Elliðakot

Í Alþýðublaðinu 1. nóv. 1963 fjallar Hannes á horninu m.a. um „Elliðakot„.

Elliðakot

Elliðakot.

„Um daginn vakti ég máls á því, að nýju elliheimili yrði valinn staður við Rauðavatn, og ræddi ég um þetta af tilefni þeirrar hugmyndar Gísla Sigurbjörnssonar að reisa smáhýsi við stærri elliheimili, sem aldrað fólk gæti fengið leigt eða að einhverju leyti til eignar en notið aðstoðar og fyrirgreiðslu starfseminnar í aðalbyggingunni.

Rauðavatn

Rauðavatn.

Hugmynd Gísla hefur nokkrum sinnum verið rædd opinberlega og ég minnist þess, að fyrir um tveimur áratugum minntist ég á svipað og þetta eftir að hafa kynnzt starfsemi fyrir aldrað fólk erlendis. Nú hefur mér verið bent á annan stað, sem gæti reynzt alveg eins heppilegur og við Rauðavatn, en það er jörðin Elliðakot, sem nú hefur verið í eyði í nokkur ár. Það var ræktað land og þar er fallegt vatn, skjólsamt og mátulega langt frá Reykjavík. Gott væri ef ráðamenn vildu athuga þessi mál. Elliheimili eiga ekki að vera inni í miðbiki borga. Þau mega heldur ekki vera langt í burtu. Rauðavatn og Elliðakot, virðast uppfylla flest skilyrði.“

Elliðakot

Elliðakot.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1914 fjallar Björn Bjarnason um örnefnin ofan Grafar, einkum þó hinar fornu þjóðleiðir.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason.

„Eg hefi gert skrá yfir örnefni sem nú eru kunn á jörð þeirri, er eg hefi búið á nú síðastliðin 16 ár. Hún er sýnishorn af örnefnafjölda á einni jörð. Alt landið er nöfnum stráð. Verða mætti þetta öðrum til hvatningar er rita vildu slíka skrá fyrir jörð sína og þannig geyma örnefni hennar frá röskun og ef til vill glötun. Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.

Austurleið

Austurleið.

Alla tíð síðan landið var bygt hlýtur umferð að hafa verið mikil milli austurhéraðanna annars vegar og sveita og hafna við sunnanverðan Faxaflóa hins vegar. Uppsigling kaupmanna hefir verið þar tíðari og sjávarafli vissari en á brimströndunum ofanfjalls, en aftur á móti betri landbúnaður eystra, og vöruskifti þvi mikil milli þessara staða. Hestar voru einu flutningatækin.

Ferja

Ferja á Þjórsá um 1900.

Þó ferjur væru við stórárnar hafa menn heldur kosið að fara þær á vöðum, er þess var kostur. Flóann hafa menn forðast vegna foræðanna og hraunin vegna ógreiðfærni og járnafrekju. Aðalvegurinn austan að, úr Rangárvallasýslu, hefir verið fyrir ofan Flóann, Þjórsá farin á Nautavaði eða Kallaðarholtsferju. (Sá bær er nú nefndur Kaldárholt, sbr. Árbók Fornl.fl. 1907, bls. 36. Norðan við túnið þar er Naustanes og Skipaklettur við Þjórsá og bærinn er í stefnu við veginn norðan Flóans. Engin Kaldá er þar til, en hverir í Þjórsá við túnið). Síðan hefir vegurinn legið yfir Skeið, sunnan undir Vörðufelli, og þá ofan með Hvítá. Vegarskoran í Árhrauni og gatnafjöldinn á Brúnastaðaflötum ber vott um, að sá vegur hefir verið fjölfarinn, en nú er þar að eins bæjaslangurs-umferð. Hvítá hefur verið farin á ferjum eða vaðinu, sem Vaðnes dregur nafn af. En á Soginu var almenningsvað, oftast fært, yfir Álftavatn, fram um miðja næstliðna öld. Þaðan lá leiðin upp Grafning, Dyraveg og Mosfellsheiði til Almannadals. Þessi leið var einnig beinust fyrir þá, sem fóru Hvítá á Tunguvaði og út Tungur, eða á ferjum þar fyrir neðan alt að Laugardælum. Á allri þessari leið er aðeins ein brekka, svo teljandi sé, og hún ekki há, upp á Dyrafjöllin að austan hjá Nesjavöllum, lítið um votlendi og engin hraun nema stuttan spöl á tveim til þrem stöðum.

Sporið

Sporhellan ofan Dyradals.

Þenna veg hafa t. d. Skálholtslestirnar farið til Suðurnesja öldum saman, og hefir munað um sporin þeirra. Allstaðar er graslendi og hagar góðir með þessum vegi. Þar sem vegurinn liggur yfir Dyrafjöllin eru þau aðeins lítill háls með ásum og vellisdölum.

Sporhella

Sporhellan.

Á einum ásnum verður að fara yfir hallandi klöpp, sem nefnd er Sporhella. Hefir myndast sporaslóð i bergið, efst fyrst, en sporin síðan stigist niður eftir klöppinni. Eru nú sporarákarnar með bálkum á milli orðnar um 2 fðm. að lengd (líkist tönnum í greiðu). Vegur þessi hefir nú lengi verið sjaldfarinn. Dyrnar, sem nafnið er dregið af, eru á veginum milli Dyradals og Skeggjadals; er rétt klyfjagengt milli standklettanna. Af vestasta ásnum blasir við útsýn yflr Faxaflóa og Nesin. Vestur eftir Mosfellsheiði sést enn dökk, breið rák eftir umferðina. Þar eru víðir mosamóar, sem margar götur hafa myndast í, og eru enn ekki að fullu grónar. Og þessi vegur hefir á fyrri öldum legið um Hofmannaflöt til Almannadals.
Önnur aðalleiðin austanað hefur verið út með sjó, sunnan Flóa, um Sandhólaferju og Óseyrarferju, og þeir, sem áttu leið vesturyfir heiði, hafa einkum farið Ólafsskarðsveg. Hann er því nær brekkulaus og hrauna. Hellisheiði og Lágaskarð hafa verið sjaldfarnari. Þeir vegir koma saman á Bolavöllum, »Völlum hinum efri« liggja norðan Svínahrauns, um »Völlu hina neðri«, og saman við Dyraveg hjá Lykla (Litla-?) -felli, og þar litlu neðar hefir Ólafsskarðsvegur einnig komið saman við þá.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð. En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot (sögn er sú, að Gizur biskup hafi átt samleið með þeim „upp undir Hellisheiði“ hendir til, að þangað hafi Dyra- og Ólafsskarðsvegir legið saman, eins og hefi hér bent á. Vegaskiftin eru vestast á heiðinni niður frá Lyklafelli; Viðeyjarsel hefir líklega verið litlu neðar, og þar gátu þeir hafa skilið) (Helliskot=Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins.

Austurleið

Austurleið.

Úr Almannadal hefir legið:
1) vegur til norðurs hjá Reynisvatni niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin), Geldinganesi(?) og Gufunesi, og til verzlunar við kaupmenn, sem þar hafa legið á hinum góðu höfnum (t. d. Hallfreð vandræðaskáld á Leiruvogi), og til Viðeyjar;
2) vegur til vesturs um Árbæ til Seltjarnarness;
3) vegur til útsuðurs yfir Elliðaár á (Vatnsenda-) Skygnisvaði um Vatnsenda, Vífilsstaði til Hafnarfjarðar, Álftaness og suður með sjó;
4) vegur fyrir ofan Rauðhóla og sunnan Elliðavatn, er farinn hefir verið þá er Elliðaár þóttu torfærar á vöðunum fyrir neðan Vatn.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur – Lyklafell.

5) vegurinn austur frá öllum fyrrnefndum stöðum, sameiginlegur upp undir Lyklafell, hverja leið er svo skyldi fara austur yfir hálendið (= fjallið), eins og fyr segir. Einnig til selfara upp í heiðina; Nessel, frá Nesi við Seltjörn, var t. d. í Seljadal í Þormóðsdalslandi, Viðeyjarsel við Selvatn? o. s. frv. Þá hefir Almannadalur borið nafnið með réttu.

Seljadalur

Vegur um Seljadal.

En hvenær vegarstefnurnar hafa breyzt má sjálfsagt finna með sögurannsókn, sem eg hefi eigi hentugleika til. Það hefir líklega orðið um sama leyti sem stefnu Mosfellsheiðarvegarins var breytt og hann lagður um Seljadal. Þá hefir Dyravegur hallast norður saman við hann hjá Miðdal (Mýrdal?). Mosfellsheiðarvegur lá áður um Illaklyf sunnan við Leirvogsvatn og ofan Mosfellsdal. Í Illaklyfi eru djúp spor í klappirnar og vegurinn auðrakinn alla leið, þó sjaldan hafi farinn verið á síðari öldum. Á þeirri leið er Tjaldanes, þar sem Egill fyrst var heygður, (nú nefnt Víðiroddi).
Grafirnar, sem margt af bæjum á landi hér dregur nafn af, eru oft grónar, djúpar geilar eftir læki; svo er hér.

Bullaugu

Uppdráttur (hluti) af nágrenni Grafarholts
Uppdráttur frá 1963 sem sýnir örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess.

Það er allvítt svæði sem hér er kent við Hádegi, enda voru 4—5 bæir i »Grafarhverfinu« og hafa allir haldið hádegi þar, en lítið eitt mismunandi, sumir á hæðinni, aðrir á vörðunni, o. s. frv. Hér var bygt ból snemma á næstl, öld, og síðar fjárhús frá Gröf. Nú er þar greiðasöluhúsið »Baldurshagi«, er dálítill landblettur fylgir.
Hefir á síðari tímum verið nefnd Margróf (latmæli) og var ágreiningur um merki milli Grafar og Árbæjar. Nú er þetta lagfært og merkin ákveðin.
Norðlingaholt. Um uppruna þessa órnefnis er ókunnugt,  en mér þykir líklegt að það stafi af umferð Norðlinga þar. Þegar þeir fóru til Suðurnesja, lá leið þeirra um Mosfellsheiði og yfir Mosfellssveit. Á fyrri öldum var lítið að erinda til Reykjavíkur, sem þá var að eins eitt býli. Lá þá beinast við að slá sér á austanveginn hjá Rauðavatni; er örstutt úr Grafarvogi suður á hann, enda er enn sýnileg skýr fornvegarskora yfir Hádegismóa hjá Hádegisvörðu í þá stefnu, ótrúlega djúp til að geta verið heimilisgata frá Gröf, og að öllu leyti lítil ástæða til slíkrar umferðar þar þaðan.

Austurleið

Varða við Austurleið.

En hafi Norðlingar farið þá leið, lá vegur þeirra meðfram Norðlingaholti að austan og sunnan. Á suðurleið sást þar fyrst til ferða þeirra frá næstu bæjunum þar, Elliðavatni og Vatnsenda, Oddagerði (Oddgeirsnes ?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á. M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á life … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.

Oddagerðisnes

Oddagerðisnes – loftmynd.

Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes.
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skygnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skygninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.

Um Grafarkot segir í A. M.: »bygð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina að forn eyðijörd verið hafi, og hún fyrir svo löngum tíma í audn komin að fæstir vita hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa að þessi jörd hafl heitið Holtastadir«. Forn-rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefir verið mikið stærra fyrrum og girt. Eru utan (á því „byggði Bened. heit. Sveinsson í fyrstu flóðstíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk, og hraut um leið af nesinu) við það afar-fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Sel hefir verið suð-vestan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi. _ ;.  Garður mikill hefir verið bygður út í Grafarvog frá báðum löndum, en líklega hafðir kláfar í miðju; þar er grjótið í  hrúgum, með skörðum í milli. Nú hefir safnast eyri að syðri garðinum svo að þar er nú sandtangi, en garðurinn sokkinn. Brekkan er upp frá honum. Í stórstraum fjarar út fyrir hann.
Eins og venjulegt er um fjölda örnefna, eru þau flest hér leidd af staðháttum og auðskilin. En þau, sem kend eru við menn (mannanöfn), veit nú enginn hvernig til eru komin, nema fáein er nýlega hafa myndast. – Grafarholti, 9. des. 1914.“

Í Tímanum í maí 1948 segir um Elliðakot:

Elliðakot

Elliðakot.

„Bær brennur Á föstudagskvöldið brann bærinn Elliðakot í Mosfellssveit til kaldra kola. Nær því engu af húsmunum og fatnaði var bjargað úr eldinum. Útihúsin tókst að verja vegna fádæma snarræðis með því að bera á þau vatn, sem sótt var úr mýri, þaðan skammt frá.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1914, Um örnefni eftir Björn Bjarnarson, bls. 9-16.
-Alþýðublaðið, 1. nóv. 1963, Hannes á horninu, bls. 2
-Tíminn, 103. tbl. 11.05.1948, bls. 8.

Elliðakot

Elliðakot.

Krýsuvíkurkirkja

Þórður Jónsson frá Eyrarbakka skrifaði um „Ferð til Krýsuvíkur“ í Heimilisblaðið árið 1945:
„Kæri lesandi,

krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 2020.

Ég get hugsað mér, að þú segir við sjálfan þig — kannski líka upphátt — að nóg sé komið af skrifum um Krýsuvík, að óþarft sé þar við að bæta. En ég er nú á annarri skoðun. Þess vegna tek ég mér nú penna í hönd, en lofa því um leið að vera ósköp fáorður, líka vegna þess að langar blaða- og tímaritsgreinar eru mínir verstu óvinir.

Krýsuvíkurvegur

Gamli Krýsuvíkurvegurinn við Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

Fyrir stuttu síðan komu til mín tveir vinir mínir, þeir bræðurnir Baldur og Sigurður prentarar, synir Jóns Helgasonar prentsmiðjueiganda. Þeir voru að leggja upp í skemmtiferð til Krýsuvíkur og buðu mér að koma með. Fyrir mig var vissulega vandi velboðnu að neita. Ég var hálf lasinn og lítt fær til ferðalaga. Ég hafði margheitið því að fara til Krýsuvíkur undir eins og þangað væri komin bílfær vegur, og nú er því langþráðu marki náð, marki allra sannra framfaramanna, en jafnframt hræðilegur þyrnir í augum allra afturhaldsafla Suðurlands. Hafi þeir allir þökk fyrir, sem unnið hafa að því þjóðþrifamáli.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli í Hafnarfirði, framan við nýja Reykjanesbrautina.

Eftir lítilsháttar athugun á heilsu minni stóðst ég ekki freistinguna og settist upp í bílinn hjá þeim bræðrum og sá um leið og ég settist í dúnmjúkt sæti bílsins, að ég hreinlega var dauðans matur, ef ég gæti ekki setið þar þenna stutta spöl til Krýsuvíkur.
Eftir að hafa gengið vel frá öllu, er tilheyrði þessu ferðalagi, var ekið sem leið liggur suður Hafnarfjarðarveg, og suður á hinn nýja Krýsuvíkurveg.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli (t.v.) við hlið nýs göngustígs í Hafnarfirði.

Leiðinlegt að geta ekki komið við í hinu fagra Hellisgerði. En tíminn leyfði ekki slíkan „lúxus“, því að áliðið var dags. En fyrirheitna landið, Krýsuvík, varð að meta mest af öllu.
Hinn nýji Krýsuvíkurvegur er einhver fallegasti og bezt gerði vegur, sem ég hef séð. Að þeirri vegabyggingu hafa áreiðanlega unnið þeir menn, sem verkinu voru vaxnir.
Vegkantar og uppfylling á jafn ósléttu landi eru snilldarverk. Það er ekki sök þeirra, sem hlaðið hafa þennan fallega veg, þótt hann sé með sama miðaldalaginu og aðrir vegir sem lagðir hafa verið á landi hér síðustu áratugina, að engin leið er nútíma flutningatækjum að mætast á þeim nema á vissum stöðum — útskotunum svonefndum — þar sem hve verður að bíða eftir öðrum. Sjá allir, hvers ramgallað slíkt fyrirkomulag er.

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna…

Það er skiljanlegt, að allt á þetta að vera til sparnaðar. En það vita þeir, sem við veglagningar hafa unnið, að vegkantarnir eru víðast hvar langdýrasti hluti vegarins, og minnstu munar, ef efni til uppfyllingar til staðarins, hvort vegurinn er nokkrum sentimetrum breiðari. Þetta fyrirkomulag á hinum nýju vegum, sem hér er drepið á, er áreiðanlega mjög vafasöm búhyggindi. Næstu kynslóðir munu ekki sætta sig við svona vegi með sífellt stækkandi flutningatæki, og endirinn verður að óhjákvæmilegt verður að endurbyggja alla þessa vegi, og það jafnvel áður en langt um líður.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um Syðri-Stapa 1961.

Eins og tekið var fram í upphafi, hefur töluvert verið skrifað nú á seinni árum Krýsuvík. Um nytsemi Krýsuvíkurvegar sem samgöngubót til austurhéraðanna skrifaði bezt og rækilegast Árni Eylands í hitteðfyrra í Alþýðublaðið. Einnig skrifaði Árni Óla blaðamaður um staðinn Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum, sömuleiðis birtist í blaðinu „Reykjanes í fyrra mjög fróðleg grein um Krýsuvík og nágrenni, en því miður hef ég gleymt nafni höfundar. Og síðast en ekki sízt má nefna rit Geirs Gígja um rannsóknir hans á Kleifarvatni.
Það er ekkert undarlegt, þótt mönnum verði tíðrætt um Krýsuvík. Mönnum er ljóst, að Krýsuvík á sína sögu engu síður en aðrir landshlutar þessa lands. Hvert hérað velur til sína fræðimenn að skrifa sína sögu allt frá landnámstíð. Þessar héraðssögur verða ómetanlegur fróðleikur komandi kynslóðum.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík var heil sveit — hreppur — og heil kirkjusókn allt frá landnámstíð. Þar hafa áreiðanlega lifað og starfað mætir dugnaðarmennn, engu síður en í öðrum landshlutum. En nú er þar ekkert, sem minnir á fornar hetjudáðir. Þessi sveit, sem er svo að segja nefið á höfuðstað þessa lands og fjölennum sjávarþorpum, allt um kring, er látm leggjast í eyði. Fólkið sættir sig ekki við omaldarbúskaparlagið, þegar það kynnist netra á næstu grösum, og flýr sveitina sína fögru, og hún leggst í algjöra auðn. Afturhaldssamir valdhafar spyrna við af öllum og sálarkröftum að nokkuð sé gert í samgöngumálum eða öðru til þess að Krýsuvík geti haldið áfram að framfleyta íbúum sínum og ekki er langt síðan, að einn höfuðpaur Reykjavíkur kallaði í einu dagblaðinu vegalagninguna til Krýsuvíkur, Krýsuvíkurvitleysu með stórum stöfum gæsalappalaust, og kinnroðalaust, ef til vill hefur hann ekki að hægt er að rækta í Krýsuvík þúsnundir hesta af töðu, ásamt fjölda annara nytjajurta, sem hér yrði of langt upp að telja.

Krýsuvík

Krýsuvík – áveituskurðir. Arnarfell fjær.

Þegar miðað er við það að Krýsuvík var heill hreppur og heil kirkjusókn, verður ekki annað sagt en þar sé ömurlegt yfir að líta. Þar sjást engin fögur mannvirki, engin fegurð ema fegurð náttúrunnar, sem ávallt mun verða hin sama, hvernig sem er mennirnir fara með landið.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir Norðurkots.

En eigi að síður er þetta Krýsuvíkurland búsældarlegt og albúið að veita börnum sínum fæði og klæði. Kafloðin gömlu túnin bera þess ljósan vott, að þau séu þess albúin að veita ríkulega uppskeru, þótt engin mannleg hönd hafi sýnt þeim minnstu rækt árum saman. Mýrar og móar, sem þarna eru, gefa fyrirheit um að ekki skuli þeirra hlutur eftir liggja með afraksturinn, ef mennirnir vilja leggja til ofurlítið af orku sinni til hjálpar sér og óefað mætti minnast jarðhitans þarna, en hve mikils virði hann er í Krýsuvík brestur þekkingu um að dæma.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Það má því heita, að í augum vegfarandans. séu útþurrkaðar allar menjar þess, að þarna hafi verið mannabyggð. Þar sem bæirnir hafa staðið, sjást tóftarbrot hálf- og alfallin, og eru nú grasi vaxin. Aðeins kirkjan er eftir og sætir furðu, að hún skuli hafa staðið af sér alla storma eyðileggingarinnar. Að kirkjunni vík ég síðar.

Eins og kunnugt er, hefur einn maður af síðustu kynslóð Krýsuvíkurbyggðar aldrei yfirgefið þetta byggðarlag. Hann virðist hafa verið bundinn þessu byggðarlagi órjúfandi böndum tryggðar og vináttu.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Þessi aldraði merkismaður heitir Magnús Ólafsson. Hann er nú — að mig minnir — 73 ára að aldri og hefur átt heima í Krýsuvík óslitið í 55 ár að undanteknum nokkrum vikum úr sumum þessum árum. Eftir að öll hús byggðarinnar voru fallin og rifin flutti hann sig í gömlu kirkjuna og hefur búið þar síðan, og má vel vera að sú sé orsökin, að kirkjan hefur ekki hlotið sömu örlög og önnur hús á þessum stað.

Þarna vorum við félagar þá komnir heim á hið forna höfðingjasetur Krýsuvík eftir röskan klukkustundar akstur frá Reykjavík, það sem áður var margra klukkustunda ferð.
Nei, það var engin lygi, að það væri búið að færa þessa sveit nær menningunni.

Úti fyrir kirkjudyrum sat hinn aldraði húsbóndi og tók, mjög vingjarnlega kveðju okkar ferðalanganna.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1945.

Ég fór að telja á fingrum mér hve mörg ár væru nú liðin síðan ég kom þarna síðast, síðan í febrúar 1896 (ég var þá á sextánda ári). Vildi þá útkoman verða nálægt fjörutíu og níu og hálft ár. Jú, það skeður nú margt á skemmri tíma. Mér varð hugsað til þessarar fyrri komu minnar samanborið við þessa komu mína á þennan stað. Nú var sólbjartur sumardagur, en þá hörku norðanbylur og snjór í hné eða meir. Ég strákhnokki með allan minn veraldarauð í strigapoka á bakinu og að auki rúma krónu í buddunni sem farareyri og gat naumast staðið uppréttur undir þeim ofurþunga. En hvernig voru nú aðstæðurnar? Bezt að koma öllum þessum reikningum á hreint. Nú var ég þó létt klæddur með hendur í vösum, en annað setzt á bak mér engu léttara en pokinn í fyrri daga.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Gamla konan Elli var nú farin að gerast áleitin en frábitin öllum ástaratlotum og lagaskilnaði, og þó ekki um annað að gera en lúta valdi hennar — gömlu konunnar. Þegar öllu var á botninn hvolft var þá líklega pokinn með tilheyrandi öllu viðkunnanlegri en slíkt konuríki. Að öllu þessu fljótlega athuguðu settist ég hjá gamla manninum við kirkjudyrnar og tók að spyrja hann spjörunum úr. Mér varð fljótt ljóst, að þarna var maður, sem vert var að kynnast og tala við, bráðgreindur maður og alúðlegur, sem þekkti sögu þessarar sveitar langt aftur í tímann eins og fingur sína. Það hefði vissulega verið gaman og gagnlegt að mega tala við Magnús í ró og næði og jafnvel ferðast með honum þarna um nágrennið. En tími okkar félaga var naumur og nokkuð áliðið dags.

Krýsuvíkurkirkja

Legsteinn Árna Gíslasonar – eftir brunann.

Ég labbaði um kirkjugarðinn með Magnúsi. Hann benti mér á leiði, sem hann sagði, að síðast hefði verið jarðað í. Austan undir kirkjugaflinum varð mér starsýnt á eitt leiði sökum þess að það var eina leiðið í kirkjugarðinum, sem á var lítilsháttar minnismerki.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar.

Er það þó ekki annað en trégirðing komin að falli. Magnús sagði mér, að þarna væri jarðaður Árni sýslumaður Gíslason, en hann bjó í Krýsuvík um nokkurra ára skeið, sem kunnugt er, og var hann þar húsbóndi, er mig bar að garði, sem fyrr segir. Og nutum við, ég og félagar mínir, hinnar mestu gestrisni óg höfðingsskapar, sem Árni sýslumaður var kunnur fyrir á sinni tíð. Svona eru örlögin. Nú var ég allt í einu staddur við legstað míns forna gestgjafa og ég hörfaði skref aftur á bak. Þarna mátti ég ekki stíga með skó á fótum á jafn helgan stað og bæla græna grasið umhverfis leiðið hans, ef til vill raskaði ég með því grafarró hins mæta manns.
Ég bað Magnús að lofa okkur að sjá kirkjuna, sem nú er íbúðarhús hans, og var það auðsótt. Þarna var þá rúm hans við austurgafl framan verðan. Það var þá ekki annað en húsgaflinn, sem aðskildi höfðalagið og leiði hans forna húsbónda, Árna sýslumanns.

Krýsuvíkurkirkja

Uppbygging Krýsuvíkurkirkju 2020.

Það er ekkert ýkja langt frá veruleikanum, að þar hvíli húsbóndinn og þjónninn við sama höfðalagið, þótt annar sé lífs en hinn liðinn. Sjaldgæft er þetta, en Magnús hefur tekið ástfóstri við kirkju og kirkjugarðinn og allt annað í Krýsuvík.

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

Mér er í barnsminni, að ég heyrði talað um hinn stórbrotna búferlaflutning Árna sýslumanns austan frá Kirkjubæjarklaustri og til Krýsuvíkur. Hann var sýslumaður Skaftfellinga og bjó stórbúi á Kirkjubæjarklaustri. Það má nærri geta að slíkir búferlaflutningur á þeirri tíð var engum heiglum hent öll þessi vegalengd og allar þær stórár, og allt varð að flýtja á hestum (á klökkum) sundleggja hestana og ferja á smábát allan farangur yfir stórvötnin. Hvernig mundi nútímakynslóðinni geðjast að slíkum vinnubrögðum? Ég heyrði talað um, að sauðfé Árna sýslumanns hefði verið um 1200 talsins, er hann fluttist að Krýsuvík. Ef það væri satt, hafa eflaust ekki margir bændur á Íslandi verið fjárfleiri en hann á þeirri tíð. Árni sýslumaður var faðir hins vinssæla læknis Skúla, sem lengi var héraðslæknir í efri hluta Árnessýslu. En synir Skúla eru þeir Sigurður magister og ritstjóri og Árni húsgagnasmíðameistari í Reykjavík.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir við Krýsuvíkurkirkju.

Mér er sagt, að nú sé Hafnarjarðarbær eigandi Krýsuvíkur. Er það vel farið, að það land lenti hjá því bæjarfélagi, úr því að íslenzka ríkið var ekki svo framtakssamt að eignast það. Það er sagt að Hafnfirðingar hafi í huga stór áform í Krýsuvík, enda eru þar margbrotnir ræktunarmöguleikar. Hafnfirðingar eru líka allra manna líklegastir til þess að bæta þessum eyðijörðum í Krýsuvík upp giftuleysi liðinna ára.
Ég get ekki lokið svo við þessar hugleiðingar mínar um Krýsuvík, að ég minnist ekki ofurlítið frekar á kirkjuna og kirkjugarðinn þar. Kirkjan þar og kirkjugarðurinn eru í mínum augum helgir dómar, og þessa helgudóma má með engu móti eyðileggja. Kirkjugarðinn verður að girða og breyta í fagran trjá- og skrúðgarð og vanda þar allt til
sem bezt. Kirkjuna verður að byggja að nýju í sama formi og hún er, og á sama stað. Kirkjan á sjálf víst ekki grænan eyri sér til endurbyggingar, en hvað munar íslenska ríkið um slíka smámuni.

Krýsuvíkurkirkja

Endurnýjuð Krýsuvíkurkirkja við Iðnskólann í Hafnarfirði.

Það er verið að reisa úr rústum gamlar kofarústir inn um alla afrétti og við skömmum liðnar kynslóðir fyrir trassaskap og vanrækslu í meðferð verðmæta – sem við köllum svo – hví skildum við þá á þessari mennta- og menningaröld fara að eyðileggja allar menjar um forna frægð Krýsuvíkur? Ég á vont með að trúa því, að noklkur Íslendingur nú á tímum væri svo auðvirðulega nískur að telja eftir nokkrar krónur til endurbyggingar á kirkjunni í Krýsuvík, þótt sú kirkja yrði aldrei notuð til messugjörða. Það er heldur vissulega ekki meining mín.

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja komin á sinn stað.

Að endingu þetta: Það verður líka að byggja sómasamlegt hús í Krýsuvík handa hinum aldraða Magnúsi Ólafssyni, ef hann æskir þess að fá að vera þar það sem eftir er lífdaganna, gamla manninum, sem sýnt hefur þessu plássi hina frábæru tryggð.
Ég þakka svo Magnúsi Ólafssyni fyrir vinarþel og kurteisi og ef til vill á ég eftir að hitta hann aftur í Krýsuvík, mér til ánægju og fróðleiks.“

Heimild:
-Heimilisblaðið, 25. árg. Reykjavík, okt.-nóv. 1945, Þórður Jónsson frá Eyrarbakka – Ferð til Krýsuvíkur, 10.-11. tbls, bls. 172-174 og 193.

Heimilsblaðið 1945

Heimilisblaðið 1945.

Hvaleyrarsel

Í „Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998“ er m.a. sagt frá „Hvaleyrarseli“:

Hvaleyrarsel

Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.

Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.

1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott.“ „Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru mikla rústir eftir Hvaleyrarsel.“ „Héðan liggur svo línan suður á Seljahraun. Þar er Seljahraunsskjól skammt vestan Hvaleyrarvatns, en inn með því er lágur hóll, þar sem Hvaleyrarsel stóð, og má þar enn sjá móta fyrir byggingum. Línan liggur um Selhöfða, rétt hjá Borginni, fjárborg, sem er hæst á höfðanum.“ „Rústirnar eru vestan í klöppum í jarðsygi í austurjaðri Selhraunsins, hraunið er mjög gróið, aðallega mosa og lyngi.“

Rústunum má skifta í tvö hólf. Sunnanmegin er hlaðinn veggur úr grjóti og e.t.v. torfi, en veggurinn er mjög gróinn. Veggur þessi liggur samsíða hraunhellu sem hefur risið nokkuð upp fyrir jarðsigið og slútir undir sig. Veggurinn nær að löngum hellisskúta í suðri.

Hvaleyrarsel?

Meint Hvaleyrarsel.

Skútinn er fullur af grjóti nú en hugsanlega hefur hann verið nýttur sem hluti af mannvirkinu. Veggur þessi er 11.2 m langur og 1.5-2m breiður. Rýmis milli hans og hraunhellu er 2-4 m á breidd, allt eftir hvort mælt er frá efri brún hellunnar eða þeirri neðri. Rými undir hellunni er mjög lágt eða um 0.3-0.5m á hæð og hefur því væntanlega ekki geta nýst mikið nema til geynslu. Vel getur verið að reft hafi verið yfir en engin merki er að finna um það. Inngangur er á vesturveggnum.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Syðst, milli þess mannvirkis og veggja tóftarinnar, sem er þarna sunnan við. Hæsta hæð veggjar er 1.1-1.2 m. Syðsta tóftin er einnig hlaðin utan í klöpp og eru 3 veggir hennar hlaðnir úr grjóti sem nú er mjög gróið. Inngangur hefur líklega verið á norðurvegg við vesturhornið og hefur því verið innangengt úr nyrðri tóftinni. Innanmál tóftarinnar eru; um 3.5 m frá A-V og 2.4m frá N-S. Veggjaþykktir eru 1.3-1.5m þar sem ekki er hrun. Vestur og norðurveggur er nokkuð hrundir en suðurveggur stendur þokkalega. Suðurveggurinn er 1.3m á hæð þar sem hann er hæstur. Vestur frá SV-horni syðri tóftarinnar liggur einföld steinröð þvert yfir jarðsigið. Þetta munu vera leifar garðs sem hjálpað hefur við aðrekstur fjársins.“

Hvaleyrarsel

Fjárborg á Selhöfða.

Framangreind umfjöllun er miklum annmörkum háð. Ef vel er skoðað hefur þarna aldrei verið selstaða, einungis hluti selstöðu, þ.e. stekkur. Þessar minjar munu hafa tilheyrt eldri selstöðu Hvaleyrar vestan við Hvaleyrarvatn, skammt frá Seljahraunsskjóli (gróið jarðfall), en heimildir um selstöðuna þar fyrrum virðast ekki hafa varðveist. Þó má þar sjá minjar hennar enn í dag, ef vel er skoðað, s.s. vanhirtar vegghleðslur með skógræktanlegu ívafi og tilheyrandi eyðileggingu. Annars er umrædd „Svæðisskráning“ lesendum einstaklega ruglingsleg; hlaupið er úr einu í annað án nokkurs samhengis. Meira um það síðar…

Hvaleyrarsel

Stekkjartóft í Seldal.

Áþreifanlegustu minjar Hvaleyrarsels við Hvaleyrarvatn, áður en það fluttist upp í Kaldárssel, eru á tanga norðan undir Selhöfða. Þar má enn sjá móta fyrir baðstofu, búri, eldhúsi og stekk. Tilvist selsins er m.a. staðfest með frásögninni, sem hér má lesa HÉR, HÉR og HÉR.

Rétt 

Hvaleyrarsel

Réttin (nátthagi) undir Stórhöfða.

„Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðan er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði. Hraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni austan og vestur á brún, þar sem landið lækkar, heitir Selhraun. Niðri í því er réttarhleðsla.“

Sjá meira um Hvaleyrarsel HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 99-100.
-JÁM III, 168; Ö-Hvaleyri A, 2; Ö-Hvaleyri B,5; Þjóðminjaskráning í Hafnarfirði 154.

Hvaleyrarsel

Réttin (nátthagi) undir Stórhöfða.

Krýsuvík

Í „Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998“ segir m.a. um Gestsstaði og Kaldrana í Krýsuvík.

Gestsstaðir

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

„Gestsstaðir skal hafa verið jörð heitið nálægt Krýsuvík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenningsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsuvíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsuvíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tíma í eyði legið, en engi veit til nær hún hafi bygð verið.“

Gestsstaðir

Tóft vestan við Gestsstaði.

„Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. …Fram undan Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað.“
„Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – vestari tóftin (skáli).

Bæjartóftin er 10 ft löng frá austri til vesturs, hefur engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhlið hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum nér norðurhliðinni. Skammt austar er fjóstóft, 5 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir verið umgirt, er það víða komið í sand af frárennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið í eign Krýsuvíkurkirkju. Hefur bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir [jarð]eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið að nýta hjáleigur í nytum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.“

Kringlumýri

Kringlumýri undir Móhálsum.

Fram kemur að Gestsstaðir hafi fyrst, eftir eldana, sem lögðu Gömlu Krýsuvík í og við Húshólma í eyði, verið „Fram undan Hverafjalli, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað“. Sunnan undir Hverafjalli, nú Hettu, er að finna minjar, mjög fornar, í svonefndri Kringlumýri. FERLIRsfélagar fundu rústirnar árið 2010 og töldu að þar hefði verið selstaða frá Húshólmabæjunum fyrrum. Selstígurinn liggur til suðurs í átt að Krýsuvíkur-Mælifelli. Minjarnar, sem eru miklar umleikis, verulega fornfálegar, eru í grasi gróinni hlíð ofan mýrardraga. Neðan þeirra er ágætt vatnsból í grónum gígbotni.

Kringlumýri

Minjar í Kringlumýri. – uppdráttur ÓsÁ.

Minjar þessar hafa nánast ekkert verið metnar,  hvergi skráðar (annars staðar en hér á vefsíðunni – sjá HÉR), en þær eru augljóslega eldri en þær fornu minjar,  sem nú má sjá sunnan við Gestsstaðavatn.

Kaldrani

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

„Inn við Kleifarvatn er svo kallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarðu úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhál.“ „Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafði eyðst vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilungi verða, en hann á óætu að vera, samanber vísuna sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafi étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi.“. Vísan er svona:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana
utan ein niðurseta
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Kaldrani – garður.

„Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleifarvatn. Og líka er sagt að þar hafi fólk dáið af loðsilungsáti. Örnefnið Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fm langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bæ. Því garðsspottinn sýnir að þar hafi menn búið á sínum tíma.“

Því miður hefur vegur nú verið lagður yfir meint bæjarstæði Kaldrana. Mönnum hefur löngum verið meint að sjá fyrir gildi þess, sem raunverulega skiptir máli…

Það er ávallt gaman að uppgötva eitthvað nýtt (reyndar er allt slíkt nýtt nú orðið gamalt).

 

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Hér kemur fram að Gömlu Gestsstaðir hafi verið vestan við Móhálsa, en í dag er þeirra minnst austan þeirra, sunnan undir Gestsstaðavatni, sem fyrsta byggð Krýsuvíkur eftir eldanna 1151. Eldri bústaðurinn er sagður týndur í heimildum.
Vestan hálsanna eru reyndar óskráðar tóftir, sem að öllum líkindum voru framhald byggðarinnar í Húshólma og því líklega eldri en elstu heimildir eru um byggð í þeirri Krýsuvík, sem við þekkjum í dag.

Sjá meira um Krýsuvík og Kaldrana HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, 1998.
-JÁM III, 7; Ö-Krýsuvík, 8 15; Árbók 1903, 50.
-Ö-Krýsuvík, 8-9; Árbík 1943-48, 92, Árbók 1803, 59.

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Almenningur

Ofan við Garða-Hraunabæina vestan Hafnarfjarðar er svonefndur Almenningur. En hvað er „Almenningur“?

Almenningur

Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.

Tilefnið að skrifum þessum er að Hafnarfjarðarbær hefur skipað starfshóp bæjarfulltrúa um gerð reiðleiða um Almenning. Þarna fer Hafnarfjarðarbær villu vega, líkt og svo oft áður, þegar kemur að minjum og minjasvæðum. Fæstir fulltrúar bæjarins hafa stigið þarna niður fæti. Hafnarfjarðarbær hefur nánast aldrei leitað leiðsagnar þeirra er gerst þekkja ofanvert bæjarlandið. Á svæðinu má finna fjölmarga forna stíga og leiðir, sem fyrrum voru notaðir af bæði fótgangandi og ríðandi.

Í Náttúrufræðingnum 1998 fjallar Jónatan Garðarsson um „Útivistarperluna í Hraunum“ og getur um „Almenninga„.

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðarsson.

„Almenningar, sunnan við bæina og selin í Hraunum, voru skrýddir trjágróðri í eina tíð. Þar hefur allt verið kjarri vaxið fram eftir öldum en hrístekja til eldiviðar, ásamt sauðfjárbeit, hefur eytt skóglendinu. Þetta landsvæði mætti varðveita og hlúa frekar að þeim gróðri sem þar vex.
Einhvern tíma hefur hann verið gróskumikill og getur vel orðið það aftur. Í landi Hvassahrauns eru t.d. örnefnin Skógarhóll og Skógarnef, sem gefa til kynna mikinn kjarrgróður fyrrum, og í Undirhlíðum má finna kennileitið Stóriskógahvammur sem vísar til að þar hafi stórviður einhvern tíma vaxið.
Í Jarðabókinni 1703 má lesa um ástand gróðurs í Gullbringu- og Kjósarsýslu á þeim tíma. Látum þær lýsingar verða okkur til umhugsunar. Þar segir að í Álftaneshreppi hafi verið 27 konungsjarðir og áttu bændur að skila 48 hríshestum heim til Bessastaða og stundum meira. Flestum var vísað á skóg í Almenningum. Allar jarðirnar og hjáleigur þeirra höfðu rétt til kolagerðar í Almenningum. Um skóg er getið á nokkrum jörðum.“

Lónakot:

Lónakotssel

Lónakotssel.

„Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkarjörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpening um vetur.“

Óttarsstaðir:
„Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenning betalingslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða.“

Straumur:
„Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenningum, líka er stundum hrís gefið nautpeningi.“

Þorbjarnarstaðir:

Fornasel

Fornasel – selstaða frá Þorbjarnarstöðum.

„Skóg hefir jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefur hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenningar eru kölluð.“

Í Tímariti lögfræðinga 1998 skrifar prófessor Þorgeir Örlygsson um Almenninga undir fyrirsögninni „Hver á kvótann?

Þorgeir örlygsson

Þorgeir Örlygsson, prófessor.

„Menn hefur greint á um það, hvar almenningar eru hér á landi og hvernig eignarrétti að þeim er háttað, en í sjálfu sér er ekki ágreiningur um, að þeir geti verið til, enda gerir löggjöf ótvírætt ráð fyrir tilvist þeirra og hefur lengi gert. Eru menn og almennt sammála um, að almenningar séu landsvæði, sem enginn getur talið til einstaklingsbundins eignarréttar yfir, þótt ekki sé útilokað, að menn kunni að eiga þar ákveðin og afmörkuð réttindi.
Í síðari tíma löggjöf og fræðiviðhorfum hefur helst verið við það miðað, að almenningar séu tiltekin svæði á þurrlendi og á hafsvæðum úti fyrir ströndum landsins og auk þess sérstakur hluti stöðuvatna, þ.e. svæði utan netlaga. Hafa þessi svæði verið nefnd almenningar frá fornu fari.
Almenningar hafa samkvæmt þessu bæði verið til inni á óbyggðum og út við hafið, þ.e. almenningar hið efra og hið ytra. Í bæði Grágás og Jónsbók var að finna ákvæði um almenninga.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins í Almenningum.

Við lögtöku Jónsbókar 1281 varð ekki breyting á meginreglunni um almenninga, sbr. þau orð 52. kaptítula Landsleigubálks: Svo skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið, bœði hið efra og hið ytra. Í norskum rétti voru svipuð ákvæði um almenninga. Þar sagði t.d. í NL 3-12-1: Saa skal Alminding være, saasom den haver vœret af gammel Tid, baade det 0verste og det yderste.
Því er mismunandi háttað í löggjöf, hvaða heimildir eru fyrir hendi varðandi nýtingu almenninga og hverjir eiga þær heimildir. I gildandi ákvæðum íslenskra laga, sem varða meðferð tiltekinna réttinda í almenningum, er yfirleitt út frá því gengið, að landsmenn allir njóti þeirra réttinda, þótt frá því kunni að vera ákveðnar undantekningar í einstökum og afmörkuðum tilvikum.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hafalmenningur er það svæði sjávar við strendur landsins, sem tekur við utan netlaga, en netlög eru sjávarbelti, sem nær 115 metra út frá stórstraumsfjörumáli landareignar. Um hafalmenninga er það að segja, að frá upphafi íslandsbyggðar og allt fram yfir miðja þessa öld hefur sú meginregla verið viðurkennd, að hafið utan netlaga væri almenningur, þar sem öllum væri heimil veiði. Reglan kemur fram í Grágás, Landabrigðaþætti Konungsbókar: Menn eigu allir að veiða fyrir utan netlög að ósekju og í Landabrigðisþætti Staðarhólsbókar: Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlag að ósekju ef vilja. Í Jónsbók er reglan í 61. kapítula Landsleigubálks, rekabálki, 2. kap.: Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlög at ósekju. Er ákvæði þetta enn tekið upp í íslenska lagasafnið, nú síðast í útgáfuna 1995.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Um réttarstöðu íslenska rfkisins gagnvart landsvæðum, sem enginn getur talið til einstaklingseignarréttinda yfir, hvort heldur sem eru afréttareignir eða almenningar, er það að segja, að sú stefna hefur verið mótuð af dómstólum, að íslenska ríkið sé ekki eigandi þessara landsvæða, nema það færi fram eignarheimildir fyrir eignatilkalli sínu. Er framangreint annars vegar staðfest í Landmannaafréttardóminum síðari, sbr. H 1981 1584 og í Mývatnsbotnsmálinu, sbr. H1981182. Samkvæmt þessum dómum nýtur ríkið engrar sérstöðu umfram aðra, sem gera tilkall til einstaklingseignarréttar yfir tilteknum hlutum eða verðmætum. Ríkið verður eins og hver annar að færa fram skilríki eða heimildir fyrir eignatilkalli sínu.“

Í Sögu 2008 reynir Sveinbjörn Rafnsson að skilgreina „Almenninga“ í grein sinni um „Hvað er Landnámabók?„.

Lónakotssel

Lónakotssel.

„Almenningar og afréttir í Jónsbók. Lengja má í þessum þræði og skoða ákvæði Jónsbókar: „Svo skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið, bæði hið efra og hið ytra.“ Íslendingar héldu sínum íslensku lögum í samræmi við sáttmála við Noregskonunga á síðari hluta 13. aldar og konungur hafði því ekki rétt til almenninga á Íslandi eins og í Noregi.

Bekkjarskúti

Bekkjaskúti í Almenningum.

Landsfjórðungarnir voru ekki lagðir niður með tilkomu nýrrar lög bókar á 13. öld; þeir haldast m.a. sem dómssögur og umsýslusvæði um landeignir í Jónsbók.
Það er einnig ljóst að fjórðungsmönnum hefur verið í lófa lagið sem eigendum almenninga að skipta þeim á milli sín, þar sem þess var talin þörf, í svokallaða afrétti. Í Grágás og Jónsbók er afréttur skilgreindur svo: „Það er afréttur er tveir menn eiga saman eða fleiri, hversu mikið land sem hver þeirra á í.“

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið.

Samkvæmt Grágás og Jónsbók hefur því almenningur verið í sameign allra fjórðungsmanna, þ.e. landeigenda eða lögbýla innan fjórðungs, en afréttur verið í sameign tiltekinna landeigenda eða lögbýla innan fjórðungs. Þetta skýrir til fullnustu stöðu og legu afrétta í Sunnlendingafjórðungi. Bæði í Grágás og Jónsbók eru almenningar og afréttir gjarna spyrtir saman enda er um að ræða land sem verið hefur í sameign margra manna og fylgt ákveðnum jörðum innan fjórðungs. Í ákvæðum Grágásar um að telja fé í afrétt eru eigendur afréttar kallaðir landeigendur.

Tobburétt

Landvættur í Almenningum í Hraunum.

Það er í fullu samræmi við ákvæði Grágásar um að hver maður eigi gróður á sínu landi. Það sýnir líka að mönnum hefur verið heimilt að ráðstafa eign sinni og greina hana í það sem ofan á landi er og landið sjálft, sbr. skógarítök, skógartóft, beitarítök, reka o.s.frv., enda mörg forn dæmi varðveitt um slíkt í frásögnum og skjölum.

Sveinshellir

Sveinshellir – fjárskjól.

Slíkur ítakaréttur hefur ekki falið í sér eign á landi heldur afnotaeign og hafa menn hér á landi hugsað líkt í lögum og búrekstri og menn gerðu í nágrannalöndunum á miðöldum, um dominium directum, beina eign, og dominium utile, afnotaeign, enda samfélagsgerðin ekki ósvipuð. Deiluefni gat komið upp um það hvar væru mörk bújarðar annars vegar og afréttar eða almennings hins vegar. Um þetta er fjallað í 52. kap. Landsleigubálks Jónsbókar.

Almenningur

Í Almenningum í Hraunum.

Menn áttu að reyna að lögfesta sinn málstað, en ef ágreiningur varð skyldi málið koma til dóms. Þarna er eign á afrétti jafngild eign á bújörð. Samkvæmt 54. kap. Landsleigubálks Jónsbókar gat maður er næstur bjó afrétti gert eigendum afréttar stefnu til garðlags á mörkum bújarðarinnar og afréttarins. Svo segir um það: „Þeir skulu gera garð að jarðarmagni, svo sem hver þeirra á afrétt til, svo að þeir geri hálfan, en sá hálfan er garðlags beiddi, og svo haldi hvorir síðan.“

Álfakirkja

Álfakirkja (fjárskjól) í Hraunum.

Hér kemur það glöggt fram að afréttur er full eign engu síður en bújörðin sem næst er afréttinum.
Óbyggðanefnd telur að frumstofnun eignarréttar hér á landi hafi farið fram með landnámi, hefð og lögum, sbr. löggjöf um nýbýli og þjóðlendur. Þessi kennisetning (doktrin) hefur ýmsa annmarka og kemur ekki að öllu leyti heim við sögulegar heimildir. Hún er varla rökheld við nánari skoðun, eins og komið hefur fram í máli greinarhöfundar hér á undan þótt því sé alls ekki stefnt gegn henni sérstaklega.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Hér hefur meðal annars komið fram að höfundar Landnámu og Grágásarlaga hafa alls ekki talið allt land á Íslandi numið í öndverðu. Hið ónumda land er almenningar samkvæmt Grágás. Almenningar voru að fornu eign fjórðungsmanna samkvæmt Grágás og mun það líklega vera ein af ástæðum þess að Landnáma er fjórðungaskipt. Almenningar voru eign allra fjórðungsmanna, afréttir voru eign tiltekinna fjórðungsmanna, tveggja eða fleiri, samkvæmt Grágás og svo skal áfram vera samkvæmt Jónsbók. Eðlilegast er að líta svo á samkvæmt þessum sögulegu heimildum, Landnámu, Grágás og Jónsbók, að allt landið sé talið í eign landsmanna, hvergi sé einskismannsland á Íslandi eða land án landsdrottins. Almenningar og afréttir voru taldir eignarlönd í lögum og lögbókum þótt ónumin væru.
Að þýða „landnám“ eins og það birtist í Landnámu og fornum ritum háðum henni beint sem rómarréttarlega „occupatio“ að klassískum hætti virðist vera tímaskekkja (anakrónismi). Það væri rangtúlkun á Landnámu og raunar einnig íslensku miðaldasamfélagi.“

Í Búnaðarriti 1973 er greinargerð um svonefnda „Almenninga„.

Almenningur

Fjárskjól í Almenningi í Hraunum.

„Íslendingar eru um það einir þjóða í Evrópu, að þeir eiga skráðar heimildir um landnám, og þær heimildir eru skráðar eftir að landnámi lauk. Frásagnir af því máttu auðveldlega hafa geymzt rétt í minni manna. Landnámsmenn námu ýmist mjög stór landsvæði, er þeir síðar úthlutuðu öðrum að miklu leyti, eða minni svæði, er þeir nýttu sjálfir.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Svo er að sjá, að ekkert land hafi verið látið ónumið eða óhelgað. Þess er getið á tveim stöðum í Landnámabók, að spildur voru ónumdar á milli landnámsjarða, en þær voru báðar bráðlega helgaðar og lagðar til hofa. Heiðar og fjöll hafa ekki verið undanskilin. Ingólfur Arnarson nemur alla spilduna milli sjávar að sunnan og vestan og Brynjudalsár og Öxarár að norðan og Ölfusár að austan, jafnt gróið land sem fjöll og firnindi.
Fjalllendi virðast sem sagt hafa verið látin fylgja þeim jörðum, sem næst þeim lágu, og svo er mjög víða enn, þótt víða hafi þau nú verið seld sem afréttarlönd. Sumir vilja telja, að öðru máli kunni að gegna um miðhálendi Íslands vegna þess, að þar eru stór svæði lítt gróin. Þessi kenning er mjög hæpin.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Gróður hefur víða minnkað stórum frá því, er var, og eru til margar sannanir um það (t.d. á Kili, landið sunnan Sprengisands og miklu víðar). Þetta land var þá nytjað, og einatt þurfti þar smölunar við. Efalaust hafa menn mjög snemma bundizt samtökum um nýtingu lands og smölun, og framkvæmt þær eftir fyrirmælum goða og síðar hreppstjórnarmanna.
Það er fullvíst, að sveitarfélög og upprekstrarfélög hafa ávallt talið, að afréttarlönd, er þau hafa nytjað frá fornu fari, hafi verið og séu óskoruð eign þeirra (nema þar, sem einstaka jarðir eða kirkjur áttu ítök, sem oftast voru veiðiítök), þótt ekki séu kaup- eða afsalsbréf til nú. Í fornum ritum eða skjölum finnst hvergi, hvar sem leitað er, nokkur heimild um það, að ríkið eða þjóðarheildin hafi átt afrétt eða heiðalönd.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin millum Hafnarfjarðar og Voga.

Mönnum var auðvitað heimil ferð um afrétt eins og annað land, og beit og jafnvel veiði, á meðan á ferð stóð. Hreppar, eftir að þeir voru myndaðir, sem trúlega hefur gerzt skömmu eftir, að landnámi lauk, og upprekstrarfélög geta hafa eignazt afréttarlönd löngu áður en farið var að færa gerninga í letur eða á skrá, og engin áslæða var fyrir menn til bréfagerða um það síðar, því að enginn vefengdi rétt þeirra, og ekki þurftu þeir að svara sjálfum sér.
Nær alltaf er vitað, að notaréttur sveitar- eða upprekstrarfélaga er ævagamall. En því fer víðs fjarri, að það afsanni eignarrétt á landi, þótt ekki séu nú til aðrar heimildir frá fyrri tímum en um beitarnot af afréttinum.

Eignarrétti lands var oftast ekki unnt að viðhalda með öðrum hætti en þeim, að eigendur nytjuðu það á þann hátt, sem möguleikar voru til. Sum þessara nota voru að mestu bundin við árstíðir, eins og til dæmis not afréttarlands. Þar var naumast um önnur not að ræða en beit og grasatekju og sums staðar veiði, sem oft var þó einungis nýtt á sumardag sakir fjarlægðar frá byggð.

Almenningur

Vörðukort af Almenningi í Hraunum.

Nýir atvinnuhættir og gerbreytt tækni veldur því, að nú er unnt að nýta land á margan hátt, sem áður var ógerlegt. Má um það nefna að sjálfsögðu fjölda dæma, t. d. virkjun vatna og notkun sands og malarnáma. Þessi þróun getur ekki valdið því, að ríkið eignist gœði lands og jarðar jafnótt og möguleiki skapast til að nota þau. Fáir eða engir halda því heldur fram, þegar um land í einkaeigu er að ræða, en hví skyldi gegna öðru máli um land sveitarfélaga?

Óttarsstaðasel

Í Óttarsstaðaseli í Hraunum. Liður í Ratleik Hafnarfjarðar.

Löggjöf vor gerir ráð fyrir því á nokkrum stöðum, að til séu almenningar. Nefndar athugasemdir, er fylgja frumvarpi til námulaga, virðast gera ráð fyrir, að þeir séu eign þjóðarheildarinnar. Öll rök hníga að því, að sú kenning sé alröng, og ríkið (eða konungur fyrr á tímum) hafi aldrei átt almenninga.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Almenningar, sem oftar en hitt hafa verið við sjó og tengdir við hlunnindi, hafa ef til vill stöku sinnum verið eign fjórðungsmanna (sbr. Grágás), en oftast eign eða afnotaland fárra jarða eða eins hrepps. Þannig er enn um Almenning í Biskupstungum, að hann er eign Haukadalsjarða. Almenningur í Þjórsárdal var skógarítak nokkurra hreppa og Skálholtsstóls.
Almenningur suður frá Öxnadalsheiði var afréttur jarða í Öxnadal með ítaksrétti einnar jarðar þar, og þannig má telja fjölda dæma. Mörg þau svæði, er bera heiti af almenningi, eru og hafa verið um óratíma eign einstakra jarða. Efalaust hafa almenningar þessir verið hluti af landi jarða, en verið dæmdir af mönnum fyrir sakferli. Finnast frásagnir um slíka refsidóma bæði í Íslendingabók og Landnámu og Sturlungu. Þess munu og finnast dæmi, að í hallæri hafi mönnum verið tildæmdur almenningur (hlunnindaalmenningur) til að geta bjargað sér frá því að lenda á vergangi, en, eins og fyrr er sagt, örlar hvergi á því í fornum lögum eða skrám, að ríkið (þjóðarheildin) eigi almenning.
Vill Búnaðarþing því sterklega vara við þeirri ásælni, sem orðið hefur vart bæði með flutningi frumvarpa á Alþingi í ýmsum myndum og með málarekstri gegn sveitarfélögum, að ríkið eigi almenninga og drjúgan hluta afréttarlanda.“

Sjá meira um Almenning í Hraunum HÉR.

Heimildir:
-Tímarit lögfræðinga, 1. tbl. 01.02.1998, Þorgeir Örlygsson, prófessor, Hver á kvótann?, bls. 35-36.
-Saga, 2. tbl. 2008, Sveinbjörn Rafnsson, Hvað er Landnámabók?, bls. 189-196.
-Búnaðarrit, 1. tbl. 01.01.1973, bls. 193-194.
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.05.1998, Jónatan Garðarsson, Útivistarperlan í Hraunum, bls. 168-169.

Almenningur

Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.

Nátthagavatn

Í Skátablaðiðinu í febrúar 1939 er fjallað um húsbyggingarmál skáta, m.a. „Byggingu skátaskála við Nátthagavatn ofan Reykjavíkur„.

Arnarból

Arnarból – loftmynd 1954.

„Flest skátafélög á landinu, sem nokkrum aldri og þroska hafa náð, hafa ráðist í húsbyggingar af einhverri gerð.
Sum hafa byggt sumarskála, önnur funda og samkomuhús o. s. frv. Öllum hefir verið það ljóst, að með einhverjum samastað, hefir skapast festa í félögunum, og framtak og starfsþrek einstaklinga þeirra notið sín við byggingarnar, og fjáröflun til þeirra. Nægir að geta um í þessu sambandi byggingar skátafél. Væringja og Arna við Lækjarbotna og Elliðakot, skátafél Einherja á Ísafirði, skátafél. Fálkar á Akureyri og samskonarfundarhús skátafél. Væringjar á Akranesi, sem að mínum dómi hefir bezt náð tilgangi sínum, enda þótt jeg viðurkenni fyllilega þörf sumar- og skíðaskála.

Arnarból

Arnarból.

Hér í Reykjavík er nú vaknaður meðal skáta mikill áhugi fyrir húsbyggingu til afnota fyrir skátafélögin, enda mjög mikilsvert fyrir allan félagsskap skáta að ráða yfir heppilegu húsnæði til æfinga og fundarhalda.

Arnarból

Arnarból – loftmynd 2004.

Allir eldri skátar finna mjög til þess, hve ábótavant er í þessum efnum hér í bænum, og munu nú einhuga um að hrinda í framkvæmd hið allra fyrsta húsbyggingu, er orðið getur samastaður skáta og félagsskapar þeirra, auk þess ættu félagar utan af landi að geta átt þar örugt athvarf er þeir koma til Reykjavíkur.
Þegar velja á stað undir slíka hyggingu verður að taka tillit til tvenns, að staðurinn sé sem næst því í miðbænum, vegna fundarsókna og æfinga, og liggi vel við umferð, t.d. vegna verzlunar. Verði þessa gætt við ákvörðun staðar undir væntanlega húsbyggingu, er vel fyrir öllu séð, því ýmsar ráðagerðir eru uppi í sambandi við bygginguna og ákornast þá mjög sennilega í framkvæmd skátahreyfingunni til eflingar og þroska.

Arnarból

Arnarból.

Þann 10. nóv. síðastl. samþykkti stjórn B. í. S. að skipa bygginganefnd í samráði við skátafélögin í Reykjavík. Tók nefndin strax til starfa, við undirbúning fjáröflunar til lóðarkaupa, sem hraða ber, vegna þess að lóðunum fækkar óðum, sem nothæfar eru.

Arnarból

Arnarból – loftmynd 2019.

Byggingarnefndin hefir nú fengið leyfi dómsmálaráðuneytisins til þess að hafa happdrætti um sumarbústað „Arna“ við Nátthagavatn, sem að fasteignamati er, með stórri eignarlóð, metin á kr. 9500.00.

Arnarból

Arnarból, loftmynd 2022.

Er sumarbústaðurinn byggður á svo skemmtilegum stað og sjálfur svo eigulegur, að nefndin vonar að auðvelt verði að selja happdrættismiðana, þegar um svo stóran og glæsilegan vinning er að ræða og í annan stað stuðningur við félagsskap skáta, sem á almennum vinsældum að fagna.
Í Reykjavík eru nú starfandi um 8—900 skátar, að kvenskátunum meðtöldum. Ef allur sá hópur sameinar sig um, að koma sem fyrst upp veglegri húsbyggingu hér í bænuin, er vissa fengin um góðan árangur. Skátar, piltar og slúlkur, hugleiðið það, að væntanleg skátabygging á að vera ykkar annað heimkynni, æfingar og samkomustaður,  kynningastaður við skáta utan af landi, sem og aðsetur stjórnar skátamálanna og félaganna í bænum. Um þetta mál mætti margt segja fleira, en svo treysti ég á dómgreind og framtakssemi allra skáta, og er þess fullviss, að byggingarnefndin á í hverjum einstakling vissan stuðningsmann, enda er þá helzt von um fljótan og góðan árangur.
Byggingarnefndarmaður.“

Í dag má skálinn sá muna fífil sinn fegurri. Og svo virðist sem eignarlóðin verðmæta á svo frábærum stað ofan Nátthagavatns nýtist í dag skátastarfi reykvískra skáta í engu.

Heimild:
-Skátablaðið V. árgangur 1. tölublað febrúar 1939, – Húsbyggingarmál skáta, bls. 1.

Skátablaðið

Skátablaðið.

Hafnarfjörður

Mjólkurvinnslustöð Mjólkurbús Hafnarfjarðar“ var stofnuð árið 1934.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Mjólkurbú Hafnarfjarðar (húsið með háa skorsteininum).

Jóhannes J. Reykdal á Þórsbergi var fenginn til að standa fyrir framkvæmdum. Var hann sendur utan og samdi um kaup á vélum. Byggingin sem tekin var í notkun árið 1947 þótti hin myndarlegasta. Var húsið byggt úr járnbentri steypu með korklögðum veggjum að innan. Það var tvílyft utan vélasalarins sem var í fullri hæð. Ketilshúsið var þar á bak við á neðri hæð og á efri hæðinni var skrifstofa og móttökusalur fyrir mjólk. Á bak við húsið var akvegur að húsinu og undir honum kolakjallari og sýrugeymsla. Á efri hæð í öðrum enda hússins var rannsóknarstofa, skyrgerð og geymsla. Talsverður styr stóð um Mjólkurvinnslustöðina vegna deilna milli mjólkurstöðva.

Hafnarfjörður

Mjólkurbú Hafnarfjarðar byggt 1935-6 brotið niður 1981.

Mjólkurbú Hafnarfjarðar var lagt niður árið 1949 og var í húsinu ýmiss konar starfsemi þar til það var brotið niður árið 1981.
Mjólkurvinnslustöðin stóð á lóð Lækjargötu 22, suðaustan gatnamóta Öldugötu og Lækjargötu. Þar standa nú þrír upphleyptir mjólkurbrúsar á trépalli til minningar um stöðina.

Í Nýja Dagblaðinu 1936 er fjallað um „Mjólkurvinnslustöðina í Hafnarfirði„:
„Innan skamms tekur til starfa hin myndarlega mjólkurvinnslustöð er samvinnufélagið Mjólkurbú Hafnarfjarðar hefir látið reisa. Vegna þess að það veldur ærnum kostnaði fyrir kúaeigendur í Hafnarfirði og nágrenni að senda mjólk, sem þar er seld á staðnum, til gerilsneiðingar í Reykjavík, hafa þeir ráðizt í að koma sér upp eigin mjólkurvinnslustöð. Stendur samvinnufélag (Mjólkurbú Hafnarfjarðar) að framkvæmd þessari og var stofnfundur þess haldinn 17. ágúst 1934.

Ólafur Runólfsson

Ólafur Runólfsson (1891-1967). Nam búfræði á Hvanneyri 1910 og var síðar kaupmaður í Hafnarfirði.

Kosin var 5 manna stjórn og er Ólafur Runólfsson formaður hennar, Ákveðið var að vinna sem allra fyrst að því að reisa mjólkurvinnslustöðina og var Jóhannes J. Reykdal á Þórsbergi fenginn til að standa fyrir framkvæmdum. Fór hann utan í fyrravetur og samdi um kaup á vélum.
Hafizt var handa um byggingu hússins í maí í vor. Hefir Jóhannes séð um fyrirkomulag þess. Er það vandað svo sem kostur er, en þó hefir verið gætt fullrar sparsemi.

Húsið og herbergjaskipun
Blaðið hefir átt tal við búnaðarmálastjóra. Segir hann, að húsið líti vel út, sé rúmgott, bjart og loftræsting virðist vera í góðu lagi. Vélar og öll áhöld séu ný og vélar hafi verið reyndar og virtar og virzt vera í ágætu lagi.
— Þó hefir búið enn aðeins vélar til að gerilsneyða mjólk, þvo flöskur og átappa, segir hann. Enn vantar öll tæki til

smjör-, skyr- og ostagerðar.

Hafnarfjörður

Mjólkurbú Hafnarfjarðar um 1950 – 60 fyrir miðri mynd ofanverðri.

Byggingin er þó nægilega rúmgóð fyrir slíkar vinnsluvélar, enda mun skilvinda og strokkur koma innan skamms. Auk þess vantar enn kælivél og vél til gæðakönnunar mjólkur. Gæðakönnunartækin mun búið verða að útvega strax og kælivél fyrir 15. maí þ. á. Búið mun geta hreinsað og átappað um 1200 lítra af mjólk á klst. og hæfileg afköst á dag verða 3600 lítrar. — Að síðustu vil ég geta þess, að hér virðist vera vel til stofnað, ef svo reynist, sem aðstandendur búsins ætla, að búð geti borið sig, og um leið sparast stórfé í flutningskostnaði.

Byggingarkostnaður og bætt afkoma mjólkurframleiðenda

Jóhannes J. Reykdal

Jóhannes J. Reykdal (1874-1946).

Jóhannes J. Reykdal skýrir blaðinu svo frá, að nú þegar séu í mjólkurbúinu 56 kúaeigendur og eigi þeir hátt á þriðja hundrað kýr.
— Hvað hefir mjólkurvinnslustöðin kostað?
— Hún kostar eins og hún stendur nú með vélum og áhöldum rétt um 80.000 kr. og vænti ég að allir sameignarmenn séu ánægðir með þann árangur.
Þeir framleiðendur er sent hafa mjólk sína til hreinsunar til Reykjavíkur síðastliðið ár hafa borgað 1/2 eyrir í flutningskostnað og vart mun hafa verið ódýrara fyrir Mjólkursamsöluna að senda mjólkina hingað suður aftur. Nú þurfa Hafnfirðingar um 2000 lítra af mjólk á dag og sparast því allt að 20.000 kr. árlega í flutningskostnað og eru það góðar rentur og afborganir af stofnkostnaði mjólkurvinnslustöðvarinnar. Það er því ekki að ófyrirsynju að ráðizt hefir verið í að byggja mjólkurbú hér
í Hafnarfirði.“

Claus Peter Kor­dtsen Bryde (f. 1909 á Jótlandi í Danmörku, d. 1985) var um tíma mjólk­ur­bús­stjóri Mjólkurvinnslustöðvarinnar.

Emil Jónsson

Emil Jónsson (1902-1986).

Í ræðu Emils Jónssonar, alþingismanns, um efnið á Alþingi árið 1943, segir: „Þá skal ég geta þess í sambandi við mjólkurstöðina í Reykjavík, að hún hefur nú lengi verið algerlega ófullnægjandi, en samtímis því, að hún hefur ekki getað annað öllu því, sem hefur verið sent til hennar, þá hefur öðru mjólkurbúi, sem er sízt lakara, mjólkurbúi Hafnarfjarðar, verið haldið mjólkurlausu af völdum samsölunnar eingöngu. Mjólkurmagn það, sem þetta bú fær, hefur minnkað úr 400 þús. l. niður í 200 þús. l. árlega, síðan samsalan tók til starfa.
Þetta er vegna þess, að forráðamenn samsölunnar og mjólkurstöðvarinnar hér hafa alltaf haft horn í síðu mjólkurstöðvarinnar í Hafnarfirði. Þeir hafa viljað láta hana hætta að starfa, af því að hún er ekki í beinu sambandi við samsöluna hér. Og nú, þegar nýja mjólkurstöðin hér kemur upp, þá er ætlazt til þess, að mjólkurstöðin í Hafnarfirði verði lögð niður. Og nú þurfa Hafnfirðingar daglega að kaupa gerilsneydda mjólk héðan frá Reykjavík.

Hafnarfjörður

Lækjargata 22; Mjólkurbú Hafnarfjarðar (húsið með skortsteininum).

Með þessu ástandi skapast tekjuhalli af búinu í Hafnarfirði, sem samsalan telur ekkert eftir sér að borga. Það á að sanna það, að búið í Hafnarfirði eigi að leggja niður. — Svona hefur það verið á öllum sviðum. Það hefur verið reynt að þvinga alla þá, sem hafa ekki viljað senda mjólk til samsölunnar, til þess að hætta framleiðslu sinni. Nú er mjólkin flutt sunnan af Vatnsleysuströnd gegnum Hafnarfj. til Reykjavíkur, í stöð, sem er yfirfull, og síðan er hún flutt aftur til neytenda í Hafnarfirði, meðan stöðin þar hefur ekkert að gera af því að framleiðendur fá ekki að láta mjólk sína þangað vegna skipulagsins.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1965. Þarna sést m.a. í Mjólkurbú Hafnarfjarðar.

Þeim er ekki tryggt af hálfu samsölunnar, að þeir fái sama verð fyrir mjólkina, ef þeir láti hana til búsins í Hafnarfirði, og mér er sagt, að stjórn samsölunnar hafi reynt að aftra mönnum frá því að senda mjólk sína til Hafnarfjarðar.
Við það, að bæirnir stofni kúabú, er einnig unnið margt annað. Þá geta neytendur fengið nýja mjólk, þá geta þeir sjálfir haft eftirlit með öllum rekstrinum og tryggt stórum betri hollustuhætti, og þá geta þeir fengið upplýst, hvert sannvirði framleiðsluvörunnar raunverul. er.“

Heimildir:
-Nýja Dagblaðið, 28. tbl. 04.02.1936, Mjólkurvinnslustöðin í Hafnarfirði, bls. 2.
-https://www.althingi.is/altext/raeda/62/2406.html

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Mjólkurbú Hanarfjarðar.

Sveinshús

Í Lesbók Morgunblaðsins þann 13. maí árið 2000 er fjallað um Sveinshús í Krýsuvík undir yfirskriftinni „Hús Sveins Björnssonar í Krýsuvík opnað gestum„:

Sveinn björnsson

Sveinn Björnsson við Indíánann í Kleifarvatni.

„Á hvítasunnudag, hinn 11. júní nk., verður Sveinshús í Krýsuvík, þar sem Sveinn Björnsson listmálari hafði um árabil vinnustofu sína, opnað eftir gagngerar endurbætur, en í gær afhenti Hafnarfiarðarbær Sveinssafni húsið. Margrét Sveinbjörnsdóttir átti tal við tvo af þremur sonum listamannsins, Erlend og Þórð, en þeir hyggjast taka þar á móti gestum og veita þeim innsýn í líf og list föður síns.
Sveinssafn var formlega stofnað 28. apríl 1998, ári eftir andlát Sveins Björnssonar.

Sveinn Björnsson

Sveinn að störfum við Kleifarvatn.

Safnið er til húsa í Trönuhrauni 1 í Hafnarfírði og hefur að geyma rúmlega átta þúsund myndverk listamannsins, en synir hans hafa á undanfömum árum unnið að flokkun og skráningu verkanna. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa nú afhent Sveinssafni húsið í Krýsuvík til eignar ásamt tveggja milljóna króna styrk til endurbóta og viðhalds hússins, sem synir listamannsins, Erlendur, kvikmyndagerðarmaður, Sveinn, læknir, og Þórður Heimir, lögfræðingur, munu hafa umsjón með. „Þar með verður Sveinshús ekki aðeins órjúfanlegur hluti Sveinssafns, heldur raunverulegt andlit þess út á við,“ segir Erlendur.

Sveinshús

Þórður Sveinsson í Sveinshúsi.

Ætlun þeirra bræðra er að varðveita húsið eins og faðir þeirra skildi við það og hafa það þannig til sýnis en jafnframt hyggjast þeir setja upp breytilegar sýningar í tveimur herbergjum á fyrstu hæð, sem verða lagfærð lítillega. í framtíðinni láta þeir sig einnig dreyma um sýningaraðstöðu utanhúss. Bræðurnir fagna gjöf Hafnarfjarðarbæjar, sem þeir segja höfðinglega og lýsa virðingu bæjaryfirvalda fyrir æviverki Sveins Björnssonar og trausti á því sem þeir eru að gera í þágu listar hans.

Sveinshús opið almenningi þrjá sunnudaga í sumar

Sveinn Björnsson

Erlendur Sveinsson með eitt verka föður hans.

Framkvæmdir eru nú að hefjast í Sveinshúsi og þótt ekki takist að ljúka þeim að fullu nú í vor hefur þegar verið ákveðið að hafa húsið opið almenningi þrjá sunnudaga í sumar; 11. júní, 16. júlí og 20. ágúst. Þá verður þar dagskrá í tengslum við árþúsundaverkefni Hafnarfjarðarbæjar, sem aftur tengist dagskrá Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000, og hefur yfirskriftina Krýsuvík – samspil manns og náttúru.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

Húsið var reist árið 1948 fyrir bústjóra kúabús sem átti að reka í Krýsuvík en ekkert varð úr. Stjórnendur vinnuskóla sem starfræktur var á vegum Hafnarfjarðarbæjar í Krýsuvík á árunum 1953-64 notuðu húsið í stuttan tíma en eftir það grotnaði það niður.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson í Krýsuvík.

Árið 1974 fékk Sveinn Björnsson síðan húsið til afnota og kom sér þar upp vinnustofu, þar sem hann starfaði allt þar til hann lést árið 1997, auk þess sem hann dvaldi löngum í íbúð á efri hæð hússins. „Það voru svo margir sem voru alltaf á leiðinni í Krýsuvík að heimsækja föður okkar – en svo dó hann og ekkert varð af því,“ segir Erlendur og bætir við að það verði gaman að geta opnað húsið gestum á ný og veitt þeim hlutdeild í sköpunarverkum listamannsins.

Æviverk Sveins Björnssonar verði tekið út

Andi Sveins svífur áfram yfir vötnum í Krýsuvík, þar sem hann var jarðsettur, en þá hafði ekki verið jarðað þar í áttatíu ár.
Sveinn Björnsson
„Þegar staðið er við leiðið og horft í gegnum sáluhliðið blasir bláa húsið hans við, þannig að það er bein tenging. í gömlu kirkjunni, sem er í vörslu Þjóðminjasafnsins, er svo altaristaflan sem hann málaði,“ segir Erlendur.

Sveinssafn

Sveinn Björnsson – málverk.

„Húsið í Krýsuvík er kannski stærsta listaverkið sem faðir okkar skilur eftir sig, þar eru allar hurðir með ámáluðum listaverkum, sömuleiðis loft og veggir og listaverk hanga á veggjum í öllum herbergjum eftir hann og aðra,“ segir Þórður. Þeir bræður láta þess getið að faðir þeirra hafi lengi átt sér þann draum að stofna listasafn.
Hann hafi gert mikið af því að skipta á myndum við aðra listamenn og einnig keypt verk af kollegum sínum. „Okkur telst svo til að í safninu séu um 300 verk eftir aðra,“ segir Erlendur. Þar er einnig stórt úrklippusafn um listir á Íslandi og mikill fjöldi listaverkabóka sem Sveinn safnaði, sýningarskrár og sendibréf.
Erlendur segir Sveinssafn stærst þeirra listasafna landsins sem grundvölluð eru á verkum eins listamanns og þriðja stærsta listasafn landsins í verkum talið, eða með yfir átta þúsund skráð verk, en aðeins Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands varðveiti fleiri listaverk.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

„Grundvallarmarkmiðið hjá okkur er auðvitað að æviverk Sveins Björnssonar verði tekið út – og við erum að vona að ákvörðun okkar um að halda safninu saman í stað þess að skipta því og selja mælist vel fyrir hjá fólki og teljum það vera forsendu þess að hægt sé að gera þessa úttekt og marka honum þann sess sem honum ber í íslenskri listasögu.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

Raunverulega held ég að hvorkilistfræðingar né aðrir hafi yfirsýn yfir hans æviverk,“ segir Erlendur. „Eiginlega erum við rétt að uppgötva það sjálfir,“ bætir Þórður við. „Það hefur verið mikið ævintýri fyrir okkur að finna nýjar og nýjar myndir sem við höfðum aldrei séð áður – og jafnvel heilu myndlistarsýningarnar. Við fundum t.d. tvær sýningar sem höfðu ekki verið teknar upp eftir að hann kom heim frá Kaupmannahöfn. Ég var reyndar síðast að finna sex myndir í Krýsuvík í gær, uppi í geymslu. Og ég sem hélt að við værum búnir að finna allt sem hann eftirlét okkur,“ segir Erlendur.

Leitað að bláa fuglinum eða Krýsuvíkurmadonnunni

Mikil vinna liggur að baki skráningu safnsins og drjúg vinna er enn eftir við ljósmyndun, skönnun og skráningu, að sögn bræðranna.

Krýsuvík

Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Draumurinn er að í framtíðinni verði allt safnið aðgengilegt með uppslætti í tölvu, þar verði hægt að sjá mynd af umbeðnu verki, hvar það sé að finna, hvenær það sé unnið, í hvaða efni, hver sé eigandi þess, hvort og þá hvar það hafi verið sýnt og þannig mætti áfram teíja. Verkunum verður skipt í efnisflokka, þannig að auðvelt verður að finna myndir eftir þemum, t.d. með því að slá inn leitarorð á borð við Blái fuglinn eða Krýsuvíkurmadonnan.
Vandað verður til verka í hvívetna.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – málverk.

Þessi skráningarvinna er raunar þegar hafin. Þeir bræður eru með hugmyndir um að setja upp sérstakar þemasýningar, sýningar fyrir fyrirtæki og stofnanir og einnig að leigja út listaverk til fyrirtækja og einstaklinga. Nú stendur yfir sýning sem þeir settu upp á Hrafnistu í Hafnarfirði í vetur í tilefni af 75 ára fæðingarafmæli listamannsins, en henni lýkur 9. júní nk. Áður höfðu þeir sett upp sýningu í Sjóminjasafninu í Hafnarfirði og í Hallgrímskirkju. Snemma á næsta ári er svo fyrirhuguð sýning á verkum Sveins í Hafnarborg.

Árviss listaverkasýning á dagatali

Sveinshús

Þó að styrkurinn frá Hafnarfjarðarbæ komi að góðum notum við að setja húsið í Krýsuvík í stand segja þeir Erlendur og Þórður enn vanta mikið upp á að treysta fjárhagsgrundvöll safnsins til frambúðar. Þeir hafi raunar fengið byrjunarstyrki frá menntamálaráðuneytinu og Hafnarfjarðarbæ – en betur má ef duga skal. Þeir hafa nú sent velunnurum listmálarans og safnsins bréf, þar sem þeim er boðið að kaupa í áskrift listaverkadagatal með litprentunum af verkum Sveins en það myndi koma út í takmörkuðu upplagi og hvert eintak tölusett.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – málverk.

Áformað er að fyrsta slíka dagatalið komi út í lok þessa árs og hefji þannig göngu sína á fyrsta ári hins nýja árþúsunds. Dagatölin hefðu m.a. það markmið að vera ákveðin kynning á list Sveins, eins konar árviss listaverkasýning. Frá náttúruupplifun listamannsins að listaverkinu.
Aftur að Sveinshúsi í Krýsuvík og því starfi sem þar er fyrirhugað. Erlendur lýsir skoðunarferð um húsið á þessa leið: „Við hugsum okkur að vera með ljósmyndasýningu sem leiðir fólk frá náttúruupplifun listamannsins, í gegnum sköpun listaverksins og að listaverkinu sjálfu inni í vinnustofu. Þetta verða níu stækkaðar ljósmyndir, þær fyrstu teknar fyrir ofan húsið, þar sem hann er að skoða jörðina og taka inn áhrifin, svo sjáum við hann vera að búa myndina til – og svo er myndin sjálf þarna.
Sveinn Björnsson

Við ætlum að taka fólk inn í litlum hópum, leiða það í gegnum húsið og benda á öll listaverkin sem eru partur af þessu húsi, benda á ýmis stef, segja frá huldukonunni hans, hver sé blái kallinn o.s.frv. Okkur dreymir líka um að koma upp sjónvarpsaðstöðu í stofunni og sýna þar búta úr vinnukópíunni af kvikmyndinni sem ég er að gera um föður okkar, líf hans og starf, þannig að fólk sjái meistarann að störfum og sömuleiðis myndir úr gagnagrunninum.“

Sveinn Björnsson

Maddonnan við Kleifarvatn.

Eins og áður sagði hyggjast þeir setja upp breytilegar sýningar í tveimur herbergjum á fyrstu hæð hússins, auk þess sem uppi eru hugmyndir um sýningar utandyra og menningarmiðstöð í næsta nágrenni Sveinshúss, sem myndi hlúa að Krýsuvíkursvæðinu í heild. Sé stór hópur fólks á ferð má skipta honum upp, þannig að á meðan hluti hans gengur um húsið í fylgd leiðsögumanns geti hinir gengið að Grænavatni eða Gestsstaðavatni, litið inn í kirkjuna eða fengið sér kaffisopa í Krýsuvíkurskóla. Nóg er að sjá í Krýsuvík, svo mikið er víst.“

Krýsuvík

Krýsuvík; Starfsmannahúsið (gult) og Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Hafnarfjarðarbær, eigandi húsanna í Krýsuvík ofan Gestsstaðavatns, undir forystu Ingvars Viktorssonar bæjarstjóra, lét Sveini eftir bústjórahúsið á sínum tíma til afnota. Að Sveini látnum var samþykkt að húsið skyldi gert að safni til minningar um listamanninn Svein Björnsson og verk hans.

Sjá viðtal við Svein HÉR.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – menning/listir 13. maí 2000, Hús Sveins Björnssonar í Krýsuvík opnað gestum í sumar, bls. 16-17.
Sveinshús

Sandgerði

Í Alþýðublaðinu 17. sept 1965 skrifar Grétar Oddsson um „Sandgerði“ – og birtir myndir af bænum.

„Sandgerði liggur vestan á Reykjanesskaganum og er um stuttan lágheiðarveg að fara frá Keflavík, ekki er það meira en svo sem tíu mínútna akstur. —

Sandgerði

Sandgerði 1965.

Heiðin er auðnarleg, eins og Reykjanesskaginn allur, en efst á henni er ratsjárstöð, með hvítum kúplunni, minnir í fljótu bragði á máríska virkisborg.

Sandgerði

Sandgerði.

Það fyrsta sem maður sér í Sandgerði er urmull af nýjum og fallegum íbúðarhúsum og þorpið hefur yfir sér þokkalegan svip, þrátt fyrir auðnarlegt og ívið kuldalegt umhverfið.

Sandgerði er ekki gamalt pláss, frekar en svo mörg önnur kauptún á Íslandi. Fyrstu drög að þorps myndun á staðnum munu hafa verið gerð, þegar Matthías Þórðarson, faðir Ástþórs Matthíassonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, stofnaði þar til útgerðar með vélbáti rétt eftir aldamótin. Þá var ekki önnur byggð á staðnum, en jörðin Sandgerði og frá henni mun hafa verið sóttur sjór frá því hún byggðist. Hvenær það var, veit enginn og ekki er vitað til að hún sé landnámsjörð.

SandgerðiMesta útræði í nágrenni Sandgerðisjarðarinnar var um aldaraðir frá Stafnesi. Þaðan var ívið styttra á miðin, en sá litli munur var mikill á tímum áranna og seglanna. Þegar vélbátarnir komu til sögunnar var engin leið að koma þeim við á Stafnesi, vegna þess, hve höfn er þar ótrygg, en hins vegar er dágóð smábátahöfn frá náttúrunnar hendi í Sandgerði. Varð því úr að útgerðin fluttist þangað, en Stafnes lagðist af sem verstöð, þó að þar hafi efalaust vérið ein allra stærsta útgerðarstöð á landinu um aldabil.

Básendar

Básendavík.

Skammt sunnan við Stafnes stóð verslunarstaðurinn Básendar, þar til nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, að staðurinn eyddist í ægilegu flóði, sem einnig eyddi þá verslunarstaðnum í Hraunhöfn á Snæfellsnesi, þar sem nú standa Búðir. Er þetta mesta flóð sem um getur á Suðurnesjum og jafnframt það afdrifaríkasta. Það mun hafa verið á Básendum, þar sem Skúli Magnússon síðar landfógeti var innanbúðar hjá Danskinum og neitaði að pretta viðskiptavinina.

SandgerðiNæst kemur það sögu Sandgerðis að árið 1913 selur Matthías Þórðarson Lofti Loftssyni útgerðarmanni aðstöðu sína í verstöðinni og skömmu síðar settist Haraldur Böðvarsson þar að með sinn útgerðarrekstur og einnig fleiri. Haraldur var í Sandgerði um skamma hríð milli þess sem hann hætti útgerð frá Vogum á Vatnsleysuströnd og flutti til Akraness. Segir sagan að meðan Haraldur stóð við, hafi verið hörð keppni milli hans og Lofts um útgerðaraðstöðuna í landi. Ekki fer hjá því að öll þessi umbrot í útgerðinni hafi kallað á hafnarframkvæmdir og var fyrst gerð trébryggja og bólverk, en byrjað var á núverandi hafnargarði einhvern tímann á árunum upp úr 1940 og er hann nú orðinn 300 metra langur.“

Sandgerði

Sandgerði – Hamarssund.

Innsiglingin inn til Sandgerðis hefur löngum verið örðug stærri bátum. Hafa þeir gjarnan orðið að sæta sjávarföllum til að komast út og inn um Hamarssund, en svo heitir innsiglingin. Síðan 1962, eða sl. 3 ár hefur stöðugt verið unnið að hafnarbótum. Garðurinn lengdur um 42 metra og Grettir hefur unnið að dýpkun á sundinu 4-6 mánuði á ári hverju. Það er seinunnið verk og erfitt, enda stórgrýtt í botni. Til þessa hafa framkvæmdirnar kostað um 20 milljónir króna.

Sandgerði

Bátar í vör.

Sú sögn er til um Hamarssund að þar eigi aldrei að farast skip, en sá fyrirvari fylgir, að fara verði rétt í sundið. Þjóðsagan segir, að kerling ein, sem bjó á Bæjarskerjum hafi átt börn tvö, pilt og stúlku. Þeim barst á í sundinu og fórust bæði. Kerlingu varð svo um þetta slys, að hún mælti svo um, að aldrei skyldi farast þar skip, væri rétt farið. Boðar tveir, sem eru norðan og sunnan við sundið heita eftir börnum kerlingar, Þorvaldur og Bóla. Raunin hefur líka orðið sú, að bát hefur aldrei svo vitað sé hlekkst á í sundinu sjálfu, en komið hefur fyrir að borið hefur út úr því og getur þá verið tvísýnt um afdrifin.

SandgerðiVerslunarstaður myndaðist fyrst í Sandgerði um leið og útgerð hófst þaðan, eða á árunum 1907-1908 og þar hefur verið verslað stöðugt síðan. Búsettu fólki fer fyrst að fjölga fyrir alvöru á árunum upp úr 1940 og nú eru um 1000 íbúar í Miðneshreppi, en svo heitir sveitarfélagið.

Hér áður á árum var fjörugt verbúðalíf í Sandgerði. Þá mátti heita að tvöföld áhöfn væri á hverjum báti. Helmingur áhafnarinnar var í landi og beitti línuna, gerði að fiskinum og vann önnur aðkallandi störf, en sjómennirnir réru yfirleitt með skrínukost. Þá hafði hver bátur sína verbúð, þar sem mennirnir nutu svefns og matar og höfðu ráðskonu til halds og trausts. —

Sandgerði

Sandgerði – vitinn.

Yfirleitt voru verbúðir þannig innréttaðar að fiskhús og beitingaaðstaða var niðri, en íbúðir uppi. Frægust hrakningasaga tengd við Sandgerði, er um það, þegar vélbáturinn Kristján hraktist vélarvana um hafið í vondum veðrum í hálfan mánuð eða meira og var löngu búið að telja hann af. Þá bjarg það lífi áhafnarinnar, að vélstjórinn hafði fengist eitthvað við brugg og gat eimað drykkjarvatn úr sjó í litlum mæli þó. Þegar þeir loks gátu hleypt bátnum á land við Stafnes í vitlausu veðri voru þeir búnir að brenna hann hér um bil upp til agna til að halda þessari einstæðu bruggun í gangi.

SandgerðiNú hefur orðið ákaflega mikil breyting á. Verbúðalífið, eins og það þekkist fyrr á árum er að mestu horfið, enda línuvertíð úr sögunni svona hér um bil. Nú munu skráðir 10 stórir vélbátar í Sandgerði og urmull smærri báta og trilla. Sú var þó tíðin, að vertíðarbátar voru þar miklu fleiri, en smærri. 1918 voru til dæmis gerðir 90 bátar út frá Sandgerði, en ekki voru það allt merkilegar fleytur að stærðinni til. Nú landa 40—60 bátar í Sandgerði á hverri vertíð, en sú breyting hefur orðið á, að bátarnir eru lausari við en áður og geta notfært sér löndunarmöguleika víðar jafnframt. –

Sandgerði

Sandgerði – fræðasetur.

Fyrir tveimur árum eða svo byggði Guðmundur Jónsson á Rafnkelsstöðum síldarverksmiðju í Sandgerði, þá fyrstu á staðnum. Fyrir var lítil beinamjölsverksmiðja,- sem Garðar h.f. hafði reist í upphafi, en Guðmundur keypti hána og stækkaði og breytti. Bátar hans lenda allir í Sandgerði, þó að þeir séu skráðir í Garðinum.

Aðal útgerðarfélögin á staðnum í dag eru Miðnes og Garður: Miðnes er stöðin sem Haraldur Böðvarsson byggði upphaflega, en Guðmundur á Rafnkelsstöðum á Garð, sem Matthías Þórðarson lagði grundvöllinn að, og Loftur Loftsson eignaðist síðar.

Sandgerði

Sáðgerði í Sandgerði.

En þetta eru aðeins stærstu aðilarnir sem reka útgerð frá Sandgerði. Aðrir minni eru ótaldir, fyrirtæki eins og Djúpáll h.f., Arnar h.f. og Barðinn á Húsavík, sem á útgerðaraðstöðu í Sandgerði. Og líklega eru þeir fleiri.

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Þó að Sandgerðishöfn hafi nú í áraraðir ekki verið talin með öndvegishöfnum landsins, er nú svo komið eftir stöðugar hafnarbætur og dýpkun á innsiglingunni, að hafskipafært er orðið inn á glóði. 1000-1500 tonna skip geta hiklaust farið þar inn og athafnað sig við garðinn, sem er öruggur legugarður í öllum veðrum. Sú tíð er löngu liðin að formenn flýðu með báta sína frá garðinum og út á leguna í vondum veðrum.

Sandgerði

Sandgerði – erfið innsigling.

Geysimikið er byggt af húsum í Sandgerði, ekki síður en annars staðar á SV landi. Þar eru að rísa, eða eru risin stór hverfi af fallegum einbýlishúsum og óðum er verið að snyrta til í kringum þau.
SandgerðiÁður en langt um líður verður subbuskapurinn, sem löngum hefur auðkennt íslensk útgerðarpláss horfinn með öllu og ekkert eftir sem minnir á bernskuárin annað en rauðu Miðneshúsin, sem eru hvað mest áberandi umhverfis höfnina og upp af garðinum.

Sveitarstjóri í Sandgerði er Þórir Sæmundsson, ungur maður. Hann fræddi okkur um það helsta sem er á döfinni hjá sveitarfélaginu. Hafnarbæturnar hafa að sjálfsögðu verið kjarni framkvæmdanna, en margt fleira kemur til. Sveitarfélagið er að láta reisa áhaldahús niðri á fjörukambinum alllangt innan við höfnina, en þar á kambinum er líka að rísa nokkur fjöldi fiskverkunarhúsa. Suðurgata, sem er aðalgata bæjarins og sú sem fyrst er komið á ofan af heiðinni verður malbikuð í haust.

Bygging íþróttahúss átti að hefjast í sumar, en sú framkvæmd var stöðvuð af ríkisvaldinu, en Þórir fullyrðir að byrjað verði á því næsta sumar. Þá er verið að virkja nýtt vatnsból og verður neysluvatn þá bæði nægt og gott.

Sandgerði

Sandgerðishöfn í dag.

Borað var eftir vatninu og gekk það vel. Þá hefur verið lokið við að leggja Vallargötu.

Mjög knýjandi nauðsyn er að stækka barnaskólann og verður það gert eftir að íþróttahúsið hefur verið reist. T.d. um þann fjölda sem sækir skóla í Sandgerði má taka, að íbúar Miðneshrepps eru í dag 1031, en þar af eru ekki nema tæp 500 á kjörskrá, þannig, að meira en helmingur íbúanna er innan við 21 árs aldur. Í sambandi við þetta má svo geta þess, að skólastjórabústaður hefur verið endurnýjaður.

Sandgerði

Sandgerði – loftmynd.

Þá er talið það helsta sem bæjarfélagið, eða eigum við heldur að segja sveitarfélagið, hefur á sinni könnu í bili og er þá ekki minnst á eilífðarmál hvers bæjarfélags, eins og vatns og skolplagnir.

Til þessa hefur lítið verið um annan iðnað í Sandgerði en fiskiðnaðinn einan og má eiginlega segja, að svo sé enn. Þó eru nú sem óðast, eftir því sem bærinn vex örar að spretta upp þjónustufyrirtæki við útgerðina og byggingariðnaðinn, vélsmiðjur, trésmiðjur og þess háttar.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 17. sept. 1965, Sandgerði, Texti og myndir: Grétar Oddsson, bls. 7-10.

Sandgerði

Frá Sandgerðishöfn.

Þórkötlustaðanes

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1996 fjallar Þórarinn Ólafsson um „Vetrarvertíð í Þórkötlustaðahverfi„.

Þórarinn Ólafsson

„Trilluútgerð í Þórkötlustaðahverfi á sér langa sögu, en hún lagðist niður 1946. Vertíð hófst eftir að aðkomumennirnir sem ráðnir höfðu verið komu, og var það venjulega um miðjan janúar. Þá var hafist handa við undirbúning fyrir vertíðina. Að vísu voru heimamenn búnir að fara yfir línuna, hreinsa ásinn, hnýta á, setja upp línu, fella og bæta net, en það var aðallega gert á haustin því þá var nægur tími til þeirra hluta. Einnig var búið að bika og lita línu og net. Var það aðallega gert í heimahúsum.
Eitt var það sem higa þurfti vel að, var ískofinn. Hver trilla hafði sinn kofa og þurfti að fylla hann af snjó til að hægt væri að geyma beitu og beitta línuna, því ekki var til íshús í Þórkötlustaðarhverfi þá. Í ískofanum var kassi sem geymdi síld og bjóð og utan um þennan kassa var hólf, 5-6 tommu breitt, og í það var settur snjór blandaður meðs alti og við það fékkst ágætis frost í kassann. Það þurfti að líta vel eftir kassanum og þótti það leiðinleg vinna að passa upp á kassann.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ gerður eftir Pétri Guðjónssyni í Höfn.

Rafmagn þekktist ekki á þeim tíma í Þórkötlustaðahverfi. Notaðar voru gasluktir í skúrana en svokallaðar hænsnaluktir til að lýsa sér þegar gengið var til skips. Var oft gaman að sjá ljóslínuna sem myndaðist alla leið suður í Nes, því margir voru mennirnir með luktir og allir fóru á sjó á svipuðum tíma.
Þegar í Nesið kom var farið fyrst í ískofann og balarnir teknir og bornir á bakinu niður á bryggju. Síðan var skipið sett niður, bjóðin tekin um borð og haldið í róður. Yfirleitt voru níu menn á hverju skipi, fjórir á sjó og fimm í landi. Skipin voru tólf að tölu, 4-7 tonn að stærð. Vertíðin 1941 var að mig minnir síðasta vertíðin sem fiskur var saltaður að einhverju marki í Nesinu. Síðar var fiskurinn bara slægður og þótti það mikill léttir á vinnu hjá mannskapnum. Þá var aflinn seldur í skip og siglt með hann á Englandsmarkað. Þegar skipið var róið tók beitningin við. Að henni lokinni var aðgerðarvöllurinn undirbúinn, en alltaf var gert að úti þegar saltað var.
Þórkötlustaðanes
Uppþvottakista, flatningsborð og hausningabúkka var komið fyrir á sinn stað. Síðan fóru sumir að leggja á hnífa en aðrir að ná í sjó í kistuna, sérstakleha þegar lágsjávað var, því þá var langt að fara. Oftast var þó reynt að bíða eftir að sjór kæmi í Skottann, en í honum var fljóð og fjara og var þá miklu styrttra að fara. Þegar skip kom að var fiskinum kastað upp með stingjum á bryggjuna og þaðan upp á bílpall sem ók honum upp á aðgerðarvöll.
ÞórkötlustaðanesNæst var að setja skipið upp á kamp. Til þess var notað heimatilbúið spil, en það var sívalur trjádrumbur sem tvö göt voru í gegnum ofarlega og spírur teknar í gegnum götin svo kross myndaðist. Á spírurnar lagðist mannskapurinn og gekk hring eftir hring og voru þeir margir þegar lágt var í. Tveir menn studdu skipið og formaðurinn hlunnaði fyrir, Þessi aðferð lagðist af stuttu seinna og kom þá vélknúið spil og hlunnarnir steyptir niður, skipið lagt á sliskju og skipshörfninn horfði bara á.
Þá var eftir að gera að. Fiskurinn hausaður, flattur, þveginn og saltaður. Hrogn og lifur voru auðvitað hirt og lagt inn hjá lifrabræðslunni. Það var passað vel up á lifrina því hún sagði til um fiskiríið yfir vertíðina. Sá taldist aflakóngur sem hafði flesta potta af lifur.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðsla.

Hjá lifrabræðslunni var fyrsti vísir að verslun í hverfinu, því hjá Guðmanni bræslu, eins og hann var kallaður, fékkst sítrón, malt, vettlingar og tóbak og mig minnir að hann hafi verið með kæfubelgi stundum og kannski eitthvað lítilsháttar fleira. Það var ekki ónýtt hjá krökkunum að verða sér úti um lifrarbodd á bryggjunni og leggja inn hjá Guðmanni bræslu og fá sítrínuflösku í staðinn.

Þórkötlustaðanes

Fiskigarðar á Nesinu.

Þegar landlega var, þá var tíminn notaður til að umsalta fiskinum, spyrða upp hausa og hryggi og koma þeim út í hraun til þurrkunar. Þegar kom fram í febrúar var farið að huga að netunum, tína grjót í fjörukampinum, það borið í skúrana og hoggin rauf í steinana og snærishanki utan um þannig að úr urðu netasteinar. Einnig þurfti á stjórum að halda, en það voru þungar hellur sem meitluð voru göt í gegnum og tréklossi rekinn í gatið og voru þeir notaðir á sitt hvorn enda netratrossunnar.
ÞórkötlustaðanesLoðnan gekk yfirliett um mánaðarmótin febrúar og mars og var þá strax skipt yfir á net. Netatíminn stóð í 2-3 vikur og var þá skipt yfir á línu aftur til 11. maí, en þá var sá einlegi lokadagur. Var þá búið að ganga frá skipum í naust, formaðurinn búinn að gera upp við aðkomumennina, en þeir voru yfirlitt ráðnir upp á kaup. Nú gátu menn gert sér glaðan dag. Man ég að okkur krökkunum þótti lokadagurinn ein mesta hátíð ársins, mkikill gleðskapur og sungið við raust. Loks komu bílar frá Steindóri og sóttu mennina og var ekki frítt við að saknaðarsvipur væri á mörgu andlitinu.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Ekki má gleyma þætti húsmæðranna á vertíðinni. Sjómennirnir þurftu fæði og þjónustu, því þeir voru á heimilunum. Braggar þekktust ekki. Þegar róðir var, var þeim færður maturinn suður í Nes og lenti það meðal annars á börnunum. Það lenti líka á kvenfólkinu að verka sundmagana úr þorskinum. hann var plokkaður, þveginn og saltaður. Á vorin var hann útvatnaður, þurrkaður og seldur. Á einstaka heimilum var hann nýttur til matar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Höfn; kjallari. Efri hæðin var flutt yfir í Járngerðarstaðahverfi.

Á flestum heimilum réði húsmóðirin sér húshjálp, svokallaðar hlutakonur, yfir vertíðina, því mikið var að gera. Það var eins með þær, þessi mikla vinna sem af þeim var krafist kom ekki í veg fyrir að þær kæmu aftur og aftur, ef þær þá ekki náðu sér í mannsefni og fóru hvergi. Eins og áður segir voru aðkomumennirnir ráðnir upp á kaup og þess vegna gat formaðurinn gert upp við þá á lokadag, en heimamenn voru ráðnir upp á hlut. Við hlutamenn var ekki hægt að gera upp fyrr en búið var aðs elja fiskinn. Það lenti því á heimamönnum að vaska, þurrka og pakka fiskinum og við það unnu allir sem vettlingi gátu valdið.

Þórkötlustaðanes

Gamla bryggjan í Nesi.

Að endingu langar mig að minnast á þann góða félgasskap sem var í Þórkötlustaðahverfinu sem ég man eftir. Aaðkomumennirnir voru á einkaheimilum og urðu þeir einir af fjölskyldunni. Oft kom það fyrir þegar við krakkarnir vorum að leika okkur að sjómennirnir voru með okkur í allskonar leikjum, Ég minnist þess einnig að margir sjómannanna komu vertíð eftir vertíð og við marga aðkomausjómennina bundust löng vináttubönd.
Fyrsta vertíðin mín var árið 1941, þá 14 ára gamall. Það fiskaðist vel þessa vertíð og man ég að fyrripart vertiðar var norðanstilla og róið upp á hvern dag og mikið að gera. Það var nú ekkert að því þótt vinnan væri mikil og erfið, en svefnleysið, það var hrikalegt.
ÞórkötlustaðanesÉg veit ekki hvað sagt yrði við formann í dag, sem ekki leyfði 14 ára ungling að sofa nema 2-3 tíma á sólarhring hátt í mánaðartíma, en þetta gerðist nú samt í því skiprúmi sem ég var í fyrstu vertíðna. Helgarfrí þekktust ekki. En þetta gleymdist og áfram verið á sjó og urðu árin næstum 50 á sjónum.
Ef ég ætti að velja mér ævistarf aftur mundi ég vilja endurtaka allt, nema fyrstu vertíðina.“ – Grindavík 10. apríl 1996, Þórarinn Ólafsson

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1996, Vetrarvertíð í Þórkötlustaðahverfi, Þórarinn Ólafsson, bls. 49-51.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.