Færslur

Keilir

Gestur Guðfinnsson fjallar um „Kynnisferð á Keili“ í Alþýðublaðinu árið 1958″

„Keilir er ekki hátt fjall. Skýjakljúfar New-Yorkborgar myndu bera höfuð og herðar yfir hann ef þeir væru settir niður við hliðina á honum, og meira en það. Flest fjöll í nágrenni Reykjavíkur eru hærri og stærri en hann, samt vita fleiri deili á Keili en öðrum fjöllum, sem sjást af bæjarhlaði Reykvíkinga, hann skipar sitt rúm á Reykjanesskaganum með mikilli prýði, og hræddur er ég um, að margur myndi sakna vinar í stað, ef hann væri horfinn af sjónarsviðinu.

Keilir

Keilir.

Ég hef stundum gert mér það til gamans á ferðalögum suður með sjó að fara óvirðingarorðum um hann, sagt eitthvað á há leið, að svona smáþúst væri tæplega hægt að kalla fjall, þetta væri hálfgerð hundabúfa, sem ekki væri nafn gefandi. Æfinlega hefur einhver ferðafélaganna risið upp til varnar Keili, stundum Suðurnesjamaður, stundum ættingi einhvers Suðurnesjamanns, Jafnvel í þriðja eða fjórða lið, eða þá Reykvíkingur, og mótmælt kröftuglega slíkum svívirðingum, eins og hverju öðru guðlasti, ég veit ekki, hvort sumir fyrirgefa mér ævilangt. Hann virðist eiga mikinn og traustan flokk forsvarsmanna og aðdáenda. Og furðulega margir þykjast eiga Keili.

Keilir

Keilir.

Fjallið mitt, segja þeir, og það er auðheyrt á röddinni, að annað eins fjall muni vandfundið á jarðkringlunni. Ekki veit ég, hvað stjórnarskráin kann að segja um allan þennan eignarrétt. kannski má véfengja hann, kannski er hann líka öllum öðrum eignarrétti æðri og meiri.
En þó að Keilir sé þannig mikils metinn og dáður og eigi ítök í mörgum og margir eigi ítök í honum, þá eru þeir næsta fáir, sem gera sér það ómak að heimsækja þetta fyrirfjall Reykjanesskagans. Þó ber það við. Ekki alls fyrir löngu stefndi Jóhannes Kolbeinsson, hinn vinsæli og vel þekkti fararstjóri Ferðafélags Íslands, þangað liði sínu, tveim tylftum kvenna og karla, í virðingar- og kynningarskyni. Sú heimsókn var mikill sómi fyrir fjallið. Þetta var fríður flokkur og glæsilegur, svo sem vera bar og slíkt fjall á skilið.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það var mikið blíðskapar veður þennan dag, logn og sólskin um allar jarðir, sjórinn sléttur og blár bátur á miði. Snæfellsiökull skein í allri sinni dýrð handan við flóann. Meðfram Reykjanesveginum gægðist græn vornálin upp úr hvítum þúfnakollunum. Ekki segir af reisunni fyrr en komið var suður undir Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Venjan hefur verið að ganga að Keili frá Kúagerði, sem er í vesturjaðri Afstapahrauns. Það er líklega tveggja tíma gangur. Nú hefur verið rudd akbraut af veginum norðan Vatnsleysu alla leið upp á Höskuldarvelli, og styttir það gönguna til muna. Þegar að þessum afleggjara kom, var hann lokaður með digurri járnkeðju, læstri. Sankti-Pétur geymir lykilinn að hinu gullna hliði himnaríkis og hleypir engum óverðugum inn í það dýrðarland, og Pétur er samvizkusemin sjálf.

Keilir

Keilir.

Margar sögur eru sagðar af dyravörzlu Péturs, en aldrei hefur heyrzt, að hann hafi neitað fjallamanni um inngöngu. Bóndinn á Vatnsleysu geymir hins vegar lykilinn að hinum nýja vegi, sem liggur um Afstapahraun á Höskuldarvelli, leiðinni að hinu dýrlega fjalli, Keili. Mér er ekki kunnugt, hvort sömu reglur gilda þarna og hjá Pétri, nema Jóhannes talaði við bóndann og fékk lykilinn, enda var þetta allt réttlátt fólk.
Höskuldarvellir liggja norðvestan undir Trölladyngju. Þar er allmikið gróðurlendi og sauðland gott. Hiti er þarna í jörðu, og leggur víða gufu upp úr hraununum í kring, en heimildir munu vera til um gos á þessum slóð um á 14. öld. Af Höskuldarvöllum er stutt og létt ganga að Keili. Liggur leiðin fyrst yfir lágan hæðarhrygg, Oddsfell, en síðan um mosagróið apalhraun að fjallinu.

Keilir

Á leið á Keili.

Keilir er eins og nafnið bendir til, keilulaga fjall, hæðin er aðeins 379 m. yfir sjávarmál, en varla mikið meira en 250 m., ef miðað er við hraunin í kring. Það er því engin sérstök þrekraun að ganga á fjallið, til þess þarf ekki meiri karlmennsku en guð hefur gefið venjulegu fólki, enda komust allir á tindinn, þó að sumir ættu að vísu dálítið erfitt með pundin sín. Keilir er móbergsfjall með grágrýtishúfu á kollinum, sem hefur eflaust verið honum mikil vörn og hlífiskjöldur gegn eyðingaröflum vatns og veðra. Reykvíkingar þekkja hann bezt í bláma fiarlægðarinnar eða hvítum vetrarlit. Stundum slær á hann rauðleitum bjarma að kvöldlagi. Þá er hann fegurstur. Ásýnd Keilis er eirrauð sem egypzkur píramíði, segir hið góðkunna Suðurnesjaskáld, Kristinn Pétursson, einhversstaðar. Þegar komið er að fjallinu og dýrðarljómi fjarlægðarinnar horfinn, ber aftur á móti mest á gráum og móbrúnum lit, skriður og klettar eru einkenni höfðingjans, gróður fyrirfinnst ekki svo teljandi sé, það verður varla slitið upp strá til að tyggja.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Af Keili blasir við allur fjallahringurinn umhverfis Faxaflóa. Að þessu sinni var umgjörðin um flóann óvenjulega hvít á að líta og glampandi björt í sólskininu. Hins vegar var næsta umhverfi Keilis, Reykjanesskaginn sjálfur, dálítið harðneskjulegur og dökkur á brún og brá að vanda: gömul eldvörp, dyngjur, og storknuð hraun. Þó má víða sjá gras og gróðurvinjar og mosinn breiðir sig yfir úfin hraunin, mjúkur og þykkur. Í norðaustri, upp af Kaldárbotnum, rís Helgafell og Valahnúkur, þar sem Farfuglar eiga sitt Valaból.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þangað er líklega um fjögra tíma gangur frá Keili. Um það bil miðja vegu milli Keilis og Helgafells er lítið, sérstakt fell, Fjallið eina. Nafnið býr yfir einkennilegum töfrum. Ætli eitthvert gott fyrirtæki í bænum þurfi ekki bráðum á því að halda. Það er sem sé mikið í tízku að klína allskonar örnefnum og fjallaheitum á veitingahús og verzlunarfyrirtæki, jafnvel smá búðarholur og sjoppur eru látnar heita í höfuðið á sögufrægustu stöðum landsins, minna má ekki gagn gera. Þetta er eins og að hafa þjóðsönginn fyrir rokktexta á hlöðuballi. Fjallið eina hefur ennþá sloppið við sæmdina.

Sogasel

Í Sogaseli.

Að lokinni nokkurri viðdvöl á tindi Keilis var haldið að Sogaseli, eyðibýli eða seli, ekki alllangt frá vesturjaðri Trölladyngiu, og etinn dagverður. Það er eitthvert sérkennilegasta bæjarstæði eða bólstaður, sem ég hef séð. Húsin hafa staðið á flötum, grasigrónum gígbotni. Gígurinn er á að gizka eitt til tvö hundruð metrar í þvermáL, hringlagaður, girtur þverhníptum hamravegg á þrjá vegu úr grábrúnu og eldrauðu bergi. Þetta hlýtur að vera sérstaklega skjólsæll og veðursæll staður. Allmiklar húsarústir eru þarna á gígflötinni. Kunnugir þekkja sjálfsagt sögu þessa staðar, en ekki kann ég skil á henni, líklegt má þó teljast, að þarna hafi verið hafður nautpeningur í seli, fremur en að um sjálfstætt býli eða búskap hafi verið að ræða. Einhver skaut fram þeirri spurningu, hvort öruggt væri, að þarna gæti ekki gosið aftur, en enginn hafði bréf upp á það. Búskapurinn í Sogaseli minnir á fuglinn hans Jóns úr Vör, sem gerði sér hreiður í fallbyssukjaftinum. Ekki er mér kunnugt hvenær staðurinn fór í eyði. Líklega hefði slík gestakoma sem þessi þótt tíðindum sæta í Sogaseli á þeim tíma, sem fólk hafði aðsetur þar.
Þegar staðið var upp frá dagverði í Sogaseli, var förinni haldið áfram í litskrúðugri halarófu suður Sogin áleiðis til Krýsuvíkur. Sólin skein á vinalegar hlíðar Grænudyngju, Að baki reis Keilir, einn og sérstæður, og bar við bláa heiðríkju vesturloftsins. Framundan blöstu við hálsar og hraunflákar.
Bráðum mundi leið okkar liggja framhjá Djúpvatni, þar sem nykurinn býr.“ – Gestur Guðfinnsson.

Heimild:
-Alþýðublaðið, 106. tbl. 13.05.1958, Kynnisför á Keili, Gestur Guðfinsson, bls. 7.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur.

Vogar

Í Vogum er fróðleiksskilti á „Sæmundarnefi“ sunnan Stóru-Voga. Á því er eftirfarandi texti:

Skipsströnd
Vogar
Í fjörunni út af Sæmundarnefi má finna leifar af tveimur skipum sem strönduðu þar á fyrri hluta 20. aldar.
Við Sandsker út af Sæmundarnefi má sjá kjöl og bönd af seglskipinu Fjallkonunni sem slitnaði upp í Vogavík og rak á land og strandaði í miklu hvassviðri árið 1904. Skipverjum var naumlega bjargað af heimamönnum. Eini staðurinn sem hægt var að koma báti til björgunar á sjó í hvassviðrinu var fyrir sunnan Sæmundarnef. því báru eða drógu heimamenn bát frá Bræðrapartsvörinni, norðan við Sæmundarnefið, eftir túninu og settu á flot sunnan megin við það. Fjallkonan, sem var frá Noregi, var með timburfarm sem fara átti til Hafnarfjarðar. Eftir strandið var timbrinu safnað saman úr fjörunni og selt á uppboði á Krisjánstanga. Mörg hús í hreppnum voru byggð úr þessu strandgóssi. Í kjölfar starndsins hefur verið talað um skerið sem Skútusker.
Vogar
Skammt frá Fjallkonunni, örlítið utar, eru leifar af öðru skipi, Hansaaaag sem strandaði haustið 1937. Í björtu og góðu veðri átti að sigla skipnu inn á Vogavík. Það tók hins vegar niðri á Geldingum (hvirflum) út af Þóruskeri sem er við endann á nuverandi hafnargarði. Þegar skipið losnaði var það dregið upp á Sandsker út af Sæmundanefi.
Hansavaag var gamalt tréskip sem hafi lengi verið notað til flutninga á sandi og steypumöl milli fjarða norðanlands. Hér átti að nota skipið sem fljótandi síldarsöltunarstöð á yfirstandandi síldarvertíð í faxaflóa. Um borð í skipinu var mikið af tómum síldartunnum ásamt stúlkum sem salta áttu síldina. manntjón varð ekki. Skipið var síðar rifið og selt á strandstað.
Vogar

Knarrarneskirkja

Mánudaginn 21. október 2013 birtist stutt frétt á vf.is:
Vill reisa kirkju að Minna Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Birgir Þórarinsson guðfræðingur og fv. varaþingmaður í Suðurkjördæmi hefur sent umhverfis-og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga umsókn um byggingarleyfi fyrir kirkju að Minna-Knarrarnesi samkvæmt aðaluppdráttum Óla Jóhanns Ásmundssonar arkitekts.
Umhverfis- og skipulagsnefnd álítur að byggingin samræmist aðalskipulagi en að liggja þurfi fyrir samþykkt deiliskipulag í samræmi við gildandi aðalskipulag og skipulagslög og skipulagsreglugerð svo unnt sé að veita byggingarleyfi.“

Þriðjudaginn 25. febrúar 2014 birtist eftirfarandi stuttfrétt í sama miðli:
Kirkja verður byggð að Minna-Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Bæjarráð Voga hefur samþykkt erindi Birgis Þórarinssonar um byggingu 40 fermetra kirkju að Minna-Knarrarnesi. Með bréfi þann 12. febrúar sl. óskar Birgir eftir því að jafnframt að leitað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni.
Loks kemur fram að stefnt sé að gerð deiliskipulags fyrir Minna-Knarrarnes á næstu mánuðum að ljúka þeirri vinnu innan 1 árs.“

Knarrarnes

Knarrarneskirkja – Birgir Þórarinsson.

Þegar langt var liðið á lokafrágang byggingarinnar var stefnt að vígslu Knarrarneskirkju sunnudaginn, þann 8. ágúst 2021:
„Kirkjuna reistu hjónin Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir en fyrir sex árum var tekin skóflustunga að þessari bændakirkju, sem er í 19. aldar stíl, í túninu hjá þeim hjónum að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.

Draumur að rætast með kirkjunni.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Mikið hefur verið lagt í kirkjuna og listmunina sem í henni eru. Altarissteinninn kemur úr fjörunni. „Í Mósesbók eru fyrirmæli um hvernig altari á að vera. Það skal gert úr óhöggnum steini. Ég var í gönguferð hér í fjörunni þegar ég sá þennan stein. Hann höfðaði sérstaklega til mín og passar fullkomlega sem altarissteinn. Það var síðan heljarinnar mál að flytja steininn inn í kirkjuna og koma honum vel fyrir, hann er um 350 kg. Fáeinum mínútum eftir að steinninn var uppsettur gerði jarðskjálfta upp á 5,4. Steininn sakaði þó ekki né þá sex karlmenn sem lyftu honum upp á stall,“ að sögn Birgis. Kirkjuklukkan er rúmlega 100 ára gömul skipsklukka og kirkjugólfið er sömuleiðis úr aldargömlum gólfborðum, sérstaklega unnin fyrir kirkjuna. Yfirsmiður er Ásgeir Þórisson, innréttingar smíðaði Ólafur Sigurjónsson, Forsæti Flóahreppi og arkitekt er Óli Jóhann Ásmundsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Altaristöfluna gerði úrkraínski listaðurinn Andrii Kolalenko.

Birgir leitaði út fyrir landssteinana með gerð listmuna. Þeir eru eftir handverks- og listamenn frá Úkraínu. Má þar nefna altaristöfluna en hún er gerð eftir forskrift Birgis. Predikunarstólinn er sömuleiðis gerður í Úkraínu en hann er eftirgerð af predikunarstól frá árinu 1594 og er á Þjóðminjasafninu. Birgir sá hins vegar alfarið um steinhleðsluna í kringum kirkjuna. „Þetta hefur verið gamall draumur hjá mér, að byggja kirkju í þessum gamla stíl, sameinar líka menntun og áhugamál.“

Knarrarneskirkja

Hjónin Anna Rut Sverrisdóttir og Birgir Þórarinsson (t.h.)  við Knarrarneskirkju.

Knarrarneskirkja var vígð framangreindan dag
„Knarrarneskirkja sem hjónin á Minna-Knarrarnesi, þau Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir, hafa reist á jörð sinni var vígð sem heimiliskirkja síðastliðinn sunnudag. Boðsgestum var stillt í hóf við athöfnina enda samkomutakmarkanir í gildi en athöfnin var einstaklega falleg og tókst vel til.

Knarrarneskirkja

Karl Sigurbjörnsson, biskup, annaðist vígslu Knarrarneskirkju.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, vígði kirkjuna og honum til aðstoðar voru séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, og séra Kjartan Jónsson, sóknarprestur Kálfatjarnarsóknar. Vígslan var hin heilagasta og við athöfnina söng Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, úkraínskt þjóðlag en það voru handverks- og listamenn frá Úkraínu sem gerðu altaristöfluna, predikunarstólinn og fleiri muni sem prýða kirkjuna. Davíð Ólafsson, óperusöngvari, söng lagið Þitt lof, ó Drottinn og organisti var Ólafur Sigurjónsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Eftir athöfnina buðu hjónin til kaffisamsætis í þurrabúðinni Vík þar sem gleðin var allsráðandi enda ekki á hverjum degi sem jafn glæsileg kirkja sem þessi er vígð á Vatnsleysuströndinni.

Hjónin Anna Rut og Birgir mega vera stolt af þessu framtaki sínu enda Knarrarneskirkja glæsileg og vönduð í alla staði. Birgir sá sjálfur um steinhleðsluna umhverfis kirkjuna, en hefur eflaust fengið góðar ráðleggingar frá eiginkonunni – og allt handverk ber aðkomandi iðnaðar- og handverksmönnum gott vitni um hagleik og alúð.

Knarraneskirkja – Kirkjuvígsla 8. ágúst 2021 – upplýsingabæklingur:

Knarrarneskirkja

Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Til beggja handa má þekkja andlit, bæði úr fortíð og nútíð. Altarið er náttúrlegur steinn úr Flekkuvíkurfjöru.

„Altari Knarrarneskirkju er óhöggvinn fjörusteinn úr Flekkuvíkurfjöru sem hvílir á traustum tréfótum sem Ólafur Sigurjónsson smíðaði.
Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Undir mynd hans eru táknmyndir lands og þjóðar. Á vængnum til beggja handa eru fimm ættliðir. Á hægri vængnum má sjá Þórarinn Einarsson, útvegsbónda í sjóklæðum og feðgana Þórarinn Brynjólfsson, Birgi Þórarinsson og Hjalta, yngsta son Birgis. Á vinstri væng er margrét Þórarinsdóttir fyrrum húsfreyja í Knarrarnesi og við hlið hennar Anna Rut Sverrisdóttir núverandi húsfreyja. Þær klæðast báðar íslenskum búningum með gömlu Skálholtskirkju í bakgrunni. Minnir það á íslenska menningu, kirkjusögu og lífshætti fyrri alda. Náttúran birtist okkur í himninum, norðurljósunum, hálendinu, Snæfellsjökli, ölduróti hafsins, bæjartjörninni með lífríki vatnsins og íslenskum jurtum umhverfis.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – prédikunarstóllinn.

Prédikunarstóllinn gerði Mykhalio Kozyr úkraínskur útskurðarmeistari. Hann er eftirgerð prédikunarstóls sem Guðbrandur Hólabiskup Þorláksson lét gera 1594. Stóllinn er á Þjóðminjasafni en var áður í kirkjuni á Fagranesi í Skagafirði og þar áður í Hóladómkirkju. Á spjöldum eru myndir málaðar af Andrii Kovalenko sem sýna guðspjallamennina Jóhannes, Mattheus, Lúkas og Pétur postula sem heldur á lyklum himnaríkis.
Á norðurhlið kirkjunnar er útskorin Kristsmynd, endurgerð af róðukrossinum frá Upsum, sem er ein elsta Kristsmynd á Íslandi, frá því á 11. öld. verkið gerði Mykhalio Kozyr útskurðarmeistari.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – heilagur Nikulás, helgimynd eftir listamanninn Andrii Kovalenko.

Á suðurhlið er helgimynd eftir Andrii Kovalenko og sýnir heilugan Nikulás, sem forðum var verndari sjómanna og sæfarenda. Margar kirkjur við strendur landsins voru helgaðar honum til forna. Myndin er gjöf listamannsins til kirkjunnar.
Kaleikur og patína er gjöf Karls biskups Sigurbjörnssonar til kirkjunnar. Gripina gerði Ólöf Erla Bjarnadóttir, leirlistakona, í tilefni kristnihátíðar á Þingvöllum árið 2000.“

Heimildir:
-https://www.vf.is/frettir/vill-reisa-kirkju-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/frettir/kirkja-verdur-byggd-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/mannlif/vigsla-knarrarneskirkju-a-vatnleysustrond
-https://www.vf.is/mannlif/knarrarneskirkja-var-vigd-um-helgina
-Bæklingur með vígsluathöfn Knarrarneskirkju 8. ágúst 2021.
-Birgir Þórarinsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Hluti altarsistöflunnar. Hún endurspeglar íslenska menningu, náttúru og fólk í samspili við trú og kærleika.

Ásláksstaðir

Í bókinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ lýsir Guðmundur Björgvin Jónsson (1913-1998) Ásláksstaðahverfi:

Atlagerði (rústir)

Ásláksstaðir

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þessa hverfis. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti. Vestan við Gerðistanga er Álasund eða Álfasund. Um þessar nafngiftir hefur verið meiningarmunur, en Narfakotsbræður, sem bjuggu allan sinn aldur í nálægð við vitann og gættu hans í áratugi höfðu ekki heyrt annað nafn á sundinu en Álfasund.

Atlagerði

Atlagerði.

Í Atlagerði bjuggu hjónin Ingimundur Ingimundarson, f. 1837 og kona hans, Sigríður Þorkelsdóttir, f. 1845. Ingimundur var fyrsti vitavörður Atlagerðisvita, með sömu kjör og Narfakotsbræður síðar (sjá þar). Ingimundur stundaði sjó ásamt því er til féll í landi. Hann hafði engar landnytjar og greiddi landskuld til Ásláksstaða. Ingimundur og Sigríður voru síðust búendur í Atlagerði. Þeirra börn voru m.a. Þórður, f. 24. mars 1883 er
drukknaði frá unnustu sinni, Pálínu, sem gekk þá með barn þeirra, Þórð. Annar sonur Ingimundar og Sigríðar var Guðmundur, f. 1888, sem drukknaði líka á besta aldri.

Fagurhóll (rústir)

Ásláksstaðir

Fagurhóll.

Fagurhóll var í suðausturhorni Ásláksstaðarjarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus. Lítið veit ég um þetta kot, en fyrir aldamótin bjuggu þar hjón, ekki veit ég nafn konunnar, en maður hennar hét Jón. Pau áttu að minnsta kosti einn son, Magnús, og varð hann síðar maður „Gunnu fögru“. Frá Fagurhóli var þessi fjölskylda farin um aldamót, en í staðinn kominn þangað Jón Þórarinsson, f. 1869 og bústýra hans, Ástríður Ólafsdóttir, f. 1877. Móðir Jóns, Ingibjörg Eiríksdóttir, f. 1832, var hjá þeim. Hjá þeim ólst upp Stefán Runólfsson, bróðir Kristmanns, bónda og kennara á Hlöðversnesi (sjá þar). Jón og Ástríður voru fyrst vinnuhjú á Auðnum, hjá Guðmundi Guðmundssyni og trúlofuðust þar, en hófu síðan búskap í Fagurhóli. Hve lengi, svo og hver hefur verið síðasti búandi þar, er mér ekki kunnugt.

Móakot (í eyði)

Ásláksstaðir

Móakot 2021.

Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðurhluta Ásláksstaðarjarðar og er nú sameinað aðaljörðinni. Margir hafa verið búendur þar, enda allvel hýst á eldri tíma mælikvarða.

Móakot 1

Ásláksstaðir

Þar bjuggu um aldamótin Bjarni Sigurðsson, f. 1855, og kona hans, Kristín Jónsdóttir frá Móakoti. Bjarni var bróðir Gísla í Minna-Knarrarnesi. Þeirra börn voru: 1) Jón, f. 1890 (dó ungur), 2) Margrét, f. 1891. Hennar maður var Ingvar Gunnarsson, kennari, frá Skjaldarkoti. Þau bjuggu í Hafnarfirði, 3) Sigurður, f. 1893. Kona hans Anna Bjarnadóttir frá Stóru-Vatnsleysu (sjá þar). Sigurður lést á sóttarsæng á besta aldri frá ungri konu og tveim dætrum. Þau bjuggu í Reykjavík. 4) Þórður, f. 11. sept. 1895, d. 3. nóv. 1981. Hann stundaði eigin bílaakstur. Kona hans var Sigríður Ketilsdóttir úr Laugardal, f. 20. apríl 1901. Þau bjuggu í Hafnarfirði.
Síðar bjuggu í Móakoti Jón Hansson og kona hans, Guðrún Árnadóttir, fyrir og um 1929-30. Guðrún var dóttir Árna á Halldórsstöðum.
Þar næst bjuggu þar Guðmundur Hvamms (sjá Hvamm) og kona hans, Filippía Nikulásdóttir. Síðan bjuggu þar ýmsir leiguliðar árlangt eða að sumri til, m.a. bjó þar Stefán Hallsson, kennari með konu sinni, Arnheiði Jónsdóttur, (sjá Vorhús í Vogum).

Móakot 2

Ásláksstaðir

Móakot.


Þar bjuggu Árni Sveinsson, ekkjumaður, f. 1840 og bústýra hans, Margrét Jónsdóttir, f. 1867, (systir Ingibjargar, konu Magnúsar á Innri-Ásláksstöðum). Árni átti son fyrir, Jón, f. 1868, ári yngri en bústýran. Árni og Margrét áttu einn son, Bjarna, er varð maður Ásu Bjarnadóttur frá Vorhúsum (sjá þar). Bjarni var f. 1898 og voru því 30 ár á milli hálfbræðranna. Þegar Árni hætti að búa lagðist Móakot 2 af.

Nýibær (áður Hallandi, nú í eyði)

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Nýibær í Ásláksstaðarhverfi stendur enn með litlum breytingum síðan árið 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.
ÁsláksstaðirUm aldamótin bjó í Nýjabæ Valgerður Grímsdóttir, f. 1850. Maður hennar, Kristján, var þá látinn. Þau höfðu átt dóttur, Guðrúnu, f. 1. ágúst 1872, d. 21. nóv. 1918 (úr spönsku veikinni). Guðrún hafði átt fyrir mann, Konráð Andrésson, f. 17. ágúst 1869, d. 10. sept. 1945. Valgerður Grímsdóttir átti húsið en leigði jörðina af ekkjunni Guðfinnu Halldórsdóttur, er áður hafði búið þar.
Um 1901 fóru Guðrún og Konráð að búa í Nýjabæ ásamt Valgerði, móður Guðrúnar, og höfðu þau jörðina á leigu áfram, en Guðfinna, eigandi jarðarinnar og seinni maður hennar Sigurður Jónsson voru þá húshjón á Auðnum hjá Guðmundi Guðmundssyni (sjá Auðna). Konráð byggði upp Nýjabæ árið 1911 og á meðan var fjölskyldan á loftinu á Ásláksstöðum og þar fæddist yngsta barn þeirra hjóna, Valdimar. Konráð vann hverja þá vinnu er til féll, en leigujörðin gaf aðeins af sér eitt kýrfóður. Hann fór því, eins og margir úr hreppnum á þeim tíma í kaupavinnu, og helst fór hann vestur í Dali, en þaðan var hann ættaður. Fyrstu árin fóru bæði hjónin vestur og þar fæddist fyrsta barn þeirra. Alls eignuðust þau 4 börn: 1) Kristján Níels, f. 1902, skipstjóra, bjó í Ytri-Njarðvík, d. 1985, 2) Guðrúnu, (lést ung), 3) Margréti, f. 1908, býr í Reykjavík, 4) Valdimar, f. 1911 atvinnubílstjóri, býr í Reykjavík.

Ásláksstaðir

Nýibær.

Jarðeigandinn, Guðfinna Halldórsdóttir, og seinni maður hennar, Sigurður Jónsson, vildu fá jörðina til eigin nota árið 1917. Þau voru þá búin að vera í 15 ár húshjón á Auðnum. Þegar Konráð varð að fara frá Nýjabæ, fékk hann inni á næsta bæ, Sjónarhóli, en hann átti Nýjabæjarhúsið og reif það til nota á öðrum stað. Guðfinna og Sigurður urðu því að byggja að nýju upp húsið, líkt og það er í dag. Ekki urðu þau lengi þar, því eftir tvö eða þrjú ár lést Sigurður, um 1919, og varð þá Guðfinna ekkja í annað sinn. Hún ól upp sér óskyldan dreng, Valgeir Jónsson, og fylgdust þau að meðan hún lifði. Guðfinna var mikil hannyrðakona og saumaði fyrir fólk og hafði nóg að gera. Hún seldi Nýjabæ árið 1921 og leigðu sér húsnæði eftir það meðan hún lifði.
ÁsláksstaðirKaupandinn að Nýjabæ var Sigurjón Jónsson, hálfbróðir Davíðs Stefánssonar bónda á Ásláksstöðum. Kona Sigurjóns var Guðlaug Guðjónsdóttir, systir Elísar á Efri-Brunnastöðum (sjá þar). Sigurjón og Guðlaug voru bæði dugleg og ráðdeildarsöm. Hann var lengst af vertíðarmaður í Ytri-Njarðvík, en á sumrin vann hann við búskap og hjá nágrönnum. Sigurjón var ávallt snar í snúningum þegar á þurfti að halda. Þegar Sigurjón lést árið 1955, brá Guðlaug búi og flutti til Keflavíkur og bjó þar til æviloka hjá Svövu dóttur sinni og Gesti tengdasyni sínum. Sigurjón og Guðlaug eignuðust 5 börn: 1) Svövu, bjó í Keflavík (látin), 2) Lilju, býr í Bandaríkjunum, 3) Einar Hallgrím, (lést ungur), 4) Guðjón (lést um tvítugt), 5) Karlottu, bjó í Bandaríkjunum (látin).
Næst Sigurjóni og Guðlaugu komu að Nýjabæ, Guðlaugur og Theódór, sonur hans. Þeir bjuggu þar í fá ár. Síðasti búandi þar var Guðjón Sigurjónsson og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir. Hún var frá Seyðisfirði og hann var fæddur í Reykjavík, en alinn upp á Marðarnúpi í Ásahreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þau fluttu frá Nýjabæ um 1970 til Ytri-Njarðvíkur. Hann lést árið 1985. Þegar Guðjón fór frá Nýjabæ, seldi hann hreppnum forréttinn sem síðan seldi eigendum Ásláksstaða, og var jörðin þá komin til síns heima þó aldrei hafi farið langt.

Ytri-Ásláksstaðir (tvíbýli fyrir aldamót)

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum og áður er getið um.
Um aldamótin bjuggu á Ytri-Ásláksstöðum Guðmundur Guðmundsson, bóndi, f. 1830 og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 1833. Þau voru þar með tvær dætur sínar. Önnur hét Sigríður f. 1861, og var hennar maður Tómás er dó á besta aldri. Þau áttu eina dóttur, Guðbjörgu, f. 1894. Hin dóttir Guðmundar og Ingibjargar var Guðrún, f. 1866. Hún hóf búskap á Ásláksstöðum með Guðjóni J. Waage. (sjá Stóru-Voga). Dóttir þeirra var Ingibjörg Waage, en hún var sjúklingur meiri hluta ævinnar.
Árið 1912-13 voru systurnar, Sigríður og Guðrún Guðmundsdætur, á loftinu á Ásláksstöðum með dætrum sínum, Guðbjörgu og Ingibjörgu, en niðri munu hafa búið leiguliðar, Guðlaugur Hinriksson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir. Einnig voru þar hjónin Sigurður Magnússon og kona hans, Kristín.
Fyrir 1920 voru Ásláksstaðir fá ár án búsetu, en þeir voru þá til sölu og var Gísli Eiríksson í Naustakoti umboðsmaður jarðeigenda. Árið 1920 kom kaupandi, Davíð Stefánsson frá Fornahvammi í Borgarfirði og kona hans, Vilborg Jónsdóttir frá Innri-Njarðvík. Höfðu þau búið fáein ár í Fornahvammi. Davíð var hálfbróðir Sigurjóns í Nýjabæ eins og áður er sagt. Hann var búmaður, enda fyrrverandi bóndi í Fornahvammi sem var blómlegt bú þegar best lét. Ekki mun Davíð hafa verið fyrir sjómennsku, en þeim mun meira fyrir landbúnaðinn. Vilborg, kona hans, var dugmikil kona og ráðdeildarsöm. Hún var mjög eftirsótt vegna handavinnu sinnar, en hún hafði numið karlmannafatasaum og lék allt í höndum hennar. Davíð og Vilborg eignuðust 9 börn og urðu flest þeirra fljótt vinnusöm og vel nýt til hvers sem var. Ekki komust þau öll til fullorðinsára. Börn þeirra voru: 1) Steingrímur Axel (lést tveggja ára), 2-3) Friðrik Fjallstað, tvíburi, hinn lést í fæðingu, 4) Guðmundur Lúðvík. Pessi börn fæddust í Fornahvammi, en að Ásláksstöðum fæddust: 5) Margrét Helga, (lést tveggja ára), 6) Helgi Axel, 7) Hafsteinn, rafvirki (látinn), 8) Þórir, rafvirki, 9) Marinó.
Eftir lát Davíðs árið 1959 bjó Vilborg áfram með þeim sonum sínum sem ekki voru þá farnir að heiman, en það voru Lúðvík og Friðrik. Mörg síðustu árin var Vilborg sjúklingur á spítala og lést árið 1985. Bræðurnir hafa haldið við jörð og húsum í eigu dánarbúsins. Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Sjónarhóll (í eyði)

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „hómapati“ Sjónarhól. Hann var fæddur 30. jan. 1842, d. 16. ágúst 1919. Lárus var einn af 23 systkinum frá Arnardranga í Kirkjubæjarhreppi, V-Skaftafellssýslu. Kona hans var Guðrún Þórðardóttir frá Höfða ( sjá Hellna). Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum. Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott, enda fór fjölskyldan stækkandi. Lárus stundaði útgerð, en mikill tími fór í að sinna sjúklingum með hómapatískum lyfjum og meðferð, enda var hann alþekktur um suðvesturland fyrir lækningar sínar. Lárus bjó á Sjónarhóli til ársins 1889 eða í 12 ár. Hann flutti þá til Reykjavíkur og lést þar árið 1919, 77 ára gamall.
Eftir Lárus komu að Sjónarhóli, Magnús Magnússon, f. 1858 og ráðskona hans, Guðný Bjarnadóttir, f. 1850. Þau voru með fósturbarn, Guðmund Sigmundsson, f. 1895 og einnig fylgdi þeim vinnumaður, Ásmundur Guðmundsson, f. 1878.

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Síðan komu að Sjónarhóli hjónin Brynjólfur Ólafsson og kona hans, Jónína Jónsdóttir. Þau höfðu byrjað búskap í Reykjavík um 1907 en fluttu að Sjónarhóli um 1910 og bjuggu þar í 15 ár. Brynjólfur stundaði landvinnu og sjómennsku eins og títt var um þær mundir. Man ég hann sem meðalmann á hæð, herðabreiðan með dökkt hár og mikið efrivaraskegg. Sér í lagi bar á honum við kirkjuathafnir því hanri var söngmaður mikill og hafði það embætti að vera forsöngvari í Kálfatjarnarkirkju. Hann hafði mikila rödd og var leiðandi í söngnum.
Þau hjón eignuðust 4 börn: 1) Ólafíu Margréti, f. 1907 í Reykjavík og bjó hún þar síðar (látin), 2) barn er dó ungt , 3) Dagbjörtu f. 1912, bjó í Hafnarfirði (látin), 4) Ragnhildi f. 1917, býr í Reykjavík. Brynjólfur og Jónína ólu upp einn dreng, Svein Samúelsson, bróður Einars er ólst upp í Austurkoti í Vogum.
Árið 1925 var Brynjólfi boðinn kauparéttur að Sjónarhóli. Hafði hreppurinn eignast jörðina og Brynjólfur því verið leiguliði. Brynjólfur hafnaði kaupunum og flutti til Hafnarfjarðar og bjó þar síðan. Kaupandi að Sjónarhóli varð Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði (bróðir Gunnlaugs kaupmanns þar). Friðfinnur átti þessa eign ekki lengi, því að á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur (sjá Halldórsstaði, Sjónarhól Vogum og Sjónarhól á Vatnsleysuströnd).
Ásláksstaðir
Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Síðar byggði hann nýtt hús árið 1929, það hús sem nú stendur. Reisulegt steinhús sem stendur suðaustur af gamla húsinu sem var orðið 43 ára gamalt og var að lokum notað fyrir gripahús. Smiður að nýja húsinu var Jón Helgason, mágur Magnúsar. Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað það að börnin voru farin að heiman. Hann var og útslitinn, með ágerandi kölkun í mjöðm sem síðar var reynt að laga í Noregi með litlum árangri. Börn Magnúsar og Erlendsínu voru: 1) Helgi (látinn), 2) Guðjón (lést ungur), 3) Ragnhildur, 4) Guðjón (nýlátinn ), 5) Anna Dagrún, 6) Guðrún Lovísa, 7) Guðlaug (látin), 8) Sigurveig, 9) Þórður, hálfbróðir (Guðríðarson), 10) Sesselja (lést barn). Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir (horfnir)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahverfi,

Um aldamótin bjuggu á Innri-Ásláksstöðum Magnús Magnússon, f. 1860, og kona hans, Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1860. Þeirra börn voru: 1) Jónína, f. 1888, 2) Vilborg, f. 1891, 3) Magnús, f. 1893, 4) Guðrún, f. 1894, 5) Margrét, f. 1895. Einn son átti Magnús fyrir hjónaband, Sigurð að nafni.
Jónína átti Helga Jónsson frá Nýjabæ hjá Stóru-Vatnsleysu. Helgi fórst með m/b. Hermanni frá Vatnsleysu árið 1916. Vilborg, dóttir Magnúsar, átti Ólaf Teitsson frá Hlöðversnesi og bjuggu þau í Reykjavík. Vilborg var sérstakur velunnari Kálfatjarnarkirkju og gaf henni m.a. altarisdúk. Einn sonur Ólafs og Vilborgar var Eggert prestur á Kvennabrekku í Dölum. Ingibjörg lést á Innri-Ásláksstöðum, en Magnús kvæntist aftur og hét sú kona Eyrún. Átti hún son, Einar Hallgrímsson, er hún hafði með sér.
Magnús og Eyrún bjuggu í nokkur ár á Innri-Ásláksstöðum en fluttu síðan til Hafnarfjarðar og dóu þar. Munu þau hafa verið síðustu búendur á Innri-Ásláksstöðum og lagðist jörðin síðan undir Sjónarhól.“

Vogarétt

Sýsluréttin árið 2022.

Í Örnefnalýsingu fyrir Ásláksstaði segir Gísli Sigurðsson:
„Landamerkjalýsing Ásláksstaðahverfis úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu: Landamerkjalýsing þessi innibindur Ásláksstaðahverfi, en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandi (Nýibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi tilheyrir land allt, girt og ógirt, á milli Hlöðuneshverfis að sunnan og Knarrarness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær.“

Í „Athugasemdum og viðbætum Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum“ segir um Ásláksstaðasel:

Knarrarnessel

Knarrarnesel – uppdráttur ÓSÁ.

„Ásláksstaðasel á að vera austur af Hlöðunesseli milli þess og Knarrarnessels. Magnús á Sjónarhóli talaði um, að fé væri uppi í Huldum, segir Lúðvík. Friðrik gizkar á, að það séu hólar milli Hrafnagjár og Klifgjár, hægra megin við stíginn yfir Hrafnagjá. Þar er leitótt.“

Knarrarnessel

Knarrarnessel  að baki – vatnsstæði.

Í Jarðabók ÁM og PV árið 1703 segir um selstöðu Stóru Ásláksstaða: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.“
Um selstöðu Minni Ásláksstaða segir í Jarðabókinni 1703: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina“.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Ásláksstaðir, Guðmundur Björgvin Jónsson 1913-1998, bls. 261-272.
-Örnefnalýsing – Ásláksstaðahverfi. Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing: Athugasemdir og viðbætur Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, Gullbringusýsla – Vatnsleysustrandarhreppur, Stóru Aslaksstader og Minne Aslaksstader, bls 129-133.

Ásláksstaðir

Ásláksstaði – nokkur örnefni.

Búðarvatnsstæðið

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík segir Þorsteinn Bjarnason frá Háholti m.a. frá Búðarvatnsstæðinu:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

„Frá Dagon er landamarkalínan í Núphlíð. Austan í henni, syðst, er Skalli, en austan undir Núphlíð er Sængurkonuhellir. Frá Núphlíð eru landamerki sjónhending í vesturrætur á Trölladyngjum, frá þeim í Markhelluhól við Búðarvatnsstæði. Að norðan eru mörkin sjónhending úr Markhelluhól, norðvestan við Fjallið eina, öðru nafni Eldborgarhellir, í Melrakkagil, sem kemur niður úr Undirhlíðum.“

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík sem Ari Gíslason skráði segir m.a:
„Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur. Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði.“

Merkhella

Markhella – áletrun.

Í skráningu „Menningarminja í Vatnsleysustrandarhreppi“, svæðisskráningu, sem Sædís Gunnarsdóttir skráði árið 2006 segir:
„Búðarvatnsstæði – heimild um vatnsból
Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll.” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata iggur meðfram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum.” “Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einhverskonar “búðir”. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafist við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.”

Markhella

Markhella – áletrun.

Í Örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980 segir m.a.:
„Er þá komið á Dyngjuháls. Austur af honum eru Mávahlíðar, en þar um liggur landamerkjalínan milli Hvassahraunslands sunnanvert og Krýsuvíkur. Austur af Lambafellum eru Einihlíðar, og vex þar einir. Ofan eða sunnan þeirra er Einihlíðabruni. Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri [hellan snýr reyndar við norðvestri]. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti.“

Í Örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði, lýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a.:

Markhella

Markhella – áletrun.

„Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Norður og niður af vatnsstæðinu nefnast Búðarhólar. Mörkin liggja líklega gegnum þá.“

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Búðarvatnsstæðið er á sléttu hrauni undir nýrri hraunbrún. Á brúninni, á svonefndum Markhelluhól, eru tvær vörður, önnur lítil og hin mosavaxin; greinilega fornar. Um vatnsstæðið lá fyrrum sauðfjárveikigirðing og má enn sjá staura hennar við og í nágrenni við það. Girðingin var þá á mörkum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða. Hvers vegna framangreindir stafir hafi verið grafnir á steinvegg Markhellu, í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá Búðarvatnsstæðinu til austurs, hefur aldrei verið skýrð að fullu. Ekki er ólíklegt að ætla að einhver á ströndinni hafi látið sér detta í hug að krota nöfnin þarna, enda í skjóli frá mögulegri umferð Krýsuvíkurbænda um ofanverð fáfarin hraunin. Landamerkjalýsingin um Markhelluna á þessum stað kemur a.m.k. ekki heim og saman við fyrri lýsingar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík – Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, svæðisskráning; Sædis Gunnarsdóttir, 2006.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun; lýsing Gísla Sigurðssonar, víða tekin upp orðrétt. Upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980. Hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikotinu. Guðmundur er fæddur á Hvassahrauni árið 1919.
-Örnefnalýsing – Óttarsstaðir; lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Keilir

Í Fjarðarpósturinum 1998 segir m.a.: „Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu„:

Keilir

Keilir.

„Ákvörðun Reykjavíkurborgar að kaupa hluta úr landi Þórustaða virðist hafa farið mjög leynt og kom ráðamönnum í Hafnarfirði verulega á óvart. Einn viðmælanda Fjarðarpóstsins orðaði það svo að menn hefðu komið af fjöllum eða Keili, sem mun fylgja í kaupunum.

Magnús Gunnarsson

Magnús Gunnarsson.

Bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson, var nýkomin til landsins á þriðjudagskvöld þegar vinnslu blaðsins var að ljúka og hafði því ekki heyrt fréttirnar. Magnúsi komu þessi landakaup á óvart, þar sem hann hefði nýlega átt fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra um málefni Jarðgufufélagsins. Magnús sagði að á þeim fundi hefði ekki verið minnst á þessi landakaup sem óneitanlega snertu málefni Jarðgufufélagsins þar sem umrædd spilda nær inn á háhitasvæðið í Trölladyngju.
Landeigendur hefðu sér vitanlega ekki boðið Hafnarfjarðabæ landið til sölu. Magnús sagði þessi landakaup snerti ekki beint hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar þar sem Þórustaðir væru utan lögsögu bæjarins. Hins vegar mætti líta svo á að vilji ráðamanna Reykjavíkurborgar til samstarfs við þá sem land eiga að háhitasvæðinu þ.m.t. Hafnarfjarðabæjar sé undirstrikuð með þessum kaupum.

Spákonuvatn

Spákonuvatn ofan Soga – Keilir fjær.

„Það er því ljóst að viðræður um nýtingu á þessu sameiginlega háhitasvæði hljóta að vera í augsýn“ sagði Magnús.

Eyjólfur

Eyjólfur Sæmundsson.

Blaðið hafði einnig samband við Eyjólf Sæmundsson sem hefur áður lagt til bærinn keypti lönd sunnan Hafnarfjarðar til þess að tryggja sér þau jarðhitasvæði sem tengjast Trölladyngjusvæðinu, til að byrja með Hvassahraun og Vatnsleysujarðirnar. Eyjólfur hefur verið formaður viðræðunefndar Jarðgufufélagsins um landakaup. „Þetta kemur mér óvart“, sagði Eyjólfur „þar sem ekkert hefur verið um þetta fjallað á þeim vetvangi sem Hafnarfjörður og Reykjavík hafa skapað til samstarfs um nýtingu á jarðhita á þessu svæði.
Ég sé þó ekki að þessi landakaup spilli neitt fyrir því samstarfi, þó vissulega hefði mér fundist eðlilegt að samráð hefði verið milli sveitarfélaganna um þessi mál.“

Í Morgunblaðinu 1998 er grein; „Keili heim“:
„Nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurnesja efna til mótmælagöngu í dag, fimmtudag, við fjallið Keili á Reykjanesi. Nemendur og kennarar vi]ja með göngunni vekja athygli á því að þeir vilja fá Keili heim!

Keilir

Keilir.

„Það er í umræðunni að selja Keili til Reykjavíkur og því viljum við mótmæla. Keilir er Suðurnesjabúi og við viljum alls ekki að hann fari. Keilir er aðalfjallið okkar hér á Suðurnesjum og við viljum ekki að hann verði ein af blokkunum í Reykjavík. Hvert eitt og einasta Suðurnesjabarn hefur alltaf álitið að hinir einu sönnu jólasveinar búi í Keili. Hver í ósköpunum ætlar að vera svo vondur að eyðileggja jólastemmningu Suðurnesjabarna og flytja jólasveinana til Reykjavíkur?“ segir Viktoría Ósk Almarsdóttir, ritari nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Keilir

Keilir.

Farið verður með langferðabíl frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja að Keili um klukkan 10 í dag og stendur gangan til klukkan 14. Við Keili munu þátttakendur mótmælagöngunnar sýna tilfinningar sínar í garð Keilis, og þeir sem vilja geta gengið á hann. „Sumir munu klappa og kyssa Keili en aðrir munu flytja ræður og ýmsan áróður,“ segir Viktoría, sem er um þessar mundir að vekja athygli á málstað Suðurnesjabúa í Keilismálinu.“

Í Fréttablaðinu 2020 segir af Keili; „Fagurt fjall sem er fella“, grein eftir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson:

Oddafell

Oddafell – Keilir fjær. Þorvaldur Thoroddsen nefnir fellið „Fjallið eina“.

„Í þýskumælandi löndum og þá sérstaklega í Ölpunum er gjarnan talað um bæjar- eða borgarfjall (Hausberg), sem flestir í Reykjavík myndu telja vera Esjuna. Annað fjall sem ekki er síður í uppáhaldi borgarbúa er Keilir á Reykjanesskaga. Hann blasir við suður af Reykjavík og sést til dæmis vel þegar keyrt er eftir Suðurgötu út í Skerjafjörð. Eins og nafnið gefur til kynna er Keilir formfagur og 379 m hátt fjallið gnæfir upp úr umhverfi sínu á miðju Reykjanesi.

Orðið keila kemur víða fyrir í íslensku máli. Þannig eru keilulaga eldfjöll sem gjósa endurtekið eins og til dæmis Eyjafjallajökull og Snæfellsjökull, kölluð eldkeilur. Keilir er ekki slík eldkeila, heldur myndaðist hann við stakt gos undir ísaldarjökli og er gerður úr móbergi. Í stærðfræði er keila notað yfir þrívítt form og rúmmál hennar táknað með R=1/3*?*h*r^2. Í augnbotni kallast taugafrumur sem skynja liti í miðgróf sjónhimnu keilur og fisktegundin keila hefur löngum verið veidd við Ísland og þykir herramannsmatur. Loks er keila vinsæl íþrótt, ekki síst í Bandaríkjunum en einnig hér á landi. Þá er reynt að skjóta niður 10 keilur með kúlu og eru tvö skot í hverri umferð. Ef tekst að fella allar keilurnar í fyrsta skoti kallast það fella en feykja ef það næst í tveimur skotum.

Keilir

Keilir – handan FERLIRsfélaga.

Allir sem gengið hafa á Keili geta vottað að hann er sannkölluð fjallafella og umhverfi hans sömuleiðis. Þetta er auðveld ganga en að vetri til er skynsamlegt að taka með mannbrodda og ísöxi. Aðeins tekur hálftíma að aka að gönguleiðinni við Höskuldsvelli og er fylgt ójöfnum malarslóða frá Vatns[leysu]strandarvegi. Frá bílastæðinu tekur um það bil 45 mínútur að ganga að fjallinu og hálftíma upp fjallið.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Efst eru brekkur lausar í sér en útsýnið af hátindinum er frábært, til dæmis yfir höfuðborgarsvæðið, eldbrunninn Reykjanesskaga, Esju, Móskarðshnjúka og Hengilssvæðið. Þegar haldið er heim er hægt að stefna beint í austur yfir falleg mosagróin hraun og komast eftir kindagötum aftur að bílastæðinu. Skammt frá eru spennandi fjöll eins og Trölladyngja en einnig Spákonuvatn og litríkt hverasvæði Soganna, og auðvelt að kíkja nánar á þær perlur í sömu ferð.“

Heimildir:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.1966, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 16-17.
-Fjarðarpósturinn, 29. tbl. 07.09.1998, Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu, bls. 1.
-Morgunblaðið, 216. tbl. 24.09.1998, Keili heim, bls. 14.
-Fréttablaðið, 261. tbl. 10.12.2020, Fagurt fjall sem er fella, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.

Keilir

Þráinsskjöldur

Í Wikipedia er fjallað um „Þráinsskjöld“ á Reykjanesskaga:

Þráinsskjöldur – gígurinn

„Þráinsskjöldur er geysimikil hraunbunga norðaustan undir Fagradalsfjalli á utanverðum Reykjanesskaga.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – herforingjaráðskort Dana.

Eldgígurinn er hraunfylltur og mjög ógreinilegur en frá honum hefur runnið mikið hraun, Þráinsskjaldarhraun, sem þekur meira og minna allt land frá Fagradalsfjalli og til strandar í norðri. Það myndar ströndina alla utan frá Vogastapa og inn að Vatnsleysuvík. Nokkur móbergsfjöll standa upp úr hrauninu svo sem Keilir og Keilisbörn, Litli Keilir og Litli Hrútur. Þráinsskjöldur er dyngja, þ.e. eldstöð af svipaðri gerð og Skjaldbreiður, en vegna landslagsáhrifa hefur hann ekki náð að verða reglulegt hringmyndað eldfjall. Hraunið hefur komið upp um einn hringmyndaðan gíg eins og í flestum dyngjum. Úlit hraunsins og hraunstraumanna í því bendir til þess að kvikan sem upp kom hafi verið þunnfljótandi og gosið virðist hafa staðið lengi. Á þeim langa tíma sem liðinn er síðan hraunið rann hafa myndast mikil misgengi, sprungur og gjár í því.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og dyngjur Reykjanesskagans fyrir u.þ.b. 6000 árum.

Örnefnið Þráinsskjöldur er gamalt heiti á hraununum upp af Vatnsleysuströndinni og er nefnt í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Jón Jónsson jarðfræðingur gróf það úr gleymsku þegar hann kortlagði hraun Reykjanesskagans og notaði það yfir eldstöðina í heild. Þráinsskjöldur er því strangt til tekið eldfjall þótt fáir myndu vilja kalla þennan lága og flata hraunskjöld fjall. Hæstu nibbur á gígbörmum ná 238 m y.s.

ÞráinsskjaldarhraunÞráinsskjaldarhraun er stærsta hraunið á utanverðum Reykjanesskaga, flatarmál þess er um 135 km². Sjór hefur staðið allnokkru lægra við ströndina þegar hraunið rann en hann gerir nú. Hraunið nær víða einn til tvo km út fyrir ströndina. Talið er að flatarmál þess neðansjávar sé um 11 km². Heildarflaratmálið er því 146 km². Rúmmál hraunsins hefur verið áætlað rúmir 5 km³. Vogar og byggðin á Vatnsleysuströnd er á hrauninu. Þráinsskjaldarhraun er meðal elstu hrauna á Reykjanesskaga, það rann í ísaldarlok, á sama tíma og ísaldarjökullinn var að hopa af skaganum. Sýnilegt er að eftir að hraunið rann hefur jökullinn vaxið á ný og flætt út á austasta hluta þess en síðan hopað fljótt til baka og hörfað inn til lands. Aldursgreiningar á skeljum í sjávarseti undir hrauninu sýna að það er um 14.100 ára.“

Tilvísanir:
-Kristján Sæmundsson 1995. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Í: Björn Hróarsson, Dagur Jónsson og Sigurður Sveinn Jónsson (ritstj.). Eyjar í eldhafi. Safn greina um náttúrufræði til heiðurs -Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál hf. Reykjavík, bls. 165-172.
-Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. Reykjanesskagi. Í: Júlíus Sólnes (ritstj.) Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, bls. 379-401.
-Kristján Sæmundsson, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson, Sigurður Garðar Kristinsson og Magnús Á. Sigurgeirsson 2010. Jarðfræðikort af Suðvesturlandi 1:100.000. Íslenskar orkurannsóknir.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Skýringar við Jarðfræðikort. OS-JHD-7831, Orkustofnun.

Olivin

Ólinvínþóleiít.

Í Náttúrufræðingnum 1984 fjallar Sveinn P. Jakobsson um „Íslenskar bergtegundir II – Ólinvínþóleiít“:
„Í fyrstu greininni um íslenskar bergtegundir (Sveinn P. Jakobsson 1983) var fjallað um pikrít, upphafslegustu bergtegund þóleiísku bergraðarinnar. Nú er röðin komin að ólivínþóleiíti, sem er náskylt pikríti, en langtum algengara. Ólivínþóleiít er meðal þeirra bergtegunda sem nefndar hafa verið einu nafni basalt (blágrýti), aðrar basalt-tegundir eru þóleiít, „millibasalt“ (hálf-alkalískt basalt) og alkalíólivínbasalt. Önnur nöfn hafa að vísu verið notuð um afbrigði basalts, svo sem grágrýti og kvarsþóleiít, en þau eru óþörf og í sumum tilvikum villandi. Verður nánar að því vikið síðar.

olivin

Ólinvínþóleiít.

Ólivínþóleiít er gráleit bergtegund, nokkuð breytileg að lit, en oftast grádökkgrá. Við ummyndun dökknar bergið og verður brúngrátt eða brúnsvart. Það er einkenni á ólivínþóleiíti, að það er mjög blöðrótt, en blöðrurnar eru yfirleitt smáar. Ólivínþóleiít er fín- til millikorna, þannig að einstakir kristallar bergsins eru greinanlegir með berum augum. Þó er þetta breytilegt og hefur áhrif á lit bergsins. Því smærri sem kornin eru, þeim mun dekkra er bergið. Ólivínþóleiít er þunnfljótandi við rennsli, og virðist allajafna storkna í helluhraun, en þau eru byggð upp af þunnum (oft 0,2-2 m á þykkt), óreglulegum hraunlögum, líkt og sjá má á veggjum Almannagjár við Þingvöll.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur.

Þráinsskjaldarhraun á Reykjanesskaga, skal hér tekið sem dæmi um ólivínþóleiít-bergmyndun, en það er norðantil á skaganum og nær óslitið frá Vatnsleysuvík að Vogastapa (Jón Jónsson 1978).

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – loftmynd.

Þráinsskjöldur er dyngjuhraun (hraunskjöldur) og hefur runnið frá stórum gíg sem er norðaustan undir Fagradalsfjalli. Hraunið, sem er dæmigert helluhraun, er um 130 km2 og er þannig eitt stærsta hraunið á Reykjanesskaga. Sé gert ráð fyrir að meðalþykkt sé 40 m, þá er rúmmál þess 5,2 km3. Þótt hraunið sé þannig mjög mikið, þá benda athuganir til þess að það sé allt mjög svipað að samsetningu. Víða er gott að ná sýni úr hrauninu í gjám og sprungum og einnig á nokkrum stöðum meðfram Reykjanesbraut.
Þessar steintegundir mynda Þráinsskjaldarhraun: Dílar (kristallar, sem skera sig úr að stærð og oftast eru sjáanlegir með berum augum) eru ólivín (grængult, Fo 80-85), með litlum innlyksum af krómspínli.
Flekaskil
Ólivínþóleiít eins og það sem hér er lýst er algengt í miðgosbeltinu, og mest allt það berg sem hingað til hefur verið kallað grágrýti er sennilega ólivínþóleiít. Nafnið ólivínþóleiít höfðar til þess, að hér er um að ræða ólivínríkt þóleiít, og er fyrst notað hér á landi í núverandi merkingu af Carmichael (1964). Nafnið þóleiít er nú á tímum notað um basalt sem inniheldurpyroxen-tegundirnar ágít og pígeonít, en lítið eða ekkert ólivín.

ÞráinsskjöldurÓlivínþóleiít, og þóleiít, eru langalgengustu bergtegundir landsins. Þóleiískt berg er að finna í miðgosbeltinu sem liggur um Reykjanesskagann, Langjökuls- og Hofsjökulssvæðin, um norðvesturhluta Vatnajökuls og þaðan norður í sjó. Allt basalt sem hefur myndast á þessum svæðum á nútíma og á jökultíma er annaðhvort ólivínþóleiít eða þóleiít (Sveinn P. Jakobsson 1972). Í hliðargosbeltunum er hinsvegar alkalískt berg. Einnig er talið, að allt basalt í jarðmyndunum sem eru eldri en u. þ. b. 2 milljónir ára, sé annaðhvort ólivínþóleiít eða þóleiít.

Í gosbeltunum og við þau eru það einkum stóru hraundyngjurnar sem eru af ólivínþóleiítgerð. Auk Þráinsskjaldar má í Reykjanes-Langjökulsbeltinu benda á Selvogsheiði, Borgarhóla á Mosfellsheiði, Reykjavíkurgrágrýtið, Lyngdalsheiði, Skjaldbreið, Skálpanes og Kjalhraun. Í norðurgosbeltinu eru Trölladyngja, Vaðalda, Kollóttadyngja, Grjótháls, Þeistareykjabunga og ýmsar fleiri dyngjur. Þessar dyngjur eru flestar taldar hafa myndast í einu gosi, hver fyrir sig. Þarna er oft um mikið magn gosefna að ræða; þannig er talið að við gosið í Skjaldbreið hafi myndast um 17 km3 hrauns (Guðmundur Kjartansson 1967).

Trölladygja

Trölladyngja og nágrenni.

Eins og gefur að skilja, hefur mikið verið fjallað um uppruna ólivínþóleiíts. Tilraunir sýna, að auk pikríts og skyldra bergtegunda, þá geti ólivínþóleiít einnig myndast við hlutbráðnun á möttulberginu peridótít. Nokkuð greinir menn á um á hvaða dýpi þetta gerist, en oftast er talað um 10-60 km undir yfirborði jarðar.
Hvað varðar uppruna ólivínþóleiíts á Íslandi, telja margir líklegt, að það myndist beint við hlutbráðnun á möttulefni á tiltölulega litlu dýpi undir miðgosbeltinu, (sjá t. d., O’Nions og Karl Grönvold 1973, og Níels Óskarsson o. fl. 1982). Einnig hafa verið leiddar líkur að því að það hafi þróast úr pikríti í kvikuhólfum í jarðskorpunni, einkum við hlutkristöllun (Sveinn P. Jakobsson o. fl. 1978).“

Tilvísanir:
-Carmichael, I. S. E. 1964. The petrology of Thingmúli, a Tertiary volcano in eastern Iceland. — J. Petrol. 5: 435-460.
-Guðmundur Kjartansson. 1967. Rúmmál hraundyngna. – Náttúrufræðingurinn 37: 125.
-Jón Jónsson. 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. – Orkustofnun OSJHD 7831: 303 bls. og 21 kortblað.
-Kristján Sæmundsson. 1980. Outline of the geology of Iceland. – Jökull 29: 7 – 28.
-Níels Óskarsson, Guðmundur E. Sigvaldason & Sigurður Steinþórsson. 1982. A dynamic model of rift zone petrogenesis and the regional petrology of Iceland. – J. Petrol. 23: 28-74. -O’Nions, R. K. & Karl Grönvold. 1973.
-Petrogenetic relationship of acid and basic rocks in Iceland. Sr-isotopes and rare-earth elements in late and postglacial volcanics. – Earth Planet. Sci. Letters 19: 397-409.
-Sveinn P. Jakobsson. 1972. Chemistry and distribution pattern Of Recent basaltic rocks in Iceland. – Lithos 5: 365-386.
-Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the western Reykjanes Penisula, Iceland.- J. Petrol. 19: 669-705.
-Sveinn P. Jakobsson. 1979. Petrology of Recent basalts of the Eastern Voicanic Zone, Iceland. – Acta Naturalia Islandica 26: 103 bls.
-Sveinn P. Jakobsson. 1983. íslenskar bergtegundir I. Pikrít (óseanít). – Náttúrufræðingurinn 52: 80-85.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Á Vísindavefnum er fjallað um örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?
„Þráinsskjaldarhraun er mikið í fréttum þessa dagana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, ásamt Fagradalsfjalli, Keili, Litla-Hrút, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og fleiri góðum örnefnum.
Heitið virðist sett saman úr þremur hlutum: Þráinn, skjöldur og hraun. Það síðastnefnda er auðskiljanlegt. Skjöldur er svo þekkt í örnefnum til að lýsa dyngjulaga fjöllum, samanber Lyngskjöld á sunnanverðum Reykjanesskaga og hina alkunnu Skjaldbreiði norðan við Þingvallavatn. Hins vegar er ekkert vitað um Þráin. Hver var Þráinn? Hvað var Þráinn? Var Þráinn yfirleitt til?

Örnefnaskrár fyrir svæðið á Reykjanesskaganum kannast ekki við Þráinsskjöld og heimamenn kalla svæðið Heiðina.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur.

Örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun eiga sér ekki forna sögu eins og mörg önnur íslensk örnefni. Þau koma ekki fyrir í Landnámu eða Íslendingabók Ara fróða, á þau er ekki minnst í Íslendingasögunum og þjóðsögurnar eru sömuleiðis þöglar.

Þráinsskjöldur

Reykjanesskagi – kort.

Þau koma í raun fyrst fyrir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar segir: „Skolahraun er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinskjöldshraun.“ Góðri öld síðar segir Þorvaldur Thoroddsen í sinni ferðabók: „Sumir kalla hraunin vestur af Keili Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun.“ Af orðum Eggerts og Bjarna er svo að sjá heitið hafi einkum átt við hraunið nær sjó í norðri en Þorvaldur virðist nota það í víðari skilningi, svipað og nú er gert.
Örnefnaskrár fyrir þetta svæði á Reykjanesskaganum kannast sömuleiðis ekki við Þráinsskjöld. Sesselja G. Guðmundsdóttir sem er heimakona úr Vogunum og hefur kannað þetta svæði mikið, bæði á bók og fæti, segir að heimamenn hafi aldrei kallað þetta svæði annað en Heiðina og náði það nafn allt frá sjó í norðri og suður í Reykjanesfjallgarð.
Örnefnið hefur væntanlega fest í sessi með skrifum jarðfræðinga um svæðið á 20. öldinni en fyrir þann tíma hafa verið áhöld um hvort það var yfirleitt notað af heimamönnum eða hversu vítt það náði. Nafnið er því ófyrirsegjanlegt eins og skjálftarnir sem skekja það nú.“

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og nágrenni að sunnanverðu.

Á vef Árnastofnunar er spurt: „Hvaða örnefni er rétt? – Nokkur orð um notkun og heimildir örnefna á Reykjanesskaga.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjóldur – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

„Athygli landsmanna (og heimsfjölmiðla) beinist um þessar mundir að Reykjanesskaga þar sem jarðskjálftavirkni er enn mikil og kvikugangur er að myndast á svæðinu sem afmarkast af Fagradalsfjalli og Keili (sjá kort Veðurstofu Íslands 10. mars 2021 hér).

Um þetta svæði skrifaði jarðfræðingurinn Jón Jónsson að „Samspil orsaka til breytinga á afstöðu láðs og lagar er afar flókið og ljóst er að kyrrstaða er hér ekki ráðandi“ (Árbók Ferðafélags Íslands 1984, bls. 76).

Meðal þeirra örnefna sem vakið hafa athygli eru Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun. Eins og áður hefur verið bent á er hvergi að finna í heimildum skýringu á því hver þessi Þráinn var, sem skjöldurinn er kenndur við, og þar af leiðandi ekki gott að segja hversu gamalt örnefnið er. Karlmannsnafnið Þráinn er þekkt bæði í Njáls sögu og Landnámabók en samkvæmt bókinni Nöfn Íslendinga kemur nafnið ekki aftur fyrir sem eiginnafn fyrr en á 19. öld. Í manntali fyrir árið 1910 voru tveir karlar með þessu nafni (annar í Barðastrandarsýslu en hinn í Þingeyjarsýslum). Á árunum 1921–1950 báru 86 drengir nafnið Þráinn og í þjóðskrá 1. janúar 2008 voru 160 karlar skráðir með nafnið sem einnefni eða fyrra nafn, en 34 að seinna nafni (bls. 647).

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er heitið á hrauninu talið upp ásamt öðrum hraunum í Gullbringusýslu:

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun og nágrenni.

„Helztu hraunbreiðurnar í Gullbringusýsla heita: Ögmundarhraun, skammt frá Krýsuvík. Það er ungt hraun og mjög ljótt. Djúpadalshraun, hinum megin Selvogsheiðar. Herdísarvíkurhraun á Selvogsheiði. Skolahraun (Skúlahraun?) er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinsskjöldshraun (eða Þráinskallahraun, Þ[orvaldur] Th[oroddsen]). Báðum megin Hafnarfjarðar eru ljótir hraunaflákar, Garðahraun að norðanverðu, en Vatnsleysuhraun að sunnan“ (bls. 198).

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga.

Þessi tilvísun í Ferðabókina gefur ekki hvað síst góða hugmynd um flækjurnar sem koma oft fyrir þegar upphaf og saga örnefna er rakin, t.d. varðandi stafsetningu þeirra, mismunandi nafngiftir eða orðmyndir og staðsetningu. Þorvaldur Thoroddsen getur þess að hraunið sé kallað Þráinskjöldshraun eða Þráinskallahraun af sumum (Ferðabók, bls. 182). Þess ber að geta að Þráinsskallahraun er orðmyndin sem finna má í örnefnaskrá eftir skrásetjarann Þorstein Bjarnason frá Háholti (fæddur 1900) þar sem örnefni í óbyggðinni vestur og norður frá Grindavík eru tekin saman (Lbs 2857 4to og afrit í örnefnasafni Árnastofnunar en handritið var ekki sett saman fyrr en árið 1944 þegar Landsbókasafnið fékk það að gjöf). Einnig er þessa mynd orðsins að finna í örnefnalýsingum t.d. fyrir bæinn Hraun í Grindavíkurhreppi.
Sesselja G. Guðmundsdóttir bendir á í riti sínu Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi að örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun hafi ekki þekkst í sveitinni og að „menn hér í hreppi töluðu einfaldlega um Heiðina (með stórum staf)“ (2. útgáfa, 2007, bls. 28–29).

Litli-Keilir

Keilir og nágrenni.

Oft er það þannig að ekki er hægt að segja með vissu hvaða útgáfa örnefnis er ‚rétt‘ – rithættir og málvenjur eru ekki alltaf í samræmi og geta breyst í tímans rás. Örnefni eru lifandi fyrirbæri: breytileikinn er meðal þeirra einkenna sem athyglisvert er að skoða. Þau færast til – stundum vegna misskilnings, eins og virðist hafa gerst með örnefni á svæðinu sem vísa í aðra lægri hnjúka: Litli-Keilir, Nyrðri-Keilisbróðir, Syðri-Keilisbróðir, Keilisbörn, Litli-Hrútur og Stóri-Hrútur. Heimildum ber ekki saman um hvort Litli-Keilir sé sama kennileiti og Nyrðri-Keilisbróðir og/eða Litli-Hrútur. Eins og Sesselja bendir á er notkun þessara örnefna og kennileitanna sem þau vísa til mismunandi eftir því hvaðan heimamenn koma (t.d. frá Vatnsleysuströnd eða Grindavík) og hvaða kynslóðum þeir tilheyra (bls. 132, 141).

Keilir

Keilir.

Keilir er þó engum ókunnugur. Hann hefur verið notaður sem kennileiti í aldanna rás af sjófarendum (Íslendingum sem útlendingum – sem kölluðu fjallið Sykurtopp samkvæmt Sýslu- og sóknalýsingum fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu, bls. 109) til að finna fiskimið og rata, eins og Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi kvað:
Sæfarendur reyna rétt / rata‘ að lending heilir; / til að benda‘ á takmark sett / tryggur stendur Keilir‘. (Tilvísun fengin úr bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 128.).“

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9Er%C3%A1insskj%C3%B6ldur
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1984, Íslenskar bergtegundir II – Ólinvínþóleiít, Sveinn P. Jakobsson, bls. 13-17.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81334
-https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/hvada-ornefni-er-rett-nokkur-ord-um-notkun-og-heimildir-ornefna
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 128.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Huldufólkssögur

Í „Huldufólkssögum – úrvali úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar„, segir m.a. um „Marbendil,

Mjer er í minni stundin,
þá marbendill hló;
blíð var baugahrundin,
[er bóndinn kom af sjó];
kysti hún laufalundinn,
lymskan undir bjó.
Sinn saklausan hundinn
sverðabaldur sló.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar – fornleifar.

Á Suðurnesjum er bæjaþorp nokkurt, sem heitir í Vogum, en raunar heitir þorpið Kvíguvogar, og svo er það nefnt í Landnámu.

Vogar

Vogar – loftmynd 1954.

Snemma bjó bóndi einn í Vogum, er sótti mjög sjó, enda er þar enn í dag eitthvert besta útræði á Suðurlandi. Einhvern dag reri bóndi, sem oftar, og er ekki í það sinn neitt sjerlegt að segja af fiskifangi hans. En frá því er sagt, að hann kom í drátt þungan, og er hann hafði dregið hann undir borð, sá hann þar manns-líki, og innbyrti það. Það fann bóndi, að maður þessi var með lífi, og spurði hann, hvernig á honum stæði; en hann kvaðst vera marbendill af sjávarbotni. Bóndi spurði, hvað hann hefði verið að gera, þegar hann hefði ágoggast. Marbendill svaraði : »Jeg var að laga andskjólin fyrir eldhússtrompnum hennar móður minnar. En hleyptu mjer nú niður aftur«. Bóndi kvað þess engan kost að sinni, »og skaltu með mjer vera«. Ekki töluðust þeir fleira við; enda varðist marbendill viðtals.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins Voga (Kvígurvoga). Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).

Þegar bónda þótti tími til, fór hann til lands og hafði marbendil með sjer, og segir ekki af ferðum þeirra, fyr en bóndi hafði búið um skip sitt, að hundur hans kom í móti honum og flaðraði upp á hann.

Vogar 1950

Vogar um 1950.

Bóndi brást illa við því, og sló hundinn. Þá hló marbendill hið fyrsta sinn. Hjelt bóndi þá áfram lengra og upp á túnið, og rasaði þar um þúfu eina, og blótaði henni; þá hló marbendill í annað sinn.
Bóndi hjelt svo heim að bænum; kom þá kona hans út í móti honum, og fagnaði bónda blíðlega, og tók bóndinn vel blíðskap hennar. Þá hló marbendill hið þriðja sinn. Bóndi sagði þá við marbendil: »Nú hefir þú hlegið þrisvar sinnum, og er mjet forvitni á að vita, af hverju þú hlóst«. »Ekki geri jeg þess nokkurn kost«, sagði marbendill, »nemi þú lofir að flytja mig aftur á sama mið og þú dróst mig á«. Bóndi hjet honum því. Marbendill sagði: »Þá hló jeg fyrst, er þú slóst hund(inn) þinn, er kom og fagnaði þjer af einlægni. En þá hló jeg hið annað sinn, er þú rasaðir um þúfuna og bölvaðir henni; því þúfa sú er fjeþúfa, full af gullpeningum. Og enn hló jeg hið þriðja sinn, er þú tókst blíðlega fagurgala konu þinnar; því hún er þjer fláráð og ótrú; muntu nú efna öll orð þín við mig, og flytja mig á mið það, er þú dróst mig á«. Bóndi mælti: »Tvo af þeim hlutum, er þú sagðir mjer, má jeg að vísu ekki reyna að sinni, hvort sannir eru, trygð hundsins og trúleik konu minnar; en gera skal jeg raun á sannsögli þinni, hvort fje er fólgið í þúfunni, og ef svo reynist, er meiri von, að hitt sje satt hvorttveggja, enda mun jeg þá efna loforð mitt«.

Vogar

Vogar.

Bóndi fór síðan til, og gróf upp þúfuna, og fann þar fje mikið, eins og marbendill hafði sagt. Að því búnu setti hann skip til sjávar, og flutti marbendil á sama mið, sem hann hafði dregið hann á; en áður en bóndi ljet hann fyrir borð síga, mælti marbendill: »Vel hefir þú nú gert, bóndi, er þú skilar mjer móður minni heim aftur, og skal jeg að vísu endurgjalda það, ef þú kant til að gæta og nýta þjer. Vertu nú heill og sæll, bóndi«. Síðan ljet bóndi hann niður síga, og er marbendiil nú úr sögunni.

Vogar

Vogar um 1950.

Það bar til litlu eftir þetta, að bónda var sagt, að 7 kýr sægráar að lit væru komnar þar í túnjaðarinn við fjöruna. Bóndi brá við skjótt, og þreif spýtukorn í hönd sjer, gekk svo þangað, sem kýrnar voru; en þær rásuðu mjög og voru óværar. —
Eftir því tók hann, að þær höfðu allar blöðru fyrir grönum. Það þóttist hann og skilja, að hann mundi af kúnum missa, nema hann fengi sprengt blöðrur þessar. Slær hann þá með kefli því, er hann hafði í hendi sjer, framan á granirnar á einni kúnni, og gat náð henni síðan. En hinna misti hann, og stukku þær þegar í sjóinn. Þóttist hann þá skilja, að kýr þessar hefði marbendill sent sjer í þakkar skyni fyrir lausn sína. Þessi kýr hefir verið hinn mesti dánumannsgripur, sem á Ísland hefir komið; æxlaðist af henni mikið kúakyn, sem víða hefir dreifst um land, og er alt grátt að lit, og kallað sækúakyn. En það er frá bónda að segja, að hann varð mesti auðnumaður alla æfi. Hann lengdi og nafn bygðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga, er áður voru kallaðir Vogar.

Vogar

Vogar.

Heimild:
-Huldufólkssögur – úrval úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar, Ísafoldarprentsmiðja 1920, bls. 162-165.
-https://ferlir.is/grindavik-alagablettir-og-thjodsogur-3/

https://ferlir.is/tudra/https://ferlir.is/arnarfellslabbi/

Móakot

Í Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Hlöðunes, Narfakot, Hlöðuneskot, Ásláksstaði, Knarrarnes, Breiðagerði og Vatnsleysubæina, og nokkrar aðrar merkar minjar í sveitarfélaginu.

Hlöðunes (býli)

Hlöðunes

Hlöðunes.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 127. 9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr.), Hlöðunes (20 hdr.), tvenna Ásláksstaði (40 hdr.), Knarrarnes tvö ( 30 hdr.), Breiðagerði fyrir (10 hdr.). DI IV 707-708.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
1703: Hlöðuneskot eina hjáleigan. JÁM III, 129. 1847: Hjáleigur í byggð eru Narfakot og Hlöðuneskot. JJ, 90. „Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði.“ Ö-Hlöðunes, 3, 5. Klöpp var einnig afbýli sem fór í eyði fyrir aldamótin 1900. GJ: Mannlíf og mannvirki, 253.

Hlöðunes

Hlöðunes 1939.

Jörðin einnig nefnd Hlöðversnes. Þar var tvíbýli og seinni bærinn nefndur Hlöðversneskot, Gilsbakki og Vesturkot (sjá Hlöðuneskot).
1703: „Túnin brýtur sjór með sandi og grjóti æ meir og meir. Engjar eru öngvar. Úthagar litlir um sumar, nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 129.
1919: Tún 3,6 teigar, garðar 1500m2 samkvæmt túnakorti.

Hlöðunes

Hlöðunes.

Bæjarhóll Hlöðuness er á náttúrulegri hæð í miðju túni. Jörðin fór í eyði í kringum 1960 og er nú í eigu Nesbús sem rekur eggjabú á jörðinni suðaustan við gamla heimatúnið, fast norðan við Vatnsleysustrandarveg. Á bæjarhólnum sjást nokkrir grunnar, m.a. líklega síðasta íbúðarhússins. Engar vísbendingar eru um annað en að bærinn í Hlöðunesi hafi staðið á þessum stað um aldir. Í túninu eru grónar hæðir og suðaustan við bæinn hefur verið tjörn eða mýrlendi en það var þurrt þegar skráningarmaður var á ferð í júní 2012.

Hlöðunes

Hlöðunes.

Sem fyrr segir er bæjarhóll Hlöðuness á náttúrulegri hæð og er bæjarhóllinn sjálfur ekki afgerandi. Hann virðist vera um 30×25 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Hann er um 1 m á hæð.

Hlöðunes

Hlöðunes – uppdráttur.

Á bæjarhólnum er hlaðinn grunnur íbúðarhúss og ummerki um tengd hús. Húsgrunnurinn (kjallarinn) A snýr norðvestur-suðaustur. Hann er um 7×5 m að stærð. Op er á honum á miðri suðvesturhlið. Þar eru þrep ofan í kjallarann. Í veggjum er sementslím milli steina og eru þeir múraðir að utan að hluta. Kjallarahleðslurnar standa um 0,6 m upp úr jörðu. Kjallarinn er um 1,2 m á dýpt og sjást 8 umför í hleðslum. Veggir eru 1-1,5 á þykkt. Hlaðinn skorsteinn er í kjallaranum.

Hlöðunesbrunnur (vatnsból)

Hlöðunesbrunnur

Hlöðunesbrunnur.

„Hlöðunesbrunnur. Halldórsstaðabrunnur og þá Narfakotsbrunnur voru allir skammt frá bæjum í Túnunum,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 80 m norðan við bæ og er það að líkindum Hlöðunesbrunnur. Brunnurinn er enn greinilegur.
Brunnurinn er í fremur sléttu og flatlendu túni. Brunnurinn er byrgður og því sést ekki ofan í hann. Hann stendur nokkuð upp úr túninu og er um 3×3 m að stærð og 0,4 m á hæð. Brunnurinn er gróinn. Ekki fengust upplýsingar um það hversu djúpur hann er en ætla má að hann sé grjóthlaðinn.

Hlöðunessel (sel)

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðunesskinn, og eru þar hagir bjarglegar en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu,“ „… þaðan beina línu sunnan til við Ásláksstaðaholt upp í Hrafnhóla og þaðan beina línu sunnan til við Hlöðunessel Gamla, til Fjalls …,“ segir í örnefnaskrá um sama stað. „Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri stóð Gamla-Hlöðunessel eða Hlöðunessel, þar sjáum við tvær mjög gamlar tóftir en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem hefur verið mikill þarna,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Selið er um 7,1 km suðaustan við bæ. Selið er langt uppi í heiði þar sem uppblástur er nokkuð mikill.
Selið er í brekku móti austri og hefur verið ágætt seltún austan við það í skjóli hlíða til suðurs og suðausturs. Nánast allt seltúnið er horfið vegna uppblásturs en enn sést grænn graskragi í brekkurótum til suðurs og suðausturs. Uppblásturinn er kominn mjög nærri tóftunum sem enn sjást á svæðinu og stafar þeim mikil hætta af honum.
Minjar í selinu eru á svæði sem er um 90×10 m að stærð og snýr norður-suður.

Halldórsstaðir (býli)

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – örnefni.

„Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, og Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,“ segir í örnefnaskrá. Utan um Halldórsstaðatún er túngarður. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Jörðin var byggð úr 1/4 af torfunni. Búið að slétta allt.“ Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru Halldórsstaðir um 150 m norðaustan við bæ. Jörðin fór í eyði á síðari hluta 20. aldar. Á túnakortinu eru sýnd 5 útihús, einn brunnur, ein þró og þrír kálgarðar. Fyrir utan bæjarstæðið sáust þrjár tóftir (ein þeirra er ekki sýnd á túnakorti), leifar af brunni og leifar af tveimur kálgörðum. Á túnakorti er afgirt tún NNA við tún Halldórsstaða og stendur þar að það sé útgræðsla og að þar hafi þurrabúðin Bjarghóll staðið en búið sé að slétta úr minjum um það. Ekki er ljóst hvort að útræktin hafi tilheyrt Halldórsstöðum eða Narfakoti á fyrri hluta 20. aldar þegar túnakortið var gert. Í dag (2012) tilheyrir það hins vegar ábúendum í Narfakoti.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – uppdráttur.

Túnið á Halldórsstöðum er nokkuð flatlent nema meðfram austurjaðri þess en þar eru grónar klappir. Vegur heim að Narfakoti liggur austan og norðaustan við túnið og hefur valdið raski á þeim kálgarði sem er næstur bæjarstæðinu.
1919: Tún 1,9 teigar, garðar 1300m2. Hér eru þær minjar sem tilheyra býlinu skráðar saman undir einu númeri en hverju mannvirki gefinn bókstafur til aðgreiningar. Minjasvæðið er um 145×50 m að stærð og snýr norður-suður.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Leifar af íbúðarhúsi og sambyggðu útihúsi A eru norðarlega í túni Halldórsstaða. Þarna eru hlaðin og steypt hús saman sem ná yfir svæði sem er um 20×10 m að stærð og snýr austur-vestur. Íbúðarhúsið var í austurenda svæðisins og var grunnflötur þess um 9×10 m að stærð og sneri það norður-suður. Í norðaustasta hluta hússins er hlaðinn kjallari undir hluta hússins sem er búið að rífa að öðru leyti. Kjallarinn er um 4×4 m að innanmáli en mjókkar til suðurs. Hann er um 1 m á dýpt og sjást 5-6 umför í hleðslum sem eru með sementslími. Kjallarinn er fullur af rusli og steypubrotum. Kjallarinn virðist ekki vera niðurgrafinn, heldur er hann hlaðinn í sprungu í lágum hraunhól sem húsið stóð á.

Miðhús (býli)

Hlöðunes

Miðhús.

„Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,“ segir í örnefnaskrá. Þar segir einnig: „Miðhús er álitið að sé 10 álnir, að fornu mati úr Hlöðuneshverfi. Lóð sú er býli því fylgir, sem er upphaflega Matjurtagarður og Stakksstæði, er öll afgirt með Grjótgörðum og liggur við sjóinn …“. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Miðhús var eignarland með lítilsháttar grasnyt og var í Hlöðversneslandi.“ Miðhús fóru í eyði upp úr aldamótunum 1900 og lagðist býlið undir Narfakot. Minjar um Miðhús eru um 200 m norðan við bæ.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var tún Miðhúsa afmarkað með túngarði B og innan hans voru tvö mannvirki; bæjarhús.
Minjarnar eru í suðausturhorni lítils túns niður við sjó sem afmarkað er með grjótgörðum. Sjórinn hefur mjög gengið á land á þessum stað og brotið af túninu. Meint bæjartóft er á hól í túninu.
Minjar um Miðhús sjást á svæði sem er um 50×30 m að stærð og snýr austur-vestur.

Bjarghóll (býli)

Hlöðunes

Hlöðunes.

„Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Jörðin fór í eyði fyrir aldamótin 1900.“ Á túnakorti frá 1919 er staðsetning býlisins Bjarghóls sýnd en þar stendur einnig að öll ummerki um býlið séu horfin. Býlið var um 60 m norðan við Halldórsstaði og um 185 m norðaustan við Hlöðunes. Bjarghóll var á fremur litlum og lágum hól í flatlendu og sléttlendu túnstykki norðaustan við veg heim að Narfakoti. Í norðausturhorni túnsins er allhár hóll sem er að hluta innan túns og að hluta utan þess. Hlaðinn garður er meðfram túni og tengist Narfakotstúngarði.
Engar minjar um býlið Bjarghól sjást á vettvangi og hefur það líklega allt verið rifið og sléttað út við túnrækt. Ekkier hægt að útiloka að einhverjar leifar af því leynist enn undir sverði.

Nýlenda (býli)
„Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Nýlenda var í landi Hlöðversness. … Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur um 1900 og þá lagðist Nýlenda í eyði.“ Ekki fengust neinar upplýsingar um það hvar Nýlenda var og því var ekki unnt að staðsetja býlið með innan við 50 m skekkju. Ekki er útilokað að Nýlenda hafi verið þar sem tóft var skráð en þar er líklegt að hafi verið hjáleiga.

Holt (býli)

Holt

Holt.

„Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði.
Í örnefnaskrá segir: „Holt var sem fyrr segir þurrabúð í Hlöðunestúni.“ Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Bærinn byggðist fyrir aldamót.“ Ekki fengust neinar upplýsingar um það hvar Holt var og því var ekki unnt að staðsetja býlið með innan við 50 m skekkju.

Hlöðversleiði (legstaður)

Hlöðunesleiði

Hlöðversleiði.

Í Frásögum um fornaldarleifar segir: „Firir utan þennan Hól eru hér i Sókninni 3 önnur Fornmannaleidi; þar af, 2 á Asláksstödum sitt yfir hverju fyrstu Hióna þar / ad sagt er/ 1 á Hlödunesi, Öll þessi snúa ad Höfudgafli i Midmundastad, 9 álma ad leingd hvert, og nær 2 al: breid ofan, eru grasi vaxinn, svo sem þau eru í midjum Túnum, innan smárra gamallra Gyrdínga sem adeins siást hinar sydurstu Rústir af, og eru enn nú kölluð Korngerði, likleg til at hafa á fyrri ölldum til Kornfædis höfð, þó nú séu þýfd orðin; hid minsta þeirra er 49 fadmar hit stærsta herum 250.“

„Halldórsstaðir stóðu í Halldórsstaðatúni og í því rétt við Halldórsstaðastíginn er svo nefnt Hlöðuversleiði. Á þar að vera heygður landnámsmaður Hlöðuness, sem þá ætti að heita Hlöðversnes og er af sumum nefnt,“ segir í örnefnaskrá. Fjallað er um Hlöðversleiði á heimasíðu Ferlirs: „Helgi [Davíðsson frá Ásláksstöðum stærri] sagði fyrrnefnt leiði [Hlöðversleiði] vera í eða upp á litlum ílöngum hól í Hlöðunestúninu, milli Narfakots og Hlöðuness. Hann hafi einhverju sinni sett stein upp á hólinn, en steinninn væri nú horfinn. Hlöðversleiðið væri ómerkt, en enn væri vitað hvar það væri.

Hlöðversleiði

Hlöðversleiði fremst.

Sesselja Guðmundsdóttir sagði að Klemens Kristmannsson (f. 1917, d. 2005) hafi gengið með henni um túnið í júní 2004 og sýnt henni staðinn þar sem Hlöðvershaugur stóð, ílöng þúst, líktist leiði. Túnið var sléttað út ca 1944. Húsfreyjan þá, Silla, var ekki ánægð með rótið þegar hún frétti af því.. […] Helgi sagði reyndar tvö fornmannaleiði vera við Hlöðunes. Guðrún Kristmannsdóttir, dóttir Kristmanns Runólfssonar, bónda í Hlöðunesi, sýndi honum þau. Það austara er vestast í túni Halldórsstaða, austan í lágum grónum hól. Á því er lítill steinn. Helgi sagði Kristmann hafi eitt sinn þurft að bregða sér til Reykjavíkur, en þá hefðu komið menn að bænum til að plægja. Hann hafði gleymt að segja þeim frá leiðinu svo þeir plægðu yfir það.
Þetta hefði Kristmanni leiðst mjög. Helgi sagði Guðrúnu og hafa sýnt honum annað leiði, vestar, norðan undir bæjarhólnum. Þar ætti að vera svonefnt Hlöðversleiði, en líklega hefði Hlöðunes heitið Hlöðversnes fyrrum. Á því er einnig lítill steinn. Leiðið er á tiltölulega sléttu túni og rétt sést móta fyrir því, óreglulega. Mörkin á Halldórsstöðum og Hlöðunesi voru þarna við hlaðinn garð, sem enn sést að hluta. Kom garðurinn þar rétt austan við brunninn. Svonefnt Hlöðversleiði er því innan garðs á Hlöðunesi, en hitt leiðið, austara, er í Halldórsstaðatúni.“ Helgi Davíðsson fór með skráningarmanni á vettvang í þeim tilgangi að staðsetja Hlöðversleiði eins nákvæmlega og hægt er. Hann gekk beint að þeim stað sem er sá austari (hnit A) af þeim tveimur stöðum þar sem talið er að Hlöðversleiði hafi verið. Sá staður er um 80 m NNA við bæ. Vestari staðurinn (hnit B) er um 60 m VSV við þann austari. Hlöðversleiði eru bæði talin vera í túni, það austara á lágum hól en það vestara á flatlendi norðan við bæjarhólinn. Túnið hefur allt verið sléttað og er nýtt fyrir hrossabeit.

Halldórsstaðabrunnur (vatnsból)

Hlöðunesbrunnur

Hlöðunesbrunnur.

„Halldórsstaðabrunnur og þá Narfakotsbrunnur voru allir skammt frá bæjum í Túnunum,“ segir í örnefnaskrá.

Halldórsstaðabrunnur

Halldórsstaðabrunnur.

Minjar um brunninn sjást fast austan við afleggjara heim að Narfakoti. Þær eru um 20 m norðaustan við Halldórsstaði. Ekki er útilokað að þessi brunnur sé sá sami og skráður var með býlinu Halldórsstöðum eftir merkingu á túnakorti frá 1919. Brunnurinn er fast austan við malarveg í hraunmóa sem nýttur er fyrir hrossabeit. Brunnurinn hefur verið fylltur með grjóti. Hann er hlaðinn úr grjóti, er um 1,5 m í þvermál að utanmáli og standa hleðslur um 0,1 m upp úr jörðu. Brunnurinn er gróinn en á einum stað sést að steinlím var notað milli steina í hleðslunni. Ekki sést ofan í brunninn og ekki fengust nánari upplýsingar um gerð hans eða aldur.

Árnastekkur (stekkur)

Árnastekkur

Árnastekkur.

„Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót austri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimildir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð […],“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Ofar nokkuð í Strandarheiði [en Kirkjuvörður var Árnastekkur við Árnastekkshæð,“ segir í örnefnaskrá Hlöðuness. Árnastekkur er um 925 m suðaustan við bæ.
Stekkurinn er sunnan undir grónum hraunhól í tiltölulega grónum móa. Þó er flagmói fast suðaustan við stekkinn. Tvær tóftir eru á svæði sem er um 5×10 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Tóft A er grjóthlaðin, um 5×7 m að stærð og snýr VSV-ANA. Hún skiptist í tvö hólf, inngangur er á SSA hlið. Stærra hólfið I er um 4×3 m að innanmáli, snýr eins og tóft og er L laga. Hólf II er óljóst vegna mikils hruns í VSV-enda tóftar en virðist vera um 1×1 m að innanmáli. Líklega hefur verið gengt inn í það úr ANA. Aðeins er hlaðið að hluta meðfram NNV hlið tóftarinnar en klapparveggur notaður að hluta. Mesta hleðsluhæð tóftar er 0,5 m og mest sjást 4 umför hleðslu.

Ásláksstaðastekkur (stekkur)

Ásláksstaðastekkur

Ásláksstaðastekkur.

„Stuttu ofan og sunnan við Arnarbæli er klapparholt og þar í djúpri kvos mót suðvestri er stór og fallegur stekkur sem líklega heitir Ásláksstaðastekkur. Stekkurinn liggur rétt austan fjárgirðingarinnar en kvosin sjálf heitir Kúadalur,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Stekkurinn er um 1,7 km SSA við bæ og um 1,5 km sunnan við Ásláksstaði. Stekkurinn er í allstórri hvilft innan hraunhólakraga. Hvilftin er gróin og grösug. Stekkurinn er í austurbrekku hólkragans. Hvilftin er opin til vesturs.
Stekkurinn er grjóthlaðinn og skiptist í þrjú hólf. Hann er um 10×7 m að stærð og snýr VNV-ASA.

Rauðstekkur (stekkur)

Rauðstekkur

Rauðstekkur – uppdráttur.

Í örnefnaskrá Ásláksstaða segir: „Fyrir innan Arnarbælishólana er Rauðstekkur, og var grjóthrúga uppi á hólnum, sem hét Rauðhóll,“ Í sömu heimild segir: „Rauðstekkur eru stórþýfðir móar eða holt, sem snúa í norðvestur. Komið er að Rauðstekk, ef stefnt er þvert af gamla veginum frá grútarbræðslunni aðeins vestan við deili og gengið 7-8 mínútur. Ekki man Guðjón eftir mannvirkjum þar.“ Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Rauðstekkur er nafn á hól eða grjóthleðslum sem standa rétt suðvestan Krummhóls og er u.þ.b. 8 mínútna gangur þangað frá Vatnshólum og Gamlavegi
með stefnu á Keili. Í Rauðstekk var farið með kýrnar frá Sjónarhóli í tíð Magnúsar Jónssonar. Ekki er ljóst af hverju nafnið er dregið.“ Stekkurinn er enn greinilegur. Hann er um 1,3 km suðaustan við bæ og um 580 m NNA við Ásláksstaðastekk.
Stekkurinn er á grónu og nokkuð sléttu svæði. Allt umhverfis er hins vegar hraunlendi þar sem mikið er um hæðir og dældir. Stekkurinn er 13×3,5 m á stærð, snýr norður-suður og hallar talsvert til suðurs og er torfhlaðinn að mestu en grjóthlaðinn að hluta.

Ásláksstaðasel (sel)

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæði.

„Austur með Klifgjánni er Ásláksstaðaholt, margklofið og gengur gjáin í gegn um það. … Í smá graslendi rétt neðan við Ásláksstaðaholt er vatnsstæði en það þornar tiltölulega fljótt upp á vorin. Sagnir eru til um sel neðan við holtið en engar tóftir eru þar sjáanlegar,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Meint selstæði er um 4,9 km sunnan við Ásláksstaðir stærri og um 5,2 km suðaustan við bæ.
Norðvestan undir Ásláksstaðaholt og Klifgjá er nokkur uppblástur á annars grónum svæðum í hrauninu. Klifgjáin er hrikaleg fast sunnan við meint selstæði. Ekki er vitað hvar þetta sel var nákvæmlega og engar minjar um það sáust á vettvangi. Ef sel hefur verið hér er líklegt að það hafi orðið uppblæstri að bráð.

[ÍJarðabókinni 1703 segir um Ásláksstaðasel: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarnes sel og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsbrestur til stórmeina“.]

Narfakot (býli)

Narfakot

Narfakot.

Hjáleiga Hlöðuness 1847. JJ, 90.
1919: Tún 1,7 teigar, garðar 700 m2 samkvæmt túnakorti.
Gamli bærinn í Narfakoti stóð á sama stað og núverandi íbúðarhús, á fremur lágum hól í miðju Narfakotstúni. Heilsársbúseta er í Narfakoti. Umhverfis núverandi íbúðarhús eru kálgarðar til norðvesturs og suðvesturs.
Suðaustan við húsið er sléttuð flöt sem er að hluta grasi gróin og að hluta hellulögð. Engar minjar um gamla bæinn sjást og ekki virðist um uppsöfnun mannvistarlaga að ræða á bæjarstæðinu svo að hægt sé að tala um bæjarhól. Ekki virðist vera kjallari undir íbúðarhúsinu en ætla má að eitthvert rask hafi orðið á bæjarstæðinu við byggingu þess.

Narfakotsbrunnur (vatnsból)

Narfakotsbrunnur

Narfakotsbrunnur.

Halldórsstaðabrunnur og þá Narfakotsbrunnur voru allir skammt frá bæjum í Túnunum,“ segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá 1919 um 40 m austan við bæ. Hann sést enn.
Brunnurinn er fast suðaustan við hæð í túni, um 10 m norðaustan við heimreið að íbúðarhúsi. Brunnurinn er byrgður og ekki hægt að sjá ofan í hann. Hann stendur um 0,3 m upp úr jörðu og er um 3 m í þvermál. Hann er grjóthlaðinn en gróinn. Ferkantaður viðarrammi er ofan á brunninum sem er um 2×2 m að stærð.
Hann er með hlera og ofan á hleranum er grjót.

Hlöðuneskot (býli)

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Ekki er vitað hvar Hlöðuneskot var og ekki reyndist því unnt að staðsetja það með innan við 50 m skekkju. Ekki er ósennilegt að þetta býli hafi verið á sama stað og eitthvert þeirra býla sem nú eru þekkt undir öðrum nöfnum s.s. Halldórsstaðir eða Miðhús en hvorki fundust heimildir né heimildamenn sem gátu varpað ljósi á það.

Áslákstaðir stærri (ytri) (býli)

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 131. 9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr.), Hlöðunes (20 hdr.), tvenna Ásláksstaði (40 hdr.), Knarrarnes tvö ( 30 hdr.), Breiðagerði fyrir (10 hdr.). DI IV 707-708.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. 1547-48 er Minni og Stærri Ásláksstaða getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
Atlagerði er hjáleiga árið 1703. JÁM III, 131. Ásláksstaðakot hjáleiga 1847. JJ, 90. „Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði [049], sem stóð alveg út við vitann. Þá er Miðbær [010], og eitt sinn var svo nýbýli ofan þjóðvegar, Garðhús … „Þá eru grasbýlin. Syðst og vestast er Móakot, og norðaustur frá Ásláksstöðum er Hallandi, eða Nýibær, en undir því nafni gengur bærinn nú. Þá er Sjónarhóll, sem er innsti bær í Ásláksstaðahverfi.“ Ö-Ásláksstaðahverfi, 8. Bærinn fór í eyði fyrir 10-20 árum.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir.

1703: Túnunum segir bóndinn að spilli tjörn, sem þar liggur innan mitt í túninu og líka nokkur önnur tjörn minni, ogso innangarðs, líka gjörir sjáfarángur nokurt mein, þó ei til stórbaga á heimajörðiunni. Engjar eru öngvar.
Útihagar um sumar og vetur í lakasta máta og nær öngvir nema fjaran.“ JÁM III, 131. 1919: Tún alls 1,84 teigar, garðar 1020m2.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – bruni 2019.

„Á Ásláksstöðum var áður þríbýli, og var bæjaröðin norðaustan við núverandi íbúðarhús, sem byggt var um 1884,“ segir í örnefnaskrá. Af tilvísuninni að framan má skilja að allir bæirnir þrír hafi verið á bæjarhólnum í röð.
Ef til vill var Miðbær eitt býlanna þriggja en það var þó líklega fast norðaustan við bæ. Bærinn var fast norðvestan við merkin við Ásláksstaði innri og íbúðarhúsið frá 1884 stendur enn á þessum stað. Á túnakorti sést að kálgarður vestan við bæinn var áfastur íbúðarhúsinu. Hann er því einnig skráður sama númeri.
Bærinn fór í eyði fyrir 10-20 árum og húsin sem enn standa eru í niðurníðslu. Bærinn er í grónu túni á dálítilli náttúrulegri hæð sem hallar til norðausturs og er allmikil tjörn skammt norðan við hann.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum …“ Ekki sést eiginlegur bæjarhóll á Ásláksstöðum stærri. Sem fyrr segir er bærinn á lágum náttúrulegum hól en ekki er að sjá að á honum sé mikið af uppsöfnuðum mannvistarleifum. Íbúðarhúsið sem byggt var 1884 stendur enn en það er nú ónýtt. Húsið sjálft er um 5×4 m að stærð og snýr NNV-SSA. Með viðbyggingum er það 10×8 m að stærð og snýr eins. Ekki sést hvort grunnur hússins er hlaðinn eða steyptur. Hlaðinn kantur er VSV við húsið. Hann er um 1 m á hæð og um 14 m á lengd, snýr NNV-SSA. Í kantinum sjást 3 umför hleðslu. Fast NNV við íbúðarhúsið er uppistandandi hlaða úr timbri og bárujárni og steypt fjós með niðurgröfnu haughúsi. Þar sem bæjarröðin var, norðaustan við íbúðarhúsið sem enn stendur, er nú slétt plan og um 10 m norðan við íbúðarhúsið er hlöðutóft og sambyggður kálgarður.

Ásláksstaðabrunnur (vatnsból)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðabrunnur.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 40 m sunnan við bæ. „Ásláksstaðir eiga þrjú túnstykki í Norðurtúni. Túnstykki niður við Tjörn, túnstykki niður að Vesturkofa og túnstykki niður á Ásláksstaðabrunni,“ segir í örnefnaskrá. Þar stendur einnig: „Hallandabrunnur var framan bæjar í túninu.“
Hallandabrunnur hét Nýjabæjarbrunnur eftir að nafni Hallanda var breytt í Nýjabæ.
Ásláksstaðabrunnur og Hallandibrunnur/Nýjabæjarbrunnur eru að öllum líkindum sami brunnurinn og á túnakorti sést leið liggja frá Hallandi/Nýjabæ að brunninum. Brunnurinn er fast norðan við kálgarð. Brunnurinn er í túni, fast austan við tjörn.
Brunnurinn er grjóthlaðinn en byrgður þannig að ekki sést ofan í hann og ekki ljóst hversu djúpur hann er. Hann er um 3×2,5 m að utanmáli og um 1 m á hæð þar sem hann er hæstur. Hann er gróinn að utan. Að sögn heimildamanns, Helga Davíðssonar, var gott vatn í brunninum og vatn er í honum enn.

Hallandi (býli)

Hallandi

Hallandi.

„Þá eru grasbýlin. Syðst og vestast er Móakot, og norðaustur frá Ásláksstöðum er Hallandi, eða Nýibær, en undir því nafni gengur bærinn nú,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Nýibær í Ásláksstaðahverfi stendur enn með litlum breytingum síðan árið 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.“ Á túnakorti er sýnd bæjarröðin A, lítið útihús B, útihús í norðausturenda túnsins C, og kálgarðar D umhverfis bæ. Bæjarröðin var 80-90 m
norðaustan við bæ.

Atlagerðisviti (viti)

Atlagerðisviti

Atlagerðisviti.

„Sunnan við Tangann er Stóralón, og þar er einnig Litlalón. Hér er svo Atlagerðisvörin, og á Tanganum er Atlagerðisvitinn, en hér mun hafa verið reistur einhver fyrsti viti við strendur landsins,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir: „Árið 1886 var þar byggð varða og upp úr henni var staur allhár og var olíuljósker halað upp og niður, eftir því hvað við átti. … Ljóskersstaurinn var látinn duga þar til viti, sá sem enn stendur, var byggður árið 1918.“ Vitinn sem nú stendur er um 560 m norðan við bæ og um 30 m norðvestan við Atlagerði og af lýsingum má ætla að elsti vitinn hafi verið á sama eða svipuðum stað.
Vitinn stendur á gróðurlausri klöpp á tanga. Vik eru inn í ströndina suðvestan við hann og norðan við hann. Ekki sést til minja um vörðuna sem var forveri núverandi vita. Líklegast hefur sjórinn tekið hana.

Móakot (býli)

Móakot

Móakot.

„Þá eru grasbýlin. Syðst og vestast er Móakot, og norðaustur frá Ásláksstöðum er Hallandi, eða Nýibær, en undir því nafni gengur bærinn nú,“ segir í örnefnaskrá.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er suðurhluta Ásláksstaðajarðar og er nú sameinað aðaljörðinni.“ Samkvæmt sömu heimild var búið í Móakoti 1 og 2 um aldamótin 1900.

Atlagerði (býli)

Atlagerði

Atlagerði og Atlagerðisviti.

Hjáleiga 1703 samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. „Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: … […], út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,“ segir í örnefnaskrá. „Þar var býlið Atlagerði, fjárrétt og túnblettur,“ segir í örnefnaskrá.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þessa hverfis. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti.“ Tóft Atlagerðis sést enn. Hún er 540 m norðvestan við bæ og 110 m norðvestan við Gerðakot.
„Túnum hjáleigunnar spillir sjóagángur til stórmeina, þar með líða þau og stóran átroðning af skipsáróðarmönnum heimabóndans, sem fyrir sína nauðsyn verður að brúka hjer skipsuppsátur árið um kring,“ segir í Jarðabók Árna og Páls frá 1703. Tóftin er á klöpp og allur gróður er horfinn af henni, nema á tóftinni og á litlum kraga meðfram henni. Allt í kringum tóftina er klapparfjara.
Tóftin er 6×3 m á stærð, tvískipt og snýr norðaustur suðvestur. Norðvesturhliðin er hrunin í hólfi I og norðvestur- og suðvesturhliðar hólfs II eru horfnar. Mesta hæð veggja er 1 m og sjást 4 umför af hleðslu í þeim. Innanmál hólfs I er 4×2 m og snýr það norðaustur-suðvestur. Hólf II er suðvestan við hólf I og er innanmál þess 2×2,5 m og snýr það norðvestur-suðaustur. Frá miðjum suðurvegg tóftarinnar liggur garðlag í sveig til austurs og er það líklega leifar gerðis. Garðlagið er grjóthlaðið og er 7 m í suður og beygir svo 2 m í austur. Hleðslan er 0,5 m á hæð og breidd og sjást mest 3 umför.

Gerðakot (býli)

Gerðakot

Gerðakot.

„Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: […] …, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,“ segir í örnefnaskrá. Tóft Gerðakots sést enn.
Ekki er vitað hvenær býlið var í ábúð en ástand býlistóftarinnar gefur til kynna að hún sé ekki mjög forn og er líklegt að þarna hafi verið búið á síðari hluta 19. aldar og fram undir aldamótin 1900. Ekki er þó hægt að útiloka að býlið hafi verið í byggð með hléum á fyrri öldum. Hún er um 445 m norðan við bæ og 110 m sunnan við Atlagerði.
Tóftin er fast suðvestan við sjávarkambinn en mjó jarðvegsræma liggur eftir honum. Sjórinn nær upp að norðvestanverðri tóft og liggur alveg að henni á flóði. Tóftin er 9×9 m á stærð. Hún er L-laga, grjóthlaðin og þrískipt. Veggir tóftarinnar eru um 1,3 m á hæð og sjást mest 6 umför af hleðslu. Hólf I er í suðvesturhorni tóftarinnar og er 3×3 m að innanmáli. Op er á norðausturvegg þess en ekki innangengt úr því í önnur hólf. Vesturveggur hólfsins er hruninn. Hólf II er austan við hólf I og er 3×2 m að innanmáli og snýr norðvestur suðaustur. Op er á því á norðausturvegg, yfir í hólf III. Hólf III er 2×2 að innanmáli. Nokkuð hefur hrunið úr norðurhorni tóftarinnar vegna landbrots.
„Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað hvenær Gerðar voru í ábúð en aðeins er þúst sýnileg þar sem talið er að býlið hafi verið.
Það getur bent til þess að nokkuð langt sé síðan það fór í eyði og eru minjar um það t.a.m. mun fornlegri en minjarnar um Gerðakot. Gerðar eru fast suðvestan við fjöruna, um 400 m norðan við bæ. Í tíð heimildamanns, Helga Davíðssonar, voru kýr reknar á beit í Gerðunum.
Minjarnar eru nyrst í þýfðum móa, fast suðvestan við sjávarkamb. Vestan við minjarnar er svæði sem fer á kaf í flóði og virðist sjórinn þá ná alveg upp að minjunum. Til austurs er lítil tjörn. Minjarnar eru á svæði sem er um 33x31m stórt og snýr suðvestur-norðaustur.

Fagurhóll (býli)

Fagurhóll

Fagurhóll.

„Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Fagurhóll var í suðausturhorni Ásláksstaðajarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus. Lítið veit ég um þetta kot, en fyrir aldamótin bjuggu þar hjón …“ Fagurhóls er ekki getið í Jarðatali Johnsens frá 1847 og ætla má að býlið hafi byggst upp á síðari hluta 19. aldar og líklega farið í eyði um og upp úr aldamótunum 1900. Ástand býlistóftarinnar styður þá grófu aldursgreiningu. Ekki er þó útilokað að býlið hafi verið í byggð með hléum á fyrri öldum. Tóft Fagurhóls og lítil gryfja eru um 140 m vestan við bæ.

Rás (býli)

Rás

Rás.

„Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,“ segir í örnefnaskrá. Heimildamaður, Helgi Davíðsson, kannaðist ekki við býlið og vissi ekkert um staðsetningu þess. Á Örnefnauppdrætti eftir Ingólf Einarsson er býlið merkt við tjörn skammt frá Garðhúsum 011. Þar er ein tóft um 240 m suðaustan við bæ 001. Ekki er vitað hvenær býlið Rás var í ábúð. Margrét Þórarinsdóttir, sem fædd var 1911 í Minna-Knararnesi, og maður hennar Brynjólfur Brynjólfsson sem bjó í yfir 40 ár á sömu jörð gerðu athugasemdir og viðbætur við örnefnaskrá Ásláksstaðahverfis árið 1972. Þau könnuðust ekki við að örnefnið Rás ætti við þurrabúð en afrennsli úr Sjónarhólstjörninni var kallað Rás. Býlið hefur líklega dregið nafn sitt af þessari afrennslisrás. Fyrst Margrét og Brynjólfur könnuðust ekki við býlið er líklegt að það sé orðið alllangt síðan það fór í eyði en ekkert verður sagt nánar um hvenær það var nema með frekari rannsóknum. Tóftin er fast austan við tjörn, skammt vestan við sjávarbakkann. Tóftin er tvískipt og gróin en hefur að líkindum verið grjóthlaðin. Hún er um 8×6 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Hólf I er um 2,5×2 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Op er á því í norðurhorni.

Ásláksleiði (legstaður)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – dys.

Helgi Davíðsson, heimildamaður, greindi frá því að hann teldi legstað vera í túni Ásláksstaða stærri, um 100 m norðvestan við bæ. Meintur legstaður er í sléttuðu og nokkuð flatlendu túni.
Helgi telur litla þúst í túninu mögulega vera legstað. Þústin er um 5×2 m að stærð og snýr norður-suður, mjókkar lítillega til suðurs. Hún er 0,2-0,3 m á hæð, hæst í suðurenda. Í suðausturhorni þústarinnar eru ummerki um að grafið hafi verið í hana. Helgi hefur rekið járntein í þústina og fundið grjót undir sverði. Ekki er ósennilegt að lítil klöpp sé undir sverði og að um náttúrufyrirbæri sé að ræða en einföld rannsókn getur skorið úr um það.

Áslákstaðakot (býli)
Hjáleiga Ásláksstaða stærri árið 1847. JJ, 90. Hjáleigan er ekki merkt inn á túnakort Ásláksstaða stærri frá 1917 og kann því að hafa farið í eyði fyrir þann tíma ef það hefur verið í eða við tún heimajarðarinnar.
Engar þekktar heimildir eru til um þetta býli og er staðsetning þess ókunn. Helgi Davíðsson, heimildamaður, kannaðist ekki við þetta býli og ekki er minnst á það í örnefnalýsingum fyrir Ásláksstaðahverfi. Ef til vill er Ásláksstaðakot eldra nafn á Miðbæ eða Hallanda en þau býli voru í túni Ásláksstaða stærri. Líklegt er að Ásláksstaðakot hafi verið í túni Ásláksstaða stærri en ekkert er vitað um hvar það var nákvæmlega og því ekki hægt að staðsetja það með innan við 50 m skekkju.
Jarðadýrleki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 131. 9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr), Knarrarnes tvö ( 30 hdr)., Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708. 1547-48 er Minni og Stærri Ásláksstaða getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
Býlið var þurrabýli á þessari öld og átti engin tún. Ö-Ásláksstaðahverfi, 2. Bærinn oft nefndur Mangabær. Ö-Ásláksstaðir, 3. Jörðin lagðist undir Sjónarhól. GJ: Mannlíf og mannvirki, 272. Í eyði um 1920.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágangi mikilega. Engjar er öngvar. Útigangur um vetur og sumur í lakasta máta og nær öngvir nema fjaran.“ JÁM III, 132-133.
1919: Tún 1,6 teigar, garðar 360m2.

Ásláksstaðir innri (býli)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir.

„Í tíð Vilborgar [Magnúsdóttir, f. 1892 á Innri -Ásláksstöðum] voru Innri-Ásláksstaðir þurrabúð. Bærinn stóð á gamla bæjarstæðinu norðan við traðirnar fáein skref austan við hlöðuna á Sjónarhóli. Vilborg man fyrst eftir torfbaðstofu, sem var tvær rúmlengdir, og sneru bæjardyr upp að vegi, en síðar var reist timburhús. Það hús flutti Magnús, faðir hennar, sem síðastur bjó á Innri-Ásláksstöðum, til Hafnarfjarðar, er hann fluttist þangað,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt heimildamanni, Helga Davíðssyni, var ekki búið á Ásláksstöðum innri eftir 1920. Bæjarhóllinn er um 100 m suðaustan við Ásláksstaði stærri og tæpa 50 m norðaustan við Sjónarhól.
Bæjarhóllinn stendur allhátt í hæðóttu túni skammt vestan við fjöruna. Bæjarhóllinn á Ásláksstöðum innri er ekki afgerandi og er líklegt að bærinn hafi í grunninn verið byggður á náttúrulegri hæð í túninu. Af bæjarhólnum er hæst niður til suðurs og vesturs en minni halli til annarra átta. Hóllinn er um 20×30 m að stærð og snýr austur-vestur. Hann er hæstur um 1,5 m. Á hólnum eru tvískipt tóft.

Sjónarhóll (býli)

Sjónarjóll

Sjónarhóll og Ásláksstaðir.

„Þá eru grasbýlin. … Þá er Sjónarhóll, sem er innsti bær í Ásláksstaðahverfi,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Um 1886 byggði Lárus Pálsson „hómópati“ Sjónarhól.“ Bærinn var stundum nefndur Lárusarhús. Lárusarhúsi var seinna breytt í fjós og steypt, tvílyft hús reist 12 m vestan við það árið 1929. Lárusarhús, elsta bæjarstæði Sjónarhóls er um 45 m suðaustan við bæ. Af túnakorti frá 1919 að dæma tilheyrðu a.m.k. fimm mannvirki Sjónarhól auk bæjarins.

Fornmannaleiði [Hjónaleiði] (legstaður)

Hjónaleiði

Hjónaleiði.

„Tvö aflöng leiði voru í túni Lárusar [sennilega í landi Sjónarhóls] niður undir Hallanda (nú Nýjabæ). Það voru talin leiði fornmanna, en ekki heyrði Vilborg getið um nöfn þeirra. Hún segir þó, að þar kunni að liggja Áslákur og Ásláka …,“ segir í örnefnaskrá. Meintur legstaður er um 115 m norðan við bæ og um 45 m suðaustan við Hallanda.
„Leiðin“ eru í túni nærri merkjum móti Ásláksstöðum stærri. Nokkuð er um mishæðir og hóla í túninu.
Í Frásögnum af fornaldarleifum segir: „Firir utan þennan Hól eru hér i Sókninni 3 önnur Fornmannaleidi; þar af, 2 á Asláksstödum sitt yfir hverju fyrstu Hióna þar / ad sagt er/ 1 á Hlödunesi, Öll þessi snúa ad Höfudgafli i Midmundastad, 9 álma ad lengd hvert, og nær 2 al: breid ofan, eru grasi vaxinn, svo sem þau eru í midjum Túnum, innan smárra gamallra Gyrdínga sem adeins siást hinar sydurstu Rústir af, og eru enn nú kölluð Korngerði, líkleg til at hafa á fyrri ölldum til Kornfædis öfð, þó nú séu þýfd orðin; hid minsta þeirra er 49 fadmar hit stærsta herum 250.“ Á svæði sem er um 19×6 m að stærð og snýr ASA-VNV eru þrír litlir hólar í túninu og eru tveir þeirra aflangir og líklega leiðin sem talað er um í heimildum. Ekki er ljóst hvort leiðin í landi Ásláksstaða innri eða leiðið í Hlöðunesi sé innan nefndra Korngerða. Engar leifar af gerðum sjást í túninu og hefur líklega verið sléttað úr þeim ef þau voru hér. Meint leiði A er í ASA enda svæðisins, er um 5×2 m að stærð og snýr ASA-VNV. Það er allt gróið og er hæst um 0,5 m. Ekki sést grjót í því. Fast suðvestan við leiði A er lítill hringlaga hóll sem er um 3 m í þvermál. Um 4 m VNV við hann er meint leiði B sem er um 5×1,5 m að stærð og snýr ASA-VNV. Mesta hæð þess er um 0,5 m. Leiði B er mjög skýrt afmarkað í túninu. Óvíst er hér séu fornmannaleiði en ekki er hægt að útiloka það nema með frekari rannsókn.

Knarrarnes stærra (býli)

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 135.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr), Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 5 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
Árið 1703 er ein hjáleiga í eyði sem heitir Helgahús 041. JÁM III, 136. Í Knarrarnesi var lengi tvíbýli, nefndist Austurbær og Vesturbær. GJ: Mannlíf og mannvirki, 289.
1703: „Túnin fordjarfast árlega af sjáfarágángi og stöðutjörnum þeim, sem innan garðs liggja, og það so frekt, að gamlir menn minnast til þar hafi fóðrast x kýr og i griðúngur, og nú eru þau so spilt, að ekki fóðrast meir en áður er sagt. Þar með blæs upp árlega stórgrýti í túninu. Engjar eru öngvar. Útihagar nær öngvir sumar nje vetur utan fjaran.“ JÁM III, 135. 1919: Tún alls 3,1 teigar, garðar 1520m2.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

„Í Stóra-Knararnesi er tvíbýli og svo hefur lengi verið. Nefnast bæirnir Vesturbær og Austurbær. Gömlu bæirnir voru sambyggðir og eitt hlað. Nýtt hús var byggt í Vesturbænum 1927 og stendur það aðeins ofar og sunnar en gamli bærinn var. Austurbæjarhúsið stendur beint upp af þar sem gamli bærinn var. Það var byggt 1930,“ segir í örnefnaskrá KE. Bæjarhóllinn er norðarlega í túni, fast vestan við klapparfjöru. Vesturbærinn er nú um 40 m suðvestan við gamla bæinn 001 og Austurbærinn er um 35 sunnan við hann.
Bæjarhóllinn er í túni en túnið norðaustan bæjarhólsins er ekki lengur í rækt. Allstór tjörn er á sjávarbakkanum norðvestan við hólinn. Til suðurs eru kálgarðar og íbúðarhús Austurbæjar og Vesturbæjar. Hóllinn er um 20×25 m að stærð og snýr ANA-VSV. Hann er hæstur um 3 m. Á honum er bæjartóft og ein önnur tóft. Norðaustan við hólinn eru kálgarðar og er tóft áföst öðrum kálgarðinum. Á túnakorti eru þessar minjar allar tengdar og því skráðar undir einu og sama númeri. Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Bæjartóftin A er um 22×11 m að stærð og snýr ANA-VSV. Tóftin er grjóthlaðin og líklegt er að torf hafi verið notað í hleðslurnar en það sést ekki glöggt. Í austurenda er hólf I. Það er um 2×3 m að innanmáli, snýr norður-suður og er op á því til norðurs. Um 3 m norðan við það er hólf II sem er gróin gryfja, líklega þró sem sýnd er á túnakorti. Hún er um 3×2 m að innanmáli, snýr norður-suður. Ekki sést í grjóthleðslur og er hún um 0,5 m á dýpt. Fast vestan við hólf I er hólf III sem er um 5,5×1,5 m að innanmáli. Nokkuð hefur hrunið inn í hólfið úr veggjum. Hólfið er opið til suðurs, ekki sést veggur á þeirri hlið.

Knarrarnesbrunnur/Gamli Brunnur (vatnsból)

Stóra-Knarrarnes

Gamli Brunnur.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var mannvirki, líklega brunnur með tröppum ofan í, 20-30 m austan við bæ. Þessi brunnur er að öllum líkindum Gamli Brunnur sem nefndur er í örnefnaskrá. Brunnurinn var þar sem nú er gróinn og lágur sjávarkambur við klapparfjöru. Ekki sést til greinilegra minja um brunninn og hefur sjórinn fyllt hann af möl og grjóti. Mögulega hafa þó hleðsluleifar sem sjást undir sverði í rofi á sjávarbakka tilheyrt þessu mannvirki. Aðeins sést í hluta af hleðslunni sem er um 1 m á lengd og um 0,4 m á hæð. Tvö umför sjást.

Knarrarnesvegur (leið)

Knarrarnes

Gamli-Knarrarnesvegur.

Upphlaðinn vegbútur er á leið á milli Breiðagerðis og Stóra-Knararness um 385 m suðaustan við bæ. Minjarnar eru á milli tveggja nýbygginga og hefur þeim verið raskað af byggingaframkvæmdum og vegagerð. Vegurinn liggur austur-vestur. Hann sést á um 15 m löngum kafla. Hann er grjóthlaðinn, um 4 m breiður.

Stóra-Knarrarnessteinn (áletrun)

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Í bók sinni Strönd og vogar segir Árni Óla frá áletrun sem hann fann á steini í Stóra-Knararnesi og er þar sagt frá bónda þeim er bjó þar 1703, Bjarna Eyjólfssyni. Árni fann steininn við gamla garðshliðið þar sem tvö garðbrot mætast 016. Steinninn með áletruninni er fast við suðausturhorn kálgarðs í tröðum 016, um 90 m suðvestan við bæ.
Áletraði steinninn er í óræktarbletti þar sem eystri traðarveggurinn heldur áfram til suðurs frá suðausturhorni kálgarðsins sem er áfastur tröðunum. Steinninn er mikið bjarg en áletrunin er orðin mjög veðruð. Þó er enn hægt að lesa hana að mestu leyti.
Árni Óla las þetta út úr áletruninni: „17 hundruð seiast ár/ sen þó fiogur riett i von/ so þá giorde sem hier stár/ sa hiet Biarne Eiolfsson.“

Helgahús (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Helgahus, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í þrjú ár …“ Engar aðrar þekktar heimildir minnast á þetta býli og er staðsetning þess ókunn. Ef til vill er örnefnið Helgavöllur vísbending um hvar býlið var en Helgavöllur er á milli Brandargerðis og sjávar, um 100 m suðvestan við bæ. Ekki reyndist unnt að staðsetja býlið með innan við 50 m skekkju.

Knarrarnes minna (býli)

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes.

Jarðadýrleiki óviss 1703, hét þá Litla Knararnes, konungseign. JÁM III, 134.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr), Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26. Þurrabúðirnar Hellur og Vík stóðu í Knarrarnestúni. Ö-Knarrarnes, 2.
1703: „Túnin spillast af vatni og sjáfarágángi. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 134 1919:Tún 3 teigar, garðar 1500m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Gamla húsið að Minna-Knarrarnesi ætla ég [GJ] að hafi verið byggt um 1875. Það var timburhús sem var rifið 1930, þegar flutt var í nýtt hús, þar sem nú stendur.“

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn.

Íbúðarhúsið sem byggt var um 1930 og tók við af timburhúsinu er steinsteypt og stendur í jaðri bæjarhólsins. Kjallari er undir húsinu og var byggt við það undir lok 20. aldar af núverandi ábúendum. Í bókinni Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða segir um bæinn í Knarrarnesi árið 1917: „Gamalt eldhús með hlóðum stóð áfast við íbúðarhúsið. Þar var eldað. Við hliðina á eldhúsinu var hlaða, en skammt frá bæjardyrunum var stór og mikil hlandfor. Enginn kamar var við bæinn, líklega hafa konurnar notað fjósið. […] Gamall kartöflugarður stóð við bæinn og umhverfis hann hlaðinn veggur.

Knarrarnes

Knarrarnes – túnakort 1918 lagt yfir loftmynd. ÓSÁ

Steinlögð stétt lá meðfram veggnum. Þar hægði ég mér út í hlandforina.“ Bæjarhóllinn er fast norðaustan við núverandi íbúðarhús, á milli malarplans og Eyrartjarnar. Bæjarhóllin er í snyrtilegu túni, sem er snöggt slegið og sést hann því afar greinilega.
Bæjarhóllinn er um 30×22 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Mesta hæð er um 2 m. Hóllinn er allur gróinn og ekki sjást neinar mannvirkjaleifar á honum. Ekki virðist hafa orðið mikið rask á honum en þó var grafið fyrir rotþró í jaðri hans og er rotþróin í norðvesturhorni þar sem Birgir Þórarinsson, heimildamaður, sagði að hefði verið gömul steinsteypt þró, úr fjósi sem stóð áður á hólnum en telst ekki til fornleifa. Við gröftinn kom upp mikið af dýrabeinum en ekki hleðslur að vitað sé. Fast austan við suðausturhorn bæjarhóls eru hleðsluleifar kálgarðs sem sést á túnakorti. Leiðin sem farin var á milli bæjar og kirkju á Kálfatjörn (Kirkjugata) lá fast NNV við kálgarðinn. Ekki sjást leifar leiðarinnar.

Litla-Knarrarnesbrunnur (vatnsból)

Knarrararnes

Litla-Knarrarnesbrunnur.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 60 m SSV við bæ. Líklega er þessi brunnur Litla-Knarrarnesbrunnur sem nefndur er í örnefnaskrá. Brunnurinn var í túni og eru litlir hólar til austurs og norðvesturs frá honum.
Ekki sjást lengur ummerki um brunninn.

Knarrarnes

Gamlibrunnur.

Gamlibrunnur (vatnsból)
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur 60 m vestan við bæ. Þar sjást enn ummerki um brunninn. Líklega er þessi brunnur Gamlibrunnur sem nefndur er í örnefnaskrá KE. Brunnurinn er í miðju vestanverðu túninu, tæpum 30 m suðaustan við Sjávarhúsið.
Ekki sést í brunninn nema sem lítil dæld túninu á þessum stað. Dældin er 3×2,5 m á stærð.

Vík (býli)

Vík

Vík.

„Minni-Knarrarnes vestan með þurrabúðina Hellur og Vík,“ segir í örnefnaskrá. „Vík var þurrabúð, syðst í túni Minna-Knarrarness. Hún fór í eyði laust eftir síðustu aldamót,“ segir í örnefnaskrá KE. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Vík var syðsti og fyrsti bærinn sem komið var að þegar farið var yfir landamerkin milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis. …
Bærinn var þá utangarðs í óskiptu landi suðaustur af Minna-Knarrarnesi, en lagðist í eyði fyrir aldamótin, þegar feðgarnir [Sigurður Sigurðsson og synir hans Magnús og Þorgrímur] fluttu að Minna-Knarrarnesi.“ „Sigurður Sigurðsson frá Minna-Knarrarnesi byggði lítið hús innst í girðingum við mörk Knarrarness, skammt frá vegi, og nefndi það Vík,“ segir í örnefnaskrá Ásláksstaða.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var útihús áfast afgirtum túnbletti sem var fast suðvestan við gamla heimatúnið, um 140 m SSV við bæ, þar sem býlið Vík stóð líklega. Í bókinni Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða segir: „Í jaðri túnsins í Knarrarnesi var búðartóft úr höggnu grjóti, kölluð Vík.“ Útihúsið á túnakortinu er að öllum líkindum búðatóftin sem nefnd er í bókinni og var kölluð Vík.
Afar líklegt er að bústaðurinn í Vík hafi verið nýttur sem útihús frá Minna-Knarrarnesi af einhverju tagi eftir að hætt var að búa þar. Býlið Vík var um 140 m suðvestan við bæ en þar stendur nú þrískipt hús sem notað er sem skemma. Vestan við húsið þar sem býlið var er klapparmói en til annarra átta frá því er tún.

Vík

Vík – uppdráttur.

Alls eru hér minjar á svæði sem er um 60×16 m að stærð og snýr NNV-SSA. Húsið A sem stendur á bæjarstæði Víkur er þrískipt og er um 16×7 m að stærð, snýr nálega austur-vestur. Elsti hluti hússins er í miðjunni en þar eru langveggir steinhlaðnir og er það vönduð hleðsla, um 1,7 m á hæð og sjást 8 umför. Með veggjum er sá hluti hússins 6×7 m að stærð og snýr norður-suður. Dyr eru á norðurhlið. Líklegt er að þessi hluti sé í grunninn býlið Vík en það var úr höggnu grjóti eins og fram kom hér að ofan. Hólfið í austurenda hússins er um 6×7 m að stærð, snýr norður-suður. Hólfið í vesturenda hússins er um 4×7 m að stærð og snýr norður-suður. Þessi tvö hólf hafa steypta sökkla en eru að öðru leyti út timbri og bárujárni. Á húsinu eru þrjár burstir og er það hæst um 2,5 m. Norðan við húsið er um 1 m hár kantur. Þar sem hann endar í vestri liggur 11 m langur grjótgarður B til norðurs í hlykkjum. Hann er niðurfallinn, er um 1 m á breidd og og um 0,5 m á hæð þar sem hann er hæstur. Í hleðslum sjást 2 umför. Garðurinn beygir til austurs í norðurenda og þar er hann 2 m langur. Fast austan við hornið er þúst sem er um 6×2 m að stærð og um 1 m á hæð. Þessi garður er að öllum líkindum leifar af garði umhverfis túnið sem tilheyrði Vík og sést á túnakorti. Um 2 m norðan við garðinn er áframhaldandi jarðlægur garður E sem er hæstur um 0,3 m. Hann er í tveimur bútum á svæði sem er um 25×10 m og snýr NNV-SSA. Annars vegar er garðurinn um 20 m langur og snýr norðvestur-suðaustu.

Hellur (býli)

Hellur

Hellur.

„Minni-Knarrarnes vestar með þurrabúðina Hellur og Vík. … Hellur var þurrabúð með Hellnatúni eða Hellnaflöt Hellnalóð. Bæirnir stóðu í Knarrarnestúni,“ segir í örnefnaskrá. „Þurrabúðin Hellur er í landi Minna-Knarrarness, ofan þjóðvegar. Hún er enn í byggð,“ segir í örnefnaskrá KE. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Hellur voru til skamms tíma eina íbúðarhúsið í hreppnum ofan þjóðvegar. Þar byggði Lárus Pálsson „hómópati“ árið 1873.
Árið 1919-20 var byggt nýtt íbúðarhús á Hellum, nokkuð austan þess gamla.“ Bærinn í Hellum var um 225 m suðvestan við bæ. Á þessum stað eru talsverðar minjar. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru þrjú útihús (B, C og D) auk bæjar (A) og gerðis (E) innan túns. Ekki er lengur búið á Hellum en fá ár eru síðan það fór í eyði.
Hellur eru í hæðóttu túni skammt sunnan við veginn um sveitina. Túnið hefur verið stækkað til suðurs frá því sem var 1919.
1919: Tún 0,3 teigar, garðar 920m2. Minjarnar eru á svæði sem er um 105×70 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Bærinn A og útihús B,C og D voru sunnarlega í túninu. Bærinn er horfinn undir afleggjara sem liggur að núverandi íbúðarhúsi en austan við hann sést móta fyrir grunni eða útlínum húss sem er um 3×6 m að stærð og snýr norður-suður. Fast vestan við afleggjarann og um 3 m austan við bæ A er tóft D sem er einföld, um 6×7 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er grjóthlaðin og er steinlím í hleðslum.

Litla-Knarrarnesgatan (leið)

Knarrarnes

Knarrarnes – túnakot 1919.

„Frá bæ lá Litla-Knarrarnesgatan upp á veg,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða segir: „Síðan gengum við Gísli inn að Knarrarnesi, óðum túnin. […] Gísli var með ketil í hendinni, sem hann lagði frá sér á klöpp, þegar hann tók staurinn úr hliðinu að Knarrarnes-tröðunum.“
Á túnakorti frá 1919 sjást traðir liggja frá suðvesturtúnjaðri á um 50 m löngum kafla en þaðan að bæ er sýnd einföld lína sem táknar að líkindum götu. Gatan í túninu sést ekki lengur en leifar af tröðum eru um 135 m suðvestan við bæ. Gatan lá þar sem nú er tún og liggur núverandi heimreið yfir hana að hluta.
Traðirnar eru í suðurjaðri núverandi túns en til suðurs er mói og vegurinn um sveitina. Traðirnar eru um 30 m langar og liggja norðaustur-suðvestur. Þær sjást sem renna á milli gróinna grjótgarða í þeim hluta túnsins sem kominn er í órækt. Rennan er um 1 m á breidd. Utanmálsbreidd traðanna er um 2 m.

Brandsleiði (legstaður)

Minna-Knarrarnes

Brandsleiði – aftan við kirkjuna.

„Lambhúshóll er austan við Vík og austur af honum er Brandsleiði, aflöng þúfa eins og leiði,“ segir í örnefnaskrá KE. Í bókinni Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða segir: „Í túninu var leiði. Einhver hafði verið grafinn í óvíðum reit. Sennilega hefir sá eða sú svipt sig lífi.“ Leiðið er 110 m suðaustan við bæ og 60 m austan við tóft á Lambhúshóli.
Leiðið er á suðaustanverðu túninu nálega miðju. Umhverfis er slétt tún. Leiðið er aflöng þúfa sem er 3×1 m á stærð og um 0,4 m á hæð og snýr norður-suður. Í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 1994 er Brandsleiði sagt vera álagablettur en ekki greint frekar frá því hver álögin voru og ekki hafa fundist aðrar heimildir sem styðja það.

Breiðagerði (býli)

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, 137.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708. 13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561. 30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr.
DI VII, 561. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
Jörðin hefur verið í eyði frá 1926 og liggur undir Auðnum. Þar var þríbýli um aldamótin 1900.
Neðan Vatnsleysustrandarvegar í landi Breiðagerðis er húsaþyrping þar sem aðallega eru sumarbústaðir en einnig íbúðarhúsnæði.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 137. 1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100m2.

Breiðagerði

Breiðagerði – bæjarhóll.

„Breiðagerði bærinn stóð í Breiðagerðistúni innarlega og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að þríbýli hafi verið á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur hafi flutt af jörðinni um 1926. Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum.
Bæjarhóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.
Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum. Hann er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.

Breiðagerðisbrunnur I (vatnsból)

Breiðagerðisbrunnur

Breiðagerðisbrunnur I.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 30 m NNV við bæ. Brunnurinn er í lægð í túni sem komið er í órækt. Eitthvert nútímarask hefur orðið í túninu NNA við brunninn en þar sjást 2-3 samliggjandi grónar rákir.
Ekki er ljóst hvernig þær hafa myndast. Brunnurinn er grjóthlaðinn og samanfallinn. Hann er um 1 m í þvermál og 0,2 m á hæð. Lítið op er niður í hann, um 0,3 m í þvermál og um 0,3 m á dýpt.

Breiðagerðisbrunnur II (vatnsból)

Breiðagerði

Breiðagerðisbrunnur II.

Grjóthlaðinn brunnur er um 20 m norðan við bæ. Brunnurinn er norðvestan undir bæjarhól, við norðausturenda hans þar sem hann er hæstur. Brunnurinn er í lægð í túninu og norðan við hann er nokkurt deiglendi.
Hólmgrímur Rósenbergsson, heimildamaður, greindi frá því að hann hefði byrgt brunninn fyrir um 30 árum með bárujárni og er það enn á sínum stað. Ekki sést því ofan í brunninn en hann var að sögn heill þegar hann var byrgður en ekki fengust frekari upplýsingar um gerð hans eða aldur. Brunnurinn er líklega 2×2 m að stærð en umfang hans sést ekki glöggt.

Knarrarnessel (sel)

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð.“ „Þarna voru í eina tíð, og sjást rústir enn, þrjú sel. Fyrst Stóra-Knarrarnessel, Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel,“ segir í örnefnaskrá. Í Knararnesseli áttu þrjú lögbýli sel og enn sjást greinilega þrjú selstæði. Selið er um 5,2 km suðaustan við Knararnes stærra og um 5 km suðaustan við Breiðagerði. Samkvæmt landamerkjum frá Sveitarfélaginu Vogum er meirihluti tóftanna í selinu í landi Breiðagerðis og því er það skráð undir Breiðagerði þó að sá bær hafi ekki átt selstöðu í selinu svo vitað sé. Selið er hátt uppi í heiðinni í grónu hrauni. Lágir hólar aðskilja selstæðin sem eru þrjú sýnileg. Grösugt er á selstæðinu og virðist rof ekki ógna því. Stórþýft er á svæðinu.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Knarrarnessel er framundan en það liggur nokkurn spöl ofan Klifgjár og þar er flatlendast miðað við önnur selstæði í heiðinni. Selstígurin er ekki augljós frá Klifgjánni en frá jarðbrúnni yfir hana sveigjum við aðeins til hægri og komum að Leirflagsvatnsstæðinu en í það safnast vatn í rigningartíð. […] Selstæðið er stórt með mörgum tóftum enda höfðu líklega flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað.“ Á heimasíðu Ferlirs segir: „Selstæðið er stórt með mörgum tóftum. Þar má finna átta slíkar, misjafnlega stórar og margflóknar.
Þrjá hlaðna stekki er að sjá í selstöðunni. Fjöldi stekkja benda jafnan til fjölda selja á viðkomandi svæði. Hins vegar má geta þess að stekkir virðast ekki alltaf augljósir. Þannig má ætla að enn einn stekkurinn hafi fylgt austustu tóftunum þremur. Þær eru í grónum krika ofan við hinar tóftirnar. Sjá má móta fyrir hleðslu milli tveggja húsa, en alls eru rýmin í þeim fimm að tölu. Tvær tóftanna eru nokkuð heillegar og jafnvel sjá hversu stór rýmin hafa verið.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Í nyrstu tóftinni mældust innanrýmin 140×280. Það er svipað hlutfall og í öðrum rýmum annarra tófta, ekki einungis í þessu seli heldur og fleirum. Ein tóftin, sú syðsta í vestanverðri selstöðunni, er greinilega stærst umfangs. Hún hefur verið með fleiri rýmum en hinar, líklega einum fjórum, en það er óalgengt í seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hefur þrjú slík, þ.e. eldhúsið með sérinngangi og búr og svefnaðstöðu með sameiginlegum inngangi. Því, sem hér er lýst, er einungis ályktun út frá því sem sést á yfirborðinu, en ef grafið yrði í rústirnar gæti ýmislegt annað komið í ljós, s.s. tengsl einstakra rýma innbyrðis. Stekkirnir eru svipaðir að gerð,
tvö hólf. Þó má sjá móta fyrir bogadreginni hleðslu við endann á vestasta stekknum. Hlaðin kví er skammt norðan við selstæðið. Líklega höfðu flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað.“ Selið nær yfir svæði sem er um 115×100 m að stærð og snýr norður-suður. Það skiptist í þrjú svæði og verður hverju þeirra lýst fyrir sig. Svæði 1 er vestast og á því eru fjórar tóftir. Tóft A er stærsta tóftin í öllu selinu. Hún er um 16x14m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hún skiptist í sjö hólf. Í greinilegri hluta tóftarinnar til norðvesturs eru fimm hólf.

Vatnsleysa minni (býli)

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa – flugmynd.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 149. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
1703 er ein eyðihjáleiga, Búð 016, og tómthús 017 í eyði. JÁM III, 151.
Grund hét hjáleiga norðan bæjar, Miðengi var einnig hjáleiga, í byggð á 19. öld og fram til um 1916. Ö-Stóra- og Minni-Vatnsleysa, 5. Einnig var kotbýli nefnt Krókur. Ö-Vatnsleysa AG, 1.
Á Vatnsleysu minni bjó oft mikill fjöldi vermanna á vertíð.
1703: „Túnin fordjarfast merkilega af sands og sjáfar ágángi, item leir og vatnsrásum af landi ofan. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumur, um vetur nær öngvir nema lítið af fjöru.“ JÁM III, 151. 1919: Tún 4,5 teigar, garðar 2200m2 samkvæmt túnakorti.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa.

Árið 1953 keypti Þorvaldur Guðmundsson Vatnsleysu minni og reisti hann þar stórt svínabú sem enn er í rekstri. Gamli bærinn í Minni-Vatnsleysu stóð á svipuðum stað og starfsmannabústaður á vinstri hönd þegar ekið er inn á athafnasvæði svínabúsins. Nýtt hús var byggt á bæjarstæðinu árið 1941 en það hús var rifið árið 1978 og nýtt hús byggt fyrir starfsmenn svínabúsins
litlu vestar. Þorvaldur Guðmundsson lét gera styttu til minningar um þá sem sóttu sjóinn og stendur hún um 35 m austan við starfsmannabústaðinn.
Bærinn á Minni-Vatnsleysu stóð þar sem nú er sléttuð grasflöt fast vestan við litlar klappir en á annarri þeirra er áðurnefnd stytta. Vestan við bæjarstæðið er nýlegt íbúðarhús sem byggt var 1978. Á nær öllu gamla heimatúninu eru byggingar í tengslum við svínabú. Brekka er niður af bæjarstæði til norðurs þar sem leifar af kálgarði sjást enn. Jarðvegi og byggingaleifum hefur verið rutt niður brekkuna og sést þar mikið grjót neðst í brekkunni.
Ekki er sýnilegur bæjarhóll þar sem bærinn var og kann honum að hafa verið ýtt út við framkvæmdir um og eftir miðbik 20. aldar, ef hann hefur á annað borð verið til staðar.

Búð (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hjáleiga ein hefur hjer til forna verið kölluð Búð; hefur í fjögur ár í eyði legið. … Nú er grasnautn lögð til heimajarðarinnar og þykjast ábúendur að skaðlausu ei missa mega.“ Staðsetning býlisins Búðar er ókunn en líklegt verður að teljast að það hafi verið í eða við heimatún. Engar minjar fundust á vettvangi sem gefa staðsetningu þess til kynna.

Grund (býli)

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysubrunnur.

„Grund hét hjáleiga einhvers staðar norðan bæjar, ekki veit ég hvar,“ segir í örnefnaskrá. „Grund var ein með Grundartúni, smá blett, norðan bæjar,“ segir í örnefnaskrá Vatnsleysu. Líklegt er að Grund hafi verið þar sem fremur óljós tóft sést í norðvesturhorni túnsins, um 50 m norðvestan við bæ. Tóftin er í þýfðu túni innan um klapparhóla.
Tóftin er gróin en hefur að líkindum verið torf- og grjóthlaðin. Hún er um 5×7 m að stærð og snýr norður-suður. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Tóftin virðist vera einföld. Ekki sést skýrt op á henni en líklegt er að það hafi verið í norðvesturenda þar sem veggir eru óskýrari en í suðurenda. Norðurendi snýr að sjó. Á stöku stað sést í grjót. Ekki sjást fleiri tóftir í túninu sem gætu hafa tilheyrt þessu býli. Grundartún er samkvæmt túnakorti frá 1919 um 50×70 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Túnið er sýnt sem hluti af heimatúni Minni-Vatnsleysu og er það afmarkað af kálgörðum til suðurs og austurs. Grjóthleðslur eru meðfram norður- og vesturhliðum.

Miðengi (býli)

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa 1950.

Í Jarðatali Johnsens segir: „Prestur einn telur Miðengi hjáleigu jarðarinnar.“ „Rétt neðan stígs [milli bæjanna] eru hólar, sem heita Miðengishólar. Rétt austan við stór bær, sem hét Miðengi. [sennilega í landi Minni Vatnsleysu].
Þar hefur sennilega verið járnvarið timburhús, því grunnur þess sést enn og er nokkuð heill. Neðsti hluti eða undirstaða skorsteins sést enn,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Árið 1916 var húsið flutt til Hafnarfjarðar.“ Búið var á býlinu á 19. öld. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var býlið um 220 m SSA við bæ og sjást leifar þess enn.
Minjarnar eru í grónum klapparhólum og hallar landi frá þeim til austurs að sjó. Svæðið umhverfis þær er beitt af hrossum.
1919: Tún 0,5 teigar. Minjar um býlið sjást á svæði sem er um 20×13 m að stærð og snýr norður-suður. Á því sést grunnur íbúðarhússins sem var flutt til Hafnarfjarðar, steinhlaðin tóft og þúst.

Fúli brunnur (vatnsból)

Stóra-Vatnsleysa

Fúli-brunnur.

„Neðan við Hólshjall er gamall hlaðinn brunnur, sem heitir Fúli. Það er ekki flæðibrunnur eins og aðrir brunnar á bæjunum, heldur safnast í hann úr jarðveginum í kring, enda vatnið ekki neyzluvatn. Fúli var líka kallaður Hólsbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er ekki merktur inn á túnakort frá 1919 og má leiða að því líkum að hann hafi verið hlaðinn eftir gerð þess. Hann er um 245 m suðaustan við bæ og um 50 m norðaustan við Hólshjall.
Brunnurinn er í grónum hraunmóa, nærri sjávarbakka. Brunnurinn er ferköntuð gryfja sem er um 6×5 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er fullur af grjóti og drasli. Í suðvesturhorni sjást 3 umför hleðslu en ekki sést til botns í brunninum. Mesta hleðsluhæð utanmáls er 0,2 m.
Líklega er þessi brunnur ekki nógu gamall til að teljast til fornleifa samkvæmt lögum um fornminjar. Hann er hafður með í fornleifaskrá engu að síður þar sem hann er til vitnis um þá hefð að grafa og hlaða vatnsbrunna.

Danski (vatnsból)
„Fleiri brunnar eru nær bænum, sem hafa verið notaðir. Talað er um brunninn Danska,“ segir í örnefnaskrá. Engar nánari upplýsingar fengust um brunninn eða staðsetningu hans og tókst því ekki að staðsetja hann með innan við 50 m skekkju. Mögulega var brunnurinn Danski annar tveggja brunna sem merktir eru inn á túnakort frá 1919.

Vatnsleysa stærri (býli)

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa 1935.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 151.
1262 : Varðveist hefur gamall máldagi útkirkjunnar á Vatnsleysu, þar segir: „Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande. tiolld vmhverfuis og allan sinn bvning.“ DI II, 65. 1367: „Allra hreilagra kirkia a Vatzlejsu a xvc j heimalande. kluckur ij.“ DI III, 221. 1375 segir í máldaga kirkjunnar í Krýsuvík að hún eigi fjórðungspart í Vatnsleysu. DI II, 291.
[1379]: „ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord.“ DI III 340.
1479: Síðasti varðveitti miðaldamáldagi kirkjunnar er frá árinu 1397 og segir þar að kirkjan eigi 15 hdr i heimalandi. AM 263 fol. bl. 62.
28.4.1479: Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn. Í þessu bréfi lýsir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að engin ítök séu í jörðinni Vatnsleysu nema að kirkjan í Krýsuvík eigi þar 10 hundruð og jörðin Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka. DI VI, 185-86.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1515 kaupir Ögmundur ábóti Pálsson 20 hdr. í Vatnsleysu fyrir 25 hdr. DI VIII, 596.
1518: Viðeyjarklaustri færð 10 hdr. í Vatnsleysu til viðbótar. DI VIII, 673.
1518: Dómur um að heimatíund af Vatnsleysu skuli greiðast heim ekki til Kálfatjarnar. DI VIII, 649. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 6 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Minjar um fornbýli er að finna nálægt Kúagerði.
1703: hjáleigur í byggð Vatnsleysukot og tvær nafnlausar hjáleigur auk einnar nafnlausrar eyðihjáleigu. Eyðibýlið Akurgerði lagt undir Vatnsleysu á 16. – 17. öld. JÁM III, 153-154. „Austast og neðst var Naustakot, stundum kallað Pallakot … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær.“ Einnig var lítið kot nefnt Kofinn byggt utan í kirkjugarðshleðsluna. Ö-Stóra- og Minni-Vatnsleysa. Garðbær er merktur inná túnakort frá 1919.
Garðhús nefnt í bók GJ, Mannlíf og mannvirki. Heiðarland Vatnsleysubæja er víðáttumikið, nær frá sjó til fjalla. Vesturbærinn í eyði og lagðist undir Austurbæinn og var rifinn um 1940. GJ: Mannlíf og mannvirki, 351.
1703: „Túnum spillir nokkurn part vatnságángur f landi ofan og jarðfast grjót sem árlega blæs upp í túninu. Engjar eru öngvar. Úthagar lítilfjörlegir vetur og sumar.“ JÁM III, 153. 1919: Tún alls 7,3 ha, garðar 3800m2 samkvæmt túnakorti.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að ein hjáleiga jarðarinnar hafi verið „heima við bæinn og innanbæjar“ og er hún því skráð með bænum. „Tvö íbúðarhús voru eitt sinn á Stóru-Vatnsleysu, aðeins fáir metrar á milli. Voru þau nefnd Vesturbær og Austurbær,“ segir í örnefnaskrá. „Vatnsleysubæirnir voru jafnan tveir. Nefndust Austurbær og Vesturbær og stóðu á Kampinum Gamla en þar var ævaforn Sjávarkampur í því nær miðju Stóru-Vatnsleysutúni […],“ segir í örnefnaskrá Vatnsleysu. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Núverandi íbúðarhús var byggt 1952. Í Stóru-Vatnsleysu var þríbýli aldamótin 1900. Þá var skáli norður og niður af Vesturbænum.“ Bærinn á Stóru-Vatnsleysu er þar sem Austurbærinn stóð. Hann er ofan við mitt túnið sem er afar mishæðótt og eru margir klapparhólar í því, flestir grónir. Frá bænum er víðsýnt til austurs og suðurs. Íbúðarhúsið sem byggt var 1952 er þrílyft, með kjallara og þreföldum áföstum bílskúr að austanverðu. Þetta hús var byggt á sama stað og húsið sem stóð á undan því en var þó fært um 2 m til norðvesturs. Samkvæmt túnakorti frá 1919 og Sæmundi Þórðarsyni, heimildamanni, var Vesturbærinn 003 um 15 m norðvestan við Austurbæinn.
Bærinn stendur á brún í aflíðandi halla til austurs, niður að sjó.

Kapella (útkirkja)

Vatnsleysa

Vatnsleysa – kapella.

„Sunnan bæjarins skammt frá er matjurtagarður, girtur grjótgarði á þrjá vegu. Í suðurhorni er grjótið mest. Þar, er talið, að staðið hafi bænhús eða kapella, og má merkja þar vegghleðslur enn þá. Þetta er kallað Kapellan,“ segir í örnefnaskrá. „Heimundir bæ mátti sjá garðhleðslu. Þar hafði Kirkjan staðið og var þetta Kirkjugarðurinn.
Þetta svæði var einnig nefnt Kapellan. […] Kofinn hét kot, sem byggt var utan í garðhleðslu þessari.
Stóð ekki lengi, því svo var reimt, að ekki hélst við,“ segir í örnefnaskrá Vatnsleysu. Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: „Upphaflega voru þrjár kirkjur á Ströndinni, hálfkirkjur í
Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkjan á Kálfatjörn.“ Meint staðsetning kapellu er um 50 m suðaustan við bæ, í suðurhorni kálgarðs sem skráður er með þústinni.
Kofinn er einnig skráður á þetta númer, enda eru þessar minjar allar á sama stað.
VATNSLEYSA Á VATNSLEYSUSTRÖND (G) – Allraheilagra (KÁLFATJARNARÞING) – HÁLFKIRKJA [haustið 1269]: gamall maldage Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande. tiolld vmhverfuis og allan sinn bvning. þar skal syngia annan hvern dag loghelgan fra kalfa tiorn. og kavpa .ij. morkum ad presti. Lysa fyri helga daga fra mariv messv vnz lidur paska vikv. heima týund; Máld DI II 65 [1367]: lxiv. Allra hreilagra kirkia a Vatzlejsu a xvc j heimalande. kluckur ij. les Vilchinzbok; Hítardalsbók DI III 221 1397: a xvc. i Heimalandi portio Ecclesiæ vmm x är .c. oc xiij aurar. brestur kirkiunni iij kugilldi; {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 62, 64} Kálgarðurinn er um 28×26 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann er grjóthlaðinn og eru hleðslur 1-1,5 m á breidd og hæstar utanmáls um 1,2 m. Sjást 4-6 umför í hleðslum en hleðslan er úr lagi gengin og bætt hefur verið í hana. Meðfram innanverðum veggjum sem afmarka norðaustur- og suðausturhliðar er 0,3 m há brún um 2 m frá veggjum, líklega leifar eldri hleðslu. Þessi brún heldur áfram til norðvesturs, um 2 m lengra en hlaðni veggurinn og beygir svo upp til suðvesturs og sést á um 11 m löngum kafla. Þúst er í suðurhorni kálgarðsins þar sem talið er að kirkjan hafi staðið en þarna var líka kot sem hét Kofinn, líklega þurrabúð. Þústin er um 6×4 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hún er hæst um 1,5 m. Í suðausturenda hennar er búið að útbúa blómabeð. Mikið er búið að bæta í þústina af grjóti. Engin ummerki um kirkjugarð eða leiði sjást í næsta nágrenni þústarinnar.
Mögulega er þústin leifar af Kofanum. Ólíklegt er að þær minjar sem sjást á yfirborði hafi tilheyrt kirkjunni sem þarna kann að hafa staðið en sennilegt er að minjar um hana séu enn undir sverði ef þeim hefur ekki verið raskað.

Steinn (áletrun)

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinn.

Steinn með áletrun á, sem er líklega ekki á upprunalegum stað er um 95 m suðaustan við bæ og um 50 m suðaustan við meinta staðsetningu kirkju.
Steinninn er í túni sem komið er í órækt, fast sunnan við miklar grjóthrúgur sem hreinsaðar hafa verið úr túninu.
Steinninn er um 0,7 m á lengd, 0,5 m á hæð og þykkt. Áletrunin er á flatri og sléttri hlið steinsins. Hún er orðin mjög óljós og máð en fjallað er um steininn og áletrunina á heimasíðu Ferlirs og þar kemur fram að áletrunin sé stafirnir GI sem sameinist í krossmarki að ofanverðu og hægra megin að ofanverðu sé ártalið 1643 eða 1649. Óvíst er í hvaða tilgangi áletrunin var rist en líklegast er hér um legstein að ræða. Hálfkirkja var á Stóru-Vatnsleysu. Líklegt er að kirkjugarður hafi tilheyrt kirkjunni en ekki er vitað hversu lengi grafið var í kirkjugarðinum, né hvenær kirkjan lagðist af.

Vesturbær (býli)

Vatnsleysa

Vatnsleysa – Vesturbær.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 og Sæmundi Þórðarsyni, heimildamanni, var Vesturbærinn um 15 m norðvestan við Austurbæ. Eitt útihús og kálgarður voru samtengd bænum og eru skráð með honum. Ætla má að þró og útihús hafi tilheyrt Vesturbænum þar sem þau standa næst honum. Þar sem minjarnar voru er nú malbikað bílaplan og steinsteypt fjós. Ekki sést til minja um Vesturbæinn eða mannvirki í næsta nágrenni hans og eru þær horfnar vegna niðurrifs.

Akurgerði (býli)

Akurgerði

Akurgerði við Kúagerði.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Akurgierde hefur til forna jörð verið næst Vatnsleysu fyrir innan, hefur í eyði legið lángt fram yfir hundrað ár, vita menn hverki dýrleika hennar nje afgjald hvað verið hafi, og eru landsnytjar allar lángt fyrir þeirra minni, sem nú lifa, lagðar til Stóru-Vatnsleysu, og þaðan brúkaðar frí. Túnin, sem verið hafa, eru af hrauni, vatnságángi og sjáfar aldeiliss eyðilögð, þar sem skortir þar vatn, so jörðin kann ómöglega aftur byggjast.“ „Upp af víkinni [Kúagerðisvík] vestanverðri eru grónir bakkar, sem ná upp að þjóðvegi og að hraunjaðrinum. Heita þeir Akurgerðisbakkar. Sagt er, að einu sinni væri búið þar, og hét þar Akurgerði,“ segir í örnefnaskrá ÞJ. „Austur af því taka við flatir og má sjá Garðlag gamalt og mun vera garður vestan við býli, sem talið er að hér hafi verið og nefnst Akurgerði.“ segir í örnefnaskrá. Akurgerði var á svæði sem nú er afmarkað af fjörunni, Strandarvegi og vegarslóða sem liggur samsíða Reykjanesbraut, norðan hennar við Kúagerðisvík. Svæðið er tæpa 100 m norðan við Reykjanesbraut.
Syðst á þessu svæði er grasi gróið og nokkuð hæðótt en ekki eru tóftir eða önnur mannvirki greinileg. Ekkert er vitað um það hvenær Akurgerði var lagt undir Vatnsleysu en Afstapahraun hlýtur að hafa þrengt mjög að býlinu og kann það að hafa farið í eyði í kjölfar þess að það hraun rann. Aldur Afstapahrauns er ekki þekktur en í grein eftir Jón Jónsson kemur fram að athuganir hafi leitt í ljós að hraunið sé ofan á landnámsgjóskunni (871+/- 2) og giskar hann á að hraunið hafi runnið í kringum árið 1325. Frekari rannsóknir þarf til að finna rökstuddan aldur hraunsins. Sé hraunið svo gamalt eru líkur til þess að Akurgerði hafi lagst snemma í eyði.

Nýibær (býli)

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa – ullarþvottur.

„Margar hjáleigur voru í túni Stóru-Vatnsleysu. Voru þær aðallega í neðsta hluta niðurtúnsins og flatanna. Smátúnblettir voru um hvert þeirra og hlaðið í kring með grjótgörðum. Sumir voru ákaflega vel hlaðnir og voru óskemmdir þar til fyrir fáum árum. … Fyrir nokkrum árum var öllum grjótgörðunum rutt burt og niður í sjávarkampinn. Þar eru nú slétt tún. … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Nýibær var lítið grasbýli niður af Móabæ, við sjávarkambinn, í landi Stóru-Vatnsleysu. … Síðar flutti það fólk sem eftir var til Hafnarfjarðar sem það sem nýtilegt var úr Nýjabæ og byggði upp þar sem nú er Vörðustígur 3 í Hafnarfirði.“
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Nýibær um 180 m austan við bæ. Býlinu tilheyrði þrískipt bæjartóft og tvö önnur hús auk einnar þróar. Engin ummerki sjást um bæinn eða önnur mannvirki sem honum tengdust, ef frá er talin tóft af húsi sem sýnt er á túnakorti um 215 m austan við bæ og um 30 m austan við bæjarhús Nýjabæjar. Með þeirri tóft er skráð önnur tóft sem er fast norðan við hana en er utan túns og því ekki inni á túnakorti.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Í örnefnaskrá Vatnsleysu segir: „En neðan við Harðhaus er nú Hrútakofinn. Hann byggði Jónas í Nýjabæ og nefnist Jónasarkofi. Jónasarbær, sama og Nýibær.“ Jónasarkofi er að líkindum tóft A sem lýst er hér að neðan. Í fyrstu tilvísun hér að framan úr örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu eru bæði Nýibær og Jónasarbær taldir upp eins og um tvö aðgreind býli hafi verið að ræða. Þetta er eina heimildin þar sem þessu háttar svo og er líklega um rugling að ræða. Gengið er út frá því að Nýibær og Jónasarbær séu eitt og sama býlið. Bærinn var austan við klapparhól í sléttuðu túni sem komið er í órækt. Minjarnar sem enn sjást eru á mörkum túns og fjöru.
1919: Tún 0,19 teigar, garðar 260 m2. Á milli Móabæjar og Nýjabæjar er stór þúst þar sem grjóti úr býlunum var ýtt saman og það hulið með jarðvegi. Tóftirnar tvær sem enn sjást og hafa líklega tilheyrt Nýjabæ eru á svæði sem er um 14×10 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur.

Móabær (býli)

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni.

„Margar hjáleigur voru í túni Stóru-Vatnsleysu. Voru þær aðallega í neðsta hluta niðurtúnsins og flatanna. Smátúnblettir voru um hvert þeirra og hlaðið í kring með grjótgörðum. Sumir voru ákaflega vel hlaðnir og voru óskemmdir þar til fyrir fáum árum. … Fyrir nokkrum árum var öllum grjótgörðunum rutt burt og niður í sjávarkampinn. Þar eru nú slétt tún. … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Móabær var í landi Stóru-Vatnsleysu, við girðingu milli Vatnsleysanna og austan við götu sem þar er á milli. Var þetta lítið grasbýli. … Jón og Ragnheiður voru í Móabæ fram yfir 1900 og síðustu ábúendur þar.“ Lýsing Guðmundar bendir til þess að býlið hafi verið við merki Minni- og Stóru-Vatnsleysu en líklega er átt við girðingu á milli túnhluta Vesturbæjar 003 og Austurbæjar 001, eða á milli eignarhluta Sæmundar og Einars Þórðarsona. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Móabær um 140 m austan við bæ 001. Býlinu tilheyrðu tvö hús, brunnur, kálgarður og túngarðar. Býlið var í sléttuðu túni sem komið er í órækt.
1919: Tún 0,17 teigar, garðar 600m2. Engin ummerki um býlið sjást á yfirborði en mögulega leynast leifar af því undir sverði.

Sigurjónsbær (býli)

Vatnsleysa

Vatnsleysa – túnakort 1919.

„Margar hjáleigur voru í túni Stóru-Vatnsleysu. Voru þær aðallega í neðsta hluta niðurtúnsins og flatanna. Smátúnblettir voru um hvert þeirra og hlaðið í kring með grjótgörðum. Sumir voru ákaflega vel hlaðnir og voru óskemmdir þar til fyrir fáum árum. … Fyrir nokkrum árum var öllum grjótgörðunum rutt burt og niður í sjávarkampinn. Þar eru nú slétt tún. … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær,“ segir í örnefnaskrá. Í annarri örnefnaskrá eftir Ara Gíslason segir: „[…] innan við Naustakot var Sigurjónsbær.“ Sigurjónsbær er að öllum líkindum sami bær og Garðhús. Hann er ekki merktur inn á túnakort og hefur verið utan túns. Samkvæmt bókinni Mannlíf og mannvirki bjuggu Sigurjón Jónsson og Guðrún Filippusdóttir í Garðhúsum. Þar segir einnig: „Þau byggðu Garðhús rétt eftir aldamótin [1900] og voru þar í nær 20 ár, en fluttu síðan til Hafnarfjarðar, rifu bæinn og byggðu hann upp þar sem nú er Krosseyrarvegur 11. Eins og fyrr segir var einginn fyrir né eftir þeirra dag í Garðhúsum.“ Býlið hefur að líkindum verið um 260 m ASA við bæ en nákvæm staðsetning hans er ekki lengur þekkt.
Garðhús hefur líklega verið á fjörukambinum en þar sem nú eru mörk stórgrýttrar klapparfjöru og túns í órækt. Grjóti sem rutt var úr túninu við sléttun er nú á þessum stað.
Ekki sést til minja um bæinn vegna niðurrifs og sléttunar.

Garðbær (býli)

Vatnsleysa

Vatnsleysa – túnakort 1919 lagt yfir loftmynd.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var býlið Garðbær um 200 m suðaustan við bæ og 65-70 m sunnan við Kotbrunn. Býlinu tilheyrði tvískipt bæjartóft auk þriggja útihúsa, kálgarðs og túngarða. Engar leifar um býlið sjást á yfirborð vegna sléttunar. Ekki er minnst á þetta býli í örnefnaskrám og líklegt að það hafi einnig borið annað nafn.
Ef til vill hefur það líka heitið Jónasarbær og það skýrir þá hvers vegna Nýibær og Jónasarbær eru báðir nefndir í örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu. Þar sem býlið var er sléttað tún sem komið er í órækt en dálítill flatur stallur er í túninu þar sem bærinn stóð að líkindum.
1919: Tún 0,25 teigar, garðar 550m2.

Kotbrunnur (vatnsból)

Kotbrunnur

Kotbrunnur.

„Á flötunum, rétt ofan þar sem kotablettirnir voru, er flæðibrunnur, vel hlaðinn innan. Þó mun eitthvað vera hrunið úr veggjum hans nú. Vatnið í honum var saltminna en í brunninum vestar í túninu, sem áður er sagt frá. Þessi brunnur var kallaður Kotbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá 1919 og er um 180 m ASA við bæ. Brunnurinn er í sléttuðu túni sem komið er í órækt. Til vesturs eru hólar og hæðir en nokkuð flatlent er til annarra átta. Brunnurinn er grjóthlaðinn, um 2 m í þvermál, en stendur aðeins lítillega upp úr sverði. Honum virðist lítið sem ekkert hafa verið raskað og er líklegt að hann hafi verið notaður eftir að sléttað var úr býlunum á svæðinu þar sem vatnið í honum þótti betra en í brunni. Brunnurinn er um 8 m á dýpt og sést til botns í honum. Hleðslan í brunninum er 4-5 m á hæð en neðan við hleðsluna er klöpp sem grafið hefur verið ofan í. Ekki sást vatn í botni brunnsins þegar hann var skráður á fjöru á vordögum 2012.

Þýskubúðir (þingstaður)
„Í hafnartali Rexens er Vatnsleysuvík talin höfn á 16. öld, en þess getið, að þangað séu engar siglingar. Þó hafa Hamborgarkaupmenn nokkuð síðar silgt þangað og verzlað þar. … Konungsbréf, sem útgefið var 1602, tilkynnir, að þýzkum kaupmönnum hafi þó verið leyft að sigla á hafnirnar Vatnsleysuvík og Straum þetta sumar, til að innheima skuldir sínar, en þeir megi alls ekki verzla við Íslendinga,“ segir í bókinni Strönd og vogar. Í Söguriti XXIX er héraðslýsing Guðmundar Runólfssonar sýslumanns frá 1770 þar sem hann fjallar m.a. Um hafnir. Þar segir: „Auk þessa höfdu Þiisker, þegar höndludu hier vid Land, sýnar Sumar Hafner allvýda i þessu Hierade, er nú ei brúkast, so sem Stroimswiik i Hroinumm, Watnsleysuwiik á Strönd og výdar, hvar umm Búdartofternar enn i Dag audsienar bera ljósast Vitne.“ Í örnefnaskrá segir:“Víkin þar fyrir innan [Naustakotsvör] heitir Búðavík.“

Vatnaborg (vatnsból)

Vatnaborg

Vatnaborg – vatnsstæði.

„Upp af [Stekkhól] nokkuð fyrir ofan gamla þjóðveginn er hóll, sem heitir Grænhóll. Suður af honum er annar minni, sem heitir Efri-Grænhóll. Skammt þar fyrir ofan er slakki eða lægð. Þar á smábletti kemur upp vatn, og myndast þar oft vatnsból. Heitir það Vatnaborg og er rétt ofan steypta vegarins,“ segir í örnefnaskrá. Um 150 m ofan Reykjanesbrautar (sunnan) og um 170 m austan við Vatnaborgina sjálfa er vatnsbólið.
Svo er að sjá á gróðri á þessum slóðum að vatnsbólið hafi verið stórt áður eða um 20 m í þvermál. Nú er hins vegar aðeins rakur mosagróður á þessu svæði nema á um 2 X 0,8 m svæði þar sem enn er vatn.

Tóustígur (leið)

Tóustígur

Tóustígur.

„Skammt neðan Gráhellu liggur gamall stígur upp hraunið. Liggur hann í suðaustur og endar í allstórri lægð, sem er girt háu hrauni á alla vegu. … Stígurinn frá hraunbrún og upp að þessum lægðum heitir Tóustígur,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Austan og neðan við Gráhellu komum við að Tóastíg, Tóarstíg eða Tóustíg en hann liggur upp í Tórnar eða Tóurnar eins og málvenja er núorðið. Stígurinn var eyðilagður að mestu þegar efni í Reykjanesbrautina var tekið en hluti hans sést þó vel enn þá rétt neðst þar sem hraunið er enn óraskað. Stígurinn kemur aftur í ljós fyrir ofan ruðningana.“ Leiðin sést þar sem hún liggur ofan í Tó tvö um 2,5 km suðaustan við bæ.
Leiðin liggur um móa innan um hraun.

Gvendarborg

Gvendarborg á Vatnsleysuheiði.

Gvendarborg (fjárskýli)
„Góðan spöl ofan Gráhellu liggur löng hraunbreiða út í heiðina. Heitir það Hraunsnef. … Rétt ofan Hraunsnefs á heiðarholti er gömul hlaðin rétt eða fjárborg. Heitir það Gvendarborg,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Á nokkuð háu klapparholti upp og suðaustur af Djúpadal en suður af Hraunsnefi stendur hálfhrunin fjárborg sem heitir Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála en hann var fæddur árið 1830 […]“ Gvendarborg er um 4,2 km suðaustan við bæ. Borgin er hátt í Strandarheiði á nokkuð flatlendu svæði í hraunmóa. Allgróið er hér í kring en flagmói á stöku stað.
Borgin var líklega um 6 m í þvermál þegar hún var heil en mikið hefur hrunið úr hleðslum, aðallega úr utanverðum veggjum svo leifar af borginni ná yfir svæði sem er um 9×9 m að stærð. Mesta hleðsluhæð er um 1,8 m og mest sjást 8 umför en meirihluti veggjahleðslna er hruninn. Opið inn í borgina sést enn og var gengið inn í hana úr suðaustri. Grjót hefur hrunið í opið sem er aðeins um 0,3 m á breidd og var um 0,7 m á hæð.

Stóri-Kolhóll (kolagröf)

Kolhóll

Stóri-Kolhóll.

„Frá Einiberjahól liggja mörkin um hól, sem nefnist Stóri-Kolhóll. Þarna eru fleiri hólar eða holt, sem kallaðir eru einu nafni Kolhólar. Kolhólar eru, sem kallað er, á háheiðinni,“ segir í örnefnaskrá. Kolhóll eða Stóri-Kolhóll er um 6,5 km sunnan við bæ 001 og um 1,5 km sunnan við sel. Í Kolhól er mikil hringlaga dæld sem er um 3 m djúp og um 12 m í þvermál. Hóllinn er í mosagrónu, hæðóttu hrauni.
Ekki sést til ummerkja um kolagerð í eða við hólinn en ekki er hægt að útiloka að kolagerði haf farið fram á þessum stað. Varða er um 10 m vestan við dældina í hólnum. Hún er óvönduð og líklega ung að árum eða illa endurhlaðin.
Varðan er 1×1 m að stærð og um 0,5 m á hæð. Ekki er hægt að greina fjölda umfara. Grjótið í vörðunni er skófum vaxið. Viðarprik er á milli steina í vörðunni en hefur líklega áður staðið upp úr henni. Hlutverk þessarar vörðu er óljóst en mögulega hefur hún átt að vísa á hólinn, varðað Þórustaðastíg sem liggur fast suðvestan við hólinn, eða verið landamerki því samkvæmt örnefnaskrá var Kolhóll á merkjum milli Flekkuvíkur og Vatnsleysu sbr. tilvísun hér fyrir ofan.

Oddafellssel (sel)

Oddafellssel

Oddafellssel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt.“ „Gamall götuslóði eða stígur liggur frá Oddafelli, og fer hann út á hraunið spölkorn vestur með fellinu, frá norðurenda þess vestur yfir hraunið í átt að Keili, og er nefnt Höskuldarvallastígur. Örskammt með fellinu að vestan við hraunbrúnina eru gamlar vegghleðslur. Þar var haft í seli frá Minni-Vatnsleysu,“ segir í örnefnaskrá. Selið er um 9,3 km suðaustan við bæ.
Minjarnar eru á mörkum úfins mosagróins hrauns og grösugra hlíða Oddafells sem þó eru uppblásnar á köflum.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Næst skoðum við tóftirnar af Oddafellsseli sem var frá Minni-Vatnsleysu en það liggur í vesturrótum fellsins skammt fyrir sunnan Höskuldarvallastíginn (sjá síðar) þar sem hann beygir út í apalhraunið til vesturs. Þar sjást tvær-þrjár tóftir og einnig kvíahleðslur í hraunjaðrinum rétt sunnan við selið.“ Tóftir sem tilheyrt hafa selinu eru á svæði sem er um 170×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.

Vatnsleysustekkur (stekkur)

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.

„Einhversstaðar hér í Heiðinni var Vatnsleysustekkur og hér er Litli-Hrafnhóll …“ segir í örnefnaskrá. „Rétt vestan gjárinnar [Hrafnagjá] komum við að Vatnsleysustekk í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar en stuttu ofan við nýju tengibrautina. Eiríksvegargerðarmenn hafa látið óhreyft grjótið í stekknum sem segir okkur að líklega hefur hann verið í notkun þegar vinnan stóð yfir,“ segir í bókinni Örnefnum og gönguleiðum. Stekkurinn er um 710 m vestan við bæ og um 880 m suðvestan við Minni-Vatnsleysu. Stekkurinn er í gróinni kvos milli tveggja hæða í grónum hraunmóa. Fast sunnan við stekkinn liggur Eiríksvegur og um 50 m eru að stekknum suðvestur af Vatnsleysustrandarvegi.
Tóftin er tvískipt og grjóthlaðin. Hún er um 8,5×7 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð er um 0,6 m og mest sjást 3 umför í hleðslum. Þær eru hrundar og grónar, sérstaklega í norðausturhluta tóftarinnar.

Vatnsbergsstekkur (stekkur)

Vatnaborg

Vatnsbergsstekkur/Vatnaborg.

„Sunnar [en Grænhólar] er Vatnsstæðið, Vatnsberg. Þar er Vatnsbergsrétt, en fyrrum var þarna Vatnsbergsstekkur,“ segir í örnefnaskrá. „Upp af honum nokkuð fyrir ofan gamla þjóðveginn er hóll, sem heitir Grænhóll. Suður af honum er annar minni, sem heitir Efri-Grænhóll. Skammt þar fyrir ofan er slakki eða lægð. Þar á smábletti kemur upp vatn, og myndast þar oft vatnsból. Heitir það Vatnaborg og er rétt ofan steypta vegarins,“ segir í örnefnaskrá „Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur fyrrum verið stór fjárborg, Vatnaborg eða Vatnsborg og dregið nafn af vatnsstæðinu.“ Minjar um fjárborg og stekk eru 185-195 m sunnan við Reykjanesbraut og um 1,5 km suðaustan við bæ.
Hóllinn sem minjarnar eru á er nokkuð hár. Hann er gróinn mosa og grasi. Umhverfis er þýft, mosa og lyngivaxið svæði með hraunhæðum inn á milli.
„Borgin var hringlaga 10-12 m í þvermál og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið þar stekkur eftir að Borgin sjálf lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergrétt og Vatnsbergsstekk …“
Fjárborgin er hlaðin úr allstóru grjóti. Hún er hlaðin í hring og er 10 m á annan veginn en 12 m á hinn.

Kúagerði (býli)

Kúagerði

Kúagerði.

„Í Kúagerði fyrir sunnan Hvassahraun, má sjá vott þess, að þar hafi bær verið fyrir löngu,“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein árið 1902 „Sér þar til rústa innan til við sjávarkambinn, og nokkru vestar sést langur partur af niður sokknum grjótgarði og hverfur norðurendi hans í sjávarkambinn. Hefur sjórinn gengið þar á landið og brotið það upp. Þess skal getið að þetta stendur í engu samandi við rúst kot þessa, sem fyrir nokkrum áratugum var byggt í Kúagerði. Þar er hraunsnef á milli og þessarar rústa,“ segir Brynjúlfur ennfremur. Ekki sjást greinilegar garðleifar á þessum slóðum. Fast sunnan við Reykjanesbraut og vestan við Kúagerðistjörn er hæð sem hugsanlega gæti verið leifar að garðlagi því sem rætt er um að ofan. Eins líklegt er að hæðin sé náttúruleg. Garðurinn er grasi gróinn en í kring er gróið hraun.
Hæðin er á um 50 m bili frá Reykjanesbraut til slóðans sem liggur samsíða brautinni að norðan. Norðan við slóðann sést svo í framhald sömu hæðar á um 15 m parti að fjörukambi.

Vatnsleysuskóli (hús)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum er sagt frá upphafi skólahalds í Vatnsleysu. Einnig er fjallað um skólann þar í ritgerð um skólahald í hreppnum eftir Eyjólf R. Bragason og fleiri.
Skólahald hófst á Stóru-Vatnsleysu árið 1910 og var kennt fyrst um sinn í Austurbænum 001. Nýtt skólahús var svo reist á jörðinni, um 200 m suðaustan við bæinn, árið 1912 og var kennt í því til 1914. Skólahald í Vatnsleysuskóla lagðist þá niður um árabil en hófst að nýju árið 1925 og hélst nokkuð samfleytt til ársins 1943 þegar skólaakstur hófst í hreppnum og skólahúsið var selt Þórði Jónassyni, bónda í Stóru-Vatnsleysu.
Skólinn var í grónum hraunmóa sunnan við tún Stóru-Vatnsleysu og skammt austan við heimreið að bænum. Samkvæmt Sæmundi Þórðarsyni, heimildamanni, var skólahúsið rifið fyrir um 20 árum og sjást lítil sem engin ummerki.

Rauðhólasel (sel)

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólasel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti.“ „Grasi gróinn halli eða lægt er vestan undir Rauðhól. Þar eru gamlar rústir eftir kofa og fjárrétt. Þar var haft í seli frá Stóru-Vatnsleysu, og heitir þar Rauðhólssel,“ segir í örnefnaskrá. Minjarnar eru um 6,5 km
suðaustan við bæ. Tóftirnar eru á litlu mosavöxnu seltúni vestan við Rauðhól.
„Selið er í litlum Hvammi milli brunahóla. Seltún er þarna lítið. Tættur eftir byggingar eru hér líka. Aðalselið hefur verið undir Rauðhól – Nyrðri en fyrir botni er Stóri-Rauðhóll og norðan undir honum eru Kvíarnar og Réttin. Kvíarnar eru hringbyggðar eins og Borg, en Réttin er aflöng, sporöskjulöguð. Þarna var haft í seli fram um sextándu helgi [svo]. Þá gerðist svo magnaður draugagangur, að ekki varð við vært. Við austurenda Stóra-Rauðhóls hefur hraunið runnið niður brekku og þar hefur það myndað Sjálfkvíar eða djúpa laut, sem var hin ágætasta kví,“ segir í örnefnaskrá

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Á heimasíðu Ferlirs segir: „Ofarlega í heiðinni eru nokkrir grónir rauðamelshólar. Rauðhólar standa við vesturjarðar Afsta[p]ahrauns, en í kring um þá að hluta hefur hraunið runnið. Þetta eru fjórir hólar eða hæðir og tveir sem standa fjærst hrauninu heita Stóri-Rauðhóll eða Rauðhóll og Litli-Rauðhóll, sem stendur neðan hans. Undir þessum hólum að norðaustanverðu er Rauðhólssel, en þar var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsból [svo].
Aðalbláberjalyng er mjög sjaldgæf [svo] jurt í hreppslandinu, en við hólana má sjá það teygja sig upp úr þröngum gjám.“ Ein tóft og ein þúst sjást í seltúninu á svæði sem er um 35×15 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Tóft A er norðvestast á svæðinu. Hún er um 10×8 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er þrískipt, torf- og grjóthlaðin. Hólf I stærst og er í suðurenda tóftarinnar. Það er um 3,5×2 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er inn í það á austurhlið. Úr hólfi I er gengið inn í hólf II til norður sem það hólf er mjög samansigið og óskýrt, sem og opið milli hólfanna. Hólf II er um 1 m í þvermál innanmáls. Hólf III er í norðausturhluta tóftarinnar. Það er um 3,5×0,5 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op inn í það er á suðurgafli. Mesta hleðsluhæð tóftarinnar er um 0,6 m. Ekki sést fjöldi umfara í hleðslum. Þúst B er um 4,5×8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þústin er gróin en hefur líklega verið torf- og grjóthlaðin. Hvorki sést móta fyrir hólfum í þústinni né opi. Þústin er við jaðar seltúnsins og lækkar landið norðaustan við hana. Mesta hæð hennar er 0,3 m.

Vatnsleysukot (býli)

Vatnsleysa

Vatnsleysa – fornleifar.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 var hjáleigan Vatnsleysukot í byggð það ár. Engar frekari upplýsingar fengust um þessa hjáleigu og ekki ljóst hvar hún var. Líklegt er að hún hafi annað hvort verið nærri bæ eða þar sem hjáleignaþyrping var áður vestast í túninu.
Ekki var unnt að staðsetja býlið með innan við 50 m skekkju.

Flekkuvíkursel II (sel)

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Lítið sel er um 185 m norðaustan við Flekkuvíkursel I og 3 km SSA við bæ. Heimildum ber ekki saman um hvað ásarnir heita í kringum Flekkuvíkursel en það skiptir miklu máli í þessu tilviki því landamerki Flekkuvíkur á móti Kálfatjörn annarsvegar og Vatnsleysu hins vegar liggja um ása sitt hvorum megin við selið. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir er aðeins talað um Vestari- og Nyrðri-Flekkuvíkurselás eins og gert er í landamerkjalýsingu. Í lýsingum af staðsetningu selsins í sömu heimild er talað um að Selásvarða sé á Vesturásnum. Í örnefnaskrá Flekkuvíkur er hins vegar talað um Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás. Og samkvæmt sömu heimild er Selásvarðan á Mið-Selás. Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Mið-Selás er suðaustan við Flekkuvíkusel og á honum er stór varða sem að öllum líkindum er Selásvarða en tvær vörður eru á Selásnum vestari sem er vestan við Flekkuvíkursel.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Selið sem hér er skráð er á mörkum Vatnsleysu og Flekkuvíkur. Óvíst er hver tengslin eru milli seljanna tveggja en selið í landi Vatnsleysu virðist vera eldra en Flekkuvíkursel og því tilheyra færri sýnilegar rústir. Selið kann að hafa verið frá Vatnsleysu eða eldra sel frá Flekkuvík þó að selstæði Flekkuvíkursels sé mun ákjósanlegra eins og aðstæður eru nú. Selið er í allgrónu hrauni norðan undir Nyrðri-Flekkuvíkurselási eða Selás eystri. Þar er lítið gróðurlendi og flagmóar eru nærri tóftunum og ógna þeim.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.“

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um Sel á Reykjanesskaga segir: „Í selinu [Flekkuvíkurseli sjálfu má vel greina 8 tóttir. Líklega hafa selstöðurnar verið a.m.k. tvær. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóftir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús.
Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920).“ Minjar um selið eru á svæði sem er um 95×85 m að stærð og snýr VNV-ASA. Á svæðinu eru þrjár tóftir, vatnsstæði og varða.

Kolhólasel (sel)

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Í graslendinu fast við hólinn eru fimm greinilega afmarkaðar tóftir eða dældir og er sú stærsta 4×3 m. Ekkert grjót sést í tóftunum. Sagnir eru til um kolagrafir þarna, en hólarnir á þessu svæði heita Kolhólar og grasrindarnir Kolhólalágar. Nú er farið að kalla þessar tóftir Kolhólasel en líklega hefur það heitið Vatnsleysusel fyrrum,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í örnefnaskrá segir: „Hér suður í heiðinni Vatnsleysuheiði, var fyrr á tímum sel Vatnsleysusel. Nú munu fáir eða engir vita um þann stað, en nafnið lifir meðal eldri manna.“

Kolhólasel

Kolhólasel.

Á heimasíðu FERLIRs segir: „Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu. Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál.

Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli um tíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið.
Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um Reykjanesskagann á 19. öld.“ Seljatóftir eru um 5 km sunnan við bæ og um 1,35 km suðvestan við Gvendarborg. Minjarnar eru í nokkuð flatlendum og grjónum móa innan um hraunhóla sem mynda hring í kringum svæðið, syðst á svæðinu eru minjar undir allháum hól.
Alls eru þrjár tóftir á svæði sem er um 27×18 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.

Hrafnagjá (áletrun)

Hrafnagjá

Hrafnagjá áletrun við Magnúsarsæti á Stóru-Vatnsleysu.

„Stuttan spöl sunnan milligarðsins og ofan gamla götuslóðans milli bæjanna er mjög gömul og víða uppgróin gjá. Heitir hún Hrafnsgjá … Gjáin liggur um nokkuð háan klapparhól næstum efst í túninu. Sunnan í hólnum ca. 2 m niður er stallur eða sylla, sem kölluð er Magnúsarbæli. Tveir bókstafir eru höggnir í sylluvegginn og er sá fyrsti H, en hinn man ég ekki, hver er,“ segir í örnefnaskrá. Áletrunin er í Hrafnagjá um 165 m vestan við bæ.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Áletrunin er á innanverðum suðaustari gjárveggnum. Gjáin liggur norðaustur-suðvestur. Bælið og áletrunin eru suðvestan við allháan hól sem sprungan liggur í gegnum.
Samkvæmt heimildamanni, Sæmundi Þórðarsyni, mátti ekki slá of nærri gjánni vegna huldufólks. Það sem sést af áletrun í gjánni er fangamarkið SJ efst, þar fyrir neðan ártalið 1888 og neðst stafurinn M. Annað sést ekki skýrt.
Sigurður Jónsson bjó á jörðinni og er fangamarkið að öllum líkindum hans. Áletrunin er vandlega gerð og hefur ekki veðrast mikið. Sæmundur Þórðarson hefur reynt að fylla upp í gjána með braki úr bragga til að minnka hættu á slysum.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – örnefni – ströndin.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – örnefni – heiðin.

Brunnastaðasteinninn

Í Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Brunnastaði, Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot, Traðarkot, Hvassahraun og Hvassahraunskot, og nokkrar aðrar merkar minjar í sveitarfélaginu.

Vatnsskersbúðir (verbúð)

Vatnsskerbúðir

Vatnsskersbúðir.

„Yst í Djúpaós er Dýpstiós. Nokkru innar er Vatnasker, þar upp af er Vatnsskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör. Einnig Djúpavogsvör,“ segir í örnefnaskrá Voga. Farið var á vettvang árið 2006 og fundust ekki minjar um Vatnsskersbúðir þá.
Aftur var farið á vettvang þegar verið var að skrá Brunnastaði árið 2013 og fundust þá tóftir á Vatnsskeri. Vatnsskersbúðir eru merktar inn á kort af býlum, götum, slóðum og hliðum sem fylgir ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar sjást signar tóftir um 320 m SSV við Hvamm og 780 m NNA við Minni-Voga. Ein tóftin er líklega af herslubyrgi. Vatnssker er lítið sker með jarðvegstorfu ofaná. Það flæðir sjór allt í kringum það á flóði.

Brunnastaðir (býli)

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 123. 1395 er Brunnastaða getið í eignaskrá Viðeyjarklausturs.
Þá eru hálfir Brunnastaðir metnir á 30 hdr. DI III, 597-598. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 124.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 1 hdr. Í fríðu og 2 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
Hjáleigur í byggð 1703, Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð og Skjaldarkot. Í eyði Traðarkot, Vesturhús, Naustakot, Austurhús (að öllum líkindum sama og Austurkot) og Suðurhús (að öllum líkindum sama og Suðurkot). JÁM III, 125-127. Hjáleigur í byggð 1847: Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot og Traðarkot. JJ, 90. Á Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. Þeir voru þessir: Grund eða Trumba, Vorhúsabæirnir, Austurbær eða Bjarnabær og Vesturbær eða Guðjónsbær, Hausthús og Hvammur. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 31. Tvíbýli var um tíma á Efri-Brunnastöðum. Guðmundur Jónsson. Mannlíf og mannvirki, 224-33.
1703: „Tún jarðarinnar spillast af sjáfar og sands ágángi meir og meir. Engjar eru öngvar. Útihagarnir um sumur í lakasta máta, um vetur nær enginn nema fjaran.“ JÁM III, 124-5. 1919: Tún alls 5,9 teigar, garðar 2300m2.

Efri-Brunnastaðir (býli)

Efri-Brunnastaðir„Neðri-Brunnastaðir eru allnærri sjávarkampinum, en Efri-Brunnastaðir eru talsvert fjær og standa á allháum hól. Ekki ber hverfisingum saman um hvort býlanna séu hinir upphaflegu Brunnastaðir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1923-1924 [skrifuð 1703], er getið Brunnastaða og Brunnastaðakots, en hvort kotið sé annað hvort núverandi býla skal ósagt látið. Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti telur Neðri-Brunnastaði upphaflega býlið, án þess þó að slá neinu föstu um það. Ályktun sína dregur hann af því, að ýmis býli á Vatnsleysuströnd hafi fyrrum verið byggð alveg niðri við sjávarkampinn, en síðan verið færð fjær sjó, eftir því sem landbrot jókst,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í sama riti segir: „Bæjarhóll heitir sá sem Efri- Brunnastaðir standa á. Hlaðið, eða Brunnstaðahlað er hluti af Bæjarhól.“ Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru íbúðarhús á bæjarhólnum og samtengt margskipt útihús sem skráð er með bæjarhúsum á bæjarhólnum. Af afstöðu Bænhúshóls að dæma verður að teljast líklegt að bænhús á honum hafi tilheyrt Efri-Brunnastöðum. Það bendir þá til þess að Efri-Brunnastaðir séu elsta bæjarstæði Brunnastaða.
Efri-Brunnastaðir eru á háum hól um 120 m suðvestan við Brunnastaðatjörn. Tún er í kringum bæjarstæðið sem er enn slegið að hluta og að hluta nýtt til beitar.

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir

Í greininni „Suður með sjó“ eftir Björn Þorsteinsson sagnfræðing segir að Jón Breiðfjörð Jónsson sem fluttist að Brunnastöðum um 1870 hafi rekið þar verslun. Að sögn Jóns Hauks Aðalsteinssonar, heimildamanns, sást grunnur verslunarinnar til skamms tíma norðan við íbúðarhúsið á Efri-Brunnastöðum og veginn sem liggur niður að Neðri-Brunnastöðum. Hóllinn sem gamli bærinn var á er um 100 m í þvermál og virðist að mestu leyti náttúrulegur en öruggt má telja að hann sé einnig að stórum hluta uppsöfnuð mannvistarlög. Hóllinn er hæstur um 2 m. Það hús sem nú er á bæjarstæðinu var byggt 1930 og er með niðurgröfnum kjallara. Það er fast suðaustan við eldra íbúðarhús á bæjarstæðinu en það var rifið fyrir fáum árum. Enn sést móta fyrir hleðslum úr grunni þess.

Bænhúshóll (kirkja)

Brunnastaðir

Bænhúshóll.

„Bænhúshóll eða Kirkjuhóll heitir svo því þar á að hafa verið bænhús í kaþólskri tíð,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Bænhúshóll er í landi Neðri-Brunnastaða en virðist hafa tilheyrt Efri-Brunnastöðum 001 ef tekið er tillit til afstöðu hólsins og bæjanna. Hóllinn er um 60 m VSV við Efri- Brunnastaði og um 115 m suðaustan við Neðri-Brunnastaði.
Afgerandi hóll er í túni nærri merkjum milli Efri- og Neðri-Brunnastaða. Túnið hefur verið slegið til skamms tíma en var nýtt til hrossabeitar þegar skráningarmaður var á ferð haustið 2013.
Að sögn Jóhanns Sævars Símonarsonar, heimildamanns, komu upp mannabein og legsteinn við túnrækt á hólnum í kringum 1950. Sléttað var yfir staðinn og beinin látin hvíla áfram á sama stað. Bænhúshóllinn er um 28×24 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er um 2 m á hæð og er kúptur að ofan. Ekki sést til minja um kirkjugarð eða kirkju á yfirborði hólsins en á loftmyndum á GoogleEarth frá 2002 má óljóst greina gerði umhverfis hólinn og dökkan blett á miðjum hólnum þar sem líklegt er að bænhúsið hafi staðið.

Neðri-Brunnastaðir (býli)

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir 1928.

„Neðri-Brunnastaðir eru allnærri sjávarkampinum, en Efri-Brunnastaðir eru talsvert fjær og standa á allháum hól. Ekki ber hverfisingum saman um hvort býlanna séu hinir upphaflegu Brunnastaðir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1923-1924 [skrifuð 1703], er getið Brunnastaða og Brunnastaðakots, en hvort kotið sé annað hvort núverandi býla skal ósagt látið.
Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti telur Neðri-Brunnastaði upphaflega býlið, án þess þó að slá neinu föstu um það.
Ályktun sína dregur hann af því, að ýmis býli á Vatnsleysuströnd hafi fyrrum verið byggð alveg niðri við sjávarkampinn, en síðan verið færð fjær sjó, eftir því sem landbrot jókst,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar segir einnig: „Neðri-Brunnastaðir, gömlu, var oft nefnt Húsið í daglegu tali, vegna þess, að það þótti stórglæsilegt timburhús á sinni tíð, er þar var reist, skömmu eftir síðustu aldamót (1907-8). Stendur þetta hús enn ásamt áföstum útihúsum, hvorttveggja hrörlegt mjög. …

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir.

Núverandi íbúðarhús á Neðri-Brunnastöðum var reist 1957, töluvert fjær sjó en hið gamla.“ Neðri-Brunnastaðir eru niður við sjó, um 175 m VNV við Efri-Brunnastaði.
Bæjarstæði Neðri-Brunnastaða er á lágri hæð í túni sem nýtt er til beitar.
Ekki sést afgerandi bæjarhóll en allmiklar breytingar hafa orðið í kringum bæinn vegna húsbygginga, vegagerðar og sjóvarnargarðs. Gamla húsið A sem sýnt er á túnakorti frá 1919 stendur enn. Húsið er bárujárnsklætt milli fjóss og íbúðarhúss. Fjósið sem enn stendur er steypt og verður ekki lýst nánar hér. Jóhann Sævar hefur eftir Símoni Kristjánssyni, föður sínum, að eldra íbúðarhús B í Neðri-Brunnastöðum hafi verið fast norðaustan við fjárhús og um 10 m vestan við húsið sem reist var 1906 og enn stendur. Þar sjást hins vegar engin ummerki um byggingar.

Grund (býli)

Grund

Grund – túnakort 1919.

Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. Þeir voru þessir: Grund eða Trumba,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar kemur fram að tún hafi verið umgirt grjótgörðum og að brunnur hafi verið utan túns. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum kemur fram að húsið í Grund hafi verið byggt upp þegar nýir ábúendur fluttu þangað 1912 en það svo rifið 1920.
Það nýtilegasta úr húsinu var notað í nýtt íbúðarhús, Suðurkot 2. Jón Haukur Aðalsteinsson, heimildamaður, hefur grúskað talsvert í ítarheimildum um Bieringstanga og Brunnastaðahverfið á Þjóðskjalasafni Íslands. Hann hefur fundið heimild um byggð á Grund í Sóknarmannatali Kálfatjarnarkirkju frá 1883. Býlið Grund er um 835 m suðvestan við Efri-Brunnastaði. Sumarhús Magnúsar Ágústssonar frá Halakoti er fast vestan við bæjartóftina og liggur vegur að honum. Á túnakort frá 1919 eru eftirtalin mannvirki teiknuð: bæjarhús, útihús, brunnur, túngarður, kálgarður og fiskreitir.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Tún býlisins er hæðótt og er það komið í órækt og orðið þýft. Utan túns er grónir hraunmóar til austurs.
1919: Tún 0,29 teigar, garðar 540m2. Minjar um býlið sjást á svæði sem er um 95×75 m að stærð og snýr NNA-SSV. Innan þess eru húsgrunnur, tóft, tveir brunnar, brunngata, sjávargata, kálgarður, garðlag, heimild um fiskreit og þúst. Allar minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Lýsingin hefst á húsgrunni A þar sem bærinn Grund stóð. Grunnurinn er á lágum klapparhól, um 20 m suðaustan við norðvesturjaðar túnsins og 30 m norðaustan við suðvesturjaðar þess.
Húsið sem stóð á grunninum var rifið 1920. Alls eru sýnlegar leifar hússins á svæði sem er um 6,5×6 m að stærð og snýr norður-suður. Grunnur hússins er um 4×6 m að stærð og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,6 m á þykkt, grjóthlaðnir úr tilhöggnu grjóti og er sementslím í hleðslunni.

Hvammur (býli)

Hvammur

Hvammur.

„Á Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. … Auk þessara voru í Bieringstanga Hausthús og Hvammur,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í örnefnalýsingu fyrir Bieringstanga segir: „Hvammsblettur er afgirtur með grjótgörðum og gaddavír. Bærinn [A] stendur austarlega í blettinum. Rétt norðaustan við bæinn er brunnur, Hvammsbrunnur [B]. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Syðsti bær í Brunnastaðahverfi var Hvammur. Nú er þar eingöngu rústir að sjá og grjótgarð umhverfis túnið. Þetta var lítið grasbýli á leigulandi og greiddi afgjald til Neðri-Brunnastaða, en var úr óskiptu landi Brunnastaðahverfis.“ Jón Haukur Aðalsteinsson, heimildamaður, hefur grúskað talsvert í ítarheimildum um Bieringstanga og Brunnastaðahverfið á Þjóðskjalasafni Íslands. Hann hefur fundið heimild um byggð í Hvammi í Sóknarmannatali Kálfatjarnarkirkju frá 1883. Hvammur er um 1,2 km suðvestan við bæ og um 70 m suðaustan við Hausthús. Býlinu tilheyrir bæjartóft, brunnur, gryfja, túngarður, brunngata, sjávargata, tvær tóftir, tvö mannvirki og þúst. Á túnakort frá 1919 eru eftirtalin mannvirki teiknuð: bær, þró, útihús og túngarður.
Býlið er sunnan við grösuga hæð í grónum klapparmóa.

Kristmundarvarða (varða)

Kristmundarvarða

Kristmundarvarða.

„Tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól.
Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Varðan er um 360 m sunnan við Töðugerðisvörðu og um 1,1 km suðvestan við Efri-Brunnastaði.
Varðan stendur lágt í hraunmóa sem er að hluta uppblásinn.
Varðan stendur vel. Hún er um 1 m í þvermál og 1,1 m á hæð. Í henni sjást 6 umför. Fast norðaustan undir vörðunni er minningarskjöldur um Kristmund. Ekki er vitað hvenær varðan var upphaflega hlaðin en hún var endurhlaðin árið 1993 af Ragnari Ágústssyni frá Halakoti.

Töðugerðisvarða (varða)

Töðugerðisvarða

Töðugerðisvarða.

„Hin varðan, Töðugerðisvarða eða Halakotsvarða stendur rétt ofan eða sunnan við Skipholt. Þar hjá er reiðgata sem notuð var sem þjóðbraut fram til 1912 og heitir Gamlivegur,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Reiðgatan sem nefnd er Gamlivegur í tilvísun hér að framan er að öllum líkindum leið sem lá á milli bæja og til kirkju í Kálfatjörn eftir að hún varð sóknarkirkja fyrir hreppinn. Varðan er um 395 m austan við Grund og um 230 m suðaustan við Töðugerðisbæina.
Varðan stendur allhátt á hól í hraunmóa. Varðan er stæðileg, ferköntuð og vandlega hlaðin. Hún er um 1×1 m að grunnfleti og 1,3 m áhæð. Í henni sjást 8 umför. Hún virðist ekki mjög gömul en getur hafa verið endurhlaðin. Hlutverk vörðunnar er ekki þekkt en hún gæti verið siglingamerki eða varðað Kirkjugötu.

Hemphóll (áfangastaður)
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Í Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel stendur Hemphóll eða Hemphólar en þar áðu smalarnir úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir.
Smalaleiðin lá skammt norðan við Brunnastaðasel og á Hemphól.“ Á heimasíðu FERLIRs segir: „Talsvert ofan við selið er hinn sögufrægi Hemphóll, á honum er varða.“
Hemphóll er um 1 km suðaustan við Brunnastaðasel og stendur enn varða á honum. Varðan er á hól í mosavaxinni hraunheiði. Stendur hóllinn mjög hátt í heiðinni og víðsýnt er af honum til allra átta. Efst á hólnum er stór varða úr stóru grjóti. Var mögulega holrými í henni neðst en varðan hefur fallið saman. Hún er um 1,2×1,2 m að grunnfleti og 1,2 m á hæð. Í henni sjást enn 5 umför. Í holrýminu neðst eru gamlar brotnar gosflöskur.

Guðmundarstekkur (stekkur)
„Þar sem lömbum var í eina tíð stíað frá ánum heitir Guðmundarstekkur, en Ragnar Ágústsson nefnir hann aðeins Stekk,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. „Stuttu austur af Þúfuhól er svo Guðmundarstekkur norðan undir Stekkholti,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Stekkjartóftin er um 130 m norðvestan við vörðu á Neðri-Presthól.

Syðri-Brunnastaðalangholtsvarða (varða)

Brunnastaðalangholtsvarða

Brunnastaðalangholtsvarða.

„Skammt frá [Einingavegi] er langt og fremur mjótt klapparholt, Brunnastaðalangholt. Á holtinu eru tvær vörður, Nyrðri- og Syðri- Brunnastaðalangholtsvörður …,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Langholtið er hár malarhryggur skammt frá merkjum Voga og Brunnastaða. Á holtinu er áberandi varða sem sést langt að. Hún er um 340 m sunnan við Nyrðri-Brunnastaðalangholtsvörðu og 2,2 km SSA við Efri-Brunnastaði. Holtið er hálfgróið en umhverfis vörðuna, hæst á holtinu, er ógróinn melur.
Á Langholtinu eru auk vörðunnar tvö önnur mannvirki á svæði sem er um 30×30 m. Í lýsingunni verður hverju þeirra gefinn bókstafur til aðgreiningar. Varðan (A) er um 1,5×1,5 m að utanmáli en hol að innan og því um 1 x 1 m að innanmáli. Hleðslan er einföld og um 1,2 m á hæð. Allt að 6 umför grjóts standa en eitthvað virðist hrunið úr hleðslunni. Upp við vörðuna sunnanverða er einföld grjóthleðsla sem myndar einskonar kró við hana. Króin er um 1×1 m að innanmáli en hleðsluhæð um 0,3 m. Umför eru tvö, en virðast hafa verið a.m.k. þrjú í vesturhluta.

Hringurinn (fjárskýli)

Hringurinn

Hringurinn.

„Hringurinn heitir hringlaga grjótbyrgi, sem notað var fyrir fé, síðast á seinni hluta 19. aldar,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Grjóthlaðin (fjár)borg eða rétt er í grónum slakka austan við Langholtið, um 290 m austur af Syðri-Brunnastaðalangholtsvörðu og 2,3 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Réttin stendur í grasi grónum dal á milli hraunholta.
Réttin er tæplega 10×10 m að utanmáli og er ekki hringmynduð eins og fjárborgir eru gjarnan. Innanmál hennar er um 6×6 m. Hleðslur eru að mestu hrundar út en hafa verið miklar og háar og líklega allt að 2 m breiðar. Hæð þeirra er nú mest um 1,5 m og um 6 umför. Op er á suður-, eða suðausturhlið. Það er um 0,5-0,7 m breitt en breikkar inn á við. Yfir opinu hefur verið hella/hellur en er nú hrunin og er opið hálffullt af hruni. Einfaldar grjóthleðslur, 1 umfar, liggja út frá opinu og mynda einskonar rennu að því. Mikið hrun er innan réttarinnar og erfitt að greina hvort þar hafi verið um hólf eða skilrúm að ræða. Þó er greinilegt mannvirki við innanverðan norðurvegg, þar sem mögulega hefur verið einhverskonar kró eða garði.

Gangnabyrgi (áfangastaður)

Gangnabyrgi

Gangnabyrgi.

„Þá koma Strákar eða Strákavörður sem eru þrjár og greinast í Austurvörðu, Miðvörðu og Syðstuvörðu. Þá er Viðaukur og Kánabyrgi enn réttu nöfnin munu vera Viðuggur og Gangnabyrgi,“ segir í örnefnaskrá Voga. Gangnabyrgi er norðan við línuveg, um 220 m suðaustan við vörðu 102 og um 180 m norðan við línuveg. Byrgið er uppi á háum hraunhelluhól og er mosa- og lyngi vaxið í kringum það. Frá þessum hól sést vel til allra átta. Allt í kring eru hraunhólar og mosavaxinn mói á milli þeirra.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Á Kánabyrgi komu leitarmenn úr Brunnastaðahverfi saman áður en lagt var á heiðina og þar átti hver karl sinn stein til að tylla sér á. Rétt neðan við hólinn er svo lítil vatnshola í klöpp en holan var gerð af mannahöndum svo hægt yrði að svala þorstanum á meðan áð var á hólnum.“ Tóft byrgisins er um 3,5×3 m og snýr norðvestur- suðaustur. Hleðslur eru almennt signar, um 0,4 m á hæð en í vesturhluta tóftar er grjóthrúga, um 2×1 m að stærð og um 0,6 m á hæð. Mögulega er það hrunin varða sem hlaðin hefur verið ofan í tóftina. Grjótið í hrúgunni er stórt og vaxið skófum og mosa. Að öðru leyti er tóftin vel gróin, grjóthlaðin, en op ekki greinilegt.

Gjásel (sel)

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

„Í Gjáseli, en svo heita gamlar selstöður, má nú sjá átta til níu tóttarbrot. Lítið seltún mun hafa verið þar framanvið. Ofan við selið er Gjáselsgjá, sem sagt var um að í væri óþrjótandi vatn, en erfiðleikum bundið að ná því,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. „Af Einiberjahólum sjáum við vel til Gjásels sem kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá. Óvíst er frá hvaða bæ var haft í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðalands. Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni [Árna Magnússonar og Páls Vídalín] 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu. Tóftir af átta húsum standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli eins og reyndar annarsstaðar. Skipulag húsa á þessu selstæði er gjörólíkt því sem er á öllum hinum stöðunum í heiðinni en þar eru tveggja húsa samstæður á víð og dreif á grasblettinum en í Gjáseli er eins konar raðhúsalengja. … Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu en jarðskjálftar á fyrri hluta 20. aldar hafi eytt þessum eina „fossi“ í hreppnum,“ segir í Örnefni og gönguleiðir. Gjásel er um 6,4 km suðaustan við Efri-Brunnastaði og 6,4 km suðaustan við Hlöðunes. Þar eru tvær tóftir og varða. Selið er undir gjárvegg og gjá sem er að miklu leyti gróin og full af grjóti austan við seljatóftirnar. Seltúnið er ekki ýkja stórt en er að mestu gróið.
Minjar í Gjáseli eru á svæði sem er 80×25 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.

Ólafsvarða (varða)

Ólafsvarða

Ólafsvarða.

„Nokkurn veg norðaustur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. … Um síðustu aldamót hrapaði í sprunguna Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að gá að fé rétt fyrir jól árið 1900. …
Árið 1931 eða um 30 árum seinna fundust svo bein hans í gjánni,“ segir í Örnefni og gönguleiðir.
Ólafsvarða er við Ólafsgjá um 1,2 km VNV af Gjáseli og um 5,4 km suðaustan við Efri- Brunnastaði. Varðan er ekki nógu gömul til að geta talist til fornleifa en hún er skráð engu að síður því auk þess að vera minnisvarði um Ólaf Þorleifsson þá er hún einnig minnisvarði um fjárrekstur í Vogaheiði og Strandarheiði og hætturnar sem því fylgdu.
Varðan er við norðvesturbrún lítillar og mjórrar gjár í mosavaxinni hraunheiði. Varðan er um 1,5 m á hæð og um 1 m í þvermál. Grunnflötur hennar er hringlaga. Hún er vandlega hlaðin úr meðalstóru grjóti sem er orðið skófum vaxið. Lítið sem ekkert hefur hrunið úr hleðslum.

Stapahóll (legstað)

Stapahóll

Stapahóll.

Í ritinu Frásögur um fornaldarleifar segir: „Í Búfjárhögum Brunnastada er Haugur sem þeckjanleg gömul Mannaverk eru á, Stapa Hóll /nefndur/.“ Hóllinn er um 430 m suðvestan við Gjásel og um 6,6 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Hóllinn er einnig nefndur Stapaþúfa eða Stapaþúfuhóll eins og fram kemur í bókinni Örnefni og gönguleiðir.
Hóllinn er í mosagróinni hraunheiði og stendur hátt í henni. Grónir flekkir er í kring og grjótbreiður. Mjó hraunsprunga er fáum metrum suðaustan við hann.
„Hann er krínglóttur, 14 Fadmar ummhverfis ad nedan, 3ia Fadma hár, 2ia Fadma umhverfis ad efra, með grióthledslulogum hér og þar nærfelldt í Kríng.“ Hóllinn er um 6 m í þvermál og 2-2,5 m á hæð. Hann er strýtulaga og er gróinn efst en þar er hundaþúfa. Mögulega er varða þar undir gróðrinum en engin sýnileg mannaverk eru á hólnum og minnir hóllinn ekki á haug.

Brunnastaðasel (sel)

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga.“ Í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi segir: „Brunnastaðasel heita gamlar selstöður frá Brunnastöðum. Þar má sjá allmörg tóttarbrot.“ Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Frá Gamla-Vogaseli höldum við austur af Vogaholtinu og að Brunnastaðaseli undir Brunnastaðaselsgjá … Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru til um Brunnastaðaselsvatnsstæði ofan og sunnan selsins. Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir en aðeins norðar og neðar í grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni sjáum við litla kví óskemmda með öllu og hafa gjárveggirnir verið notaðir
sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltatíma.“
Brunnastaðasel er um 1 km suðaustan við Gjásel og 7,4 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Í selinu eru að líkindum tvö selstæði. Selið er norðan undir gróinni brekku í litlu selstæði. Jarðvegsrof umhverfis selstæðið ógnar minjunum.
Minjarnar eru á svæði sem er um 170×55 m að stærð og snýr norður-suður. Þær fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu hér á eftir. Svæðið skiptist í tvö selstæði. Selstæði I sem er umfangsminna og virðist vera yngra er nyrst á svæðinu en þar eru tóftir E og F. Selstæði II er á suðurhluta svæðisins, þar eru tóftir A-D og G. Það hefur tilheyrt Efri-Brunnastöðum. Selstæði I er um 110×110 m að stærð.

Hausabyrgi (herslubyrgi)

Hausabyrgi

Hausabyrgi.

„Inni á landi var einnig svonefnt Hausabyrgi er hlaut nafn sitt af fiskhausum sem í því voru þurrkaðir. Ragnar Ágústsson í Halakoti segir það hafa staðið umhverfis slétta klöpp miðja vegu milli Töðugerðis og Töðugerðisvörðu eða Halakotsvörðu,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Hausabyrgi og þrjú önnur sambærileg herslubyrgi eru 112 m suðaustan við Töðugerðisbæina og og 60 m norðan við Töðugerðisvörðu.
Byrgin eru í allgrónum hraunmóa litlu sunnan við veg sem liggur að sumarbústað í túni Grundar.
„Segir Ragnar, að inn í sjálfu byrginu, sem og öðrum álíka, hafi verið einfaldir grjótgarðar sem vel gustaði um til þess að flýta fyrir þurrkun fiskhausa sem á þá voru settir. Í þessum byrgjum, sem sum hver voru opin, en fjárheld, fékkst skjót og góð þurrkun þess fiskjar sem í þau var lagður,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Fjögur byrgi eru á svæði sem er um 68×42 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Byrgin fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu hér á eftir. Almennt má segja um þau að þau eru grjóthlaðin og eru hleðslurnar í þeim hvergi breiðari en 0,5 m og hæð þeirra 0,2-0,5 m. Í þeim sjást 1-3 umför. Stærsta byrgið A er það sem talað er um í heimildum sem Hausabyrgi. Það er nyrst á svæðinu, er 18×16 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Byrgi A er nokkuð hringlaga en hleðslur meðfram norðausturhlið eru horfnar. Innan gerðisins eru grjótgarðar sem eru jarðlægir og hvergi breiðari en 0,5 m. Í suðurhluta gerðisins liggja garðarnir norðvestur-suðaustur en í norðurhlutanum liggja þeir austur-vestur. Gerði B er um 24 m SSA við gerði A.

Halakot (býli)

Halakot

Halakot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703. JÁM III, 125. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Halakot var ekki sérstök jörð fyrr en á fyrsta tug þessarar aldar. Mætti ætla að í upphafi hafi verið þarna tómthús frá Brunnastöðum og þá að Efri-Brunnastaðir séu móðurjörð Brunnastaðahverfisins. Í lok 16. aldar, eru aðeins nefndir einir Brunnastaðir, einnig um 1700, en þá er talað um Brunnastaðakot og Halakot sem hjáleigu. …. Hefur Halakot verið tómthús á suðurenda aðaljarðarinnar og þá leiguliða leyft að rækta út sem uppbót á landskuld.“ „Töðugerðisbæirnir svokölluðu, Suðurbær og Norðurbær (eða Grímsbær) syðst í Halakotstúninu, í Töðugerði, fóru í eyði á síðustu árum 19. aldar.“ Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 31.
1919: Tún 2 teigar, garðar 870m2.
„Að sögn heimamanna hefur Halakotsbærinn verið fluttur þrisvar sinnum. Fyrsta húsið stóð rétt við (eða ofan við) sjávarkampinn, skammt norðan við núverandi sjávarhús,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Halakot hefur verið byggt upp að minnsta kosti fjórum sinnum (ný íbúðarhús) og það á fjórum stöðum. Fyrst var Halakot niðri við sjó norðaustur af uppsátrinu og síðan var byggt annað sunnan við sjávargötuna, um það bil mitt á milli uppsátursins og núverandi Halakots.“ Elsti þekkti bærinn í Halakoti er um 60 m norðan við bæjarstæði. Að sögn Magnúsar Ágústssonar, heimildamanns, er baðstofugaflinn af elsta bænum í sjávarkampinum rétt innan við nýlegan sjóvarnargarð í norðvesturjaðri túnsins. Þar sjást hleðslur á tveimur stöðum. Grýttur sjávarkampur á milli sjóvarnargarðs og túns.
Bæjarhóll er ekki sýnilegur. Hleðslurnar sem sjást eru á svæði sem er um 25×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.

Halakotsbrunnur (vatnsból)

Halakotsbrunnur

Halakotsbrunnur.

„Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum, Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum …Í (Neðri-) Brunnastaðabrunni gamla, sem af Hverfisingum er talinn elsti brunnurinn, voru steintröppur, og sömuleiðis í gamla Halakotsbrunni,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Brunnur er um 20 m norðan við bæ og um 30 m norðvestan við bæjarstæði. Brunnurinn er í túni, fast norðaustan við malarveg sem liggur að fjöru og gömlu sjóhúsi sem byggt var 1930 eða 1940 og hefur verið endurgert.
Brunnurinn er við brún í túni og lækkar það NNA við hann. Þar sem brunnurinn er hefur verið steyptur upp ferkantaður stokkur og er hleri ofan á honum svo ekki sést ofan í hann. Ætla má að brunnurinn sé grjóthlaðinn og nokkuð heillegur.

Töðugerðisbæir/Suðurbær/Norðurbær (býli)

Töðugerði

Töðugerði.

„Töðugerðisbæirnir svokölluðu, Suðurbær og Norðurbær (eða Grímsbær) syðst í Halakotstúninu, í Töðugerði, fóru í eyði á síðustu árum 19. aldar,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Töðugerði hafi lagst í eyði rétt eftir aldamótin 1900 en ekki er tiltekið hvor bærinn það var eða hvort það voru báðir bæirnir. Bæjartóft Norðurbæjarins er um 20 m norðaustan við Suðurbæinn og um 220 m suðvestan við bæ. Bærinn er fast sunnan við klapparfjöru og eru sjóvarnargarðar sitthvoru megin við hana. Tóftin er í túnjaðri Halakotstúns til norðurs. Tóftin er þrískipt og snýr austur-vestur. Hún er torf- og grjóthlaðin og er um 10,5×10 m að stærð. Vesturhluti tóftarinnar er vel greinilegur og í honum eru þrjú hólf.

Suðurkot (býli)

Suðurkot

Suðurkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703, sennilega sama og Suðurhús þá, í eyði frá því fyrir 1683. JÁM III, 127. Skólajörðin var upphaflega jörð Vesturbæjarins í Suðurkoti. Þar var reistur einn fyrsti barnaskólinn í landinu 1872.
Kothús 012 stóðu í Skólatúni og fóru í eyði skömmu fyrir 1900. Suðaustan við nýja skólahúsið voru Fögruvellir 013. Þar var búið fram yfir 1920. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 27. Tvíbýli var a jörðinni frá 1920 og búskap var hætt 1942. Guðmundur Jónsson: Mannlíf og mannvirki, 214.
1919: Tún alls 2,99 teigar, garðar 1420 m2.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Árið 1871 var Suðurkotsjörðin tvær hálflendur og átti Hafliði nokkur Þorsteinsson … annan hlutann. Þann part seldi Hafliði undir Suðurkotsskólann, eins og Brunnastaðaskólinn var þá kallaður.“ Að sögn Jóns Hauks Aðalsteinssonar, heimildamanns, er Suðurkots fyrst getið í búnaðarskýrslu árið 1781 og er þá þegar tvíbýli þar. Bæirnir í Suðurkoti virðast ekki hafa staðið saman og er líklegt að vestari bærinn 004 hafi verið þar sem þrískipt útihús með sambyggðum kálgarði er merkt inn á túnakort frá 1919, 20-25 m vestan við austari bæinn sem hér er skráður.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki kemur fram að timburhús hafi verið byggt á austara bæjarstæðinu árið 1920 sem leysti gamla torfbæinn af hólmi. Sama ár flutti Kristján Hannesson að Suðurkoti og byggði Suðurkot 2 um 30 m suðaustan við gamla bæjarstæðið. Þar var gamli Grundarbærinn settur upp árið 1922 og búið var í honum þar til nýtt hús var reist á sama stað árið 1930. Það hús stendur enn og hefur verið gert upp á smekklegan hátt. Búskap var hætt á austurbæ Suðurkots árið 1942 þegar hreppurinn keypti jörðina. Suðurkot 2 hélst áfram í byggð en var eftir þetta aðeins kallað Suðurkot. Gamla bæjarstæði Suðurkots er fáum metrum norðaustan við malarveg sem liggur að Naustakoti, um 160 m sunnan við Efri-Brunnastaði.
Bærinn var á hæð í gömlu túni sem komið er í órækt að hluta til. Ekki sést afgerandi bæjarhóll en bæjarstæðið nær yfir svæði sem er um 20×20 m að stærð. Á því eru minjar um síðustu húsin sem stóðu þar á svæði sem er um 14×12 m að stærð og snýr nálega norðvestur-suðaustur. Í norðvesturenda er hlaðinn grunnur með sementslími í hleðslum. Hann er um 7×5 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. 0,4 m breitt op er á honum á suðvesturgafli. Þar sem hleðslur standa enn eru þær 0,5-0,7 m á hæð og sjást 4 umför. Hleðslur á norðausturgafli grunnsins hafa hrunið undan halla og er ekki nema ein röð af grjóti á suðausturhlið.

Suðurkotsskóli (skóli)

Suðurkotsskóli

Suðurskotsskóli.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Árið 1871 var Suðurkotsjörðin tvær hálflendur og átti Hafliði nokkur Þorsteinsson … annan hlutann. Þann part seldi Hafliði undir Suðurkotsskólann, eins og Brunnastaðaskólinn var þá kallaður.“ „Fyrsta Brunnastaðaskólahúsið var byggt árið 1872 og var þá með íbúð í risi, er ætluð var kennurum eða starfsfólki skólans. Skólanum fylgdi jarðnæði sem lítið var notað af skólaíbúum, en mest leigt til nytjar. … Sami háttur var á þegar nýtt skólahús var reist árið 1907, en þar var íbúð í vesturenda hússins,“ segir í bókinni Mannlíf og mannvirki. Þar kemur einnig fram að skólinn var ýmist kallaður Suðurkotsskóli eða Brunnastaðaskóli. Árið 1886 var byggt við skólahúsið frá 1872. Nýr skóli var reistur skammt frá árið 1944 og var hann kallaður Brunnastaðaskóli. Skólinn er nú íbúðarhús sem ber nafnið Skólatún. Grunnur Suðurkotsskóla sést enn um 50 m VSV við bæ og fast suðvestan við Skólakálgarða.

Suðurkotsskóli

Suðurkotsskóli.

Skólahússgrunnurinn er í gömlu túni sem komið er í órækt. Í grein sem birtist í Þjóðólfi 21. janúar 1873 er stofnun og gerð fyrsta skólahúss Suðurkotsskóla lýst: „Upptök skólans eru þessi: Prestrinn síra St. Thorarensen lét ganga boðsbréf um sóknir sínar haustið 1870 um samskot til barnaskóla; gáfust þá innan sóknanna loforð um nálega 700 rd. á einni viku. Árið 1871 var tekið megnið af timbrinu til skólans, en byggingunni var frestað til næsta árs, sökum þess að nokkra máttarviði vantaði til hússins, er þá fengust hvergi. Sama ár (1871) var keyptr jarðarpartr í Brunnastaðahverfi, undir skólann til ábúðar fyrir skólahaldara (framvegis). Sumarið 1872 var húsið bygt af smiðum, er allir eiga heima í hreppnum ; það er 10 álnir á breidd, 14 álnir á lengd og 5 áln. rúmar undir loft; sakir vanefna er húsið hvergi nærri fullbygt; kenslustofan er í öðrum enda hússins, og nær yfir það þvert (10 áln. á lengd og hérum 7 áln. á breidd); í hinum endanum eru tvö herbergi fyrir kennarann; eldhús er í skólanum með eldavél; uppi á lopti er stórt herbergi, einkum ætlað Thorchilliibörnum, og fyrir setulopt sér í lagi, þá börnum er kend handvinna; að öðru leyti er annað óbygt uppi, en í áformi að gjöra í öðrum enda kenslustofu, ef þörf gjörist síðar meir.“
Húsgrunnur gamla barnaskólans er um 7×13 m að stærð og snýr hann norðvestur-suðaustur. Á miðri norðausturhlið eru tröppur og tvö lítil hólf sitthvoru megin við þær. Þar hefur verið anddyri. Alls er því húsgrunnurinn 10×13 m að stærð. Hleðslan í grunninum er hæst í suðausturenda þar sem hún er 0,7 m á hæð. Þar sjást 3-4 umför og er múrlím í hleðslunni. Grunnurinn er gróinn. Hólfin tvö sem er á norðausturhlið grunnsins eru hvort um sig um 2×1 m að innanmáli og snúa norðvestur-suðaustur. Á milli þeirra er um 1 m. Ekki sjást op inn í þau. Á milli þeirra og norðaustan við þau er steypt stétt og grjóthröngl þar norðaustan við.

Suðurkotsbrunnur (vatnsból)

Suðurkotsbrunnur

Suðurkotsbrunnur.

„Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum, Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Á korti sem fylgir ritgerðinni er nafnið Suðurkotsbrunnur gamli. Er það sami brunnur og merktur er inn á túnakort frá 1919. Brunnurinn var 70-75 m ANA við bæ. Hann sést en hefur verið byrgður og er þúst ofan á honum. Brunnurinn er í flatlendum hluta túnsins. Votlent er í túninu sunnan og vestan við brunninn.
Þar sem brunnurinn er sést gróin grjótþúst á yfirborði. Hún er um 3 m í þvermál og 0,4 m á hæð. Ekki var hægt að sjá ofan í brunninn og ekki fengust lýsingar af honum.

Kothús (býli)

Kothús

Kothús.

„Kothús stóðu í Skólatúni og fóru í eyði skömmu fyrir seinustu aldamót,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. „Ofan við hana [Móaflöt] var fram á síðustu ár átjándu aldar tómthúsið Kothús.
Suðvestan við bæinn var kálgarður, Kothúsakálgarður, afgirtur með grjótgörðum, sem nú eru að mestu fallnir,“ segir í örnefnaskrá fyrir skólann. Kothúsakálgarður sést enn og er hann 130 m sunnan við Suðurkot. Þrjár þústir eru við kálgarðinn. Minjarnar eru í gömlu túni sem komið er í órækt. Trjágróður er í hluta kálgarðsins. Minjarnar eru á svæði sem er um 26×26 m að stærð og fá þær bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Kálgarður er fyrirferðarmestur. Hann er grjóthlaðinn en gróinn, er 26×16 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Búið er að taka grjót úr hleðslum að því er virðist og eru þær 0,3-0,4 m á hæð en ekki sést fjöldi umfara. Kothúsakálgarður tengist Sveitakálgarði í austurhorni.

Fögruvellir (býli)
„Suðaustan við nýja skólahúsið voru Fögruvellir, kot sem byggt var yfir gömul hjón á fyrstu árum þessarar aldar. Þar var búið fram yfir 1920,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Býlið var þar sem húsið Sunnuhlíð stendur nú (2013). Malarplan á milli hússins Sunnuhlíðar og malarvegar sem liggur að nýbýlum og áfram að Naustakoti. Engar minjar um býlið sjást vegna byggingaframkvæmda og vegagerðar.

Austurkot (býli)

Austurkot

Austurkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703, þá nefnd Austurhús, í eyði frá 1683. JÁM III, 127. Byggt upp fyrir 1847. JJ, 90.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 520 m2.
„Gamli bærinn í Austurkoti stóð þar sem útihúsin eru nú, sunnan við bæinn sem byggður var 1930,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Gamli Austurkotsbærinn var 130 m suðaustan við Efri-Brunnastaði og 70 m suðvestan við Traðarkot. Á túnakorti frá 1919 er hann samtengdur kálgarði sem liggur nánast í kringum allan bæinn. Kálgarðurinn skiptist í Suðurgarð og Vesturgarð eins og fram kemur í örnefnalýsingu og var upphlaðinn stígur á milli þeirra. Kálgarðarnir og stígurinn eru skráðir með bænum. Þar sem bærinn stóð eru enn gömul útihús sem kunna að hafa tilheyrt gömlu bæjarröðinni eða tekið við af eldri húsum. Aftan við (VNV við) húsin er mikið búið að raska með því að ýta jarðvegi upp í mön. Vegur að Brunnastaðabæjunum, Austurkoti og Traðarkoti liggur fast NNA við bæjarstæðið.
Ekki er bæjarhóll sýnilegur á bæjarstæði Austurkots en ummerki um bæinn eru á svæði sem er um 24×12 m að stærð og snýr NNA-SSV. Engin ummerki sjást um kálgarðana eða upphlaðna stíginn á milli þeirra.

Naustakot (býli)

Naustakot

Naustakot.

Hjáleiga Brunnastaða, í eyði 1703. JÁM III, 127. Í eyði frá 1965 en tún nytjuð frá Neðri-Bunnastöðum. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 27.
1919: Tún 1 teigur, garðar 320 m2.
„Í Naustakoti var gamla bæjarstæðið alveg í sjávarkampinum og einn veggur bæjarins hluti af sjávargarðinum sem þar var. Telur Sigurjón Sigurðsson, að þar hafi bærinn margoft verið byggður upp, og síðast 1905. Í honum var búið fram til 1924, en þá var bærinn fluttur 10-15 metra ofar í túnið. Það hús fór úr byggð 1965,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum kemur fram að Naustakot hafi ekki verið í ábúð um aldamótin 1900. Á túnakorti frá 1919 er kálgarður sýndur sambyggður bæjarhúsunum að norðanverðu og er hann skráður með bænum. Hann hét Norðurgarður samkvæmt korti sem sýnir tún og kálgarða og fylgir ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Bærinn í Naustakoti var um 180 m suðvestan við Efri-Brunnastaði og 150 m sunnan við Neðri- Brunnastaði. Mikið rask hefur orðið á gamla bæjarstæði Naustakots vegna landbrots, vegagerðar og byggingar sjóvarnargarðs. Ekki sést bæjarhóll á bæjarstæði Naustakots. Þar sjást hins vegar leifar af Norðurgarði, hleðsla og húsgrunnur. Þessar minjar eru á svæði sem er um 20×20 m að stærð og fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Ætla má að bæjarstæði Naustakots A hafi verið 40×30 m að stærð og sneri nálega norður-suður. Leifar af Norðurgarði B eru norðaustast á svæðinu. Þar afmarkar grjóthlaðið garðlag svæði sem er 3×8 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur. Það er 0,6 m á breidd og 0,3-0,5 m á hæð. Mest sjást 2 umför í hleðslum utanmáls. Stór hluti kálgarðsins er kominn undir malarveg sem liggur meðfram ströndinni á milli Naustakots og Brunnastaðabæjanna. Hleðsla C er 7 m suðvestan við Norðurgarð B og er hún á milli nýlegs sjóvarnargarðs og malarvegar. Hún sést á 11 m löngum kafla og liggur NNV-SSA. Tveir hlykkir eru á hleðslunni sem er úr grjóti og er múrlím á milli steina. Viðarstaur stendur upp úr henni á einum stað. Hleðslan er 0,3-0,5 m á hæð og mest sjást 3 umför í henni.

Skjaldarkot (býli)

Skjaldarkot

Skjaldarkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703. JÁM III, 126-7. Í eyði frá 1958, tún í eigu Efri Brunnastaða og nytjuð þaðan. Gerði 008 var norðaustast í Skjaldarkotslandi. Féll Gerði úr byggð 1905. Tjörn var einnig í Skjaldarkotslandi, að suðaustanverðu. Fór Tjörn í eyði 1918. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 30-31.
1919: Tún 2,8 teigar, garðar 1000 m2.
Bæjarhóllinn í Skjaldarkoti er norðvestarlega í túni, fast suðvestan við nýlegan sjóvarnargarð. Skjaldarkot var um 400 m norðaustan við Efri- Brunnastaði og um 150 m suðvestan við býlið Gerði. Á túnakorti frá 1919 eru sýnd nokkur útihús auk bæjar á bæjarhólnum og tveir samtengdir kálgarðar. Allar þær minjar eru skráðar saman undir númeri bæjarhólsins.
Íbúðarhúsið í Skjaldarkoti var selt og flutt í heilu lagi til Reykjavíkur á síðari hluta 20. aldar. Sléttað tún sem enn er nytjað af Efri-Brunnastöðum.
Vegur, líklega gömul heimreið, liggur yfir bæjarhólinn að suðvestanverðu að sjóvarnargarði. Talsvert rask hefur orðið á og í kringum bæjarstæðið vegna niðurrifs gamalla bygginga og byggingar sjóvarnargarðs.
Bæjarhóllinn er um 24×11 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er um 1,5 m á hæð þar sem hann er hæstur. Hóllinn er gróinn en á stöku stað sést glitta í grjót. Meðfram hólnum að norðaustan og suðaustanverðu en leifar af kálgarði sem eru um 26×25 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Grjóthleðslur sjást í austurhorni á norðausturhlið en garðurinn sést aðeins sem kantur. Mesta hleðsluhæð er um 0,6 m og sjást 2 umför. Suðaustast í bæjarhólnum mótar fyrir litlu hólfi sem er um 1,2×2 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Í suðurhorni þess sést grjót úr hleðslum. Líklega eru þetta leifar af niðurgrafinni þró sem var fast suðaustan við bæinn og sýnd er á túnakorti. Stutt er niður á yngstu minjar á hólnum.

Skjaldarkotsbrunnur (vatnsból)

Skjaldarkotsbrunnur

Skjaldarkotsbrunnur.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur 20- 30 m sunnan við bæ. „Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. Í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum], Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum.“
Brunnurinn er í túni, um 50 m suðaustan við sjóvarnargarð. Túnið er í rækt.
Lítið hús með steyptum grunni hefur verið byggt yfir brunninn. Húsið var læst þegar skráningarmaður var á vettvangi vorið 2013 og var því ekki hægt að skoða hann. Ætla má að brunnurinn sé heillegur.

Gerði (býli)

Gerði

Gerði.

Samkvæmt túnkorti frá 1919 var útihús og kálgarður um 150 m norðaustan við bæ. Þar var býlið Gerði.
„Fyrstan er að nefna tómthúsbæinn Gerði sem var norðaustast í Skjaldarkotslandi. Féll Gerði úr byggð 1905, en við hann eru kenndir Gerðiskálgarðar,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Á kort sem fylgir ritgerðinni er merktur brunnur hjá býlinu og er hann skráður með því. Enn sjást kálgarðarnir, allstór tóft og ummerki um brunninn.
Minjarnar eru á og við hóla í túnjaðri nærri mörkum móti Hlöðunesi. Til austurs eru fjárhús og annað hús. Minjarnar eru á svæði sem er um 50×50 m að stærð og snýr norður-suður. Innan þess er tóft, kálgarður, garðlag og leifar af brunni.

Tjörn (býli)

Tjörn

Tjörn.

„Tjörn var einnig í Skjaldarkotslandi, að suðaustanverðu. Fór Tjörn í eyði 1918,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: „Í Skjaldarkotslandi nokkru ofan við Skjaldarkot, nálægt tjörninni Gráhellu, var byggður bærinn Tjörn nokkru fyrir aldamótin 1900.“ Þar segir að Tjörn hafi farið í eyði 1920. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var býlið um 130 m suðaustan við bæ 001. Því tilheyrðu tvískipt hús og afgirtur blettur sem skiptist í tún og kálgarð. Að sögn Virgils Scheving Einarssonar, heimildamanns, var íbúðarhúsið í Tjörn flutt að Efri-Brunnastöðum 2 á sínum tíma en það er ekki lengur þar. Gamla heimreiðin að Skjaldarkoti liggur yfir bæjarstæðið en enn sést móta fyrir grunni íbúðarhússins og garðhleðslum. Minjarnar eru í túnjaðri fast norðan við Brunnastaðatjörn/Gráhellu.
1919: Tún 0,09 teigar, garðar 560m2. Ummerki um býlið Tjörn sjást á svæði sem er um 30×30 m að stærð. Norðvestast á því sjást óljóst ummerki um húsgrunn. Útflattur og gróinn garður sést syðst á svæðinu. Garðurinn afmarkar svæði sem er 15×30 m að stærð og snýr ASA-VNV. Garðurinn er 1,5-2 m á breidd og 0,3 m á hæð.

Traðarkot (býli)

Traðarkot

Traðarkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703, öðru nafni Fjósahjáleiga, byggð í stað Austurhúsa. Í eyði frá 1693 en byggð aftur fyrir 1847. JÁM III, 127; JJ, 90.

1919: Tún 1,4 teigar, garðar 660 m2.
„Traðarkotsbærinn, gamli, sem byggður var 1904 af Sigurði, föður Sigurjóns, var þar sem nú er hjallur við útihúsin, norðvestan við íbúðarhúsið sem nú er. Það hús byggði Sigurjón 1927. Hvar bærinn stóð áður en faðir Sigurjóns byggði sinn, er ekki gott að segja til um, en nafnið Traðarkot telur Sigurjón vera dregið af heimtröðinni að Efri- og Neðri-Brunnastöðum sem lá þvert yfir
þýfðan móa þar sem nú er Gamlatún í Traðarkoti, og áfram upp eftir, í gegnum Tjarnarhlið eða Heiðarhlið sem þá var. Hafi bærinn staðið nálægt slíkum tröðum er ekki ólíklegt að hann hafi fengið nafn sitt af þeim,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í örnefnalýsingu segir: „Bærinn stendur á nokkuð háum bala, sem endar með lágum hól suðvestan við bæinn, Bæjarhólnum.“ Bæjarstæðið í Traðarkoti er uppi á grónum hraunhól í sléttuðu túni 20-30 m suðaustan við brunn. Á túnakorti frá 1919 má sjá húsaröð á bæjarstæðinu sem var um 15 m á lengd og sneri norðaustur-suðvestur. Hlaðið var suðaustan við
húsaröðina.
Talsvert rask hefur orðið á bæjarstæði Traðarkots vegna byggingar nýrra húsa og niðurrifs eldri mannvirkja. Þar stendur eitt íbúðarhús og er búið að slétta allt í kringum það.
Ekki sést afgerandi bæjarhóll í Traðarkoti en hraunhóllinn sem bærinn er á er um 60×25 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann er 2-3 m á hæð. Við norðausturenda hólsins má sjá grjót og steypuleifar sem rutt hefur verið fram af hólnum.

Traðarkotsbrunnur (vatnsból)

Traðarkotsbrunnur

Traðarkotsbrunnur.

„Brunnlaut dregur nafn sitt af Traðarkotsbrunni …, “ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá 1919 og er um 30 m vestan við bæ.
Brunnurinn er í hólóttu túni. Dálítil brekka er frá brunninum upp á hólinn þar sem bæjarstæði Traðarkots er. Brunnurinn er grjóthlaðinn. Hann er 3,5 m í þvermál að utanmáli og 1,5 m í þvermál að innanmáli. Hleðslurnar standa vel og eru 0,5 m á hæð ofan jarðar. Steypt hefur verið ofan á brunninn og sett viðarlok þar ofan á. Gat er á lokinu og hægt að sjá niður um það ofan í brunninn. Hann virðist vera 4-5 m á dýpt og sjást 12-14 umför í innanverðum hleðslum. Ekki sést vatn í brunninum en slanga liggur úr brunninum í fiskikar sem notað er til að brynna skepnum.

Hvassahraun (býli)

Hvassahraun

Hvassahraun – Suðurkot framar.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 155. Um 1234 segir í máldaga Viðeyjarklausturs að Magnús biskup hafi gefið klaustrinu sjöundahlut úr hvalreka og viðreka í Hvallahraunslandi. (DI I, 507). Um 1284. Þá á klausturið í Viðey sjöunda hluta hvalreka á Hvassahraunslandi. (DI II, 247)1397, vitnisburðarbréf um máldag og reka kirkjunnar í Viðey að Hvassahrauni. (DI III, 341). 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 114).
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 6 vættir fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26) Hjáleigur í byggð 1703, Þóroddskot og tvær nafnlausar. JÁM III, 156-7. Hvassahraunskot hjáleiga 1847. JJ, 91 Sönghóll var býli í byggð um 1840. „Við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. …“ „Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur.“ Ö-Hvassahraun, 3-4, 6. Lengi tvíbýli að Hvassahrauni og fór Hvassahraun 1 í eyði fyrir 1962, Hvassahraun 2 fór fyrr í eyði.
1703: „Engjar eru öngvar. Úthagar, sem áður voru sæmilegir, gánga mjög til þurðar, því hríssrifið eyðist.“ JÁM III, 156.
„Hvassahraunsbær stóð á klapparrana. Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær,“ segir í örnefnaskrá. Nú stendur bárujárnsklædd timburbygging þar sem gamli bærinn var áður. Guðmundur Sigurðsson, heimildamaður, man eftir eldra húsi (forsköluðu) á nákvæmlega sama stað og það hús sem nú stendur og taldi að þar hefði Vesturbærinn í Hvassahrauni staðið um langa hríð. Húsið sem nú stendur á þessum stað er með steyptum kjallara. Það er á hæð sem virðist að mestu náttúruleg enda túnið allt í hæðum. Víða sjást hleðslur í og við bæinn. Engar leifar um torfbyggingar hafa sést á þessum stað um áratugaskeið. Hóllinn er um 200 m norðan við Reykjanesbraut.

Norðurkot (býli)

Hvassahraun

Norðurkot.

„Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði …“ segir í örnefnaskrá. Um 185-195 m norðan við Hvassahraunsbæinn var Norðurkot og sjást merki þess enn greinilega. Norðurkot er um 80-90 m norðaustan við Niðurkot og útihús norðaustan við kotið er um 5 m innan við túngarð. Tóftin er tæpum 400 m neðan við Reykjanesbraut.
Norðurkot er á hæð og allt umhverfis er grasigróið tún, ræktað upp á hrauni. Túnið er allt í hæðum og dældum. Tóftin snýr norðaustursuðvestur. Fast aftan austan við hana er önnur tóft sem snýr þvert á hana og eru þær nú samgrónar. Tóftin er 12,5 X 8 m að stærð. Enginn suðvesturveggur er á tóftinni. Hólfið er grjóthlaðið en gróið að utan. Mikið grjót hefur fallið inn í það. Norðvestan við bæinn er djúp dæld og hlaðið umhverfis hana.
Suðvestan við bæinn má sjá óljósar leifar garðlags sem girt hefur af ræktaðan blett. Suðaustan við bæinn eru einnig nokkrar hleðslur garðlags sem girt hefur af tún.

Niðurkot (býli)

Hvassahraun

Niðurkot – uppdráttur.

„Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, þá var Niðurkot og Niðurkotstún …“ segir í örnefnaskrá. Rúma 120 m norðvestan við bæ sjást enn leifar Niðurkots. Kotið er um 80 m suðvestan við Norðurkot og 300-350 m neðan við Reykjanesbraut. Tóftin er á grasi gróinni hraunhæð en allt umhverfis eru dældir og hæðir.
Tóftin er einföld, um 7 m á lengd en 6 m á breidd. Enginn vesturveggur er fyrir tóftinni. Hún hefur verið hlaðin úr grjóti en er alveg gróin að utan. Hæð hleðslna er 1,3 m.

Þorvaldskot (býli)

Hvassahraun

Þorvaldskot.

„Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, þá var Niðurkot og Niðurkotstún, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. Sjást þar alls staðar rústir,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt lýsingu virðist Þorvaldskot hafa verið nyrsta kotið í túni Hvassahrauns, fremur nálægt sjó. Guðmundur Sigurðsson man ekki eftir þessu heiti en taldi að lýsingin gæti helst átt við tóftir um 300 m norðvestan við bæ. Þar er hringlaga túngarður og tóft í miðjunni. Tóftin er um rúmum 500 m norðan Reykjanesbrautar.
Tóftin og garðlagið umhverfis eru á grasi grónu svæði fast ofan við fjöruborðið. Svæðið samanstendur af einni einfaldri tóft sem er um 16 X 6 m að stærð og er opin til norðurs og túngarði sem liggur umhverfis hana. Tóftin er hlaðinn úr grjóti en er mjög gróinn að utan. Grjóthleðslur eru byrjaðar að falla inn í tóftina og því er hún aðeins 3 X 9 m að innanmáli. Stærð túngarðsins að innan er 35 m X 24 m. Hleðslur tóftarinnar eru mest 1,5 m á hæð en túngarðurinn er 0,3 m á hæð. Tóftin var þaklaus undir það síðasta og var notuð í tengslum við sjósókn.

Kirkjuhóll (huldufólksbústaður)

Hvassahraun

Kirkjuhóll.

„Kirkjuhóll er í Norðurtúni og Kirkjuhólsflöt. Hóllinn er einnig nefndur Álfahóll, því að þar messaði huldufólkið,“ segir í örnefnaskrá. Skáhallt (suðaustur) af Norðurkoti er aflöng klöpp eða hóll sem liggur norðvestur-suðaustur og var nefndur Kirkjuhóll. Hóllinn er um 300 m norðan Reykjanesbrautar. Gróinn aflangur hraunhóll í túni (ræktuðu upp á hraunsvæði). Klöppin er mjög löng og í suðausturenda hennar er fjárréttin.

Látur (býli)
„Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur,“ segir í örnefnaskrá. Látur er um 800 m vestan við Hvassahraun. Ekki sjást nein merki um bæjarstæði á þessum slóðum. Á svipuðum stað voru hlaðnar 3 tóftir og nokkrar vörður úr grjóti fyrir tökur á kvikmyndinni „Myrkrahöfðinginn“. Látur er um 150 m norðan við Reykjanesbraut. Þröng vík með mörgum skerjum.

Hjallhólaskúti (fjárskýli)

Hjallhólaskúti

Hjallhólaskúti.

„Hellur eru suður og upp frá Tröðunum. Lítið eitt vestar eru Hjallhólar og Hjallhólaskúti þar í. Hann var fjárbyrgi,“ segir í örnefnaskrá.
Hjallhóll er rétt suðaustan túns en fast neðan Reykjanesbrautar. Hóllinn er 210-220 m suðaustan við bæ. Frá Reykjanesbrautinni er opið í hellinn greinilegt enda hellirinn innan við 20 m norðan við Reykjanesbraut.
Hraunhóll með jarðsigi. Gengið er ofan í dældina að sunnan og gefur þá að líta klettaveggi sem slúta inn og mynda þannig skjól. Hellar eða skjól eru bæði á austur- og vesturvegg.
Austari hellirinn er líklega sá sem notaður hefur verið sem fjárskýli. Hann er um 10 m á lengd en 4-5 m á dýpt. Hellinum lokar að hluta náttúruleg upphækkun en ofan á hana hefur að hluta verið hlaðið 5-7 m langur veggur.

Loftsskúti (fjárskýli)

Loftsskúti

Loftsskúti.

„Þar suður og upp af [Virkinu] er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla,“ segir í örnefnaskrá. „Á einum hraunhólnum er varða sem heitir Grændalavarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum sem heitir Grændalahellir eða Loftsskúti og snýr op þess í suðurátt,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í síðari heimildinni er Loftsskúta og Grændalahelli slegið saman í eitt en Grændalahellir er 1,2 km norðan við Loftsskúta og er um tvo aðgreinda staði að ræða. Fjárskýli eru á þeim báðum. Loftsskúti er um 860 m austan við Virkið og um 1,8 km austan við bæ. Varða 124 er 20 m norðan við skútann. Fjárskýlið er ofan í hringlaga jarðfalli í grónu hrauni ofan Reykjanesbrautar. Skútinn er um 13 m á lengd og snýr austur-vestur. Hann er víðast 4 m á breidd og 0,5-1,5 m á hæð. Lofthæðin í skútanum lækkar eftir því sem innar dregur (til norðurs). Hlaðið er fyrir skútann og er hleðslan úr grjóti. Hún liggur frá austri til vesturs og sveigir lítillega til norðurs, inn undir þak skútans, og liggur í mjúkum boga frá austri til vesturs. Hún er 11 m á lengd og 0,5-1 m á breidd. Hæst er hún um 1,5 m og mest sjást 7-8 umför. Vestast í hleðslunni hefur hraunhellum verið tyllt upp á rönd í hleðslunni og halla þær inn að þaki skútans og ná þannig að loka honum alveg. Op inn í skútann er við austurenda hleðslunnar og er það 1,5 m á breidd.

Öskjuholtsskúti (fjárskýli)

Öskjuholtsskúti

Öskjuholtsskúti.

„Sunnan við Rjúpnahraun tekur við hraunhryggur, er liggur frá vestri til austurs. Heitir það Öskjuholt og nær vestur í Afstapabruna. Þar er að finna Öskjuholtsskúta, Öskjuholtsgjá og Öskjuholtsbruna ofan til,“ segir í örnefnaskrá. Hleðsla er fyrir Öskjuholtsskúta og hefur hann þjónað sem fjárskýli. Skútinn er um 1,2 km sunnan við Virki og um 1,4 km suðaustan við bæ. Öskjuholtið er afgerandi í landslaginu og er stór sprunga eftir því endilöngu. Holtið er gróið og eru birkirunnar allt í kringum það og uppi á því. Erfitt er að koma auga á skútann vegna gróðurs en hann er neðst á u.þ.b. miðju sunnanverðu holtinu. Þröngt op er inn í skútann í austurenda sem er 0,5 m á breidd. Skútinn er um 1 m dýpri en umhverfið fyrir utan hann.
Grjóthleðsla er við vestanvert opið inn í skútann. Hún er einföld á breiddina en í henni sjást þrjú umför hleðslu og er hún um 1 m á hæð. Skútinn er allstór, 5×10 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Í vesturenda hans má sjá kindabein. Skútinn er hæstur innan við opið inn í hann en þar er hann um 1,2 m á hæð. Hann lækkar skarpt til vesturs. Ekki sjást önnur mannaverk á eða við skútann en áðurnefnd hleðsla.

Markhelluhóll (áletrun)

Markhelluhóll

Markhelluhóll.

„Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa. – Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða,“ segir í örnefnaskrá. Markhelluhóllinn með vörðu og áletrun er um 800 m suðaustan við Búðarvatnsstæði og 7,6 km suðaustan við bæ. Áletrunin hefur einnig verið skráð í landi Krýsuvíkur en þar er vörðunni ekki lýst. Hóllinn er á holti sem er mjög sprungið og margar djúpar gjár eru á því norðvestanverðu. Mosavaxið hraun er allt í kring.
Markhelluhóll er allhár og krosssprunginn. Áletrunin er á flatri hellu á norðausturhlið hólsins. Stafirnir er um 10 sm á hæð og nær áletrunin yfir svæði sem er 0,5×0,6 m að stærð. Hún er enn vel greinileg. Varðan er 10 m sunnan við áletrunina, á hæsta punkti hólsins. Hún virðist ungleg eða hefur verið endurhlaðin. Viðarprik stendur upp úr henni. Varðan er um 1 m í þvermál og 1 m á hæð. Hleðslan í henni er óvönduð en í henni má sjá 3 umför.

Búðarvatnsstæði (vatnsból)

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæði.

„Þaðan [frá Markhelluhól] liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll,“ segir í örnefnaskrá „Gömul hestagata [069] liggur með fram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæði. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. … Vatnsstæðið er nokkuð stórt miðað við önnur í hreppnum og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum. … Það er líklegt að þeir sem unnu við kolagerð og hrístöku í Almenningi hafi hafst við tímabundið við Búðarvatnsstæði og af því sé nafnið dregið,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Vatnsstæðið er um 270 m suðaustan við vörðu, 3,7 km suðaustur af Hvassahraunsseli og 6,9 km suðaustan við bæ.
Vatnsstæðið er á mosavöxnum flata í skeifulöguðu viki inn í úfið, mosavaxið apalhraun. Það er innst/vestast í vikinu, næst hraunbrúninni. Staurar úr gömlu sauðfjárveikivarnargirðingunni sjást enn, sem og hleðsla sem var undir henni. Hún liggur frá hraunjaðri, að vatnsstæðinu og yfir það. Vatnsstæðið er um 5×9 m að innanmáli og snýr norður-suður. Af bakka og niður á vatnsborð er um 0,5 m og niður í botn eru um 0,8 m. Lögun vatnsstæðisins er fremur regluleg og því líklegt að mannaverk séu á því. Engar aðrar skýrar minjar sjást hér í kring en óljós tóft er þó mögulega við suðvesturhorn vatnsstæðisins. Meint tóft er um 6×4 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hún er grjóthlaðin en nánast algróin. Það sést í grjót í suðvesturenda og utanverðum suðaustur-langvegg. Mesta hæð veggja er um 0,2 m. Innst í meintri tóft, í norðausturenda er ferköntuð dæld sem er 0,3×0,4 m að innanmáli, snýr eins og tóft, og er 0,1 m á dýpt. Ýmsar mosaþústir eru hér í kring en engin þeirra hefur tóftarlag og óvíst er að hér séu fleiri minjar.

Brugghellir (hellir)

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

„Fast við Strokkamel að suðvestan er djúpur hellir eða jarðfall og til skamms tíma var girðing umhverfis opið svo kindur féllu ekki þar niður. Í hellinum eru hleðslur en niður í hann er aðeins hægt að komast með því að síga eða nota stiga. Sagt er að hellirinn hafi verið notaður til landasuðu á bannárunum og því oft kallaður Brugghellir,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Hellirinn er um 730 m suðvestan við bæ og 1,5 km VSV við fjárskýli í Virkinu.
Hellirinn er í fremur flatlendu og jafnlendu mosagrónu hrauni. Leifar af girðingu eru í kringum hellisopið sem er beint niður í hraunið og tveir uppistandandi staurar.
Hellisopið er um 2 m í þvermál og eru 4-5 m niður úr því ofan á hellisgólf. Ekki sést vel ofan í hellinn sökum myrkurs. Þó sést að vatn stendur í honum (haust 2014).

Grændalahellir (fjárskýli)

Grændalahellir

Grændalahellir.

„Norðaustur af Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir og Grændalavarða,“ segir í örnefnaskrá. „Á einum hraunhólnum er varða sem heitir Grændalavarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum sem heitir Grændalahellir eða Loftsskúti og snýr op þess í suðurátt,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í síðari heimildinni er Loftsskúta og Grændalahelli slegið saman í eitt en Loftsskúti er 1,2 km sunnan við Grændalahelli og er um tvo aðgreinda staði að ræða. Fjárskýli eru á þeim báðum. Grændalahellir er norðan í hólnum sem Grændalavarða er á og gengið er inn að norðan til suðurs. Hellirinn er um 100 m suðaustan við steyptan stöpul frá Landmælingum sem sést greinilega frá Reykjanesbraut. Hann er um 2 km ANA við bæ.
Gróið hraun. Fjárskýlið er að mestu náttúrulegt. Hellirinn er 11-12 m á lengd og 3-4 m á breidd. Hæstur er hann 1,6-1,8 m en hallar mikið inn á við. Fyrir framan hellinn er náttúruleg hraunbrún sem afmarkar hann en ofan á henni er grjót og hleðslur á stöku stað. Skarð er í hraunbrúnina á einum stað.

Suðurkot (býli)

Hvassahraun

Hvassahraun – túnakort 1919.

„Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað hvar Suðurkot var. Suðaustan við Hvassahraunsbæinn voru tún nefnd Suðurtún og því eðlilegt að álykta að á þeim slóðum hafi Suðurkot verið. Hins vegar ber að hafa í huga að Sjávargata er sögð liggja frá bænum (Hvassahrauni) og niður að sjó og Suðurkot er sagt austan hennar.
Samkvæmt því ætti því Suðurkot að vera norðan bæjar! Ef svo hefur verið má vera að hringlaga garðlag sunnan Norðurkots gæti hafa kallast Suðurkot. Garðlagið sem enn sést er a.m.k. sunnar en önnur kot sem þekkt eru í túninu. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.
Grasi gróið hraunsvæði þar sem skiptast á hæðir og dældir.

Hvassahraunssel (sel)

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir, en vatnsból brestur til stórmeina.“ „Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnan nokkur Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásnum. Veggir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af selinu og er erfitt að finna það,“ segir í örnefnaskrá.“ Á heimasíðu FERLIRs segir: „Í austurátt frá Haugrúst og langan veg suðaustur af Bennhólum sjáum við Selásinn eða Selhæðirnar og þar norðvestan undir er Hvassahraunssel.
Selstæðið er nokkuð stórt og þar eru tveir rústahólar en kvíin er vestarlega í seltúninu,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Hvassahraunssel er um 3,1 km suðaustan við bæ 001 og 215 m VNV við vörðu 065 á Selásnum.
Selið er vestan og norðan við Selás sem er afgerandi í landslaginu og veitir skjól. Selstæðið er fremur flatlent næst ásnum en svo taka lágar hraunhæðir við og lautir á milli enn fjær er mosagróið hraun. Gras vex enn á selstæðinu en mikill mosi er í því.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir ennfremur: „Jón Helgason frá Litlabæ segir í sendibréfi árið 1984: „Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráðskona þegar hún var ung að árum en hún lifði líklega fram á annan tug þessarar aldar.“ … Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans sem hófst árið 1856 en þá var allt fé skorið niður hér um slóðir … .“ Fjórar tóftir eru sýnilegar á selstæðinu.

Hraunsnesskjól (fjárskýli)

Hraunsnesskjól

Hraunsnesskjól.

„Frá [Hraunsnefs-]tjörnunum blasir við Hraunsneshellir eða Hraunsnesskjól, og tekur þá Hraunsnes við,“ segir í örnefnaskrá. Hraunsneshellir er skúti sem hlaðið hefur verið fyrir og notaður sem fjárskjól. Hann er um 280 m norðan við meint skotbyrgi 030, 90 m suðaustan við vörðu 131 og um 2,1 km norðaustan við bæ.
Fjárskýlið er norðan við Hraunsnefstjarnir í litlu viki inn í hraunhóla sem eru krosssprungnir. Grösugt er í kringum tjarnirnar en þar fyrir utan er hraunmói í næsta nágrenni.
Grjóthleðslur eru bæði framan við skútann og uppi á þaki hans og eru þær á svæði sem er 10×5 m að stærð og snýr norðvestur- suðaustur. Skútinn er um 10×2 m að innanmáli og er rúmlega 1 m á hæð þar sem hann er hæstur. Hlaðinn veggur liggur í sveig framan við skútann. Um 2 m norðvestan við suðausturenda veggjarins er op sem er 0,6 m á breidd. Veggurinn er um 1 m á breidd en hrunið hefur úr honum, sér í lagi úr innri brún norðvestan við opið en suðaustan við opið er veggurinn alveg útflattur. Mesta hleðsluhæð er um 1,2 m og mest sjást 5 umför hleðslu. Inni í skútanum og utan hans er spýtnabrak og annað rusl. Frá suðausturenda veggjarhleðslunnar framan við skútann liggur önnur hleðsla upp á þak hans. Hún er um 6 m á lengd og liggur í sveig til norðvesturs. Hleðslan er 1 m á breidd og 0,5 m á hæð. Í henni sjást 3 umför í innri brún en ytri brún sést ekki og er gróin.

Hvassahraunskot (býli)
Hjáleiga Hvassahrauns 1847. JJ, 91.
Norðurkot, Niðurkot og Suðurkot voru oft einu nafni nefnd Hvassahraunskot, einnig getur verið að Hvassahraun 2 hafi verið nefnt Hvassahraunskot en ekkert verður um það sagt.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.