Knarrarnessel

Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan Klifgjár. Þar er flatlendast miðað við önnur selstæði á Vatnsleysustrandarheiðinni (Strandarheiðinni). Selstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnsstæðið, sem er um 100 metrum neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Selstæðið er stórt með mörgum tóftum. Þar má finna átta slíkar, misjafnlega stórar og margflóknar. Þrjá hlaðna stekki er að sjá í selstöðunni. Fjöldi stekkja benda jafnan til fjölda selja á viðkomandi svæði. Hins vegar má geta þess að stekkir virðast ekki alltaf augljósir. Þannig má ætla að enn einn stekkurinn hafi fylgt austustu tóftunum þremur. Þær eru í grónum krika ofan við hinatr tóftirnar. Sjá má móta fyrir hleðslu milli tveggja húsa, en alls eru rýmin í þeim fimm að tölu. Tvær tóftanna eru nokkuð heillegar og jafnvel sjá hveru stór rýmin hafa verið. Í nyrstu tóftinni mældust innanrýmin 140×280. Það er svipað hlutfall og í öðrum rýmum annarra tófta, ekki einungis í þessu seli heldur og fleirum. Ein tóftin, sú syðsta í vestanverðri selstöðunni, er greinilega stærst umfangs. Hún hefur verið með fleiri rýmum en hinar, líklega einum fjórum, en það er óalgengt í seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hefur þrjú slík, þ.e. eldhúsið með sérinngangi og búr og svefnaðstöðu með sameiginlegum inngangi.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Því, sem hér er lýst, er einungis ályktun út frá því sem sést á yfirborðinu, en ef grafið yrði í rústirnar gæti ýmislegt annað komið í ljós, s.s. tengsl einstakra rýma innbyrðis. Stekkirnir eru svipaðir að gerð, tvö hólf. Þó má sjá móta fyrir bogadreginni hleðslu við endann á vestasta stekknum. Hlaðin kví er skammt norðan við selstæðið. Líklega höfðu flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs. Þegar bornar eru saman selstöður í landnámi Ingólfs sést að Vatnsleysuströnd og Grindavík hafa nokkra sérstöðu varðandi sel því þar er mörgum bæjum hrúgað saman á einn stað en svo virðist ekki vera annarsstaðar, hvorki á Rosmhvalanesi, Höfnum, né Hraunabæjum og ekki að sjá slíkt í Kjósarsýslu.
Nýleg lambaspörð voru í einni tóftinni (í apríl).

Breiðagerðisslakki

Brak á slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Norðaustur af selinu er flak úr þýskri Junkers könnunarherflugvél. Hún varð fyrir skotárás bandarískrar orrustuflugvélar í april 1943. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn komst lífs af í fallhlíf. Hann var fyrsti þýski flugliðinn, sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjödlinni. Sjá má merkingar á einstökum hlutum.
Auðnasel er norðaustur af Knarrrarnesseli, innan við slakkann, Breiðagerðisslakka, sem þýska flugvélin hrapaði í og er um 20. mín. gangur milli seljanna.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Selið liggur suðvestur við hæð eina, sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfi, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því, nokkurn spöl neðan þess, og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Tóftir í Auðnaseli eru á fjórum stöðum. Líklega eru þó austari tóftirnar tvær huti af sama selinu. Fjórða tóftin gæti mögulega verið tyrfður tvískiptur stekkur, en tveir aðrir, hlaðnir stekkir eru skammt norðar. Á tveimur stöðum við selstöðuna eru göt undir klapparhæðum. Svo virðist sem hleðslur séu niðri í þeim, en gróið er yfir þær að mestu.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Klofinn klapparhæð er vestan við selstöðuna, en ekki er að sjá hleðslur í henni. Vel hefði mátt nýta hana sem nátthaga og er ekki óliklegt að það hafi verið gert.

Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Líklega eru Fornuselshæðir þær sömu og nefnt hefur verið Sýrholt. Þar eru fornar tóftir á a.m.k. tveimur stöðum, auk stekkst í gjá.
Hrafnslaupur er í Klifgjá neðan Auðnasels.
Strokkar heita klapparhæðir ofan Reykjanesbrautar. Í austurátt frá Strokkum er lítið selstæði, sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni, sbr. framangreint.

Fornasel

Fornassel – uppdráttur ÓSÁ.

Fornasel sést vel frá Reykjanesbrautinni, enda ekki langt ofan við hana. Sennilega er það eitt aðgengilegasta selið á Reykjanesskaganum – eitt hið minnsta, en jafnframt eitt hið fallegasta. Hæð (sem áreiðanlega hefur heitið eitthvað fyrrum) skilur að tóftir selstöðunnar. Þær eru annars vegar sunnan við hana og hins vegar norðan við hana. Á milli er vatnsstæðið.
Sunnanverðar tóftirnar eru umfangsmeiri. Þær eru vel grónar, en þó má ennþá sjá móta fyrir tveimur rýmum og því þriðja skammt sunnar. Líklegt er að þar hafi eldhúsið verið. Austan við tóftirnar er skeifulaga gerði, huganlega nátthagi.
Vatnsbólið hefur verið bæði áreiðanlegt og gott. Hlaðið hefur verið umhverfis það og sést enn móta fyrir hleðslunum austan þess og norðan.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Norðaustan við vatnsstæðið er tvískipt tóft, að öllum líkindum stekkur. Hann er mjög gróinn og ber merki húss, en ólíklegt er að svo hafi verið.
Fróðlegt er að skoða, bera saman og greina hinar ýmsu selstöður á Reykjanesskagnum, en FERLIR hefur nú skoðað 145 slíkar. Selin hafa ekki öll verið nýtt á sama tíma, en telja má, miðað við heimildir, að um helmingur þeirra hafi jafnan verið í notkun að jafnaði. Eldri selstöður voru gerðar upp aftur og aftur og síðan ný reist að teknu tilliti til nýrra krafna og aukins rýmis, enda verður að telja mjög líklegt að haft hafi verið í seli hér á landi allt frá fyrstu búsetu og þangað til selsbúskapurinn lagðist af að mestu skömmu fyrir aldamótin 1900. Merki um slíkt má sjá í nokkrum seljanna. Þannig má og sjá, miðað við stærð rýma og gerð seljanna, hvaða sel hafi verið í notkun á svipuðum tíma. Elstu selin eru greinilega einföldust að allri gerð, en seinni tíma selin eru formlegri og rýmin stærri.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið.

Reykjavík

Í Skírni árið 1979 birtist erindi Lýðs Björnssonar um „Reykjavík; upphaf höfuðstaðar„, sem hann flutti á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags 16. desember 1978. Hér er erindið stytt að nokkru.

Lýður Björnsson

Lýður Björnsson.

„Haft hefur verið fyrir satt, að Ingólfur Arnarson frá Dalsfirði í Firðafylki í Noregi hafi fyrstur norrænna manna numið land á Íslandi og byggt í Reykjavík. Þetta á að hafa gerzt um 870.
Fornrit herma, að Ingólfur hafi, áður en hann ákvað bústað sinn, verið búinn að ferðast meðfram meginhluta suðurstrandarinnar og þá væntanlega kannað land þar nokkuð. Staðarvalið virðist síðar hafa vakið furðu, enda leggur skrásetjari Landnámu þræli Ingólfs í munn hin kunnu orð, er ljóst varð, að Reykjavík varð fyrir valinu: „Til lítils fórum vér um góð héruð, ef vér skulum byggja útnes þetta.“ Má ætla, að ummæli þessi spegli viðhorf 12. og 13. aldar manna til bústaðarvalsins. Á síðari árum hefur Benedikt Gíslason, fræðimaður frá Hofteigi, bent á, að búsældarlegra hafi verið við Sund á landnámsöld en á Suðurlandsundirlendinu. Þetta er hárrétt athugað, enda hefur fiskur verið þar á miði, fugl í eyjum, selur á skerjum og hafnarskilyrði góð af náttúrunni. Auk þess er líklegt, að kjarrs hafi gætt minna í seltunni úti við hafið, en allgróskumikið kjarr hlýtur að hafa torveldað samgöngur um mikinn hluta Suðurlandsundirlendisins á landnámsöld og hulið þar hin minni kennileiti. Lægðir og harðbalar meðfram sjó hafa þá sennilega verið skógvana, og þá líka malarkamburinn milli vogs þess, sem skerst inn úr Kollafirði austan Örfiriseyjar, og Reykjavíkurtjarnar. Birkikjarr hefur þó hulið öll holt í nágrenni þessa staðar. Reki mun og hafa verið til búdrýginda á Seltjarnarnesi, þótt margri góðri spýtu hafi skolað út aftur aldirnar næstu fyrir landnám og aðrar fúnað uppi á malarkambi líkt og á síðari öldum.

Reykjavík

Reykjavík – elsti uppdráttur 1715 eftir Hans Hoffgaard.

Ingólfur Arnarson sló að sögn Landnámu eign sinni á landsvæðið milli Ölfusár og Hvalfjarðar. Hér er um svo víðáttumikið landsvæði að ræða, að einum bónda mundi nú veitast fullerfitt að nýta það að gagni, þrátt fyrir alla tækni 20. aldar. Má því geta nærri, hvernig landnemi, sem aðeins réði yfir tækni 9. aldar, gat nálgazt það takmark, enda á Ingólfur að hafa brugðið á það ráð að selja eða gefa hluta landnáms síns. Ætla má því, að það hafi fljótlega skipzt milli allmargra eigenda. Björn Teitsson sagnfræðingur telur líklegt, að í öndverðu hafi aðeins þrjár jarðir verið í byggð á utanverðu Seltjarnarnesi, Nes við Seltjörn, Reykjavík og Laugarnes. Tvær fyrsttöldu jarðirnar voru metnar á 100 hundruð eða meira í sumum jarðabókum.

Reykjavík

Reykjavík og nágrenni 1703.

Uppblástur fylgdi í kjölfar vaxandi byggðar og flest holt í nágrenni Reykjavíkur voru orðin örfoka um 1500 að sögn dr. Þorleifs Einarssonar. Þrátt fyrir þetta virðist byggð hafa þétzt í Seltjarnarneshreppi á tímabilinu 1200—1500. Má ætla, að íbúarnir hafi þá í auknum mæli lifað á sjávargagni, enda herðust fiskveiðar mjög í vöxt á 14. og 15. öld. Landeigendur brugðu þá á það ráð að leigja mönnum afmarkaða túnskák og heimila þeim beit í óskiptu landi þeirrar jarðar, sem túnskákin hafði tilheyrt. Með þessu tryggðu landeigendur sér aukinn vinnukraft, enda hvíldu ýmsar vinnukvaðir á ábúendum smábýla af þessu tagi, t.d. skipsróður. Smábýli þessi nefndust hjáleigur. Þrjár hjáleigur a.m.k. voru í landi Ness við Seltjörn 1397 og um 1700 voru 8 hjáleigur í landi Reykjavíkur. Munu þær hafa verið fleiri fyrrum.

Reykjavík

Reykjavík-jarðir og hjáleigur 1703.

Fiskur var mjög eftirsótt vörutegund í Evrópu á 14. öld og næstu aldir á eftir. Talið er, að borgamyndun og föstuboð kaþólsku kirkjunnar séu helztu orsakir þessa. Afleiðing varð sú, að fiskverð hækkaði mikið eða því nær þrefaldaðist á árunum 1200—1550. Þetta ýtti undir fjársterka aðila að eignast útróðrarjarðir, og var kirkjan þar fremst í flokki. Sama þróun varð í Seltjarnarneshreppi og annars staðar. Þannig átti Skálholtsstóll höfuðbólið Nes og fjórar jarðir aðrar í hreppnum um siðaskipti. Konungur þröngvaði síðan stólnum til að skipta á jörðum þessum og fleiri útróðrarjörðum í Kjalarnesþingi fyrir jarðir í landbúnaðarhéruðum á árunum 1556 og 1563, og árið 1616 keypti sami aðili meginhluta Reykjavíkur af erfingjum Narfa lögréttumanns Ormssonar. Útræði var stundað frá Reykjavík, en mikilvægi staðarins hafði og vaxið er hér var komið sögu vegna tilkomu verzlunar. Skal nú vikið lítilsháttar að því atriði og fylgt ritgerð eftir Helga Þorláksson sagnfræðing.

Reykjanes

Reykjanes við Reykjavík.

Getið er um siglingu á Elliðaár- og Leiruvog á þjóðveldistímabilinu, og kaupstefnur og skipakomur virðast hafa verið töluverðar við Þerney um 1400 og á 15. öld. Þá er getið um kauprein í Gufunesi í skjali einu frá 1496, en þar verzluðu Viðeyjarmenn.
Verzlunar er fyrst getið í Hólmi árið 1521, en sá Hólmur kynni að vera Grandahólmur vestan Örfiriseyjar. Á síðari hluta 15. aldar og öndverðri 16. öld var mikil samkeppni milli Englendinga og Þjóðverja og virðist eðlilegt, að Hólmur hafi orðið verzlunarstaður sem mótvægi við Hafnarfjörð í samkeppni kaupmanna um verzlun við innanverðan Faxaflóa. Þjóðverjar höfðu betur í samkeppninni og voru upp frá því leiðandi aðili í verzlun hérlendis, unz einokunarverzlunin var innleidd 1602. Árið 1608 var dönskum kaupmönnum boðið að rífa verzlunarhús Þjóðverja. Konungur keypti Reykjavík árið 1616 eins og fyrr var getið, en Örfirisey átti hann fyrir. Kemur því til álita, að verzlunin hafi verið flutt úr Grandahólmi til Örfiriseyjar á árunum 1608—1616, enda gat sú ráðstöfun losað kaupmenn við að greiða lóðartolla. Reykjavík átti Grandahólm hálfan. Verzlunin í Örfirisey nefndist síðar Hólmsverzlun.
Fiskgengd virðist hafa verið mikil í Faxaflóa á tímabilinu 1640—1687. Kaupmenn sigldu á hafnir við norðurströnd flóans talsverðan hluta þessa tímabils, t.d. Eyri í Hvalfirði og Straumfjörð, en verzlun þar lagðist af um 1680 vegna atburða erlendis, dauðsfalls í röðum kaupmanna og fjárglæfra. Beindist þá verzlun íbúa Borgarfjarðar- og Mýrasýslu til Reykjavíkur, sem þá lá bezt við samgöngum þaðan af verzlunarstöðunum. Styrkti þetta stöðu Reykjavíkur.

Reykjavík

Reykjavík 1921 – Kristján X. við veiðar í Elliðaánum.

Það styrkti og stöðu Reykjavíkur, að mönnum var a.m.k. þegar um 1700 gert að flytja konungsgjöld ásamt fálkum og laxi konungs þangað. Lax konungs var veiddur í Elliðaám. Áður hafði þessi varningur verið fluttur með skipum Bessastaðamanna, en þau sigldu á Seiluna við Bessastaði. Sú höfn lagðist af, er kaupmenn hófu að taka konungstekjur á leigu 1695.
Hafnarfjörður var mikilvæg verzlunarhöfn mikinn hluta 17. aldar, enda jafnframt varahöfn fyrir Eyrarbakka og Grindavík. Hafnarskilyrði voru góð í Hafnarfirði frá náttúrunnar hendi, en slæm á hinum stöðunum. Fór og svo, að sigling til Grindavíkur hætti um 1640, og viðskipti þeirra, sem þangað höfðu sótt, beindust til Hafnarfjarðar. Landinu var skipt í kaupsvæði árið 1662, og varð kaupsvæði Hafnarfjarðar lítið. Sigling til Grindavíkur hófst á nýjan leik 1664, og skerti þetta hlut Hafnarfjarðar. Sami kaupmaður hélt þó bæði Grindavík og Hafnarfjörð ásamt Eyrarbakka enn um hríð, en hann lét Grindavíkurverzlun af hendi 1684 og Eyrarbakkaverzlun 1692. Eftir það var verzlun í Hafnarfirði um skeið einskorðuð við hið litla kaupsvæði staðarins. Er því ljóst, að Reykjavík var orðin helzti verzlunarstaður við innanverðan Faxaflóa þegar fyrir 1700.

Reykjavík

Reykjavík 1787 – Jón Helgason.

Kaupauðgisstefnan (merkantilismi) var ráðandi stefna í efnahagsmálum meginhluta 17. og 18. aldar. Talsmenn þessarar stefnu lögðu áherzlu á mikilvægi iðnaðar og verzlunar. Báðar þessar atvinnugreinar eiga meiri vaxtarmöguleika í þéttbýli en strjálbýli. Efling þeirra stuðlaði því að þéttbýlismyndun, og þær eru oft nefndar borgaralegar atvinnugreinar. Það virðist því eðlilegt, að hugmyndir um stofnun borga á hinu borgalausa Íslandi taka að skjóta upp kollinum, er Íslendingar og aðrir þeir, sem báru hag landsins fyrir brjósti, kynntust kenningum í anda þessarar stefnu.
Arngrímur Þorkelsson Vídalín (um 1667—1704), rektor og bróðir Jóns biskups lagði í riti sínu Consilium de Islandia til að stofnaðar yrðu tvær kastalaborgir á Íslandi, önnur á Norðurlandi og hin á Suðurlandi. Setulið skyldi vistað í borgum þessum til að halda uppi aga í landinu, og erlendir iðnaðarmenn laðaðir til að setjast þar að og þeir hvattir til að kvænast íslenzkum konum.

Reykjavík

Reykjavík 1787 – Hans Lievog.

Á 18. öld tóku þeir Páll lögmaður Vídalín (1667—1727), Jón Eiríksson konferensráð (1728—1787) og Hans lögmaður Becker (d. 1746) upp þráðinn. Í ritinu Deo, regi, patriæ, sem Jón Eiríksson gaf út árið 1768, er stungið upp á því, að efnt skuli til kaupstaðar á Mýrum og staðnum talið það til ágætis, að innsiglingin þangað sé svo slæm og vandrötuð, að það eitt mundi nægja til varnar gegn ræningjum. Lagt er til, að 5 húkkortur verði gerðar út frá kaupstaðnum og þar stundaður iðnaður og jarðrækt. Í bænum verði reist timburkirkja og þar starfi tveir prestar, bæjarfótgeti og lögreglustjóri. Síðar verði götur kaupstaðarins steinlagðar og þar reistir skólar. Loks er bent á, að íþróttastarfsemi muni með tímanum eflast í kaupstaðnum, t.d. skíðaferðir.

Reykjavík

Reykjavík – Aðalstræti 10; hluti Innréttinganna.

Nokkru fyrir miðja öldina eða 1736 lagði Hans Becker til, að kaupstaðir yrðu stofnaðir á eftirtöldum fimm stöðum: Hafnarfirði, Grundarfirði, Ísafirði, Akureyri og Reyðarfirði. Tíu timburhús skyldu reist í hverjum kaupstað. Hafnarfjörður skyldi vera höfuðstaður landsins og aðsetursstaður helztu embættismanna sunnanlands, en norðlenzkir embættismenn áttu að búa á Akureyri.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Af þessu er ljóst, að fyrir 1750 hafði ekki komið fram tillaga um myndun þéttbýlissvæðis í Reykjavík, sem þó var leiðandi verzlunarstaður við innanverðan Faxaflóa. Næstu ár hóf Skúli fógeti ásamt flestum atkvæðamestu embættismönnum landsins viðamikla tilraun til að efla hér hinar borgaralegu atvinnugreinar auk fiskveiða og landbúnaðar. Stofnuðu þeir fyrirtæki í þessu skyni, og hlaut það nafnið Innréttingarnar. Saga þess verður ekki sögð hér, heldur skal vikið að staðsetningu fyrirtækisins og áhrifum á næsta nágrenni. Svo var ráð fyrir gert, að Innréttingarnar rækju ullariðnað, útgerð, sútun, kaðlagerð o.fl. Ætla hefði mátt, að freistandi hefði verið að staðsetja fyrirtæki, sem lagði svo mikla áherzlu á ullariðnað, á Norðurlandi, en þar hefur sauðfjárrækt verið mikil frá fornu fari. Á móti vó, að betri fiskimið voru fyrir Suðurlandi, og útgerð átti að vera einn þátturinn í rekstrinum.

Reykjavík

Skíp á 18. öld.

Góð hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi hljóta því að hafa verið eitt þeirra atriða, sem stofnendur Innréttinganna hafa haft í huga varðandi staðarval. Góð fiskimið voru á Faxaflóa. Auk þess höfðu byggðarlögin við innanverðan Faxaflóa þann kost að þau lágu tiltölulega skammt frá Þingvöllum, en þar hittust flestir hluthafanna ár hvert. Konungur átti margt jarða við innanverðan Faxaflóa, en hluthafar í Innréttingunum gátu gert sér vonir um að losna við að greiða leigu ef þeir staðsettu fyrirtækið á konungsjörð, og jafnvel að fá jörðina gefins. Fór og svo, að þeir báðu konung um að gefa fyrirtækinu jarðirnar Hvaleyri, Reykjavík og Örfirisey, og varð hann við þeirri bón með konungsúrskurði dagsettum 4. janúar 1752. Allir þessir staðir voru prýddir framangreindum kostum og góðri höfn frá náttúrunnar hendi að auki.

Reykjavík

Þófaramylla við Elliðaár.

Svo fór, að Innréttingunum var valinn staður í Reykjavík, og gerir Skúli fógeti grein fyrir viðhorfi sínu til þess máls í ódagsettu skjali. Hann telur Seltjarnarnes, sem hann nefnir reyndar Saltenes, heppilegasta svæðið til að staðsetja fyrirtækið á, einkum Reykjavík eða Skildinganes. Seltjarnarnes liggi mitt á milli tveggja góðra hafna, Hólms (Örfiriseyjar) og Seilu, og liggi vel við fiskveiðum. Þófaramyllu megi reisa við Elliðaár eða í Laugarnesi, og útgerðin geti haft miðstöð sína í Örfirisey, en þar hagi svo til, að bátum verði auðveldlega hrundið á flot og þeir settir upp. Mismunur flóðs og fjöru sé að vísu mikill eða um 16 fet, en botn sé fastur og sléttur. Eyjan hafi ennfremur þann kost að vera umflotin sjó um flóð og varðgæzla sé aðeins nauðsynleg á einum stað, sem viti móti landi. Skúli er lítið hrifinn af Hafnarfirði sem aðsetursstað fyrir Innréttingarnar, kveður veginn þangað slæman og þar engan mó að hafa. Eldsneyti, hafnarskilyrði, samgöngur og vatn hafa því ráðið úrslitum um staðarvalið, og er það að vonum. Fyrrnefnt skjal hlýtur að vera frá árunum 1750—1751, enda geymir það tillögur til laga fyrir Innréttingarnar og rekstraráætlun fyrir slíkt fyrirtæki ásamt skýringum.

Reykjavík

Örfirisey tengd landi með granda.

Forsvarsmenn Innréttinganna fóru ekki fram á að fá Skildinganes, sem var konungsjörð eins og hinar þrjár, enda mun höfn þar lakari en við Reykjavík og Örfirisey og staðurinn liggur lengra frá Elliðaám og Laugarnesi. Athugasemdin um varðgæzlu í Örfirisey er athyglisverð og bendir til þess að Skúli hafi óttazt þjófnað af fiskbirgðum eða úr verzluninni. Annars bar hann varnir Reykjavíkur talsvert fyrir brjósti og bendir t.d. í lýsingu sinni á Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1782—1784 á, að lítið virki í Engey mundi nægja til að loka báðum innsiglingunum á höfnina, en önnur þeirra er milli Örfiriseyjar og Engeyjar og hin milli Engeyjar og Viðeyjar.
Árið 1703 áttu 69 manns lieima í Reykjavík að hjáleigum meðtöldum, en um 180 manns bjuggu á sama svæði árið 1787. Aukninguna má vafalítið rekja að verulegu leyti til Innréttinganna, þótt blómaskeið fyrirtækisins hafi verið liðið, enda voru aðeins 34 menn í þjónustu þess árið 1780. Mun fleiri unnu hjá fyrirtækinu um 1760, jafnvel um 100 manns samtímis, en á árunum 1767—1773 var samtals 53 starfsmönnum sagt upp. Af vitnisburði um hag þessa fólks, dagsettum 6. marz 1773, er ljóst að fjórðungur þess bjó þá enn í Reykjavík, flestir við sárustu fátækt að sögn. Nokkur hluti þess var fjölskyldufólk.

Reykjavík

Fæstir starfsmanna Innréttinganna höfðu grasnyt. Frá fornu fari höfðu bændur haft mikla vantrú á fólki, sem framfleytti sér og sínum án grasnytja. Slíkt fólk var nefnt þurrabúðarmenn eða tómthúsmenn, en talsverð tómthúsmannahverfi hafa öldum saman verið í grennd við helztu verstöðvar, t.d. á Suðurnesjum og undir Jökli. Þorri bænda hafði horn í síðu tómthúsmanna, og mun ein orsök þess hafa verið ótti við, að tómthúsmenn og fjölskyldur þeirra færu á vergang á aflaleysisárum. Hitt gleymdist, að verstöðvarnar og tómthúsahverfin voru helzta athvarf þeirra bænda, sem flosnuðu upp, er harðindi geisuðu til landsins. Auk þessa munu bændur hafa óttazt, að vinnuafl kynni að dragast að sjávarsíðunni, ef ekki væru reistar skorður við tómthúsmennsku, svo sem ráða má af skjölum frá 15. öld, t.d. bréfi frá Íslendingum til konungs, dagsettu 4. júlí 1480. Slíkt hefði og valdið samkeppni um vinnuafl og kaupgjaldshækkun. Þetta viðhorf átti sinn þátt í því, að hér mynduðust aðeins fámenn þurrabúðarhverfi, en ekki þorp eða borgir.

Reykjavík

Reykjavík – tómthús 1890.

Eðlilegt virðist, ef þetta er haft í huga, að íbúar Seltjarnarneshrepps hafi litið hið nýja tómthúsmannahverfi í Reykjavík nokkru hornauga. Þetta átti líka eftir að koma á daginn og að vonum mest eftir að Innréttingunum tók að hnigna laust fyrir 1770. Starfsmenn Innréttinganna staðhæfa í fyrrnefndu bréfi 2. maí 1771, að fyrirtækið hafi komið fleirum en Reykvíkingum að gagni. Íbúar nágrennisins hafi oft fengið þar vinnu, þegar vinna féll til, og aðstoð í harðindum, bæði mat og peninga.

Reykjavík

Reykjavík 1917.

Ýmsir lifnaðarhættir bæjarbúa breyttust lítið fyrr en talsvert var liðið á 19. öldina. Heimildir frá tímabilinu 1773—1830 geyma gnótt vitnisburða um slark, enda munu Reykvíkingar hafa átt auðveldara með að afla nauðsynlegra vínfanga eftir að verzlunin var flutt til bæjarins úr Örfirisey 1780 og verzlunum tók að fjölga í bænum eftir 1787.

Reykjavík

P.C. Knudtzon reisti kornmyllu á árinu 1864 sem gekk undir nafninu „Hollenska myllan“, en áður hafði hann reyst myllu þar sem nú er Suðurgata 20 (Hólavallamylla). Rekstur myllunar gekk ekki sem skyldi og var hún á tímabili notuð sem geymsla. Myllan var rifin árið 1902.

Um aldamótin 1800 var gerð tilraun til að koma á fót félagsstarfsemi í bænum. Klúbbur að enskri fyrirmynd hafði verið stofnaður í bænum þegar árið 1803 og tveir slíkir virðast hafa starfað hér á árunum 1805—1806. Borgarar bæjarins hittust í klúbbum þessum 2—3 kvöld í viku, og þar voru haldnir nokkrir dansleikir á hverjum vetri. Þrátt fyrir menningarviðleitni af framangreindu tagi var bæjarbragurinn um 1800 sumum ærinn þyrnir í augum.
Þrátt fyrir þennan áfellisdóm kom ýmislegt fram í Reykjavík á tímabilinu 1752—1830, sem til framfara horfði, en ekki tóku landsmenn þeim nýjungum öllum opnum örmum. Ný tækni við ullarvinnslu — notkun rokks og nýrrar gerðar af vefstól — breiddist út frá bænum, en útbreiðslan átti og aðra orsök.

Reykjavík

Hólavallaskóla var komið á fót á Hólavöllum ofan núverandi Suðurgötu í Vesturbæ Reykjavíkur eftir að skólahald í Skálholti var lagt niður. Sögu skólahalds má rekja til þess að hálfri öld eftir kristnitöku á Íslandi eða árið 1056 varð Skálholt biskupssetur. Var þá stofnaður þar skóli til þess að mennta presta til að sinna trúarlífi nýkristina landsmanna. Með konungsboði að loknum siðaskiptum 1550 var biskupsstólunum íslensku gert skylt að reka skóla til að mennta menn til að gegna prestsembættum og einnig gat skólavist verið undirbúningur undir framhaldsnám erlendis. Saga skólahalds í Skáholti endaði sumarið 1784. Þá hrundu öll hús á staðnum nema dómkirkjan í suðurlandjarðskjálfta. Á sama tíma gengu móðuharðindin í lok Skaftárelda yfir og næstum allt búfé staðarins féll vegna gróðurbrests og fóðurskorts. Skólinn var ekki endurreistur í Skálholti. Með konungsúrskurði 15. apríl 1785 var ákveðið að flytja biskupssetrið og skólann til Reykjavíkur. Smíði Hólavallaskóla var lokið sumarið 1786 sama ár og Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi sem áttu að efla hana til að gerast höfuðbær svo vitnað sé til orða Jóns Espólín. Var skólinn vígður haustið 1786 í viðurvist ýmissa heldri manna þess tíma. Þar á meðal voru Hans Christopher Diderich Victor von Levetzow stiftamtmaður, Hannes Finnsson biskup, Ólafur Stefánsson amtmaður, Guðmundur Þorgríms-son dómkirkjuprestur og Jón Sveinsson landlæknir viðstaddir athöfnina. Alþingi hélt síðustu fundi sína 1799 og 1800 í húsi Hólavallaskóla áður en það var lagt niður tímabundið. Landsyfirréttur var um tíma í húsinu en hrökklaðist þaðan í febrúarmánuði 1807 vegna kulda og trekks. Skólahúsið var rifið skömmu síðar.

Stjórnvöldum var á ofanverðri 18. öld umhugað um að bæta verkkunnáttu Íslendinga. Þau sendu því sýslumönnum rokka og vefstóla, sem þeir útbýttu ókeypis til þess fólks, er talið var líklegt til að notfæra sér þessi tæki. Auk þessa kostuðu stjórnvöld a.m.k. 20—30 manns til náms í vefnaði og spuna í Danmörku á árunum 1785—1795. Sumt þessa fólks sneri aftur heim til Íslands og stundaði hér iðn sína.

Reykjavík

Málverk Jóns Helgasonar biskups sýnir Hólakot og Hólavallamyllu um 1840.

Hliðstæð kennsla fór fram við Innréttingarnar í Reykjavík. Þessi viðleitni bar þann árangur, að hin nýju tæki og ný tækni útrýmdu eldri vinnubrögðum á tiltölulega skömmum tíma. Öðru máli gegndi um kerru og hjólbörur. Þessi tæki voru keypt til Reykjavíkur 1752 og hafa verið í notkun hér síðan. Útbreiðsla þeirra um landið virðist aftur á móti hafa verið mjög hæg, og er það skiljanlegt að því er kerruna varðar, enda var landið vegalaust, en öðru máli gegnir um hjólbörurnar. Þær hefðu þó átt að létta mörg dagleg störf.Aðeins tveir barnaskólar störfuðu í landinu á 18. öld svo að öruggt sé. Barnaskóli tók til starfa í Vestmannaeyjum árið 1745 og starfaði fram yfir 1760, og Hausastaðaskóli tók til starfa 1791 og starfaði rúmlega tvo áratugi.

Reykjavík

Viðeyjarstofa.

Reykjavík var helzti þéttbýlisstaður landsins á ofanverðri 18. öld. Þess var því að vænta, að þar kæmu fram hugmyndir um stofnun barnaskóla, enda varð sú raunin. Af bréfi frá Sunchenberg kaupmanni til Levetzows stiftamtmanns, dagsettu 3. febrúar 1786, og bréfum stiftamtmanns til kaupmanns þessa, dagsettum 24. desember 1785 og 13. febrúar 1786, er ljóst, að Sunchenberg hóf fjársöfnun til skólastofnunar hinn 8. janúar 1785. Lét hann í þessu skyni setja upp söfnunarkassa í verzlun sinni. Stiftamtmaður bannaði þessa fjáröflunaraðferð, og undrast kaupmaður það mjög, enda væri þessi háttur algengur í Kaupmannahöfn. Alls söfnuðust 261 rd og 7 1/2 sk í þessu skyni. Kaupmaður lagði til, að stofnaður yrði skóli fyrir 20 nemendur að Hlíðarhúsum við Reykjavík, tíu af hvoru kyni. Nemendur skyldu vera á aldrinum 7—16 ára. Hlíðarhúsaskóla varð aldrei hrundið í framkvæmd, en vera má, að fé það, er safnaðist, hafi verið notað til skólahalds, enda er Þorkell Magnússon titlaður skoleholder í skjölum frá fyrstu árum 19. aldar.

Reykjavík

Bessastaðir.

Jón sagnritari Espólín ber Reykvíkingum ófagra sögu í Árbókum sínum, en þar segir svo við árið 1808: „Voru allir bæjarmenn kramarar, og þernur þeirra og þjónar hugsuðu ei um annað en skart og móða; konur höfðu gullhringa marga hver, og keppt var um hvað eina sem til yfirlætis horfði, samkvæmi jafnan og dansar og drykkjur, og eftir þessu vandist alþýðan,, er þar var um kring.“ Ummæli þessi benda ekki til, að bóklestur hafi þá verið mikið iðkaður í bænum.

Reykjavík

Nesstofa.

Á fyrri öldum bjuggu æðstu embættismenn konungs á Bessastöðum. Skúla fógeta þótti of þröngt um sig þar, og því fór hann fram á að fá Viðey til ábúðar. Konungur varð við þeim tilmælum, og lét stjórnin reisa vandaðan landfógetabústað í Viðey á árunum 1752—1754. Landlæknisembætti var stofnað árið 1760, og embættisbústaður reistur yfir landlækni á árunum 1761—1765 að Nesi við Seltjörn. Nýr embættisbústaður fyrir amtmann var reistur að Bessastöðum á árunum 1760—1765. Allir þessir staðir eru í næsta nágrenni við Reykjavík, sem því varð samgöngumiðstöð og höfn fyrir þessi embætti, einkum eftir að verzlunin var flutt til Reykjavíkur úr Örfirisey 1780. Nábýli var mikill kostur fyrir æðstu embættismenn landsins, enda þurftu þeir að hafa margvísleg samskipti. Mun þetta orsök þess, að bæði biskupsstóll og skóli voru fluttir til Reykjavíkur eða nágrennis, er hinir fornu biskupsstólar voru lagðir niður.

Reykjavík

Reykjavík – Laugarnes 1836.

Fyrrnefndir embættisbústaðir voru reisuleg hús og kostuðu mikið fé. Stjórninni mun því hafa verið umhugað um, að þeir væru nýttir, og byggingarkostnaður vegna nýrra embættisbústaða hefði einn út af fyrir sig verið nægileg hindrun í vegi þess að flytja fyrrnefnd háembætti frá Reykjavíkursvæðinu næstu áratugi. Má því segja, að staða höfuðborgarsvæðisins sem aðsetur æðstu stjórnar á Íslandi hafi verið orðin vel tryggð fyrir lok 18. aldar. Miðstöð þess svæðis var í Reykjavík.

Reykjavík

Myndina málaði Aage Nielsen-Edwin eftir mynd Moltke greifa frá því um 1820. Moltke varð stiftamtmaður á Íslandi 1819. Árið eftir flutti hann í Tukthúsið sem gert hafði verið að bústað fyrir hann (heitir nú Stjórnarráðshúsið).

Ein þeirra stofnana, sem komið var á fót í Reykjavík á ofanverðri 18. öld, var tukthúsið á Arnarhóli. Forsaga þess máls er sú, að Henrik Ocksen, sem var stiftamtmaður yfir Íslandi 1730 — 1750, hreyfði árið 1734 þeirri hugmynd, að rétt væri að reisa hér tukthús og bauð amtmanni að ræða málið við sýslumenn. Amtmaður var þessu mótsnúinn og sama máli gegndi um lögmenn og sýslumenn, en þessir aðilar töldu allir, að kostnaðurinn vegna starfrækslu slíkrar stofnunar yrði landinu ofvaxinn.
Forstöðumenn Innréttinganna tóku málið upp við stjórnvöld árið 1753. Um skeið höfðu þeir áhuga á, að slíkri stofnun yrði komið á fót á Búðum á Snæfellsnesi, enda væri staðurinn í grennd við kaupstað og verstöðvar. Síðar breyttu þeir um skoðun og hinn 22. ágúst 1760 ritaði Magnús amtmaður Gíslason Otto Rantzau stiftamtmanni og lagði til, að tukthúsið yrði reist á Arnarhóli, enda fylgi jörðinni uppsátur og útræði. Magnús tekur fram, að þeir Skúli fógeti hafi rætt málið og séu sammála um þessa lausn. Er vart að efa, að þessir tveir aðalforustumenn Innréttinganna hafa sannfærzt um, að tukthúsið varð að vera mjög nærri Reykjavík, ef vinna fanganna átti að koma að tilætluðum notum fyrir fyrirtækið, en sú hafði verið ætlunin. Varð þetta að ráði. Tukthúsið var reist á Arnarhóli á árunum 1761—1771, en farið var að vista fanga þar alllöngu fyrr.

Reykjavík

Grunnteikning af Stjórnarráðshúsinu (Tukthúsinu) eftir Ohlsens árið 1803 sem sýnir skipulag á neðri hæð hússins, en x og y eru kamrar.

Magnús amtmaður lætur að því liggja í bréfi, dagsettu 27. september 1757, að ýmsir afbrotamenn á 18. öld hafi fagnað því að vera dæmdir í hegningarvinnu og talið sig öðlast örugga framfærslu með þessum hætti, enda gleðji slíkir dómar margan þjófinn. Umsögn Magnúsar lýtur að refsivist á Brimarhólmi og öðrum hliðstæðum stofnunum í Danmörku, sem hér voru lítt þekktar í raun, en ekki er víst, að viðhorf brotamanna til tukthússins á Arnarhóli hafi verið svipað. Það var að vísu furðunýtízkulegt um sumt. Fangarnir voru ráðnir í vinnu hjá bændum og öðrum vinnuveitendum í nágrenninu og komu því stundum ekki vikum saman í tukthúsið. Karlmenn voru einkum ráðnir í ver eða að Bessastöðum eða Viðey, en þeir virðast og hafa unnið við uppskipun og við að taka grafir og við kúagæzlu. Gert var út frá tukthúsinu, og voru bátarnir mannaðir föngum, jafnt formaður sem hásetar.

Reykjavík

Reykjavík – kort 1787; Tukthúslóðin græn h.m.

Kvenfangar voru oft ráðnir í vist, en þá kom fyrir, að einhver á heimilinu og fanginn felldu hugi saman.
Hér hefur einkum verið dvalið við hinar bjartari hliðar. Á móti kemur, að barsmíðar voru tíðar í tukthúsinu og a.m.k. í eitt skipti beið fangi bana af þeirra völdum (Þorsteinn Einarsson 1808). Þetta kann þó að hafa vakið litla athygli. Fangaverðir kvarta og um, að ýmsir fanganna séu svo harðgerir, að refsing með kaðli bíti ekki á þá. Verra til afspurnar hlýtur að hafa verið, að sum ár dó allt að því heill tugur fanga, og er banamein þeirra nær undantekningarlaust hor eða óþrif. Jafnvel lús er nefnd sem banamein. Skýtur þetta mjög skökku við dánarorsakir hjá bæjarbúum öðrum, en þær eru einkum magaveiki og skyrbjúgur auk landfarsótta og slysa. Skyrbjúgur virðist hlutfallslega tíðari hjá þeim bæjarbúum, sem unnu við verzlun eða iðnað, og kann þetta að spegla mismunandi neyzluvenjur.

Reykjavík

Ljósmynd frá 1907 af „Batteríinu“ eða Jörundar-vígi neðan Arnarhóls.

Fréttirnar um hið illa atlæti í tukthúsinu þessi ár hljóta að hafa átt greiðan aðgang að bæjarbúum og breiðzt út um landið frá Reykjavík, enda kvartar fangelsisstjórnin um of mikil tengsl milli fanganna og bæjarbúa hinn 4. apríl 1806. Tekur hún fram, að fangarnir séu óðar komnir út á götu og gefi sig á tal við vegfarendur, ef þeir (þ.e. fangarnir) fari út til að fá sér hreint loft. Fangelsisstjórnin leggur til, að lóð tukthússins verði girt, en á því varð bið.
Orðrómurinn um atlætið í tukthúsinu hefur fráleitt orðið þess valdandi, að brotamenn hafi fýst þangað og talið sig með því öðlast trygga framfærslu hérna megin. Stofnun tukthússins treysti Reykjavík á hinn bóginn í sessi sem þjóðlífsmiðstöð. Tukthúsið sjálft var hin myndarlegasta bygging, sem kostað hafði talsvert fé, og a.m.k. 1—2 embættismenn voru ráðnir að stofnuninni.

Reykjavík

Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu á sér langa sögu. Hana má rekja allt aftur til ársins 1759, en þá var gefinn út konungsúrskurður um byggingu tugthúss á Íslandi. Tveimur árum síðar var hafist handa við framkvæmdir en smíði hússins lauk ekki að fullu fyrr en veturinn 1770 – 71. Fyrstu áratugina gegndi húsið hlutverki tugthúss, en frá 1819 var það embættisbústaður stiftamtmanns og síðar landshöfðingja. Árið 1904 fékk húsið nýtt hlutverk, þegar Íslands fékk heimastjórn og Stjórnarráð Íslands var stofnað. Allar götur síðan, hefur húsið gengið undir nafninu Stjórnarráðshúsið.

Niðurstöður verða þessar: Nægilegt eldsneyti, góð hafnarskilyrði frá náttúrunni, tiltölulega góðar samgöngur og gnægð vatns voru þeir kostir, sem tryggðu Reykjavík sess sem aðsetursstað fyrir Innréttingarnar. Þar hófst því þéttbýlismyndun á 18. öld. Embættisbústaðir fyrir þrjá af æðstu embættismönnum landsins voru reistir í nágrenni bæjarins á árunum 1750—1770, og varð Reykjavík þá samgöngumiðstöð fyrir þessi embætti, einkum við útlönd. Fleiri embættismenn fylgdu í kjölfarið, enda höfðu þeir hag af nábýlinu, og tryggði þetta svæðinu sess sem stjórnarsetur landsins. Innréttingarnar reyndust nágrenninu styrkur, enda sóttu íbúar þess þangað vinnu og seldu þar vörur sínar. Íbúum þéttbýlishverfisins var tekið með tortryggni, og guldu þeir þar bæði gamalla hleypidóma og lífernis síns. Eimdi lengi eftir af þessu viðhorfi.“ – Lýður Björnsson

Heimild:
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1979, Reykjavík; upphaf höfuðstaðar – Lýður Björnsson, bls. 42-61.

Reykjavík

Málverk af Reykjavík frá um 1850. „Batteríið“, þar sem Íslendingar hafa komist næst því að koma upp virki, sést vinstra megin á myndinni, en þar stóð áður Arnarhólskot sem var hjáleiga frá Arnarhóli.

Lækjarbotnar

Eftirfarandi frásögn af Eyvindi og Magréti má lesa í Frjálsri þjóð árið 1962:
laekjarbotnar-992„Á
rið 1677 voru dæmd til líkamlegrar refsingar á Kópavogsþingi hjú tvö úr Árnessýslu, karl og kona. Var maðurinn kvæntur, en hafði strokið frá heimili sínu og lagzt út með stúlku, er hann lagði hug á. Maðurinn hét Eyvindur Jónsson, stundum kallaður Eyvindur eldri, til aðgreiningar frá alnafna sínum, hinum víðkunna Fjalla-Eyvindi. Alþingisbókin 1678 segir í stuttu máli hina dapurlegu örlagasögu þessara tveggja mannvera, sem virðast hafa lagt allt í sölurnar til að mega njótast. Sú frásögn er á þessa leið:
„Í sama stað og ár og dag (29. júní 1678) auglýsti valdsmaðurinn Jón Vigfússon eldri þann héraðsdóm, sem hann hafði ganga látið í Bakkárholti í Ölfusi í Árnessýslu það ár 1677 2. nóvembris undir 12 manna útnefnd áhrærandi þær stórbrotamanneskjur Eyvind Jónsson og Margrétu Símonardóttur, sem úr þeirri sýslu burthlaupið höfðu vel fyrir tveimur árum og í opinberum hórdómi orðið sín á millum með barneign, hann eigingiftur, en hún í einföldum hórdómi áður fundin. Höfðu téðar persónur á þessum tveggja ára tíma saman haldið sig fyrir ektahjón… urðu svo höndlaðar í einum helli suður undir Örfiseyjarseli í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris með fola og nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu sem og heilagrar aflausnar og sakramentis forröktun, hverjar þrjár refsingar valdsmaður Jón Vigfússon rigtuglega bevísaði á þær lagðar vera.
laekjarbotnar-993Einnig auglýsti velaktaður Oluf Jónsson Klou, að fyrrnefndar persónur, Eyvindur og Margrét, hefðu úttekið líkamlega refsing í Kópavogi 3. decembris 1677 fyrir útileguna og þar að hnígandi þjófnaðar atburði, svo sem dómur þar um auglýstur útvísar, og svo hefði kona Eyvindar Ingiríður hann til hjónabands aftur tekið. Að því gerðu voru þessar manneskjur afleystar af æruverðugum biskupinum mag. Þórði Þorlákssyni undir þeirra sakramentis meðtekning í dómkirkjunni að Skálholti. Nú er síðan svo til fallið upp á ný, að þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útilegusamvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdsmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust.“
Eyvindur og Margrét voru síðan bæði dæmd til dauða á Alþingi, og fór aftakan fram á Þingvöllum 3. júlí.“

Heimild:
-Frjáls þjóð, 11. árg. 1962, 43. tbl., bls. 4.

Lækjarbotnar

Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.

Krýsuvík

Þekkt er að örnefni hafa tilhneigingu til að breytast, bæði hvað varðar staðsetningu og heiti í tíma og rúmi.
ofeigskirkja-221Ástæðurnar geta verið margar; t.d. nýtt fólk kemur á vettvang þar sem það þekkti ekki til áður, skrásetjarar fara rangt með (m.a. vegna þess að þeir fóru aldrei á vettvang), þeir sem þekktu best til voru aldrei spurðir (áður en þeir féllu frá), ný tilefni fyrir örnefnum verða til og glaðklakkanlegir einstaklingar einfaldlega giska á bæði heiti og staðsetningu örnefna.
Eitt dæmið er svonefnd „Ófeigskirkja“ í Garðahrauni. Skv. örnefnalýsingu og öðrum skriflegum heimildum fór hún („stór klettur“) undir núverandi Álftanesveg á sínum tíma (staðsetningin er þekkt). Til að viðhalda örnefninu var það allnokkru síðar fært yfir á næsta „stóra klett“ skammt norðar í hrauninu. Leiknir og lærðir, sem aldrei höfðu áður komið á vettvang, hafa fengið tækifæri til að staðfesta flutninginn. Sumir þeirra trúa jafnvel að í klettinum þeim arna sé nú fjölmennur samkomustaður bæði dverga og álfa). Og „Grenshóll“ (þar sem menn lágu fyrir tófu á sínum tíma“ er allt í einu orðinn að athvarfi álfa. A.m.k. tveir segjast hafa séð þessar verur á staðnum.
Ef sú ákvörðun verður tekin að endurbæta núverandi Álftanesveg (í stað þess að gera nýjan veg um Garðahraun) þarf væntanlega að gera ráð fyrir undirgöngum, eða göngubrú, yfir veginn – svo hvorki dvergum né álfum verði bráður bani búinn á ferð þar yfir á leiðinni að samkomustöðunum.
Svo hlýtur alltaf að vera hægt að flytja bara „álfakirkjuna“ fyrst hún hefur nú áður verið færð – án vandræða.

Ófeigskirkja

„Ófeigskirkja“ flutt.

 

Gerðavellir

Haldið var inn á Gerðavelli ofan við Stóru-Bót í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Ætluninn var m.a. að skoða betur hið þjóðsagnakennda Junkaragerði. Garðarnir um gerðið sjást enn vel. Liggja þeir milli strandar og Brunnanna á Gerðavöllum. Einar Ól. Sveinsson segir svo frá því í útgáfu sinni á Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum:

Gerðavellir

Gerðavellir – flugmynd.

„Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn – tólf eða átján – hafst við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma í skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavík, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé og vindur standi af landi. En Junkarar reru heldur aldrei nema þar, sem vindur stóð af landi og þá er svo var hvasst, að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir á landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.

Gerðavellir

Gerðavellir – flugmynd.

Og þó að menn kæmust í gerði þeirra, þá er þeir voru eigi þar, þorðu menn eigi að láta Junkara sjá þess nein merki; þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmsra bragða til þess.
Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en Junkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björgðust svo til lands.
Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu þá, er í land skyldi róa, því að þá var mótvindur. Þá reru Junkarar við hné sér til lands.
Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli.

Nú reru Junkarar, er vindur stóð af landi; en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig; Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi Junkarar verið af dögum ráðnir.“
Í upphafi sögunnar er getið um stað í „óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur“, sem Junkarar höfðust við í. Ekki er ólíklegt að hér geti verið átt við byrgin í Sundvörðuhrauni þar sem þeir hafi geymt byrgðir sínar. Hafa þeir getað flutt og falið þær þar og verið jafnlagt fyrir alla að sækja þangað aðdrætti þegar þurfa hefur þótt.

Heimild m.a.:
-Einar Ól. Sveinsson – Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – 1952.

Gerðavellir

Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Járnöld

Eftirfarandi er kynning á doktorsritgerð Völu Garðarsdóttur í fornleifafræði, Norræn járnaldarmenning og sérkenni Íslands. Kynningin birtist í riti fornleifafræðinema, Eldjárni, árið 2008. Hér er efnið sett fram í tengslum við umfjöllun og vettvangsskoðun að Mosfelli, en þar er að finna minjar, sem ekki hefur verið hægt að skilgreina sem eðlilegar og augljósar.

Forsíða

„Doktorsverkefnið er fólgið í samanburðar-rannsókn á fornleifafræði-legum vitnisburði um norræn samfélög víkingaaldar innan núverandi Norðurlanda. Lýsa má markmiðum verkefnisins með eftirfarandi rannsóknar-spurningum:
1. Hvaða helstu minjaflokkar finnast á hverju landsvæði fyrir sig (s.s. búsetuminjar, grafir, steinsetningar, rúnasteinar, o.sv.fr.)?
2. Hvaða tegundir norrænna minja hafa til þessa ekki fundist á Íslandi?
3. Hvers vegna er munur á því hvaða norrænu minjar finnast innan Íslands og Skandinavíu?
Ritgerðin mun annars vegar samanstanda af almennri umfjöllun um helstu minjaflokka, s.s. byggingar, grafir og gripi, sem þekktir eru frá víkingaöld á Norðurlöndum. Hinsvegar mun hún taka mið af sérstakri rannsókn á efnisflokkum frá umræddu tímabili sem hafa til þessa ekki verið skoðaðir með samanburði. Safnað verður fornleifafræðilegum heimildum um áðurnefnda minjaflokka og ítarleg samantekt gerð um þá. Upplýsingar um íslenska efnið er nokkuð vel aðgengilegt í útgefnum ritum um grafir og fornbæi, en einnig í nýlegum skráningar og uppgraftarskýrslum. Á hinum Norðurlöndunum er unnt að afla upplýsinga um efnisflokkana með sama hætti, en einnig að nokkru leyti í gegnum þar til gerða gagnagrunna sem aðgengilegir eru á netinu. Um leið verða tilgreindir þeir minjaflokkar sem þekktir eru innan svæðisins alls en staðfest að ekki hafi fundist hér á landi. Tekinn verður til umfjöllunar sá samanburður sem þegar hefur verið gerður og athugað hvaða ályktanir hafa til þessa verið dregnar af sýnilegum mun á minjum Íslands og Norðurlanda.
svíþjóðReynt verður að skilgreina norræna menningu út frá fornleifunum en um leið skoðað hvort víkingar hafi verið einsleitur hópur í líkingu við þjóðir nútímans með sameiginlegan bakgrunn, minni, átrúnað og siði.
Verkefnið er viðleitni til þess að skoða afrakstur íslenskra fornleifarannsókna í norrænu ljósi, í þeim tilgangi að kanna hvort og þá að hvaða leyti norræn menning á Íslandi var frábrugðin þeirri sem greina má innan skandinavísku landanna. Reynt verður að greina hvort mismunurinn hafi verið mótaður af umhverfi, t.d. aðgengilegum efnivið, veðráttu og öðrum ytri lífsskilyrðum, fremur en vegna áhrifa frá menningarstraumum úr öðrum áttum, nema hvorttveggja sé. Einn af þeim minjaflokkum sem um verður fjallað eru steinsettningar. Þær hafa hingað til ekki verið taldar í hópi þeirra norrænu minja sem finnast hér á Íslandi en eru stór hluti af sýnilegum mannvirkjum norrænna manna í Skandinavíu og á Suðureyjum. Hefur þessi minjaflokkur átt hug minn allan undafarin ár og tel ég að slíkar steinsettningar séu til hér á Íslandi. Hefur þessi flokkur verið lítið rannsakaður hérlendis og er ástæðan fyrir því ekki augljós. Undanfarin misseri hef ég einbeitt mér að því að rannsaka hinar meintu steinsettningar sem fundist hafa með hjálp góðra manna og kvenna á víð og dreif um landið. Liggja nokkrar undir grun sem heiðinna manna verk. Erfitt er að segja hvers eðlis þessar steinsettningar eru að svo stöddu. Innan fornleifafræðinnar hérlendis hefur verið deilt um það hvort þetta séu steinsettningar yfirhöfuð og um upphaf þeirra og aldur. 

Skán

Er því rannsóknar tilefnið enn brýnna, að mínu viti. Í Skandinavíu og á Bretlandseyjum eru slíkar steinsettningar ekki óalgengar og finnast oftast í samhengi við grafhauga og samkomustaði frá brons- og járnaldarsamfélögum. Sumar steinsettningarnar hafa verið túlkaðar sem ákveðin fyrirbæri sem nýtt voru til þess að reikna út sólstöður og árstíðir, sbr. Ales Stenar á Skáni í Svíþjóð, en aðrar hafa beinlínis verið nýttar sem blótstaðir og sem grafir, sbr. Ånundshaug í Vesterås í Svíþjóð og allnokkrar á Gotlandi, Skáni og Öland.
SelvogurEru þessar steinsettningar aðallega þrennskonar, þ.e. bátalaga, sporöskjulaga og hringlaga (þó eru til önnur form). Sumar standa einar en aðrar virðast vera tengdar á einn eða fleiri hátt. Stærð steinsettninganna er mjög misjöfn allt frá nokkrum metrum að lengd og breidd upp í tugi metra. Sú stærsta sem hefur fundist í Evrópu er á Orkneyjum og er um 110 metra löng. Sú minnsta er um 2 metrar að lengd. Þær eiga þó flestar sameiginlegt að vera nálægt sjó og vísa austur-vestur. Þær steinsettningar sem hafa verið aldursgreindar í Skandinavíu og á Suðureyjum eru frá 3000 f.Kr.-1050 e.Kr. Það gefur því auga leið að þessi siður er mjög langlífur og hefur vafalaust þjónað misjöfnu hlutverkinu í gegnum tíðina, mann af manni, kynslóð eftir kynslóð. Slík mannvirki hljóta því að endurspegla mannlega hegðun, hugsun og sköpun.
Þó er óhætt að segja að þessi siður falli niður í kjölfar siðaskipta til kristinnar trúar og sé því rammheiðinn siður. Þær steinsettningar hér á landi sem ég er nú þegar að rannsaka eru staðsettar í Mosfellsdal (forsíðumyndin), í Selvogi á Reykjanesi, í Arnarfirði og á Hala í Suðursveit. Vitað er af fleirum en þær bíða fram á sumar til frekari rannsókna.“

Heimild:
-Eldjárn – Rit fornleifafræðinema við Háskóla Íslands – 1. tbl. 3. árg. 2008.

Mosfell

Mosfell – bátslag.

Aðalstræti

Fyrir nokkru sendu 14 þjóðkunnir menn bæjarráði, borgarstjórn, forsætisráðherra og forseta sameinaðs alþingis ávarp um friðhelgi á bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar.
larus-1Nú er það svo að fáir vita með hokkurri vissu hvar bæjarstæðið er, og hafa komið fram margar tilgátur um það mál. Blaðið hefur nú snúið sér til Lárusar Sigurbjörnssonar skjala-. og minjavarðar Reykjavíkurbæjar, og spurt hann um álít hans á málinu. Lárus hefur sem kunnugt er mikinn áhuga fyrir máli þessu, og hefur viðað að sér miklum fróðleik um allt, er viðkemur staðsetningu á bæjarstæðinu. Fyrsta spurning okkar er þessi:
— Hvar telur þú að bær Ingólfs hafi staðið?
— Mín skoðun á málinu er sú, að bærinn hafi staðið þar sem n ú eru gatnamói Kirkjustrætis og Suðurgötu. Mörg allsterk rök liggja til grundvallar þessari skoðun minni.
— Hver eru helztu rökin?
— Þegar grafið var fyrir Steindórsprenti fannst haugur, sem ég tel að hafi verið haugur frá bæ Íngólfs. En í haug þessum fundust m.a. geirfuglabein og svínabein. Annað er svo það, að staðurinn hefur margt til síns ágætis hvað snertir veðursæld, þarna hefur verið harður tjarnarbakkinn til að byggja á, og kaldavermsl til að sækja vatnið í hefur verið skammt frá bænum. Til er safn sagna frá 1860, sem Sigurður Guðmundsson listmálari hefur safnað. Safn þetta samanstendur af sögnum um hvar bær Ingólfs hafi stáðið. Ein sögnin er höfð eftir gamlalli konu, sem var vinnukona í Viðey. Segir hún að bær Ingólfs hafi verið þar sem gamla klúbbhúsið var, og seinna var útbygging byggð 1914 við hús Hjálpræðishersins.
Mikllar líkur eru fyrir að þessar skoðanir mínar fáist sannaðar eða afsannaðar áður en langt um líður, því innan skamms á að byrja að grafa grunn á fyrrnefndu horni fyrir nýju húsi.
— Er nokkuð fleira, sem þér finnst benda í þá átt, að þarna hafi bærinn verið?
larus-2— Já, það mætti kannski benda á, að eftir líkani, sem ég hef látið gera eftir hugmyndinni, kemur ljóslega fram sú götuskipan, sem er í nágrenni bæjarstæðisins, og hefði getað orðið til eftir staðsetningu húsanna.
— E r nokkuð fleira, sem þú vilt taka fram í þessu sambandi?
— Já, ég vil minnast á það, að þó að skoðanir mínar á þessu máli séu aðrar en þeirra, sem telja að bærinn hafi staðið þar, sem nú eru Uppsalir, er ekki þarmeð sagt, að ég hafi nokkuð á móti friðhelgun bæjarstæðisins. —
Þvert á móti. Þetta eru aðeins mínar skoðanir á málinu. Við þökkum Lárusi svörin.
Myndin af líkaninu sýnir, hvernig Lárus hefur hugsað sér að byggingarnar hafi staðið. No. 1 er skáli. No. 2 eru útihús. No. 3 er eldhús. No. 4 er gamli kirkjugarðurinn. No. 5 er smiðja. Á myndinni sést hvernig afstaða Túngötu og Aðalstrætis er við hugmynd Lárusar.

Heimild:
-Alþýðublaðið 26. febrúar 1960, bls. 7.

Aðalstræti

Skálar í Aðalstræti.

Kárastaðir

Um selstöðu Kárastaða segir: „Selstöðu á jörðin í sínu landi, hefur þó ei brúkuð verið í lánga tíma.“
Um Kárastaðaselselstöðu Skálabrekku segir: „Selstöðu á jörðin í sínu landi, sem þó hefur ei um lánga tíma brúkuð verið.“ Báðar þessar selstöður eru í Selgili, en bara sitthvoru gilinu.
Byrjað var á seinni leitum að Kárastaðaseli í Selgili undir Selfjalli ofan við Brúsastaði. Í leiðinni upp frá bænum varforn hlautsteinn utan í einni stórtóftinni skoðaður á ný sem og sagðar tóftir af Hofi, sem vera eiga  skv. Friðlýsingarskrá frá 1990 óljósar „suðaustanvert“ við núverandi íbúðarhús að Brúsastöðum en eru, skv. upplýsingum Ragnars Lundborgar Jónssonar, bónda, norðanvert við húsið. Þar mótar fyrir óreglulegum garði. Megintóftin, og sennilegust bæjartóft, er norðvestan við núverandi íbúðarhús. Við hana er hlautsteinninn með manngerðri skál höggna í stöpullaga stein. Skammt frá er friðlýstur garður.
Varða er á hæðinni, Djúpugrófarholts, enn norðvestar. Gamli akvegurinn sem og gamla þjóðleiðin liggur nokkuð norðan vörðunnar. Svo er að sjá sem vörður séu á hæðinni er liggur ofan láglendisins milli Brúsastaða og Kárastaða.
Varða á Djúpugrófarholti - Brúsastaðir neðarÍ fyrri ferð FERLIRs um þetta svæði kom í ljós að Selgilið var ranglega merkt á landakort. Þar er Náttmálagil, en í ljós kom að Selgilið er á milli og í gegnum næsta hæðardrag norðan við vörðuðu hæðina, ofan vegarins. Um gilið rennur ónafngreind áin. Vestan hennar er miklir mýrarflákar. Suðaustast í þeim, ofan við þar sem á rennur í á, eru fornar og næstum jarðlægar seltættur Kárastaðasels. Selstígurinn liggur vestur með hæðunum með stefnu í gil norðaustan Kárastaðabæjarins. Rétt sést móta fyrir tveimur rýmum og svo virðist sem hluti selsins, sennilega stekkurinn sé á bakkanum ofan við ármótin. Selstígurinn frá Kárastöðum liggur þarna úr selinu niður að bænum, milli Kárastaðahlíðar að vestanverðu og Djúpugrófarholts að austanverðu.
Að sögn Ragnars bónda heitir áin er kemur að vestan Eyrarlækur, en hann hefði aldrei heyrt neitt nafn á ánni er kemur úr Náttmálagili þótt hann væri vatnsmeiri öllu jafna. Hann staðfesti staðsetninguna á Selgilinu. Aðspurður um stífuna ofan Náttmálagils sagði hann hana hafa verið gerða til að veita á engjarnar. Þau hefðu verið slegin í kringum tjörnina fyrrum. Um Virkjunina í Öxarárgilinu sagði hann hana vera frá árnu 1928 (eða byrjun árs 1929) og hefði hún verið með fyrstu virkjunum á landsbyggðinni á sínum tíma. Hún Stiflanhafi ekki verið lengi í notkun, en rafmagn úr henni hafi verið tengt niður í Valhöll. Þar rak Jón Guðmundsson, kenndur við Brúsastaði, þekktur maður í sinni tíð, veitinga- og gistiaðastöðu. Það hefur verið mikið afrek að reisa staura og leiða rafmagn frá stöðvarhúsinu niður á Þingvelli á þessum tíma en hótelið hefur þá væntanlega verið spikk og span á Alþingishátíðinni sumarið 1930.
Jón Guðmundsson, bóndi á Brúsastöðum, keypti Hótel Valhöll árið 1919. Þá stóð hótelið hinum megin ár við það sem seinna varð, á svokölluðum Köstulum. Hann dreif í að raflýsa hótelið árið 1927 (sjá frétt í Vísi 3.8. 1927, s. 3), sem þótti mikill munur en “olíumótor framleiðir rafmagnið til bráðabirgða” segir í fréttinni. Jafnframt því að raflýsa hótelið hafði Jón komið upp miðstöðvarhitun og lagt vatn í hótelið. Þetta hefur því verið talsvert lúxushótel á þeim tímum þótt húsakostur hafi verið af vanefnum, frá upphafi. Árið 1929 var Hótel Valhöll rifin og flutt hinum megin ár, þar sem hótelið stóð síðan, allt til þess það brann sumarið 2009.
Ofan Skálabrekku er Seldalur og ofan hans Selgil. Nú átti að láta reyna á það hvor þarna væri komin enn ein kortavillan. Gengið var upp frá ofanverðri Skálabrekku með stefnu á Selgilið, sem er áberandi í hæðunum ofan hæðar næst ofan bæjarins, skammt norðan við gSkálabrekkuselamla þjóðveginn. Gilið sést vel og um það rennur lækur er greinist í tvennt neðan við það. Hann sameinast Móakotslæk skammt suðvestar. Framræstir mýrarflákar eru austan og sunnan við gilið, en neðan við það eru lyngmóar líkt og verið hefur um langa hríð á þessu svæði. Beint neðan við gilið er Skálabrekkusel; fallegar tóftir á tveimur stöðum. Efri tóftin er tvírýma, innra rýmið minna. Líklega eru þarna baðstofa og eldhús. Skammt suðaustar er hin tóftin, líklega stekkur. Þessi tóft er vel gróin og næstum jarðlæg. Í efri tóftinni sjást hins vegar hleðslur, um 80 cm háar er hafa haldið sér vel. Annars er vel gróið í kringum selið, þ.e. lyng og kjarrsprotar. Skjólgott er í gilbrekkunum beggja vegna.
Þessar tóftir eru líkar þeim er sjá má í Kleifarseli í Jórukleif í Grafningi og alls ekki svo ólíkar tóftunum í Nýjaseli og Gamlaseli í Grafningi, þótt þau hljóti að vera allmiklu eldri.
Framundan er leita að Heiðarbæjarseli.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Kárastaði og Brúsastaði.
-Vísi 3.8. 1927, bls. 3

Kárastaðir

Kárastaðir.

Hlíðarborg

Undir Hlíðarfjalli eru tvær samliggjadi tóftir. Munnmæli herma að þar hafi um tíma verið athvarf og/eða mannabústaður.
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1956 segir m.a.: „Í fardögum árið 1850, fluttu ung hjón búferlum á jörðina Efri-Mörk á Síðu. Þessi hjón voru: Ísleifur Guðmundsson frá Ystabæli undir Eyjafjöllum og Ragnheiður Jónsdóttir frá Hlíð í Skaftártungu.
hlidarkot-1Ekki kemur hér við sögu annað heimilisfólk þessara hjóna, en sonur þeirra er Guðmundur hét, hann var þá fjögurra mánaða gamall er þau fluttu að Efri-Mörk, fæddur 17. jan. (1850).
Það mun snemma hafa komið í ljós, að drengurinn vildi vera sjálfráður ferða sinna. Því ungur var hann, er svo bar við einn góðan veðurdag, að hann hvarf frá bænum, og leit var gerð að honum. En meðan á leitinni stóð, breyttist veður, til hins verra. Þann árangur bar þó leitin, að drengurinn fannst á svonefndu Borgarholti. Þar hafði hann fengið afdrep undir skjólgarði, og er það sem svarar 10 mínútna gang austur frá bænum.
Alloft mun Ísleifur hafa skipt um bústað, en ekki verður það rakið hér. Árið 1858, þegar Guðmundur var 8 ára, þá flutti Ísleifur alfarið af Síðunni, og þá alla leið til Krýsuvíkur, en nokkuru síðar að Hlíð í Selvogi.
Ekki verður hér meira sagt af foreldrum Guðmundar Ísleifssonar, en hjá þeim dvaldi hann í Hlíð í nokkur ár. Svo þegar hann hafði þroska til, þá réðist hann til vandalausra sem vinnumaður. Fyrst var hann hjá Selvogsprestinum um þriggja ára skeið. Þá réðist hann í kaupmannshúsið á Eyrarbakka.
hlidarkot-2Eftir skamma dvöl þar, fór hann að eiga með sig sjálfur. Og þá kvæntist hann Sigríði Þorleifsdóttur á Stóru-Háeyri. Þar settist hann svo að, og þar hófst vegur hans og gengi, eins og flestu eldra fólki á Suðurland; er kunnugt.
Ekki verður saga Guðmundar Ísleifssonar — eða Guðmundar á Háeyri, sem hann var jafnan nefndur — rakin hér frekar.“
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hlíð segir m.a. um framangreindar tóftir: „Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún“. Minjarnar eru líklega frá því um miðja 19. öld.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 23. sept. 1956, bls. 546.

-Örnefnalýsing fyrir Hlíð. ÖÍ.

Hlíð

Hlíð, bæjarminjar.

Silungapollur

„Það er gaman að fylgjast með einstöku starfi ykkar og áhuga á fornum vegum og öðru sem lítur að gamalli byggð.
holmsa-21Foreldrar mínir áttu sumarbústað skammt neðan Silungapolls sem við systkin erfðum við lát þeirra á síðasta ári, nánar tiltekið við ármótin þar sem Hólmsáin rennur í Suðurána. Þar hefur maður margar stundirnar rölt. Þar má finna gamlar reiðgötur bæði í gegn um hraunið og einnig götur klappaðar í berg. Sömuleiðis eru þarna leifar af hlöðnu byrgi sem gæti verið annað tvegga, gamalt, eða hugsanlega frá stríðinu en þarna í kring voru töluverð umsvif breta (Geitháls) og var m.a. grafin “skotgröf” við Hólmsána sem nú er að mestu gróin en ég man eftir hvar var.
Holmsa-22Einnig má sjá að aðeins eitt vað er á suðuránni Suðuryfir ána allt frá Silungapolli að ármótum, rétt við ármótin og hefur greinilega verið notað. Ég sé að á korti frá ykkur á vefnum að reiðgata er merkt nánast eftir þjóðveginum en sjá má reiðgötur, mjög skýrar, við sumarbústaðinn, einnig götur yfir hraunið við austurenda Siglungapolls og sömuleiðir götu norðurfyrir hraunið, sunnan Gunnarshólma. Síður vildi ég að þessar götur gleymdust alveg og því sný ég mér til þin hvort ég mætti sýna þér eða hópnum þessi djásn næsta sumar.
Veiðisvæði Veiðifélags Elliðavatns nær yfir Elliðavatn, Helluvatn og árnar þar ofar. Lang mest veiði er í Elliðavatni austanverðu og Helluvatni. Þar renna í vötnin ár og lækir og þar eru líka víða uppsprettur undir vatnsborði sem draga að sér fisk. Fyrir framann Bæinn Elliðavatn er Állinn, en það er gamli árfarvegurinn. Árið 1924 var gerð stífla við Elliðavatn, við það hækkaði yfirborðið um 1 meter og flatarmál þess tvöfaldaðist. Mest allar Elliðavatnsengjarnar fóru undir vatn. Elliðavatn er Ellidavatn-21mjög frjósamt vatn og framleiðslugeta þess mikil. Það er algengt að í slíkum vötnum verði fiskur ekki mjög gamall enda þarf hver hrygna ekki að hrygna oft til þess að viðhalda stofninum. Samkvæmt athugnum sem gerðar hafa verið þá er fiskur vel haldinn og ekki ber á ofsettningu í vatninu, þó er umhugsunarefni að hlutfall urriða í rannsóknum sem gerðar hafa verið hefur stór aukist. Fyrir um 15 árum var urriði um 20-25 % í afla en er kominn í um 80 % í dag. Hér er átt við afla í net við rannsóknir og veiðar sem Veiðifélag Elliðavatns hefur staðið fyrir. Það má velta fram þeirri spurningu hvort minkandi laxagengd hafi þau áhrif að urriði nái að leggja undir sig hrygningarstöðvar hans í Hólmsá og Suðurá og þess vegna fjölgi honum svona og þá í framhaldi af því, hvernig skildi laxinum ganga að komast yfir þessar hrygningarstöðvar aftur ef honum fer fjölgandi.“ –
Gunnar Ólafsson.

Silungapollur-21

Silungapollur.