Borgarholt

Á Borgarholti norðan Úlfljótsvatns eru talsverðar tóftir.

Borgarholt

Borgarholt, nefnd fjárborg, en eru greinilegar minjar stekks.

Holtið dregur nafn sitt af nefndri fjárborg, sem þar hefur verið upphaflega, en síðar verið breytt í stekk. Stekkurinn er greinilegur ef vel er að gáð. Ástæðan hefur að öllum líkindum verið sú að skammt frá, undir holtinu hefur verið tímabundin selstaða frá bænum. Tóftin er tvískipt, grjóthlaðin að framanverðu (til austurs) með sitthvorum innganginum. Hliðarveggir og milliveggur er hlaðnir að lágum hamravegg.
Að einhverjum tíma liðum voru byggð tvö fjárhús norðaustan við selshúsin með heykumli fast vestan þeirra. Með því hafa bæði hlutverk selsrústanna og fjárborgarinnar fyrrnefndu breyst.

Borgarholt

Borgarholt – fyrrum selsminjar?

Kolbeinn Guðmundsson skrifar um Borgarholt og minjarnar þar í „Örnefni í landareign jarðarinnar Úlfljótsvatns í Grafningi, eins og þau voru um aldamótin 1900, skrifað 1944„. Þar segir:
„Hamrar heitir klapparbrún, sem nær frá Ljósafossi fram á móts við Írufoss. Borgarholt heitir kollóttur klapparhóll, syðst á Hömrunum upp undan Írufossi. Þar hefir verið fjárborg, og sér greinilega fyrir henni. Austan undir Borgarholtinu, á valllendisflöt, mótar aðeins fyrir einhverjum byggingum, en ógreinilega.
Borgarmýri heitir mýrarblettur fyrir vestan Borgarholtið. Mýri þessi er áföst við Keramýrina, með mjóu sundi að vestan.

Borgarholt

Borgarholt, rústir 54 I og 54 II.

Austan við Keramýrina, suður af Borgarholtinu, er móarimi. Á honum sést móta fyrir gömlum byggingum, tveimur eða þremur og þeim ekki litlum.
Fyrir sunnan Keramýrina er mosavaxin heiðarbunga með litlu skógarkjarri að norðan-verðu. Norðan í henni, vestarlega, er stór jarðfastur steinn. Hann hefir verið nefndur Brynkasteinn síðan 1898, kenndur við Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi. Hann var þá barnakennari á Bíldsfelli og fór til messu á Úlfljótsvatni í miklum snjó og ófærð.

Brynkasteinn

Brynkasteinn.

Komst hann að steini þessum, en var þá með öllu uppgefinn. Samferðamenn hans, sem voru tveir, skildu hann þá þarna eftir, en fóru sjálfir alla leið að Úlfljótsvatni, fengu þar sleða og drógu hann á honum til kirkjunnar. Veður var gott, svo allt fór vel.“

Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags við Sogsvirkjanir í Grímsnes- og Grafningshreppi“ frá árinu 2018 segir: „Borgarholt heitir kollóttur klapparhóll, syðst á Hömrunum upp undan Írufossi. […] Austan undir Borgarholtinu, á valllendisflöt, mótar aðeins fyrir einhverjum bygginum, en ógreinilega,“ segir í örnefnaskrá.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

Bjarni F. Einarssin skráði minjastaðinn í tengslum við deiliskráningu fornleifa í Úlfljótsvatni 2005, þar segir: „Undir kollóttum klapparhól, syðst í Hömrunum.. […]. Rústirnar fundust ekki þrátt fyrir leit.“ Minjastaðurinn var ekki hnitsettur í skýrslu Bjarna F. Einarssonar.“

Í „Aðalskráningu fornleifa vegna aðalskipulags í landi Úlfljótsvatns í Grafningshreppi í Árnessýslu“ segir Bjarni F. Einarsson eftirfarandi um minjarnar á Borgarholti:

Fornleif 53 – rúst
„Efst á hól við norðanverða Borgarvík, um 30 – 40 m norðvestur af Úlfljótsvatni og Hrútey.

Borgarholt

Borgarholt – Rúst 53 skv. fornleifaskráningu.

Rúst; 5×7 m (NV-SA), veggir úr grjóti, 1-1,5 m breiðir og 0,2-0,5 m háir. Garðlög eru greinileg á innanverðum langveggjum. Dyr snúa mót suðaustri. Rústin er vel gróin. Um 5 m suður af rústinni gætu leynst rústabrot.“

Bjarni tengir rústina hvorki við örnefnið Borgarholt né fjárborgina, sem þar á að hafa verið skv. örnefnalýsingu.

Fornleif 54:2 – fjárhús

Borgarholt

Borgarholt – fjárhús og heykuml.

„Í brekku mót norðri, um 5 m vestur af rúst 54:2. Norðan undir klettum, 11×16,5m (VNV-ASA). Veggir úr grjóti (og torfi?), 1- 2,5 m breiðir og 0,1-1 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni (hólf A – C). Dyr eru á hólfum A og B til norðurs. Ekki eru sýnilegar dyr á hólfi C, en gætu hafa snúið inn í hólf B. Hólf C gæti verið hlaða. Garðlög sjást víða að innanverðu í öllum hólfum. Suðurhluti hólfs A og B er grafinn niður í hólinn eða brekkuna. Gaflar hólfanna eru þétt upp við bakkann. Kampar í hólfum A og B eru mjög greinilegir og vel farnir. Vestur veggur hólfs C er nær horfinn. Rústin er vel gróin grasi.“

Bjarni tengir hvorki fjárhúsin við tóftina 54:1 né upphaflega tilurð hennar í hinu sögulega samhengi.

Fornleif 54:1 – Rúst

Borgarholt

Borgarholt – Rúst 54:1.

Rúst í brekku að mót suðaustri, 5 metra austur af 54:1. Norðaustan undir klettum, 8,5×9 m (A-V). Veggir úr grjóti, 1,5-2 m breiðir og 0,1-2 m háir. A.m.k. tvennar dyr eru á rústinni (dyr A og B). Dyr A eru yfirbyggðar, en dyr B hafa hrunið. Þriðju dyrnar eða op er hugsanlega á vestur vegg (C). Þar gæti fóður hafa verið sett? Mikið af grjóti við vestur vegg og á gólfi rústarinnar. Rústin er vel gróin grasi.“

Op C hefur væntanlega upphaflega verið eldhúsaðgangur selstöðunnar.
Ljóst er að þörf er á að endurskoða notkunargildi minjanna á Borgarholti, þótt ekki væri fyrir annað en hið sögulega samhengi. Hafa ber í huga að fjársterkir aðilar hafa þegar fest kaup á hluta jarðarinnar sem og nærliggjandi jörðum með stórfellda skógrækt í huga með það eitt markmið í huga að gefa stóriðjum tækifæri til að „kolefnisjafna“ óþrifin. Aðferðarfræðin minni svolítið á aflátsbréfin fyrrum, sem er og verður væntanlega saga út af fyrir sig.

Í „Fornleifaskráningu í Grfanings- og Grímsneshreppi I„, Reykjavík 1999, er ekki minnst á Borgarholt.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing Kolbeins Guðmundssonar á örnefnum í landaeign jarðarinnar Úlfljótsvatns í Grafningi, eins og þau voru um aldamótin 1900, skrifað 1944.
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við Sogsvirkjanir í Grímsnes- og Grafningshreppi, Reykjavík 2018.
-Aðalskráning fornleifa vegna aðalskipulags í landi Úlfljótsvatns í Grafningshreppi í Árnessýslu, Bjarni F. Einarsson 2005.
-Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi með viðbótum við eldri fornleifaskrá, Reykjavík 2018.
-Fornleifaskráning í Grímsneshreppi I, Orri Vésteinsson, Reykjavík 1999.

Borgarholt

Borgarholt – minjar.

Möðruvallarétt

Sesselja Guðmundsdóttir skrifaði í Skógræktarritið 2008 um „Fornminjar og skógrækt„:

Skógræktarritið

Skógræktarritið 2008.

„Tilgangurinn með þessum greinarskrifum er að hvetja skógræktarfólk til þess að gefa gaum að fornminjum í skógrækt eða á væntanlegum skógræktarsvæðum. Víða um landið eru fornminjar nú þegar kaffærðar í útlendum trjám og svo virðist sem ekkert eftirlit sé með þeim verknaði af hálfu hins opinbera. Fyrstu lög um verndun fornminja voru sett árið 1907 en þau nýjustu árið 2001. Allar götur frá því fyrstu lögin voru sett, er kveðið skýrt á um að ekki megi raska fornminjum án þess að áður fari fram mat á þeim. Gróðursetning ofan í fornminjar, eða í allra nánasta um hverfi þeirra, er bönnuð með lögum á Íslandi. Minjar sem eru 100 ára og eldri teljast til forn leifa.

Fornminjalög og fleiri lög

Sesselja Guðmundsdóttir

Sesselja Guðmundsdóttir.

Eins og áður segir, voru fyrstu fornminjalögin (Lög um verndun fornmenja) sett árið 1907 og í 1. kafla, 2. grein, er tilgreint hvað telst til „staðbundinna fornleifa“ og þar segir m.a.: „Til fornleifa teljast m.a. Þingbúðarústir, gömul mannvirki á fornum þingstöðum, sögustöðum og öðrum merkisstöðum, sem nokkurs er um vert fyrir menningarsögu landsins, rústir af hofum, hörgum og hvers konar blótstöðum frá heiðni, af kirkjum og kirkjugörðum, kapellum og bænahúsum,forn vígi eða rústir af þeim, forn garðlög, rústir af fornum bæjum, seljum, búpeningshúsum, farmannabúðum, naustum og öðrum fornbyggingum, ennfremur fornir öskuhaugar.“ Í þessum lögum er kveðið á um tilkynningaskyldu til yfirvalda og … „skal verkstjóri eða það stjórnarvald, sem hlut á að máli, skýra stjórnarráðinu frá málavöxtum, áður enn nokkuð er haggað við fornleifunum, og ákveður þá stjórnarráðið, hvað gjöra skuli.“
Fyrstu lög um Skógrækt ríkisins voru líka sett árið 1907 en gildandi lög eru frá árinu 1955 og í þeim er hvorki minnst á fornminjar né náttúruvætti.

Fossárrétt

Fossárréttin gamla 2009 – að hverfa í plantaðan skóg.

Í seinni tíma lögum um fornminjar eru svipuð ákvæði og árið 1907, en þó ítarlegri, varðandi minjar sem teljast til fornleifa (gamlar þjóðleiðir og vörður teljast nú til fornleifa). Í gildandi lögum (Þjóðminjalög 2001 nr. 107) segir m.a. í 1. kafla, 1. gr.: Tilgangur þessara laga er að stuðla að verndun menningarsögulegra minja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.“ Í 4. kafla, 10. gr., segir m.a.: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins.“

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt – horfin í skóg.

Í 11. gr. segir m.a.: „Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti.“ Í 11. gr. segir einnig: “Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.“ Í 14. gr. segir: „Nú telur landeigandi, ábúandi eða einhver annar, þar á meðal sá sem stjórnar opinberum framkvæmdum, að hann þurfi að gera jarðrask, svo sem vegna vegagerðar, veitu lagnar, framræslu eða skógræktar, er haggað geti við fornleifum og skal hann þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá því áður en hafist er handa við verkið.“

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar eyðilagðar á fyrsta degi framkvæmda.

Í markmiðum Skipulags- og byggingarlaga, frá árinu 1997, segir m.a.: „…að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru- og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,…“

Trjárækt í og við fornminjar
Á fyrri helmingi 20. aldar plantaði fólk trjám við hús sín og býli, sér og sínum til yndisauka og skiljanlegt að á þeim tíma hafi menn ekki verið að velta því fyrir sér hvort plantað var í gamla bæjarhóla eða tóftir á landareigninni.

Rósel

Rósel 2020 – umlukið trjárækt.

Í árdaga skógræktar á Íslandi hefur almenningur ekki verið vel meðvitaður um gildandi lög um fornminjar. En nú er öldin önnur og skógræktar fólk ætti að vera vel upplýst um þessi mál, þó sérstaklega þeir sem starfa í félagasamtökum tengdum skógrækt. Hér verða tínd til nokkur dæmi um eyðileggingu fornminja af völdum gróðursetningar á Suður- og Suðvesturlandi:

Búðasandur (Maríuhöfn) í Hvalfirði, við norðanverðan Laxvog. Þar er talin hafa verið mesta kauphöfn á Suðvesturlandi á miðöld um og fjölsóttasta höfn landsins á 14. öld með tilheyrandi kaupstefnum.

Hálsnesbúðir

Hálsnesbúðir á Búðarsandi.

Margar búðarústir liggja í sveig á grasrima ofan við sandinn og vestan lónsins. Þar stendur gamall sumarbústaður og trjáreitur inn við hann hefur kaffært hluta tóftanna. Rústirnar á Búðasandi voru friðlýstar árið 1975 en sumar húsið á tóftasvæðinu hefur líklega verið byggt fyrir þann tíma og trjám plantað í tóftirnar, þrátt fyrir að þáverandi fornminjalög bönnuðu slíkt.

Sámsstaðir

Tóftir Sámsstaða.

Fornbýlið Sámsstaðir í Kjósarsýslu, norðan Leirvogsár en vestan Stardals. Friðun tóftanna var þinglýst árið 1938. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (vegna ársins 1705) segja munnmæli (þá) að á Sámstöð um hafi verið kirkja. Gamall grenilundur er efst í túninu og engin veit nú hvort fornminjar leynast þar í trjárótunum. Fyrir örfáum árum var mörgum barrtrjáplöntum stungið niður í bæjarrústir Sámstaða þrátt fyrir að þar sé skilti um friðlýstar fornleifar.

Hrísakot

Hrísakot – uppdráttur.

Fjárréttarrústir í Hrísakoti í Brynjudal, Hvalfirði. Réttin var t.d. í notkun fyrir aldamótin 1900, samkvæmt örnefnaskrá, en er þó líklega miklu eldri. Vöxtuleg grenitré hafa nú kaffært hluta réttarinnar og því er ógerningur að sjá lögun hennar lengur. Landgræðslusjóður keypti fyrrnefnda landspildu á árunum 1975-1979 og stjórn sjóðsins hefði átt að sýna þá fyrirhyggju að leyfa réttarveggjun um að standa sem „vin í mörkinni“, sem og að virða lög um fornminjar.

Sveinagerði í Strandarkirkjulandi í Selvogi. Það er hringhlaðinn vörslugarður á milli tveggja kletta hóla og er svæðið innan hans 35–40 m í þvermál.

Sveinagerði

Sveinagerði í Selvogi.

Í lýsingu Selvogsþinga árið 1840 eru tilgreind munnmæli um að í Sveinagerði hafi Erlendur lögmaður Þorvarðsson (d. 1576) átt lystihús á öðrum hólnum og horft þaðan á sveina sína við „leiksæfingar“ í gerðinu. Nú hefur víði verið plantað fast við grjótgarðinn allan hringinn, þannig að varla sést örla á hleðslunni. Lúpínu hefur líka verið sáð þarna vegna uppblásturs og að vísu hefur leikflögin gróið upp á síðustu árum vegna þessa „gróður átaks“ en fornminjarnar horfið.

Baðsvallasel

Selsminjar í skógi á Baðsvöllum.

Baðsvallasel (Járngerðastaðasel) í Grindavík, norðan undir Þorbjarnarfelli. Selið var í notkun árið 1703 skv. Jarðabókinni. Fast ofan við eina tóftanna er gamall grenilundur og inni í honum er hluti selrústanna.

Austan Rauðavatns í Reykjavík eru tóftir Grafarsels en þær voru friðaðar árið 1987. Selstæðið er við gamlan lækjarfarveg, í lágum hlíðum sem heita Selbrekkur og snýr mót suðvestri. Eins og flestir vita, hefur skógrækt við Rauðavatn lengi verið við lýði og frá árinu 1946 í hönd um Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Grafarsel

Grafarsel.

Við gróðursetningu þarna hefur verið að mestu tekið tillit til tóftanna og göngustígur liggur upp með þeim í átt til holtsins. Við gerð stígsins hefur ekki verið farið að fornminjalögum hvað varðar „20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörk um forn leifa …“. Tuttugu metra friðhelgi er ekki stórt svæði þegar skógrækt er höfð í huga, því tré stækka yfir leitt á alla kanta, ef svo má segja, fyrir utan það að svörðurinn breytist. Á öðrum stöðum í sömu skógrækt, hefur furutrjám verið plantað í fornminjar og það meira að segja fast við verndunarskilti. Það er vel framkvæmanlegt í mörg um til fellum, sérstaklega þar sem tré eru ung, að endurheimta fornminjarnar og sýna þeim þá virðingu sem þeim ber, samkvæmt lögum.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Við Selvatn í Mosfellssveit voru tvö selstæði, samkvæmt örnefnaskrám og annað hefur mjög líklega verið frá Vík á Seltjarnarnesi (nú Reykjavík) og nefnt Víkursel. Á því selstæði stendur nú sumarhús í þéttum skógarlundi.

Aðgát skal höfð…
Í gönguferðum um vel skipulögð skóglendi, er það flestum til yndisauka að ganga fram á gamlar búsetuminjar, s.s. húsarústir, fjárréttir og stekki á opnum svæðum. Menn staldra við, setjast á veggjabrotin og velta fyrir sér sögu lands og þjóðar. Fornminjar á skógræktarsvæðum auka fjölbreytni og gera þau áhugaverðari en ella.

Fornasel

Við Fornasel 2008.

Í 2. tbl. Skógræktarritsins 2007 er grein eftir Björn Jónsson um Bjarnagarð í Landbroti en það er 7–8 km langur og mikill vörslugarður frá því um 1200. Greinin er falleg og skrifuð með mikilli virðingu fyrir fornminjum sem og skógrækt. Björn telur að trjáræktin hafi bjargað hluta Bjarnagarðs og segir að „án hennar væru þær [fornminjarnar] horfnar, þurrkaðar út í nafni framfara [stækkun túna o.fl.] …“ Hann nefnir líka að þess hafi verið vel gætt að gróðursetja hvergi í fornar minjar í þess um 20 ára gamla skógi. Mætti fleira skógræktar fólk temja sér slík vinnubrögð.

Heiðarbær

Tóftir Móakots í Þingvallasveit – horfnar í skóg.

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gefið út góðar leiðbeiningar á vefnum sem heita Skógrækt í sátt við um hverfið og eru þær samdar af þverfaglegum starfshópi en í honum eiga m.a. sæti fulltrúar frá samtökum um skógrækt, fornleifavernd, landvernd, fuglavernd og náttúruvernd.
Í leiðbeiningunum segir: „Skógrækt veldur breytingum. Því er afar mikilvægt að hún falli sem best að heildarsvipmótum lands og eins að hún raski ekki náttúru- eða menningarminjum.“ Á þessum tímum tækni og upplýsingar ættu að vera hæg heimatökin að kortleggja minjar um leið og skógrækt er skipulögð.
Fornminjar og náttúruminjar eiga vel heima í skógrækt – en þær þurfa svo sannarlega sitt rými.“

Undirhlíðar

Undirhlíðar – girðingarleifar.

Málið er, eða a.m.k. virðist svo, að framangreindu að dæma, að launað starfsfólk fornminjavörslunnar hafi ekki hinn minnsta áhuga á að vernda fornleifar landsins. Og þá þarf ekki að minna skógræktarfólkið á að hirða eftir sig leifar skógræktargirðinganna, sem nú bæði hefta og skaða fætur göngufólks um hin annars áhugaverðu útivistarsvæði…

Heimild:
-Skógræktarritið, 1. tbl. 15.05.2008, Fornminjar og skógrækt – Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 96-103.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – stekkur.

Krýsuvík

Skátafélag var stofnað í Hafnarfirði þann 22. febrúar 1925. Starfsemin hafði því varað í eitt hundrað ár þann 22. febrúar s.l.

Skátar

Skátar – merki Hraunbúa.

Hreyfingin hefur allan þennan tíma átt dygga og trausta félaga og gott forystufólk hér í Hafnarfirði og víðar. Góður félagsskapur, þroskandi uppeldi, útivist, ríkur skilningur og þekking á umhverfi og samfélaginu hafa einkennt skátastarfið. Þetta eru þau gildi sem fylgja öllum sem verið hafa góðir félagar í skátastarfinu alla tíð.

Félagsskapurinn stuðlar að vexti og þroska ungmenna, bæði sem einstaklinga og sem samfélagsþegna, með verkefnum og frumkvæði að leiðarljósi. Í skátahreyfingunni fá ungmenni tækifæri til að læra, öðlast sjálfstæði, hafa frumkvæði, vera lausnamiðuð og verða góðir leiðtogar sem eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð og stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu. Starfið stuðlar að vexti, þroska og framförum ungmenna. Þau fá tækifæri til að læra í gegnum skemmtileg, ögrandi og þroskandi verkefni, útivist og samveru. Í þessum verkefnum öðlast þau sterkara sjálfstraust og hugrekki sem verður að þykja dýrmætt vegarnesti til undirbúnings framtíðarinnar.

SkátiFramangreind gildi hafa þó ekki einungs verið bundið við skráða félaga í bækur hreyfingarinnar. Starfsemin hefur náð langt út fyrir hana, þótt leynt hafi farið, og má því segja að hún eigi sér miklu fleiri velvildarmenn í bænum en í fljótu bragði virðist.

Sumarið 1953 var tekin upp sú nýbreytni, að Hafnarfjarðarbær kom á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Milli 40 og 50 drengir dvöldust að öllu leyti í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Þeir héldu til í starfsmannahúsi Krýsuvíkurbúsins. Þessi starfsemi naut mikilla vinsælda meðal Hafnarfirðinga, enda bætti hún úr brýnni þörf. Færri drengir komust að en vildu. Í skólanum kynntust þeir ýmsum hagnýtum vinnubrögðum, voru undir góðum aga, lærðu að bjarga sér og var kennt að meta gildi vinnunnar.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir.

Meðal verkefna innan dyra þurfti að búa um rúm, þvo þvott, skúra gólf, vinna við eldhússtörf, leggja á borð og vaska upp. Utan dyra var unnið að lagfæringu og snyrtingu á lóðum, vinnu í gróðurhúsum, ræktun kartaflna, aðstoð við ræktunarframkvæmdir og heyskap, viðgerðir á girðingum og margt fleira. Auk þess stunduðu þeir íþróttir og leiki og fóru í langar gönguferðir undir leiðsögn.

Á árunum eftir 1960 voru drengirnir í vinnuskólanum í Krýsuvík á aldrinum 8-12 ára. Var þá lögð sérstök áhersla á leiki, og var drengjunum t.d. veitt sérstök tilsögn í knattspyrnu. Nutu þá fleiri drengir dvalar en áður, því starfað var í tveimur flokkum, og dvaldi hvor flokkur fimm vikur í Krýsuvík. Þeir unnu venjulega fimm til sex stundir á dag, og var vinnan sem áður fyrst og fremst í þágu búsins og gróðrarstöðvarinnar í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn að störfum…

Sumrin 1959 og 1960 unnu drengirnir í unglingavinnunni í Krýsuvík að skógrækt í skógræktargirðingunni í Undirhlíðum og settu þar niður samtals 100.000 trjáplöntur. Þessi skógræktarstörf voru unnin í samvinnu við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.

Vinnudagurinn hófst með morgunkaffi. Síðan var yfirleitt unnið í flokkum hálfan daginn. Einn varð verkstjóri er hélt öðrum að vinnu og skráði hjá sér verðskulduð laun hvers og eins, allt eftir dugnaði og ástundun. Um var að ræða afkastahvetjandi launakerfi. Eftir hádegisverð var gengið um fjöll og fyrnindi. Um helgar voru leikir eða íþróttakeppnir.

Krýsuvík

Krýsuvík – kappleikur…

Á kvöldin, fyrir kvöldkaffið, voru kvöldvökur eða kvikmyndasýningar á ganginum á fyrstu hæðinni, sem lauk með samsöng vors- eða sumarlags. Fyrir svefninn var farið með Faðirvorið. Allir áttu jafnan auðvelt með svefn eftir erfiðan dag.

Starfsfólk vinnuskólans var í einu orði sagt frábært. Það hafði utanumhald um hlutina, hélt uppi hæfilegum aga en veitti jafnfram nægan stuðning ef á þurftu að halda. Það var leiðbeinandi og gerði kröfur, en það verðlaunaði alla þá er áttu það skilið með eftirminnilegum hætti. Þannig eiga flestir þátttakendur vinnuskólans enn a.m.k. eitt handunnið viðurkenningaskjal, sem þeir fengu fyrir hvaðanæva það er þeir gerðu vel – í lok hvers tímabils.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir…

Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands og svæðisleiðsögunám, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í nefndum og formaður nokkurra þeirra.

Sú „prófgráða“, sem hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn „útskrifaður“ frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnusklóadrengir við sundlaugagerð…

Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður 1964 vegna ómerkilegar þrætur stjórnmálamanna bæjarins sem og tilkomu nýrra skilyrða í heilbrigðisreglugerð af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.

Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar stýrðu starfseminni, en skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum og stýrðu nemendum til verka. Má þar t.d. nefna skólastjórnedurnar Helga Jónasson og Hauk Helgason og skátaforingjana Ólaf Proppe, Hörð Zóphanísson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson, Sævar Örn Jónsson, auk kennaranna Eyjólfs Guðmundssonar og Snorra Jónssonar o.fl.

Krýsuvík

Krýsuvík – sigurvegarar…

Framangreindir aðilar nutu mikillar virðingar hinna 550 ungu Vinnuskólanemenda á tímabilinu, langt umfram það sem ætlast var til, bæði vegna mannkosta þeirra sjálfra, en ekki síst vegna þeirrar aðferðarfræði sem þeir notuðu. Fræðin sú var í anda skátahreyfingarinnar. Segja má að allir stjórnendurnir, sem og hver og einn, hafi verið hreyfingunni til mikils sóma í hvívetna.

Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er skátaforinginn Hörður Zóphaníason:

:Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…:.

Heimildir m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar – Krýsuvík.
-Saga Hafnarfjarðar.
-Alþýðublaðið 13. ágúst 1957, bls. 4.
-Alþýðublaðið 13. júlí 1962, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.
-Myndir tók Haukur Helgason.

-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-i/
-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-ii/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-i-krysuvik/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-rjomaterta-fyrir-goda-umgengni/

Krýsuvík

Krýsuvík.

Kýrgil

Í Fréttatímanum 2012 er viðtal við fornleifafræðinginn Völu Garðarsdóttur undir fyrirsögninn „Heimur Íslendingasagnanna opnast með tenginu við fornminjar„.

Vala Garðarsdóttir

Vala Garðarsdóttir.

Vissulega er vík á milli fornleifafræðinnar og sagnanna sjálfra en það er gaman að velta þessari tengingu fyrir sér segir Vala Garðarsdóttir sem eyðir dögunum í að grafa eftir fornleifum en Íslendingasögurnar eru henni þó jafnan ofarlega í huga.
Hún segir vík vera á milli Íslendingasagnanna og fornleifafræðinnar en gaman sé að leika sér að tengingum þar á milli og gæða þannig sögur nar sem lifað hafa með þjóðinni í gegnum árhundruðin lífi.
Vala er fornleifafræðingur og hefur haft brennandi áhuga á Íslendingasögunum síðan í æsku. Í þáttunum Ferðarlok tengir hún þessi tvö
hugðarefni sín saman og sér nú loks fram á að hugmynd hennar um aðgengilegan fróðleik um Íslendingasögurnar, Landnámu og forsögu Laxdælu og fall Gísla Súrssonar í Gísla sögu.“

Alltaf að grafa

Vala Garðarsdóttir

Ferðalok – fróðleikur um þættina.

Leikin atriði úr Íslendingasögunum setja mikinn svip á þættina og Vala segist hafa fylgst náið með upptökum á þeim atriðum.
„Ég fékk hugmyndina að þessu og fannst þurfa að gera þetta efni svolítið aðgengilegra sjónrænt,“ segir Vala sem velti þessu lengi fyrir sér. „Ég byrjaði á þessu um svipað leyti og ég byrjaði í fornleifafræðinni. Ég var alltaf að hugsa um þetta. Ég hef lesið sögurnar oft og farið um söguslóðirnar og þar fer maður að rýna í tóftirnar og hugsa þetta lengra.“

Kristján Eldjárn fyrirmynd

Vala Garðarsdóttir

Vala garðarsdóttir – Kirkjugarður við Austurvöll, fornleifafræðingur, Vala Garðarsdóttir 8639199, beinagrindur

Vala segist horfa mikið til Kristjáns Eldjárns, sem var þjóðminjavörður áður en hann varð forseti Íslands. „Ég fæ mikið af hugmyndum frá Kristjáni Eldjárn og ég myndi segja að hann væri mér mjög sterk fyrirmynd. Ég er mjög hrifin af hugmyndafræði hans að reyna ekki endilega að sanna sögurnar heldur að blása aðeins meira lífi í þær.
Ég er búin að skoða þetta í svolítið langan tíma. Bæði fornleifarnar og Íslendingasögurnar. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á Íslendingasögunum yfir höfuð. Alveg frá því að ég var krakki. Þær eru samt meira tómstundagaman hjá mér,“ segir Vala sem er fyrst og fremst fornleifafræðingur sem stendur við þá vík sem hún segir að sé á milli fræðanna og sagnanna.
„Vissulega er vík á milli fornleifafræðinn ar og sagnanna sjálfra en það er gaman að velta þessari tengingu fyrir sér og reyna að festa á þessu hendur.“

Sannleikskornin í sögunum

Íslendingabók

Íslendingabók.

„Maður er kannski á gráu svæði sem fræðimaður ef maður er eitthvað að reyna að sanna að einhverjir ákveðnir atburðir í Íslendingasögunum hafi átt sér stað í raunveruleikanum. Þetta er meira gert til að vekja meiri áhuga á sögunum en auðvitað er mögulegt að ákveðnir atburðir hafi átt sér stað og einhver sannleikskorn geta leynst á bak við textann. Eða að einhverjir atburðir hafi kveikt ákveðna sögu. Það er dálítið gaman að rekja þetta líka út frá fornleifunum, út frá aldursgreiningum og landnámi og landnámsstöðum sem rætt er um í Landnámu sjálfri. Ég held að það sé ekkert fjarri lagi og ég held það sé enginn að rengja Landnámu sem slíka.“
Vala bendir á að þegar sögur eru annars vegar sé viðbúið að þær séu kryddaðar. „Auðvitað bætir fólk í og einhvern veginn formast, þróast og breytast
sögurnar í gegnum þessi hundrað eða tvö hundruð ár sem kannski líða á milli atburða þangað til þeir eru settir niður á skinn. Sannleikskornið er örugglega til staðar þótt ýkjurnar verði einhverjar eins og alltaf gerist með sögur.“

Silfur Egils og fall Gísla

Kýrgil

Kýrgil – tóft.

Í Ferðalokum er farið yfir valda atburði úr Íslendingasögunum og tengsl þeirra við fornminjar sem enn fyrirfinnast annað hvort úti í náttúrunni eða á söfnum. Lagt er upp með að sögumaður gangi á söguslóðir, segi frá viðfangsefni hvers þáttar, stikli á sögunni, ræði við fræð menn, sagnamenn, heimamenn og fleiri. Í þáttunum er því rýnt í sögu forfeðranna frá ýmsum sjónarhornum og stuðst við fornminjar, náttúruna og munnmælasögur sem gefa innsýn í fortíðina.
„Við förum í gegnum ákveðna atburði en tökum ekki fyrir heilu sögurnar. Við skoðum ekki alla Njálu, Laxdælu eða Gísla sögu. Við tökum ákveðna atburði úr sögunum sem hægt er að tengja við forngripi. Við tökum til dæmis silfur Egils úr Egils sögu, bardagann við Knafahóla úr Njálu, landnám Auðar djúpúðgu úr Landnámu og forsögu Laxdælu og fall Gísla Súrssonar í Gísla sögu.“

Kýrgil

Kýrgil – uppdráttur ÓSÁ.

Vala segir valið mikið til ráðast af því sem er til áþreifanlegt úr fortíðinni. „Silfur Egils varð fyrir valinu vegna þess að það fundust silfurpeningar í Kýrgili í Mosfellsdal og silfurpeningar slegnir í Skotlandi. Það er alveg hægt að leika sér með þetta. Sama er að segja um bardagann úr Njálu en dys og fleira hefur fundist á sama stað og sagan á að hafa gerst. Maður er svolítið að leika sér að því að tengja saman fornleifar og sögu og þess vegna valdi ég þessa atburði til þess að leika mér með.“

Alltaf að grafa
Leikin atriði úr Íslendingasögunum setja mikinn svip á þættina og Vala segist hafa fylgst náið með upptökum á þeim atriðum.
„Já, já. Ég er alltaf með frá a til ö. Þótt þetta sé samstarfsverkefni þá vill maður náttúrlega vera til staðar þó ekki væri nema bara upp á faglega þáttinn og að fylgja þessu úr vör. Það er líka svo gaman að sjá þetta verða að veruleika og þessa frábæru leikara sem við eigum á Íslandi sýna hvað í þeim býr. Allt fólkið sem kom að framleiðslunni var frábært og ég held að það hafi nú komið mér mest á óvart hvað fólk getur aðlagast ýmsu.“

Vala Garðarsdóttir

Vala Garðarsdóttir.

Enskur titill þáttanna er Journey´s End en hugmyndin er að reyna að selja þá til sýninga í nágrannalöndum Íslands. „Framleiðendurnir eru að reyna að selja þetta til hinna Norðurlandanna, Frakklands og Þýskalands og Bretlands jafnvel. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga þannig að það virðist vera mikill áhugi á Íslendingasögunum í þessum löndum.“
Vala segist vera orðin mjög spennt og tilhlökkunin sé mikil enda langt um liðið síðan hún lagði upp í þennan leiðangur um fortíðina. Hún heldur samt að sjálfsögðu fullri einbeitingu í forn leifagrúskinu þar sem nóg er að gera. „Ég er búin að vera að grafa síðan í maí og verð að út október. Það er nú svona það sem ég geri venjulega, hitt er meira í hjáverkum.“

Skarphéðinn í uppáhaldi

Vala Garðarsdóttir

Vala Garðarsdóttir.

Vala heillaðist ung af Íslendingasögunum og hefur marg lesið þær og á auðvitað, eins og allir, sína eftirlætis persónu. Og sá er enginn aukvisi. „Það er kannski klisja en ég er mjög hrifin af Skarphéðni Njálssyni. Hann er svo margbrotinn og flókinn. Hann svo góður en að sama skapi er hann
grimmur. Hann rúmar allar andstæðurnar í einum manni. Gunnar á Hlíðarenda er líka alltaf í miklum hávegum hjá mér. Þeir eru andstæður en ég veit ekki hvort þetta segi meira um mig en eitthvað annað. Síðan eru náttúrlega konur eins og Hildigunnur Starkaðardóttir sem er einstaklega flott persóna.“

En Bergþóra og Hallgerður?
„Hallgerður er svo flókin og það er margt sem fer mikið í taugarnar á mér í fari hennar. En það er ekki hægt að neita því að hún sé margbrotin. Kvennaráðin eru köld hjá henni.“

Heimild:
-Fréttatíminn, 40. tbl. 05.10.2012, Heimur Íslendingasagnanna opnast með tenginu við fornminjar, Vala Garðarsdóttir, bls. 22-23.

Laugarnes

Laugarnes – minnismerki um kirkju í kirkjugarði. Í honum ku Hammgerður Fróðadóttir hafa verið grafin.

Krýsuvík

Guðni Gíslason skrifaði í Fjarðarfréttir 2023 um „Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi“ í Hafnarfirði. Minjaverði hafði verið bent á að minjarnar væru ekki á minjakorti og Minjastofnun var með málið í skoðun. Í ritstjórnarpisli í inngangi umfjöllunarinnar segir hann m.a. um þátt bæjaryfirvalda í Hafnarfirði:

Guðni Gíslason

Fjarðarfréttir – Guðni Gíslason, ritstjóri.

„Greinilegt er að taka þarf til í meðferð skipulagsmála í Hafnarfirði. Klúður og ógagnsæi virðist sífellt aukast og menn virðast ekki lengur muna hvort deiliskipulag byggist á aðalskipulagi eða öfugt eins og nýlegar aðalskipulagsbreytingar í Hamraneshverfinu sýna. Þrátt fyrir að ekki sé búið að gera deiliskipulag finnst embættismönnum allt í lagi að veita framkvæmdaleyfi, sem segja lítið um hvað má og hvað ekki, og finnst ekki að það þurfi að kynna t.d. lagningu reiðvega eða vega í ósnortnu landi. Þetta skapar hættur þar sem minjaskráning er ófullkomin og minjar ekki skráðar vegna þess að sá sem skráir hefur ekki fyrir því að ráðfæra sig við þá sem þekkja til í bæjarlandinu. Það sakar ekki að vanda sig.“

HamranesÍ umfjöllunni segir: „Þar sem nú rís Hamraneshverfið er svæði sem kallaðist Dalurinn eða Ásflatir eða jafnvel Hellisdalur. Um það má m.a. lesa í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar.
Þar er fjárskjól sem hefur verið nefnt Hellirinn eða eins og Gísli nefnir það Hellishraunsskjól en hraunið í dalnum er nefnt Hellishraun. Þetta svæði var í landi bæjarins Áss undir Ásfjalli. Skjólið, sem í raun var aðkoma að hellinum var að sögn Gísla vel hlaðið en hrunið þegar hann skráði upplýsing arnar á síðustu öld.

Var með í Ratleik Hafnarfjarðar

Ratleikur

Bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Rósu Guðbartsdóttur, afhent Ratleikskortið.

Í þessum helli var eitt merkið í Ratleik Hafnarfjarðar 2021 og var þá forstöðumanni Byggðasafnsins bent á að fjárskjólið væri ekki merkt á minjakorti bæjarins sem þá hafði nýlega verið birt. Var þá upplýst að fjárskjólið væri þó skráð. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir fékk afhent fyrsta Ratleiks kortið þar sem fjárskjólið er merkt.
Ekki er til deiliskipulag af svæðinu þar sem fjárskjólið er, en hverfið er að mestu hannað sem þróunarreitir þar sem lóðarhafar fá að koma sjálfir með tillögu að deiliskipulagi. Í aðalskipulagi var svæðið merkt sem íbúðasvæði þar til á breyttu aðalskipulagi frá 4. maí 2021 er svæðið er merkt sem miðsvæði.

Fjárskjól eyðilagt án nokkurra heimilda
HamranesVið skoðun á svæðinu í síðustu viku má sjá að öll ummerki um fjárskjólið eru horfin og hellirinn hefur verið brotinn niður af hluta og lögð hefur verið sver lögn þarna um. Á tillögu að deiliskipulagi fyrir þetta svæði má sjá að þvert yfir svæðið er gert ráð fyrir kvöð um lagnaleið en merkingar á minjunum vantar inn á deiliskipulagið.

Minjastofnun benti á minjarnar
Í bréfi til umhverfis og skipulagssviðs Hafnarfjarðar þann 20. júlí 2020 svaraði Minjastofnun erindi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem óskað var eftir umsögn stofnunar innar um tillögu að aðalskipulagsbreytingu sem náði til svæðis í Hamranesi (og var samþykkt 4. maí 2021 eins og nefnt er hér að ofan). Þar segir m.a.: „Á svæðinu eru skráðar einar minjar (nr. 2061-1), fjárskýli sem er fyrirhleðsla við hraunhelli. Taka þarf tillit til minjanna þegar kemur að deiliskipulagsvinnu.“

Hvað varð um ábendinguna
HamranesSigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis og skipulagssviðs, segist ekki hafa vitað af minjunum og viti ekki hvers vegna ábending Minja stofnunar hafi ekki komist til skila í skipulagsvinnuna. Hann nefndi þó að notast hafði verið við minjaskráningu á vef fyrir Hafnarfjörð, www.map.is/hafnarfjordur en þar eru þessar minjar ekki merktar inn. Málið yrði þó skoðað.

Minjastofnun með málið í skoðun

Þór Hjaltalín

Þór Hjaltalín.

Minjavörður Reykjaness hjá Minjastofnun, Þór Ingólfsson Hjaltalín, sagði í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta ætla að skoða skemmdir á minjunum og taka málið fyrir hjá stofnununni.
Í minjaskráningu Atla Rúnarssonar frá 14.10.2019 er fjárskjólið sagt í landi Hvaleyrar og ástand sagt illgreinanlegt. Hætta er sögð vegna bygginga fram kvæmda og í lýsingu er haft eftir lýsingu í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskráningu frá 2005: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrir tíma.“
Í pistli „Dalurinn – Hellishraunsskjól“ á www.ferlir.is skrifar Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og sérfræðingur í mannvistarminjum á Reykjanesi 12. febrúar 2019: „Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar“.

Fleiri minjar sem ekki eru merktar í skipulagi

Leynir

Skjól í Leyni. Nú horfið.

Dæmi eru um skráðar minjar sem finna má á korti en eru ekki merktar inn á deiliskipulag og smalaskjól sem finna má við Tinhellu er t.d. inn á athafnalóð og í minjaskráningu eru þær ekki sagðar í neinni hættu.
Þá eru líka dæmi um að náttúruminjar séu ekki skráðar eins og Litli Rauðimelur en hann er rétt við Stóra Rauðamels námurnar sem nú er fyrirhugað að stækka vegna hafnargerðar í Straumsvík. Liggur fyrir deiliskipulagsbreyting vegna þessa án þess að Litla Rauðamels sé getið í umhverfisskýrslu.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól. Óskráð.

Þá eru fleiri fornminjar óskráðar í bæjar landinu, m.a. fjárskjól við Stórhöfða sem gæti verið í hættu vegna fyrir hugaðs reiðstígs sem veitt hefur verið framkvæmdaleyfi fyrir án þess að deiliskipulag liggi fyrir eða að málið hafi verið kynnt almenningi.
Virðist eins og áhugi fyrir fornminjum og náttúruminjum sé lítill í stjórnsýslunni og þykir mörgum vont að vita til þess að minjar séu eyðilagðar án þess að leitað hafi verið eftir áliti og samþykki Minjastofnunar.“

Samtrygging aðila innan minjavörslunnar, s.s. Minjaráðs, virðist slík að nánast ómögulegt er fyrir venjulegt fólk að mótmæla eða vekja athygli á því sem miður fer þegar fornleifarnar eru annars vegar.
Ekkert hefur a.m.k. heyrst frá Minjastofnun vegna framangreindrar eyðileggingar fornminjanna í Dalnum.

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 3. tbl. 02.03.2023, Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi – Guðni Gíslason, bls. 10.

Hafnarfjörður

Heiðarbrunnur. Flókavarða ofar. Óskáð fornleif í Hafnarfirði.

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 2012 var viðtal við Ómar Smára Ármannsson um jarðrask það er fylgdi borunarframkvæmdum HS-orku á Reykjanesskaganum þar sem hvorki væri tekið tillit til umhverfissjónarmiða né minjaverndar.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaganum – fyrirliggjandi fornleifaskráning.

Viðtalið er að mörgu leyti merkilegt, ekki síst í ljósi þess að síðan það var tekið fyrir 13 árum hefur HS-orka hafið borun í Krýsuvík þar sem fyrirtækið byrjaði á því á fyrsta degi að eyðileggja fornar minjar, fyrrum brennisteinsnámuhús Krýsuvíkurbónda frá því á 18. öld, þrátt fyrir að athygli jarðfræðings fyrirtækisins hafði skömmu áður verið vakin á tóftunum, standandi á vettvangi. Auk þess hafði viðmælandi fornleifaskráð allar brennisteinsminjar á Reykjanesskaganum, án þess þó að HS-orka hefði sýnt þeirri fyrirliggjandi vinnu hinn minnsta áhuga.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði gefið leyfi til framkvæmdanna án þess að krefjast eðlilega áður fornleifaskráningar á svæðinu sem verður að teljast verulega ámælisvert. Ekki er vitað hvort sú sérstaka stofnun Fornleifavernd ríkisins hafi æmt hið minnsta eða skræmt vegna alls þessa. Og hvers vegna eiga verktaktar að fá að ákveða hversu mikið jarðsrask vegna einstakra framkvæmda verður hverju sinni? Hafa ber í huga að fæstar ákvarðanir þeirra hafa hingað til verða að teljast vitsmunalegar, enda, að því er virðist, einungis byggðar á eigin hagsmunum.

Minnka mætti rask með minni borteigum

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson Krýsuvík.

„Þetta snýst ekki um hvort það eigi að virkja eða ekki heldur að það verði gert þannig að menn geti verið sáttir við framkvæmdirnar,“ segir Ómar
Smári Ármannsson um fyrirhugaðar jarðhitaboranir á Reykjanesskaganum. Hann segir augljóst að við nýlegar og eldri virkjunarframkvæmdir á Suðurnesjum og víðar hafi ekki verið vandað nægilega vel til verka, hægt hefði verið að hafa borstæðin eða borteigana undir jarðborana mun minni, leggja vegi og pípur og reisa virkjanamannvirki þannig að minna beri á þeim í landslaginu.

Sogin

Sogadalur – efra borplanið.

Ómar Smári er vel þekktur fyrir áhuga sinn á náttúru og minjum Reykjanesskagans, einkum í tengslum við ferðahópinn Ferlir en einnig vegna þess að hann er aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. Morgunblaðið fór í vikunni með Ómari um þrjú svæði á Suðurnesjum; að Trölladyngju og Sogum, Eldvörpum og Krýsuvík. Á öllum þessum svæðum, og raunar víðar á Suðurnesjum, stendur til að virkja jarðhita og svæðin raðast öll í nýtingarflokk samkvæmt rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Sogadalur

Sogadalur – neðra borplanið.

Við Trölladyngju eru tvær nýlegar tilraunaborholur HS orku. Önnur þeirra og sú nýrri (frá 2006) er uppi í hlíð, við gönguleiðina að Sogunum sem er vinsælt útivistarsvæði og rómað fyrir náttúrufegurð. Þar var gert borplan sem Ómar og blaðamaður mældu að væri 45×70 metrar að stærð eða rúmlega 3.000 fermetrar. Það sem upp úr stendur af borholunni sjálfri – en hún reyndist reyndar ónothæf – er ekki nema 2,5×5 metrar.

Ómar Smári fylgdist með framkvæmdunum á sínum tíma og hann segir ljóst að planið hefði mátt vera mun minna, í það minnsta helmingi minna, ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Hægt hefði verið að leggja plan undir borinn en síðan flytja aðföng að honum eftir því sem þurfti.

Sogadalur

Sogadalur – hér má sjá óskráða selið ofarlega t.v. sem naumlega slapp við vegslóðann og efra borplanið neðst t.h.

Rafstöðina hefði mátt hafa annars staðar og leggja raflínu meðfram veginum. Pípur hefði mátt hafa á neðra borplaninu og flytja þær upp eftir og varahlutir og vinnuskúra hefði sömuleiðis mátt hafa þar. Þess í stað hefði jarðýta gert ljótt sár í hlíðina og síðan hefði hundruðum tonna af möl verið ekið á staðinn til að útbúa óþarflega stórt borplan.
Hafa yrði í huga að jafnvel þótt borholan hefði virkað væri endingartími jarðhitavirkjana ekki nema 50-60 ár. Illgerlegt eða ómögulegt væri að fjarlægja ummerki um holuna að þeim tíma liðnum. Þá minnir hann á að rökin með virkjunum séu gjarnan þau að þær skapi atvinnu. „En það fá ekki færri vinnu við að virkja þótt borstæðið sé lítið,“ segir hann.

Sést yfir fornminjar

Sogadalur

Sogadalur – seltóft skammt frá vegarlagningunni upp á efra borplanið.

Ómar Smári tekur fram að hann er ekki andvígur því að auðlindirnar séu nýttar. Vinnubrögðin við borholurnar við Trölladyngju og víðar séu á hinn bóginn þannig að þau hljóti að draga úr stuðningi við virkjanir.
„Hér sjá menn bara eyðileggingu og hugsa: Verður þetta allt svona?“ Hann bendir einnig á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að borstæðinu hafi ekki farið yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni. Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis þá og þegar hann var
lagður. Leyfið fékkst eftir á og þá hjá viðeigandi sveitarfélagi. Sjaldan eru allar tóftir skráðar.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Það gildir t.d. um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan, þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð.“
Þriðja svæðið sem farið var um var Eldvörp en þar vill HS Orka bæta við fimm borteigum, þar af tveimur sem eru á skilgreindu iðnaðarsvæði. Einn borteigur er þar fyrir, ríflega 3.100 fermetrar auk um 1.200 fermetra svæðis meðfram veginum sem var raskað.

Eldvörp

Eldvörp.

Ómar Smári segir að í Eldvörpunum verði að fara sérstaklega varlega enda sé svæðið ríkt af fegurð og sögu en um leið afar viðkvæmt. Ástundi menn sömu vinnubrögð og hingað til lítist honum hins vegar ekki á blikuna.

Ætla að fara varlega

Eldvörp

Eldvörp – borholuplan. Ekkert af nefndum borholuplönum á Reykjanesskaganum hafa komið framkvæmdaraðilum til góða úr því sem komið er.

Ásbjörn Blöndal, forstöðumaður þróunarsviðs HS Orku, segir að við Eldvörp standi til að fara eins varlega og framast sé unnt. Til standi að beita skáborun og bora í um 1.000-1.200 metra frá teigunum, miðað við lóðlínu, sem sé það mesta sem hægt sé að gera í jarðlögum sem þessum.
En hvað þá með stærð borteiganna? Ásbjörn segir að undanfarin ár og áratugi hafi menn reynt að taka sem minnst svæði undir borteiga. „Það er fyrst og fremst verktakinn sem ákvarðar hvað hann þarf til að hann geti unnið verkið sómasamlega. Það hefur allt kapp verið lagt á að hafa umfangið eins lítið og
kostur er.“

Eldvörp

Eldvörp – nýtt og nánast óþarfa borstæði.

Nokkuð frá Eldvörpunum er annar og mun stærri borteigur, um 6.000 fermetrar að stærð, samkvæmt lauslegri mælingu. Á honum eru tvær niðurdælingarholur fyrir Svartsengi og Ásbjörn segir að það hafi verið sú stærð sem þurfti fyrir tvær holur. Þá tekur Ásbjörn fram að HS Orka vinni náið með Grindavíkurbæ að undirbúningi framkvæmda við Eldvörp. Svæðið sé hverfisverndað og ekki verði hróflað við gígunum, enda séu þeir friðaðir. Teigarnir verði að mestu við núverandi veg og pípur og annað lagðar meðfram honum.

Eldvörp

Eldvörp – borplan. Hvenær skyldi „hraunhellur/hraungrýti verða lagðar þarna yfir? Hvers vegna ekki að minnka borteigana svo eftirkostnaðurinn verði minni en ella, af fenginni reynslu.

Meðal þess sem hefur verið rætt um að gera er að leggja hraunhellur/hraungrýti yfir þá borteiga sem ekki nýtast, þ.e. ef holurnar gefa ekki af sér orku. Þá megi nánast afmá ummerki um rask, líkt og hafi verið gert við hús Bláa lónsins. Slíkt sé ekki hægt að gera við vinnsluholur því þær þurfi að hreinsa reglulega með bortæki.
Deiliskipulagstillaga að framkvæmdum í Eldvörpum er nú til meðferðar hjá Grindavíkurbæ.

Óskráðar fornminjar

Ómar Smári bendir á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að efra borstæðinu við Trölladyngju hafi ekki verið lagður yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni.

Krýsuvík

Krýsuvík – borsvæðið á upphafsdögum þess. Hér er búið að afmá fornminjar, bæði vegna ástæðu og án líklegra eftirmála.

Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis. [Bæjarstjórn Voga gaf út leyfið, en þegar bent var á að umráðasvæðið væri innan marka Grindavíkur gaf bæjarstjórn Grindavík út afturvirkt framkvæmdarleyfi án nokkurrar umhugsunar.] Þessar fornminjar hafi raunar hvergi verið skráðar. Hið sama eigi við um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan. Þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning sem unnin var af Fornleifavernd ríkisins. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð,“ segir Ómar Smári.

Krýsuvík

Krýsuvík. Grænavatn t.v. og Gestsstaðavatn t.h.

Þá mætti auðveldlega hafa borplanið á öðrum stað, aðeins nokkrum tugum metra frá séu ónýt útihús sem mætti rífa og nota svæðið sem borplan.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 105. tbl. 05.05.2012, Minnka mætti rask með minni borteig – Óskráðar fornminjar, texti: Rúnar Pálmason, bls. 12-14.

Sogasel

Selin í og við Sogagíg, Sogalækur og vegslóðinn upp að efra borstæðinu. – Uppdráttur ÓSÁ.

Selflatir

FERLIRsfélagar óku frá Villingavatni að Grafningsrétt á Selflötum.

Selflatir

Selið á Selflötum.

Á flötunum eru leifar sels frá Úlfljótsvatni. Þegar það var skoðað var augljóst að um dæmigerða selstöðu á Reykjanesskaganum var um að ræða; þrjú rými með baðstofu, búri og eldhúsi, auk vestanverðum stekks. Selið er greinilega byggt upp úr eldri selstöðu eða jafnvel selstöðum. Selsstígurinn sést enn þar sem hann liggur frá selstöðunni til austurs, áleiðis að Úlfljótsvatni.

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel – uppdráttur ÓSÁ. Startjörnin ofar, selsstígurinn t.h. og selshúsin og stekkurinn neðar.

Þá var ætlunin að finna og skoða Ingveldarsel, selstöðu frá Villingavatni, norðan undir Útlfljótsvatns-Selfjalli. Gengið var til vesturs upp með norðanverðu Selfjalli, upp á efstu axlir þar sem útsýni birtist inn Langadal með Súlufell í norðri. Þarna undir hlíðinni, í skjóli fyrir austanáttinni, birtist Ingveldarsel á lyngþakinni brekku. Neðan og norðan við það var lítil seftjörn.
Selið sjálft hafði verið byggt skv. forskriftinni; baðstofa í miðju og búr fyrir innan. Hliðstætt eldhús var við suðurendann og torfhlaðinn stekkur austan tóftanna. Tóftirnar voru nánast orðnar jarðlægar. Ágætt útsýni var frá selinu niður að Villingavatni. Selstígurinn lá til austurs og beygði síðan til norðausturs niður hlíðarnar.

Í örnefnalýsingu Þorgeirs Magnússonar (fæddur að Villingavatni 27.03 1896 og bjó þar frá 1925 til 1948) segir: „Ingveldarsel: Smá starartjörn með mýri í kring, upp af Svartagilsflötum. Síðasta selið sem notað var. [Sennilega kennt við Ingveldi Gíslad., afasystur skrásetjara.] Sokkabandsskarð er fyrir vestan Ingveldarsel í Seldal.“
Tækifærið var notað og selið myndað og uppdregið.

Tilbakagangan var auðveld, enda öll undan fæti.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel.

Kaldársel

Við affall Kaldár í Kaldárbotnum er skilti; „Kaldárssel í 100 ár (1925-2025)„. Á því er eftirfarandi upplýsingar:

Kaldársel

Kaldársel – skilti.

„Sumarbúðirnar í Kaldárseli eiga sér fallega sögu sem spannar rúma öld. Eftir messu í Bessastaðakirkju á annan hvítasunnudag 1921 var haldinn KFUM-fundur þar sem stofnaður var sumarbústaðarsjóður. Félagsmenn úr Hafnarfirði lögðu þá fram 100 krónur í sjóðinn og tveir ungir piltar bættu við 5 krónum hvor. Eftir þetta tóku fleiri félagar þátt og ákváðu að hittast mánaðarlega til bæna og framlag til sjóðsins.

Kaldárssel

Kaldársel – unnið við stækkun fyrsta skálans 1945.

Árið 1925 hafði sjóðurinn vaxið í nær 400 krónur og þá hófust framkvæmdir. Hafnarfjarðarbær gaf félaginu leyfi til að nota svæðið í kringum gamla Kaldárselið með skilyrði um að það yrði eingöngu fyrir starfsemi KFUM. Hafist var handa við að ryðja veg frá kirkjugarðinum fyrir ofan Hafnarfjörð upp að hraunhálsi vestan við selið og flytja þannig byggingarefni á svæðið með hjálp velviljaðra eigenda flutningabíla.

Frá enda vegarins þurfti að bera efnið um 1,5 km leið yfir hálsinn að byggingarstaðnum. Sjálfboðaliðar komu saman í hvassviðri og rigningu seint í maí og kláruðu verkið af miklum dugnaði.

Kaldársel

Kaldársel á fyrstu starfsárum sumarbúðanna Selið sést h.m. við skálann, þá komið með yfirbyggt ris.

Skálinn var vígður 25. júní 1925. Hann var þá 14 álnir á lengd og 10 á breidd, með svefn- og borðsal, eldhúsi og litlu herbergi. Skáladyrnar snéru í suður að Kaldá sem hverfur svo ofan í hraunið. Við skálann var reist fánastöng þar sem íslenski fáninn blakti þegar fólk var í Selinu.

Tuttugu árum síðar var byggt við skálann vestan megin og hann tvöfaldaður að stærð. Vinsældir sumarbúðanna jukust í sífellu og var því aftur hafist handa við stækkun skálans sem lauk árið 1967.

Kaldársel

Kaldársel – Börn að leik í Kaldá.

Enn var ekkert rafmagn á staðnum á þessum árum en búið var að skipta út gömlu kolaeldavélinni sem áður sá skálanum fyrir hita, í stað hennar var komin gasvél og heitt vatn frá olíuhtun. Allt í allt var þrisvar sinnum farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaður bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júni 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum loks fyrir rafmagni og hita.

Í heila öld hafa börn átt þess kost að dvelja í sumarbúðunum í Kaldárseli, þar sem þau hafa fengið tækifæri til að auðga andann og leika sér.

Kaldársel

Kaldárssel 2025.

Náttúran í kring með hrauni, árfarvegi, hellum og fjöllum, hefur alltaf verið órjúfanlegur hluti af dagskránni. Áhersla hefur verið lögð á jákvæð samskipti og kristnifræðslu. Frá árinu 2017 hefur Vinasetrið verið hluti af starfinu en það er helgardvöl fyrir börn sem þurfa séstakan stuðning. Þar hefur verið unnið út frá þeirri hugsjón að hvert barn sé einstakt og eigi skilið kærleika og umhyggju líkt og hefur einnig verið leiðarljós í starfi sumarbúðanna í Kaldárseli.“

Hafnfirðingar hafa jafnan notið þess að koma að Kaldárseli, en viðmót staðarhaldara hefur því miður breyst til hins verra síðustu árin. Það skýrir líklega staðsetningu skiltisins að hluta, þ.e. við affall Kaldár en ekki í nánd við sjálft Kaldársel.

Kaldársel

Kaldárssel – skilti.

Álftanesvegur

Ragnheiður Traustadóttir skrifaði grein í Árbók Hins íslenska forleifafélags árið 2010 undir fyrirsögninni „Ófeigskirkja nýtur vafans„.
Á þeim tíma var fyrirhuguð lagnings nýs Álftanesvegar í gegnum Garðahraun, sem ranglega var af sumum nefnt „Gálgahraun“. Gálgahraun er norðan Garðahrauns, utan framkvæmdarsvæðisins.
Árbók 2010Eitt af því sem andstæðingar vegarlagningarinnar bentu m.a. á að nefndur meintur álfasteinsstandur, „Ófeigskirkja“, myndi fara undir veginn. Umfjöllunin er ekki síst áhugaverð fyrir það að leggja þurfti í allnokkra vinnu fornleifafræðings með tilheyrandi kostnaði við að afla heimilda og raka fyrir tilvists sagðs kletts, sem í raun var fyrir löngu, skv. skráðum heimildum, horfinn undir annan eldri veg.
Eina heimildin sem lögð var til grundvallar hinni nýju meintu staðsetningu voru oftúlkuð orð „afa“ heimildarmanns, sem aldrei hafði staðsett örnefnið að öðru leyti en því að það hafi síðar „færzt yfir á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn“. Hin meinta „Ófeigskirkja“ leit ekki út fyrir að vera „gervigígur“, en með góðum vilja mætti heimfæra staðinn upp á Grænhól (hraunhól) þar skammt norðvestar. Við rannsókn á þeim hól komu hins í ljós verksummerki eftir refaskyttur (strigapokar og glerflöskur).

Ragnheiður Traustadóttir

Ragnheiur Traustadóttir.

Hafa ber í huga að bæði Garða- og Gálgahraunið er alsett klettum, sem hver og einn gætu risið undir væntingum sem „álfakirkja“. Hið fyndna er þó að bæði stjórnendur og meðlimir nafngreindra „náttúrusamtaka“ tóku þátt af einhverri ómeðvitaðri meðvirkni í vitleysunni um nánast ekkert sem grundvöllur var fyrir þá og þegar vegarþræturnar stóðu yfir. Hafa ber í huga að áköfustu mótmælendurnir á staðnum voru handteknir þegar til framkvæmdanna kom á vettvangi og þeir færðir til hliðar um stund, sakaðir um óhlýðni við fyrirmæli lögreglu, en hvorki Jónatan né forsvarsfólk „náttúrusamtakanna“ var þar á meðal.

„Nógu flókið getur verið að meta varðveislugildi fornleifa sem engin mannaverk eru á þótt ekki séu jafnframt áhöld um hvort viðfangsefnið sé hið rétta.
ÓfeigskirkjaHraunklettur í Gálgahrauni, sem átti að jafna við jörðu vegna vegaframkvæmda á Álftanesi, fékk sömu meðferð hjá þjóðminjavörslunni og fornar leiðir skammt þar frá, þrátt fyrir að ekki yrði ályktað með neinni vissu að hann nyti verndar samkvæmt þjóðminjalögum sem álagablettur eða staður eða kennileiti sem tengdist siðum, venjum, þjóðtrú og þjóðsagnahefð til forna.
Varúð er rauður þráður þjóðminjalaganna. Kletturinn í Gálgahrauni, sem bent var á að héti Ófeigskirkja, virðist hafa verið látinn njóta vafans þegar skilmálar voru ákveðnir fyrir því að Vegagerðin mætti ryðja honum burt.

Ábending um álfaklett

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðasson.

Vorið 2009 var fyrirhugað vegarstæði tekið út vegna ábendinga Jónatans Garðarssonar um minjastaði sem ekki var getið í fornleifaskráningu í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Einn af þessum minjastöðum var Ófeigskirkja sem Jónatan tengdi við álfatrú.
Jónatan er áhugamaður um verndun hraunsins, uppalinn í nágrenninu og gjörkunnugur umhverfinu, ekki síst fyrir þær sakir að hafa gengið um svæðið barn með afa sínum, Sigurði Eiríkssyni, sem fluttist til Hafnarfjarðar árið 1930. Sigurður var áhugasamur um örnefni, landamerki og kennileiti og miðlaði hann Jónatan mörgu af því sem hann vissi sannast.

Heimildir um Ófeigskirkju

Álftanesvegur

Gamli  og nýi Álftanesvegur.

Ófeigskirkju er eftir því sem næst verður komist fyrst getið í örnefnaskrá Ara Gíslasonar um Garðahverfi sem var vafalítið tekin saman á 6. áratug síðustu aldar: „Framan við Flatahraun var klettur, sem hét Ófeigskirkja, en hann fór í veginn. Hann var þar sem gjóturnar byrjuðu.“
Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar árið 1964 segir: „Ófeigskirkja: Svo hét klettur á Flatahrauni austarlega. Gegnum hann var farið með Álftanesveginn fyrri.“
Örnefnaskráning Kristjáns Eiríkssonar frá árinu 1976 til 1977 styðst m.a. við lýsingu Gísla „og var hún borin undir kunnuga í hverfinu og síðan samin ný lýsing að fyrirsögn þeirra“: „Ófeigskirkja nefndist klettur, sem brotinn var, þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færzt á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn“.

Deilt um hvort kletturinn standi

Ófeigskirkja

Meint Ófeigskirkja í Garðahrauni.

Ritaðar heimildir um Ófeigskirkju benda til að hún hafi þegar árið 1910 horfið undir Álftanesveginn. Jónatan Garðarsson bar brigður á það. Afi hans hafi sagt kirkjuna „enn við „götuna“ og „stíginn“ því hún væri þar sem Engidalsstígur og Flatahraunsgata kæmu saman við Engidal“. [Hér er rétt að geta þess að Engidalsstígur lá um Engidal að Flatahrauni, nákvæmlega á þeim stað þar sem nefnd Ófeigskirkja á að hafa verið. Þar er núverandi vegastæði gamla Álftanesvegarins.]
Jónatan lét þess getið að afa hans hafi fundist Gísli Sigurðsson „stundum ónákvæmur og nefndi Ófeigskirkjuna sem dæmi“.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson sagnfræðingur birti athugasemd við þessa skoðun á vefsíðu Hraunavina, sem beittu sér gegn umræddum fyrirætlunum Vegagerðarinnar á Álftanesi. Jónatan var í stjórn þeirra samtaka og í tengslum við þau fór hann fyrir leiðangri út í hraunið sem Guðlaugur Rúnar tók þátt í. Í upphafi leiðangurs var litið á smáklett sem Jónatan telur vera Ófeigskirkju og hól sem nefndur er Grænhóll. Gísli Sigurðsson segir í örnefnalýsingu sinni um Garðastaðarland sem varðveitt er á Örnefnastofnun að brotist hafi verið með akveginn gegnum klapparhyrnu mikla er nefnist Ófeigskirkja.“

Efi um helgi hraunmyndunarinnar

Ófeigskirkja

Ófeigskirkja Hraunavina.

Á vefsíðu Hraunavina er tekið fram að Ófeigskirkja sé fagurmótaður hyrndur „álfaklettur“ og víðar á Netinu má sjá ámóta fullyrðingar úr samtíma um að einhvers konar helgi umljúki hraunklett þennan eða átrúnaður.18 Hinn 25. apríl 2009 var fjölmenni viðstatt þegar Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði helgaði klettinn.
Í framangreindum örnefnalýsingum er hvergi greint frá átrúnaði í sambandi við Ófeigskirkju. Kirkjuheitið kann að sjálfsögðu að benda til tengsla við trúarbrögð en ekki er loku fyrir það skotið að það vísi til forms eða útlits á hraunmynduninni. Úr því verður ekki skorið úr þessu, þegar líkur eru á að nafnið hafi færst frá einum kletti, sem brotinn var, á annan.

Niðurstaða vettvangsrannsóknar

Ófeigskirkja

Hin meinta Ófeigskirkja að mati náttúruverndarsinna.

Með hliðsjón af framangreindu var það niðurstaða vettvangsrannsóknarinnar að svo rýrar heimildir væru um hraunklett þennan að af þeim yrði ekki ályktað með vissu að hann nyti verndar samkvæmt ákvæðum þjóðminjalaga um álfatrú til forna. Enn fremur léki vafi á hvort klettur sá, sem nú nefndist Ófeigskirkja, væri hinn sami og fékk það heiti í öndverðu.
Önnur rök kynnu að vera fyrir því að reyna að sneiða hjá klettinum við lagningu Álftanesvegar, því að hann hefði augljóslega gildi fyrir stóran hóp fólks, en slík ákvörðun gæti ekki byggst á þjóðminjalögunum.

Samantekt og niðurstöður

Ófeigskirkja

Meint Ófeigskirkja.

Ritaðar heimildir um Ófeigskirkju eru innan við 100 ára gamlar en örnefnið kann að vera umtalsvert eldra en það. Hvað sem því líður getur Ófeigskirkja ekki notið verndar þjóðminjalaga nema hún teljist vera kennileiti sem tengist „siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð“ eins og það er orðað í 9. gr. laganna.
Þess er hvorki getið í örnefnaskrá Ara Gíslasonar né Gísla Sigurðssonar að nokkurs konar helgi umlyki hana. Þó má telja öruggt að slík athugasemd hefði verið látin fylgja, væri því trúað að í henni hefðu búið álfar. Við þetta bætist að sterkar líkur benda til þess að hraunklettur sá sem um var deilt hafi erft heitið Ófeigskirkja eftir annan klett sem fór undir Álftanesveg fyrir réttri öld.

Heimildakönnun bendir því tvímælalaust til þess að álfasögur hafi ekki verið tengdar Ófeigskirkju fyrr en nýlega.
Fornleifavernd ríkisins féllst á að kletturinn yrði fjarlægður.

Ragnheiðir Traustadóttir hafði jafnframt skrifað greinagerð árið 2009 um að hvaða leyti tilteknar fornminjar verða fyrir raski vegna fyrirhugaðra gatnaframkvæmda í Gálgahrauni; „Ófeigskirkja og fornminjar við Álftanesveg„:

Ófeigskirkja
ÓfeigskirkjaÓfeigskirkju er eftir því sem næst verður komist fyrst getið í örnefnaskrá Ara Gíslasonar um Garðahverfi sem var vafalítið tekin saman á 6. áratug síðustu aldar. Framan við Flatahraun var klettur, sem hét Ófeigskirkja, en hann fór í veginn. Hann var þar sem gjóturnar byrjuðu.
Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar árið 1964 segir: Ófeigskirkja: Svo hét klettur á Flatahrauni austarlega. Gegnum hann var farið
með Álftanesveginn fyrri.
Örnefnaskráning Kristjáns Eiríkssonar frá árinu 1976 til 1977 styðst m.a. við lýsingu Gísla „og var hún borin undir kunnuga í hverfinu og síðan samin ný lýsing að fyrirsögn þeirra“. Ófeigskirkja nefndist klettur, sem brotinn var, þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færzt á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn. Íbúðarhúsið Hraun er skammt vestan við hann.
Í bók Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar um Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar segir um þennan stað – og enn vísað til Gísla:
Álftanesstígur lá frá Garðaholtsenda austur yfir Flatahraun sunnan Ófeigskirkju í Engidalshorn. Og: Ófeigskirkja var klapparhyrna í Flatahrauni.
Ritaðar heimildir um Ófeigskirkju benda til að hún hafi þegar árið 1910 horfið undir Álftanesveginn. Jónatan Garðarsson ber brigður á það. Afi hans, fyrrnefndur Sigurður Eiríksson, hafi sagt kirkjuna „enn við „götuna“ og „stíginn“ því hún væri þar sem Engidalsstígur og Flatahraunsgata kæmu saman við Engidal“. Hann lætur þess getið að afa hans hafi fundist Gísli Sigurðsson „stundum ónákvæmur og nefndi Ófeigskirkjuna sem dæmi“.

Ófeigskirkja

„Meint“ Ófeigskirkja.

Guðlaugur Rúnar hefur birt athugasemd við þessa skoðun á vefsíðu Hraunavina, www.hraunavinir.net, sem beita sér gegn umræddum fyrirætlunum Vegagerðarinnar á Álftanesi. Jónatan situr í stjórn þeirra samtaka og í tengslum við þau fór hann fyrir leiðangri út í hraunið sem Guðlaugur Rúnar tók þátt í.
Í upphafi leiðangurs var litið á smáklett sem Jónatan telur vera Ófeigskirkju og hól sem nefndur er Grænhóll. Gísli Sigurðsson segir í örnefnalýsingu sinni um Garðastaðarland sem varðveitt er á Örnefnastofnun að brotist hafi verið með akveginn gegnum klapparhyrnu mikla er nefnist Ófeigskirkja.
Í niðurlagi færslu sinnar segir Guðlaugur Rúnar: Handrit Gísla, sem varðveitt er á Örnefnastofnun, var á sínum tíma yfirfarið og leiðrétt af Úlfhildi Kristjánsdóttur frá Dysjum. Gísli nefnir heimildarmennina Magnús Brynjólfsson á Dysjum, Guðmann Magnússon hreppstjóra, Valgeir á Hausastöðum og Ólafíu systur hans, Tryggva í Grjóta og Gísla Guðjónsson í Hlíð. Örnefnaskráin var einnig lesin fyrir þau eftir að hún var fyrst skráð og létu þau sér vel líka. Er því undarlegt að enginn þeirra hafi tekið eftir því sem Gísli ritar um Ófeigskirkju.
Á vefsíðu Hraunavina er tekið fram að Ófeigskirkja sé fagurmótaður hyrndur „álfaklettur“ og víðar á Netinu má sjá ámóta fullyrðingar úr samtíma um að einhvers konar helgi umljúki hraunklett þennan eða átrúnaður.

Ófeigskirkja

„Ófeigskirkja“ flutt.

Bæjarstjórinn í Garðabæ, Gunnar Einarsson (fyrrum skólabróðir Jónatans Garðasonar í Flensborg), reyndi að bera smyrls á sárin. Hann lagði til að hin meinta „Ófeigskirkja“ yrði hífð úr hinu nýja vegstæði og hún lögð til á hraunbungu norðan hans – þar sem hún hefur verið síðan, án þess að nokkur sem um nýja veginn fer, sé hið minnsta meðvitaður um hina mögulegu meintu tilvist hans eða tilgang…

Sjá meira um „Ófeigskirkju“ HÉR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 101. árg. 01.01.2010, Ófeigskirkja nýtur vafans – Ragnheiður Traustadóttir, bls. 117-122.
-Ófeigskirkja og fornminjar við Álftanesveg, greinagerð um að hvaða leyti tilteknar fornminjar verða fyrir raski vegna fyrirhugaðra gatnaframkvæmda í Gálgahrauni – Ragnheiður Traustadótir, 2009, bls. 5-7.

Álftanesvegur

Álftanesvegur – loftmynd.

Íslendingabók

Halldór Hermannsson (1931-2009) skrifaði í Skírni árið 1948 um „Ara Þorgilsson fróða“ og Íslendingabók:

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1068-1148). Ari var sonur Þorglis Gellissonar frá Helgafelli og sonarsonur Gellis Þorkelsonar, prests frá sama svæði. Báðir höfðu látist fyrir aldur fram og skilið eftir ungan Ara einn. Sjö ára gamall var Ari tekinn í Haukdælaættina, sem stjórnaði Íslandi á miðöldum á þjóðveldistímanum. Ættin er rakin til Ketilbjarnar Ketilssonar sem nam land í Mosfelli í Grímsnesi. Ættin var áberandi á tíundu til þrettándu öld sem höfðingjar á Sturlungaöld og sem þátttakendur í kristniboði um allt Ísland. Gissur Þorvaldsson, leiðtogi Haukdæla á þrettándu öld, var gerður að jarli yfir Íslandi af Noregskonungi.
Ari var nemandi kennarans Teits Ísleifssonar, sem var sonur Ísleifs Gissurarsonar,  fyrsta biskups Íslands. Eftir að Ari hafði lært klassíska menntun var hann vígður til prests á Stað á Snæfellsnesi, sem nú er þekktur sem Staðastaður.

„Einn merkasti maður, sem Ísland hefur alið, er Ari Þorgilsson. Ari fæddist, líklega á Helgafelli, árið 1067 (eða 1068) og lést árið 9. nóvember 1148. Hann var vel ættaður. Langafi hans var Þorkell Eyjólfsson og langamma Guðrún Ósvífursdóttir, sem fræg er af Laxdælu, og eins og eðlilegt er í litlu mannfélagi, var hann skyldur eða tengdur mörgum helztu ættum í landinu, og sjálfur hefur hann rakið ætt sína í beinan karllegg til goðborinna fornkonunga. Það er því vel sagt, að þekkingin ein á ævi og afrekum forfeðra hans hefði verið nóg til að gera hann að sagnfræðingi.
Ari fór frá Haukadal, þegar hann var rúmlega tvítugur, 1088 eða 1089. Í Kristnisögu er hann talinn meðal höfðingja, sem voru prestvígðir af Gissuri biskupi.
Tvö eru til rit frá þriðja áratug tólftu aldar, sem virðast skyld að uppruna. Svo stendur í Kristinna laga þætti Grágásar (Konungsbók, I, 1852, bls. 36): „Svá settu þeir Ketill byskup ok Þorlákr byskup at ráði Özurar erkibyskups ok Sæmundar ok margra kennimanna annarra kristinna laga þátt, sem nú var tínt ok upp sagt.“
Í greinargerð þeirri, sem Ari fróði skrifaði um Íslendingabók sína, segir hann: „Íslendingabók görða ek fyrst byskupum árum Þorláki ok Katli, ok sýndak bæði þeim ok Sæmundi presti. En með því at þeim líkaði svá at hafa eða þar viðr auka, þá skrifaða ek þessa of it sama far, fyr útan ættartölu ok konunga ævi, ok jókk því, es mér varð síðar kunnara, ok nú es gþrr sagt á þessi en á þeiri. En hvatki es missagt es í frœðum essum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara reynisk.“
Fyrsti kapítuli (Frá Íslands byggð) segir frá, hvenær Ísland byggðist og frá Ingólfi, hinum fyrsta landnámsmanni; frá gróðri landsins og Pöpum, sem voru þar fyrir, er Norðmenn komu þangað; ennfremur frá því, er Haraldur hárfagri lagði skatt á þá, sem fluttu til Íslands, og er sagt, að það væri upphaf landauranna, sem þeir urðu að gjalda, er síðar fóru milli landa.
Hin eldri gerð Íslendingabókar er því miður glötuð, og er það tilfinnanlegt tjón. Svo er þó almennt talið, að það sé sú bók, sem Snorri Sturluson lýsir í formálanum fyrir Heimskringlu. Það er nauðsynlegt að taka hér upp þá lýsingu til samanburðar.

Íslendingabók

Íslendingabók – formáli endurritunar.

Svo ritar Snorri: „Ari prestr hinn fróði Þorgilsson, Gellissonar, ritaði fyrstr manna hér á landi at norrœnu máli frœði, bæði forna ok nýja; ritaði hann mest í upphafi sinnar bókar um Íslands byggð ok lagasetning, síðan frá lögsögumönnum, hversu lengi hverr hafi sagt, ok hafði þat áratal fyrst til þess, er kristni kom á Ísland, en síðan allt til sinna daga.“
Íslendingabók, sem við höfum, er sannkallað meistaraverk og á ekki sinn líka í miðaldabókmenntum og þó lengra sé leitað niður á við. Hún fullnægir eiginlega vísindalegum kröfum nútímans til sagnaritunar. Heimildir hafði Ari engar skrifaðar, en í stað þess leitar hann til munnlegra frásagna þeirra manna, er samtíða voru viðburðunum eða höfðu sannar sögur af þeim frá eldri mönnum, og heimildarmenn sína nefnir hann alla.
Af formála Ara er það auðséð, að biskuparnir Ketill og Þorlákur hafa beðið hann að semja Íslendingabók. Þegar hann hafði lokið ritinu, sýndi hann það biskupunum og Sæmundi fróða; líkaði þeim það vel og vildu hafa það eins og það var (svá at hafa) að öðru en því, að þeir vildu auka nokkru við það og sleppa ættartölu (sjálfsagt hér safnheiti fyrir ættartölur) og konunga ævi. Það hefur þeim þótt standa fyrir utan tilgang ritsins.

Íslendingabók

Íslendingabók var fyrsta ritaða sagan um Ísland þar sem ítarlega er fjallað um kristnitöku, þróun réttarkerfisins og siðareglur Alþingis. Íslendingabók lýsir einnig byggðum á Grænlandi og Vínlandi og inniheldur ættartölur og sögur fyrstu landnemanna á Íslandi. Sagnfræðingar telja hana áreiðanlegustu frásögnina sem til er af sögu Íslendinga á fyrri árum.

Þess vegna reit Ari hina síðari Íslendingabók um hið sama efni, og bætti nokkru við, sem hann hafði fengið frekari upplýsingar um, og sleppti því, sem biskuparnir vildu láta sleppa. Þar sem hin fyrri bók er glötuð, er ómögulegt að vita, hverju biskuparnir vildu láta bæta við og hverju Ari bætti við frá eigin brjósti, ekki heldur neitt ákveðið um ættartölurnar né konunga ævi.
Það stendur líkt á með Íslendingabók, við getum ekki með fullri vissu tímasett ritun hennar nákvæmar en frá biskupstíð biskupanna, sem höfðu hvatt til þess, að hún var samin. Fyrri gerð hennar hafa menn þó almennt talið að væri frá miðjum þriðja áratug tólftu aldar, en seinni gerðina telja flestir ritaða eftir Alþing 1134. Sennilegt er þó, að Ari hafi skrifað fyrstu gerð Íslendingabókar milli þinga 1122-23.

Íslendingabók

Íslendingabók – Samkvæmt orðum Ara í upphafi hinnar varðveittu Íslendingabókar eru frá hans hendi tvær gerðir bókarinnar. Hin eldri var borin undir biskupa landsins, Ketil Þorsteinsson og Þorlák Runólfsson, og sjálfan Sæmund fróða. Þeir lögðu til breytingar, vildu fella brott ættartölur og konungaævi (hvað svo sem það nákvæmlega var) og kannski eitthvað fleira. Kvaðst Ari hafa skrifað seinni gerðina í samræmi við þessar athugasemdir.
Athyglisvert er að þegar miðaldamenn vitna í Ara fróða, svo sem Snorri Sturluson, virðast þeir alltaf vera að vísa til eldri gerðarinnar en ekki þeirrar yngri sem meir var að skapi biskupanna og Sæmundar. Hvernig stendur á því? Hefði ekki átt að vera búið að taka þá gerð úr umferð?
Íslendingabók eins og við þekkjum hana úr pappúrsuppskrift Jóns í Villingaholti er um margt einkennilegt rit. Mörgum fræðimönnum hefur þótt hún minna frekar á safn minnisgreina en heillegt rit. Fyrirsögnin á pappírsuppskriftinni „Schedæ Ara prests fróða’“ gefur strax tilefni til heilabrota. Hún getur ekki verið komin úr penna Ara sjálfs. Óljóst er hvað latínuorðið „schedæ“ hefur merkt í þessu samhengi, kannski minnisgreinar.

Það er sjálfsagt Ari, sem hefur sett yfirskriftina Incipit libellus Islandorum yfir rit sitt. Þetta hefur orðið til þess, að sumir ritskýrendur hafa haldið því fram, að hann hafi kallað fyrri gerðina liber (bók) en hina seinni libelhcs (bækling) af því að hún hafi verið svo miklu minni. Það er engin ástæða til að ætla, að svo hafi verið. Formáli hans sýnir, að hann hefur kallað báðar gerðirnar Íslendingabók og hefur sjálfsagt notað sama latneska nafnið um báðar, enda eru öll líkindi til, að á þeim hafi ekki verið svo ýkjamikill stærðarmunur. En það er annar latneskur titill, sem bók hans hafði í hinum fyrstu prentuðu útgáfum af henni. Það er Schedæ. Ástæðan til þess var sú, að báðar afskriftir síra Jóns í Villingaholti hafa yfirskriftina Schedæ Ara prests fróda, og við enda þeirra hefur hann skrifað þetta: „Þessar Schedæ Ara prestz fróda og frásögn er skriffud epter hans eigin handskrifft á bókfelle (ad menn meina) í Willingahollti aff Jóne preste Ellendssyne Anno Domini 1651 mánudaginn næstan epter Dominicam Jubilate. Jón Ellendsson p. Mpp.“
Það er nú talið víst, að handritið, sem skrifað var eftir, hafi ekki verið eiginhandarrit Ara; það hefur líklega verið skrifað um 1200. En hvaðan stafar þessi titill? Hann getur ekki verið frá Ara, því að ekki hefði hann kallað sig sjálfur „fróða“. Schedæ þýðir í raun og veru minnisgreinar, sem ennþá hafa ekki verið færðar inn í bók, eins og Isidor frá Sevillia skýrir orðið í sinni Etymologiæ, en það rit var þekkt á Íslandi snemma.
Í fornritum, sem varðveitzt hafa, er þess hvergi getið, að Ari hafi skrifað Landnámu, nema í eftirmálanum við Landnámu Hauksbókar. Þar ritar Haukur lögmaður svo: „Nú er yfir farit um landnám þau, er verit hafa á Íslandi, eptir því sem fróðir menn hafa skrifat, fyrst Ari prestr inn fróði Þorgilsson ok Kolskeggr inn vitri. En þessa bók ritaða [ek] Haukr Ellinzson eptir þeiri bók, sem ritat hafði herra Sturla lögmaðr, inn fróðasti maðr, ok eptir þeiri bók annarri, er ritat hafði Styrmir inn fróði, ok hafða ek þat ór hvárri, sem framar greindi, en mikill þori var þat, er þær sögðu eins báðar, ok því er þat ekki at undra, þó þessi Landnámabók sé lengri en nökkur önnur.“
Þeir, sem ritað hafa um Landnámu, hafa venjulega veitt ættvísinni þar mesta athygli. Það hafa víst verið til menn frá fyrstu byggð Íslands, sem hafa fengizt við að rekja ættir manna og leggja þær á minnið, og á endanum var svo mikið af því fært í letur. Það eru ekki ættartölurnar, sem gera Landnámu frumlega, heldur það, að ættirnar eru tengdar við staði. Grundvöllur hennar er staðfræðilegur, og í hlutarins eðli urðu nöfn og ættir landnámsmannanna óaðskiljanlegt frá staðfræðinni. Það er auðvelt fyrir menn, sem hafa gott minni, að muna ættartölur án þess að hafa ef til vill nokkurn tíma þekkt eða séð nokkurn mann af ættinni. Öðru máli gegnir um staði eða sveitir, sem menn hafa aldrei augum litið; það er ekki auðvelt að muna það í réttri röð eða gera sér grein fyrir útliti þeirra og takmörkum, og ef menn reyna að lýsa þessu munnlega eða skriflega, þá er hætt við, að mjög fipist fyrir þeim.

Haukadalur

Haukadalur undir Laugafelli – uppeldisstaður Ara.

Nú eru flestir á einu máli um það, að staðfræðin í Landnámu sé merkilega góð, svo að höfundinum skjátlist furðulega sjaldan, og þó eru sumir, sem álíta, að þessi frábæra staðfræðilega þekking eigi rót sína að rekja til upplýsinga frá ýmsum mönnum hvaðanæva af landinu, sem höfundurinn hafi náð í og síðan fært í eina heild.
Rit eins og Landnáma hlýtur þegar í upphafi að hafa verið áformað af einum manni, og enginn er líklegri til að hafa gert það en Ari fróði, eins og Haukur lögmaður segir.

Ari Þorgilsson

Afritanir landnámu að mati Sveinbjarnar Rafnssonar.

Nú vildi svo til, að einmitt um þær mundir, sem ætla má, að Ari hafi verið að safna efninu í Landnámu, fór fram staðfræðileg skipting landsins í kirkjusóknir. Þegar biskupsstóll hafði verið settur í Skálholti og tíundarlögin samþykkt af Alþingi 1096 eða 1097, varð að koma föstu skipulagi á biskupsdæmið. Biskup átti að ákveða takmörk kirkjusóknanna. Þetta varð ekki gert heima í Skálholti, biskup og aðstoðarmenn hans urðu að ferðast um landið til að koma þessu á. Það hefur verið mikið verk og erfitt, en þó fara engar sögur af því; það hefur sjálfsagt farið fram með friði og spekt, og því ekki þótt í frásögur færandi.

Landnáma

Landnáma. Landnámabók eða Landnáma er elsta heimild um landnám Íslands, byggð á Íslendingabók Ara Þorgilssonar. Hún hefur að geyma upptalningu landnámsmanna Íslands. Hún telur einnig upp ættir landnámsmanna, 3000 eiginnöfn og 1400 örnefni. Hún er upprunalega talin hafa verið rituð á fyrri hluta 12. aldar en það eintak er glatað. Til eru fimm endurskrifanir á henni:
Sturlubók; endurskrifuð á 17. öld af Jóni Erlendssyni upp úr aldagömlum skinnhandritum eftir Sturlu Þórðarson sem brunnu í brunanum í Kaupmannahöfn árið 1728.
Hauksbók; skrifuð af Hauki Erlendssyni um 1299 en einungis eru til 18 blöð af henni sjálfri en Jón Erlendsson gerði eftirrit sem er fullkomlega varðveitt.
Melabók; talin vera rituð um 1272 af Snorra Markússyni lögmanni á Melum.
Skarðsárbók; pappírshandrit frá fyrri hluta 17. aldar skrifað af Birni Jónssyni á Skarðsá.
Þórðarbók; einnig 17. aldar pappírshandrit skrifað af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal.

Nú lítur út fyrir, eins og áður hefur verið tekið fram, að Ari hafi verið handgenginn Gissuri biskupi, og því liggur nærri að ætla, að hann hafi tekið þátt í þessu
verki, og að þaðan stafi hin mikla staðfræðilega þekking, sem Landnáma ber svo ljóst vitni um. Ari hefur líklega ferðazt um þrjá fjórðunga landsins, en af einhverjum ástæðum ekki um Austfirðingafjórðung og því notið þar aðstoðar Kolskeggs Ásbjarnarsonar.
Það er næsta ótrúlegt, að Gissur biskup og aðstoðarmenn hans hafi lagt alla sóknaskiptinguna og allt, sem henni var samfara, á minnið. Þeir hljóta að hafa fært það að meira eða minna leyti í letur. Sama má segja um Ara, ef hann var þar með í för. Hann hefur ritað minnisgreinar um allt það, sem hann sá og heyrði á ferðum sínum. Síðan hefur hann fært það allt til bókar, og þannig hefur Landnáma orðið til. Hvenær hann lauk við hana, er ekki auðið að segja með vissu, en líklegt er, að hann hafi verið að safna fróðleik svo lengi sem honum entist aldur.
Annars lítur út fyrir, að Landnáma hafi verið lítið þekkt á tólftu öld, enda fengust menn þá mest við að rita helgar þýðingar og konunga sögur. Um aldamótin 1200 fara menn að veita meiri athygli íslenzkum fræðum, og má vera, að það sé því að þakka, að þá tók Styrmir fróði Landnámu Ara til meðferðar og gerði hana kunna, og svo byrja menn fyrir alvöru að rita íslendingasögur.

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

Engin þjóð á slíka heimild um uppruna sinn eins og Íslendingar þar sem er Landnámabók. Því miður er Frum-Landnáma ekki lengur til, og næsta gerð hennar, Styrmisbók, er líka glötuð að öðru en því, að hún hefur verið tekin upp í Sturlubók, Hauksbók og Melabók. í öllum þessum gerðum hafa ættartölurnar verið stórum auknar, en staðfræðinni hefur líklega verið tiltölulega lítið breytt.
Við höfum beðið mikið tjón við það, að svo mikið af fornritum okkar hefur glatazt eða einungis varðveitzt í brotum. Ég held, að einna tilfinnanlegasta tjónið hefði verið, ef Islendingabók hefði týnzt með öllu. Þar skall þó hurð nærri hælum. Brynjólfur biskup fann á 17. öld skinnhandrit af henni, líklega frá því um 1200, og lét síra Jón í Villingaholti gera tvær afskriftir af því; síðan hvarf gamla handritið og hefur aldrei komið aftur í leitirnar. Ef Íslendingabók hefði ekki þannig verið bjargað, hefðum við haft næsta óljósar hugmyndir um Ara; við hefðum þekkt hann bara af formála Snorra og tilvitnunum til hans hér og hvar í ritum.

Staðarstaður

Staðarstaður á Snæfellsnesi.

Til allrar hamingju höfum við Íslendingabók hina síðari, og hún gefur okkur skýra mynd af höfundinum og vinnubrögðum hans — þessum gáfaða, hógværa og vandvirka fræðimanni, sem gerir sitt ítrasta til að leita sannleikans, svo að hann geti sagt sem sannast og réttast frá. Þannig varð hann faðir íslenzkrar sagnaritunar og lagði grundvöllinn að íslenzkum bókmenntum. Á þeim grundvelli var gott að byggja, því að hann var traustur. Þetta getum við aldrei nógsamlega þakkað Ara fróða.“

Heimild:
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1948, Ari Þorgilsson fróði – Halldór Hermannsson, bls. 5-29.

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson prestur – minnisvarði í kirkjugarðinum á Staðarstað á Snæfellsnesi.