Gengið var frá Lati niður Ögmundarhraun til suðurs og síðan hrauninu fylgt upp til norðausturs að Húshólma. Reynt var að finna hina gömlu sjávargötu inn í hólmann, að Hólmasundi. Þá var gengið upp Húshólma og sem leið lá upp Ögmundarhraun áleiðis að Núpshlíðarhorni. Hér verður ekki rakin leiðin í gegnum Húshólmann og minjarnar þar, enda hefur það verið gert í FERLIR-046, 128, 217, 300, 286, 545, 634 og 715, auk þess sem þeim verður lýst mun nákvæmar síðar.
Miðrekar eru austan Selatanga. Eystri Látrar eru á millum. Fyrir sunnan Lat eru hraunskipti með nokkuð háum hraunhrygg. Stígnum austur yfir hraunið frá þjóðveginum var fylgt að skilunum og beygt þar til suðurs. Eftir stutta göngu var komið að sæluhúsinu, sem þar er. Sá síðasti, sem skyldi við húsið, hefur lagt hurðarhelluna settlega við dyraopið þar sem hún var notuð hinsta sinni. Nú. u.þ.b. 100 árum síðar, er þessi hella ásamt öðru, sem þarna er, friðar skv. þjóðminjalögum, án þess að friðunaröflin hafi hina minnstu hugmynd um tilvistina. Eflaust hafa margir haft skjól þarna í skútanum í gegnum tíðina. Gott hefur verið að geta hallað sér í skjólið og á öruggum stað í svartnættinu þegar allra veðra var von. Frá skútanum er u.þ.b. klukkustundar gangur að Ísólfsskála og u.þ.b. tveggja klukkustunda gangur til Krýsuvíkur.
Haldið var áfram niður með hraunkantinum og stefnan tekin á háa vörðu neðarlega í hrauninu. Hún stendur þar ein og yfirgefin, án fylgdarvarða. En vörður voru ekki hlaðnar að ástæðulausar hér áður fyrr, allra síst svo háar og myndarlegar. Þegar farið var að grennslast um hverju hún sætti kom í ljós að austan við hana eru greni (Miðrekagrenin) og byrgi grenjaskyttna. Grónir bollar eru í hrauninu austan og ofan við vörðuna. Grenjaopin eru merkt og hlaðin eru skjól fyrir skyttur. Meira að segja var óbrotin brennivínsflaska í einu byrgjanna. Hún var látin liggja á sínum stað, líkt og FERLIRs er háttur.
Stefnan var tekin upp hraunið til norðausturs. Eftir nokkra göngu um þykkt mosahraun var komið að listaverkagarði náttúraflanna. Þar, á tiltölulega litlu svæði, virtust náttúruöflin hafa staldrað við á leið sinni með hraunið til sjávar, svona til að leika sér stutta stund, a.m.k. m.v. jarðfræðimælikvarðann. Þegar staldrað var við og augun látin líða yfir hraunsvæðið birtist hvert listaverkið á fætur öðru. Það skal tekið fram, til að fyrirbyggja misskilning, að brennivínsflaskan, sem skilin hafði verið eftir í byrginu, var tóm er að var komið. Eflaust gæti hver og einn túlkað hraunlistaverkin á sinn hátt – líkt og gengur og gerist með listaverk mannanna.
Enn var stigið skrefið og stenan tekin á Brúnavörður á hraunhæð framundan. Vörðurnar eru tvær og voru mið af sjó.
Hins vegar eru þær einnig ágæt mið fyrir fótgangendur á landi því handan þeirra tekur við manngerður stígur áleiðis inn í Húshólma. Segir sagan að syndir (hann átti reyndar ekki nema einn) hafi flórað stíginn til ferðalaga. En í stað þess að taka þennan auðveldasta stíg inn í Húshólma var ákveðið, svo sem upphafega var stefnt til, að ganga niður með hraunkantinum til suðausturs í von um að finna framhald þess stígs, sem þar liggur, inn í Húshólma. Þegar komið var niður að ströndinni hvarf stígurinn.
Varð það seginn saga, svo sem algengt er með sjávarstíga, að Ægir hefur þegar brotið þá undir sig. Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig sjórinn hefur smám saman brotið af ströndinni, enda sjálf ekki bætt við sig neinu s.l. 850 árin.
Gengið var ofan við ströndina í gegnum hraunið, sem reyndar var ekki neinum kveifiskötum ætlað. En með þolinmæði og þjálfun varð komist í gegnum stórbrotið hraunið og alla leið inn í Húshólma. Ekki var að þessu sinni litið á hinar merki minjar í hólmanum heldur strikið tekið upp til norðurs í gegnum hann, framhjá selstöðuminjunum og áfram áleiðis upp í gegnum Ögmundarhraunið.
Á þeirri leið, sem er bæði löng og erfið, var gengið framhjá Mælifellsgrenjunum. Við þau eru einnig hleðslur eftir grenjaskyttur. Ofar var Mælifell (Krýsuvíkur-Mælifell). Gengið var inn á gamla Ögmundarstíginn, framhjá Ögmunardys og veginum, sem endurruddur hefur verið nokkrum sinnum, fylgt yfir Ögmundarhraun til vesturs. Haldið var áfram upp og yfir Latsfjall að norðanverðu og síðan gengið niður Tófurbuna og gömlu götunni fylgt að Núpshlíð þar sem hún var síðan rakin niður með fjallsrótunum. Gengið var áfram til vesturs sunnan hlíðarendans.
Núpshlíðarhornið var framundan. Hlíðin hét áður Gnúpshlíð og hálsinn inn af Gnúpshlíðarháls. Þegar horft var á hlíðina, aðstæður ígrundaðar sem fyrrum voru og rifuð var upp sagan af Molda-Gnúpi Hrólfssyni, var ekki órótt um að þarna, sem minjarnar í Húshólma voru, gæti sá maður hugsanlega hafa haft samastað. Einn þátttakenda setti fram þá kenningu að nefndur Molda-Gnúpur, sá sem hálsinn er nefndur eftir, hafi búið þar undir. Hann er í Landnámu sagður hafa sest að í Grindavík eftir að hafa orðið fyrri því óláni í Álftaveri að flóð úr Mýrdalsjökli frá Eldgjárgosinu mikla 934-938 hljóp á land hans og lagði í eyði.
Hann fór þá í Mýrdalinn og var þar einn vetur, en þar var þá fullnumið og hann hraktist eftir deilur við þá, sem fyrir voru, áfram vestur á bóginn, allt til Grindavíkur, eins og Landnáma segir. “Allt til Grindavíkur” gæti þýtt áleiðis til Grindavíkur, enda Grindavík ekki til þá í upphafinu. Eflaust og áreiðanlega hafa aðstæður verið allt aðrar en nú eru undir Núpshlíðarhálsi. Bær og bæir gætu hafa verið byggðir, garðar hlaðnir, borgir (fjárborgir) reistar og búskap komið á fót. Viðurnefnið Molda gæti Gnúpur hafa fengið vegna elju sinnar við að nýta moldina og það sem í henni var, grjót og torf, enda virðast hafa verið nóg af görðunum undir Ögmundarhrauni. Hins vegar bjó faðir hans, Hrólfur höggvandi, á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Bróðir Molda-Gnúps var Vémundur, en “þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir”, eins og segir í Landnámu.
U.þ.b. 210 árum síðar, eftir fjórar kynslóðir og mikla uppbyggingu á gjöfulum stað, tók jörð skyndilega að skjálfa nótt eina og hraun að renna. Fólkið flýði sem fætur toguðu og skyldi eftir allt, sem það átti. Enn var ekki farið að skrifa sögu Íslendinga eða landnáms þeirra og alls ekki þess fólks sem almúgi hét. Sá, sem skrifaði fyrst um frægð og frama, með hliðsjón af landsins yfiráðarétti, gerði það í ákveðnum tilgangi, enda tilgangslaus skrif þá ofar dýrum feldi.
Þetta var nú einu sinni hugsun um möguleika – ekki staðreynd.
Gnúpshlíðin var fögur á að líta.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.