Háubakkar

Vestan Geirsnefs nyrst í Fossvogi (veg veg að smábátahöfninni) er skilti; Háubakkar. Á því má lesa eftirfarandi:

Háubakkar

Háubakkar – mörk hins friðaða svæðis.

„Háubakkar eru eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík. Háubakkar voru friðlýstir árið 1983. Á Háubökkum finnast þykk og afar merkileg setlög, sennilega um 200 þúsund ára gömul.
Þar sjást áhrif mikilla loftslagsbreytinga á ísöld. Eftir nýjar aldursgreiningar í Fossvogslögunum sem leiddu til nýrra upplýsinga um aldur þeirra er e.t.v. rétt að taka framanskráðan aldur Háabakka með fyrirvara. Setlögin eru um 8 m á þykkt og er þar m.a. að finna undir grágrýtislagi um 20 sm þykkt surtarbrandslag og í því fræ, aldin og fjókorn ýmissa jurtategunda.
Stærð náttúrvættisins er 2,1 ha.

Setlög
Setlögin í Háubökkum eru staðsett undir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndar að miklum hluta berggrunn Reykjavíkur og er grunnur setlaganna á tveggja milljón ára gömlum hraunlagamyndunum frá fyrri hluta ísaldar.

Háubakkar

Háubakkar – setlög.

Þar ofan á eru sjávarsetlög með steingerðum leifum ýmissa sjávaradýra og má þar nefna skeljategundir eins og hallloku, kúskel og krókskel.
Ofan á sjávarsetlögunum eru síðan setlög mynduð af framburði áa sem runnið hafa um svæðið. Þar ofan á er um 20 sm þykkt surtarbrandslag (en þá var gróðurfar svipað og nú) og efst er Reykjavíkurgrágrýtið.

Í klettunum hér beint á móti eru nær eingöngu siltsteinslög og sandsteinslög til skiptis. Ekki sést þar í Reykjavíkurgrágrýtið né í surtarbrandslögin, en þau eru norðar í setlögunum.

Jarðasaga og myndun

Háubakkar

Háubakkar.

Þegar ísaldarjökullinn hopaði í lok þriðja síðasta jökulsskeiðs ísaldar fylltust lægðir í berggrunninum af sjávarsetlögum. Yfir þau lögðust síðan setlög mynduð í sjó úr áframburði. Eftir það tók við langt tímabil þar sem land var algróið þar til gífurlegt eldgos varð á Mosfellsheiði og hraunið er myndar Reykjavíkurgrágrýtið rann yfir svæðið.
Jöklar síðustu íslandarskeiða gengu síðan yfir og mótuðu landið í svipað horf og það er nú.“

Auðvelt aðgengi að Háubökkum er frá litlu bílastæði við skiltið.

Háubakkar

Háubakkar í Elliðavogi.

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um „Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

„Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.“

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog„.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni „Vanhugsað fálm„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

„Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar“, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg“ — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa“ á grundvelli misskilnings og „rannsóknar“, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels“, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður“ eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.“ – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, „Vanhugsað fálm“, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Árbæjarsafn

Í „Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024“ er m.a. getið um tvo fornsteina í Öskjuhlíð er nú prýða innganginn að kirkju Árbæjar í Árbæjarsafni:

Öskjuhlíð

Kortið sýnir staðsetningu á meintri „hoftóft“.

„Um 15 m austan við núverandi Bústaðaveg þar sem nú er göngu- og hjólastígur, um 90 m suðaustur af gatnamótum Bústaðavegar og Litluhlíðar, var tóft sem merkt er inn á kort Bolla Thoroddsen.
Árið 1939 skrifaði Ólafur Friðriksson grein í Fálkann um fornleifar í Öskjuhlíð og segir þar frá tóftinni. „Austan við þar, sem vegurinn liggur nú yfir Öskjuhlíðina gengur dálítil kvos inn í hana, og hefur hún ef til vill gefið hlíðinni nafn. En þarna í kvosinni eru fornminjar sem ekki hefur verið tekið eftir, þó að þær séu þarna rétt hjá langfjölfarnasta þjóðvegi landsins, Hafnarfjarðarbraut. […] Veitti jeg eftirtekt, að austan við veginn, ofan við áðurnefnda kvos, var steinn sem unninn var af manna höndum.“ Virtist Ólafi í fyrstu að þetta væri steinkross en við nánari athugun hafði steinninn lögun sem Þórshamar.

Lárus Sigurbjörnsson

Lárus Sigurbjörnsson (22. maí 1903 – 5. ágúst 1974) var íslenskur rithöfundur, leikskáld og minjavörður. 
Lárus þýddi fjölda leikrita, m.a. Hrekkir Scapins (Les fourberies de Scapin) eftir Molière (meðþýðandi), Jóhann úlfstjarna (Johan Ulfstjerna) eftir Tor Hedberg og Jeppi á fjalli (Jeppe paa Bierget) og fleiri gamanleikrit eftir Ludvig Holberg. Auk þess skrifaði hann greinar og bækur um leiklist og leiklistarsögu Íslands.
Á árunum 1954 til 1968 var hann forstöðumaður Minjasafns Reykjavíkur og varð sá fyrsti til að gegna því embætti. Hann beitti sér fyrir stofnun Árbæjarsafns. Árbæjarsafn var fyrsta útisafnið á Íslandi og var opnað árið 1957.
Myndin er af Lárusi Sigurbjörnssyni og Sveini Þórðarsyni við gamla kistu fulla af munum. Enginn myndatexti en fyrirsögn greinar er „Árbæjarsafnið opnað í dag“. Þar segir m.a. „Mynd þessi var tekin þá er Sveinn Þórðarson bankagjaldkeri framkvstj. Reykvíkingafélagsins, til hægri og Lárus Sigurbjörnsson skoða ýmsa gripi, úr stórum kistli sem geymdur var í eldtraustum skáp.“

Þegar hann leit í kringum sig sá hann annan stein sem hann taldi líka tilhöggvinn, í laginu eins og stóll. Ólafur velti fyrir sér hverjir hefðu höggvið þessa steina og í hvaða tilgangi og taldi að þetta myndi vera fornt hof.“

Árið 1963 fjallaði Lárus Sigurbjörnsson um þessa sömu tóft í grein í Vísi. Þar segir hann frá því að Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafi talið líklegra að þetta væru rústir af gömlu seli frekar en hoftóft. „Í henni fundust tveir merkilegir steinar, annar greinilega tilhöggvinn sem sæti en hinn í lögun sem Þórshamar. Báðir þessir steinar eru nú komnir í Árbæjarsafn. Af rúst þessari sér ekki urmul lengur. Hún er gersamlega horfin, og var farið yfir það síðasta af henni með ýtu.“
Steinarnir tveir standa nú fyrir framan safnkirkjuna á Árbæjarsafni, þeir eru skráðir undir jörðina Árbæ og eru ekki taldir manngerðir.

Á ljósmynd sem fylgdi grein Ólafs af öðrum steininum er hægt að áætla að um sömu rúst sé að ræða og er merkt inn á kort frá 1933. Á myndinni er langt útihús sem stóð á Norðurmýrarbletti 33 (Litlu-Hlíð), sama húsið sést á ljósmynd HAP RVK. Á annarri ljósmynd; ÁBS, sem er tekin úr vestri í austur, má sjá að rafmagns- og símastaurar eru að norðan við veginn. Samkvæmt grein Ólafs fór vinur hans upp í einn staurinn til að sjá betur yfir og rissaði upp rústina. Var stærð hennar um 11 stikur á hvorn veg og telur Ólafur að um hof Ingólfs sé að ræða.

Árbæjarkirkja

Örnefnið Háfaleiti á milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar á korti frá 1933.

Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1850 sem sýnir mýrar í Reykjavík er merki á svipuðum stað eða norður af Leynimýri, býlið „Háfaleiti“ sem er líklega nafnið á þessum rústum.
Fyrir margt er þetta sérstakur staður, líklega hafa þetta verið í grunninn gömul útihús frá Reykjavík sem hugsanlega hefur verið búið í um 1850, Háfaleiti kemur ekki fram í manntölum. Háfaleiti svipar mikið til örnefnisins Háaleiti sem er þarna ekki langt frá.“

Þegar steinarnir í Árbæjarsafni eru skoðaðir er augljóst, þrátt fyrir allar fyrrum spekulagsjónir hinna fyrrum „sérfræðinga“, að þarna er um aðflutta náttúrumyndun að ræða.

Heimildir:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaðir við Sund, bindi 2 og 3.
-Ljósmyndasafn Reykjavíkur. KAN 001 145 4-1. Ljósmyndari Karl Christian Nielsen.
-Borgarsögusafn. Korta- og uppdráttasafn. Bolli Thoroddsen, [Rauðará – Öskjuhlíð – Vatnsmýri 1932–1933].

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – steinarnir tveir…

Nauthólsvík

Nauthólsvík er lítil vík norðan megin í Fossvogi suðvestanmegin við Öskjuhlíð. Víkin heitir eftir kotinu Nauthól sem stóð þar við rætur Öskjuhlíðar í landi Skildinganess. Í Nauthólsvík er skeljasandur og þar hefur verið vinsælt útivistarsvæði frá því eftir Síðari heimsstyrjöld þegar Reykjavíkurborg eignaðist landið. Áður hafði breski herinn tekið landið eignarnámi (hvernig s.s. það gekk fyrir sig?) fyrir Reykjavíkurflugvöll og byggingar honum tengdar. Í Nauthólsvík var braggabyggð í stríðinu og hótel fyrir flugvallarfarþega.

Nauthólsvík

Í Nauthólsvík.

Í Nauthólsvík er vinsælt að stunda alls kyns vatnaíþróttir, svo sem sjósund, kajakróður, kænusiglingar, seglbrettasiglingar og kappróður. Siglingafélag ÍTR, Siglunes, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Sportkafarafélag Íslands eru þar með aðstöðu, en auk þeirra er fjöldi íþrótta- og áhugamannafélaga með aðstöðu í og við Nauthólsvík.

Nauthólsvík

Öskjuhlíð og nágrenni 1945.

Árið 1932 falaðist Íþróttasamband Íslands eftir lóð í Nauthólsvík til að gera þar sundskála og íþróttavelli. Árið 1936 var þar skipulagt íþróttasvæði með stórum íþróttaleikvangi, átta knattspyrnuvöllum og níu tennisvöllum. Kappróðradeild Ármanns hóf þá að reisa þar hús yfir tvo innróna kappróðrabáta sem félagið átti og hafist var handa við að gera skeiðvöll fyrir kappreiðar. Framkvæmdir við svæðið lögðust hins vegar alveg af þegar breska setuliðið á Íslandi tók það undir braggabyggð í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Á styrjaldarárunum var því farið að horfa til Laugardals sem framtíðarsvæðis fyrir íþróttaiðkun í Reykjavík.

Nauthólsvík

Nauthólsvík – bryggja.

Eftir styrjöldina var róðradeild Ármanns starfrækt í Nauthólsvík. Síðar bættist við bátaskýli Róðrarfélags Reykjavíkur. Siglunes, siglinga- og róðraklúbbur æskulýðsráða Reykjavíkur og Kópavogs, var stofnaður árið 1962 og vorið 1967 keypti klúbburinn síðarnefnda bátaskýlið sem þá átti að rífa og hóf þar starfsemi. Á 8. áratugnum var skýlið stækkað mikið og steyptur rampur frá húsinu að sjó.

Frá 1971 til 1983 voru hátíðahöld á sjómannadaginn haldin í Nauthólsvík, en 1984 var dagskráin flutt yfir í Reykjavíkurhöfn.

Núverandi Ylströnd í Nauthólsvík átti sér nokkrun aðdraganda, allt frá því að setuliðið hlóð frárennisrás frá herkampinum við Nauthól, sem síðar var notaður sem affall frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð.

Í Vísi 1977 var fjallað um „Nafntogaðan læk„:

Nauthólslækur

Nauthólslækur – loftmynd 2023.

„Sá einstæði atburður gerðist á fimmtudaginn í síðustu viku að fólk lagðist í sólbað á Íslandi, í miðjum október. Fjölmenni var í læknum góða í Nauthólsvík, sem nú getur státað af mörgum ágætum nöfnum. Hann er kallaður: Volga, Læragjá, Beruvík, Læralind og Dóná, svo nokkuð sé nefnt. Nafntogaður lækur það.“

Á Wikipedia er kafli um „Læragjá„:

Nauthólslækur

Nauthólslækur. Vestan við Lyngberg er uppþornaður lækjarfarvegur sem nær frá göngustíg og suður í sjó, um 80 m. Upprunalega var þetta frárennslisskurður frá tíma setuliðsins og lá með öllum Nauthólsvegi að vestanverðu. Nú er einungis syðsti hluti hans sýnilegur og grjóthlaðinn. Hitaveita Reykjavíkur leiddi affallsvatn úr heitavatnsgeymunum á Öskjuhlíð í lækinn á árunum 1968 til 1983. Í örnefnalýsingu Skildinganess segir: „Í Nauthólsvík … fellur til sjávar tilbúinn lækur, heitur, yfirfall frá Hitaveitu Reykjavíkur, nú vinsæll baðstaður, rétt við Lyngberg. Nú hefur lækurinn verið lagfærður og byggður upp. Sumir hafa nefnt lækinn Volgu og gjána þar sem menn baða sig í Læragjá. Vel má vera að þessi örnefni eigi enga framtíð fyrir sér en eru skemmtileg samt sem áður.“ Hætt var að veita affalli frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð í lækinn 1985 vegna ógætilegrar umgengni baðgesta við lækinn.

„Læragjá var nafn sem var notað um breiðasta og dýpsta hluta lækjarins í Nauthólsvík þar sem fólk baðaði sig, sérstaklega eftir að skemmtistöðum var lokað. Margir böðuðu sig þar naktir og fékk staðurinn nafn af því. Vatnið var yfirfallsvatn úr heitavatnstönkunum uppi á Öskjuhlíð og var affall sem seytlaði í lækinn úr framræsluskurði með hlíðinni. Þar sem menn böðuðu sig var hlaðið dálítið baðsvæði með höggnu grjóti. Löngum fór orð af gjálífi í læknum, og auk þess voru drukknir menn oft nærri drukknaðir í honum, og sökum þessa beindi borgarstjórn því til hitaveitustjóra hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í lækinn að næturlagi. Hætt var að láta heitt vatn renna að næturlagi í Læragjá um 1980. Um líkt leyti komu upp hugmyndir um að breyta svæðinu þar í kring í hitabelti undir þaki. Af því varð þó aldrei.
Lækurinn gekk einnig undir ýmsum öðrum heitum, svo sem: Volga, Beruvík, Læralind, Dóná og Rasslind, en var oftast nefndur Læragjá.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1976 skrifar Ásgeir Jakobsson svonefnda „Öskjuhlíðarþanka„:
„Það var eldsnemma, rúmlega sjö, á laugardagsmorgni þann 10. júlí aö ég rölti uppí Öskjuhlíð að njóta sólar eftir langan dumbungskafla. Ég fann orðið til dálítillar sektarkenndar gagnvart þessari vinkonu minni og reykvísku heimasætu eftir langt framhjáhald með öðrum og reisulegri meyjum í nágrenni Reykjavíkur, svo sem Esjunni og fleiri hennar líkum. En nú þarf ég að endurnýja kynnin, og kominn heim eftir langa útivist, sá ég strax margt, sem hafði dulizt mér í hlaðvarpanum.

Nauthólslækur

Nauthólslækur. Farvegur lækjarins er greinilegur frá göngustíg neðan við Nauthólsveg að sjó, liggur nánast norður-suður. Hann er V laga, hlaðinn úr grjóti með steypu á milli. Stærð steina er breytileg frá 20 x 10 cm upp í 40×70 cm, blanda af tilhöggnum brúnsteinum og kantsteinum auk náttúrulegra steina. Sjö þverhleðslur, stíflur, eru í læknum til að stöðva vatnið, lækurinn er um 3 m breiður en sumstaðar er lækjarfarvegurinn breiðari, t.d. fyrir ofan stíflurnar, en þar er hann allt að 7 m að breidd þar sem hann er breiðastur. Neðarlega í lækjarfarveginum eru leifar af trébrú og fyrir neðan hana breikkar farvegurinn aftur og er neðsta þverhleðslan við fjöruna er um 5 m á lengd. Áletrunin „EH77“ er höggvin í einn hleðslusteininn í vesturbakkanum, nánast neðst fyrir ofan syðstu þverhleðsluna. Farvegurinn er nú grasi gróinn með töluverðum trjágróðri og ekkert vatn er í honum lengur. Gengið var með bökkum lækjarins og þeir mældir inn.

Ég fór léttan stíg niður hlíðina, enda í svo góðri þjálfun. Þegar ég nálgaðist, sá ég konur baukuðu sér en karlmenn stóðu álengdar og horfðu til þeirra. Þær vóru að tína af sér spjarirnar. Sú athöfn er vissulega ein af undirstöðuathöfnum mannlífsins og útá hana hefur margur maðurinn fæðst og alltaf er nú þetta forvitnilegt verk — kona að hátta —. Þó að mestu skipti í hvaða tilgangi hún háttar.

Berrassað fólk á asfalti eða í borgarumhverfi er hjákátlegt og særir augað og hjartað og ergir skynsemina. Bert mannsholdið fellur ekki vel við borgarumhverfið. Nakin kona á steinsteypunni er eins og blóm, sem fallið hefur á gangstétt. — Hins vegar myndi allsbert fólk sóma sér vel á beit úti í guðgrænni náttúrunni.
Þegar fólk vill leita uppruna síns í einu eða öðru tilliti þá verður það að gæta þess, að gera það í samsvarandi umhverfi. Sem sagt: Strípaður maður á almannafæri í borg, á þar ekki heima fremur en maður á lakkskóm með pípuhatt og í kjólfötum í fjallgöngu.
Þegar ég hafði uppgötvað hvað var að gerast vissi ég til hvers þetta fólk var komið. Það ætlaði, a.m.k., eitthvað af því, að baða sig í hinni frægu Læragjá, eins og margir nefna þessa nýju heilsulind, sem fellur úr Öskjuhlíðinni. (Rasslind, eins og sumir nefna Lindina finnst mér ósmekklegt, en óneitanlega réttnefni). Ég hafði aðeins heyrt þessarar heilsulindar getið svo og þess að meiningar væru deildar um ágæti hennar. Nú gafst mér tækifæri eldsnemma morguns að fylgjast með heilsuræktinni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð 1946.

Vatnið í Læragjá er affall frá hitaveitugeymunum uppi á Öskjuhlíðinni, en einnig seytlar í hana skurðvatn úr framræsluskurði í brekkukverkinni vestur með hlíðinni. Í rauninni er heilsulindarfarvegurinn framræsluskurður, sem hefur verið hugsaður til að veita vatnsaganum ofan úr hlíðinni og undan henni til sjávar og þurrka upp svæðið vestan við skurðinn. Vegurinn að bátanaustinu og gufuböðunum og reyndar öllum hinum gamla baðstað liggur yfir skurðinn þar sem affallsrörin koma í hann, en þau liggja senni]ega nokkurn veginn beint frá geymunum efra.

Nauthólslækur

Nauthólslækur (Sigmund-mbl).

Í Læragjá eru þrjú uppistöðulón; það hafa verið hlaðnar stíflur á þremur stöðum í stokknum og þær mynda þessi lón, hvert svo sem eins og tvær mannslengdir. Stíflurnar hljóta náttúrlega að draga úr gegnumstreyminu.
Eiginmenn, (eða það skyldi maður halda), kvennanna, sem voru í vatnsnuddinu, stóðu á skurðbakkanum og horfðu ólundarlega á konur sfnar, en þær brostu alsælar á móti. Þarna var mikið hold, sem þurfti að fjarlægja, og líklegra verkefni fyrir Dettifoss en þessa lækjarsytru úr hitaveitugeymunum. Það kom á daginn, að það hafði fleirum dottið í hug að þörf gæti reynzt á kraftmeira rennsli. Eg spurði:
—Finnst ykkur þetta hafa borið árangur?
Mennirnir vóru seinir til svars.
Loks sagði annar:
— Það skiptir nú minnstu, hvað okkur finnst. Þær segja að þetta grenni þær, en þú sérð nú að eitthvað er eftir þarna niðri í skurðinum.
— Það þarf að auka rennslið, sagði ég hughreystandi.
— Já, sagði nú hinn maðurinn ákafur, þaö var einmitt það, sem ég sagði við mína konu í morgun, að ef hún ætlaði að ná af sér spikinu með vatnsrennsli, segði þessi spræna lítið, hins vegar skyldi ég fara með hana austur í Þjórsá, þar sem hún fellur þrengst og leggja henni þar við stjóra fram yfir aldamót …“

Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum„:

Nauthólsvík

Nauthólslækur (Mbl. Ó.K.M)

„Útideild og lögreglustjóri hafa áhyggjur af Læragjá – Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum.

Fyrir tilstuðlan Æskulýðsráðs Reykjavíkurborgar er nú lækurinn í Nauthólsvík eða Læragjá, eins og hann er oft nefndur, að nýju kominn á dagskrá í borgarstjórn. Upphaf pessa nýja erindis fyrir borgarstjórn má rekja til bréfs frá Útideild/Eskulýðsráðs og Félagsmálaráðs, en þar kemur fram að ástandið að næturlagi við lækinn veldur starfsfólki deildarinnar miklum áhyggjum og að það telur nauðsynlegt að koma vitneskju þeirra um ástandið á framfæri við viðkomandi yfirvöld. Sendi því Útideildin bréf til Æskulýðsráðs, Félagsmálaráðs og Heilbrigðisráðs.
Í bréfi Útideildar kemur fram, að hún hefur margsinnis í störfum sínum kannað ástand og fjölda ungs fólks við hinn margumtalaða læk við Nauthólsvík. Á umliðnum vetri hafi oft verið mjög slæmt ástand þar en þó einkum að næturlagi um helgar.

Nauthólsvík

Nauthólslækur. Mbl. Ó.K.M.)

Þá hafi fólk safnazt saman í tugatali, yfirleitt dauðadrukkið og tekið sér bað í læknum, ýmist í alfatnaði, hálfnakið og jafnvel allsnakið. Ekki hafi verið óalgengt að sjá fólk í samförum og stóran hóp áhorfenda umhverfis. Mikið er um flöskubrot og annan óþrifnað, og fólk gerir þarfir sínar í lækinn eða nánasta umhverfi hans, þar sem engin hreinlætisaðstaða er fyrir hendi. Meiðsli eru einnig tíð að því er fram kemur í bréfinu.
Flest er fólkið yfir tvítugt en einnig eru áberandi hópar unglinga og hefur sá hópur alltaf stækkað með hækkandi sól, að því er segir f bréfinu. Er það álit starfsmanna Útideildar að mesta mildi sé að ekki skuli nú þegar hafa hlotizt þarna af stórslys, og segir í bréfinu að miðað við núverandi aðstæöur telji starfsmenn deildarinnar algjörlega óforsvaranlegt aö fólk hafi aðgang að læknum aö næturlagi.

Nauthólsvík

Nauthólslækur. (Mbl. Ó.K.M.)

Í framhaldi af þessu ritaði Æskulýðsráð lögreglustjóranum í Reykjavík bréf og óskaði umsagnar hans, og er sú umsögn barst var hún lögð fram í borgarráði ásamt bréfi Útideildar. Umsögn lögreglustjóra er mjög á sömu lund og bréf Útideildar. Hann getur þess í upphafi aö þessi afrennslislækur hafi lengi verið búinn aö renna til sjávar í Nauthólsvík án þess að nokkur vandræði hlytust af. Hins vegar hafi loks komið að því að ölvað fólk fór að sækja í lækinn um nætur, dagblöð að birta myndir og þar með hafi verið komin sú athygli og auglýsing er þurfti til að stefna því fólki þangað er sízt skyldi. Borgarstjórn hafi þá látið lagfæra lækjarbakkana og snyrta til svo vistlegra yrði á svæðinu en slíkt hafi dugað skammt er baðgestir kunnu ekki fótum sínum forráð.

Lögreglan

B-vakt lögreglunnar 1975. Hafði nóg að gera að nætulagi við Nauthólsvík.

Fram kemur í umsögn lögreglustjóra, að lögreglan hafi að undanförnu þurft að hafa dagleg afskipti af baðgestum sakir ölvunar, slagsmála og slysa og sé nú svo komið að ekki verði viðunað lengur. Sérstaklega sé ástand við lækinn um nætur slæmt eftir að dansleikjum lýkur, fólk haldi að baðstaðnum, og leggist í lækinn ýmist nakið, á nærfötum eða í öllum fötum. Af þessum sökum hafi hlotizt alvarleg slys og einn maður hafi fundizt örendur í læknum. Hinn 17. júní sl. hafi rænulaus maður verið fluttur í gjörgæzludeild eftir að hafa sofnað í læknum og næstum drukknað og margir hafi þarna skorizt illa á glerbrotum, slasazt í slagsmálum og hrasað.

Nauthólsvík

Nauthólslækur.

Fyrir liggi margar lögregluskýrslur um óhöpp á staðnum og slæma hegðun fólks, m.a. vegna þess að engin snyrtiaðstaða sé á staðnum og menn gangi þar örna sinna á víðavangi og í læknum. Ekki er heldur aðstaða til að hafa fataskipti og geyma verðmæti, svo að talsvert hefur borið þarna á þjófnaði á fötum og munum. Þá kemur fram að aöfaranótt 17. júní þurfti lögreglan tvívegis að fara á björgunarbát og sækja ölvaða menn, sem höfðu lagt til sunds yfir Fossvog eftir bað í læknum og voru báðir aðframkomnir er þeir náðust. Þá kemur fram, að mjög mikið ónæði er á Hótel Lottleiðum af völdum fólks sem kemur úr læknum um nætur og ítrekaðar kvartanir hafa borizt frá hótelinu í því sambandi.“

Í Morgunblaðinu 1978 segir:

Nauthólsvík

Nauthólslækur. Önnur umfjöllun í Morgunblaðinu 1978: “ Læragjá lokuð að næturlagi,“

Læragjá lokað að næturlægi? Dæmi um og að menn hafi jafnvel í ölæði lagzt til sunds úr læknum.
LÆRAGJÁ eða lækurinn í Nauthólsvikinni veldur borgarstjórn áhyggjum eða öllu heldur sú slysahætta sem af honum stafar vegna ásóknar ölvaðs fólks um nætur.
Í borgarráði Reykjavíkur í gær var lagt fram bréf frá framkvæmdastjóra Æskulýðsráðs borgarinnar með skýrslu lögreglustjóra, þar sem lýst er heldur ókræsilegu næturlífi við lækinn vegna mikillar ásóknar ölvaðs fólks. Minnt er á að þegar hafi hlotizt af þessu eitt dauðaslys, fólk hafði verið fiskað meðvitundarlaust upp úr læknum og út í sjálfa víkina.
Þá hefur löngum farið það orð af gjálífi þessu, að það fari langt út fyrir öll velsæmismörk, en engu að síður mun það vera áðurnefnd slysahætta sem af læknum er talin stafa sem veldur borgarstjórn mestum áhyggjum. Var í því sambandi rætt á borgarráðsfundinum í gær hvað væri til ráða og var því beint til hitaveitustjóra og borgarverkfræðings hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í læknum að næturlagi og hver kostnaður af því væri.“

Í DV árið 1983 segir:

Lækurinn aldrei framar baðstaður?
Lækurinn vinsæli í Nauthólsvík mun hugsanlega aldrei opnast framar til baða. Heitt vatn hefur ekki runnið í hann frá því í apríl síðastliðnum.
„Það er eins líklegt að þetta verði svona um alla framtíð,” sagði Árni Gunnarsson, verkfræðingur hjá Hitaveitu Reykjavíkur, þegar DV spurði hann um hversu lengi yrði vatnslaust í Læknum.
„Við höfum verið að auka dælingu úr Reykjavíkursvæðunum. Þar af leiðandi höfum við þurft að fullnýta afgangsvatnið,” sagði Árni.

Nauthólslækur

Nauthólslækur.

Borholusvæði Hitaveitunnar eru þrjú; Laugardalssvæði sem er tæplega 130 gráðu heitt; og Reykjasvæði í Mosfellssveit sem er um 80 gráðu heitt.
Hitaveitan selur viðskiptavinum sínum 80 gráðu heitt vatn. Vatnið úr Reykjavíkursvæðunum er hins vegar mun heitara. Það þarf því að kælast niður.
Til kælingarinnar notar Hitaveitan frárennslisvatn. Það vatn er orðið um 40 gráðu heitt eftir að viðskiptavinurinn hefur notað það til upphitunar.
Áður rann afgangur af þessu frárennslisvatni um öryggisventil úr gömlu geymunum á Öskjuhlíð niður í Lækinn í Nauthólsvík. Eftir að Hitaveitan fór að nýta heitari svæðin meira þarf hún á öllu frárennslisvatninu að halda til kælingarinnar.
„Það er ákaflega erfitt að segja til um það hvort það verði til afgangsvatn fyrir Lækinn í framtíðinn. Það þarf ekki að búast við neinu. Þetta er algerlega háð rekstri Hitaveitunnar,” sagði Árni.
Lækurinn var á sínum tíma fjölsóttur baðstaður. Mikil vinna hefur verið lögð í að gera umhverfi hans snyrtilegt.“ -KMU.

Svo mörg voru þau orð – vandinn var einfaldlega leystur með eðlilegri og betri nýtingu í stað langra óþarfa skoðanaskipta stjórnmálamanna…

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Nauth%C3%B3lsv%C3%ADk
-Vísir, 256. tbl., Nafntogaður lækur, 17.10. 1977.
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A6ragj%C3%A1
-Lesbók Morgunblaðsins, Öskjuhlíðarþankar, Ásgeir Jakobsson, 34. tbl. 05.09. 1976, bls. 14 og 15.
-Morgunblaðið, 142. tbl. 06.07.1978, Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum, bls. 5 og 20.
-Morgunblaðið, 141. árg., Læragjá lokað að Næturlagi?, 1978, bls. 32.
-DV, 205. tbl., Lækurinn aldrei framar baðstaður?, 9. sept. 1983, bls. 40.
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Morgunblaðið, 167. tbl, 05.08.1978, Læragjá lokuð að næturlagi, bls. 48.

Nauthólsvík

Nauthólsvík og nágrenni 1945.

Fossvogur

Á sjávarbakka í botni Fossvogs á klettinum Hanganda/Votabergi um 110 m vestur af Kringlumýrarbraut og 122 m norðvestur af bensínstöð N1 er skotbyrgi.

Fossvogur

Fossvogur – skotbyrgi.

Byrgið tilheyrði Camp Fossvogi sem var fyrir botni vogsins og var síðar einnig nefndur Camp Cook South. Kampurinn er skráður undir jörðina Laugarnes.

Á bakkanum norðvestan við eru leifar af tveimur undirstöðum og grunni sem tilheyrðu einnig kampinum.
Byrgið er heillegt skotbyrgi. Veggir eru hlaðnir en þakið er steypt með halla að framan. Gengið er niður þrjú steypt þrep í byrgið á norðausturhlið. Byrgið er þakið jarðvegi og er grasi vaxið.

Fossvogur

Fossvogur – skotbyrgi.

Norðvestan við er lágt garðlag um 20 m á lengd, liggur norður-suður með ströndinni og annað minna 10 m austar, um 10 m á lengd, bæði garðlögin eru greinileg á loftmyndum frá árinu 1954 og síðar, ekki er ljóst hvaða garðlög þetta eru.
Úr byrginu var útsýni til sjávar þannig að þar hefur verið hægt að fylgst með skipaferðum og flugi yfir Fossvog. Fyllt hefur verið upp í skotraufina en líklega hefur það verið notað sem geymsla fyrir matjurtir seinna.
Hlaðin eða steypt skotbyrgi frá stríðsárunum eru 50 talsins á höfuðborgarsvæðinu.

Heimild:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.

Fossvogur

Fossvogur – skotbyrgi.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt er ein af 222 skráðum fjárréttum FERLIRs í landnámi Ingólfs fyrrum. Þær eru að öllum líkindum miklu mun fleiri þegar upp verður staðið.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1911.

Í „Örnefnalýsingu fyrir Þormóðsdal„, skráða af Tryggva Einarssyni frá Miðdal, segir m.a. um Hafravatnsrétt og nágrenni (heimildarmaður og skrásetjari er gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi er fæddur í Miðdal árið 1901 og hefur átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77):

„Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás. Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal.
Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil. Upp af áðurnefndum Torfum eru smágrasblettir, er Blettir heita. Frá Hafravatnsrétt, norður með Hafravatni, er Hafrahlíð. Þar sem Hafrahlíð beygir í norðaustur, heitir Hlíðarhorn.“

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1952.

Í Tímanum 1957 er grein um Hafravatnsrétt; „rétt Reykjavíkurbarna“ eftir Guðna Þórðarson:

„Reykvíkingar fjölmenntu í rétfirnar í fyrradag. Enda þótt tilvera réttanna séu mörgum Reykjavíkurbörnum aðeins óljós þjóðsaga, gefst þeim þó mörgum tækifæri til að fara í réttir, þegar réttað er í Hafravatnsrétt í Mosfellssveit. Þær eru stærstu réttirnar í nágrenni Reykjavíkur og eru því öðrum réttum framar réttir Reykvíkinga, að minnsta kosti Reykjavíkurbarna, sem ekki komast í sveit. En sá hópur fer stækkandi með hverju árinu sem líður og borgin vex.
Snemma morguns var orðið mikið annríki í Hafravatnsrétt. Frá Reykjavík komu bílar í löngum lestum með fullorðna og börn, og tveir lögregluþjónar höfðu ærinn starfa við að stjórna umferð mannfólksins fyrir utan réttarveggina, og á flötnum niður með vatninu, þar sem ökutækjum var fundinn staður.

Engir rekstrar en margir fjárbítar

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1957.

Margir komu líka ríðandi í réttirnar. Leitarmenn höfðu flestir komið daginn áður, enda var vakað yfir safninu við réttina í fyrrinótt, þar til réttarstörfin hófust með birtnggu að kalla. Flestir bændanna lögðu flutningabílum að útvegg réttar hjá dilk sínum og fluttu féð jafnóðum heim á bílunum.

Ónæðisamt er að vera á ferð með fjárrekstra á þjóðvegunum í næsta nágrenni Reykjavíkur. Fæstir bændanna, sem sækja fé sitt til Hafravatnsréttar eru líka stórbændur á sauðfjárræktarsviðinu, enda búskapur þeirra rekinn í höfuðsveitum mjólkurframleiðslunnar. Engu að síður er fjáreign bænda í nágrenni Reykjavíkur nokkuð almenn og fer heldur vaxandi. Sauðfjárræktarbændurnir eru samt ekki fleiri en svo, að erfitt er fyrir þá eina að standa að smölun á öllum afréttarlöndum. Þau eru ótrúlega víðáttumikil og erfið til smölunar. Féð gengur saman allt austur í Grafning og heiðarnar eru stórar og margar hæðir og lautir, þar sem kindur géta leynzt vökulum augum leitarmanna.

Börnin ekki færri en lömbin
Hafravatnsrétt
Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt er Kristinn bóndi á Mosfelli, skörulegur og geðgóður réttarstjóri, sem oft þarf að taka á þolinmæðinni allri, þegar annríkið stendur sem hæst. Þá kemur stundum fyrir að réttarstjórinn stígur upp á réttarvegginn, gætilega svo að grjót hrynji ekki úr hleðslunni og heldur hóflega orðaða ræðu til háttvirtra réttargesta. Hann biður þá með góðum orðum og fögrum að sýna sveitamönnum miskunnsemi og rýma til í réttinni sjálfri, í almenningnum, þar sem skilamenn þurfa að finna sitt fé og draga það í dilka.

Fyrst í stað gengur allt að óskum og fleira er af kindum en börnum í almenningnum, en börnunum fjölgar meir en kindunum fækkar, og þá þarf réttarstjórinn aftur að stíga í stólinn og gera ráðstafanir til þess að hægt sé að halda áfram störfum í réttum Reykjavikurbarnanna.

HafravatnsréttSveitin tæmist, er fólkið fer í réttir En það eru fleiri en börnin, sem fjölmenna í Hafravatnsrétt, þangað koma svo til allir vopnfærir menn og konur úr Mosfellssveit og dvelja lengi dags, svo að símstöðin á Brúarlandi nær varla í nokkurn mann, þegar kvaðning kemur frá landssímanum. Óvíða er svarað hringingu, því að allir ungir og gamlir eru í Hafravatnsrétt.
Réttin stendur skammt frá vatninu undir hlíðinni, þar sem margir sitja og fylgjast með réttarstörfum.
Þegar líður á réttardaginn, fara menn að gera nestinu einhver skil, en kvenfélagið sér fyrir góðum veitingum, heitu kaffi, pönnukökum og smáréttum.

Hafravatnsrétt

Mörgum er það svo mikið ævintýri að komast þarna í lifandi samband við kindurnar, að því fá engin orð lýst.
Fjögurra ára Reykjavíkurtelpa stóð við hliðina á átta ára bróður sínum fast við hliðgrindina og horfðu heilluð á fallegt lamb, sem stóð skorðað með höfuðið upp að grindinni. Þau höfðu aldrei séð lifandi kind fyrr. — Verst, að við skyldum ekki hafa með okkur brauðmola, sagði telpan við bróður sinn.
Þannig gerðust fjölmörg ævintýri í lífi Reykjavíkurbarna við Hafravatnsrétt í gær. Fyrsti réttardagurinn verður flestum ógleymanlegur, ekki sízt kaupstaðarbörnunum, sem vaxið hafa upp í faðmi borgarinnar, þar sem fá tækifæri gefast til náinna kynna við lifandi dýr. Og einhvern veginn er það svo, að lömbin eru í meira uppáhaldi hjá börnunum en flest önnur húsdýr, þó að oft séu kynnin stutt. Þau hverfa til fjalla, þegar þau eru fallegust á vorin og koma svo ekki aftur fyrr en í réttirnar á haustin. En ef til vill er það þessi langa eftirvænting sumarsins um samfundi í réttum að hausti, sem heillar hugi barnanna.
Og Reykjavíkurbörnin mörgu, sem í fyrsta sinn komust í lifandi snertingu við kindur í Hafravatnsrétt í fyrradag, munu heldur ekki gleyma því strax, að fundum bar þar saman. Þau hafa fengið í blóðið þann óróleika, sem verður þess valdandi að réttirnar gleymast ekki, þegar að þeim kemur á haustin. Vafalaust hafa mörg börn og jafnvel fullorðnir, sofnað út frá kindajarmi að loknum löngum og viðburðaríkum réttardegi, dreymt um fangbrögð við frískar kindur, draumar, sem verða að veruleika, þegar aftur verður enn á ný farið í réttir.“

Í Vísi 1964 er grein; „Í Hafravatnsrétt„:
Hafravatnsrétt
„Það var mikið um að vera í Hafravatnsrétt í gær. Bændur og búalið kepptust við að draga og fleiri tugir Reykvíkinga komu þangað í gær, með börn sin til þess að fylgjast með réttarstörfunum. Gizkað er á, að um fimm þúsund fjár hafi verið réttað núna í Hafravatnsrétt, og er það færra fé en nokkru sinni fyrr.
„Fénu er alltaf að fækka, og nú eru margir bæir hér að verða fjárlausir,“ sagði Kristinn Guðmundsson, réttarstjóri, þegar við litum inn í skúrinn til hans í gær.

Hafravatnsrétt

Kristinn Guðmundsson (1893-1976), réttarstjóri um árabil (mynd frá 1963).

Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt hefur það fram yfir flesta réttarstjóra á landinu, að hann hefur sérsakan skúr, eða skýli, við almenninginn, þar sem hann heldur til og stjórnar réttarstörfunum með kalllúðri.
Mikið kapp var lagt á að draga fyrir hádegi, vegna þess að eftir hádegi kemur margt aðkomumanna, einkum frá Reykjavík, og vilja þá réttarstörfin ganga nokkuð seint fyrir sig. Í Hafravatnsrétt hittum við bæði alvörubændur og sportbændur, og allir virtust vera í góðu skapi og menn voru komnir í réttarstemmningu síðdegis. — Kvenfélagskonurnar í Lágafellssókn sáu um veitingasölu í bragganum og tveimur tjöldum, þar sem fólki var gefinn kostur á að kaupa sér kaffisopa með gómsætu heimabökuðu meðlæti.
Mjög margt barna var í Hafravatnsrétt og mátti sjá flest andlit þeirra ljóma af ánægju, enda er þetta í eina skiptið, sem mörg reykvísk börn komast í snertingu við kindur. — Og það voru fleiri andlit, sem ljómuðu í Hafravatnsrétt. Þegar bændurnir voru búnir að draga og fá sér góða lögg af réttarpelanum mátti sjá ánægju svip á andlitum þeirra, þegar þeir litu yfir fjárhópinn sinn, sem þeir höfðu fengið heim af afrétt.“

Í Vísi 1965 er aftur fjallað um „Hafravatnsrétt“:
Hafravatnsrétt
„Það þykir ævinlega stór dagur til sveita, þegar réttað er. Þessi dagur er sannkallaður hátíðisdagur og ætti vitanlega að vera „rauður dagur“ á almanakinu.
Það má líkja réttardeginum við uppskeruhátíðir erlendis, enda er alltaf haldið upp á réttardaginn og réttarskálin sopin.
Blaðamaður Vísis kom við í Hafravatnsrétt í gær, þar sem allt var á ferð og flugi. Í almenningnum í miðri réttinni voru bændur úr Mosfellssveit í óðaönn að draga fé sitt í dilkana og úr dilkunum var farið með féð á vörubílana sem biðu þess.

Hafravatnsrétt

Í Hafravatnsrétt.

Það var feitt fé og fallegt sem kom af Mosfellsheiði núna eftir gott sumar. Við sögðum í gær í frétt að það hefði verið um 1000 fjár, en það var vissulega sök prentvillupúkans, en í Hafravatns rétt munu um 5000 fjár væntanlega koma til skila eftir fyrstu leit og er það svipað og í fyrra.
Réttarstemningin var ekki byrjuð ennþá, þegar blaðamaðurinn fór af staðnum, — enginn réttarpeli var a.m.k. réttur að honum, — en í nefið fékk hann og það var allt i áttina.
Í dag verður brugðið upp svipmyndum af Hafravatnsrétt, rétt Mosfellinga, Kópavogsbúa, Seltirninga, þeirra fáu sem þar eiga enn kindur og svo þeirra Reykvíkinga, sem eru fjáreigendur, en reykvísku kindurnar munu vera á 4. þús. talsins. Segið svo að höfuðborgin eigi ekki álitlegan fjárstofn. Að vísu kemur ekki nema hluti fjárstofns Reykvíkinga í Hafravatnsrétt, en það mun samt vera álitlegur hluti hans.“

Í Morgunblaðinu 1982 er frétt; „Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?“:
Hafravatnsrétt
„Sennilega var réttað í síðasta skipti í Hafravatnsrétt í gær, því nú er fyrirhugað að reisa fjárhelda girðingu umhverfis Stór-Reykjavíkursvæðið frá Straumsvík og upp að Kiðafellsá í Kjós. Fjárhald innan girðingar verður ekki leyft nema undir eftirliti, þannig að rekstur á heiði innan girðingar leggst fyrirsjáanlega af. Ekki er að efa að mörgum verður eftirsjá að réttinni ef hún hverfur, því að hana hafa margir sótt heim, enda sú rétt sem næst hefur verið þéttbýlustu svæðum landsins.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 2023.

Að sögn Hreins Ólafssonar, bónda í Helgadal, sem var leitarstjóri í leitunum, voru það ekki nema um 600 fjár, sem nú voru réttuð í Hafravatnsrétt, en undanfarin ár hafa það verið 1.500—2.000. Ástæða þess að það var svo fátt nú, er kuldinn sem verið hefur undanfarið, svo margt fé hafði sjálft skilað sér heim, enda um 10 sentimetra snjór á heiðinni á sunnudag, þegar smalað var. Fyrir 20 árum voru það 12—15.000 fjár sem réttuð voru í Hafravatnsrétt, svo að umskiptin hafa verið mikil, en fé hefur farið fækkandi ár frá ári. Eins og fyrr sagði var réttað í gær og tók það ekki langan tíma eins og gefur að skilja, þar sem féð var svo fátt. Til Hafravatnsréttar var smalað á sunnudaginn og taka leitirnar einn dag, en réttað er daginn eftir.“

Í Bændablaðinu 2017 er skemmtilega söguleg umfjöllun dr. Ólafs R. Dýrmundssonar undir fyrirsögninni „Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt„:

Ólafur R. Dýrmundsson

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson. „Ég held að það blundi sveitamaður í fjölda þéttbýlisbúa,“ segir Ólafur Dýrmundsson sem heldur 12 kindur, og forystusauðinn Hring, í fjárhúsi við heimili sitt í Breiðholti. Ólafur býr efst í Seljahverfinu, þar sem hann og fjölskylda hans voru frumbyggjar á sínum tíma. Hluti hverfisins var byggður upp með stórum lóðum með það fyrir augum að íbúar gætu haldið hesta og jafnvel önnur dýr og þar hefur Ólafur stundað fjárbúskap, eða það sem hann kallar örbúskap.
„Þetta er horfið að mestu, þannig að ég er einn af þeim sem held þessu vakandi. En ég held að það sé talsvert af ungu fólki sem hefði áhuga á því að byggja þetta upp aftur en þá þarf að skipuleggja það.“

„Sauðfjárbúskapurinn í Reykjavík er nú eitt af því fáa í höfuðborginni sem enn minnir á sveitabúskap. Liðin eru 90 ár síðan sauðfjárbændur í Reykjavík, bæði á lögbýlum og utan þeirra, stofnuðu fyrsta félag fjáreigenda í þéttbýli hér á landi, Fjáreigendafélag Reykjavíkur.
Fénu hefur fækkað mikið og þeir borgarbúar sem eiga þar kindur eru orðnir fáir. Engu að síður hefur kindaeignin menningarlegt, félagslegt og uppeldislegt gildi.

Fjáreigendafélagið stofnað 2. desember 1927
Fjárborg
Fyrir 90 árum var töluverður fjárbúskapur í Reykjavík og vel fram yfir miðja liðna öld var fé haldið á ýmsum stöðum í öllum hverfum hennar.
Þéttbýlismyndunin var ör, sveitaumhverfi var að breytast í borgarumhverfi og á meðal helstu hagsmunamála fjárbænda var að koma betri skipan á fjallskil í samvinnu við nágrannasveitarfélögin og fá nægilega stóra girðingu til vor- og haustbeitar til þess að koma í veg fyrir árekstra við garð- og trjárækt í Reykjavík. Þetta kom m.a. skýrt fram á fundi fjáreigenda 15. nóvember 1927 þar sem grunnur var lagður að stofnun Fjáreigendafélags Reykjavíkur rúmum tveim vikum síðar, 2. desember.

Helsti forvígismaður og fyrsti formaður félagsins var Maggi Júl, Magnús læknir á Klömbrum. Þann vetur voru 123 skráðir fjáreigendur í Reykjavík með samtals 1357 kindur á fóðrum og var fjárflest á Bústöðum, 164 kindur, en næst komu Breiðholt, Kleppur og Klambrar með fjártölu á bilinu 50–80 vetrarfóðraðar kindur. Sögulegt hámark fjárfjölda í Reykjavík var um 1960, nær 4.000 fjár í eigu vel á 2. hundrað manns.
Nú eru fjárhjarðirnar í Reykjavík aðeins 12 að tölu og 250 kindur settar á vetur. Svipuð þróun hefur verið í kaupstöðum og kauptúnum um land allt, jafnvel alveg fjárlaust í nokkrum þeirra.

Fjárborg

Fjárborg var byggð 1959, þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús sem stóðu til 1968, var þar sem nú er stórhýsi Tengis.

Breiðholtsgirðingin og Breiðholtsréttin
Breiðholtsrétt
Á meðal helstu verkefnanna fyrst eftir stofnun félagsins var að semja við bæjarstjórnina um Breiðholtsgirðinguna og Breiðholtsréttina, hvort tveggja mikil mannvirki ofan við Blesugróf, tekin í notkun haustið 1933. Girðingin og réttin komu að miklu gagni allt til haustsins 1965 þegar stórfelldar byggingaframkvæmdir hófust í Breiðholtinu. Þangað var safnað fjölda fjár á haustin, einnig af Seltjarnarnesi og úr Kópavogi, bæði rekið úr Hafravatnsrétt og bílflutt úr ýmsum útréttum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.

Ólafur Dýrmundsson

Ólafur Dýrmundsson – síðasti fjárbóndinn í Reykjavík.

Oft var mannmargt og ágæt réttastemning í Breiðholtsrétt, bæði við rúning á vorin og í réttum á haustin en einnig notuðu hestamenn hana töluvert sem áningarstað. Réttin var ferhyrnd, vel viðuð, með háa veggi og klædd refaneti.
Almenningurinn var mjög stór og var safnið rekið beint inn í hann yfir Vatnsveituveginn í norðvesturhorni Breiðholtsgirðingar, skammt frá þeim stað þar sem mislægu gatnamótin eru á Stekkjarbakka. Breiðholtsgirðingin, sem var vönduð og vel strengd net- og gaddavírsgirðing, var í grófum dráttum á því svæði sem Stekkir, Bakkar, Hólar, Berg og Fell standa á en sunnan girðingarinnar var ógirt land Breiðholtsjarðarinnar þar sem Skógar og Sel eru núna.

Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna smalaður vor og haust

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Eftir að Fjáreigendafélag Reykjavíkur var stofnað fór það að annast öll fjallskil í umboði Reykjavíkur samkvæmt afréttarlögum en Reykjavík hefur nýtingarrétt til sauðfjárbeitar í afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna ásamt Kópavogi og Seltjarnarnesi, að jöfnum hluta hvert sveitarfélag. Afrétturinn er allur innan lögsagnarumdæmis Kópavogs og telst nú þjóðlenda.
Þar sem sauðfjáreigendur á Seltjarnarnesi voru í Fjáreigendafélagi Reykjavíkur gætti það einnig hagsmuna þeirra en Nesið hefur verið fjárlaust síðan 1966. Seltjarnarnes heldur þó fullum beitarrétti í afréttinum og hefur alltaf átt góð samskipti við Fjáreigendafélag Reykjavíkur og Sauðfjáreigendafélag Kópavogs sem var stofnað 1957. Fram til þess tíma voru nokkrir fjárbændur í Kópavogi í Reyjavíkurfélaginu. Í Kópavogi er nú aðeins eftir ein hjörð, á Vatnsendabýlinu.

Fossvallarétt

Fossvallarétt.

Allt til 1987 var allur afrétturinn smalaður til rúnings og á haustin voru þrennar göngur til 1985, en síðan er gengið tvisvar haust hvert. Eftir að vörslugirðingar voru reistar 2001 gengur Reykjavíkur- og Kópavogsféð allt norðan Suðurlandsvegar, samtals um 300. Eftir að Árnakróksrétt við Selvatn var aflögð varð Hafravatnsrétt í Mosfellssveit lögskilarétt frá 1903–1985, bæði fyrir Mosfellsbæ og sveitarfélögin þrjú sem eiga aðild að afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna.
Leiðir skildu haustið 1986 þegar Fossvallarétt við Lækjarbotna var gerð að lögskilarétt fyrir Reykjavík, Kópavog og Seltjarnarnes. Mikil og góð samvinna er við önnur sveitarfélög sem hafa afréttarnot í svokölluðu Norðurhólfi, þ.e.a.s. Mosfellsbæ, Þingvallasveit, Grafning og Ölfus, og skilamenn eru sendir í helstu útréttir, þó færri en áður þegar féð var margt og fór víða um Landnám Ingólfs Arnarsonar.

Sauðfjárstríðið í Reykjavík og Fjárborgirnar
Fjárrekstur
Á seinni hluta 7. áratugar liðinnar aldar urðu mikil átök á milli ráðamanna Reykjavíkur og fjáreigenda þar með Fjáreigendafélag Reykjavíkur í broddi fylkingar.
Reykjavík stækkaði ört, allt sem tengdist búskap var á undanhaldi og félagið fékk spildu sumarið 1959 undir fjárhúsabyggingar á afgirtri mýrarspildu upp af Blesugróf, í tungu sem myndaðist á milli Nýbýlavegar (nú Smiðjuvegur) og Breiðholtsbrautar (nú Reykjanesbraut). Nú stendur þar stórhýsi Tengis. Þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús og stóð þessi byggð til haustsins 1968 þegar reynt var að útrýma sauðfjárbúskap í Reykjavík með markvissum hætti.

Almannadalur

Fjárborg í Almanndal.

Svikið hafði verið samkomulag um aðstöðu fyrir fjárhúsabyggð og beitarhólf í Hólmsheiði frá 1964 og reyndist þetta tímabil í sögu félagsins mjög erfitt.
Með seiglu sauðkindarinnar að leiðarljósi lét stjórn félagsins ekki bugast og tókst að ná samkomulagi haustið 1970 við Reykjavíkurborg um 5 hektara spildu fyrir allt að 40 hús upp af Almannadal, neðst í Hólmsheiðinni, á móts við Rauðhóla. Þá lauk stríðinu með farsælum hætti og strax um haustið risu fyrstu fjárhúsin.
Þegar fénu fækkaði fóru hestamenn að kaupa og byggja hús í hinni nýju Fjárborg. Nú eru flestir fjáreigendur líka með hesta. Þar eru nú mun fleiri hross en kindur.
Allt Reykjavíkurféð er þar til húsa utan ein hjörð en samtals telur vetrarfóðrað fé í Reykjavík 250 kindur í 12 hjörðum eins og áður hefur verið greint frá. Þar hafa orðið litlar breytingar á síðan um aldamót.

Landakaup í Hvassahrauni

Hvassahraun

Kind í Hvassahrauni.

Eftir fjárskiptin, sem fólu í sér allsherjar niðurskurð fjár í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar haustið 1951, fjölgaði fénu ört eftir að vestfirsku lömbin komu, flest haustið 1952 og nokkur 1954. Þá reyndi mikið á Fjáreigendafélag Reykjavíkur, bæði við fjárskiptin sjálf og einnig vegna þess að mun meira land vantaði til haustbeitar en tiltækt var í Breiðholtsgirðingunni þótt margir fjáreigendur væru að nýta afgirt tún og bletti á ýmsum stöðum í bænum. Reyndar heyjuðu þeir mikið á slíku landi á sumrin og notuðu jafnvel líka til beitar á vorin. Þá voru sinubrunar fátíðir.
Eftir miklar kannanir og umræður ákvað stjórnin 1957 að stofna félagið Sauðafell hf um kaup á rúmlega 2000 hektara landi í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd.
Fjáreigendafélagið átti og á enn rúmlega 45% hlut en erfingjar 25 einstakra fjáreigenda, sem keyptu misstóra hluti á sínum tíma, samtals tæplega 55%. Síðan 2004 hefur félagið verið skráð sem Sauðafell sf. Þetta víðáttumikla, ógirta land nýttu sumir reykvískir fjáreigendur til haustbeitar og á sauðfjárstríðsárunum byggðu tveir þeirra myndarleg fjárhús þar, fluttu þangað féð ásamt nokkrum öðrum, aðallega úr gömlu Fjárborg, og höfðu fé sitt þar líka á sumrin. Þeir síðustu sem það gerðu voru reyndar úr Kópavogi og Hafnarfirði, fram yfir 1990, þegar mest allur Reykjanesskaginn var beitarfriðaður.“

Hafravatnsrétt

Skilti við Hafravatnsrétt.

Skilti við Hafravatnsrétt stendur m.a.:
„Um aldamótin 1900 var Hafravatnsrétt hlaðin og leysti af hólmi fjárréttina í Árnakrók við Selvatn. Hingað var rekið fé af Mosfellsheiði og var hún skilarétt Mosfellinga fram eftir allri 20. öld.“

Í „Skrá um friðlýstar fornleifar 1990“ segir um Þormóðsdal: „Hafravatnsrétt, hin gamla skilarétt við austurenda Hafravatns. Skjal undirritað 14.07.1988. Þinglýst 20.07.1988.“

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal – Tryggvi Einarsson Miðdal.
-Tíminn, 214. tbl. 26.09.1957, Hafravatnsrétt; rétt Reykjavíkurbarna – Guðni Þórðarson, bls. 7.
-Vísir, 218. tbl. 23.09.1964 – Í Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Vísir, 215. tbl. 22.09.1965 – Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Morgunblaðið, 208. tbl. 21.09.1982, Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?, bls. 3.
-Bændablaðið, 23. tbl. 30.11.2017, Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt dr. Ólafur R. Dýrmundsson, bls. 36-37.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-https://www.ruv.is/frett/2020/07/07/sidasti-fjarbondinn-i-borginni-0

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Hólmsheiði

Gengið var um vestanverða Hólmsheiði, austan og norðaustan við Rauðavatn. Á þessu svæði er m.a. finna búskapsleifar frá Hólmi, s.s. réttir, áletranir, fjárborgir og fjárhús auk sels (Grafarsel) frá bænum Gröf, sem var skammt sunnan við Keldur.

Áletrun í réttinni

Allt svæðið tilheyrði Gröf (Grafarholti 1703)., en jörðin átti þá land að Reynisvatni í austri, Hólmi í suðaustri, Elliðavatni í suðri, Árbæ í vestri og Keldum og Lambhaga í norðri. Þrátt fyrir mikla skógrækt ofan við Rauðavatn allt frá árinu 1899 og fram til þessa dags hafa minjarnar að mestu verið látnar í friði. Þó hefur mátt sjá hvar trjáplöntum hefur verið plantað í einstaka þeirra, en þær þá jafnan rifnar upp og plantað utan minjanna. Sumar minjanna eru merktar „Borgarminjar“, en þó ekki allar.
Byrjað var á því að ganga í rétt (borg) við gömlu þjóðleiðina austur fyrir fjall. Hún er í leirblandaðri hlíð, Borgarholti, mót suðri, skammt fyrir ofan leiðina, ómerkt. Réttin hefur verið hlaðin úr stórum steinum, sem enn standa – sumir hverjir. Allt svæðið er nú umlukið lúpínu svo mannvirkið hverfur jafnan þegar líða tekur á sumrin. Norðan í réttinni er flatur steinn. Á hann hefur verið markað ártalið 1818 og SG undir. Ofan við áletrunina er krossmark. Hvort sem „réttin“ hefur verið hlaðin til minningar um mann eða konu, sem þarna hefur látist, eða viðkomandi látist þarna í réttinni, er ekki gott að segja. Eflaust er einhvers staðar til lýsing á tilurð áletrunarinnar.
Þá var haldið upp með norðausturbrún skrógræktarinnar í sunnanverðum Úlfhildarbrekkum. Þar utan í henni (reyndar inni í henni nú orðið) er fjárhústóft (sauðatóft). Austan í henni, samfast, er heykuml. Hleðslur standa í því, en hleðslur fjárhússins standa grónar. Gafl hefur verið mót vestri. Frá þessum stað sést vel yfir Rauðavatnið.
Fjárhústóft utan í HólmsheiðiRauðavatn er í jökuldæld austan Seláss. Austasti hlutinn nefnist Austurvík. Suðurvík er syðst og Jaðar á millum. Fyrstu tilraunir með trjáplöntur voru m.a. gerðar við vatnið skömmu fyrir aldamótin 1900. Áhugamannafélag um skógrækt var stofnað árið 1901 og keypti svæði úr landi Grafarholts austan vatnsins. Tilraunir til skógræktar þar brugðust vonum manna og var hætt. Skógræktarfélag Íslands tók við resktrinum og árið 1946 Skógræktarfélag Reykjavíkur. Nokkrir sumarbústaðir er byggðir voru um og eftir stríðsárin stóðu við vatnið. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar árið 1982 gerði ráð fyrir íbúðabyggð við vatnið en að loknum sveitarstjórnakosningum sama ár var hætt við þessa fyrirætlan. Ástæðan var ekki síst aðvörun jarðfræðinga um sprungubelti á þessu svæði. Árið 2005 hófst íbúðabyggð á svokölluðu Norðlingaholtssvæði, milli Rauðavatns og Elliðavatns, þannig að byggð færist æ nær vatninu. Ein stærsta prentsmiðja landsins stendur nú á „sprungusvæðinu“ sem og höfuðstöðvar áreiðanlegasta dagblaðs landsins.
NorðurljósasætiðSkógurinn við Rauðavatn er hluti að „Græna trefillinum“ svonefnda, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörk sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness, Kópavogs, Garðabæjar, Álftaness og Hafnarfjarðar. Á þessu svæði búa tæplega 230.000 íbúar eða rúm 60% þjóðarinnar. Samstarf skógræktar- og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við uppbyggingu útivistarsvæða innan og á jaðri byggðar á sér langa sögu. Má rekja hana allt aftur til ársins 1903 þegar gróðursetningin hófst skipulega við Rauðavatn. Hugmyndin um að líta á svæðið sem eina heild er þó mun yngri og er fyrst farið að nota hugtakið „Græni trefillinn“ upp úr 1990. Árið 1985 gaf Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins út metnaðarfullt rit sem nefndist „Átak í trjárækt á
höfuðborgarsvæðinu“ sem innlegg í væntanlegt svæðisskipulag. Veturinn 1993 – 94 létu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna drög að sameiginlegum markmiðum með skógrækt í upplandi svæðisins. Jafnframt voru unnin frumdrög að samræmdu umferðarkerfi á svæðinu
jafnt fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi sem akandi útivistarfólk. 

Sumarhúsið

Með þessu frumkvæði vildu skógræktarfélögin leggja fram drög að svæðisskipulagi útivistar og skógræktar í þeirri von að tillögurnar yrðu fléttaðar inn í aðalskipulags- og framkvæmdaáætlun viðkomandi sveitarfélags. Árið 2003 var undirritaður formlegur samningur um Græna trefilinn milli
skógræktarfélaganna. Við gerð Svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið 2001-20241 var Græni trefillinn staðfestur í skipulagi. Græni trefillinn hefur einnig verið tekinn inn í aðalskipulag einstakra sveitarfélaga. Ekki hefur þó enn verið unnið skipulega að því að tengja svæðin saman eða formgera framkvæmd þessa verkefnis.
Að öllum líkindum var fjárhúsið (sauðahúsið) frá Hólmi. Þjóðjörðin Hólmur fær eftirfarandi umsögn í fasteignamatinu 1916-1918: „Land mikið og gott, hagsamt, skjólótt, kvistlendi + hrís á nokkru (Hólmsheiði ekki hér með talin, sjá Mosf.sv.). Kostir: … (nú leigð fyrir slægjur frá Elliðav.,Rauðh.). … Ath. Beitarland, nefnt Hólmsheiði, er liggur í Mosfellsveit (norðan Bugðu) en fylgir nú Hólmi, er metið sérstaklega …“
Í sömu heimild segir um Hólmsheiði: „Beitarland, sunnan við Reynisvatnsland (og talið af því tekið), milli Geitháls og Grafarholtslanda (norðan við ána Bugðu), fylgir nú þjóðjörðinni Hólmi í Seltjarnarnesshreppi og notað þaðan til beitar; má stundum slá vellisbletti í því. Fremur hagsælt og allgott sauðland. Með því áin, Bugða, er talin skilja sveitirnar, telzt land þetta í Mosfellssveit.“
Skammt norðaustar í heiðinni, uppi á ísaldarsorfnu klapparholti Úlfhildarbrekkna, einnig fast við skógræktarreit, er önnur rétt (borg). Hún hefur verið svipuð að stærð og sú fyrrnefnda og lega hennar er svipuð. Ástæðan fyrir tilvist réttarinnar þarna er gömul leið, sem lá þarna með holtinu til austurs, áleiðis upp að Lyklafelli. Með því að fara þessa leið, norðan við Rauðavatn, hafa ferðalangar komist hjá því að ösla mýrar neðra því þeir hafa fljótlega komist í hæð, sem hefur haldist að mestu langleiðina að Hellisskarði, eða  undirhlíðum Hengilsins ef farið hefur í þá áttina eftir gamalli þjóðleið er þar liggur. Ekki var að sjá áletrun á steini í þessari rétt.
GrafarselÁ holti skammt sunnar er líkt og skorsteinn frá braggabyggð, sem var þarna í heiðinni á stríðsárunum. Þegar nánar var að gætt kom í ljós stuttur hlaðinn himnastigi eða hátt hásæti. Þar við var áletrun. „Norðurljósasæti – Erla Þórarinsdóttir, með aðstoð unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur – Landlist við Rauðavatn 2000“. Kunnugir sögðu að listaverkið hefði verið liður í menningarverkefni Reykjavíkurborgar. 17 myndlistarmenn unnu að sýningunni með aðstoð Vinnuskólans. Um er að ræða um 20 listaverk, sem komið var upp við Rauðavatn og á Hólmsheiði. Hvert þeirra er merkt með nafni og höfundar getið. Auk Norðurljósasætisins (nr. 16) er annað (nr. 15) ofan við Grafarsel. Það ber nafnið „Sumarhús“ og er eftir Borghildi Óskarsdóttur. Um verkið segir m.a.: „Sumarhús er línuteikning, náttúran/heimurinn er utan og innan línunnar. „Sumarhús það er heimurinn“ sagði Bjartur í Sumarhúsum.“ Fjárborg suðaustan Rauðavatns
Í Mbl frá árinu 200 segir m.a. um þessa list við Rauðavatn: „Land List er sýning á verkum allt að tuttugu myndlistarmanna sem verður opnuð við Rauðavatn þann 16. júlí.Það eru margir vel þekktir myndlistarmenn taka þátt í sýningunni, sem er framlag Vinnuskóla Reykjavíkur til dagskrár menningarborgarinnar. Skólinn fékk Samband íslenskra myndlistarmanna til að aðstoða við skipulagningu hennar. Hugtakið landlist (land art) er notað um listaverk sem unnin eru úti í náttúrunni og úr náttúrunni. Framlag Vinnuskólans felst m.a. í að 16 ára unglingar í sumarvinnu aðstoða höfundana við að útfæra verkin. Myndlistarmenn sendu inn hugmyndir að verkum sem sýningarnefnd valdi úr. Við val á tillögum til útfærslu var ekki eingöngu haft í huga listrænt gildi verkanna, heldur einnig að þau tækju mið af staðháttum og hentuðu til útfærslu fyrir nemendur skólans. Nú þegar er lokið við gerð tveggja verka, en hægt er að fylgjast með listamönnunum vinna með aðstoð unglinganna að útfærslu annarra frá 13. júní og fram að opnunardegi.“
Listaverkin eru unnin voru úti í náttúrunni og með náttúruna sem efnivið.
Mörk lögbýla árið 1703 - grátt er GröfSkammt sunnan við listaverkið „Sumarhús“ er Grafarsel í Selbrekkum. Ofan þess er Selholt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1703) er m.a. fjallað um jörðina Gröf, sem þá tilheyrði Mosfellssveit. Talsverðar kvaðir hafa verið á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán, hestlán bæði til alþingis og annarstaðar, jafnvel stundum norður í land og ýmsar áttir, og þetta stundum til samans á einu ári. Dagslættir tveir. Hríshestar tveir. Móhestar einn eður tveir. Torfskurður. Hest til að flytja lax úr Elliðaám. Skipaferðir. Timbur í Þingvallaskóg að sækja. Húsastörf á Bessastöðum. Fóður mikið eður lítið; allar þessar kvaðir so undir komnar og með slíkum skilorðum sem áður er sagt. Mesta fóður það menn muna var hestur útgjörður um allan veturinn, sem ekki þreifst og drapst frá heyjum um sumarmálaskeið, hann mátti bóndinn betala Jóhann Klein, og í tíð Heidemanns gamalt naut.
Engjar mjög litlar. Kvikfjenaður vi kýr, i kvíka tvævetur, viii ær með lömbum, ii hestar, i hros.“ Þá segir að „selstöðu á jörðin í hemalandi, sem nauðsynlegt er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“
Þann 30. maí 1987 var Grafarselið friðlýst (þinglýst 26.06.’87). Það stendur á fallegum stað undir Selbrekkum norðaustan austurenda Rauðavatns. Selbrekkur eru sunnan Grafarheiði. Umhverfið er dæmigert fyrir sel er lögðust hvað síðast af á Reykjanesskaganum; grónar en greinilegar tóftir og grasvænar brekkur umhverfis. Tóftirnar, sem eru þrjú rými, þ.a. tvö samtengd, standa í skjóli vestan undir brekkunum, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt neðan þeirra er hóll, sem líklega geymir kvína. Gamall uppþornaður lækjarfarvegur er norðan við selið og hefur hann sennilega verið ástæða staðsetningar þess þarna í brekkunum.

Göngusvæðið

Selstæðið er mjög fallegt og á góðum stað. Það má eiginlega segja að það sé komið inn í borgina því byggðin hefur nánast teygt sig upp að því. Einmitt þess vegna eru staðsetningin og tóftirnar sérstakar. Þá eru þær og ágætur fulltrúi seljanna (af þeim [250] sem skoðuð hafa verið) á Reykjanesskaganum. Það er miðlungsstórt af seli að vera. Stekk er hins vegar ekki að sjá í nágrenni við selstöðuna.
Bæði hefur trjám verið plantað nálægt selinu og birkið hefur náð að vaxa upp í brekkunum.
Fjárborg er á holti suðaustan við Rauðavatn. Leiðigarður liggur frá henni til suðurs. Búið er að planta trjám yfir hann að hluta.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er önnur fjárborg. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.

 

Hólmsheiði

Hólmsheiði.

Fuglavíkurvegur

Ætlunin var að ganga með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti III (Bjarghús) um gömlu Fuglavíkurleiðina milli Fuglavíkurhverfis og Sandgerðisgötu þar sem leiðirnar mætast við Einstæðingshól á Miðnesheiðinni.
Á FuglavíkurleiðSigurður er að öllum líkindum sá eini núlifandi, sem þekkir þessa gömlu þjóðleið. Hún hefur víða blásið upp í heiðinni, en ummerki má þó enn sjá eftir hana nánast samfellt ef vel er að gáð, s.s. vörðu- og götubrot. Efsta hlutanum, næst Einstæðingshól á Einstæðingsmel, hefur þó verið raskað vegna andvaraleysis hlutaðeigandi. Tilgangur ferðarinnar var að staðsetja götuna og kortleggja.
Ef vel gengi var og ætlunin að huga einnig að gömlu götunni að Bæjarskerjum (Býjaskeri), en hún hefur ekki verið farin lengi.
Með í för voru, auk FERLIRsfélaga, Páll í Norðurkoti, tengdasonur Sigurðar, og Guðmundur, félagi hans, en báðir eru þeir áhugasamir um örnefni og gamlar minjar í Fuglavíkurhverfi og víðar.
Þess má geta að Sigurður hafði áður leitað að og fundið Fuglavíkurleiðina, merkt hana og varðveitt. SigurðurSíðar hafi snuðra hlaupið á þráðinn og hann ákveðið að fjarlægja merkingar á götunni. Við það hvarf hún auðvitað með það sama. Nú var ætlunin, sem fyrr sagði, að endurheimta hana.
Sigurður, sem er að verða kominn á níræðisaldur (f: 08.09.1929), gekk röskum skrefum að upphafsreit, staðnæmdist, benti í austnorðaustur upp heiðina og sagði: „Í þessa átt drengir. Gatan virðist ógreinileg í fyrstu, en hún lá hér frá Norðurkoti og upp eftir.“ Síðan hélt hann af stað með aðra á eftir sér. Á hægri hönd var hlaðin lítil tóft með dyr mót suðri; „hænsnahús frá Hólum og síðar frá Norðurkoti,“ sagði Sigurður. Ofar varð gatan greinilegri og var tiltöluleg auðvelt að fylgja henni upp að Háamel. Ofan hans kom hún í ljós á nýjan leik. Efri-varða sást þá í norðri. Varðan var notuð sem fiskimið og sem sundvarða. Ekki er vitað um Neðri-vörðu. Vörðubrot voru við götuna sem og á nálægum hólskollum.

Fuglavíkurvegur

Gatan beygði með norðanverðri „Sléttunni“, líklega svo koma mætti við í Folaldatjörn (Folaldavötnum), hinu ágætasta vatnsstæði í heiðinni. Folaldatjörn hefur einnig verið nefnd Folaldapollur, en sá mun vera nokkru sunnar í heiðinni. Nafnið kom til eftir að folald drapst í tjörninni.
Fátt er um kennilýsingar í Miðnesheiðinni. Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir m.a.: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu.
Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum. Upp af Norðurkoti ofan við veg er lægð, sem heitir Gil. Í því norðanverðu er býlið Bjarghús.“ Við það var reist nýbýlið Norðurkot III þar sem Sigurður Eiríksson býr nú.
EinstæðingshóllÍ örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker er einnig fjallað svolítiðum kennileiti í heiðinni, s.s.: „
Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við. Þar ofar, norður og vestur, er Stórhóll. En beint þar norður af er Stekkur. Þá er norður af Stórhól Svefnhóll, með smálægð á milli, þar niður af. Niður við rétt er Stakkstæði. Þar er hóll. Þar voru klappir og þurrkaður fiskur á þeim. Þetta er sunnan við gamla Keflavíkurveginn. Svo er skilarétt gömul ofan við veginn rétt við Stakkstæðið. Nú er að fara aftur og fara upp. Ofan þessa er Skurðholt, og syðst í Skurðholtum er Litli-Bekkjarhóll. Norður af honum og hærra er Stóri-Bekkjarhóll. Nyrzt í þeim sunnan við veg er Tóhóll. Upp af honum er Grænabrekka.
FjárborgNorðan við Tóhól var í gamla daga fjárhús, og rétt þar upp af er Hleypisundshóll. Hann er á merkjum móti Fuglavík. Suður og upp af Hleypisundshól eru Folaldavötn, en þau eru Í Fuglavíkurlandi. Þar upp af til norðurs eru Gömlu-Þrívörður, og til austurs og norðausturs Litlu-Þrívörður. Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. Skammt ofar varð að sprengja þar úr. Þar upp undan, suðaustur af Gömlu-Þrívörðum, eru svonefnd Torfmýrarvötn. Þetta eru þrjár tjarnir í mýri og mosatóum. Ein þeirra þornar aldrei. Ein er stór og aldrei slegin. Suður af þeim og milli þeirra eru klappir, nefndar Grímsvörðusker.“
Þegar komið var upp á Einstæðingshól komu í ljós leifar af fyrrum myndarlegri ferlingslagaðri vörðu. Hana hyggjast Sigurður og Guðmundur endurgera þegar færi gefst. Væri það vel til fundið að viðhalda henni og þá um leið hinum fyrri gatnamótum Fuglavíkurvegar og Sandgerðisgötu (-vegar).
Í BæjarskersseliÞá var haldið niður að Vegamótahól. Við hann liggur Sandgerðisvegurinn. Þar eru og gatnamót Bæjarskersgötu (-vegar). Henni var fylgt niður að „Sandgerðisskógum“. Norðan þeirra eru Álaborgarréttir syðri. Austan réttanna eru kofatóftir, en enn austar má vel sjá leifar af hringlaga fjárborg. Gatan liggur niður með klettarana; Álaborg. Suðvestan undir hennar er stór klettur, sæbarinn; Stekkurinn, að sögn Sigurðar. Sagnir eru um að álfar gisti seininn.
Þegar skoðað var í kringum Álaborgina kom í ljós seltættur, sennilega Bæjarskerssel. Kofatóftir eru vestanundir aflöngu klapparholti, í skjóli fyrir austanáttinni. Vestar er hringlaga tóft. Sunnan hennar er stekkur undir Álaborgarnefinu.
Vatnsstæði er undir klettum ofan og til hliðar við Stekkurinnstekkinn. Líklegt má telja að selið hafi verið nýtt af bændum í Bæjarskershverfinu, en lagst af nokkru áður en svæðið var nýtt til yfirsetu. Auðvelt hefur verið um vik því stekkstæðið er tiltölulega nálægt bæjum.
Þegar Bæjarskersgatan (selstígurinn) var genginn áleiðis til bæjar kom í ljós önnur gata skammt norðar með sömu legu. Sú leið er vörðuð. Ætlunin er að skoða hana við tækifæri, sem og kirkjugötuna millum Bæjarskershverfis og Hvalsness, en hún sést enn mjög greinilega.
Grjóthlaðin Bæjarskersréttin skammt ofan við Stafnesveg, og er enn notuð, var byggð í kringum 1930.
Að lokinni göngu var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð að Norðurkoti þar sem ekki færri en níu kökusortum og laufabrauði var rennt niður með ljúffengu kakói.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.
Folaldatjörn

Laugarás

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti með auglýsingu nr. 41/1982 í Stjórnartíðindum B samkvæmt heimild í 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971. Stærð: Friðlýsta svæðið er 1,5 hektarar.

Laugarás

Laugarás – friðlýsing 1982.

Samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 hefur Umhverfisstofnun umsjón með svæðinu, en Reykjavíkurborg var falin dagleg umsjón þess og rekstur svæðisins með umsjónarsamningi árið 2015.

Verndargildi Laugaráss felst fyrst og fremst í verndun jarðminja á svæðinu, en þar er að finna grágrýtisklappir sem eru í senn jökulsorfnar og bera ummerki um hæstu sjávarstöðu við lok ísaldar í Reykjavík.

Náttúruvættið Laugarás er 1,5 hektarar að stærð. Það er staðsett efst á Laugarásholti í Langholtshverfi í Reykjavík.
Jarðminjar í Laugarási eru afmarkaðar við hæsta punkt. Þar er að finna grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem talin eru vera um 200 þúsund ára og eru hluti af Reykjavíkurgrágrýtismynduninni. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð og var Laugarás einn af fáum stöðum sem var ekki neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst og má sjá ummerki um það á svæðinu.

Laugarás

Laugarás – friðlýsingarmörk.

Jarðminjar svæðisins veita mikilvæga sýn í jarðsögu Reykjavíkur og upplýsingar um loftslags- og landháttabreytingar. Jarðminjarnar eru víða þaktar mosa og hrúðurfléttum. Áður fyrr var holtagróður ríkjandi á svæðinu, en hann á nú undir högg að sækja vegna lúpínu og trjágróðurs. Lúpínan myndar stórar og þéttar breiður og sem stundum skyggja á eða hylja jarðmyndanirnar. Heildarþekja lúpínu á svæðinu er um 50-60%. Birki er algengasta trjátegundin, en einnig er mikið um selju.
Aðrar trjátegundir sem finnast eru reynir, viðja, alaskavíðir, loðvíðir, stafafura og elri. Ýmsir fuglar halda til á svæðinu, s.s. stari, svartþröstur og auðnutittlingur. Flugur og fiðrildi eru mest áberandi af skordýrum, einkum hunangsflugur, geitungar, birki- og víðifetar og ýmsar tvívængjur. Innan um gróðurinn er nokkuð um hattsveppi.

Laugarás

Laugarás.

Í náttúruvættinu hefur verið lagður göngustígur frá bílastæði við Vesturbrún upp að hæsta punkti svæðisins. Við göngustíginn stendur fræðsluskilti. Töluvert margir aðrir stígar, misgreinilegir, hafa myndast í gegnum svæðið, en um er að ræða troðninga en ekki eiginlega stíga. Flestir þeirra liggja að hæsta punkti svæðisins, en þar er steypustöpull sem skilgreinir mælingapunkt frá Landmælingum Íslands.
Bílastæði eru við jaðar svæðisins að sunnanverðu í Vesturbrún sem ætluð eru gestum Áskirkju en nýtast vel þeim sem vilja heimsækja Laugarás. Við göngustíg rétt utan friðlýsta svæðisins að norðaustanverðu er nýlegur bekkur og ruslafata. Þá er bekkur við Vesturbrún við suðurenda svæðisins og annar hinu megin við götuna hjá Áskirkju.

Laugarás

Laugarás (MWL).

Laugarás hefur mikið gildi sem útivistarsvæði. Svæðið liggur hátt og er útsýni gott til allra átta, yfir borgarlandið, sundin og til fjalla. Svæðið er í miðri íbúabyggð og er nálægt öðrum mikilvægum útivistar- og náttúrusvæðum, Laugardal og Laugarnesi.

Laugarás hefur mikið fræðslu- og menntunargildi, t.d. fyrir nálæga leik- og grunnskóla, sem og almenning. Jarðminjarnar veita tækifæri til fræðslu á sviði jarðfræði, jarðsögu og landafræði. Gróðurfar svæðisins veitir tækifæri til fræðslu í grasafræði, vistfræði og annarri náttúrufræði. Þá halda spörfuglar sig á svæðinu og ýmis smádýr.
Staðsetning svæðisins í miðju þéttbýli gefur tækifæri til fræðslu í umhverfisfræði um tengsl manns og náttúru, áhrif garðyrkju á náttúruleg gróðurlendi, sorp, aðra mengun og fleira.
Útsýnið yfir Reykjavík veitir tækifæri til fræðslu í landafræði Reykjavíkur, byggingar- og skipulagssögu, arkitektúr og fleira.

Laugarás

Laugarás – steinstöpull fyrrum.

Vernda skal jarðminjar náttúruvættisins Laugaráss og gæta þess að framkvæmdir og ágangur manna rýri ekki ásýnd þeirra eða breyti landslagi svæðisins. Uppbyggingu innviða skal vera þannig háttað að þeir falli vel að landslaginu og rýri ekki ásýnd svæðisins. Tryggja skal að ástand og sýnileiki jarðmyndana verði eins og best verður á kosið. Við skipulag og framkvæmdir innan svæðisins skal verndun jarðminja höfð að leiðarljósi.

Jarðminjarnar á svæðinu eru afmarkaðar við hæsta punkt svæðisins. Um er að ræða grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem tilheyra stóru Reykjavíkurgrágrýtismynduninni.

Laugarás

Laugarás.

Aldur grágrýtisins í Laugarási er líklega um 200 þúsund ára þegar upphleðsla Reykjavíkurgrágrýtisins var sem viðamest. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið í Laugarási eins og víða annars staðar í Reykjavík og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð til muna þegar jöklar bráðnuðu og var Laugarás einn af fáum stöðum á núverandi landsvæði Reykjavíkur sem var ekki að fullu neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst en þá var hún um 45 metrum hærri en hún er í dag. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti sem er lábarið af öldugangi. Ummerkin eru svipuð og sjá má í Öskjuhlíð þó í minna mæli séu.

Laugarás

Laugarás – fræðsluskilti.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur hefur látið hanna, smíða og setja upp fræðsluskilti um þrjú friðlýst náttúruvætti í landi Reykjavíkur, Fossvogsbakka, Háubakka og Laugarás. Náttúruvætti er einn flokkur friðlýstra náttúruminja og eru skilgreind sem einstök náttúrufyrirbæri, jarðmyndanir eða lífræn fyrirbæri, sem skera sig úr umhverfinu og er ástæða til að varðveita vegna fegurðar, fágætis, stöðu í landslagi, vísindalegs gildis eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Laugarás í Langholtshverfi var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982 vegna áhugaverðra jarðminja, einkum jökulsorfins grágrýtis og ummerkja um forna sjávarstöðu.

Laugarás

Laugarás – frá undirskrift Verndar- og stjórnunaráætlunar um Laugarás 2015.

Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð til muna þegar jöklar bráðnuðu og var Laugarás einn af fáum stöðum á núverandi landsvæði Reykjavíkur sem var ekki að fullu neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst en þá var hún um 45 metrum hærri en hún er í dag. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti sem er lábarið af öldugangi.

Meginmarkmið með gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir svæðið er að leggja fram stefnu um verndun náttúruvættisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins.
Verndar- og stjórnunaráætlunin var unnin af starfsfólki umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnunar árið 2015 og er sett í samræmi við lög nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Heimildir:
-http://www.umhverfisstofnun.is
-https://reykjavik.is/laugaras
-https://reykjavik.is/frettir/samid-um-thrju-fridlyst-svaedi-i-reykjavik
-https://reykjavik.is/frettir/ny-fraedsluskilti-um-fridlystar-jardminjar
-Auglýsing um Friðlýsingu Laugaráss í Reykjavík (1982). Stjórnartíðindi, B-deild, nr. 41.
-Árni Hjartarson (1980): Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík of nágrenni, Náttúrufræðingurinn, 50:108-117.

Laugarás

Laugarás – jökulssorfið hvalbak.

Strandarkirkja

Jón Helgason, biskup, skrifaði grein „Um Strönd og Strandarkirkju“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1926:
strandarkirkja - jon helgason
Árni biskup á fyrstur að hafa vígt kirkju á Strönd. Hið sannasta, sem sagt verður um uppruna Strandarkirkju, er, að vjer vitum ekkert um hann með vissu. Má vel vera, að hún hafi verið reist þegar í fyrstu kristni, og eins má vel vera, að hún hafi ekki verið reist fyr en í tíð Árna biskups á síðari hluta 13. aldar. Um það verður ekkert fullyrt. En um máladag kirkju þessarar er ekki að ræða eldri en frá 13. öld. — Strönd í Sel-Selvogi er höfðingjasetur eins lengi og vjer höfum sögur af. Situr þar hver höfðinginn fram af öðrum að stórbúum af mestu rausn.
Í lok 13. aldar bjó þar Erlendur sterki lögmaður Ólafsson, og eftir hann mun sonur hans, sá ágæti fræðimaður Haukur Erlendsson lögmaður, hafa búið þar, uns hann fluttist búferlum til Noregs eftir 1308. Síðar á 14. öld kunnum vjer að nefna Ívar Vigfússon Hólm hirðstjóra sem búandi á Strönd og eftir hans dag Margrjeti Össurardóttur, ekkju hans. Vigfús hirðstjóri, sonur þeirra, hafði þar eitt af fjórum stórbúum sínum og með dóttur hans Margrjeti Vigfúsdóttur eignast Þorvarður Loftsson (ríka á Möðruvöllum) Strandar-eignina og varð Strönd eitt af höfuðbólum hans.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1900.

Um aldamótin 1500 býr þar dóttursonur þeirra Þorvarðar og Margrjetar, Þorvarður lögmaður Erlendsson og eftir hann sonur hans Erlendur lögmaður Þorvarðarson (d: 1575), „stórgerðasti maðurinn, sem þar hefir búið. Var hann alt í senn yfirgangsmaður, ofstopamaður, vitur maður og þjóðrækinn maður“ (dr. J. Þ.). Má að vísu telja, að Strönd hafi verið með helstu stórbýlum og höfðingjasetrum sunnanlands í fullar fjórar aldir og ef til vill lengur. En hafi þar stórbændur setið lengst af, mætti ætla, að þar hafi og kirkja verið lengst af, því að auk þess, sem hverjum, er vildi, var heimilt að gera kirkju á býli sínu, ef landeigandi legði fje til, „svo að biskup vildi vígja fyrir þeim sökum“, eins var það mörgum stórbónda nokkuð metnaðarmál að hafa kirkju reista á óðalsjörð sinni. Jafnsnemma og vjer vitum um kirkju á Strönd, er, eins og vikið var að, um aðra kirkju talað þar í Vognum, sem sje að Nesi. Hvor þeirra hefir talist höluðkirkja þar í sveit, vituni vjer ekki. En bent gæti það á Neskirkju sem höfuðkirkju, að Erlendur sterki fær leg í Nesi, en ekki á Strönd, þótt vitanlega hafi einhverjar aðrar orsakir getað verið því valdandi. En því meiri sem vegur Strandar varð, því eðlilegra varð og, að Strandarkirkja yrði höfuðkirkja bygðarinnar, enda er hún það lengstan tímann, sem vér þekkjum til.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1884.

En á síðari hluta 17. aldar tók Strandarland að eyðast af sandfoki og þar kom um síðir, að þessi gamla vildisjörð og höfðingjasetur lagðist algerlega í eyði. Og svo hefir verið um þessa jörð síðan. En þótt alt annað færi í svartan sandinn, fjekk kirkjan að standa þar áfram og með henni hefir nafn þessa forna stórbýlis varðveist frá gleymsku.
Elsta lýsing Strandarkirkju, sem til er, er frá dögum Odds biskups Einarssonar. Þar er kirkjunni lýst á þessa leið: „Kirkjan nýsmíðuð; fimm bitar á lofti að auk stofnbitanna, kórinn alþiljaður, lasinn prjedikunarstóll; óþiljuð undir bitana, bæði í kórnum og framkirkjunni, einnig fyrir altarinu utan bjórþilið. Þar fyrir utan blýþak ofan yfir bjórþilið — og ofan á öllum kórnum er sagt sje blýlengja hvoru megin og eins ofan yfir mæninum, líka svo á framkirkjunni.“ Á þessari lýsingu má sjá, að kirkjan hefir verið vandað hús, en að sjálfsögðu torfkirkja eins og flestar kirkjur hjer á landi voru í þá daga.
Eftir að alt Strandarland var komið í sand, var eðlilegt að mönnum dytti í hug að flytja kirkjuna úr sandinum h

Vogsósar

Vogsósar.

eim að prestsetrinu Vogsósum. En Selvogsmenn voru ekki á því, þótt hvað eftir annað yrði að byggja kirkjuna upp, svo illa sem fór um hana þar á svartri sandauðninni. Þó segir í vísitasíu Mag. Jóns biskups Árnasonar frá 1736, er kirkjan hafði verið endurreist fyrir einu ári, að nú sje kirkjan „betur á sig komin en hún hafi nokkurntíma áður verið,“ og svo um hana búið að utan, að „sandurinn gangi ekki inn í hana.“ En 15 árum síðar vísiterar Ólafur biskup Gíslason kirkjuna og er hvergi nærri jafnánægður með hana. „Húsið stendur hjer á eyðisandi, svo hjer er bágt að fremja guðsþjónustugerð í stormum og stórviðrum, er því mikið nauðsynlegt, hún sje flutt í annan hentugri stað.“ Og haustið 1751 skipar biskup, með samþykki Pingels amtmanns, að kirkjan sje rifin og endurreist á Vogsósum, enda hafði óglæsileg lýsing hennar borist amtmanni í umkvörtunarbrjefi frá sóknarprestinum sjera Einari Jónssyni.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Segir þar m. a. á þessa leið: „Hver sandur, sem í stórviðrum fýkur að kirkjunni af illum áttum engu minna foreyðir og fordjarfar bik, kirkjunnar, viði og veggi en vatnságangur, því það fer dagvaxandi, sjerdeilis á vetrartíma í snjófjúkum, að sandfannirnar leggjast upp á veggina því nær miðja. — Eins fordjarfar sandurinn læsing, saura og hurðarjárn kirkjunnar, svo það er stórþungi hennar utensilía og ornaraenta að ábyrgjast og hirðing að veita á eyðiplássi. Til með er skaðvænleg þætta, helst á vetrartíma, í þessari kirkju að forrjetta kennannlegt embætti, einkanlega það háverðuga sacramentum (sem ekki má undan fellast), þá stórviðri upp á falla meðan það er framflutt. Fólkið teppist þá í kirkjunni ásamt prestinum, sem ekki kann við halda þar hesti sínum skýlislausum nær svo fellur, hvar fyrir, þá veðurlegt er á sunnu- eða helgidagsmorgni, ei vogar alt fólk til kirkjunnar að fara, helst heilsulint og gamalt fólk, ekki heldur ungdómurinn, sem uppfræðast skal í eatechisationinni og öðrum guðsorða lærdómi.“

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

En ekkert varð úr kirkjuflutningnum. þeim mönnum, sem þar höfðu helst haft forgöngu, varð það atferli þá líka meira en dýrt spaug, því að „áður en sá frestur væri útrunninn er kirkjan skyldi flutt vera“ hafði Pingel amtmaður hröklast úr embætti, Ólafur biskup og Illugi prófastur í Hruna orðið dauðanuni að herfangi og Einar Vogsósaprestur flosnað upp! Þótti mönnum sem þeim hefði komið greipileg hefnd fyrir afskifti sín af því flutningsmáli. Enda stóð kirkjan áfram á sama staðnum. Og heldur en að eiga það á hættu, að valdamenn kirkjunnar þröngvuðu sóknarmönnum til að flytja húsið, ljetu þeir um langt skeið ósint öllum skipunum frá hærri stöðum um að endurbyggja húsið, þótt hrörlegt væri orðið og lítt við unandi, en reyndu í þess stað að ditta að húsinu eftir þörfum. Fjekk það því að hanga uppi full 113 ár, eða þangað til 1848, er alt tal um flutning var löngu þagnað.

Strandarkirkja

Gömul klukka Strandarkirkju.

Hið síðasta, sem vjer vitum gjört hafa verið til þess að fá kirkjuna flutta, það gjörði sjera Jón Vestmann. Er að því vikið í vísum hans, sem áður eru nefndar: „Hann mig hafa vildi heim að Vogsósum og byggja í betra gildi, en bráðum mótsögnum hlaut hann mæta af hjátrúnni, meinar hún standi megn óheill af mínum flutningi.“ Flutningurinn fórst þá líka fyrir. Varð prestur að láta sjer nægja að „setja kirkjuna í sæmilegra stand en fyr“ og síðan hefir því, svo kunnugt sje, alls ekki verið hreyft, að kirkjan væri flutt burt úr sandinum.
Árið 1848 var gamla torfkirkjan (frá 1735) loks rifin til grunna af sjera Þorsteini Jónssyni frá Reykjahlíð (síðast presti að Þóroddsstöðum í Kinn) er fullgerð; þar nýja kirkju ..úr tómu timbri“ og stóð sú kirkja til 1887. Mynd af þessari Strandarkirkju gefur að líta á póstkorti, sem Ísafoldar-bókaverslun hefir fyrir skemstu prenta látið.. En sú kirkja sem nú er á Strönd, mun myndarlegri. Ljet sjera Eggert Sigfússon, er varð síðastur prestur í Selvogsþingum, reisa hana 1887 og er það mynd af henni, eins og hún er nú, sem birtist hjer í blaðinu. Þá kirkju smíðaði Sigurður Árnason trjesmiður hjer í Reykjavík, en ættaður úr Selvogi.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1948.

Hve snemma tekið hefir verið að heita á Strandarkirkju, vita menn nú ekki. Áheit á kirkjur var mjög algeng í kaþólskum sið hjer á landi sem annarstaðar. En þegar í Vilkins-máldaga er beint tekið fram um þessa kirkju, að henni gefist „heitfiskar“ og það tilfært sera tekjugrein, mætti sennilega af því ráða, að meiri brögð hafi verið að heitagjöfum til hennar en annara kirkna.
Hvort siðaskiftin kunna að hafa haft nokkur áhrif á trúnað manna á Strandarkirkju, um það verður ekkert sagt. Heimildir allar þegja um það. En ekkert er því til fyrirstöðu, að sá trúnaður alþýðu hjeldist áfram, ekki síður en margt annað, sem frá katólsku var runnið, þótt ekki hefði hátt um sig. Og áreiðanlega gerir sjera Jón gamli Vestmann ráð fyrir því í Strandarkirkju-vísunum, að áheitin sjeu ekki síður frá eldri tíð en yngri. Sjerstaklega álítur hann, að öllum þeim forsvarsmönnum kirkjunnar, sem bygðu hana eða bættu, hafi fyrir það borist „—. höpp og bjargir bú sem styrktu“ mest“ og lifað við hagsæld upp frá því, meðan þar dvöldust. Sjerstaklega þakkar presturinn mikla hagsæld Bjarna riddara Sívertsens (sem var upprunninn í Selvogi) því örlæti hans við kirkjuna, að hann 1778 gaf henni skriftastól.

Strandarkirkja

Í Strandarkirkju.

Víst má telja, að meðfram liggi leifar hins forna trúnaðar á kirkjuna tit grundvallar samúð sóknarmanna með kirkjunni, er þeir máttu ekki hugsa til þess að hún væri flutt burt úr sandinum við sjóinn. En til þess voru og þær raunhæfar ástæður, að þar hafði kirkjan staðið um aldaraðir, og af sjó að líta, var kirkjan þar á sandinum róðrarmönnum besta sjómerki, þegar leituðu lendingar. — Hins vegar kynnu líka tilraunir kirkjuvaldsins til að fá kirkjuhúsið flutt í óþökk sóknarmanna, hafa orðið til að auka og efla samúð þeirra með þessu gamla guðshúsi, er auk þess sem svo margar gamlar endurminningar voru tengdar við kirkjuna, stóð þarna svo sem minnisvarði fornrar frægðar höfuðbólsins og höfðingjasetursins á Strönd, en var nú orðin eins og einstæðingur þar á sandinum, eftir að alt annað, sem þar hafði áður verið, var horfið burtu.

Strandarkirkja

Hestasteinn við Strandarkirkju.

En með vaxandi samúð almennings með þessari kirkju sinni má gera ráð fyrir, að lifnað hafi aftur yfir gömlum trúnaði á hana, og sú sannfæring náð enn meiri festu með alþýðu manna að það, sem vel væri til kirkjunnar gert, yrði þeim til hagsældar og hamingju, sem gerði, af því að það væri gert til hans þakka, sem húsið var helgað. — Sá, er þetta ritar, lítur svo á, að með þessu sje gefin nægileg skýring þess, hversu trúnaðurinn á Strandarkirkju hefir haldist með alþýðu fram á vora háupplýstu daga. Mun engin ástæða til að setja það í nokkurt samband við trúnað manna á kyngikraft sjera Eiríks „fróða“ á Vogsósum Magnússonar, sem var Selvogsþingaprestur 1677—1716 eða full 39 ár, þrátt fyrir allar þær sagnir, sem mynduðust um hann, enda er eftirtektarvert, að ekki er nein þjóðsaga kunn um sjera Eirík, þar sem Strandarkirkju sje að nokkru beint getið. Og sennilega hefir sjera Jóni Vestmann ekki verið neitt kunnugt um samband þar á milli; því að naumast hefði hann látið þess ógetið í vísum sínum, ef á hans vitorði hefði verið, svo víða sem hann kemur við; en sjera Jón var prestur þar eystra í 32 ár.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Sjera Jón Vestmann var uppgjafaprestur í Kjalarnesþingabrauði er faðir minn sál. byrjaði þar prestskap 1855. Hafði sjera Jón setið að Móum, sem var ljensjörð prestsins í þingunum. Vildi faðir minn ekki hrekja hann burtu þaðan hálfníræðan og fjekk sjer því verustað á Hofi og dvaldist þar árin, sem hann var á Kjalarnesinu. Oft heyrði jeg föður minn sál. minnast á þessi gömlu prestshjón. Þótti honum þau ærið forn í framgöngu og háttum. En sjera Jón kunni frá mörgu að segja og þótt föður mínum því gaman og spjalla við hinn aldraða klerk, enda mun hann sjaldan hafa átt þar leið um svo að hann ekki skrippi af baki til að heilsa upp á gamla manninn. Sjera Jón dó 1859, en þá var faðir minn kominn að Görðum.
Átrúnaður manna á Strandarkirkju, er á allra vitorði, sem blöðin lesa, enda hafa verið svo mikil brögð að áheitunum á kirkju þessa hin síðari árin, að auðtrygni manna í sambandi við hana hefir aldrei komist á hærra stig. Kirkja þessi er nú orðin ríkust allra kirkna á þessu landi, á tugi þúsunda á vöxtum og er sjálf hið stæðilegasta hús, er getur enst lengi enn. Er því síst um gustukagjafir að ræða, þar sem áheitin eru. En svo er auðtrygnin rík, að kirkjunni berast áheit frá mönnum, sem ekki hafa hugmynd um hvar í landinu kirkja þessi er. Hingað hafa einatt borist áheit í brjefum, sem fyrst hafa farið — norður á Strandir, af því hlutaðeigandi áleit kirkju þessa vera þar nyrðra!

Strandarkirkja

Strandarkirkja 2023.

Þeim sem þetta ritar, er það síst á móti skapi, að gefið sje til guðsþakka og að einnig kirkjur hjer á landi njóti góðs af því örlæti manna. En þegar menn hugsa til þess, að annarsvegar á hjer í hlut ríkasta kirkja landsins, en hinsvegar eru hjer starfandi ýms nytsemdar fjelög og þarfan stofnanir, sem vegna fjárskorts eiga örðugt uppdráttar, þá er ekki að furða þótt þeim fyndist tími til þess kominn, að menn hættu að færa fórnir á altari auðtrygninnar með Strandarkirkju-áheitum sínum, en ljetu heldur örlæti sitt í tje stofnunum, sem áreiðanlega eru gjafaþurfar og starfa fyrir góð málefni í almennings þarfir og alþjóð til heilla. Það má vera auðtrygni á mjög háu stigi, sem álítur, að minni blessun fylgi því að lofa gjöfum til Stúdentagarðsins eða Elliheimilisins eða Sjómannastofunnar eða Sumargjafarinnar, svo að jeg nefni aðeins nokkur fyrirtæki frá allra síðustu árum, en að láta þær renna sem áheit til Strandarkirkju, sem alls ekki er neinn gjafaþurfi.“

Heimild:
Lesbók Morgunblaðsins 17. janúar 1926, bls. 1-4.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.