Gamli Þingvallavegur

Á vefsíðu Ferðafélags Íslands mátti þann 23. júni 2025 lesa eftirfarandi um „Vígslu sæluhúss FÍ á Mosfellsheiði“:

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – endurgert sæluhúsið.

„Veðrið lék við gesti sem áttu mjög ánægjulega og hátíðlega stund. Fjallasýnin til Þingvalla var einstaklega tilkomumikil og fögur.
Ferðafélag Íslands vígði nýtt endurgert sæluhús félagsins á Mosfellsheiði sunnudaginn 22 júní að viðstöddum fjölmörgum gestum.
Ólöf Kristín Sívertsen, forseti FÍ bauð fólk velkomið og þakkaði sérstaklega öllum þeim sem hafa komið að endurbyggingu hússins. Þar hafa bræðurnir Örvar og Ævar Aðalsteinssynir annast byggingu hússins en auk þeirra var Unnsteini Elíassyni hleðslumeistara úr Borgarfirði, Bjarka Bjarnasyni sem leiddi undirbúning verkefnisins, leyfismál og fl., Bjarna Bjarnasyni frá Hraðastöðum og Jóni Sverri einnig þakkað fyrir þeirra framlag. Þá var þakkaður stuðningur frá Erni Kærnested og fasteignafélaginu Bakka.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – Örvar og Ævar að verki við endurgerð sæluhússins.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ fór m.a. yfir sögu skálabygginga FÍ og starf félagsins í upphafi, sýn og drauma frumkvöðlanna og sjálfboðaliðanna sem leiddu starf félagins og byggðu upp á fyrstu árum þess. ,,Endurbygging sæluhússins er okkur hjá FÍ afar kær og okkur finnst mikilvægt að sinna því. Skilgreint hlutverk félagsins er m.a. bæði að skipuleggja ferðir um landið og standa að skálauppbyggingu og rekstri fjallaskála. Okkar hlutverk er einnig að halda til haga ýmsum fróðleik og huga að sögulegum rótum – framkvæmdirnar á Mosfellsheiði eru mjög í þeim anda,“ sagði Páll.
Bjarki Bjarnason fór m.a. yfir vegagerð á Mosfellsheiði, sagði sögu af enskum ferðalangi sem leitaði skjóls í sæluhúsinu í aftakaveðri og með koníak og súkkulaði í nesti, sem bjargaði lífi hans. Þá rakti hann tilurð verkefnis og framkvæmdasögu sæluhússins.

Gamli Þingvallavegur

Örvar og Ævar Aðalsteinssynir hafa haft veg og vanda af endurbyggingu hússins og gert það með miklum sóma. 

Örvar og Ævar Aðalsteinssynir greindu frá byggingu hússins, allt frá grunni og þar til verkinu var lokið. Þeir greindu frá því hvernig verkefnið hefði verið unnið í áföngum, frá ári til árs og gengið einstaklega vel.
Fjölmargir hestamenn mættu i kaffi ( kristal ) og tóku lagið.
Pétur Ármannsson þakkaði fyrir ánægjulegt samstarf við alla þá sem að þessu verkefni hafa komið og greindi frá hugsanlegri friðun Þingvallavegar hins gamla, sem nú er í umsóknarferli.
Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir, sóknarprestur í Mosfellsbæ blessaði sæluhúsið og hendur þeirra sem að komu, og mæltist einstaklega vel í fallegri ræðu.
Að lokum var boðið upp á léttar veitingar og Örævabandið tók nokkur lög inni í sæluhúsinu við góðar undirtektir.“

Mosfellsheiði

Sæluhúsið við Gamla-Þingvallaveginn um 1900.

Þetta hefur verið svolítið skondin samkoma á Mosfellsheiðinni þennan umrædda „dýrðardag“ og margir raftar þar á sjó dregnir af litlu tilefni „endurvígslunnar“.
Þess má t.d. geta, í fysta lagi, að ekki er um „endurbyggingu“ sæluhúss FÍ að ræða. Sæluhúsið var byggt á kostnað íslenska ríkisins árið 1906 í þeim tilgangi að skapa afdrep fyrir Friðrik VIII Danakonung í heimsókn hans hingað til lands árið eftir. Einn forkólfa Árbókar FÍ 2023 ánafnaði félaginu leifum hússins, að því er virðist án nokkurrar heimildar.

Mosfellsheiði

Eldra sæluhúsið í Moldabrekkum, endurgert.

Þá ber að hafa í huga að vagnvegagerðin um Mosfellsheiði, sem hófst árið 1886, var að fullu lokið árið 1891. Í upphafi vegagerðarinnar var reist skjól fyrir vegagerðarmennina sem steintilhöggna sæluhúsið var síðar reist þar skammt frá. Tóftir gamla hússins má sjá austan við hið endurgerða hús sem og brunninn, sem þar var fyrrum upphlaðinn á klöpp. Svo virðist sem bæði minjaverði svæðisins og forkólfum verkefnisins hafi yfirsést þessar eldri minjar við útekt og undirbúning framkvæmdanna. Fyrrum reynsla af slíkum kemur þó ekki á óvart.

Mosfellsheiði

Upphaflega sæluhúsið í Moldarbrekkum 1896 – Daniel Bruun.

Af lýsingu Kålunds frá þessum tíma má a.m.k. lesa tvennt; hann skrifar lýsingu sína 1877 og er þá að lýsa elstu Þingvallaleiðinni um Seljadal um Moldabrekkur, sem er nokkuð norðan Gamla Þingvallavegarins, sem byggður var, sem fyrr segir, á árunum 1886-1891. Við þá eldri leið hafði verið byggt sæluhús í Moldabrekkum 1841. Húsið var byggt úr svonefndum Sýsluvörðum (Þrívörðum). Vatnslind er þá neðan við húsið. Til er ljósmynd af því húsi, sem nú er tóft ein. Á því var lítill kross á gafli, líkum þeim er settur hefur verið á gafl hins endurgerða sæluhúss.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – endurbyggt hús og eldri sæluhúsatóft.

Í Lögbergi-Heimskringlu 1890 segir að við Gamla Þingvallaveginn hafi fyrst verið byggt sæluhús 1890, á háheiðinni. Hleðslumeistari hafi verið Sigurður Hansson (1834-1896), sem hlóð einnig reisulegar vörður meðfram veginum. Hafa ber í huga að vörður á fyrirhugðum vagnvegum voru jafnan hlaðnar nokkru áður en fyrirhuguð vegagerð hófst.

Í framangreinda lýsingu virðist hafa gleymst að „sæluhús“ úr torfi og grjóti hafði þegar verið reist á framangreindum stað, líklega um 1890. Tóftir hússins eru skammt austan steinhlaðna hússins, sem líklegt er að hafi verið byggt um 1906 í tilefni af væntanlegri konungskomu Friðriks VIII árið 1907. Aftan (norðan) við gamla sæluhúsið mótar fyrir gerði.

Gamli Þingvallavegur

„Endurvígsla“ gamla sæluhússins – Jón Svanþórsson, einn höfundanna um Árbók FÍ 2023 um Mosfellsheiðina kímir svolítið í kampinn.

Fyrirmenn hafa væntanlega ekki talið „sæluhús“ vegagerðarmanna, gert upp á íslenskan máta úr torfi og grjóti, boðlegt hinum konungbornu og því verið ákveðið að gera nýtt álitlegra „skjól“ við hlið þess. Innandyra var aðstaða fyrir ferðamenn á upphækkuðum trépalli að austanverðu og fyrir nokkra hesta að vestanverðu.

Pétri „presti“ Ármannssyni ætti að vera vel kunnugt um að skv. Minjalögum eru allar minjar eldri en 100 ára friðaðar og því óþarfi að beita þær „friðlýsingum“ líkt og gert hafði í anda gömlu Þjóðminjalaganna.

Handverk Örvars og Ævars ber þó, þrátt fyrir alla vitleysuna, að lofa.  Efast má hins vegar um að nokkur prestur hafi haft þar nokkurn tilgang, þangað til núna, til þess eins að babla um eitthvað sem engu máli skiptir.

Heimild:
-https://www.fi.is/is/fi/frettir/saeluhuhus

Gamli Þingvallavegur

Eldra sæluhúsið við Gamla Þingvallaveginn, sem enginn virðist hafa gefið nokkurn gaum..

Húshólmi

Í Morgunblaðinu 1998 kynnti Orri Páll Ormarsson sér sögu fornleifaskráningar á Íslandi, sem skiptist í nokkur góðæri með löngum harðindaskeiðum á milli, fræddist um starfið sem nú er verið að vinna og ræddi við Orra Vésteinsson, fornleifafræðing, undir fyrirsögninni „Fortíðinni forðað frá glötun„:

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar, nú í verulegri hættu vegna orkuframkvæmda.

„Sá dýri arfur sem fólginn er í fornleifum þessa lands er að hverfa. Þetta fullyrða fornleifafræðingar. Svo virðist sem Íslendingar, sem til þessa hefur verið annt um sögu sína og uppruna, haíí gleymt sér í töfraheimi tækninnar – fortíðin er fótum troðin. Nú er mál að linni, segja fornleifafræðingar. Vöknum til vitundar um illvirkið áður en það er um seinan!
Fornleifar eru ekki ótæmandi auðlind. Þjóð sem veit ekki hvaðan hún kemur getur ekki vitað hvert hún er að fara!

Beittasta vopnið í baráttunni fyrir varðveislu fornleifa er sú tegund grunnrannsókna sem nefnist fornleifaskráning. En hún er lítt þekkt meðal almennings hér á landi.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar eyðilagðar á fyrsta degi orkuframkvæmda 2025 – og það þrátt fyrir alla viðleytni hlutaðeigandi um vonlega varðveislu.

Fornleifaskráning er kerfisbundin leit og skráning á fornum mannvistarleifum en án slíkra upplýsinga er ekki hægt að gera ráðstafanir til að vernda minjarnar. Skráning af þessu tagi hefur verið unnin jafnt og þétt í rúma öld í nágrannalöndunum og á sumum stöðum er hafin önnur eða þriðja umferð. Á Íslandi lauk fyrstu yfirferð um 1823 en þær upplýsingar eru að mestu gagnslausar eða úreltar sem tæki til minjaverndar eða annarrar stjórnsýslu á nútímavísu. Engin heildarskrá yfir fornleifar landsins er enn fyrir hendi. Er því lítið vitað um fornleifar á Íslandi, hve margar hafa eyðst á síðustu áratugum, hve margar eru hólpnar. Þetta er þó óðum að breytast.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

Markviss fornleifaskráning hefur opnað ýmsa nýja möguleika í fornleifavernd, að sögn Orra Vésteinssonar, fornleifafræðings sem stjórnar fornleifaskráningarstarfinu hjá Fornleifastofnun, og nú er hægt að áætla hversu margir minjastaðir séu á landinu öllu, rúmlega 100.000, hversu stórt hlutfall þeirra hefur orðið fyrir skemmdum eða eyðileggingu, allt að 60%, og hvaða svæði eða minjaflokkar séu í mestri hættu. Forsendur hafa því skapast til að gera nákvæmar áætlanir um umfang og kostnað við skráningu fornleifa og leggja þannig grunninn að öflugri minjavernd á næstu öld.
Orri VésteinssonOrri segir að á þeim stutta tíma síðan Fornleifastofnun byrjaði á skráningunni hafi hugmyndir fornleifafræðinga um íslenskar fornleifar tekið stakkaskiptum. „Við vissum lítið sem ekkert um þær í upphafi – hvorki hvað þær væru margar né hvers eðlis þær væru. Núna höfum við að minnsta kosti allgóða hugmynd um það og eftir nokkur ár munum við vita miklu meira. Við erum rétt byrjuð að fleyta rjómann ofan af þessum upplýsingum sem við höfum verið að safna en hægt verður að nýta þennan grunn mjög lengi, gera bæði skemmtilegar og gagnlegar rannsóknir á íslenskum fornleifum og miðla upplýsingum til ferðamanna um staði sem gaman er að heimsækja. Við teljum því nefnilega statt og stöðugt að með því að gera fornleifar meira spennandi vinnum við um leið að verndun þeirra.“

Hjátrúin betri en enginn

Flekkuvík

Flekkusteinninn – rúnasteinn í Flekkuvík.

Skipuleg skráning fornleifa á Íslandi hófst árið 1817 er hin konunglega danska fornminjanefnd sendi spurningalista til allra sóknarpresta í landinu. Fékk nefndin upplýsingar um fomleifar af ýmsum toga á um 700 stöðum hringinn í kringum landið, einkum minjar tengdar söguöld, svo sem hauga, hof, þing og dómhringa. Frásagnir um þessar minjar voru umluktar þjóðsögulegri hulu og er þess víða getið að menn hafi reynt að grafa tilteknar minjar og orðið fyrir allskyns óhöppum fyrir vikið. Hefur hjátrúin, að sögn Orra, reynst betri en enginn við varðveislu fornleifa. Nefndin gekkst fyrir fyrstu friðlýsingunum í sögu íslenskrar minjaverndar og friðaði meðal annars Snorralaug í Reykholti, dómhring á Þórsnesi á Snæfellsnesi og allnokkra steina með rúnaáletrunum.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið +/- 874 er í garðinum.

Undir miðja 19. öld sendi Hið íslenzka bókmenntafélag sóknarprestum spumingalista um nærri allt milli himins og jarðar, enda hugðist félagið gefa út allsherjarlýsingu á landi og þjóð. Því verki lauk aldrei en skýrslur frá prestum, sem varðveist hafa, geyma upplýsingar um fornleifar í flestum sóknum þótt víða hafi menn svarað erindinu á þann veg að í þeirra sókn væri „engar fornleifar“ að finna. Fornleifar eru auðvitað alls staðar þar sem einhver mannvist hefur verið en þessi sérkennilegu viðbrögð segir Orri að megi væntanlega skýra með því að skýrsluhöfundar hafi talið að einungis væri verið að leita markverðra fornleifa. „Enn í dag eru þetta oft fyrstu viðbrögð ábúenda þegar skráningarmaður mætir á vettvang til að spyrjast fyrir um minjastaði.“

Kristian kålund

Peter Erasmus Kristian Kaalund (1844–1919).

Er líða tók á 19. öldina hófst sjálfstæðisbaráttan og um leið jókst áhugi Íslendinga á fortíð þjóðarinnar. Í vísindum og fræðum birtist þessi áhugi einkum í rannsóknum á fornsögum en jafnframt var sjónum beint að staðháttum og fornleifum sem unnt var að fella saman við lýsingar á fornritum. Fornleifakönnun fluttist af höndum presta til sérfróðra manna og var það danski norrænufræðingurinn Kristian Kálund sem fyrstur ferðaðist um Ísland í því skyni að finna staði sem getið er um í fornsögum og lýsa staðháttum og fornminjum sem sagnir voru um að vörðuðu atburði eða einstaklinga frá söguöld. Rit hans, Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse av Island, sem birtist á árunum 1877-82, er enn meðhöndlað sem undirstöðurit í staðfræði Íslendingasagna og hinn vandaðasti leiðarvísir um söguslóðir, að því er fram kemur í máli Orra.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838-1914).

Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og á vegum þess fóru fornfræðingar í rannsóknarleiðangra vítt og breitt um landið í þrjá áratugi. Fyrir þeim fóru Sigurður Vigfússon og síðar Brynjúlfur Jónsson. Markmið þeirra var áþekkt markmiði Kálunds – að finna og lýsa fornleifum sem þeir töldu að gætu skýrt einstakar frásagnir í Íslendingasögum eða varpað ljósi á þjóðskipulag Íslands á söguöld.
Sigurður og Brynjúlfur skráðu fjölda rústa og birtu niðurstöður sínar jafnóðum í Árbók fornleifafélagsins.

Hlutlægari aðferðir
Um síðustu aldamót voru hér einnig á ferð danski kafteinninn Daniel Bruun og Þorsteinn Erlingsson skáld en þeir beittu heldur hlutlægari aðferðum en Sigurður og Brynjúlfur. Báðir reyndu þeir að lýsa og skilgreina tegundir fornleifa og Bruun gerði fyrstur manna skipulegar rannsóknir á landbúnaðarminjum og byggingarlagi íslenskra torfhúsa.
Fyrstu íslensku þjóðminjalögin, svonefnd „Lög um verndun fornmenja„, voru samþykkt árið 1907 og embætti fornminjavarðar – síðar þjóðminjavarðar – sett á laggirnar.

Húshólmi

Húshólmi – teikning Brynjúlfs í Árbókinni 1903.

Með þessum lögum voru fornleifar skilgreindar með lagabókstaf og þjóðminjaverði heimilað að friðlýsa minjastaði. Bar honum jafnframt að semja skrá yfir allar fornleifar sem honum þótti ástæða til að friða. Lögðust leiðangrar Fornleifafélagsins þá af að mestu.
Á árunum 1926-30 var fjöldi fornleifa tekinn á friðlýsingaskrá. Friðlýsingar þessar byggðust einkum á rannsóknum Sigurðar og Brynjúlfs sem gerðar voru allt að öld áður. Út frá því dregur Orri þá ályktun að stefnan í minjavörslu á fyrri hluta aldarinnar hafi verið sú að varðveita einkum þá staði sem taldir voru sögualdarminjar.

Friðlýsingar frá árdögum opinberrar fornminjavörslu mynda meginhluta friðlýstra minja í landinu en að jafnaði hafa friðlýsingar verið stopular frá því á fjórða áratugnum.
Á sama tíma og dró úr sögustaðaskráningu í byrjun aldarinnar fór áhugi á örnefnum vaxandi og stóð Fornleifafélagið og síðar Þjóðminjasafnið að örnefnaskráningu um land allt.

Sigurður Vigfússon

Sigurður Vigfússon (1828–1892).

Í örnefnaskrám er oft að finna upplýsingar um minjastaði, eða mikilvægar vísbendingar um staði þar sem mannvirki hafa staðið áður en eru nú horfin.
Fornleifaskráning í nútímaskilningi, þar sem leitast er við að skrá allar þekktar fornleifar en ekki aðeins þær sem þóttu „merkilegar“, hófst í Reykjavík á sjöunda áratugnum og hefur staðið með löngum hléum síðan. Henni er ekki lokið. Skráning er líka hafin víðar um land en hvergi að fullu lokið á þann veg að út hafi verið gefin rækileg fornleifaskrá.
„Í kjölfar húsverndunaráhuga, sem efldist mjög á 8. áratugnum, fóru menn að hugsa skipulega um fornleifaskráningu,“ segir Orri.
„Þjóðminjasafnið reið á vaðið og stóð fyrir skráningu í samstarfi við nokkur þéttbýlissveitarfélög, einkum á suðvesturhorninu, þar á meðal flesta kaupstaðina í kringum Reykjavík.
HelgadalurAð mörgu leyti var þetta skynsamleg nálgun því fornminjar eru auðvitað í mestri hættu í þéttbýli. Þarna var því unnið mjög mikilvægt starf.“
Ólíkt fornleifakönnun 19. aldar, sem hafði það markmið að finna áþreifanleg minnismerki um sögu lands og þjóðar, hefur áhugi á skráningu fornleifa síðustu tvo til þrjá áratugi þannig fyrst og fremst stafað af vaxandi áhyggjum af stórfelldri eyðileggingu fornleifa sökum stóraukinnar þéttbýlismyndunar og vélvæðingar í landbúnaði allt frá stofnun lýðveldisins.

Stórhöfði

Stórhöfði við Hafnarfjörð – nátthagi. Minjarnar eru enn óskráðar þrátt fyrir meinta fornleifaskráningu af svæðinu.

Segir Orri sveitarstjórnarmenn fyrir bragðið víða hafa tekið við sér og hlutast til um að hefja skráningu fornleifa í héraði.
„Það er gaman að lesa greinar sem menn skrifuðu um þetta vandamál um síðustu aldamót. Þá sáu þeir ofsjónum yfir eyðileggingu fornleifa af völdum túnaslétta með handverkfærum, sem var auðvitað ekki nema brotabrot af því sem síðar varð. Þetta segir okkur það að maður er alltaf aðeins of seinn! Í svo til hvert einasta skipti sem við komum í nýja sveit er gamli maðurinn sem vissi allt nýdáinn. Þetta er eitt af því sem maður verður að sætta sig við. Við getum líka huggað okkur við það, að þótt við séum heldur sein fyrir núna verður þessi skráning óvinnandi vegur eftir fimmtíu ár.“

Vatnaskil í minjavernd

Fossárrétt

Fossárréttin í Kjós 2011 – var friðlýst 16.03.1972. Fornleifarnar eru nú klæddar skógi.

Auk fornleifaskráningar á vegum sveitarstjórna hafa einstakir vísindamenn staðið fyrir fornleifaskráningu í rannsóknarskyni. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða skráningu á eyðibyggðum og afdölum þar sem rústir eru í lítilli hættu. Víða um land hefur áhugasamt fólk reyndar skráð fornleifar að eigin frumkvæði. Slíkar skrár eru, að hyggju Orra, misjafnar að gæðum en reynast oft ómetanlegar heimildir um fornleifar sem síðar hefur verið hróflað við.
Árið 1989 urðu vatnaskil í íslenskri minjavernd er Alþingi samþykkti ný lög um þjóðminjavörslu í landinu. Með nýjum lögum öðluðust allar fornleifar á Íslandi friðhelgi: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja…“ Á þetta jafnt við um fornleifar sem eru þekktar og sýnilegar og þær fornleifar sem koma í ljós við jarðrask af einhverju tagi. Brot gegn þessum ákvæðum varða sektum til ríkissjóðs eða þyngri refsingu.

Dalurinn

Fjárskjól frá Ási, hið síðasta innan bæjarmarka Hafnarfjarðar. Eyðilagt af verktökum vegna framkvæmda 2023.

Í þessum lögum var einnig það nýmæli að fornleifaskráning varð lögbundin forsenda skipulagsvinnu: „Skylt er að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess…“
Árið 1993 voru einnig samþykkt lög um umhverfismat sem herða enn á fornleifavernd. Er nú ekki hægt að leggja í stórar framkvæmdir nema gerð hafi verið fornleifakönnun á undan.
Segir Orri þessa öru þróun í löggjöf í þágu minjaverndar kærkomna. „Til þess að fylgja mætti þessari löggjöf eftir var nauðsynlegt að þróa og bæta aðferðir við fornleifaskráningu. Til þessa hafði hún verið ómarkviss, hægvirk og afar kostnaðarsöm.

Kringlumýri

Horft niður á Kringlumýri, forna selstöðu frá Húshólmabæjunum. Selstaðan hefur aldrei verið fornleifaskráð þrátt fyrir að fornleifaskráningu svæðisins er sögð vera lokið.

Fornleifastofnun hefur unnið að endurbótum á skráningaraðferðum síðustu ár. Markmiðið með þessu óvenjulega samstarfi sveitarstjórnarmanna og fornleifafræðinga var að sameina ólíka hagsmuni minjaverndar, framkvæmdaaðila, skipulagsgerðar, ferðaþjónustu og almennrar héraðsstjórnar.“ Segir Orri árangurinn þegar vera að koma í ljós. Fjöldi minja hafi verið kortlagður og fornleifavernd og hagnýting minjastaða er tekin með í reikninginn við skipulagsvinnu og framtíðaráform í ferðaþjónustu. Þá gaf menntamálaráðuneytið út í júní síðastliðnum reglugerð með þjóðminjalögum, þar sem er að finna skilgreiningu á því í hverju fornleifaskráning er fólgin. Segir Oni þessa viðleitni ráðuneytisins stuðla að því að fagmannlega verði unnið að fornleifaskráningu framvegis og færa fornleifafræðingum beitt vopn í hendur í baráttu þeirra fyrir öflugri fornleifavernd á nýrri öld.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu. Selið hefur aldrei verið fornleifaskráð þrátt fyrir meinta fullnaðarfornleifaskráningu fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar.

Fornleifaskráning er nú eingöngu fjármögnuð af sveitarfélögum og framkvæmd að vilja og frumkvæði sveitarstjórnarmanna í hverju héraði. Þetta nýja hlutverk sveitarstjórna hefur að vísu ekki verið lögfest en Orri segir að í því felist umtalsverðir hagsmunir, meðal annars þar sem brýnt sé að til séu nákvæmar og aðgengilegar upplýsingar um menningarminjar. Þar að auki fari skilningur vaxandi á því að fornleifar séu vannýttar auðlindir í ferðaþjónustu.

En hvað eru fornleifar?

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel í Grafningi. Var fyrst nýlega fornleifaskráð þrátt fyrir nokkrar fyrrum skráningar á svæðinu.

Orri segir að skoðanir manna á því hafi breyst mikið á undanförnum áratugum. Byggingar sem voru hversdagslegar fyrir hundrað árum séu nú orðnar minjar um horfna lífshætti. Í lögum eru fornleifar skilgreindar á eftirfarandi hátt: „Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk era á… Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar…“
Í lögunum eru gefin allnokkur dæmi, svo sem byggðaleifar, bæjarstæði, húsleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli sem aldrei hefur verið fornleifaskráð.

Einnig vinnustaðir þar sem aflað var fanga, gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita, gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra; varnamannvirki; þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brannar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð; áletranir, greftranarstaðir og skipsflök.
Það er skýrt af þessari skilgreiningu að fornleifar eru ekki aðeins öll mannvirki í víðasta skilningi heldur einnig staðir sem á einn eða annan hátt tengjast menningu og atvinnuvegum.

Skálafell

Skálafell austan Esju – tóft, sem aldrei hefur verið fornleifaskráð. Tóftarinnar er getið í Landnámu.

Er þessari skilgreiningu nú fylgt við fornleifaskráningu, auk þess sem allar byggingar úr torfi og grjóti eru skráðar sem og önnur mannvirki sem eru vitni um horfið verklag eða tækni, þótt þau séu yngri en 100 ára. Þar með geta talist elstu steypubyggingar, byggingar úr blönduðu efni (torf, grjót, timbur, steypa, bárajárn) og mannvirki eins og heimarafstöðvar, sundlaugar, upphlaðnir vegir frá því fyrir jarðýtuöld, fiskplön, áveituskurðir og hvers kyns minjar aðrar sem tengjast umbreytingum í atvinnuvegum og lífsafkomu á fyrri hluta 20. aldar. Minjar sem tengjast seinni heimsstyrjöldinni, veru setuliðsins og framkvæmdum á vegum þess (vegir, flugvellir, braggahverfi, skotgrafir o.s.frv.) eru einnig skráðar að jafnaði.

Nauðsynlegnr undirbúningur

Hraun

Refagildra við Hraun. Gildran sú er með fjórum inngöngum, sem verður að þykja verulega  sjaldgæft. Refagildran, sem er ein af u.þ.b. 100 slíkur á Reykjanesskaganum hefur aldrei verið fornleifaskráð. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, er hér ásamt Sesselju Guðmundsdóttur o.fl.

Nauðsynlegar upplýsingar um gerð og ástand fornleifa er aðeins hægt að afla með vettvangsathugun og við það er venjulega átt með hugtakinu fornleifaskráning. Til þess að vettvangsathugun komi að fullu gagni verður, að sögn Orra, þó fyrst að taka saman ýmiskonar upplýsingar, bæði skriflegar og munnlegar, sem vísa á minjastaði og geta gefíð vísbendingar um hlutverk mannvirkjaleifanna. „Slík heimildakönnun er nauðsynlegur undirbúningur undir vettvangsathuganir en hún getur líka skilað sjálfstæðum niðurstöðum. Til eru heimildir sem geta gefið grófa mynd af fjölda, eðli og ástandi minja á ákveðnum svæðum og skipuleg heimildaúttekt í því skyni getur komið að gagni við skipulagsgerð jafnt sem minjavernd og rannsóknir.“

Gufuskálar

Brunnur (lind) við Gufuskála í Suðurnesjabæ. Lindin hefur aldrei verið fornleifaskráð. Skammt neðan hennar er meint bæjarstæði Steinunnar gömlu, sem einnig hefur ekki verið fornleifaskráð.

Aðferðir fornleifaskráningu fela í sér að skráningunni er skipt í þrjú afmörkuð stig og eru þar höfð til riðmiðunar þrjú stig skipulagsvinnu, það er svæðis-, aðal- og deiliskipulag.
Svæðisskráning felst í því að taka saman gögn annars vegar um þekktar fornleifar og hins vegar um atriði sem geta gefið vísbendingar um staðsetningu og eðli fornleifa. Á þeim grunni er lagt mat á fjölda, dreifingu, eðli og ástand menningarminja viðkomandi svæða og gerðar tillögur um verndun, nýtingu og frekari athuganir. Niðurstaða svæðisskráningar er annars vegar skýrsla með heildarmati á menninganninjum á svæðinu og hins vegar skrá yfir allar þær upplýsingar sem safnað hefur verið með kortgrunni sem aðalskráning fornleifa mun síðan byggjast á.

Hlöðunes

Hlöðunesleiði. Helgi Davíðsson í Vogum, þá  84 ára, var manna fróðastur um Ásláksstaði og nágrenni, en hann ólst þar upp og bjó þar lengi framan af. Helgi gat bæði bent á leiði Hlöðvers í Hlöðunesi og Hjónaleiðið á Ásláksstöðum. Helgi lést skömmu síðar.

Á því stigi skráningar, sem kallast aðalskráning, er farið á vettvang og viðtöl tekin við ábúendur eða aðra staðkunnuga. Markmið með viðtölum er að endurskoða þær upplýsingar sem þegar hefur verið safnað, fá upplýsingar um nýja staði og síðan leiðsögn um viðkomandi landareign.
Með hliðsjón af munnlegum og rituðum heimildum er síðan gengið á þá minjastaði sem upplýsingar hafa fengist um, en jafnframt eru athuguð svæði þar sem líklegt getur talist, út frá gróðurfari og öðram aðstæðum, að fornleifar leynist. Orri segir að á velflestum minjastöðum séu tóftir eða aðrar mannvirkjaleifar ekki sýnilegar og því ekki annað hægt að gera en komast sem næst staðsetningu minjanna og færa hana á kort. Er það gert með því að finna hnattstöðu staðarins með staðsetningartæki.

Reykjavík

Steinbryggjan við uppgröft við enda Pósthússtrætis í Reykjavík.

Þar sem fornleifar eru huldar sjónum er lögð áhersla á að komast að því fyrir hvers konar hnjaski þær geta hafa orðið, hvernig aðstæður voru áður á viðkomandi stað og reynt eftir fóngum að meta hvort staðurinn sé enn í hættu.
Þar sem tóftir eða mannvirkjaleifar eru sýnilegar er þeim lýst á staðlaðan hátt og gerður af þeim uppdráttur, auk þess sem þær eru færðar á kort og hnattstaða þeirra fundin. Áhersla er lögð á að fá skýra mynd af umfangi, lögun og ástandi minjanna en að öðra leyti er ekki um að ræða nákvæma rannsókn á hverjum stað. Einnig er ástæðum lýst og reynt að meta hvort minjastaðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.

Leynir

Skjól í Leyni ofan Lambhaga við Hafnarfjörð. Nú horfið vegna framkvæmda.

Ólíkt svæðis- og aðalskráningu fornleifa er ekki gert ráð fyrir að deiliskráning verði gerð á öllum minjastöðum. Deiliskráning er fyrst og fremst gerð þar sem verið er að vinna deiliskipulag og niðurstöður umhverfismats benda til að séu markverðar fornleifar sem rannsaka þarf nánar og þar sem haft er í hyggju að kynna minjastaði fyrir almenningi.
Markmið deiliskráningar er öðru fremur að fá nákvæmar upplýsingar um einstaka minjastaði eða minjar á litlum afmörkuðum svæðum. Aðferðirnar sem beitt er geta verið mismunandi eftir markmiði athugunarinnar en í minnsta lagi er gerð nákvæm yfirborðsmæling á minjunum og þeim lýst í smáatriðum. Sömuleiðis getur í sumum tilvikum verið æskilegt að grafa litla könnunarskurði, til dæmis til að komast að aldri minjanna eða þegar staðfesta þarf að um mannvirki sé að ræða.
Aðferðir deiliskráningar eru í aðalatriðum þær sömu og beitt er í rannsóknum í vísindaskyni og raunar er æskilegt að vísindaleg sjónarmið séu látin ráða ferðinni við uppgröft þótt tilefni athugunarinnar séu önnur.

Hefur gefið góða raun

Reykjavík

Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913—17 var á sínum tíma stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. […] Vegna seinni tíma uppfyllinga hefur lítið varðveist af sýnilegum ummerkjum um þessa merku framkvæmd.
Við framkvæmdir þróunarfélagsins Landstólpa hefur hafnargarður frá Reykjavíkurhöfn sem fór undir landfyllingu árið 1939 komið í ljós. Garðurinn var reistur á fyrri stríðsárunum sem hluti af hafnargerðinni en hún var á þeim tíma stærsta og merkasta verklega framkvæmd sem Íslendingar höfðu ráðist í.
Garðurinn tengdist steinbryggju sem var við enda Pósthússtrætis. Nú horfinn undir byggingaframkvæmdir.

Orri segir þessa skráningartilhögun hafa gefið góða raun. Nú liggja fyrir um fimmtíu skýrslur með skrám um fornleifar á hverri jörð í allnokkrum hreppum. Framundan er þó mikið starf, því ætla má að einungis um 15-20% minjastaða séu komin á skrá og þar af hefur minna en fjórðungur verið skráður á vettvangi.
„Vöxturinn í greininni hangir saman við miklu meiri skipulagsvinnu. Nú er landið allt orðið skipulagsskylt og stefnt er að því að aðalskipulag fyrir það verði til á næstu áram eða áratugum. Í sambandi við þá vinnu á, samkvæmt lögunum, að fara fram fornleifaskráning og stefnum við að því að henni verði lokið eftir um tvo áratugi.“
Fornleifastofnun Íslands hefur þjálfað nokkurn fjölda manna í fornleifaskráningu. Segir Orri starfið fjölbreytilegt en að mörgu
leyti erfitt. „Það krefst þess að menn kunni á ritaðar heimildir, geti tekið viðtöl og séu tilbúnir að leggja á sig miklar göngur, meðal annars á fjöllum, og talsverða útivist. Þetta er óvenjulegt starf en skemmtilegt finnst okkur sem stundum það.“
En eitthvað hlýtur skráning sem þessi að kosta?

Reykjavík

Reykjavík – varðveittar minjar landmámsbæjar í Aðalstræti.

„Vissulega. Fornleifaskráning er dýr, til dæmis í samanburði við sagnfræðirannsóknir, en reynt hefur verið að taka á þessu annars vegar með því að lækka kostnað með hraðari og staðlaðri vinnubrögðum en áður þekktust og hins vegar með því að efla skilning almennings á þeim verðmætum sem felast í starfi af þessu tagi. Ég held að þær sveitarstjórnir sem þegar hafa ráðist í fornleifaskráningu hafi að verki loknu yfirleitt verið undrandi á því hversu miklum upplýsingum tókst að safna á skömmum tíma. Þetta er þannig spurning um verðmætamat og ef menn skilja hvílík verðmæti felast í upplýsingum um fornminjar og sögu byggðar, þá má alveg eins segja að fornleifaskráning sé hlægilega ódýr.
Það hefur líka verið tiltölulega auðvelt að sannfæra almenning, sérstaklega sveitarfélög, um að það sé mikilvægt að setja pening í rannsóknir og skráningu af þessu tagi. Áhuginn er fyrir hendi – það þarf bara að virkja hann. Það hefur því ekki verið vandamál að fá þau verkefni sem við höfum borið okkur eftir.“
Orri segir það meira áhyggjuefni hversu fáir fornleifafræðingar séu í landinu og hversu fáir leggi stund á nám í þeim fræðum.“

Fornleifar

Friðlýstar fornleifar.

Framangreind grein er athyglisverð, 27 ára gömul opinber umfjöllun. Allt sem sagt er lýsir mikilli bjartsýni og góðri von fyrir hönd minjavörslu landsins.

Betra ef hvorutveggja hefði gengið eftir. Hið jákvæða er að fjöldi fornleifaskráninga hefur farið fram síðan skráð var, en draga þarf bæði gæði þeirra og viðbrögð embættismanna og kjörinna fulltrúa í efa.
Þegar horft er til gæðanna er ljóst að skráningaraðilar virðast líta framhjá allt of mörgum merkilegum fornminjum, líklega til að spara sér tíma og pening. Hin meintu viðbrögð má auk þess augljóslega sjá í hversu margföld minjaeyðileggingin hefur orðið á umliðnum árum og virðist fara ört vaxandi. Svo virðist sem og hinu opinberu stofnanir, sem eiga að gæta fornminja landsins, standi sig bara ekki í stykkinu…

-Morgunblaðið, 208. tbl. 15.09.1998, Fortíðinni forðað frá glötun – Orri Vésteinsson, bls. 32-33.

Húshólmi

Húshólmi – frágangur Fornleifaverndar ríkisins til upplýsingagjafar á staðnum til a.m.k. tíu ára. Staðsetningin og áhugaleysið getur varla lýst miklum metnaði af hálfu ríkisstofnunarinnar.

Hafnir

Guðrún Helgadóttir í Ferðamáladeild Hólaskóla, háskólans á Hólum, skrifaði í Frey 2006 um „Fornleifar og ferðaþjónustu„:

Guðrún Helgadóttir

Guðrún Helgadóttir.

„Fortíðarþráin er sterkur leiðarþráður í öllum ferðalögum, við viljum kynnast lífsbaráttunni gegnum tíðina og jafnvel heimsækja staði þar sem tíminn stóð í stað. Ferðaþjónusta skapar forsendur fyrir upplifun, meðal annars þeirri að kynnast og fræðast um fornleifar, sem er ein leið ferðafólks til að kynnast áfangastaðnum sem það er statt á eða hefur hug á að heimsækja.
Fornleifar hafa notið aukinnar athygli undanfarin ár og umræðan um varðveislu þeirra og nýtingu farið vaxandi. Hérlendis var gert átak á sviði fornleifarannsókna með tilstyrk Kristnihátíðarsjóðs. Þessi mikla rannsóknavirkni fornleifafræðinga hefur fengið töluverða umfjöllun í fjölmiðlum og almenningur sýnt rannsóknunum og niðurstöðum þeirra áhuga.
Þessa áhuga hefur orðið vart á þeim stöðum þar sem fornleifauppgröftur fer fram, en það er reynsla flestra rannsóknahópanna að þörf sé á að hafa starfsmann á vakt við það að taka á móti ferðafólki. Það kemur jafnan nokkuð á óvart að áhuginn snýst ekki bara um minjarnar sjálfar og tengsl þeirra við söguna, heldur verður rannsóknin sjálf áhugaverð fyrir hinn almenna gest.

Hvað eru fornleifar?

Fornagata

Fornagata í Selvogi. Samgönguminjar teljast til fornleifa.

Samkvæmt núgildandi lögum sem eru Þjóðminjalög 107/2001 eru fornleifar skilgreindar sem: „…hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.“ Samkvæmt skipulagslögum er fornleifaskráning ein af forsendum skipulags, en allt landið er skipulagsskylt.
Í dag er vitað um rúmlega 200.000 fornleifar á Íslandi. Til fornleifa teljast öll merki um mannvirki, ekki bara byggingar heldur líka tún, girðingar og garðar, skipsflök, samgöngumannvirki, minningarmörk, atvinnusvæði s.s. verstöðvar og svo má lengi telja. Það má ætla að aðeins brot af þeim fornleifum sem fyrirfinnast séu þekktar því sífellt uppgötvast minjar þar sem enginn átti þeirra von. Þetta varðar mjög landnýtingu í samtímanum því fornleifar eru friðaðar, eða eins og segir í 10. gr. Þjóðminjalaga: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema leyfi fornleifanefndar komi til.“

Fornleif

Fornleifauppgröftur.

Menn spyrja sig eðlilega hvort þetta sé ekki mikil kvöð og takmörkun á landnýtingu? En fornleifar eru ekki helsta takmörkun á landnýtingu. Öll landnýting sem felur í sér mannvirkjagerð er háð leyfum til framkvæmda samkvæmt skipulagslögum. Fornleifar eru einungis einn af fjölmörgum þáttum sem taka þarf tillit til þegar ákvörðun er tekin og framkvæmdir hafnar t.d. við að setja niður sumarbústað.

Eru fornleifar auðlind í landnýtingu?

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ – fyrirmynd góðs frágangs eftir fornleifauppgröft.

Reynsla þeirra sem taka á móti gestum á stöðum þar sem fornleifar eru þekktar og/eða uppgröftur fer fram er sú að fornleifar geti reynst raunveruleg auðlind í landnýtingu.
Þó fornleifar séu friðaðar, þ.e. að ekki má hrófla við þeim án leyfis, þá eru þær ekki alltaf varðveittar til framtíðar. Þegar fornleifar finnast við framkvæmdir sem leyfi hefur verið gefið til, er jafnan farið í að rannsaka þær en síðan er framkvæmdum haldið áfram. Þetta kann að virðast undarleg verndarstefna, en fornleifauppgröftur er eðli málsins samkvæmt röskun og jafnvel eyðing fornleifanna. Þær eru grafnar upp og eftir standa heimildirnar um rannsóknina og rannsóknargögnin.

Fornleifar

Leiðsögn um fornminjastað.

Hvað er þá eftir til að skoða og upplifa? Það er æði margt, því eins og fornleifarannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt vakna sífellt nýjar spurningar og ráðgátur um staði og fólk í tímans rás. Minjar veita margvísleg tækifæri til að tengja starfsemi ferðaþjónustunnar sterkari böndum við fortíðina, s.s. að byggja upp afþreyingu fyrir ferðamenn eða að vísa til minjanna í gisti- og/eða veitingarekstri.

Aðdráttarafl fornleifa

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur.

Aðdráttarafl fornleifa er mikið, jafnvel þó staðsetning þeirra og tilvist sé óljós. Leitin að Lögbergi hefur til dæmis vakið áhuga Íslendinga lengi. Vitundin um skipsflök í sandi eða sjó gerir ákveðna staði áhugaverða ekki síður en það að standa í uppgröfnum rústum. Eins og Jón Helgason komst svo fallega að orði þá „…grunar hugann hjá grassins rót gamalt spor eftir lítinn fót“ – þennan grun getur sett að okkur við að sjá rúst, leifar mannvirkis, menningarlandslag sem hefur orðið eftir – hrörnað. Spurningin er hvort rannsóknir okkar, varðveisla og miðlun styrki þennan grun eða hvort hún víki honum úr huga okkar vegna annars áreitis?

Húshólmi

Húshólmi – skilti Fornleifaverndar ríkisins.

Fornleifavernd ríkisins hefur m.a. með höndum skráningu og merkingu fornleifa og víða um land má sjá upplýsingaskilti um fornleifar.
Þessi skilti eru ein leið, en þess þarf að gæta að þau fari vel í landslagi, séu vel hirt og liggi vel við umferð. Rústir hafa yfir sér ákveðið yfirbragð og vekja til umhugsunar um liðna tíð, þá íhugun og upplifun getum við dýpkað með því að segja gestum hvað það var sem þarna varð að rúst.
Það gefur frásögninni gildi ef sögumaðurinn er heimamaður sem þekkir minjastaðinn af eigin raun og gefur gestunum innsýn sem hvergi annars staðar er að fá. Þannig er hægt að tengja hætti fortíð og nútíð á eftirminnilegan hátt. Minjarnar eru ekki bara fortíð, við upplifum þær í nútíðinni og það eru engir betri í því en heimamenn að setja sögustaðinn í samhengi við það sem fyrir augu ber þar í dag.

Fornleifastaðir

Hafnir

Fornleifaruppgröftur í Höfnum.

Staðir hafa ímynd, fólk hefur hugmyndir um þá hvort sem ummerki sögunnar eru sýnileg eða ekki. Túlkun ákveðinna hugmynda í skipulagi og hönnun staða er vandmeðfarið vald. Með hönnun landslagsins, með merkingum og fræðslu er verið að móta hugmyndir og upplifun – að setja mark á staðina.
Þetta þurfa heimamenn að hugleiða og vera virkir þátttakendur með minjaverndinni í því að ákvarða hvernig þessari merkingu staðanna og aðgengi að þeim er best fyrirkomið þannig að það sé til hagsbóta bæði fyrir heimamenn og gesti.
Það er mikils virði að sjá við nánari athugun á landslagi að það hefur einhvern tíma verið vettvangur mannlífs, að það er menningarlandslag.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes; sögu og minjaskilti – uppdráttur ÓSÁ.

Söguskilti, bæklingar, símaleiðsögn og upplýsingar á Netinu eru allt mikilvægir þættir í að veita upplýsingar, en upplýsingar verða þó ekki að upplifun fyrr en einhver breytir þeim í sögu fyrir okkur. Það eru sögurnar um staðinn, bæði tilgátur um fortíðina og rannsóknin sem spennusaga, sem standa upp úr. Landið öðlast nýja merkingu við það að skoða verk genginna kynslóða, heyra hvernig það er nýtt og búið við það í dag. Upplifunin af staðnum dýpkar með skilningi á því að landið býr yfir leyndarmálum, sögu sem við eigum aðeins eftir að heyra brot af.
„Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði borgarskáldið Tómas Guðmundsson. í upplýsingasamfélagi munu sögur af landi keppa við dilkakjöt, möl, rafmagn, dún og hey þegar kemur að verðmætasköpun byggðri á landnýtingu. Við lifum á tímum borgarbarnanna, á tímum þar sem það að vita hvað landið heitir, að þekkja það og kunna að segja sögu þess er auðlind sem verður sífellt verðmætari.“

Heimild:
-Freyr, 4. tbl. 01.08.2006, Fornleifar og ferðaþjónusta – Auðlind í landnýtingu, Guðrún Helgadóttir, bls. 8-9.

landnámsskáli

Landnámsskáli á landnámssýningunni í miðborg Reykjavíkur.

Kjói

FERLIRsfélagar ákváðu á blíðviðrismorgni júnímánaðar að skoða ofanvert svæðið ofan Knarrarness og Ásláksstaða millum Gamlavegar og Reykjanesbrautar með það að markmiði að skoða m.a. Ásláksstaðastekk frá Ásláksstöðum Innri og hina meintu Knarrarstaðafjárborg upp við Geldingahóla, austan Lynghóls.

Knarrarnesfjárborg

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg (-stekkur) – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ eftir Sesselju Guðmundsdóttur segir: „Ofan sléttlendisins sem er austur af Lynghól liggur stór hlaðinn grjóthringur uppi á klapparholti og er hann u.þ.b. 8m í þvermál og innan í hinum sléttur bali. Vegghæðin er mjög lág og svo virðist sem þarna hafi átt að byggja fjárborg á stærð við Staðarborg en verið hætt við verkið af einhverjum ástæðum. Einnig gæti svo sem verið að unglingar hefðu gert sér það til dundurs að mynda hringinn“.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ frá 2014 segir um borgina: „Tvær tóftir fundust á þessum stað, um 2.4 km suðastan við Ásláksstaði. Tóft meints fjárskýlis er uppi á nokkuð flötum hraunhól í heiðinni suður af ströndinni. Dálítil grashvilft er NNA við hana sem þó er að blása upp að hluta og er hin tóftin í hvilftinni.

Knarrarnesfjárborg

Knarrrarnesfárborg.

Minjarnar eru á svæði sem er um 24x24m að stærð. Hringlaga tóftin er, sem fyrr segir, um 9 m í þvermál. Veggir hennar eru grjóthlaðnir en signir og grónir, um 0.5m á hæð þar sem þeir eru hæstir. Ekki sést fjöldi hringfara. Mesta breidd veggja er um 1.0m. Op er á tóftinni til norðurs.
Hin tóftin er af meintu fjárskýli, 10x6m að stærð og snýr austur-vestur. Hvergi sést grjót í hleðslum. Tóftin er mjög grasi vaxin og sker grasvöxtur á henni sker sig úr öðrum gróðri í nágrenninu. Tóftin er öll hlaupin í þúfur. Ekki er augljóst hvaða hlutverki hún hefur gegnt en mögulega hefur þarna verið stekkur.“

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg.

Þegar staðið er í „borginni“ og horft umhverfis, með Lynghól til vesturs þar sem nánast jarðlæg lágreist Lynghólsfjárborgin hvílir og Breiðagerðiskrossgarðinn í austri er ekki ólíklegt að Knarrarnesbændur hafi ekki viljað vera minni menn en nágrannar þeirra og ákveðið að gefa þau skilaboð um að þeir ætluðu að byggja fjárborg á þessu víðsýna holti – á þeirra landi.
U.þ.b. klukkustundargangur er á vettvang frá bæ. Norðan holtsins er falleg startjörn og sunnan þess ferhyrnt flag í gróningum. Vestan svæðisins má sjá grasi grónar lendur, sem bendir til góðrar staðbundinnar fjárnýtingar í heiðinni.

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg, torftökusvæðið og startjörnin.

Líklegt má telja að verkamennirnir hafi þar skorið torf í bygginguna, sem augljóslega er byggð úr torfi og grjóti, en af hinu síðarnefnda er gnótt í nágrenninu. Borgarstæðið horfir vel við landamerkjum, sem gæti reyndar hafa verið tilefni staðsetningarinnar. Eins og vitað er voru bændur jafnan uppteknir fyrrum að því að verja landamerki sín fyrir ágengi nágrannanna. Tíð eignarskipti á jörðum voru ekki síst ástæðan. Þess vegna má í dag sjá fjölmargar minjar út frá einstökum bæjum nálægt landamerkjum, s.s. selstöður, stekki, útihús, beitarhús  o.s.frv. Viðkomandi staðsetningar minjanna voru öðrum þræði ætlaðar til að undirstrika eignarhald viðkomandi jarðar á landssvæðinu.

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg.

Kannski að „borgin“ hafi einfaldlega verið hlaðin sem málamyndarkennileiti í skammvinnum deilum til að undirstrika eignarhaldið, þ.e. grunnur að einhverju sem gæti orðið ef… Stríð hafa jú brotist út af minna tilefni. Hvað svo sem því líður er staðurinn vel valinn og eflaust af einhverri ástæðu, t.d. startjörninni, sem hefur þótt verðmæt út af fyrir sig í annars vatnslítilli heiðinni er líða tók á sumarið. Mannvirkið sem slíkt virðist ekki hafa þjónað nokkrum öðrum tilgangi. Knarrarnesbændur hafa a.m.k. ekki haft neina burði til að skáka staðarklerki á Kálfatjörn, enda aldrei komist upp með slíkt ef saga Staðarborgarinnar er skoðuð.
Eðlilegasta skýringin er þó sú það þarna hafi bóndi ætlað að vista geldinga sína tímabundið sbr. örnafnið á holtinu.

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkur á gróinni klapparhæð ofan Ásláksstaða Innri er hér nefndur „Ásláksstaðastekkur II“ til aðgreiningar frá „Ásláksstaðasekk“ í Kúadal frá Ásláksstöðum Ytri.
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ frá 2014 segir um stekkinn: „Tvískipt tóft um 1.2 km suðaustan við bæ. Tóftin er á flatlendi ofan og suðvestan við gróinn og nokkuð grösugan lautarbolla. Dálítil brekka er tilnorðurs frá tóftinni.
Tóftin er grjóthlaðin og tvískipt og snýr nálega norður-suður. Hún er um 8.5c6m að stærð. Mesta hæð veggja er um 0.5m og sjást 2 umför í hleðslu. Vesturhluti tóftar er gróinn og sést ekki í hleðslur þar.
Líklegt er að þarna hafi verið beitarhús en lag tóftarinnar, staðsetning hennar og fjarlægð frá bæ bendir allt til þess hlutverks“.

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II.

Þrátt fyrir framangreinda fullyrðingu að stekkurinn sá hafi verið beitarhús verður með fullri virðingu að telja að þarna hafi aldrei verið annað skepnuhald en til tímabundins aðhalds. Stekkur er meira lagi.

Lýsing á tóftum stekksins er ágæt en gleymst hefur að tilefna tættur tveggja óskilgreindra húsa vestan þeirra. Þarna er um að ræða stekk frá Ásláksstöðum Innri.

Víða í heiðinni mátti líta augum skjól og byrgi refaskyttna frá fyrri tíð.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrsla II, 2014.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 46.

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II.

Rjúpa

Á Vatnsleysuströnd eru fjölmörg sel og stekkir frá nánast öllum bæjum þar fyrrum, jafnvel fleiri en ein/n frá sumum þeirra.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Saga seljanna og stekkjanna verður ekki sögð hér, enda hefur ítarlega verið um hana fjallað bæði annars staðar á vefsíðunni og víðar.
Í stuttu máli má þó segja að sagan hafi enduspeglað búskaparsögu landssvæðisins, frá upphafi þess til loka hinna gömlu búskaparhátta, sem óðum hafa fjarlægst okkur „nútímafólki“, eða við „nútímafólkið“ hefur fjarlægst því, þótt ekki væri nema hugafarslega.
Gallinn er hins vegar sá, ef marka má skráðar heimildir, að hvorki ábúendur né fornleifaskráendur virðast hafa áttað sig á forsögunni til vorra daga. Fornleifaskráningar bera a.m.k. þess skýr merki. Margra fornleifa er jafnan getið með vísan til örnefnalýsinga og annarra skráðra heimilda, einstaka er bætt um betur, s.s. „vörður“, sem oftar en ekki eru reyndar fornar refagildrur eða grenjamerkingar, en þá er því miður ógetið hinna mörgu fornleifa, sem hvergi er getið í skráðum skrám.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Reynsla FERLIRsfélaga er sú að verulega reynslu og góða innsýn í búsetusögu viðkomandi svæðis þarf til að skrá fornleifar af einhverju viti. Dæmi: Þegar félagsskapurinn byrjaði að leita uppi sel og selstöður á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs, var í fyrstu byggt á skráðum heimildum, s.s. jarðabókinni 1703 og öðrum slíkum. Þannig var hægt að staðfesta a.m.k. 103 slíkar. Næsti áfanginn var að leita uppi öll skráð örnefni með selsörnefni. Í kjölfarið bættust 121 áður óþekkt selstaða. Loks var stefnt að því að skoða allar landfræðilegar aðstæður er gætu boðið upp á selstöður, þ.e. dalverpi upp frá fornu bæjarstæði, graslendi í skjóli fyrir austanáttinni, graslendi við læk, við á eða vatnsstæði þar sem mætti a.m.k. merkja einhverjar mannvistarleifar, s.s. stekk, vörðu, nátthaga, fjárskjól eða smalabyrgi.

Hraunssel

Hraunssel.

Niðurstaðan varð 444 skráðar selstöður á landssvæðinu.
Hafa ber í huga að sel á Reykjanesskaganum eru að mörgu leiti ólík seljum í öðrum landshlutum þar sem bússmalinn var jafnan fluttur í sel inni djúpum grónum dölum yfir sumarið. Mörg þau selin urðu síðar að kotbýlum að seltiðinni lokinni. Á Skaganum eru hins vegar aðeins örfá dæmi um slíkar umbreytingar.
Reykjanesskaginn er hraunum þakin að vestanverðu, en austurhlutinn hefur boðið upp á djúpa dali (Kjalarnes og Kjós). Þrátt fyrir tilbrigðin virðast húsaskipan seljanna löngum hafa verið þau sömu, þ.e. baðstofa, búr og eldhús, ýmist innbyggt eða frístandandi.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Margar selstöðurnar hafa ýmist verið endurbyggðar, jafnvel oftar en tvisvar, eða fluttar um set. Líklega hefur aðgengi að vatni haft mest um það að segja hverju sinni. Nokkur dæmi eru um að bæir einstaka hverfa með ströndinni hafi tekið sig saman og byggt upp selstöðuþyrpingu, s.s. Brunnastaðahverfi, Knarrarneshverfi og Breiðagerðishverfi sem og Grindavíkurbændur, sem byggðu selstöður sínar um stund á Selsvöllum, færðu þær á Baðsvelli og síðan aftur á nýjan stað á Selsvöllum. Forn sel eru á Skaganum sem hvorki hafa verið fornleifaskráð né þeirra getið í örnefnaskrám.

Selsbúskapurinn, sem verið hafði með einhverjum smábreytingum allt frá landnámi, lagðist af skömmu fyrir aldamótin 1900. Útselin fyrrum, sem var bæði ætlað að bæta um betur jarðnæðið í neðra og staðfesta landamerki viðkomandi jarða, færðust undir lokin smám saman nær bæjunum í takt við fækkun heimilis- og þjónustufólksins. Í lok hins gamla bændasamfélags í upphafi 20. aldar urðu selstöðurnar og stekkirnir nánast komnir inn að túngarði viðkomanda bæja. Hafa ber í huga að fyrir þann tíma voru nánast engir túnbleðlar til umleikis þá. Með miklum dugnaði og þrautseigju tókst bændum, með aðstoð vinnu- og útróðramanna, að græða upp velli, lægðir og jafnvel holt, sem barin voru jafnvel niður af handafli með sleggjum og síðan borin á þau þari og sló til uppgræðslu.

Árnastekkur

Árnastekkur.

FERLIR hefur jafnan borðið gæfu til þess að allir er til hefur verið leitað hafa verið fúsir til að útskýra og gefa upplýsingar um fornar minjar á sínum landssvæðum. Flestir eru nú, því miður, nú horfnir til annarra starfa handan við Móðuna miklu. Segja má því að www.ferlir.is sé lifandi vefsíða um minjar hins liðna!

Að þessu sinni leituðu FERLIRsfélagar að Rauðstekk, Brunnhólsstekk, Árnastekk og Vorkvíum – og skoðuðu.
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-keflavíkurvegarins)“ skrifar Sesselja Guðmundsdóttir um framangreindar minjar.

Rauðstekkur

Rauðstekkur.

Um Árnastekk segir: „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót austri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimildir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð en fleiri segja Árnastekkur og verður það nafn látið gilda hér.“

Rauðstekkur er sagður „nafn á hól eða grjóthleðslum sem standa rétt suðvestan Krummhóls og er u.þ.b. 8 mínútna gangur þangað frá Vatnshólum og Gamlavegi með stefnnu á Keili. Í Rauðstekk var farið með kýrnar frá Sjónarhóli í tíð Magnúsar Jónssonar (1881-1963). Ekki er ljóst af hverju nafnið er dregið.“

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur.

Um Brunnhól segir: „Brunnhóll heitir hóll með vörðu á og er hann suðvestur af Fornastekk en suður af Skjaldarkotslágum, u.þ.b. 200 m fyrir ofan Gamlaveg. Neðan og norðan við hólinn, rétt fyrir ofan fjárgirðinguna, er llítið vatnsstæði í klöpp og annað ofar og aðeins vestan við hólinn. Heimildir eru til um tvo Brunnhóla á þessum slóðum, Efri-Brunnhól og Neðri-Brunnhól og það gæti verið að þessi tvö vatnsstæði tengdust umræddum hólum.
Stekkurinn gæti einnig með réttu verið nefndur Arnarbælisstekkur.

Þá er getið um Vorkvíar, sbr. „Vorkvíar eða Vorkvíablettur heitir nokkuð stór grasmói í vikinu milli veganna“.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrslu II“ frá árinu 2014 koma fram athuganir á framangreindum minjastöðum:

Árnastekkur

Árnastekkur

Árnastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

„Ofar nokkuð í Strandarheiði var Árnastekkur við Árnastekkshæð“, segir í örnefnskrá Hlöðuness. Árnastekur er um 925 m suðaustan við bæ.
Stekkurinn er sunnan undir grónum hraunhól í tiltölulega grónum móa. Þó er flagmói fast suðaustan við stekkinn.
Tvær tóftir um 5x10m að stærð og snýr nálega austur -vestur. Tóft A er grjóthlaðin, um 5x7m að stærð…. og síðan kemur einhver steypa…“.

Rauðstekkur
„Í örnefnaskrá Ásláksstaða segir: „Fyrir innan Arnarbælishólanna er Rauðstekkur, og var grjóthrúga upp á hólnum, sem hér Rauðhóll. Í sömu heimild segir: „Rauðstekkur eru stórþýfðir móar eða holt, sem snúa í norðvestur. Komið er að Rauðstekk, ef stefnt er þvert af gamla veginum frá grútarbræðslunni aðeins vestan við deili og gengið í 7-8 mínútur. Ekki man Guðjón eftir mannvirkjum þar.“

Rauðstekkur

Rauðstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkurinn er greinilegur. Hann er um 1.3 km suðaustan við bæ og um 580 m NNA við Ásláksstaðastekk [í Kúadal].
Stekkurinn er á grónu og nokkuð sléttu svæði. Allt umhverfis er hins vegar hraunlendi þar sem mikið er um hæðir og dældir.
Stekkurinn er 13×3.5m á stærð, snýr noður-suður og hallar talsvert til suðurs og er torfhlaðinn að mestu en grjóthlaðin að hluta. Hann skiptist í 4 hólf. Hólf I er syðst. Það er sporöskjulaga og er innanmál þess 3x2m og í veggjum þess sjást grjóthleðslur. Hólf II norðan við hólf II. Það er 2.5x2m að innanmáli og snýr norður-suður. Í veggum þess sjást grjóthleðslur líkt og í hólfi II. Á milli hólfs II og III er grjóthlaðinn veggur. Hólf IV er norðan við hólf II og á milli þeirra er grjóthlaðinn veggur. Hólf IV er sporöskjulaga og er op á suðvesturhliðinni. Innamál hólfsins er 4x3m og snýr norður-suður.“

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

„Stekkurinn er efst í hæsta hól Arnarbælis, í sprungnum hraunhól. Tóftin er tvískipt og grjóthlaðin. Hún er um 10x4m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hæð veggja utanmáls er 0.3m en innanmáls er mesta hæð um 1m. Ekki er vitað með vissu hvert hlutverk tóftarinnar var.“
Bæði Rauðstekkur og Brunnhólsstekkur bera keim að fyrrum heimaseljum, þ.e. tvískiptir stekkkir með hliðar(geymslu)tóft.

Vorkvíar
„Vorkvíar eru lítil tóft í litlu viki inn í hólinn Stakk. Til vesturrs við hana er Vorkvíablettur. lítið flatlent og sléttað tún. Tóftin er einföld og gróin. Ekki sést í grjóthleðslurþ Mesta hæð veggja er um 0.4m. Óvíst er að þetta sé kvíatóft.“

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1. mín.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 42 og 48-49.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrsla II, 2014.

Vorkvíar

Vorkvíar.

Uppgröftur

Vala Garðarsdóttir skrifaði um „Varðveislu menningarminja“ í tímaritið Saga árið 2017:

Hver á menningararfinn?

Vala Garðarsdóttir

Vala Garðarsdóttir.

„Undanfarin misseri hefur mikil umræða skapast um þær forn- og menningarminjar sem rannsóknir hafa beinst að upp á síðkastið, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Þessi umræða hófst ekki að ástæðulausu því svo virðist sem ekki sé sama hvers eðlis rannsóknarefnið er né hvar. En til þess að útskýra gróflega eðli fornleifarannsókna er ágætt að benda á að fornleifauppgröftur er gerður þegar um er að ræða rannsókn eða björgun minja sem liggja í jörðu, iðulega vegna fyrirhugaðra framkvæmda.
Lög um menningarminjar eru skýr. Þær minjar sem við eigum eru okkar allra. Við sem þjóð, sem ein heild, deilum menningararfinum og okkur ber að virða hann óháð því hvaðan hann kemur og hvar hann er á landinu, hvort sem um er að ræða minjar frá nítjándu öld eða þeirri níundu, kuml eða naust, gröf eða bæjarstæði. Um minjar gildir jafnræði.

Daðastaleiti

Daðastaðaleiti – kuml.

Við nútímafólk getum ekki metið hvort minjar á okkar tíma séu merkilegri en aðrar eða hvort fólk nú á dögum beri meira skynbragð á fornminjar en fólk á nítjándu öld, hvað þá heldur hvað fólki fannst um menningararfinn þá. Við vitum það einfaldlega ekki.
Það er þó þannig, hérlendis sem erlendis, að við mannfólkið göngum gjarnan í sömu spor og forverar okkar og nýtum þann grunn sem skapast hefur mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð. Við njótum góðs af þeim grunni og skilum honum áfram til næstu kynslóða til að læra af og nýta. Hvernig þessum grunni er komið til skila til framtíðar og í hvaða formi skiptir öllu máli þegar við ræðum um virðingu við menningararfinn. Um þetta form getum við síðan deilt til eilífðarnóns því þær tilfinningar sem við, sem nú lifum, berum í brjósti til liðins tíma eru eins mismunandi og við erum mörg.

Pálstóftir

Á síðustu árum og áratugum hafa þó nokkrir minjastaðir horfið undir miðlunarlón, til dæmis Pálstóftir, tóftir sels frá 10. öld sem nú eru á botni Hálslóns.

Að þessu sögðu skal það áréttað að í gildi eru lög um menningararfinn sem fræðimönnum, stjórnmálamönnum og sér fræðingum ber að fara eftir þegar kemur að því að varðveita menningu og minjar liðins tíma.
Það þarf ekki að tíunda það hér að oft hefur mannvirkjum og mannvistarlögum liðinna kynslóða verið rutt til, þau skemmd og brotin án nokkurs hiks eða umræðu um hvort eðlilegt þyki að svo sé gert. Við erum sem betur fer orðin mun meðvitaðri um mikilvægi þess að varðveita þær menningarminjar sem við eigum í sameiningu og hafa gert okkur að þjóð. Við lærum í auknum mæli af sögunni, reynum að læra af syndum feðranna og vitum að hversu lítilfjörlegt sem það kann að virðast þá skiptir öllu máli að fara vel með það sem við fengum í arf.

Reykjavík

Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913—17 var á sínum tíma stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. […] Vegna seinni tíma uppfyllinga hefur lítið varðveist af sýnilegum ummerkjum um þessa merku framkvæmd.
Við framkvæmdir þróunarfélagsins Landstólpa hefur hafnargarður frá Reykjavíkurhöfn sem fór undir landfyllingu árið 1939 komið í ljós. Garðurinn var reistur á fyrri stríðsárunum sem hluti af hafnargerðinni en hún var á þeim tíma stærsta og merkasta verklega framkvæmd sem Íslendingar höfðu ráðist í.
Garðurinn tengdist steinbryggju sem var við enda Pósthússtrætis. Nú er garðinn hvergi að sjá á yfirborði.

Það er ekki að undra að mörgum þyki óeðlilegt að með fornleifarannsóknum skuli það sem liggur í jörðinni vera tekið upp og fjarlægt. Mörgum finnst líklega að verið sé að eyðileggja og vanvirða þær minjar sem rannsaka skal og má í því samhengi nefna grein eftir Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörð, sem birtist í Morgunblaðinu árið 2013. En við getum líklega deilt um þetta til eilífðarnóns.
Með rannsóknum erum við að auka þekkingu okkar á fortíðinni, skrásetja og forverja minjar, skrifa um það sem ekki var vitað áður og bæta við fyrri þekkingu. Við erum að afla upplýsinga og auka skilning okkar á því sem áður var gert, hvernig Íslendingar háðu lífsbaráttuna og drógu björg í bú, fræðast um innlend og erlend samskipti forfeðra okkar og -mæðra, verkmenningu í landi og á sjó, hefðir og hjátrú, trúarhætti, félagslíf, búskaparhætti og svo mætti lengi telja. Við viljum skilja það sem áður fyrr var gert, hver við erum og hvaðan við komum. Það er virðingarvert og eðlilegt og að sama skapi virðingarvottur við þá sem byggt hafa upp okkar margbrotna og ríka samfélag.

Rannsóknir eru mikilvægar

Reykjavík

Gröf við Landssímahúsið, nú hótelbygging.

Ef við fjarlægjum minjar er það gert á þeim forsendum að vandað sé til verka og farið eftir lögum sem um slíkt gilda. Við gerum það ekki síst af virðingu við fortíðina og minjarnar sjálfar. Þekkingin situr eftir og við auðgumst á því og bætum við söguna sem var okkur áður hulin, jafnvel glötuð og óþekkt, til að mynda sögu hins hversdagslega, sögu einstaklinga, kotbænda og sauðsvarts almúga sem aldrei var skrifað um.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – fyrirmyndar frágangur eftir uppgröft. „Fornleifarannsóknir eru til þess gerðar að rannsaka minjar með vísindalegum aðferðum og varðveita vitneskju um fortíðina fyrir komandi kynslóðir“ – Ragnheiður Traustadóttir.

Við eigum að sameina krafta okkar og sérfræðiþekkingu til þess að miðla því sem áður var — og gera það vel, af virðingu við okkur sjálf og forfeður okkar. Þannig varðveitum við menningararfinn í bland við það sem er og verður á söfnum landsins eða í jörðu; með varðveislu gripa, uppbyggingu og endurgerð á eldri húsum, póstleiðum, vörðum, túngörðum, naustum, sjóbúðum, hjöllum, öskuhaugum, bæjarhólum, slóðum og vegum, brúm, bryggjum, kvíum, stekkjum, álagablettum og öllu sem við eigum. Þannig sýnum við í verki að þótt við byggjum á sama stað mann fram af manni mun sagan um það sem var aldrei hverfa.“

Heimild:
-Saga, 2. tbl. 2017, Varðveisla menningarminja – Vala Garðarsdóttir, bls. 19-20 og 25.

Hafurbjarnastaðir

Sverð úr uppgreftri við Hafurbjarnastaði.

Ratleikur Hafnarfjarðar

Ratleikur Hafnarfjarðar er nú, árið 2025, haldinn í 29. sinn.

Leikurinn er, líkt og jafnan, bæði fjölbreyttur og skemmtilegur. Þemað að þessu sinni er Hnúkar, hamrar, höfðar, holt, hlíðar, hæðir og hólar í og ofan Hafnarfjarðar.

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason.

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson.

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfrétta og forstjóri Hönnunarhússins, lagði út leikinn og hefur borið hita og þunga af tilurð hans. Ómar Smári Ármannsson, svæðisleiðsögumaður og fornleifafræðingur, tók saman lítillátlega fróðleiksmola um einstaka staði leiksins.
Lykillinn að leiknum, Ratleikskortin, liggja frammi, án endurgjalds, á eftirtöldum stöðum: Fjarðarkaupum, Bókasafni Hafnarfjarðar, Ráðhúsinu, Bensínstöðvum N1, Suðurbæjarlaug, Ásvallalaug, Sundhöll Hafnarfjarðar og víðar. Guðni lofar góðum verðlaunum þeim er verðskulda.

Ratleikur 2025

Ratleikjakortið 2025.

Ef einhver vill hins vegar koma einhverjum athugasemdum á framfæri er rétt að sá/sú snúi sér til Valdimars Víðissonar bæjarstjóra í Hafnarfirði. Hann þekkir væntanlega hverja þúfu í umdæminu!

Öllum bæjar- og varabæjarfulltrúunum, sem og öllu starfsfólki bæjarins hefur verið boðið sérstaklega að taka þátt í ratleiknum í ár. Virk þátttaka þeirra er vissulega gott fordæmi fyrir aðra bæjarbúa er búa í bæ er gefur sig út fyrir markvissa lýðheilsu og hollustu.

Þess má geta að veglegir verðlaunamöguleikarnir eru í boði fyrir alla/öll er skila inn réttum lausum fyrir lok leiksins um og eftir miðjan septembermánuð.

Ferðist og fræðist með Ratleiknum og njótið um leið fjölbreytilegra dásemda bæjarlandsins.

Hér má lesa fróðleik Ratleiksins að þessu sinni:

1.    Hæðin / Ljósaklif

Í Örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjarðarland segir:

Ljósaklif

Ljósaklif.

„Ljósaklif er klettaklif í suðausturenda hæðarinnar (Hæðarinnar með klifinu) ofan samnefnds húss, neðan Garðavegar, vestan Herjólfsgötu sem ofan Garðavegar nefnist Herjólfsbraut. Þröngt skarð milli kletta, vel manngengt þó, grasi vaxið í botni. Er í suðaustasta klettinum á Hæðinni. Upp á Hæðinni vestanverðri eru leifar skotgrafa (lagfærðar hraunsprungur) og vígi frá hernámsárunum. Þar sást ljós er skyggja tók. Þetta er haft eftir Þórði Eyjólfssyni á Brúsastöðum er sagði Benedikt í Ljósaklifi þegar hann var að byggja nefnt  hús sitt.“
Milli Brúsastaða og Hrafnistu liggur lokaður vegstubbur að sökkli Dalbæjar. Húsið var um stund í eigu Árna Gunnlaugssonar. Í því bjó m.a. Jökull Jakobsson, rithöfundur, uns hann lést af slysförum.

2.    Hádegishóll

Hádegishóll

Hádegishóll.

Klofhóll var vestan til við Fjarðargötu (norðvestan Fjarðarkaupa). Af hraunbrúninni úr Fjarðargötu lá Hraunsholtsselsstígur fram á hraunið.

Stöðulgjóta lá á hægri hönd eða vestan við Fjarðargötu. Langalaut aftur á móti austan við og lá inn eftir hrauninu. Flatahraun lá suður af Löngulaut, sem einnig nefndist Sléttahraun. Kolla var laut rétt við Bruna suður af Flatahrauni. Þá  var Stekkurinn í Stekkjarlautinni vestur af Fjarðargötu og Húfugjóta þar suður af. Þar suður af var svo Hádegishóll. Eyktarmark frá Hraunsholti og hornmark landa milli Hraunsholts, Garðahrepps og Hafnarfjarðar. Stórhóll lá suðaustur frá Hádegishól. Selstígurinn lá suður með Hádegishól í Hraunsholtssel (sem var fyrrum suðaustan við hólinn). Um hólinn liggja girðingarmörk jarðarinnar.

3.    Miðdegishóll / Miðaftanshóll

Miðdegishóll

Miðdegishóll.

Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.

Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Leggja átti t.d. nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna.

Járnbrautarvegurinn

Upplýsingaskilti um Járnbrautarveginn.

Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.

Vinna hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun.

Grjótið í vörðunni á Miðdegishól er fest saman með steinsteypu, líkt og í öðrum á fyrrum landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Á henni stendur ártalið 1969. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði, lét þá styrkja landmerkjavörður bæjarins með steinsteypu.

4.    Hamarinn

Hafnarfjörður

Hamarinn (Hamarskotshamar).

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar (Austurhamar), í Hafnarfirði er ekki einungis náttúruvætti – í tvennum skilningi – heldur og stöndug fótfesta bæjarsamfélags við ofannefndan fjörð. Líkt gildir um uppverðaðan bróður hans; Setbergshamar (Þórsbergshamar).

Á þeim báðum eru eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda, sem ætlunin er að lýsa hér á eftir, enda setur hann hvað mestan svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Litlibróðir nefnist Vesturhamar, milli Strandgötu og Suðurgötu.

Hafnarfjörður

Hamarinn – jökulsorfnar klappir.

Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum. Af þeirri ástæðu, sem og vegna eigin reisnar og ummerkja eftir síðasta ísaldarjökul, var talin þörf á að friðlýsa hann árið 1984. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn. Hamarinn dregur nafn sitt af Hamarskoti, sem var þarna á túninu milllum hans og núverandi Flensborgarskóla.

5.    Holtið

Holtið

Holtið.

Hamarinn skiptist fyrrum í Austurhamar og Vesturhamar. Sá fyrrnefndi er nú jafnan nefndur „Hamarinn í Hafnarfirði“ og sá síðarnefndi hefur einnig verið nefndur „Litlihamar“. Vélsmiðja Hafnarfjarðar var byggð undir Litlahamri. Sjórinn náði fyrrum upp að hamrinum svo illfært var fyrir umferð þar neðanvert, eða þangað til uppfylling var lögð undir veg. Áður fór nánast öll umferð um Illubrekku (Bröttubrekku) á Suðurgötu millum hamranna. Suður og ofan af Litlahamri er Jófríðarstaðaholt. Það náði allt að sunnanverðum Austurhamri.

Holtsgatan dregur nafn sitt af holtinu. Enn má sjá leifar þess á auðu svæði milli Holtsgötu, Hlíðarbrautar og Hringbrautar. Í holtinu má sjá jökulsorfin hvalbök. Í því er og umtalsverð álfabyggð.

Hafnarfjörður

Holtið – óröskuð álfabyggð.

Hnúkar, hamrar, höfðar, holt, hlíðar, hæðir og hólar í og ofan Hafnarfjarðar eru mótuð af ísaldarjöklinum, sem og hinum hefðbundnu roföflum. Ísöldinni lauk fyrir um 10.000 árum. Ekki var hún þó einn fimbulvetur, heldur skiptust á kuldaskeið og hlýskeið — hér á landi eru merki um einar 24 slíkar lotur, þar sem kuldaskeiðin kunna að hafa varað um 100.000 ár en hlýskeiðin mun skemur.

Auðvelt er að komast að Holtinu frá Hlíðarbraut um göngustíg við hús nr. 5.

6.    Ófriðarstaðaholt (Jófríðarstaðaholt)

Jófríðastaðir

Jófríðarstaðaholt.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens, en Bjarni keypti jörðina árið 1804.

Jófríðarstaðir eru á Jófríðarstaðaholti. Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á.  Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðaholt.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni.

Á Ófriðarstaðahól efst á holtinu var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum í kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki  niður með traðagörðunum.

Víðsýnt er yfir Hafnarfjörð frá Jófríðarstaðaholtinu. Margar yfirlitsmyndir af bænum fyrrum voru teknar af holtinu.

7.    Hvaleyrarholt

Hvaleyri

Hvaleyri – Heiðarbrunnur.

Í suður frá Hvaleyri sunnan túngarðs, ofurlítið uppi í holtinu, er lind, sem heitir Heiðarbrunnur. Upp á háholtinu voru nefndir Hjallar. Þangað var fiskurinn borinn til þurrkunar. Innar á holtinu var Fuglastapaþúfa nyrðri, landamerki Hvaleyrarlands í fjörunni við Hvaleyrarlón. Hún lenti í uppfyllingu Olíufélagsins. Hærra í holtinu var, og er,  Fuglstapaþúfa syðri. Umleikis hana má sjá jökulssorfnar grágrýtisklappir. Þar rétt sunnar, handan vegar og Þorgeirsstaða, eru Leirdalir.  Um þúfuna syðri lágu hornmörk Hvaleyrar, Áss, Jófriðarstaða, Óseyrar og Ásbúðar.

Heiðarbrunnur var gott vatnsstæði en þraut bæði í frostum á vetrum og þurrkum á sumrum. Úr brunni þessum var um 1930 lögð vatnsveita heim í Hjörtskot og þraut þá aldrei vatn (G.S.).

Hvaleyri

Skotgrafir ofan Hvaleyrar.

Neðan undir Heiðarbrunni í Hvaleyrarholti var Sædýrasafn Hafnarfjarðar, nú golfvallaflatir. Ofan við brunninn er Flókavarða. Íbúar í Sveio í Noregi  reistu vörðuna til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og færðu Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan. Vestan við Heiðarbrunn eru leifar af skotkröf bandamanna, en þeir reistu braggabyggð sína á Hvaleyrartanganum á stríðsárunum.

8. Setbergshamrar / Þórsbergshamar

Setbergshamar

Setbergshamar.

Setbergshamrar, norðan við Setbergsbæinn eru nefndir tveir hamrar í örnefnalýsingu eftir Gísla Sigurðsson, Setbergshamarinn eystri og Setbergshamarinn litli. Þar segir: „Setbergshamrar skiptast í Setbergshamar nyrðri og Setbergshamar syðri (Setbergshamar stóri og Setbergshamar minni). Þá eru þeir einnig nefndir Setbergshamar efri og Setbergshamar neðri, og er þá átt við klettana, sem Þórsberg stendur á og Ásberg stendur neðan undir.“

Á hömrunum eru stríðsminjar; þrjú skotbyrgi o.fl. auk steypts landamerkjastöpuls með koparskildi (sem stolið var af óánægðum landeiganda með landaskiptin millum Hafnfirðinga og Garðbæinga).

9. Setbergsholt / Setbergshlíð /Fjárhúsholt

Setbergsholt

Setbergsholt.

Setbergsholt er allt holtið kallað vestan frá hömrunum og austur eða suður um að Þverhlíð.

Upp frá fjárhúsinu (nú horfið) var Fjárhúsholt og þar efst á holtinu Nónklettar, en þeir voru eyktamark frá Urriðakoti. Ekkert annað nafn var á sunnanverðu Setbergsholti.

Selvogsgatan liggur áfram suður frá Svínholti að Setbergshlíð sunnan Setbergsholts, ýmist við hlíðina eða út á hrauninu,  þar til kemur að Háanefi innst á hlíðinni, og héðan liggur gatan í selin. Þessi staður, Setbergssel,  er  reyndar einnig kallaður Kethellir, Kjöthellir og Selhellir.

Fjárhúsholt

Fjárhúsholt.

Landamerkjalínan liggur í Markavörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er nefndur hellir. Honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Kethellirinn liggur  örlítið hærra. Hér er líka að finna seljarústir; gerði og stekk. Meira er hér um rústir.

Kershellir  er jarðfall, átta metrar að ummáli, nær hringlaga. Hann er stór og rúmgóður, hátt undir loft. Austur og upp úr honum er afhellir, nefnist hann Hvatshellir.

Auðveldast er að nálgast merkið frá bílastæði við enda Klukkubergs.

10. Ásholt

Ás

Lambhúshóll.

Neðan við Ás voru Börð og Ásmelar, nú gróin tún. Þau lágu austan og ofan frá Ásholti (þar sem nú er leikskólinn Stekkjarás), en ofar og norðar voru fyrrum garðlönd Hafnfirðinga (nú Áslandshverfi). Ásvegur lá frá Norðurtröðum Áss norður um Ásleiti og yfir á Háaleiti, síðan áfram norður að Ófriðarstaðatúngarði.

Suðurtraðir lágu um Suðurtraðarhlið áleiðis að Hádegisskarði. Við þær var lambúsið undir Lambhúshól, jökulsorfnu bergstáli.

Ás

Ás – plógur neðan við gamla bæjarstæðið.

Vestur á melunum var hringlaga gerði nefnt Kringla. Vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur.  Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið  austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.

11. Grísanesháls

Grísanes

Grísanes.

Ásflatir voru þar sem nú er byggðin í Hamranesi sunnan Skarðshlíðahverfis. Flatirnar voru einnig nefndar Hellisdalur og Dalurinn. Í honum var Grísanesfjárskjól, sem nú hefur verið eyðilagt sökum kæruleysis. Fram í hann rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum. Þær liggja norðan við Bláberjahrygg, millum Ásfjalls og Vatnshlíðar. Stígur liggur um Ásflatir (Dalinn) vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja. Landamerkjalínan liggur norður af Grísaneshálsi norður yfir Ástjörn, upp fyrir vestan Stekk í Fuglstapaþúfu syðri. Grísanesstígur liggur niður af hálsinum heim að suðurtraðarhliði Áss. Þaðan liggur hann á móti Skarðsstígurinn upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxlinni vestari. Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð, Skarðið. Vestan undir Grísanesi er tóftir fjárhúss frá Hvaleyri og rétt norðan hans er gömul rétt frá Ási. Á hálsinum eru einnig stríðsminjar, s.s. fjögur hlaðin skotbyrgi.

12. Bleiksteinsháls / Vatnshlíðarhnúkur

Bleiksteinsháls

Bleiksteinsháls.

Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: “Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinsháls eða Bleiksteinaháls. Á honum er landamerkjavarða við tvo steina ljósa að lit, sem heita Bliksteinar (Bleiksteinar). Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.” Nefnd markavarða hefur nýlega verið eyðilögð vegna framkvæmda.

Bleiksteinsháls

Bleiksteinsháls.

Ef hins vegar er skoðuð örnefnalýsing fyrir Hvaleyri segir um þetta: “”Línan móti Ási er á þessa leið: Úr Fuglstapaþúfum beina línu rétt fyrir sunnan Ásstekk í þúfu fyrir vestan skarð, sem er austast á Grísanesi, þaðan í Bleiksstein (svo) á Bleikisteinshálsi norðanverðum, þaðan um Hvaleyrarselshöfða (Selhöfða), svo um Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús norðvestan Kaldársels. Þetta er norðausturhlið landsins, sú sem veit að Ási.”

13. Vatnshlíð / Hákon Bjarnason

Vatnshlíð - Rat

Vatnshlíð – Ratleikur.

Vorið 1956 fékk Hákon Bjarnason skógræktarstjóri nokkuð stóra landspildu afhenta í Vatnshlíð. Hann hófst von bráðar handa við að brjóta landið undir ræktun ásamt fjölskyldu sinni og vinum. Nokkrum árum seinna reisti hann sumarhús fyrir fjölskylduna á þessum reit og stendur það hús enn.

Hákon var merkur frumkvöðull og þegar hann hafði undirbúið ræktun í Vatnshlíð töldu félagar í Skógræktarfélaginu að rétt væri að hefjast handa við samskonar landbótarvinnu suðvestur af Beitarhúsahálsi. Sumarið 1957 var 32 hektara landspilda girt og hófst gróðursetning vorið 1958 í nánast örfoka hlíðinni. Rofabarðstorfur voru stungnar niður, áburður borinn á börðin og grasfræi sáð þar sem þurfa þótti. Með mikilli elju, þrautsegju og óbilandi trú á að hægt væri að græða landið tókst að breyta leirkenndum moldarflögum í gróskumikið gróðurlendi á löngum tíma.

14. Húshöfði / Værðarlundur

Húshöfði

Húshöfði – Værðarlundur.

Lionsklúbburinn Ásbjörn í Hafnarfirði lét útbúa reitinn og var verkið fjármagnað af Minningarsjóði Gísla S. Geirssonar, sem var félagi í klúbbnum og lést langt um aldur fram. Klúbburinn kostaði gerð bílastæðis, lagningu göngustígs upp á Húshöfðann, gerð áningarstaðar á höfðanum, kaup á bekkjum og fleira. Værðar-bílastæðið er við Kaldárselsveg ögn lengra til suðurs en aðkeyrslan  að gróðrastöðinni Þöll.

15. Selhöfði / Seldalur

Selhöfði

Selhöfði – stekkur.

Seldalur er suðvestur af Hvaleyrarvatni og umlukinn hálsum og höfðum. Selhöfði er norðan við dalinn og Stórhöfði suðvestan hans. Þar á milli er annarsvegar Seldalsháls og hins vegar ónefndur háls sem tengir saman Stórhöfða og Langholt.

Dalurinn var mjög illa farinn þegar Skógræktarfélagið tók hann til ræktunar árið 1990. Uppgræðsla dalsins var hluti af átaki Landgræðsluskóga sem hleypt var af stokkunum í tilefni af 60 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands þetta sama ár. Seldalur leit ekkert sérstaklega vel út þegar ræktunarstarfið hófst.

Seldalur

Seldalur – stekkur.

Á vetrum safnaðist vatn í dalbotninn og leirkenndur jarðvegurinn var mjög rokgjarn á sumrin í mestu þurrkum. Meðlimir Skotveiðifélags Hafnarfjarðar höfðu verið með aðstöðu til skotæfinga í dalnum um frá 1968 til 1988 og þar var mikið magn af brotnum leirdúfum, höglum og örðu sem minnti á veru félagsmanna þar. Nú hefur dalbotninn verið græddur upp. Sunnan í Selhöfða eru leifar af stekk á grónum bala, sem bendir til að Seldalurinn hafi verið nýttur fyrr á árum.

16. Höfðarnir

Miðhöfði

Miðhöfðavarða.

Höfðarnir ofan Hvaleyrarvatns heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði. Einn höfði til viðbótar var tilgreindur í gömlum skjölum og nefndur Þormóðshöfði. Hann heitir í dag einu nafni Langholt enda frekar um holt eða ás að ræða en eiginlegan höfða.

Nokkrir vegslóðar voru lagðir um Höfðana, landið reitað niður og deilt út til einstaklinga, fjölskyldna, félaga og fyrirtækja sem tóku land í fóstur árið 1980. Víða hafa vaxið upp fallegir trjálundir og gróðurinn sækir sífellt í sig veðrið þó sums staðar sé trjávöxturinn frekar stutt á veg kominn.

Miðhöfði

Miðhöfði og Kjóadalur.

Landsvæðin sem tekin voru í fóstur hafa notið landbótanna í ríkum mæli og hafa holtin skrýðst hægt en örugglega margvíslegum gróðri. Þar sem áður voru moldarflög og viðvarandi uppblástur er nánast órofin gróðurþekja.

Stikaður, þjappaður, göngustígur liggur að vörðunni á Miðhöfða, bæði frá Fremstahöfða og Skátalundarvegi.

17. Sléttuhlíð

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð.

Í Hamri 1951 segir: „Byggðin í Sléttuhlíð 25 ára“: „Í upphafi fóru tveir bjartsýnir ungir menn upp í svokallaða Sléttuhlíð, sem er um klukkutíma gang frá Hafnarfirði. Þessir ungu menn voru Jón Gestur Vigfússon, verzlunarmaður og Magnús Böðvarsson, bakari. Vildu þeir leita til fjallanna með fjölskyldur sínar til þess að geta látið þær njóta útivistar og hressandi fjallalofts. Þeir fengu leyfi þáverandi forráðamanna bæjarins, til að byggja sumarskála í Sléttuhlíð, en þó með því skilyrði að ekki mætti girða, eða gera neitt fyrir þann blett sem þeim var úthlutaður.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð og nágrenni. Hvítu línurnar sýna nálæg bílastæði við merki 17.

Fjáreigendur risu nú heldur betur upp á móti þessu og fannst víst þeirra kostir þrengdir til muna. En 12. júlí 1926, fluttu þeir Jón og Magnús þó með fjölskyldur sínar í nýjan skála, sem þeir höfðu byggt sér og nefndu hann Sléttuhlíð.

Undu þessar fjölskyldur kyrrðinni og fjallafegurðinni vel, þó margir væru örðugleikarnir í fyrstu, slæmur vegur, þar sem vegur var, en sums staðar fjárslóðir eingöngu. Vatnið þurfti að sækja að rennustokksendanum, sem var löng og erfið leið.

Jón Gestur og fjölskylda hans gerðu lóð sína að einhverjum fallegasta bletti í nágrenni Hafnarfjarðar, með ötulli árvekni og framúrskarandi áhuga á ræktun hlíðarinnar.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – varða suðaustan merkisins.

Hafa þau hlynnt vel að þeim gróðri, sem fyrir var og plantað út ógrynni af plöntum af margs konar tegundum og er yndislegt að vera þarna uppfrá á fögrum sumardegi. En Jón hefur ekki verið einn í þessu starfi, hann á ágætis konu, frú Sesselju Magnúsdóttur, sem er ein af hinum kunnu Skuldarsystkinum hér í bæ. Hafa þau hjón lagt sinn stóra skerf, þjóðinni til handa í ýmsu fleiru en skógræktinni.“

Nú eru í Sléttuhlíðinni fjöldi bústaða þar sem fólk unir hag sínum vel – líkt og frumkvölarnir.

18. Klifsholt

Klifsholt

Varða á Klifsholti.

Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum. Sumarið 1945 fékk Jón Magnússon í Skuld úthlutað land við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir…“.

Smalaskáli

Listaverk við Smalaskála undir Klifsholti.

Í MBL 1986 segir að „skilyrði til skógræktar væru óvíða erfíðari en í nágrenni Hafnarfjarðar og Garðabæjar þar sem skiptust á blásnir melar og hrjóstug hraun. Mikið starf biði því ræktunarmannanna en til marks um það hvað hægt væri að gera væri Smalaskáli Jóns í holtinu fyrir ofan Sléttuhlíð. Upp af örfoka landi væri þar risinn gróskumikill skógur, sem sýndi hvaða framtíð gæti beðið holtanna í kring. Jón minntist á áníðsluna, sem landið hefði  af illri nauðsyn verið beitt um aldaraðir, hvernig skógurinn hefði verið höggvinn til kolagerðar og beittur miskunnarlaust uns svo var komið, að bældar kjarrleifar voru einar eftir á stöku stað. Sjálfur hafi honum hefði ávallt fundist sem honum bæri skylda til að reyna að skila landinu betra í hendur komandi kynslóða.

Auðvelt er að ganga upp að Klifholtsvörðunni eftir stikuðum stíg frá Rotary-lundinum vestan holtsins.

19. Undirhlíðar /Sandfell

Undirhlíðar

Undirhlíðar – varða á Sandfelli. Kaldársel fjær.

Undirhlíðar eru bólstrabergshæðir sem liggja frá Kaldárbotnum í norðaustri að Vatnsskarði í suðvestri og spanna um 7 km. Beggja vegna eru hraun frá sögulegum tíma, ásamt eldri hraunum. Undirhlíðaleið lá með norðanverðum hlíðarfætinu en sunnan við Undirhlíðar var Dalaleið. Hvorutveggja voru fornar þjóðleiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.

Undirhlíðar tilheyrðu Garðakirkju á Álftanesi frá alda öðli, en Hafnarfjarðarbær keypti hluta kirkjulandsins 1912.

Undirhlíðar

Í Undirhlíðum.

Undirhlíðar voru vaxnar kjarri og kröftugum fóðurgrösum og töldust helstu bithagar búpenings Garðaklerka og leiguliða þeirra. Selfarir lögðust af í Kaldárseli nyrst norðan hlíðanna um 1866 þegar Þorsteinn Þorsteinsson reyndi þar fasta búsetu, sem lánaðist illa. Landgæðum hrakaði í kjölfar langvarandi harðinda á seinni hluta 19. aldar sem stóðu fram undir annan áratug 20. aldar með tilheyrandi landrofi, uppblæstri og gróðureyðingu. Við þetta ástand bættist ríkjandi eldiviðarskortur Hafnfirðinga þegar kol bárust ekki til landsins vegna stríðsátakanna í Evrópu 1914-18.

Austan Kaldárbotna eru Kaldárhnúkar og austan þeirra Sandfell, austasta hæðin á Undirhlíðum.

20. Undirhlíðar / Skólalundur

Undirhlíðar

Undirhlíðar ofan Kýrsgils.

Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar.

Ingvarslundur

Minnisvarði í Ingvarslundi.

Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum, en meðal annarra tegunda sem dafna ágætlega má nefna sitkabastarð, rauðgreni, blágreni, stafafuru, fjallafuru, bergfuru og fjallaþin, auk birki- og víðikjarrs. Árið 1961 bættist Kúadalur við ræktunarsvæðið. Drengir í Vinnuskólanum í Krýsuvík voru einnig duglegir að planta trjám í Undirhlíðum á fyrstu árum sjöunda áratugs síðustu aldar.

Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.“

Hafa ber í huga að gönguleiðin um „Kúadal“ er ranglega merkt á kortum. Dalurinn gengur inn í og upp úr næstu kvos fyrir sunnan. Merkið er þar norðan við efst á holti þegar upp er komið.

21. Leirdalshöfði

Leirdalshöfði

Leirdalshöfði.

Ofan Undirhlíða er Breiðdalur og Breiðdalshnúkur, Kjóadalirnir vestari og eystri og Slysadalir (Leirdalir) milli Undirhlíða og Leirdalshöfða. Handan höfðans myndast tjarnir á veturnar sem nefnast Leirdalshöfðatjarnir. Þegar horft er til austurs af hnúknum sjást Bollarnir eða Grindaskarðahnúkar ásamt Þríhnúkum og Kristjánsdalahorni, og í fjarska bera Vífilsfell og Hengill við himinn og í góðu skyggni sjást Skálafell, Botnsúlur og fleiri fjöll.

Leirdalshöfði

Leirdalshöfði.

Á láglendi er þarna fjöldi hrauna frá ýmsum tímum, t.d. Tvíbollahraun, Skúlatúnshraun, Þríbollahraun, Rjúpnadyngjuhraun og Húsfellsbruni.

Í suðri er Fagradalur. Í dalnum er óskráðar seltóftir, væntanlega frá Krýsuvíkurbæjunum. Dalirnir norðan höfðans nefnast Leirdalur (Slysadalur) og Breiðdalur vestast.

22. Undirhlíðar / Móskarðshnúkar / Háuhnúkar

Háuhnúkar

Móskarðshnúkar (Háuhnúkar).

Móskarðshnúkar (Háuhnúkar) nefnast móbergshæðir á Undirhlíðum ofan við Stóra-Skógarhvamm með fallega mótaðri skál sem snýr opi mót norðri. Það er vel þess virði að ganga upp að hnúkunum, t.d. á hlíðunum frá Bláfjallavegi ofan Óbrinnishóla, og skoða þessa náttúrusmíð sem lítur út eins tröll hafi útbúið þar hásæti sitt. Þegar horft er af hæstu hnúkum blasa Undirhlíðar við til beggja handa. Í norðurátt má greina Kaldársel, Gjárnar, Klifsholt, Vífilsstaðahlíð, Móskarðshnúka, Esjuna, Skarðsheiði, Akrafjall og fleiri fjöll.

Um er að ræða mótun landsins, allt frá því um a.m.k. ellefu þúsund árum, þegar eldgos voru tíð undir jökli á síðasta ísaldarskeiði.

23. Hafurbjarnarholt / Fornuselshæð

Hafurbjarnarholt heitir hæð milli Straumssels og Fornasels í Almenningi. Í örnefnalýsingu svæðisins segir m.a.:

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarh0lt framundan.

„Fyrir neðan og norðan Stórastein (kennileiti við Hrauntungustíg) eru Fornasel og Gjásel, þar er líka Kolbeinshæð. Hjá Gjáseli er Gjáselsskyggni, í norður frá honum er Hafurbjarnarholt, þá Markhóll, Norðastihöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði. Fyrir sunnan þessa hóla er mikið af nafnlausum hraunstrýtum, sem ná upp að mörkum milli Hraunabæja og Krýsuvíkur. Litlaholt liggur á milli Straumssels og Hafurbjarnarholts. Á holtiu er steyptur landmælingastólpi. Neðan hans er landamerkjavarða Straums og Þorbjarnastaða, Hafurbjarnarholtsvarða.  Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – landamerkjavarða.

Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel [Gjásel], sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“

Gísli Sigurðsson segir, að Fornuselshæðir  hafi verið nefndar Lýritti. Hafur-Björn hefur jafnan verið kenndur við Grindavík, einn sona Molda-Gnúps, landnámsmanns. Telja verður hæpið að nefndur Björn hafi verið heimakominn í holtinu því at’arna. Líklegra verður að telja að holtið hafi dregið nafn sitt af Þorbirni á Þorbjarnarstöðum, hafi heitið „Þorbjarnarholt“, en örnefnið breyst einhverra hluta vegna. A.m.k. er landamerkjavarða Þorbjarnastaða þarna enn efst á holtinu, undir nefndum steinteyptum landmælingastöpli.

24. Laufhöfði / Straumselshöfðar

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði segir: „Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með  Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna. Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið. Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar.“

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Efst á Laufhöfða er Laufhöfðavarða. Hún er skammt norðan við Fornaselsstíg er lá upp í Gjásel og fyrrum alla leið upp í Fornasel. Varðan sú arna virðist fyrst og fremst vísa á Gránuskúta (Gránuhelli) í Litlaholt skammt sunnar.

25. Sölvhóll

Frá Þorbjarnarstaðabænum lá Réttarstígur til norðurs út í Réttarhliðið. Vestan við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð.

Þorbjarnastaðir

Sölvhóll – Þorbjarnarstaðarétt.

Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búist var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti. Vestar kom Háaklöpp, vestan við sprunguna, sem þarna er í klettunum. Þar sunnar komu Vonduhólar, klappir margsprungnar, sem lágu að nokkru inn í túnið.

26. Smalaskálahæðir

Smalaskáli

Smalaskálahæð – smalaskáli.

Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Ofan við Jakobsvörðu, upp undir Keflavíkurvegi (gamla), neðan Smalaskála, er Smalaskálahellir. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel. Niður af Goltrarhól er Sigurðarhóll, og austur af honum er svo hóll, sem heitir Spói.

Ofan við gamla [Suðurnesja]veginn er hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker, Smalaskálaker. Í því var listaverkið „Slunkaríki“. Smalaskálahæðir heita hæðirnar umleikis.“

Smalaskáli

Smalaskáli við Smalaskálahæð.

Í annarri örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir að Smalaskálaskjól sé við Fjárborgargötuna, neðan við þjóðveginn. Hér er átt við gamla malarþjóðveginn, sem notaður var allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Fjárborgargatan frá Óttarsstöðum lá til suðausturs upp að Fjárborginni (Óttarsstaðafjárborg/Kristrúnarborg) vestan við Smalaskálahæðir.

Smalaskálinn fyrrnefndi er skammt ofar, skammt ofan við gamla veginn. Annar grjóthlaðinn aflangur smalaskáli er utan í hraunhól skammt vestar. Hann sést vel frá veginum.

27. Sigurðarhæð

Sigurðarhellir

Sigurðarhellir.

Vestur götunnar að Óttarsstöðum á vinstri hönd er Glaumbær, sumarbústaður og seinna barnaheimili (brann fyrir mörgum árum). Rétt þar fyrir norðan var jarðfall slétt í botn og réttarveggir hlaðnir á brúnunum. Rétt þessi var venjulega notuð á haustin, en hún hefur nú verið rifin niður. Talsvert suður af þessu er klapparhæð, er nefnist Sigurðarhæð. Í henni er hellisskúti með fyrirhleðslum, sem Sigurðarhellir heitir. Talið er að einhver Sigurður  hafi haldið þarna til um stund í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við í hellum og skútum um tíma.

Sigurðarvarða

Sigurðarvarða.

Við hellinn eru leifar af hlöðnu gerði. Suðvestar er mikill áfastur klapparrani, hár og aflangur. Á honum er há varða, Sigurðarvarða, við Óttarsstaðaselstíginn. Suðaustan í honum er feikna mikið jarðfall. Í því eru hleðslur miklar, sem nefnast Kúarétt. Þarna mun hafa verið nátthagi  Straumskúnna  –  þrátt fyrir að hvylftin sé vestan við landamerkin milli Straums og Óttarsstaða, þ.e. Óttarsstaðamegin. Ekki var óvanalegt að nágrannar skiptust á nytjum í skiptum t.d. skógarítak, útræði, kolagerð, fjárskjól o.s.frv.

Sjá meira um Ratleik Hafnarfjarðar HÉR.

Sölvhóll

Sölvhóll – merki.

Snældursnúðar

Bjarni F. Einarsson skrifaði tvær greinar um fornleifaskráningu í Sveitarstjórnarmál árið 1996. Sú síðari bar yfirskriftina „Skyldur okkar gagnvart fortíðinni„:

Inngangur

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson. Starfsmaður Þjóðminjasafnsins.

„Í fyrri grein minni um fornleifaskráningu á Íslandi fjallaði ég aðallega um þau lög sem lúta að fornleifaskráningu og öðru sem tengist henni. Ég skilgreindi hugtökin fornleifar (skv. þjóðminjalögum) og fornleifaskráning. Jafnframt fjallaði ég um forsögu fornleifaskráninga og sýndi hvernig þessi mál hafa breyst í tímans rás eins og hugtökin fornleifar og fornleifaskráning. Í þessari grein ætla ég að fjalla um nauðsyn fornleifaskráningar og skyldur okkar gagnvart fortíðinni, enda eru þessi atriði náskyld.
Síðan „Commissionen for Oldsagers Opbevaring“ var og hét í byrjun 19. aldar hefur mikið vatn runnið til sjávar. Þjóðin hefur fengið sjálfstæði, stofnað háskóla og þjóðminjasafn og sett lög um hvað séu fornleifar og hvað ekki. Til að rifja það stuttlega upp þá eru allar minjar eða rústir, sem eldri eru en 100 ára og mannaverk eru á, taldar til fornleifa. Einnig eru staðir tengdir þjóðtrú eða athöfnum manna og jafnvel yfirnáttúrulegra vera, svo sem álfasteinar og stöðlar, taldir til fornleifa skv. þjóðminjalögum.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Fornleifar eru leifar mannlegra athafna og sumar þeirra eru mikilvægar fyrir skilning okkar á allri sögu þjóðarinnar, svo sem þingstaðir, verslunarstaðir, landnámsbýli o.s.frv. Flestar fornleifarnar eru þó mikilvægastar fyrir aukinn skilning okkar á byggðasögu einstakra svæða eða héraða, svo sem fjárhúsarústir, seljarústir o.s.frv. Oft skarast þessi atriði og varasamt getur verið að fylgja þeim í blindni.

Herdísavíkursel

Í Herdísarvíkurseli.

Starfsgreinar sem hvíla á gömlum merg, eins og seljabúskapur, sjósókn, kvikfjárrækt og járnsmíði svo dæmi séu tekin, hvíla á gömlum merg og eiga sér oft á tíðum sínar sérstöku fornleifar sem eru afleiðing þeirra athafna sem greinunum fylgdu. Þessar fornleifar eru okkar sameiginlega eign. Þær geta verið gjallvörp eða rauðablástursminjar eftir járnsmíðar eða járnframleiðslu, varir og naust þar sem sjósókn var o.s.frv. Samantekið eru allar fornleifarnar mikilvægur hluti af búsetulandslaginu okkar og eru mikilvægur hluti af skynjun okkar á því.

Af hverju ekki fyrr?

Bárujárn

Torfbærinn.

Sú staðreynd að við Íslendingar höfum ekki skráð fornleifar okkar fyrr, svo að heitið geti, er býsna athyglisverð. Í þessum efnum erum við ca 100 árum á eftir nágrannaþjóðum okkar mörgum. Eina af ástæðunum hygg ég vera þá staðreynd að rústir þær og minjar sem finnast úti um landið eru svo nátengdar þeim veruleika sem eldri kynslóð landsins ólst upp við og man. Enginn eðlismunur var t.d. á fjárhúsi frá 18. öld og fjárhúsi frá fyrstu áratugum hinnar 20. Bæði voru hluti af hinu íslenska landbúnaðarþjóðfélagi, sem segja má að hafi fyrst liðið undir lok um miðja þessa öld. Þá hóf nútíminn innreið sína og gamli tíminn, sem var tími fátæktar og vesældar fyrir marga, best gleymdur og grafinn og húsakynnin sömuleiðis.

Galtastaðir

Gamall bær.

Eitt sinn átti ég samtal við gamla bóndakonu um mikilvægi þess að varðveita gamlan torfbæ, sem enn stóð á hlaðinu hjá henni. Nú hafði risið nýtt og reisulegt steinhús á bæjarstæðinu og allir fluttir yfir í það. Gömlu konunni var fyrirmunað að skilja þennan áhuga minn á gamla bænum og vamaði mér meira að segja inngöngu þegar ég sýndi tilburði í þá áttina. Hins vegar var ég rneira en velkominn að skoða nýja bæinn og jafnvel þiggja kaffitár og meira til, eins og tíðkast á landsbyggðinni. Gamli bærinn var aðeins minning um kulda og vosbúð, eilífa vinnu og lítil laun og gamla konan vildi alls ekki leyfa mér að eiga nokkra hlutdeild í slíkri minningu.
„Hvað gæti hann haldið um slíka konu?“ hugsaði hún ef til vill.

Hafnarfjörður

Ás – plógur.

Hugarfar þetta, sem kom fram hjá gömlu konunni, hef ég orðið var við víðar. Þessu hugarfari verðum við að allt hugarfar sem er byggt á reynslu. Þá reynslu er hins vegar mikilvægt að varðveita fyrir framtíðina og komandi kynslóðir, enda var hún svo mikilvægur hluti af sögu þessarar þjóðar að ef hún glatast fáum við beinlínis ranga hugmynd um fortíðina. Einnig er mikilvægt að sannfæra fólk um að þessi reynsla þeirra og sá veruleiki sem það bjó við er mikilvægur menningararfur en ekki eitthvað persónulegt sem engum gagnast að muna eða þekkja. Ekki held ég að hugmyndin um fátækt liggi ein að baki hugmyndum gömlu konunnar. Nútíminn með öllum sínum tækninýjungum og breyttu hugarfari almennt gerir það sem gamalt er úrelt og skapar nýjar þarfir sem eru bein afleiðing af nýja tímanum. Í því ljósinu virðist hið gamla oft lítils virði og fólki gjarnt á að tengja það vanefnum.
Við verðum að bera virðingu fyrir fortíð okkar, ekki síst fyrir þá sök að við erum það sem við erum einmitt vegna hennar.

Fornleifar og menningin

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ – fyrirmynd góðs frágangs eftir fornleifauppgröft.

Fornleifar eru efnislegar minningar genginna kynslóða. Sjálfar kynslóðimar hverfa ein af annarri og hugsanir þeirra að mestu leyti með þeim. Fornleifarnar voru hluti af veruleika forfeðranna sem mikilvæg mannvirki, kennileiti eða staðir og þær skiptu þá miklu máli. Gátu þær meira að segja verið þeim lífsnauðsynlegar. Án þessara fornleifa væri sagan harla óáþreifanleg og jafnvel álitamál hvort við værum sjálfstæð þjóð yfirleitt. Er hægt að byggja land og halda uppi menningu án beinna tengsla við söguna?
Íslendingar eru stoltir af sögu sinni. Áþreifanlegar leifar þessarar sögu eru fornleifarnar. Þess vegna eigum við að gera þeim hátt undir höfði, varðveita þær og vernda.

Landamerki

Landamerkjavarða á Fremstahöfða.

Landslagið er mikilvægur hluti af veruleika manneskjunnar og einn þeirra þátta sem skapa hana. Skilgreiningin á því að vera Vestfirðingur er t.d. að hluta til fólgin í því landslagi sem einkennir Vestfirðina og Vestfirðingar kalla heimaslóðir. Í þessu landslagi eru fornleifarnar mikilvægur þáttur með sínum formum og sögnum og þær eru gjarnan úr sömu efnum og landið sjálft. Það er því mikilvægt að standa vörð um fornleifar landsins, vegna þess að þær útskýra að sumu leyti skilgreiningar okkar á sjálfum okkur svo sem það að vera Vestfirðingur, Austfirðingur, Eyjamaður, Skagfirðingur, úr Flóanum eða einfaldlega það að vera Íslendingur.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Á bak við allar fornleifar liggur ákveðin hugmyndafræði og segja má að oftast sé það hin ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins hverju sinni. Hús átti að byggja á ákveðinn hátt, úr ákveðnum efnum og á ákveðnum stöðum. Þessir þættir stýrðust af hugmyndafræðinni og var ekki sjálfgefið að ætíð hafi verið byggt á sem bestan máta, bestu efnin notuð eða besta staðsetningin valin. Inn í myndina kom hefð og hugmyndir sem voru afrakstur aldalangrar aðlögunar og reynslu. Reynslan var sótt í umhverfið og hugarfylgsni mannanna, svo sem trúarlegar hugmyndir og jafnvel hindurvitni ýmiss konar. Allt þetta er falið í fornleifunum.
Eins er dreifing fornleifa í landslaginu ekki afleiðing tilviljana, heldur lágu þar að baki ákveðnar reglur og venjur samfélagsins. Því eru fornleifar einnig vitnisburður um þessa hluti.

Húshöfði

Húshöfði – beitarhús og Jófríðarstaðasel.

Ef við tökum sem dæmi fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeirn beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjaman komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og aðra tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurs konar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið hvers gagnvart öðrum.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól. Eyðilagt vegna vanskráningar.

Þegar skipuleggja á eitthvert svæði eða jarðrask er í vændum vegna húsbygginga, vegagerðar o.s.frv. er nauðsynlegt að viðkomandi aðilar séu meðvitaðir um þær minjar sem kunna að vera á svæðinu. Til að svo megi vera þarf fornleifaskráning að hafa farið fram og niðurstaða þeirrar skráningar verður einnig að vera aðgengileg þeim sem hennar kunna að þurfa við. Án þessarar skráningar er minjavarslan einfaldlega máttlausari en ella í ráðgjöf sinni til einstakra aðila, svo sem skipulagsyfirvalda, framkvæmdaraðila ýmiss konar og jafnvel einkaaðila.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Fyrsta vinnuregla minjavörslunnar í þessum efnum er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Þegar því verður hins vegar ekki við komið er það minjavarslan ein sem ákvarðar hvað skuli gera, eða hversu ítarleg rannsókn þurft að vera eigi slík að fara fram að áliti minjavörslunnar. Þá þarf leyfi fornleifanefndar. Í vissum tilfellum þarf ekki mikla rannsókn eða athugun til að komast að því að viðkomandi fornleifa uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru svo að þær njóti ævinlegrar friðunar þjóðminjalaganna. Annars vegar getur verið að minjarnar séu ekki eitt hundrað ára eða eldri og falla þá ekki undir þjóðminjalögin, eða hins vegar að minjagildið sé það lítið að lítil athugun sé nægjanleg áður en þær verði fjarlægðar. Í einstaka tilfellum getur verið að vettvangsathugun ein nægi, en í öðrum tilfellum þarf að rannsaka fornleifarnar mjög ítarlega og gætu slíkar rannsóknir tekið mörg ár.

Skálafell

Tóft í Skálafelli. Líklega fyrrum skáli Ingólfs.

Að síðustu ber að nefna að í nokkrum tilfellum getur verið um fornleifar að ræða sem minjavarslan getur ekki leyft að raskað verði á nokkurn hátt, enda séu þær svo mikilvægur minnisvarði um sögu þjóðarinnar að jaðri beinlínis við ábyrgðarleysi að hleypa nokkrum í þær nema að mikið liggi við.
Ef fornleifar glatast eru þær horfnar að eilífu. Þær er ekki hægt að laga eða endurgera. Þær eru horfnar veruleikanum og þær eru horfnar vísindunum. Sama má segja um fornleifarannsóknir að vissu marki. Þegar fornleifar eru grafnar eyðileggjast þær og hverfa, en þær hverfa inn í annars konar tilveru og sú tilvera er varðveitt á bókum eða í ritum. Gangi það hins vegar ekki að um þær sé ritað er enginn eðlismunur á beinni eyðileggingu og fornleifauppgreftri, í báðum tilfellum hverfa fornleifarnar að eilífu.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól , enn óskráð.

Þéttbýlissvæði eru mörg hver að vaxa úti um landið og sú þróun mun vonandi halda áfram í náinni framtíð. Ný lönd verða brotin í þessari þróun og þá munu margar fornleifar verða á veginum, sumar jafnvel alveg óþekktar í dag. Þó að svæði kunni að vera skráð einu sinni og jafnvel tvisvar er það aldrei trygging fyrir því að ekkert meira kunni að leynast undir yfirborðinu. Því er mikilvægt að fara nákvæmlega yfir þau svæði sem raska á til að minnka hættuna á óvæntum uppákomum fornleifa eins og framast er unnt. Slíkar uppákomur eru yfirleitt dýrar og tímafrekar.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi – líklega selstaða frá „Húshólmabæjunum“, fyrrum Krýsuvík eftir landnám. Hefur aldrei verið skráð.

Það getur verið þarft að minnast þess að oft finnast skemmtilegustu fornleifarnar við óvæntustu aðstæðurnar. Við getum aldrei gengið út frá því sem vísu að við séum undir allar hugsanlegar fornleifar búin.
Saga okkar er að hluta til skráð í umhverfi okkar, umhverfi sem við höfum skapað smátt og smátt í aldanna rás. Sjálf skilgreinum við okkur sem einstaklinga í gegnum umhverfið og þjóðin sem slík skilgreinir sig út frá þessu umhverfi og það sem þar kann að leynast. Við berum öll ábyrgð á sögu okkar og menningu og þar eru fornleifarnar engin undantekning.“

Heimild:
-Sveitarsjórnarmál, 56. árg. 01.06.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi – upphaf og ástæður – síðari grein; Skyldur okkar gagnvart fortíðinni, Bjarni Einarsson, bls. 112-116.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála – ein af uþ.b. eitt hundrað á Reykjanesskaganum.

Fornleifar

Bjarni F. Einarsson skrifaði tvær greinar um fornleifaskráningu í Sveitarstjórnarmál árið 1996. Sú fyrri bar yfirskriftina „Upphafið og lögin„:

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson – starfsmaður Þjóðminjasafnsins.

„Í Þjóðminjalögum stendur m.a. eftirfarandi: „Þjóðminjasafn lœtur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Skylt er að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess og skal Þjóðminjasafn eiga samvinnu við skipulagsyfirvöld um það. “
Í I. grein laga um mat á umhverfisáhrifum stendur: „Markmið laga þessara er að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvœmdir, sem kunna, vegna staðarvals, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrifá umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur liður í gerð skipidagsáœtlana.“ Í 10. grein sömu laga stendur: „Í mati á umhverfisáhrifum skal tilgreina á viðeigandi hátt áhrif sem framkvœmdir og fyrirhuguð starfsemi kunna að hafa á menn, samfélag og menningu, dýr, plöntur og aðra þœtti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkan þessara þátta. “

Fornleifaskráning

Fornleifaskráning.

Því er ljóst að samkvæmt lögum ber okkur að skrá fornleifar og aðrar greinar þjóðminjalaga sýna að ekki skiptir máli hvort um þekktar eða óþekktar fornleifar er að ræða, allar njóta þær friðunarákvæða þjóðminjalaganna.

Þjóðminjaráð og Þjóðminjasafn Íslands hafa nú ákveðið að hefja undirbúning að fornleifaskráningu á öllu landinu. Fyrsta skrefið er að finna þá aðferð sem hentar og Þjóðminjasafn mælist til að notað verði um landið allt. Næsta skref er að hrinda tilraunaskráningu af stað og reyna kerfið til fulls.
En okkur ber ekki að skrá fornleifar einungis vegna þess að lög kveða á um það, heldur höfum við siðferðislegar, fræðilegar og sögulegar skyldur í þessum efnum. Í þessari grein verður lítillega fjallað um upphaf þessara mála hér á landi og hugtökin fornleifaskráning og fornleifar skilgreind. Í næstu grein mun ég fjalla um þessi mál út frá siðferðislegum, heimspekilegum og fræðilegum sjónarhóli.

Fornleifaskráning

Álfakirkja

Álfakirkja í Almenningi, sem er jafnframt fjárskjól.

Hugtakið fornleifaskráning felur í sér skráningu á fornleifum og er þá átt við svokallaðar fastar fornleifar, svo sem mannvirki, varir, kuml o.s.frv. (ekki lausar fornleifar sem við köllum forngripi. Hugtökin fornleifar og forngripi köllum við fornminjar). Einnig er hægt að tala um fastar fornleifar sem ekki eru mannvirki í orðsins fyllstu merkingu, svo sem uppsprettur, álfasteina og álagabletti, og fornleifar sem eru afleiðing óskyldra athafna, svo sem reiðgötur, vöð og stöðlar.

Bekkjarskúti

Bekkjaskúti, fjárskjól, í Almenningum.

Hugtakið greinir ekki í sundur þekktar fornleifar frá óþekktum, heldur felur það í sér skráningu á öllum fornleifum og til að hún geti gengið eftir þarf að leita skipulega að þeim í landslaginu. Stundum getur jafnvel borgað sig að leita að þeim í heimildum. Til eru skráningar sem ekki fela í sér skráningu allra fornleifa, svo sem skráning á sérstökum tegundum fornleifa, eins og kumlum, þjóðleiðum, álfasteinum o.s.frv. Eins má ímynda sér staðbundnar skráningar á sögulegum minjum, hellum, vörðum, stríðsminjum, minjum tengdum hvalveiðum Norðmanna o.s.frv.

Hernám

Skotbyrgi, stríðsminjar, á Garðaholti.

Slíkar skráningar uppfylla tæplega ákvæði þjóðminjalaga um fornleifaskráningu, hversu góðar eða merkilegar þær kunna að vera.
Við fornleifaskráningu er fylgt aðferðafræði, sem ákveðin er áður en sjálf skráningarvinnan hefst. Má segja að lykilatriði í þeirri vinnu sem nú fer fram varðandi aðferðafræðina sé skipulag og einfaldleiki, hvernig svo sem það verður ákveðið þegar yfir lýkur. Þessi atriði fela í sér að aðferðin verður fljótvirk og ódýr.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól. Eyðilagt vegna vanskráningar.

Ef fornleifaskráin á að gagnast öllum sem hana þurfa að nota, svo sem opinberum framkvæmdaraðilum, einkaaðilum, skipulagsyfirvöldum og áhuga- og fræðimönnum, er mikilvægt að skráð sé samkvæmt sama kerfi hvar sem er á landinu. Þess ber að geta að ekki er til nein galdralausn í þessu sambandi, mikilvægast er að hefjast sem fyrst handa með það kerfi sem við getum sem best búið til miðað við allar forsendur sem við höfum.

Fornleifar

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi. Áþreifanlegar fornleifar.

Fornleifar eru allar þær leifar sem mannaverk eru á og eldri eru en hundrað ára. Þjóðminjalögin orða það á svohljóðandi hátt í grein nr. 16, III. kafla: „Fornleifar teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðhundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru. Að auki njóta staðir sem tengjast þjóðtrú, siðum, venjum og þjóðsagnahefð, eins og hörgar, álfasteinar og uppsprettur, vemdar laganna, enda séu þeir mikilvægur menningararfur rétt eins og mannvirkin.

Grindavík

Álfhóll við Þorbjörn h/f í Grindavík. Efnislegar fornleifar.

Skipta má fornleifum í tvo staði, annars vegar efnislegar fornleifar og hins vegar andlegar eða huglægar fornleifar. Hinar efnislegu fornleifar eru það sem við í daglegu tali köllum rústir eða tóttir. Þær eru áþreifanlegar og greinilega orðnar til af mannavöldum. Hinar andlegu fomleifar eru aftur á móti staðir sem tengjast hugarfari þjóðarinnar, eins og álfasteinar o.fl.

Þórkötlusdys

Þórkötludys í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Slíkir staðir eru oft algerlega án allra beinna verksummerkja mannlegra athafna, þó að vitundin um þá hafi stundum leitt af sér óbein verksummerki, svo sem á álagablettum þar sem gras er aldrei slegið eða þar sem annað afskiptaleysi hefur beinlínis orðið til þess að staðurinn varðveittist óbreyttur og óhreyfður í aldir.
Þegar fram líða stundir bætast sífellt fleiri rústir og önnur mannvirki í hóp fornleifa einfaldlega vegna hundrað ára reglunnar. Að auki mun okkur lærast meir og meir að lesa í landið og jafnvel nýjar tegundir fornleifa skjóta upp kollinum. Þannig lýkur í raun aldrei fornleifaskráningu, nokkuð sem við verðum að sætta okkur við, verra er ef hún byrjar aldrei!

Upphafið

Finnur magnússon

Finnur Magnússon (1781-1847).

Hugmyndir um að skrá allar íslenskar fornleifar eiga sér alllanga sögu og má rekja hana tæp 200 ár aftur í tímann. Þá voru reyndar fornleifar skilgreindar á allt annan hátt en gert er nú, eins og mun koma fram hér á eftir.
Árið 1807 var komið á fót í Danmörku nefnd er kallaðist „Commissionen for Oldsagers Opbevaring“ eða á íslensku „Nefndin til verndunar fornleifa“. Hlutverk nefndarinnar var að afla upplýsinga um fornleifar í öllu ríkinu, þ.e.a.s. hinu danska konungsríki, svo hægt væri að marka einhverja stefnu um varðveislu þeirra og verndun. Spurningalisti frá nefndinni var sendur út þegar árið eftir til allra sóknarpresta sem náðist til í ríkinu. Til Íslands bárust hins vegar listarnir ekki að ráði m.a. vegna styrjalda í álfunni.
Tæpum tíu árum síðar, eða árið 1816, vann prófessor Finnur Magnússon að eigin skráningu á íslenskum fornleifum og ýmsurn sögnum og virðist hann hafa gert þetta til að koma upplýsingunum á framfæri við „Commissionen“. Stuttu síðar var Finnur gerður að nefndarmanni og var hlutverk hans að sjá um tengsl „Commissionen“ við Ísland. Finnur þýddi og staðfærði spurningalista nefndarinnar og sá til þess að þeir yrðu sendir til Íslands strax um vorið 1817.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1877-1961).

Þessi skrá Finns var höfð til hliðsjónar þegar fyrsta friðlýsing á fornleifum hér á landi átti sér stað þann 19. apríl 1817, en þá voru 10 fornleifar friðaðar eða öllu heldur friðlýstar hér á landi.
Fornleifar voru ekki friðlýstar á ný fyrr en 90 árum síðar, eða með tilkomu nýrra fornminjalaga árið 1907. Á árunum 1926-1930 var svo gert gríðarlegt átak í friðlýsingarmálum og hafa aldrei jafn margar fornleifar verið friðlýstar hér á landi og einmitt þá, eða um 84% allra friðlýstra fomleifa í dag. Aðalhvatamaður að þeim friðlýsingum var þáverandi þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, en hann mun þó ekki hafa farið á staðina sjálfur, heldur notað eldri gögn og ritaðar heimildir við sína friðlýsingu.
Aldrei fór eiginleg fomleifaskráning fram vegna þessara friðlýsinga. Slík vinna hófst ekki fyrr en um 1980, u.þ.b. 160 árum eftir að „Commissionen “ hóf starf sitt hér á landi. Sú skráning var ekki yfirgripsmikil og voru margir að skrá næstu árin, hver með sína aðferð og sínar lausnir á þeim vandamálum sem upp komu við skráninguna.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi. Talinn með elstu fornleifum landsins.

Árið 1990 var í fyrsta sinni birt á prenti skrá yfir friðlýstar fornleifar skv. nýjum þjóðminjalögum nr. 88/1989. Þar kemur í ljós að fjölda friðlýstra fornleifa er mjög misskipt eftir sýslurn. Þannig eru aðeins 3 fornleifar, eða staðir með fornleifum, friðlýstar í Gullbringusýslu. Ekki er hægt að halda því fram að úrval friðlýstra fornleifa sé dæmigert fyrir fornleifar landsins, þvert á móti. Varla liggur mismunurinn í stærð sýslnanna eða þýðingu fomleifanna sjálfra. Aðrir þættir, svo sem áhugi einstakra fræðimanna á vissum stöðum og vissum fornleifum ásamt fjölda fornra heimilda um viðkomandi svæði og fornleifar, eru trúlega mikilvægir í þessu sambandi. Þetta mun breytast í náinni framtíð, enda mun væntanleg fomleifaskráning á Íslandi ekki taka mið af slíkum þáttum.

„Commissionen og Reykjavík“

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

Þegar „Commissionen“ hóf starfsemi sína í byrjun 19. aldar töldust fornleifar vera eitthvað annað en við teljum í dag. Töldust t.d. venjulegar rústir af beitarhúsum og öðrum rústum varla til fornleifa.
Í landi Reykjavíkur eru í dag ca 160 staðir með fornleifum á fornleifaskrá. Fjöldi einstakra fornleifa er u.þ.b. 300 í svari til „Commissionen“ frá Árna Helgasyni, dómkirkjupresti í Reykjavík um tíma, segir að í sókninni hafi aðeins verið þrennar fornleifar og allt voru það lausir gripir frá kaþólskum tíma. Þeir voru biskupakápa, skímarfontur og kaleikur einn vel gylltur. Aðrar fornleifar þekkti Árni prestur ekki í Reykjavík (Vík) og þótti honum það allundarlegt í sjálfu landnámi Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns Íslands að margra áliti.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Í fornleifaskrá prófessors Finns Magnússonar frá 1816 er einnig getið um þrennar fornleifar (nemar þó) í landi Reykjavíkur (Víkur). Þær voru biskupakápan og skírnarfonturinn áðurnefndu og fallbyssur tvær, sem verið höfðu á Bessastöðum í fyrstu, en var síðar komið fyrir í virkinu Fort Phelp af sjálfum Jörundi hundadagakonungi. Sagði Finnur að til fallbyssnanna hefði sést í flæðarmálinu á fjöru, en þar munu þær hafa lent að lokum eins og aðrar þekktar fallbyssur hér við land (á Grundarfirði og Flatey!). Aðrar fornleifar þekkti Finnur ekki í landi Reykjavíkur.
Það verður að teljast nokkuð athyglisvert að hvorugum hafi borist til eyrna nein munnmæli um neitt það sem þeim þótti ástæða til að telja upp í bréfum eða skrám sínum. Hvergi er t.d. minnst á meintan haug Ingólfs Arnarsonar þar sem sumir töldu hann vera við Breiðagerðisskólann, eða hof” hans sem sumir töldu vera þar skammt frá. Munnmæli um þessa staði voru talsvert áberandi á fjórða áratug þessarar aldar og var hinn meinti haugur Ingólfs til og með rannsakaður lítillega og um hann sagt að hann væri athyglisverður og nánari rannsóknar þörf. Nánari rannsókn fór þó aldrei fram.

Í næstu grein mun ég fjalla um hina siðferðislegu og fræðilegu skyldu okkar að standa vörð um fornleifar landsins. Það er okkur beinlínis lífsnauðsynlegt sem þjóð á meðal þjóða og er jafnvel þjóðarvitundin sjálf að veði.“

Heimild:
-Sveitarsjórnarmál, 56. árg. 01.03.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi – upphaf og ástæður – fyrri grein; Upphafið og lögin, Bjarni Einarsson, bls. 34-38.

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Stöðvarfirði.

Krýsuvík

Orkurannsóknir á vegum HS Orku eru hafnar á ný í Krýsuvík. Stór borpallur hefur verið gerður á svæði undir Hettu þar sem áður voru fornar tóftir námuvinnslunnar í Baðsofunámunum.

Þrjú skilti hafa verið sett upp við afleggjarann að Starfsmannahúsinu frá Krýsuvíkurvegi. Á þeim má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Í leit að orku

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Hér í Krýsuvík fer nú fram rannsóknarborun til að kanna möguleika á að nýta jarðvarma til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni á Krýsuvíkursvæðinu. Jarðfræðilegar rannsóknir benda til þess að Sveifluháls g Austurengjar geymi öfluga háhitaauðlind sem hægt verður að nýta til orkuvinnslu og hitaveitu til framtíður

Stefnuborun

Krýsuvík

Krýsuvík.

Við munum kanna svæðið niður á allt 2500 metra dýpi. Til að auka líkur á að orkuríkt jarðhitavatn finnist er stefnuborað undir hálsinn, þvert á sprungur sem oft geyma heitan jarðhitavökva.

Jarðvarmaver

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Frá árinu 1941 hafa farið fram umfangsmiklar jarðhitarannsóknir á Krýsuvíkursvæðinu með jarðborunum niður á allt að 260 metra. Hitastig í borholunum hefur mælst á bilinu 50-120°C. Nú er unnið að mun dýpri borunum til að meta nýtingarmöguleika svæðisins og grundvöllinn fyrir nýtt jarðvarmaver – það þriðja á vegum HS Orku.

Lífsggæði

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Verði nýtt orkuver að veruleika verður hér framleitt bæði rafmagn og heitt vatn. Markmiðið er að auka afhendingaröryggi á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu og mæta vaxandi raforkuþörf í landinu. Í framkvæmdunum verður rík áhersla lögð á að mannvirki falli vel að fegurð og sérstöðu svæðisins.

Auðlindagarður

Krýsuvík

Krýsuvík.

Hafnarfjarðarbær og HS Orka vilja vinna að hugmyndum um auðlindagarð með áherslu á útivist, ferðaþjónustu og vistvæna atvinnustarfsemi. Sjálfbær orkuvinnsla skapar óvenjulegt aðdráttarafl fyrir fyrirtæki og ferðalanga sem vilja njóta þessa einstaka svæðis.

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.