Á göngu FERLIRsfélaga í heiðinni ofan Vatnsleysustrandar, millum Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, rákust þeir m.a. á fjórar nálægar tóftir á grónum klapparhrygg, á og við svonefnd Sauðholt.

Krummhóll – „vörðubrot“.
Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Kristján getur ekki um tóftir í Sauðholtum.
Framangreind lýsing skýrir margt enn óskýrt á þessu svæði, auk þess að nauðsynlegt var að skýra það um betur. Vörðubrotið á Krummhól sést enn, Vorkvíar voru afgirtur gróinn blettur ofan við Hellur í landi Minni-Knarrarvogs. „Grashóllinn gróni“ er reyndar austan Krummhóls. Á honum er gömul fjárborg. Lynghóll er langt farri í suðvestri. Lýsing Kristjáns er þrátt fyrir framangreint ágæt ávísun á Sauðholtin. Hún vakti áhuga á nánari könnun á vettvangi.

Knarrarnes – refagildra.
FERLIR gekk í framhaldinu með Birgi Þórarinssyni, húsbónda á Minni-Knarrarnesi, upp í heiðina á tilnefndu svæði. Birgir er þarna öllum hnútum kunnugur.
Eftir að hafa gengið að Digruvörðu, landamerkum Minni-Knarrarness og Ásláksstaða vestan yfir Vorkvíar og skoðuð tóft „brúsahússins“ við Gamlaveg ofan Hellu var staðnæmst við litla landamerkjavörðu á klapparhól ofan vegarins. Ljóst var að varðan sú var í sjónhendingu við Digruvörðu í línu upp heiðina að áberandi vörðu á Knarrarstaðaholti með beina stefnu í „Nyrðri-Keilisbróður“.

Minna-Knarrarnes – minnismerki um ítalskan hund.
Skammt austar var stölluð nútímavarða í lægð á millum skollóttra hraunhraunhóla. Birgir sagði að hann hefði leyft Ítala nokkrum, eftir hans þrábeiðni, að grafa dauðan hundinn hans þarna og auk þess að hlaða minnismerki hundinum til heiðurs. Birgir sagðist hafa verið fjarverandi þegar leyfið var veitt svo umfangið hafi komið honum á óvart er heim kom.
Haldið var áfram upp heiðina og staðnæmst við vörðubrotið á Krummhól. Auðljóst var að þarna hafði verið skjól refaskyttu fyrrum. Leifar af torfhlaðna skjólinu gáfu það til kynna, auk þess sem varðan virtist skjól fyrir skyttuna fyrir niðurkomu refsins beggja vegna ofanverðar klapparhæðar.

Krummhóll – „vörðubrot“.
Töldu viðstaddir líklegt, að fenginni reynslu, að hlaðna refgildru væri að finna í nágrenninu. Bæði var það vegna staðsetningar skjólsins með hliðsjón af landslaginu og tilkomu byssunnar á síðari tímum. Hafa ber í huga að refurinn hefur frá örófi alda fetað sömu slóðirnar fram og til baka eftir árstíðum. Forfeðrum vorum var kunnugt um það. Þeir hlóðu því gildrur í gegnum aldir á sömu slóðum og seinni tíma veiðimenn nýttu sér aðstöðuna með nýjum og nútímalegri áhöldum.
Eftir stutta göngu var gengið, að því er virtist fram á vörðubrot á klapparhrygg. Við nánari skoðun var þarna greinilega um forna hlaðna refagildru að ræða, þá 98. fundna og skráða á Reykjanesskaganum.

Minna-Knarrarnes – forn refagildra, óskráð, opinberuð um skamma stund.
Skv. Þjóðminjalögum má að vísu ekki hreyfa við fornleifum án heimildar Minjastofnunar, en þar sem reyndasti fornleifafræðingurinn á svæðinu var með í för, var ákveðið að sýna þátttakendum hleðslutæknina, innvolsið og lýsa tilgangi og tilurð þess fyrir viðstöddum. Að því loknu voru allir fyrrum steinar fjarlægðir ofan af innganginum, mannvirkinu lýst af nákvæmni, og steinarnir síðan settir nákvæmlega á sinn stað aftur.
Hlaðnar refagildrur eru mannvirki er komu hingað til lands með forfeðrum og -mæðrum vorum frá Noregi. Þær voru notaðar, sem fyrr sagði, allt umfram tilkomu skotvopna. Með tilkomu þeirra voru gildrurnar jafnan virkjaðar að vetrarlagi. Eftir því sem skotvopnin urðu algengari og betri lagðist gildrunotkunin af. Þeir síðustu manna er vitjuðu gildranna gengu illa um þær. Þeir rótuðu grjótinu ofan þeim án þess að laga til eftir sig. Þess vegna líta fornar refagildrur út líkt og fallnar vörður í augum nútíma fornleifafræðinga. A.m.k. hafa þær sjaldnast verið skráðar sem slíkar í nútíma fornleifaskráningum.

Refagildra – ÓSÁ.
Steinhlaðin refagildra felur í sér op, gang, farg, lokhellu og fyrirstöðu. Hér verður ekki eytt stöfum í að lýsa veiðiaðferðinni. Henni hefur áður verið lýst á vefsíðunni.
Skammt ofar var komið upp á Sauðholtin fyrrnefndu. Á þeim bar fyrir augu þrjár hlaðnar tóftir; fremst beitarhúsið framangreint, og ofar hlaðinn stekkur með aðtengdri tóft. Augljóslega var þarna um að ræða fyrrum heimasel frá Minna-Knarrarnesi, þrátt fyrir að minjarnar væru skráðar með Ásláksstöðum, næsta bæ að vestanverðu.
Stekkurinn og aðliggjandi tóft bárum þess merki að um heimasel hafi verið að ræða, væntanlega eftir að aflokinni selstöðinni í Knarrarnesseli ofar í heiðinni lokinni. Með breyttum búskaparháttum, tilkomu þéttbýlismyndunar og fækkun fólks í sveitum færðust selstöðurnar nær bæjunum. Það er reyndar saga út af fyrir sig, sem vel hefur áður verið tíunduð hér á vefsíðunni.
Selshúsin eru hefðbundin, með þremur rýmum. Grjóthleðsslur í veggjum sjást enn vel.
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ segir undir skráningu Ásláksstaða: „Beitarhústóft; Tvískipt tóft er um 1,2 km suðaustan við bæ. Tóftin er á flatlendi ofan/suðvestan við gróinn og nokkuð grösugan lautarbolla. Dálítil brekka er til norðurs frá tóftinni.
Tóftin er grjóthlaðin og tvískipt og snýr nálega norður-suður. Hún er um 8,5×6 m að stærð. Mesta hæð veggja er um0,5 m og sjást 2 umför hleðslu. Vesturhluti tóftar er gróinn og sést ekki í hleðslur þar. Hólf I er nyrst í tóftinni, það er um 5×2,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki virðist vera veggur fyrir austurhlið hólfsins og er það því opið til þeirrar áttar. Hólf II er samsíða hólfi I en ógreinilegra. Það er um 5×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sést op á því. Líklegt er að þarna hafi verið beitarhús en lag tóftarinnar, staðsetning hennar og fjarlægð frá bæ bendir allt til þess hlutverks.“

Minna-Knarrarnes – beitarhús.
Í fornleifaskráningunni fyrir Stærra-Knarrarnes segir: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum.- Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg. Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá. „Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær.

Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel). Beitarhús efst t.h.
Aðeins neðar á holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar finnum við lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hól,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Allar þær minjar sem að framan eru nefndar eru skráðar saman og fleiri til en vatnsstæðið fannst ekki. Heimildum kemur ekki saman um örnefnið Borg. Í örnefnaskrá er það sagt vera grasigróinn, toppmyndaður hóll, en í bókinni Örnefni og gönguleiðir er það sagt vera holt. Niðurstöður vettvangskönnunar eru að örnefnið Borg eigi við um fjárborg sem hefur verið breytt í stekk á einhverjum tímapunkti. Þessar minjar hafa bókstafinn C í nánar umfjöllun hér fyrir neðan. Minjarnar eru um 1 km sunnan við bæ. Minjarnar eru sunnarlega á löngu og háu holti sem snýr norður-suður.

Minna-Kjarrarnes – heimasel.
Minjarnar eru á svæði sem er um 55×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Nyrst á svæðinu er tóft A. Hún er grjóthlaðin en gróin. Hún er um 7×5 m að stærð, snýr suðaustur-norðvestur. Hún virðist vera einföld og er op á henni til norðvesturs. Mikið grjót hefur hrunið inn í hana og norðausturlangveggur hefur allur hrunið inn í tóftina. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega er þessi tóft sú sem sögð er „nýrri fjárhústóft“ í tilvísun hér að ofan eða beitarhús.

Minna-Knarrarnes – búr.
Um 40 m suðaustan við tóft A er gróin tóft B. Hún er einföld, um 4×4 m að stærð og er inngangur inn í hana úr austri. Mesta hæð veggja er um 0,5 m. Lítillega sést í grjót í norðausturhorni tóftarinnar. Til austurs frá tóftinni er greinilegur niðurgröftur eða renna sem virðist vera manngerð. Hún er um 6×3 m að innanmáli, snýr austur-vestur og mjókkar í austurenda. Mesta dýpt er um 0,3 m. Um 5 m austan við endann á rennunni er tóft C, meint stekkjartóft. Lögun tóftarinnar og örnefnið Borg bendir til þess að þarna hafi áður verið fjárborg. Annað dæmi um fjárborg sem virðist hafa verið breytt í stekk er t.d. Þórustaðaborg og Vatnabergsstekkur/Vatnaborg.
Tóftin myndar dálítinn hól og er orðin óskýr. Símastrengur hefur verið grafinn í gegnum hana og skemmt hana.

Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel).
Tóftin er nokkuð gróin þó enn sjáist í grjóthleðslur. Hún er um 9×12 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Hún skiptist í þrjú hólf en hólfin eru nefnd tóftir í tilvísun hér að framan. Hólf I er í norðvesturhorni. Það er um 1×3,5 m að innanmáli, snýr norður-suður. Inngangur er úr suðri. Hólf II er samsíða hólfi I. Það er um 1×2,5 m að innanmáli. Það snýr eins og hólf I og inngangur í það er einnig úr suðri. Hólf III er sunnan við hólf I og II og er um 4×1,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Mesta hæð tóftar er um 1 m. Mest sjást 2 umför í innanverðum hleðslum. Gróin en grýtt tota liggur úr tóftinni til austurs sem er um 4 m löng og um 2 m á breidd. Mögulegt er að rekstrargarður hafi verið þar og inngangur inn í tóftina (hólf III) en það sést ekki lengur. Gryfja D er um 2 m suðaustan við tóft C. Hún er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr suðvestur-norðaustur. Mesta dýpt er um 0,5 m. Ógreinilegar grjóthleðslur eru í innanverðum veggjum.“

Knarrarnes – beitarhús.
Um er að ræða áhugaverðan stað í hvívetna, ekki síst að teknu tilliti í sögulegu samhengi fyrrum búskaparhátta. Um er að ræða 424. þekktu selstöðuna á Reykjanesskaganum.
Í „Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga“ um „Vitnisburð búsetuminja“ árið 2010 segir um beitarhús: „Beitarhús – sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var.
Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust var var hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.“

Beitarhús ofan Knarrarness.
Í neðanverðri heiðinnni, ofan bæjanna við ströndina, er að öllu jöfnu tiltölulega snólétt og því er staðsetning beitarhússins vel skiljanleg. Augljóst er að „stekkurinn“ hefur verið notaður um alllangt skeið og eftir að beitarhúsið var byggt því annars hefði grjótið verið tekið úr hleðslum stekksins við byggingu þess. Hvorutveggja hefur farið vel saman því um notkun hvors um sig voru á sitthvorri ártíðinni.

Knarrarnes – heimasel.
Skammt sunnan við Sauðholt eru tóftir í gróinni kvis undir lágum aflöngum klapparhól. Um er að ræða stekk og litla byggingu með einu rými. Tóftirnar eru greinilega mjög gamlar, mun eldri en minjarnar á Sauðholti. Líklega hefur þarna verið heimasel frá Minna-Knarrarnesi. Þessara minja er hvorki getið í örnefnalýsingum né í fornleifaskráningum af svæðinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1.mín.
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.

Keilir – með tilheyrandi stauramengun.
Var Ingólfur á seinni skipunum? – Margrét-Hermanns Auðardóttir
Í Tímanum árið 1989 fjallar Margrét-Hermanns Auðardóttir um kenningar sýnar um upphaf landnáms hér á landi að fenginni reynslu hennar að uppgreftri landnámsbýlis í Herjólfsdal í Vesmannaeyjum undir fyrir sögninni „Öllum fyrri kenningum um upphaf og tímasetningu landnáms á Íslandi kollvarpað – Var Ingólfur á seinni skipunum?“. Þrátt fyrir að tilefnið tengist ekki Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs, beint er þó ástæða til að gefa hugmyndafræðinni gaum.
Margrét-Hermanns Auðardóttir, f. 1949.
„Margrét Auðar-Hermannsdóttir fornleifafræðingur varði nýlega doktorsritgerð sína við Umeaa Háskóla í Svíþjóð. Ritgerðin ber heitið: „Islands tidiga bosattning“ og fjallar um fyrstu byggð norrænna manna á Íslandi. Þar er því haldið fram að byggð á Íslandi nái allt aftur á sjöundu öld.
Niðurstöður sínar byggir Margrét á fornleifarannsóknum í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum sem fóru fram á árunum 1971 til 1983. Tímasetning Margrétar á landnáminu byggir á uppgreftrinum í Herjólfsdal, þ.e. því hvað má lesa út frá húsaleifunum og þeim munum sem þar hafa fundist. Þá er mannvistarlagið, þykktin á því og hvernig það hefur hlaðist upp í gegnum tímann, borið saman við gjóskulög eða gosöskulög. Sú viðmiðun sem Margrét notar er meðal annars svokallað landnámslag sem er öskufall frá gosi á Vatnaöldusvæðinu fljótlega eftir að landið byggðist. Hún styðst einnig við aldursgreiningar með geislakoli, svokallaða C-14 aðferð, við aldursgreiningarnar.
Landnámsbyggð í Herjólfsdal
Uppgraftrarsvæðið í Herjólfsdal séð frá austri. Eftirfarandi er merkt á myndina:
I) Skáli-íveruhús
II) Skáli-íveruhús
III) Eldhús
IV) Fjós
V) Skáli-íveruhús
VI) Heygarður
VII) Matargerðarhús
VIII)Fjós og íveruhús undir sama þaki
IX) Byggingaleifar
X) Garður, sennilega kví
XI) Lítið gripahús, trúlega fyrir svín.
Niðurstöður Margrétar eru í stuttu máli á þá leið að byggð norrænna manna á Íslandi nái allt aftur á sjöundu öld og að byggðin í Herjólfsdal hafi varað frá sjöundu öld og fram á tíundu eða elleftu öld. Margrét hefur j afnframt tengt niðurstöður rannsóknanna úr Herjólfsdal við rannsóknir sem hafa verið gerðar á fastalandinu og telur hún að komið hafi í ljós að byggðin á fastalandinu sé jafngömul byggðinni í Herjólfsdal.
Margrét hefur bent á að áður hafi niðurstöður mælinga samkvæmt geislakolsaðferðinni bent til byggðar á Íslandi fyrir árið 874. Menn hafi hinsvegar aðeins tekið þær niðurstöður gildar sem stutt hafi að landnám hafi átt sér stað í kringum 874 en ekki þær niðurstöður sem gefi til kynna eldri uppruna.
Fyrrnefnt landnámslag, sem Margrét hefur meðal annars til viðmiðunar hefur verið tímasett í kringum árið 900 e. Kr. en Margrét telur að gosið hafi átt sér stað allt að 200 árum fyrr.
Landnámslag 200 árum eldra
Herjólfsdalur – viðarleifar.
Átta sýni, viðarkol úr birki, úr uppgreftrinum í Herjólfsdal voru tekin til aldursgreiningar. Sex aldursgreiningar benda til hærri aldurs en 874 og þrjár þeirra gáfu til kynna að byggð á svæðinu nái allt aftur á sjöundu öld.
Í viðtali við Tímann útskýrði Margrét niðurstöður sínar varðandi aldur landnámslagsins á eftirfarandi hátt: „Niðurstöður aldursgreininganna eru á bilinu frá sjöundu öld og fram á tíundu og elleftu öld. Neðarlega í mannvistarlaginu í Herjólfsdal er svokallað landnámslag. Ég lít svo á úr því að landnámsaska hefur fallið snemma á byggðina, þá sé það væntanlega eftir elstu aldursgreiningarnar sem ná aftur á sjöundu öld. Þessvegna held ég því fram að þetta gos hafi orðið á sjöundu öld eða í seinasta lagi í kringum árið 700.“
Sumarið 1971 hóf Margrét Hermanns Auðardóttir, fornleifafræðingur, ásamt öðrum sérfræðingum, uppgröft á sama svæði og Matthías Þórðarson hafði grafið upp langhús áratugum áður. Rannsóknin hélt áfram í fimm sumur en tafðist um nokkur ár vegna eldgossins í Heimaey 1973. Haustið 1980 lauk formlega áralöngum rannsóknum Margrétar og sagði hún í fréttatilkynningu í september, þetta sama ár, að á því 1300 m² uppgraftarsvæði hefðu m.a. fundist átta hús og garðhleðslur. Þau tilheyrðu 4-5 byggingarskeiðum og voru frá mismunandi tímum. Þarna bjuggu bændur, enda ummerki um húsdýr, en einnig nýttu bændur sér hin ýmsu hlunnindi s.s. fugl og fisk. Samkvæmt aldursgreiningum Herjólfsdalsbyggðar, sem formlega voru út gefnar ári seinna, var um mjög forn híbýli að ræða. Elstu húsbyggingarnar eru frá fyrri hluta 9. aldar eða mun eldri en áður var talin. Byggð þessi virðist síðan hafa lagst af á seinni hluta 10. aldar, líklega vegna uppblásturs. Landnámsbyggð í Vestmannaeyjum er því, samkvæmt þessu, eldri en kemur fram í elstu heimildum, Sturlubók og Hauksbók.
Margrét bætti því við að niðurstöður sem þessar byggðu auðvitað á líkum á sama hátt og niðurstöður jarðfræðinga sem hafa verið ríkjandi varðandi aldur gosa og gjóskulaga. „Ég er sammála öðrum fræðimönnum um að gjóskufallið frá Vatnaöldusvæðinu er landnámslag. Þetta er gjóskufall frá gosi sem á sér stað skömmu eftir að land byggðist. Það eru flestir fræðimenn sammála um að það megi kalla þetta landnámslag en ég er ekki sammála þeim um hvenær gosið varð. Auðvitað getur verið að það eigi eftir að mæla þetta nákvæmar. En ef miðað er við uppgröftinn í Eyjum og aldursgreiningarnar þaðan, þá er byggðin í landinu örugglega eldri en frá árinu 874. Spurningin er hvort að ég teygi aldurslíkurnar of langt aftur eða of stutt, það verður ekki vitað fyrr en haldið verður áfram að rannsaka þessa hluti með tilliti til aldurs.“- En er þá hægt að komast lengra í að fá nákvæmari vitneskju um aldur landnámsins?
„Já, slíkt er mögulegt. Það þarf að halda rannsóknum áfram hvað varðar elstu byggð í landinu, enda er stöðugt unnið að því að þróa aðferðir til að fá fram nákvæmari aldur til dæmis á lífrænum leifum.“
Aldursgreining gagnrýnd
Margrét Hallsdóttir jarðfræðingur hefur gagnrýnt niðurstöður Margrétar Auðar-Hermannsdóttur varðandi aldur landnámslagsins. Gagnrýnir hún að aldursgreint er út frá viðarkolum en ekki út frá gróðurleifum í öskulaginu. Viðarkol séu ekki endilega úr gróðri sem lifði á Íslandi við upphaf Íslandsbyggðar.
C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu.
Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt.
Geislakolsmælingar á gróðurleifum úr landnámslaginu hafi sýnt aldur á bilinu frá 700-900 e. Kr. og 95% líkur séu á því að lagið sé frá því tímabili. Aðrar rannsóknaraðferðir en geislakolsmælingar bendi þó á síðari hluta níundu aldar.
Varðandi þessa gagnrýni segir Margrét Auðar-Hermannsdóttir: „Hvað varðar aldursgreiningar á lífrænum leifum í landnámslaginu sjálfu, þá hafa þeir sem ég hef leitað ráða hjá mælt með sýnum sem tekin eru undir landnámslaginu til aldursgreininga, en ekki í því vegna truflana sem geta skapast á gosog öskufallstímanum.
Það er greinilegt ósamræmi í því hvernig fjallað er um 14 C aldursgreiningar. Jarðfræðingar draga til dæmis sjaldnast í efa aldursgreiningar frá tíundu og elleftu öld en ef að aldursgreiningar benda til eldri tíma en 874 þá er þeim fundið allt til foráttu. Það sem ég geri í minni rannsókn er að raða saman upplýsingum sem fengnar eru með því að skoða húsaleifarnar og muni sem fundust. Því miður hef ég ekki muni úr elsta hluta mannvistarlagsins, sem gætu sagt til um aldur út frá gildandi formfræði, svokallaðri týpólogíu fornleifafræðinnar. Aftur á móti hef ég hluti efst úr mannvistarlaginu sem eru frá sama tímaskeiði og yngstu aldursgreiningarnar. Þar af leiðandi bendi ég á að þarna er ákveðin fylgni á milli. Rétt er að taka fram að það er mjög algengt að formfræðilega greindir munir finnist ekki í lögum frá þessum eldri tíma, sé tekið mið af fornleifarannsóknum á eyðibýlum í Skandinavíu.“
Myrkar aldir
Vestmannaeyjar – Uppdráttur af Heimaey frá 1776
eftir Sæmund Holm.
„Við verðum að hafa í huga að á þessu tímabili, frá 600-800, eru myrkar aldir á Norðurlöndum, sérstaklega í Vestur-Noregi. Mér sýnist á öllu að þetta landnámsfólk komi frá sömu svæðum og áður hefur verið talið út frá hinni hefðbundnu skoðun.
Ari fróði nefnir að hér á landi hafi verið fólk, papar, fyrir hið eiginlega landnám. Ég kem inn á það í ritgerðinni að papar hafi hugsanlega verið norrænir menn. Enda er alltaf tilgreint að Norðmenn kalli þá papa. Einnig má nefna vangaveltur sem hafa komið fram um að þeir hafi verið kristnir og þess vegna kallast papar. Þó að hér hafi fundist írskar bjöllur og baglar þá segir það ekkert til um uppruna fólksins. Það var engin kirkja til á Norðurlöndum svo snemma, þannig að kirkjuleg tákn sem finnast á Íslandi koma annað hvort frá Bretlandseyjum eða meginlandi Evrópu, en segja ekki endilega til um uppruna fólksins sem bjó hér fyrst.
Landnáma.
Þeir sem stóðu að baki Landnámabók á miðöldum gátu ekki haldið því fram að papar hafi verið fyrstu landnámsmennirnir. Með ritun bókarinnar var verið að verja ákveðin völd og eignir og þar þurfti gjarnan að rekja jarðnýtingarréttinn aftur á „landnámstíma“ viðkomandi ætta.
Ég tel sýnt að fyrsta byggðin nái aftur fyrir árið 874 en það verður örugglega áfram deilt um hve langt aftur hún nær. Þar sem ekki er að sjá nein greinileg skil í byggingahefð eða öðru er snertir fyrstu landnámsmenn og þá er seinna koma, þá virðist sem þetta fólk sé að stærstum hluta af sameiginlegum uppruna.“- Af hverju eru menn svona tregir til að meðtaka niðurstöður af þessu tagi?
Herjólfsdalur – uppdráttur af uppgraftarsvæðinu.
„Í ritgerðinni kem ég inn á það strax í byrjun að íslensk menningarsaga hefur stjómast af miðalda heimildum, en alls ekki af fornleifafræði. Þegar ráðist hefur verið í fornleifauppgreftri á stöðum sem grunur leikur á að tengist elstu byggð, þá er yfirleitt byrjað á að slá upp í Landnámu eða öðrum rituðum heimildum og að loknum uppgreftri lestu yfirleitt í niðurstöðunum að þetta sé landnámsbær þessa eða hins og þetta passi við hefðbundnar hugmyndir um landnám, o.s.frv. Það hafa sjaldnast verið notaðar aldursgreiningaraðferðir að hætti fornleifafræðinnar. Auk þess er lítill hluti svokallaðra heiðinna grafa eða kumla þar sem munir hafa fundist sem geta sagt til um aldur.“
Að breyta fornleifafræðinni
Herjólfsdalur – skilti.
„Ég sé ritgerðina sem lið í því að það verði vonandi tekið öðruvísi á fornleifaframkvæmdum hér á landi en hingað til hefur verið gert. Þá vil ég ekki síður sýna fram á að fornleifafræðin vinnur ekki út frá rituðum heimildum heldur eigin aðferðum. Auðvitað hundsar hún ekki ritaðar heimildir en hún gengur ekki út frá þeim sem vísum. Fomleifafræðingar eiga að veita gjaldgengum aðferðum eigin faggreinar sem að mínu mati hefur verið gert of lítið af hér á landi, og erum við þar langt á eftir nágrannaþjóðunum bæði hvað opinber framlög varðar og eins menntun þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmdunum. “
Er 874 heilög tala?- Afhverju hefur þessi afstaða verið ríkjandi?
Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík um 870.
„Allt þetta með landnámið, ártalið 874 og sjálfstæðisbaráttuna er svo greipt í huga Íslendinga að það er nánast heilagt. En þar sem sjálfstæðisbaráttunni lauk meira eða minna með fullveldinu 1918 þá hefði maður búist við að ný og ferskari stefna yrði ríkjandi í sagnfræði og norrænum fræðum og lögð yrði áhersla á þátt fomleifarannsókna, en sú varð ekki raunin. Þegar stöðnun festist í sessi þá er henni alltaf beitt hatrammlega gegn öllu sem dregur í efa ríkjandi skoðanir og þar með stöðu einhverra valdaaðila og svo er því miður með íslenska fornleifafræði og aðrar tengdar greinar.
Í nágrannalöndunum finnst mönnum óskaplega skrítin sú afstaða að finna því allt til foráttu ef einhver kemst að því að byggð á Íslandi sé hugsanlega eldri en hefðbundnar hugmyndir gera ráð fyrir. “
Sömu niðurstöður í miðbæ Reykjavíkur- Hafa fleiri komist að sömu niðurstöðu?
Reykjavík – minjar landnámsbæjar í Aðalstræti.
„Það eru til háar aldursgreiningar frá fleiri stöðum á Íslandi en Herjólfsdal. Fyrir mörgum er þetta greinilega mikið tilfinningamál, fyrir mér er þetta auðvitað bara fagleg staðreynd sem hefur ekkert með tilfinningar að gera.
Það eru til háar aldursgreiningar úr uppgreftrinum í miðbæ Reykjavíkur frá síðasta áratug. Skýrslan um þann uppgröft kom út í vetur í sænskri ritröð sem út af fyrir sig sýnir hve staða íslenskrar fornleifafræði er bágborin. Þar koma fram aldursgreiningar sem eru sambærilegar við aldursgreiningarnar úr Eyjum. Auk þess eru til merki um elstu byggð, þ.e.a.s. mannvist undir landnámslagi, á vesturhluta Suðurlands.“
Er hægt að breyta svona rótgrónum hugmyndum?
Fornleifauppgröftur að Hólum. Fornleifafræðingar er jafnan sjálfum sér verstir. Skýrsla um stjórnsýslu fornleifarannsókna og fornleifavernd hafði t.d. að geyma tímbundnar rangfærslur um störf Ragnheiðar Traustadóttur, stjórnanda Hólarannsóknarinnar, sem voru til þess fallnar að valda henni tímabundnum álitshnekki og fjártjóni. Ragnheiður er í dag einn traustvekjandi fornleifafræðingur landsins.
„Já, ég hugsa það. Þetta síast smám saman inn í vitund manna. Þetta er spurning um tíma. Það verða örugglega einhverjir aðrir en ég sem fá hluti upp í hendurnar sem benda í sömu átt. Ég túlka það þannig að það hafi þegar gerst með uppgreftrinum í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er spurning um hvernig maður vill líta á þessar aldursgreiningar í heild sinni. Það er ekki hægt að taka einungis góðar og gildar þær aldursgreiningar sem eru okkar megin við 874 og neita að horfa á þær sem eru hinumegin við sama ártal. Við verðum að líta á niðurstöðurnar sömu augum hvoru megin sem þær lenda við hefðbundnar hugmyndir.“
Í ómarkvissu þarsi fornleifafræðinga í gegnum tíðina um mat á einstökum merkilegheitum virðist meginmarkmið fræðagreinarinnar gleymst. Dæmi eru um að einhverjir þóknanlegir pótentátar eru fengnir til að taka saman „rannsóknarskýrslur“ fyrir einstakar stofnanir eða Hið opinbera án þess þó að hafa a.m.k. lágmarksþekkingu á viðfangsefninu. Þeir eða þau er hlut eiga að máli hafa sjaldnast fengið að tjá sig um um „rannsóknina.
Fornleifafræðingar landsins þurfa að reyna að hefja sig upp úr daglegu argaþrasi hversdagsins, sem engu skilar, og beina þekkingu sinni að því sem raunverulega skiptir máli – til framtíðar litið.
Heimildir:
-Tíminn, 192. tbl. 28.09.1989, Öllum fyrri kenningum um upphaf og tímasetningu landnáms á Íslandi kollvarpað: Var Ingólfur á seinni skipunum?, bls. 10-11.
-Fornleifaskráning; Fyrri hluti – heimildir fyrir Vestmannaeyjar, 2002.
Herjólfsbær. Í októbermánuði 2005 var ráðist í byggingu nýs Herjólfsbæjar í Herjólfsdal. Að smíðinni er notast við áreiðanlegastu heimildir og reynt að gera hann sem líkastan upprunalegum bænum. Húsið er byggt sem langhús og gripahús. Lista- og menningarfélagið Herjólfsbæjarfélagið hafði frumkvæði að smíðinni. Að framkvæmdinni stóðu Árni Johnsen, Þórður Guðnason, Þorsteinn D. Rafnsson, Esra Ó. Víglundsson og Víglundur Kristjánsson.
Steinbryggjan – framkvæmdaeftirlit og frágangur 2018-2019 – Lilja Björk Pálsdóttir
Lilja Björk Pálsdóttir skrifaði skýrslu um „Steinbryggjuna, framkvæmdaeftirlit og frágang árin 2018-2019“ á árinu 2020:
Aðdragandi rannsóknar og heimildir um minjarnar
Lilja Björk Pálsdóttir.
„Vor og sumar árið 2018 var unnið að framkvæmdum í Tryggvagötu austan Pósthússtrætis auk Steinbryggju. Vitað var að leifar gömlu Steinbryggjunnar (Bæjarbryggjunnar) var að finna á þessum stað enda höfðu hlutar hennar áður komið fram við fornleifarannsóknir í Pósthússtræti. Í upphafi var áætlað að á svæðinu færi fram yfirborðsfrágangur ásamt minni háttar lagnavinnu og tekið fram að ekki þyrfti að ráðast í jarðvegsskipti á svæðinu.
Markmið og aðferðafræði
Þegar minjar komu í ljós var hreinsað frá þeim jafnóðum. Notast var við vélgröfu til að fjarlægja yfirborðslög og uppfyllingar en minjarnar voru fínhreinsaðar með handafli til að koma í veg fyrir skemmdir.
Markmið með rannsókninni var að hafa eftirlit með þessum framkvæmdum, og þá sérstaklega á gatnamótum Tryggvagötu og Pósthússtrætis þar sem vitað var um minjar.
Um framkvæmdavakt með framkvæmdaeftirliti og bakvakt var að ræða þar sem fornleifafræðingur var ávallt viðstaddur þegar jarðrask átti sér stað á svæðinu en sinnti annars daglegu eftirliti þegar verið var að vinna.
Rannsóknin og niðurstöður
Yfirborðslög og uppfylling voru fjarlægð með vélgröfu en þegar komið var niður að minjum voru þær hreinsaðar betur fram með skóflum, múrskeiðum og burstum.
Við stækkun svæðisins kom í ljós hluti af járnbrautarteinum þeim sem lagðir voru til að ferja varning af bryggju og upp á hafnarbakkann. Teinarnir höfðu einnig komið í ljós við fyrri rannsóknir og höfðu þá verið mældir upp. Þegar ráðist var í miklar endurbætur á bryggjunni með því að skipta út maðkétnu timbri fyrir grjóthleðslur árið 1892, var jarðvegi mokað yfir þessa járnbrautarteina og þeir þar með teknir úr notkun. Á ljósmynd sést hækkunin vel sem varð á Steinbryggjunni við þessa framkvæmd.
Verkið skiptist niður á tvö ár, 2018 og 2019. Árið 2018 var að mestu unnið á gatnamótum Pósthússtrætis þar sem tvö byggingarstig bryggjunar auk hafnargarða voru grafin fram, en einnig mestur hluti austurbakka Steinbryggjunar. Stærri hluti bryggjunar var svo afhjúpaður árið eftir. Mest var um framkvæmdavakt að ræða á meðan á framkvæmdum stóð en unnið var við lagnavinnu ýmisskonar. Reynt var að laga staðsetningu lagnanna að minjunum og tókst það að mestu.
Þrátt fyrir góða varðveislu vantaði steina á nokkrum stöðum í yfirborðslögnina og var því leitað eftir því hjá Minjastofnun að fá leyfi til að fjarlægja nokkra steina úr suðurenda lagnarinnar sem þegar var raskaður, til að fylla inn í þar sem vantaði. Voru til þess notaðir steinar syðst úr hleðslunni en óskað hafði verið eftir því við Minjastofnun að fá leyfi til að fjarlægja þá steina vegna framkvæmda. Með þeirri aðgerð varð stétt Steinbryggjunnar heildstæð.
Garðurinn rofinn
Grjótið sem notað hefur verið í hleðsluna er ótilhoggið holtagrjót úr Öskjuhlíð. Valið hefur verið stórt grjót, allt að 0,70m í þvermál. Smærri steinar voru notaðir til að skorða þá stærri. Vélgrafið var niður á um 2,5 metra sem var nauðsynleg fyrir vatnsbrunn og lagnir tengdar honum. Sást í allt að fjögur umför hleðslugrjóts á þessu dýpi. Ofan garðsins og að hluta yfir honum lágu vatns- og rafmagnslagnir sem þjóna Tollhúsinu við
Komið var rof í garðinn vegna lagnavinnu sem áður hafði farið fram og því var ekki hægt að sjá bein tengsl hans við bryggjuna. Hár bakki uppfyllingarefnis lá upp að og yfir austurenda garðsins. Hleðslurnar hafa sigið til vesturs og er líklegt að það hafi að mestu gerst við síðari tíma lagnavinnu. Að öðru leyti var hleðslan þétt og stöðug.
Tryggvagötu 19. Skráning sniðsins gekk því erfiðlega en teknar voru ljósmyndir af garðinum eins og hægt var og teiknað eftir þeim. Hleðslur hafnargarðs sáust einnig austanmegin við Steinbryggjuna. Hleðslurnar höfðu orðið fyrir raski vegna síðari tíma framkvæmda en þær voru óhreyfðar upp við bryggjuna.
Þessi hluti hafnargarðsins var upphaflega hlaðinn á árunum 1913-1917 en var endurhlaðinn árið 1928.
Steinbryggjan í heimildum
Í skýrslu sem gefin var út árið 2015 af Fornleifastofnun Íslands ses. í tengslum við fyrrnefndar rannsóknir voru teknar saman eftirfarandi heimildir um bryggjuna sem hér eftir verður vísað til sem Steinbryggju:
“Fram á seinni hluta 19. aldar voru einu bryggjurnar í Reykjavík, timburbryggjur sem kaupmennirnir reistu sjálfir. Árið 1884 var hins vegar fyrsta bryggjan gerð, sem byggð var á vegum yfirvalda eftir nokkurra ára umræðu um frjálsan aðgang að bryggju í Reykjavík. Bryggjan hét formlega Bæjarbryggjan, en var yfirleitt kölluð Steinbryggjan. Bryggjan, sem lá beint undan Pósthússtræti, var byggð af Jakobi Sveinssyni trésmiði, og var hún upprunalega að hluta úr tré og að hluta úr steini. Bryggjan þótti illa smíðuð. Nokkrum mánuðum eftir að hún var tekin í notkun var ritað um hana í Ísafold:
Steinbryggjan 2020.
„Bæjarbryggjan mikla, er bæjarstjórnin hefir snarað í um 10,000 kr., en sem er svo vísdómslega gerð, að það verður hvorki lent við hana um flóð nje fjöru, og sjór gengur upp eptir henni endilangri, ef ekki er nærri hvítalogn, og er þá ekki fyrir aðra en vatnsstigvjelaða að nota hana.“
Árið 1892 var bryggjan því endurbætt, og sá hluti hennar sem áður var úr tré hlaðinn úr grjóti. Árið 1905 var enn unnið að endurbótum á bryggjunni undir stjórn Tryggva Gunnarssonar bankastjóra. Ekki þótti þetta takast betur til en svo, að eftir viðgerðina fór bryggjan að síga og var hún þá kölluð Tryggvasker eða Tryggvaboði. Eftir að hafnargerðin hófst árið 1913 minnkaði hlutverk bryggjunar enn frekar og hvarf hún á endanum undir hafnarfyllingu á árum heimstyrjaldarinnar síðari.
Það voru þó ekki einungis bátar sem lögðust upp að Steinbryggjunni heldur segir frá í Mannlífi við Sund að flugvélar hafi lagst upp að henni áður en flughöfn var byggð í Örfirisey.
Engir gripir komu í ljós enda um að ræða svæði þar sem um uppfyllingu frá síðari tímum var að ræða ofan á og við minjarnar sjálfar auk enn yngri lagnafyllinga.“
Heimild:
-Steinbryggjan, Framkvæmdaeftirlit og frágangur árin 2018-2019, skýrsla Fornleifastofnunar Íslands 2020.
Steinbryggjan við uppgröft.
Fornleifar eru auðlind – Orri Vésteinsson
Orri Vésteinsson skrifaði grein í Morgunblaðið 2001 undir fyrirsögninni: „Fornleifar eru auðlind„:
Orri Vésteinsson – „Það er enginn skortur á fornleifum þó að viljann skortitil að nýta þær“.
„Nýverið kom út skýrsla á vegum samgöngumálaráðuneytis um menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi. Flestir sem starfa að íslenskri menningu hljóta að fagna henni enda er þar tekin afdráttarlaus afstaða með nauðsyn þess að efla menningartengda ferðaþjónustu. Í skýrslunni eru settar fram hugmyndir um leiðir sem ríkisvaldið hefur til að styðja þennan vaxtarbrodd íslensks atvinnulífs. Er öruggt að þær verði til góðs ef þær komast í framkvæmd.
Í skýrslunni er sú forsenda gefin að hér á landi séu ekki fornleifar sem vert sé að kynna (s. 17) og þess vegna beri fyrst og fremst að leggja áherslu á bókmenntir og sögu þjóðarinnar í menningartengdri ferðaþjónustu. Á þeim grundvelli er sett fram ákveðin skoðun á framvindu Íslandssögunnar og hvaða atriði á hverju tímabili séu helst líkleg til að vekja áhuga.
Fornleifar undir Bessastaðastofu. Fundust við uppgröft.
Það er full ástæða til að efast um nauðsyn þess eða gagnsemi að ríkisvaldið byggi stefnu sína í ferðaþjónustu á einni tiltekinni söguskoðun, og víst er að í þessu tilfelli hefur þessi afstaða byrgt sýn á þá fjölmörgu möguleika aðra sem eru á vexti á þessu sviði. Ekki er hægt að kenna um áhugaleysi, því í skýrslunni er lögð áhersla á nauðsyn aukinna fornleifarannsókna (s. 11, 23). Þar ræður fremur skortur á þekkingu á íslenskum fornleifum og möguleikum til að hagnýta þær.
Íslenskar fornleifar
Reykjavík – minjar landmámsbæjar í Aðalstræti.
Það er almenn skoðun en röng að ekki séu á Íslandi miklar eða merkilegar fornleifar. Íslendingar notuðu að vísu lengst af forgengileg byggingarefni eins og torf og tré þannig að mannvirkjaleifar skera sig ekki úr í landslaginu eins og byggingar úr
steini myndu gera. Það þýðir hinsvegar ekki að leifarnar séu ekki til eða að þær séu ekki áhugaverðar.
Á vegum Fornleifastofnunar er unnið að skráningu fornleifa um allt land og hefur nú verið safnað upplýsingum um 53.000 íslenska fornleifastaði. Skráningin nær til um 44% landsins þannig að ætla má að alls séu 120.000 fornleifastaðir á landinu öllu. Það er því enginn skortur á fornleifum þó að viljann skorti til að nýta þær.
Selatangar – fiskbyrgi. Áþreifanlegar fornleifar.
Í nýlegri könnun um áhuga erlendra ferðamanna á íslenskum menningararfi kemur í ljós að flestir nefna fornleifar sem það atriði menningararfsins sem þeir höfðu mestan áhuga á. Hinsvegar kom í ljós að þessir ferðamenn töldu gæði kynningar á fornleifum hvað lakasta og var um þetta atriði mestur munur á væntingum ferðamanna og frammistöðu íslenskrar ferðaþjónustu (Rögnvaldur Guðmundsson: Sagnagarður Íslands, 2000). Með öðrum orðum þá stöndum við ekki undir þeim væntingum sem erlendir ferðamenn hafa um eðlilega þjónustu á þessu sviði.
Dæmi frá Orkneyjum
Minjar Kelta á Orkneyjum.
Á Orkneyjum er ferðaþjónusta ein stærsta atvinnugreinin og hafa eyjaskeggjar um 3,5 milljarða íslenskra króna í tekjur af henni árlega. 23% ferðamanna nefna fornleifar sem meginástæðuna fyrir því að þeir heimsækja eyjarnar, en 73% nefna fornleifar sem eina af ástæðunum, þannig að tekjur hinna tuttugu þúsund Orkneyinga af fornleifum einum eru á bilinu 1-2 milljarðar íslenskra króna (upplýsingar frá Orkney Enterprise). Til Íslands koma tvöfalt fleiri ferðamenn og ætti því að vera raunhæft markmið að við gætum haft 2-3 milljarða tekjur á ári af þessari auðlind. Eins og er eru tekjur Íslendinga af fornleifum varla meiri en nokkrar milljónir á ári.
Orkeneyjar – keltneskar minjar.
Ástæðan fyrir því að ég tek Orkneyjar sem dæmi er að þar eru hvorki pýramíðar né kastalar sem setja svip sinn á landslagið heldur eru fornleifar þær sem vekja svo mikinn áhuga ekki ólíkar þeim íslensku að eðli og umfangi. Munurinn liggur í því að hinar orkneysku fornleifar hafa verið rannsakaðar og staðirnir í kjölfarið gerðir aðgengilegir gestum. Orkneyingar hafa verið lengi að við þetta og verið óhræddir við að fjárfesta í rannsóknum, kynningu á rannsóknarniðurstöðum og aðgengi að fornleifastöðum.
Hvernig getum við hagnýtt íslenskar fornleifar?
Hofsstaðir í Garðabæ – skáli eftir uppgröft. Dæmi um vandaðan frágang og aðgengilegan.
Það eru margar leiðir til að hagnýta íslenskar fornleifar. Aðeins er fjallað um eina þeirra í áðurnefndri skýrslu, þá að gera fornleifauppgröft sem síðan er byggt á við kynningu á viðkomandi stað. Það er dýrasta leiðin og sú sem lengstan tíma tekur.
Ódýrari leiðir eru einnig til. Ljóst er að fjölmarga uppgrafna íslenska minjastaði mætti gera aðgengilega og kynna fyrir gestum. Í þeim skilningi má líta á eldri rannsóknir sem vannýtta auðlind.
En það þarf heldur ekki uppgröft til að hagnýta fornleifar. Sandblásin verbúð á eyðiströnd eða vallgróin beitarhúsatóft á lækjarbakka geta sagt meira um lífshætti og lífskjör Íslendinga á liðnum öldum en margar blaðsíður af ritmáli.
Borgarholt – fyrrum selsminjar við Úlfljótsvatn?
Slíkar fornleifar er að finna um allt land og eru nánast endalausir möguleikar á því hvernig hægt er að nýta þær í ferðaþjónustu.
Kynning á slíkum minjastöðum byggist á því að líta á þá sem hluta af landslaginu og skynjun þess. Það gerbreytir upplifun ferðamannsins af íslenskri náttúru þegar honum er bent á minjar um íslenskt samfélag og komið í skilning um þá lífshætti sem hér tíðkuðust og þá lífsbaráttu sem hér fór fram. Það er ekki ómerkileg saga.
Steinbryggjan við enda Pósthússtrætis, nú Bryggjugata.
Fornleifar hafa þann meginkost fyrir ferðaþjónustu að þær eru staðbundnar og krefjast þess að menn ferðist til að hægt sé að skoða þær öfugt við bókmenntir sem hver sem er getur notið í stofunni heima hjá sér. Þær hafa líka þann kost að þær eru dreifðar um allt land, sem þýðir að hægt er að hafa áhrif á hvert ferðamenn fara með því að stjórna uppbyggingu fornleifastaða.
Skynjun okkar Íslendinga af fortíðinni byggist nær alfarið á sögum og rituðu máli. Það er sérstaða okkar því fæstar aðrar þjóðir eiga jafnmikinn sagnaarf og við, eða eru jafnmeðvitaðar um hann. Það er sjálfsagt fyrir okkur að nýta okkur þessa sérstöðu í ferðaþjónustu, en það er ástæðulaust að láta hana takmarka möguleika okkar. Erlendis er mönnum tamara að skynja fortíðina í gegnum hluti byggingar, listaverk eða gripi – og þeir búast við því að þeim sé miðlað upplýsingum með sama hætta þegar þeir koma hingað. Hvers vegna eigum við að valda þeim vonbrigðum?“
Heimild:
-Morgunblaðið, 281. tbl. 07.12.2001, Fornleifar eru auðlind – Orri Vésteinsson, bls. 64.
Steinbryggjan við enda Pósthússtrætis 1930.
Kleyfardalur (Botnadalur) – tóftir
Í Botnadal í Grafningi eru tóftir skammvinns kotbýlis eða jafnvel tímbundinnar selstöðu frá Nesjum að teknu tilliti til stærðar og gerðar minjanna.
Botnadalur – bærinn.
Örnefnið virðist tiltölulega nýtt. Svo virðist sem þarna hafi orðið til skammvinn búseta, nefnd Botn eða Botnar. Dalurinn hafi síðan hlotið nafn sitt af „bæjarstæðinu“, nefndur Botnadalur, en eldra nafn á honum virðist hafa verið Kleyfardalur (Kleifardalur). Þó gæti það örnefni hafa verið fyrrum þar sem nú er þverdalur undir Jórutindi sunnan Jórukleifar. Þar eru hins vegar engar minjar að teknu tilli til frásagnar Brynjúlf Jónssonar m.a. um fornleifar í Grafningi. Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1899 segir Brynjúlfur Jónsson um tóftirnar í Kleyfardal: „Kleyfardalur heitir suðvestur með hlíðinni, lítill dalur og þó fagur, en hrikalegt i kring. Þar eru tvær rústir allglöggvar. Önnur bæjartóft (eða seltóft), 9 fðm. löng, tvískift og eru engar dyr á milliveggnum, en útidyr úr báðum tóftum á suður hliðvegg. Hin, fjóstóft (eða kvíatóft?), 8 fðm. löng og 2 fðm. breið, hefir dyr út úr suðvesturhorni. Við efri enda hennar var sem sæi á tóftarbrún, sem gæti verið hlöðutóft. En þar um get eg þó ekkert sagt, því fönn lá þar yfir, svo eigi sást hvort hér er tóft eða ekki. Hafi hér verið býli, þá hefi það verið hjáleiga frá Steinröðarstöðum (?) og síðar orðið, ásamt þeim, hjáleiga frá Nesjum.“
Botnadalur – útihús.
Í örnefnalýsingu fyrir Nesjar segir m.a.: „Jóruhóll heitir lítill hóll við Jórugil suður af Kleifadalshrygg, sem er austan við Jórukleifina. Kleifadalur er lítill dalur undir Jórukleif, djúpur og dálítið langur. Hann er milli Kleifadalshryggs og Jórukleifar.“
Á skilti við rústirnar í Kleyfardal segir m.a.: „Rústirnar sem hér sjást eru af hjáleigu frá bænum Nesjum sem nefndist Botnsdalur. Hér var búið í skamman tíma eða á milli 1832-1844. Um það leyti var hjáleigubúskapur á þessu svæði vaxandi og urðu sum nýbýlin að lögbýlum, t.d. Nesjavellir, en önnur, eins og Botnsdalur áttu skamma sögu og lögðust í eyði. Enn sjást glögglega að minnsta kosti fjórar tóftir sem tilheyrðu gamla Bontnadalsbænum, sú stærsta af bæjarhúsunum sjálfum en þrjár minni af útihúsum.
Botnadalur – bærinn.
Ekki er gott að segja með vissu hvaða hlutverkum einstök útihús gegndu og eru hringlaga tóftirnar tvær allsérstakar. Sennilegt er að kofarnir hafi flestir verið fjárhús en kýr verið hýstar inni í bænum.
Lítið er vitað um ábúnedur í Botnsdal en ætla má að þeir hafi háð harða baráttu við nátttúruöflin jafnt sem yfirboðara sína á Nesjum. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við tóftirnar og hefur að það að líkindum verið meginorsök þess að byggð hélst hér aðeins um skamman tíma. Þá háttar svo til að á vorin þegar snjóa leysir, liggur leysingarvatn að miklu leyti yfir dalbotninum og hefur það vafalaust torveldað ábúð.
Botnadalur – tóftir.
Af byggingarleifum má ráða ýmsilegt um búskapinn, svo sem að hann hafi ekki verið stór í sniðum en slíkt var dæmigert fyrir hjáleigur. Algengt var að hjáleigubændur ættu aðeins eina mjólkurkú og ekki hafa droparnir úr henni náð að metta marga munna. Þá þurftu þeir ósjaldan að taka búpeninginn á leigu og jafnvel búsáhöld með jarðnæðinu. Þetta fyrirkomulag torveldaði leiguliðum að koma sér upp eigin bústofni og auka hann. Margt fleira gerði þeim lífið erfitt.
Botnadalur – útihús.
Algengt var að leiguliðar þyrftu að inna af hendi störf og kvaðir fyrir jarðeigendur, til dæmis slátt, og höfðu skemmri tíma til að vinna að eigin búi.
Það kann að vera erfitt fyrir nútímafólk að setja sig í spor bláfátækra leiguliða á 19. öld. Landbúnaður var enn rekinn með fornlegum hætti, til að mynda voru tún lítið ræktuð og þýfð og ljáirnir ekki afkastamikil verkfæri. Fjölgun býla á þessum tíma stafaði fyrst og fremst af auknum fólksfjölda en framfarir í landbúnaði urðu ekki að marki fyrr en á seinni hluta 19. aldar.“
Óþarfi er að vera alveg sammála textanum, en taka verður viljan fyrir verkið.
Heimildir m.a.:
-Skilti við minjarnar í Botnadal.
-Örnefnalýsing fyrir Nesjar í Grafningi.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1899, Rannsókn sögustaða í Grafningi í maímán. 1898. Eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 3-5.
Kleifardalur.
Möðruvallarétt
Í „Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi I“ frá árinu 2008 er m.a. fjallað um „Möðruvallarétt„. Þar segir:
Möðruvallarétt – uppdráttur.
„Innan við þetta er gil, sem heitir Ytra-Réttargil. Sultarmói er næst, nú túnblettur upp af Eyrunum, sérskilið er ofan við götuna heiman, en neðar er tún á Eyrunum niður að á. Næst er Heimra-Réttargil eða Réttargil. Milli þessara gilja er stuttur kambur. Upp af Eyrunum neðan við Réttargilið er Hæðarskarð, þar sem vegurinn liggur í gegnum. Upp af skarðinu undir rótum er Réttarhóll, og heiman við hólinn er Réttin, gömul fjárrétt. Innar, rétt utan bæjar, er gil á ská upp,“ segir í örnefnaskrá. Réttin er um 340 m norðvestan við bæ. Ekki er vitað hvenær réttin var síðast í notkun.
Réttin er í lægð milli tveggja ílangra hæða þar sem landinu hallar til norðausturs. Réttin er innan um og neðan við fjölda stórra bjarga sem hrunið hafa úr fjallinu. Framan við réttina til norðausturs er grösugt dalverpi. Búið er að planta trjám um allt svæðið sem réttin stendur á en þau eru enn mjög smá.
Möðruvallarétt 2024- loftmynd.
„Möðruvallarétt er milli Ytra- og Heimra-Réttargils,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Réttin skiptist í a.m.k. 14 hólf og svo eru tvær aðskildar tóftir neðan við réttina til norðurs og norðausturs. Svæðið allt er um 40×30 m og snýr NA-SV. Í miðri réttinni er stærsta hólfið sem hefur verið almenningur, það er um 18×7 m að stærð og snýr NA-SV. Það hólf er þar sem lægst er í dældinni og sléttast. Ekki sést greinilega hvar rekið hefur verið inn í almenninginn en það hefur að öllum líkindum verið við norðausturhlið hans þar sem engir dilkar eru. Ofan við þetta hólf og báðum megin við það eru minni hólf, dilkar.
Dilkur í Möðruvallarétt.
Dilkarnir sem eru norðvestan við almenninginn eru nokkuð svipaðir að stærð og eru allgreinilegir. Dilkarnir sem eru sunnan og austan við almenninginn eru óljósari og erfiðara að sjá dilkaskiptinguna. Ef til vill er sá hluti réttarinnar eldri eða hefur síður verið haldið við. Réttin er grjóthlaðin milli stórra bjarga og eru stórgrýtt brekka og steinar í hleðslum víða mjög stórir. Hleðslur eru mjög signar og víða grónar. Öll hólfin halla inn að almenningnum. Tóftin sem er 2 m norðan við réttina er tvískipt, um 8×5 m og eru hleðslur signar. Tóftin snýr NA-SV, ekki sést op milli hólfa. Hólfið í suðvesturendanum er mjög óljóst, þar sjást nokkrir steinar í röð en ekkert grjót sést í hleðslum hólfsins í norðausturendanum. Tóftin sem er um 8 m norðaustan við réttina er einföld, um 7×5 m, snýr NV-SA, opin til suðvesturs. Tóftin er vel gróin en grjót sést í hleðslum sem eru signar.
Möðruvallarétt.
Nokkur stór björg eru í veggjum tóftar. Ekki er víst hvaða hlutverki þessar lausu tóftir hafa gegnt. Ólíklegt er að tóftin sem er fjær réttinni hafi verið hús vegna þess hve stór björg eru í veggjum hennar. Líklegra er að tóftin sem er nær réttinni hafi verið hús, a.m.k. norðausturhólfið þar sem veggir eru rúmur 1 m á þykkt. Mesta hleðsluhæð í rétt og tóftum er um 0,4 m.
Hættumat: hætta, vegna trjáræktar.“
Þegar FERLIRsfélagar skoðuðu réttarstæðið 2025 mátti greina innan um þétta skógræktina einstaka hluta réttarinnar, sem virðist hafa verið lítilfjörleg innan um stokka og steina.
Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2008.
-Örnefnalýsing Möðruvalla, Ari Gíslason.
Möðruvallarétt.
Gamli Þingvallavegur – Sæluhús; skilti
Í nýenduruppgerðu og -vígðu sæluhúsi við Gamla Þingvallaveginn á Mosfellsheiði eru tvö upplýsingaskilti. Annað er um „Mosfellsheiðarvegi“ og hitt „Hús sælunnar„. Á þessum skiltum má lesa eftirfarandi:
Hraunið brann og rann til strandar
Borgarhólar.
Mosfellsheiði er dyngja sem rís hæst í Borgarhólum (410 m.y.s.). Á hlýskeiðum ísaldar rann svonefnt Reykjavíkurgrágrýti frá heiðinni alla leið til sjávar, allt frá Hafnarfirði og upp í Kollafjhörð. Nyrstu leifar þess eru á Brimnesi, á milli Kollafjarðar og Hofsvíkur á Kjalarnesi, en hraunið er einnig að finna í Gróttu og eyjunum á Kollafirði. Mesta þykkt þess hefur mæslt í Árbæ (80 m.y.s.) og í Öskjuhlíð (70 m.y.s.).
Fótspor og hófaför mörkuðu slóð
Gamli Þingvallavegur 2025.
Í aldanna rás áttu margir leið um Mosfellsheiði, þar er að finna fjölda þjóðleiðia, um þær fóru gangandi og ríðandi vermenn, bændur í kaupstaðaferðum, erlendi ferðamenn og fólk á leið til og frá Alþingi á Þingvöllum. Fótspor og hofaför mótuðu þessar leiðir um aldir svo ur varð heilt vegakerfi um gervalla heiðina, við þær voru hlaðnar vörður sem urðu samtals um 800 talsins, þær eru flestar hrundar.
Óboðlegt fyrir menn og hesta
Gamli Þingvallavegur – skilti í nýuppbyggðu sæluhúsinu.
Heiðarleiðarnar voru misgóðar eftir árstíma, veðri og snjóalögum og stundum svo erfiðar yfirferðar að þær voru vart mönnum og hestumbjóðandi. Séra Jens Pálsson á Þingvöllum lýsti óviðunandi ástandi á Mosfellsheiði í blaðinu Ísafold árið 1881: „…zumstaðar er vegurinn órfærð urð, og grjótið svo þjett, að varla er nægilegt bil handa hestfætinum á milli steinanna. Þegar aptur á móti rignir, þótt eigi sje lengur en enn dag eð atvo, blotnar leirmoldin og treðst upp, og myndast þá leirleðjupollur innan um stórgrýtið, má þá vegurinn teljast ófær, jafnvel fyrir lausríðandi mann. Þó er enn verri meðferðin á hestunum þegar þeir eru reknir um slíkanveg með þyngsla-klyfjum, t.d. með borðviðardrögum á haustdegi opt í stormi eða regni, þá er viðbjóðslegt að sjá skepnurnar hrekjast fyrir storminum tilog frá um ófæru þessa…“.
Beinn og breiður vegur
Gamli Þingvallavegur – skilti í nýuppbyggðu sæluhúsinu.
Seint á 19. öld urðu tímamót í samgöngusögu Mosfellsheiðar. Þá var hestvagnavegur lagður frá Geithálsi við Suðurlandsveg þvert yfir heiðina og austur til Þingvalla, um 33 kílómetra vegalengd. Vegurinn var tímamótamannvirki á sinni tíð, beinn og breiðuur og upphlaðinn á köflum. Um 100 vörður voru hlaðnar meðfram veginum, brýr voru byggðar og vegræsi lögð. Verkinu lauk árið 1896 með smíði brúar yfir Drekkingarhyl á Þingvöllum.
Gamli Þingvallavegur – nýuppgert sæluhúsið framundan.
Sama á fór maður á reiðhjóli í fyrsta skipti eftir þessum nýja Þingvallavegi og var hann fimm klukkustundir á leiðinni.
Í nokkra áratugi var vegur þessi sá greiðasti yfir Mosfellsheiði, hér fór Friðrik VIII Danakonungur um með föruneyti sínu árið 1907, séstakur konungsvagn var með í för en konungur vildi heldur fara ríðandi yfir heiðina. Um þetta leyti var bílaöld að renna upp á Íslandi og fyrsti bíllinn fór hér um árið 1913.
Nýr vegur gerist gamall
Gamli Þingvallavegur 2025. Fallin varða t.v. Ekkert er minnst á hinn forna Þingvallaveg skammt norðar um Seljadal. Á þeirri leið var og sæluhús, mun eldra en sæluhúsin í Molbrekkum.
Árið 1910 voru þúsund ár liðin frá stofnun Alþingis og efnt til mikillar hátíðar á Þingvöllum, þá var ráðist í vegagerð úr Mosfellsdal og alla leið til Þingvalla, á svipuðum slóðum og Þingvallavegurinn (nr. 36) liggur nú á dögum, 30-35 þúsund manns komu á Alþingishátíðina sem var um þriðjungur þjóðarinnar. Bæði nýi og gamli Þingvallavegurinn voru notaðir yfir hátíðadagana til að liðka fyrir bílaumferð. 14 árum síðar stofnuðu Íslendingar lýðveldi á Þingvöllum, þá var hestvagnavegurinn frá árinu 1896 lagfærður í því aygnamiði að ökuþórar gætu nýtt sér hann á leiðinni til baka til Reykjavíkur. En himnarnir fögnuðu hinu nýstofnaða lýðveldi með úrhellisrigningu, vegurinn kiknaði undan bílabyrðinni og ljóst að dagar hans sem akvegur voru taldir. Hann varð því gamann fyrir aldur fram og gengur undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn nú á dögum. Vegurinn hefur síðustu aratugina verið notaður sem göngu-, hjóla- og reiðleið og hefur mikið varðveislugildi.
Sæluhús í tímans rás
Gamli Þingvallavegur – nýuppbyggt sæluhúsið.
Sæluhús hafa verið byggð á Íslandi síðan á miðöldum, þá var fólk hvatt til að greiða götu ferðafólks og vegfarenda, sjálfu sér til sálubótar. Nokkur sæluhús voru reist á Mosfellsheiði og í grennd við hana, eitt undir Húsmúla skammt frá Henglinum, húsið var þekkt fyrir reimleika, enda kallað Draugakofinn. Það sæluhús var aflagt á 19. öld og nýtt hús byggt á Kolviðarhóli þar í grenndinni. Annað sæluhús var reist í Moldbrekkum á norðanverðri Mosfellsheiði um miðja 19. öld. Ekki komust allir til byggða eða í sæluhús sem fóru yfir heiðina, til dæmis urðu sex vermenn þar úti snemma í marsmánuði árið 1857.
Gamli Þingvallavegur – nýuppgert sæluhúsið.
Blómaskeið sæluhúsanna á Mosfellsheiði var á ofanverði 19. öld þegar allt að fimm sæluhús voru til staðar á heiðinni og í grend við hana. Einnig leitaði fólk gistingar á bóndabæjum, til dæmis í Elliðakoti og Miðdal í sunnanverðri Mosfellsveit, á Kárastöðum í Þingvallasveit og á Kolviðarhóli. Á Kárastöðum og Kolviðarhóli var gistiþjónusta um skeið og einnig í Valhöll sem reist var á Þingvöllum árið 1898.
Grágrýtið stendur tímans tönn
Gamli Þingvallavegur – nýendurbyggt sæluhúsið. Á skiltatexta er getið um jarðlæga tóft austan (h.m.) við húsið. Um er reyndar að ræða leifar af eldra sæluhúsi með framanverðan brunn. Til eru myndir af sæluhúsinu í heiðinni á meðan var.
Sæluhúsið sem hér stendur var byggt um 1890 úr tilhöggnu grágrýti héðan af heiðinni. Þessi hleðslutækni hafði rutt sér til rúms á íslandi ogvar meðal notuð við byggingu Alþingishússins og Hegningarhússins í Reykjavík. Sigurður Hansson (1834-1896) stýrði byggingu sæluhússins sem var 7×4 metrar að utanmáli og hæð undir þakbrún á langvegg var 1.80 metri. Um fimm metra frá austurgafi var jarðlæg tótt sem er 8.50 m x 6.79 m að utanmáli.
Eftir að umferð um Gamla Þingvallaveginn lagðist að mestu niður var viðhaldi sæluhússins ekki sinnt, svo fór að það hrundi undan eigin þunga. Allt hleðslugrjótið var þó á staðnum en timburverk, hurð, gluggar og þak, höfðu orðið fúa, vindi og ryði að bráð.
Margir lögðu hönd á plóginn
Gamli Þingvallavegur – nýuppgert sæluhúsið.
Árið 2019 hóf Ferðafélag Íslands að huga að endurbyggingu sæluhússins og lauk þeirri vinnu árið 2025. Margir lögðu hér hönd á plóg með einum eða öðrum hætti sem hér segir… Síðan eru taldir upp alls kyns pótintátar sem litlu mál skipta, en þeirra merkilegri eru þó hleðslumeistararnir Ævar og Örn Aðasteinssynir, sem eiga mikið lof skilið fyrir handverkið.
Súkkulaði og koníak í nesti
Á öðru skiltinu er eftirfarandi frásögn. „Newcome Wright (1184-1955) var enskur lögfræðingur sem kom til Reykjavíkur með skipinu Botníu í apríllok áerið 1914. Líkt og margir erlendir ferðamenn fyrr og síðar vildi hann heimsækja alþingisstaðinn fornar á Þingvöllum.
Gamli Þingvallavegur – varða við veginn austan sæluhússins.
Hann arkaði fótgangandi af stað og hugðist ganga nýja veginn frá Geithálsi til Þingvalla, allt gekk slysalaust fyrst í stað en síðan skall á blindbylur. Þá komu vörðurnar við veginn í góðar þarfir, stundum sá Wright sæluhúsið í fjarska, taldi vörðurnar þangað og komst að húsinu við illan leik. Er skemmst frá því að segja að sæluhúsið bjargaði lífi ferðalangsins, hann sagði í viðtali í Morgunblaðinu: „Í húsinu fann ég nokkra heypoka, ég tæmdi þá á gólfið, fór í pokana, hvern utan yfir annan og sofnaði, held ég, í rúma hálfa klukkustund. Að öllum líkindum svaf ég ekki lengur, en þegar ég vaknaði við einhvern hálf leiðan draum, langt uppi á heiðum Íslands, kaldur og svangur, þá vissi ég, að nú væri um að gera að flýta sér niður í byggð. Stormurinn og hríðin úti hræddu mig ekki. Ég ráfaði áfram, jafnt og þétt, sá Þingvallavatnið og komst svo kl. 5-6 um morguninn niður í Almannagjá.“
Gamli Þingvallavegur – vegvísir við veginn og gatnamót línuvegar millum Nesvallavegar og Bringna.
P.S. Eitt er svolítið skondið! Búið er að stika leið frá Heiðartjörninni við Þingvallaveg upp að sæluhúsinu í Moldbrekkum og áfram að skilti á línuveginum þvert á Gamla Þingvallaveginn millum Nejavallavegar og Bringna, 5.9 km leið. Á skilti við „gatnamótin“, sem er reyndar ekki fær nema jeppabifreiðum (skrifari, ökumaður og göngumaður fór hana samt sem áður alla leið á fjórhjóladrifinni fólksbifreið, reyndar Toyotu, sem sannaði þrátt fyrir það að ökumaðurinn skiptir jafnan meira máli en ökutækið sjálft). Ökuferðin niður að skiltinu tók u.þ.b. klukkustund, enda betra að fara bæði rólega varlega í mestu grófningunum þegar varadekkið er ekkert.
Gangan frá skiltinu að sæluhúsinu, fram og til baka, tók u.þ.b. 40 mín. Aksturinn frá skiltinu niður að Bringum tók u.þ.b. hálftíma.
1.7 km eru, skv. skiltinu, að sæluhúsinu frá línuveginum millum Nesjavallavegar og Bringna, 5.9 km frá því niður á Þingvallaveg, sem fyrr sagði, og 5.7 km að Bringum.
Gamli Þingvallavegur – skilti við línuveginn millum Nesjavallavegar og Bringna.
Óskiljanlegt er með öllu hvers vegna mönnum datt í huga að stika þessa leið, enda hefur viðkomandi þar með tekist það ómögulega, að leggja hana niður frá sæluhúsinu áleiðis að Þingvallavegi, án þess að snetra hið minnsta hina fornu neðanverða þjóðleið vermannanna fyrrum, sem og hið gamla sæluhús við Þrívörður þar skammt austar, landamerki Mosfellssveitar og Grafningshrepps! Svona er Ísland víst í dag…
Sæluhúsið er alltaf opið fyrir gesti og gangandi. Göngum vel um þessar merku menningarminjar.
Gamli Þingvallavegur – nýendurgert sæluhúsið innanvert. Ákveðið hefur verið hafa allt húsið á sama gólfi, en fyrrum var í því timburþilpallur að austanverðu fyrir fólk og aðstaða fyrir hesta í því vestanverðu. Ólíklegt er að hestum verði boðið þangað inn í framtíðinni, enda sæluhúsið einungis ætlað sem „hús sælunnar“…
Telur fornsögurnar sannar um landnámstíma Íslands – Magdalena Schmid
Í Vísi þann 23. janúar 2017 fjallar Kristján Már Unnarsson um doktorsverkefni forneifafræðingsins Magdalenu Schmid undir fyrirsögninni „Telur fornsögurnar sannar um landnámstíma Íslands„.
Magdalena Schmid.
„Þýskur fornleifafræðingur telur ítarlegar aldursgreiningar elstu minja á Íslandi staðfesta frásagnir fornsagna um að landið hafi fyrst verið numið á árunum eftir 870. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Landnemarnir.
Fornleifar sem fundust síðastliðið sumar í Stöðvarfirði eru raunar nýjasta dæmið um mannvirki sem einhver virðist hafa reist löngu áður en Ingólfur Arnarson á að hafa numið Ísland fyrstur manna. Sú niðurstaða Margrétar Hermanns Auðardóttur fyrir 35 árum, að fyrsti bóndinn í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum hefði byggt bæ sinn um 150 árum á undan Ingólfi, reyndist olía á eld viðvarandi deilna um hvort landnámssagan sé rétt.
Og þetta er einmitt doktorsverkefni fornleifafræðingsins Magdalenu Schmid; að grandskoða allar aldursgreiningar landnámstímans, en þær eru yfir 300 talsins.
Orri Vésteinsson.
„Ef maður skoðar öll gögnin, eins og ég geri í rannsókn minni, – því stundum er auðvelt að draga ályktun frá einu sýnishorni, – en þegar öll myndin er skoðuð segja gögnin okkur að þetta hafi ekki átt sér stað fyrir árið 870,“ segir Magdalena Schmid. Hún viðurkennir að vegghleðslan í Aðalstræti sé dæmi um mannvirki frá því áður en landnámsaskan féll.
Orri Vésteinsson prófessor, sem er leiðbeinandi hennar, telur aðalniðurstöðuna þá hve mikil og traust gögn séu til um landnámið. „Það er búið að gera alveg gríðarlega margar greiningar. Það er búið að fara á marga staði, grafa þá upp, og safna miklum heimildum,“ segir Orri.
Húshólmi – skáli.
Yfirgnæfandi hluti þeirra bendi til að landnám hefjist eftir að landnámsgjóskulagið féll. Tveir staðir, Reykjavík og Húshólmi við Krýsuvík, sýni mannvist undir gjóskunni en yfir 300 staðir sýni elstu mannvist rétt ofan á gjóskulaginu.
„Þetta sýnir okkur það auðvitað að fólk er komið hingað fyrir 870 en landnámið sjálft hefst ekki fyrr en eitthvað eftir þann tíma,“ segir Orri.
Niðurstaða Magdalenu Schmid er að fornleifarnar styðji frásagnir fornsagna af landnáminu.
Landnáma.
„Í sögunum er sagt að Ísland hafi verið numið á 60 vetrum og að fólk hafi komið árið 870 eða 874. Tímasetningin er mjög nákvæm, og þótt við vitum nú að fólk hafi komið aðeins fyrr, er talað um landnám, – og það stenst, – því það átti sér stað eftir 870. Þannig að sögurnar eru sannar,“ segir Magdalena.
Heimild:
-https://www.visir.is/g/2017170129545/telur-fornsogurnar-sannar-um-landnamstima-islands
Fornleifauppgröftur í Stöðvarfirði. Jörðin hefur margt forvitnilegra að geyma, þrátt fyrir allar skráðar ritheimildir…
Seljadalur – Guðjón Jensson
Guðjón Jenssen skrifaði um „Seljadal“ í Mosfelling 2024:
„Einn af fegurstu og sérstæðustu dölum innan marka Mosfellsbæjar er Seljadalur.
Guðjón Jensson.
Þessi skjólsæli og vel gróni dalur er við vesturmörk Mosfellsheiðar, sunnan og austan við Grímannsfell sem er hæsta fjall Mosfellsbæjar. Fremur fátítt er að þar sé fólk á ferð utan hestafólk sem ríður elstu leiðina í átt til Þingvalla.
Þetta var leið þriggja konunga en Kristján IX fór þarna um 1874, Friðrik VIII 1907 og Kristján X 1921.
Jón á Reykjum segir svo í mjög fróðlegri lýsingu sinni af Seljadal sem birtist í Mosfellspóstinum 19.6.1981: „Seljadalurinn er allur eða að mestu í eigu hreppsins, en er upphaflega úr jörðunum Þormóðsdal og Miðdal. Náttúrufegurð er mikil í dalnum enda skýlt úr öllum áttum nema ef til vill að norðaustan.“
Nessel í Seljadal.
Örnefnið Seljadalur vísar til að í honum hafi verið tvö sel, kannski fleiri. Í dag er einungis eitt þekkt, Nessel vestarlega í dalnum undir Grímannsfelli. Mun það fremur vera kennt við Gufunes en Nes á Seltjarnarnesi.
Má enn í dag sjá vel varðveittar rústirnar og hvernig húsaskipan var, mjög hefðbundin. Í næsta nágrenni rennur lækur en aðgengi að góðu vatni var ein af mikilvægustu forsendum seljabúskaparins enda hreinlæti mjög mikilvægt.
En hvar var hitt selið?
Viðeyjarsel (Bessastaðasel) í Lækjarbotnum.
Viðeyjarklaustur var auðugasta klaustur á Íslandi á miðöldum. Til þess var stofnað af helstu höfðingjum landsins, sjálfum Snorra Sturlusyni og Þorvaldi Gissurarsyni, föður Gissurar jarls. Klaustrið var vígt 1226 af Magnúsi biskup í Skálholti, bróður Þorvaldar. Lagði hann til klaustursins biskupstíund (osttolla) milli Botnsár í Hvalfirði og Hafnarfjarðar. Auk þess átti það reka víða um Reykjanes. Klaustrið var rænt tvívegis; 1539 og 1550.
Magnús Guðmundarson sem var prestur á Þingvelli gaf Viðeyjarklaustri selför í Þormóðsdal hinum efri segir í máldaga (eignaskrá) Viðeyjarklausturs frá 1234. Nafnið bendir til að örnefnið Seljadalur kemur síðar við sögu eftir að selin hafa verið tvö. Seljadalur er mjög grösugur og skjólsæll og Seljalandsbrúnirnar veita búsmala gott aðhald.
Kambsrétt í Seljadal.
Landbúnaðarsamfélagið fyrrum byggðist á því að unnt væri að hafa seljabúskap yfir hásumarið þannig að afla mætti nægra heyja af heimatúnum og koma búfénu frá. Þannig hefur klausturfólk átt gott samstarf við Gufunesinga við að koma búsmalanum stystu leið upp með Úlfarsá og upp í Seljadal. Þessi leið hefur þann ótvíræða kost að vera fremur stutt og greiðfær enda engar erfiðar torfærur á leiðinni.
Með siðaskiptunum verða gríðarlegar breytingar á búskaparháttum landsmanna. Danski kóngurinn leggur undir sig allar eignir klaustra, kirkna og biskupsstóla og er á einu ári orðinn eigandi 20% allra jarða á Íslandi.
Seljadalur – óskráðar selsminjar.
Fyrrum voru jarðirnar leigðar með þeim skilmálum að leiguliðar afhentu klaustrinu tiltekinn hluta af afurðum jarðarinnar, oft 5-10%. Eftir siðaskipti voru þær leigðar með öðrum skilmálum sem einkum var falið í vinnuframlagi í þágu Bessastaðavaldsins. Margir leiguliðar urðu að sjá um að senda vinnumenn sína í verið til að róa á kóngsbátunum og til veiða í Elliðaánum, en fyrirferðarmesta kvöðin hefur verið að vinna viðarkol í Þingvallaskógi og afhenda tiltekið magn á Bessastaði á tilteknum tíma.
Vegur (brú) um Seljadal.
Þetta hefur væntanlega verið ein þyngsta kvöðin enda verða viðarkol ekki unnin nema um hásumarið þegar mest er um að vera í heyönnum.
Allt þetta breytti öllum búskaparháttum meira og minna. Nautgriparækt dregst verulega saman, enda þörfin fyrir framleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum minni, en sauðfjárbúskapur eykst að sama skapi. Unnt var að sleppa sauðfé í haga eftir sauðburð og ekki þurfti eins mikla fyrirhöfn við að mjólka kýr og sinna tímafrekum bústörfum.
Nærsel í Þormóðsdal „hinum efri“.
Mér þykir mjög líklegt að Viðeyjarsel hafi verið þar sem nú er Kambsrétt. Hún var skilarétt Mosfellinga og nærsveitarmanna væntanlega fljótlega upp úr siðaskiptum og fram yfir miðja 19. öld. Þá var Árnakróksrétt austan Selvatns tekin í notkun, mjög stór og stæðileg.
Umhverfi hennar er votlendi og þótti auk þess vera nokkuð úr leið einkum fyrir þá Mosfellinga sem í Mosfellsdal bjuggu. Varð það til þess að Hafravatnsrétt var tekin í notkun 1901 og er líklega einna frægust rétta í Mosfellsbæ.“
Í Seljadal eru reyndar fleiri en tvö sel, þ.e. Nessel og Nærsel. Þau eru a.m.k. þrjú talsins. Hvorki Nærsel né hið þriðja hafa enn ekki verið skráð. Selstaða hefur hins vegar aldrei verið í Kambsrétt.
Heimildir:
-https://mosfellingur.is/seljadalur/
-Heimild: https://timarit.is/files/66988132
-heimild: Fornbréfasafn Íslands, fyrsta bindi bls. 507.
-Guðjón Jensson.
Nærsel í Þormóðsdal – uppdráttur ÓSÁ.
Minna-Knarrarnes; Sauðholt – beitarhús – heimasel – refagildra
Á göngu FERLIRsfélaga í heiðinni ofan Vatnsleysustrandar, millum Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, rákust þeir m.a. á fjórar nálægar tóftir á grónum klapparhrygg, á og við svonefnd Sauðholt.
Krummhóll – „vörðubrot“.
Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Kristján getur ekki um tóftir í Sauðholtum.
Framangreind lýsing skýrir margt enn óskýrt á þessu svæði, auk þess að nauðsynlegt var að skýra það um betur. Vörðubrotið á Krummhól sést enn, Vorkvíar voru afgirtur gróinn blettur ofan við Hellur í landi Minni-Knarrarvogs. „Grashóllinn gróni“ er reyndar austan Krummhóls. Á honum er gömul fjárborg. Lynghóll er langt farri í suðvestri. Lýsing Kristjáns er þrátt fyrir framangreint ágæt ávísun á Sauðholtin. Hún vakti áhuga á nánari könnun á vettvangi.
Knarrarnes – refagildra.
FERLIR gekk í framhaldinu með Birgi Þórarinssyni, húsbónda á Minni-Knarrarnesi, upp í heiðina á tilnefndu svæði. Birgir er þarna öllum hnútum kunnugur.
Eftir að hafa gengið að Digruvörðu, landamerkum Minni-Knarrarness og Ásláksstaða vestan yfir Vorkvíar og skoðuð tóft „brúsahússins“ við Gamlaveg ofan Hellu var staðnæmst við litla landamerkjavörðu á klapparhól ofan vegarins. Ljóst var að varðan sú var í sjónhendingu við Digruvörðu í línu upp heiðina að áberandi vörðu á Knarrarstaðaholti með beina stefnu í „Nyrðri-Keilisbróður“.
Minna-Knarrarnes – minnismerki um ítalskan hund.
Skammt austar var stölluð nútímavarða í lægð á millum skollóttra hraunhraunhóla. Birgir sagði að hann hefði leyft Ítala nokkrum, eftir hans þrábeiðni, að grafa dauðan hundinn hans þarna og auk þess að hlaða minnismerki hundinum til heiðurs. Birgir sagðist hafa verið fjarverandi þegar leyfið var veitt svo umfangið hafi komið honum á óvart er heim kom.
Haldið var áfram upp heiðina og staðnæmst við vörðubrotið á Krummhól. Auðljóst var að þarna hafði verið skjól refaskyttu fyrrum. Leifar af torfhlaðna skjólinu gáfu það til kynna, auk þess sem varðan virtist skjól fyrir skyttuna fyrir niðurkomu refsins beggja vegna ofanverðar klapparhæðar.
Krummhóll – „vörðubrot“.
Töldu viðstaddir líklegt, að fenginni reynslu, að hlaðna refgildru væri að finna í nágrenninu. Bæði var það vegna staðsetningar skjólsins með hliðsjón af landslaginu og tilkomu byssunnar á síðari tímum. Hafa ber í huga að refurinn hefur frá örófi alda fetað sömu slóðirnar fram og til baka eftir árstíðum. Forfeðrum vorum var kunnugt um það. Þeir hlóðu því gildrur í gegnum aldir á sömu slóðum og seinni tíma veiðimenn nýttu sér aðstöðuna með nýjum og nútímalegri áhöldum.
Eftir stutta göngu var gengið, að því er virtist fram á vörðubrot á klapparhrygg. Við nánari skoðun var þarna greinilega um forna hlaðna refagildru að ræða, þá 98. fundna og skráða á Reykjanesskaganum.
Minna-Knarrarnes – forn refagildra, óskráð, opinberuð um skamma stund.
Skv. Þjóðminjalögum má að vísu ekki hreyfa við fornleifum án heimildar Minjastofnunar, en þar sem reyndasti fornleifafræðingurinn á svæðinu var með í för, var ákveðið að sýna þátttakendum hleðslutæknina, innvolsið og lýsa tilgangi og tilurð þess fyrir viðstöddum. Að því loknu voru allir fyrrum steinar fjarlægðir ofan af innganginum, mannvirkinu lýst af nákvæmni, og steinarnir síðan settir nákvæmlega á sinn stað aftur.
Hlaðnar refagildrur eru mannvirki er komu hingað til lands með forfeðrum og -mæðrum vorum frá Noregi. Þær voru notaðar, sem fyrr sagði, allt umfram tilkomu skotvopna. Með tilkomu þeirra voru gildrurnar jafnan virkjaðar að vetrarlagi. Eftir því sem skotvopnin urðu algengari og betri lagðist gildrunotkunin af. Þeir síðustu manna er vitjuðu gildranna gengu illa um þær. Þeir rótuðu grjótinu ofan þeim án þess að laga til eftir sig. Þess vegna líta fornar refagildrur út líkt og fallnar vörður í augum nútíma fornleifafræðinga. A.m.k. hafa þær sjaldnast verið skráðar sem slíkar í nútíma fornleifaskráningum.
Refagildra – ÓSÁ.
Steinhlaðin refagildra felur í sér op, gang, farg, lokhellu og fyrirstöðu. Hér verður ekki eytt stöfum í að lýsa veiðiaðferðinni. Henni hefur áður verið lýst á vefsíðunni.
Skammt ofar var komið upp á Sauðholtin fyrrnefndu. Á þeim bar fyrir augu þrjár hlaðnar tóftir; fremst beitarhúsið framangreint, og ofar hlaðinn stekkur með aðtengdri tóft. Augljóslega var þarna um að ræða fyrrum heimasel frá Minna-Knarrarnesi, þrátt fyrir að minjarnar væru skráðar með Ásláksstöðum, næsta bæ að vestanverðu.
Stekkurinn og aðliggjandi tóft bárum þess merki að um heimasel hafi verið að ræða, væntanlega eftir að aflokinni selstöðinni í Knarrarnesseli ofar í heiðinni lokinni. Með breyttum búskaparháttum, tilkomu þéttbýlismyndunar og fækkun fólks í sveitum færðust selstöðurnar nær bæjunum. Það er reyndar saga út af fyrir sig, sem vel hefur áður verið tíunduð hér á vefsíðunni.
Selshúsin eru hefðbundin, með þremur rýmum. Grjóthleðsslur í veggjum sjást enn vel.
Tóftin er grjóthlaðin og tvískipt og snýr nálega norður-suður. Hún er um 8,5×6 m að stærð. Mesta hæð veggja er um0,5 m og sjást 2 umför hleðslu. Vesturhluti tóftar er gróinn og sést ekki í hleðslur þar. Hólf I er nyrst í tóftinni, það er um 5×2,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki virðist vera veggur fyrir austurhlið hólfsins og er það því opið til þeirrar áttar. Hólf II er samsíða hólfi I en ógreinilegra. Það er um 5×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sést op á því. Líklegt er að þarna hafi verið beitarhús en lag tóftarinnar, staðsetning hennar og fjarlægð frá bæ bendir allt til þess hlutverks.“
Minna-Knarrarnes – beitarhús.
Í fornleifaskráningunni fyrir Stærra-Knarrarnes segir: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum.- Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg. Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá. „Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær.
Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel). Beitarhús efst t.h.
Aðeins neðar á holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar finnum við lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hól,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Allar þær minjar sem að framan eru nefndar eru skráðar saman og fleiri til en vatnsstæðið fannst ekki. Heimildum kemur ekki saman um örnefnið Borg. Í örnefnaskrá er það sagt vera grasigróinn, toppmyndaður hóll, en í bókinni Örnefni og gönguleiðir er það sagt vera holt. Niðurstöður vettvangskönnunar eru að örnefnið Borg eigi við um fjárborg sem hefur verið breytt í stekk á einhverjum tímapunkti. Þessar minjar hafa bókstafinn C í nánar umfjöllun hér fyrir neðan. Minjarnar eru um 1 km sunnan við bæ. Minjarnar eru sunnarlega á löngu og háu holti sem snýr norður-suður.
Minna-Kjarrarnes – heimasel.
Minjarnar eru á svæði sem er um 55×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Nyrst á svæðinu er tóft A. Hún er grjóthlaðin en gróin. Hún er um 7×5 m að stærð, snýr suðaustur-norðvestur. Hún virðist vera einföld og er op á henni til norðvesturs. Mikið grjót hefur hrunið inn í hana og norðausturlangveggur hefur allur hrunið inn í tóftina. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega er þessi tóft sú sem sögð er „nýrri fjárhústóft“ í tilvísun hér að ofan eða beitarhús.
Minna-Knarrarnes – búr.
Um 40 m suðaustan við tóft A er gróin tóft B. Hún er einföld, um 4×4 m að stærð og er inngangur inn í hana úr austri. Mesta hæð veggja er um 0,5 m. Lítillega sést í grjót í norðausturhorni tóftarinnar. Til austurs frá tóftinni er greinilegur niðurgröftur eða renna sem virðist vera manngerð. Hún er um 6×3 m að innanmáli, snýr austur-vestur og mjókkar í austurenda. Mesta dýpt er um 0,3 m. Um 5 m austan við endann á rennunni er tóft C, meint stekkjartóft. Lögun tóftarinnar og örnefnið Borg bendir til þess að þarna hafi áður verið fjárborg. Annað dæmi um fjárborg sem virðist hafa verið breytt í stekk er t.d. Þórustaðaborg og Vatnabergsstekkur/Vatnaborg.
Tóftin myndar dálítinn hól og er orðin óskýr. Símastrengur hefur verið grafinn í gegnum hana og skemmt hana.
Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel).
Tóftin er nokkuð gróin þó enn sjáist í grjóthleðslur. Hún er um 9×12 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Hún skiptist í þrjú hólf en hólfin eru nefnd tóftir í tilvísun hér að framan. Hólf I er í norðvesturhorni. Það er um 1×3,5 m að innanmáli, snýr norður-suður. Inngangur er úr suðri. Hólf II er samsíða hólfi I. Það er um 1×2,5 m að innanmáli. Það snýr eins og hólf I og inngangur í það er einnig úr suðri. Hólf III er sunnan við hólf I og II og er um 4×1,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Mesta hæð tóftar er um 1 m. Mest sjást 2 umför í innanverðum hleðslum. Gróin en grýtt tota liggur úr tóftinni til austurs sem er um 4 m löng og um 2 m á breidd. Mögulegt er að rekstrargarður hafi verið þar og inngangur inn í tóftina (hólf III) en það sést ekki lengur. Gryfja D er um 2 m suðaustan við tóft C. Hún er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr suðvestur-norðaustur. Mesta dýpt er um 0,5 m. Ógreinilegar grjóthleðslur eru í innanverðum veggjum.“
Knarrarnes – beitarhús.
Um er að ræða áhugaverðan stað í hvívetna, ekki síst að teknu tilliti í sögulegu samhengi fyrrum búskaparhátta. Um er að ræða 424. þekktu selstöðuna á Reykjanesskaganum.
Í „Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga“ um „Vitnisburð búsetuminja“ árið 2010 segir um beitarhús: „Beitarhús – sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var.
Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust var var hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.“
Beitarhús ofan Knarrarness.
Í neðanverðri heiðinnni, ofan bæjanna við ströndina, er að öllu jöfnu tiltölulega snólétt og því er staðsetning beitarhússins vel skiljanleg. Augljóst er að „stekkurinn“ hefur verið notaður um alllangt skeið og eftir að beitarhúsið var byggt því annars hefði grjótið verið tekið úr hleðslum stekksins við byggingu þess. Hvorutveggja hefur farið vel saman því um notkun hvors um sig voru á sitthvorri ártíðinni.
Knarrarnes – heimasel.
Skammt sunnan við Sauðholt eru tóftir í gróinni kvis undir lágum aflöngum klapparhól. Um er að ræða stekk og litla byggingu með einu rými. Tóftirnar eru greinilega mjög gamlar, mun eldri en minjarnar á Sauðholti. Líklega hefur þarna verið heimasel frá Minna-Knarrarnesi. Þessara minja er hvorki getið í örnefnalýsingum né í fornleifaskráningum af svæðinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1.mín.
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.
Keilir – með tilheyrandi stauramengun.
Endurvígsla sæluhúss á Mosfellssheiði
Á vefsíðu Ferðafélags Íslands mátti þann 23. júni 2025 lesa eftirfarandi um „Vígslu sæluhúss FÍ á Mosfellsheiði“:
Gamli Þingvallavegur – endurgert sæluhúsið.
„Veðrið lék við gesti sem áttu mjög ánægjulega og hátíðlega stund. Fjallasýnin til Þingvalla var einstaklega tilkomumikil og fögur.
Ferðafélag Íslands vígði nýtt endurgert sæluhús félagsins á Mosfellsheiði sunnudaginn 22 júní að viðstöddum fjölmörgum gestum.
Ólöf Kristín Sívertsen, forseti FÍ bauð fólk velkomið og þakkaði sérstaklega öllum þeim sem hafa komið að endurbyggingu hússins. Þar hafa bræðurnir Örvar og Ævar Aðalsteinssynir annast byggingu hússins en auk þeirra var Unnsteini Elíassyni hleðslumeistara úr Borgarfirði, Bjarka Bjarnasyni sem leiddi undirbúning verkefnisins, leyfismál og fl., Bjarna Bjarnasyni frá Hraðastöðum og Jóni Sverri einnig þakkað fyrir þeirra framlag. Þá var þakkaður stuðningur frá Erni Kærnested og fasteignafélaginu Bakka.
Gamli Þingvallavegur – Örvar og Ævar að verki við endurgerð sæluhússins.
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ fór m.a. yfir sögu skálabygginga FÍ og starf félagsins í upphafi, sýn og drauma frumkvöðlanna og sjálfboðaliðanna sem leiddu starf félagins og byggðu upp á fyrstu árum þess. ,,Endurbygging sæluhússins er okkur hjá FÍ afar kær og okkur finnst mikilvægt að sinna því. Skilgreint hlutverk félagsins er m.a. bæði að skipuleggja ferðir um landið og standa að skálauppbyggingu og rekstri fjallaskála. Okkar hlutverk er einnig að halda til haga ýmsum fróðleik og huga að sögulegum rótum – framkvæmdirnar á Mosfellsheiði eru mjög í þeim anda,“ sagði Páll.
Bjarki Bjarnason fór m.a. yfir vegagerð á Mosfellsheiði, sagði sögu af enskum ferðalangi sem leitaði skjóls í sæluhúsinu í aftakaveðri og með koníak og súkkulaði í nesti, sem bjargaði lífi hans. Þá rakti hann tilurð verkefnis og framkvæmdasögu sæluhússins.
Örvar og Ævar Aðalsteinssynir hafa haft veg og vanda af endurbyggingu hússins og gert það með miklum sóma.
Örvar og Ævar Aðalsteinssynir greindu frá byggingu hússins, allt frá grunni og þar til verkinu var lokið. Þeir greindu frá því hvernig verkefnið hefði verið unnið í áföngum, frá ári til árs og gengið einstaklega vel.
Fjölmargir hestamenn mættu i kaffi ( kristal ) og tóku lagið.
Pétur Ármannsson þakkaði fyrir ánægjulegt samstarf við alla þá sem að þessu verkefni hafa komið og greindi frá hugsanlegri friðun Þingvallavegar hins gamla, sem nú er í umsóknarferli.
Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir, sóknarprestur í Mosfellsbæ blessaði sæluhúsið og hendur þeirra sem að komu, og mæltist einstaklega vel í fallegri ræðu.
Að lokum var boðið upp á léttar veitingar og Örævabandið tók nokkur lög inni í sæluhúsinu við góðar undirtektir.“
Sæluhúsið við Gamla-Þingvallaveginn um 1900.
Þetta hefur verið svolítið skondin samkoma á Mosfellsheiðinni þennan umrædda „dýrðardag“ og margir raftar þar á sjó dregnir af litlu tilefni „endurvígslunnar“.
Þess má t.d. geta, í fysta lagi, að ekki er um „endurbyggingu“ sæluhúss FÍ að ræða. Sæluhúsið var byggt á kostnað íslenska ríkisins árið 1906 í þeim tilgangi að skapa afdrep fyrir Friðrik VIII Danakonung í heimsókn hans hingað til lands árið eftir. Einn forkólfa Árbókar FÍ 2023 ánafnaði félaginu leifum hússins, að því er virðist án nokkurrar heimildar.
Eldra sæluhúsið í Moldabrekkum, endurgert.
Þá ber að hafa í huga að vagnvegagerðin um Mosfellsheiði, sem hófst árið 1886, var að fullu lokið árið 1891. Í upphafi vegagerðarinnar var reist skjól fyrir vegagerðarmennina sem steintilhöggna sæluhúsið var síðar reist þar skammt frá. Tóftir gamla hússins má sjá austan við hið endurgerða hús sem og brunninn, sem þar var fyrrum upphlaðinn á klöpp. Svo virðist sem bæði minjaverði svæðisins og forkólfum verkefnisins hafi yfirsést þessar eldri minjar við útekt og undirbúning framkvæmdanna. Fyrrum reynsla af slíkum kemur þó ekki á óvart.
Upphaflega sæluhúsið í Moldarbrekkum 1896 – Daniel Bruun.
Af lýsingu Kålunds frá þessum tíma má a.m.k. lesa tvennt; hann skrifar lýsingu sína 1877 og er þá að lýsa elstu Þingvallaleiðinni um Seljadal um Moldabrekkur, sem er nokkuð norðan Gamla Þingvallavegarins, sem byggður var, sem fyrr segir, á árunum 1886-1891. Við þá eldri leið hafði verið byggt sæluhús í Moldabrekkum 1841. Húsið var byggt úr svonefndum Sýsluvörðum (Þrívörðum). Vatnslind er þá neðan við húsið. Til er ljósmynd af því húsi, sem nú er tóft ein. Á því var lítill kross á gafli, líkum þeim er settur hefur verið á gafl hins endurgerða sæluhúss.
Gamli Þingvallavegur – endurbyggt hús og eldri sæluhúsatóft.
Í Lögbergi-Heimskringlu 1890 segir að við Gamla Þingvallaveginn hafi fyrst verið byggt sæluhús 1890, á háheiðinni. Hleðslumeistari hafi verið Sigurður Hansson (1834-1896), sem hlóð einnig reisulegar vörður meðfram veginum. Hafa ber í huga að vörður á fyrirhugðum vagnvegum voru jafnan hlaðnar nokkru áður en fyrirhuguð vegagerð hófst.
Í framangreinda lýsingu virðist hafa gleymst að „sæluhús“ úr torfi og grjóti hafði þegar verið reist á framangreindum stað, líklega um 1890. Tóftir hússins eru skammt austan steinhlaðna hússins, sem líklegt er að hafi verið byggt um 1906 í tilefni af væntanlegri konungskomu Friðriks VIII árið 1907. Aftan (norðan) við gamla sæluhúsið mótar fyrir gerði.
„Endurvígsla“ gamla sæluhússins – Jón Svanþórsson, einn höfundanna um Árbók FÍ 2023 um Mosfellsheiðina kímir svolítið í kampinn.
Fyrirmenn hafa væntanlega ekki talið „sæluhús“ vegagerðarmanna, gert upp á íslenskan máta úr torfi og grjóti, boðlegt hinum konungbornu og því verið ákveðið að gera nýtt álitlegra „skjól“ við hlið þess. Innandyra var aðstaða fyrir ferðamenn á upphækkuðum trépalli að austanverðu og fyrir nokkra hesta að vestanverðu.
Pétri „presti“ Ármannssyni ætti að vera vel kunnugt um að skv. Minjalögum eru allar minjar eldri en 100 ára friðaðar og því óþarfi að beita þær „friðlýsingum“ líkt og gert hafði í anda gömlu Þjóðminjalaganna.
Handverk Örvars og Ævars ber þó, þrátt fyrir alla vitleysuna, að lofa. Efast má hins vegar um að nokkur prestur hafi haft þar nokkurn tilgang, þangað til núna, til þess eins að babla um eitthvað sem engu máli skiptir.
Heimild:
-https://www.fi.is/is/fi/frettir/saeluhuhus
Eldra sæluhúsið við Gamla Þingvallaveginn, sem enginn virðist hafa gefið nokkurn gaum..