Við Torfabæ í Selvogi, skammt frá Strandarkirkju, er fallegur gamall sjógarður, sem Eyþór Þórðarson hlóð á árunum 1926-1934, eins og stendur á skilti á garðinum.
Sjovarnargardur í SelvogiGarðurinn er um 2 m hár og um 30 m langur en var áður mun lengri, sjórinn hefur tekið sinn skerf. Nú eru aðstæður þannig að sjórinn hefur dregið út hnullungafjöruna framan við garðinn svo að sums staðar sér undir undirstöðusteinana. Ef varðveita á þessar menningarminjar þarf að setja vörn framan við.
Framangreindar línur svonefndrar „Sjóvarnarskýrslu“ frá árinu 2004 voru skrifaðar í tilefni að fyrirhuguðum sjóvörnum landsins. Þrátt fyrir að sjóvarnir hafi verið bættar, t.d. neðan við Strandarkirkju, er framangreindur kafli Eyþórs frá Torfabæ, enn óvarinn. Ástæða er til að bæta um betur því minjar þessar eru þær einu er enn má sjá á handhlöðnum sjóvarnargarði í Selvogi. Að vísu má sjá stutta búta af garðinum hér og þar, t.d. neðan við Nes og Þorkelsgerði, en enga heillega sem þennan.

Hlínargarður

Hlínargarður í Herdísarvík.

 

Fosshellir

Farið var að Sandfelli við Þrengslaveg og síðan haldið sem leið lá vestur yfir Þúfnavelli austan Geitafells, yfir Ólafsskarðsveg og vestur með fellinu norðanverðu.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ekki var látið staðar numið fyrr en komið var að rótum vesturhorns fellsins. Þaðan sást vel suður yfir Kálfahvamm og Selvelli fyrir neðan.

Í suðvestur, ofan við Réttargjá sást í stórt jarðfall. Þegar þangað var komið sáust rásir liggja inn til beggja enda. Rásin til suðurs var fremur stutt og lokast með hruni, en rásin til norðurs, mót Heiðinni há, var lengri og opnari. Fyrir innan er mikil hraunrás með háum bálkum beggja vegna. Mikil hrauná hefur runnið þarna niður og mátti sjá einstaklega fallegar hraunmyndanir á börmum hennar. Á einum stað hangir u.þ.b. 30 sentimetra langt hraunstrá niður úr loftinu. Allnokkurt hrun er úr loftinu niður í rásina, en víða mátti sjá fallegar hraunmyndanir og tauma liggja niður með veggjum.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ganga þurfti uppi á hægri bálknum inn með rásinni fyrir neðan, en innst inni í þessum 80 metra langa helli er hann heill og rúmgóður. Hátt er til lofts þar sem fyrir er mjór og hár hraunfoss. Hann kemur úr úr veggnum í allnokkurri hæð og hefur storknað utan í veggnum á leið sinni niður. Ofarlega á veggjunum neðan við fossinn eru mjög fallegar hraunmyndanir. Erfitt er að mynda fossinn nema með mjög góðum ljósabúnaði.
Þótt Fosshellir sé ekki langur er full ástæða til að gera sér ferð til að skoða hann. Hellirinn er bæði aðgengilegur og auðfundinn, og ekki skemmir hið fallega umhverfi á heiðinni fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Fosshellir

Fossinn í Fosshelli.

Hraðaleiði

Nokkur fornmannaleiði eru í Mosfellsbæ. Má þar nefna Þormóðsleiði í Seljadal, Hraðaleiði á mörkum Hraðastaða og Mosfells, Æsuleiði við Æsustaði, Skeggjaleiði hjá Skeggjastöðum, Úlfarsleiði í Úlfarsfelli, Reynisleiði við Reynisvatn og Egilsdys í Tjaldanesi neðst í Mosfellsdal.
BjarkiSamkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði.
Sá maður í Mosfellssveit (-bæ) sem veit manna best um þau þá fyrrum heygðu er heitir Bjarki Bjarnason og býr að Hvirfli í Mosfellsdal. Hann er margfróður um sögu byggðarinnar enda lagt sig fram við að varðveita gamlar sagnir og sögur af svæðinu.
Áður en eftirgrennslan hófst var vitað að í örnefnalýsingum kemur fram að „Þormóðsleiði er týnt, eftir því sem ég best veit. Hef heyrt að bóndinn í Þormóðsdal hafi sléttað það út“, „Hraðaleiði er áberandi hóll vestast á túnunum á Hraðastöðum“, „Skeggjaleiði er týnt“, „Egilsdys er lítill hóll í svonefnum Víðirodda vestast í Mosfellsdal þar sem árnar koma saman“ og „Æsuleiði er hóll miðja vegu á milli Norður-Reykja og Æsustaða.“ Ekki beint örvandi til leitar, en FERLIR er þekktur fyrir annað en uppgjöf.
Bjarki fylgdi FERLIR um Mosfellsdalinn með það fyrir augum að reyna að staðsetja Æsuleiði, Hraðaleiði og Egilsdys, en Þormóðsleiði virðist hafa farið forgörðum er nýi vegurinn var lagður um Seljadal rétt neðan við býlið Þormóðsdal upp í grjótnámið sunnan í Grímannsfelli (sjá „Þormóðsdalur – minjar og annað gull“ á vefsíðunni undir Lýsingar). Þá er ekki vitað hvar Skeggjaleiði kann að vera. Að þessu sinni var hvorki gerð leit að Úlfarsleiði eða Reynisleiði, en að sjálfsögðu verður gerður út leiðangur í það verkefni fyrr en seinna.

Þegar gengið var að Hraðaleiði vakti stórt hringlaga, næstum jarðlægt, gerði athygli þátttakenda. Auk þess að skoða fyrrnefnda staði var kíkt á Jónssel ofan við Seljabrekku.
Samkvæmt þjóðminjalögum eru haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið, taldir til fornleifa. Hins vegar getur þurft að horfa til þess að „dysjar“ þurfa ekki endilega að vera raunverulegar dysjar heiðins fólks. HraðaleiðiBjarki gat þess t.d. að hvorki Hraðastaða né Æsustaða væri getið í fornum skráðum heimildum. Einungis væri um að ræða munnmælasögur sem gengið hafa í sveitinni um langan tíma. Sama sagan væri um Skeggja á Skeggjastöðum, Þormóð í Þormóðsdal, Reyni á Reynisvatni og Úlfar á Úlfarsfelli, sem reyndar nefndist áður Úlfmannsfell. Sögurnar virðast hafa orðið til líkt og aðrar þjóðsögur þar sem reynt var að finna tilvist þeirra stað með því að vitna til óráðinna sagna og jafnvel áþreifanlegum sönnunum, þ.e. dysjunum.
Hvað um það – sögurnar eru góðar og hafa staðið fyrir sínu um langan tíma, þ.e. þjónað þeim tilgangi sem þeim var ætlað. Það ber þó, með framangreint í huga, að taka sögunum með hæfilegum fyrirvara. Fróðlegt er þó að skoða staðsetningu framangreindra dysja og leiða út frá sögnum um að þau hafi jafnan verið fyrst staðsett á mörkum jarða og síðar á mörkum gróinna bletta umhverfis bæjarstæði. Æsuleiði er einmitt í jarðri fyrrum gróins svæðis, Hraðaleiði er á mörkum jarðarinnar að vestanverðu og Egilsdys er á mörkum jarðar að suðvestanverðu.
Túnasléttur voru versti óvinur fornra mannvistarleifa á öndverðri síðustu öld. Á þeim tíma voru ótal forn mannvirki jöfnuð við jörðu og sléttuð. Skipti þá engu hvort um var að ræða fornar grafir eða annað. Heimafólkið eitt vissi gjarnan

hringlagaum tilvist þeirra og gætti þess vel að þeim væri ekki raskað, enda fylgdi oft lýsing á hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér, jafnvel þótt ekki gerðist annað en að þau væru nytjuð. Átti kýr á bænum þá gjarnan að drepast, sjómenn að drukkna, heimilisfólk að veikjast og/eða deyja eða aðrar skelfingar að dynja yfir.  Ástæðurnar voru jafnan af tvennum toga; annars vegar til að auka líkur á varðveislu þess, sem fólkið trúði í alvöru að væri satt, og hins vegar til að standa vörð um aðrar varhugaverðari ástæður, s.s. grafir skepna er látist höfðu úr miltisbrandi eða þar sem fatnaður fólks var grafinn er látist hafði úr svartadauða eða spænsku veikinni og svo mætti lengi telja.
Æsuleiði er norðvestan undir rótum gróinnar brekku í túni Æsustaða. Að sögn Bjarka eru Æsustaðir alls ekki svo gamalt býli. Þeir eru einn hluti af nokkrum frá Reykjum. Sunnar er Æsustaðafjall og norðvestar Helgafell. Milli þeirra er skarð, Skammaskarð. Handan og suðaustan þess er Skammidalur. Þar eru minjar stekks eða annarrar rústar.
Gömul kona, sem bjóð að Æsustöðum hefði fylgt honum um túnið á sínum tíma með það fyrir augum að staðsetja Æsuleiði. Þá hefði hann haldið að leiðið væri áberandi gróinn rofhóll undir brekkunni, en gamla konan hefði hins vegar Jónsselbent honum á ílanga þúst, um 8 m langa og 2.5 m breiða, skammt norðar undir brekkurótunum. Hæðin er um 0.8 m. Leiðið snýr nokkurn veginn á lengdina í suður/norður. Þarna á Æsa gamla að hvíla. Teknir voru GPS-punktar á dysina.
Í Æsileiði á landnámskonan Æsa að liggja. Æsuleiði er álagablettur sem ekki má slá. Álagablettirnir eru fleiri því auk Æsuleiðis er slíka bletti einnig að finna á Hrísbrú, Norður-Reykjum, Úlfarsá (Álagablettur og Álagabrekka) og Úlfarsfelli. Blettina má ekki, skv. gömlum sögnum, slá eða eiga við á annan hátt.
Álfabyggð er skráð á átta bæjum í sveitarfélaginu, Blikastöðum, Helgafelli, Hraðastöðum, Miðdal, Mosfelli, Óskoti, Reykjakoti og Suður-Reykjum. Um 450 metra suður af bæjarhúsunum á Helgafelli er hóll sem nefndur er Sauðhóll. Samkvæmt gamalli sögn hafði bóndinn á Helgafelli einhvern tíma verið að reka heim fé neðan úr Skammadal í austanbyl. Sá hann þá mann á undan sér sem einnig var við fjárrekstur. Hvarf maðurinn fyrir Sauðhól en þegar bóndi kom sjálfur fyrir hólinn sást hvorki af honum tangur né tetur. Taldi bóndi víst að maðurinn hefði horfið inn í
hólinn með allt féð en það voru víst sauðir. Var þarna því um huldumann að ræða en ekki mennskan mann.
EgilsdysSauðhóll er á því svæði þar sem nú er fyrirhugað að rísi ný íbúðarbyggð. Tekið var fullt tillit til hólsins og mun hann standa áfram inni í hinni nýju byggð.

Mjög margar af þeim fornleifum sem skráðar voru í Mosfellsbæ tengjast landbúnaði, , t.d. útihús, stekkir, kvíar, réttir, nátthagar, fjárborgir, sel og mógrafir. Margar þessara minja eru enn greini-
legar.
Að sögn Bjarka er Víghóll áberandi kletthóll suðvestan við Norður-Reyki. Að sögn fyrrum ábúanda á jörðinni mun hóllin hafa heitið Kvíahól og þá dregið nafn sitt af kvíahleðslum, sem þar hefðu verið undir honum.
Þá var gengið að Hraðaleiðinu. Það er á vesturmörkum jarðarinnar. Skurður vestan hennar undirstrikar mörkin. Dysin er um 15 m löng og um 6 metra breið. Hæðin er um 1.5 m. Ummerkin benda, ef satt er, til þess að þarna hafi höfðingi verið dysjaður. Leiðið liggur, líkt og Æsuleiði, nokkurn veginn suður/norður.
Gamla íbúðarhúsið að Hraðastöðum sem byggt var 1923 og hefur verið endurbyggt. Það er dæmigerður fulltrúi hins „íslenska sveiser“ og mikilvægt sýnishorn ákveðins tímabils í sögu
bændabýla hérlendis (Hörður Ágústsson).
ÓþekktFyrrnefnt gerði, sem uppgötvað var vestast á túninu á Hraðastöðum, skammt sunnan Þingvallavegar, hefur verið nokkuð stórt. Nú er það um 20×20 m að ummáli, hringlaga. Hringurinn er um 0.20 m hærri en túnið umhverfis. Litabreyting er í hringnum miðað við umhverfið. Ef mjög vel er að gáð má sjá móta fyrir hleðslum í hringnum.
Ljóst er að þarna hefur verið mannvirki áður en túnið var sléttað. Hvort sem það hefur verið hringlaga rétt eða eitthvað annað er ástæða til að skoða það sérstaklega. Enn er t.a.m. ekki vitað hvar Kjalarnesþing var til forna, hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Hvers vegna skyldi það ekki hafa verið þarna – áleiðis til Þingvalla.
Mosfell er ekki langt undan sem og aðrar merkisjarðir fyrrum. A.m.k. kosti væri ástæða til að gaumgæfa þennan stað mun betur. Ekki er vitað hér og nú hvort hann hafi verið uppgötvaður áður sem fornleif svo tekinn var GPS-punktur á hann – ef einhver áhugi skyldi vakna hjá einhverjum.
Innar er Helgadalur. Þar er Katlagil í Grímannsfelli. Í því er hlaðin tóft, sem skoða þarf við tækifæri.
Þá var haldið að Egilsdys. Fyrsti legstaður Egils Skallagrímssonar er sagður í greinilegum haug eða hól á Tjaldanesi. Haugurinn eða hóllinn er nú afgirtur innan hestagirðingur – af einskærri tillitssemi við söguna. Sagnir herma að Egill hafi verið grafinn upp þegar kirkja var reist að Hrísbrú. Margir hafa reyndar velt vöngum um afdrif beina Egils. Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert.

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar.

Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“
Bein Egils munu skv. þessu hafa verið flutt í gömlu kirkjuna, sem nú er reyndar verið að grafa upp í fornleifauppgrefti að Hrísbrú, en síðan þaðan í gamla kirkjugarðinn við Mosfellskirkju, sem væntanlega hefur staðið skammt austar en núverandi kirkja – há og hnarreist.
Loks var haldið í Jónssel ofan Seljabrekku. Sagt er frá því annar staðar á vefsíðunni ( Bringur – Helgusel – Mosfellssel – Jónssel undir Lýsingar). Bjarki gekk öruggum skrefum inn á óslegin austurtún bæjarins. Hann sagðist hafa farið þangað einu sinni með Guðjóni Bjarnasyni, þáverandi ábúanda. Hann hefði vísað á Jónsselselstóftirnar. Þeir hefðu gengið frá bænum, en á leiðinni hafi þeir komið að folaldi í skurðfestu svo einungis höfuðið hafi staðið upp úr. Tekist hefði að bjarga því, en vegna þessa atviks hafi gangan verið einstaklega eftirminnileg.
Leifar Jónssels eru austarlega á grónum túnum Seljabrekku, en þó enn óhreyft. Sjá má móta fyrir útlínum húsanna. Ekki er þó gerlegt að ákvarða veggi einstaka rýmishluta svo öruggt megi teljast. Tækifærið var notað til að rissa minjarnar upp og mæla. Einnig voru teknir GPS-punktar, en þeir reyndust vera þeir sömu og teknir voru í tilefni framangreindrar lýsingar. Munurinn var einungis sá að nú var grasið hávaxnara en áður.
Ljóst er þó að selstóftin hefur greinst í þrennt. Gengið var inn í aðalrýmið úr suðri. Norðaustan við tóftirnar mótar fyrir stekk eða kví. Vestan tóftarinnar er gamalt vatnsstæði. Jónsselslækur er norðar og er selið reist á suðurbakka lækjarins. Frá selinu sést vel hvar lækurinn liggur enn ósnertur þar sem hann liðast upp (ætti að vera niður) brekkuna suðaustanverða, en norðvestar hefur verið grafinn skurður í hann með stórvirkum vinnuvélum.
Hinar hlöðnu tóftarhleðslur, sem lýst var að Jórunn í Bringum hefði notað við heyskapsverkin í byrjun 20. aldar, virðast nú horfnar niður í þykkan svörðinn. Svona er hin „eilífa hringrás“.
Frábært veður.

Óþekkt

Dómhringur?

 

Hvaleyri
Guðbrandur Benediktsson, deildarstjóri á Minjasafni Reykjavíkur – Árbæjarsafni, er jafnframt stundakennari við HÍ í sagnfræði, þjóðfræði og ferðamálafræði. Í kennslustund (2006) í fornleifafræði við Háskólann fjallaði hann m.a. um „menningararfinn og ferðaþjónustuna“. Kynnti hann einstök hugtök og skilgreiningar innan ferðamálafræðinnar er tengjast viðfangsefninu, s.s. ferðaþjónusta/-mennska, ferðamaður, ástæður ferða, hvatar, sjálfbærni og viðhorf ferðaþjónustunnar til menningararfsins.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Lesefnið varðaði umfjöllun, annars vegar um svonefnda „Cultural Tourism“ (menningarferðamennsku) og hins vegar „Heritage Tourism“ (arfleifðarferðamennsku). Oft eru orðin notuð saman og þá talað um „Heritage Cultural Tourism“ (menningartengda ferðaþjónustu eða arfleifðarmenningarferðamennsku).
Fyrir þá, sem á annað borð koma nálægt ferðaþjónustu, er mikilvægt að skilja hin ýmsu hugtök, eða a.m.k. vita hvað þau þýða. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir aðra að hafa örlítinn innsýn í ferðamálafræðin; hugtökum og grunnhugmyndum sem og svolítinn skilning á þau fræði.

Torfbær

Torfbær 1924.

En hvað er menning og menningararfur? Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs er menning „þroski mannlegra eiginleika mannsins, það sem greinir hann frá dýrum, þjálfun hugans, andlegt líf.“ Íslensk orðsifjabók bætir því við að menning sé „þroski hugar og handa; … það að manna einhvern … þróun, efling, siðmenning“. Orðabók Menningarsjóðs segir líka að menning sé „sameiginlegur arfur (venjulega skapaður af mörgum kynslóðum) … rótgróinn háttur, siður“. Hin Íslenska alfræðiorðabók Arnar og Örlygs segir að menning sé „sú heild þekkingar, siðferðis, trúar og tákna sem er undirstaða mannlegs samfélags“.

Torfbær

Torfbær.

Á Íslandi er orðið menningararfleifð mjög bundið hugmyndum um hvað einkennir íslensku þjóðina og hvernig bregðast eigi við hröðum félagslegum og menningarlegum breytingum nútímans. Sigurður Nordal hélt því fram í Íslenzkri menningu (1942) að nauðsyn væri að skilja íslenska menningararfleifð sögulega; „arfleifð okkar er tungan, bókmenntirnar og þjóðlegar hefðir. Án þessara sérkenna hefðu Íslendingar ekkert til að greina sig frá öðrum og myndu á endanum hverfa meðal stærri þjóða.“
Þjóðminjalög gefa svolitla skilgreiningarmynd af hugtökunum með orðinu „minjar“, s.s. í 1. grein.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur.

Þegar skilgreina á hugtakið menning og menningararfleifð þarf að hafa í huga að til eru ýmsar mismunandi skilgreingar á þessum hugtökum – þó svo að merkingin sé í grunnin sú sama. Má jafnvel tala um “hugtakaflökt” í þessu sambandi. Það kann og að vera vandasamt verk að þýða þessi hugtök, til dæmis í ensku – sbr. „culture“, „heritage“ eða „cultural heritage“.
Í 1. grein Þjóðminjalaganna segir t.d. “… tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða” og “ til menningarsögulegra minja teljast … Í 9. grein segir… “Til fornleifa teljast …”

Tobba

Þjóðsögur vekja jafnan áhuga ferðamann.

Hvað er túrismi? “[T]ourism can be defined as the science, art, and business of attracting visitors, transporting them, accommodating them and graciously catering to their needs and wants.“ Hér er litið á ferðamennsku sem vísindi, list og atvinnu af því að draga að ferðamenn, flytja þá, hýsa og sinna þörfum þeirra. Í sambandi við ferðaþjónustu, þá ber að hafa í huga að í grunnin er um að ræða “business” og því er iðulega talað um að vöru og þjónustu. Áður var oftlega talað um ferðamannaiðnað, en í seinni tíð hefur jafnan verið rætt um ferðamannaþjónustu þegar ferðaþjónustuaðilar eru annars vegar.

Kaldidalur

Hestar ferðamanna við beinakerlingu á Kaldadal.

Á sama hátt má spyrja: „Hvað er ferðamaður?“, eða „Hvers eðlis er ferðin?“ Niðurstaðan verður aldrei ein, en hún snýst þó oftast um vöru og þjónustu á sérhverjum ákvörðunarstað. Til þess að skilja eðli og gerð túrismans þarf jafnframt að huga að því hvers eðlis ferðin er – hvað fær menn til að ferðast og hvað gera menn í ferðinni.
Hvatning og hegðun er nokkuð undir ferðaþjónustuaðilum komin. Gott er að hafa í huga þarfaþríhyrning Maslow’s þar sem kveðið er á frumþarfir annarsvegar og áunnar þarfir hins vegar. AIDA-módelið hefur og verið talsvert rætt í seinni tíð, en það er nokkurs konar þumalfingursregla markaðsfræðinga til að skýra ákvörðunarferli neytenda. AIDA stendur fyrir: Awareness – Interest – Desire – Action. Þá eru sálfræðilega áhrif varðandi val á áfangastöðum mikilverð atriði. Heimasíðan http://www.world-tourism.org er mjög upplýsinadi um stefnumörkun og áætlanagerð í ferðaþjónustumálum víðs vegar umheiminn.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Menningartengd ferðaþjónusta hefur verið að ryðja sér til rúms, þó með veikum mætti hér á landi. Bent er á að fyrirbærið má skilgreina út frá ýmsum ólíkum forsendum, svo sem út frá ferðamálafræðinni, ástæðum ferða, hvata eða fúnksjón. Skilgreingar geta þó verið misjafnar og ólíkar. Þau fjögur eliment sem höfundar segja að einkenni fyrirbærið eru: 1)menningartengd ferðamennska er fyrst og fremst ferðamennska, 2) það má vera ljóst að menningartengd ferðamennska felur í sér einhverja notkun á menningarverðmætum, 3) neysla á vöru eða þjónustu. Samkvæmt þeim hugmyndum er hægt að breyta cultural hertitage assets í cultural heitage products og 4)ferðamaðurinn sjálfur, „the tourist“, og ástæður þess að hann ferðast – hverjar sem þær kunna að vera. Atriði 2 og 3 eru afar áhugaverð því það má segja að þar komi fram viðhorf ferðaþjónustunnar, eða nálgun á menningararfinn og kann það að hljóma nokkuð framandi í eyru fornleifafræðinga… eða hvað?

Torfbær

Torfbær.

Í grunninn snýst ferðamálafræðin um skynsamlega nýtingu auðlina og samkvæmt Brundtland skilgreinginunni er sjálfbær þróun “development that meets the needs of the present without compromising the ability of future generations to meet their own needs.” (Brundtland 1987). Þessa hugmyndafræði má í sjálfu sér yfirfæra á menningarmál og líta á menningarverðmæti – menningararfinn – sem auðlindina. Stundum þarf að gera skýrarn greinarmun á ferðaþjónustu (tourism) annars vegar og minjavörslu (cultural heritage management) hins vegar. Bæði sviðin vinna með sama viðfangsefnið, það er menningararfinn, menningarverðmætin (cultural heritage asset) sem auðlind (resource) og því er mikið í húfi að þetta samband sé gott – það ætti eðli málsins samkvæmt að koma til móts við þarfir beggja og þar af leiðandi að vera sustinable.
Sambandið

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

getur verið allt frá góðri samvinnu til illvígra deilna, eins og dæmin sanna. Oft á tíðum liggja þessi svið samhliða og byggja á raunverulegri samvinnu – án þess í raun að skarast og hafa þar af leiðandi lítið hvort af öðru að segja. Það geta sannarlega verið ýmis vandamál í sambúð þessari, þó svo ákveðin togstreyta er í raun innbyggð á milli þessara sviða. Þetta eru í raun greinar af sitt hvorum meiði, ólík menntun og bakgrunnur fólks, sem vinnur á sitt hvorum vettvangnum, getur verið ólíkur. Togstreyta milli þessara sviða bitnar á ferðaþjónustunni. Sé samvinna ekki góð, þá verði bæðið sviðin af góðum sóknarfærum til eflingar og því sé það afar brýnt að leita sé allra leiða til þess að koma í veg fyrir að svo fara; með bættum skilningi á milli sviða.

Saltfiskssetur Íslands

Saltfiskssetur Íslands.

Í eðli sínu er ferðaþjónusta viðskipti, sem felur í sér neyslu á vöru eða þjónustu, jafnframt skemmtun og að allt sé það háð eftirspurn.
Áfangastaðir skipta miklu máli (attraksjónirnar sjálfar)
og ýmir önnur atriði hafa áhrif á heimsóknir, svo sem vegalendir, tími og kostnaður. Taka þarf jafnan mið af hegðun ferðamanna og sérstaklega þeim þætti sem snýr að upplifnun þeirra. Það er mikilvægt að hanna og stjórna þeirri upplifun sem feðramenn njóta/neyta á hverjum áfangastað því „Tourists want controlled experience“. Engu að síður verður að hafa hugfast að þegar talað er um ferðamenn í þessu sambandi, þá er fjarri því að um sé að ræða einsleitan hóp fólks.

Skógar

Minjasafnið á Skógum.

Margir ferðamenn leita staðfestingar á tilvist sinni og tilverunni með því að heimsækja og skoða menningarsögulega staði – menn skilja hlutina með því að kanna fortíðina. Þó svo að ferðamenn séu oft og iðulega að skoða sér framandi menningu, hafa þeir tilhneigingu til að setja hlutina í samband við sína eigin tilveru. Mikilvægt er að menn séu jafnan opnir fyrir hugmyndum, s.s. um authenticity – “upprunanlegheit” eða um heilindi, integrity.
Einkenni gesta, eða visitor characteristics, eru mismunandi eftir einstaklingum og þjóðerni, en í grófum dráttum eru mótivasjónirnar þó ávallt tvenns konar: þekkingarleit og aðrar persónulegar ástæður. Þeir skiptast í „ekki notendur“ og „mögulega notendur“. Í báðum tilvikum þarf að skoða hvers vegna tiltekin menningarverðmæti eru ekki nýtt sem skyldi; takmörkuðu aðgengi og hindrunum ýmis konar, bæði heildrænt og á hverjum stað.

Heimildir m.a.:
-http://visindavefur.hi.is

Setbergsbærinn

Gamli Setbergsbærinn.

Hamarinn

FERLIR fékk eftirfarandi frásögn senda:
„Sæll,
Hamarinn-221ég mátti til með að deila með ykkur reynslu minni af huldufólki eftir að hafa kíkt á síðuna ykkar. Er ég var c.a. 10 ára gamall bjó ég  í Fögrukinn 2 [í Hafnarfirði], rétt fyrir neðan Hamarinn. Ég gleymi aldrei morgninum þegar ég sá, að ég held búálf, í stofunni heima. Stóð ég stjarfur við dyrnar á herberginu minu í nokkrar klukkustundir og fylgdist með álfinum. Ég vakti bróður minn sem var í herberginu með mér, en hann sá hann ekki. Hann virtist ekki vita af mér.
Ég man nákvæmlega hvernig hann leit út; var mjög vel til fara í grænum jakkafötum, stuttar skálmar, tréklossum, svart yfirvaraskegg og hár, með grænan oddmjóan hatt, c.a. 1,2 til 1,5 m á hæð.
Gaman væri að heyra fleiri sambærilegar sögur – ef til eru.
Kv.Páll.“

Hamarinn

Hamarinn í Hafnarfirði.

 

Sogin

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirknin fer minnkandi, en í Sogunum má enn sjá virka hveri. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru í gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda skák.

Sogin

Í Sogum.

Ummyndun er mest í Sogunum þar sem stórt svæði er ummyndað af klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogunum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogunum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveimur stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu.
Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260 °C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320 °C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Sog

Í Sogum.

Í skýrslu Skipulagsstofnunar um háhitasvæðið við Trölladyngju frá því mars 2003 segir m.a. að rannsóknarborholur séu staðsettar innan friðlýsts svæðis, Reykjanesfólkvangi, auk þess sem Keilis- og Höskuldarvallasvæðið er á náttúruminjaskrá. „Um viðkvæm verndarsvæði er að ræða og hætta er á að hverskonar framkvæmdir og rask muni rýra verndargildi þess og skerða notagildi þess til útivistar og náttúruskoðunar“, segir jafnframt í skýrslunni.
Skipulagsstofnun bendir á að ýmsar athuganir, sem gerðar hafi verið, séu ófullnægjandi og auk þess hafi ekki verið tekið mið af ýmsum fyrirliggjandi upplýsingum. Fornleifafræðingur hafi ekki gaumgæft svæðið m.t.t. fornminja og gildi svæðisins hafi ekki verið metið með hliðsjón af útivist og náttúrufegurð. Vonandi er framangreint ekki dæmigert fyrir vinnubrögð Hitaveitu Suðurnesja, sem jafnan hefur tengt nafn sitt við slagorðið „Í sátt við umhverfið“.
Sogasvæðið er með fallegri útivistarsvæðum landsins.

Heimild m.a.:
-Bréf Stefáns Thors og Hólmfríðar Sigurðardóttur f.h. Skipulagstofnunar til Hitaveitu Suðurnesja dags. 16. maí 2003.

Sogin

Sogin. Grænadyngja fjær.

Latur

Gengið var frá Lati niður Ögmundarhraun til suðurs og síðan hrauninu fylgt upp til norðausturs að Húshólma. Reynt var að finna hina gömlu sjávargötu inn í hólmann, að Hólmasundi. Þá var gengið upp Húshólma og sem leið lá upp Ögmundarhraun áleiðis að Núpshlíðarhorni. Hér verður ekki rakin leiðin í gegnum Húshólmann og minjarnar þar, enda hefur það verið gert í FERLIR-046, 128, 217, 300, 286, 545, 634 og 715, auk þess sem þeim verður lýst mun nákvæmar síðar.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir, Víkurhellir, í Ögmundarhrauni sunnan Lats.

Miðrekar eru austan Selatanga. Eystri Látrar eru á millum. Fyrir sunnan Lat eru hraunskipti með nokkuð háum hraunhrygg. Stígnum austur yfir hraunið frá þjóðveginum var fylgt að skilunum og beygt þar til suðurs. Eftir stutta göngu var komið að sæluhúsinu, sem þar er. Sá síðasti, sem skyldi við húsið, hefur lagt hurðarhelluna settlega við dyraopið þar sem hún var notuð hinsta sinni. Nú. u.þ.b. 100 árum síðar, er þessi hella ásamt öðru, sem þarna er, friðar skv. þjóðminjalögum, án þess að friðunaröflin hafi hina minnstu hugmynd um tilvistina. Eflaust hafa margir haft skjól þarna í skútanum í gegnum tíðina. Gott hefur verið að geta hallað sér í skjólið og á öruggum stað í svartnættinu þegar allra veðra var von. Frá skútanum er u.þ.b. klukkustundar gangur að Ísólfsskála og u.þ.b. tveggja klukkustunda gangur til Krýsuvíkur.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Haldið var áfram niður með hraunkantinum og stefnan tekin á háa vörðu neðarlega í hrauninu. Hún stendur þar ein og yfirgefin, án fylgdarvarða. En vörður voru ekki hlaðnar að ástæðulausar hér áður fyrr, allra síst svo háar og myndarlegar. Þegar farið var að grennslast um hverju hún sætti kom í ljós að austan við hana eru greni (Miðrekagrenin) og byrgi grenjaskyttna. Grónir bollar eru í hrauninu austan og ofan við vörðuna. Grenjaopin eru merkt og hlaðin eru skjól fyrir skyttur. Meira að segja var óbrotin brennivínsflaska í einu byrgjanna. Hún var látin liggja á sínum stað, líkt og FERLIRs er háttur.

Hraunkarl

Hraunkarl.

Stefnan var tekin upp hraunið til norðausturs. Eftir nokkra göngu um þykkt mosahraun var komið að listaverkagarði náttúraflanna. Þar, á tiltölulega litlu svæði, virtust náttúruöflin hafa staldrað við á leið sinni með hraunið til sjávar, svona til að leika sér stutta stund, a.m.k. m.v. jarðfræðimælikvarðann. Þegar staldrað var við og augun látin líða yfir hraunsvæðið birtist hvert listaverkið á fætur öðru. Það skal tekið fram, til að fyrirbyggja misskilning, að brennivínsflaskan, sem skilin hafði verið eftir í byrginu, var tóm er að var komið. Eflaust gæti hver og einn túlkað hraunlistaverkin á sinn hátt – líkt og gengur og gerist með listaverk mannanna.

Enn var stigið skrefið og stenan tekin á Brúnavörður á hraunhæð framundan. Vörðurnar eru tvær og voru mið af sjó.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Hins vegar eru þær einnig ágæt mið fyrir fótgangendur á landi því handan þeirra tekur við manngerður stígur áleiðis inn í Húshólma. Segir sagan að syndir (hann átti reyndar ekki nema einn) hafi flórað stíginn til ferðalaga. En í stað þess að taka þennan auðveldasta stíg inn í Húshólma var ákveðið, svo sem upphafega var stefnt til, að ganga niður með hraunkantinum til suðausturs í von um að finna framhald þess stígs, sem þar liggur, inn í Húshólma. Þegar komið var niður að ströndinni hvarf stígurinn.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Varð það seginn saga, svo sem algengt er með sjávarstíga, að Ægir hefur þegar brotið þá undir sig. Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig sjórinn hefur smám saman brotið af ströndinni, enda sjálf ekki bætt við sig neinu s.l. 850 árin.
Gengið var ofan við ströndina í gegnum hraunið, sem reyndar var ekki neinum kveifiskötum ætlað. En með þolinmæði og þjálfun varð komist í gegnum stórbrotið hraunið og alla leið inn í Húshólma. Ekki var að þessu sinni litið á hinar merki minjar í hólmanum heldur strikið tekið upp til norðurs í gegnum hann, framhjá selstöðuminjunum og áfram áleiðis upp í gegnum Ögmundarhraunið.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Á þeirri leið, sem er bæði löng og erfið, var gengið framhjá Mælifellsgrenjunum. Við þau eru einnig hleðslur eftir grenjaskyttur. Ofar var Mælifell (Krýsuvíkur-Mælifell). Gengið var inn á gamla Ögmundarstíginn, framhjá Ögmunardys og veginum, sem endurruddur hefur verið nokkrum sinnum, fylgt yfir Ögmundarhraun til vesturs. Haldið var áfram upp og yfir Latsfjall að norðanverðu og síðan gengið niður Tófurbuna og gömlu götunni fylgt að Núpshlíð þar sem hún var síðan rakin niður með fjallsrótunum. Gengið var áfram til vesturs sunnan hlíðarendans.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Núpshlíðarhornið var framundan. Hlíðin hét áður Gnúpshlíð og hálsinn inn af Gnúpshlíðarháls. Þegar horft var á hlíðina, aðstæður ígrundaðar sem fyrrum voru og rifuð var upp sagan af Molda-Gnúpi Hrólfssyni, var ekki órótt um að þarna, sem minjarnar í Húshólma voru, gæti sá maður hugsanlega hafa haft samastað. Einn þátttakenda setti fram þá kenningu að nefndur Molda-Gnúpur, sá sem hálsinn er nefndur eftir, hafi búið þar undir. Hann er í Landnámu sagður hafa sest að í Grindavík eftir að hafa orðið fyrri því óláni í Álftaveri að flóð úr Mýrdalsjökli frá Eldgjárgosinu mikla 934-938 hljóp á land hans og lagði í eyði.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Hann fór þá í Mýrdalinn og var þar einn vetur, en þar var þá fullnumið og hann hraktist eftir deilur við þá, sem fyrir voru, áfram vestur á bóginn, allt til Grindavíkur, eins og Landnáma segir. “Allt til Grindavíkur” gæti þýtt áleiðis til Grindavíkur, enda Grindavík ekki til þá í upphafinu. Eflaust og áreiðanlega hafa aðstæður verið allt aðrar en nú eru undir Núpshlíðarhálsi. Bær og bæir gætu hafa verið byggðir, garðar hlaðnir, borgir (fjárborgir) reistar og búskap komið á fót. Viðurnefnið Molda gæti Gnúpur hafa fengið vegna elju sinnar við að nýta moldina og það sem í henni var, grjót og torf, enda virðast hafa verið nóg af görðunum undir Ögmundarhrauni. Hins vegar bjó faðir hans, Hrólfur höggvandi, á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Bróðir Molda-Gnúps var Vémundur, en „þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir“, eins og segir í Landnámu.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

U.þ.b. 210 árum síðar, eftir fjórar kynslóðir og mikla uppbyggingu á gjöfulum stað, tók jörð skyndilega að skjálfa nótt eina og hraun að renna. Fólkið flýði sem fætur toguðu og skyldi eftir allt, sem það átti. Enn var ekki farið að skrifa sögu Íslendinga eða landnáms þeirra og alls ekki þess fólks sem almúgi hét. Sá, sem skrifaði fyrst um frægð og frama, með hliðsjón af landsins yfiráðarétti, gerði það í ákveðnum tilgangi, enda tilgangslaus skrif þá ofar dýrum feldi.
Þetta var nú einu sinni hugsun um möguleika – ekki staðreynd.
Gnúpshlíðin var fögur á að líta.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

 

Sandgerðistjörn

Ætlunin var að fara um dulheima Sandgerðis og m.a. leita uppi og skoða Álfhól (á hólnum eru rústir), tóftir Uppsala (þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum), Oddstóft, Gulllág, Kríuvörðu, Efra-SandgerðiSigurðarvörðu, Kumblhól (gæti verið haugur). Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska. Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé. Á Kumlhól hefur lengi hvílt sterk helgi. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Lagt var af stað Frá Efra-Sandgerði, elsta húsinu í bænum, byggt 1883. Viðirnir eru m.a. úr Jamestownstrandinu.
Reynir Sveinsson fylgdi FERLIR um svæðið. Hann er fæddur og uppalinn í Sandgerði, skammt frá Álfhól, og þekkir hvern krók og kima – og alla sem í hvorutveggja hafa dvalið.
Álfhóll„Okkur krökkunum var sagt að hrófla ekki við neinu í og við hólinn“, sagði Reynir er komið var á vettvang. „Þess var gætt að raska engu hér. Þó ætlaði fólk, tengt frystihúsarekstri hér neðar, að byggja hús á hólnum. Byrjað var að grafa fyrir húsinu, en þá urðu fjölskyldumeðlimir hver á fætur öðrum fyrir lasleika. Þá var hætt við að byggja á hólnum.“
Álfhóll er skammt sunnan við Brekkustíg. Sú gata heitir einnig Tjarnargata. Mætast þær niðri í brekku, sem var, en Sandgerðistjörnin lá þar inn í landið. Brött brekka var Brekkustígsmegin. Gatan var síðan hækkuð upp og brekkunni eitt. Tvínafnskipt gatan hefur þó haldist enn þann dag í dag.

Landakot

Í Sandgerðistjörninni er Veitan. Hún er stararengi. Það var slegið fyrrum. Austan við tjörnina var Sandgerðisskólinn, en hann var rifinn. Eftir að skólinn hætti að þjóna hlutverki sínu sem slíkur var þarna lítið býli, nefnt Tjörn. Sandgerðistjörnin var fyrrum einnig nefnd Skólatjörn. Eitt elsta húsið í Sandgerði, Efra-Sandgerði, stendur nú suðvestan við Sandgerðistjörnina. Vestan við húsið er Kettlingatjörn. Nafnið taldi Reynir vera komið af því að þar hafi kettlingum verið drekkt.
Kumblhóll

En fyrst svolítið almennt um Sandgerði – Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.
UppsalirUm 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 20. aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum, sem fyrr er getið. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.
Mikið kargaþýfi er á Álfhól. Erfitt var að sannreyna hvort þar kynni að vera tóft. Hins vegar mótaði fyrir tóft eða tóftum á næsta hól, suðvestanvert. Líklegt má telja að þar kunni að vera fyrrnefndur Kumblhóll.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar eftir Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni, segir m.a.: „
Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll.

Oddnýjartóft

Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.“
GvendartóftHalldóra Ingibjörnsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Berent Magnússon í Krókskoti og Árna Jónsson á Flankastöðum. Skráði hún eftir þeim athugasemdir, sem hér fara á eftir, lítt breyttar: „Sigurðarvörðu hlóð Sigurður Magnússon frá Krókskoti, er hann var að smala fé (segir Berent bróðir hans).
Ekki er líklegt, að neinn hafi verið heygður í Kumblhól.
Ekki er vitað, hvenær hætt var að nota Stekki. Nú sjást engin merki þeirra.
Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska.
Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé.
Gulllág sagðist Berent ekki muna eftir í sínu ungdæmi og taldi þetta nýlegt nafn. En Halldóra man aldrei eftir, að þessi grunni dalur væri kallaður annað en Gulllág. Þar voru fiskreitir, þegar hún var að alast upp.
Kría verpir nálægt Kríuvörðu.“
Loftur Altice Þorsteinsson ritaði örnefnalýsingu Fiskreiturárið 1996: „Kumlhól getur hæglega verið kuml. Á hólnum hefur lengi hvílt sterk helgi. Stekki var hætt að nota fyrir 1900, Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.“
Að sögn Reynis mun þrællinn Uppsali hafa verið fyrsti ábúandinn í Sandgerði og hefur hann búið að Uppsölum. Á bak við hús Reynis við Bjarmaland má sjá leifar Uppsala; litla tóft og aðra jarðlæga norðar, auk garða.
Skammt ofar má sjá leifar af Oddnýjartóft í garði eins hússins efst við Bjarmaland. Suðaustar eru tóftir; Gvendartóft. Um er að ræða tvö hús og ferkantað gerði að norðaustanverðu. Líklegt er að þarna hafi verið lítið kot um tíma. Myndarlegt vatnsstæði er suðvestan við tóftirnar. Ofar er varða, líklega landamerki. Hún gæti þess vegna hafa heitið Kríuvarða.
Í Gullág eru heillegir fiskreitir; stakkstæði, frá Miðnesi. Segja má með nokkrum sanni að of lítið hefur verið gert úr áþreifanlegum minjum í og við Sandgerði með hliðjón af sögu byggðalagsins um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Að henni lokinni bauð Reynir þátttakendum til stofu, bauð upp á kaffi og meðlæti, og fræddi þá um staðhætti og fólkið í Sandgerði fyrr á tímum.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.
-Reynir Sveinsson.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Einbúi

Stefnan var tekin á Bæjarsker. Með í för var Reynir Sveinsson frá Sandgerði, en hann þekkir vel til staðhátta á svæðinu. Ætlunin var að reyna að leita uppi og staðsetja nokkur örnefni, s.s. Krossbrekkur.
Stefnan var tekin á Bæjarsker. Með Krossbrekkurí för var Reynir Sveinsson frá Sandgerði, en hann þekkir vel til staðhátta á svæðinu. Ætlunin var að reyna að leita uppi og staðsetja nokkur örnefni, s.s. Krossbrekkur, Kampstekk og Einbúa. Við leitina kom ýmislegt óvænt í ljós. T.a.m. uppgötvaðist áður óþekkt selstaða, auk þess sem örnefndin Krossbrekka (-ur) og Kirkjuklöpp virðast gefa til kynna kirkju fyrrum á Bæjarskerjum.
Kampstekkur, sem er skammt ofan við Stafnesveg sunnan Setbergs, hefur einnig verið nefndur Kambstekkur. Um er að ræða jarðlægar grónar tóftir, sem þó má enn sjá lögun á.. Kampstekkur hefur einnig verið nefndur Kambstekkur.
KirkjukletturÍ Gráskinnu I er getið um Krossbrekku: „
Þegar Þórunn Gísladóttir yfirsetukona var 14 ára, var hún hjá foreldrum sínum á Býjaskerjum á Miðnesi. Í túninu þar var klettur nokkur sem kallaður var Krossbrekka. Var það trú manna að þar byggi huldufólk. Til marks um það má segja að bóndinn á næsta bæ, Bárugerði, þóttist eigi sjaldan sjá konu bregða fyrir uppi hjá klettinum. Sýndist honum kona sín vera að hirða þar þvott; en þegar til kom, reyndist það missýning. Kýr þeirra hjóna, sem var hæluð upp við klettinn, var eigi sjaldan þurrmjólkuð að kvöldi og vissi enginn nokkurar líkur til að það væri af manna völdum. Gat er vestan á klettinum og hugðu menn það dyr vera. Þórunn og systkini hennar voru oft um þessar mundir á órökuðum kópskinnsskóm. Einn morgun, er hún vaknar, saknar hún annars skós síns og þótti skaði, því að hann var nýr. Leitað var að skónum en hann fannst eigi; var það kennt vanhirðu Þórunnar að hún hefði látið hunda nema skóinn burt en hana minnti statt og stöðugt að hún hefði bundið skóna saman og hengt þá við rúmstokkinn um kvöldið.

Eyktarmark

En þessa sömu nótt og skórinn hvarf dreymdi Þórunni að til hennar kæmu tvær stúlkur á hennar reki. Báðu þær hana að koma út með sér. Hún þóttist klæða sig og binda upp á sig skóna og fara með þeim. Þegar út kemur biðja þær hana að koma með sér upp að Krossbrekku. Leiða þær hana síðan að gati því er nefnt hefur verið og var á klettinum og biðja hana að koma inn, það liggi mikið við.
Þórunn er treg til þess, því að hún hafði verið hrædd á klettinum. En svo fer að hún lætur til leiðast. Dettur henni þá í hug að hún hefði heyrt að vissara væri, þegar gengið er inn til huldufólks að skilja eftir eitthvað af sér utan dyra. Þykir henni því að hún leysi af sér annan skóinn og skilji hann eftir fyrir utan klettinn. Þegar inn kemur sér hún að þar liggur kona á gólfi. Fer hún höndum um hana og innan skamms verður konan léttari. Að því búnu mælti konan: „Nú máttu fara; ég ætla ekki að borga þér þetta neitt því að ekki er víst að hverju gagni þér kæmi það en vísast er að þér heppnist vel að hjálpa konum.“

Kampstekkur

Reyndar komi tveir staðir til greina sem Krossbrekkur, annars vegar óll í túninu sem fyrr sagði og hins vegar gróinn brekka í túnjaðrinum suðaustanverðum. Þar eru tvær tóftir, útihús. Ósennilegt er að reist hafi verið mannvirki í brekkunni vegna álaganna, sem á henni hvíldu. Því kom fyrrnefndi staðurinn umfram hinn betur til greina og var hóllinn staðsettur þar.
Í örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker segir m.a. um Kampastekk og Einbúa: „Þá er Bæjarsker II. Það er nyrðri bærinn. Er þá bezt að byrja neðst, og er þar Undirlendi, framhald af því, sem fyrr var getið. Upp af því er laut niður í túni, sem heitir Forarlág. Þá er Garðalág.
Einbúi

Norðan við Bárugerðismerkin heim að tjörn eru Rústir. Þetta eru fjárhús eða bæjarrústir. Þar er tjörn, sem heitir Vesturbæjartjörn. Austur af bænum er laut, sem heitir Lögrétta, og þar austur af er Önnugerði, sem er garður, sem einhver hefur haft. Þar austur af er Austurtún. Norðan við það er Krossbrekka. Norðan undir fjárhúsum suðaustan við tjörnina vestan við fjárhúsin er Beinrófa. Ofan við túnið upp að vegi eru klappir, sem heita Byrgi.
Norðan túns er nafnlaus sandur, nema eitt sker í sandinum heitir Brynkasker. Svo er Bárugerði, sem er stytt úr Báreksgerði. Ofan við túnið er kúagerði. Þar eru klettahólar við túngirðinguna, Hesthúshóll og Grásleppuhóll. Norðan við Báruhól eru tvö nýbýli, Vinaminni og Reynistaður. Innar er nýbýlið Sólbakki. Þetta svæði var nefnt Hálönd og nær inn að merkjum og upp að vegi.

Stekkur

Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við.“
Skammt vestan við Einbúa mátti sjá leifar af fjárborg á lágum hól. Sunnan við Einbúa er Leirdalur. Norðvestan við Einbúa er gróinn stekkur. Á hólnum er gróin varða, sennilega Neðrivarða. Ofar í heiðinni er Efrivarða, að öllum líkindum selvarðan, enda kom í ljós seltættur suðvestan undir Einbúa. Varðan ber við himinn efst á brúnum og sést vel frá Bæjarskerjum. Hins vegar fellur Neðrivarðan inn í brúnirnar og er mun erfiðara að sjá hana frá bænum.
Gengið yfir að Álaborginni og önnur selstaða frá Bæjarskerjum skoðuð nánar. 

Heimildir:
-Gráskinna I, 181, Sigfús VIII 251.
-Örnefnalýsing fyrir Bæjarsker.

Sandgerði

Sandgerðisbærinn.

Kershellir

 Að sögn Friðþófs Einarssonar, bónda á Setbergi, er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna. Að sögn móður hans, Elísabetar Reykdal, notaði afi Friðþjófs, Jóhannes Reykdal, hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði hús undir féð uppi á Húsatúni þar skammt frá.

Kershellir

Kershellir.

Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli.
Kershellir, sem er á landamerkjum, er tvískiptur; nyrðri helmingur hans tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti.
Hvatshellir gengur suður úr niðurfalli sunnan Suðurhlíðar milli Setbergshlíðar og Slétturhlíðar og er stór varða á vesturbrún þess. Um töluverða hvelfingur er að ræða, um 40 metra langa, 10 metra breiða og um tveggja metra háa. Eftir að komið er niður í hellinn sjást göng upp með niðurfallinu. Þar er afhellir álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Heildarleng hellisins er um 100 metrar. Hellirinn fannst sumarið 1906 og varð forsíðufrétt í blaðinu Þjóðhvelli (1906), en þar segir:
„Fjórir piltar, ungir og röskir: Helgi Jónasson, Matthías Ólafsson, Sigurbjörn Þorkelsson (allir þrír starfsmenn Edinborgarverslunar hér í bænum) og Skafti Davíðsson trésmiður, höfðu myndað með sér félag í vor, er heitir Hvatur, í því augnamiði, að temja sér göngulag og styrkja með því líkamann. Hafa þeir því á sunnudögum gengið upp í landið til að njóta fríska loftsins og fegurðar náttúrunnar. Í einum slíkum leiðangri fyrir skömmu, fundu þeir hellir einn uppi í Hafnarfjarðarhrauni, stóran og fallegan – miklu stærri en helli þann í Þingvallahrauni, er kenndur er við enska manninn, Hall Caine, af því að hann fann hann ekki.-
Þennan nýfundna hellir hafa piltarnir skírt Hvatshelli, eftir félagi sínu, og var vel til fundið. – Lengd hellis þessa, frá enda í enda, kvað vera 300 fet; afhellar eru margir út úr aðalhellinum, hver inn af öðrum, og kvað innsti hellirinn vera þeirra lang-fallegastur. Hvelfing hans er t.d. snilldarvel löguð. Merki þess þykjast menn sjá, að menn hafi komið í hellir þennan áður fyrir löngu.
Árangur af þessari ferð piltanna hefur orðið merkilegur mjög, og hlýtur að vera þeim og öðrum til gleði, – eiga þeir þökk skilið fyrir fundinn. – Að minnsta kosti hefði slíkur fundur sem þessi þótt matur hér í Víkinni, hefði finnandinn verið einhver nafnkenndur útlendingur eða Lord eða eitthvað því um líkt og verið innundir hjá ritstjóranum.“

Fjárhús

Fjárhúsið í Húsatúni.