Langihryggur

Hér á eftir, líkt og svo margsinnis fyrrum,  verður fjallað um meintan „þjófnað“ á tilteknum minningarmörkum stríðsáranna á Reykjanesskaga. Fjallað verður sérstaklega um einn staðinn af öðrum fjölmörgum, og það að gefnu tilefni.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Lög um minjavernd árið 2012 virðast hafa verið samþykkt af mikilli skammsýni. Am.k. var ekki í þeim hugað að mikilvægum fornleifum framtíðarinnar.
Hingað til hefur minjasamfélagið t.d. horft framhjá því að svonefndir „safnarar“ hafi farið ránsferðir um stríðsminjasvæðin, hirt upp einstaka hluti, komið þeim fyrir í einkageymslum eða jafnvel boðið þá upp á Ebay í hagnaðarskyni. Fyrrum var í „þjóðminjalögum“ bann við einstaklingsbundinni notkun málmleitartækja, eins vitlaust og það nú var, en fátt í núgildandi lögum hamlar „söfnurum“ að fara ránshendi um sögustaði framtíðarinnar.

Langihryggur

Langihryggur- flugslysið er birtist þeim er fyrstir komu á vettvang.

FERLIR hefur nokkrum sinnum áður fjallað um mikilvægi varðveislu stríðsminja á Reykjanesskaganum til framtíðar litið, ekki síst sem hluta af sögu svæðisins. Nefna má t.d. frásögnina um „Minjar stríðs„, Stríðsminjar,  stríðsminjar sminjar-2/II og  auk þess umfjöllun um „Helgi flugvélaflaka„.

Kastið

Kastið – gripur, sem hirtur var úr flugvélaflakinu.

Eitt dæmið um hirðusemi „safnara“ er t.d. þegar nokkrir þeirra fóru á þyrlu upp að Kistufelli í Brennisteinsfjöllum og fjarlægðu þaðan hreyfil af flugvél er þar fórst á stríðsárunum. Hreyflinum komu þeir fyrir framan við aðstöðu þeirra á Leirunum í Mosfellsbæ og þar hefur hann síðan verið að grotna þar niður, fáum öðrum en þeim til fróðleiks í hinu sögulegu samhengi.

Í „Lögum nr. 80 29. júní 2012 – lögum um menningarminjar“ er litlum gaum gert að „verðandi fornleifum“ hér á landi. Í 20. gr. er reyndar fjallað um „Skyndifriðun“ þar sem segir: „Minjastofnun Íslands getur ákveðið skyndifriðun menningarminja sem hafa sérstakt menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi“, en í huga forsvarsmanna þeirrar stofnunar hafa þó ekki verið friðlýstar framangreindar „fornminjar“ eða þær notið  lögbundinnar friðunar, sé hætta á að minjunum verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt, líkt og segir.

Skyndifriðun tekur gildi þegar Minjastofnun Íslands hefur tilkynnt öllum hlutaðeigandi aðilum um ákvörðun sína með tryggilegum hætti. Ákvörðun er bindandi eftir að tilkynning um hana er komin til aðila og gildir í allt að sex vikur.

Gamla Grána

Gamla Grána – slysavettvangur í Bláfjöllum.

Ráðherra ákveður hvort friðlýsa skuli viðkomandi menningarminjar áður en skyndifriðun lýkur að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.“ Svona einfalt er það?! Núgildandi „lög um menningarminjar“ vernda augljóslega ekki verðandi fornleifar með sögulegt gildi utan áhugasviðs forsvarsfólks stofnana ríkisins, a.m.k. virðist það ekki hafa haft hinar minnstu  áhyggjur af slíkum minjum á Reykjanesskagnum hingað til.

Njarðvík

Nýlega var auglýst STRÍÐSMINJASÝNING á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar í Rammahúsinu – Njarðvík; „Safnahelgi á Suðurnesjum 16-17. október“ (2021). Uddirskriftin var „Stærsta sýning af þessu tagi sem haldin hefur verið á íslandi. Um tíu aðilar víðs vegar af landinu sýna muni úr einkasöfnum. Skotvopn – skotfæri, Orður, Skjöl, Ökutæki og fleira verður á staðnum. EKKI MISSA AF ÞESSU.“

Skoðum forsöguna, sem m.a. má sjá á https://ferlir.is/fagradalsfjall-langihryggur-flugvelabrak-3/

Langihryggur

Langihryggur – flugslys.

“Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið “74-P-8” hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur öðrum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafist í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.

Langihryggur

Langihryggur – slysavettvangur.

Þar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir “74-P-3” og “74-P-9” lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10.

Langihryggur

Langihryggur – slysavettvangur.

Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í veg fyrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið. Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.”

Njarðvík

Langihryggur – hreyfillinn í langri fjarlægð frá upprunanum. Gísli Sigurðsson horfir agndofa á dásemdina.

Í skrám hersins um slysið segir:
Martin Mariner PMB 3D
Flugvélin flaug í 800 feta hæð og brotlenti í suðausturhlíð Fagradalsfjalls, Langahrygg og gjöreyðilagðist í árekstrinum og eldi. Skyggni var slæmt.
Allir um borð létust í slysinu:
-Ens. G.N. Thornquist catpt.
-Ens. C. Bialek, pilot

Langhryggur

Langihryggur – Gísli í viðtali við einn þeirra er fjarlægði vettvangsminnismerkið – í óþökk landeigenda…

-2/Lt. William P. Robinson, pass (US Army 10th Infantry)
-Aviation Machhinists´s Mate 1st Class, Vern H. Anderson
-Aviation Machinists´s Mate 1st Class, Walter V. Garrison
-Radioiman 1st Class, Oran G. Knehr
-Seaman 2nd Class, M. Ground
-Seaman 2nd Class, E.L. Cooper
-Aviation Machinists´s Mate 1st Class (Naval Pilot), Coy. M. Weerns
-Radioman 2nd Class, Joseph S. Wanek
-Aviation Machinists´s Mate 3rd Class, Andrew R. Brazille
-Aviation Ordnanceman 3rd Class, W. Gordon Payne

Langihryggur

Hreyfillinn að grotna niður í geymslu „safnaranna“….

Flugvélin:
-Framleiðandi: Glenn L. Martin Company, PBM-3D Mariner
Skráningarnúmer: 74-P-8
Bu.No: 1248
Tilheyrði: Us Navy, Squadron VP-74

Í umfjöllun á https://ferlir.is/langihryggur-fagradalsfjall-dalssel/ segir frá slysinu í Langahrygg.

Langihryggur

Langihryggur – þeir er létust í slysinu…

Í annarri frásögn á vefsíðunni segir: „Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu. Fylgt var gömlu leiðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn. Kíkt var í Drykkjarsteininn, sem Símon Dalaskáld orti um á sínum tíma og getið er um í annarri FERLIRslýsingu. Skárnar voru stútfullar af tæru regnvatni.
Haldið var áfram upp með Bratthálsi og Lyngbrekkur og stefnan tekin á Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill.

Langihryggur

Langihryggur – hreyfillinn á slysavettvangi.

Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.
Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stóra Hrút. Stóri Hrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stóra Hrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs.

Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.

Þann 17.10.2021, í „Landanum“ skoða 21;24 mínútuna, var m.a. fjallað um framangreindan „þjófnað“ á hreyflinum í Langahrygg, án þess að þáttarstjórnandinn virðist kveikja hið minnsta á „perunni“, a.m.k. ekki hvað forsöguna né staðarminjagildið varðaði.

Hafa ber í huga að minjar er lúta að lífslokum þeirra þátttakenda er gerðu sitt besta til að uppfylla skilyrðislausar kröfur yfirmanna sinna á stríðsárununum ber að varðveita að verðleikum á vettvangi, þótt ekki væri til annars en til að minnast þeirra þar er hlut áttu að máli hverju sinni…

FERLIRsfélagar hafa t.d. fylgt afkomendum slyss í Núpshlíðarhálsi og öðrum slíkum á slysavettvangá Sveifluhálsi. Allir þeir voru afskaplega ánægðir með að að fá dvelja um stund með leifum flugvélanna á vettvangi. Einn afkomendanna í Sveifluhálsi hafði borið með sér gyltan hnapp, sem herstjórnin hafði sent fjölskyldunni að honum látnum. Hann dró  hnappinn fram úr vafningi, gróf hann niður í svörðinn, hélt stutta bæn og rótaði síðan yfir. Ólíklegt má telja að safnarar mubu finna gripinn þann, sem betur fer….

Heimildir m.a.:
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/landinn/30779/95h066< – (21:24 mín)

Langihryggur

Hreyfillinn í Langahrygg – helsta minningarmerkið um atburðarrásina á vettvangi þessa sögulega slyss, áður en það var fjarlægt og fyrirkomið i innilokaðri geymslu í Njarðvík er fáir koma til að berja það augum í framtíðinni…

Öxarárfoss

Í Eimreiðinni árið 1922 er grein eftir Dr. Louis Westerna Sambon um „Þingvallaför“ hans:

Louis Westenra Sambon
Dr. Louis Westenra Sambon fæddist á Ítalíu (1871?), af frönskum, ítölskum, enskum og dönskum ættum. Faðir hans var franskur í föðurætt, en ítalskur í móðurætt. Móðir hans var ensk, skyld skáldinu Charles Dickens og komin af hinum fræga danska siglingamanni, Vitus Bering. Faðir hans, er barðist sem fríliði í her Qaribaldi, var frægur fornfræðingur, einkum myntfræðingur.
Louis lést 30. águst 1931 (63 ára).

„Þriðjudag 28. júní. — Klukkan rúmlega níu, leggur löng bifreiðalest af stað úr Reykjavík til Þingvalla með konungsfólkið og um hundrað gesti. Meðal gestanna eru yfirvöldin á staðnum, prófessorar háskólans og allmargir blaðamenn.

 

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þingvallavegurinn er vel kunnur. Hann liggur til suðausturs um ófrjótt og grýtt ölduland, yfir Elliðaárnar, fræga laxelfi, rétt ofan við ósana, stígur svo smámsaman í tvö hundruð og tuttugu feta hæð yfir sjávarmál, liggur um vesturbakka Rauðavatns og þaðan nálega samhliða Hólmsá upp að Geithálsi. Hólmsá rennur í Elliðaárnar og líður í bragðfögrum bugðum fram með Rauðhólum, þyrpingu rauðra og svartra smágíga, er minna á forngrísk skapker, steind rauðum og svörtum myndum. Þessa stundina speglar Hólmsá algrátt loftið og er sem gjörð úr skygðu stáli um hraunhólana. Allt er svæðið skolbrúnt eða hnotbrúnt yfirlits, með óreglulegum flekkjum hér og þar af rauðbrúnu gjallkenndu hrauni og grænleitum engjum, drifnum ótali frostalinna þúfna. Í þúfunum eru hvítar, mórauðar og svartar kindur í ró að kroppa hýjunginn. Kringum hina strjálu bæi eru skýrt afmarkaðar, fagurgrænar flatir. Það eru túnin, sem gefa af sér töðuna, vetrarfóðrið handa kúnum. Alt hitt er grjót, hrúgald af hraunhellum og -molum á víð og dreif, af hvers konar stærð og lögun.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Átakanlega ófrjótt, grátt og eyðilegt, og þó er þessi grjótauðn svipmikil og full af fegurð. Klettarnir eru ýmist flekkóttir af skófum eða í mosareifi. Á milli steinanna og í hraungjótunum vaxa burknar og blómjurtir. Stór svæði eru þakin lágvöxnu, silfruðu birki- og víðikjarri svo þjettu sem þófi væri, eða purpurábreiðu af sauðamerg (Loiseleuria poocumbens). Túnið þakið sóleyjum glóir sem gullþynna. Stórir skúfar af rjómalitum rósum — hinum elskulegu holtasóleyjum (Dryas octopetala), skína í svartri umgerð veðurbitinna kletta: Á víð og dreif um ömurlegustu auðnir glitra smaragðlifar mosalegar þúfur af lambagrasi, settar rúbínrauðum stjörnum. Þessar blómperlur eru gleðin síunga. Á vinstri hönd er Esjan, verndarvættur Reykjavíkur, mikið fjall krýnt björtum skýjabólstrum; hlíðarnar eru með fönnum, sóldílum og skýjaskuggum. Framundan rísa þrír tindar úr mistrinu. Það eru Móskarðshnúkar og Skálafell og líta út sem vofur í snjóhempunum.

Louis Westerba Sambon

Louis Westenra Sambon á Íslandi.

Við Geitháls skiftist vegurinn í tvær álmur. Vér förum þar til vinstri, í norð-austlæga stefnu, og komum nú brátt inn á milli margra smávatna og tjarna. Við Krókatjörn komum vér auga á bifreiðalestina okkar löngu, fulla af prúðbúnum körlum og konum, háværum og glaðværum. Vér förum fram hjá tveimur biluðum bifreiðum og tökum strandaðan farþega: Það var vitamálastjórinn.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Þrívörður. Útsýni til Þingvalla.

Vér erum nú á heljarvíðu hringsviði. Veggir og sæti eru fjöll, áhorfendur ský, leikvöllurinn hraunbreiða, skylmingamennirnir hundraðhentir risar, og munda sumir logasverð, en sumir í ísbrynjum. Blýgrátt og drungalegt loftið dregur mjög úr litunum á landinu. Mest ber á dökkgráum og dumbungslitum. En hvað þetta litskrúðsleysi er þó áhrifamikið þrátt fyrir allt! Með höfuðskeljastaðinn Skálafell frammi fyrir oss og regnskýin yfir höfðum vorum, minnumst vér »Krossfestingarinnar« eftir Vandyke og »Syndaflóðsins« eftir Poussin, tveggja meistaraverka þar sem grálitunum hefir verið beitt af mikilli snild. Í bröttum hlíðum og gljúfrum fjallanna liggja fannir og breðar, ömurlega ataðir eldfjallaösku.

Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegurinn.

Vér erum nú að fara upp Mosfellsheiði, sem er víðáttumikil auðn, yfirlits eins og grjótnáma og öll úr gjallmylsnu og hraungrjóti í kynlegustu myndum. Klettarnir eru flekkóttir af krabbalegum skófum, hvítum, svörtum, bronsgrænum, dúfulitum, og alstaðar eru, eins og njarðarvettir á kóralrifi, mjúkir grænir koddar af lambagrasi, þar sem urmull af purpurarauðum blómum glóir eins og hin stjörnumynduðu dýr á kóralgrein. Sauðfé er einkennilega sólgið í þessa jurt. Meira að segja fór svo, að þegar nokkrar kindur voru fluttar til einnar af Farne-eyjunum, þá varð það til þess að fálkapungurinn (Silene maritima), náskyld tegund, varð nálega upprætt þar, og höfðu þó hinar grænu og ljósrauðu breiður hans lengi verið einkennileg prýði á eynni.
Konungsvegur
Hér um bil miðja vega á heiðinni nemum vér staðar við tvö stór tjöld, er þar höfðu verið reist, og förum úr vögnunum til að fá oss hressingu. Ég tek í höndina á franska ræðismanninum, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor háskólans, landlækninum, og er nafngreindur fyrir öðrum gestum. Konungurinn gengur um og býður kvenfólkinu Dourneville súkkulað. Hann heilsar mér á frönsku og gefur mér það seinasta af sælgætinu. Ég sting því í vasa minn hjá kæru bréfi, rituðu í flýti, og getur verið að bréfritarinn fái að flytja hin konunglegu sætindi úr purpurapappírnum og silfurþynnunni að rauðum vörum og perlutönnum.

 

Þingvallavegur

Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vér hverfum aftur til vagnanna og ökum áfram yfir eyðilega og tilbreytingarlausa heiðina. Ömurleikinn alt umhverfis er ógurlegur; þögnin er sem farg; ekkert hreyfist í hrauninu; ekkert bærist í loftinu, ekkert heyrist nema vagnahljóðið og skraf og hlátur samferðamannanna; og þó ber sjónarsviðið von um æðistryltan orraleik: haf í uppnámi storknað í stein, and í flogateygjum fyrir einhverju ógnarafli. Væri ekki víðáttan; gæti þessi grjótauðn vel verið mynd af þeirri stundu opunarinnar þegar óskapnaðurinn var að taka á sig lögun heimsins okkar, höggvin í basalt af voldugum hamri Einars Jónssonar.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – ræsi.

Meðfram veginum á hægri hönd hafa stórar steinvörður verið reistar, til að vísa ferðamönnum veg, þegar landið er undir snjó. Aflangur steinn skagar út úr vörðunni ofanverðri og bendir á veginn. Mér er sagt að hrafnar, sem nú eru farnir til að boða komu konungsins, sitji altaf á þessum fingravörðum, og fari hin prestlega fjaðrahempa þeirra vel við svartar vörðurnar. Þarna sitja þeir, blaka vængjum, krunka, gala og bomsa. Heimildarmaður minn segir: »Þeir virðast altaf vera rétt komnir að því að vitna í ritninguna«. Honum skjátlast: Þessir »ljótu, leiðu, myrku, mögru, mösknu-fuglar eða djöflar« hafa altaf hugann á holdlegum efnum og eru að harma fornar hryðjualdir vígamanna og ræningja, þegar nóg var af manna- og nautaslátri. Það er því ekki furða þó viðkvæði þeirra sé: »Aldrei, aldrei meir!«

Þingvallavegur

Brú á gamla Þingvallaveginum.

Vér erum nú komnir á heiðina þar sem hún er hæst (1222 fet yfir sjávarmál) og veginum fer að halla ofan í móti. Útsýnið fram undan er ljómandi, því að nú er að birta yfir. Umhverfis eru öldumynduð bláfjöll, með smágerðum snjóhniplingum. Hæsti tindur í sólfáðri fjallaröðinni á hægri hlið vora, eru hinar snæviþöktu Súlur, 3571 fet yfir sjávarflöt. Sum fjöllin til vinstri handar, ljósgul að lit, eru stórir líparítpýramídar.

Konungsvegur

Sæluhúsið við Þingvallaveginn á Mosfellsheiði.

Vér förum fram hjá dálitlu steinskýli (sæluhúsi), þar sem ferðamenn, þegar snögglega brestur á, geta leitað sér hælis og fundið ekki aðeins skýli, heldur og eldsneyti, vatn og fæði að því er mér er sagt. Margur kaldur, þreyttur, fannbarinn ferðalangur hefir átt þessum sæluhúsum lífið að launa. Þó hefir það borið við, að menn hafa fundist helfrosnir innan veggja þeirra, er þeir náðu þangað of seint og voru orðnir of dasaðir og sljóvir til að færa sér hressingu og eldsneyti í nyt; aðrir, er voru að ná sér, og þó enn með óráði, þóttust heyra marra í snjónum undan hestum, er væru að skjögra að kofanum, og hottið í aðframkomnum mönnum, hásum af kulda og þreytu. Sumir hafa séð menn, sem ekki voru þarna. Magnaðar draugasögur eru til um það, að í grenjandi blindösku byljum, sem hverjum manni er ólíft úti í, komi stundum náfölar vofur ríðandi að sæluhúsi, til að nema þaðan hvern þann, er þar kynni að hafa leitað skjóls, en gleymt guði sínum:

Hann sendir orð sitt til jarðar,
boö hans hleypur með hraða.
Hann gefur snjó eins og ull,
stráir út hrími sem ösku.
Hann sendir hagl sitt sem brauðmola;
hver fær sfaðist frost hans?
Sálm. 47., 15.—17. v.

Mosfellsheiði

Varða við Gamla-Þingvallaveginn.

Þegar lengra kemur, förum vér fram hjá smátjörnum nokkurum, og komum nú sem snöggvast auga á blett af Þingvallavatni, eins og í hillingu, mjóa rák af skínandi safírbláma. Þungbrýndu ólundarskýin, sem sátu á fjallatindunum, hafa hjaðnað burt, aðeins fáeinir dúnmjúkir skýjahnoðrar svífa um silkifölblátt loftið, niður við sjóndeildarhringinn, og gætu vel sýnst svanir á flugi. Bláminn er dýpri uppi í hvolfinu, en vatnsbláminn er sterkari og gagnsærri, skærari en himinbláminn. Það er dásamlegur blámi, sem ekki verður með orðum lýst.

Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegurinn.

Bifreiðarnar okkar þeysa nú eftir veginum, hver rétt á eftir annari, sem færi þar eimlest með fullhraða, og þyrla upp gulum rykmökkum. Vér förum fram hjá hóp söðlaðra hesta, er standa við veginn. Á tveimur eru kvensöðlar með purpurarauðu silkiflossæti og söðulboga. Vér förum fram úr mörgum fótgöngumönnum og hjólamönnum, sem allir eru á leinni til Þingvalla. Vatnið kemur aftur í augsýn, hinn laðandi bláflötur þess ljómar í sólskininu eins og biflaust, seiðandi afarauga. Lækur með sama fágæta blámanum, Torfdalslækurinn, rennur sína leið á vinstri hönd við oss. Hver minsta gára er fagurbláma safíra. En hve fjöllin handan við vatnið skýr og sýnast nærri, séð gegnum undurskært loftið! Hver gróf og geiri sést, svo skýrt sem í sjónauka væri. Mógulur vegurinn liggur í bugðum, eins og snákur á snarferð.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú.

Vér brunum yfir rauðmálaða trjábrú. Stúlknahópur hrópar »húrra« fyrir oss, um leið og vér förum fram hjá. Tuttugu og tveir vagnar þeysa á undan oss og stórir rykmekkir þyrlast upp hægra megin við oss. Vér förum yfir aðra brú, yfir Móakotsá, sem rennur úr Drykkjartjörn. Fjöldi hrossa er á beit í þúfunum til hægri handar, og stara þau á oss stórum augum.

Kárastaðastígur

Ekið um Kárastaðastíg. Vegurinn um gjána var opnaður árið 1900 og lokað fyrir bílaumferð 1967.

Vér þjótum áfram og yfir þriðju brúna, móts við Kárastaðabæinn. Túnið þar líkist austrænum gullofnum dúk, ljósgrænt grasið ofið sóleyjagulli. Það líður aftur fyrir oss, eins og töfraábreiða. Hraðskriður vagnanna, indælt landslagið, dýrðlegt sólskinið, fjörgar oss, vér skröfum kátir við samferðamennina og vagnarnir bruna hraðar og hraðar, geysast áfram í rykstormi.
Alt í einu breytir vegurinn um stefnu, vagnarnir taka snögga sveiflu, vér hverfum inn í gapandi ginið á gjá og vitum naumast af fyrr en vér erum komnir miðja vegu ofan í kok á ferlíkinu. En augað greinir margt í einu bragði. Vér sjáum hina miklu stuðlabergsveggi, skuggann á milli, snarbrattann, sólfagra sléttuna niður undan, fagnandi mannfjöldann í þyrpingu við innganginn, nýreistan boga með þrílitum fánum og bláum skildi og skarlatsrautt klæði, strengt þversum, og á það letrað stórum stöfum, ekki »Lasciate ogni speranza« hans Dante, heldur hjartanleg heillakveðja til konungs og drotningar.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú yfir Öxará.

Vér ökum ofan eftir, yfir járnbrú, sem Öxará þrumar undir á leið sinni til vatnsins, komum ofan á opna völlu og nemum loks staðar framundan palli, er fánar blakta yfir og reistur hefir verið dagsins vegna. Gjá sú hin mikla, er vér fórum um, er Almannagjá og heitir svo fyrir þá sök, að í lok júnímánaðar ár hvert, streymdu þúsundir ríðandi manna úr öllum héruðum Íslands niður einstigið undir hamrinum bratta, ofan á völluna, til að vera á hálfsmánaðar þingi, kaupstefnu og íþróttamóti, sem haldið var á Þingvöllum.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Almannagjá er eitt af Íslands mörgu furðuverkum. Hún myndast annarsvegar af þverhníptum hamravegg, full 100 fet á hæð, og endar þar hraunsléttan, er vér fórum yfir, og hins vegar af klettagarði, tuttugu álnir frá, og talsvert lægri, er hallast aftur eins og framhlið hans togaði í hann um leið og hún bugast niður á hraunsléttuna, fimm rasta breiða. Austurjaðar þessarar hraunsléttu endar í samsvarandi gjá — Hrafnagjá, sem að vísu er minni, en engu að síður prýðileg.

Almannagjá er nokkrar rastir á lengd og liggur frá norðaustri til suðvesturs. Má rekja hana frá Ármannsfelli niður fyrir Þingvelli, meðfram vesturströnd Þingvallavatns. Botninn er sem í virkisgröf og stráður stórum stuðlabjörgum, er fallið hafa úr veggjunum beggja megin; annars er hann grasivaxinn, nema á svo sem sex hundruð álna svæði, sem Öxará freyðir um á leið sinni til vatnsins.
Hið sokkna hraunsvæði, er takmarkast af gjánum tveimur, — Almannagjá og Hrafnagjá — nær frá eldfjallinu Skjaldbreið að Hengli, og hallast frá norðaustri til suðvesturs, lækkar undir vatnið og myndar botn þess. Fyrir mörgum öldum, lá þessi langa hraunbreiða jafnhátt hásléttunni umhverfis, en einhver voðaveila, sem líklega hefir komið af því, að vatnsrensli neðanjarðar gróf undan, varð til þess, að hún rifnaði um jaðrana og sökk þangað sem hún er nú, skekin sundur í hreinasta tíglagólf, úr óreglulegum brotum, með rifum og glufum á milli.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Og hér er Þingvallavatn, bláast vatna, og horfir skygðum kristalsfletinum til himins, eins og það segði: »Ertu alveg eins blár?« En himininn er ekki eins blár, né heldur hafið með andstæðugulum dílum sargassoþangsins, og ekki gulldröfnóttur blámasteinninn, né heldur kornblómið á akrinum. Og þó kannast ég við þennan skínandi heiðbláma. Ég hefi séð hann í Bláa hellinum á Capri, á fjaðraskrauti ísfugla, páfagauka og blárra paradísarfugla, á vængjum stóru bláfiðrildanna í Brasilíuskógum, í brosandi augum drengsins míns.
Líttu á þetta undursamlega vatn í brúnni hraunskálinni, með ýmislega grænum rákum á grynningum og rifjum meðfram ströndinni; eru dröfnurnar á páfuglsfjöðrum eins fagurbláar? Líttu á það, þegar sólin skín sem glaðast og það logar eins og blátt bál, hefir nokkur safír nokkurn tíma ljómað svo?
Þvílíkur töfrablámi! Hvað hann gleður og heillar! Frá mér numinn af aðdáun, hreifur af litadýrðinni, finst mér ég verði, eins og Glákus forðum, að sökkva mér í þennan bráðna hlákristall.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Þingvallavatn er í lögun sem hálfmáni, 16 rasta langt og 5-8 rasta breitt. Dýptin er frá grynningum að 60 föðmum. Upp úr því nálega miðju, rísa tveir eyhnúkar, með eldgígum, svartir og ófrjóir. Það eru Sandey og Nesjaey. Þar verpir svartbakur. Ýmsir höfðar ganga út í vatnið frá norður-, austur-, suður- og vesturströnd þess, eins og spælabrot í brotnu hjóli. Norðan að vatninu liggur endinn á hraunbreiðunni milli gjánna, í mosareifi, og Öxarársandur, að vestan sprungin brún hásléttunnar, að austan og sunnan brött fjöll: Arnarfell, Miðfell, Búrfell, Hengill — nú í tígulegum purpuraskikkjum.

Arnarfell

Arnarfell.

Úr mynni á suðausturenda vatnsins rennur Sogið sem slanga, er sýgur vatn þess, eins og nafnið bendir til. Ekkert segl sést á hinu friðsæla vatni, ekkert gárar flöt þess, nema fiskar sem vaka.
Vatnið er fult af silungi, bleikju og urriða, og er það einmitt fiskur á konungsborð. Fiskurinn af urriðanum er rósrauður, en af bleikjunni með lítið eitt rauðgulum blæ, hvortveggja bráðfeitur og óviðjafnanlega bragðgóður. Annar meðlimur uggaþjóðarinnar er þarna líka: hið herskáa hornsíli (Qasterosteus), ofurlítill velsporaður vígabarði vatnspyttanna, er gerir hreiður með handstúkulagi, af engu minni list en vefarafuglinn, og gætir eggja og unga ræktarlausra og ómóðurlegra maka sinna, með trú og dygð fram í rauðan dauðann. Hreiður hornsílisins er gert úr smágervum jurtatægjum, tengdum saman með sterkum silkiþræði, er myndast í nýrunum og kemur frá blöðrunni, þegar hornsílið er fullþroska og hinn hugrakki litli riddari kemur til burtreiðar í ljómandi purpuralitum brúðkaupsklæðum.

Nikulásargjá

Nikurlásagjá.

Þarna eru ýmsar tegundir af vatnabobbum af Limnaea-, Pisidiutn- og Lepidurus- kyni og lirfur og púpur margra vatnaskordýra. Gnótt er af reki og er það einkum smákrabbadýr (Daphnia, Diaptomus, Cvelops), hjóldýr (Rotifera) og fáeinar tegundir af kísilþörungum (Melosirae, Asterionella o.s.frv.), Af augljósum vatnaplöntum skal eg að eins nefna Rivularia cylindrica, blágrænan þörung með löngum svipu-líkum þráðum og tvær stórar grænþörungategundir, Chara og Nitella sem vaxa á fimtíu til níutíu feta dýpi. Fjöldi fugla: sefandir, lómar, sendlingar, maríuerlur, tjaldar, andir, gæsir, máfar, trönur, hegrar og svanir, lifa á því, eða á ströndum þess, eða fljúga yfir ljómandi safírbláan flötinn, og með þeim svífur andi fegurðarinnar, því að hvar getur indælli sjón?

Flosagjá

Flosagjá.

Þingvallasléttan með vatninu, ánni og hamraveggnum minnir mig á svæðið kringum Avernus vatnið, þar sem Virgill setti hlið undirheima, og reyndar eru hér Elysium-vellir og Tartarusklettar hlið við hlið eins og á Phlegra-sléttunni í Campania Felix. Mikla undra kviðu mætti yrkja út af Þingvallavatni. Þúsundir manna í hátíðabúningi — konurnar prúðbúnar eins og blóm — hafa safnast í hópum á víð og dreif, sumir standa og sumir sitja, í grasgrónum brekkunum niður af austurvegg Almannngjár. Álengdar eru þessar brekkur með mannþyrpingunum til að sjá eins og persneskar flosábreiður, sem af ásettu ráði eru með óreglulegum myndum og litum til að bægja á braut illu augnaráði og heilla til sín hamingjuna.
Þegar vér komum inn á sléttuna, leikur hornaflokkur þjóðsönginn, karlaflokkur syngur og mannfjöldinn lýstur upp fagnaðarópi og klappar hrifinn höndum. Hinir miklu stuðlabergsveggir endurkveða og magna þessi fjölbreyttu hljóð og margfalt bergmál hljómar frá gjá til gjár, frá fjalli til fjalls, yfir sléttuna og vatnið og aftur til baka, safnast í volduga velkomanda kveðju til konungs og drottningar.

Flosagjá

Tært vatnið í Flosagjá.

Vér stöndum nú á helgum stað, á stað sem er vígður sögu og sögnum. Gjáin mikla, hraunsléttan, hin streymandi á, heiðblátt vatnið eru minjar frægrar fortíðar og yfir þeim skín sem forðum hin dýrðlega sól. En hvað það er ósamræmilegt að sjá rétt hjá Lögbergi gistihús, sem með goðgá kallast »Valhöll«, og niður undan Öxarárfossi timburhús með rauðu þaki fyrir konunginn, nauðalíkt leikfangi sniðnu eftir örkinni hans Nóa. Hvað það á undarlega illa við að sjá bifreiðaröðina löngu öðru megin vegarins og þessar mörgu stikur af baðmullardúk skornar niður í smáfána og veifur, sem blakta í blænum og rjúfa samræmi náttúrunnar með prjáli ósamstæðra lita.

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907 – danskir sjóliðar.

Rúmlega sextíu tjöld hafa verið reist út um vellina og fólkið þyrpist um þau eins og býflugnasveimur. Stúlkurnar, á sullbaldíruðum bolum, glitra í sólskininu eins og frjórykaður rósatordýfill, en tveir konungsþjónar skoppa um í skarlatsrauðum maríuhænu einkennisbúningi og gefa hinu kvika sjónarspili bjartari blæ. Um leið og ég geng yfir veginn kemur bifreið, sem seinkað hefir, þjótandi ofan á vellina og á eftir henni ríðandi menn, lausir hestar og hestar undir klyfjum, alt Skundar ofan gjána og glamrar margvíslega í, eins og trjásöngva þreytti þar sinn glamurkliðandi kveldsöng.

Jörunadrhús

Jörundarhús á Þingvöllum.

Vér etum dögurð á gistihúsinu. Þar hefir rétthyrndu vegtjaldi verið aukið við hinn venjulega borðsal til að koma gestafjöldanum fyrir, og liggja tjalddyrnar fram í salinn og ekki minsta smuga til loftræsingar. Hinn ljúffengi rósrauði Þingvallasilungur með «mayonnaise«-sós og agurka-salati, er indæll, jafnvel þó honum sé ekki skolað niður með sólskinsvökva frá Burgund, Rínlöndum eða Campagne, en hitinn inni í tjaldinu er afaróþægilegur. Vér hlustum á Matthías Þórðarson, hinn lærða vörð Þjóðmenjasafnsins í Reykjavík. Hann býður konung og drottningu velkomin og talar um forna frægð Þingvalla á dögum lýðveldisins. Vér hlustum á hann með athygli þrátt fyrir það, þó hitinn stigi í líkbrennslutjaldi voru og líkurnar fyrir því, að «Valhöll« verði að sannri valhöll fyrir hetjur þær, er nú sitja að veislu innan veggja hennar. Flestir félagar mínir eiga eflaust þennan heiður skilinn, en ég held nú samt, að frestur væri ekki illa þeginn, þar sem við eigum eftir að sjá Geysi. »Til þess að okkur líði vel«, segir sessunautur minn til hægri hliðar, »þyrftum við að fara úr holdinu og sitja í beinunum einum«. »Það væri ekki til neins«, svaraði ég, »við yrðum undir eins að bruðningi«.
Það er gott að koma út og fylla lungun hreinu lofti himinsins. Þarna andspænis oss, er vér horfum í norðvestur, fellur hinn svali, ólgandi, freyðandi straumur Öxarár ofan í gjána eins og mjöður í mundað horn. Hærra, fimm röstum norðar, rísa demantstindar Súlnanna á ameþýst grunni. Nær, til hægri handar, stendur Ármannsfell, nálega snjólaust og purpuragrátt. Að lögun hefir því verið líkt við dalaðan hjálm.
Lengra burtu og austar liggur stór snæþakin eldfjallshvelfing. Það er Skjaldbreið. Það er trú manna að þessi fjöll séu jötunhlífar á dreif; hjálmur og skjöldur Ármanns, írsks risa, sem sagt er að hvíli undir Ármannsfelli og sé þar haugur hans.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Margt fólk er að klifra upp á austurbarm Almannagjár til að sjá fossinn nær. Ég fer á eftir þeim og klifra upp klettabrekkuna, sem er að nokkru vaxin grasi, birkikjarri, mosa og steinbrjótum, uns ég næ upp á austurbarminn. Hér hitti ég suma af »Gullfoss«-vinum mínum og með þeim fer eg ofan í gjána.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Fossinn er ljómandi! Á rás sinni yfir móinn kemur Öxará allt í einu á brún hengiflugsins, og eins og jagúar stekkur á tapírahjörð, hendist hún á svipstundu, dunandi og freyðandi á dökkgrá stuðlabjörg, er liggja í þyrpingu í og í kringum djúpan hyl við rætur bergsins. Á slíkum stað mætti búast við að mæta dýrunum ógurlegu, er vörnuðu Dante vegarins í myrkviðinum forðum, jagúarnum, ljóninu og úlfynjunni mögru. Og þarna eru þau reyndar! steypast öll saman ofan í einu bræði-froðu-kófi: snjóhvíti hlébarðinn að norðan, sandlita ljónið og vefrarvaður blágrárra úlfa, sem vel má vera að einhverntíma hafi verið flokkur guðlausra manna. Líttu á þau þegar þau koma á brúnina; þau virðast nema staðar sem snöggvast og geysast svo fram í tryltum vígamóð. Hlustaðu á! Þau urra, ýlfra, hvæsa, frísa, öskra og drynja ógurlega. Má ekki, þar sem æðandi flóðið skellur í stórgrýtisurðina fyrir neðan, sjá voðastökkið, heljarhramminn, sem lýstur banahögg, leiftrið í logandi augunum, skína í hvítar vígtennurnar, glampa á mislitan hrygg og froðuhvítan kvið? Hve það er undarlegt, þetta samband forms- og litarfegurðar og æðistrylts eðlis, tignar og grimdar, mjúkleiks og þokka og óbifandi eyðingarfýsnar.

Þingvellir

Öxarárfoss.

En Öxará verður naumast með orðum lýst, þar sem hún hendist í gagnsæjum kristallsdyngjum ofan í gjána. Og lítið nú á hana þar sem hún rennur ofan gjána milli hinna háu hamraveggja. Hún freyðir, niðar og dunar yfir stórgrýtisbjörgin og milli þeirra. Feldurinn hennar fagurhvíti er allur með svörtum flekkjum. Þar sem hún finnur hlið í lægri hamravegginn tekur hún enn eitt stökk með háum dyn, nálgast svo vatnið, teygir úr sér endilangri á flötum söndunum og mókir suðandi og malandi eins og kátur og fullur köttur.

Þingvellir

Þingvallafundurinn 1907.

Á stórum votum steini rétt neðan við fossinn sé ég frú Björnsson, er starir inn í leiftrandi augu gnýjandans. Hún minnir á konur, er verða frægar fyrir það að temja villidýr og standa óskelfdar hjá strókum af ljónum, tígrum og jagúörum, en regnbogalitur úði skýst til og sleikir hendur hennar og andlit góðlátlega eins og lébarðahvolpur.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Ég klifrast upp fyrir fossinn og gefur mér þar góða fuglsýn af dalnum milli gjánna og vatninu í fangi hans. Það minnir mig á japönsku skjaldbökuna, sem segir af í þjóðsögum og var með ljómandi páfuglsstéli, því að hinn þurri hluti sokknu hraunsléttunnar, allur skoraður sundur í plötur eða skildi af ýmsri stærð og lögun, bendir á að þetta sé skjöldur af risavaxinni skjaldböku, en vatnið sýnir grænt og gullið og blátt stélið, breitt út sem prúðlegast. Hraunbreiðan fyrir fótum mér er grágrænflekkótt. Náttúran hefir klætt hið rifna og molnaða yfirborð mosaþembu, lyngi og birkikjarri. Á miðri þessari hraunsléttu glitrar fagurgrænt túnið í Skógarkoti, eins og landbrot í eyðimörku. Annað tún lengra norður heitir Hrauntún.
Við endann á vatninu, nálægt Öxarármynni, stendur hin litla timburkirkja Þingvalla, með kirkjugarðinn, prestsetrið og túnið umhverfis. Vegurinn heim að kirkjunni er nú svartur af mannfjölda; eflaust er konungurinn þar að skoða gamla predikunarstólinn og altaristöfluna, eða hinn fræga lögkvarða Íslands, sem er einsteinungur skoraður djúpt á austurhlið.
Ég fer ofan á sléttuna til þess að komast aftur í konungsfylgdina og skoða hið tröllslega tíglaverk, sem myndaði gólfið á hinum forna þingstað. Hér má fylgja gjám og glufum langa leið undir skærum vatnsfletinum. Alt hið sokkna svæði er því líkast sem það væri jötunheima steingrind, er hallaðist hálfsokkin í jökulvatnið, sem streymir frá Langjökli, seitlar undir Skjaldbreiðarhraun, fyllir vatnsskálina og rennur svo um Sog og Ölfusá út í Atlantshaf.
Þingvellir
Þegar vér komum á Geysisveginn, mætum vér konunginum, er kemur frá kirkjunni, og nemum staðar til að skoða staðinn, þar sem dómar fóru fram í fornöld. Það er hraunrimi, þrjúhundruð álnir á lengd og tuttugu til sextíu á breidd, og nálega umluktur sem tangi af tveimur djúpum gjám, Flosagjá að vestan og Nikulásargjá að austan, er renna saman við norðurendann með tónkvíslar móti.

Þingvellir

Þingvellir.

Gjárnar eru frá átján til fjörutíu fet á breidd og fimmtíu fet á dýpt ofan að djúpu vatni, sem í þeim er. Nikulásargjá var svo nefnd 1742, er Nikulás nokkur sýslumaður, er flæktur var mjög í málaferli, drekkti sér í gjánni; hin dregur nafn sitt af Flosa, söguhetju, er stökk skyndilega yfir gjána og komst þann veg undan. Milli þessara tveggja gjáa er grasi gróinn hjalli, þar sem sakamenn voru reyndir, og yrðu þeir sannir að sök, voru þeir teknir þar samstundis af lífi. Á þessum Tarpejukletti voru lagaverðirnir öruggir fyrir afskiftum annara. Leiðin þangað var af náttúrunnar hendi svo mjó, að auðvelt var að verja. Efst á þessum kletti situr nú hinn sérstaki konungsmálari, hávaxinn, fríður og góðlegur Dani og dregur mynd af útsjóninni yfir vatnið, aðdáanlega vel og fimlega.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Af brúnni yfir Nikulásargjá horfum vér ofan í gjána. Vatnið er svo furðulega tært, að smæstu hlutir sjást skýrt á miklu dýpi. Fjöldi silfurpeninga, er menn hafa leikið sér að að kasta í vatnið, liggja þar á mosa- eða þang-koddum, og sýnast stærri, bjartari og nær gegnum kristallstært vatnið. Þetta stækkunarmagn vatnsins hefir lengi verið kunnugt, Seneca segir í sínum Quaestiones náturales, þar sem hann er að skýra það hvernig regnboginn kemur fram: »Hver hlutur sýnist miklu stærri þegar menn sjá hann í gegnum vatn«, og Macrobius segir oss, að rómverskir veitingamenn á hans dögum voru vanir að setja við veitingahúsdyrnar hjá sér egg, grænmeti og ávexti í glerkerum fullum af vatni, svo að matvæli þeirra virtust stærri og girnilegri en þau voru í raun og veru.

Flosagjá

Þingvellir – Flosagjá.

En vatnið í þessum gjám er merkilegt, ekki svo mjög fyrir það hve algerlega tært það er og hve mikið það stækkar, sem fyrir hitt hve geysifagrir og breytilegir litir þess eru. Horfið beint ofan í vatnið, og þér munuð sjá það fagurlega grænt með blæbrigðum frá malakít og smaragð yfir í dökkasta brons, þó að það þegar dýpra kemur, sé nálega bleksvart. Horfið nú á það á ská, og það verður himinblátt, heiðblátt, rússablátt eða sterkblátt, en yfir bæði græna og bláa litnum leika glampar af purpura, fjólubláu og gulli eins og slást í kristallsstrendingum, skelplötu og sápubólum. Þessir löngu vatnsálar í djúpri og þröngri hamragjánni eru því tilsýndar sem regnbogaslöngur, er teygja úr sínum ljómandi, bragandi „Ugðum“, eða eins og bláir og grænir purpuraroðnir hátsar á Páfuglum á Ceylon eða í Birma.

Þetta skæra vatn, logandi eins og eldur, kalt sem ísinn, líður svo mjúklega milli stuðlabergsveggjanna, að ætla mætti að það stæði kyrt, ef ekki væru þaraþræðirnir, sem teygjast í áttina sem það rennur í. Frá neðanjarðaræðum streymir þessi töfrakristall fullur af dásamlegri fegurð, skrýddur vökvasilki og gimsteinagliti. Hann hrífur hvert hjarta með alsigrandi töfrum ljóss og ljóma, hverfur um djúpar, ósýnilegar æðar og rennur að lokum út í bláa vatnið mikla. Að vatnið í gjánum stendur í sambandi við stöðuvatnið, sanna silungarnir, er stundum koma upp í þær hópum saman.

Þingvellir

Konungsfylgdin fer frá Þingvöllum 1907.

Ég lít upp í gjáveggina og sé að þeir eru tjaldaðir grænum mosabreiðum, lögðum fögrum burknum. Hátt uppi, rétt á gjábarminum, eru margar plöntur rétt komnar að því að falla, svo ákafar virðast þær að gægjast ofan í gjána, og með þeim gægist hinn gullni guð ljóssins sjálfur. Það er líka kunnugt, að vagninn hans svífur kringum þennan stað mánuðum saman, bæði dag og nótt. Hver veit nema þessi djúpu vötn séu bústaður dáfagurra dísa? Eru engar hafmeyjar á Þingvöllum?

Þingvellir

Þingvellir – haust.

Jú, víst, hvað ætti hún Hallgerður lævísa að hafa verið annað, hún sem seiddi hann Gunnar í glötunina! Sá tigni maður sá hana fyrst við búðardyrnar hennar hjá vatninu. Hún var nýstigin úr lauginni og kembdi hár sitt langt og hrynjandi eins og sönnum hafmeyjum er títt.
Ég get ekki slitið mig burt. Vatnsdísin heillar mig, hinn frábæri yndisleiki kristallsvatnsins færir mér unað, sem engin önnur skynjan má veita. Eins og hinn skygngi starir á skyggða kúlu úr bergkristalli eða beryl, reyni eg líka að rjúfa blæjuna er skilur hið »verulega líf« umhverfis oss frá andlega lífinu, sem er enn þá verulegra fyrir þá sem trúa. »Hof Demeter í Patras«, segir Pausanias, »á óskeikandi véfrétt í sinni helgu lind«. Svo munu og hin bláu berylvötn á Þingvöllum gædd sannleikskrafti og megna að vekja vitranir, ef horft er í þau af hreinu hjarta.“ – G. F. þýddi.

Heimild:
-Eimreiðin, 5.-6. hefti 01.12.1922, Þingvallaför, Dr. Luis Westenra Sambon, bls. 344 og 349-362 – https://timarit.is/page/4819435?iabr=on#page/n0/mode/2up/search/%C3%BEingvallaf%C3%B6r

Þingvellir

Kárastaðastígur.

Jón Valgeir Guðmundsson

Í Degi, Íslendingaþáttum, árið 1998 er fjallað um „Samgöngur hið forna„,  og er þar sérstaklega getið Ögmundarhrauns.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

„Forn gata um Ögmundarhraun. Þarna voru miklar samgöngur fyrr á öldum og hafa skeifur hestanna klappað götu í hraunhelluna.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni, frá Grindavík til Skálholtsstaðar.

Fyrr á öldum voru miklar samgöngur milli Suðurlandsins og verstöðvanna á Suðurnesjum. Þar voru vermenn á ferð og eins þurfti að koma varningi milli landshlutanna.
Sveitamenn að austan seldu sínar afurðir íbúum lítt búsældarlegra Útnesja og keyptu í staðinn skreið og annað sjávarfang. En erfiðir farartálmar voru á leiðinni, bæði á sunnanverðu nesinu og eins að norðanverðu, þar sem úfin hraun bönnuðu allar hestaferðir milli Útnesja og Innnesja. Örnefni eins og Hvassahraun vísa til landslagsins milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar.

Ögmundarhraun

Hraun á Reykjanesskaga.

Hraunin neðan Krýsuvíkur voru ekki síður torfarin, þannig að leiðirnar út á Reykjanes voru nánast lokaðar og alls ekki hestfærar og troðningar tæpast bjóðandi skólítilli þjóð. Hraunin á Reykjanesi eru bæði gömul og ný. Talið er að Kapelluhraun, þar sem álverið stendur, og Ogmundarhraun vestan Krýsuvíkur, hafi runnið úr miklu gosi skömmu eftir árið 1000. Undir þeim eru önnur og eldri hraun.
Um Ögmundarhraun liggur gömul gata, sem á sér svipaðan uppruna og vegurinn um Berserkjahraun vestra, og glöggt er sagt frá í Eyrbyggju hvernig sú samgöngubót var framkvæmd, og frægt er orðið fyrir löngu.
Í sóknarlýsingu séra Jóns Vestmanns í Vogsósum er sagt frá hverjir stóðu að vegaframkvæmdunum við Krýsuvík forðum daga, en vert er að gefa því gaum, að þar starfaði leysingi að, en þrælahald lagðist af á Íslandi á 11. öld. Er því vegurinn yfir hraunið þarna orðinn ærið gamall.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

En hér fer á eftir lýsingin á vegagerðinni: Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei til að stand á móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, Ætlaði hann hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.

Húshólmi

Húshólmi – gamla Krýsuvík – minjar í Ögmundarhrauni (rann 1151).

Í Dagblaðinu 1982 er spurt hversu gamalt Ögmundarhraunið sé? Þar segir m.a.: „Jón [Jónsson] hefur prófað lífrænar leifar í hrauninu með geislakolsaðferð og fær úr ártalið 1040. Staðfestir það niðurstöðu sem Þorleifur Einarsson jarðfræðingur hafði áður komizt að, en vildi láta prófa betur.
Sveinbjörn [Rafnsson] kannar hins vegar gömul skjöl með afar læsilegri röksemdafærslu færir hann líkur að því að Ögmundarhraun hafi runnið rétt fyrir 1563 og eyðilagt Krýsuvíkurkirkju. Má því segja að þarna skakki 500 árum á niðurstöðum raunvísinda og hugvísinda.

Geislakolsprófanir og kvennafarssögur

Sveinbörn Rafnsson

Sveinbjörn Rafnsson.

Listaskáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson liggur þarna mitt á milli því hann stakk upp á árinu 1340 eða þá 1390.
Þeir sem efast um að jarðfræðingarnir hafi rétt fyrir sér benda á að geislakolsprófanir gefa oft hærri aldur á Íslandi en annars staðar. Hafa menn gizkað á eldgos eða jafnvel sólblettir valdi vissum ruglingi í kolefninu. En þessi skekkja á þó ekki að vera meira en 100 ár og Jón er búinn að draga frá fyrir henni þegar hann velur ártalið 1040.
Þeir sem gagnrýna niðurstöðu Sveinbjörns segja hins vegar að ótrúlegt sé að eldgos hafi orðið á Reykjanesi um 1560, því á það er hvergi minnzt í ritum. Verður Sveinbjörn því að treysta á að viðkomandi heimildir hafi eyðzt, brunnið eða farizt í hafi, ef ekki endað í harðindum.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Hann byggir allmikið á því að Krýsuvíkurkirkja er formlega aflögð 1563 og skömmu seinna kemst undarleg saga á kreik. Sumsé að Skálholtsbiskup hafi lagt kirkjuna niður til að hefna sín á manni sem þar átti hagsmuna að gæta og vildi ekki gefa dóttur sína vildarmanni biskups. Þykir Sveinbirni sú skýring vafasöm. Raunar tilfærir hann í grein sinni aðra kvennamálasögu sem tengist hrauninu. Samkvæmt henni hafði Ögmundur nokkur lagt veg um þetta illfæra náttúrufyrirbrigði. Átti hann að fá bóndadóttur að launum, en faðir hennar sá sig um hönd og myrti Ögmund áður en af brúðkaupinu yrði. Þannig fékk hraunið nafn sitt. Telur Sveinbjörn þetta þjóðsögu og ekki ýkja gamla.“

JJón Valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Jón Valgeir Guðmundsson fæddist á Ísólfsskála í Grindavík, 4. júní 1921 og er því að verða 98 ára gamall. Sama dag bar kind lambi sem lifði í 14 ár. Jóni var gefið þetta lamb og sagði hann lambið hafa verið mikla happaskepnu. Það var grátt að lit og mjög eftirsótt var að fá gráa ull. Hann seldi móðursystur sinni reyfið og fékk tvær krónur fyrir það. Rétt eftir að Jón var fermdur drapst þó þessi happaskepna. Afi hans og amma létust með aðeins dags millibili, þann 19. og 20. apríl 1921. Hann hét Jón og hún Valgerður og því fékk hann nafnið Jón Valgeir. Jón átti 11 systkini, 5 hálf- og 6 alsystkin. Á langri ævi hefur Jón komið víða við, unnið vegavinnu, verið lengi á sjó og svo vann hann við að keyra vörubíl fyrir útgerðina í Þórkötlustaðahverfinu.

Byrjaði 12 ára í vegavinnu milli Ísólfsskála og Krísuvíkur

Jón valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Þegar Jón rifjar upp það sem á daga hans hefur drifið segir hann æsku sína hafa verið yndislega, „hún var mjög góð, ég fór snemma að vinna. Ég komst í vegavinnu hjá Einari Ben en hann var að gera veg frá Ísólfsskála upp að Krýsuvík. Hann átti bæði Krýsuvíkina og Herdísarvíkina. Ég fékk vinnu í gegnum föðurbróður minn sem kom að verkinu. Ég var þar um vorið 1933, þá var ég 12 ára. Ég var síðan sendur upp í skála til að elda fyrir mennina sem voru að vinna að veginum. Þetta gekk mjög vel, ég gat matreitt allt; kartöflur, rófur, kjöt eða fisk, matargerðin var einföld. Ég fékk 100 krónur fyrir sumarið,“ segir Jón.

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLi á Selatöngum 2004.

„Fjórtán ára fór ég á vertíð hérna í Grindavík. Ég var á trillu og fékk 150 krónur fyrir þá vertíð sem var frá febrúar fram í maí. Af því þurfti ég að borga stakk fyrir 10 krónur og stígvél fyrir 12 krónur. Ég fékk ekki nema hálfan hlut þar sem þetta var fyrsta vertíðin mín. Á næstu vertíð fékk ég 350 krónur.“

Jón fylgdi FERLIRsfélögum um Ögmundarstíg og Selatanga í maí 2004. Sjá má frásögn af ferðinni HÉR.

Út frá framangreindu má álykta að framangreind saga af meintum ágreiningi biskups og Krýsuvíkurbónda og aflögn Krýsuvíkurkirkju hafi ekki stafað af persónulegum ástæðum, heldur hagkvæmum. Lýsing Jóns Vestmanns styður það. Ögmundarhraun rann, skv. áreiðanlegustu heimildum, um 1150.

Þjóðsagan um Ögmund er að öllum líkindum yngri en vegagerðin.

Ísólfsskálii

Ísólfsskáli. Lyngfell og Festarfjall fjær.

Vegagerðin virðist hafa verið framkvæmd á 16. öld. Þjóðsagan er því líklega frá á 17. öld. Kirkjusóknin var á þeim tíma færð til Selvogssóknar, og síðar til Grindavíkursóknar, líkt og lesa má í heimildum. Slík tilfærsla sóknar var ekkert einsdæmi á þeim tilgreindu tímum, þótt ekki sé hægt að útiloka afskipti klerkaveldisins í einstökum persónulegum málum þess tíma.

Heimild:
-Dagur, Íslendingaþættir, 24.01.1998, Samgöngur hið forna, Ögmundarhraun, bls. 1.
-Dagblaðið-Vísir, 160. tbl. 17.07.1982, Hvursu gamalt er Ögmundarhraun?, bls. 15.
-https://grindavik.is/v/22455
-https://ferlir.is/isolfsskali-selatangar-med-joni-gudmundssyni/

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Háleyjarbunga

Dyngja er breitt, aflíðandi og keilulaga eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi. Dyngjugos eru svo kölluð flæðigos þar sem hraunið er þunnfljótandi og flæðir langar leiðir. Eldvirkni í dyngjum getur varað í mörg ár eða jafnvel áratugi.

Útlit fjallsins

Skjaldbreið

Skjaldbreið.

Dyngjur eru auðþekktar, þær líkjast skál eða skildi á hvolfi (Skjaldbreiður).

Flestar dyngjur á Íslandi eru um það bil 1-3 km í þvermál, rísa 50-100 m yfir næsta umhverfi sitt og eru að rúmmál í kringum 0,1 – 2 km3. Sú stærsta er 3-12 km í þvermál og nær upp í 500-600 m yfir umhverfi sitt með 1-9° hlíðhalla. Hér á landi eru dyngjur eingöngu til á rekbeltum landsins.

Toppgígurinn

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Efst í dyngjunnni er meira eða minna kringlóttur gígur. Þeir dýpstu eru 50-170 m djúpir og allt að 800-900 m breiðir. Í dyngjugígnum kraumar stór hrauntjörn svo lengi sem virkni er í eldstöðinni – sem getur verið í marga áratugi (sjá Kilauea-eldstöðin á Hawaii eða Erta Ale-dyngjan í Etíópíu).

Hrauntegund

Hraun

Ólivínþóleítt hraun – Geldingahraun.

Lengd og stærð eldgosa á þurru landi eru háðar efnasamsetningu og gerð jarðlagastaflans þar sem kvikan streymir upp úr iðrum jarðar. Basalt rennur t.d. oft líkt og seigfljótandi vökvi, hratt og greiðlega. Í flestum dyngjum er hrauntegundin ólivínþóleít. Hraun af þessu tagi storknar sem helluhraun og gosið kallast flæðigos (effusive eruption á ensku).

Kvikustrókar og flæðigos

Kvikustrókur

Kvikustrókur.

Úr eldstöðinni geta staðið kvikustrókar sem innihalda eldfjallagas, eins og sást síðast í Holuhraunsgosi. Svoleiðis tröllslegir gosbrunnur úr glóandi efni standa ýmist viðstöðulaust í loft upp eða hækka og lækka í takt við gaslosunina í eldstöðinni og þrýstingsbreytingar í gosrásinni.

Flæðigos á Íslandi hefjast venjulega á stuttum eða löngum gossprungum. Síðan, eins og gerðist síðast í Holuhrauni, einangrast virknin með tímanum við eitt eða fá gosop (eins og gerðist við Baug) og þá í flestum tilvikum um miðbik sprungunnar. Þegar gosvirkni sem þessi heldur áfram í mjög langan tíma, mánuðum og árum, kannski áratugum saman, myndast dyngja. Það sást t.d. þegar Surtsey varð til.

Flæðigos

Flæðigos.

Dyngjugos á Íslandi eru talin hafa verið mjög róleg gos með lítið hraunflæði á hverjum tíma og er það áætlað út frá upphleðslu dyngjanna í gosunum. Við upphaf dyngjugoss verður upphleðslan mest næst gosopinu og þannig hlaðast upp umfangsmiklar dyngjur.

Eins og sjá má í löndum þar sem virkar dyngjur finnast, t.d. á Hawaii eða Réunion (eldfjallið Piton de la Fournaise), rennur líka mikið af hrauni neðanjarðar, síðar í gosinu og kemur upp víðs vegar í hlíðum fjallsins. Margföld lög af hrauntungum byggja þannig upp fjallið og hlaða upp hraunin umhverfis.

Dyngjur á Íslandi

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Flestar dyngjur hérlendis eru frá lokum ísaldar, sú yngsta frá nútíma, 3000 ára gömul (Lambahraun) eða bara 50 ára (Surtsey).

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Dyngjur finnast á Íslandi í öllum landshlutum sem eru nálægt rekbeltum. Á Reykjanesskaga eru til dæmis Þráinsskjöldur, [Hrútargjárdyngja, Háleyjarbunga, Sandfellshæð, Lambafell], Heiðin há og Selvogsheiði.

Á Langjökulssvæði eru Skjaldbreiður, Ok, Lambahraun og Kjalhraun.

Toppgígur Skjaldbreiðs
Og á Norðausturlandi eru til dæmis Þeistareykjabunga – sem er í rauninni eldstöð samvaxin úr tveimur dyngjum -, Ketildyngja og Trölladyngja í Ódáðahrauni.

Fleiri dyngjur

Olympus

Olympus á Mars.

Stórar dyngjur finnst á mörgum úthafseyjum, t.d. á Hawaii, Galapagoseyjum og Réunion og á meginlöndum nálægt rekbeltum, t.d. í Austur-Afríku.

Stærsta fjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er dyngja.

Tilvísanir
-Ari Trausti Guðmundsson, Ragnar Th. Sigurðsson: Íslenskur jarðfræðilykill. Reykjavík, Mál og Menning, 2004
-Snæbjörn Guðmundsson: Vegvísir um jarðfræði Íslands. Reykjavík, Mál og Menning, 2015

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Dyngja

Dyngjur

Mauna Ulu, Hawaii, 1974: 1 = (gos)mökkur, gosstrókur, gjóskuský 2= gosop 3 = gígur 4 = hrauntjörn 5 = (kviku)gösop 6 = hrauná 7 = hraun- og gjóskulög 8 = berglögin 9 = sylla 10 = gosrás og gosop 11 = kvikuhólf 12 = berggangur.

Selhraun

Í Náttúrufræðingnum 1965 má lesa um „Forn eldvörp í Selhrauni“ eftir Jón Jónsson, jarðfræðing.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

„Ekki alllangt sunnan við Straum í Garðahreppi og skammt vestan við Kapelluhraun eru forn eldvörp. Þar hefur Vegagerð ríkisins tekið rauðamöl til ofaníburðar í vegi, og það er mest þeirri starfsemi að þakka, að hægt er nú að fullyrða að hér er um eldvörp að ræða.
Ekki er mér kunnugt um, hvernig þarna leit út áður en byrjað var að taka þar efni, en svo lítið ber á þeim hluta gíganna, sem enn er eftir óhreyfður, að líklegt má teljast, að þeim hefði alls ekki verið veitt eftirtekt, hefði þarna ekki verið grafið með stórvirkum tækjum. Nú er þarna umrót mikið og ýmislegt fróðlegt að sjá.
Gígir þeir, sem hér er um að ræða, eru á línu með stefnu NA—SV, eins og gígaraðir á Reykjanesi yfirleitt eru.
Yngri hraun hylja nú þetta svæði nær alveg, og hafa þau fært hina fornu gígaröð að mestu í kaf. Þau hraun eru komin sunnan að af svæðinu milli Sveifluháls og Vesturháls. Af því að yngri hraun hafa runnið yfir umhverfi gíganna, verður ekki með vissu sagt, hversu mikið hraun hefur frá þeim komið. Það er þó ljóst að eitthvað hraun hefur runnið í þessu gosi, og er það auðþekkt frá hraununum í kring. Það er peltspat-ólivín-porfyritiskt basalthraun með ólivínkristöllum, sem eru 1,5—2 mm í þvermál, og með einstaka allt að 3 cm stórum og allmiklu af 0,5—1 mm stórum feltspatkristöllum. Bæði stærri og minni feltspatkristallarnir virðast vera eins eða a. m. k. mjög líkir að samsetningu. Ljósbrot þeirra reyndist vera nWl 1.574, en samkvæmt Tröger (1959) er það An 70, en það eru mörkin milli labradorit og bytonit. Taldar voru steintegundir í tveim þunnsneiðum, samtals 2970 punktar. Útfrá því reyndist samansetning hraunsinsvera:
Plagioklas 45,4 %
Pyroxen 36,5 %
Ólivín 7,3 %
Ógegnsætt (opaque) 10,8 %

Selhraun
Hið síðastnefnda er að nokkru svart, ógegnsætt gler, en að mestu málmur, seguljárn og títanjárn.
Mikill fjöldi hnyðlinga er í þessu hrauni og sumir þeirra nokkuð stórir, eða um 5—7 cm í þvermál. Þeir virðast líkir þeim, sem áður hefur verið getið í þessu riti (Jónsson 1963). Slíkir hnyðlingar hafa nú fundizt víða um land, m. a. í Skaftáreldahrauni frá 1783, Fonti á Tungnáröræfum (heimild Elsa Vilmundardóttir), í Þórsmörk, við Grindavík og nú alveg nýlega fann Jens Tómasson, jarðfræðingur, hnyðlinga í Surtsey.
SelhraunÍ gígnum í Selhrauni fannst ennfremur stór feltspatkristall, sem reyndist vera ólígóklas (An 30). Hann var mjög illa farinn, sennilega mest vegna hita, og liggja jafnvel hárfínar basaltæðar í gegnum hann. Oligóklas á ekki heima í basalthrauni eins og þessu og verður því að telja líklegast, að um sé að ræða kristall, sem brotnað hefur úr eldra bergi nokkuð ólíku þessu að samsetningu og borizt með hrauninu á leið þess upp á yfirborð. Þess má geta að Jens Tómasson fann líka einn ólígóklaskristall í Surtsey.

Hraunið, sem runnið hefur umhverfis gígina og að nokkru leyti yfir þá, hefur ekki runnið fyrr en nokkru eftir, kannske löngu eftir að þeir gusu, því sums staðar má sjá að gjallið í þeim liefur verið farið að veðrast dálítið. Telja má víst, að þeir hafi verið orðnir mosagrónir, og á einstaka stað vottar fyrir jarðvegsmyndun. Víða í hólunum má greinilega sjá að hraunið hefur orðið fyrir snöggri kælingu, t.d. finnur maður á nokkrum stöðum þunnar basaltæðar í gjallinu og eru þær með svartri glerhúð. Einnig vottar fyrir hólstramyndun á stöku stað. Þetta vekur grun um, að hér hafi gosið í vatni, og við nánari athugun kemur í ljós að svo hefur verið.

Selhraun

Bergstandur í Selhrauni,

Á a. m. k. tveim stöðum í stálinu má sjá að hraunið hefur brotist upp í gegnum leirlög, sem nú eru sem vænta má mjög umturnuð og brennd hið næsta hrauninu, er brotizt hefur í gegnum þau. Aragrúi af skeljum hefur verið í leirnum og tekur það af allan efa um að hér hefur gosið í sjó. Sjálfar eru skeljarnar farnar veg allrar veraldar, en mótin eftir þær eru afar greinileg. Það er augljóst, að um allmargar mismunandi tegundir hefur verið að ræða, en mjög erfitt er nú að greina þær með vissu, því allt er þarna í einum hrærigraut og svo laust í sér að það fellur sundur ef við er komið.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Í Þorbjarnastaða-Rauðamel.

Örugglega má þó þarna greina leifar af hrúðurkörlum (Balanus). Smyrslingur (Mya truncata) er þarna líka og líklega rataskel (Saxicava arctica), og nokkrar fleiri tegundir. Diatomeur (kísilþörunga) má og finna í leirnum, en sama máli gegnir um þá, að skeljarnar eru mjög illa farnar og örðugt að ákvarða þær með vissu. Aðeins sárafáar heilar skeljar hefur tekizt að finna. Langmest ber á brotum úr Coscinodiscus og nokkrum öðrum sjávartegundum. Örugglega má ákvarða Biddulphia aurita og Navicula peregrina, en báðar lifa í söltu vatni. Af ferskvatnstegundum reyndist mögulegt að ákvarða Eunotia sp., Pinnularia sp. og Tabellaria feneslrata.
Það virðist því líklegt, að þarna hafi gosið í sjó, en líklega hefur það verið nálaegt strönd og hafa ferskvatnstegundirnar borizt út í sjó með lækjum.
Skammt vestan við Straum er Rauðimelur, en þar hefur rauðamöl verið tekin í mörg ár, og er nú búið að grafa þar niður fyrir grunnvatnsborð. Vafalaust er Rauðimelur leifar af eldvarpi, sem líka hefur myndazt í sjó á sama hátt og e.t.v. á svipuðum tíma og eldvörpin í Selhrauni.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.05.1965, Forn eldvörp í Selhrauni, Jón Jónsson, bls. 1-4.

Selhraun

Selhraun – berggangur.

Ás - letursteinn

Letursteinn er við bæinn Ás ofan Hafnarfjarðar, fyrrum Garðahreppi. Steinninn er við fyrrum brunninn í bæjarlæknum skammt sunnan við bæjarstæðið. Þar við er nú hlaðin bogadregin steinbrú. Á letursteininn eru höggnar tvær myndir af ásum og sveigður kross ofar. Á tvær hliðar hans er höggvið rúnaletur, óskiljanlengt.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

FERLIR hefur reynt að leita uppruna steinsins. Hann er við göngustíg umhverfis Ástjörn, nálægt tveimur hlöðnum steinbrúm, sem gerðar voru fyrir ca. 40 árum. Rúnaletrið passar ekki við þekkt rúnaletusstafróf.
Ábending fékkst um steininn. Þegar komið var á vettvang þakti snjór svæðið (sem betur fer). Nuddaður var snjót á steininn og þá komu rúnirnar í ljós.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Talið var í fyrstu að þetta vera letustein frá því að Haukur Halldórsson og félagar, heiðingjalistamennirnir, gistu í Straumi. Svipur er með myndunum á steininum og steinmyndum við Fjörukránna.
Hauki var send fyrirspurn um steininn á Facebook. Hann svaraði; sagðist ekki kannast við hann.
Tryggva Hansen, steinlista- og -hleðslumanni var send fyrirspurn. Hann býr upp við Rauðavatn. Tryggvi var mikilvirkur hleðslumaður fyrrum og í góðum tengslum við Hauk og félaga. Ekkert svar hefur borist frá Tryggva.
Svar barst loks frá Tryggva: „Kann að meta þetta. Haukur var þarna, en hann virðist ekki muna eftir letursteininum þeim arna. Skondið. Á steininum virðist þó eitthvert táknrænt hafa  verið“…

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Þessi steinn hefur verið þarna við „alfaraleiðina frá Ási (Hrauntungu- og Stórhöfðastíginn) “ í a.m.k. nokkra áratugi, en enginn virðist hafa veitt honum hina minnstu eftirtekt, hvað þá að um hann hafi verið fjallað opinberlega.

Ás - brúarsmíði

Ás – brúarsmíði.

Eftirfarandi frétt mátt lesa í Fjarðarpóstinum árið 1997 um brúargerðina nálægt steininum. Í framhaldi af því var póstur sendur á brúarsmiðinn, Guðjón Kristinsson.
Guðjón svaraði: „Sæll ég kannast við andlitin, en man ekki eptir rúnasteininum. Þarf að bregða mjer og líta á þetta.“
Talið er víst að ekkert þýði að senda Minjastofnun fyrirspurn um tilvist steinsins, að teknu tilliti til fyrrum viðbragða stofnunarinnar við öðrum slíkum.
Áletrunin á steininum að Ási gæti verið mun eldri en í fyrstu var ályktað.
Allar ábendingar um tilurð steinsins og/eða sögu hans eru vel þegnar á ferlir@ferlir.is.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn, 15. árg. 1997, Rómversk göngubrú á Áslandi, bls, 6.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Flekaskil

Í ritgerð Ingibjargar Andreu Bergþórsdóttur í Jarðvísindadeild HÍ er m.a. fjallað um Yngra-Stampagosið og fleira um jarðfræði Reykjanesskagans, s.s. rekaskilin o.fl. Ægir Sigurðsson bætir um betur og spyr í grein sínni í Faxa árið 2006: „Er eitthvað áhugavert að sjá á Reykjanesskaganum?

Jarðfræði Íslands

Jarðfræði Íslands

Jarðfræðikort af Íslandi – ÍSOR. Sjá HÉR.

„Jarðfræði Íslands endurspeglast í staðsetningu þess í Norður Atlantsshafi milli Grænlands og Noregs á Mið-Atlantshafshrygg og á Grænlands-Færeyja þverhryggnum (Thordarson og Larsen, 2007, Thordarson og Höskuldsson, 2008). Landið er jarðfræðilega mjög ungt og talið hafa byrjað að myndast fyrir um 24 milljónum ára en elsta aldursgreinda berg á landinu er 14-16 milljón ára gamalt.

Möttulstrókur

Möttulstrókur.

Á Íslandi rís Mið-Atlantshafshryggurinn úr sæ vegna þess að Ísland er heitur reitur. Heitur reitur er svæði þar sem eldvirkni er meiri þar en á aðliggjandi svæðum. Ástæðan fyrir heita reitnum á Íslandi er sú að Mið-Atlandshafshryggurinn liggur yfir möttulstrók, sem er eðlisléttari en möttulinn umhverfis og rís því í átt að yfirborði. Talið er að möttulstrókurinn undir Íslandi hafi verið virkur að minnsta kosti síðustu 65 milljón árin. Möttulstrókar eru almennt taldir vera tiltölulega kyrrstæð fyrirbæri og flekaskilin á Íslandi leitast við að vera fyrir ofan hann. Rekbeltastökk hefur orðið í jarðsögunni en það er þegar flekaskilin hliðrast til að fylgja möttulstróknum (Ingi Þ. Bjarnason, 2008).
Eldvirkni á Íslandi tengist gliðnun á flekaskilum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Eldvirkni á suðurhluta landsins er aðallega takmörkuð við tvö gosbelti, Eystragosbeltið og Vestra gosbeltið en á norðurhluta landsins er eldvirkni á Norðurgosbeltinu sem nær frá Vatnajökli til Öxarfjarðar en þar hliðrast það til vesturs á Tjörnesbrotabeltið (Jakobsson et. al., 1978).

Flekaskil

Flekaskil.

Það eru tvö innanfleka gosbelti á Íslandi en það eru Öræfajökuls og Snæfellsnesgosbeltið. Snæfellsnesgosbeltið er leifar gömlu flekaskilanna og talið er að Öræfagosbeltið kunni að vera byrjun á nýjum skilum (Sæmundsson, 1979, Thordarson og Höskuldsson, 2002). Eldvirkni á Íslandi spannar svið frá neðansjávargosum til eldgosa undir jökli og eldgosum á þurru landi. Samsetning er frá basalti upp í rýólít (Jakobsson et. al., 1978).

Jarðfræði Reykjaness

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – ÍSOR. Sjá HÉR.

Reykjanesskagi er eldvirkt áframhald Reykjaneshryggjar á landi sem myndar hluta Atlantshafshryggs. Þar liggja mót Evrasíu og N-Ameríkuflekannn og öll eldvirkni þar er tengd gliðnunarhrinum en gliðnun flekaskilanna er talin vera um 2 cm á ári.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Reykjanes er vestasti hluti Reykjanesskaga og er um 5 km langur og dregur nafn sitt af háhitasvæði sem er þar. Reykjanesskagi liggur innan Reykjanes-gosbeltisins sem liggur vestur af Vesturgosbeltinu og skaginn er þakinn hraunum sem runnið hafa á núverandi hlýskeiði, sem upp úr standa en móbergshryggir og stapar sem hafa myndast á meðan jökull lá yfir landinu eða sjávarborð hefur verið hærra.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Innan Reykjanesskaga eru þrjú til fjögur eldstöðvarkerfi, Reykjanes-Svartsengi (stundum talin sem sitt hvort kerfið), Krýsuvík og Brennisteinsfjöll. Þessi eldstöðvarkerfi eða sprungusveimar hafa stefnuna suðvestur til norðaustur (Jakobsson et. al., 1978, Thordarson og Höskuldsson, 2008, Páll Einarsson, 2008).
Eldstöðvakerfin sitja öll vestur af hvert öðru á skaganum (Mynd 3). Gosefnin úr þessum kerfum eru aðallega basísk og samanstanda af pikríti, ólivín-þóleiíti og þóleiíti. Þóleiít eru einkennandi fyrir sprungugos en pikrítin og ólivín-þóleiítin koma yfirleitt frá dyngjum (Peate et. al., 2008).

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi vestast – jarðfræðikort.

Það eldstöðvarkerfi sem liggur vestast á Reykjanesskaga er Reykjaneseldstöðvarkerfið sem liggur frá suðvestri til norðausturs á Reykjanesi.
Reykjaneseldstöðvarkerfið er um 25 km langt og 10 km breitt og syðstu 9 km eru neðansjávar (Jakobsson et. al., 1978). Gígaraðir á Reykjanesi liggja á tveimur aðskildum gosreinum og hafa orðið sprungugos á þeim að minnsta kosti þrisvar sinnum á nútíma.

Reykjanes er eldbrunnið og að mestu gróðurlaust og þakið úfnum hraunum. Eldvirkni hefur verið mikil á Reykjanesskaga á sögulegum tíma. Þar má nefna að á fyrri hluta 13. aldar voru eldgos tíð og er tímabilið frá 1211-1240 e. Kr. nefnt Reykjaneseldar.

Mosi

Mosahraun á Reykjanesskaga.

Bæði urðu eldgos á landi og í sjó og finna má fjögur gjóskulög á Reykjanesskaga sem tengjast Reykjaneseldum, þ.e. gjóskulögin R-7 – R-10. Eldgos á gossprungum kerfisins hafa náð í sjó fram með tilheyrandi sprengivirkni við ströndina en að auki hefur runnið hraun á landi (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Athuganir hafa sýnt að það hafa verið að minnsta kosti 10 eldgos í sjó undan Reykjanesi síðan ísaldarjökullinn hörfaði (Sigurður Þórarinsson, 1965). Hraun sem runnið hafa á Reykjanesi eru úr basalti. Þóleiít hefur runnið frá gossprungum en ólivínþóleiít eða pikrít úr dyngjum (Jakobsson et. al., 1978).

Fyrri rannsóknir á Reykjanesi

Stampahraunið

Yngra-Stampahraunið.

Magnús Á. Sigurgeirsson (1995) lýsir vel áætluðum framgangi gossins sem myndaði gígrimana tvo í ströndinni við Kerlingarbás og skal hér gera stutta grein fyrir því.

Stampar

Stampar.

Yngsta hraun Reykjaness, Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldum og er talið hafa markað upphaf þeirra. Ekki er hægt að staðfesta nákvæmt gosár en út frá rituðum heimildum og gjóskulagatímatali má leiða líkur að því að það hafi verið árið 1211. Gossprungan er talin hafa náð í sjó fram og myndað þar tvo gjóskugíga en hraun runnið á landi. Þetta gos er kallað Yngra-Stampagosið. Þar sem gossprungan lá á landi mynduðust margir gígar en tveir þeirra, sem kallast Stampar, eru stærstir og er gígaröðin kennd við þá.
Stampar liggja nyrst á gígaröðinni en hún liggur svo í suðvestur í átt að sjó og er 4 km löng. Þau eldvörp sem finna má á gígaröðinni eru byggð úr hraunslettum eða kleprum. Má því áætla að hawaiísk gosvirkni hafi verið ráðandi með tilskyldri kvikustrókavirkni og hraunframleiðslu. Hraunið þekur um 4 km2 lands og flokkast sem klumpa- og helluhraun.
Við endamörk gígaraðarinnar við ströndina er grunn vík sem kallast Kerlingarbás.

Karlinn

Karlinn – utar.

Út af Kerlingarbás í sjónum er drangurinn Karl, sem er 51 m hár og úr móbergi. Hluta þeirra gjóskugíga sem mynduðust í Yngra-Stampagosinu má sjá í ströndinni við Kerlingarbás. Sjórinn hefur rofið talsverðan hluta þeirra en að sama skapi útbúið góðar jarðlagaopnur þar sem skoða má innviði gíganna (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Undir Yngra-Stampahrauninu má finna dökkmóbrúnt gjóskulag sem er nefnt R-7.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli og Valahnúkar fjær.

Vatnsfell, sem er við ströndina við Kerlingarbás, er að verulegum hluta úr þessari gjósku en þar er þykktin orðin allt að 20 m. Því má áætla að upptök þessa gjóskulags (R-7) séu við ströndina og í Vatnsfelli sé varðveittur gígriminn. Athuganir benda til þess að Yngra-Stampahraunið og gjóskulagið R-7 hafi myndast á svipuðum tíma á gossprungu sem náði frá landi og út í sjó. Kannanir á gígleifunum benda til þess að þar séu tveir aðskildir gjóskugígar og sá yngri hefur kaffært þann eldri. Gígarnir eru ólíkir að byggingu og því auðvelt að greina þá í sundur. Sá eldri er nefndur Vatnsfellsgígur og er talinn hafa átt upptök í fjöruborðinu við Vatnsfell og verið 650 m í þvermál.

Stampar

Gígur vestast á Stampagígaröðinni.

Sá yngri er nefndur Karlsgígur eftir dranginum Karli og er talið að hann hafi átt upptök um 500 m frá landi og verið stærri að þvermáli eða um 1600 m. Drangurinn Karl er talinn vera hluti yngri gígsins og markar gígskálina. Talið er að Yngra-Stampahraunið hafi svo runnið að jaðri Karlsgígsins á meðan hann var heill og markar nú útlínur hans. Bæði Vatnsfellsgígur og Karlsgígur teljast til hverfjalla (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Walker og Croasdale (1972) notuðu sýni úr Vatnsfells- og Karlsgígnum til þess að skilgreina surtseyska gjósku. Gosið er talið hafa byrjað með sprengigosi út fyrir ströndinni og þar hleðst upp Vatnsfellsgígurinn (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Vatnsfellsgígurinn er að hluta til þakinn leifum Karlsgígsins og hefur öðruvísi uppbyggingu. Gígbarminum má skipta í neðri og efri gjóskulagasyrpu. Neðri syrpan er fín aska, mjög þunnlagskipt með gárum. Efri syrpan er úr vikri og bergbrotum sem verður grófari eftir því sem ofar dregur. Efsti hlutinn er nánast eingöngu úr vikri. Eftir upphleðslu Vatnsfellsgígsins gerir síðan stutt goshlé, ekki lengra en nokkrir mánuðir og þá tekur aftur að gjósa undan ströndu en lengra frá landi. Þar hleðst upp Karlsgígurinn og gjóskan frá honum (R-7) berst svo um Reykjanesið en mest út á sjó. Karlsgígurinn er hverfjall sem er uppbyggður úr gusthlaupa- og gjóskufallslögum sem skiptast á.
StamparAlgengt er að finna öskubaunir og þétt blöðrótt lög í gígbarminum, sem gefur til kynna að gjóskan hefur verið mettuð gufu þegar hún settist til. Bygging gígsins einkennist í fyrsta lagi af þunnum til þykkum (3-30 cm) lögum af einsleitum gjóskulögum og í öðru lagi af mjög þunnum til þunnum (1-3 cm) lagþynnóttum til lagskiptum lögum. (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Í framhaldi af þessum gjóskugosum við ströndina hefst svo hraungosið á landi. (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).“

Í Faxa 2006 spyr Ægir Sigurðsson; „Er eitthvað að sjá á Reykjanesskaganum„?

Eldvörp

Í Illahrauni við Bláa lónið.

„Þessi landslags og mannlífslýsing meistara Þórbergs á einu af innnesjunum á einnig við útnesin í hugum þorra landsmanna og mörgum sem á skaganum búa finnst lítt til um náttúru hans.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Hér rísa vissulega ekki há fjöll þverbrött úr Ægisfaðmi, hér finnast ekki djúpir dalir og ekki liðast hér ár, bakkafullar af laxfiski, um grænar grundir. En skaginn okkar býr yfir öðrum töfrum sem allt of margir hafa látið fram hjá sér fara en eru þó að verða fleirum og fleirum ljósari.
Í þessum greinarstúfi ætla ég að benda á örfáar perlur sem hægt er að nálgast án mikillar fyrirhafnar í þeirri von að einhverjir Suðurnesjamenn geri sér grein fyrir að innan seilingar eigi þeir náttúru sem er einstök í sinni röð. Um seinni línuna í tilvitnuninni ræði ég ekki að sinni.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

En hvað er það sem gerir Reykjanesið svona sérstætt? Hví hafa jafnt erlendir sem innlendir náttúrufræðingar skrifað aragrúa lærðra greina um náttúru þessa útskaga? Jú hér hagar svo til að rannsaka má úthafshrygg á þurru landi sem óneitanlega er miklu þægilegra en á nokkur hundruð eða þúsund faðma dýpi. Þar hlaðast upp há fjöll svo sem Himalajafjöllin, þar verða jarðskjálftar mun harðari og mannskæðari og gos eldfjallanna ofsafengnari.

Kolbeinsey

Kolbeinsey.

En þar sem við erum á plötuskilum læt ég þetta duga um mótin. Eftir úthöfunum endilöngum liggja 2000-4000 m háir fjallgarðar sem alls eru um 70.000 km að lengd. Víða hafa hryggirnir hliðrast þvert á lengdarás sinn um tugi eða hundruð kílómetra um svo nefnd brotabelti.
Tvenn brotabelti eru á eða við landið. Annað tengir saman gosbeltin á Reykjanesi og á Suðurlandi og þar eiga m.a. hinir illræmdu Suðurlandsskjálftar upptök sín. Hitt er fyrir Norðurlandi og tengir saman eystra gosbeltið í Axarfirði og Kolbeinseyjarhrygginn. Á því urðu fyrir skömmu allsnarpar hræringar.
Hryggirnir, svo og hafsbotninn eru úr eðlisþyngri efnum en meginlöndin og standa því lægra en þau og eru því undir sjó. Undir hryggjunum kemur heitt möttulefnið upp og þeir standa því mun hærra en botninn umhverfis sem er úr kaldara efni. Yfir möttulstrókunum miðjum þar sem landris er mest bæði vegna hitaáhrifanna svo og mikillar efnisframleiðslu getur hafsbotninn risið úr sæ. Ísland er dæmi um slíkt.

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur.

Reykjaneshryggur er hluti af Atlantshafshryggnum sem liðast eftir hafinu endilöngu og skilur m.a. að Norður Ameríku- og Evrasíuflekana. Reykjanesskaginn tekur síðan við af hryggjunum og markar þannig upphaf gosbeltisins sem nær þvert yfir landið. Reykjanesskaginn er því að klofna.

Þingvellir

Þingvellir – misgengi.

Vestari hluti hans færist til norðvesturs að meðaltali um 1 cm/ári en eystri hluti hans til suðausturs með sama hraða. Jarðeldurinn fyllir síðan jafnóðum í rifuna á milli. Þessar hreyfingar verða í rykkjum og fylgja þeim eldgos líkt og í Kröflueldum þar sem land gliðnaði um 78 m á nokkrum árum.
Eldvirknin innan gosbeltanna er ekki samfelld heldur raða eldvörpin sér á afmörkuð svæði, gosreinar. Í miðju hverrar reinar er eldvirknin mest og þar myndast megineldstöðvar sem oft rísa nokkur hundruð metra yfir umhverfi sitt. Þar er að fi nna mun meiri breytileika í bergtegundum og gosmyndunum en utan þeirra og háhitasvæði tengist þeim fl estum. Á Reykjanesskaganum hafa megineldstöðvar ekki náð að myndast enn nema í Hengilsreininni sem er elst. Reinarnar eru mismunandi að lengd, 20-50 km, og breiddin frá 5 og upp í 7 km og stefna þær NA SV. Misgengin í hverri rein mynda grunna sigdali og gígarnir fylgja flestir miðju hverrar reinar. Einstaka hrauntaumar hafa þó runnið langt út fyrir sína heima rein.

Snókalönd

Skjól í Snókalöndum.

Fjölbreytileiki eldstöðva er mikill og á fáum stöðum er hægt að skoða allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva á jafn litlu og aðgengilegu svæði.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Dyngjur litlar sem stórar, gígaraðir stuttar og langar úr kleprum og gjalli í ýmsum hlutföllum, gígahópar (svæðisgos), stampar og eldborgir, sprengigígar og jafnvel myndanir sem líkjast sigkötlum. Í útjaðri svæðisins eru megineldstöðvar órofnar eins og Hengilssvæðið eða rofnar til róta líkt og Reykjavíkur, Kjalarnes og Stardalsstöðvarnar. Á utanverðum skaganum er aðeins að finna basalt en þar eru þó allar þrjár megin gerðirnar. Fjölbreytileiki hraunanna og hraunmyndanna er óþrjótandi. Hraunhólar með djúpum sprungum sem veita ýmsum jurtum skjól svo sem blágresi og stóraburkna, hraunbólur, óbrinnishóla inn í miðju hraunhafinu, hrauntraðir með ýmsum myndunum, kargahraun þakið þykkri mosakápu, niðurföll, rásir, skúta og hella af mismunandi lengd og gerð.

Hellar

Ferlir

Í hellinum Ferli.

Fjölmargir hellar eru á skaganum og aðeins hluti þeirra fundinn svo að fyrir þá sem vilja skríða um móður jörð og skoða innviði hennar er þetta kjörsvæði.

Strompahellar

Í Strompahellum.

Hellaauðug hraun eru oft aðeins steinsnar frá þjóðleiðum t.d. í Arnaseturshrauni við Grindavíkurveg og hinir rómuðu Bláfjallahellar í Strompahrauni þar sem þúsundir manna fara um á góðviðrisdögum. Konunginn sjálfan hinn 1360 m langa Raufarhólshelli í Leitahrauni þekkja víst flestir. Ekki eru allir hellarnir svo til láréttir heldur er einnig þó nokkuð um lóðrétta hella sem flestir eru afgösunar pípur og þá oft tengdir gígunum. Dýpstur er hellirinn í Þríhnjúkum en þar þarf að síga um 110 m beint niður áður en fætur kenna gólfs og eftir það má enn fara neðar. Fer þá eflaust að styttast til þess höfðingja sem hinir ófrómu munu gista að lokinni jarðvistinni. Um þær myndanir sem hellarnir búa yfir, mætti hafa mörg orð, en þeirra á aðeins að njóta á staðnum, í því sérkennilega andrúmslofti sem þar ríkir og í hinni dularfullu birtu ljóskeranna. Sjálft hraunið og myndanir þess og litbrigði eru svo heimur út af fyrir sig.

Móberg

Móbergsmyndanir.

Djúpar gjár stundum með köldu tæru vatni og misgengisstallar af mismunandi stærðum og gerðum eru einnig skoðunarverðir staðir. Móbergið sem er mun linara en basaltið er tilvalið efni fyrir vatn og vind til að skera út ýmsar kynjamyndir. Og ekki má láta hjá líða að minnast á háhitasvæðin með öllum þeim furðum sem þar er að sjá og heyra að ógleymdri þeirri ilman sem fylgi skoðandanum langt út fyrir svæðið.

Jarðlagagerð

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – bólstraberg í bland við Hylo.

Ef við lítum aðeins á jarðlagagerðina má skipta henni eftir myndunartíma í þrjá aðal flokka. Grágrýtishraunin frá síðustu hlýskeiðum, móbergs og bólstraberg frá síðustu jökulskeiðum og hraun runnin eftir ísöld.
Þorbjarnarfell ofan Grindavíkur er ágætt dæmi um bólstrabergsmyndun. Hana má glöggt sjá í veggjum Þjófagjár.

Grágrýti

Grágrýti

Grágrýti.

Grágrýtishraunin runnu á hlýskeiðum ísaldar og jöklarnir hreinsuðu og skófu síðan allt gjall, hraunreipi og aðrar yfirborðsmyndanir af.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa. Landrek.

Ysti hluti skagans, Rosmhvalanes, sem er SV við miðju landrekssprungunnar, er hulið grágrýti og samkvæmt flekakenningunni ætti grágrýti af svipuðum aldri að finnast SA við hana. Ef þið skoðið mynd 3 sjáið þið að svo er t.d. í Krýsuvík. Við skulum líta aðeins nánar á grágrýtið á “Rostunganesinu” en á því eru helstu stórborgir Suðurnesja. Hraunin bera þess greinileg merki að þau eru runnin frá dyngjum. Þar sem sjór og/eða jöklar hafa rofið stalla í það má sjá að þau eru beltótt og smá eða grófkristölluð. Ef rýnt er í bergið má kenna að ljósu kornin í því eru plagíóklas (feldspat) og á einstaka stað má í ljósum og gropnum blettum sjá dökka, nokkuð stóra, ágít kristalla. Þar sem bergið er mishart, veðrast við vissar aðstæður mjög sérkennilegt „bollamunstur” í það og prýða slíkir steinar margan verðlaunagarðinn í Keflavík. Skipta má grágrýtinu upp í þrjár syrpur: Háaleitis, Njarðvíkur og Vogastapagrágrýtið.

Vogastapagrágrýtið

Háaleiti

Háaleiti – Áki Granz.

Talið er að Háleitis og Vogastapagrágrýtið hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði fyrir um 200.000 árum en Njarðvíkurgrágrýtið á síðasta hlýskeiði og er þá um 100.000 ára. Talið er næsta víst að Háaleitið sé dyngjuhvirfill samnefnds hrauns en óvíst er um uppkomustað hinna og gætu þeir jafnvel verið horfnir í sæ. Þykkt hraunanna er allt að 90m. Vogagrágrýti hefur snarast til SA, inn að virka svæðinu, og má merkja það á misgengjum svo sem í Háabjalla og stöllunum sitt hvoru megin Seltjarnar.

Móbergs- og bólstramyndanir

Bólstrar

Bólstri í Lambatanga.

Móbergs- og bólstramyndanir eru flestar frá síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir 70.000 árum. Dæmi er um myndanir frá eldri jökulskeiðum. Reynt verður að skýra lauslega frá því hvað á sér stað þegar jarðeldur kemur upp undir jökli eða vatni.

Grindavík

Sundhnúkur – hraunrennsli.

Flestir hafa séð hvernig hraun renna frá eldvörpum t.d. Heklu og Kröflugosum. Ef bergkvika kemur upp undir jökli bræðir hún geil í jökulinn sem hálffyllist af vatni sem snöggkælir hana svo hún nær ekki að kristallast en splundrast í smá gleragnir sem nefnist aska. Margir hafa orðið fyrir því að snöggkæla heita glerhluti og þekkja þetta því af eigin skinni. Ef vatnsþrýstingurinn er nægur nær efnið ekki að splundrast en vegna mikillar kælingar myndar það hnykla eða kodda sem oft eru innan við metri á hvern kant. Nefnist bergið þá bólstraberg. Ef gos stendur það lengi að bólstrabergið og gosaskan ná að hlaða upp gíg sem vatn kemst ekki í rennur hraun sem myndar hettu ofan á eldvarpinu. Nefnist það þá stapi.

Sveifluháls

Móbergsháls (Sveifluháls) á Reykjanesskaga – Kleifarvatn.

Með tíð og tíma ummyndast og harðnar hin dökka aska og verður að brúnu mógleri sem límist saman og myndar móbergið. Vikur, gjall og hraunmolar smáir og stórir sem blandast öskunni gefur svo móberginu mismunandi ásýnd.
Þegar jökullinn hvarf af landinu stóðu eftir hlíðarbrött fjöll, mismunandi að hæð og gerð. Útlit og gerð þeirra fer eftir því hvenær gosinu lauk og hvort gosið hefur aðallega á einum stað eða á gossprungu. Sem dæmi um móbergshryggi má nefna Sveiflu og Núpshlíðarhálsa svo og fellin frá Valahnúk að Sýrfelli. Vegna athafna manna er unnt að skoða bólstrabergið í Stapafelli í mjög laglegu sniði, meira að segja, án þess að þurfa að yfirgefa hægindi mótorfáksins. Í Súlunum, sem samfastar eru Stapafelli, má einnig greina gangana sem á sínum tíma veittu eldleðjunni upp í gíginn. Keilir er dæmi um stakstætt móbergsfjall og Fagradalsfjall er myndarlegasti stapinn á utanverðum skaganum.

Hraun

Katlahraun

Katlahraun.

Nútímahraun nefnast þau hraun sem upp hafa komið eftir að jökla leysti hér á skaganum líklega fyrir 12-13 þúsund árum. Venja er að skipta hraununum í tvo flokka eftir uppruna og útliti: Dyngjuhraun sem eru dæmigerð helluhraun úr þunnum hraunlögum, slétt, reipótt og með ávölum hraunhólum sem oft eru með alldjúpum sprungum í kollinum.

Grindavík

Ný hraunmyndun ofan Grindavíkur.

Bergið er gráleitt og með brúnleita veðrunarkápu, oft grófkornótt og áberandi ólivín og/eða plagíóklas dílar eru algengir. Bergtegundin nefnist ólivínþóleiít og er einkennisberg hafsbotnsins. Hraunin dreifast gjarnan yfir stór svæði því kvikan er heit og þunnfljótandi þegar hún kemur upp. Á skaganum utanverðum eru þrjár stórar dyngjur. Sú ysta nefnist Sandfellshæð og þrátt fyrir að hraun hennar þeki uppundir 150 km2 og eru tæpir 6 km3 er gígur hennar aðeins 90 metrar yfir sjávarmáli.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Þráinsskjöldur byggir síðan upp Vogaheiðina og er gígur hans rétt austan við Fagradalsfjall-Vatnsfell. Að stærð og aldri eru þessar dyngjur álíka og virðast hafa verið virkar við lægri sjávarstöðu líklega skömmu eftir að ísa leysti af svæðinu. Ef þið hafið ekki tekið eftir þessu mikla eldfjalli, Þráinsskyldi, rennið þá augunum, frá Ströndinni og upp í vikið á milli Keilis og Vatnsfells næst þegar þið eigið leið um Stapann í átt til höfuðstaðarins. Þá blasir við eldstöð þar sem upp kom um 20 sinnum meira efni en í Heimaeyjargosinu. Þriðju dyngjuna er að finna uppundir Sveifluhálsi og er hún kennd við Hrútagjá en hraun hennar runnu til sjávar á milli Afstapahrauns og Straums. Dyngja þessi er mun minni en hinar tvær og einnig snöggtum yngri. Austar á skaganum eru fleiri dyngjur svo sem Selvogsheiði, Heiðin há og Leitin, en hraunin frá þeim runnu til sjávar bæði í Reykjavík og Þorlákshöfn.
Nokkrar minni dyngjur úr svo nefndu pikríti, er einnig að finna á Reykjanesi og má þar til nefna Háleyjarbungu út á Reykjanestá en hana prýðir formfagur gígketill. Pikrítið er bergtegund sem er talin vera komin svo til beint frá möttli. Það er grófkornótt og allt löðrandi í ólivíndílum sem stundum eru svolítið brúnleitir vegna ummyndunar í stað þess að vera ólivíngrænir. Pikrít hraunin eru talin vera elstu nútímahraunin á skaganum og hafa því runnið strax eftir ísaldarlok.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Sprunguhraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum eru úr mun seigari kviku en dyngjuhraunin og mynda því þykk hraun með mikinn gjallkarga. Þau eru því úfin og ill yfirferðar og hraunjaðar þeirra hár og brattur. Nefnast slík hraun apalhraun.

Apalhraun

Apalhraun.

Frá einstaka eldvarpi geta þó báðar hraungerðirnar runnið í einu og sama gosinu. Apalhraunin renna gjarnan frá gosrásinni eftir hraunám sem nefnast hrauntraðir að gosi loknu en helluhraunin eftir rásum undir storknuðu yfirborðinu. Þau síðarnefndu eru því mun auðugri af hellum. Sprunguhraunin eru flest yngri en dyngjuhraunin og nokkur þeirra hafa runnið eftir að land var numið. Bergtegundin er þóleiít, algengasta bergtegund landsins, nema hér á nesinu þar sem um 18 % af yfirborðsberginu telst til þess en 78% er ólivínþóleiít og 4% pikrít. Þóleiítið er mun dekkra en dyngjubasaltið og dul- eða fínkornótt og mun minna af dílum er í því en hinum tveim. Eldvörpin eru mjög fjölbreytt að gerð og lögun, en mun meira af lausum gosefnum koma upp í þeim en dyngjunum og heildar magn gosefna einstakra gosa er oftast langt innan við 1 km3.

Jón Jónsson

Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgos og hraun á Reykjanesskaga.

Erfitt er að gera sér grein fyrir fjölda þeirra eldvarpa sem gosið hafa á nútíma en Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kortlagt hraun frá meira en 150 uppkomustöðum en þeir hljóta að vera fleiri því einhverjir hafa lent undir yngri hraunum. Gosin verða í hrinum innan hverrar gosreinar. Glöggt dæmi um það er gos sem hófst út á Reykjanestá, líklega 1226, sem síðan breiddist norðaustur eftir skaganum allt til Arnarseturs sem er rétt austan Grindavíkurvegar. Sömu sögu má segja þegar Ögmundarhraun rann líklega 1151. Á kortinu má einnig sjá þau 14 hraun sem upp hafa komið á sögulegum tíma. Athygli skal vakin á austasta hrauninu númer 14, en það telur Jón Jónsson vera Kristnitökuhraun sem rann þegar við kristni var tekið af lýð árið 999.

Hvenær gýs næst?

eldgos

Má vænta þessa í nánustu framtíð á Reykjanesskaga?

Þó langt sé liðið, á tímakvarða manna, síðan síðast gaus á Reykjanesskaganum er hann langt frá því að vera dauður úr öllum eldæðum. Mun skemmra er síðan stór gos hafa orðið út á Reykjaneshrygg. 1783 hlóðst þar upp eyja sem fékk það frumlega nafn Nýey en hafið vann fljótt og vel á henni. Líkur hafa verið að því leiddar að gosið hafi út á hryggnum á síðustu öld og það oftar en einu sinni.

Eldgos

Eldgos við Sundhnúk ofan Grindavíkur.

Þó eldgos séu mikil sjónarspil og valdi ekki alltaf miklu tjóni og geti jafnvel verið til bóta fyrir svæðið sem þau koma upp á t.d. með því að leggja til byggingarefni, veita skjól eða draga til sín ferðamenn æskir þeirra enginn.
Mannskepnan er ósköp smá og lítils megnug þegar eldgyðjan blæs í glæður sínar en eitt er víst að jarðeldur á eftir að koma upp hér á skaganum. Eina óvissan er hvar og hvenær.“ – Ægir Sigurðsson.

Heimildir:
-Yngra-Stampagosið á Reykjanesi, Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, Jarðvísindadeild HÍ 2016 – ritgerð í HÍ.
-Faxi, 2. tbl. 66. árg. 2006, Er eitthvað að sjá á Reykjanesskaganum, Ægir Sigurðsson, bls. 44-47.

Eldgos

Vel er fylgst með jarðhræringum á Reykjanesskaga.

Bessastaðir

Margt og mikið hefur verið rætt og ritað um „Bessastaði og Bessastaðakirkju“ fyrrum. Hér á eftir verður drepið á fáeitt áhugavert.

Á vefsíðu forseta Íslands segir um sögu Bessastaða:

„Saga Bessastaða er hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.

Bessastaðir 1720

Bessastaðir 1720.

Bessastaðastofa var byggð 1761-66, í amtmannstíð Magnúsar Gíslasonar. Árið 1805 fluttist Hólavallaskóli, eini lærði skóli landsins, til Bessastaða og hlaut þá heitið Bessastaðaskóli. Hann starfaði þar til 1846 að hann flutti til Reykjavíkur; á þeim árum sóttu skólann m.a. Fjölnismenn og aðrir leiðtogar sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og þar sleit skáldið Benedikt Gröndal barnsskónum eins og hann lýsir í Dægradvöl.

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen (1820-1896).

Árið 1867 eignaðist skáldið og þingmaðurinn Grímur Thomsen Bessastaði og bjó þar tæpa tvo áratugi. Eftir að hann lést árið 1896 keypti Landsbanki Íslands Bessastaði, Lambhús og Skansinn af ekkju Gríms, Jakobínu Jónsdóttur. Skúli Thoroddsen ritstjóri og alþingismaður og kona hans Theodóra Thoroddsen skáldkona keyptu Bessastaði 1898 og bjuggu þar rausnarbúi með börnum sínum tólf til 1908 og áttu jörðina þar til Skúli lést árið 1916. Jón H. Þorbergsson bóndi bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni, Elínu Vigfúsdóttur, á árunum 1917-28 og því næst hjónin Björgúlfur Ólafsson læknir og Þórunn Benediktsdóttir 1928-40. Þá keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði og hann afhenti síðan íslenska ríkinu staðinn að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.“

Bessastaðir

Bessastaðir.

Í grein í Morgunblaðinu í febrúar árið 2001 segir um Bessastaði á Álftanesi og Bessastaðakirkju:

„Kirkjan, sagan og þjóðin hafa verið rauði þráðurinn í hugvekjunum síðustu misserin. Stefán Friðbjarnarson staldrar við þann söguríka stað, Bessastaði á Álftanesi.
Hvað hjálpar þér í heimsins glaumi,
að heiminum verðirðu´ ekki að bráð?
Þá berast lætur lífs með straumi,
og lystisemdum sleppur taumi,
– hvað hjálpar, nema Herrans náð?
„Og því er hver einn bezt til ferða búinn,
ef bilar hann ei vonin eða trúin“. – (Grímur Thomsen.)

Sérhver sæmilega lesinn Íslendingur veit að Ingólfur Arnarson festi fyrstur norrænna manna bú hér á landi.

Bessastaðir

Bessastaðir 1720.

Fjölmargir en færri þó vita að bróðursonur hans, Ásbjörn Özurarson, „nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum“, eins og segir í Landnámu. Enginn veit með vissu hvar Skúlastaðir vóru. Getgátur nefna m.a. Bessastaði og Garða, höfuðbýli á svæðinu um aldir. Rannsóknir á mannvistarleifum á Bessastöðum benda sterklega til þess að þar hafi bú verið þegar á landnámsöld (870-930). Ummerki um rask fundust rétt undir landnámsgjóskunni og eru frá 9. öld (Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftaness saga – 1996).

Bessastaðir

Bessastaður 1722.

Bessastaðir tengjast Íslandssögu flestum stöðum sterkar. Hærra rísa Þingvellir, Skálholt, Hólar og Reykjavík. Staðurinn komst í eigu eins virtasta höfðingja Sturlungaaldar, sagnameistarans í Reykholti, Snorra Sturlusonar. Þar dvaldi hann un lengri og skemmri tíma, sbr. Sturlungu. Þar var jafnan annálað höfðingjasetur. Til Bessastaða rekja ýmsir örlagatburðir í sögu þjóðarinnar rætur, illir sem góðir. Þar sátu „kóngsins valdsmenn“ um margra alda skeið. Þar sátu þeir þegar sjálfstæðis- og trúarhetjan Jón biskup Arason og synir hans tveir vóru hálshöggnir. Þangað var böðull þeirra, Jón Ólafsson, sóttur. Þar var latínuskóli (prestaskóli) 1805-1846.

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen.

Þar fæddist skáldjöfurinn Grímur Thomsen árið 1820. Þar bjó hann myndarbúi eftir nám og farsælan embættisferil í Kaupmannahöfn og sinnti skáldskap og stjórnmálum. Og þar lézt hann árið 1896. Bessastaðir eru nú íslenzkt þjóðhöfðingasetur, bústaður forseta íslenzka lýðveldisins, verndara kirkjunnar.

Höfuðbýlin, Bessastaðir og Garðar, settu um aldir svip á nágrenni sitt. Í bókinni „Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða“ (samantekt í ritstjórn Erlu Jónsdóttur 1992) segir m.a.: „Á síð-miðöldum var nærvera kirkju og krúnu ekki jafn yfirþyrmandi í neinni þingsókn sýslunnar eins og í Hausastaðaþingsókn. Bæði var að hvergi vóru menn í eins mikilli nálægð við valdsmenn konungs og á Bessastöðum og óvíða bar jafn mikið á jarðasöfnun kirkju og krúnu og þar.“ Samkvæmt jarðamati 1695 átti krúnan tilkall til 26 jarða (af 38 lögbýlum í hreppnum) og 10 jarðir vóru kirkjujarðir. „Aðeins ein jörð, Setberg, var í einkaeigu, auk þess sem jarðarpartur úr Ási ofan við Hafnarfjörð var í einkaeign. Setberg hefur reyndar ein jarða í Áltaneshreppi þá sérstöðu að hafa aldrei komið undir kóng eða klerk,“ segir í tilvitnaðri bók um Garðabæ. Sá munur var á kirkju- og konungsjörðum að þær fyrrnefndu heyrðu undir innlenda menn.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Bessastaðakirkju er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups árið 1200. Þar er og getið Garðakirkju, sem talin var veglegri. Sú síðarnefnda heyrði kirkjuvaldinu. Hin var fyrst bændakirkja en „síðan kirkja höfuðvígis konungsvaldsins um margra alda skeið“, segir í Álftaness sögu. Bessastaðakirkja sem enn stendur var reist árin 1794-1796, en hefur oft verið betrumbætt síðan. Hún setur ríkulegan svip á íslenzka forsetasetrið: Tákn um tengsl kirkju og þjóðar í þúsund ár.

Bessastaðir.

Bygging núverandi steinkirkju á Bessastöðum hófst 1773 og var hún vígð 1796.

Eitt áttu allar kynslóðir og byggðir Íslands sammerkt: kirkju í miðri sveit, sem var miðstöð mannfunda, menningar og trúar sóknarbarnanna. Kirkjan og þjóðin, kirkjan og kynslóðirnar, kirkjan og einstaklingar hafa átt samleið í þúsund ár – frá vöggu til grafar sérhvers Íslendings. Þessi tryggðabönd kirkju og þjóðar, kirkju og einstaklinga, þarf að treysta og tryggja til langrar framtíðar. Kirkjan er kjölfestan í þjóðarskútunni. Kristinn boðskapur áttavitinn.“

Í Morgunblaðinu í október 2005 segir um Bessastaði á Álftanesi:

„Margir þættir þjóðarsögunnar renna saman á Bessastöðum á Álftanesi, þar sem nú er embættisbústaður forseta Íslands. Sveinn Guðjónsson rifjar upp sögu staðarins, sem nær allt frá landnámsöld til okkar daga.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – altaristafla.

Saga Bessastaða á Álftanesi er svo samofin sögu og örlögum íslensku þjóðarinnar að þar verður vart greint á milli og líklega kemst ekkert íslenskt höfuðból þar nærri í samjöfnuði. Bessastaðir hafa bæði verið í eign einstakra manna og ríkiseign. Þeir hafa verið stjórnarsetur, kirkjustaður og skólasetur og þar hefur verið rekin prentsmiðja með bóka- og blaðaútgáfu. Bessastaðir hafa verið í eign fræðimanna og skálda, eins og Snorra Sturlusonar og Gríms Thomsen. Þar hafa setið landstjórnarmenn og fyrirmenn, svo sem höfuðsmenn og amtmenn, fógetar, ríkisstjóri og forsetar. Þar hafa starfað merkir skólamenn eins og Hallgrímur Scheving og vísi

ndamenn á borð við Sveinbjörn Egilsson og Björn Guðlaugsson. Þar hafa stundað skólanám ýmsir öndvegismenn, og skal ástmögur þjóðarinnar, Jónas Hallgrímsson, nefndur í þeim hópi.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2023.

Ýmis atvinnustarfsemi hefur farið fram á Bessastöðum og þar gerðar tilraunir, svo sem um fjárrækt og fálkafang, útræði og búskap, og þar var eitt sinn rekin ullarverksmiðja. Á Bessastöðum voru gerðar veðurathuganir og rekin rannsóknarstöð í stjörnuathugun. Þar fór fram læknakennsla og rekin lyfjabúð. Hinir ólíklegustu þættir þjóðarsögunnar hafa fléttast saman á Bessastöðum sem best sést á því að þar var eitt sinn fangelsi sakamanna og jafnframt leiknir fyrstu sjónleikir, sem leiknir voru á Íslandi, að því er best er vitað.

Saga Bessastaða er ekki eingöngu saga höfuðbóls og menntaseturs. Vegna embættisstöðu Bessastaðabænda um langan aldur voru örlög og lífskjör þjóðarinnar nátengd þessu höfuðbóli. Það er saga kúgunar, eymdar og yfirtroðslu. Og vegna embættistengsla Bessastaðamanna við dönsku krúnuna fyrr á öldum ber saga Bessastaða vitni um erlenda ásælni og yfirdrottnun. Á sama hátt má segja að hlutverk Bessastaða á okkar tímum, sem embættisbústaður forseta Íslands, sé tákn um sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðlegt viðnám gegn ásælni erlends valds.

Bessastaðir

Bessastaðir – fornleifarannsóknir.

Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að búseta hefur verið á Bessastöðum allt frá landnámsöld. Álftanesið var í landnámi Ingólfs Arnarsonar, en hvergi verður ráðið af heimildum hver sá Bessi var, sem Bessastaðir eru kenndir við. Þegar endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987 kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 metra þykk mannvistarlög og hafa þar fundist minjar um fyrstu búsetu manna þar, meðal annars leifar af tveimur stórum skálum, eldhús og búr, jarðhús, útihús og garðar. Af fornleifarannsóknunum má ráða að Bessastaðir hafi verið allstórt býli allt frá upphafi. Bæjarhóllinn er einn sá stærsti á Íslandi, rúmlega 50 metra breiður og 150 metra langur, og hefur hann að geyma mikilvægar og áþreifanlegar upplýsingar um þróun búsetu á Bessastöðum.

Bessastaðir

Bessastaðasel í Lækjarbotnum.

Bessastaða er ekki getið í rituðum heimildum fyrr en um tveimur öldum eftir að búseta þar hófst.

Það er ekki fyrr en á Sturlungaöld sem Bessastaðir fara að koma verulega við sögu, en þá voru þeir í eigu skáldsins og stórhöfðingjans Snorra Sturlusonar.

Snorri Sturluson

Snorri Sturluson.

Ekki er vitað með vissu hvernig Snorri hefur eignast jörðina, en hann var mikill jarðeigandi og leitaði víða fanga í þeim efnum og sótti þá oft fjármálin meira af kappi en rétti, svo sem farið hefur með fleirum bæði fyrr og síðar, en Sturlungaöldin einkenndist af hatrammri baráttu nokkurra höfðingjaætta um auð og völd í landinu.

Miðstöð konungsvaldsins
Eftir fall Snorra Sturlusonar taldi Hákon gamli, Noregskonungur, sig eiga tilkall til arfs eftir Snorra og sló eign sinni á staðinn. Þannig urðu Bessastaðir miðstöð konungsvaldsins á Íslandi, og um leið uppistaða í jarðeignum og jarðeignavaldi konungs hér á landi. Sátu umboðsmenn konungsvaldsins jafnan á Bessastöðum og á löngum kafla Íslandssögunnar voru Bessastaðir tákn æðsta valdsins í þjóðfélaginu.
Bessastaðir komu mjög við sögu siðaskiptanna enda stóð konungsvaldið að hinum nýja sið og umboðsmenn þess veittust gegn biskupunum Ögmundi Pálssyni og Jóni Arasyni, sem þrjóskuðust við. Siðbótarmenn konungs fóru í herferðir frá Bessastöðum og þar voru lögð á ráðin um aftöku Jóns Arasonar og sona hans.

Henrik Bjelke

Henrik Bjelke.

Af þeim umboðsmönnum erlenda konungsvaldsins sem sátu á Bessastöðum varð Henrik Bjelke, höfuðsmaður og lénsmaður, einna nafntogaðastur, enda gerðust í hans tíð einhverjir örlagaríkustu atburðir íslandssögunnar, sem tengjast Bessastöðum. Það voru hyllingareiðarnir 1662, þegar Friðriki konungi þriðja voru svarnir erfða- og einveldiseiðar. Við einveldistökuna urðu ýmsar breytingar á íslenskri stjórnsýslu og var hinn forni konungsgarður á Bessastöðum þá gerður að embættisbústað tveggja æðstu umboðsmanna konungs hér á landi, landfógeta og amtmanns, þar til landsstjórnin fluttist til Reykjavíkur á nítjándu öld.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Árið 1867 komust Bessastaðir í eigu skáldsins og alþingismannsins Gríms Thomsen, en hann fæddist þar árið 1820. Grímur bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni Jakobínu Jónsdóttur, þar til hann lést árið 1896, en þá keypti Landsbanki Íslands jörðina. Tveimur árum síðar eignuðust hjónin Theodóra Thoroddsen skáldkona og Skúli Thoroddsen ritstjóri og þingmaður Bessastaði. Síðar bjuggu þar Jón H. Þorbergsson bóndi (1917-28) og Björgúlfur Ólafsson læknir (1928-40) og árið 1940 keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði. Þegar embætti ríkisstjóra var stofnað var nokkur óvissa um hvar ríkisstjóri skyldi hafa aðsetursstað og kom þá upp sú tillaga að hann sæti á Bessastöðum. Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, spurðist fyrir um það hjá eiganda jarðarinnar hvort hann vildi selja staðinn til þessara nota og bauðst Sigurður þá til að afhenda ríkinu Bessastaði að gjöf, og var því boði tekið. Þetta var árið 1941, en Bessastaðir hafa síðan verið aðsetur forseta Íslands frá stofnun lýðveldisins 1944.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Bessastaðakirkja hefur vissa sérstöðu í íslenskri kirkjusögu að því leyti að hún stóð á höfuðbóli, en var ekki höfuðkirkja. Bessastaðir voru veraldlegt höfuðból, en ekki kirkjulegt og stundum stóð þar stríð milli hins veraldlega og andlega valds í afstöðunni til kirkjunnar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Ekki verður rakið með vissu hvenær kirkja var fyrst sett á Bessastöðum, en líklegt er að það hafi verið nokkuð snemma í kristni hér á landi og eru elstu heimildir um kirkju þar frá árinu 1200. Bessastaðakirkja hefur í upphafi verið bændakirkja, en í elsta máldaga hennar, frá 1352, segir að þar skuli vera „kvengildur ómagi úr kyni Sveinbjarnar“. Er þar líklega átt við Sveinbjörn Ólafsson, sem var fimmti ættliður frá landnámsmanninum Ásbirni Özurarsyni, sem bjó á þessum slóðum á 11. öld.

Nokkrar tilraunir voru gerðar til að efla kirkjuna á Bessastöðum og hefja hana til vegs og virðingar, en það gekk illa eftir og gekk á ýmsu með viðhald hennar. Í byrjun 17. aldar var hún orðin hrörleg og var þá ný timburkirkja reist, allstór. Hún var þó vanviðuð og illa smíðuð og fauk í ofviðri 1619. Þá var reist þar torfkirkja, sem stóð alllengi með viðgerðum og var hún meðal annars timburþiljuð. Henrik Bjelke höfuðsmaður lét á sinni tíð gera við kirkjuna og gaf hann henni stóra klukku.

Kristján sjöundi

Kristján konungur söundi.

Kristján konungur sjöundi ákvað svo að láta reisa steinkirkju á Bessastöðum og var leitað frjálsra samskota um allt land og einnig í Danmörku og Noregi, auk þess sem konungur lagði fram fé til kirkjusmíðinnar. Við byggingu kirkjunnar var hafður sá háttur á að hlaða múrveggi nýju kirkjunnar utan um gömlu kirkjuna og voru múrveggirnir hafðir mjög þykkir, rúmur metri, úr hlöðnu, kölkuðu grjóti. Hin nýja steinkirkja var vígð 1796 og stendur enn og er með elstu steinbyggingum landsins. Smíði turnsins lauk þó ekki fyrr en 1823. Breytingar voru gerðar á innviðum Bessastaðakirkju á árunum 1945 til 47 og steint gler var sett í gluggana árið 1956. Þá fór gagnger viðgerð fram á Bessastaðakirkju árið 1998.

Bessastaðastofa

Bessastaðir

Bessastaðir – tákn valdsins.

Húsnæðið á Bessastöðum þótti ekki alltaf upp á marga fiska og þótt ýmis hús hefðu verið reist þar í aldanna rás hafði sjaldnast verið vandað til verka og oft byggt af vanefnum. Það var ekki fyrr en Magnús Gíslason, fyrsti íslenski amtmaðurinn á Bessastöðum, kom til sögunnar að rofa tók til í húsnæðismálum þessa forna höfuðbóls. Þegar hann átti að fara að setjast þar að, fyrst settur amtmaður 1752 og aftur þegar hann var skipaður 1757, þótti honum í bæði skiptin að ekki væru íbúðarhæf húsin á Bessastöðum.

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.

Danska stjórnin réðst þá í byggingu tveggja steinhúsa samtímis, það er embættisbústaðar Bjarna Pálssonar landlæknis á Nesi við Seltjörn og Bessastaðastofu, embættisbústaðar Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Bessastaðastofa var reist á árunum 1761 – 66 og þótti hið veglegasta hús, 33 álnir og 3 tommur að lengd, 16 álnir og 16 tommur á breidd og nálægt 5 álnum á hæð og veggir hlaðnir úr tilhöggnum kalklímdum grásteini. Verulegar breytingar voru gerðar á húsinu er ríkisstjóri fékk það til umráða 1941 og aftur þegar húsið var endurbyggt á árunum 1989-1990.
Bygging Bessastaðastofu var að vissu leyti tákn um nýja tíma í landinu. Furðulegt má teljast hversu lengi hafði dregist að koma upp vönduðu og varanlegu húsnæði á slíku höfuðbóli sem konungsgarðinum á Bessastöðum. Þegar Bessastaðastofa loks reis var hlutverk staðarins sem stjórnarseturs á enda runnið. En þá reis þar annað og ekki ómerkara setur, íslenskt menntasetur, sem mikill ljómi hefur stafað af í vitund íslensku þjóðarinnar allt fram á okkar dag. Sú saga verður ekki rakin hér enda efni í aðra og lærðari grein.“

Í áhugaverðu riti Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði – Sögubrot – frá árinu 2021 og finna má á Netinu má m.a. lesa eftirfarandi:

Formáli höfundar

Júlíus Ó. Einarsson

Júlíus Ó. Einarsson.

„Hér er ekki sögð saga Bessastaða því til þess er ritið of lítið en sagan stór, enda orðaði Árni Óla rithöfundur það þannig að saga Bessastaða væri saga þjóðarinnar í stórum dráttum.
Hér fara á eftir stuttar frásagnir af ýmsum þáttum úr sögu Bessastaða, því auðvitað er ekki pláss fyrir mjög ítarlega umfjöllun um hina ótal ólíku atburði sem marka meira en þúsund ára ábúð. Mér tekst þó vonandi að gefa nokkuðskýra mynd af staðnum og vægi hans í sögu þjóðarinnar. Ég hvet lesandann um leið til þess að leita sér meiri fróðleiks um allt það sem kann sérstaklega að vekja áhuga hans á komandi blaðsíðum. Sums staðar vísa tenglar á vefsíður með efni sem bætir drjúgmiklu við fróðleikinn sem hér er að finna. Þá er líka heimildaskrá þar sem má finna megnið af þeim heimildum sem stuðst er við. Bókasöfn landsins geyma flestar heimildirnar og í þeim ritum eru áhugaverðar, fróðlegar og skemmtilegar frásagnir sem bæta heilmiklu við þá mynd sem hér er dregin upp. Í fyrsta kaflanum er tæpt lauslega á sögu Bessastaða til þess að lesandinn fái heildaryfirsýn en síðari kaflar segja frá ýmsu markverðu ásamt því sem fléttað er inn ýmsu forvitnilegu úr þjóðsögum. Byggt er að mestu á rituðum heimildum en líka stuðst við áður óbirt efni úr fórum mínum. Fyrir utan fróðleiks- og skemmtigildi þessa rits, er það ætlunin að upplýsingar um örnefni, sögustaði, rústir, fuglalíf og almennt náttúrufar glæði göngutúrinn lífi fyrir þá sem kjósa að fara á tveimur jafnfljótum um Bessastaðanes og opni þeim sýn á það sem annars kann að vera hulið á þessum sögulega stað.

Júlíus Ó. Einarsson

Rit Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði á Álftanesi – Sögubrot.

Lítil áhersla er hér á Bessastaði sem aðsetur forseta Íslands en fyrir utan það sem fram kemur í fjölmörgum skrifuðum heimildum um forseta og Bessastaði, er fróðleik um efnið að finna á vefsíðu forsetaembættisins. Ég starfaði á Bessastöðum um tæplega fimm ára skeið frá ársbyrjun 2010 til hausts 2014 og hafði búsetu á staðnum á þeim tíma. Ekki varð komist hjá því að saga Bessastaða ásamt húsum og minjum vektu áhuga minn. Meðal verkefna minna á Bessastöðum var að taka á móti gestum forseta, sýna staðarhúsin og munina, og segja frá. Meðfram þeirri reynslu safnaðist mest af þeim fróðleik sem birtist hér lesandanum. Ég fékk snemma þá hugmynd að opna Bessastaði fyrir almenningi en áður höfðu aðeins gestir forseta og takmarkaðir hópar átt kost á innliti. Þáverandi forseti tók afar vel í hugmyndina og mér var falið að skipuleggja, undirbúa og hafa heildarumsjón með framkvæmdinni. Í kjölfarið var Bessastaðastofa opnuð almenningi 10. febrúar 2012 í tengslum við Safnanótt. Síðan hefur verið kappkostað að gefa almenningi færi á að heimsækja staðinn og fræðast um hann um leið og gengið er um staðarhúsin og nánasta umhverfi.
Bessastaðir eru réttnefnd þjóðareign. Í mínum huga er saga Bessastaða jafn mikil þjóðareign og staðurinn sjálfur, sem er ástæða þess að rafrænni útgáfu bókarinnar er dreift án endurgjalds. Vonandi verður hún til gamans og gleði öllum þeim sem vilja kynna sér efnið eða heimsækja Bessastaði með gönguferð eða innliti.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja

Í Bessastaðakirkju.

Víst þykir að kirkja hafi staðið á Bessastöðum allt frá 12. öld og jafnvel fyrr. Ekki er víst að þar hafi nokkru sinni setið prestur en lengst af var kirkjunni þjónað frá Görðum á Álftanesi. Líkt og reyndin var með önnur hús á Bessastöðum um margra alda skeið, var lengi vel illa staðið að kirkjubyggingum staðarins og kirkjum illa haldið við.

Bessastaðir

Bessastaðir 1720.

Jafnvel var það stundum svo líka að kirkjan var höfð til annarra og jarðbundnari nota en helgihalds en meðal annars lýsir Sauðlauksdalsannáll því árið 1751 að prestshjónin á Bessastöðum „brúkuðu Bessastaðakirkju fyrir hesthús og svínabæli, glerglugga til kálgarðs, en fjalir til eldiviðar“.
Framan af voru kirkjur á Bessastöðum reistar úr timbri og jafnvel aðeins af torfi og grjóti.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Ástand kirkjubygginga var aldrei beysið og hver kirkjan reist á eftir annarri. Timbur var flutt til Bessastaða til byggingar kirkju árið 1617 en árið áður hafði konungur tilkynnt á Alþingi að lagt yrði gjald á allar kirkjur landsins sem renna skyldi til smíðinnar. Kirkjan sem byggð var þótti stór og til þess tekið í annálum hve háreist hún var en þess jafnframt getið að enga hefði hún bita „hvað byljavindur íslenzkur vel sá“, eins og segir í Vatnsfjarðarannál yngri og fer merking þeirra orða ekki milli mála. Enda hrundi Bessastaðakirkja til grunna í stormi árið 1619. Önnur var svo byggð upp úr viðum hinnar föllnu árið eftir og hafði sú torfveggi og torfþak. Sú kirkja laskaðist svo eða hrundi árið 1624 þó að annálar nefni ekki hvort það var af völdum veðurs eða þess að byggingin var of veikburða og reis ekki undir sér sjálf.

Byrjað var að reisa steinkirkjuna sem nú stendur árið 1777. Byggingartíminn var afar langur, enda varð margt til að tefja smíðina og kirkjan var loks vígð árið 1795.
BessastaðirKirkjuturninn stóð um hríð lægra en sjálfir kirkjuveggirnir og var ekki lokið við smíði hans fyrr en árið 1823. Einhver áhöld voru um það lengi vel hvort turninn skyldi byggður til stjörnuskoðunar eða til að þjóna sem hefðbundinn kirkjuturn. Hið síðara varð niðurstaðan og efri hluti turnsins byggður í þá mynd sem hann er í dag en vanefnin eru augljós ef hann er skoðaður innanvert.
Mörgum þykir Bessastaðakirkja einkar fögur bygging og að hún samsvari sér vel, enda eru hlutföll hennar þannig að breidd og lengd byggingarinnar ásamt breidd og hæð kirkjuturnsins eru allt nokkurn veginn í hlutföllunum 1:2. Byggingin er teiknuð í svokölluðum ferskeytum, sem voru ríkjandi í hönnun dómkirkja á miðöldum og voru í hávegum í guðfræði þeirra tíma. Ekki er vitað fyrir víst hver teiknaði Bessastaðakirkju en víst er að hann var undir sterkum áhrifum þessarar hefðar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Kirkjan var byggð utan um timburkirkjuna sem síðast stóð og var orðin afar hrörleg. Aðföng til byggingarinnar sem ekki voru fáanleg hérlendis, svo sem viður og kalk, var flutt sjóleiðina frá Kaupmannahöfn og skipað á land á bakka Bessastaðatjarnar. Grjót það sem notað var í undirstöður og veggi kirkjunnar var annarsvegar hraunsteinar úr Gálgahrauni og grágrýti úr Garðaholti, sem flutt var á pramma yfir Lambhúsatjörn.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1955.

Um það leyti sem smíði turnsins var að ljúka, var kirkjan þegar farin að gjalda fyrir viðhaldsleysi og Árni Helgason prófastur í Görðum sagði um hana árið 1843 af því tilefni að hún væri sú vesælasta í hans prófastsdæmi. Áfram hrörnaði byggingin, hún fór að leka og jafnvel hrundi loftið í kórnum að hluta eftir að staðurinn var kominn í eigu Gríms Thomsen. Raunar segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl að Grímur hafi notað kirkjuna meðal annars til þess að þurrka þvott. Það var ekki fyrr en eftir að Skúli Thoroddsen eignaðist Bessastaði, að ráðist var í nauðsynlegt og löngu tímabært viðhald á staðarhúsunum.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1930.

Ýmsar breytingar voru gerðar í gegnum tíðina á innréttingum Bessastaðakirkju en líka á ytra útliti. Náðu þær meðal annars til þakkvista, glugga og jafnvel var grafhýsi byggt utan í norðurvegg kirkjunnar á árunum 1784-1786, og það síðar rifið. Enn sést móta fyrir dyraopinu sem var milli kirkju og grafhýsis í steinhleðslunni utan á norðurveggnum. Þá voru líka lengi vel útidyr á syðri langvegg kirkjunnar. Ef til vill má segja að róttækustu breytingarnar á kirkjunni frá upphafi, séu útskipti á öllum innviðum hennar og gólfi, sem fram fóru á árunum 1946-48. Þessar breytingar voru afar umdeildar á sinni tíð og eru jafnvel enn. Í bókinni „Steinhúsin gömlu á Íslandi“ er talað um framkvæmdina
sem „býsna harkalegar viðgerðir og breytingar“. Illa mun hafa verið gengið um gömlu innviðina sem voru rifnir innan úr kirkjunni og þeir látnir liggja úti í öllum veðrum þar til ungur fornleifafræðingur fór að boði Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar til þess að líta eftir þeim. Hann kom því til bjargar sem bjargað varð og margt var flutt til geymslu hjá Þjóðminjasafninu. Þessi fornleifafræðingur var Kristján Eldjárn, sem sjálfur varð síðar forseti lýðveldisins og sat sem slíkur á Bessastöðum árin 1968-1980.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – steindur gluggi.

Mörgum sérfræðingnum um byggingarlist og byggingasögu þykir að steindir gluggar kirkjunnar séu gróft lýti í samhengi byggingarinnar þó að þeir séu að sönnu afskaplega fallegir gripir í sjálfu sér. Sagt hefur verið jákvætt um gluggana að þeir hylji það þó hvernig kirkjan var leikin að innan við endurbæturnar á fimmta áratugnum.

Ásgeir Ásgeirsson

Ásgeir Ásgeirsson.

Steindu gluggarnir komu þannig til að Ásgeir Ásgeirsson valdi sér þá sjálfur sem sextugsafmælisgjöf frá ríkisstjórn Íslands. Listamennirnir Guðmundur Einarsson frá Miðdal og Finnur Jónsson teiknuðu gluggana í samráði við forsetann og þeir smíðaðir í Englandi. Í dag er upphækkun í gólfi einu skilin milli kórs og kirkju. Fremst er lítill söngpallur og orgel, kirkjubekkir og predikunarstóll eru einfaldir að gerð og nokkuð hefðbundnir, teiknaðir af Guðjóni Samúelssyni húsameistara. Predikunarstóllinn er skorinn út af Ríkarði Jónssyni. Innst í kirkjunni á austurvegg hanga minningarskildir um látna forseta og að auki eru tveir stórir legsteinar múraðir upp á sitthvorn langvegginn, þeirra Magnúsar Gíslasonar amtmanns og Páls Stígssonar hirðstjóra.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – altaristafla.

Altaristafla kirkjunnar er máluð af Muggi (Guðmundi Thorsteinssyni). Hún er eign Listasafns Íslands en er lánuð kirkjunni. Sé grannt skoðað, má telja víst að Muggur hafi aldrei lokið fyllilega við verkið.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2023 – vindhani.

Ýmsir áhugamenn um Bessastaði eru áfram um að færa kirkjuna að einhverju leyti til eldra horfs. Tæplega er raunhæft að ætla að færa innviði til upprunalegs orfs og því síður að notast við eldri viði og búnað sem hefur varðveist að einhverju leyti. Nokkrar útfærslur á endurgerð koma til greina, sem allar væru fallnar til þess að sýna kirkju- og staðarsögunni sóma. Ekki er víst að af slíkum hugmyndum verði og þeir sem eru því mótdrægir leiða rök að því að hvert tímabil í notkunarsögu kirkjunnar sé jafn rétthátt öðru og allar breytingar í þessa veru myndu draga úr notagildi kirkjunnar til daglegra athafna.“

Síðasti valdsmaðurinn

Bessastaðakirkja

Skjaldarmerki Trampe greifa á turni Bessastaðakirkju.

Deilt hefur verið um skjaldarmerkið efst framan á Bessastaðakirkju. í Riti Júlíusar segir: „Trampe greifi, sem hafði verið dómari á Lálandi, var skipaður amtmaður á Íslandi 1804, eftir að Ludvig Erichsen kammerráð lést fyrr á því sama ári. Trampe vék sjálfviljugur af Bessastöðum og settist að í Reykjavík til þess að latínuskólinn gæti komið sér þar fyrir og hafið skólastarf.

Karl Sigurbjörnsson

Karl Sigurbjörnsson.

Ofan við efri gluggann á framhlið turns Bessastaðakirkju er innfelldur skjöldur úr sandsteini. „Skjaldarmerki ættar Trampe greifa er mótað í skjöldinn en hann var stiftamtmaður þegar smíði turnsins var lokið árið 1823.“
Fékk hins vegar eftirfarandi svar frá Karli Sigurbjörnssyni, fyrrverandi biskupi Íslands: „Blessaður og sæll. Þú varst að spyrja um skjaldarmerkið á Bessastöðum, það mun vera merki Moltkes greifa sem var stiftamtmaður hér þegar turnsmíðinni var lokið, 1823. Bestu kveðjur. – Karl Sigurbjörnsson“

Sjá framhaldið um skjaldarmerkið HÉR.

Rit Júlíusar um „Sögubrot Bessastaða“ má finna HÉR.

Heimild:
-https://www.forseti.is/sagan/bessasta%C3%B0ir/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1042945/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/587259/
-https://juliuseinarsson.files.wordpress.com/2021/01/bessastadir-sogubrot-3.pdf

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2000.

Hækingsdalur

Örnefnið „Barnahús“ er til í íslenskum örnefnaskrám fyrrum. Fyrirbærið er áhugavert fyrir margra; ekki síst fyrir barna sakir.
Í Rauðasandshreppi er í örnefnalýsingu örnefnið skráð; „Barnahúslækur. Hann er frammi í Vík, rennur þar í Ána og kemur úr Hreiðurblagili. Þar höfðu krakkar byggt sér grjóthús“.


Í Örnefnalýsingu fyrir Hækingsdal segir: „Fyrir heiman Illugastakksnef og neðan Móa eru Tjarnir, en fyrir utan Illugastakksnef er Flóðamýri. Þegar Kinnarlækur kemur niður úr túni, breytir hann um nafn og heitir Flóðamýrarlækur. Engjarnar fyrir ofan hann næst túni eru Forir. Þar upp af er nokkuð gróinn grjótbali, er heitir Stekkjarbali. Þar var síðast hafður stekkur. Móðir Hannesar mundi eftir honum í bernsku sinni. Fyrir utan Forir eru Enni, þau eru tvö, sitt hvoru megin við Barnhús. Brattar brekkur og grasgefnar. Upp af þeim er Kýrgilsbali. Vestan við hann er Fjólubolli, sem er töluvert breiður og djúpur. Þar vex mikið af fjólu eða blágresi. Fyrir utan Enni er Lágamýri. Upp af henni er klapparhæð, er heitir Barnhús. Enga skýringu kann Hannes á því nafni. Þar var kofi.“


Í Örnefnalýsingu fyrir Flekkudal, Grjóteyri og Sand í Kjós segir; „Landamerki beggja jarðanna að norðanverðu liggja að Meðalfellsvatni. Að austan um Flekkudalsós, Stokkinn (efsta hluta óssins) um Kelduna suður í Barnhúsvörðu við rætur Sandsfjalls upp í Markagil í Markastein nyrst á Sandsfjalli. Þaðan liggja mörkin suður Sandsfjall um Esjuflóa í Esjuhorn, þaðan sem vötnum hallar í Hátind á Esju syðst upp af Norðurgröf á Kjalarnesi.

Flekkudalur

Flekkudalur.

Í „Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi I“ segir m.a.: „“Merkin byrja við landsuðurhorn Meðalfellsvatns, í Flekkudalsós, upp úr honum í Barnhús, sem svo er kallað.
Frá því beint upp gilið, upp á Sandfellsbrún…,“ segir í örnefnaskrá Flekkudals. „Landamerki beggja jarðanna að norðanverðu liggja að Meðalfellsvatni. Að austan um Flekkudalsós, Stokkinn (efsta hluta óssins) um Kelduna suður í Barnhúsvörðu …“ segir í örnefnaskrá Gjóteyrar og Flekkudals. „Barnhús: Hans getur sér þess til að nafnið sé af því dregið, að börn hafi þar verið geymd meðan fólk var á engjum. Langt var á engjar á Sandi og matur færður. Þar voru tóftir. Þess má geta, að í Hækingsdal er einnig til Barnhús, haft um klapparhæð, en á henni voru tóftir. Ekki kunni heimildamaður þar skýringar á nafninu, en framangreind skýring hefur ekki verið borin undir hann.“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá Sands. Skv. lýsingum ætti Barnhús að hafa verið við enda keldunnar, sem er á merkjum milli Grjóteyrar og Sands, í fjallsrótum eða hugsanlega eitthvað ofar. Þetta er um 1,8 km VNV af bæjarhól. Mýri nær að fjallsrótum en svo tekur við brött en ágætlega gróin fjallshlíð. Girt er á merkjum hátt upp í fjall. Alls engar rústir eða vörðuleifar fundust á merkjum. Sennilegast er að Barnhús hafi verið alveg í fjallsrótum og þá vikið þegar keldan var grafin í skurð.“
Örnefnið, er þrátt fyrir allt, einstaklega áhugavert.

Heimildir:
-Örnefnastofnun, Vestur-Barðastrandasýsla Breiðavík, Rauðasandshreppur, Breiðavík, Trausti Ólafsson frá Breiðavík skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Hækingsdal.
-Örnefnalýsing á Flekkudal og Grjóteyri.
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Þorláksstaðir, Blönduholt, Þúfa, Þúfukot, Eyri, Eyrar-Uppkot, EyrarÚtkot, Útskálahamar, Kiðafell, Möðruvellir, Írafell, Bær, Meðalfell,
Meðalfellskot, Eyjar, Eyjahóll, Flekkudalur neðri, Sandur, Neðri-Háls, Hvammur og Hvammsvík. Reykjavík 2008.

Flekkudalur

Flekkudalur.

Ingólfsfjall

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Arnarbæli

Arnarbæli í Ölfusi.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
KaalundKaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Arnarbæli

Arnarbæli.

Hverfið, sem Arnarbæli í Ölfusi er hluti af, fékk nafnið Arnarbælishverfi. Arnarbælisforir eru mýrlendi á þessu frjósama landsvæði. Mikill vatnsagi gerði bændum erfitt fyrir og tilraunir voru gerðar til að ræsa vatnið fram. Geldneyti frá Arnarbæli voru gjarnan látin ganga á Hellisheiði á sumrin áður en afurðirnar voru seldar til Reykjavíkur. Margir áttu stundum fótum fjör að launa á leiðinni yfir heiðina undan galsafengnum eða jafnvel mannýgum nautum fyrrum.

Einhver mesti höfðingi Sturlungaaldar, Þorvarður Þórarinsson af Svínfellingaætt, fluttist austan af landi að Arnarbæli 1289. Hann bjó þar til dauðadags í 7 ár. Margir álíta, að hann hafi notað þennan tíma til að rita Njálssögu.

Arnarbæli

Arnarbæliskirkja stóð fyrrum í steinsins stað.

Arnarbæliskirkja stóð til ársins 1909 og þar var löngum prestssetur. Þetta ár var Reykjakirkja líka lögð niður og báðar sóknirnar lagðar til Kotstrandar. Margir merkisprestar sátu staðinn, s.s. Jón Daðason, sem flutti frá Djúpi 1641 og bjó þar til dauðadags 1676. Hann kenndi séra Eiríki Magnússyni, aðstoðarpresti og síðar sóknarpresti í Vogsósum, vísindi í 9 ár. Séra Jón varð að verjast mörgum sendingum frá fyrrum sóknarbörnum fyrir vestan, sem bekktust við hann, líkt og séra Snorra í Húsafelli.

Arnarbæli

Arnarbæli eftir jarðskjálftann 1896.

Annálar 20. apríl 1706 segja frá jarðskjálfta, sem olli hruni margra bæja á Suðurlandi. Arnarbælisbærinn hrundi til grunna og presturinn, Hannes Erlingsson komst út um sprunginn vegg eða þak hálfnakinn með ungabarn. Teinæringur, sem prestur gerði út frá Þorlákshöfn, fórst um svipað leyti með 11 manna áhöfn, kvæntum hjáleigubændum úr Arnarbælishverfi. Bæjarhúsin hrundu aftur til grunna í jarðskjálftunum 6. september 1896.

Forn og stór rúst á Þingholti í Arnarbælislandi er friðuð.

Kålund skrifar m.a. um Arnarbæli, skipslátur í Ölfusá og bæinn Fell undir Ingólfsfjalli (-felli).

Arnarbæli

Arnarbæli og nágrenni.

„Arnarbæli er nefnt í Harðar sögu Grímkelssonar (17), og er leið þangað með öllu ófær nema með kunnugum fylgdarmanni, og er vel fallin til að veita hugmynd um sérkenni í Ölfusi, flatt land sem flæðir yfir, blautar engjar, lækjar- og ármynni eða kvíslar úr Ölfusá ólga yfir flæðiland; er land þetta frábært til heyskapar.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – AMC-kort.

Norðar sést Hengill og Reykjafjöll, giljótt og mosavaxin, og lengst í norðaustri fjallaþyrping, og áfast henni er Ingólfsfjall, mikið og virðulegt, sést hvartvetna úr Ölfusi og virðist vera stakt. Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannahaugur að lögun og einnig stærð og því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul – Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir við texta Landnámu (45) um Ingólf: „Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá“, orðunum „þar sem sumir menn segja að hann sé heygður“; en í Íslendingabók segir aðeins: „er þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfusá, er hann lagði sína eigu síðan“.

Ingólfsfjall

Inghóll á Ingólfsfjalli (-felli).

Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð. (Brynjólfur Sveinsson, hinn frægi biskup (1639-74) reið samkvæmt „Descr. Ölves“ upp á fjallið til að skoða hauginn. Þá var hann mældur og reyndist vera 200 faðmar að ummáli sbr. Ferðarbók E.Ó. 859.- Samkvæmt fornminjaskýrslu (1821) á sögn að vera tengd Ingólfi og Inghól lík sögunni um Egil á Mosfelli í Mosfellssveit og Ketilbjörn á Mosfelli í Grímsnesi; skömmu fyrir dauða sinn á hann að hafa látið tvo þræla sína og ambátt fela fé sitt í Inghól og síðan hafi hann drepið þau á stöðum í fjallinu, sem heita eftir þeim (Ímuskarð, Kagagil og Kaldbakur).

Kögunarhóll

Kögunarhóll 1897 – Collingwood.

Efri helmingi fjallsins hallar jafnt niður, og síðan koma brattar hlíðar niður á jafnlendið, aðeins að sunnan teygir sig fram lágur rani. Fram af honum er keilu- og toppmynduð hæð, Kögunarhóll, sem áður fyrr á að hafa heitið Knörrhóll, þar sem munnmæli segja, að Ingólfur hafi sett skip sitt.

Fell

Tóftir Fells.

Í Harðar sögu Grímkelssonar segir (2), að maður að nafni Sigurður múli hafi fóstrað dóttur Grímkels goða, sem bjó fyrir sunnan Þingvallavatn. Sigurður á að hafa búið á bænum Felli (undir Felli). Síðar segir, að Hörður sonur Grímkels hafi látið flytja alla vöru sína undir Fwell til Sigurðar í múla, þá er faðir hans hafi látið hann fá, en hann ætlaði utan á Eyrum (austan við minni Ölfusár). Í skinnbókarbroti sem talið er vera af eldri gerð Harðar sögu, er bær Sigurðar múla nefndur Fjall (hann bjó undir Fjalli). Þessi bær Fell eða Fjall er vafalaust eyðibærinn Fjall; sést móta fyrir tóftum hans og túni skammt fyrir sunnan Ingólfsfjall. Jarðabók Á.M. og P.V. (1706) nefnir Fjall, sem áður fyrr hafi verið mikil jörð, og samkvæmt munnmælum á að hafa verið fyrrum þar kirkja. Við upphaf fyrri aldar höfðu verið byggðar fjórar harðir af hinni upphaflegu, en Fjall yngra lagst í eyði, einnig önnur af þessum fjórum (Fossnes), svo að nú séu aðeins tvær eftir af þessum fjórum (Laugarbakki eða -bakkar og Hellir).

Fell

Tóft við Fell.

Ekki er líklegt, að neitt af útrennsli Ölfusár hafi borið nafnið Arnarbælisós, því bærinn Arnarbæli stendur allmiklu ofar (1/2-1 mílu). Aftur á móti má hugsa sér, að því að varla hefur verið við mynni Ölfusár nokkurt lægi fyrir skip í fornöld, að lendingarstaðurinn hafi ef til vill nafn af þeim stað, sem skipin lögðu inn eða voru bundin.

Ölfusá

Ölfusá – Þorleifslækur.

Þetta fær ef til vill stuning af frásögn Landnámu (390) um landnámsmanninn Álf egska. Hann fór til Íslands og lenti skipi sínu í ósi þeim (mynni) sem hefur fengið nafn af honum og heitir Álfsós; hann nam allt land fyrir uatn Varmá og bjó að Gnúpum. Hér er Ölfusá ekki nefnd, en þótt hann hafi orðið að sigla inn um mynni árinnar til að komast í Álfsós og upp í neðri hluta Varmár, sem nefnist Þorleifslækur. Á sama hátt mætti álíta að Arnarbælisós hafi verið ármynni nálægt Arnarbæli, þar sem hafskipin venjulega lögðu inn og leituðu hafnar, sem var ekki að fá í mynni Ölfusár vegna breiddar ármynnisins, og ef til vill af fleiri ástæðum. Slíkt ármynni hefur einmitt verið þarna, því að varmá féll fyrrum í Ölfusá skammt fyrir austan Arnarbæli, en fyrir um 200 árum braut hún sér farveg í Álfsós og þar með í Þorleifslæk. Enn lifa sagnir sem benda til, að hafskip hafi lagst hjá Arnarbæli, og má nefna nokkur nöfn því til stuðnings, þannig var í túninu fyrir vestan pretsetrið hjáleiga, sem nefndist Búlkhús, þar sem sagt er, að skip hafi verið affermd.“

Heimildir:
-https://www.olfus.is/is/mannlif/gestir-og-gangandi/ahugaverdir-stadir/arnarbaeli
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 56-59.

Arnarbæli

Arnarbæli og Fell undir Ingólfsfjalli (-felli).