólafur kominn að Strandarmannahliði á fjárgirðingunni undir fjöllunum, efst í heiðinni. Þaðan er ætlunin að ganga að þessu sinni og fylgja þá Selvogsgötunni, eins og fyrr segir, um Vörðufellsmóa og Stóraflag þar sem gæta þarf vel að því að fara ekki út úr götunni sökum landeyðingar.
„Kippkorn vestur með Hlíðarfjalli skagar smáháls fram úr fjallinu, Sjónarháls. Af honum er stutt heim að Hlíð, sem nú er í eyði og hefur verið um 40 ár. Hlíð er við austurenda Hlíðarvatns, og er þar dágóð silungsveiði. Rið ágætt á svonefndri Bunu. Beljar þar vatn undan fjallinu, en hæfilega stór möl í botni sem hrygningarstaður.
Að Hlíð bjó Þórir haustmyrkur, sá er nam Selvog og Krýsuvík, sem fyrr segir.
Vogsósar standa á sléttum völlum sunnar með vatninu. Úr Katlabrekkum sér til Selvogsbyggðar, nema útbæjanna, Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Liggur nú leiðin til suðurs eða suðausturs, niður vestur- og suðvesturdrög Selvogsheiðar. Þegar nokkuð niður í heiðina kemur, er farið í gegnum svonefnd Rof. Litlu neðar er farið vestan undir smáhraunhæð, sem Vörðufell heitir. Við Vörðufell stóð nokkuð fram yfir síðustu aldamót lögrétt Selvogsmanna, Vörðufellsrétt. Nú eru réttir þeirra norðaustur af Svörtubjörgum.
Ég get ekki gengið fram hjá að drepa á eins konar helgisögn í sambandi við Vörðufell, og er átrúnaður þessi, eða hvað sem menn vilja kalla það, efalaust runninn frá Eiríki á Vogsósum, en sögnin er í fám orðum þessi: Selvogsheiði er, sem kallað er á smalamáli, mjög leitótt, og tefst því oft fyrir mönnum að finna gripi, sem að er leitað, þoka gerir leitina stundum erfiða. Ef leitarmann ber nú að Vörðufelli, þá skal hann ganga á fellið, leggja þar einn stein í vörðu eða undirstöðu að annarri, ef þær sem fyrir eru, eru nógu háar orðnar, og mun hann þá bráðlega finna það, sem eftir er leitað. Ekki get ég af eigin reynslu sagt neitt um áhrif þessara verka, en það get ég sagt, að Vörðufell er að ofan alþakið vörðum, stærri og smærri, og jafnvel er þessu eitthvað haldið við enn, eftir því sem greinagóður maður hefur tjáð mér nýlega. Ekki hefur mér tekizt að fá nógu áreiðanlegar sagnir um það, hvað liggi hér til grundvallar, hvaða fórn hér sé verið að færa fellinu eða hverjum; en talið er vafalaust, að ummæli Eiríks á Vogsósum, þess spaka manns, liggi hér á bak við og séu enn í góðu gildi.“
Hér sleppir Ólafur tóftum selstöðu í heiðinni, en Selvogsgatan liggur niður með þeim að austannverðu. Þetta eru grónar tóftir, en þó sést móta fyrir í þeim þremur rýmum. Suðaustan við tóftirnar er grafinn brunnur og skammt vestsuðvestan við hann má sjá mosagrónar hleðslur stekks. Ekki hefur verið hægt að tengja þessar minjar við neina heimild um sel í heiðinni, en telja má líklegt að það hafi verið frá einhverri hjáleigu Strandar því þær voru nokkrar og enn sést móta fyrir ofan og austan við kirkjuna í Selvogi. Strandarselið er hins vegar upp undir Svörtubjörgum og hefur bæði verið þar um langan tíma og ríkmannlegt. Þetta sel við Selvogsgötuna virðist hafa verið þarna í tiltölulega skamman tíma, sennilega seint á 18. eða byrjun 19. aldar (eftir að jarðabók ÁM var rituð).
Í dag (2012) gæti óvönum þótt erfitt að fylgja götunni þar sem vatn hefur á þessum kafla heiðarinnar grafið hana í sundur auk þess sem gróðureyðingin er þar umtalsverð. Vanir menn ættu hins vegar ekki að eiga í erfiðleikum að fylgja götunni þrátt fyrir þetta.
„Nokkru suðaustur frá Vörðufelli er Strandarhæð. Suðvestur í henni er stór hellir, Strandarhellir. Framan til er hann hár og falleg boghvelfing yfir, en sandur er í botni, og getur þar verið inni fé, svo að hundruðum skiptir, án þrengsla. Suður af hellinum eru sléttar grasdældir, Dalalágar.“
Skv. upplýsingum Þórðar Bjarnasonar heita Vellir austan Skálavörðu. Norðaustar er Strandarhæð. Efst í henni er hóll og gerði norðvestanundir honum. Þar var ætlunin að rækta upp gerði um aldarmótin 1900, en ekkert varð af því.
„Þegar hér er komið, er steinsnar til bæja í Selvogi, og þá venjulega komið að túnhliði, ýmist frá Bjarnastöðum eða Nesi, eftir því sem hverjum hentar, eða þá að utustu bæjum í hverfinu, Þorkelsgerði eða Torfabæ [Útvogsgata].
Á vetrum, þegar Selvogsmenn fóru gangandi vestur yfir fjall, styttu þeir sér oft leið með því að fara Hlíðarskarð í Hlíðarfjalli, vestur með Langhólum í Austur-Ásum, á veginn sunnan undir Hvalhnjúk, Stakkavíkurveginn.
Er nú lýst leiðum Selvogsmanna til Hafnarfjarðar.
Eftirmáli
Á Grindaskarðaleið var það, að fundum mínum og Selvogsmanna bar fyrst saman, og eru margir þeirra funda, þótt oftast væru stuttir, mér að mörgu leyti minnistæðir. Tildrög voru sem hér segir: Kringum síðustu aldamót var ég oft á ferð um fjöllin vestan Grindaskarða. Kom það þá nokkrum sinnum fyrir, að ég reið fram á eða mætti einum eða fleiri mönnum, sem voru með hesta undir klyfjum, stundum bar mig þar að, sem þeir voru að æja, — voru að hvíla sig og hesta sína. Þetta voru Selvogsmenn. Það gátu ekki aðrir verið, svo fremi að það væru ekki útilegumenn, en ég mun þá hafa verið hættur að trúa á tilveru þeirra, og var því ótti minn við þá alveg horfinn. Þó komu mér ósjálfrátt í hug sagnir um útilegumenn, þegar ég komst fyrst í kynni við Selvogsmenn þarna í fjöllunum. Ekki var það samt af því, að þeir væru svo ógnarlegir, nei, síður en svo, þeir voru bara eins og fólk er flest.
Það, sem mér fannst einkennilegast við þessa menn og ferðalög þeirra, var víst aðallega það, að þeir voru þarna á ferð, þar sem mjög lítil von var mannaferða, og voru ýmist að koma ofan af fjöllunum eða fara til fjalla. Oft fylgdist ég með þeim nokkurn spöl eða staldraði við hjá þeim, þegar þeir voru í áningarstað. Þjóðlegir voru þeir og viðræðugóðir. Engir voru þeir yfirborðsmenn — en voru það sem þeir sýndust og oftast vel það. Ég var forvitinn og spurði margs, spurði um daginn og veginn, spurði hvernig væri hinum megin við fjöllin, hvernig sveitin þeirra liti út, um það langaði mig eitthvað að vita, því að ég vissi þá, að ég var fjórði maður frá Jóni Halldórssyni lögréttumanni að Nesi í Selvogi og Rannveigu Filippusdóttur, fyrri konu Bjarna riddara, sem fæddur var að Nesi 6. apríl 1763. Og ég spurði og spurði, og þeir svöruðu víst oft betur en spurt var. Eitt var það, sem ég tók eftir í farangri þessara manna, sem var öðruvísi en ég hafði séð hjá öðrum ferðamönnum. Það voru reiðingarnir á hestunum. Þetta voru ekki torfreiðingar, heldur voru þeir gerðir af rótum eða flækjum. Þeir voru léttir og lausir við mold og leir.
Og ég spurði enn. „Já, þetta eru melreiðingar, lagsmaður,“ var svarið. Stundum sá ég þá flytja í kaupstað ýmsa einkennilega hluti, sem stundum voru ofan á milli bagga eða í böggum. Þetta voru ýmsir munir úr skipum, sem strandað höfðu í Selvogi. Mér fannst skrítið að sjá þessa muni, sem tilheyrt höfðu útlendum skipum, vera nú bundna með ullarböggum sveitamanna, því að þá leit ég á Selvogsmenn sem eingöngu sveitamenn, en skýringin á öllu þessu var sú, að þeirra sveit lá bæði til sjávar og lands og Selvogsmenn voru og eru „synir landvers og skers.“ Ég komst líka að því, að bændur í Selvogi áttu allmargt fé og margir fjölda sauða og fallega, og það þótti mér nú ekki alveg ónýtt. Allt fannst mér þetta vera líkt einhverju ævintýri, og á sveit þeirra leit ég í huganum sem ævintýraland, og ekki grunaði mig þá, að ég ætti eftir að eiga heima í þessari sveit, en vel gæti ég trúað, að ég hafi einhvern tíma óskað þess, þó að ég muni það ekki nú.
Það má nú ef til vill segja, að þessi saga komi ekki við lýsingu þeirra fornu slóða, sem aðallega eru hér skráðar, ef verða mætti til þess að forða því, að þær féllu alveg í gleymsku og týndust og enginn vissi síðar meir, hverjir hefðu þær aðallega notað. Ég gat ekki skilið svo við þetta efni, að ég minntist ekki lítillega þeirra manna, sem markað hafa þennan veg, og þeirra litlu og afskekktu sveitar, Selvogsins.
Oft hljóta Selvogsmenn að hafa farið þessa leið með hesta sína, því að fáir fóru þar um aðrir en þeir. Sanna það bezt hinar djúpt mótuðu götur í hart grjótið á þessum fornu slóðum. Nú hefur þessi aldna leið Selvogsmanna lokið sínu ætlunarverki, og mun nú fá að „gróa yfir götur“, þar sem svo hagar landi, en langt verður þar til „hölknin gróa“ svo á leið þessari, að eigi sjáist merki mikillar umferðar.
Nú eru flestir þessir Selvogsmenn, sem ég fyrst kynntist, gengnir veg allrar veraldar. Nokkrir afkomendur þeirra lifa þar enn. Fáir hafa flutzt inn í sveitina. Fyrir 250 árum voru um 200 manns í Selvogi, — en nú munu vera þar um 60 manns, svo mjög hefur þessi sveit gengið saman, og er það af ýmsum orsökum, sem ekki verða raktar hér. Kynni mín af Selvogsmönnum á síðari árum hafa verið góð og engri rýrð kastað á þá eða sveit þeirra, frá því að ég fyrst átti samleið með þeim í fjöllunum, fyrir 40—50 árum. Hér brestur bæði rúm og getu til að lýsa Selvogshreppi, svo að gagn eða gaman væri að. Þó vil ég aðeins drepa á tvennt, sem þessi fámenna og afskekkta sveit hefur átt og á, sem enginn getur frá henni tekið, og það er Strandarkirkja og minningin um Eirík Magnússon, prest að Vogsósum, sem vígðist að Strönd árið 1667 og þjónaði þar í 39 ár.
Kirkjan hefur svo að öldum skiptir staðið ein húsa á hinu forna höfuðbóli, Strönd, sem sandur og uppblástur eyddu ásamt fleiri jörðum í Selvogi. Munnmæli herma, að þegar Erlendur lögmaður Þorvarðarson bjó að Strönd á fyrri hluta og fram yfir miðja 16. öld og allt var þar með blóma, hafi það eitt sinn borið við, er smalamaður Erlends kom heim, að hann hafi stungið spjóti sínu niður, og komið sandur upp á því. Segir þá smalamaður: „Hér mun uppblástur verða.“ Hjó Erlendur hann þá banahögg og kvað hann ekki skyldi spá fleiri hrakspám. Spá smalamannsins hefur illu heilli rætzt. Strandarkirkja er löngu þjóðkunn fyrir það, hve vel hún „verður við“, þegar fólk leitar til hennar með áheit í ýmsum áhugamálum sínum.
Um Eirík á Vogsósum skal ekki fjölyrt hér. Sagnir af honum og kunnáttu hans er víða að finna og flestar í þjóðsagnastíl og hafa því víða flogið. Sennilegast er, að Selvogsmenn hafi á sínum tíma litið til Eiríks á Vogsósum með ótta og lotningu fyrir orð hans og athafnir, og er mér ekki grunlaust um, að eitthvað eimi eftir enn af trú á verk hans og ummæli, sem honum eru eignuð, svo sem um vörðurnar á Vörðufelli, sem áður er á minnzt, og segi ég ekki þetta Selvogsmönnum til lítilsvirðingar.“
Göngunni lauk, sem fyrr sagði á Strandarhæð þaðan sem Fornugötunni efri var síðan fylgt til vesturs inn í Vogsósaland. Fyrrum hefur verið myndarleg varða við gatnamótin, en nú er hún einungis svipur hjá sjón. Fornagatan efri er vel greinileg. Áður hafði FERLIR fylgt götunni til austurs áleiðis að Hlíðarenda í Ölfusi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, 49. árg. 1943-1948, bls. 96-107.