Selgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt; „Hverjar eru helstu fornleifar í Garðabæ?“
Svarið, að hluta, var: „Í Selgjá eru friðlýstar seljasamstæður sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Þar er varla þverfótað fyrir margra alda gömlum tóftum.“

Búrfell

Búrfellsgígur.

Á vefsíðu Umhverfisstofnunar árið 2020 er m.a. fjallað um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ friðlýst. Hafa ber í huga að minjarnar í Selgjá höfðu áður verið friðslýstar árið 1964.
„Í dag, 25. júní, undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ sem náttúruvætti.

Selgjá

Einn Selgjárfjárhellanna – Norðurgjárhellrir.

Svæðið er gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Jafnframt er svæðið vinsælt útivistarsvæði. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Búrfellsgjá

Selgjá og nálæg friðlýsingarsvæði.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið.

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Undirritunin fór fram á vettvangi að viðstöddum fulltrúum Umhverfisstofnunar, Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk fleiri gesta.
Að lokinni undirritun var boðið upp á fræðslugöngu um svæðið sem var leidd af Snæbirni Guðmundssyni jarðfræðingi.“

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá í Garðabæ var sem sagt friðlýst sem náttúruvætti þann 25. júní 2020.

„Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Svæðið er 380 ha að stærð.“

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Í auglýsingu á vef Umhverfisstofnunar „nr. 687 25. júní 2020 um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ“, segir:

1. gr.
Um friðlýsinguna.

Búrfellsgjá

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa og Umhverfisstofnunar að friðlýsa Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá sem náttúruvætti skv. 48. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum.
Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Merkar hrauntraðir eru í helluhraununum næst Búrfelli. Kringlóttagjá er sunnan við Búrfell og Lambagjá við Kaldársel. Búrfellsgjá og Selgjá liggja frá Búrfelli að Urriðakotshrauni. Þær eru í raun sama hrauntröðin, en hún skiptir um nafn við Hrafnagjá. Næst gígnum er Búrfellsgjá þröng og með bröttum veggjum. Þegar kemur niður á jafnsléttu verður hún lægri og víðari. Selgjá er slétt og breið með lágum veggjum. Hún hverfur á kafla þar sem hraunrásir með hellum taka við, en kemur aftur fram á kafla norðar í Heiðmörk. Fjölmargir hraunhellar og skútar eru í Búrfellshrauni. Margir þeirra hafa nýst sem fjárhellar og eru hleðslur við suma þeirra. Langflestir þeirra eru hraunrásarhellar sem myndast þegar hraunrásir tæmast. Margir slíkir eru rétt norðan við enda Selgjár og kallast þeir einu nafni Selgjárhellar. Fjölmargar sprungur og misgengi eru á svæðinu. Stefna þeirra er í langflestum tilvikum til norðausturs. Mestu og virkustu misgengin eru á mörkum Selgjár og Búrfells. Þar gengur Hjallamisgengið þvert yfir hraunið ásamt nokkrum minni misgengjum, þ. á m. Hrafnagjá og Vatnsgjá.

Búrfellsgjá

Við friðlýsingu Búrfellsgjár og Selgjár.

Helstu vistgerðir innan svæðisins eru birkiskógur. Þar er einnig að finna hraunlendi þar sem er fyrst og fremst um að ræða mosahraunavist en einnig lynghraunavist á milli og á stöku stað eyðihraunavist. Á skjólgóðum svæðum sem liggja lægra í landi er að finna lyngmóavist og grasmóavist.
Innan svæðisins er talsvert um friðlýstar fornminjar, fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Gjáarétt liggur í vesturenda Búrfellsgjár auk fyrirhleðsla, réttargerðis og vatnsbólsins Vatnsgjár. Menningarminjarnar eru friðlýstar samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.
Svæðið er kjörið til útivistar, umhverfisfræðslu, og rannsókna, en Búrfell og nágrenni er vinsælt
útivistarsvæði. Hluti svæðisins liggur innan Reykjanesfólkvangs.
Hið friðlýsta svæði er 3,4 km2 að stærð.

2. gr.
Markmið friðlýsingarinnar.

Selgjá

Selshellir í Selgjá.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.

Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við
höfuðborgarsvæðið.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk svæðisins eru sýnd á korti í viðauka I og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka II.

4. gr.
Verndun jarðminja.

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

Óheimilt er að hrófla við, raska eða skemma jarðmyndanir innan náttúruvættisins nema til komi sérstakt leyfi frá Umhverfisstofnun og Garðabæ. Til verndunar jarðmyndana er heimilt, að fenginni umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, að fjarlægja gróður sem skyggir á jarðmyndanirnar.
Óheimilt er að planta hvers konar plöntum í jarðmyndunum.
Nánar skal fjallað um verndun jarðminja í stjórnunar- og verndaráætlun.

5. gr.
Verndun gróðurs og dýralífs.

Búrfellsgjá

Minjar í Búrfellsgjá.

Vernda skal náttúrulegt gróðurfar með það að markmiði að ekki verði raskað líffræðilegri fjölbreytni svæðisins.
Óheimilt er að spilla gróðri, öðrum en ágengum framandi tegundum, nema um sé að ræða gróður sem spillir útsýni að jarðmyndunum á svæðinu. Vinna skal að því að fjarlægja ágengar framandi tegundir plantna og/eða dýra sem hafa verið flutt inn á svæðið eða berast inn á það.
Óheimilt er að trufla dýralíf á svæðinu að undanskildum framandi tegundum.
Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum á verndarsvæðinu þ.m.t. rækta framandi plöntutegundir í náttúruvættinu sbr. reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000.
Nánar skal fjalla um verndun gróðurs og dýralífs í stjórnunar- og verndaráætlun.

6. gr.
Vernd menningarminja.
Um vernd menningarminja fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

7. gr.
Umferð um verndarsvæðið.

Selgjá

B-steinninn í Selgjá.

Almenningi er heimil för um verndarsvæðið en er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda innan þess. Gestir skulu, eftir fremsta megni, fara eftir þar til gerðum stígum og stikuðum leiðum. Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið á merktum reiðleiðum.
Akstur vélknúinna ökutækja utan vega er óheimill, sbr. 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Innan náttúruvættisins er óheimilt að hafa næturgistingu í tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði.
Öll meðferð elds er óheimil á svæðinu, þ.m.t. notkun ferðagrilla.

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Hundar og önnur gæludýr skulu ávallt vera í taumi innan verndarsvæðisins og þess skal gætt að þau séu undir tryggri stjórn og að þau valdi ekki truflun fyrir gesti og dýralíf svæðisins.
Notkun fjarstýrðra loftfara er óheimil innan náttúruvættisins nema að fengnu leyfi frá Umhverfisstofnun. Þó er heimilt að nota fjarstýrð loftför, ef nauðsyn krefur, vegna leitar- og björgunaraðgerða og vegna umsjónar og eftirlits Umhverfisstofnunar. Minjastofnun Íslands hefur sömu heimildir innan friðhelgunarsvæðis menningarminja. Að öðru leyti skal farið eftir reglugerð nr. 990/2017
um starfrækslu fjarstýrðra loftfara.
Nánar skal fjallað um umferð um verndarsvæðið í stjórnunar- og verndaráætlun og deiliskipulagi fyrir svæðið.

8. gr.
Umgengni um verndarsvæðið.
Óheimilt er að skilja eftir eða urða úrgang innan verndarsvæðisins og skal allur úrgangur settur í þar til gerð ílát eða hann tekinn með út af svæðinu.

9. gr.
Umsjón.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verndarsvæðinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013.
Umhverfisstofnun getur falið einstaklingum, sveitarfélögum eða öðrum lögaðilum umsjón og rekstur sbr. 85. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Til grundvallar samningi um umsjón og rekstur svæðisins skal liggja fyrir stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið. Í samningnum skal m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, menntun starfsmanna og gjaldtöku.
Minjastofnun Íslands fer með umsjón menningarminja á svæðinu skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

10. gr.
Stjórnunar- og verndaráætlun.

Búrfellsgjá

Gróður við Búrfellsgjá.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlýsta svæðið í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjalla um landnýtingu, mannvirkjagerð, starfsemi, menningarminjar, landvörslu, vöktun, verndun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir, aðgengi og umferð gesta, þ. á m. aðgengi fólks með hreyfihömlun.
Stjórnunar- og verndaráætlun skal gerð í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila.
Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra.

11. gr.
Rannsóknir og vöktun.
Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun á verndarsvæðinu, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar.
Aðrar rannsóknir en rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og Minjastofnunar Íslands sem kunna að hafa í för með sér jarðrask eða truflun dýralífs eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.
Veiting leyfa vegna rannsókna á menningarminjum fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

12. gr.
Fræðsla.

Selgjá

Selgjá.

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ, hefur frumkvæði að fræðslu um svæðið. Í fræðsluefni skal upplýst um m.a. umgengnisreglur sem gilda á svæðinu og sérstöðu svæðisins.
Nánar skal kveðið á um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

13. gr.
Landnotkun og mannvirkjagerð.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Allar framkvæmdir, þ.m.t. mannvirkjagerð og aðrar breytingar á landi innan friðlýsta svæðisins eru háðar leyfi Garðabæjar, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010 og Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis Minjastofnunar Íslands. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið.
Við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif utan friðlýsta svæðisins sem áhrif geta haft á verndargildi þess skal fyllstu aðgæslu gætt.
Vegna starfsemi eða framkvæmda, sem geta haft áhrif á friðlýsta svæðið, sem leyfisskyldar eru samkvæmt öðrum lögum, skal taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis. Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt.
Losun jarðefna og úrgangs er óheimil innan friðlýsta svæðisins.

14. gr.
Starfsemi innan svæðisins.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á jarðrask, aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja innan verndarsvæðisins, s.s. vegna kvikmyndagerðar, listviðburða og samkomuhalds. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis
Minjastofnunar Íslands.
Starfsemi skal vera í samræmi við skipulag svæðisins.
Nánar skal fjallað um starfsemi innan svæðisins í stjórnunar- og verndaráætlun.

15. gr.
Notkun skotvopna.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Notkun skotvopna er bönnuð innan marka náttúruvættisins. Veiðar á ágengum framandi tegundum eru heimilar í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum enda skulu þær stundaðar á vegum Garðabæjar og í samráði við Umhverfisstofnun.
Nánar skal fjallað um veiðar innan náttúruvættisins í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

16. gr.
Viðurlög.
Um brot gegn friðlýsingunni fer samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

17. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Bráðabirgðaákvæði.

Selgjá

Stekkur í Selgjá.

Þar til staðfest deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið liggja fyrir er Umhverfisstofnun heimilt að veita leyfi fyrir framkvæmdum ef þær ganga ekki gegn verndarmarkmiðum friðlýsingarinnar.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. júní 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Jón Geir Pétursson.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjá: „Grunn en allbreið gjá syðst í Urriðakotshrauni. Nær allt suður í Hrafnagjá, við Gjáarrétt. Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellnasel Álftnesinga 1703.“ Einnig er þar: „Nær hún allt frá Sauðahelli suður á Norðurhellagjárbarm.“ Selgjárbarmar eru tveir, „annar að sunnan, hinn að vestan“, Norðurhellnagjárbarmur syðri er „nær Vífilsstaðahlíð“ en Norðurhellnagjárbarmur vestri „nær Tjarnholtinu“.
Í Ódagsettri Örnefnalýsingu segir: „Þegar komið er framhjá Sauðahellisvörðu hallar niður í Selgjána og nefnist þá stígurinn Selgjárstígur. Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu, í 11 sambyggingum, því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18.öld. Við Selgjárbarminn nyrðri er svokallaður B-steinn steinn með bókstafnum B. Á suðurhlið er svo Selgjárbarmurinn syðri. Við syðsta selið liggur stígurinn upp á barminn og er þar Selgjárvarðan. Þegar kemur hér spölkorn suður er komið að úfnu hrauni fram undan svarthömrum, nefnist Kargi. Selstæðið þarna var einnig nefnt: Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellnabarmur syðri.“ (Bls. 4).“

Selgjá

Eitt seljanna í Selgjá.

Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjár, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi. […] Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar.“ Í lýsingu á gjánni frá 1983 segir: „Á vinstri hönd, eða til suðurs, sjáum við af brúninni grunna, en nokkuð breiða gjá í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá).

Selgjá

Selgjá – selsminjar.

Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.“ (Þ.J. og Ó.K.: 27). Minjarnar í Selgjá eru friðlýstar: „Urriðavatn: Seltóftir margar, hellar og önnur mannvirki í og við norðurenda Selgjár. Skjal undirritað af KE 30.04.1964. Þinglýst 05.05.1964.“

Selgjá

Selgjá – Norðurhellahellrir.

Sjá meira HÉR um minjarnar í Selgjá.

Heimildir
-Ari Gíslason: Ódagsett örnefnalýsing Urriðakots. 1990, Fornleifaskrá Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman.
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: Urriðakot nr. A154, 158, 162-3 / B155, 167-8.
-Svanur Pálsson, 1978, bætt 1988: Örnefnalýsing Urriðakots skráð eftir Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson, 1983: „Fjórar leiðir í Gjáarétt“. Hesturinn okkar. Bls. 46-59. Rvk.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28813
-https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2020/06/25/Burfell-Burfellsgja-og-Selgja-i-Gardabae-fridlyst/
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/burfell-gardabae/
-https://ferlir.is/selgja-selin/

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Grafningur

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins árið 2013 fjallar Guðfinna Ragnarsdóttir um „Grafninginn„.

Nesjavellir
„Grafningurinn skipar heiðurssess í blaðinu að þessu sinni. Þar segir frá þekktum forfeðrum og ríkum ættartengslum innan þessarar litlu sveitar, svo og sögufrægum bæjum þar sem óleystar gátur leynast í grasigrónum rústum. Í gömlum upptökum frá systkinunum frá Úlfljótsvatni lesum við einnig um hjátrú og kynlega kvisti.

Dyr

Dyrnar í Dyradal.

Grafningurinn var lengi nokkuð einangraður. Á aðra hönd er stóráin Sogið, Þingvallavatn framundan á löngum kafla og vestan við eru fjöll og firnindi. Á Soginu voru góðir ferjustaðir þótt vað væri aðeins eitt. Efsti ferjustaðurinn var yfir Þingvallavatn ofan við Dráttarhlíðina, ekki langt frá útfallinu. Hann var mjög hættulegur og varð þar eitt sinn stórslys þegar menn og skepnur soguðust ofan í útfallið. Annar ferjustaður var neðan við Dráttarhlíðina á móts við Kaldárhöfða. Þriðji ferjustaðurinn var við neðanvert Úlfljótsvatn. Sá fjórði var skammt ofan við Ljósafoss og sá fimmti var frá Bíldsfelli gegnt Ásgarði. Eina vaðið á Soginu var um Álftavatn. Botninn er þar góður, harður sandbotn. Venjulega er þar ekki mjög djúpt, víðast litlu meira en í kvið á hesti. Þó segir í Sturlungu um för þeirra Sturlu Sighvatssonar og Gissurar Þorvaldssonar, þegar þeir komu úr Apavatnsför 1238, að þeir „höfðu djúpt“ er þeir riðu yfir Álftavatn.

Grafningshálsinn

Grafningur

Sporin í Grafningi.

Þeir Sturla og Gissur munu einnig hafa riðið gamla alfaraleið frá Álftvatnsvaðinu, yfir Grafninginn, um Grafningsháls á leið sinni að Reykjum í Ölfusi.
Grafningshálsinn var þjóðleið milli Ölfuss og Grafnings. Um hann fóru skreiðarflutningar Skálholtsbiskupsstóls, en Skálholtsmenn létu flytja sér skreið frá Þorlákshöfn allt fram undir lok 18. aldar.
Leiðin lá um svo kallaðan Djúpa-Grafning, sem er gróið dalverpi, sem á kafla er flóraður, þ.e. hellulagður. Farið var upp hjá Litla-Hálsi og komið niður í Ölfusið hjá Hvammi. Sumir telja að nafnið Grafningur sé komið af Djúpa-Grafningi.

Íbúar og hreppatengsl
GrafningurGrafningur tilheyrði Ölfushreppi til ársins 1785. Síðan var hann sérstakur hreppur fram til 1828 þegar hann sameinaðist Þingvallahreppi. Á þessum árum var náin samvinna við Grímsneshrepp. Grafningurinn varð aftur sjálfstæður 1861 og var það í rúma öld. Hann sameinaðist svo Grímsneshreppi 1998.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1708, eða þar um bil, er getið ellefu lögbýla og þriggja hjáleiga í Grafningi í Ölfushreppi. Heimilismenn á þessum bújörðum eru samkvæmt manntalinu 1703, 94 að tölu. Þar við bætast „fátækir flakkarar“ og „óráðvandir, latir en vinnufærir“ samtals 31 að tölu í Ölfusi og Grafningi.
Fyrir einni öld voru tólf bæir í Grafningshreppi og íbúarnir rúmlega eitt hundrað, nú er búskapur á um helmingi jarðanna og íbúar undir 50.
Í sveitalýsingu sinni frá 17. öld segir Æri-Tobbi:
„Arra sarra, urra glum
illt þykir mér í Flóanum.
Þagnar magnar þundar klið
þó er enn verra Ölvesið.“
Fátt segir af mannlýsingum forðum en skemmtileg er lýsing Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar í Ferðabók þeirra frá árunum 1755-56. Þar lýsa þeir uppsveitamönnum þannig að þeir séu: …stórir vexti og vel á sig komnir… sjaldnast hraustlegir í andliti en nokkuð fölleitir… Fólkið sem alizt hefir upp í verstöðvunum er yfirleitt ófríðara og verr vaxið en sveitafólkið.

Kirkjur
ÖlfusvatnÞekktir eru fimm kirkjustaðir í Grafningi. Elsta kirkjan var á Ölfusvatni, hennar er getið 1180. Á Úlfljótsvatni er komin kirkja 1220 og einnig á Bíldsfelli. Laust fyrir 1400 er svo reist kirkja á Torfastöðum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir einnig að enn sjáist sýnileg merki kirkjutóftar og kirkjugarðs í Nesjum.
Á 16. öld eru aðeins eftir tvær kirkjur í Grafningnum, á Ölfusvatni og Úlfljótsvatni. og 1706 er aðeins eftir kirkjan á Úlfljótsvatni. Núverandi kirkja er byggð 1863 á gömlu kirkjustæði í útgröfnum kirkjugarði.
Ófeigur Jónsson, bóndi og smiður frá Heiðarbæ, málaði altaristöflu kirkjunnar. Hún sýnir heilaga kvöldmáltíð. Í turninum eru tvær koparklukkur með ártalinu 1744.

Bæir í byggð
Í dag eru sjö bæir í byggð: Torfastaðir II, Úlfljótsvatn, Bíldsfell, þar er tvíbýli, Stóri-Háls, Litli-Háls, Villingavatn og Nesjar. Á Torfastöðum II og LitlaHálsi ólst rithöfundurinn Ólafur Jóhann Sigurðsson upp. Úlfljótsvatn er kirkjustaður. Nafnið er fengið frá Úlfljóti, fyrsta lögsögumanninum, frá 930.

Úlfljótsvatn.

Úlfljótsvatn – kirkja.

Skátahreyfingin hefur haft aðstöðu á hluta jarðarinnar frá 1944 og 1967 fékk Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar þar land undir orlofshús. Árið 2012 keyptu Skógræktarfélag Íslands Úlfljótsvatn ásamt Bandalagi íslenskra skáta og Skátasambandi Reykjavíkur. Á Úlfljótsvatni bjuggu lengi hjónin Kolbeinn Guðmundsson (1873-1967) og Geirlaug Jóhannsdóttir (1870-1952). Þau hjónin voru systkinabörn, bæði barnabörn Nesjavalla-Gríms og Hallgerðar konu hans. Vilborg dóttir þeirra var lengi kennari á Ljósafossi. Foreldrar Kolbeins voru Guðmundur Jónsson og Katrín Grímsdóttir sem bjuggu í Hlíð í Grafningi. Foreldrar Geirlaugar voru Jóhann Grímsson og Katrín Guðmundsdóttir. Þau bjuggu á Nesjavöllum. Bíldsfell er landsnámsjörðin í Grafningi. Hana nam Þorgrímur bíldur, (bíldur=blóðtökuhnífur). Bíldsfell var talin með bestu jörðum í Árnessýslu. Þar var mikill gróður, góðar slægjur og traust vetrarbeit auk mokveiði af laxi.

Bíldsfell

Bíldsfell.

Bíldsfell er talið fyrsta sveitabýlið á Íslandi sem raflýst er frá vatnsaflsstöð en þar var bæjarlækurinn virkjaður árið 1912.
Á Stóra-Hálsi hefur búið Ársæll Hannesson, ásamt konu sinni Petrínu Sigrúnu Þorsteinsdóttur, og dóttir þeirra Ásdís, en rætur þeirra hafa staðið í Grafningnum í 240 ár. Nú er tekin við búinu Sigrún Jóna Jónsdóttir, dóttir Ásdísar. Á Villingavatni, sem er skilgreind sem fjallajörð í Sunnlenskum byggðum, bjó til skamms tíma Sigurður Hannesson, bróðir Ársæls á Stóra-Hálsi. Hann lést 2012 og leigði Ingólfi Guðmundssyni frá Miðfelli jörð sína og búfé, með óvenjulegum skilmálum, að sögn, til rúmlega 90 ára, og býr Ingólfur, sem er rúmlega fertugur, þar í dag. Við Þingvallavatn, í landi Villingavatns, er fjárhellir sem notaður hefur verið frá ómunatíð. Skinnhúfuhellir er einnig í landi Villingavatns.

Nesjar

Nesjar.

Í Nesjum, sem er efsti bær í Grafningi, býr Örn Jónasson. Bærinn stendur á vestasta nesinu af þrem sem ganga út í Þingvallavatn vestanvert. Nesey tilheyrir Nesjum. Í Nesjum bjó forðum Þorleifur Guðmundsson, sem bjargaðist í brunanum í Norðurkoti 1773, og þar fæddist Nesjavalla-Grímur.
Bæir í eyði Grafningsbæir sem farnir eru í eyði eru Torfastaðir I, Tunga, Hlíð, Krókur, Hagavík, Ölfusvatn og Nesjavellir. Nesjavellir og Ölfusvatn eru í eigu Orkuveitunnar.
Sel voru frá mörgum bæjum og sjást seljarústir víða. Aðalréttin í Grafningnum er Selflatarétt, byggð 1910. Aðrar réttir voru Nesjavallarétt, en þangað var féð rekið af Mosfellsheiði og Dyrfjöllum, Ölkelduhálsrétt (1908-1930), sem var rúningsrétt, og Tindarétt (1960-1976), einnig rúningsrétt.

Orkugjafar

Ölfus

Ölfusölkelda.

Grafningurinn hefur ekki verið talin sérstök kostasveit í búskaparlegu tilliti, ef frá eru talin veiðihlunnindi í ám og vötnum. En auðæfi hreppsins eru vatnsorkan og jarðhitinn sem í dag eru bæði nýtanleg og nýtt.
Greinar Guðfinnu Ragnarsdóttur um Grafninginn og Grafningsbæina eru unnar upp úr eftirfarandi heimildum: Árbók Ferðafélags Íslands frá 2003, Þingvallavatn, Undraheimur í mótun frá 2002, í ritstjórn Péturs M. Jónassonar og Páls Hersteinssonar, Sunnlenskar Byggðir, III, Grímsnes Búendur og saga frá 2002. Ferlisgreinar af netinu eru eftir Ómar Smára Ármannsson og ýmsar munnlegar heimildir eru m.a. frá. Ársæli Hannessyni á Stóra-Hálsi.

Ölfusvatn

Ölfusvatn

Ölfusvatn – bæjarhóll.

Blótsteinar, brunnur, ósnortnar bæjarrústir og aldagamall bæjarhóll, traðir og dularfullt fangamark klappað í stein. Þetta og ótal margt fleira mætir þeim sem leggur leið sína að eyðibýlinu Ölfusvatni í Grafningi.
Ölfusvatn er landnámsjörð og ætla má að þar hafi verið búið óslitið frá landnámsöld. Jarðarinnar er getið í Harðar sögu Grímkelssonar. Þórðar saga kakala í Sturlungu greinir einnig frá því er Símon knútur var veginn á Ölfusvatni árið 1243, en hann var einn þeirra er stóðu að vígi Snorra Sturlusonar. Tumi Sighvatsson, bróðursonur Snorra, kom á Ölfusvatn og lét taka Símon. „Var hann út leiddur og höggvinn“.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – minjar.

Í túni Ölfusvatns eru tvö örnefni sem minna á hinn forna goða, Grímkel. Annars vegar er það Grímkelsgerði, óljós garður, sem liggur í boga suðvestur af bæjarhólnum. Hitt örnefnið er Grímkelsleiði.
Þar er talið að Grímkell hafi verið grafinn. Bæði Grímkelsgerði og Grímkelsleiði eru friðuð.
Sandey tilheyrði áður Ölfusvatni, upphaflega gjöf til Ölfusvatnskirkju. Kona gaf eyna til sáluhjálpar tveim sonum sínum sem hún missti í vatnið. Nú er eyjan talin sameign margra. Þar hefur verið gróðursettur barrskógur og lúpína við mismunndi undirtektir. Heyjað var í eynni fram um 1940 og heyið flutt á ís til lands á vetrum. Veiðibjölluvarp var nýtt til eggjatöku.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – hof.

Ölfusvatn hefur verið í eyði síðan 1947 og má þar enn sjá húsatóftir og garðleifar. Bæjarstæði Ölfusvatns er einstakur minjastaður og óskaddaður að mestu leyti. Bærinn fór í eyði áður en byrjað var að beita stórvirkum vinnuvélum við sléttun túna og bygginga. Á Ölfusvatni er því óskemmdur bæjarhóll þar sem eru upphlaðnar leifar af bæjarhúsum síðustu 1000 ára og útihúsatóftir gefa hugmynd um forna búskaparhætti.
Bæjarstæðið eða bæjarhóllinn er mjög greinilegur og má enn greina í honum herbergja- og húsaskipan síðasta bæjarins. Enn fremur sjást leifar nokkurra útihúsa í túninu.

Traðir og brunnur
ÖlfusvatnUppbyggð heimreið, traðir, liggja heim að bænum en framan eða austan við þær voru kálgarðar. Inni í bæjarrústunum er djúpur, hlaðinn brunnur með vatni. Sigurður bóndi á Villingavatni taldi þennan brunn vera einn þann elsta í Grafningnum.
Samkvæmt Landnámabók hét Þingvallavatn áður Ölfusvatn. Eftir að Alþingi kom saman á Þingvöllum var heiti vatnsins breytt í Þingvallavatn. Samkvæmt fornum heimildum var Ölfusvatn stórbýli. Jarðirnar Hagavík og Krókur eru gamlar hjáleigur frá Ölfusvatni sem urðu sjálfstæð býli á 10. öld.
Sóknarkirkja var byggð á Ölfusvatni kringum 1200. Kirkjan stóð fram undir 1600 en eftir það lagðist sóknin til Úlfljótsvatnskirkju. Í dag er ekki vitað með vissu hvar Ölfusvatnskirkja stóð, en fast sunnan við bæjarhólinn er sjálfstæð rústabunga sem mögulega er hið forna kirkjustæði. Síðustu merki kirkju og kirkjugarðs sáust enn í byrjun 18. aldar.

Blótsteinn?
ÖlfusvatnMargar merkilegar minjar má finna á Ölfusvatni. Um tveim metrum austan við framhlið bæjarins, á hlaðinu, er að finna stein, svo kallaðan blótstein eða hlautstein. Ekki er vitað með vissu hvert hlutverk þessa steins hefur verið. Fleiri minni blótsteinar hafa fundist við bæinn. Getgátur eru um að hann hafi verið í hofi Grímkels Goða, en hann var sagður blótmaður mikill. Aðrar tilgátur eru um að hann hafi staðið fyrir dyrum hinnar fornu Ölfusvatnskirkju og að í steininum hafi verið vígt vatn. Sagt er frá slíkum steinum í fornum heimildum.
Hof Grímkels var helgað Þorgerði hörgabrúði, en hún var yfirnáttúruleg vera sem víða er getið í fornritum. Engar ótvíræðar hoftóftir sjást á yfirborði en örnefnið Hofkofi gefur þó vísbendingu um hvar menn hafa talið að hofið hafi staðið.

Óleyst gáta?

Ölfusvatn

Ölfusvatn – letursteinn.

Í brekkurótum, beint ofan við bæjarstæðið, er steinn með áletruninni, VES 1736 og á honum er kross. Steinninn er ekki auðfundinn en hjá honum er steinahrúga, sú eina á svæðinu. Þessi steinn var friðlýstur árið 1927. Fróðlegt væri að vita fyrir hvað stafirnir standa. Athugun á Mt 1703 leiddi ekki margt í ljós. Þó fann greinarhöfundur bónda nokkurn sem stafirnir gætu átt við. Það var Valgarður Einarsson, bóndi á Efri-Brú í Grímsnesi, sem er í næsta nágrenni við Ölfusvatn. Hann er sagður 43 ára árið 1703. Stafirnir gætu átt við, V fyrir Valgarður, E fyrir Einar og S fyrir son, en þannig skráðu menn oft fangamark sitt áður og fyrr. Það sem mælir gegn þessum manni er að hann hefði átt að vera nokkuð fullorðinn, eða 76 ára, árið 1736. Hann er þó enn á lífi og enn á Efri-Brú í Mt 1729. Valgarður þessi átti amk tvö börn sem nefnd eru í Mt 1703, Guðbrand þá 8 ára og Guðrúnu 1 árs. Hvort þau bjuggu á Ölfusvatni er ekki gott að vita. „Aldirnar leifðu skörðu“.
En hver svo sem það er sem hefur hoggið fangamarkið sitt í þennan stein er óhætt að mæla með heimsókn að Ölfusvatni í Grafningi. Þar blasir fortíðin við manni.

Átthagatryggð – Sjö kynslóðir í Grafningi

Grafningur

Stóri-Háls (MWL).

Sigrún Jóna Jónsdóttir er rúmlega þrítugur búfræðingur sem er nýtekin við búi á ættaróðalinu Stóra-Hálsi í Grafningi, þar sem bæði móðir hennar, Ásdís, og afi hennar og amma, Ársæll og Petrína Sigrún, hafa búið. Þegar hún lítur yfir ættarsöguna og Grafninginn getur að líta ótrúleg átthagatengsl, en þar hafa forfeður hennar búið í 240 ár, á átta af tólf jörðum Grafningsins.
Það var árið 1773 sem lítill, munaðarlaus drengur var ferjaður á bátskænu yfir Úlfljótsvatn ásamt vinnukonu sem skömmu áður hafði bjargað honum út úr brennandi bænum í Norðurkoti í Grímsnesi. Þar brunnu foreldrar hans inni. Á Úlfljótsvatni bjó föðurbróðir hans, Halldór Brandsson, og hjá honum ólst drengurinn, Þorleifur Guðmundsson (1770-1836) upp.

Nesjar

Nesjar.

Steindór Finnsson sýslumaður ávaxtaði fé Þorleifs og keypti í fyllingu tímans handa honum jörðina Nesjar í Grafningi, þar sem hann reisti bú ásamt konu sinni, Guðrúnu Magnúsdóttur frá Efri-Sýrlæk í Flóa. Þeim varð átta barna auðið og var eitt þeirra Grímur, Nesjavalla-Grímur (1799-1867). Guðrún drukknaði þegar hún féll niður um ís við að vitja um net í Þingvallavatni. Þá flutti Þorleifur bæ sinn að Nesjavöllum. Hann þoldi ekki að sjá vatnið sem hafði rænt hann eiginkonunni.

Fimm Grafningsbændur

Nesjavellir

Nesjavellir 1937.

Á Nesjavöllum bjó síðan Grímur sonur þeirra og á eftir honum Jóhann (1843-1926) sonur Gríms. Margrét (1888-1965) dóttir Jóhanns varð síðar húsfreyja á Stóra-Hálsi og giftist Hannesi Gíslasyni. Fimm börn þeirra urðu bændur í Grafningnum: Sigurður á Villingavatni (1926-2012), Valgerður (1912-2003) húsfreyja á Torfastöðum, Ársæll f. 1929 á Stóra-Hálsi, Dagbjartur (1919-1999) á Úlfljótsvatni og í Hlíð og Kjartan (1920-1979), bóndi á Ingólfshvoli í Ölfusi, hafði stórt fjárbú á Litla-Hálsi á þriðja áratug. Meðal barna Margrétar og Hannesar á Stóra-Hálsi voru einnig Hannes (1913-1984) bóndi á Kringlu í Grímsnesi og Jóhann (1910-1976) trúboði, guðfræðiprófessor og þjóðgarðsvörður.

Grafningur

Grafningur – Krókur.

Gísli Magnússon, (1853-1943) faðir Hannesar, var bóndi og sýslunefndarmaður á Króki í Grafningi. Faðir hans var Magnús Gíslason (1813-1887) bóndi og hreppstjóri á Villingavatni og faðir hans var Gísli Gíslason (1774-1858) einnig bóndi og hreppstjóri á Villingavatni. Kona hans var Þjóðbjörg, ljósmóðir, dóttir Guðna Jónssonar (1716-um 1783) í Reykjakoti, sem Reykjakotsætt er frá talin.

240 ár
Úlfsljótsvatn..Um þessar mundir eru liðin 240 ár frá því að Þorleifur litli Guðmundsson steig fyrst á land í Grafningnum. Ásdís f. 1955, dóttir Ársæls og konu hans Petrínu Sigrúnar Þorteinsdóttur, bjó síðan með foreldrum sínum á Stóra-Hálsi. Hún er gegnum föðurömmu sína 5. ættliður frá litla, munaðarlausa drengnum sem forðum var ferjaður yfir Úlfljótsvatnið ásamt lífgjafa sínum. Nú hefur dóttir hennar, Sigrún Jóna Jóndóttir, f. 1981, tekið við búinu, nýútskrifaður búfræðikandidat frá Hvanneyri.

Grafningur

Grafningur – Litli-Háls.

Í Grafningnum bjuggu afkomendur Þorleifs þannig óslitið mann fram af manni og enn býr sem sagt barnabarnabarnabarnabarnabarnið hans, Sigrún Jóna, á einni af þeim sjö jörðum Grafningsins sem í byggð eru.

Og ekki nóg með það. Sigrún Jóna er einnig, gegnum föðurafa móður sinnar, 6. ættliður frá Gísla Gíslasyni, bónda og hreppstjóra á Villingavatni. Forfeður hennar og frændur hafa því byggt Nesjar, Nesjavelli, Stóra-Háls, Litla-Háls, Villingavatn, Úlfljótsvatn, Hlíð og Torfastaði. Traustari rætur er tæpast hægt að hafa í Grafningnum.

Nesjar og Nesjavellir

Nesja í Grafningi mun fyrst getið í gjafabréfi frá 1539. Erlendur Þorvarðarson lögmaður gaf Margréti dóttur sinni jörðina ásamt mörgum öðrum til giftumála. Þá er jarðarinnar getið í Gíslamáldögum vegna þess að þaðan var kirkjusókn að Ölfusvatni.

Nesjavellir

Nesjavellir.

Tvö fornbýli eru talin hafa verið í landi Nesja: Setbergsból og Vatnsbrekkur (Steinröðarstaðir). Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1708 er jörðin í Nesjum sögð 20 hundruð. Þá voru enn sýnileg merki kirkjutóftar og kirkjugarðs. En bóndinn bar sig illa við þá Árna og Pál því hvorki voru til net né bátur til þess að veiða þá gnægð silungs sem í vatninu var. Jörðin átti þá nægan skóg til kolagerðar og eldiviðar og enn er mikið birkikjarr í landi Nesja. Engar vatnslindir finnast í landinu.

Gamlasel

Gamlasel í Grafningi.

Nesjaey liggur undan Nesjum. Þar var heyjað um skeið fyrr á öldum en beðið var með heyflutninginn í land þar til vatnið lagði. Þar var einnig veiðibjölluvarp.
Grafningsbændur hlífðu slægjum heima fyrir og höfðu í seli líkt og aðrir bændur á Reykjanesskaganum.
Hér kom það einnig til að bjarga þurfti búsmala á sumrin undan mýbitinu á bökkum Sogs og Þingvallavatns.
Kýr voru af þeim sökum einnig oft hafðar í seli, auk sauðfjárins.
Afrétt áttu Nesjar, að sögn Jarðabókar Árna og Páls, árið 1706, undir Hengli. Þá áttu Nesjar samkvæmt sömu heimild fleiri en eina selstöðu: „Selstöður á jörðin í sínu eigin landi, kallaðar Kleifasel, Klængsel og Vallasel.“

Nesjavellir

Tóft við Nesjavelli.

Í ritinu Sunnlenskar byggðir, III. bindi, er sérstakur kafli um selstöður í Grafningi. Þar segir meðal annars: „Hálendið upp af bæjunum telst til heimalands jarðanna. Er þar mikið beitiland og var fyrrum mjög notað til selstöðu. Sér þar víða til selrústa.“
Um 1800 bjó í Nesjum Þorleifur Guðmundsson (um 1770-1836). Hann byggði jörðina Nesjavelli úr landi Nesja 1819 eða 1820, þar sem áður stóð Vallasel. Fyrsta bæjarstæðið á Nesjavöllum, þangað sem Þorleifur flutti, er fast við þjóðveginn, nokkur hundruð metrum vestan við Nesjavallaafleggjarann, vatnsmegin við veginn, rétt áður en brekkurnar byrja, þegar ekið er til vesturs.
Þorleifur, sem oft er kallaður faðir Nesjavalla ættarinnar, andaðist á Nesjavöllum 8. janúar 1836. Alls urðu börn Þorleifs 18.
NesjavellirEftir lát Þorleifs tók við búi Grímur, sonur hans og Guðrúnar fyrri konu hans. Hann er ávallt kenndur við bæ sinn og kallaður Nesjavalla-Grímur. Hann byggði bæinn upp á nýjum stað, syðst á Völlunum, skammt þar frá sem hann er nú. Ástæða flutningsins er talin sú að erfitt var með vatnsból enda gropin hraun allt um kring. Nesjavellir voru erfið jörð hvað heyskap varðaði og dugði ekki hey það sem náðist af túni og engjum. Nesjavalla-Grímur lést á Nesjavöllum árið 1867.
Nesjavallabærinn var forðum í þjóðbraut, þá er farinn var hinn forni Dyravegur. Þorvaldur Thoroddsen fór Dyraveginn árið 1883 og segir m.a. „Frá Nesjavöllum fórum við Dyraveg. Hann er mjög brattur að austan. Dyrafjöll ganga norður úr Henglinum.“
Nú er Orkuveita Reykjavíkur eigandi Nesjavalla líkt og fleiri jarða í Grafningi og Ölfusi.

Sigurður á Villingavatni og Orkuveitan

Grafningur

Villingavatn – fjárhellir.

Orkuveitan hefur um langt árabil rennt hýru auga til ýmissa jarða í Grafningnum, m.a. Villingavatns. Jarðhitinn lokkar.
Góð saga er til um samskipti Orkuveitunnar við Sigurð á Villingavatni, etv. örlítið færð í stílinn, eins og allar góðar sögur.
Dag einn buðu þeir Orkuveitumenn Sigurði í kaffi og buðu honum 300 milljónir í jörðina. Ekki sinnti Sigurður því tilboði. Nokkru seinna buðu þeir Sigurði í mat og hækkuðu tilboðið í 600 milljónir. Þeir bættu því við að honum væri velkomið að búa áfram á jörðinni. Árangurinn af þeim samskiptum var klénn. Sigurði varð ekki þokað. Hápunktur ósvífninnar var, fannst honum, að þeir skyldu bjóða sér að búa áfram á hans eigin jörð. Orkuveitumenn sáu að Sigurður mundi reynast þeim erfiður og að hér þyrfti betra boð og aðrar aðferðir. Þeir ákváðu því að bjóða Sigurði í mat suður til Reykjavíkur. Þáði Sigurður það og að málsverði loknum gerðu þeir honum tilboð. 1 milljarður, takk, fyrir Villingavatnið. Ég held ykkur væri nær að gefa Háskólanum þennan milljarð, því ekki fáið þið Villingavatnið, sagði Sigurður og fór aftur heim.
Þar með lauk samskiptum Orkuveitunnar og Sigurðar Hannessonar á Villingavatni.
Þetta er saga sem er þess virði að vera sögð sagði Ingunn Guðmundsdóttir frá Efri- Brú. Hún [sagði með] sanni að enn finnist bændur á Íslandi sem ekki séu tilbúnir að láta lendur og heiðar sauðkindarinnar í hendur Mammons, hvaða verð sem sé í boði.“ – Guðfinna Ragnarsdóttir.

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins; Grafningurinn, Guðfinna Ragnarsdóttir, 3 tbl. 01.09.2013, bls. 3-9.
Ættfræðifélagið

Grindavík

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1992 fjallar Jón Þ. Þór um „Grindvíkinga anno 1703“ í fróðlegri samantekt.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

„Í Landnámabók segir frá að Molda-Gnúpur og synir hans námu land í Grindavík og mun sá atburður hafa orðið árið 935 eða 936. Þeir feðgar námu fyrst land austur í Álftaveri, en flýðu þaðan undan eldgosi. Eru flestir fræðimenn sammála um að það gos hafi orðið í Eldgjá, sem næst árinu 934.
Fátt er nú vitað um Molda-Gnúp og syni hans, umfram það sem í Landnámu segir. Við vitum t.a.m. ekki hve fjölmennar fjölskyldur þeirra og fylgdarlið voru, né heldur hvar í Grindavík þeir tóku sér bólfestu. Fornar heimildir hafa að sönnu að geyma ættartölur, þar sem raktar eru ættartölur frá Molda-Gnúpi, fram til þekktra manna á Sturlungaöld, en fátt af því fólki virðist hafa búið í Grindavík.
Íbúar Grindavíkur á næstu öldum eru fæstir þekktir. Af fornum máldögum og öðrum skjölum má sjá að flest lögbýlin í sveitinni: Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Þórkötlustaðir, Hraun og Krýsuvík, voru öll komin í byggð um 1230 og í rekaskrá Skálholtsstaðar frá árinu 1270 er ennfremur getið Hofs.

Hóp

Hóp og Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Hvar sá bær stóð er ekki vitað, en vera má að þarna sé um að ræða nafn á Hópi eða Ísólfsskála og hugsanlegt að nafnið Hóp hafi misfarist í Hof í handriti.
En þótt jarðirnar væru byggðar er fátt viðað um ábúendur þeirra og aðra íbúa sveitarinnar, fyrr en kemur fram á 18. öld. Nöfn örfárra eldri Grindvíkinga hafa geymst í heimildahandraðanum og þá helst Staðarpresta og annarra heldri manna, eða þeirra sem komu við stórviðburði, t.d. Tyrkjaránið.
Eins og kunnugt er, var manntal tekið á Íslandi í fyrsta skipti árið 1703 og voru þá allir Grindvíkingar skráðir með nafni, hver á sínu heimili. Við skulum nú hyggja um stund að þessu fólki, fyrstu Grindvíkingunum, sem stíga holdi klæddir og nafngreindir fram úr grámösku aldanna. Í mörgum tilvikum takmarkast vitneskja okkar við nöfnin ein, en um örfáa hefur tekist að afla frekari heimilda.
GrindavíkFyrsta almenna manntal á Íslandi var tekið í Grindavík nóttina fyrir páska árið 1703. Þá voru íbúar í Grindavíkurhreppi alls 248 og heimili 40. Meðalfjöldi fólks á heimili var þannig 6.2, en þau voru mjög misstór. Átta jarðir, eða lögbýli, voru byggðar í hreppnum og var tvíbýli á einni þeirra og á öllum jörðunum utan einni voru fleiri eða færri hjáleigur. Voru þær samtals 31. En hyggjum nú nánar að íbúum í Grindavík aðfararnót páskadagsins 1703.
Í manntalinu eru fyrst taldir heimilismenn á prestsetrinu Stað og fyrstur sóknarpresturinn, sr. Sigurður Eyjólfsson. Hann var orðinn 59 ára gamall, er hér var komið sögu, fæddur árið 1644, en var nýkominn á Stað. Sigurður var sonur sr. Eyjólfs Jónssonar á Bjarnastöðum.

Grindavík

Grindavík – Staður 1927.

Að lokinni vígslu gerðist hann fyrst aðstoðarperstur sr. Ámunda Ormssonar á Kálfatjörn, fékk brauðið eftir hans dag og gegndi því í rétt tuttugu ár. Þá hafði hann brauðaskipti við sr. Odd Árnason í Arnarbæli og sat þar til ársins 1698. Þá virtist holdsins brími hafa hlaupið með klerk í gönur því hann prestskap, „fyrir of fljóta samsængun með seinni konu sinni, Þórunni Bjarnadóttur“, svo notuð séu orð Sighvats Grímssonar Borgfirðings. Þórunn var 24 árum yngri en sr. Sigurður og er svo að sjá sem presti hafi orðið helst brátt til hennar og gengið í rekkju með henni áður en hjónavígslan hafði farið fram.

Grindavík - kort 1751

Grindavík – kort 1751.

Fyrir þetta brot varð sr. Sigurður að sleppa Arnarbæli og virðist hafa verið án prestakalls til ársins 1703. Þá fékk hann uppreisn æru, var veittur Staður í Grindavík og var nýkominn að kallinu er manntalið var tekið. Þá voru hjá honum á Stað kona hans, Þórunn Bjarnadóttir, 35 ára, móðir hennar, Sigríður Bjarnadóttir, 75 ára, og í fylgd með þeim mæðgum var 52 ára gömul systir pretsfrúarinnar, samnefnd henni, og hafði með sér 10 ára gamla dóttur sína. Ennfremur voru á heimilinu sex vinnuhjú, þrír vinnumenn og þrjár vinnukonur. En sr. Sigurður átti ekki langa lífdaga fyrir höndum. Hann lést á Stað úr bólunni árið 1707.
GrindavíkFjórar hjáleigur voru byggðar í Staðarlandi árið 1703. Þær voru ekki nafngreindar í manntalinu fremur en aðrar hjáleigur í hreppnum, en númeraðar, kallaðar 1., 2., 3. og 4. hjáleiga. Í fyrstu hjáleigu var húsbóndi sr. Stefán Hallkelsson, forveri sr. Sigurðar Eyjólfssonar í embætti. Engum sögum fer af samskiptum þeirra starfsbræðranna, en ekki er loku fyrir það skotið að þau hafi verið nokkuð einkenileg því sr. Stfeán var nýbúinn að missa embætti Staðarklerks, er hér var komið sögu. Stefán var sonur sr. Hallkells Stefánssonar á Hvalsnesi, fæddur árið 1664. Hann fékk Stað 1687 en þótti drykkfelldur og óreiðusamur og vék Jón biskup Vídalín honum frá embætti árið 1703. Var honum þá gefið að sök að hafa veðsett tveim mönnum sama bátinn.

Staður

Staður 1925.

Hann fékk uppreisn æru árið 1709 og lést 1732. Árið 1703 voru á heimili sr. Stefáns kona hans, Hólmfríður Þórðardóttir, 33. ára, fjögur ung börn þeirra og ein vinnukona.
Á hinum hjáleigunum voru heimilin fámennari. Á 2. hjáleigu bjuggu hjónin Vigfús Bjarnason og Guðrún Einarsdóttir, 48 og 33 ára, ásamt tveimur ungum börnum sínum, og á 3. hjáleigu þau Jón Teitsson og Sigríður Bjarnadóttir, 51 og 43 ára og höfðu hjá sér tvö börn sín. Á 4. og síðustu hjáleigunni voru hjónin Jón Þorsteinsson og Guðrún Eyvindsdóttir ásamt sex ára gömlum syni sínum.

Húsatóftir

Staðarhverfi – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Loks voru skráðir í Staðarlandi sex lausamenn, en ekki getið nánar um dvalarstað þeirra. Má geta sér þess til að þeir hafi búið í verbúð og sótt sjó á útvegi Staðarklerks.
Næst víkur sögunni að Húsatóftum. Þar bjó árið 1703 Ólafur Pálsson, 42 ára, ásamt konu sinni, Þorgerði Eyjólfsdóttur, 24 ára, og þrem ungum börnum þeirra. Ennfremur voru fimm vinnuhjú á heimilinu.
Ekki hefur tekist að grafa upp frekari heimildir um þau Húsatóftahjón, en þau virðast hafa búið góðu búi því átta lausamenn voru taldir á Húsatóftum og hafa vafalítið stundað sjóróðra, að einum undanteknum, sem var ekki nema átta ára. Lausamennirnir voru farandverkafólk þessa tíma og sýnir fjöldi þeirra á Stað og Húsatóftum, að þeir, sem ekki höfðu við bú að styðjast, hafa talið hags sínum sæmilega borgið við sjávarsíðuna.
Þrjár hjáleigur voru í Húsatóftarland árið 1703. Á hinni fyrstu bjuggu hjónin Kálfur magnússon og Þóra Sveinsdóttir, 46 og 43 ára, og hjá þeim fjögur börn þeirra, hið yngsta, Bjarni Kálfsson, fimm vikna, og var hann yngstur Grindvíkinga.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Á 2. hjáleigu bjuggu synstkinin Ólafur og Margræet Magnúsarbörn, 35 og 43 ára, og má vel vera að þau hafi verið systkini Kálfs Magnússonar. Á 3. hjáleigu, sem einnig var kölluð Kóngshús, var húsbóndi Jón Jónsson, 52 ára gamall. Hann hafði þrjú vinnuhjú, auk þess sem ein hjón voru þarna í húsmennsku.
Næst á eftir Húsatóftum getur manntalið Járngerðarstaða, sem þegar á þessum tíma virðist hafa verið stærsta býlið í hreppnum. Þar bjuggu um páskana 1703 hjónin Þorsteinn Þorsteinsson og Valgerður Magnúsdóttir, 45 og 44 ára gömul, og auk þeirra voru á heimilinu fjögurra ára gömul dóttir þeirra og sjö vinnuhjú.
Þorsteinn Þorsteinsson var greinilega einna gildastur bóndi í Grindavík á þessum tíma og eru af honum nokkur saga. Hann fæddist í Krýsuvík árið 1658, sonur hjónanna Þorsteins Þorsteinssonar bónda þar og Guðrúnar Jónsdóttur, prests í Arnarbæli, Daðsonar. Þorsteinn í krýsuvík mun hafa talist til betri bænda á sinni tíð og kona hans var vel ættuð. Því þótti sjálfsagt að setja Þorstein yngri til mennta og var hann sendur í Skálholtsskóla, en óvíst hve lengi hann var þar eða hvort hann varð stúdent.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hitt er víst, að hann tók aldrei prestsvígslu og stundaði ekki framhaldsnám, en sneri heim til átthaganna er hann hvarf úr skóla. Bjó hann fyrst í Krýsuvík, en síðan að Járngerðarstöðum, þar sem hann bjó til dauðadags, 1722. Hermir ein heimild að hann hafi látist af völdum drykkju. Valgerður kona hans var dóttir Magnúsar Kortssonar lögréttumanns í Árbæ og höfðu forfeður hennar komið við sögu Grindavíkur fyrr á öldum.
Af Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem tekin var saman sumarið 1703, er auðsætt að Járngerðarstaðir haf þá verið taldir kostamest jarða í Grindavíkurhreppi. Þaðan var mest útræði, en fiskveiðar þó minni á þessum tíma en áður hafðu verið og stafaði það af aflabresti undanfarinna ára, sem síðar verður greint frá. Í Jarðarbókinni er kostum Járngerðarstaða lýst með þessum orðum:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

„Skóg til kolgjörðar hefur þessi jörð í almenningum sem aðrar. Eldiviður er fjörufang. Fjörugrastekja til jarðarinnar þarfa. Rekavon í betra lagi… Sölvafjara til ábúenda brúkar. Heimræði er árið um kring og lending í betra lagi. Þar gánga skip heimabóndans og þau inntökuskip, er þángað til fiskiafla ráðast fyrir undirgift, sem heimabóndi tekur, og lætur þá verbúð og vergögn í tje fyrir skipshöfnina. Hafa hjer fyrrum mörg inntökuskip verið um vertíðirnar; mega og enn verra, ef menn vilja.

Baðsvellir

Baðsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Skip stólsins gánga hér venjulega iii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs (þ.e. Brynjólfs biskups Sveinssonar) var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri en tvö af stólsins hendi. Og hýsti þá heimabóndi skipshöfn. En í tíð Mag. Brynjójólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans.
Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein af vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.
Engjar eru öngvar.
Torfrista engin nema í sendnum grundum.
Hætt er mjög fyrir pening í vatnsgjám.
Líka brýtur sjór fyrir pening á land jarðarinnar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Á Járngerðarstöðum heita Kónsggarðar. Þar hefur til forna gengið eitt kóngsskip og gefið undirgift.
Á Járngerðarstöðum eru fáeinna verbúða stæði, nú forfallinna, og hafa þar legið við skipshafnir inntökuskipa, sem undirgift gefið hafa.

Sjómenn

Sjómenn í Grindavík.

Tæki stórt fiskerie til aftur, þá bygði ábúandi þessar búðir upp aftur… til að ná undirgiftinni, því þá kæmi sveitamenn með skip, eins og til forna var.“
Þannig var lýst kostum og göllum Járngerðarstaða og gæti lýsingin, að breyttu breytanda, átt við um felstar jarðir sveitarinnar. Helstu kostir þeirra allra voru verstaðan, stutt sjávargata og góð fiskimið skammt undan landi, auk fjöruhlunninda, en helstu ókostir lítið haglendi og vatnsskortur.
Tíu hjáleigur voru í landi Járngerðarstaða árið 1703. Á hinni fyrstu bjó Jón Eyvindsson, 34 ára, ásamt konu sinni Guðrúnu Ögmundsdóttur, 40 ára og 26 vikna gamalli dóttur þeirra. Á 2 hjáleigunni bjuggu hjónin Þorvaldur Bergsson og Þorbjörg Eyjólfsdóttir, 44 og 50 ára, og á hinni þriðju Þorsteinn Þorsteinsson, 39 ára, ásamt konu sinni, Guðnýju Bjarnadóttur, 45 ára, og héldu þau eina vinnustúlku.

Staðarhverfi

Litla-Gerði við Stað.

Á fjórðu hjáleigu var húsráðandi Guðmundur Hávarðsson, 54 ára, og hafði hjá sér þrítuga vinnustúlku, og á hinni fimmtu voru hjónin Þorgrímur Einarsson og Ingunn Guttormsdóttir, 54 og 42 ára, ásamt tveim börnum sínum. Á sjötu hjáleigu bjó Jón Jónsson, sextugur að aldri, ásamt tveim vinnuhjúum og á hinu sjöundu Magnús Hjörtson, 53 ára, ásamt konu sinni, Guðrúnu Eyjólfsdóttur. Hún var ári eldri en hann og hjá þeim var fimmtán ára gamall sonur þeirra.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði við Stað.

Á áttundu hjáleigunni bjuggu hjónin Árni Jónsson og þorbjörg Vilhjálmsdóttir. Hann var 29 ára en hún 39 og auk þeirra voru á heimilinu Runólfur Guðmundsson, þrítugur að aldri, sagður „þeirra þjenari“. Níunda hjáleigan var fjölmennust allra hjáleigna í landi Járngerðarstaða. þar bjó Runólfur Gíslason og hefur hann að öllum líkindum verið ekkjumaður því auk hans voru í heimilinu fjögur börn hans á aldrinum 4-9 ára og að auki ein vinnukona. Loks er að geta tíundu hjáleigunnar, en þar bjuggu hjónin Jón Jónsson, 54 ára, og Sigríður Þórðardóttir, 45 ára, ásamt þrem börnum sínum og var hið elsta 23 ára en hið yngsta níu ára.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Þá víkur sögunni að Hópi. Þar var tvíbýlt og bjuggu hjónin Jón Sigmundsson og Sessekja Þorsteinsdóttir á öðrum helmingi jarðarinar. Hann var 41 árs en hún yngri en hann. Ennfremur voru á heimilinu sextán ára gömul dóttir þeirra og tvö vinnuhjú. Á hinum helmingi jarðarinnar bjó Stefán Stefánsson, 41. árs, og hafði hjá sér þrjú vinnuhjú.

Hóp

Hópskot.

Ein hjáleiga var byggð í Hópslandi. Á henni bjó Brynjólfur Daðason, 42 ára að aldri, ásamt 74 ára gamalli móður sinni, Höllu Torfadóttur. Hjá þeim voru í húsmennsku Einar Þorgautsson, 63 ára, og 23 á gömul dóttir hans, Guðný að nafni.
Næst getur manntalið Þórkötlustaða. Þar voru heimilismenn alls þrettán og var það fjölmennasta heimili sveitarinnar. Fyrir því réði Eyjólfur Jónsson. Hann var tekinn að reskjast nokkuð, er hér var komið sögu, orðinn sextugur, og kona hans, Ingveldur Ingimundardóttir, var 45 ára. Börn áttu þau sjö og var hið elsta 23 ára, en hið yngsta 39 vikna. Í barnahópnum voru sex drengir og eins túlka og virðist sem þau hjónin hafi snemma orðið uppinskroppa með nöfn því þrír elstu drengirnir hétu allir Jón. Auk fjölskyldunar voru fjögur vinnuhjú á heimilinu.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Fimm hjáleigur voru byggðar í landi Þórkötlustaða. Á hinni fyrstu bjuggu hjónin Jón Stígsson og Þuríður Magnúsdóttir, 37 og 36 ára, ásamt 20 vikna gömlum syni sínum. Á annarri hjáleigu voru Ormur Ólafsson og Randíður Ívarsdóttir, 37 og 33 ára, og ennfremur Jón Sigurðsson húsmaður, 36 ára.

Klöpp

Gamla-Klöpp við Þórkötlustaði.

Á þriðju hjáleigunni bjuggu hjónin Illugi Ívarsson og Guðrún Jónsdóttir, 39 og 26 ára, ásamt tveim kornungum börnunum sínum og á fjórðu hjáleigu voru hjónin Þorvarður Þorvaldsson og Ingveldur Höskuldsdóttir, 45 og 47 ára, ásamt ungri dóttur sinni. Á fimmtu og síðustu hjáleigunni í Þórkötlustaðalandi bjuggu hjónin Gunnlaugur Þórðarson og Solveig Þórðardóttir. Hann var 34 ára og hún 45. Hjá þeim var móðir Gunnlaugs, Þórdís Gunnlaugsdóttir. Hún var 82 ára gömul, elst alla íbúa í sveitinni og hinn eini þeirra, sem lifað hafði Tyrkjaránið. Einnig var á heimilinu 18 ára piltur, Þorsteinn Kolbeinsson. Hann var sagður „smaladrengur“ og var eini Grindvíkingurinn er það starfsheiti bar árið 1703.
Á Hrauji bjuggu hjónin Þorsteinn Gunnarsson og Sesselja Gísladóttir, 29 og 33 ára, ásamt tveim kornungum börnum sínum. Þau héldu fjögur vinnuhjú og hafði ein vinnukonan hjá sér ungan son sinn.

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.

Tvær hjáeigur voru byggðar í landi Hrauns. Á annarri bjuggu hjónin Þorsteinn Björnsson og Þórdís Bjarnadóttir, 46 og 47 ára, og á hinni síðari ekkjan Drysíana Eyjólfsdóttir ásamt fimm börnum sínum á aldrinum 9 til 16 ára.

Hraun

Hraun – tóftir Vatnagarða.

Var hún eina konan, sem stóð fyrir heimili í Grindavíkurhreppi árið 1703. Hjáleigan, sem Frysíana bjó á nefndist Vatnagarðar, og var bú hennar 3 kýr, 11 ær, 3 sauðir tvævetrir, 2 veturgamlir og 1 hestur. Ekki er getið um sjávarútveg á heimilinu og líkast til hefur hann enginn verið því í Jarðarbókinni, sem tekin var saman nokkrum mánuðum seinna, segir að Drysíanna geti ekki uppfyllt kvaðir um mannslán til dagsláttar, þar erð enginn sé á heimilinu til að vinna það verk nema ungmenni. Var hún því laus undan þeirri kvöð.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Næst víkur sögunni austur að Ísólfsskála, sem reyndar er kallaður „Ísuskáli“ í manntalinu. Þar bjuggu hjónin Hallur Sigmundsson og Guðrún Markúsdóttir, 39 og 41 árs, ásamt tveim ungum börnum sínum. Þau héldu fimm vinnuhjú, en engin hjáleiga var byggð í landi jarðarinnar.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Loks er að geta Krýsuvíkur. Þar bjuggu á heimajörðinni hjónin Sigvaldi Bjarnason og Þorbjörg Hallkelsdóttir og var hann 52 ára, en hún 32. Hjá þeim voru þrjú börn þeirra á aldrinum 4-10 ára og ennfremur voru fjögur vinnuhjú á heimilinu og hafði eitt þeirra með sér barn.

Krýsuvík

Krýsuvík – Norðurkot.

Hjáleigur voru jafnan nokkrar í Krýsuvíkurlandi og árið 1703 voru sex þeirra byggðar. Á hinni fyrstu voru hjónin Jón Þorvarðarson og Guðrún Þorvarðsdóttir og stóð hún á fertugu, en hann var tveimur árum eldri. Á annarri hjáleigu bjuggu Magnús Þórðarson og Solevg Bjarnadóttir, 32 og 35 ára, og voru hjá þeim ungur sonur þeirra og roskin móðir Magnúsar. Á þriðju hjáleigu bjuggu hjónin Jón Jónsson og Guðrún Þórðardóttir, 34 og 31 árs, ásamt ungum syni sínum og á fjórðu hjáleigu hjónin Ólafur Þorvarðsson og Katrín Jónsdóttir. hann var 4 ára, en hún 46 og hjá þeim voru tveir synir þeirra, 10 ára og eins árs. Á fimmtu hjáleigu í Krýsuvík bjuggu þau Ófeigur Ólafsson og kona hans, Guðrún Þorsteinsdóttir. Hann var þrítugur en hún 27 ára og áttu þau tvö kornung börn.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Á sjöttu og síðustu hjáleigunni bjuggu þaun Jón Eyjólfsson og Hólmfríður Jónsdóttir, 55 og 47 ára. Fimm börn þeirra voru á heimilinu, einn piltur og fjórar stúlkur. Af stúlkunum báru tvær sama nafn, hétu báðar Ingveldur.
Auk þess fólks, sem hér hefur verið getið, voru 29 niðursetningar og þurfalingar taldir í hreppnum árið 1703 og sex utansveitarmenn voru staddir þar er manntalið var tekið. Af þeim áttu fjórir sveit í Árnessýslu en tveir í Rangárvallasýslu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Snorrakot.

Þar með er lokið þessari stuttu yfirferð okkar yfir Grindavíkursveit á því herrans ári 1703. Við höfum kynnst íbúunum lítillega en verðum þó að viðurkanna, að um fæsta þeirra vitum við meira en nöfn og aldur.
Aðeins þrír hafa komist í bækur, prestarnir á Stað og Þorsteinn á Járngerðarstöðum. Margan kann að undra að ekki skuli fleiri Grindvíkinga frá þessum tíma verið getið ýtarlegar í rituðum heimildum, en ástæðan er í raun einföld.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Hjáleigubændur komust sjaldan á bækur, vinnuhjú enn sjaldnar og þótt þeir, sem sátu lögbýlin væru að sönnu mikils metnir menn heima í héraði, ber þess að gæta að þeir voru ekki sjálfseignabændur. Hústóftir voru konungseign, hinar jarðirnar allar eign dómkirkjunnar í Skálholti. Bændurnir voru þannig landsetar Skálholtsstóls og Danakonungs og þótt þess séu vissulega dæmi að bændur í grindavík á fyrri öldum hafi hafist til mannvirðinga, safnað auði og jafnvel átt miklar eignir í öðrum sveitum, er ólíklegt að svo hafi verið um marga þeirra, sem hér hafa verið taldir.

Eldvörp

Eldvörp – „Tyrkja“byrgin svonefndu; undanskot Grindavíkurbænda!?

Þegar manntalið var tekið árið 1703 var loksins að ljúka einhverju versta harðindaskeiði, er heimildir kunna frá að greina á síðari öldum, litlu ísöldinni, svonefndu. Þá voru kuldar miklir, eins og nafnið bendir til, sum árin hafís á fiskislóðum Sunnlendinga og aflabrestur mikill. Má sem dæmi nefna, að á 18 ára tímabili, 186-1704, telja heimildir aðeins eitt gott aflaár í Sunnlendingafjórungi, tvö voru í meðallagi, en hin öll léleg. Liggur í augum uppi, hve hart svo langætt fáfiski hefur bitnað á verstöð á borð við Grindavík. Og ekki tók betra við er afli tók loksins að glæðast og veðurfar hlýnaði. Þá dundi bólan yfir árið 1707 og féll þá margt af því fólki, sem hér hefur verið frá sagt.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

En þótt upplýsingarnar í manntalinu séu fáorðar, veita þær okkur engu að síður mikilsverðar vitneskju. Skipting byggðarinnar í hverfi var þegar orðin augljós og byggð þegar langmest í Járngerðarstaðahverfi. Þar voru þrjú af átta lögbýlum sveitarinnar, átján af fjörutíu heimilum og þar áttu samtals 89 manns heima, auk lausamann, og vafalaust hafa einhverjir af niðursetningunum 29 verið vistaðir þar.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Má því hiklaust álykta að um og yfir hundrað manns hafi átt sér bólfestu í Járngerðarstaðahverfi árið 1703. Þar var þá risinn kjarni, sem hiklaust verður að telja vísi að þéttbýli, a.m.k. ef miðað er við byggð eins og hún var víðast hvar á Íslandi á þessum tíma.
Hinn mikli fjöldi hjáleigna segir athyglisverða sögu um atvinnuhætti og atvinnuskiptingu. Sjávarútvegur var sem endranær höfuðatvinnuvegur Grindvíkinga, landbúskap höfðu bændur aðeins til styrktar og heimaneyslu. Graslendi hjáleignanna voru lítil og rýr og útilokað að hjáleigubændurnir gæti framfeytt sér og sínum af landbúskap. Þeir voru því nær undantekningarlaust sjónenn og sóttu sjó á útvegi landsdrotnna sinna. Kemur það vel heim og saman við þá steðreynd að felstir hjáleigubændanna voru menn á góðum vinnualdri. Eldri menn, sem ekki dugðu lengur til sjósóknar, voru fáir sem engir í þeirra hópi.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni, frá Grindavík til Skálholtsstaðar.

Eignarhald Skálholtsstóls og konungs á jörðunum í Grindavík segi einnig mikla sögu og sýnir betur en felst annað mikilvægi verstöðvarinnar. Skálholtsstóll var voldugasta og auðugusta stofnun á Íslandi á þessum tíma og byggðist veldi hans og auður ekki síst á útgerð og fiskútflutningi. Grindavík var ein mesta og mikilvægasta verstöðin og fiskihöfnin í gervöllu biskupsdæminu og því ein af undirstöðunum undir efnahag biskupsstólsins og afkomu. Sést það ef til vill hvað best að því að á aflaleysisárunum á síðasta hluta 17. aldar og í upphafi þeirra 18. varð oftar en einu sinni skortur á matfiski í Skálholti og fyrir kom að skólahald féll þar niður hluta úr vetri eða jafnan heilan vetur, þar sem ekki var til fiskur til að fæða skólapilta. Sýnir það betur en flest annað þýðingu Grindavíkur og fólksins, sem þar bjó, fyrir Skálholtsstað og þá um leið íslenska menningu.“

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1992, Grindvíkingar anno 1703, Jón Þ. Þór, bls. 27-31.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Kringlumýri

Í „Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði“ árið 1998 segir m.a. um Gestsstaði í Krýsuvík:

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa.

„Gestsstaðir skal hafa verið jörð heitið nálægt Krýsuvík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenningsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsuvíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsuvíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tíma í eyði legið, en engi veit til nær hún hafi bygð verið.“ „Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. …Fram undan Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað.“

Gestsstaðir

Gestsstaðir – minjar.

„Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Bæjartóftin er 10 ft löng frá austri til vesturs, hefur engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dys sjást ógjörla, en á suðurhlið hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum nér norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 5 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir verið umgirt, er það víða komið í sand af frárennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið í eign Krýsuvíkurkirkju. Hefur bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið að nýta hjáleigur í nytum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.“ Framangreind lýsing er höfð eftir Brynjúlfi Jónssyni frá árinu 1902.

Gestsstaðir

Gestsstaðir, austan hálsa – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls (1703) segir frá jörðinni Gestsstöðum nálægt Krýsuvík. Þá voru greinilegar bæði tóftir og túngarður þó mikið væri uppblásið. Bærinn hafði þá verið svo lengi í eyði að enginn vissi hvenær hann var byggður síðast.

Gestsstaðir

Tóft vestan við Gestsstaði.

Matthías Þórðarson, Þjóðminjavörður, friðlýsti eyðibýlið Gestsstaði við Krýsuvík árið 1930 á grundvelli lýsingar Brynjúlfs Jónssonar er birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903, bls. 50, undir yfirskriftinni „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm. löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Ges[s]tstaðir og staðið vestur við hálsinn.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – eystri tóftin og gerði.

Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Geststaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Geststaðaland eftir eldinn. En við það hafa Geststaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.“
Í örnefnaskrá segir að á Gestsstöðum sjái fyrir miklum tóftum og að þar muni hafa verið stórbýli sem munnmæli séu um að hafi fyrrum heitið Krýsuvík. Rústirnar eru undir blásnum hól, ca. 150 m suðvestur af Krýsuvíkurskóla, á um það bil 30×50 metra stóru svæði. Í fornleifaskráningu Bjarna F. Einarssonar eru skráðar þarna 3 tóftir, bæjarrúst, garður/gerði og ógreinileg rúst.
Heimildir eru einnig um aðra rúst uppi á hálsinum ekki langt frá, hún stendur stök og greinilegt grjót í hleðslum.

Kringlumýri

Gestsstaðir „vestan hálsa“. Líklegra er þó að þarna sé um að ræða seltóft og þá væntanlega frá Húshólmabæjunum (Gömlu Krýsuvík).

Málið er að þeir Gestsstaðir, sem „hefðu í fyrstu heitið Gestsstaðir vestur við hálsinn“, hafa hingað til aldrei ratað inn í fornleifaskráningar, hingað til a.m.k., þrátt fyrir eftirlit Fornleifastofnunar með gildi slíkra skráninga. Tilvist minja um slíka heimild er þó til á vettvangi. Og telja má víst, að fornleifafræðingar, sem á eftir koma, munu ekki vísa í þessa heimild. Slík er smánin.

Kringlumýri

Kringlumýri vestan Sveifluhálss.

Vestan Móhálsa [eldra nafn á Sveifluhálsi] er að finna mjög fornar minjar, mjög líklega eldri en elstu minjar, sem hingað til hafa fundist hér á landi. Um er að ræða minjasvæði á þurrsvæði ofan mikillar mýri. Bæjarhóllinn er nú orðinn fordjarfaður; lítt mótar fyrir veggjum, nema kannski miðsvæðis. Þar virðist hafa verið meginbygging, en allt umhverfis virðast hafa verið ýmskonar húsakostir. Ekki sést móta fyrir girðingum eða gerðum umleikis.
Lækir renna beggja vegna minjasvæðisins. Líklegt má þykja að hæð þeirra í landslaginu og afurð þeirra hafi breyst í gegnum aldirnar. Neðar er umfangsmikil mýri og neðst í henni er forn skjólgóður gígur með vatnssvarmi.
Svæðið í heild er einstaklega skjólgott fyrir nánast öllum veðráttum.

Hettustígur

Hettuvegur – gatan er vel mörkuð í móbergið.

Hettusvegur, millum Krýsuvíkurbæjanna og Vigdísarvalla, liggur með vestanverðri Hettu ofan Kringlumýrar.  Vegurinn er vel markaður í hlíðina á köflum. Vegurinn sá virðist hafa týnst, eftir því sem hann varð fáfranari á millum svæðanna, en fannst síðan aftur eftir leit áhugamanna.

Krýsuvík

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – eystri bæjarhúsin (útihús).

Í fyrstu töldu FERLIRsfinnendur minjasvæðisins að þarna hefði verið um að ræða selstöðu frá „Húshólmabæjunum“, einum elstu mannvistarleifum í Krýsuvík sem og landinu öllu – sjá HÉR.

Kringlumýri

Kringlumýri – líklega ein elsta selstaðan á Reykjanesskaganum.

Tiltölulega auðvelt var að rekja augljósa forna götu niður og upp með mýrinni – allt þar til lækirnir koma saman neðan hennar, allt niður að Krýsuvíkur-Mælifelli. Þar hverfur gatan í hraunið er rann 1151 – áleiðis niður í Húshólma. Sjá HÉR.

Minsjasvæðið í Kringlumýri hefur aldrei notið verðskuldaðrar athygli hingað til, hvorki í umfjöllun né í fornleifaskráningum af svæðinu – hvað þá að það hafi verið rannsakað að verðleikum. Ekki er ólíklegt að minjarnar þar kunni að vera frá sama tíma og minjarnar í Húshólma – eða jafnvel enn eldri.

Til er frásögn af pöpum í Hettu ofan Kringlumýrar – sjá HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, 1998.
-JÁM III, 7; Ö-Krýsuvík, 8 15; Árbók 1903, 50.
-Krýsuvík – Trölladyngja, Fornleifaskráning, Fornleifavernd ríkisins 2008.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 50.
-Árni Magnússon og Páll Vídalin: Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 7.

Kringlumýri

Kringlumýri.

Húshólmi

Í tímaritið Jökul 1988 skrifa Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson um „Krýsuvíkurelda„. Greinin nefnist „Krýsuvíkureldar I  – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins“.

Ágrip
JökullÍ grein þessari er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins er kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á.
Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag og eru leidd sterk rök að aldri þess og uppruna. Einnig eru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum. Ofangreindar athuganir eru bornar saman við ritheimildir og teljum við okkur geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin er getið um aldursákvörðun forns torfgarðs í Húshólma sem reynist vera eitt af elstu mannvirkjum sem fundist hafa á Íslandi.

Inngangur

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982, 1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakolsaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæði en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulag sem nefnt hefur verið miðaldalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu.
Í þessari grein verður skýrt frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru síðla hausts 1987.

Ögmundarhraun
Krýsuvíkureldar
Ögmundarhraun (mynd 1) er komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gos virknin að mestu en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Eldgos í kerfinu verða að líkindum með svipuðum hætti og gerðist í Kröflueldum, þ.e. í umbrotahrinum sem einkennast af gliðnun lands og kvikuhlaupum, oft jafnhliða eldgosum, en síðan verða hlé á milli.
Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Útbreiðsla hrauna sem þá runnu er sýnd á mynd 1. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur og er ætlun okkar að fjalla nánar um þau í annarri grein um Krýsuvíkurelda sem nú er í smíðum. Jón Jónsson (1982) hefur áður haldið því fram að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Rústir í Ögmundarhrauni
Krýsuvíkureldar
Í Ögmundarhrauni em nokkrir óbrennishólmar, en svo nefnast landskikar umluktir sögulegu hrauni. Stærstur er Húshólmi sem er austast og neðst í hrauninu en nokkru vestar og ofar er Óbrennishólmi.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi.

Rústir em í báðum þessum hólmum (mynd 2). Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum sem em smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið mnnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. maí 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Olafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið (mynd 2). Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum. Í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferð þeirra til Krýsuvíkur er þess getið að þáverandi bóndi þar hafi lagt veg út í hólmann með miklu erfiði (sbr. Sveinbjörn Rafnsson, 1982). Þá gæti gatan hafa komist í núverandi horf. Engin gata er milli Húshólma og Óbrennishólma. Gata liggur úr neðri Kirkjulág og vestur að Selatöngum en í Óbrennishólma liggur gata frá Latfjalli og úr hólmanum niður að sjó. Af loftmyndum að dæma hefur gatan að hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík austan að legið nokkru neðar en sú gata sem nú liggur í Húshólma (mynd 2).

Gjóskulagasnið
Krýsuvíkureldar
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði við jaðra hraunsins og utan þess (myndir 3 og 5). Á þessu svæði eru nokkur lík gjóskulög af þekktum aldri.

Landnámslagið
Krýsuvíkureldar
Þekktasta gjóskulagið á þessu slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og efri hlutinn dökkur, en á Reykjanesskaga er það oftast hvítgult og slitrótt en þó auðþekkjanlegt. Ekki hefur tekist að finna dökka hlutann á sunnanverðum skaganum eða vestar en í Reykjavík. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Landnámslaginu fylgja yfirleitt litaskipti í jarðvegssniðunum og er jarðvegurinn dökkur undir því, en ljósari ofan þess og fokkenndari. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafi brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).

Aldur landnámslagsins
Krýsuvíkureldar
Um aldur landnámslagsins hefur allmikið verið ritað og hefur Margrét Hallsdóttir (1987) tekið saman yfirlit um það.

Reynt hefur verið að aldurssetja landnámslagið með þremur ólíkum aðferðum. Í fyrsta lagi með geislakolsgreiningum. Í öðru lagi með könnun á afstöðu þess til annarra þekktra gjóskulaga og aldur þess síðan reiknaður út frá jarðvegsþykknun. Í þriðja lagi með tengingu við frávík í sýrustigi í ískjörnum í Grænlandsjökli en frávikin eru rakin til eldgosa.

Landnámslagið

Landnámslagið.

Geislakolsgreiningar eru þeim annmarka háðar að mæliskekkja er sjaldnast minni en 50 ár til eða frá.
Þær aldursgreiningar sem til eru af landnámslaginu benda til síðari hluta níundu aldar (Sigurður Þórarinsson, 1977; Hreinn Haraldsson, 1981; Margrét Hallsdóttir, 1987).
Guðrún Larsen (1982, 1984) hefur sett fram þá tilgátu að sýrustigsfrávik í Grænlandskjörnunum 897-898 gæti orsakast af eldgosi því sem myndaði landnámslagið. Skekkjan er 1-2 ár. Bryndís G. Róbertsdóttir og Haukur Jóhannesson (1986) reiknuðu aldur lagsins út frá afstöðu þess til annarra þekktra öskulaga og fengu ártalið 901-902. Í þessari grein er reiknað með að landnámslagið sé fallið um 900.

Miðaldalagið
Krýsuvíkureldar
Annað nokkuð vel þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Gunnar Ólafsson (1983) hefur kannað útbreiðslu þess og reynt að heimfæra það upp á eldgos sem getið er í rituðum heimildum. Lagið er þykkast yst á Reykjanesskaga þar sem það er um 20 cm og auðvelt er að rekja það inn allan skagann. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðvestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Yngra Stampahraunið er því runnið á sögulegum tíma. Miðaldalagið er dökkt og nokkuð jafngróft og auðgreint frá Kötlulaginu 1485 sem er kolsvart og fínkornótt en það finnst greinilega á norðanverðum skaganum.
Gunnar Ólafsson var í vafa um hvernig heimfæra skyldi gos þetta upp á ritaðar heimildir um eldgos á svæðinu. Hann komst að þeirri niðurstöðu að heimildir bendi til áranna 1226/27 eða 1231 en útreikningar á jarðvegsþykknun milli þekktra gjóskulaga (landnámslags og gjóskulags frá Kötlu sem ýmist er talið fallið um 1485 eða 1500 (Sigurður Þórarinsson, 1967; Guðrún Larsen, 1978), bendi til ársins 1340. Hann endar greinargerð sína á eftirfarandi orðum: „Hér verður ekki gert upp á milli þessara þriggja gosára.“

Aldur miðaldalagsins

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Til að gera sér betur grein fyrir því, hvaða ár miðaldalagið féll, er vert að rýna í heimildimar að nýju. Augljóst er, að goshrina hefur verið í sjó undan Reykjanesi frá 1210 eða 1211 til 1240, og virðist hún hafa náð hámarki á þriðja áratug aldarinnar. Annálar, Biskupasögur og Íslendinga Saga eru nokkuð samhljóða um þessa atburði. Hér á eftir verða heimildirnar prentaðar hráar. Það sem Setbergsannáll segir umfram aðra annála er talinn skáldskapur höfundarins. Stafsetning á Oddaverjaannál er ekki samræmd því Storm (1888) hefir fellt út hluta af textanum ef hann er samhljóða öðrum annálum, einkum Konungsannál og Lögmannsannál.
Tilvitnun úr annálabrotum Gísla Oddssonar er tekin eftir þýðingu Jónasar Rafnar (Gísli Oddsson, 1942) en frumritið er ekki til lengur, heldur aðeins latnesk þýðing (sjá Gísli Oddsson, 1917). Tilvitnanir í Íslendinga Sögu era teknar úr Sturlunga Sögu (1946).
Tilvitnanir í einsakar biskupasögur era teknar úr Biskupa Sögum (1858-1878). Tilvitnanir í aðra annála en annál Flateyjarbókar, annálabrot Gísla Oddssonar og Setbergsannál eru teknar úr Storm (1888). Annáll Flateyjarbókar er í Flateyjarbók (1945).

Eldey

Eldey.

1210:
„Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyiar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufðu stadit“ (Oddaverjaannáll bls. 478). Sigurður Þórarinsson (1952, 1965) setur þessa heimild ranglega við 1211.
Um 1210?:
„Á vorum dögum hefur það gerst að hafið hefur á þriggja mílna svæði ólgað og soðið eins og í potti, en jörðin opnast og kastað upp úr djúpunum eldlegum gufum og myndað stórt fjall upp úr sjónum“ (Noregskróníka á latínu (Munch, 1850), þýðing Sigurðar Þórarinssonar (1965)). Sigurður Þórarinsson (1965) telur að hér sé átt við eldgos undan Reykjanesi 1211 og verður ekki annað séð en hér sé á ferð lýsing á myndun Eldeyjar.
1211:

Eldey

Eldey.

„Elldr kom vpp ór séa. Sörli Kols sonr fann Elldéyiar“ (Konungsannáll bls. 123).
„Elldr kom vpp or sia fyrir Reykia nesi. Sörli Kols son fann Elld eyiar“ (Skálholtsann áll bls. 182).
„Eldr kom upp ór sjó. Sörli fann Eldeyjar“ (Annáll Flateyjarbókarbls. 311).
„En viku fyrir andlát Páls biskups sýndist túngl svá sem roðra væri, ok gaf eigi ljós af sér um miðnætti í heiðviðri, ok bauð þat þá þegar mikla ógn mörgum manni“ (Páls biskups saga bls. 145; Páll biskup lést þriðjud. 29. nóv. 1211. Roðra=blóð – innskot höf.).
„..en hér má sjá, hversu margr kviðbjóðr hefir farit fyrir fráfalli þessa hins dýrliga höfðíngja Páls biskups: jörðin skalf öll og pipraði af ótta (harður jarðskjálfti varð þetta ár samkvæmt mörgum annálum og fórust 13-14 menn – innskot höf.); himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómr stóð yfir sýndist náliga allar höfuðskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans fráfalli“ (Páls biskups saga bls. 145).

Önglabrjótsnef

Gígur ofan Kerlingarbáss. Karlinn fjær.

„Þat fylgir þessum fádæmum, at í sjálfu hafinu, viku sjávar suðr undan landinu, hefur upp komit af eldsganginum stórt fjall, en annat sökk niðr í staðinn, þat er upp kom í fyrstu með sömu grein“ (Guðmundar saga Arasonar Hólabiskups bls. 5; Vika sjávar er forn mælieining sem virðist hafa verið breytileg frá um fimm km upp í liðlega átta – innskot höf.).
Sigurður Þórarinsson (1965) rekur einnig nokkrar erlendar heimildir sem eiga við um neðansjávargos á öndverðri 13. öld og telur að minnsta kosti eina þeirra eiga við eldgosið 1211 (Munch, 1850).
1223:
„Elldz vppkuama fyrir Reykianese“ (Oddaverjaannáll bls. 479).
„Enn fremur eldgos við Reykjanes“ (Annálabrot Gísla Oddssonar, bls. 10). Sigurður Þórarinsson (1965) nefnir ekki þetta eldgos.

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

1225:
„Sandwetur ai Jslandi“ (Oddaverjaannáll bls. 479).
„Sandvetur hinn mikli víðast um Island, svo peningur almúgans hafði litla björg afjörðu og varð oftast hey að gefa“ (Setbergsannáll bls. 25).
1226:
„Ellz vpqvama fyr Revkia nesi“ (Resensannáll bls. 24).
„Elldz upqvama fyrir Reykjanesi“ (Höyersannáll bls. 64).

Stampar

Stampagígaröðin myndaðist um 1230.

„Elldr i séa firir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag“ (Konungsannáll bls. 127).
„Elldr fyrir Reykia nesi“ (Skálholtann áll bls. 186).
„Elldr fyrir Reykia nesi“ (Gottskálksannáll bls. 326). „Sandfalls wetur ai Jslandi. Elldr i séa fyrir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag“ (Oddaverjaannáll bls. 479).
„Elldz vppkuama fyrir Reykianese“ (Lögmannsannáll bls. 255).
„Það varð til um sumarið, að mikið myrkur varð um miðdegi” (Setbergsannáll bls. 25).
„Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks; einnig myrkvi á hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
„Eldr í sjó fyrir Reykjanesi. Myrkr um miðjan dag“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 315).
„Sumar þetta var illt ok vátviðrasamt. Kom upp eldr ór sjónum fyrir Reykjanesi“ (Íslendinga Saga bls. 311).
„Sumar þetta var illt ok vandréðasamt. Kom upp eldr or sjónum fire Reykjanese“ (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 546).
1226/27:
„Þessi vetr var kallaðr sandvetr ok var fellivetr mikill, ok dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði“ (Íslendinga Saga bls. 314-15).
„Sandvetr hinn mikle ok fjárfellir” (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 548).

Gjóskusnið

Unnið við að greina gjóskulög í jarðvegssniði.

1227:
„Sandvetr” (Resensannáll bls. 24).
„Sanduetr a Islande“ (Lögmannsannáll bls. 256).
„Sand vetr“ (Skálholtsannáll bls. 186).
„Sanndvetr“ (Konungsannáll bls. 117).
„Sanduetr” (Gottskálksannáll bls. 326).
„Sanndvetr“ (Oddaverjaannáll bls. 480).

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

„Sandvetur eins og sá næsti á undan“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
„Sandvetr“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 315). Beinast liggur við að þessi sandvetur eigi við síðari hluta vetrar 1226/27 og annálagreinar um hann því samstofna frásögn Sturlungu og Guðmundar sögu biskups sem getið er hér næst að framan.
1231:
„Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppi í sjónum fyrir Reykjanesi, ok var grasleysa mikil“ (Íslendinga Saga bls. 346).
„Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppe fire Reykjanese ok var grasleysa mikil“ (Guðmundar saga Arasonár hin elsta bls. 553-554).
1238:
„Ellz vppqvama i Revkia nesi“ (Resensannáll bls. 25).
„Elldz upkuama fyrir Reykianesi“ (Höyersannáll bls. 65).
„Elldr firir Réykianesi“ (Konungsannáll bls. 130).
„Elldz vppqvama fyrir Reykia nesi. Varþ brestr mikill at Sauða felli ok margir fyrir burþir“ (Skálholtsannáll bls. 188).
„Elldr fyrir Reykia nesi“ (Gottskálksannáll bls. 327).

Karl

Karlinn við Reykjanes.

„Elldr firir Réykianesi“ (Oddaverjaannáll bls. 481).
„Eldgos við Reykjanes-skaga“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
„Eldr uppi fyrir Reykjanesi“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 317).
1240:
„Sól rávð. Elldr firir Réykianesi” (Konungsannáll bls. 131).
„Sol varð rauð” (Skálholtsann áll bls. 188).
„Sol raud sem blod: Elldur wpi fyrir Reykianesi“ (Oddaverjaannáll bls. 481).
„Sól rauð sem blóð. Eldgos aftur við Reykjanes“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls.10).
„Eldr fyrir Reykjanesi“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 318).

Önglabrjótsnef

Hraun og aska nýlegra hrauna við Önglabrjótsnef á Reykjanesi. Karlinn fjær.

1340:

„Einnig Reykjaneshöfði (Sigurður Þórarinsson (1965) þýðir hér Reykjanesskagi og er svo í Sjávarborgarannál bls. 236 – innskot höf.) eyddist í eldi meira en að hálfu; sjást merki hans ennþá í rúmsjó, gnæfandi drangar, sem af þessu nefnast Eldeyjar, – eða Driftarsteinn, eins og eldri menn vilja kalla þá. Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem allt til þessa sjást fjölmargir brunnir steinar“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 11). Síðast nefnda frásögnin er einnig í Sjávarborgarannál við árið 1389 (Þorlákur Markússon, 1940-48) og í Árbókum Espólíns við árið 1390 (Jón Espólín, 1821). Þessi frásögn er hluti af reyfarakenndum frásögnum af eldgosum víða um land og hefur á stundum verið talin uppspuni. Þarflegt væri að kanna sannleiksgildi þessara frásagna betur, en ekki eru tök á því hér.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Karlinn fjær.

Höfundur Sjávarborgarannáls (Þorlákur Markússon) hefur ekki þekkt annálabrot Gísla Oddssonar og því haft annálsgreinina annars staðar frá og hún þá líklega ekki verið ársett í frumheimild. Jón Jóhannesson (sjá Þorlákur Markússon, 1940-48) hefir rannsakað Sjávarborgarannál. Í hann var sett efni úr a.m.k. einum annál sem nú er glataður, og telja verður víst að hann hafi haft ofangreinda frásögn úr eldri heimild, sem nú er með öllu ókunn. Hugsanlega hefur það verið sama heimildin og Gísli Oddsson hafði undir höndum en þó er það ekki víst. Espólín hefur frásögnina vafalítið úr Sjávarborgarannál. Það er umhugsunarvert að þessi frásögn finnst ekki í gömlu annálunum þ. á m. annál Flateyjarbókar sem er mjög ýtarlegur um fjórtándu öldina (hefur þó gosið í Öræfajökli 1350 í stað 1362) og þar er getið um Heklugosin 1341 og 1389.
ÖnglabrjóstnefFlestar heimildirnar em úr annálum en þeir éta oft hver upp eftir öðrum. Talið hefur verið að þeim annálum sem við nú þekkjum hafi verið steypt saman úr eldri skrám um 1280 (Jakob Benediktsson, 1976). Íslendingasögu verður að telja samtímaheimild og auðsæ tengsl em milli hennar og sögu Guðmundar góða. Það sést best á klausunum um árin 1226 og 1231, sem em nær samhljóða í báðum heimildum. Saga Páls biskups í Skálholti mun rituð skömmu eftir dauða hans og má því telja hana samtímaheimild.
Við lestur biskupasagnanna verður hverjum manni ljóst að höfundar þeirra hafa haft fyrir sér ritaðar skrár m.a. um náttúmhamfarir auk heimilda um marga aðra atburði sem sést best af því að inn í sögurnar er mjög víða skotið efni í upptalningarstíl sem kemur efni þeirra lítið við. Einnig ber að hafa í huga, að sumar klausurnar um eldgos og jarðskjálfta eru nær samhljóða í annálum og biskupasögunum og liggur þá beinast við að álykta að höfundar biskupasagnanna hafi haft frumgerðir annálanna undir höndum og þeir því nær samtíma heimildir um þá atburði sem hér em til umræðu. Því hefir reyndar einnig verið haldið fram að við endurritun biskupasagnanna hafi efni verið skotið inn í þær úr annálum, en það getur vart átt við Guðmundar sögu og Páls sögu því þær eru að sumu leyti ýtarlegri um þessa atburði en annálarnir.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – rann um 1226.

Í stuttu máli virðist sem tíð gos hafi verið í sjó undan Reykjanesi á árunum 1210 eða 1211 til 1240 en telja verður óvíst um eldgos 1340. Eldgos hafa verið. 1210 og/eða 1211, 1223, 1226, 1231, 1238 og 1240. Einnig gæti hafa gosið 1225 því þá getur Oddaverjaannáll um sandvetur. Sandvetur er veturinn 1226/27 samkvæmt Íslendinga Sögu og Guðmundar sögu góða, en annálar hafa sandvetur 1227. Hér er líklega átt við sama atburðinn.

Nýey

Ný eyja rís úr sjó.

Gjóskufalls er og getið við gosið 1231 og að það hafi verið að sumri til (sandsumar). Líklegt er að gjóska sem fallið hefur 1231 falli saman við gjóskulagið frá 1226 og myndi því ekki sérstakt öskulag. Telja má víst, að gjóskufallið, sem varð 1226 hafi verið mikið því getið er um, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur kannaði fyrir höfunda hvort um sólmyrkva hafi verið að ræða en enginn almyrkvi á sólu varð 1226. Því kemur vart annað til greina en að myrkvinn hafi verið af völdum gjóskufalls. Allmikið gjóskufall þarf til að svo sterkt sé til orða tekið, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Ekkert annað gjóskulag er þekkt sem getur átt við þennan atburð. Við könnun á miðaldalaginu á Reykjanesi kemur í ljós, að það er víða fokið til og vantar sumstaðar alveg, sem bendir til að það eigi frekar við veturinn 1226/27 en sumrin 1226 eða 1231. Þá taka höfundar Biskupasagnanna og Íslendinga Sögu mun sterkar til orða um sandfallsveturinn og afleiðingar hans sem bendir einnig til meira öskufalls þá en 1231.

Óbrennishólmi

Óútskýrð tóft í Óbrennishólma.

Haukur Jóhannesson (1988) hefur mælt þrjú jarðvegssnið í Viðey. Eyjan er utan uppblásturssvæða og því má búast við nokkuð áreiðanlegum niðurstöðum úr útreikningum á aldri miðaldalagsins miðað við jarðvegsþykkt milli þekktra öskulaga. Jarðvegsþykknun er nokkuð jöfn síðustu 1000 árin eða á bilinu 0.04-0.06 cm á ári. í tveimur sniðanna eru þrjú þekkt öskulög, landnámslag, miðaldalag og Kötlulagið frá 1485.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið er í garðinum.

Miðað við að landnámslagið sé fallið um árið 900 fást eftirfarandi ártöl fyrir aldur miðaldalagsins: 1170 og 1228 (meðaltal 1199). Út frá þeirri niðurstöðu er nánast útilokað að lagið hafi fallið á fjórtándu öld.
Af ofangreindu má vera ljóst, að yfirgnæfandi líkindi eru til að miðaldalagið hafi fallið 1226, líklega um haustið eða fyrri hluta vetrar, en vitaskuld getur hafa bæst í það 1231. Ekkert annað öskulag hefur fundist á Reykjanesi sem tengst getur þessum eldsumbrotum og gerum við ráð fyrir að það sé að meginhluta fallið síðla árs 1226.

Aldur Ögmundarhrauns – geislakolsaldursgreiningar

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson (munnl. uppl.) tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Kirkjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Þorleifur telur að taka beri þessum aldursgreiningum með varúð þar sem þær geti verið af koluðum rekavið eða mó og því eldri en hraunið. Niðurstöður voru eftirfarandi.
U-2590 980 + 60
U-2591 960 ±170

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Séu aldursgreiningamar miðjaðar (970 ár) og leiðréttar samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Beckers (1986) fæst að sýnið sé frá því um 1027 e.Kr. (mynd 4). Sé leiðrétt samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Pearsons (1986) fæst 1030.
Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðurleifum undan hrauninu.
Tvö sýni, U-4355 og U-4356, vom undan Ögmundarhrauni efst í Óbrennishólma, og eitt sýni, U-4005, var tekið undan hrauninu austan í Núpshlíðarhálsi.
Jón telur þó ekki víst, að þar sé sama hraunið en aldurinn, sem fékkst, er mjög áþekkur hinum.
U-4355 905 ±60
U-4356 940 ±55
U-4005 925 ±70
Meðaltal: 923,3 ár. Miðgildi: 922,5 ár.
Þegar beitt er sömu leiðréttingaraðferð (Stuiver og Becker, 1986) og að ofan (miðgildi er 923 ár) þá koma fimm ártöl til greina: 1044, 1096, 1122, 1141 og 1156 (mynd 4). Sé aftur á móti leiðrétt samkvæmt Stuiver og Pearson (1986) fæst 1050, 1095, 1125, 1142 og 1148.

Álfakirkja

Hraun er hægt að aldursgreina.

Ástæðan fyrir því, að svo mörg gildi fást er óregla í 14C magni í andrúmsloftinu á þessum tíma, en leiðréttingarnar byggjast á geislakolsgreiningum á árhringjum í trjám. Aldursgreiningar Þorleifs gefa nokkuð hærri aldur en aldursgreiningar Jóns eins og búast mátti við af fyrirvara þeim sem Þorleifur hafði gert um aldursmun hraunsins og kolaleifanna í eldstæðinu. Aldursgreining Jóns Jónssonar (1982) af Gvendarselshrauni gefur svipaðar niðurstöður en aldursgreiningar af Kapelluhrauni gefa ekki ótvíræða niðurstöðu.

Gjóskulög undir og ofaná hrauninu

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Landnámslagið fannst víðast hvar undir Ögmundarhrauni (mynd 5) þar sem grafið var, en milli þess og hraunsins fannst aftur á móti ekkert gjóskulag. Milli landnámslagsins og hraunsins var víðast 2-4 cm þykkur jarðvegur. Í sniðum sem tekin vom utan hrauns en nærri gígunum (mynd 3) reyndist jarðvegsþykktin vera 3-7 cm milli gjóskulagsins og gjalldreifar frá gígunum. Ofan á sjálfu hrauninu fannst aðeins eitt gjóskulag, miðaldalagið og var jarðvegur 0-4 cm þykkur milli hrauns og gjóskulags. Í sniðum sem tekin voru utan hrauns en nærri gígunum reyndist þykktin vera um 2-4 cm frá miðaldalaginu niður að gjalldreif frá Krýsuvíkureldum.

Rauðablástur

Gjall.

Hlutfallið milli jarðvegsþykktar frá landnámslagi að hrauni/gjalldreif annars vegar og þykktar frá hrauni/gjalli að miðaldalagi hins vegar er afar mismunandi frá einum stað til annars og því ekki einhlítt að brúka það til aldursákvörðunar hraunsins. Hraunið eða gjalldreifin frá gosinu er þó í flestum tilvikum mun nær miðaldalaginu en landnámslaginu.

Sögulegar heimildir
Fátt er sögulegra heimilda um eldgos á Reykjaneskaga á þessum tíma og eru þær allar knappar.

1151:
„Elldr i Trölladyngivm. Hvsrið“ (Konungsannáll bls. 115).
„Elldur wppi j Trolla dyngium“ (Oddaverjaannáll bls. 474).
„Eldr í Trölladyngjum. Húshríð“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 301).
1188:
„Ellz vppqvama j Trolla dyngiu“ (Skálholtsannáll bls. 180). (Úr Skálholtsannál hefur glatast þ.á.m. fyrir árið 1151 – innskot höf.).

Trölladyngja

Trölladyngja.

Trölladyngja eða Trölladyngjur heitir nyrsti hluti Núpshlíðarháls. í sumum eldri heimildum (Árni Magnússon, 1955) er notað nafnið Dyngjur (og mun þá átt við Grænudyngju og Trölladyngju) og eru þær m.a. eyktarmark frá Kálfatjörn (Pétur Jónsson, 1937-39). Hingað til hefur ekki verið hægt með vissu að heimfæra þessar heimildir upp á eldgos.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Einstöku menn hafa álitið að hér væri átt við Trölladyngju eða Dyngjufjöll í Ódáðahrauni (Ólafur Jónsson, 1945). Þar hefur þó ekki fundist hraun sem tengja má þessum heimildum. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur umrædd gos hafa verið í Trölladyngju á Reykjanesi og það gerði Jónas Hallgrímsson (1934-37) einnig. Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt em inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360 en telur þó síðastnefnda ártalið óvisst.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – gígur Drottningar efst.

Jón Jónsson (1983) getur sér þess til að Brennisteinsfjöll hafi áður fyrri verið nefnd Trölladyngjur en ekki hafa fundist nein gögn önnur en klausa í annálabrotum Gísla Oddssonar (1942) sem styðja þá tilgátu og í raun engin ástæða til þar sem Trölladyngja eða Trölladyngjur hafa ávallt verið þekktar þar sem þær nú eru enda við alfaraveg milli Innnesja annars vegar og Krýsuvíkur og Grindavíkur hins vegar (sbr. Ólafur Þorvaldsson, 1949).
Það er athyglivert, að húsrið (þ.e. landskjálfti svo harður að hús hristast) er nefnt í Konungsannál og annál Flateyjarbókar, í framhaldi af eldgosinu. Vafalítið er samband þar á milli sem þá sýnir að átt er við Trölladyngjur á Reykjanesi en ekki í Ódáðahrauni.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Bæði er að jarðskjálftar geta verið nokkuð harðir á Reykjanesskaga og Trölladyngja og Dyngjufjöll í Ódáðahrauni eru fjarri byggð. Þess má einnig geta að eldvirkni í Dyngjufjöllum mun hafa verið hverfandi lítil á umræddu tímabili (Guðmundur E. Sigvaldason, o. fl. í undirbúningi).
Þegar litið er á ofangreindar niðurstöður hníga ýmis rök að því, að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Gígaröð Krýsuvíkurelda spannar liðlega 25 km og miðhluti hennar liggur skammt austan við Trölladyngju. Eldgosið sem varð 1188 gæti vel hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli gosanna þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna, sbr. reynsluna af Mývatnseldum 1724-1729 og 1749.

Herbert kapelán

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Auk áðurnefndra heimilda um Krýsuvíkurelda er rétt að geta lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Um rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður), sem skrifuð var 1178 – 80 hefur Sigurður Þórarinsson (1952, 1975) fjallað allítarlega. Herbert lýsir ýmsum furðum sem gerst hafa á Íslandi og þar segir m.a. (þýð. Jakobs Benediktssonar, birt í grein Sigurðar Þórarinssonar, 1952): „Á vorum tímum hefur það sézt einhverju sinni, að hann (þ.e. vítiseldur – innskot höf.) gaus upp svo ákaflega, að hann eyðilagði mestan hluta landsins allt í kring. Hann brenndi ekki aðeins borgir og allar byggingar, heldur einnig grös og tré að rótum og jafnvel sjálfa moldina með beinum sínum. Og þótt furðulegt sé frásagnar, bráðnuðu fjöll úr grjóti og jafnvel málmi algjörlega fyrir eldi þessum eins og vax, runnu yfir landið og þöktu það, svo að dalirnir umhverfis fylltust af leðjunni og fjalllendi jafnaðist við jörðu. En bráðnu klettarnir, sem runnu út yfir allan jarðveginn í allar áttir, dreifðust síðan, þegar eldinum slotaði, og þá varð yfirborð jarðar eins og úr marmara og eins og steinlagt stræti, og jörðin, sem áður var byggileg og frjósöm, varð að eyðimörk.

Hraun

Hraunmyndun.

Þegar þessi ofsagrimmi eldur hafði eytt land þetta og allt, sem á því var, með óseðjandi græðgi sinni, jók hann við því enn skelfilegra undri, að hann réðst einnig á hafið við ströndina, og þegar hann kom út á hafsdjúpið, tók hann að brenna og eyða vatninu með fáheyrðum ofsa, allt niður á hyldýpi. Auk þess bar eldurinn með sér í flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir, sem aðrir gráðugir eldslogar höfðu steypt um, svo að þar sem vatnið varð að láta undan síga, kom land í staðinn, og fjöllin bárust út í hafsauga. Og þegar þau höfðu fyllt sjóinn algjörlega á löngu og breiðu svæði og gert hafsdjúpið jafnt sjávarströndu, varð sjórinn að þurru landi, svo að þar sem áður var vatn, varð nú fast land um 12 mílur og er ef til vill enn. Enn fremur eyddist í þessum eldum fræg borg og mannmörg, en þar var ágæt höfn við fjörð, sem eyðilagðist þó, þegar sjórinn þurrkaðist upp.“

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Sigurður Þórarinsson (1975) telur að hér sé á ferðinni ýkt og ruglingsleg lýsing sem annað hvort eigi við hraunrennsli í sjó og þá líklega Ögmundarhraun, eða jökulhlaup og þá líklega Kötluhlaup, nema hvorttveggja sé. Um heimildarmenn Herberts kapelláns fjallar Sigurður einnig og þar kemur nokkuð merkilegt í ljós. Frásögnina hefur Herbert líklegast eftir Eskil erkibiskupi í Lundi, en hann dvaldi í Clairvaux meðan ritið var samið.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Eskil erkibiskup vígði Klæng Þorsteinsson til biskups í Skálholti árið 1152, þ.e. árið eftir að annálar nefna gos í Trölladyngjum sem við teljum meginhrinu Krýsuvíkurelda og næsta víst að eldsumbrotin hafa þá verið ofarlega á baugi í fréttum frá Íslandi. Ljóst er að í riti Herberts er farið nokkuð frjálslega með tölur og stærðir en að öðru leyti á lýsingin ágætlega við Krýsuvíkurelda. Í eldsumbrotunum rann hraun í sjó fram bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga. Að norðanverðu runnu Kapelluhraun og Hvaleyrarhraun sem fylltu víkina sem var á milli núverandi Straumsvíkur og Hvaleyrarholts en að sunnanverðu Ögmundarhraun.

Sigurður Þórarinsson

Sigurður Þórarinsson.

Sigurður Þórarinsson (1975) taldi að sá hluti frásagnar Herberts sem segir að eldurinn beri með flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir sem berist út í hafsauga, eigi við jakaburð í Kötluhlaupi og má það vera rétt. Jafnlíklegt er að lýsingin eigi við um stórgerða hraunmúga sem ýttust fram með hrauninu. Þessi heimild tekur af allan vafa um að hraun hefur runnið í sjó á Íslandi á tólftu öld og þá fyrir 1180. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapillánsins frekari stoðum undir þá skoðun okkar að Ögmundarhraun hafi brunnið árið 1151. Ólíklegt er að átt sé við eldgosið 1188 því rit Herberts múnks er talið fært í letur 1178-80.

Aldur garðs í Húshólma

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur.

Hliðar hans standa nokkuð vel og eru nær lóðréttar, um 40 cm háar (50-55 cm sé pælunni bætt við) en breidd garðsins er um 150 cm. Pælan, sem stungin hefur verið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún nú um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn. Þess skal getið til glöggvunar að sniðið var gaumgæfilega athugað og landnámsaskan var skoðuð í víðsjá (binocular smásjá) og borin saman við sýni af ösku úr öðrum sniðum. Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900 en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Fjárborgin í Húshólma.

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.
Eins og áður var bent á virðist sem kirkja hafi verið í notkun í Húshólma eftir að hraunið rann. Sveinbjörn Rafnsson (1982) getur þess að kirkjan í Krýsuvík hafi verið lögð af 1563.

Húshólmi

Kirkjutóftin við Húshólma.

Telja má nær fullvíst að hraunið hafi runnið 1151 og í því gosi hafa bæjarhúsin í hinni fornu Krýsuvík og garðarnir farið undir hraun. Kirkjan hefur því að líkindum verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að Ögmundarhraun rann. Nafnið Hólmastaður bendir til þess að þar hafi verið kirkja eftir að Húshólminn fékk nafn og þá síðar en hraunið rann.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Eftir að hin forna Krýsuvík fylltist af hrauni neyddust ábúendur í Krýsuvík til að gera út frá Selatöngum sem eru vestast í Ögmundarhrauni og eftir jarðeldinn eina mögulega lendingin í landi Krýsuvíkur. Kirkjan í Húshólma er mitt á milli Selatanga og hins yngri Krýsuvíkurbæjar. Það gæti verið ástæðan fyrir því að kirkjan var ekki færð um leið og bærinn. Hún hefur verið miðsvæðis. Búandkarlar þeir sem Eggert og Bjami höfðu tal af í maílok 1755 hafa hugsanlega ruglað saman eldgosinu 1151 og því að kirkjan í Krýsuvík var aflögð 1563.
Það þótti guðleg forsjón að Reykjahlíðarkirkju við Mývatn skyldi ekki taka af í Mývatnseldum. Hlýtur fommönnum ekki hafa þótt það jafnstórt undur að kirkjan ein skyldi standa eftir af húsum í Krýsuvík hinni fornu, er hraunið umlukti hólminn sem hún stóð á?

Sjá einnig um aldur Ögmundarhrauns HÉR.

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1988, Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, bls. 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Ölfus

Í Lingua Islandica – Íslensk tunga – Tímariti um íslenska og almenna málfræði árið 1963, skrifaði Baldur Jónsson grein um örnefnið „Ölfus„.

Islandica„ÖLFUS er sem kunnugt nafn á sveit í Árnessýslu, og mun það orð vera að öðru leyti óþekkt nema þá sem liður í samsettum nöfnum. Þetta einkennilega nafn, sem öldum saman hefir verið mönnum óskiljanlegt, verður aðalviðfangsefni þessarar ritgerðar.

En áður en farið verður að glíma við nafnið sjálft, er rétt að glöggva sig betur á því, hvað kallað er og kallað hefir verið Ölfus.

Þorvaldur Thoroddsen segir, að Ölfus takmarkist „að sunnan af sjó og Ölfusárósum, að vestan af Selvogsheiði, að norðan af fjallshlíðum Reykjanesfjallgarðs, að austan af Ölfusá, og nær nokkur hluti sveitarinnar upp með Ingólfsfjalli að austanverðu“.

Ölfus er m.ö.o. hið byggða undirlendi við Ölfusá að vestan (og norðan), og er fátítt, að með þessu nafni sé átt við annað en þetta nú á dögum. Þó kemur fyrir, að Ölfus er notað í merkingunni ‘Ölfushreppur’, en mestur hluti þess landsvæðis er fjöll og óbyggðir.

Árbók FÍ

Árbók FÍ 1936.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 1936 er ritgerð eftir Steinþór Sigurðsson og Skúla Skúlason, er nefnist „Austur yfir fjall“. Þar segir á bls. 101: „Þeim, sem líta yfir Ölfusið, sem svo er kallað venjulega, þ. e. byggðina að svo miklu leyti, sem þeir sjá hana, finnst sveitin ekki stór. Þeir athuga fæstir, að þeir hafa verið í Ölfusinu nær helming leiðarinnar úr Reykjavík og til Kamba.“ Síðan er lýst takmörkum Ölfussins, og er einnig þar átt við Ölfushrepp. En annars staðar í ritgerðinni er nafnið Ölfus notað um hið byggða undirlendi sérstaklega. Á bls. 100 er t. d. talað um „Grafningsfjöllin, sem lykja um Ölfusið að norðan“, og nokkru síðar er komizt svo að orði: „Nærlendinu, Ölfusinu sjálfu, verður ekki lýst hér, því að lýsing þess kemur í næsta kafla, og verður einnig miðuð við Kambabrún að mestu leyti. Því skal nú haldið áfram ferðinni niður í Ölfusið, um Kambana.“

Ölfus

Ölfus vestan Þingvallavatns (Ölfusvatns).

Þegar Hálfdan á Reykjum talar um kirkju að Úlfljótsvatni, bætir hann við innan sviga: „í þeim parti sveitarinnar, er Grafningur kallast“ (bls. 59). Og síðar segir hann: „Í landnorður undan Ingólfsfelli og upp með Soginu eru mýrar, þar til byggðin í þeim kjálka sveitarinnar til tekur, er Grafningur kallast. En í vestur yfir Álftavatn og fyrir norðan Ingólfsfjall [svo hér] liggur vegur fram Grafningshálsinn og í Olvesið“ (bls. 72). Eftir þessu að dæma er það hið byggða undirlendi við Ölfusá, sem Hálfdani er tamt að kalla Ölfus. Þó getur hann notað það nafn um allt landsvæðið, Ölfus og Grafning, en þá var einnig hægt að tala um Ölfushrepp til að taka af tvímæli.

Ölfus

Ölfus sunnan Þingvallavatns (Ölfusvatns).

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, II (Kaupmannahöfn 1918—1921), 376, er notað nafnið Aulves sveit um Grafning og Ölfus. Þegar lokið er jarðatali í Grafningi, er komizt svo að orði: »,Hjer endast Grafníngur, en byrjar sjálft Ölves“ (bls. 389).

Af því, sem nú hefir verið rakið, mætti álykta, að Ölfus væri hið eldra nafn á Grafnings- og Ölfushreppum samanlögðum, en nafnið Grafningur síðar til komið til að auðkenna nyrðra hluta sveitarinnar.

Grafningsháls

Grafningsháls norðanverður – Tunguá.

Nú er vitað, að þessu hefir einmitt verið svo háttað. Ólafur Lárusson hefir sýnt fram á, að Grafningur varð ekki til sem byggðarnafn fyrr en um 1500 og getur ekki verið eldra en 1448. Það kemur fyrst fyrir í máldaga frá dögum Stefáns biskups Jónssonar (1491-1518). Ölfus hefir þá í fyrndinni náð yfir það svæði, sem nú deilist á tvær sveitir, Ölfus og Grafning. Allt það land, sem lá að Þingvallavatni (áður Ölfusvatni) að sunnan (og suðvestan), Soginu að vestan og framhaldi þess, Ölfusá, allt til sjávar, hefir verið í Ölfusi. Þetta verður auðvitað að hafa í huga, og það skiptir nokkru máli. En hinu má ekki gleyma, að Grafningur og Ölfus eru frá náttúrunnar hendi aðgreindar sveitir, og megin byggðarinnar er og hefir ávallt verið í Ölfusi. Nafnið Ölfus hlýtur því að hafa verið miklu oftar notað í sambandi við bæi og búendur í neðri byggðinni og þannig verið fastara tengt henni, þegar áður en efri byggðin fékk nafnið Grafningur. Og þetta hefir einmitt stuðlað að þeirri nafngift.

Grafningur

Grafningsháls framundan. Gamli þjóðvegurinn.

Samkvæmt skýringu Ólafs Lárussonar, sem er áreiðanlega rétt, hefir efri byggðin fengið nafn sitt af grafningi þeim eða skarði, sem nú heitir Grafningsháls, milli Bjarnarfells og Ingólfsfjalls, en um þennan grafning var alfaraleið á milli byggðarlaganna. Nafnið Grafningur gefur ranga hugmynd um landslag þeirrar sveitar, eins og Ólafur Lárusson tekur fram. Landslagsins vegna hefði því Grafnings-nafnið eins getað flust á neðri byggðina, en á því var engin hætta. Sú byggð hét Ölfus, skýrt afmörkuð á alla vegu, miklu mannfleiri og áhrifameiri en hin. Nafngiftin Grafningur er því runnin frá Ölfusingum. Þeir hafa talað um að fara „upp um Grafning“ eða „upp í Grafning“, og síðan hefir nafnið flust á byggðina fyrir ofan, sem þeir fundu, að var í rauninni annað byggðarlag en sveitin þeirra sunnan fjalla, Ölfusið.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Áður en lengra er haldið, þykir rétt að fara einnig nokkrum orðum um nöfnin Ölfusá — Sog og Ölfusvatn — Þingvallavatn. Því hefir oft verið haldið fram, að vatnsfallið Sog -(Ölfusá hafi áður fyrr heitið einu nafni, því sem nú hefir fengið myndina Ölfusá. Sbr. lýsingu Kálunds: „Nord for Ölves, langs Sog og Thíngvoldsoens sydvestlige bred, ligger den såkaldte Gravning (Grafníngr), et afsides og lidet besögt bygdelag, hvis beboere báde i deres personlige optræden og huslige indretning viser sig kun lidet pávirkede af omverdenen.

Hengill

Hengill.

Fra Olves adskilles Gravningen ved Ingolvsfell og fjældstrogene, der forbinder dette fjæld med Hengilen og dertil hörende fjældheder“ (Uidrag, 1, 85). Fyrir því eru þó engar beinar heimildir; það hefir verið ráðið af mjög sterkum líkum, og hefir enginn mælt í móti, svo að ég viti. Enn fremur er líklegt, eins og Brynjúlfur frá Minna-Núpi og Einar Arnórsson taka fram, að Sog sé eigi að síður mjög gamalt örnefni, en hafi í öndverðu verið bundið við sjálfan ós Þingvallavatns (Ölfusvatns) eða efsta spotta árinnar að Úlfljótsvatni, sem nú er kallaður Efra-Sog.

Sogið

Sogið.

Nafnið Sog hefi ég hvorki fundið í íslenskum fornritum né Íslenzku fornbréfasafni (ekki heldur Þingvallavatn). Um Ölfusá gegnir öðru máli. Það nafn kemur alloft fyrir í fornritum, en eftir notkun
þess að dæma verður ekki afdráttarlaust fullyrt, að það hafi tekið til alls vatnsfallsins, Sogs og Ölfusár. Eðlilegast er þó að skilja svo, þegar sagt er frá landnámi Ingólfs (í Sturlubók), að hann „nam land milli Olfus ár ok Hvalfiardar fyrer vtann Bryniudals aa milli ok Avxar ar ok aull Nes vt“.J ] Í sömu átt bendir það, þegar talað er um Ingólfsfell fyrir vestan Ölfusá — í Íslendingabók og Landnámabók.

Ölfus

Ölfus – sveitarfélagið.

Þingvallavatn hét Ölfusvatn að fornu. Þegar haft er í huga, að Ölfus náði þá allt að vatninu, er eðlilegast að hugsa sér, að það dragi nafn af sveitinni og áin, sem setti henni takmörk að austan, hafi þá einnig verið nefnd einu nafni Ölfusá allt frá Ölfusvatni til sjávar.

Ölfusvatn

Ölfusvatn (Þingvallavatn).

Ljóst er, að efri hluti vatnsfallsins kemur lítt við sögur, og hefir verið miklu minni þörf fyrir nafn á ánni ofan Hvítár en neðan. Af því leiðir, að nafnið Ölfusá hefir smám saman einskorðazt við neðra hluta árinnar eins og Ölfus við neðra hluta sveitarinnar. Sogið fær þá sitt sérstaka nafn sennilega um líkt leyti og Grafningur. Er þá rofið samhengið milli Ölfuss og Ölfusár annars vegar og hins vegar Ölfusvatns, sem fær enda nafnið Þingvallavaln. Auðvitað getur eins vel verið, að vatnið hafi skipt um nafn fyrst, en Grafningur og Sog komið á eftir. Röðin skiptir í rauninni ekki máli fyrir skýringu Ölfitss-nafnsins.

Sogið

Sogið.

Örnefnin Grafningur, Sog (sem árheiti) og Þingvallavatn eru varla mjög misaldra, en Grafningur er hið eina þeirra, sem unnt er að tímasetja nokkuð nákvæmlega, þ. e. frá h. u. b. 1500. Elzta dæmi, sem ég hefi rekist á, um Þingvallafrjvatn er úr Diskupa-annálurn, Jóns Egilssonar, sem skráðir eru 1605: „þá riðu þeir úr Grafnínginum upp eptir Þíngvallavatne til saungs og tíða.“]; Á Íslandsuppdrætti Þórðar biskups Þorlákssonar 1668 eru nöfnin Þingvallavatn (Thingualla watn), Grajningur (Grafnvigur), Ölfusá (Ölvesa) og Ölfus (Ölves). Á uppdrætti hans 1670 eru sömu nöfn, nema Ölfus vantar, en þar er að auki nafnið Sog milli Úlfljótsvatns og Álftavatns, svo að ljóst er, að það er árheiti. Er þetta elzta heimild, sem ég hefi um það.

Ölfus

Í Ölfusi.

Með nánari rannsókn mætti eflaust komast nær aldri nafnanna Sog og Þingvallavatn, en eins og málið horfir við nú, virðast þau vera frá 15. eða 16. öld.

Líklegt er, að menn hafi snemma tekið að skapa sér hugmyndir um uppruna og frummerkingu nafnsins Ölfus. Elsta áþreifanlegt dæmi þess, sem ég þekki, er frá byrjun 16. aldar. Í bréfi frá 1509, sem til er í frumriti, kemur fyrir rithátturinn auluersaa.

Ölvusvatn

Bærinn Ölvusvatn við Þingvallavatn – loftmynd.

Ljóst er, að orðið er sett í samband við mannsnafnið Ölver, og verður slíkt allalgengt í bréfum og skjölum eftir þetta.

Vafalaust er það þó enn eldra að skilja Ölfus sem eignarfall af mannsnafninu Ölvir (þ. e. Ölvis). Um 1400 er fyrst farið að rita -is og síðar -es í stað eldra -us, -os í nafninu Ölfus, og hygg ég, að sú breyting sé eingöngu hljóðfræðilegs eðlis, eins og síðar verður gerð grein fyrir. En þar með hefir líka Ölfus fengið sama eða nokkurn veginn sama framburð og ef. af Ölvir, og getur varla hj á því farið, að menn hafi þegar á 15. öld tekið að skýra fyrir sér Ölfuss-nafnið í samræmi við það. Í Landnámuhandritinu AM 107 fol. (Sturlubók), skrifuðu af Jóni Erlendssyni í Villingaholti, kemur t. d. fyrir rithátturinn Aulvisaar og á sömu blaðsíðu í útgáfunni Aulvir, -er (mannsnafnið), Aulvis dottur, Aulvisstadir. Handritið er að vísu frá 17. öld, en það er eftirrit skinnhandrits, sem líklegast hefir verið frá l5. öld.

Ölfusvegir

Ölfusvegir.

Reynt hefir verið að færa rök fyrir því, að nafnið Ölfus standi upprunalega í sambandi við mannsnafnið Ölvir. Þar sem rætt er um niðja Ölvis barnakarls í ritgerð Guðbrands Vigfússonar, „Um tímatal í Íslendingasögum í fornöld“, kemst höfundur svo að orði: „Ölfusið mun bera nafn sitt af þessari ætt; getr vel verið, að svo hafi heitið hérað á Ögðum, þaðan sem þeir voru.“ Hér er bætt við í neðanmálsgrein: „Nafnið er óvanalega myndað (Ölves, líkt og Valdres), mun varla vera á Íslandi annað örnefni, sem er eins myndað. Eyríkr ölfus (ölfús?) hét maðr í Súrnadal (Sírudal) á Ogðum, nálægt Hvini.“

Ölfusvatn

Ölfusvatn – minjar.

Í orðabók Guðbrands er engin skýring gefin á orðinu, en þar er það skrifað „Ölluss, n.“ og talið vera bæði viðurnefni og „the name of a county in Icel., id. (mod. Olves), whence Olfusingar, m. pl. the men jrom O.“

Hér skal ekki farið mörgum orðum um hugmyndir Guðbrands Vigfússonar. Eftirtektarvert er, að í þessum stuttu tilvitnunum hefir hann skrifað orðið á fjóra mismunandi vegu, Ölfus(ið), Ölves, Ölfuss, Ölves (sbr. einnig Ölfusingar). Það sýnir, hve framandi það er honum. Samlíkingin Ölves: Valdres er gagnslaus, því að orðmyndin Ölves er tiltölulega ung, endingin -es yngri en 1400, eins og áður var getið. Auk þess hefir enginn vitað, hvernig nafnið Valdres er myndað. Þegar Magnus Olsen gerði tilraun til að skýra það 1912, vissi hann ekki til þess, að neitt hefði áður birzt um það efni á prenti.

Ölfus

Ölfusölkelda.

Eftir daga Guðbrands Vigfússonar hefir sú kenning skotið upp kollinum oftar en einu sinni, að Ölfus standi í sambandi við mannsnafnið Ölvir (eða Ölver), en enginn fræðimaður mun nú trúaður á það.

Í Lýsingu Ölveshrepps 1703, er áður var getið, segir Hálfdan á Reykjum í upphafi máls síns, að „Aulfvus eður Ölveshreppur“ dragi nafn sitt af Álfi, „fyrsta landnámsmanni þess héraðs“.

Ölfusá

Ölfusá neðan Gnúpa.

Nokkru síðar segir höfundur (bls. 62): „Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum.“ Þessu fylgir engin nánari útskýring, en örnefnið Alfsós hefir minnt Hálfdan á Ölfus, og er hugmyndin af því sprottin, án þess að hann hafi gert sér nánari grein fyrir myndun orðsins.

Nærri tveimur öldum síðar reyndi Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi að sýna fram á, að Ölfus væri Álf(s)ós. Brynjúlfur mun þó óháður Hálfdani á Reykjum og hefir ekki þekkt ritgerð hans, sem þá hafði ekki verið gefin út, enda segist hann ekki vita til þess, að neinn hafi reynt „að skýra nafnið Olfus, nema hvað Dr. Guðbrandur Vigfússon víkur að því nokkrum orðum í riti sínu: Um tímatal í Íslendingasögum“.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – blótsteinn.

– Skal nú vikið nánara að skýringu Brynjúlfs frá Minna-Núpi. Hún er, ásamt athugasemdum Bjarnar M. Ólsens, rækilegasta tilraun, sem enn hefir verið gerð, til að skýra nafnið Ölfus.

Ölfus

Ölfus fyrrum – kort.

Sagt er frá því í Landnámabók, að Álfur hinn egðski, sem stökk fyrir Haraldi konungi til Íslands af Ögðum, hafi komið skipi sínu í ós þann, er við hann sé kenndur og heiti Álfsós. Hyggur Brynjúlfur, að þar sé átt við Ölfusárós og nafnið Ölfus sé einmitt Álf(s)ós. Hann telur, að Álfsós sé hið upphaflega nafn á vatnsfalli því, sem nú heitir Sog og Ölfusá, og hið forna nafn á Þingvallavatni, Ölfusvatn, sé af því dregið, Álfsóssvatn. Sem sveitarnafn hyggur hann Ölfus þannig til orðið, að sveitin hafi verið kennd „við ósinn, sem rann með henni endilangri“ og nefnd Álfsóss-sveit, -hérað, -hreppr eða þvílíku nafni, sem síðar hafi verið stytt, af því að „hver maður vissi hvað um var talað. Menn nenntu þá ekki heldur að hafa orðið lengra en þurfa þótti, nefndu svo sveitina blátt áfram „Ölfus“, og varð það að vana. En um leið fundu menn til þess, að viðfeldnast var, að hafa það nafn hvorugkyns, og gerðu menn það ósjálfrátt“.

Ölfus

Ölkelda á Ölkelduhálsi.

Nafnið Álfsós hefir m. ö. o. aðeins breyst sem liður í samsettu orði, annars ekki. Þess vegna verður að gera ráð fyrir því, að sveitarnafnið hafi upphaflega verið lengra en það er nú. Þetta virðist nokkuð langsótt.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson.

En Brynjúlfur varð að gera ráð fyrir þessu til að skýra það, að nafnið Alfsós er varðveitt í Landnámabók ásamt nöfnunum Ölfusá og Ölfusvatn, en Ölfus kemur ekki fyrir þar nema í þessum samsetningum. Brynjúlfur reynir að gera sér grein fyrir því, hvernig Álfsóss gat breyst í Ölfus og rekur það mál. Hann segir þó, að hann vilji ekki fullyrða, að breytingasaga orðsins hafi verið þannig, og telur sig skorta þekkingu á fornmálinu til að geta fullyrt nokkuð um það. En hann telur „víst, að þeir, sem betur kunna, geti sannað það málfræðislega, að orðið Ölfus sje ummyndað úr orðinu Álfós ( = Álfsós)“.

Björn M. Olsen hljóp nú undir bagga með Brynjúlfi og belrumbætti „breytingasögu orðsins“. Hann er sammála Brynjúlfi „um það, að Ölfusið dragi nafn sitt af Álfsósi þeim, sem Landn. nefnir“ og enn fremur „að elsta nafn sveitarinnar hafi verið Alj(s)ósssveit (eða Alj(s)óssherað, Alf(s)ósshreppr)“. Til samanburðar nefnir hann, að Heklufell > Hekla, Auðkúluslaðir > Auðkúla o. fl. Skýring Brynjúlfs fær bezt staðizt í þeim efnum, sem hann taldi sig sérstaklega skorta þekkingu á. Hljóðsögulega séð er ekkert því til fyrirstöðu, að Olfus sé < *Alfös. En sú orðmynd kemur ekki fyrir. Í Landnámabók er höfð eignarfallssamsetning, Álfs ós, en þá mynd vildi Brynjúlfur helzt skýra svo, að seinni afritarar hafi bætt 5-inu inn í. Hér er, að minni hyggju, farið aftan að hlutunum. Eignarfallssamsetningin er einmitt það, sem við mátti búast, og sú staðreynd, að Álfsós kemur fyrir í Landnámabók (ásamt nöfnunum Olfusá og Olfusvatn), bendir eindregið til þess, að það nafn hafi ekkert breytzt, hvorki í Álfós né Ölfus.

Ölfus

Ölfusketill.

Það er alþekkt fyrirbrigði, að landslags- eða náttúrunafn verður byggðarnafn (sbr. Grafnings-nafn), og eru fjölmörg dæmi þess á Íslandi um nöfn á vogum, víkum, fjörðum, ósum o. s. frv., t. d. Selvogur, Kópavogur, Grindavík, Aðalvík, Hornafjörður, Borgarfjörður, Blönduós, Hofsós, svo að fáein séu nefnd af handahófi. Það hefði því ekki verið óeðlilegt, ef nafnið á Ölfusárósi hefði færzt yfir á byggðina við ósinn.

Ölfusá

Ölfusá.

Til dæmis um slíka þróun á Norðurlöndum utan Íslands má nefna Aarhusur ekki notfært sér með því að gera ráð fyrir því, að ósinn hafi heitið Alfsós, því að nafnið er að finna í Landnámabók og gat að hans hyggju ekki breylzt í Olfus nema sem liður í samsettu orði. Gefur hann þó enga skýringu á, hverju það sætir. Þess vegna verður hann að grípa til þess úrræðis, að sveitin hafi heitið Alf(s)ósssveit eða þ. u. l. En óhætt er að fullyrða, að fyrir því eru litlar eða engar líkur, að Olfus sé orðið til sem brot úr slíkri samsetningu. Engum mun detta í hug að halda því fram, að áðurtalin byggðarnöfn séu orðin til með þvílíkum hætti, t. d. Selvogur eða Borgarfjörður. Ölfus hefir greinilega verið til sem sjálfstætt orð, þegar samsettu nöfnin, Ölfusá og Ölfusvaln, voru mynduð.

Ölfusá

Ölfusá.

Fleiri athugasemdir mætti gera við skýringu Brynjúlfs, t. d. um kynferði orðsins. En það, sem nú hefir verið sagt, ætti að nægja til að sýna, að hún er vægast sagt mjög hæpin. Þessari skýringu hefir þó verið haldið fram síðar.

Skal nú horfið að framlagi Finns Jónssonar til þessa máls. Hann telur, að sú skýring sé „efalaust með öllu röng“, að Ölfus sé „afbakað“ úr Alfsós. Hann sýnir helztu rithætti orðsins „í fornbókum og skj ölum“ og segir síðan: „Elsta myndin er Ölfoss-, þ. e. Öl-foss, um það getur enginn vafi verið.“ Telur hann, að nafnið sé „líklega dregið af fossi eða fossum í ánni og er nóg af þeim (í „Sogi“, er nú heitir svo, en áður hefur víst heitið „Ölfossá“), en „öl“ hygg jeg sje s. s. al-, stofninn í allur“. Finnur hugði, að Ölfossvatn væri stytt úr Ölfossárvatn. „Svo færðist nafnið yfir á hjeraðið og varð úr því Ölfoss — Ölfos (með einu s) og svo Ölfus, og varð hvorugkyns, af því að upphaf orðsins var fallið í gleymsku. Þessi skýring á þessu orði er eins hæg eða hægari en hin skýringin úr Álfsós.“

Ölfus

Ölfustaumar.

Páll Eggert Ólafson hugsar sér, að af nöfnunum Ölfus, Ölfusá, Ölfusvatn sé Ölfusá elzt, en Ölfus hafi molnað út úr samsetningu og orðið að byggðarnafni. Eg hefi áður minnzt á, hve sennilegt það er. Þá mun það vera hrein ágizkun, að Ölfusvatn sé Ölfossárvatn, og er ekki fjarska líklegt, að sú breyting hafi átt sér stað fyrir daga Ara fróða. Frá merkingarlegu sjónarmiði er varla hægt að hugsa sér meiri öfugmæli en kenna Ölfusá við fossa. Hún er sérstaklega lygn, eins og kunnugt er.

Ölfusá

Ölfusá.

Að vísu bendir allt til þess, að Sogið hafi einnig heitið Ölfusá í öndverðu, en eins og áður var sýnt, var árheitið að langmestu leyti bundið við vatnsfallið neðan Hvítár, og virðist því fráleitt, að það eigi rætur að rekja til fossa uppi í Sogi. — Gerum samt ráð fyrir því, að sú tilgáta sé rétt, að Ölfusá sé kennd við marga fossa. Hvernig er þá nafnið myndað? Finnur gerir enga grein fyrir því. Líklegast hefir hann hugsað sér, að áin hafi í fyrstu verið nefnd alfossa. Verður þá að gera ráð fyrir lýsingarorði, sem ella er ókunnugt, og fleiri afbrigðum.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson – 1877- 1961.

Matthías Þórðarson hefir einnig lagt orð í belg um uppruna nafnsins Ölfus,en það er mjög í sama anda og fyrrnefndar skýringar. Nafnið Ölfusá er að hans hyggju elzt í fjölskyldunni, allt frá dögum Ingólfs Arnarsonar, er hann dvaldist undir Ingólfsfelli, en Ölfus telur hann hafa losnað úr samsetningu, t. d. Ölfoss(ár)hérað eða Ölfosssveit. Skýringu Finns Jónssonar hafnar hann ekki algerlega, en virðist telja líklegra, að Ölfusá sé aðeins kennd við einn foss, er hafi heitið Ölfoss. Hann játar, að óvíst sé, við hvaða foss sé átt, en telur, að komið geti til mála, að strengur sá í Ölfusá, sem nú heitir Selfoss, hafi áður heitið Ölfoss, enda hafi nafnið Ölfusá (Ölfossá) ætíð haldizt á þessum hluta árinnar, en farið af hinum efra (Soginu). Hann telur m. a. s. nöfnin Ölfoss og Selfoss „allmikið lík“ og dettur í hug, að „hið síðara sé sprottið af misskilningi og afbökun á hinu fyrra. Nýgert öl er skolljóst að lit (sbr. nafnið hvítöl) og hefur jökulliturinn á vatninu í fossinum ráðið nafngjöfinni í fyrstu, er ölgerð var stunduð, en selurinn síðar, er menn tóku að verða hans mjög varir við fossinn, þegar hann var að elta þar laxinn“.

Ölfusá

Ölfusá – Selfoss (MWL).

Loks viðurkennir Matthías, að Ölfusvatn (Olfossvatn) sé helzti langt frá þessum fossi til að hljóta nafn sitt af honum, en það muni þá hafa verið kennt við ána og nefnt Ólfossárvatn í upphafi. — Skýringin hefir sem sé ýmsa sams konar annmarka og hinar fyrri, og verður að grípa til harðla ósennilegra ágizkana til að koma henni í höfn.

Ein skýringin — ef skýringu má kalla — er sú, að Ölfus merki ‘fjallver’, þ. e. víst ‘fjallaskjól’. Fyrri liður orðsins er þá talinn alp-, að því er virðist, og hugsað til Alpafjalla í því sambandi. Síðari liðurinn á að vera -ver, sbr. bæjarnafnið Hringver. — Skýringin er öll í miðaldastíl og hrein lokleysa.

Auk beinna skýringartilrauna hafa verið settar fram hugmyndir og tilgátur, sem vert er að gefa gaum.

Ölfusá

Ölfusá. Ingólfsfjall fjær.
Selfoss var landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar en einnig er getið um vetursetu Ingólfs Arnarsonar 873-74 „undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá“.

Í orðabók Larssons er eitt dæmi um nafnið Ölfus. Það er úr AM 645 4to, stendur í þgf. og er skrifað avlfose.“ Í orðabókinni er gert ráð fyrir nefnifallsmyndinni aolfóss, og í skránni aftan við orðasafnið sést, að Larsson hefir talið orðið vera samsett aolf-óss og flokkar það (ásamt óss) undir karlkennda a-stofna (bls. 423). Þetta er auðvitað tilgáta Larssons. Hann gat ekki haft neina heimild fyrir því, að orðið hafi verið karlkyns eða haft -ss í nf., og um lengd síðara sérhljóðsins (o) hefir hann einnig orðið að geta sér til.

Gljúfur

Gljúfur í Ölfusi – vestan við Grafningsháls.

Orðmyndin „aolfóss“ er því búin til í lok 19. aldar, en kemur ekki fyrir í elztu handritum. Enginn þeirra, sem reynt hafa að skýra nafnið, síðan bók Larssons kom út (1891), virðist hafa veitt hugmynd hans athygli.

Hér á eftir verður nú gerð ein tilraun enn til að varpa ljósi á uppruna nafnsins Ölfus.

Með því að athuga samsett örnefni má fá vitneskju um afstæðan aldur þeirra. Þetta ber að hafa í huga við skýringu orðsins Ölfus. Af merkingarlegum ástæðum er einnig nauðsynlegt að hafa hliðsjón af samsettu nöfnunum Ölfusá og Ölfusvatn. Af þeim eru svo mynduð önnur samsett nöfn, t. d. Ölfusárós, Ölfusvatnsfjöll, Ölfusvatnsá. Rétt er og að hafa í huga orðið Ölfusingur, sem er greinilega leitt af nafninu Ölfus.

Ölfus

Ölfus – áletranir á steini…

Það getur varla verið neitt vafamál, að Oljus er elzt þessara nafna; prentuð í Lögrjettu, 23. okt. 1918, síðan endurprentuð í frumútgáfu Nýals, 2. hefti, 1920.

Hér má nefna eitt dæmi til viðbótar. Í Hervarar sögu er sagt, að Starkaðr Aludrengr bjó við Álufossa. Þetta nafn vildi Birger Nerman lesa Alufossa og taldi það sama orð og Qljossa = Qljusá (Birger Nerman, „Alvastra“, Namn och bygd,l (1913—14), 98).

Árbók HÍF 1949-50

Árbók HÍF 1949-50.

Sbr. Hans Kuhn, „Upphaf íslenzkra örnefna og bæjanafna“, Samtíð og saga, safnrit háskólafyrirlestra, V (Reykjavík 1951), 183—197; sami, „Vestfirzk örnefni“, Árbók Hins íslenzka fornleifajélags, 1949—50, 5—40, a. m. k. er eðlilegast að gera ráð fyrir því. Bendir allt til þess, að það sé mjög gamalt örnefni. Samsetningarnar Ölfusvatn og Ölfusá koma báðar fyrir í elztu ritum (Íslendingabók og Landnámabók) og verður ekki betur séð en Ölfus sé þá orðið óskiljanlegt orð.
Ef það hefir verið gegnsætt og auðskilið öllum í fyrstu, verður að ætla því nokkra áratugi a. m. k. til að breytast svo, að það verði öllum mönnum framandi. — Olíklegt er, að það hafi verið óþekktrar merkingar, er það varð örnefni á Íslandi. En ef svo hefir verið, kemur varla annað til greina en það sé fornt örnefni, sem flutzt hafi með landnemum. — Loks er hugsanlegt, að nafnið hafi í upphafi skilizt af sumum, en ekki öllum, en slíkar aðstæður voru tæpast fyrir hendi nema á landnámsöld. — Eg mun því hafa fyrir satt, að Ölfus sé eitt af elztu örnefnum á Íslandi, nokkurn veginn jafnaldri byggðarinnar í landinu.

Næstelzta handrit, sem varðveitir nafnið Ölfus, svo að mér sé kunnugt, er ÁM 310 4to, eitt af aðalhandritum Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason. Það er talið ritað af Norðmanni á síðara hluta 13. aldar eftir íslenzku forriti. Í þessu handriti er ritað hia Olvus vatni (bls. 128 í útg. Finns) og er í Olfosi (bls. 162). Eru þá talin dæmi, er ég þekki úr handritum, sem víst má telja eldri en 1300.

Orðið Ölfus kemur fyrir í Íslendingabók og Landnámabók, sem auðvitað eru eldri en AM 645 4to. En öll handrit þeirra eru yngri en 1300, og er því ekkert á þau að treysta í þessum efnum. Handrit Íslendingabókar {AM 113a og 113b fol.) eru m. a. s. frá miðri 17. öld, eins og kunnugt er, en um þau gegnir nokkuð sérstöku máli. Talið er, að þau séu eftirrit mjög gamals skinnhandrits, jafnvel frá því um eða fyrir 1200.

Ölfus

Í ofanverðu Ölfusi…

Finnur Jónsson sagði í skýringu sinni á orðinu Ölfus, að elzta mynd þess væri „Ölfoss-, þ. e. Öl-foss, um það getur enginn vafi verið í handritum frá 14. öld fram til 17. aldar virðist mér oftast skrifað au, en o er einnig algengt, ýmist ómerkt eða með merkjum, þverstriki eða lykkju yfir eða undir, o. fl. Eftir að sú hefð hefir einu sinni komizt á að skrifa au eða o í þessu orði, er henni gjarnan haldið áfram.

Finnur Jónsson

Finnur Jónsson frá Kjörseyri.

Í Þorsteins sögu Víkingssonar (1. kap. I er þessi frásögn: Grímr var inn mesti berserkr. Hann átti Alvöru, systur Álfs hins gamla. Hann réð fyrir því ríki, er liggr í milli á tveggja. Þær tóku nafn af honum, ok var kölluð elfr hvártveggi. Var sú kölluð Gautelfr, er fyrir sunnan var við land Gauta konungs ok skildi við Gautland. En sú var kölluð Raumelfr, er fyrir norðan var ok kennd var við Raum konung. Ríki þat var kallat Raumaríki. Þat váru kallaðir Álfheimar, er Álfr konungr réð fyrir, en þat fólk er allt álfakyns, er af honum er komit.

Í 10. kap. Sögubrots af fornkonungum er einnig sagt, að af Álfi gamla „tóku nöfn þær tvær meginár, er elfr heitir hvártveggi síðan“. Og áþekkar eða hliðstæðar frásagnir eru víða til í fornaldarsögum.

Það er ekki laust við, að þessar sagnir í öllum sínum ófullkomleik renni nokkurri stoð undir skýringuna á Álfheimar og Álfarheimr og þá um leið orðmyndina alfös. Þær sýna, að snemma á öldum var í hugum manna náið samband milli orðanna Alfr og elfr. Hér virðist vera um gamla og rótgróna hefð að ræða, svo oft er á þetta minnzt í fornaldarsögum. — Og það má mikið vera, ef hér er ekki komin skýringin á nafninu Álfsós í Landnámabók. Gæti það ekki verið til orðið sem eldgömul tilraun til að skýra fyrir sér orðmyndina alfðs n.? Álfsós er hvergi nefndur í fornritum nema í Landnámabók.

Ölfus

Í Ölfusborgum.

Hálfdan á Reykjum eykur við frásögn hennar, er hann segir, að Álfr hinn egðski hafi komið „skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun“. Hálfdan hefir þekkt einhverjar sagnir um það, að þarna væri Álfsós Landnámu, ef hér er þá ekki um eigin ályktun að ræða, en það virðist mér allt eins sennilegt. Í Jarðabók Arna Magnússonar og Páls Vídalíns er óssins tvívegis getið. Í fyrra skiptið er talað um silungsveiðivon í Álfsós, er sumir nefni Alflarós, og því nafni einu er svo ósinn nefndur skömmu síðar (bls. 420). Gæti verið, að Álftarós hafi verið algengara nafnið, en Hálfdan á Reykjum viljað halda hinu fram. Þessi hluti Jarðabókar er skrifaður á Reykjum í Ölfusi 9. ág. 1708, ári eftir lát Hálfdanar. Nú munu þessi örnefni týnd.

Ölfusá

Ölfusá – Þorleifslækur.

Þessar hugleiðingar fæða af sér nýjar spurningar. Hvað líður nú Álfi landnámsmanni, er Landnáma telur Alfsós við kenndan? Sannleikurinn er sá, að sögnin um hann er mjög tortryggileg og ekkert líklegra en hún sé sprottin af örnefninu. Eru slíkar örnefnasögur kunnari á Íslandi en frá þurfi að segja — og reyndar víðar. — Álfr er sagður barnlaus, föðurnafn er óþekkt og framætt öll, en viðurnefnið bendir til Agða, og þaðan er hann sagður hafa stokkið fyrir Haraldi konungi hárfagra. Hann er tengdur þannig við Ölfusinga, að Þorgrímr Grímólfsson, föðurfaðir Þórodds goða, er sagður vera bróðursonur Álfs og á að hafa komið út með honum til Íslands og tekið arf eftir hann. Ef sagan af Álfi er tilbúningur, hefir hann fengið viðurnefni, af því að föðurnafni var ekki til að dreifa, og nefndur hinn egðski, af því að Þorgrímr hefir verið talinn frá Ogðum. Á öðrum stað í Landnámu er maður nefndur Grímólfr af Ögðum, en hann er talinn vera sami maður og Grímólfr, faðir Þorgríms, eða m.ö.o. bróðirÁlfs.“

Ölfusvatn

Ölfusvatn (Þingvallavatn).

Ef Álfr hinn egðski er nú dæmdur úr leik og gert er ráð fyrir því, að nafnið Olfus sé ættað frá Suðaustur-Noregi eða Vestur-Svíþjóð, má þá ekki vænta þess, að Landnámabók greini frá innflytjendum þaðan? Þess eru víst dæmi, en ekki í Árnessþingi. Mér hefir ekki tekizt að finna neitt í Landnámabók, er sérstaklega styðji skýringu mína á uppruna Ó//«sí-nafnsins. Ekki má þó leggja mikið upp úr því; svo tæmandi og traust heimild er Landnámabók ekki. „Landnámabækur veita litla fræðslu um uppruna landnámsmanna í Árnessþingi né heldur, hvar þeir dvöldust eða áttu heimkynni síðast, áður en þeir fóru til Íslands,“ segir Einar Arnórsson.

Ölfusvatn

Ölfusvatn (Þingvallavatn).

Einhverjum kann að þykja það langsótt, að Ölfusá hafi haft frummerkinguna ‘áróssá’. Það er þó ekki fráleitara en nafnið Aaroselven í Noregi (Rygh, Norske Gaardnavne, V (1909), 346). Annars geri ég ekki ráð fyrir, að Ölfusá hafi nokkurn tímann merkt ‘áróssá’. Ég hugsa mér, að Ölfus hafi verið orðið óskiljanlegt nafn, þegar heitið Ölfusá varð til.“

Annars verður að telja svolítið sérstakt í framangreindu samhengi að fornt örnefni skuli vitna um tiltekna heild fyrrum, sem nú virðist orðin samhverf…

Heimild:
-Lingua Islandica – Íslensk tunga – Baldur Jónsson, Tímarit um íslenska og almenna málfræði, 4. árg., Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Félags íslenskra fræða, Reykjavík 1963, bls. 7-53.

Ölfus

Ferlirsfélagar við leitir að fornleifum í Ölfusi.

Ómar

Á MBL.is þann 11.6.2011 birtist eftirfarandi frétt; „Fornleifar fanga lögreglumann„.

Garður

Höfðinu stungið upp úr fornleifauppgreftri.

„Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, útskrifast í dag sem fornleifafræðingur frá Háskóla Íslands.

Ómar hefur starfað sem lögreglumaður mestallan sinn starfsferil eða í um 35 ár, en segist hafa hugsað til framtíðar þegar hann sótti um nám í fornleifafræði.

„Ég hef alltaf haft áhuga á fornleifum og einn daginn kom upp í huga mér hvað ég ætti að gera þegar ég hætti sem lögreglumaður, þá var ég áður búinn að skoða gamlar minjar á Reykjanesskaganum. Það kveikti í mér og kom lítið annað til greina en að skella sér í háskólann,“ segir Ómar.“

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan. 

„Þetta var nú ekki löng frétt, en merkileg út af fyrir sig“, svaraði Ómar er fréttamaður spurði; „ekki síst í ljósi þess að hafa fengið að taka þátt í að bæta samfélagið, síðan að móta samskiptamál lögreglunnar með verulega jákvæðum árangri, tækifæri til að upplýsa ásamt samstarfsfélögum mínum mörg hin flóknustu afbrotamál síðustu áratugina, gefið áhugasömum kost á að skoða merkilegheit þeirra nánasta umhverfis, og loks, eftir að hafa lokið 45 ára starfi í lögreglunni, innan lögskyldulegra marka, fengið að nýta mér háskólanámið, m.a. í „Hagnýtri menningarmiðlun“, til að stofna vefsíðuna www.ferlir.is með margbreytilegum fróðleik um sögu, minjar og möguleika Reykjanesskagans. Sagan okkar er jú mun merkilegri en líðandi stund.“
„Háskólanámið er í sjálfu sér ekkert merkilegt, margt er þar sem mætti bæta“, bætti Ómar við.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Vefsíðuna hefur, að sögn Ómars, þurft að uppfæra nokkrum sinnum m.t.t. breyttrar tækni og nýrra krafna, en innihaldið hefur þó, þrátt fyrir mótlæti með staðfestu að vopni, fengið að viðhalda sér að mestu, reyndar með mikilli fórnfýsi hverju sinni.

Markmið vefsíðunnar er að upplýsa áhugasama um sögu og minjar Reykjanesskagans í von um að innihaldið fái að lifa áfram meðal þeirra…

Sjá eldri vefsíður

Heimild:
-Morgunblaðið 11.06.2011 (mbl.is), Fornleifar fanga lögreglumann – janus@mbl.is.

Omar

Ómar – við útskriftina í Háskóla Íslands.

Málmleitartæki

Í „Þjóðminjalögum“ frá árinu 2001 (nr. 107 31. maí) var ákvæði er gerði notkun málmleitartækja við leit að forngripum í jörðu óheimila nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar. Ákvæðið var í 16. gr. laganna og hljóðaði þannig: „Óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.“

Hafnir

Fornleifarannsókn í Höfnum.

Í 18. gr. laganna voru „forngripir“ skilgreindir þannig: „Forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Þegar forngripir finnast sem liggja eða legið hafa í jörðu skal finnandi tilkynna Fornleifavernd ríkisins fundinn svo fljótt sem við verður komið.“
Þjóðminjalögin hafa verið felld úr gildi.

Í „Þjóðminjalögum“ frá 1989 (nr. 89 29. maí) var sambærilegt ákvæði í 24. gr.: „Óheimil er öðrum en starfsmönnum þjóðminjavörslunnar notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar„.

Ekkert slíkt ákvæði var í „Þjóðminjalögunum“ 1969 (nr. 52 19. maí 1969).

Málið var að enginn greinarmunur var gerður í lögunum hvort fólk væri að leita með málmleitartækjum að nýlegum minjum eða fornum.

Málmleitartæki

Fornleifafræðingar nota málmleitartæki – nú án þess að spyrja um sérstakt leyfi frá Þjóðminjaverði.

Nú eru í gildi „Lög um menningarminjar“ (nr. 80 29. júní 2012) er tóku gildi 1. jan. 2013. Í þeim lögum er hvergi getið um bann við notkun málmleitartækja í leit að fornminjum í jörðu. Í 3. gr. laganna eru „fornminjar“ skilgreindar þannig í 3. gr.: „Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu.

-Forngripir eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
-Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri„.

Á Vísindavef HÍ er spurningunni „Nota fornleifafræðingar á Íslandi málmleitartæki?“ svarað:

Málmleitartæki

Auðvelt er að finna fornminjar í jörðu með notkun málmleitartækja.

„Líklegt er að flestir fornleifafræðingar hafi haldið á málmleitartæki að minnsta kosti einu sinni, enda leitar fornleifafræðin mjög oft til annarra tækni- og vísindagreina þegar kemur að framþróun.

Fornleifar

Fornleifauppgröftur.

Fornleifafræði er fjölbreytt fag, enda eru margar hliðar á hinu liðna. Fornleifafræðingar rannsaka allt frá sameindasýnum undir smásjá að samhengi milli bæja á lands- og heimsálfuvísu, og breytingar sem eiga sér stað yfir margar aldir. Fornleifafræðingar skrifa um atburði sem ýmsir aðrir fræðimenn tjá sig um – þá helst sagnfræðingar. En hvað greinir fornleifafræðinga frá öðrum fræðimönnum? Í stuttu máli má segja að rannsóknarviður þeirra sé venjulega einhvers konar efnismenning. Fornleifafræðingar túlka liðna atburði með tilliti til mannvistarleifa. Auðvitað þurfa þessar leifar ekkert endilega að vera fornar – aðferðafræði fornleifafræðinga geta oft sagt margt um nýliðna atburði.

Fornleifar

Minjafundur við uppgröft.

Það er mikilvægt að hafa hugtakið ‘aðferðafræði’ í huga þegar rætt er um fornleifafræði, enda safna fornleifafræðingar gögnum með mjög einkennandi aðferðum. Þá má helst nefna uppgröftinn sjálfan; þó eru til fjölmargar aðrar leiðir til að afla gagna um efnismenningu hins liðna.
Fornleifafræðingar grafa með ýmsum aðferðum, en þær eru allar ítarlegar og kalla á mikla teikni- og skráningarvinnu. Algengasta aðferðin (svokölluð single-context recording) krefst þess að öll jarðlög séu grafin í öfugri tímaröð, frá hinu yngsta til hins elsta.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Jarðlög eru aðskilin á þeirri forsendu að hægt sé að útskýra hluta efnis innan uppgraftarsvæðis sem afleiðingu einhvers konar atburðar. Slíkir atburðir geta varað í margar aldir eða nokkur augnablik; fornleifafræðingar reyna sjaldan að tjá sig um það. Mikilvægara er að geta raðað þessum atburðum í tímalinu – atburðarás frá nútímanum að órofnu jarðlagi sem sýnir engin ummerki um mannvist. Fornleifafræðingar reyna að skilja þessa atburðarás með því að fjarlægja hið yngsta fyrst, þar til engin mannvistarummerki eru sjáanleg lengur. Það er því alls ekki markmið fornleifauppgraftar að finna málmgripi sérstaklega – allur jarðvegur innan rannsóknarsvæðis er fjarlægður og skrásettur.

Málmleitartæki

Málmleitartæki.

Í stuttu máli er takmarkað gagn af málmleitartæki við fornleifauppgröft, en tækið bíður upp á rannsóknaraðferðir sem geta hæglega aflað gagnlegra upplýsinga um liðna atburði þegar aðstæður leyfa, þá helst við yfirborðsmælingar eða kortlagningu á uppblásnum svæðum.

Málmleitartæki nota segulsvið til að finna málmhluti á stuttu færi, sjaldan lengra en 40 cm. Sum greina einnig á milli ólíkra málma. Venjulega eru slík tæki notuð til að finna málmhluti undir yfirborði. Hvernig gæti slíkt tæki gagnast við fornleifauppgröft? Ef fjarlægja þarf yngstu jarðlög fyrst, þá er lítið gagn af vitneskju um gripi neðar í jarðveginum. Ef gripurinn situr í jarðlagi sem er eldra en hið yngsta óuppgrafna lag, þá er ekki tímabært að grafa hann upp. Ef hann tilheyrir yngsta óuppgrafna jarðlaginu, þá mun hann finnast við uppgröft, enda vanda fornleifafræðingar sig mjög við uppgröftinn.

Fornmunir

Fornmunur.

Einnig er vert að hafa í huga að vanalega er einfalt að sjá ummerki um málmhlut, þar sem tæring málms litar og breytir jarðveginum umhverfis málminn. Fyrir þær sakir er ekki algengt að sjá fornleifafræðinga nota málmleitartæki á uppgraftarsvæðum.
En hvað ef fornleifafræðingar sjá einfaldlega ekki málmgripinn við uppgröft? Þá endar hann væntanlega í fötu sem tæmd er í moldarhaug. Hér getur málmleitartækið komið að góðum notum, og hefur höfundur þessa svar séð slíkt tæki notað sem hálfgert öryggisnet til að ná málmhlutum sem fóru óvart á hauginn. Þó er slík notkun ekki algeng. Fornleifafræðingar nota frekar sigti til að forðast þetta, en sigtið gagnast að sjálfsögðu einnig til að finna mannvistarleifar sem ekki eru úr málmi, eins og viðar- og beingripi. Einnig bíður sigtið upp á mun ítarlegra öryggisnet en málmleitartækið, enda fer allur jarðvegurinn í gegnum sigtið.

Málmleitartæki

Sérsveit lögreglunnar með málmleitartæki að leit að „fornleif“ í jörðu við Austurgötu í Hafnarfirði.

Oft eru aðstæður óhentugar fyrir málmleitartæki. Málmleitartæki nema málmhluti á allt að 40 cm færi, ef stærð hlutarins leyfir. Einnig þarf að hafa í huga að málmur í bergi getur truflað tækið. Bergtegundir hafa iðulega eitthvað magn af járni, enda eru bergtegundir flokkaðar meðal annars af járnoxíðhlutfalli (FeO-hlutfall) þeirra. Blágrýti, algengasta bergtegundin á Íslandi, hefur hátt járnoxíðhlutfall.

Fornmunir

Vettvangur stríðsátaka er vinsæll meðal fólks.

Í ljósi þess mætti segja að tækið virki ekki vel nema mannvistarlög séu innan við 40 cm frá yfirborði og bergið dýpra. Þetta er ansi þröngur gluggi.
En málmleitartæki geta þó gagnast fornleifafræðingum við ákveðnar aðstæður. Gefum okkur að fornleifafræðingur vilji rannsaka bardaga þar sem skotvopn voru notuð. Líklegt er að skotárásir hermanna hafi skilið eftir mikið magn af skothylkjum. Hér gæti málmleitartæki komið sér vel til að kortleggja helstu átakasvæði bardagans. Connor & Scott telja að slíka notkun megi rekja til ársins 1958, þegar Ron Rickey kortlagði staðsetningu hermanna í bardögunum í Little Bighorn og Big Hole í Montana.

Málmleitar

Í leit að fornmunum með málmleitartæki.

Á Íslandi var notkun málmleitartækja lengi vel bönnuð. Þau voru gerð lögleg með nýjum menningarminjalögum sem tóku gildi 1. janúar 2013 (þó ekki hljóðalaust). Nýlega var málmleitartæki notað við rannsókn á mögulegri höfn við Vatnsfjörð í Ísafjarðardjúpi, og ekki kæmi á óvart þó tækið skjóti oftar upp kollinum hér á landi.
Í stuttu máli er takmarkað gagn af málmleitartæki við fornleifauppgröft, en tækið bíður upp á rannsóknaraðferðir sem geta hæglega aflað gagnlegra upplýsinga um liðna atburði þegar aðstæður leyfa, þá helst við yfirborðsmælingar eða kortlagningu á uppblásnum svæðum. Þó slík tæki hafi verið bönnuð lengi á Íslandi eru þau nú lögleg.“

Í Morgunblaðinu 23. október 2014 er fjallað um notkun málmleitartækja undir fyrirsögninni „Amast við fjársjóðsleit„.
Ekki gert ráð fyrir aðkomu áhugamanna að leit að fornminjum -Ekki lengur bannað að nota málmleitartæki en ekki má hreyfa við jarðvegi í leit að forngripum -Skylda að tilkynna um gripi.

Málmleitartæki

Áhugafólk við leit að fornminjum.

„Ekki er gert ráð fyrir aðkomu áhugamanna við leit að fornminjum í lögum um menningarminjar. Þeir geta leitað á yfirborðinu, til dæmis með málmleitartækjum, en mega ekki róta í jarðvegi til að fá svar við því hvort forngripir eru undir. Forstöðumaður Minjaverndar ríkisins veltir því fyrir sér hvort ekki ætti að gera ráð fyrir samstarfi við áhugafólk við þá stefnumörkun sem nú er framundan.

Málmleitartæki

Staffordshire-sjóðurinn í Englandi fannst með aðstoð málmleitartækis.

Fréttir berast oft af því frá nágrannalöndunum að áhugamenn um fornminjar hafi rambað á merka forngripi með notkun málmleitartækja. Áhugamenn hafa til dæmis fundið merka fjársjóði frá víkingaöld, bæði í Danmörku og Bretlandi.

Málmleitar

Derek McLennan með gripi sem hann fann með málmleitartæli.

Nýjasta dæmið er Skotinn Derek McLennan sem fann falinn fjársjóð frá víkingaöld í Dumfriesskíri í síðasta mánuði. Telja sérfræðingar þetta merkasta fjársjóð sem fundist hefur á Skotlandi. McLennan og félagar hans voru að leita með málmleitartækjum. Hann datt líka í lukkupottinn í fyrra þegar hann fann stærsta sjóð silfurpeninga frá miðöldum sem fundist hefur í Skotlandi.

Erfið samviskuspurning
Leit að forngripum er áhugamál fjölda fólks í nágrannalöndunum, ekki síst í Bretlandi. Þar eru reglur um slíka leit rýmri en á Norðurlöndunum og svipar til reglna í Bandaríkjunum. Íslenskar reglur taka mið af norrænum rétti þar sem þeir eru tortryggðir sem leggja það á sig að leita að forngripum. Óttast fornleifafræðingar að fólk hirði sjálft gripina og valdi tjóni á fornleifum. Þannig var almenningi bannað að nota málmleitartæki við fornleifarannsóknir en búið er að taka það ákvæði út úr íslenskum lögum.

Fornmunir

Gripir, sem Derek fann með aðstoð málmleitartækis.

Það nýmæli er í lögum um menningarminjar sem samþykkt voru á árinu 2012 að einungis þarf formlegt leyfi Minjastofnunar til að stunda fornleifarannsóknir sem hafa jarðrask í för með sér. Tilkynna þarf aðrar rannsóknir, þótt ekki sé grafið upp. Þá er það spurningin hvað maðurinn með málmleitartækið gerir þegar hann fær svörun um að eitthvað sé undir. Hann má ekki grafa eftir fornleifum. Hann má sjálfsagt grafa ef hann telur að undir sé járnadrasl yngra en 100 ára. Þetta hlýtur að vera erfið samviskuspurning.
Hitt er svo annað mál að fornleifafræðingar nota lítið málmleitartæki við rannsóknir sínar hér á landi. Hefðbundnari aðferðir henta þeim betur. Þá má geta þess að járninnihald bergs er hátt hér á landi og getur truflað tækin.

Málmleitartæki

Hægt er að greina sprengubrot með aðstoð málmleitatækja.

Málmleitartæki eru notuð við ýmislegt fleira en að leita að jarðsprengjum og silfursjóðum. Þau eru til sölu í verslunum, bæði tæki sem henta atvinnumönnum í framkvæmdum og áhugamönnum. Þau kosta frá fáeinum tugum þúsunda en draga þá skammt. Tæki eins og Skotinn var með kosta hér um 130 þúsund krónur, samkvæmt upplýsingum frá versluninni Íhlutum. Málmleitartæki er einnig hægt að fá leigð í áhaldaleigum. Hentugt getur verið að grípa til þeirra ef skartgripur hverfur í sandinn í Nauthólsvík.

Ekki margir sjóðir hér

Málmleitartæki

„Mesti og mik­il­væg­asti“ silf­ur­sjóður frá vík­inga­tím­an­um, sem fund­ist hef­ur í Bretlandi frá ár­inu 1840, verður sýnd­ur al­menn­ingi í London og York eða Jór­vík í næsta mánuði. Er hann tal­inn geta varpað nýju ljósi á þenn­an tíma.
Talið er, að auðugur maður og kannski vík­ing­ur hafi grafið hann í jörð í Norðimbralandi á 10. öld, lík­lega 927 eða 928, til að koma í veg fyr­ir, að hann félli í hend­ur Engil­söx­um en þeir tók­ust oft á um yf­ir­ráð yfir land­inu við vík­inga eða nor­ræna menn. Er sjóður­inn met­inn á rúm­lega millj­ón sterl­ings­punda, rúm­lega 205 millj­ón­ir ís­lenskra króna.
Pen­ing­arn­ir segja sína sögu:
Í sjóðnum er meðal ann­ars silf­ur­bik­ar, sem einn og sér er met­inn á meira en 40 millj. kr., 617 pen­ing­ar, hring­ar og óunnið silf­ur. Talið hef­ur verið, að á þess­um tíma hafi Stafford­skíri og Jór­vík­ur­skíri verið und­ir yf­ir­ráðum Engilsaxa en af sum­um pen­ing­anna má þó ráða, að nor­ræn­ir menn hafi þá verið að slá sína eig­in mynt á þess­um svæðum. Að öðru leyti voru pen­ing­arn­ir komn­ir víða að, frá Norður­lönd­um, meg­in­landi Evr­ópu, frá Tashkent í Úsbekíst­an og alla leið frá Af­gan­ist­an. Þykir það sýna vel hve menn­ing­ar­leg og efna­hags­leg tengsl við um­heim­inn voru mik­il á þess­um tíma.

Ekki eru miklar líkur á að stórir silfursjóðir liggi hér í jörðu. Það er ef til vill heppilegt fyrir fornleifaverndina. Freistingarnar eru minni. Mjöll Snæsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, nefnir þrjá sjóði frá síðustu öld en þeir fundust í Gaulverjabæ, Ketu á Skaga og Miðhúsum á Héraði. Sá síðastnefndi fannst 1980.

Fornmunir

Mynt sem fannst með málmelitartæki. Hún var slegin í Erkibiskupstíð Annós II er af gerð sem ekki hefur áður fundist eða þekkst.

Auk þess hafa fundist minni sjóðir og stakir silfurpeningar. Allir sjóðirnir fundust fyrir tilviljun, vegna einhverra framkvæmda. Gaulverjabæjarsjóðurinn hefur sérstöðu því hann er eini hreini peningasjóðurinn. Í honum eru um 350 peningar frá ýmsum löndum. Uppistaðan er enskir og þýskir peningar frá því um 1000 eða fyrr.
Mjöll segir það rökrétt að hér séu fáir sjóðir miðað við nágrannalöndin. Líklegt sé að fleiri sjóðir hafi verið grafnir þar sem fleira fólk bjó. Því má bæta við að faldir fjársjóðir hafa gjarnan verið tengdir hernaði. Menn hafi átt þá til að kaupa sig frá ófriði eða verið að fela fjármuni sína vegna hernaðar og síðan fallið sjálfir. Þótt oft hafi verið ófriður á milli höfðingja hér á landi var það þó talið friðsamt og ekki eins mikil ástæða til að fela sjóði og í nágrannalöndum þar sem barist var um yfirráð.

Silfur Egils eign ríkisins

Silfur Egils

Silfurpeningur, sem fannst á Þingvöllum.

Ef einhver dettur í lukkupottinn, til dæmis með því að finna silfur Egils Skallagrímssonar í Mosfellsdal, er sjóðurinn eign íslenska ríkisins og ber að tilkynna fundinn tafarlaust til Minjastofnunar og skila honum til Þjóðminjasafnsins. Raunar má ekki hagga kistunum, hvað sem kann að vera eftir af þeim, eða fjarlægja lausa hluti vegna þess að fornleifafræðingar vilja geta rannsakað ummerkin nákvæmlega. Áhugamaðurinn fær fleira en heiðurinn af fundi sjóðsins því hann á rétt á að fá greiðslu sem svarar til helmings af verðmæti hans og landeigandinn hinn helminginn.

Sjá meira um silfur Egils HÉR, HÉR og HÉR.

HÉR má sjá nýlega frétt um árangur leitar áhugamanns að fornminjum með málmleitartæki.
Málmleitartæki

Málmleitartæki

Þrátt fyrir ákvæði gildandi Minjalaga má lesa eftirfarandi á vefsíðu Minsjastofnunar [jan 2021]:
„Á Íslandi er almenningi ekki leyfilegt að nota málmleitartæki til að leita að fornminjum“.

Í sjónvarpsþætti RÚV um silfur Egils fullyrti forstöðukona Minjastofnunar að notkun málmleitartækja, annarra en fornleifafræðinga, væri óheimil, sjá HÉR. – Það er einfaldlega tómt bull.

fornmunir

Það er mikil íþrótt í Danmörku að fara um með málmleitartæki um lendur bænda sem það leyfa og leita að fjársjóðum.
Í Danmörku finna málmleitarmenn nú orðið flesta þá málmfundi og sjóði sem bitastæðir þykja í Danaveldi og víðar. Talið er að flestir hópar og klúbbar málmleitartækjamanna séu heiðarlegt fólk sem skilar af sér verðmætunum á tilheyrandi safn, sem síðan rannsakar fundarstaðinn þegar uppskeru á akri bóndans lýkur.
Lög í Danmörku, svokölluð Danefælov (Dánarfjárlög), sjá einnig til þess, að þeir sem sjóðina finna fái eitthvað fyrir sinn snúð.

Ástæða er til að hvetja áhugasamt fólk til að nota málmleitartæki við leit að fornminjum í jörðu. Bent skal á að ef slíkar finnast, ber þrátt fyrir allt, að tilkynna það til Minjastofnunar. Áhugasamir á Reykjanesskaganum geta einnig haft samband á netfangið ferlir@ferlir.is.

Heimildir:
-Þjóðminjalög. 2001 nr. 107 31. maí.
-Lög um menningarminjar. Lög nr. 80 29. júní 2012.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65813
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1528433/

Málmleitartæki

Málmleitartæki eru af ýmsum gerðum.

Úlfljótsvatn

Í Fréttarbréfi Ættfræðingsfélagsins fjallar Elva Brá Jensdóttir m.a, um „Hjátrú og kynlegi kvisti við Úlfljótsvatn„;

Hjátrú og kynlegir kvistir
Nesjavellir„Frásagnir Kolbeins Guðmundssonar bónda á Úlfljótsvatni og barnabarn hans, Katrínar og Guðmundar Símon Dalaskáld, Samúel Súðadallur, Guðmundur kiði og fleiri litríkir karakterar koma við sögu þegar Kolbeinn Guðmundsson og börnin hans Katrín og Guðmundur rifja upp minningar sínar frá Úlfljótsvatni upp úr aldamótunum 1900.
Á Stofnun Árna Magnússonar (SÁM) eru varðveittar upptökur af frásögnum Kolbeins Guðmundssonar (1873-1967) og barna hans, Katrínar (1897-1982) og Guðmundar (1899-1987), en Kolbeinn var bóndi á Úlfljótsvatni kringum aldamótin 1900. Hallfreður Örn Eiríksson safnaði sögnunum á 7. og 8. áratugnum en þær gerast flestar á heimaslóðum þeirra,
Úlfljótsvatni, eða nágrenni.

Þurfti að flýta sér
ÚlfljótsvatnÞegar Guðmundur og Katrín voru börn tíðkaðist enn að förumenn eða flakkarar færu á milli bæja og segðu sögur eða færu með kvæði í skiptum fyrir mat og gistingu, ef væru þeir óvinnufærir. Sumir hverjir voru eftirminnilegir og skrautlegir en aðra var ekkert varið
í að hýsa. Guðmundur segir til dæmis frá Jóhannesi Jónssyni, sem þótti sérkennilegur að mörgu leyti, en eitt sinn þegar hann hafði gist á Nesjavöllum þurfti hann skyndilega að flýta sér í burtu. Kom svo í ljós að hann hafði gengið örna sinna í rúmið og búið svo kyrfilega um það.
Ögn þrifalegri var Samúel súðadallur, hressilegur karl, en hann stundaði sníkjuferðir í sveitinni, safnaði smjöri, ull og hverju sem var, og bað svo bændurna að flytja það heim til sín. Honum var þó ekki gefið um kjöt að gjöf, sagðist heldur vilja kindur og geta rekið þær heim svo það þyrfti ekki að flytja kjötið öðruvísi.
Hann þótti svo skemmtilegur að enginn amaðist við honum.

Kraftaskáldið
ÚlfljóstvatnSá sem var þó í mestum metum, af þeim sem þáðu gistingu á Úlfljótsvatni, var Símon Dalaskáld en hann gat snarað fram vísu um heimilisfólkið á staðnum og vakti mikla lukku. Hann var sagður kraftaskáld en þau eru sögð hafa ýtt undir þann orðróm sjálf, því almennt þótti vissara að halda þeim góðum svo ekki yrði til nein níðvísa um heimilisfólkið.
Margar frásagnir fjalla um álagabletti. Víða var blettur eða þúfa sem ekki mátti hreyfa við og má þar nefna toppinn á Hrútey, Litla-Hólma og Arnarhólma en Kolbeinn sagði slíka bletti hafa fyrirfundist á hverjum bæ. En álögin voru ekki einungis á þúfunum.
Katrín segir að áður fyrr hafi verið mun meiri silungur í vatninu, en tvær húsmæður rifust um veiðina, og önnur þeirra lagði það á að hluti silungsins í vatninu yrði að mýflugu. Skýringin á mýflugnamergðinni mun þá vera sú að hún sé silungur í álögum.

Áhrínsorð
ÚlfljótsvatnÁlögin gátu líka beinst að fólki. Guðmundur segir frá gamalli, bæklaðri konu sem hann hitti, en hún varð fyrir áhrínsorðum þegar hún var ársgömul. Móðir hennar reifst við vinnukonuna með miklu offorsi og óskaði vinnukonunni alls ills – að hún yrði að aumingja.
Meðan á þessu stóð hélt húsmóðirin á dóttur sinni í fanginu. Þegar hún svo setur litlu telpuna á gólfið er hún orðin máttlaus öðrum megin. Vinnukonan hafði þá beint áhrínsorðunum að barninu.
Afi Guðmundar var níu ára á þessum tíma en Guðmundur sagði hann hafa munað vel eftir þessum atburði. Konan, sem varð varanlega fötluð, kenndi móður sinni alfarið um hvernig komið væri fyrir sér. Guðmundur segir konuna þó hafa getað gert ýmislegt, þrátt fyrir fötlun sína, en hún gætti eldsins, eldaði jafnvel mat og baslaði við að prjóna.

Guðmundur kíði
ÚlfljóstvatnFlökkumennirnir sem komu að Úlfljótsvatni sögðu alls kyns sögur, en vinsælastar voru drauga- og huldusögur sem kemur ekki á óvart, sérstaklega þegar litið er til þess að margir óútskýranlegir atburðir gerðust á bænum. Ber þá helst að nefna draugaganginn sem kenndur hefur verið við Guðmund kiða, sem var fjármaður á Úlfljótsvatni fyrstu búskaparár Kolbeins og Geirlaugar. Hann skilaði sér ekki heim með féð eitt kvöldið og um nóttina dreymdi Geirlaugu að hún væri komin í beitarhúsin til hans og spyr hvort hann ætli ekki að koma heim en Guðmundur kiði svarar: Nei, ég ætla ekki að koma heim, því að ég rak féð niður að vatninu og út á vatnið og það fór töluvert af því í vatnið og ég ætla ekki að koma heim þess vegna.
Geirlaug segir þá að honum sé óhætt að koma heim fyrir því, fyrst hann hafi ekki farið í vatnið sjálfur þá sé allt í lagi en Guðmundur kiði svarar þá : „Nei, ég ætla að vera hérna fyrst um sinn.“
ÚlfljótsvatnDraumur Geirlaugar var ekki lengri en Guðmundur kiði fannst þegar róið var eftir vatninu. Hann hafði farið ofan um ís og drukknað ásamt þrjátíu kindum en þegar hann fannst hélt hann um hornið á einni kindinni, sem hann hefur ætlað að bjarga. Marg oft hefur orðið vart við hann, sérstaklega við fjárhúsin og vatnið en þar á hann að halda til og alltaf sést þessi eina kind með honum.

Naglar í kross
Í viðtölunum við fjölskylduna frá Úlfljótsvatni er yfirleitt talað um að fólk hafi orðið vart við eitthvað en aldrei er sagt berum orðum að draugatrú hafi verið ríkjandi í sveitinni. Engin hræðsla virðist hafa verið við það sem ekki var hægt að útskýra og myrkfælni þekktist ekki hjá heimamönnum. Draugafrásagnir eru ofarlega á lista. Þó var þeim tekið af æðruleysi á þessum tíma eins og Guðmundur orðar það sjálfur: „Jaaa, það var nú ekki beint draugatrú [ … ] en það var nú samt [ … ] það var nú vart við svona hitt og þetta, það var til dæmis hjá okkur á Úlfljótsvatni sko, að það var eins og þetta væri bara umgengist bara eins og heimilisfólkið.“

Grafningur

Úlfljótsvatn fyrrum.

Guðmundur segir frá því þegar bóndinn frá Hagavík ásótti hann. Bóndi þessi hafði sagt að hann færi ekki sjálfráður frá jörðinni og ef hann færi, riði hann ekki klofvega. Þegar hann lést var hann jarðsettur á Úlfljótsvatni. Eitthvað hefur hann verið ósáttur við að þurfa að yfirgefa þennan heim því Guðmundur sá hann liggja hjá sér í rúminu og fékk ekki svefnfrið fyrir honum og kvartaði undan þessu á morgnana. Að lokum fór Kolbeinn, faðir hans, út að leiði karlsins, talaði yfir honum og rak nagla í kross, í hornin og miðjuna. Eftir það varð Guðmundur ekki var við hann.

Boli að láni
Nátengdar draugasögunum eru sögur af huldufólki. Guðmundur segir söguna af því þegar kýrnar á Bíldsfelli voru reknar norður með Sogi en boli á öðru ári var hafður með þeim. Um kvöldið fannst bolinn hvergi og getgátur voru uppi um að hann hann hefði farið í Sogið.

Útlljótsvatn

Úlfljótsvatn – fjárborg.

Ári seinna, þegar kýrnar voru sóttar á sömu slóðir, var bolinn með þeim, en mun stærri en hann hefði átt að vera eftir þennan tíma. Fólkið þóttist vita að boli hefði verið hjá huldufólki sem hafi þurft á honum að halda.
Segja má að viðhorf fjölskyldunnar frá Úlfljótsvatni gagnvart draugum og huldufólki einkennist einna helst af virðingu fyrir því sem ekki er vitað hvað er. Það er látið liggja á milli hluta hvort einhver óútskýranlegur atburður sé draugur eða ekki, en yfirleitt er sagt að „einhver hafi orðið var við eitthvað“ sem má svo túlka á hvaða veg sem er.
Greinin er unnin upp úr lokaritgerð höfundar til BA-gráðu við Háskóla Íslands.“

Heimild:
-Fréttarbréf Ættfræðingsfélagsins; Hjátrú og kynlegir kvistir, Elva Brá Jensdóttir, 3. tbl. 01.09.2013, bls. 10-11.
Úlfljótsvatn.

Selvogsgata

Í „Svæðisskráningu fyrir Hafnarfjörð 1989“ er m.a. fjallað um Kerlingarskarðsveg, Grindaskarðsveg, tóftina í Helgadal og hellana í Setbergs- og Hamarskotsseli. (Hafa ber í huga að um tvo aðskilda vegi er um að ræða, að hluta a.m.k. Selvogsgata (Suðurferðavegur) lá um Grindarskörð, millum Hafnarfjarðar og Selvogs, en Kerlingaskarðsvegur lá af Selvogsgötu ofan hellunnar um Kerlingarskarð að Hlíð við Hlíðarvatn. Út frá honum lá Stakkavíkurvegur að Selskarði.)

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur.

„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindarskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. …Frá Hafnarfirði, upp á móts við Lækjarbotna, er aðalleið Krýsuvíkur farin. Þegar í Lækjarbotna kemur, er farið yfir mjótt hraunhaft, norðvesturtagl Gráhelluhrans. Að því slepptu er komið á moldargötur, með Gráhelluhrauni að norðan, en til vinstri handar fyrst allstórt melholt, sem Svínholt heitir. Milli þess og Setbergshlíðar liggur dalur til norðurs og heitir Oddsmýrardalur.

Setbergssel

Op Ketshellis (Selhellis).

Þegar Setbergshlíðar þrýtur, er farið yfir þar, sem hraunið hefur hellst fram, norðan Klifaholta, og heitir þá Smyrlahraun þar efra. Hraun þessi munu mest úr Búrfelli runnin. Ofarlega í hraunbelti því, sem áður getur og yfir er farið, áður en upp á móts við Klifholt kemur, er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárból frá Setbergi, meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð. Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt og vildi gólfið blotna, þegar fé kom brynjað inn. Skal nú haldið áfram ferðinni. Þegar upp á hraunbeltið kemur, sem umgetnir hellar eru í, er aftur komið á moldargötur, og er þá Smyrlarbúðarhraun til vinstri, en Klifsholtin, nokkrir smáásar, sem hraunið hefur runnið kringum, á hægri hönd. Fyrst er Sléttuhlíð, þá Smalaskáli ofar og austar.

Smyrlabúð

Smyrlabúð.

Þegar Brunann þrýtur, til vinstri, er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri; að austan eru brattar skriður en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð. …Við suðurenda Smyrlabúðar þrýtur Klifsholt og tekur við allgreiðfært klapparhraun, þar til í Helgadal kemur, en það er smádalur með uppssprettuvatni, enda skammt frá upptökum Kaldár. [Þar er Helgadalsrúst.] …

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum. Helgafell fjær.

Þegar upp úr Helgadal kemur, taka við sléttar melgötur að Valahnjúkum, sem eru tindóttir móbergshnjúkar norðan af Helgafelli. …Þegar Valahnjúkum sleppir, er skammt í Mygludali, Liggja þeir undir suðvesturbrún Húsfellsbruna. Þaðan er skammt til Búrfells, sem fyrr er getið. …Þegar haldið er upp frá Myngludölum, er lagt á hraun, sem nær óslitið upp að fjalli. Eftir um þriggja stundarfjórðunga lestargang, er farið er yfir norðurtögl á tveimur melöldum, sem standa upp úr braunanum, og eru þar Kaplatór.

Selvogsgata

Grindarskarðsgata á Hellum.

…Frá efri Kaplató upp að fjalli liggur vegurinn mestmegnis um sléttar hraunhellur, og er sá kafli hraunsins nefndur Hellur. Má þar víða sjá djúpar götur sorfnar ofan í helluna af aldarumferð. …Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, uns upp er komið á Kerlingarskarð. Allbratt er upp að fara, einkum neðst og efst.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði,

Þegar komið er undir efstu brekkuna er dalverpi lítið í fjallið norðan götu. Þar sést enn kofarúst, leifar af skýli, sem byggt var í tíð brennisteinsvinnslunnar í Brennisteinsfjöllum, og var „sæluhús“ þeirra, sem fluttu brennisteininn á hestum til Hafnarfjarðar. Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðsvegur.

Mygludalir

Mygludalir.

Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helst lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingaskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

…Hæsti hryggur fjallsins er mjór, og fer rétt strax að halla austur af, en ekki er það unfanhald langt, svo sem hálfrar stundar gangur, þar til landið liggur jafnhátt, og nær það að Hvalhnjúk og Ásum. Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá. Er það harungjá mikil, sem hraun hefur runnið efir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er [Kóngsfell]. Þar komu saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu. Þegar komið er austur að fjallshryggnum er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriða, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. …“

Grindaskarðsvegur

Grindarskörð

Grindarskarðsvegur.

„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafni Grindarskarðs- eða Kerlingarskarðsvegur.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Frá Hafnarfirfði, upp á móts við Lækjarbotna, er aðalleið Krýsuvíkur farin. Þegar í Lækjarbotna kemur, er farið yfir mjótt hraunhaft, norðvesturtagl Gráhelluhrauns. Að því slepptu er komið á mordargötur, með Gráhelluhrauni að norðan, en til vinstri handar fyrst allstórt melholt, sem Svínholt heitir. Milli þess og Setbergshlíðar liggur dalur til norðurs og heitir Oddsmýrardalur. Þegar Setbergshlíðar þrýtur, er farið yfir þar, sem hraunið hefur hellst fram, norðan Klifholta, og heitir þá Smyrlahraun þar efra. Hraun þessi munu mest úr Búrfelli runnin. Ofarlega í hraunbelti því, sem áður getur og yfir er farið, áður en upp á móts við Klifholt kemur, er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárbólk frá Setbergi, meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð. Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt og vildi gólfið blotna, þegar féð kom brynjað niður. Skal nú haldið áfram ferðinni. þegar upp á hraunbeltið kemur, sem umgetnir hellar eru í, er aftur komið á moldargötur, og er þá Smyrlarbúðarhraun til vinstri, en Klifsholtin, nokkrir smáásar, sem hraunið hefur runnið í kringum, á hægri hönd. Fyrst er [Sléttahlíð], þá Smalaskáli ofar og austar. Þegar brunann þrýtur, til vinstri er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri; að austan eru brattar skriður, en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð.

Setbergsselshellir

Í Setbergshelli.

…Við suðurenda Smyrlabúðar þrýtur Klifsholt og tekur við allgreiðfært klappahraun, þar til í Helgadal kemur, en það er smádalur með uppsprettuvatni, enda skammt frá upptökum Kaldár.

Selvogsgata

Selvogsgata – Helgafell fjær t.v. og Valahnúkar t.h.

…Þegar upp úr Helgadal kemur, taka við sléttar melgötur að Valahnjúkum, sem eru tindóttir móbergshnjúkar norður af Helgafelli. …Þegar Valahnjúkum sleppir, er skammt í Mygludali. Liggja þeir undir suðvesturbrún Húsfellsbruna. Þaðan er skammt til Búrfells, sem fyrr er getið. …Þegar haldið er upp úr Mygludölum, er lagt á hraun, sem nær óslitið upp að fjalli. Eftir um þriggja stundarfjórðunga lestargang, er farið yfir norðurtögl á tveimur melöldum, sem standa upp úr brunanum, og eru það Kaplatór. …Frá Efri-Kaplató upp að fjalli liggur vegurinn mestmegnis um sléttar hraunhellur, og er sá kafli hraunsins nefndur Hellur. Má þar víða sjá djúpar götur sorfnar ofan í helluna af aldarumferð. …Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, uns upp er komið [norðan Konungsfells. Þaðan er vegurinn varðaður niður að Litla-Kóngsfelli og áfram niður í Strandardal]…

Helgadalur – tóft

Helgadalur

Helgadalstóftin – uppdráttur ÓSÁ.

„Tóft eru í dal sem heitir Helgadalur og er skammt frá Skúlatúni, sjá garð, og liggur Grindarskarðsvegur um dalinn hjá rústinni.

Helgadalur

Helgadalur – tóftin t.h.

Ekki [er] ljóst í landi hvaða jarðar þessi dalur er en þetta er ekki langt frá Hafnarfirði. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. En hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál. 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhlið suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni [má] sjá ógjörla dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverju frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið.“

Hamarkotssel – Setbergssel – Ketshellir/Kershellir/Kjötshellir

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

„Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi ar nærri sem heitir Sléttahlíð hjá helli nokkrum og skulu þar kallast enn í dag Hamarskotssel.“ „Í Sléttuhlíð var Hamarskotssel hjá helli skammt upp í hrauni, nefnt á hellum.“

Setbergssel

Setbergssel. Helgafell fjær.

„Selstöðu á jörðin [Setberg] þar sem heitir Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema í gjá, sem sólhiti bræðir.“ „Úr Gráhellur liggur línan í Setbergssel. …Landamerkjalínan liggur í Markavörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Ketshellirinn liggur örlítið hærra, og er [þar] líka að finna seljarústir og selgerði, og meira er hér um rústir. Ketshellirinn er jarðfall, 20 metra að ummáli, nær hringlaga. Hann er stór og rúmgóður, hátt undir loft. Austur og upp úr honum er afhellir, nefnist hann síðan um 1910 Hvatshellir.“ „Ofarlega í hraunbelti því, sem áður getur og yfir er farið, áður en upp á móts við Klifsholt kemur, er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárskjól frá Setbergi, meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeist mest stunduð…“ „Upp í grasivöxnu holti við jaðar Gráhelluhrauns.“ …þar til kemur að Hánefi, innst í hlíðinni og héðan liggur gatan í selið. Þessi staður er reyndar einnig kallaður Ketshellir, Kershellir og Kjötshellir.“ „Um 20 m langur og 3-4m breiður hellir með bogadregnu þaki. Lofthæð í miðjum helli/göngunum 1.6-2.2m. Í miðjum hellinum hefur verið hlaðið skilrúm. Op er í báðum endum og hefur verið hlaðið upp í þau til að þrengja þau.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Op vesturenda er um 2m breitt að neðan en mjókkar upp í 1.1m að ofan. Hæð er um 2.1-2.2m. Aðdragandinn að inngani er nokkuð brattur. Og austurenda er um 1.3 að neðan en 80cm að ofan. Hæð er 195. Aðdragandi að inngangi er nokkuð brattur. Mikil sauðaskán er á gólfi þó mun meira austan skilrúmsins þar sem hæðarmismunur er um 30cm. Heðsla í A enda er S laga og myndar e.k. göng eða skjólgarð utan við sjálft opið. Hleðslan er um 7m löng. Þar sem nú er hæst er hún 180cm en lækkar í 70cm. Ofan á þessa hleðslu hafa verið lagðar nokkrar stórar hellur sem mynda þak milli hleðslu og hellis. Hleðsla í V enda myndaði um 90° horn, þ.e. að hluta til göng eins í hellinn og að hluta til að loka hellismunnanum. Hæð nú 120[cm] en hæð hellismunnans er 180[cm]. Breidd 290-300cm, lengd (í inngangi) 240 cm. Skilrúm er 370[cm] breitt. Hæð eins og hún er nú austan megin 120cm og niður í 73cm. Grunnur hellisins er örlítið bogadreginn til suðurs. Elísabet Reykdal segir að þessi hellir hafi alltaf verið kallaður Kjetshellir, en Gísli Sigurðsson kallar han Selhelli, en segir Kjetshelli vera helli skammt frá sem Elísabet kveður heita Hvatshelli. Hellinum var skipt milli Setbergs og Hamarskots.“

Sjá meira um hellana HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, bls. 274-276.
-Árbók 1993-48, 96-99.
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, bls. 276-277.
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, bls. 278.
-Árbók 1908, 10-11.
-JÁM III, 174-175; Ö-Garðakirkjuland, 5.
-Þjóðminjaskráning í Hafnarfirði, 72.
-Árbók 1943-48, 96.

Grindaskarðsvegur

Grindarskarðs- og Kerlingaskarðsvegir.