Kotvogur

Í 10. tölublaði Faxa árið 1962 er fjallað um Ketil Ketilsson í Kotvogi.

Ketill ketilsson

Ketill Ketilsson (1823-1902).

„Þann 13. maí 1902 andaðist í Kotvogi í Höfnum í Gullbringusýslu Ketill Ketilsson dbrm., og hafði hann þá búið í Kotvogi mesta rausnarbúi í 42 ár. Hann var fæddur 23. júlí 1823 á Svalbarða á Álftanesi í sömu sýslu. Faðir hans var Ketill Jónsson, nafnkenndur dugnaðar- og atorkumaður, bróðir Steingríms bónda á Hliði og þeirra mörgu og merkilegu systkina. Var móðurætt þeirra úr Skagafirði. En móðir Ketils í Kotvogi var Vigdís Jónsdóttir Daníelssonar hins ríka frá Stóru-Vogum. Var hún hið mesta góðkvendi og búforkur.
Þau Ketill og Vigdís áttu 3 syni, er allir náðu fullorðinsaldri, en báðir voru bræður Ketils Ketilssonar, andaðir á undan honum. Vigdís andaðist árið 1928, og bjó Ketill síðan sem ekkjumaður til þess um vorið 1831. Þá fluttist hann með börn sín og bú að Kirkjuvogi í Höfnum til húsfreyju Önnu Jónsdóttur dbrm. Sighvatssonar í Höskuldarkoti í Njarðvíkum, sem þá bjó ekkja í Kirkjuvogi, fyrst eftir Hákon lögréttumann Vilhjálmsson og svo eftir Halldór Gunnarsson hreppstjóra þar. Varð Ketill Jónsson þriðji maður hennar.

Kotvogur

Kotvogur.

Þar ólst Ketill Ketilsson upp með föður sínum og stjúpu sinni, sem gekk þeim bræðrum í móðurstað, ásamt sonum hennar, Vilhjálmi og Gunnari, og urðu þeir allir orðlagðir dugnaðarmenn og merkisbændur.
25 ára gamall gerðist Ketill lausamaður og byggði þá mjög stóran sexæring, sem hann gerði út og var formaður fyrir; hafði hann áður verið formaður fyrir föður sinn. Þá var sjósókn mikil í Höfnum og fór þangað hið duglegasta fólk úr sveitunum, sérstaklega til þessara þriggja formanna, Vilhjálms Gunnars og Ketils, sem allir kepptu hver við annan, og mun sú sjósókn og þau aflabrögð verða lengi í minnum höfð.

Kotvogur

Kotvogur – smiðja.

Árið 1858 kvæntist Ketill Ketilsson ungfrú Vilborgu Eiríksdóttur frá Litlalandi í Ölfusi, mesta valkvendi og búsýslukonu. Áttu þau 7 börn. Dó 1. í æsku, 2. er Ketill óðalsbóndi og hreppsnefndaroddviti í Kotvogi, kvæntur Hildi Jónsdóttur prests Thorarensens frá Stórholti í Dalasýslu. 3. er Ólafur hreppstjóri, bóndi á Kalmanstjörn, kvæntur Steinunni Ólafsdóttur prests, síðast á Stað í Grindavík. 4. er Vilhjálmur Kristinn sýslunefndarmaður, bóndi í Kirkjuvogi, kvæntur Valgerði Jóakimsdóttur frá Prestsbakka. 5. er Helga, ekkja eftir síra Brynjúlf Gunnarsson á Stað. 6. er Vigdís, kona Ólafs Ásbjörnssonar verzlunarmanns í Reykjavík. 7. Eiríkur, er dó 1897, en var hreppstjóri og sýslunefndarmaður í Grindavík, kvæntur Jóhönnu Einarsdóttur frá Garðhúsum í Grindavík.

Kotvogur

Kotvogur 2025.

Fyrstu tvö árin eftir að Ketill kvæntist, bjó hann sem þurrabúðarmaður, en vorið 1859 fluttist hann að eignarjörð sinni Hvalsnesi og bjó þar til vorsins 1860. Þá um veturinn á undan andaðist stjúpa hans og bað þá Ketill faðir hans hann að flytjast að Kotvogi, og fékk Ketill yngri þá jörð til eignar. Nú tók hann að byggja upp bæinn þar og bæta jörðina. Kotvogur er með reisulegri bændabýlum.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Á Hvalsnesi byggði Ketill stóra og vandaða timburkirkju 1864, en 1889 byggði hann þar aftur steinkirkju, án þess að hin fyrri væri farin að skemmast til muna, til þess að börn sín þyrftu ekki að kosta til aðgerðar á hinni fyrri. Báðar þessar kirkjur voru mjög vandaðar og vel og traustlega byggðar, enda mun tæplega traustari bygging hjá öðrum en honum né meira í borið. Rausnarmaður var hann hinn mesti og hjálpfús. Einn vetur gaf hann fæðingarhreppi sínum mikið af korni.

Kotvogur

Kotvogur 2025.

Ketill heitinn var mjög höfðinlegur maður á velli, fullar 3 álnir á hæð og beinvaxinn, mjög glaðlegur í viðmóti og söngmaður með afbrigðum. Hreppstjóri var hann 12 ár í Hafnarhreppi, hreppsnefndarmaður og sáttasemjari lengi. Gestrisinn var hann mjög og yfirleitt var heimili þeirra hjóna eitt hið blómlegasta og reglusamasta bændaheimili. Vilborg kona Ketils andaðist í október 1906. — Þetta er um Ketil kveðið:

Garpsinnaður, gestrisinn,
góðhjartaður, ófeiminn,
listahraður, lángefinn,
lyndisglaður, velmetinn.

Kunnugur (Óðinn, janúar 1912).“

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1962, Ketill ketilsson í Kotvogi, bls. 215.

Kotvogur

Kotvogur.

Hafnarfjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins 1995 fjallar Snorri Jónsson um „Atvinnusögu Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið“ undir fyrir sögninni „Veitingar að vild og sungið í Almannagjá„. Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma.
Um er að ræða IV og lokakafla í sögu þessa tímabils.

Umbætur á húsum og löndum
HafnarfjörðurÞetta sumar lét Hellyer gera margar og miklar umbætur á húsum og löndum í Svendborg. Júlíus Nýborg skipasmiður sá um allar smíðar og viðgerðir bæði í landi og á skipunum. Honum til aðstoðar, meðal annarra, var Níels í Kletti. Verkstjórar við skverkunina voru Sigurður Þórólfsson og Þórður Einarsson, sem um eitt skeið var rafljósavörður í bænum, ævinlega nefndur Þórður ljósa. Umsjónarmaður með vörum til skipanna var Englendingur að nafni Johnson, ákaflega sver og feitur karl og hafði áður verið togaraskipstjóri. Annar Englendingur sá um allt sem viðkom vélum skipanna, en nafn hans er liðið mér úr minni.

Hafnarfjörður

Sendborg.

Margir duglegir strákar unnu þarna í Svendborg. Sérstaklega minnist ég Jóns Guðmundssonar, sem síðar varð yfirlögregluþjónn í Hafnarfirði. Hann aðstoðaði m.a. Englendingana við flutning á vörum til skipanna.
Lífið í Hafnarfirði á fyrsta fjórðungi aldarinnar var tilbreytingarlítið; — að minnsta kosti myndi mönnum finnast það nú ef þeir hyrfu þetta spölkom aftur í tímann. Allt snerist um fisk, vinnan var fiskur og fiskurinn var vinnan og fiskur var uppistaðan í daglegri fæðu. „Vantar þig ekki í soðið,“ sögðu sjómennimir þegar þeir komu úr róðri.

Hafnarfjörður

Uppskipun á fiski í Hafnarfjarðarhöfn.

„Taktu hann þennan. Er þessi kannski ekki nógu góður?“ Og engrar greiðslu var krafist. Þannig var samhjálpin, eðlileg og ómeðvituð. En núna, þegar allt er að breytast eða orðið breytt, er svona lagað kallað frumstætt og vekur furðu. Allt er selt og allt er tilbreyting frá daglegu amstri varð því eftirminnileg og umtöluð.

Skemmtiferðir Bookless og Hellyers
Á sínum tíma þótti það ekki lítil tilbreyting þegar Booklessbræður tóku upp þann sið að bjóða fólki sínu i skemmtiferð.
Þessar skemmtiferðir á vegum Booklessbræðra þættu nú ekki tilkomumiklar á nútímavísu. Þær voru fólgnar í því að boðið var upp á veitingar eins og hver vildi suður við Grísanes eða á Hamranesflötum og fóru þangað flestir gangandi því að fæstir áttu fararskjóta. Vel man ég eftir einni slíkri skemmtiferð.
HafnarfjörðurÞegar veitingar höfðu verið þegnar hófst íþróttakeppni. Var mönnum skipt í flokka eftir aldri og fengu allir verðlaun að lokinni keppni. Í þriðja flokki karla tóku þrír þátt í hlaupi. Það vom þeir Bjarni Narfason, Magnús í Brúarhrauni og Ándrés Guðmundsson, faðir Gríms Andréssonar og þeirra systkina. Hlaut Magnús fyrstu verðlaun, sem var göngustafur. Sagði hann að göngustafurinn hefði komið sér vel á heimleið, því hann hefði orðið dálítið valtur á fótum eftir trakteringar þeirra skosku!

Boddíbíll

Boddíbíll.

Bjarni hlaut önnur verðlaun og gekk heim hjálparlaust, en Grímur þriðju og gekk víst ekki nema hálfa leiðina! Þetta vakti ánægju og gleði í fásinni og tilbreytingarleysi daganna.
Svo var það eitt árið, sem þeir Hellyersbræður störfuðu hér, að þeir ákváðu að feta í fótspor fyrirrennara sinna, þeirra Booklessbræðra, og bjóða fólki sínu í skemmtiferð og skyldi nú fara til Þingvalla. Var okkur verktökum, ásamt öllu verkafólkinu, boðið með, en þátttakan var nú ekki mikil miðað við allan þann fjölda sem hjá þeim vann. Farkostirnir vora venjulegir flutningabílar. Á þeim bílum sem best voru úr garði gerðir var húsgrind með bekkjum í, klædd með striga. Víst var um það að allir, sem tóku þátt í ferðinni, voru ánægðir yfir farkostunum og glaðir í sinni og það var besta veganestið.

Ferðalag

Ferðamáti í byrjun 20. aldar. Boddíbíll í bakgrunni.

Á austurleiðinni lentu þeir saman í bíl Guðmundur Gíslason frá Tjörn, Finnbogi Jónsson, Marijón Benediktsson og Janus Gíslason. Eitthvað var nú skrafað í bílnum þeim því það bar helst til tíðinda á leiðinni austur að þeir Guðmundur og Finnbogi hótuðu að fara úr bílnum og verða eftir ef þeir Janus og Marijón hættu ekki sínu klúra orðbragði! Ekki varð þó úr að þeir yfirgæfu bílinn og að lokum tókst að koma á sættum sem entust þeim nokkum veginn á leiðarenda.

Rómantík á Þingvöllum

Þingvellir

Þingvellir 1915 – póstkort.

Þennan sunnudag var sólskin og bliða allan daginn. Þá eru Þingvellir yndislegur staður og náttúrufegurðin í allri sinni fjölbreytni óviðjafnanleg. Mér fannst eins og ég kæmist í persónulega snertingu við þá atburði sem þarna hafa átt sér stað í gegnum tíðina, sérstaklega þá atburði sem frá er sagt í Njálu. Þingvellir í blíðviðri gefa atburðum sögunnar, sem við staðinn era tengdir, enn
rómantískari blæ. Gunnar og Hallgerður verða enn glæsilegri þar sem þau ganga eftir Almannagjá í kvöldkyrrðinni, Skarphéðinn enn tilkomumeiri þegar hann veður að Þorkeli hák í liðsbónarferð og hótar að keyra Rimmugýgju í höfuð honum og enn meiri ljóma stafar af Þorgeiri Ljósvetningagoða þegar hann skríður undan feldinum og sættir þingheim.

Valhöll

Valhöll 1915.

Þarna nutum við dagsins í blíðviðri á Þingvöllum í boði atvinnurekandans, Hellyer Bros. Ltd. í Hull, og skemmtum okkur svikalaust.
Fólk hafði með sér nesti og þess var neytt á víð og dreif, farið í leiki, keppt í hlaupi og kefladrætti svo að eitthvað sé nefnt. Í kapphlaupinu var fólki skipt í flokka eftir kynjum og aldri. Man ég vel að um fyrsta sætið í öldungaflokki karla kepptu þeir Jón Einarsson og Pétur Snæland og varð Jón hlutskarpari eftir harða keppni.

Sungið fullum hálsi

Almannagjá

Almannagjá.

Þegar líða tók á daginn söfnuðumst sum okkar saman í Almannagjá, einkum þau okkar sem voru úr söngkór stúkunnar Morgunstjarnan, og fóra að syngja fullum hálsi ættjarðarlög, m.a. Öxar við ána. Fannst okkur söngurinn hljóma vel í gjánni. Brátt veitum við því athygli að talsverður áheyrendahópur er kominn í gjána og hlýðir á sönginn. Mestur hluti þess fólks voru farþegar á skemmtiferðaskipi sem statt var í Reykjavík. Er nú komið til okkar og við beðin að syngja meira af íslenskum þjóðlögum. Við tökum vel í það og var nú reynt að vanda sig eftir bestu getu og sungum við mörg lögin þrí- og fjórraddað.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Að lokum dettur okkur í hug að syngja þjóðsönginn. Þegar við erum í þann veginn að bylja vindur sér til okkar maður úr ferðamannahópnum og syngur tenórinn í þjóðsöngnum. Þetta var Þorsteinn, bróðir Péturs Jónssonar óperusöngvara, og var heldur betur liðtækur. Þegar söngnum var lokið víkur sér amerísk kona að minni ungu konu, Jensínu Egilsdóttur, og þakkar henni sérstaklega fyrir sönginn. Segist hún hafa veitt því athygli hversu mikla og fagra rödd hún hafi og biður hana að þiggja af sér fimm dollara seðil til minningar sem örlítinn virðingar- og þakklætisvott fyrir söng hennar.

Og sumarið leið

Hafnarfjörður

Starfsmannahús Hellyers.

Allt var þetta eftirminnilegt; ferðin fram og til baka, veðurblíðan, náttúrufegurðin, söngurinn. Þegar við héldum heim á okkar fimm flutningabílum með trébekkjum á palli og húsgrind klædd í striga þá fannst mér þetta verið hafa dásamlegur dagur sem fengið hefði dýrðlegan endi. Og upp í huga minn kom þetta ágæta erindi eftir séra Hallgrím:

Gott er að hætta hverjum leik
þá hæst fram fer.
Nú skal hafa sig á kreik.
Vel sé þeim sem veitti mér.

Hafnarfjörður

Togarinn Ceresio var í eigu Hellyers.

Var nú ekið heim í kvöldkyrðinni og bar ekkert til tíðinda sem frásagnarvert geti talist.
Daginn eftir tók hversdagsleikinn við. Nóg var að starfa, — allra beið þrotlaust starf. Hjá okkur lá fyrir að losa togara, kola togara og leggja fiskreit; — hjá Svenborgarfólkinu að þvo fisk, stafla fiski eða breiða fisk ef þurrkur yrði.
Og sumarið leið, þetta blíðviðrasumar, og vinnan var alltaf meira en nóg. Við lögðum Mr. Allans-reitinn milli þess sem við losuðum fiskinn úr togurunum eða kol og salt úr flutningaskipum. — Og árið leið til enda við umstang og erfiði.

Tryggvi skar sig úr

Hafnarfjörður

Imperialist var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1924 fyrir Hellyers Bros Ltd í Hull. 488 brl. 800 ha. 3 þenslu gufuvél. Smíðanúmer 457. Hann var gerður út á saltfiskvertíðinni frá Hafnarfirði 1925-29 af Hellyer-bræðrum. Tryggvi Ófeigsson var fiskiskipstjóri, og segir af skipinu í ævisögu hans eftir Ásgeir Jakobsson.

Næsta ár komu Hellyersbræður með skip sín á ný, en það var ekki nærri eins mikill kraftur og líf í útgerðinni og áður hafði verið. Fiskiskipstjórarnir íslensku fengu ekki að ráða eða höfðu ekki þau bein í nefi sem þurfti til að taka völdin í sínar hendur, enda ungir og lítt reyndir, og gekk illa að fiska.
Tryggvi Ófeigsson skipstjóri á Imperialist skar sig úr hvað þetta snerti. Hann fór ekki eftir öðru en eigin sannfæringu og eigin hugboði og lét aldrei í minni pokann fyrir þeim bresku, enda fiskaði hann meira en hinir. Atlæti og aðbúnaður um borð var betri hjá Tryggva en hinum. Það gætti óánægju í áhöfnum hinna togaranna, enda var á takmörkum að mannskapurinn fengi nóg að borða. Er þá ekki að sökum að spyrja: úr afköstum dregur, óánægjan býr um sig og þá er ekki við miklu að búast.

Hafnarfjörður

Togarinn Menja.

Á síðari hluta Hellyerstímabilsins finnst mér færra til frásagnar. Við unnum við ensku togarana meðan þeir lögðu hér upp fyrir sömu eða svipuð kjör og við sömdum um á áramótum 1924—25. Auk þess afgreiddum við botnvörpungana Ver og Víði, Ými og Menju. Ýmiss konar aðra vinnu tókum við að okkur eftir því sem til féll. Á sumrum fórum við austur í Arnarbæli og heyjuðum til viðbótar Selskarðstúninu. Tíðin var einmuna góð á þessum árum og heyskapur jafnan ágætur.

Samanburður út í hött

Hafnarfjörður


Saltfisklöndun úr togaranum Garðari GK 25. Tekið um borð í skipinu og sér yfir fremri hluta þess, bakborðsmegin. Um borð eru verkamenn að vinnu, flestir á nankinsjökkum, buxum og með derhúfur. Einnig tveir drengir á þilfari togarans. Löndunarskúffa. Net strengt milli skips og bryggju. Á bryggju tveir vörubílar, verið að kasta fiski á annan þeirra. T.v. löndunarkrani, sést að hluta, löndunarskúffa með fiski í hangir í krana og heldur maður í reipi á henni. Í bakgrunninum bryggjur, hús og þorp.
Nánari upplýsingar:
1) Edinborgarhúsið (nú horfið). Ágúst Flygenring var þar til húsa með umsvif sín.
2) Salthús (nú horfið).
3) Akurgerðishúsið (nú horfið). Þar var m.a. verslun Gunnlaugs Stefánssonar og skrifstofur Sviða.
4) Jón Einarsson, verkam., áður verkstjóri í Hafnarfirði.
5) Vöskunarhús Edinborgar.
6) Fiskverkunarhús Akurgerðis.
7) Bæjarbryggjan.
8) Janus (Gíslason) bílstjóri.

Rétt finnst mér að geta þess hvað við fengum fyrir vinnuna. Eg geri það raunar til gamans, því samanburður við nútímann virðist ógjörningur. Tæknin er komin í margföldum mæli til liðs í svona vinnu, vélaafl komið í stað vöðva og verðlag og kaupgjald hefur breyst svo mjög í krónum talið að allur samanburður er út í hött. En verð á ýmsum þessara verka árið 1926 var sem hér segir:
Uppskipun á fiski úr togara, komið á bíl kr. 3.30 pr. tonn.
Kola togara með tippvögnum kr. 1.70 pr. tonn.
Kola togara með pokum kr. 2.55 pr. tonn.
Útskipað salti í togara með pokum kr. 2.60 pr. tonn.
Útskipað salti í togara með tippvögnum kr. 1.60 pr. tonn.
Uppskipun á kolum úr fragtskipi í pokum kr. 2.60 pr. tonn.
Uppskipun á kolum, laust í trogum og á bíla kr. 1.65 pr. tonn.
Uppskipun á salti í pokum kr. 2.50 pr. tonn.
Eftirvinna var í hlutföllunum 3:5.

Það sem úrslitum réði
Útgerð Hellyersbræðra varaði næstu árin, en kraftur hennar fór sídvínandi. Árið 1929 sigldu þeir brott með sinn fríða flota, saddir af sínu umstangi hér. Að þeim var mikil eftirsjá og brottför þeirra var þungt áfali fyrir atvinnulífið. Sú var þó bót í máli að innlend botnvörpungaútgerð og önnur útgerðarstarfsemi var komin á fót og dafnaði og því vofði atvinnuleysi ekki yfir á sama hátt og 1922, þegar Bookless Bros. Ltd. varð gjaldþrota.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn 1910.

Þessir tæpu tveir áratugir, frá 1910 til 1930, mætti ef til vill með réttu kalla breska tímabilið í atvinnusögu Hafnarfjarðar. Þótt önnur atvinnustarfsemi hafi verið að sækja í sig veðrið á þessum árum var hún ekki nema svipur hjá sjón við hliðina á þessum skosku og ensku risum. Afkoma fólks og atvinnulífið hér byggðist að verulegu leyti á þeim.
Á þessu tímabili var töluvert aðstreymi fólks til Hafnarfjarðar og margir komu hingað utan af landi til að vinna meðan vertíðarnar stóðu sem hæst; — og það er óhætt að segja að margur hlaut góða umbun síns erfiðis.

Hanarfjörður

Fiskvinnslufólk við aðgerð á plani bæjarútgerðarinnar við Vesturgötu. Vestan við bárujárnsgirðinguna sést kolabingur og í eitt af húsum Helleyers.

Hellyersbræðrum þótti erfítt og umfangsmikið að gera út á veiðar í salt. Í því var fólgin mikil fjárfesting sem skilaði sér ekki til baka fyrr en seint og um síðir, en þegar fiskurinn var ísaður um borð var annað upp á teningnum; það var jafnvel búið að gera upp túrinn þegar skipið fór í næstu veiðiferð.
„Það er léttara að gera út sextíu togara frá Hull á veiðar í ís en sex héðan á veiðar í salt,“ sagði Mr. Owen Hellyer eitt sinn við mig.
Það var þetta sem úrslitum réði.“

Hér líkur skrifum af Hellyersútgerðinni sem og útgerðaratvinnuháttum í Hafnarfirði á árunum 1924-1929. Skrifin eru byggð á endurminningum Gísla Sigurgeirsson, sem nú er látinn. Ljóst er að margt hefur breyst í framangreindum efnum á skömmum tíma. Þess vegna eru frásagnir sem þessar svo mikilvægar til að efla meðvitund okkar, sem teljum okkur lifa í nútímanum.
Skrifarinn, Snorri Jónsson (1928-2016), starfaði við Flensborgarskóla.

Framhald…

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 10. tbl. 11.03.1995, Snorri Jónsson, Hellyerstímabilið IV, Veitingar að vild og sungið í Almannagjá, bls. 6-7.

Hafnarfjörður

Krosseyrarvegur 7. Húsið er teiknað af Geir Zoega, fyrir útgerðarfyrirtækið Hellyers bros.

Smalaskáli

Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum.

Jón Magnússon

Jón Magnússon (1902-2002).

Sumarið 1945 fékk Jón Magnússon í Skuld og eiginkona hans Elín Björnsdóttir úthlutað land í Smalahvammi vestan við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir…“.

Smalaskáli ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni og það er ljóst að hann og ættmenni hans eru með græna fingur, eins og frægt er. Nægir að nefna gróðrastöðina Skuld sem Jón stofnsetti árið 1952.

Elín Björnsdóttir

Elín Björnsdóttir (1903-1988).

Gróðrarstöðin útvegaði Hafnfirðingum og íbúum helstu nágranna byggðarlaga fjölbreyttan trjágróður um langt árabil og þar ræktaði Jón m.a. beinstofna birkitré sem sett hafa svip á garða um allan bæinn. Í trjálundinum í Smalahvammi er minningarsteinn um eiginkonu Jóns, Elínu, sem lést árið 1988. Jón lést árið 2002, á hundraðasta aldursári.

Í Morgunblaðiðinu árið 1986 var m.a. fjallað atorkusemi Jóns á 40 ára afmæli Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Garðabæjar undir fyrirsögninni „Að skila landinu betra í hendur afkomendanna“: „Skilyrði til skógræktar væru óvíða erfíðari en í nágrenni Hafnarfjarðar og Garðabæjar þar sem skiptust á blásnir melar og hrjóstug hraun. Mikið starf biðu því ræktunarmannanna en til marks um það hvað hægt væri að gera væri Smalaskáli Jóns í holtinu fyrir ofan Sléttuhlíð.

Magnús Magnússon

Magnús Magnússon í Skuld.

Upp af örfoka landi reis þar gróskumikill skógur, sem sýndi hvaða framtíð gat beðið holtanna í kring“. Jón minntist að þessu tilefni á áníðsluna, sem landið hefði orðið fyrir af illri nauðsyn vegna beitar um aldaraðir, hvernig skógurinn hefði verið höggvinn til kolagerðar og beittur miskunnarlaust uns svo var komið, að bældar kjarrleifar voru einar eftir á stöku stað. Hafði Jón ljóðperlur þjóðskáldanna á hraðbergi og sagði, að við skulduðum landinu fósturlaunin. Sjálfur hafi honum hefði ávallt fundist sem honum bæri skylda til að reyna að skila landinu betra í hendur komandi kynslóða.

Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1981 er getið um Smalaskála Jóns í Skuld: „Einn öflugsti liðsmaður Skógræktarfélagsins frá upphafi var Jón Magnússon sem var ætíð kenndur við fæðingarheimili sitt Skuld í Hafnarfirði. Þáttur hans í starfseminni er svo margháttaður að ekki gefst rúm til að fjalla um það allt, en við hæfi er að nefna hér ræktunarstarf hans í Smalahvammi í Syðsta-Klifsholti. Þar hafði faðir hans stundum heyjað á sumrin en þegar Jón fékk landinu úthlutað 1945 fyrir sumarbústað var það ekki svipur hjá sjón.

Smalaskáli

Smalaskáli 1949.

Áður hafði landið verið sumar- og vetrarbithagi Kaldársels, en skammt frá hvamminum eru Kaldárselshellar sem voru vetrarskjól útigangssauða Garðhverfinga. Þar er einnig skálatóft fjársmala sem hvammurinn dregur nafn sitt af.
Landið var lítið annað en blásnir moldarflekkir, stórgrýtt holt og stöku rofabörð. Jón byrjaði á að stinga niður börðin, hlaða upp kanta til að mynda skjó, sá í landið og stöðva uppblástur. Hann gróðursetti skógarfuru sem lúsin fór illa með, einnig sitkagreni frá Kanada sem hann ræktaði sjálfur, rauðgreni, stafafurur, bergfurur og fjallaþin.

Smalaskáli

Smalaskáli 1949. Jón að dytta að bústaðnum.

Birkið sem var fyrir í landinu var orðið úrkynjað af margra ára áþján, ofbeit og illri meðferð. Það hefur varla náð sé enn, nema þau tré sem Jón klippti að mestu niður. Nú er Smalaskálahvammur gróskumikill skógarreitur sem ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni. Jón Magnússon fæddist í 20. september 1902 í gamla bænum Skuld í suðurhluta Hafnarfarðar, en þar í túninun setti hann seinna á laggirnar samnefnda gróðrastöð. Jón starfaði lengi sem vörubílstjóri og rak um tíma Áætlunarbíla Hafnarfjarðar ásamt bræðrum sínum og vinum, en hann helgaði sig að mestu gróðrastöðinni seinni hluta ævinnar. Jón var á meðal stofnenda Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og stjórnarmaður frá upphafi og var gerður að heiðursfélaga á 40 ára afmæli félagsins 1986.“

Smalaskáli

Smalaskáli 1966.

Í Morgunblaðinu árið 1999 var viðtal við undir fyrirsögninni „Fékk áhuga á ræktun með móðurmjólkinni“. Í inngani segir að Jón Magnússon, sem gjarnan er kenndur við gróðrarstöðina, Skuld í Hafnarfírði, varð þekktur fyrir margt löngu fyrir að hafa ræktað fallegt birki. Skapti Hallgrímsson spjallaði við Jón, sem nú er orðinn 97 ára.

„Jón kveðst hafa byrjað að rækta birkihríslur um 1940 en áhugann hafi hann líklega fengið með móðurmjólkinni.
„Þetta gekk þokkalega. Ég var talinn vera með ágætt birki,“ segir Jón og er lítillátur þegar hann rifjar upp liðna tíma. Upphaflega var ræktunin einungis áhugamál hans en síðar aðalstarf.

Birki

Beinstofna birki.

„Ég var vörubílstjóri lengi vel og hafði þetta í hjáverkum í mörg ár, en svo óx þetta smátt og smátt og það endaði með því að ég hætti í akstrinum og sneri mér eingöngu að þessu.“
Og hann segist fyrst og fremst hafa haft áhuga á að rækta birki.
„Ég var líka með aspir og furu og greni en fyrst og fremst lagði ég áherslu á birkið. Mér þótti líka vænst um það því birkið var það íslenskasta af því öllu. Birkið átti sinn þátt í því að þjóðin gat lifað í landinu á hennar dimmustu dögum því það var sótt svo margt í birkið, til dæmis eldiviður og byggingarefni.“
Og Jón neitar því ekki að hafa verið talinn rækta betra birki en aðrir, þegar talið berst að því á nýjan leik.
„Já, mér tókst það, og ég lagði mig dálítið fram um það. Ég sá fljótlega að stundum var ekkert sameiginlegt nema nafnið; trén voru mjög breytileg og ég lagði mig fram um að fá þau sem fallegust. Með því að ala upp undan fallegum trjám; nota fræ af fallegustu plöntunum sem ég var með, tókst mér smám saman að fá sífellt fallegri tré.“

Aldrei fullkomlega ánægður

Birki

Birki.

En hvernig skyldu birkihríslur Jóns í Skuld hafa verið frábrugðnar öðrum?
Því svarar Jón þannig: „Þær voru beinni, þróttmeiri, laufmeiri og laufstærri; það var einhvern veginn annar blær á þeim. Birkið hjá mér þótti fallegri á allan hátt.“
Jón er 97 ára og segist aðspurður eiginlega nýhættur störfum í gróðrarstöðinni, sem er til húsa við Lynghvamm í Hafnarfirði.
„Stöðin er enn starfandi og nú er það dóttir mín, Guðrún Þóra, sem rekur hana og Gunnar [Hilmarsson], sonur hennar, sem er lærður garðyrkjumaður, starfar þar einnig. Ég hafði mikinn áhuga á þessu en hins vegar enga þekkingu. Ég lærði aldrei neitt í þessum fræðum.“
En hvers vegna hafði Jón svo mikinn áhuga á ræktuninni sem raun ber vitni?
„Ég hef líklega drukkið hann í mig með móðurmjólkinni,“ segir hann. „Mamma var mikið fyrir alla ræktun og fyrir að halda lífi í ýmsu. Og ég byrjaði snemma; innan við fermingu fór ég að hirða birkihríslur, smáanga, hérna uppi í Vatnshlíð og flutti heim í garðholu sem ég var með heimundir bæ. Þannig byrjaði þetta – og varð smátt og smátt meira.“
Jón MagnússonJón fæddist 20. september 1902 og er því nýorðinn 97 ára. „Ég fæddist í gömlum bæ sem hét Guðrúnarkot og það stóð hér um bil á sama stað og heimili mitt er núna. Svo byggði faðir minn timburhús 1906 til hliðar við gamla bæinn og hlaut það nafnið Skuld því það var byggt fyrir lánsfé og í skuld. Og ég hef kunnað vel við nafnið, er oft nefndur Jón í Skuld af öllum kunnugum og kann vel við það. Mér finnst engin minnkun að því.“
Hann segir ómögulegt að vita hversu mörgum birkihríslum hann hafi plantað um ævina; segir þær örugglega skipta þúsundum, bæði á svæðinu heima hjá sér og eins uppi í Ási þar sem hann keypti land. „Ég ræktaði líka þar vegna þess að ég hafði ekki orðið nóg land hér heima.“

Stofnaði ÁBH

Áætlunarbifreið

Áætlunarbíll – Hafnarfjörður var enginn svefnbær Reykjavíkur á fimmta áratug síðustu aldar heldur algjörlega sjálfbært samfélag en svo vel innan viðráðanlegra marka fyrir almenning í Reykjavík, að fólk hafði ráð á að skreppa suður í þennan fallega og vinalega bæ til að fara í Bæjarbíó eða Hafnarfjarðarbíó. Ellegar þá að eyða eftirmiðdagsstund þar syðra á helgidögum og borða nestið sitt í Hellisgerði.

Jón í Skuld starfaði lengi sem bílstjóri og hugaði að trjáræktinni í hjáverkum, eins og áður kom fram. „Ég var einn af eigendum ÁBH, Áætlunarbíla Hafnarfjarðar. Við vorum sex sem stofnuðum og áttum það félag og unnum að því í mörg ár. Ég vann í fimmtán til tuttugu ár sem bílstjóri, en hætti svo í akstrinum og sneri mér alfarið að þessu.“
Jón segir að áhugi fólks á trjám hafi vaknað í lok þriðja áratugar aldarinnar. „Um það leyti fór að vakna áhugi hjá almenningi á að fegra í kringum sig; að fegra lóðir sínar með trjám og blómum. Fram að þeim tíma var ákaflega dauft yfir öllum svoleiðis framkvæmdum. Fólk hafði lítinn áhuga og kannski lítil tækifæri til þess.“
Hann segir mjög lítið hafa verið um tré í görðum á þeim tíma, „en það var danskur kaupmaður sem hét Hansen hér í Vesturbænum í Hafnarfirði sem flutti inn tré. Það voru fyrstu trén sem voru hér í bænum og ég man að við gerðum okkur ferð til að skoða þessi tré.

Birki

Birki.

Þetta hefur sennilega verið reyniviður, fluttur frá Danmörku. Þegar fólk sá þessi tré vaxa upp kviknaði áhugi hjá ýmsum að fegra í kringum sig.“
En skyldi Jón í Skuld ánægður með hvemig til hefur tekist?
„Já, ég er það, en auðvitað mætti gera meira. Áhugi er alltaf heldur að aukast á ræktun og því að fegra í kringum sig. Fyrst var jafnvel hlegið að því þegar maður var að basla við þetta.
Segja má að Júlíus Víborg hafi verið brautryðjandi í trjárækt hér í bænum; hann hafði mikinn áhuga og við erfið skilyrði útbjó hann fallegan trjágarð við hús sitt í brekkunni, milli Strandgötu og Suðurgötu; við Illubrekku sem kölluð var. Hann fékk trén, sem hann byrjaði með, frá Guðbjörgu í Múlakoti. Það var reyniviður. Svo fundust litlir angar af trjám hérna suður í hrauni, í hraunsprungum, og Jón Bergsteinsson, bóndi á Hvaleyri, flutti þetta oft á vorin hingað inn í bæ fyrir ýmsa; við sáum hann oft með hríslur á öxlinni.
Þetta óx upp og hafði sáð sér í hraunsprungum, var þar í friði vegna þess að féð náði ekki í það og fyrir það gat það þróast þarna upp.“

Fór illa í mig að heyra um stríðið 1914

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson (1841-1937).

Afi Jóns í Skuld, Sigurður Sigurðsson, varð líka mjög gamall og á heimili Jóns er til úrklippa úr Morgunblaðinu 16. apríl 1937, þar sem birt er viðtal við Sigurð. Hann var þá reyndar nýlátinn; elsti maður í Reykjavík, sem hefði orðið 96 ára á sumri komanda, eins og segir í blaðinu. Jón segist muna vel eftir afa sínum. „Hann var bóndi í Tungu í Grafningnum og lengi ferjumaður yfir Sogið.“
Sigurður afi Jóns er spurður í umræddu viðtali: Það er þá ekki að heyra, að þjer hlakkið til vorsins?
Og Sigurður svarar: „Nei – og aftur nei. Jeg hef eiginlega aldrei hlakkað til neins – og svo er nú af manni mesti barnaskapurinn. Þegar maður er orðinn þetta gamall!“
Og enn er hann spurður: En hvað fínst yður að þjer munið best úr yðar löngu æfí?
Og þá svarar Sigurður: „Ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Hvað ætti jeg svo sem að muna, þegar jeg man ekkert! Æfi mín hefur öll verið æfintýrasnauð.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1947 eða -48. Skuld var efst h.m.

Jón er því spurður, að síðustu, eins og afi hans forðum: hvað hann muni best frá langri ævi?
Hann er hugsi, segist varla vita hvað hann eigi að nefna. „Ég man auðvitað ýmislegt, en ekki er gott að segja hvað hæst ber,“ segir Jón en bætir svo við: „Ég man reyndar eftir því ennþá að fullorðinn maður hér í bænum sem hét Filipus bar út Ísafold og ég var niðri á götu þegar hann mætti þar einhverjum manni og þeir fara að tala saman og hann segir: „það er ljótt að frétta af stríðinu!“ Og ég man ennþá hvað það greip mig eitthvað illa og hrottalega að heyra minnst á stríð, því það var að skella á. Ég man ennþá hvar þeir voru þegar þeir mættust; niðri á Strandgötu. Þetta var 1914, í ágúst.“

Suðurgata 73

Suðurgata 73. Merkið Skuld er á húsinu. Það sem tengir þetta hús við Skuld er að Jón Magnússon sem var frá Skuld byggði þetta hús.

Í Dagblaðinu Vísi árið 1992 var viðtal við Jón undir fyrirsögninni, „89 ára unglingur í Gróðrastöðinni Skuld – Mér þykir vænt um birkið“: „Ég byrjaði á þessu 1953. Að sjálfsögðu var ræktunin smá í sniðum í upphafi en smám saman vatt hún upp á sig. Á þessum árum var ég líka í vörubílaakstri en hætti honum um 1970, enda fór þetta tvennt illa saman. Fljótt varð birkið fyrir valinu hjá mér. Mér þykir vænt um birkið.“
Sá sem þessi orð mælir er 89 ára unglingur, Jón Magnússon í Gróðarstöðinni Skuld í Hafnarfirði. Jón er að vísu hættur daglegri umsjón með rekstrinum – hefur leigt hann dóttur sinni, Guðrúnu Þóru.

Gamlir kunningjar

Ás

Ás – Skógrætarstöð Skuldar.

Gróðarstöðin Skuld lætur ekki mikið yfir sér en óhætt er að fullyrða að þar fari fram – og hafi farið fram – athyglisverð ræktun á birki. Jón tók ástfóstri við það og lagði sitt af mörkum til aö ná þeim árangri að birkið frá Skuld er afskaplega fallegt. „Við erum eins og bændurnir gagnvart búsmalanum – getum greint Skuldarbirkið frá öðru birki.
Gróðarstöðin er reyndar á tveimur stöðum í Hafnarfirði. Annars vegar í suðurbænum og hins vegar í landi Áss sem er austan við Keflavíkurveginn. Þegar Jón hóf starfsemina á sínum tíma var ekki skortur á landi en tímamir hafa breyst. Þar sem áður var uppeldisstöð fyrir ungar birkiplöntur standa hús og liggja vegir. Því fer sala á plöntum og hluti af ræktuninni fram við Lynghvamm en í landi Áss er einvörðungu plöntuuppeldi. Eins og svo oft áður var ekki ætlunin að hefja atvinnurekstur. Jón fékk land fyrir sumarbústað og sáði fyrir birki með það í huga að setja það niður við bústaðinn en með tíð og tíma var Skuld orðin að fyrirtæki.

Beinvaxið, þróttmikið og lauffallegt

Smalaskáli

„Smalaskálinn“ – listaverk Jóns á klapparholti ofan við bústaðinn.

Hvers vegna valdi Jón birkið?
„Á þessum tíma þekkti ég ekkert annað. Síðan höfum við að vísu farið í ræktun á öllum algengum trjátegundum en birkiö er og hefur verið stofninn í starfsemi Skuldar. Þetta hefur gengið þokkalega og ég fór fljótlega að hafa vit á að velja fræ af trjám sem mér fannst vera þess virði að tekin væra til frekari ræktunar.
Jón hallar sér fram á stafinn og leggur áherslu á orð sín. Hann segir að birkið sé auðvelt í ræktun, vindþolið og henti til dæmis vel í gerði. Þá sakar ekki að það ilmar vel fyrripart sumars. „Flestar plöntumar byrja tilveru sína hér heima en síðan förum við með þær í Ás. Auðvitað er þetta frekar erfitt að þurfaað vera á tveimur stöðum og stækkunarmöguleikar eru engir við Lynghvamminn.“

Smalaskáli

Smalaskáli – minningarsteinn um Elínu Björnsdóttur.

Kýrnar horfnar
Það var gaman að koma í Skuld. Kýrnar frá því í bamæsku, eru að vísu horfnar en í staðinn má sjá birki, víði og blóm. Þegar við stóðum á tröppimum og horfðum yfir gróðarstöðma var Jón inntur eftir því hvort ekki hefði verið gaman að helga líf sitt birkinu.
Unglingnum þótti spurningin ef til vill svolítið barnaleg en hann hugsaði sig um eitt andartak og sagði svo: „Hver og einn verður að hafa gaman af því sem hann fæst við hverju sinni. Ekki skiptir máli um hvaða starf er að ræða. Ég hafði gaman af mínu starfi. Það var mitt lán.“

Heimildir:
-Morgunblaðið, 246. tbl. 01.11.1986, Skógræktarfélag hafnarfjarðar og Garðabæjar 40 ára – „Að skila landinu betra í hendur afkomendanna“, bls. 18-19.
-Ársrit Skógræktarfélags Íslands, 1. tbl. 15.12.1981.
-Morgunblaðið, B 24.10.1999, Fékk áhuga á ræktun með móðurmjólkinni, bls. 18.
-Dagblaðið Vísir, 10.06.1992, Jón Magnússon, 89 ára unglingur í Gróðrastöðinni Skuld – Mér þykir vænt um birkið, bls. 32.

Smalaskáli

Smalaskáli 2025 – Gamli bústaðurinn var fluttur um set og sést h.m. við nýjan bústað.

Hafnarfjörður

Allir eru alltaf velkomnir til Hafnarfjarðar, í fyrrum landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frænda Ingólfs Arnarssonar, hins fyrsta norræna landnámsmanns hér á landi.

Akurgerði

Akurgerði 1836 – Mayer.

Í árdögum náði núverandi bæjarsamfélag einungis skammt út frá Akurgerðisjörðinni (undir hraunkantinum neðan núverandi Byggðasafns) vegna þá skiljanlegrar undanlátssemi Garðaklerks. Umdæmið allt tilheyrði fyrum hinum forna Garðahreppi. Undir skjólgóðum hraunkantinum ofan fjarðarins fjölgaði hins vegar ört torf- og timburhreysum vinnandi aðkomufólks við Akurgerðisútgerðina og -verslun. Samansöfnuðurinn og stöðug fjölgun bústaða og húsa kallaði á stækkun „smábæjarlandsins“.

Fljótlega voru í framhaldinu gerðar kröfur um eignarnám með tilstuðlan Alþingis á landauðugustu jörðunum ofan við fjörðinn, s.s. Hvaleyri, Ófriðarstaði og Hamarskoti.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – umdæmismörk 2024.

Til að gera langa staða stutta nær lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar í dag yfir allt þéttbýlið við fjörðinn og auk þess að handan í u.þ.b. 25 km suður fyrir það að háhita- og hverasvæðinu í Krýsuvík í umdæmi Grindavíkur, sem og um Hraunin vestur fyrir Straumsvík, allt að mörkum Lónakots og Hvassahrauns í vestri. Í austri liggja mörkin að Garðabæ, en þau hafa gjarnan verið umsemjanleg frá einum tíma til annars í gegnum tíðina – líkt og fyrrum.
Upphaflega saga bæjarins er í raun samofin sögu útgerðar og verslunar á Íslandi. Á 15. öld kepptu Englendingar og Þjóðverjar um ítök í fiskveiðum og verslun í bænum og um tíma var bærinn kallaður þýskur „Hansabær“. Reistu þeir m.a. kirkju í bænum. Minnisvarða um hana má sjá sem steinboga við smábátabryggjuna.

Hafnarfjörður

Vitinn – merki Hafnarfjarðar.

Bjarni Síverstsen, sem stundum er nefndur faðir Hafnarfjarðar, að eiginkonu hans ógleymdri, Rannveigu Filippusdóttur, að í bænum og hóf útgerð og verslun um síðustu aldamót. Í dag er minnkandi sjávarútvegur, iðnaður og verslun auk vaxandi ferðaþjónustu helstu atvinnuvegir Hafnfirðinga.
Hafnarfjarðar er meðal annars getið við upphaf Íslandsbyggðar. Hingað kom t.d. Hrafna-Flóki á leið sinni að vestan á bakaleið sinni aftur til Noregs, fyrr en nokkur norrænn maður hafði árætt að taka sér fasta búsetu hér á landi. Við það tækifæri rak eftirbát með fóstbróður hans, Herjólfi, frá skipi hans og rak inn í Herjólfshöfn þar sem nú er Hvaleyrarlónið (reyndar talsvert breytt). Fundu þeir dauðan hval og gott lægi. Nýttu þeir hvorutveggja, á ólíkan hátt þó. Síðari sagnir segja frá Kólumbusi þeim er sagður er hafa fundið Ameríku. Talið er að hann hafi komið við í Hafnarfirði og í fleiri höfnum (s.s. á Rifi) til að afla upplýsinga, áður en hann hélt síðan árið 1492 í eina ferða sinna yfir Atlantshafið. Þá bjó okkar fólk þegar yfir vitneskja um hið efirsótta land í vestri, en kaus Hafnarfjörð fram yfir það. Einstakir frumkvöðlar höfðu ákveðið að leita lengra umfram hið óráðna, með þeim árangri sem við nú þekkjum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Í landi Hafnarfjarðar eru margar náttúruperlur. Sjá má í þeim bæði fjölbreyti- og margbreytileika íslenskrar náttúru, hraunin, jarðhita, vötn, Lækinn, neðanjarðarárnar og tjarnirnar ofan Straumsvíkur, auk margs konar fugla- og plöntulífs – sem sumt er bara ansi fágætt – og allt með miklum ágætum.

Hafnarfirðingar er stoltir af bænum sínum hvort heldur vísað er til hans sem menningarbæjar, íþrótta- og útivistarbæjarins og/eða Vina-, Álfa-, Brandara- eða Víkingabæjarins.

Helst hefur skort á áhuga þeirra er ber skylda til að varðveita óðum hverfandi sögulegar minjar frumkvöðlanna er bæði skópu fyrrum annars hina ágætu ásýnd bæjarins og skyldu auk þess eftir sig þá huggulegu ásýnulegu arfleifð er við njótum enn í dag.

Hafnarfjörður

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Ekki er við frumkvöðla Byggðasafnsins að sakast – fremur nánast meðvitundarlausa bæjarfulltrúa og áhugalaust verkafólk bæjarstjórnar. Horfa þarf gaumgæfulega til seinni tíma langrar vanræsku og mjög takmarkaðs áhuga þeirra er á eftir komu.
Þegar þetta er ritað eru Íbúar bæjarins rúmlega 21. þúsund. Hafnarfjörður býður gestum sínum upp á að njóta margvíslegrar dægrardvalar og fjölbreyttrar þjónustu. Í nágrenninu eru fjölbreytt útivistarsvæði með fjölmörgum sögulegum minjum og náttúrufyrirbærum, skemmtilegum gönguleiðum, hellum; reyndar eitthvað fyrir alla.
Seinni tíma fornleifaskráning í umdæminu jaðrar við vanrækslu – þótt ekki væri nema fyrir tvennt; rangrar skráningar sem og fjölmargar enn sem slíkar óskráðar fornleifar.

Heimildir:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson. – Hafnarfirði : Skuggsjá, 1983-1984.

-ÓSÁ tók saman

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni og gamlar leiðir.

https://ferlir.is/63791-2/https://ferlir.is/baer-i-byrjun-aldar-magnus-jonsson/

https://ferlir.is/as/https://ferlir.is/logsagnarumdaemi-hafnarfjardar-fra-1908/

Hafnarfjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins 1995 fjallar Snorri Jónsson um „Atvinnusögu Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið„. Hér fjallar hann um tímabilið undir fyrirsögninni „Vinnubók týndist í kolabing„. Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma.

Hafnarfjörður

Tryggvi Ófeigsson (1896-1987). Tryggvi var svo með Imperíalist til ársins 1929. Það ár hættu Hellyersbræður allri útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Tryggvi gekk svo inn í útgerðarfélagið h/f Júpíter í Hafnarfirði sem stofnað var 26 júlí 1929, með Lofti Baldvinssyni og Þórarni Olgeirssyni, sem árið 1925 höfðu látið smíða skip fyrir sig í Beverley, það skip var Júpíter GK 161. Tryggvi varð svo skipstjóri á honum þegar Þórarinn Olgeirsson hætti skipstjórn þar árið 1929.

„Á vertíðinni 1925 barst óhemjumikill fiskur á land í Hafnarfirði. Það var því annasamt hjá okkur á þessari vertíð eins og árið áður og eins var mikið að gera við fiskverkunina í landi. Í stað kolaskipsins, sem strandaði, kom brátt annað, en það var ýmsum erfiðleikum bundið að losa kolin úr skipinu af því að fiskvertíðin var komin í fullan gang og togararnir nærri daglega inni.
Samningur okkar við Hellyer var samningur um ákvæðisvinnu. Hann tók til allrar vinnu við togarana og flutningaskipin að því undanteknu að losa úr þeim kolin. Sá togari, sem fyrstur kom frá Englandi í byrjun vertíðarinnar, var Imperialist. Hann var þá nýr og stærstur þeirra allra og kom með allar sínar lestir fullar af kolum. Eftir mikið bras, við aðstæður, sem ég hefi áður lýst, tókst okkur að koma öllum kolunum í land. Skipstjóri á Imperialist var sá landskunni dugnaðar- og aflamaður, Tryggvi Ófeigsson.
Skrifstjóri Hellyersbræðra, og sá sem sá um allar fjárgreiðslur fyrir þá, hét Allan, ævinlega nefndur Mr. Allan. Næst, er ég kom  með reikninga til hans, fékk ég þá alla greidda orðalaust, nema reikninginn fyrir að losa kolin úr Imperialist, hann fékk ég ekki greiddan. Segir Mr. Allan við mig að reikningurinn sé óheyrilega hár og hann geti ekki greitt hann og byrjar nú heldur betur að þusa.

Hafnarfjörður

Togarinn Imperialist.

„Það er svo sem auðséð,“ segir hann, „að þið ætlið að nota ykkur það að ekki er til neinn samningstaxti fyrir verkið eins og í fyrra þegar þið sömduð við Íslendinginn Zoéga. Nú finnst ykkur auðvitað tækifæri til að taka munninn nógu fullan. Svona eruð þið allir, Íslendingar. Það er ekki ofsögum af því sagt.“ Og áfram lét hann dæluna ganga.
Mér varð nær orðfall; maldaði þó eitthvað í móinn, en hugsaði því fleira. Satt að segja var þessi reikningur nokkuð handahófslegur. Ég mundi ekki hvernig þessi viðskipti við Geir H. Zoéga höfðu verið árið áður, en reikningurinn átti að vera sem næst kostnaðarverði. Samt reiddist ég ansi illa þessum ásökunum á mig og mína félaga og ekki síður viðhorfi hans til Íslendinga. Varð heldur fátt um kveðjur; ég rauk út og skellti hurðinni.

Reyndist svo hinn besti

Geir Zóega

Geir Zóega (1896-1985). Geir hóf fiskverkun í Hafnarfirði 1920 og þar var hann búsettur og þar gerðist athafnasaga hans næsta hálfan annan áratug. Hann keypti fiskverkunarstöð í Hafnarfirði, svonefnda Haddensstöð, og tók að verka fisk af
togurum. En þau reyndust mörgum erfið, eftirstríðsárin, þegar allur kostnaður, sem hækkað hafði á styrjaldarárunum, hélzt áfram hár en verðlag á fiski lækkaði.

Fór ég nú hið snarasta heim að leita í plöggum okkar frá árinu áður. Kom þá í ljós að það hafði kostað 15 aurum minna að skipa upp hverju tonni af kolum úr Imperialist en samkvæmt samningnum við Geir árið áður! Þetta var að vísu hrein tilviljun eins og í pottinn var búið. Verð ég nú heldur en ekki feginn þessari niðurstöðu, sest niður, glaður í sinni, og rita Mr. Allan langt og ítarlegt bréf um málið á ómengaðri íslensku. Í bréfinu segi ég að mér þyki leitt þegar okkur félögum, og íslendingum, séu borin á brýn rakalaus ósannindi og syívirðingar. Krafðist ég þess að reikningar fyrirtækisins frá í fyrra yrðu rannsakaðir, þótt þeir væru komnir til Hull, svo að hann gæti komist að hinu sanna. Þyrftum við þá ekki lengur að liggja undir dæmalausum ásökunum hans og svívirðingum. Fór ég með bréfið samdægurs til Péturs Jóhannessonar, sem þá var bókhaldari hjá Hellyer; tók hann að sér að þýða það fyrir Mr. Allan.
Árdegis næsta dag er sent eftir mér og ég beðinn um að koma upp á kontór til Mr. Allans. Var þá reikningurinn greiddur orðalaust. Öll þau ár, sem við höfðum viðskipti við Heilyersbræður eftir þetta, var aldrei minnst einu orði á nokkurn reikning, sem frá okkur kom, þótt um ósamningsbundna vinnu væri að ræða. Vann ég, með þessari tilviljun mætti kannski segja, fullt traust Mr. Allans, enda reyndist hann mér, þaðan í frá, í öllum viðskiptum, hinn besti maður.

Hvinnska var fágæt

Kolaflutningur

Kolaflutningur.

Þegar Hellyerstogararnir komu hingað í fyrsta sinn var haft mjög strangt eftirlit með öllu sem í togurunum var. Vörður var látinn gæta verkamannanna, mjög stranglega, af ótta við að þeir stælu úr skipunum. Þegar frá leið varð þessarar gæslu lítið vart og að lokum varð enginn hennar var. Hygg ég að hvinnska hafi verið fátíð hér um þessar mundir og hafi hennar eitthvað gætt voru Bretarnir ekki síður aðgæsluverðir en Íslendingarnir, svo að ekki sé meira sagt.
Verkin urðu að ganga fljótt og vel, þess krafðist Hellyer og sömu kröfu gerðum við til okkar manna. Það var t.d. venja að kola togarana samtímis því að fiskurinn var losaður. Við kolunina unnu nær eingöngu sömu mennirnir og var sá háttur á hafður að flytja kolin í þá hlið togarans sem frá sneri bryggjunni.

Kolamokstur

Kolamokstur.

Var það gert á þann hátt að gríðarstór og þung renna var sett niður af bryggjunni og neðri enda hennar komið fyrir milli spils og brúar, stundum yfir keisinn ef mjög var lágsjávað.
Stundum voru kolin flutt eingöngu laus á bílum og hvolft í rennuna, en það var því aðeins gert að kolalúga væri milli brúar og spils, annars varð að flytja helminginn af þeim í pokum. Jón Þórarinsson á Norðurbraut 22 var oft forsvarsmaður við kolarennuna og við móttöku á kolunum niðri í skipinu. Oft var kolarennunni bölvað, enda var hún þung á þreyttum höndum, en Jón Þórarinsson sagði í mesta lagi „ansvítti;“ það var hans stærsta blótsyrði.

Þetta er nú meiri bíllinn!

Júpiter

Skipshöfn Tryggva Ófeigssonar á Júpiter.

Í boxunum, við að lempa kolin, voru ævinlega sömu mennirnir. Þau embætti höfðu Guðjón Jónsson frá Hellukoti, Karl Kristjánsson, Jón Þorleifsson, Erlendur Jóhannsson og Atli Guðmundsson. Allir voru þeir úrvalsmenn við þessa iðju og samviskusamir. Oft voru þeir spurðir hversu mörgum bílhlössum þeir kæmu í boxin. Á móti spurðu þeir hversu mörg bílhlöss væru á dekkinu. Eitt sinn sem oftar kemur Karl Kristjánsson með höfuðið upp að boxgatinu og spyr þann sem var að moka niður af dekkinu hversu mikið væri þar eftir af kolum. Honum er sagt að það sé rúmur bíll og ekki von á meiru. Lét hann það gott heita. Hinsvegar stóð þá svo á að búið var að moka á fimm bíla uppi í kolabing og var þeim öllum dembt ofan á dekkið: Er nú kolunum mokað í boxin og farið að hreinsa dekkið.
HafnarfjörðurSkyndilega kallar Karl upp og segist vera að koma, það sé allt orðið fullt niðri. Um leið og hann rekur höfuðið upp um boxgatið segir hann með undrun í röddinni:
„Þetta er nú meiri bíllinn!“
Var þetta haft að orðtaki eftir þetta ef eitthvað þótti keyra úr hófi:
Þetta er nú meiri bíllinn!
Stundum gat nú fokið í boxarana og fyrir kom að þeir sem skeleggasta höfðu skapsmunina kæmu upp úr boxunum með skófluna reidda að höfði þeim sem dyngt höfðu niður til þeirra meira af kolum en góðu hófí gegndi.

Saknaði vinar í stað
HafnarfjörðurÉg hafði þann hátt á að skrifa daglega niður vinnustundir fólksins þegar ég kom heim og helst uppi í rúmi á kvöldin. Tímana skrifaði ég eftir minni og var mér orðið þetta mjög tamt. Ég vissi og mundi hvar hver maður stóð við sitt verk, — hafði, með öðrum orðum, mynd af þessu öllu í huganum. Ég notaði litlar vasabækur í þessu skyni, innbundnar með stífum spjöldum. Halldór bróðir minn fékk þessar bækur venjulega til úrvinnslu að viku liðinni.
Það var einu sinni að kvöldi til, er ég var nýkominn heim úr vinnunni, að vélstjórinn á James Long bankaði uppá hjá mér og kvartaði yfir því að illa hefði verið lempað í boxunum. Maðurinn var úrillur og krafðist þess að meira yrði látið af kolum í skipið. Þetta kom mér dálítið á óvart og fannst mér kvörtunin ekki trúleg, en mér bar skylda til að athuga málið.
HafnarfjörðurFer ég nú niður á dekk, ásamt Englendingi nokkrum; og niður í boxin og er í hinu versta skapi. Í ljós kom að lempað hafði verið í boxin líkt og venjulega. Bið ég þó boxarana að reyna að troða tveimur bílhlössum í skipið til viðbótar og tókst þeim það með herkjum. Ég hafði skriðið eftir boxunum og lítið komist áfram þótt mjór væri. En viti menn! Þegar ég kem heim sakna ég heldur en ekki vinar í stað. Vinnubókin, með vikuvinnu allra verkamannanna, var horfin úr vasa minum. Þessa viku unnu hjá okkur daglega um eitt hundrað manns. Vinnubókin hafði greinilega þvælst upp úr vasanum þegar ég var að skríða eftir boxunum. Rýk ég nú aftur niður á bryggju og talá við vélstjórana og kyndarana og bið þá fyrir alla muni að hafa auga með bókinni þegar kolunum verði mokað á eldana.

Minnið nær óbrigðult

Hafnarfjörður

Saltfisksstæða.

Leist mér nú ekki á blikuna, bókin töpuð og fimm vinnudagar óskráðir á skýrslu og engin von til að togarinn kæmi aftur að bryggju fyrr en að hálfum mánuði liðnum, en vinnulaun yrði að greiða á tímabilinu. Leiðinlegt fannst mér og niðurlægjandi að ganga fyrir hvern mann og spyija um vinnu hans.
Ég sagði Jóni Einarssyni strax frá þessu óhappa atviki og við ákváðum að fara undir eins heim til pabba og ræða málið við hann og Halldór bróður. Kl. 10 um kvöldið bönkuðum við á dyrnar hjá pabba og settumst á ráðstefnu, allir fjórir. Úr hugum okkar reyndum við að framkalla myndir um atvik og atburði úr vinnunni þessa daga, hver dagur sér, hvert skip fyrir sig, tilvik og frávik hjá mannskapnum o.s.frv. Og í trausti þess að niðurstaðan yrði mjög nálægt því rétta fórum við að sofa um fimmleytið þessa eftirminnilegu nótt.

Hafnnarfjörður

Fiskvinnsluhús Hellyers.

Á venjulegum tíma var allt tilbúið. Halldór hafði skrifað vinnuskýrsluna, peningarnir komnir í umslögin og útborgun fór fram. Kom nú í ljós að minni okkar hafði reynst nær óbrigðult. Aðeins einn maður kvartaði og taldi sig vanta dag í launum sem auðvitað var strax leiðrétt. Vorum við nú í sjöunda himni eftir allar áhyggjurnar sem við höfðum haft út af þessu atviki.
Að liðnum hálfum mánuði kom James Long inn til hafnar. Kemur þá til mín vélstjórinn heldur en ekki hróðugur með bros á vör og réttir mér vinnubókina mína með velktum blöðum og dökkum af kolaryki. Ég þrýsti hönd hans í þakklætisskyni. Um kvöldið bárum við saman vinnubókina og kaupskrána og kom þá í ljós að þetta, sem áður er um getið, var eina villan sem teljandi var.

Mr. Orlando og Reiturinn

Vesturgata 32

Vesturgata 32 – Bungalow.

Owen Hellyer fór til Englands á útmánuðum árið 1925, en í staðinn kom bróðir hans, Orlando. Þeir höfðu látið byggja sér ljómandi skemmtilegt íbúðarhús, nú Vesturgata 32, sem í daglegu tali var nefnt Bungalow. Það hús eignaðist síðar Ásgeir Júlíusson teiknari og kona hans, Guðrún Guðmundsdóttir. Einnig létu þeir byggja stóran skála á mölinni norðan við Svendborgina. Þar var geymdur lager fyrir skipin og þar bjuggu enskir starfsmenn á þeirra vegum. Húsið Krosseyrarvegur 7 létu þeir líka byggja. Bjó þar einn af forstjórum þeirra, Tracy að nafni, en hann var hér ekki lengi, eitt eða tvö ár að mig minnir. Orlando var alúðlegur karl, kátur og fjörugur, enda varð okkur fljótlega vel til vina. Ákvarðanir hans þóttu þó ekki alltaf bera vott um mikla vitsmuni eða áunna reynslu.

Krosseyrarvegur 7

Krosseyrarvegur 7. Húsið er teiknað af Geir Zoega, fyrir útgerðarfyrirtækið Hellyers bros.

Hann bað okkur t.d. að gera fiskreit uppi á háhæðinni fyrir vestan Víðistaði, norðan vegarins. Var reitur þessi í daglegu tali nefndur Háireitur. Reitarstæðið var í alla staði mjög óheppilegt, aðskildir smáblettir, snepla, kölluðum við það, vegna landslagsins, enda var reiturinn hvorki fugl né fiskur.
Þegar Mr. Owen kom til baka varð honum að orði þegar hann sá reitinn:
„Hann hlýtur að hafa verið fullur, hann bróðir minn, þegar hann valdi þetta reitartogarana hingað, þeir eru einmitt akkúrat 30!“ Svo bætti hann við eftir stundarþögn:
„Svo eigum við 30 litla togara að auki.“

Uppáhald og æskuvinur

Kútter

Kútter.

Um þetta var ekki meira rætt, en það lá vel á karli og hann vildi spjalla og fór nú að segja mér ýmislegt frá sjálfum sér. Meðal annars sagði hann mér að faðir sinn hefði átt marga kúttera, áður en togaraöldin gekk í garð, og hefði síðasti kútterinn, sem faðir hans átti, heitið Othello. Othello þessi var hans mesta uppáhaldsskip. Það var með dammi í lestinni, þ.e. dálitlu rými þar sem sjór gekk út og inn, en þar var fiskur geymdur lifandi þar til menn tóku hann og stungu honum í soðpottinn. Othello var seldur til Hafnarfjarðar um síðustu aldamót. Pétur Thorsteinsson og Co. keypti skipið, en forstjóri þess fyrirtækis var Sigfús Bergmann. Dammurinn þótti ódrýgja lestarrýmið og að rúmu ári liðnu var skipið selt til Færeyja og annað keypt í staðinn sem hét Sléttanes og þótti hið mesta happaskip. Skipstjóri á Sléttanesi var Hrómundur Jósepsson, mikill dugnaðar- og aflamaður.

Hafnarfjörður

Samstarfsfólk hjá Hellyers – væntanlega verkakona og verkstjóri ásamt kúsk.

Á meðan Othelló var í Hafnarfirði kom Mr. Orlando til Íslands. Þá fór hann til Hafnarfjarðar og heimsótti Othello, uppáhaldið aðstæðum sem fyrir hendi væru. Svo var það eitt sinn, er við við höfðum lokið við að afgreiða Imperialist, að Mr. Allan kemur til okkar og segir að togari muni væntanlegur að nokkrum stundum liðnum; Spyr svo að venju: Hvað verðið þið lengi að afgreiða togarann? Ég svara eins og ég hafði gert að undanfömu: „Ég veit það ekki, Mr. Allan, ég veit það ekki.“ Verður hann þá öskuvondur, skælir sig allan, þykist herma eftir mér og segir hvað eftir annað á sinni bjöguðu íslensku:
„Évidhaike, évidhaike, évidhaik!“

Hafnarfjörður

Ari var einn af Hellyerstogurunum.

Rausar svo heilmikið út af þessari tregðu minni og aumingjaskap að geta ekki svarað einfaldri spurningu. Verður mér nú nóg boðið, rýk upp, einnig öskuvondur, helli mér yfir hann á mínu ensk-íslenska hrognamáli, sem hann réði þó vel í, og segi að lokum:
„Mr. Allan. Imperiaiist er að fara úr höfn, hvenær kemur hann inn fullur af fiski? Ég ætla að hafa fólk til reiðu þegar hann kemur“.
Það kom svolítið hik á Mr. Allan, svo segir hann:
„Hvernig á ég að geta sagt um það, það fer auðvitað eftir fískiríinu!“

Hafnarfjörður

Saltfiskvinnsla.

„Já, einmitt það,“ segi ég. „Ætli það sé ekki eitthvað svipað hjá okkur. Ætli það fari ekki eftir því hvað við fáúm marga menn til vinnu hversu langan tíma það tekur að afgreiða togarann, það vitum við sjaldnast fyrr stæði!“
Mr. Owen valdi annað reitarstæði og bað okkur að leggja þar reit, hvað við gerðum um sumarið og haustið 1925. Sá reitur var í daglegu tali nefndur Allansreitur eftir Mr. Allan, þess er áður hefur við sögu komið, stór og mikill reitur á ágætu landi norðan Kirkjuvegarins, upp af Skerseyri, þar sem nú er Hrafnista.

Áttu 60 togarar

Hafnarfjörður

Togarinn Ver var í eigu Hellyers.

Einu sinni, þetta vor, kallaði Mr. Orlando mig inn á skrifstofu sína. „Hvur fjandinn er nú á seyði,“ hugsaði ég, „líklega einhverjar aðfinnslur“.
Það var nú aldeilis ekki daglegur viðburður að vera beðinn um að tala við æðstu mennina. Þegar ég kem leggur Mr. Orlando fyrir mig þessa spurningu:
„Hvað haldið þér, Gísli, að hægt yrði að gera út marga togara héðan ef allir vinnufærir Hafnfirðingar, karlar og konur, ynnu við útgerðina?“
Ég var auðvitað óviðbúinn svona spurningu, varð undrandi á svip og vafðist tunga um tönn.
„Ég held ég geti ekki svarað þessu,“ stamaði ég, „til þess skortir mig þekkingu, enda hef ég ekkert um það hugsað.“
„Þetta er nú meira til gamans,“ segir hann, „mér datt bara í hug að slá þessu svona fram, ég bjóst nú ekki við að fá um þetta tæmandi svör frá þér.“
„Ég gæti ímyndað mér að hægt yrði að afgreiða héðan 30 togara ef allir Hafnfirðingar yrðu í þeirra þjónustu,“ segi ég, svona til að losna sem fyrst við þessa umræðu.

Flensborg

Flensborg og Óseyrarbæirnir. Hvaleyri í baksýn.

„Já,“ segir Orlando, „þá væri kannski mátulegt fyrir okkur að koma með alla stóru föður síns og æskuvin. Þá var Othello uppi í fjöru hjá Flensborg og þá var verið að hreinsa það og mála. Mr. Orlando sagðist hafa gengið í kringum skipið og strokið byrðinginn eins og vinarvanga.
„Af öllum sínum mörgu seglskipum þótti pabba vænst um þetta skip,“ sagði Mr. Orlando, „en það varð að víkja fyrir togurunum.
Þeir voru meiri aflaskip og miklu betri.“

Évidhaike!

Hafnarfjörður

Kolatogarinn Ýmir Gk 488.

Skipin komu og skipin fóru og skipin sigldu sinn veg. Um leið og þau lögðust við bryggjuna var kallað á okkur til vinnu, strax og reíjalaust, hvernig sem á stóð. Oft höfðum við nægan mannskap til að sinna þörfum þeirra, en stundum höfðum við það ekki.
Lögmálið um framboð og eftirspurn var ekki alltaf í jafnvægi. Því var oft erfitt að segja til um það hversu langan tíma myndi taka að afgreiða togara eða fragtskip. Það fór eftir aðstæðum, eftir því hvort við hefðum allan okkar vana mannskap, hvort við þyrftum að notast við óvaninga að einhverju leyti eða hvort fólk vantaði til að vinna verkin. Það mátti heita regla að um leið og skip var væntanlegt vorum við spurðir hversu langan tíma myndi taka að afgreiða það. Til þess lágu ýmsar orsakir.
HafnarfjörðurVið Jón Einarsson reyndum að svara þessum spurningum eftir bestu getu og í lengstu lög, en leitt þótti okkur að fá óþökk fyrir ef einhveiju skakkaði með uppgefinn tíma, alveg sama á hvorn veginn sem var. Út af þessu varð ég smám saman tregur til að segja nokkuð um þetta, vildi láta þá á skrifstofu Hellyers ákveða það sjálfa; þeir vissu þetta nokkurn veginn eins og við. Því tók ég upp þann hátt þegar Mr. Allan var sífellt að spyrja mig þessara tímaspurninga, að um þetta gæti ég ekkert sagt, — ég vissi það ekki, það færi allt eftir þeim en verkið er hafið. Þér skuluð því ekki spyrja mig slíkra spurninga eftirleiðis, Mr. Allan, ég svara þeim ekki.“
Rýk ég svo í fússi frá honum, en hann rigsar til sinnar skrifstofu og mælti ekki orð af vörum.

Sáttfýsn ofan á
HafnarfjörðurÁ næstu dögum mætti ég iðulega Mr. Allan en kasta ekki á hann kveðju eins og sjálfsögð kurteisi krafði. Ef eitthvað þurfti við hann að tala gerði Halldór bróðir minn það fyrir okkar hönd. Líður nú heil vika; við tölumst ekki við og heilsum ekki hvor öðrum.
Að rúmri viku liðinni er gert boð fyrir mig og ég beðinn að koma upp á skrifstofu. Þegar þangað kemur er Mr. Allan þar fyrir og biður mig að koma inn í innri skrifstofuna, sem var hans einkaskrifstofa. Réttir hann mér þá höndina og segir:
„Við skulum ekki láta svona lengur; við erum víst báðir stífir og stórir í lund, látum þetta vera gleymt sem okkur fór í milli.“
Hafnarfjörður„Ég skal samþykkja það,“ segi ég, „það er meira en velkomið.“
Ræddum við svo málin stutta stund og kvöddumst með mestu virktum.
Eftir þetta breyttist viðmót Englendinganna mjög til batnaðar. Þeir kröfðust þess ekki lengur að fá að vita nákvæmlega fyrirfram hversu langan tíma tæki að afgreiða skipin, heldur spurðu þess í stað: Hvenær eigum við að kalla á áhöfnina til skips? Hafið þér tímann bara nógu rúman svo að mannskapurinn þurfi ekki að bíða eftir brottför.
Aldrei lét Mr. Allan styggðaryrði falla í okkar garð eftir þetta.“

Framhald...

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 9. tbl. 04.03.1995, Hellyerstímabilið – III hluti, Snorri Jónsson, Vinnubók týndist í kolabing, bls. 10-11.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1974 – loftmynd.

Hafnarfjörður

Snorri Jónsson fjallaði um „Hellyerstímabilið í Hafnarfirði 1924-1929“ í Lesbók Morgunblaðsins 1995, að þessu sinni undir fyrirsögninni „Vikukaup fyrir að taka upp stein„. Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma.
Um er að ræða aðra grein af fjórum.

Hafnarfjörður

Verksmiðjuhús Bookless-bræðra.

„Menn unnu við togarana og lögðu grjót í nýja fiskreiti, en voru svo með búskap að auki og nýttu slægjur í Bessastaðalandi. Og á þessum árum uppgötvuðu togarasjómenn Halamiðin. Þetta voru oft erfiðir dagar, mikil og stanslaus vinna, fragtskip á daginn, togarar á næturnar. Mér er í minni að við unnum alla aðfaranótt hvítasunnu til kl 10 að morgni. Eftir messu hófst vinna við togara sem beðið hafði afgreiðslu við bryggjuna. Við hann unnum við næstu nótt og til kl. 10 á annan hvítasunnudag; áttum við svo ekki von á skipi um sinn.

Hafnarfjörður

Fiskreitur við Flatahraun.

Hugur margra hafði staðið til veðreiða sem fram áttu að fara á skeiðvellinum við Elliðaár. í trausti þess að við fengjum að sofa næstu nótt fórum við Jón Einarsson, og margir af okkar yngri mönnum, á veðreiðarnar. Fjölmenni var og veður unaðslegt. Mátti þar margan góðan gæðinginn sjá; vorum við þama fram á kvöld og nutum veðurblíðu og gæðinga. En heldur brá okkur í brún þegar við riðum niður í bæinn og sáum að komin var togari og virtist fullur af fiski. Já, ekki bar á öðru. Togarinn Earl Haig fullur upp í lúgur af smáfiski austanaf Hvalbak!
Félagi minn, Jón Einarsson, var nú ekki lengi að búa sig í vinnuföt og leggja í bardagann. Hann var afburða röskur maður, hraustur og ósérhlífinn. Varð nú að ráði milli okkar að ég færi að sofa, en tæki svo við af honum næsta dag að losa kol úr skipi til Ágústs Flygenrings.

Hafnarfjörður

Togarinn Earl Haig.

Um morguninn er ég vakna þótti mér með ólíkindum að enn var ekki búið að losa fiskinn úr togaranum og eftir var að koma í hann salti og kolum. En við nánari athugun var það ósköp eðlilegt. Fólkið var of fátt, það var útþrælað af vökum og vinnu, en togarinn sneisafullur af labradorkóðum. Ágúst Flygenring varð að bíða. Einhver smávægilegur óánægjuárekstur varð milli okkar Flygenrings út af þessu, en það jafnaði sig og ekki minnst á það framar af hans hálfu.

Skipuleg Vinnubrögð
HafnarfjörðurSjaldan voru skipin lengi í höfn vegna þess að afgreiðslan tefði fyrir þeim. Þó kom það fyrir að okkur vantaði tilfinnanlegafólk til starfa; skortur á vinnuafli lengdi auðvitað dvöl togaranna við bryggjuna. Eitt sinn kom Earl Haig austan af Selvogsbanka og hafði innanborðs 80 lifrartunnur, en það samsvaraði 80 tonnum af fiski. Út á miðin tók hann milli 70 og 80 tonn af kolum og milli 25 og 30 tonn af salti. Við afgreiddum hann að öllu leyti á fjórum tímum. Einu sinni kom Imperialist austan af Hvalbak með 150—200 tonn af labradorfiski, það er mjög smáum fiski. Voru skipverjar að skeggræða um það sín í milli inn bugtina að núna myndi standa í helvítunum að losa dallinn; kannski fengju þeir nú einu sinni að anda smástund heima hjá sér. En við vorum aðeins sjö klst. að afgreiða togarann og okkar vegna gat hann þá siglt út á miðin. Margir voru undrandi yfir þessum miklu afköstum, en það sýndi einungis að við höfðum úrvalsmenn, samstillta í góðum og vel skipulögðum vinnubrögðum. Þeirra var heiðurinn, ef einhver hefur verið, þótt við Jón skipulegðum vinnuna eins haganlega og best við kunnum.

Það er mannskapur atarna!

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Einhvern tíma á þessu tímabili þurftum við að skipa út salti úr salthúsi Ágústar Flygenrings sunnan við bryggjusundið. Þetta salt hafði verið lengi í húsinu og orðið grjóthart. Okkur vantaði menn í vinnu, einkum til að losa saltið. Best reyndist að hafa menn uppi á saltstálinu og stinga það niður í stalla. Þeim, sem niðri voru og mokuðu saltinu í poka, fannst losunin ganga treglega og mun ég hafa innt eftir því hvernig á því stæði. Fyrir svörum var Halldór Brynjólfsson, maður roskinn, en hnyttinn og einarður, og segir bæði í gamni og alvöru:
„Það er nú varla von að vel gangi. Hér eru aðeins þrír menn og ekki gallalausir. Einn er blindur, annar heyrnarlaus og sá þriðji er vitlaus! Það er mannskapur afarna.“
Sjálfur var Halldór nær blindur og með honum voru Jónas frá Sólheimum í Laxárdal, gamall maður og nærri heyrnarlaus, og svo Sigurvin Guðmundsson, ævinlega nefndur Siggavin, en hann var vangefinn.

Blindur í grjótvinnu

Hafnarfjörður

Víðistaðir – stakkstæði.

Eins og áður segir keyptu Hellyersbræður Svendborgareignina í júnímánuði þetta ár, 1924. Var þá allt sett í gang þar og unnið af miklum krafti. Vantaði nú Hellyer fískreiti og tókum við félagar að okkur að leggja reit á Víðistaðabalann frá reit H.D. Bookless, er fylgdi Svendborginni, og allt upp að Kirkjuvegi. Var þetta mikið verk og mannfrekt. Unnið var við reitinn um sumarið þegar hlé gáfust frá togaraafgreiðslunni. Reitarlagningin gekk vel eins og önnur verk sem við tókum að okkur, því að ekki brást okkur mannskapurinn. Grjótið í reitinn var allt flutt á hestvögnum og höfðum við út úr þessu mikla vinnu fyrir vagna og hesta sem við áttum. Þeir Átli Guðmundsson og Halldór blindi unnu allt sumarið við að láta grjót upp í vagnana og það var alveg undravert hverju Halldór gat afkastað, blindur maðurinn. Fyrir kom að grjótið var borið á handbörum og báru þá saman Atli og Halldór. Var Atli alltaf á undan og er mér minnisstætt hversu Halldór tók hátt upp fæturna þegar hann gekk með börurnar. Var það ekki að undra því að vegurinn, sem gengið var eftir, var ósléttur og varasamur.

Gvendur og Hellusteinninn

Hafnafjörður

Hestvagn.

Einu sinni sem oftar kemur kúskur með hestvagn fullan af grjóti til þeirra sem reitinn lögðu. Í vagninum var einn gríðarstór hellusteinn. Einhver hafði orð á því við Guðmund Gíslason sterka, sem vann við reitarlagninguna og áður er getið, hvort hann myndi ekki geta tekið upp þennan stein!
„Ég gef þér 5 kr. ef þú gerir það,“ gellur þá við í einum.
„Ég 10 kr.,“ segir annar.
„Og ég skal gefa þér 10 kr.,“ segir sá þriðji, og fleiri tóku í sama streng.
Er nú ekki að orðlengja það að Guðmundi eru boðnar 90 krónur ef hann taki steininn upp. Guðmundur lætur lítið yfir sér og sinnir þessu ekki. Ætlar þá einhver að fara að velta steininum og koma honum fyrir í reitnum.
„Láttu bíða til kvöldsins,“ segi ég, „og sjáðu til hvort Guðmundur tekur hann ekki upp“.
Líður nú að kveldi og þegar vinnu lýkur ætlar Guðmundur að halda heim að vanda.
„Ætlarðu ekki að reyna við steininn og vinna þér inn þessa peninga,“ segi ég.
„Það þýðir ekkert, ég get það ekki,“ segir hann.
„Reyndu samt,“ segi ég, „ég skal kenna þér ráð sem dugar. Hladdu upp grjóti sem næst í hné og veltu steininum upp á hrúguna. Taktu hann svo, þá reynir ekki eins á mjóhrygginn, og þú lyftir honum eins og fisi.“

Hafnarfjörður

Fór nú Guðmundur að mínum ráðum, kastar saman nokkrum steinum í hrúgu, veltir helluklettinum uppá, tekur steininn upp við hné sér, snýr sér við með hann og kastar honum á jörðina. Að þessu afreki loknu leit hann hróðugur á mannskapinn í kringum sig og gleðin leyndi sér ekki í svipnum. Skundaði svo heim á leið.
„Það var nú ekki átt við svona útbúnað,“ sögðu einhverjir í áhorfendahópnum. Hann átti bara að taka hann upp þar sem hann lá!“
„Þið settuð honum engin skilyrði um það hvemig hann ætti að taka upp steininn,“ segi ég, „bara að hann lyfti honum frá jörðu.“ Þessu var ekki mótmælt og um málið var ekki meira rætt. Þegar kom að næstu útborgun krafði ég þá um greiðslu sem lofað höfðu Guðmundi fé fyrir að lyfta steininum. Var þetta talsvert fé, — sem næst vikulaunum. Allir stóðu við sín loforð.
Í frásögnum, sem ég hef heyrt um þetta atvik, hefur steinninn verið sagður um 1.600 pund! en ég hygg hann hafi verið á að giska nálægt 400 pundum. Hinsvegar var hann afar stór um sig og vont að ná taki á honum og ekki á færi annarra en hraustmenna að lyfta honum upp.

Heyjað, byggt og ferðast

Hafnarfjörður

Verslunarhús Milljónafélagsins J.P.Throseisson & Co, á Hamarkotsmöl árið 1907. Þessi hús voru Strandgata 50 a,b og c. Tvíreista húsið er og einnig öll húsin vinstra megin við það. Húsið lengst til hægri stendur enn og er nú víkingastræti 1-3.

Við lukum við reitarlagninguna um sumarið og um sinn kom reiturinn að góðu gagni. Á styrjaldarárunum voru ógurlega stórir koksbingir á reitnum sem herliðið átti, enda var þá mikið af tunnuhúsum (bröggum) í Víðistöðum og þar í kring. Nú eru þar fiskhersluhjallar.
Að vanda öfluðum við Jón heyja handa skepnum okkar þetta sumar. Við höfðum keypt jörðina Selskarð á Álftanesi ásamt heyfeng ársins á undan, sem var um 30 hestburðir. Var grasið svo smátt að varla var hægt að hemja það í reipum. Selskarð var heldur rýrt kot og illa húsað. Hlöðugarmur fylgdi jörðinni, en hann fauk út í buskann veturinn eftir við keyptum. Hlaðan var tóm þegar Kári gamli þeytti henni svo rækilega á sjó út að varla sást eftir spýta né járnplata.

Víðisstaðir

Víðistaðir 1954 -loftmynd.

Við höfðum byggt lítið steinhús á jörðinni og endurbyggt og stækkað gamla íbúðarhúsið. Fjós höfðum við byggt fyrir 13 kýr og hlöðu fýrir 600 hesta af heyi, en heyfengur jarðarinnar er í góðu meðalári um 500 hestar. Þetta vor girtum við túnið í Selskarði. Sumardaginn fyrsta unnu t.d. hjá okkur 20 menn við jarðrækt og girðingar og þann dag var girðingunni umhverfis túnið lokað. Þessi fyrsti sumardagur árið 1924 var því alveg sérstakur hátíðisdagur hjá okkur Jóni. Við höfðum eignast jörð sem við voru tengdar ýmsar vonir og nú höfðum við lokað túninu fyrir ágangi búfjár.
HafnarfjörðurÞetta sumar heyjuðum við túnið í Selskarði og tún okkar á Víðistöðum. Til viðbótar fengum við slægjur í Bessastaðanesi hjá þáverandi Bessastaðabónda, Jóni Þorbergssyni, sem nú býr á Laxamýri. Kjörin voru þau að við áttum að skila heim í hlöðu til háns þriðju hverri þurri heysátu. Voru þetta heldur aumleg kjör. Grasið var þó nóg í nesinu og tíðin var sæmileg, en þýfið var alveg voðalegt og næstum ósláandi. Við heyskapinn unnu þeir Hallgrímur Jónsson og Sigurður Guðnason.
Um sláttinn fórum við Jón Einarsson og Árni Mathiesen í tíu daga skemmtitúr ásamt Halldóri bróður mínum. Við áttum nokkra gæðingá á þessum árum og vorum ágætlega hestaðir. Ferðin var indæl og eftirminnileg.

Skemmtileg, er skorpuvinna
Hellyerstogararnir sex stunduðu allir fiskveiðar yfir sumarið og þegar hausta tók fóru þeir að fiska á svonefndum Halamiðum sem þá urðu fyrst kunn sem fengsæl fiskimið. Voru skipin fljót að fylla sig og lék nú allt í lyndi hjá Hellyersbræðrum.

Hafnarfjörður

Togaravinna.

Þeir verkamenn sem unnu hjá okkur að staðaldri höfðu allir sinn fyrirfram ákveðna starfa og auðveldaði það verkstjórnina. Ef einhveija vantaði þurfti auðvitað að bæta í skörðin. Reyndist það auðvelt, því ævinlega var hægt að ná í eitthvað af hlaupafólki. Stíumenn í lestum togaranna höfðu, hver og einn, sinn aðstoðarmann (steismann) sem kastaði fiskinum upp á pallinn sem lúgumaðurinn stóð á. Stíumennirnir höfðu oftast sömu aðstoðarmennina og gerðu til þeirra kröfur, vildu hafa þá góða menn og duglega. Þeir voru aldeilis ekki hrifnir af því að fá Lauja frá Lónakoti á steis svo að einhver, sem ekki var í náðinni, sé nefndur. Í lúgurnar völdust duglegustu mennimir. Kjartan Ólafsson hafði þar sinn starfa og kastaði fiskinum upp á borðin. Einu sinni lenti með honum maður að norðan, lítill og kvikur, er Guðmundur hét, Þórðarson frá Gilhaga í Hrútafirði.
HafnarfjörðurSkiptust þeir á um að kasta upp úr lúgunni, hann og Kjartan. Guðmundur þessi stamaði dálítið og lét svo ummælt við Kjartan að sér líkaði „sko-o-orpuvinna“ mjög vel. Var haft að orðtaki, einkum meðal þeirra yngri, að skemmtileg væri skorpuvinna og hlaut Guðmundur af þessu viðurnefnið: í skorpunni. Samstarf þeirra Kjartans og Guðmundar í skorpunni endaði þó með því að Kjartan vildi fá annan mann á móti sér á lúgu, enda reyndist Guðmundur ekki harðger í skorpunum er frá leið. Fannst Kjartani að hvíldarskorpur hans yrðu stundum nokkuð langar og var þó lítið gefinn fyrir að kvarta yfir annarra verkum.

Nýr samningur

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum.

Oft var svo til orða tekið þegar spurt var um hversu mikið væri eftir af fiski í lestinni að það væri heil glás, stundum sögðu menn það hálfa glás og stundum helvítis glás og það var nú náttúrulega stærsta glásin!
Er líða tók að jólum fór Owen Hellyer að inna að því hvort við vildum ekki gera tilboð í afgreiðslu á skipum þeirra bræðra fyrir næsta ár. Með reynsluna að baki hugleiddum við vel ráð okkar og ákváðum að láta til skarar skríða. Þeir bræður höfðu nú fengið lagalega heimild fyrir því að þeir mættu reka útgerð sína í Hafnarfirði.

Óhöpp og óveður
HafnarfjörðurEftir nýárið 1925 var mikill hugur í Hellyersbræðrum að láta ekki henda sig þau mistök að eiga ekki nægar salt- og kolabirgðir í byrjun aðalvertíðar.
Í janúar var von á stóru kolaskipi til þeirra og með því skipi var einnig mikið af allskonar útgerðar- og matvörum. En þetta skip komst aldrei hingað, það strandaði austur á Söndum. Um svipað leyti strandaði einn togarinn þeirra, Vicekont Allanby, sem var á leið hingað frá Englandi, og rak nú hvert óhappið annað. Þriðja og hörmulegasta slysið varð þegar togarinn Fieldmarchal Robertson fórst með allri áhöfn á Halamiðum í febrúarmánuði, — í því sama mannskaðaveðri og togarinn Leifur heppni. Þessi óhöpp, sérstaklega það síðastnefnda, slógu óhug á Hellyersbræður og kraft dró úr útgerð þeirra við þessi miklu áföll.

Garðaholt

Garðaholt og Krókur. Garðaholt var upphaflega skólahús og þinghús íbúa í Garðahreppi, reist á árunum 1908 – 1911.

Halaveðrið fræga er mér minnisstætt þótt ég væri á þurru landi. Sama dag og það skall á fórum við Jón og pabbi fram að Akrakoti á Álftanesi og var erindið að kaupa kú. Fórum við ríðandi og lögðum af stað í góðu veðri, fremur köldu en lygnu.
Riðum við sem leið liggur fram í Dysjamýri. Þegar við komum upp á hæðina, þar sem Samkomuhús Garðhreppinga er, rýkur hann upp í ofsa norðanveður með hörkufrosti. Gátum við varla á hestunum setið og hefí ég aldrei upplifað jafnskjóta veðurbreytingu. Mest langaði okkur að snúa við og halda heim undan veðrinu, en fannst það lítilmannlegt fullfrískum karlmönnum ríðandi á góðhestum. Létum því slag standa, riðum alla leið og lukum erindinu.

Hafnarfjörður

Togarinn Kings Grey.

Þegar heim kom lá togarinn Kings Grey við bryggjuna og sleit hverja trossuna af annarri, því að svo sterkt lagði kvikuna inn á höfnina þó áttin væri norðan, en venjulega er Hafnarfjarðarhöfn eins og heiðartjörn í norðanátt.
Jón Eiríksson frá Sjónarhól var þá fiskiskipstjóri á Kings Grey. Hann var snarmenni og úrræðagóður á sjó og fljótur var hann að rífa togarann út úr króknum á bryggjunni þegar hann fór að slíta allt sem hægt var að binda hann með.

Framhald

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 8. tbl. 25.02.1995, Snorri Jónsson, Hellyerstímabliði í Hafnarfirði II – Vikukaup fyrir að taka upp stein, bls. 6-7.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður kemur víða við sögu togaraútgerðar á Íslandi.

Togarinn Coot.

Togarinn Coot. Fyrsti togari Íslendinga, Coot, var gerður út frá Hafnarfirði á árunum 1905-1908. Skipið var 98 fet á lengd, búið 225 hestafla gufuvél og var búið til botnvörpuveiða.

Fyrsti íslenski togarinn, Coot, var gerður þaðan út og Pike Ward gerði út togarann sinn, Utopiu, frá Hafnarfirði. Seinna má segja að Hafnarfjörður verði snemma aðalmiðstöð fyrir erlenda togaraútgerð á Íslandi. Ber þar fyrst að nefna Booklessbræður frá Aberdeen. Þeir keyptu fiskaðgerðarstöð í Hafnarfirði árið 1910 og höfðu þaðan meiri og minni útgerð og annan atvinnurekstur til ársins 1922. Um tíma áttu þeir fjóra togara sem stunduðu veiðar frá Hafnarfirði. Þá keyptu þeir fisk af togurum, bæði breskum og hollenskum. Einnig hafði fyrirtækið A.D. Birrel & Co. keypt fiskverkunarstöð í Hafnarfirði og lögðu togarar upp hjá því á árunum 1910-14. Fleiri erlendir togarar bæði norskir og þýskir lögðu upp afla sinn í Hafnarfirði um þetta leyti.

Hafnarfjörður

Verksmiðjuhús Bookless.

Hafnfirðingar höfðu mikla atvinnu af þessari starfsemi en skjótt skipast veður í lofti. Á árunum 1922 og 1923 var mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði. Booklessbræður höfðu orðið gjaldþrota 1922 og ný lög, sem samþykkt voru sama ár á Alþingi, komu í veg fyrir að aðrir erlendir útgerðarmenn gætu hlaupið í skarðið. Í lögunum var lagt bann við því að útlend skip lönduðu afla sínum á Íslandi og seldu hann íslenskum ríkisborgurum til verkunar.
Þessi lög voru sett til að hindra síldveiðar Norðmanna fyrir Norðurlandi en þau giltu einnig um þorskveiðar. Þetta kom sér einkum illa fyrir Hafnfirðinga.

Hafnarfjörður

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar beitti sér nú fyrir því að undanþága fengist frá þessum lögum til þess að annað erlent fyrirtæki gæti keypt þá aðstöðu sem Booklessbræður höfðu áður. Hér var á ferðinni útgerðarfyrirtækið Hellyer Bros. Ltd. í Hull. Í samráði við stjórnvöld var sú leið farin að Geir Zóega var fenginn til að taka togara Hellyersbræðra á leigu og taldist það ekki brjóta í bága við ákvæði laganna. Hellyersbræður hófu útgerð sex togara frá Hafnarfirði á vetrarvertíð 1924.
HafnarfjörðurÁri síðar fékk fyrirtækið sérstaka lagaheimild til að reka útgerð sína í Hafnarfirði sem sjálfstætt fyrirtæki um átta ára skeið. Fyrstu vertíðina voru enskir skipstjórar á togurum Hellyers en síðan voru fiskiskipstjórarnir íslenskir. Á togurunum voru enskir flaggskipstjórar sem voru leppar því íslensku fiskiskipstjórarnir höfðu ekki ensk skipstjórnarréttindi. Einnig voru enskir stýrimenn á togurunum sem leppar. Þessir menn stunduðu ekki vinnu um borð en voru þarna aðeins til að fullnægja formsatriðum. Meðal þeirra togara sem Hellyersbræður gerðu út frá Hafnarfirði var stærsti og fullkomnasti togarinn í eigu Englendinga á þessum tíma, Imperialist, og var Tryggvi Ófeigsson skipstjóri á honum.

Hafnarfjörður

Tryggvi Ófeigsson (1896-1987). Tryggvi Ófeigsson var skipstjóri og síðar útgerðarmaður í Hafnarfirði og Reykjavík, tók við Imperialist nýsmíðuðum í Hull í mars árið 1925. Tryggvi var svo með Imperíalist til ársins 1929. Það ár hættu Hellyersbræður allri útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Tryggvi gekk svo inn í útgerðarfélagið h/f Júpíter í Hafnarfirði sem stofnað var 26 júlí 1929, með Lofti Baldvinssyni og Þórarni Olgeirssyni, sem árið 1925 höfðu látið smíða skip fyrir sig í Beverley, það skip var Júpíter GK 161. Tryggvi varð svo skipstjóri á honum til 1929.

Tryggvi stofnaði síðan eigin útgerð eftir að Hellyersbræður fóru héðan. Tryggvi ber Hellyersbræðrum vel söguna í ævisögu sinni og segir að þeir hafi verið bjargvættir Hafnarfjarðar. Hellyerbræður hættu útgerð sinni frá Hafnarfirði í nóvember 1929. Síðustu árin hafði orðið taprekstur á fyrirtækinu. Einnig átti það í vinnudeilum hér heima og ágreiningur kom upp við Hafnarfjarðarbæ um útsvarsgreiðslur.

Í Lesbók Morgunblaðsins  1995 fjallar Snorri Jónsson um „Atvinnusögu Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið„. Byggir hann á endurminningum Gísla Sigurgeirssonar. Um er að ræða fyrsta kafla af fjórum.

„Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma. – Fyrsti hluti af fjórum.

„Veturinn 1922-23 var mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði eins og reyndar átt hafði sér stað áður, en að þessu sinni keyrði ástandið um þverbak, engin hreyfing á neinu — ekkert að gera. Hið stóra og umfangsmikla útgerðarfirma, Bookless Bros Ltd. frá Aberdeen, hafði orðið gjaldþrota 1922. Svo alvarlegt þótti ástandið að haldinn var um málið almennur borgarafundur á haustmánuði 1923. Óttuðust menn að fjöldi fólks yrði að flytja búferlum úr bænum og fasteignir yrðu óseljanlegar. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru boðaðir á fundinn og mættu þeir báðir, Klemenz Jónsson og Sigurður Eggerz. Skorað var á þá að gefa undanþágu frá því ákvæði fiskveiðilaganna sem bannaði útlendingum að leggja afla sinn hér á land, en ráðherrarnir töldu að hægt yrði að komast hjá banninu ef Íslendingar tækju á leigu erlend fiskiskip.

Snorri Jónsson

Snorri Jónsson (1928-2016).

Í framhaldi af þessum borgarafundi samþykkti bæjarstjórnin 6. nóv. að skora áríkisstjórnina að leyfa útlendingum að leggja afla sinn til verkunar hér á land. Veitti ríkisstjórnin þetta leyfi og urðu málalyktir þær að stórfírma frá borginni Hull á Englandi, Hellyer Bros. Ltd., kom hingað með sex botnvörpunga á vertíðina i byrjun árs 1924.
Bræðurnir sem áttu firmað og voru fosvarsmenn þess hétu Owen og Orlando Hellyer. En vegna ákvæðis fiskveiðilaganna tók Geir Helgason Zoéga togarana á leigu að nafninu til og var umboðsmaður firmans og gerði samninga fyrir þess hönd. Samdist nú svo um við Geir að við Jón Einarsson og Sigurgeir Gíslason, faðir minn, yrðum verktakar hjá Hellyer og tækjum að okkur afgreiðslu togaranna, en það var að sjálfsögðu mikið verk og við erfiðar aðstæður að eiga.

Fjörkippur í atvinnu og viðskiptum

Hafnarfjörður

Togarinn Ceresio.

Þegar togararnir komu til Hafnarfjarðar voru þeir allir með fullar lestir af kolum og öðrum varningi til útgerðarinnar. Þetta varmikið magn og meiri birgðir vöru en áður höfðu verið fluttar hingað til hafnar. Verður það nú hlutskipti okkar að annast alla þessa vinnu, uppskipun og útskipun, fyrir ákveðið verð hvert tonn inn og út. Satt best að segja var þessi samningur við Geir H. Zoéga gerður í alltof miklu fljótræði af okkar hálfu, enda var hann sá versti sem við gerðum við nokkurn verksala á allri okkar starfsævi. Svo vondur var hann, að þegar vetrar- og vorvertíðinni lauk var útkoman sú að við þrír, verktakarnir, ég, Jón og pabbi, máttum heita kauplausir allan tímann.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1910.

Þrátt fyrir það, að ákveðið væri að Hellyer fengi aðstöðu hér í Firðinum, óttuðumst við að vinnan lenti í höndum reykvískra verktaka og því var hugsun okkar sú að tryggja það að svo yrði ekki. Við vildum sitja að þessari vinnu, bænum og búendum hér til heilla og hagsbóta. Sú hugsun réði mestu þegar við vorum að gera samninginn við Geir. Reynsla okkar var sú að Reykvíkingar væru ásæknir í að ná sem flestu til sín. Óttinn við þetta var aðalástæða þess að Geir gat pínt okkur niður úr öllu valdi.
Af þessari reynslu drógum við lærdóm sem kom okkur að góðu haldi við næstu samningsgerð.

Hafnarfjörður

Athafnasvæði Hellyersbræðra.

Togaraútgerð og fiskverkun Hellyersbræðra, sem rekin var hér í Hafnarfirði í nokkur ár, olli því að atvinnulífið tók mikinn fjörkipp og viðskiptalífið glæddist. Togarar þeirra þóttu myndarleg skip og fyrsta flokks að öllum búnaði á þeirrar tíðar mælikvarða. Þeir togarar sem komu hingað fyrsta árið voru: Ceresio, Lord Fischer, Earl Haig, General Birdwood, Viskont Allanby og Kings Grey. Skipstjórar og vélamenn voru enskir, en hásetar voru að mestu leyti íslenskir og margir úr Hafnarfirði.
Fljótlega voru ráðnir íslenskir fiskiskipstjórar á togarana, því hinir ensku flaggskipstjórar þekktu lítt til miðanna og voru m.a. af þeim sökum litlir fiskimenn. Hin raunverulega skipshöfn var því íslensk. Frá þessu var þó ein undantekning.
Á togaranum Ceresio var íslenskur skipstjóri frá Hull, Jón Oddsson að nafni. Hann var mikill aflamaður og viðurkenndur fyrir dugnað, enda var enginn fiskiskipstjóri með honum.

Hellyer kaupir Svendborg

Hafnarfjörður

Ágúst Flygenring (1865-1932).

Þegar kom fram í júní þetta ár, 1924, tókust samningar milli Landsbanka Íslands og Owens Hellyers um að Hellyer Bros. keypti útgerðarstöðina Svendborg. Þessi stöð hafði gengið kaupum og sölum. Sveinn Sigfússon kaupmaður frá Norðfirði reisti hana árið 1903. Var þá stöðin nefnd í höfuðið á honum uppá dönsku, eins og þá þótti fínt, og nefnd Svendborg.

Stöðina reisti Sveinn við Fiskaklett, skömmu síðar komst stöðin í eigu Ágústs Flygenrings sem hafði þar timburverslun, en seldi hana eftir stuttan tíma norskum manni, H.W. Friis, sem stundaði hér línubátaútgerð. Friis varð nokkrum árum seinna gjaldþrota og keypti þá Einar Þorgilsson stöðina, árið 1909, og seldi hana Bookless Bros. Í Aberdeen árið eftir með góðum hagnaði. Þegar Svendborg kemst í eigu þeirra Booklessbræðra, Harrys og Douglas — fyrirrennara Hellyers, — hefst áhrifamikið tímabil í atvinnusögu Hafnarfjarðar. Þeir urðu vinnuveitendur í mjög stórum stíl og verkafólk starfaði hjá þeim, á tímabilum jafnvel svo hundruðum skipti.
Sjálfir áttu þeir fjóra togara sem hér lögðu upp afla sinn fyrstu árin, en þeir versluðu mikið með fisk, keyptu ógrynni af fiski af íslendingum, einkum á Faxaflóasvæðinu milli Suðumesja og Akraness, og af erlendum togurum, aðallega breskum. Fiskverðið greiddu þeir í peningum, fyrstir manna hér um slóðir. Fyrir það, ekki síst, áttu þeir almennum vinsældum að fagna, en því miður lauk starfsemi þeirra að 12 árum liðnum þegar fyrirtækið varð gjaldþrota árið 1922.

Hafnarfjörður

Sendborg – síðar Brookles.

Með kaupum Hellyers á Svendborg hefst fiskverkun þar á ný og fjöldi fólks, sem áður varð að láta sér nægja að lepja dauðann úr krákuskel, fékk vinnu og gat nú litið til framtíðar með vongleði í huga.

Erfiðar aðstæður
Eins og áður segir voru togarar Hellyers með allar sínar lestir fullar af varningi til útgerðarinnar, einkum þó kolum. Heldur var nú brasksamt að losa kolin úr togurunum og verst og erfiðast var að ná þeim inná bryggjuna þegar lágsjávað var. Enginn krani var á bryggjunni og engar bómur voru á skipunum. Utbúnaðurinn var þannig að strengdur var vír úr frammastrinu í reykháfinn. Á þennan vír voru settar jafnmargar hjólblakkir og lúgurnar voru sem hala átti uppúr, en þær voru venjulega þrjár. Togspilið var notað til að vinda upp kolin og var einn maður við hverja lúgu.

Hafnarfjörður

1940-1950, portrett af ónafngreindri konu. Svo virðist sem konan hafi verið að bera kol en hún er með sótuga peysu og svuntu.

Kolunum var öllum mokað í poka í lestinni og tveir til þrír pokar voru halaðir í einu upp um lúguna. Þegar pokalengjan var komin í bryggjuhæð toguðu bryggjumennirnir í hana og vingsuðu henni inn á bryggjuna og upp á jámbrautarvagna. Var vögnunum svo ekið upp í kolabinginn sem stundum var allt að fjórir metrar á hæð. Stundum gat það komið fyrir að togaramir blésu út eða urðu damplausir, eins og það var kallað, og þá fór nú að vandast málið. Eina úrræðið var að hala allt upp með handafli, en það var bæði seinlegt og hinn mesti þrældómur.
Hver togari flutti þétta 200 til 250 tonn af kolum í þessari fyrstu ferð sinni hingað í Hafnarfíörð. Kolin til Hellyersbræðra voru geymd á Árnalóðinni, sem svo var kölluð. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hafði þar seinna kol handa sínum skipum. Ámalóð er vestan við skrifstofur Bæjarútgerðarinnar þar sem þær voru, áður en þær voru fluttar í nýja frystihúsið. Kolin vom flutt upp á lóðina í járnbrautarvögnum og var oft erfitt að komast þangað eftir misjöfnum sporunum.

Hafnarfjörður

Járnbrautir voru algengar á fiskreitum Hafnarfjarðar.

Járnbrautarteinarnir lágu í sandi meðfram Vesturgötunni og yfir hana. Var því oft sandur fyrir hjólunum og þungt að aka vögnunum á handaflinu einu með tvö tonn innanborðs af kolum.
Tíðin var einmuna góð á þessari vertíð. Togararnir komu oftast inn síðari hluta dags og hófst þá vinnan milli kl. 4—6 síðdegis og lauk ekki fyrr en undir morgun næsta dags. Þær vom margar blíðviðrisnæturnar og dagarnir, einkum er líða tók á vertíðina og sólaruppkoman heillaði menn. Þá var freistandi að líta uppúr stritinu og horfa mót dagsins rísandi sól.
Og það leyfðu menn sér stundum.

Eftirminnileg kynni
HafnarfjörðurMenn urðu örþreyttir og slæptir eftir erfiðar og langar vinnuvökur, en þó jafnframt glaðir í sinni yfír tekjunum sem þeir höfðu aflað til að sjá sér og sínum farborða í harðri lífsbaráttu. Svo héldu menn heim í morgunbirtunni, fegnir hvíld og svefni, en þó reiðubúnir að hefja störf á nýjan leik hvenær sem kallið kæmi.
Vinnan og umsvifín fóru vaxandi þegar á vertíðina leið. Við tókum einnig að okkur afgreiðslu skipa sem komu með vörur til annarra útgerðarfyrirtækja og vinnuaflið lét ekki á sér standa. Það var oft drepið á dyr hjá okkur Jóni Einarssyni og leitað eftir vinnu. Iðnaðarmenn í bænum höfðu t.d. ekkert að gera um þessar mundir og munu þeir flestir hafa komist í snertingu við bryggjuvinnuna, allt frá úrsmiðnum til stórskipasmiðanna. Kynnin við suma þessa menn urðu mér eftirminnileg.
HafnarfjörðurÞað var eitt sinn að stórt og mikið saltskip var væntanlegt. Fréttin um það hafði borist út og til okkar kom fjöldi manna að biðja um vinnu. Einn þeírra var stór og föngulegur maður og leist okkur Jóni að sá mundi liðtækur vera og segjum honum að koma niður að skipi morguninn eftir. Við þekktum flesta verkamennina og okkur var ekki sama um hvernig niðurröðun þeirra var við verkin. Skipulögðum við það allt fyrirfram. Við ætluðum þessum stóra og dugnaðarlega manni að taka á móti saltlengjunum og koma þeim fyrir á jámbrautarvögnunum. Um morguninn tilnefndi ég fólkið að stórlestinni, var fljótur að lesa upp nöfnin og fer nú hver maður á sinn stað. Svo kalla ég nokkrum sinnum í þann stóra og segi honum að vera á bryggjunni en hann skeytir því engu og er hinn rólegasti. Verð ég nú leiður á þessu sérlega heyrnarleysi mannsins, vind mér að honum og spyr hvort hann hafi ekki heyrt til mín. Segir hann þá og brosir um leið: „Ég heiti ekki Sigfús Vormsson, ég heiti Kjartan Ólafsson!“
HafnarfjörðurEinhvern veginn hafði ég bitið það í mig að maðurinn héti Sigfús Vormsson, en Sigfús sá var trésmiður og átti hér heima um tíma og giftist Kristínu Þorsteinsdóttur frá Kletti.
Þessi urðu fyrstu kynni okkar Kjartans Ólafssonar sem síðar varð bæjarfulltrúi í Hafnarfirði o.fl. og höfum við oft brosað að þessu síðan. Var Kjartan ævinlega velkominn til okkar meðan hann stundaði verkamannavinnu, enda var maðurinn afburða duglegur og svo var viðkynningin að ekki varð á betra kosið.

Sörli og Gullfoss
Vornæturnar um þessar mundir voru yndislegar. Laugardaginn fyrir páska unnum við framundir morgun í blíðviðri, og þegar við hættum fannst mönnum ekki nauðsynlegt að flýta sér heim. Við fórum með verkfærin upp í skúr sem áfastur var við gripahús, sem við Jón áttum, en er nú húsið Vörðustígur 9. Þar inni áttum við gráan hest, stóran og sterkan, sem við nefndum Sörla. Var nú leikur í körlum, þótt lúnir væm eftir langa törn og dettur nú einhverjum í hug að prófa hvursu marga menn muni þurfa til að halda sterkum hesti kyrrum. Var Sörli leiddur fram, lögð á hann aktygi og kaðlar festir í þau. Tóku nú fjórir þeir sterkustu í kaðlana og er nú slegið í Sörla. Kippist hann við og rykkir í, en þegar hann finnur mótstöðuna lítur hann við og sér hvað um er að vera. Reyndi hann þá ekki meira og varð ekki úr að aka hvernig sem að var farið. Mun Sörla hafa þótt óþarfi að láta svona á sjálfa páskanóttina! Höfðu menn á orði að sá grái væri gáfaður og hefði heldur betur skotið þeim ref fyrir rass!

Hafnarfjörður

Vörðustígur.

Og það var eins og menn yrðu góðglaðir þarna í næturkyrrðinni og fóru að segja sögur. Meðal „sagnamann þessa vornótt við Vörðustíginn var Guðmundur Gíslason — oft nefndur hinn sterki — og átti heima á Hverfisgötu 6. Þótti mönnum gaman að kraftasögum Guðmundar — enda var hann stundum óspar á þær — og nú sagði hann eftirfarandi sögu:
Á mínum fyrri árum stundaði ég oft í vinnu í Reykjavík. Varð mér ævinlega vel til með vinnu því að ég þótti ekki síður liðtækur en best gerist og gengur. Einu sinni — það var á fyrstu árum Eimskipafélagsins — var ég settur í að losa vörur úr Gullfossi. Vill þá svo til að maður nokkur, eitthvað slompaður, dettur út af hafnarbakkanum og fellur í sjóinn milli skips og bryggju.

Hafnarfjörður

Gullfoss 1919.

Urðu menn nú logandi hræddir og hrópuðu hver í kapp við annan að maður hefði dottið í sjóinn og myndi kremjast milli skips og bryggju ef skipinu yrði ekki haldið frá. Þarna á bakkanum var fjöldi manna saman kominn, á að giska 50—60 manns. Hlupu nú allir sem vettlingi gátu valdið til að ýta Gullfossi frá bakkanum svo að manninn sakaði ekki ef honum skyti upp. Var nú maður látinn síga niður milli skips og bakka og hafði sá með sér kaðal til að binda utanum hrakfallabálkinn. Þetta tókst, og var nú sá slompaði dreginn upp, við mikinn fögnuð viðstaddra, dasaður og heldur illa til reika. En í fagnaðarlátunum gleymdist að huga að hinum sem sigið hafði niður með kaðalinn, — og áður en við væri litið voru allir hlaupnir í burtu frá skipinu — allir — nema ég.

Hafnarfjörður

Gullfoss 1930.

Ég mundi eftir björgunarmanninum og hélt skipinu alveg kyrru; — og þótt ég kallaði og bæði um aðstoð ansaði enginn, — allir voru á bak og burt. — Þama hélt ég Gullfossi grafkyrrum þangað til manntötrið hafði klöngrast upp á bakkann. En það verð ég að segja að þungur fannst mér Gullfoss þegar ég var orðinn einn. Ég held ég hafi aldrei tekið meira á um mína daga.
Þegar Guðmundur hafði lokið sögu sinni sagði Ingimundur Ögmundsson sem var maður orðvar og hæggerður:
„Ég er nú bara farinn heim, ég hlusta nú ekki á meira af þessu tæi!“

Unnið nætur og daga
HafnarfjörðurAð öllum vel sögðum sögum þótti jafnan góð skemmtan og skipti þá ekki máli hvort þær studdust við raunverulega atburði eða ekki. En þess vil ég geta að Guðmundur Gíslason var afburðasterkur maður og feikna duglegur; verður dugnaður hans seint of lofaður.
Vinnan jókst. Á daginn unnum við í kolaog saltskipum, en á kvöldin og nóttinni afgreiddum við togarana. Það þótti gott að fá að sofa í tvær til fjórar stundir á sólarhring. Það tók því varla að hátta ofaní rúm. Kjartan Ólafsson sagðist eina vikuna hafa þurrkað sér með hörðum striga um andlit og lagt sig svo á hálmdýnu í heitu eldhúsinu. þetta gerði hann til að lengja svefntímann og svipað gerðu fleiri.
HafnarfjörðurSigurður Guðnason, seinna formaður Vkm. Dagsbrúnar og alþingismaður, var tengdasonur Guðmundar Gíslasonar frá Tjörn í Biskupstungum, föður Gísla bifreiðarstjóra sem hjá okkur vann oft og mikið. Fyrir kunningsskap við Guðmund tókum við Sigurð í vinnu. Hann átti heima í Reykjavík, en þá var lítið um atvinnu þar. Sigurður var skemmtilegur félagi, kappsfullur og afburður að dugnaði.
Einhvern veginn vildi svo til að þeir unnu mikið saman Kjartan Ólafsson og Sigurður. Þegar salti var skipað um borð í togarana var því ekið fram á bryggjuna í járnbrautarvögnum eða bílum. Kjartan og Sigurður höfðu þann starfa að taka pokana af vögnunum og kasta þeim upp í saltrennu ef hátt var í sjóinn eða hvolfa úr þeim í rennuna ef lágsjávað var. Rann þá saltið oní lestamar. Veittist þeim létt að fleygja pokunum og var oft gaman að sjá handatiltektir þeirra. Við neðri enda rennunnar var Hallgrímur Jónsson; hann sá um að saltið færi ekki til spillis. Ef hátt var í sjó tók hann við pokunum fullum, ásamt aðstoðarmanni, og losaði úr þeim oní lúgurnar. Þeir Kjartan og Sigurður köstuðu stundum nokkuð hastarlega svo þeir Hallgrímur höfðu ekki undan og kenndi í því nokkurrar stríðni. Varð Hallgrímur þá ergilegur og kvartaði sáran. Þetta endaði þó jafnan í friði og spekt og að lokum höfðu allir gaman að og hlógu.“

Framhald

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 18.02.1995, Snorri Jónsson, Atvinnusaga Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið, bls. 1-2. Úr endurminningum Gísla Sigurgeirssonar. Snorri Jónsson tók saman.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – forsíða Lesbókar Mogunblaðsins 18.02.1995.

Skátar

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Skátafélagsins Hraunbúa þann 22. febrúar 2025 er rétt að rifja upp frumsögu þess í Hafnarfirði. Í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1965 er sagt frá skátafélaginu á fertugasta aldursafmælinu það árið undir fyrirsögninni „Árdegið kallar, – áfram liggja sporin„.

Skátar„Hinn 22. fehrúar síðastliðinn voru 40 ár liðin frá því að shátastarf hófst hér í Hafnarfirði. Í hófi, sem Hraunhúar héldu af því tilefni, hélt félagsforingi þeirra ræðu þá er hér birtist. Er þar í stuttu máli drepið bæði á fortíð og framtíð skátastarfsins í Hafnarfirði.

Ágætu gestir, góðir félagar.
Það er 22. febrúar í dag á því herrans ári 1965, og eru því núna 40 ár frá því að skátastarf hófst hér í Hafnarfirði. Það er eðlilegt, að við stöldrum ögn við á þessum tímamótum, lítum yfir farinn veg og reynum þó um leið að skyggnast lítið eitt inn í framtíðina.
SkátarÞað hefur gengið á ýmsu á þessum 40 skátaárum hér í Hafnarfirði. Stundum hefur skátalífið staðið með blóma og stundum hefur haustað að. Þannig er því farið með allan félagsskap. Félagsstörfin ganga í öldum, stundum eru þau á öldutoppinum og stundum í öldudal. En félagsskapur, sem lifað hefur í fjörutíu ár, hefur óneitanlega sannað tilverurétt sinn og stendur orðið föstum fótum. En margt hefur breytzt á þessum fjörutíu árum.
Það var aðeins einn skátaflokkur, sem lagði upp hinn 22. febrúar 1925 klukkan 7 síðdegis.

Skátar

Kröfuganga á leið niður Strandgötu, húsið er Suðurgata 24 var áður Strandgata 52 betur þekkt sem Bristol.

Drengirnir, sem þarna hófu skátagönguna í Hafnarfirði, lögðu upp með bjartsýnina og skátahugsjónina að leiðarljósi. Hvort tveggja þetta reyndist happadrjúgt og nú eru að baki óteljandi skátaspor á 40 ára leið. Leiðin, sem þá var aðeins óljós troðningur, er nú orðin
að troðinni götu.
Það var Jón Oddgeir Jónsson, sem hafði forgöngu um að skátastörf byrjuðu hér. Eftir nýárið 1925 fær hann sér fjögurra daga frí, fer suður í Fjörð og kynnir drengjum í K.F.U.M. skátahreyfinguna. Og árangurinn verður sá, að skátaflokkur er stofnaður hinn 22. febrúar. Þessi fyrsti skátaflokkur tekur mjög myndarlega til starfa og hinn 5. apríl hafa allir stofnendurnir lokið 2. flokksprófi.

Skátar

Gamli barnaskólinn. Reistur 1902, þá sem Barnaskóli Garðahrepps. Stækkaður 1921. Skólinn við Lækinn var vígður 1927 og þá flutti sú starfsemi úr þessu húsi.

Og rúmri viku síðar eru teknir það margir nýliðar, að 4 flokkar verða starfandi. Það er komin skátasveit í Hafnarfjörð, en drengina vantar sveitarforingja. En fyrsti sveitarforinginn í Hafnarfirði fæst brátt, og var það Gísli Sigurðsson lögreglumaður, en Jón Gestur Vigfússon, sparisjóðsgjaldkeri, leit eftir og fylgdist með öllu skátastarfinu, var eins konar ábyrgðarmaður drengjanna.
Það er sýnilegt, að þessir fyrstu skátadrengir í Hafnarfirði hafa lagt sig fram um að vera trúir lögum og stefnu skátahreyfingarinnar.
Enda líður ekki á löngu, áður en ýmsir fara að veita þeim verðskuldaða athygli.

Skátar

Gamla „Svendborg 1912“ er skrifað aftan á myndina. Bokkless Brothers er skrifað á þak skemmunar.

Lítill vottur þess er bréf frá 20. febrúar 1927, sem nú er geymt í skjalasafni félagsins. En nú skulum við gefa bréfritara orðið:

„Kæru skátar. Rétt eftir að ég lagðist veikur haustið 1925 hvarf héðan af götunni gömul kona á leið heim til sín. Var nokkur þoka svo hún villtist. — Ég heyrði þessa getið strax, með því að blásið var í lúður til að safna fólki til leitar. Skátafélagið meðal annarra brá þá þegar við, fór frá störfum sínum í leitina og fann konuna. Ég get ekki gleymt því, hve vænt mér þótti um þennan röskleika félagsins og finnst mér hann vera fyrirboði þess, að það eigi margt nytsamt að vinna í framtíðinni.
Innlagt sendi ég félaginu 100 krónur sem þakklætisvott frá mér fyrir þetta fallega og heppilega mannúðarverk.
Yðar með vináttu og virðingu,
Ágúst Flygenring.“

SkátarÞetta bréf talar skýru máli um það, hvernig byrjunin tókst hjá skátunum, hvernig þeir komu áhorfendum utan félagsins fyrir sjónir. En í skjalasafni Hraunbúa er líka til afrit af svarbréfi skátanna til Ágústs og það er líka gott vitni um andann, sem þá er ríkjandi í félaginu. Það bréf var svohljóðandi:

„Hafnarfirði, 27. febr. 1927.
Herra Ágúst Flygenring, f.v. alþingismaður. Við höfum tekið á móti gjöf yðar með miklu þakklæti, og gleður það oss sérstaklega hve góðan skilning og góðan hug þér berið til skátastarfsemi okkar. Gjöfin barst til okkar einmitt á þeim degi, sem skátar um allan heim halda mikið upp á, nefnilega fæðingardag sir Róberts Baden Powells, stofnanda skátahreyfingarinnar.

SkátarVið viljum nú um leið geta þess að það, sem við gerðum er gamla konan tapaðist héðan haustið 1925 var það, sem allir aðrir skátar hefðu gert í okkar sporum. Við munum því ávallt reyna að verða þjóð vorri til gagns og sóma og verðskulda þannig, meðal annars, það traust, sem þér hafið sýnt okkur.
Okkur kom mjög vel að fá peningana frá yður, og finnst okkur það eiga vel við að nota þá meðal annars til að kaupa handa félögum okkar íslenzkan þjóðarfána, sem við viljum ávallt heiðra og vernda sem bezt.
Með kærri kveðju frá öllum hafnfirzkum skátum.
F.h. Skátafélags Hafnarfjarðar.
Guðrún Sigurðardóttir.
Jón Oddgeir Jónsson.“

Skátar

Skátaheimlið við Strandgötu – Hraunbyrgi.

Þessi tvö bréf segja okkur meira um félagið og andann á þessum árum en löng ræða. Félagið fetar með festu og öryggi skátabrautina.
Hér er hvorki tími né tækifæri til þess að rekja sögu skátanna í Hafnarfirði nákvæmlega í þessi fjörtutíu ár. Ég mun því stikla á stóru og nefna fá nöfn. Sagan og nöfnin munu betur rakin í félagsblaðinu okkar, Hraunbúanum, sem koma mun út nú á næstunni.
Tvö fyrstu árin eru skátarnir í Hafnarfirði til húsa á Suðurgötu 24. En árið 1927 flytja þeir starfsemi sína í kjallarann í Gunnarssundi 5, en þar á einn stofnendanna, Róbert Smidt, heima. Þar leigja þeir tvö herbergi. Þá byrja þeir að koma sér upp bókasafni og eignast til dæmis flestar Íslendingasögurnar.

Skátar

Skátaheimilið við Hrauntungu.

En svo fer að halla undan fæti fyrir skátastarfinu hér. Stofnendurnir, sem neistann kveiktu og hófu merki skátanna hér í bænum tvístrast í ýmsar áttir. Sumir fara burt úr hænum á ýmsa skóla, aðrir flytjast búferlum. Skátastarfið flytzt úr Gunnarssundi 5 á Hellisgötu 7 og síðar á Kirkjuveg 5. En svo lognast skátastarfið út af og það er ekkert skátafélag að finna í Hafnarfirði.
En hinn 22. febrúar 1937 koma aftur saman drengir, sem áhuga hafa á skátamálum. Átta drengir stofna skátaflokk og síðan hafa alltaf verið skátar í Hafnarfirði.
Hafnfirzku skátarnir hafa víða verið til húsa. Árið 1937 voru þeir á Suðurgötu 34 B, svo fær félagið lánað eitt herbergi í Gamla barnaskólanum, seinna lánar Jón Mathiesen þeim herbergi undir starfsemi sína og síðar Jón heitinn Gíslason.

Skátar

Þann 26. febrúar árið 2000 sameinuðust Björgunarsveitin Fiskaklettur og Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði undir merkjum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Næsta bækistöð skátanna í Hafnarfirði verður svo hermannaskáli, sem bærinn lánar þeim. 1945 fá skátarnir húsnæði í gömlu Svendborgarhúsunum og haustið 1947 kaupir félagið veitingaskála við Strandgötu fyrir 37 þúsund krónur. Þessi skáli var skírður Hraunbyrgi. Og þar átti skátastarfsemin heima til ársins 1962, hinn 1. júlí, er núverandi félagsheimili okkar var tekið í notkun, sem líka ber Hraunbyrgisheitið svo sem kunnugt er.
Útilegur og útilíf hefur alltaf verið snar þáttur skátastarfsins og þar hefur skálinn okkar við Kleifarvatn gegnt miklu og veglegu hlutverki. Við hann eru margar skátaminningar tengdar. Hann var byggður fyrir tæpum 20 árum, árið 1946.
Þá eru árin 1951 og 1963 merkisár í skátasögunni liér í Hafnarfirði, því að þá eru stofnuð Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði og St. Georgsgildi, samtök „gamalla“ skáta. Og í sumar verða vormótin orðin 25. Þannig er sagan okkar, skátanna í Hafnarfirði, í örfáum og stórum dráttum.
SkátarFélagið hefur vaxið með bænum. Það hefur þróazt með árunum og sniðið sér stakk eftir vexti. Nú er ekki aðeins einn flokkur á göngunni fram eftir veginum eins og árið 1925. Nú ganga eftir götunni tvær kvenskátadeildir með 102 kvenskátum og 38 ljósálfum, tvær drengjaskátadeidir með 124 drengjaskátum og 41 ylfingum, Hjálparsveit skáta með 74 félögum og St. Georgsgiklið, en þátttakendur í því eru 65. Og sem betur fer er öll þessi fylking samstiga og samhuga. Það er gæfa félagsins okkar í dag.

Skátar

Skátamót í Helgadal ofan Hafnarfjarðar.

Þess vegna höfum við t. d. verið þess megnug að leysa ýmis stór viðfangsefni á síðastliðnu ári. Ég minni á vormótið á Höskuldarvöllum með rúmum 600 þátttakendum, ég minni á að 36 skátar úr Hraunbúum sóttu skátamót í Noregi síðastliðið sumar og ég minni á Fiskasýninguna. Það er sagt að menn vaxi með verkefnunum og ég vona að Hraunbúar eigi sér alltaf stór viðfangsefni til þess að glíma við og reynist vandanum vaxnir að leysa þau.
Allt skátastarf er uppbygging, mótun og þjálfun mannkostanna. Starfið og skipulagið ekki verjandi að leggja hana á yngri herðar, ef annars er nokkur kostur. Þetta er stefna skátafélaganna í dag, hvar sem er í heiminum. Og það er trú mín að innan skamms verði þetta komið í gott lag hjá okkur Hraunbúunum.

Skátar

Jón Gestur Vigfússon (1892-1980) .

Deildarstjórnir eru eitt af því, sem bíður á næsta leiti. Erlendis er það víða skilyrði fyrir því að skátadeild megi starfa, að hún hafi deildarstjórn og foreldraráð að baki sér. Og það er skoðun mín, að núna vanti okkur ekki nema herzlumuninn til þess að koma þessu á. Og ég er þess fullviss, að deildarstjórnir og foreldraráð deildanna í Hraunbúum eiga eftir að verða skátahreyfingunni í Hafnarfirði ómetanleg stoð.
Eitt af því, sem við eygjum í næstu framtíð í skátastarfinu hér í Hafnarfirði er hverfaskiptingin. Hún hefur alls staðar gefið góða raun. Í hverfinu eru gjarnan tvær deildir, drengjaog kvenskátadeild. Þessar deildir hafa svo sameiginlegt húsnæði fyrir sig: Lítinn fundarsal, tvö, þrjú flokksherbergi, eldhúskytru. Afleiðing: Deildirnar standa miklu traustári fótum í umhverfi sínu.
Ef við lítum á félagið okkar í dag, er þegar kominn grundvöllur fyrir hverfaskiptingu. Í dag væri það ekkert óeðlilegt að skipta bænum í tvö hverfi, skipta um Lækinn. Þá þyrfti að komast upp lítið skátaheimili í Suðurbænum. Aðalmiðstöðin yrði eftir sem áður Hraunbyrgi.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn (1903-1985).

Þá er í dag grundvöllur fyrir þriðja hverfið inni í Silfurtúni. Allmargir skátar í Hraunbúum eru þaðan. En ólíkt væri það hægara fyrir þá ef þeir hefðu aðstöðu til þess, að allt aðalskátastarf þeirra færi fram þar heima. Og það mun ekki líða á löngu þar til þörf verður á að hverfin hér í Hafnarfirði verði þrjú, — og heimilin þrjú. Bjartsýni segir einhver, — og því ekki það?
Vorhugur og skátar eiga samleið. Og við getum sagt með Hannesi Hafstein:

Árdegið kallar, áfram liggja sporin,
enn er ei vorri framtíð stakkur skorinn.
Aldar á morgni vöknum til að vinna,
vöknum og tygjumst, nóg er til að sinna.
Hátt ber að stefna, von við traust að tvinna,
takmark og heit og efndir saman þrinna.

Hraunbúar. Áfram skal haldið. Merkið má ekki falla.
SkátarVið getum litið yfir farinn veg og séð hvað hefur áunnizt, séð hvernig ýmsir ágætir skátar hafa lagt sig alla fram félaginu til heilla og skátastarfinu til góðs. Og við eigum öll að setja metnað okkar í að reyna að gera eins. Hefja merkið hátt, leita á brattann, kæra okkur kollótt þótt á móti blási, sigrast á erfiðleikunum. Við eigum að lifa eftir kjörorðinu, að vera ávallt viðbúin.
Skátahugsjónin á að vera okkur aflgjafi.
Gleðileg jól!

Lög okkar og heit, bræðralag og friðarhugsjón eiga að vera okkur allt. Hugur okkar þarf að vera heill í skátastarfinu. Við verðum að vera viðbúin að fórna ýmsu fyrir skátastarfið. Við verðum að gefa okkur öll óskipt til að höndla kjarnann í skátalífinu, til þess að vaxa og verða nýtir menn. Við verðum að bera hag allra skáta um allan heim fyrir brjósti, þjást og finna til þegar eitthvað fer úrskeiðis, brosa og fagna, þegar rétt miðar.
Svanurinn frá Fagraskógi segir í einu kvæða sinna:

Ef hugur fylgir máli,
þá gefðu og gefðu allt.
Þeir glatast fyrst
sem engu fórna vildu.
Til himins kemur aldrei
hjarta, sem er kalt
og hikar við að gera sína skyldu.

Þetta skyldum við alltaf hafa í huga, og hika því aldrei að gera það, sem skátaskyldur okkar bjóða.
SkátarOg á þessum tímamótim skulum við allir Hraunbúar stíga á stokk og strengja þess heit, að duga og vera sannir skátar, lyfta merki skátanna hærra en nokkru sinni fyrr, leggja allt af mörkum, hvert og eitt einasta okkar, skátastarfinu til heilla og sjálfum okkur til gleði og hamingju. Þáð er bezta afmælisgjöfin, sem við getum fært félaginu okkar. Og við hina, sem rutt hafa okkur veginn eða stutt okkur í starfi, vil ég segja þetta. Hafið hjartans þökk og fylgi ykkur allar heillir. Þið hafið átt ykkar þátt í að skapa okkur skyldur, skylduna til þess að duga til þess að vera sannur skáti, og það er von mín og ósk á þessum tímamótum, að Hraunbúar verði ætíð og ævinlega um ófyrirsjáanlega framtíð þess megnugir að rísa undir þeim skyldum. Heill fylgi Hraunbúum og öllu skátastarfinu um ókomnar aldir.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1965, 24.12.1965, Árdegið kallar, – áfram liggja sporin, bls. 20-22.

Skátar

Skátaheimili Hraunbúa við Hjallabraut (Víðistaðatún) 2025.

Hafnarfjörður 1906

Gísli Sigurðsson skrifaði um „Gerðin í bænum“ í jólablað Alþýðublað Hafnarfjarðar 1985.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson (1903-1985).

„Svo var lengi að orði komizt, að í Hafnarfirði væri veðursæld svo mikil, að þar yrði aldrei mikilla veðra vart. En þá var Hafnarfjörður talinn hefjast við Hamarskotslæk og ná vestur að Fiskakletti. Land þetta tilheyrði Akurgerði, hinni fornu hjáleigu Garðastaðar. Akurgerði hefur einnig í öðru tilfelli staðið í skjóli. Saga, dóttir Óðins, er situr í Sökkvabekk og sér þaðan of heim allan, varð þessa staðar ekki vör, fyrr en fram kemur á miðja seytjándu öld. Akurgerðis er fyrst getið 1642 og öðru sinni 1661. Þá er þess getið í sambandi við leigumála. 1677 verðum við að telja merkasta ártal staðarins, og er það bundið þeirri ákvörðun, að kaupstaðurinn við Hafnarfjörð er þá fluttur frá Hvaleyri, þar sem hann hafði staðið um aldabil, og í tún þessarar Garðahjáleigu, eftir að hún hafði verið seld reiðurum til Hafnarfjarðar fyrir part í jörð í öðrum landsfjórðungi. Næsta ártal merkilegt í sögu staðarins er 1703, þegar þeir félagar Árni Magnússon og Páll Vídalín eru hér á ferð og skrifa sína merkilegu jarðabók.

Akurgerði

Akurgerði fyrrum.

Þar segir svo um Akurgerði: „Akurgerði, hefur til forna verið eign Garðakirkju og hjáleiga í Garðakirkjulandi. Seld þar frá fyrir aðra jörð reiðörum til Hafnarfjarðar, þá kaupstaðurinn var á þessarar hjáleigutún fluttur úr Hvaleyrarlandi, og er nú þetta Akurgerði grasnytjalaus búð eður tómthús. Eignarráð hér yfir hefur Hafnarfjarðarkaupmaður mann eftir mann. Dýrleiki þeirrar gömlu hjáleigu er óviss, þar hún stóð í óskiptu staðarins landi og tíundaðist ekki. Landskuld var 60 álnir og betalaðist með 3 vættum fiska í kaupstað. Kúgildi var eitt. Kvaðir öngvar.
Í tómthúsi þessu búa nú Guðmundur Þórðarson og Þorleifur Sveinsson. Húsaleigu gjalda þeir öngva, heldur eru fyrir hana skyldir til handarvika einna og annara, sem kaupmaðurinn á sumrin og eftirliggjarinn á vetrum kunna við þurfa.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Búðin (það eru tvö hús) viðhalda ábúendur með styrk kaupmanna. Kvikfénaður er hér enginn, kann og enginn að fóðrast, því túnstæðið er af kaupmannabúðanna byggingu lagt í örreiti, áður fóðraðist þar ein kýr. Eldiviðartak hafa ábúendur báðir af fjöruþangi, sem þar liggur fyrir túnstæði gömlu hjáleigunnar. Item af smáhrísi, sem þeir afla í almenningi og Garðastaðarlandi, hvert er sker með Garðastaðarhaldara samþykki og eftir þeim rétti, sem Akurgerði hafði í Garðalandi svo sem aðrar hjáleigur, er í óskiptu staðarins landi standa. „Annars á Guðmundur kú, sem um sumar gengur í Garðalandi, svo sem í hagabeitarnafni þeirrar gömlu hjáleigu. Um vetur fóðrast kýrin á annars staðar fengnu heyi.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Svo mörg eru þau orð um þessa Garðastaðarhjáleigu. Saga hjáleigunnar verður ekki rakin hér, en fróðlegt mun Hafnfirðingum þykja að velta fyrir sér, yfir hve stórt svæði tún hennar náði, sem „lagðist í örreiti af kaupmannabúðanna byggingu“.
Vil ég í því sambandi leggja fram mitt álit. Ég hygg, að takmörkin hafi verið klettar tveir, við sjó fram, Skipaklettur að vestan og Linnets- eða Fjósaklettur að austan. Að sunnan, sjávarkampurinn, en hraunbrúnin að norðan og austan. Til frekari skýringar fyrir okkur nú til dags verða mörkin: Merkurgatan að vestan, Linnetsstígur að austan, Strandgatan og Vesturgatan að sunnan og Austurgatan frá Fríkirkju vestur í Kirkjuveg, undir hólnum við hús Bjarna læknis Snæbjörnssonar um lóð Lóðsbræðra í Merkurgötu. Þykir mér ekki ólíklegt, að af þessu svæði hafi mátt afla heyja handa einni kú og jafnvel nokkrum kindum.

Hverfisgata 52b

Hverfisgata 52b – Hraungerði.

Draupnir, hringur Óðins, var frægastur hringa, segir í sögum. Hann var með þeim hagleik gjör, að af honum drupu níu hringar jafnhöfgir, níundu hverja nátt. Þótti slíkt með undrum veraldar, í fornum fræðum. En Akurgerði, af því hefur dropið, ekki 9 heldur 13 Gerði, kannske ekki jafnhöfg, en þó höfg á sína vísu. Höfg vegna þeirra manna er þau uppræktuðu með eigin höndum. Höfg vegna þeirra manna og kvenna, er búið hafa í bæjum og húsum, er þar hafa staðið og standa enn. Vil ég nú með örfáum orðum lýsa þessum Gerðum. En rúmsins vegna aðeins fárra manna, er við ræktun þeirra hafa komið. Verður byrjað austast og haldið vestur um hraunið.

Lækjarskóli

Lækjarskóli var síðar byggður vestan við Hraungerði.

Hraungerði eystra. Gerði þetta er í hraunbrúninni upp með læknum og snýr mót hásuðri. Til norðurs umlykur það hár hraunbarmur að austan teygjast fram í það lækkandi hrauntungur, en að vestan lágir hraunbalar. Gerði þetta er allstórt. Kristján hét sá Hannesson, er þarna bjó fyrstur manna, nytjaði og ræktaði gerðið, enda er það í bréfi frá 1865 kallað Kristjánsgerði, en þá hefur fyrsti sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu, er hér situr í Hafnarfirði, af not þess. Nú stendur í þessu gerði Barnaskóli Hafnarfjarðar, en á hraunbrúninni stendur Héraðsbókasafnið og Iðnskóli Hafnarfjarðar undir sama þaki, en húsaraðir á hrauntungunum að austan og hraunbölunum að vestan.

Pétursgerði

Pétursgerði.

Pétursgerði. Í bréfinu frá 1865 stendur: Ég, Steinunn Rafnsdóttir [Fjalla-Eyvindssonar] hef til leigulausra afnota túnblett þann, er ég hef uppræktað, meðan ég lifi, en fyrir svokallað „Pétursgerði“ í nánd Hamarskotslækjar, sem ég hef fengið til leigu, undirgengst ég árlega að borga 1 rigsdal 32 skildinga.“
Það ætlaði að verða ekki svo lítil leit að „Pétursgerði“, þar sem þess er hvergi getið, svo að vitað sé, nema á þessum stað. En ég þykist hafa fyrir satt, að gerði þetta sé kennt við Pétur nokkurn, að norðan ættaðan, Eyjólfsson, sem bjó 1822 í Melkjörskofa, en hann stóð þar sem nú er húsið Mjósund 1. Gerði þetta hefur því náð neðan frá læknum uppundir húsið nr. 13 við Mjósund. Sunnan frá hraunhryggnum milli húsanna nr. 39 og 41 ofanvert við Austurgötu og húsanna 38 og 40 neðanvert þeirrar götu. Má enn nokkuð marka landslag þessa gerðis í lóð hússins nr. 38.

Austurgata 36

Austurgata 36 lengst t.h.

Mathiesensgerði. Efri hluti þessa gerðis var eftir að Jón Mathíesen byggði bæ sinn, þar sem nú er húsið nr. 36 við Austurgötu, við hann kennt og kallað „Mathiesensgerði. Hafði hann þar fjárhúskofa og nokkra grasnyt. Nú liggja vegir um þetta gerði, en nokkuð af því má sjá enn í lóð hússins nr. 39 við Austurgötu.

Jóhannesargerði. Í fyrrnefndu bréfi frá 1865 segir svo: „Ég A. N. Petersen hef nú til afnota útfærslu þá, sem Jóhannes sál. Hansen hafði girt, og um hverja eru sömu skilmálar og teknir eru af Ólafi Þorvaldssyni.“

Austurgata 21

Austurgata 21.

Petersen þessi var verzlunarmaður hér í Firðinum og átti fyrir konu dóttur Steindórs Jónssonar og Önnu Katrínu Velding, sem Anna hét. Jóhannes sá er þetta gerði girti var Pétursson beykis í Reykjavík Jóhannessonar síðasta kaupmanns á Bátsendum Hansen. Synir Jóhannesar yngra voru þeir bræður Einar og Hendrik, og eru afkomendur þeina bræðra mjög kunnir hér í Hafnarfirði. Gerði þetta takmarkaðist að vestan af hinum háa hraunrima, sem Fríkirkjan stendur á og kallaður var í gamla daga Milluhóll. Að norðaustan var hraunrimi sá, er Gunnlaugur Stefánsson hefur skreytt með myndastyttum og bæjarlíkani. Gerðið náði suður að Gunnarssundi og niður að Gunnarsbæjarlóð. Þar standa nú húsin nr. 21, 23 og 26 við Austurgötu og Borguhús stendur einnig í þessu gerði, Gunnarssund 3.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Hraunprýðisgerði. Hraunprýðisbændur, Jón Gíslason og Jón sonur hans, ræktuðu upp þetta gerði, sem náði frá þeim stað, sem nú er húsið nr. 2 við Linnetsstíg, upp að Fríkirkjuhól og upp með honum að vestan allt út að hraunhryggnum hjá verzluninni Málmur. En rétt ofanvert við Austurgötu lá garður, sem skildi að þetta gerði og það næsta.

Hafnarfjörður um 1900

Hafnarfjörður um 1900.

Linnetsgerði. Gerði þetta var kennt við Linnet kaupmann og lá það ofanvert við verzlunarhús hans (nú Loftsstöðina). Efst upp undir garðinum var hænsnakofi Linnets, þar bjuggu meðal hænsnanna, hjónin Sveinn og Guðrún, foreldrar Klofa-Þuríðar, sem ein kvenna hefur hér í Hafnarfirði borið „Vatnskerlingarnafnið“. Linnetsstigurinn liggur nú upp suðurkant þessa gerðis. Vestast í gerðinu setti Linnet niður lifrarbræðslupotta stóra og var þar kölluð „Grútargjóta“. Um 1860 var í gerði þessu, niður við verzlunarhúsin, gróðursett reyniviðarhrísla, sem óx og dafnaði og var mörgum gömlum Hafnfirðingi augnayndi, fram til 1911, að hún skemmdist af eldi, er upp kom í verzlunarhúsinu.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Ólafsgerði. Hraungerði vestra var þetta gerði einnig kallað. Svo segir um það í bréfinu frá 1865: „Ég Ólafur Þorvaldsson hefi eftir fyrrgerðum munnlegum samningi, heimild til allra afnota, án nokkurs endurgjalds, af útfærslu þeirri, sem ég hef uppræktað, til fardaga 1877, en frá þeim tíma ef ég þá lifi, verð ég að borga árlega afgjald, eftir sem óvilhallir menn ákveða.“ Gerði þetta lá ofanvert við núverandi Austurgötu og náði allt upp fyrir Hverfisgötu, þar sem nú er landsímahúsið, hvilftin sú allt upp að húsi K.F.U.M. frá hraunhryggnum hjá Málmi (allt vestur að húsi Eyjólfs frá Dröngum). Stígur lá upp í gerðið frá Ólafsbæ (Aust. 16) kallaður „Grýttistígur“. Ólafsgerði og Hraungerði var þetta kallað, en þegar barnabörn Ólafs komust á legg, kölluðu þau það „Aftún“.

Hansensgerði. Eftir að Jörgen Hansen settist að í „Nýjahúsinu“ og tók að eiga sína góðhesta, sem oft sigruðu í skeiði og stökkkeppni á Melunum í Reykjavík, hafði hann hesthús ofanvert og vestan við Nýjahúsið, var farið að kenna svæði þetta við hann og kallað Hansensgerði. Þar standa nú húsin nr. 9 og 10 við Austurgötu. Því stendur í lóðarsamningi þessara húsa, að þau standi í svokölluðu „Hansensgerði“. En raunverulega mun þarna vera „Beykishúslóð“. En nú erum við ekki að athuga lóðir í hrauninu, heldur gerðin, og því er sleppt að ræða um það.

Kirkjuvegur

Kirkjuvegur 1925.

Árnagerði. Í bréfinu frá 1865 hefur Árni smiður Hildibrandsson fengið leyfi til að nytja svæði það, er hann hefur þá þegar uppræktað, um næstu 25 ár afgjaldslaust, og lofar þar með að bæta þessa lóð og rækta. Niður- og vesturjaðar þessa gerðis takmarkaðist við stíginn norðvestur úr firðinum, sem kallaður var Álftanesvegur, en síðar bar nafnið Kirkjuvegur og ber enn.

Að austan var annar stígur. Þar heitir nú Reykjavíkurvegur. Að ofan er takmörk gerðisins brúnin, sem húsin nr. 5 og 7 við Hellisgötu standa á. Nokkru eftir að bréfið er gefið út, voru í gerðinu byggðir bæirnir Klöpp eða Klettur, Torfabær varð síðan frægur fyrir, að þar voru síðar sýndar fyrstar kvikmyndir í húsi er afkomendur Torfa reistu á rústum gamla bæjarins.

Kirkjuvegur

Kirkjuvegur 1903.

Þorláksbær stóð fram á stríðsárin og var kallaður Ólafsbær, eða Bærinn. Kirkjuvegurinn hylur nú þetta bæjarstæði, og nú er hætt að segja Jón í Bænum.

Gesthúsagerði. Gesthúsin eru á okkar vísu fornt bæjarstæði, en þar bjó sama ættin í fjóra ættliði. Gerði þetta lá kringum bæinn og vestan hans allt að Klettalóðinni, neðan frá Sjávargötunni upp undir hólinn með vörðunni, frá Klofalóð og vestur að klöppinni, þar sem nú stendur húsið nr. 1 við Krosseyrarveg og yrði of langt mál að telja upp öll þau hús er þar standa, en gangið þangað, góðir Hafnfirðingar, og athugið þetta forna gerði.

Heilaga-gerði. Nálægt 1884 flutti Guðmundur Halldórsson hús sunnan af Hamarskotsmöl í Gesthúsagerði og fékk við það allstórt svæði úr Gesthúsagerði og girti það. Kona hans var maddama Valgerður, sonardóttir etafsráðsins á Brekku, Ísleifs Einarssonar. Þau hjón voru þrifamanneskjur hinar mestu. Þau vörðu gerði þetta fyrir öllum átroðningi, svo að segja mátti, að þangað mætti enginn óþveginn líta. Því var gerðið kallað Heilagagerði, svo sagði Margrét Gísladóttir mér. Húsið var á árunum eftir 1920 rifið og byggt upp aftur nokkru stærra af Grími Kr. Andréssyni, Vesturbraut 1. En gerðið var allt rifið niður til grunna. Þar hefur nú Vélsmiðjan Klettur bækistöð sína.

Hellisgerði

Hellisgerði – bær.

Hellisgerði. Þessa gerðis hygg ég að fyrst sé getið í vitnaleiðslum þeim, sem 1871 fóru fram um takmörkin milli Akurgerðislands og Garðakirkju. Þá er það kallað Hellisgerði við Fjarðarhelli. Býst ég við að það nafn sé allgamalt. Þá Gömul mynd frá Hafnarfirði, hygg ég, að þar nálægt hafi staðið fjós það, er um getur í uppmælingarplaggi frá 1870, þegar mældar voru upp húseignir Knudtsonsverzlunar hér í Firðinum. Gerðið mun hafa talizt til eigna þessa verzlunarfyrirtækis og þá einnig verið í eign Bjarna riddara. Knud Zimsen getur þess í bók sinni „Við Fjörð og Vík“. Þangað fór faðir hans verzlunarstjóri Knudtzons oft á sumrin í góðu verði og drakk þar kaffi. Þótti börnunum það skemmtilegur túr. Verzlunarstjórarnir munu hafa haft einhver not af gerðinu.

Hellisgerði

Hellisgerði 1946.

Austast í gerðinu byggði Theodór Árni Mathiesen hús, sem enn stendur. Laust eftir aldamótin settist þar að Gísli Gunnarsson. Fékk hann leyfi verzlunarstjóra Bryde til afnota af gerðinu. Var það munnlegt leyfi, eða samningur milli hans og Jóns Gunnarssonar. Árið 1912, þegar Hafnarfjarðarkaupstaður eignaðist lendur Akurgerðishjáleigunnar, sótti Gísli um afnot gerðisins með bréfi, sem enn er til. Tildrög þess voru þau, að Gísli átti í félagi við Guðmund Helgason hryssu gráa að lit, afbragðs reiðhross. Var hugmynd þeirra að afla heyja handa henni af gerðinu, sem þeir og gerðu, þegar Gísli hafði girt gerðið, en þá grjótgarða hlóðu þeir ágætu menn Ísak Bjarnason í Óseyri og Sigurjón Sigurðsson. Gísli ræktaði gerðið og sýndi því mikla umhyggju. Fengust af því, þegar bezt lét í ári, í rigningarsumrum, 20 hestar af töðu. Austan til við húsið setti Gísli niður nokkrar reyniviðarplöntur og döfnuðu þær vel. Það verða að teljast fyrstu trjáræktartilraunir í gerðinu. Tré þessi flutti Gísli með sér, er hann fluttist í hús sitt Suðurgötu 74. Þar er nú fallegur lundur afsprengi þessara reynitrjáa.

Hellisgerði

Hellisgerði fyrrum.

Árið 1922 hefst svo hin fagra saga Hellisgerðis, þegar Málfundafélagið Magni hefur þar trjá- og blómarækt, en sú frægðarsaga hefur víða farið og ber vitni þeirra ágætu manna, er þar hafa að unnið. Nú sækja þennan stað þúsundir manna til að njóta þar unaðsstunda, við bjarkarilm og rósa. Nú gengur gerði þetta undir nafninu Hellisgerði, skrúðgarður Hafnfirðinga. Þar er nú samankomin fjöldi trjátegunda, jafnvel Bæjarstaðarskógur á þar afkomendur. Í skjóli þessara trjáa þrífast nú suðræn blóm í tugatali. Munu trén og blómin lengi halda uppi nafni „Magna“ og Ingvars Gunnarssonar, sem verið hefur ræktunarstjóri frá upphafi og er enn. Hellisgerði er eina gerðið, sem ekki hefur verið tekið undir hús. Það er nú í dag stolt okkar allra Hafnfirðinga.

Lýkur hér að segja frá gerðunum í Akurgerðislandi. Hefur hér verið stiklað á stóru, en öll eiga þau miklu lengri sögu og merkari.

Verður það að bíða betri tíma að segja þá sögu. Nú situr Saga í Sökkvabekk og sér of heim allan. Mun hún líta hýrum augum til Hellisgerðis, og þó það sé í skjóli allra veðra, mun hún þegar hafa skráð sögu þess, sem um aldir mun standa sem kerti á ljósastikum, svo allir í húsinu megi sjá — og bera birtu víðs vegar.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1985, 15.12.1958, Gísli Sigurðsson – Gerðin í bænum, bls. 7.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skömmu eftir aldamótin 1900.

Ófriðarstaðir

Magnús Jónsson skrifaði um „Íbúa í Hafnarfirði 1902“ í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1960. Um var að ræða þriðju og síðustu greinina um sama efni. Fyrri greinar höfðu birst í jólablöðum blaðsins árin 1958 og 1959.

Magnús Jónsson

Ford 1927, Magnúsar Jónssonar í Hafnafirði.

Með þessu lýkur hinum merka greinaflokki Magnúsar Jónssonar kennara um íbúa Hafnarfjarðar árið 1902, sem hófst í jólablaði Alþýðublaðsins 1958. Fjölmargir Hafnfirðingar hafa látið í ljós ánægju sína með þessar greinar, og eru ótaldar þær ánægjustundir, sem fólk hefur haft af lestri þeirra. Hér koma við sögu, auk þeirra, sem látnir eru, fjölmargir núlifandi Hafnfirðingar, og hafa greinarnar því vakið forvitni manna og umtal. Eins og áður hefur verið sagt er ekkert áhlaupaverk að semja svona skrá eins og Magnús hefur gert, enda hafa slæðzt inn í hana ýmsar villur, sem höfundur biður velvirðingar á. Ekki hefði þessi skrá orðið til, ef Magnús hefði ekki notið móður sinnar, Höllu Magnúsdóttur, en hún er kona greind og vel minnug. Ritstjóri þakkar þeim mæðginum ágæta samvinnu og fyrirgreiðslu alla meðan á birtingu greinaflokksins hefur staðið, og hann veit að lesendur blaðsins munu taka undir þakkir til þeirra fyrir ánægjustundirnar, sem greinarnar hafa veitt þeim. Ritstjóri vonar og veit að þau mæðgin eiga ýmislegt fleira girnilegt í pokahorninu og væntir þess, að blaðið og lesendur fái að njóta þess á komandi árum.

Þorlákshús

Þorlákshús.

111. Þorlákshús. Það mun hafa þótt stórt þegar þetta var. Nokkru eftir að Hverfisgatan var lögð var það fært upp að henni og stendur þar enn. (Stóð áður álíka ofarlega og Hverfisgata 6B). Þarna bjuggu hjónin Þorlákur Þorláksson og Margrét Guðnadóttir. Dætur þeirra voru hjá þeim, Sigríður og Ólafía. Ólafía giftist Guðmundi Sigurjónssyni skipstjóra og átti heima í þessu húsi — Hverfisgötu 4 — til dauðadags. Elzta barn þeirra Þorláks og Margrétar, Guðni, var þá fluttur til Reykjavíkur. Hann var yfirsmiður við byggingu þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði 1914. Hann andaðist í desember það ár og var útför hans fyrsta athöfn, sem fram fór í kirkjunni. Katrín var einnig farin að heiman. Hjá Þorláki leigði Steingrímur Steingrímsson, bróðir Sigríðar, sem áður var getið (106). Hann bjó með Elínu Aradóttur. Hjá þeim þeim var Guðrún dóttir hans en ekki hennar.

Reykjavíkurvegur 4

Reykjavíkurvegur 4. Síðar flutt að Grænukinn 27.

112. Finnshús. Þar er nú húsið Reykjavíkurvegur 4. Þarna bjuggu hjónin Finnur Gíslason og Solveig Sveinsdóttir. Þau voru barnlaus, en hjá þeim voru fósturdætur þeirra, Ragnhildur Egilsdóttir, sem giftist nokkru síðar Birni Helgasyni skipstjóra, og Guðríður Guðmundsdóttir frænka Finns, sem nú býr á Sleðbrjótsseli á Fljótsdalshéraði. Hjá Finni leigðu einnig tveir ungir verzlunarmenn, Svend Hall og Carl Finsen.

Reykjavíkurvegur

Reykjavíkurvegur ofan Standgötu.

113. Skemma, sem Finnur átti, stóð rétt hjá húsinu og er til enn, en annars staðar í bænum. Finnur var seglasaumari og vann nokkuð að þeirri iðn sinni þarna — og fléttaði endingargóðar gólfmottur — eftir að hann hætti að sauma fyrir skútuútgerð Flygenrings. Í skemmunni voru einnig tveir spýtnahlaðar, mjög snyrtilegir og vel hlaðnir. Braut Finnur strax spýtur í skarðið, ef taka þyrfti úr öðrum hvorum staflanum í eldinn. Hann gerði nokkuð að því að skrifa upp þjóðsögur og þessháttar

Austurgata 3

Austurgata 3.

114. Brekkubær. Svo er þessi bær a. m. k. nefndur í kirkjubókum. Steingrímur Torfason keypti hann og byggði þar húsið Austurgötu 3, sem Guðbergur Jóhannsson á nú (sjá 107). En í bænum bjó 1902 Þórður Björnsson með fyrri konu sinni, Guðbjörgu Ólafsdóttur. Hann átti síðar heima í Grjóta í Garðahverfi og fluttist svo aftur til Hafnarfjarðar. Síðari kona hans er á lífi, Ingveldur Bjarnadóttir.

115. Nýtt hús, byggt af Jóni Steingrímssyni trésmið. Þar hefur nú lengi verið verzlun, Strandgötu 5. Kona Jóns Steingrímssonar hét Guðný, og var ein af hinum mörgu börnum Magnúsar Brynjólfssonar hreppstjóra á Dysjum. Elzta barns þessara hjóna verður síðar getið og Þorbjörg — sem átti Sigríði með Ólafi Jóelssyni — (89) var dáin. Þau, sem voru heima, voru: Vilborg og Ólafur, er dóu bæði ógift Bjarnadóttur. Hún dó úr „Spönsku veikinni“ 1918. Sveinn átti lengstum heima á þessum sama stað, Reykjavíkurvegi 13. Nú er ekkert hús lengur á þeim stað og fækkar óðum í næsta umhverfi.

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

116. Ef þetta hús væri byggt upp á sama stað, lægi það yfir þvera Strandgötuna, vestur undir Reykjavíkurvegi. Það mun hafa tilheyrt Brydes-fast- eignunum. Það brann 1906. Þá er sagt að líka hafi brunnið kolapakkhús þar sem nú er Húsgagnaverzlun Hafnarfjarðar — og logaði lengi í kolunum — en þetta hús mun varla hafa verið komið 1902. Vegurinn til Reykjavíkur lá þá upp úr Firðinum á sama stað og nú, og það fyrsta, sem tekið er til athugunar vestan hans.

117. Efstakotið. Það var nefnt svo vegna þess að þá var enginn bær eða bús ofar við Reykjavíkurveginn. Stundum var það þó kennt við húsbóndann, Halldór Halldórsson beyki, bróður Magnúsar í Brúarhrauni (86). Kona Halldórs hét Guðrún Ólalsdóttir. Þau voru barnlaus, en hjá þeim var fóstursonur þeirra, Sveinn Jónsson, sem kvæntist Guðlaugu Bjarnadóttur. Hún dó úr „Spönsku veikinni“ 1918. Sveinn átti lengstum heima á þessum sama stað, Reykjavíkurvegi 13. Nú er ekkert hús lengur á þeim stað og fækkar óðum í næsta umhverfi.

Reykjavíkurvegur 9

Reykjavíkurvegur 9.

118. Þarna voru ung hjón í nýju húsi. Húsið er Reykjavíkurvegur 9, en hjónin voru Steingrímur sonur hjónanna Jóns og Guðnýjar, sem áður er getið (115) og Jóna Kristjánsdóttir, systir Kristins í Hraunprýði (93). Elzta barn Jreirra var fætt, Kristinn, sem dó ungur af slysi. Síðar fæddir: Jón, kvæntur Dagbjörtu Brynjólfsdóttur, Kristján, bifreiðarstjóri, kvæntur Sigrúnu Gissurardóttur, og Ágúst. Jóna er nú gift Guðmundi Einarssyni, en Steingrímur kvæntist Guðrúnu Einarsdóttur systur hans.

119. Klettur. Það hús stendur enn, þ.e.a.s. sem neðri hæðin á húsinu Reykjavíkurvegur 7. Þar bjuggu hjónin Þorsteinn Þorsteinsson og Margrét Níelsdóttir. Börnin, sem heima voru: Þorsteinn, Níels, Kristín Sigríður, — giftist Helga Halldórssyni — og yngstur var Guðjón. Margir muna eftir Níelsi, sem var biblíufróður með afbrigðum og lék á harmoniku. Systkinin Borghildur, Þórunn og Þorvaldur, voru annars staðar. Í manntalinu frá 1902 er talinn í Klettinum Björn Jónsson, sem þó er dáinn fyrir árslok. Þetta mun hafa verið Galdra-Björn, sem kom gestkomandi í Arahús (89) þegar það var í smíðum, og sagði: „Þarna er kross á gólfinu; hér er einhver feigur“. Skömmu síðar kom hann aftur í Arahús og hneig þá niður örendur á þeim stað, sein hann hafði séð krossinn. Bjarnadóttur. Hún dó úr „Spönsku veikinni“ 1918. Sveinn átti lengstum heima á þessum sama stað, Reykjavíkurvegi 13. Nú er ekkert hús lengur á þeim stað og fækkar óðum í næsta umhverfi.

Reykjavíkurvegur

Reykjavíkurvegur.

120. Kennt við húsbóndann og nefnt Nielsarhús. Það stóð milli húsanna Reykjavíkurvegur 1 og 3 en nokkru fjær Reykjavíkurveginum. Þar komu saman tvær fjölmennar ættir, Weldingsættin og Auðunsættin, því að þar bjuggu hjónin Níels Torfason og Margrét Auðunsdóttir. Börnin voru öll fædd og öll heima: Auðunn, kvæntist Guðrúnu Hinriksdóttur, Borghildur, giftist Þórarni Guðmundssyni, Herdís, giftist Magnúsi Guðjónssyni bifreiðarstjóra, og Helga, giftist Árna Þorsteinssyni, sem áður var minnzt á (54). Hann tók gamla Níelsarhúsið til nýstárlegra nota — það varð sem sé lengi eina kvikmyndahús bæjarins. Næst í systkinaröðinni er Torfhildur, hún giftist fyrst Ólafi Jónssyni frá Deild, en missti hann og er nú síðari kona Þórarins Gunnarssonar (82), Kristinn Hallgeir, dó ungur, Guðrún, ógift, og Þorsteinn, sem varð fyrri maður Soffíu Ólafsdóttur, sem nú er gift Júlíusi Andréssyni. Uppi á loftinu í þessu húsi leigði þá einhleypur maður, Jón Þorsteinsson, sem kenndur var við Hamarskot. Kristínar systur hans var áður getið (30) og bróðir þeirra var Þorsteinn í Kletti (119). Jón fékk oft súrsaft í „Brýðabúð“ eða hjá Hansen. Varð hann þá kátur og málskrafsmikill og hafði lækinn m. a. að umræðuefni, enda var það einn af atvinnuvegum hans að sækja þangað vatn fyrir bæjarbúa.

Kirkjuvegur 2

Kirkjuvegur 2.

121. Þessi bær — Kirkjuvegur 2 — hefur nú verið rifinn, byggt var þar stórt hús og gatan breikkuð mikið. Þarna bjuggu á hjónin Ólafur Sigurðsson og Geirlaug Eyjólfsdóttir. Synirnir voru heima, Eyjólfur, síðar í Keflavík, tók sér nafnið Ásberg — og Björn. Dæturnar, Sigríður og Ingibjörg, voru farnar að heiman.

122. Þetta hús stendur enn sem Kirkjuvegur 6. Það var stundum nefnt Daðakot, vegna þess að hjónin, sem þar bjuggu, áttu áður heima í hinu eiginlega Daðakoti, nánast þar sem nú er húsið Vesturgata 32. En þarna bjuggu hjónin Magnús Auðunsson og Friðsemd Guðmundsdóttir. Börnin voru öll fædd. Þau, sem heima voru: Guðmundur yngri, síðar skipstjóri, kvæntist Margréti Guðmundsdóttur, Guðjón, drukknaði ókvæntur og barnlaus, þegar Geir fórst (sbr. 49), Ásthildur Elísabet — nú í Reykjavík — og Bjarni. Hann drukknaði einnig ókvæntur og barnlaus, en það var í Papeyjarslysinu 1933. Guðmundur eldri, síðar póstur, var þá kvæntur. Kona hans hét Stefanía Halldórsdóttir, og voru þau farin að búa í þessu húsi. Halldóra Magnúsdóttir var farin að heiman. Hún giftist Guðlaugi Jónassyni. Auðunn var ekki heldur hjá foreldrum sínum, þótt hann hafi lengst af átt heima í Hafnarfirði. Hann kvæntist Þórunni Hansdóttur. Í þetta hús kom 1902 Þórður Þórðarson frá Hólum í Biskupstungum, með þriðju og síðustu konu sinni, Þórhildi Högnadóttur. Börnin, sem komu með þeim voru Helga, Guðjón, Sigla og Pétur. Þórður átti fleiri börn, t.d. voru tvö lengi hér í bænum síðar, Guðrún og Jón. Þórhildur var ekki móðir neinna af þessum systkinum. Með þessari fjölskyldu var þá Steinunn Björnsdóttir. Þórður byggði skömmu síðar bæinn Hraunkot. Þar er nú húsið Kirkjuvegur 12.

Kirkjuvegur

Kirkjuvegur 1903.

123. Það var venjulega nefnt í Hrauni. Þar er nú húsið Kirkjuvegur 8. Þar bjó Þorvaldur Níelsson bróðir Margrétar í Kletti (119). Hann hafði misst konu sína, Guðrúnu Gísladóttur, en bjó með ráðskonu, ekkjunni Margréti Eyjólfsdóttur. Hún var með son sinn, Nikulás Steingrímsson, nú bifvélavirkja í Reykjavík, en Sigríðar dóttur hennar er áður getið (72). Á Hrauni var líka Sigríður nokkur Þórðardóttir.

124. Þetta var nýtt hús, tæpast fullgert, og nefnt Illugahús, síðar Kóngsgerði og nú er á þessum stað Kirkjuvegur 19. Sá, sem var að byggja þarna 1902 hét Illugi Þorvarðarson, kenndur við Grjóta í Garðahverfi. Kona hans hét Gróa Gunnlaugsdóttir. Gunnlaugur sonur þeirra var ekki hjá þeim, en þar var Hallbera Valgerður dóttir þeirra. Þá voru heldur engir leigjendur komnir. Eftir að Gróa dó, bjó lllugi um tíma með Valgerði Ólafsdóttur (93). Fáeinar setningar, sem Illugi mælti, lifa enn meðal gamalla Hafnfirðinga, þótt ekki séu þær sérlega merkilegar. Hjón í Króki í Garðahverfi tóku t.d. barn til uppfósturs og fengu afsláttarhross upp í borgunina með því. Varð þá llluga að orði: „Bærilegur Bjössi í Króki: barn til afsláttar!“

Nú verður snúið við og farið niður Kirkjuveginn og getið um kotin, sem voru að vestanverðu við hann. Þessi vegur — þ.e. vegurinn til Garðakirkju — var nýr þá. Áður var oftar farið með sjónurn, a. m. k. þangað til komið var vestur undir Bala.

Kirkjuvegur 11b

Kirkjuvegur 11b.

125. Nefnt Veðrás. Þar er nú húsið Kirkjuvegur 11B. Þar bjuggu hjónin Sigurjón Guðmundsson og Guðrún Guðmundsdóttir. Börnin sem fædd voru: Guðmundur, kvæntur Dórótheu Olafsdóttur, Guðmundur yngri, síðar skipstjóri, kvæntur Ólafíu Þorláksdóttur, Helga, giftist til Noregs, Ósvaldur Ágúst, Sesselja Guðrún, gift Jóni G. Sigurðssyni, og Ingigerður. Hún fór til Helgu systur sinnar og seinna til Ameríku. Ófædd voru Magnús og Júlía. Þarna var vinnumaður, Helgi Guðmundsson, bróðir Sigurjóns. Fyrri konu hans verður ekki getið, en sú seinni var Súsanna Jóhannsdóttir. Hjá þessu fólki — Sigurjóni — var Guðríður Björnsdóttir.

126. Á þessum stað er nú húsið Kirkjuvegur 9. Þar bjuggu hjónin Igmundur Jónsson og Guðrún Bjarnadóttir. Börnin, sem fædd voru: Sigurður, síðar skipstjóri, Bjarnína Gistín, Guðmundur, Halldór Magnús og Solveig. Þær áttu sinn bróðinn hvor. Vilborg er ekki fædd, en þar var Magnús Bjarnason bróðir Guðrúnar. Hann bjó síðar lengi með Guðríði Björnsdóttur, sem nefnd var síðast í kaflanum hér á undan.

Kirkjuvegur 7

Kirkjuvegur 7 – hús Emils Jónssonar.

127. Krókur. Þar er nú stórt hús, Kirkjuvegur 7. Þarna bjuggu hjónin Hannes Jónsson og Vilborg Jensdóttir. Þá var Sigríður dóttir þeirra enn hjá þeim, en síðar tóku þau hana til uppfósturs. Jón Mathíasen og Guðrún Jensdóttir (68) móðursystir hennar.

128. Oddsbœr. Þar er nú húsið Kirkjuvegur 5. Þarna bjuggu hjónin Jón Jónsson og Kristín Hannesdóttir. Þau áttu tvo syni, Hannes, sem getið um hér næst á undan, og Jón. Hann var þá uppkominn – en enn hjá foreldrum sínum og varð aldrei við kvenmann kenndur, en hins vegar alltaf við Oddsbæ. Þarna var líka til heimilis Pétur Guðmundsson. Hann hittist þó sjaldnast í Oddsbæ, heldur niðri í „telifóni“, enda nefndur Pétur fóninum eða telifóninum. Hann var bæklaður og gat ekki stundað erfiðisvinnu en rækti með kostgæfni vörzlu þessa almenningssíma. Hann fór síðan að króki, en dó hjá Auðunni Níelssyni.

Kirkjuvegur 3

Kirkjuvegur 3.

129. Húsið Kirkjuvegur 3 er á þessum stað, og er, sem bezt verður vitað, sama húsið og var þar 1902. Þar bjuggu hjón, sem kennd voru við Hlið á Álftanesi, Jón Þórðarson og Guðrún Magnúsdóttir. Eftir að þau fóru frá Hliði voru þau stuttan tíma „suður á Möl“ og voru nú nýkomin á þennan stað, þar sem þau svo voru til dauðadags. Þau voru barnlaus, en hjá þeim var fósturdóttir þeirra, Guðrún Eiríksdóttir, nú gift Ólafi Þórðarsyni hafnargjaldkera.

130. Þetta hús seldi Knudzonsverzlun árið 1897 á 1500 krónur. Kaupandinn var August Theodór Flygenring Þórðarson. Þá var hann skipstjóri á „Himalaya“ en um aldamótin fór hann að reka verzlun, og rak einnig mikla útgerð á löngu tímabili. Þeir voru oft nefndir í sömu andránni, hann og Einar Þorgilsson, sem mestu atvinnuveitendur og athafnamenn í Hafnarfirði á fyrri hluta þessarar aldar. Báðir urðu þeir Alþingismenn, Flygenring 1905-1912 og 1924-1925. Kona hans hét Þórunn Stefánsdóttir. Börnin, sem fædd voru 1902: Þórarinn, fór til Danmerkur, kvæntist þar og gekk á sjóliðsforingjaskóla, Garðar, í Reykjavík, Ingólfur, íshússeigandi, kvæntur Kirstínu Pálsdóttur, Þórður Stefán, tvíkvæntur, dáinn, Sigurður, arkitekt í Reykjavík, Halldóra, gift Benedikt Gröndal Þórðarsyni (læknis Edilonssonar), Ólafur Haukur, dó ungur, og Elísabet, gift Óskari Borg. Þrjár dætur voru ófæddar: Sigríður, Unnur og Anna. Samt var langtum fleira í heimili:

Hafnarfjörður

Strandgatan sunnanverð árið 1919.

Matthías Þórðarson, bróðir Flygenrings, síðar þjóðminjavörður, Gróa Sveinsdóttir, móðir Þórunnar, Soffía Guðný Gísladóttir, sem ólst upp í Litla kotinu (16) og var systir Gísla bakara (42), tvær Sigríðar Guðmundsdætur og var önnur dóttir „Ingibjargar ekkjunnar“ (84) en hin ílentist norðanlands og svo Þorsteinn Bjarnason þá talinn vinnumaður, síðar trésmiður, kvæntist Eyrúnu Jakobsdóttur frá Hofstöðum. Í húsinu var líka önnur fjölskylda, en hún var öllu fámennari, því að það voru aðeins barnlaus hjón, Jóhannes Sigfússon kennan við Flensborgarskólann og Cathinca Sigfússon, fædd Siemsen. Út úr bakhlið þessa húss var skúr sem „telifónninn“ áðurnefndi var í, en orðið sími var þá enn ekki notað um þessi þægindi. „Telifónfélag Reýkjavíkur og Hafnarfjarðar“ var stofnað árið 1890, aðallega fyrir forgöngu Jóns Þórarinssonar skólastjóra, og árangurinn varð símalagning milli þessara staða það ár. Þótti allt sem þessu við kom að vonum mjög nýstárlegt þá. Eins og áður er drepið á, brann þetta hús árið 1906, ásamt a.m.k. tveim kolapakkhúsum og einnig voru hús rifin, til að hefta útbreiðslu eldsins.

Knutzensverslun

Knitzensverslun.

131. Þetta hús stóð ofan við íbúðarhús Flygenrings og keypti hann það einnig af Knudtzonsverzlun. Í Sögu Hafnarfjarðar segir að hann hafi byrjað verzlun sína í þessu húsi, en fyrsti vísir að þeirri starfsemi hans mun þó hafa hafizt í eldhúsinu hjá honum.

132. Þetta hús stendur enn sem Vesturgata 4. Fasteignirnar „suður á Möl“ skiptu oft um eigendur, Linnetsverzlun var ekki lengur til, og árið 1897 var Knudtzonsverzlun í Hafnarfirði einnig lögð niður, en hún hafði verið ein umfangsmesta verzlun landsins á sinni tíð. Var búðin í þessu húsi, sem hér um ræðir. W. Fisher keypti húsin af P. C. Knudtzon — þau sem Flygenring keypti ekki — Jörgen Hansen af W. Fislier, Fiskveiða- og verzlunarfélagið Ísafold af Jörgen Hansen sama ár, og árið 1901 keypti J. P. T. Bryde fasteignir þessar og hóf útgerð og verzlunarrekstur í Hafnarfirði. Hann var stórkaupmaður og konsúll í Kaupmannahöln, faðir Helgu Vídalín, þeirrar er úlfaþytinn vakti í Reykjavík um aldamótin með Batteríis-kaupunum. Gömlu Knudtzons-fasteignirnar, er Bryde eignaðist, voru húsin, sem hér eru talin nr. 116, 132, 134, 135 og 136. Um aldamótin breyttist verzlunin í eitt skipti fyrir öll úr Knudtzonsverzlun í Brydes-verzlun eða „Bryðabúð“. Þá var inngangurinn í búðina á miðri vesturhlið hússins.

Vesturgata 6

Vesturgata 6.

133. Þetta hús stendur enn sem Vesturgata 6. Það er talið vera elzta hús bæjarins, byggt af Bjarna riddara Sívertsen. Þangað kom Kristján konungur IX 1874. Þar áttu verzlunarstjórar Knudtzonsverzlunar löngum heima, en eftir að sú verzlun lagðist niður og áður en Brydesverzlun kom til sögunnar, mun Jón Steingrímsson trésmiður hafa búið þar (115). En árið 1902 kom fyrsti verzlunarstjóri Brydes-verzlunar í þetta hús, Jón Gunnarsson, síðar samábyrgðarstjóri. Kona hans hét Sigríður Þorkelsdóttir. Börnin voru þrjú: Sigríður, Sigurður og Ingiríður.

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Pakkhúsið, nú Byggðasafn Hafnarfjarðar.

134. Stórt og mikið pakkhús. Það stendur enn, en nú er tæplega hægt að nefna það nýja pakkhúsið lengur, þó að það væri fyrst kallað svo. Framan á því hékk eitt sinn hljómmikil klukka, sem notuð var til að kalla verkafólk til vinnu. Þarna voru fyrstu hafnfirzku dansleikirnir haldnir, á árunum 1870-1890. Það voru „pakkhúsböllin“, upphaflega fyrir starfsfólk fyrirtækisins.

135. Vörugeymsluhús. Það stóð fyrst suður við Flensborg ásamt næsttöldu húsi.

136. Þetta hús stóð vestan við hitt húsið, nánast við gatnamót Vesturgötu og Merkurgötu að austanverðu, og voru þessi hús mjög lík. Árið 1875 keypti firmað P. G. Knudtzon & Sön Flensborg af ekkju J. J. C. Johnson, lét rífa þessi tvö hús, flytja sjóveg og byggja upp þarna, en árið eftir keypti séra Þórarinn Böðvarsson Flensborg til skólahalds.

Merkugata 2

Merkurgata 2.

137. Á þessum stað er nú húsið Merkurgata 2. Þar bjó Gísli Jónsson. Hann var vitavörður og hafnsögumaður („Gísli lóðs“) og starfaði auk þess mikið fyrir kirkjuna. Kona hans hét Hallgerður Torfadóttir, og voru þau Steingrímur (106) samfeðra. Vandséð er hvar bezt færi á að gera nokkra grein fyrir Weldingsættinni, og er það þó athugandi hér, þar sem bæði hjónin voru af henni. (Eins og reyndar einnig hjónin á Heklu (71) og í Kletti (119)). Ættfaðirinn, Kristján Welding, fæddist í Kaupmannahöfn 1761, en kona hans var íslenzk. Þeirra börn voru 111. a. Friðrik, Anna Katrín, Kristín, María og Kristján. Börn Friðriks Kristjánssonar voru m. a. Friðrik í Kofanum, Árni, Margrét á Hamri (25) og Níels. Börn Friðriks í Kofanum voru Friðrik í Gerðinu, faðir Snorra (72), Kristján (75) faðir Eyjólfs (153), Margrét í Ragnheiðarhúsi (72). Pétur, faðir Jóns Bergsteins (26) og Níels (76). Börn Árna voru Jón (92), Kristín og mörg fleiri. Um Margréti á Hamri verður áður komið að. Börn Níelsar voru Þorvaldur á Hrauni (123) og Margrét í Kletti (119). Móðir þeirra hét Borghildur. Dætur Önnu Katrínar voru m.a. Guðrún, móðir Bjarna hringjara og Agnes, er giftist Árna Mathiesen og átti Önnu Katrínu í Lækjarkoti (62), Jón (68), Jensínu (90), Theodór og Matthías (104).

Hafnarfjörður

Strandgatan norðanverð árið 1919.

Börn Kristínar voru m.a. Kristín móðir Jóns frá Hamarskoti (120), Þorsteins í Kletti (119) og Kristínar (30), Hallgerður, móðir Halldórs beykis (117) og Magnúsar í Brúarhrauni (86), Margrét móðir Kristjáns á Heklu (71), Kristínar (49) og Guðrúnar (88) og Torfi, sem varð seinni maður Borghildar áðurnefndrar og átti með henni Níels (120), Hallgerði „hér“ (137) og Kristínu móður m.a. Jóns Diðriks (68). Sonur Maríu var Guðmundur faðir Péturs í fóninum og Maríu (88) og börn Kristjáns voru m. a. Bjarni, tengdafaðir Sigmundar (126), Jens, tengdafaðir Jóns Á. Mathiesen (68) og Hannesar í Króki (127) og Margrét móðir Gísla lóðs. Þetta virðist að sjálfsögðu flókið við fyrsta lestur, en ef einhver vildi leggja á sig að lesa það aftur, eða raða nöfnunum aðgengilega á laust blað, þá liggur það ljósara fyrir. Börn Gísla og Hallgerðar eru: Jón, útgerðarmaður, kvæntur Önnu, systur Ólafs frá Deild (120), Margrét, gift Júlíusi Sigurðssyni, og Torfi, kvæntist Ingileifu Sigurðardóttur, systur hans. Móðir þeirra systkina var Kristin dóttir Árna Welding, og móðir hennar hét
einnig Kristín og var föðursystir Gísla lóðs.

Hafnarfjörður 1906

Hafnarfjörður 1906.

138. Á þessum stað eða örlítið neðar er nú húsið Merkurgata 4. Þessi gamli lélegi bær, sem þarna var, hét að réttu lagi Guðnýjarbœr, kenndur við Guðnýju móður Péturs í fóninum. Þangað voru þau þá komin Jón Erlendsson og Guðrún Gunnarsdóttir.
Þau voru ógift, en áttu saman eftirtalin börn, sem öll voru hjá þeim: Margrét, dó 1919, Erlendur Oddur, kvæntist Þórunni Jónsdóttur, hann drukknaði þegar „Róbertson“ fórst, Gunnar, kvæntur Guðmundu Þorleifsdóttur, og Jónína Guðrún, sem giftist Sæmundi Sigurðssyni. Hann dó af slysförum. Sigtryggur Jónsson varð skammlífur. Hann mun hafa verið dáinn 1902.

Merkugata 7

Merkugata 7.

139. Á þessum stað er nú stórt nýlegt hús, Merkurgata 7. Húsið, sem þarna var, hét Mörk, en ekki heyrðist það sérlega oft í daglegu tali, nefnt svo vegna þess að það var byggt á mörkum Garðakirkjulands og lands Knudtzonsverzlunar. (Nafnið Merkurgata ætti því að vera Markagata). Þarna bjó Sigurgeir Gíslason vegaverkstjóri. Hann var síðar sparisjóðsgjaldkeri og átti lengi sæti í bæjarstjórn. Einnig tók hann þátt í ýmsum framfara- og félagsmálum svo sem starfi Góðtemplara. Börn þeirra: Gísli, kvæntur Jensínu dóttur Egils frá Hellu (24) og Þórunnar (90), Margrét, varð lyrri kona Þorvaldar Árnasonar skattstjóra, hún dó 1937, og Halldór Magnús, fæddur þetta ár. Hann er kvæntur Margréti dóttur Sigurjóns Gunnarssonar (82). Hjá Sigurgeir voru vinnuhjú, Valgerður Diðriksdóttir og Magnús Eiríksson. Síðar varð að taka af Magnúsi þessum annan fótinn, og eftir það fór hann að stunda skósmíðar.

Merkurgata 11 og nágrenni

Merkugata 1 og nágrenni.

140. Þarna er nú autt svæði við Merkurgötuna, gegnt húsinu nr. 11. Í bænum, sem þarna var, urðu íbúðaskipti 1902. Kristján Auðunsson fór þaðan með fjölskyldu sína, en þá komu þangað úr Hansensbæ (108) hjónin Sigurður Friðriksson og Oddný Eiríksdóttir. Af börnunum voru tvær dætur hjá þeim, Magnea Sigríður, sem giftist Sigmundi Sigmundssyni (126), og Ágústa. Sonur þeirra, Guðbergur Eiríkur, nú bifreiðarstjóri, var annars staðar.

Merkurgata 3

Merkurgata 3.

141. Þarna er nú húsið Merkurgata 3. Þar bjó Guðmundur Helgason, sem varð fyrsti bæjargjaldkeri í Hafnarfirði og síðar fyrsti hafnargjaldkerinn. Kona hans hét Vigdís Þ. Þorgilsdóttir. Hún var dóttir Ragnheiðar yfirsetukonu (72), en móðir Ragnheiðar var þá enn á lífi. Hún hét Vigdís Hinriksdóttir og var þarna hjá dótturdóttur sinni. Svo var þarna vinnukona, Helga Jóna Diðriksdóttir, systir Valgerðar, sem var hjá Sigurgeiri (139). Hún varð fyrri kona Helga Guðmundssonar, sem áður er getið (125). Guðmundur og Vigdís tóku síðar kjördóttur, Matthildi.

Vesturgata

Vesturgata 10 t.h.

142. Því sem næst á þessum stað er nú húsið Vesturgata 10. Í bænum sem þarna var urðu íbúðaskipti: Ingvar Guðmundsson (103) fór þaðan, en þá komu þangað hjónin Kristján Auðunsson og Þórdís Símonardóttir frá Skipum. Öll börnin, sem upp komust, eru þá talin heima: Símon, síðar hafnsögumaður, kvæntist Áslaugu systur Magnúsar (6) og Sigurbjargar, sem áður er getið (17), Magnús, varð fyrri maður Sigurbjargar Magnúsdóttur sem einnig er minnzt á áður (19), María, bjó með Ándrési Runólfssyni, Guðrún, giftist Jóhannesi Narfasyni frá Bala (66), Gísli, dó ókvæntur og barnlaus, og Herdís, giftist Bergsteini Hjörleifssyni. Þeir Kristján Auðunsson og Magnús sonur hans dóu báðir með stuttu millibili árið 1915.

143. Pakkhús. Á þeim stað er nú frystihús Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Uppi á loftinu í húsinu, sem þarna var, voru þeir löngum við seglasaum, Finnur Gíslason (112) og Magnús Nikulásson (81).

Bæjarútgerð

Fiskverkunarhús á Edinborgarlóðinni, sem seinna varð starfsstöð Bæjarútgerðar Hafnarfarðar.

144. Pakkhús eða fiskgeymsluhús. Það var minna en hitt, en stóð fyrir vestan Jrað í sömu stefnu. Hús þessi voru eign Augusts Flygenring og á milli þeirra var gengið niður á bátabryggjuna hans.

145. í manntalinu frá 1901 er talað um Flygenringsbúð, þarna í Vesturbænum. Gamlir Hafnfirðingar tala um byggingu, sem þeir nefna Svartaskóla, og mun það vera hið sama og stóð þar sem nú er saltgeymsluhúsið frá Bæjarútgerðinni. Í „Svartaskóla“ urðu oft íbúaskipti, en þar bjuggu þá ung hjón, Hrómundur Jósepsson skipstjóri og Margrét, elzta barn Guðmundar frá Deild (72). Dóttir þeirra, Ragnheiður, var fædd. Hrómundur byggði skömmu síðar hús annars staðar í bænum, sem lengi var við hann kennt.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn og nágrenni.

146. Klofi. Þar var löngu síðar kolaport Bæjarútgerðarinnar, með klettum umhverfis. Þarna bjuggu hjónin Jónas Grímsson og Vilborg Oddsdóttir. Hjá þeim var Viimundur, einkabarn Jjeirra, sem drukknaði þegar „Geir“ fórst. Þar var einnig Þuríður Sveinsdóttir, sem margir gamlir Hafnfirðingar muna eftir.

147. Árnahús. Það var rétt fyrir neðan Klofa. Þar bjó Árni bróðir Gunnlaugs föður Sólveigar (33) og Hildibrands (108), en þeir voru synir Árna hreppstjóra Hildibrandssonar. Árni Árnason var, þegar hér er komið, búinn að missa konu sína, Guðrúnu Jónsdóttur, en börn þeirra voru hjá honum. Þau voru: Guðlaug, sem giftist Oddi ívarssyni (41) Árni málari, kvæntist Guðrúnu Guðmundsdótutr, Jón og Ingibjörg Guðrún, giftist Kristni Brandssyni. Þarna var einnig ekkjan Halldóra Ögmundsdóttir, móðir Gísla bakara (42) og Soffíu (130).

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn og nágrenni.

148. Gesthús. Þar bjó Einar Ólafsson stýrimaður, sem enn er á lífi á sama stað, Vesturgötu 16. Kona hans hét Sigríður Jónsdóttir. Börnin, sem fædd voru: Sigurjón, nú forstöðumaður Hrafnistu (dvalarheimilisins) í Reykjavík, kvæntur Rannveigu Vigfúsdóttur, Elísabet, gift Guðmundi Á. Jónssyni bifreiðarstjóra, bróður Guðjóns (59) og Helgu, sem áður var getið (93),-og Helga Kristjana. Síðar fæddist Laufey. Þarna var vinnukona, Ingunn Ólafsdóttir, hálfsystir Einars.

149. Gesthús II. Það stóð fyrir vestan hitt húsið. Þar voru þrjár fjölskyldur. Hjónin Halldór Sigurðsson bróðir Geirlaugar (6) og Sigurlaug Guðmundsdóttir. Hjá þeim var einkabarn þeirra, sem Guðlaugur hét. Hann drukknaði þegar togarinn Gullfoss fórst.
Hjá þessum hjónum var þá Guðlaug Þórarinsdóttir. Svo voru það hjónin Bjarni Ásmundsson og Þóra Oddsdóttir. Hjá þeim eru taldir tveir lausamenn, Markús Gíslason frá Lambhaga í Hraunum og Eyjólfur Eyjólfsson (eldri) frá Langeyri. Enn fremur voru farin að búa þarna hjónin Ólafur, sonur Bjarna og Þóru, og Ingibjörg Helgadóttir. Þau eignuðust síðar fjögur börn, Helga, sem dó ungur, Vilhelmínu, Ragnheiði og Bjarnþóru.

Vesturgata 16

Vesturgata 16.

150. Þetta hús stóð nálægt þar, sem nú er Vélsmiðjan Klettur, Vesturgötu.

151. Klettur. Þar er nú hús tilheyrandi vélsmiðjunni: Vesturgata 24. Þarna bjuggu aðeins barnlaus hjón, Ólafur Jónsson og Helga Gestsdóttir. Jón, sem þau ólu upp, var ekki fæddur.

152. Árið 1902 kom til Hafnarfjarðar Sveinn Sigfússon frá Norðfirði. Hann byggði hér hús, og eftir honum má segja að heil húsaþyrping hafi hlotið nafnið Svendborg, þótt sjálfur væri hann hér aðeins stuttan tíma. Hann var þá skilinn við fyrri konu sína, en bjó með Sigríði Pétursdóttur, systur Þorláksínu (72) og kvæntist henni síðar. Þar var líka Jón Sigmarhasson, er síðar rak verzlunina Þörf í Reykjavík. Svo var þar þá stúlka til snúninga. Sigurlína Helgadóttir, elzta barn Sigríðar og Helga í Helgahúsi (70). Hún varð fyrri kona Sigurðar Árnasonar kaupmanns.

Nú förum við út úr bænum og að —

Langeyri

Langeyri um 1920.

153. Langeyri. Það var stöku sinnum nefnt Skóbót. En það má segja því nafni til málsbóta, að það mun aðeins hafa verið afbökun eða stytting úr eldra og virðulegra heiti: Skómakarahús. Að Langeyri voru komin ung hjón, Eyjólfur Kristjánsson og Ingveldur Jónsdóttir. Þar var líka Salvör Sigurðardóitir, móðir hennar. Þrjú af börnunum voru fædd: Þórður, sem býr á Brúsastöðum — það sem foreldrar hans bjuggu lengi síðar — kvæntur Salóme Salómonsdóttur, Guðbjörg Friðrika gift Helga Nikulássyni og Ingólfur. Fædd síðar: Kristín, Kristján, Sigurður, Theodóra, Hjálmar, Lilja, Fanney, Ingólfur og Jóna.

Brúsastaðir

Brúsastaðir um 1975.

154. Brúsastaðir. Þar bjuggu þá hjónin Oddur Jónsson og Sigríður Eiríksdóttir. Jón, sem kvæntist Egilsínu Jónsdóttur. Hann drukknaði i Papeyjarslysinu (sbr. 122) og var sagt að hann hefði vitað það fyrir. Hvorki var þá búið á Eyrarhrauni eða Skerseyri, og lýkur því þessum hugleiðingum hér með.
Þetta verk hefði aldrei séð dagsins ljós, hefði móður minnar ekki notið við. Einnig vil ég þakka öllum öðrum, sem hafa veitt mér upplýsingar, nú síðast Gísla Sigurðssyni um Weldingsættina.“

Sjá framhald á „Íbúar Hafnarfjarðar árið 1902“ – I HÉR.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1960, 24.12.1960, Magnús Jónsson – Íbúar í Hafnarfirði 1902, bls. 6-8 og 14.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á fyrri hluta 20. aldar.