Fuglavíkurvegur

Ætlunin var að ganga með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti III (Bjarghús) um gömlu Fuglavíkurleiðina milli Fuglavíkurhverfis og Sandgerðisgötu þar sem leiðirnar mætast við Einstæðingshól á Miðnesheiðinni.
Á FuglavíkurleiðSigurður er að öllum líkindum sá eini núlifandi, sem þekkir þessa gömlu þjóðleið. Hún hefur víða blásið upp í heiðinni, en ummerki má þó enn sjá eftir hana nánast samfellt ef vel er að gáð, s.s. vörðu- og götubrot. Efsta hlutanum, næst Einstæðingshól á Einstæðingsmel, hefur þó verið raskað vegna andvaraleysis hlutaðeigandi. Tilgangur ferðarinnar var að staðsetja götuna og kortleggja.
Ef vel gengi var og ætlunin að huga einnig að gömlu götunni að Bæjarskerjum (Býjaskeri), en hún hefur ekki verið farin lengi.
Með í för voru, auk FERLIRsfélaga, Páll í Norðurkoti, tengdasonur Sigurðar, og Guðmundur, félagi hans, en báðir eru þeir áhugasamir um örnefni og gamlar minjar í Fuglavíkurhverfi og víðar.
Þess má geta að Sigurður hafði áður leitað að og fundið Fuglavíkurleiðina, merkt hana og varðveitt. SigurðurSíðar hafi snuðra hlaupið á þráðinn og hann ákveðið að fjarlægja merkingar á götunni. Við það hvarf hún auðvitað með það sama. Nú var ætlunin, sem fyrr sagði, að endurheimta hana.
Sigurður, sem er að verða kominn á níræðisaldur (f: 08.09.1929), gekk röskum skrefum að upphafsreit, staðnæmdist, benti í austnorðaustur upp heiðina og sagði: „Í þessa átt drengir. Gatan virðist ógreinileg í fyrstu, en hún lá hér frá Norðurkoti og upp eftir.“ Síðan hélt hann af stað með aðra á eftir sér. Á hægri hönd var hlaðin lítil tóft með dyr mót suðri; „hænsnahús frá Hólum og síðar frá Norðurkoti,“ sagði Sigurður. Ofar varð gatan greinilegri og var tiltöluleg auðvelt að fylgja henni upp að Háamel. Ofan hans kom hún í ljós á nýjan leik. Efri-varða sást þá í norðri. Varðan var notuð sem fiskimið og sem sundvarða. Ekki er vitað um Neðri-vörðu. Vörðubrot voru við götuna sem og á nálægum hólskollum.

Fuglavíkurvegur

Gatan beygði með norðanverðri „Sléttunni“, líklega svo koma mætti við í Folaldatjörn (Folaldavötnum), hinu ágætasta vatnsstæði í heiðinni. Folaldatjörn hefur einnig verið nefnd Folaldapollur, en sá mun vera nokkru sunnar í heiðinni. Nafnið kom til eftir að folald drapst í tjörninni.
Fátt er um kennilýsingar í Miðnesheiðinni. Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir m.a.: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu.
Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum. Upp af Norðurkoti ofan við veg er lægð, sem heitir Gil. Í því norðanverðu er býlið Bjarghús.“ Við það var reist nýbýlið Norðurkot III þar sem Sigurður Eiríksson býr nú.
EinstæðingshóllÍ örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker er einnig fjallað svolítiðum kennileiti í heiðinni, s.s.: „
Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við. Þar ofar, norður og vestur, er Stórhóll. En beint þar norður af er Stekkur. Þá er norður af Stórhól Svefnhóll, með smálægð á milli, þar niður af. Niður við rétt er Stakkstæði. Þar er hóll. Þar voru klappir og þurrkaður fiskur á þeim. Þetta er sunnan við gamla Keflavíkurveginn. Svo er skilarétt gömul ofan við veginn rétt við Stakkstæðið. Nú er að fara aftur og fara upp. Ofan þessa er Skurðholt, og syðst í Skurðholtum er Litli-Bekkjarhóll. Norður af honum og hærra er Stóri-Bekkjarhóll. Nyrzt í þeim sunnan við veg er Tóhóll. Upp af honum er Grænabrekka.
FjárborgNorðan við Tóhól var í gamla daga fjárhús, og rétt þar upp af er Hleypisundshóll. Hann er á merkjum móti Fuglavík. Suður og upp af Hleypisundshól eru Folaldavötn, en þau eru Í Fuglavíkurlandi. Þar upp af til norðurs eru Gömlu-Þrívörður, og til austurs og norðausturs Litlu-Þrívörður. Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. Skammt ofar varð að sprengja þar úr. Þar upp undan, suðaustur af Gömlu-Þrívörðum, eru svonefnd Torfmýrarvötn. Þetta eru þrjár tjarnir í mýri og mosatóum. Ein þeirra þornar aldrei. Ein er stór og aldrei slegin. Suður af þeim og milli þeirra eru klappir, nefndar Grímsvörðusker.“
Þegar komið var upp á Einstæðingshól komu í ljós leifar af fyrrum myndarlegri ferlingslagaðri vörðu. Hana hyggjast Sigurður og Guðmundur endurgera þegar færi gefst. Væri það vel til fundið að viðhalda henni og þá um leið hinum fyrri gatnamótum Fuglavíkurvegar og Sandgerðisgötu (-vegar).
Í BæjarskersseliÞá var haldið niður að Vegamótahól. Við hann liggur Sandgerðisvegurinn. Þar eru og gatnamót Bæjarskersgötu (-vegar). Henni var fylgt niður að „Sandgerðisskógum“. Norðan þeirra eru Álaborgarréttir syðri. Austan réttanna eru kofatóftir, en enn austar má vel sjá leifar af hringlaga fjárborg. Gatan liggur niður með klettarana; Álaborg. Suðvestan undir hennar er stór klettur, sæbarinn; Stekkurinn, að sögn Sigurðar. Sagnir eru um að álfar gisti seininn.
Þegar skoðað var í kringum Álaborgina kom í ljós seltættur, sennilega Bæjarskerssel. Kofatóftir eru vestanundir aflöngu klapparholti, í skjóli fyrir austanáttinni. Vestar er hringlaga tóft. Sunnan hennar er stekkur undir Álaborgarnefinu.
Vatnsstæði er undir klettum ofan og til hliðar við Stekkurinnstekkinn. Líklegt má telja að selið hafi verið nýtt af bændum í Bæjarskershverfinu, en lagst af nokkru áður en svæðið var nýtt til yfirsetu. Auðvelt hefur verið um vik því stekkstæðið er tiltölulega nálægt bæjum.
Þegar Bæjarskersgatan (selstígurinn) var genginn áleiðis til bæjar kom í ljós önnur gata skammt norðar með sömu legu. Sú leið er vörðuð. Ætlunin er að skoða hana við tækifæri, sem og kirkjugötuna millum Bæjarskershverfis og Hvalsness, en hún sést enn mjög greinilega.
Grjóthlaðin Bæjarskersréttin skammt ofan við Stafnesveg, og er enn notuð, var byggð í kringum 1930.
Að lokinni göngu var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð að Norðurkoti þar sem ekki færri en níu kökusortum og laufabrauði var rennt niður með ljúffengu kakói.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.
Folaldatjörn

Laugarás

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti með auglýsingu nr. 41/1982 í Stjórnartíðindum B samkvæmt heimild í 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971. Stærð: Friðlýsta svæðið er 1,5 hektarar.

Laugarás

Laugarás – friðlýsing 1982.

Samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 hefur Umhverfisstofnun umsjón með svæðinu, en Reykjavíkurborg var falin dagleg umsjón þess og rekstur svæðisins með umsjónarsamningi árið 2015.

Verndargildi Laugaráss felst fyrst og fremst í verndun jarðminja á svæðinu, en þar er að finna grágrýtisklappir sem eru í senn jökulsorfnar og bera ummerki um hæstu sjávarstöðu við lok ísaldar í Reykjavík.

Náttúruvættið Laugarás er 1,5 hektarar að stærð. Það er staðsett efst á Laugarásholti í Langholtshverfi í Reykjavík.
Jarðminjar í Laugarási eru afmarkaðar við hæsta punkt. Þar er að finna grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem talin eru vera um 200 þúsund ára og eru hluti af Reykjavíkurgrágrýtismynduninni. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð og var Laugarás einn af fáum stöðum sem var ekki neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst og má sjá ummerki um það á svæðinu.

Laugarás

Laugarás – friðlýsingarmörk.

Jarðminjar svæðisins veita mikilvæga sýn í jarðsögu Reykjavíkur og upplýsingar um loftslags- og landháttabreytingar. Jarðminjarnar eru víða þaktar mosa og hrúðurfléttum. Áður fyrr var holtagróður ríkjandi á svæðinu, en hann á nú undir högg að sækja vegna lúpínu og trjágróðurs. Lúpínan myndar stórar og þéttar breiður og sem stundum skyggja á eða hylja jarðmyndanirnar. Heildarþekja lúpínu á svæðinu er um 50-60%. Birki er algengasta trjátegundin, en einnig er mikið um selju.
Aðrar trjátegundir sem finnast eru reynir, viðja, alaskavíðir, loðvíðir, stafafura og elri. Ýmsir fuglar halda til á svæðinu, s.s. stari, svartþröstur og auðnutittlingur. Flugur og fiðrildi eru mest áberandi af skordýrum, einkum hunangsflugur, geitungar, birki- og víðifetar og ýmsar tvívængjur. Innan um gróðurinn er nokkuð um hattsveppi.

Laugarás

Laugarás.

Í náttúruvættinu hefur verið lagður göngustígur frá bílastæði við Vesturbrún upp að hæsta punkti svæðisins. Við göngustíginn stendur fræðsluskilti. Töluvert margir aðrir stígar, misgreinilegir, hafa myndast í gegnum svæðið, en um er að ræða troðninga en ekki eiginlega stíga. Flestir þeirra liggja að hæsta punkti svæðisins, en þar er steypustöpull sem skilgreinir mælingapunkt frá Landmælingum Íslands.
Bílastæði eru við jaðar svæðisins að sunnanverðu í Vesturbrún sem ætluð eru gestum Áskirkju en nýtast vel þeim sem vilja heimsækja Laugarás. Við göngustíg rétt utan friðlýsta svæðisins að norðaustanverðu er nýlegur bekkur og ruslafata. Þá er bekkur við Vesturbrún við suðurenda svæðisins og annar hinu megin við götuna hjá Áskirkju.

Laugarás

Laugarás (MWL).

Laugarás hefur mikið gildi sem útivistarsvæði. Svæðið liggur hátt og er útsýni gott til allra átta, yfir borgarlandið, sundin og til fjalla. Svæðið er í miðri íbúabyggð og er nálægt öðrum mikilvægum útivistar- og náttúrusvæðum, Laugardal og Laugarnesi.

Laugarás hefur mikið fræðslu- og menntunargildi, t.d. fyrir nálæga leik- og grunnskóla, sem og almenning. Jarðminjarnar veita tækifæri til fræðslu á sviði jarðfræði, jarðsögu og landafræði. Gróðurfar svæðisins veitir tækifæri til fræðslu í grasafræði, vistfræði og annarri náttúrufræði. Þá halda spörfuglar sig á svæðinu og ýmis smádýr.
Staðsetning svæðisins í miðju þéttbýli gefur tækifæri til fræðslu í umhverfisfræði um tengsl manns og náttúru, áhrif garðyrkju á náttúruleg gróðurlendi, sorp, aðra mengun og fleira.
Útsýnið yfir Reykjavík veitir tækifæri til fræðslu í landafræði Reykjavíkur, byggingar- og skipulagssögu, arkitektúr og fleira.

Laugarás

Laugarás – steinstöpull fyrrum.

Vernda skal jarðminjar náttúruvættisins Laugaráss og gæta þess að framkvæmdir og ágangur manna rýri ekki ásýnd þeirra eða breyti landslagi svæðisins. Uppbyggingu innviða skal vera þannig háttað að þeir falli vel að landslaginu og rýri ekki ásýnd svæðisins. Tryggja skal að ástand og sýnileiki jarðmyndana verði eins og best verður á kosið. Við skipulag og framkvæmdir innan svæðisins skal verndun jarðminja höfð að leiðarljósi.

Jarðminjarnar á svæðinu eru afmarkaðar við hæsta punkt svæðisins. Um er að ræða grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem tilheyra stóru Reykjavíkurgrágrýtismynduninni.

Laugarás

Laugarás.

Aldur grágrýtisins í Laugarási er líklega um 200 þúsund ára þegar upphleðsla Reykjavíkurgrágrýtisins var sem viðamest. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið í Laugarási eins og víða annars staðar í Reykjavík og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð til muna þegar jöklar bráðnuðu og var Laugarás einn af fáum stöðum á núverandi landsvæði Reykjavíkur sem var ekki að fullu neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst en þá var hún um 45 metrum hærri en hún er í dag. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti sem er lábarið af öldugangi. Ummerkin eru svipuð og sjá má í Öskjuhlíð þó í minna mæli séu.

Laugarás

Laugarás – fræðsluskilti.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur hefur látið hanna, smíða og setja upp fræðsluskilti um þrjú friðlýst náttúruvætti í landi Reykjavíkur, Fossvogsbakka, Háubakka og Laugarás. Náttúruvætti er einn flokkur friðlýstra náttúruminja og eru skilgreind sem einstök náttúrufyrirbæri, jarðmyndanir eða lífræn fyrirbæri, sem skera sig úr umhverfinu og er ástæða til að varðveita vegna fegurðar, fágætis, stöðu í landslagi, vísindalegs gildis eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Laugarás í Langholtshverfi var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982 vegna áhugaverðra jarðminja, einkum jökulsorfins grágrýtis og ummerkja um forna sjávarstöðu.

Laugarás

Laugarás – frá undirskrift Verndar- og stjórnunaráætlunar um Laugarás 2015.

Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð til muna þegar jöklar bráðnuðu og var Laugarás einn af fáum stöðum á núverandi landsvæði Reykjavíkur sem var ekki að fullu neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst en þá var hún um 45 metrum hærri en hún er í dag. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti sem er lábarið af öldugangi.

Meginmarkmið með gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir svæðið er að leggja fram stefnu um verndun náttúruvættisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins.
Verndar- og stjórnunaráætlunin var unnin af starfsfólki umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnunar árið 2015 og er sett í samræmi við lög nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Heimildir:
-http://www.umhverfisstofnun.is
-https://reykjavik.is/laugaras
-https://reykjavik.is/frettir/samid-um-thrju-fridlyst-svaedi-i-reykjavik
-https://reykjavik.is/frettir/ny-fraedsluskilti-um-fridlystar-jardminjar
-Auglýsing um Friðlýsingu Laugaráss í Reykjavík (1982). Stjórnartíðindi, B-deild, nr. 41.
-Árni Hjartarson (1980): Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík of nágrenni, Náttúrufræðingurinn, 50:108-117.

Laugarás

Laugarás – jökulssorfið hvalbak.

Strandarkirkja

Jón Helgason, biskup, skrifaði grein „Um Strönd og Strandarkirkju“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1926:
strandarkirkja - jon helgason
Árni biskup á fyrstur að hafa vígt kirkju á Strönd. Hið sannasta, sem sagt verður um uppruna Strandarkirkju, er, að vjer vitum ekkert um hann með vissu. Má vel vera, að hún hafi verið reist þegar í fyrstu kristni, og eins má vel vera, að hún hafi ekki verið reist fyr en í tíð Árna biskups á síðari hluta 13. aldar. Um það verður ekkert fullyrt. En um máladag kirkju þessarar er ekki að ræða eldri en frá 13. öld. — Strönd í Sel-Selvogi er höfðingjasetur eins lengi og vjer höfum sögur af. Situr þar hver höfðinginn fram af öðrum að stórbúum af mestu rausn.
Í lok 13. aldar bjó þar Erlendur sterki lögmaður Ólafsson, og eftir hann mun sonur hans, sá ágæti fræðimaður Haukur Erlendsson lögmaður, hafa búið þar, uns hann fluttist búferlum til Noregs eftir 1308. Síðar á 14. öld kunnum vjer að nefna Ívar Vigfússon Hólm hirðstjóra sem búandi á Strönd og eftir hans dag Margrjeti Össurardóttur, ekkju hans. Vigfús hirðstjóri, sonur þeirra, hafði þar eitt af fjórum stórbúum sínum og með dóttur hans Margrjeti Vigfúsdóttur eignast Þorvarður Loftsson (ríka á Möðruvöllum) Strandar-eignina og varð Strönd eitt af höfuðbólum hans.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1900.

Um aldamótin 1500 býr þar dóttursonur þeirra Þorvarðar og Margrjetar, Þorvarður lögmaður Erlendsson og eftir hann sonur hans Erlendur lögmaður Þorvarðarson (d: 1575), „stórgerðasti maðurinn, sem þar hefir búið. Var hann alt í senn yfirgangsmaður, ofstopamaður, vitur maður og þjóðrækinn maður“ (dr. J. Þ.). Má að vísu telja, að Strönd hafi verið með helstu stórbýlum og höfðingjasetrum sunnanlands í fullar fjórar aldir og ef til vill lengur. En hafi þar stórbændur setið lengst af, mætti ætla, að þar hafi og kirkja verið lengst af, því að auk þess, sem hverjum, er vildi, var heimilt að gera kirkju á býli sínu, ef landeigandi legði fje til, „svo að biskup vildi vígja fyrir þeim sökum“, eins var það mörgum stórbónda nokkuð metnaðarmál að hafa kirkju reista á óðalsjörð sinni. Jafnsnemma og vjer vitum um kirkju á Strönd, er, eins og vikið var að, um aðra kirkju talað þar í Vognum, sem sje að Nesi. Hvor þeirra hefir talist höluðkirkja þar í sveit, vituni vjer ekki. En bent gæti það á Neskirkju sem höfuðkirkju, að Erlendur sterki fær leg í Nesi, en ekki á Strönd, þótt vitanlega hafi einhverjar aðrar orsakir getað verið því valdandi. En því meiri sem vegur Strandar varð, því eðlilegra varð og, að Strandarkirkja yrði höfuðkirkja bygðarinnar, enda er hún það lengstan tímann, sem vér þekkjum til.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1884.

En á síðari hluta 17. aldar tók Strandarland að eyðast af sandfoki og þar kom um síðir, að þessi gamla vildisjörð og höfðingjasetur lagðist algerlega í eyði. Og svo hefir verið um þessa jörð síðan. En þótt alt annað færi í svartan sandinn, fjekk kirkjan að standa þar áfram og með henni hefir nafn þessa forna stórbýlis varðveist frá gleymsku.
Elsta lýsing Strandarkirkju, sem til er, er frá dögum Odds biskups Einarssonar. Þar er kirkjunni lýst á þessa leið: „Kirkjan nýsmíðuð; fimm bitar á lofti að auk stofnbitanna, kórinn alþiljaður, lasinn prjedikunarstóll; óþiljuð undir bitana, bæði í kórnum og framkirkjunni, einnig fyrir altarinu utan bjórþilið. Þar fyrir utan blýþak ofan yfir bjórþilið — og ofan á öllum kórnum er sagt sje blýlengja hvoru megin og eins ofan yfir mæninum, líka svo á framkirkjunni.“ Á þessari lýsingu má sjá, að kirkjan hefir verið vandað hús, en að sjálfsögðu torfkirkja eins og flestar kirkjur hjer á landi voru í þá daga.
Eftir að alt Strandarland var komið í sand, var eðlilegt að mönnum dytti í hug að flytja kirkjuna úr sandinum h

Vogsósar

Vogsósar.

eim að prestsetrinu Vogsósum. En Selvogsmenn voru ekki á því, þótt hvað eftir annað yrði að byggja kirkjuna upp, svo illa sem fór um hana þar á svartri sandauðninni. Þó segir í vísitasíu Mag. Jóns biskups Árnasonar frá 1736, er kirkjan hafði verið endurreist fyrir einu ári, að nú sje kirkjan „betur á sig komin en hún hafi nokkurntíma áður verið,“ og svo um hana búið að utan, að „sandurinn gangi ekki inn í hana.“ En 15 árum síðar vísiterar Ólafur biskup Gíslason kirkjuna og er hvergi nærri jafnánægður með hana. „Húsið stendur hjer á eyðisandi, svo hjer er bágt að fremja guðsþjónustugerð í stormum og stórviðrum, er því mikið nauðsynlegt, hún sje flutt í annan hentugri stað.“ Og haustið 1751 skipar biskup, með samþykki Pingels amtmanns, að kirkjan sje rifin og endurreist á Vogsósum, enda hafði óglæsileg lýsing hennar borist amtmanni í umkvörtunarbrjefi frá sóknarprestinum sjera Einari Jónssyni.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Segir þar m. a. á þessa leið: „Hver sandur, sem í stórviðrum fýkur að kirkjunni af illum áttum engu minna foreyðir og fordjarfar bik, kirkjunnar, viði og veggi en vatnságangur, því það fer dagvaxandi, sjerdeilis á vetrartíma í snjófjúkum, að sandfannirnar leggjast upp á veggina því nær miðja. — Eins fordjarfar sandurinn læsing, saura og hurðarjárn kirkjunnar, svo það er stórþungi hennar utensilía og ornaraenta að ábyrgjast og hirðing að veita á eyðiplássi. Til með er skaðvænleg þætta, helst á vetrartíma, í þessari kirkju að forrjetta kennannlegt embætti, einkanlega það háverðuga sacramentum (sem ekki má undan fellast), þá stórviðri upp á falla meðan það er framflutt. Fólkið teppist þá í kirkjunni ásamt prestinum, sem ekki kann við halda þar hesti sínum skýlislausum nær svo fellur, hvar fyrir, þá veðurlegt er á sunnu- eða helgidagsmorgni, ei vogar alt fólk til kirkjunnar að fara, helst heilsulint og gamalt fólk, ekki heldur ungdómurinn, sem uppfræðast skal í eatechisationinni og öðrum guðsorða lærdómi.“

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

En ekkert varð úr kirkjuflutningnum. þeim mönnum, sem þar höfðu helst haft forgöngu, varð það atferli þá líka meira en dýrt spaug, því að „áður en sá frestur væri útrunninn er kirkjan skyldi flutt vera“ hafði Pingel amtmaður hröklast úr embætti, Ólafur biskup og Illugi prófastur í Hruna orðið dauðanuni að herfangi og Einar Vogsósaprestur flosnað upp! Þótti mönnum sem þeim hefði komið greipileg hefnd fyrir afskifti sín af því flutningsmáli. Enda stóð kirkjan áfram á sama staðnum. Og heldur en að eiga það á hættu, að valdamenn kirkjunnar þröngvuðu sóknarmönnum til að flytja húsið, ljetu þeir um langt skeið ósint öllum skipunum frá hærri stöðum um að endurbyggja húsið, þótt hrörlegt væri orðið og lítt við unandi, en reyndu í þess stað að ditta að húsinu eftir þörfum. Fjekk það því að hanga uppi full 113 ár, eða þangað til 1848, er alt tal um flutning var löngu þagnað.

Strandarkirkja

Gömul klukka Strandarkirkju.

Hið síðasta, sem vjer vitum gjört hafa verið til þess að fá kirkjuna flutta, það gjörði sjera Jón Vestmann. Er að því vikið í vísum hans, sem áður eru nefndar: „Hann mig hafa vildi heim að Vogsósum og byggja í betra gildi, en bráðum mótsögnum hlaut hann mæta af hjátrúnni, meinar hún standi megn óheill af mínum flutningi.“ Flutningurinn fórst þá líka fyrir. Varð prestur að láta sjer nægja að „setja kirkjuna í sæmilegra stand en fyr“ og síðan hefir því, svo kunnugt sje, alls ekki verið hreyft, að kirkjan væri flutt burt úr sandinum.
Árið 1848 var gamla torfkirkjan (frá 1735) loks rifin til grunna af sjera Þorsteini Jónssyni frá Reykjahlíð (síðast presti að Þóroddsstöðum í Kinn) er fullgerð; þar nýja kirkju ..úr tómu timbri“ og stóð sú kirkja til 1887. Mynd af þessari Strandarkirkju gefur að líta á póstkorti, sem Ísafoldar-bókaverslun hefir fyrir skemstu prenta látið.. En sú kirkja sem nú er á Strönd, mun myndarlegri. Ljet sjera Eggert Sigfússon, er varð síðastur prestur í Selvogsþingum, reisa hana 1887 og er það mynd af henni, eins og hún er nú, sem birtist hjer í blaðinu. Þá kirkju smíðaði Sigurður Árnason trjesmiður hjer í Reykjavík, en ættaður úr Selvogi.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1948.

Hve snemma tekið hefir verið að heita á Strandarkirkju, vita menn nú ekki. Áheit á kirkjur var mjög algeng í kaþólskum sið hjer á landi sem annarstaðar. En þegar í Vilkins-máldaga er beint tekið fram um þessa kirkju, að henni gefist „heitfiskar“ og það tilfært sera tekjugrein, mætti sennilega af því ráða, að meiri brögð hafi verið að heitagjöfum til hennar en annara kirkna.
Hvort siðaskiftin kunna að hafa haft nokkur áhrif á trúnað manna á Strandarkirkju, um það verður ekkert sagt. Heimildir allar þegja um það. En ekkert er því til fyrirstöðu, að sá trúnaður alþýðu hjeldist áfram, ekki síður en margt annað, sem frá katólsku var runnið, þótt ekki hefði hátt um sig. Og áreiðanlega gerir sjera Jón gamli Vestmann ráð fyrir því í Strandarkirkju-vísunum, að áheitin sjeu ekki síður frá eldri tíð en yngri. Sjerstaklega álítur hann, að öllum þeim forsvarsmönnum kirkjunnar, sem bygðu hana eða bættu, hafi fyrir það borist „—. höpp og bjargir bú sem styrktu“ mest“ og lifað við hagsæld upp frá því, meðan þar dvöldust. Sjerstaklega þakkar presturinn mikla hagsæld Bjarna riddara Sívertsens (sem var upprunninn í Selvogi) því örlæti hans við kirkjuna, að hann 1778 gaf henni skriftastól.

Strandarkirkja

Í Strandarkirkju.

Víst má telja, að meðfram liggi leifar hins forna trúnaðar á kirkjuna tit grundvallar samúð sóknarmanna með kirkjunni, er þeir máttu ekki hugsa til þess að hún væri flutt burt úr sandinum við sjóinn. En til þess voru og þær raunhæfar ástæður, að þar hafði kirkjan staðið um aldaraðir, og af sjó að líta, var kirkjan þar á sandinum róðrarmönnum besta sjómerki, þegar leituðu lendingar. — Hins vegar kynnu líka tilraunir kirkjuvaldsins til að fá kirkjuhúsið flutt í óþökk sóknarmanna, hafa orðið til að auka og efla samúð þeirra með þessu gamla guðshúsi, er auk þess sem svo margar gamlar endurminningar voru tengdar við kirkjuna, stóð þarna svo sem minnisvarði fornrar frægðar höfuðbólsins og höfðingjasetursins á Strönd, en var nú orðin eins og einstæðingur þar á sandinum, eftir að alt annað, sem þar hafði áður verið, var horfið burtu.

Strandarkirkja

Hestasteinn við Strandarkirkju.

En með vaxandi samúð almennings með þessari kirkju sinni má gera ráð fyrir, að lifnað hafi aftur yfir gömlum trúnaði á hana, og sú sannfæring náð enn meiri festu með alþýðu manna að það, sem vel væri til kirkjunnar gert, yrði þeim til hagsældar og hamingju, sem gerði, af því að það væri gert til hans þakka, sem húsið var helgað. — Sá, er þetta ritar, lítur svo á, að með þessu sje gefin nægileg skýring þess, hversu trúnaðurinn á Strandarkirkju hefir haldist með alþýðu fram á vora háupplýstu daga. Mun engin ástæða til að setja það í nokkurt samband við trúnað manna á kyngikraft sjera Eiríks „fróða“ á Vogsósum Magnússonar, sem var Selvogsþingaprestur 1677—1716 eða full 39 ár, þrátt fyrir allar þær sagnir, sem mynduðust um hann, enda er eftirtektarvert, að ekki er nein þjóðsaga kunn um sjera Eirík, þar sem Strandarkirkju sje að nokkru beint getið. Og sennilega hefir sjera Jóni Vestmann ekki verið neitt kunnugt um samband þar á milli; því að naumast hefði hann látið þess ógetið í vísum sínum, ef á hans vitorði hefði verið, svo víða sem hann kemur við; en sjera Jón var prestur þar eystra í 32 ár.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Sjera Jón Vestmann var uppgjafaprestur í Kjalarnesþingabrauði er faðir minn sál. byrjaði þar prestskap 1855. Hafði sjera Jón setið að Móum, sem var ljensjörð prestsins í þingunum. Vildi faðir minn ekki hrekja hann burtu þaðan hálfníræðan og fjekk sjer því verustað á Hofi og dvaldist þar árin, sem hann var á Kjalarnesinu. Oft heyrði jeg föður minn sál. minnast á þessi gömlu prestshjón. Þótti honum þau ærið forn í framgöngu og háttum. En sjera Jón kunni frá mörgu að segja og þótt föður mínum því gaman og spjalla við hinn aldraða klerk, enda mun hann sjaldan hafa átt þar leið um svo að hann ekki skrippi af baki til að heilsa upp á gamla manninn. Sjera Jón dó 1859, en þá var faðir minn kominn að Görðum.
Átrúnaður manna á Strandarkirkju, er á allra vitorði, sem blöðin lesa, enda hafa verið svo mikil brögð að áheitunum á kirkju þessa hin síðari árin, að auðtrygni manna í sambandi við hana hefir aldrei komist á hærra stig. Kirkja þessi er nú orðin ríkust allra kirkna á þessu landi, á tugi þúsunda á vöxtum og er sjálf hið stæðilegasta hús, er getur enst lengi enn. Er því síst um gustukagjafir að ræða, þar sem áheitin eru. En svo er auðtrygnin rík, að kirkjunni berast áheit frá mönnum, sem ekki hafa hugmynd um hvar í landinu kirkja þessi er. Hingað hafa einatt borist áheit í brjefum, sem fyrst hafa farið — norður á Strandir, af því hlutaðeigandi áleit kirkju þessa vera þar nyrðra!

Strandarkirkja

Strandarkirkja 2023.

Þeim sem þetta ritar, er það síst á móti skapi, að gefið sje til guðsþakka og að einnig kirkjur hjer á landi njóti góðs af því örlæti manna. En þegar menn hugsa til þess, að annarsvegar á hjer í hlut ríkasta kirkja landsins, en hinsvegar eru hjer starfandi ýms nytsemdar fjelög og þarfan stofnanir, sem vegna fjárskorts eiga örðugt uppdráttar, þá er ekki að furða þótt þeim fyndist tími til þess kominn, að menn hættu að færa fórnir á altari auðtrygninnar með Strandarkirkju-áheitum sínum, en ljetu heldur örlæti sitt í tje stofnunum, sem áreiðanlega eru gjafaþurfar og starfa fyrir góð málefni í almennings þarfir og alþjóð til heilla. Það má vera auðtrygni á mjög háu stigi, sem álítur, að minni blessun fylgi því að lofa gjöfum til Stúdentagarðsins eða Elliheimilisins eða Sjómannastofunnar eða Sumargjafarinnar, svo að jeg nefni aðeins nokkur fyrirtæki frá allra síðustu árum, en að láta þær renna sem áheit til Strandarkirkju, sem alls ekki er neinn gjafaþurfi.“

Heimild:
Lesbók Morgunblaðsins 17. janúar 1926, bls. 1-4.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Sæluhús

Á vefsíðu Ferðafélags Íslands er sagt frá endurbyggingu sæluhúss við „Gamla Þingvallaveginn“. Annað sæluhús, mun eldra, hlaðið úr torfi og grjóti, var í Moldbrekkum skammt norðaustar á Mosfellsheiði, við „Fornu Þingvallaleiðina“ um Seljadal og Bringur. Yngra sæluhús hafði verið byggt við „Nýju Þingvallaleiðina“ áður en „brú og nýbyggt sæluhús frá árinu 1907 var byggt úr tilhöggnum steini“ við Gömlu Þingvallaleiðina. Reyndar eru þarna um öfugmæli að ræða. Lítið hefur farið fyrir því, bæði í heimildum og frásögnum.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – gamla sæluhúsið.

„Ferðafélag Íslands hefur undanfarin misseri unnið að endurbyggingu á sæluhúsi austarlega á Mosfellsheiði. Það var upphaflega reist um 1890 við nýjan veg til Þingvalla sem gengur núna undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn. Húsið var byggt úr tilhöggnu grágrýti, það var 7×4 m að flatarmáli og veggir 1,80 m á hæð. Á því var risþak, sennilega klætt með bárujárni og útidyr voru á langvegg.

Bjarki Bjarnason sem átti hugmyndina um endurbyggingu hússins var ráðinn umsjónarmaður verksins. Bjarki segir að á ofanverðri 19. öld hafi töluvert verið byggt af húsum hérlendis úr tilhöggnu grágrýti og sæluhúsið á heiðinni fylli þann flokk. Steinhúsin voru einskonar millispil, torfhús höfðu verið allsráðandi um aldir en steinsteypt hús risu síðan á nýrri öld.

Sæluhús

Sæluhúsið við gamla Þingvallaveginn um 1920.

Sæluhúsið á Mosfellsheiði gerði sitt gagn í nokkra áratugi, það var jafnvel ferðamönnum til lífs að komast þangað í skjól í vályndum veðrum. En fyrir alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930 var nýr þjóðvegur lagður til Þingvalla á svipuðum slóðum og akvegurinn liggur þangað nú. Gamli Þingvallavegurinn var minna notaður en áður og einnig sæluhúsið, enda var notalegra að gista undir mjúkri sæng á gistihúsinu á Geithálsi eða Hótel Valhöll á Þingvöllum.

Þingvallavegur

Nýi Þingvallavegur – sæluhúsið fyrrum.

Viðhaldi sæluhússins var ekki sinnt, þak, gluggar og hurð urðu veðrinu og tímanum að bráð og steinhlaðnir veggirnir féllu undan eigin þunga en hafa alltaf verið sýnilegir á sínum upphaflega stað. Eldra sæluhús, sem hlaðið hafði verið upp á leiðinni, heyrði sögunni til. Framan við það var grunnur brunnur.

„Þetta „hús“ hefur mikið byggingarsögulegt gildi og er sannarlega þess virði að það verði varðveitt, segir Bjarki, og einnig Gamli Þingvallavegurinn sem lá þvert yfir heiðina frá Geithálsi að Almannagjá, nú eru uppi hugmyndir um friðlýsingu hans.
Vegna endurbyggingarinnar var aflað tilskilinna leyfa, Arkitektastofan Argos vann tillögur að endurgerð hússins og Húsafriðunarsjóður hefur veitt rúmlega þrjár milljónir króna til þessara framkvæmda sem er um þriðjungur af kostnaðaráætlun verksins. Mér finnst það afar spennandi að vinna að þessari uppbyggingu og gaman að sjá húsið rísa úr öskustónni eftir ár og öld.“

Þingvallavegurinn gamli

Sæluhúsatóft við gamla Þingvallaveginn árið 2020.

Þegar öll tilskilin leyfi voru í höfn hófst endurreisnin á heiðinni á síðasta ári. Leitað var til tvíburabræðranna Ævars múrsmiðs og Örvars húsasmiðs Aðalsteinssona og óskað eftir því að þeir tækju endurbygginguna að sér. Þeir hafa mikla og góða verkþekkingu á þessu sviði og mikinn áhuga á málinu, hafa auk þess starfað sem fararstjórar fyrir Ferðafélag Íslands.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – hús og sæluhúsatóft.

Í fyrrasumar voru hleðslusteinarnir teknir ofan og raðað við hliðina á rústinni eftir ákveðnu kerfi. Síðan var grafið niður á klöpp og grunnurinn fylltur af grús. Eftir það lagðist vinnan í vetrardvala en á nýliðnu sumri var aftur tekið til óspilltra málanna og steyptur sökkull fyrir húsið. Á þeim grunni hafa veggirnir verið endurhlaðnir á sama hátt og gert var fyrir 130 árum. Þeir Ævar og Örvar hafa unnið þetta verk, með þeim hafa starfað Bjarni Bjarnason fjallkóngur og verktaki á Hraðastöðum í Mosfellsdal og Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari frá Ferjubakka í Borgarfirði.

Sæluhús

Sæluhúsið í endurbyggingu 2022.

En hvenær eru áætluð verklok, Bjarki svarar því: „Veggjahleðslunni lýkur í haust en frágangur og frekari smíði bíður næsta sumars. Þá þarf að smíða þak á húsið, einnig hurð, glugga, gólf og rúmbálk. Allar teikningar liggja fyrir og voru forsenda þess að FÍ fengi úthlutun úr húsaverndunarsjóði Minjastofnunar.“
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir endurbyggingu hússins mjög mikilvægt og skemmtilegt verkefni sem falli vel að tilgangi félagsins.“

Sæluhús þetta er í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Heimildir:
https://www.fi.is/is/frettir/saeluhuhus
Sæluhúsið á Mosfellsheiðinni endurreist (mbl.is)

Þingvallavegur

Þingvallavegur – endurbyggt húsið við „Gamla veginn“.

Draugatjörn

Gestur Guðfinnsson skrifarði grein um „sæluhús“ í Alþýðublaðið árið 1967:

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

„Sæluhús er fallegt orð. Samkvæmt skilgreiningu orðabókar Menningarsjóðs er merking þess „hús til að gista í í óbyggðum, á Öræfum“.
Sú tegund gistihúsa átti þó fram á okkar daga lítið skylt við hin rúmgóðu og þægilegu hótel nútímans með fjölmennu þjónustuliði, útvarpi, sjónvarpi, síma og baði, 
dýrlegum aðbúnaði í mat og drykk ásamt notalegri hvíld í þeim mjúka og ilhlýja sængurdúni, sem upphaflega taldist til forréttinda æðarfugls á Íslandi. Þetta voru oftast litlir og lágreistir moldarkofar, naumast manngengir, Þægindalausir með öllu, kannski í hæsta lagi grjótbálkur til að fleygja sér á, matur enginn. Samt var þessum vistarverum valið eitt af fegurstu orðum tungunnar til einkenningar: sæluhús. Bak við það heiti felst mikil saga. Skilgreining orðabóka á hugtakinu nær skammt, sem vonlegt er, þótt hún sé rétt það sem hún nær.
Kolviðarhóll.Ljóst er, að landsmenn hafa snemma komið upp slíkum kofum á heiðum og fjallvegum til afnota fyrir ferðamenn og gangnamenn, enda vegalengdir víða miklar á öræfum og tóku ferðir einatt langan tíma, stundum mörg dægur, hvort heldur menn voru gangandi eða ríðandi. Var þá ekki í annað hús að venda en sæluhúskofann og skildi þar oft og einatt í milli feigs og ófeigs, hvort það tókst eða tókst ekki að ná honum. Mátti hver prísa sig sælan, sem undir þak komst, þótt lélegt væri, því það er lakur skúti, sem ekki er betri en úti í hamslausu hríðarveðri á fjöllum. En það kom líka fyrir, að þeir sem náðu þangað við illan leik, geispuðu golunni í kofanum, kaldir og matarlausir og aðframkomnir af þreytu. Var þess þá oftast ekki langt að bíða að bera færi á reimleikum í sæluhúsinu, enda munu þau sæluhús fá, þar sem hreint var með öllu.

Mosfellsbær

Sæluhús við Moldabrekkur við fornu Þingvallaleiðina.

Hitt var miklu algengara, að fleiri eða færri afturgöngur eða draugar væru þar viðloðandi, gerðu sér dælt við ferðamenn í vöku og svefni, berðu kofann utan eða riðu húsum næturlangt, þótt nú sé víðast úr þeim allur mergur.
Til er aragrúi sagna og munnmæla um gistingu manna í sæluhúsum og gangnakofum og reimleika á slíkum stöðum.. Skulu hér rifjaðar upp nokkrar slíkar sögur, þeim til fróðleiks, sem ekki hafa átt þess kost að lifa slíka atburði og þekkja lítið til drauga og afturgangna sjálfir.
Norðvestur af Bolavöllum á Kolviðarhóli er Húsmúli. Framan við hann stóð sælukofi allt fram um miðja nítjándu öld við svokallaða Draugatjörn. Kofi þessi var tvær og hálf alin á breidd og þrjár álnir á lengd og í honum grjótbálkur, þakinn torfi, sem á gátu legið þrír menn. Tvær hurðir voru fyrir dyrum og gengu báðar inn í húsið. Sveinn Pálsson, læknir, getur þess í ferðabók sinni, að margir ferðamenn hafi látizt í þessum kofa, ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Í Sögu Kolviðarhóls er að finna frásögn af gistingu í Húsmúlakofanum. Hún er á þessa leið: „Gömul sögn úr Ölvesi hermir, að eitt sinn hafi ferðamaður um vetur í vondu veðri komið austan yfir Hellisheiði. Hann hafði náttstað í sæluhúsinu, lokaði dyrum að sér og lagðist til svefns. — Að nokkurri stundu liðinni heyrði hann að komið var við hurðina og gerð tilraun til að komast inn. Sá, er inni var, hugði það draug vera og opnaði ekki. Heyrði hann um hríð þrusk utan við hurðina, en svo þagnaði það. Um morguninn, þegar maðurinn leit út, brá honum ónotalega við. Utan dyra lá dauður maður. Var það sá, er um kvöldið hafði knúð hurðina og maðurinn hafði haldið vera draug.
Mosfellsheiði— Þetta spurðist víða og þóttu hörmuleg mistök. Eftir það hafði alvarlega verið brýnt fyrir ferðamönnum ..að loka aldrei húsinu að sér um nætur“.
Þessi saga mun raunar vera til í ýmsum tilbrigðum víða um land og heldur hver sögumaður fast við sína útgáfu og telur hana réttasta, leggur jafnvel fram óyggjandi sannanir fyrir máli sínu, ef því er að skipta. Í Hellukofanum gamla á Hellisheiði, sem enn stendur, bar líka eitthvað á reimleikum. T.d. segir frá því í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar, að einu sinni lágu þar menn. Þeir heyrðu skarkala mikinn uppi á húsinu alla nóttina og hugðu, að draugur hefði valdið honum, enda þóttust þeir sjá einhverja ófreskju í dyrunum við og við. Þá var gamla sæluhúsið á Kolviðarhóli alræmt draugabæli og eru margar sögur til af reimleik um þar. Ein þeirra er skrásett af Þorsteini Erlingssyni og er á þessa leið:

Gamli Þingvallavegur

Sæluhúsin við Gamla Þingvallaveginn í endurbyggingu.

Einu sinni voru fimm Fljótshlíðingar á leið suður í ver. Það voru þeir Ísleifur Sigurðsson frá Barkarstöðum, Sigurður Ólafsson, vinnumaður þaðan, Halldór Jónsson frá Eyvindarmúla og svo sinn maðurinn frá hvorum bænum Árkvörn og Háamúla. Þeir félagar gengu suður Hellisheiði og lágu um nótt í sæluhúsinu á Kolviðarhóli. — Þeir kveiktu ljós og fóru að sofa, eftir að hafa matazt, nema Halldór. Hann gat ekki sofnað og lá vakandi um hríð. Allt í einu heyrði hann eitthvað gnauð fyrir utan kofann, en því næst heyrði hann, að einhver klifraði upp á kofaþakið og tók að lemja þekjuna — beggja megin á víxl. Halldóri þótti þetta kynlegt, og tók hann það til bragðs að vekja Sigurð. Þeir fóru út og leituðu í kringum kofann, en urðu einskis vísari, fóru því inn aftur, en jafnskjótt og þeir voru komnir inn, var hurðinni hrundið upp og lamið á þilið; lagði þá vindsúg inn um kofann, og slokknaði ljósið. Þeir Halldór og Sigurður kveiktu þegar aftur; fóru svo út, tóku jötu og skorðuðu hana fyrir dyrnar að innan. Eftir það voru dyrnar í skorðum, en þeir heyrðu högg og ókyrrð úti fyrir lengi nætur.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 31. ágúst 1967, bls. 7 og 11.

Sandskeið

Vatna-sæluhúsið við Sandskeið.

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarhraun að Latfjalli, komið við í sæluhúsi í hrauninu undir fjallinu og síðan gengið yfir í Óbrennishólma og þaðan yfir í Húshólma. Stígur í gegnum hraunið liggur ofan við sæluhúsið og með sunnanverðum Óbrennishólma. Áður fyrr hefur hann legið með ströndinni um Húshólma, en sjórinn hefur tekið hann til sín fyrir allnokkru. Stígurinn er klappaður í bergið á kafla.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1200. Í þessu gosi myndaðist feiknarmikil hraun. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun/Kapelluhraun – yfirlit.

Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum. Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni. Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Ögmundarhraun er hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi (Vesturháls). Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun, er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs.

Reykjanesskagi

Ögmundarhraun.

Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram. Hraunið var erfitt yfirferðar fyrrum en núna liggur um það nokkuð greiðfær malarvegur. Sjálfur vegurinn er ekki friðlýstur, þó svo einhver gæti haldið það, en hraunið er friðlýst.
Krýsuvík var fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn, og stóð bærinn upphaflega allmiklu vestar. Bæinn tók af, þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið gróðurlendi jarðarinnar, líklega á fyrri hluta 12. aldar. Kirkja mun hafa verið í Krýsuvík á 13. öld. Stórbýli var áfram í Krýsuvík um aldir og undir því voru margar hjáleigur.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.
Bæði Óbrennishólma og Húshólma er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. FERLIR-128, 217, 300, 386, 545, 634 og 715.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

 

Flankastaðir

Á Flankastaðatorfunni voru um tíma bæirnir Endagerði (nyrst), nú Arnarhóll, Arnarbæli, gamla Klöpp, nýja Klöpp, Kólga, Tjarnarkot, Norður Flankastaðir, fyrrum Flankastaðakot, Efri-Flankastaðir og Neðri-Flankastaðir, einnig nefndir Syðri-Flankastaðir. Suðaustan við túngarðinn var Traðarkot um tíma uns Garðskagavegurinn var lagður yfir bæjarstæðið og skar sundur Sandgerðistjörnina.

Flankastaðir

Efri-Flankastaðir.

„Flankastaðir eru bæir rétt fyrir norðan Sandgerði. Flankastaðir eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar. Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu.

Flankastaðir

Flankastaðavör.

Frá Flankastöðum hafa jafnan verið stundaðir útróðrar, eins og frá flestum öðrum jörðum er liggja að sjó. Flankastaðir eru næsti bær norðan Sandgerðis, en þaðan var líka mikið útræði. Útgerðin og góð fiskimið skammt undan í Miðnessjó hafa að líkindum verið aðalundirstaða lífsafkomu bænda á Flankastöðum. Þaðan var Magnús Þórarinsson, sem skrifaði bókina Frá Suðurnesjum og gaf út um miðja tuttugustu öld.

Flankastaðir

Neðri-Flankastaðir.

Á Flankastöðum voru lengi haldnir vikivakar um miðsvetrarleytið og var þar dansað og sungið á meðan nokkur gat staðið. Að líkindum hafa veislur þessar oft verið svallsamar og voru prestar þeim mjög andvígir. Að lokum lagði Árni Hallvarðsson, prestur á Hvalsnesi blátt bann við þeim. Nokkrum árum síðar fórst hann á leið að Kirkjuvogi í Höfnum til að syngja þar messu. Höfðu sóknarbörn hans á orði að þar hefndist honum fyrir að afleggja vikivakana á Flankastöðum.

Flankastaðir

Flankastaðir – kort 1943.

Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar svarar spurningu um Flankastaði á Vísindavef HÍ; „Hvaða ‘flanki’ er á Flankastöðum?“:
„Flankastaðir eru bær í Miðneshreppi í Gullbringusýslu. Þeir eru nefndir í skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270, skrifað „flankastader“, en í afritum bæði „flangastader“ og“flantastader“. Bæjarnafnið er einnig ritað „flankastader“ í skrá um hvalskipti á sama stað og frá sama tíma (Ísl. fornbréfasafn II:77 og 79).
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er skrifað Flangastader (II:62). Þannig er nafnið ritað hjá sr. Magnúsi Grímssyni, sem skrifaði greinina Fornminjar um Reykjanessskaga (ÍB 72 fol.) sem prentuð var í Landnámi Ingólfs II:247 (Reykjavík 1936-40). Í sóknarlýsingu Útskálaprestakalls 1839 eftir Sigurð B. Sívertsen er hvorttveggja nefnt, Flanka- og Flangastaðir, en höfundur notar Flankastaðir í lýsingunni (sama rit III:163-164).

Flankastaðir

Flankastaðir – kort.

Í Landnámu eru nefndir Flangastaðir í Vestur-Skaftafellssýslu (Ísl. fornrit I:300) en ekki er ljóst hvort það er bæjarnafn eða ekki. Örnefnið er nú týnt en uppi á Síðuheiðum eru Flangir, mýrlendi og Flangaháls (Kålund II:315). Auk þessa er Flangi hátt klettasker á Grundarfirði, Flangagil í landi Þórdísarstaða í Eyrarsveit í Snæfellssýslu og Flangey er eyja á Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu.
Spurningin er hvort er upphaflegra, Flanka- eða Flangastaðir. Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir í orðsifjabók sinni að hvorugkynsorðið flank merki ‘flakk’ og sögnin flanka ‘flakka, flækjast um’. Orðið flangi merki hinsvegar ‘lausagopi, æringi’, samanber meðal annars að á nýnorsku er flange ‘stór og óviðfelldinn maður’. Ásgeir nefnir þann möguleika að myndir með -nk- séu staðbundnar framburðarmyndir af orðunum með -ng- (bls. 186).

Flankastaðir

Efri-Flankastaðir.

Samkvæmt orðabók Björns Halldórssonar frá 18. öld merkir flankari ‘en forfængelig person, en Laps’ eða ‘spjátrungur’ (Ný útgáfa. Reykjavík 1992, bls. 145). Þórhallur Vilmundarson nefnir þá skýringu að flangi gæti merkt ‘kápa’ samanber merkingina ‘kjóll’ í orðinu flange í norsku, og að norski fræðimaðurinn Magnus Olsen hugsaði sér nafnliðinn dreginn af norska orðinu flong ‘stór hella’. Finnur Jónsson prófessor taldi að orðið flangi væri viðurnefni manns, ef til vill skylt flengja eða tengt flange í nýnorsku, og E.H. Lind taldi að það merkti ‘ósæmilegur maður’ (Grímnir 1:82). Líklegra verður að telja að upphaflega myndin sé Flanka-, samanber nútímamyndina, og flanki = flankari merki ‘spjátrungur’ og sé viðurnefni manns.

Saga Flankastaða

Flankastaðir

Flankastaðir – leifar bæjarins Kólga (sögulegur staður).

Flankastaðir eru bær á Miðnesi (Rosmhvalanesi), nú í Suðurnesjabæ, fyrrum Miðneshreppi. Flankastaðir (þ.e. jörðin fyrir skiptingu hennar um 1900-1930) eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar.

Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu. (Islendinga Sögur ud. efter gamle Haandskrifter af det kongelige nor liske Oldskrift-Selskab. isl. et praef. dan, Bindi 1, Möller, 1843. bls 246.)

Heimildir um örnefni

Flankastaðir

Tóftir Tjarnarkots.

Sunnan við Klappartún er Tjarnarkotstún. Tjarnarkot fór í eyði nálægt aldamótum, en túnið lagðist undir Klöpp. Sunnan við þessi tún er allstór tjörn, sem heitir Flankastaðatjörn. Þar hefi ég séð þéttastar pöddur í vatni, að síldarátu ekki undanskilinni. Á malarkampinum milli tjarnar og sjávar sér enn fyrir rústum af gömlum sjómannabyrgjum. Það er útjaðar Flankastaðanausta; þau eru fáum föðmum sunnar. Þar stóðu tveir timburskúrar norðan við vörina, var annar (sá vestri) frá Klöpp, en hinn frá Flankastöðum (Austurbæ).

Frásagnir um útræði frá Flankastöðum

Flankastaðir

Klöppsvör.

Stórfiskur er út af Vesturbæjarfjörunni; ekki má fara grynnra fyrir hann á árabát en kirkjuna um Munkasetur. Sunnan við vörina er Vesturbæjarfjara; næst vörinni eru Vesturbæjarklappir, ekki háar en nokkuð miklar um sig, bæði fram í fjöruna og suður með kampinum. Að öðru leyti er fjaran að mestu slétt, nema syðst og vestast er hár stórgrýtisbálkur, sem kallast Vesturbæjarhausinn; lágur tangi er norðvestur úr fjörunni, varasamur þegar beygt er inn í vörina.

Hamarsund var fyrir allar lendingar norðan Bæjarskerseyrar, þegar sund þurfti að nota. Þegar lenda skyldi á Flankastöðum var, þegar inn úr sundinu kom, farið skáhallt yfir víkina norður á við að suðurósnum, sem liggur að Flankastaðavör.

Flankastaðir á síðustu öld

Flankastaðir

Nyrðri-Flankastaðir – brunnur.

Á vef Landmælinga Íslands má finna fjölda loftmynda allt tilbaka til fjórða áratugar síðustu aldar. Ég tók út myndir af Efri-Flankastöðum og bar saman þróun bæjarins í áranna rás. Þetta finnst mér afar skemmtilegt og í hvert sinn sem ég skoða myndirnar aftur rekst ég á eitthvað nýtt.

Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Flankastaðir“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð“, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 113-118, segir m.a.:

Flankastaðir

Flankastaðavör.

„Mjög mikil lá (sogadráttur) var í Flankastaðavör um flóð í brimi (enda segir jarðabók, að lending sé voveifleg þar; getur þá varla verið átt við annað en lána). Þar þurfti því góða skiphaldsmenn, sem þeir líka voru, gömlu hraustmennin; hert í eldi hörðustu lífsbaráttu, sem við ekki þekkjum nú. Þeir voru þungir í vöfum, teinahringarnir, sem ekki máttu taka niður í hnísuna (samskeyti kjalar og framstefnis). Ef skipið tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu, sogaði þá óðara undan, svo skipið varð á þurru og lagðist á hliðina; næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífellt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó sjór væri undir hendur eða í axlir, en klofbundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu. Sjóföt manna á opnum skipum voru, fram að aldamótum, einungis brók og skinnstakkur, heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin náði upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Ef bandi var brugðið um mittið, ofan við mjaðmir, hertist skinnstakkurinn að brókinni; hert var að á bakinu og endanum brugðið fram milli fótanna upp í mittisbandið að framan; féll þá stakkurinn að brókinni, einnig að neðan. Þetta var hin svonefnda klofbinding. Mátti talsvert svalka í sjó þannig umbúinn, án þess að verða „brókarfullur“, eins og það var kallað, ef ofan í brókina rann.

Flankastaðir

Flankastaðir – Vara Klöppsvör (Endagerðisvör).

Í Flankastaðavör voru stórskipin ætíð sett, áður en fiskur var borinn upp. En kampurinn var brattur, svo að stundum gekk ekki meira í koki (átaki) en þverhandar breidd eða minna. Mátti þó heyra mörg eggjunarorð svo sem: Tökum á! Allir eitt! Samtaka nú! o. s. frv. En skipin voru þung, menn þreyttir og misjafnir að þreki eftir erfiðan barning og daglanga sveltu, því aldrei var matarbiti með á sjóinn á þeim árum á Miðnesi. Að því búnu var fiskurinn borinn upp á bakinu og honum skipt eftir stærð og gæðum. — Aldrei heyrði ég formanni ámælt fyrir röng skipti, og þó einhverju hefði munað, var óvíst, hver hlyti, þar sem hlutkesti var ætíð viðhaft. Hins vegar þóttust hásetar stundum finna mismun á hlutum eftir skiptin. Sagðist sá hafa orðið kastböllur, sem taldi sig óheppinn í hlutkestinu, og sumir þóttust alltaf verða kastbellir. En það er víst, að ekki bar öllum sami hlutur, svo misjafnir voru hásetar að dugnaði. Þegar ég skrifa þetta minnist ég áranna um 1890.

Flankastaðir

Flankastaðir – gamla Klöpp.

Stærsta útgerðin úr Flankastaðavör var frá Klöpp. Magnús Stefánsson byggði stóran og góðan teinahring um 1880. Gerði hann út einn og var sjálfur formaður. Magnús andaðist 17. janúar 1890. Hélt þá ekkjan, Gróa Sveinbjarnardóttir, áfram útgerðinni og varð Oddur í Brautarholti við Reykjavík formaður skipsins um nokkur ár. Hann var dugnaðarmaður og aflasæll. Fyrir og um aldamót voru stórskipin lögð niður, en upp voru tekin sexmannaför, og fleiri breytingar urðu þá, svo sem það, að þá var upptekin lending í Klapparlóninu. Klöpp var þá annar af nyrztu bæjum í hverfinu og sá, er stóð nær sjó. Árið 1936 var lögð niður byggð þar, sem Klöpp hafði áður staðið, norðan við Kólgutjörn, en reist að nýju suður á gamla Tjarnarkotstúni. Eins og áður er sagt, er malarkampur fyrir neðan Klöpp og neðan við kampinn er Lónið í fjörinni; þröskuldur er fyrir framan og rann sífellt úr Lóninu um fjöru, og ekki flaut þar inn með lægra en há[l]fföllnum sjó.

Flankastaðir

Klöpp.

Þarna var þá orðinn lendingarstaður Klapparskipsins og raunar fleiri af þeim, sem áður lentu í Flankastaðavör. Auk þess að Klapparskúrinn var fluttur frá Flankastaðavör norður á kampinn við Lónið, voru þar byggðir skúrar frá Flankastaðakoti og Endagerði, og sund-merki af tré var sett á kampinn. Fyrir utan fjöruna fram af Lóninu er sandgljá dálítil, en fyrir utan sandgljána eru flúðir, vaxnar háum þönglum, sem mikið brýtur á, en hjaðnar þó niður, þegar kemur á gljána, nema mikið brim sé, enda var þá ófært. Í hroða varð að skáskjóta sér undir flötum sjó milli fjörunnar og FIúðabrotsins til þess að komast á sundmerkin, en þau voru: Loftsglugginn í Flankastaðakoti í trémerkið í kampinum; þar var dýpsta rásin inn í Lónið. Vörin var sandvik, sem gekk frá Lóninu upp í kampinn, og voru hlaðnar upp varabrúnirnar, svo þar mátti leggja skipi að og kasta fiski á land. Nærri má geta, að oft hefir verið lá við Lónið; hvergi leitar sjórinn meira inn yfir kampinn en fyrir neðan gömlu Klöpp, þess vegna var líka bærinn færður. Karl Jónsson útgerðarmaður, sem bóndi var í Klöpp frá 1936—1942, gróf niður í kampinn tvo gamla nótabáta, hvorn við endann á öðrum, fyllti þá af grjóti og sléttaði yfir. Bátarnir virðast veita nóg viðhald því kampurinn hefir ekki ruðzt inn á túnið síðan. En hvernig fer þegar bátarnir fúna?“

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Flankasta%C3%B0ir
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5414
-https://www.flankastadir-is.vonflankenstein.net/index.php/saga-flankastadha
-Flankastaðir, Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 113-11.
-Einar Valgeir Arason, Klöpp.
-Manfred Limke, Efri Flankastöðum.

Flankastaðir

Flankastaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Kotvogur

Gengið var um Ósa, Kirkjuvog og Kotvog, yfir að Merkinesi og Junkaragerði.

Hunangshella

Hunangshella.

Gangan byrjaði á Þrívörðuhæð ofan við Ósa, eða Kirkjuvog en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Gömlu leiðinni til Hafna var fylgt að þorpinu. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397. Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs. Næst veginum er vík sem nefnist Ósabotn. Hún liggur á milli Þjófhellistanga að vestanverðu og Steinboga sem er lítill klettatangi að austanverðu. Spölkorni lengra er Hunangshella, klöpp norðvestan vegarins. Á henni er vörðubrot.

Hafnarvegur

Hafnarvegur.

Gamall niðurgrafinn vegur í Hafnir lá í gegn um skarð sem er í klöppinni – nú grasi gróið. Sjálf Hunangshellan er stærri hluti klapparinnar sjávarmegin, nokkuð löng klöpp sem hallar móti norðvestri. Á háflóði eru 25-30 metrar á milli Hunangshellu og sjávarborðs. Þjóðsagan segir að á þessum stað hafi skrímsli legið fyrir ferðamönnum í myrku skammdeginu og gert þeim ýmsa skráveifu. En þessi meinvættur var svo vör um sig að engin leið reyndist að komast í færi til að vinna á henni – ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smyrja hunangi á klöppina. Á meðan dýrið sleikti hunangið skreið maður með byssu að því og komst í skotfæri. Sagt er að hann hafi til öryggis rennt þrísigndum silfurhnappi í hlaup framhlaðningsins en fyrir slíku skoti stenst ekkert, hvorki þessa heims né annars.

Hafnir

Teigur.

Komið var að gamalli heimreið. Á hægri hönd er eins konar steyptur strompur. Það mun vera það eina sem eftir er af mannvirkjum býlis sem hét Teigur og er reyndar ekki strompur heldur gömul undirstaða vindrafstöðvar sem framleiddi rafmagn fyrir loðdýra- og síðar svínabú sem þar var sett á stofn snemma á 6. áratug síðustu aldar. Það var rekið fram á síðari hluta 8. áratugarins og mun hafa verið eitt fyrsta stóra svínabú landsins og sem slíkt merkilegur áfangi í nútímaiðnvæðingu landsins en fóðrið var matarúrgangar frá mötuneytum í herstöðinni á Vellinum (en með honum streymdu hnífapör og annað dót í Hafnir). Bóndinn í Teigi hét Guðmundur Sveinbjörnsson, var frá Teigi í Fljótshlíð, lærður skósmiður og hafði rekið skósmíðastofu í Reykjavík þegar hann setti upp búið í Teigi.

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Komið var í Kirkjuvogshverfi, sem nú nefnast Hafnir í daglegu tali, en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar.

Hafnir

Í Kotvogi.

Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Við Kotvog.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við fyrrum Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Kirkjuvogur

Kirkjuvogshreppur – herforningaráðskort 1903.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Merkines

Gengið að Merkinesi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey. Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð.

Merkines

Merkinesburnnur.

Eftir nokkra göngu vestur með ströndinni var komið að Merkinesi. Í Merkinesi bjó síðast (Vilhjálmur) Hinrik Ívarsson ásamt eiginkonu sinni Hólmfríði Oddsdóttur. Hinrik í Merkinesi var fyrrverandi hreppstjóri Hafnahrepps, þekktur sjósóknari, refaskytta, báta- og húsasmiður og hagyrðingur (faðir m.a. Ellýar Vilhjálms söngkonu og Vilhjálms Vilhjálmssonar flugmanns og söngvara en þau eru öll látin). Hlaðinn hringlaga steingarður sem er hægra megin vegarins spölkorn norðan Merkiness nefnist Skipagarður. Þetta var kálgarður en hér áður fyrr voru vertíðarskipin dregin upp og höfð í skjóli við garðinn. Skammt sunnan Merkiness er grasi vaxinn hóll vinstra megin vegarins. Hóllinn nefnist Syðri Grænhóll. Sunnan hans mun ekki hafa fundist stingandi strá, sem heitið gat, fyrr en melgresi fór að taka við sér en því var fyrst sáð til að hefta sandfok utar á skaganum fyrir rúmum 60 árum. Í túninu suðaustan við Merkines er forn brunnur, sem gengið er niður í, líkt og Ískrabrunnur á Snæfellsnesi.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Spölkorn sunnan Grænhóls sér á þak Junkaragerðis en það er fornt býli og verstöð sem nú er notað sem íbúð. Upphlaðinn túngarður á hægri hönd eru einu minjarnar sem eftir eru af býlinu og verstöðinni Kalmanstjörn (þaðan var Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi og alþingismaður) en íbúðarhúsið var rifið 1990. Á Kalmanstjörn var búið fram á miðjan 8. áratug 20. aldar.
Gamli vegurinn út á Hafnaberg og áfram út á Reykjanes lá á milli Kalmanstjarnar og Junkaragerðis. Í lýsingu skráðri af Hinriki í Merkinesi fyrir Örnefnastofnun segir m.a: ,,Fyrr á öldum, er sagt, að ,,þýzkir“ hafi haft mikinn útveg á opnum skipum í Höfnum. Meðal annarra staða höfðu þeir búðir, þar sem nú heitir Junkaragerði, en svo voru þeir nefndir. Þessir menn voru ribbaldar miklir og ,,óeirðamenn um kvennafar“, þeir voru illa séðir af landsmönnum, sem vildu fyrir alla muni koma þeim af höndum sér.“ Til er þjóðsaga um hvernig Hafnamenn fóru að því að losa sig við Junkarana. Vestan vegarins, neðan við brekku, er Hundadalur. Þar er fiskeldisstöð.

Gömlu hafnir

Gömlu Hafnir.

Á vinstri hönd má sjá nokkrar vörður en við þær liggur Prestastígur – vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, um 5-6 tíma gangur.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Hann liggur fjær sjó en sá gamli sem reyndar var ekkert annað en slóð og skurður á víxl. Eins og áður sagði tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar, Gömlu Hafnir. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-leoemm.com

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogskirkja.

Hópsheiði

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir Svavar Sigmundsson um „Önefnið Grindavík„:
„Grindavíkur er getið í Landnámabók (Íslensk fornrit I:330). Í sömu bók eru auk þess Grindalækur í Húnavatnssýslu og Grindur í Borgarfirði.

Hópsvarða

Innsiglingavarða við Hóp í Grindavík – endurhlaðin af FERLIRsfélögum.

Í örnefnum bendir orðið grind til merkingarinnar ‘gerði’ eða ‘hlið’, eða ‘klettarið’, til dæmis Grindaskörð í Gullbringusýslu og Grindamúli í Suður-Múlasýslu, Grindarás í Austfjörðum (Íslenskt fornbréfasafn IV:205,271), Helgrindur á Snæfellsnesi og Jökulgrindur í Rangárvallasýslu. Klettarani á merkjum Þorpa og Hvalsár í Strandasýslu heitir Grind (Íslenskt fornbréfasafn IV:161). Sögn er um að grind hafi verið þar í skarði til varnar ágangi búfjár.

Svartiklettur

Svartiklettur við Hópið í Grindavík – sundmerki.

Hugsanlegt er að grind hafi átt við sundmerki* en Sundvarða er í Herdísarvíkursundi, „sem tréð með grind stendur í“ (Örnefnaskrá).
*Sundmerki er innsiglingarmerki, oft varða með tré í, eins og í Herdísarvíkursundi, og til dæmis þannig að tvær slíkar vörður átti að bera saman þar sem innsigling var örugg.“

Famangreint verður að teljast fróðlegt í ljósi allara sundmerkjanna í Grindavík. Reyndar eru núverandi sundmerki ekki svo gömul að telja megi til landnáms, en þau verður að telja merkileg í samhengi sögunnar. Engum vafa er um það orpið að Grindvíkingar hafi sótt sjó um aldir og hafa því nýtt sér sundmerki sér til leiðsagnar, sbr. Siggu og önnur kennileiti ofan byggðar. Flest þeirra eru nú orðin mosavaxin, líkt og merkið í Leiti ofan Þórkötlusstaða, en önnur þau nýrri eru þó enn augljós, s.s. sundmerkin ofan Hóps.

 

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

FERLIRsfélagar endurhlóðu efri sundvörðuna við Hóp eftir að hluti hennar hrundi í frostvetri, en nú, eftir jarðskjálftana undanfarið (2001) hefur hún sem og sú neðri þurft að lúta í lægra haldi. Þar má segja að „Snorrabúð“ sé nú stekkur. FEELIRSfélagar hafa sýnt lítinn áhuga á að endurhlaða vörðuna vegna lítils áhuga bæjarstjórnar Grindavíkur á að viðhalda gömlum hefðum byggðalagsins…

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6588

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurheiði

Jafnan, þegar heyra má spurninguna um hvaðan örnefnið Krýsuvík (Krísuvík) sé upprunnið, verður jafnan fátt um svör. Getgátur eru leiddar fram, en fáar áreiðanlegar. En hver er þá merkingin Krýsuvík og hvar er örnefnið Gullbringu að finna í sýslunni, sem hún dregur nafn sitt af?

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Við þessari spurningu svarar Svavar Sigmundsson hjá Örnefnastofnun Íslands með eftirfarandi hætti: „Alexander Jóhannesson skrifaði 1929: Über den Namen Krísuvík. Mitteilungen der Islandfreunde XVII:36-37. Ásgeir Blöndal er ekki trúaður á það sem A.J. heldur fram að nafnið sé dregið af nafni konu, sbr. fhþ. Crisa, heldur sé það tengt lögun víkurinnar og í ætt við krús (3) og krúsa; af germ. *kreu-s- ‘beygja’ og hann skrifar það Krýsuvík (Íslensk orðasifjabók, 512). Önnur Krísuvík er í landi Þorsteinsstaða í Grýtubakkahr. í S-Þing. en þar er engin Gullbringa. Ég hef skrifað eitthvað um Gullbringu á Vísindavefnum 13.3. 2002. Annað man ég ekki að nefna, en ég aðhyllist frekar skýringu Ásgeirs Blöndals en Alexanders.“

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Ef skoðaðar eru gamlar orðabækur og orðatiltæki kemur í ljós að „krýs“ táknar einfaldlega grunn skora í ask, sbr. grunn vík. Þar mun og fyrrum, að öllum líkindum, hafa verið grunn vík neðan við þar sem nú eru tóftir „Gömlu Krýsuvíkur“, þaktar hrauni, en tóftir hinna gömlu bæjarhúsa standa þar enn, órannsakaðar að mestu.

Gullbringa

Gullbringa.

Aðrir hafa velt fyrir sér langsóttari skýringum sbr. vangaveltum Alexanders Jóhannessonar frá 1929 og jafnvel lýsingar Skugga (Jochums). Eins og fram kemur hjá Svavari þá áætlar Ásgeir Blöndal nafnið út frá lögun víkurinnar og nafnið sé í ætt við krús og krúsa (Íslensk orðasifjabók) og er það í ætt við aðrar fornar orðskýringar. Jarðfræðiathuganir á svæðinu benda til að þarna hafi fyrrum verið vík inn í landið, enda gamlir sjávarhamrar langtum ofar.

Bringur

Bringur í Mosfellssveit.

Áður en hraunið rann 1151 og fyllti víkina hefur landslagið litið öðruvísu út. Þarna hefur væntanlega verið góð landtaka undir hömrunum, gróið í kring þar sem nú standa Húshólmi og Óbrinnishólmi skammt vestar, upp úr. Stutt hefur verið í fiskimið og nægur fugl í björgum. Beit hefur og verið væn, bæði fjær og í fjöru, og nægt vatn í brunnum. Þarna hefur verið, og er reyndar enn, mjög skýlt í norðanátt og austanáttin, rigningaráttin, er ekki til vansa.

Krýsuvík

Grein Árna Óla um Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins 1932.

Gullbringunafnið er til a.m.k. á tveimur stöðum í sýslunni, og það er einnig til í Kjósasýslu, sbr. Bringur eða Gullbringur norðaustan undir Grímarsfelli, efst í Mosfellsdal. Sumir telja Gullbringunafnið komið frá lágreistu keililaga sandfelli (Gullbringu) austan Kleifarvatns, en aðrir segja það vera á hlíðinni allri austan þess, „enda glói hún sem gull er kvöldsólin fellur á hana handan Hádegishnúks (Miðdegishnúks) [á Sveifluhálsi]. Þeir, sem komið hafa að austan snemmmorguns, með morgunsólina að baki, sjá þvert á móti Sveifluhálsinn gullglóandi við þær aðstæður. Sennilega getur allt landslag á Reykjanesskganum fallið undir framangreinda skilgreiningu því kvöldsólin, og reyndar morgunsólin líka, lita jafnan umhverfið gylltum litum undir þeirra síðustu morgna og kvölds þegar aðstæður haga þannig til. Raunverulegrar (upprunalegrar) nafngiftar er því sennilega að finna annars staðar á landssvæðinu og í öðru en sólargyllingunni, enda endurspeglast hún í sömu lögmálum sínum um allt land, óháð stað eða tilteknu svæði.

Á Vísindavef Háskóla Íslands má lesa eftirfarandi:
„Hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og bókum.

Húshólmi

Neðan við gamla Krýsuvíkurberg í Ögmundarhrauni.

Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512)“.

Krýsuvík eða Krísuvík?
Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og út í víkina fyrrum. Næsta vík austan við er nefnd Hælsvík en ekki er vitað hversu gamalt það nafn er eða hvort hún var hluti Krýsuvíkur.

Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna.“ Öll tilvitnuð forn skrif fyrrum voru „krysuvik“.

Reyndar er til ein mjög líkleg skýring á nafngiftinni. Í dönsku er til orðið „krys“, sem merkti „grunn skora“, s.s. í ask. Orðið þýddi og „grunn“, t.a.m. grunn vík“, sem Krýsuvík var fyrrum. Fólk hefur gjarnan ruglað saman orðunum „krís“ og „krýs“. Hið fyrrnefna stendur fyrir deilur eða ástand, en hið síðarnefnda fyrir vog eða skoru í ask.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun – http://www.ornefni.is/d_skoda.php
-Orðabók M&M.
-Orðsifjabókin.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6532

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.