Víkursel

Í „Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar“ árið 2024 segir m.a. um Víkursel (Öskjuhlíðarsel):

Víkursel

Víkursel – loftmynd frá 1946.

„Neðarlega í suðvesturhlíðum Öskjuhlíðar er tóft sem talin er hafa verið Víkursel. Um 70 m norðaustur af Háskólanum í Reykjavík og um 20 m austur af gangstígnum Bæjarleið, sem liggur norður-suður með vestanverðri Öskjuhlíð. Norðaustan við tóftina er lækjarfarvegur. Suðaustan við er rás sem sést vel á gömlum loftmyndum, sennilega eftir herinn, sem hefur raskað suðurgafli.

Víkursel

Víkursel?

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru í Öskjuhlíð að sunnan- og vestanverðu. Í lýsingu Reykjavíkur og Seltjarnarness segir: „En Seljamýri var kennd við sel frá Hlíðarhúsum, sem var undir Öskjuhlíð.“ Hlíðarhús var hjáleiga frá Vík en var orðin sjálfstæð jörð um 1600.
Síðasta selráðskonan í Öskjuhlíð var Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar úr Hlíðarhúsum, og segir í örnefnalýsingu frá selinu sem faðir hennar sagði að stæði í Reykjavíkurlandi: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð.“

Víkursel

Víkursel.

Lýsing: Jarðlæg sporöskjulaga tóft. Inngangur er ekki greinilegur, gæti hafa verið á suðausturgafli sem hefur raskast vegna rásar sem liggur um 15 m suður af henni. Veggjahæð 20 𝑥𝑥 50 cm. Tóftin er mikið skemmd af trjágróðri og liggur undir skemmdum vegna hans. Stórt grenitré vex í henni miðri og annað við suðurgafl hennar. Lítið gróin, sviðin af barri.“

Áður hefur verið fjallað um Víkursel hér á vefsíðunni (sjá leit). Þær lýsingar passa ekki alveg, hvorki við framangreinda lýsingu né staðsetningu nefndra selsminja! Hins vegar mætti vel skoða þær með hliðsjón af nálægum minjum sem og niðurstöðum annarra fornleifafræðinga varðandi „Víkurselið“ í gegnum tíðina.

Sjá meira um Víkursel HÉR.

Heimild:
-Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-https://skraning.minjastofnun.is/Verkefni_2645.pdf

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð (FERLIR).

Járngerðarstaðir

Gengið var að Járngerðardysinni í Járngerðarstaðahverfi ofan við Járngerðarstaðabót og gamla sjávargatan rakin áleiðis niður að Fornuvör, þá leið er Tyrkirnir rötuðu 1627 heim að Járngerðarstaðabænum og hnepptu á annan tug heimamanna í þrældóm.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Skammt frá Fornuvör er Stokkavör. Vestan Fornuvarar eru Flúðirnar, þriggja stranda, og enn vestar er Litlabót. Þá tekur Hellan við ofan við Stórubót. Þar fremst á grasodda er Engelskalág og virki Jóhanns breiða (Joen Breen) þar sem 15 Englendingar voru drepnir á einni nóttu 1532 í atlögu hirðstjórans á Bessastöðum ásamt Þjóðverjum og landsmönnum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum, auk heimamanna í Grindavík. Þetta gerðist þann 11. júní kl. 02:00. Auk þeirra, sem drepnir voru, fórust nokkir Englendingar á flótta undan ströndinni. Með þessum atburði lauk “ensku öldinni” hér á landi.

Gerðavellir

Gerðavellir – leifar virkis Jóhanns.

Breski togarinn Trocadero frá Grimbsby strandaði utan við Stórubót 6. september 1936. Öllum 14 skipverjunum var bjargað. Ýtarleg umfjöllun um strandið er í árbók SVFÍ 1936 með mörgum myndum sem Einar í Krosshúsum tók meðan á björguninni stóð. Á fjöru má sjá ketilinn úr togarnum í bótinni beint fyrir neðan Rásina.
Gengið var yfir Rásina frá Gerðisvallabrunnum, yfir Gerðisvelli og eftir Gerðinu þar sem Junkarar munu hafa hafst við. Garðurinn sést enn nokkuð vel. Getið er um Junkara á þessum stað í einni þjóðsögu og munnmælum. Sumir telja að á Gerðavöllum kunni að leynast minjar allt frá landnámsöld – ef vel væri að gáð.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli.

Skyggnisréttin á Skyggni var næsti áfangastaðurinn, en síðan var gengið yfir á Stekkhól og litið á stekkinn vestan undir hólnum, en hann er nú orðinn að mestu jarðlægur. Þá var haldið yfir að Hrafnagjá. Gjánni var fylgt til austurs, gengið um Hraunstekkina, framhjá Skjöldunni, fátækrahverfi þess tíma, og yfir í Einisdal. Einisdalur er falleg, stór, hraunlaut með vatni í botninn.
Þá var haldið að Stóruflöt skammt norðar, handan þjóðvegarins út á Reykjanes, en þar áttu skv. munnmælum að vera hlaðnar refagildrur. Það reyndist rétt. Þarna var a.m.k. að sjá eina refagildru og sporöskjulaga mosavaxna torráðna hleðslu. Loks var gengið til baka að upphafsstað, en að því búnu var boðið upp á bakkelsi í boði innbúa.

Skyggnir

Skyggnisrétt á Gerðavöllum.

Varða

Þekking á örnefnum var mjög mikilvæg fyrrum – af skiljanlegum ástæðum. Sérhver bóndi þurfti t.d. að þekkja vel staðhætti á jörð sinni til að geta vísað vinnufólkinu leið að tilteknum nauðsynlegum verkefnum, allt árið um kring. Þá gátu nafnkennd landamerki ekki verið látin sitja óbætt hjá garði.

Ásfjall

Ásfjall – Dagmálavarðan – stríðsminjar.

Skráðar örnefnalýsingar dugmikils fólks hafa löngum verið varðveittar og þar með hefur tilvist þeirra náð að festa í sessi, bæði þrátt fyrir og með nýbúendum einstakra jarða.
Í Hafnarfirði hafa, í gegnum tíðina, ýmst ágætisfólk verið duglegt að skrá örnefni bæjarins og nágrennis. Má þarf t.d. nefna, Magnús Jónsson, Stefán Júlíusson, Gísla Sigurðsson, fyrrum lögregluþjón og síðar forstöðumaður Byggðasafns Hafnarfjarðar. Hin mikla skráningararfleifð Gísla er nú að finna, reyndar í lokuðu rými, í Bókasafni Hafnarfjarðar.

Örnefni og gönguleiðir

Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd…

Sesselja G. Guðmundsdóttir er einn þessara mikilvægu skrásetjara hvað Vatnsleysuströndina varðar, líkt og sjá má í bók hennar „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„. Ekki hefur hún einungis skráð svæðið heldur og gengið að öllum örnefnunum og lýst þeim af nákvæmni. Aðra markvissa skrásetjara á Reykjanesskaganum, þ.m.t. Vatnsleysuströnd og nágrenni, má nefna Ara Gíslason og Gísla Sigurðsson. Þá eru ótaldir öll þau er hafa annað að öðrum ólöstuðum, hvort sem þeir/þau hafa fæðst eða flust á einstakar jarðir, og nýtt tíma sinn til að skrá þekkt örnefni þeirra. Má þar t.d. nefna, óháð tíma, á vestanverðum Skaganum Sigurð Eiríksson í Norðurkoti, Leó í Höfnum, Jón Thoroddsen, Sigurð Sívertssen, bræðurna á Stóra Hólmi, Ragnar Guðleifsson og Sturlaug Björnsson, Lofts Jónssonar í Grindavík, auk Ólafs Þórarinssonar, Konráðs og Kristófers Bjarnasona í Selvogi svo fárra einna merkismanna sé getið. Einnig má nefna Ásgeir Jónsson er skráði Þingvallasvæðið og Hjört Björnsson fyrir lýsingar hans á Mosfellsheili.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Prestsvarða.

Á austanverðum Skaganum verður fyrst og fremst vísað til einstakra presta, s.s. á Mosfelli og Reynivöllum með vísan til skráðra „Íslendingasagna“. Þorvaldur Thoroddsen hefur auk margra annarra skrásetjara dregið fram ýmis örnefni í sýslunni í ritum sínum.
Örnefni spila jafnan mikilvægan þátt í skráningu fornleifa. Gífurlegt magn handrita hefur í gegnum tíðina verið varðveitt markvisst hjá Örnefnastofnun í gegnum tíðina þar sem Jónína og Svavar sinntu sínum daglegu störfum af áhuga og mikilli fórnfýsi. Þegar áhugafólk þurfti til þeirra að leita voru viðbrögðin jafnan; „Gjörðu svo vel, hvað get ég gert fyrir þig?“ Slík ánægjuleg móttökuorð innan geirans hafa ekki heyrst síðan Örnefnastofnun var lögð undir hina „mætu“ Árnastofnun.

Svavar Sigmundsson

Svavar Sigmundsson.

Örnefni og skráningar virðast, því miður, nú til dags, ekki alltaf fara saman þegar kemur að framangreindu. Að meginefni er a.m.k. um tvennt að sakast; annars vegar takmörkuðum skráningarmöguleikum og hins vegar hinni ágætu aðgengilegu fyrrum Örnefnastofnun við Neshaga með sínu takmarkaða húsnæði, fullnýttu skúfurými og hinum duglega mannskap, og hins vegar umfangið áður en hún var sameinuð í skrifstofu í Árnastofnun og í framhaldinu send upp í skrifstofuhróf við Laugarveg þar sem áhugsasamir þurftu að liggja löngum á dyrabjöllu inngöngudyranna til að nálgast upplýsingarnar, yfirleitt án árangurs. Hið vinsamlega viðmót starfsfólksins fyrrum virðist hafa verið látið víkja fyrir stofnanamennskunni.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum.

Af framangreindu að dæma hefur heldur dregið, bæði úr áhuga og örnefnaþekkingunni meðal landsmanna í seinni tíð. Landmælingar Íslands (lmi) hafa reynt að gefa út „örnefnakort“, sem bæði er þó að mörgu leyti villandi og í sumum tilvikum beinlínis röng. Í fjölmiðlanútímanum gæti fáfræði, meðal sumra, jafnvel talist kostur; því færri sem vita, því betra! Dæmi um slíkt er nýlegt manndrápsmál við Hraunhóla ofan Hafnarfjarðar er fjölmiðlafólkið kenndi við Krýsuvík. Að vísu eru Hraunhólarnir innan lands Krýsuvíkur, en reyndar á ystu norðurmörkum landareiganarinnar, víðs fjarri nafngiftinni.
Spurningin er þó hvort æskilegt sé að örnefnin munu hverfa með öllu út úr landslagsvitundinni er fram líða stundir, til ills eða góðs? Kannski þarf nútímamaðurinn ekkert á fyrrum örnefnum lengur á að halda? Snjallsíminn muni duga honum til allra þarfa? Hafa ber þó í huga að með hvarfi örnefnanna hverfur bæði hluti fornleifanna sem og sögunar.
Jafnan er sagt að fortíðin sé grundvöllur nútíðar vorrar þegar huga þarf að möguleikum framtíðar. Hafa ber í huga að á framangreindum rökum hefur Ísland verið byggt upp frá upphafi til vorra tíma.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Fornleifaskráningar bæja og sveitarfélaga hafa jafnan verið sagðar byggðar af „fagfólki“. Staðreyndin er hins vegar sú að einstök nátengd einkarekin „fagfélög“ hafa ráðið til sín nema í fornleifafræði við HÍ til sumarstarfa til að skrá fyrir sínar skuldbindingar einstök svæði. Nemarnir hafa jafnan til hliðsjónar tilfallandi örnefnalýsingar og byggja jafnan skráningar sínar á öðrum fyrirliggjandi gögnum. Til eru þó dæmi um að þeir hafi látið hjá að ómaka sig á vettvang einstakra minja og lýst þeim með fáfróðu orðaskrúði.

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ frá árinu 2007 er m.a. fjallað um „Arfinn“ þann er felst í örnefnunum:

Arfurinn
„Örnefni eru dýrmætur arfur sem geymir upplýsingar um sögu, tungu og ýmsa aðra hætti þeirra sem byggðu landið frá upphafi og til okkar tíma. Við sem erfðum landið höfum skyldur við þá sem næstir koma, meðal annars þær að vernda örnefnin og þá um leið söguna sem í þeim býr.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Örnefnafræði er grein af málfræði og er aðaltilgangur hennar að skýra nöfn, þ.e. leita uppruna þeirra. Örnefnaskýringar geta síðan varpað ljósi á hina ýmsu þjóðlífsþætti fyrri tíma. Sögnin „að örnefna“ er til og menn örnefna hóla og hæðir enn í dag þó svo að sögnin sem slík sé lítið notuð. Til gamans má geta þess að austur í Landsveit, á Dómadalsleið, er til örnefnið Boney M (nafn á popphljómsveit frá árunum um 1980). Tildrög þessa örnefnis var að fýrir nokkrum árum hitti maður ár sveitinni hörundsdökkt par þarna á bílaleigubíl og síðan þá er sandaldan kölluð Boney M! – Ekki beint þjóðlegt örnefni.

Sel

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki efst. Horf frá Trölladyngju.

Flest nöfnin í hreppslandinu hafa augljósa tilvísun og þá til landslagsins — náttúrunnar — og eru því svokölluð náttúrunöfn. Mörg þeirra draga þó nöfn af bæjum, mönnum eða bústörfum.
Í örnefnum felast oft skýrar myndir, svo sem í nöfnum eins og Hrafnabjörg og Einbúi. Hvaða hugmynd skyldi fólk fá þegar minnst er á Sóleyjakrika? Að öllum líkindum mynd af einhverju fallegu eins og t.d. sóleyjabreiðum og veðursæld. Kúadalur og Geldingahóll segja til um búskaparhætti en Ólafsgjá opnar sýn inn í slysfarir og dauða.
Þau eru nokkuð mörg örnefnin í þessari kennnileitalausu sveit sem gefa fyrirheit um eitthvað tilkomumikið en standa svo lítt eða ekki undir nafni við nánari athugun. Djúpidalur er aðeins grunn uppblásin dæld í heiðinni, Fögrubrekkur eru lágt klapparholt með grasrindum og Háhólar greinast tæplega frá öðrum hólum í grenndinni. Þessar nafngiftir eru þó ofur eðlilegar enda komnar frá fólki sem hafði sjaldan eða aldrei séð „raunverulega“ dali, háa hóla né grösug og víðáttumikil beitilönd í svipmiklum sveitum.
Sum örnefnin eru illræð eða óræð og slík nöfn vekja hvað mestan áhuga. Hvað merkja t.d. nöfnin Sprengilendi og Margur brestur? Af hverju í ósköpunum heitir varða Leifur Þórður? Áhugamaður um fræðin reynir til hins ýtrasta að finna lausn gátunnar. Stundum fæst líkleg niðurstaða en í annan tíma verður gátan torræðari því lengur sem vöngum er velt.
Við ættum vissulega að leggja okkur fram um að vernda örnefnin handa komandi kynslóðum svo þær megi hafa gagn og gaman af.“

Guðni Gíslason

Fjarðarfréttir – Guðni Gíslason, ritstjóri.

Hvernig væri framtíðin án þekkingu nútíðar og vitneskju fortíðar?

Ók fyrir skömmu með ritstjóra Fjarðarfrétta um Reykjanesbrautina, Grindavíkurveginn og Suðurstrandarveginn. Ókum m.a. í gegnum Grindavík, upp Siglubergshálsinn, austur fyrir Ísólfsskála, litum [G]núpshlíð augum sem og Lat og Stóru-Eldborg. Á leiðinni báru fjölmörg örnefni á góma, s.s. Krýsuvíkurheiði, Drumbur, Drumbdalastígur, Borgarhóll, Einbúi, Gullskjól, Svartaklettur, Ögmundarstígur sem og fjöll og tindar á Sveifluhálsi.

Ritstjórinn sat þegjandi um stund, aldrei þessu vant.
Loks, eftir að hafa horft um stund á umhverfið af athygli með hliðsjón af tilfallandi skýringum, virtist hann skyndilega vakna af dái: „Vá, spyr þú mig; hversu margir landsmenn skyldu hafa áhuga og jafnvel þekkja örnefnin er fram líða stundir. Þú gætir mögulega verið sá síðasti?“…

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, bls. 11-13, 2. útgáfa 2007.

Grænuborgarrétt

Grænuborgarrétt í Vogum.

Snorri

Hópur vaskra manna frá FERLIR og HERFÍ fór í hellinn Snorra, en hann fannst nýlega í Hvannahrauni. Tekinn var með 6 metra langur stigi, ljós og annar nauðsynlegur hellaskoðunarbúnaður, þ.á.m. hellamælingatæki er myndar og mælir slík fyrirbæri. Niðardimm þoka var á fjöllum, en með aðstoð jarðfræðikorts Jóns Jónssonar fannst jarðfallið.

Snorri

Leiðangur kominn að Snorra.

Skriðið var niður í kjallara þann er áður hafði uppgötvast, stiginn dreginn niður á eftir og hann reistur upp við vegginn þar niðri. Klifrað var upp í rásina efst á veggnum, en einungis einn maður hafði farið þar upp áður með aðstoð stigans. Rásin liggur inn í meginrásina stóru, sem komið er að í jarðfallinu, og á bak við hraunið er lokar henni til norðurs. Þetta var heilleg rás á köflum og margt að sjá.
Tilgangur ferðarinnar var að skoða djásnið og kortleggja. Það sem gerir Snorra mjög sérstakan er kjallarinn, sem liggur neðan við meginrásin, en frá kjallaranum þurfti þennan 8 m stiga til að komast upp í göng sem liggja upp í aðalrásina. Það dylst engum sem komið hefur í kjallarann og horft upp þá nær tíu metra sem þarf til að komast upp í meginrásina að þar hefur verið mjög tignarlegur hraunfoss þegar hraun flæddi um rásina.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Samkvæmt kortlagningu er mjög líklegt að yfirborðsrásin hafi á einhverjum tímapunkti tengst meginrás hellisins. Hellirinn er nokkuð heillegur og aðeins eru nokkur meiriháttar hrun. Hann lokast með hruni, og var reynt án árangurs að komast fram hjá því. Heildarlengd hellisins gæti verið um 300 metrar en rásin innan við hraunfossinn er um 200 metra löng og meðalþvermál hennar um fjórir metrar.
Rétt er að geta þess, svona til upprifjunar, að FERLIR hafði mikið leita að opinu á Snorra. Nafni hans, Snorri Þórarinsson á Vogsósum, hafði bent á mikið jarðfall þarna í hrauninu, en þegar farið var að leita eftir lýsingu hans, rann allt hraunið saman í eitt.

Snorri

Klifrað upp í Snorra.

Mjög erfitt er að leita hraunið, enda hver hæðin upp af annarri. Það var ekki fyrr en hraunið var gengið fram og til baka að skyndilega var staðið á brún þessa stóra jarðfalls. Þegar rásirnar niðri í jarðfallinu voru skoðaðar kom í ljós að þær lokuðust til beggja enda. Geysistór hraunrás er í jarðfallinu, fallega formuð. Þegar farið var að rýna í grjótið á botni jarðfallsins virtist myrkur undir. Eftir að nokkrir stórir steinar höfðu verið fjarlægðir kom í ljós kjallari undir meginrásinni. Kjallarinn reyndist hraunhvelfing í stærra lagi. Upp undir veggnum kom hraunfoss út úr honum og þar virtist vera gat. Eftir að aðstæður höfðu verið kannaðar síðar með aðstoð stiga, kom framangrein rás í ljós. Hún er ein hin fallegasta, en jafnframt ein sú óaðgengilegasta í hraunhelli hér á landi.
Frábært veður.

Snorri

Inngangur Snorra.

Þórkötlustaðir

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2006 er m.a. frásögn Benónýs Benediktssonar, fyrrverandi formanns Verkalýðsfélags Grindavíkur, um „Sjóferð úr Þórkötlustaðanesi í nóvember 1938„. Þar segir m.a.: „Haustið 1936 höfðu bræðurnir á Þórkötlustöðum, þeir Benedikt og Guðmundur, látið byggja fyrir sig bát. Báturinn var smíðaður í Staðarhverfi af Kristjáni frá Reynistað. Hann var skírður Svanur og bar einkennistafina GK428.

Benóný Benediktsson

Ógæftir höfðu verið miklar þetta haust. Ég vaknaði stundum á nóttunni þegar Guðmundur var að ganga stigann á Þórkötlustöðum. Þá var hann að líta á veðurútlit. Svo var það nótt eina undir lok nóvembermánaðar að Guðmundur ákvað að róa og það þrátt fyrir að veðurútlit væri tvísýnt. Hann kallaði saman mannskapinn með því að ganga á milli húsa og banka á glugga, bankað var á móti til að gefa til kynna að viðkomandi væri vaknaður.
Fundinn var til biti til að hafa með á sjóinn og að því loknu hófst skipsgangan sem var kortersgangur frá Þórkötlustöðum í Þórkötlustaðanes. Gangan gat verið torfær í svarta myrkri því það var bara fjósluktin til að lýsa sér með. Þegar komið var í Nesið fór Guðmundur í ískofann og rétti mönnum bjóðin.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Ískofinn var hlaðinn úr torfi og grjóti og reft yfir með timbri og járni og torf látið á þakið. Að innan var búinn til kassi sem var klæddur að utan með timbri en með sléttu járni að innan og timburlok yfir. Haft var ca, 15-320 sm millibil milli trés og járns. Reynt var að fá snjó í kofana í fyrstu snjóum á haustin og var oft mikið kapphlaup að vera fyrstur til að ná sér í bíl því bílar voru ekki á hverju strái á þessum tíma. Til að fá frost í kassann var blandað saman salti og snjó og var það sett í rýmið sem myndaðist milli trés og járns. Þetta þurfti að endurtaka með 2-3 daga bili svo að frost héldist í kælinum.

Þórkötlustaðir

Þegar bjóðin höfðu verið handlöguð upp úr ískofunum var þeim lyft upp á herðar á mönnum og þau borin niður á bryggju. Næsta verk var að setja niður bátinn, sem var í nausti. Oft var þetta erfitt verk. Þegar báturinn var kominn niður í vör þurfti að sæta lagi til að ýta á flot og þurftu þá menn að vera fljótir að koma sér um borð. Því næst var frið að bryggjunni og bjóðin tekin um borð.
Ekki var róið langt enda veðurútlit ekki gott og því var línan lögð um hálftíma siglingu frá Þórkötlustaðanesi. Heldur hafði vindur aukist á lagningunni og var orðið allhvasst þegar búið var að leggja línuna og var því ekki látið liggja lengi. Byrjað var að draga þó að enn væri svarta myrkur.

Bryggjan

Þegar heimsiglingin hófst var komið suðaustan rok og aðgæsluveður og var því siglt til lands á hægustu ferð [vél var í bátnum]. Í þessum bátum voru yfirleitt fornvélar og þurfti að passa vel að ekki kæmist raki að þeim.
Heimsiglingin gekk vel og var Svanurinn kominn að landi um hádegisbil. Afli í þessum róðri var aðeins nokkrir fiskar enda var mjög stutt lega á línunni.
Þegar að landi var komið þurfti fyrst að fara að bryggjunni til að losa fisk og bjóð. Oft var mikil lá við bryggjuna og þurfti þá að hafa mann til að halda í afturhaldið svo hægt væri að slaka á því þegar að álög komu. Þegar löndun var lokið þurfti að fara út á lónið og taka lag í vörina. Ekki voru þ
á fastir hlunnar og vélspilið kom síðar til sögunnar.“
Benóný er fæddur 1928. Hann var því tíu ára þegar umrædd sjóferð átti sér stað. Er frásögnin ágætt dæmi um minni og frásagnalist Þórkötlustaðabúa, sem of oft hefur verið vanmetin í gegnum tíðina.

Heimild:
-Benóný Benediktsson – Sjómannadagsblað Grindavíkur – 50 ára afmælisrit –  2006.

Bátar í nausti

Fosshellir

Farið var að Sandfelli við Þrengslaveg og síðan haldið sem leið lá vestur yfir Þúfnavelli austan Geitafells, yfir Ólafsskarðsveg og vestur með fellinu norðanverðu.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ekki var látið staðar numið fyrr en komið var að rótum vesturhorns fellsins. Þaðan sást vel suður yfir Kálfahvamm og Selvelli fyrir neðan.

Í suðvestur, ofan við Réttargjá sást í stórt jarðfall. Þegar þangað var komið sáust rásir liggja inn til beggja enda. Rásin til suðurs var fremur stutt og lokast með hruni, en rásin til norðurs, mót Heiðinni há, var lengri og opnari. Fyrir innan er mikil hraunrás með háum bálkum beggja vegna. Mikil hrauná hefur runnið þarna niður og mátti sjá einstaklega fallegar hraunmyndanir á börmum hennar. Á einum stað hangir u.þ.b. 30 sentimetra langt hraunstrá niður úr loftinu. Allnokkurt hrun er úr loftinu niður í rásina, en víða mátti sjá fallegar hraunmyndanir og tauma liggja niður með veggjum.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ganga þurfti uppi á hægri bálknum inn með rásinni fyrir neðan, en innst inni í þessum 80 metra langa helli er hann heill og rúmgóður. Hátt er til lofts þar sem fyrir er mjór og hár hraunfoss. Hann kemur úr úr veggnum í allnokkurri hæð og hefur storknað utan í veggnum á leið sinni niður. Ofarlega á veggjunum neðan við fossinn eru mjög fallegar hraunmyndanir. Erfitt er að mynda fossinn nema með mjög góðum ljósabúnaði.
Þótt Fosshellir sé ekki langur er full ástæða til að gera sér ferð til að skoða hann. Hellirinn er bæði aðgengilegur og auðfundinn, og ekki skemmir hið fallega umhverfi á heiðinni fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Fosshellir

Fossinn í Fosshelli.

Auðnaborg

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„, segir m.a. um Auðnaborg og nágrenni í heiðinni milli Vatnsleystrandarvegar og Reykjanesbrautar: „Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Austur af Auðnaborg og beint upp af Skálholti (séð frá bænum Höfða) eru hólar sem heita Vatnshólar, við þá safnast vatn í rigningartíð. Á þessu svæði eru örnefni sem ekki var hægt að staðsetja vegna óljósra heimilda, s.s. Hrúthóll og Breiðagerðislatur eða Latur og eins geta þau verið fyrir ofan Reykjanesbraut sem neðan.

Hestaslóðin

Hestaslóðin flóraða ofan Breiðagerðis.

Rétt fyrir ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.
Hér í krappri beygju Strandarvegar erum við komin að Gamlavegi en hann liggur frá Breiðagerði svo til beint yfir heiðina og mætir bílveginum aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfi.

Gamlivegur

Gamlivegur.

Víða er um kílómeters leið frá bæjum að Gamlavegi sem þótti langt enda um klappir og holt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur höfðu þar hver sitt hlið og brúsapall og á einstaka stað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja. Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var, eins og fyrr segir, nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá búenda í Ásláksstaða-, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamlivegur notaður sem reiðvegur.“

Auðnaborg

Auðnaborg.

Hestaslóðin flóraða sést á u.þ.b. 100 metra löngum kafla ofan Breiðagerðis. Svo virðist sem kaflinn hafi átt að verða hluti af Eiríksveginum svonefnda ofan Vatnsleysu og Flekkuvíkur, mjög líklega unninn í atvinnubótavinnu á sínum tíma.

Á framangreindu svæði eru u.þ.b. 10 fjárborgir, s.s. Staðarborg, þrjár borgir sunnan og suðaustan hennar, Þórustaðaborg, Borgin ofan Breiðagerðis, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sauðholt

Sauðholt – beitarhús.

Í heiðinni, milli Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, eru þrjár samliggjandi beitarhúsatóftir á grónum klapparhrygg, svonefndum Sauðholt. Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Fjallað verður um tóftirnar í Sauðholtum síðar.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum„, Áfangaskýrslu I, er Auðnaborginni lýst: „“Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg,“ segir í örnefnaskrá. Minjarnar eru um 1 km suðaustan við bæ. Þær eru á og við grösugan hól í hraunmóa með moldarflögum.
Minjarnar eru á svæði sem er um 36×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Vestast á svæðinu er tóft A. Hún er einföld og er um 6×4 m að stærð. Hún snýr norðaustur suðvestur. Inngangur er inn í hana úr suðvestri. Mögulegt er að tóftin hafi verið tvískipt en hún er ógreinileg í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Tóftin er gróin og ekki sést grjót í veggjum.

Auðnaborg

Auðnaborg – teikning.

Tóft B er fast norðvestan við tóft A og er hún uppi á hæsta hólnum. Hún er um 3×3 m að stærð og er einföld. Inngangur er í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m en tóftin er gróin og ekki sést í grjót í veggjum. Fast norðan tóft B er afar ógreinileg tóft C. Hún er einföld, er um 3×2 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð um 0,3 m. Ekki sést í grjót í veggjum. Tóftin er opin til suðvesturs. Um 2 m norðan við C er tóft D, líklega stekkurinn sem talað er um í Örnefni og gönguleiðir. Hann er einfaldur og er um 3×4 m að stærð, snýr suðvestur-norðaustur. Inngangur er í norðurhorni. Mesta hleðsluhæð tóftar D er um 0,5 m. Hún er algróin og nokkuð hlaupin í þúfur. Gróður er hvað dekkstur á henni sem bendir líklega til þess að styst sé síðan hún var í notkun og að hún sé líkega yngri en aðrar tóftir á svæðinu. Neðan við hólinn sem tóftir B og C eru á, til norðausturs, er lítil renna E sem kann að vera manngerð. Hún er um 3×1 m að innanmáli og snýr suðaustur-norðvestur. Suðvestan við tóftirnar er stór og grjóthlaðin rétt F sem skiptist í 4 hólf. Réttin er um 36×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð réttar er um 1,2 m og sjást 6 umför. Víðast eru þó hleðslur lægri.“

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Um Alfaraleiðina segir: „Um jörðina [Hvassahraun] hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina, Reykjanesbrautin,“ segir í örnefnaskrá. „Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn [heitir líka Strandarvegur] og innarlega í Hvassahraunslandi einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. […]

Almenningsvegur (Eiríksvegur) um Vatnsleysuströnd.

Almenningsvegur ofan Vatnsleysu.

Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist helst hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann frekar kallaður Alfaraleiðin,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur,“ segir í örnefnalýsingu Straums. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir,“ segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun.

Alemmningsvegur

Almenningsvegur – Arnarhóll.

Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfaraleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina.
Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Við aðalskráningu Kálfatjarnarhverfis og Flekkuvíkur árið 2008 var leiðin skoðuð í landi Flekkuvíkur þar sem leiðin liggur um hraunið og krækir fyrir hól sem Arnarvarða stendur á. Þar er gatan mjög mjó en breikkar þar sem hún heldur áfram til norðausturs.“

Hvorki er minnst á kafla „Hestaslóðarinnar“ fyrrnefndu né beitarhús á Sauðholtum í fornleifaskráningunni.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2. útgáfa 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Þorsteinshellir

Norðurhellrar hafa líklega tilheyrt Garðakirkjulandi því við Egilsbúð, sem byggð var út úr konungsjörðinni Hliði, segir: “Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar, þó ei ummælalaust af Garðastaðarhaldara, en ei hefur sú misgreining til laga komið.” Jarðirnar Brekka og Breiðabólstaður eru einnig sagðar hafa selstöður við Norðurhellra.

Norðurhellrar

Norðurhellrar.

Norðurhellrar eru nyst í Selgjá. Í gjánni, sem nefnd af Norðurhellragjá, eru leifar af selstöðum 11 bæja í Garðahreppi. Norðurgjárhellrir er í beinu framhaldi af hrauntröðinni, sem myndar gjána. Fyrir munna hans eru hleðslur.
Stærsti hellirinn er svonefndur Þorsteinshellir skammt suðvestar. Við munna hans eru miklar hleðslur, hlaðinn gangur er greinist í tvennt. Annar hluti hellisins hefur væntanlega verið fyrir sauði og hinn, sá stærri, fyrir kindur. Sumir vilja tengja nafnið við Þorstein Þorsteinsson, sem bjó um tíma í Kaldárseli á síðari hluta 19. aldar.
Tveir aðrir hellar eru skammt frá, báðir með hleðslum fyrir. Hvort þessi skjól hafi verið notuð í tengslum við seljabúskapinn eða í annan tíma er ekki vitað. Þau eru öll í landi Urriðakots, en kotið mun hafa haft í seli í eða við Norðurhellragjá. Í Selgjánni eru tvö önnur hellaskjól með hleðslum fyrir.

Heimildir m.a.:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. b. s. 195.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Grafningur

Í Andvara 1936 fjallar Hálfdán Jónsson um „Lýsingu Ölvershrepps 1703„.

„[Lýsing Ölveshrepps, sem hér fer á eftir, er prentuö eftir AM. 767 4to. Er þaö lítið kver, 52 blöð í ekki stóru broti. Kunnugt er, að Árni Magnússon hafði mikinn hug á staðalýsingum og söfnun örnefna, sem vfða má sjá merki í safni hans og frá hans eigin hendi. En þetta er þó eina héraðslýsingin, er með vissu má telja, að rituð sé að hans].

Descriptio Ölveshrepps anno 1703

Andvari

Andvari – forsíða 1936.

Aulfvus eður Ölveshreppur hefur sitt nafn dregið af Alfi, fyrsta landnámamanni þess héraðs. Hreppur þessi liggur í Sunnlendingafjórðungi og Árnessýslu, fyrir vestan Ölvesá, nálægasta sveit að austanverðu við þann fjallgarð, er aðgreinir Árnessýslu og Kjalarnesþing. Þingstaður héraðsins er að Bakkarholti. Þangað sækja Grímsness og Selvogs innbyggjarar, þá þriggja hreppa þing haldast.
Í nefndri sveit eru kirkjur 5: 1. að Arnarbæli, sem er beneficium. Þangað til kirkjusóknar liggja lögbýli 11. 2. að Reykjum, sem er annexíu kirkja. Sóknarbæir þangað liggjandi 12. 3. á Hjalla, einnig annexíu kirkja. Þar liggja til kirkjusóknar lögbýli 9. 4. að Þorlákshöfn, sem er hálfkirkja. Þessum hérskrifuðum kirkjum þjónar presturinn að Arnarbæli. 5. að Úlfljótsvatni, er lengi hefur verið annexía frá Þingvöllum (í þeim parti sveitarinnar, er Grafningur kallast). Lögbýli í þeirri kirkjusókn 10.
Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum.

Ölfusá

Ölfusá neðan Gnúpa.

Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun. En frá Álfsós og vestur að hrauninu og til Sandár (hver sín upptök hefur þar við heiðina og rennur í ósinn), þaðan undir Gnúpatún, er mýrlendi með keldum og litlum lækjum. En sú mýri nálægt fjallinu, er að austan ogsunnanverðu undir Gnúpahnúk liggur, nefnist Gnúpabringur, torsóttar vegna foraðs yfirferðar.
Í landnorður undan Ingólfsfelli og upp með Soginu eru mýrar, þar til byggðin í þeim kjálka sveitarinnar til tekur, er Grafningur kallast. En í vestur yfir Álftavatn og fyrir norðan Ingólfsfjall liggur vegur fram Grafningshálsinn og í Ölvesið, Á þeim vegi nefnast þessi örnefni: Djúpigrafningur, Æðargil, Bjarnarfell, Kaldbak etc.

Grafningur

Grafningur – kort.

Fyrir sunnan Tungá (en í Landnámu kallað er Þverá) eru fjórar jarðir með graslendi góðu, lyngi vaxið, en fyrir ofan eður norðan ána er Bíldfellsfjall lyngi og skógi vaxið, sem og góðir hagar á vetur. Þar norður með vatninu er kallað Land, allt þar til tekur Úlfljótsvatns slægjuland, kallað Dælar. Síðan tekur til (Úlfljótsvatnsfjall og fyrir austan það Dráttarhlíð, svo kölluð vegna þess á því plássi er net dregið til silungsveiði. Það er slægjupláss frá Úlfljótsvatni með svo góðum heykosti sem töðu. Upp á þessari hlíð eru þrír fornmannahaugar, hver skammt frá öðrum, grasi vaxnir, þar menn segja í séu heygðir þeir fyrri menn á haugaldartíð, er þessar jarðir, Úlfljótsvatn, Villingavatn og Ölversvatn hafa sitt nafn af dregið.

Skinnhúfuhellir

Skinnhúfuhellir.

Norðan til í hlíðarberginu er stór hellir, kallaður Skinnhúfuhellir. Haglendi þessara jarða er gott með lyngi, viði og góðu grasi víða vaxið og ei stórlega blásið. Lítil á rennur að vestan úr fjallinu fyrir sunnan Ölversvatnstún og austur í Þingvallavatn. Slægjuland þessarar jarðar er fyrir austan bæinn.
Þessu næst er að minnast örnefna, er fjallgarðinum til heyra, þó byggðalönd séu Grafningsjarða og kallast so þau nafnfrægustu: Háafell, Dagmálafjall, Súlufell, Kyllisfell, Stapafell, Mælifell, Krossfjöll, Hrómundartindur Villingavatns-Seljadalur, Laxárdalur, Stóri- og Litli-, Smjördalur, Úlfljótsvatnsbotnar, Villingavatns-Seljabotnar, Álftartjarnir, Kattartjarnir, Djáknapollur, Mælifellsflatir, Lakar, Ölkelduháls, Brúnkollublettur.) Raufarberg (sem er landamerki milli Ölversvatns og Reykja), Þverárdalur, Söðlahóll, Kýrgil með hverum og hömrum og liggur undan Henglinum að sunnanverðu.

Ölfusvatnslaugar

Ölfusvatnslaugar.

Þar norður með Hengisfjallinu eru kallaðar Ölversvatnslaugar. Þar fyrir norðan Nesjalaugar. Frá þeim til austurs eru Nesjavellir, slægjuland frá Nesjum.
Fyrir norðan áðurnefnda Dráttarhlíð, skerst fram úr Þingvallavatni það mikla vatnsfall Sog, er sitt nafn tekur af þess súg eður hastugri rennslu fyrir hlíðartaglið. Anno 1632 þornaði þetta Sog upp, so silungar voru á þurru úr því teknir. Þegar nú þetta Sog linar sinn straum, strekkir það sig út í eitt ei alllítið vatn, er nefnist Úlfljótsvatn, sem með silung er jafnan, og dráttarnet með bát brúkast þar á sumrum. Upp úr þessu vatni, þá vorar að, rekur í kringum það hrönn með smá punga, hvar úr menn hyggja það mý koma, er við nefnt vatn á sumrin, þá hitar og vætuhæg veðrátta gengur, er so þykkt í loftinu, að varla sést til sólar í heiðríku veðri.

Úlfljótsvatn

Úlfljóstvatn – kort.

Í miðju þessu vatni er ein ey, kölluð Hrútey, með mjög litlu varpi, hafandi hvannir, er tíðum slegin. En sunnan til í nefndu vatni eru tvö eylönd. Nefnist önnur eyjan Flatey, og heyrir til Úlfljótsvatni, með góðu grasi og hvönnum, en hin kallast Brúarey, með viðlíkum hætti og Flatey.
Þegar Sogið úr vatninu tekur til aftur, kemur stór foss, nefndur Ljósifoss. Þar fyrir neðan er annar, kallast Ýrufoss. Þar eftir liggja hólmar í Soginu, í hverja reitt er að vestanverðu, hvar vex einir og ber á, sem og annað lyng.

Fyrir sunnan nefnda hólma er sá þriðji foss, er Kistufoss heitir. Undir þann foss fer selur, en ei lengra. Eftir þetta hleypur Sogið fram með byggðinni Grafningsins að austanverðu, allt að Tunguármynni.
Þar er ferjustaðurinn yfir Sogið. Síðan koma enn nokkrir smáhólmar, er Torfastaðahólmar eru kallaðir, með varpi nokkru. Þar brúkast og ferjustaður frá Torfastöðum.

Álftavatn

Álftavatn – kort.

Fyrir sunnan téða hólma slær Sogið sér út og breikkar, so lítill straumur verður í því, með sléttum sandi á botninum. Þar er vað, sem oftast nær brúkast árið um kring, nema þá stærstu vatnavextir eru. Þetta vatn kallast Álftavatn. Sunnarlega í því er hólmi stór með bergi í kring, hvar arnir verpa tíðum. Þegar Álftavatn tekur að mjókka er enn kallað Sog, hvort rennur enn til suðurs að austan verðu við Ingólfsfjall (á móti Alviðru er og líka ferja höfð) og allt í Hvítá. Títtnefnt Sog aðskilur Grafning frá Grímsnesi.
Anno 1703 voru og töldust búendur í Ölvesi, er tíund gjörðu frá níu hundruðum og þaðan af frekara seytján; en frá fjórum hundruðum til tíu hundraða þrjátíu og einn. En þeir minna tíunda en fjögur hundruð eru fimmtíu og einn.
Reiknast lausafjártíundir allar í Ölvesi á ofanskrifuðu ári fimm hundruð hundraða, sjötíu og átta hundruð betur.
Tala heimilisfastra manna, ríkra og óríkra, á sama hér téðu ári, í þrátt nefndum hrepp, er fimm hundruð sjötíu og sex menn, en fátækir umferðamenn sveitarinnar teljast þrjátíu og einn. Summa alls fólksins fimm hundruð níutíu og sjö menn.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1936, Lýsing Ölvershrepps, Hálfdán Jónsson, 1703, bls. 57-78.

Grafningur

Grafningur – málverk.

Glúfrasteinn

Nokkur fornmannaleiði eru í Mosfellsbæ. Má þar nefna Þormóðsleiði í Seljadal, Hraðaleiði á mörkum Hraðastaða og Mosfells, Æsuleiði við Æsustaði, Skeggjaleiði hjá Skeggjastöðum, Úlfarsleiði í Úlfarsfelli, Reynisleiði við Reynisvatn og Egilsdys í Tjaldanesi neðst í Mosfellsdal.

Æsuleiði

Æsuleiði – Bjarki Bjarnason stendur á leiðinu.

Samkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði.
Sá maður í Mosfellssveit (-bæ) sem veit manna best um þau þá fyrrum heygðu er heitir Bjarki Bjarnason og býr að Hvirfli í Mosfellsdal. Hann er margfróður um sögu byggðarinnar enda lagt sig fram við að varðveita gamlar sagnir og sögur af svæðinu.
Áður en eftirgrennslan hófst var vitað að í örnefnalýsingum kemur fram að „Þormóðsleiði er týnt, eftir því sem ég best veit. Hef heyrt að bóndinn í Þormóðsdal hafi sléttað það út“, „Hraðaleiði er áberandi hóll vestast á túnunum á Hraðastöðum“, „Skeggjaleiði er týnt“, „Egilsdys er lítill hóll í svonefnum Víðirodda vestast í Mosfellsdal þar sem árnar koma saman“ og „Æsuleiði er hóll miðja vegu á milli Norður-Reykja og Æsustaða.“ Ekki beint örvandi til leitar, en FERLIR er þekktur fyrir annað en uppgjöf.

Þormóðsdalur

Tóft í Þormóðsdal, ofan við bæinn.

Bjarki fylgdi FERLIR um Mosfellsdalinn með það fyrir augum að reyna að staðsetja Æsuleiði, Hraðaleiði og Egilsdys, en Þormóðsleiði virðist hafa farið forgörðum er nýi vegurinn var lagður um Seljadal rétt neðan við býlið Þormóðsdal upp í grjótnámið sunnan í Grímannsfelli (sjá „Þormóðsdalur – minjar og annað gull“ á vefsíðunni undir Lýsingar). Þá er ekki vitað hvar Skeggjaleiði kann að vera. Að þessu sinni var hvorki gerð leit að Úlfarsleiði eða Reynisleiði, en að sjálfsögðu verður gerður út leiðangur í það verkefni fyrr en seinna.

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Þegar gengið var að Hraðaleiði vakti stórt hringlaga, næstum jarðlægt, gerði athygli þátttakenda. Auk þess að skoða fyrrnefnda staði var kíkt á Jónssel ofan við Seljabrekku.
Samkvæmt þjóðminjalögum eru haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið, taldir til fornleifa. Hins vegar getur þurft að horfa til þess að „dysjar“ þurfa ekki endilega að vera raunverulegar dysjar heiðins fólks. Bjarki gat þess t.d. að hvorki Hraðastaða né Æsustaða væri getið í fornum skráðum heimildum. Einungis væri um að ræða munnmælasögur sem gengið hafa í sveitinni um langan tíma. Sama sagan væri um Skeggja á Skeggjastöðum, Þormóð í Þormóðsdal, Reyni á Reynisvatni og Úlfar á Úlfarsfelli, sem reyndar nefndist áður Úlfmannsfell.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Sögurnar virðast hafa orðið til líkt og aðrar þjóðsögur þar sem reynt var að finna tilvist þeirra stað með því að vitna til óráðinna sagna og jafnvel áþreifanlegum sönnunum, þ.e. dysjunum.
Hvað um það – sögurnar eru góðar og hafa staðið fyrir sínu um langan tíma, þ.e. þjónað þeim tilgangi sem þeim var ætlað. Það ber þó, með framangreint í huga, að taka sögunum með hæfilegum fyrirvara. Fróðlegt er þó að skoða staðsetningu framangreindra dysja og leiða út frá sögnum um að þau hafi jafnan verið fyrst staðsett á mörkum jarða og síðar á mörkum gróinna bletta umhverfis bæjarstæði. Æsuleiði er einmitt í jarðri fyrrum gróins svæðis, Hraðaleiði er á mörkum jarðarinnar að vestanverðu og Egilsdys er á mörkum jarðar að suðvestanverðu.

Hraðastaðir

Hraðastaðir – dómhringur?

Túnasléttur voru versti óvinur fornra mannvistarleifa á öndverðri síðustu öld. Á þeim tíma voru ótal forn mannvirki jöfnuð við jörðu og sléttuð. Skipti þá engu hvort um var að ræða fornar grafir eða annað. Heimafólkið eitt vissi gjarnan um tilvist þeirra og gætti þess vel að þeim væri ekki raskað, enda fylgdi oft lýsing á hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér, jafnvel þótt ekki gerðist annað en að þau væru nytjuð. Átti kýr á bænum þá gjarnan að drepast, sjómenn að drukkna, heimilisfólk að veikjast og/eða deyja eða aðrar skelfingar að dynja yfir.  Ástæðurnar voru jafnan af tvennum toga; annars vegar til að auka líkur á varðveislu þess, sem fólkið trúði í alvöru að væri satt, og hins vegar til að standa vörð um aðrar varhugaverðari ástæður, s.s. grafir skepna er látist höfðu úr miltisbrandi eða þar sem fatnaður fólks var grafinn er látist hafði úr svartadauða eða spænsku veikinni og svo mætti lengi telja.
Æsuleiði er norðvestan undir rótum gróinnar brekku í túni Æsustaða. Að sögn Bjarka eru Æsustaðir alls ekki svo gamalt býli. Þeir eru einn hluti af nokkrum frá Reykjum. Sunnar er Æsustaðafjall og norðvestar Helgafell. Milli þeirra er skarð, Skammaskarð. Handan og suðaustan þess er Skammidalur. Þar eru minjar stekks eða annarrar rústar.

Jónssel

Jónssel.

Gömul kona, sem bjóð að Æsustöðum hefði fylgt honum um túnið á sínum tíma með það fyrir augum að staðsetja Æsuleiði. Þá hefði hann haldið að leiðið væri áberandi gróinn rofhóll undir brekkunni, en gamla konan hefði hins vegar bent honum á ílanga þúst, um 8 m langa og 2.5 m breiða, skammt norðar undir brekkurótunum. Hæðin er um 0.8 m. Leiðið snýr nokkurn veginn á lengdina í suður/norður. Þarna á Æsa gamla að hvíla. Teknir voru GPS-punktar á dysina.
Í Æsileiði á landnámskonan Æsa að liggja. Æsuleiði er álagablettur sem ekki má slá. Álagablettirnir eru fleiri því auk Æsuleiðis er slíka bletti einnig að finna á Hrísbrú, Norður-Reykjum, Úlfarsá (Álagablettur og Álagabrekka) og Úlfarsfelli. Blettina má ekki, skv. gömlum sögnum, slá eða eiga við á annan hátt.

Sauðhóll

Sauðhóll.

Álfabyggð er skráð á átta bæjum í sveitarfélaginu, Blikastöðum, Helgafelli, Hraðastöðum, Miðdal, Mosfelli, Óskoti, Reykjakoti og Suður-Reykjum. Um 450 metra suður af bæjarhúsunum á Helgafelli er hóll sem nefndur er Sauðhóll. Samkvæmt gamalli sögn hafði bóndinn á Helgafelli einhvern tíma verið að reka heim fé neðan úr Skammadal í austanbyl. Sá hann þá mann á undan sér sem einnig var við fjárrekstur. Hvarf maðurinn fyrir Sauðhól en þegar bóndi kom sjálfur fyrir hólinn sást hvorki af honum tangur né tetur. Taldi bóndi víst að maðurinn hefði horfið inn í hólinn með allt féð en það voru víst sauðir. Var þarna því um huldumann að ræða en ekki mennskan mann.
Sauðhóll er á því svæði þar sem nú er fyrirhugað að rísi ný íbúðarbyggð. Tekið var fullt tillit til hólsins og mun hann standa áfram inni í hinni nýju byggð.

Mosfellsdalur

Egilsdys.

Mjög margar af þeim fornleifum sem skráðar voru í Mosfellsbæ tengjast landbúnaði, , t.d. útihús, stekkir, kvíar, réttir, nátthagar, fjárborgir, sel og mógrafir. Margar þessara minja eru enn greinilegar.
Að sögn Bjarka er Víghóll áberandi kletthóll suðvestan við Norður-Reyki. Að sögn fyrrum ábúanda á jörðinni mun hóllin hafa heitið Kvíahól og þá dregið nafn sitt af kvíahleðslum, sem þar hefðu verið undir honum.
Þá var gengið að Hraðaleiðinu. Það er á vesturmörkum jarðarinnar. Skurður vestan hennar undirstrikar mörkin. Dysin er um 15 m löng og um 6 metra breið. Hæðin er um 1.5 m. Ummerkin benda, ef satt er, til þess að þarna hafi höfðingi verið dysjaður. Leiðið liggur, líkt og Æsuleiði, nokkurn veginn suður/norður.
Gamla íbúðarhúsið að Hraðastöðum sem byggt var 1923 og hefur verið endurbyggt. Það er dæmigerður fulltrúi hins „íslenska sveiser“ og mikilvægt sýnishorn ákveðins tímabils í sögu bændabýla hérlendis (Hörður Ágústsson).
Fyrrnefnt gerði, sem uppgötvað var vestast á túninu á Hraðastöðum, skammt sunnan Þingvallavegar, hefur verið nokkuð stórt. Nú er það um 20×20 m að ummáli, hringlaga. Hringurinn er um 0.20 m hærri en túnið umhverfis. Litabreyting er í hringnum miðað við umhverfið. Ef mjög vel er að gáð má sjá móta fyrir hleðslum í hringnum.

Helgafell

Helgafell – stekkur.

Ljóst er að þarna hefur verið mannvirki áður en túnið var sléttað. Hvort sem það hefur verið hringlaga rétt eða eitthvað annað er ástæða til að skoða það sérstaklega. Enn er t.a.m. ekki vitað hvar Kjalarnesþing var til forna, hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Hvers vegna skyldi það ekki hafa verið þarna – áleiðis til Þingvalla.
Mosfell er ekki langt undan sem og aðrar merkisjarðir fyrrum. A.m.k. kosti væri ástæða til að gaumgæfa þennan stað mun betur. Ekki er vitað hér og nú hvort hann hafi verið uppgötvaður áður sem fornleif svo tekinn var GPS-punktur á hann – ef einhver áhugi skyldi vakna hjá einhverjum.
Innar er Helgadalur. Þar er Katlagil í Grímannsfelli. Í því er hlaðin tóft, sem skoða þarf við tækifæri.
Þá var haldið að Egilsdys. Fyrsti legstaður Egils Skallagrímssonar er sagður í greinilegum haug eða hól á Tjaldanesi. Haugurinn eða hóllinn er nú afgirtur innan hestagirðingur – af einskærri tillitssemi við söguna. Sagnir herma að Egill hafi verið grafinn upp þegar kirkja var reist að Hrísbrú. Margir hafa reyndar velt vöngum um afdrif beina Egils. Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert.

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar.

Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“
Bein Egils munu skv. þessu hafa verið flutt í gömlu kirkjuna, sem nú er reyndar verið að grafa upp í fornleifauppgrefti að Hrísbrú, en síðan þaðan í gamla kirkjugarðinn við Mosfellskirkju, sem væntanlega hefur staðið skammt austar en núverandi kirkja – há og hnarreist.

Víghóll

Mosfellsdalur – Víghóll.

Loks var haldið í Jónssel ofan Seljabrekku. Sagt er frá því annar staðar á vefsíðunni ( Bringur – Helgusel – Mosfellssel – Jónssel undir Lýsingar). Bjarki gekk öruggum skrefum inn á óslegin austurtún bæjarins. Hann sagðist hafa farið þangað einu sinni með Guðjóni Bjarnasyni, þáverandi ábúanda. Hann hefði vísað á selstóftirnar. Þeir hefðu gengið frá bænum, en á leiðinni hafi þeir komið að folaldi í skurðfestu svo einungis höfuðið hafi staðið upp úr. Tekist hefði að bjarga því, en vegna þessa atviks hafi gangan verið einstaklega eftirminnileg.
Leifar Jónssels eru austarlega á grónum túnum Seljabrekku, en þó enn óhreyft. Sjá má móta fyrir útlínum húsanna. Ekki er þó gerlegt að ákvarða veggi einstaka rýmishluta svo öruggt megi teljast. Tækifærið var notað til að rissa minjarnar upp og mæla. Einnig voru teknir GPS-punktar, en þeir reyndust vera þeir sömu og teknir voru í tilefni framangreindrar lýsingar. Munurinn var einungis sá að nú var grasið hávaxnara en áður.
Ljóst er þó að selstóftin hefur greinst í þrennt. Gengið var inn í aðalrýmið úr suðri. Norðaustan við tóftirnar mótar fyrir stekk eða kví. Vestan tóftarinnar er gamalt vatnsstæði. Jónsselslækur er norðar og er selið reist á suðurbakka lækjarins. Frá selinu sést vel hvar lækurinn liggur enn ósnertur þar sem hann liðast upp (ætti að vera niður) brekkuna suðaustanverða, en norðvestar hefur verið grafinn skurður í hann með stórvirkum vinnuvélum.
Hinar hlöðnu tóftarhleðslur, sem lýst var að Jórunn í Bringum hefði notað við heyskapsverkin í byrjun 20. aldar, virðast nú horfnar niður í þykkan svörðinn. Svona er hin „eilífa hringrás“.
Frábært veður.

Skammidalur

Skammidalur – beitarhús.