Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi. Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalaneshreppi en í dag Suðurnesjabæ. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í Jarðabókum undir lok 17. aldar. Stafnes er í Hvalsnessókn.
Stafneshverfi.
Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17. og 18. öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskupi fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10. september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.
Stafnesviti.
Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.
Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnafélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.
Ari Gíslason skráði eftirfarandi um Stafnes eftir Metúsalem Jónssyni: „Beint vestur af heimabæ í Stafnesi er hóll, sem heitir Vallarhúsahóll. Þar hefur verið mikil byggð hér áður fyrr. Ofan við efra húsið á Stafnesi í túni er hringur, nefndur Lögrétta. Ekki er vitað, hvað þetta var, og má geta þess, að hann er ekki eins í laginu og slíkir lögréttuhringir eru vanir að vera. Rétt vestur af húsinu eru allmiklar rústir, sem ekki er vitað um, hvað er. Austur af Eystrahúsinu í Stafnesi heitir Lodduvöllur, og í honum er Loddubrunnur.
Kvíslarhóll er gamall öskuhaugur við Loddu. Býli voru mörg hér og hvar, og örugglega eru sum þeirra farin alveg í sjó. Má t.d. nefna, að 1703 er talað um landssvæði, sem hét Snoppa. Nú veit enginn, hvar það hefur verið. Krumfótsbúð var gömul sjóbúð, sem ekki er vitað, hvar var.“
Austur-Stafnes.
Magnús Þórarinsson skrifaði um Stafnes í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi„: „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis. Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker.
Vestur-Stafnes.
Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár.
Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.
Stafnes – minnismerki um Jón forseta.
Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.
Stafnesviti og minnismerki um Jón forseta.
Víkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóð áður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.
Stafnes – Norðlingavör.
Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.
Spöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót. Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd. Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“ , og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik , sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.
„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og vo afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“
Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.
Má nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19): „1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson. – Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“
Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús, sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.
Stafnes – túnakort 1919.
Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi. Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi.
Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs. Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin.
Stafnes – Vallarhús.
Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér. Þó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. –
Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.
Stafnes – Grund.
Eins og áður segir er Bóndarif fram af Litlu-Rétt, en fram af Bóndarifi er Stafnesrif og stefnir til suðvesturs. Það nær lengst út allra skerja á þessu svæði eða fram undir miðið, Eldborg grynnri lausa, (sjá örnefni á Reykjanesi, í: Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi). Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin.
Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.
Stafnes – loftmynd 1954.
Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur. Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum. Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni. Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.
Stafnes – Stórarétt.
Eins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.
Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.
Stafnesbrunnur.
Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann. Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur. Efst uppi er
sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum.
Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.
Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.
Stafnes – Ögmundagerði.
Hvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.
Góðir Stafnesingar, sem enn eruð starfandi! Þið eruð afkomendur og eftirmenn mikilla formanna á Stafnesi. Má þar nefna Daða Jónsson og Eyleif Ólafsson, sem voru með þeim síðustu. Væntanlega setjið þið strax skautafaldinn á Urðarvörðu, til heiðurs við margar merkar minningar frá fornri útgerð á Stafnesi og til þess, að hún megi þekkjast frá óæðri systrum sínum um hraun og heiði. Hún heitir enn Urðarvarða og á að halda því nafni, þó flúin sé upp á Flatir.
Stafnes – sundmerki.
Sundmerkjum á Stafnesi á að halda við, svo lengi sem sögur eru til af einum merkasta útgerðarstað á Íslandi frá fyrri tíma.
Langt er enn til Djúpavogs í Ósabotnum, en þar endar Stafnesland. Eins og sjá má á öllum kortum, beygist landið austur á við fyrir sunnan Stafnestanga og er bogadregið allt inn í Ósa. Fyrst til suðurs, landsuðurs og loks í háaustur. Skal nú haldið með ströndinni og leitað örnefna.
Suður og inn af syðri Urðartánni er einkennilegt sker. Boði, sem á því fellur, heitir Svörfull. Sker þetta lítur helzt út fyrir að vera gamall eldgígur, því að í miðju skerinu er hylur, 10-12 faðma djúpur. Þegar Svörfull er uppi, fellur hann fyrst til norðausturs, svo í hring til suðurs og virðist þannig fylgja gígbarminum, og endar með því að falla beint á sjó út.
Í september 1881 strandaði á Svörful skip, 440 lestir að stærð, hlaðið ofnkolum. Menn björguðust í land á bátnum, komu heim að Stafnesi um kvöldið og voru þar um nóttina.
Stafnes – Hólakotsstekkur.
Um morguninn er komið var á fætur sást ekkert af skipinu, nema ofan á hæsta masturstoppinn. Brimið hafði fært briggskipið inn yfir gígbarminn, og það sokkið niður í hylinn í skerinu. Ekkert rak upp af því skipi, annað en það, sem lauslegt var á dekki og flotið gat. Enn eru menn á lífi, er höfðu glöggar frásagnir um þetta strand og frá því er sagt í Suðurnesjaannál (bls. 180), en síðar bætir annálshöfundur (sr. Sig. B. Sívertsen) við): „Skip það, sem sokkið hafði fyrir framan [sunnan] Stafnes með ofnkolin, var nú, þann 22. desember, loks selt við uppboð, þegar útséð var um, eftir brim, hroða og stórflóð, að ekkert mundi reka upp af því. Komst það í 45 krónur og þótti ráðleysa að kasta út meira fé í slíkan vonarpening, svo valtan.“
Sunnan við Urðina er í flæðarmáli stór og hár grashóll, sem heitir Stóri-Básendahóll. Framan við hann og aðeins nær Urðinni er sandblettur, sem heitir Gunnusandur. Framan við sandinn og eilítið sunnar eru svonefndar Róklappir, dálítill klapparbálkur; fellur ekki yfir þær á flóði nema brim sé. Framan við Róklappir er aftur lítil sandflúð, sem heitir Rósandur, en þar fram af er út í sjó kringlótt sker, sem heitir Rósker. Þar voru flestir selirnir skotnir af Stafnesbændum á fyrri tíð. Mér er sagt, að Eyvindur Pálsson, sem bjó á Stafnesi frá 1860, þar til tengdasonur hans Hákon Eyjólfsson tók við, hafi verið sundmaður ágætur. Hann hafði þann hátt á að synda með byssuna út í Rósker með útfalli og vera kominn, áður en selirnir lögðust upp á skerið. Vöruðust þeir ekki þessa veiðibrellu.
Stafnes – Bali.
Nokkru dýpra fram af Róskeri er skerjagarður, sem liggur til suðurs; heitir það einu nafni Básendasker. En víkjum nú aftur upp á land. 20 til 30 föðmum suður af StóraBásendahól er graslaus klapparhóll; heitir hann Litli-Básendahóll. Sunnan við þann
hól stóð Básenda-verzlunarstaður. Þar fram af er malartangi með sljóu horni. Á tanganum sér enn til rústa eftir meira en 150 ár, en 1799 var Básendaflóð. Sunnan við tanga þennan er ílangt lón; það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefir verið löng milli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Má enn sjá leifar af umbúnaði, hringjum og stólpum, sem var tinsteyptur í klappir og sker til þess að svínbinda skipin.
Varla hefir þetta verið góð og örugg höfn, eins og nokkrir hafa talið, en það vita kunnugir bezt, hve hollt er að vera á vélarlausum dekkbát inni á milli skerja sunnan við Stafnes í sunnanátt og hroða, þó að sumri sé. En stundum dróst afgreiðsla skipanna fram á haust, enda brotnaði þar skip 1669, albúið til siglingar, og tvö skip 1714, hlaðin fiski, segir Suðurnesjaannáll.
Stafnes – Nýlenda.
Skúli Magnússon landfógeti ræðir í sýslulýsingu sinni nokkuð um Básenda, þar segir svo: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. Í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrr nefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 í hinu síðar nefnda. Þarna lækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi … Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar. Aftur á móti er fiskverkunarstæði því betra kringum Stafneslendingu, einkum á Refshalabæjum svo nefndum. Að vísu hafa þeir lagzt í eyði síðan konungsbátarnir voru lagðir niður 1769. Þó mætti byggja þá upp aftur, ef þörf væri á, því að á Stafnesi hefir þótt fremst fiskiver á Íslandi um vetrarvertíð á fyrri tímum og allt fram að því ári. En síðan hefir sjósókn þorrið þar mjög.“
Stafnes – Heiðarbær.
Efalaust hefir útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi, sem annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19., þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita, að Stafnes væri í eyði um aldamótin 1800 (sjá um Básendaflóð eftir Vigfús Guðmundsson í Blöndu III, bls. 57). En á síðari hluta 19. aldar voru 20 til 25 stórskip gerð út á vetrarvertíðum af bændum á Miðnesi, og ætíð var Stafnes talið í fremstu röð, með þá merkismennina hvern fram af öðrum: Erlend Guðmundsson, Eyvind Pálsson og Hákon Eyjólfsson. Það hefir í annálum og öðrum ritum verið talað um útgerð og aflabrögð á Stafnesi, og yngsti annállinn, Suðurnesjaannáll, sem ritaður var á 19. öld, er fjölorður um mikil aflabrögð hjá Stafnesmönnum, enda var þar bezt til sóknar af Miðnesi á tíma áraskipanna.
Bátsendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík, en Brennitorfa var þar fyrir ofan. Þar höfðu Básendamenn brennur sínar. Stendur þar nú varða á grjótholti, en Torfan sjálf er örfoka. Sunnan við Brennitorfu er Draughóll og Draughólskampur með sjó fram til suðurs. Fram af kampi þessum er stór klettahólmi úti í sjó; heitir hann Arnbjarnarhólmi. Þar eru suðurtakmörk Básendahafnar. Sunnan við Draughólskamp er stórgrýtishryggur, sem heitir Kuðungavíkurkampur, og Sandvík sunnan hans heitir Kuðungavík. Enn er dálítill kampur og sunnan hans er Djúpavík, allstór. Þar nokkuð úti í víkinni er stór klettur einstakur; heitir hann Svartiklettur; hann er mið á einni fiskiholu. Stafnesinga. Ofan við Djúpuvík eru svo nefndar Dauðsmannsklappir.
Stafnes – Hólakot.
Sunnan við Djúpuvík er mjög langur hrauntangi, sem nær langt út í sjó; heitir hann Skarfurðartangi. Fyrir sunnan tangann er á löngu svæði bein urðarfjara; heitir það Skarfurð. Fram af Skarfurðartanga er sker eða flúð, er sjaldan kemur upp úr; heitir það Vefja. Sjávarhræringar á Vefju eru óvenjulegar, líkt og á Svörful. Sunnan við Skarfurð er stór djúp vík, sem heitir Stólsvík; hún dregur nafn af einkennilegum kletti þar úti í víkinni, nokkuð frá landi; hann líkist mest prédikunarstól og heitir Tómasarstóll, en ókunnugt mun vera nú, af hverju nafnið er til orðið. Oftast er stóllinn alsetinn skörfum með útbreidda vængi.
Sunnan við Stólsvík er þröngt og djúpt vik inn í klettana, kallað af Stafnesmönnum Norðurvik Þórshafnar. Þar sunnan við er klettarani, mjög stórgrýttur fremst, en grasi gróinn ofan; heitir það Þórshafnarbali. Hann er vesturhlið á löngum bás, er liggur til norðausturs inn í landið. Básinn heitir Þórshöfn. Það er hin fornkunna höfn verzlunarskipanna á síðari hluta 19. aldar. Af sýslulýsingu Skúla fógeta (Landnám Ingólfs, bls. 117) vitum við, að „leiðin inn að henni er 55 faðma breið.
Stafnesgarðar.
Mesta lengd innsiglingar er 170 faðmar, en breidd 51 faðmur, þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet [hér mun vera átt við Þórshöfn sjálfa frá mynni til botns]. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér á landi.“ (1601 var síðasta verzlunarár þeirra, því einokunin byrjaði 1602, sem kunnugt er). Skúli gjörir lítið úr þessari höfn, segir að hún sé „lítil og léleg og komi ekki heldur sjómönnum að liði.“ Svo virðist, að hún hafi lítið eða ekkert verið notuð á hans dögum.
Eigi er vitað með vissu, hvenær dönsku skipin byrjuðu að hafa þar hafnlegu; þó varla fyrr en Básendar lögðust niður. Leiðin inn á Þórshöfn er tvær vörður saman; stóð önnur í norðvesturhorni Þórshafnar, en hin uppi á heiðinni; heitir sú Mjóavarða (93) og mun enn vera uppi standandi, enda algengt mið í Stafnesdjúpi. Höfn þessi er svo þröng, að ekki varð komizt inn eða út á seglskipi, nema einstefnu leiði væri, og skipin varð að svínbinda á allar hliðar. Flest voru þar 5 skonnortur í einu, sem mér er kunnugt um. Þau lágu þar öll saman bundin, hlið við hlið, og vissi framstafn allra til hafs. Ætíð var stillt í þessum mjóa og langa bás, og sogadráttur furðu lítill, þó nokkurt brim væri, enda eru Þórshafnarsker fyrir framan og braut brimið á þeim.
Austurhlið Þórshafnar er langur hrauntangi, en austan hans er stór og breið vík; heitir hún Hvalvík. Þar eru sandleirur í botni og þornar þar á stóru svæði um stórstraumsfjöru.
Stafnes – Refamýri.
Smávik er vestast í Hvalvíkinni, gengur vikið inn í hrauntangann austanmegin framarlega, gegnt Þórshöfn; er það kallað syðra Þórshafnarvik. Vikið er þurrt um fjöru, en skemmtilegt sjávarvik á flóði. Frá viki þessu er á austurhlið hrauntangans, Hvalvíkur megin, stórgrýttur kampur, sem heitir Skeljaurð; nær hann inn að botni Hvalvíkur, en upp af sjálfum botni hennar eru grasbakkar.
Úti í Hvalvíkinni er Hvalvíkurhólmi, allstór og hár nokkuð; hann var grasi gróinn.
Út að honum liggur grandi, eða öllu heldur röð af smáskerjum, en rásir eru á milli og var þarna mikil flæðihætta, meðan sauðfé var margt, en Miðnes var talinn fjárríkasti hreppur á Suðurnesjum um næstliðin aldamót.
Allbreiður tangi austan Hvalvíkur er í daglegu tali nefndur Torfan, en mun heita Preststorfa. Við Torfuna er lending, nefnd Grímsvör öðru nafni Bárðarvör, en fram af Torfunni er stór klettur; heitir hann Hestaklettur (101), en örskammt frá er Selsker. Af Torfunni er skemmst sjóleið yfir Ósana. Fólk, sem ferðaðist gangandi milli Miðness og Hafna, einkum prestarnir, kom oft á Torfuna og kallaði til Kirkjuvogs, sem vel heyrðist. Var fólkið þá sótt og flutt yfir á bát.
Vallarhúsabrunnur.
Það slys varð í þessum flutningum árið 1748, er ég tek hér upp úr Suðurnesja annál Sig. B. Sívertsen, orðrétt: „Fimmta sunnudag í föstu drukknaði presturinn á Hvalsnesi, séra Árni Hallvarðsson, er hann ætlaði til embættisgjörðar að Kirkjuvogi. Hafði hann farið af svo nefndri Prestatorfu í góðu veðri. En þeir, sem fluttu hann, höfðu farið of nærri skeri því, er Selsker kallast; hvirflar á því, en kemur upp úr um fjöru, en á móti því er klettur stór, er Hestaklettur kallast. Þar á milli liggur leiðin og allnærri klettinum, en þeir héldu nær skerinu en mátti.
Reisti sig þá upp boði, er hvolfdi bátnum, er hann kenndi grynninga. Drukknaði þar prestur og sjö menn aðrir. Var einn þeirra Einar, sonur Hákonar í Kirkjuvogi, bróðir Vilhjálms. Einn eða tveir menn komust af, og þeir heyrðu prest segja, þegar hann sá, hvernig fara mundi: „Herra Jesú, meðtaktu sálir okkar allra.“ Nýlega hafði þá síra Árni verið búinn að taka af jólagleðina, sem haldin var á Flankastöðum, nauðugt mörgum. Hann var 36 ára gamall“.
Nýlendubrunnur.
Austan við Torfuna er allmikil sandvík; í vík þessari er stór og hár grashólmi, sem heitir Einbúi (103), umflotinn á flóði. Hann er áberandi mið í Stafnesdjúpi. Mjög skammt fram af Einbúa er annar hólmi lítill, grasi gróinn; hann heitir Runkhólmi. Í öllum þessum hólmum, Hvalvíkurhólma, Einbúa og Runkhólma, var æðarvarp, meðan um var hirt. Frá Einbúa er sjávarmál skorið af smávikum en grjótranar á milli, allt að tanga þeim, sem heitir Fremri-Skotbakki.
Það bar við á hvítasunnudag 1881, að timburskip, mannlaust, tröllaukið að stærð, eftir því er þá var kallað, rak að landi í Ósum. Heyrði ég mikið talað um skip þetta á ungdómsárum mínum, enda var þá sem óðast verið að byggja baðstofur, timburhús, sjávarhús (timburskúra) og alls konar útihús úr efnivið þessum. Tvær eru heimildir, mér tiltækar, um skip þetta, en því miður ekki samhljóða um stærðina.
Stafnes – Refatjörn.
Ólafur Ketilsson hreppstjóri í Höfnum (hann var 16 ára, er strandið skeði, og vann við skipið) skrifaði skemmtilega og fróðlega grein um skip þetta í Lesbók Morgunblaðsins 44. og 45. tbl. 1936. Hann segir (þrisvar) í grein sinni, að skipið hafi verið 360 fet á lengd og 65 fet á breidd. Til samanburðar má hafa að nýi Gullfoss okkar er 355 fet á lengd, stafna milli, en 47 1/2 fet á breidd. – Hins vegar segir séra Sigurður B. Sívertsen í Suðurnesjaannál (sjá Rauðskinnu 1953, bls. 175) að eftir því sem hann komist næst; var lengd þessa skips 128 álnir (256 fet) og á breidd 27 álnir (54 fet) en setur svo milli sviga: allt að 30 álnir. Svo virðist, að Ólafur Ketilsson viti málið, en séra Sigurður hafi sennilegustu ágizkun eftir annarra sögn. Ólafur segir, að sér teljist svo til, að í skipinu hafi alltaf verið um 100 þúsund plankar, fyrir utan alla plankabúta og fleira, að meðaltali 16 feta lengd, 8 þumlunga breidd og 3 þumlunga þykkt. Þetta „fleira“, sem Ólafur telur, var afarstór borðabunki aftast í miðlestinni og einnig í sömu lest afarstór – eins og hann orðar það – hlaði af hvítum múrsteini, fleiri þúsundir að tölu, sem allur fór í sjóinn og loks var seglfesta skipsins silfurgrjót, sem talið var af sérfræðing (útlendum) meira virði en skipið sjálft með öllum öðrum farmi, það fór einnig í sjóinn. Skipið hét James Town.
Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.
Því er á þetta minnzt hér, að kjölsvínið af skipi þessu með hluta af annarri síðunni hefir legið og liggur enn við Skotbakka, en mun nú vera sokkið í sand eða leir.
Nokkurn spöl austur af Fremri-Skotbakka er annar tangi, sem heitir Innri-Skotbakki. Skammt innar er gamli Kirkjuvogur. Þar sér aðeins fyrir rústum, en engin önnur merki um fyrri byggð. Til marks um það, hve Vogur (107a) (gamli Kirkjuvogur) var mikil jörð, skal þess getið, að árið 1407 selur Björn Þorleifsson hirðstjóri manni einum, er Eyjólfur hét Arngrímsson, Voga á Rosmhvalanesi, sem þá var kirkjustaður, fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. (Árb. Esp. 2, 68.)
Nokkur fróðleiksauki er þáttur jarðabókar (Á. M. & P. Víd.) 1703. Þar segir svo: „Gamli Kirkjuvogur. Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé, hvort hún liggi í Kirkjuvogs- eða Stafneslöndum, item, að munnmæli séu, að Kirkjuvogsbær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hvor bær verið. Kirkjuvogur sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því so vel túnstæðið sem landið allt um kring af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka að vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn og er hér ágreiningur um landamerki.“
Stafnesvegur.
Árið 1703 hefir gamli Kirkjuvogur legið í auðn yfir stórt hundrað ár, segir þar, þ. e. frá 1580 eða nokkru fyrr. Þegar hér er komið, er orðið grónara heiðarland með lyngklóm niður undir sjávarbakka. Útfiri er mikið innst í Ósum og sandleirur allmiklar um stórstraumsfjöru.
Djúpivogur er nyrzti, innsti og lengsti vogurinn í Ósabotnum. Þar voru landamerki milli Stafness og Hafna og um leið hreppamörk. Þeim mun þó hafa verið lítilsháttar breytt á síðari árum.
Yfir margt er að líta á langri ævi og umbreytingasamri. Frá strönd ég stari og sé í fjarska tímans: sjóinn og fjöruborðið með öllu Miðnesi, eins og rósótta ábreiðu, síbreytilega eftir sjávarhæð og ljósbroti sólar. Á lognblíðum dögum, þegar síkvik báran lék við þarann og sandinn, fóerlan söng sitt ljúfasta lag og æðurin ú-aði á útmánuðum, var yndislegt að vera ungur og lifa í óskadraumum, sem aldrei rættust. – En svo dró bliku á loft og bakka við hafsbrún. Þau sendu sterkan hvínandi storm, þá varð dimmt undir él, sjórinn úfinn og ægilegur, eins og reiður jötunn, er Hræsvelgur blakaði arnarvængjum sínum. Þannig er, í fáum orðum, myndin á spjaldi minninganna.
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Stafnes
-Rauðskinna (Sögur og sagnir), IX-X bindi, ritstj. Jón Thorarensen, Reykjavík, 1958.
-Landið þitt Ísland, 4. bindi S-T, Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson, Reykjavík 1983
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni.
Stafnes – lögrétta.
Hvaleyri – síðasti ábúandinn
Í Lesbók Morgunblaðsins má lesa eftirfarandi um síðasta ábúandann á Hvaleyri árið 1977:
„Nesið sunnan við Hafnarfjörð hefur heitið Hvaleyri frá fornu farí, ef marka má Landnámu. Þar áttu þeir viðdvöl, Hrafna Flóki og hans menn og fundu rekinn hval eftir því sem sagan segir, og nefndu staðinn Hvaleyri. Sé það rétt, mun það örnefni elzt við Faxaflóa. Síðan fer litlum sögum af landnámi og búskap á Hvaleyri. Þar var grösugast við Hafnarfjörð og kotin urðu mörg og smá. Líkt og víðast annarsstaðar suður með sjó, var fátæktin förunautur þeirra sem kusu sér búsetu þar og nábýlið við Bessastaði var búendum ekki fagnaðarefni.
Túnin á Hvaleyri voru grasgefin og þar var þó ólíkt betra undir bú en suður í Hraunum eða á Vatnsleysuströnd.
Þannig leið tíminn án sjáanlegra stórmerkja, unz þáttaskil urðu fyrir 10 árum, að Golfklúbburinn Keilir fékk túnin til umráða og þar hefur verið golfvöllur síðan. Það voru undarleg ósköp í augum þeirra, sem höfðu erjað þessa jörð og aldrei litið uppúr puðinu. En tímanna tákn var það aungvu að síður.
Nú hafa kotin verið jöfnuð við jörðu. Eftir standa Vesturkot, sem nú er félagsheimili golfklúbbsins Hvaleyrarbærinn, sem senn mun hverfa — og Sveinskot, neðan við veginn, skammt eftir að komið er inn á Hvaleyrina. Það er eini bærinn, sem eftir er og hefur dálítinn afgirtan túnbJett út af fyrir sig, íbúðarhús og útihús. En einnig þar er allt á síðasta snúningi og meðfylgjandi myndir frá í vor voru teknar til að halda á lofti minningunni um síðasta bæinn á Hvaleyri og bóndann þar, Ársæl Grímsson. Húsið ber svipmót kreppuáranna, klætt bárujárni og lítið á mælikvarða nútíðar. En það ber með sér þokka, sem smiðir þessa tíma gátu laðað fram, þó ekki væri úr miklu að spila. Út um víðan völl voru lambærnar að kroppa grængresið, gular á lagði.
Eins og í hverjum öðrum vorönnum, grípur Ársæll í að verka svo sem eina hjólbörufylli af grásleppu og hengir á rár. Það er eins og vant er, að bóndinn sér ekki út úr verkefnunum og hefur hann þó í fleiri horn að líta en þau, sem blasa við augum innan girðingar í Sveinskoti. Frá stofnun golfklúbbsins hefur Ársæll verið ötull og ómissandi starfskraftur og hefur hann bætt við eigin bústörf lengri vinnudegi á golfvellinum en hægt er að ætlast til að einn maður geri, jafnvel þótt hann væri á bezta aldri.
Það sýnist þó ekki há Ársæli, að hann er nálega jafn gamall öldinni; 76 ára, og mættu ýmsir aldarfjórðungi yngri, öfunda hann af þrekinu. Sjálfum þykir honum ekki svo mikið til þess koma. Hann þekkir ekki annað en vera fílhraustur og hann hefur aðhyllst þá kenningu um dagana, að vinnan sé guðs dýrð, eins og Halldór Laxness segir einhversstaðar, og guðsdýrðin verður aldrei meiri en á vorin, þegar helzt þarf að gera allt í senn: Bera áburð, hengja upp grásleppu, slá brautir og flatir á golfvellinum og sinna lambfé. Á vorin og sumrin er Ársæll kominn til starfa um sexleytið á morgnana og heldur sínu striki frameftir deginum fyrir því.
Eftir tveggja ára búskap á Tóftum við Grindavík fluttist Ársæll með fjölskyldu sína að Sveinskoti á Hvaleyri, sem hefur orðið honum kærastur samastaður; svo samgróinn er hann eyrinni, að hann er líkt og hluti af ásýnd staðarins.
Um það leyti sem þau hjón fluttu þangað inneftir, voru fimm bæir á Hvaleyri: Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyri, Vesturkot og Halldórskot. Nú var mun landþrengra en á Tóftum, en túnið var og er grasgefið og hann gat haft 7 kýr, 40—50 fjár og einn vagnhest. Ekki var þó alveg heyfengur handa þeirri áhöfn, en hér var Ársæll kominn í tölu mjólkurframleiðenda. Mjólkin var sótt til Hafnarfjarðar og fór í samsöluna í Reykjavík. En jafnframt stundaði Ársæll vinnu hjá Olíustöðinni í Hafnarfirði þegar tími gafst til. Það fór vel um þau í Sveinskoti og þau fundu, að þarna áttu þau heima. Þeim Ársæli og Hansínu varð auðið þriggja dætra og tveggja sona. Annar sonanna drukknaði af Grindvíkingi, en Grímur sonur þeirra er einn af grásleppukóngunum svonefndu við Hafnarfjörð.
Þáttaskil urðu í búskap Ársæls í Sveinskoti urðu þegar Golfklúbburinn Keilir fékk Hvaleyrina til umráða.
Hvaleyri – túngarður.
Þegar það var á döfinni, kvaðst Ársæll hafa kviðið fyrir þeim umskiptum, sem hlutu að verða, án þess þó að hafa hugmynd um, hvað þar var á ferðinni. Það fór þó svo, að Ársæll varð nánast ómissandi starfskraftur fyrir þennan félagsskap og óhætt að segja, að hann er tengdur honum sterkum böndum. Það var enda að vonum og verðleikum, að Ársæll var sæmdur heiðursmerki Keilis á tíu ára afmæli klúbbsins á þessu ári.
Fyrir tveimur árum urðu enn þáttaskil. Þá fluttust þau hjónin úr gamla húsinu í Sveinskoti í sambýlishús við Suðurgötu í Hafnarfirði. Þau voru heppin með sambýlisfólk, en þetta voru aungvu að síður mikil viðbrigði og Ársæll kveðst ekki beint geta sagt, að hann eigi þar heima. „Ég á fyrst og fremst heima á Hvaleyrinni,“ segir Ársæll, „af þeim stöðum sem ég hef búið á, hef ég kunnað bezt við mig þar“.
Ársæll lést 23. febrúar árið 1998.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 6 nóv. 1977, bls. 8-9 og 16.
Hvaleyri – uppdráttur.
Eldstríð Hafnfirðinga – Gísli Sigurðsson
Gísli Sigurðsson fjallar um „Eldstríð Hafnfirðinga“ í Þjóðviljanum árið 1960. Greinin er sú fyrri af tveimur um sama efni:
„Fyrr á tímum háðu Hafnfirðingar baráttu við eldinn, slíka að henni verður ekki betur lýst er með orðum mannsins er bezt hefur kynnt sér það mál: „Það var heimsstríð“. Maður er nefndur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn í Hafnarfirði. Í tíu ára hefur hann varið hverri frístund til þess að grafa úr gleymsku og forða frá glötun fjölmörgu úr sögu Hafnarfjarðar, sem ella hefði glatazt. Hann segir hér húsmæðrum er nú kveikja ljós og eld með snertingu við rafmagnshnapp (og fá vonandi enn fleiri slíka hnappa og aukna sjálfvirkni í eldhúsin) frá eldstríði formæðra þeirra.
Sögufélag mun ekkert vera til í Hafnarfirði (en örfáir Hafnfirðingar í Sögufélagi Ísfirðinga), en saga Hafnarfjarðar kom út á aldarfjórðungsafmæli Hafnarfjarðar sem kaupstaður árið 1933. Kjartan Ólafsson flutti tillögu í bæjarstjórninni um ritun slíkrar sögu og Sigurður Skúlason magister var ráðinn til verksins og fékk hann ekki nema tvö ár til þessa verks og því ekki að vænta að hann gæti grafið allt upp.
Gísli Sigurðsson lögregluþjónn hefur eytt til þess öllum frístundum sínum í tíu ár að safna til varðveizlu ýmsu er bregður ljósi yfir lífsbaráttu og störf fólksins á þessum stað. Hvort Hafnfirðingar meta þetta starf að verðleikum fyrr en löngu eftir að Gísli er genginn og grafinn skal ósagt látið, en seinni tíma menn verða honum þakklátir. Fyrir tilviljun komst ég á snoðir um þessar rannsóknir Gísla og spurði hann því nánar um málið.
— Ert þú innfæddur Hafnfirðingur, Gísli?
— Nei, ég kom hingað 1911, stráklingur með foreldrum mínum, en fram að þeim tíma voru þau vinnuhjú austur í sveit.
—En samt ert það þú sem reynir að varðveita þætti úr sögu Hafnarfjarðar. Er langt síðan þú byrjaðir á því?
— Það var á miðju sumri 1950 að ég byrjaði á þessu, en síðan hef ég notað allar frístundir í þessu augnamiði.
— Hvernig hefur þú unnið að þessu?
— Ég hef bæði safnað munnlegum heimildum gamals fólks í bænum og einnig farið í gegnum ógrynni af prentuðum heimildum. Ég hef fengið um hálft annað hundrað viðtala við gamla Hafnfirðinga, lýsingu á 50 gömlum húsum og um hundrað gamalla bæja, torfbæja og timburbæja. Ég hef einnig fengið nokkrar lýsingar á lóðum, annars var lóðaskipunin gamla fremur lítið breytt fram til þess að ég kom til Hafnarfjarðar. Nokkuð hef ég fengið af þjóðsögum, en það er ekki mjög mikið af þeim hérna.
— Hvernig þjóðsögur eru það?
— Huldufólkssögur helzt, en þó eru til nokkurs konar draugasögur, — og nú brosir Gísli kankvíslega um leið og hann heldur áfram: eins og t.d. þegar Ólöf gamla hálfhrakti hann Geira bróður útúr Undirhamarsbænum á gamlárskvöld 1923. Það mun vera ein yngsta fyrirburðasagan hér í bæ. Gamlir menn sögðu mér að þetta hefði ekkert verið og röktu flest slíkt til missýninga. Í þessum viðtölum við gamla Hafnfirðinga hef ég komizt töluvert inn í lífsbaráttu fólksins, t.d. eldiviðaröflun, — það var heimsstríð að hafa í eldinn.
— Já, segðu mér eitthvað frá því stríði.
— Flestir urðu að taka upp mó inni í Hraunsholtsmýri og bera móinn á sjálfum sér suður í Hafnarfjörð. Þar af eru nöfn „Hvíldarklettanna“ við veginn í hrauninu komin. Nú er búið að brjóta þá alla niður í veginn nema einn. Þar settist fólk til að hvíla sig undir mópokunum. Svo var verið að hirða þöngla og allskonar rek í fjörunni. Þá fóru menn líka í hrísmó upp um allt og rifu hrís og mosa svo til landauðnar horfði. En það var líka til fólk sem ekki þurfti að standa í þessu stríði. Kaupmennirnir keyptu t.d. flestir um 40 hesta af mó árlega og létu flytja að sér. Þeir sem áttu skip fóru fyrir Álftanes á haustin og fluttu móinn sjóleiðis. Þeir urðu að velja sér sérstaklega gott veður því bátarnir voru svo hlaðnir. Þeir settu spýtur upp með borðstokkunum og þverslár þar á milli og þannig urðu bátarnir háfermdir. Stundum þurftu þeir því að hleypa upp á Álftanes á heimleiðinni til þess að forða mönnum og bátum frá því að sökkva.
— Var allur mór sóttur í þessa mýri?
— Nei, nokkuð fékkst af mó í Firðinum sjálfum og Hafnfirðingar fóru líka alla leið inn í Nauthólsvík til þess að taka upp mó þar. Á þrem stöðum hér í Hafnarfirði var aðallega hægt að fá mó. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn er nú, þar var mórinn 18 stungur. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu. Og í mýrinni hjá Brandsbæ var einnig mór, þar var hann 6 stungur. – Í Sjávarmýrinni náði mórinn talsvert niður fyrir sjávarmál og upp í hallann hjá Kaldárstígnum gamla, þar man ég eftir mógröfum.
— Já, Kaldá, það varð nokkur saga af henni.
— Já, gamla Kaldá er löngu horfin, en þar var reist fyrsta gosdrykkjaverksmiðja á Íslandi. Jón Þórarinsson skólastjóri lét byggja hana og hún mun hafa starfað í 20 ár, en þegar hann seldi tók Milljónafélagið við.
— Milljónafélagið sem Thor Jensen tapaði minninu hjá?
— Nei, þetta var annað milljónafélag. Pétur J. Thorsteinsson o.fl. voru með það, en þetta milljónafélag fór einnig á hausinn. Jensen missti minnið svo gersamlega hjá hinu milljónafélaginu að hann gat með engu móti rámað í það að hann hefði átt heima í gamla Sívertsenhúsinu í Hafnarfirði í 1 eða 2 ár!
En svo við höldum áfram að tala um móinn þá fékkst sjávarmór vestur í Skerseyri. Ef fjörumölinni var mokað ofan af mátti ná bar í mó um fjöru. (Enn ein sönnun þess hve Suðurnesin hafa sigið). Og vestur í Víðistöðum var víst einhver móvera, en undir Víðistaðahvosinni er móhella — Víðistaðir eru eyja niðri í hrauninu sem það hefur runnið í kringum.
Hafnarfjörður.
— Það hefur verið erfitt stríð að halda eldinum lifandi.
— Já, t.d. þegar faðir Jóns Einarssonar verkstjóra fór í róðra kl. 2—3 á næturnar fór kona hans jafnsnemma til að sækja mósa í eldinn suður í Bruna, — það mun vera um 5 km gangur hvora leið. Þær fóru í flokkum kerlingarnar og báru sinn tunnupokann hver af mosa til baka.
Í hrísmó upp í Kaldársel var 7 km leið. Fólk fór það aðallega á næturnar, því eiginlega var það bannað — margbannað. Það var stuldur, en einhverju varð fólkið að brenna.
— Einar minn í Gestshúsum — nú er hann orðinn 90 ára — hefur sagt mér, heldur Gísli áfram, að þegar hann var 8 ára var hann látinn bera út mó úr kesti inni í Hraunholtsmýri á móti mömmu sinni. Þegar litlu fingurnir höfðu ekki lengur afl til að halda um börukjálkana var sett snæri um kjálkana, og aftur yfir háls drengsins, og þannig var hann látinn halda áfram unz síðasti hnausinn var kominn til þerris. Þá andvarpaði móðir hans (sem hafði eldiviðarleysi komandi vetrar í huga): Það vildi ég að kominn væri annar köstur!
Hafnarfjörður.
— En þrátt fyrir þetta er hann nú orðinn níræður, blessaður karlinn. Þeir sem höfðu útgerð létu þurrka hvern hrygg og hvern haus til að hafa í eldinn. Jón Einarsson verkstjóri sagði mér að þegar hann og bræður hans voru strákar voru þeir látnir bera allt slíkt frá útgerð föður síns upp í Einarsgerði (var þar sem Herkastalinn var byggður við Austurgötuna) en þar höfðu verið hlaðnir garðar til að þurrka á. Þorskhausar voru hertir til matar en hausar annarra fiska og hryggir til eldsneytis.
— Og hvernig voru svo eldhúsin sem öllum þessum mó, hnausum, mosa og hrísi var brennt í?
— Hlóðirnar í Hjörtskoti standa enn, en Hjörtskot mun vera eini gamli bærinn sem enn stendur að mestu í svipuðu formi og fyrr, nema sett hefur verið á hann járn. Eldhúsið og hlóðirnar standa enn. Vestur á Skerseyri er enn til gömul eldhústóft. Hún er um 2-1/2×2 álnir að flatarmáli.
—Og bæirnir sjálfir lélegir?
— Já, gömlu bæirnir voru margir af vanefnum byggðir. T. d. var bærinn sem Kristinn Auðunsson (kunnur forfaðir margra ágætismanna) þannig að það kom varla svo dropi úr lofti að ekki hripaði inn í bæinn. Það blæs og hripar gegnum veggi sem hlaðnir eru úr hraungrýti (hraðstorknu gosgrjóti) og því var hafður svelgur í gólfinu í mörgum þeirra bæja sem voru með moldargólfi. Þótt þekjan væri úr tvöfaldri snyddu lak í gegnum hana því grasrót tekin í hrauni er allt annað en mýrartorf. Bæirnir voru viðaðir með skarsúð og þar utanyfir var rennisúð. Sumstaðar voru settir listar á samskeytin og tjargað yfir, en annarstaðár var snyddu hlaðið utaná til skjóls. Bæirnir munu flestir hafa enzt illa. Þórnýjár- og Pétursbær voru t.d. báðir byggðir um 1890 en báðir tæplega mannabústaðir um aldamót. Bæir sem gerðir voru af slíkum vanefnum munu yfirleitt ekki hafa enzt nema í 10 ár.
En hvernig var með vatn – annað en lekann?
Hafnarfjörður.
— Það var líka stríð að hafa neyzluvatn á hraunbæjunum. Allt vatn var sótt í lækinn, hvar sem menn bjuggu í hrauninu. Þar sem Selvogsgatan er nú uppi á Hamrinum var lind, nefnd „Góðhola“ og sóttu Hamarsbúar þangað vatn sitt. Dý var þar sem Kaldá var byggð og þangað sóttu sunnanbyggjar vatn. En allir sem áttu heima fyrir vestan Læk sóttu vatn í Lækinn. María Kristjansdóttir sagði mér frá því að þegar hún var 8 ára, lítið vaxin og pasturslítil, var hún send vestan frá Sveinshúsi (nú Merkurgata 3) suður í Læk með tvær vatnsfötur. Hún fyllti þær í Læknum og rogaðist með þær vestur eftir, en þegar þangað var komið var oft harla lítið eftir í fötunum, því föturnar voru stórar en telpan lítil og var því alla leiðina að reka þær í og hella niður og utaní sjálfa sig. Konur fóru einnig með þvottinn í Lækinn. Læknar sem hingað komu höfðu orð á bví að hér væri þvotturinn hvítari en í Reykjavík, sem mun hafa stafað af því að þegar þvegið var í Laugunum þurfti að bera þvottinn langa leið í bæinn, en hér var hann líka skolaður úr köldu rennandi vatni. — Já, neyzluvatnið var sótt í sama lækinn og þvegið var í.
— Þú segist hafa fengið lýsingu á 100 bæjum, — og þá líka hvar þeir stóðu?
— Já, mér hefur tekizt að fá töluvert af upplýsingum um bæina og byggðahverfin og töluvert um fólkið sem í þeim bjó.
Það segir betur frá því í síðari grein. -J. B.“
Heimild:
-Þjóðviljinn 10. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.
Stafnes – Nýlenda – Bali
Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi. Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalaneshreppi en í dag Suðurnesjabæ. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í Jarðabókum undir lok 17. aldar. Stafnes er í Hvalsnessókn.
Stafneshverfi.
Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17. og 18. öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskupi fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10. september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.
Stafnesviti.
Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.
Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnafélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.
Ari Gíslason skráði eftirfarandi um Stafnes eftir Metúsalem Jónssyni: „Beint vestur af heimabæ í Stafnesi er hóll, sem heitir Vallarhúsahóll. Þar hefur verið mikil byggð hér áður fyrr. Ofan við efra húsið á Stafnesi í túni er hringur, nefndur Lögrétta. Ekki er vitað, hvað þetta var, og má geta þess, að hann er ekki eins í laginu og slíkir lögréttuhringir eru vanir að vera. Rétt vestur af húsinu eru allmiklar rústir, sem ekki er vitað um, hvað er. Austur af Eystrahúsinu í Stafnesi heitir Lodduvöllur, og í honum er Loddubrunnur.
Kvíslarhóll er gamall öskuhaugur við Loddu. Býli voru mörg hér og hvar, og örugglega eru sum þeirra farin alveg í sjó. Má t.d. nefna, að 1703 er talað um landssvæði, sem hét Snoppa. Nú veit enginn, hvar það hefur verið. Krumfótsbúð var gömul sjóbúð, sem ekki er vitað, hvar var.“
Austur-Stafnes.
Magnús Þórarinsson skrifaði um Stafnes í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi„: „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis. Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker.
Vestur-Stafnes.
Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár.
Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.
Stafnes – minnismerki um Jón forseta.
Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.
Stafnesviti og minnismerki um Jón forseta.
Víkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóð áður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.
Stafnes – Norðlingavör.
Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.
Spöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót. Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd. Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“ , og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik , sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.
„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og vo afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“
Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.
Má nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19): „1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson. – Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“
Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús, sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.
Stafnes – túnakort 1919.
Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi. Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi.
Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs. Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin.
Stafnes – Vallarhús.
Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér. Þó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. –
Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.
Stafnes – Grund.
Eins og áður segir er Bóndarif fram af Litlu-Rétt, en fram af Bóndarifi er Stafnesrif og stefnir til suðvesturs. Það nær lengst út allra skerja á þessu svæði eða fram undir miðið, Eldborg grynnri lausa, (sjá örnefni á Reykjanesi, í: Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi). Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin.
Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.
Stafnes – loftmynd 1954.
Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur. Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum. Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni. Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.
Stafnes – Stórarétt.
Eins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.
Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.
Stafnesbrunnur.
Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann. Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur. Efst uppi er
sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum.
Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.
Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.
Stafnes – Ögmundagerði.
Hvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.
Góðir Stafnesingar, sem enn eruð starfandi! Þið eruð afkomendur og eftirmenn mikilla formanna á Stafnesi. Má þar nefna Daða Jónsson og Eyleif Ólafsson, sem voru með þeim síðustu. Væntanlega setjið þið strax skautafaldinn á Urðarvörðu, til heiðurs við margar merkar minningar frá fornri útgerð á Stafnesi og til þess, að hún megi þekkjast frá óæðri systrum sínum um hraun og heiði. Hún heitir enn Urðarvarða og á að halda því nafni, þó flúin sé upp á Flatir.
Stafnes – sundmerki.
Sundmerkjum á Stafnesi á að halda við, svo lengi sem sögur eru til af einum merkasta útgerðarstað á Íslandi frá fyrri tíma.
Langt er enn til Djúpavogs í Ósabotnum, en þar endar Stafnesland. Eins og sjá má á öllum kortum, beygist landið austur á við fyrir sunnan Stafnestanga og er bogadregið allt inn í Ósa. Fyrst til suðurs, landsuðurs og loks í háaustur. Skal nú haldið með ströndinni og leitað örnefna.
Suður og inn af syðri Urðartánni er einkennilegt sker. Boði, sem á því fellur, heitir Svörfull. Sker þetta lítur helzt út fyrir að vera gamall eldgígur, því að í miðju skerinu er hylur, 10-12 faðma djúpur. Þegar Svörfull er uppi, fellur hann fyrst til norðausturs, svo í hring til suðurs og virðist þannig fylgja gígbarminum, og endar með því að falla beint á sjó út.
Í september 1881 strandaði á Svörful skip, 440 lestir að stærð, hlaðið ofnkolum. Menn björguðust í land á bátnum, komu heim að Stafnesi um kvöldið og voru þar um nóttina.
Stafnes – Hólakotsstekkur.
Um morguninn er komið var á fætur sást ekkert af skipinu, nema ofan á hæsta masturstoppinn. Brimið hafði fært briggskipið inn yfir gígbarminn, og það sokkið niður í hylinn í skerinu. Ekkert rak upp af því skipi, annað en það, sem lauslegt var á dekki og flotið gat. Enn eru menn á lífi, er höfðu glöggar frásagnir um þetta strand og frá því er sagt í Suðurnesjaannál (bls. 180), en síðar bætir annálshöfundur (sr. Sig. B. Sívertsen) við): „Skip það, sem sokkið hafði fyrir framan [sunnan] Stafnes með ofnkolin, var nú, þann 22. desember, loks selt við uppboð, þegar útséð var um, eftir brim, hroða og stórflóð, að ekkert mundi reka upp af því. Komst það í 45 krónur og þótti ráðleysa að kasta út meira fé í slíkan vonarpening, svo valtan.“
Sunnan við Urðina er í flæðarmáli stór og hár grashóll, sem heitir Stóri-Básendahóll. Framan við hann og aðeins nær Urðinni er sandblettur, sem heitir Gunnusandur. Framan við sandinn og eilítið sunnar eru svonefndar Róklappir, dálítill klapparbálkur; fellur ekki yfir þær á flóði nema brim sé. Framan við Róklappir er aftur lítil sandflúð, sem heitir Rósandur, en þar fram af er út í sjó kringlótt sker, sem heitir Rósker. Þar voru flestir selirnir skotnir af Stafnesbændum á fyrri tíð. Mér er sagt, að Eyvindur Pálsson, sem bjó á Stafnesi frá 1860, þar til tengdasonur hans Hákon Eyjólfsson tók við, hafi verið sundmaður ágætur. Hann hafði þann hátt á að synda með byssuna út í Rósker með útfalli og vera kominn, áður en selirnir lögðust upp á skerið. Vöruðust þeir ekki þessa veiðibrellu.
Stafnes – Bali.
Nokkru dýpra fram af Róskeri er skerjagarður, sem liggur til suðurs; heitir það einu nafni Básendasker. En víkjum nú aftur upp á land. 20 til 30 föðmum suður af StóraBásendahól er graslaus klapparhóll; heitir hann Litli-Básendahóll. Sunnan við þann
hól stóð Básenda-verzlunarstaður. Þar fram af er malartangi með sljóu horni. Á tanganum sér enn til rústa eftir meira en 150 ár, en 1799 var Básendaflóð. Sunnan við tanga þennan er ílangt lón; það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefir verið löng milli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Má enn sjá leifar af umbúnaði, hringjum og stólpum, sem var tinsteyptur í klappir og sker til þess að svínbinda skipin.
Varla hefir þetta verið góð og örugg höfn, eins og nokkrir hafa talið, en það vita kunnugir bezt, hve hollt er að vera á vélarlausum dekkbát inni á milli skerja sunnan við Stafnes í sunnanátt og hroða, þó að sumri sé. En stundum dróst afgreiðsla skipanna fram á haust, enda brotnaði þar skip 1669, albúið til siglingar, og tvö skip 1714, hlaðin fiski, segir Suðurnesjaannáll.
Stafnes – Nýlenda.
Skúli Magnússon landfógeti ræðir í sýslulýsingu sinni nokkuð um Básenda, þar segir svo: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. Í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrr nefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 í hinu síðar nefnda. Þarna lækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi … Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar. Aftur á móti er fiskverkunarstæði því betra kringum Stafneslendingu, einkum á Refshalabæjum svo nefndum. Að vísu hafa þeir lagzt í eyði síðan konungsbátarnir voru lagðir niður 1769. Þó mætti byggja þá upp aftur, ef þörf væri á, því að á Stafnesi hefir þótt fremst fiskiver á Íslandi um vetrarvertíð á fyrri tímum og allt fram að því ári. En síðan hefir sjósókn þorrið þar mjög.“
Stafnes – Heiðarbær.
Efalaust hefir útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi, sem annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19., þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita, að Stafnes væri í eyði um aldamótin 1800 (sjá um Básendaflóð eftir Vigfús Guðmundsson í Blöndu III, bls. 57). En á síðari hluta 19. aldar voru 20 til 25 stórskip gerð út á vetrarvertíðum af bændum á Miðnesi, og ætíð var Stafnes talið í fremstu röð, með þá merkismennina hvern fram af öðrum: Erlend Guðmundsson, Eyvind Pálsson og Hákon Eyjólfsson. Það hefir í annálum og öðrum ritum verið talað um útgerð og aflabrögð á Stafnesi, og yngsti annállinn, Suðurnesjaannáll, sem ritaður var á 19. öld, er fjölorður um mikil aflabrögð hjá Stafnesmönnum, enda var þar bezt til sóknar af Miðnesi á tíma áraskipanna.
Bátsendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík, en Brennitorfa var þar fyrir ofan. Þar höfðu Básendamenn brennur sínar. Stendur þar nú varða á grjótholti, en Torfan sjálf er örfoka. Sunnan við Brennitorfu er Draughóll og Draughólskampur með sjó fram til suðurs. Fram af kampi þessum er stór klettahólmi úti í sjó; heitir hann Arnbjarnarhólmi. Þar eru suðurtakmörk Básendahafnar. Sunnan við Draughólskamp er stórgrýtishryggur, sem heitir Kuðungavíkurkampur, og Sandvík sunnan hans heitir Kuðungavík. Enn er dálítill kampur og sunnan hans er Djúpavík, allstór. Þar nokkuð úti í víkinni er stór klettur einstakur; heitir hann Svartiklettur; hann er mið á einni fiskiholu. Stafnesinga. Ofan við Djúpuvík eru svo nefndar Dauðsmannsklappir.
Stafnes – Hólakot.
Sunnan við Djúpuvík er mjög langur hrauntangi, sem nær langt út í sjó; heitir hann Skarfurðartangi. Fyrir sunnan tangann er á löngu svæði bein urðarfjara; heitir það Skarfurð. Fram af Skarfurðartanga er sker eða flúð, er sjaldan kemur upp úr; heitir það Vefja. Sjávarhræringar á Vefju eru óvenjulegar, líkt og á Svörful. Sunnan við Skarfurð er stór djúp vík, sem heitir Stólsvík; hún dregur nafn af einkennilegum kletti þar úti í víkinni, nokkuð frá landi; hann líkist mest prédikunarstól og heitir Tómasarstóll, en ókunnugt mun vera nú, af hverju nafnið er til orðið. Oftast er stóllinn alsetinn skörfum með útbreidda vængi.
Sunnan við Stólsvík er þröngt og djúpt vik inn í klettana, kallað af Stafnesmönnum Norðurvik Þórshafnar. Þar sunnan við er klettarani, mjög stórgrýttur fremst, en grasi gróinn ofan; heitir það Þórshafnarbali. Hann er vesturhlið á löngum bás, er liggur til norðausturs inn í landið. Básinn heitir Þórshöfn. Það er hin fornkunna höfn verzlunarskipanna á síðari hluta 19. aldar. Af sýslulýsingu Skúla fógeta (Landnám Ingólfs, bls. 117) vitum við, að „leiðin inn að henni er 55 faðma breið.
Stafnesgarðar.
Mesta lengd innsiglingar er 170 faðmar, en breidd 51 faðmur, þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet [hér mun vera átt við Þórshöfn sjálfa frá mynni til botns]. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér á landi.“ (1601 var síðasta verzlunarár þeirra, því einokunin byrjaði 1602, sem kunnugt er). Skúli gjörir lítið úr þessari höfn, segir að hún sé „lítil og léleg og komi ekki heldur sjómönnum að liði.“ Svo virðist, að hún hafi lítið eða ekkert verið notuð á hans dögum.
Eigi er vitað með vissu, hvenær dönsku skipin byrjuðu að hafa þar hafnlegu; þó varla fyrr en Básendar lögðust niður. Leiðin inn á Þórshöfn er tvær vörður saman; stóð önnur í norðvesturhorni Þórshafnar, en hin uppi á heiðinni; heitir sú Mjóavarða (93) og mun enn vera uppi standandi, enda algengt mið í Stafnesdjúpi. Höfn þessi er svo þröng, að ekki varð komizt inn eða út á seglskipi, nema einstefnu leiði væri, og skipin varð að svínbinda á allar hliðar. Flest voru þar 5 skonnortur í einu, sem mér er kunnugt um. Þau lágu þar öll saman bundin, hlið við hlið, og vissi framstafn allra til hafs. Ætíð var stillt í þessum mjóa og langa bás, og sogadráttur furðu lítill, þó nokkurt brim væri, enda eru Þórshafnarsker fyrir framan og braut brimið á þeim.
Austurhlið Þórshafnar er langur hrauntangi, en austan hans er stór og breið vík; heitir hún Hvalvík. Þar eru sandleirur í botni og þornar þar á stóru svæði um stórstraumsfjöru.
Stafnes – Refamýri.
Smávik er vestast í Hvalvíkinni, gengur vikið inn í hrauntangann austanmegin framarlega, gegnt Þórshöfn; er það kallað syðra Þórshafnarvik. Vikið er þurrt um fjöru, en skemmtilegt sjávarvik á flóði. Frá viki þessu er á austurhlið hrauntangans, Hvalvíkur megin, stórgrýttur kampur, sem heitir Skeljaurð; nær hann inn að botni Hvalvíkur, en upp af sjálfum botni hennar eru grasbakkar.
Úti í Hvalvíkinni er Hvalvíkurhólmi, allstór og hár nokkuð; hann var grasi gróinn.
Út að honum liggur grandi, eða öllu heldur röð af smáskerjum, en rásir eru á milli og var þarna mikil flæðihætta, meðan sauðfé var margt, en Miðnes var talinn fjárríkasti hreppur á Suðurnesjum um næstliðin aldamót.
Allbreiður tangi austan Hvalvíkur er í daglegu tali nefndur Torfan, en mun heita Preststorfa. Við Torfuna er lending, nefnd Grímsvör öðru nafni Bárðarvör, en fram af Torfunni er stór klettur; heitir hann Hestaklettur (101), en örskammt frá er Selsker. Af Torfunni er skemmst sjóleið yfir Ósana. Fólk, sem ferðaðist gangandi milli Miðness og Hafna, einkum prestarnir, kom oft á Torfuna og kallaði til Kirkjuvogs, sem vel heyrðist. Var fólkið þá sótt og flutt yfir á bát.
Vallarhúsabrunnur.
Það slys varð í þessum flutningum árið 1748, er ég tek hér upp úr Suðurnesja annál Sig. B. Sívertsen, orðrétt: „Fimmta sunnudag í föstu drukknaði presturinn á Hvalsnesi, séra Árni Hallvarðsson, er hann ætlaði til embættisgjörðar að Kirkjuvogi. Hafði hann farið af svo nefndri Prestatorfu í góðu veðri. En þeir, sem fluttu hann, höfðu farið of nærri skeri því, er Selsker kallast; hvirflar á því, en kemur upp úr um fjöru, en á móti því er klettur stór, er Hestaklettur kallast. Þar á milli liggur leiðin og allnærri klettinum, en þeir héldu nær skerinu en mátti.
Reisti sig þá upp boði, er hvolfdi bátnum, er hann kenndi grynninga. Drukknaði þar prestur og sjö menn aðrir. Var einn þeirra Einar, sonur Hákonar í Kirkjuvogi, bróðir Vilhjálms. Einn eða tveir menn komust af, og þeir heyrðu prest segja, þegar hann sá, hvernig fara mundi: „Herra Jesú, meðtaktu sálir okkar allra.“ Nýlega hafði þá síra Árni verið búinn að taka af jólagleðina, sem haldin var á Flankastöðum, nauðugt mörgum. Hann var 36 ára gamall“.
Nýlendubrunnur.
Austan við Torfuna er allmikil sandvík; í vík þessari er stór og hár grashólmi, sem heitir Einbúi (103), umflotinn á flóði. Hann er áberandi mið í Stafnesdjúpi. Mjög skammt fram af Einbúa er annar hólmi lítill, grasi gróinn; hann heitir Runkhólmi. Í öllum þessum hólmum, Hvalvíkurhólma, Einbúa og Runkhólma, var æðarvarp, meðan um var hirt. Frá Einbúa er sjávarmál skorið af smávikum en grjótranar á milli, allt að tanga þeim, sem heitir Fremri-Skotbakki.
Það bar við á hvítasunnudag 1881, að timburskip, mannlaust, tröllaukið að stærð, eftir því er þá var kallað, rak að landi í Ósum. Heyrði ég mikið talað um skip þetta á ungdómsárum mínum, enda var þá sem óðast verið að byggja baðstofur, timburhús, sjávarhús (timburskúra) og alls konar útihús úr efnivið þessum. Tvær eru heimildir, mér tiltækar, um skip þetta, en því miður ekki samhljóða um stærðina.
Stafnes – Refatjörn.
Ólafur Ketilsson hreppstjóri í Höfnum (hann var 16 ára, er strandið skeði, og vann við skipið) skrifaði skemmtilega og fróðlega grein um skip þetta í Lesbók Morgunblaðsins 44. og 45. tbl. 1936. Hann segir (þrisvar) í grein sinni, að skipið hafi verið 360 fet á lengd og 65 fet á breidd. Til samanburðar má hafa að nýi Gullfoss okkar er 355 fet á lengd, stafna milli, en 47 1/2 fet á breidd. – Hins vegar segir séra Sigurður B. Sívertsen í Suðurnesjaannál (sjá Rauðskinnu 1953, bls. 175) að eftir því sem hann komist næst; var lengd þessa skips 128 álnir (256 fet) og á breidd 27 álnir (54 fet) en setur svo milli sviga: allt að 30 álnir. Svo virðist, að Ólafur Ketilsson viti málið, en séra Sigurður hafi sennilegustu ágizkun eftir annarra sögn. Ólafur segir, að sér teljist svo til, að í skipinu hafi alltaf verið um 100 þúsund plankar, fyrir utan alla plankabúta og fleira, að meðaltali 16 feta lengd, 8 þumlunga breidd og 3 þumlunga þykkt. Þetta „fleira“, sem Ólafur telur, var afarstór borðabunki aftast í miðlestinni og einnig í sömu lest afarstór – eins og hann orðar það – hlaði af hvítum múrsteini, fleiri þúsundir að tölu, sem allur fór í sjóinn og loks var seglfesta skipsins silfurgrjót, sem talið var af sérfræðing (útlendum) meira virði en skipið sjálft með öllum öðrum farmi, það fór einnig í sjóinn. Skipið hét James Town.
Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.
Því er á þetta minnzt hér, að kjölsvínið af skipi þessu með hluta af annarri síðunni hefir legið og liggur enn við Skotbakka, en mun nú vera sokkið í sand eða leir.
Nokkurn spöl austur af Fremri-Skotbakka er annar tangi, sem heitir Innri-Skotbakki. Skammt innar er gamli Kirkjuvogur. Þar sér aðeins fyrir rústum, en engin önnur merki um fyrri byggð. Til marks um það, hve Vogur (107a) (gamli Kirkjuvogur) var mikil jörð, skal þess getið, að árið 1407 selur Björn Þorleifsson hirðstjóri manni einum, er Eyjólfur hét Arngrímsson, Voga á Rosmhvalanesi, sem þá var kirkjustaður, fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. (Árb. Esp. 2, 68.)
Nokkur fróðleiksauki er þáttur jarðabókar (Á. M. & P. Víd.) 1703. Þar segir svo: „Gamli Kirkjuvogur. Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé, hvort hún liggi í Kirkjuvogs- eða Stafneslöndum, item, að munnmæli séu, að Kirkjuvogsbær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hvor bær verið. Kirkjuvogur sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því so vel túnstæðið sem landið allt um kring af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka að vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn og er hér ágreiningur um landamerki.“
Stafnesvegur.
Árið 1703 hefir gamli Kirkjuvogur legið í auðn yfir stórt hundrað ár, segir þar, þ. e. frá 1580 eða nokkru fyrr. Þegar hér er komið, er orðið grónara heiðarland með lyngklóm niður undir sjávarbakka. Útfiri er mikið innst í Ósum og sandleirur allmiklar um stórstraumsfjöru.
Djúpivogur er nyrzti, innsti og lengsti vogurinn í Ósabotnum. Þar voru landamerki milli Stafness og Hafna og um leið hreppamörk. Þeim mun þó hafa verið lítilsháttar breytt á síðari árum.
Yfir margt er að líta á langri ævi og umbreytingasamri. Frá strönd ég stari og sé í fjarska tímans: sjóinn og fjöruborðið með öllu Miðnesi, eins og rósótta ábreiðu, síbreytilega eftir sjávarhæð og ljósbroti sólar. Á lognblíðum dögum, þegar síkvik báran lék við þarann og sandinn, fóerlan söng sitt ljúfasta lag og æðurin ú-aði á útmánuðum, var yndislegt að vera ungur og lifa í óskadraumum, sem aldrei rættust. – En svo dró bliku á loft og bakka við hafsbrún. Þau sendu sterkan hvínandi storm, þá varð dimmt undir él, sjórinn úfinn og ægilegur, eins og reiður jötunn, er Hræsvelgur blakaði arnarvængjum sínum. Þannig er, í fáum orðum, myndin á spjaldi minninganna.
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Stafnes
-Rauðskinna (Sögur og sagnir), IX-X bindi, ritstj. Jón Thorarensen, Reykjavík, 1958.
-Landið þitt Ísland, 4. bindi S-T, Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson, Reykjavík 1983
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni.
Stafnes – lögrétta.
Hólmur – dys – Litla-Hólmsvör – Prestsvarða – Árnarétt – Ellustekkur
Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru, upp á heiðina fyrir ofan Leiru að Prestsvörðunni, sem þar er. Frá henni var haldið vestur fir heiðina ofan við Langholt að Árnarétt, fallegri fjárborg, og síðan gengið til norðurs að Ellustekk.
Litla-Hólmsvör.
Stóri-Hólmur er fornt höfuðból í Leiru. Talið hefur verið að Steinunn gamla, frændkona Ingólfs Arnarsonar hafi búið á Stóra-Hólmi á landnámsöld. Að sjálfsögðu deila menn um hinn eiginlega dvalastað hennar í umdæminu, en skv. Landnámu þáði hún Rosmhvalanesið allt af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, fyrir forláta kápu. Það var altalað þá og virðist lengi hafa verið í minnum haft, enda vildi hún að kaup kæmu fyrir gjafakaupin góðu. Í landi Stóra-Hólms er sæmilegur golfvöllur landsins rekin af Golfklúbbi Suðurnesja. Vestan við Stóra-Hólm er bátslaga óræktarsvæði. Hleðsla hefur verið umhverfis og lengi vel var bletturinn girtur af. Sú sögn var um blett þennan að þar væri fornmaður grafinn og honum mætti ekki raska. Sumir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn með haugfé sínu, en ekki er vitað til þess að gengið hafi verið úr skugga um það.
Enn vestar er fallega hlaðinn brunnur. Utar og neðar er Litla-Hólsmvörin, ein tilkomumesta lending á ströndinni. Úr henni hefur verið kastað stóru sjávargrjóti með takmörkuðum tækjabúnaði.
Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.
Gengið var upp frá Stóra-Hólmi og upp fyrir æfingavöll golfklúbbsins ofan vegar. Skammt ofan við vesturjaðar hans er Prestsvarðan. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum.
Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum.
Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.
Árnarétt.
Skammt frá vörðunni er gamla leiðin yfir í Garð frá Keflavík. Önnur leið var norðar, framhjá fjárborginni vestast á Berghólum. Hún sést enn mjög vel á köflum, einkum næst borginni.
Strikið var tekið til vesturs, ofan við Langhóla. Austast á þeim er stór ferhyrnd varða. Í fyrstu gæti hún hafa verið leiðamerki inn í vörðina við Hólm, en þarna mun vera merkilegt fyrirbæri er nefnist Ranglát. Var dregin sjónlína úr henni yfir fjörðinn. Veiðitakmarkanir voru beggja vegna línunnar. Árnarétt er í heiðinni nokkru vestar. Hún er hringlaga og vel hlaðin. Litlar upplýsingar virðast vera til um mannvirkið, en það gefur Staðarborginni lítið eftir. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt.
Ellustekkur.
Gengið var til norðurs, niður heiðina, að Hríshólavöru og áfram niður að Elínarstekk. Þetta er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er þessu nafni, stundum þó Ellustekkur. Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Ellustekkur.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr. Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=219
Hólmur – örnefnakort; ÓSÁ.
Másbúðir – Nesjar – Lönd – Skinnalón – Bursthús
Másbúðir, Nesjar, Lönd og Bursthús eru jarðir á Miðnesi austan Hvalsness, auk Skinnalóns.
Másbúðir.
Jarðirnar Másbúðir, Nesjar, Lönd, Skinnalón og Bursthús eru vestan Hvalsnesjarðanna í Miðneshreppi. Másbúðir eru á skeri sem hefur brotnað frá landi í langan tíma. Húsið hefur verið mjög stórt, en lengdin mælist um 28 m og breiddin um 18 m. Tóftin hefur a.m.k. átta herbergi, tvö þeirra sem snúa í suðsuðvestur mælast mjög stór og hefur hugsanlega annað þeirra verið tvö herbergi. Rústin snýr V-A.
Í Náttúrufræðingnum 1947 fjallar Ólafur við Faxafen um „Hæð sjávarborðs við strendur Íslands“ Þar segir m.a. um Másbúðir:
Másbúðir.
„Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer jretta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.“
Másbúðir.
Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Jarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín (1923-1924) er Másbúða getið. Skv. bókinni þá eru Másbúðir komnar á eyju. Þar segir: „Heimræði árið um kring og lending góð, og gánga skip ábúanda þó honum hentar. Þar gengur og eitt kóngs skip, áttæríngur, undirgiftarlaust, og viðheldur ábúandinn verbúðinni, sem því fylgir betalíngslaust. Og geta þessi skip naumlega viðhaldist fyrir voveigflegum og sífelldum sjáfaryfirgángi, sem að bæði grandar vergögnum, húsum og skipum.
Másbúðir – vegghleðslur.
Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjáfar ágángi, og hefur sjórinn fyrir innan sjötíi ár brotið sig í gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarffast land, so að nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, so að nú er þar ekki fært yfir með stórstraumsflæði nema með brú, sem að brim brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans, sem á fastaland þarf að sækja mestan hluta heys um sumar, item vatn, grasnautn alla, peníngsins nytkan um sumar og þvílíka tilfæríng. So að heima við bæinn er vatn ekkert vetur nje sumar nema fjöruvatn alleina, sem margoft á vetur ekki næst fyrir sjáfarísum.“
Magnús Þórarinsson fjallar um Másbúðir og Nesjar í skrifum sínum um „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi“:
„Fyrir sunnan Skjólgarðsbakka er nokkuð langur og breiður bás inn í landið; heitir það Melabergsá. Hún er þó ætíð þurr nema í hlákum á vetrum. Þá rann þar fram dálítill lækur af mórauðu leysingarvatni ofan úr heiðinni; gat lækurinn orðið farartálmi í svip, en sjatnaði fljótt.
Lindarsandur neðan Melabergs.
Suður frá Melabergsá að Nesjatúngarði eru grasflatir; heitir það Fit; hefir þar verið kúahagi Nesjamanna. Standa þar oft tjarnir á vetrum. Sunnan við ána framarlega stendur Másbúðarvarða, gild og gömul mjög, á háum kletttanga, sem er norðvestur úr Fitinni. Er tangi þessi enn samfastur við land, en sjór og vindur eyðir grassverðinum frá báðum hliðum, og innan ekki mjög langs tíma mun Másbúðarvarða standa á klettinum úti í sjó á flóði. Sunnan við vörðuna er breitt sandvik, en sunnan við vikið hefir staðið fjárrétt Nesjamanna, stór og vel hlaðin; dregur vikið nafn af réttinni og kallast Réttarvik.
Másbúðir, Nesjar og Lönd – uppdráttur ÓSÁ.
Fyrir neðan og norðvestan réttina eru allháar klappir, heita þær Réttarklappir. Sunnan við Réttarklappir gengur út mjög langt rif, enda heitir það Langarif. Norðan í Langarifi, skammt framan við Réttarklappir, er stór og hár klettur, ljótur og hrikalegur, ílangur og söðulbakaður; heitir hann Svartiklettur. Lítið eitt utar er stórt og hátt sker, fast norðan við rifið; heitir það Illasker. Út í Illasker má ganga þurrum fótum um fjöru; sækir sauðfé mjög í skerið, því þar eru söl, en af því leiðir ákaflega flæðihættu. Líklega hafa öll „Illusker“ á Miðnesi fengið nafnið vegna flæðihættu.
Utan við Réttarklappir, norðan við Svartaklett, en innan við Illasker, er bás inn í fjöruna eða djúpt lón, varið fyrir brimi og öllum áttum, nema norðan; ekki hefi ég heyrt nafn á lóni þessu, en mönnum hefir dottið í hug, að þar mætti hafa lítinn vélbát, að minnsta kosti að sumri til, ef tryggilega væri umbúið að legufærum.
Langarif greinist í tvennt að utanverðu. Norðurálman fékk nafnið Castorsrif, eftir að kútter Castor strandaði þar 19. marz 1903. Stór og hár kúlumyndaður haus er fremst á rifi þessu; ber hann nafnið Castorshaus, enda strandaði skipið rétt innan við hausinn.
Másbúðir, Nesjar og Lönd – loftmynd 1954.
Fremst á syðri álmunni eru stórar og háar klappir, sem aldrei fellur yfir, sléttar á yfirborð, en þverhníptar utan allt í kring, fallegar og áberandi tilsýndar. Þær heita Sundklettur. Sunnan við Langarif, alla leið frá Sundkletti upp að norðvestur horninu á Nesjatúni, liggur svo nefndur Langós; hann er grunnur og þornar alveg um stórstraumsfjöru. Hann var þó stundum notaður fyrir smábáta um vor og sumar, en uppsátur haft við Garðsendann, eins og það var kallað, en það var neðri endinn á túngarðinum norðan við Nesjatúnið. Sunnan við uppsátrið var allhá klöpp og út af henni lágar fjöruflysjar. Er nú komið að Másbúðarhólma.
Þó of lítið sé ég kunnugur sögu Másbúða, sýnist mér þó, að það hafi verið fornmerkur staður og stórbýli á sinni blómatíð. Þar var oftast fjölmennt, einkum á vertíðum. Þar var konungsútgerð, við Másbúðir er sundið kennt, og sundvarðan stóra og myndarlega, sem enn stendur, umhirðulaus um langa tíð, stendur á gamla Másbúðalandi.
Másbúðir, Nesjar og Lönd – loftmynd 1970.
— Í manntalinu 1703 eru 11 manns á Másbúðum, en Nesjarnar og Melaberg ekki á skrá, enda allt í eyði. Másbúðir hafa verið höfuðbólið á þessum slóðum á fyrri tíð. En landbrot hefir orðið ákaflegt þarna. Másbúðarhólmi, sem nú er stór eyðiklettur úti í sjó, 80—100 faðma frá sjávarkampi fyrir ofan, var áður áfastur við land og virðist hafa verið þar víðátta graslendis, sem nú er þangi vaxin fjara. Við skulum láta jarðabókina frá 1703 lýsa
því, hvernig þá var umhorfs á þessum slóðum, og taka aðeins það er máli skiptir í þessu efni.
„Maasbuder.
… heimræði árið um kring og lending góð og ganga skip ábúanda, þá honum hentar Þar gengur og eitt kongsskip, áttæringur og geta þessi skip naumlega viðhaldizt fyrir vofveiflegum og sífelldum sjávar yfirgangi, sem að bæði grandar vergögnum, húsum og skipum.
Másbúðir, Nesjar, Lönd og Bursthús – túnakort 1919.
… Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjávar ágangi og hefir Sjórinn fyrir innan sjötíu ár brotið sig í gegn um túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo að nú stendur bærinn á umflotinni eyju og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo að nú er þar eigi fært yfir með stórstraumsflóði nema með brú, sem hún brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans, sem á fastaland þarf að sækja mestan hluta síns heys um sumar, item vatn, grasnautn alla, peningsins nytkan um sumar og þvílíka tilfæring Svo að heima við bæinn ekkert vatn er vetur né sumar nema fjöruvatn alleina, sem marg oft á vetur ekki næst fyrir Sjávarísum.
… Hagar öngvir vetur né sumar nema fjaran og það, sem ábúandinn leigir af eftirskrifaðri eyðijörð …
Gömlu Nesiar.
Norður-Nesjar – tóftir.
Gömul hjáleiga frá Másbúðum, langar stundir í eyði lögð, og þykist ábúandinn ekki fyrir utan sinn skaða mega hana aftur upp byggja vegna grasleysis.
Norður Nesiar.
Forn eyðijörð, hefir legið í auðn yfir hundrað ár. Eigandi Kirkjan á Hvalnesi, og er jörðin aldeilis yfirfallin með sandi og stórgrýti og aldeilis óbyggjandi. Þar er hvorki vatn né lending að gagni.
Norður-Nesjar, sem var eign Hvalsneskirkju, hafa aldrei byggzt aftur, en þó má enn sjá minnjar þeirra í hrauninu (uppblæstrinum) lítinn spöl suður og austur frá Melabergsá.
Það var sögn eldri manna fyrir 1900, að Nesjar hefðu áður staðið á túnbungu þeirri, sem nú er norðan undir, sem næst miðjum, markagarði þeim, er enn stendur og skilur Landa- og Nesjatún vestanverð. Skilst mér, að þar hafi staðið eyðibýlið „Gömlu-Nesjar“, sem var hjáleiga frá Másbúðum.
Norður-Nesjar – garður.
Jarðabók frá 1703 segir ekki, að Gömlu-Nesjar séu „aldeilis yfirfallnar af sandi og grjóti“ eins og hún orðar það um Norður-Nesjar og Melaberg, heldur hitt, að ábúandi Másbúða vilji ekki byggja hjáleiguna vegna grasnytjanna, sem hann telji sig ekki mega missa. En hjáleigunni hefir efalaust fylgt túnskák úr Másbúðatorfunni, sem mun hafa verið allt núverandi Nesjaland með túni út að Hólma og efalaust á flesjunum norður að Langós og suður að Landa mörkum.
Árið 1758 eru Nesjar komnar í ábúð, og getur hafa verið fyrr, en bækur vantar frá því tímabili. Þar búa þá Þórður og Geirlaug Birtingsdóttir (bætt við síðar í bókina). Verður ekki meira um þau sagt, því föðurnafn bónda vantar og aldur. Sama ár búa á Másbúðum Erlendur Jónsson og Guðlaug Þóroddsdóttir með 10 manns í heimili, á ýmsum aldri. 1762 er Erlendur þessi og Guðlaug komin að Nesjum og hafa líklega flutzt þangað 1759, því þá hverfa Másbúðir úr sóknalýsingu Hvalsnesprestakalls og er aldrei getið síðar fyrr en 1849, að þar eru Jón Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir, fyrstu búendur á Másbúðum eftir 90 ára auðn.
Másbúðir – gengið um steinbrúna milli lands og Másbúðarhólma.
Það er auðsætt, að þegar sjórinn hafði afhólmað býlið, var forn gifta Másbúða um garð gengin. Margir voru búendur á Másbúðarhólma síðari hluta 19. aldar, allir í tómthúsi; flestir bjuggu stutt þar og stundum var Hólminn í eyði.
Síðasti búandi á Másbúðum var Jón Jónsson f. í Kvíavöllum í Kirkjubólshverfi 24. ágúst 1847. Foreldrar hans voru Jón Oddsson og Guðrún Skíðadóttir, Loftssonar, hjón, búandi þar. Bústýra Jóns á Hólmanum, eins og hann var þá oftast nefndur af nágrönnum, var Guðrún Níelsdóttir f. 8. júlí 1843 í Hólmahjáleigu í Landeyjum, en var uppalin á Arnarhóli. Foreldrar hennar voru Níels Þórarinsson og Sigríður Guðmundsdóttir. Guðrún var ekkja Eyjólfs Eyjólfssonar í Norðurkoti á Miðnesi, er hún fór að búa með Jóni. Þau bjuggu á Hólmanum frá 1884 til 1895 en byggðu þá nýbýlið Akra í suðausturhorni á Landatúni, enda hét sá túnpartur Akrar, sem þau byggðu á.
Básbúðir – áletrun.
Einn son áttu þau Jón og Guðrún, er Guðjón heitir, hann er fæddur í Höfnum suður, en ólst upp á Hólmanum. Hann er nú (1955) 73 ára að aldri (f. 10. 3. 1882) búsettur í Reykjavík, elzti starfandi sjómaður þessa lands og var af því tilefni heiðraður nýliðinn sjómannadag. Guðjón einn er enn á lífi af öllum þeim fjölda manna, sem átt hafa heimili á Másbúðum.
Másbúðarhólmi er einn samfelldur klettur, að mestu þverhníptur utan, nema nyrðri hluti austurhliðar, þar er malarhalli. Lengd Hólmans frá norðri til suðurs mun vera 80—100 faðmar, en breidd 30—40 faðmar. Bærinn stóð á miðjum Hólmanum, þar sem hann er hæstur, en að öðru leyti ekki hærri yfir sjávarmál á stórstraumsflóði en svo, að í óvenju-háflæðum með foráttu brimi og útsunnan fárviðri gengu sogin yfir allan Hólmann og fossuðu niður að innanverðu, en sjórokið buldi á þekju baðstofunnar, svo að full ástæða var til að óttast að allt riði niður þá og þegar, enda var þá flúið á land undir næstu nótt. Þó hefir flóð aldrei alveg grandað bænum, svo vitað sé.
Másbúðir – áletrun.
Varla verða nú séðar minnjar eftir forna útgerð á Másbúðum. Þó er vik eitt inn í klappirnar, nefnt Gamla-Vör eða Kóngsvör. Sáust þar kjölför í klöppunum fram undir síðustu aldamót, en munu varla greinast nú. Eitt ártal er höggvið í klappir þar — 16 hundruð og eitthvað —. Guðjón, sá er áður var nefndur, segist eitt sinn, rétt eftir 1890, hafa tekið sér fyrir hendur að róta upp í gömlum öskuhaug, sem var þar í námunda við bæinn, og fann þar heilmikið af brotnum krítpípum, en þær voru talsvert notaðar af reykingamönnum fyrrum, þær voru sélegar og ódýrar, en brothættar mjög. Einnig fann hann þar gamalt signet, en man ekki stafina; svo fór það í glatkistuna.
Másbúðarvör; Kóngsvör / Gamlavör.
Nesjabóndinn, Guðmundur Lafransson, fékk nokkrar heysátur af Hólmanum frá því hann kom þangað 1882, en það fór árlega minnkandi, því sjórinn brenndi holur í grunnan grassvörðinn á klöppinni, og um aldamót var hætt að nytja Hólmann.
Svo er að skilja á jarðabók 1703, að þar hafi eigi annað vatn verið en fjöruvatn. Brunnhola var þó til á síðustu árum byggðar þar, en vatnið varla nothæft vegna seltu; fjöruvatn rann þá enn með lágsjávuðu undan klöppunum, en reyndist eigi heldur gott. Varð því oftast að sækja vatn heim í Nesjabrunn.
Másbúðarvör á fjöru.
Það var sögn gamalla manna, er mundu þá tíma, að Sigurður. B. Sívertsen, merkisprestur á Útskálum, hafi um og eftir miðbik 19. aldar, gert út áttæring á Másbúðum fyrri part vetrarvertíðar, en tók skipið heim er netjavertíð byrjaði í Garðsjó. Hér var til systur að sækja um uppsátrið, en madama Helga Brynjólfsdóttir átti séra Jón Steingrímsson, sem fluttist að Nesjum, er hann hætti prestskap í Hruna (d. 1851).
Madama Helga bjó í Nesjum fram yfir 1880, að hún fór til Þórunnar systur sinnar í Kirkjuvogi og dó þar 1882.
Másbúðir – tóftir.
Fram um 1890 voru tveir smáir grashólmar eftir milli lands og Hólma, en eyddust þá óðfluga og voru algjörlega horfnir fyrir aldamót. Tvennar, fremur smáar klappir stóðu þá upp úr á venjulegu flóði og milli þeirra lá gangbrúin í þrennu lagi, hin fyrsta frá landi út í næstu klöpp, önnur milli klappanna, og hin þriðja út í Hólmann og var sú lengst. Ekki var brúin í beinni línu, því klappirnar stóðust ekki á, og lengdi það vöðulinn, en hægara var um stefnuna, þegar klappirnar voru upp úr.
Brúin út í Másbúðarhólma. Nesjar og Lönd fjær.
Gangbrýrnar voru endurbættar á hverri vertíðarbyrjun. Þær voru allþykkar, en máttu ekki vera háar, þá braut brimið þær niður og ruglaði hleðslunni, því straumþungur sogadráttur er í brimi milli lands og Hólma. Þetta var skipgönguleið Nesjamanna, meðan uppsátur var á Másbúðarhólma, svo ill sem hún var, einkum í stórstrauma; þá var skipgangan á flóði kvölds og morgna. Þegar illt var fyrir dýptar sakir, vóðu stundum tveir saman, studdu hvor annan og fundu þá betur fótum sínum festu á þessum óslétta grjóthrygg undir djúpu vatni, en hyldýpi báðum megin.
Másbúðir, Nesjar og Lönd – loftmynd 2000.
Aldrei mun þó hafa orðið slys af þessu, og má nærri furðulegt heita, að enginn skyldi ganga út af í illviðri og dimmum, svo óþægilegt sem þetta var. Bátar voru að vísu í Hólmanum og annars oftast við hólinn í túninu fyrir ofan kampinn, en til þeirra var aðeins gripið, þegar sogadráttur var, því þá var með öllu óvætt, einkum á yzta partinum.
Másbúðarsund er Keilir um Másbúðarvörðu, og ber þau mið í sem næst miðjan Sundklett, sem er þá undirmið, ef Keilir er dulinn. Norðan við Másbúðarsund eru Skjálfandar; þeir eru á grynningahryggnum, stórir og miklir boðar, en hjaðna snögglega þegar dýpkar, niður í Álinn.
Tóft í Másbúðarhólma.
Sunnan við Másbúðarsund er Flagan, stór boði, sem byrjar djúpt að falla, en er ekki uppi jafn snemma og Skjálfandar. Meðan brim er ekki stórkostlegt hjaðnar hún niður nokkuð frá landi, en í foráttu veður hún alla leið í land, upp á Landafjöruna.
Flest skip, sem voru í Hvalsnespollum eða Stafnesdjúpi og áttu heima norðar en í Hvalsneshverfi, fóru inn Másbúðarsund og svo norður Álinn, Virkisvörðu um Moshús. Þau, sem áttu lendingu fyrir norðan Eyri, fóru Eyrarsundin, oftast Músasund.
Nesjaskipið, sem hafði uppsátur á Másbúðarhólma, fór Másbúðarsund. Er það kom inn úr sundinu, sveigði það suður á við, þar til Nesjabærinn eins og sat á Hólmataglinu (suðurendinn); var það miðið á ósnum, milli tveggja hnöttóttra skerja, sem kölluð voru Suður- og Norðuróssker.
Í Másbúðarhólma.
Rétt utan við ósinn er þarahvirfill, sem brýtur á, ef brim er að ráði; verður að fara fyrir norðan hann og róa inn undir honum á ósmiðin. Einnig er á ósnum sjálfum skakkstreymi eitthvert, og verður að halda sig sem næst suðurskerinu. Kunnugustu menn hafa komizt í kröggur við norðurskerið, svo mjög sækir þangað, ef ekki eru vakandi gætur á hafðar.
Allstór pollur er fyrir innan ósskerin, djúpur og hreinn, varinn smáskerjum allt í kring. Ætíð flýtur upp í vör, og gott er þar á land að leggja, hreinar klappir og möl. En lá var þar talsverð um flóðið, ef brim var. Það kom fyrir, ef þó var talinn fær sjór, að skipið var sett inn af Hólmanum og róið út sunnan við taglið, því nóg var dýpi um flóðið. Sömu aðferð varð einnig að hafa, þegar að var komið, ef lá var til baga.
Másbúðir – ágangur sjávar.
Sjávarhúsin stóðu flest vestan við bæinn, þar var Hólminn hæstur. Þar var líka hróf skipanna. Það var traustur tvíhlaðinn grjótgarður, vinkillagaður, sem var skipunum til öryggis fyrir veðrum og sjógangi.
Nesjabændur höfðu útgerð sína á Másbúðarhólma til 1903, en þá þótti eigi lengur unnt að hafa þar útgerð, vegna óþægindanna við skipgönguna um flóð. Var þá gjört uppsátur í Réttarvikinu, sem áður er nefnt. Í staðinn fyrir að áður var vikið suður af sundinu, þegar lent var á Hólmanum, var nú vikið af Másbúðarsundi norður á Alinn og róið upp fyrir norðan Sundklett, Castorshaus, Illasker og Svartaklett að Réttarklöppum og fiskinum þar kastað á land. Nokkur sjávarhús voru byggð þar. En þetta stóð ekki nema fáein ár; um eða eftir 1920 lagðist útgerð í Nesjum niður fyrir fullt og allt.
Nesjar – horft frá Löndum.
Rúm 50 ár eru síðan lauk útgerð á Másbúðarhólma. Hefir brimið glingrað við gangbrautirnar síðan, án nokkurs viðnáms af mannanna hendi, enda svo eyddar orðnar, að aðeins má sjá, hvar þær hafa verið. Hólminn er að fjarlægjast fastalandið, hægt en öruggt.
Kampurinn fyrir ofan er að hlaðast upp og færast upp á túnið og hefir þegar hvolft sér nokkra faðma inn yfir háan túnbakkann, sem allur var grasi gróinn um aldamót. — En Másbúðarhólmi er harður í haus og verður til langt fram í aldir og loks grynning, sem boði fellur á, og það verður stór boði, hvert nafn sem hann kann að fá.“
Nesjar.
Ari Gísason fjallar um viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar um Nesjar:
„Gömlu-Nesjar eru langt fyrir ofan tún. Þar sér fyrir byggingum. Þar eru garðar hringmyndaðir. Þar suður og upp af er Gerðishóll. Allt þetta svæði er nú örfokasandur. Suður af Melabergsvötnum eru hólar í Nesjalandi, sem heita Vatnshólar.
Árið 1840 er talað um leiði Márs í túninu og að Katla kona hans sé grafin þar í hól í túninu.“
Um Busthús segir Magnús Þórarinsson:
Bursthús.
„Þó Busthús hafi aldrei verið útgerðarstaður, svo vitað sé, enda engin lending þar svo talizt geti, verður þó ekki fram hjá því býli gengið vegna lýsingar og örnefna.
Sunnan við Landaós er Busthúsarif. Nær það eins langt út og ósinn er til. Rifið byrjar aðeins laust við Busthúsatúnið. Það er fremur mjótt víðast, en á því eru tveir klapparhnúðar, nokkru breiðari en rifið sjálft. Fremst á rifinu eru klettar ekki háir; heitir það Busthúsahaus. Suður frá Busthúsarifi framan til er mjó fjara, sem nær suður að Hvalsnestanga, en innan við tjörn þessa er stórt lón, sem kallað er Busthúsalón. Fyrir ofan lónið er kallað Busthúsavik.
Skinnalón.
Landbrot hefir verið mjög mikið og er enn á öllu þessu svæði í norðanverðu Hvalsneshverfi; hefir því áður verið nokkuð lýst við Másbúðir og Lönd. Svo sýnist, að graslendi hafi áður verið fram á yztu sker, því að fram yfir aldamót fundust moldartrefjar, hertar í sjávarseltu, í klettaskorum á hæstu skerjum langt fram í fjöru.
Um 1890 voru tveir stórir grashólmar í Busthúsalóni; hétu þeir Busthúsahólmar, efalaust áður áfastir túninu. Nyrðri hólminn, sem mun þá hafa verið allt að einni dagsláttu að graslendi, var skorinn frá túninu með mjórri rás. Var sogadráttur mikill í rás þessari í brimólgu.
Akrahóll.
Vesturrönd hólmans er föst klöpp, enda vinnur sjór þar ekkert á, en hann braut sig inn við báða enda klappanna, og brýtur svo frá báðum hliðum skurð um þveran hólmann. Það er eins og hann hafi manns vit og sjái, hvernig hægast er að vinna að eyðileggingunni. Nú mæðir sjór á öllum bökkum hólmans og yfir hann fellur á hverju stórstraumsflóði. Grassvörður er allur burtu; eyðist nú moldin óðfluga og eftir fáein ár verða þar aðeins klettarnir einir. — Nyrzt á klapparendanum, vestan í hólmanum, var gamalt byrgi, sem var kallað Hólmakrukka; munu fyrri tíma menn hafa byggt það til einhverra nota, meðan hólminn var áfastur túninu.
Syðri hólminn var nokkru minni. Þar var engin klöpp til varnar, enda eyddist hann svo ótt, að fyrir 15-20 árum var hann alveg upp urinn, en eftir er dálítið sker upp úr sandinum.“
Um Lönd segir Magnús:
Lönd.
„Sunnan við Másbúðarhólma og Hólmalónið er Landafjara, stór fjörufláki með miklum skerjaklasa, lónum og rásum. Kann ég því miður of lítil skil á örnefnum þar.
Fram af túngarði milli Landa og Nesjatúns liggur rif út alla fjöru; eru fjörumerki nefndra bæja eftir miðju rifinu. Heitir það Þræturif. Veit þó ekkert um tilefni nafnsins.
Fremst á rifinu er hár ávalur hnúður. sem heitir Þræturifshaus. Sunnan við Þræturif framarlega er stórt lón, sem lokast að mestu af stóru og háu skeri, ílöngu frá suðri til norðurs; heitir það Selsker. Þar og raunar á fleiri skerjum í Landafjöru lágu selir í fyrri daga og fram undir aldamót eins og fjárhópar. En í lóninu mátti seila hrognkelsi, ef vaðið var í því um fjöru. Var það kallað „að fara í vöðla“. Spöl suður af Selskeri er annað sker, hátt og ílangt. Minnir það á líkkistu að útliti, enda heitir það Kistusker. Syðst og yzt í fjörunni er eitt stórt og hátt sker, mjög stórklettótt, var það kallað Norður-Óssker. Sunnan við það er lág flúð, sem kölluð var Ósflúðin. Sunnan við hana var Landaós, syðst í fjörunni.
Gömlu-Lönd – tóftir.
Landasund er aðeins fyrir Landaósinn. Mun þar oftast hafa gengið eitt skip. Mið á Landasundi var Keilir um austasta bæjarhúsið í Nesjum, sem var Austurbæjarbaðstofan.
Húsið, er nú stendur, var byggt nákvæmlega á rústum baðstofunnar, svo miðin voru óbreytt. Undirmið er allgild og áberandi varða, sem enn stendur neðarlega í Landatúninu.
Másbúðarvarða.
Varðan er nú alveg á túnröndinni; svo hefir sjórinn brotið túnið. Boðinn norðan við sundið er Flagan; var henni lýst við Másbúðarsund. Sunnan við sundið er brimsvaðinn út og norður af Æðarflös, þar eru grynningar á stóru svæði, flúðir vaxnar miklum þönglaskógi. Mun það heita einu nafni Strandklappaflúðir. Að vísu er Vatnsfellsboði einnig sunnan við sundið, en hann er ekki uppi nema í mikilli foráttu.
Hann tekur sig upp dýpst allra boða á þessu svæði. Aldan, sem er efni í boðann, fer skáhallt norður yfir Hvalsnessund, en byrjar að falla á miðinu Vatnsfellið, en brunar svo freyðandi og sameinast að lokum brimvaðlinum út af Hvalsnestöngum og Æðarflös. Ef Vatnsfellsboði er uppi, munu öll sund í Hvalsneshverfi vera ófær.
Akrar – Lönd fjær.
Landasund var talið gott og öruggt, en Ósinn er langur, grunnur og varasamur með lágsjávuðu, enda þornar hann alveg um stórstraumsfjöru. Vegna grunnsævis í ósmynninu brýtur yfir hann þveran og er gjörófær, þó sundið sé öruggt.
Urðum við Landamenn þá frá að hverfa, oftast að Másbúðum, en fórum svo gegnum fjöruna og þræddum rásirnar, sem við rötuðum um eins og göngin heima. Fjaran var lengi fær, ef vel stóð á sjó, því brimið braut á útskerjum.
Landabrunnur.
Sundinu er haldið á áður greindum merkjum, þar til öxlin á Fagradalsfjalli kemur við gamla heyhústóft, sem enn sér fyrir á gömlu Löndum. Þar stóð bærinn, neðan til á túninu sunnanverðu, þar til Árni bóndi Gíslason flutti hann 1880 þangað, er nú stendur húsið. Má sigla inn allan Ósinn í beinni stefnu, ef ekki er of lágsjávað. Vörin hefir verið rudd inn í stórgrýtisfjöru sunnan í klappartanga, sem skagar vestur úr túninu. Hreint og gott er þar á land að leggja, og aldrei vottar fyrir lá í þeirri vör. Fiskurinn var borinn upp á malarblett, sem er skiptivöllurinn. Þar var saltskúrinn og byrgin á allar hliðar. Skipið stóð á klöppinni fyrir ofan vörina í góðu og stilltu, er í róðrum stóð. En ef hreyfing var í sjó, var sett upp fyrir skiptivöllinn. Þar var sterkur tvíhlaðinn garður; var krókur á fyrir framstefni og bundið fram af yfir garðinn. Var skipinu þar óhætt, hvernig sem lét.
Akrahóll. Hvalsneskirkja fjær.
Utan við vörina er lítið en hátt hnöttótt sker; heitir það Klumpur, og er réttnefni. Sunnan og austan við vörina er hár klapparbálkur. Heitir það Krukka, efri hlutinn (þar var grjótbyrgi, sem nú er jafnað við jörðu), en Krukkusker fremri hlutinn. Er þetta samfelld klöpp, en slakki nokkur á milli. Við Krukkusker er aðdjúpt, þegar vel stendur á sjó og er gott að geyma þar skip um stundarsakir með stjóra aftur af, en sandur er í botni; heitir það Seyla. Eigi vantar festingu fyrir frambandið í Krukkuskeri, því að framtaksamur maður hefur einhvern tíma höggvið gat í hellublað, sem er fastskorðað milli kletta þar, er gatið svo falið að varla finna það ókunnugir nema af tilviljun.
Sjórinn hefir brotið þrjú stór vik inn í túnið á Löndum. Syðsta vikið heitir Bæjarvik. Hefir það myndazt milli Krukkuskers og naustanna, en svo brotið sig áfram inn í túnið norðan við Krukku og er nú komið fast að bæjarveggnum á gömlu Löndum. Nú nýlega hefir verið girt þvert yfir vikið með gaddavír á strjálum stólpum og svo kynlega hefir brugðið við að sandurinn og mölin fyrir ofan girðinguna er að gróa upp, og er nú eftir að sjá hvort þessi lítilmótlega girðing getur staðizt stórflóð framtíðarinnar.
Lönd.
Annað vik hefir sjórinn brotið í túnið inn með naustum að sunnanverðu; heitir það Naustavik. Allbreið lág klöpp skilur Bæjarvik og Naustavik; er enn grastorfa nokkur á klöpp þessari, en eyðist óðfluga á þrjá vegu. Þriðja vikið er norðan við Naustin; það heitir Vörðuvik og dregur nafn af sundvörðunni, sem enn stendur norðan við vikið.
Vörðuvik er stærst og nær lengst inn í túnið og er á síðari árum óðfluga að lengjast og breikka, því sjórinn grefur undan bökkunum, svo þeir brotna niður og dragast frá. Heldur svo eyðileggingin áfram.
Lönd.
Sjávargatan á Löndum var öll eftir túninu niður að naustum. Hét neðsti túnparturinn Naustabali, en áðurnefnd vik voru þar á báðar hendur. Nú hafa Naustavik og Vörðuvik brotið sig saman fyrir ofan Naustabalann; mun þar nú vera allt að 10 faðma breiður skurður á milli, með sand í botni en háir bakkar báðum megin. Þar með eru Landanaust umflotin á flóði. Torfan mun fljótlega eyðast af Naustabalanum, því sjór mæðir á bökkum hans á allar hliðar, svo eftir stendur þá grjótið eitt. Það er enginn vandi að sjá, að Landanaust er orðin eitt af skerjum Landafjöru. En til þess að halda minningunni við verður það sennilega kallað „Naustasker“.“
Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 1947, Ólafur við Faxafen – Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, bls. 60.
-Árni Magnússon og Páll Vídalín. (1923-1924). Jarðabók. Gullbringu-og Kjósarsýsla. Hið Íslenska fræðrafjélag. Kaupmannahöfn.
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Másbúðir – Nesjar“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 133 – 141.
-Nesjar – Viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar. Ari Gíslason skráði.
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Landasund“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 141-144.
Lönd og Nesjar.
Sakna ég úr Selvogi – Jökull Jakobsson
Jökull Jakobsson segist svo frá Selvogi í Fálkanum í nóvembermánuði 1964:
„Dálítil þyrping húsa stendur þarna á yztu strönd, þar sem Atlantshafið beljar ár og síð. Hins vegar eru gróðurlitlir melar, holt og heiðaflákar, sandar og hraun unz landið að lokum rífur sig upp úr flatneskjunni og rís upp í fjallshlíð, þar eru útbrunnir gígar og fornar eldstöðvar, sums staðar hefur hraunelfurinn fossað niður hlíðina og storknað og minnir á vatnsfall, sem óvænt og skyndilega umbreytist i höggmynd.
Þjóðvegurinn hlykkjast um sandflæmi og nakin holt, yfirlætislaus og mjósleginn að sjá ofan af hlíðarbrúninni eins og Drottinn allsherjar hafi fyrir vangá misst þráðarspotta ofan í steypuna, meðan hún var að kólna. Eldurinn hefur mótað þetta land og loftið ekki látið sitt eftir liggja, hér gnauða lotulangir vindar úr norðri. Fjórða höfuðskepnan hefur í fullu tré við hinar, sjálft Atlantshafið sverfur ströndina látlaust og eilíflega, oft getur að líta brimrótið líkast hækkandi brekkum svo langt sem augað eygir, brimgnýrinn öskrar í eyru svo ekki heyrist mannsins mál, oft rísa einstakir strókar upp með skerjunum eins og tröllaukinn geysir hafi gengið af göflunum. Og hér var þó útræði fram eftir öllum öldum. Það fer fjarska lítið fyrir þessum fáu húsum sem kúra þarna yzt á ströndinni í fullkomnu trássi við höfuðskepnurnar, einhvern veginn finnst aðkomumanninum, að hér sé þeirra leikvangur en ekki manna.
Við erum stödd í Selvogi.
Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.
Hér má m.a sjá Fornagarð umlykja neðanverða byggðina.
Hér hefur verið byggð allt frá því norskir skattsvikarar tyggðu þetta land ásamt írskum þrælum, og því fer fjarri, að hér í Selvogi hafi þeir orðið að láta sér nægja að hokra, sem sem ekki tókst að ryðja lönd í breiðum dölum. Hér byggðu lögmenn og hirðstjórar fyrr á öldum og áttu þó völ á nafntoguðum höfuðbólum og kostaríkum héruðum sunnanlands og austan. í Selvogi hafði alþýða manna einnig nóg að bíta og brenna, þótt harðnaði í ári og kotbændur flosnuðu upp annars staðar ellegar bjuggu við sult og seyru, þegar harðindi og drepsóttir steðjuðu að.
— í Selvogi var alltaf hægt að lifa kóngalífi, sagði mér síðasti bóndinn í Herdísarvík, og þar er enn hægt að lifa kóngalífi, bætir hann við. Þó hefur Selvogur orðið að hlita þeim örlögum, sem dunið hafa á öðrum breiðari byggðum þessa lands undanfarna áratugi: fólki hefur fækkað svo nemur við landauðn og að sama skapi er kreppt að þeim, sem eftir eru. Selvogur hefur löngum verið talinn afskekkt sveit, en þó er þess að gæta, að fyrrum lá hún í þjóðbraut. Bændur af öllu Suðurlandi fóru skreiðarferðir í kaupstaðina suður með sjó, og þá lá leiðin um Selvog.
Hlíðarendi 1898.
Á Hlíðarenda í Ölfusi var löggiltur áfangastaður, og þaðan var talin dagleið að næsta áfangastað, Bleiksmýri í Krýsuvík. Og eftir að hinn sögufrægi og umdeildi Krýsuvíkurvegur varð að veruleika, þarf ekki að kvarta undan einangrun í Selvogi, hvort sem farið er austur eða vestur, er ekki nema þriggja stundarfjórðunga akstur til höfuðstaðarins og eru þó ýmis kauptún nær: Hafnarfjörður, Selfoss, Þorlákshöfn, nú er jafnvel hægt að aka sem leið liggur í Grindavík meðfram ströndinni. Hér ættu því ekki að ríkja nein vandkvæði um aðdrætti. Þó hefur fólki fækað svo í hreppnum, að nú eru ekki eftir nema 40 manns og ungur þingmaður Árnessýslu hefur gert að tillögu sinni að sameina hreppinn Ölfushreppi.
Herdísarvík – jarðýtur tengja saman veggerðina frá Selfossi til Hafnarfjarðar 1948.
Ýmislegt er gert í því skyni að viðhalda jafnvægi í byggð landsins og stuðla að því að fólki þyki hag sínum betur borgið í heimasveit en á mölinni. Því þótti Selvogsbændum skjóta skökku við, þegar kaupfélagsstjórinn á Selfossi neitaði að sækja til þeirra mjólk, nema þeir hefðu minnst 70 kýr mjólkandi í fjósi. Taldi hann ekki borga sig að sækja mjólkina svo langan veg að öðrum kosti. Þó lét hann sækja mjólk á bæ, sem ekki er nema 14 kílómetra frá Selvogi, og fór því fjarri, að þar væru 70 kýr í fjósi. En Selvogsbændur neyddust til að bjarga sér sjálfir, þeir reyndu á tímabili að koma þar upp mjólkurbúi sjálfir, en reyndust of fáliðaðir. Nú byggist búskapur þeirra nær eingöngu á sauðfjárrækt, enda eru skilyrði til þess ákjósanleg og raunar óvíða á landinu betri. Ólafur Þorvaldsson bjó síðastur bænda í Herdísarvík, sat jörðina frá 1927 til 1933, en varð þá að standa upp fyrir eigandanum. Einari skáldi Benediktssyni.
— í Herdísarvík var gott að búa, sagði Ólafur mér, það er frábær útbeitarjörð, ég hika ekki við að segja langbezta beitarjörðin á Suðurlandi. Það er ekki nóg með, að það sé allt þetta land, heldur fjaran líka, og þarna er engin flæðihætta. Að öðrum kosti hefði jörðin verið óbyggjanleg. Þá hefði þurft að parraka féð. Þarna voru slægjur engar, nema túnið, raunar voru þau tvö, eystra túnið gróið upp af sjófangi. Og útræði var í Herdísarvík allt frá fyrstu tíð og allar götur fram til 1922. Þar voru sjómenn í veri og þótti slíkt hagræði, að jafnvel Landeyingar sóttu þangað til sjóróðra. Árni sýslumaður Gíslason átti jafnan tvö skip í Herdísarvík, og var verstöð hans kölluð Krýsuvíkurbúð. En Árni sat í Krýsuvík, og þar er hann grafinn í að [baki] kirkju, raunar sá eini í kirkjugarðinum sem hvílir undir steini. Önnur leiði eru þar gróin og nafnlaus.
Herdísarvík.
Í Herdísarvík er fremur veðursælt nema í norðanátt og þá getur orðið landbrim. Nú er Herdísarvík í eyði og þögnin geymir gömlu bæjarrústirnar við veginn, enginn dyttar lengur að grjótgarðinum, enda er hann víða hruninn og túnið í órækt. Þar stendur enn uppi baðstofa í gömlum stíl og önnur hús úr torfi, fjós, hlaða og fjárhús. Athygli vegfarandans beinist þó fyrst að einlyftu timburhúsi, sem stendur þar í túninu og horfir til sjávar, nú er búið að negla hlera fyrir alla glugga og dyrnar eru harðlæstar. Viðirnir í húsinu eru sorfnir vindum og veðri. Í þessu húsi bjó skáldið Einar Benediktsson síðustu æviár sín.
Maðurinn, sem þeytzt hafði milli heimsborganna, ort suður í Afríku drápur á íslenzku, selt norðurljósin og fossana, efnt til stórvirkjana og gullgraftrar, búið í glæstum salakynnum og umgengizt höfðingja og baróna, látið að sér kveða í landsmálum og stórpólitík og tekið þátt í kóngsveizlum, þessi maður hreiðraði um sig hér í litlu húsi fjarri mannabyggð, en aðra hönd var beljandi hafið og á hina eyðileg fjöll og firnindi.
Einar Benediktsson.
Þá var hann kominn að fótum fram þegar hann settist hér að, Elli kerling hafði komið honum á kné. Hugur hans, sem forðum hafði flogið um ómælisgeim í ljóðum og ræðu, var nú tekið svo að förla, að hann þekkti ekki lengur suma vini sína nema endrum og eins. Hlín Johnson tók að sér hið aldna skáld og hlúði að honum, þegar skáldið og heimurinn höfðu skilið að skiptum. Hér í Herdísarvík veitti hún gömlum manni aðhlynningu. Það sagði mér kunnugur maður, að stundum hefði mátt sjá Einar Benediktsson staulast út úr húsinu á góðviðrisdegi og ganga fram á tún. Þar settist hann niður og tók upp úr vasa sínum blað og blýant, páraði á blaðið örfá orð og tók sér svo langa hvíld. Síðan skrifaði hann kannski eitt orð í viðbót, og enn varð langt hlé: Úr þessu urðu aldrei annað en hálfkveðnar vísur, vísnabrot, ef til vill hálf hending. Síðan reis skáldið upp af túninu, hægt og seinlega og staulaðist til bæjar . . .
En hafið beljaði við ströndina eftir sem áður. Einar Benediktsson dó árið 1940 og arfleiddi Háskólann að hinu mikla bókasafni sínu og svo jörðinni Herdísarvík. Ef til vill verður þar hressingarheimili fyrir prófessora, þegar fram líða stundir. Tæplega verður fitjað þar upp á búskap að nýju.
Þótt byggð dragist saman í Selvogi, hækkar vegur Strandakirkju með hverju ári. Enginn veit með vissu, hvenær fyrst var tekið að heita á Strandakirkju en hitt er víst, að alla tíð hefur hún þótt bregðast vel við áheitum. Sagnir herma, að hún hafi upprunalega verið byggð fyrir áheit. Íslenzkir farmenn á heimleið úr Noregi á skipi hlöðnu húsaviði villtust i hafi og fengu réttu stóra. Hrakti þá lengi og voru vistir þrotnar, en leki kominn að skipinu, og fengu þeir ekki lengur varizt áföllum. Þá gerði formaðurinn það heit, að þeir skyldu byggja kirkju úr farviðnum, ef þeim auðnaðist að ná landi. Og leið nú ekki á löngu, áður en þeir fengu landkenning af Selvogi, en þar var foráttubrim með allri ströndinni. Þá sjá þeir veru alskínandi bera yfir brimgarðinn og sigldu þangað. Þar var sund og sjólaust að kalla, og lentu þeir skipi sínu heilu og höldnu. Formaðurinn og hásetar hans létu ekki sitja við orðin tóm, heldur reistu kirkju á staðnum, en víkina kölluðu þeir Engilsvík, og heitir hún svo enn í dag.
Rekamark Strandakirkju er A eða Á og hafa því ýmsir leitt að því getum, að formaðurinn hafi heitið Árni og sumir jafnvel haldið því fram, að hér hafi verið á ferð Árni biskup Þorláksson, Staða Árni. En allt er á huldu um menn þessa og þjóðsagan ein til frásagnar.
Hins vegar er heitið á Strandakirkju enn í dag, ef mikið liggur við, enda er þessi fátæklega kirkja á eyðilegri strönd orðin ein auðugasta kirkja landsins. Á hún nú á fjórðu milljón króna í sjóði, og er það fé notað til kirkjubygginga víðsvegar um land. í Strandakirkju eru ýmsir góðir gripir, kaleikur úr pápísku og messuhökull ævaforn. Þar er altaristafla máluð af Sigurði málara. Strandakirkja var annexía frá Vogósum. Þar sátu nafnkunnir klerkar á öllum öldum, en þekktastur var þó séra Eiríkur, galdrameistarinn mikli og eru af honum miklar sögur. Séra Eiríkur beitti þó aldrei galdrakunnáttu sinni til illverka, en ýmsar glettur gerði hann þó pörupiltum og þjófum. Flestir munu kannast við söguna af piltunum, sem tóku hesta prestsins ófrjálsri hendi, en festust á baki þeirra, og tóku klárarnir sprettinn heim í hlað á Vogósum. Síðastur klerka í Vogósum var séri Eggert Sigfússon. Hann lifði alla ævi ókvæntur og barnlaus og þótti sérvitur og smáskrítinn. Til dæmis kom hann aldrei á hestbak í ein 40 ár.
Eggert Sigfússon á Fongötu vestan Vogsósa.
Á síðustu æviárum sínum flakkaði hann nokkuð um Árnessýslu og kom þá meðal annars að Kiðabergi í Grímsnesi. Þáði hann þar næturgreiða og kvaddi húsfreyju með þessum orðum um morguninn:
Skyrinu og grautnum skelf ég af,-
Brauðinu fæ ég brjótsviða af.
Lundabagginn of feitur.
Blóðmörinn of magur,
Svið vitið þér að ég vil ekki.
Og matarlaus má ég fara.
Séra Eggert fór jafnan fótgangandi, því ekki fékkst hann á hestbak eins og áður er getið. Nálægt Kiðabergi er lækur einn, og eru tvö skref yfir lækinn. Séra Eggert hafði einni skinnsokk sem hann braut saman og geymdi undir barðí við lækinn, fór hann í sokkinn þegar hann þurfti yfir, en skildi síðan sokkinn eftir þangað til næst hann þyrfti á að halda.
Eins og áður er getið, þótti Selvogur kostahérað mikið, enda bjuggu þar hirðstjórar og lögmenn og efldust til fjár og valda. Þar var gnótt sjávarfangs og annarra hlunninda eins og berlega kemur fram í vísu sem Vogsósaprestur einn orti fyrr á öldum þegar hann kvaddi héraðið sárum söknuði:
Sakna ég úr Selvogi
sauða minna og ánna,
silungs bæði og selveiði,
en sárast allra trjánna.
En ægilegur skaðvaldur átti eftir að eyða byggð í Selvogi, svo nærri stappaði, að hún lognaðist út af. Það var sandfok og uppblástur, sem fylgdi í kjölfar þess. Víðáttumikil graslendi urðu uppblástrinum að bráð, svo að til landauðnar horfði. Höfuðbólið Strönd lagðist í eyði og býli flest í kringum það, sumar hjáleigur þess tórðu þó. Nú er að mestu búið að hefta þetta gífurlega sandfok, en aldir munu renna, áður en jörðin er gróin sára sinna.
Annar óvinur var sífellt nálægur, sem þó um leið var lífgjafi byggðarinnar. Úr Selvogi var sjórinn sóttur af kappi, og til dæmis um það má nefna, að kringum 1770 gengu 50 skip úr Selvogi og Herdísarvík. Síðasta og mesta sjóslysið í Selvogi varð fyrir rúmri öld. Þá fórst Bjarni Pétursson bóndi í Nesi skammt undan lendingu ásamt hásetum sínum, þrettán að tölu. Í Þjóðólfi segir frá þessu slysi. Þar segir, að róið hafi verið í bezta veðri þann 19. marz og hafði verið setið stutta stund. Þá sjá þeir, er næstir voru landi, að blæjur eru dregnar upp til að vara róendur við því, að nú væri tekið að brima. Héldu menn nú að landi sem óðast. Allir í Vesturvognum náðu landi slysalaust, en úr Austurvognum engir. Hreppstjórinn kom fyrstur að sundi Austurvogsmanna, en sá sundið ófært og beið, ef hann sæi lag.
Mb. Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.
Í sömu andrá kom Bjarni frá Nesi og stefndi á sundið, hreppstjórinn varaði hann við og fleiri á skipi hans. Bregzt hverjum á banadegi, því Bjarni lagði óhikað á sundið, en allt í einu reis ógurlegur sjór, er hraut allt skipið í spón og kastaðist marga faðma fram yfir það. Er aðrir á sjó sáu, hvernig komið var, sneru þeir frá og náðu landi í Þorlákshöfn, því veður var stillt og tóku þegar lendingu slysalaust, því engin mannleg hjálp var spöruð af þeim, er þar voru fyrir. Þá voru þar komin tólf skip af Stokkseyri og tvö af Eyrarbakka.
Hér verður þetta látið nægja sem dæmi þess, að sjósókn úr Selvogi var enginn barnaleikur, og varð þó minna um slys í þeirri verstöð en víða annars staðar á landinu. Hins vegar eru það ekki einvörðungu Selvogsmenn, sem hafa átt undir högg ægis að sækja á þessum slóðum. Aðkomin fiskiskip hafa oft strandað þarna, útlend jafnt sem innlend, togarar og flutningaskip,
því ströndin er hættuleg, og þarf ekki að spyrja um örlög þeirra skipa sem steyta á skeri undan Selvogi.
Oftast hefur þó giftusamlega tekizt um björgun áhafna, en einnig hafa orðið þar raunasögur.
Hér verður staðar numið og ekki sagt fleira frá þessu litla, en söguríka héraði við yzta haf. Þar sem áður bjuggu hirðstjórar og lögmenn á nafnfrægum höfuðbólum, eru nú aðeins eftir örfáir bændur og þrátt fyrir síma, véltækni, vegasamband og styrkjakerfi þykir örvænt um, að byggð haldist þar lengi enn. Þó skal engu u m það spáð hér, hver veit nema í náinni framtíð eflist Selvogur að nýju.
Jökull Jakobsson.“
Heimild:
-Fálkinn – Sakna ég úr Selvogi – Jökull Jakobsson – 44. tbl. 16. nóvember 1964, bls. 18-21 og 34-35.
Nesborgir í Selvogi.
Björgin við Seltjörn
Margir, sem leið eiga framhjá Seltjörn á norðurmörkum Grindavíkur, veita eldri grágrýtissteinum athygli þar sem þeir liggja ofan á yngri hraunum. Í fljóti bragði virðist tilurð þeirra stinga í stúf við öll eðlileg lögmál. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði eftirfarandi í Náttúrufræðinginn um grettistök í nútímahraunum og þ.á.m. björgin við Seltjörn: „Allir kannast við hin svo nefndu grettistök, stórbjörg, sem oft er tildrað ofan á minni steina eins og þau hefðu verið færð þangað af mannahöndum, eða sem liggja á fáguðum klöppum ein síns liðs, stundum á brúnum hárra fjalla. Þjóðtrúin hefur sett þau í samband við Gretti hinn sterka og má vera, að í því felist ævaforn dýrkun orkunnar, og er það naumast framandi fyrir okkar tíma. Hvert mannsbarn veit að um er að ræða björg, sem jöklar hafa borið með sér og orðið hafa eftir, er jökullinn bráðnaði. Það vekur því enga athygli að finna þau á landi, sem jökull hefur gengið yfir, en talsvert er öðru máli að gegna, er þau verða á vegi manns ofan á hraunum, sem runnið hafa löngu eftir að ísöld lauk.
Seltjörn sú, sem hér er um að ræða, er sunnan við Vogastapa og skammt vestan við Grindavíkurveg. Hún er milli grágrýtisklappa í sigdal, sem stefnir norðaustur-suðvestur og fyllir þann hluta hans, sem lægstur er. Eftir lægðinni milli grágrýtisásanna vestur af Seltjörn hefur runnið hraun eftir að ísöld lauk og eftir að sjór hvarf af þessu svæði, en síðla á síðustu ísöld gekk sjór yfir það, eins og sjá má af lábörðu grjóti víðs vegar um Vogastapa. Hraun þetta er komið frá Sandfellshæð, sem er stór dyngja um 5 km vestur af Stapafelli.
Hrauntungan, sem runnið hefur austur eftir áðurnefndum sigdal nær austur í Seltjörn. Skammt vestur af tjörninni liggur dreif af grágrýtisbjörgum ofan á þessu hrauni. Steinar þessir eru í ýmsum stærðum, allt frá sæmilegum „hálfsterk“ upp í björg, sem vart eru minna en 8—10 tonn. Þau liggja ofan á hrauninu og hvergi hef ég séð þess merki að þau hafi sokkið ofan í það, en víða má sjá hraungára (hraunreipi) liggja inn undir steinana og án þess að hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, þótt um stórbjörg sé að ræða. Sum björgin liggja þvert yfir sprungur í hrauninu. Engin merki sjást þess, að grágrýtisbjörgin hafi orðið fyrir hitaáhrifum frá hrauninu. Björg sem þessi eru dreifð í jökulurðinni um allan Vogastapa, en hvernig hafa þau komist ofan á hraunið? Það kostaði mig talsverðar vangaveltur að komast að því sanna hvað þetta varðar, en ég tel það nú liggja fullkomlega ljóst fyrir.
Grágrýtisbjörgin eru ættuð af svæðinu sunnan Vogastapa og skriðjökull hefur skilið þau eftir á jökulhefluðum klöppum, væntanlega ekki langt frá þeim stað, þar sem þau eru nú. Meðan stóð á gosum í Sandfellshæð hefur hraunið náð að renna austur dalinn milli grágrýtisásanna allt austur í Seltjörn. Hraun þetta er dæmigert dyngjuhraun. Það hefur verið þunnfljótandi, heitt og hefur runnið nánast eins og þunn leðja og því mun hraunið þarna ekki þykkt. Hraunið hefur runnið umhverfis grágrýtisbjörgin og undir þau, lyft þeim upp og síðan hafa þau borist með hraun straumnum eins og jakar á vatni. Hraunkvika, sem misst hefur verulegan hluta af því gasi, sem upprunalega var í henni, hlýtur að hafa nokkru hærri eðlisþyngd en storknað hraun enda þótt munur á efnasamsetningu þeirra sé nánast enginn. Hliðstæður eru vatn og ís og sú staðreynd, að storknaðir hraunflekar fljóta á rennandi hrauni. Nánast enginn munur er á samsetningu hraunanna frá Sandfellshæð og grágrýtisins (Jónsson 1972) og hlutfallið milli eðlisþyngdar hins rennandi hraun og grágrýtisbjarganna því væntanlega ekki ósvipað og milli íss og vatns.
Seltjörn – loftmynd.
Grágrýtið á Suðurnesjum og eins kringum Reykjavík er yfirleitt frauðkennt og eðlisþyngd þess virðist að mestu leyti vera á bilinu 2,66—2,78 og ólivíninnihald um 8—14% (Jónsson 1972).
Hvað grettistökin ofan á nútímahrauni varðar, hef ég fundið þau víðar en við Seltjörn. Eitt slíkt heljarbjarg liggur ofan á hrauni suðaustan við Vogastapa og dálitla dreif af slíkum framandsteinum er að finna norðan í Brúnum, þ. e. utan í dyngjunni miklu, sem er norðan undir Fagradalsfjalli, en frá henni eru Strandar- (Vatnsleysustrandar) hraunin komin. Af ofannefndu má ljóst vera, að þar sem svona björg finnast getur aðeins verið um eitt hraun ofan á jökulurðinni að ræða.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 45.árg. 1975-1976, bls. 205-209 – [HEIMILDARIT; Jónsson, 1972: Grágrýtið, Náttúrufr., 42: 21-30].
Við Seltjörn.
Útskálar – Garðskagi – Hafurbjarnastaðir – Kirkjuból – Sandgerði
Gengið var frá Útskálum um Garðskaga og með Skagagarðinum að Hafurbjarnastöðum, Kirkjubóli og um Flankastaði að Sandgerði.
Gamli Garðsskagaviti.
Strönd suðvesturhornsins og Reykjanesskagans er mjög fjölbreytt; sandstrendur, sjávarbjörg, grýttar fjörur eða ýmis konar bergmyndanir í flæðarmálinu. Svæðið hentar því vel til gönguferða og er mátulega langt frá höfuðborginni. Við ströndina er fjölskrúðugt fuglalíf, ekki síst á vorin. Þar fer saman stórkostleg náttúra og lífríki, hreint umhverfi og að mestu óbyggt svæði. Að þessu sinni var gengið ofan strandar, en víða má finna skoðunarverða staði á svæðinu.
Útskálar.
Útskálar var og er kirkjustaður og prestsetur í Garði, eða Sveitarfélaginu Garði eins og það heitir nú. Útskálar voru eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum ásamt Stóra Hólmi í Leiru og Kirkjubóli á Miðnesi. Útskálakirkja var helguð Pétri postula og Þorláki biskupi fyrr á tíð. Kirkja sú er nú stendur á Útskálum var reist á árunum 1861-1863, timburhús á hlöðnum grunni, með sönglofti, forkirkju og turni. Kirkjugarðurinn er athygluverður enda tengjast mörg leiðin fólki og atburðum í Garði og nágrenni, ekki síst miklum sjósköðum fyrrum.
Garður – byggðasafnið.
Vitinn á Garðskaga trjónir til lofts hvaðan sem litið er í Garði. Hann var byggður árið 1944, en eldri vitinn á Garðskagatá var reistur 1897, en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884.
Garðskagi er nyrzti hluti skagans, sem gengur til norðurs, yzt á Reykjanesi. Þar var viti fyrst reistur árið 1897, þar sem hafði verið leiðarmerki, varða frá 1847 með með ljóskeri frá 1884. Árið 1944 var byggður nýr viti. Gamli vitinn var notaður sem fuglaathugunarstaður á vegum Náttúrufræðistofnunar á árunum 1962-1978.
Skagagarðurinn – kort.
Garðskagi er einn af beztu fuglaskoðunarstöðum Reykjaness og er mikið um farfugla þar vor og haust. Fuglaskoðarar flykkjast þangað til að heilsa upp á vini sína og vonast til að eignast nýja. Gamli Vitinn, sem fremst stendur er vinsælt efni ljósmyndara og í honum má sjá kort af Garðskaga þar sem skipströnd fyrri ára eru merkt og ýmsar upplýsingar eru þar um strandlengjuna.
Greinileg merki um akuryrkju hafa fundizt á Garðskaga, enda dregur hann nafn af Skagagarðinum, sem liggur á milli túnsins á Útskála og Túnsins á Kirkjubóli. Þessi garður var byggður til varnar akurlendinu. Fyrir aldamótin 1900 sást móta fyrir 18 akurreinum, sem voru aðskildar með görðum.
Frá Útskálum var gömlu kirkjugötunni fylgt áleiðis að og ofan við íþróttahúsið ofan við Síkið. Við hana eru tóftir gamalla kota sem og fornmannagröf, að talið er. Við hana er letursteinn, sem ekki hefur tekist að ráða í.
Skagagarðurinn.
Gengið var til baka eftir götunni og beygt upp að enda Skagagarðsins, sem enn er sýnilegur, ofan við aðalgötuna í gegnum þorpið. Þar liggur hann beint upp í hæðina, áleiðis að Kirkjubóli.
Skagagarðurinn, sem mun vera forn, girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn var aðlíðandi norðanmeginn, en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.
Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.
Skagagarðurinn – loftmynd 1954.
Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.
Garðsskagaviti.
Garðinum var fylgt til vesturs. Ofarlega í hæðinni eru tóftir Skálareykja. Þar við var læst hlið á Skagagarðinum. Vörslumaður hliðsins bjó að Skálareykjum.
Garðinum var fylgt áfram yfir þjóðveginn milli Garðs og Sandgerðis og þá var stutt eftir að Hafurbjarnarstöðum.
Hafurbjarnastaðir hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar. Bein og gripir voru flutt í Forngripasafnið, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við. Alls voru í teignum 9 kuml og í þeim bein 7 eða ef til vill 8 manna og hafa þau verið rannsökuð. Einnig var mikið af beinaleifum hunda og hesta. Allmargt gripa fannst þar, vopn, skartgripir og fleira og sennilega hefur verið þar bátskuml.
Haldið var yfir að Kirkjubóli, sem nú er á golfvelli Sandgerðinga. Kirkjuból var mikil jörð og oft setin áður af höfðingjum. Það var áður þar sem nú heitir Gamlaból. Sá atburður gerðist vorið 1433 að hópur manna, sveinar Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forustu Magnúsar nokkurs kæmeistara hafði beðið Margrétar, dóttur Vigfúsar hirðstjóra Hólms, en fengið hryggbrot. Reiddist Magnús og ákvað að brenna Margréti inni á Kirkjubóli. Hún var þó eina manneskjan sem komst úr eldinum komst á þreveturt trippi og gat flúið. Hét hún að giftast þeim manni sem hefndi hennar. Það gerði Þorvaldur Loftsson á Möðruvöllum og fékk hann Margrétar.
Kirkjuból – loftmynd 1954.
Árið 1550 var síðasti kaþólski biskupuinn á Íslandi tekinn af lífi. Sá sem kvað upp úrskurðinn um að biskup skyldi líflátinn hét Kristján og var umboðsmaður danska hirðstjórans á Íslandi. Í ársbyrjum 1551 fór Kristján með fjölmennu liði á Suðurnes í erindum konungs og tók sér gistingu að Kirkjubóli. Um nóttina réðust Norðlendingar að bænum fengu leyfi bóndans þar til að rjúfa þekjuna, réðust að Kristján og mönnum hans og drápu þá fleiri eða færri. Voru Kristján og fylgdarmenn hans dysjaðir fyrir norðan túngarð á Kirkjubóli, á Draughól. Þótti þar reimt, svo að Norðlendingar fóru aftur, grófu líkin upp og hjuggu höfuðin en settu nefin milli þjóana. Þetta þótti mönnum hin mesta smán og svívirðing og er fréttin barst til Danmerkur og töldu að níðst hefði verið á líkunum.
Letursteinn á fornmannaleiði í Garði.
Leiddi þessi atburður til þess að árið eftir komu danskir hermenn að Kirkjubóli, tóku bóndann og fluttu í Straum og hálshjuggu þar. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.
Gengið var um Flankastaði, en að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.
Þá var komið í Sandgerði. Það er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi. Elsta húsið í Sandgerði, Sáðgerði eða Efra-Sandgerði, sem er nyrst í plássinu við Sandgerðistjörn. Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_gardskagi.htm
-http://www.islandsvefurinn.is/landshlutar.asp?lysing=sws&hluti=sws&menu=sw
-http://www.sandgerdi.is/igen.asp?ID=361&pID=348&rvID=6358
Gripir sem fundust í kumli við Hafurbjarnastaði.
Mosaskarðshellir
Fyrir ofan bæinn Herdísarvík er Herdísarvíkurfjall (329 m y.s.), hömrum girt á kafla, en annars staðar hafa hraunfossar fallið fram af því og alla leið til sjávar. Sagt er að hraunið neðan skarðsins, austan Herdísarvíkur, geymi m.a. Breiðabáshelli, sem ná á úr Breiðabás rétt ofan við fjörumörk austan Herdísarvíkur og alla leið upp í mitt Mosaskarð, ca. 2 km. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á hraunbrúninni ofan Breiðabásarkamps er Hellir eða Fjárhellir, þar leitaði fé sér skjóls oft og tíðum.“
Í Mosaskarðshelli.
Þegar FERLIR hafði verið að leita að efra opi Breiðabáshellis í Mosaskarði uppgötvaðist gat í gasrás í miðju skarðinu. Var jafnvel um tíma talið að þar væri nú opið loksins komið. Vitað er um marga hraunhella á Íslandi sem myndast í halla og einn slíkur er þessi í Mosaskarðinu. Í ljós koma að hellirinn sjálfur er stuttur, nokkrir tugir metra, en hraunrásin sjálf er mjög falleg og lögun hennar einstök. Hægt er að klifra niður í hann, en best er að taka með stiga eða festa klifurlínu ef áhugi er á að komast upp aftur. Þegar fyrst var farið var niður virtist þetta einungis vera rúmgóð rás, en þegar sléttur steinn var tekinn og grafið með honum niður í brunann á gólfinu kom í ljós fyllt gjallhola syðst í henni. Eftir að gjallhaugnum var síðan mokað frá með hraunhellunni kom í ljós framhald á rásinni. Skriðið var niður, inn og upp aftur. Í ljós kom þessi fallega bogadregna hraunrás. Veggirnir eru nokkuð sléttir, glerjaðir, fjólubláir að lit, og gólfið slétt. Rásin, rúmlega mannhæðar há, lá í vinstri boga niður á við uns hún endaði þar sem loft og gólf runnu saman í eitt. Þarna virtist enginn maður áður virtist hafa stigið niður fæti. Þetta var því um að ræða eiginlega „landnámsferð“. Hins vegar hafði lítill fugl einhvern veginn og einhvern tímann náð að komast þangað inn, en ekki út aftur. Morkin beinagrindin litla sagði sína sögu – sem og sögu svo margra annarra dýra, sem endað hafa líf sitt í dimmum skjólum, sbr. hreindýrskálfinn í Kúluhattshelli, kindina í Leiðarenda og refinn í Rebba. Þegar „landnámsmaðurinn“ leit litlu beinagrindina þarna augum í myrkri hraunrásinni varð honum að orði:
Hraun rann og fugl fann,
langa flóttaleið í myrkri.
Leiðina leyndu seinna rann,
maðurinn, sem fann hann.
Hafa ber í huga að þetta var ort í myrkri.
Í Mosaskarðshelli (BH).
Oddshellir
Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gíg fellsins eru hlaðnir garðar, aðhald og rétt og við hellisop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont. Tvö fjárskjól eru utan í fellinu suðaustanverðu.
Oddshellir.
Einn hellanna, skammt sunnar, heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt suðaustan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyrnar”. Oddshellir er nokkuð rúmur og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin.
Oddur hélt a.m.k. til í hellinum og þegar Ólafur Þorleifsson mun hafa ætlað að heimsækja hann á aðfangadag um aldamótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 30 árum síðar, sitjandi á syllu.
Sagnir er um að þegar mest var af sauðum í hellum Kálffells hafi þeir verið á annað hundrað.
Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.
Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.