Hvaleyri

 Í „Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005“ segir m.a. um sögu Hvaleyrar:

„Hér er stiklað á stóru í sögu Hvaleyrar.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Horft til norðvesturs af holtinu ofan við Hrafna-Flókavörðu.

Heimildir um nafnið Hvaleyri er að finna allt frá Hauksbók Landnámu frá því að Hrafna-Flóki fann hval á eyri einni og kallaði það Hvaleyri. Í Landnámu er síðan sagt frá að bróðursonur Ingólfs hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi (ÍF I, Bls. 39, 394).
Í Jarðtei[k]nabók er Teitur sagður búa á Hvaleyri 1300-1325 (Biskupasögur. 1. Bls. 286).
Árið 1395 er Hvaleyri eign Viðeyjarklausturs og var leiga til klaustursins 4 hndr. (DI III. Bls. 597).

Hvaleyrartjörn

Hvaleyrartjörnin fyrrum.

Þá segir í heimildum frá 1448 að á Hvaleyri hafi verið kirkja (DI IV. Bls. 751).
Í Jarðabók frá 1703 segir að á Hvaleyri sé hálfkirkja og embættað þrisvar á ári (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170. Kaupmannahöfn 1923-1924).
Í Sögu Hafnarfjarðar frá 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið, en eigi er kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftrarkirkja, því enn sést fyrir kirkjugarði í tún heimajarðarinnar á Hvaleyri (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 23, Reykjavík).
Jarðabókin frá 1703 segir m.a. að jörðin sé í konungseign.

Hvaleyri

Hvaleyri á 20. öld.

Þá er þess getið að Hvaleyrarkot sé aftur byggt eftir að ahfa verið í eyði svo lengi sem menn muna. Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem segir frá búsetu, búháttum, landgæðum og hjáleigum. Þar segir m.a.:

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Hvaleyri er kirkjustaður með annexíu til Garða á Álftanesi þar er ei nema hálfkirkja og embættar þrisvar á ári. Jarðadýrleiki er óviss því jörðin tíundast engum. Jörðin er í konungseign. Ábúandinn er Ormur Jónsson. Landskuld er eitt hundruð. Greiðist með sex vættum fiska í kaupstað síðan forpachtningin hófst en áður heim til Bessastaða. Áður til forna hefur landskuldin verið greidd í fríðu með einum hundraðasta. Við til húsabótar hafa ábúendur lagt uppbótarlaust yfir sextíu ár. Leigukúgildi eru þrjú. Leigur greiðist í smjöri heim til Bessastaða. Kúgildin uppyngir ábúandinn uppbótarlaust yfir sextíu ár. Kvaðir eru um mannslán um vertíð, að auki tveir hríshestar heim til Bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír eftir þörfum, en í tíð Heidmanns voru þeir sjö um árið að meðtöldum skylduhestum. Hér að auki tveir dagslættir árlega heim til Bessastaða og fæðir bóndinn verkamennina sjálfur að auki skipsferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum þarf á að halda vetur eða sumar og er hægt að áætla hve margar þær geta verið. Fæðir bóndinn þann mann ávallt sjálfur, hvort sem ferðin er löng eða stutt.
Kvikfénaður eru þrjár kýr, einn kálfur, fjórar ær, þrír sauðir veturgamlir, fjögur lömb, einn hestur, eitt hross með fyli. Fóðrast geta fjórar kýr. Heimilismenn sex. Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Hrísrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt, að öðru leyti hefur hún hrísrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolagerðar. LLyngrif og stunga í lakasta mála nærri ónýt. Fjörugrastekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara nægileg til beitu líður ágang af öðrum jörðum.
Heimræði er árið um kring og lending góð og ganga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hér oft undir kongsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridts Hansson Siefing var á Bessastöðum. Heidemanns vegna hefur það ekki verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

Inntökuskip hafa hér stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu.
Túnin spillast af sandágangi. Engjar eru engar. Vatnsból er ekki gott, og þrýtur bæði vetur og sumar.
Hjá kvöðunum var gleymt að skrifa að á umliðnu hausti sendi umboðsmaðurinn Páll Beyer að Hvaleyri lamb í fóður, tók ábúandinn við því á launa, sama gjörði veturinn á undan umboðsmaðurinn sem þá var Jens Jurgensson, og hefur ábúandinn heldur ekki fengið fyrir það laun. Hafa þessar kvaðir aldrei áður verið, að auki var 1701 og nú í sumar heyhestur heimtur fyrir fálkaféð. Þetta hefur ekki fyrr eða síðar gert verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókaklöpp og nágrenni.

Hvaleyrarkot er gömul hjáleiga byggð eftir að hafa verið í eyði svo langt sem menn muna sem eru lifandi, og nú aftur komin í eyði fyrir þremur árum. Landskuld var meðan þar var búið 60 álnir og greiddist í fiski til heimabóndans, að auki eitt kúgildi og greiddust leigur í smjöri heim til bóndans. Gæti byggst aftur ef einhver þyrði að vera upp á sjávaraflann kominn, nú hefur heimabóndinn grasnytina þar sem með fylgdi (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170, Kaupmannahöfn 1923-1924).

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a. að Hvaleyri sé í Álftaneshreppi og jarðanúmer 168. Hvaleyri sé í bændaeign, dýrleiki sé 20 hundruð, landskuld sé 0.100, kúgildi séu 2, og eigandinn sé einn. Í skýringum segi rum Hvaleyri að í Jarðabók frá 1803 séu nefndar fjórar byggðar hjáleigur, Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir (J. Johnson, Jarðatal á Íslandi. Bls. 91, Kaupmannahöfn).
Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og má það vera ein ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 kaupir Bjarni Sívertssen jörðina af konungi, og síðan kaupir Jón Illugason snikkari jörðina árið 1834 af dánarbúi Bjarna riddara Sívertssens.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Jón Illugason seldi síðan jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Eftir lát Jóns tók ekkja hans , Þórunn Sveinsdóttir, við Hvaleyri, hún gaf síðan Sigríði frændkonu manns síns mestan hluta jarðarinnar 1868. Sigríður giftist síðan Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var síðan seld síra Þórarni Böðvarssyni í Görðum árið 1870. Síra Þórarinn og kona hans gáfu síðan heimajörðina Hvaleyri til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1881 (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 36-37 og 42-45. Reykjavík).
Elstu heimildir um náttúrufar á Hvaleyri eru frá árinu 1365, en þá er sagt af sandfjúki og sjávargangi á tún á Hvaleyri (Gísli Sigurðsson. Hvaleyri, Hafnarfjörður, Gullbringusýsla. Örnefnastofnun Íslands).

Hvaleyri

Málverk sem sýnir Hvaleyrina fyrir tímalandnáms Keilis. Myndina málaði sænskur málari sem bjó á Íslandi og gekk undir listamannsnafninu Thy-Molander. Myndina gaf Magnús Guðmundsson, barnabarn Ársæls Grímssonar fyrsta starfsmanns Keilis. Talið er að myndin sé máluð í kringum 1950.

 

Frá árinu 1703 er sagt frá að hún hafi spillst af sandgangi, og engjar séu engar.
HafnarfjörðurÁrið 1730 voru Hvaleyrartún stórskemmd af grasmaðki og einnig herjuðu sandfor og fugl á það. Mikill lausamosi var í túninu. Túnið hélt áfram að skemmast og árið 1751 varð að slá tveimur vættum og einu kúgildi af afgjaldi jarðarinnar hvort sem það hefir eingöngu verið landskemmdum að kenna.
Á árunum 1754-1757 býr enginn á Hvaleyri, og má það vera ástæða þess að bæjarhús og tún spillast.
Á syðsta hluta Hvaleyrarholts mun hafa verið skógarítak Gufuneskirkju.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005. [Skráningin er að vísu mjög ófullkominn og erfitt að átta sig á staðháttum við lestur hennar.]

Hvaleyri

Hvaleyri í dag – 2021.

 

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Faxi

Í Faxa 1977 fjallar Svavar Árnason um Grindavík undir yfirskriftinni „Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið„.

Svavar Árnason

Svavar Árnason.

„Alþingi veitti Grindavík kaupstaðarréttindi með lögum nr. 18, 10. apríl 1974. Grindavíkurkaupstaður er því með alira yngstu kaupstöðum landsins. Saga hans er að vonum ærið stutt og naumast annálsverð enn sem komið er, en Grindavíkurhreppur, sem er eðliiegur undanfari kaupstaðarins, á sér aftur á móti langa og að ýmsu leyti merka sögu, sem rekja má allt til landnámsaldar. Þess er þó enginn kostur að rekja þá sögu í stuttu máli, aðeins skal lauslega minnst á minnisverða atburði og þá ekki síður þá atburði, sem minni eftirtekt hafa vakið í gegnum tíðina.
Um það hvernig Grindavík byggðist segir svo frá í Landnámabók: „Maður hét Hrólfur höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:

Ek bar einn
af ellifu
banaorð.
Blástu meir.

Núpshlíðarhorn

[G]Núpshlíðarhorn – varða.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígfar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar. Þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórðu leggjaldi.

Hraustir menn og vígreifir víkingar

Grindavík

Grindavík og nágrenni.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímkaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur. Síðan var hann Hafur-Björn kallaður.

Geithafur

Geithafur.

Það sáu ófreskir menn, að landvættir fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Af þessari lýsingu er bersýnilegt, að þeir sem námu land í Grindavík voru hraustir menn og vígreifir víkingar, sem létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna svo sem kviðlingur Vémundar ber vott um. Það er víst að Landnámsmennirnir hafa frá upphafi byggðar í Grindavík stundað jöfnum höndum landbúnað og fiskveiðar og farnast vel, enda til þess notið fulltingis landvættanna eftir því sem sagan segir.
Landafræðin kenndi okkur að Grindavík væri lítið og afskekkt sjávarþorp á sunnanverðum Reykjanesskaganum, umkringt hraunum og langt frá öðrum byggðum. Landkostir rýrir en stutt á fangsæl fiskimið. Úthafsaldan, ferleg og há, komin um óravegu sunnan úr höfum, brotnar hér við ströndina með háreisti og gný. Af því leiðir að Grindavík hefur ávallt verið talin brimveiðistöð.

Skipströnd og björgunarafrek

Skipsskaðar

Skipsskaðar við Grindavík.

Strandlengjan fyrir landi Grindavíkur nær frá Valahnúk á Reykjanesi, eða nánar tiltekið frá miðri Valahnúkamöl og austur að Seljabót, en þar tekur við Selvogur í Árnessýslu.

Guðsteinn Einarsson

Guðsteinn Einarsson.

Á þessari strönd hefur mörg harmsagan gerst. Guðsteinn Einarsson hreppstjóri hefur í ágætri grein í bókinni „Frá Suðurnesjum„, skráð örnefnin og um leið fléttað inn í frásögnina viðburðaríkum atburðum af skipsströndum og björgunarafrekum, sem unnin hafa verið á þessari strandlengju, sem hann telur vera um 70 til 80 km. langa.
Fjallahringur upp til landsins umlykur Grindavík og gefur henni hlýlegt svipmót. Fjöllin eru fremur lág, en Þorbjörn er þeirra nálægastur byggðinni og nýtur mestrar virðingar innfæddra Grindvíkinga, þótt hann sé ekki nema 243 metrar á hæð. Þar skammt frá er- Hagafell“ með Gálgaklettum og síðan kemur Svartsengi, sem nú er þekkt vegna háhitans, sem er á því svæði, og nú er virkjaður af Hitaveitu Suðurnesja í þágu íbúa á Suðurnesjum.

Útilegumenn hengdir í Gálgaklettum

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Þar sem fjallið Þorbjörn rís upp úr hraunflákanum í allri sinni tign með klofinn toppin og myndar gjá, sem heitir Þjófagjá, þar eiga útilegumenn endur fyrir löngu að hafa átt skjól. Þjóðsagan segir að þeir hafi um síðir verið handsamaðir og færðir til hengingar í Gálgaklettum.

Festisfjall

Festarfjall.

Lengra austur eftir Sakganum koma svo Húsafell í grennd við býlið að Hrauni, þá Fiskidalsfjall, Fagradalsfjall og Festi eða Festarfjall. Festi er fyrir botni Hraunsvíkur. Þar þykir skemmtilegt útivistarsvæði undir fjallinu á Hraunssandi við sjó fram. Ekki er þó þessi staður með öllu hættulaus vegna grjóthruns úr fjallinu og engan veginn er hættulaust að fara þar í sjóinn vegna strauma, sem liggja fram með ströndinni, og hafa gert færustu sundmönnum örðugt að ná landi aftur.
Býlið Hraun er austan við Þorkötlustaðahverfið, en austasti bærinn er ísólfsskáli og er yfir Hálsa að fara þangað. Austan við Ísólfsskála eru fjöllin Slaga og Skála-Mælifell og enn austar er svo Krýsuvíkur-Mælifell, en austast er Geitahlíð með Æsubúðir efst á tindi. Skammt austan við Ísólfsskála eru Selatangar. Þaðan var útræði frá Skálholti á fyrri tíð, og enn má sjá þar ummerki og tóftabrot, er minna á frumstæðan aðbúnað sjómanna í verbúðum þeirra tíma.

Járngerður og Þorkatla

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Grindavík hefur frá fornu fari verið skipt í þrjú hverfi, þ.e. Staðarhverfi vestast, þá kemur Járngerðarstaðahverfi og austast Þorkötlustaðahverfi, en auk hverfanna þriggja voru svo einstaka bæir svo sem Hóp — þar sem nú er höfnin — lífæð byggðarinnar —, Hraun og Ísólfsskáli og áður fyrr byggðarhverfi í Krýsuvík. — Í Krýsuvík er risinn myndarlegur skóli, sem sveitarfélögin í Reykjanesumdæmi, SASÍR, hafa barist fyrir að koma á fót, en kennsla er rétt óhafin.
Það er athyglisvert við nöfn hverfanna, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi, að svo virðist sem „rauðsokkur“ þeirra tíma hafi látið mikið til sín taka í Grindavík.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki greinir þó sagan frá jafnréttisbaráttu kvennanna þar, en víst má telja að konur þessar, Járngerður og Þorkatla, hafi verið hinir mestu skörungar og stórbrotnar að allri gerð. Þær sátu báðar jarðirnar, sem einnig bera þeirra nöfn. Báðar munu þær hafa átt útvegsbændur og framsækna fiskimenn, en gifta þeirra fylgdist ekki að. Járngerður missti bónda sinn í sjóinn á Járngerðarstaðasundi. Segja munnmæli að þá hafi Járngerður orðið myrk í skapi, og kveðið svo á, að 20 skip skuli farast á Járngerðarstaðasundi. Telja fróðir menn að þeirri tölu sé náð. Af Þorkötlu er aftur það að segja, að hún hafi látið svo ummælt, að aldrei skyldi skip farast á Þorkötlustaðasundi, ef rétt væri farið og fomann brysti ekki dáð og dug, og þykir það hafa farið eftir.

Oft var teflt á tæpasta vað
Grindavík
Landnámsmennirnir komu til Íslands á opnum skipum. Molda-Gnúpur og synir hans stunduðu sjóinn á opnum skipum að sjálfsögðu, og Grindvíkingar hafa löngum háð sína hörðu lífsbaráttu á opnum skipum — fyrst og fremst áraskipum — fram yfir árið 1926 og þar næst á opnum vélbátum, „trillum,“ allt þar til að hafnarskilyrði sköpuðust í Hópinu fyrir stærri skip og báta, svo að sambærilegt er orðið við hvaða verstöð sem er á landinu.

Grindavík

Áttæringar í Nesi.

Þeir einir, sem muna tímana tvenna og þær stórkostlegu breytingar, sem hafa orðið á aðstöðu allri til sjósóknar og fiskveiða í Grindavík síðustu 50 árin, hljóta að undrast það nú, að það skuli hafa verið mögulegt að stunda róðra á þessum litlu fleytum og bjóða þeim það sem þeim var boðið og ekki síður eftir að „trillurnar“ komu til sögunnar. Þeir sóttu sjóinn fast, og tefldu oft á tæpasa vað. Lendingin var oft erfið og áhættusöm þegar komið var upp að Járngerðarstaðasundi og þurfti að liggja til laga eins og það var kallað. Þeir sem í landi voru, og fylgdust með þegar lagið var tekið, biðu í ofvæni og eftirvæntingu úrslitanna um það, hvort mætti sín meira, mannlegur máttur ræðaranna, eða hrammur holskeflunnar. Oftast tókst þetta vel, og formennirnir lærðu að finna rétta lagið — nákvæmlega rétta augnablikið — þegar lagt var á sundið í tvísýnu. Oft skall hurð nærri hælum og slysin urðu ekki umflúin, eins og hún Járngerður, og svo ótal margir fleiri hafa orðið að horfa upp á og þola. —

Áfram nú í Herrans hafni
Grindavík
En nú er allt orðið gjörbreytt til hins betra. Hætturnar leynast að vísu alls staðar, bæði á sjó og landi. Bátastærðin, öryggistækin og höfnin, allt ber það vott um þá stórkostlegu byltingu, sem átt hefur sér stað í þróun og vexti staðarins. —

Grindavík

Brimlending.

Þegar þróunin verður skyndilega ör, vill það stundum gleymast að halda til haga ýmsum fróðleik varðandi atvinnusöguna og líf fólksins á viðkomandi stað. Hvert tímabil á sína sögu.
Ef við hugsum til þess að fram til ársins 1926 er svo til eingöngu róið á árabátum, þá er líklegt að ýmsir siðir og venjur, áhöld og tæki, sem þá voru notuð, séu nú lítt þekkt eða með öllu ókunn þeirri kynslóð, sem nú er að alast upp í landinu.
Við skulum leiða hugann að því að formaðurinn á áraskipinu fer árla dags á fætur, gáir til veðurs, því að þá er engin veðurþjónusta, fer síðar um kotin og kallar, þ.e. ræsir skipshöfnina. Hún bregður skjótt við og innan tíðar eru allir komnir til skips í nausti, hver maður skinnklæddur og kominn að sínum keip. Það fyrsta sem þeir gera, er að þeir taka ofan og signa sig. Þá er losað um skorður og formaðurinn segir: Áfram nú í herrans nafni.

Áttæringur

Áttæringur við Grindavík.

Samtaka ganga nú allir til verks og setja skipið á hlunnum fram í vörina, og þegar skipið flýtur, hoppa allir léttilega upp í, og setjast undir árar, en formaðurinn kemur fyrir stýri. —
Á vetrarvertíð voru skipin flest tíróin, kölluð teinæringar.
Þegar ýtt hefur verið úr vörinni er fyrst róið yfir Lónið á Járngerðarstaðavíkinni og fram á snúning, en það er hættulegasti staöurinn þegar brim er. Þegar snúningi er náð, er stefnan tekin út Víkina, en þá taka allir ofan, og halda þó róðrinum áfram, en um leið sameinast skipshöfnin í Ijóðlátri sjóferðabæn. Þegar bænin er á enda setja menn upp sjóhattinn á ný. Þannig hefst sjóferðin.

Og forða því frá öllu grandi
Grindavík
Ef til vill er verið með línu, þá er hún lögð þegar komið er fram á mið, eða þá að verið er að vitja um netin.
Yfirleitt er hraði í öllum verkum og kostur þótt það að vera fljótur á sjó, því að á skammri stund skipast veður í lofti. — Glöggir formenn gerðu sér Hjótt grein fyrir því, hvort farið væri að brima eða ekki. Þeir sáu það á öldunni og það engu síður þótt í logni væri.

Seil

Seilaður fiskur í vör.

Þegar komið var að landi og sjóferðin var á enda var það venjan að tveir fremstu ræðararnir lögðu upp árarnar áður en komið var í vörina.
Þeir voru kallaðir framámenn og tóku sér í hönd „kolluband“ og settust framan á kinnungin og höfðu það Þýðingarmikla og vandasama starf með höndum að taka skrið af skipinu þegar þeir sjálfir höfðu fengið fótfestu, og halda því á floti á meðan bskurinn var seilaður þ.e. dreginn upp á snæri, sem kallað var seilaról, því að engin var þá bryggjan til að landa við. Seilaról var þannig gerð, að á öðrum endanum var tréspjald en á hinum endanum var lykkja. Lykkjan var þrædd í auga á seilarnál, sem venjulegast var tiltelgd úr hvalbeini.
Með seilarnálinni var svo fiskurinn seilaður upp á seilarólina og þegar allir höfðu lokið við það, voru seilarólarnar sameinaðar og bundnar við streng eða tóg, sem fesi var við klettanöf í fjöruborðinu. Á meðan þessu fór fram hafði formaðurinn nóg að gera við að halda skipinu í horfi í vörinni með sérstökum krókstjaka, sem til þess var ætlaður. Þannig unnu þeir saman formaðurinn og framámennirnir, að því að halda skipinu í réttu horfi og forða því frá öllu grandi. Var það oft erfitt verk og vandasamt, ef sogadráttur var í vörinni og mikil lá.

Hvort viltu heldur, sporð eða haus?

Grindavík

Þegar skipið hafði verið sett í naust var næsta verkefnið að bera aflann upp á bakinu, um annað var ekki að ræða. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðri birðaról, einnig úr snæri, en miklu styttri en seilarólin. Hver maður bar það sem hann vildi í einu og var stundum keppni um það hve marga fiska var hægt að bera í einni ferð. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðan skiptavöll og þar skipti formaðurinn aflanum í köst. Það var reyndar kallað að skipta í fjöru.

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Í kastinu voru 2 hlutir. Síðan var dregið um köstin og þar sem 2 menn voru um kastið skiptu þeir á milli sín, og gerðu út um skiptin með því að annar sneri frá, en hinn spurði t.d. hvort viltu heldur sporð eða haus, lófa eða laska, skaft eða blað, hæl eða tá og sitt hvað fleira mátti nota til að gera út um skiptin. — Síðan gerði hver að sínum aflahlut.
Hér áður fyrr var talið að vetrarvertíð byrjaði 2. febrúar ár hvert og lokadagurinn var óumdeilanlega 11. maí. Í vitund fólksins var lokadagurinn mikill hátíðisdagur, sérstaklega ef vertíðin hafði verið gjöful og stórskaðalaus.
Á tímum áraskipanna var það mjög algengt, að ungir og frískir bændasynir austan úr sveitum og víðar að, fóru í verið út í Vík þ.e. Grindavík, og dæmin voru þess, að þeir komu ár eftir ár, sömu mennirnir og voru hjá sama formanninum og á heimilum þeirra og annara, sem að útgerðinni stóðu. Þessir menn voru á þeim tíma kallaðir útgerðarmenn þ.e. þeir voru gerðir út. Með þessum mönnum og heimamönnum var náið samstarf, sem leiddi oft til traustrar vináttu og samhjálpar í erfiðri lífsbaráttu. Og trúlega munu þeir menn enn finnast, sem eiga hugljúfar minningar um samveruna í verinu og kveðjustundirnar á lokadaginn 11. maí.“

Heimild:
-Faxi, 3. tbl. 01.08.1977, Grindavík – Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið, Svavar Árnason, bls. 2-4.

Grindavík

Grindavík 1963.

Keflavíkurberg

Í Faxa, 8. tbl. 01.10.1967, fjallar Ragnar Guðleifsson um „Örnefni á Hólmsbergi„.

„Í janúarblaðinu á síðastliðnu ári birtist mynd af Keflavíkurhöfn og Vatnsnesi, þar sem á voru merkt örnefni, er ég þá hafði vitneskju um.

Hólmsberg

Hólmsberg – örnefni.

Við merkingu þessara örnefna studdist ég við upplýsingar Guðjóns M. Guðmundssonar, fyrrv. fiskimatsmanns, að Túngötu 9 í Keflavík.
Hér verður nú sagt frá nokkrum örnefnum á strandlengjunni frá Keflavíkurhöfn og út í Leiru eða á Hólmsberginu, sem við venjulega nefnum Bergið, og eins og áður er hér stuðzt við upplýsingar Guðjóns M. Guðmundssonar.

Hólmsberg

Hólmsberg – stekkur.

Myndin hér að ofan er eins og hin fyrri tekin úr lofti og sýnir Hólmsbergið. Hún er tekin úr mikilli hæð og er því vel skýr. Hér eru aðeins fá örnefni merkt, en þau kunna að leynast fleiri, ef vel væri leitað. Því er hér óskað, að viti einhver um fleiri örnefni á stöðum, sem hér eru merktir, þá væru þær upplýsingar vel þegnar.
1. Hellunef. Vestan eða utan við Brennunípu er nokkuð hátt berg. En er því sleppir taka við sléttar klappir, er halla í sjó fram. Þarna myndast klettanef fram í sjóinn er nefnist Hellunef. Þetta svæði, sléttuklappirnar og klettanefið er stundum kallað Hellumið. Á þessu svæði eru nú landamerki jarðarinnar Keflavík.
2. Kaggabás. Þegar sléttu klöppunum sleppir tekur við lágt berg, sem liggur að þröngum bás inn í bergið, sem heitir Kaggabás.

Helguvík

Helguvík. Sturlaugur Björnsson – letur; HHP

3. Helguvík heitir allstór vík fyrir utan Kaggabás. Bergið frá Kaggabás að víkinni er lágt en þverhníft í sjó fram. Munnmæli herma, að Helguvík dragi nafn sitt af konu, er þar bjó með sonum sínum tveim endur fyrir löngu. Einhverju sinni, er þeir bræður voru á sjó og óveður skall á, svo tvísýnt þótti, að þeir næðu landi í Helguvík, átti Helga móðir þeirra að hafa mælt svo um, að frá þeirra byggð, er synir hennar næðu landi, skyldi upp frá því aldrei farast skip, er næði opinni vík. Bræðurnir náðu síðan landi, heilir á húfi, í Keflavík. Þessa sögu sagði mér amma mín, Valdís Erlendsdóttir, er ég var drengur.
Helguvík er öll girt háu bergi, sem hækkar til norðurs. Bergið nær þó ekki í sjó fram fyrir botni víkurinnar. Þar er því malarfjara nokkur, einkum nyrzt í víkinni, en víða er fjaran með stórgrýtisurð. Þó má ganga meðfram víkinni þar til bergið sveigir til norðausturs.
4. Helguvíkurnef heitir austasti tanginn sunnan við Helguvík.

Stakksnípa

Stakksnípa og Stakkur.

5. Stakksnípa heitir bergið, er liggur að Helguvík að utan og norðan. Bergið er hátt og þverhnípt í sjó fram. Þar er fuglalíf mikið, einkum lundi og mávur.
Stakkur6. Stakkur heitir kletturinn fyrir framan t;takksnípu. Milli Stakks og Stakksnípu Seitir Stakkssund. Þar koma klettar upp úr um háfjöru, sem nærri mynda brú yfir sundið.
Stakkur á sína sögu, sem margir kannast við. Þjóðsagan segir að endur fyrir löngu hafi sjómenn af Suðurnesjum farið til eggja út í Geirfuglasker. Þegar snögglega brimaði, urðu þeir að yfirgefa skerið, en þá varð einn skipverjanna eftir. Eigi var hægt að komast í skerið aftur það sumarið vegna brims, og var nú skipverjinn löngu talinn af. Maðurinn var frá Melabergi. Nú leið þar til sumarið eftir, að farið var út í Geirfuglasker, sem venja var, til eggja. Þegar þeir komu upp á skerið sjá þeir, sér til undrunar, mann á gangi og þekkja þar manninn, er þeir höfðu skilið eftir vorið áður.

Hólmsberg

Hólmsberg.

Óljóst sagði hann þeim frá veru sinni í skerinu, þó sagði hann, að eigi hefði væst um sig þar. — Nú leið þar til síðla sumars, sunnudag einn, er messað var á Hvalsnesi. Við messu var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni. Þegar prestur kemur úr kirkju og sér vögguna og barnið, spyr hann hvort nokkur viti deili hér á. Einkum spurði hann Melabergsmanninn ítarlega, en hann brást þurrlega við og kvaðst ekkert um vögguna né barnið vita. En í því bili sem maðurinn neitaði, birtist þar kona fríð sínum og fönguleg, en svipmikil. Þreif hún ábreiðuna af vöggunni og snaraði henni inn í kirkjuna með þeim ummælum, að eigi skyldi kirkjan gjalda. Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir reiðulega: „En þú skalt verða að hinu versta illhveli í sjó.“ Greip hún síðan vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, sem þótti hin mesta gersemi.
VatnssteinnEn frá Melabergsmanninum er það að segja, að honum brá svo við orð konunnar, að hann tók á rás frá kirkjunni og heim til sín. Þaðan æddi hann sem vitstola maður norður á Hólmsberg, sem er fyrir vestan Keflavík. Þegar hann kemur fram á bergbrúnina staldrar hann þar við. Verður hann þá allt í einu svo stór og þrútinn, að bergið springur undir fótum hans og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum, sem síðan heitir Stakkur. Stakkst maðurinn fram af berginu í sjóinn og varð samstundis að feiknastórum hvalfiski með rauðan haus, því maðurinn hafði haft rauða húfu á höfði. Rauðhöfði var nú versta illhveli og grandaði mörgum mönnum og skipum í Faxaflóa.

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

Að lokum tókst prestinum í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd að ráða niðurlögum hans, var prestur þó orðinn gamall og blindur. Tókst presti að koma hvalnum upp Botnsá í vatn það er áin rennur úr og heitir síðan Hvalvatn. Þar sprakk Rauðhöfði. Síðan vitnaðist, að um veturinn, er maðurinn dvaldi í skerinu, hafi hann verið með álfum í góðu yfirlæti. Þar hafi hann kynnzt konunni, sem birtist við kirkjuna. Hafi hann átt með henni barnið og lofað að láta skíra það, ef hún kæmi því til kirkju, ella mundi hann gjalda þess grimmilega.
Þetta var sagan um Rauðhöfða. — En nú höldum við áfram út Bergið.
7. Stakksvík heitir lítið vik inn í bergið utan við Stakksnípu. Þar er ekkert undirlendi, en fyrir botni víkurinnar er stórgrýtisurð, sem kölluð er Urðin. Þarna er oft fjörugt fuglalíf. Þarna verpir Lundinn.

Hellisnípuviti

Hellisnípuviti.

8. Hellisnípa er hátt þverhnípt berg í sjó fram utan við Stakksvík. Hún dregur nafn af helli, sem gengur inn í bergið framanvert. Á Hellisnípu er viti, sem reistur var fyrir nokkrum árum. Við vitann eru landamörk Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps.
9. Selvík heitir vikið vestan við Hellisnípu. Þar er ekkert undirlendi.
10. Ritunípa heitir þverhnípt berg, nokkuð hátt, er skagar fram þríhyrningslagað norðan við Selvík.

Bergvík

Bergvík.

11. Bergvík heitir lítil vík vestan við Ritunípu. Vestan við víkina var innsti bærinn í Leiru og bar nafn af víkinni.

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

12. Berghólar heitir holtið og klettabeltin upp af Bergvíkinni. Eigi langt frá sjó er þar klettahöfði með sléttum klöppum að ofan, sem kallaður er Borg. Við þennan höfða eru fiskimiðin Borgarslóð kennd.
En Borgarslóð heita fiskimiðin í Leirnum þegar komið er þar sem Borgin kemur fram undan Ritunípu. Það eru norðurmiðin, en djúpmiðin eru Grindavíkurfjöllin, við bæina í Njarðvíkum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Annað fiskimið er út af Stakk, nefnist það Rif. Þriðja miðið er beint út af Hellisnípu (í N— A), heitir það Legur. Ef farið er nógu djúpt inn í Leirinn, er hægt að láta öll þessi mið, Rif, Legur og Borgarslóð, renna saman í eitt.

Á myndinni er merkt Keflavíkurborg, rétt suðvestan við Garðveginn, upp af Grófinni. Keflavíkurborg er landamerkjavarða, er markar vesturhorn Keflavíkurjarðarinnar.“ – Ragnar Guðleifsson.

Heimild:
-Faxi, 8. tbl. 01.10.1967, Örnefni á Hólmsbergi, Ragnar Guðleifsson, bls. 1-2.
Faxi

Hólmabúð

Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar gaf árið 2022 út bókina „Út á Brún og önnur mið; útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930„. Höfundur er Haukur Aðalsteinsson. Um er að ræða umfangsmikið ritverk um efnið.

Út á brúnÍ 1. kafla bókarinnar um „Sögusvið og forsögu“ á bls. 15 má lesa eftirfarandi um „Landnámið“:

„Frá því að Ingólfur Arnarsson nam hér land hefur lífsbarátta fólks, í landnámi því sem við hann er kennt, lengst af snúist um sjósókn og fiskveiðar og er byggðamyndun á Suðurnesjum til forna lýsandi dæmi um það. Býli voru öll sett niður við sjávarsíðuna og byggðin því dæmigerð strandbyggð þar sem íbúarnir höfðu viðurværi sitt að mestu af sjávarfangi. Þegar farin er leiðin suður með sjó í hinu forna landnámi Ingólfs og komið nokkuð suður fyrir Straum kemur að mörkum Vatnsleysustrandarhrepps. Í Landnámu segir að efir að Ingólfur nam land vildi hann gefa frændkonu sinni Steinunni gömlu „Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun“, en hún vildi kaup kalla og gaf fyrir heklu eina flekkótta þar sem henni þótti það óhættara við riftingum.
Stóru-VogarAf þessu landnámi sínu gaf Steinunn síðan frænda sínum og fóstra, Eyvindi að nafni, land allt milli Kvíguvogabjargs og Hvassahrauns – afmarkað landsvæði innan landnámsins er síðar arð Vatnsleysustrandarhreppur. Á árinu 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar hreppnum og voru mörkin þá frá Hraunsnesi við Hvassahraun að og með Vatnsnesi við Keflavík og skiptist í tvær kirkjusóknir, Kálfatjarnarsókn og Njarðvíkursókn, þar til hreppnum var skipt eftir sóknum árið 1889. Þann fyrsta janúar árið 2006 var nafni sveitarfélagsins breytt í Sveitarfélagið Vogar. Hér verður sögusviðið miðað við elstu mörk héraðsins sem jafnframt nær yfir kirkjusókn Kálfatjarnar, svæðið frá Hvassahrauni að Vogastapa.“

Heimild:
-Út á brún – og önnur mið; Útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930, Haukur Aðalsteinsson, Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar gaf út 2022, ritstjóri Jóhann Þ. Guðmundsdóttir.
Tangabúð

Garðbær

Húsið Sjónarhóll á Vatnsleysuströnd var byggt 1886. Það var timburhús. Það gerði Lárus Pálsson „hómapati. Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarraneshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum.

Garðbær

Garðhús.

Árið 1925 keypti Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði Sjónarhól, en hann átti þessa eign ekki lengi því á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur.

Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Hann byggði nýtt íbúðarhús, steinhús, sem enn stendur, árið 1929 suðaustan við gamla húsið, sem þá var notað sem gripahús.

Garðbær

Garður við Garðhús.

Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað þar að börnin voru farin að heiman. Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson, fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Magnús og Erlendsína eignuðust 7 börn; 5 stúlkur og tvo drengi.

Einn dreng, Þórð, eignaðist Magnús með vinnukonu að Sjónarhól, Guðríði. Hún bjó með sambýlismanni sínum í Garðhúsi, litlum steinbæ skammt suðaustan túngarðs Sjónarhóls. Fátt er um Guðríði og mann hennar vitað annað en að hann sótti sjóinn. Fullyrt var að Magnús hafi nauðgað Guðríði og fór málið fyrir dómstóla. Hitt er ljóst að daginn sem Guðríður átti að fæða klæddi Erlendsína sig upp í peysuföt, gekk heim að Garðhúsi og tók á móti barninu, jafnframt því sem hún bauð það velkomið í heiminn.

Garðbær

Garðhús – útihús.

Eftir stendur litla steinhúsið á milli Innri-Ásláksstaða og Minni-Knarrarness. Eftir að það var yfirgefið og þakið fokið af að mestu gerðu piltar í sveit í Knarrarnesi sér það að leik að brjóta veggina niður, en voru stöðvaðir í miðjum kliðum.

Húsið er ca. 8-10 fermetrar. Steinsteyptir veggirnir hafa augljóslega verið púkkaðir með grjóti til drýgindar. Dyr sneru mót norðri. Ofn hefur verið í norðvesturhorninu, innan við dyrnar (þar er loftop neðst á vegg). Skammt norðvestan við húsið er útihús, gert af torfi og grjóti. Ekki er ólíklegt að Guðríður hafi haft nokkrar skjátur til búbætis. Norðan við bæjardyrnar mótar fyrir brunni. Austan hans eru leifar af hlöðnum vegg, líklega frá þeim tíma er bærinn Fagurhóll stóð þar á hólnum.

Garðbær

Garðhús – tóftir Fagurhóls.

Ef vel er að gáð má sjá móta fyrir tóftum þess bæjar sunnan við Garðhúss. Fagurhóll fór í eyði fyrir árið 1900. Líklegt er að Garðhús hafi verið byggður um og eftir 1930.

Leifar Garðhúss, þótt litlar séu, vekja jafnan athygli vegfarenda á leið um Vatnsleysutrandarveginn þar sem það stendur stakt norðan hans, millum Sjónarhóls og Minna-Knarrarness, sem fyrr sagði. Fæsti þeirra hafa hugmynd um nafnið á tóftunum, hvað þá um ábúendurna, sem þar bjuggu um tíma.

Garðbær

Garðhús.

Ekki er getið um kotið Garðhús í riti Guðmundar Björgvins Jónssonar um „Mannvirki og mannlíf í Vatnsleysutrandarhreppi. Þá er hvorki Guðríðar né sambýlismanns hennar getið að öðru  leyti en því að systkynin á Sjónarhóli hafi átt hálfbróður, nefndar Þórð er jafnan var kenndur við móður sína. Þó segir í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Ásláksstaði  að Konráð Andrésson hafi byggt Garðhús árið 1917 og var það jarðlaust í landi Sjónarhóls, við mörk Knarrarneshverfis. Umhverfis kotið hafi heitið Garðhúsablettur og þar hafi verið útihús. Ekki er ólíklegt að litla steinsteypta húsið hafi verið byggt á rústum eldra Garðhúss, sem áður hafði verið byggt úr rústum Fagurhóls.

Þórður Guðríðarson bjó lengi í Hafnarfirði.

Heimildir:
-Mannvirki og mannlíf í Vatnsleysustrandarhreppi – Guðmundur Bjögvin Jónsson, útg. 1987, bls. 269-272.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Ásláksstaðabæina.

Garðbær

Garðhús.

Krýsuvíkurkirkja

Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrrum – tilgáta.

Er hún því samkvæmt heimildum ein elsta bændakirkja landsins, en bændakirkja er kirkja, sem taldist eign bónda, þ.e. bóndi eða einhver einstaklingur átti a.m.k. helming jarðarinnar, sem kirkjan stóð á, og fékk tekjur kirkjunnar, en annaðist viðhald hennar og rekstur. Hann var jafnframt eigandi jarða kirkjunnar og fasteignaréttinda hennar og bar ábyrgð á þeim og mátti ekki selja undan henni, en gat selt allar eignirnar í einu lagi og fylgdi kaupahluti jarðarinnar og ábyrgð á kirkjunni kaupinu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810.

Áður höfðu þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason komu til Íslands frá Noregi árið 1000 að boða kristna trú höfðu þeir með sér efnivið og fyrirmæli frá Ólafi konungi Tryggvasyni um að reisa skyldi kirkju á fyrsta stað sem að þeir „skytu bryggjum á land“, en í Kristnisögu kemur fram að þeir hafi haft viðkomu í Dyrhólaey á leið sinni. Kirkjan var reist á Hörgaeyri í Vestmannaeyjum, þar sem voru hörgar ( hörgur er heiðið blóthús eða blótstallur ), voru þar blót stunduð áður. Kirkjan var svonefnd stafkirkja, og var tileinkuð heilögum Klementi, verndardýrlingi sæfara og sjósóknara. Hörgaeyri er sandbanki sunnan í Heimakletti í Vestmannaeyjum sem stendur út frá Stóru-löngu.

Krýsuvík

Útlit Krýsurvíkurkirkja árið 1810 fyrir endurbyggingu árið 1857.

Fyrir Kristintökuna árið 1000, hafði Þorvarður Spak-Böðvarsson sem bjó á Ási í Hjaltadal seint á 10. öld gerðst kristinn, og reisti kirkju á bæ sínum sextán árum fyrir kristnitöku, eða árið 984 (983 ef miðað er við kristnitöku árið 999), þá er Þorvaldur Koðránsson frá Giljá og Friðrekur biskup komu „til Íslands er landið hafði verið byggt tíu tigu vetra og sjö vetur“ þ.e. 981.
Þeir félagar voru fyrsta veturinn í Húnavatnsþingi en héldu síðan til Skagafjarðar.
Kristni saga greinir frá því að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi reist guðshúsið árið 984. „En kirkja sú var ger sextán vetrum áðr kristni var í lög tekin á Íslandi…“. Í Þorvaldar þætti er þess getið að þremur vetrum eftir útkomu þeirra hafi Þorvarður Spak-Böðvarsson byggt kirkju sína í Ási og kann það að hafa verið fyrsta kirkja sem reist var á Íslandi.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann 1151. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275, þá var kirkjan helguð Maríu mey.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kirkjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirkja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.

Málverkið hér að ofan sýnir nýja bæjarstæði Krýsurvíkurbæjarins 1801 við rætur Bæjarfells, sett inn í umhverfið eins og það er í dag. Krýsurvíkurbærinn var fluttur ofar í landið við rætur Bæjarfells norðvestur af Arnarfelli, eftir eldgosið 1151, þegar Ögmundarhraun rann, var hann reistur á svokölluðum Bæjarhól undir Bæjarfelli, má sjá fjallgarðinn vestan Kleifavatns t.d Sveifluháls og Miðdegishnjúk. Talið er að fyrstu kirkju landsins sé að finna í Húshólma þar sem Gamla-Krýsuvík var. Það mun hafa verið fyrir landnám norrænna manna.

Krýsuvík

Krýsuvík undir Bæjarfelli – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið við rætur Bæjafells norðvestur af Arnarfelli , og síðar var Krýsuvíkurkirkja formlega aflögð með bréfi 27. sept. 1563, þar sem Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, leggur niður sóknarkirkju í Krýsuvík 1563, en síðan er hún endurbyggð árið 1857 af Beinteini Stefánssyni smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar og hún friðuð, en þá hafði hún verið í mjög lélegu ástandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir brunann.

Krýsurvíkurkirkja var reist úr rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið. Var Krýsurvíkurkirkja þá útkirkja frá Selvogi, og voru um 70 manns í sókninni, síðar var kirkjan aftur gerð upp og endurbyggð 1964, en það var svo hin 31. maí 1964 að Krýsuvíkurkirkja er vígð af biskupi landsins, en hann hefst síðan aftur 1986 við endurbyggingu Krýsurvíkurkirkju, þar sem hún er færð sem næst í upprunalegt horf.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-1870, Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Krýsuvíkurkirkja var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929. Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810.

Hin 31. maí 1964 var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins eftir að hafa verið gerð upp og endurbyggð, viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.

Mynd sýnir útlit Krýsurvíkurkirkju fyrir brunan, en hún brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, ásamt Altaristöflu kirkjunar sem var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara; „himingulur bogi upprisunnar“, er talið að bruninn í Krýsuvíkurkirkju hafi verið óviljaverk, mögulega hafi gestur skilið eftir logandi kerti í kirkjunni. Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju tvisvar á ári. Kirkjan var í Hafnarfjarðarprestakalli.

Nýsmíðuð Krýsuvíkurkirkja var komin á grunn 10 október 2020. Helgistund undir handleiðslu séra Gunnþórs Þ. Ingasonar fór fram eftir að hún hafði verið hífð á grunn gömlu kirkjunnar, en formleg vígsla fer fram síða af biskupi Ísland.

Eins og flestum er kunnugt brann Krýsuvíkurkirkja til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010. Syndaraflausn Héraðsdóms Reykjavíkur fólst í að dæmda rúmlega tvítugan mann í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að leggja eld að kirkjunni og brenna hana til grunna.

Krýsuvíkurkirkja

Altari Krýsurvíkurkirkju sem brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010. Málverkið er eftir Svein Björnsson listmálara; himingulur bogi upprisunnar.

Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2011 – nýsmíði.

Ný kirkja var smíðuð af nemendum og kennurum Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, og lauk smíði hennar í sumar.
Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð. Hafnarfjarðarkirkja mun þá eiga og reka hana eftir það en Vinafélag Krýsuvíkurkirkju verður þá lagt niður.

Hafnarfjarðarkaupstaður gaf Krýsuvíkurkirkju 7.097 m² lóð.
Nú er kirkjan komin til Krýsuvíkur og verður hífð á sinn stað í Krýsuvík, við rætur Bæjarfells á morgun. Síðar verður hún vígð og afhent Hafnarfjarðarkirkjumun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja eftir brunann. Legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Ögmundarhraun stendur milli Latsfjalls og Krýsurvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsurvíkurberg er hraunbreiða á Reykjanesskaga sem rann árið 1151, sem komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, eða Krýsurvíkureldum og á upptök sín í norðurhluta gígaraða austan í Núpshlíðarhálsi.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – hraunakort.

Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gos virknin að mestu en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit. Eldgos í kerfinu verða að líkindum með svipuðum hætti og gerðist í Í Húshólma eru varðveittar húsarústir, og er talið að þar hafi Krýsuvík hin forna staðið. Í Kirkjulágum, smáhólmum í hrauninu skammt vestan við Húshólma eru húsarústir og er ein þeirra talin vera af kirkju og nafnið dregið af því, en samkvæmt munnmælasögum stóð Krýsurvíkurkirkja í kirkjulág og stóð löngu eftir að hraunflóð eyddi bænum. Leifar kirkjunnar sjást enn.

Kröflueldar, þ.e. í umbrotahrinum sem einkennast af gliðnun lands og kvikuhlaupum, oft jafnhliða eldgosum, en síðan verða hlé á milli.
Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum. Bóndi vildi ei gipta dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja.
Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann honum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.

Sjá meira HÉR.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2022.

 

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Flekaskil

Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafshryggurinn) „gangi“ á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir.

Möttull

Jörðin – að innan.

Ysti hluti jarðar er samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk.

Við flekamót rekur fleka saman en við flekaskil rekur þá í sundur.

Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð.

Flekaskil

Mismunandi flekaskil.

Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd. Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa – flekaskil.

Ísland er á flekaskilum og eru flekarnir tveir, Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.

Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.

Möttulstrókur

Möttulstrókur undir Íslandi.

Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.

Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur um 1 cm á ári frá hvor öðrum í vestur og austur. Ísland gliðnar því um 2 cm á ári, eða um 2 m á 100 árum. Óvíst er hvort Ísland stækki við þetta vegna þess að samtímis nýmyndun jarðefna á sér stað landeyðing vegna ýmissra rofafla.

Jörðin er mjög spennandi viðfangsefni fyrir alla aldurshópa. Það er margt sem hægt er að skoða og rannsaka nánar hvort sem það er sólkerfið sem tilheyrir jörðinni, samspili lífvera og jarðarinnar eða uppbyggingu jarðarinnar.

Landrekskenningin – Alfred Wegener

Alfred Wegener

Alfred Wegener.

Árið 1912 kynnti þýskur veðurfræðingur Alfred Wegener fyrstur kenningu um landrek. Þremur árum síðar eða 1915 var Landrekskenning Wegeners sett fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa. Hann hélt því fram að öll meginlönd gætu flust úr stað með því að fljóta. Wegener taldi að meginlöndin hafi verið ein heild, þ.e. Pangea (al-álfa) sem hafi brotnað upp og brotin flust úr stað. Hann taldi með þessu að hann gæti útskýrt ásæðuna fyrir því af hverju löndin pössuðu vel saman. Um 1930 töldu jarðeðlisfræðingar að það væri ekki til nægilega stór kraftur sem gæti flutt heimsálfurnar úr stað og tókst þeim þar með að afsanna þann hluta kenningar Wegeners.

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur.

Árið 1964 var landrekskenningin endurvakin og var þá nefnd botnskriðskenning og var þá gerð athugun á gerð hafsbotnsins. Í ljós kom að á hafsbotni leyndust langir fjallgarðar sem risu í um 2000-4000 m yfir hafsbotninn. Árið 1968 kom fram flekakenningin, en samkvæmt henni skiptist jarðskorpan í jarðfleka sem eru á reiki um yfirborð jarðar og eru flekarnir knúnir af hita frá möttlinum. Á úthafshryggjum á hafsbotni jarðarinnar rekur þessa fleka í sundur og til þess að það myndist ekki gap í jarðskorpunni fyllir bergkvika bilið og myndar á ný úthafsskorpu.

Innri gerð jarðar

Jörðin er flóknara fyrirbæri en við höfum gert okkur grein fyrir og verður stikklað á stóru um jörðina. Hún er þriðja reikistjarnan frá sólu en fimmta stærsta reikistjarna sólkerfisins.

Möttull

Jörðin – að innan.

Þykkur lofthjúpur umlykur jörðina sem er að mestu úr nitri og súrefni. Á jörðinni hafa miljónir lífvera viðveru, hvort sem það eru plöntur eða dýr.

Möttull

Möttull jarðar.

Jörðin snýst um möndul sinn heilan hring á sólarhring en hún snýst einnig umhverfis sólu, sem tekur hana heilt ár. Jörðinni er skipt upp í nokkur lög, þ.e.a.s. innri kjarna, ytri kjarna, möttul og jarðskorpu. Innan möttulsins er 100 km þykkt lag sem kallast deighvel en ofan á deighvelinu flýtur u.þ.b 100 km þykkir jarðflekar. Ysta lag jarðflekanna hefur tvær misþykkar jarðskorpur, meginlandsskorpu og hafsbotnsskorpu. Jarðskorpan er að stærstum hluta byggð upp af 8 frumefnum eða u.þ.b. 98,5%, súrefni (45,6%), kísil (27,7%), áli (8,1%), járni (5,0%) ásamt kalsíum, natríum, kalíum og magnesíum en þau finnast í minna magni.

Jarðflekar

Flekaskil

Jarðflekar.

Jarðflekarnir sem eru um 100 km á þykkt innihalda jarðskorpuna ásamt efsta hluta möttulsins. Yfirborð jarðarinnar skiptist upp í 6 stóra jarðskorpufleka ásamt nokkra minni. Stærstu flekar jarðarinnar eru Evrasíufleki, Ameríkufleki, Afríkufleki, Kyrrahafsfleki, Suðurskautsfleki og Indlands-Ástralíufleki. Á mörkum þessara jarðskorpufleka birtast innri öfl, til dæmis með eldgosum og jarðskjálftum. Samkvæmt tilraun sem var gerð á árunum 1955-1965 kom fram að flestir jarðskjálftar ásamt mestallri eldvirkni jarðar var á mjóum beltum, þ.e. flekamörkum. Í berginu við mjóu beltin eða flekamörkin byggist upp spenna þegar flekamörkin hnikast til og jörðin losar sig við þennan varma hvort sem það er á meginlandi eða á hafsbotni. Flekamörkin skiptist í þrjá flokka, flekaskil, flekamót og sniðgeng flekamörk eða þverbrotabelti.

Flekaskil

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Flekaskil koma fram þar sem flekarnir gliðna í sundur, eldvirkni er í sprungunum og bergkvika kemur upp um sprungurnar, sem hafa myndast á skilunum. Þegar bergkvikan storknar kemur hún sem viðbót beggja vegna við flekana. Á hafsbotni myndast miðhafshryggir, til dæmis Atlantshafshryggurinn, og þar sem flekarnir gliðna í sundur þá myndast djúpir sigdalir. Á Íslandi má finna marga staði þar sem hægt er að sjá og jafnvel skoða flekaskil sem eru á þurru landi.

Flekaskil og gosbelti á Íslandi

Flekaskil

Flekaskil – Jarðfræðikort ÍSOR – http://jardfraedikort.is/?coordinate=64.96%2C-18.62&zoom=2

Á Íslandi eru flekaskil mjög aðgengileg og liggja þau þvert yfir landið frá Reykjanestá norður í Öxarfjörð.

Þingvellir

Misgengi á Þingvöllum.

Einn vinsælasti staður til þess að sjá flekaskil á þurru landi eru Þingvellir en einnig er hægt að sjá flekaskil vel á Reykjanesi. Á Þingvöllum hefur sigdalur myndast á milli Almannagjár og Hrafnagjár og hefur dalurinn sigið um 40 m á síðustu 9000 árum. Ísland hefur fleiri sérkenni sem má rekja til flekaskilanna, til dæmis mikið af sprungum og gjám, mikinn jarðvarma til dæmis í Kröflu, Öskju og Hengli, eldgos í löngum sprungum en væga jarðskjálfta sem skipta tugum á hverjum sólarhring sem við finnum ekki fyrir.

Flekamót

Við flekamót mætast tveir flekar, þar sem annar lútir fyrir hinum og sveigir undir hann og „eyðist“. Djúpálir myndast þegar hafsbotn eyðist en hafsbotninn sveigir u.þ.b. í 45° niður á við og fer undir hafsbotninn eða meginlandið sem kemur á móti honum. Mikilir jarðskjálftar verða á flekamótum á hafsbotni ásamt hættulegum eldgosum. Þrjár tegundir flekamóta eru til, hafsbotn mætir hafsbotni, hafsbotn mætir meginlandi og meginland mætir meginlandi.

Flekamót

Flekamót.

Hafsbotn mætir hafsbotni; þar myndast djúpálar og hafsbotninn sem hefur svegt 45° niður á við eyðist upp þegar komið er niður í möttulinn og samlagast honum að hluta til. Mikil eldvirkni er á þessum svæðum og eyjabogar myndast, sem er röð eldfjallaeyja. Kúileyjar í Norður-Kyrrahafi eru dæmi um eyjaboga.
Hafsbotn mætir meginlandi; hafsbotninn lútir fyrir meginlandinu og treðst undir meginlandinu í djúpál. Á svæðum þar sem hafsbotn mætir meginlandi er einnig mikil eldvirkni og fellingafjöll með eldfjöllum myndast.
Meginland mætir meginlandi; hvorugur flekanna sveigir undir hinn, heldur myndast óregluleg hrúga, fellingafjöll, þar sem begið leggst í fellingar. Þegar fellingafjöllin myndast er lítil sem engin eldvirkni en harðir jarðskálftar eru á þessum svæðum. Himalayafjöllin í Asíu þar sem Indland rekur til norðurs er dæmi um flekamót þar sem meginland mætir meginlandi.

Sniðgeng flekamörk eða þverbrotabelti

Flekaskil

Jarðflekar.

Engin eyðing eða myndun bergs á sér stað við sniðgeng flekamörk. Tveir flekar nuddast saman á hliðunum og við það koma frekar harðir jarðskjálftar. Aðaleinkenni miðhafshryggjanna er hryggjarstykkin sem myndast við sniðgengu flekamörkin, en flekamörkin búta miðhafshryggina niður og við það kemur hliðrun víða fram á miðhafshryggjunum. San Andreas sprungan í Bandaríkjunum er dæmi um sýnileg sniðgeng flekamörk en þau koma fram á fleiri stöðum á meinglöndunum.

Heimildir:
-https://natkop.kopavogur.is/syningar/jardfraedi/landrek-flekaskil/
-https://is.wikibooks.org/wiki/Jar%C3%B0flekar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3811

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.

Möttull

Möttull jarðar og möttulstrókurinn sá, sem Ísland byggir tilvist sína á, hlýtur að vera okkur Íslendingum sérstaklega áhugaverður. Við, sem eintaklingar, erum lítilmótlegir andspænis mikilfengleikanum.
Á Vísindavef HÍ má lesa eftirfarandi um möttul jarðar:

Spurningin var: „Hvað viðheldur þeim mikla hita sem er í möttli jarðar í gegnum alla jarðsöguna og hvaðan kemur allt það mikla magn gosefna og hvað fæðir möttulinn af nýju efni?

Möttull

Jörðin – að innan.

„Yfirborð jarðkjarnans er mörg hundruð gráðum heitara en möttullinn fyrir ofan. Frá kjarnanum streymir því varmi upp gegnum möttulinn og allt til yfirborðs jarðar. Svo öflugur er varmastraumurinn að hvarvetna undir hinni stinnu hafsbotnsskorpu er möttulefnið nálægt bræðslumarki sínu (deighvolf, lághraðalag) við ríkjandi þrýsting. Neðst í möttlinum, næst kjarnanum, er möttulefnið eðlisléttara en efnið ofan á vegna hins háa hita, það stígur því upp í formi möttulstróka, líkt og saltstöplar gegnum ofanáliggjandi set, en í staðinn sígur kaldara efni niður að kjarnanum í eilífri hringrás. Auk varmastreymis frá kjarnanum verður til varmi í möttulefninu sjálfu við sundrun geislavirkra efna, einkum kalíns (40K).

Möttull

Jörðin – að innan.

Þessi hringrás efnisins, sem á yfirborði jarðar kemur fram í reki skorpufleka er myndast við miðhafshryggi og eyðast á niðurstreymisbeltum, hefur viðhaldist svo lengi sem rekja má söguna í jarðmyndunum, í meira en 4000 milljónir ára.

Möttull

Ekki er þó um „eilífðarvél“ að ræða — að vinna sé framkvæmd án þess að orka eyðist — því í jörðinni eyðist það sem af er tekið. Þótt jarðkjarninn tapi stöðugt varma til möttulsins viðhelst hitajafnvægi í kjarnanum með kristöllun hins bráðna ytri kjarna utan á járnkúlu innri kjarnans. Að auki myndast varmi við núning í vökva ytri kjarnans vegna ólíks snúningshraða innri kjarna (r=1220 km) og jarðar (r=6370 km) sem meðal annars kemur fram í minnkandi snúningshraða jarðar — fyrir 250 m.á. var eitt ár 400 dagar en er nú 365 dagar (þátt í þessu, sennilega mestan, á stífudans jarðar og tungls).

Möttull

Hvort tveggja, kristöllun innri kjarna og minnkandi snúningshraði jarðar, eru dæmi um óafturkvæma þróun, annað dæmi er sívaxandi hlutfall kísilríkra bergtegunda í jarðskorpunni.

Storkuberg

Storkuberg.

Allt storkuberg hefur storknað úr bráð sem orðið hefur til við hlutbráðnun úr eldra bergi. Basalt, sem dæmi, myndast við allt að 20% bráðnun á peridótíti, bergtegund möttulefnis, og hafsbotnarnir, rúm 70% af yfirborðsflatarmáli jarðar, eru úr basalti. Fyrrum þóttu það mikil firn að endalaust magn efnis, basalts af nánast fastri samsetningu, skuli geta myndast úr sama „frumefninu“. Skýringin reyndist vera eðlis-efnafræðileg: Þegar blanda af tveimur eða fleiri mismunandi kristöllum (steindum) er brædd, myndast bráð með bundinni efnasamsetningu sem aðeins er háð þrýstingi en óháð hlutföllum kristallanna í blöndunni. Sú bráð heldur áfram að myndast þar til einn kristallanna er uppurinn – þá þarf að hækka hitastigið uns ný bráð tekur að myndast í jafnvægi við kristallana sem eftir voru, og svo framvegis.

Möttull

Jörðin – samsetning.

Á efstu ~100 km jarðmöttulsins samanstendur möttullinn (peridótít) af fjórum meginsteindum, ólivíni, díopsíti, enstatíti og spínli, og basalt er bráð úr því steindafylki.

Möttull

Möttull jarðar.

Bræðslumark efnis er háð þrýstingi og undir hafsbotnunum bráðnar heitt möttulberg við þrýstingslækkun með tvennum hætti; í möttulstrókum rís heitt efni, þrýstingur lækkar uns bræðslumarki er náð og basaltbráð myndast sem seytlar í átt til yfirborðsins. Á miðhafshryggjunum verður bráðnun við þrýstingslækkunin vegna gliðnunar, þegar skorpufleka rekur hvorn frá öðrum, og yfirleitt er varminn í lághraðalaginu nægur til að 6–7 km þykkt basaltlag geti myndast. Í möttulstrókum berst nýtt efni stöðugt að neðan og bráðnar að hluta efst í möttlinum, en hvað um rekhryggina – geta þeir „sogið“ 7 km þykka basaltskorpu endalaust úr sama hluta möttulsins fyrir neðan? Svo er ekki, því hryggina sjálfa rekur fram og aftur ofan á lághraðalagi möttulsins og eru því að bræða basalt úr sífellt „nýjum“ hlutum lághraðalagsins. Til dæmis virðist svo sem austurhluti Íslands, Evrasíuflekinn, sé nokkuð staðfastur miðað við möttulstrókinn undir landinu, Ameríkuflekann reki 2 cm á ári til vesturs miðað við hann, en rekbeltin og Mið-Atlantshafshrygginn sjálfan 1 cm á ári.
Möttull
Nú er það svo, að möttull jarðar er fjarri því að vera einsleitur – hafi jörðin í upphafi verið meira eða minna bráðin kynni möttullinn að hafa „byrjað“ nokkuð einsleitur, en eins og fyrr sagði hófust snemma þau jarðfræðilegu ferli sem við þekkjum og öll leiða til aukinnar misleitni.

Möttull

Möttull jarðar.

Möttulstrókar rísa upp um möttulinn, hvarfast við hann eða þá dagar uppi á miðri leið. Basaltísk hafsbotnsskorpa hverfur niður í möttulinn á niðurstreymisbeltum eftir að hafa hvarfast við sjóinn, ummyndast í jarðhitakerfum og tekið með sér setberg af hafsbotninum – sumt af þessu efni verður eftir á mismunandi dýpi í möttlinum en sumt sígur alla leið niður að kjarna. Þetta ferli hefur gengið í að minnsta kosti 4000 milljón ár eins og fyrr sagði, en að auki hrærir iðustreymi í möttulefninu. Þrátt fyrir misleitni möttulsins myndast basalt við allt að 20% uppbræðslu hans, meira en 90% af efni basalts eru aðalefni úr steindunum fjórum sem ofar voru taldar (peridótít); afgangurinn er auka- og snefilefni – munurinn á ólíku úthafsbasalti kemur fram í snefilefnum og ýmsum samsætum (ísótópum).
Í stuttu máli: Kristöllun jarðkjarnans og geislavirk efni viðhalda hita í möttli jarðar, hið mikla magn gosefna myndast við bráðnun af völdum þrýstingslækkunar efst í jarðmöttlinum, og „endurvinnsla“ hafsbotnsskorpunnar fæðir möttulinn af nýju efni.“

Möttulstrókar

Möttulstrókur

Möttulstrókur.

Möttulstrókar myndast djúpt í iðrum jarðar og eru þessi fyrirbæri mjög öflugir, staðbundnir uppstreymisstaðir. Í möttulstrókunum er 2 – 300°C heitara efni en er umhverfið í kring um þá og vegna þessa hita er strókurinn eðlisléttari.Það er þess vegna sem jarðskorpan rís yfir stróknum ofar en jarðskorpan í kring eða á bilinu 5 – 40 km. Möttulstrókar eru eins konar hringrásarstraumar en þeir myndast vegna varmamyndunar og varmaburðar í íðrum jarðar. Varmaburðurinn lýsir sér þannig að heitara, eðlisléttara efni rís og kaldara, þéttara efni sekkur.

Möttulstrókur undir Íslandi
Möttulstrókurinn undir Íslandi er einn af öflugustu möttulstrókum jarðarinnar. Talið er að miðja stróksinns sé núna undir norðvesturhluta Vatnajökuls (Grímsvötn, Bárðarbunga). Talið er að Ísland hafi orðið til vegna þessa möttulstróks. Á síðustu árþúsundum hefur komið hér upp stór hluti þeirrar kviku sem öll eldgos á jörðinni framleiddu ofan sjávar.

Möttulstrókur

Áætlað er að möttulstrókurinn sé um 200 km í þvermál sem sennilega nær að mörkum möttuls og kjarna á um 2900 km dýpi. Efnið í honum er um 300 °C heitara en efnið umhverfis.

„Heitir reitir“ nefnast staðir á jörðinni sem einkennast í fyrsta lagi af mikilli eldvirkni samanborið við svæðin í kring og í öðru lagi af því að þeir rísa hátt yfir umhverfið. Þannig verður ekki um það deilt að Ísland er mun eldvirkari hluti af hryggjakerfi jarðar en Mið-Atlantshafshryggurinn bæði fyrir norðan og sunnan landið. Þetta kemur meðal annars fram í því að blágrýtisskorpan undir Íslandi er um 30 km þykk en skorpan sunnan og norðan við landið er um 6 km að þykkt. Og jafnframt leikur ekki á því vafi að Ísland rís yfir sjávarmál, ólíkt Atlantshafshryggnum fyrir norðan og sunnan.
Af þessum sökum er Ísland óumdeilanlega „heitur reitur“ og hefur svo verið að minnsta kosti í 60 milljón ár, eins og Grænlands-Færeyjahryggurinn sannar. En Grænlands-Færeyjahryggurinn er einhverskonar framhald af Íslandi til VNV og ASA, gerður úr 25-30 km þykkri blágrýtisskorpu. Bergið í Færeyjum og A-Grænlandi er 60-65 milljón ára, myndað þegar þessir staðir voru þar sem Ísland er nú.“

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

„Í meira en 30 ár hefur almennt verið talið að heitir reitir myndist þar sem „möttulstrókar“ rísa úr iðrum jarðar. Strókar þessir eru 200-300°C heitari en möttulefnið umhverfis og þess vegna eðlisléttari. Þeir „sjást“ með jarðskjálftabylgjum niður á 450 km dýpi en til þess að „sjá“ þá lengra niður þyrfti mun víðfeðmari og fullkomnari net jarðskjálftamæla en nú eru til staðar.

Möttull

Möttull jarðar.

Hins vegar eru ýmis rök fyrir því að möttulstrókar, að minnsta kosti hinir öflugri þeirra, nái allt niður að mörkum jarðkjarna og -möttuls á 2.900 km dýpi, og að varminn sem þeir bera til yfirborðsins sé frá kjarnanum kominn. Þá hefur verið sýnt fram á það að eðliseiginleikar möttulefnis, sem hitnar nógu mikið til að það fari að „ólga“ líkt og grautur í potti, séu þannig að mjóir, sívalir strókar myndist í stað þess að efnið allt sé á iði.
Að ýmsu leyti minna möttulstrókar, eins og menn hugsa sér þá, á saltstöpla sem alkunnir eru frá Mið-Austurlöndum og víðar: saltlag sem liggur undir fargi eðlisþyngri jarðlaga rís til yfirborðsins í strókum – saltstöplum – og getur meira að segja náð alla leið upp á yfirborð þar sem saltið dreifir úr sér líkt og jökulís.
Kenningin um möttulstróka hefur reynst öflug við að skýra eiginleika heitra reita. Þeir (heitu reitirnir) standa hátt vegna þess að undir þeim er (tiltölulega) eðlisléttur sökkull. Hin mikla eldvirkni, og þar með þykk blágrýtisskorpa, stafar af því hve heitur möttulstrókurinn er: Blágrýtið myndast þegar heitt möttulefni bráðnar vegna þrýstiléttis, og því heitara sem möttulefnið er, þeim mun meiri verður bráðnunin. 200-300°C munur á hita íslenska möttulstróksins og jarðmöttulsins undir Mið-Atlantshafshryggnum fyrir norðan og sunnan nægir til þess að skýra muninn á þykkt skorpunnar.

Flekaskil

Flekaskilin.

Jarðefnafræðilegar mælingar á íslenskum blágrýtissýnum benda til um 30% bráðnunar undir landinu, sem svarar til um 25 km þykkrar blágrýtisskorpu. Og jarðskjálftafræðingar telja sig greina mörk blágrýtis og möttulefnis á 25-35 km dýpi. Loks er þess að geta, að möttulstrókar virðast vera tiltölulega staðfastir – og rótfastir í jarðmöttlinum – miðað við skorpu jarðar, sem skiptist í fleka sem eru á reki fram og aftur um yfirborð hnattarins eins og kunnugt er. Þannig hefur fjarlægðin milli heitu reitanna Íslands og Hawaii haldist óbreytt í að minnsta kosti 40 milljón ár.
Eins og mál standa eru svörin því þessi: Ísland er heitur reitur, og undir Íslandi er möttulstrókur, um 200 km í þvermál, sem sennilega nær allar götur niður að mörkum möttuls og kjarna.“

Landrekskenningin – Alfred Wegener

Wegener

Prof. Dr. Alfred Wegener, ca. 1924-1930.

„Árið 1912 kynnti þýskur veðurfræðingur Alfred Wegener fyrstur kenningu um landrek. Þremur árum síðar eða 1915 var Landrekskenning Wegeners sett fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa. Hann hélt því fram að öll meginlönd gætu flust úr stað með því að fljóta. Wegener taldi að meginlöndin hafi verið ein heild, þ.e. Pangea (al-álfa) sem hafi brotnað upp og brotin flust úr stað. Hann taldi með þessu að hann gæti útskýrt ástæðuna fyrir því af hverju löndin pössuðu vel saman.

Síðan „landrekskenning“ Wegener kom fram hafa margvíslegar ábendingar stutt hana verulega. M.a. byggja flestir íslenskra jarðvísindamanna kenningar sínar um flekaskilin beinlínis á henni.

Flekaskil

Mismunandi flekaskil.

Um 1930 töldu jarðeðlisfræðingar að það væri ekki til nægilega stór kraftur sem gæti flutt heimsálfurnar úr stað og tókst þeim þar með að afsanna þann hluta kenningar Wegeners. En árið 1964 var landrekskenningin endurvakin og var þá nefnd botnskriðskenning og var þá gerð athugun á gerð hafsbotnsins.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa. Landrek.

Í ljós kom að á hafsbotni leyndust langir fjallgarðar sem risu í um 2000-4000 m yfir hafsbotninn. Árið 1968 kom fram flekakenningin, en samkvæmt henni skiptist jarðskorpan í jarðfleka sem eru á reiki um yfirborð jarðar og eru flekarnir knúnir af hita frá möttlinum. Á úthafshryggjum á hafsbotni jarðarinnar rekur þessa fleka í sundur og til þess að það myndist ekki gap í jarðskorpunni fyllir bergkvika bilið og myndar á ný úthafsskorpu.“

Sjá má meira um Alferd Wegener HÉR.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81424
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=38
-https://is.wikipedia.org/wiki/M%C3%B6ttulstr%C3%B3kurinn_undir_%C3%8Dslandi
-https://innrigerdjardar01.weebly.com/moumlttulstroacutekar.html

Möttull

Jörðin – samsetning.

Kristnitökuhraun

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 fjallar Gísli Sigurðsson um „Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið„.

KristnitökuhraunVegna þess að Kristnisaga hefur eftir sendiboða að hraunið „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða“ töldu menn að hér væri sagt frá framrás Þurárhrauns eða Eldborgarhrauns, nokkru vestar, sem bæði runnu niður af hlíðinni ofan Ölfuss. En bæði þessi hraun eru eldri en 1000 ára og Kristnitökuhraunið er nú talið vera á öðrum slóðum.

„Á umliðnum öldum og þá ekki sízt nú á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi hafa margsinnis verið rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekizt var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Í nýrri bók, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: „Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sigalfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar eins og hún er almennt þekkt nú á dögum koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnstefið um eldsumbrot í Ölfusi.
KristnitökuhraunÍ núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristnisögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram: Þá kom maður hlaupandi, og sagði, aðjarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.“ Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á“.

KristnitökuhraunBer tvímælalaust að skilja atvik þetta sem eitt af þeim stórmerkjum sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita og sýndu að kristnitakan fól í sér úrslitaátök illra og góðra afla tilverunnar.
Athyglisvert er að í þetta sinn er sú túlkun sett fram út frá sjónarhorni heiðinna manna. Hér er á ferðinni eina atvik kristnitökusögunnar sem mögulegt er að styðja ytri rökum, en Kristnitökuhraun á vestanverðri Hellisheiði rann einmitt um þetta leyti. Því kann hér að vera um forna sögn að ræða.“

Kristnitökuhraun

Hellisheiðarhraun.

Bókarhöfundurinn fer frjálslega með staðhætti þegar hann segir Kristnitökuhraun vera á vestanverðri Hellisheiði, að minnsta kosti teygir hann Hellisheiði lengra vestur á bóginn en gott og gilt getur talizt.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.

Ég hygg að sú skilgreining hafi verið til lengi og ekki breytzt neitt nýlega, að Hellisheiði nái frá Kambabrún að austan að Hveradölum og Reykjafelli að vestanverðu. Hverahlíð sé í suðurmörkum heiðarinnar, en Skarðsmýrarfjöll að norðanverðu. Það er fyrst þegar komið er niður úr brekkunum við Hveradali og hálfa leið að vegamótunum suður í Þrengsli að komið er út á Svínahraunsbruna, sem fullvíst má nú telja að sé Kristnitökuhraunið. Þjóðvegurinn liggur síðan á þessu hrauni 10-12 km. Þetta er hluti þeirra hrauna sem tíðkast hefur að nefna Svínahraun, en jarðfræðingar nefna það Svínahraunsbruna. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000 árum.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Ekkert annað hraun rann á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Það hefur hinsvegar verið nokkuð frjálslega með farið, en þjónað tilganginum, að gefa til kynna hættu á bæ Þórodds goða, hvort sem hann bjó á Hjalla eða Þóroddsstöðum. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi suður í Ölfus og á bæ goðans.

Leiti

Gígurinn Leiti (á miðri mynd) austan Bláfjalla. Lambafellshnúkur fjær.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurnveginn samhliða Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.

Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vesturs, nokkurnveginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Þeim sem ekki eru með einstök fjöll og örnefni á hreinu skal bent á að vegamótin suður í Þrengsli eru við Lambafell og fellið þekkist af stóru sári vegna umfangsmikillar efnistöku sem varla fer framhjá vegfarendum.

Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni og þangað liggur stórgrýttur og illfær vegarslóði, en til hvers skyldi hann hafa verið lagður í svo úfið hraun?

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Það sést þegar komið er nær eldstöðinni. Þar er svöðusár austan í henni eftir efnistöku, hreinn barbarismi og skaði sem ekki er hægt að bæta. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð; svo djúp að í henni eru ennþá fannir.

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Milli Eldborganna tveggja eru á að giska 4 km. Syðri-Eldborg er aðeins um 2 km frá Leitinni; gosið úr henni kom eitthvað örlítið síðar, það sést á hraunstraumnum.
Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum; samt vaxið þykkum grámosa sem tekur oft á sig gulan lit þegar hann vöknar. Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið árið 1000 yfir Leitarhraunið til norðausturs, þó ekki nema 2-3 km austur og norðaustur af veginum í Svínahrauni.
Danski fræðimaðurinn Kristian Kálund ferðaðist um Ísland á árunum 1872-74 og gaf síðan út bók um íslenzka sögustaði, sem Haraldur Matthíasson hefur þýtt. Kálund nefnir frásögn Kristnisögu um jarðeld sem ógnaði Hjalla í Ölfusi. Hann segir þar að hraunið sem stefndi á bæ Þórodds goða hafi verið Þurárhraun, sem runnið hafi út úr þröngu gili og fram af brúninni talsvert austan við Hjalla. Þar hafi það dreift talsvert úr sér á flatlendinu.
Þarna fór Kálund villur vegar, enda hafði hann engar rannsóknir til að byggja á. Þurárhraun er úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni eins og áður er lýst.

Kristnitökuhraun

Eldborg við Meitla.

Að sögn Jóns Jónssonar jarðfræðings hefur gosið fjórum sinnum í Hellisheiðareldstöðinni á nútíma, það er síðustu 10 þúsund árin. Hraunið sem þekur hlíðina í Kömbum er þaðan ættað; annað rann suðvestur með Stóra-Meitli og niður Hveradalabrekkuna, en Þurárhraun er yngst; þó miklu eldra en Kristnitökuhraun eða Svínahraunsbruni. Eins og víðar hafa veruleg spjöll verið unnin á Hellisheiðareldstöðinni vegna efnistöku. Gígarnir, eða það sem eftir sést af þeim, eru austan undir háum rauðamalar- og gjallkollum; hrauntraðir út frá þeim til austurs. Hár gjallkollur, sá þeirra sem næstur er þjóðveginum á Hellisheiði, er þó lítt skemmdur og þyrfti að friða hann.
KristnitökuhraunÞorvaldur Thoroddsen fór um þessar slóðir 1882 og minnist í ferðabók sinni á munnmæli um að Þurárhraun sé það hraun sem Kristnisaga getur um. Þorvaldur efast um að það standist og nefnir, að hafi Þóroddur goði búið að Hjalla sé líklegra að sagan eigi við annað nýlegra hraun, komið úr Meitli. Hér á Þorvaldur við hraunið sem runnið hefur fram af hlíðinni vestan við Hjalla og liggur Þrengslavegurinn á þessu hrauni í brekkunni upp á heiðina.
Ekki er alveg ljóst hvort sá mæti maður, Þóroddur goði, bjó á Hjalla eða á Þóroddsstöðum, lítið eitt vestar, og hvort sá bær sé þá nefndur eftir honum. Hafi hann búið þar og þetta hraun steypst fram af hlíðinni sumarið 1000 hefur það verið mjög áhrifamikil bending um reiði guðanna. En sú guða reiði hafði reyndar orðið löngu áður, og hverju reiddust guðin þá? Þetta hraun sem nefnt er Eldborgarhraun eftir eldstöðinni er miklu eldra en kristni á Íslandi; það er að vísu nútímahraun, en nokkur þúsund ára gamalt. Upptökin eru í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu. Hinsvegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu.

Eldborg

Eldborg í Þrengslum.

Sæmileg jeppaslóð liggur frá Þrengslaveginum sunnan undir hlíð Litla-Meitils og allar götur að eldstöðinni. Hafa menn riðlast á torfærubílum alveg upp á gígbrún, en hlíðarnar eru að utanverðu vaxnar þykkum grámosa sem þolir ekki einu sinni umgang, hvað þá ruddaskap af þessu tagi. Ofan af gígbarmi Eldborgar undir Meitlum sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorlákshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áður nefnd eldstöð ofan Hveradala er í beinni línu. Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi sem átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofaná Þurárhrauni og Eldborgarhrauni. Þessvegna vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristnitökuhraun
Þorvaldur Thoroddsen fer villur vegar í lýsingu sinni; segir bæði hraunin „tiltölulega ný og hafa efalaust runnið síðan land byggðist, en sögur segja mjög sjaldan frá náttúruviðburðum, síst á þessum útkjálka.“ Í gosannál eldfjallasögu sinnar gerir Þorvaldur ekki upp á milli þessara hrauna, en er þó fyrstur til að draga í efa munnmælin um að Þurárhraun sé Kristnitökuhraunið.
Í lýsingu sinni á jarðfræði Árnessýslu 1943 greinir Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá eldstöðvum á Hellisheiði og telur hann þar að bæði Þurárhraun og Eldborgarhraun geti átt við lýsingu Kristnisögu. Fram yfir 1960 héldu menn í þessa skoðun.

Heillisheiði

Heillisheiðarhraun (Þurárhraun) og Eldborgarhraun (Grímslækjarhraun).

Víðtækar rannsóknir fóru fram árin 1947-49 á jarðhitasvæðum í Hengli og Hveragerði og þá kannaði Trausti Einarsson jarðfræðingur meðal annars hraunin á Hellisheiði. Í skýrslu sinni frá 1951 segir hann:

Þurárhraun

Þurárhraun.

„Viðvíkjandi aldri Þurárhrauns, má geta þess, að Eldborgarhraun sunnan við Hjalla, sem er mjög gamalt, hefur verið þakið þykkum jarðvegi, er síðar fauk nær algerlega af því. Þurárhraun er hinsvegar mjög unglegt og yngst Hellisheiðarhraunanna, og eina hraunið, sem komið getur heim við frásögn Kristnisögu um eldgos árið 1000.“ Þessi kenning fær enn stuðning frá Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi 1960. Á sjötta tugnum hafði hann kannað jarðfræði Hellisheiðar og fjallaði hann um niðurstöðurnar í ritgerð sinni til fyrrihlutaprófs í jarðfræði við Kölnarháskóla og síðar einnig í Náttúrufræðingnum.
Kristnitökuhraun
Niðurstaða Þorleifs var svofelld: „Eldstöðvar þær sem best eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km á lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er reyndar stærsti gígur sprungunnar.“
Raunar segir Þorleifur einnig að Svínahraunsbruni hafi runnið út yfir hraunkvíslina, sem rann vestur af Hellisheiði framan við Hveradali, og sé því runnin eftir árið 1000.
Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristnitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson jarðfræðingur birti grein í Náttúrufræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðans, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg hundruð ár áður en land byggðist.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Í sömu grein kveðst Jón hafa fundið öskulagið sem kennt er við landnám í jarðvegi ofan á gosmölinni frá Eldborg undir Meitlum. Því sé ljóst að gosið sem Kristnisaga getur um, sé hvorki komið ofan af Hellisheiði né frá Eldborg undir Meitlum. Þar með er ljóst að böndin hafa borizt að Svínahraunsbruna á svæðinu vestan Hellisheiðar.

Grímslækjarhraun

Grímslækjarhraun – afurð Eldborgarhrauns.

Jón Jónsson skrifaði aðra grein í Náttúrufræðinginn 1979 og er fyrirsögn hennar „Kristnitökuhraunið“. Þar segir Jón frá því að landnámsöskulagið hafi fundizt í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristnisögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein um Krýsuvíkurelda eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstóðvakerfi Brennisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 01.07.2000, Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið, Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Flóðahjalli

Í Morgunblaðinu, blaði B, 2002, fjalla Þorkell Jóhannsson og Óttar Kjartansson um „Tóftina á Flóðahjalla og horfna tíð í Urriðakoti„:

Þorkell Jóhannson

Þorkell Jóhannsson.

„Ný tegund tófta hér á landi eru leifar mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu.
Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson kynntu sér tóft þessarar gerðar sem er í Setbergslandi, á Flóðahjalla, sunna eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftir á Íslandi hafa verið flokkaðar í tvo meginflokka; húsatóftir (tóftir íveruhúsa og peningshúsa af ýmsu tagi) og tóftir margvíslegra skýla (tóftir sæluhúsam skothúsam brunnhúsa, myllukofa eða fjárborga og fjárrétta svo að dæmi séu tekin). Ný tegund tófta hér á landi er að kalla tóftir mannvrkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu. Ein tóft þessarar gerðar er í Setbergslandi á Flóðahjalla sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftin hefur vakið athygli okkar á reiðferðum um landið í kring og þá ekki síst vegna stærðar sinnar. Segja má, að tóftin „hafi ekki látið okkur í friði“ og því hafi skrif þessi orðið til.

Flóðahjalli

Hluti af tóftinni á Flóðahjalla.

Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Í Urriðakoti var áður sveit, en þar er nú útivistarsvæði borgarbúa – og í vændum er mikil byggð og þar á meðal bygging tæknigarða, ef trúa má fréttum (Morgunblaðið 27.6.2001). Segja má að sú gerbreyting á landnýtingu og lífsháttum, sem hér hefur orðið á síðustu áratugum, hafi fylgt í kjölfar hernáms Breta 1940. Við höfum þess vegna einnig freistast til þess að hyggja lítillega að horfinni tíð á þessum slóðum.

Flóðahjalli

Flóðahjalli

Flóðahjalli er grágrýtisrani (sjá yfirlitskort), sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Allbreitt skarð skilur Flóðahjalla til suðausturs frá Sandahlíð, sem er hæsti hluti Setbergshlíðar. Flóðahjalli er hæst um 125 m yfir sjávarmáli og Sandahlíð er svipuð á hæð. Skarðið á milli er í um það bil 100 m hæð. Þar liggur nú háspennulína til Straumsvíkur og línuvegur meðfram. Skarðið nefnist Klif, en var þó aldrei ferðaleið. Vel mætti því vera að skarðið hefði upphaflega kallast „klyft“ (þ.e.a.s. klauf í hæðarhrygginn).

Flóðahjalli

Flóðahjalli – mannvirki.

Norðaustanvert á Flóðahjalla er markagirðing milli Urriðakots og Setbergs. Þar hefur land greinilega blásið, en í verið sáð lúpínu. Sækir hún nú ört upp hjallann og að tóftinni. Norðan við heitir Urriðakotsdalur og Hraunflatir næst Búrfellshrauni. Þar hafa Oddfellowar eftir 1990 gert stóra og vel búna golfvelli á sínu landi (sjá á eftir), og var þar golfskáli risinn þegar 1992.

Oddsmýrardalur

Oddsmýrardalur.

Suðvestan undir Flóðahjalla, milli hans og Svínholts og Setbergsholts, er Oddsmýri, en Oddsmýrardalur er til suðurs. Oddsmýri hefur verið ræst fram og þar verið ræktuð tún frá Setbergi. Mýrin hefur án efa verið mjög blaut og gæti einhvern tíma hafa verið verið kölluð „flóð“ og af því sé nafngiftin Flóðahjalli dregin. Eldri og væntanlega réttari nafngift er Flóðháls.

Frá mýrinni rennur Oddsmýrarlækur í Urriðakotsvatn (Urriðavatn). Í Oddsmýrardal,  skammt innan við Oddsmýri, er beitarhúsatóft frá Setbergi. Þaðan er þægilegt að ríða eða ganga inn í botn Oddsmýrardals og svo áfram línuveginn til norðurs upp Klifið og síðan út eftir hjallanum að fornri og nokkuð hruninni vörðu fremst á Flóðahjalla (vafalaust hádegiseyktarmark frá Urriðakoti).

Setberg

Setberg – fjárhús í Oddsmýrardal.

Tóftin er nokkru framan við háhjallann, um það bil miðja vegu milli hans og vörðunnar. Þaðan er víðsýnt, ekki síst yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Flóðahjalli er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu og þar má einnig ganga eða ríða upp hálsinn beina leið að tóftinni.

Norðaustan undir Flóðahjalla þar, sem heitir Flóðahjallatá, liggur svokallaður Flóttamannavegur, öðru nafni Elliðavatnsvegur eða Vatnsendavegur. Milli vegarins undir Flóðahjallatá og Urriðakotsvatns heitir Dýjamýri austar, en Þurramýri vestar. Dýjakrókar heita fjær undir Urriðakotshálsi (ranglega nefndur Urriðaháls í Mbl. 27.6.2001). Þar eru uppsprettur og úr þeim rennur Dýjakrókalækur vestur Dýjamýri í Þurramýrarlæk, á mótum Urriðakots og Setbergs, og svo í vatnið. Eru lækir þessir ásamt Oddsmýrarlæk helsta aðrennsli í vatnið ofan jarðar.

Urriðavatn

Urriðavatn í nútíma.

Ef vernda á lífríki Urriðakotsvatns, ekki síst eftir að byggð færist nær beggja megin vatnsins, er því nauðsynlegt að friða bæði Dýjakróka og mýrlendið að sunnanverðu við vatnið.
Frárennsli úr vatninu er í norðvesturhorni þess í landi Setbergs. Rennur þaðan lækur, Stórakrókslækur, nú að mestu í rásum og stokkum, sem sameinast Hamarskotslæk (Hafnarfjarðarlæk) neðan og vestan við Setberg. Gekk áður sjóbirtingur í lækinn, en hann hvarf eftir virkjunarframkvæmdir Jóhannesar Reykdals, síðar á Setbergi (föður Elísabetar Reykdals, sjá síðar) árið 1904. Jóhannes Reykdal var frumkvöðull um rafvæðingu hér á landi sem kunnugt er.

Urriðakot

Álfhóll við Urriðakotsvatn.

Austan Urriðakotsvatns stóð bærinn í Urriðakoti í grónu túni. Túnið er enn grænt, en bæjarins sér nú lítinn stað. Hádegisholt og varðan á því hefur vissulegs blasað vel við frá bænum og útsýni er sömuleiðis gott af holtinu í átt að bæjarstæðinu).
Á Urriðakotshálsi voru á stríðsárunum nokkuð stórar herbúðir Bandaríkjamanna. Þær sjást allvel á loftmynd frá l954 og enn má sjá þar húsgrunna og steinsteypuleifar frá þeim tíma. Það er víst einmitt hér, sem hinir nýju tæknigarðar skulu rísa.

Tóftin

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Tóftin er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla eins og áður segir. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans.
Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þeir hafa því riðlast umtalsvert í áranna rás. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin furðustór að flatarmáli eða nærri 800 m².

Elísabet Reykdal

Elísabet Reykdal.

Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Verða þannig til tvö lítil ferhyrnd rými (ca. 2,5x 4 m og ca. 3×1,8 m að innanmáli; og eitt hringlaga (ca. 4 m að innanmáli;). Í öðru ferhyrnda rýminu fundum við leifar af timburfjölum og utan við hringlaga rýmið fundum við ryðgaða járnplötu, 1×1 m, með ca. 8 cm háum hnúð eða pinna á í miðju, en alls ekkert annað, sem bent gæti til mannvistar.
Á klöppinni syðst eru nokkrar stafristur. Þar teljum við ótvírætt að höggvið hafi verið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J. E. Bolan. Þessi stafagerð er öll með sama breiða lagi. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940.

Elísabet Reykdal (f. 1912), sem alla tíð hefur búið á Setbergi, man vel eftir komu Breta í Hafnarfjörð sumarið 1940, og hún var í nábýli við þá og síðar Bandaríkjamenn.

Setberg

Setbergshamar – skotbyrgi.

Hún minnist þess, að Bretar voru með gervifallbyssur (símastaura?) á Setbergshamrinum. Hún man einnig vel eftir Bretunum á ferð í einhvers konar beltabílum („einhvers konar smáskriðdrekar“) á vegaspottunum milli Setbergs og Urriðakots (þetta hafa verið svokallaðir Bren Gun Carriers). Telur hún líklegast, að Bretarnir hafi farið á bílunum upp á Flóðahjalla. Hún þvertekur fyrir, að Íslendingar hafi komið þar að verki.
Af bók prófessors Þórs Whiteheads, Bretarnir koma, má ráða, að meðal þeirra staða, sem Bretar óttuðust mest, að Þjóðverjar myndu nota til landtöku hér, voru lendingarstaðir flugvéla á Sandskeiði og í Kaldaðarnesi og höfnin í Hafnarfirði. Strax hernámsdaginn (10. maí) voru hermenn sendir upp á Sandskeið og austur yfir Fjall í svo ólíkindalegum herflutningatækjum og hvítar Steindórsrútur voru.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Til Hafnarfjarðar voru hermenn fyrst sendir fáum dögum síðar og svo að marki 18. maí, þegar liðsauki hafði borist til landsins með tveimur stórum herflutningaskipum. Þá voru fluttir 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sjóleiðis til Hafnarfjarðar.

Setbergshamar

Setbergshamar – skotbyrgi.

Þessir hermenn höfðu þó ekki strax yfir að ráða Brynvögnum, þar eð slík farartæki komu fyrst til landins í júlí um sumarið (9; bls. 132 og 212). Þór Whitehead telur því einsýnt, að hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga hafi gert mannvirkið á Flóðahjalla. Hafi tilgangurinn verið sá að efla varðhöld og vígstöðu við Hafnarfjörð til þess að mæta hugsanlegri innrás Þjóðverja. Ótvírætt er, að Bretar óttuðust mjög landgöngu Þjóðverja í Hafnarfirði, ef svo bæri við. Í bók Þórs er þannig mynd, sem sýnir menn úr herfylki Wellingtons hertoga á æfingu á holti við Hafnarfjörð. Í texta við myndina segir m.a.: „Bærinn var talinn einn líklegasti landgöngustaður þýsks innrásarliðs og Bretar gerðu ráðstafanir til að sprengja Hafnarfjarðarhöfn í loft upp“.

Öðrum okkar (Þ.J.) hefur nú borist svar við fyrirspurn til aðalstöðva herfylkis Wellingtons hertoga þess efnis, að tóftin („the stone defence work mentioned“) hafi verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons og tilgangurinn hafi verið svipaður og Þór Whitehead telur („…to cover open ground, which might have been used by enemy parachutists, road approaches to the town and, possibly, likely landing places on the coast“).

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Þessar upplýsingar eru byggðar á ritaðri frásögn eins þeirra hermanna, sem þarna komu við sögu og er enn á lífi. Í ljósi þessara upplýsinga þykir okkur líklegt, að byssustæði hafi verið í hringlaga rýminu (járnplatan leifar af því?) og einhvers konar vistarverur hefðu getað verið í ferhyrndu rýmunum (fjalaleifarnar leifar af timburgólfi?).

FlóðahjalliUrriðakot var áður konungseign og síðar ríkiseign, en komst í einkaeign 1890. Alþingishátíðarárið 1930 bjuggu þar og höfðu búið í áratugi hjónin Guðmundur Jónsson (1866–1941), frá Urriðakoti, og Sigurbjörg Jónsdóttir (1865–1951), frá nágrannabænum Setbergi og áttu þau jörðina. Þau eignuðust 12 börn og er frá þeim mikill ættbogi kominn.
Samkvæmt Fasteignabók 1932 var bústofn þeirra 140 sauðkindur og 5 kýr og auk þess 2 hross. Voru þá einungis fjórir bændur í Garðahreppi og aðliggjandi hreppum (Seltjarnarneshreppur, Bessastaðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur), sem voru fjárríkari en þau hjón og þar af einungis tveir, sem áttu að marki fleira fé en þau. Fimm kýr þótti og álitleg nautgripaeign í þá daga. Er því nokkuð ljóst, að Urriðakotshjón hafa orðið að halda vel á spöðunum til þess að sjá bæði bústofni sínum og sér og sínum börnum farborða.

Urriðakot

Urriðakot.

Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824–1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: „Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.“

Urriðakotshraun

Fjárhústóft Guðmundar í Urriðakotshrauni.

Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði sína við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.

Urriðakot

Urriðakot.

Ef Guðmundur í Urriðakoti mætti nú rísa úr gröf sinni og skunda um Urriðakotsland, myndi honum án efa finnast púttarar í námunda við beitarhús sín og grillarar í námunda við sauðaskúta sinn framandlegir menn og óvelkomnir á sínu landi. Ef þeir hinir sömu skyldu hins vegar sjá mann koma hlaupandi við fót (Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur), er eins víst, að þeim yrði líkt við. Og þó! Þeim myndi án efa falla allur ketill í eld, þótt ekki væri nema vegna klæðaburðar mannsins. („Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði.“) Mjólkin úr kúnum var mjög spöruð heima fyrir og var hún vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Var mjólkin seld til Hafnarfjarðar og flutt á reiðingi allt fram undir 1930, að ökufær vegur var lagður milli Urriðakots og Setbergs. Um líkt leyti var tekið að nota heygrind til heyflutninga, en sláttuvél eignaðist Guðmundur aldrei.

Urriðakot

Urriðakot – örnefni.

Eitt var sérlega athyglisvert í tengslum við heyskap í Urriðakoti, en það var nýting fergins (tjarnarelftingar), sem óx í vatninu. Fergin er nú horfið í vatninu og því miður er engin mynd til af því sérstaka verklagi, sem tengdist nýtingu þess. Um þetta farast Guðmundi Björnssyni svo orð: „Ferginið stóð ca. 30 cm upp úr vatninu og glitti í það á köflum. Við sláttinn voru menn á þrúgum úr tunnustöfum eða klofháum stígvélum og höfðu nót á milli sín. Með gaffli var því skóflað í land og síðan þurrkað á svokallaðri Ferginisflöt. Það var svo gefið kúm sem fóðurbætir.“

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn. Fornleifauppgröftur á Hofstaðaseli neðst t.h.

Svo mikill var þessi ferginsheyskapur í vatninu, að hann nam 40–50 hestburðum (ekki tíundað sérstaklega í Fasteignabók 1932). Voru kýrnar sólgnar í þennan „fóðurbæti“ og hafa án efa verið vel haldnar og í góðri nyt.
Ferginið í Urriðakotsvatni var með vissu slegið 1952. Engin bein skýring er hinsvegar á því hvers vegna fergin er nú horfið úr vatninu. Talið er, að það hafi horfið eftir 1973–1974 og orsökin hafi verið breytingar á frárennsli vatnsins. Önnur skýring kann þó að liggja beinna við, sem sé að vöxtur og viðgangur fergins í vatninu hafi verið háður því að það væri slegið reglulega.

Lok búskapar í Urriðakoti

Urriðakot

Urriðakot – Dagmálavarða.

Þau Guðmundur og Sigurbjörg hættu búskap í Urriðakoti 1935. Þau voru þó áfram í Urriðakoti með 20–30 kindur. Jörðina leigðu þau dóttur sinni og tengdasyni. Um mitt ár 1939 seldu þau tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin frá Urriðakoti 1941. Að heimsstyrjöldinni lokinni komst jörðin í eigu Oddfellowa.
Eftir það bjuggu ýmsir á jörðinni fram undir 1960. Þá fór jörðin endanlega í eyði og skömmu síðar brann bærinn þar.

Camp Russel

Camp Russel – Bíóbraggi hermanna 1943.

Sú verðbólga, er hófst í landinu í kjölfar hernáms Breta, gleypti andvirði jarðarinnar og urðu Guðmundur og Sigurbjörg þá eignalaus. Auður þeirra fólst því í börnum þeirra og öðrum afkomendum líkt og hefur orðið hlutskipti fjölmargra annarra, sem hafa séð eignir sínar fuðra upp í verðbólgubáli.
Sonarsynir Urriðakotshjóna, sem jörðina keyptu, fengu í desember 1944 nafni jarðarinnar breytt í Urriðavatn. Það var óþarfaverk að breyta fornu nafni jarðarinnar. Nafninu Urriðakoti er því haldið hér í samræmi við örnefnalýsingu Svans Pálssonar frá 1978.“

Heimild:
-Morgunblaðið, blað B, 13.01.2002, „Tóftin á Flóðahjalla og horfin tíð í Urriðakoti“, Þorkell Jóhannson og Óttar Kjartansson, bls. 10-11.

Urriðakot

Urriðakot – upplýsingaskilti.