Mosfellsbær

Í Morgunblaðinu 1983 er fjallað um “Kirkjuklukku frá 13. öld…”. Þar mun vera um að ræða gamla kirkjuklukkan, sem var í Hrísbrúarkirkju, áður en hún var rifin og ný kirkja reist að Mosfelli:

Ævaforn kirkjuklukka frá Mosfelli [Hrísbrú]
Hrísbrú
Í gær kom einnig til Kjarvalsstaða ævaforn kirkjuklukka frá Mosfellskirkju [Hrísbrúarkirkju] í Mosfellssveit. Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hennar að sögn Björns Th., hún mun ekki vera frá frumkristni á Íslandi, en þó líklega frá því á 13. öld eða í byrjun þeirrar 14. Sést aldur hennar á lagi hennar, hún er útflá í laginu. Björn kvað uppruna óvissan, líklegast væri að hún væri þýsk, en gæti þó allt eins verið ensk eða frönsk. Klukkuna taldi dr. Róbert Abraham Ottósson, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, hljómfegurstu klukku á landinu.
Klukka þessi kemur mjög við í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness.
Er kirkja var lögð niður á Mosfelli og flutt að Lágafelli, vildu bændur á Hrísbrú ekki una því að kirkjuklukkan forna færðist þangað. Var hún því geymd á Hrísbrú uns aftur reis kirkja á Mosfelli, og þar er klukkan nú. — Ekki munu Hrísbrúingar þó vilja una við þá útgáfu, er Innansveitarkronika gefur um geymslustað klukkunnar á Hrísbrú, en ekki er ætlunin að blandast inn í þær deilur hér.
Björn Th. kvað þetta alls ekki elstu klukku á landinu. Sú elsta er geymd á Þjóðminjasafninu, og mun einnig verða á sýningunni nú. Það er klukka frá Hálsi í Fnjóskadal, frá því á 12. öld. „Sú klukka hefur hringt við eyrum Guðmundar biskups góða, er hann var að alast upp á Hálsi,” sagði Björn Th.

Í Vísi 1962 birtist grein um Hrísbrúarklukkuna; “Klukkan kallar“:

Lágafellskirkja

Lágafellskirkja 1901.

Kátt tók að klingja og fast
klukkan, sem áður brast.
Alskærum ómi sló
út yfir vatn og skóg.
Mín klukka, klukkan þín
kallar oss heim til sín.– H.K.L.

Það geymast margar kynjasagnir í kristnum löndum. Um dularmátt kirkjuklukkna, hvernig þær orka ævilangt á mannlegar tilfinningar og mannleg örlög aftur á þær, líkt og klukkurnar séu gæddar lífi og sál.
Það kunna allir Íslendingar söguna af því, er Líkaböng Hóladómkirkju átti að hafa tekið að hringja sér sjálf, er lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt heim að Hólum. Tjéðlend frásögn hermir, að það hörmulega slys hafi hent, að fegursta stúlka þorpsins hafi fallið í mótin, þar sem verið var að bræða málminn í þorpsklukkurnar, og líkami hennar bráðnað þar. Sagan segir að fegurð hennar hafi orðið ódauðleg í hljómi klukknanna, sá hljómur sé ekki af þessum heimi.

Hrísbrúarkirkja

Mosfellskirkja – Við Mosfellskirkju sumarið 1883, enskur ferðamaður í hársnyrtingu, til vinstri er íslenskur fylgdarmaður ferðafólksins sem fékk að gista í kirkjunni. Myndin er önnur tveggja ljósmynda sem til er af þessari kirkju sem komst á hvers manns varir fimm árum síðar eins og greint er frá í Innansveitarkroniku. Kirkjan var byggð úr timbri og var eina timburkirkjan sem staðið hefur á Mosfelli.
Mosfellskirkja árið 1883. Ljósmyndari: Walter H. Trevelyan. © Brennholt.

Í einum fegursta dal Íslands, við dyr höfuðborgarinnar, er nú verið að móta í málm og stein lokaatriði ævintýralegrar og ótrúlegrar sögu, sem hófst árið 1888. Klukknahljómur er upphafs- og lokastef þessarar ljóðrænu, rómantísku frásagnar, og jafnvel á atómöld eru menn veikari fyrir rómantík en menn vilja vera láta.
Hið umrædda ár, 1888, var tekin af kirkja, sem staðið hafði í dalnum um aldaraðir. En allmargir dalbúanna máttu ekki til þess hugsa að klukknahljómurinn hyrfi úr dalnum. Þeir hófu harðar mótmælaaðgerðar gegn kirkjuyfirvöldunum og náðu á sitt vald klukkuur gömlu kirkjunni, sem jöfnuð var við jörðu. Segir sagan að þeir myndu aldrei hafa látið hana af hendi og verið þess albúnir að verja hana með afli.
Hrísbrú
Svo mikið er víst, að kirkjuklukkan er enn í dag varðveitt Í dalnum, á næsta bæ við hinn forna kirkjustað, sem tákn löngunarfullrar þrár þessa byggðarlags, hvers byggðarlags og hvers hjarta, eftir „alskærum” helgum hljóm, þrátt fyrir allt og allt.
Á bænum með kirkjuklukkunni ólst upp drengur, sem síðar varð forvígismaður sveitarinnar. Hann lézt fyrir fáum árum, ókvæntur og barnlaus stóreignamaður og hafði þá stofnað eignum sínum sjóð, sem verja skal til að endurreisa kirkju dalbúa á hinum forna kirkjustað. Nú er þessi einstæða kirkjubygging hafin. Og fyrsti gripurinn, sem kirkjan hefur eignazt, er gamla klukkan, hið eina sýnilega tákn gömlu kirkjunnar, sem aldrei tókst að ræna frá dalbúum. Til orða hefur komið að taka upp þá venju með nýju kirkjunni, að hringja klukkum hennar út yfir dalinn á sama tíma hvert einasta kvöld. Og það er trú ýmisa, að fengi gamla klukkan ekki að hljóma með, myndi hún hringja sér sjálf.
“Mín klukka, klukkan þín kallar oss heim til sín”.

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Kirkja stóð á Mosfelli í Mosfellsdal frá ómunatíð, þar til síðsumars árið 1888. Þá voru Mosfells- og Gufunesssóknir lagðar niður og sameinaðar Lágafellssókn og ný kirkja reist miðsvæðis, það er að segja á Lágafelli. Lágafellskirkja var vígð á fyrsta góudag 1889. Þar hafði ekki verið kirkja áður, en óljósar sagnir eru um bænahús þar á 17. öld.
Það mætti mikilli andúð í Mosfellssókn, er kirkjan þar var lögð niður. Dalbúar og Inn-Kjalnesingar vildu ekki missa Mosfellskirkju, en sóknarpresturinn, séra Jóhann Þorkelsson, síðar dómkirkjuprestur í Reykjavík, kirkjuyfirvöldin í Reykjavík og meirihluti sóknarmanna voru fylgjandi þeirri breytingu, sem gerð var, enda hnigu óneitanlega að því ýmis rök. En tilfinningar dalbúa voru andstæðar þeim rökum, og gekk svo langt, að ýmsir íbúar Mosfellsdals og Inn-Kjalnesingar höfðu fullan hug á að una henni ekki og fóru þess á leit við séra Þorkel Bjarnason á Reynivöllum, að hann gerðist kjörprestur þeirra. Af bréfum, sem fóru á milli, er ljóst, að séra Þorkell tók vel í þessa málaleitan, en til þessa kom þó ekki, og mun þessi „uppreisn” hafa verið þögguð niður af biskupi og kirkjuyfirvöldum.

Hrísbrú

Hrísbrú – kirkjan eftir fornleifauppgröft.

Harðasta andstaðan gegn því að taka af kirkju á Mosfelli var á bæjunum í kring. Andstæðingar þeirrar nýskipunar náðu í sínar vörzlur klukku úr Mosfellskirkju, þegar hún var rifin, og munu hafa verið albúnir þess að verja gerðir sínar með afli, ef á hefði verið leitað.
Elínborg Andrésdóttir, býr nú á Hrísbrú, og þar tók ljósmyndari Vísis myndina af henni með hina sögufrægu og sigursælu kirkjuklukku á dögunum.
Þótt Mosfellingar töpuðu fyrstu orustunni í stríðinu fyrir kirkju sinni, hafa aldrei þagnað að fullu þær raddir, sem gerðu tilkall til þess að Mosfellskirkja yrði endurreist.
Fyrir þremur árum andaðist hreppstjóri Mosfellssveitar, Stefán Þorláksson í Reykjahlíð, og kom í ljós, er erfðaskrá hans var opnuð, að þessu kirkjumáli var borgið. Stefán hafði alizt upp á Hrísbrú með gömlu kirkjuklukkunni og undir áhrifamætti þeirra minninga, sem við hana og Mosfellskirkju voru bundnar. Hversu máttug þau áhrif hafa verið, má bezt marka af því, að Stefán, sem var 6-kvæntur og barnlaus stóreignamaður, stofnaði með erfðaskrá sinni sjóð af þorra eigna sinna og skyldi verja honum til að endurreisa kirkju á Mosfelli Þar með var hið mikla tilfinninga- og metnaðarmál dalbúanna komið í höfn.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur;

Stefán lét eftir sig svo miklar eignir, að talið er að þær hrökkvi eigi aðeins fyrir byggingarkostnaði, heldur og fyrir viðhaldi og reksturskostnaði kirkjuhússins í framtíðinni. Meðal eigna þeirra, er Stefán arfleiddi kirkjusjóðinn að, er gróðrarstöð, þar sem einvörðungu eru ræktuð blóm og kirkjubyggingarsjóður rekur í samvinnu við garðyrkjumann, og má því með sanni segja, að blómin leggi sitt af mörkum til kirkjubyggingarinnar.

Mosfell

Mosfell – gamli bærinn og kirkjan.

Á sl. ári var efnt til verðlaunasamkeppni um teikningu að nýju kirkjunni og þrenn verðlaun veitt að tillögu dómnefndar, sem fjallaði um teikningarnar. Ekki var þó byggt eftir neinni verðlaunateikningunni, heldur eftir teikningu, sem Ragnar Emilsson gerði. Framkvæmdir við kirkjubygginguna hófust strax og klaki fór úr jörðu í vor. Nú hefur verið steyptur grunnur undir kirkjuna og verið er að slá upp fyrir kirkjuskipinu og kórnum. Nokkur hluti kirkjunnar er byggður inn í gamla kirkjugarðinn. Þar kom upp töluvert mikið af mannabeinum. Þeim var öllum safnað saman í stóra kistu, sem grafin var undir kórgólfi nýju kirkjunnar.
Stjórn dánargjafar Stefáns Þorlákssonar skipa sóknarpresturinn, sýslumaður og biskup landsins. Þá starfar og sérstök kirkjubyggingarnefnd, sóknarpresturinn, séra Bjarni Sigurðsson, formaður, og sést af því, hve mikið hvílir á hans herðum við þetta endurreisnarstarf.
Með honum eru í byggingarnefndinni Jónas Magnússon, safnaðarfulltrúi í Stardal, Ólafur Þórðarson, sóknarnefndarformaður Varmalandi, Ólafía Andrésdóttir, húsfreyja, Laugabóli, og Ólafur Ólafsson, læknir, Reykjalundi.
Mikil og almenn ánægja og áhugi ríkir fyrir þessari kirkjusmíði í Mosfellssveit, eins og allur aðdragandi þessa byggingarmáls hefur tilefni til, og mun vart ofmælt, að fáar nútímakirkjur á Íslandi eigi jafn sögulegan aðdraganda.
Hin nýja kirkja á Mosfelli á að rúma 110 manns í sæti. Hún stendur á brekkubrún og sér þaðan yfir dalinn. Grunnflötur forkirkjunnar myndar þríhyrning, forhliðin er þríhyrnd og allir fletir byggingarinnar þríhyrndir. Turninn verður 23 metra hár og víkur frá venju að því leyti, að hann rís upp af austurenda kirkjunnar, það er að segja upp af kórnum. Í samræmi við aðrar línur kirkjunnar, er turninn þrístrendur og opinn að nokkrum hluta.” – E.Bj.

Í Morgunblaðinu 2004 er sagt frá “Kirkju að Hrísbrú nefnda í Eglu“:

Kirkjan að Hrísbrú er nefnd í Eglu, sbr. 89. kafla:
“Grímur að Mosfelli var skírður, þá er kristni var í lög leidd á Íslandi; hann lét þar kirkju gera. En það er sögn manna, að Þórdís hafi látið flytja Egil til kirkju, og er það til jartegna, að síðan er kirkja var gerð að Mosfelli, en ofan tekin að Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður. En undir altarisstaðnum, þá fundust mannabein; þau voru miklu meiri en annarra manna bein. Þykjast menn það vita af sögn gamalla manna, að mundu verið hafa bein Egils. Þar var þá Skafti prestur Þórarinsson, vitur maður; hann tók upp hausinn Egils og setti á kirkjugarðinn; var hausinn undarlega mikill, en hitt þótti þó meir frá líkindum, hve þungur var; hausinn var allur báróttur utan svo sem hörpuskel. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins; tók hann þá handöxi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum á hausinn og vildi brjóta, en þar sem á kom, hvítnaði hann, en ekki dalaði né sprakk, og má af slíku marka, að haus sá mundi ekki auðskaddur fyrir höggum smámennis, meðan svörður og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli.”

Í Mosfellingi 2005 er fjallað um “Fornleifauppgröft að Hrísbrú“:
Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils

Hrísbrú

Stefán Þorláksson (1895-1959) hreppstjóri í Reykjadal í Mosfellssveit. Stefán var sonur Þorláks nokkurs, sem kallaður var Ösku-Láki og konu úr Eyjafirði, sem Sólrún hét. Hann ólst upp á Hrísbrú í Mosfellsdal.

“Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar.
Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Í Skírni 1999 má lesa um “Kotunga í andófi“:
“Kannski birtast náin tengsl heilinda og andófs hvergi skýrar en í Innansveitarkroniku (1970). Hún er skopleg, hálf-heimildabundin lýsing á þrákelknislegu andófi bænda á Hrísbrú í Mosfellssveit gegn flutningi kirkju þeirra. Kergja Knúts gamla og Hrísbrúinga kallast á, en er ekki öll þar sem hún er séð. Erfiði var óþekkt Hrísbrúingum, þeir unnu öll sín verk áreynslulaust svo þeir sáust varla hreyfast, kunnu hvorki að flýta sér né vera of seinir og um sláttutíma var dengingarhljóðið í undarlegum samhljómi við næturkyrrðina, vakti góðar undirtektir fugla og er sú músík sem menn muna tíræðir. Hún minnir á eilífðarhljóminn í „Fugli ágarðstaurnum”. Þessir hæglátu menn brugðust ókvæða við þegar átti að taka niður Mosfellskirkju en kyndugt andóf þeirra var til einskis. Og þó ekki. Lengst inni í bænum var enn ein af þessum dularfullu og ójarðnesku konum sem víða bregður fyrir í sögum Laxness, Finnbjörg (nafnið á Boggu, ráðskonu Kjartans á Skáldstöðum), sem hafði hönd í bagga með öllum aðgerðum feðganna og andi hennar svífur yfir endurreisn kirkjunnar. Yfir rúmi hennar tifaði klukka með eilífðarhljómi.
Innansveitarkronika er einföld á ytra borði og virðist sundurlaus í byggingu. Hún rétt tæpir á söguþræði og bregður upp svipmyndum sem sögumaður í líki forvitins fróðleiksgrúskara tínir
saman. Um leið er sagan í andstöðu við hefðbundið form skáldsögunnar og leggur á borðið þá huglægni sem í frásagnaraðferðinni liggur. Sögumanni hefur tekist sá galdur að tengja fróðleiksatriði sem virðast lítilsverð. Samt er það svo að „heimildirnar” sem virðast svo brotakenndar fá mál með sérstæðum hætti. Þegar upp er staðið blasir við margræð heildarmynd sem ekki er hægt að túlka á einn veg. Þess í stað eru margar raddir, mörg merkingarsvið í einni hljómkviðu. Innansveitarkronika er meðal annars, á sama hátt og „Fugl á garðstaurnum“, kýnískur útúrsnúningur á hugmyndafræði, stjórnkerfi, kennivaldi og auðhyggju. Í bakgrunni heyrist eilífðartónninn í túnslætti Hrísbrúarfeðga, klukku Finnbjargar og kvaki fugla.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Haus Egils Skallagrímssonar breiðir tíma sögunnar yfir alla Íslandssöguna, bein hins heiðna skálds sem flutt voru í utanverðan kirkjugarðinn á Mosfelli herða kergjuna í Hrísbrúingum. Og í sögulok er sagan kölluð jarteinabók sem þýðir að hún er röð kraftaverka sem lyfta merkingunni yfir hið hversdagslega, gefur þannig til kynna að fleira búi undir. Sagan hefur innri byggingu áþekka Biblíunni, hnig og ris, ferli frá þjáningu til upprisu. Fuglinn sem Hrísbrúingar ólu hjá sér í tuttugu ár, erkikapítalistinn Stefán Þorláksson, var eins konar lausnari, því við lát hans reis ný kirkja á Mosfelli, hún var því rifin og endurreist. Klukkan og kaleikurinn eru trúarleg eilífðartákn. Þegar kirkjan er rifin er klukkunni sökkt til heljar, í forarpyttinn á Hrísbrúarhlaði, en hún rís upp aftur gljáfægð til að hringja Finnbjörgu til grafar og er loks sett upp í nýju kirkjunni. Kaleikurinn, graal sögunnar, er geymdur á rúmbotnum heilagra kerlinga, og hann birtist í þann mund sem lesandinn fer að undrast um hann og endar eins og klukkan, í nýju kirkjunni. Þannig er sagan full af trúarlegum vísunum og myndmáli en fáu slegið föstu um þann guðdóm sem yfir sögusviðinu svífur. Í lokin, þegar kirkjan er byggð og vígð, vefast þræðirnir saman eins og af hálfkæringi, hauskúpa Egils, Hrísbrúingar og sauðfé, kvakandi fuglar, gömlu kerlingarnar, kaleikurinn og klukkan, Íslandsklukkan með hljóm síðan úr fornöld. Og jarteinabókinni lýkur með því að spurning gömlu konunnar er endurtekin: „Getur nokkur nokkurntíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér“ – (Innansveitarkronika: 181-82).

Á vefsíðu Héraðskjalasafns Mosfellsbæjar má lesa eftirfarandi um Ólaf Magnússon á Hrísbrú:
Merkisbóndinn á Hrísbrú

Ólafur Magnússon

Ólafur magnússon á Hrísbrú (1831-1915).

Ólafur Magnússon bóndi á Hrísbrú var einarður andstæðingur þess að Mosfellskirkja yrði rifin og kirkjuklukkan komst í vörslu hans eftir niðurrif kirkjunnar. Hún var geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða allt þar til ný kirkja var vígð á Mosfelli árið 1965.
Ólafur og Finnbjörg Finnsdóttir kona hans eru mikilvægar persónur í Innansveitarkroniku.
Ljósmyndin af Ólafi er tekin í Austurstræti í Reykjavík snemma á 20. öld en engin ljósmynd hefur varðveist af Finnbjörgu.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.”
Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.”

Á vefsíðu Mosfellsbæjar má lesa eftirfarandi um kroniku Laxness:
Innansveitarkronika – Einstök meðal verka Halldórs

Hrísbrú

Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.

“Innansveitarkronika er sérkennileg blanda af sagnfræði og skáldskap og einstök meðal verka skáldsins. Efniviðurinn er sóttur í Mosfellssveit og byggir m.a. á deilu sem varð vegna kirkjumála í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þá náði sveitin niður að Elliðaám og kirkjur voru í Gufunesi og á Mosfelli. Kirkjuyfirvöld ákváðu hins vegar að leggja þær niður og byggja nýja kirkju miðsvæðis í sveitinni, að Lágafelli. Ekki voru allir hrifnir af þessum ákvörðunum, einkum var mikil andstaða í Mosfellsdal gegn niðurrifi Mosfellskirkju sem var alls ekki gömul bygging, byggð 1852. Ákvörðun yfirvalda varð ekki hnekkt, Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og sama árið reis Lágafellskirkja af grunni. Hins vegar skiluðu einstakir gripir kirkjunnar sér ekki, menn söknuðu bæði kaleiks og kirkjuklukku sem var ævaforn. Kaleikurinn fannst seinna í fórum vinnustúlkunnar Guðrúnar Jónsdóttur en klukkan var geymd að Hrísbrú í tæp 80 ár. Að Hrísbrú ólst upp Stefán Þorláksson (1895-1959). Hann þekkti söguna um klukkuna og kirkjuna frá blautu barnsbeini og honum var endurreisn Mosfellskirkju mjög hugleikin þótt ekki þætti hann neinn sérstakur trúmaður. Sem fulltíða maður bjó Stefán Þorláksson lengstum í Mosfellsdal, bæði í Reykjahlíð og Reykjadal, hann komst vel í álnir og auðgaðist m.a. á sölu á heitu vatni. Samkvæmt erfðaskrá Stefáns skyldu eigur hans renna til endurreisnar Mosfellskirkju. Hún var vígð árið 1965 eins og greint er frá í síðasta kafla Innansveitarkroniku:
„4ða apríl 1965 þegar Mosfellskirkja hin nýa var vígð, gjöf Stefáns Þorlákssonar, ein fegurst kirkja og best búin sem nú stendur á Íslandi, þá bárust henni ýmsar veglegar gjafir. Flestar komu gjafir þessar frá ættmennahópum í sókninni, niðjum þeirra manna er fyrir eina tíð höfðu séð kirkju sinni er þeir trúðu á jafnað við jörð hér á hólnum.”
Fremst í Innansveitarkroniku getur höfundur þess sérstaklega að “Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum”. Þetta er vert að hafa í huga við lestur bókarinnar, Halldór færir til atburði og persónur í tíma og rúmi og aðlagar því verki sem hann er að skapa, og var þetta reyndar alþekkt aðferð úr verkum hans.
Eitt besta dæmið um slíkt í Innansveitarkroniku er 11. kafli bókarinnar sem heitir Sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá vinnukonu prestsins á Mosfelli, Guðrúnu Jónsdóttur, sem hélt yfir Dalinn til að baka hverabrauð en villtist upp á Mosfellsheiði og fannst loks eftir nokkur dægur. Brauðið, sem henni hafði verið trúað fyrir, hafði hún ekki snert. Þessi kafli er nokkurs konar dæmisaga um að vera trúr yfir litlu en hér sækir Halldór hins vegar efniviðinn alls ekki í Mosfellsdal heldur á Suðurnes og var það allt önnur kona en Guðrún sem lenti í þeim hremmingum sem lýst er í bókinni.
Þrátt fyrir skáldsögulegt yfirbragð dregur Innansveitarkronika upp trúverðuga mynd af samfélaginu í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þannig háttar til með fleiri skáldögur Halldórs Laxness, þær eru oft traustar heimildir um þá tíma sem þær gerast á.”

Guðrún Jónsdóttir

Hrísbrú

Guðrún Jónsdóttir frá Hamrahlíð (1854-1936). Ljósmyndari óþekktur. Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar úr safni Guðmundar Magnússonar.

Guðrún Jónsdóttir er þekkt persóna úr Innansveitarkroniku. Hún var fædd árið 1854 á bænum Hamrahlíð, sem var kotbýli í grennd við Blikastaði, og stundaði alla tíð vinnumennsku á ýmsum bæjum í Mosfellssveit.
Guðrún andaðist á Æsustöðum í Mosfellsdal árið 1936 og hvílir í Mosfellskirkjugarði.
Gripir úr eigu hennar eru varðveittir á bókasafni Varmárskóla.

Í Innansveitakroniku Laxness segir í 20. kapítula:
Af haugbroti
“Þegar Finnbjörg var látin sendi Ólafur karl Andrés son sinn á fund sóknarprests Lágafellskirkju, þeirrar kirkju niðrí sveit sem var laungu orðin sóknarkirkja mosdæla að lögum. Kvaðst Ólafur vera orðinn of sjóndaufur til að grilla Lágafellspresta svo hann næði til þeirra að berja þá. Það var ennfremur í erindum Andrésar að tjá presti að faðir sinn væri í því ráðinn að grafa konu sína í mosfellskirkjugarði og réði lágafellsprestur því hvort hann hunskaðist þángað á tilteknum degi og kasta rekunum; að öðrum kosti mundi hann, Ólafur á Hrísbrú, gera það sjálfur. Er þar skemst frá að segja að ekki var tekið óljúflega í þetta mál af þartilbærum yfirvöldum.
Nú er lík húsfreyu hefur verið lagt í kistu og borið til skemmu og bærinn tómur og alt á enda kljáð, sagði Stefán Þorláksson, og líður að útfarardegi, þá kallar Ólafur bóndi á sonu sína og fósturson og leggur fyrir þá þraut.
Þess var áður getið hér á blöðunum að svöð hafi verið eigi allsmá fyrir framan hlaðstétt á Hrísbrú og hefði einginn mælt þeirra dýpt og ekki heldur verið augljós mörkin milli þeirra og fjóshaugs mikils ásamt með hlandfor sem þar vall og hafði ollið leingi. Hafði forin ekki verið tæmd til fullnustu svo menn ræki minni til. Nú bregður svo við að Ólafur bóndi sendir lið sitt í for þessa með verkfæri þau sem þurfti og lætur hefja austur og gröft; segir að eigi skal láta staðar numið fyren þeir komi niður á dýrgrip sem fólginn sé djúpt í hauginum.
Nú fara þeir til og brjóta hauginn og er gagnslaust að lýsa slíku verki hér svo lángt sem um er liðið og einginn maður veit leingur hvað hlandfor er á Íslandi. Mundi ekki svipað gilda um óþrifaleg verk einsog fyr var ritað um erfið verk? Áður fyr voru eingin verk kölluð sóðaleg nema þau sem unnin voru án vandvirkni af kæríngarlausum verkamanni og lýstu handbragði skussa og ómennis.
Hvort sem ausið var eða grafið leingur eða skemur í Hrísbrúarsvöð, þá er ekki að orðleingja það, nema seinast koma menn það lángt niður í þessari voðalegu torfæru að rekuna tekur niðri og saung í málmi þar sem hún snart við. Menn hafa hendur á gripnum og losa um hann og bera burt úr forinni og uppá dyrakamp. Nú velta þeir grip þessum fyrir sér uns þeim kemur saman um að kveðja til Ólaf bónda og spyrja hann ráða. Hann þreifar á gripnum innvirðulega um stund uns hann kennir að þetta er kirkjuklukka. Hann segir að þessa klukku skal þvo vandlega og síðan fægja. Þvínæst fór hann inní bastofu og fann kólfinn úr klukkunni á kistubotni húsfreyar sinnar.

Hrísbrú

Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.

Stefán Þorláksson hefur sagt frá þeim morni er hann fór með Ólafi fóstra sínum í undanrás að Mosfelli að búa í haginn áður en líkfylgdin kæmi. Þetta var um sumarsólstöður. Gamli Rauður var sóttur í hagann og stendur á hlaðinu ærið vambmikill. Það var lagður á hann hnakkur fyrir utan opna skemmuna en þar hafði öllu drasli verið rýmt burt svo rúmt væri um kistuna. Synir Ólafs leiddu föður sinn útúr bænum en hann bar sjálfur klukkuna í fángi sér, og var klukkan fljót að fá aftur þá spansgrænu sem fylgir sönnum kristindómi.
Synir Ólafs héldu í ístaðið hjá föður sínum og hjálpuðu honum á bak þeim rauða. Síðan létu þeir klukkuna í fáng honum þannig að hann gat samt haldið sér í faxið á hestinum. Fóstursyni fólksins var síðan sagt að teyma undir gamla manni sem leið lá heim að Mosfelli og láta staðar numið þar á hólnum fyrir utan sáluhliðið í mosfellskirkjugarði. Sveitin var ekki meirensvo risin úr rekkju og vorfuglinn heiðló hljóp samsíða þeim yfir Skriðuna og blés í veika flautu en kólfurinn í klukkunni var laus og gall við með skjöllu málmhljóði þegar Rauður hnaut við steinvölu í götunni. Ólafur bóndi gerði sín ekki vart heima á Mosfellsbænum en lét fósturson sinn leiða sig að sáluhliðinu og bar enn klukkuna í fánginu. Hann sagði að binda skyldi Rauð við garðstaur svo hann færi ekki í túnið, því síðan hér hættu að vera mínir prestar beiti ég aldrei á Mosfellstún, sagði hann.

Hrísbrú

Hrísbrúarklukkan í Mosfellskirkju – upphengjan.

Þeir njörvuðu klukkuna með snærum við dyradróttina í sáluhliðinu. En með því ramböld vantaði sem bjalla verður að hafa svo hún leiki laus þegar tekið er í klukkustreinginn, og hríngíngin fái lángan tón af sveiflu, þá varð Ólafur á endanum að gera kólfinn lausan og dángla utaní klukkuna með honum. En þó hríngíng væri hljómlítil og ögn bundin var þetta þó klukknahljóð og hljómur Mosfellskirkju. Þegar líkfylgdin nálgaðist tók hann til að hríngja. Hann linti ekki hríngíngu meðan kistan var borin um sáluhliðið. Hann hríngdi meðan fólkið var að tínast inní garðinn. Hann hríngdi meðan kistunni var sökt í jörðina og meðan presturinn var að kasta rekunum og fólkið að tínast burt frá gröfinni en rétti annars hugar þá höndina sem laus var þeim sem kvöddu hann og samhrygðust honum, uns fóstursonur hans sem sat á þúfu sagði honum að nú væri seinasti maður farinn og alt búið. Þannig hríngdi Ólafur kallinn á Hrísbrú alla sveitina inn í kirkjugarðinn á Mosfelli og útúr honum aftur.
Viku seinna fór Ólafur aftur sömu leið, að því sinni í fjórum skautum, að finna konu sína. Bogi sonur hans bar nú klukkuna á sjálfum sér fyrir kistu föður síns, festi hana í dyradróttina á sáluhliðinu einsog faðir hans hafði gert í vikunni á undan og hríngdi einsog faðir hans hafði hríngt uns lokið var, leysti síðan klukkuna af dyradróttinni og bar hana heim aftur að Hrísbrú.”

Á vefsíðu Lágafellskirkju, sbr. Mosfellskirkju er getið um “Teikningu af Mosfellskirkju“:
Teikning af Mosfellskirkju – erindi 15, mars 2015:

“Vegfarendur um Mosfellsdal veita athygli sérkennilegri byggingu sem vakir yfir byggðinni í dalnum á hinum forna kirkjustað, Mosfelli. Þetta óvenjulega guðshús, sem senn verður hálfrar aldar gamalt, er með athyglisverðari dæmum í þróunarsögu kirkjubygginga hér á landi. Sagan af því hvernig að kirkjuhúsið fékk á sig þessa mynd er ekki síður forvitnileg en aðdragandinn að byggingunni sjálfri. Svo vel vill til að fundargerðarbók byggingarnefndar hefur varðveist, samviskusamlega skráð af Jónasi Magnússyni í Stardal. Fundargerðirnar eru mikilvæg heimild um tilurð teikningarinnar af Mosfellskirkju, en flestum lýkur þeim með eftirfarandi orðum: „Fleira ekki tekið fyrir – fundi slitið. Síðan sest að kaffidrykkju í boði prestshjónanna á Mosfelli.“

Mosfell

Mosfellskirkja.

Alkunn er sagan af því hvernig það kom til að Mosfellskirkja var eldurreist fyrir 50 árum síðan. Kirkjurnar að Mosfelli og Gufunesi voru aflagðar og rifnar árið 1888 þegar sóknirnar voru sameinaðar. Ný, sameiginleg kirkja reis ári síðar á Lágafelli, misvæðis í byggðinni. Gamla Mosfellskirkjan, sú sem rifin var, var timburkirkja, smíðuð 1853 af Bjarna Jónssyni snikkara. Hann smíðaði tvær kirkjur í Grímsnesi sem enn standa, Mosfellskirkju og Búrfellskirkju. Sameining sóknanna og niðurrif kirkjunnar á Mosfelli var andstæð vilja margra bænda í Mosfellsdal. Þessi saga er rauður þráður í seinni hluta Innansveitarkróníku Halldórs Laxness, en í þeirri bók er kirkjan að Mosfelli ein aðalpersóna verksins. Munaðarlaus drengur, Stefán Þorláksson að nafni, ólst upp á Hrísbrú þar sem klukka hinnar horfnu kirkju var geymd. Hann eignaðist jörðina Reykjahlíð árið 1933 og seldi hana Reykavíkurbæ 1947 ásamt heitavatnsréttindum. Á þessum og fleiri viðskiptum efnaðist hann vel og byggði sér íbúðarhúsið Reykjadal í Mosfellsdal, ásamt gróðurhúsum. Hann var hreppstjóri um skeið, framtakssamur og vinsæll í sinni sveit. Stefán, sem var ókvæntur og barnlaus, lést í júlí 1959. Í erfðaskrá gaf hann meirihluta eigna sinna til kirkjubyggingar að Mosfelli í Mosfellsdal.”

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 57. tbl. 10.03.1983, Kirkjuklukka frá 13. öld…, bls. 24-25.
-Vísir, 112. tbl. 17.09.1962, Klukkan kallar, bls. 9 og 10.
-Morgunblaðið, 210. tbl. 05.08.2004, Kirkja að Hrísbrú nefnd í Eglu, bls. 6.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröftur að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Skírnir 01.09.1999, Kotungar í andófi, bls. 278-281.
-Héraðskjalasafn Mosfellsbæjar – http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/
-Bókasafn Mosfellsbæjar – http://www.bokmos.is/laxnessvefur/kronikan/
-Innansveitakrinika – http://innansveitarkronika.is/kafli/20
-Egilssaga – 20. kafli.
-https://www.lagafellskirkja.is/kerfi/wp-content/uploads/2015/04/Mosfellskirkja.pdf

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Leiðarendi

Á bílastæði við hellirinn Leiðarenda við Bláfjallaveg er skilti. Á því stendur:

Jarðfræði

Leiðarendi

Leiðarendi – op.

Hraunhellirinn Leiðarendi er í þjóðlendu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkur innan Reykjanesfólkvangs. Auk þess njóta hraunhellar sérstakrar verndar samkvæmt náttúrverndarlögum (61, gr. laga nr. 60/2013) og allir dropsteinar í hellum landsins eru friðlýstir.

Hraunhellar myndast þegar kvika rennur í hraunrás undir yfirborði, sem síðan nær að tæmast áður en kvikan storknar. Leiðarendi myndaðist í hraungosi úr Stórabolla í grindarskörðum fyrir um 2000 árum. Yfir það hraun rann svo yngra hraun fyrir rúmlega 1000 árum sem kennt er við gígin Tvíbolla. Það hraun hefur náð að brjóta sér leið inn í hellinn á nokkrum stöðum. Leiðarendi er um það bil 900 metra langur, með fjölda viðkvæmra hraunmyndana eins og dropsteina, hraunstráa og hraunsepa, ásamt litríkum útfellingum.

Leiðarendi

Leiðarendi – dropsteinn.

Dropsteinar, hraunstrá og hraunsepar í hellum myndast við kónun hraunsins og eru fullmótuð fljótlega eftir að hraunið myndast. Þau halda ekki áfram að vaxa og t.d. dropsteinar í kalkhellum erlendis. Því er allt rask á þeim varanlegt.

Hraunin tvö við Leiðarenda nefnast eldra og yngra Hellnahraun þegar nær dregur byggð. Þau mynduðu Hvaleyrarvatn og Ástjörn sem eru hraunstífluð vötn.

Umgengisreglur

Leiðarendi

Leiðarendi – uppdráttur ÓSÁ.

-Leiðsögumenn eða fararstjórar skulu útvega sér leiðbeiningar um umgengisreglur hjá Hafnarfjarðarbæ áður en farið ermeð hópa inní hellinn.
-Hámarksstærð hópa eru 8 manns á hvern leiðsögumann.
-Ekki má snerta hraunstrá, dropsteina eða viðkvæmt hellaslím á veggjum og í lofti.
-Fararstjórar bera ábyrgð á að útvega nauðsynlegan búnað eins og hjálma og ljós.
-Ekki má kveikja eld inni í hellinum.
-Öll neysla matar og/eða drykkja er bönnuð.
-Landvörður er starfandi í fólkvanginu og brot á þessum reglum verða kærð til lögreglu.

Leiðarendi

Leiðarendi – texti á skilti.

Búðarvatnsstæðið

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík segir Þorsteinn Bjarnason frá Háholti m.a. frá Búðarvatnsstæðinu:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

“Frá Dagon er landamarkalínan í Núphlíð. Austan í henni, syðst, er Skalli, en austan undir Núphlíð er Sængurkonuhellir. Frá Núphlíð eru landamerki sjónhending í vesturrætur á Trölladyngjum, frá þeim í Markhelluhól við Búðarvatnsstæði. Að norðan eru mörkin sjónhending úr Markhelluhól, norðvestan við Fjallið eina, öðru nafni Eldborgarhellir, í Melrakkagil, sem kemur niður úr Undirhlíðum.”

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík sem Ari Gíslason skráði segir m.a:
“Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur. Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði.”

Merkhella

Markhella – áletrun.

Í skráningu “Menningarminja í Vatnsleysustrandarhreppi”, svæðisskráningu, sem Sædís Gunnarsdóttir skráði árið 2006 segir:
“Búðarvatnsstæði – heimild um vatnsból
Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll.” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata iggur meðfram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum.” “Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einhverskonar “búðir”. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafist við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.”

Markhella

Markhella – áletrun.

Í Örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980 segir m.a.:
“Er þá komið á Dyngjuháls. Austur af honum eru Mávahlíðar, en þar um liggur landamerkjalínan milli Hvassahraunslands sunnanvert og Krýsuvíkur. Austur af Lambafellum eru Einihlíðar, og vex þar einir. Ofan eða sunnan þeirra er Einihlíðabruni. Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri [hellan snýr reyndar við norðvestri]. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti.”

Í Örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði, lýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a.:

Markhella

Markhella – áletrun.

“Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Norður og niður af vatnsstæðinu nefnast Búðarhólar. Mörkin liggja líklega gegnum þá.”

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Búðarvatnsstæðið er á sléttu hrauni undir nýrri hraunbrún. Á brúninni, á svonefndum Markhelluhól, eru tvær vörður, önnur lítil og hin mosavaxin; greinilega fornar. Um vatnsstæðið lá fyrrum sauðfjárveikigirðing og má enn sjá staura hennar við og í nágrenni við það. Girðingin var þá á mörkum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða. Hvers vegna framangreindir stafir hafi verið grafnir á steinvegg Markhellu, í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá Búðarvatnsstæðinu til austurs, hefur aldrei verið skýrð að fullu. Ekki er ólíklegt að ætla að einhver á ströndinni hafi látið sér detta í hug að krota nöfnin þarna, enda í skjóli frá mögulegri umferð Krýsuvíkurbænda um ofanverð fáfarin hraunin. Landamerkjalýsingin um Markhelluna á þessum stað kemur a.m.k. ekki heim og saman við fyrri lýsingar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík – Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, svæðisskráning; Sædis Gunnarsdóttir, 2006.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun; lýsing Gísla Sigurðssonar, víða tekin upp orðrétt. Upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980. Hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikotinu. Guðmundur er fæddur á Hvassahrauni árið 1919.
-Örnefnalýsing – Óttarsstaðir; lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Hádegishóll[ar].

Í “Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð 2019”, segir m.a. um rúst í Hádegishólum:

“Hádegishólar – rúst
Norðan undir malarvegi, um 60 m SSV af stupu á Hádegishól. Í holti.
Fífuhvammur (Hvammur/Hvammskot).

Rúst.

Hádegishóll

Hádegishóll – minjar.

4,5 x 8 m (NNV – SSA).
Veggir úr grjóti og torfi, um 1 – 1,5 m breiðir og 0,2 – 0,5 m háir. Tvö hólf eru á rústinni (A og B) og jafnvel það þriðja (C). Dyr eru á hólfi A til N og á hólfi C í sömu átt.
Gólf í hólfi B er niðurgrafið.
Hólf C er á kafla niðurgrafið og aðeins er veggur við hólfið norðanvert sbr. teikningu.
Rústin er vel gróin og víða sér í grjót.
Yfir rústina sunnaverða liggur nýlegur vegur og hylur hann austurgaflinn.
Í Örnefnaskrá (undir Hádegishól) segir að þarna við hólinn hefði verið brunnur og tættur sem gamlar sagnir hefðu verið til um. Svæðið fyrir neðan hólinn til NV hét Stekkatún, en mýrin norðan við hét Stekkatúnsmýri. Á Stekkatúni var fjárhús sem var rifið og fellt árið 1983. Rústin var rannsökuð árið 2018.”

Hádegishóll

Hádegishóll – minjar. Brunnur fremst.

Haustið 2018 voru rústir undir Hádegishólum rannsakaðar vegna stígagerðar í nágrenninu. (Bjarni F. Einarsson 2018).
Niðurstöðurnar bentu til þess að um stekk hafi verið að ræða frá 1550-1650. Vísbendingar voru um að eldri minjar væru að hluta undir stekknum og vestan við hann.

Í Jarðabókinni 1703 er fjallað um “Huammkot”, síðar Fífuhvamm. Þá var þar tvíbýli. Ekki er minnst á selstöðu, enda lítt tíundað um möguleg hlunnindi á þeim tíma frá Kópavogskotunum því miklar kvaðir hvíldu þá á þeim, bæði af hálfu Bessastaða og Viðeyjar, líkt og lesa má um í Jarðabókinni.

Ljóst er á ummerkjum við Hádegishól[a] að þar hefur verið selstaða fyrrum. Þegar líða tók á 19. öldina gæti selsstekkurinn hafa verið byggður upp úr eldri tóftum og hann síðan notaður sem heimasel um tíma. Framan við stekkinn sést móta fyrir brunni sem og jarðlægum tóftum skammt sunnan undir hólnum. Mannvirkin eru í skjóli fyrir austanáttinni, sem var dæmigert fyrir selstöður á þessu landssvæði fyrrum. Ástæða væri til að gaumgæfa svæðið betur m.t.t. framangreinds.

Heimildir:
-Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð, Fornleifafræðistofan, Bjarni F. Einarsson – 2019.
-Bjarni F. Einarsson. Rúst undir Hádegishólum. Rúst 31:1 í Kópavogi, Gullbringusýslu. Skýrsla um rannsókn á skepnuhúsi. Fornleifafræðistofan. Reykjavík 2018.
-Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði og staðsetti örnefnin. Handrit. Örnefnastofnun. 1990.
-Jarðabókin 1703, ÁM og PV.

Hádegishóll

Hádegishóll – minjar.

Helgufoss

Í Mosfellingi 2014 segir af “Stofnun fólkvangs í landi Bringna í Mosfellsdal – 18.6 hektarar við Helgufoss”:

“Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri hafa staðfest friðlýsingu fólkvangs á hluta af jörðinni Bringum, efst í Mosfellsdal við Helgufoss.
Helgufoss

Samtals er hið friðlýsta svæði um 18,6 hektarar að stærð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda hluta jarðarinnar Bringna til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess sérstakar náttúru- og menningarminjar.
Bújörðin Bringur varð til sem nýbýli úr landi prestsetursins að Mosfelli árið 1856 en fór í eyði árið 1966. Jörðin er staðsett norðan Köldukvíslar, en þaðan er víðsýnt yfir Mosfellsdal og allt til hafs. Í Köldukvísl, rétt við túngarðinn, er Helgufoss. Vestan við fossinn er Helguhvammur, rústir Helgusels og Helguhóll, sem einnig er nefndur Hrafnaklettur.
Samþykkt á 25 ára hátíðarfundi bæjarsjórnarFriðlýsingin/stofnun fólkvangsins er að frumkvæði bæjarstjórnar Mosfellsbæjar sem samþykkti á hátíðarfundi á 25 ára afmæli bæjarins að stefna að friðun fossa í Mosfellsbæ. Markmiðið er að tryggja vernd mikilvægra náttúru- og söguminja og um leið gott aðgengi almennings til að njóta þeirra. Er þetta í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar og þau markmið sem sett eru fram í stefnumótun bæjarins um sjálfbært samfélag þar sem stefnt skal að frekari friðlýsingu svæða og náttúrufyrirbæra í sveitarfélaginu.
Við stofnun þessa fólkvangs eru auk hans í Mosfellsbæ eitt friðlýst náttúruverndarsvæði (Friðland við Varmárósa), fjögur svæði á náttúruminjaskrá (Leiruvogur, Úlfarsá og Blikastaðakró, Varmá og Tröllafoss) og tveir friðlýstir fossar (Tungufoss og Álafoss, sem friðlýstir voru á síðasta ári).
Undirritunin fór fram í Bringum við Helgufoss þriðjudaginn 20. maí og hefur friðlýsingin nú þegar öðlast gildi.”

HelgafellÍ tímaritinu Helgafelli 1942 og 1943 rekur Ólafur Lárusson “Ýmislegt um Bárðar sögu Snæfellsáss” í tveimur greinum. Hér verður tekið út það er varðar Helgu Bárðardóttir er fyrrnefndur Helgufoss er kenndur við:

“Það er sjaldgæft, að örnefni séu talin til skrauts. En til eru hér á landi örnefni svo tíguleg og fögur, að þau geta talizt til listaverka. Þau bera þess vitni, að þeir, sem gáfu þau, höfðu glöggt auga fyrir fegurð náttúrunnar, hvort sem hún birtist í blíðum yndisþokka eða í mikilfenglegum hrikaleik.

Minningarnar, sem við örnefnin eru tengdar, eru með margvíslegum hætti, sumar fornar og aðrar nýjar, sumar bjartar og aðrar dapurlegar. Sumar þeirra eru ofboð hversdagslegar. Þær lúta að einhverjum þætti í hinum daglegu störfum fólksins á bænum, eins og þau eru nú, eða eins og þau voru áður. Þarna er t. d. Seljadalur. Nafnið minnir á, að þar var haft í seli fyrir langa löngu, fyrir minni allra, sem nú lifa, meðan selfarir tíðkuðust, og hugurinn hverfur aftur til þeirra tíma, og myndum úr lífinu í selinu bregður upp fyrir sjónum hans, af selstúlkunni, er sat þar sumarlangt í einveru og kyrrð og gat þó mætt ótrúlegum og örlagaríkum ævintýrum í nábýli sínu við huldufólk og aðrar dularvættir.
Minningarnar hafa tendrað bál sín hér á landi, bál, sem lýst hafa út ímyrknættið, og bjarmann af þeim hefur lagt á sálir mannanna og gert líf þeirra fyllra og auðugra. Ótalmargar örnefnasögur eru enn við líði, og sjálfsagt eru þær þó enn fleiri, sem glataðar eru og gleymdar. Margar þessara sagna eru einber skáldskapur. Samband við hið liðna er engin nýjung hér á landi, það sýna fornbókmenntirnar bezt. Þær sýna m.a., að það er langt, síðan örnefnasagnir tóku að ganga manna milli hér á landi. Hefur varla liðið langt frá landnáminu sjálfu, þar til þær urðu til. Þessar sagnir hafa alltaf verið eign alþýðunnar. Það hafa allir tekið meira og minna hlut í þeim fróðleik. En innan um hafa ávallt verið einstöku menn, sem lagt hafa sérstaklega mikla rækt við þessi fræði, hafa lagt á minnið allt, sem þeir heyrðu um þau efni, og haft yndi af öllu slíku, örnefnum, örnefnasögnum og öðrum sögnum. En því miður hefur mest af fróðleik flestra þeirra farið í gröfina með þeim sjálfum.
Einn slíkur fræðaþuIur var uppi á Snæfellsnesi fyrir sex hundruð árum. Vér kunnum nú eigi að nefna hann með nafni, en hann hefur augljóslega haft mikinn áhuga og ást á sagnafróðleik átthaga sinna, örnefnum, örnefnasögnum og öðrum þjóðsögum. Þessi maður settist við og færði í letur sögu landvættar héraðsins, Bárðar Snæfellsáss. Síðar hélt annar maður sögunni áfram og jók við hana frásögnum af Gesti Bárðarsyni, og þannig hefur hún geymzt til vorra daga. Hin eiginlega Bárðarsaga er 10 fyrstu kapítular sögunnar, eins og hún er nú, og mun hún enn vera óbreytt frá því, sem höfundurinn gekk frá henni, að öllu verulegu.

Helgusel

Helgusel – uppdráttur ÓSÁ.

Bárðarsaga er ofin úr þjóðsögum, sem gengið hafa í munnmælum á utanverðu Snæfellsnesi á dögum höfundarins. Ber þar ekki hvað sízt á örnefnasögum. Í sögunni er fjöldi örnefna, tiltölulega miklu fleiri en í nokkurri annarri sögu. Mörg þeirra nefnir höfundurinn sýnilega eingöngu til þess að geta komið að sögnum um uppruna þeirra. Flest eru örnefnin úr yztu byggðunum, milli Búðahrauns og Ólafsvíkurennis, og mun höfundurinn hafa verið upprunninn á þeim slóðum. Hann hefur í öllu falli verið gagnkunnugur þar. Flest eru örnefni þessi kunn enn í dag. Guðbrandur Vigfússon kom fram með þá undarlegu skoðun, að söguhöfundurinn myndi hafa búið þessi örnefni til, og héraðsbúar síðan tekið þau upp eftir sögunni. Er þetta næsta ólíkleg tilgáta, og hitt miklu sennilegra, að nöfnin séu eldri en sagan, en sagan hefur að líkindum síðar átt sinn þátt í því, að þau varðveittust svo vel sem raun er á.

Helgusel

Helgusel.

Finnur Jónsson segir um Bárðarsögu, að „Indholdet af den er meget ubetydeligt”. Það mál er eins og það er virt. Sagan hefur aldrei verið talin til stórvirkjanna eða snilldarverkanna í íslenzkum bókmenntum, enda á hún það ekki skilið. Höfundur lætur t. d. Helgu Bárðardóttur fæðast, meðan Haraldur hárfagri er í æsku, flytjast á barnsaldri til Íslands með föður sínum snemma landnámstíðar, hrekjast, fáum árum síðar, til Grænlands og hafa þar þá veturvist með Eiríki rauða. Þó hefur höfundurinn verið nokkuð bókfróður. Hann hefur t. d. haft Landnámu með höndum og notað hana og farizt það laglega. Hann hefur ekki reynt að skyggnast neitt inn í sálarlíf persónanna í sögunni, þar er aðeins að finna nokkur drög til einnar slíkrar mannlýsingar, og þau drög hefur hann sennilega fengið annars staðar að. En sagan er létt rituð og lipurt, þótt hvergi séu nein tilþrif í stíl höfundarins, og mál hans er fornt og gott. En það, sem gefur sögunni gildi, er þó einkum efni hennar. Hún er eins konar þjóðsagnasafn, safn af almúgasögnum, sem gamla fólkið hefur frætt unglingana á í bæjum og verbúðum þessa útskaga snemma á 14. öld, og vér myndum kjósa, og vilja gefa mikið fyrir, að eiga fleiri slík söfn frá þeim tíma og þótt yngri væru.
Í 5. kapítula sögunnar er frá því sagt, er Helga Bárðardóttir var í Grænlandi, að hún stóð úti einn dag og litaðist um og kvað vísu:

Sæl væra ek,
ef sjá mættak
Búrfell ok Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
ok Öndvertnes,

Heiðarkollu
ok Hreggnasa,
Dritvík ok möl
fyrir dyrum fóstra.

Vísan er tilfærð hér, eins og hún er prentuð í útgáfu Guðbrands Vigfússonar af Bárðarsögu (1860).

Viðey

Viðey – örnefni.

Söguhöfundurinn leggur Helgu Bárðardóttur vísu þessa í munn, en það fær varla staðizt, eftir því sem honum að öðru leyti segist frá. Vísa þessi lætur ekki mikið yfir sér. Hún virðist vera lítið annað en upptalning á örnefnum. En í öllum einfaldleik sínum er hún samt perla. Hún angar af heimþrá og hjartahlýju, af ást til átthaganna og bernskuheimilis og snertir strengi í brjósti hvers manns, sem hefur verið slitinn upp frá æskustöðvum sínum og dreymir síðan um þær og þráir þær.
Stúlkan, sem vísuna kvað, — því að vísan er ort af konu, hvort sem hún hefur heitið Helga Bárðardóttir eða öðru nafni, — hefur ef til vill alizt upp í Dritvík, og er það enda líklegast, því að jafnvel leshátturinn “Dritvík ok möl” bendir nánast til þess. Bernskuheimili hennar hefur þá verið búðsetumannsheimili. Í Dritvík hafa aldrei aðrir búið en búðsetumenn, sem ekki hafa haft annað sér til lífsbjargar en stopulan sjávaraflann. Þeir hafa allar aldir verið fátækir. Skorturinn hefur staðið sífelldlega við dyrustaf þeirra og oftlega þokað sér innfyrir hann, jafnvel alla leið inn á gafl. Samt hefur hún elskað og þráð þetta fátæka æskuheimili sitt og hið hrikalega og óblíða umhverfi þess. Getur það verið íhugunarefni fyrir þá menn, er ætla, að ættjarðar- og átthagaást manna sé undir því komin, hversu mikið er í pyngjunni eða hversu mikilla ytri lífsþæginda menn njóta.

Viðey

Viðey – Helguörnefni.

Í Bárðarsögu eru nafngreindar þrjár dætur Bárðar og fyrri konu hans, Helga, Þórdís og Guðrún. Fluttust þær til Íslands með föður sínum og uxu upp hjá honum á Laugarbrekku og urðu bæði ,,miklar ok ásjáligar”. Á Arnarstapa bjó Þorkell RauSfeldsson, hálfbróðir Bárðar. Þorkell átti tvo sonu, Sölva og Rauðfeld. Þessi frændsystkin léku sér saman á vetrum á svellunum við Barnaár. Var kapp mikið milli þeirra í leikjunum, og vildu hvorug vægja fyrir hinum.
Eitt sinn lágu hafísar þar við land. Voru þau þá að leik niðri við sjóinn, og sló í kapp með Rauðfeldi Þorkelssyni og Helgu Bárðardóttur. Endaði leikurinn svo, að Rauðfeldur hratt Helgu á sjó út á ísjaka. Þoka var á og vindur hvass af landi, og rak jakann út til hafíssins. Helga komst upp á ísinn, en hina sömu nótt rak ísinn undan landi og á haf út. Rak hann svo ört, að Helga komst innan sjö daga með ísnum alla leið til Grænlands. Grænlendingum þótti hún hafa komið með undarlegu móti “ok fyrir þat var hún tröll kölluð af sumum mönnum”. Hún var kvenna vænst og svo þroskuð, að hún var karlgild að afli til hvers, sem hún tók.

Kollafjörður

Kollafjörður – Helgusker.

Helga fékk vist hjá Eiríki rauða í Brattahlíð, en dvölin þar varð henni örlagarík. Hún hitti þar fyrir íslenzkan mann, Skeggja Bjarnarson frá Reykjum í Miðfirði (Miðfjarðar-Skeggja). Skeggi tók Helgu að sér og hafði við hana fylgjulag. Um veturinn komu tröll og óvættir ofan í Eiríksfjörð. Voru þau þrjú saman, karl og kerling og sonur þeirra. Gerðu þau mönnum margs konar mein, en Skeggja tókst að ráða þau af dögum, og naut hann þá hjálpar Helgu, sem “gaf honum náliga líf”. Næsta sumar fór Skeggi með Helgu til Noregs, og voru þau þar veturlangt, en síðan fór hann heim til Íslands, til bús síns á Reykjum, og Helga með honum. Bárður, faðir hennar, frétti til hennar og kom um haustið norður að Reykjum og sótti hana og hafði heim með sér, enda var Skeggi þá kvæntur.

Kollafjörður

Kollafjörður – kort 1903.

Helga varð aldrei söm eftir þetta. “Engu undi hún sér, síðan er hún skildi við Skeggja; mornaði hún ok þornaði æ síðan”. Hún undi ekki heima og hvarf þaðan á burt. Fór hún víða um landið og festi hvergi yndi, var alls ötaðar með dul og oftast fjarri mönnum og oft í hreysum og hólum. Söguhöfundurinn segir, að Helguhellir í Drangahrauni sé við hana kenndur, “ok miklu víðar eru örnefni við hana kennd um Ísland”. Annars segir sagan aðeins frá einu sérstöku atriði úr lífi hennar á þessum hrakningum. Hún þáði veturvist að Hjalla í Ölfusi hjá þeim feðgum, Þóroddi goða og Skafta lögsögumanni. Var hún þar sem annars staðar með dul og lá í yztu sæng í skála og hafði fortjald fyrir. Hún sló þar hörpu nær allar nætur, því að henni varð ekki svefnsamt. Heimafólkið leiddi getum að, hver kona þessi myndi vera. Austmaður var þar á vist, er Hrafn hét. Hann forvitnaðist eina nótt undir tjaldið og sá, að Helga sat uppi í einum serk, og sýndist honum konan fríð mjög. Vildi hann upp í sængina til hennar, en hún varnaði þess, og tókust þau á, og urðu þær lyktir, að annar fótleggur og annar handleggur austmannsins gengu sundur, en Helga hvarf þaðan litlu síðar.

Ölfus

Hjalli 1898.

Fleira segir höfundur Bárðarsögu oss ekki frá Helgu. En sá, sem jók þætti Gests Bárðarsonar við söguna, leiðir Helgu aftur snöggvast fram á sjónarsviðið. Hann segir frá því, hversu Bárður hefndi dóttur sinnar á Skeggja. Hann kom að Reykjum haustkveld eitt, í dulargervi, og nefndist Gestur. Falaði hann veturvist þar og fékk hana fyrir atbeina Eiðs Skeggjasonar. Um veturinn tældi hann Þórdísi, dóttur Skeggja, fimmtán vetra gamla. Ól hún sveinbarn um haustið eftir í seli föður síns og nefndi drenginn Gest, eftir hinum horfna föður hans. Næsta dag kom ókunnug kona í selið og bauð að taka við sveininum og fóstra hann, og lét Þórdís það eftir.
Tólf árum síðar kom hin sama kona með drenginn til Þórdísar, sagði henni, að hún væri Helga Bárðardóttir Snæfellsáss, og Bárður, faðir sinn, væri einnig faðir drengsins. Hafði Helga alið hann upp, “en víða höfum vit Gestr verit, því at heimili mitt er eigi í einum stað”. Hvarf hún síðan á brott, og er þess eigi geti, að Þórdís sæi hana síðar. Að öðru sinni getur höfundur þáttarins Helgu, er hann telur hana meðal boðsgestanna í tröllaveizlunni miklu, er Hít tröllkona í Hítardal hélt, en ekki er Helgu að öðru neitt getið við þá atburði, er gerðust í veizlu þessari.

Geldinganes

Geldinganes – Helguhóll.

Höfundur Bárðarsögu segir sögu Helgu aðeins í stórum dráttum. Er það sönnun þess, að sú saga er ekki skáldskapur hans sjálfs. Ef hann hefði sjálfur búið sögu þessa til, myndi hann hafa sagt hana miklu nákvæmar og greint fleiri einstaka atburði úr ævi hennar. Hann hefði þá eigi látið sér nægja að segja, að hún hefði „náliga” gefið Skeggja líf í viðureign hans við tröllin í Eiríksfirði. Hann hefði sagt, með hvaða hætti hún hefði hjálpað honum. Hann myndi hafa sagt frá fleiri atburðum úr ferðum hennar um landið en viðureign hennar við austmanninn á Hjalla einni saman. Hann myndi hafa greint fleiri örnefni, sem við hana væru kennd, en Helguhelli einn, úr því að hann á annað borð fór að geta þess, að örnefni væru við hana kennd víðar um landið en á Snæfellsnesi. Allt bendir til þess, að það, sem sagan segir af Helgu, sé aðeins ágrip af ítarlegri sagnaþætti, sem af henni hefur gengið og höfundurinn hefur þekkt. En einhverra hluta vegna hefur hann annaðhvort ekki talið þörf á að segja þá sögu ítarlegri en hann hefur gert eða ekki talið sér það fært. Vegna þessarar tregðu hans kunnum vér nú ekki meira úr sögunni af Helgu Bárðardóttur en það, sem greinir í hinu stutta ágripi hans, og er hér sem oftar, að vér eigum þá sök á hendur höfundinum að telja, að hann hefur sagt oss færra en hann gat sagt og færra en vér myndum kjósa, að hann hefði sagt.

Helgustekkur

Helgustekkur – loftmynd.

En aðalatriðin úr sögunni af Helgu Bárðardóttur hefur höfundurinn þó sagt og nóg til þess, að vér getum skilið, að sú saga hefur verið nokkuð sérstæð meðal hinna fornu sagna vorra, þeirra, er vér nú kunnum skil á. Saga Helgu er harmsaga konu, er beið tjón á sálu sinni. Hún hafði fengið að njóta alsælu ástar sinnar um stund, en brátt var hún svipt þeirri sælu, og síðan bar hún brostinn streng í sálu sér.

Tapað hefur seggurinn svinni, sumarlangt gleðinni minni, kvað ókunn skáldkona fyrir löngu síðan. Skeggi tapaði gleði Helgu, ekki sumarlangt, heldur ævilangt. Hún reikaði eirðarlaus stað úr stað, einræn og mannfælin, var með dul, þegar hún var meðal manna, en oftar var hún þó fjarri mönnum, ein með sorg sinni. Þegar harmar hennar bönnuðu henni svefn, lék hún á hörpu sína, tjáði sorg sína og leitaðist við að sefa hana með tónum hörpunnar. Þessi var harmsaga Helgu Bárðardóttur, og er hún þó ekki fullsögð.
Sagan segir ekkert um hug Skeggja til hennar, hvort hann hefur fest ást á henni eða aðeins tekið hana til sín, sér til stundargamans á ferðum sínum erlendis, og hún segir ekkert um það, hvers vegna hann lét hana eina. En það er eins og vér getum lesið á milli línanna, að þessi örlög Helgu hafi verið henni ásköpuð. Þau Skeggi voru hvort af sínum heimi og Helga þó af fleiri heimum en einum. Hún var ekki mennsk nema að nokkru. Dumbur, föðurfaðir hennar var tröllaættar að móðerni, og móðir hennar var dóttir Dofra jötuns úr Dofrafjöllum. Tröllið og maðurinn hafa togazt á í sál hennar. Hin fagra og glæsilega kona, sem knúði hörpu sína í lokrekkjunni á Hjalla, og sumir héldu, eins og síðar verður vikið að, að væri sjálf Guðrún Gjúkadóttir, hin stolta drottning úr heimi hetjukvæðanna, sat líka veizluna hjá Hít tröllkonu, með Jóru úr Jórukleif, Surti af Hellisfitjum, Ámi og Glámi úr Miðfjarðarnesbjörgum og mörgum öðrum tröllum víðsvegar af landinu, svo langt og vítt sem bilið þó var milli Niflunga og bergþursa. Þegar tveir svo ólíkir eðlisþættir mætast í einni mannssál, þá er viðbúið, að það sé fyrirboði harmsögu, og sú varð raunin á um Helgu.

Helgustekkur

Helgustekkur – uppdráttur.

Saga Helgu Bárðardóttur er bæði forn og ný. „Flúinn er dvergur, dáin hamratröll”, kvað Jónas Hallgrímsson, og í einni yngstu tröllasögunni í íslenzkum þjóðsögum er frá því sagt, að þá voru einar tvær tröllkonur eftir hér á landi, og þær sáu fram á það, að tröllakynið yrði aldauða í landinu með sér, og nú eru þær sjálfsagt báðar dauðar fyrir löngu. Sá sem er einn á ferð á milli Bjólfells og Búrfells, þarf ekki að kvíða því, að hann heyri tröllkonurnar í fjöllum þessum kallast á um pottlán til að sjóða hann í, eins og kom fyrir Gizur á Lækjarbotnum forðum. Ferðamönnum, sem leita sér skjóls í kafaldsbyljum í einhverju djúpu hamragili inni á öræfum, stoðar ekki að kveða Andrarímur, þótt þá langi í heitan graut, því að nú er þar enginn, sem réttir þeim grautarausu að kvæðalaunum. En þótt tröllin séu horfin úr hömrum og hellum, er ekki örgrannt um, að finna megi vott af eðli þeirra hjá mannfólkinu. Enn á það sér stað, að manneðli og trölleðli togast á í sálum manna, og enn sem fyrr verða þau átök upphaf að margs konar harmsögum.

Helguklettur

Helguhóll í Bringum.

Sagan um Helgu Bárðardóttur hefur ekki verið staðbundin á Snæfellsnesi. Hún hefur verið kunn víða um landið, ef til vill um land allt. Höfundur Bárðarsögu segir, að Helguhellir í Drangahrauni sé við hana kenndur. Er þetta í heimahögum hans sjálfs. Drangahraun er hraunið fyrir utan Dagverðará, og dregur það nafn af Lóndröngum. En hann getur þess einnig, að miklu víðar séu örnefni við hana kennd um Ísland, og allt niður á síðustu öld geymdust munnmæli um Helgu í öðrum héruðum og örnefni kennd við hana. Síra Magnús Grímsson getur þess, að sagnir séu um það, að Helga Bárðardóttir hafi um hríð hafzt við í Helguseli í Mosfellsdal, og sé það við hana kennt. Sel þetta stóð norðan undir miðju Grímmannsfelli niðri við Köldukvísl. Helgufoss er í ánni, skammt fyrir ofan selið, Helguhvammur heitir hvammurinn, sem selið stóð í, og Helguhóll er hamrahóll fram undan selinu. Síra Magnús telur, að öll þessi nöfn séu kennd við Helgu, og í Helguhól á hún að hafa gengið í elli sinni og aldrei komið út aftur.
Helgufell heitir í fjöllunum milli Hítardals og Dunkárdals. Helgusæng er lág þar uppi í fjallinu og Helguhóll stór hóll í miðjum flóa neðanvert við Dunkárdal. Örnefni þessi eiga öll að vera kennd við Helgu Bárðardóttur. Hún á að hafa búið í Helgufelli, haft legurúm sitt í Helgusæng og verið heygð í Helguhól, er hún andaðist.
Mér þykir ekki líklegt, að þessi munnmæli og nöfn stafi frá Bárðarsögu. Hitt er sennilegra, að þau séu frá þeim tímum, er saga Helgu enn gekk í munnmælum, fyllri en hin ritaða saga.

Helgusel

Helgusel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar landnámsmennirnir sáu Ísland rísa úr sæ, hið ókunna land, sem átti að verða heimkynni þeirra og niðja þeirra, og þegar þeir stigu þar á land og svipuðust um, er líklegt, að þær hugsanir hafi hvarflað að þeim flestum eða öllum, hvers konar vættir myndu byggja landið, hvers þeir myndu þurfa að gæta til þess að gera sér þær hollar, og hvað þeir þyrftu að varast til þess að styggja þær ekki.
Á landnámsöld var trúin á landvættir enn í fullum blóma á Norðurlöndum. Hún átti sér þar djúpar rætur og langan aldur, og er líklega eitt af því, sem frumlegast er og elzt í fornum átrúnaði NorSurlandabúa. Víða um lönd hafa frumstæðar þjóðir trúað því, að ýmiss konar dularvættir drottnuðu yfir jörðinni, hver í sínu ríki. Menn trúðu því, að vættir byggju í fjöllum og fossum, í hömrum og steinum, í lindum og lundum, og þeir töldu það vera eitt hið mesta vandamál mannanna að kunna að haga réttilega sambýli sínu við vættir þessar. Fræðimenn greinir á um upptök trúar þessarar. Ætla sumir, að landvættirnar séu í fyrstu andar framliðinna manna. Aðrir telja, að þær hafi, a.m.k. sumar, verið náttúruvættir frá upphafi vega, og til þess getur það m.a. bent, að landnámsmennirnir íslenzku bjuggust við að hitta landvættir fyrir í hinu mannlausa landi, er þeir hugðust að nema. Vér sjáum enn nokkrar minjar af trú forfeðra vorra á landvættir, bæði í fornbókmenntunum og í örnefnum. Þær minjar eru þó mjög í brotum, og þekking vor á þessu máli er því ófullkomin. En eitt af því, sem oss er kunnugt um í þessu efni, er það, að menn trúðu því, að vættir byggju í fjöllum. Sönnun þess er t.d. nafnið Ármannsfell í Þingvallasveit. Fellið hefur hlotið þetta nafn vegna þess, að menn trúðu því, að landvættur (ármaður) byggi í því.

Helgusel

Helgusel – stekkur o.fl. – Uppdráttur ÓSÁ.

Landnámsmennirnir hafa fljótlega gengið úr skugga um það, að Ísland var ólíkt öðrum löndum, er þeir þekktu. Þeir sáu hér náttúrufyrirbrigði, sem þeir höfðu hvergi séð annars staðar, svo sem eldfjöll og hraun, hveri og laugar. Auk þess var margt, sem þeir þekktu annars staðar að og hittu fyrir hér, með nýjum brag. Fjöllin íslenzku voru t. d. með allt öðrum svip en fjöllin, er þeír þekktu í fjalla- og fjarðabyggðum Noregs.
Landnámsmönnum, er sigldu að landi með Snæfellsjökul fyrir stafni, hefur ekki dulizt það, að slíkt fjall höfðu þeir hvergi séð í löndum þeim, er þeir komu frá. Þótt þeir kunni að hafa litið öðrum augum á náttúruna en vér nútímamenn gerum og lagt annað mat á fegurð hennar og tign en vér gerum, þá fer varla hjá því, að þeim hafi þótt Jökullinn tilkomumikill, þar sem hann gnæfði við loft, höfði hærri en hnjúkarnir allir, sem fylkt var að baki honum inn eftir endilöngu nesinu, stóð þar eins og fyririrliði í brjósti fylkingar sinnar og horfði út til hafs af yztu þröm skagans. Fer varla hjá því, að þeir hafi hugsað eitthvað á þá leið, að í slíku fjalli hlyti mikil vættur að búa, að ás Snjófells hlyti að vera bæði voldugur og máttugur. Þeir, er námu land umhverfis Jökulinn, settust að í umhverfi, sem alls staðar var svipmikið og stórfenglegt, og sums staðar jafnvel ægilegt og ógnandi. Þeim hefur litizt svo á, sem þetta nýja umhverfi þeirra væri líklegt til að vera aðsetur margs konar vætta og sumra, sem eigi mundu reynast mönnunum hollar. Kynni þeirra af hamförum hafs og storma og baráttan, sem þeir urðu að heyja við þessi trylltu náttúruöfl, hafa enn styrkt þá í trúnni á vættirnar.
Í slíku landi gat mönnunum verið ærin þörf á hjálp hollvætta, er haldið gátu illvættunum í skefjum. Var þá eigi önnur vættur líklegri til hjálpar en ás fjallsins mikla, er lyfti ægishjálmi sínum hátt á loft yfir byggðum þessum. Það er því ekki ótrúlegt, að trúin á Snæfellsásinn sé jafngömul byggðinni á nesinu.

Helgufoss

Helgufoss.

Annars verðum vér að hafa það hugfast, að ekki er ólíklegt, að þriggja alda kristni hafi breytt nokkuð hugmyndum manna um landvættirnar og þær hafi því, er Bárðarsaga var rituð á 14. öld, verið orðnar ólíkar því, sem þær voru í landnámsöld. Vera má enn fremur, að höfundur sögunnar hafi bætt einhverju frá sjálfum sér inn í sagnirnar, sem hann skráði, og ef til vill breytt einhverju í svip Bárðar frá því, sem munnmælin höfðu lýst honum.
Hjá Bárði mættust þannig ólíkir eðlisþættir, og svo fór, að trölleðli hans fékk yfirtökin um stund. Hvarf Helgu, dóttur hans, leiddi til byltingar í sálarlífi hans. Hann trylltist, er hann fékk fréttina um það, spratt þegar upp og gekk inn að Arnarstapa, tók bróðursyni sína undir sína hönd hvorn, fleygði Rauðfeldi niður í Rauðfeldsgjá í Botnsfjalli og Sölva fram af Sölvahamri, og létu þeir báðir líf sitt. Munnmæli síðari tíma bæta þriðja bróðurnum við, Þóri, er hann hafði fleygt fram af Þórishamri í Hamrendafjalli. Síðan átti Bárður illskipti við Þorkel, bróður sinn, og beinbraut hann, og skildust þeir bræður með fullkomnum fjandskap, en Þorkell flutti úr héraðinu. Eftir þetta gerðist Bárður “bæði þögull ok illr viðskiptis, svá at menn höfðu engar nytjar hans síðan”. Hann skildi það sjálfur, að hann bar „eigi náttúru við alþýðu manna”, og tók það ráð að hverfa úr mannheimum og gerast dularvættur. Þá komst aftur jafnvægi á skapferli hans, máske svo að risaeðlið hefur sætt manninn og tröllið í honum. Hann sættist við Þorkel, bróður sinn, og varð hollvættur héraðs síns.”

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Keldnalandi eru tekin saman af Halldóri Vigfússyni laugardaginn 27. ágúst 1949 í viðræðum við við Björn gamla Bjarnarson (93 ára) í Grafarholti. Þar kemur m.a. fram staðsetning á hringmyndaðri rúst er nefnd hefur verið Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft.
Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi“. Helgusel í Helguhvammi neðan við Helgufoss undir Bringum heitir einnig eftir henni. Auk þess Helguhóll í Viðey og Helgusker í Kollafirði. Helgustekkur hefur verið látinn óáreittur og er nú við göngustíg er liggur aftan (austan) við háu fjölbýlishúsin við Frostafold. Fleiri minjar, sem minnst er á, má enn sjá í Keldnalandi.

Helgusel

Helgusel – upplýsingaskilti í Bringum.

Við Helgusel í Bringum er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.: „Hér í svonefndum Helguhvammi eru rústir Helgusels. Landssvæðið og selið tilheyrðu prestsetrinu á Mosfelli á fyrri tíð og var selið notað á sumrin til að mjólka lambær og framleiða mjólkurafurðir, t.d. smjör og skyr.
GöBringur-6mul munnmæli herma að Helgusel sé kennt við Helgu Bárðardóttur, en frá henni segir í Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga yfirgaf mannlegt samfélag og eigraði um landið eins og segir í sögunni: „Litlu síðar hvarf Helga þaðan í burt og fór víða um Ísland og festi hvergi yndi. Var hún og alls staðar með dul, en oftast fjarri mönnum.“
Fleiri örnefni tengjast Helgu á þessum slóðum, Helgufoss blasir við okkur og hér við ána er grjóthóll, sem heitir Helguhóll (einnig nefndur Hrafnaklettur). Þar á að vera Huldufólksbyggð og segir sagan að helga Bárðardóttir hafi horfið í hólinn í elli sinni og ekki komið út síðan.”

Helgustekkur

Helgustekkur í Grafarvogi.

Helgustekkur er á grænu svæði sem er á milli húsana Frostafoldar 14 og 18 og Jöklafoldar 23-33. Svæðið er grasi gróið. Um hann segir í Örnefnalýsingu: “Á hábungunni beint vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti nyrst á Geldinganesi. Einnig. „Skrýtilegt er það, að vestast á Viðey er klettadrangur sem heitir Helguhóll eða Helguklettur, og Helgusker er í Kollafirði.”

Heimildir:
-Mosfellingur, 8. tbl. 22.05.2014, Stofnun fólkvangs í landi bringna í Mosfellsdal, 18.6 hektarar við Helgufoss, bls. 12.
-Helgafell, 8.-10. tbl. 01.12.1942, Undir Jökli, Ólafur Lárusson; Ýmislegt um Bárðar sögu Snæfellsáss, bls. 337-348.
-Helgafell, 1.-3. tbl. 01.01.1943, Undir Jökli, Ólafur Lárusson; Ýmislegt um Bárðar sögu Snæfellsáss, bls. 51-62.
-http://www.keldur.hi.is/um_ornefni.htm?detail=1003119&name=frettasida
-Örnefnskrá Halldórs Vigfússonar yfir Keldur, eftir frásögn Björns Bjarnarsonar. (Ö.Keldur.1).
-Örnefnastofnun. Keldur. H.V. Skráð 1949. Örnefnastofnun Gufuness.
-Fornleifaskrá Reykjavíkur, Bjarni F. Einarsson, 1995.

Helgusel

Helgusel.

Engjaborg

Engjaborg var landamerki milli jarðanna Kópavogs, Digraness, Fífuhvamms og Arnarness.
Borgin er við endann á Lindasmára 59 og 57. Við hana er skilti það, sem sjá má hér að ofan.

Engjaborg

Engjaborg.

Engjaborgin var stutt fyrir vestan býlið Smárahvamm, en það var nýbýli frá Fífuhvammi. Á þessum stað fundust tóftir af fjárhúsi og heygarði, sem líklegast er að hafi tilheyrt Fífuhvammsjörðinni, þar sem Smárahvammur er ekki byggt sem nýbýli fyrr en árið 1940, en tóftirnar töluvert eldri en það. Rústin er hringlaga með 2-3 m breeiðum veggjum og út frá henni ganga leifar gerðis sem er um 1 m. á breidd og 0.3 m á hæð.

Í Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð frá árinu 2019, segir um Engjaborgina:

Engjaborg

Engjaborg – uppdráttur.

Rúst (fjárborg) og gerði (Engjaborg):
7,5 x 8 m (A – V). Veggir úr grjóti og torfi, 2-3 m breiðir og 0,3 – 0,9 m háir.
Dyr eru hugsanlega mót suðri.
Í NA hluta rústarinnar er hæðarpinni úr kopar steyptur niður í steypt rör. Eitthvað hefur verið fiktað við rústina í seinni tíð.
Út úr suður hluta rústarinnar gengur gerði, ca. 4 x 5 m (NNA – SSV). Vestur hlutinn er greinilegur og þar er veggur úr grjóti og torfi, ca. 1 m breiður og 0,3 m hár. Austur hluti gerðisins er ógreinilegur og þar virðist vera grafið niður.
Skv. örnefnalýsingu var hér fjárhús og heygarður. Einnig kemur fram að staðurinn er á landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness. Þessi staðreynd og nafnið Engjaborg gæti bent til þess að hér sé um fjárborg að ræða og/eða að hér hafi beitarhús staðið einhverntíman (þau liggja gjarnan á eða nálægt landamerkjum).

Heimild:
-Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð, Fornleifafræðistofan, Bjarni F. Einarsson – 2019.

Engjaborg

Engjaborg.

Leiran

Í Lesbók Jólalesbókar Morgunblaðsins 1984 segir Guðmundur A. Finnbogason frá Leirunni:

Morgunblaðið

Jólalesbók Morgunblaðsins árið 1984.

“Sjávarpláss á Suðurnesjum, sem eitt sinn slagaði uppí Keflavík — þyrping fátæklegra býla með ofurlitlar grasnytjar, en lífsbjörgin kom umfram allt úr sjónum. Nú býr þar enginn, — bærinn á Stórhólmi stendur einn eftir, en þotur koma í lágflug inn yfir þessa grænu vin, þar sem Suðurnesjamenn koma nú saman í frístundum til að leika golf.
Þegar nútímafólk ekur veginn úr Keflavík og vestur í Garð eða útá Garðskaga blasir Leiran við á hægri hönd. Hér var áður fyrr sjávarpláss með útræði og mörgum smábýlum, sem stóðu á undirlendinu, sem verður þarna. Nú er fátt til minja um þá hörðu lífsbaráttu, sem þar var lifað. Engin kot standa þar lengur; ekki heldur bátar í vörum, en þess í stað má sjá vel búna kylfinga leika kúlum sínum fram og aftur um golfvöllinn, sem Keflvíkingar hafa lagt og ræktað með miklum glæsibrag í Leirunni. Þetta er tímanna tákn. Þar fyrir er óþarft að gleymist, að í sumum af þessum lágu kotum, sem nú sést ekkert eftir af, uxu dugandi menn úr grasi: Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður til dæmis og bræður hans. Menn komu þangað langt að fótgangandi til sjóróðra og fátæktin var fylginautur þeirra sem kusu sér búsetu þar.
Sjaldan er logn í Leiru — og þegar hann blæs að norðan, hellast brimskaflarnir uppá klappirnar og inní vörina og sýna hvað lendingin gat verið varasöm. Um miðja síðustu öld voru meira en 100 manns, sem töldust eiga heimili í Leiru og kotin stóðu engan veginn öll á graslendinu hjá Stóra-Hólmi, heldur á víð og dreif um grýtta fláka, sem verða vestur af Leirunni og standa tóftirnar eftir. Af lífsbaráttunni þar fara litlar sögur.

Landnám Steinunnar gömlu
Leiran
Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur. Síðan fer engum sógum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51. Á Stóra-Hólmi tóldust 23 til heimilis; þar af fern hjón í húsmennsku. Á Litla-Hólmi voru 6 manns í heimili, sjö í Hrúðunesi og 15 á Gufuskálum. Í bændatali á Suðurnesjum 1735 eru skráðir 6 bændur í Leiru, en 13 býli voru þar árið 1801 og íbúarnir 74. Eitthvað hefur árferðið í Leiru ekki verið sem best á fyrriparti síðustu aldar, því býlum fór fækkandi og voru aðeins 6 eftir í byggð árið 1836. Þá brá svo við, að nýtt líf færðist í plássið; býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Þessi býli voru í byggð: Hrúðunes (heimajörð), Melbær (tómthús), Stóri-Hólmur (heimajörð), Ráðagerði, Garðhús, Kötluhóll, Nýlenda, Bakkakot og Litli-Hólmur, er öll voru hjáleigur frá Stóra-Hólmi, Gufuskálar (heimajörð) og Vestur-kot, hjáleiga frá Gufuskálum.
Stóri-Hómlur
Fjölmennasta heimilið var sem áður Stóri-Hólmur. Tíu árum síðar hafði íbúum í Leirunni fjölgað og voru þeir nú orðnir 103 og nú voru bæjarnöfnin orðin 13 og tvö þeirra ný, Krossabrekka skammt frá Nýlendu og Kóngsgerði skammt frá Gufuskálum.
Næstu árin stendur íbúatalan í Leirunni næstum í stað frá því sem hún var 1845. Voru tveir búendur á sumum býlunum og enn var mannflest á Stóra-Hólmi.
Árið 1855 voru Keflavíkurbúar 153 að tölu og höfðu þá 47 manns yfir Leirubúa. Upp frá því fer Keflvíkingum fækkandi en Leirubúum fjölgandi. Árið 1870 eru Keflvíkingar 130 en Leirumenn 138 og þá voru bændabýlin í Leirunni 16 að tölu frá Hólmsbergi talið út Leiruna.
Á Hólmsbergi (Leirubergi) hafa með vissu 15 manns orðið úti á tímabilinu 1785 til 1894, í allflestum tilfellum karlmenn, sem voru á ferð frá Keflavík út í Leiru eða Garð að kvöld- eða næturlagi, oft í vondum veðrum og margir undir áhrifum áfengis.
Þegar ég var unglingur heyrði ég um það talað að reimt væri í Berginu og eitthvað hefur hinn landsþekkti Símon Dalaskáld vitað um draugana á Hólmsbergi, eða Leirubergi er hann nefnir svo. Bendir eftirfarandi vísa hans til þess.
Þó að æði eldingar
og ramskæðir smádjöflar
ég mun hræðast ekki þar
úti á svæði Leirunnar.

Nær allir áttu fleytur
Leiran
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þaðan var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertiðirnar voru þó almesti sjósóknartíminn og oftast allra besti fiskitíminn.
Úr Leirunni var oft á tíðum hægt að sækja til fiskjar á bæði borð, þegar frá landi var á flot komið og þá ekki síður mátti sækja fram af landsteinunum út í Leirusjóinn, sem einatt var gjöfull þegar netafiskur gekk inn á grunnmiðin á vetrarvertíðum frá mars til maí. Eins gátu Leirumenn sótt innar í Flóann, inn á Njarðvíkurleir og Njarðvíkurbrúnir, inn undir Stapa, Voga og Strandarbrúnir. Var það helst þegar fiskur var genginn hjá í Leirusjó og lagstur þar inn á leir og brúnum. Svo var það Garðsjórinn, hinn næstum því ótæmandi aflasjóður (áður en erlendu togararnir komu), er einatt mátti leita til jafnt vetur, sumar, vor og haust.
Leiran
Hann hafði oftast eitthvað gott að gefa bótt misjafnt væri að magni. Voru gæðin einatt þau sömu, glæný ýsa, koli, lúða, steinbítur og svo framvegis.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni. Á þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufuskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum en færri af öðrum. Leirubændur og hjáleigumenn áttu nær allir árafleytur til sjósóknar — þó ekki allir vertíðarskip. Voru þeir er smærri fleyturnar áttu þá vetrarvertíðarsjómenn á stærri skipunum. Einstöku réru þó árið um kring á sínum bátum, 2—4 manna förum.
Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan. Það mun hafa verið á síðustu tugum sl. aldar, að stærri útvegsskip af Álftanesi og Seltjarnarnesi fóru að heiman suður í Leiru. Þar var oft á tíðum meiri aflavon og styttra að sækja á fiskimiðin. Þessir bændur áttu sín fiskibyrgi og sumir verbúðir í Leirunni (ef verbúðir skyldi kalla). Sumir hverjir fengu inni með sig og sína skipshöfn á bæjunum þar í Leirunni. Meðal þeirra er hýstu Innnesinga á vetrarvertíð voru hjónin í Ráðagerði, þau Gísli Halldórsson og Elsa Dórothea Jónsdóttir, foreldrar hins landsþekkta hagyrðings Ísleifs Gíslasonar, kaupmanns á Sauðárkróki.

Sofið á þangi milli rúmanna
Leiran
Dóróthea Gísladóttir, dóttir þeirra hjóna, sem fæddist í Ráðagerði 1886 og ólst þar upp, varð háöldruð kona, dó á miðjum tíræðisaldri, gáfuð og minnug. Hún sagði mér að þegar hún var telpa í foreldrahúsum hefði skipshöfn af Innnesjum haft viðlegu á heimili foreldra hennar í Ráðagerði. Þar svaf heimilisfólkið í baðstofu í rúmum sitt til hvorrar handar en dálítið gangpláss á milli rúmanna. Á því gangplássi- fékk aðkomuskipshöfnin svefnpláss. Ekki var um annað pláss að ræða á þeim bæ. Þang var látið á gólfið á milli rúmanna. Sváfu sjómennirnir á þanginu en höfðu teppi eða brekán ofan á sér. Á daginn var svo þanginu ýtt með fótunum undir rúmin — tekið svo fram að nýju á kvöldin.
Stóra-Hólmsbændur fengu oft góða hrognkelsaveiði í Hólmósnum. Þar fékkst og síld í lagnet. Allur reki undir Hólmsberginu tilheyrði Stóra-Hólmi. Var Helguvík besti rekastaðurinn. Rak þar oft mikið á stríðsárunum og lengur. Fuglatekja var og nokkur í berginu — mest svartfugl.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1930 voru aðeins 5 bændabýli eftir í Leirunni í byggð, en það voru: Bakkakot, Litli-Hólmur, Stóri-Hólmur, Lindarbær og Vesturkot og íbúarnir alls ekki nema 33. Síðan fór býlunum enn fækkandi þar til eftir var orðið aðeins eitt. Var það hið forna býli Stóri-Hólmur er þar stóð enn í byggð 1960.
Síðasti bóndinn í Leirunni bjó á Stóra-Hólmi sem og hinn fyrsti. Aldir, ár og dagar voru á milli Steinunnar gömlu sem fyrst var ábúandi og Kjartans Bjarnasonar sem var þeirra síðastur og margt hafði gerst í Leirunni á því tímabili, bæði til sjós og lands og aldrei fékk hún Steinunn að fylgjast með golfmóti á heimatúninu sínu.
Kjartan Bjarnason síðasti bóndinn á Stóra-Hólmi er Dýrfirðingur að ætt og er nú 86 ára að aldri. Hann og kona hans tóku við búskap á jörðinni 1936 og bjuggu góðu búi í röska tvo áratugi.
Í dag eiga tveir synir Kjartans heima á Stóra-Hólmi en hafa engan búskap þar.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. Jólalesbók 22.12.1984, Leiran, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 33-34.
Leiran

Straumur

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 fyrir Hvaleyri og Straum segir:

“Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta (bærinn er frá 1777).

Hvaleyri er ein af elstu bújörðum í Hafnarfirði og sýndi fornleifarannsókn, sem Dr. Bjarni F. Einarsson gerði árið 2005, að þar væru minjar sem hægt var að segja með 95% öryggi að væru frá tímabilinu 780-980 (líklega voru minjarnar frá því um 900) og að landnámsbýli megi finna á Hvaleyri eða Hvaleyrarholtinu.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

Elstu heimildir um Hvaleyri er að finna í Hausbók Landnámu en þar segir frá því að Hrafna Flóki hafi fundið hval á eyri einni og kallað hana Hvaleyri. Í Jarteinabók var Teitur bóndi
sagður búa á Hvaleyri 1300-132511 og árið 1395 var Hvaleyri eign Viðeyjarklausturs og var leiga til klaustursins 4 hndr.12 Þá sagði í vitnisburði Hafliða Gizurarsonar um landeign og landamerki Hvaleyrar við Hafnarfjörð frá 1448 að á Hvaleyri hafi verið kirkja.

Hvaleyri

Hvaleyri í dag – 2021.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 sagði að á Hvaleyri hafi verið hálfkirkja og embættað þaðan þrisvar á ári. Þá var jörðin í konungseign og jarðadýrleikinn óviss þar sem jörðin tíundaðist engum. Þá var landskuldin eitt hundruð sem greiddist með sex vættum fiska í kaupstað, sem áður greiddist til Bessastaða. Til forna hafði landskuld verið greidd í fríðu með einum hundraðasta. Jörðin átti selstöðu þar sem hét Hvaleyrarsel, þar voru hagar sæmilegir og vatnsból gott. Hrísrif var nokkurt á jörðinni en þegar Jarðabókin var skrifuð var það að mestu eytt en að öðru leyti hafði jörðin hrísrif til eldiviðar í almenningnum og til kolagerðar.

Hvaleyri

Hvaleyri 1942. Hermannvirki áberandi.

Torfrista og stunga var í lakasta lagi og nærri ónýt en lyngrif, fjörugrastekja og rekavon var nokkur. Jörðin gat nýtt bæði hrognkels- og skelfiskfjöru og heimræði var allt árið um kring og lending góð og gengu skip ábúenda eftir hentugleikum. Þá var sagt að túnin spilltust af sandágangi, engar engjar fylgdu jörðinni og vatnsból var ekki gott en það þraut bæði vetur og sumar. Þá var hjáleigan Hvaleyrarkot, sem var byggð eftir að hafa verið í eyði svo lengi sem menn mundu, aftur komin í eyðu fyrir þrem árum, þ.e. árið 1700.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Árið 1730 voru Hvaleyrartún stórskemmd af grasmaðki og einnig herjuðu sandfor og fugl á þau. Mikill lausamosi var í túninu og hélt það áfram að skemmast, árið 1751 varð að slá tveimur vættum og einu kúgildi af afgjaldi jarðarinnar hvort sem það hefur eingöngu verið landskemmdunum að kenna.
Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og var líklegt að það var ein ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust.16 Í Jarðatali Johnsens frá 1847 segir í skýringum að árið 1803 séu á Hvaleyri fjórar byggðar hjáleigur: Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir. Í jarðatalinu fær Hvaleyri númerið 168, þar segir að jörðin hafi verið í bændaeign, dýrleikinn var 20 hundruð, landskuldin var 0,100, kúgildin voru 2 og eigandinn var einn.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Árið 1815 keypti Bjarni riddari Sívertsen jörðina af konungi og síðan keypti Jón Illugason snikkari jörðina árið 1834 af dánarbúi Bjarna. Jón Illugason seldi svo jörðina til Jóns Hjartarsonar í Miðengi í Árnessýslu og við andlát Jóns tók ekkja hans, Þórunn Sveinsdóttir, við Hvaleyri. Þórunn gaf svo Sigríði frændkonu manns síns mestan hluta jarðarinnar árið 1868.
Jörðin var svo seld séra Þórarni Böðvarssyni í Görðum árið 1870 og gaf hann jörðina til stofnunar alþýðu- og gagnfræðiskólans Flensborg í Hafnarfirði árið 1881.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði og var einn við Hvaleyrartjörn, hét hann West end. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þeim tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi Breta var á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1972.

Vitað er með vissu hvar síðasti Hvaleyrarbærinn stóð en hann var rifinn í kringum 1970 og líkur eru taldar að hann hafi verið nokkurvegin á sama svæði í gegnum aldirnar.
Þó er ekki hægt að staðsetja hvar kirkjan með kirkjugarði hefur staðið og ekki hægt að sjá það í landinu í dag. Í heimildum segir að kirkjan hafi staðið norður af Hvaleyrarbænum án þess að það sé staðfært eitthvað nánar. Hvaleyrarkirkju var fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar af kirkjunni og gripum hennar: í eldri lýsingunni frá 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum, sem þýðir að hún var á bilinu 5,7 – 6,8m að lengd og 2,85–3,4m að breidd.
Hvaleyrarbænum og svæðinu í kring var lýst í Örnefnalýsingu Hafnarfjarðarlands:

Hvaleyri

Hvaleyri – Hvaleyrarbærinn. Baðhús h.m.

„Hvaleyrarbærinn stóð í miðju Hvaleyrartúni, rétt norðan við byggingu fjóss og hlöðu er þar var reist 1916. Bærinn stóð þar á hrygg er lá sunnan úr holtinu. Hvaleyrartraðir lágu í suður frá bænum að Hvaleyrartúngarði. Túngarðurinn lá austan eða neðan frá tjörn vestur og niður undi sand og norðvestur í Hvaleyrarkletta. Traðargarðurinn eystri og vestri lágu meðfram tröðunum. Sunnan frá Traðarhliði lá þríhyrnd túnskák norður að Brunngötunni er nefndist Pétursvöllur með Pétursvallagarði. Suðurvöllur er utan hans og sunnan. Hestasteinninn stóð á hlaðinu. Hvaleyrarfjárhúsin stóðu hjá Bæjarhólnum nyrðri. Bæjarhólarnir voru gamlir öskuhaugar. Sandbrekknatún lá niður frá Túngarðinum vestri og skiptis í Sandbrekknatúnið syðra og nyrðra. Kirkjugarðurinn var norður frá bænum til hliðar við fjárhúsin.“

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Guðmundur Guðmundsson smiður sem bjó í Vesturkoti á Hvaleyri fann þar heila mannsbeinagrind með föður sínum þegar hann var unglingspiltur í kringum 1890. Þar fannst einnig krítarpípa, greiðugarður, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru svo grafin aftur ofar í túninu.23 30 árum seinna, eða um 1925, fundust aftur mannabein á Hvaleyri af Magnúsi Benjamínssyni bónda í Hjörskoti á Hvaleyri. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður rannsakaði beinin og taldi sennilegt að þetta væru bein sjórekinna manna sem fundist hefðu á Hvaleyri. Matthías taldi að ekki væri þörf á því að varðveita beinin á Þjóðminjasafninu en þau voru grafin í kirkjugarði Hafnarfjarðar.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var að til ársins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekinn í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsum sem stóðu í Vesturkoti.

Hvaleyri

Hvaleyri – leifar skotbyrgis.

Mikið hefur verið átt við landslagið á Hvaleyri vegna golfvallarins, það hefur verið sléttað og átt við það vegna ýmissa framkvæmda og flest ummerki um byggðina sem áður var horfin. Þessvegna verður að sýna fyllstu varúð við allar framkvæmdir sem þar eiga sér stað en stutt getur verið niður á fornminjar.
Enn sjást þó nokkur ummerki um byggðina, túngarðar og útihúsatóftir, og veita þessar minjar góða, en brotakennda, sýn á hvernig lífshættir voru á Hvaleyri á fyrri öldum.
Ummerki eftir breska herinn, ýmis skotbyrgi og skotgrafir, flokkast undir stríðsminjar og eru enn vel sjáanlegar, t.d. er uppistandandi þvottahús frá stríðsárunum mjög áberandi í landslaginu, og ætti að varðveita þessar minjar.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Á Hvaleyrarhöfða er að finna stóran stein og nokkrar klappir með áletrunum, bæði rúnir og latínustafir, sem voru friðlýstar árið 1938.25 Jónas Hallgrímsson var líklega fyrstur til að rannsaka klappirnar árið 1841 og vildi hann eigna Hrafna-Flóka og skipshöfn hans elstu risturnar í klöppunum og hefur stærsti steinninn verið kallaður Flókasteinn (2202-7) síðan.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á 18. öld. Hvaleyri fjær.

Kristian Kålund minntist á Hvaleyri í drögum að staðsögulýsingu Íslands árið 1877 og sagði þar að hægt væri að lesa ártölin 1628 og 1777. Kålund sagði einnig að „almennt sé haldið að verslunarmenn, sjómenn og aðrir, sem leið hafi átt þar hjá, hafi gert risturnar.“27 Sigurður Skúlason minntist einnig á steinana í Saga Hafnarfjarðar og sagði hann steinana vera fjóra talsins. Á fletinum á Flókastein sá hann ártölin 1657 (á þrem stöðum), 1673, 1681, 1697 og 1781, auk þess að sjá töluna 87 sem gæti annaðhvort þá verið 1687 eða 1787.

Hvaleyri

Leifar Fjarðarkletts GK 210 í Hvaleyrarfjöru.

Á hliðum steinsins sá hann einnig þessi ártöl: 1678, 1681, 1707 og 1723, auk þess stóð þar A 81, A 91 og 17C. Leiddi hann að líkum að þar var verið að meina Anno 1681, Anno 1691 og 1700.28 Ómögulegt er að segja hversu gamlar risturnar á klöppunum eru með vissu en líklegt þykir að ártölin sem rist hafa verið á þær á þeim árum.
Eitt flak var skráð á vettvagni við vestanverðan Hvaleyrarhöfða. Líklega er þetta flak Fjarðarkletts GK 210. Skipið var smíðað í Svíþjóð 1946 úr eik og hét fyrst Ágúst Þórarinsson SH 25. 1953 keypti Fiskaklettur H/f skipið og nefndiþað Fjarðarklett. Eldur kviknaði í skipinu skammt út af Eldey árið 1967 og skemmdist skipið mikið við það en sökk ekki, eftir það lá skipið lengi í höfn í Hafnarfirði og endaði svo daga sína með því að það var brennt út af Hvaleyri og rak þaðan í land. Árið 1970 var skipið talið ónýtt og tekið af skrá.
Samkvæmt 3. grein laga um menningarminjar teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 sem fornminjar.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

Straumur er ein af svonefndum Hraunjörðum, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.
Jarðarinnar var getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Straumssel

Straumsel – hús skógavarðar.

Næst var jarðarinnar getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir. Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og var ekki talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðin sögð í bændaeign, dýrleikinn var 12½ , landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landmerki fyrir jörðina Straum:

Markhella

Markhella – áletrun.

Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi [Markhellu].
Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstað byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsivíkurland tekur við (Undirritað í Straumi 31. maí 1890).”

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
Fornleifaskrá Hafnarfjarðar IV; Hvaleyri og Straumur, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-IV-Hvaleyri-2021.pdf (byggdasafnid.is)

Straumsvík

Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Hamarskot

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2020 segir frá Suðurbæ:

“Hamarskot

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Elsta heimild um Hamarskot er frá 1565 en það skjal segir frá byggingu jarða Garðakirkju á Álftanesi, þar segir að Hamarskot sé „bygt fyrer iij vætter fiska. Vallarslätt. Med jördunne j kugillde“.
Í annarri heimild frá 1579 segir að jörðin hafi fyrir allöngu verið komin í eign Garðakirkju.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Hamarskot að jarðadýrleiki sé óviss því að jörðin tíundast engum. Jörðin var þá enn í eigu Garðakirkju og ábúandinn var Jón Arason. Landskuldin var lx álnir sem borgaðist með iii vættum fiska. Heimilismenn voru sex og kvikfénaður var tvær kýr og einn kálfur. Hamarskot átti selstöðu nærri Sléttahlíð sem kallaðist Hamarskotsel. Torfrista og stunga lök og lítil, lyngrif var nokkurt og móskurður til eldiviðar var slæmur. Engar engjar fylgdu jörðinni.

Hamarskot

Hamarskot – uppdráttur 1925.

Hamarskot var að einhverju leiti sama jörð og konungsjörðin Akurgerði sem var seld 1804, þá í eyði. Kaupstaðurinn í Hafnarfirði mun hafa byggst í landi Akurgerðis en þar var ekki aflað til heys 1803 vegna þess að verslunarhúsin stóðu í slægjulandinu.
Í jarðatali Johnsens frá 1803 fékk jörðin númerið 172, þar segir að jörðin sé í Garðakirkjueign, landskuldin sé 0,4, kúgildið sé eitt og einn leiguliði. 1854 var jörðin kirkjujörð hjá Görðum og var landskuldin 40 álnir, 1 kúgildi og leigur þar af 20 pd. smjörs.
Til eru úttektir á húsakosti Hamarskots frá 1818, 1822 og 1823. Sigurður Skúlason tók saman úttektina frá 1818 og lýsir húsakostinum svona:

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

„Af húsum eru hér talin: Baðstofa, búr, eldhús, göng milli baðstofu og bæjardyra og fjós.
Baðstofan var í þrem stafgólfum, rúmar 8 álnir á lengd og 3 ½ alin á breidd. Hún var með „tilhlýðilegri grind, 4 sperrum, þar af eitt höggsperra, þremur bitum, syllum, stöfum hvar af 4 eru hálfir og standa á moldarþrepi.“ Baðstofan var léleg, því sagt er, að veggir og þak hennar sé fallið. Fyrir henni var hurð á hjörum.
Búrið var einnig hrörlegt. Það hafði við síðustu úttekt verið í þrem stafgólfum, en skyldi nú stytt um eitt stafgólf. Var áætlað að það mundi gera sig sjálft upp að viðnum, en það væri minnkað þetta mikið. Hefir eftir því að dæma nálega þriðjungurinn af viðnum í búrinu verið ónýtur af fúa. Fyrir framan var standþil og hurð á hjörum.
Eldhúsið var tvö stafgólf á lengd, stæðilegt að viðum og veggjum, en þakið var rotið og moldrunnið.
Bæjargöngin voru 5 faðma löng, þar af 2 faðmar undir grind, hitt með þrem sperrum og bitum, er stóðu á veggjum. Fyrir framan þau var þil með hurð á hjörum. Göngin voru vel upp gerð að viðum og veggjum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902.

Fjós fyrir tvær kýr átti að fylgja jörðinni, en það var fallið að viðum, og stóðu ekki uppi nema veggirnir.17 Fleiri húsa er ekki getið á jörðina 1818.
Húsakosturinn í Hamarskoti hrörnaði mikið á næstu árum og 1823 var t.a.m. búið að stytta baðstofuna um 1 alin og veggirnir í henni allir fallnir að innan.
Sigurður Þorláksson fluttist að Hamarskoti 1897 og lýsti kotinu í bók sinni Gamlar Minningar:
„Hamarskot var torfbær, veggir hlaðnir úr torfi og grjóti og torf þak, timbur stafnar, og 1 gluggi á hvorum. Baðstofan var þrjú stafgólf að stærð eð 9 álnir, með skarsúð og timburgólfi, dyragangur og eldhús þar innanaf með hlóðum, svo var geymsluhús þar við fyrir eldivið annað slíkt. Í baðstofunni voru 5 rúm, svo var þar smá eldavél kamína eins og það var kallað. Fyrir framan suðurgablinn var kálgarður, 150 fermetrar að stærð og var það nægilegt fyrir heimilið, suðvestur af garðinum var brunnur með ágætu neitsluvatni […].“
Samkvæmt manntölum var búið á Hamarskoti fram til ársins 190621 og þegar Magnús Jónsson skrifaði bók sína Bær í byrjun aldar árið 1967 voru „löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð“.
Bærinn mun hafa staðið á svipuðum stað og nú er norðurendi Brekkugötu, en eftir að hann var rifinn stóð um árabil fjós þar sem suðurálma Flensborgarskólans er, en það er líklega húsið sem sést á meðfylgjandi uppdrætti Jóns Víðis af Hafnarfirði frá 1925-26.

Hamarskot

Hamarskot – loftmynd 1954.

Í fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918 var jörðinni og húsakosti lýst svona:
“Gripa og heygeymsluhús. Eigandi: Árni Björnsson prófastur í Görðum.
Stærð á húsinu 6,50 x 4,40m. Hæð 1,50m með risi, bygt úr torfi og grjóti. Þak: járn á langböndum notað til heygeymslu. Gripahúsastærð: 6,50m x 3,80m, hæð 2m. Með vatnshallaþaki bygt úr torfi og grjóti, einn veggur og þak úr timbri járnvarið.
Virðing: 1. Heygeymsluhús og gripahús Kr. 700,00. Samtals Kr. 700,00.
Hamarskotstún. Eigandi: Kirkjujarðarsjóður leigir eignina afgjaldið gengur til Sóknarprestsins á Görðum. Stærð lóðarinnar er e.9 dagsláttur. Öll girt með grjótgarði og við á stólpanum. Ræktuð í tún og notuð til matjurta. Gefur af sér í meðal ári 70 töðu og 8 af jarðávexti.“
Ekki er til túnakort af Hamarskoti.
Það voru 14 minjar skráðar á landi Hamarskots en þar af tengjast þrjár eiginlegum búskapi að Hamarkskoti, það eru útihús (2541-8), (2541-12) og (2541-13). Líklega eru þetta sömu tóftir og minnst var á í handritinu Hús og bæir í Hafnarfirði en þar var sagt að „tættur voru ofarlega í túninu og hygg ég að þær hafi verið útihús, en engin gripahús voru uppistandandi þegar við komum í kotið.“

Hamarinn

Hamarinn.

Einnig er á Hamarskotshamri ummerki eftir grjótnámu en grjótið úr honum var nýtt í kjallara og undirhleðslur eldri húsa í bænum og við hafnarframkvæmdir. Einn þeirra sem unnu við það að kljúfa grjót úr Hamrinum var Jón Jónsson, faðir Emils Jónssonar fyrrum alþingismanns og ráðherra, og segir í minningargrein um Emil að „Lyftitæki voru engin, en Jón var „þrautseigur við grjótverkið og vann að því myrkranna á milli““.

Hafnarfjörður

Hamarinn.

Hamarskotshamar í Hafnarfirði var friðlýstur árið 1984 sem náttúruvætti og í friðlýsingunni segir að „Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd.
Hverskonar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema komi til séstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd Ríkisins], að planta þar trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.“
Þær minjar sem er að finna á Hamrinum njóta því verndar samkvæmt friðlýsingunni, en eru þó ekki friðlýstar sjálfar.

Dvergasteinn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.

Þrjár þjóðsögur voru skráðar á landi Hamarskots, þær eru draugur, dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju og álfasögur við Hamarskotshamar. Sagan um drauginn hljómar svona: „Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan.“
Kirkjugarður Hafnarfjarðar er nú á því svæði sem nefnist Öldurnar. Dvergasteinninn við Hafnarfjarðarkirkju fékk að vera í friði þegar kirkjan var reist árið 1914, enda boðaði það mikla ógæfa að skemma hann.
Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum.
Reykdalsstífla eða Hörðuvallastífla, var tekin í notkun árið 1906 og var í eigu Jóhannesar Reykdals. Hann reisti fyrstu almenningsrafveitu Íslands árið 1904 og var rafstöðin við Austurgötu í Hafnarfirði. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að reisa Reykdalsstíflu og nýja rafstöð skammt frá. Vegna slyss sem varð við stífluna árið 2014 var lónið við stífluna tæmt og gerðar nokkrar breytingar á yfirfalli stíflunnar til að koma í veg fyrir að atvikið gæti endurtekið sig.

Jófríðarstaðir / Ófriðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðor á fyrri hluta 20. aldar.

Nafn jarðarinnar Jófríðarstaða hefur orðið fyrir afbökun en jörðin hét áður Ófriðarstaðir og kom nafnið Jófríðarstaðir fyrst fram í prestakallsbók Garðakirkju árið 1869. Breytingin hefur annaðhvort verið leiðréttingartilraun eða að mönnum hafi þótt Ófriðarstaðanafnið óviðfelldið, sbr. máltækið „að vera á Ófriðarstöðum“. Ein útskýringin er að þjóðsaga myndaðist um að á bænum hafi búið kona sem hét Ófríður en nafninu breytt í Jófríðarstaði.

Jófríðastaðir

Jófríðastaðir – loftmynd 1954.

Mögulega hefur nafnið verið kennt við einhvern ófrið en eina heimildin um orrustu sem á að hafa átt sér þarna stað fyrr á öldum er að finna í ritgerð Jóns Guðmundssonar lærða „Um ættir og slekti“ sem hann skrifaði 1688. Þar segir að forfaðir Jóns, Magnús Auðunarson ríki, hafi fallið á Ófriðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna“. Það á að hafa verið nokkru eftir miðja 15. öld.33 Sigurður Skúlason skýrir nafnið svona: „Mér þykir einna sennilegast, að nafnið Ófriðarstaðir tákni stað, þar sem allra veðra er von, sbr. bæjarnafnið Alviðra. Húsin á Ófriðarstöðum standa hátt; þar er vart skjól í nokkurri átt. Þetta er því tilfinningarlegra, þar sem veðursældin í Hafnarfirði er við brugðið, og oft er lyngt niðri við fjörðinn, þótt hvasst sé uppi á Ófriðarstöðum“.

Fyrsta heimildin um Ófriðarstaði er frá 1541, en þá nefnir Gizur biskup Einarsson nafn jarðarinnar í ráðsmannabréfi handa síra Oddi Halldórssyni. Svo var minnst á jörðina 1563 en þá höfðu Páll Stígsson höfuðsmaður fyrir hönd Danakonungs og Gísli Jónsson biskups vegna Skálholtskirkju makaskipti á nokkrum jörðum og konungur eignaðist Ófriðarstaði ásamt öðrum jörðum í Gullbringusýslu. Jörðin var þá metin á 10 hdnr.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Jarðeignir konungs voru svo skráðar í jarðabók frá tímabilinu 1583-1616, en þar segir að landskuld af Ófriðarstöðum sé fjórar vættir af fiski og þrjú leigukúgildi fylgi jörðinni. Árið 1639 var jörðin metin hálfu þriðja hundrað hærra en árið 1583, eða 12 ½ hdnr., og landskuld hennar var þá 150 fiskar, en það var 10 fiskum minna en landskuldin var talin í jarðabókinni frá 1583-1616. Jörðin hefur þá verið metin hærra en kúgildistalan var sú sama. Árið 1693 var dýrleiki jarðarinnar 12 ½ hdnr. en leigukúgildin ekki nema tvö því eitt þeirra hafði verið flutt að Straumi og landskuldin var 150 fiskar. Þremur árum síðar var allt við það sama.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – kort 1908.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir um Ófriðarstaði að jarðadýrleiki sé óviss og að jörðin hafi verið í eigu konungs. Leigukúgildin voru ennþá tvö og landskuldin var lxxv álnir. Hún greiddist með iii vættum og vi fjórðungum fiska í kaupstað, en áður heim til Bessastaða. Kvikfénaður var þrjár kýr, einn kálfur, níu ær, fimm sauðir veturgamlir, átta lömb og tvö hross. Heimilismenn voru níu. Jörðin átti selstöðu í heimalandi, þar voru hagar sæmilegir, en vatnsskortur mikill, og til forna mun bóndinn hafa neyðst til þess að færa selið að eða í Ásland, og fyrir það halda sumir að Áss hafi fengið skipastöðu í landi Ófriðarstaða. Þá var heimræði allan ársins hring og lendingin góð, skip ábúendans gengu eftir hentugleikum.
Árið 1804 keypti Bjarni Sívertsen jörðina og var hún þá 9 hdnr. og 36 álnir39 og í Jarðatali Johnsen frá 1847 fékk jörðin númerið 170 og er 12 ⅓ hdnr., landskuldin 0.75, kúgildi tvö og einn eigandi.
Búlandi Jófríðarstaða var skipt í hálflendur 1885, Jófríðarstaði I og II, og var jörðunum og húsakostinum lýst í Fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918:
Eigandi: Elín Jónsdóttir ekkja notar eignina sjálf. Eignirnar:
1. Íbúðarhús stærð 6,80 x 6,50m hæð 2,6m með risi. Byggt úr timbri og járnvarið. Því er skipt í: 3 herbergi og eldhús, þiljað panel.
Inngönguskúr stærð 1,60 x 2,65 hæð 3m með vatnshallaþaki byggður úr sama efni og húsið.
2. Útihús: Heyhlaða er tekur e. 180 hesta af töðu. Bás fyrir 2 nautgripi. Fjárhús fyrir er 140 fjár og hesthús fyrir 3 hross. Byggður úr torfi og grjóti þök úr timbri og járnvarið að mestu.
3. Jörðin (hálflendan) 4,8 ½ H: Túnið í allgóðri rækt gefur af sér 70 hesta af töðu. Girt með grjóti og við, matjurtagarðar gefa af sér 6 tunnur. Tekjur af byggingarlóðum er 200kr á ári.
Virðing:
1. Íbúðarhús m/viðbygg. Kr. 3500,00
2. Útihúsin Kr. 900,00
3. Jörðin Kr. 12000.00
Samtals Kr. 16400.00

Jófríðarstaðir

Jófriðarstaðir – Þóruklöpp.

Ekki er til túnakort af Jófríðarstöðum.
Kaþólska trúboðið í Hafnarfirði eignaðist svo jörðina 1924.
JófríðastaðirÍ örnefnalýsingu er bæjarstæði Ófriðarstaða lýst:
„Ófriðarstaðabær stóð í svolitlum slakka austur af Ófriðarstaðahól. Vestan bæjarins stóð Ófriðarstaðahúsið, eftir að það var reist, og tvíbýlt varð á jörðinni 1885. Ófriðarstaðatún var
allstórt, umgirt Ófriðarstaðatúngörðum. Austurtúngarður lá suðaustan og austan að túninu, norðurtúngarður bak við bæinn og vestur fyrir hól, en vesturtúngarður ofan frá hól niður að Ófriðarstaðalæk, sem rann niður með öllu Suðurtúninu. Á Ófriðarstaðahól var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum í kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist
Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki, því traðagarðana sér enn. […] Utan austurtúngarðs var ræktun, nefndist Nýjatún. Sagnir voru uppi um, að þar hafi verið kofi, sem Skáld-Rósa átti að hafa búið í, nefndist Rósukofi. Frá bæ norður lágu Norðurtraðir í norðurtraðahlið. Ásgatan lá frá traðarhliðinu suður með austurgarði að Ási, en frá hliðinu lá Ófriðarstaðastígur niður í kaupstaðinn.“

Þórukot

Þórukot (Klapparholt) og lóð, sem gefin var st. Jósepssystrum.

Tvær þjóðsögur voru skráðar á landi Ófriðarstaða og tengist önnur þeirra Þóruklöpp við Þórukot, sem stóð í nokkurnvegin þar sem leikskóli stendur í dag, sem dregur nafn sitt af síðasta ábúanda kotsins. Sagan segir að hún hafi selt St. Jósefssystrum jörðina undir spítalann með því skilyrði að ekki yrði hróflað við klöppinni sem er í bakgarði spítalans. Þóra mun hafa sagt við nunnurnar að „í klöppinni byggi álfkona sem hafði verið góður nágranni alla tíð“ og hafa nunnurnar virt þessa ósk hennar þar sem mannvirkin voru reist allt í kring um klöppina án þess að hróflað væri við henni. Túngarður tengist einnig Þórukoti og sést á uppdrætti af St. Jósefsspítala frá 1926.

Hin þjóðsagan tengist Jófríðarstaðahól, en hún segir frá manni sem klauf stein á hólnum til þess að nýta í kjallara á húsi sem hann byggði á árunum 1912-14. Þetta mun hann hafa gert þrátt fyrir að hafa heyrt sögur af álfabústaði í hólnum. Eftir þetta elti ógæfa manninn og á dóttir hans að hafa látist skömmu síðar.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III, Suðurbær, 2020; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-III-Sudurbaer-2020.pdf (byggdasafnid.is)

Beitarhúsaháls

Beitarhús við fyrrum selstöðu Jófríðarstaða í Beitarhúsahálsi.

Reykjanes

Í grein í Faxa árið 2008 skrifar Leó M. Jónsson um “Ökuferð um Hafnahrepp” og getur þar um skilgreininguna á “Hinu raunverulega Reykjanesi”, sem er að öllu leyti rétt, bæði skv. örnefnalýsingum og kortum fyrri tíðar:

Hið raunverulega Reykjanes

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginn er kenndur við. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnahrepp, Leó M. Jónsson, bls. 9.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.