Litluborgir

Ofan Helgafells, skammt ofan línuvegarins nálægt einu háspennulínustaurnum, er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Litluborgir

Litluborgir – skilti.

„Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009. Stærð náttúrvættsins er 10,6 ha.
Markmiðið með friðlýsngu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.

Litluborgir eru smágerðar hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa þegar hraun frá Tvíbollum rann yfir stöðuvatn fyrir um þúsund árum. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Litluborgir

Litluborgir.

Litluborgir er undraheimur fíngerðra hraunmyndana. Líkja má þeim við minnkaða útgáfu af Dimmuborgum í Mývatnssveit. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér úr fjaska, en þegar inn í það er komið og við skoðum nærumhverfið blasa við okkur heillandi hraunskútar, steinbogar og alls kyns form sem hraunið hefur tekið á sig þegar það flæddi hér yfir um, var undir því sauð og af urðu gufusprengingar sem tættu yfirborðið og mótuðu alls kyns kynjamyndir.“

Litluborgir

Litluborgir – friðlýsingarkort.

Fossárrétt

Alls eru 224 fjárréttir þekktar á Reykjaneskaganum. Þá eru meðtaldar einstakar rúningsréttir utan selja.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Fjárréttir, eins og við þekkjum þær, þekktust ekki á Skaganum fyrr en í lok 19. aldar. Áður var fjárbúskapur útvegsbændanna takmarkaður við mjólkandi ær og þær voru því jafnan tiltölulega fáar á sérhverjum bæ. Ærnar voru á sumrum hafðar í seljum þar sem selsmatseljan réð ríkjum. Hún mjólkaði þær og vann afurðir úr mjólkinni; áfir, rjóma, skyr og ost. Sú hafði sér til stuðnings smala er gætti fjárins að næturlagi og skilaði því til mjalta morguns og síðdegis frá 6. til 16. viku sumars ár hvert að jafnaði. Ef eitthvað bar út af var honum refsað með því að láta hann „eta skattinns sinn“, sem væntanlega hefur verið vísir af hinni landlægu skattheimtuárát hér á landi fyrr á öldum.

Bæjarfellsrétt

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Þegar seljabúskapnum lauk endanlega um og undir árið 1900 stækkuðu innskagabændur fjárbú sín og byrjað var að „reka fé á fjall“. Sá háttur hefur verið viðhafður allt til þessa dags.

„Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923).

Þórkötlæustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímana tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu.

“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni og Efra-Leiti, auk þess sem einstaka grjót kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur einhver hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Efnið í endubótina var fengið í landi eigenda Þórkötlustaða, að þeim forspurðum. Réttin hefur þó ávallt þótt góð til síns brúks.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Fyrrum var fé Grindvíkinga, vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til, ofan við réttina, greiddist heldur úr þrengslunum.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Réttin var hlaðin um 1890, en hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.
Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar. Hvergi er minnst á réttir í frásögnum þeirra bræðra.

Stóri-Hamradalur

Rúningsrétt í Stóra-Hamradal.

Réttirnar í fyrrum landnámshólfs voru til margra nota, s.s. heimarétt, almenningsrétt, skilarétt og rúningsrétt, auk „útdráttarétta“ einstakra bæja. Margar þeirra eru enn heillegar, enda ekki um fornar fornleifar að ræða. Fjárrétt er í raun framhald afréttar. Réttir hafa verið misstórar. Bæði þær sem og staðsetning þeirra hafa jafnan tekið mið af notagildi á hverjum tíma.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1963 fjallar Guðjón Jónsson um „Kambsrétt“, dæmigerða slíka á þeim tíma. Hér verður gripið niður í greinina á nokkrum stöðum: „Landbúnaður hefir verið annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar. Fram á síðustu ár bjuggu sveitabændur meira við fjárbú en kúabú. Áttu sumir þeirra margt áa og sauða. Mikil vinna er að hirða vel margt fé og halda því saman, sérstaklega vor og haust. Það þarf að smala því í byggð og óbyggð, reka það saman af smærri og stærri svæðum, og koma því í fjárrétt, þar sem því er sinnt og ráðstafað, eftir því sem við á og þurfa þykir.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt á Vörðufelli.

Fjárréttir eru breytingum og eyðingu háðar eins og annað á jörðu hér. Mörgum kann að virðast, að það hafi ekki mikið að segja, þótt ein almenningsrétt sé færð úr stað eða lögð niður. Það sé varla í frásögur færandi. En er hann ekki margur fróðleikurinn, sem nútímamenn vildu gjarnan að geymzt hefði, en glataðist af því að hann þótti ekki, á sínum tíma, þess virði, að haldið væri til haga?

Girðingarrétt

Girðingarrétt.

Þótt sameiginlegar byggðarsafnsréttir hafi verið notaðar víða um alllangt skeið, er talið vafasamt, að svo hafi verið fyrr á tímum. Meðan engar girðingar voru til að hindra rennsli fjárins og það flakkaði viðstöðulaust bæja og byggða á milli, kom margt fé í skilaréttir.“

Margar hinu merkilegustu fjárrétta á Reykjaneskaga, s.s. Fossárréttin gömlu í Kjós, hafa verið friðlýstar, þrátt fyrir að hafa síðan orðið skógræktaráhugafólki að bráð….

Fossárrétt

Fossárréttin í Kjós var friðlýst 2011 (friðuð). Fornleifar klæddar skógi.

 

Hnúkasel

Ísland er skv. skriflegum heimildum sagt hafa verið numið af norrænum mönnum árið 874. Segjum svo hafa verið. En á 1.150 árum hlýtur margt að hafa breyst í gegnum tíðina, bæði hvað varðar búskaparhætti og landnýtingu.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Tökum dæmi: Seljabúskapur fluttist hingað með landnámsfólkinu. Sá búskapaháttur var stundaður nánast óbreyttur í u.þ.b. 996 ár. Að honum loknum tóku við miklar breytingar í aðdraganda mikilla þjóðfélagsbreytinga. Fólk var að flytjast úr sveitum í nýmynduð þorpin allt umleikis landið. Fiskveiðar, sem reyndar höfðu verið stundaðar í útverum á síðustu árum selsbúkaparins, tóku mið af þróuninni.
Útvegsbændur á Reykjanesskaganum þráuðust við þegar vinnufólkinu tók að fækka; færðu „selstöður“ sínar nær bænum, enda tilgangur þeirra ekki lengur eins mikilvægur og fyrrum, þ.e. að tryggja með tilvist þeirra vitund annarra á eignarrétti landsins.
Helsta breytingin og þar með viðbrögð bænda í lok 18. aldar var að selstöðurnar fyrrum urðu að stekkjum, mun nær bæjunum. Stekkirnir, sem oft voru nefndir eftir þjónustum sínum, höfðu nánast sama tilgang og selin fyrrum, en til að þjónusta þá þurfti bæði minni mannskap og nánast engan húsakost því þangað var bæði hægt að ganga fram og til baka á skömmum tíma, án þess að þurfa að gista. Í selin fyrrum hafði meðalstalsselsstígurinn verið ca. 6 km., eða um þriggja klukkustunda gangur aðra leiðina, en í stekkina var gangurinn ekki nema ca. 20 mínútur.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Síðustu leifar seljabúskaparins má finna næst bæjunum, stekkina nánast við túngarðinn og fjárréttirnar í framjhaldinu.
Í byrjun 19. aldar byrjuðu bændur að byggja hús yfir fénað sinn, bæði heima við bæ og í beitarhúsum upp frá þeim, í göngufæri. Áður höfðu þeir nýtt fyrirhlaðin hraunsskjól og upphlaðnar fjárborgir til bjargar fénu yfir vetrarmánuðina.
Þegar lesnar eru opinberar fornleifaskráningar virðast nánast aldrei vera gerður munur á minjum eftir þróun búskaparhátta í tíma. Í þeim hefur því engin samfelld saga myndast í fræðigreininni, sem verður að þykja miður….

Árnastekkur

Árnastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

 

Úlfarsfell

Nafn fellsins, Úlfarsfell, kemur fyrst fram í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 og svo í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Líklegast má telja að nafnið sé komið frá mannanafninu Úlfar. Fellið er 296 metra hátt og er afar vinsælt til gönguferða en einnig nýtir svifdrekafólk sér fellið í sína iðju.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – kort.

Grímur Norðdahl segir frá örnefnum í landi Úlfarsfells árið 2002: „Um jörðina Úlfarsfell: Ein elsta heimild um Úlfarsfell er Vilkinsmáldagi, en þar segir: „Þollaks kirkia ad Reykiumm a land ad Wlfarsfelli.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. að Úlfarsfell hafi verið kirkjueign bóndajarðar Suður-Reykja, taldist hún 10 hundraða jörð og kostarýr.

Ein elsta heimild um Úlfarsfell er Vilkinsmáldagi, en þar segir: „Þollaks kirkia ad Reykiumm a land ad Wlfarsfelli.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. að Úlfarsfell hafi verið kirkjueign bóndajarðar Suður-Reykja, taldist hún 10 hundraða jörð og kostarýr.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslaonar fyrir Lágafell sgeir m.a.: „Ofar eru Hvammar meðfram Úlfarsfelli, og Lágafellshamrar heita utan í því. Undir hömrunum er fjárhús eða beitarhús frá Lágafelli…

Lágafellshamrar

Lágafellshamrar – fjárhús.

Langholt er holtið nefnt, sem er norður af Hulduhólum. Mýrin, þar sem nú er risin byggð, heitir Sauðhúsmýri. Innar eru Lágafellsmýrar, og Norðurmýri er norðanvert við túnið á Lágafelli. Börð aðskilja Sauðhólsmýri frá Skarhólamýrinni. Ofar eru Hvammar meðfram Úlfarsfelli, og Lágafellshamrar heita utan í því. Beint á móti bæ og uppi eru tveir hnúkar, sem heita Litlihnúkur og Stórihnúkur.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – hlaðið byrgi á Stórahnúk.

Byrgið er steinhlaðið úr grjóti sem er um 20-30 cm á lengd og 10-15 cm á breidd. Hæð veggja er um 60-65 cm, op í norðvestur, aðeins er hrunið í opið en samt vel greinilegt. Byrgið er hlaðið norðvestan í lítinn grjóthól ofan á klöpp, lítill gróður er á svæðinu. Austur og uppaf um 3 m frá er varða (258-63).

Í lýsingu Freyju Jónsdóttur í Dagur/Tíminn 1996 lýsir hún Úlfarsfelli. Þar getur hún um fjárhús frá bænum í Myrdal á Úlfarsfelli: „Neðan við Mýrdalsmýri er lítið fjárhús með heytóft“.

Úlfarsfelll

Úlfarsfell – fjárhús í Mýrdal.

Hvergi í Fornleifaskráningum vegna framkvæmda á og við Úlfarsfell, Fornleifaskráningum fyrir Mosfellsbæ eða Fornleifaskráningu fyrir Úlfarsfell er minnst á fjárhústóftina undir Lágafellshömrum, fjárhústóftina í Myrdal á Úlfarsfelli eða fjárborg á bökkum Úlfarsár í landi Úlfarsfells.

FERLIRsfélagar leituðu uppi og skoðu minjarnar árið 2025.

Lágafellshamrar

Lágafellshamrar – fjárhústóft.

Fjárhústóftin frá Lágafelli undir Hömrunum er óvenju stór, hlaðin að hluta og að hluta til grafinn inn í brekku. Hún er nánast orðin jarðlæg en er samt sem áður vel greinileg.

Fjárhústóftin í Mýrdal á grónu svæði syðst í dalnum. Hún er vel greinanleg, snýr dyrum mót suðri og að baki hennar er hlaðin heytóft.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – fjárborg.

Fjárborgin suðaustan bæjarins að Úlfarsfelli er ofan bakka Úlfarsár. Hún er hringlaga og að mestu byggð úr torfi. Í fjarlægð lítur hún út fyrir að vera gróinn hóll, en þegar nánar er að gáð fer ekki á milli mála að um fjárborg hefur þar verið um að ræða.

Heimild:
-Dagur/Tíminn, 195. tbl. 12.10.1996, Úlfarsfell, Freyja Jónsdóttir, bls. 11.
-Úlfarsfell. Grímur Norðdahl, Magnús Guðmundsson 2002 (2002).
-Ari Gíslason – Örnefnalýsing fyrir Lágafell.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – fjárhústóft í Mýrdal.

Skófir

Í Skarhólamýri við Skarhólabraut, gegnt húsi nr. 4, er skilti á upphafsleið göngustígs á Úlfarsfell (Hamrafell) neðan Lágafellshamra. Á skiltinu má lesa eftirfarandi:

Skarhólamýri

Skarhólamýri – skilti.

„Héðan liggur gönguleið á Úlfarsfell. Fyrst er gengið eftir vegslóða að brekkurótum og þaðan liggur stikuð leið upp fjallshlíðina uns komið er upp undir norðurbrún fjallsins. Þá er stefnt vestur fyrir Stórahnúk og sveigt til austurs síðasta spölin á tindinn.
Þegar tindinum er náð getur göngufólkið valið um að fara sömu leið til baka eða halda vestur evtir fjallinu, að skógræktarsvæðinu í Hamrahlíð og síðan aftur hingað í Skarhólamýri. Einnig er hægt að ganga héðan vestur með fjallinu að skógræktarsvæðinu í Hamrahlíð, síðan eftir stikaðri leið á Úlfarsfell og loks aftur hingað.

Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar
Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.

Leirvogur

Leirvogur (MWL).

Leirvogur gengur inn úr Kolafirði og í hann falla þrjár ár; Leirvogsá, Kaldakvísl og Varmá. Leiruvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingvalla og annarra landshluta.

Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ, Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímannsfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem eru friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, varma og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, Grettistaka á Þverfelli og Seljadal. Fornar þjóðleiðir. seljarúsir og aðrar sögulegar minjar eru einnig víða við gönguleiðirnar.

Jarðfræði

Stardalshnúkur

Stardalshnúkur.

Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýsskeiði, en í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.

Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslumvið virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal eru þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.

Gróður

Borgarkot

Skófir á Úlfarsfelli.

Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. Gróður teygir sig frá sjávarsíðinni, upp dalina og fellin. Odan til eru fellin gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi og hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjarfil, sunnan undir Helgafelli, hafa verið mektar nokkrar tegundir úr íslenskri flóru.“

Skarhólamýri

Skarhólamýri – skilti.

Rikki

Fjölmargar bloggsíður frá fyrri tíð lifa enn góðu lífi í „kosmósinu“, þökk sé innlendum varðveislumiðlum.

Ríkarður Ríkarðsson

Ríkarður Ríkarðsson (1961-2022).

Þessar síður voru forverar vorra fánýtu nútíma samfélagsmiðlasíðna. Að baki þeim lá veruleg vinna og mikil upplýsingasöfnun, sem engin ástæða er til að kasta fyrir róða.
Ríkarður Ríkarðsson starfaði sem lögreglumaður, síðast í Kópavogi. Hann fæddist á Húsavík 24. september 1961, en lést 20. nóvember 2022 eftir erfið veikindi. Fjölskyldan hefur reynt að leyta leiða til að viðhalda vefsíðunni til lengri framtíðar.
Rikki var frábær drengur og góður samstarfsfélagi.
Rikki hafði mikið dálæti á fuglum og bátum fyrri tíðar, líkt og sjá má á eftirlifandi bloggsíðu hans.
HÉR má sjá ávísun á bloggsíðu Rikka – https://rikkir.123.is/.

Úði á Vatnsleysutrönd

Úði á Vatnsleysuströnd.

Náttúruminjasvæði

Í Víkurfréttum árið 1988 má lesa eftirfarandi um „Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá„. Hafa ber þó í huga að í raun nær hugtakið „Suðurnes“ einungis yfir svæðið frá Hvassahrauni yfir byggðirnar austan og vestan Stapa á norðanverðum Reykjaneskaganum vestast. Grindavíkursvæðið er, og hefur verið, þar undanskilið.

Náttúruminjaskrá 1988

Forsíða Náttúruminjarskrár 1988.

„Út er komin á vegum Náttúruverndarráðs náttúruminjaskrá 1988. Bókin er með öðru sniði en fyrri útgáfur og fylgir litprentað kort af Íslandi, þar sem merktir eru staðir sem eru á náttúruminjaskrá eða eru friðlýstir.
Ellefu staðir hér á Suðurnesjum heyra undir náttúruminjaskrána en þeir eru:
(Skýringar við texta: Þar sem talan (1) stendur framan við texta er átt við hvar mörk svæðis eru skilgreind en þar sem talan (2) stendur er talað um náttúruverndargildi, t.d. sérkenni eða sérstöðu svæðis og gildi þess almennt og fræðilega séð.)

1. Keilir – Höskuldarvellir – Eldborg við Trölladyngju, Grindavík, Vatnsleysustrandarhr., Gull.

Keilir

Keilir.

(1) Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólksvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffei! í Keili. (2) Mikið gígasvæði vestan í Vesturhálsi, liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólksvangs. Norðan undir Trölladyngju er einstakur gígur, Eldborg, myndaður á sögulegum tíma. Á vesturmörkum svæðisins gnæfir móbergsfjallið Keilir.

Katlahraun

Katlahraun.

2. Katlahraun við Selatanga, Grindavík.
(1) Austurmörk fylgja mörkum Reykjanesfólksvangs að þjóðvegi, eftir honum að hlíðum Höfða, þaðan suður í Mölvík. (2) Stórbrotið landslag, hrauntjarnir og hellar. Friðaðar söguminjar við Selatanga.

Festisfjall

Festisfjall.

3. Hraunsvík og Festarfjall, Grindavík.
(1) Fjaran í Hraunsvík frá Hrauni að Lambastapa, ásamt kríuvarpi á Hraunssandi vestan Hrólfsvíkur. Suðurhluti Festarfjalls. (2) Snotrir sjávarhamrar og brimrofin eldstöð, Festarfjall. Fjölbreytt sjávarlíf. Fjölsóttur náttúruskoðunarstaður.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

4. Sundhnúksröðin – Fagridalur, Grindavík.
(1) Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól, um Hagafell, Sundhnúk, hluta StóraSkógfells, 3,5 km norðaustur í átt að Kálffelli, ásamt 400 m breiðu svæði beggja vegna gígaraðarinnar og Fagradal sem gengur austur af enda gígaraðarinnar. (2) Tæplega 9 km löng gígaröð sem kennd er við Sundhnúk. Snotrar hrauntraðir í suðvesturhlíð Hagafells. Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni. Fagridalur er grösugt dalverpi við norðvesturhorn Fagradalsfjalls. Söguminjar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst.

5. Strandsvæði vestan Grindavíkur, Grindavík.
(1) Strandlengjan frá Litlubót, ásamt Gerðavallabrunnum, vestur að Vörðunesi. (2) Fjölbreyttur strandgróður, fjölskrúðugt fuglalíf. Djúpar vatnsfylltar gjár, snotur hraunkantur með sjávartjörnum.

Eldvörp

Eldvörp.

6. Eldvörp – Reykjanes – Hafnaberg, Grindavík, Hafnahr., Gull.
(1) Mörk liggja úr Mölvík, nokkru austan Vatnsstæðis, 500 m austan Eldvarpagígaraðarinnar, norðaustur fyrirgíginn Lat, að borholu Hitaveitu Suðurnesja, HSK-10 við Lágar, í Þórðarfell, þaðan bein lína í veg fyrir botni Stóru-Sandvíkur, norðvestur með honum niður að Lendingamel, eftir Hafnabergi að eyðibýlinu Eyrarbæ. (2) Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi,sem er gliðnunarbelt á mótum tveggja platna. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna.
Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn.
Hafnarberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort; ÓSÁ.

7. Ósar, Hafnahr., Miðneshr., Gull.
(1) Vogurinn með strandlengju, fjörum og grunnsævi austan línu sem dregin er á milli Hafna og Þórshafnar. (2) Mikið og sérstætt botndýralíf, fjölbreyttar fjórur, vetrarstöðvar ýmissa fuglategunda.

8. Fjörur og tjarnir á Rosmhvalanesi, Miðneshr., Gerðahr., Gull.
(1) Fjörur og sjávarfitjar frá Stafnesi að Rafnkelsstaðabergi, m.a. Sandgerðistjörn, Gerðasíki, Miðhúsasíki og Útskálasíki. (2) Fjölbreyttur strandgróður og ýmsar fjórugerðir. Lífauðugar sjávartjarnir og mikið fuglalíf.

Snorrastaðatjarnir

Við Snorrastaðatjarnir.

9. Seltjörn, Snorrastaðatjarnir og hluti Hrafnagjár, Njarðvík, Vatnsleysustrandarhr., Gull., Grindavík.
(1) Svæði frá Seltjörn til Snorrastaðatjarna, ásamt skógarreitum. Einnig syðsti hluti Hrafnagjár. (2) Gróskumikill gróður í Snorrastaðatjörnum. Gróðursælir skógarreitir undir Háabjalla og í Sólbrekkum. Mikilvægur áningarstaður farfugla vor og haust. Kjörið útivistarsvæði. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðatjörn – Ásláksstaðir og Sjónarhóll.

10. Tjarnir á Vatnsleysuströnd, Vatnsleysustrandarhr., Gull.
(1) Síkistjórn, Vogatjörn, Mýrarhústjörn, Gráhella, tjarnir við Hlöðunes, Ásláksstaðatjörn, Sjónarhólstjörn, Knarrarnestjörn, Landakotstjörn, Kálfatjarnartjörn og Bakkatjörn, ásamt nánasta umhverfi. (2) Lífríkar tjarnir með fjölbreyttu fuglalífi.

Fagravík

Fagravík.

11. Látrar við Hvassahraun, Vatnsleysustrandarhr., Gull.
(1) Fjaran ogstrandlengjan frá Fögruvík að Stekkjarnesi suðuraðþjóðvegi ásamt ísöltum tjörnum og Hvassahraunskötlum sunnan vegar. (2) Sérstætt umhverfi með miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Sjávartjarnir með mismikilli seltu. Katlarnir eru regluIegar hraunkúpur, e.k. gervigígar, á sléttri klöpp í Hvassahrauni. Útivistarsvæði með mikið rannsókna- og fræðslugildi í nánd við þéttbýli.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þá er einn staður hér á Suðurnesjum, Eldborgir undir Geitahlíð við Grindavík, sem lýstur hefur verið náttúruvætti. Þá er Eldey friðlýst með lögum 1940, en friðlýst land 1960.“

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði. Jónsbúð í umdæmi Gindavíkur, gæti seint verið talin til Suðurnesja.

Eins og kom fram í upphafi lýsingarinnar er í umfjölluninni all frjálslega farið með hugtakið „Suðurnes„. Vestanverður Reykjanesskaginn nefndist jafnan Útnes og Romshvalanes utan þess, þ.e. Garður og Sandgerði. Saman hafa svæðin á stundum verið nefnd „Suðurnes“. Grindavík hefur hins vegar aldrei í fyrri tíma heimildum verið talin til „Suðurnesja“. Ruglingurinn virðist því fyrst og fremst vera hugarbrengsl ritstjóra Víkurfrétta í viðleytni hans til að útvíkka markaðshugtakið.

Heimild:
-Víkurfréttir, Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá, fimtudaginn 29. september 1988, bls. 15.

Eldey

Eldey.

Selhraun

Í Náttúrufræðingnum 1965 má lesa um „Forn eldvörp í Selhrauni“ eftir Jón Jónsson, jarðfræðing.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

„Ekki alllangt sunnan við Straum í Garðahreppi [nú Hafnarfirði] og skammt vestan við Kapelluhraun eru forn eldvörp. Þar hefur Vegagerð ríkisins tekið rauðamöl til ofaníburðar í vegi, og það er mest þeirri starfsemi að þakka, að hægt er nú að fullyrða að hér er um eldvörp að ræða.
Ekki er mér kunnugt um, hvernig þarna leit út áður en byrjað var að taka þar efni, en svo lítið ber á þeim hluta gíganna, sem enn er eftir óhreyfður, að líklegt má teljast, að þeim hefði alls ekki verið veitt eftirtekt, hefði þarna ekki verið grafið með stórvirkum tækjum. Nú er þarna umrót mikið og ýmislegt fróðlegt að sjá.
Gígir þeir, sem hér er um að ræða, eru á línu með stefnu NA—SV, eins og gígaraðir á Reykjanesi yfirleitt eru.
Yngri hraun hylja nú þetta svæði nær alveg, og hafa þau fært hina fornu gígaröð að mestu í kaf. Þau hraun eru komin sunnan að af svæðinu milli Sveifluháls og Vesturháls.

Selhraun

Selhraun – loftmynd.

Af því að yngri hraun hafa runnið yfir umhverfi gíganna, verður ekki með vissu sagt, hversu mikið hraun hefur frá þeim komið. Það er þó ljóst að eitthvað hraun hefur runnið í þessu gosi, og er það auðþekkt frá hraununum í kring. Það er peltspat-ólivín-porfyritiskt basalthraun með ólivínkristöllum, sem eru 1,5—2 mm í þvermál, og með einstaka allt að 3 cm stórum og allmiklu af 0,5—1 mm stórum feltspatkristöllum. Bæði stærri og minni feltspatkristallarnir virðast vera eins eða a. m. k. mjög líkir að samsetningu. Ljósbrot þeirra reyndist vera nWl 1.574, en samkvæmt Tröger (1959) er það An 70, en það eru mörkin milli labradorit og bytonit. Taldar voru steintegundir í tveim þunnsneiðum, samtals 2970 punktar. Útfrá því reyndist samansetning hraunsinsvera:
Plagioklas 45,4 %
Pyroxen 36,5 %
Ólivín 7,3 %
Ógegnsætt (opaque) 10,8 %

Selhraun
Hið síðastnefnda er að nokkru svart, ógegnsætt gler, en að mestu málmur, seguljárn og títanjárn.
Mikill fjöldi hnyðlinga er í þessu hrauni og sumir þeirra nokkuð stórir, eða um 5—7 cm í þvermál. Þeir virðast líkir þeim, sem áður hefur verið getið í þessu riti (Jónsson 1963). Slíkir hnyðlingar hafa nú fundizt víða um land, m. a. í Skaftáreldahrauni frá 1783, Fonti á Tungnáröræfum (heimild Elsa Vilmundardóttir), í Þórsmörk, við Grindavík og nú alveg nýlega fann Jens Tómasson, jarðfræðingur, hnyðlinga í Surtsey.
SelhraunÍ gígnum í Selhrauni fannst ennfremur stór feltspatkristall, sem reyndist vera ólígóklas (An 30). Hann var mjög illa farinn, sennilega mest vegna hita, og liggja jafnvel hárfínar basaltæðar í gegnum hann. Oligóklas á ekki heima í basalthrauni eins og þessu og verður því að telja líklegast, að um sé að ræða kristall, sem brotnað hefur úr eldra bergi nokkuð ólíku þessu að samsetningu og borizt með hrauninu á leið þess upp á yfirborð. Þess má geta að Jens Tómasson fann líka einn ólígóklaskristall í Surtsey.

Hraunið, sem runnið hefur umhverfis gígina og að nokkru leyti yfir þá, hefur ekki runnið fyrr en nokkru eftir, kannske löngu eftir að þeir gusu, því sums staðar má sjá að gjallið í þeim hefur verið farið að veðrast dálítið. Telja má víst, að þeir hafi verið orðnir mosagrónir, og á einstaka stað vottar fyrir jarðvegsmyndun. Víða í hólunum má greinilega sjá að hraunið hefur orðið fyrir snöggri kælingu, t.d. finnur maður á nokkrum stöðum þunnar basaltæðar í gjallinu og eru þær með svartri glerhúð. Einnig vottar fyrir hólstramyndun á stöku stað. Þetta vekur grun um, að hér hafi gosið í vatni, og við nánari athugun kemur í ljós að svo hefur verið.

Selhraun

Bergstandur í Selhrauni,

Á a. m. k. tveim stöðum í stálinu má sjá að hraunið hefur brotist upp í gegnum leirlög, sem nú eru sem vænta má mjög umturnuð og brennd hið næsta hrauninu, er brotizt hefur í gegnum þau. Aragrúi af skeljum hefur verið í leirnum og tekur það af allan efa um að hér hefur gosið í sjó. Sjálfar eru skeljarnar farnar veg allrar veraldar, en mótin eftir þær eru afar greinileg. Það er augljóst, að um allmargar mismunandi tegundir hefur verið að ræða, en mjög erfitt er nú að greina þær með vissu, því allt er þarna í einum hrærigraut og svo laust í sér að það fellur sundur ef við er komið.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Í Þorbjarnastaða-Rauðamel.

Örugglega má þó þarna greina leifar af hrúðurkörlum (Balanus). Smyrslingur (Mya truncata) er þarna líka og líklega rataskel (Saxicava arctica), og nokkrar fleiri tegundir. Diatomeur (kísilþörunga) má og finna í leirnum, en sama máli gegnir um þá, að skeljarnar eru mjög illa farnar og örðugt að ákvarða þær með vissu. Aðeins sárafáar heilar skeljar hefur tekizt að finna. Langmest ber á brotum úr Coscinodiscus og nokkrum öðrum sjávartegundum. Örugglega má ákvarða Biddulphia aurita og Navicula peregrina, en báðar lifa í söltu vatni.
Af ferskvatnstegundum reyndist mögulegt að ákvarða Eunotia sp., Pinnularia sp. og Tabellaria feneslrata.

Rauðamelur

Stóri-Rauðamelur – núverandi námusvæði.

Það virðist því líklegt, að þarna hafi gosið í sjó, en líklega hefur það verið nálægt strönd og hafa ferskvatnstegundirnar borizt út í sjó með lækjum.
Skammt vestan við Straum er Rauðimelur, en þar hefur rauðamöl verið tekin í mörg ár, og er nú búið að grafa þar niður fyrir grunnvatnsborð. Vafalaust er Rauðimelur leifar af eldvarpi, sem líka hefur myndazt í sjó á sama hátt og e.t.v. á svipuðum tíma og eldvörpin í Selhrauni.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.05.1965, Forn eldvörp í Selhrauni, Jón Jónsson, bls. 1-4.

Selhraun

Selhraun – berggangur.

Krýsuvíkurkirkja

Árið 1999 skrifaði séra Ágúst Sigurðsson þrjár greinar í „Heima er bezt“ um „Suðurkjálkann“, þ.e. bæi og ábúendur í Krýsuvík og tengsl þeirra við Herdísarvík. Hér birtist þriðja greinin af þremur:

Herdísarvík„Pílagrímsför kallar Sigurveig Guðmundsdóttir kennari þau minni, sem hún skráði um kynnisferð sína og Kristínar Benediktsdóttur, systur Einars skálds, til Herdísarvíkur á hásumri 1936. Skal að vikið í lokaþættinum um Krýsuvík, en fyrr sagt, að Einar Benediktsson keypti Krýsuvíkurstaðinn allan og var þinglýst 17. nóvember 1908. Var þá lokið sýslumannstíð skáldsins í Rangárþingi.
Framundan föst búseta í Lundúnum, þar sem fjölskyldan átti heimili frá 1910 og síðan í Kaupmannahöfn næstu ár, alls utanlands í fullan áratug. Þó er þar í dvöl um sinn í Héðinshöfða við Reykjavík. Ekki orðlengt um þá óvissu, sem hinir mörgu ábúendur í Krýsuvík bjuggu við, þó að Einar skáld og hinn norski félagi hans og meðeigandi H. Th. Arnemann hefðu umboðsmann vegna bæði Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, nágrannajarðarinnar 15 km austar og í Selvogi og Strandarsókn.

Einar Benediktsson

Var ekki á vísan að róa, þar sem Einar Benediktsson var, með leyfi að segja, og grunsemdir jafnan með mönnum og byggingin þókti ótrygg. Í slíku efni ber að varast að reyna að finna samnefnara skáldsins og frjálshyggjumannsins Einars Benediktssonar. Þar er hvor persónuleikinn of stór til að geta samrýmzt í einu orðaljósi, tignarhár skáldhuginn og margslungin sveimhyglin um fjárvon og ofvirki. Hitt er alkunna, hve Einari skáldi var hlýtt til þess fólks, sem hafði hugrekki til að þakka skáldskap hans og fylgdi eftir með kvæðalestri hrifinnar sálar. Vera kann, að hann hafi komið í Krýsuvík 1908, þegar hann keypti jarðirnar og fundum hans og hjónanna í Stóra Nýjabæ borið saman, enda viljað inna Kristínu húsfreyju um ýmist í Herdísarvík, þar sem hún ólst upp og Guðmundur bóndi reri árum saman. Hafi þau mært skáldið því lofi, sem vert var og þulið ljóðamál. Þess vegna ætti þau vísa ábúðina og ekkert að óttast. Seta Magnúsar Ólafssonar svo lengi, sem þegar er einnig sagt, í Krýsuvík, kann að eiga sömu skýringu.

Alþýðufólk, sem dáðist að skáldskap Einars og fylgdi eftir í reiprennandi flutningi fékk þess virðingar og ævinlegrar vináttu hjá skáldinu. Þær Sigurveig og Kristín systir Einars höfðu tekið sér bíl úr Hafnarfirði til Grindavíkur og gútu skrönglazt um hraunin austur í Krýsuvík. Þar fengu þær hesta lúnaða hjú Magnúsi og voru fulla 4 tíma á leiðinni austur hina löngu bæjarleið undir Geitahlíð og í Herdísarvíkurhrauni. Voru báðar alls óvanir reiðmenn, en þessi langi vegur talinn 3ja stunda gangur. Hafa þær stöllur því farið fetið, áð við Eldborgina og ef til vill báðar kviðið dálítið fyrir móttökunum, sem voru óútreiknanlegar varðandi ráðskonuna, sem bjó Einari Benediktssyni borð og sæng.
Það var Hlín Jónsdóttir frá Sandhaugum í Búrðardal. Hún var í áratug með Ingólfi Jónssyni manni sínum og mörgum börnum í Kanada og var þá og síðan skrifuð Johnson. Fór og því fram, þegar þessi heimskona var í Argentínu.
Aðdáun hennar á skáldinu 1927 leiddi til hinna nánu kynna og ævinlegu aðfylgdar. Um kuldalegar kveðjur, þegar þær Kristín riðu í hlað má lesa í frásögu Sigurveigar í bók hennar og Ingibjargar Sólrúnar: Þegar sálin fer á kreik (1991).
Kemur ekki á óvart, að Hlín var hrædd um, að Kristín væri komin til að sækja bróður sinn. Sem ekki hefði verið kyn, af því að hann var þá orðinn lamaður af slagi og illa farinn á sálinni, auk fyrirfarandi andlegs heilsutaps og hindrunar gleymskunnar. Hitt er síður kunnugt, að Einar Benediktsson hafði veðsett jarðirnar á Suðurkjálkanum 1928, þegar H. Th. Arnemann lánaði honum töluvert fé. Gleymdist að gera skilin og var eindagi 1930.
Síðan átti norski auðmaðurinn Krýsuvíkurland, unz Hafnarfjarðarbær greiddi upp skuldina eftir eignarnám 1937. Skal þar enn vísað til heimildar í Sögu Hafnarfjarðar I. eftir Ásgeir Guðmundsson. En svo fannst Einari mikið til um prófessorsnafnbót, sem hann var sæmdur með launum 1935, að hann arfleiddi Háskólann að Herdísarvík.
Veðinu var aflétt í tæka tíð, er Hafnfirðingar höfðu greitt skuldina. Háskólinn fékk Herdísarvík, bókakost lítinn og eitthvert innbú, sem er virt í minningu snillings, þegar skáldið dó undir lágnættið á hjútrúardaginn sjálfan 12. janúar 1940. Dagur reiði, dagur æði, votta heilög völufræði, sagði eldra samtíma skáld.
Mest undraðist Sigurveig, þegar hún hafði séð, hvernig komið var, en vissi eins og Hafnfirðingar, að fjármál skáldins voru brenndar brýr að hrundum borgum, að Kristín Benediktsdóttir sagði á bakaleiðinnni út í Krýsuvík, að það væri með ólíkindum, að Einar skyldi láta halda sér í því fangelsi einmanaleika og afskekktrar veru sem Herdísarvík væri, – hann, sem gæti búið á fyrsta flokks hressingarhæli suður í Evrópu og haft einkaþjón.

Síðast, þegar fólkið fór, var Magnús rýmilegur um hestlánið
KrýsuvíkMagnús hafði ekki bændagistingu eða rak ferðamannaiðnað í Krýsuvík. Hann var maður síns tíma, ekki vorra þjóðlífsdaga. Að sögn Guðbjargar Flygenring, dóttur hans, kom hann fyrst 15 ára unglingur til Árna sýslumanns í Krýsuvík (1887), en varð þar ekki heimilisfastur, fyrr en undir aldamótin. Ýmist skráður vinnumaður eða síðar í húsmennsku. Bóndi í Krýsuvík er hann hins vegar ekki á manntali, en lögheimili í Hafnarfirði, er hann var kvæntur Þóru Þorvarðsdóttur, en hún og börn þeirra, meðan voru í bernsku, áttu aðeins sumardvöl í kirkjuhúsíbúðinni í Krýsuvík. Loftið, sem þú var einnig lagt yfir kórbitana, var rúmgott svefnpláss, nær 25 m2 og þrjúr úlnir upp í mæni, 1.86 m. Stigi til loftsins er í norðvestur horni kirkjunnar, lítill gluggi á stafni, enginn á kórgafli, sem miklu hefði þú munað. Magnús og Þóra voru gefin saman í þessari kirkju hinn 10. maí 1917, hann 45 ára, hún 12 árum yngri, og var hún frú Jófríðarstöðum í Hafnarfirði, hann Óttarsstöðum eins og fyrr sagði. Síra Árni Björnsson í Görðum gifti þau, en svaramenn voru Þorvarður bróðir Þóru, þá bóndi í Krýsuvík, og Böðvar bakari og nefndarmaður í Hafnarfirði Böðvarsson frá Svarðbæli og Melstað í Miðfirði, náfrændi síra Þórarins prófasts í Görðum, sem oftsinnis gaf kirkjunni í Krýsuvík svo hraklega einkunn á öldinni, sem leið.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1950.

Þorvarður fór að Hvassahrauni 1918. Voru ábúendaskipti tíð í Krýsuvík eftir daga Árna sýslumanns 1898, en ótíð eftir lát hans fór fjölskyldan til Reykjavíkur og vinnufólkið tvístraðist, er dánarbúinu var slitið og síðasta og eina stórbúskapnum í Krýsuvík á nýöld var lokið.
Við upphaf 18. aldar voru 35-40 manns í Krýsuvík og fylgijörðum staðarins. Á aldamótum 1800 voru 11 á heimabólinu, 28 á hjáleigunum, kotamennimir, er svo voru kallaðir, og þeirra fólk, Suður- og Norðurkoti, Stóra og Litla Nýjabæ.
Aðeins eru 20 manns í sókninni árið 1823, og er það lágmark, en undir miðja öldina hefur fjölgað eins og alls staðar á landinu, og hafa þá bætzt við Vigdísarvellir og kotin Bali og Lækur og sóknarbúar 54. Voru bæði þau kot byggð 1869, en fáum árum fyrr skammtímabyggð í Snorrakoti og dá Hausi. Arnarfell, þar sem Beinteinn Stefúnsson kirkjusmiður bjó, var í eyði 1867.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Bali. (Uppdráttur ÓSÁ)

Ívar Ívarsson og Guðný Bjarnadóttir voru síðustu búendur á Vigdísarvöllum, fóru þaðan 1905. Í Suðurkoti er síðast fólk á manntali
1903, Norðurkoti aldamótaárið. Í Litla Nýjabæ, en þar verður autt 1904, hafði Magnús Ólafsson síðar sjálfstæðar búnytjar um hríð. Eftir
1906 er föst búseta aðeins á 2 bæjum, kirkjustaðnum og Stóra Nýjabæ.

Leiguliðar Einars Benediktssonar
Meðal heimabænda á fyrsta fjórðungi aldarinnar, sem jafnframt var lokakaflinn í eiginlegri byggðarsögu höfuðbólsins, voru Árni Jónsson og Vilborg Guðmundsdóttir, og áttu þau 9 börn, en frá 1907-14 Jón Magnússon og Ingibjörg Sigurðardóttir. Þau fóru til Reykjavíkur með fjórum börnum sínum. Þorvarðs er áður getið, en tveimur árum eftir að hann fór burt, fluttu Ísólfur Bergsteinsson og Guðný Sigurðardóttir með 7 börn sín frá Krýsuvík austur að Óseyranesi. Synir þeirra, Guðmundur 23 ára bóndi og Bergsteinn 24 ára vinnumaður, urðu eftir í Krýsuvík, en þeir gáfust upp á næsta ári, 1921, og fóru austur að Lundi hjá Krossi í Landeyjum.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Enn kom bóndi, sem ætlaði að freista þess að búa á hinni afskekktu beitarjörð, en hlaut frá að hverfa. Var það sigmaðurinn Marteinn Þorbjarnarson frá Þúfu, sem fór til Hafnarfjarðar 1925, en var mörg hin næstu árin á eggtíðinni í Krýsuvík og seig í bergið og seldi ritu- og svartfuglsegg. Var hann sjötti bóndinn, sem reyndi búskap í Krýsuvík á 25 ára bili, en hlaut að gefast upp.
Svili Magnúsar Ólafssonar innréttaði íbúðina í kirkjuhúsinu. Ástæður þess, hvernig fór um þessa mörgu bændur á lokaskeiði hinna gömlu búhátta, eru ljósar. Þær eru fyrst og fremst mannekla, skortur á tryggu og ódýru vinnuafli. Aðeins ein hjúleigan í byggð og nær engrar kvaðarvinnu notið. Hjálp var ekki einu sinni unnt að kaupa til að nytja Krýsuvíkurberg, manna bát eða bjarga fé undan illviðrum.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

Þá var hinn gamli staðarbær að hruni kominn vegna þess að honum var ekki haldið við, síðan um daga Árna sýslumanns fyrir aldamót. Það undanfæri, sem Magnúsi Ólafssyni gafst síðar, að komast undir þak kirkjunnar, var ekki innan seilingar, því að kirkjan var ekki afhelguð, fyrr en 1929. Sem hús var hún eins og vel viðuð og gamall sumarbústaður, alls ekki heilsárs sem kallað er, þegar slík orlofshús eru einangruð í hólf og gólf og mjög vel glerjuð. Það, sem forðaði þessu gamla guðshúsi frú flutningi norður fyrir Gestsstaðavatnið, þar sem nota mátti jarðhitann, var samgöngu- og tækjaleysið. Kirkjuhúsið stóð ekki undir vernd nokkurs manns, ráðs eða stjórnar. Það var eitt staðarhúsa jarðeigandans, veðsett eins og staðurinn allur með Stóra Nýjabæ. Hvorki komu hér eigandinn frú 1908 né meðeigandi hans og frú 1930, veðhafinn.

Auðir básar

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur 1961.

Þegar aðalbólið með hinni síðustu og sjálfstæðu hjáleigu í Stóra Nýjabæ hafði verið tekið eignamámi 1937 og Krýsuvíkurvegurinn loks
náði suður fyrir Kleifarvatn 1945 og að austan úr Selvogi og hafizt var handa um stórfelldar framkvæmdir, sú enginn nokkurt gagn í gömlu trékirkjunni. Samstíga 1600 m2 gróðurhúsum til blóma- og tómataræktunar norðanvert Gestsstaðavatns, þurfti hús og híbýli fyrir garðyrkjustjórann og aðstoðarmann hans, ráðskonu, mötuneyti og starfsfólk.
Byggt var stórt þriggja íbúða hús, þar sem voru að auki margar vistarverur fyrir lausráðna starfskrafta. Var þeirri mannvirkjagerð lokið 1949 og stækkun gróðurhúsanna árið eftir. Ögn austar á háum melnum norðan við vatnið hafði verið byggt stórt og vandað íbúðarhús 1948 fyrir bústjórann á stærsta kúabúi landsins, sem hér skyldi verða.

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Í fyrri grein var minnzt á 130 kúa fjósið og súrheysturnana, sem gnæfa yfir sprengigíginn Grænavatn. Sjálft stórfjósið, fleiri hús og herbergi fyrir fjósamenn og kaupafólk risu ekki. Kýr komu aldrei í hinn fyrsta og mikilláta áfanga mjólkurframleiðslunnar. Af 400 ha, sem átti að rækta og umbylta í töðuvöll voru aðeins 45 lagðir undir plóg og diskaherfi. Landinu var breytt og við þá eyðilegging var lítt snortinni gróðurvin milli Krýsuvíkurhrauns og Geitahlíðar, Ögmundarhrauns og Austurháls, núttúruperlu í dökkri umgerð, en við blik sunnan af hafi, umturnað í nafni stórrar landbúnaðarsveiflu vaxandi útgerðarbæjarfélags. Slíkt viðgengist varla nú, hálfri öld síðar.

Krýsuvík

Krýsuvík, Bústjórahúsið, síðar aðstaða Sveins Björnssonar.

Og þó, því að fátt bíður síns tíma og allt getur gerzt í mánaskini. Afskekkt veran í Krýsuvík gefur óverkum færi. Hitt var vel, úr því sem komið var, að Sveinn Björnsson fékk úkjósanlegt húsrými fyrir pensla sína og bauka, léreft og list. Enda kunni hann að meta töfra þessa einkennilega og hrjóstruga afkima á eyðilegri strönd Suðurkjálkans. Svo vel, að þegar hann dó í byrjun sumars 1997 var kistunni sökkt í mold í Krýsuvíkurkirkjugarði. Þó hafði ekki verið opnuð þar jörð í 8o ár.

Fullreyndin

Krýsuvík

Krýsuvík; Starfsmannahúsið (gult) og Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Löngu síðar en búskapardraumarnir áttu að hafa rætzt, en sorta dregið fyrir hugljómun búauðgi sýnarinnar, miklum fjármunum kastað á glæ og stakri náttúruperlu splundrað í þungu höggi, virtist enn ekki fullreynt. Í nafni Kjalarnesprófastsdæmis að viðbættum Kópavogskaupstað, var hafizt handa 1967 við miklar húsbyggingar sunnan við Gestsstaðavatnið. Reis næsta langdregið, steinsteypt tveggja hæða skólahús. Varð því ekki né verður lokið á þessari öld, fjarri fer því, hvað þá sérstökum þjónustuhúsum þar við fyrir Vestmannaeyjar og aðra kaupstaði hins fjölmenna prófastsdæmis.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2021.

Hugmyndin um eigi smálegt afdrep fyrir böm, sem ættu óhægt heima, var múrað inni í öflugu steypuvirki. Annars konar starfsemi er hér rekin í óyndislegri einangruninni, sjálfsagt vel meint og nær vonandi árgangri hins góða markmiðs. Í húsinu er t.d. falleg heimiliskapella, sem vígð var fyrir tíu árum, enda æðispöl frá staðarkirkjunni. Hinn gífurlegi jarðhiti í Krýsuvík nýtist ekki til upphitunar, heldur verður að kynda með hráolíu. Gæti því virzt sanngirni, að setrinu hefði átt að velja hentari stað – með tilliti til aðkeyptrar þjónustu og samgangna, þó að 10 km af Krýsuvíkurveginum suður um Kapelluhraun séu bundnir tveggja akreina slitlagi og 7 km austur frá Krýsuvík að sveita- og sýslumörkum við Selvog og Ámesþing. Byggilegri stað og umfram allt hlýlegri, manneskjulegri. Austurháls, Gullbringa og Geitahlíð eru þögult og dimmleitt aðhald í landnámi Þóris haustmyrkurs, hraunin óyfirstíganleg hótun og úthafið ögrun við þann, sem kann að eiga lífslöngun og jarðneska von.
Sóknin litla á Suðurkjálkanum er falin geymd liðinna alda þjóðarsögu, sem ekki á endurtekningu, heldur er hulin regnsteypum af hafi og eldsumbrotum lands í sköpun.“

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Heima er best, 5. tbl. 01.05.1999, Söguhvörf á Suðurkjálka. Ágúst Sigurðsson, blss. 188-191.

Krýsuvík

Krýsuvík; Hverafjall, Hveradalur og Baðstofa efst.

Krýsuvík

Árið 1999 skrifaði séra Ágúst Sigurðsson þrjár greinar í „Heima er bezt“ um „Suðurkjálkann“, þ.e. bæi og ábúendur í Krýsuvík og tengsl þeirra við Herdísarvík. Hér birtist önnur greinin af þremur:

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

„Það var í heimskreppunni, svo að út í frá var það ekki fréttnæmt né undarlegt í augum heimamanna í Grindavíkurhreppi eða nærsveitarfólks austur í Selvogi, að Krýsuvík lagðist í eyði. Endanlega, að álitið var, og enginn á manntali, en þó var Magnús Ólafsson frá Óttarsstöðum í Garðahreppi viðbundinn í Krýsuvík 1933-1945, hafði komið þangað fyrir aldamót, unglingur og varð vinnumaður, síðar húsmaður.
Loks einbúi, nema sumartímann, þegar kona hans, Þóra Þorvarðardóttir frá Jófríðarstöðum, og börn voru hjá honum uppfrá“, eins og frú Guðbjörg Flygenring dóttir þeirra kallar það. Svo rækilega hreinsaði útsog tímans og breytinganna þetta byggðarlag að fólki og fénaði, að eftir stendur einn maður með sárafáar skepnur“, segir í Harðsporum Ólafs frá Herdísarvík.

Stóri Nýibær

Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Síðustu bændahjónin í Krýsuvík, sem búið höfðu í Stóra Nýjabæ í 38 ár, fluttu burt með 8 vöxnum börnum sínum, sem enn voru að heimilishúsi, 1933. Hjónin höfðu gifst í Krýsuvíkurkirkju 8. september 1895, hann 29 ára, í húsmennsku og til sjós, sem lengst af ævinnar, hún 18 ára heimasæta í Herdísarvík. Þetta voru Guðmundur Jónsson frá Hlíðarenda í Ölfusi og Kristín Bjarnadóttir, sem getið var í fyrra þætti.
Þessum hraustu, dugmiklu og vel gerðu hjónum varð 18 barna auðið. 4 voru fædd, þegar berdreyminn föðurinn í Stóra Nýjabæ dreymdi, að hann fyndi kolluhreiður úti við sjó. Í hreiðrinu voru 4 egg, en þegar hann tók af dúninum, sá hann 14 egg undir – og eitt brotið. Andvana drengur fæddist 1906. Öll hin heilbrigð og komust upp. Lifir nú Guðrún Elísabet ein, 78 ára.
Stóri-NýibærAllra veðra er von á hrjóstugri úthafsströnd og 4-5 tíma gangur vestur í Grindavík, þar sem ljósmóðirin átti heima. Of langt og áhættusamt var að vitja hennar, stundum árvisst, svo að Guðmundur lærði tökin, sem mjúkhendum eiginmanni og bónda eru lagin og kunnug, og tók hann sjálfur á móti flestum barnanna. Læknir kom ekki á heimilið í lækniserindum í öllum þeirra langa búskap í Stóra Nýjabæ. Svo hraust og heilbrigð var Kristín, 18 barna móðirin, og öll fjölskyldan.
Þau voru aldrei ein í Krýsuvíkurbyggðinni, þó að önnur útbýli færu í eyði á fyrstu árum aldarinnar, sem enn verður sagt, og tíð ábúendaskipti á höfuðbólinu, sem átti hraða hnignun, þegar sýslumannsfjölskyldan var farin. Mest var þó niðurhrapanin eftir 1908, þegar íslenska stórskóldið, löngum erlendis, og norskur auðmaður, félagi hans, höfðu keypt Krýsuvíkurtorfuna eins og hún lagði sig.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1950.

Síðasti heimabóndinn, Marteinn Þorbjörnsson frá Þúfu í Ölfusi, fór til Hafnarfjarðar 1925 með fjölskyldu sinni. Enginn var í manntali á höfuðbólinu eftir það, eins og sagt verður frá og rakið í næsta þætti, að sögulokum í þessari afbyggð á Suðurkjálkanum. En Magnús Ólafsson, þó heimilisfastur í Hafnarfirði með konu sinni og börnum, var eini nágranni fólksins í Stóra Nýjabæ, uns þau létu undan síga fyrir heimskreppunni. Fóru þau til Hafnarfjarðar og dó Guðmundur þar 1940, Kristín á hásumri 2 árum síðar.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Í minningarorðum eftir hana (Mbl. 24. júlí 1942) er ævistarf hennar í Stóra Nýjabæ kallað þrekvirki og hún sögð óvenjulega vel gefin til munns og handa, glöð í lund og bjartsýn, enda tekist að leysa af hendi þetta mikla hlutverk með þeirri sæmd, sem aðeins finnist fá dæmi til. Guðmundur var mjög vel vinnandi til sjós og lands, og bú þeirra var gott og aldrei skortur á hinu stóra heimili. Hann gerði út bát fyrstu 8 búskaparárin frá Herdísarvík og var formaður á, síðar sókti hann sjó utan úr Grindavík.

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

Sýslumaðurinn Árni var fæddur í Vesturhópshólum 14. september 1820. Faðir hans, síra Gísli Gíslason var frá Enni, austanvert við ósa Blöndu, bóndaættar dugandi megns, fæddur í lok móðuharðinda. Þókti hann vel gáfaður og gerðist fróður með aldri, skáldmæltur, en flíkaði ekki, því að Ragnheiður kona hans, Vigfúsdóttir Þórarinssonar, var systir skáldsins Bjarna, síðast amtmanns á Möðruvöllum. Hún var talin gáfu- og mannkostakona. Þau skildu 1831 og var hiklaust sagt eftir það, að síra Gísli væri sérsinna og stórbrotinn í lund og hætti. Þeir, sem gerst þekktu, hugsuðu til skaphafnar Bjarna Thorarensens, sem var næsta stirðlyndur og lét hvergi undan. Maður Gyðingalögmálsins um auga fyrir auga í réttvísi lærdóms síns. Var Árni nokkuð með hinu þjóðkunna skáldi, frænda sínum, og mikla embættis- og valdsmanni á unglingsaldri. Saman voru þeir í Bessastaðaskóla Árni og Skúli bróðir hans, númsmenn miklir, en morgunsvæfir, segir Benedikt Gröndal, og söngmenn góðir. Röddina missti Árni í vonbrigðunum í búskap sínum í Krýsuvík, þú á sjötugsaldri.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Gísli bróðir þeirra í Hólum á að hafa verið mjög latur piltur, en umsögn Gröndals getur verið svigurmæli. Hitt er alkunna, að æviganga Gísla var næsta örðug. Kornungur fékk hann þá ást á roskinni konu í sókn föður síns, Rósu Guðmundsdóttur skáldi á Vatnsenda, að hann kvæntist henni. Var Sigurður Breiðfjörð veisluskáldið í brúðkaupi þeirra undir Jökli. Áttu þau heima síðast, þegar Skáld-Rósa lifði, hann svo einn og sorgmæddur, ungur ekkjumaður, á Hvaleyrarholtinu við Hafnarfjörð.
Síra Skúli Gíslason prófastur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, gerði nafn sitt ódauðlegt í sögu íslenskra bókmennta, segir dr. Sigurður Nordal, með þjóðsögunum, er hann færði svo snilldarlega í stílinn fyrir Jón Árnason og prófessor Maurer, rúmar 60 sögur. En faðir þeirra bræðra lét lítið á hæfileikum sínum bera, segir gamli Gröndal á sinn bersögla, beiska hátt: „Það getur vel verið, að þetta sé hin réttasta aðferð hér, því að hér er aldrei til neins að skara fram úr, nema í skömmum og óknyttum, ef lög nú ekki til, því úgæti er einskis metið.“

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

Samt eru það sannindi, að Árni Gíslason var metinn að verðleikum sem yfirvald Skaftfellinga á löngum sýslumannsferli, 1850-1879, og virtur vel, er hann var ríkisbóndi á Kirkjubæjarklaustri, þar sem hann bjó svo stórt, að hann var um sinn fjárflestur bænda í landinu og galt hæsta lausafjártíund (sbr. Tíðindi Prestafélags hins forna Hólastiftis 1971).
Árni Gíslason var réttvís í sýslumannsembætti, en minnir þó lítið á Bjarna lagamann, frænda sinn, er hann lifði í anda Kristí miskunnar, ekki lögmálsréttlætis Hebreanna. Lögfræðin var hans góða fylgja í móðurætt, en hann var kynborinn bóndi í húnvetnsku föðurættina. Varð sú hneigð slík árátta, að leiddi hann til ófarnaðar skepnumissis og fjártaps.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði þar sem Magnús dvaldist við fjárgæslu.

Lét hann reka sitt fallega fé austan af Síðu og út í Krýsuvík, þar sem er óyndislegt mönnum og allri skepnu, sem vanist hafa tit muna sælla og betra. Strauk féð úr útigöngunni á harðasta tíma, sem mörg hin fyrstu árin voru í búskap Árna í Krýsuvík, og mun flest hafa farist í vötnunum.
Ef Ölfusárósar voru á ís, þá í Þjórsá…. Og það fann Árni Gíslason brátt, að Krýsuvíkurlandið var ofsetið og ofbeitt. Jörðin bar ekki þann stórbúskap, sem hann ætlaði, auk töluverðs hokurs kotamannanna. Allt á vogun útigangs, engin hús nema lambakofar. Gróðurland hinnar litlu sóknar á Suðurkjálkanum, milli Krýsuvíkurhrauns í austri og Ögmundarhrauns í vestri, frá úthafsströndinni og norður undir Kleifarvatn, hafði stórlega minnkað, farið aftur í kulda, áfoki og ofbeit, síðan hér var hin sæla mjólkursveit við upphaf 18. aldar. Ekki var unnt að verjast ágangi sauðfjár úr öðrum sveitum, fyrr en Hafnfirðingar girtu fyrir með 18 km langri varnargirðingu um miðja þessa öld.

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús frá Krýsuvíkurbænum frá fyrri tíð.

Árni sýslumaður komst í varnarstöðu, einnig um Krýsuvíkurberg. Sjósjókn varð æ minni frá verstöðinni á Selatöngum, en róið nokkuð lengur frá Herdísarvík. Ella tók útgerð í hverfunum úti við Grindavík alfarið við.
Með Árna Gíslasyni og öldinni, sem leið, var lokið búskaparsögu Krýsuvíkur til lands og sjávar, sem staðið hafði við kyrr kjör, sem enst höfðu heimabónda og kotamönnum frá upphafi í Gömlu Krýsuvík. Heilli lengdargráðu austar voru lokin nú í nánd. Árni Gíslason dó 26. júní 1898, og er hinn eini legsteinn í kirkjugarðinum á leiði hans við suðausturhorn kirkjunnar. Síðastur var jarðsettur þar 1917, Páll Pálsson þurfamaður, fæddur í Hafnarfirði um 1850. Þaðan í frá enginn í 80 ár, sem enn verður fært í frásöguna.
Elín Árnadóttir frá Dyrhólum, ekkja Árna sýslumanns, bjó áfram fardagaárið og jafnframt henni Ragnheiður dóttir þeirra Árna og Pétur Fjeldsted Jónsson maður hennar, síðar verslunarstjóri í Reykjavík, en þangað fluttu þau hjónin og ekkjufrúin þegar 1899.

Herdísarvík

Herdísarvík um 1900.

Þórarinn smiður sonur Árna af fyrra hjónabandi hóf búskap í Herdísarvík 1895, þegar Sólveig Eyjólfsdóttir, ekkja Bjarna Hannessonar, hætti þar búskap, sem hún hafði stýrt af röggsemi í nær 7 ára ekkjudómi. Voru þau foreldrar Kristínar húsmóður í Stóra Nýjabæ, síðustu húsffeyju hins gamla sögutíma í Krýsuvíkursókn.
Þjóðkunnur var Skúli héraðslæknir í Skálholti, sonur Árna sýslumanns af síðara hjónabandi, dáinn nær níræður 1954, latínumaður mikill. Sonur hans var Sigurður magister og ritstjóri, sem m.a. samdi hina fyrri Hafnarfjarðar sögu, sem út kom 1933.

Sóknin fyrr á tíð

Krýsuvíkurtorfan

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur ÓSÁ.

Við allsherjar manntalið 1703 eru 6 hjáleigur í Krýsuvík og alls í þeim 23 sálir, 10 á heimabólinu. Í grannsveitinni að austan eru 12 jarðir og fjöldinn allur af hjáleigum. Flestar mjög lítil kot og graslaus að kalla, eins og úti í Grindavík, þar sem 4 hjáleigur voru á Stað, 3 á Húsatóftum, 10 í Járngerðarstaðahverfi, á Þókötlustöðum 5 og Hrauni 2.
Tíu árum síðar hefur fjölgað í Krýsuvík og eru 41 í sókninni. Eru þá nefndar hjáleigur staðarins í Nýjabæ og Litla Nýjabæ, Norður- og Suðurhjáleigu, Austur- og Vesturhúsum, en Gestsstaða getið, eyðibóls austan undir Móhálsum. Selstaða heimajarðarinnar er talin merkilega góð, önnur til fjalls, hin niður undir sjó.
Eins og gefur á að líta í ferðabók hafa kýrgrös sýnst góð í Krýsuvík, en í stórfjósið, sem er harðneskja fyrir mannsauganu norðan við sprengigíginn Grænavatn, komu að vísu aldrei þær mjólkurkýr, sem vænst var, um eða yfir 300, og áttu að sjá Hafnfirðingum fyrir hvítum mat.

Krýsuvík

Krýsuvík – túnakort 1918.

Í Jarðabókinni í byrjun 18. aldar eru taldar 20 kýr í Krýsuvík og hjáleigunum, auk annars nautpenings, en griðungurinn fóðrast á staðnum. Leigukúgildin eru 4 og er greitt af í smjörum. Ekki til eiganda jarðarinnar, Skálholtsdómkirkju, heldur af hálfu til þingaprestsins, kirkjuþjónsins. Hinn hálfan smjörtollinn fékk ábúandinn, Sigvaldi Bjarnason, fyrir að fóðra nautið og hafa tilsjón með hinum mikla kúabúskap landsetanna. Mjólkurmaturinn var veigamikill með fiskmetinu í sjávarsveit, en verstöðin við Selatanga hafði eflst. Ef ekki væri heilbrigði með fólkinu væri lítil eftirtekjan af Krýsuvíkureigninni.

Hraustur líkami, búhyggindi eins og um heimatekjur prestsins
KrýsuvíkHjátrúin launar í jörðum Selvogsþing voru fátækt brauð og afskekktur útnári, og svo drungalegt er þar í útsynningi og regnsteypum af hafi við brimseltusog, að hjátrú átti þar greiða aðkomu. Trúin á galdramátt síra Eiríks Magnússonar, sem varð sálnahirðir Krýsvíkinga löngu fyrir stóra manntalið og átti enn nokkur ár ólifuð, þegar bæði menn og kýr komust á skrár Jarðabókarinnar, var mjög meinlaus dægrastytting.
KrýsuvíkÞegar hugsað er til hinna ægilegu galdraofsókna samtímans og skelfilegu manndrápa í heitum eldslogunum, eru galdrar síra Eiríks aðeins sjónhverfing, dáleiðsla, sem hlaut ríkulega umbun í jörðum. Á Suðurlandi og út með sjó á Suðurkjálkanum á Reykjanesi voru menn ekki brenndir á bálköstum, þótt sýndi glettni, jafnvel sjálfum biskupinum. Og skemmtileg þversögn er það við hina sjúklegu hjátrú og sálsýki, sem einstakir menn gátu magnað í heilum byggðarlögum, að ekkja eins hins alvarlegasta og aðfinnslusamasta biskupsins í Skálholti á þessari síðustu öld stólsins, madama Guðrún Einarsdóttir, gaf hinu fátæka brauði, Strandar- og Krýsuvíkursóknum, þær eignir, sem um munaði: Strönd, Vindás og hálft Þorkelsgerði. Var það 18. september 1747.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

Með sérvisku sinni og hálfkæringi hafði síra Eiríkur í Vogsósum einstakt lag á að vekja athygli á eymdarkjörum þingaprestsins í Selvogi. En smjörskökurnar úr 2ja dómkirkjukúa mjólkinni í Krýsuvík reiddi hann heim eftir messu í þessari litlu sókn, þar sem smjör draup af strái í mýrlendinu milli hraunanna.
Hitt er meinleg rás viðburðanna, að allt, sem var til gangs og góða í kúasveitinni Krýsuvík á fyrri tíð, varð sú glýja í augum aldarfarsins, þegar sóknin var lögst í eyði, að ginnti út í eitthvert dýrasta og vitlausasta búskaparævintýri á landbúnaðarbyltingar tímanum. Skilur eftir djúpu skurðasárin í landinu, sem var mannlaust eyðipláss og saklaust, en freistaði að vísu, af því að í gamla daga var það vaxið svo góðu kýrgrasi, að haldið var, að allt þetta væri hér um bil gefins og gerðist fýrir sama og ekki neitt.

Krýsuvík

Krýsuvík 1909.

Listinn um eina mjólkurkú fyrir hverja tvo á fólkstalinu villti hrapallega sýn. En síra Eiríkur í Vogsósum er jafn sæll á svip í mynd sögulegrar geymdar, þegar hann sveiflar hægri löppinni yfir hnakkinn eftir messu og góðgerðir í Krýsuvík með þétta og fallega smjörbelgi yfrum hnakknefið og slær í heimfúsan hestinn. Langt var að sækja, því að útkirkjuvegurinn í Selvogsþingum er teygingasamur, þegar kvölda tekur og svört hraunin og dimm nóttin sameinast. Alfaraleiðin lá yfir að Geitahlíð og með henni hjá Eldborginni á Deildarháls, um Hvítskeggshvamm, þar sem síra Eiríkur safnaði galdragrösum sínum, og svo um Herdísarvíkurhraun.
Miklu austar miðju á þessari draugalegu, seinförnu reiðgötu er bærinn í Herdísarvík, umkringdur reginauðnum hrauns og úthafs. Á fyrri tíð var hér aðhlynnandi áningarstaður ríðandi manns, en oftast gangandi. Í síðustu byggðarsögu sat einsemdin um sálirnar á þessu afskekkta hrauns- og sjávarbóli og kvaldi í beyg þau, sem var hræðslugjarnt, og boðaði feigð, þegar hallaði út degi og jarðdimmt orðið undir skáldhimninum.“

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Heima er best, 4. tbl. 01.04.1999, Útsog á Suðurkjálka, Ágúst Sigurðsson, bls. 140-143.
Krýsuvík