Tag Archive for: Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Eftirfarandi um Hafnarfjörð er úr „Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983„, eftir Ásgeir Guðmundsson.

Hamarinn

Hamarinn.

„Allir eru velkomnir til Hafnarfjarðar, í landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frænda Ingólfs Arnarssonar, fyrsta norræna landnámsmannsins hér á landi. Í dag nær lögsagnarumdæmi Hafnarfjaðar yfir þéttbýlið við fjörðinn og 25 km suður fyrir það að háhita- og hverasvæðinu í Krísuvík og vestur fyrir Straumsvík. Saga bæjarins er samofin sögu verslunar á Íslandi. Á 15. öld kepptu Englendingar og Þjóðverjar um ítök í fiskveiðum og verslun í bænum og um tíma var bærinn kallaður þýskur „Hansabær“.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón við Hafnarfjörð.

Hér settist Bjarni Síverstsen, sem við köllum faðir bæjarins, að og hóf útgerð og verslun um síðustu aldamót. Í dag er sjávarútvegur, iðnaður og verslun auk vaxandi ferðaþjónustu helstu atvinnuvegir Hafnfirðinga.
Hafnarfjarðar er meðal annars getið við upphaf Íslandsbyggðar. Hingað kom t.d. Hrafna-Flóki á leið sinni að vestan á leið sinni aftur til Noregs: Þá rak bát með fóstbróður hans, Herjólfi, frá skipi hans og rak inn í Herjólfshöfn þar sem nú er Hvaleyrarlónið. Þar fundu þeir dauðan hval og gott skipalægi. Síðari saga segir frá Kólumbusi þeim er sagður er hafa fundið Ameríku. Talið er að hann hafi komið við í Hafnarfirði árið 1492 á einni ferða sinna yfir Atlantshafið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1772.

Í landi Hafnfjarðar eru margar náttúruperlur, hér má sjá margbreytileika íslenskrar náttúru, hraunið, hitann, vötnin og tjarnirnar auk margs konar fugla- og plöntulíf og sumt fágætt.
Við sem búum í Hafnarfirði erum stolt af bænum okkar hvort heldur vísað er til hans sem menningarbæjarins, íþrótta- og útivistarbæjarins eða Vina-, Álfa-, Brandara- eða Víkingabæjarins. Íbúar bæjarins eru á 18 þúsund. Ljóst er að Hafnarfjörður býður gestum sínum upp á að njóta margvíslegrar dægrardvalar og fjölbreyttrar þjónustu. Í nágrenni bæjarins eru fjölbreytt útivistarsvæði með gönguleiðum, hellum, seljum, fjárborgum, fjöllum, hlíðum og dölum – sem sagt; eitthvað fyrir alla“.

Heimildir:
Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson. – Hafnarfirði : Skuggsjá, 1983-1984.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður nútímans.

Óbrinnishólar

Gengið var um Óbrinnishólaker, sem er mosavaxin hrauntjörn, að Óbrinnishólahelli. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en opið inn að öðru leyti. Rásin er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en annars er gólfið nokkuð slétt.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Hellirinn er ágætt athvarf, en hann er fornt fjárskjól sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman. Syðri Óbrinnishóllinn er nú óðum að hverfa vegna. Greinilegt er að gígbarmurinn hefur verið all tilkomumikill, ef marka má það litla, sem eftir er af honum að sunnanverðu. Nú er verið að dunda við að rífa niður það litla sem eftir er af honum. Þarna leynast ýmsar forvitnilegar hraunmyndanir, sem auðvelt er að láta ímyndunaraflið skapa; tröll, álfa, huldufólk eða annað sem hugurinn kýs.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar – „milli mjórra dranga“.

Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krýsuvíkureldstöðvakerfinu.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnis­hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.
Gengið var yfir slétt helluhraunið á Bruna (Óbrinnisbruna) og yfir moldarþakta tjörnina, sem jafnan er þarna, en er nú alveg þurr og það í byrjun sumars. Stígur er þarna norður hraunið í átt að Stórhöfða, en hann hefur verið skemmdur á kafla vegna malar- og hrauntöku.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Haldið var yfir hrauntröðsbrúna vestan Krýsuvíkurvegar og niður í Brunntorfur. Skoðað var fjárskjól Þorbjarnarfólksins efst í torfunum og síðan gengið niður með grónum hraunkanti að Þorbjarnarstaðarfjárborginni. Borgin er mjög falleg og heilleg. Ef horft væri niður á hana er hún ekki ósvipuð merki tiltekinnar sjónvarpsstöðvar. Borgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Jónssonar frá Haukadal (Álfsstöðum)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Líklega hefur staðið til að topphlaða borgina ef marka má miðjugarðinn, lögun hleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana. Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesi, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður þaðan.
Gangan tók 1 og ½ klst. Frábært veður.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Fjárskjólshraunshellir

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið. Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring..

Krýsuvík

Krýsuvík – Augun.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna. Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestari-læk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu. Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt. Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.
Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.
Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var fyrst stíflaður á nokkrum stöðum í tengslum við brennisteinsnámið og síðar vegna borna og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.
Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.
Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði.

Arngrímshellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir) í Krýsuvíkurhrauni

Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur. Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni.

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum.

Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Litlahraun

Litlahraun – fjárhústóft.

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg. Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – tóft.

Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt. Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja. Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb. Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.
Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.
Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

Austurengjahver

Við Austurengjahver.

Straumssel

Gengið var eftir vestari selsgötunni að Straumsseli.

Almenningur

Neðri-Straumsselshellar.

Komið var við í nátthaganum vestan stígsins, en þar eru miklar hleðslur á milli hraunhóla. Þegar komið var upp í selið voru skoðaðir garðar umhverfis stóru tóttirnar, sem virðast vera frá gamla bænum er brann seint á 19. öld. Brunnurinn var hálffullur af vatni, en hann er í holu við norðurhorn tóttanna. Augljóst er að botn holunnar hefur verið þétt með torfi, því í öðrum nálægum hraungjótum drýpur vatn niður í hraunið. Skoðuð var tótt suðaustan við megintóttirnar. Líklegt er að þar sé gamla selstóttin. Gamall brunnur er vestan við tóttirnar og hleðslur við hann.

Straumssel

Straumssel – selið.

Að þessari tótt kemur eystri selsstígurinn frá Gjáselsstíg. Frá henni liggur einnig stígur upp í Neðri-Straumsselshella og Efri-Straumsselhella. Báðir þessir hellar voru skoðaðir enn á ný. Gerðið umhverfis efri hellinn hefur verið endurhlaðið og breytt frá upphaflegri gerð. Líklega hefur aðstaðan þar verið notuð sem rétt eða nátthagi um tíma.
Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Selalda

Farið var að Selöldu. Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Strákar

Fjárskjól undir Strák.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Fitjar fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Ofar og litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar, nú nánast jarðlægar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var í Sogagíg um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni, Kringlymýri, Selgili og í. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir og gróinn garður. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur eða útihús frá Eyri og au þess hliðsett hús. Allt er þetta búsetulandslag einstaklega áhugavert, ekki bara vegna þess að saga þess hefur ekki verið skráð, heldur má úr því lesa nýtingu svæðisins í gegnum aldrinar. Bæði eðlilegt og sjálfsagt væri að rannsaka svæðið sem heild.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir fjárhúss og sauðakofa og vestan þeirra er enn heilleg og falleg steinbrú yfir Vestarilæk, sem ástæða er að reyna að varðveita.
Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp ag hraunlögum, grágrýti, en gjalllög ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (vikri og ösku) og hraunlögum. Strákar er ung móbergsmyndun vestan í Selöldu. Bergið er um 45-45 h hátt. Hugsanlega eru hraunin komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Fitjar-221

Tóftir Fitja.

Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.
Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt. Ekki er því ólíklegt að í Krýsuvíkurselinu megi finna nytjastað frá fyrri tíð.

Fitjar

Fitjar – stekkur.

Neðan og austan við Fitjar má m.a. sjá leifar af a.k. tveimur hlöðnum refagildrum. Skammt ofan við þær, á eldri lækjarfarvegi Vestari-lækjar eru minjar stekks, gerðis og hugsanlegar kvíar.
Gengið var um Fitjar, upp að Strákum og yfir að Eyri þar sem minjarnar voru skoðaðar. Þá var haldið út á Heiðnaberg, en svo skemmtilega vildi til að björgunarsveitin Þorbjörn var þá einmitt með æfingu á og undir bjarginu. Fylgst var með æfingunni áður en gengið var til baka.
Frábært veður – sól og lygna.

Eyri

Tóftir Eyrar undir Selöldu.

 

Búðarvatnsstæði

Gengið var til suðurs með Fjallgjá og síðan beygt til vesturs við vörðu á hól með stefnu að Sauðabrekkum. Litið var á skjólið í Brekkunum. Áður er farið á brú yfir gjá og er þá komi niður í nokkurs konar dal á milli hraunhóla. Þaðan var gangan auðveld til vesturs, upp á hraunhól, grasivöxnum að austanverðu. Áfram var haldið, framhjá hraunhól og með stefnu á Markhelluhól.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Gangan þangað tók rúmlega klukkustund. Á þá hlið hólsins, sem snýr mót norðri, eru klappaðir stafir bæjanna Krýsvíkur, Hvassahrauns og Óttarstaða. Norðnorðvestur af Markhelluhól er Búðarvatnsstæðið undir hraunkanti. Ekkert vatn var í vatnsstæðinu að þessu sinni, en það verður að teljast fremur óvejulegt því yfirleitt var hægt að ganga að því vísu að fá vatn þar á langri leið. Lengra í norðri er Gamlaþúfa og á henni er varða. Gengið vað að þúfunni, en hvergi annars staðar eiga eða vera stærri krækiber, en einmitt þarna utan í hólnum. Það reyndist einnig vera að þessu sinni.

Sauðabrekkufjárskjól

Sauðabrekkufjárskjól.

Gengið var að gígagröð norðan við Sauðabrekkur. Á leiðinni fór rebbi á harðahlaupum þvert fyrir göngufólkið og stefndi í norður -og leit ekki aftur. Litið var betur á gígana, sem eru hinir fallegustu. Austan við gígana eru nokkuð slétt hraun. Í því miðju er gat, ca. 7 metrar að ummáli og um 12-15 metra djúpt. Snjór var í botninum. Þetta virðist vera gamall gígur eða að hraun hafi þarna spýst upp um hraunrás. Hún virðist vera lokuð upp á við, til suðurs, en op virðist vera neðast í henni til norðurs. Þetta verður skoðað nánar í samstarfi við Hellarannsóknarfélagið. U.þ.b. hálftíma gangur er að opinu að Krýsuvíkurveginum.
Gangan tók 4 klst 51 mín. Frábært veður – sól og lygna.

Markhella

Áletrun á Markhellu.

Kaldársel

Gengið var frá húsi K.F.U.M. og K. Ætlunin var að ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni með stefnu eftir Kúastígnum að Kýrgili.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldá rennur þar á mótum tveggja hrauna. Annað hraunið rann úr suðri um 1151, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr eða fyrir u.þ.b. 4750 árum, norðaustan af Kaldárseli. Tóftir selsins voru nokkurn veginn þar sem viðbygging Kaldársels er nú svo og sunnan hennar, ofan árbakkann. Þar má enn sjá móta fyrir garðhleðslum. Sunnan árinnar, á hægri hönd þegar farið er yfir Kaldá, má einnig og sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðanna; Dalaleiðar er lá upp um Kýrgil og áfram til suðurs austan Undirhlíða, og Undirhlíðarvegar er lá áfram til suðurs vestan Undirhlíða, allt að Ketilsstíg yfir Sveifluháls. Sameiginlegi hlutinn er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja honum í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, sem fyrr segir, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Kaldársel

Kaldárssel; hús KFUM og selsrústirnar.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. suðaustan við eldra húsið, á móts við miðju þess nýrra er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaley þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Kaldársel

Tóftir Kaldársels framan við núverandi hús.

Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Í húsvitjunarbók Garða má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.

 

Kaldársel

Tóft vestan við núverandi hús í Kaldárseli.

Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá fengu þar afdrep á ferðum sínum.  Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárselisínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.

Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður, áningastaður.
Sjá meira um Kaldársel HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR. Og er þá um fátt getið…
Frábært veður.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli.

 

Vorréttin

Gengið var með manni, fæddum í Straumi fyrir um 70 árum, eftir Gerðisstíg frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel. Norðan Rauðamelsins, undir Rauðamelsklettum, eru Neðri-Hellar, fjárhellar frá Gerði.

Vorrétt

Vorréttin.

Ofar með kapelluhraunskantinum er Rauðamelsréttin, eða Vorréttin, fallega hlaðin. Enn ofar við hraunkantinn eru Efri-Hellar, fjárhellar frá Þorbjarnastöðum. Hægt er að ganga á milli þessara staða eftir gömlum stíg, en Gerðisstígurinn liggur vestar og ofar í grónu hrauninu, á milli Kapelluhrauns og Selhrauns. Stígurinn er nokkuð vel varðaður og tiltölulega auðvelt að fylgja honum. Þegar komið er skammt upp fyrir Efri-hella er há varða á vinstri hönd, svolítið frá stígnum. Hún stendur ofan við Kolbeinshæðahelli, en hellirinn er nokkurn veginn þar sem Kolbeinshæðir byrja að norðanverðu. Þetta er rúmgóður fjárhellir.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Frá honum er stutt eftir á stígnum að Kolbeinshæðaskjóli. Skjólið sést vel á grasi grónu svæði fyrir framan það og í næsta nágrenni. Það er í skúta í vestanverðum hæðunum og er hlaðið fyrir. Áður var reft yfir og má enn sjá leifar timburverksins. Fjárskjól þetta var notað frá Þorbjarnastöðum. Sunnan við skjólið er sléttur hraundalur áður en komið er upp á hæðirnar þar fyrir ofan. Suðvestan er Straumsselshöfði, en í skammt suðri má sjá háa vörðu á hól. Hún stendur skammt norðvestan við Gjásel. Frá því er stutt í Straumssel í vestri.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Gengið var áfram upp með hraunkantinum og beygt með honum til vesturs og síðan til norðvesturs með kanti Selhrauns og yfir á Straumsselsstíg. Allt þetta svæði er nokkuð gróið, en mun auðveldara yfirferðar en selhraunið sjálft, sem er nokkuð úfið.
Gengið var til norðvesturs vestan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel og að hlaðinni rétt undir hraunhól sunnan við Þorbjarnastaði. Svæðið við réttina er nokkuð gróið og nefnist það Stekkjatún. Í vestur frá því er há varða upp á hól. Hún heitir Miðmundarvarða og er eyktarmark frá Þorbjarnastöðum (kl. 15:00 í sólarstað).
Gangan tók um klukkustund í björtu og góðu veðri.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðaskjól.

Kristjánsdalir

Ekið var að Kristjánsdalahorni og þaðan gengið til suðurs inn með hlíðinni, inn Kristjánsdalina.

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala.

Þegar komið var í dalverpi fyrir miðjum dölum blöstu við tvær tóttir. Sú nyrðri er hlaðið hús, greinilega gamal. Hin syðri eru tveir veggjastubbar og hleðsla bakvið. Á milli þeirra hefur sennilega staðið timburhús. Skv. upplýsingum Ólafs Guðmundssonar og Sigurðar Arnórssonar voru þessi hús notuð ar- og rjúpnaskyttum er lágu þarna úti við veiðar. Hlaðið byrgi refaskyttu er norðar í hrauninu, en þarna eru augsjáanlega nokkur greni í hrauninu. Nyrðri tóttin gæti einnig verið frá tímum brennisteinsnámsins því þarna eru ágætir bithagar. Vatnsstæði er norðvestar, en frá því liggur stígur á ská niður að Selvogsgötu.

Grindaskarðavegur

Selvogsgatan um Grindarskörð.

Á miðri þeirri leið er gatan klöppuð í bergið, greinilega fjölfarin eða farin um langan tíma. Líklega er þarna um hluta af svonefndum Grindarkarðsvegi að ræða, en hann lá norðar en Kerlingarkarðsvegurinn, sem nú er svo til eingöngu farinn.
Kerlingaskarðið er við Grindarskarðshnúka, en Grindarskarðsvegur nokkru norðar. Grindarkarðsvegur virðist liggja þarna á ská niður hlíðina og því gæti staðsetningin á þessum götustubb vel passað við lýsingu á þeim gamla vegi. Hann er varðaður á þessum kafla með tveimur vörðum, sem virðast standa einar sér. Á milli þeirra er þó þessi sýnilegi vegur, sem fyrr segir. Efst á brúninni er varða.
Við Kerlingarskarðsveg er hlaðið skýli brennisteinsnámumanna, sem skiptu þar á hestum. Annars vegar var lest, sem kom neðan úr Brennisteinsfjöllum með brennistein, og hins vegar var lest, sem kom frá Hafnarfirði og sótti brennisteininn upp í þessa skiptistöð. Meira síðar.
Gengið var til baka um Kerlingarskarðsleið að upphafsstað.
Gangan tók 2 klst og 11 mín.
Fábært veður.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsötu.

Markhella

Gengið var að Gvendarbrunni við Alfaraleiðina.
Norðan brunnsins er hlaðið fyrir skúta og myndað Klofakletturfjárskjól. Austar í hraunhólnum, sem skútinn er í, er hornstaur girðingar. Girðingin hefur legið í beina stefnu til suðurs og upp í hraunið, framhjá Gvendarbrunni. Hlaðið hefur verið undir girðinguna og sést hleðslan alla leið að endastaur upp í hrauninu í um tveggja klukkustunda fjarlægð. Þar hefur girðingin beygt til austurs þar sem sú lína endar í hornstaur við Krýsuvíkurveg skammt ofan við vegamót Bláfjallavegar, við landamörk Áss.

Markhella

Að sögn liggja mörk Straums frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá henni í Klofaklett í suður. Á Klofaklett á að vera klappað “ÓTTA”, “STR” og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól. Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” „KRYSU“. Síðan á línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða í örnefnalýsingum.
Markhella-2Við skoðun á Markasteini (Markhellu) var áletrunin eftirfarandi: KRV – ÓTTAR – HVASSA. Ef tekið er mið af því hversu áletrunin er annars greinilegt á mjúkri nánast lóðréttri hraunhellunni má telja líklegt að hún hafi verið gerð af einhverri óþekktri ástæðu einhvern tímann á 20. öldinni. Markhellan er mjög ólíklega landamerki, enda hafa þau jafnan verið miðuð við Markhelluhól við Búðarvatnsstæðið, sem er tæplega kílómetra norðvestar.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Gengið var niður með Gömlu-þúfu, sem einnig er getið sem landamerki þarna í stað Markhellu, og að hornstaurnum. Frá hornstaurnum var gengið til norðurs að Straumsseli og komið við í Efri-Straumsselshellum. Á leið frá þeim að Neðri-Straumsselshellum fannst enn ein hleðsla að opi fjárhellis. Allnokkur hleðsla er fyrir opin og hefur loft á gangi þess fallið niður og því sést það nú. Norðar er op Neðri-Straumsselhella og önnur hleðsla í sama helli skammt austar.
Straumsselið var skoðað gaumgæfilega, enda veður með ágætum. Þá var gerður uppdráttur af selinu og nágrenni. Þegar gengið var norðan við selið hljóp grábrúnn refur undan göngufólki, staðnæmdist skammt frá og virti það fyrir sér. Honum leist ekki betur en svo á hópinn að hann ákvað að láta sig hverfa.
Á leiðinni til baka var komið við í rétt, sennilega fráfærurétt, í hrauninu fyrir ofan Selshraun. Þar eru miklar hleðslur og svo er að sjá að þar hafi einnig verið reft yfir byrgi. Greinilegt er að fé hefur verið haldið þarna í hraunkantinum, því vel er gróið þarna í kring.
Gangan tók 6 klst og 2 mín. Frábært veður.

Markhella

Við Markhellu.