Fornleifar

„Segja má að bóndinn fyrir sextíu árum hafi staðið landnámsmanninum nær en syni sínum – slíkar hafa breytingarnar orðið á íslensku þjóðlífi.“

Smalakjör fyrir 60 árum

Horfnir Starfshættir

Horfnir Starfshættir – Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi.

1. Sextíu ár eru ekki langur tími í þjóðarævi. Samt hafa lífskjör þjóðarinnar breyst meira á þessum sextíu árum en á næstu þúsund árum áður.
2. Ég var á tíunda ári þegar bóndi, sem byrjað hafði búskap um vorið og vantaði smala, falaðist eftir mér.
3. Ég var mættur daginn eftir. Mjaltastúlka á fjórtánda ári fór með mér í fyrstu yfirsetuna til að kynna mér smalaslóðirnar.
4. Um miðaftansleyti mátti reka ærnar heim undir bæ, fá sér hressingu, en gæta þeirra síðan fram að mjöltum.
5. Seint á tíunda tímanum var lokið kvöldmjöltum, þá tók smalinn þær og vaktaði, ekki langt frá bæ, til klukkan eitt að nóttu.
6. Klukkan 6 að morgni hleypti einhver fullorðinn ánum út og gætti þeirra þar til kl. 8, en kvíaði þær þá til mjalta. Húsfreyjan og vinnukonan mjólkuðu báðar og voru búnar að því seint á níunda tímanum. Þá átti smalinn að vera kominn á kvíarnar með bita og mjólkurpela til dagsins.
7. Einveran, sem mörgum smala þótti einna verst, en öðrum ágætur tími til afþreyinga.

Færukví

Færukví – smalinn fremst.

8. Smalinn hafði sín ákveðnu fyrirmæli. Hann varð að leyfa ánum að dreifa sér hóflega, svo þær beittu sem best, en gefa þeim ekki lausari tauminn en svo, að sjá að mestu yfir þær, og telja oft, vera helst alltaf að telja þær aftur og aftur, svo engin tapaðist, því það átti að vera fyrsta skylda hans að skila þeim alltaf með tölu á hverjum tíma. En vandalaust var það ekki.
9. Ég hafði ekki klukku að deginum, en mátti þess í stað koma með ærnar heim undir bæ upp úr miðaftni. Svefntóm smalans var ekki nema frá kl. 1 að nóttu til kl. 8 að morgni og þætti það líklega í styttsta lagi nú.
10. Á flestum bæjum voru sérstakar kvíar til að mjólka ærnar í. Það var tóft, sem hlaðin var úr torfi og grjóti eða torfi einu eftir ástæðum. Breidd hennar var við það miðuð, að þegar ærnar röðuðu sér á ská með báðum veggjum, væri dálítill gangur milli raðanna, eftir þeim gangi stikkluðu mjaltakonurnar.

þvottalaugar

Mjaltarfata.

11. Mjaltafötur voru á þeirri tíð heimasmíðaðar úr tré og voru heldur liðlegar og léttar.
12. Þegar mjöltum var lokið, átti smalinn að vera kominn, albúinn, því óhæfa þótti að láta ærnar standa í kvíum lengur en brýnasta þörf krefði.
13. Sums saðar voru notaðar svokallaðar “færikvíar”, það voru trégrindur, sem bundnar voru saman á hornunum og hægt að færa til, þegar blotnaði í þeim. Þær voru gjarna settar á greiðfæran óræktarbala, sem varð þá fljótlega að grónu túni, því ærnar báru vel á þá staði, ar sem þær stóðu í kvíunum; þrátt fyrir sína góðu kosti náðu færikvíar ekki þeirri útbreiðslu, sem þær áttu skilið.

Horfin stétt

Litlistekkur

Litlistekkur.

1. Vegna sérstakra tilmæla krotaði ég niður 1965 litla greinargerð um fráfærur, eins og ég þekkti þær af eigin raun.
2. Sauðféð og umhirða þess tók því, beint eða óbeint, mestan hluta af starfi sveitafólksins, með ærinni önn allan ársins hring.
3. Þegar sauðburður hófst, voru skildar að fyrri viku ær og hinar, sem seinna áttu að bera, til þess að hafa færri ær í vöktun, og var nógu örðugt samt.
4. Næst eftir burðinn þurfti að hafa góða gát á ánum. Var gengið stöðugt til þeirra, og þurfti margs að gæta.
5. Þegar sauðburði var lokið, hófust vikulega sameiginlegar smalamennskur, venjulega hvern mánudag.

Auðnaborg

Auðnaborg.

6. Þegar leið á vorið var farið að “stía”, þ.e. að skilja að ær og lamb næturlangt. Oftast var það gert á “stekk”, sem var eins konar rétt með viðbyggðri “lambakró”, en hún þurfti að hafa örugglega griphelda veggi.
7. Vaknað var klukkan 5 árdegis til að fara á stekkinn.
8. Varla var fært frá yngri lömbum en fimm vikna, helst þurftu þau að vera orðin 6-7 vikna gömul.
9. Þegar hinn endanlegi fráfærudagur rann loks upp, voru ærnar reknar inn fyrir miðjan dag, lömbin tínd þegar inn eins og venjulega, en ánum hleypt út og þær reknar í haga með valdi, því viljugar gengu ærnar ekki burt frá lömbunum sínum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkurel – stekkur.

10. Þegar ærnar væru komnar svo langt frá, að tryggt var að ekki heyrðu hvort til annars, ær og lamb, var þeim hleypt út. Þau kveinuðu sárt, þegar engin móðir tók á móti þeim, en héldu sig við stekkinn og gripu í jörð á milli grátkviðanna.
11. Þar voru þau svo næstu tvo til þrjá daga, am.k. hýst í stekknum um nætur.
12. Ánum var haldið til beitar um daginn.
13. Frá þriðja degi voru lömbin rekin í örugga fjarlægð frá stekknum og þeirra gætt þar.
14. Þegar ærnar voru reknar á stekkinn gripu þær í tómt, og verður varla með orðum lýst þeim kveinstöfum, sem kváðu við frá stekknum næsta hálftímann, á meðan ærnar æddu eða ráfuðu um stekkinn í vonlausri leit að aleigu sinni. Það voru ömurlegustu stundir smalans.

Ás

Ás – fjárhústóft.

15. Þegar kom fram á sautjándu viku sumars, var hætt að hýsa ærnar en þeim í þess stað vikið í haga og svo smalað til mjalta að morgni af einhverjum fullorðnum.
16. Síðustu daga fyrir göngurnar voru ærnar ekki mjólkaðar nema annað málið og geltust þá fljótt, enda veitti þeim ekki af að braggast svolítið fyrir veturinn.

Skógerð
1. Fram undir okkar daga, sem nú gjörumst rosknir, urðu flestir landsmenn að bjargast við þá skól, sem hægt var að gjöra heima, og voru þá varla tiltæk önnur efni en skinn ýmissa dýra láðs og lagar. Var mikið verk að gjöra skó á alla á fjölmennari heimilum, því fremur sem ending skinnsins var heldur lítil, þó menn leituðu snemma ýmissa ráða til að bæta hana.

Vermaður

Vermaður í skinnsjóklæðum.

2. Þeir, sem voru efnaðir og fornbýlir, áttu oft kippur hertra bjóra og fleiri húðir í reyk.
3. Sauðskinn og kálfskinn voru notuð í skó handa kvenfólki og börnum og þeim, sem lítið gengu.
4. Þeir, sem þurftu mikið að ganga, urðu að hafa leðurskó, og veitti ekki af, því allt fram til 1920 og lengur þó var meira um göngulag en nútímafólk á gott með að skilja. Til lands var látlaust göngulag árið um kring, en minnstum sláttinn, mikið var ferðast á fæti, og þótti varla meðalmannsverk þá að ganga 50 km á dag, en góðir göngumenn lögðu að baki miklu lengri leiðir.
5. Skónálar voru smíðaðar af innlendum hagleiksmönnum.
6. Selskinn þótti gott til skæða, og voru oft gjörðir úr því skór.
7. Gerðir voru skór úr hvelju og hákarlaskráp.
8. Þá voru skinnsokkar algengir í hausthrakningum og algengum ferðalögum.

Skinnskór

Skinnskór.

9. Íleppar fylgdu íslensku skónum lengi. Gerð þeirra var með ýmsum hætti, en tilgangurinn var alltaf sá sami, að hlífa ilinni við kulda og ekki síður sárindum. Þeir voru prjónaðir úr grófu, lítt vönduðu bandi, til þess að þeir yrðu sem þykkastir.

Að koma ull í fat…
1. Við spurningunni, hvernig fólk gat lifað, verður mér tvennt hugstæðast til svara, en þar hygg ég drýgst hafa hjálpað torfhúsin og íslenska ullin.
2. Um torfhúsin hefur oft á síðari árum verið farið niðrandi orðum, af lítilli þekkingu en miklu vanþakklæti. Þau voru notagóð lausn, vaxin upp úr nauðsyn fyrir húsaskjól og eina lausnin, sem fólk hafi efni og möguleika á í þá tíð.
3. Ullin okkar hefur heldur ekki verið metin sem skyldi á undanförnum velgengdarárum þjóðarinnar, þó fólk sé nú heldur aðeins byrjað að átta sig á gildi hennar og nauðsyn í okkar ágæta en misvirðrasama landi.
4. Ekkert af ullinni mátti fara forgörðum, þjóðin var ekki það efnuð.
5. Hún var þvegin í keytu sem svaraði 1/3 á móti vatni.

Íleppar

Íleppar.

6. Frá fornöld, langt fram eftir öldum, var ekki önnur verkfæri að ræða til spuna en teinsnælda.
7. Teinsnældan tók ekki teljandi breytingum frá söguöld og fram á mína daga, nema stærðin lagaðist eftir viðfangsefnum.
8. Rokkar voru bæði innfluttir og, einkum á seinni árum, innlend hagleikssmíði, sem þótti heldur betri en hinum útlendu.
9. Fólk fór snemma á fætur, eins þó dagar væru stuttir, ljósfæri lítil og frumstæð og spart þyrfti að halda á öllu ljósmeti. Lengi var aðeins innlent efni til ljósa; lýsi, hrossafeiti og margs konar flot.
10. Um svipað leyti og eldakonan risu karlmenn almennt til gegninga; konur settust þá líka við tóvinnu, þó kalt væri í baðstofunni fyrst, og jafnvel börnin vakin til starfa, svo fljótt þau gátu gert gagn.

Snældusnúður

Snældusnúður.

11. Karlmenn voru lengst úti við á vetrum, alla daga, því beitt var fénu, hvenær sem fært var.
12. Konur og aðrir, sem inni voru, unnu úr prjónabandi.
13. Um og upp úr 1920 fara að koma prjónar úr öðru efni en stáli, en hollastir þeirra fyrir hendurnar voru tréprjónar.
14. Nálægt aldamótunum komu fyrst til landsins hringprjónavélar.
15. Flatprjónavél sá ég fyrst 1910.

….og mjólk í mat
1. Fyrsta og mest metna verðmætið var smjörið, sem oftast var fremur hörgull á.
2. Í eldri tíð var það fyrsta, sem gjöra þurfti fyrir mjólkina, að “setja” hana, þ.e. að hella henni í grunn ílát með miklum grunnfleti (trog eða byttur), en þær nefndust bakkar, og voru það grunn stafaílát.

Mjólkurbytta

Mjólkurbytta.

3. Á hverri byttu var borað fingurgómastórt gat niðri við botninn og tappi hafður í því en þegar ná skyldi rjómanum, var tappinn tekinn úr og undanrennan látin renna í ílát, sat þá rjóminn eftir í ílátinu og var strokinn með fingrunum ofan í strokkinn.
4. Þá var komið að því að skaka strokkinn, því þótt rjóminn væri orðinn þykkur, var enn í honum væta, sem ná þurfti úr, svo smjörið yrði til, en það gjörðist í strokknum.
5. Bullustrokkna þekkja margir enn í sjón.
6. Mikið þurfti að geyma til vetrar, einkum skyr og osta.
7. Mjólkurílátin voru mest úr tré og því vandgerðara við þau en síðari tíma ílát.

Sauðatað til eldneytis

Sauðatað

Sauðatað notað til áburðar.

1. Allt frá upphafi Íslandsbyggðar hefur eldsneytisþörfin verið ærið vandamál, það því fremur sem hér var einatt kalt í veðri.
2. Tað húsdýra hefur lengi verið notað í eldinn, og hér hnúði nauðsyn því fastar á sem skógar eyddust og annar jarðargróður.
3. Til forna mun hafa þurft að nota “pál” til að stinga út taðið.
4. Karlmenn stungu og óku taðinu út, enda var hvort tveggja erfitt.
5. Næst var að kljúfa taðið, og gjörðu það kvenfólk og unglingar, oft voru hafðir til þess sérstakir spaðar, úr beini eða hörðu tré.
6. Kropið var á kné, annað eða bæði, hausinn lagður á hliðina og klofið eftir lögum, í sem næst eins þumlunga þykkar skánar eða þynnri.
7. Hlaðið var í taðhlaða.

Taðhlaði

Taðhlaði.

8. Eldiviðarleysi þótti mikið böl í búskap og var nefnt í sama flokki og heyleysi og matarleysi. Þessi uggvænlega þrenning var tíðasta orsök þess, að fólk “flosnaði” upp.
9. Þeir þóttu heppnir, sem áttu rekafjörður og gátu hirt morvið til búdrýginda. Rekajarðir voru alltaf eftirsóttar, sem og allt annað sjávarfang.

Mótekja
1. Mótekja er einn þeirra fornu atvinnuhátta, sem nú má heita, að séu að mestu úr sögunni.
2. Var það eitt nauðsylegasta vorstarf allra að “taka upp svörð”, þurrka hann vandlega og hirða og ganga frá, svo nægði til vetrarins.
Mótekja3. Hver hnaus var ferkantaður, tæp rekublaðslengd á hverja hlið en jafnlangur blaðinu.
4. Þegar mórinn hafði sigið í kestinum sem hæfilegt þótti, var hann fluttur á þurrkvöll.
5. Þegar komið var á þurrkvöllinn, var næst að kljúfa hann. Það var oftast gert með reku. Hnausinn varlagður á hliðina og skýfður í nokkrar skánar. Síðan voru skánarnar breidar flatar á jörðu, svo þær gætu skurnað, en eftir það oft snúið á hina hlið til að þorna betur. Ef óheppilega viðraði í móinn, þurfti stundum að hlaða honum í hrauka, en að síðustu var hann alltaf tekinn í hlaða, sem svo voru tyrfðir.
6. Í sveitinni var sauðatað aðaleldsneytið.

Hrístekja

Hrís

Torfbær – hrís við bæjarvegginn.

1. Sem kunnugt er og oft hefur verið minnst á, hefur gróður mjög eyðst hér á landi frá landnámstíð. Hefir það í seinni tíð allt verið kennt mönnum og búsetu þeirra, en þetta er alls ekki rétt, eins og allt fullgreint fólks ætti að geta sagt sér sjálft.
2. Oft fór náttúran hamförum og eyddi í stórum stíl gróðri og gróðurlendi.
3. Eldgos, jökulhlaup, sandbylji og þvílíkt þarf síður að benda alþýðunni á en menntamönnum.
4. Nú rífa menn ekki lengur hrís, lyng og jafnvel mosann í eldinn af þeirri einföldu ástæðu, að “vísindin” hafa kennt þeim að kynda með mikli minni áreynslu útlendu eldsneyti, sem er enn botnlausari rányrkja en hin fyrri.
5. Þá var það, að ég fór á útmánuðum, oft dag eftir dag og fleiri ár, í hlíðina algróna hrísi og sótti hrísbyrðar stórar til drýginda og fóðurbóta handa kúnum þegar fóðurskortur var fyrirsjáanlegur.

Vinaskógur

Skógur.

6. Víða var allt fram á mína daga “skógviður”, en svo var allt birkikjarr nefnt, notaður mjög mikið í þéttrefti og tróð á hús, mjög til eldsneytis, jafnvel gripið til að gefa kúm til fóðurbóta og fóðurauka í heyskorti.
7. Íslenskt birki, vel þurrkað, hefur lengi þótt úrvalsviður til útskurðar og ýmissa smásmíða, því það er seinvaxið, fíngjört og ókleyfið.

Trjáreki

Rekafjara

Rekafjara.

1. Trjáreki er snemma nefndur í fornum sögnum og heimildum, og mun vera eitt af þeim hlunnindum, sem landnámsmenn litu hvað hýrustum augum, þegar þeir komu hingað, ásamt veiðiföngum og óteljandi nytjum þessa fagra lands, sem átti að heita ósnortið. rekinn hafði þann stóra kost fram yfir aðrar landsnytjar, að varla var hægt að rányrkja hann.
2. Reki var notaður og unninn til smíðaviðar. Einnig í girðingastaura.
3. Þá var ekki smælkið vanmetið heldur, en hirt kostgæfilega, hvert kefli og sprek, sem fór mest í eldinn og þótti mikil hlunnindi.

Vatnsburður

Skjaldarkot

Skjaldarkotsbrunnur.

1. Mikill kostur þótti á hverju býli, að þar væri þægilegt vatnsból eða a.m.k. stuttur vatnsvegur, en hvoru var ekki alls staðar til að heilsa.
2. Brunnhús voru stundum við bæjarlæki.
3. Hef ég grafið a.m.k. átján brunna en endurgrafið eina tíu.
4. Kvikasilfur var gott til brunngerðar. Það át sig niður á við.

Torfhús
1. Eitt af því, sem flestir menn þurftu að bera nokkurt skyn á í eldri tíð og geta bjargað sér við, var að byggja úr torfi og dytta að torfhúsum. Til þess þurfti að vera hlutgengur að skera torf.

Torfbær

Torfbær.

2. Regla var að hafa grjót, a.m.k. að innan í öllum hesthús- og fyrir það sem skepnunar náðu að nudda sér við. Einnig voru allir garðar og jötuþrep hlaðin úr grjóti.
3. Réttarveggir stóu ekki heldur lengi nema hlaðnir úr grjóti, sérstaklega innan.
4. Þá má minna á vörslugarða, sem hlaðnir hafa verið fram á þessa öld úr torfi en löngum ekki síður úr grjóti, hinir síðustu einhlaðnir, eins og sjá má m.a. í Aðaldalshrauni og á Suðurnesjum.
5. Víða sjást enn eldforn garðalög, mikil um sig og greinileg, sem ætla má frá fornöld, en enginn getur sagt sér til nú, til hvers mörg þeirra voru.

Fjárhúsgerð

Stórhöfði

Fjárskjól við Stórhöfða.

1. Snemma á öldum munu menn hafa þurft að fara að hugsa fyrir einhverju skýli fyrir búpening sinn, en er lítið um það vitað, hvernig það var helst gjört.
2. Notaðir hafa verið hellar eftir því, sem þeir hrukku til, og eru dæmi um, að þeir hafi verið notaðir fram, um síðustu aldamót.
3. Ak þess voru svo beitarhús, eitt eða fleiri, lengra frá bæ, þar sem landrými var mikið.
4. Hesthús voru oftast með eina jötu eða “stall” við annan vegg, og látnir voru þeir “standa á taði”, eins og féð.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – fjárhústóft.

5. Hæð veggja á gripahúsum var í upphafi miðuð við, að þeir væru gripheldir, en eftir því sem þeir sigu og greru, hættu þeir oft að vera það.
6. Ein er sú gerð fjárhúsa, sem varla verður gengið fram hjá í svona yfirliti, en það eru “borgir”, eldfornt nafn.
7. Fjárborgin er kringlótt, hlaðin úr grjóti einu, meira en mannhæðahá, með einum dyrum, lítið meira en kindgengnum á hæð, lögð flötum steinum í botninn, og fennti ekki inn í hana, svo teljandi væri, því snjónum hvirflaði í kringum hana.
8. Oft eru beitarhús langt frá bæ og beitarhúsasmalinn því hálfgerður útilegumaður vegna hátta sinna, en þau voru þó óðum að hverfa um síðustu aldamót.

Mataröflun í eldri tíð

Sölvatekja

Sölvatekja.

1. Þykir svöngum sætt, sem söddum þykir óætt.
2. Viðarmest af þessu er sennilega grastekjan.
3. Sölvatekja var einnig umfangsmikil lengi vel, þar sem vel hagaði til á víðlendum flúðum; meira mun það þó hafa verið sunnanlands, því þar er miklu meiri munur flóðs og fjöru. Sölin eru skoluð vel í vatni, en síðan þurrkuð vel, líkt og hey, en troðið síðan, vel þurrum, fast ofan í tréílát. Brýst þá út úr þeim eins konar sykurefni, sem sest utan á þau eins og hrím, og má telja, að þau séu orðin fremur ljúffeng.
4. Þá var fjöldi jurta notaður til tevatnsgerðar, þ.ám. blóðberg, vallhumall, rjúpnalauf, sortulyng, aðalbláberjalyng, einir o.m.fl.
5. Svokallaður “ruslakeppur” var gjörður ur ýmsu smálegu innan úr kindum.

Kútmagar

Kútmagar.

6. Kútmagar og sundagar úr þorski þóttu bæði sælgæti og til mikilla búdrýginda, lifraðir kútmagar voru etnir nýir, en sundmagar soðnir og súrsaðir.
7. Sporðar og bægsli hákarla voru sviðin, soðin og súrsuð.
8. Alþýðan fann, að skarfakál var gott við skyrbjúgi, þótt hugsun um vítamín hafi þá ekki verið komin inn meðal fólks.
9. Menn höfðu rótgróna ótrú á að eta hákarl nýjan, en þó voru hákarlahausar soðnir nýir og etnir með þrárri tólg bræddri út á, hákarlastappa.
10. Algengt var, að hörðum þorskhausum væri drepið ofan í sýru og þeir síðan lánir ryðja sig, en á eftir rifið úr þeim það, sem ætilegt var, en beinin barin og gefin kúnum, sem höfðu fulla þörf fyrir kalkið.

Brauðgerð í eldri tíð

Brauðtrog

Brauðtrog.

1. Framan frá upphafi byggðar þessa lands og líklega miklu lengra voru hlóðirnar einu eldunarfærin fyrir alla matseld.
2. Brauðtrog var til á hverju heimili, en það var grunnt, fremur flátt, með nokkuð stórum botni, nærri jafnt breidd og lengd. Í því lá sem oftast eitt “kökudeig”, frá síðustu brauðgerð, súrdegið, sem sá um gerjunina.
3. Pottbraut var áreiðanlega mest notað og ljúfengast alls brauðs, ef vel tókst til með það.

Kornmölun
1. Langt er síðan mennirnir lærðu að hagnýta sér korn til manneldis.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – kvarnasteinn.

2. Fundist hafa hér í mjög fornum rústum kvarnasteinar úr íslensku grjóti, og gæti það bent til þess, að landnámsmenn hafi haft út hingað þekkingu á mölun korns og jafnvel kvarnir.
3. Víða um land bjuggu menntil kvarnasteina, einkum úr eitilhörðuhraungrjóti.
4. Kvarnasteinar entust lengi, en slitnuðu með tímanum eins og flest annað. Þegar þeir gerðust sléttir á slitflötinn, þurfti að klappa þá upp, sem kallað var, en það var að höggva rásir með nokkru millibili eins og geisla út frá miðju og út úr brúnum.

Sléttun túna
1. Lengst þeirrar tíðar, sem liðin er, síðan landið byggðist, hafa menn strítt við þúfurnar, sér til ærinna óþæginda. Þær torvelduðu alla umferð og urðu orsök margar illrar byltu, en mest og verst töfðu þær fyrir heyskapnum, sem segja má, að gengi fyrir handafli einu, allt til síðustu aldamóta. Oft var á öllum þeim tíma búið að bannsyngja þúfurnar, en hvorki fækkaðu þær né lækkuðu neitt við það.

Lítið ljós

Kola

Kola.

1. “Betra er lítið ljós en mikið myrkur”. Þannig hljóðar eitt hinna fornu spakmæla þjóðarinnar.
2. Langeldar, niðurgrafnir í gólf, voru fyrst og fremst til hlýinda, en einnig var birta þeirra hagnýtt til starfa.
3. Kolur voru úr steini.
4. Á seinni öldum, þegar ofurlítið fer að rýmkast hagur þjóðarinnar, fer að tíðkast að smíða ljósfæri úr látúni eða steypa þau úr kopar, og á síðustu öldum voru kolur orðnar tvöfaldar, kölluðust þær þá lampar og þóttu mestu þing og fyrirmyndarljósfæri, einkum ef hægt var að veita sér lýsi á þau.
5. Þegar byrjað var að flytja inn steinolíu til lýsingar, gjörðist hér bylting, en lítt mun alþýða hafa af því haft að segja fyrr en um 1870.

Torfbær

Torfbær – við sérhvern bæ fyrra var smiðja.

6. Fyrstu eldspýturnar fluttust hingað seint á átjándu öld, þá í litlum, renndum trébaukum.
7. Steinolíuluktir munu hafa farið að flytjast um aldamót, var þeim tekið fegins hendi, þó ekki væru þær notaðar nema í nauðsyn vegna eyðslu.

Járnsmíðar
1. Við, sem munum aftur undir síðustu aldarmót, höfum lifað meiri byltingu í þjóðlífinu en nokkur önnur kynslóð hérlend, og þýðing málma, einkum þó stáls, hefir farið vaxandi með breyttum starfsháttum og vaxandi notum verkfæra og véla til sjávar og lands, en járnsmíði, þ.e. járnslátta við kolahitun, má heita niður lögð.
2. Gömlu íslensku ljáina þurfti alltaf að dengja heita og herða þá á eftir. Þess vegna þurftu flestir, sem teldust sjálfbjarga, að hafa smiðju á sínum heimilum.

-Horfnir starfshættir – 1990 – Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi.

Torfbær

Torfbær.

Þórkötlustaðanes

Um var að ræða menningargöngu á vegum Saltfiskseturs Íslands, Grindavíkurbæjar og Björgunarsveitarinnar Þorbjörns.
Frá göngunniAf því tilefni var ætlunin að afhjúpa nýtt örnefna- og söguskilti á Þorkötlustaðanesi.
Genginn var hringur á Nesinu frá skiltinu að rústum Þórshamars og fleiri húsa sem voru á Nesinu, spölkorn með ströndinni og horft yfir Þórkötlustaðasund þar sem fornkonan Þórkatla mælti svo fyrir, að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast. Gengið verður að gömlu þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni og í áttina að vitanum. Ýmislegt var skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni. M.a. var boðið upp á brim af bestu gerð.
Í lok göngu var boðið upp á afmæliskaffi hjá Björgunarsveitinni Þorbirni við Seljabót, en björgunarsveitin hefur bjargað 232 mannslífum frá stofnun. Þess má geta að jafnframt var um að ræða tólfhundruðustu gönguferð FERLIRs frá upphafi um fyrrum landnám Ingólfs – sem telja verður sögulega út frá þrautseigju á upprifjun gamalla heimilda og uppgötvun nýrra, áður óþekktra.
Örnefna- og sögukort á ÞórkötlustaðanesiÖrnefni á Þórkötlustaðanesi eru mörg og mannvistarleifar víða. Nesið varð til þegar hraun rann til sjávar undan Hagafelli. Heimildir segja að hraun þetta sé að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47), en aldursgreining á því hefur gefið til kynna að það hafi runnið fyrir um 8000 árum. Meginhraunstraumurinn var um Gjána, langa hrauntröð eftir miðju Nesinu. Upphafl ega hefur það verið mun stærra því sjórinn hefur brotið smám saman utan af því í árþúsundirnar. Vestasti hluti Nessins nefnist Hópsnes.
Eitt helsta auðkennið á svæðinu er Nesvitinn, sem reistur var árið 1928. Svæðið geymir fjölmargt annað, sem bæði má lesa um hér og sjá á meðfylgjandi uppdrætti.
Bryggjan úti í Járngerðarstaðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var steypt með veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn metra út fyrir stórstraumsfjöruborð. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd. Sama ár voru gerðar samskonar bryggjur í Þórkötlustaðahverfi og Staðahverfi.
Spil ofan við Nesvör
Sjósókn og útgerð
Minjarnar, sem eru ofan við Nesvörina (bryggjuna), eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Um er að ræða gamla þurrkgarða, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og gamlar tóftir, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, vara, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, gólf beitningaskúra og innsiglingamerki frá fyrri hluta síðustu aldar.

Höfn og bátar í nausti ofan við Nesvörina - fiskskúrar millum

Á Þórkötlustaðanesinu voru þrjú íbúðarhús, sem enn má sjá leifar af; Arnarhvoll (nyrst), Höfn og Þórshamar (syðst). Húsin voru byggð í kringum 1930. Vöxtur útgerðar í Nesinu byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. frá Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum.
Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí. Sumir réru líka svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi. Á sumrin var venjulega róið á minni bátum.
Útgerðarmennirnir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgnana þegar gaf á sjó og fóru síðan fótgangandi heim aftur á kvöldin. Fólk kom víðar að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Vermennirnir bjuggu á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var.
Uppdráttur af svæðinu ofan við NesvörinaÁður lentu bátarnir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum, sem voru í röðum ofan malarkambsins. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar eru beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.
Þegar steinbryggjan var byggð, um 70 metra löng og 10 metra breið, til að mæta vélvæðingu bátanna, var fiskinum kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Lifrarbræðsla var byggð hér á árunum 1934-1935. Útveggirnir standa enn.
Ískofi á ÞórkötlustaðanesiÞegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar. Þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.
Áður en bryggjan var byggð voru bátanir dregnir á land upp á kambinn norðan hennar. Þegar stokkarnir við bryggjuna voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, var notað til að draga bátana. Það var drifið með Ford-vél, sem var knúin bensíni. Vélarhúsið við spilið er nú horfið. Grunnurinn sést enn. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetningunni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi – bryggjan.

Eftir að grafið hafði verið inn í Hópið í Járngerðarstaðahverfi árið 1939 og hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út frá Nesinu. Vegurinn náði fyrst að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan lengra til vesturs, að vörðunni Siggu.
Segja má að útgerðin hafi verið aflögð hér árið 1946. Íbúðarhúsið Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvoll var flutt þangað árið eftir. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Austan við Strýthólahraun má sjá tóftir og minjar í kringum Þórshamar, en útveggir hússins standa enn við Flæðitjörnina. Jóhann vitavörður bjó þar síðastur manna. Suðaustan við húsið er manngerður hóll. Hann virðist hafa verið fjárborg eða tóft, miklu eldri en minjar umhverfis. Sunnan við húsið er heillegt fjárgerði og fjárhústóft. Suðvestan við það eru minjar eina skrautblómagarðsins er þá var til í Grindavík. Eflaust hefur hann vakið mikið umtal og margar vangaveltur á þeim tíma er lífið snerist aðallega um þurrfisk og síðan saltfisk.
Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu fyrir tíð búsetu á Nesinu. Þar má enn sjá u.þ.b. 40 hlaðin þurrkbyrgi, líkum þeim er sjá má á Selatöngum og í Slokahrauni.
Mikil vegghleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíla, líkt og margar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Nú er búið að hylja brunninn með möl.
Rekinn hefur löngum verið Þorkötlustaðabændum notadrjúgur. Örnefni á Nesinu gefa m.a. til kynna hvaða hluti strandarinnar tilheyrði hverjum þeirra.

Sjóslys og  björgun
ÞórkötlustaðanesHér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Mörg dæmi eru um það. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gat breyst snögglega. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlað var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðabótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti.
Þann 24. mars 1916 fóru 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kútters Esterar frá Reykjavík. Þurrkbyrgi í Strýthólahrauni

Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.
Árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur suðvestur úr Nesinu. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur.
Vélbáturinn Grindvíkingur GK 39 fórst utan við Nesið 18. janúar 1952. Fimm menn fórust.
Sjá má enn járnbrak úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út aftur gerði vonskuveður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og sést brakið ofan  við kampinn.
Frá göngunniFlutningaskipið Mariane Danielsen fór upp á Hópsnesið í vonsku veðri eftir að hafa verið siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989. Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með björgunarstól daginn eftir.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes. Afurð Sundhnúks fyrir u.þ.b. 2400 árum.

Nokkrir bátar hafa strandað við Þórkötlustaðabótina, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn.
Austast í Bótinni varð enn eitt sjóslysið. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, rak upp í skerin. Ekki varð mannbjörg það sinnið.
Brak á HópsnesiGjafar VE 300 fórst fyrir utan Nesið 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfn var bjargað frá borði með aðstoð meðlima björgunarsveitarinnar Þorbjörns. Björgunarsveitin Þorbjörn var formlega stofnuð árið 1947. Saga sveitarinnar er samofin sjóbjörgunarsögu Grindavíkur, allt frá stofnun slysavarnardeildarinnar Þorbjörns árið 1930. Fáar björgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum. 
Frábært veður. „Þegar veðrið er gott er það hvergi jafn gott og hér“, sagði Guðbergur Bergsson, rithöfundur. Þátttakendur voru rúmlega 80 talsins. Sjá svolítið meira um 1200.

Framangreindur texti og uppdráttur er byggður á örnefnalýsingum, Sögu Grindavíkur, eftir Jón Þ. Þór, Árbók Sögufélags Suðurnesja 1996-1997, og frásögnum Péturs Guðjónssonar frá Höfn sem, Lofts Jónssonar og Tómasar Þorvaldssonar.
Þórkötlustaðabót - Ísólfsskáli og Skála-Mælifell fjær

FERLIR lagði í lok marsmánaðar (2010) land og jökul undir fót og hélt að eldsupptökum gosstöðva á Fimmvörðuhálsi.
Gosið kom reyndar upp á Hruna í Goðalandi, en ekki á hálsinum sjálfum líkt og fréttir hermdu.
EldurFetuð voru spor á Mýrdalsjökli upp í allt að 1.504 m.h.y.s., framhjá gígopi Kötlu og inn á berangurshálsinn millum Mýrsdalsjökuls og Eyjafjallajökuls. Leiðangursstjóri var Kári Björnsson, fumlaus með öllu, enda ekki lagt að sækja það (sonur Björns Hróarssonar, jarð- og hellafræðings [Extreme Iceland]).
Um var að ræða gos er varð á sprungurein á tiltölulega afmörkuðu svæði. Gosið er að mörgu leyti líkt bæði Heimeyjargosinu (1973) og Surtseyjargosinu (1963), a.m.k. er um samskonar frumstætt „sjávarhraun“ að ræða að mati jarðfræðings af frönskum ættum er var með í för. Samferða var einnig enskur fasteignasali, sem af einhverri ástæðu hafði sérstakan áhuga á eldstöðinni – hvað s.s. það táknar til lengri framtíðar litið…
Tilgangurinn var ekki að hlusta á bullið í jarð- og jarðeldisfræðingum landsins, heldur var megintilgangur ferðarinnar að líta á og heyra í þessari nýfæddu systureldstöð þeirra fjölmörgu eldri er enn má sjá á Reykjanesskaganum.

Fimmvörðuháls

Á Fimmvörðuhálsi.

 

 

Straumur

Í Náttúrufræðingnum 1998 fjallar jarðfræðingurinn Freysteinn Sigurðsson um „Grunnvatnið í Straumsvík„. Þar segir m.a.:

Freysteinn Sigurðsson

Freysteinn Sigurðsson (f. 1941), lauk Diplomprófi í jarðfræði frá Háskólanum í Kiel í Þýskalandi árið 1974. Fresyteinn hefur starfað hjá Orkustofnun æ síðan, einkum við grunnvatnsrannsóknir, neysluvatnsrannsóknir og jarðfræðikortagerð. Hann hefur verið formaður Hins íslenska náttúrufræðfélags frá 1990.

„Gríðarmikil fjöruvötn falla til Straumsvíkur, vestan við álverið og norðan við Keflavíkurveginn. Mikið ber á fjöruvötnum þessum á lágfiri því sjávarföll eru mikil þarna innst í Faxaflóa, eða allt að 4-5 m munur flóðs og fjöru. Hraun eru við víkurbotninn, með rásum og röstum, og eru fjöruvötnin í stœrstu rásunum ár að vexti, upp í nokkra m3/s á stórstraumsútfalli. Svo lek eru hraunin að fjöruvötnin falla sum sem gerðarlegir lœkir í polla bak við hraunkamba og hraunrastir, en útrennsli sést ekki úrpollunum því vatnið rennur skemmstu leið í gegnum hriplek hraunin. Af þessum vatnagangi hefur staðurinn fengið nafnið Straumur og víkin Straumsvík.
Sunnan við þjóðveginn standa nokkrar tjarnir uppi í hraununum og gætir sjávarfalla í þeim, svo verulegan mun sér flóðs og fjöru.
Syðst í tjörnum þessum er Gvendarbrunnur úti í tjörn, hlaðinn í hring úr grjóti, og göngugarður út að honum því brunnurinn fer á kaf þegar sjávarfallaflóð eru mikil. Þarna í Straumsvík er líklega næstmesta útrennsli á einum stað úr grunnvatni til sjávar á landinu, á eftir Lóni í Kelduhverfi.
Þetta mikla útrennsli er afleiðing af jarðfræðilegum og vatnafræðilegum aðstæðum, eins og lög gera ráð fyrir. Menn kunna nokkur deili á þeim aðstæðum því þó nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á grunnvatnsfari á aðrennslissvæði Straumsvíkur og aðliggjandi svæðum.

Gerðistjörn

Gerðistjörn ofan Straums.

Allvíðtæk könnun var gerð á grunnvatni á vatnasviði Straumsvíkur 1975, og var það raunar einhver fyrsta meiriháttar könnun af slíkum toga sem gerð var hérlendis og þar sem beitt var jarðfræði, jarðeðlisfræði, vatnafræði og efnafræði í samþættri rannsókn. Niðurstöður hennar eru enn uppistaðan í þekkingu okkar á grunnvatnsfari svæðisins. Vatnafarskort í mælikvarða 1:25.000 hafa verið gerð af stórum hluta vatnasviðsins á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Á kortum þessum eru jarðlög túlkuð og fiokkuð með tilliti til lektar og annarra vatnafarslegra eiginleika.
StraumurSamkvæmt þessum rannsóknum eru orsakir hins mikla útrennslis í Straumsvík einkum þrjár (2. mynd):
1. Jarðlög á aðrennslissvæðinu (vatnasviðinu) eru mjög lek, svo úrkoman sígur nánast öll í jörðu niður og nær ekkert afrennsli er á yfirborði.
2. Úrkoma á vatnasviðinu er mikil, einkum á fjöllunum þar sem hún fer líklega víða yfir 2.000 mm á ári.
3. Jarðgerð svæðisins beinir grunnvatnsstraumum af stóru svæði til Straumsvíkur.

Vatnshagur vatnasviðsins

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Úrkoman við Straumsvík losar 1.000 mm á ári, eykst upp eftir hraununum og gæti verið komin í um 1.500 mm á ári á Undirhlíðum og nálægt Kaldárbotnum. Þessari úrkomu samsvarar afrennsli sem nemur 30-1001/s á km2 að ársmeðaltali, líklega 55-70 1/s á km2 að meðaltali fyrir svæðið. Ætla má að vatnasviðið sé 150-200 krn2 þegar ráðið er í líkleg mörk þess eftir jarðgerð og vatnafari, líklega þó nær neðri mörkunum. Miðað við það nemur heildarafrennsli til Straumsvíkur 8-14 m3/s. Reynt hefur verið að meta útrennslið við Straumsvík, eða öllu heldur í Hraunavík alla, milli Hvaleyrarhöfða og nessins vestan Straumsvíkur.

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Útrennsli á fjöru fer vaxandi frá Hvaleyrarhöfða til álversins, úr 0,1-1/s í um 1/s á hvern metra fjöru. Á þessu bili falla líklega um eða yfir 2 m3/s til sjávar. Mikið vatn vellur undan álverinu, líklega m3/s eða jafnvel mun meira. Reynt hefur verið að meta vatnsmegin fjöruánna í Straumsvík, en það er torvelt með nákvæmni því fjöruvötnin breyta sér í sífellu, eftir því sem á útfallið líður, og eru að auki stundum ofan jarðar og stundum neðan. Með þeim fyrirvörum var giskað á að útrennsli næmi 3-10 m3/s að meðaltali. Útrennsli til Hraunavíkur er þá 6-15 m3/s, eða svipað og samkvæmt afrennslismati. Meðaltalsgildi væri nærri 10 m3/s. Þetta er í góðu samræmi við niðurstöður líkanreikninga (10-11 m3/s) (Vatnaskil 1991). Má því hafa þetta gildi fyrir satt, þar til annað reynist sannara. Af þessu vatni falla væntanlega um eða yfir 5 m3/s til Straumsvíkur sjálfrar.

Vatnajarðfræðileg gerð svæðisins

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Megindrættir í vatnajarðfræðigerð svæðisins eru þessir:
1. Virka gosbeltið, sem liggur eftir endilöngum Reykjanesskaga, stefnir nærri VSV-ANA. Á því hafa hlaðist upp móbergsfjöll á jökulskeiðum en hraun hafa runnið út frá því í átt til strandar. Jón Jónsson (1978) taldi um 200 þekktar gosstöðvar á skaganum sem virkar höfðu verið eftir ísöld. Sýnir það fjörið í eldvirkninni. Gosberg það sem nú er á yfirborði og nokkuð í jörð niður er lekt og veitir vel vatni.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur í Hrauntungum.

2. Hrauntungur hafa fallið frá gosbeltinu á nútíma, einkum um lægðir og slakka. Ofan Straumsvíkur hefur að öllum líkindum verið dalur nokkur, eða jafnvel fjörður, og ná þykk hraun þaðan til sjávar og veita vatni þangað mjög greiðlega.
3. Sprungusveimar skarast yfir gosbeltið og stefna nærri SV-NA. Á mörgum þeirra eru opnar gjár og sprungur og veita þeir þá vatni greiðlega, þar á meðal ofan í hraunfyllta dalinn ofan Straumsvíkur.
Einkum má nefna sprungusveiminn um Heiðmörk, Hjalla og Kaldársel, en hann er svo opinn og lekur að grunnvatnið rennur frekar eftir honum en skemmstu leið til sjávar og þvert á jafnhæðarlínur grunnvatnsborðsins.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Annar sprungusveimur liggur norður með Sveifluhálsi, en vel má vera að þeir séu báðir hluti af sama sprungukerfi eða sprungurein. Þessir sprungusveimar valda misleitni (anisotropi) í lekt á svæðinu, þannig að hún er miklu meiri í stefnu sprungusveimanna en þvert á þá. Niður í eystri skarann rennur grunnvatn frá Bláfjöllum og vestur til Grindaskarða. Sprungumar beina því suðvestur, en norðvestan við sprungusveiminn tekur við grágrýti og annað enn eldra berg, sem veitir vatni treglega í gegnum sig samanborið við hraunin og sprungurnar. Þarna verður því mikill grunnvatnsstraumur vestur í „Straumsvíkurdalinn“.

Sveifluháls

Sveifluháls – móberg.

Sveifluháls er úr móbergi, víða holufylltu af jarðhitaummyndun, og mun tregara á vatnsrennsli en hraunin. Norðan hans er hæðarbunga og er þar líklega einnig eldra og þéttara berg undir hraununum.
Skammt er þar að líkindum suður til vatnaskila og verður grunnvatnsstraumur þessi því sýnu minni en sá sem kemur austan að.
Báðir flæða þeir út úr sprungusveimunum og ofan eftir hraununum í fyllta dalnum suður frá Straumsvík.
Suðaustur af Straumsvík verður lægð í landið upp undir Undirhlíðar, milli lítt lekra grágrýtisholtanna suður af Hafnarfirði og hraunum þakinnar bungunnar í Almenningum. (3. mynd).
StraumsvíkLægð þessi er þakin hraunum sem fara jafnt og þétt hækkandi upp undir Undirhlíðar, en þó í óljósum þrepum. Hér skína í gegn drættir jarðgerðar og landslags undir hraunþekjunni. Á sínum tíma var reynt að greina hæð grunnvatnsborðs á svæðinu með jarðviðnámsmælingum og virðist það hafa tekist þokkalega, miðað við síðari boranir og líkanreikninga á svæðinu. Við þær mælingar komu líka fram ábendingar um dal, forðum fjörð, upp frá Straumsvík, sem síðar hefur fyllst hraunum. Botn þessa dals nær niður á 30-40 m dýpi undir sjávarmáli, samkvæmt mælingunum, en hraunin á stæði álversins ná 20-25 m niður fyrir sjávarmál. Dalur þessi var fundinn með óbeinum aðferðum og mælingum með tækjum, sem þættu ærið ófullkomin núna. Því var traustið á þessari túlkun ekki meira en svo að vesturhlið dalsins var ekki sýnd sem miður lek jarðlög á vatnafarskorti af svæðinu. Við boranir síðar á svæðinu kom þessi hlíð samt í ljós, og verður því að telja líklegt að túlkunin á tilvist dals þessa sé ekki fjarri sanni (4. mynd).

Ástand grunnvatnsins
StraumsvíkGrunnvatnið rennur ákaflega greitt frarmí þessum hraunfyllta dal. Fyrir vikið er halli grunnvatnsborðs þar lítill, en hæð þess er um 2 m y.s. sunnan vegar hjá álverinu og er komin upp undir 10 m y.s. hjá Hrauntungu. Þaðan af hækkar það hraðar, enda eru hraunin þar að meira eða minna leyti ofan grunnvatnsborðs. Í Undirhlíðum og við Kaldársel er grunnvatnsborðið kontið upp í 70-80 m y.s. Úti undir ströndinni flýtur grunnvatnið ofan á jarðsjó í berginu. Saltsvatns er farið að gæta á 100 m dýpi hjá álverinu, en svo snardýpkar á það inn til landsins. Í sprungusveiminum hjá Kaldárseli er talið að öflugt ferskvatnsrennsli sé a.m.k. niður á 800 m dýpi. Ferskvatnið á svæðinu er efnaríkara (einkum auðugra að steinefnum) undan móbergsfjöllunum en af grágrýtinu og hraununum, þ.e. skammt að runnið vatn. Efnaríkast er vatn í Kleifarvatni og umhverfi þess.
StraumsvíkVatnið í Straumsvík er blanda af öllu svæðinu og sést það vel í efnainnihaldi þess. Reynt hefur verið að meta útrennsli úr Kleifarvatni eftir jarðgerð, vatnafari og líkanreikningum en vatnið er afrennslislaust á yfirborði. Áætlað hefur verið að um m3/s renni norður úr en um 1 m3/s suðaustur úr. Hlutfallið gæti þó verið enn lægra fyrir rennslið norður úr, en einnig gæti útrennslið í heild verið talsvert meira, samkvæmt síðari skoðunum.
Grunnvatn það sem rennur vestan að til Straumsvíkur virðist vera bæði heitara og efnaríkara en meginstraumurinn suðaustan að. Þetta staðfesta hitamælingar úti í Hraunum; þar hækkar vatnshiti í fjörulindum úr 5-5’/2°C við Lónakot upp í 8-8’/2°C vestur undir Hraunsnesi en lækkar svo aftur inn til Vatnsleysuvíkur. Þetta, ásamt fleiri ábendingum, hefur verið túlkað svo að grunnvatnsstraumur komi þarna til sjávar ofan frá jarðhitasvæðinu við Trölladyngju. Vatnshitinn við Straumsvík mældist um og innan við 4°C en um 3°C uppi í Kaldárseli. Má af þessu ráða nokkuð um hlutdeild fjallavatnsins í útrennslinu í Straumsvík (5. mynd).

Grunnvatnsauðlind
Straumsvíik.Á flóði stíflast útrennslið uppi og getur þá sjóblandað vatn þrengt sér inn í jarðlögin við ströndina. Þetta veldur saltblöndun í grunnvatninu og fjörulindunum, yfirleitt því meiri sem útrennslið er minna. Kemur það glöggt fram í fjörulindum austarlega í Hraunavík og út við Lónakot, en svo mikill er flaumurinn í Straumsvík að það finnst ekki á bragði vatnsins, þó að blöndunin komi glöggt fram í efnagreiningum. Saltmengun í vatnsbólum var mikið vandamál víða á Reykjanesskaga áður en farið var að afla neysluvatns inni á skaganum. Ferskt grunnvatnið í Straumsvík er gríðarmikil auðlind, enda er þar vatnsmesta grunnvatnssvæði í nánd við meiriháttar þéttbýli á landinu. Á vatnasviði Straumsvíkur eru vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum (7. mynd).
StraumsvíkÞaðan fellur Kaldá skamman spöl, uns hún hverfur í hraunið, en skilar sér svo aftur í útrennslinu í Straumsvík. Vatnsmegin Kaldár er ærið mismikið, enda er hún eins konar yfirfall úr grunnvatninu og rennsli hennar því háð hæð grunnvatnsborðs. Svæði þetta er tengt vatnasviði grunnvatns þess sem fellur til Elliðavatns og býr ekkert þéttbýlissvæði á landinu við slíka auðgi grunnvatns sem höfuðborgarsvæðið, nema Þorlákshöfn, hinum megin á Reykjanesskaganum. (6. mynd).
Full ástæða er til að hugsa vel um auðlind þessa því í henni geta verið fólgin gífurleg verðmæti, ekki síst vegna landslegu Straumsvíkur, hafnaraðstöðu þar og fleiri þátta. Ýmsum þykir pottur brotinn í umhyggjunni um auðlindina, því alls konar mengunarbær starfsemi hefur verið sett niður á vatnasviði Straumsvíkur. Ofar í straumnum spillist allt neðan mengunarstaðar, þ.e.a.s. meira vatn og á mun stærra svæði.

Straumsvík

Álverið í Straumsvík.

Staðsetning álversins og annarra fyrirtækja úti við ströndina veldur lágmarksspjöllum á vatnasviðinu. Meira orkar tvímælis með stálbræðsluna, sem eitt sinn var sett niður á svæðinu, loðdýrabú, sem þar voru eða áttu að vera, en þó ekki síst kappakstursbraut í Kapelluhrauni og ökuþórakappvöll þann sem valinn hefur verið staður lengst uppi í hrauni. Enn má geta gjalltöku á hraununum og efnistöku víða við Undirhlíðar, en mikilli vélavinnu getur fylgt olíuleki, rétt eins og bílaböðulshættinum.
Skynsamlegra, vatnsvænna, fyrirhyggjumeira og gróðavænlegra, til lengri tíma litið, hefði verið að setja svona starfsemi niður sem næst ströndinni, eða þá alls ekki á þessu auðugusta grunnvatnssvæði við meiriháttar þéttbýli á landinu. Enn eru ekki öll sund lokuð fyrir verndun vatnasviðs Straumsvíkur, en þó verður æ brýnna að koma þar á viðunandi lagi meðan enn er tími til. Grunnvatnið í Straumsvík er einstæð auðlind og raunar ómetanleg.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 67 (3-4), Grunnvatnið í Straumsvík, Freysteinn Sigurðsson, bls. 179-188, 1998.

Straumsvík

Straumsvík.

Hvaleyri

Í „Fornleifaskráningu vegna framkvæmdaleyfis á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði“ árið 2019 segir m.a.:

Saga
HvaleyriElstu heimildir um Hvaleyri er í Hauksbók Landnámu er Hrafna-Flóki Vilgerðarson fann hval rekinn á eyrinni og nefndi hana því Hvaleyri. Í Landnámu er þess einnig getið að Ásbjörn Össurarson bróðursonur Ingólfs Arnarssonar hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi.
Árið 1395 var Hvaleyri í eigu Viðeyjarklausturs og leigan til klaustursins var 4 hndr. Árið 1448 var getið um kirkju á Hvaleyri svo er lítið um heimildir um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum. Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.
Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.
Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1776.

Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Guðmundur Guðmundsson smiður sem bjó í Vesturkoti á Hvaleyri fann heila mannsbeinagrind með föður sínum er hann var unglingspiltur. Þar fannst einnig krítarpípa, greiðugarður, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Um 1925 fundust aftur mannabein á Hvaleyri af Magnúsi Benjamínssyni bónda í Hjörtskoti á Hvaleyri.

HvaleyriMatthías Þórðarson þjóðminjavörður rannsakaði beinin og taldi sennilegt að þetta væru bein sjórekinna manna sem fundist hefðu á Hvaleyri. Matthías taldi ekki þurft að varðveita beinin á Þjóðminjasafninu, en þau voru grafin í kirkjugarð Hafnarfjarðar.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West End. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.

Hvaleyri

Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði fagnaði þorranum í nýju félagsheimili í árslok 1992. Á meðan brann gamla félagsheimilið, Vesturkot. Hafnfirskir kylfarar kveiktu sjálfir í húsinu.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.

Vesturkot
Vesturkot var vestasta hjáleigan á Hvaleyri fyrir norðan Hvaleyrarbæinn. Kotið hefur staðið við endann á Kotagötunni.

Hvaleyri

Hvaleyri – hér sést Vesturkot ofan við Flókastein.

Ekkert er eftir af byggingunum sem þarna stóðu og svæðið hefur verið sléttað. Þegar golfvöllurinn var stofnaður á Hvaleyri árið 1967 var húsinu í Vesturkoti breytt í klúbbhús fyrir Golfklúbbinn Keili. Árið 1992 þegar búið var að reisa nýtt klúbbhús var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.
Hvaleyrarhöfðinn var nefndur Drundur og Vesturkot bar einnig nafnið Drundur. Á árunum 1781-1800 var Vesturkot nefnt Lásastaðir eftir hjáleigubóndanum, Nikulási Bárðarsyni en eftir 1810 var það nefnt Vesturkot og hefur það haldist síðan.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókasteinn.

Síðasti ábúandi kotsins var Sigurður Gíslason, en faðir hans Gísli Jónsson tók við jörðinni árið 1915 og byggði upp.

Þegar Gísli fluttist að Vesturkoti árið 1915 var bærinn í mikilli niðurníðslu, hann hóf þegar ræktun á túnunum, byggði gripahús og heyhlöðu.
Guðmundur Guðmundsson sem bjó í Vesturkoti og faðir hans fundu hauskúpu og heila beinagrind einnig fannst krítarpípa, greiðugarmur, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Líklega hefur þetta verið rétt fyrir 1900.

Flókasteinn

Hvaleyri

Hvaleyri-Flókaklöpp.

Vestarlega á Hvaleyrinni, rétt vestur af þeim stað er hjáleigan Vesturkot stóð.
Flókasteinn og tveir aðrir flúraðir steinar. Flókasteinn er grágrýtissteinn, hann er um 2,5 m að lengd og breiddin er um 1-2m, hæðin um 0,70 m. Vestan við steininn er upphlaðinn hálfhringlaga grasivaxinn garður sem er um 0,3 m á hæð en lækkar þar sem hann er næst steininum veggjaþykkt garðsins er um 0.3 m.
Rúnaklappir eru grágrýtisklappir. Sérstaklega var einn steinninn mikið markaður. Hann nefndist Flókasteinn. Töldu sumir að Hrafna-Flóki hefði skilið þarna eftir sig nafn sitt.

Flókaklöpp

Flókaklöppin í dag.

Í Árbók fornleifafræðifélagsins er grein sem heitir „Bergristur á Hvaleyri“ eftir Sveinbjörn Rafnsson. Segir þar m.a.: Á Hvaleyrarhöfða sér í jökulsorfnar grágrýtisklappir. Í þessar klappir hafa menn höggvið ýmis teikn og skráði greinarhöfundur og mældi bergristur þessar í júlí 1970. Risturnar hafa verið gerðar í fjórar afmarkaðar klappir eða steina, en klappir eru þarna fleiri þó ekki séu á þeim ristur. Risturnar verða þó ekki greindar til gagns nema á þremur af þessum steinum.
Syðsta klöppin er nú ólæsileg og hrakalega útötuð í steinsteypu eftir stríðsumsvif Breta í heimsstyrjöldinni síðustu. Allt í kringum steinana eru steinsteypt byrgi og byssustæði frá þeim tíma. Steypan í þessi mannvirki hefur verið blönduð og hrærð á syðstu klöppinni, þó má enn greina einstöku höggna rák út undan steypuhúðinni. Elstu ártöl á steinunum eru frá 1653. Jónas Hallgrímsson mun hafa verið sá fyrsti sem rannsakaði steinana fornfræðilega í júní 1841.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Árni Helgason í Görðum er sá næsti sem getur um Hvaleyrarristurnar í Sóknarlýsingu fyrir Garðaprestakall 1842. Árið 1854 fær Magnús Gíslason styrk til fornfræðiferða um Ísland og skoðar þá steinana. Kristian Kålund getur Hvaleyrar í drögum að staðarlýsingu Íslands, og segir að þar séu á nokkrum klöppum latneskir bókstafir og ártölin 1628 og 1777. Sigurður Skúlason á greinagóða og sígilda lýsingu Hvaleyrar steina í riti sínu Sögu Hafnarfjarðar (frá 1933, bls. 27-28) en hann er sá fyrsti sem segir steina með ristunum vera fjóra talsins.

Minorsteinn
Steininn er grágrýtissteinn rúmlega 2 m langur og breiddin 1- 2 m, og hæðin að sunnan um 0.30 m, en að norðan í sömu hæð og landið í kring.

Hvaleyri

Hvaleyri – áletrun á Minorsteininum.

Þarna er Flókasteinn og annar steinn Minorsteinn, rétt hjá með stöfum og tölum, á honum er ártalið 1777. En það ár var hér Minor sjóliðsforingi norskur og því er steinninn nefndur Minorsteinn.

Þórðarkot
Sunnan við Vesturkotstúngarð var Þórðarkot í Þórðarkotstúni.
Bæjarstæði Þórðarkots hefur verið sléttað. Þórðarkot hefur haft ýmis nöfn í gengum tíðina, eftir því hver hefur búið þar hverju sinni. Á árunum 1805-1835, hét það Einarskot eftir Einari Andréssyni. Þórðarkot frá því að Þórður Jónsson lóðs flutti þangað árið 1832 og hélst nafnið til 1870. Beinteinskot þegar Beinteinn Stefánsson frá Krýsuvík bjó þar 1870-1880, hann var síðastur ábúenda til að búa í kotinu sem fór í eyði eftir hans dag og túnið lagðist fljótlega eftir það undir Halldórskot.

Þórðargerði/ Beinteinsgerði / Zimsensgerði

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Þórðargerði var túnblettur við Þórðarkot.
Þórðarkotstún takmarkaðist af túngörðum sem hlaðnir voru á þrjá vegu, en að norðan náði það niður að Bakkanum og fjörunni. Í Þórðargerði bjó eitt sinn maður að nafni Beinteinn Stefánsson, þá nefndist kotið Beinteinskot og túnbletturinn Beinteinsgerði. Síðar hafði Christian Zimsen verslunarstjóri afnot af gerðinu, á síðasta fjórðung 19. aldar, þá nefndist það Zimsensgerði. Svæðið hefur verið sléttað og ekkert sést af gerðinu lengur.

Halldórskot

Hafnarfjörður

Hvaleyri um 1950.

Í austur frá Þórðarkot, tekur við Halldórskot í Halldórskotstúni.
Þarna hefur verið sléttað, en sést þó fyrir L-laga garði, túngarði sem hefur verið utanum bæjarstæði Halldórskots.
Bindindi var kot á Hvaleyri með Bindindistúni. Nefndist þessu nafni frá 1778-1821, síðan hét það Jónskot, frá 1810-1843 en síðast Halldórskot frá 1847-1944 eftir Halldóri Jónssyni.
Tengdasonur Halldórs, Eyjólfur Eyjólfsson seldi Þorsteini Egilssyni kotið 1883. Síðustu bændur sem byggðu kotið frá 1906-1944 voru Aðalbjörn Bjarnason stýrimaður og Þorgerður Kristín Jónsdóttir kennari, eftir þeirra dag var kotið þurrabúð um tíma þar til það fór í eyði. Aðalbjörn bætti jörðina með ræktun og byggði íbúðarhús úr timbri og steypti fjós og hlöðu.

Skotbyrgi

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Norðvestast á Hvaleyri rétt hjá friðuðum fornleifum. Skotbyrgin eru þrjú eins, þetta er vestasta skotbyrgið.
Veggir skýlisins eru upphlaðnir og steyptir, yfir er braggaþak að hluta, sá hluti er um 3 m x 2 m, að honum er smá gangur sem er um 1m breiður og 3 m langur, og veggjahæð um 1.20 m, þar er inngangur í skýlið. Það er að mestu niðurgrafið, sést aðeins í braggaþakið sem stendur uppúr jörðinni ásamt efsta hluta veggjanna. Á þessu svæði eru þrjú næstum eins skotbyrgi. Skotbyrgin voru reist mjög nálægt friðuðum fornminjum á Hvaleyrarhöfðanum.

Heimild:
-Hafnarfjörður – Hvaleyrarvöllur Hafnarfirði; Fornleifaskráning vegna framkvæmdaleyfis. Heiðrún Eva Konráðsdóttir sagnfræðingur – Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019.

Hvaleyri

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Landmælingar

Víða um land má bæði sjá koparskildi á landmælingavörðum og steypustöplum með áletrun Landmælinga Íslands, auk málmpunkta eða -skrúfur í klöppum og á steinbjörgum. Bæði eru til dæmi um að fyrstu landmælingarmenn 20. aldar hafi nýtt sér fyrirliggjanfi vörðuhleðslur eða jafnvel hlaðið nýjar. Margar þeirra standa enn í dag.

Landmælingar

Koparskjöldur á landmælingavörðu (1958).

Á koparskjöldunum segir að „Röskun varði refsingu„. Hins vegar er hvergi að finna laga- eða reglugerðarbókstaf um það hver refsingin gæti verið. Hvorki er getið um refsiákvæði í „Lögum um landmælingar og kortagerð“ frá árinu 1997 né í „Lög um landmælingar og grunnkortagerð“ frá 2006. Í 12. gr. fyrrnefndu laganna segir að „Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara“ og í 9. grein þeirra síðarnefndu er samskonar texti. Þær meintu reglugerðir er ekki að finna í Reglugerðarsafni ráðuneytanna, sbr. Island.is.

Margir þeirra sem leggja land undir fót um víðáttur landsins hafa eflaust rekist á framangreinda skildi á fjöllum og við forna vegi.

Landmælingar

Landmælingar – koparskjöldur á steinsteypustöpli.

Í því tilviki snertir röskun mannvirki en orðið röskun höfðar engu að síður til haga almennings og hinna margvíslegu verka hans og reglna. Siðmenntuð þjóðfélög setja vissar hömlur á athafnir þegna sinna og mynda lagalegan ramma um starfsemi og framferði þeirra, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í Biblíunni er t.d. varað við röskun landamerkja. Sama má segja um viðfangsefni íslenskra þjóðsagna. Í þeim er beinlínis bent á að sá eða þeir sem raska eða færa til vörður á merkjum verði refsað að afloknu þessu jarðlífi með því að þurfa að burðast með grjót það sem eftir er þegar yfrum er komið. Sennilega á koparskjaldaviðvörunin á landmælingamerkjunum að höfða til slíks, enda hvoru tveggja jafn mikilvægt, bæði landeigendunum og landmælingafólkinu.

LandmælingarEkki hefur verið ritað um hvenær Landmælingar Íslands byrjuðu að nota nefnda koparskildi, þrátt fyrir ítarlegt rit Ágústs Böðvarssonar, fyrrum forstjóri Landmælinga Íslands, um „Sögu landmælinga og kortagerðar Dana hér á landi“ og kom afraksturinn út á bók sem gefin var út í tilefni 40 ára afmælis Landmælinga Íslands árið 1996. Í bókinni er ekki minnst á merkingarnar, sem þó hefði verið merkilegur fróðleikur út af fyrir sig. Eflaust leynast innan LÍ frekari gögn um skildina þá ‘arna eða jafnvel á Þjóðskjalasafninu, en greinarhöfundur nennti ekki, að fenginni reynslu, að hafa samskipti við starfsfólk þessara stofnana. Viðbrögðin hafa oftar en ekki verið heldur neikvæð. Áletranirnar ÞR og MS á merkjunum ættu a.m.k. að vekja upp einhverjar spurningar.

Sum bæjarfélög létu hlaða vörður á mörkum og koma fyrir koparskjöldum með áletrun, s.s. Hafnarfjörður 1956. Á skildinum segir „Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar“ með nr. og ártali. Það var endurtekið 1978, en í stað þess að hlaða vörður voru steyptir stöplar á mörkunum með áföstum skjöldum.

Landmælingar

Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1978.

Dæmi var um að einhverjir landeigendur hafi ekki viljað sætta sig við staðsetninguna, einkum þegar um breytingar var að ræða, og fjarlægðu koparskildina – líkt og gerðist á Setbergshamri. Setberg hafði áður tilheyrt Garðabæ, en við breytingarnar varð hálf landareignin færð undir Hafnarfjörð í skiptum fyrir hraunspildu.

Þegar koparskildirnir á vörðunum og steinsteypustöplunum eru skoðaðir, a.m.k. á Reykjanesskaganum, má t.d. sjá á þeim ártölin 1957, 1958 og 1959. Dæmi eru þó til um eldri gerð slíkra skjalda annars staðar á landinu, jafnvel frá konungstímabilinu millum 1919-1044. Margir þeirra eru þó án ártala, einungis með skráðu númeri. Hafa ber a.m.k. tvennt í huga. Annars vegar að Landmælingar Íslands urðu til sem sjálfstæð stofnun árið 1956 og hins vegar að á skjöldum stofnunarinnar er skjaldarmerki Íslands frá 1944.

Skjaldarmerki

Kóróna í skjaldarmerki Íslands, hinu eldra af landvættaskjaldarmerkjunum og tók við af fálkamerkinu og þar áður því með útflatta þorskinum. Merkið var í gildi 1919-1944, þegar Ísland var enn í konungssambandi við Dani.

Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins, þ.e. það skjaldarmerki sem vér þekkjum í dag.
Þessir kopaskildir eru vandlega boltaðir, stundum með einu og jafnvel með þremur hnoðum hver og hafa því flestir staðist mjög svo veðraða tímans tönn. Fáir hafa verið fjarlægðir með handafli, a.m.k. hingað til.

Sennilega hefur verið talin ríkari ástæða til að merkja og/eða viðhalda mikilvægum fyrrum mælipunktunum bæði fyrir og á fyrstu árum stofnunarinnar, ekki síst í hinu sögulega samhengi landmælinga í landinu, þegar einungis var stuðst við þrívíddamælingar en er síðar varð með tilkomu nútímalegri mæliaðferða þar sem hæðir og lægðir réðu meiru. Enda má segja að upp frá því hafi föstum hnoðpunktum og skrúfum fjölgað til mikilla muna á landinu. Við flesta þá punkta er stuðst við GPS-mælingarnar enn þann dag í dag.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands.

Eftirfarandi samantekt er að hluta unnin upp úr “Atriði úr sögu Landmælinga Íslands frá stofnun 1956 til ársins 2006” sem Svavar Berg skrifaði, án þess þó að minnst sé á fyrrnefnda kopaskildi eða „refsinguna“ þeim til handa:

Mælingar og kortagerð Dana á Íslandi
Árið 1956 urðu Landmælingar Íslands til sem sjálfstæð stofnun. Sögu þeirra verkefna sem stofnunin tók við árið 1956 má þó rekja aftur til aldamótanna 1900 þegar landmælingadeild danska herforingjaráðsins (síðar Geodætisk Institut) hóf landmælingar og kortagerð hér á landi. Verkefnið stóð yfir í 27 sumur á árunum 1900 til 1940. Afraksturinn var 670 kortatitlar en af þeim voru 227 útgefnir m.a. Atlaskortin og Herforingjaráðskortin sem margir þekkja.

Landmælingar

Landmælingar- herforingjakort af Álftanesi frá 1904.

Í tengslum við mælingarnar urðu til mikill fjöldi frumgagna sem geymdar voru hjá Geodætisk Institut s.s. teikningar, ljósmyndir og mælingabækur.
Ágúst Böðvarsson (seinna forstjóri LMÍ) lagði áherslu á að Íslendingar fengju þessi gögn til varðveislu og eignar. Samningar milli Landmælinga Íslands og Geodætisk Intstitut leiddu til þess að frumgögnin voru send til Íslands, í áföngum, sú síðasta árið 1985.
Loftmyndataka af Íslandi Danir höfðu einnig tekið ljósmyndir úr lofti af Íslandi árin 1937 og 1938 til að auðvelda gerð korta af hálendinu, en fyrirkomulag þeirrar myndatöku var annars eðlis en þeirrar sem almennt er notuð til kortagerðar (skámyndir).
Árið 1951 hófst nýr kafli í kortagerð á Íslandi; taka og gerð loftmynda til kortagerðar. Þar með hófst hjá Landmælingum Íslands tímabil þessarar sérhæfðu myndatöku sem stóð til ársins 2000 en alls voru teknar um 140.000 loftmyndir af landinu.

Landmælingar NATO og nýtt þríhyrningamælinet Hjörsey 1955

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Árið 1955 hófust umfangsmiklar landmælingar á Íslandi að frumkvæði Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO), en þær voru liður í stærra mælingaverkefni landa við Norður-Atlantshafi. Mælingunum lauk sumarið 1956 og hafði Kortagerðarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins, AMS, yfirumsjón verksins á Íslandi en samstarfsaðilar voru Landmælingar Íslands og Geodætisk Institut.
Afurðirnar úr þessu verkefni voru meðal annars nýtt og aukið þríhyrningamælinet af öllu Íslandi sem kennt var við Hjörsey á Mýrum og flokkur staðfræðikorta af Íslandi í mælikvarða 1:50 000. Kortin voru gerð í samvinnu við AMS og fór vinnan fram bæði vestanhafs og hér heima. Samkvæmt yfirliti yfir kortin þekja um það bil 200 kortblöð allt landið.

Landmælingar Íslands í Reykjavík 1956-1998

Landmælingar

Landmælingar á frumstigi.

Landmælingar Íslands voru stofnaðar árið 1956 og tóku við verkefnum á sviði landmælinga, loftmyndatöku og gerð korta af Íslandi. Fyrsti forstjóri stofnunarinnar var Geir G. Zoëga og tilheyrði stofnunin fyrst samgönguráðuneytinu.
Landmælingar hér á landi höfðu fram til þessa verið hluti Vegagerðar ríkisins en við stofnun Landmælinga Íslands var starfsemin flutt í hús Vitamálastofnunarinnar að Seljavegi 32 í Reykjavík. Árið 1961 flutti stofnunin í stærra húsnæði að Laugavegi 178 en árið 1959 hafði Ágúst Böðvarsson tekið við sem forstjóri stofnunarinnar.

Fara á alla punkta

Landmælingar

Landmælingar á nútíma við göml stöplana.

Þrátt fyrir alla tækni þurfa landmælingamenn eftir sem áður að fara um allt land og mæla eins og gert hefur verið frá því mælingar hófust hér á landi fyrir rúmri öld. „Við förum á alla punkta og setjum upp tækin. Við þurfum minna að klöngrast upp á fjöll en áður eftir að GPS-tæknin kom til. Punktarnir okkar eru ýmist steyptir stöplar eða koparboltar steyptir niður í klöpp. Við stillum
loftneti yfir þessa punkta, mælum hæðina og tækið er láta ganga. GPS-tæknin er mesta byltingin sem orðið hefur í þessum mælingum en síðan eru ýmsar aðrar breytingar eins og fjölgun gervitungla. Annars er mikil þróun í þessu um allan heim.

Landmælingar

Landmælingastöpull á Krýsuvíkur-Mælifelli.

Maður sér þetta kannski helst á því hve allar upplýsingar eru meira notaðar en áður eftir að GPS-tæknin kom í símana. Þeir eiga eftir að verða enn nákvæmari en núna er skekkjan í þeim um fimm metrar. Staðsetningatæki skipta gríðarlegu máli í nútíma samfélagi, ekki bara á landi heldur líka til sjós og í lofti.“ Guðmundur segir 3-4 menn frá Landmælingum Íslands verða við mælingarnar í sumar. „Það er komin mikil reynsla á GPS-mælingar hér. Tækin eru orðin betri og með endingarbetri rafhlöðum, þannig að nú getum við keyrt þetta á mun færri mönnum en við gerðum áður.“

Gerðir fastmerkja

Landmælingar

Landmælingar – bolti á Sýslusteini sunnan Lyklafells.

Algengustugerðir fastmerkja í landshæðarnetinu eru: bolti, láréttur bolti,bolti í steini og bolti í röri. Þegar talað er um bolta er átt við fastmerki sem steypt er niður á stað sem talist getur varanlegur s.s. klöpp, brúarundirstöður o.fl. Þegar því er ekki komið við er reynt að finna mannvirki þar sem hægt er að setja láréttann bolta. Á landsvæðum þar sem lítið er um klappir og byggingar hefur reynst nauðsynlegt að setja bolta í jarðfasta steina eða reka niður galvaniserað rör og steypa bolta í það. Möguleiki er á að hæð þessara fastmerkja hafi breyst frá því að þeir voru mældir t.d. vegna frostlyftingar.

Landmælingar

Landmælingar – mælistöpull.

Mælt er með því að notast sé við fastmerki á varanlegum stað sé þess kostur. Sé annað valið ber að kanna gaumgæfilega hvort ætla megi að fastmerkið hafi haggast síðan það var mælt. Á nokkrum stöðum var notast við skrúfur sem fast merki. Hæð þessara fastmerkja miðast alltaf við hæsta punkt skrúfunnar og ber að haga mælingu eftir því. Þá hafa verið mældir þeir stöplar í grunnstöðvanetinu sem mögulegt var að tengja við hæðarkerfið með ásættanlegum tilkostnaði og fyrirhöfn.“

LandmælingarÍ „Lögum um landmælingar og grunnkortagerð“ frá árinu 2006 segir í 2.gr.: „Meðal hugtaka sem hér eru skilgreind er hugtakið hæðarkerfi. Er hugtakið skilgreint sem net eða kerfi fastra hæðarmælipunkta, t.d. málmbolta, á yfirborði jarðar. Venjulega eru þessir málmboltar úr kopar sem steyptir eru í klappir eða stöplar með koparboltum„.

Heimildir:
-https://www-gamli.lmi.is/wp-content/uploads/2016/11/saga_lmi_56_16-1.pdf
-Lög um landmælingar og grunnkortagerð, 2006.
-Lög um landmælingar og kortagerð 1997 nr. 95 26. maí.
-Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi. Upphaf Landmælinga Íslands, Ágúst Böðvarsson, Landmælingar Íslands 1996.
– Atriði úr sögu Landmælinga Íslands frá stofnun 1956 til ársins 2006, Svavar Berg.

Landmælingar

Landmælingar – koparskjöldur í Hvassahrauni (1959).

 

Kaðalhellir

Gengið var með Þórarni Björnsyni, hellamanni, í Kaðalhelli norðvestan Kaldársels, og í Hreiðrið þar skammt frá. Þórarinn lék sér í Kaðalhelli ásamt ungum mönnum í Kaldárseli, en síðar fann hann Hreiðrið, sem mun vera einstakt í sinni röð. Hann var eini maðurinn, sem fram að þessu hafði litið innvolsið augum.

Kaðalhellir

Kaðalhellir.

Kaðalhellir er í háum hraunkanti. Hann er í rauninni hluti af Gjánum svonefndu norðnorðvestan Kaldársels. Í þeim eru hrauntraðir og ná þær út fyrir Gjárnar. Kaðalhellir er að hluta til opin og lokuð hraunrás og að hluta til sprunga í hraunjarðrinum. Hann er tvískiptur. Efri hlutinn er á tveimur hæðum. Til að komast upp í efri hluta rásarinnar þarf aðstoð kaðals. Hún nær spölkorn inn undir hraunið, en mesta rýmið er fremst. Neðri hluti rásarinnar er greinilega safnþró frá efri hlutanum.
Skammt vestan við rásina er hægt að fara niður um sprungu. Þá er komið niður í helli, sem með jökulgólfi allan ársins hring. Vatnsdropar úr loftinu hafa holað klakann og mynda sérstakt mynstur. Umhverfið er mjög myndrænt.

Hreiðrið

Hreiðrið – op.

Nokkru vestar er Hreiðrið. Opið er á berangri og því mjög erfitt að finna það. Fara þarf niður um loftið og liggur þá rás til norðurs og suðurs. Af ummmerkjum að dæma undir opinu hafði ekki verið farið þarna niður um alllangan tíma. Rásin til norðurs lokast fljótlega, en hægt er að fylgja rásinni til suðurs með því að skríða á fjórum fótum. Botninn er mjög grófur. Eftir u.þ.b. 30 metra skrið er komið að svæði þar sem sjá má víða inn undir hraunið. Á þessu svæði eru falleg og misstór hraunegg, dökkbrún að lit. Um er að ræða gasbólur, sem hafa storknað, en ekki náð að sprynga. Eggin eru misstór, allt frá títuprjónshausum upp í hænueggsstærð. Svo virðist sem þetta jarðfræðifyrirbæri sé einungis á litlu svæði. Fara þarf mjög varlega þarna um til að valda ekki skemmdum. Þegar komið var inn í Hreiðrið var auðvelt að skilja hvers vegna ástæða hefur verið til að halda staðnum leyndum.
Frábært veður – reynar kemur veður ekkert við sögu inni í hellum – en hvað um það. Fljótlega verður farið á ný í Hreiðrið og það myndað, ásamt Kaðalhelli.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Borgarkotsstekkur

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ fjallar höfundurinn, Sesselja Guðmundsdóttir, um stekkina ofan Vatnsleysu, Flekkuvíkur, Borgarkots, Bakka og Kálfatjarnar.

Miðmundarstekkur

Mundastekkur.

Um Mundastekk segir: „Tvívörðuhóll heitir hóll rétt niður og vestur af Arnarvörðu fast við Strandarveginn og vestan undir honum er Mundastekkur sem líklega var frá Flekkuvík. Á hól fast upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur af einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin þarna kölluð en Tvívörður voru neðan Strandarvegar.“

Um Borgarkotsstekk segir: “ Neðan við Strandarveg, innst á há Hæðinni, er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson (f. 1838) útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn rifu vörðuna eins og margar aðrar á þessum slóðum en hún var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og Magnúsi syni hans. Á „hafnfirskan“ stein í vörðunni er klappað nafnið Stefánsvarða.

Stefánsvarða

Stefánsvarða.

Varðan stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegur og er hún flóruð á lcöflum eins og Hestaslóðin. Þessi gata lá neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu að Kálfatjörn og hefur líldega frekar verið notuð af heimafólki en hinum almenna vegfaranda. Hólarnir tveir neðan við vörðuna heita Stefánsvörðuhólar og norðan undir þeim nyrðri er Borgarkotsstekkur.“

Staðarstekkur

Staðarstekkur – teikning.

Gísli Sigurðsson segir í örnefnalýsingu sinni fyrir Kálfatjörn og Litlabæ frá Bakkastekk: „Upp frá Nausthól er Vatnsstæðið, áður nefnt, en þar ofar eru svo kallaðar Kálfatjarnarmógrafir rétt ofan við Langahrygg. Þar enn ofar er Bakkastekkur og sjást þar rústir. Þá er hér einnig að finna Borgarkotsstekk suður og upp frá Borgarkoti.“

Sesselja segir: „Norður af Staðarborg og vestur af Þorsteinsskála er Staðarstekkur.“ Um er að ræða óljósar tóftir í lágum klofnum klapparhól. „Nú förum við aftur niður á Strandarveg og fyrir neðan Hæðina, innan og austan við afleggjarann að Bakka og Litlabæ, (u.þ.b. 200 m) er Heimristekkur vestan undir Heimristekkhól. A hólnum er há þúfa en hóllinn er rétt fyrir ofan Almenningsveginn. Heimari = heimri þýðir það sem er nær bæ af tvennu og í þessu tilviki var Heimristekkur nær bæ en Staðarstekkur.“

Bakkastekkur

Bakkastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ segir um Bakkastekk: „Beint upp af Nausthólsvík miðja vegu milli Langahryggjar og þjóðvegarins gamla, eru stórir klapparhólar. Þar milli hóla, í graslaut, er Bakkastekkur,“ segir í örnefnaskrá. Bakkastekkur er um 590 m austur af Bakka, um 720 m norðaustur af Gamla-Bakka og um 850 m norðaustan við Kálfatjarnarbæ.
Stekkurinn er í grasi gróinni laut milli hraunhóla og er lautin opin til norðvesturs. Úr henni sést að Gamla-Bakka og Litlabæ. Smáþýft er í lautinni.
Stekkurinn er ógreinilegur í norðurjaðri lautarinnar í dálitlum halla mót suðri. Stekkurinn er grjóthlaðinn, um 5x  m að stærð og snýr NNV-SSA. Í suðurendanum er lítið hólf, um 1 x 2 m að innanmáli, snýr VSV-ANA. Í norðurendanum er óljós grjótþúst, um 1,5×1,5 m að stærð.“

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur.

Um Borgarkotsstekk segir: „Tveir hólar skammt fyrir neðan vörðuna [Stefánsvörðu], annar til vesturs hinn til norðurs, kallast Stefánsvörðuhólar. Norðan undir þeim nyrðri (hann kallast einnig Stekkhóll) er Borgarkotsstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er dálítinn spöl norðvestan við Stekkhól, um 220 m norður af Stefánsvörðu, um 1 km suðaustur frá Borgarkoti 027 og um 1,7 km norðaustan við Kálfatjörn. Stekkurinn er í dálítilli grasi vaxinni laut. Aflíðandi brekka er upp úr lautinni til suðurs en grónir hraunhólar mynda kraga í kringum lautina alla. Þó er op á honum til norðausturs. Stekkurinn er grjóthlaðinn, tvískiptur og snýr norður-suður. Tóftin er um 6×3 m og mesta hleðsluhæð er 0.5-10 cmetrar. Tóftin er allvel gróin, aðallega grasi og elftingu en víða sést í grjót.“

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Um Heimristekk segir: „Til suðurs frá Stefánsvörðu og nokkuð frá veginum er allhár hóll og brattur til norðurs. Hann heitir Grjóthóll.Til suðvesturs frá Grjóthól og nær veginum er Heimristekkur, vestan undir Heimri-Stekkhól. Heimristekkur er um 200 m til austurs frá steinkofa þeim, sem stendur við veginn heim að Bakka,“ segir í örnefnaskrá. Heimristekkur er sunnan undir sprungnum hraunhelluhól, um 780 m norðvestur af Staðarstekk og um 930 m austur af Kálfatjörn.
Um 200 m sunnan við aðalveginn er hár hóll með hundaþúfu efst og suðsuðaustan við hann er ívið minni hóll, krosssprunginn hraunhelluhóll. Stekkurinn er sunnan undir honum á grasi grónum bletti í mosavöxnu hrauninu.
Tóftin er mjög gróin en á stöku stað sést í grjóthleðslur. Tóftin er tvískipt, um 7 x 5 m að stærð og snýr austur-vestur. Mesta hleðsluhæð er um 0,7 m. Austara hólfið er um 1×1 m að innanmáli og það vestara er um 2 x 3 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á tóftinni í suðvesturhorni og í gengt er í minna hólfið um stuttan gang úr stærra hólfinu.“

Staðarstekkur

Staðarstekkur.

Um Staðarstekk segir: „Spottakorn upp af Heimristekk er Staðarstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Staðarstekkur er um 320 m norður af Staðarborg 049 og um 1,7 km suðaustur af Kálfatjörn.
Stekkurinn er í stórri sprungu nyrst á hraunhelluhól. Einnig er sprunga á hólnum vestanverðum en hún er grynnri. Hóllinn er allstór en lágur og flatur. Allt í kringum hann er grasi vaxið en jarðvegseyðing víða komin nærri honum. Heildarstærð stekkjarins er um 22×3 m. Sprungan sem stekkurinn er í liggur austur-vestur og er víðast um 1,5 m á breidd og hafa öll hólfin þá breidd nema hólf D. Suðurveggur sprungunnar er hærri en sá nyrðri og beinni. Hæstur er hann um 1,8 m. Norðurveggurinn hallar út til norðurs og er hæstur um 1,4 m.  Almennt fer lítið fyrir hleðslum sem eru þvert á sprunguna því hún er mjög grasi vaxin og hleðslur eru flestar lágar. Sumstaðar sést í grjót.“

 

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Um Flekkuvíkurstekk segir: „Upp af Stekkjarvíkinni er Stekkjarmóinn, velgróinn og allstór um sig. Við austurjaðar hans, nokkurn spöl frá sjó, er Flekkuvíkurstekkur sunnan undir lágum hól, Stekkhólnum,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er um 450 m norðvestur af bæ.
Stekkurinn er sunnan undir lágum hraunhól í grónu hrauni en mikill holmói er nálægt honum til norðvesturs. Vestan og norðvestan við stekkinn er allgott beitarhólf, flatlent og grösugt.
Stekkurinn er tvískipt tóft, grjóthlaðin og vel gróin. Hún er um 3 x 5 m að stærð og snýr norður-suður. Hleðslur sjást í suðurenda, mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Hólf I) er í norðurenda, það er um 1,5 x 0,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur, ógreinilegt. Op er á því til austurs.“

Vatnsleysustekkur

Flekkuvíkurstekkur II.

Um Flekkuvíkursel II segir: „Á heimasíðu Ferli[r]s segir: „Annar stekkur, einnig tvískiptur er skammt sunnan við suðvesturhorn túngarðsins. Hann er hlaðinn úr stórum steinum.“ Steinhlaðin tóft er skammt utan túns, um 10 m vestan við núverandi veg heim að Flekkuvík og um 180 m norðaustur af bænum.
Tóftin er í grasgefnum móa þar sem eru lágir klapparhólar. Tóftin er grjóthlaðin og skiptist í þrjú hólf. Hún er um 10×5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Tóftin er hlaðin sunnan í lágan klapparhól og er lágur bergveggur notaður í norðausturvegg. Hlaðið er ofan á hann að hluta.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Tóftin er hlaðin úr stóru hraungrýti en hleðslur hrundar að miklu leyti. Hólf A) er stærsta hólfið, það er um 4×3 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Innan við það til vesturs er lítið hólf B) , um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Í suðausturenda tóftarinnar er svo hólf C) sem er að innanmáli um 3, 5 m í þvermál. Einföld hleðsla er í veggjum þess og hefur sennilega verið aðhald í því framan við tóftina. Op er á þessu hólfi til norðausturs. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,4 m. Ekki sjást op inn í hólf A eða B. Hlutverk tóftar er ekki þekkt með vissu en höfundur texta á heimasíðu Ferli[r]s telur að um stekk sé að ræða. Ef til vill er hér um útihús eða kvíar að ræða.“
Ef um útihús hafi verið að ræða á nefndum stað mætti nefndi „höfundur“ þess vegna heita haughús. Þarna eru engar minjar um útihús, hvorki á stanum né í umhverfinu. Ef ekki hafi verið um stekk að ræða þarna hefur þar verið tvískipt gerði, jafnvel rúniningsrétt. Af umhverfinu að dæma virðist hún ekki hafa verið varanlega notuð.

Mundastekkur

Mundastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Um Mundastekk segir: „[…] og vestan undir honum [Strandaveginum] er Mundastekkur sem líklega var frá Flekkuvík,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Stekkurinn er fast vestan undir Tvívörðuhæð og um 1,1 km í suðvestur frá bæ.
Stekkurinn er á stéttum grasbala í nokkuð grónu hrauni en næst stekknum er flagmói. Skammt sunnan við stekkinn er reiðstígur.
Stekkurinn er grjóthlaðinn en vel gróinn og hleðslur signar. Hann er 7×6 m að stærð og snýr austur-vestur.

Mundastekkur

Mundastekkur.

Stekkurinn skiptist í tvö hólf en veggurinn sem skilur hólfin að sést mjög illa og er afar vel gróinn. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega hefur verið op inn í tóftina í norðvesturhorni hennar en það er mjög óskýrt. Hólfin eru samsíða í sömu stefnu og tóftin. Syðra hólfið I) er um 1×3 m að innanmáli og nyrðra hólfið II) er um 4,5×2 m að innanmáli. Í austurenda þess virðist vera lítið hólf sem er um 1×0,5 m að innanmáli og snýr norður-suður en það getur verið að það sé aðeins hrun úr veggjum.“

Stekkir eru hluti búsetuminja fyrri tíðar. Þá ber að varðveita, líkt nauðsynlegt er að varðveita söguna.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefnalýsing fyrir Kálfatjörn, Litlibær – Gísli Sigurðsson.

Heimristekkur

Heimristekkur.

Gvendarborg

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir tók saman grein, „Lesið í landið – Vinisburður búsetuminja„, sem gefin var út í Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga árið 2010. Hér má sjá hluta efnisins:

Formáli

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir.

Uppflettirit þetta er fyrir þá sem hafa áhuga á að leita upplýsinga um gamla tíma og horfna búskaparhætti á ferð um landið. Falleg náttúra virkar eins og segull á sálina. Þangað þyrpist fólk til að njóta og nærast. Með vaxandi áhuga á ferðalögum innanlands hafa augu okkar opnast fyrir því að fleira er í umhverfi okkar sem skiptir máli en náttúran sjálf. Ef grannt er skoðað má finna og sjá menningarminjar sem landið geymir enn þar sem menn hafa ekki umbylt jörðu og kaffært með húsum. Það er spennandi viðbót á ferð um landið að geta lesið í gamlar tóftir og spáð í hvað var þar umleikis fyrir hundrað árum og jafnvel fyrr. Sagan talar til okkar frá gömlum tóftarbrotum og örnefni minna á þjóðhætti. Mörgum þykir lítið augnayndi í veggjabrotum og hálfhrundum húsum, en ef við þekkjum hlutverk þeirra og horfum á þau út frá handverkinu sem í þeim felst blasa við okkur heimildir sem geta sannarlega kryddað tilveruna.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Með þessu smáriti er gerð tilraun til að skapa fólki, sem er á faraldsfæti möguleika til að lesa í landið og sjá við hverju má búast, og hvar og hvers vegna. Því þrátt fyrir alla náttúrfegurðina sem við njótum á ferð um landið okkar er það mikils virði fyrir marga að geta bætt inn í myndina væntingum um að sjá meira en augað nemur í fljótu bragði og átta sig á hvernig forfeður okkar nýttu sér þetta sama umhverfi og settu mark sitt á það. Fáir fara um lönd án leiðarvísa eða landakorta þar sem sjá má bæjarnöfn og örnefni. Með þetta litla kver í viðbót við landakortið er von okkar sú að ferðin verði enn meira spennandi. „Landslagið yrði lítils virði ef það héti ekki neitt“, sagði skáldið og til viðbótar má bæta við … og hvergi sæjust spor genginna kynslóða.

Búsetuminjar

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – uppdráttur ÓSÁ.

Búsetuminjum má gróflega skipta í tvo flokka, minjar í túni og minjar utan túna. Stærsti minjaflokkurinn teljast útihús hverskonar. Innan túns má nefna fjós, fjárhús, hrútakofa, hesthús, hlöðu, lambhús, smiðju og skemmu. Utan túns eru beitarhús, stekkur, heytóft, rétt, smalakofi, sel og byrgi ýmiskonar og fleira. Aldur útihúsa er sjaldan þekktur. Oft voru þau byggð öldum saman á sama stað. Leifar eldri mannvirkja kunna því að leynast undir tóftum þeirra yngri.
Lega og útlit minja gefur oft til kynna hvaða minjar um er að ræða þó svo engar heimildir séu til um notkun þeirra. Í mörgum tilvikum er þó erfitt að ákvarða um notkun mannvirkisins.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint kirkja og bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Bæjarhólar urðu til við það að sífellt var bætt við, endurbyggt og húsum breytt á sama stað. Við það hækkuðu hólarnir og breikkuðu eftir því hve lengi var búið á sama stað og hve húsin voru mörg og stór. Bæjarhólar eru gríðarlega mikilvægar heimildir um mannlíf fyrr á öldum því þeir varðveita upplýsingar um húsakost og lifnaðarhætti og þar eru mestar líkur á að verðmætir gripir finnist. Núverandi hús eru oft byggð ofan á eða inn í gömlu bæjarhólana, en oft má líka sjá þá sem grænar stórar þústir og hóla í landslaginu.

Minjar innan túns og heimalands

Elliðakot

Elliðakot – beðasléttur.

Minjar innan túns eru oft horfnar vegna jarðabóta eða annarra framkvæmda nútímans. Þó má enn finna merki um búsetuhætti á gömlum túnum, einkum þar sem bæir hafa farið í eyði um og fyrir vélvæðingu.

Beðasléttur – Leifar túnsléttunar frá um 1880-1925. Minjar um þúfnasléttun, jarðrækt sem unnin var í höndunum og hafa yfirleitt verið útmáðar. Helst sjáanlegar á eyðibýlum sem fóru í eyði fyrir vélvæðingu. Beðasléttur eru fremur mjóir, lítið eitt kýfðir teigar með rásum (ræsum) á milli þannig að vatn rennur af þeim.

Baðlaugar – Hér og hvar á landinu má enn finna náttúrulegar laugar þar sem fólk tók sér bað sér til heilsubótar. Nokkrar eru upphlaðnar. Á nokkrum stöðum voru laugarnar einnig notaðar til þvotta.

Stafnes

Stafnesbrunnur.

Brunnar – Brunnar og vatnsból voru mikilvæg enda var greiður aðgangur að vatni grunnforsenda þess hvar bæjum var valinn staður.
Brunnar voru oft grjóthlaðnir, gjarnan hringlaga en stundum ferkantaðir og gátu verið nokkurra metra djúpir. Vatnsból s.s. við uppsprettulindir voru einnig gerð aðgengileg með hleðslum, ef þurfti.

Fjárhús/kvikfénaðarhús/búpeningshús: Fjárhústóftir eru margvíslegar og stærð þeirra getur verið mismunandi og oft má greina garða eftir miðri tóftinni eða stalla við veggi.

Fjós – Fjóstóftir eru oft fast við bæinn sjálfan eða nálægt honum. Einkenni þeirra er flórinn, básarnir og jatan, við annan hvor vegginn.

GeymslaGeymsla – Skemma fyrir verkfæri, ull eða matvæli.

Heimreið – Síðasti spott afleggjarans heim á bæjarhlaðið. Oft upphlaðin meðfram götum í gegn um túnið og heim á hlað.

Hestasteinn – Var yfirleitt staðsettur á bæjarhlaði eða á stöðli. Til að binda á ferðahesta meðan staldrað var við eða á meðan menn bjuggu sig til ferðar.

Hesthús – Hús með stalli við annan langvegg. Ýmist heima við bæi, yst í túni eða við túngarð.

Heyhlaða – Hlöður voru yfirleitt áfastar við búpeningshúsin en þær gátu líka verið frístandandi.

HeykumlHeytóft/heykuml – Hey var hlaðið upp í fúlgur og tyrft yfir þannig að skepnur komust ekki að því. Hyllst var til að velja þurran og góð an stað þar sem vatn rann frá heyjum og hlaðinn garðstubbur umhverfis heyið. Sami staður var notaður ár eftir ár og smám saman myndaðist tóft sem oft eru með ógreinilegum „veggbrotum“.

Hjallur – Geymsla eða skúrbygging úr timbri, þiljuð til hálfs. Notuð til að þurrka og geyma í mat, s.s. þurrkað kjöt, skreið, hákarl og fleira.

Hlaða – Heygeymsla fyrir hey, hlaðið úr torfi og grjóti með þaki. Yfirleitt áföst við búpeningshús, en þekkjast stakar.

Hrútakofi

Hrútakofi.

Hrútakofar – Smærri torf- og grjóthlaðnir kofar, oft yst í túni, með jötu við langvegg.

Kálgarður – Nærri húsum eða utanvið túngarð þar sem sólar naut og var vel varinn fyrir búfénaði. Oftast með hlöðnum torf- eða grjótgörðum.

Kofar – Torf- og grjóthlaðnir kofar til geymslu búfjár, hænsna, eða annarra eigna.

Kvíar – Kvíar voru oftast í túni eða rétt utan þess. Þar voru kvíaær mjólkaðar. Kvíar voru oft hlaðnar úr torfi og grjóti, aflangar, fremur þröng rétt. Breiddin var tvær ærlengdir með gangvegi á milli. Bændur voru einnig með kvíar úr timbri, færikvíar, sem þeir gátu fært til eftir þörfum. Örnefnir kvíaból vísar til þess hvar kvíarnar stóðu.

KvíarLambhús – Smærri kofar eða hús oft sambyggð öðrum búpeningshúsum eða mannabústöðum.

Myllur – Kornmyllur knúðar vatni voru við marga bæi á 19. öld og fram á þá 20. Oft hafa myllusteinarnir einir, sem möluðu kornið, varðveist eftir að myllurnar sjálfar hrundu. Mylluörnefni á mörgum bæjum vísa til þess hvar myllurnar voru. Myllutóftir eru enn finnan legar við ár eða læki. Þær eru litlar, grjót- og torfhlaðnar og dyr eða op er á tóftinni þar sem vatnið var leitt inn og út. Grafnar rennur eru úr læk ofan við að tóftina sem vatnsmagninu var stýrt um.

Ræsi – Stungin rás fyrir vatn. Oft var brúað yfir og þá var einnig talað um ræsi.

Skemma

Skemma.

Skemmur – Geymsla fyrir verkfæri, áhöld, matvæli, ull, tjöru, of fleira sem búið þurfti. Yfirleitt hlaðin upp af torfi og grjóti, með framþili úr timbri.

Skurðir – Grafnar vatnsrásir til að ræsa fram vatn og þurrka upp landið. Verulegur munur eru á handgröfnum og vélgröfnum skurðum, sem þekkist best á stærð þeirra.

Smiðjur – Smiðjur voru oft við bæjarstæðið sjálft, en einnig eru dæmi þess að þær hafi staðið í túni dálítið frá bænum, vegna eldhættu. Oftast frekar smáar tóftir.

Túngarður – Hlaðinn garðveggur úr torfi og/eða grjóti, til að verja tún.

Minjar utan túns

Garðahverfi

Garðatúngarður.

Sá flokkur minja sem jafnan hefur varðveist best eru hverskyns minjar utan túns. Þær liggja gjarnan á stöðum þar sem nútíma jarðrækt hefur aldrei verið beitt.

Áveitu- og stíflugarðar – Víða á engjum, við ár og vötn, eru enn gamlir áveitu- eða stíflugarðar, frá þeim tíma er menn nýttu áburð vorflóðanna. Þegar flæddi hlóðu menn garða fyrir útfallið þannig að leðjan úr vatninu, sem var hinn besti áburður, settist til og varð eftir þegar vatnið gufaði upp eða sjatnaði.

Beitarhús/hagahús – Beitarhús voru oft byggð upp þar sem góður hagi var eða á gömlum selstæðum, allt upp í nokkurra kílómetra fjarlægð frá bæ. Þar var fé beitt yfir vetrartímann til að hlífa túnum og heimahögum. Beitarhúsatóftir samanstanda af myndarlegri fjárhústóft eða tóftum, og yfirleitt er hlaða áföst fjárhúsunum.

Nes

Fjárborg við Nes í Selvogi.

Borgir – Hrossaborgir, sauðfjárborgir. Hringlaga, yfirleitt hlaðnar úr grjóti, þykkir veggir, með dyrum á. Lágum fyrir sauðfé, hærri fyrir hross.

Brunnur – Þar sem ekki var hægt að ganga að uppsprettu eða rennandi læk með hreinu vatni grófu menn brunna nálægt bæjum sínum. Oft um 5-7 m. djúpir og grjóthlaðnir að innan. Með vindu yfir og oft svokölluðu brunnhúsi sem byggt var yfir brunnana. Víða má sjá merki hringlaga jarðfalls þar sem brunnurinn var, en sjaldnast er nokkuð eftir af þeim þar sem menn hafa sléttað tún umhverfis bæina og fyllt upp í brunnana.

Brú – Brúað var yfir ár með trjám, sem lögð voru á örugga kletta eða aðra undirstöðu, stundum hlaðna brúarstöpla. Og eru það oft einu sjáanlegu merki brúargerðar yfir ár og læki. Önnur brúargerð var þegar hlaðin var jarðvegsbrú úr gjóti og/eða torfi yfir mýrlendi. Einnig Jarðbrú.

Katlahraun

Fjárbyrgi í Katlahrauni.

Byrgi – Fjárbyrgi, lambabyrgi. Hlaðið skjól fyrir búfé líkt og fjárborgirnar. Einnig eru sumstaðar skotbyrgi, til tófu- og refaveiða á heiðum og upp il fjalla, en þau eru miklu minni en fyrir búfénað.

Búð – Tjaldbúð, þingbúð. Stundum er hægt að greina lága veggi úr torfi og/eða grjóti umhverfis „búðina“.

Dómhringir – Hugsanlega hringlaga garðaleifar, ef sjáanlegar. Fremur ólíklegt er að sjá dómhringi í minjaumhverfinu.

Dysjar/kuml – Heiðnir fornmenn voru dysjaðir í kumlum sem hægt er að sjá hér og hvar þar sem jörð hefur beitt og er ósnert frá þjóðveldistíma. Dysjar/kuml má þekkja á því að oft er steinum raðað í sporöskjulaga.

Villingavatn

Villingavatn – fjárborg á Borgarholti.

Fjárborgir – Fjárborgir voru hringlaga, hlaðnar úr torfi eða grjóti. Fjárborgir voru algengar sunnan lands og austan, en fáséðari norðan og vestan. Hlaðnar nær sama í toppinn og dyr miðaðar við sauðfé, sem borgirnar voru fyrir, oft fjarri bæjum.

Garðlög – Margskonar garðlög er að finna umhverfis tún og utan þeirra. Bæjarstæði voru oftast afmörkuð með hlöðnum túngarði þá oftast úr grjóti og torfi. Garðar umhverfis beitarhús geta verið vísbendingar um að áður hafi verið þar býli. Vallargarðar eru garðar utan túna. Oft er erfitt að geta sér til um not þessara garða en líklega hafa þeir þjónað þeim tilgangi að aðgreina land í nytjaeiningar. Svokallaðir landamerkjagarðar voru einnig hlaðnir á mörkum landeigna.

Hellisheiði

Forn gata á Hellisheiði.

Gata/götur – Leið sem menn og skepnur hafa farið aftur og aftur þar til myndast hefur greinileg slóð, gata, götur sem haldast árum og árhundruðum saman.

Gerði – Afgirt svæði yfirleitt með hlöðnum garðveggjum umhverfis. Sennilega eru þau í flestum tilfellum leifar fornbýla.

Gildrur – Refagildrur, fiskigildrur. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti.

Gjafaréttir – Gjafagirðingar eru hringlaga opnar réttir eða aðhald fyrir sauðfé í útbeit. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti og torfi.

Heytóftir – Þar sem hey var slegið á engjum eða mýrum voru hlaðnir upp garðstubbar um svokallaðar heytóftir. Þar var heyinu safnað saman og það sett upp í heyfúlgu sem byrgð til geymslu fram á vetur þegar þurfti að fóðra búsmalann. Slíkar tóftir eru oftast ferkantaðar eða sporöskjulaga með engum dyrum. Að vanda eru tóftirnar nokkru hærri en umhverfið til að halda heyinu þurru og til að varna því að búsmali kæmist að því.

Heytóft

Heytóft.

Heyvinnsla – Stundum má sjá minjar um fyrstu tilraunir til túnsléttu og kallast það beðasléttur. Frá aldamótum og fram um 1930 var unnið að túnasléttun og framræslu á flestum bæjum. Tímabilið er í þessu sambandi oft nefnt þaksléttutími. Fyrsta áratuginn voru notuð handverkfæri. Sléttað var í löngum ræmum eða beðum sem síðan settu svip á túnið. Sléttaðar voru tóftir næst bæjum og jafnað úr gömlum húsum sem staðið höfðu dreifð innan túns.

Hrossaborgir – Svipaðar og fjárborgirnar, með hestgengum dyrum. Af sama tagi voru skjólgarðar sem hlaðnir voru fyrir stóðhross á útigangi og svokallaðir krossgarðar, sem gegndu sama hlutverki og voru hlaðnir í kross.

Kartöflugarður/jurtagarður – Yfirleitt voru kál- og kartöflugarðar upp við bæinn eða utan túns, upp við túngarðinn, þannig að hann nýttist sem ein hlið garðsins. Hyllst var til að hafa jurtagarða á móti suðri. Garðveggir voru hlaðnir úr torfi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – kolagröf.

Kolagröf – Hér og hvar á heiðum og innst í dölum, oft á afréttarsvæðum, finnast grunnar, gryfjur eða grafir, þar sem gert var til kola fyrr á tíð. Þá var safnað hrísi, fjalldrapa og öðrum grófum runnagróðri. Greinarnar rifnar af og hafðar til eldiviðar en leggirnir högg nir í gryfjuna sem var fyllt. Þá var kveikt í gryfjunni og tyrft yfir þannig að lofttæming varð. Við þetta myndaðist mikill hiti og tréð þornaði. Brúnkol, eins og þetta efni var kallað, voru mun betri á smiðjuaflinn en t.d. mór.

Kláfar – Trékassar sem dregnir voru á strengjum yfir ár á milli gljúfurbarma. Merki þeirra eru hugsanlega vinduleifar eða hlaðnir stöplar.

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið.

Kolagrafir – Þar sem áður var kjarr- og skóglendi má finna grafir sem í eru koluð tré. Það eru leifar eldiviðar sem unnin var í gröfum þessum. Þ.e. runnar voru rifnir og tré höggvin ofan í gryfjuna, kveikt í og allt byrgt með torfi. Við hitunina koluðust trén og gáfu mun meiri hita þannig.

Lambabyrgi – Skjól, byrgi eða kró, ýmist náttúruleg eða upphlaðin, til að hýsa lömb í.

Laug – Heitavatns uppsprettur og volgrur voru notaðar til baða og fataþvotta. Stundum voru þær upphlaðnar að hluta eða öllu leyti.
Yfirleitt eru þær utan túna en ekki var það regla.

Leiði – Legstaður grafinna í kirkjugarði. Oft sem aflangar risaþúfur í gömlum kirkjugörðum sem ekki hafa verð sléttaðir.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Mógrafir – Má enn finna í mýrlendi þar sem er þykkur jarðvegur vel varðveittra lífrænna árþúsunda gamalla jurtaleifa. Yfirleitt eru þær fallnar saman og grunnar, uppgrónar og hættulausar.

Nátthagi – Torf og grjóthlaðnir yfirleitt hringlaga garðar, með hliði á. Nátthagar eru frá þeim tíma þegar fráfærur voru stundaðar í stórum stíl. Næturhólf til að bæla fráfærulömbin á stekktíðinni. Mylkum ám var haldið innan nátthagans á næturnar en sleppt út fyrir á daginn og haldið til haga. Lömbin voru lokuð inni í lítilli kró við stekkinn yfir nóttina, en sleppt með ánum á daginn. Innan nátthaganna, eða í næsta nágrenni var stekkur þar sem ærnar voru mjólkaðar.

Keflavík

Keflavík – rekafjara.

Rekavinnslustaður – Staður þar sem gott aðgengi var í rekafjöruna og öruggt fyrir sjávarágangi. Örnefni vísa til þessara staða, en þeir hafa vaflaust færst til eftir því hvernig/hvort strandlengjan breyttist.

Rétt – Réttir og gripheldi hverskonar finnast gjarna fjarri bæjum, oft mitt á milli bæja. Smærri réttir til heimabrúks voru þó nálægt bæjum. Lögréttir nefndust þær réttir sem byggðar voru upp sem skilaréttir fyrir heimfjallasmölun eða afaréttir. Oft hlaðnar úr grjóti, gjarnan upp við klettaveggi eða annað náttúrulegt aðhald. Réttir sem voru notaðar á einstakra bæja voru oftast smáar og einfaldar að gerð en stærri lögréttir svo sem til vorrúnings eða haustsmölunar voru stórar og oft margskiptar með dilkum.

Brunnastaðasel

Í Brunnastaðaseli.

Sel – Yfirleitt voru sel nokkurn veg frá bæjum, oftast við ár eða læki. Þangað var búsmali rekinn á sumrum og þar hafði fólk sumardvöl við að vinna mjólkurmat til vetrarins. Sel voru í notkun allt frá landnámstíð og fram undir 17-18. öld. Seltóftir eru jafnan leifar þriggja eða fleiri tófta, oft samfastar. Stundum voru þar líka krær eða gripheldi. Oft byggðust upp býli af þessum seljum og einnig beitarhús. Býli þessi tóku þá gjarnan nafn með viðskeytinu -sel. Erfitt getur verið að greina milli tófta selbúskapar eða smábýla þar sem búseta var í e.t.v. í skemmri tíma. Oft greina smábýlin á túngarðinum sem hefur verið hlaðinn umhverfis bæjarhúsin.

Skáli – Langhús, aflangt hús, íveruhús frá þjóðveldistíma.

Straumssel

Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.

Smalakofar – Fé var smalað í haga að morgni og heim til mjalta að kveldi. Smalar sátu yfir fénu á daginn og voru það oft börn eða unglingar sem gegndu því starfi. Algengt var að smalar hlæðu sér smákofa eða afdrep fyrir veðri og vindum meðan setið var yfir. Tóftir smalakofa eru oft mjög litlar og standa í brekkum eða á hólum þar sem víðsýnt var.

Stakkgarður – Torf- eða heystakkur, þar sem torfi eða heyi var stakkað upp til geymslu. Líkist heytóftum í landslaginu.

Stekkir – Á stekkjum var fært frá, lömb færð frá ánum til að hægt væri að nýta mjólkina til manneldis. Þeir liggja gjarnan utan túna nokkurn spöl frá bæjum, svokallaðan stekkjarveg. Stekkir eru oftast hlaðnir úr grjóti, tvískiptir í rétt og lambakró. Króin var lítil og þakið reft og tyrft. Þeir eru gjarnan hlaðnir upp við stóra náttúrusteina eða klettaveggi.

Stöðull – Þurr valllendisbali eða hæð við túngarð þar sem kýr, kvíaær tóku sér stöðu, biðu t.d. eftir mjöltum og brúkshestar stóðu milli þess sem þeir voru á beit eða í notkun. Búféð vandist þangað, kynslóð eftir kynslóð. Nú er þar fátt að sjá, en örnefnið hefur varðveist á stöku stað.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Sæluhús – Torf- og/eða grjóthlaðnir kofar við fjallvegi. Tóftir sæluhúsa má finna við gamla fjallvegi þar sem áður lá alfaraleið. Rústir þeirra líkjast helst tættum húsa, s.s. skemma, heima við bæi.

Túngarður – Garður var hlaðinn umhverfis tún til að verja þau gagnvart búpeningi yfir sprettutímann. Túngarðarnir voru yfirleitt hlaðnir úr torfi og grjóti.

Vað – Þar sem götur liggja að vötnum, ám og lækjum er yfirleitt vað yfir og grynnra eða sléttara í botninn en annars staðar. Eða þægilegra að komast að því.

Varða – Uppmjó áberandi grjóthleðsla við götur, einkum fjallvegi, sem hlaðin hefur verið til að varða slóðina þar sem best er að fara.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegurinn norðan Lágafells.

Vegir – Varðveist hafa gamlar kerruslóðir og upphlaðnir vegir.

Virki – Verndaður staður, hús eða garður umhverfis bústað með háum vegghleðslum eða rammbyggðum úr tré. Yfirleitt löngu horfnir.

Þvottaból – Staður þar sem þvottur var þveginn við rennandi vatn, læk eða ár. Yfirleitt ekkert lengur sjáanlegt en örnefni vísa á þessa staði. Sjá einnig laugar.

Ærgötur – Mjóar götur, eftir sauðfé, sem þræða fjöll og heiðar. Yfirleitt er óhætt að treysta því að þær séu færar fólki, hvort sem þær
eru um mýrlendi eða skriður.

Við sjóinn

Selatangar

Selatangar – sjóbúðartóft.

Oft varðveitast menjar um sjósókn illa vegna nálægðar við hafið og vegna framkvæmda við þéttbýlismyndun og hafnargerð. Verstöðvar eða útgerðarstaðir voru oft notaðir frá mörgum bæjum/byggðarlögum og því kann þar að finna nokkuð fjölbreyttar minjar.
Fiskbyrgi: Oftast grjóthlaðnar einfaldar byggingar, ferhyrndar eða hringlaga, þar sem þurrkaður og saltaður fiskur var geymdur.
Hafnir: Varðveisla hafna er oft vond enda brjóta brim mannanna verk niður þar sem sjór nær til þeirra. Náttúrulegar hafnir eru yfirleitt enn þær sömu, þótt þær hafi margar breyst á mörg hundruð árum, eins og höfnin á Kolkuósi. Hafnir þar sem menn hafa reynt að hlaða var fyrir báta, eru langoftast löngu horfnar.

Skreið

Skreiðarhjallur á 19. öld – Gaimard.

Hjallur – Oft finnast hleðslur undan hjöllum, fiskhjöllum og geymslum. Slíkar hleðslur eru oft ferköntuðu upphleðsla sem myndar sléttan flöt eða grunn. Einnig er oft einföld grjótröð sem markar af grunninn.

Hróf – Staður þar sem skip voru dregin á land og komið fyrir til geymslu. Um hverfis þau var hróflað upp veggjum sem yfirleitt voru ekki mjög vönduð og líkjast hrúgöldum.

Lending – Hér og hvar í fjörum má enn sjá lendingar, þ.e. einskonar „rennur“ upp í og í gegn um grýttar fjörur þar sem bátum var lent þegar komið var úr róðrum. Breiddin er u.þ.b. bátsbreidd.

Gálgahraun

Garðahraun – naust.

Naust – Tóftir í eða við fjörur þar sem bátar voru dregnir upp og geymdir. Naust geta verið á ýmsa vegu, allt frá tóftum sem reft hefur verið yfir til einfaldra vegghleðsla sem bátar hafa verið lagðir á milli. Oft eru naust bátslaga, þar sem bátum hefur verið smeygt inn. Sjóhús/verbúðir voru íverustaðir sjómanna á meðan á vertíð stóð. Stundum voru þessi hús á tveimur hæðum. Geymsla undir veiðarfæri og annan búnað á neðri hæðinni en svefnstaður manna á þeirri efri. Grunnur húsanna var grjóthlaðinn en efri hæðin úr timbri. Einnig voru verbúðir oft einföld grjót- og torfhlaðin hús.

Uppsátur – Þar lögðu menn upp bátum. Uppsátur eru oft samsíða grjóthleðslur sem liggja í sjó fram. Upphlaðnir sjógarðar eða bryggjur eru voru líka til, en eru sjaldgæfari.

VarnargarðurVarnargarður – Þar sem brim brýtur land eða þar sem flóð geta skemmt vatnsbakka hafa menn reynt að verja bakkana, með grjóti.

Bás – Afmarkað svæði, milli stoða, hver fyrir eina kú.

Beitarhús – Sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var. Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust varvar hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.

Beitarhús

Beitarhús ofan Knarrarness.

Brúarstöpull – Stöpull, stallur fyrir brúarendann.

Búpeningshús – Fjárhús, fjós, hesthús og önnur hús yfir búpening, húsdýr.

Dilkur – Sá hluti af rétt, þar sem sauðfé og annar búfénaður er dreginn inn í þegar fé var dregið í sundur á vor- og haustsmölun.

Dysjað/grafið – Dys, legstaður ókristins manns eða dýrs.

Flór – Langur lítið eitt niður grafinn skorningur, yfirleitt lagður steinhellum sem þægilegt var að hreinsa.

Færikvíar

Færikvíar.

Færikvíar – Kvíar sem gerðar voru úr timburflekum og hægt var að færa til.

Haustsmölun – Þegar fé er smalað af fjalli að hausti.

Heimfjallasmölun – Hvert haust var farið til heiða og fjalla og öllu búfé smalað til rétta. Þar var féð dregið í sundur.

Heimiliskapella – Guðshús þar sem heimilisfólk fór með bænir.

Jarðabætur – Túnræktun, þurrkun lands og vinnsla til grasræktunar.

Jata – Stokkur úr tré, þar sem kúnum var gefið. Yfirleitt negld á stoðir við vegg. Í einstaka tilfellum eru jötur upphlaðnar úr grjóti og torfi, við langvegg húsa.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Kvíaær – Ærnar (kindurnar) voru mjólkaðar kvölds og morguns allt sumarið. Úr mjólkinni var gert rjómi og undanrenna, smjör, skyr og mysa. Eftir sauðburð var lömbum kvíaánna leyft að vera með þeim í 2-3 vikur. Á stekktímanum var þeim haldið á beit yfir daginn og að kvöldi voru þau reknar í stekkinn, sem var lítil rétt oft nokkuð langt frá bæ, og hafðar þar yfir nóttina. Lömbin voru sett inn í litla kró (lambakró) við stekkinn. Um morguninn voru ærnar mjólkaðar og svo var bæði ám og lömbum hleyp saman til beitar yfir daginn. Að fráfærum liðnum voru lömbin færð frá ánum og rekin til fjalls, en ærnar voru reknar heim og mjólkaðar kvölds og morgna á kvíunum.

Mylkar/mjólkandi ær – Ærnar voru mjólkaðar til skyr- og ostagerðar.

Reft – Raftar lagðir yfir grindarviði, undir torf, grjóthellur eða járn.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; selstaða – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæði – Staður þar sem haft var í seli. Þ.e. á sumrin var búsmalinn rekinn í þó nokkra fjarlægð frá heimilinu þar sem var góður sumarhagi. Þar var m.a. unnið úr mjólkinni.

Skjólgarður – Garður sem settur var upp fyrir búfénað til skjóls fyrir veðrum. Krossgarður hét svo ef hann var hlaðinn í kross.

Smiðjuafl – Aflinn, þar sem eldurinn logar, hlóðir.

Sprettutími – Sá tími sem mest grasspretta er snemma sumars.

Tyrft – Að tyrfa, setja torf yfir, þekja.

Ás

Ás – fjárhústóft.

Tættur – Tóftir, húsarústir, tætlur af húsum.

Valllendisbali – Þar sem er þurrt og slétt. Valllendi, völlur, sléttlendi. Bali – þurr og sléttur flötur.

Vorrúningur – Rúningur að vori. Rúningur. Rýað. Þ.e. þegar ullin er klippt, rúin er af sauðfénu.

Þaksléttutími – Snemma sumars þegar frost var farið úr jörðu var land sléttað.

Þúfnasléttun – Þegar þúfur voru skornar burtu eða barðar niður til að slétta út land og auðvelda það til ávinnslu og sláttar.

Ærlengdir – Hver ær um 50-70 cm á lengd. Tvær ærlengdir eru jafnlengd tveggja áa (kinda).

Heimild:
-Smárit Byggðasafns Skagfirðinga, Lesið í landið – Vitnisburður búsetuminja, Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir, 2010.

Húsatóftir

Vindheimar – tómthús við Húsatóftir.

Minjastofnun

Minjastofnun Íslands lýsti því opinberlega fyrir nokkrum árum að starfsfólk stofnunarinnar hefði mun meiri áhuga en áður að vinna með íbúum, staðkunnugum og áhugafólki um fornminjar sem og öðrum með þekkingu á efninu á einstökum svæðum landsins. Síðan hafa liðið misserin – án nokkurra sýnilegra viðbragða.

Minjastofnun

Minjastofnun.

Til hvers eru stofnanir ríkisins? Þær virðast, þegar betur er gáð, fyrst og fremst vera fyrir starfsfólkið sem og viðfangsefnin, oftast án nokkurra tenginga við þá/þau er þjónustunnar eiga að njóta? Oftar en ekki virðist starfsfólk opinberra stofnana fremur líta á skjólstæðinga sína sem „óþægindi“ en viðskiptavini. Hversu þægileg væri t.d. vinnan í hugum þess ef engin væru „óþægindin“, þ.e. skjólstæðingarnir? Möguleikar hinna síðarnefndu hafa a.m.k. verið takmarkaðir til muna í seinni tíð til að ná símasambandi við hlutaðeigendur.
Svo virðist, af fenginni reynslu áhugafólks um fornminjar, sem framangreint gildi einnig um starfsfólk Minjastofnunar Íslands.
Þegar hins vegar betur er að gáð virtust upphafleg fyrirheit stofnunarinnar hafa lofað góðu – en gleymst einhverra hluta vegna, líkt og gerist jafnan hjá opinberum stofnunum.
MinjastofnunÍ skýrslu Minjastofnunar Íslands; „Stefna 2022–2027 um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi“ má m.a. lesa eftirfarandi um að „Auka samstöðu um vernd fornleifa og byggingararfs„: „Fornleifar og byggingararfur og vernd þeirra er ekki einkamál einnar ríkisstofnunar heldur kalla vernd og stýrð nýting minja á samstarf margra aðila. Vernd fornleifa og byggingararfs er nauðsynleg til að tryggja að þekking á þróun og breytingum samfélagsins á hverjum tíma varðveitist. Byggingararfurinn, einstakar fornleifar, samgöngumannvirki og búsetulandslag eru hlutar af heild sem skýrir þróun samfélagsins. Fornleifar og byggingararfur eru vernduð með friðun og friðlýsingu og skapa þarf samfélagslega sátt um mikilvægi þess að varðveita þau og efla skilning á tilgangi og tækifærum verndunarinnar.

Fornistekkur

Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Nýting jarðfastra menningarminja hefur ýmsar hliðar, svo sem notkun byggingar, rannsókn á fornleifum eða nýting í ferðaþjónustu, m.a. með því að auka aðgengi að minjastað eða byggingu fyrir gesti. Byggingararfur er best varðveittur með notkun, þ.e. að byggingin hafi tilgang og henni sé viðhaldið til að þjóna þeim tilgangi. Stýrð nýting er því mikilvæg þegar kemur að verndun fornleifa og byggingararfs.
Ákvörðun um nýtingu þarf alltaf að taka út frá mati á ástandi og gildi í hverju tilfelli fyrir sig. Eftirfarandi áhersluatriði tryggja sameiginlega sýn á vernd menningarminja og mikilvægi hennar:

A. Samráð um vernd fornleifa og byggingararfs
B. Aukin áhersla á vægi fornleifa og byggingararfs
C. Skýr sýn á friðlýsingar
A. Samráð um vernd fornleifa og byggingararfs

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes; selsminjar og beitarhús í Sauðholtum – uppdráttur ÓSÁ.

Vernd fornleifa og byggingararfs er þverfaglegt verkefni. Öllu máli skiptir að aðilar sem koma að málaflokknum á einhvern hátt tali saman og nýti þekkingu og samtakamátt heildarinnar. Mikilvægt er að hagsmunaaðilar eigi samtal um sameiginlega hagsmuni sem mikilvægt er að efla. Sameiginlegir snertifletir fornleifa, byggingararfs og náttúru eru víða og er nauðsynlegt að taka höndum saman um vernd og nýtingu slíkra svæða. Lögð verður áhersla á samvinnu vegna umfangsmikilla framkvæmda í umhverfinu þannig að öll sjónarmið fái að heyrast og sameiginleg ákvörðun sé tekin um bestu leiðir.
Stefna um vernd fornleifa og byggingararfs mun styðjast við sterkt, jákvætt bakland sem um leið skapar sterka stöðu minjavörslunnar. Auka þarf skilning á mikilvægi fornleifa og byggingararfs innan stjórnkerfis ríkis og sveitarfélaga og gildi þess að vernda þau, skrá og rannsaka.
Til að friðlýsingar skili tilætluðum árangri þurfa forsendur þeirra að vera skýrar.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

Forsendurnar, og þau fjölþættu gildi sem stuðst er við í ferlinu, t.a.m. við mat á sérstöðu og verndargildi, þurfa að vera gegnsæ og í samræmi við alþjóðlega staðla við vernd byggingararfs og fornleifa. Val á þeim fornleifum og byggingararfi sem talið er mikilvægt að friðlýsa þarf að byggja á víðtækri þekkingu og er mikilvægt að leita álits bæði íbúa og sérfræðinga.“

Auk þess er fjallað um að „Styrkja vitund um mikilvægi fornleifa og byggingararfs“:
„Vernd menningararfs er sameiginlegt verkefni allra landsmanna. Aukinn sýnileiki sögunnar er forsenda fyrir sterkari upplifun samfélagsins og þar með aukinni vitund um það virði sem í henni felst. Fornleifar og byggingararfur eru meðal þess sem mótar sjálfsmynd samfélaga og íbúa þeirra.
Nauðsynlegt er að almenningur átti sig á mikilvægi fornleifa og byggingararfs í þessu tilliti.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Fornleifar og byggingararfur, og vernd þeirra, hafa einnig hagrænt gildi fyrir samfélagið. Þau eru auðlind sem hægt er að nýta til góðs um allt land, svo sem í ferðaþjónustu og kennslu. Sérstök áhersla verður lögð á að miðla og fræða yngri kynslóðina um nærumhverfið og söguna og þýðingu hennar fyrir þjóðina. Sérstaklega er lögð áhersla á að dýpka áhuga og þekkingu almennings á fornleifum og byggingararfi með því að tengja þau við sögur og annan lifandi menningararf, ekki síst með notkun stafrænna leiða.
Lögð er áhersla á að styrkja ímynd og veg fornleifa og byggingararfs með auknu samtali fagaðila og heimafólks. Í samtakamætti felast tækifæri til að efla stöðu fornleifa og byggingararfs um land allt.
Áhugamannafélög og hollvinasamtök af ýmsu tagi sýna málaflokknum áhuga og sinna honum af krafti. Mikilvægt er að virkja þá orku sem í þeim er fólgin með því að útfæra leiðir til að auka aðkomu þeirra að vernd fornleifa og byggingararfs. Minjaráðin eru kjölfesta minjaverndar í héraði. Þau hafa skilgreint hlutverk í minjalögum og er mikilvægt að hlúa að þeim og efla rödd þeirra.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Auka þarf þátttöku heimamanna í minjavernd og skilgreina aðkomu þeirra að staðbundnum verkefnum.
Leita þarf samráðs við minjaráð og íbúa hvers landsvæðis við val á fornleifum og byggingararfi sem vert væri að friðlýsa.
Móta þarf farveg fyrir almenning til að koma á framfæri upplýsingum um menningararfinn.
Samstarf þarf við viðeigandi stofnun um söfnun upplýsinga um fornleifar og byggingararf í tengslum við örnefnasöfnun í landinu.“

Líkt og í upphafi sagði virtust fyrirheit stofnunarinnar, a.m.k. í fyrstu, hafa lofað góðu. Svo virðist sem starfsfólk hennar hafi þó hvorki haft hinn minnsta áhuga á að framfylgja framngreindri stefnu stofnunarinnar né hafi gert nokkra tilraun til að samhæfa sig framangreindum samstarfsáhuga við þá hlutaðeigendur er nefndir eru í „Stefnu stofnunarinnar 2022–2027„.
Hafa ber þó í huga að enn lifa a.m.k. tvö ár af líftíma nefndrar „stefnu„….

Heimild:
https://www.minjastofnun.is/static/files/stefnumotun/fornleifar-og-byggingararf-2022-2027.pdf

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.