Í Lesbók Morgunblaðsins 1955 fjallar Árni Óla um Garðakirkju á Álftanesi, sem „Bráðum fer að rísa úr rústum„:
„Garðar á Álftanesi eru ekki taldir með landnámsjörðum, en þó mun hafa verið sett byggð þar þegar á landnámsöld. Jörðin er í landnámi Ásbjarnar Özzurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og eftir því sem næst verður komizt, hét sá Þjóstarr, er þar bjó fyrstur. Hann var kvæntur Iðunni dóttur Molda-Gnúps, landnámsmanns í Grindavík, og er talið að þau hafi átt þrjá sonu. Einn þeirra var Þorkell, er fór einhver fyrstur manna hér á landi alla leið suður til Miklagarðs, dvaldist þar nokkur ár og var „handgenginrt Garðskonunginum.“
Annar sonur Þjóstars var Þormóður, er bjó að Görðum eftir föður sinn. Hann var kvæntur Þuríði dóttur Avangurs hins írska, er fyrstur byggði að Botni í Hvalfirði, og smíðaði sér haffært skip úr skógi þeim er þar var þá. Getið er tveggja barna þeirra Þormóðar, Barkar er átti Hallvöru dóttur Odda Ýrarsonar, og Jórunnar. — Landnáma segir frá því, að þeir Illugi rauði og Hólm-Starri hafi haft skifti á jörðum, konum og lausafé. Sigríður kona Illuga hengdi sig þá í hofinu á Hofstöðum í Reykholtsdal, „því að hún vildi ekki mannakaupið“. Ekki er getið um konu Starra, en líklega hefur hann tekið hana aftur þegar þannig fór um Sigríði, því að upp úr þessu fekk Illugi Jórunnar frá Görðum.
Garðakirkja 1960.
Um þessar mundir bjó i Vælugerði í Flóa sá maður er Öra hét. Svo er sagt að eftir ráðum Marðar gígju hafi hann orðið sekur þannig að hann skyldi falla óheilagur fyrir sonum Önundar bílds, nema í Vælugerði og örskotshelgi við landeign sína. Einu sinni rak Örn naut úr landi sínu og var þá veginn, og héldu allir að hann hefði fallið óheilagur. En Þorleifur neisti bróðir hans, keypti af Þormóði Þjóstarssyni í Görðum, er þá var nýkominn út á Eyrarbakka, að hann helgaði Örn. „Þormóður skaut þá skot svo langt af handboga, að fall Arnar varð í örskotshelgi hans“.
Má á þessu sjá, að Þormóður hefur verið íþróttamaður og nafnkunnur bogmaður. Synir Þjóstars hafa því þegar gert garðinn frægan, þótt ekki fari af þeim neinar sögur.
Garðakirkja 1956.
Og allt frá þeim tíma hafa Garðar verið merkur staður. Kirkja hefur sennilega verið reist þar skömmu eftir kristnitöku. Var hún helguð Pétri postula og er til skrá um presta þar síðan 1284. Þar var í gamla kirkjugarðinum svonefndur „vökumaður“. Var það trú hér á landi um eitt skeið, að sá, sem fyrstur væri grafinn í kirkjugarði, rotnaði ekki, heldur héldi stöðugt vörð um garðinn. Segir sagan, að eitt sinn er verið var að taka gröf í útnorðurhorni kirkjugarðsins, áður en hann væri færður inn“, þá var komið niður á rauðklæddan mann, órotinn, og skipaði prestur að byrgja gröfina þegar. Þetta hefur átt að vera einhver fornmaður í litklæðum, og hann vakir enn yfir kirkjunni, sem nú er líka utangarðs.
Torfkirkja var í Görðum öld fram af öld. En um miðja fyrri öld er komin þar timburkirkia. Hún entist illa og var orðin óhæf til messugerðar 1878. Þá var Þórarinn Böðvarsson prestur að Görðum. Hann vildi að söfnuðurinn tæki að sér kirkjuna og flytti hana til Hafnarfjarðar, en þar var þá meginhluti safnaðarins. Sóknarnefndin mun ekki hafa treyst sér til þessa, og varð það því úr, að ný kirkja var reist að Görðum og var hún hlaðin úr steini.
Þykir mér líklegt að notað hafi verið kalk úr Esjunni til þess að líma grjótið saman. Var kalkbrennslan í Reykjavík þá í fullum gangi, og þeir munu hafa verið vel kunnugir Egill Egilsen forstjóri kalkbrennslunnar og séra Þórarinn Böðvarsson. Kirkja þessi var reist árið 1879. Þótti hún merkilegt hús.
Þegar kom fram yfir aldamótin var farið að tala um það í fullri alvöru að reisa nýja kirkju í Hafnarfirði, og var séra Jens Pálsson því mjög fylgjandi. Hann átti þá 2500 kr. hjá kirkjunni, en bauðst til þess að láta þá skuld falla niður, ef söfnuðurinn vildi taka kirkjuna að sér og reisa nýtt guðshús í Hafnarfirði. Varð það svo úr, að með samningi gerðum 6. marz 1910, afhenti hann sóknarnefnd Garðakirkju til umsjónar og fjárhalds, og með þessum samningi gaf hann eftir skuld kirkjunnar við sig.
Garðakirkja – kertastjakar, nú í vörslu Þjóðminjasafnsins.
Eigi varð þó úr því þá þegar að farið væri að reisa kirkju í Hafnarfirði. En það sem reið baggamuninn í því efni var stofnun fríkirkjusafnaðar í Hafnarfirði veturinn 1913, og að hafin var bygging fríkirkju þar þegar á sama ári. Þá vildi þjóðkirkjusöfnuðurinn ekki láta sitt eftir liggja og reisti þar kirkju árið eftir. Var þá ákveðið að leggja Garðakirkiu niður og flvtja gripi hennar í nýju kirkjuna.
Þykir rétt að birta hér skrá yfir þá gripi, er Hafnarfjarðarkirkja fekk hjá Garðakirkju: Altaristafla (olíumálverk af upprisu Krists), harmoníum, skírnarfontur úr nýsilfri á tréfæti, tvö sálmanúmeraspjöld með tölum, 16 kerta ljósahjálmur úr látúni, 8 kerta ljósahiálmur kominn frá dómkirkjunni í Reykjavík, 6 kerta ljósahjálmur, 4 kerta glertalnahjálmur, tvær þríarmaðar ljósliljur úr látúni, 9 þríarmaðar ljósaliliur frá dómkirkjunni í Reykjavík, þrennir altarisstjakar og fvlgdu þeim tvö kertahvlki úr piátri, kirkjukaleikur úr silfri með patínu úr sama efni, oblátudósir úr nýsilfri, lítill þjónustukaleikur úr nýsilfri með tréhylki, lítill gamall þjónustukaleikur úr tini o. fl.
Hökull úr rósofnu flosi með gulum blómum stórgerðum og er ofið gullvír í, en gyltar smáþynnur (paillettur) saumaðar á: rósofinn gullvírsborði er við jaðra og um hálsmál og í krossi á baki: fóðrið úr ljósbrúnu lérefti: krækt á vinstri öxl. Getið fyrst í visitatiu 1769 (sbr. 1780), en virðist miklu eldri.
Auk þessa voru öll altarisklæði, gömul og ný, og ennfremur graftól.
Inni í kirkjunni að Görðum voru 8 minningarspjöld á veggjum. Þau voru ekki flutt til Hafnarfjarðar, heldur í Þjóðminjasafnið og eru nú geymd þar. (Á safninu er einnig fjöldi gripa frá Garðakirkju).
Seinasta guðsþjónusta var haldin í Garðakirkju 23. sunnudag eftir trinitatis 1914 (15. nóvember), en þjóðkirkjuna nýju í Hafnarfirði vígði Þórhallur Bjarnarson biskup 20. desember sama ár. Kom nú til orða að selja Garðakirkju til þess að afla fjár vegna kirkjubyggingarinnar, en það fórst þó fyrir.
Stóð nú Garðakirkja auð og hrörnaði óðum, svo að blöskraði öllum þeim, sem báru hlýjan hug til hennar. Og árið 1916 bundust 10 menn samtökum um að bjarga kirkjunni. Það voru þeir: Ágúst Flygenring kaupmaður, Carl Proopé kaupmaður, Chr. Zimsen umboðsmaður, Einar Þorgilsson kaupmaður, Gunnar Egilsson skipamiðlari, Jes Zimsen kaupmaður, Jón Einarsson verkstjóri, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason verkstjóri og Þórarinn Egilsson útgerðarmaður. Eru þeir nú allir látnir, nema hinn síðastnefndi. Einhver viðgerð fór nú fram á gömlu kirkjunni, en dugði lítt.
Minningartafla um séra Markús Magnússon, prest í Görðum á Álftanesi 1781-1825.
Tímans tönn gnagaði viði kirkjunnar jafnt og þétt, þótt lítið bæri á. Seinast var svo komið, að menn óttuðust að turninn mundi hrynja. Þá var hann rifinn, þakið tekið af og allt rifið úr kirkjunni innan veggja. Síðan hefur steintóttin staðið þarna gnapandi um langa hríð, en hún hefur látið furðu lítið á sjá. Vindar hafa gnauðað á henni, regnið hefur lamið hana, frost og snjór hafa kreist hana köldum greipum, en hún stóðst allt þetta. Má á því sjá hve vel hefur verið gengið frá veggjunum. Eru þeir og snilldar vel hlaðnir, og skyldi steinninn hafa verið límdur með kalki úr Esjunni, þá þarf engan að undra þótt kirkjurústin hafi staðið af sér öll veðraáhlaup um mörg ár, því að það kalk hefur reynzt óbilandi. Sama sumarið og Garðakirkja var reist, var reist steinhús í Reykjavík og límt með Esjukalki. Það stendur enn í Lækjargötu og sér ekki nein ellimörk á því, enda þótt það sé 75 ára gamalt. Eins hefði kirkjan getað staðið enn hnarreist og tíguleg, ef henni hefði verið sómi sýndur.
Garðakirkja fyrrum.
Þótt marga tæki það sárt hvernig fór um Garðakirkju, þá var eins og örlög hennar væri orpin þögn og hyldist í einhverri móðu. Það var engu líkara en að Hverfisdraugarnir sem séra Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum, setti niður í Stíflishólum á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Garða fyrir tvö hundruð árum, hefði losnað og villtu nú mönnum sýn hálfu meir en þeir höfðu áður gert. Það var eins og aðalsöfnuðurinn, sem nú átti heima í Hafnarfirði, gæti ekki séð út að Görðum. En öldruðu fólki úr Garðahverfinu, sem fór til kirkju inn í Hafnarfjörð, vöknaði jafnan um augu er það gekk fram hjá rústum Garðakirkju.
Nú er niðurlægingar tímabil gömlu Garðakirkjunnar senn á enda. Hún verður bráðum færð í sinn fyrra búning.
Árið 1053 var Kvenfélag Garðahrepps stofnað, og á stofnfundi þess var þegar rætt um, að eitt af því sem félagið ætti að beitast fyrir, væri að reisa Garðakirkju úr rústum. Síðan hafa 60 samhuga konur unnið að þessu í kyrrþey.
Grafskriftarspjald úr furu málað svart með úrskurði á, á báðum endum og við brúnir, gulmáluðum, og myndast við það eins og umgjörð: lengd mest 148 cm. og br. mest 73 cm.: útskurðurinn er í skelstíl, laglegt verk. Áletrunin er með gyltu skrifletri, nema nafnið, sem er með rómönsku upphafstafaletri. Grafskriftin er yfir norskan skipstjóra, Robert Walls, d. 9. ágúst 1788. – Grafskriftar þessarar er getið í visitatiu Hannesar biskups Finnssonar 1791.
Og þar sem konurnar leggjast á sveif, á við gamla vísan: Fram skal ganga haukur núna hvort hann vill eður ei. Hér mun og svo fara. Það er eins og sérstök blessun hafi fylgt þessu máli. Fjöldi manna, sem ber hlýjan hug til Garðakirkju, en hafði gleymt henni, hefur nú vaknað við, er konurnar voru komnar á stað, og ýmist lagt fram fé, eða lofað fé til viðreisnar kirkjunni. Aðrir munu á eftir koma. Og sóknarnefndin hefur þegar afhent félaginu kirkjurústina til eignar. Konurnar hafa fengið sérfróða menn til þess að athuga veggina til þess að ganga úr skugga um, að þeir sé enn svo sterkir að forsvaranlegt sé að byggja ofan á þá. Og veggirnir hafa staðizt prófið.
Verður nú brátt hafizt handa um að gera við veggina og koma þaki á kirkjuna. Er það ætlan Kvenfélagsins að gera kirkjuna aftur sem allra líkasta því er hún var áður, meðan hún var ein af snotrustu og merkilegustu kirkjum landsins. En þegar því er lokið er það annarra en Kvenfélagsins að ákveða hvort hún skuli gerð að sóknarkirkju aftur.
Margar minningar eru bundnar við Garða, og sú ekki sízt, að þar fæddist Jón biskup Vídalín árið 1666. Finnst mönnum ekki eðlilegt að kirkja ætti að vera einmitt á þeim stað, þar sem áhrifamesti kennimaður Íslands fæddist?
Garðakirkja var upphaflega helguð Pétri postula, þeim mikla kennimanni frumkristninnar. Nú þegar hún rís af grunni aftur, þá mætti hún vel heita Vídalínskirkja.“ -Á.Ó.
Í Fálkanum 1961 fjallar Sv.S um „Nútíma krossfara á Álftanesi“ og endurbyggingu Garðakirkju:
„Fálkinn heimsækir hóp erlendra sjáffboðaliða sem vinna í sumar vii að byggja upp Garðakirkju á Álftanesi.
Þeir, sem að undanförnu hafa átt leið fram Garðaholtið, hafa vafalaust tekið eftir framkvæmdum, sem nú eru hafnar við hina gömlu Garðakirkju. Þarna vinnur flokkur fólks frá fjórum löndum, og flest er fólkið komið langt að. Og þau sem þarna vinna, gera það ekki vegna vonarinnar um jarðneskan auð. Allt eru þetta sjálfboðaliðar, en fá húsaskjól og mat í samkomuhúsinu á Garðaholti.
Þegar við fórum þarna suðureftir fyrir nokkrum dögum, var heldur kalt í veðri, en vinnufólkið stóð snöggklætt við mokstur og akstur og það ríkti áhugi og starfsgleði. Stúlkurnar voru í meirihluta. Þær kepptust við að moka möl í hjólbörur, sem piltarnir óku, og í því að okkur bar að kom Hermann Ragnars danskennari, með fullar hjólbörur á fleygiferð, ók upp mjóan planka inn í kirkjuna og kom að vörmu spori með tómar börurnar út aftur. Meðan mokað var í börurnar hans, notuðum við tímann til spjalls.
Bragi Benediktsson.
—Hér vinnum við tuttugu og níu að viðgerð á kirkjunni, sagði Hermann, og þetta er fólk úr ýmsum áttum, fimmtán Bandaríkjamenn, sex Englendingar, einn frá Kanada, og svo erum við sjö Íslendingar.
— Hver kostar ferðir fólksins hingað?
— Hver og einn kostar sig sjálfur og margir eru komnir langt að. Bandaríkjafólkið hafði t. d. ekki sézt fyrr en í New York. Sama er að segja um Bretana. Þeir þekktust ekki fyrr en í ferðinni. Við, sem hér erum, búum öll í samkomuhúsinu hér á Garðaholti meðan á þessu stendur. Dagurinn er skipulagður, vinna og hvíldarstundir og alls vinnum við sjö tíma á dag. Fólkið, sem hér vinnur, er allt mótmælendatrúar, og ekki í neinum sértrúarflokki þar utan. Mér virðist það gera sér far um að fara eftir boðskap kristinnar trúar og hafa mjög heilbrigðar skoðanir.
Það er glatt og kátt, eins og æskufólki er lagið, og syngur og dansar á kvöldvökunum, sem við höfum öðru hverju.
Þetta sagði Hermann, og þá voru hjólbörurnar orðnar fullar og ekki til setu boðið. Ein stúlkanna, sem mokaði í hjá honum, er kona prests, sem gegnir líku starfi hjá æskulýðsráði kirkjusamtaka vestan hafs, og séra Bragi Friðriksson hér. Þetta var broshýr ung kona, frú Bash að nafni. Þau hjónin búa í Minneapolis. Þau ferðast mikið, sagði hún, og í fyrrasumar var maðurinn hennar lengst af í Noregi með vinnuflokk. Hún sagðist hafa mjög gaman af að dvelja hér og vinna við gömlu kirkjuna, — margháttað samstarf og svo hafði hún farið niður í Hafnarfjörð 17. júní, á þjóðhátíðina.
— Ég hélt, að landið væri allt hraun og grjót, því þegar við komum af flugvellinum, fórum við yfir svo hrjóstrugt land. En svo er þetta allt öðruvísi, og ég er hrifin af landinu.
Lengra varð samtalið við prestsfrúna ekki, því að hár og grannur Breti, Richard að nafni, kom með sínar hjólbörur tómar, og stúlkurnar tóku til við moksturinn.
— Hvernig komuð þið Bretarnir hingað til lands?
— Við komum með skipi, Gullfossi. Uss, það var ljóta ferðalagið. Maður gubbaði allan tímann.
— Þú ert kannske ekki laus við sjóriðuna ennþá?
— Ég var alveg voðalega veikur. Hugsaðu þér það, að þegar við sáum Ísland rísa úr sæ, þá ruggaði það, – eða svo fannst mér.
— Eru nokkrar svona kirkjur í þínu heimalandi?
— Það held ég ekki, sagði Richard og varð hugsi. Það er annars skrítið hvernig þið byggið hús hérna á Íslandi, allt úr steinsteypu. Hvers vegna gerið þið það?
— Úr hverju ættum við annars að byggja?
— Úr múrsteini, auðvitað.
— Það er ekki nógu sterkt, og hús eins og þið byggið í Englandi, eru köld.
— Hvernig datt þér annars í hug að fara til Íslands í fríinu?
— Ég hef lesið dálítið um Ísland. Las t. d. stríðssögu Churchills og sitthvað í blöðum og tímaritum.
Við vesturgafl Garðakirkju var hópur manna að grafa. Þar á að byggja turn, og undir honum á að vera kyndiklefi.
Þar stóð Gary með skóflu í hönd og kunni auðsjáanlega tökin á því, sem hann var að gera.
— Ég á heima í Norður-Dakota, pabbi er bóndi og ég vinn alltaf heima á sumrin, milli þess sem ég er í skóla.
Gary vissi talsvert um Ísland áður en hann kom, og hafði m. a. gert tilraun til að hitta Richard Beck áður en hann lagði upp í ferðina. Eftir að hafa unnið um tíma við Garðakirkju, ætlaði Gary ásamt okkrum öðrum úr hópnum, til Norðurlanda, þar sem hann á ættingja, og það sama er að segja um Georg Engdahl frá Spokane í Washington ríki. Þeir eru báðir um tvítugt og þykir gaman að ferðinni.
— Ég bjóst við að eiga í erfiðleikum með að sofna á kvöldin í allri þessari birtu, sagði George, en svo er maður þreyttur eftir dagsverkið og þetta gengur bara vel. Þetta er annars undarlegt, að líta út klukkan ellefu á kvöldin, og það er næstum því sólskin. Það er varla að maður trúi sínum eigin augum.
Uppi á vinnupalli við suðurhlið kirkjunnar sátu fjórar stúlkur og losuðu gamla og lausa múrhúðun. Ragna Jónsdóttir sat á endanum og hamraði svo, að grjótið flaug í allar áttir.
— Þú ert þó ekki að brjóta niður kirkjuna?
— Hún verður bara betri á eftir.
— Er gaman að vinna hérna?
— Já, mér finnst það alveg stórfínt. Maður æfist svo vel í enskunni innan um alla þessa útlendinga. Þetta er líka gott fólk og góður andi.
— Ert þú í skóla?
— Já, í verknáminu.
— Hvað ertu gömul?
— Sextán, rétt bráðum.
— Hefurðu ekki reynt að kenna þeim íslenzku?
— Jú, þau geta sagt allt nema rababari!
Næst Rögnu sat Jane, átján ára, frá London.
— Ert þú lofthrædd þarna uppi?
— Ekkert að ráði. Þetta er ekki svo hátt.
— Komst þú með Gullfossi?
— Já, og var sjóveik.
— Hvað ætlið þið frá Englandi að vera hér lengi?
— Vitum það ekki nákvæmlega, líklega mánuð.
Og svo kom röðin að Myrna Hall. Hún er frá Seattle á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna, 23 ára og barnakennari að atvinnu.
— Þú ert kannske til í að hætta kennslunni og leggja fyrir þig byggingavinnu eftir þetta?
— Þetta er ágætt, en ég fer varla í það heima.
— Ætlar þú áfram til Norðurlanda?
— Já, auðvitað. Ég á fullt þar af frændfólki. Pabbi er sænskur og mamma norsk.
Við austurgaflinn voru nokkrra stúlkur að vinna. Þær hreinsuðu mosann, sem vaxið hafði upp á vegginn.
Rosin, nítján ára, frá Suður-Wales í Englandi, sagðist ekkert hafa verið sjóveik á Gullfossi, enda þetta ekki hennar fyrsta sjóferð. Rosin hefur ferðazt víða með foreldrum sínum, m. a. verið á Ítalíu, Hollandi og Frakklandi. Hún sagðist vera ákveðin í að fara norður, og þá helzt að Mývatni.
Ekki sagðist hún hafa vitað mikið um Ísland áður en hún kom hingað, en þó hafði verið mikið skrifað um landið meðan stóð á „Þorskastríðinu“.
— Ég hef alltaf verið löt að læra landafræði í skólanum, það er miklu betri landafræði að ferðast og sjá þetta sjálf, heldur en að lesa leiðinlegar bækur.
Sally Timmel frá Oconomowac í Wisconsin var næst Rosin í slagnum við mosann.
— Hvað þýðir nafnið á bænum þínum?
— Það veit ég ekki, þetta er Indíánamál.
— Hvenær datt þér í hug að fara til Íslands?
— Ég var ákveðin í að komast til Evrópu, og því þá ekki að byrja á Íslandi. Ég ætla að ferðast hérna um og mig langar til að sjá hverina.
— Þú hefur auðvitað haldið að við byggjum hér í snjóhúsum og kirkjan, sem þú ætlaðir að vinna við, væri úr ís?
— Nei, svo slæmt var það ekki, sagði Sally og hló við.
Rétt í þessu kom piltur hlaupandi ofan frá samkomuhúsinu, og mér datt í hug, að hann hefði sofnað eftir matinn og orðið of seinn. Það kom hins vegar í ljós, að Bob hafði verið í uppvaskinu.
— Er gaman að vinna í eldhúsinu?
— Nei, miklu betra að vinna úti.
– Verður þú lengi hér á landi?
— Nei, ekki mjög lengi. Ég er í skóla og verð að fara heim og nota síðari hluta skólafrísins til að vinna fyrir peningum til vetrarins.
Bob hafði, eins og fleiri, heyrt um Mývatn og um heitu gjána, þar sem maður getur farið niður í jörðina og synt í volgu vatninu. Hann sagðist iðka sund og knattleik í frístundunum og að sér þætti mjög gaman að vera hér í þessum vinnuflokki.
Séra Bragi Friðriksson, sem stjórnar framkvæmdum við Garðakirkju, sagði frá tildrögum þess, að þessi útlendu ungmenni komu hingað til uppbyggingarstarfsins.
Bragi sagðist hafa kynnzt starfsemi æskulýðsráða vestan hafs og hafa kynnzt nokkrum framámönnum mótmælendasafnaða í Bandaríkjunum og Kanada. Nú væri hafið margháttað samstarf í þessum efnum milli stofnana beggja megin hafsins og koma Bandaríkjamannanna og eins Bretanna, væri einn þáttur þess.
Séra Bragi sagði, að vinnan við kirkjuna gengi mjög vel og þetta væri úrvalsfólk. Þá sagði hann, að auk þessara sex Breta, væru hér nokkrir aðrir, sem ynnu sumarlangt, m. a. tveir við skátaskólann á Úlfrjótsvatni og einn við drengjabúðirnar í Reykholti.
Áður en langt líður, verður lagður nýr vegur að Garðakirkju. Hún mun nú á ný komast til þess vegs og virðingar, sem hún naut fram til ársins 1912, en þá var Hafnarfjarðarkirkja vígð, og eftir það var Garðakirkja lítið notuð.
Fyrir nokkru síðan var ekki annað fyrirsjáanlegt, en að þessi gamla kirkja yrði eyðileggingunni að bráð.
Er ég kvaddi þennan alþjóðlega vinnuflokk og hélt á braut, hljómuðu hamarshöggin og glaðværir hlátrar fólksins.
Hér áður fyrr fóru krossferðariddarar um lönd, brennandi og drepandi. Hér voru hins vegar krossfarar, sem komnir voru um langan veg til að byggja upp.“ – Sv. S.
Í Morgunblaðinu 22. mars 1966 er sagt frá endurvígslu Garðakirkju undir fyrirsögninni: „Meistara Jóns minnzt um land allt á sunnudag – Garðakirkja á Álftanesi endurvígð í tilefni þriggja aldar minningar hans„.
„Meistara Jóns Vídalíns var minnzt með guðsþjónustu í öllum kirkjum landsins sl. sunnudag, en 300 ár eru liðin frá fæðingu hins mikla kennimanns og ræðuskörungs. Þá var minningarathöfn í hátíðasal Háskólans síðar um daginn. Flutti dr. Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor þar erindi um Vidalin og guðfræðistúdentar sungu undir stjórn dr. Róberts A. Ottóssonar. Kl. 9 um kvöldið var haldin hátíð í Skálholtskirkju, sem helguð var minningu Vídalins. Biskup Íslands, hr. Sigurbjörn Einarsson, endurvígði Garðakirkju á Álftanesi þennan dag í tilefni þriggja aldar minningar meistarans.
Mikið fjölmenni var við endurvígslu Garðakirkju á Álftanesi. Voru þar viðstaddir éllefu prestar Kjalarnessprófastsdæmis, auk fyrrverandi biskups, Ásmundar Guðmundssonar. Gengu prestar og biskupar í skrúðgöngu til kirkjunnar ásamt sóknarnefnd. Vígsluvottar voru sr. Garðar Þorsteinsson sóknarpresturinn, sr. Björn Jónsson úr Keflavík, sr. Kristinn Stefánsson og sr. Bjarni Sigurðsson Mosfelli. Fyrir altari þjónuðu biskupinn og sr. Garðar Þorsteinsson. Eftir vígsluathöfnina hélt formaður sóknarnefndar, Óttar Proppé, ræðu í félagsheimili sveitarinnar á Garðaholti, og rakti bygginga sögu kirkjunnar.
Garðakirkja á Álftanesi var byggð árið 1879, að tilhlutan sr. Þórarins Böðvarssonar. Var hún þá með veglegustu kirkjum á landinu. Árið 1914 var hún síðan lögð niður og stóð ónotuð og vanrækt í 52 ár.
[Árið] 1953 hóf kvenfélag sveitarinnar endurbyggingu og viðreisn kirkjunnar og 1960 var sérstök sókn mynduð þarna að nýju og leit sóknarnefndin á það, sem höfuðverkefni sitt að endurreisa kirkjuna. Arkitekt við endurbygginguna var Ragnar Emilsson og kirkjusmiður Sigurlinni Pétursson. Ragnar Emilsson arkitekt teiknaði einnig altari, skírnarfont og predikunarstól og smíðaði þau Friðgeir Kristjánsson Selfossi, en Ríkarður Jónsson myndhöggvari skar þau út. Er predikunarstóllinn helgaður minningu meistara Jón Vídalíns og setning úr einni ræðu hans skorinn í hann.
Á hátíðinni í Skálholtskirkju flutti dr. Steingrímur J. Þorsteinsson erindi um Jón Vídalín. Biskupinn las upp úr verkum hans og dr. Róbert A. Ottósson stjórnaði söng Skálholtskórsins og guðfræðistúdenta, forsöngvari var Kristinn Hallsson. Þá var almennur söngur og bænagjörð, sem sóknarpresturinn í Skálholti, sr. Guðmundur Ó. Ólafsson, annaðist.
Þess má geta, að dr. Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor, flutti í útvarp erindi í tveimur hlutum um líf og starf meistara Jóns. Fyrri hlutinn var fluttur á sunnudagskvöld og nefndist Ævi og Athafnir. Seinni hlutinn var fluttur í gærkvöldi, og nefndist Kennimaðurinn.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl 25.09.1955, Árni Óla, Garðakirkja á Álftanesi fer bráðum að rísa úr rústum, bls. 519-521.
-Fálkinn, Nútíma krossfarar á Álftanesi, Endurbygging Garðakirkju, 26. tbl 05.07.1961, bls. 6-9.
-Morgunblaðið 22. mars 1966, Garðakirkja endurvígð, bls. 21.
Garðakirkja 2021.
Þingvellir – P.E. Kristinan Kålund
Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.
Rit Kålunds.
Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.
Kristian Kålund segir m.a. eftirfarandi fróðlegt um Þingvelli:
Hlautsteinn við Brúsastaði.
„Um Mosfellsheiði liggur leiðin að hinum gamla þingstað, Þingvöllum. Farið er framhjá fyrst bæ í Þingvallasveit, Kárastöðum (norðar eru Brúsastaðir, og er sagt, að þar sé hringmynduð tóft, nefnt „Hof“), þá þegar er mikið stöðuvatn, Þingvallavatn, komið í augsýn ásamt fjöllunum handan vatnsins. Þá liggur vegurinn allt í einu niður milli hraunkletta, beygir skyndilega til vinstri og breytist í brattan stiga, sem liggur meðfram klettunum milli hraunrana niður í gjárbotninn. Þar er sem sé Almannagjá, sem nú er verið að fara niður í og vegurinn liggur gegnum eða réttara sagt á ská með háum vesturveggnum. Niður af þverhnípinu steypist eins og glitrandi hvítt band fallegur lítill foss, þar er Öxará og kemur að vestan.
Öxarárfoss.
Þegar Ketilbjörn fór í landkönnunarferð sinni frá Skálabrekku (þar sem hann hafði reist skála) kom hann, segir í Landnáma 385, að á þar sem þeir misstu öxi sína, og nefndu ána því Öxará. Sturl. I 57 bætir hér við mjög einkennilegri frásögn – sem er þó sennilega ekki annað en heimildarlaus sögusögn ð að ánni hafi síðan verið „veitt í Almanngjá og fellur nú um Þingvöll“. Það er sem sé ekki auðskilið hvers vegna menn hefðu farið að gera sér það ómak að veita Öxará, sem vestan Almanngjár rennur um lítt gróna hraunsléttu, niður í þetta gljúfur, hefði farvegur hennar ekki verið upphaflega þar; ekki verður heldur séð, hvernig hún hefði átt að renna í Þingvallavatn án þess að renna í Almannagjá.
Árfarið – gamli árfarvegur Öxarár – loftmynd.
Mjög glöggur farvegur liggur til vesturs frá Öxará. Hefst hann við ána rétt fyrir vesta Öxarárbrú vestur af Almanngjá, þá austan við Kárastaði og loks út í Þingvallavatn skammt austan Skálabrekku. Hefur Kålund ekki athugað staðháttu á þessum stað og telur frásögnina sennilega ekki annað en heimildarlusa sögusögn. Þremur árum eftir að I. b. bókar Kålunds kom út, kom Sigurður Vigfússon á staðinn (1880) og skoðaði farveginn rækilega og tók m.a. fram, að vatnasnúnar klappir sjáist í farveginum skammt austan Skálbrekku og sé hann kallaður „Árför“ eða „Árfar“, en fram undan árósnum heiti í vatninu „Urrðarálar“ og „Árfarsgrynning“ þar í kring. Kålund og Guðni Jónsson telja báðir erfitt að sjá, hvers vegna menn hefðu farið að gera sér það ómak að veita ánni niður í Almannagjá. En Jón Jóhannesson bendir á augljósa ástæðu. Hann aðhyllist skýringu Sigurðar Vigfússonar (Árb. Fornl. 1880-81) og segir síðan; „Það virðist því lítil ástæða að rengja þessa sögu, enda var það mikið hagræði fyrir þingsækjendur að hafa gnægð af fersku vatni á völlunum, auk þess sem ekki þarf að ætla fornmönnum, að þeir hafi verið sljóir fyrir þeim fegurðarauka, sem Öxará með fossi sínum er þingstaðnum“.
Öxará loftmynd. Enn er óljóst hvort áin hafi verið breytt í farvegi fyrrum eða hvort hún hafi einfaldlega breytt sjálf um farveg eftir jarðskjálftan 1789.
Árið 1789 varð mikill jarðskjálfti í þessum landshluta, Þingvallahrauni (þ.e. svæðinu milli Almanngjár og Hrafnagjár), og vatnið breyttist, norðurströndin seig niður fyrir vatnsborð; einnig varð hrun í Almanngjá, og á mörgum öðrum stöðum hrundu klettar. Fram að þeim tíma hafði þjóðleið til og frá Þingvöllum legið meðfram hallanum fyrir neðan austurbarm Almanngjár, og enn sjást merki um reiðgötur þar, en fast niður við vatnið lá leiðin þvert yfir sprungur og hraun – eða raunar þar fyrir neðan. Við landsig það sem varð af jarðskjálftanum, komst gamli vegurinn víða undir vatn og var lagður af.
Þingvellir til forna.
Um breytingar á Þingvallahrauni í jarðskjálftanum 1789, sjá Espólín, Árb. IX, b. 61. Við þetta má bera saman Nturhistorie-Selskabets Skriver III. B., útdrátt úr dagbók Sveins Pálssonar; hann segir þar (191), að við jarðskjálftann 1789 hafi allt landssvæðið milli Almanngjár og Hrafnagjár „sigið rúmlega alin eða meira, og var það auðséð á klettunum norðan til í Almanngjá, þar sem mátti mæla, hversu mikið jörðin hafi sigið, og hið sama má sjá að austanverðu á landinu við Hrafnagjá, en greinilegust sönnun var Þingvallavatnið sjálft, sem gekk langa leið yfir strendur sínar að norðan, en þornaði að sunnan. (Ferðabók 100)).
Þessi staður var valinn samkvæmt Íslendingabók (8) til allsherjar þingstaðar við stofnun Alþingis árið 930, eftir að Grímur geitskór (geitskör) hafði ferðast um Ísland í þrjú ár til að leita að Þingstað, og síðan hefur alþingi (hið yngra alþing), eða eins og síðar var kallað, eftir að landið hefði misst sjálfstæði sitt, Öxarárþing“ verið haldið þar, þangað til að það síðasta sem eftir var af gamla alþinginu hvarf í lok síðustu aldar.
Þingvellir – minjakort.
Náttúran hefur gert allt til að staðurinn væri hinn hentugasti til þinghalds (ekki aðeins staðurinn sjálfur er hagkvæmur, heldur enn fremur lega hans), og tilviljun hjálpaði einnig til, að landið lá á lausu. Maður er átti land í Bláskógum, hafði verið gerður sekur fyrir þræls morð eða leysingja er Kolur hét. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn til alþingis neyslu. „Af því er“, heldur Íslendingabók áfram, „þar almenning að viða til alþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossa hafnar.“
Við Kol er kennd, segir á sama stað, gjá sú, er síðan er kölluð Kolsgjá (Colsgeá) þar sem „hræin“ (flt) fundust.
Enginn veit nú neitt um Kolsgjá. Árni Magnússon, sem með mestu gaumgæfni safnaði fróðleik í meira en 40 ár til áðurnefndrar þýðingar Íslendingabókar, sem hann vann að frá því fyrir 1688 og allt til dauða síns 1730, tekur fram með tilliti til Kolsgjár: Kolsgjá er mér sögð að sé sunnanvert við pláss það er Leirur kallast norður frá Þingvelli – og bætir því við, að heimildarmaður hans hafi verið séra Þorkell Árnason (Dómkirkjuprestur í Skálholti 1703-7, sennilega sonur Árna prófasts Þorvarðarsonar, prests á Þingvöllum 1677-1702; sjá „Prestatal“ Sveins Níelssonar IV. 17. sbr. IV. 14), en séra Þorkell hafði það eftir mönnum, sem höfðu heyrt séra Engilbert nefna þess gjá þannig. Séra Engilbert Nikulásarson var prestur á Þingvöllum 1617-69 (Prestatal Sveins Níelssonar IV. 14). (Kolsgjá er sem sagt suðurendi Sleðásgjár, sunnan við Leirur).
Þingvellir 1906 – Ásgrímur Jónsson.
Bærinn Þingvöllur (nú prestsetur) er í nánu sambandi við Alþingi, einnig kirkja og kirkjugarður. Fast fyrir vestan prestsetrið er kirkjugarðurinn rétt við ána, kirkjan aftur á móti er nú norðan við bæinn á túninu, sem liggur nokkuð hátt. Samkvæmt Heimskringlu (II. 214), sbr. Flateyjarbók (III. 247, 344) má ætla, að Ólafur helgi hafi fyrstur látið reisa kirkju á Þingvelli; þó er nefndur í Njálu nokkrum árum áður „bænda kirkjugarður“ (312). Ólafur gaf við til kirkjunnar og klukku mikla (þá sem enn er þar); seinna sendi Haraldur harðráði aðra klukku til kirkjunnar. Hann hefur sennilega einnig sent við til smíðar hennar, a.m.k. er sagt (Kristni s. 30, Hungrv. 71), að í ofviðri á dánarári Gissurar biskups (1118) braut kirkju á Þingvelli, þá er Haraldur konungur Sigurðarson hafði gefið við til.
Finnur Jónsson segir í Kirkjusögu sinni (IV. b. sbr. Espólín, Árb. II 38-39), að Alexíus Pálsson, síðasti ábóti í Viðey, hafi fyrst) í upphafi 16. aldar) verið prestur á Þingvelli, og hann hafi látið flytja kirkjuna frá kirkjugarðinum, þar sem hún var, á þann stað þar sem hún er nú, vegna vatns sem vall upp úr jörðinni, og segir að sýndir séu stórir steinar, nefndir Ábótasteinar, í kirkjuvegg, sem þessi afar sterki maður á einn að hafa flutt.
Þingvallakirkja – alinsteinnin sést framan við kirkjuna.
Í Þingvallakirkju sagði lögsögumaður upp lögin, ef veður var illt (Grg. 117. gr.); þar voru þingheyjendur við guðsþjónustu, svo sem sjá má af sögum.
Um áðurndnda Ábótasteina segir Þingvallaprestur í fornminjaskýrslu sinni (1817), að Alexíus eigi að hafa flutt frá einhverums tað tvo steina, sem hér séu hvor í sínum kirkjukampi, og hinn þriðja, sem liggi fyrir kirkjudyrum.
Þingvallakirkja á 19. öld.
Steinninn í nyrðri vegg er sagður 2 álna hár og mjög breiður, en hinir 2 1/4 alin hvor, og sá sem er í suðurkampii sé stærstur og úr þyngstu bergi. Á honum og þeim sem liggur gagnvart dyrum á að vera gamalt alinmál. – Samkvæmt lagagrein, sennilega frá því um 1200 (Dipl. Isl. I 309, einnig prentað í Grágás II 250), var þá kvarði merktur á kirkjuvegg á Þingvöllum og í sjálfum lögunum, þar sem ákveðið var fyrir ókomna tíma við mælingu klæðis að nota stiku álnar langa; einnig var ákveðið að slík stika skyldi vera nerkt við hverja graftarkirkju.
Vant var að segjam hvort nokkuð er varðveitt af þessu gamla lengdarmáli sem merkt var á kirkjuvegg á Þingvöllum. Páll Vídalín segir í Fornyrðingum lögbókar í greininni „alin“ (þar sem hann reynir að sýna að gamla íslenska alinin hafi verið 18 1/2 þuml., og þvi hefði stikan verið um það bil ein sog enskur yard; sjá Dipl. Isl, I 306-308), að enginn um hans daga hafi þekkt þennan stein á kirkjuvegg á Þingvöllum, sem gamla alinmálið hafði verið höggvið á, og þar að auki bendir hann á, að kirkjan var flutt af sínum gamla stað. Þó segist hann hafa heyrt að á tímum þeirra sem lifðu í bernsku hans, hafi enn mátt sjá steininn í kirkjuveggnum.
Alin-málssteinninn framan við Þingvallakirkju – letur.
Jón Ólafsson frá Grunnavík segir í orðabók sinni undir orðunum „alin“ og „kvarði“ að presturinn á Þingvöllum, Markús Snæbjörnsson (sennilega þegar hann bjó hjá honum um þingtímann 1744) að þegar hann nálægt 1740 var að endursmíða kirkjuna, hefði hann fundið í grunninum bjarg, sem á var merkt alin, styttri en venjuleg alin (þá var venjulega notuð á Íslandi Hamborgaraalin, 21 9/11 þuml. löng (sjá Dipl, Isl. I 307), og áleit hann að þar hefði verið gamla íslenska alinmálið, sem átti að vera merkt á kirkjuvegg á Þingvöllum.
Alin-málssteinninn. Síra Guðmundur við steininn.
Þennan stein hafði prestur látið setja í vegginn að utan, svo allir gætu séð hann utan frá. Jón Ólafsson bætir við, að seinna hafi fólk sem kom á þingstaðinn, mælt alinmálið sem í steininn var höggvið, og fundið að að það kom nákvæmlega heim við þá lengd sem Páll Vídalín hafði sagt vera hina elstu íslensku alin. Fornminjaskýrslan frá upphafi þessarar aldar bendir ekki aðeins á einn, heldur tvo steina sem gamla alinmálið á að vera merkt á; af þeim var þó aðeins annar í kirkjuvegnum, en hinn fyrir framan kirkjudyr, stakur. Af honum er til teikning ásamt lýsingu eftir þáverandi kammerjunkt Teilmann, sem heimsótti Ísland 1820, af athugasemdum við teikninguna má sjá að þá hefur verið litið svo á að þvert yfir framhlið steinsins lægi lárétt lægð, um 5 kvartila löng, er skyldi sýna alinmálið (sem hefur þá nánast verið „stika“).
Einnig nú stendur fyrir kirkjudyrum steinn og talið er á hann sé höggvið alinmálið, sem er alveg eins og Teilmann sýndi. Auk áðurnefndrar lægðar er á framhlið steinsins níu mislöng skáset þverstrik, og er nú almennt litið svo á, að þau komi við alinmálinu, en Teilmann virðist ekki hafa ætlað þeim neina merkingu. Eru um 19 þuml. milli ystu (sem se nálægt því sem íslensk alin var). Varla er vafi, að þessi álnasteinn er hinn sami og Teilmann teiknaði, og sá sem Teilmann fann fyrir kirkjudyrum er hinn sami og fornminjaskýrslan lýsir, Ekki er gott að segja, hvar sé að leita hins álnasteinsins, þess í kirkjuveggnum, því að gamla torfkirkjan var rifin 1859 og timburkirkja kom í staðinn. Hitt verður að liggja milli hluta, hvort einhver þeirra álnarsteina sem nefndir eru í fornminjaskýrslunni, er sá sem Markús Snæbjörnsson fann (Sigurður Guðmundsson telur í „skýrsu um Forngripasafn Íslands I 117, að núverandi alinmálasteinn á Þingvöllum sýni hið rétta gamla alinmál, sem hann segir 17 1/1 þuml.“
Sjá meira um alinsteininn á Þingvölllum HÉR.
Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 65-106.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.
Þingvellir 1866.
Hrísbrú og Mosfell – P.E. Kristian Kålund
Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.
P.E. Kristian Kålund.
Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.
Kjósarsýsla – Egill Skalla-Grímsson
Rit Kålunds.
Kjósarsýsla hefur allt annað yfirbragð en Gullbringusýsla, og inn í hana liggur leiðin af Seltjarnarnesi. Þegar komið er yfir Elliðaár, blasir við mikill hluti Mosfellssveitar; eru þar einnig grýtt holt og ógrónir melar, en mestur hluti landsins er þó grösugur, sums staðar þýfðar mýrar eða engjadrög, en bæir með græn tún liggja dreift þar sem hærra er og þurrara, en smáfjöll og hæðir skipta bygðinni í daladrög og smábyggðir. Í fiskibyggðum er algengt, að bæir og hús standi saman í þyrpingum næstum eins og sveitaþorp í Danmörku, en upp til landsins er annar háttur á; aðeins hér og þar má sjá stóran bæ, þar sem landi hefur verið skipt og mynduð svokölluð hverfi eða þorp, heldur liggur hver bær venjulega út af fyrir sig mitt í landareign sinni.
Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.
En tvímælalaust er Mosfellsdalurinn, sem liggur nyrst, merkilegastur dalur í Mosfellssveit. Hann er þeirra stærstur og einnig merkilegur sögulega, því að þar dvaldist Egill Skalla-Grímsson síðustu æviár sín. Hann nær upp frá Leirvognum frá vestri til austurs. Norðan við hann er Mosfell, aflangt hvelft fjall, liggur í sömu stefnu og dalurinn, og hallast jafnt niður til austurs, nær í fremur lága heiði. Undir eða í suðurbrekku Mosfells eru þrír bæir, Hrísbrú, Mosfell og Minna-Mosfell. –
Mosfell.
Mosfell er myndarlegur bær, prestsetur og kirkjustaður, í miðið, Minna Mosfell. Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.
Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að
Mosfell 2024.
Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru „laugar“ og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur. Egill lést skömmu síðar og var fluttur niður í Tjaldarnes og orpinn haugur yfir hann. En þegar Grímur á Mosfelli var skírður, lét hann reisa þar kirkju (þ.e. á Mosfelli).
Gröf Egils Skalla-Grímssonar.
Er sagt, að Þórdís hafi þá látið flytja bein Egils til kirkjunnar. Til þess bendir, „að síðan er kirkja var gerð á Mosfelli, en ofan tekin á Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður“, og þá fundust undir altarinu mjög stór mannabein, sem að sögn gamalla manna voru bein Egils. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarðinum á Mosfelli. (Eg.s. 298-99). Meðal þeirra sem voru viðstaddir þegar þetta gerðist nefnir sagan Skafta prest Þórarinsson, en hann er telinn sá sem nefndur er lifandi árið 1143, og hafa menn því ætlað að kirkjan hafi verið flutt um miðja 12. öld.
Samkvæmt Gunnlaugs sögu (61) bjó höfðinginn Önundur nokkru síðar á Mosfelli, sem hafði goðorð „suður um nesin“, sonur hans var Hrafn, er fær að konu Helgu hinnar fögru í fjarveru sambiðils síns, Gunnlaugs ormstungu. Eftir að Gunnlaugur og Hrafn höfðu fellt hvor annan í hólmgöngu í Noregi, ríður Illugi, faðir Gunnlaugs með 30 menn til Mosfells. Önundur og synir hans komust í kirkju, en Illugi náði tveimur frændum hans og lét drepa anna, en fóthöggva hinn (Gunnlaugs saga 105).
Kýrgil – uppdráttur ÓSÁ.
Sjá má á frásögn Egils sögu, að kirkja sú er Grímur reisti, hefur staðið við Hrísbrú, en hún hefur ekki getað verið sjálfstæð jörð, því sagan segir, að kirkjan hafi verið á Mosfelli, en segir sjálf síðar, að hún hafi verið að Hrísbrú. Í samræmi við þetta er það, að rétt við bæinn Hrísbrú nokkur skref til útnorðurs, er hóll, Kirkjuhóll, þar sem gamla kirkjan á að hafa staðið. En bærinn hlýtur næstum að hafa staðið þar sem kirkjan var upphaflega reist. Svo sem áður hefur verið tekið fram, má það heita föst reglu á íslenskum kirkjustöðum, að kirkjan er upphaflega sett annaðhvort gagnvart eða fast við bæjarhús, fyrirkomulag sem var mjög hagkvæmt, svo sem sjá má af tilvitnunni í Gunnlaugs sögu, að kirkjuna mátti nota sem nokkurn veginn öruggt hæli, ef óvinir sóttu að.
Hrísbrú – túnakort 1916.
Ekkert er það heldur sem mælir á mót, að bærinn á Mosfelli hafi upphaflega staðið þar sem Hrísbrú er nú, og þessi staður hefði vel getað þótt heppilegastur fyrir fyrsta ábúanda; hér er fjallshlíðin hæst og graslendið breiðast þaðan og fram að mýrinni, og miðað við þann mikla búrekstur sem einkenndi höfuðbólin í fornöld er ekkert óeðlilegt að hugsa sér, að túnið hafi náð langt austur á við og jafnvel yfir tún Mosfells og Minna-Mosfells. Bærinn hefur auðvitað ekki breytt um nafn, þó að hann væri fluttur, aftur á móti hlaut bærinn, sem byggður var úr Mosfells landi og reistur var annað hvort samstundis eða síðar á gamla bæjarstæðinu, að fá nýtt nafn, og það kann að hafa legið beint við, þar sem Hrísbrú var, því að bærinn hefur verið nefndur eftir vegi, sem var lagður hrísi, og kann að hafa verið þess ærinn þörf á leið yfir mýrina fyrir neðan bæinn.
Tóft í Kýrgili.
Gilið sem sagan minnist á, þar sem Egill kynni að hafa falið fé sitt, er vafalaust Kýrgil, sem svo er nefnt; það liggur austan túns á Minna-Mosfelli; þar nær efst ofan úr fjalli niður í rætur og er alldjúpt, og rennur lítill lækur eftir botni þess. Auk þess eru tvö önnur gil, en miklu minni, í fjallinu milli Hrísbrúar og Mosfells.
Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; „Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar“, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að „jarðholnum“ við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist.
Minna-Mosfell. Fyrrum tjarnarstæði „Þrælapytts“,
Þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.
Sjá meira um Kýrgil og Þrælapytt HÉR.
Jón Ólafsson frá Grunnavík segir svo frá í stuttri íslenski ritgerð um fornminjar fundnar víðs vegar á Íslandi utan hauga“ (Addit, 44 fol.), að Erlendur bróðir hans – sýslumaður í Ísafjarðarsýslu – hefði sagt honum, að um 1725 þegar hann var á unga aldri var í þjónustu skólameistara í Skálholti, hefðu eitt sinn nokkru af földu fé Egils skolað fram í vatnavöxtum; hefðu um 3 peningar fundist, hefði hann séð einn þeirra og hefði hann verið á stærð sem tískildingur („tískildingr heill vorra tíma“); á honum hefði verið ógreinileg áletrun ef til vill ANSLAFR eða eitthvað þess háttar. Magnús Grímsson greinir frá munnmælum um, að fátækur bóndi eigi að hafa fundið fé Egils í Kýrgili, leynt fundinum, en allt að einu orðið auðugur maður.
Hrísbrúarsel ofan við Selás.
Ekki er ljóst, hvar selið hefur verið þar sem Þórdís dvaldist, meðan Egill kom áformi sínu fram. Norðan við Mosfell er dálítið hæðardrag, sem heitir Selás, og telja flestir að þar sé staðurinn. Nú eru selfarir sjaldgæfar á Íslandi, til þeirra þarf mikinn mannafla, en áhöfn sjaldan svo stór, að slíkt borgi sig. Mosfell er þó einn þeirra bæja, þar sem það hefur jafnan verið stundað, en á síðari tímum hefur seljalandið verið í hallanum í Mosfellsheiði niður í Mosfellsdalinn, þar sem heita Gullbringur.
Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?
Örnefnið Tjaldanes þekkist nú ekki, en lítill oddi, Víðiroddi (eftir nafni slétturnar Víðir), er þar sem árnar tvær renna saman, um 7-800 faðma suðvestan við Hrísbrú; liggur þarna yfir alfaraleið meðfram Köldukvísl, en einmitt oddinn á á vera áfangastaður sá sem nafnið Tjaldanes bendir á, og orð sögunnar „ofan í Tjaldanes“ eiga vel við staðinn; í oddanum er lítil hæð, sem gæti verið leifar af haug. Staðurinn er fallegur, og ef Egill hefur verið jarðsettur þar, hefur sannarlega verið vel valið.“
Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ“ 2006 segir m.a. um Hrísbrú:
„Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar getur um stæði kirkjunnar, sem þar var talin hafa verið: „Vestur af bæ er stór hóll, sem heitir Kirkjuhóll. Hann er norðvestur frá bæ; þar stóð kirkjan áður fyrr, og kirkjugarður var hér ofan við tröðina“ (Ari Gíslason). Svo segir Magnús Grímsson: „Þess er þegar getið, að þegar kristni var í lög leidd á Íslandi var Grímr að Mosfelli skírðr, og lét þar kirkju gjöra. En sú kirkja stóð á Hrísbrú. Er eptir því alllíklegt, að bær Gríms, sem þá var hinn eini undir fellinu, hafi staðið þar, sem Hrísbrú er nú, og skal þar um tala síðar betr. Grímr hefir byggt sína kirkju eptir árið 1000, líklega stuttu eptir, en hún stóð á sama stað þángað til í tíð Skapta prests Þórarinssonar, eðr þángað til um miðja tólftu öld. Þessi Skapti prestr Þórarinsson er að ætlan manna sá, sem talinn er meðal nokkurra presta, kynborinna íslenzkra, er uppi voru árið 1143. Og í formálanum fyrir Egils sögu (Rvík 1856, vi bls.) byggir Jón Þorkelsson á því þá ætlan sína, að kirkjuflutningurinn hafi farið fram einhvern tíma á árunum 1130-1160. Hefir því kirkjan staðið á Hrísbrú hérumbil … 150 ár“ (bls. 255). Talsverðar vangaveltur eru um hvar hinn fyrsti bær að Mosfelli hafi staðið. Kålund álítur að hann hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkjan á eftir (Kålund, bls. 50). Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig en kemst að annarri niður-stöðu en Kålund. Álítur hann frásögn Egils sögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta. Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Álítur Sigurður að kirkjan á Hrísbrú hafi verið flutt að Mosfelli á árabilinu 1130-1160 (Sigurður Vigfússon, bls. 62-74). Í útgáfu sinni að Egils sögu telur Sigurður Nordal líklegast að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum (Egils saga, bls. 298 n.m.).
Uppgröftur á Hrísbrú.
Sunnan við Köldukvísl er hluti af stykki því, sem nefnt er Víðir og er í eigu Hrísbrúar. Neðsti oddinn á Víðinum nefnist Tjaldanes en á nesi því var Egill Skalla-Grímsson heygður (Ari Gíslason). Haugurinn liggur fast við ána (Köldukvísl) að sunnanverðu, um 100 m frá oddanum, þar sem Suðurá og Kaldakvísl mætast. Um 50 m neðan (N) þjóðvegarins upp Mosfellsdal. Haugurinn er um 7,70 m langur í vestur og um 5 m í norður. Hann er á árbakkanum og sýnilegt er að áin hefur brotið talsvert af honum. Auðsætt er, að haugurinn hefur einhvern tíma náð talsvert lengra í norður, eða alveg að farveg árinnar nú. Upphafleg stærð hans hefur mjög líklega verið um 7,70 m í norður og vestur, sem jafnframt hefur verið þvermál hans í báðar áttir.
Víðirinn – gröf Egils.
Enn sést greinilega að haugur þessi, sem svo er kallaður, hefur verið hringlaga. Sker hann sig vel frá umhverfinu og sést nokkuð langt að, sjái maður oddann á annað borð. Haugurinn er hæstur um miðjuna um 0,5 m, en er aflíðandi í suður. Norðan miðju er hann mikið skemmdur, örugglega af vatnagangi árinnar, sem framhjá rennur. Fáeinar þúfnamyndanir eru utan á haugnum. Til að sjá er haugurinn eins og lág bunga eða upphækkun fremst á bakka Köldukvíslar. Nú er girðing yfir hann endilangan frá austri til vesturs. Land það, sem hann stendur á er nú notað til hestabeitar og er allt afgirt. Haugurinn er líkastur því, sem um náttúrumyndun sé að ræða, en skal þó ekkert fullyrt í þeim efnum. Engar hleðslur eru heldur sjáanlegar þar. Um 14 m sunnan við hauginn eru undirstöður stálgrindahúss eða bragga. Vestan við haug þennan er smáþýfi, um 20-50 m, og eilítið grænna. Líklega er þetta svona frá náttúrunnar hendi, e.t.v. getur lítil tóft eða tóftir leynst þarna þótt ótrúlegt sé (Ágúst Ó. Georgsson). Í Víðisoddanum er sagt að verið hafi áningarstaður ferðamanna fyrr á tímum.“
Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 31-37.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.
Hrísbrú – uppgröftur – skáli.
Fornleifaskráning í Mosfellsbæ 2001
Í Mosfellsblaðiðnu árið 2001 er m.a. fjallað um „Fornleifaskráningu í Mosfellsbæ„, s.s. Hraðaleiði, Hafravatnsrétt o.fl. Auk þess má þar lesa um Æsuleiði.
Mosfellsbær – bæjarmerkið: Höf. Kristín Þorkelsdóttir – TÁKN; A) Tilvísun til silfurs Egils Skallagrímssonar Dóttir Egils, Þórdís, bjó að Mosfelli og dvaldi hann hjá henni síðustu árin. Í nágrenni Mosfells á Egill að hafa falið silfursjóð sem Aðalsteinn hinn sigursæli Englakonungur gaf honum. Táknið er stílfærð mynd af þremur skjöldum sem prýddu bakhlið penings sem var í umferð á tíma Aðalsteins hins sigursæla. B) Þrír skildir fléttast saman og mynda samstöðu, sbr. þrjá byggðarkjarna fyrrum Mosfellshrepps: Mosfellsdalur, Reykjahverfi og „niðursveitin“.
„Á síðasta ári gerðu Mosfellsbær og Þjóðminjasafn Íslands með sér samning um skráningu fornleifa í landi Mosfellsbæjar. Skráningin er unnin í tengslum við vinnu við aðalskipulag bæjarins. Samkvæmt Þjóðminjalögum er skylt að skrá fornleifar á skipulagsskyldum Jarðatali J. Johnsens frá 1847. Samkvæmt Jarðatalinu voru 25 jarðir innan þess svæðis sem tilheyrir Mosfellsbæ í dag.
Jörðum hefur verið skipt upp og aðrar sameinaðar á þeim tíma sem liðinn er frá 1847. Sem dæmi má nefna jörðina Seljabrekku sem ekki verður tekin svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Eitt af markmiðum fornleifaskráningar er að sporna við því að minjar verði fyrir skemmdum af gáleysi eða að nauðsynjalausu.
Fornleifaskráning kemur að notum í minjavörslu þegar ákvarðanir eru teknar um aðgerðir til verndar einstökum minjastöðum eða minjasvæðum. Auk þess kemur hún að gagni í rannsóknum og kynningu. Það er einnig hagur þeirra sem stýra hvers konar framkvæmdum að eiga aðgang að yfírliti um fornleifar á tilteknu svæði. Segja má að við það vinnist tvennt. Unnt er að taka tillit til minjanna við skipulagsvinnu og nýta þær til að varðveita sögu staðarins í landslaginu. Einnig má minnka stórlega líkur á að finnist, öllum að óvörum, fornleifar sem nauðsynlegt verður að rannsaka. Auk kostnaðar við fornleifarannsóknir geta tafir á framkvæmdum haft mikinn kostnað í för með sér.
Hafravatnsrétt 2022.
Skráning fornleifa í Mosfellsbæ hófst árið 1980. Þetta var fyrsta skrá sinnar tegundar sem gerð var á Íslandi. Vinnubrögð við fornleifaskráningu hafa breyst mikið á þeim tíma sem liðinn er frá því að skráningin fór fram árið 1980 þó svo að hún standi ennþá vel fyrir sínu og verði notuð sem grunnur fyrir þá vinnu sem nú er hafin. Í fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands eru minjar skráðar í nýtt skráningarkerfi sem fengið hefur nafnið Sarpur. Fornleifar eru flokkaðar eftir jörðum og miðað bæði við opinbera fasteignaskrá og jarðaskiptingu eins og hún kemur fyrir í sem sérstök jörð í fornleifaskráningunni því árið 1847 tilheyrði hún landi Mosfells. Mannvirki sem eru 100 ára eða eldri eru skilgreind sem fornleifar. Því er eðlilegt að miða fornleifaskrána við jarðaskiptingu eins og hún var fyrir rúmum 100 árum.
Hraðaleiði.
Það eru ekki einungis leifar mannvirkja sem orðnar eru eldri en 100 ára sem eru skráðar. Þannig eru stríðsminjar teknar með í þessari skráningu. Og skráningin nær einnig út fyrir eiginleg mannvirki svo sem til álagabletta og annarra staða og kennileita sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnarhefð.
Mosfellsbær – skilti við Mosfell.
Vinnu við fornleifaskráningu má í stórum dráttum skipta í tvennt. Fyrri áfanginn felur í sér gagnaöflun. Farið er í gegnum ritaðar heimildir, bækur er fjalla um sögu svæðisins, jarðabækur, fornbréfasafn, örnefnalýsingar, túnakort o.fl. Allt er tínt til sem gæti bent til fornleifa. Örnefni geta t.d. falið í sér vísbendingu um að þar hafi staðið mannvirki.
Í Mosfellbæ eru til mörg slík örnefni, t.d. Rögnvaldarstekkur, Stekkjarmýri, Miðdalskot, Kvíaból, Keldnasel, Rikkudys, Reykjalaug, Skólavarða, Jónssel, Markasteinn, Skiphóll, Hraðaleiði, Lambalækur, Móholt, Blikastaðavað og Hafravatnsrétt. Þessum fyrri áfanga fornleifaskráningarinnar í Mosfellsbæ er nú lokið. Heimildum hefur verið safnað um 626 fornleifar í landi bæjarins. Í síðari áfanganum felst að farið er á vettvang og athugað hvort enn finnist leifar þeirra mannvirkja sem gagnasöfnunin leiddi í ljós að verið hefðu á svæðinu i eina tíð.
Nessel.
Ástand fornleifanna er metið og staðsetning þeirra færð inn á kort. Vettvangsvinnan verður unnin í sumar. Gefin verður út skýrsla með skrá yfir allar fornleifar í Mosfellsbæ. Eins og áður segir er fornleifaskráningin unnin í tengslum við vinnu við aðalskipulag bæjarins. Vonandi verður fornleifaskráin þó gefin út þannig að hún verði öllum aðgengileg. Vönduð útgáfa fornleifaskráningar í Mosfellsbæ ætti að geta nýst mjög mörgum, t.d. fræðimönnum til rannsóknarstarfa, skólar bæjarins geta unnið verkefni upp úr henni fyrir nemendur sína, bæjaryfirvöld geta notað hana í kynningu bæjarins út á við og síðast en síst getur fólk sem nýtur útivistar í bæjarfélaginu kryddað göngutúra og reiðtúra með fróðleik úr henni um umhverfi sitt.
Æsuleiði – Bjarki Bjarnason stendur á leiðinu.
Þegar farið er að glugga í gamlar heimildir er ótrúlega margt sem kemur á óvart og aðeins virðist á fárra vitorði. Þessu til staðfestingar skulu tekin hér nokkur dæmi úr áfangaskýrslu Þjóðminjasafns Íslands. Býlið Hamrahlíð var við rætur samnefndrar hlíðar og mun hafa staðið fyrir neðan veginn á móts við hlið á girðingu Skógræktarfélags Mosfellssveitar. Var hjáleiga frá Blikastöðum. Byggð um 1850 og búið á henni að minnsta kosti til 1890. Rústir býlisins sást enn. Um 150 m norðnorðaustan bæjarins á Helgafelli er í brekkunni hóllinn Hjálmur. Sagnir eru um að í Hjálmi væri bústaður álfa.
Fornleifauppgröftur í Hamrahlíð.
Á landamerkjum Mosfells og Hraðastaða um 20-30 m norðan við Köldukvísl er hóll sem nefndur hefur verið Hraðaleiði. Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessóknar frá 1855 segir: Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, er hafí fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þar, er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.
Í Bjarnavatni, þar sem Varmá á upptök sín, segir þjóðsagan að búið hafi nykur. Nykur var talin vera skepna af öðrum heimi og líktist hesti, steingráum. Þessa skepnu mátti vart þekkja frá hesti nema á hófunum sem snéru öfugt.
Bjarnarvatn.
Nykrar höfðu þá ónáttúru að ef maður settist á bak límdist maður við bakið og skepnan stormaði beint í vatnið sitt og heimkynni með mann á baki og voru það hans endalok.
Brauðhver var austast í landi garðyrkjubýlisins Bjargs við Skammadalsveg. Eins og nafnið ber með sér var bakað í honum brauð. Á Suður-Reykjum var kirkja. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð en talið er að hún hafi verið austan og sunnan við núverandi íbúðarhús Jóns M. Guðmundssonar. Kirkjunnar er fyrst getið í máldaga Þorláks biskups Þórhallssonar frá um 1180. Hún var lögð af með konungsbréfi 1765.
Helgusel.
Norðan undir Grímmannsfelli, undir hárri og fagurri brekku niðri við Köldukvísl, á norðurbakka hennar, eru rústir hins svo kallaða Helgusels. Sagt er að Helga, dóttir Bárðar Snæfellsáss, hafi hafst þar við um hríð og við hana sé selið kennt.
Hafravatnsrétt.
Innan Mosfellsbæjar eru friðlýstar fornleifar á fjórum stöðum. Hafravatnsrétt er þar á meðal. Í þjóðminjalögum stendur m.a.: Friðlýstar fornleifar skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Því miður hefur Hafravatnsrétt ekki notið þeirrar friðhelgi sem lögin kveða á um. Eins og sést á þeim tveimur myndum af réttinni sem fylgja þessari grein þá hefur hún látið mikið á sjá á síðustu 20 árum. Nauðsynlegt er að ráðist verði í viðgerð á réttinni sem fyrst svo að hún fái aftur það tignarlega útlit sem hún hafði áður.“ – Agnes Stefánsdóttir og Kristinn Magnússon, fornleifafræðingar.
Í Selfossi í desember 2014, er m.a. fjallað um Hraðastaði og sýnd mynd af bænum.
Hraðastaðir fyrrum.
„Síðasta bæjarmynd reyndist vera af Hraðastöðum í Mosfellssveit (Mosfellsbæ). Guðbrandur Jóhannesson segist hafa alist upp á bænum og þar búa foreldrar hans núna. Eins og sjá má er ekki komið rafmagn í bæinn þegar myndin er tekin. Auk húss er fjós og hlaða á myndinni. Gamla bæinn vildi heimafólk gefa sveitarfélaginu en það þáði ekki. Morgunblaðið segir frá þvi 10. desember 1988 en þá leit bærinn út eins og þessi mynd ber með sér. Fyrirsögnin var: Sögulegt gildi Hraðastaða ekki talið vera 3 m. kr. virði – segir Páll Guðjónsson bæjarstjóri. Það var sem sé talið að það myndi kosta þetta mikið að endurbyggja.
Mosfell 2024.
Sigurður Vigfússon rannsakar fornleifar í Borgarfirði 1884 og segir um Hraðastaði í Árbók fornleifafélagsins 1884: Hraðastaðir sýnast vera landnámsjörð og snemma bygðir; eru þeir líklega kenndir við Hraða þann, er Landn. nefnir bls. 53, sem fyrr segir. Hraðastaðir eru fyrir sunnan ána, er rennur fyrir sunnan Mosfell, enn standa nokkuð ofar undir Grímmannsfelli (Grrímarsfelli réttara). Skammt fyrir neðan Hraðastaði, suður viðs yðri ána, er dálítill hóll, sem kallaður er Hraðaleiði. Hraðablettur er og kallaðr fyrir ofan Hraðastaði upp með Grímmannsfelli.“
Gröf Egils Skalla-Grímssonar.
Í Alþýðublaðinu í maí 1964 fjallar Ragnar Lár m.a. um Æsu og Hraða, auk Egils Skallagrímsson:
„Mörg vötn hafa runnið til sjávar síðan, en dalurinn er sjálfum sér líkur, þó nokkuð hafi hann að sjálfsögðu breytt um svip, með tilkomu nýrra bygginga og ræktunarframkvæmda. Hér stendur Mosfell þar sem Egill Skallagrímsson lifði seinustu ár ævi sinnar og í þessum dal er gullið hans fólgið, en hvar, veit enginn.
Þarna eru Æsustaðir, en þar bjó Æsa, tröllkona, forðum, og sér ennþá móta fyrir leiði hennar í túninu. Æsa lézt af sárum, er hún hlaut í bardaga við Hlaðgerði í Hlaðgerðarkoti, en þær áttu í erjum og gengu loks hvor af annarri dauðri í bardaga. — Nú er mæðraheimili í Hlaðgerðarkoti, en þar koma mæður á sumrin til að hvíla sig, en heimilið er rekið af Mæðrastyrksnefnd. Þarna eru Hraðastaðir, en þar bjó Hraði sá, er þræll var — en fékk land og frelsi.
Æsustaðir.
Fyrir nokkrum áratugum var kirkja lögð niður að Mosfelli, en flutt að Lágafelli. Þetta þótti mörgum miður og þá sérstaklega „dalbúum,“ enda sjónarsviptir fyrir þá. Einn bóndinn í dalnum gerði sér lítis fyrir og náði í kirkjuklukkuna og kvaðst ætla að varðveita hana, þar til kirkja yrði reist á Mosfelli að nýju.
Þegar við ökum í borgina á ný, og virðum fyrir okkur þéttbýli sveitarinnar kemur okkur í huga hversu langt þess verði að bíða að engin Mosfellssveit verði til lengur — aðeins Reykjavík. En nú þegar hefur hún teygt umráðasvæði sitt upp að Korpúlfsstöðum, en sú var tíðin að Mosfellssveit átti land niður að Elliðaám.“
Biskupsklettur í Skammadal.
Í Dagblaðinu Vísir í júní 1986 er „Gengið á Helgafellið að austanverðu“. Þar er m.a. getið um hólinn Hjálm á Helgafelli og Biskupsklett í Skammadal.
Helgusel (Mosfellssel) í Bringum.
„Við höfum áður athugað gönguleiðina á Úlfarsfell og farið með fjörum í Mosfellssveitinni. Í dag skulum við stefna á „auðvelda“ gönguleið og veljum Helgafellið. Á Íslandi eru mörg fjöll eða fell sem heita þessu nafni og þau eru hvert öðru lík. Helgafell í Mosfellssveit blasir við byggðinni og er freistandi að ganga á það og er það tiltölulega auðvelt.
Gott er að fara austur fyrir fellið og koma að því leiðina úr Mosfellsdalnum. Beygt er til suðurs af veginum þar sem fólk úr Reykjavík fer til þess að sinna kartöflugörðum sínum sem eru þarna á fellsöxlinni í litlu dalverpi. Takið fyrsta afleggjarann til hægri þegar ekið er austur Mosfellsdal.
Stekkur í Stekkjarmýri.
Þegar komið er upp er komið að svonefndum Stórhól sem er klettarani austur úr Helgafelli. Skarð er í fellið á þessu svæði en það skilur á milli hólsins og fellsins og heitir þar Stekkjarmýri. Síðan er haldið á fellið. Sé staldrað við og litið um öxl blasir við Skammidalur og eiga ýmsar jarðir þar land auk Helgafells. Að norðanverðu er Hlaðgerðarkot eða Reykjahlíð, eins og það er nú kallað. Þessi jörð er í eigu Reykjavíkurborgar. Þá koma Norður-Reykir sem eru í eigu Mosfellshrepps. Þar austur af er land Æsustaða og Æsustaðafell lokar dalnum að norðaustan og við tekur Vetrarmýrarháls. Þar mætast landamerki jarðanna Æsustaða, Suður-Reykja og Helgadals að hluta.
Sæluhús við Moldarbrekkur.
Skammidalur er í raun tvískiptur í fremri og innri Skammadal. Klettur sá er dalnum skiptir heitir Biskupsklettur. Reykjabunga eða Reykjafell eins og margir kalla það, blasir við til suðurs en norðurhlíðar þessu eru brattar og grýttar. Biskupsklettur hefur ugglaust fengið nafn sitt af því að þar má greinilega sjá mannsmynd ef skoðað er frá gömlu mógröfunum á Reykjum sem eru í hinum svokallaða fremri Skammadal.
Er komið er upp á Helgafellið liggur svonefnd Langatorfa suður og ofan af því á móts við bæinn að Helgafelli.
Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.
Að norðvestan er örnefnið Hjálmur við vesturhornið og Hjálmsmýri þar norður af. Norðan við fellið er skriða niður á jafnsléttu en þar tekur við gróinn mýrarfláki, sem heitir Langamýri og er sunnan þjóðvegarins, norðan Helgafells.
Útsýni af fellinu er ekki veruleg en þaðan sést byggðin í Mosfellssveit frá nýju sjónarhorni.
Leiðin vestur af og heim á leið blasir nú við og er auðveld og komið er niður í íbúðarhverfi þar sem götunöfnin enda á -fell.“ – Unnið úr leiðarlýsingum eftir Jón M. Guðmundsson. -A.B.
Fleiri lýsingar af fornleifum og fornleifaskráningum í Mosfellsbæ eru að finna á vefsíðunni – ef grannt er skoðað…
Heimildir:
-Mosfellsblaðið, Fornleifaskráning í Mosfellsbæ, 6. tbl. 01.06.2001, bls. 15.
-Selfoss, 23. tbl., 04.12.2014, bls. 14.
-Alþýðublaðið, Dagstund í sveitasælu, Ragnar Lár, 109. tbl. 16.05.1964, bls. 4-5.
-Dagblaðið Vísir, Gengið á Helgafellið að austanverðu, 138. tbl. 21.06.1986, bls. 8.
Helgafell – örnefni.
Reykjaveita – skilti
Við göngustíg bak við Þverholt 1 í Mosfellsbæ er upplýsingaskilti um „Reykjaveituna„, auk nokkra metra af leifum hans:
Mosfellsbær – Reykjaveita.
„Jarðhoti í Mosfellsbæ er einkum á tveimur lághitasvæðum, í Mosfellsdal og Reykjahverfi. Á Suður-Reykjum var íbúðarhús hitað upp með hveravatni í fyrsta skipti á Íslandi, árið 1908. Þar var einnig fyrsta upphitaða gróðurhús landsins reist, árið 1923.
Með vaxandi þéttbýli í Reykjavík á 20. öld jókst orkuþörfin og möguleikar voru kannaðir til að leita heitt vatn úr Mosfellssveit til borgarinnar. Hitaveituhjólin tóku að snúast árið 1933 þegar bormenn Íslands tóku til óspilltra málanna í Reykjahverfi og næstu 15 árin voru boraðar þar rúmlega 40 holur sem voru 135-721 metrar á dýpt með um 85 gráðu heitu vatni.
Á áttunda áratugnum vann Hitaveita Reykjavíkur að stórvirkum borunarframkvæmdum í Reykjahverfi. Urðu holurnar dýpri og á annað hundrað áður en yfir lauk. vatnsmagnið sjöfaldaðist og var nauðsynlegt að leggja nýjan hitaveitustokk til Reykjavíkur sem leysti þann gamla af hólmi.“
Mosfellsbær; Reykjaveita – skilti.
Hitaveitustokkur – skilti
Við göngustíg bak við Þverholt 1 í Mosfellsbæ er upplýsingaskilti um „Hitaveitustokkinn„, auk nokkra metra af leifum hans:
Hitaveitustokkurinn.
„Hér til hliðar má sjá hluta af hitaveitustokknum sem lagður var frá Dælustöðinni á Reykjum gegnum Mosfellssveit og til Reykjavíkur. Smíði stokksins hófst árið 1929. hann var rúmlega 15 km langur og meðal annars lagður yfir Varmá, Úlfarsá og Elliðaárnar í hitaveitutankana í Öskjuhlíð.
Tvær stálpípur voru í stokknum og fluttu 250 sekúndulítra af hveravatni til höfuðborgarinnar. Reiðingur (torf) var notaður til að einangra rörin og hænsnanet vafið utan um. Reyndist reiðingurinn ágætt einangrunarefni, að vísu eldfimur og gat skapað hættu þegar rörin voru rafsoðin.
Hinn 30. nóvember 1943 var vatni úr Reykjaveitu hleypt í fyrsta skipti á hús í Reykjavík. Þar var um að ræða Hnitbjörg, listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti.“
Mosfellsbær; Hitaveitustokkur-skilti.
Garðakirkja – endurbygging
Í Lesbók Morgunblaðsins 1955 fjallar Árni Óla um Garðakirkju á Álftanesi, sem „Bráðum fer að rísa úr rústum„:
„Garðar á Álftanesi eru ekki taldir með landnámsjörðum, en þó mun hafa verið sett byggð þar þegar á landnámsöld. Jörðin er í landnámi Ásbjarnar Özzurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og eftir því sem næst verður komizt, hét sá Þjóstarr, er þar bjó fyrstur. Hann var kvæntur Iðunni dóttur Molda-Gnúps, landnámsmanns í Grindavík, og er talið að þau hafi átt þrjá sonu. Einn þeirra var Þorkell, er fór einhver fyrstur manna hér á landi alla leið suður til Miklagarðs, dvaldist þar nokkur ár og var „handgenginrt Garðskonunginum.“
Annar sonur Þjóstars var Þormóður, er bjó að Görðum eftir föður sinn. Hann var kvæntur Þuríði dóttur Avangurs hins írska, er fyrstur byggði að Botni í Hvalfirði, og smíðaði sér haffært skip úr skógi þeim er þar var þá. Getið er tveggja barna þeirra Þormóðar, Barkar er átti Hallvöru dóttur Odda Ýrarsonar, og Jórunnar. — Landnáma segir frá því, að þeir Illugi rauði og Hólm-Starri hafi haft skifti á jörðum, konum og lausafé. Sigríður kona Illuga hengdi sig þá í hofinu á Hofstöðum í Reykholtsdal, „því að hún vildi ekki mannakaupið“. Ekki er getið um konu Starra, en líklega hefur hann tekið hana aftur þegar þannig fór um Sigríði, því að upp úr þessu fekk Illugi Jórunnar frá Görðum.
Garðakirkja 1960.
Um þessar mundir bjó i Vælugerði í Flóa sá maður er Öra hét. Svo er sagt að eftir ráðum Marðar gígju hafi hann orðið sekur þannig að hann skyldi falla óheilagur fyrir sonum Önundar bílds, nema í Vælugerði og örskotshelgi við landeign sína. Einu sinni rak Örn naut úr landi sínu og var þá veginn, og héldu allir að hann hefði fallið óheilagur. En Þorleifur neisti bróðir hans, keypti af Þormóði Þjóstarssyni í Görðum, er þá var nýkominn út á Eyrarbakka, að hann helgaði Örn. „Þormóður skaut þá skot svo langt af handboga, að fall Arnar varð í örskotshelgi hans“.
Má á þessu sjá, að Þormóður hefur verið íþróttamaður og nafnkunnur bogmaður. Synir Þjóstars hafa því þegar gert garðinn frægan, þótt ekki fari af þeim neinar sögur.
Garðakirkja 1956.
Og allt frá þeim tíma hafa Garðar verið merkur staður. Kirkja hefur sennilega verið reist þar skömmu eftir kristnitöku. Var hún helguð Pétri postula og er til skrá um presta þar síðan 1284. Þar var í gamla kirkjugarðinum svonefndur „vökumaður“. Var það trú hér á landi um eitt skeið, að sá, sem fyrstur væri grafinn í kirkjugarði, rotnaði ekki, heldur héldi stöðugt vörð um garðinn. Segir sagan, að eitt sinn er verið var að taka gröf í útnorðurhorni kirkjugarðsins, áður en hann væri færður inn“, þá var komið niður á rauðklæddan mann, órotinn, og skipaði prestur að byrgja gröfina þegar. Þetta hefur átt að vera einhver fornmaður í litklæðum, og hann vakir enn yfir kirkjunni, sem nú er líka utangarðs.
Torfkirkja var í Görðum öld fram af öld. En um miðja fyrri öld er komin þar timburkirkia. Hún entist illa og var orðin óhæf til messugerðar 1878. Þá var Þórarinn Böðvarsson prestur að Görðum. Hann vildi að söfnuðurinn tæki að sér kirkjuna og flytti hana til Hafnarfjarðar, en þar var þá meginhluti safnaðarins. Sóknarnefndin mun ekki hafa treyst sér til þessa, og varð það því úr, að ný kirkja var reist að Görðum og var hún hlaðin úr steini.
Þykir mér líklegt að notað hafi verið kalk úr Esjunni til þess að líma grjótið saman. Var kalkbrennslan í Reykjavík þá í fullum gangi, og þeir munu hafa verið vel kunnugir Egill Egilsen forstjóri kalkbrennslunnar og séra Þórarinn Böðvarsson. Kirkja þessi var reist árið 1879. Þótti hún merkilegt hús.
Þegar kom fram yfir aldamótin var farið að tala um það í fullri alvöru að reisa nýja kirkju í Hafnarfirði, og var séra Jens Pálsson því mjög fylgjandi. Hann átti þá 2500 kr. hjá kirkjunni, en bauðst til þess að láta þá skuld falla niður, ef söfnuðurinn vildi taka kirkjuna að sér og reisa nýtt guðshús í Hafnarfirði. Varð það svo úr, að með samningi gerðum 6. marz 1910, afhenti hann sóknarnefnd Garðakirkju til umsjónar og fjárhalds, og með þessum samningi gaf hann eftir skuld kirkjunnar við sig.
Garðakirkja – kertastjakar, nú í vörslu Þjóðminjasafnsins.
Eigi varð þó úr því þá þegar að farið væri að reisa kirkju í Hafnarfirði. En það sem reið baggamuninn í því efni var stofnun fríkirkjusafnaðar í Hafnarfirði veturinn 1913, og að hafin var bygging fríkirkju þar þegar á sama ári. Þá vildi þjóðkirkjusöfnuðurinn ekki láta sitt eftir liggja og reisti þar kirkju árið eftir. Var þá ákveðið að leggja Garðakirkiu niður og flvtja gripi hennar í nýju kirkjuna.
Þykir rétt að birta hér skrá yfir þá gripi, er Hafnarfjarðarkirkja fekk hjá Garðakirkju: Altaristafla (olíumálverk af upprisu Krists), harmoníum, skírnarfontur úr nýsilfri á tréfæti, tvö sálmanúmeraspjöld með tölum, 16 kerta ljósahjálmur úr látúni, 8 kerta ljósahiálmur kominn frá dómkirkjunni í Reykjavík, 6 kerta ljósahjálmur, 4 kerta glertalnahjálmur, tvær þríarmaðar ljósliljur úr látúni, 9 þríarmaðar ljósaliliur frá dómkirkjunni í Reykjavík, þrennir altarisstjakar og fvlgdu þeim tvö kertahvlki úr piátri, kirkjukaleikur úr silfri með patínu úr sama efni, oblátudósir úr nýsilfri, lítill þjónustukaleikur úr nýsilfri með tréhylki, lítill gamall þjónustukaleikur úr tini o. fl.
Hökull úr rósofnu flosi með gulum blómum stórgerðum og er ofið gullvír í, en gyltar smáþynnur (paillettur) saumaðar á: rósofinn gullvírsborði er við jaðra og um hálsmál og í krossi á baki: fóðrið úr ljósbrúnu lérefti: krækt á vinstri öxl. Getið fyrst í visitatiu 1769 (sbr. 1780), en virðist miklu eldri.
Auk þessa voru öll altarisklæði, gömul og ný, og ennfremur graftól.
Inni í kirkjunni að Görðum voru 8 minningarspjöld á veggjum. Þau voru ekki flutt til Hafnarfjarðar, heldur í Þjóðminjasafnið og eru nú geymd þar. (Á safninu er einnig fjöldi gripa frá Garðakirkju).
Seinasta guðsþjónusta var haldin í Garðakirkju 23. sunnudag eftir trinitatis 1914 (15. nóvember), en þjóðkirkjuna nýju í Hafnarfirði vígði Þórhallur Bjarnarson biskup 20. desember sama ár. Kom nú til orða að selja Garðakirkju til þess að afla fjár vegna kirkjubyggingarinnar, en það fórst þó fyrir.
Stóð nú Garðakirkja auð og hrörnaði óðum, svo að blöskraði öllum þeim, sem báru hlýjan hug til hennar. Og árið 1916 bundust 10 menn samtökum um að bjarga kirkjunni. Það voru þeir: Ágúst Flygenring kaupmaður, Carl Proopé kaupmaður, Chr. Zimsen umboðsmaður, Einar Þorgilsson kaupmaður, Gunnar Egilsson skipamiðlari, Jes Zimsen kaupmaður, Jón Einarsson verkstjóri, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason verkstjóri og Þórarinn Egilsson útgerðarmaður. Eru þeir nú allir látnir, nema hinn síðastnefndi. Einhver viðgerð fór nú fram á gömlu kirkjunni, en dugði lítt.
Minningartafla um séra Markús Magnússon, prest í Görðum á Álftanesi 1781-1825.
Tímans tönn gnagaði viði kirkjunnar jafnt og þétt, þótt lítið bæri á. Seinast var svo komið, að menn óttuðust að turninn mundi hrynja. Þá var hann rifinn, þakið tekið af og allt rifið úr kirkjunni innan veggja. Síðan hefur steintóttin staðið þarna gnapandi um langa hríð, en hún hefur látið furðu lítið á sjá. Vindar hafa gnauðað á henni, regnið hefur lamið hana, frost og snjór hafa kreist hana köldum greipum, en hún stóðst allt þetta. Má á því sjá hve vel hefur verið gengið frá veggjunum. Eru þeir og snilldar vel hlaðnir, og skyldi steinninn hafa verið límdur með kalki úr Esjunni, þá þarf engan að undra þótt kirkjurústin hafi staðið af sér öll veðraáhlaup um mörg ár, því að það kalk hefur reynzt óbilandi. Sama sumarið og Garðakirkja var reist, var reist steinhús í Reykjavík og límt með Esjukalki. Það stendur enn í Lækjargötu og sér ekki nein ellimörk á því, enda þótt það sé 75 ára gamalt. Eins hefði kirkjan getað staðið enn hnarreist og tíguleg, ef henni hefði verið sómi sýndur.
Garðakirkja fyrrum.
Þótt marga tæki það sárt hvernig fór um Garðakirkju, þá var eins og örlög hennar væri orpin þögn og hyldist í einhverri móðu. Það var engu líkara en að Hverfisdraugarnir sem séra Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum, setti niður í Stíflishólum á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Garða fyrir tvö hundruð árum, hefði losnað og villtu nú mönnum sýn hálfu meir en þeir höfðu áður gert. Það var eins og aðalsöfnuðurinn, sem nú átti heima í Hafnarfirði, gæti ekki séð út að Görðum. En öldruðu fólki úr Garðahverfinu, sem fór til kirkju inn í Hafnarfjörð, vöknaði jafnan um augu er það gekk fram hjá rústum Garðakirkju.
Nú er niðurlægingar tímabil gömlu Garðakirkjunnar senn á enda. Hún verður bráðum færð í sinn fyrra búning.
Árið 1053 var Kvenfélag Garðahrepps stofnað, og á stofnfundi þess var þegar rætt um, að eitt af því sem félagið ætti að beitast fyrir, væri að reisa Garðakirkju úr rústum. Síðan hafa 60 samhuga konur unnið að þessu í kyrrþey.
Grafskriftarspjald úr furu málað svart með úrskurði á, á báðum endum og við brúnir, gulmáluðum, og myndast við það eins og umgjörð: lengd mest 148 cm. og br. mest 73 cm.: útskurðurinn er í skelstíl, laglegt verk. Áletrunin er með gyltu skrifletri, nema nafnið, sem er með rómönsku upphafstafaletri. Grafskriftin er yfir norskan skipstjóra, Robert Walls, d. 9. ágúst 1788. – Grafskriftar þessarar er getið í visitatiu Hannesar biskups Finnssonar 1791.
Og þar sem konurnar leggjast á sveif, á við gamla vísan: Fram skal ganga haukur núna hvort hann vill eður ei. Hér mun og svo fara. Það er eins og sérstök blessun hafi fylgt þessu máli. Fjöldi manna, sem ber hlýjan hug til Garðakirkju, en hafði gleymt henni, hefur nú vaknað við, er konurnar voru komnar á stað, og ýmist lagt fram fé, eða lofað fé til viðreisnar kirkjunni. Aðrir munu á eftir koma. Og sóknarnefndin hefur þegar afhent félaginu kirkjurústina til eignar. Konurnar hafa fengið sérfróða menn til þess að athuga veggina til þess að ganga úr skugga um, að þeir sé enn svo sterkir að forsvaranlegt sé að byggja ofan á þá. Og veggirnir hafa staðizt prófið.
Verður nú brátt hafizt handa um að gera við veggina og koma þaki á kirkjuna. Er það ætlan Kvenfélagsins að gera kirkjuna aftur sem allra líkasta því er hún var áður, meðan hún var ein af snotrustu og merkilegustu kirkjum landsins. En þegar því er lokið er það annarra en Kvenfélagsins að ákveða hvort hún skuli gerð að sóknarkirkju aftur.
Margar minningar eru bundnar við Garða, og sú ekki sízt, að þar fæddist Jón biskup Vídalín árið 1666. Finnst mönnum ekki eðlilegt að kirkja ætti að vera einmitt á þeim stað, þar sem áhrifamesti kennimaður Íslands fæddist?
Garðakirkja var upphaflega helguð Pétri postula, þeim mikla kennimanni frumkristninnar. Nú þegar hún rís af grunni aftur, þá mætti hún vel heita Vídalínskirkja.“ -Á.Ó.
Í Fálkanum 1961 fjallar Sv.S um „Nútíma krossfara á Álftanesi“ og endurbyggingu Garðakirkju:
„Fálkinn heimsækir hóp erlendra sjáffboðaliða sem vinna í sumar vii að byggja upp Garðakirkju á Álftanesi.
Þeir, sem að undanförnu hafa átt leið fram Garðaholtið, hafa vafalaust tekið eftir framkvæmdum, sem nú eru hafnar við hina gömlu Garðakirkju. Þarna vinnur flokkur fólks frá fjórum löndum, og flest er fólkið komið langt að. Og þau sem þarna vinna, gera það ekki vegna vonarinnar um jarðneskan auð. Allt eru þetta sjálfboðaliðar, en fá húsaskjól og mat í samkomuhúsinu á Garðaholti.
Þegar við fórum þarna suðureftir fyrir nokkrum dögum, var heldur kalt í veðri, en vinnufólkið stóð snöggklætt við mokstur og akstur og það ríkti áhugi og starfsgleði. Stúlkurnar voru í meirihluta. Þær kepptust við að moka möl í hjólbörur, sem piltarnir óku, og í því að okkur bar að kom Hermann Ragnars danskennari, með fullar hjólbörur á fleygiferð, ók upp mjóan planka inn í kirkjuna og kom að vörmu spori með tómar börurnar út aftur. Meðan mokað var í börurnar hans, notuðum við tímann til spjalls.
Bragi Benediktsson.
—Hér vinnum við tuttugu og níu að viðgerð á kirkjunni, sagði Hermann, og þetta er fólk úr ýmsum áttum, fimmtán Bandaríkjamenn, sex Englendingar, einn frá Kanada, og svo erum við sjö Íslendingar.
— Hver kostar ferðir fólksins hingað?
— Hver og einn kostar sig sjálfur og margir eru komnir langt að. Bandaríkjafólkið hafði t. d. ekki sézt fyrr en í New York. Sama er að segja um Bretana. Þeir þekktust ekki fyrr en í ferðinni. Við, sem hér erum, búum öll í samkomuhúsinu hér á Garðaholti meðan á þessu stendur. Dagurinn er skipulagður, vinna og hvíldarstundir og alls vinnum við sjö tíma á dag. Fólkið, sem hér vinnur, er allt mótmælendatrúar, og ekki í neinum sértrúarflokki þar utan. Mér virðist það gera sér far um að fara eftir boðskap kristinnar trúar og hafa mjög heilbrigðar skoðanir.
Það er glatt og kátt, eins og æskufólki er lagið, og syngur og dansar á kvöldvökunum, sem við höfum öðru hverju.
Þetta sagði Hermann, og þá voru hjólbörurnar orðnar fullar og ekki til setu boðið. Ein stúlkanna, sem mokaði í hjá honum, er kona prests, sem gegnir líku starfi hjá æskulýðsráði kirkjusamtaka vestan hafs, og séra Bragi Friðriksson hér. Þetta var broshýr ung kona, frú Bash að nafni. Þau hjónin búa í Minneapolis. Þau ferðast mikið, sagði hún, og í fyrrasumar var maðurinn hennar lengst af í Noregi með vinnuflokk. Hún sagðist hafa mjög gaman af að dvelja hér og vinna við gömlu kirkjuna, — margháttað samstarf og svo hafði hún farið niður í Hafnarfjörð 17. júní, á þjóðhátíðina.
— Ég hélt, að landið væri allt hraun og grjót, því þegar við komum af flugvellinum, fórum við yfir svo hrjóstrugt land. En svo er þetta allt öðruvísi, og ég er hrifin af landinu.
Lengra varð samtalið við prestsfrúna ekki, því að hár og grannur Breti, Richard að nafni, kom með sínar hjólbörur tómar, og stúlkurnar tóku til við moksturinn.
— Hvernig komuð þið Bretarnir hingað til lands?
— Við komum með skipi, Gullfossi. Uss, það var ljóta ferðalagið. Maður gubbaði allan tímann.
— Þú ert kannske ekki laus við sjóriðuna ennþá?
— Ég var alveg voðalega veikur. Hugsaðu þér það, að þegar við sáum Ísland rísa úr sæ, þá ruggaði það, – eða svo fannst mér.
— Eru nokkrar svona kirkjur í þínu heimalandi?
— Það held ég ekki, sagði Richard og varð hugsi. Það er annars skrítið hvernig þið byggið hús hérna á Íslandi, allt úr steinsteypu. Hvers vegna gerið þið það?
— Úr hverju ættum við annars að byggja?
— Úr múrsteini, auðvitað.
— Það er ekki nógu sterkt, og hús eins og þið byggið í Englandi, eru köld.
— Hvernig datt þér annars í hug að fara til Íslands í fríinu?
— Ég hef lesið dálítið um Ísland. Las t. d. stríðssögu Churchills og sitthvað í blöðum og tímaritum.
Við vesturgafl Garðakirkju var hópur manna að grafa. Þar á að byggja turn, og undir honum á að vera kyndiklefi.
Þar stóð Gary með skóflu í hönd og kunni auðsjáanlega tökin á því, sem hann var að gera.
— Ég á heima í Norður-Dakota, pabbi er bóndi og ég vinn alltaf heima á sumrin, milli þess sem ég er í skóla.
Gary vissi talsvert um Ísland áður en hann kom, og hafði m. a. gert tilraun til að hitta Richard Beck áður en hann lagði upp í ferðina. Eftir að hafa unnið um tíma við Garðakirkju, ætlaði Gary ásamt okkrum öðrum úr hópnum, til Norðurlanda, þar sem hann á ættingja, og það sama er að segja um Georg Engdahl frá Spokane í Washington ríki. Þeir eru báðir um tvítugt og þykir gaman að ferðinni.
— Ég bjóst við að eiga í erfiðleikum með að sofna á kvöldin í allri þessari birtu, sagði George, en svo er maður þreyttur eftir dagsverkið og þetta gengur bara vel. Þetta er annars undarlegt, að líta út klukkan ellefu á kvöldin, og það er næstum því sólskin. Það er varla að maður trúi sínum eigin augum.
Uppi á vinnupalli við suðurhlið kirkjunnar sátu fjórar stúlkur og losuðu gamla og lausa múrhúðun. Ragna Jónsdóttir sat á endanum og hamraði svo, að grjótið flaug í allar áttir.
— Þú ert þó ekki að brjóta niður kirkjuna?
— Hún verður bara betri á eftir.
— Er gaman að vinna hérna?
— Já, mér finnst það alveg stórfínt. Maður æfist svo vel í enskunni innan um alla þessa útlendinga. Þetta er líka gott fólk og góður andi.
— Ert þú í skóla?
— Já, í verknáminu.
— Hvað ertu gömul?
— Sextán, rétt bráðum.
— Hefurðu ekki reynt að kenna þeim íslenzku?
— Jú, þau geta sagt allt nema rababari!
Næst Rögnu sat Jane, átján ára, frá London.
— Ert þú lofthrædd þarna uppi?
— Ekkert að ráði. Þetta er ekki svo hátt.
— Komst þú með Gullfossi?
— Já, og var sjóveik.
— Hvað ætlið þið frá Englandi að vera hér lengi?
— Vitum það ekki nákvæmlega, líklega mánuð.
Og svo kom röðin að Myrna Hall. Hún er frá Seattle á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna, 23 ára og barnakennari að atvinnu.
— Þú ert kannske til í að hætta kennslunni og leggja fyrir þig byggingavinnu eftir þetta?
— Þetta er ágætt, en ég fer varla í það heima.
— Ætlar þú áfram til Norðurlanda?
— Já, auðvitað. Ég á fullt þar af frændfólki. Pabbi er sænskur og mamma norsk.
Við austurgaflinn voru nokkrra stúlkur að vinna. Þær hreinsuðu mosann, sem vaxið hafði upp á vegginn.
Rosin, nítján ára, frá Suður-Wales í Englandi, sagðist ekkert hafa verið sjóveik á Gullfossi, enda þetta ekki hennar fyrsta sjóferð. Rosin hefur ferðazt víða með foreldrum sínum, m. a. verið á Ítalíu, Hollandi og Frakklandi. Hún sagðist vera ákveðin í að fara norður, og þá helzt að Mývatni.
Ekki sagðist hún hafa vitað mikið um Ísland áður en hún kom hingað, en þó hafði verið mikið skrifað um landið meðan stóð á „Þorskastríðinu“.
— Ég hef alltaf verið löt að læra landafræði í skólanum, það er miklu betri landafræði að ferðast og sjá þetta sjálf, heldur en að lesa leiðinlegar bækur.
Sally Timmel frá Oconomowac í Wisconsin var næst Rosin í slagnum við mosann.
— Hvað þýðir nafnið á bænum þínum?
— Það veit ég ekki, þetta er Indíánamál.
— Hvenær datt þér í hug að fara til Íslands?
— Ég var ákveðin í að komast til Evrópu, og því þá ekki að byrja á Íslandi. Ég ætla að ferðast hérna um og mig langar til að sjá hverina.
— Þú hefur auðvitað haldið að við byggjum hér í snjóhúsum og kirkjan, sem þú ætlaðir að vinna við, væri úr ís?
— Nei, svo slæmt var það ekki, sagði Sally og hló við.
Rétt í þessu kom piltur hlaupandi ofan frá samkomuhúsinu, og mér datt í hug, að hann hefði sofnað eftir matinn og orðið of seinn. Það kom hins vegar í ljós, að Bob hafði verið í uppvaskinu.
— Er gaman að vinna í eldhúsinu?
— Nei, miklu betra að vinna úti.
– Verður þú lengi hér á landi?
— Nei, ekki mjög lengi. Ég er í skóla og verð að fara heim og nota síðari hluta skólafrísins til að vinna fyrir peningum til vetrarins.
Bob hafði, eins og fleiri, heyrt um Mývatn og um heitu gjána, þar sem maður getur farið niður í jörðina og synt í volgu vatninu. Hann sagðist iðka sund og knattleik í frístundunum og að sér þætti mjög gaman að vera hér í þessum vinnuflokki.
Séra Bragi Friðriksson, sem stjórnar framkvæmdum við Garðakirkju, sagði frá tildrögum þess, að þessi útlendu ungmenni komu hingað til uppbyggingarstarfsins.
Bragi sagðist hafa kynnzt starfsemi æskulýðsráða vestan hafs og hafa kynnzt nokkrum framámönnum mótmælendasafnaða í Bandaríkjunum og Kanada. Nú væri hafið margháttað samstarf í þessum efnum milli stofnana beggja megin hafsins og koma Bandaríkjamannanna og eins Bretanna, væri einn þáttur þess.
Séra Bragi sagði, að vinnan við kirkjuna gengi mjög vel og þetta væri úrvalsfólk. Þá sagði hann, að auk þessara sex Breta, væru hér nokkrir aðrir, sem ynnu sumarlangt, m. a. tveir við skátaskólann á Úlfrjótsvatni og einn við drengjabúðirnar í Reykholti.
Áður en langt líður, verður lagður nýr vegur að Garðakirkju. Hún mun nú á ný komast til þess vegs og virðingar, sem hún naut fram til ársins 1912, en þá var Hafnarfjarðarkirkja vígð, og eftir það var Garðakirkja lítið notuð.
Fyrir nokkru síðan var ekki annað fyrirsjáanlegt, en að þessi gamla kirkja yrði eyðileggingunni að bráð.
Er ég kvaddi þennan alþjóðlega vinnuflokk og hélt á braut, hljómuðu hamarshöggin og glaðværir hlátrar fólksins.
Hér áður fyrr fóru krossferðariddarar um lönd, brennandi og drepandi. Hér voru hins vegar krossfarar, sem komnir voru um langan veg til að byggja upp.“ – Sv. S.
Í Morgunblaðinu 22. mars 1966 er sagt frá endurvígslu Garðakirkju undir fyrirsögninni: „Meistara Jóns minnzt um land allt á sunnudag – Garðakirkja á Álftanesi endurvígð í tilefni þriggja aldar minningar hans„.
„Meistara Jóns Vídalíns var minnzt með guðsþjónustu í öllum kirkjum landsins sl. sunnudag, en 300 ár eru liðin frá fæðingu hins mikla kennimanns og ræðuskörungs. Þá var minningarathöfn í hátíðasal Háskólans síðar um daginn. Flutti dr. Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor þar erindi um Vidalin og guðfræðistúdentar sungu undir stjórn dr. Róberts A. Ottóssonar. Kl. 9 um kvöldið var haldin hátíð í Skálholtskirkju, sem helguð var minningu Vídalins. Biskup Íslands, hr. Sigurbjörn Einarsson, endurvígði Garðakirkju á Álftanesi þennan dag í tilefni þriggja aldar minningar meistarans.
Mikið fjölmenni var við endurvígslu Garðakirkju á Álftanesi. Voru þar viðstaddir éllefu prestar Kjalarnessprófastsdæmis, auk fyrrverandi biskups, Ásmundar Guðmundssonar. Gengu prestar og biskupar í skrúðgöngu til kirkjunnar ásamt sóknarnefnd. Vígsluvottar voru sr. Garðar Þorsteinsson sóknarpresturinn, sr. Björn Jónsson úr Keflavík, sr. Kristinn Stefánsson og sr. Bjarni Sigurðsson Mosfelli. Fyrir altari þjónuðu biskupinn og sr. Garðar Þorsteinsson. Eftir vígsluathöfnina hélt formaður sóknarnefndar, Óttar Proppé, ræðu í félagsheimili sveitarinnar á Garðaholti, og rakti bygginga sögu kirkjunnar.
Garðakirkja á Álftanesi var byggð árið 1879, að tilhlutan sr. Þórarins Böðvarssonar. Var hún þá með veglegustu kirkjum á landinu. Árið 1914 var hún síðan lögð niður og stóð ónotuð og vanrækt í 52 ár.
[Árið] 1953 hóf kvenfélag sveitarinnar endurbyggingu og viðreisn kirkjunnar og 1960 var sérstök sókn mynduð þarna að nýju og leit sóknarnefndin á það, sem höfuðverkefni sitt að endurreisa kirkjuna. Arkitekt við endurbygginguna var Ragnar Emilsson og kirkjusmiður Sigurlinni Pétursson. Ragnar Emilsson arkitekt teiknaði einnig altari, skírnarfont og predikunarstól og smíðaði þau Friðgeir Kristjánsson Selfossi, en Ríkarður Jónsson myndhöggvari skar þau út. Er predikunarstóllinn helgaður minningu meistara Jón Vídalíns og setning úr einni ræðu hans skorinn í hann.
Á hátíðinni í Skálholtskirkju flutti dr. Steingrímur J. Þorsteinsson erindi um Jón Vídalín. Biskupinn las upp úr verkum hans og dr. Róbert A. Ottósson stjórnaði söng Skálholtskórsins og guðfræðistúdenta, forsöngvari var Kristinn Hallsson. Þá var almennur söngur og bænagjörð, sem sóknarpresturinn í Skálholti, sr. Guðmundur Ó. Ólafsson, annaðist.
Þess má geta, að dr. Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor, flutti í útvarp erindi í tveimur hlutum um líf og starf meistara Jóns. Fyrri hlutinn var fluttur á sunnudagskvöld og nefndist Ævi og Athafnir. Seinni hlutinn var fluttur í gærkvöldi, og nefndist Kennimaðurinn.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl 25.09.1955, Árni Óla, Garðakirkja á Álftanesi fer bráðum að rísa úr rústum, bls. 519-521.
-Fálkinn, Nútíma krossfarar á Álftanesi, Endurbygging Garðakirkju, 26. tbl 05.07.1961, bls. 6-9.
-Morgunblaðið 22. mars 1966, Garðakirkja endurvígð, bls. 21.
Garðakirkja 2021.
Kjós – fróðleikur
Á Vísindavef Háskóla Íslands er m.a. fjallað um „Kjós og nokkra staði þar innan marka“ í svörum við spurningum þess efnis. Taka ber þó svörunum með hæfilegum fyrirvara.
Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?
Upprunlega hljóðaði spurningin svona:
Í Hvalfirði er landsvæði sem heitir Kjós. Nálægt Skaftafelli, inn af Morsárdal er líka landsvæði sem heitir Kjós. Spurningin er hvað gerir landsvæði að Kjós? Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?
Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).
Orðið „kjós“ merkti í fornu máli ‚þröng vík‘ en merkir nú ‘kvos, dalur eða dæld’ (Íslensk orðabók, 778; Ásgeir Blöndal Magnússon, 468).
Í Troms og víðar í Norður-Noregi merkir orðið kjos ‘þröngur dalur’ eða ‘laut’ (Norsk stadnamnleksikon, 183).
Auk Kjósar í Kjósarsýslu og í Skaftafellssýslu kemur nafnliðurinn meðal annars fyrir í örnefnum á Snæfellsnesi, í Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu (Íslandsatlas).
Heimildir:
-Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
-Íslandsatlas. Fimmta prentun endurskoðuð. Reykjavík 2015.
-Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri: Mörður Árnason. 3. prentun. Reykjavík 2005.
-Norsk stadnamnleksikon. Jørn Sandnes og Ola Stemshaug (útg.). Oslo 1976.
Af hverju heitir Írafell í Kjós þessu nafni og hvað er sá bær gamall?
Írafell er þekkt á nokkrum stöðum á Íslandi, meðal annars í Kjós þar sem bæði fell og bær bera þetta nafn. Bærinn er þekktur í rituðum heimildum allt frá 16. öld en nafn hans kemur fyrst fyrir í fógetareikningum frá 1547-1548 (Íslenskt fornbréfasafn XII:107 og víðar).
Írafell.
Í 18. aldar heimildum er getið um Írafell á Reykjanesi í Gullbringusýslu en það er ekki þekkt nú. Auk þess eru nefnd þrjú Írafell á Snæfellsnesi: eitt á Hellisvöllum (Hellnum) í Breiðuvíkurhreppi (nú slétt flöt, samkvæmt örnefnalýsingu), annað í Helgafellssveit og það þriðja suðvestur af Drápuhlíðarfjalli.
Írafell í Kjós.
Í Skagafirði er bær sem oft er nefndur Írafell en samkvæmt Landnámabók og fleiri heimildum er upphaflega nafn hans Ýrarfell (Byggðasaga Skagafjarðar III (2004), bls. 410 og áfram).
Ekki er vitað hve gamalt bæjarnafnið Írafell í Kjós er né heldur hvort það er kennt við þá Íra sem taldir eru hafa verið hér við upphaf landnáms eða Íra sem hingað komu í verslunarerindum á 15. öld. Hermann Pálsson fjallaði um Íra-örnefni í grein í Skírni 1953 (bls. 105-111) en hann ræðir ekki Írafell sérstaklega.
Írafellssel II – uppdráttur ÓSÁ.
Helgi Guðmundsson fjallar um örnefni kennd við Íra, Breta og Pétta1 í bók sinni, Um haf innan (1997, bls. 198-199). Þar nefnir hann meðal annars að á Katanesi í Skotlandi sé fjall með keltnesku nafni, Cnoc an Eireannaich, sem merki ‘Írafell’, en hann telur annars óvíst hvernig eigi að túlka örnefni þau á Íslandi sem kennd séu við erlendar þjóðir (199).
Péttar (e. Picts) voru þjóðflokkur, sem var ef til vill ekki keltneskur að uppruna en bjó á Bretlandseyjum og átti í sífelldum útistöðum við Rómverja. Á níundu öld eða svo runnu þeir saman við Skota.
Hvernig myndaðist Meðalfellsvatn í Kjós?
Við Meðalfellsvatn í Kjós.
Stöðuvötn eru vatnsfylltar dældir sem ná niður fyrir grunnvatnsflöt eða myndast þar sem einhver þröskuldur girðir fyrir vatnsrennsli á yfirborði eða grunnvatnsrennsli. Jöklar hafa leikið stórt hlutverk við myndun stöðuvatna á Íslandi og má skipta jökulmynduðum vötnum í nokkra flokka. Nánar er fjallað um myndun stöðuvatna í svari við spurningunni Hver eru dýpstu stöðuvötn á Íslandi? og um jökulrof í svari við spurningunni Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi?
Meðalfellsvatn (MWL).
Langflest íslensk stöðuvötn í jökulsorfnum dældum. Dældirnar hafa myndast þegar ísaldarjökullinn heflaði landið, misdjúpt eftir þykkt jökulsins á hverjum stað og styrk undirlagsins. Eftir stóð mishæðótt landslag með dældum sem fylltust af vatni.
Að öllum líkindum er Meðalfellsvatn í Kjós dæmi um stöðuvatn í jökulsorfinni dæld og þá myndast eins og hér hefur verið lýst.
Meðalfellsvatn er 2 km2 að flatarmáli. Mesta dýpi vatnsins er tæplega 19 m og meðaldýpi er 4,4 m. Dýpsti hluti þess er í því austanverðu en meginhluti þess er tiltölulega grunnur (2 – 4 m). Vatnasvið Meðalfellsvatns er um 39 km2 . Í það sunnanvert renna smáárnar Flekkudalsá með upptök í Flekkudal í norðanverðri Esju og Sandsá með upptök í norðanverðum Móskarðshnjúkum. Úr Meðalfellsvatni norðvestanverðu fellur áin Bugða sem rennur í Laxá.
Í Meðalfellsvatni er töluvert af bleikju og einnig er þar að finna urriða. Auk þess veiðast í vatninu nokkrir laxar árleg.
Heimildir:
-Flokkun vatna á Kjósarsvæði – Meðalfellsvatn. Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis og Háskólasetrið í Hveragerði. 2004.
-Meðalfellsvatn á NAT Norðurferðir. Sótt 6. 3. 2008.
Hvernig myndaðist Esjan?
Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbeltinu sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Í Esju, á svæðinu frá Hvalfirði og austur fyrir Skálafell í Kjalarneshreppi, var eldvirknin stöðug í rúmlega eina milljón ára frá því fyrir um 2,8 milljón árum. Á þessum tíma voru að minnsta kosti 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli.
Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og ýttist smám saman frá því til vesturs.
Borgarhólar.
Rekhraðinn til vesturs frá flekaskilunum, sem nú liggja um Þingvallasveit, hefur um milljónir ára verið um einn cm á ári, enda stendur heima að vesturendi Esju er um 30 km norðvestan við vestustu virku sprungurnar (gjárnar) á Þingvöllum og í Hengli. Á sama tíma og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós var að myndast vestan til í gosbeltinu var berggrunnurinn undir Selfossi og Hreppum að myndast austan til í því. Auðvelt er að fá nútímasamlíkingu á Reykjanesskaga með því að hugsa sér að berggrunnurinn undir Reykjavík sé að myndast í Trölladyngju og Sveifluhálsi vestan við Kleifarvatn, og berggrunnurinn undir Selfossi framtíðarinnar sé að myndast í eldstöðvum milli Kleifarvatns og Herdísarvíkur.
Esjan á Kjalarnesi.
Fyrir tæpum þremur milljón árum var vestasti hluti Esju í vesturjaðri virka gosbeltisins (sem nú liggur um Þingvallasveit). Þetta virka gosbelti teygði sig til norðausturs meðfram Hvalfirði en til suðvesturs yfir Sundin og Vesturbæinn. Á þeim tíma voru þó hvorki Sundin né Hvalfjörður til. Samfellt fjalllendi náði frá hálendinu og miklu lengra í sjó fram en nes og eyjar við innanverðan Faxaflóa nú. Þá var stórt eldfjall í Sundunum, en gjástykki teygðust til norðurs um Kjós og suður yfir Mela. Margt bendir til að stór askja hafi myndast í þessari megineldstöð, Kjalarneseldstöðinni, og mikill fjöldi innskota myndaðist í henni. Stærstu innskotin má nú sjá á yfirborði í Viðey, yst á Kjalarnesi og milli Skrauthóla og Mógilsár.
Gosvirknin færðist smám saman austar, Kjalarnesmegineldstöðin þokaðist til vesturs út úr gosbeltinu en gosvirknin varð mest þar sem Kistufell í Esju er nú. Þá fengu jarðlögin neðst í Kistufelli sinn mikla halla.
Kirkjan ofan Leiðahóla í Esju.
En ekki leið á löngu þar til gosvirknin var komin austur fyrir Grafardal. Þar myndaðist stórt og myndarlegt eldfjall, Stardalsmegineldstöðin. Í þeirri eldstöð myndaðist askja álíka stór og Kröfluaskjan. Í henni safnaðist vatn, svipað og síðar gerðist í Öskju í Dyngjufjöllum, en askjan fylltist síðan af gosefnum. Þunnfljótandi hraunlög runnu langt vestur úr virka gosbeltinu og mynduðu hinn reglulega hraunlagabunka, sem nú myndar topp Esjunnar allt frá Skálafelli vestur undir Hvalfjörð. Æviskeiði megineldstöðvarinnar í Stardal lauk með líparítgosum undir jökli á bogasprungum umhverfis öskjuna. Glæsilegustu menjar þeirra eldsumbrota eru Móskarðshnúkar, en aldursgreiningar benda til að líparítið í þeim sé um 1,8 milljón ára gamalt.
Móskarðshnúkar.
Eldvirkni færðist enn til austurs, eða öllu heldur megineldstöðina rak vestur úr gosbeltinu og upphleðslu jarðlaga lauk í Esju, Kjós og byggðum hluta Mosfellssveitar. Samfellt fjalllendi náði frá Akrafjalli og Skarðsheiði austur yfir Esju og fellin í Mosfellssveit. Yfir Sundunum og Reykjavík lá meira en þúsund metra þykkur stafli af hraunlögum og móbergi.
Í rúmlega milljón ár eftir að Móskarðshnúkar mynduðust skófu ísaldarjöklar fjalllendið og skáru út það landslag, sem við sjáum í dag. Ekki er vitað um eldvirkni á svæðinu þennan tíma.
Ekki er heldur vitað um fjölda jökulskeiða á þessu tímabili, en margt bendir til að jökulskeið gangi yfir Ísland á um hundrað þúsund ára fresti.
Mosfell.
Fyrir þrjú til fimm hundruð þúsund árum varð eldgos undir jökli í Mosfellssveit og þá myndaðist Mosfell. Þá voru dalir Esju svipaðir og í dag og fellin í Mosfellssveit einnig. Á næstu hlýskeiðum runnu þunnfljótandi hraun úr grágrýtisdyngjum í jaðri virka gosbeltisins vestur yfir hið rofna land, þöktu mikið af láglendinu og runnu í sjó fram. Hraunstraumarnir runnu milli Mosfells og Esju, milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar, en einkum þó vestur yfir láglendið sunnan Úlfarsfells. Þessi grágrýtishraun mynda Brimnes á Kjalarnesi, yfirborð eyjanna á Sundunum svo og flest klapparholt á höfuðborgarsvæðinu svo sem Grafarholt, Breiðholt, Öskjuhlíð, Valhúsahæð, Digranesháls, Hamarinn í Hafnarfirði og Hvaleyrarholt. Upptök grágrýtishraunanna eru fæst þekkt, en meðal þeirra hafa þó verið Borgarhólar, Lyklafell og Eiturhóll á Mosfellsheiði.
Nánari upplýsingar er að finna í Árbók Ferðafélags Íslands 1985 í grein eftir Ingvar Birgi Friðleifsson. „Jarðsaga Esju og nágrennis“, bls. 141-172.
Hvað þýðir nafnið Esja?
Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið sé að skýringu á nafninu. Þar bjó Örlygur Hrappsson sem kom til landsins frá Suðureyjum og settist að á Kjalarnesi.
Esja – örnefni.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.
Kistufell.
Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).
Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.
Líklegasta skýringin á Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.
Hver er uppruni örnefnisins Skálafell og gæti verið að upphaflega hafi það heitið Skálarfell eða Skaflafjell?
Skálafell – Stardalur fremst.
Fyrirspyrjandi nefnir ekki hvaða fell hann á við en Skálafell eru tvö í nágrenni Reykjavíkur:
Austan Esju, inn af Mosfellsdal í Kjósarsýslu (774 m).
Upp af Hellisheiði, suðaustur af Hveradölum (574 m).
Skálafell á Hellisheiði.
Landnámabók segir að Ingólfur Arnarson hafi látið gera skála á Skálafelli (Íslenzk fornrit I, 45) og mun þá átt við Skálafell sunnan Hellisheiðar. Hins vegar segir Kristian Kålund í sögustaðalýsingu sinni að sagnir séu um að Ingólfur hafi haft skála (fjárskála) á Skálafelli austan Esju (Kålund I, 43). Jónas Magnússon í Stardal segir í örnefnaskrá að fellið í Kjós „ætti betur við söguna af Ingólfi Arnarsyni en Skálafell upp af Kömbum, því að Þingvallavatn blasir við af þessu felli.“
Líklega er nafnið á fjallinu austan Esju upphaflega *Skálarfell, af áberandi skál í fjallinu. Þó er önnur skál minni í austurenda fjallsins og gæti því nafnið hafa verið Skálafell í upphafi, segir Egill J. Stardal, sonur Jónasar í Stardal í Árbók Ferðafélagsins 1985, 122-123.
Ekki er líklegt að upphaflega nafnið hafi verið Skaflafjell eða Skavlfjell. Þórhallur Vilmundarson segir að Skálafell sunnan Hellisheiðar minni á húsburst séð úr Ölfusi og gæti því verið líkingarnafn (Grímnir I, 128).
Heimildir:
-Ferðafélag Íslands. Árbók 1985. Rvk. 1985.
-Grímnir I. Rvk. 1980.
-Kristian Kålund. Íslenzkir sögustaðir I. Sunnlendingafjórðungur. Íslenzk þýðing: Haraldur Matthíasson. Rvk. 1984.
-Landnámabók. Íslenzk fornrit. I. Rvk. 1968.
Heimild:
-https://www.visindavefur.is/search/?q=Kj%C3%B3s
Tóft í Skálafelli í Mos.
Fjörðurinn — fyrir fjölda ára
Í Morgunblaðinu 1975 er grein; „Fjörðurinn fyrir fjölda ára„, þar sem birtur er stuttur texti um Brookless í bænum með meðfylgjandi áhugaverðum myndum úr bænum frá því um 1915:
„Þessar gömlu myndir frá Hafnarfirði eru úr merkilegu ljósmyndasafni, sem brezki togaraútgerðarmaðurinn og saltfiskframleiðandinn Bookless tók í Hafnarfirði. Flestar myndanna í safninu eru teknar á fyrstu árum aldarinnar.
Bookless hóf fiskkaup hér og saltfiskverkun í Hafnarfirði árið 1909 eða 10. Bookless Brothers hét fyrirtækið en það varð gjaldþrota 1919. Hægri hönd Bookless var Þórarinn Egilson í Hafnarfirði.
Stöðina keypti svo árið 1924 annað brezkt útgerðarfyrirtæki, Heliyers Brothers. Þeir ráku stöðina til ársloka 1929. Var Geir Zoega framkvæmdastjóri Hellyers-bræðra meðan þeir ráku stöðina. Myndasafnið sem hér um ræðir, sendi ekkja Bookless á sínum tíma til Hellyers, en frá Hellyersbræðrum fékk Geir myndasafnið sent. Safnið varð fyrir nokkrum skemmdum í heimsstyrjöldinni síðustu í loftárás á Hull er myndasafnið skemmdist af vatni í slökkvistarfinu.“
Heimild:
-Morgunblaðið, 70. tbl. 27.03.1975, Fjörðurinn fyrir fjölda ára, bls. 10.
Þingvallaleiðir frá og til Reykjavík fyrrum
Var fyrir stundu að grúska í hinum fjölmörgu gömlu uppdráttum mínum, sem ég hef aflað, ásamt félögum mínum, á vettvangi í gegnum tíðina, með skýrskotun til gamalla skriflegra heimilda um fornar leiðir til og frá Reykjavík fyrrum. Skriflegar heimildir eru eitt; áþreifanlegar og sýnilegar minjar á vettvangi eru annað. Þess vegna fara „heimildirnar“ ekki alltaf saman við vettvangsstaðreyndirnar. Opinberar skráningar fornminja hafa hingað til alls ekki verið sérstaklega nákvæmar. Að ekki sé talað um fornar leiðir; þær hafa sjaldnast verið rétt skráðar af neinu viti í opinberum fornleifaskráningum.
Þingvallaleiðirnar fyrrum og nálægar leiðir út frá Reykjavík til austurs…
Hafði gengið allar leiðirnar margsinnis, rissað upp jafnhraðan og sett jafnóðum í sérstakan rissbunka – til geymslu.
Niðurstaðan varð meðfylgjandi loftmynd af leiðunum (áður en ég þurfti að henda þeim í ruslið til að skapa rými fyrir nýrri áhugaverðari athuganir)… – ÓSÁ.
Ræsi á Gamla Þingvallaveginum.
Kaldrani
Orðið „Kaldrani“ virðist hafa verið til í ýmsum myndum; sem nafnorð, þ.e. bæjarnafn, tröllsnafn og nafn á fjalli eða vík, eða sem lýsingarorð á veðurfyrirbæri eða karllægri hegðan. Hér á eftir er nokkurra þeirra getið í ljósi örnefnisins við Kleifarvatn í Krýsuvík.
Tóftir Kaldrana.
Eina orðmyndina má finna í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 þar sem Brynjúlfur Jónsson lýsir rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902: „Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt hún hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleifarvatn. Og líka er sagt að þar hafi alt fólkið dáið af loðsilungsáti. Örnefnið: Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fðm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma.“
Vissulega má sjá garðleifar á nefndum stað, en þar hefur væntanlega aldrei verið bær undir hraunkatli.
Kleifarvatn.
Kleifarvatnið hefur um aldana rás hlaupið fram og aftur um umhverfi sitt. Í manna minnum myndaðist t.d. svonefnt Nýjaland sunnan þess. Það er nú grasi gróin mýrardrög og nýtt af hestamannafélaginu Sörla á sumrum. Áður voru þarna Vesturengjar Krýsuvíkurbæjanna. Ef Kaldrani hefur verið bær í Krýsuvík fyrrum hefur hann verið í Hvömmum. „Kaldranaminjarnar“ munu líklega hafa verið útstöð frá honum. Í Hvömmum eru nú „Hnakkageymslur“ hestafólks. Það hefur fært verulega út kvíarnar og komið sér upp sumarafdrepum í óþökk sveitarfélagsins.
Hnakkageymslur í Hvammi sunnan Kleifarvatns. Húsið með gæna þakinu er ofan á tóftum.
Eitt afdrepið hefur, illu heilli, verið fyrirkomið ofan á merkilegum minjum í hvamminum. Þar gæti mögulega hafa verið bærinn Kaldrani fyrrum, og síðar selstaða frá Stóra-Nýjabæ (Austurbæ). Sellækur liðast um hvamminn, auk þess að þarna hefur fyrrum verið ákjósanlegt bæjarstæði með Hvammahlíðarnar og Austurengjarnar sem ákjósanleg slægjulönd. Nyrst á Austurengjum eru fornar minjar um gerði og önnur mannvirki.
Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943 skrifar Ólafur Þorvaldsson um „Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“. Þar getur hann um „bæinn“ Kaldrana:
„Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana.
Tóftir Kaldrana.
Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.
Kaldrani – veggur.
Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á.
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt.“
Hér etur Ólafur upp, gagnrýnislaust, upp þjóðsöguna af Kaldrana og bendir á enn „geti menn bent á“ bæinn á þeim stað. Þarna virðist hanna fara villu vega, líkt og svo margir aðrir, sem eftir upp átu.
Í Degi 1996 má lesa upprifjun úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar um Krýsu og Herdís: „Fleiri sagnir eru til um landnám Krýsuvíkur og hvernig örnefnið er til komið. Hér fer á eftir útgáfa Brynjúlfs Jónssonar: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á landnámstíð, því að fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögu, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það, sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs. Þó hefur það verið sagt.
Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein, er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefur spúið eldi, því í honum er gígur ekki alllítill og úr honum hefur runnið hraun það, er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust (höfðu í heitingum), og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir híðinni skammt fyrir austan hálsinn.
Herdísarvíkurgata.
Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður, þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið veiði mikil í Kleifarvatni í Krýsuvfkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni. Herdís mælti svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á, að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum.
Það skyldi og fylgja, að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn í Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn, svo hann varð að flytja úr stað, og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís. Þá komu sjómenn með skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana, þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi, og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Dysjar Herdísar og Krýsu við götuna um Kerlingadal.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar, sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“
Dysjar eru vissulega neðst í Kerlingardal við gömlu þjóðleiðina millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, sem og lítil dys smalans í hlíðinni. Staðreyndin er hins vegar sú að í hvert sinn sem fornleifafræðingar grafa í svonefndar sögulegar dysjar og grafir gerist fátt annað en ekkert. Líklega mun sú raunin verða ef framangreindar dysjar yrðu afhjúpaðar – því miður.
Kaldrani – veggur.
Í Griplu 2013 er grein er nefnist; „Er Þat illt, at þú vilt elska tröll Þat“ og er þar vísa til sögulegs samhengis jöðrunar ú Hrafnistumannasögum. Þar segir m.a.: „Í Ketils sögu hængs er getið um Kaldrana. Í þessari sögu er ómögulegt að vita, en þó er Kaldrani alltaf kallaður jötunn en vinir hans tröll.“
Í Ægi 1916 er frásaga „Ferðar um Norðurland“: „Austasta víkin í Hafnalandi [á Skaga norðan] er Kaldranavík. Stendur bærinn Hafnir fyrir botni víkurinnar og þó nokkurn kipp frá sjó. Austan megin vikurinnar er bær sá er Kaldrani nefnist og á hann land austan megin víkurinnar og alt að miðjum botni hennar.“
Í Islandske Maaneds-Tidende 1773, Nyheder, segir af bæjartali Reykhóla kirkjusóknar. Þar kemur bæjarnafnið Kaldrani fyrir, nr. 15.
Beretning om ode-Gaarder.
Med mindre man havde tydelige Beviisligheder at grunde fine Tanker paa ikulde man fortære at Landet havde faa meget aftaget i nogle ioo Aar, fom det virkelig har: Til Exempel er dette at udi Stade og Reykhole Kirke-Sogn findes 25 ode-Gaarder nu omftunder fom alle forher have været beboede.
Í Breiðfirðingi 1992 er mynd af fjallahring, m.a. af Kaldrana.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1049 er fjallar Hans Kuhn um „Vestfirsk örnefni“.
„Svo sem nöfnin Hreggnasi—Hreggnes og Arnarstapi fann eg og flest önnur nöfn af þessari gerð, sem dreifð eru um stóra hluta lands eða allt landið, Arnarbæli, Brimnes, Kaldbakur og Svalbaroð“—Svalbarði, í nyrzta hrepp Strandasýslu (Árnessveit), en hvergi í öllum hinum hreppum hennar. Helzta undantekningin, sem eg þekki, er Kaldrani. Svo heitir holtahryggur í Arnkötludal í Steingrímsfirði. Stærsti bærinn í Bjarnarfirði heitir Kaldrananes, en hann hét í upphafi Kallaðarnes og seinna Kaldaðarnes.“
Í Iðunni; nýr flokkur, 1918, er birt ljóðið „Konan í Hvannadalabjörgum – íslensk þjóðsaga í ljóðum eftir Guðmund Magnússon“;
Nú vaknar bergið —
það bifast og stynur,
það beljar og dynur
sem hefji tröllin
bamrafargið
og hristi fjöllin. —
Himinkljúfandi
hark og sköll,
gegnumsmjúgandi
gnístran og köll.
»Vaknaðu Víðgrani!
Vaknaðu Kaldrani!
Alsvartur, Öskruður,
Ámur, Rangbeinn!
Rís upp, Þrúðgelmir,
Þrívaldur, Hraunbarði,
Bölþorni, Brokkur,
Blakkur, Dumbur.
Skyndið ykkur, Skellinefja,
Skjaldvör, Gláma, Brana, Fála,
Henginkjaíta, Hrottintanna,
Hágríður, Blágríður!
Gerið sköll og skelli,
skark og hark í felli,
hjá oss er í helli
Hálfdán á Felli,
Hálfdán á Felli«.
Í Póstmannablaðinu 1944 er grein; „Póstmannafélag Íslands 25 ára“:
„Ný skipan – Frá ársbyrjun 1920 varð sú breyting á stjórn póstmálanna, að aðalpóstmeistaraembættið var stofnað og tók Sigurður Briem við því, en Þorleifur Jónsson varð póstmeistari í Reykjavík. Póstmálaskrifstofan varð nú til, með sérstöku starfsliði og sérstökum yfirmanni — póstritara —, er gengi næst aðalpóstmeistara að völdum. Um þetta nýja embætti kepptu tveir gamlir og gegnir póstmenn og varð annar hlutskarpari, eins og venjulegt er. Upp úr þessu myndaðist á Póststofunni einhvers konar kaldrani til skrifstofunnar og var fátt fært til betri vegar, ef önnur leið var tiltæk. Hefur þetta haldist æ síðan, á mismunandi stigum, en mætti nú vera úr sögunni og saknaði þess sennilega enginn.“
Í Skírni 1929 eru „Ritfregnir“:
„Einkennilega eru þau orð samsett, er málfræðingar kalla einu nafni »Bahuvrihi«. Þessar samsetningar voru að upphafi nafnorð, segir höf., en urðu síðar lýsingarorð, eða voru notuð í stað lýsingarorða. Hefir þessum samsettu orðum fjölgað mjög í germönskum málum á síðari tímum og nefnir höfundur fjölda dæma, eins og t. d.: hrokkinskinna, litilhugaður, mjóeygur, Kaldgrani ( = Kaldrani) o. s. frv.“
Í Morgunblaðið 1983 fjallar Hildur Einarsdóttir um „Áhrif veðursfars á fólk“.
„Fyrir rúmri viku var ég stödd i París í stórri verslunarmiðstöð, þar sem áður var gamli matvörumarkaðurlnn í París, les Halles. Þar er myndband á einni hæðinni, sem flytur fréttir hvaðanæva úr heiminum. Ég fór að góna á skerminn og allt í einu var komin þar frétt frá Íslandi. Það voru tíðindin um að sl. júlímánuður heföi veriö sá kaldasti hér á landi frá því árið 1874 og bætt var við, að nú stæði Ísland svo sannarlega undir nafni. — Skyldi nokkurn undra þótt við séum orðin svolítið fúl yfir veðrinu, þegar við rigninguna bætist svo þessi kaldrani.“
Kaldrani við Kleifarvatn.
Í Fálkanum 1943 er jólahugvekja eftir sjera Jakob Jónsson; „Ljós skal skína fram úr myrkri“.
„Hinn kristni heimur heldur jól. Ljósinu bregður fyrir í myrkrinu. Sjerhver sá, sem enn ú nokkurn veginn óspiltar tilfinningar, finnur á hinni helgu nótt, að ljósið skín í hjarta hans. Og jafnvel þó að kaldrani hversdagslífsins leggisi aflur yfir borg og byggð, er enginn samur maður, sem fundið hefir ljósið skína fram úr myrkrinu. Hann hefir, þótt ekki sje nema stundarkorn lifað í heimi jólanna.“
Niðurstaðan er sú að orðið „kaldrani“ í íslenskri málhefð er flóknara en svo að hægt verði að skýrskota það til nákvæmlega eins staðar á Reykjanesskaganum….
Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Brynjúlfur Jónsson, bls. 50.
-Dagur, 19.10.1996, Krýsa og Herdís, bls. 5.
-Gripla, 24. árg. 20.12.2013, Er Þat illt, at þú vilt elska tröll Þat – Hið sögulega samhengi jöðrunar ú Hrafnistumannasögum, bls. 193.
-Ægir, 11.-12. tbl. 01.12.1916, Ferð um Norðurland, bls. 137.
-Islandske Maaneds-Tidende, 2. tbl. 01.11.1773, Nyheder, bls. 29.
-Breiðfirðingur, 1. tbl. 01.04.1992, Á tildi Vallahnúks, bls. 171.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags, 01.01.1943, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 92-93.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1049, Vestfirsk örnefni eftir Hans Kuhn, bls. 17.
-Iðunn; nýr flokkur, 3. tbl. 01.01.1918, Konan í Hvannadalabjörgum, íslensk þjóðsaga í ljóðum eftir Guðmund Magnússon, bls. 170-171.
-Póstmannablaðið, 1. bbl. 01.07.1944, Póstmannafélag Íslands 25 ára, bls. 4.
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1029, Ritfregnir, bls. 240.
-Morgunblaðið 26.08.1983, Áhrif veðursfars á fólk, Hildur Einarsdóttir, bls. 34.
-Fálkinn, 17.12.1943, Ljós skal sklina fram úr myrkri, jólahugleiðing eftir sjera Jakob Jónsson, bls. 1.
Stóra-Eldborg.